19. kafli Aðgerðir og viðbrögð íslenskra stjórnvalda á árunum 2007–2008 vegna hættu á fjármálaáfalli
Efnisyfirlit
- 19.1 Inngangur
- 19.2 Samráðshópur forsætisráðuneytis, fjármálaráðuneytis, viðskiptaráðuneytis,Fjármálaeftirlits og Seðlabanka Íslands um fjármálastöðugleika og viðbúnað og aðdragandi þess að honum var komið á fót
- 19.3 Ágrip um aðgerðir og viðbrögð íslenskra stjórnvalda og ýmsa markverða atburði frá 1. janúar 2007 til 25. september 2008
- 19.4 Nánar um samráðshóp stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað
- 19.5 Aðgerðir ráðherra og ríkisstjórnar
- 19.6 Aðgerðir stjórnvalda til að draga úr stærð bankakerfisins
- 19.7 Upplýsingar um stórar áhættuskuldbindingar sem Seðlabanki Íslands hafði aðgang að
- 19.8 Afstaða erlendra seðlabankastjóra til Íslands
- 19.9 Sjónarmið forsvarsmanna þriggja stóru bankanna
19.1 Inngangur
Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 142/2008 um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða skal rannsóknarnefnd Alþingis varpa sem skýrustu ljósi á aðdraganda og orsakir þess vanda íslenska bankakerfisins sem varð Alþingi tilefni til að setja lög nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. Síðastgreind lög hafa í daglegu tali verið nefnd neyðarlögin. Í samræmi við 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 142/2008 verða raktir í þessum kafla ýmsir af helstu atburðum áranna 2007 og 2008 sem tengjast aðgerðum og viðbúnaði stjórnvalda. Einkum er þar um að ræða það starf sem unnið var af samráðshópi forsætisráðuneytis, fjármálaráðuneytis, viðskiptaráðuneytis, Fjármálaeftirlits og Seðlabanka Íslands um fjármálastöðugleika og viðbúnað, hér eftir að jafnaði nefndur samráðshópur stjórnvalda.Við frásögn af starfi hópsins er stuðst við ýmis gögn frá stjórnvöldum, t.d. vinnuskjöl sem unnin voru af öðrum stjórnvöldum og lögð fyrir hann auk draga að fundargerðum hópsins, eins og nánar er að vikið í kafla 1.0. Einnig er sérstaklega vikið að fundum sem fulltrúar bankanna áttu með bankastjórn Seðlabanka Íslands á tímabilinu auk þess sem grein er gerð fyrir fundum starfshóps Seðlabanka Íslands um viðbrögð við lausafjárvanda.Við frásögnina er stuðst við þær samtímaheimildir sem rannsóknarnefnd Alþingis hefur viðað að sér. Í sumum tilvikum er ekki til að dreifa fullbúnum fundargerðum heldur einungis drögum að fundargerðum sem ekki hafa verið lesnar yfir af öllum fundarmönnum. Þetta á t.d. við um frásagnir af fundum samráðshóps stjórnvalda en rannsóknarnefndin tekur fram að hún hefur þó veitt því athygli við athuganir sínar á tölvusamskiptum að þegar líða tók á árið 2008 voru umrædd drög að fundargerðum gjarnan send fulltrúum í hópnum rafrænt. Í ýmsum tilvikum hefur frekara ljósi verið varpað á fundi, þar sem ekki liggja fyrir formlegar fundargerðir, við skýrslutökur. Í eftirfarandi frásögn verður einnig getið annarra atburða sem ekki varða beinlínis viðbúnað eða aðgerðir stjórnvalda en þykir þó rétt að nefna samhengisins vegna.
Tekið skal fram að hér er að töluverðu leyti stuðst við gögn sem rannsóknarnefnd Alþingis fékk afhent frá Seðlabanka Íslands en þar virðast hafa verið skráð fleiri og fyllri upplýsingar um ýmsa atburði, á borð við fundi með bankamönnum og fulltrúum stjórnvalda, en gert var hjá ráðuneytum og Fjármálaeftirlitinu, sbr. sérstaklega umfjöllun um skjalaskráningu Fjármálaeftirlitsins í kafla 16.0. Hér skal þess þó getið að innan Fjármálaeftirlitsins var starfandi sérstakur viðbúnaðarhópur sem settur var á laggirnar haustið 2007.Við skýrslutöku lýsti Jónas Fr. Jónsson, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, því að ástæða þess að hópnum var komið á fót hefðu verið erfiðleikar á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Síðan bætti hann við: "Íslensku bankarnir voru mjög alþjóðlegir, hlutabréfaverð hér hafði fallið. Ég taldi því nauðsynlegt að við hefðum þverfaglegan hóp sem væri að fylgjast með og fara yfir og kalla eftir ítarlegri upplýsingum, því að maður vildi auðvitað reyna að fylgjast með og hvort það kæmu fram veikleikar í fyrirtækjunum." Aðspurður sagði Jónas að ekki væri til að dreifa fundargerðum frá fundum hópsins heldur einungis fundardagskrám og hugsanlega skriflegum punktum sem Jónas hefði tekið saman og bætti hann því við að líklega væri lítið gagn að þeim. Jónas sagði einnig að það hefði ekki verið almenn regla að starfsmenn Fjármálaeftirlitsins skráðu minnispunkta um fundi nema málefnið tengdist fyrirhugaðri ákvörðunartöku. Jónas bætti síðan við: "Það var nú þannig, það mikið vinnuálag á fólkinu þarna, yfirleitt og það lítill tími að menn urðu að vera, hugsa náttúrulega svolítið hvernig þeir nýttu tíma sinn." Eðli máls samkvæmt eru fundardagskrár, líkt og þær sem skráðar voru hjá viðbúnaðarhópi Fjármálaeftirlitsins, ekki jafn ítarleg og haldgóð gögn og fundargerðir. Af þeirri ástæðu kallaði rannsóknarnefnd Alþingis eftir frekari upplýsingum um viðbúnaðarhópinn frá Fjármálaeftirlitinu, sbr. bréf nefndarinnar, dags. 13. maí 2009. Fjármálaeftirlitið tók af því tilefni saman sérstaka skýrslu um viðbúnaðarhópinn 2. júlí 2009. Í henni kemur fram að hópurinn hafi að jafnaði fundað með tveggja vikna millibili. Hlutverk hópsins hafi "fyrst og fremst verið að hafa viðvarandi eftirlit með helstu áhættum í starfi fjármálafyrirtækja á fjármálamarkaði á Íslandi, bregðast við ef á þyrfti að halda og kynna niðurstöðurnar stjórn FME og eftir atvikum Seðlabanka Íslands". Í samræmi við þetta hafi starfsmenn hópsins komið frá öllum fjórum sviðum Fjármálaeftirlitsins. Síðan segir að fylgst hafi verið reglulega með útlánaáhættu, markaðsáhættu, lausafjáráhættu, fjármögnun, eiginfjárhlutfalli og orðsporsáhættu auk þess sem samskipti hefðu verið við erlenda aðila. Fundardagskrár viðbúnaðarhópsins bera með sér að hér var um frekar lauslega unnin vinnugögn að ræða. Ekki verður því frekari grein gerð fyrir fundum viðbúnaðarhópsins við umfjöllunina hér á eftir heldur vísað almennt til umfjöllunar í 16.0 kafla. Eins og fram kom í ummælum þeim sem höfð eru eftir Jónasi Fr. Jónssyni á það ekki einungis við um umræddan viðbúnaðarhóp að lítið hafi verið um að skráðar væru niður fundargerðir eða minnisatriði vegna funda eða samtala hjá Fjármálaeftirlitinu. Þetta á t.d. einnig við um ýmsa fundi sem forstjóri eða starfsmenn Fjármálaeftirlitsins munu hafa átt, m.a. með fulltrúum banka og erlendra systurstofnana, og því er ekki getið nema að takmörkuðu leyti um slíka fundi í því yfirliti sem hér fer á eftir.
Þeir atburðir sem grein verður gerð fyrir hér í framhaldinu verða raktir í tímaröð.Tímabilið sem um ræðir er 1. janúar 2007 fram til 25. september 2008, þegar stjórnarformaður Glitnis banka hf. óskaði eftir fyrirgreiðslu Seðlabanka Íslands á fundi með formanni bankastjórnar Seðlabankans. Í kafla 20 er atburðarásin síðan rakin frá þeim tíma og fram til falls bankanna.
Áður en tekið er til við lýsingu á framangreindum atburðum er rétt að víkja að aðdraganda þess að samráðshópi stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað var komið á fót.
19.2 Samráðshópur forsætisráðuneytis, fjármálaráðuneytis, viðskiptaráðuneytis,Fjármálaeftirlits og Seðlabanka Íslands um fjármálastöðugleika og viðbúnað og aðdragandi þess að honum var komið á fót
Hinn 5. júní 1998 samþykkti Alþingi lög nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.Tóku lögin gildi 1. janúar 1999. Með lögunum var sérstakri stofnun, Fjármálaeftirlitinu, komið á fót. Stofnuninni voru falin verkefni sem áður höfðu heyrt undir Vátryggingaeftirlitið og bankaeftirlit Seðlabanka Íslands.
Hinn 26. mars 1999 gerðu Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn með sér samstarfssamning á grundvelli þágildandi 4. mgr. 14. gr. laga nr. 87/1998. Samkvæmt efni samningsins var honum m.a. ætlað að tryggja greið og fljótvirk upplýsingaskipti milli aðila, skýra verkaskiptingu og að stuðla að því að tvíverknaði yrði haldið í algjöru lágmarki. 6. hluti samningsins bar heitið "Samstarf um aðgerðir". Í lið 6.1. sagði: "Samningsaðilar skulu í samstarfi sínu leitast við að þróa aðferðir til að sjá fyrir, eins fljótt og kostur er, erfiðleika í rekstrarumhverfi á fjármagnsmarkaði og í starfsemi einstakra fjármálafyrirtækja." Framangreindur samningur var síðar leystur af hólmi með samstarfssamningi sömu aðila 28. mars 2003. Sá samningur var svo endurnýjaður með öðrum samningi sömu aðila 3. október 2006.
Í febrúar 2000 birtist í riti Seðlabankans, Peningamálum, grein sem bar yfirskriftina "Fjármálakerfið: styrkur og veikleikar". Í greininni er fjallað um fjármálakreppur. Þær eru skilgreindar sem truflun eða skyndileg breyting á starfsemi fjármálastofnana eða markaða sem hefur marktæk neikvæð áhrif á efnahagsþróun. Í greininni eru síðan taldar upp þær vísbendingar af þjóðhagslegum toga sem talið er mikilvægast að fylgjast með. Í greininni segir að um þetta sé að mestu fylgt mati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Síðan er birt eftirfarandi upptalning:
- Mikill vöxtur útlána. Mjög ör vöxtur hefur oft verið fyrirboði alvarlegrar fjármálakreppu. Samhliða örum vexti er hætt við að gæðum eignasafns lánastofnana hraki. Ör vöxtur í veðskulda- og öðrum neyslulánum og gengistryggðum lánum getur verið undanfari almennrar uppsveiflu.
- Vaxandi viðskiptahalli. Fylgifiskur mikils og vaxandi viðskiptahalla er að jafnaði innstreymi erlends fjármagns sem fjármálakerfið hefur að miklu leyti milligöngu um að afla. Því eru náin tengsl á milli viðskiptahalla og útlánavaxtar. Óhóflegur viðskiptahalli kann einnig að vera vísbending um gjaldeyriskreppu, sem getur valdið lausafjárerfiðleikum fjármálastofnana, einkum ef viðskiptahallinn er að miklu leyti fjármagnaður með skammtímalánum. Aðstæður eru mjög viðkvæmar þegar saman fara mikill viðskiptahalli og lágt fjárfestingarhlutfall og ef hlutfall gjaldeyrisforða af skammtímaskuldbindingum er mjög lágt.
- Efnahagsáföll og lítill hagvöxtur. Efnahagslægð eða samdráttur dregur úr getu fyrirtækja og einstaklinga til að standa við fjárskuldbindingar sínar og hefur oft verið undanfari erfiðleika í fjármálakerfi.
- Óraunhæft raungengi. Mikil hækkun raungengis getur gert útflutningsgreinum erfitt um vik að standa við skuldbindingar sínar. Hátt raungengi eykur jafnframt hættu á skyndilegri gengislækkun sem getur kippt fótunum undan getu lántakenda sem ekki njóta tekna af útflutningi til að standa við erlendar skuldbindingar sínar.
- Eignaverðbólga. Peningaleg þensla getur stuðlað að óhóflegri hækkun á verði hlutabréfa og fasteigna. Þegar peningalegt aðhald er aukið getur verðið lækkað skyndilega á sama tíma og tekjur fjármálastofnana rýrna. Í því getur falist mikil áraun fyrir fjármálakerfið.
- Samsetning fjármagnsinnstreymis. Sé hlutfall skammtímalána og verðbréfafjárfestingar í fjármagnsinnstreymi hátt er meiri hætta á skyndilegu útstreymi en ef langtímafjármagn og bein fjárfesting eru ráðandi.
- Afkoma í geirum sem vega þungt í lánveitingu fjármálastofnana. Í smáum hagkerfum með fábreytta efnahagsstarfsemi verður vart hjá því komist að nokkuð stór hluti lánveitinga fari til fárra atvinnugreina. Fjármálakerfi í smáríkjum getur því verið næmt fyrir áföllum sem bundin eru við ákveðna geira.
- Hlutfall M2 og gjaldeyrisforða eða vöxtur þessara stærða. Hátt hlutfall peningamagns M2 af gjaldeyrisforða er vísbending um innlenda peningaþenslu, þ.e.a.s. vöxt peningamagns sem gjaldeyrisinnstreymi stendur ekki að baki, sem eykur hættu á gjaldeyriskreppu.
- Mikil skuldsetning fyrirtækja. Miklar skuldir í hlutfalli við eignir fyrirtækja auka augljóslega hættu á vanskilum.
- Breytingar á viðskiptakjörum. Reynslan sýnir að skyndileg breyting á viðskiptakjörum getur leitt til erfiðleika í fjármálakerfinu, einkum lítilla landa með einhæfan útflutning. Mikill bati viðskiptakjara getur leitt til verðbólgu og örrar þenslu eignaverðs, sem botninn dettur úr þegar viðskiptakjör versna skyndilega.
Síðan segir í greininni: "Meðal annarra vísbendinga sem mikilvægt er að fylgjast með eru innlent vaxtastig, opinber íhlutun í lánastarfsemi, lánveitingar bankakerfis til hins opinbera, breytileiki verðbólgu, uppsöfnun vanskila, þróun erlendra vaxta og næmi fyrir erlendum áhrifum."
Með skipunarbréfi, dags. 5. desember 2000, skipuðu bankastjórn Seðlabankans og forstjóri Fjármálaeftirlitsins starfshóp sem falið var að móta viðbúnaðaráætlun vegna erfiðleika í rekstrarumhverfi á fjármálamarkaði og í starfsemi einstakra fjármálafyrirtækja.
Hinn 5. janúar 2001 birti Seðlabankinn fréttatilkynningu þar sem upplýst var um skipulagsbreytingar innan stofnunarinnar sem gerðar hefðu verið um undangengin áramót. Í tilkynningunni segir m.a.: "Meginmarkmið breytinganna er að skýra verkaskiptingu í bankanum, efla áhættugreiningu á öllum sviðum starfsemi hans, auka hæfni bankans til að koma í veg fyrir og mæta fjármálakreppu og síðast en ekki síst að efla umsjón með starfsmannamálum á rekstrarsviði bankans. Stofnað var nýtt svið, fjármálasvið, sem m.a. mun annast viðfangsefni bankans á sviði fjármálastöðugleika sem hingað til hafa verið í umsjá innanhússnefndar skipaðri nokkrum yfirmönnum bankans."
Í þessu samhengi má geta eftirfarandi orða sem Eiríkur Guðnason, seðlabankastjóri, lét falla við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis: "Skömmu fyrir aldamótin þá er bankakerfið tekið út úr Seðlabankanum og Fjármálaeftirlitið búið til, þar sem sameinað er bankaeftirlit og tryggingaeftirlit. Þetta gerist í fleiri löndum [...] og Seðlabankar fara að setja fókusinn á fjármálastöðugleika kerfisins þar sem aftur á móti eftirlitsaðilinn getur farið á vettvang og skoðað einstakar stofnanir – þessi hugsun kom upp hjá okkur og þegar Tryggva Pálsson rak á okkar fjörur, ef svo má segja, þróaðist þessi hugsun yfir í það að við sáum ástæðu til að stofna sérstakt svið sem hefði þessa hugsun, að reyna að hafa yfirsýn yfir fjármálakerfið í heild og hyggja að viðbúnaðarmálum í þeim efnum. Það er svona, ég held að 2001 höfum við formlega búið til þetta fjármálasvið."Afrakstur vinnu þess hóps sem skipaður var 5. desember 2000 og getið er að framan var Áfangaskýrsla vegna viðbúnaðaráætlunar Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins, dags. 31. desember 2001.Tryggvi Pálsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Seðlabankans, og Ásta Þórarinsdóttir, starfsmaður Fjármálaeftirlitsins, stjórnuðu vinnu við verkefnið. Í inngangi skýrslunnar setur starfshópurinn fram tillögur sínar. Starfshópurinn leggur til að:
- hann vinni áfram að verkinu að fengnum ábendingum bankastjórnar og forstjóra.
- hann leggi sérstaka áherslu á gerð viðlagaáætlunar, þ.e. útfærslu á fyrstu viðbrögðum Seðlabankans og FME við aðstæðum sem krefjast sameiginlegra viðbragða.
- starfið á næstu mánuðum stefni að því marki að næsta vor verði hægt að kynna niðurstöðu þessa verkefnis fyrir bankaráði Seðlabankans og stjórn FME.
- síðan væri unnt að kynna forsætisráðherra, fjármálaráðherra og viðskiptaráðherra stöðu verkefnisins. Hugsanlegt er að tillögur verði gerðar um einhverjar breytingar á lögum og reglum og jafnframt smíð frumvarpa sem hægt væri að grípa til ef þörf krefði.
- bankastjórn Seðlabankans og forstjóri FME gangi frá samþykktri áætlun eftir að tekið hefur verið tillit til fenginna ábendinga.
- viðbúnaðaráætlunin verði eftir það endurskoðuð með reglubundnum hætti.
Í skýrslunni segir að framundan sé að útfæra nánar einstaka þætti sameiginlegrar viðbúnaðaráætlunar og beri þar helst að nefna viðlagaáætlun.Viðlagaáætlun er í skýrslunni skilgreind sem áætlun um viðbrögð þegar fjármálakreppa er skollin á.Viðbúnaðaráætlun er hins vegar sögð áætlun um viðbúnað og viðbrögð.Viðlagaáætlun sé því hluti af viðbúnaðaráætlun.
Í kafla 1.4. í framangreindri skýrslu eru rök fyrir viðbúnaði stjórnvalda talin upp. Þar segir m.a.: "Ef fjármálakerfið lendir í kerfisáfalli er nauðsynlegt að hið opinbera sé á einhvern hátt viðbúið slíkum skelli. Það er ekki nóg að treysta á þær lagalegu heimildir sem skilgreina að einhverju leyti viðbrögð við áfalli. Þegar kerfisáfall á sér stað er atburðarásin yfirleitt mjög hröð, ef enginn viðbúnaður er fyrir hendi af hálfu eftirlitsyfirvalda er mikil hætta á að viðbrögðin verði fljótfærnisleg sem á móti eykur hættuna á því að gera ástandið verra en það er [...] ."
Hinn 28. mars 2003 undirrituðu fulltrúar Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands skjal sem nefnt er "Minnisblað Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands um viðbúnað vegna hugsanlegra erfiðleika í rekstrarumhverfi á fjármálamarkaði". Fram kemur að stofnanirnar hafi undanfarið unnið að styrkingu "samstarfs sín í milli og almennra ferla er varða viðbúnað vegna hugsanlegra erfiðleika á fjármálamarkaði". Síðan eru raktar þær aðgerðir sem miðað hafi að þessu. Segir m.a. að Seðlabankinn hafi mótað starfsreglur um viðbrögð bankans við lausafjárvanda samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laga nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands. Einnig segir að Fjármálaeftirlitið hafi mótað viðlagaáætlun fyrir kerfismikilvæga banka auk sérstakrar viðlagaáætlunar fyrir sparisjóði og minni fjármálafyrirtæki.Tekið er fram að stofnanirnar tvær hafi gert með sér samstarfssamning vegna greiðslu- og uppgjörskerfa og jafnframt mótað sameiginlega viðbúnaðaráætlun um sama efni. Einnig hafi sérstakur vinnuhópur stofnananna tveggja unnið að upplýsingaöflun um aðferðir til að sjá fyrir erfiðleika í rekstrarumhverfi á fjármálamarkaði og aðgerðir við þær aðstæður. Í minnisblaðinu segir einnig að skipaðir hafi verið tveir starfshópar til að fjalla um vísbendingar um kerfisáhættu á fjármálamarkaði og efna til viðlagaæfinga árlega. Komi til kerfisáhættu skuli hóparnir tveir starfa saman og vera leiðbeinandi um sameiginlegar aðgerðir Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans og samskipti þeirra við "m.a. stjórnvöld og aðila á fjármálamarkaði". Undir lok minnisblaðsins segir: "Fjármálaeftirlitið og Seðlabanki Íslands eru sammála um að kynna í sameiningu framangreindar aðgerðir og leita samstarfs við önnur stjórnvöld um frekari útfærslu á viðbúnaði vegna hugsanlegra erfiðleika í rekstrarumhverfi á fjármálamarkaði."
Hinn 15. janúar 2004 funduðu forsætisráðherra, fjármálaráðherra, utanríkisráðherra og viðskiptaráðherra með Fjármálaeftirlitinu og Seðlabankanum í húsakynnum forsætisráðuneytisins. Á fundinum kynntu bankastjórn Seðlabankans og forstjóri Fjármálaeftirlitsins viðlagaáætlanir sem unnar höfðu verið í hvorri stofnun fyrir sig og sameiginlega. Niðurstaða fundarins var sú að efnt skyldi til samráðs fulltrúa forsætisráðuneytis, fjármálaráðuneytis og viðskiptaráðuneytis með fulltrúum Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans um viðbúnað stjórnvalda við hugsanlegum áföllum í fjármálakerfi. Ólafur Davíðsson, þáverandi ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytis, stýrði samráðinu þar til hann lét af störfum sem ráðuneytisstjóri síðla árs 2004. Þá tók Bolli Þór Bollason við starfi ráðuneytisstjóra forsætisráðuneytis og leiddi hann samráðið í kjölfarið. Hópurinn fundaði nokkrum sinnum á um tveggja ára starfstíma sínum. Leiddi það starf til sérstakrar greinargerðar um viðbúnað stjórnvalda vegna hugsanlegra erfiðleika á fjármálamarkaði sem hópurinn vann og skilaði af sér til stjórnvalda 17. febrúar 2006. Í henni er m.a. lagt til að komið verði á formlegum samráðshópi fulltrúa forsætisráðuneytis, fjármálaráðuneytis, viðskiptaráðuneytis, Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands um aðstæður í fjármálakerfinu. Drög að samkomulagi um myndun slíks hóps voru meðfylgjandi. Á þeim tíma voru í hópnum Bolli Þór Bollason, Baldur Guðlaugsson, ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytis, Kristján Skarphéðinsson, ráðuneytisstjóri iðnaðar- og viðskiptaráðuneyta, Jónas Fr. Jónsson, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, Ingimundur Friðriksson, þáverandi aðstoðarbankastjóri Seðlabankans, og Tryggvi Pálsson.
Í framangreindri greinargerð frá 17. febrúar 2006 segir m.a.: "Við núverandi skipan á fjármálamarkaði er líklegt að alvarleg áföll í rekstri eins eða fleiri þriggja stærstu viðskiptabankanna gætu leitt til samráðs stjórnvalda, enda gætu áföll í rekstri eins bankanna haft alvarleg áhrif á fjármálakerfið í heild. Íslensku bankarnir starfa nú í vel á [öðrum] tug landa, heildareignir samstæðna þeirra eru tæplega sexföld landsframleiðslan, rúmur helmingur tekna bankanna er erlendis frá og markaðsvirði þeirra er meira en helmingur virðis allra skráðra fyrirtækja í kauphöll." Einnig er rætt um valdheimildir Fjármálaeftirlitsins. Um þær segir: "Fjármálaeftirlitið skortir hins vegar eftirlitsheimildir sem nauðsynlegar eru í tengslum við aðgerðir í aðdraganda, upphafi eða úrlausn fjármálakreppu. Þannig hefur Fjármálaeftirlitið ekki skýrar heimildir til að grípa inn í stjórnun fjármálafyrirtækis. Ekki er sérstaklega kveðið á um að Fjármálaeftirlitið geti skipt um stjórnendur eða endurskoðendur fjármálafyrirtækis, eða boðað til hluthafafundar, beitt sér þar eða tekið yfir ákvörðunarvald hans. [...] Þá getur Fjármálaeftirlitið ekki lagt tímabundið bann við tiltekinni starfsemi, svo sem móttöku innlána. Ákvæði af þessu tagi þekkjast sums staðar í löggjöf um starfsemi systurstofnana Fjármálaeftirlitsins erlendis." Síðan segir: "Þrátt fyrir að eftirlitsheimildir Fjármálaeftirlitsins séu ekki sniðnar að viðbrögðum við fjármálakreppu, eru núgildandi heimildir til þess fallnar að Fjármálaeftirlitið geti beitt sér með virkum hætti."
Í 5. kafla greinargerðarinnar eru þau atriði nefnd sem helst er talið líklegt að "stjórnvöld á hverjum tíma leggi áherslu á í aðdraganda og úrvinnslu fjármálakreppu". Síðan eru þau atriði talin upp:
- Að stjórnvöld séu í stakk búin til þess að leggja á skömmum tíma mat á stöðu einstakra fyrirtækja og áhrif yfirvofandi fjármálakreppu.Þannig sé á grundvelli bestu fáanlegra upplýsinga hægt að meta þörfina fyrir hugsanlega aðstoð stjórnvalda.
- Að ekki þurfi að koma til aðstoðar stjórnvalda, umfram eðlilega íhlutun Fjármálaeftirlitsins og e.a. Seðlabanka Íslands. Lagt sé mat á aðra valkosti ef þess er nokkur kostur. Ennfremur sé aðstoðin eins afmörkuð og nokkur kostur er, ef til hennar þarf að koma. Hér koma m.a. til skoðunar heimildir Fjármálaeftirlitsins til að knýja á um úrbætur, m.a. með því að gera breytingar á framkvæmdastjórn, eða stjórn fyrirtækja. (Sjá einnig skýringar með 7. gr. laga um Seðlabankann).
- Að aðstoð standist alþjóðaskuldbindingar. Hvernig beri m.a. að útfæra aðstoð svo að hún standist ríkisstyrkjareglur á Evrópska efnahagssvæðinu.
- Að stjórnvöld séu í aðstöðu til að fylgja aðstoð sinni eftir með íhlutun í stjórnun viðkomandi fjármálafyrirtækja. Þannig geti stjórnvöld gætt ítrustu hagsmuna sinna við úrlausn málsins. Hér vaknar m.a. spurningin um það hvort stjórnvöld eigi að geta tekið sér vald hluthafafundar.
- Að almenningur og viðskiptamenn verði fyrir eins litlum skaða og frekast er kostur. Lýtur bæði að því að takmarka fjárhagslegan skaða og því að tryggja skjóta úrlausn ef tjón skal bætt úr Tryggingarsjóði.
Í 6. kafla greinargerðarinnar eru tillögur starfshópsins settar fram. Fram kemur að starfshópurinn telji rétt að komið verði á samráðshópi fulltrúa forsætisráðuneytis, fjármálaráðuneytis, viðskiptaráðuneytis, Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands um aðstæður í fjármálakerfinu. Samráðshópur þessi skuli hittast eigi sjaldnar en tvisvar á ári. Hann skuli þó kallaður saman um leið og forstjóri Fjármálaeftirlitsins og/eða bankastjórn Seðlabankans leggja til að svo verði gert vegna atvika sem varða stöðu fjármálafyrirtækja. Því næst bendir starfshópurinn á að kanna megi kosti þess að sækja um aðild að samkomulagi Evrópusambandslandanna um samvinnu fjármálaeftirlita, seðlabanka og fjármálaráðuneyta í fjármálaáföllum. Þá skuli verða framhald á viðlagaæfingum sem farið hafi fram á vegum Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans. Lagt er til að ráðuneytin sem unnið hafi með starfshópnum taki framvegis þátt í slíkum æfingum. Síðan segir í greinargerðinni:
Starfshópurinn telur, með hliðsjón af umfjöllun hér að framan, að liggja þurfi fyrir með skýrari hætti en nú er hvaða aðilar í stjórnkerfinu beri meginábyrgð á og annist framkvæmd á úrlausn fjármálakreppu og hvaða heimildir þeir hafi í því skyni. Í núgildandi lögum er hlutverk Seðlabanka Íslands sem lánveitanda til þrautavara í lausafjárerfiðleikum skilgreint með skýrum hætti. Starfshópurinn telur því ekki ástæðu til að gera breytingar á ákvæðum laga um Seðlabanka Íslands. Hins vegar telur hópurinn að huga þurfi að breytingum á lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og lögum um fjármálafyrirtæki. Ennfremur telur starfshópurinn að huga þurfi að breytingum á lögum um Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta. Bent er á eftirfarandi atriði í þessu sambandi:
1. Æskilegt er að Fjármálaeftirlitið geti knúið fram breytingar á stjórnun og endurskoðun fjármálafyrirtækis. Þannig geti Fjármálaeftirlitið vikið stjórn, framkvæmdastjóra og eftir atvikum endurskoðanda úr starfi og skipað nýja í þeirra stað. Til greina kemur jafnframt að kveða á um einhliða heimild eftirlitsins til að taka við tilteknar aðstæður yfir vald hluthafafundar eða fundar stofnfjáreigenda að þessu leyti. Önnur leið væri að kveða á um heimild Fjármálaeftirlitsins til að boða til hluthafafundar eða fundar stofnfjáreigenda og leggja þar fyrir og knýja fram tillögu um breytingar á stjórn og endurskoðun. Mikilvægt gæti verið að Fjármálaeftirlitið hefði val um hvor þessara leiða væri farin m.t.t. aðstæðna hverju sinni. Heimildir af þessu tagi eiga sér fordæmi í nágrannalöndum og eru í samræmi við alþjóðlegar grunnreglur um árangursríkt bankaeftirlit. Í þessu sambandi má nefna að í úttekt Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á fjármálastöðugleika hér á landi á árinu 2003 kom fram að þrátt fyrir að heimildir og úrræði Fjármálaeftirlitsins hefðu verið auknar á undanförnum misserum, væri enn skortur á að eftirlitið hefði nauðsynlegar heimildir m.t.t. kjarnareglna fyrir árangursríkt bankaeftirlit (e. Core Principles for Effective Banking Supervision, Principle 22) útgefnum af Basel-nefnd um bankaeftirlit á árinu 1997. Í tilvitnuðu ákvæði kjarnareglnanna kemur m.a. fram að til þess að verja hag innstæðueigenda og kröfuhafa og koma í veg fyrir að sá vandi sem steðjar að viðkomandi banka hafi keðjuverkandi áhrif í fjármálakerfinu, verði eftirlitsaðilar að vera í stakk búnir til að knýja fram aðgerðir til úrbóta á réttum tíma sem geri þeim kleift að beita viðeigandi úrræðum í takt við eðli þeirra vandamála sem fyrir hendi eru hverju sinni. Kveðið er á um að eftirlitsaðilar ættu að hafa heimild m.a. þess að víkja til hliðar ráðandi eigendum, stjórnarmönnum og framkvæmdastjórum eða til þess að takmarka völd þeirra. Einnig kemur fram að við sérstakar aðstæður ættu eftirlitsaðilar að hafa möguleika á að skipa tilsjónarmann með banka.
2. Einnig kann að vera mikilvægt að Fjármálaeftirlitið hafi heimildir til þess að takmarka eða banna ráðstöfun eftirlitsskylds aðila á fjármunum sínum og eignum sé það liður í aðgerðum til að koma fjárhag þess á réttan kjöl. Með þessu er t.d. átt við bann við útborgun innlána, veitingu útlána, greiðslu skulda til kröfuhafa eftirlitsskyldra aðila o.fl. þ.h. Fjármálaeftirlitið gæti jafnframt á grundvelli slíks ákvæðis bannað eftirlitsskyldum aðila að auka við skuldbindingar sínar. Nauðsynlegt kann að vera fyrir Fjármálaeftirlitið að grípa til slíkra aðgerða á meðan unnið er að því að leysa úr erfiðleikum í rekstri eftirlitsskyldra aðila. Nefna má að Fjármálaeftirlitið hefur nú þegar slíka heimild í 90. gr. laga um vátryggingastarfsemi og samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki er Fjármálaeftirlitinu heimilt að banna tiltekna starfsemi skv. IV. kafla laganna. Síðarnefnda ákvæðið kveður hins vegar á um að áður en til þess kemur að banna starfsemi skuli veittur hæfilegur frestur til úrbóta. Ef um þær aðstæður er að ræða sem ákvæði þessa töluliðar á við, kann hins vegar að vera nauðsynlegt fyrir Fjármálaeftirlitið að grípa inn með skjótari hætti. Í þessu sambandi má jafnframt nefna að í fyrrnefndum kjarnareglum fyrir árangursríkt bankaeftirlit kemur fram að eftirlitsaðilar ættu að hafa vald til þess að takmarka eða banna arðgreiðslur eða aðrar greiðslur til hluthafa og ennfremur að takmarka framsal eigna og kaup bankans á eigin hlutabréfum. Taka þyrfti afstöðu til þess hvort Tryggingarsjóður gæti greitt viðskiptavinum út á þessu tímabili. Auk framangreinds kunna aðstæður að vera með þeim hætti að nauðsynlegt sé að Fjármálaeftirlitið geti krafist þess að eftirlitsskyldur aðili sæki um greiðslustöðvun í samræmi við ákvæði laga um gjaldþrotaskipti. Ljóst er að það gæti eyðilagt tilraunir til þess að koma rekstri eftirlitsskylds aðila í betra horf ef kröfuhafar eftirlitsskylds aðila beittu fullnustuaðgerðum gagnvart honum. Huga þyrfti að því hvort jafnhliða þyrfti að gera breytingar á löggjöf um gjaldþrotaskipti.
3. Huga þyrfti að afbrigðum frá því ferli sem kveðið er á um í 86. gr. laga um fjármálafyrirtæki og varða upphafsaðgerðir vegna ónógs eigin fjár, þegar um kerfismikilvæg fyrirtæki er að ræða [...]. Í þessu sambandi er nauðsynlegt að útfæra tiltekna viðlagameðferð þar sem fjárhagsstaða viðkomandi fjármálafyrirtækis yrði dregin fram með skjótari hætti en núgildandi ákvæði felur í sér. Þannig geti Fjármálaeftirlitið krafið endurskoðendur eftirlitsskylds aðila um mat á eiginfjárstöðu. Ennfremur geti Fjármálaeftirlitið boðað milliliðalaust til hluthafafundar eða fundar stofnfjáreigenda til að fjalla um málefnið, sbr. ennfremur umfjöllun í tölul. 1 hér að framan.
4. Huga þarf að heimildum stjórnvalda til þess að taka tímabundið yfir vald hluthafafundar [eða fundar stofnfjáreigenda] í kerfismikilvægu fjármálafyrirtæki þegar skilyrði 9. gr. laga um fjármálafyrirtæki til afturköllunar á starfsleyfi eru uppfyllt, en ekki þykir ráðlegt að afturkalla starfsleyfið og taka fyrirtækið til hefðbundinna slita skv. 2. mgr. 10. gr. sömu laga [...]. Þess í stað tækju stjórnvöld tímabundið yfir vald hluthafafundar til þess að knýja fram tilteknar aðgerðir í því skyni að leysa úr rekstrarvanda fjármálafyrirtækis. Sem dæmi um slíkar aðgerðir má nefna hlutafjáraukningu, samruna eða yfirtöku aðila sem stendur betur að vígi. Nærtækast er að Fjármálaeftirlitinu yrði falið að halda á formlegum valdheimildum stjórnvalda í þessu efni, en að þeim verði ekki beitt nema að uppfylltum eftirtöldum skilyrðum:
- Ljóst þyki að aðstoð Seðlabanka Íslands vegna lausafjárerfiðleika eða lögheimil aðstoð Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta dugi ekki til.
- Að skilyrði 9. gr. laga um fjármálafyrirtæki til afturköllunar á starfsleyfi eru uppfyllt og ljóst þyki að önnur úrræði Fjármálaeftirlitsins komi ekki að gagni.
- Fyrir liggi samþykki tiltekinna ráðherra eða ríkisstjórnar.
5. Huga þarf í þessu sambandi að hlutverki og aðkomu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta og samspili við lög um gjaldþrotaskipti. Jafnframt þarf að skoða fyrirkomulag útgreiðslna úr Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta [...]. Nauðsynlegt er að huga að samspili aðgerða þessa sjóðs við aðgerðir Seðlabanka Íslands, Fjármálaeftirlitsins og eftir atvikum ríkissjóðs.
Líkt og að framan greinir lagði starfshópurinn til að komið yrði á fót sérstökum samráðshópi framangreindra stjórnvalda. Hinn 21.
febrúar 2006 breytti matsfyrirtækið Fitch horfunum fyrir íslenska ríkið úr stöðugum í neikvæðar. Í kjölfarið lækkaði virði krónunnar verulega og innlend hlutabréf lækkuðu í verði. Sama dag var eftirfarandi samkomulag undirritað um samráðshóp.
Samkomulag forsætisráðuneytis, fjármálaráðuneytis, viðskiptaráðuneytis, Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands um samráð varðandi fjármálastöðugleika og viðbúnað
Tilgangur
Frá stofnun Fjármálaeftirlitsins í ársbyrjun 1999 hafa það og Seðlabanki Íslands átt náið samstarf um viðfangsefni sem varða fjármálastöðugleika, þ.m.t. um viðbúnað við hugsanlegum áföllum í fjármálakerfinu. Undanfarin tvö ár hefur einnig átt sér stað óformlegt samráð forsætisráðuneytisins, fjármálaráðuneytisins, viðskiptaráðuneytisins, Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans um sama efni.Tilgangur þessa samkomulags er að formbinda samráð aðila á þessu sviði. Með því er leitast við að skerpa hlutverkaskiptingu, hindra tvíverknað og auka gegnsæi. Samkomulagið takmarkar ekki svigrúm hvers um sig til sjálfstæðra ákvarðana um aðgerðir út frá hlutverki og ábyrgð sinni.
Samráðshópur
Góð almenn umgjörð í lögum, reglum og eftirliti með starfsemi fjármálafyrirtækja og markaða er grundvallarforsenda fjármálastöðugleika og traust og skilvirkt fjármálakerfi er mikilvæg forsenda fyrir vexti og velferð þjóðarbúsins. Aðilar samkomulagsins stuðla saman að því að þessar forsendur séu til staðar á grundvelli lögbundinna hlutverka og verkefna sinna. Þá leitast þeir við að samhæfa viðbrögð sín við hugsanlegu fjármálaáfalli.
Vettvangur samráðsins er samráðshópur fulltrúa forsætisráðuneytis, fjármálaráðuneytis, viðskiptaráðuneytis, Fjármálaeftirlits og Seðlabanka Íslands. Samráðshópurinn hittist eigi sjaldnar en tvisvar á ári. Hann skal þó kallaður saman um leið og forstjóri Fjármálaeftirlitsins og/eða bankastjórn Seðlabankans leggja til að svo verði gert vegna atvika sem varða stöðu fjármálafyrirtækja eða markaða. Fulltrúi forsætisráðuneytis stýrir starfi hópsins.Við undirbúning kynninga og í umræðum er gætt þeirrar þagnarskyldu sem hver aðili er bundinn.
Á fundum sínum fjallar samráðshópurinn m.a. um:
- Stöðu og horfur á fjármálamörkuðum
- Meiriháttar breytingar á lögum, reglum og starfsháttum er varða fjármálamarkaðinn
- Álitamál í alþjóðlegu samstarfi, sérstaklega innan EES.
Viðbúnaður og verklag
Samráðshópurinn er vettvangur upplýsinga- og skoðanaskipta. Hann er ráðgefandi og tekur ekki ákvarðanir um aðgerðir. Samráðshópurinn útbýr og heldur við lista yfir helstu tengiliði. Hann getur staðið að og tekið þátt í viðlagaæfingum eins og þeim sem hafa farið fram í samvinnu Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands. Skapist þær aðstæður að fjármálakerfinu sé talin hætta búin vegna áfalls í fjármálafyrirtæki eða á markaði skal efnt til umfjöllunar í samráðshópnum án tafar.Viðbrögð við slíkum vanda eru háð aðstæðum hverju sinni en grundvallaratriði er að eigendur og stjórnendur fjármálafyrirtækja sem og markaðsaðilar leysi vanda sinn sjálfir.
Endurskoðun samkomulagsins
Samkomulagið skal endurskoðað þegar einhver aðila þess óskar þess.
Nánara samstarf Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands
Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn fylgjast grannt með og leitast við að stuðla að heilbrigði íslensks fjármálakerfis, hvor stofnunin með sínum hætti í samræmi við hlutverk sitt. Um samstarf þeirra gildir opinber samningur, fyrst gerður 1999 en nú frá 2003, þar sem meðal tilgreindra markmiða er að tryggja samræmd viðbrögð við hugsanlegri kerfisáhættu á fjármálamarkaði.
21. febrúar 2006
Hinn 1. júní 2006 fundaði síðan samráðshópur stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað í fyrsta sinn. Ekki var rituð fundargerð.
Hinn 27. nóvember 2006 samþykkti bankastjórn Seðlabankans sérstaka samþykkt um viðfangsefni Seðlabankans á sviði fjármálastöðugleika. Samkvæmt samþykktinni er fjármálakerfi skilgreint sem fjármálamarkaðir, fjármálastofnanir og greiðslu- og uppgjörskerfi. Í samþykktinni er gert ráð fyrir því að í virku og öruggu fjármálakerfi felist eftirfarandi: "[...] að það sé virkt og geti staðist áföll í efnahagslífi og á fjármálamörkuðum, miðlað lánsfé og greiðslum og dreift áhættu með viðhlítandi hætti. Til eftirbreytni ber að hafa alþjóðlega samninga, önnur viðmið sem lúta að bestu framkvæmd og vinnu erlendra seðlabanka sem lengst hafa náð á þessu sviði. Efla skal þekkingu og vanda vel til allra verka." Samkvæmt samþykktinni sinnir Seðlabankinn viðfangsefnum sínum á sviði fjármálastöðugleika m.a. með eftirfarandi hætti: "Með því að beita sér fyrir breytingum á reglum og lagalegri umgjörð um starfsemi fjármálafyrirtækja og viðskipti á markaði eftir því sem hann telur tilefni til. [...] Með því að koma ábendingum bankans um úrbætur og breytingar skýrt á framfæri og fylgja þeim eftir. [...] Með útgáfu á mánaðarskýrslu um efni tengt fjármálastöðugleika sem fjármálasvið tekur saman til takmarkaðrar dreifingar í Seðlabankanum og Fjármálaeftirlitinu."
Hinn 30. nóvember 2006 fundaði samráðshópur stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað. Um var að ræða annan fund hópsins. Í drögum að fundargerð segir m.a.: "Kristján Skarphéðinsson sagði að viðskiptaráðherra hefði lagt fram frumvarp til að styrkja heimildir FME í samræmi við tillögur hópsins en ýmislegt er ógert. Jónas Fr. Jónsson fór yfir helstu atriði frumvarpsins en nefndi að "krísuvinnan" væri eftir. M.a. þyrfti að vera hægt að víkja stjórnarformanni eða stjórnanda frá við sérstakar aðstæður þó hann uppfylli hæfisskilyrði." Á fundinum var rætt um minnisblað Fjármálaeftirlitsins sem m.a. fjallar um útibúavæðingu banka og segir í drögum að fundargerð að Jónas Fr. Jónsson hafi dreift minnisblaðinu og kynnt efni þess. Í minnisblaðinu segir m.a.: "Erlend starfsemi íslenskra fjármálafyrirtækja hefur lengst af farið aðallega fram í erlendum dótturfélögum sem stofnuð hafa verið eða keypt. Fjármálaeftirlitinu virðist sem breyting sé að verða á þessu, þar sem orðið hefur vart við aukinn fjölda tilkynninga um stofnun útibúa."
Loks skal hér getið þeirra breytinga sem gerðar voru á starfsemi iðnaðar- og viðskiptaráðuneyta 24. maí 2007. Þá var skilið á milli starfsemi ráðuneytanna. Í framhaldinu sat fulltrúi viðskiptaráðuneytis, Jónína S. Lárusdóttir, sem skipuð var ráðuneytisstjóri viðskiptaráðuneytis 31. ágúst sama ár, í samráðshópi stjórnvalda en ekki fulltrúi frá iðnaðarráðuneyti.
19.3 Ágrip um aðgerðir og viðbrögð íslenskra stjórnvalda og ýmsa markverða atburði frá 1. janúar 2007 til 25. september 2008
19.3.1 Janúar 2007 til og með júní sama ár
Seðlabanki Íslands sendir Fjármálaeftirlitinu bréf 23. janúar 2007
Hinn 23. janúar 2007 sendi Seðlabanki Íslands Fjármálaeftirlitinu bréf þar sem fram kemur að bankinn hafi tekið til umsagnar umræðuskjal nr. 1/2007, drög að leiðbeinandi tilmælum um viðmiðunarreglur álagsprófa fjármálafyrirtækja undir annarri stoð nýrra eiginfjárreglna. Í bréfinu segir m.a.: "Seðlabankinn vekur athygli á efni viðauka V í tilskipun 2006/48/EB þar sem m.a. er fjallað um áhættu vegna efnahagsumhverfis, fjármögnunar og lausafjár. Þar er m.a. sagt að stjórnendur skuli staðfesta og fylgjast reglulega með aðferðum og stefnu vegna áhættu sem fjármálafyrirtæki tekur, þar með talið áhættu vegna efnahagsumhverfis. Einnig skulu vera til staðar stefna og ferlar vegna mælingar og stýringar á fjármögnun og taka skal mið af breyttum en líklegum aðstæðum. Forsendur sem liggja að baki ákvörðunum um fjármögnun skulu jafnframt endurskoðaðar reglulega. Einnig skulu vera til staðar viðbúnaðarferlar til að takast á við verulega lausafjárerfiðleika (e. liquidity crisis). Seðlabankinn leggur mikla áherslu á að vel verði fylgst með framfylgni fjármálafyrirtækja við framangreint og er reiðubúinn til samstarfs í þeim efnum ef eftir því verður leitað."
Sérstök viðlagaæfing fyrir greiðslukerfi 25. janúar 2007
Hinn 25. janúar 2007 fór sérstök viðlagaæfing fyrir greiðslukerfi fram í fyrsta sinn hér á landi. Fjallað er um æfinguna í innanhússriti Seðlabanka Íslands, Fjármálastöðugleiki: fréttir og vísbendingar. Í ritinu segir: "Framkvæmd æfingarinnar og úrlausn þeirra vandamála er upp komu gekk í meginatriðum mjög vel. Engu að síður komu upp nokkur atriði í hverju tilviki fyrir sig sem þarfnast frekari skoðunar og aðlögunar."
Moody's hækkar langtímalánshæfiseinkunn stóru íslensku bankanna þriggja í febrúar 2007
Í febrúar 2007 hækkaði lánshæfismatsfyrirtækið Moody's langtímalánshæfiseinkunn stóru íslensku viðskiptabankanna þriggja. Ástæðu þessa mátti rekja til breyttrar aðferðar við mat á lánshæfi. Við matið skyldi nú einnig litið til stuðnings sem banki mætti vænta frá utanaðkomandi aðila, t.d. seðlabanka. Hinni nýju framkvæmd var tekið misjafnlega.Var hún gagnrýnd af mörgum aðilum, sbr. t.d. ummæli greiningaraðila Royal Bank of Scotland sem sagði að Moody's hefði með þessari greiningu sinni gert sig óþarft (e. redundant), sbr. umfjöllun Fréttablaðsins 25. febrúar og Morgunblaðsins 27. sama mánaðar.
Forsætisráðherra flytur ræðu á Viðskiptaþingi Viðskiptaráðs Íslands 7. febrúar 2007
Hinn 7. febrúar 2007 flutti Geir H. Haarde, forsætisráðherra, ræðu á Viðskiptaþingi sem Viðskiptaráð Íslands stóð fyrir. Í ávarpi sínu minntist Geir á alþjóðlega fjármálastarfsemi á Íslandi og sagði m.a.: "Lögð hefur verið áhersla á að draga sem mest úr skrifræði og kostnaði í reglusetningu hins opinbera. Þar höfum við reyndar þegar tekið mörg mikilvæg skref og fleira er í undirbúningi undir merkjum aðgerðaáætlunarinnar, "Einfaldara Ísland". Flóknar og torskildar reglur geta valdið óþarfa kostnaði og dregið úr samkeppnishæfni atvinnulífsins." Síðar sagði Geir: "Árið 2006 var stormasamt en jafnframt lærdómsríkt. Við lærðum hversu mikilvægt alþjóðlegt orðspor og ímynd er fyrir lítið þjóðfélag. Ég vil þakkaViðskiptaráði hér sérstaklega fyrir að hafa frumkvæði að gerð Mishkin skýrslunnar svokölluðu og einnig Tryggva Þór Herbertssyni, og auðvitað Mishkin sjálfum, fyrir að hafa með skýrslunni útskýrt fyrir umheiminum staðreyndir málsins hvað varðar íslensk efnahagsmál." Loks sagði Geir: "Atvinnulífið átti alfarið frumkvæði að þessu framtaki og stýrði því. Aðkoma mín sem þáverandi utanríkisráðherra fólst í því að veita aðgang að utanríkisþjónustunni til að auðvelda útbreiðslu og kynningu skýrslunnar auk þess sem ég flutti ræðu á kynningarfundi vegna útgáfu skýrslunnar í NewYork. Þetta verkefni er gott dæmi um það þegar samvinna atvinnulífsins og ríkisins tekst vel."
Samráðsfundur Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands 9. febrúar 2007
Hinn 9. febrúar 2007 var haldinn samráðsfundur Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans. Í drögum Seðlabankans að fundargerð segir m.a.: "Davíð Oddsson sagði það spurningu nú þegar lausafjárstaða og eiginfjárstaða væri rúm hvort menn standist freistingar að fara í sókn aftur. Hann sagði að ef vandamál koma upp getur lausafé þornað upp á einum degi."
Fjármálastöðugleikafundur haldinn í Seðlabanka Íslands 14. febrúar 2007
Hinn 14. febrúar 2007 var fyrsti fundur þess árs um fjármálastöðugleika haldinn í Seðlabankanum. Hér var um að ræða reglubundna fundi. Um þá er sérstaklega fjallað í bankastjórnarsamþykkt Seðlabankans um viðfangsefni stofnunarinnar á sviði fjármálastöðugleika frá 27. nóvember 2006. Þar segir m.a.: "Bankastjórn efnir eigi sjaldnar en fjórum sinnum á ári til funda innan bankans um stöðugleika fjármálakerfisins og skulu tímasetningar taka m.a. mið af birtingu uppgjöra helstu fjármálafyrirtækja. Fundi þessa sitja auk bankastjórnar, framkvæmdastjóri fjármálasviðs og nánustu samstarfsmenn hans, aðalhagfræðingur og staðgengill hans, framkvæmdastjórar upplýsingasviðs og alþjóða- og markaðssviðs, og aðrir sérfræðingar bankans eftir því sem tilefni er talið til hverju sinni. Á þessum fundum skal kynnt greining á umhverfi, stöðu og áhættu fjármálastofnana, fjármálamarkaða og greiðslu- og uppgjörskerfa. Í aðdraganda útgáfu Fjármálastöðugleika efnir bankastjórn til fundar þar sem drög að greiningu bankans til birtingar í ritinu eru kynnt og rædd."
Árið 2007 voru fimm fjármálastöðugleikafundir haldnir í Seðlabankanum, þ.e. 14. febrúar, 20. apríl, 12. september og 15. nóvember. Árið 2008 voru fimm slíkir fundir haldnir fyrir fall bankanna,þ.e.10.janúar,11.febrúar, 31. mars, 22.apríl og 16.september.Almennt sátu þessa fundi bankastjórn Seðlabankans, Arnór Sighvatsson, aðalhagfræðingur bankans, Sturla Pálsson, framkvæmdastjóri alþjóða-og markaðssviðs,Tryggvi Pálsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs, auk annarra sérfræðinga stofnunarinnar af fjármála-og hagfræðisviði. Í fundargerð frá fjármálastöðugleikafundi 14. febrúar 2007 kemur fram að erlend matsfyrirtæki álíti að bankarnir séu "full viljugir til að taka áhættu". Í umfjölluninni hér á eftir verður ekki gerð sérstök grein fyrir einstökum fjármálastöðugleikafundum nema efni fundargerða gefi tilefni til þess.
Breyting á lánshlutfalli og hámarkslánum Íbúðalánasjóðs til fasteignakaupa 28. febrúar 2007
Hinn 28. febrúar 2007 samþykkti Jón Sigurðsson, starfandi félagsmálaráðherra, reglugerð nr. 156/2007. Fól hún í sér breytingu á reglugerð um lánshlutfall og fjárhæð ÍLS-verðbréfa nr. 540/2006. Með hinni nýju reglugerð var hámarkslánshlutfall Íbúðalánasjóðs hækkað úr 80% í 90%. Jafnframt var hámarkslánsfjárhæð hækkuð úr 17 milljónum króna í 18 milljónir. Í fréttatilkynningu frá félagsmálaráðuneyti kom fram að verið væri að færa lánshlutfall og hámarkslánsfjárhæð í það horf sem var "áður en ríkisstjórnin greip til aðgerða í efnahagsmálum í lok júnímánaðar 2006". Samkvæmt fréttatilkynningu forsætisráðuneytis 27. júní 2006 var markmið fyrrgreindra efnahagsaðgerða að draga úr þenslu og stuðla að hjöðnun verðbólgu. Með lögum nr. 120/2004 sem samþykkt voru á Alþingi 2. desember 2004 hafði lögum nr. 44/1998 um húsnæðismál verið breytt á þann veg að Íbúðalánasjóður gæti lánað fyrir allt að 90% af matsverði íbúðar.
Í Blaðinu 2. mars 2007 voru fluttar fréttir af gagnrýni Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins á hækkun lánshlutfalls Íbúðalánasjóðs. Haft var eftir fulltrúum samtakanna að breytingin væri ekki til þess fallin að koma á efnahagslegum stöðugleika.
Viðtal við fjármálaráðherra í Viðskiptablaðinu 21. mars 2007
Hinn 21. mars 2007 birti Viðskiptablaðið viðtal við Árna M. Mathiesen, fjármálaráðherra. Rætt var um gagnrýni sem Moody's varð fyrir er fyrirtækið hækkaði lánshæfiseinkunn íslensku viðskiptabankanna. Fram kemur að Árni sé ósammála þeirri gagnrýni. Í greininni segir: "Árni telur þessa gagnrýni óréttmæta og bendir á að eitthvað hljóti að skýra þá staðreynd að það hafi engin veigamikil fjármálastofnun orðið gjaldþrota í Vestur-Evrópu síðustu fimmtíu árin." Síðan segir Árni: "Jafnvel þótt að ekki liggi fyrir einhverjar yfirlýsingar frá stjórnvöldum eða heit um að koma bönkum til aðstoðar þá er hægt að draga ályktanir af þessari staðreynd." Því næst er Árni spurður hvort íslenska ríkið hafi fjárhagslegt bolmagn til þess að styðja við bakið á bönkunum. Í viðtalinu segir síðan: "[...] segir Árni að hingað til hafi ekki verið gefnar út neinar yfirlýsingar um það og sú stefna muni ekki breytast. Hann bendir hins vegar á að sjálfstæði Seðlabankans hafi verið aukið til muna og fjárhagsleg staða hans hafi verið styrkt til muna." Síðan er haft eftir Árna: "Slíkar aðgerðir eru eðlilegar samfara vexti í bankakerfinu. Hvað er lítið eða stórt í því samhengi er erfitt að segja um." Í viðtalinu er einnig rætt um þensluhvetjandi áhrif jöklabréfaútgáfu og tekur Árni að nokkru leyti undir viðvörunarorð Fitch vegna þessa.
Formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands flytur ræðu á ársfundi stofnunarinnar 30. mars 2007
Hinn 30. mars 2007 flutti Davíð Oddsson ræðu á ársfundi Seðlabankans. Davíð ræddi m.a. um gjaldeyrisvaraforða stofnunarinnar og sagði: "En hinar miklu breytingar, sem jafnvel mætti kalla byltingar, sem hafa orðið í íslensku fjármálalífi á tiltölulega fáum árum leiddu til þess að bankastjórninni þótti eðlilegt og æskilegt að horfa nú einnig til annarra þátta, svo sem til stærðar og umfangs fjármálakerfisins." Davíð sagði einnig: "Á þessum stað fyrir rúmu ári höfðum við öll þungar áhyggjur af sérstæðu umtali og stundum illa grunduðum vangaveltum um íslensku bankana, stöðu þeirra og styrk. Ekki er vafi á því að sú umræða og það sem henni fylgdi gerði bönkunum erfitt fyrir um hríð. Bankarnir brugðust hart við þeirri óþægilegu stöðu sem upp var komin. Mikið átak var gert til að útskýra uppbyggingu og skipulag íslensku bankanna. Þar var ekkert fum og fát, heldur miklu fremur festa og öryggi sem skilaði árangri. Bankarnir löguðu nokkra þætti í rekstri og rekstrarumhverfi sínu að málefnalegri gagnrýni sem birst hafði og eins kváðu þeir niður þætti sem ómálefnalegri voru með skýringum, greinargerðum og hreinskilnum upplýsingum, jafnt á stórum fundum sem smáum, og maður á mann, eftir því sem gafst best. Á sama tíma þurftu bankarnir um stund að leita á önnur lánamið en hefðbundin voru og er ekki vafi á að þessar aðstæður reyndu mjög á innviði og stjórnun þeirra. Ekki verður annað sagt en að þeir sem í hlut áttu hafi staðist hið erfiða próf. Fjármögnunarvandinn eins og hann blasti við okkur um þetta leyti fyrir ári er úr sögunni og kjör á eftirmarkaði komin í eðlilegra horf á ný og traust á markaði hefur verið endurvakið. Er þetta mikið þakkar-og fagnaðarefni. Hitt stendur þó auðvitað eftir að mönnum eru nú ljósari en áður þær hættur sem víða geta leynst í framtíðinni. Alþjóðleg skilyrði á markaði geta breyst snögglega. Lánsfjáraðgengi, sem á undanförnum misserum hefur verið með eindæmum hagfellt fyrir íslenska banka sem og aðra, kann að breytast skyndilega við óvæntar aðstæður. Mikilvægt er að vera við því búinn að slíkt geti gerst."
Fjármálaráðherra ákveður að efla eiginfjárstöðu Seðlabanka Íslands 30. mars 2007
Hinn 30. mars 2007 sendi Árni M. Mathiesen Seðlabankanum bréf þar sem hann tilkynnti að hann hefði, að höfðu samráði við ríkisstjórnina og á grundvelli heimildar í fjárlögum, ákveðið að "efla eiginfjárstöðu Seðlabankans um 44 milljarða króna og nýta til þess hluta af innlendri innstæðu ríkissjóðs í bankanum".
Moody's lækkar lánshæfismat stóru íslensku viðskiptabankanna þriggja
Hinn 11. apríl 2007 var sagt frá því í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins að lánshæfismatsfyrirtækið Moody's hefði lækkað lánshæfismat stóru íslensku viðskiptabankanna þriggja. Rætt var við Ólaf Ísleifsson, lektor við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík. Sagði hann lækkunina alls ekki neitt áfall fyrir bankana. Ræddi hann um lækkunina sem leiðréttingu frá hækkun fyrirtækisins frá því í febrúar sama ár sem tryggði bönkunum aðgang að lánamörkuðum á "mjög frambærilegum kjörum", enda voru bankarnir allir enn með hærra lánshæfismat en fyrir hækkunina í febrúar þrátt fyrir þessa lækkun.
Fjármálastöðugleiki kemur út 25. apríl 2007
Hinn 25. apríl 2007 kom út árlegt rit Seðlabankans, Fjármálastöðugleiki. Fram kemur í ritinu að meginniðurstaða stofnunarinnar sé sú að á heildina litið sé fjármálakerfið í "meginatriðum traust". Í beinu framhaldi segir: "Það er fært um að standast hugsanleg áföll í efnahagslífinu og á fjármálamörkuðum, miðla lánsfé og greiðslum og dreifa áhættu með viðhlítandi hætti. Það er með öðrum orðum sagt fært um að sinna hlutverki sínu með skipulegum og skilvirkum hætti. Íslenska bankakerfið uppfyllir kröfur sem gerðar eru til þess og stenst vel áhættupróf sem Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn hafa gert." Um gjaldeyrisvaraforða og aukningu er rætt síðar í ritinu. Í sömu umfjöllun er einnig minnst á freistnivanda (e. moral hazard). Síðan segir: "Ljóst er að hlutverk Seðlabanka Íslands sem uppspretta lauss fjár fyrir hagkerfið er bundið við heimamyntina, þ.e. íslensku krónuna, og bankanum er aðeins heimilt að veita fjármálafyrirtækjum lán gegn tryggingum."
Fundur samráðshóps stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað 3. maí 2007
Samráðshópur stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað hélt tvo fundi á árinu 2006. 3. fund sinn hélt samráðshópurinn 3. maí 2007. Samkvæmt drögum að fundargerð var m.a. rætt um stöðu og horfur á fjármálamörkuðum. Fram kemur að rætt hafi verið um að frumvarp, sem hafi að geyma heildarendurskoðun á lögum um verðbréfaviðskipti og kauphöll, hafi dagað uppi á síðasta þingi. Loks segir að rætt hafi verið um norrænu viðlagaæfinguna sem haldin skyldi í september sama ár.
Fundur Seðlabanka Íslands með Glitni 9. maí 2007
Hinn 9. maí 2007 funduðu seðlabankastjórarnir Eiríkur Guðnason og Ingimundur Friðriksson auk Tryggva Pálssonar, framkvæmdastjóra fjármálasviðs Seðlabankans, með fulltrúum Glitnis banka hf., þeim Bjarna Ármannssyni og Lárusi Welding. Af fundarpunktum Seðlabankans má ráða að rætt hafi verið almennt um efnahagsmál en auk þess um Icesave innlánsreikninga Landsbanka Íslands hf. Um Icesave er haft eftir Lárusi Welding: "Stórt inn á skömmum tíma, gæti farið á skömmum tíma."
Fundur Seðlabanka Íslands með Landsbanka Íslands 11. maí 2007
Hinn 11. maí 2007 fundaði bankastjórn Seðlabankans með stjórnendum Landsbanka Íslands hf. Af fundarpunktum Seðlabankans má ráða að rætt hafi verið almennt um efnahagsmál. Einnig kemur fram að rætt hafi verið um Lárus Welding, nýjan bankastjóra Glitnis, sem áður starfaði hjá Landsbankanum. Haft er eftir Davíð Oddssyni, formanni bankastjórnar Seðlabankans: "Mishkin skýrslan gott framtak." Síðan kemur fram að Landsbankinn vilji fá bindiskyldu á erlend innlán fellda niður. Einnig segir að innlánstryggingar hafi verið ræddar. Segir að Landsbankinn vilji að heildsöluinnlán verði undanþegin innlánstryggingu. Síðan segir: "Þrýsta á þetta áfram, vilja reglugerð í haust."
Fundur Seðlabanka Íslands með Kaupþingi 14. maí 2007
Hinn 14. maí 2007 fundaði bankastjórn Seðlabankans með stjórnendum Kaupþings banka hf. Af fundarpunktum Seðlabankans má ráða að rætt hafi verið um íbúðalán í erlendri mynt. Einnig kemur fram að rætt hafi verið um hátt skuldatryggingarálag Kaupþings. Síðan segir að rætt hafi verið um innlán. Um það segir í fundarpunktum Seðlabankans: "Gengið vel í Bretlandi og Finnlandi. Sótt í gegnum dótturfélögin en eigum eftir að auka innlán móðurfélagsins. Mest innlán frá fyrirtækjum. Ef Ísland lendir aftur í neikvæðri umræðu gætu mun fleiri lýst áhyggjum (vegna innlánanna)." Því næst er í fundarpunktunum haft eftir Davíð Oddssyni: "Þurfum að skoða bindiskylduna. Áhyggjur af skuldugustu heimilunum." Loks segir í fundarpunktum að rætt hafi verið um sameiningu á bankamarkaði. Haft er eftir Hreiðari Má Sigurðssyni, forstjóra Kaupþings: "Engan áhuga á að sameinast Glitni."
Viðskiptaráðherra skipar nefnd 30. maí 2007 til að yfirfara ákvæði laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta
Hinn 30. maí 2007 skipaði Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, nefnd til að yfirfara ákvæði laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, sjá nánar umfjöllun í kafla 17.0 um Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta.
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn birtir niðurstöður sendinefndar sinnar um Ísland 11. júní 2007
Hinn 11. júní 2007 birti Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn niðurstöður sendinefndar sinnar sem stödd var á Íslandi dagana 31. maí 2007 til 11. júní sama ár. Niðurstaða sendinefndarinnar varðandi fjármálastöðugleika var eftirfarandi: "The financial system withstood the market stress in early 2006 admirably, but new risks may be emerging. Banks have taken important steps over the past year to reduce vulnerabilities and increase resilience. Short-term liquidity management has been strengthened. Ownership structures have been made more transparent with the sell-down of some cross-shareholdings, which is important for maintaining investor confidence. As banks continue to expand rapidly and the complexity of their operations increases, risk management practices must develop and improve commensurately." Síðan segir: "Looking ahead, credit risk should be a key focus for banks and supervisors. Lending growth remains very strong, and while the delinquency rate is low, it is a lagging indicator. Lending standards and the quality of loan collateral need to be monitored closely. Further, banks' foreign-currency lending to households, which has increased sharply, could potentially become an important indirect credit risk as unhedged households may underestimate the impact of currency movements on their debt-service costs. Reform of the HFF would also improve the pricing of risk in the lending market." Loks segir: "Stress tests conducted by the financial supervisor (FME) suggest that banks have adequate capital to withstand a combination of extreme credit and market shocks. However, these scenarios may underestimate the second-round effects of such shocks and therefore improvements in stress-testing techniques should continue. Given the rapid expansion of the financial sector, the envisaged further strengthening of the FME's resources is welcome. At the same time, the authorities' emphasis on cross-border collaboration in supervision and crisis management is encouraging."
19.3.2 Júlí til október 2007
Breyting á lánshlutfalli Íbúðalánasjóðs til fasteignakaupa 3. júlí 2007
Hinn 3. júlí 2007 samþykkti Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra, reglugerð nr. 587/2007. Reglugerðin fól í sér breytingu á reglugerð um lánshlutfall og fjárhæð ÍLS-verðbréfa nr. 540/2006 með síðari breytingum. Með hinni nýju reglugerð var hámarkslánshlutfall Íbúðalánasjóðs lækkað úr 90% í 80%.
Umfjöllun um viðbrögð Seðlabanka Íslands við breytingum á lánshlutfalli Íbúðalánasjóðs 6. júlí 2007
Hinn 6. júlí 2007 birti Fréttablaðið frétt þar sem haft er eftir Davíð Oddssyni að sú ákvörðun Íbúðalánasjóðs að lækka lánshlutfall úr 90% í 80% sé skynsamleg. Síðan er haft eftir Davíð: "Við gerðum athugasemdir við breytinguna í mars og teljum skynsamlegt að draga úr útlánaaukningu. Oft var þörf en nú er nauðsyn." Síðan segir að Davíð hafi áréttað að bankarnir yrðu að taka í sama streng.
Veiking íslensku krónunnar og lækkun hlutabréfaverðs
Frá miðjum júlí 2007 tók að bera á skarpri veikingu íslensku krónunnar.Verð hlutabréfa tók einnig að lækka. Sjá myndir til skýringar hér til hliðar.
Upphaf lausafjárkreppunnar í júlí 2007 út frá sjónarhorni fjármálafyrirtækjanna
Í stuttu máli lýsti Halldór J. Kristjánsson, bankastjóri Landsbankans, aðstæðum hjá bankanum með svofelldum hætti: "Þegar lausafjárkreppan [hófst] af alvöru, við skulum segja í júlí eða ágúst [2007], þá [hafði] það ekki svona teljandi áhrif á Landsbankann til að byrja með. Það voru enn opnir markaðir hjá okkur og okkur tókst að gefa út þá á haustmánuðum og nú það urðu lítils háttar breytingar, t.d. á okkar Icesave reikningum, en ekkert sem að svona var stórkostlegt, þannig að það var tiltölulegt jafnvægi í þeim.Við hins vegar tókum mjög fljótlega ákvörðun um það að á meðan þetta ástand mundi vara þyrftum við að hægja á öllum vexti og þegar leið á haustið að þá sáum við það að við þyrftum að huga að árinu 2008 þannig að það væri núll vöxtur. Þegar leið að áramótum vorum við [...] þess áskynja að við þyrftum að reyna að byrja að draga saman efnahagsreikning og huga að ýmsum aðgerðum en það var í sjálfu sér fyrst og fremst þá að halda öllum viðskiptum og í raun og veru meta það með öllum öðrum á markaði, hversu langvinnt þetta yrði. Það var svona það mat sem við vorum sífellt að reyna að framkvæma." Halldór kvað það hafa verið afar óheppilegt að stærsti banki þjóðarinnar, Kaupþing, "skyldi ekki einu sinni á haustmánuðum 2007 skynja aðstæður þannig að hann ætti ekki að fara að kaupa einn bankann enn í útlöndum".
Við skýrslutöku af Sigurjóni Þ. Árnasyni, bankastjóra Landsbankans, sagði hann um upphaf lausafjárkreppunnar: "Ég held að enginn hafi átt von á því hvað þetta yrði mikið og langvinnt og öfgafullt. Það átti enginn von á því. Ég man eftir því þegar þetta byrjaði þá var svona stemningin fyrst, ja, þetta lagast eftir níu mánaða uppgjörin, svo ja, þetta lagast eftir tólf mánaða uppgjörin og kannski eftir fyrsta "quarter". [...] Eini aðilinn sem ég man eftir að var ævintýralega svartsýnn, að mörgum fannst og manni sjálfum, það var Moody's sem sagði, ég held að það hafi verið um haustið að þetta væri eitt og hálft ár, þ.e. út árið 2008."
Lárus Welding hóf störf sem forstjóri Glitnis banka hf. 1. maí 2007. Að hans sögn var ástandið á fjármálamörkuðum þá ágætt. Breytingar hefðu hins vegar orðið í júlí og ágúst 2007 þegar breski bankinn Northern Rock lenti í vanda. Lárus kvaðst einungis hafa náð að taka eitt lán fyrir Glitni, en það hefði numið einum milljarði evra. Það hefði verið í september 2007. FL Group hf. hefði síðan lent í vanda í október og nóvember 2007 og hefði Glitnir þá verið búinn að setja "bremsur á öll útlán". Síðan hefði verið ráðist í skuldabréfaútgáfu í byrjun árs 2008 sem gengið hefði illa. Í viðræðum Lárusar við fjárfesta hefði komið í ljós að þeir voru "pirraðir" yfir því hve lítið bankinn hefði gert í því að afla sér innlána. Ekki hefði síðan bætt úr skák að Gnúpsmálið hefði komið til umræðu á sama tíma.
Í skýrslu Sigurðar Einarssonar, stjórnarformanns Kaupþings, fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom eftirfarandi fram: "Á þessum tíma reyndum við að bæta lausaféð, við jukum viðmið bankans úr því að vera að mig minnir 180 laust fé yfir í það að vera 360 daga laust fé."
Fundur Roberts Wade 1. ágúst 2007
Hinn 1.ágúst 2007 stóð viðskiptaráðuneytið fyrir málþingi þar sem hagfræðingurinn Robert Wade hélt fyrirlestur um hina alþjóðlegu fjármálakreppu. Jón Þór Sturluson, aðstoðarmaður viðskiptaráðherra, sagði að innan ráðuneytisins hefðu menn verið mjög meðvitaðir um það misræmi sem væri á milli stærðar bankakerfisins og stærðar myntkerfisins. Áhersla viðskiptaráðherra hefði hins vegar verið "miklu fremur á að leysa þetta með þeim hætti að stækka myntkerfið en að minnka bankakerfið". Mönnum hefði komið mjög á óvart hversu neikvæður Wade hefði verið á þessum fundi um framhaldið og hefðu ekki lagt trúnað á orð hans. Viðskiptaráðuneytið hefði þannig ekki verið "á þessari línu á þessum tíma".
Ummæli forstjóra Fjármálaeftirlitsins um hálfsársuppgjör bankanna 8. ágúst 2007
Hinn 8. ágúst 2007 birti Fréttablaðið frétt þar sem rætt var við Jónas Fr. Jónsson um hálfsársuppgjör bankanna. Blaðið hefur eftir Jónasi: "Hálfsársuppgjör bankanna sýna að rekstur þeirra er almennt í góðu horfi og tekjugrunnur verður sífellt dreifðari." Jafnframt segir hann: "Innlán hafa einnig verið að aukast sem hlutfall af heildarútlánum sem styrkir fjármögnun þeirra. Í lok júní 2007 voru innlán sem hlutfall af útlánum 51 prósent samanborið við 34 prósent í lok ársins 2006." Loks segir hann: "En í ljósi aukinna alþjóðlegra umsvifa og mikils útlánavaxtar síðustu ár þurfa bankarnir að sýna árvekni varðandi gæði eigna. Þá er mikilvægt að þeir hugi vel að samþættingu rekstrareininga í nýjum löndum."
Viðtal við formann bankastjórnar Seðlabanka Íslands 10. ágúst 2007
Í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins 10. ágúst 2007 var rætt við Davíð Oddsson, formann stjórnar Seðlabanka Íslands. Davíð sagði: "Íslensku bankarnir eru í, eftir því sem að við vitum best, í mjög góðum málum og þeir njóta þess auðvitað að þeir tóku mjög vel til í sínum ranni þegar þeir lentu í ákveðnum erfiðleikum fyrir 16–18 mánuðum síðan. Þannig að þeir eru ekki að lenda í sömu erfiðleikunum og ýmsir bankar og fjármálastofnanir og sjóðir eru að gera núna."
Aðspurður um þessa frétt við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis sagði Davíð Oddsson: "En menn verða náttúrulega alltaf að hafa í huga að þegar við erum að tala opinberlega og í framhaldi af alls konar svona fullyrðingum erlendis frá [að] við erum auðvitað að reyna að standa við bakið á bönkunum. [...] Við höfðum auðvitað áfram áhyggjur en ég bara man ekki eftir neinum sérstökum kaflaskiptum [þarna]."
Tilkynnt um fyrirhuguð kaup Kaupþings á NIBC 15. ágúst 2007
Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins 15. ágúst 2007 var sagt frá því að Kaupþing hefði undirritað samning um kaup á öllu hlutafé í hollenska bankanum NIBC fyrir um 270 milljarða króna.
Fundur Seðlabanka Íslands með Glitni um fjármögnun 22. ágúst 2007
Hinn 22. ágúst 2007 funduðu tveir starfsmenn Seðlabankans með fulltrúa Glitnis. Fundarefnið var fjármögnun Glitnis. Í minnisblaði Seðlabankans um fundinn segir m.a.: "Að lokum var rætt um stöðu á mörkuðum sem hefur verið mjög sveiflukennd og ekki vænleg til útgáfu. Skuldatryggingarálag (CDS) er í hæstu hæðum og markaðsaðilar flýja hávaxtamyntir. Útlánaaukning hefur verið mun minni en áætlað var í upphafi árs og titringur á mörkuðum nú gerir Glitni erfiðara um vik að stækka." Seðlabankinn fundaði einnig 24. sama mánaðar með Kaupþingi um fjármögnun bankans.
Umfjöllun um álagspróf Fjármálaeftirlitsins 22. ágúst 2007
Hinn 22. ágúst 2007 birti Fréttablaðið frétt um álagspróf Fjármálaeftirlitsins. Haft er eftir Jónasi Fr. Jónssyni: "Jónas segir niðurstöðu álagsprófsins sýna að undirstöður íslensku bankanna séu traustar og eiginfjárstaða þeirra sterk. Hann bendir jafnframt á að rekstrarniðurstöður bankanna á fyrri helmingi ársins hafi verið góðar."
Fundur forsætisráðherra með stjórnarmanni og forstjóra Glitnis 3. september 2007
Samkvæmt upplýsingum frá forsætisráðuneyti fundaði Geir H. Haarde með Þorsteini M. Jónssyni, stjórnarmanni í Glitni, og Lárusi Welding, forstjóra bankans, 3. september 2007. Rannsóknarnefnd Alþingis hafa ekki borist frekari upplýsingar um fundinn.
Fundur Seðlabanka Íslands með Landsbanka Íslands 18. september 2007
Hinn 18. september 2007 fundaði bankastjórn Seðlabankans með stjórnendum Landsbankans. Af fundarpunktum Seðlabankans má ráða að rætt hafi verið um stöðuna á innlánamarkaði í Bretlandi "í ljósi Northern Rock". Í fundarpunktunum er haft eftir Jóni Þorsteini Oddleifssyni, forstöðumanni fjárstýringar Landsbankans: "Menn trúa ekki að allar innstæður séu tryggðar."
Samnorræna viðlagaæfingin 20.– 25. september 2007
Undanfarin ár hafa Seðlabanki Íslands og Fjármálaeftirlitið haldið viðlagaæfingar þar sem æfð hafa verið viðbrögð stjórnvalda við sviðsettu fjármálaáfalli. Æfingarnar hafa m.a. reynt á upplýsingaflæði milli stjórnvalda ásamt því að samhæfa vinnu og ákvarðanir í mikilli tímaþröng. Meðal annars er fjallað um þessar æfingar í Fjármálastöðugleika 2008. Þar kemur fram að Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið hafi gengist fyrir slíkum æfingum árin 2004 og 2006. Þá hafi stofnanirnar ásamt fjármálaráðuneytinu tekið þátt í samnorrænni viðlagaæfingu sem haldin hafi verið dagana 20.–25. september 2007. Einnig hafi stjórnvöld frá hinum Norðurlöndunum ásamt seðlabönkum Eystrasaltsríkjanna tekið þátt í æfingunni. Æfinguna hafi undirbúið Andrew Gracie, sérfræðingur í fjármálastöðugleika og fyrrverandi starfsmaður Seðlabanka Bretlands. Æfingin hafi staðið yfir í þrjá daga og lokið með uppgjörsfundi sem haldinn hafi verið strax í kjölfarið í Stokkhólmi en þar hafi verið farið yfir viðbrögð manna og hvaða lærdóm mætti draga af þeim.Með töluverðri einföldun má segja að íslenska verkefnið í norrænu æfingunni hafi byggst á því að greiðslufall hefði orðið hjá mjög stórum viðskiptavini Kaupþings sem hefði orðið til þess að eigið fé bankans minnkaði í rétt rúmlega 8%. Í framhaldinu hefðu markaðsaðstæður versnað sem leitt hefði til lækkunar á lánshæfismati bankans en það hefði síðan valdið erfiðri lausafjárstöðu hans. Samkvæmt atvikalýsingu æfingarinnar fór svo að bankinn uppfyllti ekki lágmarksskilyrði laga um eigið fé og fjármálaráðuneytið þurfti að taka ákvörðun um hvort ríkið ætti að koma til aðstoðar. Í skýrslu um æfinguna er eftirfarandi skráð um viðbrögð íslenskra stjórnvalda: "In Iceland there was intense coordination among the Icelandic authorities to discuss the way forward with Kaupthing, picking up on the issues identified at the end of Stage 2.While the potential size of the needed assistance had been defined, a decision whether to go ahead and support Kaupthing or not was deliberately not taken."Í skýrslu Ingimundar Friðrikssonar, seðlabankastjóra, fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom fram að farið hefði verið í gegnum stöðuna á þessum tíma og hefði það verið mat Fjármálaeftirlitsins að eiginfjárhlutfallið þyrfti að verða 12% og þar með hefði legið fyrir hvaða fjárhæð þyrfti til svo endurreisa mætti bankann. Um hefði verið að ræða mjög háar fjárhæðir, þ.e. um 100 til 230 milljarða króna samstundis og 400 milljarða til viðbótar til þess að koma bankanum á réttan kjöl. Hefði það verið niðurstaða fjármálaráðuneytisins og Seðlabanka Íslands að láta þar við sitja en þá hefði allt verið undirbúið fyrir lokaákvörðunina. Í skýrslu Baldurs Guðlaugssonar, ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytisins, fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom fram að þótt æfingin hefði verið unnin í trúnaði hefðu menn óttast að ef ákvörðun yrði tekin myndu upplýsingar um viðbrögð ríkisins leka út. Ef sagt hefði verið nei hefði það getað skapað ólgu og ef sagt hefði verið já hefði það getað búið til freistnivanda (e. moral hazard) fyrir bankana þar sem þá hefði verið búið að undirstrika að ríkið ætlaði að standa við bakið á þeim. Af þeim sökum hefðu menn talið rétt að taka enga ákvörðun. Baldur áréttaði að hann teldi að þessi æfing hefði ekki haft neina hernaðarlega þýðingu fyrir raunverulega greiningu manna þar sem ekkert nýtt hefði komið fram. Á þessum tímapunkti hefðu menn vitað að bankarnir voru orðnir stórir og ef það ætti að aðstoða þá þyrfti til háar fjárhæðir.Í skýrslu Tryggva Pálssonar, framkvæmdastjóra fjármálasviðs Seðlabankans, kom fram það mat að æfingin hefði verið afar gagnleg. Aðspurður sagði hann að hin norrænu ríkin hefðu hegðað sér eins á æfingunni og þau hefðu síðar gert þegar harðnaði á dalnum á alþjóðlegum fjármálamörkuðum tæplega ári síðar.Tryggvi sagði einnig: "Æfingin gekk framan af og reyndi á ýmsa þætti. Þegar kom að ákvörðunum, hvort stjórnvöld ættu í þessu ímyndaða dæmi að bjarga Kaupþingi eða ekki, þá er það að loknum fyrri degi sem Ingimundur og Baldur tala saman símleiðis eftir æfingu, heiman frá sér, og þeir komast að þeirri niðurstöðu að það væri skynsamlegt að opinbera ekki spilin og sýna hvort íslensk stjórnvöld myndu styðja bak við Kaupþing eða ekki, æfingin hefði náð tilætluðum árangri, að þeirra mati, og þeir ákváðu sem sagt að skila ekki svari, á prófinu. Jónas Fr. var kannski ekki sömu skoðunar og ég þurfti að eiga samtöl við Andrew Gracie sem spurði: "Hvað er eiginlega að gerast hjá ykkur? Þeir eru byrjaðir að tala saman líka [á] íslensku. Við áttum að tala allt á ensku til að allt væri augljóst, þetta var aðeins orðað á íslensku, þegar menn fóru á milli og þessi tregða til þess að sýna á spilin kom upp. Þeir tala sem sagt saman Ingimundur og Baldur um kvöldið og ákveða að hafa þetta með þessum hætti og þess vegna var skilað auðu um hvað stjórnvöld hefðu gert." Tryggvi sagði að sér hefði verið ljóst að forstjóri og starfsmenn Fjármálaeftirlitsins hefðu ekki verið ánægðir með að æfingin hefði ekki verið leikin til enda. Í skýrslu Jónasar Fr. Jónssonar, forstjóra Fjármálaeftirlitsins, fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom fram að hann hefði talið það vera mistök að klára ekki æfinguna. Þegar horft væri til baka teldi hann það hafa verið mjög slæmt því að þegar vandinn jókst haustið 2008 hefðu menn ekki heldur verið til í að klára að taka ákvarðanir. Hefði því verið ágætt ef menn hefðu verið búnir að æfa einu sinni að taka ákvörðun í svona leik. Í skýrslu Rúnars Guðmundssonar, sviðsstjóra vátryggingasviðs Fjármálaeftirlitsins, kom fram að æfingin hefði verið afar gagnleg og að það hefði verið skaðlegt og Íslendingum til álitshnekkis að leika ekki þessa norrænu æfingu til enda og taka hina pólitísku ákvörðun um hvort koma ætti Kaupþingi til aðstoðar.
Í skýrslu Sylvíu Kristínar Ólafsdóttur, forstöðumanns viðbúnaðarsviðs Seðlabanka Íslands, fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom fram að það hefði lekið til fjölmiðla að viðbúnaðaræfing stæði yfir hjá Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitinu. Um þetta sagði Sylvía: "Já, þetta kom á Rás 2 eða í útvarpsfréttum. Ég man að Davíð kom niður og sagði að þetta hefði verið, að þetta hefði lekið út og þá svona, af því að í æfingunni þá eru líka notuð sko nöfn bankanna, þú veist Kaupþing, Glitnir og Nordea og allt. Og það var, lekinn var frá Íslandi, þetta var í öllum þessum löndum og það var svona... Þá kom svolítill titringur í mannskapinn man ég og þá var farið, já, þá var farið í – já, þá var farið að nota gsm-símana, ég man að það var hringt í forsætisráðuneytið, fjármálaráðuneytið, bara: "Eigum við ekki, heyrðu eigum við ekki bara að hætta þessu núna? Eigum við nokkuð að taka ákvörðun innan kerfisins, þar sem að er tekið upp, heldur frekar ræða þetta seinna", hvað ætti að gera. [...] Það var bara, við sátum þarna öll og Ingimundur ákvað bara að: "Já, við stoppum bara hér." Hann kallar það bara út í kerfið. Þannig að við erum búin að læra það sem við þurfum að læra af þessari æfingu, [...] það var svona þannig póll, fannst mér, tekinn í þetta."Í skýrslu Árna M. Mathiesen, fjármálaráðherra, fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom fram að honum hefði verið kunnugt um viðlagaæfinguna og hvernig henni hefði lyktað. Í skýrslu Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, kom fram að hann hefði haft vitneskju um viðlagaæfinguna en ekki hvernig henni lyktaði. Í skýrslu Björgvins G. Sigurðssonar, viðskiptaráðherra, kom fram að hann rámaði í að hafa heyrt um viðlagaæfinguna en virtist lítið vita annað um hana.
Fundur forsætisráðherra með bankastjórn Seðlabanka Íslands 26. september 2007
Hinn 26. september 2007 fundaði Geir H. Haarde með bankastjórn Seðlabankans. Rannsóknarnefnd Alþingis hefur ekki undir höndum frekari upplýsingar um þennan fund.
Fundur Seðlabanka Íslands með Kaupþingi 9. október 2007
Hinn 9. október 2007 fundaði bankastjórn Seðlabankans með stjórnendum Kaupþings. Af fundarpunktum Seðlabankans má ráða að einkum hafi verið rætt um fyrirhugaða yfirtöku Kaupþings á hollenska bankanum NIBC.
Orðaskipti formanns bankastjórnar Seðlabanka Íslands og stjórnarformanns Kaupþings í kvöldverði eftir fund Alþjóðagjaldeyrissjóðsins
Eftir fund Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem haldinn var í Washington um miðjan októbermánuð 2007 stóð Seðlabanki Íslands fyrir kvöldverðarboði sem m.a. var sótt af íslenskum bankamönnum. Í skýrslu Sigurðar Einarssonar, stjórnarformanns Kaupþings, fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom fram að honum og eiginkonu hans hefði verið skipað til borðs með Davíð Oddssyni. Við það borð hefðu einnig setið utanríkisráðherra, fjármálaráðherra og aðstoðarkona seðlabankastjóra. Spenna hefði verið í loftinu. Í skýrslu Sigurðar segir síðan: "Seðlabankastjóri byrjar strax að ræða það við utanríkisráðherra og fjármálaráðherra að það sé alveg nauðsynlegt að sameina Fjármálaeftirlit og Seðlabankann, bara að leggja Fjármálaeftirlitið inn í Seðlabankann. Ég sá bara að fjármálaráðherra sökk niður í sætinu, hafði einhvern tíma upplifað þessa umræðu áður. Og svo spyr seðlabankastjóri, eða hvort það var utanríkisráðherra eða seðlabankastjóri: Hvað segir þú um það Sigurður? Og ég sagði: Ja, það væri kannski ágætishugmynd þegar væri búið að taka peningastjórnina af Seðlabankanum og búið að taka upp evruna, þá hefðu þeir eitthvað að gera með því að sinna Fjármálaeftirlitinu. Og þetta svar mitt mæltist ekki vel fyrir og síðan leið og beið og maturinn var búinn og það var ekki einu sinni komið kaffi, þá stóð fjármálaráðherra upp og sagði: Ah, það er best að ég fari eitthvað annað. Og utanríkisráðherra líka. Það endaði með því að ég sat þarna einn með seðlabankastjóranum og urðu langar og mjög harðar umræður á milli okkar og m.a. þar sem hann lét þessi orð falla að ef við ætluðum að halda fast við það að fara yfir í þessar evrur þá skyldi hann sjá til þess að við yrðum gjaldþrota. Þetta er í fyrsta skipti sem ég hef verið að "referera" þessi orð og ætlaði aldrei að gera þau að neinu efni. [...] Ég man ekki en ég held að ég hafi ekki svarað neinu. Svo endaði þessi samkoma þannig að framkvæmdastjóri alþjóðasviðs sem var þarna var að toga í öxlina á seðlabankastjóra og var að reyna að koma honum heim, og konan mín togaði í öxlina á mér og var að reyna að koma mér heim og aðstoðarkonan sat bara uppgefin í horninu."
Í skýrslu Davíðs Oddssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom eftirfarandi fram um fyrrgreind orðaskipti hans og Sigurðar Einarssonar: "Ég hef nú ekkert tjáð mig um það, menn hafa reynt að gera þetta að fjölmiðlamáli heilmiklu og reynt að "dramatísera" það, enda hefur nú öll sú umræða, m.a.s. staðsetningin, verið vitlaus að þetta hafi farið fram í hótelanddyri eða hóteldyrum en við áttum ágætis samtöl, ég gæti bara nefnt það, þetta var á veitingastað sem heitir – þess vegna man maður það – heitir Perlan og ég man nú ekkert yfirleitt eftir veitingastöðum en ég mundi þetta út af þessu, þessari tengingu við Perluna okkar hér og það hefur verið venja á þessum fundum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að Seðlabankinn byði íslenskum þátttakendum til samkvæmis, kvöldsamkvæmis, í minni tíð hefur það gerst þarna og í Singapúr. Þetta er nú töluverður hópur manna og einnig er boðið yfirleitt íslenskum starfsmönnum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans svona í þetta samkvæmi og það var einnig gert núna eftir því sem ég man best, ég man nú ekki eftir öllum sem voru þarna með mér. Og þó að ekki sé raðað til borðs þá eru svona menn pikkaðir við borð og við þetta borð, sem þarna er um rætt, sátu fyrir utan mig Sigurður Einarsson og hans kona, ég man ekki hvað hún heitir reyndar, Árni Mathiesen fjármálaráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra og Lilja Alfreðsdóttir var þarna við borðið. Ég held að þetta sé upptalið svona við borðið, nú verð ég að hafa fyrirvara á því. En hérna, þar var setið og margt rætt og síðan þegar að, þegar að hinu formlega borðhaldi var lokið, þá hurfu – jú, Sturla Pálsson held ég að hafi þá komið að borðinu, minnir mig, eftir borðhaldið – og þar sátu þá eftir ég – konan mín var ekki þarna – og þessi ágætu hjón og Lilja og Sturla hafa verið við þetta borð. Og það var auðvitað margt rætt, eins og er í svona oft kvöldverðarboðum." Aðspurður hvort Davíð hefði viðhaft þau orð, sem til hefði verið vitnað í fjölmiðlum, um að hann myndi "taka bankann niður" svaraði Davíð: "Ég held að ég hafi nú reyndar svarað þessu opinberlega að þetta er orðalag sem ég hef aldrei á ævi minni nefnt og notað. Því að þetta er einhver enskusletta sem að gæti verið að Sigurði sé tamt en – væntanlega "take the bank down" væntanlega, þetta er orðalag sem ég mundi aldrei nota. [...] Skoðanaskiptin snerust aðallega um mismunandi viðhorf okkar til þess hvort að íslenskir bankar ættu að skrásetja sig í erlendum gjaldmiðli og það var búið að halda því að með miklum eða skrá starfrækslugjaldmiðilsins, svo maður reyni nú að vera svolítið nákvæmur í þessu."
