17. kafli – Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis

17. Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis

Hugmynd að stofnun Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis kom fyrst upp á fundi í Iðnaðarmannafélagi Reykjavíkur 27. febrúar 1930 þegar gjaldkeri félagsins, Sigurður Halldórsson trésmíðameistari, vakti máls á því að nauðsynlegt væri að iðnaðarmenn stofnuðu einhvers konar iðnlánadeild. Skyldi hún greiða götu iðnaðarmanna til að auka framleiðslu sína. Hugmyndin fékk byr undir báða vængi og settu iðnaðarmenn á stofn undirbúningsnefnd sem boðaði til fundar 23. janúar 1932 í Baðstofu iðnaðarmanna. Alls mættu 63 félagsmenn á fundinn og stofnuðu þar Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis. Jón Þorláksson borgarstjóri var kjörinn fyrsti stjórnarformaður. Upphaflegu stofnfjáreigendurnir 63 lögðu hver um sig fram 250 krónur í stofnfé, að auki ábyrgðust þeir 250 krónur til viðbótar ef á þyrfti að halda. Við stofnun sparisjóðsins var heildarstofnfé því 15.750 krónur.

Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis hóf starfsemi 28. apríl 1932 með tveimur starfsmönnum og hafði aðsetur í húsi frú Þóru Magnússon við Hverfisgötu 21 í Reykjavík.1 Síðar flutti sjóðurinn starfsemi sína að Hverfisgötu 26 og var þar til ársins 1968 þegar hann fluttist í eigið húsnæði að Skólavörðustíg 11. Árið 2002 voru höfuðstöðvar sparisjóðsins svo fluttar að Ármúla 13a.

Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis stundaði lengi vel aðeins hefðbundna inn- og útlánastarfsemi eins og aðrir sparisjóðir. Á styrjaldarárunum var tekin upp sú stefna í útlánum hjá sparisjóðnum að veita í æ ríkari mæli lán til íbúðabygginga og kaupa á íbúðarhúsnæði. Smám saman dró úr útlánum til verslunar og almennra viðskipta. Árið 1982 fékk sparisjóðurinn heimild til að opna útibú og var hið fyrsta opnað í september 1983 að Austurströnd 3 á Seltjarnarnesi. Ári síðar var Sparisjóðurinn Pundið sameinaður Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis og í kjölfarið var annað útibú opnað í Hátúni 2b. Útibúin voru orðin sjö talsins í lok árs 2007.2

Í ársskýrslu sparisjóðsins frá árinu 2007 var sparisjóðnum lýst sem alhliða fjármálafyrirtæki sem veitti viðskipta- og fjárfestingarbankaþjónustu til einstaklinga, fyrirtækja og fagfjárfesta á höfuðborgarsvæðinu. Guðmundur Hauksson gegndi starfi sparisjóðsstjóra frá árinu 1996 og síðar forstjóra eftir að sjóðnum var breytt í hlutafélag á árinu 2007.3 Á undan honum hafði Baldvin Tryggvason verið sparisjóðsstjóri í 20 ár. Síðasti formaður stjórnar var Erlendur Hjaltason.

Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis óx mikið á árunum 2001–2007 og í lok árs 2007 námu heildareignir hans 224 milljörðum króna, eða 27% af heildareignum sparisjóða í landinu sem þá námu 614 milljörðum króna. Í lok árs 2008 voru hluthafar í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis 1.667 og var nafnverð hlutabréfa 5 milljarðar króna.4 Síðasta skráða gengi hlutabréfa í sjóðnum var 1,91.5

Í árslok 2008 voru í samstæðu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf.: Frjálsi fjárfestingarbankinn hf., nb.is-sparisjóður hf., SPRON-Verðbréf hf., Steinsnes ehf., Hraunsnes ehf., ÍsKal ehf., LAX solutions ehf. og SPRON Factoring hf.6

Frá árinu 2002, eftir að sparisjóðum varð heimilt að lögum að breyta rekstrarformi sínu í hlutafélag, var nokkrum sinnum reynt að breyta Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis í hlutafélag. Þau áform gengu ekki eftir fyrr en árið 2007. Í bókhaldi voru skilin milli sparisjóðsins og hlutafélagsins miðuð við 1. apríl 2007. Eigið fé sparisjóðsins 31. mars var 30,5 milljarðar króna og þar af nam stofnfé 20,5 milljörðum króna. Stofnfjáreigendur fengu greidda 9 milljarða króna í arð vegna afkomu ársins 2006. Við stofnun hlutafélagsins fengu stofnfjáreigendur hlutabréf í staðinn fyrir stofnfjárbréf sín. Hlutafé nam 5 milljörðum króna við stofnun. Þar af voru um 15% í eigu sjálfseignarstofnunar sem lögum samkvæmt varð til við hlutafélagsvæðinguna.7

Samrunaviðræður hófust milli Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis og Kaupþings banka hf. 30. apríl 2008 að ósk stjórnar Kaupþings banka hf. Viðræðurnar stóðu yfir þar til Fjármálaeftirlitið yfirtók vald hluthafafundar Kaupþings banka hf., vék stjórninni frá og skipaði skilanefnd yfir bankanum þann 9. október 2008.

Eftir fall viðskiptabankanna þriggja haustið 2008 varð rekstur Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. afar þungur og hófust viðræður við lánardrottna um fjárhagslega endurskipulagningu sjóðsins sem stóðu allt til loka mars 2009. Þá var það mat Fjármálaeftirlitsins að staða sparisjóðsins væri orðin mjög alvarleg þar sem enn hefði ekki tekist að leysa eiginfjár- og lausafjárvanda sparisjóðsins þrátt fyrir ítrekaða fresti.8 Svo fór að 21. mars 2009 nýtti Fjármálaeftirlitið sér heimild í lögum nr. 125/2009 og tók yfir vald hluthafafundar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. og vék þáverandi stjórn frá.

17.1 Ársreikningar 2001–2008

Umfjöllunin tekur mið af samstæðureikningi félagsins nema annað sé tekið fram. Sparisjóðurinn tók, fyrstur sparisjóða, að gera upp í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS) fyrir árið 2005. Það kallaði á nokkrar tilfærslur í framsetningu hér til þess að reikningar yrðu samanburðarhæfir milli ára. Rétt er að geta þess að ársreikningur fyrir árið 2008 var ekki endurskoðaður sökum þess að Fjármálaeftirlitið tók yfir vald hluthafafundar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis 21. mars 2009 en ætlunin hafði verið að halda aðalfund 25. mars sama ár.9

Ekki liggja fyrir reikningsskil sparisjóðsins fyrir tímabilið 1. janúar til 21. mars 2009 og fyrir vikið eru ekki tiltækar upplýsingar um afkomu sjóðsins fram að falli hans. Hins vegar voru allar eignir sjóðsins fluttar til Dróma hf. og samkvæmt ársreikningi Dróma nam tap félagsins fyrir tímabilið 22. mars til 31. desember 2009 tæpum 13 milljörðum króna, sem ætti að gefa vísbendingu um tap af eignasafni Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis á árinu 2009.10 Í umfjöllun í skýrslunni er miðað við verðlag hvers árs nema annað sé tekið fram.

17.1.1 Rekstrarreikningar

Hagnaður Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis fór vaxandi frá 2001 til 2006. Árið 2006 skilaði sparisjóðurinn mesta hagnaði frá upphafi en þá nam hann rúmum 9 milljörðum króna, sem var rúmlega tvöföldun frá árinu áður. Helsta skýringin á þessari miklu hækkun á afkomu var gangvirðishækkun fjáreigna og hlutdeild í afkomu hlutdeildarfélaga. Á árinu 2007 dróst hagnaðurinn verulega saman og var einungis rúmur þriðjungur af hagnaði ársins áður og nam 3,3 milljörðum króna. Þar af var bókfærður söluhagnaður vegna sölu sparisjóðsins á eignarhluta hans í Sparisjóðabankanum upp á 3,1 milljarð króna. Hálfs­ársuppgjörið 2007 hafði sýnt liðlega 10 milljarða króna hagnað og er því ljóst að síðari hluta ársins snerust hlutirnir til verri vegar fyrir sparisjóðinn. Stærsta ástæðan fyrir því var eign sparisjóðsins í Kistu – fjárfestingarfélagi ehf., en hlutdeild í tapi félagsins árið 2007 nam 4,2 milljörðum króna.

Á árinu 2008 varð mikið tap af rekstri sjóðsins. Þriggja mánaða uppgjör sýndi strax 8,4 milljarða króna tap, hálfsársuppgjör sýndi tap upp á 13,5 milljarða króna og níu mánaða uppgjör 16,5 milljarða króna tap. Gengistap af fjáreignum og hlutdeild í tapi Kistu voru meginskýringin á þessari bágu afkomu. Árið var svo í heildina gert upp með 68,3 milljarða króna tapi. Þar gerði útslagið 37,6 milljarða króna framlag í afskriftareikning útlána, auk 18,6 milljarða króna gengistaps af fjáreignum, 9,9 milljarða króna taps af hlutdeildarfélögum og 1,5 milljarða króna virðisrýrnunar viðskiptavildar.

Samanlagður hagnaður Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis á 10 ára tímabili fyrir fall bankanna 2008, þ.e. á árunum 1998–2007, var um 25,3 milljarðar króna miðað við meðalverðlag ársins 2008. Sparisjóðurinn tapaði því á árinu 2008 næstum þreföldum hagnaði undanfarinna 10 ára.

Hreinar rekstrartekjur

Hreinar rekstrartekjur hækkuðu verulega á árinu 2006 frá fyrra ári eftir jafnari vöxt árin á undan. Á árinu 2007 drógust þær saman um nærri helming og algjör viðsnúningur varð á árinu 2008 þegar hreinar rekstrartekjur voru neikvæðar um 25,9 milljarða króna. Það sem vó hvað þyngst í þessum sveiflum á hreinum rekstrartekjum voru gengisáhrif fjáreigna og afkoma hlutdeildarfélaga.

Samsetning hreinna rekstrartekna tók miklum breytingum á tímabilinu. Fjárfestingartekjur tóku að vaxa að marki árið 2003 og árið 2005 fóru þær fyrst fram úr hreinum vaxta- og þjónustutekjum. Þetta endurspeglaði breyttar áherslur í rekstri sparisjóðsins. Fjárfesting í verðbréfum hafði afgerandi áhrif á afkomu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis frá og með þeim tíma. Eignarhlutur hans, annars vegar í Exista hf., beinn og í gegnum Kistu – fjárfestingarfélag ehf., og hins vegar í Sparisjóðabanka Íslands hf., lék þar langstærsta hlutverkið.11

Liðurinn aðrar rekstrartekjur vó ekki þungt í rekstri Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis ef frá eru talin árin 2005 og 2007. Söluhagnaður hlutabréfa var færður undir þennan lið í ársreikningum sjóðsins. Á árinu 2005 var hagnaður af sölu á eignarhlut í Alþjóða líftryggingarfélaginu hf. upp á 276 milljónir króna. Á árinu 2007 seldi sparisjóðurinn hlutabréf í Sparisjóðabankanum fyrir 6,2 milljarða króna. Bókfærður söluhagnaður vegna þessa nam tæplega 3,1 milljarði króna en eins og áður sagði samsvaraði það nær öllum hagnaði sparisjóðsins á árinu 2007.

Hreinar vaxtatekjur hækkuðu á árunum 2001–2007 í samræmi við vöxt sparisjóðsins. Vaxtatekjur Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis voru aðallega af útlánum og hækkuðu um 12,7 milljarða á árinu 2008. Vaxtagjöld af innlánum sparisjóðsins námu 45% af heildarvaxtagjöldum á árinu 2006. Ytri þættir, svo sem gengisfall krónunnar og aukin verðbólga á árinu 2008, hækkuðu vaxtatekjur og vaxtagjöld verulega. Samdráttur í hreinum vaxtatekjum á árinu 2008 stafaði einkum af hækkandi vaxtakostnaði vegna dag- og veðlánaviðskipta og peningamarkaðssamninga við Seðlabanka Íslands, hærri innlánsvöxtum og víkjandi skuldum.

Vaxtamunur Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis var áþekkur og hjá öðrum sparisjóðum á árunum 2001–2004.12 Eftir það lækkaði hann verulega og varð mun lægri en annarra sparisjóða. Þetta vitnar um þá grundvallarbreytingu sem orðin var á stefnu sparisjóðsins, þ.e. að horfið var frá því að byggja alfarið á hefðbundinni sparisjóðsstarfsemi en þess í stað lögð áhersla á fjárfestingar.13 Útlánaaukningin sem hófst fyrir alvöru árið 2005 byggðist ekki hvað síst á lánum til fasteignakaupa en mikil samkeppni varð á þeim markaði á árinu 2004. Á sama tíma kepptust fjármálafyrirtækin við að bjóða viðskiptavinum sem hæsta innlánsvexti. Vaxtamunur var nánast orðinn enginn árin 2006–2008. Þessarar þróunar gætti einnig hjá öðrum sparisjóðum, mest þó hjá sparisjóðum á suðvesturhorni landsins. Á árinu 2008 tók vaxtamunur almennt að aukast aftur þegar nær alveg hafði verið tekið fyrir framboð á lánsfé á fjármálamörkuðum.

Rekstrargjöld

Rekstrargjöld Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hækkuðu tiltölulega stöðugt á árunum 2001–2007. Árið 2008 hækkuðu þau hins vegar gríðarlega.14 Ástæða þess var framlag í afskriftareikning útlána sem var liðlega ellefu sinnum hærra það ár en framlagið samanlagt sjö ár á undan.

Staða afskriftareiknings útlána hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis var 3% af heildarútlánum í árslok 2002. Niðurfærsluhlutfallið fór síðan lækkandi ár frá ári og var aðeins 0,9% í árslok bæði 2006 og 2007. Hjá öðrum sparisjóðum var það 2% að meðaltali15 í lok þessara sömu ára. Á meðan heildarútlán sparisjóðsins meira en fjórfölduðust frá árslokum 2002 til ársloka 2007 lækkaði framlagið í afskriftareikning útlána. Með hinu háa afskriftaframlagi í árslok 2008 rauk niðurfærsluhlutfallið upp í 16,6%. Þetta hlutfall var 13,5% að meðaltali hjá öðrum sparisjóðum á sama tíma.

Við kaup sparisjóðsins á Frjálsa fjárfestingarbankanum hf. á árinu 2002 var viðskiptavild upp á rúma 1,5 milljarða króna færð í bækur sjóðsins. Virðisrýrnunarpróf gáfu að mati stjórnenda sparisjóðsins ekki ástæðu til að færa hana niður fyrr en í árslok 2008. Þá var það mat þeirra að bókfært verð viðskiptavildarinnar væri hærra en endurheimtanlegt virði hennar. Af þeirri ástæðu var hún afskrifuð að fullu í árslok 2008.

Þótt almennur rekstrarkostnaður sparisjóðsins hefði hækkað jafnt og þétt í krónum talið á árunum 2001–2008 fór hlutfall hans af meðaleignum sparisjóðsins lækkandi, sbr. mynd 3. Þetta hlutfall var þó áþekkt og hjá öðrum sparisjóðum á tímabilinu, nema helst árið 2004.

Almennur rekstrarkostnaður samanstóð af launakostnaði og öðrum rekstrar- og stjórnunarkostnaði. Launakostnaður og annar rekstrarkostnaður héldust nokkurn veginn í hendur allt tímabilið sem hér er til umræðu, nema hvað annar rekstrarkostnaður hækkaði mun meira 2007 og 2008. Hækkunin lá fyrst og fremst í auglýsingakostnaði, tölvuþjónustu og aðkeyptri sérfræðiþjónustu.16

Launakostnaður fór hækkandi allt tímabilið, enda fjölgaði starfsfólki jafnt og þétt allan tímann, nema 2008 þegar því fækkaði talsvert, einkum undir lok ársins. Stöðugildi hjá sparisjóðnum voru að meðaltali 289 á árinu 2007 og hafði þá fjölgað um tæp 44% á þremur árum.17 Síðari hluta ársins 2008 var markvisst unnið að því að skera niður rekstrarkostnað sjóðsins og liður í því var að fækka starfsfólki. Á því ári fækkaði stöðugildum um fjórðung, þ.e. úr 286 í ársbyrjun niður í 213 í árslok.

Í ársreikningi tekur liðurinn launakostnaður til allra launa og launatengdra gjalda, breytinga á lífeyrisskuldbindingu og kaupréttarsamninga. Laun og þóknanir til yfirstjórnar eru hér birt án launatengdra gjalda sem sparisjóðurinn bar sjálfur. Til yfirstjórnar og framkvæmdastjóranna, auk kauprétta þessara aðila, eru laun og þóknanir allt saman meðtalin í launakostnaðinum í efri hluta töflu 5. Taflan er á samstæðugrunni, en það þýðir að launakostnaður dótturfélaga er meðtalinn.

Stjórnin samdi um og ákvað laun sparisjóðsstjóra. Hann samdi síðan við framkvæmdastjórana um launakjör þeirra. Þóknun fyrir stjórnarsetu var ákveðin á aðalfundi hvert ár. Stjórnin var skipuð fimm mönnum sem fengu fasta þóknun á mánuði. Á aðalfundum sparisjóðsins 2004–2007 var mánaðarleg þóknun stjórnarmanna ákveðin og var hún lægst 116 þúsund krónur en hæst 200 þúsund krónur. Formaður stjórnar fékk tvöfalda þóknun. Á aðalfundi sparisjóðsins 2008 stóð til að samþykkja óbreytta þóknun frá síðasta aðalfundi, en stofnfjárhafi lagði fram tillögu um lægri þóknun og fékk hana samþykkta. Mánaðarþóknun stjórnarmanna varð þannig 120 þúsund krónur og stjórnarformanns 210 þúsund krónur.

Stjórnir dótturfélaga Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis voru nær eingöngu skipaðar yfirstjórnendum og stjórnarmönnum hjá sparisjóðnum sjálfum, að nokkru leyti sömu aðilum. Sparisjóðsstjóri var stjórnarformaður í Frjálsa fjárfestingarbankanum hf., SPRON-Verðbréfum hf., nb.is-sparisjóði hf., Steinsnesi ehf. og Rekstrarfélagi Spron hf. Hann var hins vegar ekki í stjórn SPRON Factoring hf. Stjórnarformaður sparisjóðsins sat í stjórn Frjálsa fjárfestingarbankans hf. og nb.is-sparisjóðs hf. Tvö síðastnefndu dótturfélögin lutu fimm manna stjórn, en önnur þriggja manna. Reyndar var samþykkt á aðalfundi SPRON-Verðbréfa hf. 2007 að fjölga stjórnarmönnum í fimm, en þeir urðu þó ekki nema fjórir þetta síðasta starfsár félagsins. Stjórnir dótturfélaganna voru kjörnar á aðalfundum hvers um sig og var þóknun fyrir stjórnarstörf jafnframt ákveðin.

Launakostnaður á hvert stöðugildi var talsvert hærri hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis árin 2003–2007 en hjá öðrum sparisjóðum.18 Mestu munaði árið 2008 en þá voru launin um 27% hærri. Á mynd 4 er sýnd þróun launakostnaðar á stöðugildi hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis og öðrum sparisjóðum á árunum 2001–2008, borið saman við almenna launaþróun í landinu á sama tímabili. Árið 2008 varð mikil fækkun stöðugilda en launakostnaður hækkaði á árinu. Kostnaður á stöðugildi varð því hærri en áður.

Í skýrslu, sem PricewaterhouseCoopers vann fyrir Fjármálaeftirlitið um sparisjóðinn og náði yfir tímabilið frá 30. júní 2008 þangað til Fjármálaeftirlitið tók yfir vald hluthafafundar 21. mars 2009, kom fram að starfsmenn hefðu notið ýmissa fríðinda. Það eru hin almennu fríðindi sem getið er um í umfjöllun um risnu og fríðindi í 8. kafla.19

Skriflegar viðmiðunarreglur um fríðindi starfsmanna og eftirlit með slíku voru ekki til hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis og sama gilti um dótturfélög samstæðunnar. Stjórn sparisjóðsins samþykkti starfskjarastefnu 27. febrúar 2008.20 Í henni var m.a. kveðið á um að starfskjaranefnd væri ætlað að vera stjórn sparisjóðsins til ráðgjafar um starfskjör forstjóra og að forstjóri semdi um starfskjör framkvæmdastjóra og annarra stjórnenda móðurfélagsins. Ákvörðun um starfskjör framkvæmdastjóra var í höndum stjórnar viðkomandi dótturfélags.21

Kaupaukagreiðslur, bónusar, til starfsmanna voru hærri og víðtækari hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis en hjá öðrum sparisjóðum. Ekki voru til skriflegar verklagsreglur um greiðslu bónusa22 en stjórn og stjórnendur tóku ákvarðanir um greiðslu þeirra.23 Á árunum 2004–2007 voru greiddir kaupaukar til starfsmanna sparisjóðsins vegna góðrar afkomu sjóðsins.24 Um var að ræða eingreiðslur sem almennt voru 50% til 100% af mánaðarlaunum og komu til greiðslu eftir að ársuppgjör var birt. Kaupaukagreiðslur þessar áttu almennt ekki við um starfsmenn Frjálsa fjárfestingarbankans hf., SPRON-Verðbréfa hf., SPRON Factoring hf. og tryggingaráðgjafa sparisjóðsins, en þar giltu sérstök hvata- og sölukerfi.

Á árinu 2004 námu kaupaukagreiðslur sparisjóðsins vegna afkomu næstliðins árs samtals 43,4 milljónum króna, á árinu 2005 námu þær 52,6 milljónum króna, 69,1 milljón króna á árinu 2006 og svo 43 milljónum króna á árinu 2007 en þá lækkuðu þær í samræmi við afkomu sjóðsins.

Auk kaupaukagreiðslna tengdra afkomu fengu stjórnendur hver um sig misháar viðbótargreiðslur. Á árinu 2004 námu viðbótargreiðslur til 11 stjórnenda samtals 47,5 milljónum króna, þar af var greiðsla til sparisjóðsstjóra 12 milljónir króna.25 Á árinu 2005 fengu 11 stjórnendur viðbótargreiðslur, samtals 60,5 milljónir króna, og þar af nam greiðsla til sparisjóðsstjóra 17 milljónum króna. Á árinu 2006 fengu 12 stjórnendur viðbótargreiðslur, samtals 96,5 milljónir króna, þar af komu 30 milljónir króna í hlut sparisjóðsstjóra. Á árinu 2007 höfðu greiðslur þessar lækkað í samræmi við afkomu og námu 27 milljónum króna til sjö stjórnenda, þar af gengu 10 milljónir króna til forstjóra sparisjóðsins.

Samningar voru gerðir um greiðslur af þessu tagi til sparisjóðsstjóra. Meiri hluti stjórnar undirritaði 7. október 2004 samning um hvatakerfi fyrir sparisjóðsstjóra. Samningurinn fól í sér að sparisjóðsstjóri fengi bónus á laun sín ef hagnaður af rekstri sjóðsins skilaði meira en 12% arðsemi af eigin fé. Í þessu sambandi var miðað við niðurstöðu rekstrarreiknings í endurskoðuðu ársuppgjöri samstæðu sparisjóðsins sem hlutfall af bókfærðu eigin fé eins og það væri í lok næstliðins rekstrarárs. Næðist ekki 12% arðsemi yrði enginn bónus greiddur. Bónusinn skyldi nema 1% af hagnaði ársins og hámarksgreiðsla fyrir hvert ár yrði 12 milljónir króna. Stjórnarformaður sparisjóðsins, Hildur Petersen, undirritaði nýjan samning um hvatakerfi fyrir sparisjóðsstjóra 6. febrúar 2007 vegna rekstrarársins 2006. Hann var efnislega samhljóða fyrrnefndum samningi að öðru leyti en því að heimilt var að greiða bónusinn í formi framlags á lífeyrisreikning að vali sparisjóðsstjóra. Sama dag undirritaði stjórnarformaðurinn annan samning um hvatakerfi fyrir sparisjóðsstjóra á grundvelli afkomunnar 2007. Hann miðaðist einnig við 12% arðsemi að lágmarki. Ef slík arðsemi næðist skyldi bónusinn nema 20 milljónum og auk þess 0,25% af hagnaði umfram það, þó að hámarki 70 milljónum króna.

Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis hf. var með tvær kaupréttaráætlanir í gildi þegar hann féll. Kaupréttaráætlun I var samþykkt á hluthafafundi 21. ágúst 2007 og á stjórnarfundi 31. ágúst 2007. Í henni var um að ræða 46.020.000 hluti í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis hf. sem undirliggjandi eign. Heildarfjöldi hluta var þó færður niður þar sem 242 af 260 starfsmönnum ákváðu að nýta sér réttinn. Kaupréttaráætlun II var samþykkt á sama hluthafafundi og á stjórnarfundi 27. desember 2007. Í henni var um ræða samtals 49.700.000 hluti á ári og 149.100.000 hluti á þriggja ára tímabili. Samningur samkvæmt áætluninni var gerður við 52 lykilstarfsmenn samstæðunnar. Á stjórnarfundi 13. nóvember 2008 var ákveðið að kanna hvort heimilt væri að loka samningum um kauprétti sem ekki yrðu nýttir því þeir þóttu íþyngjandi fyrir eiginfjárstöðu sparisjóðsins. Samningarnir höfðu ekki verið ógiltir með formlegum hætti þegar sparisjóðurinn féll. KPMG framkvæmdi mat á kaupréttarsamningunum fyrir stjórnina. Niðurstaða fyrirtækisins var að miðað við gefnar forsendur væri virði kaupréttar samkvæmt kaupréttaráætlun I um 83,4 milljónir króna og samkvæmt kaupréttaráætlun II um 238,2 milljónir króna.26

Til viðbótar við þá samninga sem hér var greint frá er rannsóknarnefndinni kunnugt um fleiri samninga við einstaka starfsmenn. Greint verður frá þeim stærstu.

Á árinu 2004 voru gerðir viðbótarsamningar við ráðningarsamninga fjögurra lykilstarfsmanna, sem fólu í sér kaupaukagreiðslur gegn því að umræddir starfsmenn létu ekki af störfum eða réðu sig til samkeppnisaðila. Um var að ræða eingreiðslur frá 1 til 2 milljóna króna á ári allt til ársins 2007. Sama ár var gerður starfslokasamningur við framkvæmdastjóra fjármálasviðs. Auk launa í 12 mánuði fékk hann 12 milljóna króna eingreiðslu og ívilnun vegna bifreiðar. Á árinu 2005 voru gerðir starfslokasamningar við tvo starfsmenn, sem fólu í sér 2 milljóna króna eingreiðslu umfram hefðbundnar starfslokagreiðslur samkvæmt kjarasamningum. Árið 2006 fékk framkvæmdastjóri SPRON-Verðbréfa hf. 10,1 milljónar króna kaupauka og annar starfsmaður þar 3 milljóna króna eingreiðslu til viðbótar við ráðningarsamning. Á árinu 2007 var undirritaður starfslokasamningur við einn starfsmann sem fól í sér 4 milljóna króna eingreiðslu umfram hefðbundnar starfslokagreiðslur.

Í byrjun ágústmánaðar 2008 var gerður starfslokasamningur við framkvæmdastjóra fjárfestinga, en gengið hafði verið frá ráðningarsamningi við hann 24. janúar sama ár. Skömmu eftir að framkvæmdastjórinn var ráðinn, 14. febrúar 2008, var gerður samningur milli hans, félags í eigu hans og Hraunsness ehf., dótturfélags sparisjóðsins. Samkvæmt samningnum keypti Hraunsnes ehf. allt hlutaféð í félagi framkvæmdastjórans og auk þess eignarhlut hans í öðru félagi fyrir samtals 170 milljónir króna. Helmingur kaupverðs var greiddur við undirritun samnings en aðrar greiðslur skyldu inntar af hendi á árunum 2009–2011. Í samningnum var ákvæði um að ef framkvæmdastjórinn léti af störfum innan þriggja ára skyldi Hraunsnes ehf. eiga rétt á að selja honum bréfin aftur og skyldi frestur framkvæmdastjórans til að ganga frá greiðslu kaupverðsins vera sex mánuðir frá tilkynningu Hraunsness ehf. um nýtingu söluréttarins. Samkvæmt fyrrnefndum starfslokasamningi skyldu framkvæmdastjórinn og Hraunsnes ehf. vinna sameiginlega að sölu hluta í umræddu félagi. Aðilar gáfu sér tíma til 31. október 2008 til að selja hlutina og skuldbatt sparisjóðurinn sig til að fjármagna hugsanleg kaup, enda hefði kaupandi einhverjar viðbótartryggingar ef til þess kæmi að lána þyrfti allt kaupverðið. Tækist ekki að selja bréfin fyrir 31. október 2008 myndi framkvæmdastjórinn yfirtaka bréfin að nýju og endurgreiða áður móttekið söluverð, 85 milljónir króna, með skuldabréfi til þriggja ára. Framkvæmdastjórinn fékk 12 mánaða laun við starfslok eins og kveðið var á um í ráðningarsamningi hans.

Frá 1. september 2008 til 21. mars 2009 voru greiddir ýmsir kaupaukar samkvæmt ákvörðun stjórnar.27 Í árslok 2008 var gerður starfslokasamningur við starfsmann um 12,5 milljóna króna eingreiðslu umfram hefðbundnar starfslokagreiðslur. Fimm starfsmenn fengu kaupaukagreiðslu vegna góðrar frammistöðu og mikils álags síðari hluta ársins 2008. Þessar greiðslur námu frá 500 þúsund krónum til 5 milljóna króna. Einnig var fimm lykilstarfsmönnum greiddur kaupauki á árinu 2009. Um misháar greiðslur var að ræða en heildarfjárhæðin nam um 21 milljón króna.

Framkvæmdastjóri Frjálsa fjárfestingarbankans hf. fékk 10,5 milljóna króna eingreiðslu á árinu 2005. Árin 2006 og 2007 fékk hann greidda kaupauka í formi níu mánaðarlauna hvort ár. Í upphafi árs 2009 fengu fimm starfsmenn Frjálsa fjárfestingarbankans hf. eingreiðslu, samtals 43,3 milljónir króna, vegna samninga sem undirritaðir voru á árunum 2005 og 2006, sem viðbót við ráðningarsamning ef starfsmennirnir létu ekki af störfum fyrir félagið.

Samkvæmt ársreikningi Frjálsa fjárfestingarbankans hf. 2007, sem var síðasti ársreikningurinn sem var skilað, fékk framkvæmdastjórinn liðlega 40 milljónir króna í árslaun, auk kauprétta. Á árunum 2004–2007 fékk hver stjórnarmaður ársþóknun sem hæst nam 1.660.000 krónum. Formaðurinn fékk tvöfalda þóknun. Samtals voru haldnir 38 stjórnarfundir í félaginu frá því það komst í eigu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis í september 2002 þangað til 22. janúar 2009. Stjórnin hélt fjóra fundi á árinu 2007.

Framkvæmdastjóri nb.is-sparisjóðs hf. fékk rúmar 15 milljónir króna í laun á árinu 2007. Á árunum 2004–2007 fékk hver stjórnarmaður ársþóknun sem hæst nam 1.140.000 krónum. Formaðurinn fékk tvöfalda þóknun. Fyrir árið 2008 var þóknun fyrir stjórnarsetu lægri, eða 300 þúsund krónur og tvöföld til formannsins.

Framkvæmdastjóri SPRON-Verðbréfa hf. fékk liðlega 20 milljónir króna í laun árið 2007. Stjórnarmenn í félaginu fengu hins vegar enga þóknun fyrir stjórnarstörf sín. Stjórnarfundir þar voru þó heldur tíðari en hjá Frjálsa fjárfestingarbankanum hf. Samtals voru haldnir 23 stjórnarfundir á tímabilinu frá 21. júní 2005 til 12. desember 2008.

Rekstrarfélag Spron hf. greiddi stjórnarmönnum mánaðarlega þóknun á árunum 2005–2007 sem hér segir, í þúsundum króna hvert ár um sig: 75, 80 og 85. Formaður fékk tvöfalda þóknun. Fyrir árið 2008 var stjórnarmönnum ekki greidd þóknun ef þeir voru jafnframt starfsmenn samstæðunnar, en aðrir stjórnarmenn fengu 100 þúsund króna þóknun á mánuði.

Kjarnarekstur

Afkoma af kjarnarekstri er hér reiknuð á sama hátt og hjá öðrum sparisjóðum. Það er reyndar gróf nálgun, svo sem gerð er grein fyrir í 8. kafla, og er vert að hafa það í huga við lestur á töflu 6. Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis byggði upp umfangsmeira kerfi í kringum fjárfestingarstarfsemi sína en aðrir sparisjóðir gerðu og er því ljóst að talsverður hluti almenns rekstrarkostnaðar féll þar til. Sá kostnaður er ekki undanskilinn í töflunni. Vaxtakostnaður vegna fjármögnunar á fjáreignum er heldur ekki undanskilinn. Á móti þessum kostnaðarliðum koma vaxtatekjur af markaðsskuldabréfum og fleiri verðbréfum, en þær eru meðtaldar í hreinum vaxtatekjum í töflunni. Því kann það að orka tvímælis að viðhafa þessa aðferð á Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis.

Samkvæmt þessari samræmdu aðferð hér í skýrslunni var tap af kjarnarekstri sparisjóðsins frá 2001 til 2008 og jókst það eftir árið 2004. Vaxtamunur hjá sparisjóðnum minnkaði töluvert á sama tíma, eins og kemur fram í töflu 3 hér framar. Þetta endurspeglar þá miklu áherslubreytingu sem varð hjá sparisjóðnum á tímabilinu er tekið var að horfa meira til fjárfestingarstarfsemi en hefðbundinnar sparisjóðastarfsemi.

Kjarnarekstur annarra sparisjóða var í heildina sama marki brenndur, sbr. umfjöllun um kjarnarekstur sparisjóðanna í heild í 8. kafla.

Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis birti í skýringum með ársreikningi 2006 og 2007 svonefnt starfsþáttayfirlit. Þar var yfirskriftin svohljóðandi:

Sparisjóðurinn skiptir meginstarfsemi sinni í tvo starfsþætti. Hefðbundin bankastarfsemi felst í almennri þjónustu við viðskiptavini, svo sem að veita útlán og taka við innlánum, auk fjármálaráðgjafar til einstaklinga og fyrirtækja. Fjárfestingar og fjárstýring felst aðallega í fjárfestingum í verðbréfum og fjárstýringu samstæðunnar.

Hagnaður fyrir skatta af bankastarfseminni samkvæmt þessu yfirliti var allt annar og meiri en afkoma af kjarnarekstri fyrir skatt í töflu 6. Þessi mismunur stafar að einhverju leyti af því sem nefnt var í upphafi kaflans en auk þess skal bent á að í yfirliti sem þessu getur skiptingin milli starfsþátta ráðist af huglægum sjónarmiðum. Hvort svo hafi verið á umræddum yfirlitum krefst dýpri rannsóknar en rannsóknarnefndinni var unnt að framkvæma miðað við umfang og efni rannsóknarinnar. Rannsóknarnefndin getur því ekki fullyrt um það. Nokkra mynd af því hvað fellur í hvorn starfsþátt má sjá í lýsingu á hlutafélagsvæðingu í október 2007. Þar voru starfsþættirnir nefndir viðskiptabankastarfsemi, en undir hana féll útibúanet sparisjóðsins, kortasvið, Frjálsi fjárfestingarbankinn hf., nb.is-sparisjóður hf. og SPRON Factoring hf., og fjárfestingarbankastarfsemi, en undir hana féllu fjárfestingar, SPRON-Verðbréf hf. og SPRON fjárstýring.28 Þessi skipting er ekki hafin yfir allan vafa. Til dæmis var Frjálsi fjárfestingarbankinn hf. ekki í hreinni viðskiptabankastarfsemi og SPRON fjárstýring spannaði alla samstæðuna, sbr. það sem sagði á blaðsíðu 42 í fyrrnefndri lýsingu:

Fjárstýringin stýrir gjaldeyrisáhættu, lausafjáráhættu, vaxta- og verðtryggingaráhættu fyrir samstæðu SPRON og framfylgir stefnu yfirstjórnar í þeim efnum. Fjárstýring annast einnig fjármögnun SPRON-heildarinnar á innlendum og erlendum vettvangi til skemmri og lengri tíma.

Það er stjórnendum fjármálafyrirtækja jafnan kappsmál að geta sýnt fram á góða afkomu þeirra. Því má gera ráð fyrir að stjórnendum sparisjóðsins hafi verið mikið í mun að sýna fram á að viðskiptabankastarfsemin skilaði góðri afkomu, ekki síst áætlana vegna breytingar sparisjóðsins í hlutafélag og skráningar í Kauphöll í kjölfarið. Í viðtali Fréttablaðsins-Markaðarins við Guðmund Hauksson sparisjóðsstjóra skömmu fyrir skráningu sjóðsins í Kauphöll mátti lesa:

„Því hefur verið haldið fram að 800 milljóna króna tap hafi verið á grunnrekstri sjóðsins, en það er ekki rétt,“ segir [Guðmundur] og bætir við að fyrir skatta hafi hagnaður grunnreksturs sjóðsins verið rúmir 2,7 milljarðar króna. […] „Grunnrekstur SPRON felur í sér að rekstrarliðir vegna fjárfestinga eru bakfærðir, þar með talinn gengismunur, en á móti eru vaxtatekjur leiðréttar sem nemur kostnaði samstæðunnar af því að liggja með hlutabréfa- og skuldabréfastöður.“29

Þarna var talað um grunnrekstur og greinilega ekki átt við það sama og viðskiptabankastarfsemi og enn síður það sama og kjarnarekstur sem notað er í þessari skýrslu. Á blaðsíðu 72 í fyrrnefndri lýsingu var birt starfsþáttayfirlit fyrir 2006, það sama og er í töflu 7. Þar var þess getið að sparisjóðurinn hefði ekki skipt tekjum og afkomu niður á starfsþætti fyrir árin 2004 og 2005. Þar stóð enn fremur að „ef horft er til afkomu félagsins án fjárfestingarbankastarfsemi, þ.e. grunnrekstrar, er hagnaður fyrir skatta árið 2006 2.366 milljónir króna“. Útreikningur á afkomu grunnrekstrar var þarna útskýrður á nákvæmlega sama hátt og sparisjóðsstjórinn gerði í viðtalinu sem fyrr var vitnað til.30

Í ársskýrslu sparisjóðsins 2007 er yfirlit á blaðsíðu 31, sem sýnir „reiknaðan grunnrekstur SPRON“ árin 2004–2007. Þar er hagnaður reiknaðs grunnrekstrar fyrir skatta sagður hafa verið 482 milljónir króna árið 2004 en 4.859 milljónir króna árið 2007.31 Samkvæmt þessu á grunnrekstur að hafa styrkst mikið milli þessara ára. Bent skal á að þetta eru óendurskoðaðar tölur.32

Hvort hagnaður af reiknuðum grunnrekstri eða afkoma af bankastarfsemi er réttari mælikvarði en afkoma af kjarnarekstri verður ekki fullyrt um. Sjónarhornin eru ólík og skiptir mestu máli að þekkja til hvers er horft hverju sinni. Ekki er úr vegi að líta til þess mælikvarða sem oft er beitt við mat á hve lífvænlegar lánastofnanir eru, en það er vaxtamunurinn. Hann er þó því sama marki brenndur og aðrir mælikvarðar að því leyti til að hann er reiknaður með ýmsum hætti.33 Vaxtamunur hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis var lítill og fór minnkandi þessi fjögur ár. Sé hann reiknaður eins og almennt er gert í þessari skýrslu, þ.e. sem mismunur meðal útláns- og innlánsvaxta, var hann þessi á árunum 2004–2007:

  • 2004: 5,6%
  • 2005: 1,9%
  • 2006: 0,8%
  • 2007: 0,3%

Ef hann er reiknaður sem hreinar vaxtatekjur á móti meðaleignum var hann sem hér segir:

  • 2004: 3,8%
  • 2005: 2,4%
  • 2006: 1,6%
  • 2007: 1,3%

Þessar tölur benda í aðra átt en þær sem gefa til kynna að hagnaður hafi verið af grunnrekstri sparisjóðsins þessi sömu ár. Þær eru hins vegar í meira samræmi við afkomuna af kjarnarekstri eins og hún birtist í töflu 6. Ef reiknaður er vaxtamunur fyrir bankastarfsemina eina, hreinar vaxtatekjur á móti meðalstöðu eigna, eins og hún birtist í töflu 7, þá hefur hann verið 2,6% árið 2007.

17.1.2 Efnahagsreikningar

Hér er fjallað um stærstu eigna- og skuldaliði í efnahagsreikningi Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis í lok áranna 2001–2008 og þróunina á tímabilinu. Í viðauka C má sjá efnahagsreikning sparisjóðsins á árunum 2001–2008 á verðlagi hvers árs svo og árslokaverðlagi ársins 2011.

Eignir

Heildareignir sparisjóðsins liðlega þrefölduðust á árunum 2005–2007 og komust í 224 milljarða króna. Árið 2008, síðasta heila starfsár sjóðsins, varð hins vegar lítils háttar samdráttur. Hinn mikli vöxtur árin þrjú var borinn uppi af gríðarlegri aukningu útlána og fjáreigna. Mynd 5 sýnir hvernig eignir sparisjóðsins í lok áranna 2001–2008 skiptust.

Útlánin voru langstærsti einstaki eignaliður Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis allt umrætt tímabil. Vægi þeirra í heildareignum var að jafnaði um og yfir 70%. Síðasta árið voru útlán 86% af heildareignum sparisjóðsins. Í lok árs 2004 hóf Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis ásamt öðrum sparisjóðum samstarf við Íbúðalánasjóð um lán til kaupa á íbúðarhúsnæði. Íbúðalánasjóður lánaði sparisjóðnum gegn framsali á greiðsluflæði af skilgreindum lánum sem sparisjóðurinn veitti viðskiptavinum sínum. Íbúðalánin töldust þó eign sparisjóðsins. Þetta átti sinn þátt í útlánavexti sparisjóðsins sem hófst fyrir alvöru á árinu 2005. Útlánavöxturinn 2005–2007 skýrist þó aðallega af lánum til fjárfestingar í byggingaverkefnum og í hlutabréfum. Þá fór hlutur gengisbundinna útlána hratt vaxandi og námu þau um 40% útlána í árslok 2007. Hækkun útlána árið 2008 var því einkum vegna veikingar íslensku krónunnar gagnvart öðrum gjaldmiðlum. Langstærstur hluti útlána sparisjóðsins var í formi skuldabréfa. Útlán voru nær einvörðungu til einstaklinga, jafnan um og yfir helmingur, og til fyrirtækja. Útlán til ríkis og sveitarfélaga voru óveruleg. Útlán eru alltaf nettó í efnahagsreikningi, þ.e. að teknu tilliti til varúðarniðurfærslu sem er staðan á afskriftareikningi útlána. Til þess að sjá brúttóstöðu útlána, heildarútlán, þarf því að bæta stöðu afskriftareikningsins við. Í töflu 9 má sjá samhengið í lok áranna 2001–2008. Þar er niðurfærsluhlutfallið jafnframt sýnt og til samanburðar hjá öðrum sparisjóðum á sama tímabili.

Afskriftaframlagið hélt hvergi nærri í við útlánavöxtinn og var umtalsvert lægra en hjá öðrum sparisjóðum, þar til í árslok 2008 þegar niðurfærsluhlutfallið nam tæpum 17% af útlánum.

Fjáreignir Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis í árslok 2004 námu 10 milljörðum króna og voru þær 14% heildareigna. Í lok árs 2007 höfðu fjáreignir nær fjórfaldast að bókfærðu verði og námu 43 milljörðum króna, sem jafngilti 19% heildareigna. Þessa aukningu má einkum rekja til gangvirðishækkunar á hlutabréfum og öðrum verðbréfum með breytilegum tekjum. Veruleg gengislækkun varð á fjáreignum á árinu 2008 og drógust þær saman um 68% frá fyrra ári.

Eign í hlutabréfum og öðrum verðbréfum með breytilegum tekjum nam í árslok 2007 samtals 29 milljörðum króna og hafði rúmlega sjöfaldast frá því í árslok 2004, auk þess sem vægi eignaliðarins af heildareignum hafði aukist úr 6% í árslok 2004 í 13% í árslok 2007. Öll verðbréf í veltubók, hvort sem þau voru skráð eða óskráð, voru metin á gangvirði frá ársbyrjun 2005 þegar sparisjóðurinn tók upp IFRS-reikningsskil. Það leiddi jafnframt til þess að gangvirðislækkun slíkra bréfa á árinu 2008 þurfti að færa að fullu sem gengistap. Helstu eignir Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis í þessum flokki voru eignarhlutur í Kaupþingi hf., sem sparisjóðurinn seldi á árinu 2002, og síðan í Meiði ehf. (síðar Exista ehf./hf.) frá sama ári. Mikil gengishækkun varð á þessum eignarhlut allt til miðs árs 2007 þegar markaðsverðið tók að síga. Lækkunin á árinu 2008 var gífurleg og í lok ársins hafði þessi eignaliður dregist saman um 85% frá fyrra ári.

Markaðsskuldabréf o.fl. með föstum tekjum voru eignfærð á 8,7 milljarða króna í árslok 2008 og hafði sá liður þá dregist saman um 28% frá árslokum 2007. Skýrir niðurfærsla á skuldabréfum fyrirtækja þá breytingu að mestu.

Framan af umræddu tímabili færði sparisjóðurinn eign sína í Sparisjóðabanka Íslands hf., Tölvumiðstöð sparisjóðanna og Reiknistofu bankanna eftir hlutdeildaraðferð. Hlutdeild sjóðsins í afkomu þessara fyrirtækja, einkum bankans, hækkaði þennan eignalið umtalsvert til ársloka 2006. Í desember 2006 stofnaði Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis ásamt fleiri sparisjóðum Kistu – fjárfestingarfélag ehf. til að halda utan um eignarhluti þeirra í Exista hf. Þangað flutti sjóðurinn stóran hluta eignar sinnar í Exista hf. Auk þess seldi sparisjóðurinn á árinu 2007 nær allan eignarhlut sinn, fyrir utan 5,17%, í Sparisjóðabanka Íslands hf., sem hann hafði lengi átt um fjórðungshlut í. Við það fluttust eignir milli liða í ársreikningi, en sparisjóðurinn lánaði kaupendum að eignarhlutnum. Eign í hlutdeildarfélögum nam 2,6 milljörðum króna í árslok 2007. Þessi eignaliður dróst verulega saman á árinu 2008 og nam í árslok 463 milljónum króna. Fyrst og fremst má rekja það til slæmrar afkomu Kistu – fjárfestingarfélags ehf.

Aðrar eignir og fleira samanstendur af rekstrarfjármunum, öðrum eignum og óefnislegum eignum. Rekstrarfjármunir voru eignfærðir á 3,2 milljarða króna í lok árs 2008. Aðrar eignir námu 3,6 milljörðum króna í lok árs 2008 og óefnislegar eignir 281 milljón króna og höfðu þá minnkað verulega frá fyrra ári vegna virðisrýrnunar viðskiptavildar. Sparisjóðurinn nýtti sér heimild í skattalögum til að fresta skattgreiðslu af söluhagnaði af eignarhlutum í félögum.

Skuldir

Fjármögnun Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis fyrir utan eigið fé fólst aðallega í innlánum og lántöku. Á árinu 2008 var eigið fé sjóðsins orðið neikvætt og var sjóðurinn þá fjármagnaður með innlánum, lántöku og dag- og veðlánaviðskiptum við Seðlabanka Íslands.

Eins og sjá má á mynd 6 voru almenn innlán stærstur hluti fjármögnunar sparisjóðsins fram til ársins 2005, en þá fóru lántökur að aukast til muna. Í árslok 2005 voru innlán 34% af heildarfjármögnun sjóðsins, en fóru upp í 43% af fjármögnunarþáttum í lok árs 2008. Samanlagt hlutfall innlána af fjármögnunarþáttum hjá öðrum sparisjóðum í árslok 2008 var 51%. Þannig sést að Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis fjármagnaði sig í minna mæli með innlánum en aðrir sparisjóðir í heild. Innlánin jukust þó allt tímabilið, einkum árin 2006 og 2007.

Lántaka var annar meginþáttur fjármögnunar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis. Lántaka sjóðsins fór verulega vaxandi eftir 2004. Í lok þess árs voru heildarlántökur 24% af fjármögnun sparisjóðsins. Í lok árs 2008 voru þær 43% af fjármögnun hans og höfðu þá næstum sexfaldast í krónum talið á milli ára. Lántökur Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis skiptust í tvo meginflokka, útgefin skuldabréf og víxla annars vegar og lán frá fjármálafyrirtækjum hins vegar. Erlend lántaka rúmlega þrefaldaðist miðað við fjárhæðir í erlendum myntum frá árslokum 2005 til ársloka 2007.34 Á árinu 2008 greiddi sparisjóðurinn til baka hluta af erlendri lántöku sinni sem skýrir samdráttinn. Hefði sparisjóðurinn ekki fallið hefði endurfjármögnunarþörf hans numið tæpum 422 milljónum evra, sem jafngilti þá rúmum 67 milljörðum króna, eða 30% af heildareignum sjóðsins samkvæmt ársreikningi 2008.

Skuldir við lánastofnanir námu 47 milljörðum króna í árslok 2008 og höfðu fimmfaldast frá fyrra ári. Helsta skýringin á aukningunni voru dag- og veðlánaviðskipti við innlendar lánastofnanir og Seðlabanka Íslands vegna lausafjárskorts sjóðsins á árinu 2008.

Aðrar skuldir námu 15,5 milljörðum króna í lok árs 2008 og höfðu hækkað um rúma 11 milljarða króna á árinu, meðal annars vegna vaxta- og gjaldeyrisvarnasamninga sem gerðir voru við lánastofnanir. Eftir atburðina á íslenskum fjármálamarkaði haustið 2008 voru samningar við Fortis Bank og HSH Nordbank vegna gjaldeyrisvarna óuppgerðir í sparisjóðnum.

Víkjandi skuldir voru ekki fyrirferðarmikill þáttur í fjármögnun Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis fram til ársins 2005 þegar þær tóku að hækka. Alls námu víkjandi lán 9,4 milljörðum króna í lok árs 2008. Í lok mars 2008 seldi sparisjóðurinn Kaupþingi banka hf. víkjandi skuldabréf fyrir 42 milljónir evra, eða 5,1 milljarð króna.35

Eigið fé

Litlar breytingar urðu á eigin fé Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis fyrr en á árinu 2005. Stofnfé hafði lengi verið nær óbreytt að öðru leyti en því að nýtt hafði verið heimild til árlegs endurmats og verðbótahækkunar. En árið 2005 dró til tíðinda er stofnfé var aukið tvívegis og aftur og enn meira árið eftir. Varasjóðurinn sem um langa hríð hafði verið langstærstur hluti eigin fjár var það ekki lengur í árslok 2006, eftir síðustu stofnfjáraukninguna, eins og sjá má á mynd 7. Arðgreiðslur hækkuðu verulega í tengslum við þetta, ekki aðeins í fjárhæðum heldur einnig sem hlutfall af stofnfé í lok næstliðins árs. Þetta hlutfall var 50% á árinu 2006, en þá voru greiddir út tæpir 2 milljarðar króna í arð. Árið eftir var hlutfallið 46% og útborgaður arður nærri 9 milljarðar króna.

Sparisjóðnum var breytt í hlutafélag á árinu 2007 og var ákveðið að hlutafé við stofnun skyldi vera 5 milljarðar króna. Stofnfjáreigendur fengu hlutabréf í hlutafélaginu sem gagngjald fyrir stofnfjárhluti sína. Sjálfseignarstofnunin, sem skyldi fara með hlut gamla varasjóðsins í hinu nýja hlutafélagi, varð eigandi 15% hlutafjárins og var sú skipting ákvörðuð á grundvelli verðmats. Hluthafar, sjálfseignarstofnunin þar meðtalin, öðluðust tilkall til alls óráðstafaðs eigin fjár.36 Hluthafar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. fengu greidda 1,6 milljarða króna í arð á árinu 2008, sem svaraði til 33% af hlutafé í árslok 2007.37

Á árunum 2001–2004 sveiflaðist hlutfall bókfærðs eigin fjár af heildarfjármögnun sjóðsins í kringum 8%. Þetta hlutfall hækkaði verulega við stofnfjáraukningarnar árin 2005 og 2006 og var komið í 18,8% í árslok 2006. Það hélst enn hátt í árslok 2007 þrátt fyrir nærri 9 milljarða króna arðgreiðslu en féll síðan hratt á árinu 2008 og varð á endanum neikvætt um 13,6%. Tap var af rekstri sparisjóðsins á þriðja ársfjórðungi 2007 og varð taprekstur viðvarandi frá þeim tíma og fram að falli sparisjóðsins í mars 2009. Eiginfjárhlutfallið var þó lengst af talsvert hærra en hlutfall bókfærðs eigin fjár af heildareignum og vel yfir hinu lögbundna 8% lágmarki. Mynd 8 sýnir hvernig þessi hlutföll þróuðust. Þar er árinu 2008 skipt upp eftir fjórðungum til þess að sýna framvinduna betur.

Þó að hratt gengi á eigið fé á árinu 2007 tókst framan af ári að halda eiginfjárhlutfallinu vel yfir lögbundnu lágmarki. Árið 2008 fór eiginfjárhlutfallið að síga en fór þó ekki undir lögbundið lágmark fyrr en í skýrslu sem skilað var til Fjármálaeftirlitsins fyrir 31. október 2008. Samkvæmt skýrslunum var eigið fé þá orðið neikvætt um 13,6%. Ársreikningurinn fyrir 2008 var fullfrágenginn en án undirritunar þegar Fjármálaeftirlitið tók yfir vald hluthafafundar 21. mars 2009. Samkvæmt honum var staðan í árslok enn verri en tölurnar í skýrslunni til eftirlitsins gáfu til kynna.

17.2 Útlán, útlánareglur og lánveitingar

Útlán samstæðu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis námu um 74% af heildareignum í lok árs 2005 og 86% í lok árs 2008. Vöxtur sjóðsins á árunum 2005–2007 skýrðist að miklu leyti af auknum útlánum sem námu í árslok 2004 tæpum 50 milljörðum króna en tæpum 162 milljörðum króna í árslok 2007. Útlánaaukningu á þessu tímabili má einkum rekja til samstarfs við Íbúðalánasjóð, sem hófst í lok árs 2004, aukningar erlendra lána og útlána til fjárfestinga í hlutabréfum og til byggingaverkefna. Á árinu 2008 jukust útlán sparisjóðsins um tæpa 30 milljarða króna, fyrst og fremst vegna falls krónunnar og verðbólgu.38

Mikil hækkun var á heildarútlánum á árinu 2005 en þá hækkuðu útlán til viðskiptavina um 70% frá árinu áður.39 Í desember 2004 hófst samstarf við Íbúðalánasjóð sem fólst í því að Íbúðalánasjóður keypti greiðsluflæði af tilteknum lánum sparisjóðsins til íbúðarkaupa og byggingaframkvæmda. Íbúðalánasjóður tók á sig alla áhættu af hugsanlegum vanhöldum, en bréfin sátu áfram í útlánasafni sparisjóðsins sem annaðist innheimtu þeirra og þjónustaði lántakendurna. Á árinu 2005 keypti Íbúðalánasjóður skuldabréf með veði í ákveðnum fasteignaveðlánum sparisjóðsins. Í árslok 2005 nam bókfært verð skuldabréfanna og lána sem sparisjóðurinn hafði selt greiðsluflæðið af liðlega 13,2 milljörðum króna. Á móti þessum skuldabréfum á eignahlið efnahagsreikningsins var lántaka færð á skuldahliðina.

Á árinu 2006 hækkuðu útlán til viðskiptavina um rúmt 51% frá árinu áður og aftur var meginástæða hækkunarinnar aukning íbúðalána.40 Aukningin var minni á árinu 2007 þegar útlán til viðskiptamanna hækkuðu um 26% frá árinu áður.41 Í skýrslum sparisjóðsins til Fjármálaeftirlitsins um útlán og vanskil á árunum 2005–2008 má sjá að gengisbundin lán jukust mikið á árunum 2006, 2007 og 2008.

Í samstæðu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis voru móðurfélagið og Frjálsi fjárfestingarbankinn hf. stærstu lánveitendurnir. Í lok árs 2006 voru útlán móðurfélagsins 71,5 milljarðar króna en þá námu útlán fjárfestingarbankans 53 milljörðum króna. Frjálsi fjárfestingarbankinn sérhæfði sig í framkvæmda-, húsnæðis- og bílalánum og voru útlán hans nær eingöngu í erlendri mynt. Í árslok 2007 voru útlán SPRON-Verðbréfa hf. 4,4 milljarðar króna, útlán móðurfélagsins 90,3 milljarðar króna og útlán Frjálsa fjárfestingarbankans 63,8 milljarðar króna. SPRON-Verðbréf hf. sérhæfðu sig í verðbréfaþjónustu og veittu lán til verðbréfakaupa. Útlán nb.is-sparisjóðs hf., sem var aðallega netbanki, voru á bilinu 3–4 milljarðar króna á árunum 2005–2008.

Skuldabréf og yfirdráttarlán mynduðu stærstan hluta af útlánum samstæðu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis en í töflu 10 má sjá sundurliðun útlána eftir útlánaformi á árunum 2005–2008.

Stærstur hluti útlána Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis var til heimila, eða yfir 50%. Útlán til eignarhaldsfélaga námu 10,8% af heildarútlánum í árslok 2007 og 8,5% lok árs 2008.

Útlán til eignarhaldsfélaga voru gjarnan til kaupa á hlutabréfum með veði í bréfunum sjálfum og annarra fjárfestingaverkefna, einkum í byggingariðnaði. Fall bankanna, gengishrun á verðbréfum og samdráttur í efnahagslífi á árinu 2008 hafði mikil áhrif á gæði útlána og veða að baki þeim. Því jókst niðurfærsluþörf sparisjóðsins verulega. Niðurfærslur höfðu gjarnan verið undir 1% af heildarútlánasafni samstæðunnar, en árið 2008 námu þær tæpum 17%. Í töflu 12 má sjá niðurfærsluhlutfall útlána hjá samstæðu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis frá árinu 2005 til ársins 2008.

17.2.1 Athugasemdir eftirlitsaðila við útlánasafn Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis

Innri endurskoðun hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis kannaði reglulega ýmsa þætti í útlánasafni sparisjóðsins og dótturfélaga hans. Helstu atriði sem könnun innri endurskoðanda náði til voru vanskil útlána, aðferðir vegna sérgreindra afskrifta, vaxtakjör skuldabréfa, útlánaheimildir starfsmanna, úttekt á tryggingarvíxlum og yfirferð á fyrirgreiðslu til venslaðra aðila og starfsmanna. Þá kannaði innri endurskoðun einnig möguleika á misferli eða svikum. Samkvæmt skýrslum um innri endurskoðun vegna áranna 2005 og 2006 var ekki gerð athugun á stærstu lánþegum sparisjóðsins, en á árunum 2007 og 2008 fór innri endurskoðun sérstaklega yfir lán til stærstu lánþega samstæðunnar.

Í skýrslum innri endurskoðanda vegna áranna 2005–2008 var lítið um alvarlegar athugasemdir. Á árunum 2007 og 2008 gerði innri endurskoðun athugasemdir við útlán hjá stærstu lántakendum sparisjóðsins sem nánar er gerð grein fyrir í umfjöllun um einstaka lántakendur hér aftar.

Ytri endurskoðandi, KPMG, skoðaði skuldbindingar hjá stærstu lántakendum og vanskilaaðilum sparisjóðsins á árinu 2007. Skuldbindingar stærstu lántakenda sparisjóðsins voru án athugasemda en endurskoðandi benti á áhættu sem tengdist stærstu vanskilaaðilum sjóðsins vegna krosseignarhalds og krosstrygginga milli lántakenda. Benti ytri endurskoðandi á mikilvægi þess að fylgjast með verðmæti trygginga fyrir útlánum, sér í lagi veðum í hlutabréfum.42

Fjármálaeftirlitið gerði athugun á útlánaáhættu sparisjóðsins í september 2007. Athugunin laut að gæðum útlána, auk þess sem lagt var mat á áhættustýringu og innra eftirlit vegna þeirra. Helstu niðurstöður Fjármálaeftirlitsins voru þær að almennt væri haldið ágætlega utan um útlán hjá samstæðu sparisjóðsins. Skortur væri þó á yfirsýn yfir heildarútlán samstæðunnar og eftirfylgni með lánum til byggingaverktaka og að haldið væri sérstaklega utan um lán í erlendri mynt til innlendra aðila sem ekki hefðu tekjur í erlendri mynt. Þá var gerð sérstök athugasemd við að sparisjóðurinn tæki handveð í stofnfjárbréfum umfram 10% af heildarnafnvirði stofnfjárbréfa sparisjóðsins, og kom fram í skýrslu Fjármálaeftirlitsins að þar færi sjóðurinn ekki að lögum.43 Einnig fundust dæmi um að fyrirgreiðslur til framkvæmdastjóra SPRON-Verðbréfa hf. væru ekki teknar fyrir á stjórnarfundi. Helstu athugasemdir Fjármálaeftirlitsins beindust að SPRON-Verðbréfum og vörðuðu flestar skýrsluskil, lánareglur og önnur formsatriði hjá félaginu.44

Fjármálaeftirlitið fór sérstaklega yfir útlán með veði í verðbréfum hjá samstæðunni. Gerð var alvarleg athugasemd við að tryggingarþekja verðbréfa hefði lækkað talsvert frá árinu 2006 til ársins 2007 og væri ekki í samræmi við ákvæði í lánareglum sparisjóðsins og dótturfélaga hans. Talið var að vísbending væri um að samstæða sparisjóðsins gerði minni kröfur en áður um tryggingarþekju sem leiddi til mikillar útlánaáhættu í lánum með veði í verðbréfum. Leit Fjármálaeftirlitið svo á að þessi þróun á tryggingarþekju útlána með veði í verðbréfum væri ekki „æskileg“ samfara aukningu slíkra útlána. Jafnframt lagði Fjármálaeftirlitið áherslu á að líta bæri þröngt á undanþágur frá þeirri meginreglu lánareglnanna að almennt ætti ekki veita lán með handveði í óskráðum hlutabréfum, en talsverð aukning hafði verið í slíkum lánum þrátt fyrir ákvæði lánareglna. Þá hafði sparisjóðurinn tekið að handveði stofnfjárbréf í sjálfum sér fyrir um 14% af framreiknuðu heildarnafnverði stofnfjárbréfa í sparisjóðnum. Samkvæmt 1. mgr. 29. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki má fjármálafyrirtæki ekki taka að veði eigin hlutabréf sem nema hærri fjárhæð en 10% af nafnverði innborgaðs hlutafjár fyrirtækisins án þess að til komi samþykki frá Fjármálaeftirlitinu. Fjármálaeftirlitið taldi þessa reglu einnig gilda um stofnfjárbréf og benti sparisjóðnum á að grípa til viðeigandi aðgerða, með hliðsjón af 10. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi nr. 87/1998 og 29. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Sparisjóðurinn hafði einnig veitt lán til kaupa á stofnfjárbréfum í sjálfum sér sem námu rúmum 6% af framreiknuðu heildarnafnverði stofnfjárbréfa í sparisjóðnum, en samkvæmt 2. mgr. 29. gr. laga um fjármálafyrirtæki bar þeim að taka traustar tryggingar fyrir lánum til kaupa á eigin hlutabréfum ef lánin færu umfram 5% af nafnverði heildarhlutafjár eða stofnfjár viðkomandi fyrirtækis. Í lánareglum sparisjóðsins var almenna reglan einnig sú að veita ekki lán með handveði í stofnfjárbréfum sparisjóða og benti Fjármálaeftirlitið á að framkvæmdin bryti í bága við þá reglu. Fjármálaeftirlitið taldi mikilvægt að Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis myndi „íhuga gaumgæfilega“ þá auknu áhættu sem fælist í því að lána gegn handveði í eigin stofnfjárbréfum þar sem greiðslugeta lántakenda yrði háð verðmæti lánveitanda.45

Fjármálaeftirlitið gerði athugasemd við áhættumælingaraðferðir sparisjóðsins og þá sérstaklega að engin álagspróf hefðu verið framkvæmd eða sérstök útlánaathugun á útlánasafni samstæðunnar í heild sinni.46 Innri endurskoðandi þyrfti að gera sérstaka athugun á útlánum allrar samstæðunnar sem afhent yrði stjórn sparisjóðsins til yfirferðar til að tryggja betur heildaryfirsýn fyrir útlánaáhættu samstæðunnar. Fjármálaeftirlitið tók einnig til skoðunar alla viðskiptamenn samstæðu sparisjóðsins sem voru með áhættuskuldbindingar yfir 300 milljónum króna.47 Um athugasemdir eftirlitsins um einstaka viðskiptamenn samstæðunnar vísast til umfjöllunar um stærstu lántakendur sparisjóðsins hér aftar.

Í bréfi sem Fjármálaeftirlitið sendi Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis samhliða skýrslunni var krafist úrbóta í samræmi við efni hennar innan tiltekinna tímamarka. Fór Fjármálaeftirlitið fram á að ytri endurskoðandi sparisjóðsins yfirfæri úrbætur sjóðsins og skilaði skýrslu um hvaða breytingar hefðu verið gerðar og á hvern hátt. Þeirri skýrslu skyldi skilað til Fjármálaeftirlitsins fyrir 31. janúar 2008. Jafnframt var óskað eftir því að skýrslan yrði tekin til umfjöllunar í stjórn sparisjóðsins og fundargerð þess stjórnarfundar yrði send Fjármálaeftirlitinu.48 Skýrslan var tekin fyrir í stjórn Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis 7. nóvember 2007 og var fundargerð fundarins send Fjármálaeftirlitinu ásamt reglum um lánveitingar og ábyrgðir og viðmið um áhættudreifingu útlána, en breytingar á þessum reglum höfðu verið samþykktar á fundinum.49

Ytri endurskoðandi sendi svar við skýrslu Fjármálaeftirlitsins 8. febrúar 2008. Í svarinu kom meðal annars fram að ástæða þess að aukning hefði orðið á handveðum í óskráðum bréfum væri einkum sú að handveð hefði verið tekið í stofnfjárbréfum sparisjóðsins sjálfs en stofnfjárbréfin væru orðin skráð hlutabréf en hefðu verið óskráð þegar úttekt Fjármálaeftirlitsins fór fram. Fjármálaeftirlitið hafði einnig bent á að virði útlána með veði í verðbréfum, þar sem tryggingarþekja væri 125% eða lægri, hefði aukist til muna. Í svari ytri endurskoðanda við þessari athugasemd kom fram að starfsmenn sparisjóðsins fylgdust daglega með tryggingarþekju og kölluðu eftir viðbótartryggingum ef við ætti. Þá kom fram að í tengslum við útlán með veði í stofnfjárbréfum hefði þess verið gætt að taka veð í heildarstofnfjárbréfum viðkomandi lántakenda sem hefði valdið því að handveð í eigin bréfum hefði farið yfir leyfileg mörk, en ekki kom fram í svarinu í hverju úrbætur sparisjóðsins hefðu falist. Fjármáleftirlitið hafði einnig bent á að engin álagspróf hefðu verið framkvæmd á útlánasafni sparisjóðsins en í svari ytri endurskoðanda kom fram að álagspróf væru framkvæmd á afmörkuðum þáttum starfseminnar. Sem dæmi væri þol skoðað miðað við breytingar á gengi og fasteignaverði. Einnig væri unnið að úrbótum á þessu atriði og hefði meðal annars verið fjárfest í hugbúnaði til að auðvelda framkvæmd álagsprófa á útlánasafni samstæðunnar. Varðandi athugasemd Fjármálaeftirlitsins um að ekki væri haldið sérstaklega utan um gengisbundin útlán til aðila sem ekki hefðu tekjur í erlendri mynt kom fram í svari ytri endurskoðanda að lántakendur með gengisbundin útlán væru í flestum tilvikum með tekjur í íslenskum krónum. Eftirlit af hálfu sparisjóðsins fælist því í álagsprófum á heildarsafni útlána í erlendri mynt. Í svari ytri endurskoðanda kom enn fremur fram að lánareglur SPRON-Verðbréfa hf. hefðu verið samþykktar í stjórn félagsins 14. nóvember 2007. Hefði meðal annars verið fellt úr þeim ákvæði um að lánanefnd skyldi koma saman að minnsta kosti vikulega og í stað þess sett inn ákvæði um að hún skyldi koma saman svo oft sem þurfa þætti. Fjármálaeftirlitið hafði einnig gert athugasemd við að kjör viðskipta SPRON-Verðbréfa hf. við tengda aðila hefðu ekki verið tilgreind með fullnægjandi hætti. Í svari ytri endurskoðanda við þeirri athugasemd kom fram að upplýsingar í umræddri skýrslu hefðu verið uppfærðar í samræmi við tilmæli Fjármálaeftirlitsins.50

17.2.2 Útlánareglur

Stjórn Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis samþykkti útlánareglur 1. desember 2004 á grundvelli laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. og reglur nr. 531/2003 um stórar áhættuskuldbindingar. Reglur um framkvæmd starfa stjórnar og sparisjóðsstjóra voru samþykktar 20. desember 2003.51 Lánareglurnar voru endurbættar tvívegis á árinu 2007 á grundvelli reglna nr. 216/2007 um stórar áhættuskuldbindingar.52

Samkvæmt útlánareglum sparisjóðsins átti stjórn að fara yfir stærstu skuldbindingar viðskiptamanna sparisjóðsins tvisvar á ári. Miðað var við að skuldbinding vegna einnar atvinnugreinar færi ekki yfir 30% af heildarútlánum sparisjóðsins og var almenna reglan sú að heildarskuldbindingar einstakra viðskiptavina eða tengdra aðila skyldu ekki fara yfir 20% af eigin fé samkvæmt næstliðnu endurskoðuðu uppgjöri sparisjóðsins, útreiknað samkvæmt reglum um eiginfjárhlutfall lánastofnana nr. 693/2001.53 Í eldri útgáfum lánareglnanna voru stærstu skuldarar skilgreindir sem aðilar með heildarskuldbindingu yfir 4% af eigin fé en í nýjustu útgáfunni var talað um 10% af eigin fé.54 Ósamræmi var á milli reglna um það hvað teldust vera stórir skuldarar (sjá töflu 13).55 Í reglunum um framkvæmd starfa stjórnar og forstjóra sparisjóðsins var miðað við að ef skuldbinding næði 5% af eigin fé sparisjóðsins væri um stóran skuldara að ræða en í handbók áhættustýringar frá árinu 2004 var miðað við 4% eða meira af eigin fé sparisjóðsins.56 Samkvæmt lánahandbók frá 10. júlí 2007 töldust þeir hins vegar til stærstu skuldara sem voru með heildarskuldbindingar yfir 10% af eigin fé sparisjóðsins eins og það var skilgreint í 84. gr. laga nr. 161/2002. Eftir ábendingu frá Fjármálaeftirlitinu var hlutfallinu breytt í 2,5% árið 2008.57

Heildarskuldbindingar stærstu skuldara samanlagt máttu ekki vera meiri en fjórfalt eigið fé sparisjóðsins. Stjórn sparisjóðsins var þó heimilt að víkja frá þessari reglu með bókun í gerðabók og heimila skuldbindingar upp að þeim mörkum sem löggjafinn setti.58

Meginreglan var sú að við ákvörðun um útlán skyldi meta áætlaða greiðslugetu lánþega, framboðnar tryggingar og viðskipti við sparisjóðinn með það fyrir augum að tryggja sem best að lántaki gæti staðið við skuldbindingar sínar.59 Sérstaklega var tekið fram að skuldbreytingar, þar með taldar skilmálabreytingar, skyldu ávallt fá ítarlega umfjöllun þar sem greiðslugeta, tryggingar og heildarskuldir væru kannaðar til hlítar, og að litið skyldi á skuldbreytingu sem nýja lánveitingu.60

Tryggingakaflinn var ítarlegur og í nýjustu útgáfu útlánareglnanna skiptist hann annars vegar í lán í íslenskri mynt og hins vegar í lán í erlendri mynt. Ekki var þó munur á efnisreglum vegna íslenskra og erlendra lána. Að jafnaði skyldu teknar ásættanlegar tryggingar vegna skuldbindinga sem stofnað var til. Lánveitingar sem ekki voru tryggðar með veði skyldu almennt ekki vera til lengri tíma en fimm ára. Gæta skyldi fyllstu varúðar varðandi veðhlutfall og miða við aðstæður í hverju tilviki sérstaklega ef um var að ræða stöðutöku, til dæmis í hlutabréfum og afleiðum, nema í hlut ættu mjög fjársterk fyrirtæki. Eins bar að fylgjast reglulega með verðmæti trygginga á lánstímanum.61

Lán án sérstakra trygginga til fyrirtækja kröfðust ítarlegrar könnunar á rekstri þeirra og skoðunar á stjórnendum. Þá þurfti jafnframt að skila inn ársuppgjöri félagsins, undirrituðu af löggiltum endurskoðanda.62

Veðsetningarhlutfall íbúðarhúsnæðis mátti mest vera 80% af matsverði og aldrei meira en 100% af brunabótamati nema til kæmu auknar tryggingar.63 Veðsetningarhlutfall atvinnuhúsnæðis mátti vera allt að 70% af verðmati.64 Veðsetningarhlutfall viðskiptakrafna mátti vera allt að 75% af fjárhæð krafna að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.65 Lánveiting gegn skuldabréfum gat numið allt að 60% af verðmæti bréfanna.66

Almennt mátti ekki lána gegn veði í óskráðum bréfum og bar að leggja ákvarðanir um undanþágur fyrir lánanefnd. Veðsetning á skráðum bréfum mátti ekki fara yfir 80% og á óskráðum en seljanlegum, traustum, innlendum fyrirtækjum ekki yfir 60%. Ekki var þó tilgreint í lánareglunum hvort um væri að ræða hlutfall af kaupverði eða matsverði í óskráðum bréfum. Verðmæti óskráðra bréfa bar að meta sérstaklega.67 Ný regla bættist við árið 2007 um að almennt mætti ekki veita lán gegn handveði í stofnfjárbréfum. Útibússtjóri eða lánanefnd gat vikið frá þessu.68 Greiðslugetu, eignastöðu og viðskiptasögu sjálfskuldarábyrgðaraðila bar að meta með sama hætti og hjá aðalskuldara.69

Reglur um hæfi starfsmanna til lánveitinga tóku til fjárhagslegrar stöðu viðkomandi starfsmanns og fjölskyldutengsla. Starfsmenn sem voru í vanskilum við sparisjóðinn eða aðrar lánastofnanir eða bjuggu við mjög erfiða fjárhagsstöðu skyldu ekki hafa útlánaheimild. Þá máttu starfsmenn ekki veita viðskiptamanni lán eða hafa afskipti af lánveitingum ef viðskiptavinur var maki, foreldri, systkini, systkini maka eða barn þeirra.70 Í fyrri útgáfum útlánareglnanna var jafnframt tiltekið að starfsmaður væri vanhæfur til að fara með mál lántaka ef tengsl starfsmanns við viðskiptamann væru þess eðlis að almennt mætti draga óhlutdrægni hans í efa. Það ákvæði var ekki að finna í nýjustu útgáfu lánahandbókarinnar frá árinu 2007.

Sparisjóðsstjóri hafði heimild til að lána allt að 10% af eiginfjárgrunni samstæðu sparisjóðsins til eins aðila eða fjárhagslega tengdra aðila. Hærri útlán þurfti að bera undir stjórn en þó mátti heildarfyrirgreiðsla sparisjóðsins ekki fara yfir 25% af eiginfjárgrunni.71 Þær lánveitingar bar að færa í gerðabók stjórnar. Í útgáfu lánahandbókarinnar frá 2007 kom fram að 25% reglan ætti ekki við um millibankalán, ríkisverðbréf og kaup á stöðluðum markaðsbréfum á Verðbréfaþingi og álíka tryggum verðbréfum.72 Fjármálaeftirlitið gerði athugasemd við þetta ákvæði og benti á í skýrslu sinni um útlánaáhættu hjá sparisjóðnum að slíkt væri í andstöðu við reglur nr. 216/2007 um stórar áhættuskuldbindingar. Sparisjóðurinn svaraði því til að breyting yrði gerð á reglunum til samræmis við athugasemdir Fjármálaeftirlitsins.73 Það var gert með uppfærslu lánahandbókarinnar í júní 2008.

Með útgáfu lánareglnanna frá ágúst 2007 kom inn nýtt ákvæði sem færði framkvæmdastjóra sérgreinda heimild til að lána allt að 100 milljónum króna.74 Útlánum umfram þær heimildir sem sparisjóðsstjóri veitti starfsmönnum bar að vísa til lánanefndar.75

Sparisjóðsstjóri hafði einn umboð til allra lánveitinga allt að 10% af eiginfjárgrunni. Sparisjóðsstjórn hafði eftirlit með lánamálum sparisjóðsins og bar ábyrgð á þeim en lánanefndin starfaði í umboði sparisjóðsstjóra. Lánanefnd átti að taka til afgreiðslu allar láns- eða fyrirgreiðslubeiðnir frá þeim stafsmönnum sem höfðu útlánaheimildir þegar þær beiðnir fóru umfram heimildir viðkomandi starfsmanns. Í lánanefnd sátu sparisjóðsstjóri, framkvæmdastjóri sparisjóðsins (staðgengill sparisjóðsstjóra), framkvæmdastjóri fjárhagssviðs, staðgengill framkvæmdastjóra og forstöðumaður áhættustýringar. Þó hugtökin væru ekki sérstaklega skilgreind í lánahandbókinni bar líka að leggja fyrir lánanefnd „óvenjulega fjármögnun“ eða „sérstaka áhættutöku“ áður en gengið væri til samninga.76 Lánanefndin var hugsuð sem vettvangur til að vinna úr málum og samræma vinnubrögð og áherslur í stefnum og einstökum málum.77 Nefndin hafði hins vegar engar formlegar útlánaheimildir samkvæmt reglum sjóðsins.

Fjárhæð útlánaheimilda miðaðist við samtölu fyrirliggjandi lánsumsóknar og heildarskuldbindingar viðkomandi lánþega og tengdra aðila. Félög innan samstæðu voru talin fjárhagslega tengd, auk fyrirtækja þar sem önnur atriði ættu að gera það að verkum að fjárhagslegir erfiðleikar eins gætu haft áhrif á greiðslustöðu annars.78 Tafla 14 sýnir þá starfsmenn sem höfðu heimild til að samþykkja og afgreiða lánveitingar, þar á meðal skuldbreytingar, framlengingar og ábyrgðir.

Fjármálaeftirlitið taldi í eftirlitsskýrslu um athugun á útlánaáhættu sparisjóðsins að útlánaheimildir væru almennt ágætlega skilgreindar í lánareglum sparisjóðsins.79

Útibússtjóra bar að fylgjast með útlánum og innheimtustjóri skyldi gera mánaðarlegt yfirlit um stöðu og þróun vanskila.80 Samkvæmt reglunum bar sérfræðingur Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis í fasteignaviðskiptum ábyrgð á fullnustu veðkrafna í samráði við útibússtjóra. Ekki var að finna reglur um sölu annarra fullnustueigna en fasteigna í nýjustu útgáfu reglnanna en í eldri handbók var að finna ákvæði um sölu á fasteignum, skipum, verðbréfum og hvers konar lausafé.81

Að öllu jöfnu var óheimilt að gefa eftir vexti og dráttarvexti þannig að bókfærð staða kröfunnar yrði lægri en hún var um næstliðin áramót. Þó voru gerðar undantekningar þar sem útibússtjóra og framkvæmdastjóra voru gefnar tilteknar heimildir en lánanefnd hafði heimild til að gefa eftir höfuðstól, vexti, dráttarvexti og kostnað.82 Hvorki er getið um heimildir sparisjóðsstjóra né sparisjóðsstjórnar í þessum efnum.

Sérstök framlög á afskriftareikning útlána skyldi færa ársfjórðungslega og jafnframt gera tillögur að endanlegum afskriftum. Stjórn bar að staðfesta endanlegar afskriftir umfram 10 milljónir króna, sem og heildartölur afskrifta.83

17.2.3 Áhættustýring

Hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis var í gildi handbók um áhættustýringu sem skilgreindi þá áhættu sem gæti steðjað að daglegri starfsemi sparisjóðsins, greindi hana í áhættuþætti og upplýsti starfsmenn um áhættu og varnir gegn henni í rekstri sparisjóðsins. Reglur sparisjóðsins um áhættustýringu tóku mið af gildandi lögum, leiðbeinandi tilmælum og reglum Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands.

Um ábyrgð stjórnar og sparisjóðsstjóra sagði áhættustýringarhandbókin að stjórn sparisjóðsins bæri ábyrgð á starfsemi hans og skyldi sjá til þess að á hverjum tíma væri farið að gildandi lögum og reglum varðandi reksturinn. Stjórn sparisjóðsins bar meðal annars að sjá til þess að virkt innra eftirlitskerfi væri til staðar og því viðhaldið reglulega. Sparisjóðsstjóri bar ábyrgð á að reglum um áhættustýringu innan sparisjóðsins væri framfylgt. Hann skyldi sjá til þess að gripið yrði til viðeigandi ráðstafana til að greina, meta og mæla áhættuþætti í daglegri starfsemi sparisjóðsins, ásamt stýringu á áhættu hans. Sparisjóðsstjóra bar að viðhalda skipuriti sem tilgreindi ábyrgðarsvið og heimildir starfsmanna hverju sinni.

Áhættustýringarhópur hafði meðal annars það hlutverk að móta, skrá og framfylgja stefnu um heildaráhættu sparisjóðsins hverju sinni og koma á fót eftirlitskerfi og ferli við mat á

áhættu.84 Áhættustýringarhópur átti að uppfræða stjórnina með reglulegu millibili um áhættutöku sparisjóðsins og yfirfara reglulega sett viðmið og mörk áhættuþátta.

Í handbók áhættustýringar var fjallað um útlánaáhættu. Útlánaáhætta fól í sér mat á mögulegu tapi vegna vanhæfni eða tregðu viðskiptamanna til að mæta skuldbindingum sínum í framtíðinni. Sérstaklega var tekið fram í handbókinni að lækkandi markaðsverð skráðra verðbréfa í kauphöll félli einnig undir útlánaáhættu sparisjóðsins. Fram kom að mögulegt væri fyrir sparisjóðinn að minnka útlánaáhættu með lánshæfismati við ákvörðun útlána hverju sinni. Ekki tíðkaðist þó hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis að framkvæma sérstaka lánshæfisflokkun eða áhættuflokkun við veitingu útlána.85

Um framkvæmd lánveitinga og hámark fyrirgreiðslna til viðskiptamanna var vísað til útlánareglna sparisjóðsins og fjallaði handbók áhættustýringar því ekki nánar um útlánaframkvæmd umfram það sem fram kom í lánareglum sparisjóðsins. Útlánamarkmið sparisjóðsins voru að eðlilegur tekjuafgangur yrði af rekstri hans svo að markmiðum um arðsemi eigin fjár á hverjum tíma yrði náð. Við ákvörðun um lánveitingar skyldi ávallt gæta varfærni og fara fram raunmat á tryggingum. Þó var heimilt að víkja frá þessu ef fyrirliggjandi upplýsingar sýndu að ekki væri þörf á sérstökum tryggingum.

