26. kafli – Sparisjóður Höfðhverfinga

26. Sparisjóður Höfðhverfinga

Sparisjóður Höfðhverfinga var stofnaður 1. janúar 1879 og er því ein elsta starfandi fjármálastofnun á landinu. Það voru sex efnaðir bændur í Grýtubakkahreppi í Eyjafirði sem stóðu að stofnun sparisjóðsins, en þá voru aðeins fjórir sparisjóðir í landinu: í Reykjavík, á Siglufirði, í Álftaneshreppi og á Ísafirði.1

Fyrstu árin og áratugina var Sparisjóður Höfðhverfinga, líkt og flestir íslenskir sparisjóðir, ekki meira fyrirtæki en svo að hann rúmaðist hæglega í einni skúffu í skattholi gjaldkera síns og óþarft þótti að fá honum sérstakt húsnæði. Á aðalfundi sjóðsins 9. maí 1971 urðu tímamót en þá var tilkynnt að sjóðurinn myndi flytja í nýtt leiguhúsnæði að Reynimel á Grenivík.2 Árið 1981 flutti sparisjóðurinn síðan í eigið húsnæði og árið 1999 urðu miklar breytingar þegar sjóðurinn keypti og flutti í húsnæði Íslandspósts hf. á Grenivík. Í framhaldinu tók sparisjóðurinn við rekstri póstafgreiðslunnar og sinnti því hlutverki til janúarloka árið 2005. Í lok árs 2011 störfuðu fimm starfsmenn hjá sparisjóðnum. Í upphafi árs 2012 opnaði sparisjóðurinn útibú á Akureyri.3

Í samþykktum sparisjóðsins frá 2003 og 2008 segir að sparisjóðurinn starfi samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki og stundi sparisjóðastarfsemi eins og hún sé skilgreind í þeim lögum. Í samþykktum sparisjóðsins frá 2010 segir síðan að hlutverk sparisjóðsins sé að vera mikilvæg þjónustu- og fjármálastofnun á sínu nærsvæði þannig að íbúar þess geti stundað viðskipti við sparisjóð í sinni heimabyggð og þurfi þess vegna ekki að sækja slíka þjónustu um langan veg. Með skilvirkni í rekstri og ábyrgri stjórnun muni það samfélag sem sjóðurinn starfi í njóta tilvistar hans þar sem hann miðli fjármagni milli fyrirtækja og einstaklinga. Sparisjóðurinn styðji við uppbyggileg samfélagsleg verkefni eftir því sem afkoma hans og fjárhagsstaða leyfi. Á heimasíðu sparisjóðsins segir síðan að bæði fyrirtæki og einstaklingar séu í viðskiptum við sjóðinn sem oftar en ekki séu ýmist búsettir á nánasta starfssvæði sjóðsins eða tengist því með einum eða öðrum hætti. Þá segir þar að Sparisjóður Höfðhverfinga hafi í gegnum tíðina stutt hvers kyns menningar-, íþrótta- og æskulýðsstarf á starfssvæði sínu.4

Ingvi Þór Björnsson tók við starfi sparisjóðsstjóra Sparisjóðs Höfðhverfinga 28. apríl 2005 eftir að Jón Helgi Pétursson forveri hans sagði starfi sínu lausu, en hann hafði starfað sem sparisjóðsstjóri frá því í mars 2000. Í desember 2011 var gert samkomulag við Ingva Þór um að hann léti af störfum og tók Jenný Jóakimsdóttir við starfi hans. Frá ágúst 2012 hefur Jón Ingvi Árnason verið sparisjóðsstjóri.5

Í lok árs 2007 var Sparisjóður Höfðhverfinga einn minnsti sparisjóður landsins með um 0,25% af heildareignum sparisjóðanna. Heildareignir sjóðsins námu þá 1,6 milljarði króna en heildareignir allra sparisjóða voru 614 milljarðar króna. Efnahagsreikningur Sparisjóðs Höfðhverfinga hefur tekið markverðum breytingum frá aldamótum. Sparisjóðurinn gekk í gegnum hremmingar árin 2005 og 2006 vegna taps á útlánum og því gætti nokkurs aðhalds í útlánum eftir það. Hann lánaði afar lítið í erlendri mynt og fór varlega í fjárfestingar, en tapaði engu að síður á þeim árið 2008 eins og aðrir sparisjóðir. Fall krónunnar og síðan bankanna hitti hann þó ekki jafnilla fyrir og aðra sparisjóði.

Umræður um framtíðarhorfur og mögulega hlutafélagsvæðingu Sparisjóðs Höfðhverfinga fóru fram á stjórnarfundum á haustmánuðum 2007. Sparisjóðurinn hóf samningaviðræður við KEA eignir ehf. og gerði skilyrtan samning við félagið 12. mars 2008 um kaup þess á öllu stofnfé í sparisjóðnum. Fjármálaeftirlitið taldi hugmyndirnar ekki samrýmast ákvæðum laga, þar sem lög gerðu ekki ráð fyrir því að tiltekinn aðili gæti eignast virkan eignarhlut í sparisjóði nema sýnt þætti að það væri nauðsynlegt í tengslum við fjárhagslega endurskipulagningu. Stjórn sparisjóðsins fékk þá PricewaterhouseCoopers til að meta stöðu sjóðsins. Niðurstaðan var sú að staða sparisjóðsins væri erfið í ljósi aðstæðna á fjármálamarkaði á þeim tíma.

Fram eftir árinu 2008 var enn uppi ágreiningur um það hvort skilyrði fjárhagslegrar endurskipulagningar væru fyrir hendi og svo fór að samningurinn milli Sparisjóðs Höfðhverfinga og KEA eigna ehf. gekk ekki eftir. Stofnfjáraukning upp á 150 milljónir króna sem ákveðin hafði verið á haustdögum 2008 gekk þess vegna ekki eftir nema að litlu leyti en um 36,5 milljónir króna fengust í nýtt stofnfé.

Í kjölfar falls íslensku bankanna á haustmánuðum 2008 rýrnaði eigið fé sjóðsins umtalsvert og eiginfjárhlutfallið lækkaði. Fjármálaeftirlitið veitti sparisjóðnum frest fram á nýtt ár til að koma eiginfjárgrunninum í tilskilið horf. Sparisjóðurinn sótti í framhaldinu um eiginfjárframlag úr ríkissjóði, sbr. 2. gr. laga nr. 125/2008. Ekkert varð úr því og hófust samningaviðræður við Seðlabanka Íslands um uppgjör erlendra lána sparisjóðsins í Sparisjóðabankanum en Seðlabankinn varð helsti kröfuhafi sparisjóðsins við yfirtöku Fjármálaeftirlitsins á Sparisjóðabankanum og færði tilteknar eignir og skuldir bankans til Seðlabankans. Um var að ræða ádráttarlínur sem nýttar voru til að fjármagna útlán sparisjóðsins í erlendri mynt. Samkomulag sem fól í sér uppgjör á þessum lánum var undirritað milli Seðlabankans og sparisjóðsins 21. desember 2010.

Á árinu 2010 gerði sparisjóðurinn samkomulag við KEA svf. um aukningu stofnfjár í sparisjóðnum og mögulegan samruna við AEK hf., dótturfélag KEA svf. Samkomulagið fól í sér að KEA svf. keypti stofnfé í sparisjóðnum í þeim tilgangi að tryggja fjárhagslegan grundvöll hans. Frá árinu 2010 hefur KEA svf. verið stærsti stofnfjáreigandi í sparisjóðnum með 35% stofnfjárhlut. Í lok árs 2011 voru stofnfjáraðilar Sparisjóðs Höfðhverfinga 81 talsins. Heildareignir sjóðsins voru þá 1,9 milljarðar króna og námu um 3% af heildareignum sparisjóðanna.

26.1 Ársreikningar 2001–2011

Hér verður farið yfir þróun rekstrarreiknings og efnahagsreiknings Sparisjóðs Höfðhverfinga og helstu liði þeirra og kennitölur á árunum 2001–2011. Umfjöllunin miðast við verðlag hvers árs nema annað sé tekið fram.6

26.1.1 Rekstrarreikningar

Afkoma Sparisjóðs Höfðhverfinga var sveiflukennd á árunum 2001–2011. Árið 2004 skilaði sparisjóðurinn mesta hagnaði frá upphafi, um 40 milljónum króna, en það var meira en tvöföldun frá árinu áður þegar hagnaðurinn nam 16,2 milljónum króna. Helsta skýringin á þessari hækkun var 42 milljóna króna söluhagnaður af eignarhlutum, sem færður var á liðinn aðrar rekstrartekjur. Tap varð á rekstri sjóðsins árið 2005 og nam það 53 milljónum króna sem skýrðist að mestu af framlögum í afskriftareikning útlána, þrátt fyrir 39 milljóna króna söluhagnað af eignarhlutum og háar arðs- og hlutdeildartekjur. Á árinu 2007 nærri tvöfaldaðist hagnaður frá fyrra ári og nam tæpum 39 milljónum króna, einkum vegna 46 milljóna króna gengishagnaðar af fjáreignum. Tap ársins 2008 nam 148 milljónum króna og skýrðist aðallega af gengistapi af fjáreignum og af framlagi í afskriftareikning útlána.

Hreinar rekstrartekjur

Á árinu 2004 hækkuðu hreinar rekstrartekjur um 65% frá fyrra ári og skýrðist hækkunin einkum af söluhagnaði.7 Árið 2005 varð einnig dágóður söluhagnaður af eignarhlutum. Á árinu 2006 lækkuðu hreinar rekstrartekjur um 30% frá fyrra ári og skýrðist það aðallega af lækkun á öðrum rekstrartekjum. Mikill viðsnúningur varð á árinu 2008 þegar hreinar rekstrartekjur voru neikvæðar um 64 milljónir króna vegna 99 milljóna króna gengistaps af fjáreignum og lækkunar á hreinum vaxtatekjum. Aðrar rekstrartekjur og gengisáhrif fjáreigna vógu því þyngst í sveiflum á hreinum rekstrartekjum á tímabilinu.

Lengst af var gengishagnaður af fjáreignum lítill þáttur í rekstri sparisjóðsins en eftir 2006 fór hann að hafa mikil áhrif á afkomu sjóðsins. Hann nam 6,3 milljónum króna árið 2006 en 46,3 milljónum króna árið eftir og hafði því rúmlega sjöfaldast milli ára. Ástæða hækkunarinnar lá meðal annars í breyttri aðferð við mat á eignarhlut sparisjóðsins í VBS Fjárfestingarbanka hf., Sparisjóði Vestfirðinga og í Sparisjóðabanka Íslands hf./Icebank hf. Eignarhluturinn í tveimur fyrstnefndu félögunum hafði verið færður á kostnaðarverði en var nú færður upp miðað við gengi. Hluturinn í Sparisjóðabankanum hafði verið færður með hlutdeildaraðferð en var í árslok 2007 færður sem fjáreign á gangvirði.8 Á árunum 2008 og 2009 varð mikill viðsnúningur á afkomu fjáreigna þegar gengistap af þeim nam annars vegar 99,2 milljónum króna og hins vegar 38,6 milljónum króna. Tap af fjáreignum á árunum 2008 og 2009 skýrðist aðallega af niðurfærslu á eignarhlutnum í Sparisjóðabankanum um 73 milljónir króna, Saga Capital hf. um 34 milljónir króna, Sparisjóðnum í Keflavík um 24 milljónir króna og VBS Fjárfestingarbanka hf. um 10 milljónir króna. Sparisjóðurinn tapaði samtals 46 milljónum króna á eign sinni í Saga Capital hf. á árunum 2008–2010. Árið 2011 nam gengishagnaður af fjáreignum um 30 milljónum króna og var hann að mestu tilkominn vegna eignarhluta í Sænesi hf.

Arðs- og hlutdeildartekjur voru óverulegar í rekstri Sparisjóðs Höfðhverfinga á tímabilinu ef árin 2005 og 2006 eru undanskilin. Þær nærri áttfölduðust á árinu 2005 og voru 21 milljón króna og árið 2006 voru arðs- og hlutdeildartekjurnar rúmar 22 milljónir króna. Mestu munaði þessi árin um hlutdeild í hagnaði Sparisjóðabankans.

Aðrar rekstrartekjur voru að jafnaði ekki stór hluti hreinna rekstrartekna hjá Sparisjóði Höfðhverfinga. Þó höfðu þær umtalsverð áhrif á hreinar rekstrartekjur ef til kom söluhagnaður af eignarhlutum í félögum. Árið 2004 námu þær til að mynda 47 milljónum króna og var það að mestu vegna söluhagnaðar af bréfum í Hlöðum hf.9 Á árinu 2005 námu aðrar rekstrartekjur 39 milljónum króna en sparisjóðurinn seldi þá hlutabréf sín í Íslenskum verðbréfum hf. og Sænesi ehf.

Hreinar vaxtatekjur voru sveiflukenndar á þessu ellefu ára tímabili og breyttust að nokkru leyti í samræmi við þróun á vaxtamun. Stærstur hluti þeirra kom frá útlánum eða á bilinu 52–99%. Vaxtatekjur af skuldabréfaeign voru ekki umtalsverðar nema árið 2007 þegar þær námu 30% af heildarvaxtatekjunum.

Stærstur hluti vaxtagjalda sparisjóðsins var vegna almennra innlána frá viðskiptavinum, eða milli 59% og 88% á tímabilinu. Hluti vaxtagjalda til lánastofnana óx úr 13% í 35% á árunum 2001–2006. Eftir 2008 lækkuðu þau hins vegar og voru einungis 1% af vaxtagjöldunum í árslok 2011. Vaxtagjöld vegna víkjandi lána komu fyrst til árið 2006 og námu á bilinu 7–13 milljónum króna til ársloka 2011.

Vaxtamunur Sparisjóðs Höfðhverfinga var að jafnaði hærri en sparisjóðanna í heild, ef frá er talið árið 2005 þegar hann varð lægstur eða um 2% í samanburði við 3,7% hjá sparisjóðunum í heild. Mestur varð munurinn árið 2009 þegar hann var 8,6% hjá Sparisjóði Höfðhverfinga en 0,5% hjá sparisjóðunum í heild. Í lok árs 2011 var vaxtamunur 8% hjá sparisjóðnum og hafði aukist töluvert frá fyrra ári, en á sama tíma var vaxtamunur allra sparisjóða 5,5%.

Rekstrargjöld

Rekstrargjöld Sparisjóðs Höfðhverfinga voru mjög sveiflukennd á tímabilinu 2001–2011. Framlag í afskriftareikning útlána hafði þar mest að segja. Á tímabilinu nam það samtals um 213 milljónum króna en þar af var framlagið 116 milljónir króna árið 2005.

Framlag í afskriftareikning útlána hækkaði talsvert á árunum 2001–2004, einkum þó 2005. Í endurskoðunarskýrslu með ársreikningi árið 2004 var bent á að sparisjóðurinn ætti að fara með varúð í lánveitingar til aðila utan starfssvæðis sparisjóðsins.10 Framlag í afskriftareikninginn meira en þrefaldaðist árið 2005 og varð þá hæst á umræddu ellefu ára tímabili. Í árslok 2005 nam sérgreind niðurfærsla vegna aðila utan starfssvæðis sparisjóðsins um 120 milljónum króna. Sparisjóður Höfðhverfinga færði hlutfallslega lítið í afskriftareikning útlána eftir fall bankanna miðað við aðra sparisjóði, enda hafði sparisjóðurinn farið í gegnum lánasafn sitt og fært töluvert niður árið 2005. Árið 2009 voru bakfærð framlög í afskriftareikning útlána þar sem nokkrir útlánasamningar voru gerðir upp og komu betur út en áætlað hafði verið. Tryggingastaðan hafði einnig batnað verulega hjá stórum lántakendum. Þetta hafði þau áhrif að í stað þess að tap yrði af rekstrinum það árið varð hagnaður upp á 1,8 milljónir króna. Niðurfærsluhlutfall sparisjóðsins var á bilinu 8,9–18,8% á árunum 2001–2007. Í árslok 2007 var það 12,2% hjá sparisjóðnum, en 1,6% hjá sparisjóðunum í heild. Niðurfærsluhlutfall sjóðsins var á milli 11,8% og 12,4% á árunum 2008–2012 (sjá töflu 6) en á sama tíma var niðurfærsluhlutfall sparisjóðanna í heild á bilinu 14–24,6%.

Almennur rekstrarkostnaður fór hækkandi á árunum 2001–2008. Skörp hækkun varð árið 2008 þegar liðurinn annar rekstrarkostnaður nam 45 milljónum króna, samanborið við 31 milljón króna árið áður. Munaði þar mestu um aðkeypta sérfræðiþjónustu, meðal annars í tengslum við vinnu vegna fjárhagslegrar endurskipulagningar og samskipta við eftirlitsaðila. Rekstrarkostnaður sem hlutfall af heildareignum sparisjóðsins fór hins vegar lækkandi til ársins 2010, að undanskildu árinu 2008, en var engu að síður hærri en hjá sparisjóðunum í heild á öllu tímabilinu.

Launakostnaður hjá Sparisjóði Höfðhverfinga á tímabilinu var 40–54% af almennum rekstrarkostnaði. Hækkun launakostnaðar vegna yfirstjórnar á árinu 2005 skýrðist af starfslokum Jóns Helga Péturssonar sparisjóðsstjóra á miðju ári og námu launatengd gjöld þá rúmlega 7,2 milljónum króna, eða um 26% af launakostnaði ársins. Hækkun launakostnaðar á árinu 2011 skýrðist af kostnaði vegna starfsloka Ingva Þórs Björnssonar sparisjóðsstjóra í lok árs, samtals að fjárhæð 8,7 milljónir króna.11

Starfsmenn nutu ekki annarra fríðinda en þeirra almennu fríðinda sem getið er um í umfjöllun um risnu og fríðindi í 8. kafla, um reikningsskil sparisjóðanna. Ekki var um að ræða neinar árangurstengdar greiðslur eða hvatagreiðslur sem ekki heyrðu til hefðbundinna launagreiðslna á tímabilinu. Þá voru ekki gerðir neinir starfslokasamningar sem fólu í sér réttindi umfram þau sem bundin voru í kjarasamningum.

Launakostnaður á hvert stöðugildi hjá Sparisjóði Höfðhverfinga hélt ekki í við hækkun almennrar launavísitölu. Launakostnaður sparisjóðanna í heild hækkaði einnig langt umfram launakostnað sparisjóðsins á árunum 2004–2009.12

Kjarnarekstur

Tap var af kjarnarekstri Sparisjóðs Höfðhverfinga 2004–2008.13 Tapið 2004 og 2005 skýrðist fyrst og fremst af háu framlagi í afskriftareikning útlána en árin 2006–2008 mátti rekja það til lækkandi hreinna vaxtatekna og hækkandi almenns rekstrarkostnaðar. Árið 2008 féll þó til kostnaður vegna aðkeyptrar sérfræðiþjónustu sem var óvenjulegur. Árið 2009 varð svo algjör viðsnúningur í kjarnarekstri sparisjóðsins þegar hreinar vaxtatekjur margfölduðust og almennur rekstrarkostnaður lækkaði. Bakfært framlag í afskriftareikning útlána bætti afkomuna einnig um 25 milljónir króna.

26.1.2 Efnahagsreikningar

Hér er fjallað um stærstu eigna- og skuldaliði í efnahagsreikningi Sparisjóðs Höfðhverfinga í lok áranna 2001–2011 og þróunina á tímabilinu. Í viðauka C er að finna efnahagsreikninga sparisjóðsins fyrir sömu ár á verðlagi hvers árs og á föstu verðlagi.

Eignir

Í árslok 2001 námu eignir Sparisjóðs Höfðhverfinga 509 milljónum króna en í árslok 2011 voru þær 1,9 milljarðar króna á verðlagi hvors árs um sig. Ef miðað er við verðlag í árslok 2011 voru heildareignir sjóðsins í árslok 2001 893 milljónir króna og hafði sjóðurinn því rúmlega tvöfaldast á þessum ellefu árum. Mynd 5 sýnir hvernig eignir sparisjóðsins skiptust í lok áranna 2001–2011. Þar sést að útlán uxu hratt til og með 2004 en hafa síðan dregist saman. Kröfur á lánastofnanir tóku að vaxa 2005, og frá og með 2010 hafa þær verið langstærsti eignaliður sparisjóðsins. Reyndar drógust þær saman á árinu 2007 en það ár uxu fjáreignir verulega; annars hafa fjáreignir ekki leikið stórt hlutverk hjá Sparisjóði Höfðhverfinga. Heildareignir sjóðsins hafa vaxið umtalsvert þótt hann hafi verið aðhaldssamur í útlánum og lítið stundað fjárfestingar.

Útlán voru stærsti einstaki eignaliður sparisjóðsins fram til ársins 2009. Hlutfall útlána af heildareignum hækkaði úr 72% í 88% frá 2001 til ársloka 2004, en eftir það drógust þau lítillega saman í kjölfar gagngerrar endurskoðunar á útlánamálum sjóðsins á árinu 2005. Þá varð stjórn kunnugt um stór útlán til nokkurra aðila utan starfssvæðis sparisjóðsins sem veitt voru gegn litlum eða engum tryggingum. Stjórnin hafði ekki vitneskju um þessi lán á þeim tíma sem þau voru veitt. Vanskil af þessum lánum voru mikil og framlag í afskriftareikning var stórhækkað vegna þessa.14 Þetta leiddi til tapreksturs árið 2005. Á næstu tveimur árum afskrifaði sparisjóðurinn endanlega útlán upp á 110 milljónir króna. Vægi útlána af heildareignum í lok áranna 2006–2008 var rétt um 55% og fór enn lækkandi næstu ár eftir. Í lok árs 2011 námu þau 677 milljónum króna eða 35% af heildareignum.

Langstærstur hluti útlána sparisjóðsins var í formi skuldabréfa, eða á bilinu 58–84%. Árið 2001 voru 60% útlána til einstaklinga og 40% til fyrirtækja, einkum í landbúnaði og sjávarútvegi, en í árslok 2011 voru 86% útlána til einstaklinga og 13% til fyrirtækja í landbúnaði, iðnaði og þjónustustarfsemi.

Staðan á afskriftareikningi útlána nam á bilinu 8,9–18,8% af heildarútlánum í lok áranna 2001–2007.15 Eins og fram kemur í töflu 6 hækkaði staða afskriftareiknings umtalsvert árin 2004 og 2005. Staða afskriftareiknings sem hlutfall af heildarútlánum, þ.e. niðurfærsluhlutfallið, þróaðist með nokkuð öðrum hætti hjá Sparisjóði Höfðhverfinga en hjá öðrum sparisjóðum á sama tíma. Þetta hlutfall var mun hærra hjá Sparisjóði Höfðhverfinga en hjá sparisjóðunum í heild, allt til ársins 2008, og varð það til þess að afskriftareikningur útlána hækkaði mun minna í kjölfar efnahagshrunsins en hjá öðrum sparisjóðum. Niðurfærsluhlutfall sjóðsins hélst svipað, eða um 12%–13%, frá árslokum 2007 til ársloka 2011.