Umsókn Kaupþings 25. október 2007 um heimild til að færa bókhald sitt og semja ársreikning, samstæðureikning, í evrum frá og með rekstrarárinu 2008
Hinn 25. október 2007 sótti Kaupþing um heimild til ársreikningaskrár um að mega færa bókhald sitt og semja ársreikning, samstæðureikning, í evrum frá og með rekstrarárinu 2008. Ársreikningaskrá óskaði eftir umsögn Seðlabanka Íslands með bréfi 30. október 2007. Seðlabanki Íslands svaraði erindinu 3. desember 2007. Fram kom í bréfinu að Seðlabankinn væri mótfallinn því að innlend fjármálafyrirtæki tækju alfarið upp erlendan gjaldmiðil í reikningshaldi sínu. Rétt fyrir áramót hafnaði ársreikningaskrá síðan umsókn Kaupþings. Í beinu framhaldi af því kærði Kaupþing ákvörðunina til fjármálaráðherra.
Í skýrslu Sigurðar Einarssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom eftirfarandi fram: "Síðan í framhaldinu þá vorum við kallaðir niður í fjármálaráðuneyti á fund Árna Mathiesen, fjármálaráðherra, út af þessari umsókn og hann var augljóslega í alveg óskaplegum vandræðum með að úrskurða í þessu máli. Ég man að ég og Hreiðar sátum hjá honum lengi, inni á skrifstofunni hans og hann var nú bara einn, sem er frekar óvenjulegt, yfirleitt eru þeir með annaðhvort ráðuneytisstjóra eða aðstoðarmann eða einhvern með sér. Og það var rætt bara um alla heima og geima á þessum fundi og menn áttu mjög erfitt með að koma sér að efninu, sem var þessi umsókn. Hann bað okkur svona: "Hugsið þetta aðeins, ég vil helst ekki þurfa að úrskurða í þessu", o.s.frv. Já, já, við vorum náttúrulega allir af vilja gerðir eins og alltaf, til að þóknast yfirvöldum og fórum heim og hugsuðum málið. Svo vorum við kallaðir aftur á fund þremur vikum síðar þar sem hann bað okkur lengstra orða að draga þetta til baka. Og við urðum við þeirri ósk.
Aðspurður um ástæður þess að kæra Kaupþings til ráðherra var dregin til baka svaraði Árni M. Mathiesen í skýrslu sinni fyrir rannsóknarnefnd Alþingis: "Ástæðan var einfaldlega sú að við erum þarna komin í svona byrjunina á þessari krísu og það var alveg klár niðurstaða lögfræðinganna í ráðuneytinu að niðurstaða Ársreikningaskrár væri rétt, væri samkvæmt íslenskum lögum og alþjóðlega reikningsskilastaðlinum og þetta var svona pólitískt viðkvæmt mál [...]. Og ég var einfaldlega að reyna að draga úr þessari spennu og þessum "conflict", sem var þá í kerfinu, með því að fá þá, sem sagt Sigurð Einarsson og Hreiðar Má til þess að draga þetta frekar til baka heldur en að ég úrskurðaði, vitandi alveg hver úrskurðurinn yrði og vitandi það að ég hefði í sjálfu sér ekkert á móti því að þeir gerðu upp í erlendum gjaldmiðli ef þeir uppfylltu skilyrði reikningsskilastaðlanna, sem þeir gerðu klárlega ekki á þessum tíma, og að þegar og ef þeir uppfylltu skilyrðin að þá mundi ráðuneytið aldrei setja fótinn fyrir þá. En hins vegar var náttúrulega afstaða Seðlabankans önnur, en þeirra aðild að málinu var einfaldlega bara sem umsagnaraðila, þeir voru ekki ákvörðunartökuaðilar á því en höfðu aðra skoðun." Aðspurður hvað vantað hefði upp á að evra væri starfrækslumynt bankans þannig að hægt hefði verið að samþykkja umsókn Kaupþings svaraði Árni: "Ef við hefðum átt að gera það þá hefðum við þurft að skilgreina dönsku krónuna sem evru og þá hefði verið á grundvelli FIH bankans verið hægt að, sennilega verið á efnahagshliðinni verið komin stærð þar sem að evran væri orðin sem sagt stærsti gjaldmiðillinn á hluta af sem sagt starfseminni. Og ég sagði nú við þá að það yrði nú kannski dálítið erfitt fyrir mann að horfa framan í danska fjármálaráðherrann eftir að vera búinn að skilgreina dönsku krónuna sem hluta af evru."
19.3.3 Nóvember og desember 2007
Formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands flytur erindi á morgunfundi Viðskiptaráðs Íslands 6. nóvember 2007
Hinn 6. nóvember 2007 flutti Davíð Oddsson, formaður bankastjórnar Seðlabankans, erindi á morgunfundi Viðskiptaráðs Íslands. Í erindinu sagði hann m.a. um bindiskyldu: "Bindiskyldan er úr sér gengið úrræði, sem mundi að auki hafa takmörkuð og illa fyrirsjáanleg áhrif önnur en að leiða til hærri vaxta. Eftir einkavæðingu bankanna og vaxandi umsvif þeirra erlendis var óhjákvæmilegt að hafa bindiskyldu hér á landi með svipuðu sniði og annars staðar gerist, ella hefði samkeppnisstaða fjármálastofnana á Íslandi verið allt önnur og lakari en þeirra sem þeir eiga í samkeppni við. Engir seðlabankar í hinum þróaða heimi nota bindiskyldu lengur í baráttunni við verðbólgu." Um útrás sagði Davíð m.a.: "Hin hliðin á útrásinni er þó sú og framhjá henni verður ekki horft, að Ísland er að verða óþægilega skuldsett erlendis. [...] Allt getur þetta farið vel, en við erum örugglega við ytri mörk þess sem fært er að búa við til lengri tíma."
Fundur viðskiptaráðherra með bankastjórn Seðlabanka Íslands 7. nóvember 2007
Hinn 7. nóvember 2007 átti Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, fund með stjórn Seðlabanka Íslands. Með viðskiptaráðherra í för voru Jón Þór Sturluson, aðstoðarmaður viðskiptaráðherra, og Jónína S. Lárusdóttir, ráðuneytisstjóri viðskiptaráðuneytisins. Í skýrslu Björgvins G. Sigurðssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom fram að fundurinn hefði hafist með miklum reiðilestri Davíðs Oddssonar út af Evrópumálum. Björgvin sagði að það hefði fokið í sig og hann hefði svarað Davíð fullum hálsi. Það hefði hvarflað að sér að ganga út en síðan hefði Davíð skyndilega stillt sig af og lent samtalinu ágætlega. Eftir þennan fund hefði hann ekki hitt Davíð Oddsson fyrr en tæpu ári seinna á ríkisstjórnarfundi. Björgvin benti í skýrslu sinni á að meðferð bankamála deildist á þrjú ráðuneyti, Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitið og það hefði verið óheppilegt fyrirkomulag "þegar jafnhörmulega árar í samskiptum manna og var í þessari ríkisstjórn". Það sem "eitraði hana frá fyrsta degi" hefði verið tortryggni og andúðin á milli seðlabankastjóra og Samfylkingarinnar. Um þetta sagði Björgvin: "Heiftin var mjög mikil þarna og menn sniðgengu hverjir aðra greinilega kerfisbundið og ég staðhæfi það að [Davíð Oddsson] hafi með mjög yfirveguðum hætti haldið mér frá upplýsingum og atburðum og ýmsu slíku. [...] Og það var margt mjög eitrað og óheppilegt í þessu andrúmslofti og sérstaklega þegar það ber upp á jafnmiklar ögurstundir og urðu í okkar lífi þegar að alþjóðleg fjármálakreppa varð til þess að þessir alltof stóru bankar fóru á hausinn út af lausafjárskorti."
Við skýrslutöku var Davíð Oddsson spurður að því hvort ekki hefði verið talið tilefni af hálfu Seðlabankans til að funda oftar með viðskiptaráðherra. Davíð sagði: "[...] við "sorteruðumst" undir forsætisráðherrann og hann gat kallað menn til og auðvitað tókum við eftir því, og það var ekkert leyndarmál, að viðskiptaráðherra var ekki hafður með á fundum með fjármálaráðherra og utanríkisráðherra. Jóhanna Sigurðardóttir var á einum eða tveimur fundum. [...] og reyndar var það nú þannig að – það verður bara að segja það eins og er – menn treystu sér ekki til að segja neitt sem ætti að fara leynt við viðskiptaráðherrann, menn treystu sér ekki til þess. [...] Ég held að sú afstaða hafi ráðið því að forsætisráðherra og utanríkisráðherra kölluðu hann ekki á fund með bankastjórninni. Og það sem vakti nú athygli mína var að þegar utanríkisráðherra, formaður hins stjórnarflokksins, lýsti því yfir að hann hefði verið á sex, sjö fundum með Seðlabankanum – hann hafði ekki sagt viðskiptaráðherranum frá neinu sem þar gerðist sem ég hefði nú búist við að mundi gerast. En ég held að það sé sama ástæðan, það var vitað að viðskiptaráðherra átti það til að hringja í fréttamann, jafnvel bláókunnuga fréttamenn, og segja þeim fréttir "off the record", eins og það hét. Það getur bara ekki gengið í stjórnsýslunni."Í þessu samhengi skal þess getið að bæði Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir voru við skýrslutökur spurð að því hvers vegna Björgvin G. Sigurðsson var ekki kallaður til á margvíslega fundi þeirra með forsvarsmönnum Seðlabankans á árinu 2008. Geir ræddi almennt um þetta með eftirfarandi orðum: "Ég tel ekki hægt að segja það að honum hafi verið haldið skipulega frá upplýsingum sem hann átti rétt á. Hann tjáði sig nú mjög oft opinberlega um þessi mál, bæði í þinginu og annars staðar, og gerði það, að því er best varð heyrt, á grundvelli þess að hann hefði upplýsingar og svo er hann náttúrulega í sömu stöðu og aðrir sem lesa gögnin frá Seðlabankanum og kynna sér það sem þeir eru að segja og gera, eins og ég hef sagt hérna nokkrum sinnum. Ég tel ekki að hann hafi verið sniðgenginn með einhverjum óeðlilegum hætti í þessu og hafi honum fundist það þá hefði hann átt að tala um það við mig, sem ég man ekki til að hann hafi gert."
Aðspurð um hvort tortryggni hafi gætt innan ríkisstjórnarinnar gagnvart Björgvin svaraði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir: "Ekki veit ég til þess. Ég minnist þess ekki að ég hafi heyrt neitt í þá veru frá forsætisráðherra. En sko það er engin launung á því að það var kannski svona sambandið á milli seðlabankastjóra og svo aftur Samfylkingarinnar var að mörgu leyti erfitt, hafði alltaf verið erfitt. Það var bara svona þegjandi samkomulag um að láta það ekkert þvælast fyrir sér, reyna a.m.k. að láta það ekkert þvælast fyrir sér."Við skýrslutöku tók Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, fram: "[...] í hvaða ríki myndi það gerast að forystumaður ríkisstjórnarinnar hafi fund með seðlabankastjóra, ekki einu sinni, ekki tvisvar, ekki þrisvar, heldur sex eða sjö sinnum, og eftir því sem seðlabankastjórinn segir að þá komi þar fram alls konar "warnings", ég veit ekkert um það, en að viðskiptaráðherra sé ekki látinn vita?"Við skýrslutöku lýsti Eiríkur Guðnason, seðlabankastjóri, framangreindum fundi viðskiptaráðherra með bankastjórn Seðlabankans með eftirfarandi orðum: "Hann var erfiður, hann var stormasamur. Þeir fóru í pólitíska umræðu, viðskiptaráðherra og formaður bankastjórnar, um upptöku evru eða inngöngu í Evrópusambandið þannig að það var erfitt að sitja þann fund."
Samráðsfundur Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands 8. nóvember 2007
Hinn 8. nóvember 2007 var haldinn samráðsfundur Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans. Í drögum að fundargerð Seðlabankans er m.a. haft eftir Davíð Oddssyni: "Órólegir yfir falli gengis og hlutabréfa og einnig (tilbúinni) hækkun sem "allir fullvaxnir menn mættu sjá". Undirstöður veikar og taugaveiklun í gangi. Áhyggjur af uppfærslum (viðskiptavildar) í uppgjörum." Einnig segir í drögunum að lagt hafi verið fram skjalið "Er íslenska fjármálakerfinu meiri hætta búin nú en var 2005/2006?", dags. 8. nóvember 2007.Tryggvi Pálsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Seðlabankans, er höfundur skjalsins. Þar segir m.a.: "Áhættur á eignahlið bankanna hafa aukist verulega og fjármögnunarvandinn er almennari og síst betri en var 2005/2006."
Seðlabanki Íslands sendir Fjármálaeftirlitinu bréf 13. nóvember 2007
Hinn 13. nóvember 2007 sendi Seðlabankinn Fjármálaeftirlitinu bréf. Í því segir m.a.: "Seðlabankinn vekur athygli Fjármálaeftirlitsins á því að í síðasta lausafjárútboði Seðlabankans tók Icebank 105 milljarða króna að láni gegn veði. Umtalsverður hluti veðanna eru skuldabréf og víxlar sem Glitnir og Kaupþing banki hafa gefið út. Spurningin sem vaknar er hvort umfang þessara viðskipta Icebank samrýmist ákvæðum reglna sem bankanum ber að starfa eftir." Rannsóknarnefnd Alþingis hafa ekki borist gögn sem gefa til kynna að þessu bréfi hafi verið svarað.
1. fundur starfshóps um viðbrögð við lausafjárvanda 14. nóvember 2007
Hinn 9. nóvember 2007 sendi Tryggvi Pálsson bankastjórn Seðlabanka Íslands minnisblað þar sem hann lagði til að bankastjórnin myndi skipa starfshóp samkvæmt bankastjórnarsamþykkt nr. 1097 frá 24. mars 2006 um viðbrögð við lausafjárvanda þar sem líkur væru á að óvissuástand í fjármögnun og stöðu banka yrði ekki skammvinnt. Í minnisblaðinu segir að gagnlegt sé að Seðlabankinn undirbúi viðbrögð sín ef svo fari að til hans verði leitað með yfirlýsingar eða lausafjárfyrirgreiðslu. Lagt er til að hópinn skipi Tryggvi Pálsson, Sturla Pálsson, framkvæmdastjóri alþjóða- og markaðssviðs Seðlabankans,Tómas Örn Kristinsson, framkvæmdastjóri upplýsingasviðs Seðlabankans, og Sylvía K. Ólafsdóttir, forstöðumaður viðbúnaðarsviðs Seðlabankans. Bankastjórn samþykkti að kalla hópinn til starfa og hélt vinnuhópur um viðbrögð við lausafjárvanda sinn fyrsta fund 14. nóvember 2007. Samkvæmt fundargerð var fjallað um há skuldatryggingarálög bankanna, fjármögnun þeirra sem og endurbætur á bankastjórnarsamþykkt nr. 1097 um starfshóp um viðbrögð við lausafjárvanda. Sigríður Logadóttir og Perla Ö. Ásgeirsdóttir störfuðu einnig með hópnum.
Fjármálastöðugleikafundur í Seðlabanka Íslands 15. nóvember 2007
Hinn 15. nóvember 2007 fór fram sérstakur fundur um fjármálastöðugleika í Seðlabanka Íslands. Fundinn sóttu bankastjórn og sérfræðingar Seðlabankans. Í fundargerð segir m.a.: "Umræður fóru að þessu loknu fram um veð, eignir og skuldatryggingarálög, um gjaldeyrisreikninga og kaup á erlendum fjármálafyrirtækjum. Nokkuð var staldrað við innlánsþróun bankanna og umskiptin þar talin fullsnögg." Því næst segir: "Rætt var um innstæðutryggingar í Bretlandi." Loks segir: "Fram kom að sú sýn sem við blasti hér á landi væri önnur og verri en aðrar stofnanir hefðu nýverið haldið fram. Þeirri skoðun var haldið fram að talsverðar líkur væru á að nokkur kaflaskipti hefðu átt sér stað í rekstri fjármálastofnana, og að líklega þyrfti að stýra þeim með öðrum hætti næstu árin en gert hefði verið síðustu ár."
4. fundur samráðshóps stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað 15. nóvember 2007
Samráðshópur stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað fundaði 15. nóvember 2007. Samkvæmt drögum að fundargerð dreifði Tryggvi Pálsson og kynnti stöðumat þar sem leitast var við að svara spurningunni "Er íslenska fjármálakerfinu meiri hætta búin nú en var 2005/2006?". Því næst segir í drögum að fundargerð: "Niðurstaða matsins er sú að hætturnar séu meiri núna þar sem áhættur á eignahlið bankanna hafa aukist verulega og fjármögnunarvandinn er almennari og síst betri en var 2005/2006. Einnig sýndi hann endurgreiðsluferil þriggja stærstu viðskiptabankanna næstu tvö árin. Lausafjárstaða bankanna er viðunandi og ekki er um bráðavanda í fjármögnun þeirra að ræða en óvíst er hvenær bankarnir geta á ný ráðist í stórar útgáfur. Skuldatryggingarálög hafa snarhækkað á síðustu mánuðum og fjármagnskostnaður bankanna og viðskiptamanna þeirra á eftir að hækka umtalsvert. Ingimundur Friðriksson bætti við að lausafjárþrengingar gætu staðið mánuðum saman og hlutabréfaverð lækkað frekar en orðið er." Síðan segir: "Jónas Fr. Jónsson nefndi m.a. að ef taka ætti mið af skuldatryggingarálögum sem vísbendingu um líkur á fjármálaáfalli, sbr. skýrslu Mishkin og Herbertsson 2006, þá jafngiltu 300p álag Kaupþings 55% líkum á áfalli hjá viðkomandi banka. Fram kom hjá Jónasi að hann gerði ráð fyrir því að fjármálaeftirlit Hollands og FME taki afstöðu til kaupa Kaupþings á NIBC fyrir áramót og líklegt sé að Kaupþing eigi eftir að koma með yfirlýsingu á næstunni varðandi fjármögnun kaupanna og fl. FME er að funda með bönkunum og er u.þ.b. að ljúka viðamikilli úttekt á útlánum þeirra. Um þriðjungur hlutabréfa OMXI eru veðsett en 5–10% lækkun hlutabréfaverðs ætti ekki að skapa hættuástand. Jónas nefndi einnig veðköll (e. margin call) og sagði til þessa hefði verið bætt við veðin þegar hlutabréf lækka í verði en ekki þvinguð fram sala hlutabréfanna. Hann sagði að lokum að erlend innlán væru orðin meirihluti innlána íslensku bankanna og huga þarf að Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta í því sambandi." Síðar er haft eftir Jónínu S. Lárusdóttur að nefnd á vegum viðskiptaráðuneytisins sé að störfum við að skoða stöðu sjóðsins.
Við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis sagði Tryggvi Pálsson: "Mín grunnskoðun er sú að íslensku bankarnir eins og þeir voru byggðir upp, með svona mikilli skuldsetningu, með starfsemi sem var sífellt meira eins og fjárfestingabankastarfsemi, [...] voru berskjaldaðir þegar vindar snerust." Tryggvi benti á að þetta ætti sérstaklega við þar sem þeir hefðu haft þá stefnu "að standa með viðskiptavinum sínum, taka þátt með þeim í áhættunni". Þegar aðstæður breyttust, eins og hann hefði rakið í samantekt sinni á framangreindum fundi samráðshópsins hefði viðskiptalíkanið ekki gengið lengur upp. Þess vegna hefði mátt sjá strax um haustið 2007 "að þeir voru ekki að fá fjármögnun og ef þessar aðstæður mundu ekki breytast þá mundu þeir falla". Í beinu framhaldi sagði Tryggvi: "Það er oft verið að horfa á hvaða steinar voru það í götunni svona á síðustu metrunum sem hinn drukkni datt um. En þetta byrjar á barnum og þetta byrjar þegar þeir fylla sig með öllu þessu fjármagni, fyrst og fremst erlendis frá og lána það út til lengri tíma, síðan fá þeir ekki nýtt fjármagn, þeir ná ekki að selja eignir og þá var leikurinn bara þá þegar raunverulega tapaður í eðli sínu."
Við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis sagði Jónas Fr. Jónsson að á framangreindum fundi samráðshópsins hefði hann lagt mikla áherslu á að lög um tryggingarsjóðinn yrðu endurskoðuð því menn yrðu að bregðast við þróuninni sem orðið hefði varðandi innlán á Icesave reikningum Landsbankans. Í skýrslu sinni fyrir rannsóknarnefnd Alþingis tók Tryggvi Pálsson undir þessi viðhorf Jónasar. Tryggvi sagði m.a.: "Sérstaklega er þessi innlánahlið öll grátleg, því að það kemur fram, strax þegar fundargerðir þessarar samráðsnefndar eru skoðaðar, strax á fyrsta fundi er verið að ræða hvernig Icesave kemur inn í bókhald Landsbankans. Það eru því strax uppi þá, það kemur síðan fram að það þurfi að sjá til þess að þessi innlánasöfnun sé í dótturfélögum, ekki í útibúum. Það er vitað að Tryggingarsjóðurinn er engan veginn með bolmagn til þess að tryggja innstæður hér heima hvað þá sem var verið að afla erlendis."
Við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis var Baldur Guðlaugsson beðinn um að gera nánari grein fyrir þeim áhyggjum sem menn hefðu rætt á framangreindum fundi samráðshópsins 15. nóvember 2007. Baldur tók fram að hafa yrði hugfast að þessar áhyggjur hefðu komið og farið. Það hefðu komið svona rokur öðru hvoru og ekki síst frá Seðlabankanum. Svo hefðu þær bara verið gleymdar á næsta fundi.
Forsætisráðherra fundar með Hannesi Smárasyni, Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og Þorsteini M. Jónssyni 16. nóvember 2007
Hinn 16. nóvember 2007 fundaði Geir H. Haarde með Hannesi Smárasyni, Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og Þorsteini M. Jónssyni. Rannsóknarnefnd Alþingis hefur ekki undir höndum frekari upplýsingar um þennan fund.
Fundur bankastjórnar Seðlabanka Íslands með forstjóra Glitnis 16. nóvember 2007
Bankastjórn Seðlabanka Íslands fundaði með Lárusi Welding, forstjóra Glitnis, 16. nóvember 2007. Við skýrslutöku sagði Lárus að þetta hefði verið fyrsti fundur sinn með Davíð Oddssyni. Samskipti þeirra hefðu byrjað brösuglega þar sem Davíð hefði greinilega ekki verið ánægður með þróun mála hjá Glitni og hefði dembt því yfir sig. Lárus sagði að sú aðferð hefði hugsanlega virkað vel því fundurinn hefði vakið sig til umhugsunar. Eftir þetta hefðu þeir átt marga fundi og sagðist hann ávallt hafa verið mjög hreinskilinn við Davíð. Hefði hann gert Seðlabanka Íslands grein fyrir því að unnið væri að því að koma bankanum í "erlenda hlutabréfaeign í dreifðri áhættu". Samskiptin hefðu batnað jafnt og þétt og hefði hann gert Seðlabanka Íslands grein fyrir því að unnið væri í 13 stórum verkefnum, fyrir utan vinnu við kostnaðaraðhald. Þannig væri t.d. unnið að verkefni sem nefnt var "Vínlandsverkefnið" sem fólst í því að skrá og fara í svokallaða aðra skráningu (e. secondary listing). Síðan væri unnið að svokölluðu "Smart-verkefni" sem fólst í því að reyna að fá stóran erlendan fjárfesti að bankanum. Gagnvart Seðlabankanum hefðu þannig öll spil verið lögð á borðið og spurt: "Hafið þið einhverjar aðrar tillögur eða viljið þið að við gerum hlutina öðruvísi?"Í drögum Seðlabankans að fundargerð segir m.a.: "Davíð Oddsson sagði að bankastjórn Seðlabankans hefði vaxandi áhyggjur af stöðunni. Sú óvissa um verð eigna og lausafjárþurrð sem komin er fram gæti staðið lengi. Skuldatryggingarálög eru með allra hæsta móti og svo virðist sem kaup Kaupþings á NIBC ráði miklu um það fyrir íslensku bankana." Síðar í skjalinu segir að Davíð Oddsson hafi lýst áhyggjum sínum af "allri fjármögnun bankanna og þá ekki síður hinum nýju netinnlánum".
Skýrsla hagfræðinganna Richards Portes og Friðriks Más Baldurssonar kemur út 21. nóvember 2007
Í kvöldfréttum ríkissjónvarpsins 21. nóvember 2007 kom fram að Viðskiptaráð Íslands hefði haldið sérstaka kynningu í Bretlandi sama dag. Markmiðið hefði verið að kynna nýja skýrslu dr. Richards Portes og dr. Friðriks Más Baldurssonar um íslenskt fjármálalíf. Í fréttinni voru eftirfarandi orð höfð eftir Portes: "Að sjálfsögðu eiga menn að vera áhyggjufullir. Það er aldrei gott ef markaðurinn býr við háa stýrivexti fyrir fjárfestingar þínar, það getur dregið úr hagnaði. Ég held að menn ættu ekki að vera áhyggjufullir um grundvallar viðskiptamódel sín. Ég held að þau séu örugg og góð. Þannig að markaðsóróinn er knúinn áfram af misskilningi einhverra greiningaraðila." Samkvæmt kvöldfréttum Stöðvar 2 frá 22. nóvember 2007 flutti Geir H. Haarde erindi á fyrrgreindri kynningu.
Í skýrslu Portes og Friðriks, The Internationalisation of Iceland's Financial Sector, sem gefin var út á vegum Viðskiptaráðs Íslands, kemur m.a. fram í samantekt: "Most fundamentally, the banks exploit strong competitive advantage, arising from their entrepreneurial management, flat management structures, and unusual and strong business models." Síðan segir: "We conclude that the Icelandic economy and financial sector are highly resilient, as shown in their response to the mini-crisis of early 2006 and their stability in the current turmoil.With regard to both the macroeconomic situation and the characteristics and performance of the banks, we consider that the current market premium on Icelandic banks is excessive relative to their risk exposure and in comparison with their Nordic peers. If this is in fact a country risk premium, we think it is not justified by Iceland's economic situation. It is reasonable to expect the CDS spreads (for example) for Icelandic banks to return to more normal levels." Loks segir: "Overall, the internationalisation of the Icelandic financial sector is a remarkable success story that the markets should better acknowledge."
Ársfundur Fjármálaeftirlitsins 27. nóvember 2007
Ársfundur Fjármálaeftirlitsins fór fram 27. nóvember 2007. Í ræðu sinni á fundinum sagði Jónas Fr. Jónsson m.a.: "Fjármálaeftirlitið leggur sérstaka áherslu á að fylgjast með reglum um fyrirgreiðslur til venslaðra aðila. Á síðasta ári setti eftirlitið tilmæli þess efnis að ytri endurskoðendur færu yfir slíkar fyrirgreiðslur og bæru saman við sambærileg viðskipti annarra viðskiptavina og gæfu rökstutt álit um það hvort að armslengdarsjónarmið væru virt s.s. m.t.t. til kjara, endursamninga og stöðu viðkomandi. Því miður ollu þær skýrslur sem bárust frá endurskoðendum stærstu fjármálafyrirtækjanna vonbrigðum. Nánast undantekningarlaust voru þær einfaldar yfirlýsingar um að allt væri í lagi en báru ekki með sér að rökstutt mat hefði farið fram. Fjármálaeftirlitið mun sjá til þess að fullnægjandi mat fari fram." Loks sagði Jónas: "Það er mín skoðun að með góðum og heilbrigðum stjórnarháttum og auknu gegnsæi geti stjórnendur íslenskra fjármálafyrirtækja lagt grunninn að frekara vaxtarskeiði á íslenskum fjármálamarkaði. Í alþjóðavæddu umhverfi er trúverðugleikinn arðsamasta fjárfestingin. Hann er sjaldan jafndýrmætur og á óróatímum."
Björgvin G. Sigurðsson ávarpaði einnig fundinn. Björgvin sagði m.a.: "Þannig má segja að Ísland hafi í raun þróast í þá átt að verða alþjóðleg fjármálamiðstöð og er sú þróun meðal annars tilkomin vegna þess frumkvæðisanda sem ríkir meðal stjórnenda og starfsmanna íslenskra fjármálafyrirtækja."
Ársskýrsla Fjármálaeftirlitsins kemur út í nóvember 2007
Í nóvember 2007 gaf Fjármálaeftirlitið út ársskýrslu sína, Íslenskur fjármálamarkaður. Skýrslan nær til tímabilsins 1. júlí 2006 til útgáfumánaðar, þ.e. nóvember 2007. Í skýrslunni er m.a. rætt um þá gagnrýni sem beint hafi verið að bönkunum vegna þess hve innlán væru lítill þáttur í fjármögnun þeirra. Í þessu sambandi segir að frá því í desember 2005 til loka ágúst 2007 hafi sú jákvæða þróun átt sér stað að innlán hafi "nær þrefaldast, um 73% vegna erlendra aðila og 27% vegna innlendra aðila". Síðan segir: "Ljóst er að með auknum innlánum er fjármögnun bankanna fjölbreyttari en áður. Slík fjármögnun er þó ekki áhættulaus með öllu." Síðar í skýrslunni segir: "Alþjóðavæðing íslenskra fjármálafyrirtækja hefur gert þau ónæmari fyrir sveiflum í íslensku efnahagslífi en aftur á móti eru þau nú orðin mun næmari fyrir sveiflum á alþjóðlegum mörkuðum."
2. fundur starfshóps Seðlabanka Íslands um viðbrögð við lausafjárvanda 28. nóvember 2007
Starfshópur Seðlabankans um viðbrögð við lausafjárvanda fundaði 28. nóvember 2007. Í fundargerð kemur fram að Seðlabankinn hafi haldið fund með Fjármálaeftirlitinu og farið yfir veðköll sem áttu sér stað frá 1.–20. nóvember 2007. Um hafi verið að ræða 600 veðköll og aðeins eitt af þeim hafi endað með þvingaðri sölu. Síðan segir að greint hafi verið frá könnun á peningamarkaðssjóðum stærstu viðskiptabankanna þriggja. Í þeirri vinnu hafi komið fram að Sjóður 9 hjá Glitni hafi í október sama ár farið umfram ytri og innri viðmið um hlutfall fjárfestingar í einu félagi, FL Group hf. (ytri 30% og innri 12%). Fjármálaeftirlitinu hafi verið gert viðvart og brugðist við með heimsóknum til bankanna. Hlutfall FL Group hf. í Sjóði 9 hafi verið komið í 10% í nóvember sama ár.
3. fundur starfshóps Seðlabanka Íslands um viðbrögð við lausafjárvanda 12. desember 2007
Starfshópur Seðlabankans um viðbrögð við lausafjárvanda fundaði 12. desember 2007. Samkvæmt fundargerð nefndi Tryggvi Pálsson að nú væri kastljósið að beinast að Baugi og þegar væru danskir fjölmiðlar að taka saman tap Baugs. Einnig er haft eftir Tryggva að ef breskir fjölmiðlar fjalli á svipuðum nótum um Baug geti afleiðingarnar orðið alvarlegar. Síðan segir að Sylvía Kristín Ólafsdóttir hafi spurt hvort vitað væri um lántöku Baugs hjá bönkunum. Segir að Perla Ösp Ásgeirsdóttir hafi svarað því til að stærstu áhættuskuldbindingar bankanna liggi fyrir en Fjármálaeftirlitið hafi nánari upplýsingar um einstaka viðskiptamenn.
Forsætisráðherra fundar með formanni bankastjórnar Seðlabanka Íslands 20. desember 2007
Geir H. Haarde fundaði með Davíð Oddssyni 20. desember 2007. Rannsóknarnefnd Alþingis hefur ekki undir höndum frekari upplýsingar um fundinn.
Bankaráð Seðlabanka Íslands fundar 28. desember 2007
Bankaráð Seðlabankans fundaði 28. desember 2007. Í fundargerð kemur fram að Eiríkur Guðnason, seðlabankastjóri, hafi sagt að met hafi verið sett í veðlánum stofnunarinnar til bankanna "á milli hátíða, 302 milljarðar króna". Síðan er haft eftir Davíð Oddssyni að bankastjórnin hafi átt fund með bankastjórum viðskiptabankanna. Þá segir í fundargerð: "Í þetta skipti hefði sá fundur verið þannig að allir bankastjórarnir hefðu komið í einu en oftast hefðu þeir verið einn og einn á fundi í Seðlabankanum. Það væri allt annar tónn í þeim heldur en áður og þeir segðu að búið væri að skrúfa fyrir ný útlán og stoppa mannaráðningar.Vanskil væru að aukast þó að það kæmi ekki fram í mælingum. Þeir væru áhyggjufullir og spyrðu mikið um lagaskilyrði sem Seðlabankinn hefði fyrir fyrirgreiðslu." Í fundargerð segir einnig: "Davíð Oddsson sagði að Seðlabanki Íslands væri lánveitandi til þrautavara og þau lög fjölluðu fyrst og fremst um íslenska banka og það gætu verið lagalegar hindranir á að nota erlendar eignir banka. Mat Seðlabankans væri að ekkert væri í veginum meðan bankinn kysi og til staðar væri lausafjárvandi en það ætti ekki við ef það væri gjaldþrot. Mönnum væri ekki rótt og bankinn væri mjög varkár en varlegast væri að ætla að vandinn stæði alla vega til næsta hausts."
19.3.4 Janúar 2008
Jón Sigurðsson skipaður stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins 1. janúar 2008
Hinn 1. janúar 2008 skipaði Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, Jón Sigurðsson, hagfræðing og fyrrum bankastjóra Norræna fjárfestingarbankans, sem formann stjórnar Fjármálaeftirlitsins. Í skýrslu Björgvins G. Sigurðssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom fram að hann hefði óskað eftir því við þáverandi stjórnarformann að hann léti af störfum svo hann gæti skipað trúnaðarmann sinn í stöðu stjórnarformanns. Eftir að Jón Sigurðsson hefði tekið við stjórnarformennskunni hefði það verið "yfirlýst markmið [Björgvins G. Sigurðssonar] og Jóns Sigurðssonar að ná utan um alvarlegustu kerfisbrestina sem voru okkur ljósir í þessu, sem voru útibú bankanna og starfsemi erlendis sem var ekki dótturfélög". Fram kom hjá Björgvin að þetta hefði ekki gengið þrautalaust fyrir sig. Björgvin sagði: "[...] langstærsta vandamálið, þar sem mesti tíminn fór, á þessum stutta tíma, var að fá Landsbankann til að vinna með okkur í því og þeir þverskölluðust við það að breyta starfseminni yfir. Þeir sögðu: "Ef við förum eftir ýtrustu fyrirmælum FSA [breska fjármálaeftirlitsins] um það þá setur það bankann á hausinn strax, því við getum ekki fært til fjármagn."" Aðspurður hvort ráðherrar ríkisstjórnarinnar hefðu sett fram einhverjar hugmyndir gagnvart bönkunum um takmörk á stærð þeirra, kvaðst hann ekki minnast þess.
Fundur Fjármálaeftirlitsins og bankastjórnar Seðlabanka Íslands 8. janúar 2008
Bankastjórn Seðlabanka Íslands og fulltrúar Fjármálaeftirlitsins funduðu 8. janúar 2008. Samkvæmt drögum að fundargerð Seðlabankans var rætt um versnandi stöðu íslenskra fjármálafyrirtækja. Fram kemur að einnig hafi verið rætt um símtal sem Davíð Oddsson hefði átt við Hreiðar Má Sigurðsson, forstjóra Kaupþings. Haft er eftir Davíð að Hreiðar Már hafi við það tækifæri sagt: "Við erum ekki eins ríkir og við höldum." Ekki er að finna nánari skýringar á ummælunum í drögum að fundargerð.
4. fundur starfshóps Seðlabanka Íslands um viðbrögð við lausafjárvanda 9. janúar 2008
Starfshópur Seðlabanka Íslands um viðbrögð við lausafjárvanda fundaði 9. janúar 2008. Samkvæmt fundargerð var farið yfir bankastjórnarsamþykkt nr. 1097 og breytingar lagðar til. Fram kemur að rætt hafi verið um alvarleika ástands á mörkuðum. Fregnir af Gnúpi fjárfestingafélagi hf. og Exista hf. eru sagðar hafa þyngt róður íslenska fjármálakerfisins. Fram kemur að Tryggvi Pálsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Seðlabankans, hafi rætt um fjármögnunarvanda Glitnis en sá banki er sagður vera með "roadshow" vestan hafs í leit að kaupendum að skuldabréfaútgáfu bankans. Fram kemur að Sturla Pálsson, framkvæmdastjóri alþjóða- og markaðssviðs Seðlabankans, hafi sett fram hugsanleg úrræði ef til neyðarkalls kæmi frá einum af bönkunum. Því næst er orðrétt haft eftir Sturlu að tæknilega séð geti Seðlabanki Íslands útvegað:
1. 200 milljarða dollara ríkisbréf.
2. Repo-línur (tekur ekki langan tíma að útvega fjármagn).
3. Seðlabanki Íslands á skuldabréf, evrópsk ríkisbréf og "semi-government" bréf.
Síðan er í fundargerð haft eftir Sturlu að hann telji að á heildina litið geti Seðlabanki Íslands safnað 2–3 milljörðum evra. Haft er eftir Tómasi Erni Kristinssyni,framkvæmdastjóra upplýsingasviðs Seðlabankans,að stofnunin geti lent í þeirri stöðu að lána þurfi gegn óhefðbundnum veðum og þörf sé á faglegri ráðgjöf við verðmat ef taka þurfi óhefðbundin veð. Fram kemur að Tryggvi Pálsson hafi spurt Stefán Svavarsson, endurskoðanda Seðlabankans, hvort hann geti dregið upp lista yfir hugsanlega ráðgjafa til að verðmeta eignir bankanna. Síðan segir að Sylvía Kristín Ólafsdóttir, forstöðumaður viðbúnaðarsviðs Seðlabankans, muni hafa samband við Stefán og halda utan um þann lista.Því næst segir að Tryggvi Pálsson hafi rætt um Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta og mikilvægi þess að bankakerfið haldi trúverðugleika til að fyrirbyggja áhlaup á bankana. Haft er eftir Tryggva að framundan sé fundur í samráðshópi stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað þar sem Ingimundur Friðriksson, seðlabankastjóri, hyggist benda ráðuneytisstjórunum á að hugleiða þurfi hvað sé til bragðs ef hætta skapist á innlánsfári.
Viðskiptaráðherra fundar með stjórnarformanni Fjármálaeftirlitsins 9. janúar 2008
Hinn 9. janúar 2008 fundaði Björgvin G. Sigurðsson með Jóni Sigurðssyni. Rannsóknarnefnd Alþingis hefur hvorki undir höndum fundargerð né minnisblað um fundinn.
5. fundur samráðshóps stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað 10. janúar 2008
Hinn 10. janúar 2008 fundaði samráðshópur stjórnvalda. Samkvæmt drögum að fundargerð kom fram í umræðum á fundinum að áhyggjuefni fundarmanna væri ekki síst veik staða stórra hluthafa í bönkunum. Sú staða skapaði neikvætt umtal sem gæti síðar haft áhrif á lánstraust og t.a.m. innlán bankanna erlendis frá. Þá segir í drögunum að rætt hafi verið um lántöku Glitnis sem unnið væri að í Bandaríkjunum. Fram kemur að Jónas Fr. Jónsson, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, hafi gert grein fyrir veðköllum og tryggingarþekju í bankakerfinu. Haft er eftir honum að tryggingarþekjan sé að meðaltali um 147% þrátt fyrir lækkanir hlutabréfaverða og það gefi borð fyrir báru. Stóru bankarnir séu með hærra hlutfall en sparisjóðirnir lægra. Fleiri úrlausnarefni en Gnúpur geti komið fram en ættu að verða viðráðanleg. Síðan er haft eftir Jónasi að Fjármálaeftirlitið sé að kalla eftir upplýsingum um vanskil stærstu aðila, markaðsáhættu og bundin og óbundin innlán. Því næst segir í drögum að fundargerð að rætt hafi verið um þörfina á því að róa markaðinn og undirbúa viðbrögð við neikvæðum uppgjörum fyrir árið 2007.
Í skýrslu Ingimundar Friðrikssonar, seðlabankastjóra, fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom fram að Seðlabankinn hefði átti fundi með bönkunum um þetta leyti þar sem sífellt var verið að hamra á því að hjá Seðlabankanum sæju menn ekki þau merki um minnkun í umsvifum bankanna, sem bankamenn töluðu um. Ekki hefði hægt á útlánavexti í þeim mæli sem bankamenn hefðu sagt að væri hafinn og seðlabankastjórar hefðu þráfaldlega leitað upplýsinga og komið á framfæri viðvörunum sínum við þessum mikla vexti sem hefði haldið verulega áfram fram á árið 2008.
Fundur bankastjórnar Seðlabanka Íslands með forstjóra Kaupþings 12. janúar 2008
Hinn 12. janúar 2008 fundaði bankastjórn Seðlabankans með Hreiðari Má Sigurðssyni, forstjóra Kaupþings. Í drögum að fundargerð Seðlabankans er haft eftir Hreiðari að hann sjái ekki að skuldatryggingarálög séu að fara að lækka. Fréttir undanfarið af FL Group hf. og Gnúpi fjárfestingafélagi ehf. hafi verið slæmar auk frétta um að Glitni hefði ekki tekist að afla sér fjár.Af drögum að fundargerð má sjá að rætt hefur verið um fyrirhuguð kaup Kaupþings á NIBC. Fram kemur að Davíð Oddsson hafi spurt Hreiðar hvort það yrði áfall fyrir Kaupþing ef Seðlabankinn segði við Fjármálaeftirlitið að fjármálastöðugleika yrði ógnað með kaupunum. Því næst er haft eftir Hreiðari: "Jákvæð áhrif á hlutabréfaverð og CDS [skuldatryggingarálag] okkar. [...] Neikvætt á "reputation" Kaupþings. Þurfa þeir að fá FME til að segja þetta." Síðar í drögum að fundargerð er haft eftir Hreiðari: "Sama hvaða ákvarðanir verða teknar þá gæti FME vísað í "öflugan og heilbrigðan rekstur Kaupþings"." Því næst er haft eftir Davíð: "Má samt ekki rýra lánstraust Kaupþings þess vegna betra að vísa almennt til aðstæðna." Því næst er haft eftir Hreiðari: "Við færum ekki í stríð við FME eða SÍ vegna þessa."
Fundur bankastjórnar Seðlabanka Íslands með bankastjórum Landsbankans 12. janúar 2008
Hinn 12. janúar 2008 hélt bankastjórn Seðlabanka Íslands fund með bankastjórum Landsbankans. Í drögum að fundargerð Seðlabankans er bókað að Davíð Oddsson hafi lýst áhyggjum af því að Glitnir komi tómhentur frá Bandaríkjunum. Í drögum að fundargerð er einnig haft eftir Halldóri J. Kristjánssyni, bankastjóra Landsbankans: "Þolum ekki "run" á Icesave."
Fundur Fjármálaeftirlitsins og bankastjórnar Seðlabanka Íslands 12. janúar 2008
Hinn 12. janúar 2008 var haldinn fundur bankastjórnar Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins. Samkvæmt drögum að fundargerð Seðlabankans var viðfangsefnið kaup Kaupþings á NIBC. Fram kemur að Davíð Oddsson hafi rætt við Hreiðar Má Sigurðsson. Hreiðar hafi sagt að hann hyggi ekki á stríð við Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitið. Hann myndi því ræða við Sigurð Einarsson, stjórnarformann Kaupþings.
Drög að nýju frumvarpi um Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta 13. janúar 2008
Í viðskiptaráðuneytinu liggja fyrir drög, dags. 13. janúar 2008, að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta nr. 98/1999 með síðari breytingum. Samkvæmt upplýsingum frá viðskiptaráðuneyti taldi viðskiptaráðherra að ekki væri ráðlegt að leggja frumvarpið fram. Sjá nánari umfjöllun um þetta efni í kafla 17.9.
Fundur forsætisráðherra og fjármálaráðherra með formanni bankastjórnar Seðlabanka Íslands 13. janúar 2008
Hinn 13. janúar 2008 héldu Geir H. Haarde, forsætisráðherra, og Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, fund með Davíð Oddssyni, formanni bankastjórnar Seðlabanka Íslands. Geir lýsti því við skýrslutöku að á fundinum hefði Davíð lýst áhyggjum sínum af stöðu bankanna. Rannsóknarnefnd Alþingis hefur ekki undir höndum frekari upplýsingar um fundinn.
Fundur forsætisráðherra með forsvarsmönnum Glitnis, Kaupþings og Landsbankans 14. janúar 2008
Hinn 14. janúar 2008 fundaði Geir H. Haarde með bankastjórum stóru bankanna þriggja til þess að fá upplýsingar um stöðu bankanna og hvað stjórnendur væru að gera í því að bregðast við ástandinu sem væri að versna á alþjóðlegum mörkuðum. Í skýrslu sinni fyrir rannsóknarnefnd Alþingis sagði Geir m.a.: "Ég hitti þá alla saman, Halldór og Sigurjón klukkan fimm, Lárus og einhvern Alexander frá Glitni klukkan fjögur og Sigurð Einarsson og Hreiðar Má klukkan sjö. Og þá eru menn mjög uppteknir af því að hollenski bankinn sé of stór biti fyrir Kaupþing, fulltrúar hinna bankanna eru það [...] en að öðru leyti bera þeir sig nokkuð vel."
Grein eftir Gylfa Magnússon birtist í Fréttablaðinu 15. janúar 2008
Hinn 15. janúar 2008 birti Fréttablaðið grein eftir Gylfa Magnússon, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands. Í greininni er fjallað um hlutabréfaverð á Íslandi samanborið við önnur lönd. Segir Gylfi að hækkun hlutabréfa hafi að jafnaði ekki verið nærri því jafn mikil í Bandaríkjunum og á Íslandi undanfarin ár. Síðan segir Gylfi: "Það þarf talsverða bjartsýni til að ætla að íslensk hlutafélög geti árum saman skilað miklu hærri raunávöxtun en almennt gerist á öðrum mörkuðum." Gylfi telur líklegt að markaðir verði áfram órólegir og segir: "Einn áhættuþátturinn er gengi krónunnar. Ef hún lækkar skarpt mun gífurleg skuldsetning landsmanna í erlendri mynt valda ýmsum búsifjum, hvort sem féð hefur verið nýtt vegna kaupa á hlutafé eða öðru. Nú reynir á efnahagslífið, kunna stjórnendur þess jafn vel að vinna úr þröngri stöðu og vænlegri?"
Fundur forsætisráðherra með forsvarsmönnum Aska Capital 15. janúar 2008
Hinn 15.janúar 2008 fundaði Geir H.Haarde með Karli Wernerssyni,stjórnarformanni Milestone ehf.,og Tryggva Þór Herbertssyni, forstjóra Aska Capital. Rannsóknarnefnd Alþingis hefur ekki undir höndum frekari upplýsingar um fundinn.
Fundur bankastjórnar Seðlabanka Íslands og Glitnis 15. janúar 2008
Bankastjórn Seðlabankans fundaði með fulltrúum Glitnis 15. janúar 2008. Í drögum að fundargerð Seðlabankans segir að rætt hafi verið um fjármögnunarferð (e. roadshow) Glitnis sem ekki hafi gengið vel. Haft er eftir fulltrúa Glitnis að vinda þurfi ofan af vantrausti á Íslandi og íslensku bönkunum. Haft er eftir Alexander Guðmundssyni, starfsmanni Glitnis, að fyrirhuguð kaup Kaupþings á NIBC séu slæm. Síðar er haft eftir Lárusi Welding: "Sterk persónuleg skoðun mín að við förum ekki lengra í skuldsettum yfirtökum." Síðar er haft eftir Davíð Oddssyni: "Tvíbent að efla gjaldeyrisvarasjóð. Betra að halda að sér höndum en skaða." Í drögum Seðlabankans að fundargerð er einnig haft eftir Alexander Guðmundssyni: "Sækjum innlán á viðkvæmum mörkuðum. Menn þurfa að vera viðbúnir að svara hvernig háttað er innlánatryggingu." Ekki er að sjá af drögum að fundargerð að þessum ummælum hafi verið svarað.
Viðtal við forstjóra Fjármálaeftirlitsins í Markaðsfréttum Stöðvar 2 15. janúar 2008
Hinn 15. janúar 2008 lét Jónas Fr. Jónsson m.a. eftirfarandi ummæli falla í viðtali í Markaðsfréttum Stöðvar 2: "Ég held að í svona þessu árferði að það sé mjög mikilvægt að halda ró sinni. Menn þurfa að greina tímabundna erfiðleika frá svona lengri tíma vandamálum og í dag eins og ég hef kannski verið að fjalla um eru undirstöður bankanna almennt traustar. Afkoma þeirra hefur verið góð síðustu árin og jafnvel þó við tökum þessar óreglulegu, innan gæsalappa, fjármagnstekjur frá og lítum eingöngu á arðsemina af kjarnastarfsemi þá standast bankarnir alveg fyllilega samanburð við norræna banka og eiginfjárhlutföll eru mjög sterk, þeir geta staðist veruleg áföll og flestir þættir í útlánaáhættu eru ágætlega dreifðir og markaðsáhættu er mætt með hærra eiginfjárhlutfalli. Nú, veðköll og tryggingaþekja bankanna vegna hlutabréfalána, þeir sýna að verkferlar eru virkir og almennt sé gætt að taka tryggingar fyrir lánið og síðan ef menn eru að einblína mikið á gengi hlutabréfa sem kannski svona menn eiga ekkert að gera allt of mikið. Alla vega ekki frá degi til dags að þá hefur það ekkert lækkað í neinu ósamræmi við gengi fjármálafyrirtækja í löndunum í kringum okkur."
6. fundur samráðshóps stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað 15. janúar 2008
Hinn 15. janúar 2008 fundaði samráðshópur stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað. Samkvæmt drögum að fundargerð greindi Bolli Þór Bollason, ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytisins, frá fundi forsætisráðherra með forstjórum bankanna. Haft er eftir Baldri Guðlaugssyni, ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytis, að mestar áhyggjur virðist vera af yfirtöku Kaupþings á NIBC. Einnig sé vandi í fjármögnun Glitnis. Síðan segir að Jónas Fr. Jónsson hafi rætt um strangt álagspróf sem Fjármálaeftirlitið hafi nýlega gert en þrátt fyrir róttækar forsendur hafi allir bankarnir verið yfir 8% eiginfjárviðmiði. Fram kemur að Tryggvi Pálsson hafi afhent samantekt frá Seðlabankanum um kerfislegt mikilvægi íslenskra fjármálafyrirtækja m.t.t. hlutdeildar í eignum, skuldum, greiðslukerfum og viðskiptum á hlutabréfa-, skuldabréfa-, millibanka- og gjaldeyrismarkaði. Einnig segir að Tryggvi hafi afhent minnisblað um Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta sem framkvæmdastjóri sjóðsins hafi tekið saman. Þar segir að í árslok 2007 hafi heildareignir sjóðsins numið 8,3 milljörðum króna auk útistandandi ábyrgðaryfirlýsinga að fjárhæð 657 milljónir króna. Síðan segir að Ingimundur hafi varpað fram þeirri spurningu hvernig stjórnvöld myndu bregðast við fjármálaáfalli. Fram kemur að hann telji slíkt áfall ekki lengur fjarstæðukenndan möguleika.
Í skýrslu Ingimundar Friðrikssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom fram að það hefði einkum verið þrennt sem hefði verið ofarlega í hugum manna á þessum tíma. Það hefðu í fyrsta lagi verið áform Kaupþings um að kaupa hollenska bankann NIBC sem menn hefðu haft miklar áhyggjur af. Það hefðu einnig verið fjárhagsvandræði Gnúps, en það var fyrirtæki sem "enginn hafði nokkurn tíma eiginlega heyrt nefnt". Vandamál þess hefðu verið leyst í samningum á milli bankanna en upplýsingamiðlun í tengslum við þá aðgerð hefði mistekist þannig að þetta hefði orðið að stórmáli erlendis: "Maður las um Gnúp á síðum allra stórblaða heims þarna í nokkra daga, jafnvel vikur á eftir, þetta var alveg furðulegt mál. Ég átti einhvern tíma í fórum mínum einblöðung frá stórum banka úti í heimi um Ísland þar sem orðið Gnúpur kom fyrir átta sinnum í þeirri umfjöllun, fyrirtæki sem var ekki neitt neitt. En þetta skapaði mjög vonda mynd þarna á þessum tíma úti í heimi, algjörlega eiginlega að tilefnislausu á þeim tíma." Við þetta bættist að fáeinum dögum seinna, á sama tíma og fjallað var um Gnúp í útlöndum, þá fóru fyrirsvarsmenn Glitnis í ferðalag til Bandaríkjanna í svokallað "roadshow" með miklum tilkynningum. "Það var alla vega töluverð umfjöllun í kringum það að þeir væru þarna komnir til að ná í svo og svo mikla peninga sem síðan skilaði akkúrat engu. Þannig að þegar mesta Gnúpsumfjöllunin [var] kannski um garð gengin þá dettur inn þessi umfjöllun um Glitni og algjörlega misheppnaða fjáröflunarferð Glitnis til Bandaríkjanna." Sagði Ingimundur að í kjölfarið á þessum tveimur atburðum hefðu skuldatryggingarálögin á bankana hækkað og aðgengið að öllum mörkuðum augljóslega versnað til muna.
Fundur utanríkisráðherra og viðskiptaráðherra með stjórnarformanni Fjármálaeftirlitsins 15. janúar 2008
Björgvin G. Sigurðsson og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, funduðu með Jóni Sigurðssyni 15. janúar 2008. Samkvæmt minnisblaði Ingibjargar Sólrúnar var m.a. rætt um að of mikil vensl væru á lánamarkaði. Fram kemur að bankarnir eigi að geta staðið af sér óveður. Síðan segir að rætt hafi verið um kaup Kaupþings á NIBC. Segir að fundarmenn hafi verið sammála um að kaupin væru Kaupþingi ofviða. Síðan segir: "Jón Sigurðsson mun skoða hvað hann getur gert sem formaður stjórnar FME."
Í skýrslu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur fyrir rannsóknarnefnd Alþingis útskýrði hún fundarefni þessa fundar á eftirfarandi hátt: "Já, þetta var nú svona til að fylgja því eiginlega eftir að Jón væri að byrja sem formaður stjórnar Fjármálaeftirlitsins og það sem voru kannski áhyggjur okkar var þessi yfirtaka Kaupþings á hollenska bankanum NIBC [...] að þetta væri alveg gríðarlega stór biti og hættulegur fyrir íslenska fjármálakerfið og það yrði með einhverjum ráðum að koma í veg fyrir það að þetta gengi eftir, spurningin var bara hvernig það væri hægt. Mig minnir að umræðan hafi verið að í sjálfu sér væru formlegar heimildir til að koma í veg fyrir þetta mjög takmarkaðar en það sem hugsanlegt væri, væri að Jón beitti sér fyrir því að annaðhvort stjórnin eða Fjármálaeftirlitið, ég man ekki hvort heldur það var, skrifaði einhverja álitsgerð eða einhvers konar bréf þar sem væri svona sent út eitthvert signal um það að þetta yrði ekki samþykkt af Fjármálaeftirlitinu til þess að þetta gæti einhvern veginn gengið til baka án þess að það yrði formlega stoppað – þetta var aðalumræðan á þeim fundi."Í bréfi Björgvins G. Sigurðssonar til rannsóknarnefndar Alþingis 24. febrúar 2010 kemur fram að hann hafi beitt sér með óformlegum hætti fyrir því að Fjármálaeftirlitið hafnaði beiðni Kaupþings banka hf. um leyfi til þess að yfirtaka NIBC.
Glitnir hættir við fyrirhugað skuldabréfaútboð í janúar 2008
Í kvöldfréttum ríkissjónvarps 17. janúar 2008 var rætt um lausafjárstöðu Glitnis. Lárus Welding, forstjóri bankans, sagði við fréttamann: "Við stöndum vel. Staða bankans er mjög sterk. Eins og komið hefur fram þá ákváðum við að sækja okkur ekki fé á markaði á þessum tímapunkti. Það var gert í samráði við þá banka sem unnu með okkur í þessu verkefni en bankinn býr yfir um 6 milljörðum evra eða 600 milljörðum íslenskra króna af lausu fé og endurfjármögnun okkar á þessu ári er kannski um helmingur af þeirri fjárhæð. Nú aðgerðir Seðlabanka nýverið, styrkja síðan þá lausafjárstöðu enn frekar, þannig að við erum í traustri stöðu."
5. fundur starfshóps Seðlabanka Íslands um viðbrögð við lausafjárvanda 23. janúar 2008
Starfshópur Seðlabankans um viðbrögð við lausafjárvanda fundaði 23. janúar 2008. Í fundargerð kemur fram að Sturla Pálsson hafi sagt frá skörpu falli hlutabréfavísitölunnar síðastliðna daga. Síðan segir að Tryggvi Pálsson hafi sagt frá því að lánasérfræðingar innan Landsbankans séu í vandræðum og hafi aldrei verið jafn skelkaðir og á mánudaginn (21. janúar 2008). Búið sé að skera á lánalínur bankans. Fyrirhugað útboð Glitnis hafi ekki gengið eftir. Glitni hafi ekki heldur tekist að selja sértryggð skuldabréf hjá BN í Noregi að upphæð einum milljarði evra en bréfin hafi verið AAA og repo-hæf hjá Seðlabanka Evrópu. Hvað varði Kaupþing þá séu kaupin á NIBC í kastljósinu. Svo virðist sem helsta ástæðan fyrir háu skuldatryggingarálagi séu kaupin á NIBC. Í fundargerð segir að velt hafi verið upp þeirri stöðu sem upp geti komið ef kaupin gangi ekki eftir. Fram kemur að Tryggvi Pálsson hafi greint frá því að hafin sé vinna við samningu frumvarps um breytingu á Tryggingarsjóði innstæðueigenda. Sjóðurinn sé mjög veikur og ekki sé gott að vekja athygli á því að svo stöddu. Síðan segir að skjalið "Ljóti listinn" hafi verið lagt fram. Fram kemur að Tryggvi Pálsson hafi lagt áherslu á að farið verði í þá vinnu að gera Seðlabankann "sjókláran" ef allt fari á versta veg.
Drög 17. janúar 2008
Ljóti listinn
Ljóti listinn er samantekt þeirra aðfinnsla og neikvæðrar umfjöllunar um íslenskt fjármálakerfi sem birst hafa í erlendri umfjöllun á síðustu vikum:
1. Skuldatryggingarálag bankanna hefur stóraukist.
a. Tvísýnt er um hvort að bankarnir geti fjármagnað sig á þessum kjörum – hversu lengi halda þeir út? (Morgan Stanley).
b. Samsetning skulda viðskiptabankanna, þ.e. reiða sig mjög mikið (e. exposed) á markaðsfjármögnun en ekki nægilega á innlánaöflun og annars konar stöðuga fjármögnun.
c. Helsta ástæðan að baki háu CDS-álagi bankanna er skuldsetning íslensku bankanna (samkvæmt Mat Olausson hjá SEB). Þegar viðskiptahalli Íslands er svo mikill líta aðstæður á lánamörkuðum illa út fyrir Ísland (Lars Christensen, Danske Bank).
2. NIBC og áhættusækni Kaupþings. Ein ástæða að baki háu skuldatryggingarálagi bankanna er tímasetning á samruna NIBC og Kaupþings.
a. Áhættusamir skuldavafningar (e. structured exposures). Óttast er að áhætta vegna skuldavafninga, (ABS, SCO, SIVs og conduits) sem voru í eigu NIBC sé enn til staðar (Credit Sights).
3. Kross-eignatengsl. Vandamál hjá einu fyrirtæki getur valdið vandamáli hjá öðru. Afdrif Gnúps höfðu neikvæð áhrif og juku trú á að fleiri eignarhaldsfélög lendi í svipuðum vanda. Fylgst er með aukningu veðkalla hjá bönkunum. (Morgan Stanley, Credit Sights).
4. Skarpt fall og aukið flökt á hlutabréfamarkaði.
a. Talið muni fæla fjárfesta frá krónubréfaútgáfu. (Enn sem komið er virðist krónubréfaútgáfa hafa haldið velli.)
b. Auknar áhyggjur af fjárhagslegu heilbrigði fjármálafyrirtækja.
5. Ísland talið berskjaldað gagnvart óróa á alþjóðamörkuðum.
a. Jafnvel meira en Rúmenía, Búlgaría, Kazakstan og Eystrasaltslöndin (Danske Bank), Ísland talið upp í þessum hópi.
b. Áhætta vegna Kaupþings smitast á hina bankana tvo,"íslensk áhætta." Vandamál eins banka talin mundu hafa mikil áhrif á hina tvo vegna eignatengsla á íslenskum fjármálamarkaði. Íslenskir bankar stimplaðir sbr. "..." umfjöllun Morgan Stanley "Kaupthing is... well... Icelandic."
c. Skuldatryggingarálag íslenska ríkisins hækkar gríðarlega vegna stöðu bankanna og möguleika að gæti reynt á hlutverk þess sem lánveitanda til þrautavara (e. LOLR). Eru bankarnir orðnir "Too Big To Save?"
Fundur bankaráðs Seðlabanka Íslands 24. janúar 2008
Í fundargerð bankaráðs Seðlabanka Íslands frá 24. janúar 2008 er bókað eftir Davíð Oddssyni að skuldatryggingarálag bankanna hafi hækkað mjög mikið, t.d. sé álagið á Kaupþing komið í 580. Þetta þýði í raun að bankarnir fái hvergi lán. Þetta ástand sé búið að vara í þrjá til fjóra mánuði og það styttist í að einhver vandamál geti farið að láta á sér kræla. Það bæti ekki málið að eigendur Glitnis, FL Group, og Exista hf. í Kaupþingi eigi í ákveðnum erfiðleikum.
Samráðsfundur Fjármálaeftirlitsins og bankastjórnar Seðlabanka Íslands 24. janúar 2008
Bankastjórn Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitið héldu samráðsfund 24. janúar 2008. Samkvæmt drögum að fundargerð Seðlabankans var farið yfir þá vinnu sem unnin hafði verið að undanförnu í "viðbúnaðarundirbúningi". Haft er eftir Jónasi Fr. Jónssyni að viðlagahópur Fjármálaeftirlitsins hafi verið virkjaður í nóvember 2007.
Við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis var Davíð Oddsson spurður að því hvort Seðlabankinn hefði litið á það sem raunverulega hættu að kerfisáfall gæti orðið hér á landi frá byrjun ársins 2008. Hann svaraði með eftirfarandi orðum: "Já, því þegar við förum að setja saman áfallalínurnar 24. janúar, þá kemur fram í gögnunum að við teljum nánast óhjákvæmilegt nema – auðvitað vorum við alltaf með þær vonir – nema allt mundi batna í heiminum, allir markaðir mundu opnast aftur [...] og jólasveinarnir mundu mæta á vettvang með poka, peningapoka, að en ef það gerðist ekki, af því að þetta var í mínum huga svo kristalsklárt, það vantaði 44 milljarða evra á þremur árum. Ef það væri lokað þá héngi yfir okkur þetta sverð. Mér fannst þetta alltaf svo kristalsklárt en það fannst ekki endilega öllum öðrum."
Ef allt fer á versta veg í lausafjárstöðu bankanna
Fjármálasvið [Seðlabanka Íslands], janúar 2008.
Vinnudrög. SI-38745
[...]
Ágrip
Fjármálasvið tók saman stutta greiningu á stöðu stærstu viðskiptabankanna þriggja miðað við væntanlegar endurgreiðslur og lausafjárstöðu þeirra. Lausafjárstaða bankanna var framreiknuð miðað við svartsýnustu forsendur. Einnig voru teknir saman nokkrir punktar um hugsanlegar aðgerðir Seðlabankans.
Endurgreiðsluferlar markaðsfjármögnunar og lausafjárstaða samstæðu bankanna
Helstu niðurstöður greiningarinnar eru þær að ef gert er ráð fyrir verstu aðstæðum gefur lausafjárstaða Glitnis, Kaupþings og Landsbankans þá mynd að þeir geti staðið skil á skuldum út janúar (Glitnir) og hins vegar út febrúar (Kaupþing og Landsbankinn).Tekið skal fram að þetta er mjög svartsýnn framreikningur þar sem forsendur matsins eru:
- Ekkert aðgengi að lánalínum.
- Gert er ráð fyrir að hreinar vaxtatekjur jafnist á móti rekstrarkostnaði bankans.
- Engin sala á skráðum hlutabréfum, en ætla má að þessi liður myndi ekki hafa afgerandi áhrif á lausafjárstöðu.
- Frádrag af skráðum skuldabréfum er 5%.
- Innlán á gjalddaga eru með 25% frádragi nema hjá Glitni en þá er gert ráð fyrir 20% frádragi af hluta innlánasafnsins, en sá hluti er ekki gefinn upp sérstaklega.
- Ekki er gert ráð fyrir vexti bankanna.
- Ekki er gert ráð fyrir afborgunum af útlánum í útlánasafni bankans.
- Ekki er í öllum tilvikum nægilegar upplýsingar fyrir hendi, gert er ráð fyrir að afborganir gangi upp í greiðslu annarra skulda bankanna en markaðsskulda.
Lækkun lánshæfismats
Gífurlega hátt skuldatryggingarálag á útgáfur íslensku bankanna og hækkun á líkum á væntu gjaldfalli skv. Moody's KMV gagnagrunninum gætu verið vísbendingar um yfirvofandi lækkun lánshæfismats íslensku bankanna.
Lausafjárstaða móðurfélaga bankanna
Samkvæmt lausafjáryfirlitum fyrir móðurfélögin sem skilað er mánaðarlega til Seðlabanka Íslands eiga bankarnir allir lausar eignir umfram skuldir næsta mánuð og næstu þrjá mánuði.
Ef álag er lagt á þetta hlutfall og vægi ýmissa eignaliða lækkað auk þess sem gert er ráð fyrir auknu hlutfalli af innlánasafni sem þarf að vera hægt að greiða innan mánaðar, þá kemur í ljós að Kaupþing og Landsbankinn standast það álag vel en Glitnir á eignir umfram skuldir næsta mánuð en ekki næstu þrjá mánuði. Glitnir stenst því ekki lágmark lausafjárhlutfalls skv. reglum Seðlabankans og þyrfti þá að beita bankann viðurlögum í formi dagsekta.
Álag á lausafjárstöðu bankanna fólst einnig í því að meta helstu áhættuþætti hvers banka fyrir sig og kanna samspil þeirra. Vegna aðstæðna á mörkuðum voru markaðsbréf og liðir utan efnahags, s.s. ónýttar lánalínur látnar rýrna og áhrif þess á bankana könnuð. Í tilviki Landsbankans eru innlán mjög stór skuldaliður. Því voru könnuð áhrif viðnáms lausafjárstöðunnar á rýrnun innlána.
Niðurstaða þessara prófa var að lausafjárhlutfall Kaupþings og Landsbankans stóðst álagið vel en lausafjárstaða Glitnis fer niður fyrir leyfileg mörk við lækkun á virði markaðsbréfa og lánalína. Kannað var gróflega hvort smitleiðir gætu myndast vegna krafna bankanna á aðrar innlendar lánastofnanir. Svo virðist vera
að smitáhrif þá leið séu hverfandi lítil. Smit sem hefur áhrif á bankana kæmi hins vegar frekar fram í gegnum greiðslukerfin
eða sem ímyndaráfall fyrir íslensku bankana í heild. Næsta skref í frekari vinnu væri að kanna smitleið í gegnum greiðslukerfi.
[...]
Líkt og að framan greinir var Glitnir farinn að falla á lausafjárprófum Seðlabankans í janúar 2008. Þau gögn sem rannsóknarnefnd Alþingis hefur undir höndum gefa til kynna að ekki hafi verið haft samband við Glitni fyrr en í maí sama ár vegna þessa máls. Í kjölfarið breytti Glitnir lausafjárskýrslum sínum og stóðst í framhaldinu lausafjárpróf Seðlabankans, sbr. umfjöllun hér á eftir um fund Seðlabankans með Glitni 22. maí 2008.
6. fundur starfshóps Seðlabanka Íslands um viðbrögð við lausafjárvanda 29. janúar 2008.
Starfshópur Seðlabankans um viðbrögð við lausafjárvanda fundaði 29. janúar 2008. Í fundargerð kemur fram að Kaupþing hafi hætt við kaup á NIBC. Einnig segir að Sturla Pálsson hafi greint frá helstu atriðum fréttatilkynningar Moody's um að lánshæfiseinkunn íslensku bankanna hefði verið tekin til endurskoðunar. Helstu ástæður endurskoðunarinnar séu léleg arðsemi, viðskiptalíkan bankanna og hversu háðir þeir séu fjárfestingarbankastarfsemi á áhættusömum markaði. Fram kemur að Moody's hyggist birta niðurstöður sínar innan mánaðar. Í fundargerðinni segir einnig að Tryggvi Pálsson hafi greint frá því að eins milljarðs evra útboð sértryggðra skuldabréfa hafi mistekist hjá Glitni. Glitnir muni hins vegar tilkynna um eins milljarðs evra lánalínu til fimm ára sama dag. Ef dregið verði á hana þá verði það á markaðskjörum. Í þessu samhengi telur rannsóknarnefnd Alþingis rétt að halda því til haga að umrædd lánalína var frá Deutsche Bank en hún miðaðist ekki við markaðskjör heldur var lánveitandanum í raun veitt sjálfdæmi um kjörin. Síðar í fundargerð segir að Sylvía Kristín Ólafsdóttir hafi spurt hversu tryggar samningsbundnar lánalínur séu í raun. Þá er haft eftir Sturlu Pálssyni að auðvelt sé að loka á slíkar línur ef svo beri undir. Í fundargerðinni kemur fram að fjármálasvið Seðlabankans hafi útbúið samantekt varðandi lausafjárstöðu bankanna og nefnist skjalið "Ef allt fer á versta veg í lausafjárstöðu bankanna". Síðan segir að Tryggvi Pálsson hafi nefnt að gengi krónunnar geti farið í niðursveiflu og það þurfi að huga að fleiri þáttum en jöklabréfum, t.d. O/N stöðu á íslensku krónunni. Heildarstöðutaka erlendra aðila sé sögð 800–900 milljónir evra en útistandandi jöklabréf séu um helmingur þessarar fjárhæðar.
Við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis ræddi Tryggvi Pálsson um niðurstöðuna úr framangreindri samantekt: "Og álagsprófið sem Glitnir ekki stenst. Reyndar er það að það er hægt að gera þau með mismunandi hætti og misalvarleg áföll en í þessum tilvikum var Glitnir veikastur miðað við þær forsendur sem við gáfum okkur, ef við gáfum okkur þær forsendur að innlán myndu renna út þá var Landsbankinn langveikastur. Allan þennan tíma standast bankarnir lausafjárreglur Seðlabankans en þeir standast ekki forsendur um útflæði skammtímalána og útflæði innlána.Við vissum að hættan og það var strax augljóst í nóvember 2007 og ýmis gögn sem komu eftir það lít ég á sem staðfestingu á þessari hættu og ekki það að þau hafi breytt, alla vega minni mynd af því hvað var að gerast. Það er þó ekki þannig að þegar Sylvía gengur frá niðurstöðum sínum í álagsprófinu að það sé að opinberast eitthvað nýtt fyrir manni. Það var alveg klárt að þeir voru í þessari hættu og það máttu allir vita sem höfðu tekið þátt í erfiðleikunum 2005, 2006, að banki sem fær ekki endurfjármögnun mun ekki lifa."Við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis lýsti Geir H. Haarde því að honum hefði ekki verið kunnugt um að Glitnir væri byrjaður að falla á lausafjárprófum Seðlabankans í janúar 2008. Um viðbrögð við vandanum í upphafi ársins 2008 sagði Geir: "En vandinn var sá [...] hvað átti að gera? Hvaða úrræði hafði ríkið? Ef við gefum okkur það að við höfum vitað það þarna eða í ársbyrjun 2008 að þetta myndi allt fara til andskotans, hvað áttum við að gera? Það voru engin úrræði, það var náttúrulega hægt að reyna að fá peninga að láni og ætla síðan að kasta þeim á eldinn, gjaldeyrisvarasjóðnum, eins og var beðið um. Ég er alveg viss um það [...] að þegar Glitnir bað um sína miklu lánsupphæð þarna í septemberlok að ef þeir hefðu fengið það lán þá hefði því verið kastað á glæ."
Ummæli forsætisráðherra um skýrslu Moody's við umræður á Alþingi 29. janúar 2008
Í ræðu á Alþingi hinn 29. janúar 2008 fjallaði Geir H. Haarde um skýrslu Moody's sem gefin hafði verið út fyrr í mánuðinum. Geir sagði: "Þar stendur hins vegar að ef bankarnir færu úr landi mundi sú óbeina ábyrgð sem talin er hvíla á ríkissjóði vegna starfsemi þeirra minnka, og það er vissulega rétt. Með sama hætti mætti segja að sú ábyrgð mundi minnka verulega ef bankarnir hættu starfsemi sinni. Það er ekki aðalatriðið í skýrslunni. Það sem hv. þingmaður [Illugi Gunnarsson] dró fram úr skýrslunni skiptir verulegu máli. Efnahagsaðstæður eru þannig, og er það dregið mjög skýrt fram, að ekki er nein sérstök hætta á ferðum hérlendis jafnvel þótt kæmi til alvarlegrar fjármálakreppu sem þó er talið ólíklegt. Einnig er bent á að fjárhagsstaða bankanna sé traust þrátt fyrir þá erfiðleika sem nú eru á fjármagnsmörkuðunum og það sjáum við líka í þeim uppgjörum sem birt hafa verið á síðasta sólarhring. Ég tel mjög mikilvægt að þetta komi fram, virðulegi forseti."
Kaupþing fellur frá kaupum á hollenska bankanum NIBC 30. janúar 2008
Hinn 30. janúar 2008 greindi Kaupþing frá því í fréttatilkynningu að fallið hefði verið frá kaupum á hollenska bankanum NIBC.
Í skýrslu Björgvins G. Sigurðssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom fram að Sigurður Einarsson, stjórnarformaður Kaupþings, hefði hringt í sig út af þessu og hefði verið "mjög áfram" um að Fjármálaeftirlitið benti á að þessi kaup gætu orðið bankanum að falli. Í skýrslu Sigurðar Einarssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom fram að hann hefði rætt málið við Björgvin G. Sigurðsson í síma. Sigurður sagði að forsvarsmenn Kaupþings hefðu undir lok ársins 2007 verið að vonast til þess að Fjármálaeftirlitið tæki saman skýrslu þar sem það legðist gegn kaupunum þar sem aðstæður hefðu versnað svo mjög á mörkuðum frá því að kaupin voru gerð. Það hefði Fjármálaeftirlitið hins vegar ekki gert. NIBC hefði að langstærstum hluta verið fjármagnaður á heildsölumarkaði og því ljóst að það hefði gert fjármögnunarbyrði hins sameinaða banka miklu þyngri. Loks hefði síðan náðst samkomulag við seljandann um að kaupin gengju ekki eftir.Aðspurður um það af hverju fallið var frá kaupunum á NIBC svaraði Hreiðar Már Sigurðsson við skýrslutöku: "Þetta, sem sagt, opinbera skýringin sem var gefin út var sú að aðilar hefðu sammælst um þetta, við og J.C. Flowers og teldum að það væri hagkvæmast fyrir báða aðila, en Fjármálaeftirlitið íslenska spilaði stóran hlut í því [...] ég var í miklum samskiptum við Jónas Friðrik í þessu ferli og þeir gáfu svona ákveðinn tíma til að fara í gegnum þetta og skoða þetta, náttúrulega þróunin var mjög neikvæð á þessum tíma og skilaboðin sem að Fjármálaeftirlitið gaf J.C. Flowers var að þeim litist ekki mjög vel á þetta og það má segja að við höfum ekkert, við grétum það ekki." Aðspurður um hvort málið hefði verið rætt við bankastjóra Seðlabankans svaraði Hreiðar: "Já, ég ræddi þetta við þá. [...] Ég leit nú svo á að Jónas Friðrik hafi nú verið sá maður sem skipti máli í þessu ferli og það voru í sjálfu sér samskipti mín við Jónas Friðrik sem skiptu miklu meira máli heldur en að, en ég upplýsti Seðlabankann um það hvað væri í gangi. Og þarna og já."
Fundur bankastjórnar Seðlabanka Íslands með Kaupþingi 30. janúar 2008
Bankastjórn Seðlabankans fundaði með Kaupþingi 30. janúar 2008. Af drögum Seðlabankans að fundargerð má sjá að rætt hafi verið um viðbrögð við þeim fréttum að Kaupþing hafi horfið frá kaupum á NIBC. Haft er eftir Hreiðari Má Sigurðssyni að fyrstu viðbrögð séu þau að skuldatryggingarálag bankans hafi lækkað. Þá hafi verð hlutabréfa í bankanum hækkað. Haft er eftir Hreiðari að Sigurður Einarsson hafi rætt við seljendur NIBC fyrir 10 dögum og upplýst að málið "færi ekki í gegn". Seljendur hafi séð sitt óvænna því þeir hefðu óttast neikvæð ummæli um NIBC "í úrskurði FME". Því næst er haft eftir Davíð Oddssyni: "Betri lausn en úrskurður FME." Síðar í drögum að fundargerð er haft eftir Hreiðari: "Óttumst... Margt sem bendir til að við séum að stefna inn í fjármálakrísu. Margir fjárfestar hafa háar skuldir sem leiða til afskrifta."
Í ljósi framangreindra ummæla sem höfð eru eftir Hreiðari Má Sigurðssyni um lækkun á skuldatryggingarálagi Kaupþings er rétt að halda því til haga að tæpum þremur vikum eftir lækkunina hafði skuldatryggingarálag Kaupþings hækkað aftur jafn mikið og sem umræddri lækkun nam.
Fundur forsætisráðherra með Samtökum fjármálafyrirtækja 31. janúar 2008
Hinn 31. janúar 2008 sótti Geir H. Haarde fund með Samtökum fjármálafyrirtækja. Við skýrslutöku lýsti Geir því að á fundinum hefði verið farið almennt yfir stöðu mála á þessum tíma.
Uppgjör íslensku bankanna fyrir árið 2007
Fram kom í skýrslu Ingimundar Friðrikssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis að ársreikningar bankanna fyrir árið 2007 hefðu út af fyrir sig litið ágætlega út þar sem arðsemi og eiginfjárhlutföll hefðu verið í "þokkalegu formi" á árinu 2007 og í lok ársins. En eins og reyndar kæmi fram í minnisblaði, sem var kynnt á fundi ráðherra 7. febrúar 2008, þá hefðu alltaf verið efasemdir meðal greinenda úti í heimi um að Kaupþing gerði nógu rækilega grein fyrir sinni stöðu í fyrirspurnum. Þessar efasemdir hefðu bæði lotið að skýringum sem fylgdu ársreikningnum og framgöngu á kynningarfundum sem hefðu verið haldnir hér í Reykjavík og London, en á einum slíkum fundi hefðu verið ákveðnir liðir sem Kaupþing tókst ekki að skýra með fullnægjandi hætti að mati þeirra sem fylgdust með kynningunni.Vangaveltur hefðu m.a. verið um að "Kaupþing gerði ekki nægilega grein fyrir áhættu sem bankinn bæri, beint eða óbeint, af [...] málum sem tengdust undirmálslánum í Bandaríkjunum og það var einkum í gegnum fyrirtæki sem bankinn rak í London sem var kallað, held ég, New Bond Street Management". Aðspurður um hvort Seðlabankinn hefði eitthvað kannað þessa hluti kvað Ingimundur svo ekki vera þar sem það hefði verið verkefni Fjármálaeftirlitsins.Við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis ræddi Stefán Svavarsson, löggiltur endurskoðandi og aðalendurskoðandi Seðlabanka Íslands, almennt um starfsskyldur endurskoðenda: "Eitt af því sem okkur er áskilið að gera í endurskoðunarstöðlunum er það að þú átt að vega og meta eðlislæga áhættu, eðlislæga áhættu. Bíddu, ætla menn þá að segja mér núna að eðlislæg áhætta í stöðum bankanna á árinu 2008 hafi verið núll? Hvernig í dauðanum geta menn komist að þeirri niðurstöðu? Ég ætla ekki að láta mig dreyma um það að endurskoðendur bankanna hafi ekki vitað hvers konar stöðu bankarnir voru komnir í á árinu 2007. Ef þeir hafa verið í einhverri þoku um það hvert stefndi á árinu 2007, að þá náttúrulega er ekki mikið í þá spunnið sko. [...] ef að það er þannig að þessir menn sem að skrifuðu upp á reikninga bankanna hafi verið í algjörri þoku um það hvað væri hér að gerast í íslenskum bankaheimi þar til í október 2008, að þá náttúrulega voru þeir ekki að vinna vinnuna sína, það er svo einfalt [...]."
19.3.5 Febrúar 2008
För formanns bankastjórnar Seðlabanka Íslands til London í byrjun febrúar 2008
Í byrjun febrúar 2008 var í London haldið kvöldverðarboð International Bankers Club. Davíð Oddsson, formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands, sótti boðið ásamt Sturlu Pálssyni, framkvæmdastjóra alþjóða- og markaðssviðs Seðlabankans. Þessi kvöldverðarboð eru árlegur viðburður og fulltrúar Seðlabankans hafa samhliða þessum boðum sótt fundi með fulltrúum banka og matsfyrirtækja í London. Davíð kvaðst hafa ritað hjá sér minnisblað um fundi með ýmsum aðilum sem hann og Sturla áttu í þessari ferð 2008 en minnisblaðið hafi síðan verið hreinritað 12. febrúar 2008.
Fundir í London í febrúar 2008
[Minnisblað úr Seðlabanka Íslands, hreinritað]
12. febrúar 2008
Á fundum þessum var afar vel mannað af hálfu viðmælenda Seðlabankans, bæði var fólk til staðar sem gjörkunnugt var viðskiptum við Ísland og var afar vel undirbúið og hafði iðulega gögn fram að færa, og einnig sátu háttsettir menn viðkomandi banka eða stofnana fundina að öllu leyti eða mestum hluta, svo sem í dæmi Moody's þar sem forstjóri Moody's í Evrópu og Asíu, sat allan þann fund og næstæðsti maður Citi-samsteypunnar í heiminum, sat fund hennar með Seðlabankamönnum.
A. Fundir með matsfyrirtækjunum
Ljóst er að áhyggjur af Íslandi litast eingöngu af áhyggjum af íslensku bönkunum, og talið að fyrirferð þeirra í fjármálalífi Íslendinga sé slík, að verði þeim hált á svelli þá detti aðrir með þeim. Eftir almennan gegnumgang með Fitch um stöðu efnahagsmála og þær breytingar sem orðið hafa og það sem snýr sérstaklega að ríkinu og verkefnum Seðlabankans, var fjallað töluvert um bankana af þeirra hálfu. Lokaspurning þeirra varð síðan sú, hvað gerist ef íslensku bankarnir komast ekki, eða ekki svo neinu nemi, á markaðina næstu 12 mánuði eða svo? Svar seðlabankamanna var efnislega það, að ef slíkt gerðist, þá væru erfiðleikarnir orðnir mjög miklir fyrir íslensku viðskiptabankana, en á það yrði að benda að við þær aðstæður hlyti bankaheimurinn allur að standa svo illa að tala mætti um bankakreppu, ef ekki heimskreppu. En þessi spurning Fitch-manna, svo ónotaleg sem hún virtist, varð Seðlabankamönnum skiljanlegri þegar leið á þessa fundarferð.
Moody's hafði með sama hætti áhyggjur af öllum bönkunum, en þó einna mest af einum þætti, sem snýr að Landsbanka Íslands, en þar er um að ræða hve hinn mikli innlánsreikningur Icesave kunni að vera kvikur og háður trausti og trúnaði á markaði og ekki aðeins trausti á Landsbanka Íslands, heldur á Íslandi og íslenska bankakerfinu, og jafnframt hve samkeppni á þessum markaði færi nú mjög harðnandi vegna lokunar annarra markaða. Seðlabankamenn fóru yfir þau rök sem væru gegn því að þessi innlánsreikningur væri jafn ótraustur og Moody's hefði áhyggjur af, en ekki er líklegt að öllum efasemdum þeirra hafi verið eytt.
B. Fundir með bönkum
Annars vegar var við þá flesta nefnt að nú væri hugað að því, hverjar aðstæður og efni væru til lántöku af hálfu Íslands til forðastækkunar og hins vegar nefnt að bankinn velti fyrir sér að opna víxlaprógram sitt til þess að hafa vakandi mat á kjörum og eins hins, að nafn hans væri sýnilegt á skjám viðskiptamanna, ef svo mætti segja. Flestir bankanna, sem afstöðu tóku, voru fremur hlynntir víxlahugmyndinni og verður því ekki vikið frekar að þeim þætti í þessum punktum. Einn banki sem undirbúið hafði vel fundinn með Seðlabankamönnum sýndi þeim dæmi um hve óeðlilega kjör íslenska ríkisins hefðu þróast.Voru dregin fram kjör annarra ríkja, sem miklu lægra mat hefðu frá matsfyrirtækjum og væru fjarri því að vera t.a.m. með AAA hjá matsfyrirtæki eins og Ísland hefði. Voru það sláandi samanburðarmyndir. Það var mat þessa banka, að sjálfsagt væri hægt að fá peninga, en kjör Íslands yrðu, eins og þarna sæist, óhagfelld og gætu jafnvel verið skaðleg landinu um nokkurn tíma, ef að þeim væri gengið. Þar sem það væri óbein viðurkenning á að landið væri of hátt metið. Bankinn væri tilbúinn til þess að taka þátt í þessu með Íslandi eins og áður, en vildi nefna, hvort ekki væri skynsamlegt eins og staðan væri, að bíða þess að aðstæður yrðu hagfelldari.
Annar banki var hins vegar þeirrar skoðunar að rétt væri að taka lán og stækka forðann, þótt kjör yrðu vissulega ekki upp á það allra besta. Það væri til hagsbóta við þá aðgerð að töluverð eftirspurn væri eftir ríkisbréfum í öllu því vantrausti sem ríkti. Og í annan stað þá mundi þessi ákvörðun íslenska ríkisins sýna vilja stjórnvalda í landinu "til að berjast" og "til að sýna að það ætli sér ekki að gefast upp baráttulaust".
Þriðji stóri bankinn taldi að staðan gagnvart Íslandi væri mjög erfið, jafnvel í landi eins og Þýskalandi, þar sem íslensk mál væru vel kynnt og þekkt og Ísland hefði átt athvarf um langa hríð. Nú væri það svo að margir bankar þar hefðu gengið í gegnum erfiðleika og ættu nóg með sig. Mikið vantraust ríkti á markaðnum vegna bankanna, einkum þó vegna Glitnis og Kaupþings. Talsmönnum Kaupþings væri ekki fyllilega treyst og talsmenn Glitnis bersýnilega reynslulausir og virkuðu "desperat" eins og það var orðað og virtust hafa mjög veikt fjárhagslegt bakland. Þessir bankamenn tóku sérstaklega fram, að Seðlabankinn og ríkið væru hins vegar í góðri stöðu, hefðu jafnan komið fram af mikilli hreinskilni og á þeim væri mikið traust. Seðlabankinn hefði góða sögu að segja, sem menn myndu trúa, og því kæmi til greina að bankinn færi í svokallað "Road Show" án samfylgdar viðskiptabankanna og án þess að ætla í þeirri lotu að bjóða út skuldabréf í þeim tilgangi að styrkja forðann. Og kæmu þá helst til greina Bretland (London), Þýskaland (einkum Frankfurt), Bandaríkin (New York, Chicago, Los Angeles) og nokkrir aðrir staðir sem nefndir voru.
Fjórði stóri bankinn sagði stöðu Íslands grafalvarlega. Sennilega yrðu markaðir lokaðir næstu 6–12 mánuðina almennt, og örugglega a.m.k. 12 mánuði lokaðir íslenskum bönkum. Stóru bankarnir væru mjög uppteknir af eigin hag um þessar mundir og þyrftu á öllu sínu að halda til að bjarga eigin skinni. Hefði mörgum tekist það bærilega, en heilmikið væri eftir við eigin fjármögnun þeirra, vantrú væri ennþá mjög mikil og færi vaxandi. Færi íslenska ríkið út í lántöku í þeim tilgangi að styrkja forðann um þessar mundir, yrði litið á það sem örþrifaráð af þess hálfu, og með þeirri aðgerð send mjög röng skilaboð og jafnvel háskaleg. Þá væri til þess að líta að 1–1½ milljarður evra væri bara dropi í hafið miðað við þörf banka á markaði sem væri algerlega lokaður og þegar hugsað væri til þess fjármagns sem til þyrfti að koma yrði íslenska ríkið að hlaupa undir bagga með öllum íslensku bönkunum. Í samtölum við þessa bankamenn og fleiri kom einnig eftirfarandi fram sem að hluta til hefur þegar verið nefnt: Skýringarfundir Landsbankans voru vel heppnaðir og forustumenn hans komu fram með trúverðugum hætti og virtust geta svarað spurningum leikandi og undanbragðalaust. Landsbankinn stæði einnig að öðru leyti hvað fjármögnun varðar best, en hann væri hins vegar berskjaldaður, ef hinir færu illa. Kaupþingi væri ekki nægilega vel treyst og yfirlýsingaferill þeirra, bæði almennur og sem tengdist hollenska bankanum, væri ósannfærandi, svo ekki væri meira sagt. Almennt væri talið að íslensk yfirvöld (FME) hefðu beint eða óbeint skorið bankann niður úr snörunni eftir hin vafasömu kaup á hollenska bankanum (í sjálfu sér talið af öllum, að sú aðgerð hefði verið mjög jákvæð). Fleiri en einn banki benti á að Kaupþing hefði ekki á uppgjörsfundum getað útskýrt mál með trúverðugum hætti og t.d. hefðu þeir ekki getað gert grein fyrir því, hvernig 8,2 milljóna evra lánsfjármagnsútvegun á síðasta ári væri sundurliðuð, og þær skýringar sem gefnar hefðu verið umfram þau lán sem þekkt voru, voru fjarri því að vera fullnægjandi. Ýmsir bankarnir töldu að Glitnir virtist í verulegum vandræðum. Iðulega var vísað í ferð þá til Bandaríkjanna, þar sem Glitnismenn komu heim auralausir, en einnig var af hálfu sumra bent á að eigendur Glitnis væru í þröngri stöðu eða gætu fljótlega lent í vandræðum, svo baklandið stæði alls ekki sterkt. Hér verður ekki sérstaklega vikið að viðræðum við íslenska bankamenn sem bankastjórninni hefur verið gerð grein fyrir munnlega, en óhætt er að segja að þær viðræður voru síst til þess fallnar að draga úr þeim áhyggjum sem þarna er lýst.