Reglulega átti að gera yfirlit um stærstu lánþega og stærstu vanskilaaðila sparisjóðsins og leggja fyrir lánanefnd eða stjórn, og yrði þannig haldið uppi eftirliti með útlánaáhættu. Áhættustýringu eða innri endurskoðun bar að gera stjórn sparisjóðsins viðvart ef framkvæmd lánamála væri ekki í samræmi við lánastefnu eða lánareglur.

Ársfjórðungslega bar sparisjóðsstjóra að leggja fyrir stjórn sparisjóðsins töluleg yfirlit yfir skuldbindingar aðila sem námu 4% eða meira af eiginfjárgrunni sparisjóðsins.86 Með þessum yfirlitum skyldu fylgja upplýsingar um framlög í afskriftareikning útlána vegna þessara skuldbindinga. Þá bar að gera stjórn sparisjóðsins grein fyrir því ef veruleg fjárhagsleg veikleikamerki væru komin fram hjá viðskiptamanni án þess að ástæða teldist til að leggja fé í afskriftareikning vegna hans. Þá skyldi stjórninni enn fremur gerð grein fyrir framlögum í afskriftareikning útlána og stöðu hans.

Lánaeftirlit með einstökum málum var í höndum útlánastýringar en sparisjóðsstjóri bar ábyrgð á að farið væri eftir útlánareglum og reglum um áhættustýringu. Áhættustýringarhópur átti að hafa yfirlit yfir samsetningu heildarútlána sparisjóðsins á hverjum tíma og koma með athugasemdir ef útlán færu umfram heimildir. Útlánastýring, sem samkvæmt handbók um áhættustýringu var undir stjórn Páls Árnasonar, átti að hafa eftirlit með því að lánareglur sparisjóðsins væru virtar af starfsmönnum og að viðskiptavinir væru metnir með tilliti til greiðslugetu við lánveitingu. Útlánastýringu, innra eftirliti og lánveitendum í útibúum sparisjóðsins bar að leita til áhættustýringar ef talin væri ástæða til, til dæmis vegna stærðar lánasamnings, trygginga eða annarra mála.87

Eins og fram kom í kafla 17.2.1 gerði Fjármálaeftirlitið athugasemd við að eftirlit með útlánaáhættu samstæðu sparisjóðsins væri ábótavant og að áhættumæling væri ekki virk hjá sparisjóðnum.

17.2.4 Útlánareglur Frjálsa fjárfestingarbankans hf.

Sérstakar lánareglur giltu um lánveitingar Frjálsa fjárfestingarbankans hf. Fyrstu reglurnar voru frá 10. mars 2003 en voru síðar uppfærðar 12. febrúar 2004 og var þar sérstaklega fjallað um afgreiðslu lánsumsókna með veði í fasteignum.88

Lánareglurnar gerðu ráð fyrir lánanefnd í bankanum sem skipuð væri framkvæmdastjóra, forstöðumanni útlána og tveimur þjónustufulltrúum. Lánanefndin hafði meðal annars það hlutverk að afgreiða lánsumsóknir innan sinna heimilda, umsóknir um skuldskeytingar, skilmála- og veðbreytingar vegna áður veittra lána o.fl.89 Lánanefnd hafði heimild til að samþykkja veðtryggð fasteignalán og lán vegna nýbygginga allt að 50 milljónum króna en lán umfram þá fjárhæð og allt að 10% af eiginfjárgrunni bankans skyldi framkvæmdastjóri samþykkja. Lánveitingar umfram 10% af eiginfjárgrunni bankans bar að leggja fyrir stjórn til samþykktar.90

Lán og ígildi lána til einstakra viðskiptamanna og fjárhagslega tengdra aðila máttu ekki nema hærri fjárhæð en 25% af eiginfjárgrunni bankans. Leggja bar mat á arðsemi fjárfestinga þegar um var að ræða fjármögnun á verulegum fjárfestingum með hliðsjón af umfangi rekstrar viðkomandi viðskiptamanns. Áhersla skyldi lögð á að taka fullnægjandi tryggingar, kvaðabinda eignir og semja um uppsagnarákvæði tengd skilyrðum um fjármögnun og rekstur. Jafnframt bar að taka mið af markmiðum um dreifingu áhættu og fylgjast vel með fjárhagsstöðu viðskiptavina.91

Heimilt var að lána að hámarki 80% af verðmati íbúðarhúsnæðis, 60% af verðmati atvinnuhúsnæðis og í sérstökum tilvikum 75%. Þegar um var að ræða íbúðarhúsnæði var heimilt að lána að 80% af framkvæmdakostnaði eða 65% af verðmati framkvæmda. Þegar um atvinnuhúsnæði var að ræða var heimilt að lána 75% af framkvæmdakostnaði eða 60% af verðmati framkvæmda.92

Í lánareglum Frjálsa fjárfestingarbankans hf. voru ekki ákvæði um lán til starfsmanna þrátt fyrir að starfsreglur stjórnar gerðu ráð fyrir að slíkar reglur væru settar. Þó skal bent á að samkvæmt lánareglum Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis bar starfsmönnum dótturfélaga sparisjóðsins að fylgja þeim reglum og setja sér sambærilegar reglur. Fjármálaeftirlitið gerði athugasemd við það í úttekt á útlánahættu samstæðu sparisjóðsins haustið 2007 að ekki hefðu verið settar slíkar reglur. Samkvæmt skýrslu sem sparisjóðurinn skilaði til Fjármálaeftirlitsins vegna athugasemda í kjölfar könnunarinnar var reglum um lán til starfsmanna bætt inn í lánahandbók og þær samþykktar af stjórn bankans 6. febrúar 2008.93

17.2.5 Útlánareglur SPRON-Verðbréfa hf.

Fyrir liggja útlánareglur SPRON-Verðbréfa hf. frá desember 2006 en þær voru ekki undirritaðar af stjórn og ekki verður séð af stjórnarfundargerðum SPRON-Verðbréfa hf. að fjallað hafi verið um þær eða þær samþykktar. Fram kom í fundargerð stjórnar SPRON-Verðbréfa hf. að lánareglurnar hefðu verið lagðar fram í drögum á fundi 14. mars 2007. Stjórnin hefði ætlað að yfirfara reglurnar og samþykkja í framhaldi af því en slíkt var ekki bókað í síðari fundargerðum SPRON-Verðbréfa hf. Fjármálaeftirlitið gerði alvarlega athugasemd við að ekki skyldi vera bókað í fundargerð að stjórn hefði samþykkt umrædd drög að lánareglum frá desember 2006.94

Útlánareglur SPRON-Verðbréfa hf. voru sambærilegar við eldri útgáfur lánahandbóka Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis. Þó var í lánareglum SPRON-Verðbréfa hf. miðað við að aðili teldist til stærstu skuldara ef skuldbinding hans nam 7% af eiginfjárgrunni.95

Samkvæmt útlánareglunum hafði stjórn eftirlit með lánamálum og bar ábyrgð á þeim og framkvæmdastjóri bar ábyrgð á lánastarfsemi félagsins gagnvart stjórn.96 Framkvæmdastjóri hafði heimild til að lána til eins aðila eða fjárhagslega tengdra aðila allt að 10% af eigin fé SPRON-Verðbréfa hf. Ef skuldbindingin var hærri en 10% af eiginfjárgrunni félagsins bar að leita samþykkis lánanefndar.97 Samkvæmt lánareglunum bar lánanefnd að koma saman einu sinni í viku eða oftar ef ástæða væri til. Fjármálaeftirlitið gerði athugasemd við að nefndin hefði aðeins fundað sex sinnum á árinu 2007 og hefði á fundum sínum aðeins fjallað um einstakar lánveitingar en ekki stærstu lánamálin, stefnu í útlánamálum, þróun vanskila, málefni varðandi innheimtur og endurgreiðslur lána, lánamörk, endurskoðun viðskiptakjara eða yfirferð yfir stærstu skuldara eins og henni bar að gera samkvæmt lánareglunum.98

Samkvæmt lánareglunum bar stjórn SPRON-Verðbréfa hf. að taka ákvarðanir um lán ef heildarskuldbinding lántakanda var „umfram 25% af CAD eigin fé SPRON“.99 Heildarskuldbinding viðskiptamanns mátti þó aldrei fara yfir 20% af eigin fé SPRON-Verðbréfa hf. samkvæmt lánareglunum. Lánanefnd gat þó lánað „allt að 25% af eigin fé, samkvæmt reglum Fjármálaeftirlitsins nr. 531/2003 um stórar áhættuskuldbindingar“. Færu lán umfram þau mörk þurfti að lækka það hlutfall með sérstökum ábyrgðarsamningi við Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis.100

Meginreglan var sú að ekki mátti gera samninga við einstaka aðila fyrir hærri fjárhæð en sem nam 20% af bókfærðu eigin fé SPRON-Verðbréfa hf. á hverjum tíma. Lánanefnd gat þó vikið frá þessu hámarki teldi hún tryggingar mjög góðar.101

Við hverja lánveitingu bar að leggja mat á rekstur, efnahag og greiðslugetu rekstraraðila, svo og tryggingarstöðu.102 Skuldbreytingar áttu alltaf að fá ítarlega umfjöllun þar sem greiðslugeta, tryggingar og heildarskuldir voru kannaðar til hlítar. Litið var á skuldbreytingu sem nýja lánveitingu og lánastjóra bar að leita samþykkis lánanefndar ef lánveitingin féll utan útlánaheimilda hans.103

Við útreikning á veðsetningarhlutfalli húsnæðis var almenna reglan sú að miða við verðmat frá viðurkenndum löggiltum fasteignasala eða löggiltum matsmanni, sem SPRON-Verðbréf hf. samþykkti. Ekki var tilgreint hámark veðsetningarhlutfalls af matsverði íbúðarhúsnæðis en þó mátti veðsetning aldrei vera meiri en 100% af brunabótamati. Veðsetningarhlutfall atvinnuhúsnæðis mátti nema allt að 55% af verðmati.104 Hámarksveðsetningarhlutfall óskráðra verðbréfa var 60% en 80% af skráðum bréfum.105 Óheimilt var að veita lán með handveði í stofnfjárbréfum en lánastjóri, framkvæmdastjóri eða lánanefnd gátu veitt undanþágu frá þeirri reglu.106 Veðsetningarmörk ríkisskuldabréfa og innistæðna voru 95% og skuldabréfa 60%.107

Sérstök framlög í afskriftareikning útlána bar að ákveða árlega og sömuleiðis áttu lánastjóri, innheimtustjóri og framkvæmdastjóri að koma með tillögur að endanlegum afskriftum. Stjórn staðfesti einstakar afskriftir umfram 10 milljónir króna og heildartölur.108

17.2.6 Stærstu lántakendur

Rannsóknarnefndin valdi úrtak stærstu lántakenda sparisjóðsins til sérstakrar skoðunar og greiningar með það að markmiði að varpa ljósi á útlánastefnu sjóðsins og ástæður fyrir afskriftum útlána. Kannað var hvort útlánastarfsemi hefði verið í samræmi við reglur sjóðsins og gildandi lög og reglur.

Skýrslum um stórar áhættuskuldbindingar sem skila bar til Fjármálaeftirlitsins ársfjórðungslega samkvæmt reglum nr. 216/2007 var ætlað að varpa ljósi á áhættu fjármálafyrirtækis af útlánum og öðrum slíkum skuldbindingum og aðstoða við áhættustýringu. Til grundvallar umfjölluninni liggja skýrslur sparisjóðsins um stórar áhættuskuldbindingar fyrir árin 2007 og 2008. Þær voru gerðar á samstæðugrundvelli og því er fjallað um útlánasafn samstæðunnar í heild en jafnan tilgreint hvort lánið hafi verið veitt af Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, SPRON-Verðbréfum hf. eða Frjálsa fjárfestingarbankanum hf.109

Úrtak stærstu lántakenda miðaðist við þessar stærstu skuldbindingar sjóðsins. Til viðbótar þeim komu til skoðunar aðilar sem voru með sérgreint framlag í afskriftareikning umfram 300 milljónir króna hjá sparisjóðnum í lok árs 2008. Þar sem niðurfærsluhlutfall útlánasafnsins var lágt fram til ársins 2008 var ekki talin ástæða til að fara lengra aftur í athugun á stórum niðurfærslum.

Umfjöllunin beinist að lántökum í úrtakinu og aðilum fjárhagslega tengdum þeim, eins og sparisjóðurinn mat tengsl þeirra og skilgreindi sem sameiginlega áhættuskuldbindingu í skýrslum til Fjármálaeftirlitsins. Skoðaðar voru helstu lánveitingar til þessara lánahópa110 á árunum 2005 til 2008 og heildarskuldbindingar þeirra í árslok 2008. Kannað var hvort útlánastarfsemi samstæðunnar hefði verið í samræmi við lánareglur sparisjóðsins og dótturfélaga hans. Umfjöllunin er ekki tæmandi en er ætlað að gefa mynd af útlánasafni Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis.

Í úrtakinu voru 29 lánahópar og nam fyrirgreiðsla til þeirra samtals 20,3 milljörðum króna í lok árs 2007 eða um 12,4% af heildarútlánum. Stærð úrtaksins miðað við árslok 2008 var 43,7 milljarðar króna, eða 19,2% af heildarútlánum samstæðu sparisjóðsins. Á sama tíma námu sérgreindar niðurfærslur vegna aðila í úrtakinu 67,2% af sérgreindum niðurfærslum sparisjóðsins í heild.111 Rétt er að geta þess að upplýsingar um sérgreind framlög í afskriftareikning 2008 byggja á óendurskoðuðu uppgjöri sparisjóðsins.

Í umfjölluninni er fjallað um hversu stór skuldbinding lántakanda var í lok árs 2008 miðað við eiginfjárgrunn sparisjóðsins eins og hann var metinn 31. október það ár. Þetta er vegna þess að eiginfjárgrunnur sparisjóðsins var orðinn neikvæður í árslok og því mæltist Fjármálaeftirlitið til þess að sparisjóðurinn notaði tölur frá því í október sem viðmið í skýrslum um stórar áhættuskuldbindingar í lok árs 2008.112

Útlán til aðila í úrtakinu hækkuðu um 23,4 milljarða króna, eða um 116% frá árslokum 2007 til ársloka 2008 og má að stórum hluta rekja hækkunina til gengisfalls íslensku krónunnar á þessu tímabili. Á sama tíma rýrnuðu veð mikið, einkum verðmæti hlutabréfa og stofnfjárbréfa. Auk þess varð lækkun og ákveðin stöðnun á fasteignamarkaði hérlendis. Endurspeglaðist þetta í auknum framlögum í afskriftareikning sparisjóðsins þar sem algengt var að tryggingar fyrir lánum væru í formi fasteigna eða verðbréfa.

Í lánareglum Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis frá maí 2006 komu fram viðmið um veðsetningarhlutföll vegna trygginga fyrir útlánum. Þannig átti veðsetningarhlutfall vegna lána með veði í skráðum hlutabréfum að vera innan við 80%. Almenna reglan var að veita ekki lán með handveði í óskráðum hlutabréfum en allar ákvarðanir um slíkt skyldu teknar í lánanefnd. Væru slík lán veitt, skyldi veðsetningarhlutfall vera innan við 60% ef um traust innlend fyrirtæki væri að ræða. Lánanefnd var þó alltaf heimilt að víkja frá þessum reglum og gat auk þess veitt lán án trygginga til fyrirtækja í góðum rekstri. Þannig samþykkti lánanefnd SPRON-Verðbréfa hf. að veita Eignarhaldsfélaginu Samvinnutryggingar (síðar Gift fjárfestingarfélag ehf.) eingreiðslulán í erlendri mynt að jafnvirði rúmlega 1 milljarðs króna gegn veði í hlutabréfum í Exista hf., Straumi-Burðarási hf. og Saga Capital hf. með 100% veðsetningarhlutfalli. Eigið fé Giftar fjárfestingarfélags í árslok 2007 var rúmir 19 milljarðar króna. Í lok árs 2008 nam heildarskuldbinding Giftar fjárfestingarfélags ehf. 1.444 milljónum króna og var öll sú fjárhæð færð í afskriftareikning sparisjóðsins 31. desember 2008.

Hér á eftir fer umfjöllun um tólf lánahópa hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis sem rannsóknarnefndin taldi ástæðu til að fjalla nánar um til að varpa nánara ljósi á útlánastarfsemi sparisjóðsins. Farið verður yfir helstu lánveitingar til umræddra aðila, hvort þær voru í samræmi við lánareglur og gildandi lög og reglur á fjármálamarkaði og fjallað um mat sparisjóðsins á afskriftaþörf vegna þeirra. Skoðun á öðrum lánahópum í úrtakinu gaf ekki tilefni til sérstakrar umfjöllunar.

Brautarholt 20 ehf. og tengdir aðilar

Brautarholt 20 ehf. og tengdir aðilar voru stærsta áhættuskuldbinding sparisjóðsins á samstæðugrundvelli á árunum 2006–2008. Lánahópurinn átti og rak ýmsar fasteignir á Íslandi en sum félögin sinntu öðrum verkefnum og fjárfestingum. Brautarholt 20 ehf. var að jöfnu í eigu stjórnarformanns félagsins og framkvæmdastjóra þess. Þá áttu þeir báðir hluti í félögunum Skjólvangi ehf. og Streng Byggingum ehf. en framkvæmdastjórinn átti til viðbótar hluti í Parketi ehf., Málmsteypu Ámunda Sigurðs ehf., Tjarnarvöllum 5 ehf. og Árbakka ehf. Félögin Arnarsmári ehf. og Fasteignasölusérleyfi ehf. (Remax) voru í eigu stjórnarformannsins og viðskiptafélaga hans en þeir tengdust einnig í gegnum Streng fjárfestingar ehf., og fleiri félög.

Upphaf viðskipta Brautarholts 20 ehf. og tengdra aðila má rekja aftur til ársins 2005 þegar Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis og Frjálsi fjárfestingarbankinn hf. fjármögnuðu með erlendum lánum kaup félagsins á landspildu í Hnoðraholti í Garðabæ og fasteignum á svokölluðum Brautarholtsreit í Reykjavík. Lánin voru tryggð með veði í fasteignunum og var fjármögnunin um 70% af kaupverði eða innan marka þeirra veðsetningarhlutfalla sem lánareglur tilgreindu. Á árunum 2007 og 2008 hækkaði skuldbinding lánahópsins töluvert og var hópurinn orðinn mjög stór lántaki hjá sjóðnum. Í skýrslu um innri endurskoðun vegna ársins 2007 kom fram ábending um stærð lánahópsins og áhættuna sem hefði skapast vegna útlána sparisjóðsins til Brautarholts 20 ehf. og tengdra aðila:

Að lokum vil ég benda á að áhætta við einstaka lánveitingar er meiri en oft áður, þar sem krosseignarhald og krosstryggingar eru mun meiri en áður. Vil ég þá minnast sérstaklega á Brautarholt 20 ehf., en þar eru 10 kennitölur á bak við lánveitingu og mikið af krossveðum.113

Stjórn Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis samþykkti 28. mars 2007 að veita Skjólvangi ehf.114 og tengdum aðilum lánafyrirgreiðslu fyrir allt að 1.450 milljónir króna og var eftirfarandi bókað í fundargerð stjórnar:

Sparisjóðsstjóri fór fram á heimild til að veita Skjólvangi og tengdum aðilum lánafyrirgreiðslu fyrir allt að 1.450 millj.kr. Þessi fyrirgreiðsla nær til margra aðskilinna verkefna sem eru sjálfstæð mál hvert fyrir sig og byggja á góðum tryggingum. Þetta var samþykkt.

Tveimur vikum síðar voru lánamörk lánahópsins hækkuð á ný. Lánanefnd sparisjóðsins samþykkti ný lán til Strengs fjárfestinga ehf. 12. apríl 2007 vegna kaupa á Remax sérsöluleyfum sem tryggð voru með hlutum í Norðurhlíð fasteignafélagi ehf. og Streng byggingum ehf.:

Óskað er eftir lánamörkum á félagið vegna kaupa á Remax sérsöluleyfum í Evrópu, um er að ræða 49% hlut í Remax London, 51% hlut í Remax UKSouth og 50% hlut í Remax-Baltic og Remax Finnland. SPRON fer með 40% eignarhlut í Streng Fjárfestingum ehf. þar sem Steinsnes dótturfélag SPRON er eigandi þess hlutar í félaginu, […]. Heildarþörf á fjármögnun á árinu er því 1.000.000 pund til viðbótar við það sem félagið er með í yfirdráttarskuld sem færð verður yfir í lánssamning. Tryggingar eru handveð í eignarhlutum [stjórnarformannsins og viðskiptafélaga hans] í Norðurhlíð fasteignafélagi ehf. og Streng byggingum ehf., Fyrirtækjaráðgjöf SPRON hefur unnið verðmat á þessum eignarhlutum og metið [þá] samtals á kr. 236 mkr. Lánamörk félagsins óskast sett 200 mkr. til 04.04.08. Þetta félag er að hluta í eigu dótturfyrirtækja SPRON.115

Brautarholt 20 ehf. og Skjólvangur ehf. voru sameinuð í júní 2007 og var lánum sparisjóðsins til Skjólvangs ehf., þá samtals um 150 milljónum króna, skuldskeytt á Brautarholt 20 ehf.

Stjórnarfundur 22. september 2007 samþykkti samtals tæplega 2,6 milljarða króna lánamörk fyrir Brautarholt 20 ehf. og tengda aðila til 15. september 2008. Fram kom á stjórnarfundinum að heildarútlán til lánahópsins væru 14,4% af eiginfjárgrunni en að öllu jöfnu væri stefnan sú að fara ekki yfir 10% af eigin fé við lánveitingar til tengdra aðila. Í reglum sjóðsins um mál sem heyrðu undir ákvörðunartöku stjórnar var kveðið á um að fyrirgreiðsla til tengdra félaga mætti hæst nema 10% af eiginfjárgrunni sparisjóðsins. Eftirfarandi bókun var staðfest af stjórn á fundinum:

Útlán SPRON sparisjóðs til Brautarholts 20 ehf. og tengdra aðila eru kr. 1.606.914.000, miðað við 18. september 2007. Óskað hefur verið eftir auknum lánveitingum um sem nemur 198.200.000. Samtals verða því útlán til Brautarholts 20 ehf. og tengdra aðila kr. 1.805.114.000. Óskað er eftir því að útlánamörk til ofangreindra aðila verði hækkuð í 2 milljarða króna til 15. september 2008 vegna útlána SPRON sparisjóðs.
Útlán Frjálsa fjárfestingarbankans hf. til Brautarholts 20 ehf. og tengdra aðila eru kr. 503.105.000, þann 18. september 2007. Óskað er eftir því að útlánamörk til ofangreindra aðila verði 550 milljónir króna til 15. september 2008 vegna útlána Frjálsa fjárfestingarbankans hf.
Samtals er því óskað eftir því að útlánamörk SPRON heildarinnar verði 2.550 milljónir til Brautarholts 20 ehf. og tengdra aðila til 15. september 2008.

Skuldbindingin við samstæðuna hækkaði milli áranna 2007 og 2008 vegna nýrra lána og óhagstæðra gengisbreytinga. Í lok mars 2008 kom fram í skýrslu sparisjóðsins til Fjármálaeftirlitsins að heildarskuldbinding Brautarholts 20 ehf. og tengdra aðila næmi 2.372 milljónum króna, eða 11,5% af eiginfjárgrunni sparisjóðsins. Lán til lánahópsins voru ýmist tryggð með veðum í fasteignum félaganna eða með sjálfskuldarábyrgð eigenda. Útibússtjóri Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis sagði að ekki hefði verið sýnt fram á annað en að fasteignaverkefni Brautarholts 20 ehf. og tengdra aðila væru traust og eðlileg.116

Lánahópurinn var tengdur Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis og Frjálsa fjárfestingarbankanum hf. í gegnum ýmsar fjárfestingar, sérstaklega í gegnum Norðurhlíð fasteignafélag ehf., Streng fjárfestingar ehf. og Streng Byggingar ehf., en sparisjóðurinn átti hlut í þessum félögum, ýmist með stjórnarformanni Brautarholts 20 og viðskiptafélaga hans eða stjórnarformanninum og framkvæmdastjóra Brautarholts 20. Eiginfjárframlag þeirra fyrrnefndu í félögunum var fjármagnað með lánum frá sjóðnum sem tryggð voru með veði í bréfunum sjálfum.117

Strengur fjárfestingar ehf. var að 40% hluta í eigu Steinsness ehf., dótturfélags sparisjóðsins á móti hlut stjórnarformanns Brautarholts 20 og viðskiptafélaga hans en þeir áttu 30% hlut hvor. Strengur Byggingar ehf. var að 40% hluta í eigu framkvæmdastjóra Brautarholts 20, 40% í eigu stjórnarformannsins og 20% í eigu Fasteignafélagsins Hlíðar ehf. sem var að fullu í eigu Frjálsa fjárfestingarbankans hf. Þá var Norðurhlíð fasteignafélag ehf. í 13% eigu Fasteignafélagsins Hlíðar ehf. en afgangurinn til helminga í eigu stjórnarformanns Brautarholts 20, sem jafnframt var stjórnarformaður Norðurhlíðar, og viðskiptafélaga hans.

Norðurhlíð fasteignafélag ehf. var ekki talið tengt Brautarholti 20 ehf. samkvæmt skilgreiningum sparisjóðsins á stórum áhættuskuldbindingum. Engu að síður taldi Páll Árnason, forstöðumaður áhættustýringar sparisjóðsins, ástæðu til að fá álit ytri endurskoðanda sparisjóðsins á því hvort Norðurhlíð skyldi flokkuð með lánahópi Brautarholts 20 ehf. Í minnisblaði KPMG vegna þessa frá 5. október 2007 var niðurstaðan að Norðurhlíð fasteignafélag ehf. væri ekki tengt lánahópnum.118

Í árslok 2008 nam heildarskuldbinding Brautarholts 20 ehf. og tengdra aðila tæpum 5,4 milljörðum króna og var áhættuskuldbindingin 29,4% af eiginfjárgrunni sparisjóðsins, að frádregnu sérstöku afskriftaframlagi og vaxtafrystingu. Samkvæmt 30. gr. laga um fjármálafyrirtæki má áhætta vegna eins eða fleiri innbyrðis tengdra viðskiptamanna ekki fara fram úr 25% af eiginfjárgrunni fjármálafyrirtækis. Fari áhættuskuldbinding yfir 25% mörkin skal það tilkynnt Fjármálaeftirlitinu án tafar. Þau svör fengust við fyrirspurn rannsóknarnefndarinnar til Fjármálaeftirlitsins um skuldbindingu Brautarholts 20 ehf. og tengdra aðila að sparisjóðurinn hefði ekki tilkynnt um skuldbindinguna.119

Sérgreint framlag í afskriftareikning vegna lánahópsins í lok árs 2008 nam rúmum 2 milljörðum króna. Í greinargerð um sérgreindar afskriftir frá í desember 2008 var farið yfir mat á virði trygginga að baki lánum til hópsins og fjallað um fjárhæð útistandandi lána. Lán til hópsins, sem flest voru í erlendri mynt, höfðu þá hækkað mikið vegna gengisfalls krónunnar. Veð að baki lánunum, sem voru að miklu leyti í fasteignum, lóðum og hlutabréfum, höfðu lækkað í verði og hlutabréfin mörg hver orðin einskis virði.

Í febrúar 2009 hafði Steinsnes ehf., dótturfélag sparisjóðsins, yfirtekið hluta eignar stjórnarformanns Brautarholts 20 og viðskiptafélaga hans í Norðurhlíð fasteignafélagi ehf. Eftir það eignuðust sparisjóðurinn og Frjálsi fjárfestingarbankinn hf. 55% hlutafjár í Norðurhlíð fasteignafélagi ehf. en jafnframt voru 40% hlutafjár félagsins veðsett þeim vegna skulda annarra viðskiptamanna. Norðurhlíð fasteignafélag ehf. var úrskurðað gjaldþrota í júlí 2011.

Brautarholt 20 ehf. var úrskurðað gjaldþrota í nóvember 2011. Drómi hf. leysti til sín fjórar fasteignir Brautarholts 20 ehf. sem hluta af uppgjöri skulda félagsins og lýsti um leið kröfu í þrotabúið upp á rúma 3,3 milljarða króna.

Strengur Byggingar ehf. var úrskurðað gjaldþrota í maí 2011. Strengur fjárfestingar ehf. var enn starfandi 2011 og samkvæmt ársreikningi félagsins fyrir það ár átti Steinsnes ehf.

40% hlut í félaginu en 60% voru í eigu félaganna Arnarsmára ehf., G. Harðarsonar ehf. og Loran ehf.

Icebank hluthafalán

Í 9. kafla um útlán er ítarleg umfjöllun um Icebank hluthafalánin. Þar kemur fram heildarumfang kaupanna, upplýsingar um lántaka, lánsfjárhæðir og sérstaka samninga sem gerðir voru í tengslum við kaupin.

Síðla árs 2007 keyptu þrettán einkahlutafélög, sum hver í eigu stjórnenda Icebank hf., 43% hlut í bankanum af Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis hf., Byr sparisjóði, nb.is-sparisjóði hf., Sparisjóði Kópavogs og Sparisjóði Norðlendinga. Tólf þessara félaga fengu lánað hjá sparisjóðnum 5. desember 2007 fyrir hluta kaupverðsins en þau voru voru SM 1 ehf., Bergið ehf., Obduro ehf., Fjárfestingarfélagið Sproti ehf., Breiðutangi ehf., Lagos ehf., HDH Invest ehf., G-tveir ehf., Saltsalan ehf., Óseki ehf., Infestus Holding ehf. og Sparta Holding ehf.

Rúm 68% af kaupverðinu voru upphaflega fjármögnuð með lánum frá sparisjóðum og nam lánsfjárhæðin samtals 8,4 milljörðum króna. SPRON-Verðbréf hf. lánaði 25% af heildarlánsfjárhæðinni og voru lánin í erlendum myntum, eða jafnvirði rúmra 2 milljarða króna. Kaupendur skuldbundu sig til að greiða afganginn af kaupverðinu með eiginfjárframlagi. Til tryggingar lánunum var veð í 75% seldra hluta og voru Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis, í gegnum dótturfélag sitt, og Byr sparisjóður samhliða á 1. veðrétti, en Sparisjóður Mýrasýslu og Sparisjóðurinn í Keflavík voru með 2. veðrétt í bréfunum.

Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis og Byr sparisjóður stóðu jafnframt sameiginlega að fjármögnun til Sparisjóðs Mýrasýslu sem endurlánaði fé til aðila sem keyptu hlutabréf í Icebank hf. Þessi fjármögnun nam 800 milljónum króna og var í erlendum myntum og komu 320 milljónir króna frá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis og 480 milljónir króna frá Byr sparisjóði.120

Á þeim tíma sem leið frá samþykkt kauptilboðanna í október 2007 til undirritunar lánasamninganna í desember sama ár, lækkaði gengi Icebank hf. og því rýrnaði veð sparisjóðanna fyrir lánunum. Gengi Icebank hf. endurspeglaði að einhverju leyti gengi Exista hf. og hafði gengislækkun þess áhrif á virði hluta í bankanum. Verðbreyting á hlutum í Icebank hf. hafði áhrif á samninga um kaup á hlutafélaginu frá því í október 2007 og var því samið um nýjar forsendur. Meðal þeirra var sölutrygging á hlutum Icebank hf. í Exista hf. Samningur um þetta milli Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis og Icebank hf. var undirritaður 2. desember 2007, þar sem sparisjóðurinn ábyrgðist að kaupa um 84,3 milljónir hluta í Exista á genginu 31 en gengi í lok árs 2007 var 19,75. Á lokadegi samningsins, 1. desember 2008, nam skuld sparisjóðsins vegna samningsins rúmum 434 milljónum króna.121 Icebank hf. fór fram á greiðslu tryggingarinnar í nóvember 2008 og var hún greidd að fullu.122

Um sumarið 2008 var stjórnendum sparisjóðsins ljóst að talsverð áhætta var af lánunum. Fram kom á fundi endurskoðunarnefndar í janúar 2009 að ekki hefði verið talin þörf á að leggja í afskriftareikning vegna þessara lána sumarið 2008, meðal annars vegna þess að fyrir lá mat á Icebank hf. sem benti til þess að virði veðanna væri um 100% af lánunum.123 Þetta mat tók hins vegar ekki tillit til þess að þegar á reyndi skilaði eiginfjárframlg eins stærsta kaupandans, SM 1 ehf., sér ekki og flestir lántakar fengu lánað fyrir eiginfjárframlögum hjá sparisjóðnum sjálfum eða annarri lánastofnun, þannig að útlánahættan var í raun meiri en hún var metin í upphafi.124 Fall viðskiptabankanna hafði mikil áhrif á rekstur Icebank hf. og eigið fé hans minnkaði hratt í kjölfarið.

Heildarskuldbinding vegna Icebank hluthafalánanna nam tæpum 4,4 milljörðum króna í lok árs 2008 en hún hafði hækkað mikið vegna gengislækkunar krónunnar. Í lok árs 2008 hafði öll fjárhæðin verið færð sem sérgreint framlag í afskriftareikning sparisjóðsins. Öll félögin tólf urðu gjaldþrota á árunum 2010 og 2011.

Suðurnesjamenn ehf. og tengdir aðilar

Suðurnesjamenn ehf. var stofnað snemma árs 2007 til að kaupa hlut íslenska ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja en þegar þau kaup gengu ekki eftir, fjárfesti félagið í Sparisjóðnum í Keflavík, Sparisjóðabanka Íslands hf. og Bláa lóninu hf.125 Við stofnun Suðurnesjamanna ehf. voru eigendur félagsins fimm, allir með jafnan eignarhlut. Það voru Kaupfélag Suðurnesja svf., Nesfiskur ehf., Vísir hf., Gnúpverjar ehf. og Hvatning ehf. Síðar á árinu breyttist eignarhaldið og var Sparisjóðurinn í Keflavík meðal nýrra hluthafa með tæpan 14% hlut.126 Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis skilgreindi Suðurnesjamenn ehf. og SM 1 ehf., sem var að fullu í eigu Suðurnesjamanna ehf., sem einn lánahóp.

Stjórnarformaður Suðurnesjamanna ehf. var Eiríkur Tómasson. Grímur Karl Sæmundsen var framkvæmdastjóri félagsins allt fram til 31. mars 2008 en hann var jafnframt stofnfjárhafi í Sparisjóðnum í Keflavík og sat í bankaráði Icebank hf.

Sparisjóðurinn veitti Suðurnesjamönnum ehf. tvö lán í erlendri mynt árið 2007 til kaupa á stofnfjárbréfum í Sparisjóðnum í Keflavík sem tryggð voru með veði í sömu bréfum. Fyrra lánið var veitt 23. maí, jafnvirði 411 milljónir króna í svissneskum frönkum og japönskum jenum. Lánanefndarfundur 10. maí 2007 samþykkti og bókaði eftirfarandi um lánveitinguna:

Félagið hefur nú fest kaup á tæplega 2,0% stofnfjár í SPKEF og er að leita eftir fyrirgreiðslu fyrir þeim kaupum, þ.s. SPKEF getur eðlilega ekki annast slíka fyrirgreiðslu að svo stöddu. Erum því að leita eftir því hvort SPRON hafi áhuga á að koma að slíkri fjármögnun sem nemur um 400 milljónum króna.

Seinna lánið var veitt 21. júní 2007, jafnvirði 211 milljóna króna, og var það einnig til kaupa á stofnfjárbréfum í Sparisjóðnum í Keflavík. Lánið var samþykkt á fundi lánanefndar 18. júní 2007:

Óskað er eftir 211 mkr. láni í erlendri mynt sem skiptist í 50% JPY og 50% CHF, til tryggingar kæmi til viðbótar við það sem fyrir er, handveð í stofnfjárhlutum í SPKEF að uppreiknuðu nafnvirði kr. 24.938.968 og m.v. markaðsvirði kr. 209.487.331.

Markaðsvirði hinna keyptu stofnfjárbréfa sem voru til tryggingar láninu frá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis var því lægra en lánsfjárhæðin. Samtals námu lánin jafnvirði 622 milljóna króna, og voru bæði lánin tryggð með veði í stofnfjárbréfum fyrir lægri fjárhæð. Litið var sérstaklega til þess hverjir voru eigendur Suðurnesjamanna ehf. við veitingu þessara lána og talið að um trausta aðila væri að ræða.127

Hinn 2. desember 2007 lánuðu SPRON-Verðbréf hf. SM 1 ehf. jafnvirði 527 milljóna króna í erlendri mynt til kaupa á rúmlega 81 milljón hluta í Icebank hf. Lánið var tryggt með veði í sömu bréfum og innistæðu reiknings félagsins hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis eins og hún var á hverjum tíma. Tryggingar lánahópsins hjá sparisjóðnum voru komnar langt undir lágmarkstryggingarþekju samkvæmt lánareglum strax í upphafi árs 2008. Veðkall var sent á Suðurnesjamenn ehf. samkvæmt skýrslu um veðköll á tímabilinu 1. júlí til 10. september 2008 sem sparisjóðurinn sendi til Fjármálaeftirlitsins.128 Í október 2008 voru stofnfjárbréfin og hlutabréfin í Icebank hf., sem lögð voru að veði fyrir lánunum, orðin verðlítil.

Heildarskuldbindingar Suðurnesjamanna ehf. og SM 1 ehf. námu 2.607 milljónum króna í lok árs 2008 og var áhættuskuldbindingin 19,3% af eiginfjárgrunni sparisjóðsins.129 Þar af voru 1,1 milljarður króna vegn SM 1 ehf. sem einnig var fjallað um í kaflanum um Icebank hlutahafalánin hér að framan. Framlög í afskriftareikning í lok árs 2008 vegna félaganna voru samtals 2.637 milljónir króna. Framlög í afskriftareikning voru því 30 milljónum króna umfram stöðu skuldbindinganna.130

Í mars 2009 var Suðurnesjamenn ehf. úrskurðað gjaldþrota og SM 1 ehf. var úrskurðað gjaldþrota í maí 2011.

Exista hf.

Exista hf. var fjárfestingarfélag sem var að stærstum hluta í eigu Bakkabræðra Holding B.V. og Kistu – fjárfestingarfélags ehf.131 Erlendur Hjaltason, stjórnarformaður Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, var annar tveggja forstjóra Exista hf. og átti eignarhlut í félaginu. Þá var Guðmundur Hauksson, sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, í stjórn Exista hf. og átti jafnframt eignarhlut í félaginu.132

Á stjórnarfundi sparisjóðsins 30. september 2008 var lögð fram beiðni um heimild stjórnar til að lána 2 milljarða króna til Exista hf. Eftirfarandi var bókað á fundinum:

Áður en þessi liður var tekinn til umfjöllunar vék Erlendur Hjaltason af fundi. Óskað var eftir heimild stjórnar til lánveitingar til Exista að upphæð 2 ma.kr. í 30 daga. Áhætta vegna Exista er þá tæplega 2,5 ma.kr., sem er 20% af CAD hlutfalli. Þetta var samþykkt.

Samdægurs veitti Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis Exista hf. 2 milljarða króna peningamarkaðslán með gjalddaga 31. október 2008. Þá lagði dótturfélag Exista hf., Vátryggingafélag Íslands hf., 2 milljarða króna peningamarkaðsinnlán inn í Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis hf. með sama upphafs- og lokadag og lánið til Exista hf. Peningamarkaðsinnláni Vátryggingafélags Íslands hf. var breytt í almennt innlán á gjalddaga þess, 31. október 2008.133

Ekki kom til uppgjörs á láninu í lok október 2008, heldur var það framlengt. Hinn 30. október 2008 var tilkynnt um afskráningu Exista hf. úr Kauphöll Íslands. Á fundi endurskoðunarnefndar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis 6. janúar 2009 kom fram að þegar umrætt lán var veitt, höfðu íslensk stjórnvöld lýst því yfir að gripið yrði til aðgerða til að verja bankakerfið og að ekki væri gert ráð fyrir að aðrir bankar en Glitnir yrðu fyrir skakkaföllum. Endurskoðunarnefndin taldi því eignir Exista hf. vera traustar. Einnig kom fram á fundinum að þetta hefði verið „óheppileg lánveiting“.134 Lagt var 1,6 milljarða króna framlag í sérgreindan afskriftareikning vegna skuldbindinga Exista hf. í lok árs 2008. Lánið var aftur framlengt 29. janúar 2009, með gjalddaga 16. mars 2009 og 22,5% vöxtum, en lánið var enn útistandandi í júlí 2009.135

Exista hf. og tengdir aðilar voru ekki á meðal stórra áhættuskuldbindinga hjá sparisjóðnum samkvæmt reglum Fjármálaeftirlitsins nr. 216/2007, og var því ekki tilkynnt um fyrirgreiðslur til félagsins í skýrslum sparisjóðsins til Fjármálaeftirlitsins. Heildarskuldbinding Exista hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis nam 2,5 milljörðum króna í lok árs 2008 og var sérgreint afskriftaframlag 1,6 milljarða króna 31. desember 2008.

Norðurhlíð fasteignafélag ehf. og tengdir aðilar

Norðurhlíð fasteignafélag ehf. var stofnað 22. febrúar 2006. Á árinu 2008 var félagið í 40% eigu stjórnarformanns Brautarholts 20 ehf., sem fyrr er getið, og viðskiptafélaga hans að jöfnu; Stekkeyri ehf. og Þursaborg ehf. áttu 20% hlut hvort; Fasteignafélagið Hlíð ehf., í eigu Frjálsa fjárfestingarbankans, átti 10% hlut, og Steinsnes ehf. sömuleiðis, en það var í eigu sparisjóðsins.136

Hjá samstæðu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis samanstóð lánahópurinn af Norðurhlíð fasteignafélagi ehf., Leigustoðum ehf., sem var dótturfélag Norðurhlíðar, og einstaklingi með óverulegar skuldbindingar.

Norðurhlíð fasteignafélag ehf. fékk fimm lán í erlendri mynt í mars og apríl 2006, tvö hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis og þrjú hjá Frjálsa fjárfestingarbankanum hf., til kaupa á fasteigninni Fosshálsi 17–25, Reykjavík, fyrir samtals 1.080 milljónir króna. Skilyrði fyrir lánveitingunni var 162 milljóna króna eiginfjárframlag Norðurhlíðar. Lánin voru tryggð með 1. veðrétti í fasteigninni, ásamt sjálfskuldarábyrgð Stuðlaháls ehf., að hámarki 13,5 milljónir króna, og sjálfskuldarábyrgðum Fasteignafélagsins Hlíðar ehf. og þriggja einstaklinga að hámarki 3.375.000 króna hver aðili. Sjálfskuldarábyrgðirnar voru felldar niður af sparisjóðnum 30. nóvember 2007 en nýjar tryggingar voru ekki lagðar fram í þeirra stað. Sjálfskuldarábyrgða voru felldar niður þar sem önnur veð voru talin fullnægjandi miðað við greiðslustöðuna.137 Áður en sjálfskuldarábyrgðum var aflétt, fékk Norðurhlíð fasteignafélag ehf. nýtt lán hjá sparisjóðnum 28. september 2007, jafnvirði 120 milljóna króna í erlendri mynt til kaupa á 54.217 hlutum í Kaupþingi banka hf., 980.912 hlutum í Exista hf. og 739.973 hlutum í Landsbanka Íslands hf. Hlutabréfin sjálf stóðu til tryggingar láninu, auk þess sem aðrar fyrirliggjandi tryggingar Norðurhlíðar skyldu einnig nýttar, en þær voru ekki tilgreindar í lánasamningnum. Lánanefnd Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hafði fjallað um lánveitingu til félagsins 10. september 2007 og samþykkti að veita því eingreiðslulán, jafnvirði 375 milljóna króna í erlendri mynt til þriggja ára. Bókun lánanefndar var svohljóðandi:

Í ljósi hækkunar verðmats á [fasteigninni Fosshálsi 17–25] óskar félagið eftir 375mkr. erlendu kúluláni með vaxtagreiðslum til þriggja ára. Með þessu vill félagið nýta veðrými eignarinnar í ný og arðsöm verkefni. Frjálsi er með helming lánveitinga á eignina fyrir og mun því taka helming af þessari lánveitingu – sem yrði þá 187,5mkr. frá SPRON á öðrum veðrétti samhliða 187,5mkr. frá Frjálsa. Vextir 2,6% álag á Libor og 1% lántökugjald.
Fjármunina mun félagið m.a. nýta sem eiginfjárframlag í önnur verkefni; við kaup á fasteignum og hlutabréfum.138

Gunnar Jón Yngvason löggiltur fasteigna- og skipasali, sem þá var starfsmaður Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, hafði í september 2007 metið eignina að nýju á 1.611 milljónir króna.139

Svo virðist sem Norðurhlíð fasteignafélag ehf. hafi aðeins nýtt lánamörkin sem samþykkt voru á umræddum lánanefndarfundi upp að 120 milljónum króna í september 2007. Í janúar 2008 endurfjármagnaði félagið yfirdrátt sinn með 120 milljóna króna láni hjá sparisjóðnum á grundvelli heimildarinnar sem samþykkt var í september 2007. Til tryggingar nýja láninu var tryggingarbréf með 1. veðrétti í fasteigninni að Fosshálsi 25, sem áður hafði verið veðsett sparisjóðnum í apríl 2006 þegar sparisjóðurinn fjármagnaði kaup félagsins á fasteigninni.

Lán Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis og Frjálsa fjárfestingarbankans hf. til Norðurhlíðar fasteignafélags ehf. og tengdra aðila námu samtals tæpum 1.158 milljónum króna í árslok 2007. Skuldir lánahópsins hækkuðu mikið á árinu 2008 sökum gengisfalls íslensku krónunnar. Heildarskuldbinding lánahópsins nam rúmum 2 milljörðum króna í lok árs 2008 og á sama tíma var sérgreint framlag í afskriftareikning sparisjóðsins vegna félagsins tæpar 294 milljónir króna. Til hliðsjónar við mat á því framlagi var höfð sú staðreynd að veð sparisjóðsins fyrir skuldbindingum lánahópsins höfðu rýrnað. Áhættuskuldbinding lánahópsins var 11,6% af eiginfjárgrunni sparisjóðsins 31. desember 2008.

Norðurhlíð fasteignafélag ehf. var úrskurðað gjaldþrota í júlí 2011. Heildarskuldir félagsins hjá samstæðu sparisjóðsins stóðu þá í rúmum 2.110 milljónum króna. Aðeins tvær fasteignir fundust í þrotabúi Norðurhlíðar og fékk Drómi hf. afsal fyrir fasteigninni að Fosshálsi fyrir 900 milljónir króna. Mismunurinn var afskrifaður hjá Dróma hf.140

Lánahópur um fasteignafélag

Lánahópur um fasteignafélag, sem í voru þrjú félög um fasteigna- og byggingaverkefni og tveir einstaklingar, fékk á árunum 2006 til 2008 nokkur lán hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis og Frjálsa fjárfestingarbankanum hf. sem að mestu leyti voru nýtt til kaupa á fasteignum.

Stærsta félagið í hópnum fékk lán hjá sparisjóðnum 29. maí 2006, jafnvirði 230 milljóna króna í erlendri mynt, sem tryggt var með veði í fasteign félagsins að Bíldshöfða í Reykjavík. Í byrjun árs 2007 var félagið í vanskilum hjá sparisjóðnum og var gerð skilmálabreyting á láninu þar sem afborgunum höfuðstóls og vaxta var frestað og lánið framlengt.

Félagið fékk ný lán á árunum 2007 og 2008, þrátt fyrir vanskil félagsins. Á fundi lánanefndar sparisjóðsins 1. mars 2007 var samþykkt beiðni um 50 milljóna króna lán sem tryggt yrði með veði í nýrri fasteign félagsins með 62% veðsetningarhlutfalli. Eftirfarandi var bókað á lánanefndarfundi:

Útibúinu er kunnugt um vanskilastöðu en mælir með þessu engu að síður. Allar skuldbindingar félaganna eru vel tryggðar og þau hafa skilað inn miklum tekjum til útibúsins.

Lánanefnd samþykkti 18. október 2007 nýtt 160 milljóna króna lán til kaupa á byggingarlóð. Þar var um 100% fjármögnun að ræða sem tryggð var með 1. veðrétti í lóðinni ásamt veði í öðrum fasteignum félagsins. Ekki var getið um veðsetningarhlutfall í lánareglunum ef um lóðarlán var að ræða, heldur skyldi það metið hverju sinni. Á fundinum var eftirfarandi bókað um stöðu félagsins hjá sparisjóðnum:

Félögin hafa alla tíð verið gríðarlega arðsöm fyrir SPRON sökum þess að oftar en ekki liggja gjalddagar í vanskilum með tilheyrandi kostnaði. Útibúið telur þó útlánin vel tryggð enda öll með fasteignaveðum. Þess má jafnframt geta að áætla má að mikið dulið eigið fé leynist í ársreikningum félaganna í formi fasteigna sem færðar eru inn á bókvirði.

Samkvæmt þágildandi lánareglum sparisjóðsins bar að leggja mat á rekstur, efnahag og greiðslugetu fyrirtækja við nýjar lánveitingar. Stöðva skyldi allar lánveitingar ef lántakandi væri í vanskilum en heimilt var að gera undantekningu ef um úrlausn vanskila eða vantryggðra lána væri að ræða. Í skýrslu fyrrverandi útibússtjóra fyrirtækjaútibús Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis fyrir rannsóknarnefndinni kom fram að almennt hefði það verið viðmið hjá sjóðnum að veita ekki ný lán til aðila sem voru með vanskil fyrir. Staðan var metin út frá tryggingum eða viðskiptasögu viðkomandi og tímabundin vanskil áttu þá ekki að hafa teljandi áhrif.141

Heildarskuldbinding lánahópsins hjá samstæðu sparisjóðsins nam tæpum 2 milljörðum króna í lok árs 2008 sem var 12,2% af eiginfjárgrunni sparisjóðsins.142 Sérgreind niðurfærsla á afskriftareikningi vegna hópsins nam rúmum 375 milljónum króna 31. desember 2008, sökum hækkunar á erlendum lánum félagsins.143

Lánahópur um fasteignafélag að hluta til í eigu Frjálsa fjárfestingarbankans hf.

Lánahópur, sem í voru sex fasteigna- og byggingarfélög og einn einstaklingur, mynduðu stærstu áhættuskuldbindingu Frjálsa fjárfestingarbankans hf. Eitt félaganna var í helmingseigu Frjálsa fjárfestingarbankans hf. Þátttaka fjárfestingarbankans í framkvæmdum félagsins var sambærileg öðrum framkvæmdaverkefnum hjá bankanum þar sem hann fjármagnaði hluta af verkefninu með lánum, hluta með eiginfjárframlagi til verkefnisins og átti að auki eignarhluta í félaginu. Dótturfélag bankans, Fasteignafélagið Hlíð ehf., stofnaði dótturfélag um hvert slíkt framkvæmdaverkefni og fékk þá dótturdótturfélag lán frá bankanum fyrir verkefninu. Fram kom í skýrslutöku rannsóknarnefndarinnar af fyrrverandi framkvæmdastjóra Frjálsa fjárfestingarbankans hf. að litið hefði verið svo á að útlán til slíkra verkefna myndu endurheimtast en áhættan hefði falist í eiginfjárframlaginu.144 Engar reglur virðast hafa verið til hjá bankanum um mat á áhættu við þátttöku í slíkum verkefnum.

Skuldbindingar lánahópsins jukust jafnt og þétt frá lokum árs 2006 til loka árs 2008. Þær námu 886 milljónum króna í lok árs 2006, 1.245 milljónum króna í lok árs 2007 og 1.943 milljónum króna í lok árs 2008. Hækkunin skýrðist bæði af nýjum lánveitingum og gengisfalli krónunnar. Félögin voru aðallega með framkvæmdalán hjá Frjálsa fjárfestingarbankanum hf. til að fjármagna byggingar á fasteignum og flest voru lánin tryggð með 1. veðrétti í fasteignunum ásamt sjálfskuldarábyrgð einstaklingsins. Við skýrslutökur fyrir rannsóknarnefndinni kom fram hjá framkvæmdastjóra Frjálsa fjárfestingarbankans hf. að bankinn hefði haft mikla trú á viðkomandi og verkefnum hans þar sem fyrri verkefni hefðu „komið mjög vel út“. Á árunum 2006 og 2007 fjölgaði verkefnunum hratt og því stækkaði skuldbinding lánahópsins hjá bankanum.145

Hinn 1. nóvember 2008 fengu fimm félög í lánahópnum ný lán frá Frjálsa fjárfestingarbankanum hf. til að endurfjármagna fyrri lán til félaganna sem voru í erlendri mynt. Nýju lánin voru jafnframt tryggð með fasteignaveðum, tryggingarvíxlum og sjálfskuldarábyrgð einstaklingsins í lánahópnum.

Í skýrslu Frjálsa fjárfestingarbankans hf. til Fjármálaeftirlitsins um stórar áhættuskuldbindingar 30. júní 2008 kom fram að heildarskuldbinding lánahópsins næmi 1.493 milljónum króna og að frádreginni 15 milljóna króna ábyrgð frá lánastofnun næmi áhættuskuldbindingin 24,9% af eiginfjárgrunni bankans.

Í lok árs 2008 nam heildarskuldbinding lánahópsins 1.943 milljónum króna og áhættuskuldbindingin 6,8% af eiginfjárgrunni sparisjóðsins.146

Baugur Group hf. og tengdir aðilar

Baugur Group hf. var fjárfestingarfélag sem átti og rak ýmsar smásöluverslanir á Íslandi, í Bretlandi og í Danmörku. Baugur Group hf. var í meirihlutaeigu Fjárfestingafélagsins Gaums ehf. sem var í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, Jóhannesar Jónssonar, Ásu Ásgeirsdóttur og Kristínar Jóhannesdóttur. Jón Ásgeir Jóhannesson var stjórnarformaður Baugs Group hf. frá miðju ári 2007 en hafði áður verið forstjóri félagsins. Hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis samanstóð lánahópurinn af Baugi Group hf., tveimur einkahlutafélögum og þremur einstaklingum.

Lánahópur Baugs Group hf. og tengdra aðila hafði verið í viðskiptum við sparisjóðinn í mörg ár en stóran hluta af þeim tíma hafði lánahópurinn verið með ótryggðar skuldir. Í skýrslu um innri endurskoðun vegna ársins 2007 sagði:

Þó verður að geta þess að Baugur Group og […] eru með stóran hluta sinna viðskipta án trygginga, en það hefur verið í mörg ár.

Í skýrslu Fjármálaeftirlitsins um útlánaáhættu sparisjóðsins í október 2007 var gerð alvarleg athugasemd við að um 683 milljóna króna af lánum til hópsins væru án formlegra trygginga. Ítrekað var að rökstuðningur þyrfti að liggja fyrir því af hálfu stjórnar þegar ekki væru teknar formlegar tryggingar vegna svo hárrar fyrirgreiðslu. Í athugasemdum sparisjóðsins við skýrslu Fjármálaeftirlitsins kom fram að Baugur Group hf. væri mjög fjársterkur aðili og að áratuga góð reynsla væri hjá sparisjóðnum af viðskiptum við aðila tengda félaginu. Fjármálaeftirlitið áréttaði hins vegar að liggja þyrfti fyrir mat á styrk viðkomandi aðila sem réttlætti að ekki væru teknar formlegar tryggingar.147

Baugur Group hf. fékk 650 milljóna króna lán hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis 1. júlí 2008. Lánið var veitt til uppgjörs á láni í erlendri mynt og uppgreiðslu víxils, upphaflega að fjárhæð 250 milljónir króna, auk vaxta og lántökukostnaðar. Lánið var tryggt með 10% eignarhlut Baugs í F-Capital ehf., eignarhaldsfélagi um eign Baugs í Mosaic Fashions, tískuvöruverslanakeðju í Bretlandi. Lánið bar að endurgreiða með sex mánaðarlegum gjalddögum afborgunar og vaxta, fyrst 1. ágúst 2008. Fyrsti gjalddagi lánsins var greiddur en lánið fór í vanskil í september 2008.

Hinn 12. desember 2008 veitti sparisjóðurinn Baugi Group hf. lán að fjárhæð 1.149 milljónir króna sem átti að endurgreiðast með tólf jöfnum mánaðarlegum afborgunum, fyrst 14. febrúar 2009. Lánið var veitt til að endurfjármagna eldri skuldir félagsins, bæði til uppgjörs á láninu frá því í júlí sama ár og greiðslu skuldabréfs sem gefið var út af Styrk Invest ehf., áður BG Capital ehf. Skuldabréfið hafði verið gefið út til handa Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis í september 2007, upphaflega að nafnvirði 500 milljónir króna með lokagjalddaga 28. september 2008, en var í vanskilum frá þeim tíma, og voru eftirstöðvar þá rúmar 558 milljónir króna. Sem tryggingu fyrir láninu lagði Baugur fram 29,5% hlut í F-Capital ehf., ásamt kvöð um veðsetningarbann, og handveð í innistæðu reiknings félagsins hjá sparisjóðnum eins og hún var á hverjum tíma. Baugur Group hf. átti F-Capital ehf. að fullu, en 12. desember 2008 tók Sparisjóðabanki Íslands hf. yfir helming hlutafjár í félaginu til fullnustu á skuldum félagsins í Sparisjóðabanka Íslands hf.

Samkvæmt lánareglum sparisjóðsins bar að afla nauðsynlegra upplýsinga um fjárhag viðskiptavinar og meta greiðslugetu, eiginfjárstöðu og framtíðarhorfur hans áður en lán var samþykkt. Ekki liggur fyrir hvort og þá hvernig lánshæfi Baugs Group hf. var metið í desember 2008 þegar félagið fékk lán til endurfjármögnunar á skuldum við sparisjóðinn. Fjárhagsstaða Baugs Group hf. varð fyrir skakkaföllum haustið 2008, meðal annars vegna yfirtöku Fjármálaeftirlitsins á valdi hluthafafundar Glitnis banka hf. 7. október 2008, en Baugur Group hf. hafði átt stóran hlut í bankanum í gegnum eignarhlut sinn í FL Group hf. sem var stærsti hluthafi í Glitni við fall bankans.148

Í lok desember 2008 voru færðar tæpar 1.150 milljónir króna í sérgreint afskriftaframlag vegna útlána til Baugs Group hf., eða sem nam heildarskuldbindingu félagsins. Baugur Group hf. var úrskurðað gjaldþrota í mars 2009.

R. Sigmundsson ehf.

R. Sigmundsson ehf. var félag sem sérhæfði sig í sölu og þjónustu á rafeindatækjum, siglingatækjum, vélum og bátum. Í byrjun árs 2009 var nafni félagsins breytt í R.S. rekstur ehf. Á árunum 2005–2007 fjármagnaði Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis kaup Einars Óskarssonar149 og fleiri aðila á R. Sigmundssyni ehf., Vélasölunni ehf. og Radíómiðun-Ísmar ehf., í gegnum einkahlutafélagið Polar Group ehf.150 Steinsnes ehf., dótturfélag sparisjóðsins, eignaðist síðar stóran hlut í Polar Group ehf. og kom því að rekstri R. Sigmundssonar ehf.

Hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis samanstóð lánahópurinn upphaflega af R. Sigmundssyni ehf., Bliku rekstrarfélagi ehf., Vélasölunni ehf. og Radíómiðun-Ísmar ehf.

Í desember 2006 sameinuðust R. Sigmundsson ehf., Vélasalan ehf., Radíómiðun-Ísmar ehf., Blika rekstrarfélag ehf., Vélasalan Verkstæði ehf., Vélasalan-eignarhaldsfélag ehf. og Vélar og Tæki ehf. undir nafni R. Sigmundssonar ehf. Í nóvember 2006 var óskað eftir endurfjármögnun á öllum lánum R. Sigmundssonar ehf., Vélasölunnar ehf., Bliku rekstrarfélags ehf. og Radíómiðunar-Ísmar ehf. hjá samstæðu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis í tengslum við fyrirhugaðan samruna félaganna. Lánanefndarfundur 13. nóvember 2006 samþykkti endurfjármögnun á öllum skuldum félaganna, þá um 570 milljónir króna. R. Sigmundsson ehf. og Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis gerðu með sér ódagsett samkomulag um „endurfjármögnun R. Sigmundssonar ehf.“ sem fólst í fimm nýjum lánum til félagsins.

Endurfjármögnun samkvæmt samkomulaginu hófst í desember 2006 þegar hluti af lánum félaganna var endurfjármagnaður með fjórum nýjum lánum til R. Sigmundssonar ehf. fyrir samtals 439 milljónir króna. Fyrsta lánið var eingreiðslulán að fjárhæð um 125 milljónir króna sem greiðast átti í desember 2007. Annað lánið var einnig eingreiðslulán í japönskum jenum og svissneskum frönkum, jafnvirði 100 milljóna króna, með lokagjalddaga í desember 2009. Hin tvö lánin voru til tíu ára með mánaðarlegum afborgunum, samtals að fjárhæð um 215,5 milljónir króna. Lánin voru öll tryggð með allsherjarveði í kröfum og birgðum félagsins fyrir 230 milljónir króna, veði í vörubirgðum fyrir 160 milljónir króna, veði í viðskiptakröfum fyrir 75 milljónir króna, auk þess sem hluthafar R. Sigmundssonar ehf. sem áttu samtals 91,71% í félaginu, veðsettu sparisjóðnum hluti sína í R. Sigmundssyni ehf. Þá var jafnframt lögð fram óskipt sjálfskuldarábyrgð eigenda R. Sigmundssonar ehf. að fjárhæð 50 milljónir króna fyrir einu lánanna.

Fimmta og síðasta lánið til endurfjármögnunar félagsins var eingreiðslulán, veitt 10. maí 2007, að fjárhæð rúmar 111 milljónir króna og bar að endurgreiða það 8. febrúar 2008. Tryggingar fyrir láninu samkvæmt lánasamningi voru fimm tryggingabréf að fjárhæð alls 120 milljónir króna með veði í kröfum og birgðum Vélasölunnar ehf.,151 veði í kröfum og birgðum félagsins, veði í 91,71% hluta í R. Sigmundssyni ehf., ávísun á fjárgreiðslur frá SPRON Factoring hf. og handveði í sölu á hlutabréfum í Marport, sem var kanadískt tæknifyrirtæki.

Samkvæmt ákvæðum samkomulags R. Sigmundssonar ehf. og sparisjóðsins um endurfjármögnun myndu handveðsetningar í hlutabréfum R. Sigmundssonar ehf. og sjálfskuldarábyrgðir eigenda falla niður þegar búið væri að greiða upp tvö af eingreiðslulánunum, annars vegar í desember 2007 og hins vegar í febrúar 2008. Í skjali sem lagt var fyrir lánanefnd sjóðsins kom enn fremur fram að til þess að hægt væri að fella niður sjálfskuldarábyrgðirnar þyrfti eiginfjárhlutfall félagsins að vera orðið 25% „án áhrifa viðskiptavildar“.152

Í lok árs 2007 og fram á seinni hluta árs 2008 voru lán félagsins endurfjármögnuð. Á lánanefndarfundi 5. maí 2008 var eftirfarandi bókað um skuldbindingar félagsins:

Vegna skuldbreytinga á lánum R. Sigmundssonar ehf. […] þarf að hækka lánamörk félagsins tímabundið þar sem lán til uppgreiðslu telur inn í heildarskuldbindingu. Núverandi lánamörk duga ekki fyrr en lánið hefur verið greitt upp.
Þetta er nýr íslenskur lánssamningur að fjárhæð 129mkr. sem kemur í stað lánssamnings […] að fjárhæð 129mkr. þar sem allar sjálfskuldarábyrgðir hluthafa eiga að falla niður.
Lánamörkin eru 600mkr. í dag en þurfa að hækka í 770,7mkr. tímabundið.

Lánanefnd Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis samþykkti að endurfjármagna og hækka lán til R. Sigmundssonar ehf. um leið og sjálfskuldarábyrgðum hluthafa var aflétt, þrátt fyrir að eigið fé félagsins í lok árs 2007 væri neikvætt um 151 milljón króna. Í lok árs 2008 nam heildarskuldbinding R. Sigmundssonar ehf. við sparisjóðinn 1.129 milljónum króna. Fram kom í skýrslutöku rannsóknarnefndarinnar af fyrrverandi útibússtjóra fyrirtækjasviðs Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis að rekstrargrundvöllur R. Sigmundssonar ehf. hefði verið orðinn veikur á árinu 2008 og því hefði verið nauðsynlegt fyrir sparisjóðinn að grípa til aðgerða til að tryggja stöðu sína. Sparisjóðurinn hefði fengið utanaðkomandi sérfræðing til að koma að rekstrinum með það að markmiði að snúa við rekstri félagsins og koma því hugsanlega í söluhæft form.153

Á stjórnarfundi sparisjóðsins 28. janúar 2009 var fjallað um endanlegar afskriftir á tímabilinu september til desember 2008. Þar var samþykkt að afskrifa endanlega tæpar 1.035 milljónir króna vegna R. Sigmundssonar ehf. og var þar um að ræða stærstu einstöku afskriftina á tímabilinu. Um ástæðu afskriftarinnar sagði:

Stór hluti lánanna var í erlendri mynt og hækkaði verulega við gengisfall krónunnar. Einnig hafði rekstrarumhverfi félagsins breyst mikið og ljóst að félagið myndi síðar lenda í gjaldþroti. SPRON var orðinn rekstraraðili að félaginu og því var félagið selt svo að SPRON yrði ekki aðili að gjaldþrota fyrirtæki. Fram kom að það væru margir aðilar sem spyrjast nú fyrir um skuldsett fyrirtæki.

Félagið var úrskurðað gjaldþrota í febrúar 2009 en hafði þá skipt um nafn og hét R.S. rekstur ehf.

Á sama tíma og R.S. rekstur ehf. var úrskurðað gjaldþrota í byrjun árs 2009, stofnaði Polar Group ehf., sem þá hafði verið selt frá Steinsnesi ehf. til Gifsfélagsins ehf. í eigu Sigurðar Jenssonar,154 nýtt einkahlutafélag undir nafninu R. Sigmundsson ehf. Fram kemur í ársreikningi Gifsfélagsins ehf. vegna ársins 2008 að félagið hafi keypt kröfur Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis á hendur R. Sigmundssyni ehf. á tæpar 54 milljónir króna í lok árs 2008, sem fjármagnaðar hafi verið með láni frá sparisjóðnum sjálfum.

Gifsfélagið ehf. var úrskurðað gjaldþrota í nóvember 2011. Samkvæmt ársreikningum R. Sigmundssonar ehf. fyrir árin 2010 til 2012 hefur félagið verið í eigu einkahlutafélags að nafni Vélasalan ehf.

Hvítsstaðir ehf.

Hvítsstaðir ehf. var stofnað árið 2002 til að kaupa fjórar jarðir á Mýrum af Sparisjóði Mýrasýslu. Félagið var í eigu Hreiðars Más Sigurðssonar, Sigurðar Einarssonar, Magnúsar Guðmundssonar, Steingríms P. Kárasonar, Ingólfs Helgasonar og Þorvaldar Lúðvíks Sigurjónssonar, en hann hvarf úr hluthafahópnum á árinu 2007.

Hvítsstaðir ehf. fengu eingreiðslulán í erlendri mynt hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis 10. október 2005, jafnvirði 300 milljóna króna, til kaupa á félaginu Langárfossi ehf. Til tryggingar láninu var veð í jörðinni Langárfossi á Mýrum og skipt (pro rata) sjálfskuldarábyrgð þeirra Hreiðars Más Sigurðssonar, Ingólfs Helgasonar, Sigurðar Einarssonar, Steingríms Kárasonar og Þorvaldar Lúðvíks Sigurjónssonar. Þorvaldur Lúðvík var leystur undan sjálfskuldarábyrgðinni 7. október 2008 og í hans stað kom Magnús Guðmundsson.

Á fundi lánanefndar sparisjóðsins 11. desember 2008 var samþykkt að breyta láninu í íslenskar krónur en á þeim tíma nam lánið um 714 milljónum króna. Láninu var breytt í eingreiðslulán til fimm ára sem tryggt skyldi með skiptri (pro rata) sjálfskuldarábyrgð eigenda, tryggingarbréfi með 1. veðrétti í jörðinni Langárfossi að fjárhæð 57 milljónir króna, auk tryggingarbréfs á 2. veðrétti að fjárhæð 350 milljónir. Eftirfarandi var bókað:

Langárfoss ehf. keypti jörðina Langárfoss á Mýrum í Borgarbyggð árið 2005, jörðin liggur að ánni Langá og á laxveiðihlunnindi í ánni, einnig laxveiðihlunnindi í ánni Urriðaá. Árstekjur jarðarinnar vegna veiðihlunninda fyrir árið 2008 var 7.540.000. Jörðin er 1273 ha. Áætlað verðmæti er 320 mkr metið af Eignamiðlun í des 2008. Lánamörk óskast hækkuð í 740 mkr og framlengd til 01.05.09.

Virði trygginga var orðið lægra en virði lánsins þegar sparisjóðurinn samþykkti framlengingu á láninu. Í samþykkt lánanefndar sparisjóðsins kom fram að leita ætti leiða til að styrkja stöðuna. Samkvæmt þágildandi lánareglum bar ætíð við skuldbreytingar á lánum að reyna að bæta tryggingarstöðu sparisjóðsins ef hún var ekki fullnægjandi.

Í lok árs 2008 nam heildarskuldbinding Hvítsstaða ehf. 729 milljónum króna og var áhættuskuldbindingin um 5% af eiginfjárgrunni sparisjóðsins. Við ákvörðun um framlag á afskriftareikning útlána Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis 31. desember 2008 var ekki gert ráð fyrir tapi af skuldum Hvítsstaða ehf. og því ekki færð sérgreind niðurfærsla vegna lánveitingarinnar í afskriftareikning.155

Í desember 2011 kyrrsetti slitastjórn Kaupþings banka hf. hluti fimmmenninganna í Hvítsstöðum ehf. vegna skuldbindinga þeirra við þrotabú Kaupþings banka hf.156 Þá höfðu Hvítsstaðir ehf. einnig verið með háa skuldbindingu í Sparisjóði Mýrasýslu sem Arion

banki hf. hafði yfirtekið eftir fall sparisjóðsins. Í lok árs 2011 var eigið fé Hvítsstaða ehf. neikvætt um 806 milljónir króna.

Miðvörður ehf.

Miðvörður ehf. var eignarhaldsfélag í eigu þriggja starfsmanna Sparisjóðsins í Keflavík. Miðvörður átti í árslok 2008 stofnfjárbréf upp á rúmar 175 milljónir króna að nafnvirði í Sparisjóðnum í Keflavík og rúmar 18 milljónir króna að nafnverði í Byr sparisjóði.157

Miðvörður ehf. tók 14 milljóna króna lán hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis 2. febrúar 2007 til kaupa á 100.000 stofnfjárhlutum í Byr sparisjóði. Lánið var tryggt með handveði í hinum keyptu bréfum en markaðsvirði þeirra nam þá tæpum 13,4 milljónum króna. Þegar starfsmaður sparisjóðsins spurðist fyrir um það í tölvupósti hvort heimild væri til að lána 14 milljónir króna þrátt fyrir að markaðsvirði hlutanna væri einungis 13,4 milljónir króna, svaraði framkvæmdastjóri sparisjóðsins því til að það væri í lagi þar sem um trausta aðila væri að ræða.158 Veðsetningarhlutfall lánsins var um 104%.

Sparisjóðurinn veitti Miðverði ehf. lán í erlendri mynt að jafnvirði 40 milljóna króna 30. maí 2007 til kaupa á 4 milljónum stofnfjárhluta í Sparisjóðnum í Keflavík. Lánið var tryggt með veði í stofnfjárbréfunum og veðsetningarhlutfallið 100%. Miðvörður ehf. tók enn lán til kaupa á 4 milljónum stofnfjárhluta í Sparisjóðnum í Keflavík 23. ágúst 2007. Lánið var í erlendri mynt að jafnvirði 80 milljóna króna, tryggt með veði í stofnfjárbréfunum. Veðsetningarhlutfall var 100%. Hinn 20. desember 2007 veitti sparisjóðurinn Miðverði ehf. enn á ný lán í erlendri mynt að jafnvirði 17 milljóna króna til kaupa á rúmum 9,5 milljónum stofnfjárhluta í Byr sparisjóði. Lánið var tryggt með veði í stofnfjárbréfunum sjálfum og sem fyrr með 100% veðsetningarhlutfalli.

Lánanefnd sparisjóðsins bókaði á fundum sínum að Ólafur Haraldsson, framkvæmdastjóri sparisjóðsins, hefði samþykkt lánveitingarnar til Miðvarðar ehf. Í lánareglum sparisjóðsins frá maí 2006 var ekki að finna heimild til veðsetningar á stofnfjárbréfum en almenna reglan var sú að veita ekki lán með handveði í óskráðum bréfum. Lánanefnd hafði heimild til að samþykkja veðsetningu sem skyldi þó að jafnaði vera innan við 60% í bréfum sem væru „seljanleg hlutabréf í óskráðum en traustum innlendum fyrirtækjum“.159

Í lok nóvember 2008 hafði staða lána Miðvarðar ehf. hækkað vegna gengisfalls krónunnar og nam þá 378 milljónum króna. Á fundi endurskoðunarnefndar sparisjóðsins í janúar 2009 þar sem farið var yfir sérgreind framlög í afskriftareikning kom eftirfarandi fram um Miðvörð ehf.:

Lánveiting til félagsins er að fjárhæð 378 millj. kr. […]. Til trygginga voru tekin veð í hlutabréfum eigendanna en lánið var nýtt til kaupa á stofnfjárbréfum í Sparisjóðnum í Keflavík og Byr sparisjóði. Mikil óvissa er um raungildi trygginga því þykir rétt að gjaldfæra 250 millj. kr.
Nokkur umræða var um þetta félag, þar sem [einn eigendanna] á sæti í viðræðunefnd fyrir hönd SPKEF um sameiningu SPRON, SPKEF og BYR. Auk þess er vitað að Miðvörður skuldar einnig verulegar fjárhæðir í BYR. Nefndarmenn voru sammála um að staða [viðkomandi] í viðræðunefndinni orkaði mjög tvímælis þar sem hann hefur ríkra hagsmuna að gæta. Það er því ósk Endurskoðunarnefndar að [eigendur Miðvarðar ehf.] komi ekki að viðræðunefnd um sameiningu viðkomandi sparisjóða. Guðmundur [Hauksson] ætlaði að taka þetta mál upp við Geirmund [Kristinsson] með formlegum hætti.160

Sérgreint framlag í afskriftareikning vegna útlána til Miðvarðar ehf. nam rúmum 316 milljónum króna í lok árs 2008 og var það byggt á því að tryggingar væru ófullnægjandi. Miðvörður ehf. var úrskurðað gjaldþrota í maí 2010 og lýsti Drómi hf. 402 milljóna króna kröfu í þrotabúið en fékk aðeins úthlutað tæpum 3 milljónum króna.

17.2.6.1 Lán til stjórnar, starfsmanna og tengdra aðila

Í lánahandbókum Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis voru sérstakar reglur um starfsmannalán. Samkvæmt þágildandi ákvæði 2. mgr. 57. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki bar að fara með viðskipti starfsmanna fjármálafyrirtækja eftir þeim reglum sem stjórn setti.

Samkvæmt lánareglum sparisjóðsins var það stefna hans að veita starfsmönnum bestu kjör sem völ var á. Heimilt var að lána starfsmönnum eða tengdum aðilum, svo sem maka eða félagi sem starfsmaður átti meira en 10% eignarhlut í, allt að 5 milljónir króna. Fjárhæðir

umfram það voru háðar samþykki sparisjóðsstjóra eða framkvæmdastjóra útlánasviðs. Um tryggingar lána til starfsmanna giltu sömu reglur og um aðra lánþega sjóðsins.

Starfsmenn áttu að sýna gott fordæmi í eigin fjármálum og ekki vera í vanskilum. Útibússtjórum, þjónustustjórum eða innheimtustjóra bar að tilkynna starfsmannaþjónustu og innri endurskoðanda sparisjóðsins ef til verulegra vanskila kæmi hjá starfsmönnum. Ítrekuð vanskil gátu varðað uppsögn. Starfsmenn í verulegum vanskilum við sparisjóðinn eða aðrar lánastofnanir og þeir sem bjuggu við erfiða fjárhagsstöðu skyldu ekki hafa lánaheimild. Starfsmönnum var óheimilt að afgreiða sig sjálfir í tölvukerfum sem viðskiptavinir höfðu ekki aðgang að og skyldu ekki taka þátt í meðferð mála sem vörðuðu viðskipti þeirra sjálfra eða fyrirtækja og einstaklinga sem þeir voru persónulega eða fjárhagslega tengdir.

Í síðustu grein lánareglna Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis kom fram að reglurnar næðu jafnframt til starfsmanna dótturfélaga sparisjóðsins og bæri þeim að setja sambærilegar reglur um lán til sinna starfsmanna. Sambærileg ákvæði um lánveitingar til starfsmanna var að finna í lánareglum SPRON-Verðbréfa hf. en í lánareglum Frjálsa fjárfestingarbankans hf. voru ekki ákvæði um lán til starfsmanna þrátt fyrir að starfsreglur stjórnar og lánareglur Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis gerðu ráð fyrir að slíkar reglur væru settar.

Samkvæmt reglum um framkvæmd starfa stjórnar og sparisjóðsstjóra Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis átti innri endurskoðandi að taka saman skýrslur um viðskipti venslaðra aðila við samstæðuna sem lögð væri fyrir stjórn sparisjóðsins til umfjöllunar.

Samkvæmt 1. mgr. 57. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki var samningur fjármálafyrirtækis um lán, ábyrgðir, kauprétt eða sambærileg viðskipti við framkvæmdastjóra háður samþykki stjórnar fyrirtækisins. Samkvæmt reglum sparisjóðsins um framkvæmd starfa stjórnar og forstjóra bar að taka lánveitingar til stjórnarmanna, varamanna þeirra og forstjóra fyrir á fundi stjórnar. Jafnframt skyldi stjórn eigi sjaldnar en ársfjórðungslega upplýst um öll afgreidd viðskiptaerindi og kjör stjórnarmanna og tengdra aðila.

Fjármálaeftirlitið gerði athugasemd við að 22. maí 2007 hefði framkvæmdastjóri hjá sparisjóðnum gert framvirkan samning um kaup á hlutum í Exista hf. fyrir 10 milljónir króna sem ekki hefði verið lagður fyrir stjórn til samþykkis og að samningsins hefði ekki verið getið í skýrslu um fyrirgreiðslu til venslaðra aðila. Fjármálaeftirlitið gerði athugasemd við að innri endurskoðanda skyldi hafa yfirsést slík skuldbinding. Enn fremur var gerð athugasemd við það að trygging fyrir framvirka samningnum væri handveð í stofnfjárbréfum í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis en slíkt væri í andstöðu við lánareglur SPRON-Verðbréfa hf. og veðsetningin hefði hvorki verið borin undir lánafund né stjórn. Hvergi hefði verið bókað hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis hver heimilaði undanþáguna frá lánareglunum né hvaða rök hefðu legið þar að baki.161

Einkahlutafélag í eigu varamanns í stjórn Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis var á árinu 2007 með 311 milljóna króna yfirdrátt og lán að fjárhæð 428 milljónir japanskra jena. Yfirdrátturinn var tímabundinn og var á endanum lækkaður í 7 milljónir króna en lánið hækkaði á árinu 2008 vegna gengisbreytinga. Í lok ársins nam heildarskuldbinding félagsins tæpum 489 milljónum króna og voru tæpar 197 milljónir króna færðar sem sérgreint framlag í afskriftareikning 31. desember 2008.162

Á stjórnarfundi 13. nóvember 2008 var gerð grein fyrir lánum til starfsmanna vegna hlutafjárkaupa. Kom fram að starfsmenn lytu sömu reglum um þjónustu og aðstoð og aðrir viðskiptavinir og fengju enga sérmeðferð.

Talsvert var um lánveitingar til starfsmanna samstæðu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis. Staða lána til starfsmanna samstæðunnar frá 30. september 2008 til 15. maí 2009 var að meðaltali um 4 milljarðar króna á tímabilinu, eða um það bil 2% af heildarútlánum samstæðunnar. Í lok september 2008 voru sex starfsmenn með lán yfir 100 milljónir króna hver, samtals um 900 milljónir króna. Þegar Fjármálaeftirlitið tók yfir vald hluthafafundar sparisjóðsins 21. mars 2009 voru fimm starfsmenn með lán yfir 100 milljónir króna, samtals um 751 milljón króna. Lækkun lánanna skýrist að hluta til af afskriftum.

Afskriftir lána til starfsmanna

Á stjórnarfundi 30. september 2008 var fjallað um niðurfærslur upp á 150 milljónir króna vegna lána til þriggja starfsmanna samstæðunnar. Um var að ræða sérfræðing í reikningshaldsdeild sparisjóðsins og tvo framkvæmdastjóra dótturfélaga.

Á fundi endurskoðunarnefndar 6. janúar 2009, þar sem fjallað var um skýrslu KPMG um útlán til viðskiptavina og mat á afskriftum, kom fram að á tímabilinu 1. janúar til 30. nóvember 2008 hefði sparisjóðurinn afskrifað um 230 milljónir króna vegna þriggja starfsmanna og tveggja fyrirtækja í eigu starfsmanna og maka þeirra. Vísað var til samþykktar frá stjórnarfundinum 30. september um að afskrifa endanlega vegna þriggja starfsmanna. Stjórnarfundurinn 30. september bókaði eftirfarandi um aðgerðir gagnvart umræddum starfsmönnum:

Mikil umræða fór fram um stöðu þessara starfsmanna, sérstaklega þar sem ríkari kröfur eru gerðar til fjármála starfsmanna en annarra viðskiptavina samkvæmt lánahandbók SPRON. Fram kom sú skoðun að það væri „prinsipp“ að taka ákveðið á þessum málum. Einnig kom það fram að þessir starfsmenn, að [einum] undanskildum, væru í þannig störfum að möguleiki á misferli væru mjög litlir. Niðurstaðan var sú að Guðmundur [Hauksson] geri tilhlýðilegar ráðstafanir [varðandi þann aðila]. Um aðra starfsmenn yrði gerð ítarleg greinargerð, þar sem farið væri yfir fjármál hvers og eins, ásamt lýsingu á þeim störfum sem viðkomandi starfaði fyrir sparisjóðinn í dag. Í framhaldi af niðurstöðum greinargerðanna yrði tekin ákvörðun um störf þessara aðila.

Samhliða afskriftum starfsmannanna var gert samkomulag um endurskipulagningu á skuldbindingum þeirra. Samningarnir báru allir yfirskriftina „nauðasamningur“ og voru dagsettir 1. október 2008.163 Öll lánin voru með veði í hlutum í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, stofnfjárbréfum Sparisjóðsins í Keflavík eða skráðum bréfum. Þá voru fasteignir lagðar að veði fyrir lánum tveggja starfsmannanna. Allir fengu starfsmennirnir nýtt lán fyrir hluta útistandandi lána en annað var afskrifað.