Kröfur á lánastofnanir voru óverulegur hluti eigna sparisjóðsins á árunum 2001–2004. Árið 2005 tóku þær að vaxa og í lok árs 2006 voru þær orðnar 488 milljónir króna, og munaði þar mest um innstæðubréf sem sparisjóðurinn átti hjá Sparisjóðabanka Íslands hf./Icebank hf. Frá árinu 2008 jukust kröfur á lánastofnanir til muna og voru orðnar stærsti eignaliðurinn árið 2010. Í lok árs 2011 námu þær rúmum milljarði króna eða 54% af heildareignum sjóðsins. Þar af voru 957 milljónir króna í innstæðubréfum og öðrum kröfum á Seðlabanka Íslands, en kröfur á aðrar lánastofnanir námu 100 milljónum króna.

Fjáreignir voru jafnan lítill hluti heildareigna Sparisjóðs Höfðhverfinga. Mestar urðu þær í árslok 2007, um 342 milljónir króna eða 22% af eignum sjóðsins. Hlutabréf og verðbréf með breytilegum tekjum voru yfirleitt stærsti hluti fjáreigna, og námu þau 250 milljónum króna árið 2007. Fjáreignir voru 6–21% af heildareignum sparisjóðsins á árunum 2001–2011. Hlutfall þeirra af heildareignum lækkaði eftir 2007 og nam 8% í lok árs 2011 eða 148 milljónum króna.

Hlutabréf og önnur verðbréf tæplega þrefölduðust á árinu 2004. Skýrðist það af sölu á eignarhlut í Hlöðum ehf. þar sem söluverðið fékkst greitt með eignarhlut í Sænesi ehf. Á árinu 2005 voru eignarhlutir í Sænesi ehf. og Íslenskum verðbréfum hf. seldir og dróst þessi liður þá saman. Á árinu 2006 fjárfesti sparisjóðurinn að nýju í Sænesi ehf. Eignir í hlutabréfum og öðrum verðbréfum tæplega þrefölduðust á árinu 2007 og skýrist það af gengishagnaði af eignarhlutnum í Sparisjóðabanka Íslands hf./Icebank hf. sem hafði verið færður sem hlutdeildarfélag þar til árið 2007 er hann var skráður á gangvirði. Mikil lækkun varð svo á gangvirði hlutabréfa og annarra verðbréfa á árunum 2008–2011 og hafði hlutabréfaeign sparisjóðsins dregist saman í lok árs 2011 um 49% frá árinu 2007. Meginskýring þeirrar lækkunar lá í eignarhlutnum í Sparisjóðabanka Íslands hf./Icebank hf., Saga Capital hf. og Sparisjóðnum í Keflavík.

Markaðsskuldabréf o.fl. með föstum tekjum voru óverulegur hluti eigna sparisjóðsins, eða yfirleitt 1–3%. Í árslok 2001 átti sjóðurinn þó talsvert af skuldabréfum, fyrir um 56 milljónir króna, sem var 11% heildareigna. Árið 2007 varð skuldabréfaeignin mest, 89,5 milljónir króna eða 6% af heildareignum.

Hlutur sparisjóðsins í hlutdeildarfyrirtækjum var óverulegur umrætt tímabil ef árin 2005 og 2006 eru frátalin. Eignin nam 24 milljónum króna í árslok 2005 og 49 milljónum króna í árslok 2006, samanborið við 2 milljónir króna í árslok 2004 og 2,7 milljónir króna í árslok 2007. Eignir í hlutdeildarfyrirtækjum drógust saman þegar farið var að færa eign sparisjóðsins í Sparisjóðabanka Íslands hf./Icebank hf. á gangvirði árið 2007 í stað þess að f æra hana með hlutdeildaraðferð eins og áður var gert.16

Í þessari umfjöllun eru „aðrar eignir“ samtala rekstrarfjármuna, annarra eigna og skattinneignar. Sparisjóðurinn átti fyrst skattinneign í ársreikningi ársins 2007 en hún hækkaði talsvert árið eftir vegna taps. Í árslok 2011 nam skattinneignin 34,6 milljónum króna.

Skuldir

Innlán voru langstærsti fjármögnunarþáttur Sparisjóðs Höfðhverfinga á árunum 2001–2011. Hlutfall innlána af heildarskuldum lá á bilinu 49–94% og jukust þau nokkurn veginn jafnt og þétt á tímabilinu. Í árslok 2007 námu innlánin 888 milljónum króna eða 65% af heildarskuldum sjóðsins. Innlán námu 1,7 milljörðum króna í árslok 2011 og voru þá 93% af heildarskuldum sjóðsins. Innlán höfðu því vaxið um 91% á þessum fjórum árum.

Hlutfall innlána á móti útlánum var nokkuð sveiflukennt. Samhliða miklum vexti innlána og minnkandi útlánum eftir 2004 hækkaði hlutfallið úr 48% í árslok 2004 í 263% í árslok 2011. Það hlutfall var næsthæst meðal sparisjóða á tímabilinu en hæsta hlutfallið var hjá Sparisjóði Suður-Þingeyinga í árslok 2009.

Lántökur voru annar meginþáttur fjármögnunar sparisjóðsins. Árið 2004 gerði sparisjóðurinn samning við Íbúðalánasjóð um fjármögnun íbúðalána upp á 186 milljónir króna og annan samning árið eftir upp á 30 milljónir króna. Sparisjóðurinn var einnig með lánalínu hjá Sparisjóðabankanum til að fjármagna lán í erlendri mynt og gaf einnig út nokkuð af bankabréfum. Lántökur námu um 21–33% af heildarskuldum 2004–2008 en undir lok umrædds tímabils voru þær hins vegar að mestu horfnar.

Skuldir við lánastofnanir voru næststærsti fjármögnunarþáttur sparisjóðsins frá 2001 til 2004. Mikil hækkun átti sér stað árið 2004 þegar skammtímalán til allt að þriggja mánaða jukust um 124 milljónir króna. Á árinu 2009 gerði sparisjóðurinn upp allar skuldir sínar við Seðlabanka Íslands.

Eigið fé

Eigið fé Sparisjóðs Höfðhverfinga sveiflaðist mikið á árunum 2001–2011. Stofnfé hækkaði yfirleitt á milli ára við endurmat en sérstök stofnfjáraukning átti sér stað árin 2002, 2008 og 2010. Árið 2010 var stofnfé aukið um 33 milljónir króna og varð KEA svf. þá stærsti stofnfjáreigandi sjóðsins með 35% hlut. Helstu breytingar á eigin fé mátti rekja til varasjóðs. Frá 2001 til 2007 var varasjóðurinn 78–97% af eigin fé en frá 2008 var hann nærri uppurinn vegna 148 milljóna króna taps á rekstri sparisjóðsins það ár. Varasjóðurinn nam í árslok 2008 aðeins 1,7 milljónum króna og til ársloka 2011 var hann einungis 2–4% af eigin fé.

Sparisjóður Höfðhverfinga uppfyllti lögbundna lágmarkskröfu sem gerð var um eiginfjárhlutfall (CAD-hlutfall) allt tímabilið 2001–2011. Tap ársins 2008 setti þó mikið strik í reikninginn og lækkaði hlutfallið þá niður í 8,16%. Unnið var að fjárhagslegri endurskipulagningu sparisjóðsins frá byrjun árs 2008. Eiginfjárhlutfallið hækkaði á árinu 2009 og stofnfjáraukning í sparisjóðnum á árinu 2010 styrkti eiginfjárstöðu hans enn frekar. Á aðalfundi sparisjóðsins 25. maí 2010 kom fram í skýrslu stjórnar að hún teldi að með aðkomu KEA svf. að sjóðnum hefði stjórnin náð því markmiði að tryggja fjárhagslegan stöðugleika, tilvist sparisjóðsins í heimabyggð og fjárhagslega hagsmuni stofnfjáreigenda.

26.2 Útlán, útlánareglur og lánveitingar

Útlán Sparisjóðs Höfðhverfinga voru um 80% af heildareignum sparisjóðsins á árunum 2001–2005. Hlutfallið lækkaði verulega á árunum þar á eftir, 2006–2008, þegar aðrar eignir sparisjóðsins jukust verulega, t.d. kröfur á lánastofnanir, markaðsverðbréf og eignarhlutir í félögum. Útlán voru þá að meðaltali rúmlega helmingur eigna sparisjóðsins. Hlutfall þeirra lækkaði enn á árunum 2009–2011, meðal annars vegna þess að Íbúðalánasjóður tók á árunum 2008 og 2009 til sín þau íbúðalán sem voru að baki lánasamningum og skuldabréfum frá 2004 og 2005.17 Í árslok 2011 voru útlán 33% af heildareignum Sparisjóðs Höfðhverfinga.

Gengisbundin lán voru óverulegur hluti af útlánum Sparisjóðs Höfðhverfinga á tímabilinu 2005–2010. Mest urðu gengisbundin útlán um 19,6 milljónir króna í lok árs 2008 og námu þá tæpum 2% af heildarútlánasafni sparisjóðsins.

Yfirdráttarlán og skuldabréf voru rúmlega 90% útlána Sparisjóðs Höfðhverfinga á árunum 2005–2011 en 100% útlána árið 2011. Skuldabréf voru á bilinu 67–84% af útlánum á árunum 2005–2011 en yfirdráttarlán 9–32%. Á sama tíma voru afurða- og rekstrarlán og víxlar mun minni hluti útlánasafnsins.

Stærstur hluti útlánasafns sparisjóðsins var til einstaklinga en lán til þeirra voru að meðaltali 78% af heildarútlánum. Lán til fyrirtækja og atvinnustarfsemi voru að meðaltali 20,5% af lánasafninu. Í árslok 2011 hafði hlutfall útlána til einstaklinga enn hækkað og var þá 86% heildarútlána en 13% útlána voru til atvinnustarfsemi. Sparisjóðurinn lánaði mest til fyrirtækja í landbúnaði og þar á eftir voru lán til fyrirtækja í þjónustustarfsemi.

Í samanburði við aðra sparisjóði var óvenju hátt hlutfall af útlánum Sparisjóðs Höfðhverfinga fært í afskriftareikning útlána á árunum 2005–2007 eða að meðaltali 14% af heildarútlánum. Ástæða þessa voru áföll sem sjóðurinn varð fyrir á árinu 2005 en þá þurfti að afskrifa tæp 19% af útlánasafninu sökum ófullnægjandi trygginga og taps af útlánum hjá tilteknum lántakendum. Þetta, ásamt varfærni í útlánum upp frá því leiddi til þess að sjóðurinn þurfti ekki að afskrifa viðlíka mikið af lánum eftir fall bankanna og aðrir sparisjóðir.

26.2.1 Athugasemdir eftirlitsaðila

Fjármálaeftirlitið gerði athugun á starfsemi Sparisjóðs Höfðhverfinga í nóvember 2005. Það hafði í júlí 2003 framkvæmt skoðun á sparisjóðnum þar sem niðurstöður voru meðal annars þær að ekki væru nægjanlegar tryggingar að baki stórra áhættuskuldbindinga, skilgreiningar á tengdum aðilum hefðu ekki verið réttar, auk þess sem sparisjóðsstjóri hefði ekki farið með tiltekin útlán fyrir stjórn líkt og lánareglur gerðu ráð fyrir. Athugun Fjármálaeftirlitsins í nóvember 2005 beindist fyrst og fremst að útlánum sparisjóðsins og tryggingum fyrir þeim, vanskilum og afskriftum. Leiddi athugunin í ljós verulega veikleika í útlánasafni sparisjóðsins. Svo virtist sem í mörgum tilfellum hafi mikið vantað upp á tryggingar að baki skuldbindingum og að í sumum tilfellum hefðu lánveitingar ekki byggst á eðlilegum viðskiptasjónarmiðum. Var það mat Fjármálaeftirlitsins að sparisjóðurinn þyrfti að leggja 115 milljónir króna til viðbótar í sérstakan afskriftareikning útlána. Í skýrslunni var sérstaklega fjallað um verklag fyrrverandi sparisjóðsstjóra og fundið að því að í kjölfar heimsóknar Fjármálaeftirlitsins í júlí 2003 hefði sparisjóðsstjórinn haldið áfram að lána aðilum tengdum einum af stærstu lántakendum sjóðsins háar fjárhæðir án þess að bera þær undir stjórn, líkt og útlánareglur kváðu á um. Þá voru miklir vankantar á því að tengingar skuldbindinga í stórum áhættum væru í samræmi við reglur þar um. Taldi Fjármálaeftirlitið að fyrrverandi sparisjóðsstjóra hefðu átt að vera þessir vankantar ljósir og vísaði í því samhengi til fundargerðar stjórnar sparisjóðsins frá 24. júlí 2003 þar sem sérstaklega hefði verið fjallað um heimsókn Fjármálaeftirlitsins það ár og hvernig tengja ætti saman stórar áhættur. Upplýsingagjöf til Fjármálaeftirlitsins vegna stórra áhættuskuldbindinga hefði þar af leiðandi verið röng. Taldi Fjármálaeftirlitið að verklagi hjá sparisjóðnum undir stjórn fyrrum sparisjóðsstjóra og eftirlitshlutverki stjórnar hefði verið verulega ábótavant.18

Stjórn sparisjóðsins sendi Fjármálaeftirlitinu rökstutt svar 23. febrúar 2006 þar sem tekið var undir margt af því sem fram kom í skýrslu Fjármálaeftirlitsins, sérstaklega að því er útlánaákvarðanir varðaði og tryggingar fyrir útlánum. Stjórnin var þó ósammála skilgreiningum Fjármálaeftirlitsins á fjárhagslega tengdum aðilum hjá sjóðnum. Taldi hún eftirlitið ganga of langt í tengingum milli aðila og kom með skýringar og færði rök fyrir þeirri skoðun sinni að gagnrýni Fjármálaeftirlitsins ætti ekki við nægjanleg rök að styðjast. Í svarinu sagði m.a:

Fyrir stjórn liggur að taka afstöðu til þess hvort reglur um stórar áhættuskuldbindingar tengdra aðila samkvæmt 1. mgr. 30. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 2. og 3. gr. reglna FME hafi verið brotnar. Kemur þar til skoðunar hvort aðilar séu fjárhagslega tengdir eða ekki. Að ofan hefur verið rakið að ekki sé yfir skynsamlegan vafa hafið að allir aðilar sem FME nefnir í skýrslu sinni séu tengdir Hótel Express á Íslandi ehf. Það er álit stjórnarinnar að við mat á fjárhagslegum tengslum aðila verði að gera kröfu um að tengslin séu skýr og vafalaus þar sem brot á reglunum varðar sektum eða fangelsi eins og FME bendir á í skýrslu sinni, sbr. 111. gr. laga 161/2002. Ekkert svigrúm er því til að beita matskenndum sjónarmiðum eða sjónarmiðum um það hvort aðilar séu „að minnsta kosti lauslega tengdir“.19

Svo sem fyrr var getið sagði Jón Helgi Pétursson fyrrverandi sparisjóðsstjóri starfi sínu lausu snemma árs 2005, nánar tiltekið 23. mars. Á aðalfundi 28. apríl sama ár var hann hins vegar kosinn í stjórn sparisjóðsins. Sama dag hóf Ingvi Þór Björnsson eftirmaður hans störf hjá sparisjóðnum. Í skýrslu sinni fyrir rannsóknarnefndinni sagði Ingvi Þór eftirfarandi um upphafið á hinu nýja starfi:

[Þ]að sem ég heyrði í samfélaginu var að það væri erfitt að taka við starfinu því [sparisjóðurinn] hafði verið svo vel rekinn. Það var góður hagnaður, einhverntímann sagði [Jakob, stjórnarformaður] við mig: „Ja, við bara bjuggumst við því að byggja við sjóðinn peningageymslur!“ […] Það var bara mjög snemma sem ég fer að átta mig á því að hlutirnir voru ekkert eðlilegir. […] Lán án góðra trygginga. Það voru heimildir í gangi sem komu fljótlega inn á borð til mín, sem voru allt of háar, og tryggingalausar, miðað við efnahag sjóðsins. […] En þetta tikkaði alltaf inn sem vaxtatekjur, sem dæmi. Ég framlengdi ekkert heimildir nema ég hefði tryggingar og það endaði svo á fyrstu þremur mánuðunum þannig að ég fékk rautt ljós frá Hrefnu í Tryggingasjóði sparisjóðanna. Hún spyr af hverju sé svona mikil aukning á heimildarlausum heimildum, það er að segja eitthvað sem ég framlengdi ekki. Ég varð bara að spyrja forvera minn um þær og reyna að fá skýringar á þessu […]. Síðan líða aðrir þrír mánuðir og þá kemur símhringingin frá FME: „Við ætlum að kíkja í heimsókn!“ Ég tek á móti þeim og lít nú alltaf á það þannig að bækurnar séu opnar Fjármálaeftirlitinu. Þeir koma og þá fæ ég nú svona svolítið á baukinn fljótlega af því að ég hafði verið afvegaleiddur af forvera mínum.

Eftir að nýi sparisjóðsstjórinn hafði gert úttekt á stöðu mála hvað útlánin varðaði með aðstoð lögfræðings sparisjóðsins kom í ljós að tengingu aðila var ábótavant. Þar er öðru fremur átt við þá tvo lánahópa sem nánari grein er gerð fyrir hér aftar. Fyrir rannsóknarnefndinni kvað stjórnarformaður sparisjóðsins stjórnina hafa verið grunlausa um stöðuna þar til uppgjör ársins 2005 lá fyrir og athugasemdir Fjármálaeftirlitsins bárust. Reksturinn hefði gengið vel, það hefði verið methagnaður árið á undan, en síðan þurft að leggja 115 milljónir króna í afskriftareikning sem hefði verið stór biti að kyngja fyrir lítinn sparisjóð. Spurður um það hvort sparisjóðsstjórinn hefði hætt vegna þessara mála sagði formaðurinn að hann hefði verið farinn áður en þessi slæma staða kom upp, og að hann hefði hætt að eigin frumkvæði.20 Hann lýsti viðbrögðum stjórnarinnar við þessari stöðu fyrir rannsóknarnefndinni:

Fjármálaeftirlitið fór að vinna í þessu og við náttúrlega fengum lögmenn og endurskoðendur á staðnum til þess að vinna í sambandi við innheimtumál og svona, eftir því sem hægt var. Mér er minnisstætt að Fjármálaeftirlitið sendi okkur bréf og sagði: „Hvað ætlið þið að gera við sparisjóðsstjórann?“ […] Það kom upp hugmynd um að kæra hann […]. Eftir mjög ítrekaða skoðun hjá okkur, ákváðum við að gera það ekki að svo stöddu. Það var framtíð sparisjóðsins og samfélagsins sem réði því. […] En auðvitað veit maður ekkert hvort við gerðum rétt eða ekki rétt, en þetta gerðum við.21

Á fundi stjórnar sparisjóðsins 19. júní 2006 var rætt um „starfshætti fyrrum sparisjóðsstjóra“ og voru lögfræðingar sparisjóðsins viðstaddir. Fram kom í máli þeirra að þeir teldu fyrrverandi sparisjóðsstjóra hafa „brotið gegn sparisjóðnum og stjórn hans með því að rangfæra skýrslur til FME, veita lánafyrirgreiðslu gegn vilja stjórnar og reglum sparisjóðsins og með því að færa 12 millj. kr. af eigin reikningi sparisjóðsins [og] inn á tékkareikning […] í eigu Hotel Express, án þess að á móti kæmu tryggingar eða önnur skilríki fyrir því að skuld hafi myndast hjá Hotel Express gagnvart sparisjóðnum“. Tekið var fram að ekki yrði séð að sparisjóðsstjórinn hefði sjálfur „notið persónulegs ávinnings af málinu“ en engu að síður ráðlögðu lögfræðingarnir stjórn sparisjóðsins að kæra hann til lögreglu og óska eftir opinberri rannsókn á starfsháttum hans. Samkvæmt fundargerð óskaði stjórnin eftir áliti lögfræðinganna á því „hvort forsvaranlegt [væri] að kæra ekki strax“ og leita þess í stað eftir fundi með fyrrum sparisjóðsstjóra. Þannig mætti „mögulega [afla] frekari og betri upplýsinga áður en kært yrði“ og jafnframt væri þannig „viðhöfð eðlileg nærgætni í samskiptum aðila“. Lögfræðingur sparisjóðsins sá engin tormerki á þessum fyrirætlunum.

Á fundi með stjórn sparisjóðsins 20. júní 2006 gekkst sparisjóðsstjóri við því að hafa „brotið reglur sjóðsins um útlán með því að veita Hótel Express á Íslandi ehf. og tengdum aðilum fyrirgreiðslu án trygginga“. Í framhaldinu urðu nokkrar umræður um hugsanlegar bótakröfur á hendur sparisjóðsstjóranum en slíkum hugmyndum var hafnað. Niðurstaða fundarins var færð til bókar:

Stjórn ákveður eftir fund með JHP, að fram komnum hans sjónarmiðum, sé það ekki endilega í þágu heildarhagsmuna sparisjóðsins að kæra JHP til yfirvalda. Því sé rétt að bíða með þá ákvörðun að svo stöddu og kanna málið frekar.

Stjórnin hittist að nýju til fundar 3. júlí 2006 og kom þar fram að Jón Helgi hefði sagt á fundinum 20. júní 2006 að hluti ástæðu þess að hann sagði upp störfum hafi verið hvernig komið var. Á fundinum var rætt ítarlega um þá valkosti sem stjórn sparisjóðsins stóð frammi fyrir. Niðurstaðan varð sú að halda að sér höndum:

Það er mat stjórnarinnar að hagsmuna Sparisjóðs Höfðhverfinga og stofnfjáraðila sé best gætt með því að óska ekki eftir athugun opinberra aðila á starfsháttum fyrrverandi sparisjóðsstjóra, Jóns Helga Péturssonar. Hvað sem slík athugun eða rannsókn kynni að leiða í ljós verður staða sjóðsins í raun engu bætt. Framhald málsins, með mögulegri opinberri málsmeðferð er til þess fallin að valda óróleika í starfsemi sparisjóðsins að mati stjórnar. Þá er það mat stjórnar að veruleg hætta sé á að margir og einnig stórir viðskiptamenn gætu horfið með viðskipti sín frá sparisjóðnum. Jón Helgi hefur lýst því yfir að hann hafi ekki gengið erinda Hotel Express og annarra aðila sem að ofan voru nefndir og persónulegan ávinning kveður hann engan hafa verið af viðskiptum við þessa aðila. Enda hefur ekki komið í ljós að Jón Helgi hafi í nokkru notið hins minnsta af því fé sem aðilunum var veitt að láni.