En þá niðurstöðu má draga saman af þessum viðræðum og ummælum manna, sem svo vel til þekkja, en voru auðvitað settar fram með misskýrum hætti, að íslenska bankakerfið væri í mikilli hættu, ekki síst vegna þess hvernig það hefur þanist út, skipulagslítið og ógætilega á undanförnum árum, í því trausti að lánsfjárútvegun yrði ætíð leikur einn. Markaðir verði almennt lokaðir íslensku bönkunum a.m.k. næstu 12 mánuði og telja þó sumir að 24 mánuðir séu líklegri tími hvað það varðar. Auðvitað þarf að undirstrika rækilega þá óvissu sem í slíkum fullyrðingum felst. En niðurstaðan er rökstudd svo, að þegar markaður loks opnist muni stórir, öflugir og þekktir bankar fá aðganginn fyrst, en síðast kemur að minni bönkum og íslenskir bankar verði mjög aftarlega í röðinni. Og þau "módel" að fella íslensku skuldabréfin í "vafningapakka", sem gerði þau eftirsóknarverða vöru, eru horfin úr myndinni og munu ekki koma aftur.
Það mundi vissulega ekki hjálpa Kaupþingi á nokkurn hátt að flytja höfuðstöðvar sínar úr landi, eins og sumir viðmælendur töldu álitlegan kost, en það mundi hins vegar létta stöðu annarra banka mikið og vera jákvætt fyrir fjármálalíf Íslands eins og staðan er, því þá mundi verða talið að íslenski Seðlabankinn og ríkið myndu geta bjargað þeim bönkum sem eftir væru frá falli, ef sú neyðarstaða yrði uppi. Það var talin ein meginskýringin á háum CDS-kjörum þessara banka, að þessi staða sem seðlabankamenn væru að kynnast til fulls núna og kyngja, væri tiltölulega vel þekkt á markaði og því hefði skortstaða verið tekin á íslensku bankana í trausti þess að markaðir yrðu þeim algerlega lokaðir lengi og til viðbótar kæmi að íslenski Seðlabankinn og ríkið væru ekki af þeirri stærð og styrk til að hafa bolmagn til að bjarga þeim frá falli, þótt vilji stæði til þess. Sumir töldu að það eina sem gæti slegið á þessi háu eftir á kjör væri ef íslenski Seðlabankinn gæti náð samningi við erlenda seðlabanka um að veita bankanum fyrirgreiðslu í nauð, sem dygði til þess að hann gæti staðið að sínu leyti við björgunaraðgerðir á íslensku bankakerfi. Niðurstaðan er þessi: Það er ljóst að íslensku bankarnir, Kaupþing og Glitnir alveg sérstaklega, hafa stefnt sér og það sem verra er, íslensku fjármálalífi, í mikla hættu, jafnvel í hreinar ógöngur, með ábyrgðarlausri framgöngu á undanförnum árum. Hættulegt er að hafast ekkert að í þeirri von að markaðir opnist óvænt og allur vandi verði þá úr sögunni. Nauðsynlegt er að hefjast þegar handa við að vinda ofan af stöðunni svo hún verði ekki óleysanleg. Ekki er hægt að útiloka að miklu fyrr rætist úr markaðsaðstæðum og aðgengi að fjármagni en nú er talið. Ekkert bendir þó enn til þess og ef menn láta sér nægja að lifa í voninni verður of seint að bregðast við þegar ljóst verður að vonin rætist ekki."
Í skýrslu Halldórs J. Kristjánssonar, bankastjóra Landsbankans, fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom fram að hann og Sigurjón Þ. Árnason, bankastjóri Landsbankans, hefðu sótt framangreint kvöldverðarboð International Bankers Club, tekið stöðu mála og síðan átt fund með Davíð Oddssyni og Sturlu Pálssyni. Í skýrslu Sigurjóns Þ. Árnasonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom fram að á fundi þeirra með Davíð og Sturlu hefði verið rætt um þau viðhorf sem uppi voru til íslensku bankanna. Þá sagði Sigurjón í skýrslu sinni: "Heildarmyndin er komin, hann er búinn að skynja þetta og hann fer til ríkisstjórnarinnar og segir frá þessu. Munurinn hins vegar á Davíð og mönnum eins og mér var sá að hann vildi ekki sjá að það væri í rauninni fólgin lausn í því að innlánin væru að bjarga bankakerfinu. Í hans huga var það ekki lausn og hann sá ekki að það væri hægt að safna miklu magni af innlánum til að leysa þetta. Við fórum yfir allar tölurnar, hvað þetta væri mikið magn, hvað Glitnir ætti að borga, hvað KB ætti að borga og hvað við ættum að borga og honum sortnaði fyrir augum af því hvað þetta væru stórar tölur úr því að markaðir væru lokaðir og að menn kæmust aldrei í gegnum þetta. Ég held að hann hafi bara upplifað það þá að þetta væri óleysanlegt."Í skýrslu Halldórs J. Kristjánssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom fram að hjá Landsbankanum hefðu þeir skynjað það frá áramótum að þörf væri á því að auka heildarviðbúnaðarstigið á Íslandi. Þetta hefðu forsvarsmenn Landsbankans í raun sannfærst um eftir viðræður við bankamenn í byrjun febrúar 2008 í tengslum við hið árlega kvöldverðarboð International Bankers Club í London. Hefðu íslensku bankarnir því sameinast um að senda ríkisstjórninni bréf 4. febrúar 2008, sbr. umfjöllun hér á eftir.Í skýrslu Jónasar Fr. Jónssonar, forstjóra Fjármálaeftirlitsins, kom fram að hann hefði ekki séð minnisblað frá ferð Davíðs Oddssonar til London fyrr en það var gert opinbert löngu síðar, eftir fall bankanna.
Forsætisráðherra ræðir í síma við bankastjóra Landsbankans 3. febrúar 2008
Hinn 3. febrúar ræddi Geir H. Haarde í síma við Halldór J. Kristjánsson. Rannsóknarnefnd Alþingis hefur ekki undir höndum frekari upplýsingar um samtalið.
Forsætisráðherra ræðir í síma við forstjóra Glitnis 3. febrúar 2008
Hinn 3.febrúar ræddi Geir H.Haarde í síma við Lárus Welding,forstjóra Glitnis.Rannsóknarnefnd Alþingis hefur ekki undir höndum frekari upplýsingar um samtalið.
Samtök fjármálafyrirtækja senda forsætisráðherra bréf 4. febrúar 2008
Við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis lýsti Geir H. Haarde því að 3. febrúar 2008 hefði hann rætt við forstjóra Glitnis og bankastjóra Landsbankans í síma. Daginn eftir hefði hann síðan fengið bréf frá Samtökum fjármálafyrirtækja sem varðaði efnahagsmálin og stöðu fjármálafyrirtækjanna.
Rannsóknarnefnd Alþingis hefur undir höndum framangreint bréf Samtaka fjármálafyrirtækja til Geirs H. Haarde. Um er að ræða drög að minnisblaði. Í skjalinu segir m.a.: "Á undanförnum mánuðum hafa aðstæður á alþjóðlegum fjármálamörkuðum snúist til hins verra og gjörbreytt þeim rekstrarforsendum sem íslensk fyrirtæki sem starfa á alþjóðamarkaði búa við. [...] Þannig hafa kjör íslenskra banka á alþjóðlegum mörkuðum gjörbreyst til hins verra á örfáum mánuðum sem þeir hafa brugðist við með því að draga úr útlánum. Þó svo að eðlilegt ástand skapist væntanlega á nýjan leik innan skamms er engu að síður nauðsynlegt að okkar mati að staldra við og styrkja innviðina til að lágmarka líkurnar á að illa fari." Í bréfinu er síðan lagt til að Seðlabankinn slaki á aðhaldi í peningamálum, "starfsemi Lánasýslunnar" verði útvíkkuð á þann hátt að hún yfirtaki einnig að hluta Íbúðalánasjóð, bindiskylda verði afnumin. Ef þessum hugmyndum yrði mætt lýsa Samtök fjármálafyrirtækja því yfir að bankarnir væru tilbúnir til þess að skuldbinda sig til þess að taka þátt í tveggja ára verkefni "sem byggir á upplýsingagjöf um íslenskt hagkerfi og fjármálamarkaði í samvinnu við forsætisráðuneytið og Seðlabankann". Loks eru nokkrar fyrri hugmyndir samtakanna ítrekaðar. Undir bréfið ritaði Lárus Welding, formaður Samtaka fjármálafyrirtækja og forstjóri Glitnis.
7. fundur samráðshóps stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað 5. febrúar 2008
Samráðshópur stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað fundaði 5. febrúar 2008. Í drögum að fundargerð segir að á fundinum hafi komið fram að á kynningarfundi Glitnis í London 30. janúar 2008 hefði verið sagt frá samningi þeirra um eins milljarðs evra lánalínu til fimm ára (ódregin "back stop" lína).
Niðurstöður álagsprófa Fjármálaeftirlitsins kynntar 6. febrúar 2008
Fjármálaeftirlitið birti fréttatilkynningu 6. febrúar 2008 um að fjórir stærstu viðskiptabankarnir hefðu allir staðist álagspróf stofnunarinnar. Í fréttatilkynningu Fjármálaeftirlitsins er haft eftir Jónasi Fr. Jónssyni: "Niðurstöður álagsprófsins sýna að eiginfjárstaða íslensku bankanna er sterk og þeir geta staðið af sér veruleg áföll."
Fundur bankastjórnar Seðlabanka Íslands með ráðherrum ríkisstjórnarinnar 7. febrúar 2008
Að morgni 7. febrúar 2008 ræddi Davíð Oddsson, formaður bankastjórnar Seðlabankans við Geir H. Haarde, forsætisráðherra, en Davíð var þá nýkominn frá London. Í framhaldi af samtalinu var ákveðið að bankastjórn Seðlabanka Íslands fundaði með Geir H. Haarde, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, utanríkisráðherra, og Árna M. Mathiesen, fjármálaráðherra, síðar um daginn. Auk þeirra voru á fundinum Bolli Þór Bollason og Tryggvi Pálsson.Í skýrslu Geirs H.Haarde fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom fram að þegar fundurinn var haldinn hefði Davíð Oddsson verið nýkominn frá London. Geir sagðist hafa skilið það svo að tilgangurinn með för Davíðs til London hefði verið að kanna "möguleika og markaðinn fyrir það að íslenska ríkið tæki lán sjálft [...] til þess að efla gjaldeyrisvarasjóðinn". Á fundinum hefði Davíð lesið upp drög að frásögn af þeim fundum sem hann sótti. Geir hefði ekki fengið þessi drög afhent og hann hefði ekki séð þau fyrr en rétt fyrir skýrslutöku hjá rannsóknarnefnd Alþingis. Um skjalið sagði Geir: "Það má vera að [skjalið] hafi eitthvað breyst en það var greinilegt að þarna hélt formaður bankastjórnarinnar á penna, hans stíll var á þessu plaggi, og þar er lýst sem sagt viðhorfum bankamanna í London til ástandsins, einkum ástandsins á íslensku bönkunum." Geir var spurður hver viðbrögð ráðherranna hefðu verið við boðskap bankastjórnar Seðlabankans. Svör Geirs voru: "Við náttúrulega meðtókum þessar upplýsingar en þessum lestri fylgdi engin sérstök ráðgjöf eða tillaga um viðbrögð, þannig að, og þetta voru náttúrulega bara skoðanir einhverra manna, bankamanna, þetta var lýsing á þeirra viðhorfum. Það var ekki hægt að líta á þetta sem einhverja spá frekar en margt af því sem síðar kom fram um hvað gæti verið fram undan." Aðspurður hvað menn hefðu þá ætlað að gera þegar staðið var upp frá fundinum svaraði Geir: "Ætli við höfum ekki gert ráð fyrir því að það kæmi þá eitthvað kannski í kjölfarið frá bankanum. Hvað átti að gera?" Geir var þá spurður hvort ráðherrarnir hefðu beðið Seðlabanka Íslands um tillögur. Geir svaraði: "Ég man það ekki. Ég tel að það hafi þá verið bankans að meta það hvort það væri tilefni til þess að leggja fram tillögur í kjölfarið. En málið var náttúrulega það, hvað átti ríkið að gera? Átti það að skipa bönkunum að selja eignir? Þetta var alltaf sama vandamálið, það voru ekki úrræði til þess að pína bankana til að gera ákveðna hluti." Aðspurður um almenn viðbrögð Geirs ef forstöðumaður ríkisstofnunar leitaði til hans og lýsti áhyggjum af málaflokki sem undir hann heyrði, svaraði Geir: "Ég hefði sennilega sagt honum að koma með það skriflega og segja mér þar með hvað hann teldi ráðlegast að gera." Geir var þá spurður að því af hverju það hefði ekki verið gert í umræddu tilviki gagnvart Seðlabankanum. Geir svaraði: "Já, ja, maður hefði nú kannski talið að bankinn ætti nú að finna það upp hjá sjálfum sér ef ástandið var það alvarlegt."Almennt lýsti Geir H. Haarde samskiptum sínum við Davíð Oddsson með eftirfarandi orðum við skýrslutöku: "Auðvitað töluðum við mikið saman og það má ekki gleyma því að við erum náttúrulega gamlir samstarfsmenn og það nær alveg meira en 40 ár aftur í tímann og gamlir vinir. Og það má segja að það hafi flækt okkar samstarf, vegna þess að maður gat ekki alltaf áttað sig á því hvenær var hann að tala við mann, sem hann er búinn að þekkja svona lengi og hefur sopið marga fjöruna saman með? Hvenær var hann að tala við mig sem minn forveri í starfi út af einhverju sem hann vissi? Og hvenær var hann embættismaðurinn að ráðleggja forsætisráðherranum? Þetta var flókið, sérstaklega vegna þess að honum hættir til að vera stóryrtur, taka djúpt í árinni, "dramatísera" og gera hlutina jafnvel leikrænt þegar hann [var] í "essinu" sínu og þetta gerði það að verkum að maður gat ekki alltaf, maður vissi ekki alltaf í hvoru hlutverkinu maður var eða hann. Honum [...] lá ekkert sérstaklega gott orð til bankanna eða bankastjóranna, þannig hafði það verið í mörg ár, honum hefur ekkert legið gott orð til embættismanna í ríkiskerfinu, alls ekki, honum hefur ekki legið mjög gott orð til ráðherra í ríkisstjórn, ég veit vel að hann hefur ekki talað alltaf fallega um forsætisráðherrann sem þá var, þennan hér. Þetta bara veit maður, þannig að ef það er síðan komið með einhver stóryrði um eitthvað tiltekið þá var svona ákveðið vandamál, átti að deila með tveimur eða fjórum eða jafnvel bara segja sem svo: "Hann er bara svona [að] mála hlutina með sínum hætti.""
Í skýrslu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom þetta fram um fundinn 7. febrúar 2008: "Ég man ekki hvernig til þess kom að – ég held ég hafi verið boðuð á fundinn með tiltölulega litlum fyrirvara [...] – ég held það hafi bara verið samdægurs, hvort það var bara rétt fyrir hádegi sem ég var boðuð á þennan fund. Ég vissi í sjálfu sér ekkert hvert fundarefnið var. Þegar ég kom þá var þarna stjórn Seðlabankans og þá hafði formaður stjórnar, Davíð Oddsson, orð fyrir þeim og fór yfir þessa ferð þeirra til London og við getum sagt að hann hafi farið dálítið mikinn í sinni frásögn. Ég vissi í sjálfu sér ekki alveg hvernig ég átti að taka henni en þó var það þannig að mér fannst þetta það sko í raun alvarlegir hlutir sem hann var að segja en ég verð að játa að ég áttaði mig ekki alveg á því hvort þetta var um leið mat Seðlabankans, eða hvort hann var meira að rekja það sem menn höfðu sagt við þá og það viðmót sem þeir höfðu orðið fyrir í útlöndum en ekki að leggja fram mat Seðlabankans á stöðunni." Ingibjörg kvaðst síðan hafa greint þingflokki Samfylkingarinnar frá efni þessa fundar 11. febrúar 2008.Við skýrslutöku var Ingibjörg þá spurð að því hvort rætt hefði verið á fundi ráðherra um það hvort upplýsingarnar, sem bankastjórnin hafði veitt þeim, kölluðu á einhverjar aðgerðir. Ingibjörg svaraði því til: "Ekki minnist ég þess, að við höfum beðið Seðlabankann eitthvað sérstaklega um – ég gerði ráð fyrir, þetta var bara fyrsta frásögn af þessum fundi, að það yrði eitthvað unnið væntanlega áfram með þetta. Þetta voru auðvitað dálítið sláandi lýsingar sem þarna komu fram hjá formanni bankastjórnarinnar, en ég vissi, eins og ég segi, ekki alveg hvernig ég átti að taka því. Þetta var ekki hans mat eða bankastjórnarinnar heldur svona – ég vissi ekki hvort þetta var... sko ég skynjaði að það var þarna ákveðin hætta á ferðum, orðsporshætta. Ef þetta var það orðspor sem fór af bönkunum, þetta viðhorf sem var í útlöndum, þá er í því fólgin ákveðin hætta." Þegar gengið var eftir því við Ingibjörgu hvort ekki hefði verið rætt um það í ríkisstjórn að kalla eftir tillögum frá Seðlabankanum og hvort ekki hefði myndast tilefni til þess svaraði hún: "Það má auðvitað deila um það hvort það tilefni hafi myndast en kannski var það meira þannig að maður leit á það sem frumkvæðisskyldu Seðlabankans að Seðlabankinn [...] ætti að vera með eftirlitið með fjármálastöðugleikanum, það væri hans verkefni, og ef hann teldi að það væri eitthvað sem ríkisstjórnin ætti að gera, styrkja einhverja lagaramma eða regluverk eða eitthvað slíkt, þá kæmi það frá Seðlabankanum." Í skýrslu Davíðs Oddssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom fram að eftir fundinn í London hefði hann handskrifað minnisblað. Síðan sagði Davíð: "Okkur lá svo á að koma þessu til ríkisstjórnarinnar, því að mér var náttúrulega mjög brugðið, að hún var ennþá í handriti, í mínu handriti, sem ég las upp, því að það getur enginn lesið mín handrit með góðu móti nema ég og reyndar varla ég ef það líður of langur tími – þau eru skrifuð svona á hótelherbergjum, í flugvélum, á leiðinni heim og allt þetta eins og þarna var gert. En auðvitað hafði ég borið það undir minn samferðamann og hann var sammála því þó að hann hefði líka gert punkta sem voru svona kannski með aðrar áherslur." Davíð var spurður hvað hefði staðið upp úr af því sem fram kom á fundunum í London. Hann svaraði: "Það sem stóð upp úr fannst mér það að upplýsingum bankanna, sérstaklega reyndar Kaupþings og Glitnis á þessum tíma, var ekki treyst og þetta hljómar nú eins og þetta sé ekkert mjög merkilegt en þetta er rosalega alvarlegt [...] á öllum þessum fundum eru búnar til fínar bækur og tölur sem eru sannar í öllum meginatriðum og svona, það eru engin bein ósannindi og allt þetta, en það sem er í og með og undir brauðinu, þú sérð það ekki. Þannig að ef þér er ekki treyst þá skiptir engu máli hvað þú ert með flottar möppur og virðist vera með góða og vandaða kynningu, og "okkar menn", bankamennirnir, voru mjög flinkir í því að búa til fín glæsirit til að kynna og það allt saman. En það sem mér fannst orðið áberandi var að þessum aðilum var ekki lengur treyst og menn höfðu á tilfinningunni að þeir væru, kannski skiljanlega, að fegra sína mynd og kannski vísvitandi að gefa upplýsingar sem ekki fengju staðist. Númer tvö var það náttúrulega að verða ljóst, sem var auðvitað að verða heilmikil breyting, að sú forsenda sem matsfyrirtækin höfðu gefið sér, að Ísland væri skuldlaust land og gæti þess vegna, ef það vildi [...] hjálpað bönkunum eða banka sem lenti í vandræðum. Skyndilega voru matsfyrirtækin að endurmeta þessa afstöðu, sem þau gerðu síðan hressilega síðar, af því að þeir voru þá orðnir svo sannfærðir um að innri tengsl þessa bankakerfis og lán til aðila, þó að því væri neitað, væru slík að ef einn banki færi færu þeir allir og þá mundi íslenska ríkið ekki, hver sem vilji þess væri, geta staðið undir því. Og ég minnist þess – ég held það sé ekki í greinargerðinni – en í þessu tali þá sögðu menn sem svo: Sviss gæti það ekki. Þeir eru búnir að vera í þessu í 500 ár. Þið eruð bara búnir að vera í 10 ár. [...] Þar var sko hlutdeild bankanna, eða stærð bankanna, af því að þið nefnduð það nú aðeins áðan, orðin gagnvart þjóðartekjum mjög svipuð og sambærileg og íslensku bankanna." Við skýrslutöku var sérstaklega rætt um viðbrögð þeirra ráðherra sem staddir voru á framangreindum fundi með bankastjórn Seðlabankans. Um þetta sagði Davíð: "Ég get bara sagt það að þegar við komum út af þessum fundi þá sagði ég svona í minn hóp: Ef þetta hreyfir ekki við þessu fólki þá er ekkert sem gerir það. Og ég sagði, og ég heyrði það á umræðunum að þetta fólk er loksins búið að sjá ljósið. Svo fengum við engin viðbrögð." Davíð sagðist hafa haft að fyrra bragði samband við forsætisráðherra og innt hann eftir því hvað ráðherrar ætluðu sér að gera. Síðan segir orðrétt í skýrslu Davíðs: "Og þá sagði hann:Við erum búnir að kalla til bankastjórana og þeir segja að þetta sé ekki rétt, þetta sé allt í lagi. [...] Og einhvern veginn fannst manni... bíddu, hvað getur maður meira gert. [...] Maður skilur þetta svo sem en það er þannig að ef þú trúir okkur hérna í Seðlabankanum, okkar mati, þá þarf eitthvað mikið að gerast. Ef þú trúir þessum þremur bankastjórum þá þarftu ekkert að gera. Og auðvitað er það létta leiðin sem menn velja." Davíð bætti því við að ráðherrarnir hefðu ekki einu sinni talið tilefni til þess að ræða þessi alvarlegu tíðindi við viðskiptaráðherra. Davíð var þá spurður að því hvort ekki hefði komið til greina af hálfu Seðlabanka Íslands að afhenda ráðherrunum skriflega skýrslu fyrst ástandið var talið svona alvarlegt. Davíð svaraði: "Það hefði þá þjónað þeim tilgangi að sanna málstað okkar eftir á, en menn voru aðallega að hugsa um hvernig menn mundu bregðast við, en ekki hvort menn mundu passa á sér rassinn upp á síðari tíma. Það hefði auðvitað verið betra ef menn hefðu gert það en við vorum búnir að koma öllu þessu á framfæri."Í skýrslu Ingimundar Friðrikssonar, seðlabankastjóra, fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom fram að ríkisstjórninni hefði verið gert rækilega ljóst mat Seðlabankans á fundinum 7. febrúar 2008 þar sem minnisblað Davíðs Oddssonar hefði verið lesið um viðhorf markaðarins á þessum tíma. Minnisblaðið sem Davíð tók saman hefði verið lesið á fundinum, orð fyrir orð. Aðspurður sagði Ingimundur að Seðlabankinn hefði ekki lagt fram neinar tillögur á fundinum um hvernig ríkinu bæri að bregðast við og honum væri ekki kunnugt um að neinar ákvarðanir hefðu verið teknar á fundinum.Tryggvi Pálsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Seðlabankans, tók niður fundarpunkta á fundinum.Í skýrslu sinni fyrir rannsóknarnefnd Alþingis vék Tryggvi að viðbrögðum ráðherra eftir að bankastjórn Seðlabanka Íslands hafði gert þeim grein fyrir efni minnisblaðs Davíðs.Aðspurður um hvort Seðlabankinn hefði komið með tillögur um aðgerðir svaraði Tryggvi: "Þarna hefði maður frekar búist við því að ráðherrar sem fá svona fréttir myndu láta stjórnkerfið undirbúa aðgerðir í samræmi við alvarleika þeirra frétta sem voru að koma."Árni M. Mathiesen var við skýrslutöku spurður að því hvað ríkisstjórnin hefði gert gagnvart bönkunum eftir að hún hafði fengið boðskap bankastjórnar Seðlabankans 7. febrúar 2008. Í skýrslu Árna kom fram að Seðlabankinn væri verkfæri ríkisstjórnarinnar í þessum efnum og það væri hans að bregðast við gagnvart bönkunum. Árni kvaðst ekki muna eftir neinu sem hefði verið nefnt af hálfu Seðlabankans um nauðsynlegar aðgerðir af hálfu ríkisstjórnarinnar.Tekið skal fram að drög að fundargerðum samráðshóps stjórnvalda bera ekki með sér að rætt hafi verið um framangreindan fund á þeim vettvangi.
Í skýrslu Baldurs Guðlaugssonar, ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytisins, fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom fram að hann hefði ekki vitað af fundi ráðherra með bankastjórninni 7. febrúar 2008.Við skýrslutöku lýsti Bolli Þór Bollason, ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytis, fundinum með eftirfarandi orðum: "[...] á þessum fundi komu fram í máli Davíðs Oddssonar miklar áhyggjur af viðbrögðum og samtölum við banka í London. Og hann lýsti því yfir, sem hann taldi að hefði komið sjálfum sér og þeim seðlabankastjórum á óvart, þar kom fram af hans hálfu að viðmælendur í London hefðu verið mjög neikvæðir í garð íslensku bankanna, þeir hefðu talað um að þrengja að lánalínum og það væri ekki lengur sjálfsagt að framlengja einhver lán sem hefði annars verið eðlilegt að gera. Þetta var eiginlega mjög dramatísk lýsing af hans hálfu sem ég held að hafi komið mönnum svolítið í opna skjöldu. Og eiginlega alveg frá þeim tíma þá fer svona þetta einhvern veginn að verða svona, ekki kannski raunverulegra að því leyti að menn hafi búist við að bankarnir væru að fara, hins vegar að vandamálið væri meira en við töldum og vonuðum fram að þeim tíma. Og þannig svona, upp frá þessu hittist [samráðs]hópurinn bara nánast vikulega, kannski með einhverjum götum sem stöfuðu þá fyrst og fremst að ég var á fundum erlendis með forsætisráðherra en ekki því að vinna nefndarinnar lægi neitt niðri."Rannsóknarnefnd Alþingis hefur undir höndum drög Tryggva Pálssonar að fundargerð frá ofangreindum fundi ráðherra með seðlabankastjórum 7. febrúar 2008:
Drög að fundargerð. Fundur í Stjórnarráðinu kl. 16.30.
Fundinn sátu: Af hálfu Seðlabankans Davíð Oddsson, Eiríkur Guðnason, Ingimundur Friðriksson og Tryggvi Pálsson sem tók fundarpunkta.
Geir H. Haarde, Árni Mathiesen, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Bolli Þór Bollason.
DO: Febrúar 2006 fóru Seðlabankamenn (DO og SP) til London, áhyggjur, fáum dögum síðar lækkar Fitch (rakti söguna). Þá ekki ófremdarástand á alþjóðamörkuðum. Betur settir bankar nú í upphafi óróans. Bankarnir sagðir hafa meir en 12 mánaða lausafé.
Fundir í London [í febrúar 2008]: DO fór yfir punktana sína: (las upp ferðaskýrslu)
Matsfyrirtæki:
Fitch og síðasta spurningin um hvað eftir 12 mánuði.
Moody's Búumst við lækkun einkunnar bankanna. Einnig áhyggjur af Icesave LÍ GBP 600 m. + fleira / Gæti runnið út ef vantraust.
Seðlabankamenn fóru yfir mótrökin, sbr. Northern Rock, Gnúpur, FL Group óróinn hafði ekki áhrif.
Síðan fundir með bönkum. Rætt tvennt:
1) Möguleg lántaka fyrir gjaldeyrisforðann.
2) Opnun víxlaprógramms (sem bankarnir virtust hrifnir af og ekki þörf á að fara nánar útí).
Banki 1: Kjör Íslands orðin verri en landa með lakara lánshæfi. Hægt væri að fá € 1–1½ ma. en kjörin ekki hagfelld og gæti skaðað álit landsins. Skynsamlegra að bíða.
Banki 2: Taldi ráðlegt að taka lánið til að sýna vilja til að berjast og gefast ekki upp.
Banki 3: Þýskir bankar ættu nóg með sig. Kaupþing ekki trúverðugt og stjórnendur Glitnis reynslulitlir.
Banki 4: Staða Íslands grafalvarleg. Lokaðir markaðir 12–24 mánuði. Ef lántaka ríkisins þá litið á sem örþrifaráð og 1–1½ ma. aðeins dropi í hafið. Kynningarfundir LÍ trúverðugri. Kaupþingi ekki nægilega vel treyst. Almennt talið að FME hefði skorið
Kaupþing niður úr NIBC snöru sem var jákvætt. Ekki getað skýrt 8 ma. lántöku '07.
Niðurstaða:
-Íslensku bankarnir í mikilli hættu og íslenskt efnahagslíf í hættu.
-Markaðir lokaðir (í lengri tíma en áður haldið).
-CDS álög afar há og sýna að bankarnir geta ekki tekið lán og lánað þau út.
-Telja að íslenska ríkið hafi ekki bolmagn til að bjarga og skortselja þess vegna.
Hvað væri til bóta?
-Kaupþing færi úr landi en danska FME myndi ekki samþykkja að FIH yrði móðurbanki. Þá væri hægt e.t.v. að ráða við vanda hinna.
-Bankarnir hafa stefnt (Íslandi) í þessa hættu.
-Bankastjórn ætlar að kalla forstjóra bankanna til sín:
-Er myndin rétt upp dregin?
Þegar úr rætist gerist það fyrst hjá þeim stóru og sterku. Okkur ekki skemmt.
GHH: Grafalvarlegt mál. Hef rætt við bankastjóra. Örvænting hjá ungum stjórnanda Glitnis. Mesta öryggið í Landsbankanum. Getum við hér gert eitthvað? Getum haft jákvæð áhrif á markaðinn. Eitthvað hjá SÍ – bindiskyldan? Repó?
DO: Erum að kanna en hvar er varnarlínan? Ekkert land getur varið allt sitt bankakerfi. Northern Rock er fimmti stærsti húslánabankinn og BoE engist sundur og saman við að bjarga honum. Öll útrásin "bullshit" og þvæla. Nú sagt að þurfi 40 m. evra. Brýnast að verja innstæðueigendur því annars hverfur sparnaður til langs tíma. Síður verja aðra. Þegar Útvegsbankinn lenti í vanda dugði að SÍ sendi skeyti.
GHH:Tækifæri til sameininga?
DO: Ekki víst að einn banki fái meiri lán en einn.
GHH:Vandamál með stjórnarformann í Glitni ...
DO: ... sem talinn er vera gjaldþrota.
GHH: Road show því líka ýmis þvæla uppi.
DO: Erlendir bankamenn sögðu að það eina sem dygði væri að fá lánafyrirgreiðslu erlendra seðlabanka.
GHH: Norrænn samningur.
IF: Gamli norræni samningurinn (um lánalínur) ekki lengur til.
DO: Íslensku bankarnir hafa freistast.
ISG: Þakkaði fyrir. Myndin dregin upp, að lánshæfiseinkunn lækkuð og bankarnir komi að lokuðum dyrum á næstu mánuðum (> 12). Eigum við þá ekki annað en drastískan kost?
DO: Rétt.
ISG: Gætu markaðir ekki opnast og er þá réttlætanlegt að fara í drastískar aðgerðir núna?
DO:Vandinn fyrr vegna innri reglna.
ISG: Margt getur gerst á næstu 12 mánuðum.
DO: Ekki lengur 12 maí og efumst um að það fé sé laust.
GHH: Hafa hætt að lána.
DO: Höfum lítt séð það enn. Mikið enn í pípunum.
ISG: Stoppið sést á húsnæðismarkaðnum.
DO: Eru að prísa sig út af markaðnum. Hafa vaðið af stað glórulaust. Íslensk bréf voru hagfelld inn í skuldabréfasöfn. Við byggðum á þessu.
GHH: Byrjaðir að segja upp fólki. Glitnir sagði upp 15 manns um mánaðamótin.
BÞB: Álagspróf FME?
DO: Miðast við núverandi efnahag en ekki horfur í fjármögnun og stærð bankanna. Glæpsamlegt framferði þegar þeir nú riða til falls og draga landið með sér.
ÁM: Nánar um lántöku fyrir gjaldeyrisforða.
DO: Mismunandi álit en sumir hafa áhuga á að fá verkefnið. 1 ma. lágmark sem benchmark og fengum síðast boð í 1,5 ma.
ÁM: 40 ma. 2 ár?
GHH: € 5 ma. hafa sagt þörf í ár.
DO: (Dreifði Bloomberg grafi.) Þurfum að halda umræðu á lágum nótum því afar viðkvæmt.
GHH: Hvað gæti skipt máli?
DO: Þið höfðuð nefnt að styrkja forðann en nú fáum við þessi viðbrögð. € 2 ma. evra.
IF:Vísaði í nýlega greinargerð Moody's. Óvarlegt að ala á því að okkur standi til boða lán frá öðrum seðlabönkum.
DO:Tryggingarsjóður kemur ekki til fyrr en fjármálafyrirtæki er komið á höfuðið, sbr. yfirlýsingu Darlings. Deilt um hvort Icesave fellur undir tryggingar þar. E.t.v. verra að fá vissu í því máli.
BÞB:Yfirlýsing ríkisstjórnar um eflingu forðans þegar aðstæður batna.
DO:Tvíeggjað. Fundur með bönkum næstu daga. Spyrjum um mögulega eignasölu.
ISG: Velti fyrir mér tímafaktor ef við sjálf völdum panik. Geta bankarnir farið í strúktúrbreytingar. Er hægt að leysa án þess að valda írafári.
DO: Kalla atómsprengju sem má ekki springa að óþörfu. Ef NIBC hefði gengið í gegn þá hefði bankinn farið lóðrétt á hausinn. Það má segja Kaupþingi til hróss að hafa vit á að hætta við yfirtöku NIBC.
GHH: Þurfum að vera í sambandi.
DO: Ískyggilegt en vonandi betra en horfir.
IF: Slæmt árferði erlendis.
DO: Exista, færsla upp á 100 ma. sem orkar tvímælis, hlutdeildaraðferð.
BÞB: Glitnir að skrifa uppá jarðvarmaverkefni á Indlandi.
GHH: Það alvarlega, ef ekki úr rætist þá getur þetta orðið af sjálfu sér.
ÁM: Aðgerðir Fed. Reserve. HSH fjármagnaður af ECB.
GHH: Eina jákvæða er víxlaprógrammið sem endurvekur nafnið á markaði en ekkert sérstakt til að setja peningana í.
ISG: Undanfari n.k.
DO: Já.
BÞB/ISG: Leggja inn bréf í SÍ gegn láni.
DO: Gerum nú að nokkru.
EG: Gæti hjálpað þeim að standa við gjaldeyrisskuldbindingar.
DO: Síðan talað um að SÍ lækki vexti en ISK lækki ekki.
DO: ISK 128. OMXI u.þ.b. 5000. Engir peningar á kauphliðinni.
Fundur bankastjórnar Seðlabanka Íslands með Landsbankanum 8. febrúar 2008
Bankastjórn Seðlabankans fundaði með bankastjórum Landsbankans 8. febrúar 2008. Í drögum að fundargerð frá Seðlabankanum segir að Halldór J. Kristjánsson hafi nefnt að Landsbankamenn séu að skoða flutning innlánsreikninga yfir í breskt félag. Haft er eftir Davíð Oddssyni að það besta sem gerst geti nú sé að FIH, dótturfélag Kaupþings í Danmörku, yfirtaki Kaupþing.
Fundur bankastjórnar Seðlabanka Íslands með Glitni 8. febrúar 2008
Bankastjórn Seðlabankans fundaði með Lárusi Welding 8. febrúar 2008. Í drögum að fundargerð frá Seðlabankanum segir að Davíð Oddsson hafi farið yfir viðtökurnar á fundum sem haldnir hefðu verið í London. Haft er eftir Lárusi Welding að ríkisstjórnin þurfi að skipuleggja vörn. Því næst er haft eftir Davíð: "Höfum verið að funda og upplýsa ráðherra." Því næst kemur fram að Davíð hafi sagt að menn kvíði því hins vegar að slæm frétt komi fram í miðri kynningu (e. roadshow).
Drög Landsbankans að minnisblaði til ríkisstjórnarinnar og Seðlabanka Íslands í febrúar 2008
Rannsóknarnefnd Alþingis hefur undir höndum minnisblað sem ber yfirskriftina "Aðgerðir til að treysta undirstöður bankakerfisins". Skjalið er ekki dagsett en dagsetningin 8.–10. febrúar 2008 er handrituð inn á skjalið. Skjalið stafar frá Landsbanka Íslands. Við skýrslutöku lýsti Sigurjón Þ. Árnason því að þetta skjal hefði verið afhent Geir H. Haarde og Davíð Oddssyni. Í minnisblaðinu kemur fram að Ísland sé eins konar fórnarlamb óvenjulegra aðstæðna. Tvennt er sagt skipta mestu máli í þeim efnum: "Annars vegar eru íslensku bankarnir ekki komnir nógu langt í innlánafjármögnun utan Íslands og hins vegar er smæð hagkerfisins í hlutfalli við stærð íslenska fjármálamarkaðarins ákveðin hindrun." M.a. er lagt til að ríkið gangist í ábyrgð fyrir ákveðinni fjármögnun Landsbankans til allt að fimm ára. Einnig er lagt til að Landsbankinn yfirtaki Glitni. Í skjalinu segir loks: "Það er mun farsælla að taka á vandanum af myndugleik í tíma áður en hann verður of stór til að hægt sé að leysa úr honum á farsælan hátt."
7. fundur starfshóps Seðlabanka Íslands um viðbrögð við lausafjárvanda 8. febrúar 2008
Starfshópur Seðlabankans um viðbrögð við lausafjárvanda fundaði 8. febrúar 2008. Í fundargerð kemur fram að Sturla Pálsson hafi nefnt að bankarnir fái ekkert fjármagn á markaði. Hópurinn eigi því að vera viðbúinn því versta og vona það besta. Ljóst megi vera að fjármálamarkaðir séu víðs vegar að lokast og stórir og öflugir bankar hugi einungis að eigin hag. Ekki sé lengur hægt að treysta á gömul og traust bankasambönd. Haft er eftir Tryggva Pálssyni að nú þyki líklegt að Moody's lækki lánshæfiseinkunnir bankanna. Síðan segir að Sturla hafi bent á að nú geti skapast svipaðar aðstæður og á viðlagaæfingum og mikilvægt sé að huga að þeim verkefnum sem inna þurfi af hendi áður en til þeirra komi. Líta þurfi betur á "repo" línur. Sturla hafi rætt við BIS [Bank for International Settlements] um að hækka lánalínu til þeirra um 25 milljarða evra eða frá 75 upp í 100 milljarða evra. Kjörin séu 12 bp (grunnpunktar yfir LIBORvöxtum) á ári. Ekki þurfi mikið umstang til þess að gera þetta og verið sé að skoða hvaða ferli fari í gang til þess að hægt sé að stækka þetta enn frekar. Hvað varði gjaldeyrisforðann sé hægt að stækka hann um 1 til 3 milljarða evra á markaði. Endurfjármögnun bankanna er sögð það stór að það hafi lítil áhrif að stækka gjaldeyrisforðann. Haft er eftir Sturlu að hann telji ekki gáfulegt að svo stöddu að auka við gjaldeyrisforðann í ljósi þess hvaða umræður geti skapast eftir þess háttar aðgerð. Haft er eftir Sturlu að fjölmargir sjóðir séu að spá fjármálakreppu í öllum heiminum. Við þær aðstæður sé þægilegt fyrir stóru bankana að benda á skotmörk og að sumu leyti hafi íslensku bankarnir verið heppileg skotmörk þar sem ólíklegt þyki að íslenska ríkið sé þess megnugt að halda kerfinu gangandi. Það líti út fyrir að Ísland yrði fyrst í röðinni. Segir að Sturla telji að nú blasi sú spurning við hversu hátt menn eigi að fara til að tryggja innstæðueigendur umfram handhafa skuldabréfa (tryggingarsjóðs) ef reyndin sé sú að menn séu komnir með kerfið í fangið. Mikilvægt sé að halda hugmyndum sem þessum innan hópsins.
Umræður á þingflokksfundi Samfylkingar um stöðumat bankastjórnar Seðlabankan Íslands 11. febrúar 2008
Í bréfi Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur til rannsóknarnefndar Alþingis 24. febrúar 2008 kom fram að rætt hefði verið um alvarlegt ástand á alþjóðlegum mörkuðum og skuldsetningu bankanna á fundi þingflokks Samfylkingarinnar 11. febrúar 2008. Hefði Ingibjörg farið yfir minnispunkta sína frá fundi með stjórn Seðlabankans 7. febrúar 2008. Á fundinum hefði verið greint frá því að ráðuneytisstjóra forsætisráðuneytisins Bolla Þór Bollasyni og aðstoðarmanni viðskiptaráðherra Jóni Þór Sturlusyni, sem báðir eru hagfræðingar, hefði verið falið að gera tillögur að aðgerðum af hálfu ríkisstjórnarinnar í ljósi stöðunnar sem uppi var.
Í fundargerð þingflokksfundarins 11. febrúar 2008, sem fylgdi fyrrnefndu bréfi Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, kemur fram, að tillögur Jóns Þórs og Bolla Þórs hafi m.a. falist: "– draga til baka reglugerð fjármálaráðherra um gjaldeyri og Seðlabanka – gæti verið sterkur leikur, – fjármögnun og skráningu hlutafjár í erlendri mynt auðveldur, –styrkja Tryggingasjóð innstæðueigenda, – auka gjaldeyrisvaraforða með lántöku (ekki hagstætt núna – gert síðar er aðstæður batna), – ríkið fari með bönkunum í kynningu erlendis á íslenskri fjármálastarfsemi."
Ræða forsætisráðherra á Viðskiptaþingi Viðskiptaráðs Íslands 13. febrúar 2008
Geir H. Haarde, forsætisráðherra, flutti ræðu á Viðskiptaþingi sem Viðskiptaráð Íslands stóð fyrir 13. febrúar 2008. Þar sagði Geir m.a.: "Á síðustu vikum hefur skuldatryggingarálag íslensku bankanna einnig hækkað töluvert en líklegt má telja að það stafi að hluta til af upplýsingaskorti alþjóðlegra fjárfesta um raunverulega stöðu bankanna. Sérfræðingar greiningarfyrirtækisins Credit Sights hafa til að mynda sagt að áhættan í tengslum við íslensku viðskiptabankana sé ofmetin og að skuldatryggingarálagið gefi ekki rétta mynd af raunstöðu þeirra. [...] Í síðustu viku birti Fjármálaeftirlitið niðurstöður úr nýju álagsprófi á viðskiptabönkunum þar sem könnuð var geta þeirra til að standast samtímis áföll í formi tiltekinnar lækkunar á hlutabréfum, markaðsskuldabréfum, útlánum og fullnustueignum og áhrifa af lækkun á gengi íslensku krónunnar án þess að eiginfjárhlutfallið fari niður fyrir lögboðið lágmark. Skemmst er frá því að segja að bankarnir stóðust allir þetta próf. [...] Þrátt fyrir þessar jákvæðu niðurstöður og greinargerðir Fjármálaeftirlitsins, Moody's, Credit Sights og fleiri aðila gætir enn neikvæðrar umfjöllunar hjá einstaka greiningaraðilum og fjölmiðlum. Þar er iðulega farið með hreinar staðreyndavillur og lýsingar á stöðu íslenska hagkerfisins eru mjög ýktar. Það er áhyggjuefni að þessir aðilar skuli ekki taka tillit til þeirra ítarlegu upplýsinga sem öllum eru aðgengilegar og lýsa sterkri stöðu bankanna og ríkissjóðs. Hér virðast önnur öfl ráða ferðinni en leitin að sannleikanum."
Fundur bankastjórnar Seðlabanka Íslands með Kaupþingi 13. febrúar 2008
Bankastjórn Seðlabanka Íslands fundaði með Kaupþingi 13. febrúar 2008. Í drögum að fundargerð Seðlabankans er haft eftir Davíð Oddssyni að áhyggjuefni sé að breska sjónvarpsstöðin Channel 4 muni næsta dag flytja "þátt um íslensku bankana og innlánsafurðir þeirra". Síðar segir að rætt hafi verið um lánshæfismat Moody's. Haft er eftir fulltrúa Kaupþings að hann telji að Moody's sé búið að gera upp hug sinn um lækkun. Fram kemur að Davíð Oddsson hafi lýst fundum sínum í London með öllum matsfyrirtækjunum og 10–12 bönkum. Davíð hafi verið illa brugðið. Íslensku bankarnir séu spyrtir saman. Sagt sé að íslensku bankarnir þoli ekki 12–24 mánaða bið eftir að markaðir opnist og því sé ekki áhætta að taka skortstöðu gegn þeim. Síðan er haft eftir Davíð: "Spurt um úrræði, þá sagt að SÍ þurfi innhlaup í erlenda seðlabanka. Það er ekki raunhæfur möguleiki. Eigendur bankanna séu í slakri stöðu hjá Glitni og Kaupþingi. Hætta hjá LÍ ef innlánsflótti verður. Ekki hægt að bíða eftir þessari atburðarás. Er þetta rangt mat?" Því næst er haft eftir Hreiðari Má Sigurðssyni, forstjóra Kaupþings: "Nei.Tvær hættur, lausafé og eigið fé."
Fundur ráðherra með helstu forsvarsmönnum stóru bankanna þriggja 14. febrúar 2008
Hinn 14. febrúar 2008 héldu Geir H. Haarde, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Árni M. Mathiesen og Björgvin G. Sigurðsson fund með helstu forsvarsmönnum stóru bankanna þriggja í ráðherrabústaðnum. Í skýrslu Halldórs J. Kristjánssonar, bankastjóra Landsbankans, fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom fram að á fundinum hefði heildarviðbúnaðarstigið verið rætt svo og þörfin á því að efla gjaldeyrisvaraforðann verulega svo styðja mætti við bakið á bönkunum. Það yrðu fáir bankar sem gætu gengið óstuddir í gegnum haustmánuði ársins 2008 héldi lausafjárkreppan áfram.Aðspurður um hvaða skilaboð hefðu komið frá ráðherrunum kvað Halldór að þeir hefðu hvatt þá til að draga saman umfang bankanna á árinu 2008. Sjálfur hefði Landsbankinn síðan verið að umbreyta langtímaeignum þannig að þær væru hæfar til skammtímafjármögnunar. Síðan hefði verið hætt að lána út. Það eina sem hefði verið gert hefði verið að endurnýja og framlengja lán til þess að bjarga verðmætum. Samdrátturinn í efnahagsreikningi bankans hefði verið um 4% mældur í evrum. Svigrúmið til að framkvæma samdráttinn hefði hins vegar verið afskaplega lítið á árinu 2008. Halldór vísaði því algjörlega á bug að bankastjórarnir hefðu á fyrrnefndum fundi með ráðherrum sagt að allt væri í lagi. Aðspurður um hvort ekki hefði á einhverju stigi komið til umræðu að fulltrúar ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans settust niður með þeim og veltu fyrir sér hvað hægt væri að gera til að umbreyta bankastarfseminni, s.s. að skipta bönkunum upp með tilliti til áhættusamrar starfsemi, sagði Halldór að svo hefði ekki verið. Í skýrslu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom eftirfarandi fram um fundinn: "Hugmyndin var sú að fara yfir stöðu greinarinnar og heyra í þeim öllum saman.Við höfðum auðvitað heyrt í einstökum aðilum og það var alltaf sama sagan – það var reyndar allt árið 2008 – Landsbankamenn sögðu alltaf: Það er í sjálfu sér allt í lagi hjá okkur, við stöndum tiltölulega vel, Glitnir stendur illa eða Kaupþing er um það bil að rúlla eða hvað það er – þeir voru alltaf að tala um hina, sjálfir stóðu þeir alltaf vel, en gerðu ráð fyrir því að annar hinna stæði illa. Við vildum því heyra í þeim öllum saman til þess að þeir hlustuðu þá hver á annan og segðu þá söguna sameiginlega um það hvernig bankakerfið stæði eða bankarnir stæðu." Aðspurð hvort fyrirsvarsmenn fjármálastofnananna hefðu lýst erfiðleikunum sem við var að glíma með sama hætti og stjórn Seðlabankans svaraði Ingibjörg: "Auðvitað fékk ég þá mynd – sko að það væri orðið miklu erfiðara að fjármagna bankana á erlendum mörkuðum. Það var náttúrulega hækkað verulega – það var áhyggjuefni, það var annars vegar þetta vaxtaálag sem bankarnir þurftu að greiða sem gerði auðvitað kostnaðinn af lántöku miklu hærri, það var erfiðara að fá lánað á mörkuðum bara vegna stöðu á alþjóðlegum mörkuðum, og svo höfðu menn auðvitað áhyggjur af svona orðsporsmálum og stöðunni á Íslandi, ekki síður vegna gjaldmiðilsins heldur en vegna bankanna sjálfra, það var hvort tveggja rætt. Og það var dálítið mikið í umræðunni almennt á þessum tíma, það var orðsporið sem fór af bönkunum með réttu eða röngu, og sú hætta sem því gæti fylgt erlendis ef það fengi einhvern veginn að lifa og halda áfram, umræðan fengi að halda áfram í þeim hjólförum. [...] Já, en þeir voru svo sem ekkert að fara í felur með það að það væri erfitt að nálgast fjármagn á erlendum mörkuðum. En já, þeir drógu upp svolítið aðra mynd en seðlabankastjóri."Í skýrslu Hreiðars Más Sigurðssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom eftirfarandi fram um fundinn: "Ég var mjög ósáttur með þennan fund sem var haldinn og taldi hann vera mistök, þar sem við vorum allir kallaðir saman og mér fannst þessi fundur bera vott um að vera eitthvað svona "PR stunt", að þetta væri svona, að stjórnvöld væru bara svona að reyna að senda okkur skilaboð eins og væri eitthvað að gera. Og það sem kom út úr því var að það sem helst þyrfti að gera í Íslandi væri að kynna betur þarna, þyrfti að fara í svona "campaign" um heiminn og kynna betur stöðuna á Íslandi." Hreiðar sagði að að hans mati hefði hann ekki talið að það væri þetta sem þyrfti að gera. Í skýrslu Sigurjóns Þ. Árnasonar kom fram að hann hefði verið reiður eftir fundinn þar sem hann hefði verið algjör fíflagangur. Hefðu ráðherrarnir viljað fara í "PR-mál". Þá sagði Sigurjón enn fremur: "Við vorum með ákveðnar hugmyndir um hvað ætti að gera og vildum ræða þær og kynna..., en þetta snerist ekki um það, það snerist um það að fá alla fjölmiðlana, horfa á okkur labba inn, og taka síðan mynd af okkur á leiðinni út. Að sýna það að menn væru að gera eitthvað. En það var ekki verið að gera neitt. Enda vorum við hundfúlir." Í markaðsfréttum Stöðvar 2 sama kvöld var rætt við Geir H. Haarde og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Geir sagði: "Þetta var ekki fundur sem að var hugsaður til að taka neinar sérstakar ákvarðanir. Við vorum að kynna okkur sjónarmið bankanna varðandi þau mál sem að núna eru uppi og þeir voru jafnframt að hlusta á okkur." Ingibjörg sagði: "Og ég hef stundum verið að líkja þessu saman við bara sjávarútveginn ef að það væri eitthvað að gerast í hafinu í kringum Ísland að þá myndum við að sjálfsögðu standa saman, sjávarútvegurinn og ríkisstjórnin, og það ætlum við líka að gera núna á meðan að þetta gengur yfir á fjármálamörkuðum heimsins þessi mikilvæga atvinnugrein sem að er fjármálastarfsemi og ríkisstjórnin." Aðspurður hvort bankarnir hefðu brugðist hlutverki sínu svaraði Geir: "Það er alveg ljóst að þeir hafa náttúrulega stækkað mjög hratt. Þeir hafa verið mjög, hvað eigum við að segja, kaldir að sumu leyti til við að fjárfesta og, og þenja sig út en ég tel ekki að það sé nein hætta á ferð umfram það sem að annars staðar er."
Fundur bankaráðs Seðlabanka Íslands 14. febrúar 2008
Í fundargerð bankaráðs Seðlabanka Íslands frá 14. febrúar 2008 kemur fram að Jón Sigurðsson hafi varpað fram þeirri spurningu hvernig Seðlabankinn og ríkisstjórnin gætu stuðlað að trausti á fjármálakerfinu. Segir að hann hafi nefnt í því sambandi að álit Moody's um lánshæfiseinkunn standi á krossgötum. Í skýrslu Moody's sé að finna fjórar tillögur að úrbótum sem stuðlað geti að bættu trausti. Í fyrsta lagi að auka gjaldeyrisforða Seðlabankans, í öðru lagi aukin samvinna við seðlabanka á þeim svæðum sem íslenskir bankar starfa, í þriðja lagi að efla innstæðutryggingar og í fjórða lagi að herða opinberar reglur um lausafjárstöðu. Fram kemur að Jón telji mikilvægt að horfa til ráðlegginga Moody's í ljósi þess að fyrirtækið hafi verið vinveitt Íslendingum og sýnt góðan skilning á íslenskum efnahagsmálum. Segir að Jón hafi spurt hvaða viðleitni sé hægt að sýna í þessum efnum. Síðan segir að Davíð Oddsson hafi bent á að skoðanir séu þó skiptar um það hvar áhættan liggi. Moody's hafi t.d., ólíkt öðrum, verulegar áhyggjur af fjármögnun Landsbanka með innstæðusöfnun.Þar sé horft til þess að Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta sé ekki stór (u.þ.b.8 ma.kr.) og ekki fjármagnaður nema að litlu leyti, en bankakerfið skuldbundið til að leggja sjóðnum til fé. Fyrirkomulagið taki engan veginn mið af núverandi stöðu. Í fundargerð kemur fram að meðal helstu verkefna sem unnið sé nú að sé að uppfæra gátlista og koma þeim á rafrænt form. Einnig sé unnið að undirbúningi álagsprófs á lausafjárstöðu o.fl.
Ummæli viðskiptaráðherra við umræður á Alþingi 19. febrúar 2008 um erfiða stöðu fjármálafyrirtækja
Björgvin G. Sigurðsson flutti ræðu á Alþingi 19. febrúar 2008. Björgvin sagði m.a.: "Það er aðallega tvennt sem veldur sérstaklega erfiðri stöðu fjármálafyrirtækjanna í dag. Það er annars vegar alþjóðleg fjármálakreppa sem hefur áhrif á þau eins og önnur fjármálafyrirtæki. Þó er staða okkar íslensku fjármálafyrirtækja í rauninni miklu betri en margra annarra, af ýmsum ástæðum. Hitt er svokallaður hlutfallsvandi, eins og Sigurjón Þ. Árnason, forstjóri Landsbankans, kallaði það, þ.e. að stærð fjármálafyrirtækjanna er orðin með þeim hætti að hlutfallsskekkja er komin upp samanborið við stærð gjaldmiðils Seðlabanka og þjóðarinnar. Að sjálfsögðu þurfa stjórnmálamenn að bregðast við þessari stöðu."
Við skýrslutöku var Björgvin G. Sigurðsson inntur eftir því hvort hann hefði leitt hugann að því hvort það gæti gengið til framtíðar að hafa höfuðstöðvar bankanna hér á landi með hliðsjón af stærð þeirra.Við það tækifæri vísaði Björgvin til framangreindra ummæla sinna á Alþingi og sagði: "Já, já, ég gerði það. Ég gerði það nokkrum sinnum að umtalsefni, m.a. í þingræðu, að ég held, í febrúar 2008 þar sem ég benti á það að það sem menn kölluðu svona snyrtilega hlutfallsvandinn á milli bankakerfis og myntsvæðisins okkar, gjaldmiðilsins eða Seðlabankans, væri náttúrulega með þeim hætti að það væri aldrei við það búandi. Annaðhvort mundu bankarnir þurfa að minnka eða fara inn á stærra myntsvæði, þetta sagði ég t.d. í þingræðu 2008 og oft annars staðar. Ég fjallaði heilmikið um gjaldmiðilsmálin okkar út frá þessu sjónarhorni. Þetta var svona drifkrafturinn í Evrópuumræðunni sem að mér sneri á þessum tíma og pirraði marga í samstarfsflokknum á þeim tíma. Ég veitti því mjög mikla athygli, mér fannst þetta mjög ógnvænlegt, af því að bankar sem að gefur augaleið að eru tíu, ellefu þjóðarframleiðslur, verða aldrei varðir af þrautavarahlutverki Seðlabanka ef þeir lenda allir í vanda á sama tíma og við veittum og ræddum heilmikið þennan kerfisbrest sem er í okkar fyrirkomulagi.Við erum þarna aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu, frjálst flæði fjármagns, öll íhlutun um starfsemi bankanna erlendis gat verið erfið jafnvel og óeðlileg út frá alþjóðasamningum, þannig að það var ekkert hlaupið að því að minnka bankana með stjórnvaldsaðgerðum, alls ekki."
Ræða forsætisráðherra á Alþingi 21. febrúar 2008
Í ræðu á Alþingi 21. febrúar 2008 sagði Guðni Ágústsson, alþingismaður: "Ég ræddi í síðustu viku við hæstv. forsætisráðherra um aðgerðir til að kynna sterkt þjóðarbú Íslands, skuldlausan ríkissjóð, sterkt lífeyrissjóðakerfi og í rauninni sterka eignastöðu bankanna til þess að snúa umræðunni við á erlendum vettvangi. Hæstv. forsætisráðherra ræddi þessi mál á viðskiptaþingi og boðaði daginn eftir forsvarsmenn bankanna og fjármálamenn á sinn fund. [...] Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra hvað sé fram undan í þeim efnum. Hefur einhver ákvörðun verið tekin um að fara í þann leiðangur að berjast fyrir hagsmunum Íslands og ná betri kjörum hvað fjármagn varðar? Hvert verður hlutverk Seðlabankans í þeirri för? (Forseti hringir.) og hver stýrir henni af hálfu Íslands þegar ríkisstjórnin hefur tekið ákvörðun í þessum efnum?" Geir H. Haarde tók því næst til máls og sagði m.a.: "Það hefur að sjálfsögðu verið tekin ákvörðun um að berjast fyrir hagsmunum Íslands. Það er það sem við erum að gera á hverjum degi í störfum okkar. En hv. þingmaður gat réttilega um ummæli mín á viðskiptaþingi. Hann hafði vikið að svipaðri hugmynd hér í þinginu og það hefur reyndar áður verið gert og áður hafa aðilar staðið saman um að kynna stöðu lands og þjóðar í efnahagsmálum út á við. [...] Á fundinum sem ég átti með bankamönnum daginn eftir viðskiptaþing fórum við rækilega yfir þetta ásamt þremur öðrum ráðherrum og mér [er] óhætt að segja að þar er ríkur áhugi og það kom fram skilningur á því að nauðsynlegt væri að aðilar sneru bökum saman. Hugmyndin með þeim fundi var að sjálfsögðu ekki síst sú að sýna ákveðna samstöðu í þessu máli. [...] Ég hef síðan fengið til liðs við mig ágætan bankamann til að leggja hönd á plóginn í þessu máli sem er á fullri ferð í vinnslu. En hvað líður þátttöku eða aðild einstakra stofnana er of snemmt að segja til um. [...] En ég get fullvissað þingmanninn um það að við munum ekki láta neitt tækifæri fram hjá okkur fara til þess að leiðrétta rangfærslur, koma réttum upplýsingum á framfæri um stöðu mála hér sem er mjög góð í öllum grundvallaratriðum, eins og þingmaðurinn sagði. En auðvitað getum við ekki gert að því þótt olíuverð sé hærra núna en það hefur verið frá 1861 eða að ýmis önnur ytri áföll dynji á þjóðarbúi okkar eins og öðrum.Við þurfum auðvitað að laga okkur að slíkum staðreyndum sem koma erlendis frá. En í grunninn er þjóðarbúskapurinn hér mjög góður og við þurfum að koma því á framfæri."
Í gögnum sem rannsóknarnefnd Alþingis bárust frá Samtökum fjármálafyrirtækja er að finna tillögu til Geirs sem er dagsett deginum áður, þ.e. 20. febrúar 2008. Um er að ræða tillögu Samtaka fjármálafyrirtækja til forsætisráðherra um "Upplýsingaunit forsætisráðuneytis". Fram kemur að Finnur Sveinbjörnsson komi til greina sem verkefnisstjóri. Hlutverk hópsins verði að safna "saman og miðla upplýsingum til erlendra aðila um íslenskt hagkerfi og fjármálakerfi".
Í þessu samhengi skal tekið fram að bankamaðurinn sem Geir H. Harrde vísaði til í ræðunni hér að framan var Finnur Sveinbjörnsson hagfræðingur. Í bréfi forsætisráðuneytisins, dags. 25. febrúar 2009, til rannsóknarnefndar Alþingis kemur fram að ráðuneytið hafi notið ráðgjafar Finns til september 2008. Samkvæmt gögnum málsins virðast störf hans einkum hafa lotið að aðstoð við ræðuskrif og samræmingu upplýsingamiðlunar um fjármálamarkaðinn.
Sendiherrastefna 22. febrúar 2008
Hinn 22. febrúar 2008 stóð utanríkisráðuneytið fyrir ráðstefnu undir heitinu "Umfjöllun um íslenska fjármálageirann – hlutverk utanríkisþjónustunnar". Þar flutti Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, ávarp sem nefndist "Allir á árarnar". Í skýrslu Ingibjargar Sólrúnar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis sagði hún: "Já, það var orðsporsmálið sem þar var verið að tala um, þ.e.a.s. hvernig við gætum – ja, kannski stutt við íslenska bankakerfið með því að koma á framfæri upplýsingum sem við töldum góðar og réttar um bankakerfið, að það stæði tiltölulega traustum fótum, það hefði ekki tekið þátt í þessum "sub-prime lánum", eiginfjárstaðan væri góð o.s.frv. Það var kannski þetta sem var verið að koma á framfæri við okkar fulltrúa erlendis."Í skýrslu sinni lét Geir þessi orð falla um sendiherraráðstefnuna: "Um þetta leyti líka [...] kallar utanríkisráðuneytið sendiherra í útlöndum heim og það er haldin svokölluð sendiherrastefna. Ekki veit ég hvort það var eingöngu út af þessu tilefni sem ég ætla að segja frá, en alla vega það er gert og þar er meginefnið þá það að fara yfir stöðu bankanna þannig að sendiherrarnir séu upplýstir, geti svarað spurningum, geti brugðist við, blandað sér í málin ef þess gerist þörf. Það reyndar er ekki, auðvitað var það mjög mismunandi eftir löndum hvað menn þurftu að vera mikið að hafa sig í frammi. Þarna er farið yfir það að staða bankanna sé miklu betri en af er látið í erlendum fjölmiðlum, þangað mæta fulltrúar bankanna þriggja stóru, ég man nú ekki hverjir það voru, auk fulltrúa Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans til að kynna þeim þennan boðskap. Og þarna eru lögð fram skrifleg gögn [...] Þetta er svona dæmi um það sem var í gangi."
Samráðsfundur bankastjórnar Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins 26. febrúar 2008
Hinn 26. febrúar 2008 fundaði bankastjórn Seðlabanka Íslands með Fjármálaeftirlitinu. Samkvæmt drögum að fundargerð Seðlabankans var rætt um lausafjárstöðu bankanna á fundinum.
Viðskiptaráðherra fundar með stjórnarformanni Fjármálaeftirlitsins 28. febrúar 2008
Björgvin G. Sigurðsson átti fund með Jóni Sigurðssyni 28. febrúar 2008. Rannsóknarnefnd Alþingis hefur ekki undir höndum frekari upplýsingar um fundinn.
Aðstoð Andrew Gracie við viðlagaundirbúning Seðlabanka Íslands 27.–29. febrúar 2008
Í skýrslu Tryggva Pálssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom fram að hann hefði lagt til við bankastjórn Seðlabanka Íslands að fá erlendan sérfræðing að nafni Andrew Gracie til ráðgjafar við viðlagaundirbúning og hefði verið fallist á það. Gracie hefði komið til landsins 27. febrúar 2008 og dvalist hér í tvo daga. Fjármálasvið Seðlabanka Íslands hefði sett hann inn í málin og hann hefði síðan unnið sérstaka greiningu og sett fram á níu glærum fyrir bankann hvað þyrfti að gera. Tryggvi kvaðst síðan að því marki sem hann gat hafa reynt að halda sig við þessa áætlun í viðlagaundirbúningnum. Síðan sagði Tryggvi: "Hann raunverulega stillti upp þeirri sviðsmynd sem við vorum búin að setja upp á fjármálasviði, að við skyldum bara reikna með því að þetta mundi enda í ógæfu, við skyldum reikna með því að fyrsti átakspunkturinn væri októberendurgreiðslan, um miðjan október, hjá Glitni, þá mundi þetta detta. Það datt áður vegna þess að bankarnir drógu að sér línur og innstæðueigendur voru hræddir og þetta gerðist áður, eins og vill verða. En þetta plan stóðst. Það sem Andrew gerði okkur gagn með var að hann sagði: "Byrjið þið á því að reikna út kostnað af fjármálaáfalli, þá fá menn það "sjokk" sem þarf til þess að segja: "Við verðum að vinna að þessu". Búið síðan til sviðsmyndir og útfærið þær, hvað getur gerst og hvernig á að taka á þeim málum? Þar koma kannski inn hlutir eins og með heimildir Fjármálaeftirlits og hvaða leiðir hefur Fjármálaeftirlitið og eruð þið búin að undirbúa þetta nógu vel?" Þetta gerum við, við göngum frá því við Seðlabankann að reikna út kostnaðinn, reyndar gerðumst við það djörf, að minni tillögu, að við birtum í Fjármálastöðugleika vissa meginpunkta úr úttektinni á því hvað fjármálaáfall kostar undir ramma sem heitir mikilvægi þess að ekki verði fjármálaáfall, eða eitthvað í þá veru.Við gerum síðan plan yfir hvað gæti gerst og erum beðin í samráðsnefndinni um að útfæra það nánar. Það gerir Seðlabanki og Fjármálaeftirlit sem hreina og klára sviðsmynd, ýmsir valkostir og hvernig megi bregðast við. Þetta er töluverð vinna þarna sem skilað er í byrjun apríl og töluverð umræða í hópnum síðan í byrjun apríl. Síðan skynja ég það þannig að síðan gerist ekki mikið og við fáum ekki næsta skref sem Andrew Gracie sagði að væri lykilatriði. Það var það að stjórnvöld ættu að koma saman og segja að ef þetta væri staðan þá þyrftum við að stilla íslensku bönkunum upp við vegg. Það er línan hans sem segir: "Fund or else." Fjármagnið ykkur ella fáið þið verra af. Þetta var aldrei gert. Þarna átti að þvinga fram aðgerðir, ef þeir gátu ekki fjármagnað sig þá urðu þeir að flýta eignasölu. Eins og Andrew Gracie benti á var biðtíminn ekkert nema kostnaður fyrir ríkið. Það minnka eignirnar inni í bönkunum, það aukast skuldbindingar sem ríkið þarf kannski að gangast inn í við áföll. En bankarnir vilja bíða, þeir vonast eftir því besta, þeir vilja ekki viðurkenna í uppgjörum sínum, þeir voru hræddir við það að eignirnar séu ekki eins mikils virði eins og þær voru, eins og ég var búinn að benda á í úttektum mínum í nóvember, eignaverð átti eftir að hrynja. Þeir eru að bíða með að selja eignir, vilja helst selja á hærri verðum, finnst þetta allt of lágt verð og svona. Og í stað þess að þetta sé þá þvinguð sala á sæmilegum verðum í aðdraganda áfalls, að maður gæti minnkað þá reikning bankanna, minnkað skuldbindingarnar, þá endar þetta fyrst í brunaútsölu og síðan í höndum skilanefnda seinna, fyrir miklu minna verð sem kemur ríkinu illa því þá var meiri hætta á að innlánsskuldbindingarnar verði dýrar og erlendum og innlendum kröfuhöfum illa. Þarna misstum við því frumkvæði og tíma með því að ná ekki þessari sameiginlegu stefnumótun og að stilla bönkunum upp við vegg. Þið sjáið það orðfæri [ekki] nokkurn tíma í fundargerðunum og að mínu mati sáum við of litlar aðgerðir svona síðustu sex mánuði."
Hinn 29. febrúar 2008 var haldinn lokaður fundur þar sem Andrew Gracie fjallaði annars vegar um viðlagaæfingu þá sem haldin var 20.–25. september 2007 og hins vegar um ráðgjöf hans varðandi viðlagaundirbúning Seðlabanka Íslands. Á fundinn mættu starfsmenn Seðlabanka Íslands, fulltrúar úr samráðshópi þriggja ráðuneyta, Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans svo og starfsmenn Fjármálaeftirlitsins og fjármálaráðuneytisins sem þátt höfðu tekið í viðlagaæfingunni.Í skjalinu sem Andrew Gracie tók saman fyrir Seðlabanka Íslands segir m.a. að vandinn sé eftirfarandi: "Icelandic banks are shut out of markets and/or the price of liquidity is prohibitive." Því næst segir: "No guarantee that markets will re-open in time for Glitnir to refinance (Oct 08) or Kaupthing (Q1 09)." Síðan segir að tvær niðurstöður komi til greina, ein góð en önnur slæm. Sú fyrri er sögð sú að bankarnir endurheimti aðgang að mörkuðum af sjálfsdáðum. Sú slæma er sögð sú að bankarnir endurheimti ekki framangreindan aðgang að mörkuðum og því verði inngrip yfirvalda nauðsynlegt. Síðar í skjalinu segir: "Banks have an incentive to wait and to gamble that markets will re-open." Í beinu framhaldi segir: "Cost of bad outcome will increase as time passes."
Ingimundur Friðriksson lýsti því við skýrslutöku að menn hefðu meðtekið boðskap Andrews Gracie svo að um væri að ræða sviðsmyndir sem væru teiknaðar upp og ættu að vera mönnum til leiðsagnar um framhaldið. Undir þessi viðhorf tók Baldur Guðlaugsson. Ingimundur Friðriksson áréttaði að það efni sem Andrew Gracie hefði útbúið fyrir Seðlabankann hefði verið sent til Geirs H. Haarde. Baldur Guðlaugsson kvaðst ekki hafa kynnt Árna M. Mathiesen vinnu Andrews Gracie.Aðspurður um hver viðbrögð ráðherra hefðu verið við skjalinu frá Andrew Gracie, sagðist Ingimundur Friðriksson halda að engin sérstök viðbrögð hefðu komið fram af þeirra hálfu. Hann minntist ekki "sérstaklega viðbragða frá ráðherrum að neinu leyti um hvatningar í þessum efnum".Viðbrögð Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins hefðu verið þau að setja upp sviðsmyndir í samræmi við tillögur Andrews Gracie og hefðu þær legið fyrir í endanlegri mynd í lok apríl eða byrjun maí.
Í skýrslu Bolla Þórs Bollasonar kom fram að hann væri ekki sammála þeim viðhorfum sem Davíð Oddsson hefði lýst opinberlega, um að skjal Andrews Gracie hefði verið "mikið tímamótaplagg". Skjalið væri frá 29. febrúar 2008 en ekki hefði þótt ástæða til að kalla saman samráðshópinn af því tilefni og skjalinu hefði því ekki verið dreift innan hópsins fyrr en á fundi 18. mars 2008. Aðspurður um hvort hann hefði látið Geir H. Haarde í té afrit af skjalinu svaraði hann því til að Geir hefði sjálfur verið búinn að fá eintak beint frá seðlabankastjóra. Geir lýsti því sjálfur við skýrslutöku að formaður bankastjórnar Seðlabankans hefði afhent sér skjalið 6. mars sama ár. Sagði Geir að því hefði ekki verið fylgt neitt "sérstaklega úr hlaði", sbr. umfjöllun um fundinn hér á eftir.
Bæði Björgvin G. Sigurðsson og Árni M. Mathiesen lýstu því við skýrslutöku að þeim hefði verið ókunnugt um skýrslu Andrews Gracie og um komu hans til landsins.
Efnahags- og framfarastofnun Evrópu (OECD) gefur út skýrslu um efnahagsstöðuna á Íslandi 28. febrúar 2008
Skýrsla OECD ber heitið Economic survey of Iceland 2008 og kom út 28. febrúar 2008. Í samantekt segir m.a.: "The international liquidity crisis has increased uncertainty about economic prospects as markets are likely to remain volatile in the foreseeable future. So far, Iceland's financial institutions have weathered the storm well, although increased risk aversion has led to higher borrowing cost for Icelandic banks.While their rapid expansion has raised concerns about financial stability, supervisory and rating agencies consider that the financial system is broadly sound. Stress tests suggest that banks have adequate capital to withstand large credit and market shocks. However, these scenarios do not account for the second-round effects of such shocks. Hence, the authorities should continue efforts aimed at improving the risk assessment and supervision of the financial system."
Forsætisráðherra fundar með Bjarna Ármannssyni 29. febrúar 2008
Geir H. Haarde fundaði með Bjarna Ármannssyni, fyrrverandi forstjóra Glitnis, 29. febrúar 2008. Rannsóknarnefnd Alþingis hefur ekki undir höndum frekari gögn um fundinn.
19.3.6 Mars 2008
Viðtal við Gylfa Magnússon í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins 2. mars 2008
Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins 2. mars 2008 var sagt frá því að tæplega 400 milljarðar króna væru útistandandi í krónubréfum. Rætt var við Gylfa Magnússon, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands. Í fréttinni sagði: "Gylfi segir að Íslendingar myndu standa frammi fyrir alvarlegum vanda ef erlent fé hætti að streyma til landsins því hagkerfið hafi í sívaxandi mæli undanfarin ár verið fjármagnað með erlendum lánum. Hávaxtastefna sé eitt af því sem hafi leitt til þess að mikið sé tekið af erlendum lánum og viðskiptahallinn sé orðinn mikill. Gylfi segir það erfitt fyrir Seðlabankann að lækka stýrivexti mikið meira en erlendir seðlabankar gera. Halda verði þessum vaxtamun við útlönd." Síðan sagði Gylfi: "Það má eiginlega segja að Seðlabankinn sé kominn í hálfgerða sjálfheldu, hann getur eiginlega ekki lækkað vexti með góðu móti sem neinu nemur án þess að, að verðbólgan fari úr böndunum og, og að öll þessu erlendu lán fari [...] að valda skuldunautunum talsverðum vandræðum."
Fundur Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins með Kaupþingi 3. mars 2008
Hinn 3. mars 2008 funduðu Jónas Fr. Jónsson, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, Jón Sigurðsson, stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins, og Tryggvi Pálsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Seðlabankans, með stjórnendum Kaupþings. Í drögum að fundargerð Seðlabankans er haft eftir Hreiðari Má Sigurðssyni, forstjóra Kaupþings: "Innstæðutryggingar: Fyrsta neikvæða greinin í sænsku blöðunum í dag. Ætla að færa útlánin yfir í útibúið. Byrja í Þýskalandi í dag með fundi með tryggingarsjóðnum." Síðar segir að Jónas Fr. Jónsson hafi rætt um fyrirhugaðan þátt á Channel 4 í Bretlandi um innlán. Því næst er haft eftir Hreiðari: "Óttast ekki þá umfjöllun. Bankastjóri Nordea með dómsdagsspá samt aukast innlánin." Því næst er haft eftir Jóni Sigurðssyni: "Gott form, þægindi og leti fara saman." Síðar í fundargerð segir:
JS [Jón Sigurðsson]:Tilbúið frumvarp um hærri iðgjöld og tryggingar.
HMS [Hreiðar Már Sigurðsson]: Sjóður smár.
TP [Tryggvi Pálsson]: Stjórnvöld gætu verið andsnúin því að flytja innlánin yfir í útibú.
JFJ [Jónas Fr. Jónsson]: Slík andstaða stenst væntanlega ekki EES.
HMS: Í lok árs á 400 m. manna markaði. Í Hollandi 30% í netinnlánum.
Viðtal við formann bankastjórnar Seðlabanka Íslands á Channel 4 3. mars 2008
Breska sjónvarpsstöðin Channel 4 flutti þátt 3. mars 2008 þar sem sérstaklega var fjallað um innlánsreikninga íslenskra banka í Bretlandi. Fréttamaður ræddi við Davíð Oddsson, formann bankastjórnar Seðlabanka Íslands. Davíð sagði að skuldatryggingarálag á íslensku bankana væri of hátt. Jafnframt sagði hann: "The economy of this country is quite extraordinary good. [...] I think that the CDS that are so much higher on some of these banks than on the average elsewhere is not fair and should not be so high." Sagði hann engan banka geta staðist til lengdar skuldatryggingarálag upp á 500 til 600 punkta. Síðar í viðtalinu hafði fréttamaður eftir Davíð að íslenska ríkið hefði efni á að tryggja innstæður allra bankanna. Orðrétt sagði Davíð: "These banks are so sound that nothing like that is likely to ever happen.And if something would happen we would never be talking about the whole amount, because it is never like that, but even so Icelandic economy, the state being debtless, this would not be too much for the state to swallow, if it would like to swallow it."
Við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis ræddi Davíð Oddsson um ummæli sín í framangreindu sjónvarpsviðtali:"Síðan hefur nú verið spilað í sjónvarpsþætti að einhvern tímann – ég man ekki hvenær það var – þá fór ég í Channel 4 þátt og þar hafa menn verið að segja að ég hafi verið að lýsa því yfir að íslenska ríkið tæki ábyrgð á öllum Icesave samningunum. En þar sagði ég að íslenska ríkið hefði burði til að mæta því... þá gerir maður kannski einhverju sem mundi upp á vanta hjá bankanum, kannski 30%, ef það kysi. Ég man að þegar ég kom upp – þetta var tekið niðri – sagði ég: "Ég vona nú að þetta verði ekki til þess að það verði gert run á Icesave reikningana", af því að ég taldi að með þessu orðalagi mætti öllum vera ljóst að íslenska ríkið yrði að taka til þess afstöðu, það yrði að kjósa að greiða þetta en ekki að því væri skylt að greiða það."
Bankastjórar Seðlabanka Íslands funda með Seðlabanka Bretlands 3. mars 2008
Hinn 3. mars 2008 funduðu Davíð Oddsson og Ingimundur Friðriksson með forsvarsmönnum Seðlabanka Bretlands. Rannsóknarnefnd Alþingis hefur undir höndum minnisblað Seðlabanka Íslands frá fundinum, dags. 5. mars 2008. Í minnisblaðinu segir að bresk yfirvöld telji að hraður vöxtur banka geti verið áhyggjuefni og að hratt vaxandi innlán séu ótryggari en önnur. Fram kemur að Davíð Oddsson, formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands, hafi lagt "áherslu á að staða bankanna væri býsna góð" og að "lausafjárstaða þeirra væri rúm". Haft er eftir Davíð að bankarnir þurfi jafnvel ekki að sækja á lánamarkað að öðru óbreyttu í eitt ár. Síðar í minnisblaðinu segir: "Ráða mátti af orðum forsvarsmanna Bank of England að þeir hefðu ekki nægar upplýsingar til þess að meta rétt stöðu íslensku bankanna. Þeir töldu t.d. að innlán sem safnað er í Bretlandi væru meira og minna notuð til þess að fjármagna hraðan vöxt útlána á Íslandi." Síðar segir eftirfarandi: "Þeir spurðu hvort Seðlabankinn myndi veita þrautavaralán ef á reyndi. Því var svarað að yfirlýsingar hefðu aldrei verið gefnar um slíkt en auðvitað myndi Seðlabankinn hugleiða slíkt í fullri alvöru. Þá væri augljóst að Seðlabankinn væri fyrst og fremst lánveitandi til þrautavara í eigin gjaldmiðli og var það m.a. tekið fram í svari við spurningu Mervyn King um hvort Seðlabankinn gæti veitt lán í öðrum gjaldmiðli líka." Síðan segir: "Augljóst var af orðum forsvarsmanna Bank of England að þeir voru uppteknir af mögulegum afleiðingum þess að mikið yrði tekið út af reikningum í bönkum, þ.m.t. Landsbanka Íslands í London."
Fundur Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands með stjórnendum Landsbankans 4. mars 2008
Hinn 4. mars 2008 funduðu Jón Sigurðsson, Jónas Fr. Jónsson og Tryggvi Pálsson með bankastjórum Landsbankans. Af drögum Seðlabankans að fundargerð má ráða að m.a. hafi verið rætt um innlánstryggingar. Fram kemur að Halldór J. Kristjánsson, bankastjóri Landsbankans, hafi rætt um að betra væri að hafa innlánsreikninga í dótturfélagi þótt lausafé nýtist verr. Einnig segir að rætt hafi verið um þátt Channel 4 í Bretlandi. Um þann þátt segir að Landsbankinn sé ósáttur við framkomu starfsmanns FSA sem rætt hafi verið við í þættinum.
Fundur Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands með stjórnendum Glitnis 4. mars 2008
Hinn 4.mars 2008 funduðu Jón Sigurðsson,Jónas Fr.Jónsson og Tryggvi Pálsson með stjórnendum Glitnis.Í drögum Seðlabankans að fundarpunktum kemur fram að m.a. hafi verið rætt um nýlegar ábendingar Moody's til íslenska ríkisins en þær eru sagðar eftirfarandi:
1. Auka gjaldeyrisforða Seðlabankans.
2. Efla samninga Seðlabankans við seðlabanka í nálægum löndum.
3. Herða lausafjárstýringu.
4. Innlánstrygging.
Fundur forsætisráðherra með formanni bankastjórnar Seðlabanka Íslands 6. mars 2008
Hinn 6. mars 2008 hélt Geir H. Haarde fund með Davíð Oddssyni.Við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis sagði Geir: "Þá afhendir hann mér svona þetta glærusafn frá [Andrew] Gracie og segir: "Þessi maður kom hérna og er búinn að útbúa þetta, hér er þetta." En í millitíðinni auðvitað hafði samráðshópurinn haft þetta og notaði þetta sem grunn í frekari vinnu sinni. Hann fylgdi þessu ekkert sérstaklega úr hlaði og þegar ég fór að skoða þetta er þetta náttúrulega það sem það segist vera, þetta eru sviðsmyndir, þetta eru dæmi um það sem gæti gerst, þetta er ekki spá um að eitthvað tiltekið muni gerast. Svo verða menn að vega og meta hvernig þeir ætla að bregðast við því." Geir sagði að fundurinn með Davíð hefði verið mjög langur eða frá um kl. 14:30 til 18:30 og að farið hefði verið úr einu í annað. Geir sagði m.a.: "Það eru fjölmörg mál og það er verið að rifja upp gamalt og nýtt og sagðar miklar sögur eins og oft er. Þá tekur hann sér í munn orðið glæpahundarnir í bönkunum, ég hef skrifað það hjá mér, og segir þá að lán, þar sem Kaupþing var á þeim tíma sagt hafa tekið væri "scam", það var orð sem einhver útlendur seðlabankastjóri hafði notað um það, það kom einhvers staðar í fréttum um þetta leyti að Kaupþing hefði útvegað sér lán á góðum kjörum [...] hann sagði mér frá fundi sínum og Ingimundar Friðrikssonar með yfirmönnum Englandsbanka, Mervyn King, bankastjóra, og yfirmanni fjármálastöðugleikadeildarinnar í bankanum, þar sem þeir voru að lýsa áhyggjum sínum af Landsbankareikningum, Icesave reikningunum, þetta er strax þá í, tiltölulega snemma árs. Og það má segja að það hafi verið svona, eins og fundurinn þarna í janúar, svona "tema" í þessu, áhyggjur út af þessari þróun."Við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis voru framangreind ummæli um "glæpahundana í bönkunum" borin undir Davíð. Hann svaraði á svofelldan hátt: "Við erum á tveggja manna tali þar náttúrulega og maður getur kannski staðið við svona orð út í frá en þetta var mín afstaða þegar þarna var komið, að menn náttúrulega væru ekki, menn væru hvergi að fara að lögum eins og kom síðan á daginn, held ég."
8. fundur starfshóps Seðlabanka Íslands um viðbrögð við lausafjárvanda 7. mars 2008.
Starfshópur um viðbrögð við lausafjárvanda fundaði 7. mars 2008. Í fundargerð kemur fram að Tryggvi Pálsson hafi dreift tillögum um áframhaldandi vinnu og ráðgjöf Andrews Gracie. Næstu skref felist í því að meta valkosti og kostnaðargreina áföll. Því næst segir í fundargerðinni: "Einnig sagði Andrew að [...] mikilvægt sé að stjórnvöld séu búin að mynda sér sameiginlega skoðun áður en að útgáfu kemur. Næsta útgáfa er í maí hjá SÍ [Seðlabanka Íslands] og júlí hjá FME [Fjármálaeftirlitinu]." Í fundargerð kemur einnig fram að farið hafi verið yfir lista yfir þær aðgerðir sem unnið hafði verið að síðan hópurinn var virkjaður. Fram kemur að Sigríður Logadóttir, aðallögfræðingur Seðlabankans, ætli að skoða tilkynningar og formlega fjölmiðlaumfjöllun í tengslum við Northern Rock málið í Bretlandi. Einnig hyggist hún kanna þau skilyrði sem hægt sé að setja fyrir veitingu þrautavaraláns og fara yfir hvaða tilslakanir komi til greina í fjármálaáfalli. Fram kemur að Tryggvi Pálsson hyggist bera tillögur Andrews Gracie undir samráðshóp þriggja ráðuneyta, Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans á næsta fundi þess hóps.
Minnisblað um þær aðgerðir sem starfshópur um lausafjárvanda hafði unnið að frá því hann var virkjaður 26. febrúar 2008.
- Endurskoðun á bankastjórnarsamþykkt 1097 varðandi starfshóp um lausafjárvanda og endurskoðun á gátlistum.
- Reglulegt eftirlit með fjármögnun og endurgreiðsluferli þriggja stærstu íslensku bankanna.
- Eftirlit og álagspróf með lausafjárstöðu móðurfélaga þriggja stærstu bankanna.
- Staðfesting á lánalínum og/eða staðfesting á annarri fjármögnun sem Seðlabanki Íslands hefur aðgang að í fjármálakreppu.
- Útvíkkun á skilgreiningu á veðhæfum tryggingum í reglulegum viðskiptum við Seðlabankann með breytingum á reglum nr. 35 um viðskipti fjármálafyrirtækja við Seðlabanka Íslands.
- Yfirlit yfir fréttatilkynningar og formleg samskipti við fjölmiðla hjá öðrum seðlabönkum varðandi lausafjáraðstoð.
- Samantekt "Ljóta listans" sem er samansafn af gagnrýnum athugasemdum í erlendum fjölmiðlum og frá greiningaraðilum varðandi íslenska fjármálakerfið og íslensku bankana.
- Athuga og túlka reglur Seðlabanka Íslands með tilliti til lausafjáraðstoðar ef kemur til afbrigðilegra aðstæðna.
- Endurskoðun skilmála og skilyrða fyrir lausafjáraðstoð.
Fundir forsætisráðherra með Sigurjóni Þ. Árnasyni í mars 2008
Í skýrslu Geirs H. Haarde fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom fram að hann hefði haldið þrjá fundi í marsmánuði á heimili sínu með Sigurjóni Þ. Árnasyni, bankastjóra Landsbankans, þ.e. 9., 19. og 22. mars 2008, en Sigurjón er nágranni Geirs. Hefðu þeir rætt um Icesave innlánin, stöðu bankanna gagnvart Seðlabanka Evrópu og loks erlenda fjármögnun þeirra. Um einn af þessum fundum sagði Geir: "Hann [Sigurjón] segir undir lokin að mjög fáir í bankakerfinu skilji nákvæmlega heildarsamhengi allra hluta sem væru í gangi í hinum ólíku kerfum, Glitnir stæði sennilega verst að þessu vígi að [...] þar væri sennilega enginn með þetta allt á hreinu, sjálfur sagðist hann vera með góða yfirsýn en þó ekki upp á tíu, mundi sennilega fá átta á prófi ef á reyndi, en Kaupþing væri betur statt að þessu leyti en Glitnir. Þetta fannst mér nú eiginlega ótrúleg frásögn."
Við skýrslutöku lýsti Sigurjón Þ. Árnason því að á framangreindum fundum hefði hann reynt að setja fram hugsanlega lausn á vanda bankanna.Aðspurður sagðist hann ekki minnast þess að Geir H. Haarde hefði á fundunum lýst áhyggjum Seðlabankans af stöðu íslenska bankakerfisins.
Fundur forsætisráðherra og fjármálaráðherra með forstjóra Fjármálaeftirlitsins 10. mars 2008
Hinn 10. mars 2008 héldu Geir H. Haarde og Árni M. Mathiesen fund með Jónasi Fr. Jónssyni, forstjóra Fjármálaeftirlitsins. Í skýrslu Geirs kemur fram að Jónas hafi látið þeim í té gögn sem hann hafði sjálfur notað á ráðstefnu nokkrum dögum áður. Geir segir að Jónas hefði sagt við sig og Árna: að staða bankanna liti ekki illa út, hvorki varðandi eignir, eigið fé, rekstrarafkomu né lausafé næsta tæpa árið. Hann sagðist "ekki telja að í bönkunum væru nein loftgöt [...] nema ef upplýsingum væri með glæpsamlegum hætti haldið frá eftirlitinu, sem hann taldi afar ólíklegt." Geir sagðist hafa haldið til New York á ráðstefnu Íslensk-ameríska verslunarráðsins tveimur dögum síðar með þessar upplýsingar í farteskinu.Við skýrslutöku sagði Árni M. Mathiesen að fundurinn hefði farið leynt. Síðan bætti hann við: "Já og það er allt svona svolítið viðkvæmt ef að ráðherrar eru að kalla fyrir sig forstöðumenn stofnana annarra ráðuneyta. Þannig að maður er ekkert svo sem alveg að gera, var ekki að gera það á hverjum degi, þó svo að það hafi auðvitað komið fyrir."Við skýrslutöku ræddi Jónas Fr. Jónsson um framangreindan fund. Fundinum lýsti hann með eftirfarandi orðum: "En hérna það sem ég í sjálfu sér fór bara yfir var bara: Ókei, við erum með, þetta er uppgjörið þeirra, þetta er staðan, eins og hún lítur út núna miðað við eiginfjárhlutfall og annað slíkt, þá virðist grunnurinn vera í lagi en við erum auðvitað með lausafjárþrengingar í heiminum, það er það sem við þurfum að búa okkur undir. [...] Ég hitti þá, eins og ég skildi, Geir var að fara á fund hjá Íslenska verslunarráðinu og hérna eitthvað að ræða það, ég held að ég hafi látið hann hafa glærur ef ég man rétt eða eitthvað svoleiðis, glærur sem við höfðum verið búin að taka saman. [...] Já, ég hafði bara áhyggjur, ég man nú eftir þessum fundi hjá honum hvað, fyrir meira en ári síðan, var einfaldlega þetta að það væri þessi lausafjárþrenging í heiminum, náttúrulega það sem við þyrftum að búa okkur undir. Það voru svona þessar almennu áhyggjur.Við fórum hins vegar, eins og ég segi, aðeins í gegnum glærurnar og við fórum í gegnum hvernig uppgjör þeirra hefði verið."