Stjórnarfundur sparisjóðsins 30. september 2008 fjallaði aðeins um afskriftir af lánum til þessara þriggja starfsmanna en tveir aðrir starfsmenn og fyrirtæki í þeirra eigu gerðu einnig samskonar samkomulag undir yfirskriftinni „nauðasamningur“ á svipuðum tíma. Um var að ræða starfsmann sparisjóðsins og maka hans sem voru með lán sem námu rúmum 300 milljónum króna og framkvæmdastjóra eins af dótturfélögum sparisjóðsins með rúmlega 51 milljónar krónu skuldbindingar við sparisjóðinn. Tryggingar fyrir lánunum voru hlutabréf í Sparisjóði reykjavíkur og nágrennis, fasteignir og verðbréfasöfn. Skuldauppgjör við starfsmann og maka fól í sér að eignir voru teknar upp í skuldir, nýtt lán veitt fyrir um helmingi þeirra og og annað afskrifað. Til uppgjörs á skuldum framkvæmdastjórans var félagi í hans eigu veitt lán til þess að greiða upp persónulegar skuldir hans. Ekkert var afskrifað.

Samtals var um að ræða afskriftir vegna skuldbindinga fimm starfsmanna, auk maka eins starfsmanns, sem námu 230 milljónum króna. Þeir þrír starfsmenn sem fremst er getið í umfjölluninni héldu allir áfram störfum fyrir samstæðu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis allt þar til Fjármálaeftirlitið tók yfir vald hluthafafundar sparisjóðsins á vormánuðum 2009.

17.3 Fjáreignir og fjárfestingar

Í þessum kafla er fjallað um fjárfestingar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis á samstæðugrundvelli með áherslu á þær stærstu sem og þær sem ollu honum mestu tapi á árinu 2008. Fjallað verður um skipulag og reglur sparisjóðsins, framkvæmd fjárfestinga og áhættustýringu. Litið verður á þróun verðbréfaeignar, afkomu af verðbréfaeign og áhrif á afkomu sparisjóðsins á árunum 2001–2008.

17.3.1 Fjárfestingarheimildir og framkvæmd fjárfestinga

Stjórn sparisjóðsins samþykkti reglur um störf stjórnar og framkvæmdastjóra á fundi sínum 20. desember 2003.164 Í 11. gr. reglnanna er fjallað um hlutverk stjórnar og segir meðal annars:

Stjórn sparisjóðsins skal sinna stefnumótun, eftirliti og töku meiriháttar ákvarðana í rekstri sparisjóðsins. Sparisjóðsstjórn fer með málefni sparisjóðsins og skal hún annast um að stjórnskipulag rekstrar hans og starfsemi sé jafnan í réttu og góðu horfi. Stjórn skal tryggja að nægilegt eftirlit sé með bókhaldi og meðferð fjármuna sparisjóðsins.
Sparisjóðsstjórninni ber að setja markmið varðandi áhættur í starfseminni, ákveða mörk áhættutöku og byggja upp eftirlit með áhættum í rekstrinum sbr. reglur um áhættustýringu SPRON. Þá ber stjórninni að fylgja eftir settum markmiðum. Sparisjóðurinn skal hafa tryggt eftirlit með áhættu í starfsemi sinni.
Sparisjóðsstjórn fjallar um þau mál sem hún skal annast samkvæmt lögum, reglugerðum, fyrirmælum Fjármálaeftirlitsins og samþykktum sparisjóðsins, svo og þau mál sem sparisjóðsstjóri leggur fyrir stjórnina.

Starfsskyldur sparisjóðsstjóra voru skilgreindar í 16. gr. og voru þær meðal annars:

Sparisjóðsstjóri ber ábyrgð á daglegum rekstri sparisjóðsins. Hann fer með ákvörðunarvald í öllum málefnum sparisjóðsins. Sparisjóðsstjóri stendur fyrir rekstri sparisjóðsins í samræmi við þær reglur sem settar eru af sparisjóðsstjórn skv. samþykktum hans og lögum.
Sparisjóðsstjóra er heimilt að veita öðrum starfsmönnum umboð til að fara með afmarkaðar heimildir starfsskyldu sinnar að fengnu samþykki stjórnar sparisjóðsins.
Sparisjóðsstjóri ber ábyrgð á að greina, mæla, fylgjast með og hafa eftirlit með áhættum sem starfseminni fylgja. Honum ber að viðhalda skipuriti sem skýrt tilgreinir ábyrgðarsvið, heimildir starfsmanna og boðleiðir innan sparisjóðsins.

Mörk heimilda sparisjóðsstjóra voru til umfjöllunar í 27. gr. sömu reglna:

Um mörk heimilda sparisjóðsstjóra til fjárfestingar í verðbréfum fer samkvæmt reglum stjórnar sparisjóðsins um áhættustýringu. Fjárfesting í öðrum fasteignum en fullnustueignum skal borin upp í stjórn, sem og önnur þau fjárfestingaráform sem telja má meiriháttar eða óvenjuleg. Sem dæmi má nefna kaup á meiriháttar tölvubúnaði og fyrirhugaða opnun útibúa og afgreiðslustaða.

Reglur um áhættustýringu, sem reyndar gengu undir heitinu handbók áhættustýringar, voru nokkuð almenns eðlis. Í þeim sagði til að mynda: „Meginreglur áhættustýringar skulu notaðar til grundvallar ítarlegri reglum um áhættustýringu í tilteknum þáttum rekstrarins og ákvarða valdssvið starfsmanna. Í meginreglum áhættustýringar skal mótaður almennur rammi sem stjórn SPRON setur varðandi áhættuþætti í fjárhagslegum og ófjárhagslegum efnisflokkum.“

Handbókin skilgreindi fjölmarga áhættuþætti sparisjóðsins og var markaðsáhætta talin vera einn sá helsti. Hún var skilgreind sem áhætta sem skapaðist vegna óvissu í flæði framtíðartekna eða -gjalda sparisjóðsins sem afleiðing af verð- og/eða vaxtabreytingum á markaði. Þar gæti verið um að ræða breytingu á vaxtastigi, breytingu á hlutabréfaverði eða breytingu á gengi gjaldmiðla.

Í viðaukum með handbók áhættustýringar voru hámörk fjárfestingarheimilda og tíðni áhættumælinga skilgreind. Í viðauka frá árinu 2004 var markaðsáhættunni skipt milli veltubókar fjárstýringar og veltubókar miðlunar. Í veltubók fjárstýringar skyldi færa skráð íslensk og erlend verðbréf innan ákveðinna hlutfalla. Þar skyldu vera íslensk skuldabréf og víxlar sem væru nothæf í endurhverfum viðskiptum gagnvart Seðlabankanum. Öllum stöðutökum sparisjóðsins í markaðsverðbréfum skyldi stýrt af fjárstýringu og þær færðar í veltubók, nema stjórn hefði samþykkt aðra meðhöndlun við bókun einstakra viðskipta eða stöðutöku. Forstöðumaður fjárstýringar bar ábyrgð á þessum fjárfestingum. Í veltubók miðlunar skyldu skráð verðbréf sem miðlun þurfti að hafa milligöngu um til að safna í stöður fyrir viðskiptavini sína.

Í kjölfar stefnumótunarvinnu hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis tók nýtt skipurit gildi frá og með 1. mars 2005. Afkomusvið voru þá sex talsins að meðtöldum dótturfélögunum nb.is-sparisjóði hf. og Frjálsa fjárfestingarbankanum hf. Eitt afkomusviðanna var SPRON markaðsviðskipti sem átti að annast miðlun og stöðutökur á markaði fyrir sparisjóðinn og var Jón Hallur Pétursson forstöðumaður þess sviðs.165

Fyrr á sama ári hafði sparisjóðsstjóri þó fjallað um undirbúning að stofnun verðbréfafyrirtækis á stjórnarfundi. Þar sagðist hann telja að svigrúm hefði myndast á markaði fyrir verðbréfafyrirtæki og því hefði hann hug á að sparisjóðurinn setti slíkt fyrirtæki á stofn. Hann sagði að eignaraðild annarra kæmi vel til greina og því yrðu möguleikar á samstarfi við aðra aðila kannaðir vandlega. Á fundinum fól stjórnin sparisjóðsstjóra að halda áfram undirbúningi á málinu.166 SPRON-Verðbréf hf. var svo stofnað í maí 2005 og framkvæmdastjóri félagsins var Jón Hallur Pétursson.

Á stjórnarfundi sparisjóðsins 28. desember 2005 fór sparisjóðsstjóri yfir skipulag, markmið og rekstur SPRON-Verðbréfa hf. Starfsemin skyldi ná til reksturs sjóða, miðlunar og eignastýringar og var markmiðið að koma verðbréfastarfsemi sparisjóðsins inn í nýja félagið. Það myndi ekki vera með eigin stöðutöku en til stæði að bæta við nýju sviði hjá félaginu, eignastýringu fagfjárfesta, og yrði fyrsti viðskiptavinurinn Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis. Stöðutaka sparisjóðsins, um 1,5–2 milljarðar króna í hlutabréfum og um 3–4 milljarðar í skuldabréfum, færi í eignastýringu hjá SPRON-Verðbréfum hf. Á stjórnarfundinum var einnig kynnt hugmynd um stofnun fjárfestingarfélags, Fjárfestingarfélags SPRON – Steinsnes ehf., sem tengdist aðallega fasteignaverkefnum eins og lýst er hér aftar. Verkefni Steinsness ehf. áttu að vera margþættari en raunin varð, t.d. hvað varðaði miðlun, ráðgjöf, útlán og fjárstýringu fyrir samstæðuna. Til stóð jafnvel að sækja um leyfi fjárfestingabanka fyrir þetta félag.

Í október 2006 gerði sparisjóðurinn svo rammasamning við SPRON-Verðbréf hf. um eignastýringu, ávöxtun og vörslu verðbréfa. Með samningnum veitti sparisjóðurinn félaginu umboð til að kaupa verðbréf eða aðra fjármálagerninga fyrir sína hönd samkvæmt skilgreindri fjárfestingarstefnu, annast vörslu verðbréfa, innlausn þeirra og innheimtu á afborgunum, vöxtum og verðbótum. Fyrir þjónustuna greiddi sparisjóðurinn SPRON-Verðbréfum hf. ákveðna þóknun sem tilgreind var í samningnum. Fjárfestingarstefnan náði til innlendra hlutabréfa, verðtryggðra og óverðtryggðra skuldabréfa, fyrirtækjabréfa, verðbréfasjóða, hlutabréfasjóða, eignastýringar á vegum Kaupþings í Lúxemborg og bréfa í Exista hf.

Í samningnum var kveðið á um að fundir skyldu haldnir eigi sjaldnar en mánaðarlega með fjárfestingaráði sparisjóðsins þar sem árangur, ávöxtun og áhætta væru metin. Tveir fjárfestingastjórar yrðu með safni sparisjóðsins; annar hefði umsjón með stýringu innlendra hlutabréfa og hlutabréfasjóða en hinn umsjón með stýringu á verðtryggðum og óverðtryggðum skuldabréfum, fyrirtækjabréfum og verðbréfasjóðum. Báðir voru tilgreindir fjárfestingastjórar þess hluta safns sparisjóðsins sem var í stýringu hjá Kaupthing Bank Luxembourg S.A. Þá var sérstakur starfsmaður tilgreindur sem fjárfestingastjóri yfir Exista safni sparisjóðsins, en SPRON-Verðbréf hf. átti að fylgjast með þróun á verðmæti þeirrar eignar og upplýsa sparisjóðinn reglulega um hana.167 Þess ber að geta að samningurinn við SPRON-Verðbréf hf. náði eingöngu til skilgreindra eigna, ekki allra verðbréfa í eigu sparisjóðsins. Ekki var gert ráð fyrir því að í félaginu væru fjárfestingar sem sparisjóðurinn hygðist eiga í lengri tíma heldur yrðu í umsjá félagsins bréf sem keypt væru til að hagnast á skammtímaverðbreytingum. Fjárfestingarbók, eða langtímafjárfestingar, yrði í umsjón starfsmanna sparisjóðsins og annarra dótturfyrirtækja. Starfsmann sparisjóðsins, sem kom að fjárfestingum hans og starfaði í sparisjóðnum frá 2006, rak ekki minni til þess að fjárfestingaráð hefði verið starfrækt.168

Þau gögn sem rannsóknarnefndinni hafa verið afhent bera ekki með sér að aðrir viðaukar við handbók áhættustýringar hafi verið gerðir frá 2004 til mars 2007. Þá var gerður viðauki sem skipti fjárfestingum sparisjóðsins í veltubók og veltubók miðlunar. Í veltubók skyldu vera skráð íslensk og erlend verðbréf innan ákveðinna hlutfalla og þar skyldu vera skuldabréf og víxlar sem væru nothæf í endurhverfum viðskiptum við Seðlabanka Íslands. Öllum stöðutökum í markaðsverðbréfum skyldi stýrt samkvæmt samningi við SPRON-Verðbréf hf. og skyldu þær færðar í veltubók nema stjórn samþykkti aðra meðhöndlun. SPRON-Verðbréf hf. bar ábyrgð á og skyldi stýra stöðutöku í markaðsverðbréfum fyrir sparisjóðinn í samræmi við fjárfestingarstefnu og ákvarðanir fjárfestingaráðs á hverjum tíma.

Haustið 2007 tók nýtt skipurit gildi og var þá skilgreint sérstakt svið innan sparisjóðsins sem sá um fjárfestingar. Valgeir M. Baldursson var ráðinn framkvæmdastjóri þess sviðs.169 Sviðinu var ætlað að halda betur utan um fjárfestingar sjóðsins, bæði í veltubókinni sem stýrt var af SPRON-Verðbréfum hf. sem og aðrar fjárfestingar í skráðum og óskráðum eignum sem sjóðurinn átti. Fjárfestingar sparisjóðsins voru þá ýmist á viðskiptabankasviði, hjá forstjóra, hjá SPRON-Verðbréfum hf. eða í dótturfélögum.170

Valgeir M. Baldursson gegndi starfinu í nokkra mánuði eða fram til janúar 2008. Á þeim tíma voru engar nýfjárfestingar en hann sagði rammann utan um fjárfestingar hafa verið skýran:

Stjórn tók auðvitað ákvörðun um öll svona stærri mál […] en önnur mál voru síðan tekin af forstjóra og framkvæmdastjóra. […] [Það voru alveg niður í] 100 milljóna króna fjárfestingar sem voru að fara fyrir stjórnarfundi. Síðan var þetta veltubókin sem rúllaði með heimildum sem [voru í SPRON-Verðbréfum hf.] en aðrar eignir voru eignir sem menn höfðu átt lengi og ætluðu sér að eiga. Það var ekki mikið um að það væri verið að fjárfesta til þess að kaupa og selja svo strax aftur.171

Ragnar Þórir Guðgeirsson tók við af Valgeiri sem framkvæmdastjóri fjárfestinga og gegndi því starfi fram á ágústmánuð 2008. Hann var jafnframt titlaður framkvæmdastjóri Kistu – fjárfestingarfélags ehf. Ragnar tjáði rannsóknarnefndinni að á hans starfstíma hefði ekki verið ráðist í nýjar fjárfestingar, mestur tími hans hefði farið í að átta sig á eignasafni sparisjóðsins og ná utan um það. Hann sagðist hafa leitað leiða til að losa sparisjóðinn úr þeirri stöðu sem hann var kominn í með Exista hf. og hefði það meðal annars verið reynt í samstarfi við Kaupþing banka hf. Viðbrögðin voru hins vegar dræm og ljóst að þungt ástand á fjármálamörkuðum var farið að hafa áhrif víða. Ragnar lýsti skipulagi sparisjóðsins hvað varðar fjárfestingar svo:

Vandinn er að við vorum með eina stóra fjárfestingu sem var Exista og það var mjög eðlilegt að ekki yrði tekin ákvörðun um hana nema með íhlutun forstjóra eða stjórnar félagsins. Hins vegar voru allar minni fjárfestingar í greiðslumiðlunarfyrirtækjunum og eignasafn í Lúxemborg o.s.frv. á minni könnu þegar ég kem til starfa. Ég fann það mjög fljótt á stjórnunarstílnum þarna innanhúss að menn vildu að það væri samhljómur meðal framkvæmdastjóranna um að taka ákvarðanir um þetta. Þannig að ég fékk í raun og veru mjög takmarkað umboð til ákvarðana […] ég var t.d. ekki umsjónarmaður reikningsins í Lúxemborg. Jón Hallur hafði verið það áður og þar af leiðandi þurfti ég að hafa hann með í ráðum varðandi tilfærslur af þeim reikningi.172

Með viðauka við rammasamning milli sparisjóðsins og SPRON-Verðbréfa hf. í lok árs 2007 voru gerðar breytingar á fyrra skipulagi. Verðbréfasöfnum var fækkað úr sjö í eitt og fjárfestingamörk rýmkuð. Í samningnum kom fram að með því að sameina söfn og rýmka heimildir gætu sjóðstjórar nýtt ýmis tækifæri betur. Sjóðstjórar skyldu funda vikulega með framkvæmdastjóra fjárfestinga. Á þriggja mánaða fresti, fyrir birtingu ársfjórðungsuppgjörs, skyldu sjóðstjórar og framkvæmdastjóri fjárfestinga funda með forstjóra, framkvæmdastjóra sparisjóðsins, framkvæmdastjóra SPRON-Verðbréfa hf. og forstöðumanni áhættustýringar og fara yfir árangur og ákvarðanir í liðnum fjórðungi.173

Samkvæmt fundargerðum stjórnar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis var rætt um fjárfestingar sparisjóðsins á um helmingi þeirra 106 funda stjórnarinnar sem haldnir voru frá 2004 til 2008. Þá er átt við að rætt hafi verið almennt um atriði sem vörðuðu fjárfestingar, eins og til dæmis yfirferð yfir árangur af hlutabréfasafni sparisjóðsins í heild, þróun hlutafjáreignar í Exista eða afstöðu til breytinga sem áttu sér stað í Sparisjóðabankanum. Í þessum tilvikum var ekki verið að ræða nýfjárfestingar nema að mjög takmörkuðu leyti. Almennt var þeim málum vísað til sparisjóðsstjóra.

17.3.2 Eftirlit með fjárfestingum

Páll Árnason var forstöðumaður áhættu- og útlánastýringar sparisjóðsins frá árinu 2004. Um áhættustýringu sparisjóðsins sagði í handbókinni að hún skyldi skilgreina áhættusvið sparisjóðsins og setja meginreglur um þá áhættu sem ásættanlegt væri að taka í rekstrinum á hverjum tíma. Þá skyldi hún skilgreina hvernig meta ætti einstaka áhættuþætti, setja starfsreglur um hvernig taka ætti ákvaðanir sem gætu leitt af sér áhættu fyrir sparisjóðinn og hverjir gætu tekið slíkar ákvarðanir, ásamt því hvernig daglegu eftirliti og skýrslugjöf með áhættuþáttum sparisjóðsins skyldi háttað.

Forstöðumanni áhættustýringar var framselt daglegt eftirlitshlutverk og vald til að grípa til nauðsynlegra aðgerða til að koma í veg fyrir að starfsmenn færu út fyrir fyrir fram gefnar heimildir og mörk sem sett voru af áhættustýringarhópi. Í honum voru forstöðumaður áhættustýringar, sparisjóðsstjóri, framkvæmdastjóri sparisjóðsins, framkvæmdastjóri fjárstýringar sparisjóðsins, framkvæmdastjóri SPRON-Verðbréfa hf. og framkvæmdastjóri Frjálsa fjárfestingarbankans hf. Hlutverk hópsins var að móta, skrá og framfylgja stefnu varðandi heildaráhættu sparisjóðsins hverju sinni ásamt því að leggja mat á árangur settrar stefnu. Hópurinn skyldi koma á fót eftirlitskerfi og ferli við mat á áhættu. Jafnframt skyldi hann ákvarða hámarksáhættustig sparisjóðsins hverju sinni og uppfræða stjórn reglulega um áhættutöku sparisjóðsins. Þá átti hópurinn að yfirfara reglulega sett viðmið og mörk áhættuþátta. Áhættuhópurinn átti að móta skýra, skriflega fjárfestingarstefnu ásamt viðmiðunarmörkum um áhættu og yfirfara hana reglulega. Hópurinn hafði einnig önnur hlutverk varðandi útlánaáhættu og heildaráhættu sparisjóðsins.

Fjárfestingamörk og tíðni mælinga á fylgni við stefnuna voru skilgreind í viðaukum við áhættuhandbók en þau breyttust einnig að frumkvæði áhættustýringarhóps eins og bar að gera. Á fundum hópsins var raunstaða sparisjóðsins borin saman við þau mörk sem höfðu verið sett. Til dæmis var á fundi hópsins í janúar 2007 farið yfir mörk markaðsáhættu en þá gilti að:

  1. Heildarmarkaðsverð eigna í veltu- og fjárfestingarbók mætti ekki vera meira en 20% af heildarniðurstöðu efnahagsreiknings.

  2. Heildarmarkaðsverð skuldabréfa sem voru ríkis- eða bankatryggð mætti vera allt að 100% af eigin fé sparisjóðsins.

  3. Heildarmarkaðsverð skuldabréfa fyrirtækja mátti ekki fara yfir 10% af eigin fé sjóðsins og skuldabréf einstakra fyrirtækja yrði að vera minna en 5% af eigin fé.

  4. Heildarmarkaðsverð hlutabréfa í íslenskum krónum ætti hæst að nema 75% af eigin fé og heildarmarkaðsverð hlutabréfasjóða mætti ekki fara yfir 10% af eigin fé.

  5. Heildarmarkaðsverð hlutabréfa eins félags mætti hæst vera 10% af eigin fé, þó gæti stjórn veitt samþykki fyrir því að það yrði allt að 50%.

  6. Heildarmarkaðsverðmæti erlendra verðbréfasjóða eða -safna yrði að vera undir 15% af eigin fé og markaðsverð einstakra verðbréfasjóða eða safna (sjóðir eða söfn verðbréfa sem skráð voru í Vestur-Evrópu eða Norður-Ameríku) skyldi vera minna en 10% af eigin fé sjóðsins.

Eigið fé í reglunum var „eigið fé samkvæmt næstliðnu uppgjöri“. Á árinu 2007 voru mörg þessara hlutfalla hækkuð. Þannig mátti heildarmarkaðsverð eigna í veltu- og fjárfestingarbók nema 25% af eignum frá sumrinu 2007. Frá sama tíma var hámarksheildarmarkaðsverð hlutabréfa 100% af eigin fé og síðar á árinu var það hækkað í 130% af eigin fé. Heildarmarkaðsverð hlutabréfa eins félags með sérstöku samþykki stjórnar var hækkað í 85% af eigin fé og svo í 100% af eigin fé. Fundargerðir áhættustýringarhóps bera það með sér að mörk hafi verið hækkuð því að ákveðnar eignir eða eignaflokkar hafi verið komin umfram leyfilegt hámark. Þó slíkt sé ekki óleyfilegt mætti ætla að viðmið séu sett til þess að takmarka áhættu og hana ætti að minnka þegar komið er að hæsta leyfilega gildi í stað þess að rýmka reglur til þess að koma til móts við vaxandi áhættu. Hér á eftir fara nokkur dæmi:

  1. Á fundi hópsins í mars 2006 var heildarvirði skuldabréfasjóða 11,4% af eigin fé sparisjóðsins en hámarkið var 10%. Á fundinum var rætt að endurskoða þyrfti viðmiðanir með „G.H.“ [Guðmundi Haukssyni sparisjóðsstjóra].

  2. Á fundi 12. september 2006 kom fram að leyfilegt hlutfall heildarmarkaðsverðs eigna í veltu- og fjárfestingarbók hefði verið hækkað úr 15% í 20% af heildarniðurstöðu efnahagsreiknings sparisjóðsins. Þessar eignir námu þá 19,6% af eignum og voru því naumlega innan nýrra marka. Á sama fundi kom fram að skoða þyrfti mörk í hlutabréfum einstakra félaga vegna hækkunar á gengi Exista: „Eign í Exista hefur hækkað og er komin í 76,9% af eigin fé, en mörkin voru sett í 50% af eigin fé, en þessi mörk þarf að hækka nú þegar Exista hf. verður skráð á markað, ef SPRON ætlar að eiga bréfin. Sama gildir um hlutfall heildarmarkaðsverðs hlutabréfa og hlutabréfasjóða af eigin fé, en það hlutfall er komið í 94,4% en sett mörk voru 75%.“

  3. Á fundi hópsins tveimur vikum síðar, 26. september 2006, var heildarvirði eignarhlutarins í Exista hf. vel umfram leyfileg mörk eða í 84,4% af eigin fé sparisjóðsins meðan hámarkið var 50%. Hlutfall heildarmarkaðsverðs hlutabréfa og hlutabréfasjóða var þá 103,4% af eigin fé sjóðsins en mörkin heimiluðu mest 75% af eigin fé. Gengi Exista hf. hélt áfram að hækka út árið 2006 og fyrstu mánuði ársins 2007. Í fundargerðum áhættustýringarhópsins frá þessum tíma kom ítrekað fram að endurskoða þyrfti mörk vegna markaðsáhættu.

  4. Á fundi hópsins 27. mars 2007 var markaðsverð eigna í veltu- og fjárfestingarbók yfir mörkum og eins heildareign í íslenskum hlutabréfum en þau voru 100,8% af eigin fé sparisjóðsins meðan hámarkið var 75%. Þá var eignarhluturinn í Exista 75% af eigin fé en hámark samkvæmt reglum var 50%. Á fundinum var lögð fram tillaga að nýjum mörkum til viðmiðunar fyrir markaðsáhættu sem leggja átti fyrir stjórn.

Í töflu 18 eru dregin saman dæmi um mælingar á eignaflokkun á fundum áhættustýringarhóps. Þar eru eingöngu birtar upplýsingar um þrjá flokka, heildarmarkaðsverð eigna í veltubók og fjárfestingarbók sem hlutfall af heildareignum, heildarmarkaðsverð hlutabréfa sem hlutfall af eigin fé og virði eignarhlutar í einu félagi sem hlutfall af eigin fé með sérstöku samþykki stjórnar. Ekki eru birtir allir flokkar sem voru skoðaðir af hópnum og hefur það áhrif á hversu vel lesandanum kann að virðast hafa verið haldið utan um áhættur innan sparisjóðsins. Skuldabréf voru til að mynda mun oftar innan settra marka en hlutabréf, en til einföldunar eru upplýsingar um þau ekki birtar í töflunni. Þar sem eignarhlutir höfðu mun meiri áhrif á rekstur sparisjóðsins en skuldabréf er áhersla á þá hér. Hér eru birt þau atriði sem hægt er að nálgast upplýsingar um úr fundargerðunum, þar sem engar upplýsingar komu fram eru eyður.

Áhætta af hlutabréfum var sjaldnast innan þeirra hámarka sem sett voru, nema yfirleitt stuttu eftir að hámarksáhættan hafði verið hækkuð. Lækkun áhættu vegna einstaks félags á árinu 2007 og snemma árs 2008 var fyrst og fremst vegna gengislækkunar Exista hf. en ekki vegna beinna aðgerða sparisjóðsins sjálfs til þess að draga úr henni. Yfirferð áhættustýringarhóps náði til Kistu – fjárfestingarfélags ehf. sem var óskráð félag fært með hlutdeildaraðferð í bókum sparisjóðsins. Annað óskráð félag sem fært var með hlutdeildaraðferð, Sparisjóðabanki Íslands hf., var hins vegar ekki til umræðu samkvæmt fundargerðum hópsins. Aðrar óskráðar eignir voru það ekki heldur.

Ólíkt mörgum öðrum sparisjóðum framkvæmdi Fjármálaeftirlitið ekki vettvangsathugun á útlánaáhættu, markaðsáhættu og eftirliti með peningaþvætti hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis eftir 2005. Athugun Fjármálaeftirlitsins á sparisjóðnum, sem var gerð október 2007, sneri eingöngu að útlánaáhættu og því ekki ástæða til að gera grein fyrir athugasemdum Fjármálaeftirlitsins hér.

17.3.3 Fjáreignir

Fjáreignir eru af þrennum toga í þessari umfjöllun; hlutir í hlutdeildarfélögum, hlutabréf og verðbréf með breytilegum tekjum og markaðsskuldabréf og önnur skuldabréf með föstum tekjum. Jafnan er fjallað um þær tvær fyrstnefndu saman sem eignarhluti. Á árunum 2001–2004 breyttust fjáreignir sparisjóðsins lítið að umfangi þótt ákveðnir eignaflokkar hafi stækkað meðan aðrir minnkuðu. Á árunum 2005–2007 rúmlega tvöfölduðust fjáreignir sparisjóðsins, einkum vegna breytinga á eignarhlutum í eigu hans og ber þar helst að nefna gengishækkun Exista hf. Fjáreignir sparisjóðsins rýrnuðu mjög á árinu 2008 og var þar einkum um að ræða tap af skráðum hlutabréfum í eigu hans.

Fjáreignir sparisjóðsins í árslok 1997 námu 5,6 milljörðum króna.174 Þá voru markaðsskuldabréf tæplega 3/4 hluta safnsins. Þegar Kaupþing hf. var skráð á markað árið 2000 jókst virði þess mjög og við það hækkaði hlutfall hlutabréfa af fjáreignum sparisjóðsins. Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis seldi alla hluti sína í Kaupþingi banka hf. til bankans sjálfs fyrir 2,7 milljarða króna á árinu 2002 til að fjármagna kaup á Frjálsa fjárfestingarbankanum hf. Kaupþing banki hf. seldi svo hlutina áfram til Meiðs ehf.175 Frá 1997 til 2005 hækkaði virði fjáreigna sparisjóðsins að raunvirði um rúman þriðjung en árleg meðaltalsraunhækkun á tímabilinu var þó ekki nema tæp 5%, sem var töluvert lægra en raunávöxtunarkrafa húsbréfa á sama tímabili.176

Fjáreignir sem hlutfall af heildareignum Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis voru yfirleitt umfram það sem aðrir sparisjóðir áttu að venjast frá árinu 2001 til 2007, þó sum árin væru hlutföllin svipuð. Fjáreignir sem hlutfall af eigin fé sparisjóðsins voru mun hærri en hjá öðrum sparisjóðum til ársins 2005 en þá og næsta ár á eftir var hlutfallið svipað. Vegna áhrifa Exista hf. árið 2007 var hlutfall fjáreigna af eigin fé Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hærra en hjá öðrum sparisjóðum. Einnig komu til stórar stofnfjárhækkanir í Byr sparisjóði og Sparisjóðnum í Keflavík á árinu. Árið 2008 varð hlutfall fjáreigna af eigin fé sparisjóðsins neikvætt meðan það var mjög hátt í öðrum sparisjóðum. Þar hafði jákvætt eigin fé í Byr sparisjóði og Sparisjóðnum í Keflavík mjög mikil áhrif á samanburðarhópinn. Þó eigið fé væri jákvætt í flestum öðrum sparisjóðum var það mun lægra en verið hafði árin á undan og hlutfall fjáreigna af eigin fé því töluvert hærra.

Á árinu 2002 seldi sparisjóðurinn hlut í Kaupþingi banka hf. til þess að fjárfesta í Frjálsa fjárfestingarbankanum hf., sem varð dótturfélag sparisjóðsins. Við samstæðuuppgjör var eignarhluturinn í fjárfestingarbankanum ekki færður sem slíkur heldur horft í gegnum félagið, og eignir þess og skuldir voru á reikningi sparisjóðsins sjálfs. Frjálsi fjárfestingarbankinn hf. hafði átt ríflega 3 milljarða króna af skuldabréfum í lok árs 2001 samkvæmt ársreikningi þess árs og því jókst skuldabréfaeign sparisjóðsins við kaup á bankanum. Þetta hafði mikil áhrif á hlutfall eignarhluta af heildarfjáreignum því skuldabréf höfðu mun meira vægi en flest önnur ár. Frá árinu 2002 jókst vægi eignarhluta og var mjög áþekkt sama hlutfalli í öðrum sparisjóðum.

17.3.4 Tekjur af fjáreignum

Tekjur af fjáreignum eru gengishagnaður vegna hlutabréfa og verðbréfa með breytilegum tekjum, verðbreytingar skuldabréfa, hlutdeild í afkomu hlutdeildarfyrirtækja og arðstekjur. Vaxtatekjur af skuldabréfum teljast ekki til tekna af fjáreignum og færast með öðrum vaxtatekjum. Ávöxtun er hér skilgreind sem tekjur af fjáreignum á einu ári sem hlutfall af meðalstöðu eignarhluta á árinu.177

Ósamkvæmni var í því hvernig söluhagnaður fjáreigna var færður. Hann var ýmist færður meðal annarra tekna eða sem gengishagnaður í ársreikningi Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis. Þetta á einnig við um marga aðra sparisjóði. Í endurskoðunarskýrslum með ársreikningi kemur gjarnan fram hversu hár söluhagnaður af fjáreignum er. Árið 2001 var söluhagnaður sparisjóðsins 128 milljónir króna vegna Fjárfestingafélagsins Stoða hf. og 39 milljónir króna vegna Meiðs ehf. og var hann færður sem gengishagnaður. Söluhagnaður af SP-fjármögnun hf., sem nam 141 milljón króna árið 2002, var færður meðal annarra rekstrartekna. Árið 2005 hagnaðist sparisjóðurinn um 276 milljónir króna af sölu Alþjóða líftryggingarfélagsins hf. og var sá hagnaður færður meðal annarra rekstrartekna. Hið sama má segja um 3,1 milljarðs króna söluhagnað af Icebank hf. á árinu 2007. Um annan söluhagnað var ekki getið í endurskoðunarskýrslum.

Ávöxtun Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis af hlutabréfum og verðbréfum með breytilegum tekjum og hlutum í hlutdeildarfélögum var ívið betri en hjá öðrum sparisjóðum frá 2001 til 2005. Sparisjóðurinn fjárfesti töluvert í fjármálafyrirtækjum og hafði af því góðar tekjur. Má þar til að mynda nefna hlutdeild í tekjum Frjálsa fjárfestingarbankans hf. og gengishækkana Exista hf. (Meiðs ehf.). Þrátt fyrir að ávöxtun Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hefði lengi vel verið hærri en hjá hinum sparisjóðunum var hún aðeins minni en ávöxtun íslensku úrvalsvísitölunnar.

Árið 2007 gáfu eignarhlutar sparisjóðsins í öðrum félögum ekki vel af sér í samanburði við ávöxtun annarra sparisjóða. Í samanburðartölum hafa aðrir stórir sparisjóðir töluverð áhrif og má í því ljósi benda á t.d. ávöxtun Byrs sparisjóðs á sama tíma en hún var töluvert umfram meðaltal. Báðir sparisjóðirnir seldu hluta eignar sinnar í Sparisjóðabanka Íslands hf. á árinu 2007 og færðu vegna þess bæði söluhagnað og gengishagnað. Gengishagnaður Byrs sparisjóðs var um 2,4 milljarðar króna en gengishagnaður Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis rúmar 826 milljónir króna vegna Sparisjóðabankans. Þá hafði tap Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis á árinu vegna Kistu töluvert að segja í slakri ávöxtun ársins. Árið 2008 var svo hlutfallslega mun verra fyrir ávöxtun sparisjóðsins en annarra sparisjóða.

Í þessu samhengi er áhugavert að skoða uppsafnaðan hagnað af fjáreignum Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis og hafa tölur hvers árs verið færðar á verðlag ársins 2011. Hér er ekki um að ræða hagnað á verðlagi hvers árs eins og annars staðar í umfjölluninni og því eru tölur í þessari umfjöllun ekki sambærilegar við tölur annars staðar í skýrslunni. Frá 2001 til 2007 var uppsafnaður hagnaður af fjáreignum Sparisjóðs Reykjavíkur miðað við það verðlag um 32,6 milljarðar króna. Á sama tíma jókst eigið fé sparisjóðsins um

32,3 milljarða króna á sama verðlagi. Tap á fjáreignum 2008 var hærra en uppsafnaður hagnaður síðustu sjö ára þar á undan og því var nettó tap af fjáreignum frá 2001 til 2008 2,7 milljarðar króna á verðlagi ársins 2011.

Ljóst má vera að tekjur af fjáreignum höfðu mikla þýðingu í uppbyggingu eigin fjár sparisjóðsins fram til ársins 2008 og áttu stóran þátt í hröðum vexti hans. Ólíkt því sem finna má í endurskoðunarskýrslum margra annarra sparisjóða, þar sem beinlínis er varað við því að sparisjóðir reiði sig um of á tekjur af fjáreignum, þá fjallaði endurskoðandi Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis um fórnarkostnað sparisjóðsins við það að eiga verðbréf í stað þess að lána fjármuni út. Í endurskoðunarskýrslu vegna ársreiknings fyrir 2001 sagði:

Bókfært verð eignarhluta í Kaupþingi nemur 2.557. millj. kr. en auk þess á sparisjóðurinn hlut í Kaupþingi í gegnum SP eignarhaldsfélagið og er markaðsvirði þess hlutar 691 millj. kr. Í því felst umtalsverð fjárbinding að eiga þessi hlutabréf og hefur það veruleg áhrif á rekstur SPRON og á árinu 2001 eru áhrifin þannig að væru þessir fjármunir bundnir í útlánum með 12% vöxtum hefðu vaxtatekjur verið hærri sem nemur 389 millj. kr.178 Þá hefði CAD-hlutfallið einnig hækkað úr 11,2% í 19,2%. Þannig má með einfaldri, en stórtækri, aðgerð breyta efnahagsreikningi sparisjóðsins verulega og hækka eiginfjárhlutfall hans umtalsvert.179

Í endurskoðunarskýrslu vegna ársreiknings 2003 kom fram mat endurskoðanda á áhrifum lægra hlutfalls útlána af eignum sparisjóðsins en áður hafði verið:

Afleiðingar lækkunar útlána má meðal annars sjá í því að sjóður og kröfur á lánastofnanir hækka um nálægt 130% og eru nú 7.418 millj. kr. […] Markaðsverðbréf og eignarhlutar í félögum nema 14.111 millj. kr. í árslok 2003 en voru í árslok 2002 9.796 millj. kr. og hefur þessi liður því hækkað um […] 44%. Þessi breyting á samsetningu efnahagsreikningsins, verði hún varanleg, leiðir væntanlega til þess að vaxtamunur minnkar og framlag í afskriftareikning útlána á einnig að minnka. Þegar á heildina er litið getur þetta haft jákvæð áhrif á sparisjóðinn og dregur líklega úr sveiflum í afkomu.180

Þessi spá reyndist að hluta til rétt. Vaxtamunur minnkaði töluvert frá árinu 2003 en að baki því voru fleiri ástæður en getið var í skýrslunni. Þá dróst niðurfærsluhlutfall saman með vaxandi útlánum. Það reyndist hins vegar ekki rétt að sveiflur í afkomu minnkuðu með minna vægi útlána. Meðan afkoman var jákvæð tók hún stór stökk milli ára og að sama skapi varð tapið árið 2008 mjög mikið. Þessar sveiflur voru að miklu leyti vegna fjáreigna og mikils vægis þeirra í efnahag sparisjóðsins. Reyndar má segja að afkoma sparisjóðsins hafi verið borin uppi af tekjum af fjáreignum. Þó að dæmi endurskoðandans frá árinu 2001 af fórnarkostnaði við fjárbindingu í hlutabréfum Kaupþings hf. sýni að hann hafi talið að tekjur hefðu orðið meiri ef fjármagnið hefði verið bundið í útlánum, má draga í efa að sparisjóðurinn hefði getað haft 12% vaxtatekjur af útlánum frá árinu 2004 þegar samkeppni í útlánum harðnaði verulega.

Tekjufærsla vegna sölu á Icebank hf. á árinu 2007 var meiri en hagnaður ársins hjá sparisjóðnum. Í þessu samhengi má geta þess að sparisjóðurinn lánaði þeim aðilum sem keyptu eignarhlutina til kaupanna á árinu 2007 og námu afskriftir útlánanna um 4,4 milljörðum króna árið eftir. Tap ársins 2008 var að mestu leyti vegna útlána en fjáreignir settu þó sitt mark á slæma stöðu sparisjóðsins í lok þess árs.

17.3.5 Umfjöllun um einstaka eignir og mestu niðurfærslur

Þær fjáreignir sem voru stærstar í efnahag Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis frá 2005 til 2008 voru Exista hf. og Kista – fjárfestingarfélag ehf., Sparisjóðabanki Íslands hf., Sparisjóðurinn í Keflavík, Landsbanki Íslands hf. og Straumur-Burðarás Fjárfestingabanki hf. Þá má einnig nefna hlutdeildarskírteini í verðbréfasjóðum sparisjóðsins, eignir í eignastýringu í Kaupþingi í Lúxemborg og skuldabréf með ríkisábyrgð.

Tekjur af fjáreignum árin 2005, 2006 og 2007 voru samkvæmt ársreikningum 17,8 milljarðar króna, en þá er ekki tekið tillit til þess fjármagnskostnaðar sem til fellur við að eiga bréfin. Tekjur af eignarhlutum í Exista hf., Kistu – fjárfestingarfélagi ehf. og Icebank hf. voru um 14,1 milljarður króna á sama tíma eða 79% tekna af fjáreignum. Afkoma af Kistu – fjárfestingarfélagi stjórnaðist nær eingöngu af gengi hlutabréfa í Exista hf. og töluverð fylgni var milli virðis Sparisjóðabanka Íslands hf. og Exista hf. Ljóst má vera að fjármálafyrirtæki, eða eignarhaldsfélög utan um fjármálafyrirtæki, höfðu mest áhrif á afkomu sparisjóðsins af fjáreignum.

Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis átti 7,9% hlut í Exista hf. í árslok 2005, 6,3% hlut ári síðar og 3,2% í árslok 2007. Breytingar milli áranna 2005 og 2006 voru vegna hlutfjáraukninga í Exista hf. en sparisjóðurinn jók hlut sinn í félaginu svo lítið í þeim að eignarhluturinn minnkaði. Nafnverðsfjöldi hluta í eigu hans á árinu 2006 jókst þó úr 685 milljónum í 688 milljónir. Síðan voru þær breytingar helstar að sparisjóðurinn seldi hluti sína í Exista hf. til Kistu – fjárfestingarfélags ehf. á árunum 2006 og 2007. Gengi Exista hf. náði hæstu hæðum í júlí 2007 þegar það var rúmlega 40 krónur á hlut, upp frá um 22,5 í lok árs 2006. Í lok árs 2007 var gengið rétt tæpar 19,75 krónur á hlut. Því varð lítils háttar gengislækkun milli ársloka 2006 og 2007 en sparisjóðurinn bókaði um 2 milljarða króna hagnað af þessum bréfum á árinu 2007.181 Þessi hagnaður skýrist meðal annars af fyrrgreindri sölu bréfa til Kistu en í mars 2007 seldi sparisjóðurinn um 171 milljón hluta í Exista hf. til fjárfestingarfélagsins fyrir um 4,8 milljarða króna. Í júní 2007 keypti Kista 173 milljónir hluta í Exista hf. af Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis fyrir um 5,8 milljarða króna. Kista – fjárfestingarfélag keypti bréfin á þeim tíma sem þau voru hvað verðmætust en með gengisbreytingum bréfanna fram til ársloka 2007 tapaði fjárfestingarfélagið töluvert á eigninni og eigendur þess sömuleiðis. Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis átti 48,4% hlut í Kistu – fjárfestingarfélagi í árslok 2007 og var það fært sem hlutdeildarfélag hans. Hlutdeild sparisjóðsins í tapi fjárfestingarfélagsins á árinu 2007 var 4,2 milljarðar króna. Með áframhaldandi gengisfalli bréfa í Exista hf. á árinu 2008 varð tap sparisjóðsins af Kistu – fjárfestingarfélagi ehf. 9,8 milljarðar króna.

Sparisjóðurinn tapaði 1,7 milljörðum króna á Sparisjóðabankanum á árinu 2008. Eignarhlutur í bankanum var 5,2% frá árslokum 2007 en á því ári seldi sparisjóðurinn 19,3% hlut í bankanum. Frá 2005 til 2007 hafði sparisjóðurinn 3,8 milljarða króna í tekjur af bankanum, þar af um 826 milljónir króna í söluhagnað af hlut í bankanum á árinu 2007. Samningar um kaup aðila á hlutafé í Sparisjóðabankanum voru undirritaðir í september 2007 og gengið frá kaupunum í desember sama ár. Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis og Byr sparisjóður seldu stóran hluta eignar sinnar í bankanum til annarra sparisjóða og nýrra hluthafa. Þetta var í fyrsta skipti sem aðilar utan sparisjóðakerfisins eignuðust hlut í bankanum. Seljendur, ásamt bankanum sjálfum, Sparisjóðnum í Keflavík og Sparisjóði Mýrasýslu lánuðu nýjum hluthöfum fyrir kaupunum. Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis lánaði til kaupanna í gegnum dótturfélag sitt SPRON-Verðbréf hf. Lánin voru í erlendum myntum að jafnvirði rúmir 2 milljarðar króna. Lánin hækkuðu með gengisfalli krónunnar á árinu 2008 og í árslok höfðu um 4,4 milljarðar króna verið afskrifaðir vegna þessara lána í sparisjóðnum.

Sparisjóðabanki Íslands hf. var meðal stærstu eigenda Exista hf. en minnkaði hlut sinn í félaginu smám saman frá árinu 2006, meðal annars með því að selja Kistu – fjárfestingarfélagi ehf. hlutabréfin. Í lok árs 2005 átti bankinn 5,8% í Exista hf., ári síðar 3,5% og 2,5% í lok árs 2007. Í þessu ljósi er athyglisvert að skoða hversu stór hlutur af eigin fé Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis var bundinn í þessu eina félagi, í gegnum beina eign hans sem og óbeina eign í gegnum Kistu – fjárfestingarfélag ehf. og Sparisjóðabanka Íslands hf.

Exista hf. og Kista – fjárfestingarfélag ehf.

Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis stofnaði SP-eignarhaldsfélag ehf. 19. júní 2001 til að halda utan um hlutabréf í Kaupþingi hf. Síðar sama ár komu fleiri sparisjóðir að félaginu sem keypti hluti eigenda sinna í Kaupþingi hf. Félagið breytti um nafn og hét Meiður ehf. í nokkurn tíma og síðar Exista ehf./hf.182 Félagið var gjarnan til umfjöllunar í stjórn sparisjóðsins enda sat Guðmundur Hauksson í stjórn þess frá stofnun og hlutur Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis í Exista hf. stærstur meðal sparisjóða.

Snemma árs 2004 gerði Fjármálaeftirlitið athugasemd við stærð eignarhlutar sparisjóðsins í Meiði ehf. Hann nam þá meira en 25% af eigin fé hans sem var umfram það hámark sem leyfilegt var samkvæmt reglum um stórar áhættuskuldbindingar. Fjárfestingar sem ekki eru þess eðlis að þær eigi að draga frá eigin fé við útreikning eiginfjárgrunns geta talist til stórra áhættuskuldbindinga, líkt og útlán, ef þær nema meira en 10% af eiginfjárgrunni fjármálafyrirtækis. Ef skuldbindingar fara umfram 25% hámarkið þarf að tilkynna Fjármálaeftirlitinu um til hvaða aðgerða grípa skal til þess að minnka stærð skuldbindingarinnar. Með bréfi frá Fjármálaeftirlitinu 6. september 2004 var sparisjóðnum gert að flokka Meið ehf. sem fyrirtæki tengt fjármálasviði en slíkir eignarhlutar drógust frá eigin fé við útreikning á eiginfjárgrunni.183

Virði Meiðs ehf. hafði hækkað töluvert fram til ársins 2004, einkum vegna hækkana á gengi hlutabréfa Kaupþings Búnaðarbanka hf. Hlutabréf í bankanum voru 60% af eignum Meiðs hf. í árslok 2003 og 78% ári síðar.184 Vægi þessara bréfa var meginástæða þess að Fjármálaeftirlitið komst að þeirri niðurstöðu að flokka skyldi Meið ehf. sem félag tengt fjármálastarfsemi.185 Meiður ehf. breytti nafni sínu í Exista ehf. á fyrri hluta árs 2005 en samkvæmt auglýsingu í blöðum 13. maí 2005 tengdist nafnabreytingin þátttöku í stórum verkefnum bæði á Íslandi og erlendis. Stuttu síðar varð Exista ehf. meðeigandi að sérstöku félagi, Skiptum ehf., til að halda utan um gerð tilboðs í Landssíma Íslands hf. Skipti ehf. eignaðist hlut ríkisins í Landssímanum eftir að hafa verið með hæsta tilboð. Á árinu 2006 eignaðist Exista ehf. Vátryggingafélag Íslands hf. og Lýsingu hf. Í febrúar 2007 keypti Exista hf. 15,5% í finnska tryggingarfélaginu Sampo Oyj.186

Undanfari breytinga á starfsemi Exista hf. var breytt eignarhald í félaginu. Það hafði upprunalega verið stofnað til þess að halda utan um eignarhluti sparisjóða og Sparisjóðabankans í Kaupþingi hf. Á stjórnarfundi Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis 12. desember 2002 voru ræddar hugmyndir um að selja hluta af hlutafé félagsins „til utanaðkomandi fjárfesta“. Á stjórnarfundi í janúar 2003 gerði sparisjóðsstjóri grein fyrir því að Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis hefði selt 12,68% af hlutafé félagsins til Bakkabræðra Holding og héldi eftir 11,08% hlut í félaginu.187 Í ágúst sama ár var hlutafé Meiðs ehf. aukið um 4,4 milljarða króna og var þátttaka Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis í aukningunni með þeim hætti að sparisjóðurinn átti 7,9% í félaginu frá lokum árs 2003. Í fundargerðum stjórnar á þessum tíma er ekki rætt um kaup á hlutafé í Meiði ehf. Samkvæmt ársreikningi Meiðs ehf. fyrir árið 2003 voru tveir hluthafar með stærri en 10% hlut í félaginu í árslok, Bakkabræður Holding (59,1%) og Kaupþing banki hf. (19,2%).

Hlutur Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis í Exista hf. var 7,9% í lok árs 2005, 6,3% í lok árs 2006, 3,2% ári síðar og 0,5% í lok árs 2008. Þessi eignarhlutur var stór hluti eigin fjár sparisjóðsins, svo sem sýnt er í töflu 21, og tekjur af eignarhlutnum höfðu mikla þýðingu í rekstri sparisjóðsins. Taldi stjórnin ástæðu til að kanna skattalegt óhagræði stofnfjáreigenda af því að eiga bréf í Exista hf. í gegnum sparisjóðinn, líkt og fyrir stofnfjárhöfum væri sparisjóðurinn eignarhaldsfélag utan um bréf í Exista hf.188 Ekkert er bókað frekar í stjórnarfundargerðum um niðurstöðu þessarar athugunar. Árið 2004 voru tekjur af bréfum í Exista hf. 66% af hagnaði sparisjóðsins fyrir skatta en sama hlutfall ári síðar var 70%. Með hækkandi gengi bréfanna þyngdust áhrif eignarhlutarins í Exista hf. á eiginfjárgrunn sparisjóðsins. Sparisjóðirnir höfðu lengi átt í viðræðum við Fjármálaeftirlitið um áhrif eignarhluta í fjármálafyrirtækjum á eiginfjárgrunni þeirra, meðal annars í tengslum við félög eins og Scandinavian Holding og Exista hf.

Og niðurstaðan var sú að ef viðkomandi fyrirtæki fjármagnar sig með lántökum frá óskyldum aðila, þá þurfti sparisjóðurinn ekki að draga fjárfestinguna alfarið frá sínu eigin fé, aðeins sem nam hlutdeild viðkomandi í þessu fyrirtæki. Það var hugsunin á bak við Kistu. Fjármálaeftirlitið gerði engar athugasemdir við þessa útfærslu þegar þeir höfðu fengið skýringar.189

Þessi áhrif skuldsetts eignarhaldsfélags utan um hluti í fjármálafyrirtækjum á eiginfjárgrunn sparisjóðanna voru önnur af aðalástæðum þess að Kista – fjárfestingarfélag ehf. var stofnað árið 2006. Í nóvember 2006 greindi sparisjóðsstjóri frá viðræðum sparisjóða um stofnun hlutdeildarfélags um eignarhluti sparisjóðanna í Exista hf. Sparisjóðabankinn vildi selja bréf sín í Exista hf. fyrir 1,4 milljarða króna og óskaði sparisjóðsstjóri eftir heimild til þess að kaupa þann hlut. Eignarhlutinn myndi sparisjóðurinn leggja inn í hið nýja félag og þáverandi hlutur sparisjóðsins færi ekki inn í félagið.190

Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis lagði 1,4 milljarða króna í peningum fram sem hlutafé í Kistu – fjárfestingarfélagi ehf. 21. desember 2006 og sparisjóðsstjóri settist í stjórn þess. Sparisjóðurinn átti þá 41,5% í félaginu á móti fimm öðrum sparisjóðum. Fjárfestingarfélagið keypti um 2,7% hlut í Exista hf. af sparisjóðunum fimm og Sparisjóðabankanum með þeim fjármunum sem Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis lagði til auk fjármögnunar frá viðskiptabönkunum. Kaup fjárfestingarfélagsins á hlutum í Exista hf. héldu áfram á árinu 2007 og átti það 8,9% hlut í því í lok árs 2007. Á sama tíma var hlutur Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis í Kistu 48,4%. Gengi bréfa í Exista hf. sveiflaðist mikið innan ársins þótt gengi í lok árs og upphafi árs hefði verið svipað, eða í kringum 20 krónur á hlut. Um mitt ár 2007 var gengið hins vegar tvöfalt hærra en það. Á þeim tíma vó bein eign sparisjóðsins í Exista hf. (þ.e. án tillits til þeirra bréfa sem Kista átti í Exista hf.) allt að 85% af eigin fé sparisjóðsins sem var langt umfram það sem verðbréfaeign í einu félagi mátti vera samkvæmt reglum sparisjóðsins. Stjórn og stjórnendur sparisjóðsins lögðu hins vegar áherslu á að hækka áhættuviðmið sparisjóðsins frekar en að minnka eignina til þess að hún bryti ekki í bága við reglur sjóðsins.191

Áhætta sparisjóðsins af bréfum í Exista hf. var meiri en bein eign, sem þó var fylgst með, gaf til kynna. Takmörkuð áhætta eigenda af einkahlutafélagi er ekki til staðar þegar, og upp að því marki sem, eigendur ábyrgjast skuldbindingar einkahlutafélagsins. Í lok árs 2007 samþykkti Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis hf. að gangast í ábyrgð fyrir skuldbindingum Kistu – fjárfestingarfélags ehf. við lánveitendur sína, Straum-Burðarás Fjárfestingabanka hf., Glitni banka hf. og Kaupþing banka hf. Ábyrgðirnar námu 6,4 milljörðum króna og voru undirritaðar af Guðmundi Haukssyni, forstjóra sparisjóðsins, með gildistöku 30. desember 2007. Ekki var fjallað um þær í stjórn sparisjóðsins fyrr en 23. janúar 2008 þegar stjórnin samþykkti að heimila forstjóra að gefa út slíkar ábyrgðaryfirlýsingar. Erlendur Hjaltason, sem þá var forstjóri Exista hf. og stjórnarmaður í sparisjóðnum, sat fundinn þar sem þetta var samþykkt og er ekki bókað að hann hafi vikið af fundi. Ábyrgðirnar voru 35,2% af eiginfjárgrunni eins og hann var í árslok 2007.

Ábyrgðirnar frá desember 2007 giltu fram í febrúar 2008. Þá tókst sparisjóðurinn á hendur hluta skuldbindinga Kistu – fjárfestingarfélags ehf. við Kaupþing banka hf. Sparisjóðurinn tók 1,7 milljarða króna lán hjá Kaupþingi sem var „innáborgun á lán Kistu – fjárfestingarfélags ehf. hjá bankanum“ samkvæmt lánssamningnum. Gjalddagi lánsins var 15. júní 2008 en þegar kom að honum var lánið framlengt til 15. júní 2009. Lántakan var samþykkt á stjórnarfundi sparisjóðsins 25. febrúar 2008. Ábyrgðir við Straum-Burðarás Fjárfestingarbanka og Glitni banka hf. voru endurnýjaðar síðast 25. júní 2008. Gilti þá ábyrgðin til handa Glitni banka hf., sem nam 900 milljónum króna, til 30. desember 2008, en 1.200 milljóna króna ábyrgð til Straums-Burðaráss til 15. október 2008. Ábyrgð til Glitnis banka hf. rann út án þess að gripið yrði til aðgerða en Straumur-Burðarás Fjárfestingabanki hf. gekk að ábyrðinni.

Gengi Exista hf. náði hámarki um sumarið 2007 og í byrjun árs 2008 var staða Kistu – fjárfestingarfélags ehf., sem var mjög skuldsett félag með bréf í Exista hf. sem veð fyrir skuldunum, ekki góð. Með fallandi gengi hlutabréfanna fóru lánardrottnar fram á auknar tryggingar fyrir lánunum. Ábyrgðaryfirlýsingar þær sem fjallað var um hér á undan voru hluti af þeim aðgerðum sem ráðist var í til að styrkja stöðu Kistu en auk þess var ráðist í hlutafjáraukningar. Svo fór að samþykkt var að auka hlutafé Kistu – fjárfestingarfélags ehf. þrisvar sinnum á árinu 2008, fyrst um 7,1 milljarð króna á aðalfundi félagsins 28. mars 2008, svo um 1,5 milljarða króna á hluthafafundi 27. júní og loks 2,4 milljarða króna á stjórnarfundi 27. júlí sama ár. Hlutur Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis í þessum hlutafjáraukningum var fyrst 3,4 milljarðar króna, þar af voru 1,7 milljarðar króna greiddir með reiðufé og aðrir 1,7 milljarðar króna með yfirtöku skulda eins og vikið var að, svo 726 milljónir króna og loks 1,2 milljarðar króna.

Miðað við framburð í skýrslutökum fyrir rannsóknarnefndinni höfðu forsvarsmenn sparisjóðsins ekki miklar áhyggjur af þeirri áhættu sem var til staðar í Exista hf. vegna þess að félagið átti dreifðar fjárfestingar:

Við ræddum [fjárfestingar] mjög oft á stjórnarfundum í SPRON einkum í tengslum við Kistu. Vegna þess að það fyrirtæki var sérstaklega stofnað utan um kaupin á þeim hluta sem að Sparisjóðabankinn ákvað að selja í Exista. Við vorum auðvitað mjög vakandi yfir þessu allan tímann og höfðum áhyggjur af því að þetta mundi geta tekið í hjá okkur. En ég vil taka skýrt fram að þegar við keyptum í Exista [litum við] ekki svo á að við værum í raun að kaupa hlutabréf í einu fyrirtæki […] þarna væri um að ræða fjárfestingu í fyrirtæki sem ætti mjög góðar og dreifðar eignir. Þeir áttu stóran hluta í frábærum fyrirtækjum eins og Kaupþingi, Sampo, VÍS, Símanum og svo framvegis og svo framvegis. Þannig að við litum svo á að við værum ekki að setja öll eggin í eina körfu með þessu. […] Við vildum fremur fylgjast með hvernig slíkar fjárfestingar þróuðust heldur en að vera endilega sjálfir að gera sams konar fjárfestingar í SPRON. Þannig litum við á þessa fjárfestingu í Exista. Vissulega fylgdumst við með því hver þessi fjárfesting var sem hlutfall af eigin fé, en það ber líka að hafa í huga að þetta háa hlutfall kom fyrst og fremst til af því hvað bréfin í Exista höfðu hækkað mikið á markaði. Þannig var ekki eins og við hefðum stöðugt verið að kaupa hlutabréf til þess að mynda þessa stöðu. Við keyptum á mun lægra verði en markaðsverðið hækkaði hratt, mun hraðar en sem nam hækkun eigin fjár í SPRON þrátt fyrir að við værum að auka eigin fé SPRON með útgáfu stofnfjárbréfa. En, þetta kom nú til fyrst og fremst út af þróun á markaðsvirði Exista sem þetta hlutfall varð svona hátt í lok fyrsta og annars ársfjórðungs 2007. Spurningin var: áttum við að selja þetta þá?192

Flestar fjárfestingar Exista hf. voru þó í fjármálafyrirtækjum; lánastofnunum og tryggingafélögum. Aðrar stórar fjárfestingar sparisjóðsins voru í fyrirtækjum með sams konar starfsemi, þ.e. Sparisjóðabanka Íslands hf., Sparisjóðnum í Keflavík, Kaupþingi banka hf.,

Landsbanka Íslands hf. og Straumi-Burðarási Fjárfestingarbanka hf. Samþjöppun áhættu af fjáreignum sparisjóðsins var því nokkur innan sömu atvinnugreinarinnar.

Sparisjóðabanki Íslands hf.

Líkt og aðrir sparisjóðir átti Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis hlut í Sparisjóðabanka Íslands hf. og var lengi vel stærsti hluthafinn. Í árslok 2004 var eignarhlutur sparisjóðsins í bankanum 24,7%. Sparisjóðsstjóri sat í stjórn Sparisjóðabankans þar til Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis seldi stærstan hluta eignar sinnar í bankanum síðla árs 2007. Bankinn var upphaflega stofnaður sem þjónustubanki fyrir sparisjóðina en eftir því sem umsvif Byrs sparisjóðs og Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis jukust nýttu þeir þjónustu Sparisjóðabankans í sífellt minna mæli. Stoðdeildir innan þessara tveggja sparisjóða sinntu því sem Sparisjóðabankinn hafði gert fyrir þá áður.

Þessi þróun var meðal þess sem leiddi til umræðna um hvort þessir tveir sparisjóðir ættu áfram að eiga hlut í bankanum. Á stjórnarfundi sparisjóðsins 31. janúar 2005 var fjallað um þetta:

Sparisjóðsstjóri greindi frá því að á næstunni þyrfti stjórn SPRON að taka stefnumótandi ákvörðun um eignaraðild að Sparisjóðabankanum. Hann sagði að mikið fé væri bundið í bankanum, en í raun væri SPRON sáralítið að nýta sér þjónustu bankans núorðið, þar sem allt viðskiptaumhverfi hefði breyst umtalsvert á undanförnum árum. Hins vegar ylti framtíð Sparisjóðabankans að miklu leyti á eignarhaldi SPRON en SPRON á 25% hlut í bankanum. Ákveðið var að stjórnin myndi fjalla ítarlega um þessi mál á næstunni.193

Samkvæmt fundargerð stjórnar sparisjóðsins frá 28. desember 2005 náðist ekki samstaða meðal sparisjóða um uppbyggingu Sparisjóðabankans á grundvelli tillagna sem Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis hafði lagt fram. Stjórnin þyrfti að taka ákvörðun um hvernig eignarhaldi sparisjóðsins á Sparisjóðabankanum yrði háttað. Í lok árs 2005 var eignarhlutur sparisjóðsins í bankanum 24,5% og gott gengi bankans á árinu skilaði sparisjóðnum tæpum 600 milljónum króna í tekjur. Samkvæmt endurskoðunarskýrslu Sparisjóðabankans fyrir árið 2005 var meginuppistaða hagnaðar bankans á árinu tekjur af Exista hf. Tekjur af eignarhlut í félaginu voru 2,6 milljarðar króna og hagnaður fyrir skatta tæpir 3 milljarðar króna.

Stjórn veitti sparisjóðsstjóra heimild til þess að taka þátt í hlutafjáraukningu Sparisjóðabankans á fundi 20. febrúar 2006. Hlutur sparisjóðsins í aukningunni var áætlaður 150 milljónir króna. Á sama ári fékk sparisjóðsstjóri einnig samþykki stjórnar fyrir því að kaupa hluta eignar Sparisjóðabankans í Exista hf., svo sem fjallað var um í kaflanum hér á undan. Sparisjóðurinn hafði 1,4 milljarða króna í tekjur af bankanum á árinu 2006 en hagnaður bankans fyrir skatta það ár var umtalsvert betri en árið áður og nam 6,8 milljörðum króna. Samkvæmt endurskoðunarskýrslu bankans 2006 var gengishækkun hlutabréfa í eigu Exista hf. rúmir 6 milljarðar króna á árinu.

Árið 2007 áttu sér stað viðræður milli eigenda Sparisjóðabankans um framtíð eignarhalds hans og á stjórnarfundi Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis 17. júlí 2007 greindi sparisjóðsstjóri frá viðræðum sparisjóðsins við Sparisjóðinn í Keflavík og Byr um framtíðareignarhald bankans. Á stjórnarfundi 22. september 2007 heimilaði stjórnin sparisjóðsstjóra að ganga frá sölu hluta af hlutafé sparisjóðsins í Sparisjóðabankanum. Sparisjóðurinn seldi 19,42% eignarhlut í bankanum fyrir 6,2 milljarða króna en hélt eftir 5,17% hlut. Tekjufærður söluhagnaður af viðskiptunum var 3,1 milljarður króna.

Í árslok 2007 hafði verið undirritaður samningur við Sparisjóð Mýrasýslu um kaup hans á 1,17% eignarhlut Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis í Sparisjóðabankanum. Samningurinn beið samþykkis Fjármálaeftirlitsins um áramótin en hann var færður til eignar á sölugengi og nam tekjufærsla vegna þessa 187 milljónum króna. Þá hafði sparisjóðurinn gert söluréttarsamning við Sparisjóðinn í Keflavík og Sparisjóð Mýrasýslu um hin 4%. Samningurinn fól í sér skuldbindingu um kaup á sama gengi og voru í viðskiptunum með 18,42% hlutinn. Sá hlutur var því færður upp á sölugengi og nam tekjufærslan 640 milljónum króna.194 Auk þessa var hlutdeild í hagnaði Icebank hf. á árinu 2007 979 milljónir króna. Samtals var því um að ræða tekjur af þessari verðbréfaeign sem námu 4,9 milljörðum króna en hagnaður sparisjóðsins fyrir skatta á árinu var 3,3 milljarðar króna.

Samningar um sölu á hlut sparisjóðsins í Sparisjóðabankanum voru undirritaðir í október 2007. Í sama mánuði var gefin út útboðslýsing vegna hlutafjárvæðingar sparisjóðsins og miðuðust fjárhagsupplýsingar þar við 30. júní 2007. Mikið er fjallað um stærð eignarhlutar sparisjóðsins í Exista hf., bæði beina og óbeina eign í gegnum Kistu – fjárfestingarfélag ehf. og Sparisjóðabanka Íslands hf. Gengi bréfa í Exista hf. var sögulega hátt í lok júní 2007, en það náði hámarki í júlí 2007 og lækkaði stöðugt þaðan í frá. Því var sex mánaða uppgjör sparisjóðsins árið 2007 einkar hagfellt. Í útboðslýsingunni undir kaflanum „nýleg þróun“ var fjallað um áhrif sölunnar á eignarhlutnum í Sparisjóðabankanum:

Hagnaður SPRON fyrir skatta fyrstu átta mánuði 2007 voru 12,2 milljarðar króna samkvæmt óopinberu uppgjöri sem ekki hefur verið endurskoðað eða kannað. […] Horfur eru á að niðurstöður níu mánaða uppgjörs SPRON verði áþekkar niðurstöðum sex mánaða uppgjörs. SPRON seldi 20,6% af 24,6% hluta sínum í Icebank 12. október 2007. Söluhagnaður eftir skatta er áætlaður 3,3 milljarðar króna. Áhrif sölunnar á CAD hlutfall SPRON er áætlað um 4,0% til styrkingar sem gefur SPRON möguleika á að auka útlán eða auka fjárfestingar. Lausafjárstaða SPRON verður einnig rýmri í kjölfar sölunnar. Hlutabréfamarkaðurinn á Íslandi (úrvalsvísitalan) hækkaði á fyrri hluta ársins um 29,3% en hefur frá miðju ári til 15.10.07 lækkað um 3,0% (8313–8591). Frá miðju ári hefur gengi á hlutabréfum Exista hf. hækkað um 4,2% (34,4–35,5) en eins og lýsingin ber með sér á SPRON bæði beint og óbeint (Kista ehf. og Icebank hf.) stóran hluta í félaginu.195

Útboðslýsingin gaf til kynna að til viðbótar 12,2 milljarða króna hagnaði fyrstu átta mánuði ársins kæmi söluhagnaður af sölu eignarhluta í Sparisjóðabankanum, 3,3 milljarðar króna. Gengisþróun Exista hf. á síðari hluta ársins varð til þess að mjög dró úr hagnaði fyrir ársuppgjörið en eins og fyrr segir varð hagnaður ársins fyrir skatta 3,3 milljarðar króna. Ekki var gengið frá sölu á eignarhlutum í Sparisjóðabankanum fyrr en í desember 2007. Vegna þess hversu mikla þýðingu eignarhlutur bankans í Exista hf. hafði haft fyrir afkomu hans árin á undan og þar af leiðandi væntingar um afkomu hans næstu ár fóru kaupendur fram á að Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis og Byr sparisjóður gerðu samning um „verðtryggingu“ á hlutum í Exista hf. við Sparisjóðabankann. Með samningnum ábyrgðust sparisjóðirnir tveir að tryggja ákveðið verð á hlutum bankans í Exista hf. Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis gjaldfærði 296 milljónir króna vegna þessa samnings í árslok 2007. Sparisjóðurinn greiddi samninginn í nóvember 2008 en þá stóð hann í um 434 milljónum króna.

Svo fór að Fjármálaeftirlitið samþykkti ekki kaup Sparisjóðs Mýrasýslu á 1,17% hlut Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis í Sparisjóðabankanum. Sparisjóðurinn sendi Sparisjóðnum í Keflavík bréf um að hann hygðist nýta sér söluréttinn á 4% hlutnum en sú sala gekk ekki eftir. Hann átti því enn 5,17% í Sparisjóðabankanum í árslok 2008 og var tap af eigninni á árinu 1,7 milljarðar króna.

Tap af skuldabréfum sem keypt voru úr peningamarkaðssjóði Rekstrarfélags Spron hf. á árinu 2008.

Á stjórnarfundi sparisjóðsins 28. mars 2008 fór forstjóri sparisjóðsins fram á að sparisjóðurinn keypti 2 milljarða króna skuldbindingu Nýsis hf. úr peningamarkaðssjóði Rekstrarfélags Spron hf. Nýsir hf. ætti í lausafjárerfiðleikum og hefði óskað eftir framlengingu lána. Þetta var samþykkt.

Sparisjóðurinn hafði þá þegar keypt víxla Nýsis hf. fyrir tæpa 2 milljarða að nafnverði og greitt fyrir með eigin víxlum. Viðskiptin fóru fram 18. mars 2008 en 1,6 milljarðar af því sem keypt var af víxlunum var á gjalddaga 19. mars sama ár.196 Í byrjun apríl 2008 fór fram uppgjör Nýsis hf. við eigendur þessara víxilútgáfa með útgáfu nýrra víxla fyrir meginhlutanum auk lítillegrar peningagreiðslu.197 Sparisjóðurinn færði víxileign sína í Nýsi hf. niður um tæplega 1,1 milljarð króna í árslok 2008 en félagið var þá í samningaviðræðum við kröfuhafa sína.

Í ágúst 2009 komst Fjármálaeftirlitið að þeirri niðurstöðu að sekta skyldi Nýsi hf. vegna brots gegn 1. mgr. 122. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti með því að tilkynna ekki um alvarlega stöðu sína þegar ljóst var að félagið gæti ekki staðið við greiðslu á afborgunum skuldabréfa og víxla sem féllu í gjalddaga 19. mars 2008. Félagið greindi ekki frá því að víxlarnir hefðu fallið í gjalddaga fyrr en 18. júní 2008.198

Á þessum tíma fengum við kynningu frá fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans, sem kynntu fyrir okkur góða stöðu Nýsis. Við höfðum miklar efasemdir um það að þeir myndu klára sig af þessu máli. Á mjög stuttum tíma verða menn að taka ákvörðun um hvað sé skynsamlegasta leiðin. Fyrir sjóð skiptir gríðarlega miklu máli hvort viðkomandi bréf er t.d. metið niður um 10%, 20% eða 30%. Það hefur mikil áhrif á gengi sjóðsins. Niðurstaðan verður sú, eins og mörg fjármálafyrirtæki gerðu á þessum tíma, að menn reyna að meta hvers virði bréfin eru út frá horfum skuldara og færa síðan bréfið út úr sjóðnum þannig að sjóðsfélagarnir upplifi ekki sveiflur, heldur er áætlað tap tekið inn einu sinni, eignin tekin inn á bækur bankans á raunhæfu mati og hann heldur síðan utan um málið. […] Frá því að þessi ákvörðun var tekin um yfirtöku eignarinnar úr sjóðnum, líður langur tími eða fram í júlí þar sem Landsbankinn, aðalkröfuhafi Nýsis, vann að lausn á stöðu félagsins. Á þeim tíma sem líður þarna á milli skýrist staða Nýsis mjög mikið. Við fengum kynningar eftir kynningar þar sem farið var mjög nákvæmlega ofan í stöðuna og komu þá margir skrýtnir hlutir í ljós í því félagi.199

Þá keypti sparisjóðurinn skuldabréf HF Eimskipafélags Íslands af Rekstrarfélagi Spron hf. haustið 2008. Með tölvupósti 15. september 2008 tilkynnti starfsmaður rekstrarfélagsins starfsmanni Eimskipafélagsins að rekstrarfélagið hefði ákveðið að setja skuldabréf útgefið af Eimskipafélaginu í innheimtu þar sem félagið uppfyllti ekki ákvæði um eiginfjárhlutfall eins og kveðið væri á um í ákvæðum skuldabréfsins.200 Það var svo 1. október 2008 sem Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis keypti skuldabréf HF Eimskipafélags Íslands (HFEIM 07 2), 500 milljónir króna að nafnverði, af Rekstrarfélagi Spron hf. Þetta skuldabréf var fært niður um 479 milljónir króna í ársreikningi sparisjóðsins 2008. Það var keypt af rekstrarfélaginu á 539 milljónir króna.201

Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis hf. keypti skuldabréf úr peningamarkaðssjóði Rekstrarfélags Spron hf. í nóvember 2008. Skuldabréfin voru útgefin af CCP hf., Milestone ehf., Sparisjóði Mýrasýslu, Sparisjóði Svarfdæla, Atorku Group hf., Baugi Group hf., Exista hf., Eyri Invest ehf., FL Group hf., Marel hf., Samson eignarhaldsfélagi ehf. og Fasteignafélaginu Stoðum hf. Tap af þessum kaupum fyrir sparisjóðinn var að minnsta kosti 5,6 milljarðar króna.202 Hluti af þessu tapi er sundurliðaður í töflu 20 en betur er gerð grein fyrir uppgjöri á peningamarkaðssjóði sparisjóðsins hér aftar.

Sparisjóðurinn í Keflavík og Sparisjóður Vestfirðinga

Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis átti 1,3% hlut í Sparisjóði Vestfirðinga í lok árs 2005 og Frjálsi fjárfestingarbankinn hf. átti þá rúm 5% í Sparisjóðnum í Keflavík. Um Sparisjóðinn í Keflavík er ekki fjallað í fundargerðum fjárfestingarbankans frá árinu 2000 til 2009. Frjálsi fjárfestingarbankinn tók þátt í nokkrum stofnfjáraukningum Sparisjóðsins í Keflavík frá 2005 til 2007. Í árslok 2005 átti fjárfestingarbankinn 52,6 milljónir hluta og 5% hlut, ári síðar 104,7 milljón hluti og 4,9% hlut og í lok árs 2007 tæp 5% en 476,3 milljónir hluta samkvæmt hlutafjármiðum sem skilað er til ríkisskattstjóra.203

Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis tók þátt í stofnfjáraukningu Sparisjóðs Vestfirðinga á árinu 2007. Sparisjóðurinn keypti 12,8 milljónir hluta í útboðinu í október 2007 og 9,7 milljónir hluta í útboði í desember sama ár. Stofnfjáreigendur í Sparisjóði Vestfirðinga fengu 16,4% í sameinuðum sjóði.204 Eignarhlutur hans í Sparisjóðnum í Keflavík í lok árs 2007 var 0,2%.205

Í mars 2008 keypti Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis hf. stofnfjárbréf í Sparisjóðnum í Keflavík af Frjálsa fjárfestingarbankanum hf. að nafnverði 217,6 milljónir fyrir 1,2 milljarða króna.206 Sparisjóðurinn færði eign sína í Sparisjóðnum í Keflavík niður um 1,1 milljarð króna á árinu 2008.

Síðla árs 2008 tilkynntu Sparisjóðurinn í Keflavík, Byr sparisjóður og Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis að undirrituð hefði verið viljayfirlýsing um samruna sparisjóðanna þriggja en ekki varð af þeim áformum.207

Skuldafleiðusamningar við New Bond Street Asset Management LLP

Í október 2006 fjárfesti sparisjóðurinn fyrir 10 milljónir evra í samsettum skuldabréfavafningi (e. synthetic CDO) að nafni Piccadilly. Var þessi skuldabréfavafningur í raun safn fjölda skuldatrygginga (e. CDS – credit default swap). Skuldatrygging er tvíhliða samningur milli kaupanda og seljanda þar sem kaupandi tryggingarinnar „tryggir“ sig fyrir greiðslufalli þriðja aðila á tilteknu skuldabréfi. Fyrir þetta greiðir kaupandi tryggingarinnar seljanda þóknun (skuldatryggingarálag). Ef þriðji aðili lendir í greiðslufalli greiðir seljandi tryggingarinnar kaupanda fjárhæð tryggingarinnar og kaupandi afhendir seljanda tiltekið eða jafnrétthátt skuldabréf þriðja aðila. Uppgjör í kjölfar greiðslufalls getur líka farið fram með þeim hætti að seljandi greiðir kaupanda mismuninn á tryggingarfjárhæðinni og markaðsvirði skuldabréfsins sem þá er ákveðið með uppboði á almennum markaði í kjölfar greiðslufallsins.208

Samsettur skuldabréfavafningur er eins og áður sagði safn skuldatrygginga á fjölda aðila sem er þá skipt niður í mismunandi lög (e. tranche) með ólíka lánshæfiseinkunn. Þetta gerir fjárfestum kleift að horfa til lánshæfiseinkunnarinnar í stað útgefanda skuldabréfs.209 Eðli samsettra skuldabréfavafninga er þannig að ef ákveðið hlutfall af verðmæti safnsins tapast byrjar aðili sem fjárfestir í skuldabréfavafningnum að tapa af sinni fjárfestingu. Er þetta kallað innsláttarpunktur (e. attachment point). Ef tap safnsins nær síðan ákveðnu hærra hlutfalli sem kallast útsláttarpunktur (e. detachment point) er öll fjárfesting viðkomandi aðila töpuð.

Piccadilly skuldabréfavafningnum var stýrt af New Bond Street Asset Management LLP, sem var sérhæft eignastýringarfyrirtæki í eigu Kaupþings banka. Piccadilly var þó upphaflega settur saman af Barclays banka. Í lok október 2006 samþykkti sparisjóðurinn að fjárfesta í tveimur lögum Piccadilly skuldabréfavafningsins. Annars vegar var um að ræða 5 milljónir evra til tíu ára í lagi með lánshæfiseinkunnina A og hins vegar 5 milljónir evra til sjö ára í lagi með lánshæfiseinkunnina BBB. Sparisjóðurinn lagði ekki fram 10 milljónir evra þegar viðskiptin fóru fram heldur ábyrgðist að greiða fjárhæðina ef tap yrði á safninu. Samkvæmt stöðuskýrslu um Piccadilly fyrir ágústmánuð 2008 voru 109 undirliggjandi aðilar (bæði fyrirtæki og ríki) í safni Piccadilly A. Innsláttarpunktur safnsins á þessum tíma var 6,59% og útsláttarpunktur 8,09%. Ekkert tap hafði orðið af safninu. Í safni Piccadilly BBB voru í lok ágústmánaðar 2008 110 undirliggjandi aðilar (bæði fyrirtæki og ríki). Innsláttarpunktur safnsins var 4,23% og útsláttarpunktur 5,73%. Ekkert tap hafði þá orðið á safninu. Ljóst er að í kjölfar erfiðleika á fjármálamörkuðum á seinni hluta árs 2008 varð mikið tap af fjárfestingu sparisjóðsins í Piccadilly og í lok árs 2008 var áætlað tap af samningnum 1,7 milljarðar króna.210

17.3.6 Dótturfélög

Stefna stjórnar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis var að nýta tækifæri sem gæfust til vaxtar og fjárfesti í því skyni í dótturfélögum sem voru viðbót við rekstur hans og „var ætlað að auka fjölbreytni í þjónustuframboði sparisjóðsins“.211 Meðal þeirra voru SPRON-Verðbréf hf., SPRON Factoring hf., Frjálsi fjárfestingarbankinn hf. og nb.is-sparisjóður hf. Rekstrarfélag Spron hf. var dótturfélag sparisjóðsins fram á árið 2007 þegar það varð dótturfélag annars dótturfélags, SPRON-Verðbréfa hf. Þá setti sparisjóðurinn á stofn fjárfestingarfélag, Steinsnes ehf. Áhrif SPRON Factoring hf. á sparisjóðinn voru lítil, tap ársins 2006 var 352 þúsund krónur, hagnaður árið eftir 6,5 milljónir króna og hagnaður ársins 2008 32,5 milljónir og þykir ekki ástæða til að gera sérstaka grein fyrir því félagi. Hér á eftir verður því fjallað um önnur dótturfélög, hlutverk þeirra, stjórn og áhrif á rekstur Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis. Þar sem umfjöllun í kaflanum hingað til hefur verið á samstæðugrundvelli hafa áhrif dótturfélaga á rekstur þegar komið fram. Þær tölur sem hér birtast eru ekki til viðbótar tapi eða eignum sem gerð hefur verið grein fyrir hér framar.

Frjálsi fjárfestingarbankinn hf.

Frjálsi fjárfestingarbankinn hf. var upphaflega stofnaður utan um kaup á skuldabréfum á markaði, lánveitingar og ábyrgðir til eigenda og kaup á hlutabréfum í nýjum félögum.212 Starfsemi félagsins og tilgangur tók verulegum breytingum frá stofnun fram til ársins 2000 en það ár keypti Kaupþing hf. 70% í félaginu og gerði í kjölfarið yfirtökutilboð sem meiri hluti hluthafa samþykkti. Félagið uppfyllti þá ekki lengur skilyrði um skráningu á Verðbréfaþingi Íslands og voru bréfin afskráð. Í eigu Kaupþings banka hf. var útlánastarfsemin aukin en verðbréfasvið og eignastýringarsvið fjárfestingarbankans færðust til Kaupþings hf.

Árið 2002 keypti Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis svo allan hlut Kaupþings í Frjálsa fjárfestingarbankanum eða 93,8%. Í lýsingu sparisjóðsins frá 2007 segir um starfsemi Frjálsa fjárfestingarbankans hf.:

Í dag býður Frjálsi fjárfestingarbankinn einstaklingum og fyrirtækjum fjölbreytta og sveigjanlega lánaþjónustu gegn veði í fasteignum, lóðum og bifreiðum. Lánað er til bifreiðakaupa og til fasteignakaupa, fullbúinna eða í byggingu, íbúða-, atvinnu- og frístundarhúsnæði, hvort sem er við kaup eigna eða til endurfjármögnunar þeirra. Aukin áhersla er á stærri lánveitingar til millistórra og stærri aðila.

Í stjórn bankans árið 2008 sátu starfsmenn sparisjóðsins, Guðmundur Örn Hauksson, Kristján Harðarson, Ragnar Þ. Guðgeirsson, Ósvaldur Knudsen og Valgeir M. Baldursson. Framkvæmdastjóri bankans var Kristinn Bjarnason.