Eftir umræður á þessum og fyrri stjórnarfundum og að fram komnum ofangreindum sjónarmiðum, er það sameiginleg og samróma niðurstaða stjórnar Sparisjóðs Höfðhverfinga að leggja ekki fram kæru á hendur Jóni Helga Péturssyni vegna ofangreindra mála, enda hafi hann í engu notið persónulegs ávinnings af því sem aflaga fór í starfi hans. Skýringar Jóns Helga eru trúverðugar. Það er mat stjórnar Sparisjóðs Höfðhverfinga að nú sé mál að linni og málinu verði að ljúka til að skapa frið um starfsemi sparisjóðsins. Ómældum tíma hefur verið varið í málið og hefur uppbygging og þróun sjóðsins liðið vegna þess. Slíkt er ekki í þágu sjóðsins eða stofnfjáreigenda.

Í endurskoðunarskýrslu með ársreikningi 2004 var ekkert sem gaf á nokkurn hátt til kynna að ekki væri allt með felldu í útlánamálum sparisjóðsins, þrátt fyrir áherslu hennar á skoðun útlána. Um framlag í afskriftareikning útlána sagði í sömu skýrslu:

Framlagið sem hlutfall af útlánum er nú 4,5% en til lengri tíma litið teljum við að stefna ætti að því að framlagið sé ekki hærra en sem nemur 1,0% af útlánum. […] Eins og að framan greinir er talið nauðsynlegt að leggja í afskriftareikning vegna eins aðila sem starfar utan starfssvæðis sparisjóðsins 20 millj. kr. Mikilvægt er að sparisjóðurinn fari með varúð í lánveitingu til aðila, sérstaklega þeirra sem eru fyrir utan starfssvæði sparisjóðsins.22

Í skýrslu um innri endurskoðun sjóðsins fyrir árið 2005 kom fram að heildarfyrirgreiðsla til tíu stærstu viðskiptaaðila sjóðsins næmi 372 milljónum króna og var talið að tapsáhætta vegna þeirra gæti numið allt að 90 til 100 milljónum króna. Þá var einnig vakin athygli á því að vanskil eldri en einn mánuður hefðu hækkað verulega og næmu um 9,6% af heildarútlánum. Auk þess var bent á að utanumhald gagna vegna veittra ábyrgða væri ófullnægjandi hjá sjóðnum.

Við innri endurskoðun ársins 2006 var gerð úrtakskönnun á því hvort lánareglum væri fylgt við lánveitingar. Jafnframt voru lánveitingar kannaðar með tilliti til heimilda starfsmanna. Voru ekki gerðar athugasemdir undir þessum liðum. Vanskil eldri en einn mánuður voru við skoðunina 17,2% af heildarútlánum. Var bent á að hjá lánastofnunum almennt væri þetta hlutfall um 1,0% og því ljóst að staðan hjá sjóðnum væri verulega frábrugðin því sem almennt væri. Við innri endurskoðun ársins 2007 hafði hlutfallið lækkað í 10,6%. Ekki voru gerðar athugasemdir við skoðun á útlánaferli en bent var á að nauðsynlegt væri að útlánareglur sjóðsins væru skýrar og hverjum starfsmanni þyrfti að vera ljóst hverjar útlánaheimildir hans væru. Var þessi ábending ítrekuð við innri endurskoðun ársins 2008. Þá höfðu vanskil eldri en einn mánuður lækkað í 6,2% af heildarútlánum. Ekki var gerð skýrsla um innri endurskoðun fyrir árið 2009 en í skýrslu fyrir árið 2010 var áfram ítrekuð nauðsyn þess að útlánareglur væru skýrar og hverjar útlánaheimildir starfsmanna væru. Vanskil eldri en einn mánuður voru sem fyrr há og námu um 8,3% af heildarútlánum í lok september 2010. Við innri endurskoðun ársins 2011 kom fram að á skoðunardegi hefðu tveir aðilar verið með áhættuskuldbindingar umfram 25% af eiginfjárgrunni sparisjóðsins og að sjóðnum hefði verið veittur frestur til 30. mars 2012 til að hækka eiginfjárgrunn sinn. Var tekið fram að lánin hefðu verið innan marka þegar þau voru upphaflega veitt. Vanskil eldri en einn mánuður höfðu aukist enn á ný og voru 11,4% af heildarútlánum í lok september 2011.

Í endurskoðunarskýrslu með ársreikningi 2005 kom fram að framlag í afskriftareikning á árinu væri 115,6 milljónir króna eða um 228% af hreinum vaxtatekjum ársins. Ljóst væri að sparisjóðurinn hefði orðið fyrir „verulegum áföllum“ hvað varðaði afskriftir útlána á árinu. Í lok ársins stóðu sérgreindar afskriftir á afskriftareikningnum í 184 milljónum króna. Benti endurskoðandi sparisjóðsins á að þar af væri sparisjóðurinn að leggja 119,5 milljónir króna í afskriftareikning vegna aðila utan starfssvæðis sjóðsins. Var ítrekuð sú skoðun að sparisjóðurinn ætti að fara varlega í lánveitingar til aðila utan starfssvæðis hans nema gegn tryggingum sem metnar væru traustar, en við yfirferð hafði komið fram að nokkuð vantaði upp á að tryggingataka væri nægjanleg. Jafnframt var bent á að samþykki stjórnar hefði vantað fyrir nokkrum lánveitingum. Var í því sambandi m.a. bent á skuldbindingar Hótel Express á Íslandi ehf. Samkvæmt endurskoðunarskýrslu með ársreikningi 2006 hafði framlag í afskriftareikning lækkað úr 115,6 milljónum króna í 6,1 milljón króna vegna þess að almennt hefði útlánasafn sjóðsins verið að batna og lán með fasteignaveði hefðu aukist til muna. Sama þróun var í gangi á árinu 2007 samkvæmt endurskoðunarskýrslu þess árs. Ein af helstu niðurstöðum í endurskoðunarskýrslu með ársreikningi 2008 var að útlánastarfsemi sparisjóðsins og þjónusta henni tengd stæði ekki undir rekstrarkostnaði. Einnig kom fram að við endurskoðun ársreikningsins hefðu prófanir á eftirlitsþáttum leitt í ljós að starfsmenn sem ekki höfðu útlánaheimildir gátu veitt fyrirgreiðslu í gegnum afgreiðslukerfi sparisjóðsins. Í endurskoðunarskýrslu með ársreikningi 2009 kom fram að útlán hefðu lækkað um 23,9% á milli ára og væri ástæða þess sú að Íbúðalánasjóður hefði á árinu tekið til sín þau útlán sem hann hefði fjármagnað fyrir sjóðinn á árunum 2004 og 2005. Á árinu 2009 var einn aðili með áhættuskuldbindingu umfram 25% af eiginfjárgrunni og hafði Fjármálaeftirlitið veitt sjóðnum frest til að laga sig að gildandi mörkum. Sparisjóðsstjóri hefði síðar óskað eftir framlengingu á þeim fresti en ekki hefði borist svar við þeirri ósk. Taldi endurskoðandinn mikilvægt að sjóðurinn leitaði allra leiða til að lækka áhættuskuldbindingu sína. Í endurskoðunarskýrslu með ársreikningi 2010 kom fram að tryggingastaða einstakra viðskiptavina hefði í sumum tilfellum batnað frá fyrra ári.

26.2.2 Útlánareglur

Stjórn Sparisjóðs Höfðhverfinga samþykkti útlánareglur sparisjóðsins í desember 2003 með vísan til laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og þágildandi reglur nr. 531/2003 um stórar áhættuskuldbindingar hjá fjármálafyrirtækjum. Útlánareglur Sparisjóðs Höfðhverfinga höfðu ekki að geyma ítarleg ákvæði um lánveitingar og heimildir. Samkvæmt lánareglunum bar útlánum að þjóna þeim meginmarkmiðum að eðlilegur tekjuafgangur yrði af rekstri sjóðsins og að viðhaldið yrði traustri eiginfjárstöðu og lausafjárstöðu. Jafnframt skyldi leitast við að veita þeim er óskuðu eftir fyrirgreiðslu sem besta þjónustu á hverjum tíma. Við ákvörðun um fyrirgreiðslu til viðskiptamanna bar að gæta þess að heildarfyrirgreiðsla viðkomandi aðila væri í hæfilegu hlutfalli af eigin fé23 sparisjóðsins með hliðsjón af tryggingum og fjárhag viðskiptaaðilans. Sama gilti um heildarfyrirgreiðslu til fleiri en eins aðila sem væru svo fjárhagslega tengdir að með tilliti til útlánaáhættu yrði að skoða skuldbindingar þeirra við sparisjóðinn í einu lagi. Samkvæmt útlánareglunum mátti heildarskuldbinding eins aðila eða fjárhagslega tengdra aðila aldrei vera umfram 25% af eigin fé sparisjóðsins.

Ekki voru nein ákvæði í útlánareglum Sparisjóðs Höfðhverfinga um lágmarks tryggingaþekju mismunandi veðandlaga en samkvæmt reglunum bar að jafnaði að taka fullnægjandi tryggingar. Tilgreint var þó sérstaklega í útlánareglunum að raunmat á tryggingarandlagi skyldi fara fram og gögn því til staðfestingar skyldu skjalfest þegar um veð væri að ræða án þess að tilgreint væri hvernig meta bæri veðandlögin. Heimilt var að veita undanþágu frá tryggingatöku en óljóst var í reglunum við hvaða aðstæður slíkt væri heimilt. Þá var einnig heimilt að veita lán án trygginga ef um var að ræða smávægilega fyrirgreiðslu miðað við eigið fé sparisjóðsins og fyrir lægi fullnægjandi vitneskja um greiðslugetu viðskiptaaðilans. Í útlánareglum var þó hvorki skilgreining á því hvað teldist vera smávægileg fyrirgreiðsla né hvaða upplýsingar teldust fullnægjandi um greiðslugetu viðskiptaaðilans.

Almennt bar við lánveitingar að taka mið af fyrri viðskiptum lántaka við sparisjóðinn og meta í því skyni greiðsluhæfi einstaklinga og afla upplýsinga um fjárhag og rekstur lögaðila. Ef lántaki var atvinnufyrirtæki bar eftir því sem unnt var að afla ársreikninga, rekstrar- og greiðsluáætlana og annarra fjárhagslegra upplýsinga um viðskiptamanninn.

Sparisjóðsstjóri mátti taka ákvörðun um veitingu láns ef heildarskuldbindingar viðkomandi viðskiptamanns og fjárhagslega tengdra aðila voru innan við 5% af eigin fé sparisjóðsins, en við lánveitingar umfram þau mörk þurfti samþykki sparisjóðsstjórnar. Samkvæmt lánareglunum hafði sparisjóðsstjóri heimild til að taka ákvörðun um skipulag lánveitinga og lánaheimildir einstakra starfsmanna, en í töflu 11 má sjá samantekt á þeim heimildum. Starfsmönnum bar að leita samþykkis sparisjóðsstjórnar áður en lán umfram heimildir voru veitt.

Samkvæmt reglum sjóðsins um framkvæmd starfa sparisjóðsstjórnar og sparisjóðsstjóra frá 2003 skyldi mánaðarlega leggja fyrir stjórn yfirlit yfir skuldbindingar stærstu viðskiptaaðila sparisjóðsins, sundurliðað eftir útlánaformum. Var miðað við að stærstu viðskiptaaðilar væru aðilar með heildarskuldbindingu yfir 3% af eigin fé sjóðsins. Einnig skyldi mánaðarlega gera grein fyrir heildarlánveitingum sem orðið hefðu milli stjórnarfunda, auk lánveitinga og ábyrgða til einstakra aðila sem færu fram úr 6% af eigin fé sjóðsins. Í uppfærðum reglum frá árinu 2007 kom fram að stjórn skyldi á þriggja mánaða fresti taka fyrir skýrslu um útlánaáhættu sem fæli m.a. í sér yfirlit yfir skuldbindingar stærstu viðskiptaaðila sparisjóðsins, sundurliðað eftir útlánaformum, ásamt vanskilum ef einhver væru. Stærstu viðskiptaaðilar voru þá skilgreindir sem aðilar með heildarskuldbindingu hjá sjóðnum er næmi að minnsta kosti 2% af eigin fé sjóðsins. Skýrslan skyldi einnig innihalda yfirlit yfir heildarlánveitingar sem orðið hefðu milli stjórnarfunda.

Sparisjóður Höfðhverfinga setti sér í desember 2003 starfsreglur um framlög í afskriftareikning og endanlegar afskriftir útlána frá desember 2003 til að fara eftir við mat á sérstöku og almennu framlagi í afskriftareikning útlána og mat á fullnustueignum og hvernig staðið skyldi að færslu á endanlegum afskriftum. Samkvæmt reglunum skyldu þeir lánþegar koma til skoðunar við mat á sérstökum afskriftarframlögum sem eftirfarandi atriði ættu við um: a) vanskil í 3 mánuði eða lengur, b) greiðslustöðvun, c) árangurslaust fjárnám, d) gjaldþrot, e) beiðni um nauðasamninga eða f) aðrar aðstæður sem skertu gjaldþol eða greiðslugetu og gerðu það líklegt að ekki yrði staðið að fullu við lánssamning.

26.2.3 Stærstu áhættuskuldbindingar

Mikið tap varð af útlánum hjá Sparisjóði Höfðhverfinga á árinu 2005. Staða afskriftareiknings í árslok var um 19% af heildarútlánum það ár en ástæður afskriftaframlaga voru fyrst og fremst ófullnægjandi tryggingar hjá tilteknum lántakendum. Eins og framar greinir framkvæmdi Fjármálaeftirlitið í nóvember 2005 athugun á útlánum sjóðsins, tryggingum fyrir þeim, vanskilum og afskriftum og var helsta niðurstaðan sú að verulegir veikleikar væru til staðar í útlánasafni hans.

Í skýrslu um athugunina kom fram að Fjármálaeftirlitið hafði einnig framkvæmt skoðun á sparisjóðnum í júlí 2003 þar sem niðurstaðan var meðal annars sú að ekki voru taldar nægjanlegar tryggingar að baki stórra áhættuskuldbindinga og voru gerðar við það athugasemdir, auk þess sem á skorti að fjárhagslega tengdir aðilar væru taldir sem ein áhætta. Jafnframt kom í ljós að þáverandi sparisjóðsstjóri hefði brotið gegn lánareglum sjóðsins. Á fundi stjórnar sparisjóðsins 24. júlí 2003 lýsti stjórnin yfir stuðningi við sparisjóðsstjórann og taldi að hann hefði ekki brotið lánareglur sjóðsins af ásetningi heldur af vanþekkingu eða gáleysi. Í framhaldinu voru tengingar á stórum áhættum lagfærðar og tryggingastaða bætt og taldi Fjármálaeftirlitið að staða útlána væri komin í gott horf á þeim tíma. Við athugun eftirlitsins árið 2005 kom hins vegar í ljós að aftur hefði sigið á ógæfuhliðina í útlánamálum sjóðsins.24

Rannsóknarnefndin valdi úrtak úr hópi lántakenda til sérstakrar skoðunar og greiningar. Markmiðið með skoðuninni var að varpa ljósi á útlánastefnu sparisjóðsins, starfshætti útlánastarfsemi og ástæður afskrifta. Úrtakið var valið með hliðsjón af stærð áhættuskuldbindinga sparisjóðsins auk þess sem skoðuð voru útlán með há framlög í afskriftareikning.

Skýrslum um stórar áhættuskuldbindingar sem skila bar til Fjármálaeftirlitsins ársfjórðungslega samkvæmt reglum nr. 216/2007 var ætlað að varpa ljósi á áhættu fjármálafyrirtækis af útlánum og öðrum slíkum skuldbindingum og aðstoða við áhættustýringu.25 Úrtak rannsóknarnefndarinnar samanstóð af lántakendum sem voru tilgreindir sem stærstu áhættuskuldbindingar í ársfjórðungsskýrslum sparisjóðsins til Fjármálaeftirlitsins á árunum 2007 til 2011. Til viðbótar við helstu áhættuskuldbindingar sjóðsins voru í úrtakinu lántakendur þar sem fært hafði verið sérgreint framlag í afskriftareikning á árunum 2007 til 2011. Úrtakið nær til 19,7−24,3% útlánasafns og 64−78% af sérgreindum afskriftaframlögum eftir því til hvaða árs er litið.

Eins og sést í töflu 10 hér framar var hlutfall afskrifta af útlánasafninu hátt á árinu 2005 og var því litið sérstaklega til lántakenda sem fengu stór afskriftarframlög á því ári.

Í úrtakinu voru sex lánahópar26 sem samanstóðu bæði af einstaklingum og lögaðilum. Ástæða þess að úrtakið nemur aðeins rúmum 22% af útlánasafni sparisjóðsins er samsetning útlánasafnsins, en sem fyrr segir voru lán til einstaklinga á bilinu 60–80% af heildarútlánum á árunum 2008–2011. Úrtakið nær hins vegar til verulegs hluta afskrifta og skýrir það að miklu leyti áhrif útlána á rekstur sparisjóðsins.

Í úrtaki rannsóknarnefndarinnar samanstóðu tveir stærstu lánahóparnir af einstaklingum sem voru með fyrirgreiðslur hjá sparisjóðnum til persónulegra nota. Til tryggingar skuldbindingunum voru veð í íbúðarhúsnæði og persónulegar ábyrgðir. Í tilviki annars lánahópsins var stór hluti heildarskuldbindinganna án trygginga og var um mikil vanskil að ræða. Færa þurfti sérgreint afskriftaframlag vegna lánanna allt frá árinu 2005 og fram til ársins 2011.

Þau félög sem sparisjóðurinn lánaði til fengu einkum fyrirgreiðslu til þess að fjárfesta í rekstri. Í úrtaki rannsóknarnefndarinnar voru tvö félög sem starfræktu loðdýrabú og eitt félag starfaði á sviði sjávarútvegs. Einn lánahópurinn samanstóð af ferðaþjónustufyrirtæki, flugfélagi, heildverslun og félagi sem gaf út alþjóðleg afsláttarkort. Í flestum tilvikum voru lánahóparnir með fyrirgreiðslu í formi yfirdráttarlána og skuldabréfa sem veitt voru til kaupa á afurðum eða til fjárfestinga í rekstri. Tvö félög voru með lán í erlendri mynt en þau höfðu jafnframt tekjur í erlendri mynt. Talsvert var um að lánahópar fengju fyrirgreiðslu hjá Sparisjóði Höfðhverfinga án fullnægjandi trygginga en stór hluti afskrifta hjá sparisjóðnum var til kominn vegna skorts á tryggingum hjá stærstu lántakendum.

Stærstu útlán sparisjóðsins voru ekki nægilega vel tryggð og algengt var að yfirdrættir væru án trygginga. Í útlánareglum Sparisjóðs Höfðhverfinga kom fram sú almenna regla að taka bæri fullnægjandi tryggingar fyrir útlánum. Ljóst er að ekki var farið eftir lánareglunum sem skyldi. Fjármálaeftirlitið, ásamt innri og ytri endurskoðendum sparisjóðsins, gerði athugasemdir við stöðu útlána hjá sparisjóðnum allt frá árinu 2003. Veikleikar lánasafnsins leiddu til mikilla afskrifta sem voru umfangsmestar árið 2005. Þrátt fyrir að upp hefðu komið veikleikar á útlánasafni sem leiddi til töluverðrar rýrnunar safnsins, var ekki bætt nægilega úr stöðunni og var talsvert um að útlán væru áfram veitt án fullnægjandi trygginga.

Áhættuskuldbinding einstakra viðskiptamanna eða fjárhagslega tengdra aðila mátti ekki fara yfir 25% af eiginfjárgrunni.27 Færi áhættuskuldbinding yfir þau mörk bar að tilkynna það Fjármálaeftirlitinu án tafar. Á árinu 2005 fóru nokkrir stærstu lántakendur sparisjóðsins yfir 25% hámarkið. Auk þess benti Fjármálaeftirlitið á að fjárhagslega tengdir aðilar hefðu ekki verið réttilega tengdir saman sem ein áhættuskuldbinding en hefði það verið gert hefðu skuldbindingar þeirra verið yfir 25% hámarkinu. Fjármálaeftirlitinu var kunnugt um þessi atriði og gerði athugasemdir við stöðu þessara lántakenda í skýrslu sinni um athugun á útlánum sjóðsins í nóvember 2005.28

Í skýrslum Sparisjóðs Höfðhverfinga um stórar áhættuskuldbindingar til Fjármálaeftirlitsins á árunum 2008 og 2009 var enn að finna dæmi þess að áhættuskuldbindingar lánahópa færu yfir 25% hámarkið. Rannsóknarnefndin sendi fyrirspurn til Fjármálaeftirlitsins um það hvort Sparisjóður Höfðhverfinga hefði tilkynnt þær skuldbindingar sem fóru yfir 25% markið. Í svari Fjármálaeftirlitsins sagði:

Á árinu 2009 voru 5–7 aðilar yfir 25% mörkunum við ársfjórðungsleg skýrsluskil, mest 48,7%. Meginskýringin er sú að bókfært eigið fé sparisjóðsins fór niður í 87,1 m.kr. í árslok 2008 úr 203,9 m.kr. í árslok 2007. Tap ársins 2008 var 148,4 m.kr. Umræddir lánþegar voru áður vel innan 25% markanna en fóru yfir þau mörk við fall eiginfjárstöðu sparisjóðsins, þ.e. vegna óviðráðanlegra atvika af hálfu stjórnenda sjóðsins. FME var kunnugt um á þessum tíma að sparisjóðurinn var í umleitunum um sölu á nýju stofnfé, m.a. til KEA, til að rétta af eiginfjárstöðu sína þannig að umræddir lánþegar færu [svo] aftur innan 25% markanna. Í árslok 2010 voru allir þessir aðilar innan 25% markanna.29

Hér á eftir fylgir umfjöllun um tvo lánahópa hjá Sparisjóði Höfðhverfinga sem rannsóknarnefndin taldi ástæðu til að gera nánari grein fyrir. Farið er yfir helstu lánveitingar til umræddra aðila, hvort þær hafi verið í samræmi við lánareglur og gildandi lög og reglur á fjármálamarkaði og fjallað um mat sparisjóðsins á afskriftaþörf vegna þeirra. Að öðru leyti gaf skoðun á öðrum lánahópum í úrtakinu ekki tilefni til sérstakrar umfjöllunar.

Lánahópur fimm einstaklinga

Stærsta áhættuskuldbinding sparisjóðsins á árunum 2008–2011 var jafnframt lengi stærsti vanskilaaðili sjóðsins. Lánahópurinn samanstóð af fimm einstaklingum sem tengdir eru fjölskylduböndum. Fram kom í skýrslu um innri endurskoðun vegna ársins 2005 að heildarskuldbinding lánahópsins næmi tæpum 43 milljónum króna, meira en helmingur skuldbindinganna væri í vanskilum og tryggingar með öllu ófullnægjandi. Til tryggingar skuldbindingum lánahópsins var einungis tryggingarbréf með 7. veðrétti í fasteign á höfuðborgarsvæðinu að fjárhæð 7,5 milljónir króna og tryggingarbréf með 3. veðrétti í annarri fasteign á sama svæði að fjárhæð 15 milljónir króna, auk trygginga í formi ábyrgða frá tengdum aðilum. Skuldir hópsins voru vegna greiðslukorta, víxla og yfirdrátta og voru aðilar innan hópsins í ábyrgð hver fyrir annan.30 Í árslok 2005 voru tæpar tvær milljónir króna færðar í sérgreindan afskriftareikning vegna skuldbindinga lánahópsins en eftir það stóð áhættuskuldbindingin í tæpum 20% af eiginfjárgrunni sparisjóðsins. Þá voru skuldir vaxtafrystar.