Erindi utanríkisráðherra í Kaupmannahöfn 11. mars 2008
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, flutti erindi á ráðstefnu um íslenskt efnahagslíf í Kaupmannahöfn 11. mars 2008. Heiti erindisins var: "Islands økonomi, stærk og fleksibel". Í erindinu segir Ingibjörg m.a.: "De islandske banker hviler på et solidt grundlag. Indtægter fra deres kernevirksomhed voksede sidste år til trods for subprime-krisen. Bankernes stærke likviditet bekræftes blandt andet af nylige kreditvurderinger fra Moody's. De tre største banker har gentagne gange bestået Finanstilsynets tryktest med gode resultater." Síðar segir hún: "Der er blevet spurgt hvordan regeringen agter at reagere på en eventuel bankkrise. Jeg opfatter spørgsmålet som yderst hypotetisk, da bankerne lever og har det godt i øjeblikket, men jeg vil gerne tilføje at både regeringen og Nationalbanken har ressourcer til at afværge en likviditetskrise, beskytte indskyderne og undgå forstyrrelser i betalingssystemerne.Vi har de værktøjer der skal til, og jeg kan forsikre jer om at den islandske regering naturligvis vil reagere som enhver anden ansvarlig regering ville gøre hvis en sådan situation opstod."
Í skýrslu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur fyrir rannsóknarnefnd Alþingis vék hún að framangreindu erindi sínu með þessum orðum: "Mig langar aðeins að segja út af Danmerkurferðinni og þeim fundi. Sko ég var náttúrulega að fara í sjálfu sér í opinbera heimsókn til Danmerkur, að hitta starfsbróður minn þar. En ég upplifði líka svolítið að ég væri að fara til að tala á þessum fundi til þess að gera grein fyrir því að íslensk fyrirtæki væru mismunandi, það mætti ekki setja öll íslensk fyrirtæki undir einn hatt. Ég var náttúrulega búin að vera námsmaður í Danmörku og ég þekki alveg viðhorf – og það var kannski svolítið í mér – þetta viðhorf Dana, Stór-Danans, til Íslendinga, [...] það eru ákveðnir fordómar hjá Dönum og allir sem hafa verið í lengri tíma eða búið í Danmörku hafa, held ég, fundið það á sínu eigin skinni. Og mér fannst ég svolítið vera að fara þarna til að tala um þessa hluti, að það yrði að meta hvert og eitt íslenskt fyrirtæki á eigin forsendum og Danir mættu ekki segja bara: "Íslendingarnir, hvort sem það væri Baugur eða Kaupþing eða hvað þau hétu nú öll, það yrði að skoða hvert fyrirtæki fyrir sig og meta þau á eigin forsendum því að þau væru eins mismunandi og þau væru mörg." Mér fannst þetta svolítið vera erindi mitt og það sem ég kannski lagði inn sjálf, svolítið persónulega, í þennan fund. Svo er auðvitað kafli – það er náttúrulega eins og gerist þegar við erum að fara að við semjum þetta ekki sjálf, allt sem þar er, og þar er kafli einmitt um bankakerfið og ef ég man rétt þá kemur það innlegg m.a. frá Finni Sveinbjörnssyni, sem var þá að vinna eitthvað fyrir forsætisráðherra í efnahagsmálum. Það bara kemur svona sem partur í því sem maður segir."Ingibjörg var spurð að því hvort ekki hefði verið ástæða til þess að fara ítarlegar yfir skýrslur greiningardeildar Danske Bank og brjóta það til mergjar hvort einhver hætta væri á ferðum. Í skýrslu sinni svaraði Ingibjörg: "Eflaust hefði verið full ástæða til þess að gera það, en ég held að menn hafi kannski svolítið afgreitt það með Danske Bank að þetta væri samkeppnisaðili við íslensku bankana og svona áhöld um það hvað ætti að taka það, ég veit ekki hvað ég á að segja, alvarlega, eða kannski hver væri trúverðugleiki þeirrar úttektar.Við horfðum náttúrulega líka til þess að það voru menn – ég ítreka aftur Mishkin og Portes, sem voru sjálfstæðir fræðimenn á þessu sviði, sem höfðu unnið ásamt með íslenskum fræðimönnum skýrslu varðandi þetta, áttu engra hagsmuna að gæta og maður tók þá trúanlega." Þá áréttaði Ingibjörg síðar í skýrslu sinni: "Svo líka hitt, sem kannski er ástæða til að segja hér, af því að eftir á koma menn og segjast hafa varað við og séð hvað var að gerast – tveir sem hafa gert það, annar Robert Wade og hinn Þorvaldur Gylfason. Þetta voru báðir menn sem höfðu mjög greiðan aðgang að mér, sem ég var í persónulegum samskiptum við, og að þeir kæmu á framfæri þeim upplýsingum við mig að bankakerfið okkar væri komið að fótum fram, eða í mikilli hættu, það gerðu þeir ekki."
Ræða forsætisráðherra í New York á ráðstefnu Íslensk-ameríska viðskiptaráðsins 13. mars 2008
Geir H. Haarde, forsætisráðherra, flutti ræðu í New York á fundi Íslensk-ameríska viðskiptaráðsins 13. mars 2008. Geir fjallaði um íslenska fjármálakerfið og sagði m.a.: "During this time, the industry's assets have grown to about eight times Iceland's GDP. Privatization of state-owned banks and mergers among Iceland's largest banks some years ago as well as sweeping tax cuts released new energy in the sector.The banks have found growth opportunities outside Iceland and transformed themselves from purely local deposit institutions to truly international banks. This has been a welcome development and has added an important pillar to the economy, a pillar that the Government wants to do its utmost to preserve and strengthen even further.The Icelandic Government is fully committed to ensuring that the conditions for a continued success of the financial sector remain favorable."
Fundur bankaráðs Seðlabanka Íslands 13. mars 2008
Í fundargerð bankaráðs Seðlabanka Íslands frá 13. mars 2008 kemur m.a. fram að Davíð Oddsson hafi upplýst að mikill stígandi hafi verið í vísitölu gengisskráningar og þurfi að fara allt aftur til ársins 2001 til að finna svipaðar hæðir og nú. Hlutabréfavísitölur séu að falla þó að smá hnykkir séu öðru hvoru upp á við. Skuldatryggingarálög séu ekki góð og búið sé að staðfesta þessi álög hjá Kaupþingi með viðskiptum á genginu 735 sem sé hæsta álag til þessa. Haft er eftir Davíð að staðan sé erfið og spurning hversu lengi þetta fái staðist. Erlendir stýrivextir hafi verið að hækka sums staðar en lækka annars staðar. Fram kemur að Sturla Pálsson, framkvæmdastjóri alþjóða- og markaðssviðs Seðlabankans, hafi komið inn á fundinn. Haft er eftir honum að erlendir aðilar sem hafi gefið út krónubréf hafi selt þau til endurfjárfesta og fengið krónur fyrir. Þeir hafi síðan gert gjaldeyrisskiptasamninga við íslenska banka og íslensku bankarnir látið þá fá evrur í staðinn fyrir íslensku krónurnar. Erlendi útgefandinn fái af þessu góða vexti og losni þar með við gengisáhættu. Nú hafi þetta breyst vegna þess að íslenskir bankar hafi ekki sama aðgang að evrum og séu hættir að vilja gera svona gjaldeyrisskiptasamninga við erlendu aðilana. Innlend fyrirtæki virðist hafa góð tök á sinni gjaldeyrisáhættu og til skamms tíma hafi bankarnir stórgrætt á gengisfallinu. Haft er eftir Davíð Oddssyni að sá orðrómur gangi að þeir séu með þessu að reyna að bjarga fyrsta ársfjórðungi. Haft er eftir Sturlu Pálssyni að það vanti tilfinnanlega evrur inn í kerfið. Erlendir aðilar geti, tæknilega séð, keypt ríkisskuldabréf beint til að verja sig en flokkarnir séu mjög litlir, u.þ.b. 15 milljarðar hver flokkur á móti því að jöklabréfin séu áætluð um 1.000 milljarðar. Á meðan ekki sé aukið framboð á þessum bréfum, sé vaxtatækið nánast óvirkt.
Vandræði Bear Stearns í mars 2008
Í mars 2008 var upplýst um veruleg fjárhagsleg vandræði bandaríska fjárfestingarbankans Bear Stearns en hann var seldur J.P. Morgan 16. mars 2008 eftir að gengi hlutabréfa hins fyrrnefnda höfðu lækkað umtalsvert á skömmum tíma.
Í skýrslu Sigurjóns Þ. Árnasonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom m.a. fram: "Um miðjan mars 2008 fellur Bear Stearns en honum er bjargað af bandaríska ríkinu. Þeir taka hann og smella honum inn í J.P. Morgan eða eitthvað svoleiðis. Hvað gerist? Allir hluthafar þurrkast út en öllum skuldabréfaeigendum er bjargað. Það sem gerðist á þeim punkti var að allir horfðu og hugsuðu, já það er Bear Stearns, það er nú minnsta málið, honum var bara bjargað, þá verður bara öllum bjargað. Það verður viðsnúningur á markaði hjá öllum heiminum, öll "credit spread" lækka um allan heim – nema á þrjá banka. Þrír íslenskir bankar. En hvar er ekki verið að bjarga? [...] Hverja eigum við þá að skortselja? Íslenska banka. Og það myndaðist bara skriða á okkur. Og rosaleg neikvæðni og þarna upplifðu menn að það væri verið að gera árás á okkur. [...] Þarna var ég hræddur, Guð minn góður, allur heimurinn skynjar það núna að það sé hægt að drepa okkur vegna þess að okkur verði ekki bjargað, öllum öðrum verði bjargað af því að sá sem á að bjarga okkur hann getur það ekki, hann hefur ekki samning við neinn til að hjálpa sér og hefur ekki gert neitt í því."
Vöngum velt yfir hugsanlegri þjóðnýtingu íslenskra banka 16. mars 2008
Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins 16. mars 2008 sagði m.a.: "Nú gæti stefnt í alvarlegri vandamál í efnahags- og fjármálum þjóðarinnar en við höfum áður kynnzt. Ástæðunnar er ekki að leita í okkar atvinnulífi heldur hinu, að bankarnir á Íslandi og raunar nokkur íslenzk stórfyrirtæki eru orðin háð því, sem gerist á alþjóðlegum fjármálamörkuðum.Vonandi breytist sú staða til batnaðar. Það getur margt óvænt gerzt á fjármálamörkuðum en við lifum ekki á voninni einni. Í umræðum hér hefur komið fram sú skoðun, að aðild að Evrópusambandinu gæti bjargað okkur í þessum efnum. Menn ættu að líta til Írlands í þeim efnum. Þar er nú rætt um að hugsanlega þurfi að þjóðnýta írsku bankana eða alla vega einhverja þeirra. Sú skoðun hefur skotið upp kollinum í umræðum hér að það sama gæti gerzt undir lok þessa árs eða snemma á næsta ári í okkar samfélagi."
Fundur bankastjórnar Seðlabanka Íslands með Kaupþingi 17. mars 2008
Hinn 17. mars 2008 fundaði bankastjórn Seðlabanka Íslands með stjórnendum Kaupþings. Í drögum Seðlabankans að fundargerð segir að Tryggvi Pálsson hafi spurt hvar Kaupþing hyggist "stoppa við í yfirtökum lána erl. banka?". Haft er eftir Hreiðari Má Sigurðssyni að þetta sé "million dollar question". Því næst er haft eftir Hreiðari: "Okkur grunar að ein aukning peningamarkaðssjóða sé að LÍ og Glitnir hafi verið að fjárfesta í eigin sjóðum til þess að geta lánað tengdum aðilum stærri lán." Varðandi lánveitingar Kaupþings er haft eftir Hreiðari: "Við á bremsunni og starfsfólk veit af því." Síðar í drögum að fundargerð er haft eftir Davíð Oddssyni: "Var að koma frá Basel. Kollegarnir sótsvartir með bauga undir augum." Síðar er haft eftir Hreiðari: "Höfum ekki fengið inni hjá þýska tryggingarsjóðnum, þ.e. eingöngu treyst á íslenska tryggingarsjóðinn => búast síður við árangri." Því næst er haft eftir Davíð Oddssyni: "Ef fært í dótturfélag þá SÍ rólegri."
8. fundur samráðshóps stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað 18. mars 2008
Samráðshópur stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað fundaði 18. mars 2008. Í drögum að fundargerð segir að Jónas Fr. Jónsson hafi upplýst að hjá stærri íslenskum bönkum væri orðið þröngt um laust fé í erlendri mynt en smærri íslensku fjármálafyrirtækin væru einnig áhyggjuefni vegna lausafjárstöðu sinnar. Búa þyrfti til laust fé fyrir þá. Helstu áhyggjuefnin nú væru lækkun gengis íslensku krónunnar,lækkun hlutabréfa kjölfestufjárfesta og veikari staða eignarhaldsfélaga.Síðan er haft eftir Tryggva Pálssyni að lausafjárvandinn sé meira knýjandi en áður var talið. Neikvæður tónn berist frá erlendum bönkum og fjárfestum. Íslensku bankarnir hafi þurft að koma í stað erlendra banka sem dragi úr lánveitingum sínum til íslenskra fyrirtækja. Hættan sé orðin veruleg og bráð. Fram kemur að Ingimundur Friðriksson hafi sagt að til greina komi að heimila Íbúðalánasjóði að kaupa fasteignabréf af bönkum og sparisjóðum. Síðan segir að Jónas Fr. Jónsson hafi þá sagt að slíkt yrði að rúmast innan áhættustýringar sjóðsins. Fjármálaeftirlitið hafi verið að kanna möguleika á að lífeyrissjóðirnir gætu lánað verðbréf sín. Því næst er í drögum að fundargerð haft eftir Baldri Guðlaugssyni, ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytis, að slíkur möguleiki sé inni í frumvarpi sem stefnt sé að afgreiðslu á um vorið. Síðan segir að Jónas Fr. Jónsson hafi nefnt að Fjármálaeftirlitið hafi skoðað hvort lífeyrissjóðirnir gætu aukið hlut sinn í fjármálafyrirtækjum. Svigrúm virðist verulegt. Síðan segir að Ingimundur Friðriksson hafi farið yfir ábendingar Moody's til stjórnvalda í skýrslu sinni frá því í janúar sama ár. Í fyrsta lagi hafi verið talið nauðsynlegt að efla gjaldeyrisforðann.Verið sé að kanna það mál en það virðist erfitt. Í öðru lagi sé verið að skoða að koma á samstarfi við aðra seðlabanka. Fram kemur að upplýst hafi verið að Davíð Oddsson og Ingimundur hafi átt fund með Mervyn King og Sir John Gieve, aðstoðarbankastjóra og yfirmanni fjármálasviðs Seðlabanka Bretlands, fyrir þremur vikum. Vonast sé til að sú umleitan skili árangri en fyrstu viðbrögð veki hóflega bjartsýni. Í þriðja lagi hafi Moody's nefnt eflingu lausafjárstýringar og eftirlits. Síðar í drögunum segir að upplýst hafi verið að Fjármálaeftirlitið sé með leiðbeinandi reglur í undirbúningi þar að lútandi. Því næst segir að Tryggvi Pálsson hafi farið yfir niðurstöður Andrews Gracie, ráðgjafa frá Crisis Management Analytics, sem Seðlabankinn hafi fengið til aðstoðar við sig.Andrew hafi skilað áliti sínu, dags. 29. febrúar 2008, með tillögu um aðgerðaáætlun fyrir stjórnvöld til að draga úr hættu á fjármálaáfalli. Einnig segir að Tryggvi Pálsson hafi dreift skýrslu um tillögur breskra yfirvalda um úrbætur í viðlagamálum. Fram kemur að nánari umræða hafi síðan farið fram um möguleika á sameiningu fjármálafyrirtækja og breytingu á útibúum bankanna erlendis í dótturfélög. Loks segir að Bolli Þór Bollason, ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytisins, hafi ákveðið að hópurinn skyldi funda eftir eina viku. Fyrir þann tíma skyldi Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið taka saman "yfirlit um mögulegar aðgerðir og kostnað". Síðan þyrfti að ákveða hvaða ákvörðunum væri hægt að koma á framfæri opinberlega.
Við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis var Baldur Guðlaugsson spurður að því hvernig menn hefðu tekið þeim viðvörunarorðum Tryggva Pálssonar á fundi samráðshópsins 18.mars 2008 að lausafjárvandinn væri meira knýjandi en áður hefði verið talið. Svar Baldurs hljóðaði svo: "Sko, auðvitað má segja, voru menn að reyna bara að átta sig á því hvað væri að ske, en ég held ekki sko að menn hafi á þessum tíma svona talið að við værum komnir í einhverja þarna læsta stöðu. Enda gerist það enn og aftur, svo maður bara skauti nú yfir, að einhverju nokkru seinna er svona aftur farið að birta til. [...] þá gerist það þarna um vorið að þá eru menn aftur, virðast vera komnir í meira jafnvægi og svona á lygnari sjó."
9. fundur starfshóps Seðlabanka Íslands um viðbrögð við lausafjárvanda 18. mars 2008
Starfshópur Seðlabankans um viðbrögð við lausafjárvanda fundaði 18. mars 2008. Í fundargerð kemur fram að Tryggvi Pálsson hafi sagt frá fundi samráðshóps þriggja ráðuneyta, Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans sem átt hefði sér stað fyrr sama dag. Á þeim fundi hafi verið farið yfir stöðuna almennt á fjármálamörkuðum.Segir aðTryggvi Pálsson hafi farið yfir tillögurAndrews Gracie á umræddum fundi og að samþykkt hafi verið að fara að hans ráðum varðandi næstu skref. Samráðshópurinn myndi síðan hittast aftur eftir viku. Því næst er vikið að fundarefni starfshóps um viðbrögð við lausafjárvanda. Í fundargerðinni kemur fram að Tryggvi Pálsson hafi lagt áherslu á að helstu úrræðum yrði safnað saman og þau sett upp á skipulagðan hátt. Einnig kemur fram að greint hafi verið frá því að fjölmiðlafulltrúar bankanna hefðu haldið símafund í framhaldi af því að bankarnir hefðu myndað nefnd sem færi með kynningarmál.
Fundur forsætisráðherra með bankastjórn Seðlabanka Íslands 18. mars 2008
Í minnisblaði Ingimundar Friðrikssonar er getið fundar 18. mars 2008 sem bankastjórn Seðlabankans mun hafa átt með Geir H. Haarde. Rannsóknarnefnd Alþingis hefur ekki undir höndum frekari upplýsingar um fundinn.
Fundur bankastjórnar Seðlabanka Íslands með stjórnendum Landsbankans 19. mars 2008
Hinn 19. mars 2008 fundaði bankastjórn Seðlabankans með stjórnendum Landsbankans. Af drögum Seðlabankans að fundargerð má ráða að m.a. hafi verið rætt um sameiningu á íslenskum bankamarkaði. Haft er eftir Sigurjóni Þ. Árnasyni að slíkt hafi verið í skoðun en sú hugmynd sé nú "komin í skúffuna" þar sem menn óttist að lánveitendur muni reyna að fara fram á endurgreiðslu lána ef til samruna komi. Einnig er haft eftir Sigurjóni: "Á skömmum tíma getur staðan orðið óviðráðanleg ef trúverðugleikinn tapast. Raunveruleg hætta núna að verið sé að taka ákvarðanir sem ekki verður snúið við þó aðstæður lagist. Svo auðvelt að hætta að lána íslenskum bönkum. Fáir raunverulegir vinir Íslands og ekki í aðstöðu til að bæta við sig. Þess vegna gríðarlega mikilvægt að ná inn erlendum gjaldeyri í kerfið sem fyrst. Er að hugsa í vikum." Því næst er haft eftir Davíð Oddssyni að það kunni að vera hagsmunir erlendra seðlabanka að hindra áfall á Íslandi.
Fundur bankastjórnar Seðlabanka Íslands með stjórnendum Glitnis 19. mars 2008
Sama dag, þ.e. 19. mars 2008, fundaði bankastjórn Seðlabankans með stjórnendum Glitnis. Í drögum Seðlabankans að fundargerð er haft eftir Davíð Oddssyni að unnið sé að samstarfi við erlenda seðlabanka um eflingu gjaldeyrisforða. Fram kemur að Lárus Welding hafi spurt um stærðargráðu slíks samkomulags. Haft er eftir Davíð Oddssyni að um gæti verið að ræða 6–7 milljarða evra til viðbótar við það sem fyrir sé. Síðan er haft eftir Lárusi Welding: "Held að sú tala sem nefnd var sé lágmark." Þó segir að Lárus sé feginn að heyra að slíkar viðræður eigi sér stað.
Skýrsla J.P. Morgan um Ísland 21. mars 2008
Hinn 21. mars 2008 kom út sérstök skýrsla um Ísland á vegum J.P. Morgan. Í kaflanum "What is the risk to the credit outlook from here?" segir m.a.: "At this juncture, it is difficult to identify where Iceland lies with respect to the event horizon, but our banking analysts believe the fundamentals for Icelandic banks remain weak."
Fundur forsætisráðherra með stjórnarformanni Glitnis 22. mars 2008
Við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis lýsti Geir H. Haarde því að 22. mars 2008 hefði hann átt fund með Þorsteini Má Baldvinssyni, stjórnarformanni Glitnis. Í skýrslu sinni sagði Geir: "[Þorsteinn] sagðist vera í heilmiklu sjokki eftir að hann var nýkominn þarna inn í bankann, hann hafði ekkert gert sér grein fyrir því hvernig staðan væri í raun og veru og hann mundi núna fara í það að draga þarna úr kostnaði eins og hægt væri. Hann mundi vilja beina sínum kröftum að því að lækka kostnað og lækka laun og annað eftir því."
Lagt til að ríkisstjórnin komi á fót varaáætlun 23. mars 2008
Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins 23. mars 2008 sagði m.a.: "Ríkisstjórnin verður hins vegar að horfast í augu við þann möguleika, að alvarleg fjármálakreppa geti blasað við hér vegna fjármögnunarvanda einhverra íslenzku bankanna undir lok þessa árs og á næsta ári. Hún getur ekki leitt hjá sér þá staðreynd, að þessi vandi geti komið upp. Hún verður að vera undir það búin og þarf að hafa gert sér grein fyrir, hvernig hún muni bregðast við tilteknum aðstæðum, ef þær kæmu upp. Hún þarf með öðrum orðum að hafa varaáætlun."
Fundur forsætisráðherra með aðstoðarmanni viðskiptaráðherra 25. mars 2008
Við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis lýsti Geir H. Haarde því að 25. mars 2008 hefði hann fundað með Jóni Þór Sturlusyni, aðstoðarmanni viðskiptaráðherra. Í skýrslu Geirs kom fram að Jón hefði verið góður samstarfsmaður og setið í bankaráði Seðlabanka Íslands og tekið virkan þátt í fjárlagavinnu sem fulltrúi Samfylkingarinnar. Geir sagði: "Hann kemur til mín þarna snemma að morgni 25. til að segja mér frá því sem hann kallaði "ástandið í Seðlabankanum", sem hann taldi að væri þá orðið mjög erfitt vegna þess að bankastjórinn sniðgengi sérfræðingana, hann væri svona og hinsegin og hann talaði illa um ríkisstjórnina, þar á meðal mig, illa um ráðherrana og tæki ekkert mark á, skammaði menn fyrir fræðilegar niðurstöður og eitthvað svona og svona. [...] þetta var eitt af því sem var verið að koma til manns."
10. fundur starfshóps Seðlabanka Íslands um viðbrögð við lausafjárvanda 25. mars 2008
Starfshópur Seðlabanka Íslands um viðbrögð við lausafjárvanda fundaði 25. mars 2008. Í fundargerð kemur fram að lagt hafi verið fram skjalið SI-39591, "Úrræði stjórnvalda gegn óróleika á fjármálamörkuðum". Skjalinu, sem í þeirri útgáfu var 7 bls. á lengd en varð síðar 12 bls. í útgáfu dags. 1. apríl 2008, var ætlað að draga saman helstu úrræði sem stjórnvöld hefðu til að bregðast við lausafjárþrengingum á íslenskum fjármálamarkaði. Fram kemur í fundargerð að farið hafi verið yfir skjalið og breytingar og endurbætur gerðar á því svo leggja mætti það fram á fundi samráðshópsins sem funda skyldi síðar sama dag. Síðan segir að Tómas Örn Kristinsson hafi farið yfir helstu forsendur sem hann sé að nota í kostnaðargreiningu á fjármálaáfalli. Hyggist hann kanna kostnað áfalls miðað við gengislækkun og hækkun vaxta. Fram kemur að Tryggvi Pálsson hafi greint frá því á fundinum að miklar viðræður hafi átt sér stað um páskana.Komið hafi fram að skilyrði í erlendum lánasamningum hefti möguleika á sameiningu bankanna.Því næst segir að Tryggvi hafi greint frá því að Sigurjón Þ. Árnason hafi sagt að í þessu samhengi sé munur á bandarískum og evrópskum lánasamningum. Bandarískir mótaðilar bíði færis á að rifta samningum og feli samruni í sér tækifæri til þess.
9. fundur samráðshóps stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað 25. mars 2008
Samráðshópur stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað fundaði 25. mars 2008. Í drögum að fundargerð kemur fram að Ingimundur Friðriksson hafi lagt fram fréttatilkynningar Seðlabanka Íslands um hækkun vaxta og breytingar á reglum bankans. Sem ástæðu þessara aðgerða hafi hann nefnt að millibankamarkaður í krónum hafi þrengst og smærri fjármálafyrirtæki finni helst fyrir því. Síðan segir að rifjað hafi verið upp að á síðasta fundi hefði formaður samráðshópsins, Bolli Þór Bollason, falið Fjármálaeftirlitinu og Seðlabanka Íslands að taka saman yfirlit um helstu aðgerðir sem til greina komi. Síðan segir að Jónas Fr. Jónsson hafi dreift þremur skjölum frá Fjármálaeftirlitinu og skýrt þau nánar. Um hafi verið að ræða nokkra umræðupunkta, greiningu á innlánum viðskiptabanka og sparisjóða og loks yfirlit yfir stærðardeifingu innstæðna hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum. Því næst segir að Tryggvi Pálsson hafi dreift tveimur skjölum frá Seðlabankanum og skýrt þau nánar, þ.e. annars vegar úrræði stjórnvalda gegn óróleika á fjármálamörkuðum og hins vegar dæmi um kostnaðaraukningu erlendra lána. Fram kemur að í umræðunum sem á eftir hafi fylgt hafi m.a. verið rædd nánar hugmyndin um kaup Íbúðalánasjóðs á fasteignabréfum til að létta á lausafjárvanda. Að loknum umræðum hafi skjölunum verið skilað aftur en ákveðið að Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn skyldu vinna áfram að gerð tveggja yfirlita, þ.e. um mögulegar aðgerðir stjórnvalda og kostnaðarmat. Fram kemur að Bolli Þór Bollason hafi boðað til fundar að viku liðinni og sagt nauðsynlegt að enda með "plan" sem sé tiltækt. Síðan kemur fram að Jónas Fr. Jónsson hafi sagt að auk framlagðra gagna sé hann með frumvarpsdrög sem hann hafi í huga að sýna Áslaugu Árnadóttur, settum ráðuneytisstjóra viðskiptaráðuneytisins, og geti e.t.v. nýst í aðgerðaáætlun.
Í skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis var Ingimundur Friðriksson spurður af hverju skjölum hefði verið safnað saman eftir fundinn 25. mars 2008. Í því samhengi var hann sérstaklega inntur eftir því hvort trúnaðarbrestur hefði verið innan hópsins. Hann áréttaði að enginn trúnaðarbrestur hefði verið innan hópsins. Á hinn bóginn sagði hann: "[...] láku bara [upplýsingar], að því er virtist, alveg í stríðum straumum út úr viðskiptaráðuneytinu. [...] Það var bara þannig, maður bara las í blöðum hluti sem að áttu ekki að vera þar og svo voru hérna yfirlýsingar sem ég nefndi áðan um NIBC og Kaupþing að þegar það mál var í vinnslu í miklum trúnaði hvort hægt væri að stoppa það gaf viðskiptaráðherra ákveðnar yfirlýsingar sem gerðu það að verkum að maður var alveg á taugum um hvað mundi gerast úti í heimi." Ingimundur áréttaði þó að fulltrúar viðskiptaráðuneytisins í samráðshópnum hefðu notið fyllsta trausts. Í skýrslu Áslaugar Árnadóttur fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom fram að eftir að hún tók sæti í samráðsnefndinni um miðjan desember 2007, hefðu farið "oft heilu og hálfu fundirnir í það að ræða um persónu viðskiptaráðherra sem þótti lausmáll og var ekki mikil trú á honum [...] það var iðulega lögð fram opnugrein, viðtal við viðskiptaráðherra [og síðan spurt] getur maðurinn ekki haldið kjafti". Hún sagðist hafa lýst þeim viðhorfum af sinni hálfu að hún teldi það skyldu sína að upplýsa ráðherra um það sem fram kæmi á fundum og veita honum aðgang að gögnum ef hann óskaði eftir því.Af þeim sökum hefði komið til þess að fundarmönnum í samráðshópnum hefði verið gert að skila framlögðum skjölum.
Seðlabanki Íslands breytir reglum um bindiskyldu 25. mars 2008
Hinn 25. mars 2008 tilkynnti Seðlabanki Íslands að reglum bankans um bindiskyldu hefði verið breytt. Breytingarnar gerðu ráð fyrir því að skuldbindingar erlendra útibúa íslenskra banka myndu framvegis ekki mynda grunn bindingar. Í fréttatilkynningu bankans kom fram að breytingin tæki gildi þegar reglulegri upplýsingaöflun um efnahagsliði erlendra útibúa íslenskra fjármálafyrirtækja hefði verið komið á. Jafnframt sagði að tilgangur breytingarinnar væri að samræma reglurnar þeim sem giltu hjá Seðlabanka Evrópu svo sem verða mætti. Þótt tölur lægju ekki fyrir mætti ætla að breytingin létti talsvert á bindiskyldu þeirra banka sem starfræktu útibú erlendis.
Við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis lýsti Eiríkur Guðnason, seðlabankastjóri, aðdraganda þess að reglum um bindiskyldu var breytt: "Það er undir lok árs 2007, að ég held, sem í símtali einn Landsbankamaður segir við mig segir að það sé ekki rökrétt hvernig við framkvæmum bindiskylduna gagnvart innstæðum sem útibú safna erlendis. Þetta er Yngvi Örn Kristinsson sem segir mér þetta. "Þetta er ekki rökrétt", segir hann, "þið þurfið ekkert að leggja bindingu á þetta því að þetta fé sem útibúið safnar þarna erlendis streymir ekkert hingað upp til Íslands", sagði það beinlínis. Ég viðra þessa skoðun, kem þessum upplýsingum á framfæri innanhúss, og við látum málið í vinnuhóp. Sigríður Logadóttir, aðallögfræðingur, stýrir þeim vinnuhópi, aðallega af því að við vildum að reglur evrópska seðlabankans yrðu skoðaðar, hvað varðar bindiskyldu í útibúi sem er utan svæðisins, á banka sem hefur höfuðstöðvar á svæðinu. Og það kemur í ljós að nákvæmlega þetta sem við gerðum, að evrópski seðlabankinn leggur ekki bindingu á fé sem safnast í útibúi utan evrusvæðisins þó að bankinn hafi höfuðstöðvar á evrusvæðinu. Og það er eindregin tillaga frá þessum vinnuhópi innanhúss að við förum í sama farveg, við ætlum að fylgja evrópsku reglunum, sem þýðir að bindiskylda lækkar heilmikið, þegar við gerum þetta." Aðspurður kvaðst Eiríkur telja að þessi aðgerð hefði skapað Landsbankanum um 20 milljarða króna í lausu fé.
Fundur bankastjórnar Seðlabanka Íslands með stjórnendum Landsbankans 25. mars 2008
Bankastjórn Seðlabanka Íslands fundaði með stjórnendum Landsbankans 25. mars 2008. Í drögum Seðlabankans að fundargerð segir að Sigurjón Þ. Árnason telji Kaupþing hafa "sogað til sín allan gjaldeyri í des/jan og mars, þeir geymi hann að hluta í Exista eða sérstöku félagi". Einnig segir að Sigurjón telji að Kaupþing sé að búa til eigið fé en eyðileggja íslensku krónuna og markaði í leiðinni. Fram kemur að einnig hafi verið rætt um útstreymi af Icesave innlánsreikningum. Loks segir að rætt hafi verið um skilmála í lánasamningum Landsbankans. Fram kemur að Sigurjón Þ. Árnason hafi afhent Sigríði Logadóttur, aðallögfræðingi Seðlabankans, drög að yfirliti um skilmála varðandi m.a. "change of control" í tengslum við hugsanlega yfirtöku á Glitni.
Fundur bankaráðs Seðlabanka Íslands 28. mars 2008
Bankaráð Seðlabanka Íslands fundaði 28. mars 2008 til undirbúnings á ársfundi bankans. Geir H. Haarde sat fundinn. Í fundargerð er haft eftir Davíð Oddssyni, formanni bankastjórnar Seðlabankans: "Miklar áhyggjur væru í bankakerfinu og mikilvægt væri að vera í samtökum við aðila úti í heimi við lausn á vandanum. Hann ítrekaði þakkir fyrir gott samstarf á liðnum 12 mánuðum og vonaði að vel rættist úr og að ríkissjóður, bankinn og Fjármálaeftirlitið næðu að vinna sig fram úr vandanum."
Ársfundur Seðlabanka Íslands 28. mars 2008
Ársfundur Seðlabankans fór fram 28. mars 2008. Á fundinum fluttu bæði Davíð Oddsson og Geir H. Haarde ræður.
Í ræðu Davíðs Oddssonar sagði m.a.: "Því er rétt að ganga út frá því sem vísu, að ástandið muni lítið lagast í bráð og þótt það kunni að lagast fer því fjarri að allt verði eins og áður. Hafi menn ekki þegar tekið sér tak er ekki lengur neins að bíða. Leita þarf allra leiða til að styrkja lausafjárstöðu fyrirtækjanna, ekki síst fjármálafyrirtækjanna og samhliða þarf að skoða markaðsmódelin rækilega upp á nýtt. Það má segja að á knattspyrnumáli myndi þetta þýða, að nú sé rétt að pakka í vörn og láta sér nægja marksvon með hraðaupphlaupi ef tækifæri bjóðast þrátt fyrir allt. [...] Og því er ekki að neita að sú atlaga sem nú er gerð að íslenskum bönkum og íslenska ríkinu, en tryggingarálög á það hækkuðu í dag yfir 400 punkta sem er fráleitt, lyktar óþægilega af því að óprúttnir miðlarar hafi ákveðið að gera úrslitatilraun til að brjóta niður íslenska fjármálakerfið. Þeim mun ekki takast það."
Í ræðu Geirs H. Haarde sagði m.a.: "Neikvæð umfjöllun um íslensk efnahagsmál eins og birst hefur í nokkrum erlendum dagblöðum að undanförnu hefur komið okkur í opna skjöldu. [...] Fjármálaþjónusta er skýrasta dæmið um atvinnugrein sem hefur blómstrað við nýjar aðstæður. Stóru íslensku bankarnir þrír hafa breyst úr því að vera staðbundnir bankar sem buðu nánast eingöngu upp á hefðbundin inn- og útlán og greiðslumiðlun yfir í að vera alþjóðlegir bankar sem veita víðtæka þjónustu í fjölda landa. Og vöxturinn hefur verið ör. Samanlagðar eignir stóru bankanna þriggja eru nú meira en áttföld landsframleiðsla íslensku þjóðarinnar." Loks sagði Geir: "Það er því engum vafa undirorpið að ríkissjóður og Seðlabankinn gætu hlaupið undir bagga ef upp kæmi alvarleg staða í bankakerfinu. Ég hef ítrekað verið spurður um þetta af erlendum aðilum á liðnum vikum og hef ávallt svarað því til að íslensk stjórnvöld muni við slíkar aðstæður hiklaust grípa til sömu aðgerða og ábyrg stjórnvöld annars staðar. Þetta vil ég árétta nú."
Fundur forsætisráðherra og fjármálaráðherra með formanni bankastjórnar Seðlabanka Íslands 30. mars 2008
Hinn 30. mars 2008 héldu Geir H. Haarde og Árni M. Mathiesen fund með Davíð Oddssyni. Ekki var rituð fundargerð eða minnisblað fyrir ráðherra. Umræðuefnið var staðan á fjármálamörkuðum. Geir lýsti því við skýrslutökur að Davíð hefði lýst áhyggjum á fundinum af stöðu Glitnis sem hann sagðist telja reka sig frá viku til viku. Davíð hefði einnig haft áhyggjur af Icesave reikningunum sem hann sagði hættulega. Upplýst hefði verið að Seðlabankinn hefði útvegað lán frá Alþjóðagreiðslubankanum í Basel (Bank for International Settlements, hér eftir einnig nefndur BIS). Loks hefði Davíð sagt að hann teldi bankana ekki skýra satt og rétt frá sinni stöðu og hefði hann einkum nefnt Kaupþing í því sambandi.Varðandi framangreinda lánalínu BIS skal tekið fram að í drögum Ingimundar Friðrikssonar að minnisblaði segir að undir lok mars hafi Davíð Oddsson haft samband við bankastjóra Alþjóðagreiðslubankans í Basel og falast eftir eins milljarðs evra lánalínu. Beiðninni hafi verið vel tekið og samningurinn gerður. Hins vegar hafi verið um mánaðarsamning að ræða, en tilkynna þurfi mánaðarlega um ósk um framlengingu slíkra samninga. Síðan segir í drögum Ingimundar: "Vegna ókunnugleika á nýju fyrirkomulagi misfórst það í fyrsta sinnið (í byrjun maí) og þegar það uppgötvaðist var tafarlaust óskað eftir framlengingu. Þá var komið annað hljóð í strokkinn í Basel og var BIS með öllu ófáanlegur til þess að framlengja samninginn." Við skýrslutöku sagði Davíð að lánalínan hefði numið 500 milljónum evra en ekki einum milljarði evra. Jafnframt sagði Davíð: "[...] ég hringdi í Malcolm Knight, forstjóra bankans, við vorum þarna með lánin þarna upp að 100 milljónir eitthvað þess háttar, var 200 komið niður í 100, og ég hringdi [...] og fékk hann til að hækka þetta í 500 og þetta þurfti síðan bara að endurnýjast, ég held mánaðarlega eða þess háttar. Alþjóðadeildin átti að sjá um það hjá okkur, alþjóðasviðið. Það taldi sig hins vegar hafa falið það bókhaldinu, bókhaldssviðinu, og bókhaldssviðið síðan endurnýjar þetta ekki einhver mánaðamótin og síðan, þegar við heyrum af þeirri handvömm, sem við töldum vera, og felum þeim að endurnýja þetta þegar í stað, þá er komið annað hljóð í BIS-strokkinn." Nánar er um þetta fjallað í kafla 4.0.
Fundur bankastjórnar Seðlabankans með bankastjórum Landsbankans 30. mars 2008
Hinn 30. mars 2008 fundaði bankastjórn Seðlabankans með bankastjórum Landsbankans. Í drögum Seðlabankans að fundargerð er haft eftir Sigurjóni Þ. Árnasyni, bankastjóra Landsbankans: "Tvær Tímasprengjur: Icesave og heildsöluinnlánin. [...] Eftir að krónan féll hefur tónninn breyst og hef ekki trú á að ísl. bankarnir bjargi sér." Síðar er haft eftir Sigurjóni: "Líkurnar á að íslensku bankarnir komist í gegnum þetta eru mjög, mjög litlar."
Við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis var Sigurjón beðinn um að skýra síðastgreind orð sín. Sigurjón sagði: "[Það] var [..] þannig, ef þið skoðið gögnin, þá er Landsbankinn alltaf að tala við þessa menn og við erum alltaf að reyna að segja hvernig þetta sé og tala við þá og reyna að útskýra.Við erum ekki að fela neitt eða að segja að allt sé í góðu lagi. [...] En hvernig er þetta leyst? Jú, þetta er leyst þannig, það er væntanlega verið að gera einhverja árás, það er erfitt að sanna það og ég held að íslenska Fjármálaeftirlitið hafi samband við fjármálaeftirlitið í Bretlandi og fjármálaeftirlitið í Bretlandi fer í gang með að kanna hvort það sé markaðsmisnotkun. Það veldur því að þeir sem eru að reyna að drepa okkur á þessum tímapunkti þeir hugsa [...] bremsa aðeins. Á sama tíma segjum við við alla sem vilja hlusta á..., íslenska ríkið er með yfirlýsingar um að þeir ætli að styðja við okkur, þeir gerðu það á þessum tíma, haldið þið að evrópski seðlabankinn ætli að láta þá bara vera eina í þessu? Við erum partur af EES, þeir hljóta að hjálpa. Það eru stórir aðilar á bak við þetta. Ég man bara eftir að ég sat á fundi með Morgan Stanley, það var einhver kynning sem við vorum á, og ég er að segja, það er bara pottþétt, heldurðu að ríkisstjórnin sé að segja þetta án þess að hún sé með stuðning frá Evrópusambandinu, þeir hljóta að vera með eitthvað á bak við þetta, trúir þú því ekki? Þá svona almennt séð, byrjaði jafnt þessi myndasöguímynd á markaði: "Já, það er nú kannski eitthvað á bak við þetta hjá Íslendingum, þeir eru kannski með eitthvað á bak við sig" [...] Ég man að ég hitti [starfsmann frá] Deutsche Bank og þá sagði hann: "Já það er svona komin stemning inn á markaðinn að menn trúa því að Evrópusambandið sé á bak við ykkur.""
Forsætisráðherra ræðir í síma við formann bankastjórnar Seðlabanka Íslands 31. mars 2008
Í gögnum frá forsætisráðuneyti til rannsóknarnefndar Alþingis kemur fram að Geir H. Haarde og Davíð Oddsson hafi ræðst við í síma 31. mars 2008 um afstöðu Seðlabanka Evrópu til íslensku bankanna. Rannsóknarnefnd Alþingis hefur ekki frekari upplýsingar undir höndum um símtalið.
19.3.7 Apríl 2008
10. fundur samráðshóps stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað 1. apríl 2008
Hinn 1. apríl 2008 fundaði samráðshópur stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað. Í drögum að fundargerð kemur fram að rætt hafi verið um þá ákvörðun lánshæfismatsfyrirtækisins Fitch að setja neikvæðar horfur á bankana og ríkið. Einnig segir að rætt hafi verið um hreyfingar á innlánum Landsbanka Íslands hf. og Kaupþings banka hf. í Bretlandi. Haft er eftir Tryggva Pálssyni, framkvæmdastjóra fjármálasviðs Seðlabankans, að svo virðist sem Kaupthing Edge sé enn í vexti en bæði heildsölu- og smásöluinnlán Landsbankans hafi verið að minnka. Fram kemur að Áslaug Árnadóttir, sem þá var settur ráðuneytisstjóri viðskiptaráðuneytis, hafi bent á mikilvægi þess að Kaupþing skrái innlán í dótturfélagi sínu en Áslaug hafi einnig nefnt að Icesave sé í útibúi Landsbankans. Haft er eftir Áslaugu að hún hafi sem stjórnarformaður Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta fundað í undangenginni viku með sendinefnd frá breska tryggingarsjóðnum sem heimsótt hafi Ísland. Í undirbúningi sé að breyta reglum breska tryggingarsjóðsins. Slíkt geti gert samanburðinn við íslenska tryggingarsjóðinn enn óhagstæðari sem og stöðu innstæðueigenda í útibúum íslensku bankanna erlendis. Fram kemur að dreift hafi verið tveimur vinnuskjölum. Annars vegar "Úrræði stjórnvalda gegn óróleika á fjármálamörkuðum" sem Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið hafi tekið saman og hins vegar "Mat á kostnaði vegna breyttra skilyrða á fjármálamarkaði" sem Seðlabankinn hafi unnið. Í drögum að fundargerð segir að Bolli Þór Bollason, ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytis, hafi spurt hversu mikil vinna sé eftir í því að koma með frumvarp um breytingar á lagaákvæðum varðandi Fjármálaeftirlitið. Því næst segir að Jónas Fr. Jónsson, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, hafi sagt að frumdrög séu tilbúin og hafi verið sýnd viðskiptaráðuneyti. Nokkur vinna sé eftir. Haft er eftir Baldri Guðlaugssyni, ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytis, að slíkt frumvarp þurfi helst að leggja fram á rólegum tíma eða þá þegar krísa sé skollin á. Fram kemur að Baldur Guðlaugsson, Jónas Fr. Jónsson og Ingimundur Friðriksson, seðlabankastjóri, hafi fundað daginn áður og rætt um samræmda stefnu stjórnvalda. Þeir leggi áherslu á að halda þurfi þétt að stjórnendum fjármálafyrirtækja að þeir bjargi sér sjálfir, s.s. með róttækri sölu eigna. Haft er eftir Bolla Þór Bollasyni að stjórnendur bankanna eigi að gera sér grein fyrir að stjórnvöld vilji verja innstæðueigendur en ekki hluthafa eða lánardrottna. Því næst segir að Baldur Guðlaugsson hafi sagt vandann vera þann að menn vilji einfaldar lausnir. Það skipti nú m.a. máli hvort Landsbankanum takist að flytja innlán útibúsins yfir í dótturfélag í Bretlandi. Haft er eftir Tryggva Pálssyni að breska fjármálaeftirlitið setji það skilyrði að eignir færist samhliða til dótturfélagsins, þ.m.t. viðeigandi lausafjárstaða. Fram kemur að Bolli Þór Bollason hafi bætt því við að tilflutningur innlána þar sem samband sé haft við alla innstæðueigendur hljóti að vera viðkvæm aðgerð. Því næst er haft eftir Jónasi Fr. Jónssyni að hann telji þau skilaboð nauðsynleg að fyrirgreiðsla stjórnvalda yrði gegn ströngum skilyrðum. Meðal annars geti þurft að sameina rekstur fjármálafyrirtækja í tengslum við opinbera aðstoð. Loks segir að Bolli Þór Bollason hafi sagt að setja þurfi á blað aðgerðaáætlun.
Við skýrslutöku af Bolla Þór Bollasyni var hann spurður að því hvort á fundinum 1. apríl 2008 hefði verið ágreiningur um það hversu mikla áherslu ætti að leggja á lagafrumvarpið sem verið var að vinna að. Bolli svaraði: "Nei, það voru allir algjörlega sammála um að það þyrfti að undirbúa svona frumvörp og ég held að menn hafi líka verið sammála því að tímasetningin væri náttúrulega mjög viðkvæm. Það var að sumu leyti okkar Akkilesarhæll í þessu öllu. Á þessum tíma vorum við komin inn í krísuumhverfi. Þarna var mjög neikvæð umræða um íslensku bankana og að ætla sér að fara fram með einhver lagafrumvörp sem fælu í sér hert ákvæði Fjármálaeftirlitsins, eða víðtækari heimildir til inngripa. Ég held að allir hafi verið sammála því að það gæti hreinlega bara framkallað hrun bankanna. En menn voru alveg sammála um að það þyrfti að herða á þessum ákvæðum og að Fjármálaeftirlitið hefði ekki nógu víðtækar heimildir, eins og er í mörgum öðrum löndum."Í skýrslu Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom fram að hann hefði fyrst þá við skýrslutökuna séð skjalið "Úrræði stjórnvalda gegn óróleika á fjármálamörkuðum" sem merkt er drög frá 1. apríl 2008 og sama ætti við um skjalið "Mat á kostnaði vegna breyttra skilyrða á fjármálamarkaði", dags. 1. apríl 2008, en það stafar frá Seðlabankanum.
Fundur forsætisráðherra og utanríkisráðherra með bankastjórn Seðlabanka Íslands 1. apríl 2008
Bankastjórn Seðlabankans fundaði með Geir H. Haarde og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, utanríkisráðherra, 1. apríl 2008. Í minnisblaði Ingibjargar Sólrúnar frá fundinum segir að Davíð Oddsson, formaður bankastjórnar Seðlabankans, hafi haft orð fyrir bankastjórninni. Davíð hafi nefnt að 193 milljónir punda hafi runnið út af Icesave reikningum um helgina og fram til þessa dags. Fram kemur að Davíð hafi sagt að Landsbankinn geti þolað slíkt útstreymi í um sex daga. Einnig segir að fram hafi komið í máli Davíðs að breska fjármálaeftirlitið vilji að Landsbankinn færi Icesave reikningana yfir í breskt dótturfélag.
Í skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis var Ingibjörg Sólrún Gísladóttir spurð hvaða áhætta hafi verið talin fyrir hendi varðandi orðspor Íslands erlendis ef illa hefði farið fyrir Landsbankanum. Ingibjörg svaraði því til að málið hefði ekki verið rætt á þeim nótum.
11. fundur samráðshóps stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað 2. apríl 2008
Hinn 2. apríl 2008 fundaði samráðshópur stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað. Í drögum að fundargerð kemur fram að Bolli Þór Bollason hafi sagt að tími sé kominn til að taka saman aðgerðaáætlun og draga mörkin. Hann skilji málið ráðherra megin þannig að taka eigi á stóru bönkunum þremur og innlánstryggingum. Fram kemur að rætt hafi verið nánar um þessar áherslur og þörfina á að setja sérstaka vinnu í gang. Síðan segir að ákveðið hafi verið að skipa tvo starfshópa. Annars vegar muni Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið setja á blað trúverðuga sviðsmynd sem geti falið í sér að einn af stóru bönkunum þremur lendi í vanda. Í samræmi við þá stöðu séu tilgreindar þær aðgerðir stjórnvalda sem helst komi til greina og þau skilyrði sem helst verði sett fyrir opinberum inngripum. Hins vegar verði skipaður starfshópur sem greini álitamál í innlánstryggingum og dragi upp tillögu að yfirlýsingu stjórnvalda sem grípa megi til ef þörf sé talin á. Því næst segir að í umræðum á fundinum hafi komið fram að bankarnir verði sjálfir að grípa til allra nauðsynlegra aðgerða. Haft er eftir Jónasi Fr. Jónssyni að kalla megi bankamenn í forsætisráðuneytið þegar stefnan liggi fyrir til að gera þeim þetta ljóst og hvaða takmarkanir verði á opinberri aðstoð.Væntingar séu á markaðnum um að yfirlýsingar stjórnvalda sé að vænta.
Í skýrslu Bolla Þórs Bollasonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom eftirfarandi fram um tilvísun hans til afstöðu ráðherra: "[...] það var ekki gerð nein ríkisstjórnarsamþykkt, en ráðherrarnir voru alveg sammála um að það bæri að leggja megináherslu á að bjarga þessum þremur [bönkum]. Það væri viðfangsefnið. En þegar að þessu kæmi, þegar menn sæju og óttuðust að þetta væri yfirvofandi, þá þyrfti þessi ákvörðun að koma fram." Þessi afstaða hefði komið fram í samtölum hans við forsætisráðherra. Bolli var þá spurður að því hvað hefði legið því til grundvallar að það ætti að bjarga stóru bönkunum þremur. Hann svaraði: "Eiginlega bara sú afstaða að annars mundi kerfið hrynja, það væri ekki inni í myndinni að bjarga bara einum.Viðfangsefnið væri alltaf að þeir [færu] allir þrír. Menn voru allan tímann klárir á að það væri vandamálið. Ef við stæðum frammi fyrir vandamálum, þá væri það vandamálið."Við skýrslutöku hjá rannsóknarnefnd Alþingis var Baldur Guðlaugsson beðinn um að lýsa þeirri pólitísku stefnumótun sem vikið var að í drögum að fundargerð samráðshópsins frá 2. apríl 2008 þar sem Bolli Þór Bollason var sagður hafa vísað til stöðunnar "ráðherra megin". Baldur svaraði því til að hann vissi ekki hversu formleg umfjöllunin hefði verið ráðherra megin. Um gæti verið að ræða að oddvitar stjórnarflokkanna hefðu hist eftir ríkisstjórnarfund og rætt málin.
Bréf starfsmanns fjármálaráðuneytis til fjármálaráðherra og ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytis 2. apríl 2008
Hinn 2. apríl 2008 ritaði Þorsteinn Þorgeirsson, skrifstofustjóri efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins, Árna M. Mathiesen, fjármálaráðherra, og Baldri Guðlaugssyni bréf varðandi fund sinn með J.P. Morgan. Í bréfinu kemur fram að Finnur Sveinbjörnsson, sem þá starfaði á vegum forsætisráðuneytisins, hafi boðað til fundarins. Fyrir J.P. Morgan hafi farið Michael Ridley. Ráða má af bréfinu að rætt hafi verið um stöðu mála og horfur í fjármálaheiminum. Í bréfinu er m.a. haft eftir Ridley: "[...] og viðurkenndi hann að þótt undirstöður væru góðar í íslenskum bönkum væri ímyndin einfaldlega sú að þeir væru í sjálfheldu hvað fjármögnun varðar og að aðeins aðgerðir ríkissjóðs geti leyst þá úr þeirri stöðu og hjálpað þeim að endurheimta lánstraustið sem þeir nutu áður." Haft er eftir Ridley að til staðar séu tvö meginvandamál. Í fyrsta lagi sé Seðlabanki Íslands ekki álitinn trúverðugur lánveitandi til þrautavara. Hann sé ekki talinn hafa sýnt að hann búi yfir aðgengi að nægu erlendu lánsfé. Í öðru lagi séu bankarnir með hluta af efnahagsreikningum sínum í erlendum gjaldmiðli. Seðlabankinn sé ekki talinn búa yfir nægu erlendu lánsfé til að fjármagna bankana ef þörf krefji. Í bréfinu segir Þorsteinn að lausn vandans að mati J.P. Morgan sé talin þríþætt. Í fyrsta lagi kynning, þ.e. þjóðhagslega hagkvæm aðgerð sem miði að því að tryggja fjármálastöðugleika. Í öðru lagi að tryggja aðgengi að nægu fjármagni, þ.e. samningur Seðlabankans við nokkra erlenda seðlabanka um aðgengi að fjármagni þeirra. Eftir að aðgengi að fjármagni hafi verið kynnt þurfi Seðlabankinn loks að fjármagna "stærri hluta lengri tíma á almennum skuldabréfamarkaði (terming out), til ca. 10 ára". Það fjármagn verði síðan notað til að endurfjármagna bankana. Síðan segir Þorsteinn: "Í stuttu máli.Tryggja þarf aðgengi að 10 ma. evra með aðgengi að fjármagni seðlabanka, byggja upp gjaldeyrisvarasjóðinn á skuldabréfalánum á almennum markaði, og með stóran hluta þeirra lána til lengri tíma. Síðan er fjármagnið að stærstum hluta endurfjárfest og vaxtamunurinn er hinn raunverulegi kostnaður. Sá kostnaður er miklu mun minni en kostnaðurinn fyrir þjóðfélagið af hruni bankakerfisins."
Seðlabanki Íslands sendir Fjármálaeftirlitinu bréf 2. apríl 2008
Hinn 2. apríl 2008 sendi Seðlabankinn Fjármálaeftirlitinu bréf þar sem fjallað var um vísbendingar um markaðsmisnotkun. Í bréfinu segir: "Óstaðfestar upplýsingar eru um að Kaupþing banki og stærsti eigandi hans, Exista, kunni að hafa nýtt stöðu sína á gjaldeyrismarkaði til að stuðla að og hagnast á gengislækkun íslensku krónunnar." Síðan segir: "Erfitt er að staðfesta áreiðanleika þessara upplýsinga. Hins vegar telur bankinn að þær séu þess eðlis að rannsaka verði málið og beinir því til Fjármálaeftirlitsins [að] svo verði gert. Seðlabankinn er fús til samstarfs þar um."
Fjármálaeftirlitið svaraði bréfi Seðlabankans 7. ágúst sama ár. Fram kemur að niðurstaða Fjármálaeftirlitsins sé sú að ekki hafi "komið fram vísbendingar um brot á þeirri löggjöf sem Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með." Því næst segir í bréfinu: "Fjármálaeftirlitið lítur svo á að rannsókn þessa máls sé lokið."
Vinnuskjal Seðlabankans, "Mat á kostnaði vegna breyttra skilyrða á fjármálamarkaði", dags. 3. apríl 2008
Í gögnum frá Seðlabankanum er að finna vinnuskjalið "Mat á kostnaði vegna breyttra skilyrða á fjármálamarkaði", dags. 3. apríl 2008. Höfundur skjalsins er Tómas Örn Kristinsson, framkvæmdastjóri upplýsingasviðs Seðlabankans. Í skjalinu er farið yfir sögulegan kostnað vegna fjármálaáfalla erlendis. Þessi könnun tók ekkert mið af íslenskum aðstæðum.Tafla 1 er birt við þá umfjöllun.
11. fundur starfshóps Seðlabanka Íslands um viðbrögð við lausafjárvanda 3. apríl 2008.
Starfshópur Seðlabanka Íslands um viðbrögð við lausafjárvanda fundaði 3. apríl 2008. Í fundargerð kemur fram að Tryggvi Pálsson hafi greint frá vinnu samráðshóps þriggja ráðuneyta, Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans um fjármálastöðugleika og viðbúnað. Á síðustu dögum hafi sá hópur fundað tíðar en áður, bæði undangenginn dag og muni funda aftur næsta dag. Fram kemur í fundargerð að dreift hafi verið vinnuskjali um möguleg úrræði Seðlabankans, Fjármálaeftirlitsins og stjórnvalda (í hópnum SI-39591). Segir að samráðshópurinn hafi nú ákveðið að fylgja tillögu Andrews Gracie varðandi áframhaldandi vinnu og nú sé komið að því að stjórnvöld myndi sér stefnu. Segir að Tryggvi Pálsson hafi í því sambandi nefnt að setja þurfi tvennt í gang. Í fyrsta lagi þurfi að skoða aðkomu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta og eiga til ábyrgðaryfirlýsingu. Jónas Þórðarson frá Seðlabankanum og Áslaug Árnadóttir séu að vinna að því verkefni. Í öðru lagi hafi samráðshópurinn beðið um að sett yrði upp sviðsmynd af fjármálaáfalli ef allt færi á versta veg ásamt því að setja fram hvaða skilyrði stjórnvöld geti sett fyrir aðstoð. Samkvæmt fundargerð var Sylvíu Kristínu Ólafsdóttur, forstöðumanni viðbúnaðarsviðs Seðlabankans, og Tómasi Erni Kristinssyni, framkvæmdastjóra upplýsingasviðs Seðlabankans, falið að starfa í vinnuhóp með Ragnari Hafliðasyni, aðstoðarforstjóra Fjármálaeftirlitsins, og Rúnari Guðmundssyni, sviðsstjóra hjá Fjármálaeftirlitinu, og vinna að þessu verkefni. Fram kemur að Sturla Pálsson, framkvæmdastjóri alþjóða- og markaðssviðs Seðlabankans, hafi spurt hvaða tímaramma menn gefi sér fyrir slíkt verkefni og lagt áherslu á að mikilvægt sé að þær aðgerðir og úrræði sem lögð verði til taki mið af raunverulegum aðstæðum. Því næst er haft eftir Tómasi Erni Kristinssyni að mikilvægt sé að hafa samráð við Sturlu í þessu verkefni.
Haft er eftir Sturlu Pálssyni að ástandið sé betra í þessari viku en þeirri síðustu. Bankarnir séu að gefa út bréf og "swap-a" sín á milli og koma því svo inn í Seðlabanka Evrópu. Síðan segir að Sigríður Logadóttir, aðallögfræðingur Seðlabankans, hafi farið yfir vinnuskjal Landsbanka Íslands varðandi skilmála í lánasamningum sem eigi við ef til samruna eða yfirtöku komi. Samkvæmt þeim upplýsingum sem veittar hafi verið sé ljóst að endurfjármagna þurfi meirihluta af lánum ef til samruna eða yfirtöku komi. Um þetta er síðan haft eftir Tryggva Pálssyni að erlendir lánardrottnar bíði eftir að geta endursamið á hærri vöxtum. Loks kemur fram að Sylvía Kristín Ólafsdóttir hafi dreift skjali sem bar nafnið "Lausafjárstaða innlánsstofnana – þróun og þolmörk", SI-39700. Fram kemur að í skjalinu sé lagt mat á þróun og þolmörk lausafjárstöðu helstu viðskiptabankanna. Um þetta segir í fundargerð að lausafjárstaða Glitnis banka hf. sé hvað veikust og treysti bankinn í auknum mæli á samningsbundnar lánalínur. Einnig kemur fram í fundargerð að helsta áhætta Landsbankans sé tengd innlánum.
12. fundur samráðshóps stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað 4. apríl 2008
Hinn 4. apríl 2008 fundaði samráðshópur stjórnvalda. Í drögum að fundargerð segir að Ingimundur Friðriksson hafi dreift skeyti sem barst frá Halldóri J. Kristjánssyni, bankastjóra Landsbankans, þar sem fram komi staðfesting breskra blaðamanna á að fulltrúar vogunarsjóða hafi reynt að koma af stað neikvæðri umræðu um Ísland og íslensku bankana. Haft er eftir Jónasi Fr. Jónssyni að vinnuhópur Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans sé tekinn til starfa en honum sé ætlað að bregða upp sviðsmynd af áfalli og benda á vænlegustu aðgerðir stjórnvalda ásamt skilyrðum sem setja megi. Fram kemur að Bolli Þór Bollason hafi lagt áherslu á að hóparnir skili niðurstöðum sínum sem fyrst. Síðan segir aðTryggvi Pálsson hafi minnt á aðgerðaáætlunAndrews Gracie en hún geri ráð fyrir að bönkunum verði stillt upp við vegg þegar hið opinbera sé búið að marka stefnu (e. "fund or else"). Fram kemur að Baldur Guðlaugsson hafi farið yfir minnispunkta sem hann hafi tekið saman og varað við óábyrgu blaðri. Ekki mætti lofa meiru en hægt væri að standa við. Því næst segir að Jónas Fr. Jónsson hafi sagt að vandinn muni byrja sem lausafjárvandi en það geti gerst innan þriggja mánaða. Það sem núna beri að gera sé að tala ekki kerfið niður heldur þrýsta á fjármálafyrirtækin að grípa til róttækra aðgerða eins og sölu stórra eigna. Fram kemur að Ingimundur Friðriksson hafi bætt við að betra sé að lifa minni en að deyja stór.
Við skýrslutöku af Bolla Þór Bollasyni fyrir rannsóknarnefnd Alþingis var rætt um drög samráðshópsins að fundargerð frá 4. apríl 2008 og Bolli inntur eftir því hvort eitthvað sérstakt hefði verið gert í því af hálfu ríkisstjórnarinnar að stilla bönkunum upp við vegg, eins og þar væri rætt um. Bolli svaraði á eftirfarandi veg: "[Það var] almenn afstaða [að] hinn eðlilegi farvegur til þess að reyna að fá bankana til þess að svona bregðast við væri í gegnum annars vegar samtöl seðlabankastjóra og hins vegar Fjármálaeftirlitið. Ég man að við ræddum það [...] ég spurði hvort ekki væri eðlilegt að blanda forsætisráðherra inn í þessi samtöl. Og á þeim fundi var niðurstaðan alla vega sú að það væri rétt að halda þessu áfram innan veggja Seðlabanka og Fjármálaeftirlitsins. Einhverjir svona formlegir fundir með bönkunum þar sem forsætisráðherra og hugsanlega utanríkisráðherra stilltu mönnum upp við vegg, þeir voru ekki haldnir. En auðvitað kom fram í óformlegum samtölum, eða alla vega á þeim fundum sem ég sat, þá voru menn auðvitað að ræða þessi mál af mikilli alvöru og það sem umræðurnar svolítið, eða svona ef maður reynir að endursegja þessi samtöl, annars vegar við seðlabankastjóra og hins vegar við bankastjórana, þá er nokkuð til í því sem ég sá einhvers staðar haldið fram, að seðlabankastjórar, þetta á náttúrulega fyrst og fremst við um Davíð, hann kom með mjög dökka mynd og eftir því sem leið á árið þá dökknaði hún, og taldi að bankarnir væru smám saman að sigla inn í hættulega tíma. Síðan voru haldnir fundir með bankastjórunum, þá voru seðlabankastjórar ekki viðstaddir, það voru bæði fundir sem ég man eftir bæði með forsætisráðherra einum, og kannski honum og utanríkisráðherra eða fjármálaráðherra. Þá voru málin rædd á þessum nótum, að við hefðum fengið upplýsingar, eða hann, um erfiða stöðu og svörin sem ég, eins og ég upplifði þessi samtöl voru yfirleitt á þann veg að annaðhvort væri þetta ekki rétt eða þetta væru gamlar upplýsingar og það væri búið að bregðast við og taka á þeim vandamálum sem seðlabankastjóri hefði verið að lýsa. Ef maður einfaldar þetta þá er þetta svona almenni tónninn í samtölum."
Fundur bankastjórnar Seðlabanka Íslands með bankastjórum Landsbankans 4. apríl 2008
Bankastjórn Seðlabankans fundaði með bankastjórum Landsbankans 4. apríl 2008. Í drögum að fundarpunktum Seðlabankans kemur fram að rætt hafi verið um innlánsreikninga Landsbankans í Bretlandi og almennt um aðstæður á fjármálamörkuðum.
Fundur seðlabankastjóra með félagsmálaráðherra 8. apríl 2008
Rannsóknarnefnd Alþingis hefur undir höndum minnisblað Ingimundar Friðrikssonar þar sem greint er frá fundi hans með Jóhönnu Sigurðardóttur, félagsmálaráðherra.Við skýrslutöku lýsti Jóhanna því að hún hefði kallað Ingimund til fundar við sig til þess að fá mat hans á stöðu mála á íslenskum fasteignamarkaði: "[...] við fórum bara almennt yfir stöðuna á fasteignamarkaðnum sem þá var orðinn mjög þröngur og ég var að velta fyrir mér ýmsum breytingum þar, hvort það ætti að breyta lánakerfinu, útvíkka þar heimildir, m.a. var ég að fara yfir þetta með honum út af ESA sem var búin að kalla eftir breytingum á húsnæðislánakerfinu út af ríkisábyrgðinni og ég var bara að fara yfir stöðuna með honum. Og ég kalla, ég, það var, ég held að það hafi verið alveg öruggt að ég hafi kallað í hann. Fórum mikið yfir svona veðhæfni, hvernig það stæði, hvað mikið eignir væru veðsettar og svona almennt án þess að það kæmi nokkur niðurstaða út úr því. Og þetta var bara í tengslum við vinnuferil þar sem að ég var að vinna þetta mál."
Bréf stjórnarformanns Kaupþings til forsætisráðherra 9. apríl 2008
Hinn 9. apríl 2008 ritaði Sigurður Einarsson, stjórnarformaður Kaupþings, Geir H. Haarde, forsætisráðherra, bréf. Í því segir m.a.: "Ég tel að þér og Seðlabankanum hafi orðið vel ágengt með yfirlýsingum ykkar um íslenskt efnahagslíf síðustu vikur.Til að fylgja því eftir hef ég áhuga á að koma á framfæri þeim viðbrögðum sem ég hef fengið í samtölum við fjölmarga erlenda banka- og fjölmiðlamenn að undanförnu. Ég mundi kjósa að gera það á fundi fremur en að bætast í hóp álitsgjafa og aftursætisbílstjóra sem eru ósparir á ráð þessa dagana. [...] Það sem mér liggur helst á hjarta er, að ég tel að sá árangur sem nú hefur náðst í að reisa við orðspor íslensks fjármálamarkaðar sé brothættur. Þeir aðilar sem gengið hafa harðast fram í söguburði um Ísland hafa vissulega orðið fyrir skráveifum með hækkandi verði íslenskra eigna og það hefur tekist að minnka trúverðugleika þeirra á meðal margra erlendra fjölmiðla og þar af leiðandi aðgang þeirra að þessum sömu fjölmiðlum. [...] Kveikjan að því að þróunin gæti snúist við á ný þarf ekki að vera stór, við sáum í janúar hversu mikil áhrif fjárhagsvandræði Gnúps höfðu á alþjóða fjármálamörkuðum þótt fæstir hafi álitið það stóra frétt hér heima. Á næstu vikum og mánuðum eru frekari gjaldþrot og fjárhagsvandræði íslenskra fyrirtækja óhjákvæmileg og ómögulegt að spá fyrir um hvaða áhrif slíkar fréttir kunni að hafa á erlendum vettvangi. Ég tel því afar brýnt að nýta það skjól sem við njótum nú til að vinna á þeim veikleikum sem skortsalar virðast helst hafa getað gert sér mat úr. [...] Það sem ég tel að þurfi að gera til að fylgja eftir vel heppnuðum yfirlýsingum er að Seðlabankinn nái samkomulagi við trúverðugan aðila um lánalínur. Ýmsir hafa velt vöngum yfir hversu stórar slíkar lánalínur þurfi að vera til að teljast trúverðugar. Ég tel æskilegt að það einfaldlega náist samningar um samvinnu við trúverðugan aðila og að ekki verði gefið upp hversu stór slík lína sé. Til að slíkt sé hægt þarf aðilinn sem samið er við að hafa trúverðugleika sem einungis evrópski eða jafnvel bandaríski seðlabankinn hafa og án þess að skrifstofustjórar þessara stofnana séu að tjá sig um merkingu samkomulagsins við fjölmiðla. [...] Ef það tekst ekki held ég að ríkissjóður þurfi að tilkynna um skuldabréfaútboð að upphæð 3–4 milljarða evra til að tryggja fjárhagslegan stöðugleika."
Við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis sagði Sigurður Einarsson m.a.: "Síðan kemur 2008, febrúar og mars og forsætisráðherra fer nú aðeins fram og lætur taka við sig viðtöl og er með yfirlýsingar og Seðlabankinn sömuleiðis og allir virðast álíta að þetta sé nú bara komið í býsna gott horf. Og við höfðum af því miklar áhyggjur í bankanum að svo væri ekki. Í kjölfar þess skrifaði ég bréf til Geirs Haarde og sendi afrit á Davíð Oddsson seðlabankastjóra." Í skýrslu Sigurðar kom fram að hann hefði ritað forsætisráðherra bréfið þar sem hann hafði áhyggjur af því að gert yrði annað áhlaup á svokölluðum CDS-markaði og að í þriðja sinn yrði mjög erfitt að hrinda því áhlaupi. Sigurður sagði að hann hefði síðan átt fund með Davíð Oddssyni um málið í Seðlabankanum stuttu síðar. Engin skýr viðbrögð hefðu komið við ábendingum hans frá stjórnvöldum.
Fundur bankaráðs Seðlabanka Íslands 10. apríl 2008
Í fundargerð bankaráðsfundar Seðlabanka Íslands frá 10. apríl 2008 kemur fram að Davíð Oddsson hafi upplýst að bankastjórn hefði hækkað stýrivexti bankans þá um morguninn. Margir haldi því fram að tæki bankans dugi ekki til vegna mikillar alþjóðavæðingar og smæðar krónunnar og vissulega sé "okkur margt öndvert". Síðan er haft eftir Eiríki Guðnasyni, seðlabankastjóra, að bankarnir hafi safnað gjaldeyri á nokkrum mánuðum til að verja eiginfjárhlutfall sitt fyrir mögulegri lækkun gengis íslensku krónunnar og því hafi verið spáð að slíkt væri yfirvofandi. Bankarnir hafi fengið undanþágu frá Seðlabankanum í þessu skyni en mörkin séu rúm og þeir hafi nýtt sér þau talsvert. Það sé í skoðun að takmarka þau. Því næst segir að Davíð Oddsson hafi sagt að orðrómur sé um að einverjir séu að stuðla að falli á gengi krónunnar. Einn banki hafi farið að mörkum reglnanna og þar að auki keypt fyrir viðskiptamenn. Spurt sé hvort viðskiptamennirnir séu einnig eigendur bankans. Þannig sé hugsanlega hægt að handstýra fallinu. Skýrsla hafi verið send til Fjármálaeftirlitsins um þetta mál og þar sé það í skoðun. Haft er eftir Ragnari Arnalds að ástæða sé til að óttast um innstæður í íslenskum bönkum erlendis þegar birtar séu áskoranir um að forðast allt sem íslenskt sé. Haft er eftir Davíð Oddssyni að það sé ólíkt hvernig þessu víki við hjá Landsbankanum og Kaupþingi. Kaupþing sé með innstæður í dótturfélögum í viðkomandi löndum og þar gildi innstæðutrygging í viðkomandi landi. Landsbankinn sé með innstæður í útibúi og þá gildi íslenskar innstæðutryggingar. Umrædd skrif hafi haft áhrif og eitthvert fé hafi runnið af reikningum í febrúar og mars. Um 100 milljarðar króna af 650 milljörðum hafi horfið. Um 30% af innstæðum séu bundnar til 6–12 mánaða. Ástandið hafi róast eitthvað. Seðlabankinn hafi átt viðræður við breska seðlabankann og vonandi fari þær vel. Mögulegt sé að samkeppnisaðilar standi að baki þessum skrifum og samkeppni á þessum markaði sé mikil.
Ummæli forstjóra Fjármálaeftirlitsins á degi Samtaka fjármálafyrirtækja 10. apríl 2008
Hinn 10. apríl 2008 ávarpaði Jónas Fr. Jónsson fund Samtaka fjármálafyrirtækja. Í ræðu sinni sagði Jónas m.a.: "Eins og ég vék að áðan er svokallað skuldatryggingarálag íslensku bankanna langt fyrir utan öll skynsemismörk. [...] Að mínu mati eru orsakir þessa háa álags sálræn, tæknileg og hátternisbundin. Það sem um er að ræða er almenn áhættufælni á alþjóðamörkuðum, tæknilegir ágallar á óskipulegum og grunnum markaði og afleiðing illskeyttrar umræðu um bankana og íslenskt efnahagslíf."
13. fundur samráðshóps stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað 13. apríl 2008
Hinn 13. apríl 2008 fundaði samráðshópur stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað. Í drögum að fundargerð kemur fram að Áslaug Árnadóttir hafi greint frá því að neikvæð frétt hafi birst sama morgun í Aftenposten í Noregi um íslensku innlánstryggingarnar. Klukkan 10 um morguninn hefði verið búið að taka út 23 milljónir norskra króna af innlánsreikningum í útibúi Kaupþings í Noregi. Fram kemur að í umræðum sem fram fóru undir dagskrárliðnum "Aðgerðaáætlun" hafi verið farið yfir skjal, dags. 10. apríl 2008, og ábendingar komið fram um að draga betur saman lýsingar á áhrifum aðgerða og aðgerðaleysis, draga saman þau skilyrði sem stjórnvöld geti sett og fjalla um þá möguleika sem kunni að vera á því að slá skjaldborg um ákveðna þætti í starfsemi bankanna. Haft er eftir Bolla Þór Bollasyni að viðfangsefnið sé staða þriggja stærstu bankanna sem kerfislega mikilvægra banka. Fram kemur að Jónas Fr. Jónsson hafi upplýst að Fjármálaeftirlitið sé að taka saman yfirlit um bankana en utanaðkomandi aðilar geti aldrei séð öll þau úrræði sem þeim kynnu að nýtast. Því næst segir að Áslaug Árnadóttir hafi dreift skjali, dags. 10. apríl, sem nefnist "Greiðslur úr innstæðudeild Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta". Í viðaukum þess skjals séu drög að auglýsingu um frest til að lýsa kröfum og tvær útgáfur af mögulegri yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Sjá nánar um þetta í kafla 17.10.2. Síðan segir að Jónas Fr. Jónsson hafi óskað eftir því að skoðaðir yrðu möguleikar á skuldajöfnun. Álíka ákvæði séu í Bretlandi sem ætlunin sé að fella út í þeirri endurskoðun sem hafin sé. Ekkert slíkt ákvæði sé í íslensku lögunum. Loks segir að Jónas hafi afhent minnisblað um fjármögnun íbúðaveðlána banka og sparisjóða og lánasamninga við Íbúðalánasjóð, dags. 9. apríl 2008.
Viðræður Seðlabanka Íslands við erlenda seðlabanka um gerð gjaldeyrisskiptasamninga í apríl 2008
Hinn 17. mars 2008 vakti Seðlabanki Íslands máls á því í tölvubréfi til Seðlabanka Bretlands hvort til greina kæmi að gera gjaldeyrisskiptasamning við Seðlabanka Íslands. Í kjölfarið áttu sér stað viðræður milli stofnananna tveggja sem héldu áfram fram í apríl sama ár. Í apríl setti Seðlabankinn sig einnig í samband við seðlabanka Evrópu, Bandaríkjanna, Svíþjóðar, Danmerkur og Noregs með sama markmið fyrir augum. Samhliða fundi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins dagana 11.–14. apríl 2008 í Washington áttu fulltrúar Seðlabanka Íslands marga fundi með einstökum bankastjórum framangreindra seðlabanka. Í drögum Seðlabankans að fundargerðum kemur m.a.fram að á fundi með Timothy Geithner,forseta Seðlabanka New York,hafi Geithner lýst því að fjárhæð gjaldeyrisskiptasamnings þyrfti að vera mjög há ef aðgerðin ætti að skila tilætluðum árangri. Ella myndi markaðurinn túlka hana sem veikleikamerki. Síðan segir að Geithner hafi vísað til samtala sinna við bankastjóra seðlabanka Evrópu, Bretlands, Svíþjóðar og bankastjóra Alþjóðagreiðslubankans og sagt að honum þætti sem þeir "hefðu einnig efasemdir". Í drögum að fundargerð er skotið inn því áliti fulltrúa Seðlabanka Íslands að hér sé Geithner öðru fremur að vísa í samtal sitt við Jean-Claude Trichet, bankastjóra Seðlabanka Evrópu. Síðar segir að Geithner hafi ekki útilokað þátttöku Seðlabanka New York en hann væri "vantrúaður á strategíuna".
Við skýrslutöku lýsti Ingimundur Friðriksson, seðlabankastjóri, því að hann og Sturla Pálsson, framkvæmdastjóri alþjóða- og markaðssviðs Seðlabankans, hefðu átt marga fundi þessa daga í Washington, m.a. einn við Mervyn King, bankastjóra Seðlabanka Bretlands, laugardaginn 12. apríl 2008. Sjá frekari umfjöllun um gjaldmiðlaskiptasamningana í kafla 4.0. Ingimundur sagði að sá fundur hefði verið mjög vinsamlegur: "Við höfðum átt mjög vinsamleg samtöl við Bank of England um skiptasamning og raunar voru það það vinsamleg samskipti að þegar ársfundur bankans fór fram, sem var einhvern allra síðustu daganna í mars, þá sat ég uppi á minni skrifstofu og beið við símann eftir að fá grænt ljós eða "signal" frá London sem hægt væri að segja frá í ársfundarræðu [...].Við töldum að við værum komnir svo langt á þeim tíma, en var ekki, svo fórum við þarna til Washington og áttum mjög fínan fund með Mervyn King [12. apríl 2008] og engin ástæða til að ætla annað eftir þann fund en að þetta væri allt í þessu jákvæða ferli og við mundum fylgja þessu eftir, þessum gögnum sem fóru, annars vegar með sjóðsinnstæðum og svo því sem við tækjum saman í Seðlabankanum. Svo var haldinn fundur G10 bankastjóranna í Washington sem ég veit nú lítið af [...]." Ingimundur lýsti því síðan að á framangreindum fundi seðlabankastjóra G10 ríkjanna hefðu orðið straumhvörf og hefði sér þótt erlendir seðlabankastjórar mun neikvæðari gagnvart Íslandi í kjölfarið: "[Fundurinn] er einhvern tíma þarna þessa helgi [12.–13. apríl 2008], þetta er nú alveg gríðarleg fundahelgi þessi – hann var ekki búinn þegar við hittum Mervyn King. En svo komu Svíarnir, já, og það var liður í því að undirbúa sænska seðlabankastjórann, sem situr í G10 – Svíar sitja í þessum G10-hópi af gamalli hefð – liður í því að undirbúa hann fyrir þann fund og undirbúa hann til þess að tala okkar máli þar. En svo gerðist eitthvað á þeim fundi sem við vitum aldrei, þetta eru fundir sem engir utanaðkomandi sitja og þeir eiga sér langa, langa sögu og eitt af því sem þeir eru stoltir af í sögu sinni samtals er að það má aldrei neitt leggja út af fundum og við vitum ekkert hvað gerðist nema bara það að tónninn varð annar."
Nánar er fjallað um tilraunir Seðlabanka Íslands til þess að fá gjaldeyrisskiptasamninga við erlenda seðlabanka hér á eftir.
Forsendur Seðlabanka Evrópu fyrir gjaldeyrisskiptasamningi í apríl 2008
Samkvæmt drögum að minnisblaði Ingimundar Friðrikssonar, seðlabankastjóra, greindi Jean-Claude Trichet, bankastjóri Seðlabanka Evrópu, Davíð Oddssyni, formanni bankastjórnar Seðlabanka Íslands, frá því á fundi vorið 2008 að forsenda fyrir gjaldeyrisskiptasamningi Seðlabanka Evrópu við Seðlabanka Íslands væri sú að Ísland semdi um lánafyrirgreiðslu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.Við skýrslutöku lýsti Jón Þ. Sigurgeirsson, sérfræðingur á skrifstofu bankastjórnar Seðlabankans, því að þetta hefði líklegast verið um miðjan apríl 2008.Af bréfi Seðlabanka Íslands til erlendra seðlabankastjóra, dags. 15. apríl 2008, sem fjallað er um hér á eftir má ráða að bankastjórar seðlabanka Evrópu og Bretlands hafi óskað eftir úttekt á efnahagsmálum á Íslandi fyrir miðjan apríl 2008, sbr. einnig skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, dags. 14. sama mánaðar.
Við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis var framangreind frásögn Ingimundar Friðrikssonar borin undir Davíð Oddsson. Davíð sagði: "Ég hef síðan samband við Mervyn King og þá segir hann: "Þetta er algjör misskilningur hjá Jean-Claude [Trichet], hann er bara að misskilja þetta eitthvað, það sem þið þurfið bara að gera er að fá... að gera það í gegnum þetta... búa til... skjöl.... búa til 10 svona skýrslur... svo fara þeir yfir þetta sem hittu hann aftur... ég var þá ekki... úti í Bandaríkjunum... þetta eru Ingimundur og [...] Sturla er með honum já, og þar er hann mjög jákvæður og "pósitívur" og allt það og þeir segja: "Eigum við þá að skila einhverri greinargerð upp á 2 til 3 síður?" "Ja, svona 10 síður", segir hann, það hljómar vel [...] og allt virkar þetta vera á mjög jákvæðum nótum. Geithner hafði nú unnið hjá... verið hjá Gjaldeyrissjóðnum og þegar ég hitti hann segi ég við hann að ég hefði átt þessu ágætu samskipti við Trichet en allt í einu snúi hann við blaðinu og heimti að við förum í "prógramm" hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum á þessu stigi máls. Og þá segir Geithner: "Ah, he offered you the Kiss of Death." Hann skildi það alveg að um leið og við mundum tilkynna það kæmi bara "run" á allt þetta system og ég sagði þetta nú seinna við einhverja menn þarna í Gjaldeyrissjóðnum og hann sagði nú þessi maður: "Er hann að kalla okkur "Kiss of Death", hann vann með okkur, þetta er nú ekki loyalt." Þannig að það var mikill pirringur en hann mat þetta á þessu augnabliki svona."
Skýrsla Alþjóðagjaldeyrissjóðsins 14. apríl 2008
Hinn 14. apríl 2008 kom út skýrsla Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem árituð var sem algjört trúnaðarmál. Skýrslan var send Seðlabanka Íslands. Samandregnar niðurstöður skýrslunnar hljóða svo: "First, it will be key that the facility's safeguards are credible and effectively induce the banks to reduce the size of their balance sheets and thereby increase confidence in the system. Steps that could be taken to achieve this objective include requesting each bank to: (i) prepare a plan on how it will downsize, (ii) stop paying dividends in the near term, to improve its liquidity position, (iii) present plans on how quickly it could raise liquidity by selling assets, if needed; and by (iv) restricting the granting of licenses to open branches abroad. [...] Second, the contingency planning process should continue, notably to incorporate a definitive plan (including draft legislation on the bank resolution framework) on how to address a potential bank failure. [...] Third, it will be important to ensure that the fiscal stance contributes to confidence building. Unlike the high level of private sector indebtedness (with external debt close to 500 percent of GDP), gross and net public debt levels are currently low, at 28 percent and 7½ percent of GDP at end-2007, respectively. But present fiscal plans imply a strong deterioration in the fiscal balance in 2008-10, reflecting higher public investment, lower taxes, and higher benefits.There is a need to reassess fiscal plans, and act accordingly, in light of the necessity to maintain confidence in the banking system, including by keeping public debt very low in case contingent liabilities materialize. [...] In order to provide an early assessment and timely policy advice on the basis of fuller information, it has been agreed to conduct an FSAP update and Iceland's Article IV consultation discussions in a couple of months."
Við skýrslutöku sagði Sturla Pálsson, framkvæmdastjóri alþjóða- og markaðssviðs Seðlabankans: "[...] við töldum að ef við fengjum þessa "special mission" frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum til að koma og leggja... og í rauninni lýsa því yfir að það plan sem við vorum að leggja fram væri trúverðugt og gengi upp að þá gætum við fengið að hina að borðinu líka og gætum fengið meira af swap-línum." Nánar er vikið að aðdraganda þess að skýrslan var unnin í umfjöllun um bréf Seðlabanka Íslands til erlendra seðlabankastjóra, dags. 15. apríl 2008, hér aftar.
Við skýrslutöku af Geir H. Haarde var hann spurður um viðbrögð við skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, ekki síst þeim viðhorfum að bankarnir yrðu að selja eignir. Í skýrslu sinni sagði Geir: "Já, já, það var auðvitað það sem þeir áttu að gera, en hverjir áttu að minnka bankana? Og hverjir áttu að selja úr bönkunum? Þeir sjálfir. Það voru engir aðrir til að gera það og við höfðum ekki úrræði eða vald til að fyrirskipa þeim og bara hérna aðeins út af þessu með, Seðlabankinn var með viðvaranir, eða var með áhyggjur, og það kemur fram í "prívatsamtölum", það kemur ekki mikið fram opinberlega, en það sem kemur fram opinberlega er það að þeir eru að halda áfram að lána þessum bönkum, ef þeir voru sannfærðir um það að þeir væru að fara á hausinn, af hverju var það þá gert? Nýjustu tölurnar núna um þessi veðlán, endurhverfu viðskipti sem falla á ríkið eru eitthvað á milli 240 og 300 milljarðar og maður spyr sjálfan sig: Af hverju er það?"
Í skýrslu Baldurs Guðlaugssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom fram að hann kannaðist ekki við að framangreind skýrsla Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefði verið lögð fram á fundi samráðshópsins og hann kvaðst aldrei hafa séð hana. Jónas Fr. Jónsson kvaðst heldur ekki hafa séð skýrsluna.Í skýrslu Lárusar Welding,forstjóra Glitnis,fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom fram að honum hefðu verið borin skilaboðin um þær aðgerðir sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn taldi rétt að grípa til. Lárus sagði m.a.: "[...] við fengum náttúrulega skilaboðin en þau eru almenn og við vorum að vinna í þeim. Ég veit ekki hvernig aðrir bankar túlkuðu það en ég fékk ekki reglugerð sem sagði: "Þú verður að vera innan þessara marka, þú verður að vera búinn að selja eignir innan þessara marka á þessum tíma ellegar verður þú sviptur starfsleyfi eða þú færð févíti.""Við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis voru tilmæli Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá 14. apríl 2008, um að minnka bæri bankana, borin undir Sigurjón Þ. Árnason, bankastjóra Landsbankans.
Sigurjón sagði: "Þetta er eins og að menn komi á lakkskónum þegar þú ert úti á ballarhafi, búinn að vera að berjast í einhverju hrikalegu óveðri, þá koma einhverjir menn á lakkskóm: "Ég held að þú ættir kannski að minnka, ég held að þú ættir kannski að sigla í land." – Já, já, ég veit allt um það, en hvernig á ég að gera það? Það er ekki hægt núna, núna verð ég bara að þakka fyrir að halda mér á floti og að koma mér í gegnum með öllum hinum skipunum sem öll eru hérna á kafi á sjó í óveðrinu. Það er ekki bara þannig að maður geti bara stefnt á þessa höfn og bara komist í höfn einn, tveir og þrír. Það eru draumórar."
Bréf Seðlabanka Íslands til erlendra seðlabanka 15. apríl 2008
Hinn 15. apríl 2008 ritaði Davíð Oddsson bankastjórum seðlabanka Evrópu, Bretlands, Svíþjóðar, Danmerkur og Noregs bréf þar sem rætt var um gerð gjaldeyrisskiptasamninga við Seðlabanka Íslands. Afrit af bréfinu var einnig sent Timothy Geithner, forseta Seðlabanka NewYork. Í bréfinu segir að í samræmi við ósk bankastjóra seðlabanka Evrópu og Bretlands hafi Davíð Oddsson rætt við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og farið fram á að unnin yrði skýrsla um stöðu mála á Íslandi og mögulegan gjaldeyrisskiptasamning. Síðan segir að af hálfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafi verið brugðist vel við beiðni Seðlabankans og er vísað til skýrslu sjóðsins, dags. 14. apríl 2008, sem fylgdi með bréfinu.
Með bréfi Seðlabankans fylgdi einnig skjal Seðlabankans "Background Memorandum". Í því skjali er rætt um íslensk efnahagsmál, fjármálakerfið og skiptisamninga (e. swap arrangements) seðlabanka. Í skjalinu segir m.a.: "In the recent spate of market turmoil, banks that rely on wholesale funding sources have been under considerable market pressure. Most likely, few have been under more pressure than the Icelandic banks. However the lessons learned from 2006 made them better prepared to deal with sudden adversity. Available financial indicators show a solvent and liquid banking system, but market confidence is the key." Síðar segir: "Given the circumstances in the international financial markets and the global nature of the operations of the Icelandic banks, the Central Bank of Iceland aims to demonstrate its ability to provide liquidity in all of their major operational currencies. Shortage of liquidity is not yet a serious issue for the domestic banks (and hopefully will not be), and a swap facility should be seen as a precautionary arrangement that is likely to boost confidence in the Central Bank's ability to perform its mandatory functions."
Við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis lýsti Jón Þ. Sigurgeirsson því að hann hefði unnið framangreint "Background Memorandum" fyrir Seðlabanka Íslands.
Fundur fjármálaráðherra og utanríkisráðherra með bankastjórn Seðlabanka Íslands 16. apríl 2008
Hinn 16. apríl 2008 funduðu Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, með bankastjórn Seðlabankans. Af minnisblaði Ingibjargar um fundinn má ráða að rætt hafi verið um lántökur af hálfu Seðlabankans fyrir hönd ríkisins til eflingar gjaldeyrisforðans. Í minnisblaðinu segir: "Evrópubankinn gerði kröfu um meðferð hjá IMF [Alþjóðagjaldeyrissjóðnum]. Breski bankinn fór fram á að fengið yrði álit hjá IMF um að allt væri í lagi þ.e. að það stæðist sem sagt væri um íslenskt efnahagslíf. IMF brást vel við og sendi strax fólk til landsins. Komið er mat frá IMF sem verður sent áfram ásamt greinargerð frá Seðlabankanum til breska og evrópska bankans. [...] Viðræður hafa verið við norrænu bankana og samningar við þá líklega komnir um borð." Síðar segir að fram hafi komið að skilyrði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og norrænu bankanna séu eftirfarandi:
1) Hækka þarf gjaldeyrisforðann um 1–2 milljarða evra.
2) Vald Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins verði notað til þess að draga úr umfangi bankanna (down-size).