Frjálsi fjárfestingarbankinn hf. skilaði um 573 milljóna króna hagnaði á árinu 2005, árið 2006 var 694 milljóna króna hagnaður og árið 2007 nam hagnaður bankans 1.204 milljónum króna. Tap varð af rekstrinum á árinu 2008 að fjárhæð 7,3 milljarðar króna sem má rekja til virðisrýrnunar útlána, að stórum hluta til iðnaðar og byggingastarfsemi. Heildareignir bankans jukust úr 37,5 milljörðum króna í árslok 2005 í 90 milljarða króna í árslok 2008. Eigið fé bankans var neikvætt sem nam tæpum 2 milljörðum króna í árslok 2008.

Kaup sparisjóðsins á bankanum sættu nokkurri gagnrýni, meðal annars frá hópi stofnfjárhafa, þeim Pétri H. Blöndal, Gunnari A. Jóhannssyni, Gunnlaugi M. Sigmundssyni, Ingimar Jóhannssyni og Sveini Valfells, sem stundum voru nefndir „fimmmenningarnir“ á árunum 2002 og 2003.

Aðdragandi og eftirmálar kaupanna á Frjálsa fjárfestingarbankanum hf.

Á fundi stjórnar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis 5. apríl 2002 var rætt um kaup á Frjálsa fjárfestingarbankanum hf. af Kaupþingi hf. Vonir stóðu til þess að með kaupum á bankanum myndu vaxtaberandi eignir sparisjóðsins aukast. Til þess að af kaupunum gæti orðið þyrfti annaðhvort að bæta eiginfjárstöðu sparisjóðsins eða selja hlutabréf í fjármálafyrirtækjum í eigu sparisjóðsins, því kaupin myndu lækka eiginfjárhlutfallið að öðru óbreyttu.213 Á stjórnarfundi sparisjóðsins 7. maí 2002 lagði sparisjóðsstjóri fram minnisblað um fyrirhuguð kaup á Frjálsa fjárfestingarbankanum hf. Einn framkvæmdastjóra sparisjóðsins hafði þá metið virði fjárfestingarbankans á um 3 milljarða króna. Framkvæmdastjórinn mat það sem svo að ekki myndi færast mikil þekking yfir til sparisjóðsins á sviðum eins og fjárstýringu og verðbréfamiðlun með kaupunum. Hann gagnrýndi eignasafnið og tekjur af því og velti því upp hvort nokkuð annað fælist í kaupunum en kaup á eigin fé. Á fundinum kom fram að stjórnin teldi mikinn hag af því að eignast Frjálsa fjárfestingarbankann hf. ef hann fengist á ásættanlegu verði og veitti stjórnarformanni heimild til að hafa samband við forstjóra Kaupþings hf. til að athuga hvort grundvöllur væri fyrir kaupunum.

Sparisjóðsstjóri hélt sérstaka kynningu um kaupin á stjórnarfundi 28. maí 2002. Með kaupunum væri vonast til að sparisjóðurinn yrði leiðandi fjármálastofnun fyrir einstaklinga sem og smærri fyrirtæki. Sparisjóðurinn væri sterkur á einstaklingsmarkaði með stóran hóp viðskiptavina en Frjálsi fjárfestingarbankinn hf. hefði sérhæft sig í fasteigna-, bíla- og framkvæmdalánum. Samruninn myndi auka verðmæti sparisjóðsins og gera hlutabréf í félaginu líklegri til þess að verða skráð á Verðbréfaþingi Íslands.214

Sparisjóðurinn hugðist fjármagna kaup á Frjálsa fjárfestingarbankanum hf. með sölu á eignarhlut sínum í SP-Fjármögnun hf. Sumarið 2002 lá fyrir verðmat á félaginu upp á tæpa 2,4 milljarða króna og rætt hafði verið við nokkra sparisjóði um kaup á félaginu.215 Ekki náðust samningar milli þessara aðila og var Kaupþingi hf. gerð grein fyrir því að sparisjóðurinn gæti ekki keypt hlutabréf í Frjálsa fjárfestingarbankanum hf. að svo stöddu.216 Stjórn sparisjóðsins samþykkti 12. september 2002 tillögu sparisjóðsstjóra um að selja hlutabréf í Kaupþingi hf. til þess að fjármagna kaup á Frjálsa fjárfestingarbankanum hf. en tveimur vikum síðar var rætt um að selja einnig eignarhlutinn í SP-fjármögnun í sama tilgangi. Stjórnin samþykkti að fela stjórnarformanni og sparisjóðsstjóra að ganga frá samningi á þessum grundvelli og voru hlutir í báðum félögum seldir til að kaupa hlut í fjárfestingarbankanum 30. september 2002. Sparisjóðurinn greiddi 3,8 milljarða króna fyrir Frjálsa fjárfestingarbankann hf.

Í tilkynningu sparisjóðsins vegna kaupanna kom fram að miklar væntingar hefðu verið bundnar við hlutafjárvæðingu sparisjóðsins sumarið 2002 en eftir að hætt hefði verið við þau áform hefði verið leitað annarra leiða til að styrkja sparisjóðinn. Kaupin á Frjálsa fjárfestingarbankanum hf. féllu vel að rekstri sjóðsins og myndu gera honum kleift að styrkja kjarnastarfsemi sína á höfuðborgarsvæðinu. Viðskiptin áttu að miðast við 1. júlí 2002 en þá nam eigið fé bankans 2,5 milljörðum króna og heildareignir 16 milljörðum króna. Samhliða kaupunum seldi sparisjóðurinn Kaupþingi hf. 12,6% hlut í því sjálfu á genginu 13.217

Á fundi stjórnar 14. nóvember 2002 gerði endurskoðandi sparisjóðsins grein fyrir því að við áreiðanleikakönnun á fjárfestingarbankanum hefði ekkert komið fram sem raskaði forsendum kaupanna.218 Í ljósi þessa samþykkti stjórnin endanlegan kaupsamning og stuttu síðar samþykkti Fjármálaeftirlitið að sparisjóðurinn eignaðist virkan eignarhlut í Frjálsa fjárfestingarbankanum hf.219

Í grein í Morgunblaðinu 22. desember 2002 gagnrýndu fimmmenningarnir kaup sparisjóðsins á Frjálsa fjárfestingarbankanum hf. Þeir væru að láta verðmeta fjárfestingarbankann

og væru vísbendingar um sparisjóðurinn hefði greitt of mikið fyrir hann.220 Verðmatið, sem gert var af Deloitte & Touche hf., var birt í Morgunblaðinu 15. janúar 2003 hf. og var á bilinu 2,4 til 2,9 milljarðar króna að frádreginni 330 milljóna króna arðgreiðslu til fyrri eigenda. Var það mat fimmmenninganna að sparisjóðurinn hefði greitt of mikið fyrir bankann, rúma 3,8 milljarða króna auk arðgreiðslunnar.221

Sama dag skoraði Pétur H. Blöndal á stjórn sparisjóðsins að láta óháðan aðila bera saman það verð sem sparisjóðurinn greiddi fyrir Frjálsa fjárfestingarbankann hf. og verðmatið sem fimmmenningarnir létu gera.222 Niðurstaða þeirrar skoðunar var að mistök í útreikningi og villur í tölulegum forsendum hefðu leitt til rangrar niðurstöðu Deloitte & Touche um virði bankans eða vanmats upp á að minnsta kosti 1,1 milljarð króna. Eftir að villur hefðu verið leiðréttar væri virði Frjálsa fjárfestingarbankans hf. metið um 4,5 milljarðar króna.223 Deloitte & Touche gerði þá nýtt verðmat og var niðurstaða þess að virði fjárfestingarbankans væri 3,5–4,1 milljarður króna.224

Nb.is-sparisjóður hf. (Netbankinn)

Netbankinn var stofnaður sem deild innan Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis árið 1999 og var ætlað að veita almenna bankaþjónustu á netinu. Árið 2002 keypti Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis Sparisjóð Önundarfjarðar sem lagði niður starfsemi í kjölfar sameiningar sparisjóða á Vestfjörðum. Þeim kaupum fylgdi leyfi til reksturs sparisjóðs, bankanúmer og aðgangur að Reiknistofu bankanna. Nafni Sparisjóðs Önundarfjarðar var í kjölfarið breytt í nb.is-sparisjóð og starfsemi Netbankans flutt þangað. Þá var nb.is-sparisjóður gerður að hlutafélagi árið 2002, fyrstur sparisjóða. Öll starfsemi sparisjóðsins fór fram í gegnum síma, tölvupóst og internetið. Geir Þórðarson var framkvæmdastjóri þessa nýja sparisjóðs, en hann hafði verið framkvæmdastjóri Netbankans. Í skýrslutöku lýsti hann sérstöðu bankans og starfsemi:

Sérstaða hans fólst í því að veita betri kjör bæði á innlánum og útlánum, þó var ekki mikill munur á kjörum Netbankans og öðrum en við gættum þess alltaf að vera með bestu innlánskjörin þótt það væru bara einhver prósentubrot af ávöxtun yfir árið sem voru betri, en við komum yfirleitt út þannig að við vorum með bestu kjörin. Það er hagkvæmur rekstur að vera ekki með útibú og þess vegna gátum við veitt aðeins betri kjör.225

Guðmundur Örn Hauksson var stjórnarformaður nb.is-sparisjóðs allt fram til 2009. Lengst af skipuðu Ólafur Haraldsson, Hildur Petersen og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson stjórnina auk Guðmundar. Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis var eini eigandi nb.is-sparisjóðs hf.

Hreinar vaxtatekjur höfðu veruleg áhrif á afkomu nb.is. Afkoman var jákvæð allt frá árinu 2002 til og með ársins 2006. Á árinu 2007 og 2008 varð tap af rekstri sparisjóðsins og má rekja það til verulegs samdráttar í hreinum vaxtatekjum. Fyrrverandi sparisjóðsstjóri nb.is-sparisjóðs hf. lýsti aðstæðum þá:

[Árið 2007 voru] óverðtryggðir vextir orðnir mjög háir og okkar innlán mikið til óverðtryggð. Aukinn vaxtakostnaður var af þeim sökum, afkoma Netbankans fór eftir verðbólgu á hverjum tíma þannig að þegar misvægi var þarna á milli, það er að segja verðbólgan var mjög mikil og verðtryggð útlán skiluðu miklum tekjum, var hagnaður af rekstrinum. Síðan þegar bilið jafnaðist þá minnkaði þetta. Það var sláandi hversu mikil fylgnin var þarna á milli. […] það má segja að þetta hafi verið helsti áhættuþátturinn í rekstrinum, þessi vaxtamunur á milli verðtryggðra og óverðtryggðra eigna og skulda.226

Heildareignir nb.is-sparisjóðs hf. námu 1,8 milljörðum króna í lok árs 2002, þar af voru útlán um 72% og kröfur á lánastofnanir um 26% af heildareignum. Í árslok 2007 voru markaðsverðbréf og eignarhlutir í félögum í eigu sparisjóðsins töluverð, eða 845 milljónir króna en voru 88 milljónir árið áður.

[Þetta] var á þeim tíma þegar innlánin voru orðin mun meiri heldur en útlánin. Þá fórum við að leita leiða til að ávaxta innlánin en aukning útlána var ekki í takt við þau. Þannig að við vorum með umfram fé og urðum við að leita leiða til að ávaxta það betur. Þá fengum við ráðgjöf frá SPRON-Verðbréfum varðandi hugsanlega ávöxtunarmöguleika í verðbréfum og fórum svolítið eftir þeirri ráðgjöf.227

Í árslok 2008 voru verðbréfaeignir sparisjóðsins litlar en kröfur á lánastofnanir höfðu aukist til muna. Nb.is-sparisjóður hf. hafði þá flutt hluta fasteignalána sinna til Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis sem nýtti þau í verðbréfaverkefni sem gekk undir nafninu Geysir. Fyrir bréfin fékk nb.is-sparisjóður hf. kröfu á hendur móðurfélaginu. Í mars 2009 keypti MP Banki hf. nb.is-sparisjóð hf. af Dróma hf. og starfar í dag á kennitölu sparisjóðsins.

SPRON-Verðbréf hf.

Í lok árs 2005 stofnaði sparisjóðurinn sérstakt félag um verðbréfaviðskipti, SPRON-Verðbréf hf. Félagið var alfarið í eigu sparisjóðsins en samkvæmt samþykktum félagsins frá 7. ágúst 2007 var tilgangur þess viðskipti og þjónusta með fjármálagerninga samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti og skyldur rekstur.

Meginviðfangsefni SPRON-Verðbréfa hf. voru eignastýring og verðbréfamiðlun fyrir sparisjóðinn og viðskiptavini hans. Tilgangi SPRON-Verðbréfa hf. er svo lýst í lýsingu sparisjóðsins frá 2007, sem birt var í tengslum við skráningu í kauphöll:

Fjárfestingabankastarfsemin er vaxtabroddurinn í starfsemi SPRON og verið er að að byggja upp öfluga fjárfestingabankastarfsemi undir nafni SPRON Verðbréfa hf. SPRON Verðbréf tók til starfa fyrri hluta ársins 2006 en áður hafði verðbréfastarfsemin verið innan móðurfélagsins SPRON en verðbréfaviðskipti hófust hjá fyrirtækinu árið 1986 þegar SPRON gaf út veðskuldabréf í samvinnu við Kaupþing að upphæð 15 milljónir króna. […] Eigin fjárfestingar SPRON eru hluti af fjárfestingabankastarfseminni. Þar eru ákvarðanir um fjárfestingar SPRON heildarinnar teknar í samráði við stjórn og forstjóra og fylgst með arðsemi þeirra.228

SPRON-Verðbréf sérhæfðu sig í verðbréfaþjónustu til minni og meðalstórra fjárfesta á markaði. Starfsemin byggðist einkum á miðlun, eignastýringu, fyrirtækjaráðgjöf og rekstri verðbréfasjóða. Rekstrarfélag Spron hf., sem sá um rekstur verðbréfasjóða í nafni sparisjóðsins og hafði verið dótturfélag hans, varð dótturfélag SPRON-Verðbréfa hf. árið 2007. Starfsleyfi SPRON-Verðbréfa var fyrst gefið út í febrúar 2006 og náði þá til móttöku og miðlunar fyrirmæla og framkvæmdar slíkra fyrirmæla fyrir reikning þriðja aðila. Í apríl 2006 fékk félagið leyfi til að hefja viðskipti í kauphöll og í lok janúar 2007 starfsleyfi sem verðbréfafyrirtæki. Starfsmannafjöldi félagsins var 37 þegar mest var í ársbyrjun 2008.

Í stjórn SPRON-Verðbréfa hf. sátu starfsmenn sparisjóðsins og Frjálsa fjárfestingarbankans hf., Ósvaldur Kjartan Knudsen, Guðmundur Örn Hauksson, Ólafur Haraldsson og Kristinn Bjarnason. Framkvæmdastjóri þar til í nóvember 2008 var Jón Hallur Pétursson en þá tók Björg Kristinsdóttir við starfinu.

Smávægilegt tap varð af rekstri SPRON-Verðbréfa hf. á árinu 2005. Árið eftir skilaði félagið 79,7 milljónum króna í hagnað eftir skatt, árið 2007 163,1 milljón en árið 2008 var tap af rekstrinum rúmur 1 milljarður króna. Afkoma ársins 2007 vegna tekna af ráðgjafarþjónustu, einkum í tengslum við sölu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis og Byrs sparisjóðs á eignarhlut í Sparisjóðabankanum, en söluferlið var í umsjón SPRON-Verðbréfa hf. Tap ársins 2008 má rekja til niðurfærslu á lánum til viðskiptavina, en félagið lánaði gjarnan til verðbréfakaupa. Heildareignir SPRON-Verðbréfa hf. námu um 4,9 milljörðum króna í árslok 2006 en voru 8,8 milljarðar króna í árslok 2007. Um helming þeirrar aukningar má rekja til útlána til viðskiptamanna, sem voru engin í ársbyrjun 2007 en námu um 4,4 milljörðum króna í lok árs 2007. Útlán félagsins námu 1,6 milljörðum króna í árslok 2008.

SPRON-Verðbréf hugðust flytja þekkingu sína á verðbréfaviðskiptum til Austur-Evrópu­landa og hófust viðræður við aðila í fyrirtækinu Finhill í Litháen sem var í eigu ZiaValda Group. Finhill hafði verið greiningar- og verðmatsdeild innan ZiaValda Group en varð að dótturfélagi á árinu 2007 og voru starfsmenn þess 18. Rekstrarkostnaður var metinn um 350 þúsund evrur á ári og virði fyrirtækisins meira en 350 milljónir evra og stóð til að SPRON-Verðbréf myndi kaupa helmingshlut í félaginu.229

Síðan stofnuðum við verðbréfafélag í Litháen – verðbréfa og „trading“ félag – sem fór eiginlega aldrei af stað. Þetta var tími sem var ekki góður. […] Við settum það í gang og áttum ágætis samstarfsaðila í Litháen, stórt fjárfestingarfélag sem heitir ZiaValda sem að ætlaði í rauninni að vera framkvæmdaaðilinn með okkur í þessu. En það sem þá vantaði fyrst og fremst voru tól og tæki, þekking og ferlar sem að við ætluðum að útvega og þeir að reka þetta. En það gekk illa bæði að yfirfæra tól og tæki og ferla. […] Ferlana sem menn voru með í SPRON-Verðbréfum átti í rauninni að flytja yfir á annað félag en það var auðvitað menningarmunur og eitt og annað var þyngra en menn áttu von á. Það var allt, allt, allt annar kúltúr. […] Það var engin verðbréfaeign [sett inn,] við bara settum inn hlutafé í félagið sem átti að nota til að ráða fólk og setja upp skrifstofu og byrja að kaupa og selja verðbréf. Þannig að þetta voru nú ekki miklir peningar […] en ég man ekki hvað þetta voru miklir peningar.230

Niðurfærsla SPRON-Verðbréfa vegna Finhill voru 94 milljónir króna á árinu 2008.231

Bráðabirgðastjórn sparisjóðsins gerði samkomulag við Íslensk verðbréf hf. vorið 2009 um að taka að sér þjónustu á sviði vörslu og eignastýringar við viðskiptavini sem áður voru hjá sparisjóðnum og SPRON-Verðbréfum hf. Samhliða var samið um að Rekstrarfélag ÍV tæki við rekstri sjóða sem áður voru starfræktir af Rekstrarfélagi Spron hf. Í ágúst 2009 var SPRON-Verðbréf hf. tekið til slitameðferðar.232

Steinsnes ehf.

Steinsnes ehf. var dótturfélag sparisjóðsins og stofnað af honum árið 1998. Í grein 1.3 í samþykktum félagsins frá 31. janúar 2005 segir að tilgangur félagsins hafi verið kaup og sala verðbréfa, fjárfesting í fyrirtækjum, fasteignarekstur, eignaumsýsla og annar skyldur rekstur. Að sögn fyrrverandi framkvæmdastjóra hagdeildar sparisjóðsins kom Steinsnes ehf. einkum að smærri fjárfestingum og fullnustueignum að einhverju leyti.233

Á árinu 2006 var hlutafé Steinsness aukið tvisvar. Í ársbyrjun umbreytti sparisjóðurinn 28 milljóna króna viðskiptakröfu á hendur félaginu í hlutafé. Síðar á árinu var hlutafé félagsins hækkað um 200 milljónir króna. Á árinu 2007 var hlutafé aukið um 1.461 milljón króna. Stærsta verkefni Steinsness ehf. var fasteignaverkefni í Berlín sem var meðal annars rekið í gegnum nokkur dótturfélög félagsins.234

Samkvæmt ársreikningi Steinsness ehf. 2007 sátu í stjórn félagsins Guðmundur Hauksson sparisjóðsstjóri, Jón Hallur Pétursson, framkvæmdastjóri SPRON–Verðbréfa hf., og Ólafur Haraldsson, framkvæmdastjóri Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, en hann var jafnframt framkvæmdastjóri Steinsness. Stjórninni bar að halda fundi einu sinni í mánuði þar sem kynnt voru ný verkefni og farið yfir framgang samþykktra verkefna. Með samningi frá júlí 2007 tók fyrirtækjaráðgjöf sparisjóðsins að sér daglegan rekstur og öflun fjárfestinga fyrir Steinsnes ehf. Jafnframt skyldi fyrirtækjaráðgjöf sparisjóðsins koma með tillögur að skipan í stjórnir félaga fyrir hönd Steinsness ehf.235

Félagið var rekið með tapi frá 2005–2008. Minnst var tapið árið 2007, eða um 733 þúsund krónur, en aftur á móti var rekstrartapið árið 2008 tæpir 2 milljarðar króna þegar niðurfærslur krafna námu 1.224 milljónum króna. Kröfurnar voru að mestu á hendur Mitte ehf. og Fasteignafélaginu Kurfurst ehf. sem fjallað er um í kaflanum hér á eftir.

Fjárfestingarstefna Steinsness ehf. frá apríl 2007 gerði ráð fyrir að félagið hefði á hverjum tíma fjárfestingargetu að hámarki 10% af eigin fé sparisjóðsins en arðsemiskrafa eigin fjár félagsins var 25% á ári. Hámarksfjárfesting í hverju einstöku verkefni var 2% af eigin fé sparisjóðsins á hverjum tíma. Mest máttu 10 verkefni vera í gangi á hverjum tíma og hlutdeild félagsins ekki meiri en 40% í hverju verkefni. Stefnan gerði ráð fyrir að 20% af heildarfjármagni væri stöðutaka í umbreytingarverkefnum, 30% stöðutaka í samrunaverkefnum, 30% þátttaka í fasteignaverkefnum og 20% af heildarfjármagni væri í millilagsfjármögnun (e. mezzanine financing). Æskileg lengd verkefna var skilgreind 6–18 mánuðir. Ný verkefni voru fyrst tekin til skoðunar hjá fyrirtækjaráðgjöf sparisjóðsins sem aflaði gagna og lagði mat á verkefnin og þátttakendur í þeim. Þar var stefna verkefna ákveðin, hvernig söluferli yrði að þeim loknum og samkomulag gert við hlutaðeigandi aðila. Þá voru þau kynnt fjárfestingaráði og framkvæmdastjóra þar sem nánari útfærsla var ákveðin og þau síðan lögð fyrir til afgreiðslu.236

Stjórn sparisjóðsins samþykkti 23. ágúst 2006 að taka þátt í fasteignaverkefni í Berlín í Þýskalandi sem haldið var utan um í Steinsnesi ehf. Á árinu 2007 fjárfesti Steinsnes ehf. fyrir rúma 4 milljarða króna í íbúðarhúsnæði í miðborg Berlínar ásamt hópi fjárfesta. Keyptar voru um 320 íbúðir, samtals um 30.000 fermetrar. Hlutur Steinsness ehf. í verkefninu var 35% en stjórnun þess var í höndum fyrirtækjaráðgjafar sparisjóðsins. Vonir stóðu til að verkefnið gæfi góða ávöxtun á þremur til fimm árum með markvissri hækkun leigutekna og almennri hækkun fasteignaverðs en lág leiga og lágt fermetraverð á húsnæði í Berlín í samanburði við aðrar stórborgir í Evrópu var talið merki um hækkun fasteignaverðs á komandi árum.237

Um þessa fjárfestingu sagði fyrrverandi stjórnarformaður sparisjóðsins:

Ef ég man þetta rétt þá voru starfsmenn hjá SPRON sem höfðu tengingar inn í þýskt umhverfi. Höfðu búið í Berlín ef ég man rétt og það kemur upp þarna verkefni. Á þessum tíma er fasteignaverð í Berlín mjög lágt og fjármögnun mjög hagstæð. Og einhvern veginn er svona farið í að skoða þessi mál. Sem endar með því að það er þarna ákveðinn pakki sem er fjármagnaður og svo átti SPRON eitthvað í þessu. […] Þetta er kynnt fyrir stjórn þannig að það sé þekking á verkefninu og að þetta gæti verið arðsamt, bæði fyrir SPRON sem lánafélag og að taka þátt í því. […] Þetta var í eldri hverfum bæjarins og þetta voru þá íbúðir uppi og jafnvel verslanir niðri. Langtímaleiga, sem sagt … Og ég held að þetta hafi allt verið í útleigu og skilað fjárstreymi og staðið undir þeim skuldbindingum, að minnsta kosti þann tíma sem ég vissi um. […] Ég held að [skrifstofa sparisjóðsins í Berlín] hafi bara verið að halda utan um verkefnið á staðnum.238

Á stjórnarfundi sparisjóðsins 23. maí 2007 kom fram að fjárfestingarverkefni í Berlín gengju mjög vel og gæfu mikla arðsvon. Á fundinum var ákveðið að skipta starfsemi sem hafði verið í höndum Steinsness ehf. milli þriggja félaga eftir eðli verkefna. Félögin þrjú voru Steinsnes ehf., ÍsKal ehf., sem sá um fjárfestingar tengdar kortastarfsemi, og Hraunsnes ehf., sem hélt utan um fjárfestingar tengdar sparisjóðastarfsemi. Hraunsnes ehf. var dótturfélag Steinsness ehf. Á fundi stjórnar sparisjóðsins 17. júlí 2007 var samþykkt að auka hlutafé þessara félaga um samtals 1.226 milljónir króna sem áttu að skiptast þannig að 810 milljónir króna færu til Steinsness ehf., 430 milljónir króna til ÍsKals ehf. og 175 milljónir til Hraunsness ehf.239 Samkvæmt ársreikningi Steinsness fyrir árið 2007 var hlutafé félagsins hins vegar aukið töluvert meira, eða um 1.461 milljón króna.240

Í tengslum við þetta fasteignaverkefni opnuðu SPRON-Verðbréf hf. skrifstofu í Berlín árið 2007 sem hafði umsjón með verkefninu og sinnti fyrirtækjaráðgjöf.241 Fjallað var um opnun skrifstofunnar í fjölmiðlum og kom þar fram að hlutverk hennar væri „að veita ráðgjöf og annast fjárfestingar í fasteignum og fyrirtækjum í Þýskalandi, sem og á nálægum svæðum og bæta með því enn frekar þjónustu við einka- og fyrirtækjafjárfesta á Íslandi“.242 Í skýrslu fyrir rannsóknarnefndinni sagði fyrrverandi stjórnarformaður að helstu verkefni skrifstofunnar hefðu verið að sinna fasteignaverkefninu.243 Kristján Guðmundsson var ráðinn til að leiða fasteignahluta starfseminnar fyrir SPRON-Verðbréf hf. í Berlín. Haft var eftir forstjóra að sparisjóðurinn sæi „frekari tækifæri á þesum markaði og [horfði] einnig til Eystrasaltsríkjanna og Mið-Evrópu þar sem efnahagsumhverfið hefur tekið miklum breytingum á undanförnum árum“.244 Heildartekjur sparisjóðsins af Berlínarverkefninu fyrir árið 2007 námu 1,9 milljónum evra, eða um 166 milljónum króna, sem skiptust milli Steinsness ehf. og SPRON-Verðbréfa hf.245

Í ársreikningi sparisjóðsins fyrir árið 2008 námu hrein gjöld af fjáreignum tilgreindum á gangvirði, sem tilheyrðu Steinsnesi, 607 milljónum króna, þar af voru 403 milljónir króna vegna Kurfurst, 97,5 milljónir vegna Eros, 50,5 milljónir króna vegna ESTIA og 55,5 milljónir króna vegna Strengs fjárfestinga. Þá færði móðurfélag sparisjóðsins niður 113 milljónir króna vegna Kurfurst. Tap vegna sölu á eignarhluta í Polar Group nam 228 milljónum króna.

Þrátt fyrir að arðsemiskrafa eigin fjár Steinsness hafi verið 25% skilaði félagið tapi á hverju ári frá 2005 til 2008, samtals að fjárhæð 1.949 milljónir króna. Samkvæmt ársreikningi Steinsness fyrir árið 2011 var félagið í umsjón móðurfélags þess, Dróma hf. Eigið fé félagsins var þá neikvætt um 1.178 milljónir króna. Skuldir félagsins námu á sama tíma 4.962 milljónum króna en þar af voru skuldir við Dróma 4.284 milljónir. Gert hafði verið samkomulag við Dróma hf., sem stærsta lánardrottins félagsins, um endurfjármögnun þess. Andvirði seldra eigna á árinu 2011 nam 5,9 milljörðum króna og voru skuldir við þýskar lánastofnanir greiddar niður um 5,1 milljarð króna. Þær fasteignir sem eftir stóðu fóru í sölumeðferð.246

Fasteignafélagið Kurfurst ehf., Mitte ehf., Meingarður ehf. og Meingil ehf.

Fasteignafélagið Kurfurst ehf., Mitte ehf., Meingarður ehf. og Meingil ehf. héldu utan um fasteignaverkefni á vegum Steinsness ehf. erlendis. Að auki átti Fasteignafélagið Kurfurst ehf. 100% eignarhluta í Meingili ehf. í lok árs 2006 en Steinsnes ehf. átti 100% í félaginu ári síðar.

Fasteignafélagið Kurfurst ehf. átti félag í Svíþjóð og annað í Þýskalandi þar sem haldið var utan um sex fasteignir. Mitte, Meingarður og Meingil áttu hvert um sig eitt þýskt félag með eina fasteign hvert. Þýsku félögin í eigu Meingils og Fasteignafélagsins Kurfurst áttu svo saman annað þýskt félag sem átti þrjár fasteignir.247 Íslensku félögin fjármögnuðu fjárfestingar þeirra erlendu í fasteignunum með fjármunum frá móðurfélagi sínu, Steinsnesi ehf., sem aftur fékk lán hjá sparisjóðnum.248

Tap var af rekstri Fasteignafélagsins Kurfurst ehf. árin 2007 og 2008, samtals um 41 milljón króna. Mitte tapaði tæpum 5 milljónum króna árið 2007 og hagnaðist um rúma milljón árið eftir. Meingarður ehf. tapaði 2 milljónum árið 2007 og 12 milljónum 2008. Tap Meingils ehf. fyrir sömu tvö ár var 426 þúsund krónur. Afkoma þessara félaga á árinu 2006 var lítil eða engin.

Félögin voru enn í fullum rekstri samkvæmt ársreikningum þeirra fyrir árið 2011 og Drómi hf. meirihlutaeigandi í gegnum Steinsnes ehf.249

Strengur fjárfestingar ehf.

Haustið 2006 vann sparisjóðurinn greiningu og verðmat á Remax-Íslandi og vaknaði þá áhugi eigenda félagsins á samstarfi við sparisjóðinn. Þeir buðu þátttöku í félagi sem myndi kaupa 50% hlut í Remax sérleyfishöfum í nokkrum löndum Evrópu. Í kynningu fyrirtækjaráðgjafar sparisjóðsins á verkefninu kom fram að markmið með aðkomu sjóðsins að félaginu væru m.a. að fjárfesta í verkefnum með góðri arðsemi á næstu þremur til fimm árum, að skapa þekkingu á mörkuðum og þróun þeirra og ná tengingu við tiltekin markaðssvæði sem hægt yrði að nýta við stofnun fjárfestingaverkefna og þjónustu við viðskiptavini.250 Þessar hugmyndir voru kynntar fyrir stjórn sparisjóðsins á fundi 31. janúar 2007. Degi síðar samþykkti stjórn Steinsness ehf. að leggja fram hlutafjárframlag að fjárhæð 55,5 milljónir króna í Streng fjárfestingar ehf.251 Steinsnes ehf. átti þá 40% í félaginu.

Á fyrri hluta árs 2008 voru 32 fasteignasölur starfandi á vegum Strengs í Englandi, 13 í Eystrasaltsríkjunum og 6 í Finnlandi. Væntingar voru um að félagið myndi skila jákvæðu sjóðstreymi í lok ársins 2008.252 Ársreikningar áranna 2007 og 2008 voru ekki endurskoðaðir og án sjóðstreymis.

Tap ársins 2007 var tilkomið vegna rekstrarkostnaðar, vaxtagjalda og gengismunar en engar rekstrartekjur voru hjá félaginu. Á árinu 2008 voru fastafjármunir vegna skrifstofa félagsins í Englandi, Finnlandi og Eystrasaltsríkjunum afskrifaðir um rúmlega 68 milljónir króna sem var helsta ástæða þess að félagið skilaði tapi upp á tæpar 85 milljónir króna það ár. Í ársreikningi Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis fyrir árið 2008 eru gjaldfærðar 55,5 milljónir króna vegna Strengs fjárfestinga ehf. þegar eignarhluturinn í félaginu var að fullu færður niður.

ESTIA ehf.

ESTIA ehf. var stofnað á árinu 2006. Samkvæmt samþykktum félagsins frá 15. ágúst 2006 var tilgangur þess „þátttaka í atvinnurekstri, eignaumsýsla, ávöxtun fjármuna, verðbréfaviðskipti, svo og rekstur fasteigna, lánastarfsemi og skyldur rekstur“.

Hagnaður ársins 2006 var einkum vegna söluhagnaðar á fasteign félagsins. Tap á árinu 2008 má rekja til 61 milljónar króna taps á framvirkum samningum við fall bankanna í október 2008.253 Í ársreikningi Sparisjóðsins árið 2008 eru færðar niður rúmar 50 milljónir króna vegna ESTIA ehf.

Á stjórnarfundi Steinsness 11. október 2006 staðfesti stjórn kaup á 32% hlut í ESTIA ehf. fyrir 88,5 milljónir króna að markaðsverði. Aðrir hluthafar í lok árs 2006 voru Líra ehf. (15,4%), Fjárfestingafélagið Fjörður (14%), Gráni ehf., (13,1%), Sigtryggur Guðlaugsson (12,6%) og Anton Benjamínsson (12,6%).254 Ætlunin á þessum tíma var að félagið myndi sérhæfa sig í umbreytingarverkefnum.255 Í lok árs 2006 voru helstu eignir félagsins samkvæmt ársreikningi þess 71,2% eignarhlutur í Slippnum á Akureyri, sem metinn var á 64 milljónir króna, og 49% eignarhlutur í plastbátaverksmiðjunni Seiglu ehf., sem metinn var á 20 milljónir. Þá átti félagið fasteignir við Naustatanga 2 og Hjalteyrargötu 22 á Akureyri. Bókfært verð þessara eigna var samtals 197,5 milljónir króna í lok árs 2006.

Á árinu 2007 töldu starfsmenn SPRON-Verðbréfa hf. að áform sem kynnt hefðu verið við innkomu í félagið um uppbyggingu á kröftugu fjárfestingafélagi gengju of hægt.256 Í september 2007 var ESTIA ehf. rætt á stjórnarfundi Steinsness ehf. Þó félagið hefði skilað ágætri arðsemi hefðu markmið sem lagt var upp með ekki náðst. Stjórnin samþykkti heimild til að selja hlut Steinsness í félaginu.257 Árið 2008 tóku SPRON-Verðbréf hf. á sig 25 milljóna króna tap vegna viðskipta ESTIA ehf. sem framkvæmd höfðu verið í september 2007.258 Í janúar 2009 var gengið frá sölu Steinsness ehf. á 32,2% eignarhlut í ESTIA ehf. til Kristjáns Ásgeirssonar, stjórnarmanns ESTIA, fyrir 38 milljónir króna.

LAREF – (Landsbanki Aquila Real Estate Fund I)

LAREF var fagfjárfestasjóður sem stofnaður var í samstarfi Landsbankans og Askar Capital. Þegar lokað hafði verið fyrir fjárfestingar í sjóðinn í maí 2006 höfðu hlutdeildarskírteinishafar sjóðsins skuldbundið sig til að leggja 43,2 milljónir evra í sjóðinn. Stefna sjóðsins var að fjárfesta í fasteignum á mismunandi byggingarstigum í Austur-Evrópu og Mið-Austurlöndum. Fjárfestingatímabil sjóðsins var 18 mánuðir, þ.e. til nóvember 2007, og líftími sjóðsins fjögur ár með möguleika á framlengingu um eitt ár.259

Kallað var eftir fyrstu greiðslu vegna þátttöku í LAREF í febrúar 2007. Framkvæmdastjóri SPRON-Verðbréfa óskaði þá eftir því við starfsmann Landsbankans að selja hlutinn í sjóðnum, helst áður en til fyrstu greiðslu inn í hann kæmi.260 Ekki varð af þessu. Í stjórnarfundargerð Steinsness 13. september 2007 segir að LAREF-verkefnið hafi ekki skilað því sem vonast hafi verið til, aðallega í þróunarverkefnum í Austur-Evrópu. Lagðar hafi verið fram 70 milljónir króna í verkefnið og samþykkt að stefna að því að komast út úr sjóðnum.261 Í ársreikningi Steinsness 2007 var eignarhlutur í sjóðnum bókfærður á tæplega 150 milljónir króna. Samkvæmt kynningu fyrir fjárfesta 16. maí 2008 var sjóðurinn með fimm fjárfestingarverkefni í gangi, tvö í Dubai, tvö í Tyrklandi og eitt í Rúmeníu.262

Í árslok 2008 var bókfært verð Steinsness ehf. í LAREF tæpar 135 milljónir króna, eða 55,2 milljónir króna að nafnverði.263 Sömu fjárhæðir voru í ársreikningi Steinsness fyrir árið 2009.264

Eros ehf. (Nordic Retail Partners ehf.)

Á fyrri hluta árs 2007 fjárfesti Steinsnes ehf. í Eros ehf. sem var á þeim tíma í eigu Sigurðar Jenssonar og Sjafnar Sóleyjar Kolbeins. Eros var samningsbundinn dreifiaðili fyrir LaSenza vörumerkið og rak undirfataverslanir undir því vörumerki á Íslandi og í Noregi. Auk þess hafði félagið fengið leyfi til reksturs verslana í Svíþjóð og Finnlandi.265 Steinsnes ehf. keypti 28,5% eignarhlut í félaginu fyrir 180 milljónir króna en lagði auk þess fram 15 milljónir króna til viðbótar í hlutafjáraukningu félagsins. Að henni lokinni átti Steinsnes 30% í félaginu.266 Í lok árs 2007 áttu Sigurður og Sjöfn hvort sín 30% í félaginu og Björgvin Jón Bjarnason 10%.267 Í lok árs 2007 var eignarhlutur Steinsness í Eros bókfærður á 195 milljónir króna. Ári síðar var hann metinn á 97,5 milljónir króna og 48,7 milljónir króna í lok árs 2009. Niðurfærslur á eignarhlutnum komu til gjalda hjá Steinsnesi ehf.268 Frá 2006–2008 var hagnaður af rekstri Eros ehf., samtals um 32 milljónir króna. Eros ehf. var úrskurðað gjaldþrota í nóvember 2012.269

Polar Group ehf.

Polar Group ehf. var stofnað 2004 en árið eftir eignaðist félagið 60,2% eignarhlut í R. Sigmundssyni ehf. sem var verslun og heildsala með vörur tengdar sjávarútvegi, útivist, landmælingum og fleira. Eignarhlutur Polar Group í R. Sigmundssyni var bókfærður á 39,2 milljónir króna í lok árs 2005.270

Í október 2007 var hlutafé Polar Group aukið um 97 milljónir króna og hlutur Steinsness í aukningunni 60 milljónir króna. Andvirði hlutafjáraukningarinnar frá Steinsnesi var lagt inn á reikning R. Sigmundssonar sem ráðstafaði peningunum til greiðslu láns frá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis.271 Á fundi stjórnar Steinsness 10. október 2007 var fjallað um stöðu einstakra verkefna og kom fram að rekstur R. Sigmundssonar væri í góðum farvegi og kaup á hlutafé væru frágengin. Í lok árs 2007 átti Steinsnes rúmlega 61% eignarhlut í Polar Group272 en langstærsta eign félagsins þá var 75,7% eignarhlutur í R. Sigmundssyni.273 Asparvík ehf. átti um 38,5% eignarhlut í félaginu á móti Steinsnesi. Asparvík hafði á árinu 2007 keypt aðra hluthafa út úr Polar Group.274

Árið 2007 var tap af rekstri R. Sigmundssonar ehf. tæpar 200 milljónir króna. Á stjórnarfundi Steinsness 16. janúar 2008 var fjallað um stöðu R. Sigmundssonar sem var mun verri en talið hafði verið stuttu áður.275 Félagið væri að missa umboð sem það hefði haft auk þess sem staða á lager, kröfum og lánum væri mun verri en talið hafði verið. Í febrúar 2008 var ákveðið að auka hlutafé í R. Sigmundssyni og skráði Polar Group sig fyrir 100 milljónum króna í aukningunni á genginu 1. Steinsnes lagði fram helming aukningarinnar á móti Asparvík ehf.276 Í desember 2008 var samið um að Steinsnes fengi hlut Asparvíkur í Polar Group gegn yfirtöku á lánum Asparvíkur hjá sparisjóðnum sem þá námu 106 milljónum króna.277 Steinsnes seldi Polar Group til Gifsfélagsins ehf. fyrir eina krónu í desember 2008. Eigandi Gifsfélagsins í lok árs 2008 var Fjárvirki ehf.278 en það félag var í eigu Sigurðar Jenssonar.279 R. Sigmundsson ehf. var úrskurðað gjaldþrota í febrúar 2009 og Gifsfélagið ehf. varð gjaldþrota í nóvember 2011.

Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis færði niður 228 milljónir króna í lok árs 2008 vegna Polar Group en sundurliðanir vegna 2006 og 2007 sýna ekki tekju- eða gjaldfærslur vegna félagsins.

Rekstrarfélag Spron hf.

Rekstrarfélag Spron hf. var stofnað í ágúst 2004 og var tilgangur félagsins hvers konar rekstur verðbréfa- og fjárfestingarsjóða. Félagið var þá í 99,9% eigu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis. Árið 2005 stofnaði félagið fimm verðbréfasjóði. Í lok árs 2006 voru verðbréfasjóðirnir orðnir sex og fjárfestingarsjóðirnir tveir.

Í lok árs 2008 átti SPRON-Verðbréf hf. 90,9% hlut í Rekstrarfélagi Spron hf. og Frjálsi fjárfestingarbankinn hf. 9,1%280 en SPRON-Verðbréf og Frjálsi Fjárfestingarbankinn voru á þessum tíma bæði dótturfélög Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf.281

Rekstrarfélag Spron hf. hætti starfsemi í lok maí 2009 í kjölfar þess að Fjármálaeftirlitið yfirtók Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis í mars sama ár og voru allir sjóðir og aðrar eignir Rekstrarfélags Spron hf. þá fluttar til Íslenskra Verðbréfa hf.282

Í lok árs 2007 námu hreinar eignir verðbréfa- og fjárfestingarsjóða Rekstrarfélags Spron hf. samtals 35,7 milljörðum króna og höfðu þá vaxið um 19,7 milljarða króna frá árinu á undan. Var vöxturinn einkum bundinn við peningamarkaðssjóð rekstrarfélagsins en hrein eign hans jókst úr 6,2 milljörðum króna í 23,4 milljarða283 króna í árslok 2007. Hreinar eignir peningamarkaðssjóðs voru þá rétt tæp 66% af hreinum eignum rekstrarfélagsins.

Í töflu 28 má sjá sundurliðun á eignum peningamarkaðssjóðs Rekstrarfélags Spron í lok árs 2007 og í lok september 2008. Frá lokum árs 2007 til loka september 2008 jókst vægi innlána í peningamarkaðssjóðnum mikið eða úr 1,75% í 21,06% og voru þau þá stærsta fjárfesting hans. Í lok árs 2007 höfðu fjárfestingar í skuldabréfum útgefnum af Baugi Group hf. og Milestone ehf. vegið þyngst í peningamarkaðssjóðnum.

Á fundi stjórnar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. 28. mars 2008 greindi forstjóri sjóðsins frá málefnum Nýsis en félagið var þá í lausafjárerfiðleikum og hafði óskað eftir framlengingu lána. Samþykkti stjórn sjóðsins að heimila forstjóra að flytja 2 milljarða

króna skuldbindingu Nýsis úr peningamarkaðssjóði Rekstrarfélags Spron, þannig að lánveitandi yrði SPRON. Voru því engin skuldabréf á Nýsi hf. í peningamarkaðssjóðnum í lok september 2008.

Slit á peningamarkaðssjóði Rekstrarfélags Spron hf.

Í kjölfar setningar laga nr. 125/2008 hinn 6. október 2008 var lokað fyrir viðskipti með hlutdeildarskírteini í peningamarkaðssjóði Rekstrarfélags Spron.

Ellefu dögum síðar gaf Fjármálaeftirlitið út tilmæli til rekstrarfélaga verðbréfasjóða um slit á peningamarkaðssjóðum félaganna. Þau skyldu ekki opna fyrir innlausnir hlutdeildarskírteina í sjóðunum, heldur greiða sjóðsfélögum úr þeim þannig að allt laust fé hvers peningamarkaðssjóðs greiddist inn á innlánsreikninga sjóðsfélaga í hlutfalli við eign þeirra. Var sérstaklega tekið fram í tilmælunum að hafa ætti jafnræði sjóðsfélaga að leiðarljósi.284

Í minnisblaði framkvæmdastjóra SPRON-Verðbréfa hf. um stöðu peningamarkaðssjóðsins frá 9. nóvember 2008 voru lagðar upp tvær leiðir til að greiða út úr sjóðnum til sjóðsfélaga. Til greina kæmi að greiða strax út til sjóðsfélaga það handbæra fé sem væri í sjóðnum og svo í framhaldi af því reglulegar greiðslur eftir því sem aðrar eignir yrðu seldar eða innheimtar. Þá mætti freista þess að selja allar eignir sjóðsins í einu lagi og greiða eina fullnaðargreiðslu til sjóðsfélaga. Þessa leið hefðu Byr, Glitnir, Landsbankinn og Kaupþing farið, þ.e. keypt öll bréf í eigu peningamarkaðssjóða rekstrarfélaga þeirra og greitt fyrir með reiðufé. Mat á eignum sjóðanna við þessi kaup hefði verið í höndum endurskoðunarfyrirtækja. Í minnisblaðinu kom enn fremur fram að Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis, Byr sparisjóður, MP Fjárfestingarbanki og Íslensk verðbréf hefðu verið í samskiptum við viðskipta- og fjármálaráðuneyti um mögulega aðkomu stjórnvalda að lausn sjóða þessara félaga. Þessar fjármálastofnanir teldu að ríkið hefði með óbeinum hætti leyst úr vandræðum peningamarkaðssjóða rekstrarfélaga „ríkisbankanna“ með því að kaupa eignir úr þeim. Í þessu samhengi hefðu forsvarsmenn Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis horft til jafnræðis- og samkeppnissjónarmiða. Rætt hefði verið við „ríkisbankana“ um að þeir keyptu eignir af sjóðum Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis og annarra minni fjármálafyrirtækja. Í minnisblaðinu kom fram það mat forsvarsmanna sparisjóðsins að viðræður við Kaupþing og mögulega Landsbankann myndu taka of langan tíma og viðskiptavinir myndu ekki þola það að tilkynning frá sparisjóðnum drægist öllu lengur.

Í minnisblaði framkvæmdastjórans komu fram niðurstöður verðmats endurskoðunarfyrirtækjanna KPMG og PricewaterhouseCoopers á eignum peningamarkaðssjóðsins. Við útreikning á útgreiðsluhlutfalli var miðað við stöðu sjóðsins 26. september 2008.285 Heildarstærð sjóðsins286 var 13,1 milljarður króna en þar af voru eignir í formi peninga í sjóði 2.066 milljónir króna.287

Á þessum tíma var sparisjóðurinn sjálfur langstærsti hlutdeildarskírteinishafi peningamarkaðsjóðsins en hann átti rúmlega 53% hlutdeildarskírteina. Auk þess áttu SPRON-Verðbréf hf. rúmlega 1,8%.288 Tillaga að útgreiðslu samkvæmt minnisblaði framkvæmdastjóra SPRON-Verðbréfa hf. var að sparisjóðurinn myndi kaupa eignir peningamarkaðssjóðsins á verði sem svaraði til 85% útgreiðsluhlutfalls. Stjórn sparisjóðsins fjallaði um stöðu peningamarkaðssjóðsins á fundi sínum 10. nóvember 2008 og kom þar fram að sparisjóðurinn væri undir miklum þrýstingi frá viðskiptavinum sínum, sem jafnframt ættu hlutdeildarskírteini í peningarmarkaðssjóðnum, um að koma með sambærilega lausn og aðrar fjármálastofnanir. Sparisjóðurinn var á þessum tíma eina fjármálastofnunin sem ekki hafði leyst mál peningamarkaðssjóðs rekstrarfélags síns. Stjórnin samþykkti að kaupa eignir af peningamarkaðssjóðnum og að útgreiðsluhlutfall til hlutdeildarskírteinishafa yrði 85%, en fyrir fundinn var lagt áðurnefnt minnisblað.289

Sparisjóðurinn sendi frá sér tilkynningu 11. nóvember 2008 um að útgreiðsluhlutfall til sjóðfélaga peningamarkaðssjóðs SPRON yrði 85,52% miðað við eign sjóðfélaga 3. október 2008. Upphæðin yrði lögð inn á innlánsreikninga í nafni sjóðfélaga 17. nóvember 2008 og sjóðsfélagar fengju bestu kjör á innlánsreikningum til loka árs 2009.290

17.4 Fjármögnun

Efnahagur Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis stækkaði ört á því tímabili sem rannsóknin nær til og hefur þegar verið gerð grein fyrir stækkandi eignasafni útlána og fjárfestinga hér framar. Til þess að fjármagna vöxtinn þurfti sparisjóðurinn að afla fjár og léku innlán og lántökur þar stærst hlutverk, þótt skuldir við lánastofnanir vægju þungt á árinu 2008.

Þeir skuldaliðir sem áttu þátt í eiginlegri fjármögnun starfseminnar voru innlán, lántaka, skuldir við lánastofnanir og víkjandi lán. Um þá verður fjallað hvern fyrir sig hér aftar. Meðal annarra skulda eru færðar veltufjárskuldir vegna gjaldfallinna framvirkra gjaldeyrissamninga við Fortis Bank og HSH Nordbank að fjárhæð 9,7 milljarðar króna. Einnig er bókuð skuldbinding upp á 1,7 milljarða króna vegna New Bond Street.

17.4.1 Innlán

Frá 1997 til 2004 var sparisjóðurinn að mestu leyti fjármagnaður með innlánum en þá voru þau 53–71% af skuldum hans að undanskildu eigin fé.291 Frá 2005 til 2008 var hlutfallið 36–43%, lægst árið 2008. Á sama tíma var hlutfall innlána af skuldum annarra sparisjóða á bilinu 54–56% og því má segja að Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis hafi fjármagnað sig að minna leyti með innlánum en aðrir sparisjóðir.

Heimili voru um helmingur innlánseigenda hjá sparisjóðnum samkvæmt atvinnugreinaflokkun innlána sem var skilað til Seðlabanka mánaðarlega.292 Meiri hluti innlána Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis var óbundinn. Í byrjun árs 2008 minnkaði hlutur bundinna innlána hratt, en mikil breyting varð á binditíma innlána eftir fall viðskiptabankanna um haustið 2008. Í lok október 2008 var hlutfall bundinna innlána í sparisjóðnum 17% en í janúar 2009 höfðu þau náð 30%.

Samdráttur í bundnum innlánum skýrist að einhverju leyti af tregðu fjármagnseigenda til að binda innlán sín lengi þegar eftirspurn eftir innlánum jókst meðan þrengdi að fjármálastofnunum á erlendum lánamörkuðum og millibankamörkuðum. Með því að binda ekki innlán, eða binda þau til mjög skamms tíma, gátu innlánseigendur leitað eftir tilboðum í fjármagn og flutt það milli fjármálastofnana eða fjárfestinga eftir því hvaða kjör buðust og má sjá dæmi þessa síðar í kaflanum. Yfirlýsing ríkisstjórnar Íslands frá 6. október 2008 um að allar innistæður í innlendum viðskiptabönkum og sparisjóðum yrðu tryggðar að fullu, ásamt þeim forgangi í kröfur þrotabúa fjármálastofnana sem innlán fengu með lögum nr. 125/2008, hafði áhrif á eftirspurn eftir innlánum. Þegar ljóst var að stutt yrði við innlánseigendur jókst vilji til þess að binda innlán. Á síðari hluta ársins 2008 hóf Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis átak til þess að auka bundin innlán í því skyni að bæta lausafjárstöðu sjóðsins.293

Frá árinu 2005 til 2007 voru helstu innlánseigendur Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis lífeyrissjóðir og dótturfélög sparisjóðsins, Rekstrarfélag Spron hf., Steinsnes ehf. og SPRON-Verðbréf hf. Árið 2008 tók hópur innlánseigenda nokkrum breytingum þegar Íbúðalánasjóður varð stærsti innlánseigandi sparisjóðsins en innlán hans jukust um tæpa 2 milljarða króna frá lokum september 2008 til 9. október 2008. Þá keypti sparisjóðurinn eigin skuldabréf af Íbúðalánasjóði sem lagði andvirðið inn sem innlán í sparisjóðinn. Síðla árs 2008 jukust innlán Vátryggingafélags Íslands hf. um 2 milljarða króna þegar félagið færði fjármuni úr peningamarkaðsinnláni á innlánsreikning hjá sparisjóðnum.

Innlán Rekstrarfélags Spron hf. drógust saman frá því sem áður hafði verið á árinu 2008, meðal annars vegna lokunar á sjóðum félagsins. Hinn 8. október 2008 nam innistæða á reikningum peningamarkaðssjóðs rekstrarfélagsins 1,1 milljarði króna294 en þeim sjóði var lokað 17. nóvember 2008 og greitt úr honum til hlutdeildarskírteinishafa.295 Innlán Steinsness ehf. minnkuðu vegna uppgreiðslu félagsins á lánum sínum samhliða myntbreytingu á lánum í lok árs 2008.

Við skýrslutökur fyrir rannsóknarnefndinni var fyrrverandi starfsmaður fjárstýringar sparisjóðsins inntur eftir því hvort ráðist hefði verið í aðgerðir hjá sparisjóðnum til að auka innlán eða koma í veg fyrir útflæði þeirra þegar erfiðara varð að útvega laust fé í aðdraganda eða kjölfar falls bankanna haustið 2008. Sagði hann slíkt hafa verið gert, þó ekki með almennri hækkun innlánsvaxta sparisjóðsins heldur með boðum til stórra innlánseigenda um sérstök kjör, jafnan gegn ákveðnum binditíma. Ef sparisjóðurinn hefði ekki boðið sams konar kjör og aðrir bankar hefðu innlánseigendur flutt sig um set.296 Af tölvupóstum milli starfsmanna sparisjóðsins í september 2008 má sjá að Glitnir banki hf. bauð þeim einstaklingi sem átti hæstu innlánin í sparisjóðnum 11% vexti á innlán í evrum með tveggja mánaða binditíma og mætti sparisjóðurinn því tilboði til að missa ekki fjármunina úr sjóðnum.297

17.4.1.1 Innlán Íbúðalánasjóðs í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis á árinu 2008

Samkvæmt greinargerð fyrrverandi starfsmanns Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis óskaði Íbúðalánasjóður eftir því í maí 2008 að gera upp verðtryggð skuldabréf útgefin af sparisjóðnum,298 sem Íbúðalánasjóður átti 2 milljarða króna að nafnverði af, en seldi honum í þeirra stað óverðtryggð skuldabréf. Lokagjalddagi verðtryggða skuldabréfaflokksins var 1. mars 2011. Að þessari ósk Íbúðalánasjóðs útbjó sparisjóðurinn nýjan óverðtryggðan skuldabréfaflokk með lokagjalddaga 30. desember 2010.299 Til að bæta upp fyrir styttri líftíma nýja skuldabréfaflokksins varð það að samkomulagi að Íbúðalánasjóður keypti 800 milljónum króna meira af skuldabréfum í nýja flokknum en sparisjóðurinn keypti til baka skuldabréf í þeim eldri, 2.790 milljónir króna að nafnverði, og var gengið frá viðskiptunum 16. maí 2008. Sparisjóðurinn skuldbatt sig til að kaupa til baka 800 milljónir króna af nýja skuldabréfaflokknum 30. janúar 2009.300

Á fundi stjórnar Íbúðalánasjóðs 10. október 2008 var samþykkt að kaupa safn íbúðalána frá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis og tengdum aðilum fyrir 6,6 milljarða króna á bókfærðu verði, en skilyrði fyrir kaupunum var að sparisjóðurinn myndi kaupa upp skuldabréfaflokkinn sem var á gjalddaga 30. desember 2010 og uppkaupsvirðið yrði lagt inn í sparisjóðinn. Lítill markaður var með skuldabréf og með gildistöku neyðarlaganna 6. október 2008 var innistæðueigendum veittur forgangsréttur á kröfum sínum við slit fjármálafyrirtækja auk þess sem ríkisstjórnin hafði lýst því yfir að allar innistæður í innlendum viðskiptabönkum og sparisjóðum yrðu tryggðar að fullu.301 Fjárstýringardeild sparisjóðsins fékk samþykki sparisjóðsstjóra fyrir uppkaupum á skuldabréfaflokknum og að andvirðið yrði lagt inn í sparisjóðinn. Samþykkið var bundið því skilyrði að innlánsreikningurinn bæri sömu vexti og skuldabréfin og yrði bundinn til sama gjalddaga, þ.e. 30. desember 2010. Gekk þetta eftir og voru tæpir 2,9 milljaðar króna lagðir inn á bundinn reikning á nafni Íbúðalánasjóðs.302

Í lok janúar 2009 vann sparisjóðurinn að kyrrstöðusamningum við lánardrottna og var ekki í aðstöðu til að efna fyrrgreint samkomulag um að greiða Íbúðalánasjóði 800 milljónir króna, en lausafjárstaða sparisjóðsins var ekki góð. Greiðslan var hins vegar innt af hendi 27. febrúar 2009 þegar Íbúðalánasjóður tók út rúmar 860 milljónir króna af reikningi sínum hjá sparisjóðnum.303

17.4.1.2 Vátryggingafélag Íslands hf.

Vátryggingafélag Íslands hf. lagði 2 milljarða króna peningamarkaðsinnlán til 30 daga í Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis hf. 30. september 2008. Á sama degi gerði eigandi Vátryggingafélags Íslands hf., Exista hf., samning við sparisjóðinn um 2 milljarða króna peningamarkaðslán í 30 daga. Lánið til Exista hf. var samþykkt á stjórnarfundi 30. september 2008:

Áður en þessi liður var tekinn til umfjöllunar vék Erlendur Hjaltason af fundi. Óskað var eftir heimild stjórnar til lánveitingar til Exista að upphæð 2 ma.kr. í 30 daga. Áhætta vegna Exista er þá tæplega 2,5 ma.kr., sem er 20% af CAD hlutfalli. Þetta var samþykkt.304

Exista hf. hafði frá 11. febrúar 2008 fengið regluleg peningamarkaðslán hjá sparisjóðnum á bilinu 500 til 1.500 milljónir króna. Peningamarkaðslánið 30. september 2008 var framlengt í lok hvers mánaðar til 30 daga í senn, síðast 29. janúar 2009, en þá með gjalddaga

16. mars 2009. Í lok árs 2008 nam sérgreind niðurfærsla á afskriftareikningi sparisjóðsins vegna skulda Exista hf. 1,6 milljörðum króna.

Vátryggingafélag Íslands hf. endurnýjaði ekki peningamarkaðsinnlánið og lagði andvirðið inn á tékkareikning í sparisjóðnum 31. október 2008. Samkvæmt tölvupóstum starfsmanna sparisjóðsins frá því í janúar 2009 var farið með þennan tékkareikning og innistæðu hans sem um peningamarkaðsinnlán væri að ræða, þ.e. samið var um tímalengd hverju sinni og vextir greiddir á gjalddaga lánsins. Þessi samskipti sýna að vextir á tékkareikningnum hafi að minnsta kosti verið 21,75% frá lokum nóvember 2008 til 2. mars 2009. Frá 2. mars 2009 til 2. maí 2009 voru vextirnir 21,5%.305 Hæstu innlánsvextir sem sparisjóðurinn bauð í vaxtatöflu sinni 11. nóvember 2008 voru 19% á vaxtabótareikningum með innistæðu hærri en 50 milljónir.306 Á þessum tíma var ljóst að innistæður á tékkareikningi nutu innistæðutryggingar ríkissjóðs og forgangs í þrotabú fjármálastofnana en óvíst var hvort hið sama gilti um peningamarkaðsinnlán eða heildsöluinnlán.307

Í skýrslum fyrir rannsóknarnefndinni kom fram að ekki hefði verið óvenjulegt að binda innlán á tékkareikningum í ákveðinn tíma gegn hærri vöxtum, einkum þegar lausafjárþurrðar fór að gæta í sparisjóðnum og áhersla var lögð á að afla stórra innlána og að binda þau helst til lengri tíma.308 Þá kom fram hjá fyrrverandi framkvæmdastjóra fjárhagssviðs sparisjóðsins að honum hefði ekki þótt það óvenjulegt að sparisjóðurinn tæki við peningum, lánaði þá út og tæki vaxtamun fyrir.309 Starfsmanni fjárstýringar sparisjóðsins þótti þó óvenjulegt að fjármunir væru látnir flæða innan sömu samstæðunnar í gegnum sparisjóðinn, þ.e. frá Vátryggingafélagi Íslands hf. til sparisjóðsins og frá honum til Exista hf. Hann sagðist þó ekki hafa í fljótu bragði getað séð að slíkt hefði verið óleyfilegt og eftir að heimild fyrir þessum viðskiptum kom frá stjórninni hefðu þau verið framkvæmd.310

17.4.2 Skuldir við lánastofnanir

Skuldir Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis við lánastofnanir voru skammtímaskuldir við önnur fjármálafyrirtæki og lánastofnanir, svo sem dag- og veðlán hjá Seðlabanka Íslands, lán til styttri tíma frá Sparisjóðabanka Íslands, skammtímalán frá erlendum bönkum, millibankalán við íslenskar fjármálastofnanir, óuppgerðar skuldir í jöfnunarkerfum og þess háttar. Skuldir til lengri tíma teljast til lántöku og er fjallað um þær í kafla 17.4.3.

Skuldir við lánastofnanir voru á bilinu 4–18% af skuldum Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis að undanskildu eigin fé í árslok 2005 til ársloka 2008. Á árunum 2005–2007 voru skuldir við lánastofnanir á bilinu 8,5–11,2 milljarðar króna, en þær námu 47,2 milljörðum króna í árslok 2008.

Eftir að Guðmundur Hauksson tók við sem sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis 1996 dró sparisjóðurinn sig smám saman út úr samstarfi við Sparisjóðbanka Íslands hf. og fór að leita leiða til að fjármagna sig sjálfur, sérstaklega erlendis.311 Þegar kom fram á árið 2005 var engin skammtímafjármögnun sparisjóðsins fyrir tilstilli Sparisjóðabanka Íslands hf. Á árunum 2005 til 2007 voru skuldir sparisjóðsins við lánastofnanir að stærstum hluta vegna millibankalána við innlendar lánastofnanir. Á árinu 2005 námu peningamarkaðssamningar tæpum 10 milljörðum króna og veðlán hjá Seðlabanka Íslands 1,3 milljörðum króna.312 Vægi dag- og veðlána jókst jafnt og þétt á árunum 2006 og 2007 en á sama tíma dró úr millibankalánum hjá innlendum lánastofnunum. Í árslok 2008 námu dag- og veðlán hjá Seðlabanka Íslands 47,2 milljörðum króna.313

Aukningu í dag- og veðlánum sparisjóðsins hjá Seðlabankanum á árinu 2008 má rekja til lausafjárerfiðleika sjóðsins. Þegar þrengdi að á erlendum lánamörkuðum reiddi sparisjóðurinn sig í æ meira mæli á innlenda banka, en eftir fall viðskiptabankanna haustið 2008 varð fjármögnun þeirra fjármálafyrirtækja sem eftir stóðu erfið. Í lok september 2008 var lausafjárskortur sparisjóðsins orðinn viðvarandi og skammtímafjármögnun dýr. Stærsti hluti hennar fór þá fram fyrir milligöngu Kaupþings banka hf. á 250–350 punktum yfir REIBOR.314 Við yfirtöku Fjármálaeftirlitsins á valdi hluthafafundar Kaupþings banka hf. 9. október 2008 þyngdist fjármögnun sparisjóðsins enn frekar og í stjórnarfundargerð hans frá þessum degi er þess getið að lausafjárstaðan sé erfið því hún hafi byggst að miklu leyti á nánu samstarfi við Kaupþing banka hf. Við fall Kaupþings banka voru útistandandi skammtímalán sparisjóðsins hjá bankanum gjaldfelld og greiðslu krafist.315 Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis reiddi sig eftir það nær eingöngu á fyrirgreiðslur frá Seðlabanka Íslands til skammtímafjármögnunar.

17.4.2.1 Seðlabanki Íslands

Seðlabanki Íslands veitir fjármálastofnunum lausafjárfyrirgreiðslu á veðlánsformi, gegn veði í verðbréfum, svokölluðum dag- og veðlánum.316 Veðlán Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hjá Seðlabanka Íslands í lok árs 2006 námu tæpum 3 milljörðum króna og til tryggingar veðlánunum voru settir ríkisvíxlar og skuldabréf Íbúðalánasjóðs. Í lok árs 2007 námu veðlán hjá Seðlabanka Íslands tæpum 4,5 milljörðum króna gegn veði í ríkisvíxlum og skuldabréfum Íbúðalánasjóðs, en í lok árs 2008 námu dag- og veðlán Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis 47,2 milljörðum króna. Til tryggingar stóðu ýmis verðbréf að markaðsverðmæti 63,6 milljarða króna sem nánari grein er gerð fyrir hér aftar.

Frá falli viðskiptabankanna í byrjun október fram til ársloka 2008 jókst skuldastaða sparisjóðsins við Seðlabanka Íslands um 19,3 milljarða króna en litlar breytingar urðu á stöðunni frá árslokum 2008 fram að yfirtöku Fjármálaeftirlitsins á valdi hluthafafundar sparisjóðsins 21. mars 2009. Þá námu skuldir hans við Seðlabankann 47,8 milljörðum króna og skráð markaðsverðmæti trygginga fyrir þeim skuldum 57,2 milljörðum króna.

Seðlabankinn tilkynnti sparisjóðnum 20. febrúar 2009 að fyrirgreiðsla við sjóðinn í dag- og veðlánum hefði náð leyfilegu hámarki miðað við fyrirliggjandi tryggingar. Forstöðumaður fjárstýringar sparisjóðsins óskaði sama dag eftir fundi með framkvæmdastjóra alþjóða- og markaðssviðs Seðlabankans til að ræða tryggingastöðu sparisjóðsins og gat þess að sparisjóðnum hefði ekki verið ljóst hvar mörk hámarksfyrirgreiðslu lægju fyrr en þennan dag.317

17.4.2.1.1 Kaupþingsvíxlar

Í mars 2008 jukust lán sparisjóðsins hjá Seðlabanka Íslands um rúma 10 milljarða króna en þau voru veitt gegn veði í því sem á mynd 20 eru kölluð bankabréf en voru eingöngu víxlar útgefnir af Kaupþingi banka hf. Sparisjóðurinn gaf út víxla sem bankinn keypti með eigin víxlum sem sparisjóðurinn setti svo að veði fyrir fyrirgreiðslu hjá Seðlabanka Íslands.318

Við fall Kaupþings banka hf. féllu víxlarnir í verði og 20. október 2008 gerði Seðlabanki Íslands veðkall þar sem sparisjóðurinn var krafinn um auknar tryggingar vegna þeirrar eignarýrnunar. Á þessum tíma mat Seðlabankinn bréf bankanna í viðskiptum við fjármálafyrirtæki á 50% af virði þeirra.319 Í kjölfarið lagði Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis fram staðfestingu frá Íbúðalánasjóði þess efnis að sjóðurinn hygðist kaupa af sparisjóðnum 20 milljarða króna íbúðalánasafn og yrði hluti kaupverðsins greiddur með íbúðabréfum (HFF-flokkum). Seðlabanki Íslands veitti 9,2 milljarða króna lán gegn veði í staðfestingunni.320

Einn víxlaflokkanna frá Kaupþingi banka hf. var á gjalddaga 15. október 2008 en sparisjóðurinn hafði lagt að veði tæpa 6 milljarða króna að nafnverði af þeim flokki gegn rúmra 5,8 milljarða króna fyrirgreiðslu hjá Seðlabankanum. Á gjalddaga víxlanna voru þeir færðir úr veðláni til einnar viku yfir í daglán. Sparisjóðurinn fékk 90% af nafnverði víxlanna í daglán til 10. nóvember 2008, að undanskildum 16. október 2008 þegar Seðlabankinn lánaði 97,09% af markaðsvirði víxlanna.

Samkvæmt 15. gr. reglna Seðlabanka Íslands nr. 808/2008 frá 22. ágúst 2008 skal fjárhæð útistandandi daglána aldrei vera hærri en níutíu hundraðshlutar af markaðsvirði verðbréfa sem sett hafa verið til tryggingar þeim. Við skýrslutöku rannsóknarnefndarinnar af starfsmanni Seðlabanka Íslands kom fram að víxillinn hefði verið notaður til tryggingar dagláni, þrátt fyrir að hafa verið kominn fram yfir gjalddaga, vegna þess að sjóðurinn hefði ekki átt aðrar eignir sem hann gat sett sem tryggingu fyrir láninu. Starfsmenn Seðlabanka Íslands hefðu gert sér fyllilega grein fyrir því að þetta væri óeðlilegt og ekki samkvæmt reglum bankans, en stjórnendur bankans hefðu samþykkt fyrirgreiðslu til sjóðsins. Bankastjórar settu stafi sína við yfirlit um daglán til sparisjóðsins.321 Um þetta sagði framkvæmdastjóri alþjóða- og markaðssviðs Seðlabanka Íslands í skýrslutöku fyrir rannsóknarnefndinni:

Frádragið er bara ákveðið í reglunum og reglurnar eru settar af stjórunum og þeir geta breytt því ef þeir vilja. […] Ég held að munnlegt samþykki [fyrir undanþágu] myndi teljast gilt samþykki en ég held að okkar verklag hafi verið það að fá þetta meira og minna allt undirritað. […] En það var enginn ágreiningur um það milli starfsmanna bankans og bankastjóranna að það væri heimilt. Og það að gera það ekki væri í rauninni það sama og að loka bönkunum. Þú verður að átta þig á því að hefðum við ekki gert þetta hefðum við þurft að loka sparisjóðunum af því þetta voru einu eignirnar, þeir gátu ekki borgað skuldina og þetta voru einu eignirnar sem þeir gátu afhent okkur til þess að við gætum samþykkt það að vera áfram með þá í lánaviðskiptum. Þannig að það að samþykkja ekki hefði verið það sama og að loka.322
17.4.2.1.2 GIIF 08 1

Frá 8. október 2008 og fram til þess er Fjármálaeftirlitið tók yfir vald hluthafafundar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis 21. mars 2009 veitti Seðlabanki Íslands sparisjóðnum fyrirgreiðslu gegn veði í eignavörðu, lagskiptu skuldabréfi, GIIF 08 1, sem gefið var út af sérstökum fagfjárfestasjóði, Geysi 2008-I Institutional Investor Fund. Sparisjóðurinn nýtti A-lag skuldabréfsins,323 sem var að nafnverði 124,8 milljónir evra, til tryggingar vikulöngum veðlánum hjá Seðlabankanum og B-lag, sem var að nafnverði 34,2 milljónir evra, til tryggingar daglánum.

Sparisjóðurinn fékk vikulangt veðlán 8. október 2008 gegn veði í A-laginu. Veðsetningarhlutfall bréfsins vegna lánsins var 75% af markaðsverðmæti þess324 en hámarksveðsetningarhlutfall vegna skuldabréfa í erlendri mynt var á þessum tíma 86% af markaðsverðmæti.325 Tveimur dögum síðar, meðan A-lagið var enn þá nýtt til tryggingar veðláni, fékk sjóðurinn daglán með veði í skuldabréfinu að nafnverði 65,4 milljónir evra og var markaðsverðmæti bréfsins skráð 9,4 milljarðar króna.326 Hámarksveðsetningarhlutfall daglána var 90% samkvæmt reglum Seðlabankans.327 Í B-lagi skuldabréfsins lágu verðmæti að nafnverði 34,2 milljónir evra og því stóð það ekki eitt undir tryggingu lánsins. Ekki verður annað séð en að allt B-lag bréfsins ásamt þeim hluta A-lagsins sem ekki var veðsettur vegna daglánsins, 31,2 milljón evra, hefði verið nýtt sem veð fyrir dagláninu á þessum tíma og fram til 22. október 2008.328

Frá 22. október 2008 var nafnverð B-lagsins, 34,2 milljónir evra, nýtt til tryggingar daglánum en á sama tíma var veðsetningarhlutfall A-lagsins 100% vegna vikulanga veðlánsins. Við skýrslutöku rannsóknarnefndarinnar af starfsmanni Seðlabanka Íslands kom fram að bankastjórn Seðlabankans hefði veitt undanþágu frá reglum nr. 808/2008 um 14% lágmarksfrádrag og hefði lánið verið veitt með þeim formerkjum.329 Sparisjóðurinn var með lán hjá Seðlabanka Íslands með veði í GIIF 08 1 þegar Fjármálaeftirlitið tók yfir vald hluthafafundar sparisjóðsins 21. mars 2009. Um uppgjör skuldarinnar er fjallað í kafla 17.4.3.1.4.

Geysir 2008-I Institutional Investor Fund

Um mitt ár 2007 komu upp hugmyndir hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis um að fjármagna íbúðalán með útgáfu verðbréfaðra skuldabréfa (e. RMBS – residential mortgage backed securities) í gegnum heildsölubanka erlendis eða hjá Íbúðalánasjóði, ef hugmyndir um að hann yrði að heildsölubanka yrðu að veruleika.330

Á stjórnarfundi Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. 28. nóvember 2007 veitti stjórn sjóðsins sparisjóðsstjóra og lykilframkvæmdastjórum sparisjóðsins heimild til að ljúka verðbréfunarferlinu. Heimildin gilti til að kaupa íbúðalán fyrir hönd sparisjóðsins fyrir allt að 1,2 milljarða króna af nb.is-sparisjóði hf. og allt að 11 milljarða króna af Frjálsa fjárfestingarbankanum hf. Jafnframt var sparisjóðnum heimilt að selja íbúðalán sín fyrir allt að 13 milljarða króna, ásamt lánum nb.is og Frjálsa fjárfestingarbankans hf. til sjálfstæðs fjárfestingasjóðs.

Í mars 2008 var stofnaður sérstakur fagfjárfestasjóður, Geysir 2008-I Institutional Investor Fund (hér eftir Geysir 2008-I) til þess að gefa út verðbréfað skuldabréf með veði í fasteignalánasafni sparisjóðsins, en sjóðurinn var í umsjón Rekstrarfélags Spron hf.331 Sjóðurinn var skráður í Hollandi og stjórnarformaður hans var Guðmundur Örn Hauksson, forstjóri sparisjóðsins. Í júlí 2008 keypti Geysir 2008-I fasteignatryggð íbúðalán af Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis fyrir 21 milljarð króna.

Lánunum var komið fyrir í einu heildarsafni og 23. júlí 2008 var gefið út skuldabréfið GIIF 08 1 sem var eignavarið skuldabréf í þremur lögum, að nafnverði 124,8 milljónir evra í A-lagi (e. senior class A), 32,4 milljónir evra í B-lagi (e. mezzanine class B) og 1,6 milljónir evra í C-lagi (e. junior class C). Skuldabréfið var með ársfjórðungslegum vaxta- og höfuðstólsafborgunum og var til 45 ára. Í samningnum var kaupréttarákvæði og gat sparisjóðurinn keypt íbúðalánin til baka eftir fimm ár.332

Tilgangur verðbréfunarinnar var að nýta eignir sjóðsins til að útvega honum ódýra fjármögnun en forstjóri hafði til að mynda lýst því á fundi stjórnar 6. júní 2008 að sjaldan eða aldrei hefði aðgengi að lausu fé verið erfiðara. Búist var við að sala bréfsins gæti dregist vegna stöðu á fjármálamörkuðum en verðbréfunarferlið tók einnig mið af því að sparisjóðurinn gæti notað bréfið í veðlánaviðskiptum við Seðlabanka Íslands eða seðlabanka í Evrópu þar til hagstæðari skilyrði yrðu á fjármálamörkuðum.333 Í vinnugögnum sparisjóðsins var gengið út frá því að fyrirkomulagið hefði jákvæð áhrif á eiginfjárhlutfall sjóðsins þar sem útlánaáhætta vegna fasteignalánanna færðist frá sparisjóðnum til endanlegra fjárfesta. Það var þó háð því að endanlegir fjárfestar keyptu skuldabréfin en það gekk ekki eftir. Skuldabréfið seldist ekki en sparisjóðurinn fékk sjálfur skuldabréfið sem greiðslu fyrir þau lánasöfn sem flutt voru í Geysi 2008-I.

Í júlí 2008 hertu Seðlabanki Evrópu og Seðlabanki Lúxemborgar reglur um veðhæf bréf sem gerði það að verkum að ekki var mögulegt að nýta skuldabréfið sem veð fyrir fyrirgreiðslu frá þeim. Seðlabanki Íslands samþykkti lánveitingar til sparisjóðsins 8. og 9. október 2008 gegn tryggingu í skuldabréfinu, annars vegar 4,6 milljarða króna daglán (90% af markaðsvirði B-flokks) og hins vegar 12,7 milljarða króna veðlán (75% af markaðsvirði A-flokks), en sú lánveiting var hugsuð til skamms tíma, eða sem svokallað brúarlán, þar til sjóðurinn næði samningum við kröfuhafa um fjárhagslega endurskipulagningu og við Íbúðalánasjóð um kaup á útlánum tryggðum með fasteignaveði.334

17.4.2.1.3 Fyrirgreiðsla Seðlabanka Íslands til Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis 22. október 2008

Stjórnarfundargerðir og tölvupóstsamskipti á milli starfsmanna sparisjóðsins sýna að áhersla var lögð á samstarf við Íbúðalánasjóð til þess að fjármagna sparisjóðinn eftir að viðskiptabankarnir féllu. Í því augnamiði útbjuggu starfsmenn nokkrar tillögur að lánasöfnum til að selja Íbúðalánasjóði. Á stjórnarfundi Íbúðalánasjóðs 10. október 2008 var samþykkt að kaupa 6,6 milljarða króna safn íbúðalána frá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis hf. og var yfirlýsing þess efnis send Seðlabankanum. Þessi yfirlýsing var ekki nýtt sem veð í dag- og veðlánaviðskiptum við Seðlabankann.

Það var hins vegar 22. október 2008 sem Seðlabanki Íslands veitti Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis fyrirgreiðslu á grundvelli ákvörðunar stjórnar Íbúðalánasjóðs um að kaupa 20,2 milljarða króna lánasafn af Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis. Við staðfestingu á þessari ákvörðun fékk sparisjóðurinn 9,2 milljarða króna daglán allt fram til 13. janúar 2009 en eftir það veðlán til einnar viku í senn sem nam 10,2 milljörðum króna. Lánið var enn útistandandi þegar Fjármálaeftirlitið tók yfir vald hluthafafundar sparisjóðsins 21. mars 2009.335 Þáverandi framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs, Guðmundur Bjarnason, sendi Seðlabanka Íslands staðfestingu á fyrirhuguðum kaupum með tölvuskeyti 22. október 2008:

Það staðfestist hér með að stjórn Íbúðalánasjóðs hefur á fundi sínum í dag samþykkt að kaupa af SPRON skuldabréf tryggð með veði í íbúðarhúsnæði fyrir 20 milljarða kr. Samningurinn verður undirritaður þegar gengið hefur verið frá reglugerð um kaup Íbúða­lánasjóðs á slíkum bréfum af fjármálastofnunum í samræmi við lög nr. 125/2008 og stjórn SPRON hefur fallist á efnisatriði umrædds samnings. Gera má ráð fyrir að endanlegur frágangur taki einhverja daga en stefnt er að því að ljúka máli þessu fyrir lok þessarar viku.336

Drög að samningi um kaup Íbúðalánasjóðs á lánasafninu af sparisjóðnum hljóðuðu upp á 20,2 milljarða króna. Við undirritun skyldi greiða 5,1 milljarð króna í reiðufé og 11 milljarða króna með skuldabréfum útgefnum af Íbúðalánasjóði (HFF-flokkum) sem uppfylltu veðhæfisreglur Seðlabanka Íslands. Lokagreiðsla færi fram 20. október 2016 og skyldi hún nema 4 milljörðum króna í íbúðabréfum eða markaðshæfum verðbréfum.

Í reglum nr. 808/2008 um viðskipti fjármálafyrirtækja við Seðlabanka Íslands kemur ekki fram að hægt sé að nýta annað en verðbréf sem veð fyrir dag- og veðlánum, en staðfesting framkvæmdastjóra Íbúðalánasjóðs getur varla talist til verðbréfa. Sé litið fram hjá því að ekki var um verðbréf að ræða ætti 13. gr. umræddra reglna ef til vill best við, en í henni sagði:

Liggi viðmiðunarverð verðbréfa ekki fyrir á skipulegum verðbréfamarkaði eða hjá viðurkenndum upplýsingaveitum sem Seðlabankinn samþykkir, er ekki hægt að nota viðkomandi verðbréf sem fjárhagslega tryggingarráðstöfun nema til komi sérstök ákvörðun bankastjórnar. Sama gildir um verðbréf sem ekki hafa lánshæfismat frá þeim matsfyrirtækjum sem Seðlabankinn viðurkennir.