Í árslok 2004 lá fyrir að greiðslustaða [eins úr lánahópnum] var slæm. Ekki var lagt í afskriftareikning vegna hans á þeim tíma þar sem fyrir lá samkvæmt upplýsingum frá fyrrum sparisjóðsstjóra að hann átti von á greiðslu frá ríkissjóði að fjárhæð 10 millj. kr. vegna vinnu […]. Framangreind greiðsla hefur enn ekki borist [honum].31

Í árslok 2006 hafði heildarskuldbinding lánahópsins hækkað í rúmar 46 milljónir króna og var 11,7% af eiginfjárgrunni sparisjóðsins. Enn var stór hluti fyrirgreiðslunnar í vanskilum og án fullnægjandi trygginga. Rúmar 20 milljónir króna voru færðar í sérgreindan afskriftareikning vegna tapshættu.

Í árslok 2007 hafði heildarskuldbinding hækkað í rúmar 49 milljónir króna en eftir að dregið hafði verið frá sérgreint afskriftaframlag upp á tæpar 28 milljónir króna var áhættuskuldbindingin 15,3% af eiginfjárgrunni sparisjóðsins. Enn voru tryggingar aðeins fyrir hluta af skuldum lánahópsins og vanskil töluverð.

Í skýrslum innri endurskoðunar á árunum 2007–2011 var farið yfir eðli og upphæðir heildarfyrirgreiðslu til lánahópsins ásamt upplýsingum um færslur í sérgreindan afskrifta-reikning á sama tímabili. Skuldbindingar allra í lánahópnum voru í vanskilum á skoðunardegi innri endurskoðunar og allir nema einn í hópnum voru með óheimilan yfirdrátt32 hjá sparisjóðnum. Sérgreind afskrift var færð vegna hvers einstaklings í lánahópnum þar sem tryggingar voru einungis fyrir hluta fyrirgreiðslunnar og veruleg tapsáhætta talin vera fyrir hendi.33 Þrátt fyrir að þetta hafi verið með þessum hætti um nokkurra ára skeið var nýrra trygginga ekki aflað.34

Heildarskuldbinding lánahópsins var 54–60 milljónir króna frá 2008–2010 og staða vegna lánanna á sérgreindum afskriftareikningi var 32 milljónir króna öll árin. Áhættuskuldbindingin var var 28% af eiginfjárgrunni sparisjóðsins í árslok 2009, þ.e. yfir 25% hámarkinu samkvæmt lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.

Í árslok 2011 nam heildarskuldbindingin tæpum 64 milljónum króna eða 16,4% af eiginfjárgrunni sparisjóðsins, eftir að tekið hafði verið tillit til 45 milljóna króna afskriftaframlags.

Hótel Express á Íslandi ehf. og tengdir aðilar

Þessi lánahópur samanstóð af Hótel Express á Íslandi ehf., fyrirtæki sem gaf út afsláttarkort sem meðal annars voru seld til viðskiptavina Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis35 og þremur einstaklingum. Í skýrslu um athugun Fjármálaeftirlitsins á Sparisjóði Höfðhverfinga 16.–17. nóvember 2005 taldi Fjármálaeftirlitið fimm aðra aðila tengjast hópnum, einn einstakling og fjögur einkahlutafélög. Þar á meðal voru fyrirtækin Kjörbók ehf., félag utan um verslunarrekstur, og heildverslunin ÍP innflutningur ehf. Önnur fyrirtæki voru ráðgjafarfyrirtæki og ferðaskrifstofa. Í svarbréfi sparisjóðsins til Fjármálaeftirlitsins 23. febrúar 2006 vegna athugasemda í skýrslunni var fallist á að ferðaskrifstofan hefði getað talist til lánahópsins.

Stjórn sparisjóðsins hafnaði því að rekstrarráðgjafarfélagið gæti tengst lánahópnum, en félagið var með 14,4 milljóna króna skuld í vanskilum þegar Fjármálaeftirlitið gerði sína athugun árið 2005. Ráðgjafarfyrirtækið var stofnað af Hótel Express á Íslandi ehf. í júní 2004 en var selt öðrum í nóvember sama ár. Hins vegar skal bent á að stuttu eftir að bréf sparisjóðsins til Fjármálaeftirlitsins var ritað, var samþykkt á stjórnarfundi ráðgjafarfélagsins 10. ágúst 2005 að annar af eigendum Hótel Express á Íslandi ehf. keypti helmingshlut í ráðgjafarfélaginu og yrði framkvæmdastjóri þess.

Í sama bréfi til Fjármálaeftirlitsins taldi stjórn sparisjóðsins Kjörbók ehf., sem hafði verið í eigu foreldra annars af eigendum Hótel Express á Íslandi ehf., ekki tengt lánahópnum. Sonurinn hefði keypt félagið og selt það áður en til skoðunar Fjármálaeftirlitsins kom. Það væri því ekki tengt lánahópnum. Hins vegar blandaðist félagið síðar á árinu með afgerandi hætti inn í viðskipti Hótel Express á Íslandi ehf. með fasteign í Vestmannaeyjum, eins og greinir frá hér aftar.

Þá taldi stjórn sparisjóðsins heildverslunina ÍP innflutning ehf. ekki tengjast hópnum þar sem engin eigna- eða stjórnendatengsl væru við lánahópinn. Hins vegar var það bókað í fundargerð stjórnar Sparisjóðs Höfðhverfinga 2. nóvember 2003 að Hótel Express á Íslandi ehf. hefði óskað eftir því að heildverslunin yfirtæki skuldir sínar vegna kaupa á Hótel Express í Vestmannaeyjum. Skuldabréfið yrði til 14 ára með einum gjalddaga á ári. Stjórnin samþykkti erindið og fékk heildverslunin lánið. Til tryggingar var 2. veðréttur í fasteigninni í Vestmannaeyjum. Láninu var ráðstafað til Hótel Express á Íslandi ehf. (13,9 milljónir króna), ÍP innflutnings ehf. (8 milljónir króna), annars eigenda Hótel Express á Íslandi ehf. (6,4 milljónir króna), föður hans og fyrrverandi eiganda Kjörbókar ehf. (1,2 milljónir króna) og þess sem í nóvember 2004 hafði keypt áðurnefnt rekstrarráðgjafarfyrirtæki sem Fjármálaeftirlitið taldi eiga að tilheyra lánahópnum (1 milljón króna).36

Fjármálaeftirlitið taldi augljóst að lánafyrirgreiðslan tengdist Hótel Express á Íslandi ehf. og eigendum þess og því bæri að skilgreina aðilana sem fjárhagslega tengda.37 Í svarbréfi stjórnar sparisjóðsins til Fjármálaeftirlitsins 23. febrúar 2006 sagði:

Sérstaklega var leitað skýringa á því við vinnu þessara athugasemda hverju það sætir að kaupverðinu sem ÍP [innflutningur ehf.] greiddi hafi verið ráðstafað til Hótel Express og tengdra aðila. Mun það hafa verið vegna þess að kaupsamningur var gerður milli Kjörbókar, fyrrum afsalshafa hússins og Hótel Express sem keypti raunverulega eignina af Kjörbók. Áður en formlega var gengið frá málum keypti ÍP innflutningur fasteignina af Hótel Express. [Annar eigenda þess] hefur aðspurður upplýst að raunverulega hafi Hótel Express verið búið að tryggja sér fyrirfram endursölu eignarinnar til ÍP innflutnings. Til að spara gjöld vegna stimplunar skjala og annars kostnaðar virðist sem samningur milli Hótel Express annars vegar og Kjörbókar og ÍP innflutnings hins vegar hafi aldrei orðið opinber. Mun hér komin skýring á því hvers vegna [annar eigenda Hótel Express] ritar bréf til Sparisjóðs Höfðhverfinga og útskýrir að ÍP muni ráðstafa kaupverðinu til lækkunar á skuldum Hótel Express. Stjórnin er því ekki í stakk búin til að fullyrða hér eða taka undir að um hafi verið að ræða málamyndagerninga.38

Af þeim gögnum sem rannsóknarnefndin aflaði varð ekki ráðið að Hótel Express á Íslandi ehf. hafi nokkurn tíma verið eigandi fasteignarinnar í Vestmannaeyjum. Hins vegar hafði tveimur tryggingarbréfum útgefnum til Sparisjóðs Höfðhverfinga 15. júlí 2003 verið þinglýst á fasteignina; annars vegar 16,5 milljóna króna tryggingarbréfi á 2. veðrétti, útgefnu af Hótel Express á Íslandi ehf.; og hins vegar 15,5 milljóna króna tryggingarbréfi á 3. veðrétti þar sem útgefandi var annar eiganda sama félags fyrir skuldum hans sjálfs „eða“ hins eiganda félagsins, eins og það var orðað í bréfinu.

Hvað kaup ÍP innflutnings ehf. á fasteigninni varðar þá keypti Kjörbók ehf. 2., 3. og 4. hæð (en ekki 1. hæð) hússins, sem er frystihús, 15. nóvember 2003 fyrir 20 milljónir króna. Kaupverðið var greitt með yfirtöku 7,3 milljóna króna veðskulda og 12,8 milljóna króna inneign í vöruskiptabanka. Með kaupsamningi 7. nóvember 2003, þ.e. átta dögum fyrr, seldi Kjörbók ehf. ÍP innflutningi ehf. sömu fasteign, nákvæmlega eins tilgreinda í kaupsamningi, á 51 milljón króna. Báðum kaupsamningum var þinglýst 20. nóvember 2003. ÍP innflutningur ehf. greiddi með yfirtöku þeirra veðskulda sem áður var getið, veðskuldabréfi að fjárhæð 31,5 milljónir króna, auk greiðslu með hlutafé í óskráðu einkahlutafélagi að fjárhæð 13 milljónir króna. Þannig var sama eign seld, áður en hún var keypt, á verði sem var 31 milljón króna hærra en kaupverðið. Hinn 9. júní 2004 afsalaði svo félagið sem verslunarfélagið keypti eignina af, 1. hæð í sama húsi til áðurnefnds ráðgjafarfyrirtækisins gegn yfirtöku veðskulda.39

Á árinu 2005 hafði lán sparisjóðsins til ÍP innflutnings ehf. tapast og leysti sparisjóðurinn til sín fasteignina fyrir hluta af skuldbindingum félagsins. Samkvæmt uppboðsafsali frá 26. október 2005 keypti ráðgjafarfyrirtækið, sem þá var að hluta í eigu annars eigenda Hótel Express á Íslandi ehf., 2., 3., og 4. hæð fasteignarinnar á uppboði fyrir 7,5 milljónir króna. Ráðgjafarfyrirtækið gerði kröfu um greiðslu af andvirði kaupverðsins fyrir veðkröfu sinni að andvirði rúmlega 3,8 milljóna króna. Með samningi 5. ágúst var boðið framselt sparisjóðnum. Sparisjóðurinn fékk ekkert upp í sína kröfu þar sem hann átti aftari veðrétt. Fram kom í skýrslu um innri endurskoðun sparisjóðsins vegna ársins 2005 að sjóðurinn hefði gengið inn í kaupin á eigninni.40 Eignarhlutur sparisjóðsins var síðan seldur Vestmannaeyjabæ með kaupsamningi 30. október 2008 fyrir 18,5 milljónir króna. Með uppboðsafsali 20. október 2008 eignaðist Vestmannaeyjabær svo 1. hæð hússins, en hún hafði verið í eigu ráðgjafafyrirtækisins, fyrir 10,3 milljónir króna. Ekki verður séð að verðmat hafi farið fram á fasteigninni þegar lánið var upphaflega veitt í nóvember 2003 heldur virðist sparisjóðsstjóri hafa byggt á forsendum sem annar eigenda Hótel Express á Íslandi ehf. lagði fyrir hann. Í skýrslu Fjármálaeftirlitsins sagði:

Athygli vekur einnig að í lánsbeiðni sem [annar eigenda Hótel Express á Íslandi ehf.] sendir [þáverandi sparisjóðsstjóra] að eignin í Vestmannaeyjum sé metin á 58 millj.kr., sem ætla má að sé ofmetið miðað við ástand eignarinnar. Núverandi sparisjóðsstjóri hefur ítrekað leitað að verðmati á fyrrgreindri eign en það hefur ekki fundist. Að sögn núverandi sparisjóðsstjóra segja heimamenn í Eyjum að þessi eign sé ónýt!41

Lánahópurinn, eins og hann var skilgreindur af Fjármálaeftirlitinu, var lengi vel stærsta áhættuskuldbinding í Sparisjóði Höfðhverfinga en að mestum hluta voru skuldir aðilanna í formi yfirdráttarlána. Þá voru einnig fyrirgreiðslur í formi greiðslukortalána og skuldabréfalána en stærsti hluti skuldbindinga lánahópsins var án trygginga. Á árinu 2003 framkvæmdi Fjármálaeftirlitið athugun hjá Sparisjóði Höfðhverfinga og kom þá í ljós að fyrirgreiðslur til Hótel Express á Íslandi ehf. væru án trygginga og að sparisjóðsstjórinn hefði ekki farið með fyrirgreiðslubeiðni félagsins fyrir stjórn eins og honum hefði borið að gera samkvæmt lánareglum sjóðsins.42 Sparisjóður Höfðhverfinga brást við athugasemd Fjármálaeftirlitsins og hélt stjórnarfund 24. júlí 2003 þar sem farið var yfir málið og eftirfarandi bókað:

Við skoðun FME kom í ljós að skilningur sparisjóðsstjóra á fjárhagslega tengdum aðilum var ekki réttur og 4 aðilar sem sparisjóðsstjóri taldi ekki vera tengda, þar af eitt fyrirtæki, voru það skv. skilgreiningu reglugerðar. Aðilarnir sem um ræðir eru Hótel Express ehf., [tveir eigendur þess og faðir annars eigendanna]. Þetta þýddi það að heildarskuldbindingar þessara tengdu aðila við sjóðinn voru rúmar 37 m.kr. sem er langt umfram þær heimildir sem sparisjóðsstjóri hefur til að taka ákvarðanir um, en heimild hans til ákvarðanatöku miðast við rúmar 12 m.kr. Auk þess voru mál þessara aðila ekki fullfrágengin og ekki fannst trygging að upphæð 10 m.kr. og hefur hún ekki fundist þrátt fyrir ítarlega leit. Þess skal getið að sparisjóðsstjóri braut lánareglur sjóðsins ekki af ásetningi heldur vanþekkingu eða gáleysi.

Í framhaldi af þessu hafði sparisjóðsstjóri samband við viðkomandi aðila og krafðist veðtryggingar fyrir öllum skuldum. Slíkar tryggingar voru veittar auk þess, sem nýjar tryggingar urðu þess valdandi að einn þessara 3 aðila, [faðir annars eigendanna] var ekki lengur fjárhagslega tengdur hinum eða fyrirtækinu og heildarskuldbinding því um 31 m.kr. […]

Niðurstaða stjórnar er að sparisjóðsstjóri njóti fulls trausts til að halda starfi sínu áfram. Sparisjóðsstjóri vék af fundi meðan stjórn fór yfir málið.

Rúmu ári síðar, við gerð ársreiknings Sparisjóðs Höfðhverfinga fyrir árið 2004, var ljóst að lán til lánahópsins væru í mikilli tapshættu og gert ráð fyrir að færa þyrfti nær alla fyrirgreiðsluna í sérgreindan afskriftareikning. Þrátt fyrir þessa slæmu stöðu voru veitt frekari lán til aðila í hópnum á árinu 2005 og þau auk þess ekki borin undir stjórn sparisjóðsins til samþykktar.43 Ytri endurskoðandi sparisjóðsins, KPMG, gerði athugasemd við þessa stöðu í endurskoðunarskýrslu vegna ársins 2005 og sagði meðal annars:

Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum hefur fyrrum sparisjóðsstjóri veitt þessum aðilum aukin útlán í þeirri von að öll fyrirgreiðslan yrði gerð upp. Þessi ráðstöfun er ekki óþekkt í fjármálageiranum en reynslan er því miður sú að oftar en ekki verður tapið meira. Þó er rétt að benda á að fyrir liggja drög að samkomulagi þar sem aðilar að Hótel Express ehf. ætla að greiða sjóðnum 20 millj. kr. upp í fyrirgreiðslu þessara aðila.44

Á árinu 2005 voru allar skuldbindingar lánahópsins í vanskilum eða gjaldfallnar og búið var að loka á öll viðskipti þeirra hjá sparisjóðnum. Fram kom í skýrslu um innri endurskoðun árið 2005 að Hótel Express á Íslandi ehf. væri með óheimilan yfirdrátt upp á tæpar 25 milljónir króna og tæpra tveggja milljóna króna skuld vegna greiðslukorta. Engar tryggingar voru fyrir skuldbindingum félagsins og þurfti sparisjóðurinn að færa 23 milljónir króna í sérgreindan afskriftareikning á árinu 2005 sökum tapsáhættu. Á sama tíma voru eigendur félagsins með 11,5 milljóna króna og 11 milljóna króna óheimila yfirdrætti. Annar þeirra var að auki með rúmlega 4 milljóna króna kreditkortaskuld. Yfirdráttarlán eigendanna höfðu verið nýtt til greiðslu á skuldum félagsins við sparisjóðinn og voru án trygginga. Í skýrslu innri endurskoðanda kom fram að heildarskuldbinding lánahópsins 24. nóvember 2005 næmi rúmum 76 milljónum króna á skoðunardegi en tryggingar væru einungis 9,3 milljóna króna virði.45 Í skýrslu sparisjóðsins um stórar áhættuskuldbindingar í árslok 2005 var heildarskuldbinding lánahópsins rúmar 85 milljónir króna og áhættuskuldbindingin 30,1% af eiginfjárgrunni sparisjóðsins eftir að færð hafði verið sérgreind afskrift að fjárhæð 23 milljónir króna.

Hefðu vinnubrögð sparisjóðsins verið í samræmi við það sem Fjármálaeftirlitið taldi að hefði átt að vera, hefðu skuldbindingarnar verið enn hærri. Að viðbættum skuldum ÍP innflutnings ehf. hefði heildarskuldbinding lánahópsins numið 127 milljónum króna og áhættuskuldbindingin þá 61,7% af eiginfjárgrunni sjóðsins. Á endanum færði sparisjóðurinn tæpar 127 milljónir króna sem sérgreint framlag í afskriftareikning útlána vegna skuldbindinga lánahópsins í árslok 2005.46

Á árinu 2006 batnaði tryggingastaða hópsins ekki en fram kom í endurskoðunarskýrslu vegna ársins 2006 að vonir stæðu til þess að ná niðurstöðu í málum lánahópsins á árinu 2007.47 Hótel Express á Íslandi ehf. var úrskurðað gjaldþrota í maí 2006, Kjörbók ehf. í nóvember sama ár og ÍP innflutningur ehf. í febrúar 2007. Stjórn sparisjóðsins samþykkti á fundi 12. mars 2007 að afskrifa endanlega rúmar 36 milljónir króna vegna ÍP innflutnings ehf. og tæpar 12 milljónir króna vegna Kjörbókar ehf. Á fundi stjórnar 24. október 2007 var samþykkt að afskrifa endanlega tæpar 27 milljónir króna vegna Hótel Express á Íslandi ehf. og rúmar 6 milljónir króna hjá öðrum eigenda ráðgjafarfyrirtækisins, þeim sem ekki var jafnframt eigandi Hótel Express ehf. Síðar samþykkti stjórnin á fundi 27. desember 2007 að afskrifa rúmar 4 milljónir króna af skuldum annars eigenda Hótel Express ehf. eftir að gengið hafði verið að fasteignaveði og eignin seld. Samtals voru því 85 milljónir króna endanlega afskrifaðar hjá þessum aðilum á árinu 2007.

Þegar fyrirtækin í lánahópnum höfðu verið tekin til gjaldþrotaskipta stóðu aðeins einstaklingarnir eftir með lán hjá Sparisjóði Höfðhverfinga. Á árinu 2008 var önnur stærsta sérgreinda afskrift Sparisjóðs Höfðhverfinga vegna fyrirgreiðslu sjóðsins til þess eiganda Hótel Express á Íslandi ehf. sem ekki hafði fengið endanlega afskrifað árið 2007 og eiginkonu hans. Skuldir þeirra voru óheimilir yfirdrættir, greiðslukortaskuldir og skuldabréfalán. Skuldir eiginkonunnar voru tryggðar með fasteignaveði. Í árslok 2008 nam heildarskuldbinding þeirra tæpum 25 milljónum króna og sérgreind afskrift af skuldum þeirra 20 milljónir króna, sökum þess að stór hluti skuldbindinganna var ótryggður.48

Á fundi stjórnar Sparisjóðs Höfðhverfinga 23. september 2009 kom fram að samningstilboð hefði borist um uppgjör á skuldum hjónanna og samþykkt að ljúka samningi um uppgjörið. Undirritaður var greiðslusamningur 7. október 2009 og voru afskrifaðar samtals rúmar 11 milljónir króna af skuldum þeirra en eftir stóð skuldabréfalán að fjárhæð tæpar 6 milljónir króna.

26.2.4 Lán til stjórnarmanna og starfsmanna

Samkvæmt 2. mgr. 57. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki bar að fara með viðskipti starfsmanna sparisjóðsins eftir þeim reglum sem stjórn setti. Samkvæmt útlánareglum Sparisjóðs Höfðhverfinga bar að leggja lán til stjórnarmanna fyrir stjórn til samþykktar ef heildarskuldbinding viðkomandi stjórnarmanns og maka fór yfir 5 milljónir króna. Um lánveitingar til sparisjóðsstjóra og maka hans var vísað til sömu lagagreinar þar sem kveðið er á um að stjórn skuli samþykkja fyrirgreiðslur og að þær eigi að hlíta sömu reglum og gilda um viðskipti við almenna viðskiptamenn í sambærilegum viðskiptum. Um almenna starfsmenn gilti sú regla að lánveitingar til þeirra urðu að lúta sömu reglum og útlán til annarra viðskiptamanna sjóðsins og bar að færa í gerðabók ef lánið nam hærri fjárhæð en tveimur milljónum króna.

Í skýrslum um innri endurskoðun hjá Sparisjóði Höfðhverfinga á árunum 2005–2008 og 2010–201149 voru ekki gerðar athugasemdir við skuldbindingar starfsmanna hjá sparisjóðnum.