3) Stefna þarf að breytingu á Íbúðalánasjóði.
4) Draga þarf úr eða halda aftur af ríkisútgjöldum og skoða ákvæði í kjarasamningum um verðtryggingu.
5) Vegna viðkvæmni fjármálakerfisins þarf að gera úttekt á því á vegum IMF (FSAP).
Því næst segir í minnisblaði Ingibjargar: "Fram kom á fundinum að Seðlabankinn telji ekkert því til fyrirstöðu að hann geti uppfyllt þau skilyrði sem að honum snúa og jafnframt kom fram að við hljótum að fagna úttekt á vegum IMF (article IV)."
Framkvæmdastjóri Evrópusambandsins á sviði efnahags- og gjaldmiðlamála sendir forsætisráðherra bréf 17. apríl 2008
Hinn 17. apríl 2008 sendi Joaquin Almunia, framkvæmdastjóri Evrópusambandsins á sviði efnahags- og gjaldmiðlamála, Geir H. Haarde bréf varðandi hugsanlega aðild Íslands að samkomulagi fjármálaráðuneyta, fjármálaeftirlita og seðlabanka Evrópusambandsins um viðbúnað við fjármálaáföllum. Í bréfinu bendir Almunia á að 6. mgr. inngangsorða samkomulagsins heimili EES- ríkjum sérstaklega að undirrita samkomulagið.
Í kjölfarið áttu sér stað frekari samskipti sem leiddu til þess að 6. maí 2008 ritaði Árni M. Mathiesen erindi til ráðs Evrópusambandsins þar sem þess var formlega farið á leit að Ísland fengi aðild að framangreindu samkomulagi.
Ávarp forsætisráðherra á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins 18. apríl 2008
Aðalfundur Samtaka atvinnulífsins fór fram 18. apríl 2008. Geir H. Haarde ávarpaði fundinn. Í ræðu sinni sagði hann m.a.: "Sannleikurinn er sá að á vegum ríkisstjórnarinnar, en þó sérstaklega Seðlabankans, hefur að undanförnu verið unnið baki brotnu að því að greiða úr þeim vanda sem hinar alþjóðlegu aðstæður hafa skapað. Slíkar aðgerðir eru þess eðlis að undirbúningur þeirra tekur langan tíma og ekki er hægt að flytja af þeim fréttir frá degi til dags. Mikil opinber umræða getur verið óheppileg, skapað óraunhæfar væntingar og þar með jafnvel haft neikvæð áhrif. Stuttar boðleiðir og skjót ákvarðanataka eru óumdeilanlega meðal helstu styrkleika íslensks viðskiptalífs og stjórnsýslu. Þetta getur á hinn bóginn líka verið veikleiki þegar við gerum kröfu um sama hraða í mun stærri kerfum og leyfum okkur að verða óþolinmóð gagnvart lengri boðleiðum og seinvirkari ákvarðanaferlum en við erum vön."
12. fundur starfshóps Seðlabanka Íslands um viðbrögð við lausafjárvanda 21. apríl 2008
Starfshópur Seðlabanka Íslands um viðbrögð við lausafjárvanda fundaði 21. apríl 2008. Í fundargerð kemur fram að Tómas Örn Kristinsson og Sylvía Kristín Ólafsdóttir hafi undanfarið verið að undirbúa sviðsmynd um fjármálaáfall í vinnuhópi með Ragnari Hafliðasyni, aðstoðarforstjóra Fjármálaeftirlitsins, og Rúnari Guðmundssyni, sviðsstjóra hjá Fjármálaeftirlitinu, (SI 40371). Fram kemur að ráðgert sé að leggja þessa vinnu fyrir samráðshópinn og byggja á þessu sem grunni fyrir áframhaldandi vinnu við aðgerðaáætlun stjórnvalda.
Sviðsmynd fjármálaáfalls
Álitaefni, mögulegar aðgerðir og skilyrði
Fjármálaeftirlitið og Seðlabanki Íslands 21. apríl 2008
[...]
Niðurstaða
Ljóst er að lausafjár-/eiginfjárvandi kerfislega mikilvægra banka er mjög alvarlegur fyrir íslenska hagkerfið. Það að slíkur banki verði gjaldþrota er ávísun á mun verri kreppu en annars yrði. Kostnaður þjóðfélagsins og sá tími sem færi í að byggja upp á ný yrði verulegur og sennilega meiri en ella. Sá valkostur virðist því nánast útilokaður. Bankarnir sjálfir hljóta ávallt að vera í fremstu víglínu en gera þarf þeim grein fyrir að ef yfirvöld þurfa að koma að björgunaraðgerðum, þá muni það verða þeim dýrkeypt.
Stjórnvöld þurfa að hafa heimild til að yfirtaka rekstur kerfislega mikilvægs banka sem á í vanda og því þarf að vera tilbúin (eða þegar afgreidd), tillaga að lagabreytingum sem fljótlegt væri að lögfesta ef aðstæður krefðust.
Æskilegt væri að skilja að innlendan og erlendan rekstur hið fyrsta og losa um erlenda hlutann, en gæta þarf þess að lánardrottnum sé ekki mismunað því að slíkt hefði langtímaáhrif á lánskjör íslenskra aðila, þ.m.t. ríkisins, á erlendum fjármagnsmörkuðum. Í sumum tilvikum þar sem innlend bankastarfsemi er afmarkaðri en sú erlenda gæti sú leið verið farin að innlenda starfsemin yrði seld.
Yfirvöld þurfa að yfirfara viðlagaáætlanir og útbúa heildstæða aðgerðaáætlun, t.d. að setja upp lista yfir aðila sem gætu komið að tímabundinni stjórnun viðkomandi starfsemi, þá valkosti sem yfirvöld standa frammi fyrir, t.d. yfirtöku eigna/ skulda, brúunarbanka, sölu eigna, útskiptingar á starfsmönnum o.þ.h. Einnig þyrfti samhliða yfirtöku eigna/skulda að hafa heildstæða áætlun um samskipti við lánardrottna. Yfirvöld þurfa einnig að hefja fjármögnun vegna mögulegra björgunaraðgerða sem allra fyrst og ljóst er að öflun gjaldeyris eða trygg leið til öflunar hans í þessu skyni er bráðnauðsynleg. Huga þarf að almannatengslum til að styrkja áhrifamátt og trúverðugleika aðgerða, m.a. að leita eftir ráðgjöf á þessu sviði.
Næstu verkefni
1. Tryggja nauðsynlegar lagaheimildir
– Ráðuneytin
2. Sameinast um heildstæða aðgerðaáætlun yfirvalda
– Ráðuneytin, SÍ, FME
3. Efla gjaldeyrisforða og tryggja fjármögnun vegna aðgerða
– SÍ og ráðuneytin
14. fundur samráðshóps stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað 21. apríl 2008
Hinn 21. apríl 2008 fundaði samráðshópur stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað. Í drögum að fundargerð kemur fram að Bolli Þór Bollason hafi sagt að félagsmálaráðherra hafi lokið könnun sinni á hugmyndum um að Íbúðalánasjóður kaupi þegar útgefin fasteignaveðbréf. Að áliti Íbúðalánasjóðs þurfi að skoða þrennt áður en ákvörðun sé tekin, þ.e. hvort heimildin brjóti í bága við samkeppnisákvæði EES, hvort hún sé í samræmi við núgildandi lagaramma og hvort fram geti komið neikvæð áhrif á lánshæfismat Íbúðalánasjóðs. Síðan segir að Ingimundur Friðriksson hafi eindregið mælt með að farið yrði strax í að kanna þessa þætti. Haft er eftir Baldri Guðlaugssyni að fjármálaráðuneytið þurfi að koma að þeirri athugun. Síðan segir að Jónas Fr. Jónsson hafi nefnt að e.t.v. þurfi að breyta lögum til að heimila Íbúðalánasjóði kaupin. Fram kemur að Baldur Guðlaugsson hafi tekið að sér að fara í verkefnið í samstarfi við aðra. Í umræðum um dagskrárliðinn "Sviðsmyndir fjármálaáfalls" segir að lagt hafi verið fram endurbætt vinnuskjal, dags. 21. apríl, en starfshópur Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins hafi unnið verkið. Fram kemur að farið hafi verið lauslega yfir skjalið og rætt sérstaklega um niðurstöðurnar. Bolli Þór Bollason hafi síðan tilgreint fjögur næstu skref í viðbúnaðarstarfinu:
1. Móta sameiginlega stefnu stjórnvalda og setja þrýsting á bankana (ráðherrar og stjórnendur Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands)
2. Undirbúa lagafrumvörp (viðskiptaráðuneyti og fjármálaráðuneyti)
3. Íbúðalánasjóður (fjármálaráðuneyti)
4. Aðgerðaáætlun útfærð.
Varðandi 4. tölulið segir að Bolli hafi talið nauðsynlegt að móta afstöðu fyrir næsta fund um það hvernig staðið verði að gerð aðgerðaáætlunar.
Við skýrslutöku lýsti Geir H. Haarde því að hann hefði ekki séð skjal Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins frá 21. apríl 2008 sem ber heitið "Sviðsmynd fjármálaáfalls" fyrr en við skýrslutöku hjá nefndinni. Árni M. Mathiesen og Björgvin G. Sigurðsson báru á sama veg í skýrslutökum fyrir nefndinni.
Fjármálastöðugleikafundur haldinn í Seðlabanka Íslands 22. apríl 2008
Hinn 22.apríl 2008 var haldinn fundur um fjármálastöðugleika í Seðlabankanum.Í fundargerð kemur fram að Tómas Örn Kristinsson, framkvæmdastjóri upplýsingasviðs Seðlabankans, hafi rætt um hvers virði það sé að forðast fjármálaáföll, m.a. í formi hagvaxtarávinnings, með hliðsjón af sögulegri reynslu. Bréf bankastjóra Seðlabanka Bretlands til Seðlabanka Íslands 23. apríl 2008 Mervyn King, bankastjóri Seðlabanka Bretlands, ritaði Davíð Oddssyni bréf 23. apríl 2008. Í bréfinu segist King ekki vera reiðubúinn til að gera skiptasamning við Seðlabanka Íslands. King lýsir áhyggjum af stöðu íslenska bankakerfisins. Segir hann m.a.: "It is clear that the balance sheet of your three banks combined has risen to the level where it would be extremely difficult for you to act as a lender of last resort. International financial markets are becoming more aware of this position and increasingly concerned about it." Í bréfinu kemur fram að eina lausnin að mati King sé að draga verulega úr stærð íslenska bankakerfisins.
Samkvæmt drögum Ingimundar Friðrikssonar að minnisblaði kvaðst Stefan Ingves, bankastjóri Seðlabanka Svíþjóðar, reiðubúinn til þess að taka málið upp á fundi seðlabankastjóra svokallaðra G10 ríkja 4. maí sama ár. Fyrst hafi hann þó óskað eftir því að fá að senda sína sérfræðinga til Íslands til þess að "taka út stöðuna".
Símafundur forsætisráðherra og formanns bankastjórnar Seðlabanka Íslands 23. apríl 2008
Við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis lýsti Geir H. Haarde því að 23. apríl 2008 hefði Davíð Oddsson hringt í sig og tilkynnt sér að Seðlabanki Bretlands hefði hafnað því að veita Seðlabanka Íslands "fyrirgreiðslu".Aðspurður um það hvaða viðhorf seðlabankastjórar í Evrópu hefðu haft gagnvart Íslandi svaraði Geir í skýrslu sinni: "Ég hef ekkert fyrir mér í því annað en það sem Davíð Oddsson sagði mér [...] og hann [...] dró ekkert undan með það að álit manna á íslensku bönkunum væri mjög af skornum skammti og færi minnkandi."
Fundur forsætisráðherra með forsætisráðherra Bretlands 24. apríl 2008
Hinn 24. apríl 2008 fundaði Geir H. Haarde með Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, í Downing-stræti 10. Í frétt á vefsíðu forsætisráðuneytisins sagði um fundinn: "Á fundinum var fjallað um ástand og horfur í alþjóðlegum efnahags- og fjármálum og áhrif breyttra aðstæðna á fjármálamarkaði á Íslandi og í Bretlandi." Rannsóknarnefnd Alþingis hefur undir höndum skjal frá forsætisráðuneytinu sem nefnt er "Frásögn" af fundinum. Í því segir m.a.: "GB [Gordon Brown] vék að efnahagsmálunum og spurði hvort væru miklir erfiðleikar á Íslandi. GHH [Geir H. Haarde] sagði að helsta vandamál Íslands væru truflanir á lánsfjárstreymi. Íslensku bankarnir væru orðnir nokkuð stórir miðað við íslenskan þjóðarbúskap. Grundvöllur efnahagslífsins væri góður en sökum smæðar væri Ísland ákjósanlegt fórnarlamb alþjóðlegra braskara og ljóst að ákveðnir aðilar hefðu reynt að hagræða markaðsaðstæðum. Samt væri útlitið betra nú en fyrir nokkrum vikum. Til að tryggja áframhaldandi betrun hefðu íslensk stjórnvöld áhuga á samstarfi varðandi lánalínur á milli Seðlabanka Íslands og Englandsbanka eða á milli fjármálaráðuneyta ríkjanna. Ljóst væri að ríkisstjórn Íslands stæði mjög vel og því væri þetta ekki spurning um lánafyrirgreiðslu heldur traustvekjandi aðgerð.Vandinn snerist fyrst og fremst um ímynd og traust." Því næst kemur fram í skjalinu að Geir og Brown hafi rætt um lánalínu frá Seðlabanka Bretlands. Fram kemur að Brown hafi ekki talið tímabært að gefa sér hver yrði niðurstaða viðræðna Seðlabanka Íslands og Seðlabanka Bretlands. Síðan segir: "GHH kvaðst því miður hafa það á tilfinningunni að Englandsbanki væri fremur tregur í taumi og það væri miður því vandi Íslands væri aðallega ímyndarvandi." Síðar í skjalinu segir: "GHH kvaðst vilja víkja aftur að efnahagsmálunum og sagði það skipta íslensk stjórnvöld miklu að hægt yrði að eiga einhvers konar samstarf við bresk stjórnvöld um ráðstafanir vegna núverandi tímabundinna erfiðleika. GB sagði að þá væri fyrrnefnt samkomulag aðila í ESB [samkomulag um samstarf seðlabanka, fjármálaeftirlita og fjármálaráðherra Evrópusambandsríkja vegna hugsanlegra efnahagsáfalla] mikilvægt og síðan yrði að sjá hverju viðræður Englandsbanka og Seðlabanka Íslands myndu skila. Jafnframt mætti velta fyrir sér hvort Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gæti ekki orðið að liði með því að staðfesta góða stöðu íslenskra efnahagsmála. GHH sagði að það væru í gangi viðræður við seðlabanka hinna Norðurlandanna, Seðlabanka Evrópu og Englandsbanka og ljóst að Ísland gæti einskis krafist af þeim en um leið yrðu þessir aðilar að átta sig á stærð íslensku umsvifanna og hættunni á smiti ef illa færi. GB ítrekaði að hann myndi hafa samband við Englandsbanka og ýta áfram aðild Íslands að títtnefndu samkomulagi aðila í ESB. Á hinn bóginn væri erfitt að sjá hvernig fjármálaráðuneyti ríkjanna gætu unnið saman þannig að gagn yrði af. GHH sagði að þar sem um traustvekjandi aðgerð yrði að ræða skipti miklu máli að hægt yrði að gera opinberlega grein fyrir henni."
Við skýrslutöku ræddi Geir H. Haarde um framangreindan fund með Gordon Brown. Varðandi ummælin hér að ofan um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn hafði Geir þetta að segja: "[...] það var einmitt á vettvangi IMF sem við hittumst fyrst og kynntumst aðeins þegar við vorum báðir fjármálaráðherrar og hann var formaður þarna í nefnd sem ég sat í. En já, já, hann svona nefndi það og auðvitað voru menn svo sem byrjaðir að velta því fyrir sér hvort að það gæti verið innlegg í mál hér, en það var náttúrulega alltaf þetta sjónarmið uppi að það geri ekki nema þeir sem eru virkilega í miklum vanda, það hefur ekkert Evrópuríki gert það síðan 1976 þegar Bretarnir fóru. Og Davíð var með frásögn af því að einhver af þessum köllum í Evrópu, ég man nú ekki hvort að það var Trichet, sennilega var það nú hann, sem stakk upp á þessu við hann, hann nefndi það við Geithner þegar hann talaði við hann næst í síma, bankastjóra "Fed-ans" í New York, sem nú er fjármálaráðherra Bandaríkjanna, að þetta hefði verið nefnt, þá hafði Geithner sagt: "No, they want to give you the kiss of death." Því þetta var nú svona – ég var aldrei hins vegar sammála þessu, mér fannst þessi gjaldeyrissjóður aldrei vera ljóti kallinn í sögunni, yfirleitt voru þeir að leggja eitthvað til sem var skynsamlegt, en það náttúrulega var, a.m.k. þá talið svona fylgja því einhver vandræðastimpill að gangast undir það. Nú er þetta náttúrulega miklu fleiri sem eru, hafa fengið hann í sína þjónustu. [...] Og þeir voru náttúrulega hér að gera úttektir og þetta Article IV úttektirnar sem komu alltaf reglulega, þeir voru hér um sumarið og svo komu þeir aftur um haustið." Aðspurður hvort undirliggjandi kunni að hafa verið sjónarmið um að Ísland leitaði aðstoðar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins svaraði Geir: "Ég held að hann hafi verið að tala um þetta af mjög jákvæðum hug, farið til sjóðsins og biðjið hann að gera það fyrir ykkur sem getur orðið ykkur að gagni, ef að staðan er svo góð að þetta er allt í fína lagi þá er fínt að hann segi það. Ef það er ekki í lagi þá er fínt að hann leggi ykkur hjálparhönd. Þetta var mjög vinsamlegt samtal og eins og kemur þarna fram þá bauðst hann til að hafa samband við Mervyn King og nefndi það tvisvar [...]." Aðspurður hvort Geir hefði fylgt þessu máli eftir varðandi Alþjóðagjaldeyrissjóðinn svaraði Geir: "Nei, ég gerði það nú ekki, ekki á þeim tíma. [...] Mér fannst það ekki tilefni til þess. Þeir voru hér hvort eð er, það var mikið samstarf við þá sem hann kannski vissi ekkert nákvæmlega um þegar hann er að segja þetta og hann var sjálfur náttúrulega háttskrifaður hjá IMF og hafði unnið þar mikið og vildi svona halda þeim fram.Við vorum auðvitað allan tímann í mjög góðu sambandi við þá, við erum náttúrulega stofnaðili og öll þessi ár hef t.d. ég alltaf haft mjög gott samband við fólk þarna og mér fannst ekkert vanta upp á það, það var ekkert þannig eins og við vissum ekkert hvað sjóðurinn væri og þyrftum að fara að kynna okkur það.
Fundur bankastjórnar Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins með stjórnendum bankanna 25. apríl 2008
Hinn 25. apríl 2008 var haldinn fundur bankastjórnar Seðlabankans og Jónasar Fr. Jónssonar með stjórnendum bankanna. Í drögum að fundargerð Seðlabankans kemur fram að Jean-Claude Trichet, bankastjóri Seðlabanka Evrópu, hefði hringt um kl. 14:00 sama dag og verið hálfæstur því íslensku bankarnir hefðu átt í endurhverfum viðskiptum fyrir 4 milljarða evra í gegnum Seðlabanka Lúxemborgar. Hefði hann krafist fundar með fyrirsvarsmönnum íslensku bankanna, Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins. Nánar er um þetta fjallað í kafla 7.0.
Samkvæmt upplýsingum frá forsætisráðuneyti hringdi Davíð Oddsson í Geir H. Haarde eftir að hafa rætt við Trichet. Mun Davíð við það tækifæri hafa greint Geir frá símtali sínu við Trichet og jafnframt að Seðlabanki Íslands hefði boðað til fundar með bankamönnum og Fjármálaeftirlitinu samdægurs til þess að ræða endurhverf viðskipti bankanna við Seðlabanka Lúxemborgar.
15. fundur samráðshóps stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað 28. apríl 2008
Hinn 28. apríl 2008 fundaði samráðshópur stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað. Í drögum að fundargerð segir að Ingimundur Friðriksson hafi greint frá samtali Jean-Claude Trichet, bankastjóra Seðlabanka Evrópu, við Davíð Oddsson föstudaginn 25. apríl 2008. Trichet hefði hringt með umkvörtun um endursölu verðbréfa íslensku viðskiptabankanna til Seðlabanka Evrópu í gegnum Seðlabanka Lúxemborgar og haldið því fram að seld skuldabréf væru að hluta til málamyndagerningar milli íslensku bankanna. Viðbrögð Seðlabankans hafi verið þau að boða stjórnendur stóru íslensku viðskiptabankanna samstundis á fund en Jónas Fr. Jónsson hafi einnig setið fundinn. Endurkaup Seðlabanka Evrópu af íslensku bönkunum hafi hlaupið á nokkrum milljörðum evra en þar af séu rúmlega 1,5 milljarðar evra í bréfaviðskiptum þeirra á milli. Seðlabanki Lúxemborgar hafi boðað bankana til fundar 28. og 29. apríl sama ár til að ræða þessi mál að viðstöddum fulltrúum Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins. Niðurstaða málsins sé ekki fengin en alvarlegur fjármögnunarvandi steðji að ef vinda þurfi ofan af endurkaupum þessum í skyndi. Haft er eftir Jónasi Fr. Jónssyni að bankarnir telji sig vera innan reglna Seðlabanka Evrópu. Því næst segir að Tryggvi Pálsson hafi sagt að skuldabréfaskipti milli banka til að nýta í endursölu til seðlabanka séu ekki bundin við íslensku bankana. Viðbrögð Seðlabanka Evrópu geti verið vísbending um neikvæða afstöðu hans til þreifinga Seðlabankans að undanförnu. Afar mikilvægt sé að ekkert spyrjist út um núverandi stöðu málsins og sameinast verði um hlutlausa frásögn ef fréttir fari að berast út. Síðan segir í drögum að fundargerð að á meðan á fundinum stóð hafi starfsmaður Fjármálaeftirlitsins, sem staddur var á fundi í Lúxemborg, hringt í Jónas. Fram hafi komið að umfang og gagnkvæmni í bréfasafni íslensku viðskiptabankanna hefði vakið athygli. Síðar segir að Bolli Þór Bollason hafi gert grein fyrir fundi sem Geir H. Haarde hafi nýlega átt með Gordon Brown í Downing-stræti 10 þar sem rætt hafi verið um stöðu íslensku bankanna. Því næst segir í skjalinu: "Geir lýsti stöðunni og nefndi m.a. að íslensku bankarnir væru álitnir veikustu hlekkirnir í keðjunni." Síðar segir að á fundi samráðshópsins hafi áfram verið rætt um möguleika Íbúðalánasjóðs til að koma litlu bönkunum til aðstoðar. Fram kemur að Baldur Guðlaugsson hafi spurt hvort Seðlabankinn geti ekki beitt 2. mgr. 7. gr. gildandi laga um Seðlabanka Íslands við kaup á fasteignabréfum. Síðan segir að Ingimundur Friðriksson telji að slíkt sé yfirlýsing um að menn séu komnir í þrot. Fram kemur einnig að á fundi samráðshópsins hafi verið rætt um samningu lagafrumvarpa. Áslaug Árnadóttir hafi vísað í fyrri umfjöllun þar sem gerð hafi verið grein fyrir frumvarpssmíð viðskiptaráðuneytisins í samráði við Fjármálaeftirlitið. Einnig hafi hún nefnt sérstakt frumvarp til breytingar á lögum um sértryggð skuldabréf. Breytingin felist í skýrari stöðu afleiðusamninga við gjaldþrotaskipti og röð skuldara. Undir dagskrárliðnum "Stefnumarkandi ákvarðanir stjórnvalda" segir að Jónas Fr. Jónsson hafi lagt fram lista sem dragi fram helstu stefnumarkandi ákvarðanir sem stjórnvöld þurfi að taka í aðdraganda fjármálaáfalls. Skjalið ber heitið "Ólystugi matseðillinn".
"Ólystugi matseðillinn"
[Skjal sem tekið var saman af Jónasi Fr. Jónssyni.]
Möguleg ákvarðanataka á undirbúningsstigi
1. Á að auka möguleika fjármálafyrirtækja til þess að selja fjármálagerninga til opinberra aðila?
2. Fjárhæð (umfram lágmarkstryggingavernd) sem ríkið er reiðubúið að ábyrgjast.
3. Heildarfjárhæð mögulegs eiginfjárstuðnings.
4. Skýr afmörkun aðila sem munu njóta stuðnings – fjárhagsleg viðmið og kerfislegt mikilvægi.
5. Meginskilyrði sem sett yrðu fyrir eiginfjárstuðningi (stjórnendur, þynning hluta, sala eigna).
6. Hafa reiðubúin lagafrumvörp um eiginfjárstuðning (þynningu hluta), þvingaðan samruna, brúunarbanka.
7. "Val" á almannatengslafyrirtæki.
Við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis var Bolli Þór Bollason spurður hvort hann hefði kynnt forsætisráðherra "Ólystuga matseðilinn". Það kvaðst Bolli hafa gert. Á þessum tíma hefði hins vegar þótt mjög fjarlægt að bankarnir féllu: "Þetta var eitthvað svo ótrúlegt að þetta gæti gerst að ég held að fæstir ef nokkrir hafi verið farnir að gíra sig inn á að við lentum í þessu, á þessum tíma." Um sama efni sagði Bolli einnig: "Nei, ég held að, auðvitað var þetta möguleiki en innst inni hafi menn eiginlega neitað að trúa að þetta myndi gerast. Þetta var kannski, svona umræðan á alþjóðavettvangi var auðvitað þannig að sumir voru bjartsýnir, aðrir svartsýnir, sumir töldu að hið versta væri yfirstaðið." Aðspurður hvenær menn hafi yfirleitt talið að fall bankanna gæti orðið að veruleika sagðist Bolli telja að það hefði verið eftir fall Lehman Brothers um miðjan september 2008.Í skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis var Geir H. Haarde sýnt skjalið "Ólystugi matseðillinn" og hann spurður hvort honum hefði verið kynnt efni skjalsins. Geir svaraði því neitandi.
Greinargerð Seðlabanka Svíþjóðar um íslenska banka 30. apríl 2008
Í apríl 2008 vann Seðlabanki Svíþjóðar sérstaka greinargerð um íslenska banka. Seðlabanka Íslands barst eintak af þessari greinargerð sem ber heitið "An assessment of Icelandic banks". Í samantekt á bls. 1 segir m.a.: "Despite this, as long as investor risk aversion remains high the banks run a risk that liquidity concerns will become self-fulfilling. It is crucial to retain investor confidence in Sedlabanki's ability to act as the ultimate provider of liquidity in both local and foreign currency. Swap agreements between Sedlabanki and other central banks may be an efficient way to ensure such confidence, by showing that Iceland has international support. [...] Sedlabanki has currently foreign reserves amounting to EUR 2.5 Bn, and plans to increase this by EUR 1–2 Bn in the near future. Swap agreements guaranteeing an additional EUR 5–6 Bn would mean that available FX amounts to some 40 percent of the banks' foreign deposits, or roughly twice of the banks' maturing debt in foreign currency in 2008."
Við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis lýsti Eiríkur Guðnason aðdraganda þess að Seðlabanki Svíþjóðar og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn unnu sérstakar skýrslur um stöðu mála á Íslandi: "En við skiluðum hins vegar gögnum, af því að þeir báðu um, um stöðu hagkerfisins og greinargerð og þeir báðu um að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn yrði látinn meta stöðuna hérna og meta hvort það væri gagn að skiptasamningum. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn brást fljótt við og sendi hingað fólk og skrifaði skýrslu sem var jákvæð í okkar garð, eins og þið þekkið sjálfsagt. Svíar fóru líka fram á að fá að senda sína sérfræðinga hingað sem þeir gerðu og þeir skrifuðu skýrslu og hún var líka jákvæð í okkar garð. Niðurstaðan varð sem sagt, það er gagnlegt að svona skiptasamningar verði gerðir, gagnlegt fyrir íslenska þjóðarbúið og það hefur smitáhrif á önnur þjóðarbú, það væri gagnlegt fyrir önnur þjóðarbú að það fari ekki illa hér á Íslandi. Þetta voru svona, ef ég man rétt, sjónarmiðin í Alþjóðagjaldeyrissjóðsskýrslunni og sænsku skýrslunni."Tryggvi Pálsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Seðlabankans, ræddi einnig um aðdraganda þess að skýrsla Seðlabanka Svíþjóðar var unnin: "[...] Stefan Ingves sagði, fyrir hönd kolleganna: "Áður en við göngum frá skiptasamningum við ykkur vil ég senda sérfræðinga mína til að skoða stöðuna." Þeir koma undir forystu Mattias Person, sem er kollegi minn hjá Riksbanken, og þeir tóku saman skýrslu og síðan vorum við að senda rafrænt efni til þeirra í framhaldinu og gögnin voru "uppdateruð" þannig að Riksbanken var með nokkuð góða mynd af þessu."
19.3.8 Maí 2008
Fyrirlestur Roberts Z.Aliber 5.maí 2008
Hagfræðingurinn Robert Z. Aliber, prófessor emeritus við Chicago-háskóla, flutti erindi í Háskóla Íslands 5. maí 2008. Í frétt Viðskiptablaðsins af fyrirlestrinum er Aliber sagður hafa málað "ansi dökka mynd af stöðu efnahagsmála á Íslandi". Hafi hann líkt ástandinu við bólu sem missir loftið úr sér. Síðan segir í fréttinni: "Og Aliber var ekki bjartsýnn á stöðu og framtíð íslensku viðskiptabankanna þriggja, svo að ekki sé nú fastar að orði kveðið. Þeir hefðu ekki lengur aðgang að lánsfé. Útlán þeirra hefðu nánast stöðvast og þeir myndu neyðast til að selja eignir sínar erlendis við lægra verði en þeir hefðu keypt þær á. Aliber sagði engar líkur á að íslensku bankarnir gætu staðist áhlaup og þótt vogunarsjóðir væru vondir þá flýttu þeir aðeins fyrir þróun sem væri óhjákvæmileg.Aliber gekk reyndar svo langt að stinga upp á að skipta bönkunum upp í tvo banka, annan sem halda myndi greiðslumiðluninni í landinu gangandi en hinn sem myndi þá halda utan um eignir bankanna sem hefðu lækkað í verði og ættu eftir að lækka enn meira."
Neikvæð afstaða erlendra seðlabankastjóra til Íslands 4. maí 2008
Í drögum að minnisblaði Ingimundar Friðrikssonar frá 20. júní 2008 segir að á lokuðum fundi seðlabankastjóra svokallaðra G10ríkja í Basel 4. maí 2008 hafi Stefan Ingves, bankastjóri Seðlabanka Svíþjóðar, greint frá mati sínu á stöðu mála á Íslandi með hliðsjón af nýlegri úttekt sérfræðinga stofnunarinnar og úttekt sérfræðinga Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Í drögum Ingimundar segir því næst: "Enginn var tilbúinn að gera samning við Seðlabanka Íslands.Viðhorf til hugsanlegrar samningagerðar við Seðlabankann virðast hafa verið sérstaklega neikvæð á fundinum sem olli því m.a. að afstaða sænska seðlabankans varð mun neikvæðari en áður."
Í drögum að öðru minnisblaði Ingimundar Friðrikssonar frá 13. október 2008 er vikið að sama fundi. Í drögum Ingimundar segir um þetta: "Á fundi G10 landanna í Basel virðist hafa komið fram alveg einstaklega neikvæð afstaða til Íslands og íslenskra banka sérstaklega. Mjög erfitt hefur verið að fá upplýsingar um hvað var nákvæmlega sagt og hver fór fyrir þeirri umræðu. Þó hafa upplýsingar fengist um að róta þeirra vondu umsagna sé að leita á fundi G10 landanna í tengslum við fundi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Washington í apríl. Þessi afstaða G10 landanna í Basel varð til þess að mjög súrnaði í afstöðu seðlabankastjóra Svíþjóðar og gætti þess hins sama í kjölfarið í afstöðu seðlabankastjóra Danmerkur og Noregs.Viðræður við þá urðu mun erfiðari í kjölfarið á þessum fundum og viðmót þeirra allt kólnaði til mikilla muna. Það var einungis fyrir harðfylgi formanns bankastjórnar Seðlabankans að samningar tókust á endanum og má segja að norrænu seðlabankastjórarnir hafi verið teymdir að undirskriftarborðinu [varðandi skiptasamningana sem gerðir voru við norrænu seðlabankana um miðjan maí 2008]."
Það var síðan 7. maí 2008 sem Seðlabanki Íslands sendi bankastjórum seðlabanka Svíþjóðar, Danmerkur og Noregs bréf þar sem því var lýst að orðið væri ljóst að seðlabankar Evrópu og Bretlands myndu ekki gera gjaldeyrisskiptasamninga við Seðlabanka Íslands. Hins vegar hefði Seðlabankinn enn áhuga á gerð slíks samnings við hina norrænu seðlabanka.Vísað væri til draga að slíkum samningi sem útbúin hefðu verið af Seðlabanka Svíþjóðar í apríl sama ár og farið fram á að sá samningur yrði undirritaður sem fyrst. Nánar er fjallað um samningaviðræður Seðlabanka Íslands við Seðlabanka Svíþjóðar, Danmerkur og Noregs hér síðar.
Fundur bankastjórnar Seðlabanka Íslands með forsætisráðherra, fjármálaráðherra, utanríkisráðherra, og embættismönnum í forsætisráðuneytinu 7. maí 2008
Hinn 7. maí 2008 fundaði bankastjórn Seðlabankans með Geir H. Haarde, forsætisráðherra, Árna M. Mathiesen, fjármálaráðherra, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, utanríkisráðherra, og embættismönnum í húsakynnum forsætisráðuneytisins. Samkvæmt minnisblaði Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur var rætt um lántöku af hálfu hins opinbera til eflingar gjaldeyrisforðans. Síðar í minnisblaðinu segir: "Fram kom hjá Davíð Oddssyni að það færi í taugarnar á breska [seðla]bankanum að íslensku bankarnir séu farnir að auka innlánastarfsemi og þeir séu að bjóða betri kjör en þeir bresku. Bretar telji að þeir séu að sprengja upp markaðinn og þetta sé næsta vandamál. Íslensku bankarnir geri þetta til að fjármagna sig." Einnig er haft eftir Davíð að vonandi komi ekki "bakslag í norrænu bankana" varðandi gjaldeyrisskiptasamninga.
Ritið Fjármálastöðugleiki kemur út hjá Seðlabanka Íslands 8. maí 2008
Hinn 8. maí 2008 kom út ritið Fjármálastöðugleiki sem Seðlabankinn gefur út. Þar segir m.a.: "Í Fjármálastöðugleika fyrir ári var niðurstaða greiningar Seðlabanka Íslands sú að fjármálakerfið væri í meginatriðum traust. Sú niðurstaða er óbreytt." Þeir þættir sem helst treysta viðnámsþrótt fjármálakerfisins eru að mati Seðlabankans: "Það eru góðar langtímahorfur í íslensku efnahagslífi, viðunandi staða bankanna, traust opinber umgjörð og eftirlit sem og örugg greiðslu- og uppgjörskerfi og ekki síst sterk staða ríkissjóðs. [...] Á heildina litið er niðurstaða Seðlabankans enn sú að fjármálakerfið sé í meginatriðum traust. Íslenska bankakerfið uppfyllir kröfur sem gerðar eru til þess og stenst álagspróf sem Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn hafa gert."
Við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis sagði Geir H. Haarde m.a.: "Í maí kemur stöðugleikaskýrsla Seðlabankans og það hefur nú oft verið vitnað í hana og hún er náttúrulega mikilvægt plagg í þessu öllu. Hana má lesa þannig að það sé ekki mikil hætta á ferðum, þó að það sé þarna ein eða tvær setningar um nauðsyn þess að fara varlega og allt það. Þetta er aftur bankinn sem er síðan að greiða fyrir frekari útlánum til bankanna, bindiskyldan, veðlánareglurnar, lausafjárkvaðirnar, þetta er allt viðleitni til þess að hjálpa bönkunum að verða sér úti um íslenskt lausafé. En mér datt ekki í hug að gagnrýna Seðlabankann fyrir þetta, vegna þess að þetta var það sem allir bankar voru að gera, það voru allir að reyna að hjálpa sínum bönkum á eigin vettvangi til að gera þetta. En þetta stemmir ekki, þetta er ekki aðgerð þeirra aðila sem eru síðan í hina röndina að tala um það að þetta sé allt hvort eð er vonlaust. Þá hefðum við kannski gert eitthvað annað."
Í skýrslu Davíðs Oddssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis vék hann að þessari gagnrýni. Þar sagði hann m.a.: "Seðlabankinn, a.m.k. svona á hinum pólitíska vettvangi, hefur verið sakaður um tvíræðni, að hann hafi sagt, og það liggur náttúrulega fyrir, að hann hafi margoft varað ríkisstjórnina við en á sama tíma skrifi hann svo [...] stöðugleikaskýrslu þar sem hann telji að bankakerfið muni standa þetta af sér. Þetta er náttúrulega þannig að það er algjörlega útilokað að nokkur Seðlabanki segi í opinberri skýrslu að bankakerfið muni ekki standa þetta af sér, daginn eftir fer bankakerfið, þá þyrfti enga rannsóknarnefnd, þá væri þetta bara: "Seðlabankinn einn drap það." Það er ekki flóknara en það. Þannig að það er mjög auðvelt að segja: "Seðlabankinn, jú, jú, hann var eitthvað að vara menn við en svo tók hann þátt í því að breiða yfir þetta allt saman." Það var auðvitað ekki þannig. Og númer tvö, að Seðlabankinn, eins og allir aðrir, hafði auðvitað miklar áhyggjur því að menn sögðu: "Ef þessar fjármagnsþrengingar halda áfram þá mun þetta hrynja." Hann var auðvitað að vona, eins og allir aðrir, að þessum þrengingum mundi ljúka – þær væru á einhverjum misskilningi byggðar, sumir héldu það – og þess vegna mætti ekki eyðileggja fyrir bönkunum að lifa þetta af."Við skýrslutöku var rifjuð upp framangreind niðurstaða Seðlabankans um að á heildina litið væri fjármálakerfið í meginatriðum traust og að íslenska bankakerfið uppfyllti kröfur sem gerðar væru til þess og að það stæðist álagspróf sem Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn hefðu framkvæmt. Davíð Oddsson var spurður hvort þessi niðurstaða samræmdist þeirri mynd sem hann hefði áður lýst fyrir rannsóknarnefndinni. Davíð svaraði: "Þetta hefur töluvert verið dregið upp á Alþingi til að sýna að Seðlabankinn hafi nú ekki verið heill í sinni afstöðu og þess háttar og ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst nú ekki mikið til um það. Reyndar er það í þessum texta að þá er nú þarna orð sem við vorum svolítið hræddir við að hafa inni: "Er enn traust í megindráttum." Og svo eru nú fyrirsagnir þarna sem gefa til kynna heilmiklar áhyggjur og ég man til þess að ég spurðist einmitt fyrir um það einhvern tímann þarna í þessum umræðum, það voru nú heilmiklar fjármálastöðugleikaumræður sem að fylgdu þessu, hversu langt mundum við einhvern tíma ganga til að segja hug okkar gagnvart þessum, í skýrslu af þessu tagi? Og auðvitað verður niðurstaðan sú að menn geta ekki gengið mjög langt því þá mundi það hafa, sjá til þess að spádómarnir mundu rætast."
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sagði við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis: "Það voru frá Seðlabankanum sjálfum, fjármálastöðugleikaskýrslur, og það voru þær sem maður horfði kannski frekar á en skýrslur eins og frá Danske Bank. Það getur vel verið að maður hafi afgreitt það um of sem bara samkeppnisaðila." Ingibjörg bætti síðan við: "[...] ég leit svo á að það væri einfaldlega bara verið að vinna í þessum málum [þ.e. að minnka efnahag bankanna] og það væru Seðlabanki og Fjármálaeftirlit og líka sérstaklega... eins og Seðlabankinn talaði þá væri hann að taka á bönkunum og engin ástæða til að ætla það að það væri verið að sýna þeim einhverja linkind."Við skýrslutöku lét Björgvin G. Sigurðsson eftirfarandi ummæli falla um skýrslur Seðlabanka Íslands um fjármálastöðugleika: "Svo fer maður náttúrulega að greina hlutina betur þegar maður kemst betur inn í þetta og fer svona að velkjast meira í þessu öllu saman, en stöðugleikaskýrsla Seðlabankans frá því í maí 2008. "Staða bankanna er viðunandi", segir þar orðrétt, og ef horfur á erlendum mörkuðum verða ekki verri eða alvarlegri þá eiga þeir að vera alveg í sæmilegum málum."
Viðtal við formann bankastjórnar Seðlabankans í kvöldfréttum ríkissjónvarpsins 8. maí 2008
Í kvöldfréttum ríkissjónvarpsins 8. maí 2008 var rætt við Davíð Oddsson. Davíð sagði: "En það sem menn eru auðvitað að horfa, horfa til að skyndilega hefur það gerst að, að, að þegar að fjárþurrð skapast að þá kemur upp sú kenning að seðlabankar eigi að vera einhvers konar ábyrgðarsjóður banka í hvaða stærð sem þeir fara. Þetta hefur maður nú aldrei heyrt um, um áður. Að bankar eigi, eigi að stækka eins og þeim hentar og taka þá áhættu sem þeim hentar. En síðan beri almenningi fyrir meðalgöngu síns seðlabanka að vera einhvers konar ábyrgðarsjóður út í það óendanlega fyrir slíka starfsemi. Hann er ekki einhvers konar afskriftarsjóður sjálfvirkur fyrir bankakerfi sem að þurfi þá ekki lengur að taka ábyrgð á sínum [...] eigin gerðum enda væru það afar óholl skilaboð og myndi hvergi í heiminum vera gefin."
16. fundur samráðshóps stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað 9. maí 2008
Hinn 9. maí 2008 fundaði samráðshópur stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað. Í drögum að fundargerð er haft eftir Baldri Guðlaugssyni, ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytis, að Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra, hafi fyrir sitt leyti fallist á að Íbúðalánasjóði verði veitt heimild sem geti nýst til að létta á lausafjárvanda, sérstaklega minni fjármálafyrirtækja. Baldur hafi leitað eftir aðstoð Fjármálaeftirlitsins og jafnvel Seðlabanka Íslands við undirbúning lagafrumvarps sem þurfi að vera tilbúið næsta mánudag. Fram kemur að Tryggvi Pálsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Seðlabankans, hafi kynnt skýrslu Seðlabanka Íslands. Síðan segir að hann hafi vakið sérstaka athygli á rammagrein um mikilvægi þess að forðast fjármálaáfall og viðauka um gæði útlána samstæðna bankanna. Fram kemur að Áslaug Árnadóttir, settur ráðuneytisstjóri viðskiptaráðuneytis, hafi lagt fram og kynnt skjal, dags. 9. maí, sem nefnist "Ábyrgð á innstæðum". Þar komi m.a. fram að ef ríkissjóður eigi að ábyrgjast allar innstæður nemi upphæðin 2.318 milljörðum króna en í Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta séu um 10 milljarðar króna.
Fundur forsætisráðherra, utanríkisráðherra, fjármálaráðherra og félagsmálaráðherra 9. maí 2008
Hinn 9. maí 2008 hélt Geir H. Haarde fund með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, Jóhönnu Sigurðardóttur og Árna M. Mathiesen. Fundarefnið var aðkoma Íbúðalánasjóðs að fjármögnun fjármálafyrirtækja, einkum hinna smærri.
Fundur forsætisráðherra, utanríkisráðherra, fjármálaráðherra og félagsmálaráðherra vegna skiptasamnings við norrænu seðlabankana 15. maí 2008
Hinn 15. maí 2008 hélt Geir H. Haarde fund með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, Jóhönnu Sigurðardóttur og Árna M. Mathiesen um þau skilyrði sem seðlabankar Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar vildu setja fyrir gerð skiptasamninga við Seðlabanka Íslands.Við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis sagði Geir H. Haarde að hinir norrænu seðlabankarnir hefðu sett skilyrði. Þeir hefðu ekki viljað "láta okkur hafa peninga nema að þeir [teldu] að það [væri] verið að gera rétta og skynsamlega hluti". Þetta hefði borið að með þeim hætti að Davíð Oddsson hefði verið búinn að tala við ýmsa kollega sína og þeir hefðu ekki sýnt því neinn áhuga að "hjálpa okkur", að undanskildum seðlabönkum hinna norrænu þjóðanna. Davíð hefði hringt í Geir 14. maí 2008 og sagt: "Ég er hérna með sænska kollega mínum, Stefan Ingves, ég vil gjarnan að þú talir við hann, við erum að reyna að klára hér ákveðin mál og hann verður að heyra í þér um það hvað það er sem þeir setja fyrir sig." Geir kvaðst hafa rætt við Stefan Ingves sem hefði sagt: "Við getum ekki bara verið að láta peninga hér af hendi, við verðum að fá einhverja fullvissu um það að þið séuð að gera réttu hlutina og ég fer fram á það við þig sem forsætisráðherra að þú gefir út yfirlýsingu í framhaldi af þessu samkomulagi þar sem þetta kemur fram." Þetta hefðu verið tvö atriði; annars vegar ábyrg stefna í ríkisfjármálum og hins vegar Íbúðalánasjóður: "[...] vegna þess að allir útlendingar sem höfðu eitthvað stúderað hér ástandið, þeir höfðu sent hingað sérfræðinga, settu fingurinn á útlán hjá Íbúðalánasjóði, og að við mundum gera eitthvað í því sem skipti máli." Í framhaldi af þessu símtali hefði Geir haldið fund með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, Jóhönnu Sigurðardóttur og Árna M. Mathiesen þar sem samkomulagið var undirritað og það afhent Seðlabanka Íslands. Geir bætti því við að Jóhanna Sigurðardóttir hefði ritað undir samkomulagið en hún hefði "jafnan tregðast mjög við öllum breytingum á Íbúðalánasjóði". Í raun hefði ekkert breyst þegar Samfylkingin tók við af Framsóknarflokknum í félagsmálaráðuneytinu þar sem rekin hefði verið sama stefnan. Sjálfstæðismenn hefðu þannig talið sig fá "ákveðna viðspyrnu" frá sænska seðlabankastjóranum, Stefan Ingves, með því að fara í þetta mál. Ekki hefði hins vegar unnist tími til að ljúka því almennilega, en "þetta var svokallað leyniplagg" sem lægi fyrir í skjalasafni Seðlabanka Íslands.
Tekið skal fram að framangreint skjal var reyndar undirritað af Geir H. Haarde, Árna M. Mathiesen, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og bankastjórum Seðlabankans en ekki Jóhönnu Sigurðardóttur.Við skýrslutöku ræddi Jóhanna um fundinn: "En ég kem ekki inn í þetta öðruvísi heldur en það, í minni vinnu í ráðuneytinu, og síðan þessi fundur sem ég var að byrja að segja ykkur frá sem ég var kölluð á [...]. Og það var á miðjum fundi og þá var ég kölluð gagngert til að spyrja að því, af því gefna tilefni að þeir voru að reyna að fá lánafyrirgreiðslu frá Norðurlöndunum og það hefur komið ósk frá einhverjum af þessum Norðurlöndum, hvort það var seðlabankinn þar, um það hvort það væri einhver fyrirstaða í því að breyta lánakerfinu í samræmi við það sem að ESA var að biðja um, þ.e.a.s. að afnema þessa ríkisábyrgð og hvort það væri einhver fyrirstaða þar af minni hálfu. Og ég svaraði því til, og þau vissu það náttúrulega, Ingibjörg og Geir, að ég var alveg opin fyrir því og auðvitað bar okkur skylda til þess, af því að þarna var verið að gagnrýna okkur fyrir ólögmæta ríkisábyrgð, að vísu ekki komin niðurstaða í það, en við vorum að vinna út frá þeim sjónarhóli að skipta upp Íbúðalánasjóði í almennt lánakerfi sem bæri ekki ríkisábyrgð og síðan félagslega íbúðakerfið. Það greindi ég honum frá og þeim og það var engin fyrirstaða af minni hálfu, það var verið að kalla eftir því hvort að ég mundi standa í vegi fyrir slíkri breytingu og það lá alveg ljóst fyrir og var raunverulega farið að byrja að vinna eftir þeim plönum. Og 17. maí þá kemur einmitt [...] yfirlýsing hérna Geirs Haarde sem var þá í samræmi eða út af þessum erfiðleikum að fá hér lán inn í landið, eða opna lánalínur, að þar kemur hann inn á þetta, að til þess að bæta virkni peningamálastefnunnar mun ríkisstjórnin m.a. þegar undirbúa og birta trúverðuga áætlun um umbætur og breytingar á skipulagi Íbúðalánasjóðs. Þetta er 16. maí og hérna er það 17. maí sem ég er með yfirlýsingu um þetta, og síðan var farið að vinna í samræmi við það. Og þetta var á málaskrá þingsins um haustið, að ég mundi leggja þetta fram, en lengra komst það svo ekki, út af hruninu þá var þetta mál bara hreinlega lagt til hliðar. En lengra sat ég ekki þann, þennan fund, ég bara fór yfir þetta og greindi frá að ég mundi ekki vera með neina fyrirstöðu við þetta, lýsti því hvernig það væri, hafði auðvitað verið áður skiptar skoðanir milli flokkanna þegar við vorum að byrja þetta stjórnarsamstarf, hvort það ætti að einkavæða Íbúðalánasjóð og hvort að fjármögnun ætti að vera í fjármálaráðuneytinu eða hjá mér. En svo voru menn komnir niður á þessa niðurstöðu."Við skýrslutöku lýsti Davíð Oddsson því að við gerð samninganna við norrænu seðlabankana hefðu hinir erlendu seðlabankastjórar efast um að ríkisstjórn Íslands myndi takast á við aðsteðjandi vanda. Davíð hafði eftir þeim: "Við vitum að þið skiljið þetta og þið viljið þetta en við verðum bara að hafa "uppáskrift" ráðherra." Davíð kvaðst hafa verið orðinn vonlítill um að samningar næðust og því hefði hann að lokum sagt: "Ég fullyrði það að forsætisráðherra er búinn að lofa mér því að hann muni fylgja þessu fast eftir. Og þá kemur allt í einu: "Ég vil heyra það frá hans munni." Og ég segi: "Bíddu, hvenær? Af því að við erum að klára þetta í kvöld." Þeir hefðu svarað: "Núna." Hefði þá verið hringt í Geir H. Haarde, forsætisráðherra, og farið fram á það að ráðherrar í ríkisstjórninni undirrituðu yfirlýsingu þar sem veitt væru loforð annars vegar um ábyrga stefnu í ríkisfjármálum og hins vegar um Íbúðalánasjóð.Til er minnisblað Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur vegna þessa fundar. Fram kemur að bankastjórar Seðlabanka Íslands hafi sótt fundinn. Í minnisblaðinu segir að fram hafi komið að bankakerfi Íslands sé áttföld þjóðarframleiðsla. Bankakerfi Svíþjóðar sé á hinn bóginn fjórföld þjóðarframleiðsla. Í skjalinu segir einnig: "Fram kom að norrænu bankarnir vilji fá einhverja yfirlýsingu frá Seðlabankanum sem gefi til kynna einhverja viðleitni til að taka á ákveðnum málum sbr. það sem fram kom á fundi 16. apríl." Í minnisblaði Ingibjargar segir síðan að fram hafi komið á fundinum að bankastjóri Seðlabanka Finnlands "muni líka segjast styðja þessar aðgerðir" og koma að málinu á síðara stigi.
17. fundur samráðshóps stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað 15. maí 2008
Samráðshópur stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað fundaði 15. maí 2008. Í drögum að fundargerð segir að á fundinum hafi komið fram að álit lögfræðinga félagsmálaráðuneytisins og Íbúðalánasjóðs sé að lagabreytingar gerist ekki þörf til þess að Íbúðalánasjóður geti "keypt" fasteignaveðlán af fjármálafyrirtækjum. Síðar í drögum að fundargerð segir að Áslaug Árnadóttir hafi greint frá því að enn sé unnið að frumvarpsdrögum sem fyrr hafi verið rædd. Þau séu langt komin og unnt eigi að vera að ljúka gerð þeirra mjög hratt ef á þurfi að halda. Loks segir að upplýst hafi verið að frumvarp um sérvarin skuldabréf sé orðið að lögum.
18. fundur samráðshóps stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað 21. maí 2008
Samráðshópur stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað fundaði 21. maí 2008. Í drögum að fundargerð segir að Ingimundur Friðriksson hafi vikið að skiptasamningum Seðlabanka Íslands. Hann hafi gert grein fyrir lyktum samninga bankans við seðlabanka Noregs, Svíþjóðar og Danmerkur. Þá hafi verið vikið að nýju mati Moody's á lánshæfi ríkissjóðs. Einkunnin hafi verið lækkuð en jákvætt þyki að horfur séu nú stöðugar en slíkt sé talið auðvelda lántöku. Fram kemur að tilkynnt verði samdægurs um viðbótarútgáfu ríkisskuldabréfa en sú útgáfa komi til framkvæmda síðar. Um þetta segir að vænst sé eftirspurnar erlendis frá en um leið geti dregið úr innlendu lausafé. Að því er varðar málefni Íbúðalánasjóðs, sem komið hafi til umræðu á síðustu fundum samráðshópsins, segir í drögum að fundargerð að Jónas Fr. Jónsson efist um að ekki þurfi lagabreytingu með tilliti til hlutverks og verkefna Íbúðalánasjóðs ef sjóðurinn eigi að fara í það að kaupa fasteignaveðbréf frá fjármálastofnunum.
Fundur Seðlabanka Íslands með stjórnendum Glitnis 22. maí 2008
Hinn 22. maí 2008 var haldinn fundur með fyrirsvarsmönnum Seðlabanka Íslands um lausafjárstöðu Glitnis í höfuðstöðvum Glitnis að Kirkjusandi. Í drögum Seðlabankans að fundargerð segir að fram hafi komið hjá Lárusi Welding að unnið sé virkt í eignasölu svo og að vinnu að viðbúnaðaráætlun.Allir angar séu hafðir úti við fjármögnun. Fram kemur að farið hafi verið yfir glærur um lausafjárstöðu Glitnis. Að því búnu hafi verið farið yfir aðgerðaáætlun um fjármögnun. Fram kemur að Tryggvi Pálsson hafi áréttað mikilvægi þess að bankarnir leysi sjálfir úr stöðunni og ekki sé búist við að ríkisvaldið eða Seðlabankinn grípi inn í nema að verulega alvarleg staða sé komin upp.Síðan segir að Tryggvi hafi hvatt til aðgerða í fjármögnun nú þegar virðist lag því að aftur geti syrt í álinn síðar um sumarið.
Tekið skal fram að í kjölfar þessa fundar breyttust lausafjárskýrslur Glitnis þannig að bankinn féll ekki lengur á lausafjárprófum Seðlabankans.
Fundur bankaráðs Seðlabanka Íslands 23. maí 2008
Í fundargerð af fundi bankaráðs Seðlabanka Íslands sem haldinn var 23. maí 2008 kemur fram að Davíð Oddsson hafi bent á að veðlán séu mjög mikil og hafi fjórfaldast á rúmlega ári. Bankastjórn sé hugsandi yfir þessu, meðal annars yfir því hvernig þau séu tryggð. Allstór hluti þeirra sé tryggður með gagnkvæmum bréfum bankanna og þetta sé í skoðun. Fram kemur að Jónas Hallgrímsson hafi spurt hvaða tryggingar það séu sem Seðlabankinn sé að skoða fyrir veðlánunum. Davíð Oddsson hafi sagt að um 170 milljarðar króna af tryggingum séu bréf sem bankarnir gefi hver til annars til að leggja fram í veðlánum. Þau séu ótryggð að öðru leyti og geti verið "froða". Stefán Svavarsson, aðalendurskoðandi bankans, sé að skoða þessi mál. Icebank taki til að mynda 190 milljarða króna veðlán og endurláni síðan til hinna bankanna. Þarna sé líklega verið að prenta peninga. Seðlabanki Evrópu hafi haft fyrirvara gagnvart slíkum pappírum. Því næst er haft eftir Davíð: "Veðlán Seðlabankans næmu nú u.þ.b. sömu fjárhæðum og fjárlög ríkisins í hverri viku. Menn veltu því fyrir sér hvort tryggingarnar væru nægjanlegar og hvort ekki ætti að hægja á."
13. fundur starfshóps Seðlabanka Íslands um viðbrögð við lausafjárvanda 26. maí 2008
Starfshópur Seðlabanka Íslands um viðbrögð við lausafjárvanda fundaði 26. maí 2008. Í fundargerð kemur fram að Tryggvi Pálsson hafi sagt frá því að lausafjárhlutfall Glitnis hafi farið í 1,05 og líklegt sé að það muni lækka á næstu mánuðum. Af þeim sökum hafi verið fundað með Glitni í síðustu viku. Þar hafi mætt, auk forstjórans, nýir framkvæmdastjórar samkvæmt nýju skipuriti Glitnis en þó sé ekki búið að ganga endanlega frá skipuritinu. Líkt og fram komi í ráðgjöf Andrews Gracie og gert sé ráð fyrir í viðbúnaðarvinnu stjórnvalda liggi stór gjalddagi fyrir hjá Glitni í október 2008 og aftur í mars 2009. Einnig séu drjúgar endurgreiðslur hjá Glitni fram til október nk. Haft er eftir Tómasi Erni Kristinssyni, framkvæmdastjóra upplýsingasviðs Seðlabankans, að örðugleikar hafi verið við gagnaöflun hjá Glitni og svo virðist sem mikil mannekla sé hjá bankanum, sérstaklega í bókhaldsdeildinni. Haft er eftir Tryggva Pálssyni að Rósant M. Torfason, fjármálastjóri hjá Glitni, hafi fundað með starfsmönnum Fjármálaeftirlitsins og sagt að lögð verði áhersla á góð samskipti varðandi upplýsingar.
Síðar í fundargerð kemur fram að Tryggvi Pálsson hafi sagt frá því að samráðshópur þriggja ráðuneyta, Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans hittist nú vikulega á fundum og sjái Tryggvi um að halda utan um fundargerðir. Haft er eftir Tryggva að "Ólystugi matseðillinn" hafi verið ræddur í samráðshópnum. Næst á dagskrá sé að fara yfir kerfislegt mikilvægi og innlánstryggingar og ræða hverju ríkið sé tilbúið að lýsa yfir í því sambandi ef á þurfi að halda. Síðan segir að lögð hafi verið fram drög að skjali þar sem dregin sé upp sviðsmynd af lausafjárvanda hjá einum banka. Fram kemur að Tryggvi Pálsson hafi lagt til að þessari vinnu verði haldið áfram og jafnframt verði gerðir gátlistar vegna þeirra álitaefna og atriða sem framfylgja þurfi í kjölfarið. Einnig sé mikilvægt að láta forskriftir að fréttatilkynningum varðandi aðstoðina fylgja með tillögunni. Í fundargerð segir einnig að Jón Þ. Sigurgeirsson, sérfræðingur á skrifstofu bankastjórnar Seðlabankans, hyggist kanna hvaða forskriftir séu til auk þess að athuga í samráði við Sigríði Logadóttur, aðallögfræðing Seðlabankans, hvaða lærdóm megi draga af reynslu Northern Rock sl. haust.
Frumvarp um heimild ríkissjóðs til lántöku 26. maí 2008
Hinn 26. maí 2008 mælti Árni M. Mathiesen fyrir frumvarpi á Alþingi sem skyldi heimila ríkissjóði að taka allt að 500 milljarða króna erlent lán. Heimildina ætti að nýta til að auka gjaldeyrisvaraforða Seðlabanka Íslands. Í kvöldfréttum Stöðvar 2 28. sama mánaðar var rætt við Árna og sagði hann aðspurður að aðgerðin væri ekki neyðarúrræði. Fréttamaður spurði þá hvort verið væri að bjarga bönkunum. Árni svaraði: "Auðvitað hefur hlutfallsleg stærð bankakerfisins miðað við stærð efnahagskerfisins og að, með þetta að gera. En í þeim skilningi að það sé verið að bjarga einhverjum sem að sé í vandræðum að þá er það ekki staðan.Við teljum ekki að bankarnir séu í einhverjum, einhverjum vandræðum sem að þurfi að bjarga þeim úr." Frumvarpið var samþykkt 29. maí sem lög nr. 60/2008 um heimild ríkissjóðs Íslands til sérstakrar lántöku á árinu 2008. Með lögunum var fjármálaráðherra veitt heimild til að taka allt að 500 milljarða króna lán til eflingar gjaldeyrisvaraforðans. Lögin öðluðust gildi 7. júní sama ár.
Framangreint mál hafði verið tekið til umræðu á fundi ríkisstjórnarinnar 23. maí 2008. Á þeim fundi hafði Árni M. Mathiesen lagt fram frumvarpið og minnisblað um efni þess. Í minnisblaðinu segir m.a.: "Sú stefna var mörkuð af hálfu stjórnvalda fyrri hluta árs 2006 að gjaldeyrisforðinn yrði efldur.Veigamikið skref í þá átt var stigið í árslok 2006 með lántöku ríkissjóðs að fjárhæð einum milljarði evra sem endurlánað var Seðlabankanum.Vegna þeirrar erfiðu stöðu sem ríkt hefur á fjármálamörkuðum að undanförnu þykir rétt að haldið verði áfram á þessari braut. Nú nýlega gerði Seðlabankinn tvíhliða gjaldeyrisskiptasamninga við seðlabanka Svíþjóðar, Noregs og Danmerkur sem hver um sig veitir Seðlabankanum aðgang að allt að 500 milljónum evra gegn íslenskum krónum og eykur þannig verulega aðgang Seðlabankans að erlendu lausafé. Erlend lántaka ríkissjóðs í því skyni að efla gjaldeyrisforðann enn frekar er til athugunar. [...] Ekki liggur fyrir á þessu stigi hvenær á árinu, að hvaða marki, í hvaða áföngum eða í hvaða hlutföllum erlendrar og innlendrar lántöku heimildin verður nýtt, enda mun það ráðast af aðstæðum. Rétt þykir hins vegar að til staðar sé sérstök lántökuheimild sem geri kleift að ráðast á þessu ári með litlum fyrirvara í verulegar erlendar eða innlendar lántökur umfram þær lántökur sem fjárlög ársins 2008 gerðu ráð fyrir."
19. fundur samráðshóps stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað 29. maí 2008
Samráðshópur stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað fundaði 29. maí 2008. Í drögum að fundargerð kemur fram að Baldur Guðlaugsson hafi nefnt nýlega frétt í The Financial Times um væntanlega sölu Glitnis á "hæfum bréfum" til Seðlabanka Evrópu. Því næst segir að Ingimundur Friðriksson og Tryggvi Pálsson hafi talið að í þessu felist hætta fyrir Glitni sem standi veikast bankanna og treysti á "skuldabréfun" sem fjármögnun. Seðlabankar geti hvenær sem er ákveðið að þrengja hæfisskilyrðin fyrir kaupum á bréfum. Nú sé tækifærið til að létta á fjármögnunarvandanum en þrengt geti að aftur hvenær sem er. Búast eigi við að uppgjör bankanna á næstu ársfjórðungum verði slök. Síðan segir að Jónas Fr. Jónsson hafi bent á aukin vanskil, vanda smærri fjármálafyrirtækja og að haustið geti orðið erfitt. Því næst segir að dreift hafi verið línuriti sem sýni þróun skuldatryggingarálaga. Álögin hafi verið að færast upp á síðustu vikum fyrir Kaupþing og Glitni. Fram kemur að á fundinum hafi verið vikið að mögulegri ákvarðanatöku á undirbúningsstigi, hinum svokallaða "Ólystuga matseðli". Framhald hafi síðan verið á umræðu síðasta fundar um spurningarnar fimm á þeim lista sem Jónas Fr. Jónsson hefði lagt fram. Á þeim fundi hefði verið umræða um liði 1 og 6. Haft er eftir Jónasi Fr. Jónssyni að nauðsynlegt sé að fá afstöðu til spurninga 2, 4 og 5 til að undirbúa viðbrögð. Einnig er haft eftir Jónasi að hann staldri við 5 milljóna króna viðmiðið í innlánum sem dekki 95% innlána, sbr. skýrslu viðskiptaráðuneytisins, dags. 9. maí 2008, um ábyrgð á innstæðum. Því næst segir í fundargerð að Baldur Guðlaugsson telji að ekki sé hægt að hafa mótaða skoðun, allt sé háð aðstæðum. Síðan er haft eftir Jónasi Fr. Jónssyni að stuttur tími gefist til að bregðast við, sbr. Northern Rock og Bear Stearns.Tveggja sólarhringa fyrirvari sé lúxus og því sé nauðsynlegt að vera undirbúin. Spurningin snúist um að einangra vandamál og koma í veg fyrir útbreiðslu skaðans. Því næst segir í drögum að fundargerð að Áslaug Árnadóttir hafi bent á að í útreikningum skýrslunnar á upphæð ábyrgðar sé ekki tekið með í reikninginn að "top-up cover" kæmi væntanlega frá erlendum tryggingarsjóðum vegna innlána þar. Síðan segir að Baldur Guðlaugsson hafi sagt að fráleitt væri að hægt sé að marka stefnu nú. Haft er eftir Jónasi Fr. Jónssyni að það hafi tekið bresk stjórnvöld marga daga að átta sig á stöðunni og undirbúningur þeirra hafi reynst ónógur. Hver dagur í töf geti aukið skaðann verulega. Því næst segir að Bolli Þór Bollason, ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytis, hafi sagt meira talnaefni vanta. Gagnlegt væri að sjá hversu fjárhæðin breyttist við mismunandi viðmið, hversu stór erlendu lánin séu og hve mikið fé geti komið frá erlendum tryggingarsjóðum. Fram kemur að Áslaug Árnadóttir og Jónas Fr. Jónsson muni taka það saman. Einnig segir að Bolli Þór Bollason hafi viljað fá skriflega lýsingu á hugsanlegum smitáhrifum í áfalli. Baldur Guðlaugsson hafi síðan bætt því við að einnig þyrftu að koma fram kostir og gallar við aðgerðir. Fram kemur að Jónas Fr. Jónsson hafi minnt á útreikninga Seðlabankans á mögulegum kostnaði við lausn fjármálaáfalls og hagvaxtartap en þeir útreikningar hafi áður verið lagðir fram í samráðshópnum. Síðan segir að Ingimundur Friðriksson hafi sagt að unnt eigi að vera að taka ákvörðun eftir að fyrir liggi umbeðnar upplýsingar frá Áslaugu Árnadóttur og Jónasi Fr. Jónssyni. Því næst segir að Bolli Þór Bollason hafi bætt við beiðni um að fá einnig hugleiðingar um smitáhrif fjármálaáfalls.Varðandi spurningu nr. 4 er haft eftir Ingimundi Friðrikssyni að útreikningar á kerfislegu mikilvægi liggi fyrir og hafi áður verið afhentir hópnum. Loks er haft eftir Tryggva Pálssyni að kristaltært sé að stóru bankarnir þrír séu kerfislega mikilvægir sem og ímyndaráfall tengdra aðila. Fram kemur að beðið hafi verið um að umræddir útreikningar verði aftur sendir til fundarmanna.
Í tilefni af drögum samráðshópsins að fundargerð 29. maí 2008 var Bolli Þór Bollason spurður að því hvort bankarnir hefðu skilið það alvarlega ástand sem þá var í raun komið upp, þegar litið væri til þess að Fjármálaeftirlitið hafði þá 10 umsóknir frá þeim um að opna útibú erlendis. Bolli Þór Bollason svaraði í skýrslu sinni: "Í mínum huga er það algjörlega augljóst að bankarnir skildu málið en vildu ekki bregðast við. Það kemur ennþá betur fram þegar kemur fram í september og októberbyrjun hver ástæðan var, að bankarnir voru auðvitað á fleygiferð að reyna að bjarga sér fyrir horn. Það var verið að taka innlán í London, Amsterdam og alls staðar og færa pening heim. Og ef þú breyttir þessu í dótturfélag þá var almenna reglan sú að þú gast ekki flutt nema brot heim. Þá var auðvitað alveg klárt í mínum huga að, alla vega þegar leið á haustið að bankarnir væru greinilega í miklu meiri fjármögnunarvandamálum en þeir höfðu gert okkur grein fyrir. Þetta er kapítuli út af fyrir sig og meira að segja þegar komið er fram í september þá og þegar eru komnar af stað einhverjar viðræður milli Landsbankans og breska fjármálaeftirlitsins [...] þá sáu bankastjórar Landsbankans ástæðu til að fagna því að þeir höfðu fengið tveggja vikna frest til að svara einhverju bréfi, mig minnir að það hafi verið breska fjármálaeftirlitið, og þeir sögðu: "Þá getum við safnað meiri innlánum, í þessar tvær vikur." Þetta var bara "attitjúdið"." Bolli var þá spurður hvort íslensk stjórnvöld hefðu þá ekki þurft að taka málin fastari tökum. Hann svaraði: "Mín skoðun var [...] alla vega þegar var farið að líða á haustið að það yrði að taka á þessu fastari tökum og þetta var auðvitað gert í þessum óformlegu samtölum við einstaka bankastjóra, þá var auðvitað vakin athygli á þessum áhyggjum manna. En viðbrögð þar voru alltaf: "Ja, þetta er í gangi, við erum að undirbúa dótturfélagavæðingu.""
19.3.9 Júní 2008
Erindið "Ræður Seðlabankinn við verðbólguna?" flutt 2. júní 2008
Arnór Sighvatsson, aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands, flutti erindi í Háskóla Íslands 2. júní 2008. Erindið bar heitið "Ræður Seðlabankinn við verðbólguna?". Í erindi sínu sagði Arnór m.a.: "Hafi stjórnvöld áhyggjur af því að Seðlabankinn hafi með stýrivöxtum sínum of fá vopn í vopnabúri sínu gætu þau einnig íhugað að færa honum fleiri vopn í hendur. Þróun á íbúðamarkaði gegndi lykilhlutverki í þeirri einkaneyslu- og lánabylgju sem hér hefur ríkt undanfarin ár. Hækkun hámarkslána og veðhlutfalla áttu ásamt lágum alþjóðlegum vöxtum ríkan þátt í að kynda undir henni. Vilji stjórnvöld læra af reynslunni gætu þau íhugað að fela Seðlabankanum reglugerðarvald til þess að takmarka veðhlutföll, ekki bara Íbúðalánasjóðs heldur bankakerfisins í heild, líkt og gert hefur verið í Hong Kong og Suður-Kóreu. Þá hefði Seðlabankinn væntanlega lækkað veðhlutföll þegar stjórnvöld og bankarnir ákváðu að hækka þau."
Áskorun um að bankarnir stofni dótturfélög utan um hefðbundna bankastarfsemi 2. júní 2008
Morgunblaðið birti grein hagfræðingsins Roberts Z. Aliber 2. júní 2008. Aliber lagði þar til að bankarnir myndu stofna dótturfélög utan um hefðbundna bankastarfsemi sína á Íslandi. Þessi nýju félög myndu tryggja að peningaflæði og greiðslukerfi innanlands væri öruggt. Þessi félög yrðu jafnframt af þeirri stærð að það yrði Seðlabanka Íslands ekki fyrirmunað að koma þeim til bjargar.
Fundur Seðlabanka Íslands með fyrirsvarsmönnum Glitnis 4. júní 2008
Hinn 4. júní 2008 fundaði Seðlabankinn með fulltrúum Glitnis banka hf. um lausafjárstöðu Glitnis. Samkvæmt drögum Seðlabankans að fundargerð var farið yfir mánaðarlegt lausafjáryfirlit móðurfélagsins og segir að þá hefðu nokkrir liðir sem rangir voru í þeirri skýrslu sem skilað var í lok apríl 2008 verið leiðréttir. Þar er átt við að atriði sem telja mátti til lauss fjár en höfðu fram að því ekki verið talin með lausu fé voru þá í framhaldinu talin fram. Fram kemur að farið hafi verið yfir lausafjáryfirlit samstæðu Glitnis (0–8 daga) svo og innri viðmið lausafjárstýringar bankans.
Forsætisráðherra fundar með stjórnarformanni Glitnis 10. júní 2008
Hinn 10. júní 2008 átti Geir H. Haarde, forsætisráðherra, fund með Þorsteini Má Baldvinssyni, stjórnarformanni Glitnis. Rannsóknarnefnd Alþingis hefur ekki undir höndum frekari gögn um þennan fund.
Fundur bankaráðs Seðlabanka Íslands 10. júní 2008
Í fundargerð af fundi bankaráðs Seðlabanka Íslands frá 10. júní 2008 segir að Davíð Oddsson hafi bent á að verð hlutabréfa hafi verið að láta undan og OMX vísitalan sé nú á svipuðu stigi og þegar svokölluðum botni hafi verið náð um miðjan mars sama ár. Mörg fjármála- og eignarhaldsfyrirtæki hafi lækkað um meira en helming. Skuldatryggingarálög bankanna hafi jafnframt snúist til verri vegar. Fram kemur að Eiríkur Guðnason hafi upplýst að aftur virðist kominn vöxtur í innstæður erlendis á síðustu vikum og jafnframt hafi orðið fjölgun á bundnum innstæðum á þessum markaði. Nettóstaða gjaldeyrisjafnaðar bankanna hafi vaxið á síðustu 12 mánuðum. Misvægið nemi nú 800 milljörðum króna sem sé um 70% af eigin fé bankanna. Nýjar reglur Seðlabankans um gjaldeyrisjöfnuð fjármálafyrirtækja sem birtar hafi verið 4. júní sl. taki gildi 1. júlí nk.
Minnisblað Seðlabanka Íslands 18. júní 2008 um réttaráhrif lækkunar á lánshæfiseinkunnum bankanna
Hinn 18. júní 2008 var tekið saman minnisblað innan Seðlabanka Íslands um athugun sem gerð hafði verið á því hvort lækkun á lánshæfiseinkunn bankanna hefði áhrif á skilyrði í lánasamningum þeirra. Í skjalinu segir að hjá Kaupþingi banka hf. leiði lækkun á lánshæfi almennt ekki til gjaldfellingar lána eða til þess að greiða þurfi þau upp fyrir tímann. Hjá bankanum séu tvö lán þar sem lækkun á lánshæfi hafi áhrif á kjör lánsins. Samtals séu lánin að upphæð u.þ.b. einn milljarður evra en fari einkunnagjöf hjá Moody's í A3 eða neðar versni kjörin um ca. 8 bp (grunnpunkta yfir svokölluðum LIBOR-vöxtum).
Fram kemur að í lánasamningum Landsbanka Íslands hf. séu engir skilmálar um gjaldfellingu sem tengist lánshæfismati bankans. Á hinn bóginn geti lánshæfismat bankans haft áhrif á lánakjör hans í gildandi samningum.
Að því er Glitni varðar kemur fram í skjalinu að í lánasamningum bankans séu almennt ekki svokallaðir "rating triggers". Lækkun á lánshæfiseinkunn hafi áhrif á tvær lánalínur. Þá sé kveðið á um að vaxtakjör hækki ef lánshæfiseinkunn lækki. Lækki lánshæfiseinkunn Glitnis í Baa hjá Moody's gjaldfalli lánalína við KfW banka í Þýskalandi.
Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar um aðgerðir á fasteigna- og fjármálamarkaði 19. júní 2008
Hinn 19. júní 2008 birti ríkisstjórnin yfirlýsingu um aðgerðir á fasteigna- og fjármálamarkaði. Í yfirlýsingunni segir m.a.: "Jafnframt glímir íslenski fjármálamarkaðurinn við lausafjárskort sem hamlar mjög getu bankanna til að stunda eðlileg lánaviðskipti. Þá hefur lítið framboð áhættulausra krónubréfa valdið vaxandi þrýstingi á skuldabréfa- og gjaldeyrismarkaði. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að grípa til sérstakra aðgerða til að bregðast við þessari stöðu. Þær eru í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar um umbætur og breytingar á skipulagi Íbúðalánasjóðs og til þess ætlaðar að bæta virkni peningamálastefnunnar." Síðan segir að stofnaðir verði tveir nýir lánaflokkar hjá Íbúðalánasjóði. Um það segir í yfirlýsingunni: "Annar flokkurinn varðar lánveitingar til banka, sparisjóða og annarra fjármálafyrirtækja til endurfjármögnunar á íbúðalánum sem þessar lánastofnanir hafa þegar veitt gegn veði í íbúðarhúsnæði. Hinn flokkurinn varðar lánveitingar til banka, sparisjóða og annarra lánastofnana til fjármögnunar á nýjum íbúðalánum þeirra." Í yfirlýsingunni segir einnig: "Til að draga úr miklum þrýstingi á skuldabréfa- og gjaldeyrismarkaði hefur, á grundvelli heimildar frá Alþingi, verið ákveðið að auka við útgáfu stuttra ríkisbréfa. Fjármálaráðuneytið mun undirbúa slíkar útgáfur í samráði við Seðlabankann."
Ljóti listinn 24. júní 2008
Í gögnum Seðlabankans er að finna uppfærða útgáfu af skjalinu "Ljóti listinn", dags. 24. júní 2008, en fyrri útgáfa er frá 17. janúar sama ár:
24. júní 2008 Ljóti listinn (2)
Ljóti listinn er samantekt þeirra aðfinnsla og neikvæðrar umfjöllunar um íslenskt fjármálakerfi sem birst hafa í erlendri
umfjöllun á síðustu vikum:
1. Krónan í frjálsu falli og verðbólga ekki hærri í 18 ár
a. Krónan hefur fallið um 30% gagnvart evru síðan frá áramótum. Ein ástæðan er vangaveltur um það hvort Seðlabankinn geti bjargað bönkunum ef þeir lenda í lausafjárvandræðum. Samkvæmt Bloomberg 23. júní féll krónan þann dag vegna frétta um að hægt hafi á vexti launa og það gefi enn sterkari vísbendingu um að samdráttarskeið sé í vændum.
b. Stýrivextir hafa aldrei verið hærri, en þó hafa þeir ekki náð að snúa við falli krónunnar.Verðbólgan er komin í 12,3% og hefur ekki verið hærri í 18 ár.
2. Lánshæfismat bankanna og ríkisins lækkar.
a. Lánshæfismat bankanna og ríkissjóðs voru lækkuð.
b. Icesave ekki stöðug innlán og því hugsar Moody's um að lækka lánshæfismat Landsbankans (Credit Sights). Glitni og Kaupþingi gengur illa að auka hlutfall innlána.
3. Hátt skuldatryggingarálag
a. Bankarnir áhættumeiri en aðrir evrópskir eins A-matsbankar (single A-rated).
b. Bankarnir treysta of mikið á fjármagn frá erlendum mörkuðum. Markaðurinn er hræddur um að hagnaður minnki á þessu ári.
4. Endurfjármögnun erfið
a. Hærri endurfjármögnunarkostnaður fyrir bankana, þó ekki mikil endurfjármögnun 2008 en mikil 2009 sem bankarnir þurfa að líta til seinni hluta þessa árs.
b. Menn hafa áhyggjur af því að íslenskir bankar og fyrirtæki hafi stækkað of hratt, þau tóku lán þegar auðvelt var að nálgast þau og eigi því í erfiðleikum með að endurfjármagna þessar miklu skuldir núna.
c. Ísland er nýjasti blikkandi punkturinn í heimsfjármálakreppunni. Gagnrýnendur hafa borið landið saman við "eitraðan vogunarsjóð" byggðan á skuldum sem gætu farið að fara illa (Guardian).
5. Seðlabankinn
a. Gjaldeyrisvarasjóður Seðlabankans er lítill, því hafa menn áhyggjur af því að bankarnir séu of stórir til að Seðlabankinn geti bjargað þeim.
b. Peningastefnan hefur ekki verið að skila sér en bankinn hefur ekki mörg önnur tæki. Ef verðbólga hækkar er aðeins eitt sem bankinn getur gert en það er að hækka vexti (Eileen Zhang, Standard & Poors).
6. Fall á hlutabréfamarkaði
a. Íslenski hlutabréfamarkaðurinn hefur lækkað næst mest í heiminum árið 2008.
b. Mikið af veðum bankanna eru hlutabréf, einnig eiga bankarnir mikið af hlutabréfum.
7. Hagkerfið
a. Hagkerfið er í miðri efnahagslegri bráðnun (Financial Post).
b. Hækkandi olíuverð og mikil verðbólga ógna hagkerfum landa eins og Úkraínu,Víetnam, Ungverjalandi og Íslandi.
c. Mikill vöruskiptahalli.
För seðlabankastjóra á ársfund Alþjóðagreiðslubankans í Basel í síðari hluta júní 2008
Í drögum að minnisblaði Ingimundar Friðrikssonar er því lýst að "seinni partinn í júní" hafi tveir bankastjórar Seðlabankans sótt ársfund Alþjóðagreiðslubankans í Basel. Í minnisblaðinu kemur fram að seðlabankastjórunum hafi verið mjög brugðið við viðmót norrænna seðlabankastjóra á þeim fundum. Ingimundur segir síðan: "Engu var líkara en að þeir forðuðust eins og heitan eldinn að hitta þá íslensku eða sjást nokkurs staðar nálægt þeim. Meira að segja var það svo að bankastjóri eins norrænu seðlabankanna forðaðist að heilsa þeim íslensku með handabandi þar til hann gat ekki annað þegar hann lenti í lyftum með öðrum þeirra og var þá ekki kveðjan hlýrri en svo að hann rétti vinstri höndina."Við skýrslutöku sagði Davíð Oddsson að viðmót Stefan Ingves, bankastjóra Seðlabanka Svíþjóðar, hefði gjörbreyst til hins verra að loknum svokölluðum G10 fundi sem fram hefði farið um vorið 2008. Síðan bætti Davíð við: "Og svo hafði hann – ég held að það hafi nú verið seinna sem hann heilsaði ekki Eiríki."Í framangreindum drögum Ingimundar Friðrikssonar að minnisblaði kemur einnig fram að á ársfundi Alþjóðagreiðslubankans hafi bankastjóri Seðlabanka Lúxemborgar óskað eftir fundi með "íslenska og öðrum norrænum seðlabankastjórum". Síðan segir í skjalinu: "Á þeim fundi gerði hann grein fyrir því að íslensku viðskiptabankarnir hefðu nýtt sér fyrirgreiðslu Seðlabanka Evrópu fram úr öllu hófi og sagði að engir bankar vildu lengur eiga viðskipti við íslenska viðskiptabanka út í heimi. Þeir væru eins og holdsveikisjúklingar sem enginn vildi koma nálægt. Í kjölfarið bauð formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands bankastjóra Seðlabanka Lúxemborgar að koma til Íslands svo fljótt sem verða mætti til frekari viðræðna um málið. Eftir Baselferðina gerðist það sömuleiðis að bankastjóri Seðlabanka Evrópu hringdi í formann bankastjórnar Seðlabankans og gerði honum grein fyrir hinu sama og var mjög mikið niðri fyrir. Hann sagði íslensku bankana hafa lagt fram algjörlega ónýt veð í Seðlabanka Evrópu, jafnvel gervipappíra eins og því var lýst."
Fjármálaeftirlitið og Seðlabanki Íslands funda 27. júní 2008
Hinn 27. júní 2008 funduðu Ingimundur Friðriksson, seðlabankastjóri, og Tryggvi Pálsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Seðlabankans, með Jónasi Fr. Jónssyni, forstjóra Fjármálaeftirlitsins. Í drögum Seðlabankans að fundarpunktum kemur fram að rætt hafi verið um vanda smærri fjármálafyrirtækja. Einnig segir að staða Glitnis hafi verið rædd. Haft er eftir Tryggva Pálssyni: "Upplýsingar Rósants. (Bankinn) situr eins og önd á vatni sem hægt sé að plaffa niður. (Nú þarf að:) Vinna eins og bankinn færi niður [...]."
19.3.10 Júlí 2008
The Financial Times birtir greinina "Iceland pays price for financial excess" 1. júlí 2008
Hinn 1. júlí 2008 birti The Financial Times greinina "Iceland pays price for financial excess" eftir Robert Wade, prófessor við London School of Economics. Í greininni segir m.a.: "The banks were privatised around 2000 in a hasty and politically driven process. Ownership went to people with close connections to the parties in the conservative coalition government, which had scant experience in modern banking. The central bank and the finance ministry were staffed at the top by people who preferred as light a regulatory touch as possible." Síðan segir: "The banks soon extended their operations from commercial banking to investment banking. Neither they nor the regulators separated the implicit guarantees they received as commercial banks from their operations as investment banks.The extension of the safety net allowed them to take big bets at home and abroad.They operated like hedge funds, financing their expansion largely from foreign borrowings rather than domestic deposits." Því næst segir: "The central bank tied its own hands so as to leave only the interest rate as its control instrument. It gave up reserve requirements on grounds that the banks did not want them; and it also failed to exercise moral suasion. Its efforts to restrain inflation by raising short-term rates (to 15 per cent by 2008) had the effect of sucking in more "carry trade" capital, undermining the intended curbing of demand and leading the krona to appreciate despite the huge external deficit." Loks segir: "During the 2000s, Icelandic companies and households have taken to borrowing as though there is no tomorrow."
Fundur bankaráðs Seðlabanka Íslands 3. júlí 2008
Í fundargerð af fundi bankaráðs Seðlabanka Íslands frá 3. júlí 2008 kemur fram að Davíð Oddsson, formaður bankastjórnar Seðlabankans, hafi bent á að krónan hafi farið í 170 stig 23. júní. Skuldatryggingarálög íslensku bankanna séu áfram í hæstu hæðum. Álagið hafi náð 300 punktum [á íslenska ríkið]. Í þessu samhengi má nefna að um þetta leyti nam skuldatryggingarálag Landsbanka Íslands hf. 550 punktum en álagið á Glitni banka hf. og Kaupþing banka hf. nam 760 punktum. Síðar í fundargerð er haft eftir Davíð að söfnun gjaldeyris hjá bönkunum hafi líklega ekki verið eins mikil á öðrum ársfjórðungi og í lok þess fyrsta. Hins vegar sé nokkuð ljóst að bankarnir hafi nýtt sér þetta á fyrri ársfjórðungi. Útkoma bankanna og tengdra aðila á fyrsta fjórðungi hafi sýnt að þeir hagnist á þessum leik. Hvort þetta sé ólögmætt sé hins vegar vafamál. Innlánssókn bankanna hafi gengið vel en á móti komi að þeir hafi fengið marga upp á móti sér, bæði banka og seðlabanka í Evrópu. Þessi sókn þeirra sé tvíeggjuð en þeir séu að reyna að bjarga sér. Einnig er haft eftir Davíð að kjör hafi almennt versnað, en mestur kippur hafi verið á álaginu fyrir íslensku bankana. Þetta muni reynast bönkunum erfitt, en nú sé einnig farið að þrengjast um aðgang þeirra að Seðlabanka Evrópu. Það séu ýmis áhyggjuefni, t.d. hvernig bankarnir fari fram á mörkuðum, hvernig sé með lán til tengdra aðila, krosseignarhald, veika stöðu eigenda og gæði útlána. Erfitt sé að átta sig nákvæmlega á því, en bankarnir segi að sæmilega hafi gengið að fjármagna gjalddaga lána fram að þessu m.a. með innlánum í Evrópu. Hins vegar virðist lánalínur, sem standi bönkunum til boða, fara minnkandi. Bankarnir segist hafa lokið fjármögnun að mestu fyrir þetta ár, en erfitt sé að lesa í stöðuna, t.d. hafi Bear Stearns verið talinn í lagi þremur dögum fyrir lokun. Það sé áhyggjuefni að bankarnir séu með 5 milljarða evra í endurhverfum viðskiptum í Lúxemborg. Ef eitthvað þrengi að þá verði bankarnir ekki vel staddir. Í ljós hafi komið að eitthvað virðist bankarnir hafa verið að ávísa hver á annan í gegnum Seðlabanka Lúxemborgar og Seðlabanki Evrópu kunni ekki að meta það. Síðar í fundargerð er haft eftir Jóni Sigurðssyni að Seðlabanki Íslands fylgist með lausafjárhlutfalli bankanna í samstarfi við Fjármálaeftirlitið. Sjónir alþjóðlegra eftirlitsaðila hafi í auknum mæli beinst að lausafjárstýringu fjármálastofnana. Síðar í fundargerð er haft eftir Jóni að bankarnir séu þó vissulega í vanda staddir og reyna muni á gæði eigna, þ.m.t. eignatengslin og veika stöðu eigenda. Fram kemur að Eiríkur Guðnason, seðlabankastjóri, hafi lýst því að helsta niðurstaða ársfundar Alþjóðlega greiðslubankans (BIS) 30. júní hafi verið sú að ljóst sé að áhætta hafi á undanförnum árum verið mjög vitlaust metin og ekki sjái fyrir endann á erfiðleikum á fjármálamörkuðum.
Fundur Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins með Seðlabanka Lúxemborgar og Fjármálaeftirliti Lúxemborgar 4. júlí 2008
Hinn 4. júlí 2008 funduðu Davíð Oddsson, Ingimundur Friðriksson, seðlabankastjóri, Sturla Pálsson, framkvæmdastjóri alþjóða- og markaðssviðs Seðlabankans, Tryggvi Pálsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Seðlabankans, og Jónas Fr. Jónsson, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, með Seðlabanka Lúxemborgar og Fjármálaeftirliti Lúxemborgar. Í drögum Seðlabankans að fundargerð er m.a. haft eftir Yves Mersch, bankastjóra Seðlabanka Lúxemborgar: "Our concern is that the banks have been increasing their liabilities and that it has recently been growing every week.We are also worried that they remain the highest bidders in the euro system.Your banks started in January with small amounts and in February we started to see significant amounts which we consider cross issuance. The amount reached 3 bn. and we became concerned and so did we with our collateral management." Í framhaldinu kemur fram hörð gagnrýni á íslensku bankana og ýmis dæmi reifuð í því sambandi. Síðan er haft eftir Mersch: "I am not sure that this is a liquidity situation – maybe something different. I have talked with our Nordic colleagues and know that this is not a feeling I have alone – that either the banks are not liquid or do not want to restructure.We have thought that this has been a liquidity issue but I have heard that the IMF will say something different." Því næst er haft eftir Mersch: "Right now the situation is such that no bank wants the Icelandic banks as counterparty and we have the swaps with them! [...] Our exposure is far beyond the capital of the lender of last resort.The government has not borrowed. All is going in the same direction and time is running out. [...] The solution is to scale down [...]." Síðar er haft eftir Mersch: "I am concerned that we do not have the presence of a lender of last resort. I also come from a small country and have full understanding of your situation.The government needs to borrow now than later." Síðar í drögum að fundargerð er haft eftir Mersch: "Then we have the Board – I feel a sense of toughness within the system against Iceland right now. If you say – we are taking over – then that would be a solution. If you cannot take over, then we have a serious problem [...]."
Síðar í drögum að fundargerð kemur fram að Jónas Fr. Jónsson hafi spurt: "Have the banks breached the rules or have they breached the spirit of the rules or does it have to do with magnitude?" Fram kemur að Mersch hafi svarað: "They may respect the letter – but not the spirit [...]."
Í öðru skjali Seðlabankans er að finna fundarpunkta frá framangreindum fundi. Undir lok þess skjals kemur fram að Mersch hafi spurt hvort aukning gjaldeyrisvaraforða sé fyrirhuguð af hálfu Seðlabanka Íslands. Því næst er haft eftir Mersch: "We will not be comfortable as long as reserves of CBI [Central Bank of Iceland] less than banks exposure. Even your paper could become unacceptable."
Nánar er fjallað um þennan fund í kafla 7.0.