Þegar rannsóknarnefndin innti eftir formlegu samþykki bankastjórnar fyrir því að taka staðfestingu Íbúðalánasjóðs til sparisjóðsins sem gilt veð var henni afhent afrit af tölvuskeyti frá Ingimundi Friðrikssyni, einum þriggja þáverandi seðlabankastjóra, til starfsmanna bankans frá 22. október 2008, þar sem hann áframsendi áðurnefnda staðfestingu framkvæmdastjóra Íbúðalánasjóðs á kaupum á lánasafninu. Í skeyti Ingimundar stóð „Til uppl. IF“. Formlegt samþykki bankastjórnar fyrir því að taka yfirlýsinguna að veði virðist því ekki hafa legið fyrir, en samkvæmt upplýsingum frá starfsmanni Seðlabankans til rannsóknarnefndarinnar voru „[m]ikil samskipti […] við bankastjórn á þessum tíma, daglegir fundir og ýmis samskipti þar á milli. Öll ný veð sem minnsti vafi lék á að féllu ekki undir reglur 808 frá ágúst 2008 voru borin undir yfirmenn bankans“.337 Að minnsta kosti einn bankastjóranna setti stafi sína á yfirlit yfir daglán og veð að baki þeim þar sem yfirlýsingin kemur skýrt fram.338 Framkvæmdastjóri alþjóða- og markaðssviðs Seðlabankans lýsti því fyrir rannsóknarnefndinni hvaða veð bankinn mætti taka fyrir fyrirgreiðslum:

[Þ]að er ákvæði í reglunum og þegar þú ert kominn í aðrar eignir en þær sem taldar eru upp, þessar hefðbundnu eignir, þá eru í Seðlabankanum seðlabankastjórnir nánast alvald eða allsráðandi. Þeir staðfesta reglurnar og hafa fullt frelsi í reglunum sjálfum til þess að breyta þeim. […] [V]ið breyttum þessum reglum þrisvar árið 2008 til þess að opna á að þeir gætu skilað okkur fasteignaveðbréfum og eignavörðum bréfum til þess að við þyrftum ekki að taka þau beint, til þess að þeir gætu pakkað þessu saman og gert þetta þannig úr garði að við gætum tekið við þessu án þess að þurfa að ráða tugi eða hundruð manna í vinnu við að halda utan um þetta.339

Skjöl Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis um greiðsluflæði 22. október 2008 sýna að þrátt fyrir að tekist hefði að útvega 10,2 milljarða króna með því að leggja yfirlýsingu Íbúðalánasjóðs að veði til tryggingar veðláni við Seðlabankann dugðu lausafjáreignir aðeins fyrir útgreiðslum dagsins. Þetta var meðal annars vegna þess að tveimur dögum áður hafði Seðlabankinn gert veðkall á sparisjóðinn vegna Kaupþingsvíxla sem notaðir voru sem tryggingar fyrir fyrirgreiðslum og óskað eftir öðrum tryggingum. Samkvæmt sama skjali átti sparisjóðurinn ekki laust fé til þess að mæta skuldbindingum næsta dags og var uppsöfnuð lausafjárþörf fram til loka ársins 2008 26,5 milljarðar króna.340

Ekkert varð af fyrirhuguðum kaupum Íbúðalánasjóðs á lánasafni Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis. Við úrvinnslu Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf. á kröfum vegna dag- og veðlána Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis var þáverandi framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs inntur svara af lögfræðingi Seðlabanka Íslands um hvers vegna kaup Íbúða­lánasjóðs á lánasafni Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hefðu ekki gengið eftir.341 Framkvæmdastjórinn sagði setningu reglugerðar sem heimilaði kaupin hafa dregist til 26. nóvember 2008.342 Stjórn Íbúðalánasjóðs hefði staðfest eigin reglur um kaup lánasafna af fjármálafyrirtækjum 15. janúar 2009343 og þá hefði verið óskað eftir því við sparisjóðinn að fá lánasafnið sem selja átti til að meta og yfirfara. Sparisjóðurinn sagðist þá vilja endurskoða afstöðu sína til þeirra skuldabréfasafna sem áður höfðu verið boðin Íbúðalánasjóði til kaups, sérstaklega skuldabréfa frá Frjálsa fjárfestingarbankanum hf. sem báru breytilega vexti.344 Samkvæmt greinargerð Íbúðalánasjóðs til rannsóknarnefndar og skýrslutöku af starfsmanni Íbúðalánasjóðs voru samskipti Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis og Íbúðalánasjóðs vegna kaupa á lánasafni sparisjóðsins lítil sem engin á árinu 2009.345 Á meðan naut sparisjóðurinn fyrirgreiðslu vegna staðfestingarinnar frá 22. október 2008.346

Hinn 24. febrúar 2009 beindi Seðlabanki Íslands því til fjögurra ráðuneyta (forsætis-, fjármála-, viðskipta- og félagsmálaráðuneytis) að ná lendingu í viðræðum fjármálastofnana við Íbúðalánasjóð. Þáverandi framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs ritaði sparisjóðsstjóra Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis bréf 25. febrúar 2009 þar sem áréttað var að Íbúða­lánasjóður væri tilbúinn að halda áfram þeim viðræðum sem í gangi voru um kaup sjóðsins á fasteignaveðbréfum fjármálafyrirtækja. Þrátt fyrir samningaviðræður milli Íbúðalánasjóðs og sparisjóðsins í kjölfarið tókst ekki að ljúka samningum.347

Íbúðalánasjóði barst beiðni frá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis 18. mars 2009 um kaup á lánasöfnum fyrir samtals 43 milljarða króna. Á sama tíma lýsti sparisjóðurinn yfir áhuga á að selja Íbúðalánasjóði skuldabréf í erlendri mynt fyrir allt að 20 milljarða króna til viðbótar. Beiðninni hafði ekki verið svarað þegar Fjármálaeftirlitið tók yfir vald hluthafafundar sparisjóðsins 21. mars 2009.348

Vafi lék á gildi yfirlýsingarinnar frá 22. október 2008 sem veðs og í heildarsamkomulagi milli slitastjórnar sparisjóðsins og Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf. var fallið frá 10,2 milljarða króna kröfu á hendur Íbúðalánasjóði vegna loforðs um kaup á skuldabréfi af Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis tryggðu með veði í fasteignaveðskuldabréfum samkvæmt yfirlýsingunni.349

17.4.2.1.4 Fasteignatryggð veðskuldabréf

Hinn 26. nóvember 2008 samþykkti Seðlabanki Íslands að taka fasteignatryggð veðskuldabréf að nafnverði tæpir 7,5 milljarðar króna að veði fyrir tæplega 3 milljarða króna dagláni.350 Sparisjóðurinn fékk lánafyrirgreiðslu gegn veði í lánasafninu fram að falli hans en veðsetningarhlutfallið breyttist nokkuð á tímabilinu. Hæst fór hlutfallið í 65% og nam lánsfjárhæðin þá tæpum 4,9 milljörðum króna. Í safninu voru 497 lán frá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, Frjálsa fjárfestingarbankanum hf. og nb.is-sparisjóði hf. Þessi bréf voru ekki tryggingarhæf samkvæmt reglum Seðlabankans nr. 808/2008.351

Hinn 10. desember 2008 lagði sparisjóðurinn að veði skuldabréf Frjálsa fjárfestingarbankans hf. í erlendri mynt, jafnvirði um 13,1 milljarðs króna að bókfærðu virði, vegna fyrirgreiðslu hjá Seðlabanka Íslands. Í safninu voru 215 veðskuldabréf útgefin af fyrirtækjum og 196 veðskuldabréf útgefin af einstaklingum, samtals 411 skuldabréf í erlendri mynt.352 Lánsfjárhæðin var á bilinu 4,6–9,6 milljarðar króna og stjórnaðist af lausafjárþörf sjóðsins hverju sinni. Fjárhæðin var stillt af með því að beita mismunandi frádragi vegna þessara veða, hæst var það rúm 76% og lægst 35%. Seðlabankinn kannaði ekki hvort um var að ræða sömu lán og þau sem sparisjóðurinn hugðist selja Íbúðalánasjóði.353 Skuldabréfin voru flutt í kössum til Seðlabanka Íslands og geymd þar í skjalageymslum.354

Hinn 5. mars 2009 var laust fé sparisjóðsins uppurið en með því að auka veðsetningarhlutfall fasteignatryggðra veðskuldabréfa hjá Seðlabanka Íslands var honum útvegað meira laust fé. Veðsetningarhlutfallið var hækkað úr tæpum 59% í 65% og fékk sparisjóðurinn þannig viðbótarfyrirgreiðslu upp á rúma 1,3 milljarða króna. Um bráðabirgðalausn var að ræða og þótti fyrirsjáanlegt að sjóðurinn myndi fljótlega standa aftur frammi fyrir lausafjárþurrð að öðru óbreyttu.355 Forsvarsmenn sparisjóðsins áttu fund með Seðlabankanum 8. mars 2009 um viðbótartryggingar sem sparisjóðurinn gæti lagt fram356 en um var að ræða 19,8 milljarða króna útlánasafn til einstaklinga með veði í fasteignum.357 Starfsmenn sparisjóðsins lýstu því yfir í samskiptum við Seðlabankann að sparisjóðurinn væri tilbúinn til þess að veðsetja Seðlabankanum lánasafnið sem Íbúðalánasjóður hafði ætlað að kaupa og var að baki staðfestingunni sem lögð var að veði fyrir fyrirgreiðslu 22. október 2008. Lánasafnið kæmi þá í staðinn fyrir staðfestinguna.358 Seðlabankinn tók ekki við þessum tryggingum þótt hann hefði áður tekið við sambærilegum tryggingum eins og fyrr greinir.

Við höfum það í rauninni í hendi okkar hvort við samþykkjum þessar tryggingar. Ég held að burtséð frá eiginfjárkröfunni þá hefðum við alltaf getað sagt nei, við samþykkjum þetta ekki, og lokað hjá þeim en við vildum ekki spila einhvern einleik í því. Þetta var það stórt mál að önnur stjórnvöld hlutu að þurfa að vera virkur þátttakandi og ákvörðunaraðili í því a.m.k. svo lengi sem það var vinnandi vegur að lána þeim […] þetta er náttúrulega orðið mjög þröngt þarna og við sjáum alveg í hvað stefnir. Ég held að áður en þessi plön eru færð í letur hafi menn verið búnir að ræða saman í nokkra daga eða vikur um að staðan væri vonlaus og að það þyrfti að gera þetta þannig að öllu væri haldið rétt til haga og það sé réttur rökstuðningur. Lagalega stöndum við í báða fætur því þarna séu miklir hagsmunir og margir kröfuhafar sem kynnu að hjóla í okkur sem einhverja gerendur í því að eignir þeirra eru mun minna virði en ella. Þó að í okkar huga væri alveg orðið ljóst að það vorum ekki við sem settum SPRON á hausinn heldur þeir sjálfir sem sáu um það. Við reyndum hins vegar að bjarga þeim en því miður hefur umræðan um þetta hrun svolítið verið þannig að það er reynt að skella skuldinni á slökkviliðið.359
17.4.2.1.5 Uppgjör við Seðlabanka Íslands

Slitastjórn Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis og Frjálsa fjárfestingarbankans hf. og Drómi hf. annars vegar og Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf. hins vegar gerðu með sér samkomulag um uppgjör vegna viðskipta Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis við Seðlabanka Íslands og vegna kröfulýsingar Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf. í slitabú Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis 7. júlí 2011.360 Endanleg krafa nam 41,5 milljörðum króna og taldist hin samþykkta krafa tryggð með veði í:

1. A- og B-skuldabréfum útgefnum af Geysi 2008-I fagfjárfestasjóði (Geysir 2008-I Institutional Investor Fund) og

2. tveimur söfnum fasteignalána sem veðsett voru með handveðsyfirlýsingum til Seðlabanka Íslands 26. nóvember 2008 og 10. desember 2008 vegna daglána.

Með samkomulaginu féll Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf. frá kröfu um sértöku- eða veðrétt í kröfu á hendur Íbúðalánasjóði vegna loforðs um kaup á skuldabréfi af Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis tryggðu með veði í fasteignaveðskuldabréfum, samkvæmt staðfestingu Íbúðalánasjóðs frá 22. október 2008. Niðurfellingin var háð þeim fyrirvara að fyrrgreint samkomulag um fjárhæð og stöðu kröfu Eignasafns Seðlabanka Íslands gengi eftir og myndi eiga sér stað þegar endanleg og fyrirvaralaus niðurstaða lægi fyrir.

Samhliða samkomulaginu var undirritaður samningur um upplausn á Geysi 2008-I fagfjárfestasjóði. Uppgjör vegna slitanna og yfirtöku Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf. á öllum eignum sjóðsins var sem hér segir:

  • Verðmæti eigna sjóðsins taldist 28.250 milljónir króna fyrir utan kröfu hans á sparisjóðinn vegna gjaldmiðlaskiptasamnings.
  • Verðmæti A- og B-laga skuldabréfsins taldist 26.000 milljónir króna
  • Í hlut Dróma kæmu samtals 2.250 milljónir króna sem yrðu greiddar:

    1. með skuldajöfnuði við kröfu Geysis 2008-I á hendur Dróma hf. vegna móttekins greiðsluflæðis af skuldabréfum Geysis 2008-I, samtals 790 milljónir króna með vöxtum (höfuðstóllinn var 762.506.908 krónur auk umsaminna vaxta), en fjármunirnir voru í vörslum Dróma hf.;

    2. með peningum að fjárhæð tæplega 1,5 milljarðar króna; greiðslan yrði innt af hendi þegar allar eignir Geysis 2008-I yrðu afhentar Eignasafni Seðlabanka Íslands ehf. eða dótturfélagi þess til fullra umráða, þar með talið allt handbært fé og fullnustueignir;

    3. krafa Geysis 2008-I á hendur sparisjóðnum á grundvelli gjaldmiðlaskiptasamnings frá 23. október 2008 yrði afturkölluð og félli niður.

Frá endurgreiðslum Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf. voru dregnar 200 milljónir króna sem var umsamin umsýsluþóknun til Dróma hf. vegna lána sem tilheyrðu Geysi 2008-I.

Eignasafn Seðlabanka Íslands innleysti fasteignatryggð veðskuldabréf sem lögð voru til tryggingar daglánum í nóvember og desember 2008. PricewaterhouseCoopers ehf. verðmat

safnið og var innlausnarverð þess 14,6 milljarðar króna.361 Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf. féll frá endurgreiðslukröfu á hendur Dróma hf. vegna sjóðflæðis af skuldabréfunum sem fóru inn á reikninga Dróma hf. og Frjálsa fjárfestingarbankans hf. eftir að slitameðferð Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis og Frjálsa fjárfestingarbankans hf. hófst, samtals 559 milljónir króna. Umsýsluþóknun til Dróma hf. vegna fasteignatryggðu veðskuldabréfanna nam 150 milljónum króna.

Að því leyti sem Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf. fengi ekki fullnustu á viðurkenndri veðkröfu við innlausn samkvæmt samkomulaginu skyldu eftirstöðvar kröfunnar njóta stöðu sem almenn krafa við slit Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis. Krafa Eignasafns Seðlabanka Íslands var 41,5 milljarðar króna. Upp í hana voru tekin skuldabréf að baki Geysisvafningnum fyrir 26 milljarða, fasteignatryggð veðskuldabréf fyrir 13 milljarða króna og innistæða sparisjóðsins á reikningum í Seðlabankanum fyrir rúman 1 milljarð króna. Eftir stóð almenn krafa í bú sparisjóðsins sem nam 1,1 milljarði króna.

17. 4. 3 Lántaka

Lántökur voru annar stærsti þáttur fjármögnunar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis á eftir innlánum, en undir lántökur í ársreikningi fellur fjármögnun til lengri tíma, svo sem verðbréfaútgáfa, og langtímalán frá íslenskum og erlendum fjármálastofnunum. Í árslok 2004 nam lántaka sparisjóðsins 16,4 milljörðum króna en í lok árs 2008 hafði hún náð 94,8 milljörðum króna og hafði því næstum sexfaldast á tímabilinu. Hlutfall lántöku af skuldum sparisjóðsins var 26% í lok árs 2004 og 36% í árslok 2008 en hæst varð hún 47% árið 2006.

Árið 2005 var skuldabréfaútgáfa veigameiri þáttur lántöku sparisjóðsins en lán frá fjármálafyrirtækjum. Á því varð breyting frá árinu 2006, einkum vegna aukins vægis erlendrar lántöku. Með gengisfalli íslensku krónunnar síðla árs 2008 jukust erlendar skuldir sparisjóðsins í íslenskum krónum mikið en ekki var um nýjar lántökur að ræða á því ári.

17.4.3.1 Erlend lántaka

Þegar nýr sparisjóðsstjóri tók við árið 1996 breyttist fjármögnun Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, en hann sagði í skýrslutöku fyrir rannsóknarnefndinni: „Ég hafði verið í stjórn Sparisjóðabankans um 1986 og þá var haldið öðruvísi á málum. Þá voru menn látnir njóta stærðar og þess að vera með mikil viðskipti. Allt í einu 1996 var búið að fella þetta allt út og það var ein gjaldskrá fyrir alla. Þeir sem voru með mest viðskipti, stærstir og traustastir, fengu ekki betri kjör á nokkurn hátt. Ég gerði mönnum grein fyrir því að þetta myndi leiða til þess að SPRON færi að fjármagna sig sjálfur […] Ég hafði mjög góð tengsl erlendis og þetta varð til þess að við tókum lán erlendis í kjölfarið.“362 Sparisjóðurinn lagði því aukna áherslu á að fjármagna sig sjálfur frá 1996 og sótti fjármagn á erlenda markaði. Frá árinu 2004 varð aðgengi að slíku fjármagni mun betra en áður hafði þekkst.

Frá árslokum 2005 til ársloka 2007 þrefaldaðist erlend lántaka sparisjóðsins í evrum en rúmlega fjórfaldaðist í íslenskum krónum. Frá 2005 til 2008 var erlend lántaka á bilinu 12–33% af heildarskuldum sparisjóðsins að undanskildu eigin fé og þá eru víkjandi lán í erlendri mynt ekki talin með.

Í skýrslu hjá rannsóknarnefndinni sagði fyrrverandi forstöðumaður fjárstýringar sparisjóðsins að það hefði verið ódýrast, hagkvæmast og auðveldast á allan hátt að sækja fjármagn erlendis árin 2005 til 2007 og að lítil áhersla hefði verið lögð á að gefa út skuldabréf og fjármagna sparisjóðinn innanlands.363

Frá 2005 tók sparisjóðurinn þrjú stór sambankalán. HSH Nordbank AG var umboðsaðili 85 milljóna evra láns sem sparisjóðurinn tók 13. desember 2005 og var til fimm ára. Á fundi stjórnar sparisjóðsins 28. september 2005 kom fram að sparisjóðnum byðust mun betri kjör á erlendum lánum en áður og var samþykkt að ganga til samninga við HSH Nordbank um nýtt lán en 45 milljónir evra af því færu í uppgreiðslu á eldra sambankaláni.

Sparisjóðurinn tók annað 90 milljóna evra sambankalán 21. september 2006, sem Fortis Bank SA/NV var umboðsaðili fyrir. Lánið var til þriggja ára. Á stjórnarfundi 27. september 2006 var greint frá því að lausafjárstaða sparisjóðsins hefði lagast vegna hækkunar á virði hlutafjár í Exista hf. í kjölfar skráningar félagsins í Kauphöll Íslands og vegna erlendrar lántöku. Stærsta sambankalánið var svo tekið 18. maí 2007 en það nam 200 milljónum evra. Umboðsaðilinn var Sumitomo Mitsui Banking Corporation Europe Limited og lánið var til þriggja ára.

Erlend útlán samstæðunnar jukust hratt frá árinu 2005, bæði hjá sparisjóðnum sjálfum og hjá stærsta dótturfélaginu, Frjálsa fjárfestingarbankanum hf. Hluta aukningar í erlendri lántöku sparisjóðsins má rekja til fjármögnunar á starfsemi fjárfestingarbankans. Í ársreikningi Frjálsa fjárfestingarbankans hf. fyrir árið 2005 voru eignir 37,5 milljarðar króna og skuldir 33,6 milljarðar króna, en í lok árs 2008 námu eignir 90,2 milljörðum króna og skuldir 91,7 milljörðum króna. Ársreikningar Frjálsa fjárfestingarbankans hf. bera með sér að hann hafi nær eingöngu verið fjármagnaður af sparisjóðnum á árunum 2005–2008 og staðfesti fyrrverandi framkvæmdastjóri hans það í skýrslu hjá rannsóknarnefndinni.364

Frjálsi fjárfestingarbankinn hf. lánaði að mestu í svissneskum frönkum og japönskum jenum til langs tíma.365 Í árslok 2008 voru tæplega 71% útlána Frjálsa fjárfestingarbankans hf. til meira en fimm ára en á sama tíma var töluverður hluti fjármögnunar hans í peningamarkaðslánum í íslenskum krónum til eins til fjögurra mánaða í senn.366 Í árslok 2008 námu útistandandi peningamarkaðslán sparisjóðsins til Frjálsa fjárfestingarbankans hf. rúmum 26 milljörðum króna.367 Sparisjóðurinn sjálfur var að stórum hluta fjármagnaður í evrum og fjárstýringardeild sparisjóðsins tryggði gjaldeyrisjöfnuð samstæðunnar innan hennar og utan, meðal annars með framvirkum gjaldmiðlasamningum. Mikil vinna fór í að framlengja peningamarkaðslán til fjárfestingarbankans og viðhalda gjaldeyrisjöfnuði vegna starfsemi hans sem var að mestu fjármögnuð í krónum en eignirnar í erlendri mynt. Íhugað var að fjármagna sparisjóðinn að einhverju leyti í japönskum jenum og svissneskum frönkum en það reyndist dýrara en að fá lánaðar evrur og gera skiptasamninga í svissneskum frönkum og japönskum jenum.368

Staða íslenskra bankastofnana á alþjóðlegum fjármálamörkuðum varð erfið á árinu 2007. Fyrrverandi forstöðumaður fjárstýringar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis sagði við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefndinni að á síðari hluta árs 2007 og í byrjun árs 2008 hefði verið orðið ljóst að aðgengi að lánsfjármagni væri orðið mun verra en áður.369 Minna aðgengi að lánsfjármagni gerði aðstæður til endurfjármögnunar erlendra lána sparisjóðsins ekki ákjósanlegar.

Eins og fram er komið treysti sparisjóðurinn á fjármögnun frá Íbúðalánasjóði í kjölfar falls bankanna. Kaup Íbúðalánasjóðs á útlánum fjármálafyrirtækja voru til umræðu á fundum bankastjórnar Seðlabanka Íslands með fulltrúum Íbúðalánasjóðs, og á fundi 8. desember 2008 var fjallað um málefni Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. Sparisjóðurinn ýtti á Íbúðalánasjóð vegna kaupa á lánum í erlendri mynt en á þeim tíma var Íbúðalánasjóður ekki tilbúinn í slík kaup. Bréfi sparisjóðsins til Íbúðalánasjóðs 18. mars 2009, þar sem meðal annars var óskað eftir að Íbúðalánasjóður fjármagnaði lánasafn í erlendri mynt að jafnvirði 20 milljarða króna, var ekki svarað.

Á mynd 21 má sjá áætlaða dreifingu lokagjalddaga erlendrar lántöku sparisjóðsins frá nóvember 2008 til nóvember 2016. Stærsti gjalddaginn hefði verið 15. maí 2010 sem var lokadagur 200 milljóna evra sambankalánsins en meðal annarra stórra gjalddaga var 4. október 2009, lokadagur lánsins sem tekið var hjá Fortis árið 2006. Þegar Fjármálaeftirlitið tók yfir vald hluthafafundar sparisjóðsins 21. mars 2009 var vika þar til sjóðurinn átti að standa skil á 20 milljóna evra greiðslu til Bayerische Landesbank. Jafnhá upphæð skyldi koma til greiðslu til Erste bank 9. júní 2009. Frá yfirtöku Fjármálaeftirlitsins fram til loka árs 2010 var endurfjármögnunarþörf sparisjóðsins tæpar 422 milljónir evra sem samsvaraði þá rúmum 67 milljörðum króna,370 eða 30% af heildareignum sjóðsins samkvæmt ársreikningi ársins 2008.

17.4.3.2 Verðbréfaútgáfa

Samkvæmt ársreikningum Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis nam verðbréfaútgáfa hans frá 9 milljörðum króna til rúmra 35 milljarða króna frá árslokum 2005 til ársloka 2008.

Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis færði fjármögnun Íbúðalánasjóðs á útlánasöfnum sparisjóðsins sem skuldabréfaútgáfu í ársreikningi.371 Sparisjóðurinn fékk fjármögnun sem nam tæpum 10 milljörðum króna á árunum 2004 og 2005 frá Íbúðalánasjóði. Misjafnt er milli ára í ársreikningum sparisjóðsins hvaða liðir sem vörðuðu þessa fjármögnun töldust til verðbréfaútgáfu og skýrir það að mestu leyti breytingar á þessum lið milli áranna 2006 og 2007.

Frá 2005 til 2008 gaf sparisjóðurinn út skuldabréf fyrir sem svaraði 51,7 milljörðum króna að nafnverði, þar á meðal víkjandi skuldabréf sem fjallað er um í kafla 17.4.1. Sjö skuldabréfaflokkar af fjórtán voru verðtryggðir, aðrir fjórir voru með óverðtryggðum breytilegum vöxtum og einn flokkur með föstum óverðtryggðum vöxtum. Þá voru tveir flokkar bundnir gengi á hlutabréfum í Straumi-Burðarási Fjárfestingabanka hf. 372

Skuldabréf sem gefin voru út fyrir árið 2006 og voru enn útistandandi í árslok 2008 voru öll seld í byrjun mars 2009 samkvæmt yfirliti sparisjóðsins.373 Af heildarútgáfu upp á 52,8 milljarða króna frá árinu 1995 höfðu fjögur skuldabréf verið greidd upp fyrir mars 2009 og nam heildarnafnverð þeirra 13 milljörðum króna.374

Á árinu 2008 gaf sparisjóðurinn út skuldabréf fyrir 22 milljarða króna, sem var 55% af útistandandi skuldabréfaútgáfu sparisjóðsins í mars 2009.375 Samkvæmt Verðbréfaskráningu Íslands seldi sparisjóðurinn lítið af þessum bréfum og átti sjálfur 21,5 milljarða króna af bréfunum í mars 2009. Af heildarútgáfu sparisjóðsins á árunum 2005–2008 voru tæplega 40 milljarðar króna að nafnverði ógjaldfallnir í mars 2009. Sparisjóðurinn sjálfur átti 28,5 milljarða króna að nafnverði af þeim bréfum og Rekstrarfélag Spron hf. átti 710 milljónir króna að nafnverði í mars 2009. Heildarnafnverð skuldabréfa sparisjóðsins í eigu annarra aðila en sparisjóðsins sjálfs í mars 2009 var tæpir 10,7 milljarðar króna. Sparisjóðurinn átti stóran hluta skuldabréfaflokkanna SPR 06 1 og SPR 08 1, en fjallað er um viðskipti með þau bréf í kafla 17.4.1.1.

Vextir skuldabréfa sparisjóðsins voru sambærilegir við vexti á skuldabréfum annarra fjármálafyrirtækja á árunum 2005 til 2008. Eins og áður segir var lítil áhersla lögð á að fjármagna sparisjóðinn innanlands meðan aðgengi að lánsfé erlendis var hvað best á árunum 2005 til 2007. Að mati forstöðumanns fjárstýringar sparisjóðsins var óskilvirkara að afla fjár á innlendum markaði en erlendum, þar hefði verið um lægri fjárhæðir að ræða og meiri tilkostnað. Þegar erlendu markaðirnir lokuðust hefði jafnframt þrengt að innlendum lánamarkaði og því hefði sparisjóðurinn aldrei lagt mikla áherslu á skuldabréfaútgáfu innanlands.376

Frjálsi fjárfestingarbankinn hf. gaf út nokkra skuldabréfaflokka meðan hann var í eigu Kaupþings banka hf. en eftir árið 2002, þegar Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis eignaðist hann, sá fjárstýringardeild sparisjóðsins um að fjármagna fjárfestingarbankann. Frjálsi fjárfestingarbankinn hf. gaf út skuldabréfaflokk sem nam 1,5 milljörðum króna árið 2001, með lokadag 15. september 2007, og tvo flokka sem námu 1 milljarði króna hvor árið 2002, annar með lokadag 15. júlí 2005 og hinn með lokdag 17. júlí 2008. Samvinnusjóður Íslands, sem síðar varð Frjálsi fjárfestingarbankinn, gaf út skuldabréf sem nam 300 milljónum króna árið 1997 og var lokadagur þess 1. desember 2009.377 Útistandandi virði þessara skuldabréfaflokka nam hæst 4,5 milljörðum króna í árslok 2005.

Á árunum 2005–2008 gaf Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis út víxla fyrir 128 milljarða króna að nafnverði. Síðasta víxlaútgáfa sparisjóðsins áður en Fjármálaeftirlitið tók yfir vald hluthafafundar hans var 5. maí 2008. Frá 2005 til 21. mars 2009 voru víxlar fyrir 120 milljarða króna á gjalddaga. Á tímabilinu voru tvær stórar víxlaútgáfur, annars vegar 5. nóvember 2007, þegar sparisjóðurinn gaf út víxla fyrir 32 milljarða króna, og hins vegar 5. maí 2008, þegar útgáfa víxla nam 48 milljörðum króna.

Peningamarkaðssjóðir stóru viðskiptabankanna þriggja fjárfestu í víxlaútgáfum sparisjóðsins á árunum 2005–2007, en meðal annarra kaupenda voru lífeyrissjóðir og Íbúðalánasjóður. Á árinu 2008 voru viðskipti Kaupþings banka hf. með víxla útgefna af sparisjóðnum umsvifameiri en annarra, en þau námu 29,5 milljörðum króna.

Þegar víxlarnir sem Kaupþing banki hf. hafði keypt komu á gjalddaga keypti bankinn iðulega aðra víxlaútgáfu fyrir svipaða upphæð. Á því varð undantekning í ágúst 2008 þegar SPR 08 0820 var á gjalddaga, en þá keypti Kaupþing banki hf. ekki nýja víxlaútgáfu af sparisjóðnum. Hins vegar keypti Kaupþing banki hf. SPR 09 0120 fyrir 6 milljarða króna í september 2008, en hafði í þeim mánuði eingöngu selt sparisjóðnum til baka víxla fyrir 4 milljarða króna. Kaupþing banki hf. greiddi fyrir víxla sparisjóðsins með eigin víxlum sem nýttir voru í endurhverfum viðskiptum við Seðlabanka Íslands, svo sem fjallað var um hér framar.

Í minnispunktum sparisjóðsstjóra frá júní 2008 kemur fram að lengri tíma hafi tekið að ljúka verðbréfunarverkefni sparisjóðsins en ætlað var.378 Í minnisblaðinu segir: „Kaupþing hefur lánað 10 milljarða upp í það með víxli sem seldur var til Seðlabankans. Á móti fékk Kaupþing Spron víxil.“379 Því má leiða að því líkur að Kaupþing banki hf. hafi aðstoðað sparisjóðinn við að útvega laust fé með víxlaskiptunum þegar aðrar fjármögnunarleiðir reyndust torsóttari. Við yfirtöku Fjármálaeftirlitsins á valdi hluthafafundar Kaupþings 8. október 2008 átti Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis tvo víxla útgefna af bankanum og bankinn tvo víxla útgefna af sparisjóðnum.

Verðbréfaútgáfa Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis nam 32% af skuldum sparisjóðsins að undanskildu eigin fé í árslok 2005, en hafði lækkað í 3% í árslok 2008. Þessi breyting skýrist meðal annars af auknu vægi annarra þátta, svo sem erlendrar lántöku, í fjármögnun sparisjóðsins, en einnig af því að minni áhersla var lögð á að sækja fjármuni á innlenda markaði, eins og fram kom í skýrslutökum rannsóknarnefndarinnar.380 Þá hafði Íbúðalánasjóður leyst til sín fasteignalán sparisjóðsins sem voru að baki fjármögnun til sparisjóðsins og var sú fjármögnun ekki lengur til staðar. Þegar kom fram á árið 2008 var lítil eftirspurn eftir skuldabréfum sparisjóðsins þar sem markaður fyrir skuldabréf fyrirtækja var nær óvirkur.

17.4.4 Víkjandi lántaka

Víkjandi lán sparisjóðsins voru 3–4% af heildarskuldum hans að undanskildu eigin fé í ársreikningum áranna 2005–2008. Víkjandi lán námu á bilinu 3,9–5,4 milljörðum króna á árunum 2005–2007, en þau nærri tvöfölduðust á árinu 2008 þegar þau voru metin á 9,4 milljarða króna í ársreikningi.

Í lok árs 2005 voru fjögur víkjandi lán útistandandi, eitt í erlendri mynt og þrjú í íslenskum krónum. HSH Nordbank AG veitti sparisjóðnum 10 milljóna evra víkjandi lán árið 2005.381 Á stjórnarfundi sparisjóðsins 10. maí 2005 var samþykkt að sparisjóðsstjóri tæki víkjandi lán hjá HSH til fimm ára. Um væri að ræða þátttöku í skuldabréfasjóði, ScandiNotes 3 (CBO). Á fundi 14. desember 2005 veitti stjórnin sparisjóðsstjóra heimild til að taka allt að 2 milljarða króna víkjandi lán vegna áhrifa þátttöku sparisjóðsins í hlutafjáraukningu Exista hf. á eiginfjárhlutfall hans, en hlutur sparisjóðsins í aukningunni var 1,6 milljarðar króna. Sparisjóðurinn gaf í sama mánuði út víkjandi skuldabréf (SPR 05 2) og í lok ársins voru Viðskiptastofa SPRON, Lífeyrissjóður verslunarmanna og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins stærstu eigendur bréfanna, með samtals 910 milljónir króna að nafnverði samkvæmt yfirliti frá Verðbréfaskráningu Íslands.

Í desember 2006 gaf sparisjóðurinn út annað víkjandi skuldabréf (SPR 06 4) og keyptu Holt Investment Group Ltd.382 og Exista fjárfestingar ehf. 1,5 milljarða króna að nafnverði af útgáfunni í sama mánuði og voru einu eigendur þess í lok ársins.383 Í lok árs 2007 og 2008 áttu Vátryggingafélag Íslands hf. og Arion safnreikningur 500 milljónir króna hvort af útgáfunni, Lífeyrissjóður verslunarmanna 300 milljónir króna og Rekstrarfélag Spron hf. 200 milljónir króna. Tilgangurinn með útgáfu skuldabréfsins var að hækka eiginfjárhlutfall sparisjóðsins.384 Stjórnin samþykkti heimild til sparisjóðsstjóra til að gefa út skuldabréfið 14. desember 2006.

Hinn 31. mars 2008 seldi sparisjóðurinn Kaupþingi banka hf. víkjandi skuldabréf fyrir 42 milljónir evra, eða 5,1 milljarð króna.385 Stjórn sparisjóðsins samþykkti 28. mars 2008 að tekið yrði víkjandi lán í erlendri mynt til tveggja ára en ekki kom fram í stjórnarfundargerð hversu hátt lánið mátti vera eða hver tilgangur þess var. Í tölvupósti framkvæmdastjóra hagdeildar sparisjóðsins til ytri endurskoðanda sparisjóðsins frá 26. mars 2008 segir:

Við fáum víkjandi lán að upphæð 5 milljarðar og gerum ráð fyrir því að við munum þurfa að nota 3,5 milljarða af því sjálfir til að ná Cad hlutfalli í 12%.
Eftir standa 1,3 milljarðar og óskin er sú að við kaupum útlánasafn með veði í hlutabréfum Kaupþings og nýtum það Cad sem við þetta skapast til fulls með því. Hvaða fjárhæð getum við verið að kaupa af þeim?386

Í tölvupósti frá starfsmanni Kaupþings banka hf. til framkvæmdastjóra hagdeildar sparisjóðsins 31. mars kom eftirfarandi fram:

Í framhaldi af samtali okkar áðan þar sem við komumst að samkomulagi um eftirfarandi:
Kaupþing veitir SPRON víkjandi lán í evrum að fjárhæð sem jafngildir ISK 5ma. Lánstími 10 ár og álag 7%.
Andvirði lánsins verður lagt inná reikning SPRON hjá Kaupþingi uns gengið hefur verið frá lánssamningum milli SPRON annars vegar og Kjalars hf. (1,5ma), Holt Investment Group Ltd (1,5ma) og Nýræktar ehf (1,5ma) hins vegar.
Fyrir lok dags verða gerðir áhættuskiptasamningar milli Kaupþings og SPRON sem koma munu í staðinn fyrir lánin. Þessir áhættuskiptasamningar verða lækkaðir um sem nemur lánsfjárhæð þegar lánin verða afgreidd.
Miðað er við að lánin verði til 2ja ára og njóti 3,0% álags. Þá er gert ráð fyrir að Spron taki 0,5% lántökugjald.
Áhættuskiptasamningarnir verða til eins mánaðar og verða gerðir við Kjalar (4,0ma sem lækkar í 1,5ma), Gift (4ma), Holt Investment (4,0ma sem lækkar í 1,5ma) og AB 57(2ma).387

Framkvæmdastjóri hagdeildar sparisjóðsins staðfesti þessi skilyrði með þeirri breytingu að gerður yrði áhættuskiptasamningur vegna lána Nýræktar ehf. fyrir 1,5 milljarða og að ábyrgðin vegna Giftar fjárfestingarfélags ehf. yrði ekki hærri en 3 milljarðar króna.388

Í minnisblaði sparisjóðsstjóra frá því í júní 2008 kemur fram að til greina hafi komið að Exista lánaði sparisjóðnum víkjandi lán að fjárhæð 3 milljarðar króna. Slík lántaka hafi eingöngu verið ætluð til að koma í veg fyrir að lækkandi hlutabréfaverð skaðaði um of eiginfjárhlutfall sparisjóðsins. Niðurstaða málsins hafi hins vegar verið að „Kaupþing veitti SPRON víkjandi lán að fjárhæð 5 milljarðar og að fyrir hluta þessarar fjárhæðar myndi SPRON kaupa útlán af Kaupþingi, sem íþyngdi þeirra eiginfjárhlutföllum. Auk þess mundi SPRON veita ábyrgðir út af sama máli“.389 Í fréttatilkynningu sem Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis sendi til Kauphallarinnar vegna lánsins kom fram að „[t]ilgangurinn með lántökunni [væri] að renna enn styrkari stoðum undir eiginfjárgrunn félagsins“.390

Drómi hf. afhenti rannsóknarnefndinni óundirritaða lánasamninga við Nýrækt ehf.,391 Kjalar ehf. og Holt Investment Group Ltd. en ekki fundust undirrituð eintök samninganna. Lánin er ekki að finna í útlánakerfum sparisjóðsins og samkvæmt upplýsingum frá Dróma hf. er ekki að finna nein bókhaldsgögn eða færslur um útgreiðslur vegna lánanna í búi sparisjóðsins. Áhættuskiptasamningur við AB 57 ehf.392 fannst óundirritaður en sams konar samningur við Fjárfestingarfélagið MATA ehf. er til undirritaður.393 Aðrir samningar hafa ekki fundist.394 Í bókhaldi sparisjóðsins eru hins vegar færðir 14,5 milljarðar króna vegna ábyrgða sparisjóðsins gagnvart Kaupþingi banka hf. en þar er ekki að finna sundurliðun á félög. Þessi fjárhæð kemur heim og saman við tölvupóstssamskipti hér á undan, sem og árshlutareikning sparisjóðsins frá 31. mars 2008 þar sem ábyrgðir vegna viðskiptamanna nema ríflega 17,6 milljörðum króna. Í árshlutareikningi 30. júní 2008 eru ábyrgðir sparisjóðsins vegna viðskiptamanna hins vegar 2,7 milljarðar króna. Ábyrgðirnar voru því ekki færðar í þann reikning.395 Í skýrslutöku fyrir rannsóknarnefndinni sagði fyrrverandi sparisjóðsstjóri að áhættuskiptasamningarnir hefðu verið gerðir til skamms tíma og hefðu gengið til baka eftir það. Hann minntist þess ekki að ábyrgð hefði fallið á sparisjóðinn eða hann þurft að taka á sig áhættu vegna þessara samninga.396 Samkvæmt samningunum var lokadagur þeirra 15. desember 2011.

Vegna lækkunar á gengi krónunnar var víkjandi lánið frá Kaupþingi banka hf. jafnvirði 7,1 milljarðs króna í árslok 2008 sé miðgengi Seðlabanka Íslands 31. desember 2008 margfaldað með nafnverði lánsins. Í ársreikningi sparisjóðsins fyrir árið 2008 var lánið hins vegar bókað á rúmlega 2,4 milljarða króna en ársreikningurinn var ekki endurskoðaður. Þetta mat var byggt á tillögu stjórnenda Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis í tengslum við skuldajöfnun við Kaupþing banka hf.397 en skuldajöfnunin hafði ekki gengið eftir þegar rannsóknarnefndin innti eftir upplýsingum um hana.398

17.5 Stofnfé og stofnfjáreigendur

Varasjóður myndaði lengi vel stóran hluta eigin fjár sparisjóðsins, eða á bilinu 85–90% frá 2001 til ársloka 2004. Á árunum 2005 og 2006 var stofnfé aukið mikið og lækkaði hlutfall stofnfjár af eigin fé af þeim sökum og nam 44% í árslok 2006. Varasjóðurinn nam þá 15,3 milljörðum króna en stofnféð 19,5 milljörðum króna. Við hlutafélagsvæðinguna í október 2007 var lögbundinn varasjóður 25% af nafnverði hlutabréfa Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. og óráðstafað eigið fé 24,2 milljarðar króna, eða 78% af eigin fé sparisjóðsins.399 Hér verða raktar breytingar á stofnfé sparisjóðsins og stofnfjárhafahópnum.

Samkvæmt samþykktum Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis frá 24. mars 2000 mátti stofnfé sparisjóðsins vera allt að 500 milljónir króna og skiptast í allt að 20 þúsund stofnfjárhluti. Stofnfjáreigendur áttu einn eða fleiri jafngilda stofnfjárhluti og atkvæðisrétt í réttu hlutfalli við stofnfjáreign. Einstökum stofnfjáreigendum var óheimilt að eiga fleiri en 20 hluti. Sparisjóðurinn mátti ekki eiga meira en 10% af eigin stofnfé og eigin stofnfjárhlutum fylgdi ekki atkvæðisréttur. Sala eða annað framsal stofnfjárhluta var óheimilt nema með samþykki sparisjóðsstjórnar og veðsetning stofnfjárhluta var óheimil. Fundur stofnfjáreigenda gat ákveðið að auka stofnfé umfram það sem kveðið var á um í samþykktum sparisjóðsins. Stofnfé gat einnig aukist með endurmati á stofnfé í samræmi við þágildandi ákvæði laga um viðskiptabanka og sparisjóði. Stofnfjáreigendur höfðu kauprétt að nýju stofnfé í réttu hlutfalli við stofnfjáreign sína.

Með breytingum á samþykktum sparisjóðsins 26. mars 2003 mátti hver stofnfjáreigandi aldrei, fyrir sjálfs sín hönd eða annarra, fara með meira en 5% af heildaratkvæðamagni í sparisjóðnum, hvort sem yfirráð yfir atkvæðisrétti byggðist á beinni eða óbeinni hlutdeild í stofnfé sparisjóðsins. Þá skyldi stjórn ekki samþykkja framsal stofnfjárhlutar eða aukningu stofnfjár ef það leiddi til þess að einstakur stofnfjáraðili eða aðili í nánum tengslum við hann eignaðist eða færi með virkan eignarhlut í sparisjóðnum. Með breytingunum var bann við veðsetningu stofnfjárhluta afnumið.

Í árslok 2001 voru stofnfjáreigendur 1.115 talsins, allt einstaklingar, og enginn átti meira en 0,14% stofnfjár. Fjöldi útgefinna stofnfjárhluta í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis var óbreyttur frá 2001 til 2004 en stofnfjárhafahópurinn tók breytingum á árinu 2004 þegar stofnfjármarkaður tók til starfa. Um vorið 2003 stofnaði stjórn sparisjóðsins starfshóp um tilboðsmarkaðinn og samþykkti svo tæpu ári seinna, 25. mars 2004, drög að reglum um stofnfjármarkað sem send voru til Fjármálaeftirlitsins með beiðni um athugasemdir. Í bréfi Fjármálaeftirlitsins til sparisjóðsins kom fram:

Fjármálaeftirlitið gerir ekki athugasemdir við að rekinn verði lokaður tilboðsmarkaður sem ekki er opinn almenningi, þar sem varast er að upplýsingagjöf líkist upplýsingagjöf á skipulegum verðbréfamarkaði og gætt er að reglum um almenn útboð.400

Regludrögunum var síðan lítillega breytt í samræmi við athugasemdir Fjármálaeftirlitsins og voru nýjar reglur um stofnfjármarkað samþykktar á stjórnarfundi sparisjóðsins 6. október sama ár. Samið var við H.F. Verðbréf hf. um að annast viðskipti með stofnfjárbréfin. Tilboðsmarkaður var svo starfræktur hjá SPRON-Verðbréfum hf. þegar félagið tók til starfa á fyrri hluta árs 2006.

Í viðskiptum á stofnfjármarkaði settu seljandi stofnfjárbréfa og væntanlegur kaupandi sig í samband við umsjónaraðila og lögðu inn verðtilboð um kaup og sölu. Sölu- og kauptilboð voru tengd saman sjálfvirkt eftir verði, eða eftir aldri ef tvö eða fleiri tilboð reyndust jafnhá, en sala á stofnfé var ávallt háð samþykki stjórnar. Á vefsíðu sparisjóðsins voru birtar allar opinberar tilkynningar sem sparisjóðurinn sendi Kauphöll Íslands hf. og aðrar upplýsingar sem stjórnin taldi geta haft áhrif á verð stofnfjárbréfanna. Ekki var þó heimilt að birta upplýsingar um hæsta kauptilboð og lægsta sölutilboð eða viðskiptagengi innan dagsins. Sögulegar upplýsingar um viðskiptagengi voru birtar.401

Þó að viðskipti á stofnfjármarkaði hefðu í fyrstu leitt til þess að stofnfjáreigendum fjölgaði þá leið ekki á löngu þar nokkrir stofnfjáreigendur tóku að auka við hlut sinn og við það fækkaði stofnfjáreigendum á nýjan leik. Frá opnun markaðarins og fram til ársloka 2004 bættust 36 nýir aðilar á stofnfjáreigendalistann og 15 aðilar sem áttu stofnfjárhluti juku við stofnfjáreign sína. Þá seldu 394 stofnfjáreigendur öll stofnfjárbréf sín og 242 seldu hluta af bréfum.

Af tuttugu stærstu stofnfjárhöfum í lok árs 2004 höfðu einungis tveir þeirra átt stofnfé í byrjun ársins. Fyrir opnun stofnfjármarkaðar voru allir stofnfjáreigendur einstaklingar en einkahlutafélögum fjölgaði í hópnum á árinu 2004 og voru einungis þrír einstaklingar meðal tuttugu stærstu stofnfjárhafa í lok ársins. Þeir þrír aðilar sem áttu stærstu stofnfjárhlutina fyrir opnun stofnfjármarkaðar, 1 milljón króna hver að nafnverði, seldu öll sín stofnfjárbréf fyrir lok árs 2004.

Á stofnfjáreigendafundi í lok árs 2004 kom fram að tæplega 60% stofnfjár í sparisjóðnum hefðu skipt um eigendur frá því tilboðsmarkaðurinn var opnaður fyrir um 2,2 milljarða króna. Á fundinum taldi stjórnarformaðurinn að það verð sem hefði myndast á bréfunum væri sanngjarnt og að stofnfjáreigendur gætu vel við unað. Eigendahópurinn hefði breyst mikið og því væri eðlilegt að hinir nýju eigendur vildu fylgja fjárfestingu sinni eftir og kysu sér nýja stjórn. Ný stjórn var kjörin á fundinum.402

Í ársbyrjun 2005 skiptist stofnfé Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis í 14.480 jafna hluti og var hver hlutur 25.000 krónur að nafnverði. Heildarnafnverð stofnfjár var 362 milljónir króna og stofnfjáreigendur 747 talsins.403 Viðskipti á stofnfjármarkaði voru töluverð en stofnfé sparisjóðsins var aukið mikið frá því hann var opnaður. Samþykktum sparisjóðsins var breytt 7. mars 2005 þannig að stonfé gæti orðið allt að 2,5 milljarðar króna. Að breytingunum loknum hljóðaði 2. mgr. 4. gr. samþykkta svo:

Stofnfé sparisjóðsins má vera allt að 2.500 millj.kr. og skiptist í allt að 100.000 jafna stofnfjárhluti. Nú þegar (7. mars 2005) skal hækka stofnfé sparisjóðsins um allt að 724 millj.kr. að nafnverði, eða um allt að 28.960 hluti, en stjórn skal ákveða hvenær og að hvaða marki hækkunarheimilda verður að öðru leyti neytt innan ofangreindra marka.

Fyrir nýja stofnfjárhluti skyldi greiða nafnverð að viðbættu þegar gerðu endurmati, hagnaðarráðstöfunum og ónýttri heimild til endurmats stofnfjár. Stofnfjáreigendur höfðu kauprétt að nýjum hlutum í hlutfalli við stofnfjáreign sína. Ákveðið var að nýta heimildina að hluta og bjóða strax út 724 milljónir króna í útboði sem stóð yfir 9.–23. maí 2005. Stofnfjáreigendur áttu forgangsrétt til þeirra 28.960 hluta sem í boði voru og gat hver þeirra skráð sig fyrir tveimur nýjum hlutum fyrir hvern stofnfjárhlut sem hann átti fyrir.404 Verðmæti stofnfjárins405 í útboðinu nam tæpum 1,3 milljörðum króna en söluverð hvers stofnfjárhlutar var 44.324 krónur miðað við vísitölu neysluverðs fyrir maí 2005.406 Að sögn sparisjóðsstjóra var markmiðið með stofnfjáraukningunni í maí 2005 að styrkja eiginfjárstöðu sparisjóðsins og renna þar með sterkari stoðum undir reksturinn, til að mynda með því að auka útlán.407

Í nóvember 2005 nýtti stjórnin heimildina frá 7. mars á ný og bauð út stofnfé fyrir 1.086 milljónir króna að nafnverði. Sömu skilmálar giltu um forgangsrétt stofnfjáreigenda og áður, en stjórnin hafði nú heimild til að selja nýjum stofnfjáreigendum þá hluti sem stofnfjárhafar nýttu ekki forgang sinn til kaupa á. Verðmæti stofnfjárins í útboðinu nam 1.980 milljónum króna.408 Eftir útboðin tvö 2005 nam heildarnafnverð stofnfjár 2.172 milljónum króna og fjölgaði stofnfjáreigendum um 71 á árinu. Endurmetið stofnfé sparisjóðsins í árslok 2005 nam 3.961 milljón króna, þar af voru 3.260 milljónir króna vegna útboðanna. Stofnféð sjöfaldaðist því frá fyrra ári.409

Á aðalfundi sparisjóðsins 6. mars 2006 var samþykktum breytt á ný til að heimila stjórn að hækka stofnfé sparisjóðsins um allt að 2.828.000.000 krónur og gilti heimildin til ársloka 2010. Samþykktum var einnig breytt þannig að 25.000 nýir hlutir, hver að nafnverði ein króna, kæmu í stað hvers eldri hlutar. Heildarnafnverð stofnfjár hélst óbreytt en það skiptist þá í 2.172.000.000 einnar krónu hluti. Heimild til hækkunar stofnfjár var nýtt að fullu í útboði sem stóð yfir dagana 7.–21. apríl 2006 og nutu stofnfjáreigendur þar sama forgangsréttar til áskriftar að nýjum hlutum og áður. Verðmæti stofnfjár í útboðinu nam 5,5 milljörðum króna.

Á fundi stofnfjáreigenda 6. nóvember 2006 var enn samþykkt heimild til að auka stofnfé, nú í allt að 10 milljarða króna að nafnverði, sem jafngilti tvöföldun á stofnfé sparisjóðsins. Heimildin gilti til septemberloka 2011. Tveimur dögum síðar ákvað stjórnin að auka stofnféð um 4,5 milljarða króna að nafnverði með útboði 7.–21. desember 2006. Söluverð hvers stofnfjárhlutar í útboðinu var 2,04699 krónur og var heildarverðmæti útboðsins um 9,2 milljarðar króna.410 Á þessum sama tíma voru viðskipti á stofnfjármarkaði á genginu 3,5–4,0 en þar gátu viðskipti farið fram á yfirverði.411 Stjórnin seldi stofnfjárhlutina í útboðinu á endurmetnu nafnverði í samræmi við þágildandi 66. og 67. gr. laga nr. 161/2002. Umframvirðið gekk til stofnfjáreigenda sem seldu á markaði, ekki til sparisjóðsins sjálfs. Í stjórnarfundargerð 31. janúar 2007 segir að 28 aðilar hafi hætt við kaup á 5.224.582 stofnfjárhlutum í útboðinu, og samþykkti stjórnin að þeir skyldu seldir nb.is-sparisjóði hf., dótturfélagi sparisjóðsins.

Í lok árs 2006 nam heildarnafnverð stofnfjár sparisjóðsins 9,5 milljörðum króna og endurmetið stofnfé 19,5 milljörðum króna. Á árinu höfðu verið gefnir út nýir stofnfjárhlutir að verðmæti 14,7 milljarðar króna, og að meðtöldu endurmati stofnfjár hækkaði stofnfé um 15,5 milljarða króna á árinu. Á sama tíma fjölgaði stofnfjáreigendum um 373, bæði við stofnfjárútboðin og vegna viðskipta á stofnfjármarkaði, og voru þeir 1.191 talsins í lok árs 2006.412 Lögaðilum fjölgaði meðal nýrra stofnfjáreigenda á þessum tíma, í lok árs 2005 voru 38 af 818 stofnfjáreigendum lögaðilar og ári síðar var 81 lögaðili í hópi stofnfjáreigenda sparisjóðsins.

Þá söfnuðust stofnfjárhlutir á færri hendur. Eftir fyrsta útboðið í maí 2005 höfðu fimm aðilar eignast 5% eða meira af stofnfé sparisjóðsins og var það í fyrsta sinn sem stofnfjáreign einhvers eins fór yfir 5%. Samkvæmt 3. mgr. 70. gr. laga nr. 161/2002 takmarkaðist atkvæðisréttur hvers stofnfjáreiganda við 5% af heildaratkvæðamagni, hvort sem yfirráð yfir atkvæðisrétti byggðust á beinni eða óbeinni hlutdeild í stofnfé sparisjóðs. Enginn stofnfjáreigandi átti þó virkan eignarhlut, þ.e. meira en 10% stofnfjár.413

Á aðalfundi sparisjóðsins 8. mars 2007 var stjórn enn veitt heimild til hækkunar, en þá var stofnfé sjóðsins 9,5 milljarðar króna. Með nýrri heimild gat stjórn sparisjóðsins hækkað stofnfé um allt að 5,5 milljarða króna og gilti heimildin til ársloka 2011. Stjórn sparisjóðsins samþykkti svo 17. júlí 2007 að sjóðnum yrði breytt í hlutafélag og hann skráður í Kauphöll Íslands þá um haustið, en jafnframt var þá ákveðið að tilboðsmarkaðurinn yrði opinn til 7. ágúst. Frá janúar til ágúst 2007, síðustu átta mánuðina áður en sparisjóðnum var breytt í hlutafélag, fjölgaði stofnfjárhöfum úr tæplega 1.200 í um 1.700. Í lok árs 2007, þegar Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis var orðinn að hlutafélagi og búið að skrá sjóðinn í Kauphöll Íslands, voru lögaðilar á hluthafalistanum 170 af 2.170 hluthöfum og áttu þeir tæp 70% af heildarhlutafé sparisjóðsins.414

Frá 2001 til 2008 náði samanlagður eignarhlutur 20 stærstu stofnfjár- og hluthafa sparisjóðsins hámarki í árslok 2007, eða 62,4%, en þá var búið að breyta sparisjóðnum í hlutafélag. Hópur 20 stærstu stofnfjáreigenda tók litlum breytingum á árunum 2001 til 2004 miðað við það sem síðar gerðist. Í töflu 41 má sjá lista yfir stærstu stofnfjár- og hluthafa í lok áranna 2004 til 2008. Þar er einnig sýnt hverjir voru stærstu stofnfjárhafar sparisjóðsins 21. ágúst 2007 þegar stofnfjármarkaðnum var lokað í aðdraganda hlutafélagsvæðingar. Eignarhald lögaðila á listanum er útskýrt til hliðar við töfluna.

Við breytingu sparisjóðsins í hlutafélag var stofnuð sérstök sjálfseignarstofnun, SPRON-sjóðurinn ses., um fjármuni úr varasjóði sparisjóðsins, og átti hún 15% eignarhlut í hinu nýja hlutafélagi. Sjálfseignarstofnunin varð fyrsti aðilinn til þess að eignast meira en 10% hlut í sparisjóðnum og fékk til þess undanþágu frá Fjármálaeftirlitinu. Í árslok 2007 nam hlutur sjálfseignarstofnunarinnar 14,59% og var hún þá stærsti hluthafinn. Á sama tíma var safnreikningur í umsjón Arion verðbréfavörslu hf. skráður fyrir 8,28% hlutafjár í sparisjóðnum.415 Á safnreikningnum skiptist eignin svo: Eik Banki p/f átti um 5%, Kauþing Lúxemborg um 3% og fjárfestingarsjóður Kaupþings banka hf. um 0,3%. Í árslok 2008 var eign Arion safnreiknings komin í 9,12% og skiptist þannig að Eik Banki p/f átti um 8,4%, fjárfestingarsjóður Kaupþings banka hf. um 0,6% og Kaupþing Lúxemborg 0,1%.416

17.6 Arður af stofnfjáreign

Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis greiddi stofnfjárhöfum arð af stofnfé þeirra, óslitið frá 1997 að minnsta kosti. Arðgreiðsluhlutfallið allan þennan tíma fór aðeins einu sinni undir 12% af stofnfé, en arðgreiðslan árið 2002 vegna 2001 nam 7% af stofnfé í árslok 2001. Heimilt hefði þó verið samkvæmt reglum Tryggingasjóðs sparisjóða að greiða 10% af stofnfé í arð í það sinn.417 Næstu fimm ár var arðsemi eigin fjár mjög góð og arðgreiðsluhlutfallið fór því síhækkandi. Arðgreiðslur voru alltaf innan þeirra marka sem reglur Tryggingasjóðs settu hverju sinni. Samtals voru 13 milljarðar króna greiddir til stofnfjárhafa í formi arðs síðustu sjö starfsár sparisjóðsins vegna afkomu næstliðinna ára. Síðasta arðgreiðslan var reyndar til hluthafa Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. og heyrði þar með ekki lengur undir ákvæði laga um fjármálafyrirtæki og þar af leiðandi ekki heldur undir reglur Tryggingasjóðs, en þess í stað fór um hana samkvæmt lögum um hlutafélög.

Af töflu 42 sést vel að mikil breyting varð á arðgreiðslum hjá sparisjóðnum frá og með rekstrarárinu 2005. Á því ári var stofnfé aukið tvisvar um samtals tæpa 3,3 milljarða króna, eða meira en fimmfaldað. Samþykkt var á aðalfundi 2006 að greiða stofnfjárhöfum arð sem næmi 50% af stofnfjáreign þeirra í árslok 2005. Þannig fengu þeir í rauninni endurgreidda seinni stofnfjáraukninguna sem hafði farið fram í nóvember og nam 1.980 milljónum króna. Arðgreiðslan nam nærri helmingi hagnaðarins árið 2005. Ári síðar var gengið enn lengra á þessari braut. Stofnfé var aftur aukið tvisvar á árinu og nú um samtals 14,7 milljarða króna. Síðari aukningin var í desember og nam 9,2 milljörðum króna. Á aðalfundi 2007 var samþykkt að stofnfjárhafar fengju greiddan 46% arð af stofnfjáreign sinni í árslok 2006. Þetta jafngilti nokkurn veginn öllum hagnaði ársins 2006, sem var methagnaður í sögu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis. Þar fengu stofnfjárhafarnir í arð nær alla stofnfjáraukninguna frá því í desember. Arðgreiðslan árið 2008 vegna ársins 2007 var lægri, enda versnaði afkoma sparisjóðsins verulega síðari hluta ársins. Þó var nærri helmingi hagnaðar varið til greiðslu arðs, enda hafði hlutafélagssparisjóðurinn sett sér og gefið út arðgreiðslustefnu, sem var að „greiða út arð sem nemur 20–50% af hagnaði hvers árs að teknu tilliti til eiginfjárstöðu og annarra aðstæðna sem stjórn metur hverju sinni“.418 Nú giltu ekki lengur viðmiðin við raunarðsemi eigin fjár og stofnfé í árslok því nú var það hlutafélag sem hlut átti að máli. Þarna var arðgreiðslan við efri mörkin samkvæmt arðgreiðslustefnunni, þrátt fyrir að afkomuhorfur væru slæmar þegar tekin var ákvörðun um að greiða þennan arð. Samkvæmt eiginfjáryfirliti í ársreikningi 2007 var nærri 1,5 milljarða króna tap á rekstrinum eftir að fyrsta ársfjórðungi sleppti.

Við stofnfjáraukningarnar kom fram að tilgangur þeirra væri að efla starfsemi sparisjóðsins, bæta eiginfjárstöðuna og auka útlánagetuna. Stofnfé sem greitt var inn í lok árs og greitt aftur út nokkrum mánuðum síðar sem arður getur ekki hafa haft mikil áhrif til styrkingar sparisjóðsins.419

Í lögum um fjármálafyrirtæki var heimild til að endurmeta stofnfé sparisjóðs og greiða inn á stofnfjárreikninga stofnfjáreigenda og skyldi höfð hliðsjón af verðlagsbreytingum við endurmatið.420 Árin 2001–2007 var stofnfé Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hækkað með slíku endurmati vegna verðlagsbreytinga um rúmar 800 milljónir króna. Framkvæmdin var í samræmi við reglur þar um. Stofnféð var ekki verðbætt í lok ársins 2003 en endurmatið í árslok 2004 var um leið leiðrétting á því. Eftir að sparisjóðurinn varð hlutafélag var ekki um neitt endurmat að ræða, enda komið hlutafé í stað stofnfjár.

Í sömu lögum var jafnframt heimild til þess að ráðstafa allt að 10% af hagnaði næstliðins rekstrarárs til hækkunar á stofnfé með svokölluðu sérstöku endurmati.421 Hækkunin mátti þó ekki vera meiri en 5% á ári og ekki mátti flytja heimild til þessa endurmats milli ára. Á aðalfundum sparisjóðsins 2002–2007 var samþykkt að hækka stofnfé í lok næstliðins árs um 5%. Þetta var í samræmi við lög, nema sérstaka endurmatið vegna 2006. Þá var stofnfé hækkað um 595 milljónir króna, en ekki var heimilt að hækka það nema um 61,6 milljónir króna. Ástæða þess var að arðgreiðslan sem samþykkt var á sama aðalfundi og umrætt sérstakt endurmat nam 99,3% af hagnaði ársins. Af þeim sökum voru aðeins 0,7% eftir af honum óráðstöfuð.422 Sérstakt endurmat og endurmat vegna verðlagsbreytinga kom ekki til álita eftir að sparisjóðnum var breytt í hlutafélag.423

Í töflu 42 eru tilfærðar þær upplýsingar sem útreikningur á arði og endurmati byggist á. Hafa verður í huga að arðurinn og sérstaka endurmatið eru þar höfð undir því ári sem þau eru útreiknuð. Arðurinn var hins vegar greiddur út árið eftir og sérstaka endurmatinu var þá bætt við stofnféð. Ástæðan var sú að tillaga stjórnar um hvort tveggja þurfti að hljóta samþykki aðalfundar til þess að koma til framkvæmda. Þannig sáust viðkomandi fjárhæðir ekki fyrr en í ársreikningi næsta árs.

17.7 Yfirtökutilraunir og hlutafélagsvæðing

Í kjölfar lagabreytingar á árinu 2001 sem heimilaði sparisjóðum að breyta félagaformi sínu, hófust umræður innan sparisjóðsins um að breyta honum í hlutafélag.424 Það var þó ekki fyrr en árið 2007 sem sparisjóðurinn var formlega gerður að hlutafélagi og voru hlutabréf hans skráð í Kauphöll Íslands 23. október 2007.

17.7.1 Tilraun til hlutafélagsvæðingar 2002

Í mars 2001 var lagt fram á Alþingi lagafrumvarp sem heimilaði breytingu á félagaformi sparisjóða í hlutafélög. Frumvarpið var kynnt á aðalfundi sparisjóðsins 23. mars sama ár og eftir að það var samþykkt sem lög nr. 71/2001 í maí sama ár hóf stjórn sjóðsins undirbúning að hlutafélagsvæðingu hans. Aðalfundur sparisjóðsins 15. mars 2002 samþykkti að fela stjórn og sparisjóðsstjóra að vinna áfram að breytingu á rekstrarformi sjóðsins og leggja tillögur um það fyrir fund stofnfjáreigenda þegar aðstæður yrðu hagstæðar að mati stjórnar. Á stofnfjáreigendafundi 7. maí 2002 kom fram að yfirlýst markmið með hlutafélagsvæðingunni væri að styrkja eigið fé sparisjóðsins og stefnt væri að því að skrá hann á Verðbréfaþing Íslands á haustmánuðum 2002. Hlutafélagið Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis hf. var stofnað 7. maí 2002 og skráð í fyrirtækjaskrá 14. maí 2002. Tilgangur félagsins var að yfirtaka rekstur Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis og rækja þá starfsemi sem viðskiptabönkum og sparisjóðum væri heimil samkvæmt ákvæðum laga nr. 113/1996 um viðskiptabanka og sparisjóði.

Lagabreytingin kvað á um að stofnfjáreigendur sparisjóðs sem breytt væri í hlutafélag fengju einungis hlutafé í nýju félagi sem gagngjald fyrir stofnfjárhluti sína. Hlutaféð sem kæmi í hlut stofnfjáreigenda skyldi nema sama hlutfalli af hlutafé nýja félagsins og hlutdeild endurmetins stofnfjár í áætluðu markaðsvirði sparisjóðsins, en það skyldi metið af óháðum aðila. Hlutafé sem ekki gengi til stofnfjáreigenda yrði eign sjálfseignarstofnunar sem komið yrði á fót í tengslum við hlutafélagsvæðingu sparisjóðs.425 Sjálfseignarstofnunin SPRON-sjóðurinn ses. var stofnuð í þessu skyni 14. maí 2002.426 Samkvæmt samþykktum stofnunarinnar átti hún að stuðla að vexti og viðgangi í starfsemi sparisjóðsins ásamt því að vera eigandi að því hlutafé í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis hf. sem ekki félli til stofnfjáreigenda við umbreytingu sparisjóðsins í hlutafélag. Einungis var heimilt að úthluta fjármunum sjálfseignarstofnunarinnar til menningar- og líknarmála í Reykjavík og nágrenni.

Í sama mánuði lágu fyrir niðurstöður verðmats sem Deloitte & Touche ráðgjöf ehf. vann fyrir sparisjóðsstjórnina. Þar var markaðsvirði sparisjóðsins talið liggja á bilinu 5,0–5,5 milljarðar króna, en væri tekið tillit til lagaákvæða um takmörkun á atkvæðisrétti við 5% heildaratkvæðamagns var markaðsvirðið talið á bilinu 4,0–4,4 milljarðar króna.427 Miðgildi mats Deloitte & Touche ráðgjafar ehf. var 4,2 milljarðar króna og studdist stjórn sparisjóðsins við þá fjárhæð við ákvörðun á virði hlutafélagsins. Stjórnin samþykkti að útgefin hlutabréf næmu 1 milljarði króna og að gengi bréfanna yrði 4,2.428 Þar sem endurmetið stofnfé í árslok 2001 nam tæpum 485 milljónum króna, yrði hlutur stofnfjáreigenda í nýju hlutafélagi 11,5% og hlutur sjálfseignarstofnunarinnar 88,5%, eða 3.715 milljónir króna.

Í fréttabréfi sparisjóðsstjórnar frá 28. maí 2002 voru helstu atriði hlutafélagsvæðingarinnar rakin. Stjórnin teldi markaðsverðmæti sparisjóðsins hagstætt, breytt rekstrarform myndi auðvelda öflun eigin fjár á markaði og að eignarhald yrði skýrara og skiljanlegra. Búist var við miklum áhuga fjárfesta en stofnfjáreigendum var í sjálfsvald sett hvort þeir tækju þátt í breytingunni. Þeir sem ekki hefðu áhuga gætu óskað eftir að stofnfjárbréf þeirra yrðu innleyst. Þá kom fram að breytingu sparisjóðsins í hlutafélag þyrfti að samþykkja á fundi stofnfjáreigenda sem fyrirhugað væri að halda í lok júní 2002.429

17.7.1.1 Tilboð „fimmmenninganna“ og Starfsmannasjóðs SPRON ehf.

Fimm stofnfjáreigendur voru á öðru máli en stjórnin um hlutafélagsvæðingu sparisjóðsins og töldu áætlað endurgjald fyrir stofnfjárhluti ekki sanngjarnt.430 Þessir fimm stofnfjáreigendur voru Pétur H. Blöndal, Gunnar A. Jóhannsson, Gunnlaugur M. Sigmundsson, Ingimar Jóhannsson og Sveinn Valfells. Vísað hefur verið til þessara stofnfjáreigenda sem „fimmmenningana“ og verður það gert í umfjölluninni hér á eftir.

Aðkoma fimmmenninganna hófst með bréfi tveggja stofnfjárhafa, Ingimars Jóhannssonar og Benedikts Jóhannessonar, til stjórnar sparisjóðsins 14. júní 2002, þar sem þeir lýstu yfir andstöðu við fyrirhugaða hlutafélagsvæðingu. Jafnframt kynntu þeir tillögur sem þeir óskuðu eftir að yrðu teknar fyrir á fundi stofnfjáreigenda sem halda átti 28. júní 2002 og samþykkti stjórnin að setja tillögur þeirra á dagskrá fundarins. Fyrsta tillagan var að fundur stofnfjáreigenda hafnaði tillögu stjórnar um að breyta Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis í hlutafélag. Önnur tillagan var að felldar yrðu úr gildi takmarkanir á fjölda eignarhluta í eigu einstakra stofnfjáreigenda, en í samþykktum var þá kveðið á um að einstökum stofnfjáreigendum væri óheimilt að eiga fleiri en 20 stofnfjárhluti. Þriðja tillagan var að fundurinn legði til við stjórn sjóðsins að hún lýsti því yfir að hún myndi ekki standa í vegi fyrir framsali stofnfjárhluta í sjóðnum. Að lokum var lagt til að ef hlutafélagsvæðingin næði fram að ganga, yrði atkvæðisréttur sjálfseignarstofnunarinnar sem færi með þorra hlutafjárins takmarkaður við 5% af heildaratkvæðamagni, í samræmi við ákvæði þágildandi laga nr. 113/1996 um viðskiptabanka og sparisjóði.431 Stjórn sparisjóðsins féllst á að bera tillögurnar upp á fyrirhuguðum fundi stofnfjáreigenda.432

Hinn 25. júní 2002 sömdu fimmmenningarnir við Búnaðarbanka Íslands hf. um að bankinn keypti stofnfé í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis af stofnfjáreigendum fyrir milligöngu fimmmenninganna. Sama dag sendu þeir bréf til stofnfjáreigenda þar sem þeir buðust til þess að kaupa að minnsta kosti 67% stofnfjár í sparisjóðnum á genginu 4,0. Endurmetið stofnfé 31. desember 2001 nam þá 485 milljónum króna og heildarverðið var því 1.940 milljónir króna. Samkomulagið við Búnaðarbankann kvað á um að fimmmenningarnir myndu síðan selja bankanum stofnféð á genginu 4,077 og fengju þeir því samtals 37 milljónir króna í sinn hlut, eða tæpar 7,5 milljónir króna hver, ef allt stofnféð seldist. Í bréfinu til stofnfjárhafa tíunduðu fimmmenningarnir helstu rök sín fyrir því að áætlanir stjórnarinnar um hlutafélagsvæðingu sparisjóðsins væru óhagstæðar stofnfjáreigendum og hvöttu þá til að fella tillögu stjórnarinnar en taka tilboði Búnaðarbankans um kaup á stofnfé, enda væri þar hærra verð í boði. Meðal helstu annmarka á hlutafélagsvæðingu töldu þeir eftirfarandi:

a) Hlutdeild stofnfjáreigenda í eigin fé minnkar úr 15,5% í 11,5%.
b) Hlutdeild stofnfjáreigenda í greiddum arði minnkar úr 100% í 11,5%.
c) Seljanleiki hlutabréfanna/stofnfjárbréfa minnkar.
d) Fyrirhuguð hlutafjárvæðing eykur áhættu stofnfjáreigenda.
e) Verð hlutabréfa hins nýja hlutafélags mun frekar lækka en hækka en það er reynslan erlendis frá þar sem hömlur eru lagðar á hlutafé eins og fyrirhugað er.433

Í greinargerð í Morgunblaðinu 27. júní 2002 röktu fimmmenningarnir nánar hvers vegna þeir töldu að tillögur stjórnar sparisjóðsins þjónuðu ekki hagsmunum stofnfjáreigenda.434 Minni hlutdeild í eigin fé skýrðu þeir með vísan til þess að eigið fé sparisjóðsins næmi 3.192 milljónum króna og þar af væri endurmetið stofnfé 485 milljónir króna, eða 15,2% af eigin fé. Í tillögum stjórnar um hlutafélagsvæðingu var gert ráð fyrir að stofnfjáreigendur myndu eignast 11,5% í hinu nýja hlutafélagi á móti sjálfseignarstofnuninni, miðað við áætlað markaðsverðmæti. Hjá sparisjóði færi öll arðgreiðsla til stofnfjárhafa en í hlutafélagi um sparisjóð færi hluti arðgreiðslunnar til sjálfseignarstofnunarinnar, sem þá væri jafnframt hluthafi.435 Þá töldu þeir seljanleika hlutabréfanna minni, meðal annars vegna þess að lítil eftirspurn yrði eftir bréfum í félagi þar sem einn aðili hefði yfirgnæfandi meiri hluta, ekki síst í ljósi þess að gert væri ráð fyrir takmörkun á mögulegu atkvæðavægi allra annarra en sjálfseignarstofnunarinnar við 5%. Auk þess myndi áhætta fjárfesta aukast með breyttu félagsformi, þar sem stofnfé nyti forgangs gagnvart varasjóði við slitameðferð sparisjóðs en ekki hlutafé.436

Ítrekað var að samkvæmt samningi þeirra við Búnaðarbankann myndi bankinn ekki eignast varasjóð sparisjóðsins sem var þá um 2.700 milljónir króna. Til þess að af því gæti orðið þyrfti að hlutafélagsvæða sparisjóðinn og sameina hann síðan Búnaðarbanka Íslands hf. Við þá sameiningu myndi Búnaðarbankinn þurfa að greiða SPRON-sjóðnum ses. með hlutabréfum í bankanum sem næmi áætluðu verðmæti eignarhluta SPRON-sjóðsins ses. í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis hf. Samkvæmt verðmati Deloitte & Touche væri sá eignarhluti metinn á 3.715 milljónir króna. Heildargreiðsla Búnaðarbankans fyrir Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis, ef af sameiningu yrði, væri þannig um 5.655 milljónir króna samkvæmt útreikningum fimmmenninganna.437

Stjórn sparisjóðsins ákvað á fundi sínum 26. júní 2002 að fresta fyrirhuguðum fundi stofnfjáreigenda 28. júní í ljósi lagalegrar óvissu um lögmæti tilboðs fimmmenninganna og Búnaðarbankans frá 25. júní. Fimmmenningarnir sendu umsókn til Fjármálaeftirlitsins um að fara með virkan eignarhlut í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, næði samningurinn við Búnaðarbankann fram að ganga.438 Stjórn sparisjóðsins mótmælti þessari umsókn með bréfi til Fjármálaeftirlitsins 2. júlí 2002 og krafðist þess að henni yrði hafnað.439 Átökin milli stjórnar sparisjóðsins og fimmmenninganna stigmögnuðust og í opnu bréfi til stofnfjáreigenda sparisjóðsins 27. júlí 2002 tilkynnti Sveinn Valfells að hann myndi leggja fyrir fund stofnfjáreigenda tillögu um vantraust á núverandi stjórn og um kosningu nýrrar stjórnar.440

Sama dag og Sveinn Valfells birti bréf sitt stofnuðu fimm starfsmenn Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis einkahlutafélag, Starfsmannasjóð SPRON ehf., sem samkvæmt samþykktum hafði það markmið að stuðla að vexti og viðgangi Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis með því að fara með eignarhald á stofnfé sjóðsins, auk lánastarfsemi sem tengdist eignarhaldinu. Í stjórn félagsins sátu fimm starfsmenn sparisjóðsins, Ari Bergmann Einarsson útibússtjóri, Harpa Gunnarsdóttir forstöðumaður starfsmannaþjónustu, Jóhannes Helgason fulltrúi, Sigríður Einarsdóttir þjónustustjóri og Þorvaldur F. Jónsson útibússtjóri. Megintilgangur með stofnun félagsins var að koma í veg fyrir að yfirtökutilboð fimmmenninganna og Búnaðarbankans frá 25. júní 2002 næði fram að ganga, enda væri það forsenda þess að tryggja áframhaldandi sjálfstæði og starfsemi Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis.441 Stjórn félagsins sendi stofnfjáreigendum bréf með tilboði í stofnfjárbréf á genginu 4,5 miðað við stöðu endurmetins stofnfjár. Í bréfinu var greint frá því að vilyrði hefði fengist frá Sparisjóðabanka Íslands hf., Kaupþingi banka hf. og öðrum fjárfestum fyrir þátttöku í þessum kaupum. Tilboðið, sem gilti til miðnættis mánudaginn 29. júlí 2002, var sett fram með nokkrum skilyrðum:

  1. Að stjórn Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis samþykkti kaupin.

  2. Að fundur stofnfjáreigenda felldi úr gildi ákvæði í samþykktum sparisjóðsins um hámarkseignarhluta hvers stofnfjáreiganda.

  3. Að Fjármálaeftirlitið féllist á að Starfsmannasjóður SPRON ehf. eignaðist virkan eignarhluta í sparisjóðnum, samkvæmt 10., sbr. 14. gr. laga nr. 113/1996.

  4. Að eigendur a.m.k. 51% af stofnfé sparisjóðsins samþykktu kaupin.442

Í kjölfarið sendu fimmmenningarnir frá sér yfirlýsingu þar sem þeir ítrekuðu tilboð sitt á genginu 4,0 og gagnrýndu tilurð Starfsmannasjóðs SPRON ehf. og tilboð félagsins. Þá bentu þeir á að einkahlutafélagið, sem þeir töldu stofnað fyrir tilstilli sparisjóðsstjórans, væri ekki stofnfjáreigandi í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis en virtist engu að síður hafa fengið aðgang að stofnfjáreigendaskrá sem óheimilt var samkvæmt samþykktum sparisjóðsins.443 Starfsmannasjóðurinn svaraði um hæl með annarri yfirlýsingu þar sem staðhæfingum um aðild sparisjóðsstjórans að stofnun félagsins var hafnað. Í yfirlýsingunni var ekkert minnst á aðgang að stofnfjáreigendaskrá.444 Nokkrum dögum síðar hækkaði Starfsmannasjóður SPRON ehf. tilboð sitt úr 4,5 í 5,5 krónur fyrir hvern hlut, miðað við endurmetið stofnfé. Við það breyttist viðhorf fimmmenninganna og drógu þeir tilboð sitt til baka. Í yfirlýsingu þeirra 10. ágúst 2002 sögðu þeir tilgangi sínum náð með viðbrögðum starfsmannasjóðsins:

Fyrir okkur hefur aldrei vakað annað en að tryggja öllum stofnfjáreigendum í Spron, sem þess óska, sanngjarnt endurgjald fyrir stofnfé sitt. Við þessar aðstæður er það sjálfgefið að falla frá tillögu eins okkar um vantraust á stjórn Spron á [stofnfjáreigendafundi] 12. ágúst 2002. Við mælum svo með að stofnfjáreigendur samþykki á fundinum fyrirliggjandi tillögu um breytingu á samþykktum í því skyni að afnema ákvæðið um hámarkseign eins aðila á stofnfé.445

Sá fyrirvari var settur af hálfu fimmmenningana að reyndist samningur starfsmannasjóðsins ekki skuldbindandi, vegna afstöðu Fjármálaeftirlitsins eða stjórnar sparisjóðsins, mundu fimmmenningarnir reyna á ný að semja við Búnaðarbankann.446 Á fjölsóttum fundi stofnfjárhafa Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis 12. ágúst 2002 gerðu fulltrúar stjórnar sparisjóðsins, fimmmenninganna og Starfsmannasjóðs SPRON ehf. grein fyrir sjónarmiðum sínum, m.a. lýstu Pétur H. Blöndal og Jón Steinar Gunnlaugsson nú stuðningi fimmmenninganna við tilboð Starfsmannasjóðs SPRON ehf. Á fundinum var samþykkt að afnema takmörkun á fjölda hluta í eigu einstakra stofnfjáreigenda.447

17.7.1.1.1 Heimild til sölu stofnfjár á yfirverði

Í framhaldi af umsókn fimmmenninganna um að fara með virkan eignarhlut í sparisjóðnum sendi Fjármálaeftirlitið málsaðilum bréf þar sem stofnunin rakti þau sjónarmið og atriði sem það hugðist hafa til hliðsjónar við afgreiðslu umsóknarinnar. Þar voru sérstaklega tilgreind tvö álitamál:

1. Hvort tilboð fimmmenninganna til stofnfjáreigenda Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis samræmdist lögum og þá sérstaklega hvort heimilt væri að eiga viðskipti með stofnbréf á öðru verði en á endurmetnu nafnverði. Einnig hvort að í viðskiptunum fælist að stofnfjáreigendum, bæði núverandi og tilvonandi, væri veittur aðgangur að eigin fé sparisjóðsins umfram það sem mælt væri fyrir í lögum.

2. Hvort ferli viðskiptanna, eins og það var kynnt í samningi fimmmenninganna og Búnaðarbankans, félli að lögum og hvernig yrði gætt ákvæða laga nr. 113/1996 í því efni.448

Meginágreiningur stjórnar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, fimmmenninganna og Búnaðarbankans snerist um það hvort túlka bæri tiltekin ákvæði laga nr. 113/1996, sem takmörkuðu framsal stofnfjárbréfa, þannig að einungis væri heimilt að framselja stofnfjárbréf á endurmetnu nafnverði, og aðeins í afmörkuðum tilvikum, þ.e. við innlausn, sbr. 2. mgr. 21. gr. laga um fjármálafyrirtæki, við sölu nýs stofnfjár, sbr. 2. mgr. 22. gr., við slit sparisjóðs, sbr. 70. gr., og við breytingu sparisjóðs í hlutafélag, sbr. 37. gr. A og B; eða hvort almennt væri heimilt að framselja stofnfjárbréf á yfirverði, nema við framangreindar aðstæður.

Helstu rök fimmmenninganna og Búnaðarbankans voru þau að hvergi í lögum væri bannað með berum orðum að selja stofnfé á yfirverði og því hlyti sala á markaðsverði að vera heimil, enda væri annað brot á eignarréttarákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar. Þeir töldu að ef það hefði verið vilji löggjafans að banna framsal stofnfjár á yfirverði hefði það þurft að koma skýrt fram í lögunum sjálfum. Einnig var nefnt að réttindi samkvæmt stofnfjárbréfum væru tvímælalaust eign, enda væri litið þannig á þau í skattalegu tilliti og væri vísað til þess í athugasemdum við 1. gr. í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 87/1985.449

Í öðru lagi töldu fimmmenningarnir og Búnaðarbankinn að við samruna fjögurra sparisjóða á Vestfjörðum hefðu átt sér stað viðskipti þar sem yfirverð var greitt fyrir stofnfé. Það hefði viðgengist athugasemdalaust af hálfu Fjármálaeftirlitsins og því væri ekki ástæða til þess að gera athugasemdir við þetta atriði í umsókn fimmmenninganna og Búnaðarbankans.