Á árinu 2005 voru fyrrum sparisjóðsstjóri, Jón Helgi Pétursson, og aðilar tengdir honum (venslaðir aðilar) með skuldbindingu sem nam meira en 10% af eiginfjárgrunni sparisjóðsins. Þar af voru skuldir sparisjóðsstjórans sjálfs um 7 milljónir króna tryggðar með 4. veðrétti í fasteign hans og sjálfskuldarábyrgðum skyldmenna.50 Skuldir aðila sem tengdust sparisjóðsstjóranum námu 22 milljónum króna og voru tryggðar með sjö milljóna króna allsherjarveði í sauðfé, sauðfjárafurðum, rekstrarvörum og heyfeng en annað tryggt með sjálfskuldarábyrgðum. Fjármálaeftirlitið mæltist til þess í skýrslu um athugun á útlánum sparisjóðsins í nóvember 2005 að betri tryggingar yrðu fengnar vegna skuldbindinga lánahópsins þar sem um talsvert háa fjárhæð væri að ræða.51 Ekki verður betur séð en að þessar skuldbindingar hafi fallið utan viðmiðunarreglnanna sem settar voru í lánareglum um lán til starfsmanna og tengdra aðila.

Samtals störfuðu 12 manns hjá Sparisjóði Höfðhverfinga á árunum 2001–2010. Rannsóknarnefndin kannaði útlán til starfsmanna og keyrði kennitölur þeirra saman við lánagrunn sparisjóðsins.52 Voru tíu starfsmenn með lán hjá sparisjóðnum á einhverjum tímapunkti. Enginn starfsmaður annar en sparisjóðsstjórinn fyrrverandi var með óvenjulega fyrirgreiðslu eða háar skuldbindingar á tímabilinu 2005–2010

26.3 Fjáreignir og fjárfestingar

Sparisjóður Höfðhverfinga setti sér ekki sérstakar reglur um fjárfestingar, en í reglum um störf stjórnar og framkvæmdastjóra frá 8. febrúar 2007 var kveðið á um að fjárfestingar í fasteignum skyldu bornar upp í stjórn, sem og önnur fjárfestingaráform sem telja mætti meiriháttar eða óvenjuleg. Sem dæmi voru nefnd kaup á meiriháttar tölvubúnaði og fyrirhuguð opnun afgreiðslustaða. Á tímabilinu 2005–2011 voru hlutafjáraukningar og nýfjárfestingar teknar fyrir og samþykktar af stjórn sparisjóðsins.

Árið 2005 var samanlögð verðbréfaeign allra litlu sparisjóðanna 154% af samanlögðu eigin fé þeirra en hæst varð hlutfallið 401% í árslok 2008.53 Hlutfall verðbréfaeignar af eigin fé Sparisjóðs Höfðhverfinga var á bilinu 53% til 215% á árunum 2005–2011, hæst í lok árs 2008 og lægst í lok árs 2005. Fjáreignir voru á bilinu 6–22% af eignum sparisjóðsins 2005–2011.

Árið 2002 seldi sparisjóðurinn öll hlutabréf sín í SP-Fjármögnun hf. til Scandinavian Holding og Alþjóða líftryggingarfélagsins hf. Þá seldi sparisjóðurinn 60% af hlutabréfaeign sinni í Kaupþingi banka hf. Söluhagnaður viðskiptanna var um 15,7 milljónir króna. Á árinu 2005 seldi sparisjóðurinn hlutabréf sín í Íslenskum verðbréfum hf.

Stærstu fjáreignir Sparisjóðs Höfðhverfinga voru í Sænesi ehf. og Sparisjóðabanka Íslands hf./Icebank hf. en gott gengi Sparisjóðabankans á árunum 2005 og 2006 hækkaði töluvert virði hans í bókum sparisjóðsins. Þá hafði breyting á matsaðferðum á árinu 2007 í för með sér töluverða gengishækkun fjáreigna, þá einkum í Sparisjóðabankanum, VBS Fjárfestingarbanka og Sparisjóðnum í Keflavík. Meðal annarra stórra eigna voru hlutir í Saga Capital Fjárfestingarbanka hf. og Sveitahótelinu ehf. Skuldabréf sparisjóðsins námu mest 89 milljónum króna í árslok 2007 en voru annars um 19– 31 milljón króna.

Eignin í Exista ehf. sem tilfærð er í árslok 2010 í töflu 14 er skuldabréf sem félagið gaf út í kjölfar nauðasamnings 17. október 2010 vegna markaðsvíxils útgefnum af Exista hf. sem sparisjóðurinn hafði keypt. Sparisjóður Höfðhverfinga átti tæp 12% í Sænesi ehf. á móti 88% hlut Grýtubakkahrepps54 en Sænes ehf. var meðal stærri lántakenda hjá sparisjóðnum. Pharmarctica ehf., sem sparisjóðurinn átti einnig hlut í, var skilgreint sem hluti af lánahópi Sæness ehf. þar sem Sænes átti tæp 95% í félaginu.

Sparisjóðurinn eignaðist 11,5% hlut í Sænesi ehf. þegar félagið keypti 13,54% eignarhlut sparisjóðsins í Hlöðum ehf. og greiddi fyrir hann með eigin hlutum. Þessi viðskipti voru samþykkt á stjórnarfundi sparisjóðsins 20. desember 2004:

Sala á hlut SPSH í Hlöðum ehf. Búið er að gera verðmat á hlut SPSH í Hlöðum ehf. og er niðurstaða matsins að eðlilegt gengi bréfanna sé 28,6 til 31,5 (hlutur SPSH 74,4 til 81,9 m.kr.). Samið hefur verið við Sænes ehf. um að Sænes ehf. kaupi hlutinn á genginu 31,5 og greiði með 11,46% hlut í Sænesi ehf. á genginu 13. Óskar sparisjóðsstjóri eftir umboði stjórnar til að ganga frá samningum eða sölu á hlutnum. Sparisjóðsstjóra falið umboð til að ganga frá samningi.55

Í ársreikningi Sparisjóðs Höfðhverfinga 2004 koma viðskiptin með bréfin fram að því leyti til að bréfin í Hlöðum ehf., sem í ársreikningi sparisjóðsins 2003 voru að nafnverði 2,6 milljónir króna en bókfærð á rétt rúmar 9 milljónir króna, voru farin og í þeirra stað komin bréf í Sænesi ehf., að nafnverði 4,8 milljónir króna en bókfært verð þeirra var skráð 51 milljón króna. Söluhagnaður af Hlaða-bréfunum var tilgreindur í skýringarlið 14 í sama reikningi og nam tæpum 42 milljónum króna. Það sýnir að sparisjóðurinn hefur fengið 51 milljón króna fyrir bréfin í Hlöðum ehf., eða öllu minna en gert var ráð fyrir í samþykkt stjórnar. Samkvæmt henni átti að selja bréfin á 81,9 milljónir króna. Munurinn var því 30,9 milljónir króna. Ástæða þess að bókfært virði bréfanna var svo miklu lægra var sú að fjárhæðin takmarkaðist af hámarksfjárhæð áhættuskuldbindingar af eiginfjárgrunni í samræmi við ákvæði 30. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.

Sjóðurinn mátti ekki eiga nema 25% af eigin fé í viðkomandi og þar af leiðandi neitaði endurskoðandinn að uppfæra virðið hærra heldur en sem nam því. Þetta flokkaðist sem stór áhættuskuldbinding og þá er sjóðnum ekki heimilt að eiga hlut sem er yfir 25% af eigin fé vegna þess að hlutafjáreign er áhættuskuldbinding líkt og útlán. Þá koma endurskoðendurnir og segja að við getum ekki bókfært virðið og innleyst söluhagnað af þessu nema upp að þessu marki vegna þess að sjóðurinn getur ekki haldið á bréfunum öðruvísi. Hlutirnir að nafnvirði eru eftir sem áður til þarna […]. Það var ástæðan, þú gast ekki haldið á eigninni sem hún var metin á samkvæmt þessu. […] Ég veit ekkert hvort það sé svo eitthvað sem má ekki bókhaldslega séð en það fer í gegnum endurskoðandann. […] Það tapast ekkert virðið. Þú ert í rauninni með dulda eign í bókum sjóðsins sem nemur mismuninum á þessu og þú getur ekki innleyst hana vegna þess að þá ferðu yfir 25% og þá ertu krafinn um að þú verðir að selja eignina, sem var svo sem á þessum tíma ekkert hlaupið að í rauninni.56

Þrátt fyrir að bókfært verð bréfanna í Hlöðum ehf. hafi verið mun lægra en umsamið söluverð, þá forðuðu þessi viðskipti sparisjóðnum frá tapi á árinu 2004 og sýndi hann þess í stað methagnað.

Hlaðir ehf. var útgerðarfyrirtæki á Grenivík í eigu þriggja systkina, þar á meðal maka eins stjórnarmanns í sparisjóðnum, en sparisjóðurinn hafði eignast hlut í félaginu árið 2001 sem fullnustueign þegar Kaldbakur hf. varð gjaldþrota. Sænes ehf. var eignarhaldsfélag sem leigði út fasteignir og veiðiheimildir, auk þess sem það átti eignarhluti í öðrum félögum, þar á meðal 11,46% hlut í Hlöðum. Sænes var að 94,9% í eigu Grýtubakkahrepps. Í skýringarlið 22 í ársreikningi Sæness ehf. fyrir árið 2004 sagði:

Á hluthafafundi 30. desember 2004 var samþykkt að kaupa hlutabréf í Hlöðum ehf. að nafnverði allt að 2,6 millj. kr. á kaupverði allt að 81,9 millj. kr., af Sparisjóði Höfðhverfinga. Hlutabréfin voru greidd með eigin hlutum Sæness ehf. Kaupin voru gerð með fyrirvara um samþykki stjórnar og hluthafa Hlaða ehf. Þar sem framangreint samþykki liggur ekki fyrir er kaupverðið 81,9 millj. kr. fært meðal annarra skammtímakrafna í efnahagsreikningi.57

Skýringarliður 18 í ársreikningi Sæness 2004 sýndi yfirlit um eiginfjárreikninga. Þar var greint frá kaupum og sölu félagsins á eigin bréfum. Keypt voru eigin bréf fyrir tæpa 61 milljón króna og seld eigin bréf fyrir 81,9 milljónir króna. Kaupgengið var 13,3 en sölugengið 17,0. Við þetta hækkaði eigið fé Sæness um rúmar 20,9 milljónir króna. Í skýrslu og áritun stjórnar og framkvæmdastjóra í sama ársreikningi er þess getið að hluthafar séu nú aðeins tveir, Grýtubakkahreppur með 88,5% og Sparisjóður Höfðhverfinga með 11,5% hlut. Sænes hefur því keypt 6,4% hlut af hreppnum og alla hluti annarra eigenda til þess að greiða sparisjóðnum með fyrir bréfin í Hlöðum. Engu að síður var eignarhald beggja félaganna, Sæness og Hlaða, óbreytt í árslok 2004 frá því sem var ári fyrr samkvæmt innsendum hlutafjármiðum til fyrirtækjaskrár. Þess má geta að sami endurskoðandi áritaði umrædda ársreikninga sparisjóðsins og félaganna beggja 2004.

Af ársreikningum Sæness ehf. og Hlaða ehf. má ráða að Sænes hélt ekki þessum aukna hlut í Hlöðum því á árinu 2005 afsalaði félagið nær öllum hinum keypta hlut sparisjóðsins í Hlöðum til systkinanna þriggja og maka þeirra. Eignarhlutann var ekki að finna í ársreikningi Sæness ehf. 2005. Um var að ræða 11,75% því Sænes átti 13,25% í Hlöðum í árslok 2005. Þá var engan söluhagnað að sjá í ársreikningnum. Þetta kom heim og saman við ársreikning Hlaða 2005, því þar var Sænes sagt eiga 13,25% meðan 86,75% skiptust jafnt milli systkinanna þriggja og maka þeirra. Systkinin og makar þeirra hafa því keypt hlut sparisjóðsins í Hlöðum ehf. í gegnum Sænes ehf. sem í leiðinni hækkaði eigið fé sitt um 20,9 milljónir króna.

Sænes ehf. seldi síðan hlut sinn í Hlöðum ehf., 13,25%, um mitt ár 2006 til útgerðarfélagsins Frosta ehf. á genginu 53,7 þegar Frosti keypti Hlaðir að fullu, en Frosti ehf. var í eigu systur systkinanna þriggja og eiginmanns hennar, en þau voru tengdaforeldrar fyrrverandi sparisjóðsstjóra. Gengi bréfanna hækkaði því umtalsvert á einu og hálfu ári frá fyrri viðskiptum, eða úr 19,6 í 53,7 en meginverðmætið í Hlöðum fólst í aflaheimildum. Kvótaverð hækkaði reyndar nokkuð á árinu 2005 sem skýrt gæti gengishækkunina að einhverju leyti.58 Fyrir rannsóknarnefndinni skýrði fyrrverandi sparisjóðsstjóri svo frá málinu:

Ég tek það fram að ég vissi ekki að það stæði til að selja Hlaðir á þessum tíma, hvað þá að útgerð tengdaforeldra minna ætlaði að fara að kaupa það. Hefði maður vitað það, hefði maður frekar beðið og selt þetta fyrir „cash“ og þetta hefði verið frábært. Það sem gerist í rauninni er að virði Sæness, ef Sænes hefði selt allan sinn kvóta á sama tíma og Frosti kaupir Hlaðir, þá hefði þessi 80 milljóna hlutur sparisjóðsins verið miklu meira virði. Hann hefði farið álíka mikið upp því á endanum er þetta bara kvótaverð sem stýrir verðmatinu. Ég vil ekki meina að við höfum selt frá okkar eignina í Hlöðum á einhverjum spottprís og orðið af allri þessari hækkun.59

Eignarhlutur sparisjóðsins í Sænesi ehf. var seldur Sparisjóði Norðfjarðar í árslok 2005 en keyptur til baka hálfu ári síðar. Fyrrum sparisjóðsstjóri var spurður út í þau viðskipti og sagði hann að tilgangurinn hefði verið „að fá þá, að okkar mati, rétt verð á þau bréf“.60 Sænesi lýsti hann á þessa leið: „Sænes er félag í eigu samfélagsins á Grenivík, sér um kvótaeign og annað og náttúrulega bara pólitísk stjórn þar á bakvið.“61 Þessi viðskipti fóru annars fram með eftirfarandi hætti:

Á stjórnarfundi 28. desember 2005 var samþykkt að taka víkjandi lán hjá Sænesi ehf., allt að 65 milljónir króna. Reyndin varð svo 50 milljónir króna. Á stjórnarfundi daginn eftir var samþykkt að veita Sparisjóði Norðfjarðar 70 milljóna króna lán og jafnframt að selja 11,5% hlut sjóðsins í Sænesi ehf. Á stjórnarfundi 18. janúar 2006 var greint frá samningi sem gerður hafði verið 30. desember 2005 um kaup Sparisjóðs Norðfjarðar á 11,5% hlutnum í Sænesi fyrir 70 milljónir króna. Samningurinn var með kauprétti Sparisjóðs Höfðhverfinga til 3. júlí 2006 á sömu bréfum fyrir 74,2 milljónir króna. Greint var frá þessum viðskiptum á stjórnarfundi Sparisjóðs Norðfjarðar 12. janúar 2006 og kaupin samþykkt með vísan til samþykktar stjórnar frá 29. des. 2005. Þar hafði verið rætt um að frestaður söluhagnaður vegna bréfa í Kaupþingi kæmi þá til skattlagningar. Sparisjóðsstjóri óskaði eftir heimild til að fá að kaupa hlutabréf fyrir allt að 70 milljónir króna fyrir áramót. Stjórnin frestaði ákvörðun um þetta. Sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Norðfjarðar rifjaði þessi viðskipti upp fyrir rannsóknarnefndinni:

Ég held að þeir hafi sennilega verið eitthvað yfir mörkum með að eiga svona stóran hlut í þessu félagi. Og við höfum bara vistað þetta hjá okkur gegn einhverri þóknun. Og selt það síðan aftur seinna […]. Ég reikna með að þetta hafi sigið eitthvað í CAD-ið hjá þeim þarna.62

Fram kom í skýrslu fyrrverandi stjórnarformanns Sparisjóðs Höfðhverfinga að sú hefði verið raunin:

Ástæðan var sú og ég man það nú vel, að Reynir endurskoðandi, hann ráðlagði okkur að gera þetta til þess að lagfæra CAD-hlutfallið yfir áramótin. Og ég man það vel, hann hringdi í mig sérstaklega út af þessu til að byrja með og við hlýddum ráðleggingum endurskoðandans í þessu. Nú, þetta er kannski, já … ja, þetta er bara eins og það liggur fyrir. Það er ekkert öðruvísi.63

Sparisjóður Höfðhverfinga hafði 19 milljóna króna söluhagnað af þessum viðskiptum í ársreikningi 2005, en greiddi svo Sparisjóði Norðfjarðar 4,2 milljónir króna fyrir „hýsingu“ bréfanna á árinu 2006.

Sparisjóður Höfðhverfinga átti 0,4% eignarhlut í Sparisjóðabanka Íslands hf./Icebank hf. sem var metinn á 72,8 milljónir króna í lok árs 2007 og hafði þá hækkað um rúmar fimmtíu milljónir frá því tveimur árum áður. Sú hækkun var til komin vegna góðs gengis Sparisjóðabankans og hlutafjáraukningar í honum en stjórn sparisjóðsins samþykkti á fundi sínum 11. apríl 2006 að kaupa um 319 þúsund hluti á genginu 7,5 krónur á hlut í hlutafjárútboði Sparisjóðabanka Íslands hf. Fyrrum sparisjóðsstjóri tjáði rannsóknarnefndinni að hann hefði gjarnan viljað selja þennan eignarhlut um það leyti sem Byr sparisjóður og Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis hf. seldu eignarhluti sína í bankanum haustið 2007. Hann kvaðst hafa orðað hugsanleg kaup Sparisjóðsins í Keflavík á hlutnum við Geirmund Kristinsson sparisjóðsstjóra þar og hann hefði tekið „ágætlega í það. Ég sagði að ég vildi bara minnka eignarhlutinn og við þyrftum bara að eiga aðeins þannig að við yrðum nú gjaldgengir á fundum, við værum hvort eð er það litlir og mér fannst þetta nú náttúrlega orðið pínu glórulaust og hann tók mjög vel í það en svo þegar að gengisfallið verður þarna í kringum páskana, þá sagði hann: […] þetta er dottið út af borðinu, ég get ekkert gert“.64

Stjórn Sparisjóðs Höfðhverfinga samþykkti á fundi 12. apríl 2007 að kaupa hlutafé í Saga Capital Fjárfestingarbanka hf., alls 44 milljónir hluta á genginu 1,15 krónur á hlut. Fyrrum sparisjóðsstjóri lýsti því fyrir rannsóknarnefndinni að sparisjóðurinn hefði átt töluvert laust fé sem sífellt hefði verið falast eftir, t.d. með því að bjóða víxlakaup, þátttöku í sjóðum og þvíumlíkt. Þegar Saga Capital Fjárfestingarbanki hf. varð til hefði hann talið ráðlegt að taka stöðu í því fyrirtæki. Þannig hefði mátt slá tvær flugur í einu höggi, þ.e. koma peningunum í vinnu og mynda tengingu við nærumhverfið.65 Sparisjóðurinn eignaðist 0,45% eignarhlut í Saga Capital Fjárfestingarbanka hf. með þessum kaupum.

Sparisjóðurinn átti stofnfé í Sparisjóði Vestfirðinga þegar kom að sameiningu þess síðarnefnda við Sparisjóðinn í Keflavík á árinu 2007. Í aðdraganda þeirrar sameiningar var ráðist í stofnfjáraukningu í Sparisjóði Vestfirðinga til þess að jafna út skiptihlutföll milli sparisjóðanna og tók Sparisjóður Höfðhverfinga þátt í henni. Hlutur hans í aukningunni var fjórar milljónir króna að nafnverði.

Á árinu 2005 bókfærði Sparisjóður Höfðhverfinga sérstakan 38,7 milljóna króna söluhagnað af eignarhlutum í félögum. Hann var færður á liðinn aðrar rekstrartekjur. Þar munaði mestu um 12,5 milljóna króna hagnað vegna sölu á hlutabréfum Íslenskra verðbréfa hf. og 19 milljóna króna hagnað vegna sölu á hlutabréfum Sæness ehf. Frá 2005 til 2007 hafði sparisjóðurinn talsverðar tekjur af eignarhlutum í Sparisjóðabanka Íslands hf. og Sparisjóðnum í Keflavík.

Sparisjóðurinn tapaði mest á eign sinni í Sparisjóðabankanum en hún var niðurfærð næstum að fullu í lok árs 2008, eða um 72 milljónir króna. Sparisjóðurinn tapaði jafnframt allri eign sinni í Saga Capital Fjárfestingarbanka hf., en það tap dreifðist á árin 2008–2011 og var mest árið 2009, eða tæpar 28 milljónir króna. Þá tapaði sparisjóðurinn talsvert á eignarhlutum í Sparisjóðnum í Keflavík og VBS Fjárfestingarbanka hf. á árunum 2008 og 2009.

Af mynd 12 má sjá að afkoma af hlutabréfum var ekki jafn afgerandi í heildarafkomu Sparisjóðs Höfðhverfinga og hjá mörgum minni sparisjóðum. Hreinar vaxtatekjur sparisjóðsins, sem falla hér undir aðrar hreinar rekstrartekjur, voru töluverðar 2005–2007 og aftur 2009–2011. Afkoma af fjáreignum var einungis betri en af öðrum liðum árið 2007 og má það einkum rekja til breytinga á matsaðferðum eigna. Þær matsaðferðir höfðu svo sitt að segja ári síðar þegar virðisrýrnun verðbréfaeignar lék stórt hlutverk í stærsta tapi sparisjóðsins á tímabilinu. Aftur varð tap af fjáreignum á árinu 2009, mest vegna virðisrýrnunar eignar sparisjóðsins í Saga Capital Fjárfestingarbanka hf. og Sparisjóðnum í Keflavík. Aðrar hreinar rekstrartekjur voru góðar á því ári og kom rekstur sparisjóðsins nokkurn veginn út á sléttu. Afkoma af fjáreignum var lítil á árinu 2010 en sýnu meiri ári síðar vegna eignarhlutarins í Sænesi ehf. Frá og með árinu 2001 til 2007 var uppsafnaður hagnaður sparisjóðsins af fjáreignum 136 milljónir króna á árslokaverðlagi ársins 2011 en heildartap sjóðsins af sömu eignum á árunum 2008–2011 nam um 119 milljónum króna. Á þessu ellefu ára tímabili var því nettóhagnaður af fjáreignum sparisjóðsins.

26.4 Fjármögnun

Skuldir Sparisjóðs Höfðhverfinga tæplega tvöfölduðust frá árinu 2005 til ársins 2011. Fjármögnun á starfsemi sjóðsins var með skuldum og eigin fé. Innlán voru stærsti skuldaliður sparisjóðsins á tímabilinu eða 58–95% af heildarskuldum að undanskildu eigin fé.66 Lægst var hlutfall þeirra árið 2005 og hæst árið 2011. Innlán sem hlutfall af útlánum voru á bilinu 65–263%, lægst 2005 og hæst árið 2011.