Fundur bankastjórnar Seðlabanka Íslands með ráðuneytisstjórum forsætisráðuneytis og fjármálaráðuneytis 4. júlí 2008
Í drögum að fundargerð bankastjórnar Seðlabankans af fundi með Bolla Þór Bollasyni, ráðuneytisstjóra forsætisráðuneytisins, og Baldri Guðlaugssyni, ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytisins, 4. júlí 2008 kemur fram að Davíð Oddsson hafi farið yfir skilaboð Yves Mersch, bankastjóra Seðlabanka Lúxemborgar. Þegar Davíð hafi áður verið staddur í Lúxemborg hafi Mersch sagt að bankarnir væru í raun komnir á hausinn. Nýjar reglur verði kynntar í október eða nóvember og taki þær gildi í desember sama ár. Mersch telji að lántökukostnaður ríkisins muni versna og skiptasamningar norrænna seðlabanka verði ekki virkir. Því næst segir í fundargerð að Davíð hafi áréttað að hann hafi á tilfinningunni að samstaða sé orðin hjá Seðlabanka Evrópu og norrænu seðlabönkunum um að betra sé að setja íslensku bankana á hausinn en að þeir valdi skaða í innlánstryggingakerfi Evrópu. Loks segir í skjalinu: "DO [Davíð Oddsson]: Sagði einn bankann (Glitni) hafa aðeins 6 mánuði."
The Financial Times birtir grein Richards Portes og Friðriks Más Baldurssonar 4. júlí 2008
The Financial Times birti grein eftir hagfræðingana Richard Portes og Friðrik Má Baldursson 4. júlí 2008. Í greininni gagnrýna þeir grein Roberts Wade frá 1. júlí sama ár. Í greininni segja þeir: "And Icelanders, now the fourth richest people in the Organisation for Economic Co-operation and Development (PPP-corrected GDP per capita), will survive." Loks segja þeir: "The rest of Prof Wade's comments are political, including rumour-mongering.This and his carelessness with the data are regrettable in the fragile conditions of today's international financial markets. He would prefer that the Icelanders adopt "a more Scandinavian model". The advice is doubtless well-intentioned, but we should not be surprised if they ignore it."
Frumdrög Tryggva Pálssonar að vinnuskjali, "Aðkallandi ákvarðanataka stjórnvalda vegna hættu á fjármálaáfalli", 7. júlí 2008
Tryggvi Pálsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Seðlabankans tók saman skjalið "Aðkallandi ákvarðanataka stjórnvalda vegna hættu á fjármálaáfalli" sem lagt var fyrir samráðshópinn 7. júlí 2008. Skjalið er birt hér að neðan:
Frumdrög að vinnuskjali
Viðtakandi: Samráðshópur Sendandi:Tryggvi Pálsson Dags. 7. júlí 2008 Efni: Aðkallandi ákvarðanataka stjórnvalda vegna hættu á fjármálaáfalli.
Hætta á fjármálaáfalli hérlendis fer stöðugt vaxandi. Úrræðum íslensku bankanna við fjármögnun fer fækkandi þrátt fyrir að þeir hafi enn jákvæða afkomu og eiginfjárhlutföll yfir lágmarki laganna. Þrengt hefur einnig að fjármögnun ríkissjóðs erlendis þrátt fyrir afar sterka stöðu hans.
Unnið hefur verið að margháttuðum viðlagaundirbúningi stjórnvalda á liðnum misserum og árum en vonast hafði verið til þess að á hann þyrfti ekki að reyna. Heldur virtist rofa til upp úr miðjum maí og framan af júní sl. eftir að Seðlabanki Íslands greindi frá skiptasamningum sínum við seðlabanka Svíþjóðar, Noregs og Danmerkur samtímis því sem frekar hagstæð þróun var á erlendum mörkuðum. Slegið hefur í bakseglin og fullyrða má að ástandið hafi aldrei verið jafn alvarlegt og nú.Tíminn virðist ekki vinna með íslensku bönkunum og stjórnvöldum. Ákvarðanataka stjórnvalda um hvort og þá með hvaða hætti þau ætla að takast á hendur frumkvæði og aukna ábyrgð er orðin aðkallandi.
Eftirfarandi samantekt er í þremur köflum, þ.e. stöðumat, helstu leiðir fyrir stjórnvöld og hugmynd um næstu skref.
I. Stöðumat
1. Senn er ár liðið frá því að lausafjárþrengingar hófust erlendis en frá þeim tíma hafa íslenskir bankar átt í erfiðleikum með fjármögnun sína.
2. Lausafjárstaða íslensku bankanna uppfyllir enn lausafjárreglur Seðlabanka Íslands en vandamál eru fyrirsjáanleg á næstu mánuðum.
3. Af 419 milljarða króna lánveitingum Seðlabankans til fjármálafyrirtækja eru 106 milljarðar króna einungis tryggðir með verðbréfum sem tveir bankanna hafa gefið út og framselt sjálfir, 24 milljarðar króna sem allir bankarnir þrír nýta sem gagnkvæm veð og 136 milljarðar króna í veðhæfum bréfum bankanna sem endurseld eru af Icebank. Seðlabankinn er vel meðvitaður um þá tapshættu sem í þessari stöðu felst og þarf að grípa til aðgerða til að draga úr mögulegu tapi.
4. Til endurgreiðslu á erlendum langtímalánum móðurfélaga bankanna falla 194 milljarðar króna (1.562 milljónir evra) á þessu ári, 905 milljarðar króna (7.292 milljónir evra) á árinu 2009 og 837 milljarðar króna (6.747 milljónir evra) árið 2010. Skammtímalánalínur bankanna eru um 538 milljarðar króna (4.334 milljónir evra).
5. Erlendar lántökur bankanna hafa verið afar takmarkaðar og svo virðist sem að skuldabréfun verðbréfasafna þeirra sé vaxandi vandkvæðum bundin vegna skilyrða lánardrottna.
6. Bankarnir hafa leitað eftir innlánum erlendis frá og nýtt sér lántökumöguleika hjá seðlabönkum í Evrópu (um 5 milljarða evra í seðlabanka Lúxemborgar). Afleiðing þessa er að:
a. Innlán sem bókuð eru í útibúum bankanna erlendis auka skuldbindingar Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.
b. Endursala verðbréfa til evrópskra seðlabanka, aðallega í Lúxemborg, hefur valdið því að stjórnarráð (governing council) ESCB hefur gagnaðgerðir í huga.Væntanlega verður bönkunum gert að endurgreiða lán sem fengin hafa verið frá ECB út á gagnkvæm skuldabréf íslenskra banka og endurgreiða lán út á önnur verðbréf sem ekki uppfylla nýjar kröfur sem verða settar. Í versta falli yrðu íslensku bankarnir og jafnvel íslenska ríkið ekki taldir hæfir gagnaðilar í samningum við ESCB.
c. Innlánasóknin og endursalan til ESCB hafa magnað upp andstöðu við íslensku bankana og stjórnvöld hér. Leiða má að því líkur að sú skoðun sé orðin ríkjandi innan ESCB að smitáhrifin á Evrópu af fjármálaáfalli hérlendis sé minni áhætta en áframhaldandi starfsemi íslensku bankanna í óbreyttri mynd.
7. Seðlabankar Svíþjóðar, Noregs og Danmerkur gerðu skiptasamninga við Seðlabanka Íslands en hugsanlegt er að þeir takmarki nýtingu samninganna, t.d. setja sameiginlega ný skilyrði ef Seðlabankinn vill notfæra sér samningana.
8. Lántaka fyrir ríkissjóð er ekki að skila viðunandi árangri í magni og kjörum.
9. Niðurstaða stöðumatsins er sú að lausafjárstaða bankanna verður orðin óviðunandi á næstu mánuðum að öðru óbreyttu og hætta er á innlánsflótta. Afl ríkissjóðs er takmarkað í erlendum gjaldeyri og bandamönnum fer fækkandi.
II. Leiðir fyrir stjórnvöld Í meginatriðum virðist vera um þrjár leiðir að ræða sem stjórnvöld hafa úr að velja, þ.e. 1) hrein markaðslausn, 2) markaðslausn með opinberum stuðningi eða 3) opinber yfirtaka. Engin þessara leiða er góð en betra er fyrir stjórnvöld að hafa frumkvæði og láta ekki hagsmunaaðila eina um að stjórna atburðarásinni. [Í textanum er hér að finna neðanmálsgrein. Þar segir: "Sjá samantekt á ráðgjöf Andrew Gracie, dags. 29. febrúar 2008, "Conclusions after discussions 27.-29. February 2008". Í samræmi við tillögur Andrew Gracie tók starfshópur FME og SÍ saman annars vegar yfirlit um mögulegar aðgerðir stjórnvalda og hins vegar mat á kostnaðaráhrifum af mismunandi sviðsmyndum fjármálaáfalls. Samráðshópurinn hefur fylgt tillögum Andrew Gracie í starfi sínu."]
Leiðirnar hafa ekki verið kortlagðar né heldur lagt mat á kosti þeirra og galla. Sú vinna er orðin brýn.Viss atriði má þó strax nefna.
1. Hrein markaðslausn
a. Ef þessi leið yrði farin tækju stjórnvöld ekki á sig nokkrar frekari skuldbindingar en þegar liggja fyrir.
b. Tryggingarsjóðnum, sem er sjálfseignarstofnun, ber skv. lögum að ábyrgjast innlán að lágmarki 20.887 evrur. Í sjóðnum eru 11 milljarðar króna auk ábyrgðaryfirlýsinga fjármálafyrirtækja upp á rúmlega 6 milljarða króna. Lágmarkstryggingarverndin er á hinn bóginn áætluð meir en 115 milljarðar króna (miðað við gengi 8. maí sl.) [Í textanum er að finna eftirfarandi neðanmálsgrein: "Sjá vinnuskjal viðskiptaráðuneytisins, dags. 9. maí sl. "Ábyrgð á innstæðum". Í skjalinu er einnig að finna áætlaðar skuldbindingar við bætur til innstæðueigenda umfram lagaskyldu Tryggingarsjóðsins. Í hreinræktaðri markaðslausn væri útilokað að sjóðurinn tæki á sig frekari skuldbindingar en tilgreint lágmark skv. lögum."]
i. Ekki verður séð að Tryggingarsjóðurinn hafi nokkra burði til að brúa mismuninn með eigin lántöku. Lánstraust sjóðsins er væntanlega afar takmarkað. Óvíst er með endurgreiðslu tekinna lána sjóðsins með iðgjöldum til hans í framtíðinni ef afleiðing fjármálaáfalls yrði sú að verulega drægi úr umsvifum innlendra fjármálafyrirtækja.
ii. Enginn greinarmunur er gerður á innlánum hérlendis og í útibúum bankanna erlendis en gert hefur verið ráð fyrir að Tryggingarsjóðurinn reyndi að greiða innstæðueigendum í sama gjaldmiðli og innlánin eru í. Það gerir strax kröfu til erlendrar lántöku ef kröfur lenda á sjóðnum. Til greina gæti komið að Tryggingarsjóðurinn velji að greiða út bætur einungis í íslenskum krónum, sbr. lögskipaða framkvæmd í Svíþjóð. Þá þarf sjóðurinn að afla sér láns í íslenskum krónum en bótagreiðslurnar hefðu óhjákvæmilega áhrif til lækkunar á gengi krónunnar.
2. Markaðslausn með opinberum stuðningi
a. Í fræðilegri umfjöllun er fullyrt að hrein markaðslausn sé nánast útilokuð. Eðlilegt sé að stjórnvöld komi hvergi nærri stuðningi við fjármálafyrirtæki sem ekki séu kerfislega mikilvæg. Á hinn bóginn sé skaði af fjármálaáfalli svo verulegur að stjórnvöld hafi undantekningarlaust afskipti af atburðarásinni og neyðist til að hlaupa undir bagga. [Í textanum er síðan að finna eftirfarandi neðanmálsgrein: "Sameiginlegt vinnuskjal FME og SÍ, dags. 21. apríl s.l. "Sviðsmynd fjármálaáfalls: Álitaefni, mögulegar aðgerðir og skilyrði"."]
b. Hagsmunaaðilar reyna að minnka áhættu sína með því að fá stjórnvöld til að takast á herðar skuldbindingar. Þrýstingurinn á erlenda lántöku ríkissjóðs til að efla gjaldeyrisforðann er dæmi um slíkt. (Sama gildir um viðleitni ESCB til að fá stjórnvöld til að stuðla að því að íslensku bankarnir endurgreiði fjármögnun sína í Seðlabanka Lúxemborgar og dragi úr umsvifum erlendis.)
c. Þegar leitað er markaðslausnar er gjarnan reynt að fá nýtt hlutafé og/eða nýja eigendur að fjármálafyrirtækjum. Til greina gæti komið að þrýsta á íslenskan banka að flytja höfuðstöðvar sínar úr landi eða að einn banki yfirtaki annan, innlendur sem erlendur. Í öllum tilvikum gætu komið fram kröfur frá málsaðilum að stjórnvöld liðkuðu fyrir samningum með því að taka á sig skuldbindingar. Með sama hætti þurfa stjórnvöld að setja skilyrði fyrir aðkomu sinni.
3. Yfirtaka hins opinbera
a. Í ljósi aðstæðna er viðbúið að FME krefjist þess að fjármálafyrirtæki, þ.m.t. stóru íslensku bankarnir, auki eigið fé sitt. [Í textanum er síðan að finna eftirfarandi neðanmálsgrein: "Sjá tillögu í áliti sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, dags. 4. júlí 2008."] Slík krafa leiðir í ljós hvort núverandi eigendur geta staðið að baki bönkunum eða hvort aðrir þurfa að koma til.
b. Ef markaðslausn með/án opinbers stuðnings gefst ekki standa stjórnvöld frammi fyrir ákvörðun um hvort hægt sé að yfirtaka einn eða fleiri banka en úrræði stjórnvalda til yfirtöku, þ.e. fyrst og fremst FME, eru takmörkuð. Samningsstaðan við lánardrottna kann að vera betri fyrir yfirtöku en eftir hana en óvíst er hvort nokkur tími fæst til að nýta þá stöðu.
c. Ef ríkissjóður yfirtekur einn eða fleiri af stóru íslensku bönkunum fær hann allan vanda þeirra í fangið. Ef illa tekst til gæti komið upp sú staða að ríkissjóður gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar.
III. Næstu skref
1. Stjórnvöld þurfa á næstu vikum að marka stefnuna í grundvallaratriðum, þ.e. hvaða meginleið á að fara ef til fjármálaáfalls kemur. Eftir því sem lengur dregst að marka stefnuna er hættara við því að trúverðugleiki minnki, úrræðum fækki og kostnaður stjórnvalda og þjóðarbúsins aukist.
2. Þær spurningar sem hvað áleitnastar eru snúa að kerfislægum mikilvægum bönkum og innstæðutryggingum. Á hið opinbera að taka á sig skuldbindingar vegna stóru íslensku bankanna þriggja og þá hvernig og að hvaða marki? Á hið opinbera að veita Tryggingarsjóði aðstoð til að hann geti staðið við lágmarksbætur laganna eða jafnvel eitthvað umfram það? Að hvaða marki geta stjórnvöld tekið á sig auknar skuldbindingar án þess að stefna greiðsluhæfi ríkissjóðs í voða?
3. Samráðshópur ráðuneyta, FME og Seðlabanka Íslands er vettvangur fyrir upplýsingaskipti og samvinnu við útfærslur. Stórlega þarf að auka viðbúnaðarvinnuna og fá aðstoð faglegra ráðgjafa.
4. Á vegum stjórnvalda/samráðshópsins þarf án tafar að kalla til aðgerðahóp í fullu starfi. Velja þarf stjórnanda og fá ráðgjafa til aðstoðar.
20. fundur samráðshóps stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað 7. júlí 2008
Samráðshópur stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað fundaði 7. júlí 2008. Í drögum að fundargerð er bókað að frestað hafi verið fundi hópsins sem boðaður var 19. júní 2008 en þá hafi ætlunin verið að fara yfir þau atriði sem snúi að "Ólystuga matseðlinum". Fram kemur að Áslaug Árnadóttir, sem þá var settur ráðuneytisstjóri viðskiptaráðuneytis, hafi dreift og skýrt vinnuskjal viðskiptaráðuneytisins, dags. 7. júlí, með áætlun um innstæður í bönkum og sparisjóðum sem eru innan 2, 3, 4 og 5 milljóna króna viðmiða fyrir einstaklinga og lögaðila í september 2007. Síðan er haft eftir Jónasi Fr. Jónssyni að logn hafi verið á mörkuðum þegar hópurinn hittist síðast en nú ríki aftur kaldir vindar. Nýleg grein prófessors RobertsWade í The FinancialTimes hafi haft neikvæð áhrif m.a. á FSA. Stjórnendur Landsbankans hf. muni fara til London til að ræða við FSA. Brestir séu komnir í stöðu sparisjóðanna. Síðan segir að Jónas hafi, aðspurður um mögulega sameiningu Glitnis banka hf. og Byrs sparisjóðs, svarað því að margt hafi verið rætt óformlega hjá sparisjóðunum en tíminn hafi verið illa nýttur. Fram kemur einnig aðTryggvi Pálsson hafi lagt fram og lesið upp frumdrög að vinnuskjali um aðkallandi ákvarðanatöku stjórnvalda vegna hættu á fjármálaáfalli (SI-42334). Skjalið geymi stöðumat, helstu leiðir fyrir stjórnvöld og hugmynd um næstu skref. Síðan segir að Ingimundur Friðriksson hafi gert grein fyrir heimsókn bankastjóra Seðlabanka Lúxemborgar 4. júlí sl. en hann hafi fundað hér á landi ásamt forstöðumanni hjá bankanum og framkvæmdastjóra bankaeftirlits Fjármálaeftirlits Lúxemborgar. Fram kemur að Ingimundur hafi sagt frá skilaboðum þessara manna og m.a. vísað til bréfs bankastjórans til íslensku bankanna, dags. 30. júní sl. Haft er eftir Jónasi Fr. Jónssyni að honum þyki tónn skilaboðanna grimmur í ljósi þess að íslensku bankarnir hafi ekki brotið reglur Seðlabanka Evrópu. Skilaboðin séu þessi: "Þið eruð ekki í klúbbnum og hann getur ákveðið það sem hann vill." Síðan segir í drögum að fundargerð að Ingimundur hafi bætt því við að skírskotun í samkeppnislöggjöf Evrópuréttarins sé tilgangslaus að mati þessara manna. Ætlunin í Noregi sé að breyta reglum um innlánstryggingar til að erlendir aðilar geti ekki aflað innlána í skjóli þeirra. Síðan segir að Baldur Guðlaugsson hafi spurt hvort bankarnir skilji alvarleika málsins. Fram kemur að Jónas Fr. Jónsson hafi sagt það nokkuð mismunandi milli banka. Lúxemborg vilji beita afli til að losna við útlánaáhættuna vegna endurkeyptra verðbréfa. Haft er eftir Tryggva Pálssyni að stjórnendur bankanna geri sér grein fyrir stöðunni en þeim hafi ekki verið stillt upp við vegg af stjórnvöldum. Stjórnvöld hafi ekki gert upp við sig hversu langt þau vilji ganga. Síðan segir að Bolli Þór Bollason hafi sagt að nú sé meiri hætta á að allir stóru bankarnir þrír lendi í vanda. Þá segir að Baldur Guðlaugsson hafi spurt hvort innlend hætta sé að aukast og hvað sé að valda því. Haft er eftir Tryggva Pálssyni að lánveitingar Seðlabankans sem einungis séu tryggðar með verðbréfum íslensku bankanna séu komnar í 266 milljarða króna. Spurningin sé hversu langt stjórnvöld vilji að bankinn gangi í þessum lánveitingum. Fram kemur að Jónas Fr. Jónsson hafi minnt á að áfallið geti gerst á morgun. Þá þurfi annaðhvort að róa innstæðueigendur með yfirlýsingu eða láta allt fara í rúst. Haft er eftir Baldri Guðlaugssyni að stilla þurfi bönkunum upp við vegg ef þeir séu ekki að gera nóg til að bæta stöðuna. Því næst segir að Tryggvi Pálsson telji að bankarnir eigi eftir að sýna viðunandi afkomu í hálfsársuppgjörinu vegna verðbólgu og lækkunar gengis krónunnar. Samt geti Fjármálaeftirlitið þurft að gera kröfur um aukið eigið fé. Ef núverandi eigendur geti ekki bætt við eigið fé verði þeir að hleypa öðrum að. Fram kemur að Baldur Guðlaugsson hafi spurt hvort samruni Kaupþings banka hf. og SPRON sé jákvæður. Því næst segir að Jónas Fr. Jónsson hafi svarað því til að svo sé tvímælalaust. Fjármálaeftirlitið vilji sjá markaðslausn fyrir smærri aðila. Síðan segir að Bolli Þór Bollason hafi sagt að engin auðveld lausn sé til. Upphæðirnar séu gígantískar og erfitt að meta hvort t.d. skuldbinding um að tryggja fimm milljóna króna innstæður muni hafa nægilega róandi áhrif eða ekki. Sama gildi um samtöl við bankastjórana. Ný staða sé komin upp eftir skilaboðin frá Seðlabanka Evrópu með milligöngu seðlabankastjóra Lúxemborgar. Öll skref séu áhættusöm en hann sé sammála þeim sjónarmiðum sem fram hafi komið í fyrrnefndu vinnuskjali Tryggva Pálssonar og athuga þurfi hvort aðgerðahópur verði settur af stað. Síðan er haft eftir Baldri Guðlaugssyni að fyrst þurfi að koma því til vitundar bankanna hver staðan sé og hvaða skorður ríkissjóður búi við. Í drögum að fundargerð segir síðan að Ingimundur Friðriksson hafi ítrekað hversu mikilvægt það sé að Seðlabanki Evrópu sjái að bankarnir séu að bregðast við. Seðlabankar Lúxemborgar og Noregs hafi jafnframt lýst yfir miklum áhyggjum af eigendum bankanna. Seðlabankinn muni fylgja málinu eftir og eiga áframhaldandi samtöl við bankana. Síðan er haft eftir Jónasi Fr. Jónssyni að æskilegt sé að eigið fé bankanna verði aukið og eigendahópurinn breikkaður. Einnig þurfi að liggja fyrir drög að yfirlýsingu um innlánstryggingar. Fram kemur að Bolli Þór Bollason telji eðlilegt að Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið fylgi málum eftir við bankana í þessari viku en ráðherra komi að málinu í næstu viku. Haft er eftir Baldri Guðlaugssyni að hann hugleiði hvort bíða megi með seinna skrefið ef hið fyrra skili nægum árangri. Síðan segir að Bolli Þór Bollason telji nauðsynlegt að stjórnvöld segi hvað þau hyggist ekki gera, m.a. það að hjálpa ekki eigendum. Fram kemur að Jónas Fr. Jónsson hafi nefnt að fundur með ráðherrum eigi að vera fámennur; einn til tveir ráðherrar. Síðan segir aðTryggvi Pálsson hafi sagst telja að stjórnendur bankanna séu meðvitaðir um stöðuna, hafi velt fyrir sér öllum kostum en veigri sér við að taka erfiðar ákvarðanir. Þeir hafi engar töfralausnir til að endurgreiða Seðlabanka Lúxemborgar heldur sé hætt við að vandinn færist yfir á Seðlabanka Íslands. Spurning sé hvort hægt sé að takmarka áhættuna með því t.d. að Kaupþing flytji höfuðstöðvar sínar til útlanda og innlán í útibúum íslenskra banka erlendis verði færð yfir í dótturfélög. Því næst segir í fundargerð að Baldur Guðlaugsson hafi lagt til að hugsað verði til næsta fundar hver stjórnandi aðgerðahópsins gæti verið og hvert yrði hlutverk hópsins. Fram kemur að Bolli Þór Bollason hafi spurt hvar frumvarpssmíðin um breytingar á lagaákvæðum á fjármálamarkaði sé stödd. Síðan kemur fram í drögum að fundargerð að viðskiptaráðuneytið og Fjármálaeftirlitið hafi verið að fara aftur yfir áður unnin drög. Loks segir að Ingimundur Friðriksson hafi óskað eftir því að meðlimir hópsins fengju að sjá drögin og segir að Áslaug Árnadóttir hafi sent þau til hópsins í kjölfar fundarins.
Í skýrslu Tryggva Pálssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom fram að hann hefði velt því fyrir sér hvort hægt hefði verið að fela samráðshópnum ákvörðunarvald. Hann hefði komist að þeirri niðurstöðu að það gengi ekki þar sem þeir einstaklingar sem í hópnum sátu væru ekki þeir hershöfðingjar sem þyrfti í það starf. Af þessum sökum hefði hann gert það að tillögu sinni á fundi 7. júlí 2008 að stofnaður yrði aðgerðahópur. Í skýrslu sinni segir Tryggvi: "Það er ekki nóg að embættismenn hittist, þó að allir séu af vilja gerðir, af og til, og eftir því sem staðan var alvarlegri þá þurfti raunverulega að taka þetta allt öðrum tökum. Og ég nefni að það þurfi menn í fullt starf í þetta. Núna erum við að borga himinháar upphæðir til erlendra ráðgjafa og ekkert að vanbúnaði við það. En í aðdraganda þessa áfalls var ekki hægt að skipa aðgerðahóp." Tryggvi sagðist hafa lesið upp allt minnisblaðið sem hann lagði fram. Bolli hefði tekið undir það í lok fundar en að öðru leyti hefði skjalið fengið litla umræðu. Jónas Fr. Jónsson hefði líka reynt að móta umræðuna með skjali sem hann nefndi "Ólystuga matseðilinn" þannig að á málum yrði tekið en honum hefði heldur ekki orðið ágengt. Aðspurður um það hvort hann hefði fengið samráðshópinn til þess að leggja skýrslu sína fyrir ráðherra og knýja á um að þeir tækju ákvarðanir svaraði Tryggvi: "Það vantar ákvarðanatökuna og ég upplifði það í þessum hópi að við værum að vinna undir forustu Bolla Þórs, sem ráðuneytisstjóra forsætisráðuneytis og forsætisráðuneytið sem yfirvald, ekki bara ríkisstjórnar heldur líka faglega efnahagsmála og Bolli vel hæfur, að það væri hans að ákveða fyrir samráðsnefndina. Samráðsnefndin var ekkert að greiða atkvæði um hvort ætti að gera hitt eða þetta heldur var umræða um málin og síðan var það þá frekar Bolla ef hann vildi að samráðsnefndin, eins og þið eruð að segja að samráðsnefndin hefði átt að tala við ráðherrana beint, þá var það frekar að frumkvæði Bolla að hafa forustu um slíka fundi. En ég segi fyrir mig að á þessum tíma treysti maður því nokkuð að ráðuneytisstjórarnir væru í sambandi við sína ráðherra." Tryggvi var að því búnu spurður um afstöðu Baldurs Guðlaugssonar til ákvarðanatöku í málinu.Tryggvi svaraði því til að Baldur væri afar hæfur maður en "hann sækir ekki beint í ákvarðanatökuna".
Bolli Þór Bollason var við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis spurður hvert hefði verið framhaldið á verkum samráðshópsins eftir að Tryggvi Pálsson lagði fram minnisblað sitt þar sem fram komu m.a. tillögur um hver næstu skref þyrftu að vera. Bolli svaraði: "Framhaldið á þessu er í rauninni bara það að vinna áfram þessi frumvarpsdrög og reyna enn og aftur að "konkretísera" hvernig vandamálið gæti litið nákvæmlega út og auðvitað stendur eftir að ég hafði lýst því yfir þarna eitthvað fyrr að ég teldi að við þyrftum að fara að setja þetta meira niður á blað fyrir okkur. Það var alla vega mín skoðun að mér fannst erfitt að vera alltaf að ræða þetta svona akademískt og hafa ekkert á blaði fyrir framan mig. Og aftur bara mín skoðun, mér fannst þessi vinna ganga hægt en auðvitað þarf að hafa í huga að menn voru að vinna á fullu í sinni vinnu og allir voru upp fyrir haus, en mitt sjónarmið var það að mér fannst þetta vinnast hægt." Aðspurður hvort afstaða manna í hópnum hefði valdið því að vinnan gekk hægar svaraði Bolli að þetta hefði einungis verið vinnuálag, allir hefðu verið upp fyrir haus. Þá var Bolli spurður hvort með minnisblaði sínu hefði Tryggvi Pálsson ekki í rauninni verið að kalla eftir því að tekin yrði ákvörðun um það hvernig stefnan ætti að vera. Í skýrslu sinni svaraði Bolli: "Það var svona þessi blæbrigðamunur á skoðunum, klárlega milli mín og Baldurs annars vegar og eigum við kannski að segja Seðlabanka hins vegar. Það voru allir sammála um að við þyrftum að undirbúa þetta og að við þyrftum að vera klár á hvaða efnisatriði það væru sem þyrfti að taka afstöðu til. Hvað varðar stjórnvöld voru þetta nokkur atriði, þegar að því kæmi hugsanlega, þá væri það tiltölulega klárt. En aftur afstaða Seðlabankans, og jafnvel ef maður persónugerir hann þá var það sérstaklega Tryggvi var mjög ákaft á þeirri skoðun að þetta yrði bara allt að liggja fyrir, við þyrftum að setja þetta allt á blað núna. Hvað ætla stjórnvöld að setja mikinn pening? Hvað ætla stjórnvöld að ábyrgjast hátt hlutfall af innstæðunum? Því það var eitt af því sem við ræddum líka, þar var Fjármálaeftirlitið líka á sömu skoðun, að fá fram afstöðu ríkisstjórnarinnar til þess: Ætla íslensk stjórnvöld að tryggja allar íslenskar innstæður? Eða eingöngu lágmarkið? Eða eitthvað annað mark? Þetta endurspeglast svolítið í, við sögðum alltaf, þegar að þessu kemur þá er þessi ákvörðun tekin á skömmum tíma.Við, og þá er ég eiginlega að tala um okkur Baldur, við vorum algjörlega sammála í þessu.Við sögðum: "Það þarf ekkert að setja niður á blað um þessar tölur, við ætlum ekki að stilla ríkisstjórninni upp við vegg og segja: "Þið verðið að segja okkur hvort þið ætlið að tryggja allt að fimm milljóna króna innstæðu, eða inneign, eða fjórar, eða bara lágmarkið, þrjár?"" Við sögðum að ef og þegar þyrfti að taka þessa ákvörðun þá yrði hún tekin bara svona. Sem var auðvitað gert, en að vísu þegar allt var hrunið. Það kemur svolítið í þessu sá skoðanamunur, hvað þurfti að "konkretísera" þetta á pappír. Þá er ég fyrst og fremst að tala um afstöðu stjórnmála. Ég var hins vegar alltaf að reka á eftir að frumvarpið yrði klárt. Ef það má gagnrýna, það sem mér fannst seinagangur í var að mér leið illa að hafa ekki frumvarpstexta fyrir framan mig sem við gætum farið betur yfir og tekið til umræðu betur í hópnum. En þetta var svona þessi skoðanamunur." Þegar Bolli var spurður að því hvort þessi viðhorf þeirra Baldurs hefðu jafnframt verið skoðanir forsætis- og fjármálaráðherra svaraði hann: "Já, allavega var mín afstaða klárlega byggð á samtölum við forsætisráðherra og ég upplifði afstöðu Baldurs alveg eins gagnvart fjármálaráðherra." Þá var Bolli spurður um tillögu Tryggva um að kalla þyrfti án tafar til aðgerðahóp í fullu starfi og fá ráðgjafa til starfa. Bolli svaraði: "Við vorum ekki sammála þessu, við töldum að það væri ígildi aðgerðahóps að starfi. Þetta er að einhverju leyti væntanlega byggt á hugmyndum Andrew [Gracie] og kannski aftur, mín rök fyrir því að þetta mundi auka hættuna á því að það færi að spyrjast eitthvað út um áhyggjur stjórnvalda af íslensku bönkunum. Því þarna var verið að tala um að kalla að og búa til sérstakan hóp, sem væri ekki samsettur af sama fólki og væri að vinna í þessu. Mín afstaða var klárlega sú að á þessum tímapunkti væri verið að vinna að frumvarpsdrögum, við ættum ekki að stækka þann hóp, halda þessu í þessu fjögurra, fimm manna teymi."Í skýrslu Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kannaðist hann við að honum hefði verið kynnt skjalið "Aðkallandi ákvarðanataka stjórnvalda vegna hættu á fjármálaáfalli" fljótlega eftir að það skjal var lagt fyrir samráðshópinn.Baldur Guðlaugsson var við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis spurður hvort skort hefði á að stjórnvöld tækju ákvarðanir og í því sambandi vísað til draga að fundargerð samráðshópsins 7. júlí 2008 þar sem fram kæmi að Tryggvi Pálsson hefði fjallað um aðkallandi ákvarðanatöku og bent á að stjórnvöld hefðu ekki gert upp við sig hversu langt þau vildu ganga. Baldur svaraði því til að sú hefði raunin ekki verið: "Á meðan þú vissir ekki hvaða staða gæti komið upp og hvert nákvæmlega – frammi fyrir hverju menn stæðu [væri] erfitt að marka einhverja endanlega stefnu."Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, kvaðst aðspurður við skýrslutöku hjá nefndinni ekki áður hafa séð vinnuskjal Tryggva Pálssonar um aðkallandi ákvarðanatöku stjórnvalda frá 7. júlí 2008. Þá var hann spurður hvort komið hefði verið til hans í framhaldi af fundi samráðshópsins 7. júlí 2008 og við hann sagt að nú þyrfti að taka ákvarðanir. Hann svaraði því til að það hefði ekki verið gert, enda ættu þær ákvarðanir sem þurft hefði væntanlega að taka undir forsætisráðherra og viðskiptaráðherra.
Samráðsfundur Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands 7. júlí 2008
Samráðsfundur Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans var haldinn 7. júlí 2008. Í drögum Seðlabankans að fundargerð er haft eftir Davíð Oddssyni að bankarnir hafi ekki notað góðærið til að byggja upp eigið fé. Óefnislegar eignir séu of stór hluti af eigin fé fyrirtækja. Íslenska fjármálakerfið standi á brauðfótum. Fram kemur að á fundum seðlabankastjóra í Basel sé sú skoðun ríkjandi að allir íslensku bankarnir fari á hausinn en frekar sé deilt um það hvort það gerist innan hálfs árs eða ekki. Bankana vanti 44 milljarða evra á næstu árum og margir séu í afneitun. Síðan er haft eftir Davíð að "við værum ekki undir það búnir að taka á vanda bankanna". Einnig segir að Davíð sé í meginatriðum sammála álitum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Síðar í drögum að fundargerð er haft eftir Davíð aðTryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta ráði ekki einu sinni við Sparisjóð Mýrasýslu og að stöðva hefði þurft innlánssókn íslensku bankanna gegnum útibú erlendis. Fram kemur að Jónas Fr. Jónsson hafi nefnt að framlögin í tryggingarsjóðinn væru líka allt of lág. Síðan segir að Davíð hafi bent á að bankarnir skuldi 5 milljarða evra í Seðlabanka Lúxemborgar og þurfi í besta falli að lækka sig um 2 milljarða evra sem þeir eigi ekki. Haft er eftir Ingimundi Friðrikssyni að hann telji þörf á að ræða hvernig fylgt verði eftir heimsókninni frá Lúxemborg. Fram kemur að Davíð hafi vísað til bréfs Seðlabanka Lúxemborgar til íslensku bankanna frá 30. júní sl. Bankarnir séu að vinna að úrlausn en helst sé Landsbankinn enn í afneitun. Fram kemur að Ragnar Hafliðason hafi sagt að Landsbankinn sé að sækja um viðbótarinnlánstryggingu (e. top-up) í Noregi. Síðan segir að Jónas Fr. Jónsson hafi ítrekað að brýnast sé að Landsbankinn flytji innlán sín í Bretlandi yfir í dótturfélag úr útibúi sínu. Að lokum segir að Tryggvi Pálsson hafi fullyrt að ríkissjóður geti ekki tekið á sig innlánstryggingar án þess að hætta á gjaldþrot ríkissjóðs.
Fundur forsætisráðherra og utanríkisráðherra með formanni bankastjórnar Seðlabanka Íslands 8. júlí 2008
Hinn 8. júlí 2008 funduðu Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir með Davíð Oddssyni. Rannsóknarnefnd Alþingis hefur undir höndum minnisblað Ingibjargar þar sem fjallað er um fundinn. Í minnisblaðinu segir m.a.: "Davíð Oddsson sagði frá því að íslensku bankarnir ættu 5.1 milljarð evra í skuldabréfum í evrópska seðlabankanum. Bréfin þyrftu að fara niður um 3 milljarða evra strax þannig að markið um að bréf í bönkunum fari niður í 25% náist fyrir áramót. [...] Sagði jafnframt frá því að hann hafi átt samtal við seðlabankastjóra Lúxemborgar sem hafi farið hörðum orðum um íslensku bankana. [...] DO sagði bankana illa liðna. Sagði að þegar Seðlabanki Bretlands hafi kippt að sér hendinni hafi það verið vegna þess að ekki megi hjálpa íslensku bönkunum. Þeir þyki skúrkar og teygja lagarammann til hins ítrasta. [...] Sagði að "ástarbréfin" sem bankarnir gæfu út hver á aðra hafi mátt vera ca 25% af skuldabréfum bankanna. Þeim hafi verið gert að koma því í lag en í stað þess að fækka þeim er sagt að þeir hafi hækkað allan stabbann til að ná þessu niður í 25%. "They are playing games with us" sagði DO að sagt hafi verið." Síðar segir að Davíð hafi rætt um lántöku með 180 punktum sem stæði til boða. Því næst segir í minnisblaðinu: "Mikilvægt væri að fara í lántöku vegna þess að það skapaði vaxandi trú á að kerfið standist. Þetta lán ætti að ávaxta í auðseljanlegum bréfum og tryggum. Ekki ætti að lána það aftur en það gæti auðveldað bönkunum að fara út á markað og sækja sér fé."
14. fundur starfshóps Seðlabanka Íslands um viðbrögð við lausafjárvanda 10. júlí 2008
Starfshópur Seðlabanka Íslands um viðbrögð við lausafjárvanda fundaði 10. júlí 2008. Samkvæmt fundargerð höfðu fulltrúar Fjármálaeftirlits Lúxemborgar og Seðlabanka Lúxemborgar komið til landsins fyrir skömmu. Fram kemur einnig að Tryggvi Pálsson hafi rætt þá vinnu sem samráðshópurinn hafi verið að vinna. Ljóst sé að málin séu komin á alvarlegra stig og unnið sé að stefnumótun stjórnvalda. Bankastjórn Seðlabanka Íslands muni funda með bankastjórnum Glitnis, Kaupþings og Landsbankans á næstu dögum. Haft er eftir Sigríði Logadóttur, aðallögfræðingi Seðlabankans, að draga megi þann lærdóm af Northern Rock að stjórnvöld í Bretlandi hafi verið mjög svifasein að marka stefnu varðandi upplýsingagjöf (e. Communication strategy). Loks kemur fram að Sigríður Logadóttir hyggist útbúa minnisblað þar sem dregin verði fram helstu atriði í lánasamningum bankanna sem geti haft hugsanleg áhrif á veitingu þrautavaraláns, t.d. veðlánabann. Einnig hyggist hún skoða ákvæði varðandi samruna og yfirtökur.
Loks kemur fram í fundargerð að Sylvía Kristín Ólafsdóttir, forstöðumaður viðbúnaðarsviðs Seðlabankans, muni taka að sér að tryggja að drög að fréttatilkynningum verði sett upp á skipulegan hátt eftir stigum.
Bankastjórn Seðlabanka Íslands fundar með stjórnarformanni Kaupþings 11. júlí 2008
Hinn 11. júlí 2008 fundaði bankastjórn Seðlabankans með Sigurði Einarssyni, stjórnarformanni Kaupþings. Í minnisblaði Seðlabankans frá fundinum er haft eftir Davíð Oddssyni: "Annað áhyggjuefni væri fjandsamleg afstaða í garð okkar. Í upphafi fengust jákvæð viðbrögð frá Mervyn King sem síðan sneri við blaðinu. Þetta finnum við víðar t.d. í Noregi þar sem ríkir reiði vegna innlánstilboða sem kalla á skuldbindingar tryggingarsjóðs þeirra. Þeir segjast ætla að stöðva þetta og trúa því að íslensku bankarnir fari á hausinn." Síðar segir í umræðum um vanda bankanna: "DO [Davíð Oddsson] bætti því við að fari einn þá færu þeir allir saman." Síðar segir: "SE [Sigurður Einarsson] nefndi í lokin spurninguna um hvort bankinn ætti að finna sér aðra heimilisfesti. Hann hefur ráðið færa aðila til að skoða það mál en það hefur enn ekki verið rætt við stjórn bankans. DO sagði að önnur heimilisfesti kæmi vel út fyrir Ísland en spurði hver áhrifin yrðu fyrir bankann. Það þyrfti að skoða mjög vel." Fram kemur að Sigurður eigi von á svari frá sérfræðingum sínum eftir fjórar vikur.
Kynning Buiter og Sibert á skýrslu sinni 11. júlí 2008
Hinn 11. júlí 2008 boðaði Landsbankinn til fundar þar sem hagfræðingarnir Anne Sibert og Willem Buiter kynntu skýrslu sem þau höfðu unnið fyrir bankann.Til fundarins bauð bankinn m.a. starfsmönnum úr Seðlabanka Íslands, ráðuneytum, einkageiranum og loks fræðimönnum. Skýrslan var hins vegar ekki birt að öðru leyti á þessum tíma.
Við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis lýsti Sigurjón Þ. Árnason, bankastjóri Landsbankans, aðdraganda þess að hagfræðingarnir Buiter og Sibert unnu framangreinda skýrslu. Hann og annar starfsmaður Landsbankans hefðu upphaflega hitt Buiter erlendis þar sem hann flutti fyrirlestur um möguleika seðlabanka til að bregðast við kreppunni og í framhaldinu hefði verið rætt við hann um að skrifa skýrslu fyrir Landsbankann. Upphaflega hefði verið talað um gjaldeyrismál við hann en síðan hefði þetta þróast yfir í að hann vildi frekar skrifa um bankamarkaðinn. Sigurjón lýsir þessu nánar: "[...] það var í raun leið okkar til þess að koma því [að krónan væri of lítill gjaldmiðill] í umræðuna án þess að við værum að gera það sjálfir. Það er ekki einfalt fyrir þig sem bankastjóra að taka þessa umræðu um evruna og allan pakkann, því það er líka þannig að sjávarútvegurinn, sem eru náttúrulega stóru kúnnarnir á Íslandi yrðu sko ekki hrifnir af því. Þetta er því ekkert auðvelt. Ef þið sæjuð viðtöl við mig í fjölmiðlum þá talaði ég alltaf um þessa evru svona að ég sagði alltaf að mér þætti nauðsynlegt að skoða þetta og síðan þyrfti bara að gera hagsmunamat. Og ef það væri þannig að hagsmunir sjávarútvegs væru svo miklir að þetta væri bara vonlaust þá yrði bara að hafa það, þá yrðu bankarnir bara að sætta sig við það. [...] Þess vegna boðuðum við þennan fund þar sem allir ákvörðunaraðilarnir sem skipta máli voru boðaðir, akademíkerarnir, Seðlabankinn og allir þessir gaurar voru boðaðir og fengu þetta í æð, og svo hitti hann líka einhverja ráðherra og svona, Björn Rúnar sá um þetta, hann getur útskýrt þetta betur hvernig þetta var nákvæmlega skipulagt, og... Það eins og allir sögðu, að við hefðum stungið henni undir stól, það var akkúrat öfugt, við vorum að reyna að koma á framfæri því sem skipti máli. Því þú "blastar" ekki skýrslu þar sem stendur: "Það er enginn vandi að drepa Ísland." Það væri landráð að blasta henni. Það varð að gera þetta svona, að láta þá sem vita það sem skiptir máli, það mátti ekki segja frá því almennt þá varstu að láta alla fatta hvað kerfið var ofboðslega veikt. Það voru auðvitað aðilar úti í heimi sem voru búnir að átta sig á því. Þess vegna var alltaf verið að möndla svona eitthvað í þessu, að við teljum. En það mátti ekki segja að þú sért varnarlaus, þótt þú vitir það. Þú verður einhvern veginn að hjálpa og reyna að búa til varnirnar frekar en að segja frá þessu því það var það hættulegasta sem þú gast gert. Þess vegna, það er ég sem ber ábyrgð á því að Willem Buiter vildi fá að birta þetta en ég sagði alltaf: bíddu nú, það má alls ekki birta þetta, alls ekki. Þó að hann sé akademíker og finnist þetta rosalega flott að komast að þessari niðurstöðu þá má ekki birta þetta vegna þess að það er að láta alla óvinina fá vopnin. Við verðum að, markmið okkar er að reyna að láta þá sem bera ábyrgð á því að búa til varnirnar fá upplýsingarnar þannig að þeir reyni að búa til varnir frekar en að láta óvinina fá vopnin." Sigurjón var að síðustu spurður um hvort það efni sem fram kom hjá Buiter og Sibert á fundinum í júlí hefði verið samhljóða þeirri skýrslu sem þau birtu síðan um þessa athugun sína í október 2008. Sigurjón svaraði því neitandi og sagði að þar hefði ekki verið um sömu útgáfuna að ræða og það hefði ekki verið rétt að þau hefðu talið stöðu íslensku bankanna þá jafn erfiða og þau gerðu í útgáfunni sem birtist síðan í október. Það væri því ekki verið rétt sem Buiter héldi fram "að hann hafi í raun verið búinn að segja þetta allan tímann. Síðan sagði Sigurjón: "[...] en þá breytir hann aðeins um stemningu og segir að hlutir sem hann hafi sagt að væri hægt að bjarga en mjög erfitt og hættulegt, eins og staðan væri, en þetta væri leysanlegt. [...] Síðan breytir hann yfir í þetta, að þetta hafi bara verið vonlaust. Hann breytir algjörlega um skoðun."Í skýrslunni segir m.a. svo: "The Central Bank of Iceland cannot act either as a lender of last resort if the banks cannot refinance their maturing short-term foreign currency liabilities, or as market maker of last resort for any illiquid foreign currency-denominated assets the banks may wish to sell.This means that the Icelandic financial business model is not viable. Either the country will have to abandon international financial intermediation through the use of foreign-currency denominated instruments, or it will have to give up its national currency and join a larger currency area to find a viable lender of last resort and market maker of last resort.The only realistic option in that case is to join the EU to become a full participant in the Eurosystem."Aðspurður kvaðst Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, hvorki hafa verið viðstaddur kynningu skýrslu Buiter og Sibert né fengið hana í hendur. Hann hefði hins vegar frétt af henni. Jón Þór Sturluson, aðstoðarmaður viðskiptaráðherra, sagðist hins vegar hafa farið á fundinn sem Buiter og Sibert héldu til kynningar á skýrslu sinni í Húsi verslunarinnar. Hann kvaðst síðan hafa haft milligöngu um að þau hittu Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, utanríkisráðherra. Hann sagði að Ingibjörgu hefði þótt skýrslan mjög áhugaverð og hefði hún gefið henni tilefni til viðræðna við forsætisráðherra.Í skýrslu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom m.a. fram að hún hefði hitt skýrsluhöfundana. Ingibjörg sagði: "Ég átti stuttan fund með þeim, þau komu og voru á vegum Landsbankans og þau létu mig fá þessar glærur sem þau voru með í kynningunni hjá Landsbankanum. Það sem við vorum kannski aðallega að ræða var [...] hvað þyrfti til þess að svona bankakerfi gæti verið í svona litlu landi. Og þá vorum við ekki síst að ræða gjaldmiðilsmálin og Evrópusambandsmálin, [...] þegar til framtíðar væri litið yrðum við að gefa frá okkur þetta alþjóðlega bankakerfi, að Ísland væri bara einfaldlega of lítið með sjálfstæðri mynt til að hýsa svona alþjóðlegt bankakerfi, nú eða þá að stefna að Evrópusambandsaðild og upptöku evru og við þær aðstæður gætum við verið með þetta kerfi. Það voru samræðurnar sem ég átti fyrst og fremst við þau." Ingibjörg var einnig spurð hvort hagfræðingarnir hefðu lýst fyrir henni áhyggjum sínum af stöðu mála. Ingibjörg svaraði: "Nei, ekki í okkar samræðum á þeim tíma. Reyndar töluðum við aðeins um stöðuna á mörkuðum og þessa bankakreppu sem væri í heiminum og það var reyndar athyglisvert sem fram kom hjá þeim, og ég man bara eftir þó að það væri svona alveg til hliðar, að þau sögðu að menn hefðu einfaldlega ekki stundað neinar rannsóknir á bankakreppum á undanförnum árum, það væri mjög lítið fræðilegt efni til um slíkt, menn hefðu bara einhvern veginn lagt það alveg til hliðar, slíkar stúdíur. Ég man eftir því að það kom fram í okkar samtölum." Aðspurð hvort hún hefði komið glærum hagfræðinganna á framfæri, t.d. við Geir H. Haarde, svaraði Ingibjörg: "Já, ég gerði það, og skýrslunni, ég sendi honum – hann sendi mér hana og sagði við mig, hann Buiter, að hún væri unnin fyrir Landsbankann og hann ætti eftir að ganga endanlega frá henni. En ég fékk leyfi til þess að dreifa henni meðal svona einhverra aðila og m.a. dreifði ég henni á einhverja aðila í utanríkisráðuneytinu og til forsætisráðherra – það man ég vegna þess að mér fannst í rauninni þetta vera athyglisverðasti punkturinn hjá honum, eða umræðan, hún var aðallega um það að svona stórt og alþjóðlegt bankakerfi ætti ekki framtíð fyrir sér ef við héldum áfram með íslenska krónu og stæðum utan við Evrópusambandið."Við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis var Jón Þór Sturluson, aðstoðarmaður viðskiptaráðherra, spurður um það hvort hann hefði kynnt Björgvin G. Sigurðssyni skýrsluna. Jón svaraði: "Hann var bara í fríi þarna akkúrat á þessum tíma og við höfum farið yfir þetta, ég, hann man ekki eftir því að ég hafi kynnt honum þessa skýrslu, ég get ekki, man ekki hvenær það átti að vera en ef ég hef gert það þá er ég ekki viss um að það hafi verið endilega svo neikvætt, því ég túlka þessa skýrslu á sínum tíma með allt öðrum hætti en hún er túlkuð í fjölmiðlum í dag. Að einhverju leyti er það vegna þess að henni hefur verið breytt örlítið eftir hrunið, sett í annað svona "perspective". [...] umfjöllun um aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, í kynningu þeirra á þessum tíma var með allt öðrum hætti heldur en síðar, þau voru ekki að leggja til að Ísland leitaði til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, heldur voru þau með svona bara "worst case scenario" hvað getum við gert? Og það var eitt af því sem ætti að vera til athugunar ef í hart fer og þá bentu þau bæði á kosti og galla þess að leita til gjaldeyrissjóðsins."
Fundur forsætisráðherra með stjórnarformanni og bankastjóra Kaupþings 12. júlí 2008
Hinn 12. júlí 2008 átti Geir H. Haarde fund með Sigurði Einarssyni, stjórnarformanni Kaupþings, og Hreiðari Má Sigurðssyni, bankastjóra Kaupþings.Við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis lýsti Geir H.Haarde því að á fundinum hefði m.a.verið rætt um hvort Kaupþing gæti komið þeim sparisjóðum sem væru illa staddir til aðstoðar.
21. fundur samráðshóps stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað 14. júlí 2008
Samráðshópur stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað fundaði 14. júlí 2008. Samkvæmt drögum að fundargerð var nokkuð rætt um áhyggjur af stöðu ýmissa sparisjóða. Fram kemur að Bolli Þór Bollason hafi greint frá því að Sigurður Einarsson hafi hitt Geir H. Haarde um undangengna helgi og sagt honum að Kaupþing geti ekki tekið við öllum vanda. Menn megi ekki reikna með því. Sparisjóður Mýrasýslu lifi ekki af næstu mánuði. Síðan segir að Jónas Fr. Jónsson hafi bætt því við að Sparisjóður Mýrasýslu sé kominn undir lágmarksviðmið um eigið fé. Sparisjóður Keflavíkur geti lent í vandræðum og Icebank dansi línudans. Lausafjárstaða þessara aðila sé að versna samkvæmt lausafjáryfirlitum Seðlabankans. Samkeppniseftirlitið muni vonandi ekki þvælast fyrir hagræðingu á fjármálamarkaðnum. Það hafi sent langa spurningalista til bankanna og hætt sé við að almenn skoðun á markaðnum geti torveldað tímabærar lausnir. Fram kemur að afstaða Jónasar sé sú að valkostirnir séu helst þessir:
a) Láta Sparisjóð Mýrasýslu fara og tæma Tryggingarsjóðinn við það.
b) Kaupþing taki yfir alla, þ.m.t. Sparisjóð Mýrasýslu.
c) Reyna að tala við Landsbankann a.m.k. um Sparisjóð Keflavíkur.
d) Reyna að búa til banka með sameiningu allra eða einhverra umræddra aðila með víkjandi lánum frá öðrum.
Síðar í drögum að fundargerð er haft eftir Jónasi Fr. Jónssyni að Byr standi vel og geti farið með Glitni. Haft er eftir Ingimundi Friðrikssyni að bankastjórn Seðlabankans hafi fundað með Sigurði Einarssyni undangenginn föstudag. Síðar segir að Jónas Fr. Jónsson hafi nefnt að hann hafi lagt að stjórnendum Kaupþings og Landsbankans að styrkja eigið fé sitt. Fram kemur að Baldur Guðlaugsson hafi spurt hvort Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið leiði þessar athuganir á uppstokkun. Því næst er haft eftir Jónasi Fr. Jónssyni að það sé ekki beinlínis þeirra hlutverk en Fjármálaeftirlitið komi að mörgum málum þessara aðila. Síðan segir að Ingimundur Friðriksson hafi minnt á þá miklu hagsmuni sem Kaupþing hafi af farsælli lausn vegna erlendrar fjármögnunar. Haft er eftir Tryggva Pálssyni að ekki sé seinna vænna að ganga frá stefnumörkun hins opinbera, sbr. fyrri ummæli Bolla Þórs Bollasonar um að styðja kerfislega mikilvæga banka og standa við innstæðutryggingar án þess að stofna ríkissjóði í hættu. Fram kemur að Bolli Þór Bollason hafi rennt yfir ræðu Stefan Ingves, seðlabankastjóra Svíþjóðar, sem segi m.a. að allar upphæðir reynist hærri þegar í krísu sé komið. Haft er eftir Tryggva Pálssyni í þessu samhengi að áætluð upphæð til að standa við lágmarkstryggingarvernd innlána sé hærri en 420 milljarðar króna samkvæmt töflu sem Jónas Fr. Jónsson hafi lagt fram í upphafi fundarins en í samantekt viðskiptaráðuneytisins um ábyrgð innlána hafi verið gert ráð fyrir 115 milljörðum króna en sú áætlun miði við 1,7 milljarða króna innlán í september 2007 á gengi 8. maí 2008. Ekki sé ljóst hvort ríkissjóður ráði við þá skuldbindingu. Fram kemur að Baldur Guðlaugsson hafi spurt hver geti leitt vinnu markaðsaðilanna. Haft er eftir Jónasi Fr. Jónssyni að Fjármálaeftirlitið sé að vinna í málum "kanarífuglanna í búrinu". Síðan segir að Baldur Guðlaugsson hafi sagt Fjármálaeftirlitið vera í kjörstöðu til að ræða við aðila. Fram kemur að Jónas Fr. Jónsson velti fyrir sér skilaboðum Sigurðar Einarssonar þegar hann taki málið upp á stig stjórnmálanna. Sparisjóður Mýrasýslu geri það sem þeim sé sagt að gera í ljósi stöðunnar. Loks er haft eftir Ingimundi Friðrikssyni að það verði áfall í Borgarnesi þegar þetta vitnist.
Fundur bankastjórnar Seðlabanka Íslands með forstjóra Glitnis 14. júlí 2008
Hinn 14. júlí 2008 fundaði bankastjórn Seðlabankans með Lárusi Welding, forstjóra Glitnis. Í minnisblaði Seðlabankans um fundinn kemur fram að einkum hafi verið rætt um fund Seðlabankans með Seðlabanka Lúxemborgar vegna endurhverfra viðskipta íslenskra banka. Einnig segir að rætt hafi verið um mikilvægi góðra samskipta við Seðlabanka Lúxemborgar.
Fundur bankastjórnar Seðlabanka Íslands með bankastjórum Landsbankans 14. júlí 2008
Hinn 14. júlí 2008 fundaði bankastjórn Seðlabankans með bankastjórum Landsbankans. Í minnisblaði Seðlabankans um fundinn segir m.a.: "DO [Davíð Oddsson] fór í upphafi yfir skilaboð frá seðlabankastjóra Lúxemborgar og sagði að íslensku bankarnir yrðu að ná sátt við ECB því þeir mættu ekki við því að lokað verði á endurkaup íslensku bankanna." Síðar segir: "SÁ [Sigurjón Þ. Árnason] sagði ekki langt í næsta áhlaup á Ísland. Skuldatryggingarálag Kaupþings væri komið nærri 1000 p en vísitala fjármálafyrirtækja almennt hefði lækkað. JÞO [Jón Þorsteinn Oddleifsson] sagði mikið rætt um Lehman Brothers. HJK [Halldór J. Kristjánsson] sagði að aftur væri farið að skrifa um íslensku innlánin. Einhver væri að róta í málinu. SÁ [Sigurjón Þ. Árnason] bætti við að verið væri að spyrja breska þingmenn um málið og það bendir til þess að um skipulagða aðför sé að ræða." Síðar er haft eftir Sigurjóni Þ. Árnasyni: "Jákvæðast væri hjá bankanum hversu vel gengur að afla innlána í Hollandi. Nú eru komnir 47 þús. viðskiptamenn og upphæðin yfir 500 m. evra.Allar innstæðurnar eru lausar." Síðar segir: "DO spurði um flutning innstæðna yfir í dótturfélag. HJK svaraði að ætlunin væri að gera það í Hollandi á 1. ársfjórðungi næsta árs. Málið er í skoðun í Bretlandi en þá þarf jákvæða umsögn FSA og 5–6 mánaða frest eftir það. SÁ sagðist ekki vera viss um að flutningurinn borgi sig nema fyrir Tryggingarsjóð innstæðueigenda." Síðar segir: "IF [Ingimundur Friðriksson] spurði hvort hafinn væri undirbúningur að flutningi innlána úr útibúinu í Bretlandi í dótturfélag og var því svarað að svo væri ekki." Undir lok fundargerðar segir: "SÁ sagði verðmætt ef Tryggingarsjóður innstæðueigenda nái samningi við breska tryggingarsjóðinn um að sá síðarnefndi borgi út ef til kæmi. Stjórn sjóðsins væri búin að samþykkja þetta og þetta virkaði eins og lánalína til Íslands."
22. fundur samráðshóps stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað 15. júlí 2008
Samráðshópur stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað fundaði 15. júlí 2008. Í drögum að fundargerð segir að rætt hafi verið um breytingar á reglum Íbúðalánasjóðs. Bolli Þór Bollason hafi sagt frá fundahöldum ráðherra og hugmyndum um lendingu, þ.e. 30 milljörðum króna til kaupa á nýjum lánum og 30 milljörðum króna til kaupa á gömlum lánum. Ólíklegt virtist að Glitnir og Kaupþing hefðu áhuga á skiptasamningum við Íbúðalánasjóð. Fram kemur að Jónas Fr. Jónsson hafi greint frá fyrstu vísbendingum úr vettvangsathugun Fjármálaeftirlitsins á Sparisjóði Keflavíkur. Svo virðist sem eiginfjárhlutfallið hafi lækkað úr 15% í lok mars í um 12% nú. Hins vegar virðist sem undirliggjandi rekstur skili ekki nokkru lengur. Vettvangsathugun standi yfir í Icebank. Þar sé lítið borð fyrir báru í eigin fé.Vettvangsathuganir verði hjá Öskum,Sögu og VBS síðar í sumar.Þar hafi ekki birst nein ný hættumerki að undanförnu. Fram kemur að greint hafi verið frá viðhorfum annarra banka til mikilvægis þess að sparisjóðurinn fari ekki á hlið. Síðan segir að rætt hafi verið um frumvarpsdrög sem Áslaug Árnadóttir hafi dreift fyrir nokkru og að rætt hafi verið um almenna löggjöf og sértæka. Fram kemur að Bolli Þór Bollason hafi talið nauðsynlegt að vinna textana áfram þótt ólíklegt sé að slíkar breytingar geti náð fram að ganga við núverandi aðstæður. Hins vegar sé rétt að undirbúa frumvarp eða bráðabirgðalagatexta sem taki á hugsanlegum vanda eins af stóru bönkunum undir forystu fjármálaráðuneytis með liðsinni lögfræðinga úr öðrum stofnunum. Loks segir að Baldur Guðlaugsson hafi sagst ætla að koma því í farveg.
Tillögur utanríkisráðherra um að koma á fót hópi reyndra sérfræðinga 15. júlí 2008
Hinn 15. júlí 2008 lagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fram tillögu við Geir H. Haarde um að koma á fót fámennum hópi reyndra sérfræðinga sem hefði það hlutverk að móta tillögur að úrbótum í kyrrþey og semja heildstæð drög að efnahagsaðgerðum og skipulagsbreytingum á sviði efnahagsmála og leggja síðan tillögur sínar fyrir ríkisstjórnina. Gengið var út frá því að verkið skyldi taka skamman tíma.Tillögur Ingibjargar koma fram í skjali sem ber heitið "Efnahagsstefna á krossgötum".
Í skýrslu sinni fyrir rannsóknarnefnd Alþingis lýsti Ingibjörg aðdragandanum að tillögu sinni með eftirfarandi orðum: "Mér fannst að við þyrftum kannski að taka fastar á þessum málum [...], ég var með það sem ég kallaði fjármálaráð þar sem voru svona ýmsir aðilar sem maður leitaði ráða hjá, en að ríkisstjórnina vantaði sjálfa einhverja aðila sem gætu sagt henni og greint fyrir hana stöðuna eins og hún væri á hverjum tíma og þetta þyrfti ekkert endilega að vera opinbert. Þetta þyrftu þá að vera einhverjir sem við gætum treyst og sem treystu sér líka til að segja okkur nákvæmlega hvernig þeir litu á málin án þess að það væri endilega í opinberri umræðu þannig að við fengjum sem sannasta og réttasta mynd og við fengjum tillögur um það sem þessir aðilar teldu þá að við þyrftum að gera án þess að það væri þá endilega í hinni opinberu umræðu [...]." Aðspurð hver viðbrögð Geirs H. Haarde hefðu verið svaraði Ingibjörg: "Hann svaraði því svo sem engu en vildi þá byrja með því – eða lagði það þá til að við reyndum þá að byrja með því að halda einn fund með hagfræðingum og sæjum svona til hvernig það gengi.Við boðuðum til þess fundar [7. ágúst 2008] [...] það var Már Guðmundsson, Gauti Eggertsson, Friðrik Már Bald[ursson], fengum þá til fundar við okkur til þess svona að greina stöðuna. Síðan var meiningin þá að sjá hvað úr þessu yrði en í millitíðinni réði [...] forsætisráðherra sér efnahagsráðgjafa sem var Tryggvi Þór Herbertsson [...] hann tók [því] aldrei afstöðu til þessara tillagna minna." Ingibjörg ræddi einnig um það við skýrslutöku að hún hefði "ekkert [verið] hrifin" af þeirri ráðningu. Síðan sagði Ingibjörg: "Það var nú reyndar þannig að ég var á Vestfjörðum þannig að þetta fór meira og minna fram í gegnum síma, þessi hugmynd um það hvaða hagfræðingar ættu að koma á þennan fund með okkur, og ég sá það þá fyrir mér að þeir sem kæmu á fundinn, að það væri þá einhver svona upptaktur að þessu ráði sem ég var að tala um, þessu vísra manna ráði, og einn af þeim sem hann nefndi í okkar símtölum var Tryggvi Þór Herbertsson og þá sagði ég við hann að mér litist ekki alveg á það, mér fyndist hann, og ég notaði það orð, of mikill "maverick" og síðan var það kannski ekki mjög heppilegt því að hann hringir í mig bara nokkrum klukkutímum seinna og segir að hann sé búinn að ráða Tryggva sem efnahagsráðgjafa, en þá var hann búinn að því. Hann leit svo á að þar með væri búið að uppfylla þetta, það veit ég ekki."
Efnahagsstefna á krossgötum 15. júlí 2008
Að mörgu leyti eru aðstæður í íslensku efnahagslífi sérstakar um þessar mundir. Leggjast þar á eitt neikvæðar horfur í innra og ytra efnahagsumhverfi. Enn er við að glíma eftirköstin af uppgangi þensluáranna 2003 til 2007, sem einkenndust af mikilli skuldasöfnun og innflutningi vinnuafls. Nú er ljóst að verðbólur mynduðust á flestum eignaverðsmörkuðum, einkum hlutabréfa- og fasteignamarkaði. Einnig var gengi krónunnar afar hátt skráð í sögulegu samhengi. Allar þessar bólur hafa sprungið og hjaðnað verulega síðastliðið ár.
Eftir stendur mjög há verðbólga og gríðarlega hátt vaxtastig sem reynir verulega á þolmörk fyrirtækja sem mörg hver búa við bága eiginfjárstöðu og heimila. Enn virðist langt í land í baráttunni við verðbólguna og áætlar Seðlabanki Íslands að vaxtalækkunarferli hefjist ekki fyrr en um mitt næsta ár og að vextir muni haldast háir fram á þarnæsta ár (2010).
Á sama tíma má glöggt greina vísbendingar um hraðan viðsnúning í efnahagshorfum og engum eða jafnvel neikvæðum hagvexti er spáð næstu tvö ár. Mestum samdrætti er spáð í fjárfestingu og einkaneyslu, en aukning útflutningstekna og minnkandi innflutningur dregur eitthvað úr áhrifum.
Ljóst má vera að það fyrirkomulag sem nú er við lýði í hagstjórn hefur ekki megnað að lægja öldur í efnahagslegu tilliti.
Dökkar horfur
Dökkar efnahagshorfur stafa ekki síst af neikvæðum ytri aðstæðum. Annars vegar þeirri víðtæku lausafjárþurrð og áhættufælni fjárfesta um allan heim og hins vegar hækkun verðs á nokkrum helstu hrávörumörkuðum. Saman leggjast þessir þættir þungt á efnahag margra ríkja og munu án efa draga úr hagvexti víða um heim með tilheyrandi áhrifum hér á landi.
Horfur fyrir fjármálageirann eru sérstaklega tvísýnar. Áðurnefndir ytri þættir, mikil skuldsetning íslenskra fyrirtækja og óvissa um aðgang íslenskra banka að lánveitanda til þrautavara í erlendri mynt hefur leitt til þess að mjög hefur dregið úr trausti á íslenska fjármálakerfið, sem meðal annars lýsir sér í háu skuldatryggingarálagi.
Sérstakar aðstæður kalla á sérstakar úrlausnir
Af þessum sökum er hagstjórn næstu missera og ára sérstaklega vandasöm og krefst meiri yfirlegu en öllu jafna, enda í mörgum tilvikum um stórar og erfiðar ákvarðanir að ræða sem munu hafa áhrif til framtíðar.Af mikilvægum álitaefnum má nefna aðgerðir til að efla samkeppnishæfni til lengri og skemmri tíma, aðgerðir til að styrkja umhverfi fjármálastofnana svo sem er varðar lausafé, leiðir til að draga úr skuldsetningu innlendra aðila og framtíðarfyrirkomulag í hagstjórn.
Á sviði hagstjórnar er víða pottur brotinn og brýnast að taka margendurtekna gagnrýni erlendra greiningaraðila og alþjóðastofnana alvarlega. Svo sem, um skort á samræmingu á milli fjármála- og peningamálastefnu og samhæfingu hagstjórnar almennt, vantraust gagnvart seðlabankanum (verðskuldað eður ei) og útgjaldaþenslu í fjármálum hins opinbera.
Framtíðarfyrirkomulag í gengismálum er án efa mikilvægasta úrlausnarefnið um þessar mundir. Mikill vaxtamunur er viðvarandi á milli Íslands og stærri myntsvæða og verðbólguvæntingar eru viðvarandi háar hér. Þetta endurspeglar skýrt þá vantrú sem ríkir á krónunni í alþjóðlegum viðskiptum. Umfjöllun um framtíðarmynt er þó ekki hægt að taka úr samhengi við efnahagsmál almennt [og] horfur um fjármálastöðugleika.
Til að leggja heildstæð drög að efnahagsaðgerðum og skipulagsbreytingum á sviði efnahagsmála er lagt til að settur verði á fót fámennur hópur reyndra sérfræðinga, sem móti tillögur að úrbótum í kyrrþey og leggi síðan tillögur sínar fyrir ríkisstjórnina innan skamms tíma.Við úrvinnslu tillagnanna verði haft náið samráð við aðila vinnumarkaðar og fleiri eftir atvikum.
Seðlabanki Íslands sendir bönkunum samhljóða bréf 17. júlí 2008
Hinn 17. júlí 2008 ritaði Seðlabanki Íslands bönkunum samhljóða bréf um viðskipti Seðlabankans við fjármálafyrirtæki. Í bréfinu segir m.a.: "Veðlán Seðlabanka Íslands til fjármálafyrirtækja hafa aukist mikið undanfarna mánuði. Stór hluti þessara lána hefur verið gegn veðum í óvörðum skuldabréfum og víxlum þeirra innlendu fjármálafyrirtækja sem hafa lánshæfismat, þ.e. stóru viðskiptabankanna þriggja. Þessi þróun er að hluta skiljanleg í ljósi erfiðra aðstæðna á innlendum og erlendum fjármálamörkuðum." Síðan segir: "Seðlabankinn þarf að huga að gæðum veðbókar sinnar, eignadreifingu og mótaðilaáhættu gagnvart hverju fjármálafyrirtæki fyrir sig. Nú er svo komið að bregðast þarf við. Ekki er eðlilegt að fjármálafyrirtæki geti með skuldabréfaútgáfu sín á milli stýrt lausafjárfyrirgreiðslu Seðlabankans." Því næst segir í bréfinu: "Frá og með 17. júlí verða engin ný óvarin skuldabréf á innlend fjármálafyrirtæki samþykkt veðhæf nema að undangenginni sérstakri athugun. Sett verða fjárhæðamörk á hvern útgefanda fyrir sig og fjármálafyrirtækjum gefinn ákveðinn tími til að laga sig að breyttum reglum. Seðlabankinn mun einnig breyta reglum um veð til þess að auðvelda fjármálafyrirtækjum notkun varinna skuldabréfa í viðskiptum við bankann." Loks segir í bréfinu: "Samkvæmt 7. gr. laga nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands er bankanum óheimilt að veita fjármálafyrirtækjum fyrirgreiðslu nema gegn tryggingum sem bankinn metur gildar. Þær reglur sem gilda um regluleg viðskipti eru hliðstæðar þeim reglum sem gilda almennt meðal seðlabanka. Sérstaklega hefur verið horft til Seðlabanka Evrópu (ECB) í þessu sambandi. Sé mat Seðlabanka Íslands á tryggingarhæfi rýmra en almennt gerist kynni fyrirgreiðsla hans að verða túlkuð sem lán til þrautavara sem eru háð strangari skilyrðum um tryggingar auk annarra ráðstafana. Seðlabankinn mun kappkosta að greina skýrt á milli fyrirgreiðsluforma."
Við skýrslutöku lýsti Sturla Pálsson, framkvæmdastjóri alþjóða- og markaðssviðs Seðlabankans, því að um þetta leyti hefði Seðlabankinn haft 250 til 300 milljarða króna veð í óvörðum bankabréfum. Aðspurður hvort ekki hefði komið til tals að lækka þá fjárhæð svaraði Sturla: "Jú, en þá hefði ég alveg eins getað farið að loka bönkunum." Sturla var þá spurður hvort ekki hefði komið til greina að taka einhverjar lánabækur bankanna að veði í stað framangreindra óvarinna skuldabréfa. Sturla svaraði: "Nei, nei, nei. Við vorum búnir að opna á allt, við vorum, kjallarinn í Seðlabankanum er fullur af brettum með handhafaskuldabréfum.Við vorum búnir að taka af þeim, við tókum af þeim allt sem þeir gátu afhent. [...] Reyndar ekki á þessum tíma, bara aðeins seinna sem við vorum að taka þetta [...]. Það sem við reynum að gera með því að opna á þessa ABS-a og þetta erlenda er að byrja á að opna á allt sem þeir geta afhent okkur rafrænt. Það er bara svo rosalega mikið vesen að taka við einhverju sem er "fysískt" skuldabréf. Og það er í rauninni ekki fyrr en held ég bara í september sem við erum farnir að taka þetta á brettum, þarna [fasteignaveðin]. Við eigum meira og minna öll fasteigna... já, við eigum alveg risastóran hluta af fasteignalánasafni bankanna. Ég gæti trúað að það séu kannski um 250–300 milljarðar sem að Seðlabankinn á af fasteignaveðbréfum." Sturlu var þá bent á að Seðlabankinn hefði samt sem áður haft 250 til 300 milljarða króna í óvörðum skuldabréfum sem Seðlabanki Evrópu hefði lýst að væru ekki nægilega góð veð. Sturla var í framhaldi af því spurður hvort ekki hefði komið til greina að vinda ofan af þessu eða líta á þessar lánveitingar sem lán til þrautavara. Sturla svaraði: "Jú, það kom alveg til tals og við vorum búnir að segja þeim það að við myndum ekki taka meira af þessu, reyndar ekki fyrr en í júlí/ágúst, eitthvað svoleiðis, að þessu yrði að linna, en málið þarna var "do or die"." Sturlu var í beinu framhaldi af því bent á að fjármálafyrirtæki á borð við Icebank sem hafði 13,3 milljarða króna í eigin fé hefði verið með lán í endurhverfum viðskiptum við Seðlabanka Íslands sem næmu 150 milljörðum króna. Sturla brást við því með því að segja: "Já. Einmitt. Sko, þegar, ef þú skoðar veðlánareglur í heiminum og þær breytingar sem menn hafa verið að gera á veðlánareglum þá er það þannig, við ákváðum að halda okkur bara við reglurnar eins og þær voru.Við vissum það að við þyrftum að koma lausafé út í kerfið, "no matter what". Eina leiðin til þess að það væri smuga að þetta kerfi lifði þetta af væri að það fengi lausafjárfyrirgreiðslu. Í staðinn fyrir að gera t.d. eins og við hefðum getað gert, eins og danski seðlabankinn sem lánaði bara án trygginga út á það eigið fé sem var umfram 8 prósentin, menn, hefðum alveg getað gert eins og bandaríski seðlabankinn, að lána út á hlutabréf og alls konar hluti.Við ákveðum það, þetta er í rauninni ekki spurning hvort að þú lánar þessum bönkum laust fé, heldur hvernig þú ætlar að gera það.Við ákváðum að halda okkur bara við þessar reglur eins og þær eru og gera það með þessum hætti."Í þessu samhengi má einnig minna á orð Davíðs Oddssonar sem var við skýrslutöku spurður að því hvort ekki hefði komið til greina að taka önnur og traustari veð fyrir lánum Seðlabankans til bankanna en óvarin skuldabréf þeirra. Davíð svaraði: "Mínar skýringar eru þessar: Það var auðvitað vitað, og það kemur fram í fundargerðum í bankaráðinu, ég sagði frá því í bankaráðinu, að þessi ástarbréf – eins og ég kalla þau, ég bjó nú til það nafn – væru, ef allt færi á versta veg, í eðli sínu ákveðin froða [sjá fundargerð bankaráðs Seðlabanka Íslands frá 23. maí 2008] og því gerði ég ríkisstjórninni auðvitað grein fyrir. En um leið og við segðum að Sparisjóður Reykjavíkur eða Sparisjóður Keflavíkur eða Sparisjóðabankinn – við tækjum ekki mark á bréfi sem Landsbankinn ábyrgðist af því að við teldum að hann mundi fara á hausinn þá færi hann á hausinn, ekki daginn eftir heldur síðdegis þann sama dag. Svona var þetta." Aðspurður hvort ekki hefði verið hægt að taka veð í öðru en bankabréfum svaraði Davíð: "Það hefði verið miklu flóknara, já og erfiðara, að ég hygg. Mitt fólk hafði farið yfir það, en ég er ekki með það á takteinunum, það hefði orðið miklu flóknara og erfiðara og þurfti mikinn mannskap."
Formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands sendir bankastjóra Seðlabanka Lúxemborgar bréf 17. júlí 2008
Hinn 17. júlí 2008 sendi Davíð Oddsson Yves Mersch bréf. Í bréfinu vísar Davíð til heimsóknar Mersch til Reykjavíkur 4. sama mánaðar. Síðan segir: "I wish to emphasize the importance which the Central Bank of Iceland attaches to the Icelandic banks being accorded fair and sufficient time to bring their use of ECB facilities to an acceptable level, and that they are not subjected to restrictions beyond those that apply in general, that there is a level playing field. Abrupt changes could lead to difficulties that might have contagious effects in other countries." Því næst segir í bréfinu: "It might also be useful for you to know that the Icelandic banks continue their process of down-sizing." Síðar segir: "As far as the Republic itself is concerned, the Central Bank continues to prepare a further bolstering of its international reserves.We expect to see progress in the coming weeks."
Forsætisráðherra fundar með Karli Wernerssyni 18. júlí 2008
Hinn 18. júlí 2008 fundaði Geir H. Haarde með Karli Wernerssyni, stjórnarformanni Milestone ehf. og Aska Capital hf. Rannsóknarnefnd Alþingis hefur ekki frekari upplýsingar undir höndum um fundinn. Karl hafði fundað með Geir 15. janúar sama ár en í millitíðinni var Karl kjörinn stjórnarformaður Aska Capital.
23. fundur samráðshóps stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað 22. júlí 2008
Samráðshópur stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað fundaði 22. júlí 2008. Í drögum að fundargerð kemur fram að rætt hafi verið ítarlega um erfiðleika sparisjóða og smærri fjármálafyrirtækja. Haft er eftir Bolla Þór Bollasyni að næsta verkefni samráðshópsins sé að láta vinna drög að texta bráðabirgðalaga eða frumvarpi. Tilgangurinn sé að fá fram svör við "Ólystuga matseðlinum". Síðan segir að Áslaug Árnadóttir hafi sagt að sér hafi fundist fundargerð fyrri fundar villandi um þetta. Þar sé fyrst fjallað um frumvarpsdrögin sem Áslaug lagði fram og í beinu framhaldi sagt að fjármálaráðuneytið ætli að vinna textann áfram í samvinnu við lögfræðinga annarra ráðuneyta. Haft er eftir Áslaugu að þau lög sem gera þurfi breytingar á séu öll á málefnasviði viðskiptaráðuneytisins og því geti fjármálaráðuneytið ekki stýrt vinnuhópi sem breyta eigi þeim ákvæðum. Í drögum að fundargerð kemur fram að niðurstaða umræðunnar hafi orðið sú að fjármálaráðuneytið myndi stýra vinnuhópi sem undirbúa ætti texta frumvarps til laga eða bráðabirgðalaga um aðkomu ríkisins ef það þyrfti að grípa inn í eða hafa afskipti af rekstri fjármálafyrirtækja. Þá þyrfti viðskiptaráðuneytið jafnframt að kanna hvort breyta þyrfti lögum á verkefnasviði þess, þá sérstaklega lögum um fjármálafyrirtæki, vátryggingastarfsemi, lögum um hlutafélög og einkahlutafélög og lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi vegna frumvarpsdraga þeirra sem starfshópur á vegum fjármálaráðuneytisins ynni að. Síðan segir að á fundinum hafi eftirfarandi fulltrúar verið tilnefndir í vinnuhópinn: Þórhallur Arason, fjármálaráðuneyti, sem skyldi stýra honum, Sigríður Rafnar Pétursdóttir, fulltrúi viðskiptaráðuneytisins, Rúnar Guðmundsson, fulltrúi Fjármálaeftirlitsins og Sigríður Logadóttir, fulltrúi Seðlabanka Íslands. Því næst segir að Jónas Fr. Jónsson hafi minnt á áður framlagt yfirlit Fjármálaeftirlitsins um upphæðir sem innstæðutryggingin geti kallað á, þ.e. áætlaður 421 milljarður króna samtals fyrir lágmarkstryggingarverndina. Samt sé í útreikningunum aðeins miðað við 2 milljónir króna sem lágmark en það sé nú hærra eftir lækkun gengis íslensku krónunnar. Einnig segir að Jónas hafi sagt frá umræðum fyrir nefnd breska þingsins um innstæðutryggingar og stærð íslenska tryggingarsjóðsins. Fram kemur að Jónas Fr. Jónsson hafi varpað fram þeirri hugmynd að íslensk fjármálafyrirtæki myndu greiða meira fyrirfram inn í sjóðinn til að efla hann. Síðan segir að Ingimundur Friðriksson hafi vikið að móttöku innlána í útibúum íslenskra banka en FSA hefði hvatt Landsbankann til að flytja innlánasafn sitt yfir í þarlent dótturfélag. Það ferli sé ekki hafið og Landsbankinn virðist því mótdrægur. Fram kemur að Ingimundur Friðriksson hafi spurt hvort þessari breytingu sé hægt að koma á með reglusetningarvaldi. Því næst segir að Áslaug Árnadóttir hafi sagt að stofnun útibúa og móttöku innlána þar sé ekki hægt að banna heldur aðeins tefja. Ferlið sé einfalt. Síðan segir að Jónas Fr. Jónsson hafi nefnt að e.t.v. sé hægt að beita kröfum um aukið eigið fé eða stighækkandi framlögum í sjóðinn sem tryggingarsjóðurinn geti tekið upp. Síðan segir í skjalinu: "Tryggvi Pálsson sagði að bankarnir, sérstaklega Landsbankinn, hafi með innlánssókn sinni í útibúum erlendis meira en tvöfaldað skuldbindingar Tryggingarsjóðsins. Ef allt fer á versta veg gæti þurft að sniðganga þessar auknu skuldbindingar, t.d. með þeim hætti að stjórnvöld aðstoði við lántökur sjóðsins gegn skilyrðum svo sem að láta íslenska sparifjáreigendur hafa forgang eða að greitt verði út í íslenskum krónum. Þó slíkt færi á svig við EES samninginn þá yrði að sjá til þess að ríkið tæki ekki á sig skuldbindingar sem stefndu ríkissjóði í þrot. Eins og staðan væri í dag þá væri ekki hægt að standa við lágmarksskuldbindingar um innstæðuvernd." Síðan segir að Jónas Fr. Jónsson hafi bætt því við að sjóðurinn geti staðið við skuldbindingar ef Sparisjóður Mýrasýslu færi en um leið tæmist sjóðurinn. Því næst segir að Ingimundur Friðriksson hafi staðfest að jafnvel stærstu bankar geti ekki tekið stór lán á alþjóðlegum lánsfjármarkaði við núverandi aðstæður. Norsk yfirvöld segist ekki ætla að leyfa innlánssókn íslenskra banka þarlendis í skjóli norska tryggingarsjóðsins. Þetta hafi þau í huga þrátt fyrir að það samræmist ekki EES-skuldbindingum. Loks segir að Jónas Fr. Jónsson hafi ítrekað að þrýsta verði á flutning innlána yfir í dótturfélög.
Við skýrslutöku hjá rannsóknarnefnd Alþingis var Ingimundur Friðriksson, seðlabankastjóri, beðinn um að útskýra ummæli sín varðandi Icesave innlánin sem höfð eru eftir honum í drögum að fundargerð samráðshópsins frá 22. júlí 2008. Ingimundur sagði að bankastjórn Seðlabankans hefði haldið fund með bankastjórum Landsbankans í júlí 2008 og þá hefði komið fram að flutningur innlána yfir í dótturfélag væri ekki hafinn. Bankastjórn Seðlabankans hefði eindregið hvatt þá til þess og hefðu bankastjórar Seðlabankans reyndar verið "furðu lostnir á þessum fundi í júlí þegar kom fram að þetta væri ekki hafið". Aðspurður um hvort Seðlabankinn hefði beitt Landsbankann virkum þrýstingi, s.s. með því að lýsa því að Seðlabankinn myndi setja háa bindiskyldu á erlenda innlánsreikninga kvað Ingimundur að slíkt hefði ekki verið gert.
Fundur Seðlabanka Íslands með stjórnarformanni Glitnis 23. júlí 2008
Hinn 23. júlí 2008 funduðu Ingimundur Friðriksson og Tryggvi Pálsson með Þorsteini Má Baldvinssyni, stjórnarformanni Glitnis. Í drögum Seðlabankans að fundargerð kemur fram að Þorsteinn hafi áhyggjur og staða mála fari ekki batnandi. Haft er eftir Ingimundi Friðrikssyni að brotalamir hafi verið í upplýsingagjöf Glitnis til Seðlabankans, jafnvel í reglulegri mánaðarskýrslu Glitnis frá júní 2008.
Fram kemur að rætt hafi verið um hugsanlegan samruna Glitnis og Byrs. Í skjalinu segir einnig: "IF [Ingimundur Friðriksson] rifjaði upp að Glitnir hefði líka verið í viðræðum við erlenda fjárfesta. ÞMB [Þorsteinn Már Baldvinsson] sagði það í gangi og þeir eyða fullt af peningum í þetta verkefni. Glitnir eyðir líka í upplýsingakerfin í tengslum við skoðunina en það á eftir að koma sér vel. IF spurði hvenær búast megi við að málið klárist. ÞMB svaraði september-október og sagði málið alla vega halda áfram." Síðan kemur fram að rætt hafi verið um eignasölu í Noregi. Því næst segir í skjalinu: "IF spurði hvernig hann sæi erlenda fjármögnun bankans nú. ÞMB sagðist vera að horfa á þessa sölu og væri ekki með varaplan. Framhaldið fer eftir því sem ríkisstjórnin og Seðlabankinn gera." Síðar segir: "IF vék talinu að Glitni og stóru endurgreiðslunni á erlendum langtímalánum í haust. Spurði hvort norska salan gæti leyst það mál. ÞMB svaraði að það færi eftir hvenær söluandvirðið yrði greitt. Menn Glitnis séu eins og landafjandi út um allt að finna fé. Hann leggi áherslu á að klára norsku söluna og fá þá um leið fjármögnun hjá þeim sem sjá um söluna." Síðar í minnisblaðinu segir: "IF spurði TP hvort hann vildi bæta einhverju við.TP nefndi þörfina fyrir neyðaráætlun í fjármögnun. Um tíma fannst honum að Glitnir standa [sic] hinum bönkunum að baki varðandi úrræði og treyst um of á innpökkun skuldabréfa. Það væri haldreipið en takmörk væru fyrir því hversu langt væri hægt að ganga í slíkri fjármögnun því matsfyrirtækin gætu lækkað lánshæfiseinkunn bankans. Nauðsynlegt væri að hafa varaplan. Aðstoð hins opinbera gæti ekki verið varaáætlun því stjórnvöld vilja sjá markaðslausn."
Gagnrýni sérfræðinga Merill Lynch 24. júlí 2008
Í kvöldfréttum ríkissjónvarps 24. júlí 2008 var sagt frá gagnrýni sérfræðinga Merrill Lynch í tengslum við skuldatryggingarálag á íslensku bankana. Álagið var sagt sýna vantrú markaðarins á að bankarnir myndu standa við skuldbindingar sínar. Með aðgerðaleysi sínu væru stjórnvöld sögð senda þau skilaboð út "að þau vilji helst keyra bankana í þrot og taka þá svo í sína eigu". Richard Thomas hjá Merrill Lynch sagði: "Hvað er Seðlabankinn á Íslandi eiginlega að gera? Hvað gerir forsætisráðherrann? Enginn á markaðnum skilur aðgerðir þeirra. Það að þeir hafa ekkert gert íslensku bönkunum til hjálpar bendir til þess að við færumst í átt að stefnustýrðu vanskilaástandi og þjóðnýtingu bankanna. Við vitum ekki hvort það séu skilaboðin sem stjórnmálamenn og Seðlabankinn vilja gefa. Þess vegna hefur skuldatryggingarálagið hækkað upp úr öllu valdi. Markaðurinn telur að þetta séu skilaboðin sem Íslendingar senda. Við viljum ekki styðja bankana okkar og við erum ánægðir með greiðslufall þeirra því fjárfestar gætu fengið helming upp í skuldina. Þetta þarf að leiðrétta."
Næsta dag, þ.e. 25. júlí 2008, var í kvöldfréttum ríkissjónvarpsins rætt við Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, menntamálaráðherra, en hún var á þeim tíma starfandi forsætisráðherra í fjarveru Geirs H. Haarde. Fréttamaður bar undir Þorgerði ummæli starfsmanns greiningardeildar Merrill Lynch annars vegar um að hátt skuldatryggingarálag íslensku bankanna gæfi til kynna að markaðurinn teldi þá ekki færa um að endurgreiða skuldir sínar sem og hins vegar um að íslensk stjórnvöld hefðu með aðgerðaleysi sínu sent út þau skilaboð að þau vildu helst keyra bankana í þrot og taka þá svo til sín aftur. Um þetta sagði Þorgerður m.a.: "Ég er eiginlega alveg undrandi. Mér finnst þetta makalaus ummæli og hjá svona virtum fjárfestingarbanka og ég, það hvarflaði að mér um tíma, sko hvaða annarlegu sjónarmið búa þarna að baki því að þetta á ekki við nein rök að, að styðjast og, og ég spyr líka sem menntamálaráðherra þarf þessi maður ekki á endurmenntun að halda? [...] Okkar bankar standa ekki verr heldur en allir aðrir bankar á, í hinum alþjóðlega heimi. Þannig að það sé sagt skýrt og, og klárt."
Fundur Seðlabanka Íslands með stjórnendum Kaupþings 28. júlí 2008
Hinn 28. júlí 2008 fundaði Seðlabanki Íslands með stjórnendum Kaupþings. Í drögum Seðlabankans að fundarpunktum kemur fram að einkum hafi verið rætt um vandræði smærri fjármálafyrirtækja á borð við Sparisjóð Mýrasýslu og hugsanlega aðkomu Kaupþings að lausn á slíkum vanda.
Fundur Seðlabanka Íslands með bankastjórum Landsbankans 31. júlí 2008
Hinn 31. júlí 2008 fundaði bankastjórn Seðlabankans með bankastjórum Landsbankans. Nánar er fjallað um fundinn í kafla 18.0.