Tilboð Starfsmannasjóðs SPRON ehf. byggði einnig á því að greitt yrði yfirverð fyrir stofnfjárhluti í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis. Fimmmenningarnir, sem töldu stjórn sparisjóðsins standa að baki tilboði starfsmannasjóðsins, gagnrýndu tilboðið á þeim forsendum að stjórn sparisjóðsins væri að stuðla að tilboði í stofnfé á yfirverði á sama tíma og hún gagnrýndi fimmmenningana og Búnaðarbankann fyrir að gera slíkt tilboð.450

Mótrök stjórnar sparisjóðsins voru meðal annars þau að eignarréttindum yfir stofnfé hefðu ævinlega verið settar þröngar skorður í lögum um sparisjóði. Þessar takmarkanir væru settar með tilliti til þeirra almannahagsmuna sem starf sparisjóðanna varðaði og að þær væri eingöngu hægt að skýra svo að viðskipti með stofnfé mættu eingöngu fara fram á endurmetnu nafnverði. Hagsmunir stofnfjáreigendanna væru því víkjandi, enda væri hlutverk þeirra að standa vörð um framfarastarf sparisjóðanna en væri bannað að gera sér það að féþúfu.451

Stjórn sparisjóðsins taldi hins vegar að samningur Búnaðarbankans við fimmmenningana væri ekki sambærilegur við það sem átti sér stað við sameiningu sjóðanna á Vestfjörðum, enda hefðu öll stofnfjárviðskipti þar farið fram á endurmetnu nafnverði. Aðrar greiðslur hefðu runnið til sparisjóðsins sjálfs, ekki til stofnfjáreigenda eins og gert var ráð fyrir í samningi Búnaðarbankans við fimmmenningana. Jafnvel þótt talið yrði að greitt hefði verið yfirverð við stofnfjárviðskiptin væri þetta ekki samanburðarhæft. Þá taldi stjórnin að óvenjulegt væri fyrir stjórn sparisjóðs að samþykkja viðskipti með stofnfé á yfirverði og í því samhengi þyrfti m.a. að skoða hvort yfirverð fyrir stofnfé gengi til sparisjóðsins eða stofnfjáreigenda. Yfirverðið sem Búnaðarbankinn bauðst til að greiða fyrir stofnfé í sparisjóðnum myndi ekki ganga til sparisjóðsins, heldur myndi bankinn líklega nota SPRON-sjóðinn ses. til að draga úr eigin útgjöldum og bæta afkomu. Þannig mundi bankinn láta verðmæti sparisjóðsins endurgreiða sér fjárfestinguna.452

Samband íslenskra sparisjóða gerði, með bréfi 9. júlí 2002, grein fyrir afstöðu sinni til umsóknar fimmmenninganna um virkan eignarhlut og til bréfs Fjármálaeftirlitsins frá 3. júlí 2002. Í bréfinu kom fram að sambandið teldi að ákvörðun Fjármálaeftirlitsins varðaði í raun framtíð sparisjóðastarfsemi á Íslandi og tilverugrundvöll sparisjóða almennt. Ef umsóknin yrði samþykkt myndu aðrir viðskiptabankar gera stofnfjáreigendum í öðrum sparisjóðum hliðstæð tilboð, sem yrðu margfalt hærri hlutfallslega í tilvikum þar sem stofnfé viðkomandi sjóðs væri 1% af eigin fé eða minna. Þá var það afstaða sambandsins að sala stofnfjár á yfirverði væri óheimil. Það væri augljóst af lestri greinargerðar með frumvarpi sem varð að lögum nr. 71/2001.453

Niðurstaða Fjármálaeftirlitsins um heimild til sölu stofnfjár á yfirverði, í greinargerð frá 19. júlí 2002, var í meginatriðum sú að þágildandi löggjöf fæli ekki í sér bann við framsali eignarhluta á hærra verði en endurmetnu nafnverði, að því tilskildu að lögmælt samþykki

stjórnar samkvæmt 18. gr. laga nr. 113/1996 lægi fyrir. Fjármálaeftirlitið tók ekki afstöðu til þess hvort yfirverð hefði verið greitt við sameiningu sparisjóða á Vestfjörðum.454

17.7.1.1.2 Aðgangur stofnfjáreigenda að varasjóði

Annar stór þáttur í deilu fimmmenninganna og Búnaðarbankans við stjórn Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis var hvort tilboð fimmmenninganna og Búnaðarbankans fæli í sér að stofnfjáreigendur eignuðust hlutdeild í rekstrarafgangi sparisjóðsins og bryti þannig gegn ákvæði 2. mgr. 17. gr. laga nr. 113/1996.455 Fimmmenningarnir gagnrýndu á hinn bóginn að tilboð Starfsmannasjóðs SPRON ehf. frá 27. júlí væri fjármagnað með eigin fé sparisjóðsins og bryti því gegn sama lagaákvæði.

Stjórn sparisjóðsins taldi að með fyrirhuguðum stofnfjárkaupum myndi Búnaðarbankinn ná yfirráðum yfir öllu eigin fé sparisjóðsins, þar með talið varasjóði hans. Það gæti bankinn svo notað til að greiða stofnfjáreigendum það yfirverð sem gert var ráð fyrir. Þannig eignuðust stofnfjáreigendur hlutdeild í verðmætum sem þeir ættu ekki tilkall til og bannað væri samkvæmt lögum að veita þeim. Verið væri að greiða stofnfjáreigendum fé sem skilgreint væri sem samfélagseign.

Stjórnin taldi einnig að ef áætlanir fimmmenninganna og Búnaðarbankans gengju eftir og sparisjóðurinn yrði síðan hlutafjárvæddur myndi bankinn nýta sjálfseignarstofnunina sem þá yrði stofnuð til að styrkja líknar- og menningarmál í nafni bankans. Þannig myndi bankinn bæta ímynd sína og þar með markaðsverðmæti sitt. Bankinn myndi nýta verðmæti sparisjóðsins til að endurgreiða sér kaupverð stofnfjárbréfanna með því að færa markaðskostnað bankans yfir í sjálfseignarstofnunina. Yfirverðið fyrir stofnfjárbréfin væri því í raun greitt með fé úr varasjóði sparisjóðsins.

Fimmmenningarnir og Búnaðarbankinn töldu hins vegar að ekki yrði séð að með fyrirætlunum þeirra yrði gengið á varasjóð, enda væri réttarstaða stofnfjáreigenda sú sama fyrir og eftir viðskiptin og að öllu leyti í samræmi við lög, og ekki væri hreyft við öðru eigin fé sparisjóðsins. Búnaðarbankinn taldi meðal annars að ákvæði 2. og 3. mgr. 17. gr. laga nr. 113/1996 giltu ekki um viðskipti með stofnfjárhluti á frjálsum markaði, enda væru þau sparisjóðnum í raun óviðkomandi þar sem tekjur af þeim væru ekki hagnaðarhlutur eða arður af rekstri sparisjóðsins sjálfs.

Fjármálaeftirlitið komst að þeirri niðurstöðu að ekkert benti til þess að tilboð fimmmenninganna og Búnaðarbankans fæli í sér að gengið væri á eigið fé sparisjóðsins og taldi heldur ekki að tilboðið veitti stofnfjáreigendum rétt til ágóðahlutar úr sparisjóðnum, enda væri um greiðslu frá þriðja aðila að ræða en ekki frá sparisjóðnum sjálfum.456

Haustið 2002 komst Fjármálaeftirlitið að þeirri niðurstöðu að hvorki fimmmenningarnir né Starfsmannasjóður SPRON ehf. væru hæfir til að eignast virkan eignarhlut í sparisjóðnum. Í kjölfar úrskurðar kærunefndar samkvæmt lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi nr. 87/1998 í máli nr. 5/2002 frá 17. desember 2002, um umsókn Starfsmannasjóðs SPRON ehf. til að eignast virkan eignarhlut, var farið að leita annarra leiða við hlutafélagsvæðingu sparisjóðsins.

17.7.2 Tilraun til hlutafélagsvæðingar og samruna við önnur fjármálafyrirtæki 2003–2004

Stjórn sparisjóðsins skipaði sérstaka undirnefnd stjórnar sem hafði það verkefni að kanna tillögur og hugmyndir að möguleikum stofnfjáreigenda til að selja stofnfjárbréf sín á hærra verði en endurmetnu nafnverði á árinu 2003. Þá skoðaði nefndin einnig hvernig atkvæðavægi yrði háttað í sparisjóðnum við breytingu í hlutafélag.457 Í nefndinni sátu Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, Pétur H. Blöndal og Guðmundur Hauksson sparisjóðsstjóri.458 Sparisjóðsstjóra var falið að semja drög að reglum fyrir stjórnina til að vinna eftir ef upp kæmu óskir um framsal stofnfjárhluta. Jafnframt var Sigurði Jónssyni endurskoðanda falið að meta hvað væri eðlilegt að stofnfjáreigendur fengju greitt í hlutafé fyrir stofnfé sitt ef sparisjóðnum yrði breytt í hlutafélag.459 Sigurður taldi eðlilegt markaðsvirði stofnfjár Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis liggja á bilinu 1.350–1.450 milljónir króna. Ef miðað væri við verðmat Deloitte & Touche á sparisjóðnum frá maí 2002, sem hljóðaði upp á 4.200–4.400 milljónir, myndi hlutdeild stofnfjáreigenda í hlutafé sparisjóðsins eftir hlutafélagsvæðingu vera 31–36%. Fjármálaeftirlitið gerði ekki athugasemdir við þá nálgun.460 Á stjórnarfundi sparisjóðsins 13. nóvember 2003 er greint frá verðmati Price­water­houseCoopers á sparisjóðnum. Samkvæmt matinu var verðmæti sparisjóðsins 7,9 milljarðar, en á bilinu 6,7–7,1 milljarður í dreifðu eignarhaldi. Verðmæti stofnfjár Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis var metið á 1,4 milljarða króna samkvæmt 74. gr. laga nr. 161/2002, sem samsvaraði þá 19% eignarhluta í væntanlegu hlutafélagi.461 Þetta þýddi að sjálfseignarstofnunin sem stofnuð yrði við hlutafélagsvæðinguna myndi eignast hlutafé að verðmæti 6 milljarðar króna, þ.e. 81% hlutafjár.

Á stjórnarfundi 11. desember 2003 var samþykkt að kanna möguleika á að reka sparisjóðinn sem hlutafélag í eigu eða í samstarfi við viðskiptabanka. Ef fallið yrði frá því að breyta sparisjóðnum í hlutafélag yrði hins vegar hægt að koma upp tilboðsmarkaði með stofnfjárbréf á yfirverði. Ákveðið var að senda erindi til viðskiptabankanna þriggja, Íslandsbanka hf., Kaupþings Búnaðarbanka hf. og Landsbanka Íslands hf., þar sem óskað var eftir viðræðum um mögulegar útfærslur á samstarfi. Í bréfunum kom fram verðmat PricewaterhouseCoopers á sparisjóðnum en þess óskað að bankarnir gæfu upp það verð sem þeir væru tilbúnir að greiða stofnfjáreigendum fyrir hlut þeirra í hlutafjárvæddum sparisjóði. Skilyrði fyrir viðræðum voru að Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis yrði sjálfstæð eining sem rekin yrði undir eigin nafni og að starfsmönnum yrði tryggt áframhaldandi starf eftir fremsta megni.462

Stóru bankarnir þrír sendu allir tilboð sem rædd voru á stjórnarfundi 20. desember 2003.463 Ákveðið var að ganga til viðræðna við Kaupþing Búnaðarbanka hf. sem þótti hafa gert hagstæðasta tilboðið en það hljóðaði upp á 8.160–9.240 milljónir króna. Þar af yrðu 6 milljarðar króna greiddir fyrir hlutafjáreign sjálfseignarstofnunarinnar.464 Stjórnin samþykkti að ganga til viðræðna við bankann og á stjórnarfundi 21. desember 2003 greindi sparisjóðsstjóri frá því að náðst hefði samkomulag um öll grundvallaratriði. Stjórnin undirritaði þá viljayfirlýsingu sem fulltrúar Kaupþings Búnaðarbanka hf. höfðu þegar undirritað.

Á stjórnarfundi 29. desember var staðfest samrunaáætlun Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis við Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis hf. og önnur gögn sem ganga þyrfti frá fyrir áramót ef hlutafélagsvæðing ætti að nást. Í tengslum við hlutafélagsvæðinguna var ákveðið að slíta SPRON-sjóðnum ses. sem stofnaður var 2002 og stofna nýja sjálfseignarstofnun með sama nafni. Hún var skráð í fyrirtækjaskrá 20. janúar 2004.

Skiptar skoðanir voru um áform Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis og Kaupþings Búnaðarbanka hf. Jón Kr. Sólnes, formaður Sambands íslenskra sparisjóða, lagðist meðal annars harkalega gegn þeim í viðtali 11. janúar 2004 og hvatti stjórnvöld til að stöðva áformin:

Löggjafinn getur fjallað um málið og gert orðalagið í lögunum skýrara þannig að tekin verði af öll tvímæli um hugsanlega heimild til að ráðstafa fjármununum sem eiga að fara inn í sjálfseignarstofnunina. Það er hægt að gera með ýmsu móti. Meðal annars væri hægt að hugsa sér að stjórn yfir sjálfseignarstofnuninni væri ekki kjörin af stofnfjáreigendum, heldur skipuð fulltrúum ríkisvaldsins og sveitarstjórna með einhverjum hlutlausum aðila og að ríkisendurskoðandi væri endurskoðandi fyrir hana, þannig að alveg væri skilið á milli.465

Viðskiptaráðherra brást við með því að leggja fram frumvarp á Alþingi, sem breytti ákvæðum um skipan stjórna sjálfseignarstofnana sem til yrðu við hlutafélagsvæðingu.466 Sú breyting gekk út á það að stofnfjáreigendur hefðu ekkert með skipan stjórnar að gera, en þess í stað yrðu stjórnarmenn alfarið skipaðir af opinberum aðilum. Á stjórnarfundi sparisjóðsins 4. febrúar 2004 var rætt um stöðu mála með tilliti til lagafrumvarpsins og lagði Árni Þór Sigurðsson, stjórnarmaður, fram eftirfarandi bókun:

Með vísan til þess að viðskiptaráðherra hefur lagt fram á Alþingi stjórnarfrumvarp sem í raun kemur í veg fyrir löglegan samning SPRON og KB-banka og þess að SPRON hefur ætíð ætlað sér að vinna í samræmi við lög, tel ég rétt að stjórn SPRON ákveði nú þegar að leggja til hliðar áform um að breyta SPRON í hlutafélag.467

Lögin tóku gildi 6. febrúar 2004 og ákvað stjórn sparisjóðsins sama dag að falla frá fyrirhugðum áætlunum um hlutafélagsvæðingu, enda hafði lagabreytingin áhrif á forsendur sem lágu að baki samningnum við Kaupþing Búnaðarbanka hf. um hlutafélagsvæðinguna. Gert hafði verið ráð fyrir að stjórn sjálfseignarstofnunarinnar myndi framselja hlutafjáreign sína í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis til Kaupþings. Með lagabreytingunni varð það allsendis óvíst. Á fundi stofnfjárhafa Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis 10. febrúar 2004 var samþykkt ályktun um að fela stjórn sparisjóðsins að leita sérfræðiálits um lögmæti laga nr. 4/2004, um breytingu á lögum nr. 161/2002, og um hugsanlegan bótarétt Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis og einstakra stofnfjáreigenda vegna þessa. Á stjórnarfundi sparisjóðsins 26. febrúar 2004 var lögmönnunum Jakobi Þ. Möller og Gesti Jónssyni falið þetta verkefni. Lögfræðiálitið var lagt fram á fundi stjórnar 22. júní 2004 og síðan sent stofnfjáreigendum. Niðurstaða þess var sú að löggjafinn hefði ekki farið út fyrir valdmörk sín í setningu laga nr. 4/2004 og að íslenska ríkið væri ekki bótaskylt vegna óheimilla takmarkana á eignarrétti eða samningsfrelsi.468 Þegar ljóst var orðið að ekki yrði af hlutafélagsvæðingu í þessari atrennu ákvað stjórn sparisjóðsins að hefja undirbúning að stofnun markaðar með stofnfjárhluti, en um stofnfjármarkaðinn var fjallað hér framar í kaflanum um stofnfé og stofnfjáreigendur.

17.7.2.1 Sameiningarviðræður Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis og Sparisjóðs vélstjóra

Á stjórnarfundi Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis 19. maí 2004 var samþykkt að fela sparisjóðsstjóra að kanna forsendur þess að hefja samstarf eða samruna við aðra sparisjóði, hérlendis og erlendis.469 Nokkur skriður komst á sameiningarviðræður strax um sumarið, þótt þær hefðu ekki verið í höndum sparisjóðsstjóra. Þannig er greint frá því á stjórnarfundi 22. júní 2004 að stjórnarformaður sparisjóðsins hafi átt óformleg samtöl við stjórnarformann annars innlends sparisjóðs, án skuldbindinga, og hafi sett af stað upplýsingavinnu í tengslum við það. Síðar kom í ljós að þar var um að ræða Jón Þorstein Jónsson, stjórnarformann Sparisjóðs vélstjóra.

Að sögn Óskars Magnússonar, þáverandi stjórnarformanns Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, þekktust hann og Jón Þorsteinn frá fyrri störfum á matvörumarkaði.470 Þeir hefðu séð að ná mætti gríðarlegri samlegð með sparisjóðunum, bæði vegna staðsetningar og samsetningar viðskiptavinahóps. Óskar hefði því fengið heimild stjórnar til að hefja óformlegar sameiningarviðræður sem gengu ágætlega að hans sögn. IFS Ráðgjöf ehf. var fengin til að gera úttekt á báðum sparisjóðum.471 Í fundargerð stjórnar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis frá 6. október 2004 kemur fram að Árni Tómasson, endurskoðandi og fyrrverandi bankastjóri Búnaðarbanka Íslands hf., hafi verið fenginn til að leggja mat á verðmæti beggja sparisjóða. Taldi hann að skiptihlutföll ættu að vera á bilinu 36–39% fyrir Sparisjóð vélstjóra en 61–64% fyrir Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis. Í fundargerð var bókað:

Fram kom hjá formanni og sparisjóðsstjóra að ýmislegt væri aðfinnsluvert við matið og eflaust væru veigamikil rök fyrir því að hlutur SPRON ætti að vera stærri. Allt að einu var talið að miklir hagsmunir fælust í því að sameina sjóðina jafnvel þótt mætast þyrfti á hlutföllum sem ekki endurspegluðu nákvæmlega það mat sem stjórnendur SPRON hefðu. Þegar heildarmyndin væri virt, samrunaaðferðin o.fl. væru hlutföllin ekki úrslitaatriði.

Niðurstaða fundarins varð að miða við að skiptihlutfall yrði allt að 60/40 ef á þyrfti að halda. Svo fór að Óskar og Jón Þorsteinn sendu frá sér viljayfirlýsingu fyrir hönd stjórna sparisjóðanna til fjölmiðla 8. október 2004. Í yfirlýsingunni kom fram að stefnt væri að því að sameining tæki gildi 1. janúar 2005 og vilji væri fyrir því að hleypa fleiri sparisjóðum að viðræðunum.472 Á stjórnarfundi Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis 4. nóvember var bókað:

Stjórnarformaður hóf fundinn með því að greina frá þróun viðræðna við formann stjórnar [Sparisjóðs vélstjóra] frá síðasta stjórnarfundi. Í þeim hefur komið fram að stjórn [Sparisjóðs vélstjóra] fellst á að halda samrunaviðræðum áfram, en hefur lýst yfir áhyggjum sínum af kaupum KB-banka og aðilum þeim tengdum á stofnfé í SPRON og myndi fylgjast grannt með þróun þeirra mála. Pétur H. Blöndal og Hildur Njarðvík lýstu áhyggjum sínum vegna ofangreindra kaupa og töldu sig hafa heimildir fyrir því að þau tengdust að verulegu leyti og því væru áform um samruna sett í uppnám ef svo héldi áfram. Þau lýstu því yfir að þau myndu sitja hjá við afgreiðslu á sölu þeirra stofnfjárbréfa sem fyrir fundinum lá.473

Viðræður stjórnarformannanna gengu hratt fyrir sig og lágu drög að samrunaáætlun sparisjóðanna fyrir um miðjan nóvember 2004. Á stjórnarfundi Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis 18. nóvember var samruninn ræddur. Þar var meðal annars rætt um stefnumörkun sameinaðs sjóðs, starfsmannaskiptingu og möguleg samlegðaráhrif. Stjórnarformaður fól sparisjóðsstjóra að setja upp drög að samlegðaráætlun en „[s]parisjóðsstjóri sagði að naumur tími væri til stefnu til slíkra útreikninga og mikill tími hefði farið til spillis í þeim efnum“.474 Stjórnarformanni var síðan falið að halda viðræðum áfram. Á stjórnarfundi rúmri viku síðar, 26. nóvember, greindi stjórnarformaður Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis frá samkomulagi um að slíta viðræðum við Sparisjóð vélstjóra. Ákveðið var að senda yfirlýsingu þess efnis til fjölmiðla og Kauphallar Íslands. Í kjölfarið óskaði stjórnarformaðurinn eftir því að vera leystur frá störfum við fyrsta hentugleika. Í Morgunblaðinu 28. nóvember 2004 kemur fram að ein af ástæðum þess að upp úr viðræðum slitnaði hefði verið að ekki hefði náðst samstaða um hver yrði sparisjóðsstjóri hins sameinaða sparisjóðs. Sumir hefðu viljað að Guðmundur Hauksson, sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, yrði sparisjóðsstjóri, en aðrir sóttu það fast að utanaðkomandi aðili yrði sparisjóðsstjóri sameinaða sjóðsins.475

Óskar Magnússon sagðist hafa áttað sig snemma á því að lítill stuðningur væri við sameiningu innan herbúða Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis þar sem sparisjóðsstjóri og þeir sem honum voru „leiðitamir“ hefðu verið mótfallnir sameiningu. Mikil samþjöppun á eignarhaldi hefði átt sér stað frá því að stofnfjármarkaður var opnaður. Stjórnarformenn sparisjóðanna töldu ljóst að sameining yrði ekki samþykkt á stofnfjárhafafundi Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis og því hefðu þeir orðið ásáttir um að slíta sameiningarviðræðum. Óskar ákvað að segja sig frá stjórnarformennsku í sparisjóðnum enda var hann um þær mundir að taka við starfi forstjóra Tryggingamiðstöðvarinnar hf. og fannst ekki heppilegt að vera stjórnarformaður í sparisjóði samhliða því að veita öðru fjármálafyrirtæki forstöðu.476

Jón Þorsteinn Jónsson, fyrrverandi stjórnarformaður Sparisjóðs vélstjóra, greindi rannsóknarnefndinni frá því að meðan á sameiningarviðræðum stóð hefði Hreiðar Már Sigurðsson, bankastjóri Kaupþings Búnaðarbanka hf., kallað Jón Þorstein á sinn fund. Á þeim fundi hefði Hreiðar Már „hreinlega [beðið Jón Þorstein] um að hætta þessu“. Jón Þorsteinn gerði sér grein fyrir því að gömul viðskipta- og vinatengsl væru á milli Hreiðars Más og Guðmundar Haukssonar, sparisjóðsstjóra Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis. Hann hefði þá talið sameiningarviðræður tímasóun þar sem Óskar og þeir sem að viðræðunum stóðu hefðu ekki nægilegt bakland.477

17.7.2.2 Hlutafélagsvæðing Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis 2006–2007

Á stjórnarfundi Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis 21. júní 2006 var Guðmundi Haukssyni sparisjóðsstjóra falið að hefja á nýjan leik undirbúning að hlutafélagsvæðingu sparisjóðsins. Leitað var til IMG ráðgjafar, sem síðar varð Capacent,478 um að meta verðmæti sparisjóðsins. Drög að matsgerð voru kynnt á stjórnarfundi 11. júlí 2006. Ákveðið var að að fresta ákvörðunartöku um hlutafélagsvæðingu þar til afstaða Fjármálaeftirlitsins til matsgerðarinnar lægi fyrir. Um haustið gerði Fjármálaeftirlitið athugasemdir við matið án þess að niðurstaða um það lægi fyrir og fóru starfsmenn Capacent á fund stofnunarinnar til að gera frekari grein fyrir því. Á stjórnarfundi 18. október var eftirfarandi bókað:

Fjármálaeftirlitið [hefur] enn ekki skilað niðurstöðu um verðmat SPRON og því væri hæpið að það tækist að breyta formi SPRON í hf. á þessu ári. Aukning eigin fjár í formi hlutafjár yrði því ekki fær að þessu sinni.

Þess í stað var ákveðið að boða til stofnfjáreigendafundar og auka stofnfé, sem síðan kom til framkvæmda í desember 2006.479 Á árinu 2007 var þráðurinn tekinn upp að nýju og fól stjórnin sparisjóðsstjóra að afla nýrrar matsgerðar frá Capacent með tilliti til hugsanlegrar breytingar sparisjóðsins í hlutafélag 1. apríl 2007. Matsgerðin var lögð fyrir stjórnarfund 23. maí sama ár og staðfest af Fjármálaeftirlitinu 26. júní. Á stjórnarfundi 2. júlí 2007 var ákveðið að hefja þegar í stað undirbúning hlutafélagsvæðingar. Stefnt var að því að leggja tillögu um eignarhaldsbreytingu fyrir fund stofnfjáreigenda í byrjun september. Gögn um samruna Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis og samnefnds hlutafélags voru lögð fram á stjórnarfundi sparisjóðsins 17. júlí 2007 og samþykkti stjórn að stefna að breytingu sparisjóðsins í hlutafélag og undirritaði samrunaáætlunina. Á sama fundi var ákveðið að markaður með stofnfjárbréf yrði opinn til og með 7. ágúst og stefnt að skráningu í Kauphöll Íslands 15. september 2007. Til þessa tímabils, frá því að ákvörðun var tekin um hlutafélagsvæðingu sparisjóðsins 17. júlí 2007 og þar til stofnfjármarkaði var lokað 7. ágúst, hefur stundum verið vísað sem „gluggans“.480

Guðmundur Hauksson, fyrrverandi forstjóri Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, sagði fyrir rannsóknarnefnd Alþingis frá aðdragandanum að lokun stofnfjármarkaðarins. Til skoðunar hefði komið að loka fyrir viðskipti með stofnbréf um leið og tilkynnt var að sparisjóðnum yrði breytt í hlutafélag. Talið var að það myndi leiða til mikillar óánægju meðal þeirra sem vildu eiga viðskipti með stofnfjárbréf í sparisjóðnum. Þeir þyrftu að bíða á meðan sparisjóðnum yrði breytt í hlutafélag og væru hugsanlega læstir inni með fé sitt. Því hefði verið ákveðið að hafa stofnfjármarkaðinn opinn frá 17. júlí til 7. ágúst 2007 til að gefa stofnfjárhöfum og kaupendum fyrirvara til að gera sínar ráðstafanir.481

SPRON-sjóðnum ses., sem stofnaður var 2004 vegna fyrirhugaðrar hlutafélagsvæðingar það ár, var slitið á stjórnarfundi hans 27. september 2007 en 20. ágúst hafði verið stofnuð ný sjálfseignarstofnun með sama nafni. Í stjórn hennar voru tilnefnd þau Einar Karl Haraldsson og Hildur Petersen af hálfu viðskiptaráðherra, Guðmundur Hauksson og Kristbjörg Stephensen af hálfu Reykjavíkurborgar, og Þorsteinn Pálsson af hálfu fjármálaráðherra, í samræmi við ákvæði 2. mgr. 76. gr. þágildandi laga nr. 161/2002.

Eftir áralangan aðdraganda var samrunaáætlun Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis og Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. loks samþykkt á fundi stofnfjáreigenda, með fyrirvara um samþykki Fjármálaeftirlitsins, og var Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis hf. skráður í Kauphöll Íslands 23. október 2007.

Að morgni fyrsta dags í Kauphöll var gengi hlutabréfa í Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. 18,9 á hlut, en við lokun markaðar eftir fyrsta viðskiptadag hafði gengið fallið um 11,6% og var 16,7 krónur á hlut.482 Lækkunin hélt áfram og mánuði seinna, 23. nóv-

ember 2007, hafði gengi Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. lækkað um um tæp 35% frá skráningu.483

17.7.2.3 Stofnfjárviðskipti stjórnarmanna og tengdra aðila í aðdraganda skráningar sparisjóðsins í Kauphöllina

Hið mikla verðfall á hlutabréfum í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis hf. vakti upp spurningar um hvort upplýsingar um bréfin í aðdraganda skráningar þeirra í Kauphöll hefðu verið villandi eða jafnvel rangar. Gagnrýnin jókst síðla árs 2007 þegar í ljós kom

að stjórnarmenn Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. höfðu selt stofnfjárbréf í aðdraganda skráningarinnar.

Þeir stjórnarmenn sparisjóðsins sem seldu stofnfjárbréf á þessum tíma voru Hildur Petersen, formaður stjórnar, Gunnar Þór Gíslason í gegnum Sundagarða ehf. og Jóhann Ásgeir Baldurs.484 Stjórnarmenn, sparisjóðsstjóri og aðilar tengdir þeim seldu 28% af heildarfjölda seldra bréfa og 40% af eigin bréfum í „glugganum“. Áslaug Viggósdóttir, eiginkona Guðmundar Haukssonar sparisjóðsstjóra, seldi 90% stofnfjárhluta sinna og Halldór Kolbeinsson, eiginmaður Hildar Petersen, seldi 23% stofnfjárhluta sinna. Síðar reyndi Davíð Heiðar Hansson, kaupandi bréfa Áslaugar Viggósdóttur, að fá kaupunum rift og óskaði eftir því að ríkislögreglustjóri rannsakaði viðskiptin. Rannsókn málsins var þó hætt 16. desember 2010 þar sem ekki þótti tilefni til að halda henni áfram.485

Stjórn Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. sendi frá sér yfirlýsingu 7. febrúar 2008 þar sem staðfest var að hið minnsta þrír af fimm stjórnarmönnum félagsins hefðu selt stofnfjárbréf sín í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis á tímabilinu 17. júlí til 7. ágúst 2007. Tilefni yfirlýsingarinnar var umfjöllun fjölmiðla um viðskipti stjórnarmanna og aðila sem tengdust þeim sem sneri sérstaklega að því að upplýsingar sem kaupendur hefðu haft á þessum tíma hefðu verið takmarkaðar, einkum upplýsingar um forsendur og innihald verðmats sem Capacent gerði á sparisjóðnum í maí 2007.486 Í yfirlýsingunni var vísað til umsagnar Fjármálaeftirlitsins frá 30. júní 2004 um drög að reglum um viðskipti á stofnfjármarkaði sem þá var í undirbúningi. Í drögunum hafði verið gert ráð fyrir að upplýsingar um viðskipti tengdra aðila með stofnfjárbréf yrðu gerðar opinberar með sama hætti og gert er hjá skráðum félögum. Í umsögn Fjármáleftirlitsins kom meðal annars fram að reglurnar væru mjög líkar reglum sem giltu um skráða fjármálagerninga og taldi stofnunin að þær gætu því valdið „ruglingshættu“ milli tilboðmarkaðarins og kauphallar eða skipulegs tilboðsmarkaðar.487 Einnig kom þar fram að fyrirhuguð upplýsingagjöf væri til þess fallin að gefa til kynna að markaðurinn væri skipulagður og því í andstöðu við 34. gr. þágildandi laga nr. 34/1998 um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða. Í yfirlýsingu stjórnarinnar sagði að á grundvelli þessarar niðurstöðu Fjármálaeftirlitsins hefði stjórnin talið óheimilt að birta upplýsingar um viðskipti innherja. Fullyrðingar í fjölmiðlum um að stjórnin hefði mistúlkað afstöðu Fjármálaeftirlitsins væru því rangar.488

17.7.2.3.1 Kærumál Samtaka fjárfesta vegna viðskipta í „glugganum“

Í kjölfar yfirlýsingar stjórnar sparisjóðsins frá 7. febrúar 2008 leituðu Samtök fjárfesta til Fjármálaeftirlitsins, ríkissaksóknara og ríkislögreglustjóra vegna framangreindra viðskipta og lögðu fram kærur. Í bréfi samtakanna til Fjármálaeftirlitsins 11. febrúar 2008 var óskað svara við þeim fullyrðingum sem fram komu í yfirlýsingu stjórnarinnar frá því fyrr í mánuðinum um leiðbeiningar Fjármálaeftirlitsins frá júní 2004.489 Í svari Fjármálaeftirlitsins 26. mars 2008 kom fram að umsögn Fjármálaeftirlitsins frá 30. júní 2004, um reglur um viðskipti á stofnfjármarkaði, bæri ekki að túlka svo að þar hefði algert bann verið lagt við upplýsingagjöf, að því gefnu að hún ylli ekki ruglingshættu.

Samtök fjárfesta sendu efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra bréf 7. apríl 2008 og vísuðu til bréfs Fjármálaeftirlitsins frá 26. mars um að hugsanlega vörðuðu viðskipti stjórnarmanna sparisjóðsins með stofnbréf í aðdraganda skráningar bréfanna í kauphöll ákvæði almennra hegningarlaga. Með bréfi 23. júní 2008 tilkynnti ríkislögreglustjóri að efnahagsbrotadeildin teldi ekki tilefni til að hefja rannsókn á refsiverðu athæfi vegna þessara viðskipta. Samtökin sendu þá kæru til ríkissaksóknara og efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra og beindist hún að Hildi Petersen, Ásgeiri Baldurs og Gunnari Þór Gíslasyni. Þá voru stjórnarmennirnir Erlendur Hjaltason og Ari Bergmann Einarsson kærðir fyrir hlutdeild í brotunum, sem og Guðmundur Hauksson sem þá var sparisjóðsstjóri, þar sem þeir hefðu samþykkt framsal hinna stjórnarmannanna á hlutum sínum.490 Kæran byggðist á því að hinir kærðu hefðu framið fjársvik með vísan til 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og innherjaákvæða laga nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti.

Ríkislögreglustjóri vísaði kærunni frá með bréfi 18. desember 2008, á grundvelli 76. gr. þágildandi laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.491 Samtök fjárfesta kærðu ákvörðunina til ríkissaksóknara 19. janúar 2009 sem felldi ákvörðunina úr gildi 10. febrúar 2009 og lagði fyrir ríkislögreglustjóra að hefja rannsókn á málinu með hliðsjón af 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.492 Með bréfi ríkislögreglustjóra 9. nóvember 2010 var málið fellt niður þar sem ekki þótti sýnt að saknæmisskilyrðum almennra hegningarlaga nr. 19/1940 væri fullnægt, né að verknaðarlýsing 248. gr. laganna ætti við. Ríkislögreglustjóri taldi, með hliðsjón af skýrslutökum af stjórnarmönnum og sparisjóðsstjóra, að ekkert benti til þess að kærðu hefðu leynt upplýsingum í því skyni að styrkja hugmyndir kaupenda stofnfjárbréfa um verðmæti Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis. Enn fremur benti ríkislögreglustjóri á að kærðu sem seldu stofnfé hefðu öll haldið a.m.k. 50% eignarhluta sinna í sparisjóðnum og hefðu því haft mikla hagsmuni af hlutafélagsvæðingunni.

Samtök fjárfesta kærðu ákvörðun ríkislögreglustjóra til ríkissaksóknara 9. desember 2010. Kærendur gagnrýndu að ríkislögreglustjóri teldi ekki að hin kærðu hefðu leynt neinum upplýsingum og bentu á að ef upplýsingar um sölu stjórnarmanna, æðstu stjórnenda og tengdra aðila hefðu legið fyrir hefðu aðrir stofnfjáreigendur líklega ákveðið að selja líka. Kærendur gagnrýndu einnig þau rök ríkislögreglustjóra að stjórnarmennirnir sem seldu hefðu haldið eftir 50% hlut eða meira og því áfram haft verulegra hagsmuna að gæta. Óskað var eftir að ríkislögreglustjóri upplýsti hvaða ástæður hin kærðu hefðu tilgreint fyrir því að hluti af verðmati Capacent hefði verið trúnaðarmál þegar umrædd stofnfjárviðskipti áttu sér stað.493

Ríkissaksóknari sagði ástæðu þess að verðmat Capacent hefði ekki verið birt í heild sinni vera þá að þar hefði komið fram mat á tveimur eignum Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis sem fyrirhugað var að selja, annars vegar lóð í Kringlunni og hins vegar hlutabréf í Icebank hf. Stjórn sparisjóðsins hefði talið slæmt að birta þessar upplýsingar vegna gagnaðila í fyrirhuguðum viðskiptum. Við rannsókn málsins kom ekkert fram sem benti til þess að hinir kærðu hefðu með háttsemi sinni framið refsiverðan verknað sem falla mundi undir 248. gr. almennra hegningarlaga. Því var rannsókn á málinu hætt þar sem ekki var talinn grundvöllur til að halda henni áfram.494

17.7.2.4 Áætlun um samruna við Kaupþing banka hf.

Í apríllok 2008 óskaði stjórn Kaupþings banka hf. eftir viðræðum við stjórn Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. um mögulega sameiningu félaganna. Vildi stjórn bankans kanna ítarlega hvernig hægt væri að hámarka ávinning beggja félaga, fjárfesta og starfsfólks af sameiningu og vænti hún þess að hægt yrði að ljúka viðræðum á fjórum vikum. Sameiningin væri háð samþykki lánardrottna, að viðeigandi áreiðanleikakönnun yrði gerð á sparisjóðnum og að Samkeppniseftirlitið og Fjármálaeftirlitið samþykktu sameininguna. Óskað var eftir svari stjórnar sparisjóðsins samdægurs. Eftir umræðu um kosti og galla slíkra viðræðna samþykkti stjórn sparisjóðsins á fundi 30. apríl 2008 að ganga til viðræðna við Kaupþing banka hf.

Þrátt fyrir áform um að viðræðurnar gengju hratt fyrir sig höfðu samningar ekki náðst þegar stjórnarfundur var haldinn í sparisjóðnum 13. júní 2008. Mikil vinna lá þó að baki og höfðu forstjóri og stjórnarformaður sparisjóðsins farið utan til viðræðna við aðila sem stóðu að baki erlendum lánalínum sjóðsins.495 Á fundinum 13. júní 2008 gaf stjórn sparisjóðsins forstjóra og stjórnarformanni heimild til að halda áfram viðræðum við Kaupþing banka hf. að því tilskildu að lagt yrði upp með að sparisjóðurinn yrði áfram rekinn undir sama nafni og að viðunandi verð fengist. Helsta ágreiningsefni Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. og Kaupþings banka hf. var skiptihlutfall hlutabréfa í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis hf. og hvernig starfsemi sparisjóðsins yrði háttað eftir sameiningu.

Á stjórnarfundi 1. júlí 2008 var lögð fram samrunaáætlun Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. og Kaupþings banka hf. Helstu atriði áætlunarinnar voru:

  1. Að Kaupþing banki hf. mundi yfirtaka eignir og skuldir Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf.

  2. Að hluthafar fengju greitt á markaðsgengi sparisjóðsins 30. júní 2008, að viðbættu 15% álagi. Greiðslan yrði samsett þannig að 60% hennar yrðu í hlutabréfum í Exista hf. og 40% í hlutabréfum í Kaupþingi banka hf.

Gengi sparisjóðsins 30. júní 2008 var 3,33 og að viðbættu 15% álagi yrði greiðslan til hlutafjáreigenda því 3,83 á hvern hlut. Í drögum að skýrslu sem fylgdi samrunaáætluninni var lögð áhersla á að halda sérstöðu sparisjóðsins og að útibúanet hans yrði rekið sem sjálfstæð eining. Stjórn Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. samþykkti samrunaáætlun og fylgigögn hennar 1. júlí 2008, með fyrirvara um samþykki hluthafa, Fjármálaeftirlitsins og Samkeppnisyfirvalda, og átti samruni fyrst að koma til framkvæmda að skilyrðum þessum fullnægðum. Þá var ákveðið að boða til hluthafafundar 6. ágúst 2008 og leggja fyrir hann tillögu um staðfestingu samrunaáætlunarinnar og þar með samruna Kaupþings banka hf. og sparisjóðsins á grundvelli hennar.496 Tillagan var samþykkt á hluthafafundinum.

Samruninn var borinn undir Samkeppniseftirlitið sem samþykkti samruna Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. og Kaupþings banka hf. á grundvelli þess að sýnt væri að sparisjóðurinn myndi að öðrum kosti hverfa af markaðnum sem sjálfstæður keppinautur og að engin önnur ráð gæfust en að samþykkja samrunann.497 Á stjórnarfundi 30. september 2008 voru lögð fram drög að aðgerðaáætlun sem yrði sett af stað um leið og samþykki Fjármálaeftirlitsins lægi fyrir.

Að morgni 9. október 2008 voru stjórnarmenn sparisjóðsins boðaðir á fund samdægurs en þá um nóttina hafði Fjármálaeftirlitið yfirtekið Kaupþing banka hf.498 Með yfirtöku Fjármálaeftirlitsins á Kaupþingi voru áætlanir um samruna félaganna að engu orðnar. Þá var ljóst að skammtímafjármögnun sparisjóðsins var orðin erfið þar sem hún hafði að miklu leyti byggst á nánu samstarfi við Kaupþing. Að auki hefði hlutabréfasafn sparisjóðsins rýrnað mjög og þrot viðskiptabankanna mundi hafa alvarleg áhrif á eiginfjárstöðu sparisjóðsins. Stjórn sjóðsins sá því að ekki væri önnur leið fær en að tilkynna Fjármálaeftirlitinu um stöðu sparisjóðsins.499

17.8 Fjárhagsleg endurskipulagning Sparisjóðs Reykjavíkur
og nágrennis hf.

Virðisrýrnun útlána og verðbréfa hafði töluverð áhrif á eigið fé Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis á árinu 2008. Eiginfjárhlutfallið lækkaði stöðugt á árinu en hélst þó yfir lögbundnu lágmarki þar til í árslok 2008 þegar það var orðið neikvætt um 13,56% samkvæmt skýrslum sparisjóðsins til Fjármálaeftirlitsins. Þá átti sparisjóðurinn í lausafjárerfiðleikum frá því á fyrri helmingi ársins 2008 og þegar þrengja fór að á fjármálamörkuðum reiddi sparisjóðurinn sig í meira mæli á Kaupþing banka hf. um skammtímafjármögnun. Við fall bankans varð öflun lausafjár sparisjóðnum enn erfiðari.500

Í ljósi lausafjár- og eiginfjárerfiðleika ákvað stjórn sparisjóðsins 9. október 2008 að tilkynna Fjármálaeftirlitinu um stöðuna og var það gert á fundi daginn eftir auk hugmynda um endurskipulagningu.501 Í kynningunni kom fram að áætluð rýrnun eigin fjár í kjölfar falls viðskiptabankanna næmi um 20 milljörðum króna að teknu tilliti til 2 milljarða króna skattáhrifa. Eigið fé sparisjóðsins yrði þá neikvætt um 10 milljarða króna.

Í kjölfar þessa fundar áréttaði forstjóri sparisjóðsins að sjóðurinn leitaði eftir opinberum stuðningi stjórnvalda og ríkisstofnana sem meðal annars þyrfti að felast í:

  1. Kaupum Íbúðalánasjóðs á íbúðalánum í íslenskum krónum af sparisjóðnum á bókfærðu verði, sem gengju hratt og örugglega fyrir sig. Mikilvægt væri að Íbúðalánasjóður yrði að auki tilbúinn til að kaupa íbúðalán í erlendri mynt með sama hætti.

  2. Að Nýi Kaupþing banki myndi samþykkja breytingu á víkjandi lánum í hlutafé og styrkja þannig eiginfjárgrunn sjóðsins.502

  3. Að ríkið nýtti heimild í 2. gr. laga nr. 125/2008 til að auka eigið fé sjóðsins um 20%.

  4. Að viðskiptaráðherra beitti sér fyrir því að gefin yrði út yfirlýsing þess efnis að ríkisstjórn og aðrar ríkisstofnanir myndu styðja við bakið á sparisjóðnum í þeim hremmingum sem væru á fjármálamarkaði. Slík yfirlýsing myndi fyrst og fremst nýtast sjóðnum í viðræðum við erlenda lánardrottna og gæti skapað svigrúm til að vinna að ásættanlegri lausn mála og viðhalda því góða samstarfi sem sjóðurinn hefði haft við fjölmarga alþjóðlega banka. Nauðsynlegt væri að fá slíka yfirlýsingu sem allra fyrst.503

Skömmu síðar var útlit fyrir að flest þessara atriða gætu gengið eftir. Hinn 26. nóvember 2008 var samþykkt reglugerð nr. 1081/2008 um heimild Íbúðalánasjóðs til að kaupa skuldabréf fjármálafyrirtækja sem tryggð voru með veði í íbúðarhúsnæði.504 Bankastjóri Nýja Kaupþings banka hf. staðfesti með bréfi til Fjármálaeftirlitsins 3. nóvember 2008 vilja bankans til að breyta víkjandi láni sparisjóðsins, að fjárhæð 42 milljónir evra, í hlutafé í sjóðnum.505 Reglur um eiginfjárframlag ríkisins til sparisjóða, samkvæmt 2. gr. laga nr. 125/2008, voru síðan samþykktar 18. desember 2008.

Í kjölfar fundarins 10. október 2008 óskaði Fjármálaeftirlitið eftir upplýsingum um eiginfjárstöðu samstæðu sparisjóðsins. Þær bárust eftirlitinu 17. október 2008 ásamt greinargerð um hvernig fyrirhugað væri að tryggja lausafjárstöðu sparisjóðsins. Einnig fylgdi rekstraráætlun fyrir samstæðuna til ársloka 2008 og gerð var grein fyrir rekstrarhorfum sparisjóðsins fyrir árið 2009.

Áætluð niðurfærsla eigin fjár vegna áhrifa af falli viðskiptabankanna þriggja var þar metin á bilinu 12,3–17 milljarðar króna. Helstu áætluðu niðurfærslur voru:

  1. 4 milljarða króna niðurfærsla á virði eignarhluta í Exista hf. og afskrift á 2 milljarða króna láni til félagsins.

  2. Lán veitt til hlutabréfakaupa í Icebank hf., samtals 3 milljarðar króna.506

  3. Gjaldfærsla vegna eignarhluta í Sparisjóðnum í Keflavík og Icebank hf., samtals 750 milljónir króna.

  4. Niðurfærsla vegna hlutabréfaláns til Giftar fjárfestingarfélags ehf. (áður Samvinnutryggingar hf.), með veði í hlutabréfum Kaupþings banka hf., samtals 1,4 milljarðar króna.

  5. Niðurfærsla vegna annarra smærri hlutabréfalána, samtals um 600 milljónir króna.

Í eiginfjárútreikningum var gert ráð fyrir að 9,5–14 milljarða króna þyrfti í nýtt hlutafé til að eigið fé yrði 10,1–11,4 milljarðar króna og eiginfjárhlutfall á bilinu 11,3–12,7%.

Í greinargerð um lausafjárstöðu kom fram að í undirbúningi væri sala á veðskuldabréfum í íslenskum krónum að verðmæti 27,2 milljarðar króna til Íbúðalánasjóðs á næstu dögum. Að auki væri gert ráð fyrir að síðar yrðu seld veðskuldabréf í erlendum myntum að verðmæti 35 milljarðar króna. Áætlað útstreymi fjármagns vegna endurgreiðslu á skammtímafjármögnun til ársloka 2008 var um 20 milljarðar króna og heildarfjármögnunarþörf ársins 2009 var áætluð 25 milljarðar króna.507 Í rekstraráætlun fyrir síðasta ársfjórðung 2008 var gert ráð fyrir rúmlega 600 milljóna króna tapi fyrir skatta. Tap ársfjórðungsins reyndist hins vegar nema 49,5 milljörðum króna fyrir skatta.508 Í greinargerð um rekstrarhorfur fyrir árið 2009 var gert ráð fyrir að grunnrekstur samstæðunnar myndi skila tæpum 4 milljörðum króna í hreinum vaxta- og þjónustutekjum árið 2009. Það var svipuð upphæð og árið 2007 en þá námu þær 4,2 milljörðum króna. Rekstrarkostnaður ársins 2009 var áætlaður um 2,5–2,8 milljarðar króna, eða um það bil helmingi lægri en árið 2007.509

Með bréfi 20. október 2008 gaf Fjármálaeftirlitið stjórn sparisjóðsins vikulangan frest til að skila reikningsuppgjöri árituðu af endurskoðanda.510 Taldi Fjármálaeftirlitið að
„[s]amkvæmt fyrirliggjandi gögnum [væri] eigið fé sparisjóðsins uppurið eftir að tekið hefði verið tillit til áætlaðra niðurfærslna, sem [stöfuðu] fyrst og fremst af óbeinum áhrifum af verðfalli verðbréfa þriggja stærstu viðskiptabankanna“. Þá óskaði Fjármálaeftirlitið enn fremur eftir því, með hliðsjón af eiginfjárstöðu sparisjóðsins, að stjórn hans hygði að því að grípa til viðeigandi ráðstafana, sbr. 3. mgr. 86. gr. laganna.511 Þá var óskað upplýsinga um hvort stjórn sparisjóðsins hefði kannað hvort tilefni væri til fjárhagslegrar endurskipulagningar, sbr. 98. gr. sömu laga.512

Reikningsuppgjör fyrstu níu mánaða ársins var sent Fjármálaeftirlitinu 27. október sama ár ásamt greinargerð frá endurskoðanda sparisjóðsins.513 Í þessu uppgjöri hafði, að beiðni Fjármálaeftirlitsins, verið tekið tillit til atburða sem áttu sér stað eftir 30. september 2008. Uppgjörið sýndi tap af rekstri á tímabilinu upp á 39,2 milljarða króna og bókfært eigið fé neikvætt sem nam 12,2 milljörðum króna í lok tímabilsins.514 Þess má geta að opinbert uppgjör sparisjóðsins fyrir sama tímabil, sem ekki tók tillit til atburða eftir uppgjörsdagsetningu, sýndi 16,5 milljarða króna tap og bókfært eigið fé sem nam 10,4 milljörðum króna í lok tímabilsins. Í skýrslu stjórnar og áritun endurskoðanda með opinbera uppgjörinu var þó greint frá því að í ljósi atburða eftir uppgjörsdag mætti gera ráð fyrir mikilli virðisrýrnun eignasafns og af þeim sökum væri líklegt að eiginfjárgrunnur sparisjóðsins væri undir lögbundnu lágmarki.515

Sparisjóðurinn afhenti Fjármálaeftirlitinu greinargerð, sbr. 3. mgr. 86. gr. laga nr. 161/2002, um aðgerðir til lausnar á eiginfjárvanda 29. október 2008. Þar var gert ráð fyrir að auka þyrfti eiginfjárgrunn sparisjóðsins um að minnsta kosti 20 milljarða króna og lækka áhættugrunninn um að minnsta kosti 66 milljarða króna frá síðustu eiginfjárskýrslu til þess að eiginfjárhlutfallið yrði viðunandi. Lækkun áhættugrunns byggðist meðal annars á fyrirhugaðri sölu íbúðalána og afskriftum útlána. Hugmyndir um aukningu eigin fjár voru settar fram í fimm liðum:

  1. Víkjandi lánum hjá Nýja Kaupþingi banka hf. yrði breytt í hlutafé, samtals um 6,5–8,7 milljarðar króna.516

  2. Eiginfjárframlag frá ríkissjóði, samtals um 2,7–5,5 milljarðar króna.517

  3. Kannaðir yrðu möguleikar á sameiningu við smærri fjármálafyrirtæki, en með slíkri sameiningu gæti eiginfjárgrunnurinn mögulega aukist um 5–9 milljarða króna.

  4. Samið yrði við erlenda lánardrottna um 20% niðurfellingu á lánum gegn tryggingu í eignasafni eða um breytingu á 30% lána í forgangshlutabréf (e. preference shares), samtals um 10–15 milljarðar króna.

  5. Leitað yrði nýs hlutafjár, samtals 2–3 milljarðar króna.518

Til viðbótar við áðurnefnt reikningsuppgjör og greinargerð hafði Fjármálaeftirlitið að auki fengið send ýmis viðbótargögn og upplýsingar með tölvupóstum til að meta stöðu sjóðsins. Að auki var eftirlitinu tilkynnt um 10 milljarða króna ófærðan gengishagnað í október sem ekki var tekið tillit til í uppgjörinu.519

Fjármálaeftirlitið veitti sparisjóðnum fjögurra vikna frest 30. október 2008 til að auka eiginfjárgrunninn að lögbundnu lágmarki.520 Samhliða því skipaði Fjármálaeftirlitið ­Jóhann Pétursson hdl. sem sérfræðing til að hafa sértækt eftirlit með rekstri sparisjóðsins samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi nr. 87/1998. Hann skilaði vikulegum skýrslum til Fjármálaeftirlitsins um málefni sem rædd voru á fundum stjórnenda sparisjóðsins.521

Seðlabankanum var tilkynnt um veittan frest og kynntar sviðsmyndir um möguleg áhrif hugmynda forsvarsmanna sparisjóðsins um lausnir á eiginfjárvanda hans með ákveðnum breytingum Fjármálaeftirlitsins. Þær tóku meðal annars tillit til áhrifa gengishagnaðar í október, þeim möguleika að breyta fleiri víkjandi lánum í hlutafé, auk þess sem gert var ráð fyrir að það sem afskrifað hafði verið í uppgjöri vegna lánveitingar til Exista hf. fengist mögulega greitt að hluta. Þar sem Íbúðalánasjóður hafði staðfest að fyrir lægju drög að samningi um kaup á íbúðalánum af sparisjóðnum upp á um 20 milljarða króna var áhættugrunnur sparisjóðsins lækkaður um þá fjárhæð. Miðað við þessar forsendur gæti eiginfjárhlutfallið orðið á bilinu 4,4–8,0%. Væri gert ráð fyrir frekari aðgerðum, meðal annars því að viðræður um kaup Íbúðalánasjóðs á húsnæðislánasafni í erlendri mynt gengju eftir, niðurfellingu erlendra skulda sparisjóðsins og eiginfjárframlagi ríkissjóðs, gæti eiginfjárhlutfall sparisjóðsins orðið á bilinu 18,1–28,2%.522

17.8.1 Upphaf viðræðna við erlenda lánardrottna

Áætlanir sparisjóðsins gerðu ráð fyrir að minnsta kosti 10 milljarða króna aukningu eigin fjár vegna endursamninga við lánveitendur sem veitt höfðu lán í erlendum myntum en heildarskuldir sparisjóðsins við þá námu 555 milljónum evra samkvæmt uppgjörinu sem afhent var Fjármálaeftirlitinu 27. október 2008. Samtals voru þessir lánveitendur um 30 talsins.

Bankastjóri Nýja Kaupþings banka hf. staðfesti með yfirlýsingu 3. nóvember 2008 vilja bankans til að breyta 42 milljóna evra víkjandi láni í hlutafé í sparisjóðnum. Eftir stóðu því erlend lán upp á 513 milljónir evra sem fyrir lá að semja þyrfti um.

Sama dag áttu forsvarsmenn sparisjóðsins fyrsta formlega fundinn með nokkrum af stærri erlendu lánardrottnum sjóðsins vegna endurskipulagningar hans. Þar var staða sjóðsins kynnt og þeim gert tilboð um endursamninga.523 Tilboðið fól í sér:

  1. Afskriftir krafna;

  2. 20% afskriftir og greiðsla á 80% af kröfum með yfirtöku á safni útlána í erlendum myntum. Endurheimtur lánardrottna yrðu í formi sjóðstreymis af útlánum út lánstíma þeirra en lánin yrðu áfram í umsjón sparisjóðsins;

  3. 70% afskriftir krafna og peningagreiðslu sem næmi 30% af kröfum; eða

  4. kröfum yrði breytt í hlutafé í sparisjóðnum.

Tækju lánardrottnar yfir hluta af lánasafni sparisjóðsins var áætlað að upplausnarverðmæti þess yrði um 45%, enda þótt óvissa ríkti um endurheimtur vegna efnahagsaðstæðna.524 Vænt endurheimtuhlutfall var talið um 36% með þessari leið en gegn 70% afskriftum fengju lánardrottnar 30% krafna sinna greidd í reiðufé innan tveggja vikna.

Óskað var eftir að innheimtuaðgerðum yrði frestað um fjórar vikur, að viðbrögð við tilboðum fengjust eigi síðar en 10. nóvember 2008 og að samningar yrðu undirritaðir í síðasta lagi 17. sama mánaðar. Næðist ekki samkomulag um neitt af ofangreindu yrði sjóðurinn líklega yfirtekinn af Fjármálaeftirlitinu og meðhöndlaður á sama hátt og viðskiptabankarnir þrír. Útskýrt var að með nýlega samþykktum lögum nr. 125/2008 hefðu innistæður í fjármálastofnunum verið gerðar að forgangskröfum.525

Í kjölfar þessa fundar var Deloitte hf. fengið til að meta eignir sparisjóðsins og var matið byggt á uppgjöri sparisjóðsins 30. september 2008 sem sent var Fjármálaeftirlitinu 27. október sama ár. Virðisrýrnun til viðbótar við þá 14 milljarða króna sem gert var ráð fyrir í uppgjörinu var samkvæmt matinu talin nema um 51 milljarði króna eða 26% af bókfærðu virði útlánasafnsins, og var upplausnarverðmæti þess talið minna en 50% af bókfærðu verði.526

Mat Deloitte hf. var sent lánardrottnum 14. nóvember 2008 og þeim boðin greiðsla með tilteknu útlánasafni Frjálsa fjárfestingarbankans hf. í erlendum myntum.527 Með matinu fylgdi opinbert reikningsuppgjör fyrir tímabilið 1. janúar til 30. september 2008 ásamt skýrslu endurskoðanda. Uppgjörið sýndi eigið fé í lok tímabilsins upp á 10,4 milljarða króna og eiginfjárhlutfallið 10,1%. Í skýringum með uppgjörinu var athugasemd um að vegna atburða sem áttu sér stað eftir uppgjörsdagsetningu mætti gera ráð fyrir mikilli virðisrýrnun eignasafns.528

Nokkur samskipti áttu sér stað við erlenda lánardrottna í kjölfar sendingar þessara gagna og tóku þeir misvel í tillögurnar. Sumir, þar á meðal Bayerische Landesbank, vildu fremur ræða við stjórnvöld en sparisjóðinn og jafnvel að málin yrðu skoðuð í heild gagnvart íslenskum lánafyrirtækjum með aðkomu ríkisstjórnarinnar. Forsvarsmenn sparisjóðsins gerðu lánardrottnunum grein fyrir því að málefni sjóðsins væru aðskilin málefnum annarra banka.529

Erlendir lánardrottnar sjóðsins komu fram með nýjar hugmyndir 20. nóvember 2008 sem fólu í sér blandaðar leiðir; að 25% krafna yrði breytt í hlutafé; að 5% krafna yrði breytt í víkjandi lán; að 10% krafna yrðu greiddar með peningum og 60% krafna yrði annaðhvort skilmálabreytt með frestun gjalddaga um 24 mánuði og breytingum milli mynta eða yrðu greiddar með yfirtöku á útlánasafni í erlendum myntum. Tafla 46 sýnir áhrif þessara hugmynda á eigið fé sjóðsins. Hér var miðað við að eigin fé væri neikvætt um 19,9 milljarða króna í samræmi við upplýsingar sem áður höfðu verið sendar erlendum lánardrottnum.530

Í þessum útreikningum var gert ráð fyrir hærri áhættugrunni en í sviðsmyndum Fjármálaeftirlitsins, sem fram koma í töflu 45, því ekki var tekið tillit til fyrirhugaðrar sölu íbúðalána til Íbúðalánasjóðs og gengi krónunnar gagnvart evru var metið lægra en það var skráð á þessum tíma.531

Fyrsti formlegi fundur forsvarsmanna sparisjóðsins sem öllum erlendum lánardrottnum var boðið á var haldinn í London 24. nóvember 2008. Þar var gerð grein fyrir helstu hugmyndum um fjárhagslega endurskipulagningu og mati Deloitte á eignum sparisjóðsins. Lánardrottnar töldu vanta skýrari svör frá íslenskum stjórnvöldum um aðkomu þeirra að málinu og ákváðu að setja saman stýrinefnd sem sæi um samskipti og úrvinnslu á tillögum fyrir þeirra hönd.532

Í kjölfar fundarins kom tillaga frá nokkrum lánardrottnum um greiðslu á helmingi krafnanna og að helmingi yrði breytt í hlutafé. Af hálfu sparisjóðsins var þetta ekki talin ásættanleg lausn þar sem hún myndi nær þurrka út „handbærar eignir“ sjóðsins og koma honum auk þess í eigu erlendra lánardrottna. Sá sérfræðingur sem Fjármálaeftirlitið hafði skipað til að hafa sértækt eftirlit með sparisjóðnum taldi þessa leið geta teflt hagsmunum ríkisins í hættu vegna ríkisábyrgðar á innlánum ef miklar eignir væru farnar út og eftir stæði ábyrgðin ein.533

Hinn 28. nóvember 2008 framlengdi Fjármálaeftirlitið frest sparisjóðsins til að finna lausn á eiginfjárvanda hans til 18. desember 2008. Fjármálaeftirlitið hafði þá verið upplýst um að viðræðum við erlenda lánardrottna miðaði vel og að þeir hefðu samþykkt að gjaldfella ekki lán á meðan samningaviðræður stæðu yfir.

Fundur með erlendum lánardrottnum og fulltrúum íslenska ríkisins var haldinn á Íslandi 4. desember 2008. Fulltrúi fjármálaráðuneytis og Seðlabanka var Jóhannes Karl Sveinsson hrl. sem hafði verið ráðinn fulltrúi stjórnvalda í viðræðum sjóðsins við erlenda lánardrottna. Fulltrúar Fjármálaeftirlitsins voru Ragnar Hafliðason, aðstoðarforstjóri eftirlitsins, og Rúnar Guðmundsson sviðsstjóri. Á fundinum var rædd aðkoma ríkissjóðs og Seðlabanka Íslands að fjárhagslegri endurskipulagningu sparisjóðsins. Erlendir lánardrottnar gerðu athugasemd við stuttan frest sem Fjármálaeftirlitið hafði veitt sparisjóðnum til að uppfylla eiginfjárskilyrði og vörpuðu því fram hvort eðlilegt væri að kröfur Seðlabanka Íslands hefðu forgang umfram þeirra.534 Enn fremur töldu þeir að hlutafé þáverandi hluthafa sparisjóðsins ætti að þurrkast út.

Ákveðið var að nefnd lánardrottna myndi útbúa yfirlýsingu (e. memorandum of understanding) fyrir sparisjóðinn sem gæti nýst til að fá frekari frest hjá Fjármálaeftirlitinu en frestur hafði verið veittur til 18. desember 2008. Í vinnslu var einnig formlegur kyrrstöðusamningur (e. standstill agreement) við lánardrottna sem gert var ráð fyrir að myndi liggja fyrir eigi síðar en 18. desember 2008.535

Í minnisblaði vegna fundarins sem Jóhannes Karl Sveinsson hrl. sendi 8. desember 2008 til Seðlabanka, Fjármálaeftirlits, fjármála-, forsætis-, viðskipta- og utanríkisráðuneytis kom fram að árangur endurskipulagningar sparisjóðsins væri háður þátttöku stjórnvalda og að ætlast væri til eftirfarandi af þeirra hálfu:

  1. Ríkissjóður legði til framlag sem næmi 20% af eiginfjárgrunni sparisjóðsins536 og að víkjandi láni hjá Nýja Kaupþingi banka yrði breytt í hlutafé eða heimild veitt til skuldajöfnuðar á milli Nýja Kaupþings og sparisjóðsins vegna sömu kröfu;

  2. Seðlabanki Íslands útvegaði sparisjóðnum evrur til að standa skil á þeim hluta sem staðgreiða þyrfti lánardrottnum og tæki til athugunar að sitja við sama borð og aðrir kröfuhafar;

  3. Íbúðalánasjóður keypti söfn útlána í erlendum myntum með veði í íbúðahúsnæði;

  4. Fjármálaeftirlitið veitti lengri fresti til að vinna að lausn og samþykkti breytingu Nýja Kaupþings á víkjandi láni í hlutafé.

Í desember 2008 veitti Seðlabanki Íslands vilyrði fyrir því að afskrifa hluta af kröfum sínum á Sparisjóðabanka Íslands hf., á móti afskriftum erlendra lánardrottna, og einnig að breyta hluta af kröfum í hlutafé.537 Sparisjóðnum hafði verið veittur frestur til 18. desember 2008 til að uppfylla eiginfjárskilyrði. Sá frestur var síðan framlengdur 16. desember 2008 til 28. febrúar 2009, að því gefnu að gengið yrði frá kyrrstöðusamningi við erlenda lánardrottna. Drög að slíkum samningi lágu þá þegar fyrir. Lánardrottnar Sparisjóðabanka Íslands hf. og Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. voru að miklu leyti þeir sömu og stýrinefndir lánardrottnanna að mestu skipaðar sömu aðilum. Fram kemur í tölvupósti Jóhannesar Karls til Þórhalls Arasonar, skrifstofustjóra í fjármálaráðuneytinu, 6. janúar 2009, að kröfuhafar hefðu væntingar um frekari aðkomu ríkisins í málum sparisjóðsins, Sparisjóðabankans og vegna uppgjörs viðskiptabankanna þriggja.538

17.8.2 Stefnubreyting í viðræðum sparisjóðsins við lánardrottna

Áfram var unnið að endurskipulagningu fjárhags sparisjóðsins og á fundi með lánardrottnum í London 13. janúar 2009 var kynnt ný hugmynd að samningum eftir forskrift endurskoðenda sparisjóðsins, KMPG hf. Hún fólst í að breyta skilmálum lána til sparisjóðsins með lengingu lánstíma og vaxtalækkunum.539 Ákveðin stefnubreyting varð við það í viðræðum sparisjóðsins við erlenda lánardrottna þegar hugmyndir um að nýta tekjufærslu af núvirðingu á lánum vegna skilmálabreytinga til hækkunar á eigin fé sparisjóðsins komu upp. Núvirðing lánanna á grundvelli breyttra skilmála myndi leiða til tekjufærslu í bókhaldi sjóðsins sem kæmi strax til hækkunar á eigin fé.

Sérfræðingur skipaður af Fjármálaeftirlitinu var viðstaddur fundinn og sendi upplýsingar um þessa nýju hugmynd daginn eftir fundinn. Í skýrslu sérfræðingsins kom fram að aðkoma ríkisins hefði verið rædd á fundinum og töldu forsvarsmenn sparisjóðsins að hún yrði jafnvel óþörf með þessari nýju leið en erlendu lánardrottnunum hugnaðist það þó ekki.540 Fulltrúi stjórnvalda í viðræðum sparisjóðsins við erlenda lánardrottna gerði starfshópi um málefni smærri fjármálafyrirtækja grein fyrir þessari leið með tölvupósti 6. febrúar 2009541 og forsvarsmenn sparisjóðsins kynntu sömu tillögu á fundi í fjármálaráðuneytinu 16. febrúar 2009.542 Í greinargerð um lánalengingarleiðina sem KPMG hf. vann fyrir sparisjóðinn í samstarfi við alþjóðadeild KPMG í London kom fram að samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastöðlum (IFRS) bæri sparisjóðnum, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, að færa í rekstrarreikning lækkun eða hækkun á núvirði lánanna vegna umtalsverðra skilmálabreytinga.543 Álit KPMG var afhent Fjármálaeftirlitinu 18. febrúar 2009.544

Fram kom hjá Guðmundi Haukssyni, forstjóra sparisjóðsins, að á fundi með stjórnvöldum hefði komið fram að samkvæmt ábendingu KPMG samræmdist það alþjóðlegum reikningsskilavenjum að líta á slíka lánalengingu sem ígildi eigin fjár. Meðal þeirra sem sátu þann fund var Stefán Svavarsson frá Seðlabankanum sem hafði sérþekkingu á þessu sviði. Að sögn Guðmundar kom Stefán daginn eftir á fund hjá sparisjóðnum til að kynna sér málið frekar. Að fundinum loknum hefði Stefán lýst því yfir að hann teldi að lánalengingarleiðin samræmdist alþjóðlegum reikningsskilareglum þótt hann teldi persónulega að það væri ekki æskileg leið. Til þess að fá úr því skorið hvort svo væri hefði verið óskað eftir áðurnefndri greinargerð frá KPMG hf.545

Á fundinum 13. janúar ákváðu erlendu lánardrottnarnir að endurskoðunarfyrirtækið Ernst & Young í London yrði ráðið til að yfirfara fjárhagsgögn sparisjóðsins og framkvæma áreiðanleikakönnun fyrir þá.546 Frumniðurstöður áreiðanleikakönnunar fyrirtækisins voru kynntar á fundi með lánardrottnum í London 12. febrúar 2009. Samkvæmt þeim var virðisrýrnun útlána í árslok 2008 talin nema um 54 milljörðum króna.547 Áætlað var að virðisrýrnun útlána næmi 61,5 milljörðum króna í árslok 2009 og 72 milljörðum króna í árslok 2010.548 Á meðan beðið var endanlegrar niðurstöðu Ernst & Young, sem lánardrottnar vildu að lægju fyrir áður en þeir tækju afstöðu til endursamninga, framlengdi Fjármálaeftirlitið frest sparisjóðsins til að uppfylla eiginfjárkröfur til 30. apríl 2009 á grundvelli viljayfirlýsingar erlendra lánardrottna (e. memorandum of understanding).549 Þeirri yfirlýsingu fylgdi ítarleg tímaáætlun um næstu skref þar sem gert var ráð fyrir að fjárhagslegri endurskipulagningu yrði lokið fyrir 29. apríl 2009. Í ljósi þessa taldi forstjóri sparisjóðsins að á þessum tímapunkti væri búið að finna flöt á því hvernig ætti að leysa úr vanda sparisjóðsins.550

17.8.3 Ósk um endurskipulagningu skulda við Seðlabanka Íslands

Í byrjun febrúar 2009 óskaði sparisjóðurinn eftir að semja um lengri endurgreiðslutíma á skuld sinni við Seðlabankann, í allt að 10 ár og á lægri vöxtum.551 Þetta var ein forsenda þess að áætlanir sjóðsins í tengslum við fjárhagslega endurskipulagningu og fyrirhugaðir samningar við lánardrottna gengju upp.552 Þá upplýsti Jóhannes Karl Sveinsson hrl. starfshóp um málefni smærri fjármálafyrirtækja 11. febrúar um tillögurnar sem fólu annars vegar í sér eingreiðslu og tiltekna afskrift eða lánalengingu hins vegar. Samhliða þessu þyrfti sparisjóðurinn að biðla til Seðlabankans og „hafa stjórnvöld með í ráðum og svör á reiðum höndum um afstöðu þeirra“.553

Í minnisblaði Seðlabankans 11. febrúar 2009 kom fram að engar skuldir sparisjóðsins við Seðlabankann hefðu verið fluttar til ríkisins samhliða flutningi á skuldum annarra fjármálafyrirtækja í samræmi við heimild í fjáraukalögum 2008.554 Ástæðan fyrir því hefði verið sú „annars vegar að ekkert af skuldum SPRON [hefði verið] metið óvarið og hins vegar að [SPRON væri] ekki með í þeim hópi (Straumur, VBS, Saga og Askar) þar sem allar skuldir [hefðu verið] teknar yfir af ríkinu, líka það sem var skilgreint sem varið. Eftir í Seðlabankanum [urðu] eingöngu kröfur tryggðar með ríkisbréfum og bréfum Íbúðalánasjóðs. SPRON [gengi] núna í gegnum endurskipulagningu rekstrar og [væri] í samræðum við kröfuhafa. Það [væri] eðlilegt að fjármálaráðuneytið fyrir hönd ríkissjóðs [ræddi] við SPRON um endurskipulagningu skulda sem nú [væru] við Seðlabankann líkt og samið [hefði] verið við önnur fjármálafyrirtæki“.555 Bent var á að fjármálaráðuneytið hefði meira svigrúm en Seðlabankinn til að standa í slíkum viðræðum og að framtíð sparisjóðsins yrði ákveðin í ráðuneytinu. Fjármálaráðuneytið hafði tekið yfir skuldir fyrirtækja sem væri með einum eða öðrum hætti afleiðing atburðarrásar síðustu mánaða og því hafði Seðlabankinn getað snúið sér að hefðbundinni bankastarfsemi. Ef Seðlabankinn myndi semja við sparisjóðinn samkvæmt beiðni hans væri það utan gildandi reglna um viðskipti bankans við fjármálafyrirtæki.556

Af minnisblaðinu má ráða að Seðlabankinn hafi talið það á ábyrgð fjármálaráðuneytisins, fyrir hönd ríkissjóðs, að taka ákvarðanir um og gera samninga við sparisjóðinn líkt og gert hafi verið í tilfellum annarra fjármálafyrirtækja með yfirfærslu á kröfum frá Seðlabankanum til fjármálaráðuneytisins. Gerður Ísberg sendi minnisblaðið sem samið var af henni og Perlu Ösp Ásgeirsdóttur til Tryggva Pálssonar með tölvupósti 18. febrúar 2009. Þar segir: „Ég ræddi aðeins við Sturlu [Pálsson, framkvæmdastjóra alþjóða- og markaðssviðs Seðlabanka Íslands] og almennt er afstaða okkar að þar sem önnur fjármálafyrirtæki hafa tekið sína samninga í gegnum fjármálaráðuneytið eigi það að gilda um SPRON einnig og ekki síður.“557

Sturla Pálsson, framkvæmdastjóri alþjóða- og markaðssviðs Seðlabanka Íslands, tjáði rannsóknarnefndinni að þar væri væntanlega verið að vísa til þess að það væri skylda Seðlabankans að veita lausafjárfyrirgreiðslu sem í eðli sínum væri skammtímafjármögnun og að bankinn hefði ekki talið sér heimilt að breyta þeim skuldum í langtímalán. Það væri ekki hlutverk Seðlabankans, en vildu menn fara þá leið yrði sú fjármögnun að koma úr ríkissjóði. Það hefði ekki rúmast innan lögbundins hlutverks Seðlabankans.558

Þegar halda átti fund starfshóps um málefni smærri fjármálafyrirtækja þar sem meðal annars átti að fjalla um beiðni sparisjóðsins um skuldbreytingu, boðaði skrifstofustjóri fjármálaráðuneytisins forföll en taldi það ekki koma að sök þar sem Seðlabankanum hefði verið falin umsýsla kröfunnar fyrir hönd ráðuneytisins.559 Svo virðist sem á þessum tíma hafi ekki verið skýrt hvort Seðlabankanum eða fjármálaráðuneytinu hafi borið að taka ákvörðun um beiðni sparisjóðsins um lengingu á endurgreiðslutíma skulda hans við Seðlabankann. Fram kom í máli Tryggva Pálssonar, framkvæmdastjóra fjármálasviðs Seðlabanka Íslands, fyrir rannsóknarnefndinni, að af þessum samskiptum að dæma hefði þetta verið heit kartafla sem hvorki Seðlabankinn né ráðuneytið hefði viljað bera ábyrgð á.560

Seðlabankinn upplýsti forsætis-, fjármála-, viðskipta-, og félagsmálaráðherra 24. febrúar 2009 um að tveir sparisjóðir hefðu sótt um að skuldbreyta veð- og daglánum hjá Seðlabankanum. Beiðnir sparisjóðanna tækju mið af fyrirgreiðslum sem nokkrum fyrirtækjum voru boðnar í kjölfar yfirfærslu á kröfum frá Seðlabankanum til fjármálaráðuneytisins í árslok 2008. Seðlabankinn taldi það ekki vera hlutverk sitt að sjá fjármálafyrirtækjum fyrir langtímafjármagni enda væri ekki gert ráð fyrir slíkri fyrirgreiðslu í lögum um Seðlabankann. Þá væri ekki heppilegt að Seðlabankinn ætti veð í íbúðalánum og því brýnt að ná lendingu í viðræðum fjármálastofnana við Íbúðalánasjóð um kaup á fasteignaveðbréfum. Að öðrum kosti gæti komið til þess að ríkissjóður þyrfti að yfirtaka tryggingar þessara tveggja sparisjóða gegn langtímafyrirgreiðslu með sama hætti og gert var með aðrar kröfur Seðlabankans áramótin 2008/2009. Lausafjárþröng umræddra sparisjóða gerði það að verkum að brýnt væri að finna lausn sem allra fyrst.561

17.8.4 Stjórnvöld leggja mat á stöðuna

Á meðan Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis hf. vann að undirbúningi samkomulags um fjárhagslega endurskipulagningu sparisjóðsins unnu stjórnvöld að því að leggja mat á stöðu sparisjóðsins, sem og fjármálakerfisins alls.

Í minnisblaði, dagsettu 4. mars 2009, sem tekið var saman af Tómasi Brynjólfssyni, sérfræðingi á efnahags- og alþjóðafjármálaskrifstofu forsætisráðuneytis, var fjallað um mat á sjálfbærni skulda þjóðarbúsins (e. debt sustainability analysis) í kjölfar fundar stjórnvalda með fulltrúum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Þar kom fram að hlutfall erlendra skulda af landsframleiðslu væri eitt það hæsta sem vitað væri um. Þrátt fyrir að skuldirnar væru jafn háar og raun bæri vitni teldi Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn að þær væru sjálfbærar. Hins vegar mætti lítið út af bera ef skuldirnar ættu ekki að verða hagkerfinu ofviða. Það staðfesti nauðsyn þess að bæta hratt skuldastöðu ríkissjóðs, koma bankakerfinu aftur á réttan kjöl og ljúka samningum við erlenda lánardrottna innan þess ramma sem tryggja myndi sjálfbærni skuldanna. Í niðurlagi minnisblaðsins, þar sem fjallað er um endurgreiðslubyrði fram til 2014, kemur fram að gjaldþrot Sparisjóðabankans og Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. myndu létta endurgreiðslubyrði hagkerfisins verulega.562 Fram kom í skýrslu Tómasar hjá rannsóknarnefndinni að minnisblaðið hefði verið samantekt kynningar á útreikningum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.563

Aðspurður hvort stefnubreyting hefði orðið við komu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sagði Sturla Pálsson, framkvæmdastjóri alþjóða- og markaðssviðs Seðlabanka Íslands, fyrir rannsóknarnefndinni: „Nei, ég held að þetta hafi smám saman verið að seytlast inn, það var allt í hers höndum þarna til áramóta. Svo eru settar á stofn þessar skilanefndir og hinir bankarnir fara í einhvern farveg. Þá kemur þetta mál og bankar á dyrnar og menn átta sig á því með viðræðum við bankana sjálfa, við kröfuhafa og aðra aðila að það er ekki möguleiki á að bjarga þessum stofnunum og það verði að búa til áætlun.“564 Aðspurður hvort Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefði talið heppilegast að sparisjóðurinn og Sparisjóðabankinn „færu út af borðinu“ sagði Sturla: „Það var algerlega minn skilningur að það væri þeirra mat að við ættum að loka þessu. […] Staða þessara stofnana væri bara þannig að það væri ekki hægt að réttlæta það að halda þeim opnum. Það var minn skilningur á þeirra afstöðu.“565 Í skýrslu Gunnars Haraldssonar stjórnarformanns Fjármálaeftirlitsins fyrir rannsóknarnefndinni kom fram að sparisjóðirnir hefðu verið í miklum vandræðum, þeir hefðu verið búnir að vera á undanþágum lengi og virtust ekki finna leiðir sem gætu leyst vanda þeirra. Það hefði verið hættulegt ástand fyrir fjármálakerfið í heild og auðvitað þyrfti þá að hugsa um almannaheill.566

Á fundi sérstakrar nefndar um endurskipulagningu bankakerfisins567 4. mars 2009 var meðal annars fjallað um málefni sparisjóðanna. Á fundinum voru einnig viðstaddir Mark Flanagan og Luis Cortavarria, fulltrúar frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem þá voru staddir á Íslandi í tengslum við fyrstu endurskoðun á efnahagsáætlun íslenskra stjórnvalda. Af gögnum má sjá að ákvarðanir í málefnum sparisjóðsins hafa að einhverju leyti verið bornar undir fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.568 Í fundarpunktum nefndarinnar kom fram að fulltrúarnir hefðu meðal annars lagt áherslu á að allri endurskipulagningu bankakerfisins yrði hraðað. Verulegt skuldaþolsvandmál væri hjá ríkissjóði og ekki yrði um frekari skuldbindingar ríkissjóðs að ræða vegna fjármálafyrirtækja. Einnig kom fram að nýráðinn seðlabankastjóri, Svein Harald Øygard, hefði boðið að Seðlabankinn tæki að sér að leiða vinnu við aðgerðaáætlun í málefnum sparisjóðanna og Sparisjóðabanka Íslands hf.569

Af gögnum frá Seðlabanka Íslands má sjá að vinna við aðgerðaáætlun var hafin strax í kjölfar þessa fundar. Um var að ræða samstarfsverkefni Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans. Í drögum að vinnuskjali vegna aðgerðaáætlana, „Fall og endurskipulagning minni fjármálafyrirtækja í mars 2009“, frá 7. mars 2009 er fjallað um Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis hf. sem og aðra sparisjóði og fjármálastofnanir. Þar kemur fram að í lok fimmtudagsins 5. mars 2009 hafi laust fé sjóðsins verið uppurið en vegna sérstakra aðgerða Seðlabankans (daglána) hafi sjóðurinn fengið laust fé. Aðgerðir Seðlabankans fólust í því að hækka veðsetningarhlutfall órafrænna fasteignatryggðra skuldabréfa hjá Seðlabanka Íslands. Við þetta fékk sparisjóðurinn viðbótarfyrirgreiðslu upp á rúma 1,3 milljarða króna. Um bráðabirgðalausn var að ræða og þótti fyrirsjáanlegt að sjóðurinn myndi standa frammi fyrir lausafjárþurrð innan skamms að öðru óbreyttu.570 Fyrirsjáanlegt væri að í kjölfar lausafjárþurrðar sparisjóðsins myndi stór hluti sparisjóðakerfisins riða til falls vegna innlánaflótta. Sparisjóðabankinn myndi falla í kjölfarið og draga með sér veikustu sparisjóðina og að önnur fjármálafyrirtæki gætu fylgt í kjölfarið. Í vinnuskjalinu var lagt til að nokkrum fjármálafyrirtækjum yrði lokað á næstu sólarhringum og innlán viðskiptavina þeirra færð í örugga höfn. Þeirra á meðal var Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis hf.