Innlán voru stærsti þátturinn í fjármögnun Sparisjóðs Höfðhverfinga á árunum 2005–2011. Á skoðunartímabilinu áttu heimili að meðaltali 71% af innlánum sjóðsins, fyrirtæki um 15% og eignarhaldsfélög um 9%. Innlán frá eignarhaldsfélögum hækkuðu töluvert í lok árs 2009 og enn frekar á árinu 2011.67 Hlutfall bundinna innlána var að meðaltali 20% á tímabilinu, hæst 25% í febrúar 2009 og lægst 13% frá september til desember 2005.68 Tíu stærstu innlánseigendur sparisjóðsins áttu að meðaltali 45% allra innlána hjá sjóðnum.

Skuldir Sparisjóðs Höfðhverfinga við lánastofnanir voru nær eingöngu vegna ádráttarlínu í erlendum myntum. Sjóðurinn undirritaði rammasamning um lánsheimildir við Sparisjóðabanka Íslands hf. 20. desember 2004.69 Samningur var gerður um lánsheimild í formi reikningsláns í erlendum gjaldmiðlum að jafnvirði allt að 130 milljónir króna. Lánsfjárhæðina mátti endurlána viðskiptavinum eða nýta hana til kaupa á fjármálagerningum.70 Lánsheimild rammasamningsins var hækkuð í 200 milljónir króna 1. janúar 2008 og fór sparisjóðurinn aldrei út fyrir skilgreindan lánaramma. Eftir yfirtöku Fjármálaeftirlitsins á Sparisjóðabankanum í mars 2009 voru skuldir sparisjóðsins við Sparisjóðabankann fluttar til Seðlabanka Íslands. Seðlabankinn bauð sparisjóðnum afslátt af skuldinni ef hún yrði gerð upp í einu lagi með greiðslu.71 Krafan nam 84 milljónum króna og var gerð upp 29. desember 2010 með greiðslu sem nam tæpum 75 milljónum króna.72

Sparisjóður Höfðhverfinga gerði tvo lánasamninga við Íbúðalánasjóð. Sá fyrri var gerður í desember 2004 og var upphafleg lánsfjárhæð rúmar 186 milljónir króna. Með þessum samningi fékk Íbúðalánasjóður greiðsluflæði af íbúðalánum sem sparisjóðurinn hafði veitt viðskiptavinum sínum og í þessu tilviki voru lánin að baki fjármögnuninni 20 talsins. Seinna lánið, sem var veitt í apríl 2005, var með sama sniði en þar var lánsfjárhæðin rúmar 30 milljónir króna og að baki henni stóðu þrjú lán í eigu sparisjóðsins.73

Eins og greint var frá hér á undan voru skuldir sparisjóðsins við lánastofnanir einkum vegna lánalínu hjá Sparisjóðabankanum. Til viðbótar henni var lántaka Sparisjóðs Höfðhverfinga til lengri tíma hjá Sparisjóðabanka Íslands hf. en hún var vegna fjármögnunar frá Íbúðalánasjóði. Sparisjóðabankinn gaf út skuldabréf með veði í söfnum fasteignaveðlána nokkurra sparisjóða og seldi til Íbúðalánasjóðs. Átta fasteignaveðlán Sparisjóðs Höfðhverfinga að fjárhæð um 47 milljónir króna voru meðal þeirra sem voru að baki þessu skuldabréfi. Að baki útgefnu skuldabréfi Sparisjóðabanka Íslands hf. voru skuldabréf 17 sparisjóða.74

Sparisjóður Höfðhverfinga gaf út sjö verðtryggð skuldabréf árið 2004, hvert að fjárhæð 10 milljónir króna, en þau voru að fullu greidd árið 2009. Skuldabréfin voru gefin út til Íslenskra verðbréfa hf. og báru 5,5% fasta ársvexti.75

Árið 2005 gaf Sparisjóður Höfðhverfinga út víkjandi skuldabréf að nafnverði 50 milljónir króna. Um var að ræða verðtryggt skuldabréf til 6 ára sem bar 6,5% fasta vexti og var keypt af Sænesi ehf. Skilmálum bréfsins var breytt 29. október 2008 og var gjalddaga þess frestað til ársins 2016, eða um 5 ár.76

26.5 Stofnfé og stofnfjáreigendur

Stofnfé í Sparisjóði Höfðhverfinga var rúmar 3,7 milljónir króna í árslok 2001 og skiptist á 41 aðila. Á árinu 2002 var stofnfé aukið um nærri 20 milljónir króna og stofnfjárhöfum fjölgað þannig að þeir voru 79 í árslok. Stofnféð var síðan eingöngu hækkað í samræmi við verðlagsbreytingar og með svo kölluðu sérstöku endurmati þar til næst var ráðist í stofnfjáraukningu árið 2008.

Í samþykktum sparisjóðsins frá 2003 kom fram að stofnfé skyldi eigi vera minna en þrjár milljónir króna og allt að tuttugu milljónir króna sem skiptast skyldi í jafnháa hluti, eigi færri en 120 og allt að 800. Sparisjóðsstjórn skyldi sjá til þess að stofnfjáreigendur væru aldrei færri en þrjátíu og skyldi eitt atkvæði fylgja hverjum hlut. Þá var veðsetning stofnfjárhlutar óheimil. Fundur stofnfjáreigenda gat ákveðið að auka stofnfé umfram það sem kveðið var á um í samþykktum með áskrift nýrra stofnfjárhluta. Við aukningu stofnfjár skyldu stofnfjáreigendur eiga rétt til þess að skrá sig fyrir auknu stofnfé í réttu hlutfalli við stofnfjáreign sína.77

Á aðalfundi sparisjóðsins árið 2008 var samþykkt að hámark stofnfjár yrði hækkað upp í einn milljarð króna auk þess sem veðsetning stofnfjárhluta varð heimil að fengnu samþykki stjórnar sparisjóðsins. Þá var fellt úr samþykktum ákvæðið um að sparisjóðsstjórn skyldi sjá til þess að stofnfjáreigendur yrðu aldrei færri en 30.78 Um haustið sama ár stefndi í að eiginfjárhlutfall sparisjóðsins færi undir lögbundið lágmark. Í því skyni að hækka hlutfallið samþykkti stjórn sparisjóðsins á fundi sínum 26. nóvember 2008 að nýta nýtilkomna heimild í samþykktum til stofnfjáraukningar. Leitað var til fjárhagslega sterkra aðila á starfssvæði sparisjóðsins um kaup á hlut í sparisjóðnum auk þess sem áhugi þáverandi stofnfjáreigenda var kannaður. Í bréfi sem stjórnin sendi frá sér til stofnfjáreigenda 9. desember 2008 var framkvæmd útboðsins kynnt:

Nú liggur fyrir sú afstaða KEA að félagið telur ekki fært að koma að rekstri sjóðsins með þeim hætti sem áður var áformað vegna aðstæðna á fjármálamarkaði. Þó telur KEA enn að ekki sé fullreynt með rekstur [sparisjóðsins]. Hefur stjórn [sparisjóðsins] átt í viðræðum við KEA, Sænes og Sparisjóð Svarfdæla um aðkomu þessara aðila að stofnfjáraukningunni. Tekið hefur verið jákvætt í það af hálfu þessara aðila, en ekki liggur fyrir á þessari stundu í hvaða mæli það yrði. Stjórn hefur uppi áform og hefur kynnt þau hjá FME, að leita eftir því að ríkissjóður nýti heimild í svokölluðum neyðarlögum til að koma að rekstri sjóðsins með því að leggja honum til stofnfé. Hvernig þessi heimild ríkissjóðs verður útfærð og henni beitt liggur ekki fyrir og því enn nokkur óvissa um þennan þátt málsins.

Þá taldi stjórn sparisjóðsins ljóst að auka þyrfti stofnfé um að minnsta kosti 30 milljónir króna til að ná eiginfjárhlutfalli upp fyrir lögbundið lágmark. Það eitt og sér var þó ekki talið nægjanlegt því nauðsynleg stofnfjáraukning væri á bilinu 90 til 150 milljónir króna. Í boði voru því 2.415 stofnfjárhlutir á 62.090 krónur á hlut eða um 150 milljónir króna að nafnverði. Stjórnin áréttaði jafnframt við stofnfjáreigendur að kaup á stofnfé væri áhættufjárfesting. Útboðinu lauk 19. desember 2008 og bárust skráningar fyrir 35,6 milljónum króna að nafnverði, þær hæstu frá KEA svf. og Sparisjóði Svarfdæla sem skráðu sig fyrir 8,5 milljónum króna hvor.79 Hvorugur þessara aðila átti stofnfé í sparisjóðnum fyrir útboðið og voru þeir einu stofnfjáreigendurnir sem bættust við listann. Sænes ehf. skráði sig fyrir 6,3 milljónum króna og voru þessir þrír lögaðilar þar með orðnir stærstu stofnfjáreigendur í sparisjóðnum.80 Við stofnfjáraukninguna náði eiginfjárhlutfall sparisjóðsins yfir lögbundið lágmark og varð 8,2% samkvæmt ársreikningi 2008.81 Árið 2009 urðu litlar breytingar á stofnfjáreigendalista sparisjóðsins og engin breyting á fjölda stofnfjárhafa eða stofnfé.

Á aðalfundi árið 2010 var samþykkt tillaga um breytingar á samþykktum sparisjóðsins.82 Stjórn skyldi heimilt að auka stofnfé sjóðsins annars vegar um allt að 563 hluti að nafnverði samtals 34.956.670 krónur á genginu 1,0 með sölu nýs stofnfjár til KEA svf. í samræmi við samkomulag milli sparisjóðsins og KEA svf. frá því fyrr á árinu.83 Forkaupsréttur stofnfjáreigenda skyldi falla niður við þessa aukningu. Hins vegar yrði heimilt að hækka stofnfé um allt að 1.610 hluti að nafnverði samtals 99.964.900 krónur með sölu nýs stofnfjár á genginu 1,0. Stofnfjáreigendur hefðu forkaupsrétt við þessa aukningu í samræmi við samþykktir. Heimild stjórnar til að ákveða aukningu stofnfjár gilti til ársloka 2012.84 Stofnfé var aukið síðar á árinu um 32,8 milljónir króna og keypti KEA svf. allan þann hlut sem eftir það átti 35% stofnfjár í Sparisjóði Höfðhverfinga. Engar breytingar urðu á stofnfé sparisjóðsins á árinu 2011.

Tafla 19 sýnir svo hverjir áttu stærstan hlut stofnfjár í Sparisjóði Höfðhverfinga í árslok 2007 til 2010. Þar kemur glöggt fram hve hlutur lögaðila í eignarhaldinu varð stór eftir stofnfjáraukninguna 2008, en þá áttu fjórir lögaðilar meira en þriðjung stofnfjárins. Sá einstaklingur sem átti langstærstan eignarhlut var Sveinn Jóhannesson. Hann hafði lengi farið með virkan eignarhlut í sparisjóðnum, tæp 20% árið 2001 og 12,5% eftir stofnfjáraukninguna 2002 og allt til aukningarinnar 2008.

26.6 Viðbrögð sparisjóðsins við erfiðleikum í rekstri

26.6.1 Hugmyndir um hlutafjárvæðingu

Þegar kom fram á haust árið 2007 mátti greina merki um erfiðleika í rekstri sparisjóðsins; hreinar vaxtatekjur höfðu dregist verulega saman og vaxtamunur fór lækkandi. Árið 2007 kom þó út með dágóðum hagnaði upp á tæpar 39 milljónir króna, en það mátti fyrst og fremst rekja til breyttra uppgjörsaðferða við mat á eignarhlutum sparisjóðsins í Icebank, VBS Fjárfestingarbanka og Sparisjóði Vestfirðinga. Þeir voru færðir upp miðað við áætlað markaðsverð og nam gengishagnaður vegna þessa tæpum 47 milljónum króna. Tap hefði vísast orðið af rekstrinum ella.

Á stjórnarfundum haustið 2007 voru ræddar hugmyndir um hvernig tryggja mætti framtíðarrekstur sparisjóðsins. Ein þeirra var að breyta sparisjóðnum í hlutafélag. Í nóvember fóru lögmaður sparisjóðsins og stjórnarformaður á fund Fjármálaeftirlitsins til að ræða þau áform85 og var ákveðið að sparisjóðurinn héldi Fjármálaeftirlitinu upplýstu um framgang mála.86 Hinn 3. júlí 2009 barst Fjármálaeftirlitinu bréf frá lögmanni sparisjóðsins, fyrir hönd stjórnar, þar sem óskað var eftir heimild til að breyta sparisjóðnum í hlutafélag en stjórn sparisjóðsins mat stöðuna svo að hagsmunum hans yrði annars ekki borgið.87 Á sama tíma var unnið að breytingum á lögum um fjármálafyrirtæki og stóð til að fella heimild til að breyta sparisjóði í hlutafélag úr lögum. Fjármálaeftirlitið svaraði umsókninni með bréfi 23. júlí 2009 þar sem bent var á að gögn frá sparisjóðnum skorti til að hægt væri að vinna umsóknina og leit því svo á að formleg umsókn hefði ekki borist sér. Nefnd lagabreyting tók síðan gildi 10. júlí 2009 og var þá ekki lengur heimilt að breyta sparisjóði í hlutafélag.88 Málinu var því lokað hjá Fjármálaeftirlitinu og bárust engin mótmæli frá stjórn sparisjóðsins.89

26.6.2 Áform um fjárhagslega endurskipulagningu

Þegar uppgjör vegna ársins 2007 lá fyrir var ljóst að nauðsynlegt væri að auka eigið fé sparisjóðsins. Hinn 1. febrúar 2008 barst stjórn sparisjóðsins minnisblað frá KEA þar sem lýst var áhuga á því að kaupa allt stofnfé í sparisjóðnum en að lágmarki 70% með milligöngu stjórnar sjóðsins. Markmiðið með kaupunum var „að búa til öflugan sparisjóð á smásölustigi með kjölfestueignarhald í Eyjafirði“90 en meðal forsendna fyrir kaupunum var að hafist yrði handa við að breyta sparisjóðnum í hlutafélag eigi síðar en 24 mánuðum frá kaupum.91 Hugmyndin var kynnt á stofnfjárhafafundi 25. febrúar 2008 og lýsti Halldór Jóhannsson forstjóri KEA því yfir þar „að KEA væri tilbúið að koma með verulega fjármuni inn í [spari]sjóðinn og verða kjölfestuaðili (fjárfestir) í stækkuðum SPSH með t.d. 25–35% eignarhlut til framtíðar“.92 Á fundinum var einnig kynnt hugsanleg aðkoma Sæness ehf. að sparisjóðnum og að félagið „væri tilbúið að vera 5–10% aðili að sjóðnum“.93

Stjórn sparisjóðsins og forstjóri KEA eigna ehf. undirrituðu síðan skilyrtan kaupsamning um stofnféð 12. mars 2008. Með samningnum skuldbatt KEA eignir ehf. sig til að kaupa og sparisjóðurinn til að selja allt stofnfé sem sjóðurinn ætti eða hefði rétt á að kaupa af þáverandi stofnfjáreigendum, þ.e. 100% stofnfjár sparisjóðsins að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Meðal þeirra skilyrða sem sett voru af hálfu KEA eigna ehf., var að Fjármálaeftirlitið samþykkti að KEA eignir ehf. færi með virkan eignarhlut og atkvæðisrétt í sparisjóðnum.94 Hugmyndir um kaupin og fyrirhuguð áform KEA eigna voru kynnt á fundi stjórnarformanns og lögmanns sparisjóðsins með fulltrúum Fjármálaeftirlitsins 17. mars 2008 þar sem fram kom að markmið KEA væri að efla starfsemi sparisjóðsins, fyrst með því að auka stofnfé um 500–1.000 milljónir króna og væri lagt kapp á að stækka starfssvæði sparisjóðsins inn á Akureyri og um allan Eyjafjörð. Í framhaldinu væri fyrirhugað að hlutafélagsvæða sparisjóðinn og stefnt á að laða að fleiri fjárfesta er fram liðu stundir, bæði með sölu hlutafjár og hlutafjáraukningu. Fyrir rannsóknarnefndinni sagði Ingvi Þór Björnsson sparisjóðsstjóri:

Þetta var gjörólík hugmyndafræði miðað við hvað aðrir voru að gera, það er að hlutafélagavæðast, reyna að sameinast banka, fá ákveðið gengi á stofnfé í kringum hlutabréf í bönkunum, en þarna ætluðu KEA-menn að koma inn og taka níutíu og eitthvað prósent og vera með fimm prósenta atkvæðavægi og þeir bara hristu hausinn í FME.95

Í framhaldinu vísaði hann til þeirra orða sem fallið hefðu um þá sparisjóðamenn innan stjórnkerfisins að þeir væru „bara sveitamenn á stígvélum“.

Fjármálaeftirlitið taldi að ekki yrði séð að hugmyndir sparisjóðsins um kaup KEA eigna ehf. á stofnfé sparisjóðsins væru í samræmi við ákvæði laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og vísuðu meðal annars til þágildandi 40. gr. laganna um virkan eignarhlut í fjármálafyrirtækjum og sérreglna um sparisjóði. Meginreglan væri sú að ekki væri gert ráð fyrir að hægt væri að eiga virkan eignarhlut í sparisjóði, nema í tilteknum tilvikum.96 Sýna þyrfti fram á nauðsyn þess að ráðast í fjárhagslega endurskipulagningu og síðan þyrfti að sýna fram á að henni yrði ekki við komið með öðrum hætti en að tiltekinn aðili eignaðist virkan eignarhlut í sparisjóðnum.97 Fjármálaeftirlitið benti jafnframt á að samkvæmt þágildandi 64. gr. laga um fjármálafyrirtæki væri sala eða annað framsal stofnfjárhluta í sparisjóði óheimilt nema með samþykki sparisjóðsstjórnar. Ákvæðinu væri ætlað að koma í veg fyrir að aðilar gætu farið framhjá reglum um virka eignarhluti. Þá var vísað til þess að stofnfjáreigendur væru ekki eigendur sparisjóðs með sama hætti og hluthafar væru eigendur hlutafélags og að meginskyldur stjórnar sparisjóðs við afgreiðslu framsalsbeiðna væru að gæta hagsmuna þess hluta eigin fjár sparisjóðsins sem stofnfjáreigendur ættu ekki tilkall til. Ennfremur var bent á fyrirmæli laga um dreifða eignaraðild sparisjóða og að stofnfjáreigendur í sparisjóði skyldu vera minnst þrjátíu og óskaði Fjármálaeftirlitið því einnig upplýsinga um það hvernig sparisjóðurinn hygðist uppfylla það skilyrði.98

Í svari sparisjóðsins kom fram að með samningnum við KEA eignir ehf. hefði stjórn sparisjóðsins leitast við að uppfylla þau markmið sem hún hefði sett sér, sem væru i) að efla starfsemi sparisjóðsins með aukningu stofnfjár eða eftir atvikum hlutafjáraukningu; ii) að tryggja að starfsstöð með öflugri starfsemi yrði áfram á Grenivík; iii) að komið yrði á fót sjálfseignarstofnun eða samfélagssjóði sem starfaði í þágu samfélagsins á þáverandi starfssvæði sparisjóðsins; og iv) að gæta möguleika stofnfjáreigenda til að fá álag á stofnfé sitt gegnum sölu. Það hefði ekki verið ætlun sparisjóðsins að fara framhjá reglum um virka eignarhluti, auk þess sem kaupsamningurinn hefði ekki verið efndur. Þó var áréttað að áform væru óbreytt og að almenn samstaða væri meðal stofnfjárhafa um málið. Þar sem ekki lægi fyrir hvort skilyrðum a-liðar 2. mgr. 70. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki væri fullnægt, væri ekki tímabært fyrir stjórn sjóðsins að beina erindi til Fjármálaeftirlitsins um heimild til að samþykkja KEA eignir ehf. sem eiganda virks eignarhluta.99

Í kjölfarið óskaði Fjármálaeftirlitið eftir upplýsingum um það hvort sparisjóðurinn hefði skoðað aðrar leiðir til fjárhagslegrar endurskipulagningar en það taldi að almennt ætti ekki að orka tvímælis hvort nauðsyn væri á fjárhagslegri endurskipulagningu í rekstri sparisjóðs eða ekki. Ef hennar væri þörf hlyti slíkt að liggja ljóst fyrir. Því var óskað upplýsinga um það hvenær stjórn sparisjóðsins hefði orðið þess áskynja að mögulega væri þörf á fjárhagslegri endurskipulagningu.100

Í svari sparisjóðsins 19. júní 2008 sagði að leitað hefði verið annarra leiða til fjárhagslegrar endurskipulagningar áður en viðræður við KEA hófust, m.a. hefðu verið kannaðir möguleikar á sameiningu bæði við aðra sparisjóði með starfssvæði fyrir austan starfssvæði sparisjóðsins sem og aðra. Taldi stjórnin að þessir kostir tryggðu hvorki hagsmuni viðskiptamanna sparisjóðsins, varasjóðs né starfsemi hans í heild. Var litið svo á að með sameiningu við aðra sparisjóði kynni starfsstöð sparisjóðsins á Grenivík að vera í hættu sem og hætta á að varasjóðurinn nýttist ekki á starfssvæði sjóðsins. Því hefði stjórn sjóðsins talið réttast að kanna möguleika á að auka eigið fé sjóðsins og treysta afkomugrundvöll hans. KEA hafi verið tilbúið til að mæta sjónarmiðum sparisjóðsins, starfaði eftir áherslum um byggðafestu og byggi yfir verulegum fjárhagslegum styrk. Um það skilyrði að stofnfjáreigendur yrðu að vera að lágmarki þrjátíu var vísað til þess að til stæði að gera viðauka við skilyrtan kaupsamning aðila til að tryggja lágmarksfjölda stofnfjáreigenda.

