2 – Efni og uppbygging skýrslunnar

(einföld vefútgáfa)

Í fyrsta kafla skýrslunnar hér á undan var gerð grein fyrir tilefni og aðdraganda rannsóknar nefndarinnar, viðfangsefnum hennar og viðeigandi lagareglum um störf rannsóknarnefnda Alþingis. Þá var gerð grein fyrir gagnaöflun, skýrslutökum, skriflegum fyrirspurnum og annars konar upplýsingaöflun nefndarinnar. Rakin voru meginatriði úr munnlegum framburðum fyrir nefndinni og gerð grein fyrir skriflegum fyrirspurnum hennar með bréfum til tiltekinna einstaklinga á lokastigum rannsóknarinnar. Í viðauka með skýrsl- unni er að finna lista yfir þá sem gáfu skýrslu fyrir nefndinni. Einnig eru í viðauka birt fyrrgreind fyrirspurnabréf nefndarinnar sem og svör viðkomandi einstaklinga við þeim. Síðar í þessu yfirliti um efni og uppbyggingu skýrslunnar greinir nánar frá þessum og öðrum viðaukum með henni.

Í þriðja kafla skýrslunnar eru rakin atvik varðandi sölu íslenska ríkisins á eignarhlut í Búnaðarbanka Íslands hf. sem lokið var með kaupsamningi þess og hins svonefnda S-hóps 16. janúar 2003. Jafnan er vísað til þeirra viðskipta sem einkavæðingar Búnaðarbankans. Er þar í fyrsta lagi fjallað um aðdraganda að gerð þessa kaupsamnings, það er söluferli Búnaðarbankans og þátttöku S-hópsins í því, samkvæmt þeim gögnum og upplýsingum sem fram komu við rannsókn nefndarinnar. Gerð er grein fyrir samningaviðræðum S- hópsins og framkvæmdanefndar um einkavæðingu svo langt sem gögn nefndarinnar ná og þýðingu hefur fyrir rannsóknarefnið, það er út frá þeim þætti í þessu ferli sem varðaði aðkomu erlendrar fjármálastofnunar að tilboði og síðar kaupum S-hópsins. Þar sem til- efni telst til er jafnframt gerð grein fyrir fjölmiðlaumfjöllun um söluferlið frá viðkomandi tíma og þá eftir atvikum upplýsingum eða yfirlýsingum hlutaðeigandi einstaklinga sem stafa frá eða hafðar voru eftir þeim við slík tilefni. Þessu næst er fjallað um undirritun kaupsamningsins og yfirlýsingar aðila hans við og í kjölfar kaupanna. Eftir kaupin óskuðu kaupendur eignarhlutarins lögum samkvæmt eftir samþykki Fjármálaeftirlitsins fyrir því að fara með virkan eignarhlut í fjármálafyrirtæki. Í skýrslunni er gerð grein fyrir bréflegum samskiptum þeirra við Fjármálaeftirlitið af þessu tilefni og upplýsingum sem komu þar fram að því marki sem þær þykja geta varðað efni skýrslunnar.

Fjórði kafli skýrslunnar varðar síðari atvik og opinbera umræðu um þátt Hauck & Auf- häuser Privatbankiers KGaA í einkavæðingu Búnaðarbankans. Í þeirri umfjöllun er vikið að sameiningu Búnaðarbankans við Kaupþing hf. vorið 2003 og fleiri atvikum sem tengjast rannsóknarefninu. Umfjöllun í kaflanum lýtur síðan einkum að opinberri umræðu og efasemdum sem ítrekað hafa komið fram, allt frá því stuttu eftir kaupin og fram á síðustu ár, á þá leið að þátttaka þýska bankans í kaupunum hefði í reynd verið með öðrum hætti en þeim sem kynnt var við kaupin. Líkt og áður er þá eftir atvikum gerð grein fyrir upplýs- ingum eða yfirlýsingum sem stafa frá eða hafðar voru eftir einstaklingum er tengjast efni skýrslunnar við slík tilefni. Í þessu sambandi eru einnig raktar umræður og fyrirspurnir á vettvangi Alþingis í þessa veru sem og tiltæk gögn um athuganir opinberra stofnana, það er Fjármálaeftirlitsins og Ríkisendurskoðunar, á árinu 2006 á slíkum staðhæfingum. Umfjöllun um þessi efni leiðir allt til síðari ára, þar á meðal um atriði sem fram komu í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 og tengda atburði, sem og á öðrum vettvangi á undanförnum árum, allt til þess þegar síðast varð opinber umræða um þessi efni í aðdraganda skipunar þeirrar rannsóknarnefndar sem stóð að þessari skýrslu.

Í fimmta kafla skýrslunnar, sem er jafnframt lengsti kafli hennar, er gerð grein fyrir upp- lýsingum rannsóknarnefndar um raunverulegan þátt Hauck & Aufhäuser í einkavæðingu Búnaðarbanka Íslands hf. Þar eru jafnframt rakin og birt með beinum tilvitnunum, í heild eða að hluta, fjölmörg gögn um þau efni sem komu fram við rannsókn nefndarinnar og nefndin byggir þá umfjöllun sína á. Kaflinn greinist niður í undirkafla eftir áföngum og tímabilum í þeirri atburðarás sem þar er rakin. Umfjöllun í þessum undirköflum er  að meginstefnu einskorðuð við lýsingu atvika samkvæmt viðkomandi gögnum og upplýsingum nefndarinnar en í lok undirkaflanna eru sérstakir kaflar með samantekt rannsóknarnefndar- innar á efni þeirra og þeim ályktunum þar að lútandi sem tilefni þykir til að setja fram.

Sjötti kafli skýrslunnar geymir samandregið ágrip um meginniðurstöður skýrslunnar, einkum þá eðli máls samkvæmt úr fimmta kafla hennar.

Viðaukar með skýrslunni eru birtir með tvennum hætti. Annars vegar eru viðaukar með prentútgáfu skýrslunnar en hins vegar viðaukar, hinum til viðbótar, sem aðeins eru birtir með vefútgáfu skýrslunnar. Á sama hátt og með fyrri skýrslur rannsóknarnefnda Alþingis á undanförnum árum telst vefútgáfa þessarar skýrslu aðalútgáfa skýrslunnar enda birtist með henni nokkru meira efni heldur en í hinni prentuðu útgáfu, þar á meðal áðurnefndar fyrirspurnir nefndarinnar til tiltekins hóps einstaklinga vegna efnisatriða í skýrslunni og svör sömu einstaklinga til nefndarinnar, að því marki sem þau komu fram. Einnig eru birt í heild sinni með vefútgáfunni tiltekin gögn af þeim gögnum nefndarinnar sem liggja til grundvallar umfjöllun í fimmta kafla skýrslunnar. Um viðauka með skýrslunni, annars vegar prentútgáfunni og hins vegar vefútgáfunni, er að öðru leyti vísað nánar til efnisyfirlits skýrslunnar.