Í máli Sturlu Pálssonar, framkvæmdastjóra alþjóða- og markaðssviðs Seðlabankans, fyrir rannsóknarnefndinni kom fram „að áður en þessi plön eru færð í letur eru menn búnir að ræða saman í nokkra daga eða vikur um að staðan sé vonlaus. Það þurfi að gera þetta þannig að öllu sé haldið rétt til haga og það sé réttur rökstuðningur að lagalega stöndum við í báða fætur því þarna eru miklir hagsmunir og margir kröfuhafar sem kynnu að hjóla í okkur sem einhverja gerendur af því að eignir þeirra eru minna virði en ella, þó í okkar huga væri alveg ljóst að það vorum ekki við sem settum SPRON á hausinn, heldur þeir sjálfir sem sáu um það. Við reyndum hins vegar að bjarga þeim, en því miður hefur umræðan um þetta hrun verið svolítið þannig að það er reynt að skella skuldinni á slökkviliðið“.571 Fram kom í máli Tryggva Pálssonar, framkvæmdastjóra fjármálasviðs Seðlabankans, fyrir rannsóknarnefndinni að þarna hefðu þeir verið að undirbúa mögulega aðgerðaáætlun. Þetta hefði ekki verið ákvörðun um að fara í þær aðgerðir.572

Gunnar Haraldsson, stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins, sagði í viðtali við rannsóknarnefndina að engin tiltrú hefði verið á íslensku fjármálakerfi á þessum tíma og allt hefði stefnt í að þessi fjármálafyrirtæki myndu ekki finna leiðir. Þarna hefði það verið ljóst og það væri það sem lægi að baki því að svona aðgerðaáætlun var búin til. Reynt hefði verið að hafa einhvers konar áætlun í gangi sem hægt væri að miða við í þeirri vinnu sem öllum hefði verið ljóst að væri fram undan. Lítið væri annað um það að segja en að það væri dæmi um góð vinnubrögð að reyna að setja upp einhvers konar aðgerðaáætlun.573 Í sama streng tók Ragnar Hafliðason, settur forstjóri Fjármálaeftirlitsins, fyrir rannsóknarnefndinni. Þetta hefði verið hluti af viðlagaundirbúningi og að hann hefði ekki litið svo á að þetta hefði verið ákveðið. Þegar bent var á að unnið hefði verið eftir áætluninni að einhverju leyti sagði Ragnar: „Varðandi SPRON, og reyndar Sparisjóðabankann, þá var ekkert annað að gera. Það var alveg ljóst að kröfuhafar myndu ekki koma með nýtt eigið fé til að reisa við sjóðinn. Það lá alveg fyrir og okkar hlutverk í Fjármálaeftirlitinu var ekkert annað en að taka þessa ákvörðun um að taka yfir vald stofnfjáreigendafundar og ráðstafa innlánum og eignum.“574

Strax daginn eftir, sunnudaginn 8. mars, voru forstjóri og stjórnarformaður Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. kallaðir til fundar í Fjármálaeftirlitinu. Fram kom hjá Guðmundi Haukssyni, forstjóra sparisjóðsins, að þar hefði seðlabankastjóri gert þeim grein fyrir að Seðlabankinn gæti ekki átt frekari viðskipti við sparisjóðinn þar sem tryggingar sparisjóðsins fyrir dag- og veðlánum væru ekki nægar:

Þegar við vorum kallaðir þarna inn, þá sagði hann [Svein Harald Øygard] okkur að annað fjármálafyrirtæki myndi falla þarna um kvöldið og að þeir hefðu miklar áhyggjur af því að það myndi orsaka hrun á SPRON daginn eftir. Þannig að þeir vildu bara fella okkur í leiðinni, Sparisjóðabankann líka. Ég varð óskaplega reiður á þessum fundi því þetta voru alveg nýjar fréttir fyrir mér. Að skella þessu svona fram þegar við töldum okkur vera að ná landi með lausnir á erfiðleikum SPRON. Staðan gagnvart Seðlabankanum hafði ekkert versnað eins og þið sjáið og því engin ástæða fyrir þá að tala svona. Ég áttaði mig bara ekki á því hvað þeir voru að fara og sagði að við skyldum senda yfirlit yfir skuldabréf í nótt, sem [Seðlabankinn] gæti fengið til tryggingar útlánum hans. Við fengum frest til morguns til þess og þá var hætt við að fella okkur og Sparisjóðabankann, en þeir felldu Straum-Burðarás. En allt að einu, virtist vera búið að taka ákvörðun um endalok SPRON.575

Svipuð sjónarmið komu fram í skýrslu Erlendar Hjaltasonar, stjórnarformanns sparisjóðsins, fyrir rannsóknarnefnd Alþingis, en þar kom einnig fram að hann teldi Seðlabankann hafa stjórnað þessum fundi; Sturla Pálsson, framkvæmdastjóri alþjóða- og markaðssviðs Seðlabankans, hefði tekið fundinn yfir um leið og hann byrjaði.576 Greina hefði mátt viðhorfsbreytingu hjá stjórnvöldum á þessum tíma. Fyrstu samskipti við Fjármálaeftirlitið hefðu verið þess eðlis að menn vildu reyna að láta þetta lifa eins og hægt væri, finna allar leiðir til þess. Erlendur taldi að ákvörðun stjórnvalda um að sparisjóðurinn yrði tekinn yfir hefði legið fyrir 8. mars 2008 þegar hann og Guðmundur Örn voru kallaðir á fund Fjármálaeftirlitsins.577

Í stjórnarfundargerð Fjármálaeftirlitsins sama dag kom fram að fundað hefði verið með forsvarsmönnum sparisjóðsins og hefðu þeir sagt að ekkert hefði breyst til verri vegar. Seðlabankinn væri að fara yfir þær tryggingar sem sparisjóðurinn hefði boðið, sem var 18 milljarða króna lánasafn. Jafnframt kom fram að ekki yrði aðhafst fyrr en afstaða Seðlabankans lægi fyrir.578

17.8.5 Niðurstöður áreiðanleikakönnunar Ernst & Young

Niðurstöður Ernst & Young voru kynntar á fundi 11. mars 2009. Í þeim kom fram að áætlað eigið fé í lok mars væri neikvætt um 37,4 milljarða króna. Til að 15% eiginfjárhlutfalli yrði náð þyrfti eigið fé að vera um 22,3 milljarðar króna sem hafði í för með sér aukningu um 59,7 milljarða króna.579 Á fundinum voru bornir saman kostir og gallar þeirra valmöguleika sem samningsaðilar höfðu komið sér saman um að stæðu til boða. Annars vegar var um að ræða afskriftir 50% krafna og greiðslu 30% þeirra með peningum með möguleika á 20% til viðbótar eftir átta ár, allt eftir þróun útlánasafns sem fyrirhugað var að selja til að mæta peningagreiðslum. Hins vegar var um að ræða skilmálabreytingar allra lána til sparisjóðsins (lánalengingarleið), eða skilmálabreytingar 80% þeirra og greiðslu 20% krafna með peningum.580

Fyrri kosturinn myndi hafa meiri áhrif til lækkunar eigin fjár sparisjóðsins en hinn síðari. Fyrri leiðin yrði þó varanleg en lánalengingarleið fæli í sér hærra eigið fé í upphafi en talsverða lækkun síðar vegna gjaldfærslna á endurgreiðslutíma lánanna. Ef lánalengingarleiðin væri valin væru þrír möguleikar í stöðunni:

  1. Skilmálabreyting allra lána til sparisjóðsins, auk 5,5 milljarða króna eiginfjárframlags frá ríkinu.

  2. Skilmálabreyting 80% lána til sparisjóðsins og greiðsla á 20% krafna með peningum, auk 5,5 milljarða króna eiginfjárframlags frá ríkinu.

  3. Skilmálabreyting allra lána til sparisjóðsins án framlags frá ríkinu.

Í útreikningum var miðað við að endurgreiðslutími lána yrði 15 ár. Samkvæmt þeim yrði eiginfjárhlutfallið hæst 19,1% í upphafi tímabilsins en færi ekki undir 8% lögbundið lágmark á endurgreiðslutímabilinu, væri gert ráð fyrir eiginfjárframlagi ríkisins samhliða skilmálabreytingum. Án eiginfjárframlags ríkisins dygði lánalengingarleiðin ekki til þess að eiginfjárhlutfallið héldist yfir lögbundnu lágmarki nema til ársins 2012.581

Í áætlunum Ernst & Young var gert ráð fyrir að Seðlabanki Íslands myndi breyta 47 milljarða króna kröfu582 í lán til lengri tíma með 2% verðtryggðum vöxtum, líkt og gert hafði verið fyrir önnur smærri fjármálafyrirtæki. Samþykkt þessa væri ein grundvallarforsenda þess að áætlanir gengju eftir. Aðrar forsendur væru að víkjandi lánum yrði breytt í hlutafé og að Fjármálaeftirlitið myndi viðurkenna bókhaldslega meðhöndlun á skilmálabreytingum lána til hækkunar á eigin fé.583

17.8.6 Síðustu dagar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf.

Forstjóri sparisjóðsins tilkynnti forsætis-, fjármála-, og viðskiptaráðherra bréflega 12. mars 2009 að sparisjóðurinn hygðist sækja um 20% eiginfjárframlag frá ríkissjóði.584 Sparisjóðurinn óskaði jafnframt eftir að fá sömu meðhöndlun og önnur fjármálafyrirtæki sem hefði boðist að breyta lánum sínum við Seðlabanka í langtímalán.585 Var þar vísað til þess að þeim hefði boðist sjö ára verðtryggt lán með 2% verðtryggðum vöxtum.586 Á fundi daginn eftir fékk sparisjóðurinn þau svör að aðkoma ríkissjóðs væri óheimil. Heimild ríkissjóðs í fjáraukalögum 2008 næði ekki til þeirra veða sem sparisjóðurinn hefði látið Seðlabankanum í té því meðal þeirra hefðu ekki verið ótrygg veð, það er veð í bréfum útgefnum af viðskiptabönkunum þremur.587 Í máli Guðmundar Arnar Haukssonar fyrir rannsóknarnefndinni kom fram að upphaflega hefði hugmyndin að því að óska eftir að lánum yrði breytt í langtímalán komið fram á fundi í Seðlabankanum snemma í febrúar. Á þeim fundi hefði Sturla Pálsson spurt hvers vegna sparisjóðurinn óskaði ekki eftir því að ríkissjóður lánaði honum og hefði nefnt í því sambandi skuldabréf til sjö ára á 2% vöxtum. Það hefði hins vegar ekki verið fyrr en á þessum fundi, 13. mars, sem sparisjóðnum hefði verið tjáð af Þórhalli Arasyni, skrifstofustjóra í fjármálaráðuneyti, að sú leið kæmi ekki til greina og hefði aldrei staðið sparisjóðnum til boða.

Mér fannst þetta alveg með ólíkindum […] hann var búinn að sitja fundi niðri í fjármálaráðuneyti og einnig á sameiginlegum fundum SPRON, Seðlabanka og stjórnvalda þar sem hann hafði heyrt okkur ræða þessi mál án þess að segja nokkurn skapaðan hlut um þetta. Við töldum, úr því hugmyndirnar [komu] frá Seðlabankanum og við höfðum gert grein fyrir þeim á sameiginlegum fundum með þeim og enginn gerði athugasemdir, að þetta væri raunverulegur möguleiki fyrir okkur.588

Seðlabanki Íslands og fjármálaráðuneytið sendu sameiginlegt bréf til Fjármálaeftirlitsins 12. mars 2009 vegna málefna sparisjóðsins, þar sem lýst var áhyggjum af stöðu hans.589 Þar er vísað til þess að fyrirliggjandi veð í Seðlabankanum uppfylli ekki reglur hans og að veð sem hafi verið boðin sem viðbótartryggingar geri það ekki heldur. Í viljayfirlýsingu (e. memorandum of understanding) erlendra lánardrottna sjóðsins væri eingöngu gert ráð fyrir lengdum endurgreiðslutíma lána en engum afskriftum, engri umbreytingu krafna í hlutafé eða nýjum lánveitingum. Seðlabankanum væri ekki ljóst hvernig sparisjóðurinn hygðist leysa lausafjárvanda sinn. Þá teldist Seðlabankinn lánveitandi til þrautavara og samkvæmt reglum hans hefði hann eingöngu heimild til að lána fyrirtækjum sem uppfylltu reglur um eigið fé. Í tilfelli sparisjóðsins væri bæði um að ræða eiginfjárvanda og lausafjárvanda sem væri ekki aðeins tímabundinn. Jafnframt kom fram að fjármálaráðuneytið hefði skoðað stöðu sparisjóðsins í samstarfi við Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið með tilliti til möguleika á eiginfjárframlagi frá ríkissjóði. Ein meginforsenda framlags væri að viðkomandi sparisjóður gæti lagt fram trúverðuga viðskiptaáætlun. Talsverð óvissa væri fólgin í þeim áætlunum sem sparisjóðurinn hefði kynnt og ekki væri að sjá að sparisjóðurinn gæti uppfyllt skilyrði fyrir framlaginu.590

17.8.6.1 Frestur til að skila uppfærðum áætlunum um lausn á eiginfjárvanda sparisjóðsins

Í bréfi sem Fjármálaeftirlitið sendi sparisjóðnum 12. mars 2009 var tilvísun í þau efnisatriði sem fram komu í bréfi Seðlabankans og fjármálaráðuneytisins til eftirlitsins. Sparisjóðurinn fékk sex daga frest til að leggja fram upplýsingar sem breytt gætu fjárhagslegri stöðu sjóðsins. Upplýsingarnar þyrftu að innihalda framtíðarrekstrarhorfur sparisjóðsins og uppfærðar áætlanir um lausn á eiginfjárvandanum.591 Þá gerði Fjármálaeftirlitið einnig athugasemd við lánalengingarleiðina. Það hafði ráðfært sig við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um hana og voru uppi verulegar efasemdir um að hún uppfyllti kröfur um eigið fé samkvæmt Basel-II viðmiðum.592

Hinn 13. mars 2009 sendi stýrinefnd erlendra lánardrottna sparisjóðsins bréf til Fjármálaeftirlitsins ásamt afriti á seðlabankastjóra, fjármálaráðherra og fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, þar sem lýst var furðu á viðhorfsbreytingu Fjármálaeftirlitsins til áætlana um lausn á eiginfjárvanda sparisjóðsins svo skömmu eftir að veittur var tveggja mánaða frestur til að leysa úr vandanum. Þar kom einnig fram að lánardrottnar gætu ekki brugðist við áhyggjum af lausafjárvanda sparisjóðsins. Það kæmi að mestu leyti í hlut Seðlabanka Íslands að tryggja sparisjóðnum lausafé sem væri hlutverk flestra seðlabanka í Evrópu í því efnahagsástandi sem ríkti. Lánardrottnar vonuðust hins vegar til þess að lausafjárvandi sjóðsins minnkaði samhliða þeirri endurskipulagningu sem þeir hefðu unnið að með sparisjóðnum. Í bréfinu var einnig bent á að það væri rangt að viljayfirlýsing (e. memorandum of understanding) innihéldi engar afskriftir krafna eða umbreytingu í hlutafé, líkt og Seðlabankinn hefði haldið fram í bréfi sínu til eftirlitsins 12. mars 2009.593

Fjármálaeftirlitið svaraði bréfi stýrinefndarinnar 16. mars 2009 og greindi frá því að afstaða þess hefði breyst eftir að hafa ráðfært sig við ýmsa aðila. Vísaði Fjármálaeftirlitið til þess að samkvæmt Basel-II reglum gerði varasjóður banka kleift að taka á sig tap í yfirstandandi rekstri og væri í þeim tilgangi ávallt tiltækur. Leit Fjármálaeftirlitið svo á að „gæði“ eigin fjár sem búið væri til með þessum hætti væri ekki í samræmi við Basel-II viðmiðin. Eigið fé sparisjóðsins yrði því að auka á annan hátt en með lánalengingum. Ítrekaði Fjármálaeftirlitið að ný áætlun um endurskipulagningu yrði að berast 18. mars.594

Í bréfaskiptum forstjóra sparisjóðsins við stjórnvöld næstu daga var ítrekað reynt að fá stjórnvöld til að endurskoða afstöðu sína og koma sparisjóðnum til aðstoðar. Í bréfi forstjóra sparisjóðsins til forsætis-, fjármála og viðskiptaráðherra og seðlabankastjóra 16. mars 2008 var meðal annars vísað til sameiginlegs bréfs Seðlabanka Íslands og fjármálaráðuneytis til Fjármálaeftirlitsins frá 12. mars. Ef fjármálaráðherra nýtti ekki heimildir sínar í fjáraukalögum frá desember 2008 til aðstoðar við uppgjör á skuldum sparisjóðsins við Seðlabankann og Seðlabankinn veitti ekki frekari fyrirgreiðslu til sjóðsins þá væri aðeins sú leið fær til lausnar lausafjárstöðu hans að Íbúðalánasjóður nýtti lagaheimild sína til að kaupa fasteignaveðlán af sjóðnum. Sú leið hefði verið til skoðunar hjá starfsmönnum Íbúðalánasjóðs og niðurstaða þyrfti að fást í þær viðræður hið fyrsta. Þangað til þyrfti Seðlabankinn að veita sparisjóðnum aðgang að lausu fé en að öðrum kosti væri verið að setja mikla hagsmuni í hættu að óþörfu. Vonaðist hann til að aðilar sýndu ábyrgð og skilning í málinu þar sem ekki væri um nýjar lánveitingar að ræða, sem orsakað gætu þenslu í efnahagslífinu, heldur tilfærslu á málum frá einni stofnun ríkisins til annarrar.595 Sparisjóðurinn rökstuddi lánalengingarleiðina frekar í bréfi til Fjármálaeftirlitsins 17. mars 2009 og fór fram á að það endurskoðaði afstöðu sína, en að öðrum kosti var þess óskað að Fjármálaeftirlitið myndi rökstyðja afstöðu sína með vísan til gildandi laga og reglna. Í rökstuðningi sparisjóðsins var vísað til alþjóðlegra reikningsskilastaðla (IFRS) eins og þeir hefðu verið innleiddir af Evrópusambandinu, laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, laga um ársreikninga nr. 3/2006 og Basel II-viðmiðanna.596

Í bréfi forstjóra sparisjóðsins til fjármálaráðherra 18. mars 2009 kom fram að hann hefði nýlega verið upplýstur um að embættismenn fjármálaráðuneytisins hefðu ekki verið með sparisjóði í huga þegar fjármálaráðherra var veitt heimild til að kaupa viðskiptabréf af Seðlabanka Íslands í fjáraukalögum 2008. Taldi hann að ljóst mætti vera að fjármálaráðherra hefði skýra heimild í lögum til að gera sparisjóðnum kleift að leysa úr sínum málum hjá Seðlabanka Íslands. Það kallaði ekki á frekari framlög úr ríkissjóði heldur væri einvörðungu um að ræða flutning á skuldbindingum milli Seðlabanka Íslands og ríkissjóðs. Nýtti ráðherra sér þessa heimild myndi sú ákvörðun geta reynst afgerandi um framtíð sparisjóðsins.597 Hún gæti leyst úr lausafjárstöðu hans og um leið skapað honum nauðsynlegar afkomuforsendur. Sparisjóðurinn hefði leitað aðstoðar Íbúðalánasjóðs við að leysa skuldastöðu sína hjá Seðlabankanum en betra væri ef ríkissjóður kæmi beint að málefnum sjóðsins hjá bankanum.598

Sama dag sendi forstjóri sparisjóðsins bréf til seðlabankastjóra þar sem vísað var til fundar þeirra tveimur dögum áður þar sem rædd voru málefni sparisjóðsins og skuld hans við Seðlabankann. Í ljósi þess að sparisjóðnum hefði þá nýlega verið tilkynnt að ríkissjóður myndi ekki nýta heimildir til að yfirtaka kröfur Seðlabankans á sparisjóðinn hefði sparisjóðurinn sent bréf til Íbúðalánasjóðs og óskað formlega eftir að hann keypti veðskuldabréf af sparisjóðnum. Andvirði sölunnar yrði notað til að greiða skuld sparisjóðsins hjá Seðlabankanum og til að tryggja framtíðarviðskipti í samræmi við reglur Seðlabankans.599

17.8.6.2 Lítillega breyttar tillögur lagðar fram

Fjármálaeftirlitið hafði veitt sparisjóðnum og stýrinefnd erlendra lánardrottna frest til 18. mars til að leggja fram nýjar áætlanir um lausn á eiginfjárvanda sparisjóðsins. Stýrinefnd erlendra lánardrottna sendi Fjármálaeftirlitinu bréf 18. mars 2009, með afriti til seðlabankastjóra, fjármálaráðherra og fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, þar sem viðhorfsbreytingin var enn gagnrýnd. Bent var á að fulltrúi Fjármálaeftirlitsins hefði verið viðstaddur alla fundi sparisjóðsins með erlendum lánardrottnum frá því að þessi leið hefði verið kynnt í janúar 2009 og ekkert í samskiptum við Fjármálaeftirlitið hefði gefið til kynna að von væri á slíkri viðhorfsbreytingu. Með bréfinu fylgdi skilmálaskjal (e. term sheet) þar sem nefnd lánardrottna setti fram lítillega breyttar tillögur.600 Fram kom hjá Guðmundi Haukssyni að tillaga erlendu lánardrottnanna, þar sem meðal annars var gert ráð fyrir afskriftum 21% allra lána, hefði verið „klárlega fyrsta útspil“. Þessu tilboði lánardrottnanna hefði aldrei verið svarað og aldrei látið á það reyna hversu langt þeir væru tilbúnir að ganga.601

Sama dag óskaði forstjóri sparisjóðsins eftir því við Fjármálaeftirlitið að fá frekara svigrúm til að vinna að uppbyggingu eigin fjár og uppfæra áætlanir vegna nýframkominna tillagna frá lánardrottnum. Sparisjóðurinn hefði á undanförnum dögum átt fundi með Seðlabankanum um uppgjör skulda sjóðsins við bankann eða auknar tryggingar.602 Með bréfinu fylgdi afrit af bréfi sparisjóðsins til Íbúðalánasjóðs, dagsett sama dag, þar sem óskað var eftir að Íbúðalánasjóður keypti veðskuldabréf að áætluðu bókfærðu virði um 43 milljarðar króna. Jafnframt hefði sparisjóðurinn áhuga á að selja Íbúðalánasjóði safn veðskuldabréfa í erlendri mynt fyrir allt að 20 milljarða króna.603

Í svarbréfi Fjármálaeftirlitsins til sparisjóðsins 19. mars 2009 var enn fjallað um „gæði eigin fjár sem myndað væri með tekjufærslu vegna gangvirðismats á skuldbindingum og að hvaða leyti slíkt eigið fé samræmdist Basel 2 reglum“. Í bréfinu var vísað til 4. mgr. 64. gr. í tilskipun Evrópusambandsins nr. 2006/48/EB, þar sem kveðið væri á um að tiltekin gangvirðisáhrif í reikningsskilum væru ekki talin með í útreikningi eiginfjárgrunns (e. own funds). Umrætt ákvæði er svohljóðandi:

Credit institutions shall not include in own funds either the fair value reserves related to gains or losses on cash flow hedges of financial instruments measured at amortised cost, or any gains or losses on their liabilities valued at fair value that are due to changes in the credit institutions' own credit standing.

Fjármálaeftirlitið taldi að gangvirðisáhrif af fyrirhuguðum lánalengingum sparisjóðsins féllu undir ákvæðið. Þó ákvæðið hefði ekki verið innleitt í íslenskan rétt væri að mati Fjármálaeftirlitsins skylt að innleiða það og yrði „óhjákvæmilegt að gera það fyrr en seinna“. Fyrir vikið taldi eftirlitið lánalengingarleiðina ófullnægjandi en veitti sparisjóðnum engu að síður eins dags frest til að sýna fram á áform til að leysa eiginfjárvanda sparisjóðsins.604

Hinn 19. mars 2009 óskaði forstjóri sparisjóðsins eftir fundi með Fjármálaeftirlitinu vegna gagntilboðs til erlendra lánardrottna sem var í undirbúningi hjá sparisjóðnum. Tilgangur fundarins var að fara yfir forsendur tilboðsins til að tryggja að þær yrðu samþykktar af stjórnvöldum og lögð áhersla á að þeim lyki fyrir 24.–25. mars 2009.605 Tillögur stýrinefndar voru bornar undir fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og athugasemdir hans um fyrirliggjandi tillögur lánardrottna voru sendar Seðlabankanum 19. mars 2009. Þar var þeirri hugmynd hreyft að ef til vill væru lánardrottnar, af tillögunum að dæma, að óska þess að ríkissjóður tæki á sig þann skell sem óhjákvæmilegur væri í málinu. Það væri ekki í samræmi við áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og kynni að valda frekari vanda síðar meir ef fallist yrði á tillögurnar. Nær væri að lánardrottnar legðu fram viðskiptaáætlanir sem miðuðu að lífvænlegum rekstri án aðkomu stjórnvalda og Seðlabankans og myndu skuldbinda sig til að styðja fjármálafyrirtækin til frambúðar, eftir atvikum sem nýir hluthafar. Því beindi Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn þeim varnaðarorðum að íslenska ríkinu að stíga varlega til jarðar í málinu og forðast að fallast á óhagstæðan samning.606

Sparisjóðurinn átti fund 19. mars 2009 með fulltrúum Fjármálaeftirlitsins, Seðlabankans og fjármálaráðuneytisins. Stjórnarformaður sparisjóðsins sendi tölvupóst daginn eftir á sparisjóðsstjóra og framkvæmdastjóra fjármálasviðs sjóðsins með minnispunktum sem hann hafði skrifað niður að fundi loknum. Þar kom fram að Fjármálaeftirlitið hefði gert grein fyrir því að í framtíðinni þyrfti að innleiða ákvæði úr Basel-II reglum og Evrópureglum, svokallaðar varúðarreglur (e. prudential filters) með tilliti til eigin fjár, sem alþjóðlegir reikningsskilastaðlar (IFRS) næðu ekki til og að fyrir vikið væri lánalengingarleið ekki ásættanleg sem lausn á eiginfjárvanda. Þá myndi Fjármálaeftirlitið mögulega nýta sér heimildir til að krefjast hærra eiginfjárhlutfalls en lögbundins lágmarks. Staðfest hefði verið að beiðni um yfirtöku fjármálaráðuneytisins á skuld sparisjóðsins við Seðlabankann og lenging á endurgreiðslutíma skuldar yrði hafnað. Eiginfjárframlag erlendra lánardrottna þætti ekki nægjanlega hátt og að því minna sem „kerfið“ væri þeim mun betra, þar sem geta til að styðja við það væri ekki til staðar hjá Seðlabankanum, Fjármálaeftirlitinu og fjármálaráðuneytinu. Að auki kom fram í tölvupósti stjórnarformannsins að hann hefði átt samtal við Tryggva Pálsson, framkvæmdastjóra fjármálasviðs Seðlabankans, að fundi loknum og spurt hann hvað fundurinn þýddi á mannamáli. Að sögn Erlendar var svar Tryggva eftirfarandi:

Við erum ekki að taka ykkur yfir í kvöld, en það styttist í það ef eigið fé eykst ekki með niðurfellingu skulda. Við vorum klárir á sunnudag fyrir 14 dögum. […] IMF er búið að segja að erlendar skuldir séu of miklar, og ef þær verða ekki lækkaðar geti Ísland farið á hausinn. Við erum með klára línu að lækka þessar skuldir. SÍ ræður í raun ekki við stærra kerfi. Við erum upp við vegginn og þurfum að taka drastískar ákvarðanir til að koma kerfinu áfram.607

Í bréfi forstjóra sparisjóðsins til forsætisráðherra 20. mars 2009 var vísað til fundar í ráðuneytinu viku áður þar sem staða sparisjóðsins var rædd og heimildir fjármálaráðherra til að taka yfir skuldbindingar fjármálafyrirtækja við Seðlabanka Íslands. Fulltrúi fjármálaráðuneytisins hefði fullyrt að fjármálaráðherra hefði ekki gert samninga á grundvelli þessarar heimildar við nokkurt fjármálafyrirtæki. Taldi forstjórinn hins vegar það hafa verið upplýst að fjármálaráðherra hefði einmitt gert slíkan samning við Saga Capital og hygðist gera fleiri slíka við önnur fjármálafyrirtæki. Hins vegar hefði fjármálaráðherra ekki svarað bréfi forstjórans frá 18. mars 2009 um að nýta þessa heimild til stuðnings Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis hf.608

Í tölvupósti stýrinefndar erlendra lánardrottna til Fjármálaeftirlitsins, Seðlabanka Íslands, fjármálaráðuneytis, fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Mats Josefsson, ráðgjafa ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum, 20. mars, var túlkun Fjármálaeftirlitsins á 4. mgr. 64. gr. áðurnefndrar tilskipunar mótmælt og talið að hún tæki ekki til þeirrar endurskipulagningar sem fyrirhuguð væri hjá sparisjóðnum. Hún fæli í sér niðurfellingu einnar skuldbindingar (e. de-recognition of a liability) og tilkomu nýrrar (e. recognition of a new liability) með öðrum skilmálum. Þá var bent á að samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastöðlum (IFRS) væri skylt að meðhöndla slíkar breytingar í bókhaldi á þann hátt sem lagt hefði verið til.609 Í kjölfarið var haldinn símafundur sem stýrinefndin tók þátt í ásamt fyrirsvarsmönnum sparisjóðsins, fulltrúum Seðlabankans, Fjármálaeftirlitsins og fjármálaráðuneytisins. Síðar sama dag lýsti nefndin áhyggjum í tölvupósti yfir því að stjórnvöld væru í þann mund að taka óábyrgar ákvarðanir í málefnum sparisjóðsins þar sem þau skildu ekki fyllilega þær lausnir sem þeim hefðu verið kynntar. Það væri augljóst að þær ráðleggingar sem stjórnvöld hefðu fengið væru rangar og ónákvæmar. Óskað var eftir frekari viðræðum og tekið fram að lánardrottnar hefðu fullan ásetning um að vinna með sparisjóðnum að viðunandi lausn.610 Í bréfi sem sparisjóðsstjóri sendi Fjármálaeftirlitinu sama dag vísaði hann til þess að á símafundi hefði komið fram mikill vilji hjá lánardrottnum til að finna lausn á eiginfjárvanda sjóðsins en fyrst þyrfti að leysa úr þeim faglega ágreiningi sem væri uppi um þann grunn sem eiginfjárútreikningur sparisjóðsins væri byggður á. Sparisjóðsstjóri vísaði að auki til beiðni sjóðsins til Íbúðalánasjóðs frá 18. mars 2009 þar sem óskað var eftir kaupum á húsnæðislánum og benti á að gengi sú sala eftir fengi Seðlabankinn greiðslur eða fullnægjandi tryggingu fyrir lánum sínum.611

Forsætisráðherra svaraði bréfi forstjóra sparisjóðsins frá 20. mars daginn eftir og fylgdi því afrit af svari fjármálaráðherra, dagsett sama dag, varðandi beiðni sparisjóðsins frá 18. mars 2009.612 Í bréfi fjármálaráðherra sagði meðal annars:

Við fall bankakerfisins sl. haust urðu verðbréf sem útgefin voru af gömlu bönkunum og Seðlabankinn hafði tekið til tryggingar lausafjárfyrirgreiðslu til fjármálakerfisins verðlítil. Seðlabankinn varð fyrir umtalsverðu tapi vegna þessa og til að bæta eiginfjárstöðu hans aflaði fjármálaráðherra heimildar Alþingis til að yfirtaka umræddar kröfur og annast fullnustu þeirra. Á grundvelli þessarar heimildar Alþingis var skipaður vinnuhópur fulltrúa fjármálaráðuneytis, viðskiptaráðuneytis, Fjármálaeftirlits og Seðlabanka sem leitaði leiða til að hámarka endurheimtur hinna ótryggu krafna og lágmarka þannig tjón ríkissjóðs. Eftir urðu í Seðlabankanum aðrar veðkröfur sem taldar voru tryggar og meðal þeirra voru tryggingar sem lagðar voru fram af hálfu Spron. Aldrei kom til tals að ríkissjóður yfirtæki veðlánakröfur fjármálafyrirtækja sem veitt voru gegn tryggum veðum.613

Enn fremur kom fram í bréfinu:

Hvað varðar athugasemd Spron þá voru framlögð verðbréf þeirra til Seðlabankans talin tryggja lánveitingar Seðlabankans og því kom aldrei til álita að ríkissjóður gæti á grundvelli umræddrar lagaheimildar yfirtekið þær kröfur á Spron af Seðlabankanum. Fjármálaráðuneytið hefur ítrekað gert forstjóra Spron grein fyrir ofangreindum sjónarmiðum.614

Á stjórnarfundi Fjármálaeftirlitsins 20. mars kom fram að stjórnin væri sammála um að ef grípa ætti inn í starfsemi sparisjóðsins á grundvelli 100. gr. a laga um fjármálafyrirtæki yrði að liggja fyrir skýr afstaða Seðlabankans um að lausafjárskorturinn væri alvarlegur, að sparisjóðurinn geti ekki staðið við skuldbindingar sínar og að ekki komi til frekari aðstoðar af hálfu Seðlabankans. Fyrr um daginn hafði stjórn Fjármálaeftirlitsins óskað eftir erindi frá Seðlabankanum um lausafjárstöðu bankanna og bárust drög að bréfi um stöðu sparisjóðsins inn á fundinn. Gert var fundarhlé og síðar um kvöldið, er fundi var framhaldið, hafði borist bréf frá Seðlabankanum um lausafjárstöðu sparisjóðsins.615

Í bréfi Seðlabankans, dagsettu 20. mars, kom fram að sparisjóðurinn hefði ekki uppfyllt bindiskyldu frá því um haustið 2008 og skuldaði 17,3 milljarða króna í daglán og 30,6 milljarða króna í veðlán í lok dags 19. mars 2009. Bent var á að af tæplega 48 milljörðum króna sem sparisjóðurinn hafði að láni frá Seðlabankanum og tryggðar voru með veði, væru um það bil 45 milljarðar króna tryggðar með veðum sem ekki uppfylltu reglur Seðlabankans um hæf veð til tryggingar lánum frá bankanum. Tveimur vikum fyrr hefði sparisjóðurinn boðið fram veðpakka. Flest lánin hefðu verið í erlendri mynt, þriðjungur þeirra hefði verið í vanskilum og nokkur hluti þeirra á 2. veðrétti. Slík veð uppfylltu alls ekki reglur Seðlabankans og þessum veðum yrði því hafnað. Í niðurlagi bréfsins sagði:

Í ljósi ofangreinds eru ekki forsendur fyrir því að Seðlabankinn veiti SPRON þá lausafjárfyrirgreiðslu sem sparisjóðurinn þarf á að halda þar sem hann uppfyllir ekki reglur um viðskipti fjármálafyrirtækja við Seðlabankann. Ekki verður heldur séð að Seðlabankinn geti gripið til fyrirgreiðslu á grundvelli 2. mgr. 7. gr. laga um Seðlabankann, þ.e. þrautavaraláns þar sem SPRON uppfyllir ekki eiginfjárskilyrði og getur ekki lagt fram tryggingar sem Seðlabankinn telur sér fært að samþykkja. Það er einnig mat Seðlabanka Íslands að að öðru óbreyttu geti SPRON hf. ekki staðið við skuldbindingar sínar gagnvart viðskiptavinum sínum eða kröfuhöfum. Yfirvofandi vandamál SPRON gæti einnig haft neikvæð áhrif á aðrar fjármálastofnanir.616

17.8.6.3 Fjármálaeftirlitið tekur yfir Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis hf.

Í bréfi frá Fjármálaeftirlitinu til forstjóra sparisjóðsins 21. mars 2009 var vísað til þess að enn gerðu áætlanir sparisjóðsins um lausn á eiginfjárvanda ráð fyrir sömu aðferð og eftirlitið hafði áður hafnað.617 Seðlabankinn hefði með bréfi til Fjármálaeftirlitsins 20. mars 2009 bent á að þótt sparisjóðurinn næði samningum við Íbúðalánasjóð um kaup á veðskuldabréfum væri ólíklegt að það bætti eiginfjárstöðu sjóðsins. Seðlabankinn hafði bent á að til að umrædd viðskipti bættu stöðu sjóðsins þyrfti kaupverð bréfanna að vera hærra en sem næmi þeim lánum sem Seðlabankinn hefði veitt sjóðnum gegn veði í bréfunum. Fjármálaeftirlitið vísaði einnig til þess að í fyrri bréfaskrifum hefði komið fram sú afstaða fjármálaráðuneytisins að sparisjóðurinn gæti vart uppfyllt meginskilyrði fyrir eiginfjárframlagi frá ríkissjóði. Ítrekað var að þau áform sem sparisjóðurinn hefði kynnt til lausnar á eiginfjár- og lausafjárvandanum leysti hann ekki að neinu marki. Einnig vísaði Fjármálaeftirlitið til framangreinds bréfs Seðlabanka Íslands um lausafjárstöðu sparisjóðsins. Óskað var svara við eftirfarandi spurningum samdægurs:

  1. Hvort sparisjóðurinn gæti fullyrt að hann gæti staðið við skuldbindingar sem væru á gjalddaga í næstu viku og hvort hann teldi að hann hefði nægilegt laust fé til að tryggja starfsemi sjóðsins á sama tímabili.

  2. Ef svo væri ekki, þá hversu viðamiklar skuldbindingar væri um að ræða sem sjóðurinn gæti ekki efnt.

  3. Hvort sparisjóðurinn hefði raunhæfa möguleika til að afla fjár til að standa við umræddar skuldbindingar. Bent var á í þessu samhengi að Seðlabankinn hefði hafnað frekari fyrirgreiðslum.618

Í svari sparisjóðsins til Fjármálaeftirlitsins var því lýst að sparisjóðurinn hefði 591 milljón króna til að mæta skuldbindingum að fjárhæð 563 milljónir króna sem væru á gjalddaga í vikunni á eftir. Sparisjóðurinn þyrfti hins vegar á fyrirgreiðslu frá Seðlabankanum að halda til að tryggja starfsemi sjóðsins á sama tímabili.619

Fjármálaeftirlitið ítrekaði þá að fyrir lægi að Seðlabankinn teldi sér ekki heimilt að veita sparisjóðnum frekari fyrirgreiðslu á grundvelli þeirra trygginga sem sjóðurinn hefði til ráðstöfunar. Fyrir vikið virtist augljóst að starfsgrundvöllur væri ekki lengur fyrir hendi og að eftirlitið teldi einsýnt að sparisjóðurinn félli undir þau ákvæði laga nr. 125/2008 að grípa þyrfti inn í rekstur félagsins.620 Í kjölfarið óskaði stjórn sparisjóðsins eftir að Fjármálaeftirlitið gripi inn í rekstur sjóðsins621 og var það gert samdægurs, 21. mars 2009.622

Erlendur Hjaltason, stjórnarformaður sparisjóðsins, lýsti atburðarásinni svo:

Gunnar Ólafur [Haraldsson, stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins] hringir í mig og segir mér að það sé búið að vera að fara yfir málin og niðurstaða sé komin, að við þurfum að henda inn handklæðinu. Að ég þurfi að halda stjórnarfund í SPRON og samþykkja þetta. Við ræðum það eitthvað fram og til baka og ég fæ það út úr honum að þetta sé endanlegt. […] Ég næ ekki fundi saman fyrr en klukkan fimm um daginn og þá hittumst við niðri í Ármúla, öll stjórnin og Guðmundur. Þeir eru einhvers staðar annars staðar í bænum þarna FME og Gylfi Magnússon og fleiri. Það tekur nú okkur dálítinn tíma að fara yfir þetta bréf sem er skrifað. Við erum þá væntanlega með okkar lögmann, Kristján Þorbergsson, og ég vissi það eftir á að Jóhannes Karl [Sveinsson] var hinum megin í lögfræðiteyminu hjá FME. Menn voru ekki nógu ánægðir með fyrsta textann sem við sendum frá okkur. Korter yfir fimm eða hálf sex fær Guðmundur símtal frá, held ég, Birni Inga Hrafnssyni blaðamanni um að búið sé að boða blaðamannafund af hálfu viðskiptaráðherra og FME um yfirtöku á SPRON. Við náttúrulega komum af hæstu hæðum vegna þess að ég hélt að ég væri að fara inn í FME. En Gunnar hringir og segir: „Þú verður að klára þetta, við erum að detta út á tíma. Ef þú klárar þetta ekki núna þá tökum við bara sjóðinn yfir með hörðu.“ Þá lá mönnum svo á. Það var búið að boða til blaðamannafundar þar sem komu fram upplýsingar sem voru rangar, til dæmis um yfirdráttinn í Seðlabankanum og eitthvað svona. Gylfi sagði þarna öllum starfsmönnum SPRON upp í beinni útsendingu. Það var ekki flóknara en það. Mér fannst það ekki mjög drengileg [tilhögun] á þeim tíma. Ég meina, stríðið var búið og við vorum komnir á leiðarenda. En mér hefði fundist vel við hæfi, þetta var á laugardagskvöldi, að gefa okkur sunnudaginn til að segja starfsfólkinu frá því. En þarna lá mönnum svo á. Af hverju lá mönnum á? Ég veit það ekki, ég held að það hafi verið þannig að Seðlabankinn og allir voru komnir í málið […] Fullt af hópum að vinna og svona hálfgert stríðsástand í gangi.623

Erlendur sagði að hann hefði fengið á tilfinninguna að Seðlabankinn hefði verið gerandi í þessu og upplifað að Seðlabankinn hefði verið búinn að taka yfir vald Fjármálaeftirlitsins í lokin. En áður hefði hann fundið að ekki væri neinn skilningur fyrir sparisjóðnum, hvorki í fjármálaráðuneytinu né Seðlabankanum:

Mín tilfinning „in the end“ var sú að menn vildu bara minnka kerfið og með því að SPRON færi líka þá væru menn búnir að minnka kerfið um X% og þá myndu detta niður kröfur erlendra lánveitenda í erlendri mynt upp á X.624

Aðspurður hvort hann héldi að sparisjóðurinn hefði getað lifað af, sagði Erlendur:

Ég veit það ekki. Sennilega ekki miðað við það sem maður hefur síðan séð, nema til hefði komið veruleg innspýting á nýju eigin fé. […] Við unnum allt okkar starf á þessum tíma með það að markmiði að láta hann lifa, allir voru af fullum heilindum í því að láta sjóðinn lifa. Vitandi það sem maður veit í dag, þá hef ég ekki hugmynd um það.625

17.8.7 Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um að taka yfir vald hluthafafundar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf.

Með ákvörðun sinni 21. mars 2009 tók Fjármálaeftirlitið yfir vald hluthafafundar sparisjóðsins og vék félagsstjórn í heild frá störfum þegar í stað. Þá var skipuð skilanefnd sem tók við öllum heimildum stjórnar félagsins samkvæmt ákvæðum laga um hlutafélög nr. 2/1995, í samræmi við 100 gr. a laga um fjármálafyrirtæki626 og skyldi hún fara með öll málefni sparisjóðsins, þar á meðal hafa umsjón með meðferð eigna og annast rekstur.627 Skilanefnd Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. var skipuð:

  1. Hlyni Jónssyni, héraðsdómslögmanni;

  2. Davíð Arnari Einarssyni, löggiltum endurskoðanda;

  3. Feldísi Lilju Óskarsdóttur, héraðsdómslögmanni;

  4. Guðrúnu Torfhildi Gísladóttur, löggiltum endurskoðanda;

  5. Jóhanni Péturssyni, héraðsdómslögmanni.

Í júní 2009 rann skeið bráðabirgðastjórnar á enda, í samræmi við 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Héraðsdómur Reykjavíkur féllst á beiðni bráðabirgðastjórnar um skipun slitastjórnar 23. júní 2009. Hlutverk slitastjórnar var að gæta að eignum félagsins og að hámarka verðmæti þeirra, en einnig að annast innköllun til kröfuhafa í samræmi við 2. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Slitastjórn Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. var skipuð:

  1. Hlyni Jónssyni, héraðsdómslögmanni;

  2. Jóhanni Péturssyni, héraðsdómslögmanni;

  3. Hildi Sólveigu Pétursdóttur, hæstaréttarlögmanni.

Við yfirtöku sparisjóðsins tók Fjármálaeftirlitið ákvörðun um ráðstöfun eigna og skulda sjóðsins. Nýi Kaupþing banki hf. yfirtók skuldbindingar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis vegna innistæðna. Skyldu innistæður flytjast yfir miðað við stöðu þeirra og áunna vexti á yfirtökudegi. Bankinn yfirtók þó ekki innlánsskuldbindingar sparisjóðsins sem stofnað hafði verið til með þeim hætti að kröfueigandi samkvæmt skuldabréfi eða öðru sambærilegu skuldaskjali hefði fengið kröfu sína greidda fyrir gjalddaga en á sama tíma stofnað til innláns hjá sjóðnum. Bankinn yfirtók heldur ekki peningamarkaðsinnlán frá fjármálafyrirtækjum sem kynnu að eiga innlán hjá sparisjóðnum.

Í ákvörðun Fjármálaeftirlitsins kom fram að stofnað skyldi sérstakt hlutafélag í eigu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis sem tæki við öllum eignum félagsins og jafnframt öllum tryggingarréttindum, þar með talið öllum veðréttindum, ábyrgðum og öðrum sambærilegum réttindum sem tengdust kröfum sjóðsins. Dótturfélagið skyldi einnig yfirtaka skuldbindingu gagnvart Nýja Kaupþingi banka hf. vegna yfirtöku hans á innistæðuskuldbindingum sjóðsins. Dótturfélagið skyldi gefa út skuldabréf til Nýja Kaupþings banka hf., sem endurgjald fyrir hinar yfirteknu innlánsskuldbindingar, og ábyrgjast yfirteknar ábyrgðir. Til tryggingar skuldabréfinu skyldu allar eignir hins nýja dótturfélags veðsettar, sem og hlutabréf í dótturfélaginu. Tryggja skyldi að vextir skuldabréfsins myndu standa undir kostnaði og áhættu vegna þessa og að hagsmunir veðhafans væru tryggðir með viðeigandi skilmálum í tryggingar- og lánaskjölum.628

Í kjölfarið var hlutafélagið Drómi hf. stofnað 30. mars 2009. Í stjórn félagsins voru kosin:

  1. Hlynur Jónsson, héraðsdómslögmaður;

  2. Davíð Arnar Einarsson, löggiltur endurskoðandi;

  3. Feldísi Lilja Óskarsdóttir, héraðsdómslögmaður;

  4. Guðrún Torfhildur Gísladóttir, löggiltur endurskoðandi;

  5. Jóhann Pétursson, héraðsdómslögmaður.629

Samkvæmt frétt Dróma hf. og slitastjórnar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis 2. janúar 2014 náðust samningar milli slitastjórnar, Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf., Hildu ehf. og Arion banka um yfirtöku Eignasafnsins og Hildu á ákveðnum eignum og skuldum Dróma hf. og um uppgjör á kröfu Arion banka á hendur Dróma. Eiga samningarnir ekki að reyna á ábyrgð ríkissjóðs.630

17.9 Innra eftirlit

Við skoðun á innra eftirliti sparisjóðanna var leitast við að kanna hvernig fyrirkomulagi þess var háttað og hvort veikleikar hefðu verið í eftirlitskerfum sparisjóðanna. Almenna umfjöllun um innra eftirlit, hlutverk stjórnar, innri endurskoðun og áhættustýringu er að finna í 6. kafla, en eftirfarandi umfjöllun lýtur að virkni þessara þátta í starfsemi Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. Áhersla var lögð á tímabilið frá 2005 til 2009.

17.9.1 Innri endurskoðun

Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis starfrækti eigin innri endurskoðunardeild frá árinu 2002 en áður hafði hagdeild sparisjóðsins sinnt verkefnum á sviði innri endurskoðunar.631 Þegar sparisjóðurinn stækkaði var sett á stofn sérstök innri endurskoðunardeild en stjórnendur vildu að innri endurskoðun yrði aðgreind frá öðrum verkefnum og eftirlit aukið.632 Hlutverk innri endurskoðunar var að leggja sjálfstætt og óháð mat á rekstur sparisjóðsins með það fyrir augum að bæta starfsemina.633 Innri endurskoðunardeild annaðist einnig innri endurskoðun dótturfélaganna Frjálsa fjárfestingarbankans hf. og Netbankans, síðar nb.is-sparisjóðs hf., ásamt innri endurskoðun á SPRON-Verðbréfum hf. samkvæmt samningi frá árinu 2006.634 Stjórn og sparisjóðsstjóri skipulögðu innra eftirlit í sparisjóðnum og báru ábyrgð á því. Innra eftirlit var á höndum innri endurskoðanda.635

Forstöðumaður innri endurskoðunar frá stofnun deildarinnar var Þórir Haraldsson og heyrði hann undir stjórn í skipuriti. Frá árinu 2005 fékk forstöðumaðurinn aðstoð frá öðrum starfsmanni í hálfu stöðugildi við tiltekin verkefni. Forstöðumaðurinn skilaði skýrslu til stjórnar um verkefni sín tvisvar á ári og taldi að almennt hefði viðhorf stjórnar til starfa hans verið jákvætt. Í stjórnarformannstíð Hildar Petersen fundaði forstöðumaðurinn með henni ársfjórðungslega og fór yfir helstu mál á ítarlegri hátt en gert var með stjórn. Var það gert að beiðni innri endurskoðanda.636

Árlega gerði innri endurskoðun endurskoðunaráætlun sem lögð var fyrir stjórn til samþykktar. Áætlunin var byggð á áhættumati forstöðumannsins en hann hitti einnig ytri endurskoðanda og samræmdu þeir úttektir sínar til að hindra tvíverknað. Engar ábendingar eða gagnrýni komu frá stjórn um áherslur innri endurskoðunar.637 Við innri endurskoðun sparisjóðsins var tekið mið af alþjóðlegum stöðlum um innri endurskoðun og Basel-reglum um innra eftirlit og innri endurskoðun.

Stjórnendur sparisjóðsins og dótturfélaga hans höfðu ekki framkvæmt skriflegt áhættumat fyrir sparisjóðinn og því byggði forstöðumaðurinn endurskoðunaráætlun sína á reynslu sinni af sparisjóðnum og fyrri úttektum. Hann kallaði eftir áhættumati frá framkvæmdastjórum og tók tillit til niðurstöðu þeirra í úttektum sínum. Þá átti hann í reglulegum samskiptum við forstöðumann áhættustýringar og gerði einu sinni úttekt á áhættustýringu. Innri endurskoðun skoðaði gögn um útlánaáhættu, lausafjáráhættu og verðtryggingarjöfnuð, fór yfir verklag áhættustýringar og áreiðanleika gagna í kerfum áhættustýringar.

Á stjórnarfundi 25. febrúar 2008 greindi forstöðumaður innri endurskoðunar frá helstu áherslum deildarinnar. Lýsti stjórn sparisjóðsins yfir ánægju með skipulag starfsins. Forstöðumaður innri endurskoðunar taldi að fagleg nálgun við áhættustýringu í sparisjóðnum hefði verið nokkuð góð, en nauðsynlegt hefði verið að ráða fleiri starfsmenn á sviðið. Í skýrslum innri endurskoðunar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis var ekki að finna sérstaka umfjöllun um eftirlitsumhverfi. Í lok október 2007 var skipuð endurskoðunarnefnd hjá sparisjóðnum, en innra eftirlit og áhættustýring komu ekki til umfjöllunar hjá nefndinni. Forstöðumaður innri endurskoðunar var ritari nefndarinnar. Þá var hann áheyrnarfulltrúi í ýmsum nefndum og starfshópum, meðal annars sat hann framkvæmdastjórnarfundi til að fylgjast með rekstri sparisjóðsins. Honum var ekki kunnugt um að til hefði verið yfirlit yfir helstu eftirlitsaðgerðir en taldi að innra eftirlit hefði verið í nokkuð góðu lagi og að almennar vinnureglur hefðu verið skráðar. Hann minntist þess ekki að mikið hefði verið um frávik frá þessum reglum en taldi að helstu veikleikar í innra eftirlits sjóðsins hefðu legið í eftirlitsþáttum og að þeir hefðu ekki stækkað í samræmi við vöxt sparisjóðsins. Þá hefði hann viljað skoða fjárfestingar sjóðsins betur.638

Í erindisbréfi stjórnar sparisjóðsins til forstöðumanns innri endurskoðunar kom fram að hann væri ábyrgður fyrir að þróa og viðhalda virku gæðaeftirliti sem tæki til allra þátta starfsemi innri endurskoðunar. Þá bar honum einnig að upplýsa stjórn um gæðaeftirlit með starfsemi deildarinnar. Að sögn forstöðumannsins var engin úttekt gerð á innri endurskoðunardeild sparisjóðsins. Engar athugasemdir voru gerðar í skýrslum ytri endurskoðanda á árunum 2002–2008.639 Þá fyllyrti hann að Fjármálaeftirlitið hefði ekki gert athugasemd við starfsemi innri endurskoðunar sparisjóðsins,640 en vettvangsathugun Fjármáleftirlitsins 2007 tók ekki til innri endurskoðunar og gerði það þar af leiðandi ekki athugasemd við störf þeirrar deildar.

17.9.2 Áhættustýring

Samkvæmt 11. mgr. 84. gr. laga nr. 161/2002 ber fjármálafyrirtækjum að upplýsa opinberlega um áhættur, áhættustýringu og eiginfjárstöðu sína. Stjórnendur Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hófu árið 2005 að birta umfjöllun um áhættustýringu í skýringum með ársreikningi. Áhættustýring Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis náði til allrar starfsemi sparisjóðsins, auk dótturfélaga SPRON-Verðbréfa hf., nb.is hf. og Frjálsa fjárfestingarbankans hf.641

Í umfjöllun um áhættustefnu sparisjóðsins segir í skýringu með ársreikningi 2007:

Áhættumat, einkum ákvörðun raungildis þess, ásamt aðgerðum sem beinast að því að takmarka áhættuna með skynsamlegri dreifingu útlána og fjárfestingum í öðrum eignum, er eitt af helstu verkefnum fjármálastofnana. Margir áhættuþættir geta haft slæm áhrif á rekstur SPRON. Það er stefna stjórnar SPRON að fylgjast skuli sífellt með og reynt að stýra helstu áhættuþáttum sem haft geta áhrif á afkomu og eigið fé hans. Í þessum tilgangi rekur SPRON sérstaka áhættustýringardeild. Að auki er það hlutverk innri endurskoðanda SPRON að fylgjast með starfseminni til að tryggja að reglum sé framfylgt í samræmi við samþykktir stjórnar SPRON.642

Áhættustefna sparisjóðsins var skilgreind í Handbók Áhættustýringar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis. Þar segir að markmið áhættustýringar sparisjóðsins skuli vera:

[…] að stefna að ásættanlegri afkomu sparisjóðsins á hverjum tíma með tilliti til undirliggjandi áhættu í rekstrinum. Erfitt er að spá fyrir með vissu um mestu áhættuþætti reksturins, það er, vaxtaþróun, þróun gengis gjaldmiðla og verðbréfa og þróun afskrifta útlána. Því er nauðsynlegt að meta áhættuþættina og setja ákveðin viðmið sem vinna skal eftir í eigna- og skuldasstýringu sparisjóðsins. Viðmið þessi eru skilgreind í viðauka handbókarinnar.

Forstjóri Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis bar ábyrgð á, í umboði stjórnar, að reglum um áhættustýringu innan sparisjóðsins væri fylgt. Honum bar að sjá til þess að gripið yrði til viðeigandi ráðstafana til að greina, meta og mæla áhættuþætti í daglegri starfsemi, ásamt því að stýra áhættu sparisjóðsins. Hlutverk áhættustýringar var að gefa aðvaranir og ábendingar þegar áhætta nálgaðist sett viðmiðunarmörk og grípa til viðeigandi aðgerða.643

Hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis var starfandi áhættustýringarhópur sem samanstóð af forstjóra og fimm lykilstarfsmönnum sparisjóðsins.644 Hópnum bar að fylgja ákvörðun stjórnar um markmið hvað varðaði áhættu og áhættustefnu.645 Hlutverk áhættustýringarhóps var að móta, skrá og framfylgja stefnu varðandi heildaráhættu hverju sinni, ásamt því að leggja mat á árangur settrar stefnu. Hann skyldi koma á fót eftirlitskerfi og ferli við mat á áhættu, auk þess að ákvarða hámarksáhættustig sparisjóðsins hverju sinni. Þá átti hópurinn að meta lausafjárþörf sparisjóðsins sem og möguleika sparisjóðsins á lausu fé á hverjum tíma. Hópnum bar að sjá til þess að innviðir sparisjóðsins myndu styðja við þau markmið sem sett höfðu verið til stýringar áhættu og uppfræða stjórn með reglulegu millibili um áhættutöku. Þá skyldi reglulega yfirfara sett viðmið og mörk áhættuþátta.646

Áhættustýringarhópnum bar að setja sér skriflegar vinnureglur og ákvarðanir og fundargerðir hópsins áttu að vera rafrænar. Hópurinn fundaði að jafnaði vikulega og tók forstöðumaður áhættu- og útlánasviðs saman gögn fyrir fundi og ritaðir stuttar fundargerðir.647 Hópurinn átti að vera meðvitaður um afkomu sparisjóðsins á hverjum tíma og skyldi, við ákvarðanir sínar, bera saman raunverulega rekstrarniðurstöðu á hverjum tíma við áætlanir. Áhættustýringarhópurinn átti að útbúa skriflega fjárfestingastefnu og lánastefnu ásamt viðmiðunarmörkum um áhættu og yfirfara þessi gögn reglulega. Viðmiðunarmörkin skyldi endurskoða reglulega og ekki sjaldnar en einu sinni á ári.648

Í Handbók Áhættustýringar SPRON voru áhættuþættir flokkaðir líkt og sjá má hér til hliðar. Í handbókinni var markaðsáhætta talin einn af helstu áhættuþáttum í rekstri sparisjóðsins. Þar var einnig umfjöllun um útlánaáhættu, helstu útlánamarkmið, hvers bæri að gæta í tengslum við útlán sparisjóðsins og eftirlit með útlánaáhættu. Í viðauka með handbókinni voru sett viðmið til stýringar á markaðsáhættu og útlánaáhættu og virðast þessir tveir áhættuþættir því hafa verið álitnir mikilvægustu áhættuþættir sparisjóðsins.

Daglegt eftirlit áhættustýringar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis var á ábyrgð forstöðumanns áhættustýringardeildar. Forstöðumaður áhættustýringardeildarinnar var jafnframt forstöðumaður útlánastýringar og gegndi einnig stöðu regluvarðar. Hlutverk áhættustýringar var að fylgjast með og stýra áhættu sparisjóðsins ásamt því að sjá til þess að viðeigandi vörnum yrði komið við á hverjum tíma. Þá skyldi áhættustýring gefa aðvaranir og ábendingar þegar áhætta nálgaðist sett viðmiðunarmörk og grípa þá til viðeigandi aðgerða.649

Forstöðumaður áhættustýringar frá árinu 2004 var Páll Árnason. Hann sat einnig í lánanefnd og í áhættustýringarhópi ásamt lykilstjórnendum og sparisjóðsstjóra. Forstöðumaðurinn leit á þessa aðila sem yfirmenn. Hlutverk hans í lánanefndinni var að benda á mál sem hann taldi að þyrfti að skoða betur og kalla eftir frekari gögnum. Á fundum lánanefndar hafði hann atkvæðisrétt og voru öll mál samþykkt samhljóða og rak forstöðumanninn ekki minni til þess að upp hefði komið ágreiningur í nefndinni. Í einhverjum tilfellum kom hann með ábendingu um að mál þyrftu að fara fyrir stjórn og ekki mætti afgreiða þau í lánanefnd þar sem útlán væru umfram útlánaheimildir sparisjóðsstjóra. Fundargerðir lánanefndarinnar voru stuttar og bókað var hvort erindi væri samþykkt eða hafnað. Forstöðumaðurinn kom þó ekki að öllum málum, til dæmis ekki stórum málum eins og sölu á eignarhlut í Sparisjóðabanka Íslands hf. Áhættustýring var færð undir fjárhagssvið sparisjóðsins á árinu 2008.650

Starfsreynsla forstöðumanns áhættustýringar var að mestu úr fjárfestingarbankastarfsemi og mótaðist starf hans í áhættustýringunni af þeirri reynslu. Áhættustýring sinnti fyrst og fremst eftirliti með markaðsáhættu. Vöktun útlána- og vaxtaáhættu var hjá innri endurskoðun en forstöðumaður hennar tók reglulega saman skýrslur um útlán og lagði fyrir stjórnarfundi. Fjárstýring sá um vöktun á lausafjárstýringu, gjaldeyrisjöfnuði og verðtryggingarjöfnuði. Áhættustýring safnaði saman upplýsingum í skýrslur sem lagðar voru fyrir fund áhættustýringarhópsins og ritaði jafnframt fundargerðir. Mánuðina fyrir fall sparisjóðsins jók Fjármálaeftirlitið eftirlit með veðköllum og var áhættustýring í miklum samskiptum við Fjármálaeftirlitið vegna þessa.651

Í skýrslu Páls fyrir rannsóknarnefndinni kom fram að hann myndi ekki til þess að hafa fengið athugasemdir um starfsemi áhættustýringar en taldi að Fjármálaeftirlitið hefði viljað efla áhættustýringuna með auknum mannskap. Auk forstöðumanns hafði áhættustýringin lengst af einungis á að skipa einum starfsmanni sem hafði það hlutverk að leiðbeina starfsmönnum útibúa um verkferla og fleira. Rétt fyrir fall sparisjóðsins bættust við tveir starfsmenn í hluta verkefna áhættustýringar þótt þeir heyrðu formlega undir fjárhagssviðið. Skýrslugjöf forstöðumanns fólst fyrst og fremst í samantekt fyrir vikulega fundi áhættustýringarhópsins. Verksvið áhættustýringar náði til allrar samstæðu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis en sjónum var aðallega beint að áhættustýringu móðurfélagsins. Þó var horft til útlánaáhættu í Frjálsa fjárfestingarbankanum hf. og þá sérstaklega eftir að bankinn byrjaði að veita lán í erlendum myntum.652

Forstöðumaður áhættustýringar mundi ekki eftir því hvort skriflegt áhættumat fyrir sparisjóðinn hefði legið fyrir, nema þá í tengslum við ársskýrslu og í útboðslýsingu þegar Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis var skráður á markað. Hann taldi helstu veikleika eftirlitskerfisins tengjast eftirliti með tryggingum útlána og þróun þeirra. Töluverð vinna hefði verið að ná skýrslum um stöðu útlána og tryggingastöðu þeirra úr kerfum sparisjóðsins. Eftir fall sparisjóðsins hefðu einnig komið í ljós veikleikar í skjalagerð og væru dæmi um að fella þyrfti niður ábyrgðir þar sem ekki hefði verið gert greiðslumat. Helsti einstaki áhættuþáttur sparisjóðsins var eignarhlutur í Exista hf. og í Kistu – fjárfestingarfélagi ehf. Taldi forstöðumaðurinn að sú áhætta hefði verið tekin meðvitað. Eignarhlutur sparisjóðsins í þessum félögum fór fram úr áhættuviðmiði en fyrir því lá stjórnarsamþykkt. Áhættustýring gerði enga sérstaka úttekt á þessum þætti, umfram reglulega skýrslugjöf til áhættustýringarhóps. Fjárfestingum sparisjóðsins var stýrt af SPRON-Verðbréfum hf. Forstöðumaður áhættustýringar fylgdist með þróun verðbréfasafna og gerði athugasemdir við sjóðstjóra ef hann var kominn út fyrir heimildir sínar.653 

 


 

1 . Jón Aðalsteinn Jónsson, „Enn ein árás á sjálfstæði SPRON“, Morgunblaðið 10. janúar 2004.

2 . Skýrsla unnin af ParX viðskiptaráðgjöf IBM fyrir stofnfjáreigendur og fjárfesta SPRON, 29. september 2004.

3 . Ársskýrsla SPRON 2007.

4 . Ársreikningur samstæðu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis 2008.

5 . Upplýsingar um gengi hlutabréfa fengnar frá Kauphöll Íslands.

6 . Ársreikningur samstæðu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis 2008.

7 . Ársreikningur samstæðu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis 2007.

8 . Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um ráðstöfun eigna og skulda Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf., 21. mars 2009.

9 . Sjá nánar um meðhöndlun ársreikninga og reikningsskilareglur í 8. kafla.

10 . Í athugasemdum Guðmundar Haukssonar til rannsóknarnefndarinnar 17. desember 2013 kom fram að hafa yrði í huga að rekstri sparisjóðsins hefði verið hætt í mars og eftir það hefði fyrst og fremst fallið til kostnaður, einhverjar vaxtatekjur en engar þjónustutekjur og annað á móti.

11 . Sérstök umfjöllun er um þátt Exista hf. og Kistu – fjárfestingarfélags ehf. í afkomu sparisjóðanna í 10. kafla, um fjárfestingar sparisjóðanna. Í sama kafla má finna umfjöllun um sölu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. og Byrs sparisjóðs á eignarhlutum þeirra í Icebank hf. Um þá sölu er einnig fjallað í 9. kafla, um útlán sparisjóðanna, og 31. kafla, um Sparisjóðabanka Íslands hf.

12 . Útreikningur á vaxtamun er skýrður í 8. kafla, um reikningsskil sparisjóðanna. Í viðauka B getur að líta töflu sem sýnir vaxtamun hjá einstökum sparisjóðum 2001–2011.

13 . Í athugasemdum Guðmundar Haukssonar til rannsóknarnefndarinnar 17. desember 2013 kom fram að meginskýringin á þessu væri samkomulagið við Íbúðalánasjóð um 90% lán á árinu 2004. Tekjustreymið hefði runnið til Íbúðalánasjóðs en eignirnar staðið áfram í bókum sparisjóðsins.

14 . Í athugasemdum Guðmundar Haukssonar til rannsóknarnefndarinnar 17. desember 2013 kom fram að tekin hefði verið ákvörðun um að fjárfesta meira í tölvum, tæknibúnaði, innréttingum og ýmsu öðru vegna meiri gengishagnaðar. Rekstrarkostnaður hefði því aukist að hluta til vegna þess að verið var að búa í haginn fyrir framtíðina.

15 . Í athugasemdum Guðmundar Haukssonar til rannsóknarnefndarinnar 17. desember 2013 kom fram að vanskil hefðu verið mjög lítil og raunar í sögulegu lágmarki á þessum tíma. Möguleikar sparisjóðsins til að byggja upp þennan sjóð hefðu því verið takmarkaðir.

16 . Í athugasemdum Guðmundar Haukssonar til rannsóknarnefndarinnar 17. desember 2013 kom fram að óhemjumikill kostnaður hefði fallið til vegna skráningar sparisjóðsins í Kauphöllina á árinu 2007.

17 . Í athugasemdum Guðmundar Haukssonar til rannsóknarnefndarinnar 17. desember 2013 kom fram að fyrirtækjum hefði fjölgað hjá sparisjóðnum á þessum árum.

18 . Í athugasemdum Guðmundar Haukssonar til rannsóknarnefndarinnar 17. desember 2013 kom fram að hafa yrði í huga að sparisjóðurinn hefði fyrst og fremst verið að keppa við viðskiptabankana. Komið hefði fyrir að viðskiptabankarnir stælu frá þeim starfsfólki og því hefði þurft að greiða starfsfólkinu nokkuð sambærileg laun. Í smærri sparisjóðum úti á landi hefðu þessi sjónarmið síður verið uppi.

19 . Skýrsla PricewaterhouseCoopers um ákveðna þætti innra eftirlits í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, 16. október 2009.

20 . Hún var í samræmi við 79. gr. a laga nr. 2/1995 um hlutafélög.

21 . Skýrsla PricewaterhouseCoopers um ákveðna þætti innra eftirlits í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, 16. október 2009.

22 . Í athugasemdum Guðmundar Haukssonar til rannsóknarnefndarinnar 22. nóvember 2013 kvað hann þetta ekki rétt. Þrátt fyrir eftirgrennslan hefur þessi gögn ekki borið fyrir augu nefndarinnar.

23 . Skýrsla PricewaterhouseCoopers um ákveðna þætti innra eftirlits í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, 16. október 2009.

24 . Eftirfarandi upplýsingar um launamál eru fengnar úr bókhaldsgögnum sparisjóðsins sem Drómi hf. lét rannsóknarnefndinni í té.

25 . Í athugasemdum Guðmundar Haukssonar til rannsóknarnefndarinnar 17. desember 2013 kom fram að hann hefði fengið umsaminn bónus en ekki kaupaukagreiðslu þar sem þær hefðu náð til annarra starfsmanna.

26 . Skýrsla PricewaterhouseCoopers um ákveðna þætti innra eftirlits í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, 16. október 2009.

27 . Skýrsla PricewaterhouseCoopers um ákveðna þætti innra eftirlits í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, 16. október 2009.

28 . Útboðslýsing Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 18. október 2007, bls. 61.

29 . Óli Kristján Ármannsson, „Fjárfestingarbankastarfsemi SPRON víkkuð út“, Fréttablaðið 26. september 2007.

30 . Útboðslýsing Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 18. október 2007.

31 . Ársskýrsla SPRON 2007.

32 . Í athugasemdum Guðmundar Haukssonar til rannsóknarnefndarinnar 22. nóvember 2013 gagnrýndi hann aðferðina sem notuð er í skýrslu rannsóknarnefndarinnar við útreikning á afkomu kjarnareksturs fyrir skatt og sagði hana gefa ranga mynd af Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis. Við skýrslugjöf fyrir rannsóknarnefndinni fullyrtu fyrrverandi stjórnarformaður og stjórnarmaður í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, þeir Óskar Magnússon og Pétur H. Blöndal, að grunnrekstur sparisjóðsins hefði verið í ólagi og skilað engu, jafnvel tapi. Afkoman hefði verið borin uppi af hækkun á verðbréfaeign, einkum í Kaupþingi og Exista.

33 . Vaxtamunur er útskýrður í 8. kafla, um reikningsskil sparisjóðanna.

34 . Í athugasemdum til rannsóknarnefndarinnar 22. nóvember 2013 sagði Guðmundur Hauksson að Seðlabankinn hefði með vaxtastefnu sinni ýtt undir áhuga almennings og fyrirtækja á erlendum lánum.

35 . Skráð miðgengi Seðlabanka Íslands fyrir evru 31. mars 2008 var 121,28.

36 . Samkvæmt hlutafélagalögum ber að leggja hluta óráðstafaðs eigin fjár í varasjóð, sem skal nema 25% af hlutafé, en sá varasjóður á ekkert skylt við varasjóð í sparisjóði.

37 . Í athugasemdum Guðmundar Haukssonar til rannsóknarnefndarinnar 17. desember 2013 kom fram að miðað hafi verið við 50% af hagnaði en ekki hlutfall af hlutafé.

38 . Hér er um að ræða nettóhækkun; útlán hækkuðu m.a. vegna gengisfalls og verðbólgu en aftur á móti var framlag í afskriftareikning á árinu 2008 mun hærra en fyrri ár.

39 . Skýrsla KPMG hf. um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis 2005.

40 . Skýrsla KPMG hf. um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis 2006.

41 . Skýrsla KPMG hf. um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis 2007.

42 . Skýrsla KPMG hf. um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis 2007.

43 . Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um útlánaáhættu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 22. október 2007. Samkvæmt 1. mgr. 29. gr. laga nr. 161/2002 máttu fjármálafyrirtæki ekki eiga eða taka að veði, nema með samþykki Fjármálaeftirlitsins, eigin hlutabréf sem næmi hærri fjárhæð að nafnverði en 10% af nafnverði innborgaðs hlutafjár fyrirtækisins. Í þessu ákvæði var hvergi minnst á stofnfé og í athugasemdum með frumvarpi til laganna var aðeins á það minnst í athugasemdum við 1. mgr. 29. gr. að ákvæðið væri hliðstætt 13. gr. eldri laga, nr. 113/1996, en þar voru ákvæði um að viðskiptabönkum væri óheimilt að eiga sjálfir eða taka að veði meira en 10% af eigin hlutafé.

44 . Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um útlánaáhættu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 22. október 2007.

45 . Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um útlánaáhættu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 22. október 2007.

46 . Í athugasemdum Guðmundar Haukssonar til rannsóknarnefndarinnar 17. desember 2013 kom fram að Fjármálaeftirlitið hefði gert álagspróf á sparisjóðnum árið 2008 og hann staðist það vel.

47 . Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um útlánaáhættu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 22. október 2007.

48 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis 22. október 2007.

49 . Bréf Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis til Fjármálaeftirlitsins 5. desember 2007.

50 . Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis hf., úttekt KPMG á úrbótum vegna skýrslu FME 22. október 2007 um útlánaáhættu, 8. febrúar 2008.

51 . Reglur Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis um framkvæmd starfa stjórnar og forstjóra voru endurnýjaðar 31. ágúst 2007.

52 . Lánahandbækur dagsettar 24. maí 2006 og 2. ágúst 2007.

53 . Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. reglna nr. 216/2007 um stórar áhættuskuldbindingar hjá fjármálafyrirtækjum var hámarkið 25%. Um skilgreiningu á eigin fé vísast til 84. gr. og 85. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.

54 . Samkvæmt 7. mgr. 2. gr. reglna nr. 216/2007 um stórar áhættuskuldbindingar hjá fjármálafyrirtækjum (sem leystu af reglur nr. 531/2003 með sama heiti) eru stórir skuldarar skilgreindir sem aðilar með heildarskuldbindingu yfir 10%. Breytingin hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis á sér ekki samsvörun í reglubreytingunni hjá Fjármálaeftirlitinu, en aðilum sem tilgreindir voru sem stórar áhættuskuldbindingar sparisjóðsins í skýrslugjöf til Fjármálaeftirlitsins fækkaði við þetta.

55 . Stórir skuldarar í þessu samhengi teljast einnig vera stórar áhættuskuldbindingar.

56 . Reglur Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis um framkvæmd starfa stjórnar og forstjóra, 5. október 2007.

57 . Lánahandbók Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 27. júní 2008.

58 . Skv. 3. mgr. 3. gr. reglna nr. 216/2007 og 30. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki var viðmiðið áttfalt, eða 800%

59 . Greinar 2.2–2.5 í lánahandbók Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis 2. ágúst 2007, meginreglur, upplýsingaöflun, lánveitingar til einstaklinga, lánveitingar til fyrirtækja. Afla bar nauðsynlegra upplýsinga um fjárhag viðskiptavinar og meta greiðslugetu hans. Hjá lögaðila bar að jafnaði að afla ársreikninga, árshlutauppgjöra, rekstrar- og greiðsluáætlana, skattframtala og annarra upplýsinga í samræmi við eðli viðskipta. Gæta þurfti að því að eiginfjárstaða viðskiptavinar væri viðunandi og að stjórn og framtíðarhorfur teldust góðar. Lán til einstaklinga skyldu taka mið af viðskiptum þeirra við sparisjóðinn og greiðslugetu.

60 . Grein 2.6, skuldbreytingar, í lánahandbók Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 2. ágúst 2007.

61 . Grein 1.5, tryggingar, í lánahandbók Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 2. ágúst 2007.

62 . Grein 3.3, lán án sérstakra trygginga til fyrirtækja, í lánahandbók Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 2. ágúst 2007.

63 . Grein 3.4.1, almennar reglur um tryggingar í húsnæði, í lánahandbók Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 2. ágúst 2007.

64 . Grein 3.4.5, fjölnota atvinnuhúsnæði, í lánahandbók Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 2. ágúst 2007.

65 . Grein 3.4.12, viðskiptakröfur, í lánahandbók Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 2. ágúst 2007.

66 . Grein 3.4.17 í lánahandbók Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 2. ágúst 2007; grein 3.4.15 í lánahandbók Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 24. maí 2006.

67 . Grein 3.4.14 í lánahandbók Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 2. ágúst 2007; grein 3.4.13 í lánahandbók Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 24. maí 2006.

68 . Grein 3.4.15, stofnfjárbréf, í lánahandbók Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 2. ágúst 2007.

69 . Grein 3.4.18 í lánahandbók Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 2. ágúst 2007; grein 3.4.16 í lánahandbók Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 24. maí 2006.

70 . Grein 5.4 í lánahandbók Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 2. ágúst 2007; grein 4.1.3 í lánahandbók Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 24. maí 2006.

71 . Grein 1.8 í lánahandbók Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 2. ágúst 2007.

72 . Grein 1.8, lánaheimildir, í lánahandbók Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 2. ágúst 2007.

73 . Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um útlánaáhættu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 22. október 2007.

74 . Grein 1.8, lánaheimildir, í lánahandbók Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 2. ágúst 2007. Í lánareglunum er framkvæmdastjóri skilgreindur sem staðgengill sparisjóðsstjóra. Ólafur Haraldsson gegndi því hlutverki á þessum tíma.

75 . Grein 1.7, skipulag lánastarfseminnar, í lánahandbók Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 2. ágúst 2007.

76 . Grein 5.6 í lánahandbók Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 2. ágúst 2007; grein 4.1.4 í lánahandbók Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 24. maí 2006.

77 . Skýrsla Guðmundar Haukssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 21. maí 2013.

78 . Grein 5.2 í lánahandbók Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 2. ágúst 2007; grein 4.1.1 í lánahandbók Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 24. maí 2006.

79 . Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um útlánaáhættu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 22. október 2007.

80 . Grein 8.1 í lánahandbók Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 2. ágúst 2007.

81 . Grein 8.9 í lánahandbók Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 2. ágúst 2007; grein 7.3.2 í lánahandbók Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 24. maí 2006.

82 . Grein 8.101 í lánahandbók Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 2. ágúst 2007.

83 . Greinar 8.10.3 og 8.10.4 í lánahandbók Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 2. ágúst 2007.

84 . Áhættustýringarhópur samanstóð af Páli Árnasyni forstöðumanni áhættustýringar, Guðmundi Haukssyni sparisjóðsstjóra, Ólafi Haraldssyni framkvæmdastjóra, Ósvaldi Knudsen framkvæmdastjóra fjárstýringar, Jóni Halli Péturssyni framkvæmdastjóra SPRON-Verðbréfa hf. og Kristni Bjarnasyni framkvæmdastjóra Frjálsa fjárfestingarbankans hf.

85 . Skýrsla Lárusar Sigurðssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 29. nóvember 2012.

86 . Þar á meðal aðila sem voru svo fjárhagslega tengdir að með hliðsjón af útlánaáhættu yrði að líta á skuldbindingar þeirra gagnvart sparisjóðnum sem eina heild.

87 . Í handbók um áhættustýringu var að öðru leyti vísað til starfsreglna útlánastýringar sparisjóðsins. Þær fundust ekki.

88 . Fyrstu tvær blaðsíðurnar í lánareglum Frjálsa fjárfestingarbankans hf. eru dagsettar 4. maí 2006, en á síðustu síðu reglnanna stendur að þær séu samþykktar 12. febrúar 2004.

89 . 2. gr. í almennum reglum um lánveitingar Frjálsa fjárfestingarbankans hf., 10. mars 2003.

90 . 4. gr. í almennum reglum um lánveitingar Frjálsa fjárfestingarbankans hf., 10. mars 2003.

91 . 5. gr. í almennum reglum um lánveitingar Frjálsa fjárfestingarbankans hf., 10. mars 2003.

92 . 4. gr. í almennum reglum um lánveitingar Frjálsa fjárfestingarbankans hf., 12. febrúar 2004.

93 . Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um útlánaáhættu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 22. október 2007.

94 . Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um útlánaáhættu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 22. október 2007.

95 . Grein 1.5 í lánareglum SPRON-Verðbréfa hf., desember 2006.

96 . Greinar 4.2 og 4.3 í lánareglum SPRON-Verðbréfa hf., desember 2006.

97 . Grein 1.6 í lánareglum SPRON-Verðbréfa hf., desember 2006.

98 . Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um útlánaáhættu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 22. október 2007.

99 . Grein 4.2. í lánareglum SPRON-Verðbréfa, desember 2006. Ekki er ljóst hvort hér er átt við eigið fé SPRON eða SPRON-Verðbréfa en í uppfærðum reglum sem samþykktar voru í nóvember 2007 af stjórn SPRON-Verðbréfa er talað um eigið fé SPRON-Verðbréfa.

100 . Grein 4.2 í lánareglum SPRON-Verðbréfa, desember 2006.

101 . Grein 2.1 í lánareglum SPRON-Verðbréfa, desember 2006.

102 . Grein 2.3 í lánareglum SPRON-Verðbréfa, desember 2006.

103 . Grein 2.5 í lánareglum SPRON-Verðbréfa, desember 2006.

104 . Greinar 3.1.1 og 3.1.2 í lánareglum SPRON-Verðbréfa, desember 2006.

105 . Grein 3.1.3 í lánareglum SPRON-Verðbréfa, desember 2006.

106 . Grein 3.1.4 í lánareglum SPRON-Verðbréfa, desember 2006.

107 . Greinar 3.1.5 og 3.1.6 í lánareglum SPRON-Verðbréfa, desember 2006.

108 . Greinar 6.3.4 og 6.3.5 í lánareglum SPRON-Verðbréfa, desember 2006.

109 . Dótturfélög sparisjóðsins skiluðu einnig inn skýrslum til Fjármálaeftirlitsins ef starfsemi þeirra heyrði undir reglur nr. 216/2007 um stórar áhættuskuldbindingar.

110 . Lánahópur samanstendur af tveimur eða fleiri viðskiptamönnum sem eru fjárhagslega tengdir í skilningi 1. mgr. 30. gr. nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.

111 . Hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis voru fjölmörg íbúðar- og framkvæmdalán, bæði hjá sparisjóðnum sjálfum og Frjálsa fjárfestingarbankanum hf. Þar sem stór hluti útlánasafnsins voru íbúðalán en meiri hluti sérgreindra afskrifta var af öðrum lánum en íbúðalánum nær úrtak byggt á háum afskriftum og stórum útlánum til minni hluta útlánasafns en yfir stóran hluta afskriftaframlags.

112 . Tölvuskeyti Fjármálaeftirlitsins til rannsóknarnefndarinnar 31. janúar 2012.

113 . Skýrsla innri endurskoðunar SPRON um starfsemi deildarinnar fyrir árið 2007, 20. febrúar 2008.

114 . Skjólvangur ehf. féll undir lánahóp Brautarholts 20 ehf. og tengdra aðila og sameinaðist Brautarholti 20 ehf. í júní 2007.

115 . Fundargerð lánanefndar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 12. apríl 2007.

116 . Skýrsla Lárusar Sigurðssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 29. nóvember 2012.

117 . Greinargerð sparisjóðsins yfir sérgreindar afskriftir yfir 1 milljón krónur, 17. desember 2008.

118 . Stórar áhættuskuldbindingar, minnisblað um hvort tilteknir aðilar séu fjárhagslega tengdir aðilar samkvæmt reglum FME nr. 531/2003, 5. október 2007.

119 . Tölvuskeyti Fjármálaeftirlitsins til rannsóknarnefndarinnar 5. júlí 2012.

120 . Ódagsett minnisblað Fjármálaeftirlitsins um aðdraganda sölunnar á Icebank og yfirlit yfir lánveitingar.

121 . Skýrsla PricewaterhouseCoopers um ákveðna þætti innra eftirlits í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, 16. október 2009.

122 . Tölvuskeyti Elínar Þorsteinsdóttur til Ólafs Haraldssonar 26. nóvember 2008.

123 . Fundargerð endurskoðunarnefndar SPRON hf., 6. janúar 2009.

124 . Skýrsla PricewaterhouseCoopers um ákveðna þætti innra eftirlits í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, 16. október 2009.

125 . Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 og tengda atburði, apríl 2010, 2. bindi, bls. 288.

126 . Aðrir nýir hluthafar á árinu 2007 samkvæmt hlutafjármiðum RSK voru Ásar-Capital með tæp 2%, Útnesjamenn með tæp 14%, Saltver með tæp 14% og Grindarvíkurkaupstaður með innan við 1% hlut. Hlutföll stofnenda félagsins lækkuðu öll í tæp 14% og Hvatning fór út úr félaginu.

127 . Skýrsla Lárusar Sigurðssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 29. nóvember 2012.

128 . Skýrsla PricewaterhouseCoopers um ákveðna þætti innra eftirlits í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, 16. október 2009.

129 . Skýrslur um stórar áhættuskuldbindingar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, unnar af sparisjóðnum og skilað til Fjármálaeftirlitsins ársfjórðungslega, 31. desember 2008.

130 . Skuldbindingar Suðurnesjamanna ehf. í lok árs 2008 voru 1.513 milljónir króna en sérgreint framlag í afskriftareikning á sama tíma nam 1.543 milljónum króna.

131 . Sjá nánari umfjöllun í 10. kafla.

132 . Í athugasemdum til rannsóknarnefndarinnar 17. desember 2013 sagði Guðmundur Hauksson að hlutabréfaeign hans hefði ekki haft áhrif á ákvarðanatöku eða afstöðu í málefnum Exista hf.

133 . Um innlánið er fjallað frekar hér aftar í kaflanum um fjármögnun sparisjóðsins.

134 . Fundargerð endurskoðunarnefndar SPRON hf., 6. janúar 2009.