24. fundur samráðshóps stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað 31. júlí 2008
Samráðshópur stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað fundaði 31. júlí 2008. Í drögum að fundargerð er fyrst vikið að heimsókn FSA, breska fjármálaeftirlitsins, og skilaboðum stofnunarinnar. Fram kemur að Ingimundur Friðriksson hafi dreift ljósritum af bréfa- og skeytaskiptum FSA og Landsbankans vegna mögulegrar yfirfærslu innlána frá útibúi yfir í dótturfélag. Haft er eftir Ingimundi að FSA sé búið að setja 5 milljarða punda hámark á Icesave innstæður þar til yfirfærslan hafi farið fram. Fram kemur að Michael Ainley og Melanie Beaman frá FSA muni funda á Íslandi dagana 31. júlí og 1. ágúst með Fjármálaeftirlitinu, Seðlabanka Íslands, stjórnarformanni tryggingarsjóðsins og stærstu bönkunum. Haft er eftir Jónasi Fr. Jónssyni að órói hafi komið fram í breska fjármálaráðuneytinu í kjölfar umræðu í Treasury Committee breska þingsins nýverið þar sem öryggi innlána breskra sparifjáreigenda var til umræðu og FSA sat fyrir svörum. Í síðasta hluta umræðnanna hafi sérstaklega verið spurt um innlán í íslenskum bönkum. Þessi mál hafi verið tekin fyrir í þríhliða viðlagasamstarfi breska fjármálaráðuneytisins, FSA og Seðlabanka Bretlands. Bresk stjórnvöld telji sig ekki vita nægilega mikið um íslenska tryggingarsjóðinn, mögulega fjármögnun hans, útgreiðsluferli og fleira. Síðan segir að Jónas hafi rakið langan aðdraganda málsins. Landsbankinn hafi haft þrjá mánuði til að uppfylla samkomulag sitt við FSA um fyrirkomulag lausafjáreftirlits og Icesave. Sá tími sé ekki liðinn en engu að síður hafi FSA sett fram nýjar kröfur í síðustu viku með mikilli hörku. Símafundur FSA og Fjármálaeftirlitsins hafi verið haldinn sl. mánudag en þá hafi FSA í raun verið búið að taka ákvörðun án samráðs við Fjármálaeftirlitið. Fjármálaeftirlitið hafi gert athugasemdir við takmarkað samráð og lýst efasemdum um að magntakmarkanir sem þessar séu í samræmi við "letter and spirit of European law" og farið fram á að a.m.k. sé veitt "tolerance limit". Hins vegar sé varasamt fyrir Landsbankann að fara í lagaþrætur við FSA. Því næst er haft eftir Tryggva Pálssyni að FSA sé að vinna gott verk að því leyti að takmarka hugsanlega skuldbindingar íslenska ríkisins vegna tryggingarsjóðsins. Fram kemur að Ingimundur Friðriksson hafi greint frá því að á fundi Seðlabankans með fulltrúum FSA hafi þeir upplýst að unnt sé að ljúka yfirfærslunni á þremur mánuðum. Í beinu framhaldi segir að Jónas Fr. Jónsson hafi minnt á að slíkt þurfi að undirbúa vel og auglýsa opinberlega. Síðan segir að Ingimundur hafi vitnað til orða fulltrúa FSA um að gætt verði jafnræðis gagnvart íslensku bönkunum. Haft er eftir Jónasi Fr. Jónssyni að varast beri "ring fencing" í Bretlandi og skoða þurfi vel allar afleiðingar yfirfærslunnar. Fram kemur að Baldur Guðlaugsson hafi spurt hvenær tilkynnt hafi verið um 5 milljarða punda hámarkið. Síðan segir að Jónas Fr. Jónsson hafi svarað því til að FSA hafi áður haft áhyggjur af markaðssetningu Landsbankans og þ.m.t. auglýsingum en um 8. júlí 2008 hefði 5 milljarða punda þakið verið nefnt sem hugmynd í samskiptum FSA og bankans. Síðan segir í drögum að fundargerð að Ingimundur hafi minnt á mikilvægi þess að gæta vel að trúnaðarupplýsingum sem þessum. Fram kemur að Tryggvi Pálsson hafi sagt að íslensk stjórnvöld eigi að leggja FSA lið og jafnframt snúa ofan af móttöku innlána í útibúum íslensku bankanna annars staðar. Því næst kemur fram að Jónas Fr. Jónsson hafi sagt pirrandi að ekki sé gætt meðalhófs, sbr. ákvörðun um hámark innlána. Því næst er haft eftir Áslaugu Árnadóttur að gæta verði jafnræðis og koma eins fram við aðra. Síðan segir að Baldur Guðlaugsson hafi sagt að það geti orðið banabiti fyrir bankana ef umræðan fari af stað um veikleika tryggingarsjóðsins. Því næst segir að Jónas Fr. Jónsson hafi vikið að vinnu Fjármálaeftirlitsins við myndun samráðsnefnda fjármálaeftirlita um eftirlit (supervisory colleges) sem komið verði á um haustið. Þau eftirlit þar sem bankarnir hafi markverða starfsemi taki þátt í hópstarfinu en þetta viðmið sé nokkuð teygjanlegt. Fram kemur að Bolli Þór Bollason hafi spurt hvernig málið eigi eftir að þróast á næstu vikum. Því næst er haft eftir Jónasi Fr. Jónssyni að Landsbankinn hafi í grundvallaratriðum fallist á kröfur FSA. Nú þurfi að útfæra viðskiptaáætlun fyrir dótturfélagið með viðmiðum um eigið fé, lausafjáreign og fleira. Síðan segir að Baldur Guðlaugsson hafi spurt hvort Landsbankinn vinni með FSA. Haft er eftir Jónasi að svo sé en útfærslan sé eftir. Því næst segir að Bolli Þór Bollason hafi spurt hvað gerist hjá Seðlabankanum í þessu máli. Ingimundur Friðriksson er sagður hafa lýst því að boltinn sé hjá Landsbankanum sem hafi frumkvæði að heimsókn fulltrúa FSA. Seðlabankinn setji þrýsting á Landsbankann um að klára yfirfærsluna. Bolli Þór Bollason er þá sagður hafa spurt um nálgun gagnvart Kaupþingi og Glitni. Hver eigi að tala við þá? Fram kemur að Jónas hafi boðist til að hafa samband við þá banka um yfirfærslu innlána frá útibúum erlendis til dótturfélaga. Síðan segir að Bolli Þór Bollason hafi velt fyrir sér hvort ráðherrar eigi að leggjast á sveifina en talið hafi verið heppilegra á þessu stigi að Fjármálaeftirlitið sjái um skilaboðin. Síðan segir að Jónas Fr. Jónsson hafi gert grein fyrir áhyggjum FSA af íslenska tryggingarsjóðnum. Hann hafi nefnt fjögur atriði:
1. Hvað er í sjóðnum?
2. Hvernig á að standa við skuldbindingar hans?
3. Hvaða varaáætlun hefur sjóðurinn?
4. Hver er starfsemin og ferlarnir? M.a. upplýsingagjöf, hvernig hann virkar út á við, hvernig verða kröfur á sjóðinn settar fram og afgreiddar, hvernig það má vera að aðeins einn starfsmaður sjái um sjóðinn og það í hlutastarfi?
Í framhaldinu segir að Áslaug Árnadóttir hafi nefnt að sjóðurinn sé að undirbúa gerð eyðublaðs. Haft er eftir Ingimundi Friðrikssyni að gott sé ef hægt verði að segja FSA frá því sem sé í undirbúningi. Fram kemur að Áslaug Árnadóttir hafi sagt breska tryggingarsjóðinn vera "risabatterí" sem auk þess geti kallað til starfskrafta þeirra fyrirtækja sem í hlut eigi. Í drögum að fundargerð er síðan rætt um vinnu við drög að lagafumvarpi, sbr. nánari umfjöllun í kafla 20.0.
19.3.11 Ágúst 2008
Efnahagsráðgjafi forsætisráðuneytisins hefur störf 1. ágúst 2008
Hinn 18. júlí 2008 var greint frá því að Tryggvi Þór Herbertsson, hagfræðingur, hefði verið ráðinn, eins og sagði í frétt á heimasíðu forsætisráðuneytisins, tímabundið til ráðuneytisins til að sinna ráðgjöf í efnahagsmálum, einkum á sviði peninga- og fjármálamarkaðar. Tryggvi hóf síðan störf 1.ágúst 2008.Við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom fram að Tryggvi hefði hafist handa við að kanna hvort íslenska ríkið gæti fengið lán hjá Rússum eða Kínverjum. Þá hefði hann kannað hvort mögulegt væri að sameina tvo af stóru bönkunum.
Símafundur Seðlabanka Íslands með Seðlabanka Bretlands 1. ágúst 2008
Ingimundur Friðriksson, seðlabankastjóri, og Jón Þ. Sigurgeirsson, sérfræðingur á skrifstofu bankastjórnar Seðlabankans, áttu símafund 1. ágúst 2008 með yfirmönnum í Seðlabanka Bretlands. Í minnisblaði Seðlabanka Íslands kemur fram að Bretarnir hafi endurtekið "í sífellu meginboðskap sinn um að íslensku bankarnir þyrftu að draga saman seglin". Í minnisblaðinu segir að fram hafi komið að óróleika gæti innan Seðlabanka Bretlands vegna íslensku bankanna, einkum Landsbanka Íslands hf. Einkum sé þrennt sem valdi þessum áhyggjum. Í fyrsta lagi sé skuldatryggingarálag bankanna afar hátt. Í öðru lagi hafi bankarnir vaxið hratt og séu nú svo stórir að stjórnvöld geti ekki komið þeim til bjargar. Í þriðja lagi séu bankarnir háðir fjármögnun með söfnun innstæðna í Bretlandi í gegnum veraldarvefinn. Því næst segir í minnisblaðinu: "Fjárhæð þeirra næmi nú um 7,5 ma. sterlingspunda og væru innstæðutryggingar að baki þeim takmarkaðar." Síðar í minnisblaðinu kemur fram að af hálfu Seðlabanka Bretlands hafi verið lögð áhersla á að innstæður í Bretlandi verði fluttar í dótturfélög. Einnig er haft eftir fulltrúum Seðlabanka Bretlands að óráð sé að bíða lengur með eignasölu, bankarnir þurfi að draga saman seglin.
Forsætisráðherra fundar með Björgólfi Thor Björgólfssyni 6. ágúst 2008
Hinn 6. ágúst 2008 fundaði Geir H. Haarde, forsætisráðherra, með Björgólfi Thor Björgólfssyni.Við skýrslutöku lýsti Geir aðdraganda fundarins með eftirfarandi orðum:"Í ágúst þá förum við yfir þetta aðeins,við Tryggvi Þór Herbertsson,sem þá er kominn í vinnu hjá mér sem ráðgjafi, förum við yfir á hverju hann ætti að byrja sem starfsmaður og niðurstaðan er sú að hann fer og talar við sem sagt sem sagt alla yfirmenn í bönkum og alls staðar þar sem talið var að skipti máli, Fjármálaeftirlitið og Seðlabankann, þeir eru nú tregir til að tala við hann þar í Seðlabankanum, töldu að ef þeir ættu vantalað við forsætisráðuneytið þá mundu þeir nú tala um það bara við mig, það voru svolítið svona stælar í þessu, eins og gengur. En hann fór og ræddi einkanlega við forsvarsmenn Landsbankans og Glitnis banka hf. um hugsanlega sameiningu. Og það var þarna ákveðin hugmynd á floti um það að það væri hægt að sameina þessa banka tiltölulega hratt og ríkið legði inn í það ákveðna upphæð, sem á þeim tíma var verið að tala um, 30 milljarða króna, sem mér fannst nú mikið, af því að ég var nískur síðan ég var fjármálaráðherra, en þetta var náttúrulega ekki neitt miðað við þann kostnað sem síðan hefur fallið til og heldur ekki miðað við það tjón sem almennt í fortíðinni hefur skapast í öðrum löndum vegna bankahruns. Þannig að ef það hefði getað afstýrt bankahruninu að leggja 30 milljarða hlutafé inn í nýjan banka, þá er það náttúrulega bara mjög gott mál. Þeir voru ekkert alltof ginnkeyptir fyrir þessu." Því næst sagði Geir: "6. ágúst talaði ég við Björgólf Thor, sem kom þá á minn fund og sérstaklega um þetta og þá segir hann það: "Ja, það er kannski hægt að undirbúa þetta á Q þrjú og ljúka því á Q fjögur." Þetta man ég það vel, þetta er svona bankamannatal, en hann taldi ekki tímabært og alls ekki nauðsynlegt að vera eitthvað að hraða þessu og ljúka því á einni helgi eða eitthvað svoleiðis, sem maður hefði nú náttúrulega helst viljað, að ljúka því í ágústmánuði."
Minnisblað Seðlabanka Íslands til ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytisins 7. ágúst 2008
Í minnisblaði frá bankastjórn Seðlabankans til Baldurs Guðlaugssonar, ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytisins, dags. 7. ágúst 2008, kemur fram að undanfarna mánuði hafi Seðlabankinn leitað leiða til að útvega ríkissjóði erlend lán til að styrkja gjaldeyrisforða bankans samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnarinnar.Aðstæður á erlendum fjármálamörkuðum séu í dag þær erfiðustu sem verið hafi í áratugi. Erfiðleikarnir hafi komið sérstaklega hart niður á íslenskum lántakendum á alþjóðamarkaði. Þegar lánsfjárkreppan hafi hafist í ágúst 2007, hafi erfiðleikarnir náð fyrst og fremst til íslensku bankanna, en frá nóvember 2007 hafi orðið ljóst að möguleikar íslenska ríkisins hafi einnig þrengst. Mjög miklar erlendar skuldir íslenskra fjármálastofnana miðað við stærð hagkerfisins og forsenda sem menn gefi sér um óbeina ábyrgð ríkissjóðs á þeim valdi því að efasemdir séu um getu bankanna, Seðlabankans og ríkissjóðs til að ráða við þær aðstæður sem nú séu uppi. Reyndar sé það svo að skuldabréfamarkaðir hafi verið meira og minna lokaðir og gildi það einnig um aðra íslenska aðila.Vantrú ríki á íslenska bankakerfinu. Markaðir geri ráð fyrir að yfirgnæfandi líkur séu á að vandamál þess verði fyrr eða síðar vandamál ríkissjóðs. Þessi vantrú sé þrándur í götu þessa máls.
Lokaður fundur ráðherra með hagfræðingum 7. ágúst 2008
Hinn 8. ágúst 2008 héldu fjórir ráðherrar lokaðan fund með hagfræðingunum Má Guðmundssyni, Gauta B. Eggertssyni, Friðriki Má Baldurssyni og Jóni Þór Sturlusyni. Fundinn sóttu Geir H. Haarde, forsætisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, og Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra. Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, var ekki meðal fundarmanna. Um ástæður þessa upplýsti Jón Þór Sturluson við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis að þetta hefði verið "súperráðherrahópurinn". Hagfræðingarnir Friðrik, Gauti og Már hefðu á fundinum haldið framsögu um lausafjárvand-ann.Við skýrslutöku sagði Friðrik Már Baldursson að aðdragandi fundarins hefði verið sá að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefði sent sér tölvubréf einni viku áður þar sem hann var beðinn um að mæta 7. ágúst 2008 og vera með "stutt innlegg" ásamt framangreindum hagfræðingum. Sagði Friðrik að Ingibjörg hefði nefnt að ætlast væri til að hagfræðingarnir myndu greina "stöðuna og hvað sé helst til ráða til að koma á langtímastöðugleika og sjálfbærum hagvexti". Friðrik lýsti því að hann hefði ekki fengið nein gögn eða upplýsingar í hendur frá stjórnvöldum til að vinna erindi sitt, að undanskilinni skýrslu hagfræðinganna Buiter og Sibert sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefði afhent honum. Friðrik sagði að á fundinum 7. ágúst hefði fyrst og fremst verið rætt um stöðu bankanna og hálfsársuppgjör þeirra. Friðrik bætti síðan við: "[...] þetta sneri fyrst og fremst að því [...] hvernig hægt væri að leysa úr vanda, þessum fjármögnunarvanda bankanna, ég held að ég hafi, það sem ég sagði, jú, ég hlýt að hafa verið með, farið og skoðað einhver hálfsársuppgjör vegna þess að það sem að voru mjög mikilvægar upplýsingar í þeim voru sem sagt upplýsingar um "greiðsluprófílinn", það sást sem sagt hvernig bankarnir, hvernig hérna framtíðin var hjá þeim – ekki fullkomnar upplýsingar en þeir gáfu svona ákveðna hugmynd og hérna, þeir stóðu mjög misjafnlega að þessu leytinu, það var alveg ljóst þegar maður skoðaði þær upplýsingar að Kaupþing væri í langskástu stöðunni, Glitnir í þrengstu stöðunni. En sem sagt umræðurnar gengu fyrst og fremst út á það að með hvaða hætti væri hægt að hérna, hvernig ætti að bregðast við. Ég meina, það er sem sagt, staðan í raun og veru var alltaf bara að verða þrengri og þrengri og hvernig ætti þá að bregðast við því [...]."
Forsætisráðherra fundar með stjórnarformanni Glitnis 10. ágúst 2008
Hinn 10. ágúst fundaði Geir H. Haarde með Þorsteini Má Baldvinssyni, stjórnarformanni Glitnis, um möguleika á sameiningu Glitnis og Landsbankans.Við skýrslutöku lýsti Geir fundinum með eftirfarandi orðum: "[...] þá er ég staddur fyrir norðan og geri ráðstafanir til að hitta hann Þorstein Má heima hjá honum á sunnudagsmorgni og það er sennilega heldur [ekki] í þessum skrám því það fór ekki inn í neina dagbók. Ég var á fiskideginum mikla á Dalvík og gisti á Akureyri og við sem sagt hittumst og töluðum lengi saman þarna milli svona hálf ellefu og tólf á sunnudagsmorgni. Og hann er áhugasamur um að gera eitthvað svona og sér sjálfan sig svona sem ákveðinn aðila sem mundi fara í að reyna að draga úr kostnaði nýja bankans, sama og hann hafði áður sagt við mig gagnvart Glitni, en taldi að hlutur Glitnis [í sameiningu með Landsbankanum] þyrfti að vera stærri heldur en að Tryggvi hafði svona ámálgað, sem var náttúrulega bara eitthvað lauslegt, og að hlutur ríkisins þyrfti að vera miklu meiri heldur en þessir þrjátíu [milljarðar], kannski nær hundrað [milljörðum], eitthvað svoleiðis. Þannig að ég var sem sagt sjálfur búinn að tala við tvo lykilmenn í þessu þarna fyrir miðjan ágúst um hugsanlega sameiningu þessara tveggja banka og ég tel að ef það hefði verið hægt að drífa í því þarna í ágústmánuði þá hefði kannski eitthvað farið öðruvísi en ég veit ekki hvort að það hefði bjargað stöðunni."
25. fundur samráðshóps stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað 12. ágúst 2008
Samráðshópur stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað fundaði 12. ágúst 2008. Á þessum fundi tók Jónína S. Lárusdóttir, ráðuneytisstjóri viðskiptaráðuneytis, aftur sæti í hópnum, en Áslaug Árnadóttir, skrifstofustjóri í viðskiptaráðuneyti, hafði fyllt í skarð hennar á meðan á leyfi Jónínu frá störfum stóð. Í drögum að fundargerð kemur fram að undir dagskrárliðnum "Erindisrekstur FSA" hafi Bolli Þór Bollason spurst fyrir um eftirmál heimsóknar breska fjármálaeftirlitsins, FSA. Ingimundur Friðriksson hafi einnig spurt Baldur Guðlaugsson hvernig símafundur hans með fulltrúa breska fjármálaráðuneytisins hafi gengið. Haft er eftir Baldri Guðlaugssyni að hann hafi upplýst viðmælandann um að ráðuneytinu væri kunnugt um samskipti Landsbankans og fjármálaeftirlita varðandi innlán útibús Landsbankans í Bretlandi. Fundurinn hafi verið formlegur og jákvæður. Því næst segir í fundargerð að Ingimundur Friðriksson hafi nefnt að fulltrúar FSA hafi verið ánægðir með samtöl sín við Áslaugu Árnadóttur, stjórnarformann tryggingarsjóðsins. Einnig hafi Seðlabanki Bretlands fylgt heimsókn FSA eftir með upphringingu til sín frá Sir John Gieve og Nigel Jenkinson. Mikill þungi hafi verið í því samtali og viðmælendur hans hafi margítrekað að íslensku bankarnir þyrftu að minnka. Undir lok samtalsins hafi þeir nefnt þann möguleika, sem ekki hafi áður komið til tals, að Landsbankinn gæti selt Icesave afurð sína. Í framhaldinu segir að Baldur Guðlaugsson hafi spurt hvort komið sé samkomulag í grundvallaratriðum þótt enn séu lausir endar. Jónas Fr. Jónsson hafi sagt að ýmsar vendingar hafi verið í málinu og FSA komið fram með nýjar kröfur. Áður hafi verið rætt um möguleika Landsbankans á að færa fjármagn til móðurfélagsins en FSA hafi síðan ákveðið að ekki væri hægt að veita meira svigrúm til þess en rúmist innan 75% af eigin fé. Stórar áhættuskuldbindingar vegna einstakra viðskiptamanna eða fjárhagslega tengdra aðila megi almennt ekki fara fram yfir 25% af eigin fé fjármálafyrirtækis nema veitt sé sérstök undanþága. Rætt hafi verið um að auka eigið fé Heritable Bank í um 600 milljónir breskra punda en engu að síður veiti 75% hámarkið of lítið svigrúm fyrir Landsbankann í fjárstýringu fyrir samstæðuna. Eigið fé Heritable Bank þurfi helst að vera hátt í tífalt meira til að þrengja ekki að miðað við ætlað hámark FSA. Einnig hafi FSA hafnað hugmynd Landsbankans um að leggja það innlánsfé sem hugsanlega fari yfir 5 milljarða punda hámarkið inn í seðlabanka. Fram kemur í fundargerð að FSA hafi veitt Landsbankanum frest fram til 12. ágúst 2008 til að bregðast við kröfum sínum. Fjármálaeftirlitið vilji ekki að útkoman verði veikari banki og einnig sé mikilvægt að lausafjárstýring hans verði áfram á samstæðugrundvelli. Fjármálaeftirlitið vilji að lengri frestur verði veittur og efasemdir séu um lögmæti innlánaþaksins og aðgerðanna. Fjármálaeftirlitið telji tillögur Landsbankans mæta sjónarmiðum FSA. Jónas Fr. Jónsson og Jón Sigurðsson, stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins, fari til fundar við æðstu menn FSA næsta mánudag. Síðan er haft eftir Jónasi að FSA geti með kröfum sínum nánast neytt Landsbankann til að flytja meginstarfsemi sína. Komið sé að þolmörkum Landsbankans fyrir hversu langt þeir geti teygt sig. Því næst kemur fram að Bolli Þór Bollason hafi spurt hvort Landsbankinn hafi í dag ótakmarkaðan aðgang að umræddum innlánum sem lausafé. Jónas hafi sagt að Landsbankinn hafi geymt hluta þeirra í Bretlandi og á það hafi reynt þegar innlánin hafi lækkað í lok mars sl. og byrjun apríl. Landsbankinn telji sig þurfa að geta fært u.þ.b. 3,8 milljarða punda af 4,8 milljarða punda innlánum til lausafjárstýringar. Haft er eftir Baldri Guðlaugssyni að Landsbankinn geti lent í þeirri stöðu að ganga að óásættanlegum kröfum við yfirfærslu innlána í dótturfélag eða halda þeim áfram í útibúi sem sé erfitt fyrir íslensk stjórnvöld. Haft er eftir Jónasi Fr. Jónssyni að FSA fullyrði að stofnunin gæti jafnræðis en íslenskir bankar séu hættulegri en aðrir.Verið sé að taka á undanþágum. Síðan kemur fram að Jónas Fr. Jónsson telji FSA á gráu svæði lögfræðilega séð. Haft er eftir honum að hann skynji að óróinn sé af pólitískum toga og hafi komið upp eftir vitnisburð fyrir breskri þingnefnd. Fram kemur að Baldur Guðlaugsson telji að Landsbankinn verði væntanlega að samþykkja 75% hámark FSA en semja þurfi um eðlilegan aðlögunartíma. Haft er eftir Jónasi Fr. Jónssyni að áhyggjur FSA beinist að vernd fyrir breska sparifjáreigendur.Síðan segir að Tryggvi Pálsson hafi nefnt að bundin innlán geti í vissum skilningi verið meira áhyggjuefni en óbundin.Vera megi að innstæður á bundnum reikningum bíði þess að verða innleystar þegar binditíminn renni út. Óróinn að undanförnu geti valdið því sem og líkur á að Landsbankinn fái ekki að bjóða bestu vexti áfram. Haft er eftir Ingimundi Friðrikssyni að innlán að fjárhæð tveir milljarðar breskra punda verði laus í maí og júní nk. og að FSA finnist Landsbankinn hafa gengið of hart fram í vaxtaboðum og auglýsingum.
Undir dagskrárliðnum "Málefni Tryggingarsjóðsins – innstæðuvernd" kemur fram að Baldur Guðlaugsson hafi spurt hvaða úrræði íslensk stjórnvöld hafi til að ýta innlánum yfir í dótturfélög erlendis, sbr. hærri iðgjöld. Þetta sé stórt áhyggjuefni og ástæða til að skoða möguleikana í heild, ekki bara vegna Landsbankans. Haft er eftir Jónasi Fr. Jónssyni að tveir möguleikar komi upp í hugann, þ.e. "de-facto" hærra iðgjald fyrir innlán í útibúum erlendis með stighækkandi hlutfalli eða hærri eiginfjárkrafa vegna þessa. Fjármálaeftirlitið hefði heimild til hins síðarnefnda. Fram kemur að Tryggvi Pálsson hafi sagt fyrri möguleikann styrkja tryggingarsjóðinn en að hinn síðari dragi úr skuldbindingum hans. Síðan segir að Jónína S. Lárusdóttir hafi spurt hvort skynsamlegt sé að frumvarp um tryggingarsjóðinn verði tilbúið í framlagningarpakka næsta haust? Haft er eftir Jónasi Fr. Jónssyni að það sé hárfínt mat. Bretar hafi verið að undirbúa slíkar breytingar en óvíst sé um framlagningu frumvarps. Sama gildi um Evrópulönd almennt. Gagnlegt geti verið að kanna afstöðu bankanna til tímasetningar á framlagningu frumvarps. Síðan segir að Tryggvi Pálsson velti fyrir sér hvort stjórn tryggingarsjóðsins og aðstandendur hans geti ákveðið að greiða meira en lögbundið lágmark í sjóðinn. Fram kemur að Jónas Fr. Jónsson hafi minnt á fyrri hugmynd sína um að greiða megi fyrirfram. Síðan segir að Jónína S. Lárusdóttur hafi minnt á texta laganna en segist geta kannað þessa möguleika. Fram kemur að Baldur Guðlaugsson hafi tekið undir að rétt sé að kanna allar leiðir en ef breyta eigi "strúktúr" sjóðsins þurfi væntanlega að gera það með lagabreytingu. Haft er eftir Tryggva Pálssyni að ganga þurfi frá drögum að yfirlýsingu um innstæðutryggingu. Síðan segir að Bolli Þór Bollason hafi vikið að þeim þætti á "Ólystuga matseðlinum". Fram kemur að Ingimundur Friðriksson hafi sagst taka heilshugar undir þörf fyrir drög að yfirlýsingu. Jafnframt segir að Jónas hafi sagt að slíkur texti þurfi að liggja fyrir. Sjóðurinn geti tæmst ef meðalstór sparisjóður geti ekki staðið við skuldbindingar sínar. Semja þurfi drög sem miðist við þrjá valkosti, þ.e. tryggja öll innlán, tryggja lágmarksinnstæðu eða ekkert. Síðan segir að Bolli Þór Bollason hafi minnt á að fyrir liggi yfirlýsingar forsætis- og fjármálaráðherra í þá veru að stjórnvöld standi við bakið á stóru bönkunum. Fram kemur að Tryggvi Pálsson hafi spurt hvort ríkissjóður geti staðið við slíkar yfirlýsingar án hættu á eigin greiðsluþroti. Síðan segir að Ingimundur Friðriksson hafi bent á að undirliggjandi vandi geti staðið lengi. Seðlabanki Bretlands búist við að þrengingarnar standi í a.m.k tvö ár í viðbót. Haft er eftir Jónínu S. Lárusdóttur að orðalag og framsetning yfirlýsingar geti skipt miklu máli og því sé einnar messu virði að leggja í þessa vinnu. Fram kemur að Jónas Fr. Jónsson hafi sagt sviðsmyndir fjármálaáfalls liggja fyrir og setja þurfi fram meginvalkosti. Einnig segir að Ingimundur Friðriksson hafi stungið upp á því að ráðuneytin vinni að þessu. Fram kemur að Baldur hafi sagt að enn sé óljóst hver viðmið fjárhæða innlánaverndar séu. Síðan segir að Jónas Fr. Jónsson hafi sagt Fjármálaeftirlitið verða með tölu fljótlega og hægt sé að binda útgreiðslur við íslenskar krónur. Síðan segir að Ingimundur Friðriksson telji gagnlegt að byrja á textasmíðinni þó tölur liggi ekki fyrir. Haft er eftir Jónasi Fr. Jónssyni að 5 milljóna króna innlánsvernd nái til 95% innstæðueigenda og myndi þannig ná að skapa ró. Það sé sú tala eða lágmarkið. Fram kemur að Jónína S. Lárusdóttir hafi minnt á að fyrir liggi drög að yfirlýsingu um innstæðuvernd. Hún hafi fylgt skýrslu viðskiptaráðuneytisins, dags. 10. apríl 2008, um greiðslur úr innstæðudeild tryggingarsjóðsins. Jónína muni ræða við Áslaugu Árnadóttur, formann sjóðsins. Undir lok fundargerðarinnar kemur fram að Ingimundur Friðriksson hafi upplýst að samskipti bankanna við Seðlabanka Lúxemborgar séu komin í gott horf eftir uppgreiðslur bankanna.
Í skýrslu Jónasar Fr. Jónssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom fram að eftir að Bolli Þór Bollason hefði á fundinum 12. ágúst 2008 minnt á yfirlýsingar forsætis- og fjármálaráðherra í þá veru að stjórnvöld stæðu við bakið á stóru bönkunum hefði komið upp "smápirringspunktur".Tryggvi hefði sótt fram og síðan hann sjálfur. Hann sagðist hafa bent á að sviðsmyndir lægju fyrir og setja þyrfti fram þessa valkosti. Þá hefði Baldur Guðlaugsson sagt að það væri enn óljóst hver viðmið um innlánsfjárhæðir væru. Hefði Baldur þannig ekki talið tímabært að taka á þessu.
Tillaga viðskiptaráðherra um skipun nefndar 12. ágúst 2008
Á fundi ríkisstjórnarinnar 12. ágúst 2008 lagði Björgvin G. Sigurðsson fram minnisblað, dags. sama dag, samhliða tillögu sinni um skipun sérstakrar nefndar sem nánar var vikið að í minnisblaðinu. Í því er fjallað um fjármálastöðugleika og skipun nefndar í því skyni að vinna tillögur sem miði að því að auka stöðugleika fjármálakerfisins, draga úr líkum á því að fjármálafyrirtæki lendi í erfiðleikum en jafnframt draga úr áhrifum þess ef fjármálafyrirtæki lendi í erfiðleikum. Björgvin lagði til að hann myndi skipa formann nefndarinnar en að í nefndinni ættu jafnframt sæti fulltrúar forsætisráðuneytis, fjármálaráðuneytis, Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans. Í fundargerð ríkisstjórnarinnar segir eftirfarandi um málið: "Málið rætt en afgreiðslu þess frestað."
Í skýrslu Björgvins G. Sigurðssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom fram að enginn hefði stutt hugmyndina í ríkisstjórninni. Ljóst hefði verið að Baldur Guðlaugsson hefði lagst gegn skipun nefndarinnar.Aðspurður hvort einhver valdabarátta hefði verið á milli ráðherra, kvað Björgvin að svo hefði ekki verið. Hins vegar hefði Baldur Guðlaugsson haldið öllum hlutum mjög hjá sér "og drottnaði mjög yfir þessu öllu saman, bæði fyrir og eftir hrun". Björgvin skýrði ástæðu þess að hann setti fram tillögu sína með eftirfarandi orðum: "Tilefnið var óróleikinn á alþjóðlegum fjármálamörkuðum sem var náttúrulega búinn að vera þarna nokkuð lengi og í sjálfu sér alveg frá því náttúrulega, kannski má bara segja að hann var náttúrulega búinn að standa þarna mánuðum saman og mikil umræða um það að það vissi enginn til hvers hann mundi leiða, hvort það yrði alheimskreppa eins og varð, eða einhverra minni háttar áfalla.
Og okkur, þetta bara spratt af hugmynd uppi í ráðuneyti, trúlega í samtali okkar Jóns Þórs, kannski átti hann hugmyndina, hann fylgdist mjög vel með þessum málum sem fagmaður og okkur þótti þetta – það var eitthvað sem gekk á á mörkuðum á sama tíma þannig að mönnum þótti þetta ekki heppilegt signal að stofna slíka nefnd. [...] Já, mér fannst nauðsynlegt – viðbragðshópurinn er viðbragðshópur, hann er vakt og samráðsvettvangur en hann er ekki endilega fagleg úttekt á einhverju, þannig að ég vildi, mér fannst að það væri ástæða og tilefni til að fara í gegnum það hvernig mætti efla þessa hluti ef ég man það rétt."
Í minnisblaði Björgvins G. Sigurðssonar segir m.a.:
Minnisblað
[...]
Órói sá sem hefur ríkt á fjármálamörkuðum heimsins á undanförnum mánuðum hefur haft veruleg áhrif á fjármálafyrirtæki. Nauðsynlegt er að bregðast við og nýta sér þá þekkingu og reynslu sem eftirlitsaðilar og aðrir hafa fengið síðasta árið. Því er lagt til að skipuð verði nefnd sem skila á tillögum sem er ætlað að ná eftirfarandi markmiðum:
- Auka stöðugleika fjármálakerfisins.
- Draga úr líkum á því að fjármálafyrirtæki lendi í erfiðleikum.
- Draga úr áhrifum þess, ef fjármálafyrirtæki lenda í erfiðleikum.
- Lagt er til að viðskiptaráðherra skipi formann nefndarinnar, en að í nefndinni eigi einnig sæti fulltrúar forsætisráðuneytis, fjármálaráðuneytis, Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands.
Í skýrslu Geirs H. Haarde fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom fram að hann minnti að þessu máli hefði verið frestað á nokkrum fundum og að lokum hefði það ekki verið afgreitt. Ástæður þess hefðu verið þær að þau vildu "mjög ógjarnan gera hluti sem út á við hefðu verið túlkaðir sem einhver taugaveiklun eða ótti af okkar hálfu um það að hlutirnir væru að fara úr böndum hvað bankana varðaði".Við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis hafði Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, þetta um málið að segja: "[...] minnir mig m.a.s. að eftir þann ríkisstjórnarfund að ég hafi sagt honum, eins og ég gerði alltaf, að ég kom með einhver mál, ég "garderaði" mig áður, ég talaði við einhverja lykilmenn og svona, að hann hefði kannski átt að tala við formann Samfylkingarinnar, hugsanlega fjármálaráðherrann, en svona það litla sem eimir af umræðu um þessa nefnd, eða þessa tillögu, er að mönnum hafi eitthvað fundist það hálfgerð framhleypni."
Jónína S. Lárusdóttir sagðist hafa kynnt minnisblað viðskiptaráðherra í samráðshópnum og þar hefðu menn í rauninni hneykslast á því og talið að þetta væri alls ekki tímabært því það væru önnur verkefni brýnni á þeim tímapunkti.
Fundur ráðuneytisstjóra viðskiptaráðuneytis og fjármálaráðuneytis með bankastjórum Landsbanka Íslands 13. ágúst 2008
Hinn 13. ágúst 2008 héldu Jónína S. Lárusdóttir og Baldur Guðlaugsson fund með bankastjórum Landsbankans. Að auki sat forstöðumaður lögfræðisviðs Landsbankans fundinn. Við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis lýsti Jónína fundinum m.a. með eftirfarandi orðum: "[...] fóru þeir bara yfir samskipti sín við fjármálaeftirlitið breska og báru sig að sumu leyti aumlega, þeir töldu sig hafa verið komna með ákveðið samkomulag við fjármálaeftirlitið breska og fannst þeir vera að koma svolítið aftan að sér. Þannig að þeir voru bara að útskýra það og útskýra sem sagt sína hlið á þessum kröfum fjármálaeftirlitsins breska á dótturfélagavæðingunni. Sem sagt að þeir þyrftu í rauninni meiri tíma alla vega, þeir voru kannski aðeins að streitast á móti, það var eins og þeir vildu kannski reyna að ná einhverri annarri lendingu. En voru líka að tala um að ef til þessarar dótturfélagavæðingar kæmi, þá þyrftu þeir meiri tíma til að færa eignir á móti innlánum. [...] Sem sagt þeir höfðu áhyggjur af því að það yrðu settar kröfur á þá sem þeir gætu ekki náð tímalega séð. Og það var í raun og veru ástæðan fyrir því að ráðherra síðan ákveður að fara þarna út, það var til að reyna að komast að samkomulagi um að innlánin yrðu strax færð yfir í dótturfélag til þess að koma þeim undan tryggingarsjóðnum, en það yrði þá aðeins meiri tími hvað varðar flutning eignanna. Eða veitt eitthvað svigrúm hvað varðar stóru áhættuskuldbindingarnar, það er að það yrði veittur tímafrestur til þess að þessi dótturfélagavæðing mætti eiga sér stað." Nánar er fjallað um stöðu Landsbankans og frekari aðkomu viðskiptaráðuneytis í kafla 18.0.
Viðskiptaráðherra fundar með stjórnarformanni Fjármálaeftirlitsins 14. ágúst 2008
Hinn 14. ágúst 2008 fundaði Björgvin G. Sigurðsson með Jóni Sigurðssyni, stjórnarformanni Fjármálaeftirlitsins. Rannsóknarnefnd Alþingis hefur ekki undir höndum frekari upplýsingar um fundinn.
Afstaða forsætisráðherra til bréfs sem FSA hafði sent Landsbanka Íslands 15. ágúst 2008
Hinn 16. ágúst 2008 barst Geir H. Haarde í hendur afrit af bréfi FSA, dags. 15. ágúst 2008, til Landsbankans. Í skýrslu Geirs fyrir rannsóknarnefnd Alþingis sagði hann m.a.: "[...] þá kemur bréfið frá FSA til Landsbankans, dagsett 15. ágúst, hryllilegt bréf. Það berst til mín þarna um helgina með þeim hætti að formaður bankastjórnar Seðlabankans hringir í mig, ég var þá staddur í ráðherrabústaðnum á Þingvöllum, þetta er laugardagsmorgunn, og það endar með því að ég læt sækja bréfið og það er komið með það austur. Hann segir: "Við erum búin að setja hérna í gang vinnu strax til að svara allri vitleysunni í þessu bréfi um það sem snýr að íslenskum efnahagsmálum, því að bréfið er fullt af rangfærslum [...]." Geir sagði einnig: "[...] það sem er náttúrulega þó aðalatriðið í bréfinu var ekki þetta heldur það að breska fjármálaeftirlitið er búið að komast að þeirri niðurstöðu að bankinn sé í raun og veru kominn á leiðarenda, það er ekkert hægt að lesa þetta öðruvísi, þeim eru sett þvílík skilyrði fyrir því að geta flutt yfir í dótturfélag eða yfirleitt haldið þessu áfram að það er vandséð hvernig þeir geta uppfyllt þetta. Þetta er náttúrulega eitt af því sem maður er búinn að vera að tala um við þá allt árið á öllum þessum fundum: "Reynið að koma þessu yfir í dótturfélag, reynið að vera ekki svona "agressívir" með að fá inn innstæður", en það er ekkert á það hlustað og maður veltir því fyrir sér, af hverju var ekkert á það hlustað: Jú, það er vegna þess að það er verið að nota þessa peninga hér innanlands, eins og þetta sé bankaútibúið að Laugavegi 77, og það er ekkert verið að lána þetta kannski í neitt sérstaklega góð útlán, það er ekki hægt að kalla þetta inn og nota þetta til þess að standa skil á þessum hlutum. Þetta var náttúrulega mjög alvarlegt en ég hérna hef talað við bankastjórann þarna skömmu eftir að þetta bréf kom, Halldór, og hann sem sagt sagði mér frá því að bankinn væri að bregðast við þessu mjög hart, þeir mundu að senda út menn, eins fljótt og þeir gætu og þeir tækju þetta allt saman mjög alvarlega og teldu sig hafa góða möguleika í að ná einhverju samkomulagi við FSA um að gera þetta, þannig var nú alltaf talað að þetta væri einhver misskilningur á ferðinni og þeir mundu strauja þetta, finna út úr því." Nánar er fjallað um þetta í kafla 18.0.
26. fundur samráðshóps stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað 20. ágúst 2008
Samráðshópur stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað fundaði 20. ágúst 2008. Undir dagskrárliðnum "Erindisrekstur FSA og málefniTryggingarsjóðsins" í drögum að fundargerð hópsins kemur fram að Jónas Fr. Jónsson hafi gert grein fyrir fundi sínum og Jóns Sigurðssonar með stjórnendum FSA í London 18. sama mánaðar.Viðmælendur þeirra hafi sagst telja mikla hættu á áhlaupi á innlán hjá Landsbankanum. Þeir hafi einnig nefnt að Landsbankinn hafi ekki verið samvinnuþýður og m.a. staðið í auglýsingaherferð þegar FSA hafi lagt að bankanum að draga úr sókn sinni. FSA haldi fast við álit sitt að aðgerðir þeirra standist Evrópurétt. Haft er eftir Jónasi að jákvæðu punktarnir séu þeir að FSA segist skilja sjónarmið Fjármálaeftirlitsins um að Landsbankasamstæðan verði ekki veikari eftir yfirfærslu innlána frá útibúi í dótturfélag. Forstjórar Landsbankans hafi fundað með fulltrúum FSA 19. ágúst. Skilaboðin séu skýr. Krafist sé færslu innlána yfir í Heritable Bank en slíkur flutningur sé ýmsum erfiðleikum háður.Að mörgu þurfi að hyggja í samningum og yfirfærslu eigna samhliða yfirfærslu skulda. Framundan sé að Landsbankinn stilli upp dæmi um yfirfærslu eigna og greini hvar þolmörk bankans séu. FSA hafi spurt um lögfræðiálit á ákvæðum í lánasamningum en mismunandi ákvæði séu í lánasamningum bankans sem geti valdið því að lánin rakni upp eða lánskjörin breytist.Tæknilega sé hægt að hugsa sér að Heritable Bank kaupi Landsbankann. Fram kemur að Baldur Guðlaugsson hafi spurt hvort það sé ekki rétt munað að Landsbankinn hafi áður verið búinn að lýsa yfir samþykki við yfirfærslu innlána. Því næst er haft eftir Jónasi Fr. Jónssyni að yfirfærsla slíkra fjármuna sé ekki einföld og tímarammi skipti miklu en kröfur FSA hafi farið stigmagnandi. Nú sé gerð krafa til þess að Landsbankinn samþykki yfirfærslu án skilyrða. Þá segir að Baldur Guðlaugsson hafi spurt hver vandkvæðin séu hjá Landsbankanum í þessari stöðu. Jónína S. Lárusdóttir hafi svarað að óljóst sé hvernig FSA eigi eftir að meta þau útlán og aðrar eignir sem ætlunin sé að yfirfæra til Bretlands. Haft er eftir Jónasi Fr. Jónssyni að um helmingur lánabókar Landsbankans sé erlendur. Fram kemur að Ingimundur Friðriksson velti fyrir sér hvort Landsbankinn sé ekki að mikla fyrir sér vandann við mat útlána. Því næst segir að Tryggvi Pálsson hafi minnt á að auk óljóss mats á útlánum og vanda við yfirfærslu innlána sé óleystur lausafjárvandi. FSA ætlist til þess að Heritable verði með sterka lausafjárstöðu og láti ekki umfram jafnvirði 75% af eigin fé til móðurfélagsins. Á síðasta fundi hafi komið fram hjá Jónasi Fr. Jónssyni að Landsbankinn þyrfti helst að geta millifært um 3,8 milljarða breskra punda í lausafjárstýringu samstæðunnar. Í framhaldi af þessu segir að Jónas Fr. Jónsson hafi upplýst að eigið fé Heritable bankans sé innan við 300 milljónir breskra punda og ætlunin sé að hækka það en takmörk séu fyrir svigrúmi eigenda til þess. Fram kemur að Jónína S. Lárusdóttir hafi spurt hvort stjórnendur Landsbankans hafi ekki verið byrjaðir að vinna í þessum málum. Síðan segir að Jónas hafi staðfest það. Hörðu kröfurnar í síðasta bréfi FSA til Landsbankans eigi við ef yfirfærslan verði ekki samþykkt. Haft er eftir Ingimundi Friðrikssyni að augljóst sé að auglýsingar Icesave séu áreiti fyrir FSA. Síðan segir að Jónas Fr. Jónsson hafi nefnt að annar möguleiki sem hafi komið fram sé stöðvun á móttöku nýrra innlána í útibúinu. Þá hafi Ingimundur Friðriksson spurt hvort minnst hafi verið á þann möguleika sem Sir John Gieve nefndi í samtali við hann, þ.e. að Icesave yrði selt öðrum. Haft er eftir Jónasi Fr. Jónssyni að ekki hafi verið minnst á þá hugmynd á fundi Fjármálaeftirlitsins með FSA í London. Síðan segir að Jónína S. Lárusdóttir hafi upplýst að bankastjórar Landsbankans komi til fundar við viðskiptaráðherra kl. 10:30 sama dag. Fram kemur að Baldur Guðlaugsson hafi spurt um tímafrest og Jónas Fr. Jónsson svarað að FSA krefjist svara fyrir lok þessa mánaðar. Þá er haft eftir Ingimundi Friðrikssyni að bankastjórar Seðlabankans hafi verið að velta fyrir sér að skrifa bréf til bankastjóra Seðlabanka Bretlands. Fyrir liggi drög að slíku bréfi sem hugsanlega verði sent í dag eða á morgun. Síðan segir að Jónas Fr. Jónsson telji það jákvætt að senda slíkt bréf með sjónarmiðum Seðlabankans. Skýrt komi fram í öllum samskiptum að málið sé til umfjöllunar á vettvangi þríhliða samstarfsins í Bretlandi. Því næst segir að Bolli Þór Bollason hafi spurt hvort enn sé tilfinningin sú að FSA sé jákvæðast í þríeykinu en Seðlabanki Bretlands og fjármálaráðuneytið stýri ferðinni. Fram kemur að Jónas Fr. Jónsson hafi nefnt að í síðasta bréfi FSA til Landsbankans sé beint vísað til þríhliða samstarfsins.Afleiðingar Northern Rock málsins brenni á þeim öllum.Síðan segir að Bolli Þór Bollason telji ljóst að menn séu að tryggja sig. Haft er eftir Jónasi Fr. Jónssyni að FSA finnist að Landsbankinn sé að streitast á móti. Þá segir að Bolli Þór Bollason hafi sagt það sitt mat að Landsbankamenn séu ekki algjörlega að átta sig á stöðu málsins en þeir hafi verið að fara fram á yfirlýsingar frá íslenskum stjórnvöldum. Því næst er haft eftir Jónasi Fr. Jónssyni að Landsbankamenn geri sér grein fyrir stöðunni en kostir þeirra séu ekki góðir. Síðan segir að Jónína S. Lárusdóttir hafi bent á vandkvæði í samskiptum því bréf FSA vísi lítið til ramma laga og reglna, ólíkt því sem gert sé í íslenskri stjórnsýslu.Velti hún því fyrir sér hvort það sé sérstakt fyrir þetta mál. Fram kemur að Jónas telji svo ekki vera heldur hafi Bretar aðra hefð að þessu leyti. Síðan segir að Bolli Þór Bollason hafi sagt auðvelt að setja sig í spor breskra yfirvalda og hann sjái ekki að Landsbankinn sé í nokkurri stöðu til að andmæla. Haft er eftir Jónasi Fr. Jónssyni að aðgerðirnar verði samt að vera innan þolmarka fyrir Landsbankann. Því næst kemur fram að Tryggvi Pálsson hafi sagt hugsanlegt að bresk stjórnvöld séu að þrýsta á lausn þeirra mála sem snúi að breskum sparifjáreigendum af meiri krafti en ella svo að takmarkaðir möguleikar íslenskra stjórnvalda til aðstoðar séu nýttir til að leysa þeirra vanda áður en komi að öðrum. Spurningin sé um forgangsröðun íslenskra stjórnvalda vegna þess margþætta vanda sem framundan sé. Síðan segir að Bolli Þór Bollason hafi ítrekað að búið sé að hugsa þá hugsun og niðurstaðan sé að stóru bankarnir þrír verði studdir ef á þurfi að halda. Þá er haft eftir Jónasi Fr. Jónssyni að viss "draugagangur" sé varðandi innlánstryggingarnar í Hollandi. Jónína S. Lárusdóttir hafi þá sagt að bréf hafi borist frá hollenska tryggingarsjóðnum þar sem óskað sé svara við fjölmörgum spurningum. Gengið sé eins nærri því og kostur sé að spyrja beint um opinberan stuðning. Haft er eftir Tryggva Pálssyni að íslenski tryggingarsjóðurinn og stjórnvöld þurfi að senda íslensku bönkunum þau skilaboð að þeir eigi að taka við nýjum innlánum erlendis í dótturfélögum en ekki útibúum. Því næst segir að Ingimundur Friðriksson hafi spurt hvort búið sé að svara bréfi Clive Maxwell til Áslaugar Árnadóttur frá 7. ágúst 2008 og hvernig verði með fund hennar og Jónasar Þórðarsonar með breska tryggingarsjóðnum. Jónína S. Lárusdóttir hafi svarað og sagt það mál í undirbúningi. Ráðuneytið muni svara bréfinu og jafnframt sé tilbúin yfirlýsing í drögum sem varði afstöðu stjórnvalda til hugsanlegs stuðnings við tryggingarsjóðinn ef á þurfi að halda. Fram kemur að Jónína hafi sýnt fundarmönnum drögin. Síðan segir að Baldur Guðlaugsson hafi bent á að í drögunum komi fram að leysa megi lausafjárvanda á fyrri stigum með aðstoð Seðlabankans sem ríkið standi að baki. Haft er eftir Jónasi Fr. Jónssyni að boltinn sé hjá Landsbankanum en FSA hafi vonandi samstæðuna í huga. Hann hafi nefnt árið 2010 sem aðlögunartíma fyrir stórar áhættuskuldbindingar milli Heritable og móðurbankans. Fram kemur að Baldur Guðlaugsson hafi sagt að e.t.v. sé auðveldara fyrir FSA að sætta sig við aðlögunartíma ef fallist sé á meginkröfuna sem sé yfirfærsla innlána. Í drögum að fundargerð segir að Jónína hafi lagt fram skjal frá viðskiptaráðuneytinu, dags. 19. ágúst 2008, um greiðslur í tryggingarsjóðinn, til upplýsingar vegna umræðna á síðasta fundi samráðshópsins. Ef hækka eigi greiðslur í sjóðinn eða setja hærra hlutfall fyrir innlánum eftir því hversu há þau séu þurfi að breyta lögum. Loks segir að Tryggvi Pálsson hafi afhent minnisblað um stefnu stjórnvalda og viðlagaundirbúning.
Í skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis var Ingimundur Friðriksson, seðlabankastjóri, spurður hver viðbrögð samráðshópsins hefðu verið við ásökunum FSA um að Landsbankinn væri að þráast við að flytja Icesave reikningana yfir í breska lögsögu og hvort rætt hefði verið um að beita Landsbankann beinskeyttum aðgerðum til að þrýsta á um tilflutninginn. Ingimundur svaraði því til að það hefðu verið mjög tíð fundarhöld á milli Landsbankans og Fjármálaeftirlitsins í þessu skyni. Í ljósi þess að fyrir lá að bresk yfirvöld voru orðin áhyggjufull yfir Icesave innlánunum, var Ingimundur spurður hvort ekki hefði verið tilefni til þess að Seðlabankinn, sérstaklega í ljósi þess hlutverks stofnunarinnar að varðveita fjármálastöðugleika, aðhefðist eitthvað frekar heldur en að vísa málinu til Fjármálaeftirlitsins. Ingimundur svaraði því til að Seðlabankinn hefði beitt sér með þeim hætti "að styðja mjög eindregið þær hugmyndir sem voru uppi á fyrri hluta [ársins 2008] að flytja þetta í dótturfélagið í London og það var nú kannski fyrst og fremst það sem við gerðum".
Minnisblað
Viðtakandi: Samráðshópur Sendandi:Tryggvi Pálsson framkvæmdastjóri fjármálasviðs Dags: 15. ágúst 2008 Efni: Stefna stjórnvalda og viðlagaundirbúningur
Grunnforsenda er að stefna stjórnvalda sé í samræmi við yfirlýsingar ráðherra og umræður í samráðshópi, þ.e.:
1. Kerfislega mikilvægir bankar fái opinberan stuðning eða verði yfirteknir ef greiðsluhæfi þeirra brysti ella.
2. Tryggingarsjóði verði gert kleift að standa við
a. lágmarks tryggingarvernd á innstæðum,
b. vernd upp að x. m. kr. hámarki eða
c. vernd fyrir alla innstæðueigendur.
3. Greiðsluhæfi ríkissjóðs verði ekki stefnt í hættu.
Ef þetta er stefna stjórnvalda ætti í viðlagaundirbúningi að leggja raunhæft mat á hámarksþol ríkissjóðs við lausn og afleiðingar fjármálaáfalls og draga eins og kostur er úr mögulegum skuldbindingum vegna innstæðuverndar og annars opinbers stuðnings. Meðal hugmynda vegna innstæðuverndar skuldbindinga eru eftirfarandi:
1. Kaupþing, Landsbanki Íslands og Glitnir:
a. Höfuðstöðvar eins eða tveggja þessara banka verði fluttar úr landi.
b. Bankarnir selji eignir og dragi úr starfsemi til að minnka umfang sitt.
2. Tryggingarsjóður:
a. Draga úr skuldbindingum sjóðsins með því að færa innlán í útibúum íslenskra banka erlendis yfir í dótturfélög þeirra erlendis.
b. Auka eignir sjóðsins með hækkun iðgjalda eða fyrirframgreiðslum.
c. Lokið verði við allan undirbúning sjóðsins varðandi:
i. Skjóta vinnslu upplýsinga um innstæðueigendur.
ii. Skoða valkosti við útgreiðslur, þ.e.
1. í erlendum gjaldeyri vegna innlána erlendis,
2. eingöngu í íslenskum krónum eða
3. í öðrum skuldaviðurkenningum ríkissjóðs.
iii. Lántökur með/án milligöngu Seðlabankans.
iv. Útgreiðsluferli
v. Kynningarefni með auðskiljanlegum skilaboðum og orðalagi.
Fundur viðskiptaráðherra með bankastjórum Landsbankans 20. ágúst 2008
Hinn 20. ágúst 2008 fundaði Björgvin G. Sigurðsson með bankastjórum Landsbankans. Í gögnum frá viðskiptaráðuneytinu kemur fram að bankastjórarnir hafi á fundinum lýst samskiptum sínum við FSA og hafi bréf FSA frá 15. sama mánaðar verið lagt fram. Einnig kemur fram að fundurinn hafi verið haldinn að frumkvæði Landsbankans. Nánar er vikið að þessum fundi í kafla 18.0.
Bréf viðskiptaráðuneytisins til breska fjármálaráðuneytisins 20. ágúst 2008
Hinn 20. ágúst 2008 sendi Áslaug Árnadóttir, skrifstofustjóri í viðskiptaráðuneyti og formaður Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta, Clive Maxwell, starfsmanni breska fjármálaráðuneytisins, bréf varðandi tryggingarsjóðinn, sbr. sérstaka umfjöllun í kafla 17.0.
Fundur fyrirsvarsmanna Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta með fyrirsvarsmönnum breskrar systurstofnunar sjóðsins 21. ágúst 2008
Hinn 21. ágúst 2008 funduðu Áslaug Árnadóttir og Jónas Þórðarson, framkvæmdastjóri Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta, með starfsmönnum hins breska tryggingarsjóðs (FSCS).
15. fundur starfshóps Seðlabanka Íslands um viðbrögð við lausafjárvanda 22. ágúst 2008
Starfshópur Seðlabankans um viðbrögð við lausafjárvanda fundaði 22. ágúst 2008. Samkvæmt fundargerð var farið yfir vinnu sem unnin hafði verið um sumarið varðandi Svörtu bókina (viðbúnaðarhandbókina). Síðan segir að fram hafi komið að töluvert hefði verið um spurningar um innlánstryggingar frá stjórnvöldum í Bretlandi og Hollandi.Verið sé að undirbúa yfirfærslu innlána útibúa í dótturfélög. Því næst segir að farið hafi verið yfir minnisblað um þau verkefni sem lokið hafi verið við og verkefni sem unnið sé að. Fram kemur að Sigríður Logadóttir hafi upplýst að hún sé í nefnd lögfræðinga sem vinni fyrir samráðshópinn undir forystu fjármálaráðuneytisins og verið sé að skoða mögulegar lagabreytingar. Fram kemur að Sigríður hafi lagt áherslu á að hópar sem vinni á milli stjórnvalda að viðbúnaðarmálum verði að vera samræmdari.
Fjármálaráðherra og starfsmenn Seðlabanka Íslands funda með fulltrúa Bayerische Landesbank 28. ágúst 2008
Hinn 28. ágúst 2008 funduðu Árni M. Mathiesen, Sturla Pálsson, framkvæmdastjóri alþjóða- og markaðssviðs Seðlabankans, og Jón Þ. Sigurgeirsson, sérfræðingur á skrifstofu bankastjórnar Seðlabankans, með Rudolf Hanisch, starfsmanni Bayerische Landesbank, um stöðu efnahagsmála og lánamöguleika. Rannsóknarnefnd Alþingis hefur ekki undir höndum frekari upplýsingar um fundinn. Nánar er fjallað um þetta efni í kafla 4.0.
19.3.12 September 2008
Fundur íslenskra ráðamanna með fjármálaráðherra Bretlands í London 2. september 2008
Í skýrslu Sverris Hauks Gunnlaugssonar, sendiherra Íslands í London, fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom fram að Jón Þór Sturluson, aðstoðarmaður viðskiptaráðherra, hefði hringt í Sverri 22. eða 23. ágúst og spurt hann hvort hann gæti komið á fundi Björgvins G. Sigurðssonar, viðskiptaráðherra, og Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands, í vikunni þar á eftir. Hægt hefði verið að koma á fundi 2. september 2008 og hefði fundurinn verið haldinn kl. 10:00 þann dag. Með viðskiptaráðherra hefðu mætt Jónína S. Lárusdóttir, ráðuneytisstjóri, Jón Þór Sturluson, Áslaug Árnadóttir, formaður stjórnar tryggingarsjóðsins og skrifstofustjóri í viðskiptaráðuneyti, Jón Sigurðsson, stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins, Baldur Guðlaugsson, ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins, og loks Sverrir sjálfur. Jón Sigurðsson hafði, samkvæmt samkomulagi þeirra stjórnvalda sem komu að málinu, forgöngu um að taka saman svonefnda talpunkta fyrir fundinn um það efni sem komið yrði á framfæri af hálfu íslensku fulltrúanna. Sverrir Haukur lýsti því við skýrslutöku að Björgvin hefði hafið mál sitt á því að kynna hópinn frá Íslandi og síðan veitt Jóni Sigurðssyni orðið. Hefði Jón farið yfir öll samskipti stjórnvalda við breska fjármálaeftirlitið, FSA, í tilefni af flutningi Icesave reikninga Landsbankans úr útibúi yfir í dótturfélag. Fundurinn hefði í raun nánast verið tvítal milli Jóns Sigurðssonar og Alistair Darling. Sá síðarnefndi hefði ekki talað eins mikið og Jón en ljóst hefði verið af orðum hans að hann var vel inni í stöðu málsins um Icesave reikningana. Nánar er vikið að þessum fundi í kafla 18.0.
Í skýrslu Björgvins G. Sigurðssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom fram að ljóst hefði verið að Darling þekkti málið vel. Þá sagði Björgvin: "[...] maður fann það að þeim var kappsmál að bankinn færi með þetta inn í dótturfélag, inn í breskan banka, þannig að þá væri starfsemin betur tryggð, því íslenska bankakerfið væri viðkvæmara fyrir áföllum út af veikum grunni og lítilli aðstöðu okkar til að verja kerfið."Í skýrslu Jóns Þórs Sturlusonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom fram að honum hefðu þótt sérstök viðbrögð breska fjármálaráðherrans sem hefði sagt: "Skiljið þið ekki hversu alvarlegt mál þetta er?" Íslenska sendinefndin hefði einmitt gagngert verið komin til London vegna þess hversu alvarlegt málið væri.Í skýrslu Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom m.a. fram: "[...] viðskiptaráðherrann lét vel af [fundinum], ég held að ráðuneytisstjóranum í fjármálaráðuneytinu hafi nú þótt menn kannski hafa gengið fulllangt, verið full borginmannlegir í því að svona líka að telja sig geta staðið við allar skuldbindingar og það væri ekki hérna mikið til að hafa áhyggjur af."Í skýrslu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, utanríkisráðherra, fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom fram að henni hefði ekki verið kunnugt um fundinn í London fyrr en eftir á. Sagðist hún ekki minnast þess að Björgvin hefði gert sér grein fyrir að til stæði að halda fundinn.
Fundur norrænna fjármálaráðuneyta, seðlabanka og fjármálaeftirlita fer fram 3. september 2008
Hinn 3. september 2008 fór fram í Stokkhólmi fundur norrænna fjármálaráðuneyta, seðlabanka og fjármálaeftirlita. Af hálfu Íslands sóttu fundinn Baldur Guðlaugsson, Jónas Fr. Jónsson, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, og Ingimundur Friðriksson, seðlabankastjóri. Rannsóknarnefnd Alþingis hefur ekki undir höndum frekari upplýsingar um fundinn.
Fundur forsætisráðherra með bankastjórum Landsbankans 3. september 2008
Samkvæmt upplýsingum frá forsætisráðuneyti fundaði Geir H. Haarde með bankastjórum Landsbankans 3. september 2008. Rannsóknarnefnd Alþingis hefur ekki undir höndum frekari upplýsingar um fundinn.
27. fundur samráðshóps stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað 4. september 2008
Samráðshópur stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað fundaði 4. september 2008. Í drögum að fundargerð segir að Jónas Fr. Jónsson hafi lagt fram töflur frá Fjármálaeftirlitinu sem sýni samanteknar niðurstöður um tölur fyrir rekstur og efnahag fjármálafyrirtækja 30. júní 2008 og 31. desember 2007. Ljóst sé að eiginfjárhlutföll fjármálafyrirtækja fari lækkandi og vænta megi vandkvæða hjá nokkrum minni fyrirtækjum með haustinu við að halda hlutfallinu yfir 8%. Fram kemur að Bolli Þór Bollason, ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytis, hafi spurt um sameiningarviðræður en Jónas Fr. Jónsson hafi sagt að ekkert sé fast í hendi og viðræðurnar séu frekar þreifingar en alvara. Einnig er haft eftir Jónasi að betur sé hægt að meta stöðu fjármálafyrirtækja þegar Fjármálaeftirlitið hafi farið yfir allar skýrslur þeirra. Þá verði þeim sem ekki standist álagsprófin skrifað og farið fram á úrbætur. Undir dagskrárliðnum "Erindisrekstur FSA og málefni Tryggingarsjóðsins" kemur fram að Bolli Þór Bollason hafi spurt um aðgerðir bankanna. Síðan segir að Tryggvi Pálsson hafi sagt að of lítið sé að gerast og klukkan tifi. Þá hafi Jónas Fr. Jónsson sagt Kaupþing enn vera með áform um innlánasókn í útibúum erlendis og að hann ætli að funda með Hreiðari Má Sigurðssyni. Síðan segir að Baldur Guðlaugsson hafi sagt að ekki sé unnt að banna bönkunum að stofna útibú erlendis en það verði að finna leið til að gera óhagstætt fyrir þá að taka þar á móti innlánum og þar með auka skuldbindingar ríkissjóðs. Haft er eftir Jónasi Fr. Jónssyni að Kaupþing muni lenda í erfiðleikum með að fara inn í Holland með þessum hætti vegna afstöðu þarlendra yfirvalda. Síðan segir að Bolli Þór Bollason hafi sagt Landsbankann enn einblína á framhald í innlánasókn sem fjármögnun fyrir bankann. Því næst segir að Jónas Fr. Jónsson hafi staðfest það álit. Hann hafi síðan gert grein fyrir heimsókn sinni til eftirlitssviðs hollenska seðlabankans. Áhyggjuefni þeirra séu í meginatriðum eftirfarandi:
1. Efnahagshorfur á Íslandi.
2. Stærð íslensku bankanna miðað við stærð þjóðarbúsins. Þeir hefðu farið inn á aðra markaði með kappsfullum hætti.
3. Innlánstryggingakerfi EES væri klúður og ræða þurfi "top-up" samninginn við Ísland.Tryggingarsjóður Íslands væri veikur og óskiljanlegt væri hvers vegna ekki sé krafist hærra iðgjalds fyrir innlán erlendis frá.
4. Íslensku bankarnir gerðu út á hollenska kerfið og það væri ólíðandi. Seðlabankinn hefði lent í vanda með hollenskan banka fyrir um tveimur árum og ekki væri ætlunin að lenda í því aftur.
Síðan segir í drögum að fundargerð að Jónas Fr. Jónsson hafi sagst hafa farið yfir stöðu íslensku bankanna á fundinum með Hollendingunum og tekið fram að bankarnir hafi ekki brotið Evrópureglur í innlánasókn sinni.Viðmælendur hans hafi þá tekið fram að þeir telji sig ekki heldur vera að brjóta reglur með því að stöðva íslensku bankana af. Þeir álíti að ekki sé aðeins um lausafjárvanda að ræða heldur einnig mögulegan eiginfjárvanda. Það sé algengur misskilningur meðal þarlendra sparifjáreigenda að innlendi tryggingarsjóðurinn borgi fyrst út en rukki síðan heimasjóð bankans. Ef þessi misskilningur verði leiðréttur opinberlega kunni það eitt og sér að valda útstreymi innlána frá íslensku bönkunum. Hollendingar vilji ekki veita Kaupþingi heimild til innlánatöku í útibúi og ætli að stöðva Landsbankann í að auka við innlánin. Haft er eftir Bolla Þór Bollasyni að þetta sé það sama og FSA krefjist. Því næst segir að Jónas Fr. Jónsson hafi sagt að Hollendingum líði betur með starfsemi í dótturfélagi.Yfirlýsingin um opinberan stuðning við tryggingarsjóðinn sé ekki aðalatriðið.Viðmælendur hans hafi fallist á að stjórna þurfi niðurbremsuninni. Menn muni aftur ræða saman innan tveggja vikna. Fram kemur að Bolli Þór Bollason hafi spurt hvort línan sé stöðvun innlánssóknar uns unnt sé að færa innlánin yfir í dótturfélag. Segir að Jónas hafi sagt svo vera.
Síðar í drögum að fundargerð segir að Jónína S. Lárusdóttir hafi nefnt fund viðskiptaráðherra með fjármálaráðherra Bretlands. Áður hafi viðskiptaráðherra heimsótt Glitni og Landsbankann í London. Afstaða Landsbankans virðist enn byggjast á lögfræðilegri álitsgerð ensks lögfræðings sem Landsbankinn sendi til FSA undangenginn laugardag. Síðan segir að Jónína S. Lárusdóttir og Baldur Guðlaugsson telji að Landsbankamenn sem rætt hafi verið við í London átti sig ekki fyllilega á stöðunni. Fram kemur að Baldur Guðlaugsson hafi upplýst að um tvö bréf sé að ræða.Annars vegar um ákvæði í lánasamningum Landsbankans og hins vegar um óréttlæti krafna FSA. Haft er eftir Jónínu S. Lárusdóttur að óviðkunnanlegt sé að í öðru bréfi bankans komi fram að Landsbankanum sé kunnugt um stuðningsyfirlýsingu stjórnvalda um tryggingarsjóðinn.
Síðar í drögum að fundargerð segir að Jónína S. Lárusdóttir hafi sagt nánar frá fundi viðskiptaráðherra með Alistair Darling. Jón Sigurðsson hafi reifað málin mjög ítarlega. Ljóst hafi verið að Darling sé með allar upplýsingar um málið. Hann geri ráð fyrir að bresk yfirvöld muni ábyrgjast innstæður að fullu og hafi spurt hvert síðan ætti að senda reikninginn. Með öðrum orðum þá taki hann ekki mið af 35.000 punda hámarki innstæðutryggingar í Bretlandi, heldur miði við heildarupphæðina. Rætt hafi verið um tímarammann í dótturfélagsvæðingunni en ganga þurfi í málið sem allra fyrst. Þegar nefnt hafi verið að ekki megi ganga svo hart fram að áfall verði afleiðingin þá hafi Darling sagst hafa skilning á því.
Síðar í drögum að fundargerð er haft eftir Baldri Guðlaugssyni að nú sé kominn frestur fyrir Landsbankann. Fram kemur að Jónas Fr. Jónsson hafi upplýst að tvö bréf frá FSA til Landsbankans, dags. 3. september 2008, hafi verið að berast Fjármálaeftirlitinu en þar sé þrýst enn frekar á um flutning í dótturfélag. Því næst segir að Baldur hafi sagt ljóst að FSA gefi hvergi eftir. Þá hafi Jónas Fr. Jónsson nefnt að það sé helst jákvætt að FSA virðist tilbúið til að skoða tillögur vegna stöðu samstæðu bankans og ákvæða í samningum. Svigrúm sé veitt varðandi tímafresti en þeim mun meiri aðgerða krafist eftir því sem fresturinn sé lengri. Fram kemur að Jónas Fr. Jónsson hafi sagt Landsbankann vera að taka saman tillögur sínar til FSA og Fjármálaeftirlitið fylgist með því. Haft er eftir Bolla Þór Bollasyni að Landsbankinn sé enn að þráast við að skilja alvöruþunga breskra og hollenskra stjórnvalda. Síðan segir að Jónas Fr. Jónsson hafi minnt á opnanir í bréfum FSA sem reyna megi að vinna með. Haft er eftir Baldri Guðlaugssyni að tvær leiðir séu við áfangaskiptingu. Sú fyrri sé að flytja eignir í áföngum yfir í dótturfélag eftir því sem skilmálar þeirra leyfi en hin síðari sé að flytja eignirnar hratt yfir en fá aðlögun í skilmálum.
Síðar í drögum að fundargerð segir að Jónas Fr. Jónsson hafi lagt fram yfirlit Fjármálaeftirlitsins um innstæður banka og sparisjóða 30. júní 2008 og áætlaða tryggingarvernd. Í heild nemi upphæð innan tveggja milljóna króna marksins 542 milljörðum króna. Fram kemur að Jónína S. Lárusdóttir hafi óskað eftir því að Fjármálaeftirlitið tæki saman yfirlit miðað við þá lágmarkstryggingarvernd sem sjóðnum sé áskilið að veita, þ.e. 2,5 milljónir kr.
Því næst segir í drögum að fundargerð að Bolli Þór Bollason hafi sagt það athyglisvert að enn séu sparifjáreigendur að draga fé sitt út úr danska bankanum Roskilde Bank þrátt fyrir að danski seðlabankinn sé ásamt öðrum búinn að yfirtaka bankann. Einnig segir að Bolli Þór Bollason hafi stungið upp á því að Jónína og Jónas tækju saman möguleika á takmörkun innlána í útibúum íslenskra banka erlendis. Fram kemur að Baldur Guðlaugsson hafi áréttað að í lagi sé að starfrækja útibú erlendis en ekki að taka við innlánum í þeim.
Fram kemur að á síðasta fundi hafi Jónína óskað eftir athugasemdum við drög að yfirlýsingu um innstæðuvernd sem hafi verið fylgiskjal með greinargerð viðskiptaráðuneytisins, dags. 10. apríl 2008. Síðan segir að Tryggvi Pálsson hafi lagt fram tillögu að fyrirsögn og inngangsorðum yfirlýsingar með þremur valkostum. Þá hafi Jónína S. Lárusdóttir upplýst að í samningi Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta og Seðlabanka Íslands um þjónustu bankans við sjóðinn sé ákvæði um að vinna við útgreiðslur sé undanskilin. Nauðsynlegt sé að skipuleggja til hvaða úrræða megi grípa ef til slíks komi. Einnig segir að Jónína hafi boðað að lagðar verði fram tillögur til lausnar á þessum vanda.
Við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis var Baldur Guðlaugsson spurður að því hvort rætt hefði verið um þann möguleika á fundi samráðshópsins 4. september 2008 að beita bindiskyldu til þess að gera það ófýsilegt að safna innlánum í útibúum erlendis. Baldur kvaðst ekki minnast þess að það hefði borið á góma.
Grein utanríkisráðherra í Fréttablaðinu 4. september 2008
Hinn 4. september 2008 birti Fréttablaðið grein eftir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Í greininni segir m.a.: "Við stöndum frammi fyrir þríþættu verkefni. Í fyrsta lagi lausafjárvanda bankanna sem stafar einkum af skorti á lánsfé á alþjóðlegum mörkuðum." Síðar segir: "Bankarnir þurfa sjálfir að halda áfram að afla sér erlends lausafjár og losa um eignir þar sem það er hægt. Þeir þurfa að halda áfram að afla sér innlána á erlendum mörkuðum."
Vonbrigði fjármálaráðherra Bretlands vegna fundar með íslenskum stjórnvöldum 2. september 2008
Hinn 5. september 2008 hélt Sverrir Haukur Gunnlaugsson símafund með Clive Maxwell, starfsmanni breska fjármálaráðuneytisins, að frumkvæði þess síðarnefnda en aðdraganda samtalsins er nánar lýst í kafla 18.0. Í minnisblaði Sverris er m.a. haft eftir Maxwell: "The Chancellor was somewhat disappointed with the meeting [on September 2] since he felt that the Icelandic side did not appreciate the seriousness of the issue at hand." Sverrir segist hafa svarað því til að "þvert á móti tækju íslensk stjórnvöld málið mjög alvarlega enda hefði það komið skýrt fram með þeirri mætingu sem var á fundinum þ.e.a.s. auk ráðherra hefðu verið til staðar ráðuneytisstjóri viðskiptaráðuneytisins og ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins auk stjórnarformanns fjármálaeftirlitsins, sendiherra og annarra embættismanna". Síðan segir í minnisblaði Sverris: "Clive Maxwell sagði mjög nauðsynlegt að fyrir lægju skýr viðbrögð viðkomandi aðila (einkaaðilans) næsta mánudag (8.9.) um hvernig þeir hygðust halda á málum – "what are their plans?" en til stendur að halda fund um málið þá. [...] Breska fjármálaráðuneytið vonaðist til þess að íslensk stjórnvöld ynnu að því að hvetja viðkomandi aðila til að ná niðurstöðu í málinu sem fyrst." Í kjölfar fundarins sendi Sverrir tölvubréf, m.a. til Geirs H. Haarde, þar sem hann lýsti því sem gerst hefði á fundinum með Maxwell.
28. fundur samráðshóps stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað 9. september 2008
Samráðshópur stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað fundaði 9. september 2008. Í drögum að fundargerð kemur fram að Jónas Fr. Jónsson hafi dreift töflu frá Fjármálaeftirlitinu með fyllri upplýsingum um rekstur og efnahag fjármálafyrirtækja. Nokkrir sparisjóðir hafi farið undir lágmark eiginfjárhlutfalls við álagspróf hjá Fjármálaeftirlitinu. Um umræður um dagskrárliðinn "Erindisrekstur FSA og málefni Tryggingarsjóðsins" segir að Jónas hafi sagt skuldbindingar vegna innstæðna nema 543 milljörðum króna væri tryggingarfjárhæðin miðuð við 2 milljónir kr. í stað 2,5 milljóna kr. Fram kemur að Jónas hafi rætt við Sigurjón Þ. Árnason, bankastjóra Landsbankans, rétt fyrir fundinn. Landsbankinn hafi sent bréf til FSA 8. september með tillögum sínum um framkvæmd á yfirfærslu í tveimur áföngum til dótturfélags. Fjármálaeftirlitið hafi fengið afrit af bréfinu en eftir sé að fara ítarlega yfir það. Haft er eftir Baldri Guðlaugssyni að færa þurfi yfir miklar eignir til að geta haldið því "uppstreymi" fjármagns sem eftir verði. Haft er eftir Jónasi að Landsbankinn setji ýmis skilyrði fram í bréfinu. Bankastjórar Landsbankans muni funda með FSA 10. september. Fram kemur að Jónína S. Lárusdóttir hafi sagt frá símafundi Clive Maxwell, starfsmanns breska fjármálaráðuneytisins, og Sverris Hauks Gunnlaugssonar, sendiherra í London, sl. föstudag. Maxwell hafi lýst vonbrigðum með fundinn hjá breska fjármálaráðherranum því íslensk stjórnvöld hafi ekki virst taka málið nógu alvarlega og áríðandi sé að Landsbankinn setji fram raunhæfar tillögur. Kaupþingsmenn hafi komið á fund viðskiptaráðuneytisins daginn áður en tilefnið hafi verið að forstjóri sænska fjármálaeftirlitsins hafi lýst yfir áhyggjum af íslenska tryggingarsjóðnum. Haft er eftir Jónasi Fr. Jónssyni að augljóst sé að yfirvöld í Evrópu ræði saman um þessi mál. Síðan segir að Bolli Þór Bollason hafi spurt hvernig menn meti stöðuna ef Landsbankinn nái að leysa sín mál gagnvart FSA. Jónas hafi sagt það langstærsta höfuðverkinn og spurning sé hvort lánardrottnar Landsbankans geri kröfur vegna fyrirhugaðrar yfirfærslu. Fram kemur að Ingimundur Friðriksson hafi sagt að FSA hafi ekki minnst á Kaupþing til þessa. Þá segir að Jónas Fr. Jónsson telji það byggjast á stöðu Kaupthing Singer & Friedlander sem dótturfélags. Því næst segir að Ingimundur hafi bætt því við að það sem snúi að Kaupþingi sé í Hollandi, Svíþjóð og Noregi.
Síðar í drögum að fundargerð segir að Jónína S. Lárusdóttir hafi spurt hvort málefni tryggingarsjóða hafi verið rædd á nýlegum fundi norrænna fjármálaeftirlita. Haft er eftir Jónasi Fr. Jónssyni að það hafi ekki verið neitt sérstakt. Síðan segir að Tryggvi Pálsson velti fyrir sér hver staðan yrði ef bresk stjórnvöld myndu greiða út að fullu innstæður í útibúum íslenskra banka og gera endurkröfu á ríkissjóð, sbr. yfirlýsingu breska fjármálaráðherrans á fundi með viðskiptaráðherra nýlega. Ef erlendu innstæðurnar yrðu þannig varðar að fullu gæti það sett íslensk stjórnvöld í erfiðari stöðu gagnvart innlendum innstæðueigendum. Síðan segir að Jónína S. Lárusdóttir hafi spurt hvað Landsbankinn sé með af innstæðum í Hollandi. Jónas Fr. Jónsson hafi svarað að upphæðin nálgist 1,6 milljarða evra. Fram kemur að Ingimundur Friðriksson hafi spurt hvort búið sé að fastsetja fund Fjármálaeftirlitsins og hollenska seðlabankans. Jónas Fr. Jónsson hafi sagt svo ekki vera en hann hafi lagt til að hist verði að nýju eftir hálfan mánuð. Síðan segir að Ingimundur Friðriksson hafi sagt vísbendingar frá fundum seðlabankastjóra í Basel sýna að "óvinsamlegheit" hollenska seðlabankastjórans hafi ekki minnkað. Loks er haft eftir Jónasi Fr. Jónssyni að litið sé á fjármálakerfið á Íslandi sem veikan kanarífugl í námunni.
Fundur bankaráðs Seðlabanka Íslands 11. september 2008
Bankaráð Seðlabankans fundaði 11. september 2008. Í fundargerð kemur fram að Ragnar Arnalds hafi spurt um ábyrgð íslenskra stjórnvalda á innstæðum erlendis. Davíð Oddsson hafi sagt að ábyrgðin sé talin mismunandi eftir því hvort um sé að ræða dótturfélag eða útibú. Dótturfélag sé hluti af viðkomandi kerfi, en varðandi innstæður í útibúum sé gert ráð fyrir því að íslenski sjóðurinn komi til varnar ásamt því sem kallað sé "top-up". Landsbanki Íslands hafi orðið fyrir "semi run" í vor, en þá hafi 900 milljónir punda runnið út. Landsbankinn hafi staðið þetta af sér, en ekki hafi miklu mátt muna. Landsbankinn hafi verið að auka hlut bundinna innlána t.d. 1-3-6 og 12 mánuði, en þau nemi nú um helmingi innstæðna í Bretlandi. Af tæplega 5 milljörðum punda séu 2,8 milljarðar óbundin innlán. Landsbankinn sé með þetta í útibúi í London. Í fundargerðinni segir einnig: "Davíð Oddsson sagði að fjármálayfirvöld í Evrópu beittu valdi sínu af mikilli hörku.Til dæmis hafi hollensk yfirvöld stöðvað Icesave Landsbanka Íslands og Kaupþing EDGE og norsk yfirvöld hefðu hafnað ósk Kaupþings um stærri hlut í Storebrand án nokkurra skýringa."
Fundur forsætisráðherra með formanni bankastjórnar Seðlabanka Íslands 11. september 2008
Geir H. Haarde fundaði með Davíð Oddssyni 11. september 2008. Forsætisráðuneytið hefur lýst því að umræðuefni fundarins hafi verið staða á fjármálamörkuðum. Rannsóknarnefnd Alþingis hefur ekki undir höndum frekari upplýsingar um fundinn.
Minnisblað efnahagsráðgjafa forsætisráðherra 14. september 2008
Rannsóknarnefnd Alþingis hefur undir höndum minnisblað Tryggva Þórs Herbertssonar til Geirs H. Haarde, dags. 14. september 2008. Minnisblaðið er nefnt "Drög að efnahagstillögum". Þar eru settar fram tillögur sem ætlað er að mæta efnahagsvanda Íslendinga. Fram kemur að aðgerðum sé skipt í þrennt, bæði varðandi tíma og tegund aðgerða. Síðan segir: "Brýnt er að til skamms tíma beinist aðgerðir að því að tryggja bönkunum lausafé, til meðallangs tíma að treysta fjármálastöðugleika í landinu og tryggja heimilum og fyrirtækjum í landinu lánsfé og til langs tíma að efla hagvöxt og grunn atvinnulífsins." Síðan eru taldar upp aðgerðir sem sagðar eru til skamms tíma:
1. Sett verði upp sérstakt tímabundið lausafjárplan þar sem fjármálastofnunum verði gefið færi á að skipta tímabundið á eignum á efnahagsreikningi sínum við hið opinbera og láta í skiptum ríkisskuldabréf sem gefin væru út í erlendri mynt sem þær síðan gætu notað í endurhverfum viðskiptum.
2. Eignir Íbúðalánasjóðs verði verðbréfaðar með það í huga að hægt verði að selja þær og/eða nýta í endurhverfum viðskiptum erlendis.
3. Áfram verði haldið að styrkja gjaldeyrisvarasjóð Seðlabanka Íslands.
4. Gerð verði úttekt á umgjörð peningamálastefnunnar og árangrinum af henni frá upptöku verðbólgumarkmiðs í mars 2001. Úttektin taki um tvo mánuði og í framhaldi af henni verði gerðar nauðsynlegar breytingar á umgjörðinni ef þurfa þyki.
5. Stuðlað verði að hagræðingu í fjármálakerfinu.
Síðan eru taldar upp aðgerðir sem sagðar eru til meðallangs tíma:
6. Sjóðstreymi orkuvera Landsvirkjunar verði verðbréfað og það selt á alþjóðlegum markaði.Andvirðið verði annars vegar notað til að greiða skuldir Landsvirkjunar og hins vegar til að styrkja enn frekar gjaldeyrisvarasjóð Seðlabanka Íslands.
7. Íbúðalánasjóði verði breytt í heildsölubanka í þeim tilgangi að virkja betur miðlanaferli peningastefnunnar og tengja betur saman hagsveifluna og magn útlána til fasteignakaupa. Samið verði um félagsleg úrræði beint við hefðbundnar lánastofnanir.
8. Ráðist verði í breytingar á fjármálastefnu hins opinbera til að veita peningamálastefnunni betri stuðning en nú er.
Loks eru taldar upp aðgerðir sem sagðar eru til lengri tíma:
9. Gerð verði á næstu tveimur mánuðum orkunýtingarstefna fyrir Ísland sem miði að því að kortleggja hvernig nýta megi sem best orkuauðlindir Íslands, með (hógvær) náttúruverndarsjónarmið að leiðarljósi.
10. Gerð verði áætlun til næstu tveggja ára um hvernig bjóða megi fjárfestum aðgang að orku og í tengslum við það verði sett fram víðtæk virkjanaáætlun.
11. Leitað verði erlendra fjárfesta í sem flestum geirum atvinnulífsins til að tryggja undirstöður þess sem best.
12. Leitast verði við að fjárfesta sem mest í innviðum samfélagsins, s.s. upplýsingaflutningi við umheiminn og samgöngum innanlands. Þetta verði gert í samstarfi við einkaaðila.
13. Gerð verði úttekt á því hvernig auka megi hagkvæmni þeirrar umgjarðar sem hið opinbera býr atvinnulífinu. Úttektin verði gerð í samráði við aðila vinnumarkaðarins og taki hún ekki lengri tíma en þrjá mánuði. Í framhaldi af því verði ráðist í nauðsynlegar breytingar.
14. Hugað verði að einkavæðingu stofnana eða hluta þeirra.
15. Fjármálaeftirliti verði skipt upp í tvennt.Annars vegar verði um að ræða sjálfstæða stofnun sem sjái um neytendavernd og hins vegar stofnun sem hafi eftirlit með öðrum þáttum fjármálakerfisins og heyri hún beint undir Seðlabanka Íslands.
Lehman Brothers í Bandaríkjunum sækir um greiðslustöðvun 15. september 2008
Hinn 15. september 2008 sótti bandaríski fjárfestingarbankinn Lehman Brothers um greiðslustöðvun.
Tölvubréf Tryggva Pálssonar til bankastjórnar Seðlabanka Íslands 15. september 2008
Kl. 12:58 15. september 2008 sendi Tryggvi Pálsson bankastjórn Seðlabankans tölvubréf. Í því er rætt um hvenær hægt sé að funda næst með bankastjórum íslensku viðskiptabankanna. Í bréfinu segir m.a.: "Lárus [Welding] hringdi til mín og sagði ástandið aldrei hafa verið jafn alvarlegt áður. Bein áhætta Glitnis vegna skiptasamninga við Lehman og skuldabréfa er takmörkuð. Ég spurði hvort þeir gætu ráðið við gjalddagana í október. Hann sagði svo vera ef þeirra áætlanir gengju eftir. Þrengri reglur SÍ væru ekki að hjálpa þeim en Glitnir eigi hæfar eignir til endurkaupa sem mætti nýta."
Fundur bankastjórnar Seðlabanka Íslands með Kaupþingi 15. september 2008
Kl. 13:30 15. september 2008 fundaði bankastjórn Seðlabankans með Kaupþingi. Af drögum Seðlabankans að fundargerð má ráða að rætt hafi verið um fall Lehman Brothers og flutning höfuðstöðva Kaupþings frá Íslandi. Haft er eftir Hreiðari Má Sigurðssyni, forstjóra Kaupþings, að bankinn hafi aflað sér lögfræðiálits varðandi flutning höfuðstöðva. Slíkt muni líklega einfalda flutninginn.
Fundur bankastjórnar Seðlabanka Íslands með Landsbankanum 15. september 2008
Kl. 17:30 15. september 2008 fundaði bankastjórn Seðlabankans með Landsbankanum. Af drögum Seðlabankans að fundargerð má ráða að rætt hafi verið um málefni XL Leisure, Eimskip og áhrif af falli Lehman Brothers. Einnig kemur fram að rætt hafi verið um afstöðu breskra og hollenskra yfirvalda gagnvart Icesave innlánsreikningum Landsbankans.
Fundur ráðuneytisstjóra forsætisráðuneytis með forsætisráðherra og utanríkisráðherra um miðjan september 2008
Um miðjan september 2008 fundaði Bolli Þór Bollason, ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytis, með Geir H. Haarde og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, utanríkisráðherra. Bolli Þór Bollason lýsti því við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis að á fundinum hefði hann farið yfir þær fjárhæðir "sem hugsanlega væru í spilinu, sem sagt eftir því hvort menn tækju þrjár, fjórar eða fimm milljónir" varðandi ábyrgð á innstæðum. Um fundinn er einnig rætt í drögum samráðshóps stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað að fundargerð frá 16. september 2008.
Við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis lýsti Geir H. Haarde fundinum með eftirfarandi orðum: "Þá erum við að ræða bara sem sagt svona einhverjar "akút" sviðsmyndir, ef að hlutirnir fara á versta veg. Ég man nú ekki til þess að það hafi verið lögð fram einhver skjöl þá um þetta. Og eins og gjarnan þá er þetta ekki rætt eins og eitthvað sem sé yfirvofandi, þetta er rætt meira sem svona fjarlægur möguleiki."Við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis lýsti Ingibjörg Sólrún Gísladóttir því að hún minntist ekki framangreinds fundar og að hún hefði örugglega skráð slíkan fund hjá sér ef um hann hefði verið að ræða. Hún hefði fundað með forsætisráðherra 14. september 2008 en þar hefði ekki verið rætt um viðbragðsáætlanir. Hins vegar hafi þar verið rætt um "efnahagsmál,gengismál og vinnumarkaðsmál út frá minnisblaði frá Tryggva Þór [Herbertssyni], dagsettu 14.september.
29. fundur samráðshóps stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað 16. september 2008
Samráðshópur stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað fundaði 16. september 2008. Samkvæmt drögum að fundargerð fór Jónas Fr. Jónsson yfir áhættu íslenskra banka vegna gjaldþrots Lehman Brothers. Áætlað endurheimtuhlutfall sé 50–60% af því sem sé í hættu. Áhættan virðist vera 0,5–1,3% af eiginfjárgrunni stóru viðskiptabankanna en meiri hjá Straumi og Icebank. Því næst segir í fundargerð að Bolli Þór Bollason hafi vikið umræðum að málefnum tryggingarsjóðsins og spurt hvernig staðan sé varðandi samskipti Landsbankans og breska fjármálaeftirlitsins, FSA. Fram kemur að Jónas Fr. Jónsson hafi upplýst að stjórnendur FSA fundi samdægurs um málið. Síðan segir að Bolli Þór Bollason hafi spurt um stöðuna varðandi hollenska seðlabankann. Haft er eftir Jónasi Fr. Jónssyni að Kaupþing ætli ekki í átök við bankann en ætli þó að reyna að sækja um leyfi fyrir útibú frá dótturfélagi sínu í Lúxemborg. Síðan segir að Bolli Þór Bollason hafi spurt um önnur lönd, á borð við Austurríki. Fram kemur að Ingimundur Friðriksson hafi nefnt að yfirvöld allra þessara landa ræði saman. Síðan segir að Baldur Guðlaugsson hafi sagt að ef hollensk stjórnvöld geti samþykkt útibú frá dótturfélagi í Lúxemborg geti falist í því afstaða til mismunandi innlánstrygginga í Lúxemborg og á Íslandi og þá vantraust á "okkar kerfi". Í umræðum undir dagskrárliðnum "Ólystugi matseðillinn" var greint frá því að Bolli Þór Bollason hefði farið að beiðni forsætisráðherra yfir stöðuna með honum og utanríkisráðherra. Rætt hefði verið m.a. um viðbragðsáætlanir. Fyrsta spurningin sé um hugsanlegar yfirlýsingar um vernd innstæðueigenda. Þrjár útgáfur liggi fyrir sem gangi mislangt. Reynt sé að átta sig á stærðargráðum. Ef miðað sé við vernd innstæðna allt að 5 milljónum kr. þá sé verið að tryggja um 90% innstæðna. Ráðherrarnir séu helst að horfa á síðari kostina tvo, þ.e. meira en lágmarksvernd. Farið hafi verið yfir hverjar séu viðbragðsáætlanir ef stór banki fari í greiðsluþrot. Ráðherrarnir hafi báðir verið á þeirri skoðun að stjórnvöld myndu helst koma að stuðningi við stærstu bankana þrjá. Líklegt sé að þeir komist allir í vanda ef það hendi einn þeirra. Draga þurfi upp útfærslur sem svör við "Ólystuga matseðlinum". Þetta þurfi að vinna hratt því hættan hafi aukist í kjölfar atburða síðustu helgar.