Stjórn sparisjóðsins taldi engan vafa leika á því að þörf væri á fjárhagslegri endurskipulagningu. Á haustdögum 2007 þótti sýnt að sparisjóðurinn hefði ekki nægan fjárhagslegan styrk til að starfa til lengri tíma og var þá einkum litið til þróunar á fjármálamarkaði þar sem borið hafði á sameiningum smærri sparisjóða. Á þeim tíma taldi stjórn sparisjóðsins hann þó ekki í bráðri hættu, hins vegar hefði margt breyst síðan þá og með ítarlegri skoðun á fjármálum sparisjóðsins hefði komið í ljós að staðan væri verri en stjórn taldi í upphafi. Nú væri svo komið að eiginfjárstaðan væri óviðunandi og nálgaðist hættumörk. Því væri óhjákvæmilegt að auka eigið fé sjóðsins og vinna að fjárhagslegri endurskipulagningu með þeim hætti en stjórnin taldi ekki forsendur fyrir því að leita til stofnfjárhafa til að auka stofnfé.101

Á stjórnarfundi sparisjóðsins 8. júlí 2008 kom fram að uppi væri ágreiningur við Fjármálaeftirlitið um túlkun ákvæða í lögum um fjármálafyrirtæki. Ágreiningurinn snerist einkum um hvað fælist í fjárhagslegri endurskipulagningu og hver ætti að meta nauðsyn slíkrar endurskipulagningar. Ljóst væri að stjórnarmenn bæru ábyrgð á rekstri og afkomu sjóðsins. Sú ábyrgð væri persónuleg og að uppfylltum ákveðnum lagaskilyrðum gætu stjórnarmenn borið fjárhagslega ábyrgð gagnvart sparisjóðnum. Slík ábyrgð gæti hins vegar aldrei hvílt á Fjármálaeftirlitinu. Því leit stjórnin svo á að mat á þörf fyrir fjárhagslega endurskipulagningu lægi hjá stjórn sjóðsins og að ekki væru lagaskilyrði fyrir því að Fjármálaeftirlitið endurmæti afstöðu stjórnar að því leyti.102

Sparisjóður Höfðhverfinga sótti formlega um heimild fyrir KEA eignir ehf. til að eiga virkan eignarhlut í sparisjóðnum 20. ágúst 2008. Í umsókninni kom fram að fyrir lægi að stofnfé yrði í dreifðri eignaraðild þar sem stofnfjárhafar yrðu að minnsta kosti þrjátíu og að enginn þeirra hefði meira en 5% atkvæðavægi, en að minnsta kosti tveir aðilar réðu þó slíkum hlut hvor um sig, KEA eignir ehf. og Sænes ehf.103 Með umsókninni fylgdi óendurskoðað árshlutauppgjör fyrir tímabilið 1. janúar til 30. júní 2008, en sparisjóðsstjóri taldi það gefa raunsanna mynd af stöðu sjóðsins. Í svari Fjármálaeftirlitsins var ítrekað að til þess að það gæti metið hvort skilyrði 70. gr. laga um fjármálafyrirtæki væru uppfyllt, þyrftu ákveðin grunngögn að liggja fyrir og taldi því nauðsynlegt að óska eftir sama árshlutauppgjöri sparisjóðsins, en árituðu af endurskoðanda.104

Lögmaður sparisjóðsins kvaðst hafa fengið símhringingu í byrjun október 2008 frá Ragnari Hafliðasyni, aðstoðarforstjóra Fjármálaeftirlitsins, þar sem hann upplýsti að ekki yrði lagst gegn áformum KEA eigna ehf., en þá var félagið hins vegar búið að draga sig í hlé.105 Stjórn sparisjóðsins sendi Fjármálaeftirlitinu bréf 7. október 2008 þar sem greint var frá því að sparisjóðurinn og KEA eignir ehf. hefðu rift samningi sínum með vísan til framvindu mála á fjármálamarkaði og breytts lagaumhverfis. Eftir sem áður væri þörf á fjárhagslegri endurskipulagningu sparisjóðsins og væru aðilar sammála um að halda samningaumleitunum áfram en markmið þeirra viðræðna væri að KEA kæmi að eignarhaldi sparisjóðsins með því að leggja honum til fjármuni sem tryggja myndu starfhæfi hans og sjálfstæði.106

26.6.3 Rekstur sparisjóðsins eftir fall íslensku bankanna 2008

Í árshlutareikningi fyrir tímabilið 1. janúar til 10. október 2008, sem sparisjóðurinn lét gera að beiðni Fjármálaeftirlitsins til að kanna áhrifin af falli bankanna á fjárhagsstöðu og eiginfjárhlutfall sjóðsins, kom fram að tap á rekstri sjóðsins á tímabilinu nam 134,8 milljónum króna og var bókfært eigið fé í lok tímabilsins orðið 65 milljónir króna. Það hafði verið tæpar 204 milljónir króna í árslok 2007. Árshlutareikningurinn leiddi í ljós slæma eiginfjárstöðu og var eiginfjárhlutfallið komið niður í 5%. Mikilvægt var því talið að auka stofnfé sjóðsins til þess að koma eiginfjárhlutfallinu í lögmætt horf. Samkvæmt árshlutauppgjörinu vantaði um 19,5 milljónir króna af nýju stofnfé til þess að hlutfallið kæmist upp fyrir 8%. Hinn 7. nóvember 2008 óskaði Fjármálaeftirlitið eftir greinargerð frá sparisjóðnum um þær ráðstafanir sem hann hygðist grípa til í þessu ljói, auk upplýsinga um það hvort stjórn sparisjóðsins hefði kannað hvort 98. gr. laga um fjármálafyrirtæki gæti komið að gagni sem úrræði í þeirri stöðu sem upp væri komin, en í þeirri grein er fjallað um endurskipulagningu fjárhags lánastofnana.

Stjórn sparisjóðsins sendi Fjármálaeftirlitinu greinargerð 26. nóvember 2008 þar sem fram kom að fyrst og fremst væri horft til stofnfjáraukningar og hefðu KEA, Sænes hf. og Sparisjóður Svarfdæla lýst áhuga á að koma þar að. Framkvæmdin yrði með þeim hætti að stjórn nýtti sér heimild í samþykktum sparisjóðsins til að auka stofnfé um allt að 150 milljónir króna. Með þeim aðgerðum yrði hægt að hækka eiginfjárhlutfall sparisjóðsins upp fyrir lögbundið lágmark.107 Fjármálaeftirlitið veitti sparisjóðnum í kjölfarið frest til 12. janúar 2009 til að koma eiginfjárgrunninum í viðeigandi horf.108

Leitað var til lögaðila á starfssvæði sparisjóðsins, auk þess sem áhugi stofnfjáreigenda var kannaður á stofnfjáreigendafundi 19. nóvember 2008. Á fundinum var samþykkt að veita stjórn umboð til að leita leiða til að tryggja starfsgrundvöll sparisjóðsins og hækka eiginfjárhlutfallið, eftir atvikum með stofnfjáraukningu eða hlutafjárvæðingu og hlutafjáraukningu, eða leita eftir samstarfi eða samvinnu við aðra aðila.109 Í desember 2008 hafði stjórnin aflað samþykkis fyrir nýju stofnfé fyrir um 35,6 milljónir króna og var nýtt stofnfé allt greitt inn í sama mánuði, þar af keypti KEA svf. stofnfé fyrir 8,5 milljónir króna og sömuleiðis Sparisjóður Svarfdæla. Þáverandi stofnfjáreigendur keyptu stofnfé fyrir um 18,6 milljónir króna.110 Í árslok 2008 var eiginfjárhlutfallið svo komið í 8,2%.

26.6.4 Umsókn um 20% eiginfjárframlag úr ríkissjóði

Hinn 20. mars 2009 sótti sparisjóður Höfðhverfinga um eiginfjárframlag úr ríkissjóði á grundvelli reglna um framlag til sparisjóða samkvæmt 2. gr. laga nr. 125/2008 (neyðarlög).111 Óskað var eftir eiginfjárframlagi sem næmi allt að 20% af bókfærðu eigin fé eins og það var í árslok 2007, eða 40,8 milljóna króna framlagi, en bókfært eigið fé í árslok 2007 var 203,9 milljónir króna. Í staðfestingu endurskoðanda sem fylgdi umsókninni kom fram að hefði sparisjóðurinn fengið slíkt eiginfjárframlag fyrir árslok 2008 hefði eiginfjárhlutfallið verið 14,9% í árslok í stað 8,2%.112 Í umsókninni sagði að reynt hefði verið að selja eignir í öðrum fjármálafyrirtækjum, en aðstæður væru erfiðar og engin tilboð hefðu borist. Þá væri í skoðun að lækka áhættugrunn sparisjóðsins með því að selja íbúðalán til Íbúðalánasjóðs.113

Beiðni Sparisjóðs Höfðhverfinga var vísað til Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins 24. mars 2009 til umsagnar. Fjármálaeftirlitið taldi rekstraráætlun sjóðsins raunhæfa en benti á að virðisrýrnun útlána hjá sparisjóðnum árið 2008 væri í lægri kantinum miðað við aðra sparisjóði og gæti það leitt til meiri afskrifta hjá sparisjóðnum síðar en Fjármálaeftirlitið lagði til að Sparisjóði Höfðhverfinga yrði veitt 20% eiginfjárframlag úr ríkissjóði.114

Seðlabanki Íslands sendi fjármálaráðuneytinu sameiginlega umsögn um umsóknir sparisjóðanna um eiginfjárframlag úr ríkissjóði 21. apríl 2009. Í umsögn sinni lagði Seðlabanki Íslands ríka áherslu á að breytingar yrðu gerðar á yfirstjórn viðkomandi fjármálafyrirtækja, þar sem það ætti við, að framtíðar arðgreiðslur yrðu takmörkunum háðar og að nýjar viðskiptaáætlanir myndu liggja fyrir. Þá lagði Seðlabankinn áherslu á að leitað yrði leiða til að fá fleiri aðila til að leggja sparisjóðunum til nýtt eigið fé, til að styrkja þá og dreifa eignarhaldi, og að tryggt yrði að fyrirliggjandi tap yrði borið af þáverandi eigendum áður en ríkið legði til nýtt eigið fé. Mikilvægt væri að Fjármálaeftirlitið og endurskoðendur sparisjóðanna mætu eigið fé þeirra og að það yrði fært niður eins og þörf væri á, áður en ríkissjóður legði til nýtt eigið fé.115

26.6.5 Samkomulag við Seðlabanka Íslands um uppgjör krafna

Fleiri sparisjóðir sóttu um eiginfjárframlag úr ríkissjóði og í kjölfarið fór fjármálaráðuneytið fram á að þeir fengju óháð endurskoðunarfyrirtæki til að fara yfir reikninga sína og verðmæti eigna. Endurskoðunarfyrirtækið PricewaterhouseCoopers hf. var fengið til að gera fjárhagslega áreiðanleikakönnun á ákveðnum þáttum í efnahagsreikningi og starfsemi sparisjóðsins og skilaði skýrslu sinni 24. júní 2009. Helstu niðurstöður voru þær að virðisrýrnun eigna væri meiri en sparisjóðurinn hefði gert ráð fyrir og næmi mismunurinn 11,6 milljónum króna. Eigið fé sparisjóðsins væri því 75,4 milljónir króna. Áhrif aukinnar niðurfærslu væru að eiginfjárhlutfall sjóðsins lækkaði í 7,62% og því þyrfti eigið fé að hækka um 30 milljónir til að 12% eiginfjárhlutfall næðist.116

Helstu ástæður niðurfærslunnar voru að hlutabréfaeignin var færð meira niður, eða um 21,6 milljónir króna. Hins vegar leiddi endurmat á eignarhlutum í hlutdeildarfélögum til þess að verðmæti þeirra hækkaði um 10 milljónir króna.117

Undir lok sumars 2009 tóku fjármálaráðuneytið og Seðlabanki Íslands, undir forystu bankans, upp nánari samvinnu um fjárhagslega endurskipulagningu sparisjóða, þegar ljóst var að sparisjóðirnir uppfylltu ekki allir skilyrði reglna um framlag til sparisjóða.118 Seðlabanki Íslands var helsti kröfuhafi sparisjóðanna á þessum tíma, eftir að hafa fengið framseldar kröfur Sparisjóðabankans á hendur sparisjóðunum, sbr. ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 21. mars sama ár. Þar á meðal voru kröfur á hendur Sparisjóði Höfðhverfinga sem námu 88,3 milljónum króna.119 Í september 2009 sendi Seðlabanki Íslands, í samvinnu við fjármálaráðuneytið, sparisjóðunum tillögu um meðferð krafna á hendur sparisjóðunum og var unnið að frekari útfærslu hennar um veturinn. Hinn 1. febrúar 2010 sendi Seðlabankinn síðan sparisjóðunum bréf þar sem þeim var boðið að semja um uppgjör krafna með ákveðnum kjörum og skilyrðum.120 Viku síðar, 8. febrúar, kynnti Fjármálaeftirlitið sparisjóðnum kröfur sínar varðandi fjárhagslega endurskipulagningu með aðild ríkissjóðs á grundvelli laga nr. 125/2008 eða með aðild Seðlabanka Íslands á grundvelli samnings um uppgjör krafna. Fjármálaeftirlitið gerði þá meðal annars kröfu um að eiginfjárhlutfallið yrði að lágmarki 16% að lokinni fjárhagslegri endurskipulagningu.121 Þar sem Sparisjóður Höfðhverfinga valdi þá leið að gera upp kröfur sínar við Seðlabankann tóku auknar kröfur Fjármálaeftirlitsins ekki til sparisjóðsins.

Í svarbréfi Sparisjóðs Höfðhverfinga til Seðlabanka Íslands 26. febrúar 2010 sagði að stjórn sparisjóðsins hefði ákveðið fela sparisjóðsstjóra að vinna að uppgjöri krafna þannig að allar kröfur Seðlabankans yrðu greiddar upp fyrir 1. júlí 2010 gegn 12% lækkun krafna í endanlegu uppgjöri.122

Áform ríkisins og Seðlabanka Íslands um fjárhagslega endurskipulagningu sparisjóðanna var háð samþykki Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA). Á fundum fulltrúa Seðlabanka Íslands og fjármálaráðuneytis með fulltrúum Eftirlitsstofnunarinnar 26. maí 2010 kom fram að forsvarsmenn stofnunarinnar ættu erfitt með að sjá fyrir sér að 12% afsláttur sem Seðlabankinn hygðist veita þremur smærri sparisjóðum á uppgjöri krafna, þeirra á meðal Sparisjóði Höfðhverfinga, stæðist reglur stofnunarinnar um ríkisaðstoð. Að óbreyttu myndi eftirgjöf af því tagi ekki verða samþykkt.123 Þegar ljóst varð að Eftirlitsstofnun EFTA hefði ekki samþykkt að kröfur Seðlabanka Íslands yrðu gerðar upp með 12% afslætti af krónufjárhæð þeirra, var uppgreiðslu frestað þar til samþykki Eftirlitsstofnunarinnar lægi fyrir.124

Í kjölfar dóma Hæstaréttar 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010, um lögmæti lánsskuldbindinga í íslenskum krónum tengdum gengi erlendra gjaldmiðla, sendu Fjármálaeftirlitið og Seðlabanki Íslands fjármálafyrirtækjum tilmæli 30. júní 2010 vegna óskuldbindandi gengistryggingarákvæða. Í kjölfarið var fjármálafyrirtækjum gert að endurmeta eiginfjárþörf sína í ljósi þeirra aðstæðna og tryggja að eigið fé yrði nægilegt til þess að mæta hugsanlegri rýrnun eigna umfram það sem endurreikningur hefði í för með sér.125 Á stjórnarfundi Sparisjóðs Höfðhverfinga 11. ágúst 2010 var fjallað um áhrif dóma Hæstaréttar á útreikning á eiginfjárhlutfalli fjármálafyrirtækja. Niðurstaðan var sú að að teknu tilliti til útreikninga væri eiginfjárhlutfall sparisjóðsins 14,14%.126

Í lok nóvember 2010 komst aftur skriður á viðræður um uppgjör krafna Seðlabankans á hendur sparisjóðnum og ítrekaði stjórn sparisjóðsins vilja sinn til að gera upp kröfurnar gegn 12% lækkun krónufjárhæðar. Á sama tíma var sparisjóðsstjóra falið að ganga frá sölu stofnfjár til KEA svf. í samstarfi við lögmann sparisjóðsins og Fjármálaeftirlitið.127 Þar sem Eftirlitsstofnun EFTA hafði ekki samþykkt fyrirkomulagið sem lagt hafði verið upp með í fyrra samkomulagi var til skoðunar að lækka afslátt af krónufjárhæð krafnanna í 11% í stað 12%, en stefnt var að því að ljúka gerð samkomulags fyrir árslok 2010.

Seðlabankinn sendi Sparisjóði Höfðhverfinga tilboð um uppgjör 9. desember 2010 og á stjórnarfundi sparisjóðsins 14. desember 2010 var samþykkt að ganga að því.128 Samkomulag var síðan undirritað 21. desember 2010 og fól í sér uppgjör á kröfum í erlendum myntum samkvæmt „Rammasamningi um reikningslán milli Sparisjóðs Höfðhverfinga og Sparisjóðabanka Íslands hf. frá 20. desember 2004“. Við uppgjör skyldi Seðlabankinn lækka krónufjárhæð krafnanna um 11% miðað við stöðu þeirra á uppgjörsdegi, enda myndi sparisjóðurinn sýna fram á að lausafjárstaða hans héldist viðunandi og engin önnur atvik hefðu átt sér stað sem leiddu til þess að sjóðurinn uppfyllti ekki skilyrði bankans fyrir uppgjöri og fjárhagslegri endurskipulagningu. Þá skyldi Sparisjóður Höfðhverfinga draga til baka umsókn sína um eiginfjárframlag úr ríkissjóði. Staða krafna Seðlabanka Íslands á hendur Sparisjóði Höfðhverfinga nam 84 milljónum króna við uppgjör og greiddi Sparisjóður Höfðhverfinga 74,6 milljónir króna í samræmi við samkomulagið.129

Fram kom hjá Ingva Þór Björnssyni sparisjóðsstjóra að honum hefði fundist uppgjörið taka langan tíma og að miklu púðri hefði verið eytt í það miðað við efnahag sparisjóðsins. Taldi hann að Sparisjóður Höfðhverfinga, ásamt Sparisjóði Suður-Þingeyinga, ætti í viðræðum við Seðlabankann á öðrum forsendum en þeir sparisjóðir sem fengu kröfum Seðlabankans á hendur þeim breytt í stofnfé. Því fannst honum sparisjóðurinn ekki njóta jafnræðis hvað það varðaði frá hendi Seðlabankans.130

Hagnaður af rekstri sparisjóðsins á árinu 2010 nam 1,2 milljónum króna. Bókfært eigið fé í árslok nam 122,9 milljónum króna og eiginfjárhlutfallið var 13,7%.131 Hagnaður af rekstri sparisjóðsins á árinu 2011 nam 459 þúsund krónum. Bókfært eigið fé í árslok nam 123,4 milljónum króna og eiginfjárhlutfallið var 14,63%. Sparisjóðurinn krafðist síðar leiðréttingar á uppgjöri því sem gert var í desember 2010 með vísan til þess að skuld sparisjóðsins samkvæmt rammasamningi við Sparisjóðabanka Íslands hf. hefði verið með ólögmætum hætti bundin gengi erlendra gjaldmiðla.132 Skrifað var undir samkomulag við Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf. 7. mars 2013. Fól samkomulagið í sér að Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf. endurgreiddi Sparisjóði Höfðhverfinga 32,6 milljónir króna og væri það fullnaðaruppgjör milli aðila.133

26.7 Arður af stofnfjáreign

Sparisjóður Höfðhverfinga greiddi stofnfjárhöfum 10% arð af stofnfé þeirra á árunum 2001–2005 vegna næstliðinna rekstrarára. Samþykkt var á aðalfundi 2006 að greiða engan arð vegna ársins 2005 en þá var 53,6 milljóna króna tap af rekstri sparisjóðsins. Heimilt hefði þó verið samkvæmt reglum Tryggingasjóðs sparisjóða að greiða 5% arð. Arður var greiddur árin 2007 og 2008 vegna næstliðinna rekstrarára, 10% af stofnfé í lok árs í báðum tilfellum. Heimilt hefði þó verið að greiða 16,3% arð af stofnfé í lok árs 2007 í samræmi við raunávöxtun eigin fjár sparisjóðsins á því ári. Engar arðgreiðslur voru eftir þetta. Arðgreiðslur Sparisjóðs Höfðhverfinga á tímabilinu 2001–2008 námu samtals 16,8 milljónum króna og fóru ekki í bága við reglur Tryggingarsjóðs sparisjóðanna um hámarkshlutfall arðgreiðslu.134

Í lögum um fjármálafyrirtæki var heimild til að endurmeta stofnfé sparisjóðs og greiða inn á stofnfjárreikninga stofnfjáreigenda og skyldi höfð hliðsjón af verðlagsbreytingum við endurmatið.135 Árin 2005 til 2008 var stofnfé Sparisjóðs Höfðhverfinga hækkað með endurmati vegna verðlagsbreytinga um rúmar 14 milljónir króna. Endurmatið var fyllilega í samræmi við gildandi reglur. Stofnfé var ekki verðbætt eftir 2008.

Í sömu lögum var jafnframt heimild til þess að ráðstafa 10% af hagnaði næstliðins rekstrarárs til hækkunar stofnfjár með svokölluðu sérstöku endurmati.136 Hækkunin mátti þó ekki vera hærri en 5% á ári og ekki mátti flytja heimild til þessa endurmats milli ára. Sparisjóðurinn nýtti heimildina til sérstaks endurmats fyrir rekstrarárin 2005, 2006 og 2007 og nam aukningin samtals 5,5 milljónum króna. Sparisjóðnum var óheimilt samkvæmt gildandi lögum að reikna sérstakt endurmat vegna ársins 2005 því tap var af rekstrinum það ár. Hin árin var sérstaka endurmatið í samræmi við lög og reglur.

Í töflu 21 eru tilfærðar þær upplýsingar sem útreikningur á arði og endurmati byggist á. Hafa verður í huga að arðurinn og sérstaka endurmatið eru þar höfð undir því ári sem þau eru útreiknuð. Arðurinn var greiddur út ári síðar og sérstaka endurmatið bættist þá við stofnféð. Ástæða þess er sú að tillaga stjórnar um hvort tveggja þurfti að hljóta samþykki aðalfundar til þess að koma til framkvæmdar. Þannig sjást viðkomandi fjárhæðir ekki fyrr en í ársreikningi næsta árs.

26.8 Innra eftirlit

Við skoðun á innra eftirliti sparisjóðanna var leitast við að kanna hvernig fyrirkomulagi þess var háttað og hvort veikleikar hafi verið í eftirlitskerfum sparisjóðanna. Almenna umfjöllun um innra eftirlit, hlutverk stjórnar, innri endurskoðun og áhættustýringu er að finna í 6. kafla, en eftirfarandi umfjöllun lýtur að virkni þessara þátta í starfsemi Sparisjóðs Höfðhverfinga og áhrif þeirra á rekstur sparisjóðsins. Áhersla var lögð á tímabilið frá 2005 til 2010.