135 . Skýrsla PricewaterhouseCoopers um ákveðna þætti innra eftirlits í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, 16. október 2009.

136 . Samkvæmt hlutafjármiðum sem skilað er til ríkisskattstjóra.

137 . Skýrsla Guðmundar Haukssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 21. maí 2013.

138 . Fundargerð lánanefndar Sparisjóðsins Reykjavíkur og nágrennis, 10. september 2007.

139 . Greinargerð til lánanefndar SPRON, 30. apríl 2008.

140 . Samantekt Lausna lögmannsstöfu fyrir Dróma hf. á kröfum í þrotabú Norðurhlíðar fasteignafélags ehf., 12. nóvember 2012.

141 . Skýrsla Lárusar Sigurðssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 29. nóvember 2012.

142 . Skýrslur um stórar áhættuskuldbindingar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, unnar af sparisjóðnum og skilað til Fjármálaeftirlitsins ársfjórðungslega, 31. desember 2008.

143 . Greinargerð sparisjóðsins yfir sérgreindar afskriftir yfir 1 milljón krónur, 17. desember 2008.

144 . Skýrsla Kristins Bjarnasonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 28. nóvember 2012.

145 . Skýrsla Kristins Bjarnasonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 28. nóvember 2012.

146 . Skýrslur um stórar áhættuskuldbindingar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, unnar af sparisjóðnum og skilað til Fjármálaeftirlitsins ársfjórðungslega, 31. desember 2008.

147 . Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um útlánaáhættu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 22. október 2007.

148 . Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 og tengda atburði, apríl 2010, 2. bindi, bls. 137.

149 . Einar Óskarsson eignaðist stóran hlut í R. Sigmundssyni ehf. í gegnum einkahlutafélagið Polar Group ehf., og gegndi Einar stöðu stjórnarformanns R. Sigmundssonar ehf. til ársloka 2007, þegar Úlfar Ármannsson tók við. Samkvæmt fundargerðum lánanefndar sparisjóðsins var Einar Óskarsson nefndur í forsvari fyrir kaupin á R. Sigmundssyni ehf., Vélasölunni ehf. og Radíómiðun-Ísmar ehf.

150 . Í lok árs 2005 átti Polar Group ehf. 60% eignarhlut í R. Sigmundssyni ehf. Í árslok 2006 var hluturinn 50,4% og 73,4% í árslok 2007.

151 . Sem þá var búið að sameina R. Sigmundssyni ehf.

152 . Tillaga að endurfjármögnun R. Sigmundssonar ehf., ódagsett minnisblað.

153 . Skýrsla Lárusar Sigurðssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 29. nóvember 2012.

154 . Fyrrverandi stjórnarmaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi í R. Sigmundssyni ehf./R.S. rekstri ehf.

155 . Skýrsla PricewaterhouseCoopers um ákveðna þætti innra eftirlits í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis 16. október 2009.

156 . „Búið að kyrrsetja jarðir æðstu toppanna“, visir.is 21. desember 2011, http://www.visir.is/buid-ad-kyrrsetja-jardir-
aedstu-toppanna/article/2011712219793.

157 . Samandreginn ársreikningur Miðvarðar ehf. 2008.

158 . Tölvuskeyti Ólafs Haraldssonar til Hauks Páls Guðmundssonar 31. janúar 2007.

159 . Í lánareglum var ekki tilgreint að stofnfjárbréf féllu undir óskráð bréf, en áhættu af veðtöku í stofnfjárbréfum má telja áþekka veðtöku í óskráðum hlutabréfum.

160 . Fundargerð endurskoðunarnefndar SPRON hf., 6. janúar 2009.

161 . Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um útlánaáhættu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis 22. október 2007. Í athugasemdum sparisjóðsins við skýrslu Fjármálaeftirlitsins kom fram að málið yrði tekið til skoðunar.

162 . Fram kom í skýringum að framlag í afskriftasjóð væri aðeins varúðarafskrift. Viðkomandi væri eignamaður en óvarlegt væri að „gera ráð fyrir að hann greiði meira en honum ber lagalega“.

163 . Ekki var um að ræða eiginlega nauðasamninga í skilningi laga um gjaldþrotaskipti o.fl. heldur samkomulag milli sparisjóðsins og starfsmannanna sem hafði ekki sömu réttaráhrif og eiginlegur nauðsamningur.

164 . Nýjar starfsreglur voru settar 31. ágúst 2007 en þær breyttu ekki mörkum fjárfestingaheimilda frá því sem áður var. Þá voru hlutverk stjórnar og starfsskyldur sparisjóðsstjóra (sem var kallaður forstjóri í nýjum reglum þar sem þær giltu um Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis hf.) svipuð í þeim reglum. Þó bættist meðal annars við um hlutverk stjórnar í 12. gr. að hún skyldi „sjá til þess að forstjóri og aðrir stjórnendur [fylgdu] útlánastefnu félagsins og [framkvæmdu] þær aðgerðir sem þörf [væri] á til að fylgja áhættustefnu og mörkum áhættutöku í rekstri félagsins“.

165 . Útboðslýsing Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 6. maí 2005.

166 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 31. janúar 2005.

167 . Rammasamningur um eignastýringu, ávöxtun og vörslu verðbréfa milli Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis og SPRON-Verðbréfa hf., 27. október 2006.

168 . Skýrsla Valgeirs M. Baldurssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 3. desember 2012.

169 . Valgeir var upphaflega ráðinn til Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis árið 2006 í fyrirtækjaráðgjöf.

170 . Skýrsla Valgeirs M. Baldurssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 3. desember 2012.

171 . Skýrsla Valgeirs M. Baldurssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 3. desember 2012.

172 . Skýrsla Ragnars Þ. Guðgeirssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 29. nóvember 2012.

173 . Eigin viðskipti SPRON hf. Breytingar á rammasamningi frá árinu 2006, 7. desember 2007.

174 . Miðað við fast verðlag ársins 2011 í árslok 1997 var samtalan tæplega 12 milljarðar króna.

175 . „Kaupþing banki hf. – tilkynningarskyld viðskipti“, fréttavefur Kauphallar Íslands hf. 11. október 2002 kl. 10:08:14, http://news.icex.is/newsservice/MMIcexNSWeb.dll/newspage?language=EN&pagetype=newstypesnewslist&primarylanguagecode=IS&newsnumber=18819; „Kaupþing banki hf. – tilkynningarskyld viðskipti“, fréttavefur Kauphallar Íslands hf. 11. október 2002 kl. 10:09:54, http://news.icex.is/newsservice/MMIcexNSWeb.dll/newspage?language=IS&pagetype=newstypesnewslist&primarylanguagecode=IS&newsnumber=18820.

176 . Í athugasemdum Guðmundar Haukssonar til rannsóknarnefndarinnar 22. nóvember 2013 sagði hann lækkun á hlutafjármörkuðum um aldamótin og litlar tekjur af hlutdeildarfélögum helstu ástæðu þessa.

177 . Rétt er að benda á að ávöxtun er reiknuð sem hlutfall af meðalstöðu eigna. Þegar tap verður á eignum, eins og varð 2008 og 2009, verður ávöxtun neikvæð. Í einhverjum tilvikum verður hún neikvæð um meira en 100% vegna þess að tapi er deilt í meðalstöðu eigna. Ekki ætti að vera hægt að tapa meiru en fjárfest hefur verið fyrir (að því gefnu að engir framvirkir samningar séu til staðar) en með þeirri aðferð sem notuð er hér við að reikna ávöxtun getur hún birst með þessum hætti. Því er ekki verið að leggja til hér að sparisjóðurinn hafi tapað meiru en hann átti í fjáreignum.

178 . Í sömu skýrslu kom fram að áhrif eignarhluta sparisjóðsins í Kaupþingi hf. hefðu verið jákvæð um 296 milljónir króna á árinu 2001.

179 . Skýrsla um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis fyrir árið 2001.

180 . Skýrsla um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis fyrir árið 2003.

181 . Auk þessa hafði sparisjóðurinn arðstekjur af Exista hf.

182 . Umfjöllun um Exista hf. má finna í 10. kafla.

183 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis 6. september 2004.

184 . Skýrsla KPMG hf. um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis 2004.

185 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis 6. september 2004. Í bréfinu kom meðal annars fram að ef 50% eða meira af heildareignum félags væru eignarhlutur í lánastofnun teldist það alltaf fyrirtæki tengt fjármálafyrirtæki.

186 . „Exista acquires 15.48% shareholding in Finnish Group Sampo“, vefur OMX Nordic Exchange 8. febrúar 2007, http://news.icex.is/newsservice/MMIcexNSWeb.dll/newspage?language=EN&pagetype=&primarylanguagecode=EN&newsnumber=36674.

187 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 9. janúar 2003.

188 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 30. maí 2005.

189 . Skýrsla Guðmundar Haukssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 16. maí 2013.

190 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 8. nóvember 2006; fundargerð stjórnar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 22. nóvember 2006.

191 . Um þetta er fjallað nánar í kafla 17.3.2. Í athugasemdum til rannsóknarnefndarinnar 22. nóvember 2013 benti Guðmundur Hauksson á að fjárfestingarnar hefðu alltaf verið dregnar frá eigin fé við útreikning á eiginfjárgrunni, líkt og gera bar.

192 . Skýrsla Guðmundar Haukssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 16. maí 2013.

193 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 31. janúar 2005.

194 . Skýrsla KPMG hf. um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis 2007. Í skýrslunni kemur fram að samningurinn um kaupin á 4% hlutnum hafi verið við Sparisjóðinn í Keflavík en það afrit af samningnum sem rannsóknarnefndin hefur er söluréttarsamningur við Sparisjóðinn í Keflavík og Sparisjóð Mýrasýslu.

195 . Útboðslýsing Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 18. október 2007.

196 . Tölvuskeyti Ósvaldar Knudsen til Guðmundar Haukssonar og Ragnars Þóris Guðgeirssonar 25. mars 2008.

197 . Bréf Nýsis hf. til Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis 2. apríl 2008.

198 . Stjórnvaldssekt Fjármálaeftirlitsins vegna brota Nýsis hf. á 1. mgr. 45. gr., 2. mgr. 68. gr. og 1. mgr. 122. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007, 10. ágúst 2009.

199 . Skýrsla Ragnars Þ. Guðgeirssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 29. nóvember 2012.

200 . Tölvuskeyti starfsmanns Rekstrarfélags Spron hf. til starfsmanns Eimskips 15. september 2008.

201 . Tölvuskeyti Brynjars Kristjánssonar til Valgeirs M. Baldurssonar 1. október 2008.

202 . Rétt er að taka fram að um er að ræða nálgun rannsóknarnefndarinnar á tapinu út frá sundurliðunum sem afhentar voru. Uppgefin fjárhæð hér miðar við tap af skuldabréfum Milestone ehf., Sparisjóðs Mýrasýslu, Sparisjóðs Svarfdæla, Atorku Group hf., Baugs Group hf., FL Group hf., Samson eignarhaldsfélags ehf. og Fasteignafélagsins Stoða hf. Tap af skuldabréfum Exista hf. var 767 milljónir króna en hluti af því var vegna bréfa sem sparisjóðurinn átti fyrir og hafði ekki keypt úr peningamarkaðssjóðum. Sundurliðun frá sparisjóðnum nær ekki til þess hvaðan skuldabréfin voru keypt svo hægt sé að sundurliða þetta tap frekar.

203 . Samkvæmt skjölum frá Landsbanka Íslands hf. um niðurstöðu stofnfjárútboðs Sparisjóðsins í Keflavík í desember 2007 átti Frjálsi fjárfestingarbankinn hf. 217,6 milljónir hluta en sömu hlutfallseign og um getur í hlutafjármiðum.

204 . Samrunaáætlun Sparisjóðsins í Keflavík, Sparisjóðs Vestfirðinga og Sparisjóðs Húnaþings og Stranda, 11. september 2007.

205 . Samkvæmt hlutafjármiðum var eignarhluturinn skráður á Sparisjóð Vestfirðinga og var hann 1%. Eignarhluturinn í Sparisjóðnum í Keflavík var 16,4% af einu prósenti eða 0,2%.

206 . Tölvuskeyti Kristins Bjarnasonar til Ragnars Þ. Guðgeirssonar 7. mars 2008.

207 . Sjá t.d. „Sparisjóðurinn í Keflavík, BYR og SPRON undirrita viljayfirlýsingu um sameiningu“, vefsíða Víkurfrétta 4. desember 2008.

208 . Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 og tengda atburði, 2010, 2. bindi, bls. 21.

209 . „A tsunami of hope or terror“, Business Spectator 19. nóvember 2008, http://www.businessspectator.com.au/bs.nsf/Article/A-tsunami-of-hope-or-terror-LHRJP?OpenDocument.

210 . Þarna var í raun gert ráð fyrir því að öll fjárfestingin myndi tapast, 10 milljónir evra á genginu 169,97 sem var miðgengi Seðlabanka Íslands 31. desember 2008.

211 . Útboðslýsing Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 18. október 2007.

212 . Félagið var stofnað sem Samvinnusjóður Íslands hf. árið 1982.

213 . Eignarhlutur í fjármálafyrirtækjum kemur til frádráttar eiginfjár í útreikningum skv. 85. gr. laga nr. 161/2002.

214 . Kynning vegna kaupa á Frjálsa fjárfestingarbankanum hf. fyrir stjórn Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, maí 2002.

215 . Þessir sparisjóðir voru Sparisjóður vélstjóra, Sparisjóður Kópavogs, Sparisjóður Hafnarfjarðar og Sparisjóður Norðlendinga.

216 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 11. júní 2002.

217 . „SPRON kaupir Frjálsa fjárfestingarbankann af Kaupþingi“, Morgunblaðið 30. september 2002.

218 . Bréf KPMG hf. til Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis 14. nóvember 2002.

219 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 12. desember 2001.

220 . „Telja SPRON hafa keypt bankann á of háu verði“, Morgunblaðið 22. desember 2002.

221 . „Bankinn metinn á 2,4–2,9 milljarða“, Morgunblaðið 15. janúar 2003.

222 . Pétur H. Blöndal, „SPRON greiddi allt of hátt verð“, Morgunblaðið 15. janúar 2002.

223 . „Villur í verðmati“, Morgunblaðið 24. janúar 2003.

224 . „Verðmat bankans hækkar um rúman milljarð“, Morgunblaðið 1. mars 2003.

225 . Skýrsla Geirs Þórðarsonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 27. nóvember 2012.

226 . Skýrsla Geirs Þórðarsonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 27. nóvember 2012.

227 . Skýrsla Geirs Þórðarsonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 27. nóvember 2012.

228 . Útboðslýsing Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 18. október 2007.

229 . Glærukynning um Finhill, 28. nóvember 2007.

230 . Skýrsla Valgeirs M. Baldurssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 3. desember 2012.

231 . Tölvuskeyti Valgeirs M. Baldurssonar til KPMG hf. 4. desember 2008.

232 . Þetta kemur t.d. fram í skýringum með ársreikningi félagsins fyrir árið 2011.

233 . Skýrsla Valgeirs M. Baldurssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 3. desember 2012.

234 . Skýrsla Valgeirs M. Baldurssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 3. desember 2012.

235 . Tölvuskeyti Arnar Viðars Skúlasonar til Hörpu Gunnarsdóttur, Jóns Halls Péturssonar og Guðna Halldórssonar 21. ágúst 2007.

236 . Fjárfestingafélög SPRON: Staða og stefna. Kynning fyrir stjórnarfund SPRON, 25. apríl 2007.

237 . Útboðslýsing Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 18. október 2007.

238 . Skýrsla Erlendar Hjaltasonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 24. apríl 2013.

239 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 17. júlí 2007.

240 . Ársreikningur Steinsness 2007.

241 . Ársskýrsla SPRON 2007.

242 . „SPRON opnar skrifstofu í Berlín“, mbl.is 16. nóvember 2006, http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2007/11/16/spron_opnar_skrifstofu_i_berlin/.

243 . Skýrsla Erlendar Hjaltasonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 24. apríl 2013.

244 . „SPRON opnar skrifstofu í Berlín“, mbl.is 16. nóvember 2006, http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2007/11/16/spron_opnar_skrifstofu_i_berlin/.

245 . Kynning lögð fram á stjórnarfundi Steinsness ehf., 25. mars 2008.

246 . Ársreikningur Steinsness 2011.

247 . Tölvuskeyti Þorsteins Rafns Johnsen til Valgeirs Más Baldurssonar, Jóns Gunnars Vilhelmssonar og Kristjáns Björgvinssonar 29. apríl 2009.

248 . Skýrsla Gunnars Inga Halldórssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 24. október 2012.

249 . Ársreikningur Fasteignafélagsins Kurfurst ehf. 2011.

250 . Tölvuskeyti Arnar Viðars Skúlasonar til Ólafs Haraldssonar, Jóns Halls Péturssonar og Valgeirs Más Baldurssonar 7. febrúar 2007.

251 . Fundargerð stjórnar Steinsness ehf., 1. febrúar 2007.

252 . Fundargerð stjórnar Steinsness ehf., 25. mars 2008.

253 . Tölvuskeyti Jóns Halls Péturssonar til Jóns Gunnars Vilhelmssonar og Valgeirs Más Baldurssonar 18. desember 2008.

254 . Samkvæmt hlutafjármiðum sem skilað er til ríkisskattstjóra.

255 . Tölvuskeyti Jóns Halls Péturssonar til Sigurjóns Rafnssonar 4. september 2006.

256 . Tölvuskeyti Arnar Viðars Skúlasonar til Kristjáns Vilhelmssonar, Rúnars Sigurpálssonar, Jóns Halls Péturssonar og Valgeirs Más Baldurssonar 23. maí 2007.

257 . Fundargerð stjórnar Steinsness ehf., 13. september 2007.

258 . Tölvuskeyti Jóns Halls Péturssonar til Guðmundar Haukssonar 13. mars 2008.

259 . Landsbanki Aquila Real Estate Fund I – Activity Update H1 2007, kynningarbæklingur Landsbankans og Askar Capital, 30. júní 2007.

260 . Tölvuskeyti Jóns Halls Péturssonar til Gunnars Sveins Magnússonar og Arnar Viðars Skúlasonar 27. febrúar 2007.

261 . Fundargerð stjórnar Steinsness ehf., 13. september 2007.

262 . LAREF – Investor Meeting 2008, 16. maí 2008.

263 . Ársreikningur Steinsness 2008.

264 . Ársreikningur Steinsness 2009.

265 . Hugsanleg aðild Steinsness að EROS ehf., 15. mars 2007.

266 . Aðild Steinsness að EROS ehf., 31. mars 2007.

267 . Samkvæmt hlutafjármiðum sem skilað er til ríkisskattstjóra.

268 . Ársreikningar Steinsness ehf.

269 . Samkvæmt hlutafjármiðum sem skilað er til ríkisskattstjóra.

270 . Ársreikningur Polar Group ehf. 2005.

271 . Tölvuskeyti Arnar Viðars Skúlasonar til Einars Arnar Ævarssonar 8. október 2007.

272 . Samkvæmt hlutafjármiðum sem skilað er til ríkisskattstjóra.

273 . Ársreikningur Polar Group ehf. 2007.

274 . Samkvæmt hlutafjármiðum sem skilað er til ríkisskattstjóra.

275 . Fundargerð stjórnar Steinsness ehf., 16. janúar 2008.

276 . Tölvuskeyti Arnar Viðars Skúlasonar til Ólafs Haraldssonar og Jóns Halls Péturssonar 26. febrúar 2008.

277 . Tölvuskeyti þjónustustjóra á viðskiptabankasviði sparisjóðsins til Ólafs Haraldssonar 15. desember 2008.

278 . Ársreikningur Gifsfélagsins ehf. 2008.

279 . Samkvæmt hlutafjármiðum sem skilað er til ríkisskattstjóra.

280 . Samkvæmt hlutafjármiðum sem skilað er til ríkisskattstjóra.

281 . Ársreikningur samstæðu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis 2008.

282 . Ársreikningur Rekstrarfélags Spron hf. 2008.

283 . Rétt er að geta þess að mismunur er á upplýsingum um hreina eign peningamarkaðssjóðs SPRON sem fram kemur í ársreikningi Rekstrarfélags Spron hf. annars vegar og samkvæmt upplýsingum frá Arion verðbréfavörslu hf. (Verdis) hins vegar.

284 . „Peningamarkaðssjóðir rekstrarfélaga verðbréfasjóða“, vefsíða Fjármálaeftirlitsins, http://www.fme.is/utgefid-efni/frettir-og-tilkynningar/frettir/nr/447.

285 . Ástæða þess að útreikningur á útgreiðsluhlutfalli sjóðanna var miðaður við 26. september 2008 í minnisblaðinu var sú að 29. september 2008 hafði FL Group hf. farið í greiðslustöðvun. Hafði gengi peningamarkaðssjóðs rekstrarfélaga Glitnis og Byrs verið lækkað vegna þess. Þegar þeim sjóðum var síðan slitið endurspeglaði tilkynnt útgreiðsluhlutfall þeirra ekki þá lækkun sem orðið hafði á gengi sjóðanna við greiðslustöðvun FL Group heldur eingöngu tap sem orðið hafði eftir þann tíma. Þannig tilkynnti Glitnir að útgreiðsluhlutfall peningamarkaðssjóðs Glitnis væri 85,12% en ef horft var til 26. september 2008, áður en FL Group fór í greiðslustöðvun, reiknaðist útgreiðsluhlutfallið 79,22%. Í tilfelli peningamarkaðssjóðs Byrs var tilkynnt útgreiðsluhlutfall 94,9% en reiknað útgreiðsluhlutfall miðað við 26. september 88,13%.

286 . Þá er átt við þá fjármuni sem voru til ráðstöfunar fyrir hlutdeildarskírteinishafa peningamarkaðssjóðsins.

287 . Minnisblað sparisjóðsins um stöðu peningamarkaðssjóðs SPRON, 9. nóvember 2008.

288 . Byggt á upplýsingum frá Arion verðbréfavörslu hf. (Verdis).

289 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 10. nóvember 2008.

290 . Tölvuskeyti Ara Bergmanns Einarssonar 11. nóvember 2008.

291 . Yfirlit um atvinnugreinaflokkun innlána sparisjóðsins sem skilað var mánaðarlega til Seðlabanka Íslands frá júlí 2007 til desember 2011.

292 . Frá miðju ári 2007 til febrúar 2009.

293 . Skýrsla Gunnars Inga Halldórssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 24. október 2012.

294 . Upplýsingar úr reikningsyfirlitum yfir innlánsreikninga Rekstrarfélags Spron hf. sem Drómi hf. afhenti rannsóknarnefndinni.

295 . „SPRON greiðir út allar eignir sjóðsfélaga úr Peningamarkaðssjóði“, vefsíða Samtaka fjármálafyrirtækja 11. nóvember 2008, http://www.sff.is/frettir/frettir/nr/416.

296 . Skýrsla Gunnars Inga Halldórssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 24. október 2012.

297 . Tölvuskeyti forstöðumanns fjárstýringar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis til starfsmanns sparisjóðsins 1. október 2008.

298 . Flokkurinn var með auðkennið SPR 06 1 og samanstóð af verðtryggðum vaxtalausum eingreiðslubréfum. Hinn 1. mars 2006 gaf sparisjóðurinn út víxla í þessum flokki sem nam 3 milljörðum króna og 10. mars 2008 voru 3 milljarðar króna til viðbótar gefnir út.

299 . Í þessum flokki, með auðkennið SPR 08 1, voru útgefnir 3 milljarðar króna 30. apríl 2008.

300 . Greinargerð vegna fyrirspurnar Fjármálaeftirlitsins um tiltekin innlán Íbúðalánasjóðs hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, 20. apríl 2009.

301 . „Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar“, vefsíða forsætisráðuneytisins 6. október 2008, http://www.forsaetisraduneyti.is/frettir/nr/3032.

302 . Greinargerð vegna fyrirspurnar Fjármálaeftirlitsins um tiltekin innlán Íbúðalánasjóðs hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, 20. apríl 2009.

303 . Greinargerð vegna fyrirspurnar Fjármálaeftirlitsins um tiltekin innlán Íbúðalánasjóðs hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, 20. apríl 2009.

304 . Erlendur Hjaltason var annar tveggja forstjóra Exista hf. á þessum tíma og jafnframt stjórnarformaður sparisjóðsins. Guðmundur Hauksson, forstjóri sparisjóðsins og stjórnarmaður í Exista hf., sat jafnframt fundinn.

305 . Tölvuskeyti Stéfáns Þórs Sigtryggssonar til Önnu Kristínar Björnsdóttur, Gunnars Inga Halldórssonar og Ósvalds Knudsen 2. mars 2009.

306 . Vaxtatafla Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis sem í gildi var 11. nóvember 2008.

307 . Með dómum Hæstaréttar hafa heildsöluinnlán verið felld undir hugtakið innistæða samkvæmt íslenskum lögum og njóta því sömu réttinda og almennar innistæður. Má þar nefna dóm Hæstaréttar frá 28. október 2011 í máli nr. 311/2011. Var þar meðal annars tekið tillit til orðalags samnings, greiðslna í tryggingasjóð innistæðueigenda, aðgreiningar frá láni, aðgreiningu frá verðbréfi og hvort heildsöluinnlán væru þáttur í hefðbundinni almennri bankastarfsemi.

308 . Skýrsla Gunnars Inga Halldórssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 24. október 2012; skýrsla Guðmundar Haukssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 16. maí 2013.

309 . Skýrsla Valgeirs M. Baldurssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 3. desember 2012.

310 . Skýrsla Gunnars Inga Halldórssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 24. október 2012.

311 . Skýrsla Guðmundar Haukssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 16. maí 2013.

312 . Upplýsingar úr sundurliðun innlána frá fjármálafyrirtækjum og Seðlabanka sem KPMG afhenti rannsóknarnefndinni.

313 . Yfirlit dag- og veðlána frá Seðlabanka Íslands, 2005–2011.

314 . Mánaðarskýrsla hagdeildar SPRON, 30. september 2008.

315 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 22. október 2008.

316 . Nánar er fjallað um reglur um viðskipti lánastofnana við Seðalabanka Íslands í 6. kafla, um eftirlit með starfsemi sparisjóða.

317 . Tölvuskeyti Ósvalds Knudsen til Sturlu Pálssonar 20. febrúar 2009.

318 . Í athugasemdum Guðmundar Haukssonar til rannsóknarnefndarinnar 22. nóvember 2013 sagði hann lausafjárstöðu sparisjóðsins hafa verið góða framan af árinu 2008 og þessi fyrirgreiðsla gæti ekki hafa tengst lausafjárskorti.

319 . Bréf Guðrúnar Ögmundsdóttur til Tryggva Pálssonar 17. desember 2008; skýrsla Gerðar Ísberg fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 30. október 2012.

320 . Nánar er fjallað um staðfestingu Íbúðalánasjóðs í kafla 17.4.3.1.2.

321 . Skýrsla Gerðar Ísberg fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 30. október 2012; tölvuskeyti Seðlabanka Íslands til rannsóknarnefndarinnar 17. janúar 2013.

322 . Skýrsla Sturlu Pálssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 30. september 2013.

323 . A-lagið var með hæsta lánshæfismat frá alþjóðlega matsfyrirtækinu Moody's.

324 . Gjarnan er talað um frádrag, en mismunur á 100% og frádragshlutfallinu er veðsetningarhlutfallið. Frádragið er þá 25% hér.

325 . Hámarksfrádrag var 14%.

326 . Gengið á bréfinu sjálfu var alltaf 1 en þegar myntgengið breyttist, þ.e. gengi krónu gagnvart evru, hafði það áhrif á markaðsvirði bréfsins sem gefið var út í evru en lánið var veitt í krónum.

327 . Frádrag daglána mátti ekki fara undir 10%.

328 . 25% af A-laginu var ekki veðsett en nafnverð þess var 124,8 milljónir evra. Því voru óveðsettar 31,2 milljónir evra. Sú fjárhæð, að viðbættu nafnverði B-lagsins sem var 34,2 milljónir evra, var samtals 65,4 milljónir evra.

329 . Skýrsla Gerðar Ísberg fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 30. október 2012.

330 . Ódagsett minnisblað sparisjóðsins um fjármögnun íbúðalána með verðbréfunarfyrirkomulagi.

331 . Fundargerð stjórnar Rekstrarfélags Spron hf., 28. febrúar 2008.

332 . Ódagsett minnisblað sparisjóðsins um fjármögnun íbúðalána með verðbréfunarfyrirkomulagi.

333 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 28. nóvember 2007.

334 . Bréf Seðlabanka Íslands til Fjármálaeftirlitsins 12. mars 2009; tölvuskeyti Ósvalds Knudsen til Gerðar Ísberg 8. október 2008.

335 . Nafnverð yfirlýsingar sjóðsins var skráð 10,2 milljarðar króna hjá Seðlabanka Íslands, 10% frádragi var beitt vegna daglána en ekkert frádrag var vegna veðlánanna. Í fyrirhuguðum kaupsamningi var markaðsverðmæti Íbúðalánasjóðsbréfa (HFF) sem nota átti til greiðslu fyrir hluta lánasafnsins 10,2 milljarðar króna.

336 . Tölvuskeyti Guðmundar Bjarnasonar til Sturlu Pálssonar og Tryggva Pálssonar 22. október 2008.

337 . Tölvuskeyti Gerðar Ísberg til Tinnu Finnbogadóttur 6. nóvember 2012.

338 . Tölvuskeyti Seðlabanka Íslands til rannsóknarnefndarinnar 17. janúar 2013.

339 . Skýrsla Sturlu Pálssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 30. september 2013.

340 . Tölvuskeyti Stefáns Þórs Sigtryggssonar til Guðmundar Haukssonar, Valgeirs Más Baldurssonar, Páls Árnasonar, Ólafs Haraldssonar, Jóns Gunnars Vilhelmssonar, Jóns Halls Péturssonar, Ósvalds Knudsen og Gunnars Inga Halldórssonar 22. október 2008.

341 . Tölvuskeyti Magnúsar Inga Erlingssonar til Guðmundar Bjarnasonar 29. maí 2009.

342 . Reglugerð nr. 1081/2008 um heimild Íbúðalánasjóðs til að kaupa skuldabréf fjármálafyrirtækja sem tryggð eru með veði í íbúðarhúsnæði.

343 . Í 4. gr. reglugerðar nr. 1081/2008 segir að stjórn Íbúðalánasjóðs geti sett nánari reglur, sem ráðherra staðfestir, um meðferð umsókna og lánasamninga sem gerðir eru á grundvelli umsókna samkvæmt 2. gr. sömu reglna.

344 . Tölvuskeyti Guðmundar Bjarnasonar til Seðlabanka Íslands 2. júní 2009.

345 . Skýrsla Inga Kristins Pálssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 24. október 2012.

346 . Fyrirhuguð kaup Íbúðalánasjóðs á skuldabréfasafni SPRON í október 2008, greinargerð Íbúðalánasjóðs, 18. október 2012.

347 . Tölvuskeyti Guðmundar Bjarnasonar til Seðlabanka Íslands 2. júní 2009. Í athugasemdum Guðmundar Haukssonar til rannsóknarnefndarinnar 22. nóvember 2013 kom fram að hann teldi sparisjóðinn hafa greitt um fjóra milljarða í vaxtakostnað til Seðlabankans vegna fyrirgreiðslna frá október 2008 til mars 2009.

348 . Tölvuskeyti Guðmundar Bjarnasonar til Seðlabanka Íslands 2. júní 2009.

349 . Tölvuskeyti Eignasafns Seðlabanka Íslands til rannsóknarnefndarinnar 8. nóvember 2012.

350 . Vegið veðhlutfall lánasafnsins var 75,2% (e. loan to value).

351 . Til þess hefðu þau meðal annars þurft að vera rafrænt skráð og hafa viðskiptavaka á skipulegum verðbréfamarkaði eða viðurkenndri upplýsingaveitu.

352 . Vegið veðsetningarhlutfall undirliggjandi lánasafns var 95% miðað við gengi krónunnar 9. desember 2008.

353 . Tölvuskeyti Eignasafns Seðlabanka Íslands til rannsóknarnefndarinnar 8. nóvember 2012.

354 . Skýrsla Gerðar Ísberg fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 30. október 2012.

355 . Fall og endurskipulagning minni fjármálafyrirtækja í mars 2009 – drög að vinnuskjali, 7. mars 2009.

356 . Bréf Seðlabanka Íslands til Fjármálaeftirlitsins 12. mars 2009.

357 . Tölvuskeyti Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis til Seðlabanka Íslands 8. mars 2009.

358 . Tölvuskeyti Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis til Seðlabanka Íslands 8. mars 2009.

359 . Skýrsla Sturlu Pálssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 30. september 2013.

360 . Samkomulag um uppgjör vegna viðskipta SPRON við Seðlabanka Íslands og vegna kröfulýsingar ESÍ í slitabú SPRON, 7. júlí 2011.

361 . Innlausnarvirði lánasafnanna var metið 13,1 milljarður króna miðað við 30. apríl 2011. Innistæður á bankareikningum vegna greiðsluflæðis af lánunum námu um 1,5 milljörðum króna.

362 . Skýrsla Guðmundar Haukssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 16. maí 2013.

363 . Skýrsla Ósvalds Knudsen fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 30. nóvember 2012.

364 . Skýrsla Kristins Bjarnasonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 28. nóvember 2012.

365 . Skýrsla Gunnars Inga Halldórssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 24. október 2012.

366 . Ársreikningar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis.

367 . Samkvæmt afriti af gagnagrunni fjárstýringarkerfis Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis (IT2).

368 . Skýrsla Gunnars Inga Halldórssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 24. október 2012.

369 . Skýrsla Ósvalds Knudsen fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 30. nóvember 2012.

370 . Miðgengi evru 21. mars 2009 samkvæmt Seðlabanka Íslands var 154,28.

371 . Sjá nánar í 11. kafla, um fjármögnun sparisjóðanna.

372 . Flokkar með auðkennin SPR 07 2 og SPR 07 3.

373 . Tölvuskeyti Gunnars Inga Halldórssonar til Guðmundar Haukssonar o.fl. 3. mars 2009.

374 . Um er að ræða útgáfuna SPR 06 2 að nafnverði 5 milljarðar króna með hálfs árs líftíma, SPR 07 1 að nafnverði 3 milljarðar króna með 18 mánaða líftíma, SPR 07 2 að nafnverði 2,5 milljarðar króna með 13 mánaða líftíma og SPR 07 3 með 14 mánaða líftíma.

375 . Um var að ræða bæði verðtryggð og óverðtryggð skuldabréf með 30 mánaða til sjö ára líftíma. Auðkenni þeirra eru SPR 08 1, SPR 08 2, SPR 08 3, SPR 08 4 og SPR 08 5.

376 . Skýrsla Ósvalds Knudsen fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 30. nóvember 2012.

377 . Tölvuskeyti Kauphallar Íslands til rannsóknarnefndarinnar 21. mars 2013.

378 . Sjá umfjöllun um Geysi 2008-I Institutional Investor Fund og GIIF 08 1 hér framar.

379 . Minnispunktar Guðmundar Haukssonar, 16. júní 2008.

380 . Skýrsla Ósvalds Knudsen fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 30. nóvember 2012.

381 . Lánið frá HSH Nordbank var framselt, samkvæmt heimildum í samningi, til Mare Baltic PCC 1. nóvember 2005.

382 . Holt Investment Group Ltd. fékk tæplega 986 milljónir króna lánaðar frá sparisjóðnum í desember 2006 til þess að kaupa víkjandi skuldabréf sparisjóðsins. Samkvæmt lánagagnagrunni sparisjóðsins var lánið greitt upp í ágúst 2007 en félagið seldi skuldabréfið 7. ágúst 2007 samkvæmt upplýsingum frá Verðbréfaskráningu Íslands.

383 . Upplýsingar samkvæmt yfirliti frá Verðbréfaskráningu Íslands.

384 . Tölvuskeyti Ósvalds Knudsen til Gunnars Inga Halldórssonar 13. desember 2006.

385 . Skráð miðgengi Seðlabanka Íslands fyrir evrur 31. mars 2008 var 121,28.

386 . Tölvuskeyti Valgeirs M. Baldurssonar til Sigurðar Jónssonar 26. mars 2008.

387 . Tölvuskeyti Guðmundar Þórs Gunnarssonar til Valgeirs M. Baldurssonar 31. mars 2008.

388 . Tölvuskeyti Valgeirs M. Baldurssonar til Guðmundar Þórs Gunnarssonar 31. mars 2008.

389 . Minnispunktar Guðmundar Haukssonar, 16. júní 2008.

390 . „Spron tekur fimm milljarða króna víkjandi lán“, Viðskiptablaðið 2. apríl 2008.

391 . Í lok árs 2007 var Nýrækt ehf. í 50% eigu Sundagarða ehf. og 50% eigu Eignarhaldsfélagsins Mata hf. Á sama tíma átti Eignarhaldsfélagið Mata hf. 45,7% hlut í Sundagörðum en aðrir stórir eigendur voru Edda Ingibjörg Eggertsdóttir og Gísli V. Einarsson með 21,7% eignarhlut hvort í lok árs 2007. Þau Gísli og Edda áttu hvort um sig 40% hlut í Eignarhaldsfélaginu Mata hf. á þessum tíma.

392 . Í lok árs 2007 var eini eigandi þessa félags Íslenskar sjávarafurðir ehf. og eini eigandi þess félags Kaupfélag Skagfirðinga (svf.) samkvæmt hlutafjármiðum sem skilað var til ríkisskattstjóra.

393 . Sú kennitala sem Fjárfestingarfélagið MATA ehf. er skráð með í samningnum er kennitala Nýræktar ehf.

394 . Tölvuskeyti Dróma hf. til rannsóknarnefndarinnar 25. mars 2013.

395 . Bréf Dróma hf. til embættis sérstaks saksóknara 18. ágúst 2011.

396 . Skýrsla Guðmundar Haukssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 16. maí 2013.

397 . Tölvuskeyti KPMG til rannsóknarnefndarinnar 31. október 2012.

398 . Tölvuskeyti Bjarka Baxter til rannsóknarnefndarinnar 17. október 2012.

399 . Ársreikningar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis 2001–2007.

400 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis 30. júní 2004.

401 . Reglur um viðskipti á stofnfjármarkaði SPRON, samþykkt á stjórnarfundi SPRON 2004.

402 . Fundur stofnfjáreigenda í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis 30. desember 2004.

403 . Endurmetið nafnverð hvers stofnfjárhlutar var 43.775 krónur í byrjun árs 2005.

404 . Stofnfjáreigendur gátu nýtt sér forgangsréttinn að fullu eða að hluta og þeir sem vildu kaupa fleiri hluti gátu gert það, svo framarlega sem einhverjir stofnfjáreigendur nýttu ekki kauprétt sinn að fullu.

405 . Þegar rætt er um verðmæti stofnfjár í tengslum við útboðslýsingar er átt við raunverulegt söluverð hlutar margfaldað með fjölda hluta sem til sölu voru í hverju útboði. Söluverð hlutar var nafnverð hans að teknu tilliti til heimilda til endurmats hans.

406 . Útboðslýsing Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 6. maí 2005.

407 . „Stofnfé í SPRON verður stóraukið“, vísir.is 7. mars 2005, http://www.visir.is/stofnfe-i-spron-verdur-storaukid/article/2005503070421.

408 . Útboðslýsing Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 6. maí 2005.

409 . Ársreikningur samstæðu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis 2005.

410 . Útboðslýsing Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 1. desember 2006.

411 . Gengið er fengið úr verðbréfakerfi sparisjóðsins.

412 . Ársreikningar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis 2001–2008.

413 . Hér er ekki búið að taka afstöðu til þess hvort tengdir aðilar fari sameiginlega með virkan eignarhlut.

414 . Stofnfjáreigendalistar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis.

415 . Arion verðbréfavarsla hf. var dótturfélag Kaupþings banka hf.

416 . Samkvæmt sundurliðun frá Verdis hf. (áður Arion verðbréfavarsla hf.).

417 . Gerð er grein fyrir reglum um greiðslu arðs í 12. kafla, um eignarhald sparisjóðanna.

418 . Ársskýrsla SPRON [Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf.] 2007, bls. 4.

419 . Umfjöllun um þessa viðhorfsbreytingu er að finna í 12. kafla, um eignarhald sparisjóðanna. Í athugasemdum Guðmundar Haukssonar til rannsóknarnefndarinnar 22. nóvember 2013 kom fram að ef stofnfé hefði ekki verið aukið hefði sparisjóðurinn ekki uppfyllt reglur um eigin fé, þar sem hann var í gríðarlegum vexti og þurfti að auka eigið fé. Þó var eiginfjárhlutfall sparisjóðsins langt yfir lögboðnu lágmarki þessi tvö ár sem stofnféð var aukið. Það var 13,6% í árslok 2005 en hefði verið 10,3% ef stofnféð hefði ekki verið aukið í nóvember um 1.980 milljónir króna. Ári síðar var hlutfallið 20,2% en hefði verið 11,7% ef stofnfjáraukningin í desember upp á 9.000 milljónir króna hefði ekki átt sér stað.

420 . Þessi heimild hafði verið við lýði allt frá 1993. Ákvæðinu var síðan breytt með lögum nr. 76/2009. Sjá nánari umfjöllun í 12. kafla, um eignarhald sparisjóðanna.

421 . Sú heimild kom inn í lög 2001 og var óbreytt í lögum um fjármálafyrirtæki frá 2002. Ákvæðinu var síðar breytt með lögum nr. 76/2009. Sjá nánari umfjöllun um sérstaka endurmatið í 12. kafla, um eignarhald sparisjóðanna.

422 . Ákvæðið um sérstaka endurmatið er í 2. tölul. 1. mgr. 68. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Greinin fjallar um ráðstöfun hagnaðar, sem getur samkvæmt henni verið með þrennu móti, þ.e. með greiðslu arðs, sérstöku endurmati og færslu í varasjóð. Sérstaka endurmatið er því ráðstöfun á hagnaði. Hafi honum verið ráðstafað með öðrum hætti kemur sérstakt endurmat ekki til álita.

423 . Í athugasemdum Guðmundar Haukssonar til rannsóknarnefndarinnar 22. nóvember 2013 kom fram að hjá Tryggingasjóði hefðu menn lagt þann skilning í reglurnar að alltaf hefði mátt greiða jafn mikinn arð og raunarðsemin sagði til um og endurmatið síðan ofan á það. Þessu til stuðnings benti hann á að greiða hefði mátt arð þótt um tap hefði verið að ræða og jafnframt færa upp stofnféð sem næmi verðbólgu. Rannsóknarnefndin bendir á að hafi þetta verið túlkun stjórnar Tryggingasjóðs þá sé ljóst að hún hafi talið sig geta sett og túlkað reglur um hámarkshlutfall arðgreiðslu án þess að vera bundin af þeim ramma sem 68. gr. laga um fjármálafyrirtæki setti um ráðstöfun hagnaðar, sbr. næstu neðanmálsgrein hér á undan. Sá rammi er skýr. Arðgreiðsla þrátt fyrir tap var undantekningarákvæði. Rannsóknarnefndin bendir einnig á, vegna athugasemdar Guðmundar, að uppfærsla stofnfjár vegna verðbólgu byggðist á 67. gr. sömu laga og hafði ekki með ráðstöfun hagnaðar að gera, heldur var hún færð úr varasjóði miðað við lok árs.

424 . Sjá lög nr. 71/2001 um breytingu á lögum nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði, með síðari breytingum. Nánari umfjöllun um þessa lagabreytingu er að finna í 4. kafla, um lagaumhverfi sparisjóðanna.

425 . Um nánari skýringar á því hvernig stofnfé var skipt fyrir hlutafé við hlutafjárvæðingu sparisjóðs samkvæmt 3. mgr. 37. gr. A laga nr. 113/1996, sbr. 3. gr. laga nr. 71/2001, vísast til umfjöllunar í 4. kafla, um lagaumhverfi sparisjóðanna.

426 . Þessari sjálfseignarstofnun var slitið á stjórnarfundi hennar 30. september 2004 og það tilkynnt fyrirtækjaskrá Ríkisskattstjóra með bréfi 4. október 2004. Tvær aðrar sambærilegar sjálfseignarstofnanir voru síðar stofnaðar vegna áforma um hlutafélagsvæðingu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, þ.e. árin 2004 og 2007, eins og rakið verður hér aftar.

427 . Sjá 9. mgr. 37. gr. A þágildandi laga nr. 113/1996 um viðskiptabanka og sparisjóði. Einstökum hluthöfum er aldrei heimilt, fyrir sjálfs sín hönd eða annarra, að fara með meira en 5% af heildaratkvæðamagni í sparisjóði. Í samþykktum er þó heimilt að kveða á um að sjálfseignarstofnun skv. 37. gr. B geti farið með meira en 5% af heildaratkvæðamagni í sparisjóði.

428 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 21. maí 2002.

429 . SPRON breytist í hlutafélag, Fréttabréf SPRON, 28. maí 2002. Í athugasemdum til rannsóknarnefndarinnar 22. nóvember 2013 sagði Guðmundur Hauksson að stofnfjáreigendum hefði verið kynnt á tveimur aðalfundum að svo kynni að fara að skynsamlegt væri að breyta sparisjóðnum í hlutafélag. Haldnir hefðu verið fjórir kynningarfundir fyrir stofnfjáreigendur áður en „fimmmenningarnir“ komu til sögunnar.

430 . Sveinn Valfells, Ingimar Jóhannsson, Gunnar A. Jóhannsson og Gunnlaugur M. Sigmundsson, „Ekki tveir milljarðar heldur 5,7 milljarðar“, Morgunblaðið 27. júní 2002.

431 . Samkvæmt 9. mgr. 37. gr. A þágildandi laga nr. 113/1996 um viðskiptabanka og sparisjóði var heimilt að kveða á um að atkvæðamagn sjálfseignarstofnunar væri takmarkað við 5%, sjá nánari umfjöllun um þetta í 4. kafla, um lagaumhverfi sparisjóðanna.

432 . Bréf stjórnar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis til Benedikts Jóhannessonar 19. júní 2002.

433 . Bréf fimmmenninganna til stofnfjáreigenda Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis 25. júní 2002.

434 . Sveinn Valfells, Ingimar Jóhannsson, Gunnar A. Jóhannsson og Gunnlaugur M. Sigmundsson, „Ekki tveir milljarðar heldur 5,7 milljarðar“, Morgunblaðið 27. júní 2002.

435 . Í greininni var ekki tekið tillit til þess hvernig hagnaður sparisjóðs skiptist milli stofnfjáreigenda og varasjóðs.

436 . Sjá 3. mgr. 70. gr. laga nr. 113/1996 um viðskiptabanka og sparisjóði.

437 . Sveinn Valfells, Ingimar Jóhannsson, Gunnar A. Jóhannsson og Gunnlaugur M. Sigmundsson, „Ekki tveir milljarðar heldur 5,7 milljarðar“, Morgunblaðið 27. júní 2002.

438 . Í samræmi við 10. gr., sbr. 14. gr. þágildandi laga nr. 113/1996 um viðskiptabanka og sparisjóði.

439 . Bréf stjórnar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis til Fjármálaeftirlitsins 2. júlí 2002.

440 . Sveinn Valfells, „Bréf til stofnfjáreigenda SPRON“, Morgunblaðið 27. júlí 2002. Í athugasemd til rannsóknarnefndarinnar 22. nóvember 2013 benti Guðmundur Hauksson á að úrskurður Fjármálaeftirlitsins, sem fjallað er um hér aftar, um að ekki væri bannað að selja stofnfé á yfirverði hafi þá þegar verið kominn fram.

441 . Bréf Starfsmannasjóðs Sparisjóðs Reykjavíkur til Fjármálaeftirlitsins 12. ágúst 2002.

442 . „Átökin um SPRON harðna enn“, Morgunblaðið 30. júlí 2002.

443 . „Átökin um SPRON harðna enn“, Morgunblaðið 30. júlí 2002. Samþykktir sparisjóðsins kváðu á um að einungis stofnfjáreigendur ættu að hafa aðgang að stofnfjáreigendaskrá.

444 . „Átökin um SPRON harðna enn“, Morgunblaðið 30. júlí 2002.

445 . „Yfirlýsing fimm stofnfjáreigenda í SPRON“, Morgunblaðið 10. ágúst 2002.

446 . „Yfirlýsing fimm stofnfjáreigenda í SPRON“, Morgunblaðið 10. ágúst 2002.

447 . „Munum ekki ganga gegn afstöðu Fjármálaeftirlitsins“, Morgunblaðið 13. ágúst 2002.

448 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis 3. júlí 2002.

449 . Bréf Jóns Steinars Gunnlaugssonar til Fjármálaeftirlitsins 3. júlí 2002; bréf Búnaðarbanka Íslands hf. til Fjármálaeftirlitsins 8. júlí 2002.

450 . Bréf Jóns Steinars Gunnlaugssonar til Fjármálaeftirlitsins 3. júlí 2002; bréf Búnaðarbanka Íslands hf. til Fjármálaeftirlitsins 8. júlí 2002.

451 . Bréf Jóns G. Tómassonar til Fjármálaeftirlitsins 8. júlí 2002.

452 . Bréf Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis til Fjármálaeftirlitsins 9. júlí 2002.

453 . Nánari umfjöllun um þetta er að finna í 12. kafla, um eignarhald sparisjóðanna.

454 . Nánari umfjöllun um forsendur þessarar niðurstöðu er að finna í 12. kafla, um eignarhald sparisjóðanna, þar sem fjallað er almennt um aðdraganda þess að heimilt varð að selja stofnfjárbréf á yfirverði.

455 . Samkvæmt 2. mgr. 17. gr. laga nr. 113/1996 hafa stofnfjáreigendur ekki rétt til ágóðahlutar af rekstrarafgangi sparisjóðs umfram það sem mælt er fyrir um í lögunum.

456 . Greinargerð Fjármálaeftirlitsins vegna athugunar á umsókn um kaup á virkum eignarhlut í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, 19. júlí 2002.

457 . Minnisblað undirnefndar stjórnar um stofnfjármál – atkvæðavægi sjálfseignarstofnunar, 6. nóvember 2003.

458 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 2. apríl 2003.

459 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 24. júlí 2003.

460 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 27. ágúst 2003.

461 . SPRON verðmat – unnið af PricewaterhouseCoopers hf. fyrir stjórn SPRON, desember 2003.

462 . Bréf stjórnar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis til Íslandsbanka hf., Kaupþings hf. og Landsbanka Íslands hf. 12. desember 2003. Í bréfinu var verðmæti Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis sagt vera 8,2 milljarðar samkvæmt mati PwC, en eftir að athugasemdir bárust frá fulltrúum allra viðskiptabankana var matið endurskoðað og við það fannst villa í útreikningi PwC. Leiðrétt mat reyndist vera 7,4 milljarðar króna eins og kemur fram á stjórnarfundi Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis þann 20. desember 2003.

463 . Í athugasemdum Guðmundar Haukssonar til rannsóknarnefndarinnar 22. nóvember 2013 kom fram að öll tilboðin hefðu verið opnuð á sama tíma.

464 . Bréf Kaupþings Búnaðarbanka til stjórnar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis 18. desember 2003.

465 . „Ekki farið að vilja löggjafans (viðtal við Jón Kr. Sólnes, formann Sambands íslenskra sparisjóða)“, Morgunblaðið 11. janúar 2004.

466 . Frumvarpið varð að lögum nr. 4/2004 um breytingu á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Nánar má lesa um lagabreytinguna í 4. kafla, um lagaumhverfi sparisjóðanna.

467 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 4. febrúar 2004.

468 . Lögfræðiálit um viðbrögð SPRON og stofnfjáreigenda við setningu laga nr. 4/2004, 10. júní 2004.

469 . Skipaður var vinnuhópur til að kanna mögulegt samstarf við erlenda aðila, en ekki verður séð af stjórnarfundargerðum að sú vinna hafi komist langt á veg.

470 . Óskar hafði gegnt starfi forstjóra Hagkaups og Jón Þorsteinn hafði gegnt ýmsum stjórnunarstörfum hjá Nóatúni.

471 . Skýrsla Óskars Magnússonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 12. september 2013.

472 . „Röðin komin að sparisjóðunum“, Morgunblaðið 9. október 2004.

473 . Breytingar á stofnfjárhafahópi má sjá í kafla hér framar um stofnfé og stofnfjáreigendur.

474 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 18. nóvember 2004.

475 . Agnes Bragadóttir, „Leiðin að sjóðum sparisjóðanna“, Morgunblaðið 28. nóvember 2004.

476 . Skýrsla Óskars Magnússonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 12. september 2013.

477 . Skýrsla Jóns Þorsteins Jónssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 24. maí 2013. Í skýrslu fyrir rannsóknarnefndinni 8. október sagði Hreiðar Már að hann myndi ekki eftir að hafa átt í samskiptum um þetta við Jón Þorstein. Þeir sem teldu Kaupþing hafa reynt að stöðva sameininguna ofmætu áhrif bankans.

478 . IMG ráðgjöf varð að Capacent 8. september 2006.

479 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 18. október 2006. Um stofnfjáraukninguna er fjallað í kafla 17.5.1.2.

480 . Magnús Halldórsson, „Viðskipti í „glugganum“ draga dilk á eftir sér“, Viðskiptablaðið 4. febrúar 2010.

481 . Skýrsla Guðmundar Haukssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 15. maí 2013.

482 . „Forstjóri SPRON ánægður með fyrsta daginn í kauphöllinni“, visir.is 23. október 2007, http://www.visir.is/forstjori-spron-anaegdur-med-fyrsta-daginn-i-kauphollinni/article/200771023094.

483 . Kauphöll Íslands – gengi hlutabréfa, gögn frá Kauphöll Íslands afhent rannsóknarnefndinni. Í athugasemdum Guðmundar Haukssonar til rannsóknarnefndarinnar 22. nóvember 2013 sagði hann það hafa legið ljóst fyrir að bréfin myndu byrja hátt og lækka svo. Opnað var fyrir söluna og fengin fram kaup- og sölutilboð. Ljóst væri þegar slíkt væri gert, og lítið framboð væri af bréfum fyrir fram, að áhugi fjárfesta væri mjög mikill til að byrja með. Þegar í ljós hefði komið að margir væru tilbúnir að selja á þessu verði hefði það lækkað hratt.

484 . Varastjórnarmaðurinn Birkir Baldvinsson og kona hans, Guðfinna Guðnadóttir, seldu alla stofnfjárhluti sína í „glugganum“ (91.613 hluti). Birkir Baldvinsson ehf., sem er félag tengt Birki og Guðfinnu, átti 218.999.659 hluti eftir lokun „gluggans“ og hafði engin viðskipti með þá á meðan „glugginn“ var opinn. Varastjórnarmaðurinn Guðmundur Arnaldsson seldi 800.000 hluti í byrjun júlí og keypti 500.000 hluti í „glugganum“. Eftir lokun „gluggans“ átti Guðmundur 44.793.939 hluti. Hvorki Guðmundur né Birkir sátu stjórnarfundi á árinu 2007.

485 . Bréf ríkislögreglustjóra til Áslaugar B. Viggósdóttur 16. desember 2010.

486 . Yfirlýsing frá stjórn Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 7. febrúar 2008.

487 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis 30. júní 2004.

488 . „Yfirlýsing frá SPRON“, Morgunblaðið 8. febrúar 2008.

489 . Bréf Samtaka fjárfesta til Fjármálaeftirlitsins 11. febrúar 2008.

490 . Magnús Halldórsson, „Kæra SPRON“, Morgunblaðið 26. september 2008.

491 . Í rökstuðningi ríkislögreglustjóra kom m.a. fram að ekki væri hægt að líta svo á að innherjareglur IX. kafla laga nr. 33/2003 hafi átt við um viðskipti stjórnarmanna í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis fyrr en í fyrsta lagi eftir 21. ágúst 2007, þegar fundur stofnfjárhafa samþykkti hlutafélagsvæðinguna og skráningu í Kauphöll. Þá taldi ríkislögreglustjóri að ekki hefði verið sýnt fram á að stjórnarmennirnir hefðu sýnt af sér saknæma háttsemi né beitt blekkingum í tengslum við sölu stofnfjárbréfa sinna í „glugganum“.

492 . Bréf ríkissaksóknara til Samtaka fjárfesta 10. febrúar 2009.

493 . Bréf ríkissaksóknara til Samtaka fjárfesta 9. desember 2010.

494 . Bréf ríkissaksóknara til Þórarins V. Þórarinssonar 7. janúar 2011.

495 . Í lánasamningum var áskilið að skylt væri að upplýsa lánveitendum um breytingar á eignarhaldi sparisjóðsins.

496 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 1. júlí 2008.

497 . Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um samruna Kaupþings banka hf. og Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf., 26. september 2008.

498 . „FME yfirtekur Kaupþing“, mbl.is 9. október 2008, http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2008/10/09/fme_yfirtekur_kaupthing/.

499 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 10. september 2008.

500 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 30. september 2008.

501 . Staða og tillögur SPRON, glærukynning á fundi með Fjármálaeftirlitinu, 10. október 2008.

502 . Víkjandi lán Kaupþings banka hf. til sparisjóðsins fluttist yfir í Nýja Kaupþing banka hf. eftir yfirtöku Fjármálaeftirlitsins á hinum fyrrnefnda.

503 . Tölvuskeyti Jónu Ann Pétursdóttur til Ólafs Orrasonar 15. október 2008.

504 . Sparisjóðurinn hafði þá þegar, eða 22. október 2008, fengið fyrirgreiðslu hjá Seðlabanka Íslands á grundvelli ákvörðunar stjórnar Íbúðalánasjóðs um að kaupa 20,2 milljarða króna lánasafn af Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis. Um þá fyrirgreiðslu var fjallað hér framar í kafla um skuldir við lánastofnanir. Reglur stjórnar Íbúðalánasjóðs um kaup á skuldabréfum samkvæmt þessari reglugerð voru ekki samþykktar fyrr en 9. janúar 2009 og var þar einungis um að ræða reglur vegna kaupa á bréfum í íslenskum krónum.

505 . Bréf Nýja Kaupþings banka hf. til Fjármálaeftirlitsins 3. nóvember 2008.

506 . Gert var ráð fyrir að lán til hlutabréfakaupa í Icebank gætu tapast að fullu færi bankinn í þrot.

507 . Greinargerð um eiginfjárhlutfall og lausafjárstöðu SPRON, 17. október 2008.

508 . Ekki var gert ársfjórðungsuppgjör fyrir síðasta ársfjórðung 2008. Tapið er því fundið með því að draga rekstrarniðurstöðu fyrstu níu mánaða ársins frá rekstrarniðurstöðu ársreiknings 2008.

509 . Greinargerð um eiginfjárhlutfall og lausafjárstöðu SPRON, 17. október 2008.

510 . Í 2. mgr. 86. gr. laga nr. 161/2002 segir: „Er Fjármálaeftirlitinu berst tilkynning skv. 1. mgr. eða telur af öðru tilefni ástæðu til að ætla að eiginfjárgrunnur fjármálafyrirtækis sé undir því lágmarki sem kveðið er á um í 84. gr. skal það krefja stjórn fyrirtækisins þegar í stað um reikningsuppgjör sem henni ber að afhenda innan hæfilegs frests. Fjármálaeftirlitið getur ákveðið að slíkt reikningsuppgjör sé áritað af endurskoðanda.“

511 . Í 3. mgr. 86. gr. laga nr. 161/2002 segir: „Komi fram í reikningsuppgjöri að hætti 2. mgr. að eiginfjárgrunnur fjármálafyrirtækis fullnægi ekki ákvæðum 84. gr. skal stjórn þess án tafar boða til fundar hluthafa eða stofnfjáreigenda til ákvörðunar og afhenda síðan Fjármálaeftirlitinu greinargerð þar sem fram kemur til hverra ráðstafana hún hyggst grípa af þessu tilefni. Greinargerð þessi skal afhent innan frests sem Fjármálaeftirlitið tiltekur.“

512 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis 20. október 2008.

513 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis 30. október 2008.

514 . Árshlutareikningur Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. 30. september 2008, að teknu tilliti til atburða eftir uppgjörsdagsetningu, 27. október 2008.

515 . Árshlutareikningur Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. 30. september 2008, 28. nóvember 2008.

516 . Fram til þessa hafði verið gert ráð fyrir að einu víkjandi láni frá 31. mars 2008, að fjárhæð um 6,5 milljarðar króna, yrði breytt í hlutafé. Hér hafði verið bætt við eldri víkjandi lánum upp á 2,2 milljarða króna.

517 . Í samræmi við heimild í lögum nr. 125/2008. Miðað yrði við 20% framlag af bókfærðu eigin fé. Miðað við bókfært eigið fé 30. júní 2008 yrði um að ræða 2,7 milljarða króna en 5,5 milljarða króna yrði miðað við 1. janúar 2008. Á þessum tíma höfðu reglur um eiginfjárframlag ríkissjóðs til sparisjóða á grundvelli laganna ekki verið settar.

518 . Greinargerð Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis til Fjármálaeftirlitsins – áætlun til að bæta eiginfjárstöðu og tryggja framtíðarrekstur SPRON, 29. október 2008.

519 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til Seðlabanka Íslands 30. október 2008.

520 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis 30. október 2008.

521 . Fjallað er um skipan og hlutverk sérfræðings samkvæmt 9. gr. laga nr. 87/1998 í 6. kafla, um eftirlit með starfsemi sparisjóða.

522 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til Seðlabanka Íslands 30. október 2008.

523 . Kynning af fundi Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis með erlendum lánardrottnum, 3. nóvember 2008.

524 . Upplausnarvirði á að endurspegla virði eignarinnar ef hún er seld burt frá sjóðnum.

525 . Kynning af fundi Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis með erlendum lánardrottnum, 3. nóvember 2008.

526 . Úttekt Deloitte hf. á útlánasafni Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis og umræða um lausafjáreignir, 14. nóvember 2008.

527 . Kynning fyrir erlenda kröfuhafa um lánasafnið sem nota átti til að greiða til baka skuldir, nóvember 2008.

528 . Samandreginn árshlutareikningur á ensku fyrir fyrstu níu mánuði ársins 2008.

529 . Tölvuskeyti Jóhanns Péturssonar til Fjármálaeftirlitsins 19. nóvember 2008; vinnuskýrsla tilsjónarmanns Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. 21.–26. nóvember 2008, 27. nóvember 2008.

530 . Tölvuskeyti Ósvaldar Knudsen til erlendra lánadrottna 19. nóvember 2008.

531 . Í tillögunum var miðað við að gengi evru væri 220 krónur en opinbert gengi evru samkvæmt Seðlabanka Íslands var 176 krónur á þessum tíma. Um er að ræða miðgengi.

532 . Vinnuskýrsla tilsjónarmanns Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. 21.–26. nóvember 2008, 27. nóvember 2008.

533 . Vinnuskýrsla tilsjónarmanns Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. 21.–26. nóvember 2008, 27. nóvember 2008.

534 . Í lok október 2008 fór Seðlabanki Íslands fram á það við sparisjóðinn að hann legði fram ný veð í stað verðbréfa útgefinna af Kaupþingi banka hf. Lánardrottnar gerðu athugasemd við að staða Seðlabanka sem kröfuhafa væri betri en þeirra vegna þessa og töldu áhættuna eiga að liggja hjá Seðlabankanum.

535 . Tölvuskeyti Jóhanns Péturssonar til Fjármálaeftirlitsins 5. desember 2008.

536 . Á þessum tíma hafði 20% eiginfjárframlag ríkissjóðs ekki verið staðfest en reglur um framlag ríkissjóðs til sparisjóða samkvæmt 2. gr. laga nr. 125/2008 voru samþykktar 18. desember 2008.

537 . Minnispunktar vinnuhóps um stöðu minni fjármálafyrirtækja um fjárhagslega endurskipulagningu Sparisjóðabanka Íslands hf., janúar 2009.

538 . Tölvuskeyti Jóhannesar Karls Sveinssonar til Þórhalls Arasonar 6. janúar 2009.

539 . Tölvuskeyti Jóhanns Péturssonar til Fjármálaeftirlitsins 14. janúar 2009.

540 . Tölvuskeyti Jóhanns Péturssonar til Fjármálaeftirlitsins 14. janúar 2009.

541 . Í hópnum voru fulltrúar frá fjármálaráðuneyti, viðskiptaráðuneyti, Seðlabanka og Fjármálaeftirliti.

542 . Minnisblað til fjármálaráðuneytis um málefni Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf., minnispunktar frá Jóhannesi Karli Sveinssyni, 9. ágúst 2012.

543 . Álit KPMG hf. fyrir Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis á lánalengingarleið, 4. febrúar 2009.

544 . Skýrsla Guðmundar Haukssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 16. maí 2013. Hinn 17. febrúar undirritaði Fjármálaeftirlitið skaðleysisyfirlýsingu og fékk þá afhent álit KPMG.

545 . Skýrsla Guðmundar Haukssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 16. maí 2013.

546 . Tölvuskeyti Jóhanns Péturssonar til Fjármálaeftirlitsins 16. janúar 2009.

547 . Til samanburðar bentu þeir á að í mati Deloitte frá því nóvember væri áætluð virðisrýrnun um 66 milljarðar króna og að í fyrirliggjandi drögum að ársreikningi sparisjóðsins væri hún áætluð um 38 milljarðar króna.

548 . Drög að frumniðurstöðum áreiðanleikakönnunar Ernst & Young á Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, 12. febrúar 2009.

549 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. 27. febrúar 2009.

550 . Skýrsla Guðmundar Haukssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 16. maí 2013.

551 . Heildarskuld Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. við Seðlabanka Íslands var á þeim tíma um 40 milljarðar króna.

552 . Tölvuskeyti Jóhannesar Karls Sveinssonar til Þórhalls Arasonar, Kjartans Gunnarssonar, Ragnars Hafliðasonar, Tryggva Pálssonar, Sturlu Pálssonar, Jóhannesar Bjarna Björnssonar og Guðmundar Jónssonar 6. febrúar 2009.

553 . Tölvuskeyti Jóhannesar Karls Sveinssonar til Guðmundar Jónssonar, Ragnars Hafliðasonar, Tryggva Pálssonar, Sturlu Pálssonar, Þórhalls Arasonar, Jóhannesar Bjarna Björnssonar og Kjartans Gunnarssonar 11. febrúar 2009. Frá 1. febrúar til 21. mars 2009 urðu nokkrar mannabreytingar hjá stjórnvöldum sem fjölluðu um málefni sparisjóðsins. Ný ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna var mynduð 1. febrúar 2009 og varð Steingrímur J. Sigfússon nýr fjármálaráðherra og Gylfi Magnússon nýr viðskiptaráðherra. Fjármálaeftirlitinu var skipuð ný stjórn og þáverandi forstjóri, Jónas Fr. Jónsson, lét af störfum. Ragnar Hafliðason sem hafði verið aðstoðarforstjóri var tímabundið settur forstjóri og gegndi því starfi fram að ráðningu Gunnars Þ. Andersen í byrjun apríl. Þá urðu breytingar innan Seðlabanka Íslands og nýr seðlabankastjóri, Svein Harald Øygard, var settur í lok febrúar.


554 . Með fjáraukalögum í desember 2008 hafði fjármálaráðherra fengið heimild til „[a]ð kaupa af Seðlabanka Íslands þau viðskiptabréf sem bankanum hafa verið afhent til tryggingar veðlánum bankans og annast uppgjör krafna eins og hagkvæmast þykir“. Í tilfelli sparisjóðsins nýtti ríkissjóður ekki þessa heimild.

555 . Tölvuskeyti Gerðar Ísberg til Tryggva Pálssonar 18. febrúar 2009.

556 . Tölvuskeyti Gerðar Ísberg til Tryggva Pálssonar 18. febrúar 2009.

557 . Tölvuskeyti Gerðar Ísberg til Tryggva Pálssonar 18. febrúar 2009.

558 . Skýrsla Sturlu Pálssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 30. september 2013.

559 . Tölvuskeyti Þórhalls Arasonar til Guðmundar Jónssonar, Jóhannesar Bjarna Björnssonar, Kjartans Gunnarssonar, Ragnars Hafliðasonar, Tryggva Pálssonar og Sturlu Pálssonar 11. febrúar 2009.

560 . Skýrsla Tryggva Pálssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 24. september 2013.

561 . Minnisblað Seðlabanka Íslands um skuldbreytingu veð- og daglána, 20. febrúar 2009.

562 . Tölvuskeyti Tómasar Brynjólfssonar til Björns R. Guðmundssonar 11. mars 2009.

563 . Skýrsla Tómasar Brynjólfssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 15. apríl 2013.

564 . Skýrsla Sturlu Pálssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 30. september 2013.

565 . Skýrsla Sturlu Pálssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 30. september 2013.

566 . Skýrsla Gunnars Ólafs Haraldssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 27. september 2013.

567 . Í henni sátu fulltrúar frá Seðlabanka Íslands, Fjármálaeftirlitinu og fjármála-, viðskipta-, og utanríkisráðuneytinu.

568 . Fundargerð nefndar um endurreisn fjármálakerfisins, 4. mars 2009; tölvuskeyti Erlendar Hjaltasonar til Guðmundar Haukssonar 20. mars 2009; tölvuskeyti Marks Flanagan til Lilju Alfreðsdóttur 19. mars 2009.

569 . Fundargerð nefndar um endurreisn fjármálakerfisins, 4. mars 2009.

570 . Fall og endurskipulagning minni fjármálafyrirtækja í mars 2009, drög að vinnuskjali, 7. mars 2008.

571 . Skýrsla Sturlu Pálssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 30. september 2013.

572 . Skýrsla Tryggva Pálssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 24. september 2013.

573 . Skýrsla Gunnars Ólafs Haraldssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 27. september 2013.

574 . Skýrsla Ragnars Hafliðasonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 15. júlí 2013.

575 . Skýrsla Guðmundar Haukssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 16. maí 2013.

576 . Skýrsla Erlendar Hjaltasonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 24. apríl 2013.

577 . Skýrsla Erlendar Hjaltasonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 24. apríl 2013.

578 . Fundargerð stjórnar Fjármálaeftirlitsins, 8. mars 2009.

579 . Umræðuskjal um áreiðanaleikakönnun Ernst & Young, 11. mars 2009. Reglur um framlög til sparisjóða sem samþykktar voru 18. desember 2008 settu sem skilyrði fyrir eiginfjárframlagi úr ríkissjóði að eiginfjárhlutfall sparisjóðs að meðtöldu framlaginu yrði að vera á bilinu 12–15% að fjárhagslegri endurskipulagningu lokinni.

580 . Umræðuskjal um áreiðanaleikakönnun Ernst & Young, 11. mars 2009; drög að áreiðanleikakönnun Ernst & Young á Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, 9. mars 2009. Samkvæmt 1. tölul. 2. gr. reglna um framlag til sparisjóða samkvæmt 2. gr. laga nr. 125/2008 frá 18. desember 2008 var miðað við að eiginfjárhlutfall sparisjóða að meðtöldu framlagi ríkissjóðs yrði ekki lægra en 12%. Í 3. gr. reglnanna var hins vegar tekið fram að hámarksframlag ríkisins takmarkaðist við það að hlutfallið yrði hæst 15% með framlaginu. Hér er því jafnan gert ráð fyrir hámarkseiginfjárframlagi ríkisins.

581 . Umræðuskjal um áreiðanaleikakönnun Ernst & Young, 11. mars 2009.

582 . Hinn 8. október 2008 nam skuldastaða sparisjóðsins við Seðlabanka Íslands vegna veð- og daglána 27,9 milljörðum króna. Markaðsverðmæti trygginga vegna sömu lána var þá 32,7 milljarðar króna. Meðal trygginga við þau tímamörk voru víxlar gefnir út af Kaupþingi banka hf. að verðmæti 9,4 milljarða króna. Sparisjóðnum var gert að skipta úr þessum víxlum og koma með nýjar tryggingar. Þá var honum gert að auka tryggingar sínar vegna nýrra veðlána samhliða vaxandi lausafjárþörf sjóðsins. Frá falli viðskiptabankanna og fram til ársloka 2008 jókst skuldastaða sparisjóðsins við Seðlabankann um 19,3 milljarða króna og var 47,2 milljarðar í árslok. Skráð verðmæti trygginga var þá 63,6 milljarðar króna. Sjá einnig umfjöllun í kafla 17.4.2 um skuldir við lánastofnanir.

583 . Drög að áreiðanleikakönnun Ernst & Young á Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, 9. mars 2009.

584 . Formleg umsókn um 20% eiginfjárframlag var þó aldrei lögð fram.

585 . Bréf Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. til Jóhönnu Sigurðardóttur, Steingríms J. Sigfússonar og Gylfa Magnússonar 12. mars 2009.

586 . Afrit af bréfinu fengu Þórhallur Arason í fjármálaráðuneyti, Tryggvi Pálsson í Seðlabanka Íslands, Ragnar Hafliðason hjá Fjármálaeftirlitinu og Kjartan Gunnarsson í viðskiptaráðuneytinu sem allir sátu í starfshópi um málefni smærri fjármálafyrirtækja.

587 . Bréf Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. til Jóhönnu Sigurðardóttur, Steingríms J. Sigfússonar, Gylfa Magnússonar og Sveins Haralds Øygard 16. mars 2009.

588 . Skýrsla Guðmundar Haukssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 16. maí 2013.

589 . Hinn 10. mars 2009 hafði Ragnar Hafliðason, settur forstjóri Fjármálaeftirlitsins, kallað eftir bréfum frá Seðlabanka og fjármálaeftirliti sem „innleggi“ í bréf frá Fjármálaeftirlitinu til sparisjóðsins. Áður en bréf Seðlabankans var sent til Fjármálaeftirlitsins voru drög að því búin að ganga á milli starfsmanna bankans, fjármálaráðuneytisins og Fjármálaeftirlitsins. Drög að bréfi Fjármálaeftirlitsins til sparisjóðsins fóru jafnframt á milli sömu aðila. Bæði bréfin voru svo send 12. mars 2009.

590 . Bréf Seðlabanka Íslands og fjármálaráðuneytisins til Fjármálaeftirlitsins 12. mars 2009.

591 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis 12. mars 2009.

592 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis 12. mars 2009.

593 . Tölvuskeyti stýrinefndar erlendra lánardrottna Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis til Ragnars Hafliðasonar, Sveins Haralds Øygard, Steingríms J. Sigfússonar, Indriða H. Þorlákssonar, Marks Flanagan, Mats Josefson, Guðmundar Haukssonar, Sturlu Pálssonar og Tryggva Pálssonar 13. mars 2009.

594 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til stýrinefndar SPRON 16. mars 2009. Orðað svo í bréfi Fjármálaeftirlitsins: „According to Basel 2 Accord common shareholder's funds allow a bank to absorb losses on an ongoing basis and are permanently available for this purpose. The FME considers that the quality of equity created by the modification of terms as planned does not meet this Basel 2 criteria.“

595 . Bréf Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. til Jóhönnu Sigurðardóttur, Steingríms J. Sigfússonar, Gylfa Magnússonar og Sveins Haralds Øygard 16. mars 2009.

596 . Bréf Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. til Fjármálaeftirlitsins 17. mars 2009. Sparisjóðurinn vísaði til 90. og 93. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga, til 14., 96. og 97. gr. IAS-staðals 1, framsetning reikningsskila, til 9., 39., 40., 41. og 47. gr. IAS-staðals 39, fjármálagerningar, færsla og mat, og til 84. og 85. gr. laga nr. 161/2006 um fjármálafyrirtæki. Einnig var vísað til greina 49(i) og 49(iii) Basel II-viðmiðanna.

597 . Bréf Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. til Steingríms J. Sigfússonar 18. mars 2009.

598 . Bréf Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. til Steingríms J. Sigfússonar 18. mars 2009.

599 . Bréf Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. til Sveins Haralds Øygard 18. mars 2009.

600 . Bréf stýrinefndar erlendra lánardrottna Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis til Fjármálaeftirlitsins 18. mars 2009.

601 . Skýrsla Guðmundar Haukssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 16. maí 2013.

602 . Bréf Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. til Fjármálaeftirlitsins 18. mars 2009.

603 . Bréf Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. til Íbúðalánasjóðs 18. mars 2009. Í reglugerð um heimild Íbúðalánasjóðs til að kaupa skuldabréf fjármálafyrirtækja sem tryggð eru með veði í íbúðarhúsnæði var gert ráð fyrir að heimildin næði einnig til skuldabréfa í erlendri mynt. En í reglum stjórnar Íbúðalánasjóðs um kaup á skuldabréfum fjármálafyrirtækja, sem settar voru á grundvelli heimildar í reglugerðinni og staðfestar af ráðherra 9. janúar 2009, var aðeins kveðið á um heimild til kaupa á veðskuldabréfum í íslenskum krónum.

604 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. 19. mars 2009.

605 . Tölvuskeyti Guðmundar Haukssonar til Ragnars Hafliðasonar 19. mars 2009.

606 . Tölvuskeyti fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til Seðlabankans 19. mars 2009.

607 . Tölvuskeyti Erlendar Hjaltasonar til Guðmundar Haukssonar 20. mars 2009.

608 . Bréf Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. til Jóhönnu Sigurðardóttur 20. mars 2009.

609 . Tölvuskeyti stýrinefndar erlendra lánardrottna Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis til Ragnars Hafliðasonar, Guðmundar Jónssonar, Sveins Haralds Øygard, Tryggva Pálssonar, Sturlu Pálssonar, Steingríms J. Sigfússonar, Indriða H. Þorlákssonar, Marks Josephs Flanagan og Mats Josefson 20. mars 2009. Í tölvupóstinum sagði: „We do not agree that this article 64.4 is relevant to the loan term out since the article in question deals with gains on cash flow hedging and changes in a credit institution's own credit standing whereas the term out it is in fact de-recognising a liability, and recognising a new one, which Article 64 does not address. Please note that the proposed treatment for acknowledging an extension of a long term loan at subsidised rate through such de-recognition is mandatory for IFRS.“

610 . Tölvuskeyti Gary George til Steingríms J. Sigfússonar, Sveins Haralds Øygard, Indriða H. Þorlákssonar, Hjördísar D. Vilhjálmsdóttur, Jónínu S. Lárusdóttur, Þorsteins Þorgeirssonar, Mats Josefson, Helgu Valfells, Böðvars Jónssonar og Áslaugar Árnadóttur 20. mars 2009. Í tölvupóstinum sagði: „Following a conference call just ended with representatives of the FME, Central Bank of Iceland and Ministry of Finance, the Steering Committee representing the 35 senior international bank lenders to SPRON is extremely concerned that arbitrary and irresponsible decisions are due to be made with regards to SPRON, based upon the relevant authorities' failure to understand properly a restructuring solution presented to them on 18th March. Evidently incorrect or inadequate advice has been taken […].“

611 . Bréf Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. til Fjármálaeftirlitsins 20. mars 2009.

612 . Bréf Jóhönnu Sigurðardóttur til Steingríms J. Sigfússonar 20. mars 2009; bréf Steingríms J. Sigfússonar til Jóhönnu Sigurðardóttur 21. mars 2009.

613 . Bréf Steingríms J. Sigfússonar til Jóhönnu Sigurðardóttur 21. mars 2009.

614 . Bréf Steingríms J. Sigfússonar til Jóhönnu Sigurðardóttur 21. mars 2009.

615 . Stjórnarfundargerð Fjármálaeftirlitsins, 20. mars 2009.

616 . Bréf Seðlabanka Íslands til Fjármálaeftirlitsins 20. mars 2009. Seðlabankinn sendi Fjármálaeftilritinu tvö bréf þann dag, annað fjallaði um lausafjárstöðu sparisjóðsins og hitt um íbúðabréf hans.

617 . Í skilmálaskjali sem fylgdi bréfi stýrinefndar frá 18. mars 2009 voru settar fram lítillega breyttar tillögur, en þar var gert ráð fyrir 21% afskriftum, 9% peningagreiðslu og 70% lánalengingu. Hinn 19. mars hafði forstjóri sparisjóðsins einnig óskað eftir fundi með Fjármálaeftirlitinu til að fara yfir gagntillögur sem voru í undirbúningi.

618 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. 21. mars 2009.

619 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. 21. mars 2009.

620 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. 21. mars 2009.

621 . Bréf Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. til Fjármálaeftirlitsins 21. mars 2009.

622 . Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um ráðstöfun eigna og skulda Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf., 21. mars 2009.

623 . Skýrsla Erlendar Hjaltasonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 24. apríl 2013.

624 . Skýrsla Erlendar Hjaltasonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 24. apríl 2013.

625 . Skýrsla Erlendar Hjaltasonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 24. apríl 2013.

626 . Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um ráðstöfun eigna og skulda Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf., 21. mars 2009.

627 . Með lögum nr. 44/2009 um breytingar á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki var skilanefnd breytt í bráðabirgðastjórn, sem þó hafði sömu hlutverkum að gegna og skilanefnd.

628 . Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um ráðstöfun eigna og skulda Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf., 21. mars 2009.

629 . Í nóvember 2009 voru gerðar breytingar á stjórn Dróma hf. Í stað Davíðs, Feldísar og Guðrúnar komu ný inn í stjórn Hildur Sólveig Pétursdóttir, Þorsteinn Johnsen og Magnús Pálmason.

630 . „Samningar um uppgjör á milli Dróma, Eignasafns Seðlabanka Íslands og Arion banka“, spron.is 2. janúar 2014, http://spron.is/is/Frettirvidburdir/Nanar/samningarumuppgjoramillidromaeignasafnssedlabankaislandsogarionbanka.

631 . Ársskýrsla SPRON 2007.

632 . Skýrsla Þóris Haraldssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 1. október 2012.

633 . Ársskýrsla SPRON 2007.

634 . Rammasamningur um innri endurskoðun milli SPRON og SPRON-Verðbréfa hf., 30. júní 2006.

635 . Handbók áhættustýringar SPRON.

636 . Skýrsla Þóris Haraldssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 1. október 2012.

637 . Skýrsla Þóris Haraldssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 1. október 2012.

638 . Skýrsla Þóris Haraldssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 1. október 2012.

639 . Hvorki var umfjöllun um innra eftirlit né innri endurskoðun í skýrslum ytri endurskoðanda vegna áranna 2005, 2006 og 2007.

640 . Skýrsla Þóris Haraldssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 1. október 2012.

641 . Handbók áhættustýringar SPRON.

642 . Ársreikningur samstæðu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis 2007.

643 . Handbók Áhættustýringar SPRON.

644 . Í september 2008 voru Guðmundur Hauksson sparisjóðsstjóri, Ólafur Haraldsson aðstoðarsparisjóðsstjóri, Ósvaldur Knudsen framkvæmdastjóri fjárstýringar, Jón Hallur Pétursson framkvæmdastjóri SPRON-Verðbréfa hf., Kristinn Björnsson framkvæmdastjóri Frjálsa fjárfestingarbankans hf. og Páll Árnason forstöðumaður áhættu- og útlánastýringar í áhættustýringarhóp sparisjóðsins.

645 . Ársskýrsla SPRON 2007.

646 . Handbók Áhættustýringar SPRON.

647 . Skýrsla Páls Árnasonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 26. september 2012.

648 . Handbók Áhættustýringar SPRON.

649 . Handbók Áhættustýringar SPRON. Nánar er fjallað um hlutverk áhættustýringar í kafla 17.2.3.

650 . Skýrsla Páls Árnasonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 26. september 2012.

651 . Skýrsla Páls Árnasonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 26. september 2012.

652 . Skýrsla Páls Árnasonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 26. september 2012.

653 . Skýrsla Páls Árnasonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 26. september 2012.