26.8.1 Innri endurskoðun

Sparisjóður Höfðhverfinga starfrækti ekki eigin innri endurskoðunardeild á því tímabili sem til athugunar var, en Fjármálaeftirlitið veitti sparisjóðnum undanþágu frá rekstri eigin endurskoðunardeildar í kjölfar þess að sparisjóðurinn gerði samning um innri endurskoðun við KPMG hf. í apríl 2005 og annaðist KPMG innri endurskoðun fyrir sparisjóðinn það tímabil sem til skoðunar var.137 Í skýrslum KPMG kom fram að innri endurskoðun fælist meðal annars í könnun á ýmsum þáttum í innra eftirliti sjóðsins, könnun á því hvort unnið hefði verið í samræmi við ákvarðanir stjórnar og hvort starfsreglur hefðu verið virtar, svo og lög og aðrar viðmiðanir.138

Í niðurstöðum skýrslnanna kom fram að innri endurskoðunin fól fyrst og fremst í sér athugun á innra eftirliti sparisjóðsins auk úttektar á stærstu skuldurum og vanskilaaðilum. Þá voru framkvæmdar bókhaldskannanir að því marki sem talið var nauðsynlegt. Fylgiskjöl voru skoðuð með úrtakskönnunum, bókhaldsskráning könnuð og virkni innra eftirlits. Innri endurskoðun beindist fyrst og fremst að útlánum og vanskilum en áhætta sjóðsins var þar talin mest. Skoðaðir voru ferlar vegna lánveitinga, annars vegar áhættur í ferlum og hins vegar þær eftirlitsaðgerðir sem taldar voru geta dregið úr áhættunni.139

Í skýrslum sínum benti innri endurskoðandi á ýmis atriði sem betur mættu fara í innra eftirliti sparisjóðsins, meðal annars var bent á að sökum smæðar sparisjóðsins hefði ekki alltaf verið unnt að koma við nægjanlegri aðgreiningu starfa en reynt hefði verið að hafa eins virkt innra eftirlit og unnt var. Þá hafi einnig vantað upp á formlegar og skjalfestar eftirlitsaðgerðir.

Nokkuð var um að sömu athugasemdir væru gerðar ár eftir ár. Í skýrslu innri endurskoðanda vegna ársins 2005 var gerð athugasemd um að vanskil, sem væru eldri en einn mánuður, væru hátt hlutfall heildarútlána og var sama athugasemd ítrekað gerð í skýrslum endurskoðandans allt tímabilið. Taldi KPMG mikilvægt að stjórnendur sýndu varkárni í útlánum og gættu að tryggingastöðu til að reyna að lágmarka tapsáhættu sparisjóðsins. Í skýrslum innra endurskoðanda vegna áranna 2007 til 2010 var bent á nauðsyn þess að útlánareglur væru skýrar og ljóst hverjar útlánaheimildir starfsmanna væru hverju sinni. Einnig var lagt var til að sparisjóðurinn kæmi sér upp skriflegum verklagsreglum um úthlutun styrkja starfsmönnum sparisjóðsins til leiðbeiningar og að eftirlit sparisjóðsstjóra með launakeyrslum yrði bætt þannig að sá eftirlitsþáttur yrði sýnilegri. Í skýrslum innri endurskoðanda vegna áranna 2007 og 2008 var bent á að gott væri að til væri fjárfestingarstefna um lausafé og ávöxtun þess sem rammi fyrir stjórnendur til að vinna eftir. Í skýrslu vegna áranna 2008 og 2010 var ennfremur bent á að brýnt væri að til væri skipurit sem skýrði ábyrgðarsvið hvers og eins. Ekki var gerð skýrsla um innri endurskoðun fyrir árið 2009.

 


 

1 . Björn Ingólfsson, Bankinn í sveitinni: Sparisjóður Höfðhverfinga 1879–2004, Akureyri 2005, bls. 24.

2 . Björn Ingólfsson, Bankinn í sveitinni: Sparisjóður Höfðhverfinga 1879–2004, Akureyri 2005, bls. 60–62.

3 . „Sparisjóður opnaður á Akureyri“, ruv.is, http://www.ruv.is/frett/sparisjodur-opnadur-a-akureyri.

4 . „Sparisjóður Höfðhverfinga, um sparisjóðinn“, spar.is, http://www.spar.is/spsh-hofdhverfinga---grenivik/sparisjodur-hofdhverfinga.

5 . Fundargerðir stjórnar Sparisjóðs Höfðhverfinga.

6 . Fjallað er um meðhöndlun ársreikninga og reikningsskilareglur í 8. kafla, um reikningsskil sparisjóðanna.

7 . Sjá nánari umfjöllun í kafla 26.3.

8 . Skýrsla KPMG hf. um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðs Höfðhverfinga 2007.

9 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Höfðhverfinga, 20. desember 2004.

10 . Skýrsla KPMG hf. um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðs Höfðhverfinga 2004.

11 . Í athugasemdum Ólafs Rúnars Ólafssonar, lögmanns sparisjóðsins, til rannsóknarnefndarinnar 4. október 2013 kom fram að við starfslok kom til uppgjörs á réttindum sparisjóðsstjóranna beggja sem þeir áttu samkvæmt ráðningarsamningum.

12 . Um launaþróun sparisjóðanna í heild er fjallað í 8. kafla.

13 . Útreikningur á kjarnarekstri er skýrður nánar í 8. kafla, um reikningsskil sparisjóðanna.

14 . Skýrsla Ingva Þórs Björnssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 18. apríl 2013.

15 . Ástæða þess að útlán eru hér lægri en í efnahagsreikningi er að þar eru fullnustueignir taldar með útlánum.

16 . Skýrsla KPMG hf. um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðs Höfðhverfinga 2007.

17 . Skýrsla KPMG hf. um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðs Höfðhverfinga 2009, mars 2010.

18 . Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um athugun hjá Sparisjóði Höfðhverfinga 16.–17. nóvember 2005, 9. janúar 2006.

19 . Bréf stjórnar Sparisjóðs Höfðhverfinga til Fjármálaeftirlitsins 23. febrúar 2006.

20 . Skýrsla Jakobs H. Þórðarsonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 19. apríl 2013.

21 . Skýrsla Jakobs H. Þórðarsonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 19. apríl 2013.

22 . Skýrsla KPMG hf. um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðs Höfðhverfinga 2004.

23 . Um skilgreiningu á eigin fé vísast til 84. gr. og 85. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.

24 . Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um athugun hjá Sparisjóði Höfðhverfinga 16.–17. nóvember 2005, 9. janúar 2006.

25 . Reglur nr. 216/2007 um stórar áhættuskuldbindingar taka til lánveitinga, verðbréfaeignar, eignarhluta og veittra ábyrgða fjármálafyrirtækis vegna einstakra viðskiptamanna eða fjárhagslega tengdra aðila svo og annarra skuldbindinga sömu aðila gagnvart fjármálafyrirtækinu og mats á áhættu vegna slíkra skuldbindinga. Reglurnar taka einnig til samstæðu fjármálafyrirtækis og móður- og dótturfyrirtækja. Það telst vera stór áhættuskuldbinding þegar viðskiptamaður eða fjárhagslega tengdir aðilar fá lán, ábyrgðir, gera framvirka samninga eða fá aðrar fyrirgreiðslur hjá fjármálafyrirtæki og slík skuldbinding fer yfir 10% af eiginfjárgrunni fjármálafyrirtækisins. Áhættuskuldbindingar einstakra viðskiptamanna eða fjárhagslega tengdra aðila máttu ekki fara yfir 25% af eiginfjárgrunni, sbr. 30. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Samkvæmt 1. mgr. 30. gr. sömu laga er eiginfjárgrunnur reiknaður út samkvæmt 84.–85. gr. laganna og reglum Fjármálaeftirlitsins nr. 215/2007 um eiginfjárkröfur og áhættugrunn fyrirtækja.

26 . Lánahópur samanstendur af tveimur eða fleiri viðskiptamönnum sem eru fjárhagslega tengdir í skilningi 1. mgr. 30. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Um nánari skilgreiningu á lánahópi vísast til umfjöllunar í 9. kafla.

27 . Samkvæmt 1. mgr. 30. gr. laga nr. 161/2002 er eiginfjárgrunnur reiknaður út samkvæmt 84.–85. gr. laga nr. 161/2002 og reglum Fjármálaeftirlitsins nr. 215/2007 um eiginfjárkröfur og áhættugrunn fyrirtækja.

28 . Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um athugun hjá Sparisjóði Höfðhverfinga 16.–17. nóvember 2005, 9. janúar 2006.

29 . Tölvuskeyti Fjármálaeftirlitsins til rannsóknarnefndarinnar 28. janúar 2013.

30 . Skýrsla Ingva Þórs Björnssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 18. apríl 2013.

31 . Skýrsla KPMG hf. um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðs Höfðhverfinga 2005.

32 . Um er að ræða yfirdrátt þar sem yfirdráttarheimild hefur fallið niður.

33 . Byggt á upplýsingum úr skýrslum sjóðsins um innri endurskoðun 2008–2011.

34 . Í athugasemdum Ólafs Rúnars Ólafssonar, lögmanns Sparisjóðs Höfðhverfinga, til rannsóknarnefndarinnar kom fram að sparisjóðurinn hefði ekki haft vitneskju um frekari tryggingar sem hald hefði verið í.

35 . Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um athugun hjá Sparisjóði Höfðhverfinga 16.–17. nóvember 2005, 9. janúar 2006.

36 . Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um athugun hjá Sparisjóði Höfðhverfinga 16.–17. nóvember 2005, 9. janúar 2006.

37 . Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um athugun hjá Sparisjóði Höfðhverfinga 16.–17. nóvember 2005, 9. janúar 2006.

38 . Bréf stjórnar Sparisjóðs Höfðhverfinga til Fjármálaeftirlitsins 23. febrúar 2006.

39 . Upplýsingar um þetta byggja á afsali frá 9. júní 2004 þar sem kaupverð kemur ekki fram en kaupsamningur lá ekki fyrir hjá sýslumanninum í Vestmannaeyjum.

40 . Skýrsla KPMG hf. um innri endurskoðun Sparisjóðs Höfðhverfinga 2005, 23. febrúar 2006.

41 . Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um athugun hjá Sparisjóði Höfðhverfinga 16.–17. nóvember 2005, 9. janúar 2006.

42 . Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um athugun hjá Sparisjóði Höfðhverfinga 16.–17. nóvember 2005, 9. janúar 2006.

43 . Skýrsla KPMG hf. um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðs Höfðhverfinga 2005.

44 . Skýrsla KPMG hf. um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðs Höfðhverfinga 2005.

45 . Skýrsla KPMG hf. um innri endurskoðun Sparisjóðs Höfðhverfinga 2005, 23. febrúar 2006.

46 . Skýrsla KPMG hf. um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðs Höfðhverfinga 2005.

47 . Skýrsla KPMG hf. um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðs Höfðhverfinga 2006.

48 . Skýrsla KPMG hf. um innri endurskoðun Sparisjóðs Höfðhverfinga 2008, 25. janúar 2009.

49 . Skýrsla um innri endurskoðun vegna ársins 2009 var ekki gerð.

50 . Umbreyting 7 milljóna króna yfirdráttarláns hans í skuldabréfalán var samþykkt á stjórnarfundi sparisjóðsins 12. nóvember 2001.

51 . Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um athugun hjá Sparisjóði Höfðhverfinga 16.–17. nóvember 2005, 9. janúar 2006.

52 . Mögulegt er að ekki hafi öll útlán komið fram í útlánagrunni sparisjóðsins og eru upplýsingar því settar fram með þeim fyrirvara.

53 . Um það hverjir töldust til minni sparisjóða og hverjir til hinna stærri vísast til taflna 5, 9 og 10 í 8. kafla skýrslunnar.

54 . Ársreikningur Sæness ehf. 2007.

55 . Leturbreyting í fundargerð.

56 . Skýrsla Jóns Helga Péturssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 9. október 2013.

57 . Ársreikningur Sæness ehf. 2004.

58 . Gengið er fundið út frá ársreikningi Sæness ehf. 2004 og 2005 og ársreikningi Frosta ehf. 2006.

59 . Skýrsla Jóns Helga Péturssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 9. október 2013.

60 . Skýrsla Ingva Þórs Björnssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 18. apríl 2013.

61 . Skýrsla Ingva Þórs Björnssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 18. apríl 2013.

62 . Skýrsla Vilhjálms G. Pálssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 19. apríl 2013.

63 . Skýrsla Jakobs H. Þórðarsonar fyrir rannsóknarnefnd Alþings um sparisjóðina 9. október 2013.

64 . Skýrsla Ingva Þórs Björnssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 18. apríl 2013.

65 . Skýrsla Ingva Þórs Björnssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 18. apríl 2013.

66 . Sjá nánari útskýringu í upphafi 11. kafla, um fjármögnun sparisjóðanna.

67 . Atvinnugreinaflokkun innlána sparisjóðsins, sem skilað var mánaðarlega til Seðlabanka Íslands frá júlí 2007 til desember 2011.

68 . Ársreikningar Sparisjóðs Höfðhverfinga, 2005–2011.

69 . Nánari grein er gerð fyrir þessum samningum sparisjóðanna við Sparisjóðabankann í 11. kafla.

70 . Rammasamningur um lánsheimild í erlendum myntum milli Sparisjóðs Höfðhverfinga og Sparisjóðabanka Íslands, 20. desember 2004.

71 . Samkomulag um uppgjör reikningsláns, Sparisjóður Höfðhverfinga, 21. desember 2010.

72 . Bréf Seðlabanka Íslands til Rannsóknarnefndar Alþingis 7. febrúar 2013.

73 . Yfirlit lánasamninga Íbúðalánasjóðs við sparisjóði, útbúið af Íbúðalánasjóði, 3. júlí 2012.

74 . Yfirlit lánasamninga Íbúðalánasjóðs við sparisjóði, útbúið af Íbúðalánasjóði, 3. júlí 2012. Nánar er fjallað um fjármögnun íbúðalána sparisjóðanna hjá Íbúðalánasjóði í 11. kafla.

75 . Tölvuskeyti Sparisjóðs Höfðhverfinga til rannsóknarnefndarinnar 13. mars 2013.

76 . Skilmálabreyting víkjandi skuldabréfs Sparisjóðs Höfðhverfinga, 29. október 2008.

77 . Samþykktir fyrir Sparisjóð Höfðhverfinga, 23. apríl 2003.

78 . Aðalfundargerð Sparisjóðs Höfðhverfinga, 3. apríl 2008.

79 . Þessarar stofnfjáraukningar er ekki getið í sjóðstreymi í ársreikningi 2008. Rannsóknarnefndin fékk það staðfest að féð var innborgað fyrir áramót og er því skekkja í sjóðstreyminu hvað þetta varðar.

80 . Stofnfjáreigendalistar Sparisjóðs Höfðhverfinga 2003–2010.

81 . Samkvæmt innsendri COREP-skýrslu til Fjármálaeftirlitsins 31. desember 2008 var eiginfjárhlutfallið 8,16%.

82 . Samþykktir fyrir Sparisjóð Höfðhverfinga, 25. maí 2010.

83 . Samkomulag milli KEA svf. og Sparisjóðs Höfðhverfinga vegna stofnfjár, 8. febrúar 2010.

84 . Fundargerð aðalfundar Sparisjóðs Höfðhverfinga, 25. maí 2010.

85 . Skýrsla Ólafs Rúnars Ólafssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 18. apríl 2013.

86 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til Sparisjóðs Höfðhverfinga 7. maí 2008.

87 . Bréf Sparisjóðs Höfðhverfinga til Fjármálaeftirlitsins 3. júlí 2009. Í athugasemdum Ólafs Rúnars Ólafssonar, lögmanns Sparisjóðs Höfðhverfinga, til rannsóknarnefndarinnar 4. október 2013 kom fram að sparisjóðnum hafi þótt rétt að freista þess að halda möguleikanum um hlutafélagsvæðingu opnum ef ske kynni að sú leið kæmi til greina á rekstri sjóðsins. Engin ákvörðun hefði verið tekin um það þarna.

88 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til Ólafs Rúnars Ólafssonar 23. júlí 2009.

89 . Minnisblað Fjármálaeftirlitsins, 29. september 2009.

90 . Minnisblað KEA svf. til stjórnar Sparisjóðs Höfðhverfinga 1. febrúar 2008.

91 . Minnisblað KEA svf. til stjórnar Sparisjóðs Höfðhverfinga 1. febrúar 2008.

92 . „Stofnfjáreigendafundur Sparisjóðs Höfðhverfinga“.

93 . „Stofnfjáreigendafundur Sparisjóðs Höfðhverfinga“.

94 . Skilyrtur kaupsamningur um stofnfé, 12. mars 2008.

95 . Skýrsla Ingva Þórs Björnssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 18. apríl 2013.

96 . Þau voru tilgreind í þágildandi a- og b-lið 2. mgr. 70. gr. laganna. Skilyrði a-liðar var að um væri að ræða lið í fjárhagslegri endurskipulagningu viðkomandi sparisjóðs og að sýnt þætti að slíkri fjárhagslegri endurskipulagningu yrði ekki við komið nema með því að stofnfjáreigandi eignaðist virkan eignarhlut. Þótti b-liður ekki eiga við í þessu tilviki.

97 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til stjórnar Sparisjóðs Höfðhverfinga 7. maí 2008.

98 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til stjórnar Sparisjóðs Höfðhverfinga 7. maí 2008.

99 . Bréf stjórnar Sparisjóðs Höfðhverfinga til Fjármálaeftirlitsins 19. maí 2008.

100 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til stjórnar Sparisjóðs Höfðhverfinga 30. maí 2008.

101 . Bréf stjórnar Sparisjóðs Höfðhverfinga til Fjármálaeftirlitsins 19. júní 2008.

102 . Bréf stjórnar Sparisjóðs Höfðhverfinga til Fjármálaeftirlitsins 19. maí 2008.

103 . Bréf stjórnar Sparisjóðs Höfðhverfinga til Fjármálaeftirlitsins 20. ágúst 2008.

104 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til stjórnar Sparisjóðs Höfðhverfinga 25. ágúst 2008.

105 . Skýrsla Ólafs Rúnars Ólafssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 18. apríl 2013. Í skýrslu Ólafs fyrir rannsóknarnefndinni kom fram að símtalið hefði verið sama dag og bankarnir féllu, eða 6. október 2008.

106 . Bréf stjórnar Sparisjóðs Höfðhverfinga til Fjármálaeftirlitsins 7. október 2008.

107 . Bréf Sparisjóðs Höfðhverfinga til Fjármálaeftirlitsins 26. nóvember 2008.

108 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til stjórnar Sparisjóðs Höfðhverfinga 9. desember 2008.

109 . Fundargerð stofnfjáreigendafundar Sparisjóðs Höfðhverfinga, 19. nóvember 2008.

110 . Bréf stjórnar Sparisjóðs Höfðhverfinga til Fjármálaeftirlitsins 20. mars 2009.

111 . Nánar er fjallað um lög nr. 125/2008 og reglur um eiginfjárframlag til sparisjóða í 13. kafla.

112 . Bréf KPMG hf. til Sparisjóðs Höfðhverfinga 19. mars 2009.

113 . Bréf stjórnar Sparisjóðs Höfðhverfinga til Fjármálaeftirlitsins 20. mars 2009.

114 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til fjármálaráðuneytisins 16. mars 2009.

115 . Bréf Seðlabanka Íslands til fjármálaráðuneytisins 21. apríl 2009. Nánar er fjallað um umsögn Seðlabankans um umsóknir sparisjóðanna í 13. kafla.

116 . Skýrsla PricewaterhouseCoopers vegna könnunar á afmörkuðum þáttum í rekstri Sparisjóða Höfðhverfinga, 24. júní 2009. Eitt skilyrða reglna um framlag til sparisjóða var að eiginfjárhlutfallið yrði ekki lægra en 12% að meðtöldu framlagi ríkissjóðs.

117 . Skýrsla PricewaterhouseCoopers vegna könnunar á afmörkuðum þáttum í rekstri Sparisjóða Höfðhverfinga, 24. júní 2009.

118 . Bréf Seðlabanka Íslands til sparisjóða 8. september 2009.

119 . Minnisblað Seðlabanka Íslands um vinnu með kröfur Seðlabanka Íslands á hendur sparisjóðunum, 21. ágúst 2009.

120 . Ákvörðun bankastjóra Seðlabanka Íslands nr. 1028, 1. febrúar 2010. Um bréf Seðlabanka Íslands, kjör hans og skilmála má lesa í 13. kafla.

121 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis 8. febrúar 2010. Frekari umfjöllun um kröfur Fjármálaeftirlitsins er í 13. kafla.

122 . Bréf Sparisjóðs Höfðhverfinga til Seðlabanka Íslands 26. febrúar 2010. Í athugasemdum til rannsóknarnefndarinnar 4. október 2013 sagði Jón Ingvi Árnason sparisjóðsstjóri að sparisjóðurinn hefði alla tíð gert kröfu um að uppgjör yrði í samræmi við lögmæti krafna og hefði ekki litið á lækkun krafnanna sem afslátt.

123 . Tölvuskeyti Stefáns Þórs Sigtryggssonar, starfsmanns Seðlabanka Íslands, til Más Guðmundssonar seðlabankastjóra 26. maí 2010.

124 . Nánar er fjallað um Eftirlitsstofnun EFTA og ákvarðanir hennar í 13. kafla.

125 . „Tilmæli Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands til fjármálafyrirtækja vegna óskuldbindandi gengistryggingarákvæða“, fme.is, http://www.fme.is/utgefid-efni/frettir-og-tilkynningar/frettir/nr/650. Nánari umfjöllun er að finna í 13. kafla.

126 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Höfðhverfinga, 11. ágúst 2010.

127 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Höfðhverfinga, 30. nóvember 2010. Nánar er fjallað um stofnfjárkaup KEA svf. í kafla 26.5.

128 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Höfðhverfinga, 14. desember 2010.

129 . Yfirlit um stöðu láns Sparisjóðs Höfðhverfinga 17. desember 2010; bréf Seðlabanka Íslands til rannsóknarnefndarinnar 7. febrúar 2013.

130 . Skýrsla Ingva Þórs Björnssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 18. apríl 2013.

131 . Ársreikningur Sparisjóðs Höfðhverfinga 2010.

132 . Ársreikningur Sparisjóðs Höfðhverfinga 2011.

133 . Ársreikningur Sparisjóðs Höfðhverfinga 2012. Nánari umfjöllun um uppgjör krafna Seðlabanka Íslands er í 13. kafla.

134 . Nánari grein fyrir reglum um greiðslu arðs er gerð í 12. kafla.

135 . Þessi heimild hafði verið við lýði allt frá 1993. Ákvæðinu var síðar breytt með lögum nr. 76/2009. Sjá nánari umfjöllun í 12. kafla.

136 . Sú heimild kom inn í lög 2001. Ákvæðinu var síðar breytt með lögum nr. 76/2009. Sjá nánari umfjöllun í 12. kafla.

137 . Skýrsla KPMG hf. um innri endurskoðun Sparisjóðs Höfðhverfinga 2010, 19. janúar 2011.

138 . Skýrsla KPMG hf. um innri endurskoðun Sparisjóðs Höfðhverfinga 2010, 19. janúar 2011. Sama skilgreining er í skýrslum um innri endurskoðun frá 2005 til 2010.

139 . Skýrsla KPMG hf. um innri endurskoðun Sparisjóðs Höfðhverfinga 2010, 19. janúar 2011. Sama texta er að finna í skýrslum frá 2005 til 2008.