Síðar í drögum að fundargerð segir að Bolli Þór Bollason hafi spurt Baldur Guðlaugsson hversu langt "lögfræðingahópurinn" sé kominn. Haft er eftir Baldri Guðlaugssyni að hann ætli að fara að fylgjast betur með hópnum. Flækjurnar séu fjölmargar og óljóst með áhrif atburða á valkosti stjórnvalda. Fá þurfi meiri upplýsingar um starfsemi bankanna. Spurning sé hvort gera þurfi mun á innlendum og erlendum skuldbindingum. Síðan er haft eftir Baldri: "Getur það verið að ríkið standi nú lítið betur en bankarnir á erlendum lánamörkuðum? Getum við staðið við þessar skuldbindingar þótt við vildum það?" Þá hafi Jónas Fr. Jónsson sagt það mikilvæga forsendu að fá ákvörðun um hvaða mörk eigi að miða við í innstæðuvernd, þ.e. 5 milljónir króna frekar en allt. Því næst er haft eftir Baldri Guðlaugssyni að nauðsynlegt sé að fara í gegnum þessi flækjustig. Fram kemur að Jónas Fr. Jónsson hafi sagt að ekki sé annars úrkosti en að bjarga stóru bönkunum þremur. Ef ríkið þurfi að yfirtaka banka geti þurft að taka þá afstöðu að takmarka og fresta greiðslum. Haft er eftir Ingimundi Friðrikssyni að setja þurfi lagalega þáttinn á blað. Því næst segir að Baldur Guðlaugsson hafi sagt sjálfan textann vera aukaatriði en ná þurfi utan um málið með því að teikna upp valkostina. Síðan segir að Jónas hafi lagt áherslu á mikilvægi góðs undirbúnings. Haft er eftir Baldri Guðlaugssyni að ekki verði tekin ákvörðun nú um fjárhæð aðstoðar. Því næst segir að Bolli Þór Bollason hafi sagt að ráðherrarnir hafi einnig rætt um hverjum eigi að bjarga. Ekki sé ætlunin að bjarga hluthöfum og ekki sé sjálfgefið að taka eigi tillit til allra skuldbindinga.Tímaröðin sé eftirfarandi: Fyrst verði að liggja fyrir drög að yfirlýsingum um innstæðuvernd og fleira. Þess megi vænta að sama sólarhring geti þurft drög að lagafrumvörpum um m.a. yfirtöku og aðkomu nýrra fjárfesta. Ef til vill gefist lengri tími fyrir önnur atriði. Haft er eftir Baldri Guðlaugssyni að ef eignir og skuldir verði færðar yfir á annan lögaðila sé auðveldara að skilja eftir ákveðnar skuldbindingar. Fram kemur að Jónas Fr. Jónsson hafi bætt því við að væntanlega þurfi að færa niður kröfur og búast megi við að hagsmunaaðilar höfði dómsmál.Taka þurfi tillit til margra ákvæða svo sem "change of control" ákvæða. Síðan segir að Bolli Þór Bollason hafi nefnt að eins og staðan sé nú finnist væntanlega ekki margir viljugir kaupendur. Því næst segir að Tryggvi Pálsson hafi spurt hvort "lögfræðingahópurinn" geti útfært hvernig færa megi eignir og skuldir yfir til nýs lögaðila og hvort ekki sé nauðsynlegt að fá ráðgjöf endurskoðenda. Einnig þurfi að setja hópnum tímafrest. Fram kemur að Baldur Guðlaugsson hafi sagst setja hópnum tímamörk. Hann hafi látið fulltrúa ráðuneytisins fá skjalið um sviðsmynd fjármálaáfalls. Haft er eftir Jónínu S. Lárusdóttur að hún hafi afhent fulltrúa viðskiptaráðuneytisins sama gagn. Síðan segir að Jónas Fr. Jónsson velti því fyrir sér hvort Lárus Finnbogason, fyrrverandi stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins, geti sem endurskoðandi verið hópnum til aðstoðar. Því næst segir að Jónas hafi farið yfir "Ólystuga matseðilinn" frá 25. apríl 2008. Liðir 5 og 6 í skjalinu séu taldir tengjast viðfangsefni "lögfræðingahópsins", þ.e. meginskilyrði fyrir eiginfjárstuðningi og texti lagafrumvarps um m.a. þynningu hluta, þvingaðan samruna og brúunarbanka. Í drögum að fundargerð segir að rætt hafi verið um eðli innstæðutryggingar, þ.e. föst mörk miðað við ákveðna tímasetningu eða ótímabundin. Reikna megi með því að hvort tveggja geti valdið viðbrögðum innstæðueigenda sem geti hugsanlega aukið skuldbindingar ríkisins. Þetta þurfi að hugsa og komast að niðurstöðu um tilhlýðilegt orðalag í drögum að yfirlýsingu um innstæðuvernd. Síðan segir að Jónas Fr. Jónsson hafi minnt á að ef Icesave innlánin verði færð yfir í dótturfélag þá verði innstæðutryggingin viðráðanlegri fyrir stjórnvöld. Fram kemur að Jónína S. Lárusdóttir hafi spurt hvort ekki sé nauðsynlegt að ráðast aftur í útreikninga á fjárhæðum innstæðutrygginga m.t.t. hugsanlegra viðbragða. Einnig segir að Jónas Fr. Jónsson hafi sagt að Fjármálaeftirlitið kanni stöðuna aftur í næsta mánuði. Loks segir að Jónína S. Lárusdóttir hafi upplýst að hafin sé að nýju vinna að auknum heimildum Fjármálaeftirlitsins en unnið hafi verið að þessu verki síðast árið 2006.
Við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis var Björgvin G. Sigurðsson spurður að því hvort honum hefði verið kunnugt um að ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytisins hefði farið yfir stöðu mála með forsætisráðherra og utanríkisráðherra, eins og lýst er í fundargerð samráðshóps stjórnvalda frá 16. september 2008. Björgvin svaraði því til að hann hefði ekki vitað um þennan fund.
Við skýrslutöku var Geir H. Haarde spurður að því hvaða skilaboð hann og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefðu sent inn á fund samráðsnefndarinnar 16. september 2008. Geir svaraði: "Þau voru ekki "konkret" að því leytinu til að það væri lagt fyrir menn eitthvert ákveðið í þessum skilningi og ég held að við höfum ekki verið að ræða þetta vegna þess að við óttuðumst að þetta myndi gerast innan 10 daga, þetta er kannski almennara en það." Í skýrslu Geirs H. Haarde kom einnig fram að honum hefði skilist að það hefði verið fremur rólegt á fundi samráðshópsins 16. september 2008. Þá hefðu legið fyrir álagspróf Fjármálaeftirlitsins sem ekki hefðu gefið tilefni til sérstakra viðbragða. Þegar hann hefði haldið til New York 20. september 2008 hefði hann verið grandalaus um það sem í vændum var.
Fundur bankastjórnar Seðlabanka Íslands með Glitni 16. september 2008
Kl. 15:30 16. september 2008 fundaði bankastjórn Seðlabankans með Glitni. Í drögum Seðlabankans að fundargerð segir að Lárus Welding, forstjóri Glitnis, hafi rætt um "dramatísk áhrif" af falli Lehman Brothers. Haft er eftir Vilhelm Má Þorsteinssyni, framkvæmdastjóra fjárstýringar Glitnis, að munnlegt samkomulag sé um að tvö lán til Glitnis sem séu á gjalddaga í mánuðinum verði framlengd.Varðandi gjalddaga á lánum bankans í október 2008 er haft eftir Vilhelm að Glitnir sé "á fullu að pakka eignum".Síðar er haft eftir Lárusi Welding að unnið sé að því að bjóða upp á innlánsreikninga í Bretlandi. Breska fjármálaeftirlitið, FSA, sætti sig ekki við að slíkt verði í útibúi. Síðan er haft eftir Davíð Oddssyni: "Áköf innlánasala mætir andstöðu og blásið á Evrópurétt ef þeim sýnist. Þeir vilja ekki láta rugga innlánasamkeppni, sbr. í Hollandi." Síðar í skjalinu segir að Ingimundur Friðriksson hafi spurt um aðkomu fjárfesta að Glitni. Því næst er haft eftir Lárusi Welding: "Með J.P. Morgan og Credit Suisse í málinu en fjárfestirinn missti kjarkinn vegna Washington Mutual o.fl. sem þeir eiga í. Búum við betri gæði eigna, bæði hér og í Noregi.Verðum við og Kaupþing að fara? Ef við fengjum heimanmund. Komið vel út úr áreiðanleikakönnunum." Síðar er haft eftir Lárusi að viðræður við Byr sparisjóð um sameiningu gætu hafist um næstu helgi. Slíkt gæti styrkt heildina. Undir lok skjalsins er síðan haft eftir Lárusi að hann muni hitta Geir H. Haarde um næstu helgi.
Fundur forsætisráðherra með bankastjórn Seðlabanka Íslands 18. september 2008
Hinn 18. september fundaði Geir H. Haarde með bankastjórn Seðlabanka Íslands. Samkvæmt upplýsingum frá forsætisráðuneyti var á fundinum rætt um stöðuna á fjármálamörkuðum.
Fundur viðskiptaráðherra með efnahagsráðgjafa forsætisráðherra 19. september 2008
Hinn 19. september 2008 funduðu Björgvin G. Sigurðsson og Jón Þór Sturluson með Tryggva Þór Herbertssyni, efnahagsráðgjafa forsætisráðherra. Samkvæmt upplýsingum frá viðskiptaráðuneyti var m.a. rætt um stöðu bankakerfisins á fundinum.
Skýrsla Seðlabanka Svíþjóðar um íslenska banka 22. september 2008
Seðlabanki Svíþjóðar vann sérstaka skýrslu um íslenska banka, "An assessment of Icelandic banks: Update September 2008", dags. 22. september 2008. Seðlabanki Íslands fékk í hendur afrit þessarar skýrslu. Á bls. 2 í skýrslunni segir: "Assuming business as usual - i.e., that loans keep being renewed, deposits are intact, and no securitization of assets - Kaupting and Landsbanki have at current about 10–12 months of positive cash flow,and Glitnir about 5 months.The deterioration in Glitnir's case since April (then 9 months'positive cash flow) is mainly due to larger redemptions now being closer in time. In October Glitnir faces debt redemptions of about EUR 900 Millions, or 25% of its funding need for 2008." Í 5. kafla um eignarhald og lánveitingar segir m.a.: "In FME's on-site inspection of the six largest financial undertakings in 2007, substantial risks were identified in four undertakings with respect to large exposures and exposures to related parties. Also, policy, credit rules, supervision and internal review were largely found unsatisfactory." Því næst segir: "Given the degree of cross-ownership and related lending in the Icelandic financial sector, implementation of the Financial Conglomerates Directive (FCD) would be desirable. Iceland has adopted but not yet implemented the directive, and the FME has not yet evaluated how the assessment of banks and their owner groups would be affected."
Við skýrslutöku sagði Tryggvi Pálsson um þessa skýrslu: "Já, þeir gerðu úttekt hjá okkur, dagsetta 30. apríl og síðan september. Í september var vísað til..., við höfðum reyndar í millitíðinni verið að senda þeim ýmis gögn, uppfærðar tölur. Perla hafði haft milligöngu um það og Ragnar Hafliðason sem sendu þeim viðbótargögn. Riksbanken óskaði eftir því að fá tölur yfir, eða að fá að sjá hverjir væru stærstu skuldarar. Seinni skýrslan er 22.9. hjá þeim, "update". [...] ég [minnist] samtals við Jónas Fr. þar sem hann sagði að þeir vildu gefa Svíunum þetta ekki með nöfnum fyrirtækjanna heldur með númerum, en Svíarnir vildu fá meira. Og við vorum þá ekki með neitt ítarlegri upplýsingar en Svíarnir voru, við vorum ekki með nöfn þessara aðila. Fjármálaeftirlitið var með þessi gögn og það var af okkar hálfu, kannski ekki litið svo á að við ættum að vera að grafa ofan í sömu dæmi og eftirlitið. Þarna er svona dæmi sem við teljum að betri samvinna og betri upplýsingaskipti milli Seðlabanka og Fjármálaeftirlits hefðu verið mjög til bóta.Við skýrslutöku lýsti Ragnar Hafliðason, aðstoðarforstjóri Fjármálaeftirlitsins, ástæðu þess að upplýsingar til Seðlabanka Svíþjóðar voru takmarkaðar: "Það voru bara alls konar upplýsingar um stóra lánþega og við bara reyndum að svara þeim eftir bestu getu.Við töldum okkur reyndar ekki stætt á að gefa þeim upp alveg nafnalista á þessum stærstu skuldurum, bara út af bankaleynd [...]."
19.4 Nánar um samráðshóp stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað
19.4.1 Hlutverk samráðshópsins að mati þeirra sem skýrslur gáfu fyrir rannsóknarnefnd Alþingis
Eins og fram kemur í þeim samningi um samráðshóp stjórnvalda frá 21. febrúar 2006 sem lýst er í kafla 19.2 átti samráðshópurinn að vera vettvangur upplýsinga- og skoðanaskipta. Tekið var fram að hann væri ráðgefandi en tæki ekki ákvarðanir um aðgerðir. Það er fróðlegt að velta fyrir sér skoðunum þeirra sem sæti áttu í samráðshópnum um það hvert hlutverk hans var. Í skýrslu Bolla Þórs Bollasonar, ráðuneytisstjóra forsætisráðuneytisins, fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom fram að tildrög þess að samráðshópurinn var settur á fót hefðu verið að þörf var á því að "fara að vinna að viðbragðsáætlun sem gæti þá verið til staðar og stjórnvöld væru þá tiltölulega fljót að grípa til aðgerða til þess að bregðast við yfirvofandi fjármálaáfalli".
Áslaug Árnadóttir, skrifstofustjóri viðskiptaráðuneytis, gegndi stöðu setts ráðuneytisstjóra frá því um miðjan desember 2007 fram til 1. ágúst 2008 og sat á því tímabili í samráðshópnum. Í skýrslu Áslaugar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom fram að hópurinn hefði aðallega verið upplýsinga- og samráðsvettvangur og að hennar mati hefði "verið mjög eðlilegt að hann hefði komið með einhvers konar áætlanir, viðbragðsáætlanir". Ekki hefði hins vegar komið til þess að slíkar áætlanir væru lagðar fyrir ráðherra.
Í skýrslu Jónínu S. Lárusdóttur, ráðuneytisstjóra viðskiptaráðuneytisins, kom fram að samráðshópurinn hefði verið "vettvangur upplýsingagjafar, að skiptast á upplýsingum og ráða ráðum sínum hvað þessi mál varðar, en hann var ekki ákvörðunaraðili".
Í skýrslu Baldurs Guðlaugssonar, ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytisins, kom einnig fram að samráðshópurinn hefði "fyrst og fremst bara [verið] vettvangur þar sem að menn komu saman og miðluðu upplýsingum". Þannig hefði gagnsemin legið í því að það var reynt að draga saman upplýsingar á einn stað. Á hinn bóginn hefðu því verið takmörk sett hvaða upplýsingum mátti miðla til samráðshópsins og hefði Fjármálaeftirlitið talið sig bundið trúnaði um ýmislegt. Seðlabanki Íslands og Fjármálaeftirlitið hefðu síðan haft ákveðna sérstöðu í samráðshópnum þar sem stofnanirnar hefðu gert með sér sérstakan samstarfssamning. Aðspurður hvort það hefði ekki verið hlutverk samráðshópsins að setja fram tillögur til að leggja fyrir ráðherra til ákvörðunar, svaraði hann því til að það hefði sjálfsagt getað komið til þess, en það hefði ekki orðið nema að því leyti sem samráðshópurinn setti af stað vinnu við gerð viðbragðsáætlunar.Athygli vekur að viðhorf Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins til samráðshópsins voru nokkuð önnur en fulltrúa ráðuneytanna. Í skýrslu Davíðs Oddssonar kom fram að samráðshópurinn hefði átt "að vera með puttann á púlsinum". Þannig hefði samráðshópurinn verið söfnunaraðili fyrir upplýsingar og með honum ætti að vera tryggt að ekki yrði misskilningur um verkaskiptingu þannig að verkefni féllu niður á milli stofnana. Hefði Seðlabankinn talið samráðshópinn afar mikilvægan þar sem bankastjórnin teldi að sjónarmið Seðlabankans, sem sett voru fram við ráðherra, hefðu oft mátt sín lítils gegn sjónarmiðum fjármálastofnana á þessum tíma. Þess vegna hefði skipt miklu máli að ráðuneytisstjórar fengju aðgang að upplýsingum og væru upplýstir um stöðu og gang mála þannig að þeir gætu miðlað réttum upplýsingum til ráðherra sinna. Þegar á liði tortryggðu pólitískir ráðherrar flesta ef ekki alla nema helst ef þeir treysta ráðuneytisstjóranum og "sínum mönnum" og því væri þýðingarmikið að þeir uppgötvuðu sjálfir stöðu mála frá þeim.
Í skýrslu Jónasar Fr. Jónssonar, forstjóra Fjármálaeftirlitsins, kom fram að samráðshópurinn hefði verið upplýsinga- og samráðsvettvangur stjórnvalda. Þar hefði verið metið hvert kerfið væri að þróast og hvaða breytinga á reglum og starfsháttum þyrfti að grípa til. Mikilvægt hlutverk hópsins hefði falist í því að skilgreina þær ákvarðanir sem þyrfti að taka þótt það heyrði síðan undir hverja valdbæra stofnun að taka ákvarðanirnar sem undir hana heyrðu. Hefði þetta ekki síst átt við um þær ákvarðanir sem væru pólitískar og ráðherrar þyrftu að taka.
Í skýrslu Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, kom fram að hann hefði litið svo á að ef samráðshópurinn teldi það nauðsynlegt við einhverjar aðstæður að koma með beinar tillögur þá ætti hann að gera það annaðhvort sem hópur eða þá einhverjir úr honum sem bæru fram tillögur við hlutaðeigandi ráðherra. Það hefði verið hlutverk samráðshópsins að gera tillögu um stefnu varðandi aðgerðaáætlun.Í skýrslu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, utanríkisráðherra, kom fram að hún hefði ekkert heyrt frá samráðshópnum, enda hefði ekkert borist inn á ríkisstjórnarfund frá honum, hvorki minnisblað, tillögur eða greining.
Í skýrslu Össurar Skarphéðinssonar, iðnaðarráðherra, kom fram að hann hefði heyrt um samráðshópinn á ríkisstjórnarfundi frá forsætisráðherra fyrir páskana 2008 og honum hefði skilist að hlutverk hans væri að semja viðbragðsáætlun.
Í skýrslu Árna M. Mathiesen, fjármálaráðherra, kom fram að samráðshópurinn hefði haft fullt umboð til þess að vinna þá viðlagavinnu sem hann teldi nauðsynlega. Ef það þurfti atbeina ríkisstjórnarinnar til hefði hlutaðeigandi stofnun borið að bera málið upp við fagráðherra sinn. Hann kannaðist ekki við að samráðshópurinn hefði sent ráðherrum skriflegar tillögur til afgreiðslu. Árni var einnig spurður hvort það væri rétt skilið að þeir ráðherrar, sem áttu fulltrúa í samráðshópnum auk utanríkisráðherra, hefðu aldrei komið saman til fundar þar sem farið hefði verið yfir þau skjöl og áætlanir sem samráðshópurinn hafði útbúið og vann að. Í skýrslu sinni sagði Árni að slíkur fundur hefði ekki verið haldinn.Í skýrslu Björgvins G. Sigurðssonar, viðskiptaráðherra, fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom fram að samráðshópurinn hefði verið mikill leynihópur, sem ekki hefði mátt upplýsa að til væri og að hópurinn hefði aldrei komið með neinar skriflegar skýrslur. Aðspurður kannaðist Björgvin ekki við að ráðuneytisstjóri viðskiptaráðuneytis hefði nokkurn tímann borið undir hann tillögur af vettvangi samráðshópsins sem hann hefði þurft að taka ákvörðun um.
Í skýrslu Sigurðar Einarssonar, stjórnarformanns Kaupþings banka hf., kom fram að hann hefði ekkert heyrt um samráðshópinn á meðan hann var að störfum og ekkert vitað um viðlagaundirbúning ríkisins varðandi bankakerfið.
Í skýrslu Hreiðars Más Sigurðssonar, forstjóra Kaupþings, kom fram að hann hefði vitað um tilvist samráðshópsins en ekkert um vinnu hans.Rétt er að geta þess að hinn 4. maí 2006 svaraði forsætisráðherra fyrirspurn frá Jóhönnu Sigurðardóttur, alþingismanni, um viðbúnað við áföllum í fjármálakerfinu. Þar var starfi samráðshóps stjórnvalda lýst og jafnframt var þess getið að sú skýrsla sem lá til grundvallar því að stofnað var til starfs hópsins hefði verið birt á heimasíðu forsætisráðuneytisins.
19.4.2 Hvernig var upplýsingum miðlað af fundum samráðshópsins til viðeigandi aðila?
Í skýrslu fyrir rannsóknarnefnd Alþingis sagði Ingimundur Friðriksson, seðlabankastjóri, að hann hefði ekki gert hinum bankastjórum Seðlabanka Íslands sérstaka grein fyrir þeim upplýsingum sem fram komu í samráðshópnum þar sem þeir hefðu þekkt þessar upplýsingar og sjálfir verið að vinna með þær frá degi til dags. Þannig hefði ekki verið mikið nýtt sem þar var rætt.
Í skýrslu Davíðs Oddssonar, formanns bankastjórnar Seðlabankans, kom fram að hann hefði fengið fundarpunkta frá samráðshópnum sem þeir hefðu farið yfir og hefði honum fundist starfið ganga hægt hjá hópnum.Jónína S. Lárusdóttir, ráðuneytisstjóri viðskiptaráðuneytis, var í leyfi frá störfum frá því um miðjan desember 2007 fram til 1. ágúst 2008. Þegar hún mætti aftur til starfa tók hún jafnframt aftur sæti í samráðshópi stjórnvalda.Við skýrslutöku lýsti Jónína því að hún hefði jafnan gert viðskiptaráðherra munnlega grein fyrir því sem fram hefði farið á fundum í samráðshópnum. Í skýrslu Áslaugar Árnadóttur, skrifstofustjóra viðskiptaráðuneytis, sem var settur ráðuneytisstjóri viðskiptaráðuneytisins í fjarveru Jónínu S. Lárusdóttur, kom fram að Áslaug hefði eftir hvern fund rætt við ráðherra og eftir atvikum aðstoðarmann hans. Í skýrslu Björgvins G. Sigurðssonar, viðskiptaráðherra, kom fram að hann hefði ekki séð skjöl sem voru lögð fram á fundum samráðshópsins. Hins vegar hefði hann rætt við ráðuneytisstjóra um fundina.Í skýrslu Baldurs Guðlaugssonar, ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytisins, kom fram að hann hefði gert fjármálaráðherra grein fyrir "stærstu þáttunum" af fundum samráðshópsins. Það hefði "svona verið upp og ofan" hvort það hefði verið eitthvað "sem í rauninni kallaði á það að menn hefðu áhyggjur". Þannig hefði hann ekki sest niður með ráðherra eftir hvern fund og gert honum grein fyrir efni þeirra. Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, var spurður hvernig ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins hefði kynnt honum það sem fram kom á fundum samráðshópsins. Árni svaraði: "Það var mjög lítið." Árni og Baldur hefðu ekki sest niður eftir hvern fund samráðshópsins.Í skýrslu Bolla Þórs Bollasonar, ráðuneytisstjóra forsætisráðuneytisins, kom fram að hann hefði kynnt forsætisráðherra þau meginatriði sem voru til umfjöllunar í samráðshópnum á hverjum tíma. Í skýrslu Geirs H. Haarde kom fram að þegar Bolli hefði séð ástæðu til hefði hann gert honum grein fyrir störfum samráðshópsins. Regluleg upplýsingagjöf eftir hvern fund hefði hins vegar ekki farið fram.
19.4.3 Hvernig var starfið í samráðshópnum?
Í skýrslu Tryggva Pálssonar, framkvæmdastjóra fjármálasviðs Seðlabankans, fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom fram að samráðshópur stjórnvalda væri að breskri fyrirmynd. Aðild að breska hópnum ættu hins vegar aðeins þrjár stofnanir. Hér á landi væri þetta byggt upp með þremur ráðuneytisstjórum, forstjóra Fjármálaeftirlitsins og seðlabankastjóra. Íslenski hópurinn væri umgjörð utan um umræður. Tryggvi sagði einnig: "Það sem vantaði allan tímann voru aðgerðir, ráðherrarnir voru í allmikilli fjarlægð og maður fékk ekki almennilega skynjun fyrir því hvort þeir fengju öll gögn úr nefndinni, né heldur hvaða skoðanir ráðherrarnir hefðu." Tryggvi áréttaði að Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið hefðu verið að leggja að ráðuneytisstjórunum að grípa til vissra aðgerða.Tryggvi benti einnig á að fundargerðir samráðshópsins gæfu þá mynd af starfinu að þetta hefði verið skipulagðari vinna en hún var í raun. Fundirnir hefðu oft hafist á því hvað væri nýjast í fréttum og sú umræða hefði oft staðið lengi. Þá hefðu margir fundir verið án dagskrár. Tryggvi hefði skráð alla fundi eins og það hefði verið dagskrá en dagskráin hefði oft verið búin til eftir fundinn þannig að það væri skipulega hægt að sjá hvað rætt hefði verið á fundinum. Mikill tími hefði farið í að ræða um hvað væri að gerast hverju sinni, en stóru málin sem krefðust "viss andlegs álags og hugrekkis voru gjarnan skilin eftir fyrir það síðasta eða átti að ræða á næsta fundi".
Þannig hefði aðgerðaáætlunin, sem ítrekað var á dagskránni, ekki verið rædd fund eftir fund og síðan hefði aldrei formlega verið tekin afstaða til þeirrar tillögu sem hann hefði lagt fram 7. júlí 2008 um skipun aðgerðahóps.Í skýrslu fyrir rannsóknarnefnd Alþingis sagði Ingimundur Friðriksson, seðlabankastjóri, að fulltrúum Seðlabankans í samráðshópnum hefði fundist fulltrúar ráðuneytanna í nefndinni vera dálítið þungir í taumi. Tekið hefði óralangan tíma að koma í gang vinnu við frumvarpssmíðina sem síðar hefði orðið að neyðarlögunum í október 2008. Þá benti Ingimundur einnig á að gengið hefði verið eftir því að ríkið gerði upp við sig hvað það væri tilbúið til að leggja að mörkum til að bjarga fjármálafyrirtækjunum, en það mat hefði ekki legið fyrir. Eftir slíku mati hefði verið kallað oftar en einu sinni en engin svör borist.
Við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis sagði Jónas Fr. Jónsson, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, að sér hefði þótt að alltaf væri verið að slá málum á frest í samráðshópnum.Aðspurður hvort það hefðu verið ákveðnir einstaklingar í hópnum sem höfðu þau viðhorf svaraði hann því til að það hefði verið sérstaklega Baldur Guðlaugsson, ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytis, sem vildi bíða með flest. Viðhorf Bolla Þórs Bollasonar, ráðuneytisstjóra forsætisráðuneytisins, hefði frekar verið að það mætti ræða málin seinna. Þetta hefði leitt til þess, að sögn Jónasar, að hann hefði velt því fyrir sér hvort ráðherrarnir hefðu í raun viljað bíða með að taka ákvarðanir um hvað ríkið gæti gert.
Jónína S. Lárusdóttir, ráðuneytisstjóri viðskiptaráðuneytis, sagði í skýrslu sinni fyrir rannsóknarnefnd Alþingis að fundargerðir gæfu ekki rétta mynd af störfum samráðshópsins. Fundir hópsins hefðu verið mjög óformlegir og þeir hefðu bæði byrjað og endað í "einhverju flæði". Þörf hefði verið á að hafa formlega dagskrá fyrir fundi, skýra verkaskiptingu og ábyrgð á framkvæmd verkefna. Af hálfu starfsmanna viðskiptaráðuneytisins hefði verið beðið eftir að teknar væru einhverjar ákvarðanir og málin kæmust á rekspöl. Á fundum samráðshópsins hefðu allar hugmyndir verið stöðvaðar. Aðspurð sagðist Jónína telja að ástæðan hefði verið tregða og léleg verkstjórn.
Í skýrslu Áslaugar Árnadóttur, skrifstofustjóra í viðskiptaráðuneyti, kom fram að ákveðnir fulltrúar í nefndinni hefðu verið mjög "konservatívir" og "sögðu að það væru ekki forsendur til að gera hlutina núna, við vissum ekki hvernig þetta yrði, það væri ekkert hægt að taka neina ákvörðun og þetta á sérstaklega við um innstæðurnar". Síðan sagði Áslaug: "Það var aðallega fulltrúi fjármálaráðuneytisins og fulltrúi forsætisráðuneytisins sem "bakkaði" það mjög oft upp."
Við skýrslutöku var Baldur Guðlaugsson spurður að því hvort skort hefði á að stjórnvöld tækju ákvarðanir. Í því sambandi voru nefnd drög að fundargerð samráðshópsins frá 7. júlí 2008 þar sem fram kæmi að Tryggvi Pálsson hefði fjallað um aðkallandi ákvarðanatöku og bent á að stjórnvöld hefðu ekki gert upp við sig hversu langt þau vildu ganga. Svaraði Baldur því til að sú hefði raunin ekki verið: "Á meðan þú vissir ekki hvaða staða gæti komið upp og hvert nákvæmlega – frammi fyrir hverju menn stæðu [væri] erfitt að marka einhverja endanlega stefnu." Síðan sagði Baldur: "Það var svo bara spurningin um að það væri allt til taks og hægt að grípa til þess um leið og aðstæður, eins og ég segi, kölluðu á það. En þú gætir ekki tekið hina endanlegu ákvörðun fyrr en þú stæðir frammi fyrir því."
Í skýrslu Bolla Þórs Bollasonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom fram að skiptar skoðanir hefðu verið innan samráðshópsins. Ráðuneytisstjórar forsætisráðuneytis og fjármálaráðuneytis hefðu haft þá afstöðu eftir viðtöl við ráðherra sína "að það væri ekki hægt að vera með neinar yfirlýsingar um aðkomu ríkisins" um tryggingar á innstæðum. Það hefði verið ágreiningur í hópnum um þetta, sumir hefðu talið að stjórnvöld yrðu að gefa út slíkar yfirlýsingar. Bolli og Baldur hefðu talið "að það yrði að fara mjög varlega í allar svona yfirlýsingar". Á hinn bóginn hefði "auðvitað alveg [verið] sjálfsagt að taka og gera og undirbúa svona áætlun".
Davíð Oddsson, formaður bankastjórnar Seðlabankans, lýsti því í skýrslu sinni fyrir rannsóknarnefnd Alþingis að ekki hefðu verið teknar þær ákvarðanir í samráðshópnum sem Seðlabankinn hefði verið að kalla eftir. Davíð var þá spurður hvernig brugðist hefði verið við þessu af hálfu bankastjórnar Seðlabankans. Davíð svaraði því til að málunum hefði verið fylgt eftir í samtölum við ráðherra, sem aftur hefðu svarað því til að þeir þekktu til málanna og ljóst hefði verið að forsætisráðherra hefði vitað hvað var að gerast þar sem bersýnilegt var að Bolli Þór Bollason hefði sagt honum undan og ofan af því. Davíð var þá spurður hvort það væri rétt skilið að þegar fjármálaáfallið dundi yfir þá hefði ekki legið fyrir nein aðvörun frá þessum samráðshópi. Davíð svaraði: "Nei, nei [...] það er líka alveg hárrétt, enda sýndi sig þegar í kringum þarna mánaðamótin [september/október 2008] að þá setjum bara við niður okkar eigin hóp, Seðlabankinn. Og ég sagði ríkisstjórninni frá því á þessum fræga [ríkisstjórnar]fundi að við værum komnir með viðbótarhóp og þar vorum við búnir að kalla inn viðbótarmenn." Í kjölfarið hefðu ráðherrar farið fram á að senda jafnframt eigin fulltrúa til fundar við hóp Seðlabankans, sbr. nánari umfjöllun í kafla 20.0.
19.4.4 Ályktanir rannsóknarnefndar Alþingis
Samráðshópi stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað var komið á fót með samkomulagi þeirra aðila, sem í hann skipa, 21. febrúar 2006. Í kafla 19.2 hér að framan er samningurinn birtur í heild. Þar er hlutverk samráðshópsins tilgreint sem "vettvangur upplýsinga- og skoðanaskipta". Samráðshópurinn er sagður "ráðgefandi og tekur ekki ákvarðanir um aðgerðir". Athygli vekur að í samkomulaginu er ekki sérstaklega tekið fram að það sé hlutverk samráðshópsins að semja tillögu að sameiginlegri viðbúnaðaráætlun stjórnvalda. Eins og rakið er í kafla 19.4.1 virðist þó skilningur margra þeirra sem skýrslu gáfu fyrir rannsóknarnefnd Alþingis hafa verið sá að hlutverk samráðshópsins hafi verið, sem ráðgefandi aðila, að gera tillögu að sameiginlegri viðbúnaðaráætlun stjórnvalda, væntanlega til að tryggja tímabær, samhæfð og undirbúin viðbrögð við fjármálaáfalli og koma í veg fyrir misskilning um verkaskiptingu stjórnvalda. Afar gagnrýnisvert er að hlutverk samráðshópsins varðandi gerð tillögu um viðbúnaðaráætlun skuli ekki hafa verið skýrt og ótvírætt í fyrrnefndu samkomulagi.
Augljóst er að samráðshópinn skorti sem heild upplýsingar til þess að byggja ráðgjöf sína á þótt slíkar upplýsingar hafi, a.m.k. að einhverju marki, verið til staðar hjá einstökum stofnunum sem áttu aðild að samráðshópnum. Samráðshópnum var ekki komið á fót með lögum. Um miðlun nauðsynlegra trúnaðargagna til hans er heldur ekki mælt fyrir í lögum. Af þessum sökum hafði samráðshópurinn ekki aðgang að öllum nauðsynlegum upplýsingum sem ákvarðanir um samhæfingu og viðbrögð við fjármálaáföllum urðu óhjákvæmilega að geta byggst á. Þannig hafði samráðshópurinn ekki glögga yfirsýn yfir stórar áhættuskuldbindingar, krosseignatengsl og yfirleitt veikleika íslensks fjármálakerfis. Að mati rannsóknarnefndar Alþingis var hér um að ræða alvarlegan ágalla á starfsskilyrðum samráðshópsins sem hlaut að koma niður á gæðum vinnu hans.
Samráðshópnum var formlega komið á fót í upphafi árs 2006. Um sama leyti steðjaði mikill vandi að íslenskum fjármálafyrirtækjum en lausafjárskortur gekk þá mjög nærri þeim. Almennt hefur tímabilið gengið undir nafninu "mini-krísan". Það vekur athygli að samráðshópurinn skuli ekki hafa hafist handa strax í upphafi við að bregðast við þeim vanda sem þá var fyrir hendi og benda á leiðir til að koma í veg fyrir að slíkur vandi myndi endurtaka sig. Þess í stað fundaði hópurinn einungis tvisvar á árinu 2006, fyrst 1. júní og því næst 30. nóvember það ár.
Þegar farið er yfir skýrslur þeirra sem sæti áttu í samráðshópnum fyrir rannsóknarnefnd Alþingis ásamt drögum að fundargerðum samráðshópsins verður ekki séð að áhersla hafi verið lögð á gerð viðbúnaðaráætlunar af hálfu hópsins fyrr en á 8. fundi hans 18. mars 2008. Eftir það fór samráðshópurinn að hittast mun oftar. Dagana 18. mars til 21. apríl 2008 hélt hópurinn sjö fundi en á þeim var m.a. fjallað um gerð viðbúnaðaráætlunar. Með hliðsjón af því sem fram kemur í drögum hópsins að fundargerðum virðist sem síðan hafi dregið úr þeirri áherslu á gerð viðbúnaðaráætlunar sem ríkt hafði í vinnu hópsins frá 18. mars 2008. Á næstu fimm fundum, dagana 28. apríl til 29. maí, er ýmist lítið eða ekkert fjallað um gerð hennar.
Á fundi samráðshópsins 29. maí 2008 kom fram viðhorfsmunur á milli Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans annars vegar og ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytisins hins vegar. Þessi viðhorfsmunur átti eftir að setja mark sitt á starf hópsins. Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn kölluðu eftir því að pólitísk stefna yrði mótuð um ákveðin atriði en ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins áréttaði að ótímabært væri að taka ákvörðun um þessi atriði. Á meðan virðist dýrmætur tími hafa farið til spillis þar sem ekki var unnið skipulega og af krafti að því að skilgreina þær leiðir sem á raunhæfan hátt gat komið til álita að fara, greina kosti þeirra og galla svo og að skrá til hvaða ráðstafana þyrfti að grípa og undir hvern það heyrði, ef ákveðið yrði að velja tiltekna leið. Svo virðist sem ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytisins sem jafnframt stýrði starfi samráðshópsins hafi oftar en ekki tekið undir sjónarmið ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytisins í þessum efnum. Athygli vekur einnig að samráðshópurinn hélt engan fund í júní 2008, en fundurinn sem var fyrirhugaður 19. júní það ár féll niður, og verður ekki séð annað en að þar hafi einnig dýrmætur tími farið til spillis. Næsti fundur var ekki haldinn fyrr en 7. júlí 2008. Á þeim fundi og þeim næsta þar á eftir (þ.e. 20. og 21. fundi) kom fyrrnefndur viðhorfsmunur aftur í ljós en að þessu sinni voru það fulltrúar Seðlabankans sem kölluðu eftir pólitískri stefnumörkun.
Í skýrslu Tryggva Pálssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom fram að bæði Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið hefðu reynt að kalla eftir því að mótuð yrði stefna um ákveðin atriði. Sagði hann að minnisblaðið sem hann lagði fram 7. júlí 2008 um aðkallandi ákvarðanatöku stjórnvalda vegna hættu á fjármálaáfalli hefði t.a.m. hlotið litla umræðu.
Í skýrslu Bolla Þórs Bollasonar kom fram að hann og Baldur Guðlaugsson hefðu ekki viljað stilla ríkisstjórninni upp við vegg því þeir hefðu talið að ekki þyrfti að taka ákvarðanir fyrr en síðar.Viðhorfsmunurinn hefði falist í því hvað þyrfti að "konkretísera" þetta mikið á pappír. Hann hefði hins vegar talið að það þyrfti að vinna mun hraðar að samningu lagafrumvarps sem hægt væri að grípa til ef áföll yrðu í rekstri bankanna.Í samræmi við framangreind ummæli Bolla Þórs Bollasonar virðist aðaláhersla samráðshópsins í framhaldinu hafa verið sú að klára umrædd frumvarpsdrög en ekki verður séð að unnið hafi verið að formlegri viðlagaáætlun í samráðshópnum í þeim anda sem tillögur Seðlabanka Íslands gerðu ráð fyrir samkvæmt frumdrögum að vinnuskjali 7. júlí 2008 svo og öðrum gögnum sem lögð höfðu verið fram af hálfu Seðlabankans. Nánar er vikið að gerð fyrrnefnds frumvarps í kafla 20.3.11
Líkt og vikið er að í kafla 19.4.3 kom fram í skýrslu Tryggva Pálssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis að fyrirmyndin að samráðshópnum væri sótt til Bretlands.Að breska hópnum eiga hins vegar aðeins þrjár stofnanir aðild en að þeim íslenska fimm. Þessi munur hlaut að kalla á að verkstjórn í íslenska samráðshópnum yrði að vera öguð og skipulögð ef ná ætti viðhlítandi árangri við undirbúning formlegra og skipulegra viðbragða stjórnvalda til að forða fjármálaáfalli og takast á við greiðsluþrot bankanna ef til þess kæmi. Af skýrslu þeirra sem sæti áttu í hópnum verður ekki séð að slíku hafi verið að heilsa. Dagskrá funda lá ekki alltaf fyrir við upphaf þeirra. Fundirnir voru sagðir byrja í ákveðnu flæði og enda á sama hátt.Í þessu samhengi má minna á ummæli Tryggva Pálssonar um að stóru málin sem hefðu krafist "viss andlegs álags og hugrekkis [hefðu] gjarnan [verið] skilin eftir fyrir það síðasta eða [átt] að ræða á næsta fundi" og þannig hefði aðgerðaáætlun, sem ítrekað var á dagskrá, ekki verið rædd fund eftir fund. Skort hefði á skýra verkaskiptingu og ábyrgð á framkvæmd verkefna. Þá hefði allan tímann vantað aðgerðir en ráðherrar hefðu verið í mikilli fjarlægð. Þegar þessi ummæli eru virt er vart hægt að komast að annarri niðurstöðu en að um óvönduð vinnubrögð hafi verið að ræða í ljósi þess hversu þýðingarmikil verkefni samráðshópsins voru, enda fór það svo að þegar fjármálaáfall dundi yfir var samráðshópurinn langt frá því að ljúka fyrstu drögum að tillögu að viðbúnaðaráætlun. Það eina sem hönd er á festandi um afrakstur af starfi samráðshópsins og kom að beinum notum voru drög að 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sem síðar voru notuð við vinnslu neyðarlaganna.
Allir þeir sem sæti áttu í samráðshópnum voru störfum hlaðnir. Það var því ekki við því að búast að þeir hefðu mikinn tíma aflögu til þess að semja viðbúnaðaráætlun. Samráðshópurinn varð því að treysta á Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitið um slíka aðstoð. Til þess að inna þá vinnu af hendi töldu bæði Seðlabanki Íslands og Fjármálaeftirlitið nauðsynlegt að fá pólitíska stefnumótun um ákveðin atriði og af hálfu Seðlabankans var jafnframt lagt til að fenginn yrði einstaklingur eða einstaklingar til að stýra undirbúningi að viðbúnaðarstarfi stjórnvalda. Eins og vikið er að í kafla 19.4.2 var miðlun upplýsinga frá samráðshópnum til ráðherra ekki í föstum skorðum og hlutaðeigandi ráðherrar héldu ekki reglulega fundi til þess að fara yfir verkefni og afrakstur af vinnu samráðshópsins og sinna yfirstjórn verkefnisins að því leyti sem það heyrði undir þá, en hér var um afar mikilvægt verkefni að ræða fyrir íslensku þjóðina.Tillögur og skjöl um nauðsyn viðbúnaðar sem lögð voru fram í samráðshópnum af hálfu einstakra stofnana fengu ekki formlega afgreiðslu t.d. hjá ráðherrum sem áttu fulltrúa í hópnum.Verður því ekki annað séð en að mjög hafi skort á að vinnu samráðshópsins hafi verið stýrt á markvissan hátt bæði innan samráðshópsins og af hálfu ráðherra. Í því samhengi bendir rannsóknarnefnd Alþingis sérstaklega á að þegar á hólminn var komið og bankarnir riðuðu til falls var ekki fyrir hendi sameiginleg viðbúnaðaráætlun stjórnvalda sem sárlega þurfti þó á að halda.
19.5 Aðgerðir ráðherra og ríkisstjórnar
19.5.1 Hvað var rætt í ríkisstjórn um stöðu bankanna og lausafjárkreppuna?
Við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis var Geir H. Haarde, forsætisráðherra, spurður að því hvort hann hefði gert grein fyrir þeim upplýsingum sem hann hefði fengið á fundum með bankastjórum Seðlabanka Íslands og því sem honum barst úr samráðshópnum eða frá stjórnendum fjármálafyrirtækja á fundum ríkisstjórnar. Hann svaraði því til í skýrslu sinni fyrir rannsóknarnefnd Alþingis að hann minntist þess ekki að hafa gert það.Aðspurður sagði Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, að það hefði verið "ofboðslega fátæklegt" hvað rætt var í ríkisstjórninni um stöðu bankanna og lausafjárkreppuna. Besta dæmið væri að eftir fall krónunnar í mars 2008 og hræðslubylgjuna sem gengið hefði í gegnum samfélagið hefði ekkert verið rætt í ríkisstjórninni vikum saman. Kristján Möller, samgönguráðherra, og Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, hefðu orðið mjög óþreyjufullir út af því og spurt hvort ekki ætti að fara að ræða stöðu efnahagsmála. Það hefði hins vegar ekki verið gert fyrr en löngu síðar. Björgvin sagði einnig að hann hefði ekki fengið upplýsingar um alla þá fundi eða efni þeirra sem nú væri komið á daginn að forsætisráðherra hefði átt með formanni bankastjórnar Seðlabankans á árinu 2008.Á fundi ríkisstjórnarinnar 12. ágúst 2008 lagði Björgvin G. Sigurðsson fram minnisblað, dags. sama dag, þar sem fjallað er um fjármálastöðugleika og skipun sérstakrar nefndar. Lagði Björgvin til að skipuð yrði nefnd sem myndi skila tillögum sem ætlað væri að ná þeim markmiðum að auka stöðugleika fjármálakerfisins, draga úr líkum á því að fjármálafyrirtæki lendi í erfiðleikum og jafnframt draga úr áhrifum þess ef fjármálafyrirtæki lendi í erfiðleikum. Björgvin lagði jafnframt til að hann skipaði formann nefndarinnar en að í nefndinni ættu einnig sæti fulltrúar forsætisráðuneytis, fjármálaráðuneytis, Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands. Tillaga Björgvins fékk engar undirtektir í ríkisstjórninni. Nánar er um þessa tillögu Björgvins fjallað í kafla 19.3.11.
Í skýrslu Össurar Skarphéðinssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom fram að hann hefði haft áhyggjur af því að frá upphafi ársins 2008 og fram að páskum sama ár hefði nánast ekkert verið rætt um stöðu bankanna og lausafjárkreppu á fundum ríkisstjórnarinnar nema þegar hann og Kristján Möller hefðu tekið þau mál upp undir dagskrárliðnum "Önnur mál". Kvaðst Össur hafa haft miklar áhyggjur af því hvernig málin væru að þróast. Þá sagði hann: "Ég var þeirrar skoðunar í nægilega ríkum mæli að seðlabankastjórinn væri að grafa undan ríkisstjórninni til þess að ég tók það upp á ríkisstjórnarfundi undir "önnur mál", þ.e.a.s. að ég spurði forsætisráðherra hvort það væri nægilega gott samband á milli Seðlabankans og ríkisstjórnarinnar eða forystu ríkisstjórnarinnar. Hann varð heldur hvumpinn við og sagði að það væri alveg nægilega gott og þá spurði ég hann hvort hann talaði við aðalbankastjórann og svar hans var þannig að hann væri í góðu sambandi við bankastjórnina." Aðspurður sagði Össur að fyrir hefði legið um nokkurn tíma að bankakerfið væri of stórt. Hann sagðist sjálfur hafa verið farinn að hafa alvarlegar áhyggjur af stærðinni frá því í apríl 2008 en um þetta hefði ekkert verið rætt í ríkisstjórn. Össur taldi að verulega hefði skort á að ríkisstjórnin væri upplýst um gang mála. Þannig hefði Geir ekki miðlað þeim alvarlegu upplýsingum sem komið hafi á daginn að seðlabankastjórar veittu honum munnlega á fundum. Hann hefði ekki heldur miðlað þessum upplýsingum til Björgvins G. Sigurðssonar sem þó var ráðherra bankamála. Össur bætti síðan við: "[...] í hvaða ríki myndi það gerast að forystumaður ríkisstjórnarinnar hafi fund með seðlabankastjóra, ekki einu sinni, ekki tvisvar, ekki þrisvar, heldur sex eða sjö sinnum, og eftir því sem seðlabankastjórinn segir að þá komi þar fram alls konar "warnings", ég veit ekkert um það, en að viðskiptaráðherra sé ekki látinn vita?" Í þessu samhengi má nefna að Össur sagði einnig: "[...] mér þykir vænt um drenginn [Björgvin G. Sigurðsson] og við erum gamlir samstarfsmenn, en hann var náttúrulega bara hengdur upp á snúru til þerris, skilurðu. Ég meina, í hans stöðu, að hann sé ekki látinn vita af þessum fundum, ekki bara að hann sé ekki látinn vita, skilurðu, honum, þeim bar skylda til þess að hann væri þar, til þess að hann gæti þá a.m.k. fengið tækifæri til að standa undir þeirri ábyrgð sem á honum hvíldi. Og ég tel að hann hafi ekki fengið það. Og ég meina, þið getið spurt þau bæði, Ingibjörgu Sólrúnu og Björgvin, um það en mér er til efs að hún hafi nokkru sinni hringt í hann, kannski einu sinni, tvisvar, til þess að konferera hann, allan tímann, fyrir og eftir hrun. Og ég meina, þessir fundir, ég bara held að hann hafi ekkert vitað um þessa sex eða sjö seðlabankafundi. Klárt er að ekki vissi ég um þá, við töluðum mikið saman."Við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis var Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, spurður að því af hverju Björgvin G. Sigurðsson hefði ekki verið hafður með á ráðherrafundum þegar rætt var um málefni bankanna við bankastjórn Seðlabankans. Hann svaraði því til að það hefði verið ákvörðun formanns Samfylkingarinnar. Árni sagðist halda að Björgvin hefði bara ekki verið treyst. Árni sagði: "Menn treystu því ekki [...] að það sem væri verið að tala um á þessum fundum mundi ekki einhvern tímann og einhvers staðar endurspeglast í því sem hann segði í fjölmiðlum." Aðspurður hvað hefði verið rætt í ríkisstjórninni um stöðu bankanna svaraði Árni því til að forsætisráðherra og utanríkisráðherra hefðu með reglulegu millibili, sem hann gæti þó ekki nefnt nánar, farið yfir stöðu mála. Aðspurður kvaðst hann ekki minnast þess að Seðlabankinn hefði kallað eftir afstöðu ríkisstjórnarinnar varðandi málefni bankanna.Í skýrslu Áslaugar Árnadóttur, skrifstofustjóra í viðskiptaráðuneyti, kemur fram að viðskiptaráðherra og ráðuneyti hans hefðu oft ekki verið höfð með í ráðum við stefnumótun um lausn á vandamálum bankanna. Þar hefði ekki aðeins ráðið tortryggni Sjálfstæðisflokksins í garð Björgvins G. Sigurðssonar, því engir kærleikar hefðu heldur verið á milli Björgvins og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, utanríkisráðherra.
Við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis var Geir H. Haarde spurður að því hvort hann liti svo á að honum bæri ekki embættisskylda til að upplýsa viðskiptaráðherra um þau málefni er lytu að málaflokki viðskiptaráðuneytis. Geir svaraði: "Það var náttúrulega fyrst og fremst þessi sunnudagur, eða þetta sunnudagskvöld, sem þarna skipti máli, Glitnishelgina sem svo er kölluð. Hann hafði sinn fulltrúa þarna, svo kom hann heim til mín á mánudagsmorgninum eins og ég nefndi áðan. En auðvitað ef þessir hlutir sem undir hann heyrðu voru honum á móti skapi þá hefði hann á grundvelli þess sem þú segir, á grundvelli þess að hver ráðherra er húsbóndi í sínu ráðuneyti, stoppað hluti og sagt: Ég sætti mig ekki við þetta. Þetta er gert án þess að ég hafi verið aðili að þessu þó að ég hafi haft þarna samflokksmenn mína og samstarfsmenn mína. Ég vil þetta ekki og ef því verður ekki breytt þá er ég farinn. Þetta var náttúrulega eitt af því sem – þetta er svona úrræði sem menn hafa í þessari stöðu." Geir var þá bent á að spurningin varðaði ekki einungis upplýsingar um fyrirhugaða yfirtöku ríkisins á Glitni banka hf. heldur einnig aðra atburði, s.s. upplýsingar sem fram komu á fundum með bankastjórn Seðlabanka Íslands sem viðskiptaráðherra sat ekki. Geir brást við með eftirfarandi orðum: "Ég tel ekki hægt að segja það að honum hafi verið haldið skipulega frá upplýsingum sem hann átti rétt á. Hann tjáði sig nú mjög oft opinberlega um þessi mál, bæði í þinginu og annars staðar, og gerði það, að því er best varð heyrt, á grundvelli þess að hann hefði upplýsingar og svo er hann náttúrulega í sömu stöðu og aðrir sem lesa gögnin frá Seðlabankanum og kynna sér það sem þeir eru að segja og gera, eins og ég hef sagt hérna nokkrum sinnum. Ég tel ekki að hann hafi verið sniðgenginn með einhverjum óeðlilegum hætti í þessu og hafi honum fundist það þá hefði hann átt að tala um það við mig, sem ég man ekki til að hann hafi gert."Í skýrslu Jóns Þórs Sturlusonar, aðstoðarmanns viðskiptaráðherra, kom fram að oftast hefði "súper-ráðherrahópurinn" komið fyrst að umfjöllun um stærri mál, s.s. ríkisfjármál og kjarasamningsráðstafanir og annað slíkt, og mótað stefnuna áður en aðrir ráðherrar hefðu komið að máli. Í þessum hópi hefðu verið forsætisráðherra, utanríkisráðherra, fjármálaráðherra og félagsmálaráðherra.Aðspurð um hvort tortryggni hefði ríkt innan ríkisstjórnarinnar gagnvart viðskiptaráðherra svaraði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir: "Ekki veit ég til þess. Ég minnist þess ekki að ég hafi heyrt neitt í þá veru frá forsætisráðherra. En sko það er engin launung á því að það var kannski svona sambandið á milli seðlabankastjóra og svo aftur Samfylkingarinnar var að mörgu leyti erfitt, hafði alltaf verið erfitt. Það var bara svona þegjandi samkomulag um að láta það ekkert þvælast fyrir sér, reyna a.m.k. að láta það ekkert þvælast fyrir sér." Í skýrslu sinni vék Ingibjörg einnig að starfsháttum í forsætisráðuneytinu og ríkisstjórn og sagði þá m.a.: "Það sem kom mér auðvitað mjög á óvart þegar ég kem þarna var hvað forsætisráðuneytið var vanburðugt og fáliðað og lítið ráðuneyti farandi með stjórn efnahagsmála. Það var tvennt sem vakti kannski athygli mína þegar ég geng þarna inn, það er annars vegar þetta, hvað forsætisráðuneytið er vanburðugt og lítið, og hins vegar þessi skortur á formlegheitum hjá ríkinu – sem birtist í því hvað það er lítið skráð af fundargerðum, hvað það er lítið lagt fram af minnisblöðum, hvað það er lítil formfesta í kringum allt hjá ríkinu [...] og svo er líka það að hver ráðherra er í raun ríkisstjórn út af fyrir sig. Menn eru ekki að leggja inn til umræðu í ríkisstjórn einhver svona vandamál sem þeir eru að fást við hver hjá sér og það er kannski þess vegna sem þetta kemur aldrei inn í ríkisstjórnina, frá þessari samráðsnefnd ráðuneytanna, Fjármálaeftirlits og Seðlabanka, það bara tíðkaðist ekki af því að þetta er ekki fjölskipað stjórnvald, og það er auðvitað mikið áhyggjuefni og það er auðvitað áhyggjuefni að það er enn þá þannig. Hlutir bara berast ekki úr svona samráðsnefndum – það er eins og menn líti svo á að þetta sé bara vettvangur til að tala saman og svo fer bara hver til síns heima og það er eins og enginn líti á það sem sína skyldu að gera eitthvað með það sem þarna á sér stað."Rannsóknarnefnd Alþingis hefur kynnt sér fundargerðir ríkisstjórnarinnar frá síðustu árum. Óhætt er að segja að fundargerðirnar séu knappar. Í dæmaskyni má nefna nokkrar færslur úr fundargerðum frá árinu 2008 sem varða efnahagsmál. Í fundargerð frá 8. febrúar 2008 segir að samgönguráðherra hafi spurt um gang kjaraviðræðna og iðnaðarráðherra hafi spurt um þróun efnahagsmála. Síðan segir í fundargerðinni: "Málin rædd ítarlega." Í drögum að fundargerð ríkisstjórnarinnar frá 12. febrúar 2008 kemur fram að Geir H. Haarde hafi greint frá því að hann og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir muni síðar sama dag ákveða hvort tímabært sé að gefa einhverjar yfirlýsingar um efnahagsmál. Í endanlegri útgáfu fundargerðarinnar hefur þessi liður verið fjarlægður. Í fundargerð ríkisstjórnarinnar frá 18. mars 2008 segir að samgönguráðherra hafi tekið upp umræður um stöðu efnahagsmála í landinu og beint "fyrirspurn til forsætis- og fjármálaráðherra um gjaldeyrismarkaðinn, áhrif á gengi og efnahagsmálin". Síðan segir í fundargerðinni: "Forsætisráðherra fór yfir stöðu mála." Í fundargerð ríkisstjórnarinnar frá 16. maí 2008 segir m.a.: "Forsætisráðherra kynnti gjaldmiðlaskiptasamninga sem Seðlabanki Íslands gerði við Seðlabanka Svíþjóðar, Noregs og Danmerkur." Því næst segir í fundargerðinni: "Málið rætt." Eins og fram kemur í kafla 19.3.8, sbr. einnig kafla 4.0, gáfu þrír ráðherrar ásamt bankastjórum Seðlabanka Íslands út sérstaka yfirlýsingu í aðdraganda þessara gjaldmiðlaskiptasamninga þar sem lýst var áformum um ráðstafanir sem ætlunin væri að gera af hálfu íslenska ríkisins varðandi tiltekna þætti efnahagsmála, starfsemi Íbúðalánasjóðs og gagnvart bönkunum. Í fundargerð ríkisstjórnarinnar er ekkert bókað um þessa yfirlýsingu og hún finnst ekki meðal þeirra gagna sem lögð voru fram á ríkisstjórnarfundum.
Í fundargerð ríkisstjórnarinnar frá 23. maí 2008 segir: "Fjármálaráðherra lagði fram og kynnti frumvarp til laga um heimild ríkissjóðs Íslands til sérstakrar lántöku á árinu 2008 ásamt minnisblaði, dags. 23. maí 2008, og lagði til að málið verði sent þingflokkum stjórnarflokkanna til meðferðar." Síðan segir: "Málið rætt og samþykkt." Í fundargerð frá 22. júlí 2008 segir m.a.: "Starfandi forsætisráðherra upplýsti að beiðni Vinstri grænna um að kalla saman Alþingi í ágúst hefði hlotið afgreiðslu og að ekki væri ástæða til þess að verða við þeirri beiðni." Því næst segir í fundargerð: "Fleira gerðist ekki." Í fundargerð frá 12. ágúst 2008 segir m.a.: "Viðskiptaráðherra lagði fram og kynnti minnisblað, dags. 12. ágúst 2008, um skipun nefndar um fjármálastöðugleika, og lagði til að fallist yrði á þartilgreindar tillögur." Síðan segir í fundargerð: "Málið rætt en afgreiðslu þess frestað."
19.5.2 Tilraunir Stjórnarráðsins til þess að leggja mat á hugsanlega fjárhagslega áhættu íslenska ríkisins vegna starfsemi fjármálafyrirtækja hér á landi
Rannsóknarnefnd Alþingis sendi forsætisráðherra, fjármálaráðherra og viðskiptaráðherra bréf, dags. 23. janúar 2009, og óskaði eftir því að upplýst yrði hvort af hálfu þeirra eða ráðuneyta þeirra hefði á tímabilinu 1. janúar 2007 til 7. október 2008 verið gerð úttekt eða lagt mat á hugsanlega fjárhagslega áhættu íslenska ríkisins og ríkissjóðs vegna starfsemi íslensku fjármálafyrirtækjanna hér á landi og erlendis, eða einstakra þátta í starfsemi þeirra, annars vegar með tilliti til umfangs þeirrar starfsemi í hlutfalli við stærð íslensks efnahagslífs og hins vegar ef breytingar yrðu á rekstrarumhverfi fjármálafyrirtækjanna eða í ljósi breytinga sem þegar hefðu orðið, svo sem með stofnun innlánsreikninga erlendis. Lægi slík úttekt eða mat fyrir var óskað eftir afriti af því.
Í svari forsætisráðuneytis, dags. 25. febrúar 2009, var vísað til gagna sem ekki vörðuðu umrætt efni.
Í bréfi fjármálaráðuneytis, dags. 20. mars 2009, var því svarað til að fjármálaráðuneytið kannaðist ekki við að hafa gert úttekt á fjárhagslegri áhættu fjármálakerfisins á þeim grundvelli sem lýst var í bréfi nefndarinnar til ráðuneytisins.
Í bréfi viðskiptaráðuneytis, dags. 4. mars 2009, kom fram að ekki hefði verið unnið að gerð slíkrar áætlunar á vegum ráðuneytisins. Hins vegar hefði ráðuneytið tekið þátt í starfi samráðshóps um fjármálastöðugleika og viðbúnað og þannig tekið þátt í gerð slíks mats og lagt þar til gögn, sérstaklega að því er varðaði innlán íslenskra banka erlendis og tryggingakerfi fyrir innstæðueigendur og fjárfesta. Þá hefði gögnum verið safnað í ráðuneytinu um innlán íslenskra banka innanlands og erlendis haustið 2007 í tengslum við starfsemi nefndar um endurskoðun laga um tryggingakerfi fyrir innstæðueigendur og fjárfesta. Sjá nánari umfjöllun um þetta í kafla 17.0.
Rétt er að taka fram að í gögnum Seðlabankans er að finna skjal sem fjallað er um í kafla 19.3.7 hér að framan og varðar sögulegt yfirlit yfir kostnað erlendra ríkja af fjármálaáföllum. Ekki er að sjá að sérstaka greiningu sé þar að finna á hugsanlegum kostnaði vegna slíks áfalls á Íslandi.
19.5.3 Yfirlýsingar ráðherra varðandi stuðning við bankana
Í skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis var Ingimundur Friðriksson, seðlabankastjóri, spurður hvort bankastjórn Seðlabanka Íslands hefði gengið eftir því við ráðherra í ríkisstjórninni hvernig þeir ætluðu að standa við yfirlýsingar um að ríkið stæði við bakið á bönkunum. Hann svaraði því til að það hefðu þeir ekki gert. Hann var þá spurður hvort hann teldi að ráðherrar hefðu búið yfir nægum upplýsingum til að meta hversu dýr slík aðgerð gæti orðið. Hann svaraði því til að þetta væri ágæt spurning, menn hefðu verið haldnir þeirri bjartsýni að til þess myndi ekki koma. Ingimundur var þá spurður um samskipti Seðlabanka Íslands við erlend lánshæfismatsfyrirtæki og hvort Seðlabankinn hefði þar gefið til kynna að hann myndi koma hinum þremur stóru íslensku bönkum til aðstoðar lentu þeir í vanda. Hann svaraði því til að Seðlabankinn hefði aldrei gefið matsfyrirtækjunum í skyn að stofnunin myndi bjarga bönkunum. Slíkt hefði aldrei verið gert.Í skýrslu Jónasar Fr. Jónssonar, forstjóra Fjármálaeftirlitsins, fyrir rannsóknarnefnd Alþingis áréttaði hann að nauðsynlegt hefði verið að fylgja eftir stóru orðunum sem ráðherrar hefðu viðhaft með því að efla gjaldeyrisforðann. Í upphafi ársins 2008 hefði Moody's talið að ríkið hefði enn burði til að bjarga bönkunum lentu þeir í vanda. Síðan hefði liðið langur tími án þess að gjaldeyrisforðinn væri styrktur. Þegar síðan var komið fram í júlí og ágúst 2008 hefðu matsfyrirtækin bent á að "íslenska ríkið [væri] ekki búið að gera neitt til að fylgja eftir öllum stóru orðunum". Þótt efling gjaldeyrisforðans væri í eðli sínu aðeins skilaboð um traustleika skipti það miklu máli því "á mörkuðum getur traustið í raun og veru skipt öllu [um það] hvort menn lifa eða deyja".
Aðspurður tók Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, undir það í skýrslu sinni fyrir rannsóknarnefnd Alþingis að yfirlýsingar ráðherra í fjölmiðlum um að íslenska ríkið myndi standa við bakið á bönkunum hefðu fyrst og fremst verið byggðar á pólitískri afstöðu, fremur en að búið væri að velta fyrir sér raunverulegri getu ríkissjóðs. Þær hefðu verið settar fram fyrst og fremst til að "rýra ekki "confidence" kerfisins, [...] til að orsaka ekki hrun með því að viðurkenna að þrautavarahlutverkinu yrði ekki sinnt ef reyndi á það".Geir H. Haarde, forsætisráðherra, viðurkenndi við skýrslutöku að yfirlýsingar sínar um stuðning ríkisins við bankakerfið hefðu ekki verið byggðar á neins konar formlegu mati. Síðan bætti hann við: "En auðvitað reiknaði ekki nokkur maður með því að það mundi reyna á það gagnvart öllum þremur bönkunum, en ég held að svona óformlegt mat manna hafi verið að menn mundu ráða við einn, allavegana einn og kannski tvo." Aðspurður hvaða fjárhæðir menn hefðu miðað við í þeim efnum svaraði Geir: "Það náttúrulega veit maður ekki, það sem gerðist með Glitni var náttúrulega það að það var reynt að bjarga honum. [...] Nei, ég get ekki nefnt fjárhæðirnar, það er ekki nokkur leið, en maður veit aldrei hvað svona áfall er stórt [...]."Við skýrslutöku var Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, spurð að því hvort einhverjir útreikningar hefðu legið fyrir um það hvaða fjármuni þyrfti til þess að standa við bakið á bönkunum þegar hún og aðrir ráðherrar gáfu yfirlýsingar um að það yrði gert. Svar hennar var: "Nei. Það lá ekkert slíkt fyrir. Það sem umræðan var um á þessum tíma var að það væri mikilvægt að styrkja gjaldeyrisvarasjóðinn og það var náttúrulega líka talað um að það væri mikilvægt bara að senda þessi skilaboð út, það var aftur þetta, svona að reyna að reka þessar hýenur frá, og að ef eitthvað annað yrði sagt þá væri það í sjálfu sér mjög hættulegt fyrir íslenska bankakerfið. Ef það væri einhvern veginn látið í veðri vaka að íslensk stjórnvöld stæðu ekki á bak við bankakerfið, eða treystu sér ekki til þess, þá væri það í sjálfu sér mjög hættulegt, það væri mikilvægt að segja það skýrt að við mundum auka gjaldeyrisvaraforðann til þess að auka þessar varnir innanlands, styrkja þessar varnir innanlands. En það lá engin greining fyrir á því og það verður bara að segja það eins og er að eitthvert hættumat varðandi bankana það hafði mér vitanlega aldrei verið unnið, eða ég hafði aldrei séð það. Það var reyndar eitt af því sem ég ákvað fljótlega eftir að ég varð utanríkisráðherra að láta vinna hættumat fyrir Ísland og útfæra þá hættumatshugtakið, að það næði ekki bara til þessara hefðbundnu varna heldur ekki síður til varna á sviði tölvumála, fjármálakerfa o.s.frv. Sú hættumatsskýrsla kom reyndar ekki út fyrr en í byrjun [2009] en slíkt hættumat sá ég aldrei hvað varðaði fjármálakerfið."Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, var við skýrslutöku spurður að því hvort yfirlýsingar ráðamanna um stuðning við bankakerfið hefðu stuðst við útreikninga eða könnun fjármálaráðuneytisins á því álitaefni. Árni svaraði: "Ég held að það hafi ekki verið gert í þessu samhengi. Orðalagið sem við notuðum bæði ég og forsætisráðherrann, þá Geir, var það að Ísland mundi gera það sem aðrar ábyrgar, vestrænar þjóðir mundu gera undir svona kringumstæðum." Árni bætti síðan við að í janúar 2008 hefði lítið verið hægt að gera: "Ég held að við séum á þeim punkti komin langt fram yfir þann tímapunkt að við hefðum getað gert eitthvað til að breyta raunverulega því sem að gerðist. Það er þá í árum talið, ef við hefðum átt að gera eitthvað í þessu, þá hefðum við þurft að gera það 2005, 2006."Í drögum að fundargerð frá 25. fundi samráðshóps stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað 12. ágúst 2008 segir að Bolli Þór Bollason, ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytisins, hafi minnt á að fyrir liggi yfirlýsingar forsætis- og fjármálaráðherra í þá veru að stjórnvöld standi við bakið á stóru bönkunum.Fram kemur að Tryggvi Pálsson hafi þá spurt hvort ríkissjóður geti staðið við slíkar yfirlýsingar án þess að hætta á eigið greiðsluþrot. Haft er eftir Ingimundi Friðrikssyni að undirliggjandi vandi geti staðið lengi. Í drögum að fundargerð er ekki að sjá að nokkur niðurstaða hafi verið færð til bókar úr þessari umræðu og ekki virðist samráðshópurinn hafa talið ástæðu til þess að gefa ráðherrunum til kynna hvaða kostnaður kynni að falla á ríkið ef efna ætti yfirlýsingar ráðherra.
Í skýrslu Sigurjóns Þ. Árnasonar, bankastjóra Landsbanka Íslands hf., fyrir rannsóknarnefnd Alþingis sagði hann m.a.: "Það fara allir að halda að þegar ríkisstjórnin fer að tala um að þeir standi með bönkunum þá trúa menn því að það sé eitthvað á bak við það. Markaðurinn trúir því og menn trúa því að það hljóti að vera Evrópusambandið. Og þegar menn segja eitthvað svona við okkur þá erum við ekki að segja: "Nei, örugglega ekkert á bak við það." Við segjum að það hljóti að vera, það er alveg "lógískt", skiljið þið? Það er engin lygi á bak við það, maður veit ekki betur og á von á það sé þannig [...] þegar fer að líða fram á sumarið, þá upplifa menn bara: "Það er bara ekki neitt, það er ekki neitt á bak við þetta. Það mun ekki gerast neitt hjá ríkinu."" Sigurjón sagði einnig að síðan hefði myndast sú saga á markaðnum að ríkið hefði hafnað láni sem því hefði staðið til boða hjá J.P. Morgan." Sigurjón var spurður að því hvað Seðlabanki Íslands hefði þurft að taka hátt lán að hans mati miðað við stærð bankakerfisins. Hann svaraði því til að gjaldeyrisvarasjóður Seðlabanka Íslands hefði þurft að vera 5 til 10 milljarðar evra.Til samanburðar má nefna að samkvæmt upplýsingum frá Seðlabanka Íslands nam gjaldeyrisforði Seðlabankans 190 milljörðum króna í lok maí 2008 eða um 1,6 milljörðum evra.
Við skýrslutöku sagði Davíð Oddsson að um vorið hefði vissulega verið skoðað hvort auka mætti við gjaldeyrisforða þjóðarinnar. Seðlabankinn hefði haft samráð við þrjá erlenda banka um það mál og hefði J.P. Morgan verið þar á meðal. Ráðgjafarnir hugðust hins vegar ekki sjálfir veita lán heldur hafa umsjón með lánveitingunni. Í skýrslu Davíðs kom fram að hinir erlendu ráðgjafar hefðu sagt Seðlabankanum að varasamt gæti verið að taka lán á þeim kjörum sem ríkinu stæðu til boða á fjármálamörkuðum þar sem slíkt gæti fremur virst merki um veikleika en styrkleika.
19.5.4 Ályktanir rannsóknarnefndar Alþingis
Samkvæmt framansögðu er ljóst að í ríkisstjórn Íslands var lítið rætt um stöðu bankanna og lausafjárkreppuna sem hófst undir loks sumars 2007 og ágerðist eftir því sem á leið. Hvorki verður séð af fundargerðum ríkisstjórnarinnar né frásögnum þeirra sem skýrslur gáfu fyrir rannsóknarnefnd Alþingis að þeir ráðherrar ríkisstjórnarinnar sem fóru með efnahagsmál (forsætisráðherra), bankamál (viðskiptaráðherra) eða fjármál ríkisins (fjármálaráðherra) hafi gefið ríkisstjórninni sérstaka skýrslu um vanda bankanna eða hugsanleg áhrif hans á efnahag og fjármál ríkisins frá því að þrengja tók að bönkunum og þar til bankakerfið riðaði til falls í október 2008. Á tímabilinu hafði þó birst neikvæð umfjöllun um bankana í innlendum sem erlendum fjölmiðlum, íslenska krónan hafði veikst verulega auk þess sem skuldatryggingarálag bankanna fór hækkandi. Fullt tilefni var því til að ræða málefni bankanna ítarlega í ríkisstjórn.
Eins og áður segir hittust þeir ráðherrar, sem áttu fulltrúa í samráðshópi forsætisráðuneytis, fjármálaráðuneytis, viðskiptaráðuneytis, Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands um fjármálastöðugleika og viðbúnað, heldur ekki sérstaklega, og hvað þá með reglulegu millibili, til þess að fara yfir verkefni og afrakstur af vinnu samráðshópsins og sinna yfirstjórn verkefna hópsins að því leyti sem það heyrði undir þá.
Forsætisráðherra átti allmarga fundi með formanni bankastjórnar Seðlabankans og bankastjórum bankanna. Bankastjórn Seðlabankans átti einnig á tímabilinu febrúar til maí 2008 a.m.k. fimm fundi með forsætisráðherra, fjármálaráðherra og utanríkisráðherra. Félagsmálaráðherra sótti einn þessara funda þegar rætt var um málefni Íbúðalánasjóðs. Af skýrslu Björgvins G. Sigurðssonar, viðskiptaráðherra, verður ráðið að hann hafi ekki verið boðaður á neinn þessara funda þar sem þó var m.a. rætt um vanda bankanna og lausafjárkreppuna en málefni bankakerfisins heyrðu undir málefnasvið ráðuneytis hans. Að auki virðist viðskiptaráðherra hvorki hafa verið gerð grein fyrir því að fundirnir fóru fram né upplýstur um það sem þar fór fram. Í kafla 21 er fjallað um það hvort skylt hafi verið að upplýsa viðskiptaráðherra um efni þessara funda.
Dæmi úr fundargerðum ríkisstjórnarinnar sem rakin voru í kafla 19.5.1 leiða í ljós að sá háttur hefur almennt verið hafður á að hafa fundargerðirnar yfirborðskenndar. Nánar er ályktað um þetta í kafla 21.0.
Samkvæmt svörum forsætisráðuneytis, fjármálaráðuneytis og viðskiptaráðuneytis við fyrirspurnum rannsóknarnefndar Alþingis voru engar úttektir gerðar á árunum 2007 og 2008 fram að falli bankanna á vegum þeirra eða mat lagt á hugsanlega fjárhagslega áhættu íslenska ríkisins og ríkissjóðs vegna starfsemi íslensku fjármálafyrirtækjanna hér á landi og erlendis, eða einstakra þátta í starfsemi þeirra, annars vegar með tilliti til umfangs þeirrar starfsemi í hlutfalli við stærð íslensks efnahagslífs og hins vegar ef breytingar yrðu á rekstrarumhverfi fjármálafyrirtækjanna eða í ljósi breytinga sem þegar höfðu orðið, svo sem með stofnun innlánsreikninga erlendis. Rannsóknarnefnd Alþingis átelur að þetta hafi farist fyrir.
Loks liggur fyrir að yfirlýsingar ráðherra um að staðið yrði við bakið á bönkunum voru ekki byggðar á útreikningum sem sýndu að ríkið hefði bolmagn til þess. Eins og fram kom í skýrslu Björgvins G. Sigurðssonar voru þessar yfirlýsingar fyrst og fremst settar fram "til að rýra ekki traust kerfisins og til að orsaka ekki hrun með því að viðurkenna að þrautavarahlutverkinu yrði ekki sinnt ef á það reyndi". Rannsóknarnefnd Alþingis átelur að ekki hafi verið lagt faglegt mat á það hvort og eftir atvikum hversu bær ríkissjóður væri til að styðja fjárhagslega við bak fjármálafyrirtækja landsins, eins eða fleiri.
Nánari ályktanir nefndarinnar um þessar niðurstöður er að finna í kafla 21.0.
19.6 Aðgerðir stjórnvalda til að draga úr stærð bankakerfisins
19.6.1 Flutningur höfuðstöðva einhvers af stóru bönkunum úr landi
Eins og nánar er að vikið í kafla 5.0 var það yfirlýst stefna þeirrar ríkisstjórnar sem tók við vorið 2007 að bankarnir hefðu höfuðstöðvar sínar áfram á Íslandi. Ekki er að sjá að ráðherrar hafi lagt að bönkunum að flytja höfuðstöðvar sínar úr landi fyrir fall bankanna. Reyndar orðaði Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, það þannig í skýrslu sinni fyrir rannsóknarnefnd Alþingis að það hefði ekki verið til umræðu á þessum tíma "að reka bankana úr landi".Við skýrslutöku voru eftirfarandi ummæli úr stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar borin undir Geir H. Haarde, forsætisráðherra: "Ríkisstjórnin stefnir að því að tryggja að slík starfsemi geti áfram vaxið hér á landi og sótt inn á ný svið í samkeppni við önnur markaðssvæði og að útrásarfyrirtæki sjái sér áfram hag í að hafa höfuðstöðvar á Íslandi." Geir svaraði: "Sko, þetta held ég að hafi verið mjög ríkjandi viðhorf í stjórnmálum og áreiðanlega í þjóðfélaginu öllu, eins og Kaarlo Jännäri lýsir nú ágætlega í sinni skýrslu. Það var almenn ánægja með það sem hafði verið að gerast í bankaheiminum og með flest þessi svokölluðu útrásarfyrirtæki. Og þarna er verið að tala um það að frekar að hlúa að þessu, styðja við bakið á þessari starfsemi, eins og t.d. var gert með því að lækka skatthlutfall tekjuskatts fyrirtækja úr 18 í 15 nokkru síðar, frekar heldur en að vinna gegn þeim og eins og ég rakti nú í minni ræðu á landsfundi Sjálfstæðisflokksins að þá voru nú allir, flokkarnir voru frekar í samkeppni um það að vera vinir bankanna og þessara stóru fyrirtækja, það var enginn sérstakur aðili í pólitíkinni nema kannski VG, sem hafði eitthvað sérstakt horn í síðu þessara aðila og það sem þarna er verið að undirstrika er bara það að við viljum þá halda áfram á sömu braut, frekar að leggja þessu lið og gera það sem stjórnvalda, það sem þau stendur til þess svona að hafa starfsgrundvöllinn í lagi." Geir var þá spurður hvort ekki hefði verið rétt, með hliðsjón af stærð íslensku bankanna, að leggja frekari áherslu á að dregið yrði úr stærð þeirra fremur en frekari vöxt. Geir svaraði: "Ég held að það hafi nú ekki verið almenn stemning fyrir því. Jännäri lýsir þessu ágætlega, bankarnir voru vinsælir, þeir voru að borga fólki há laun hérna, það voru alls kyns menn með undarlegar prófgráður, stærðfræðingar og slíkir menn að fá fína vinnu í bönkunum og þeir voru náttúrulega að borga hér gríðarlega mikla skatta. Það er ekki fyrr en í ágúst, og við náttúrulega gerum okkur ekki grein fyrir því strax, sem fer að halla undan fæti alþjóðlega í bankaheiminum, eða með haustinu þarna 2007 og ætli við verðum ekki að ganga út frá því að við höfum verið að tala þarna um ábyrgan vöxt og ábyrgt framferði en ekki hitt."Í bréfi Geirs til rannsóknarnefndar Alþingis 24. febrúar 2010 kemur fram að allir opinberir aðilar, sem komu að þessum málum, ráðuneyti og stofnanir, hefðu lagt hart að bönkunum sjálfum að grípa til ráðstafana til að styrkja stöðu sína, t.d. með því að losa um eignir erlendis og skapa sér með því erlent lausafé. Nokkuð hefði borið á góma í samtölum, Geirs og formanns bankastjórnar Seðlabankans, hvort verið gæti raunhæft að einhver banki flytti höfuðstöðvar sínar til útlanda. Við það hefði íslenska ríkið misst skatttekjur en jafnframt hefði hin óbeina ábyrgð sem margir töldu hvíla á ríkinu vegna bankans flust annað sem og eftirlit með þeim. Ákvörðun um slíkan flutning hefði hins vegar verið bankanna sjálfra og ekki unnist ráðrúm til að fylgja þessu eftir.
Þegar stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar frá árinu 2007 var borin undir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, utanríkisráðherra, svaraði hún: "Ég held fyrst og fremst að það hafi verið litið svo á að þarna væri komin ný atvinnugrein í landinu sem væri fjármálastarfsemi, það væri ný atvinnugrein, sem jú hefði á undanförnum árum búið til heilmörg vel launuð störf og það væri mikilvægt að halda þeirri atvinnugrein í landinu og hún gæti átt sér möguleika í landinu áfram, þess vegna vaxtarmöguleika því að ég held við höfum bara litið svo á að þetta væri í eðli sínu alþjóðleg starfsemi þó að hún væri með höfuðstöðvar á Íslandi og það væri mikilvægt að hún gæti verið það – þannig var umræðan á þessum tíma." Ingibjörg var þá spurð hvort ekki hefði verið nein áhersla lögð á það hvort einhverjar leiðir væru tiltækar til að draga úr stærð bankakerfisins. Ingibjörg svaraði: "Nei, ég minnist þess ekki að það hafi verið rætt sérstaklega um það, ég held menn hafi einmitt litið svo á að bankakerfið – þó að það væri með höfuðstöðvar á Íslandi væri þetta alþjóðlegt bankakerfi, bankar sem störfuðu á alþjóðlegum mörkuðum og þetta væru fyrirtæki sem í eðli sínu væru kannski útrásarfyrirtæki, vegna þess að það eru auðvitað takmörk fyrir því hvað hægt er að lána á Íslandi eða stunda þessa starfsemi á Íslandi. Ef þessi fyrirtæki ætluðu að vaxa, þessi eins og önnur, þá yrði það fyrst og fremst í útlöndum."Við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis viðurkenndi Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, að hann hefði komið að því að semja stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar 2007. Þegar ummæli yfirlýsingarinnar um að "tryggja að [fjármálastarfsemi] [gæti] áfram vaxið hér á landi og sótt inn á ný svið í samkeppni við önnur markaðssvæði og að útrásarfyrirtæki [sæju] sér áfram hag í að hafa höfuðstöðvar á Íslandi", voru borin undir Árna og hann spurður hver fyrirætlun stjórnvalda hefði verið í þessum efnum svaraði Árni: "Já, ég held að það sé eiginlega skýrslan sem að nefndin sem Sigurður Einarsson stýrði, að það hafi verið hún sem menn höfðu í huga varðandi fjármálafyrirtækin og þá þegar þeir eru að tala um ný svið þá eru það þessi, það sem tengdist svona lífeyrissparnaði, þetta er nú svona, og einhverjir sérstakir svona "trust" sjóðir, held ég að það hafi verið kallað. Og hvað varðar það þá að útrásarfyrirtækin sjái sér hag í að vera hérna áfram þá snýr það auðvitað að skattaumhverfinu að það væri þannig að þau væru frekar hér en annars staðar og raunverulega væri skattaumhverfið hérna þannig að það tæki því ekki að vera að fara í þessar æfingar sem maður er síðan að sjá að var farið samt í. Og maður er auðvitað svona svekktur yfir að sjá hvað menn voru að flækja sig í fyrir, að manni finnst, svona litla peninga í þessu samhengi, 10% fjármagnstekjuskattur, að það sé verið að fara þessa ofboðslegu hringi til þess að komast hjá því."Davíð Oddsson, formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands, var við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis spurður að því hvað gert hefði verið af hálfu Seðlabankans til þess að stuðla að því að höfuðstöðvar einhvers af bönkunum yrðu fluttar úr landi. Davíð svaraði: "Við ræddum þetta viðhorf okkar nokkrum sinnum [...] þannig að í júlí [2008] þá er ég að spyrja Sigurð að því Einarsson hvernig þetta gangi og þá svarar hann eitthvað á þá lund að hann sé þegar eða fyrir allnokkru búinn að setja niður hóp manna, sérfræðinga, lögfræðinga og aðra þess háttar, til að vinna að málefninu og ég held að ég hafi sagt eitthvað á þá leið að það væri alveg hægt að gera þetta án þess að það, með tortryggilegum hætti og þetta var hins vegar dálítið flókið, því þetta hafði verið í opinberri umræðu og stjórnmálamenn höfðu lýst því mjög ákaft yfir að þeir væru algjörlega andvígir því að bankarnir flyttu sig." Davíð var þá spurður að því hvort Seðlabanki Íslands hefði verið hlynntur því að Kaupþing banki hf. flytti höfuðstöðvar sínar. Hann svaraði: "Ég var það persónulega [...] það kom fram mjög stíft þegar við vorum í þessum swap-viðræðum [...] þá var eitt megináhersluatriðið af hálfu erlendra aðila að bankarnir væru það sem kallað var "downsizeaðir", svo maður sletti því, og m.a.s. er mér sagt núna að því sé haldið fram að við höfum ekki fylgt þessu nægilega eftir frá þessum mánuðum frá því í maí, þar til að bankarnir féllu, en það kemur glöggt fram í pappírum frá t.a.m. frá J.P. Morgan, sem var auðvitað á því að menn ættu að minnka umfang bankarekstursins, að þetta yrði að gerast á allmörgum misserum, því að þú selur ekki 50–60% af bönkunum í versta árferði sem um getur á tveimur, þremur mánuðum, það er bara óeðlileg krafa. En þá sá maður fyrir sér að besta eða tvö bestu úrræðin í þessari bókhaldslegu "downsizing" a.m.k. væri að Kaupþing flytti sínar höfuðstöðvar burtu, að Glitnir seldi BN bankann í Noregi, sem þeir voru komnir áleiðis með, og að Icesave-reikningarnir, eins og Landsbankinn virtist hafa lofað okkur, [yrðu fluttir í dótturfélag] [...]. Þessar þrjár aðgerðir mundu hafa verið mikil "downsizing" á umfangi bankakerfisins. En ég reyndar man nú ekki hvort að við fengum nokkurn tímann niðurstöðu úr þessum hópi sem Sigurður nefnir til sögunnar og nefndi þarna í punktunum frá því í júlí, ég man það ekki, en það getur verið að þið hafið séð það einhvers staðar." Davíð var einnig spurður að því hvort stjórnvöld hefðu lagt fram áætlun um það hvernig ætti að draga saman bankakerfið, hvaða möguleikar þar væru fyrir hendi, þýðing þess og áhrif. Davíð svaraði: "Það [...] var hreinlega sagt í þessum punktum að ég teldi að áhrifin yrðu þau að ef að Kaupþing mundi flytja sig þá mundi skapast trúnaðartraust á því að það væri möguleiki fyrir Seðlabanka og stjórnvöld að hugsanlega bjarga eftirstandandi bankakerfi. Ég taldi að [...] það væru jákvæð áhrif gagnvart okkur." Davíð sagði hins vegar að bæði Sigurjón Þ. Árnason, bankastjóri Landsbanka Íslands hf., og Sigurður Einarsson, stjórnarformaður Kaupþings, hefðu virst hafa áhyggjur af því að við tilfærslu höfuðstöðva færu þeir undir eftirlit annars fjármálaeftirlits sem kynni að taka miklu harðar á málum. Þetta hefði beinlínis verið orðað með eftirfarandi hætti: "[...] þá lendum við í alvöru fjármálaeftirliti." Aðspurður hvort Seðlabankinn hefði útbúið formlegt skjal yfir þýðingu þess að Kaupþing flytti höfuðstöðvar sínar kvað hann svo ekki hafa verið enda hefði verið undirliggjandi ágreiningur við ríkisstjórn um það þar sem hún vildi ekki að bankarnir flyttu höfuðstöðvar sínar.Aðspurður hvort bankastjórn Seðlabankans hefði átt viðræður um þetta efni við fulltrúa ríkisstjórnarinnar svaraði Davíð: "Viðhorf mitt kom fram í samtali mínu við forsætisráðherra, að ég teldi að það væri mikið hjálpræði í því ef banki eins og Kaupþing færi og ég teldi það vera engan álitshnekki fyrir Ísland, nema síður væri, það var einhver, það sem ég vil kalla, bábilja uppi um það að þetta væru miklir álitshnekkir fyrir Ísland ef að bankarnir þyrftu að fara frá landinu, ég sá það ekki."Samkvæmt drögum að fundargerð samráðshóps stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað frá 7. júlí 2008 var rætt á fundi hópsins hvort hægt væri að takmarka áhættu bankakerfisins með því t.d. að Kaupþing flytti höfuðstöðvar sínar til útlanda. Ekki verður séð að þessari umræðu hafi á neinn hátt verið fylgt eftir.
Í skýrslu Sigurðar Einarssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom m.a. fram: "Ef menn töldu að bankarnir væru of stórir og að þeir væru orðnir hætta fyrir þjóðfélagið þá áttu menn að segja það, þá áttu menn að kalla mig sem stjórnarformann, eða stjórn bankans inn á teppi í ráðuneytinu eða í Seðlabankanum og segja: "Þið eruð orðnir of stórir, þið verðið að gera eitthvað í þessu." Og þá hefðum við gert eitthvað í þessu [...]. En það var ekki eitt orð um þetta hvorki frá Seðlabanka, eftirliti eða ráðuneyti. [...] svona eftir á að hyggja, þá áttum við auðvitað að vera búin að koma þessum banka úr landi." Í skýrslu Sigurðar kom fram að frá vorinu 2008 hefði verið unnið að því að flytja höfuðstöðvar Kaupþings frá Íslandi og hefði fyrirtækið Sullivan & Cromwell verið fengið til að aðstoða við mat á kostum sem í boði voru.
Í minnisblaði Seðlabankans er sagt frá fundi bankastjórnarinnar með Sigurði Einarssyni 11. júlí 2008. Fram kemur þar að Sigurður hafi kynnt bankastjórn framangreinda áætlun Kaupþings. Í minnisblaðinu segir að Davíð Oddsson hafi sagt að önnur heimilisfesti bankans komi vel út fyrir Ísland.
Í skýrslu Hreiðars Más Sigurðssonar, forstjóra Kaupþings, kom fram að unnið hefði verið að "project Hans" í bankanum sem fól í sér að flytja ætti höfuðstöðvar bankans frá Íslandi. Þannig hefði átt að setja starfsemina á Norðurlöndum undir FIH bankann í Danmörku og starfsemina annars staðar í Evrópu undir Kaupthing Singer & Friedlander í Bretlandi. Einnig kom fram í skýrslu Hreiðars: "[...] við ætluðum að fara að fjármagna eignirnar á þeim mörkuðum þar sem að þær voru og þar sem uppruni þeirra eigna var og við sáum ekki fyrir okkur að íslenskir bankar væru að fara að gefa út mikið af skuldabréfum á komandi misserum, við töldum að þetta mundi ekki lagast þetta ástand á þessum mörkuðum, svo við vorum ekki með í okkar plönum það að íslenska einingin færi að endurfjármagna sig með útgáfu skuldabréfa." Einnig kom fram hjá Hreiðari að búið hefði verið að kynna þessa áætlun fyrir fjármálaeftirlitum Danmerkur, Svíþjóðar, Noregs, Bretlands og Íslands. Hinn 25. september 2008 var samþykkt á stjórnarfundi Kaupþings að veita stjórnendum bankans heimild til þess að hrinda í framkvæmd framangreindum skipulagsbreytingum.
Í skýrslu Sigurjóns Þ. Árnasonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom fram að menn hefðu velt því fyrir sér að færa höfuðstöðvar Landsbankans frá Íslandi. Ekki væri þó mikið til skrifað um það hjá bankanum. Sigurjón sagði m.a.: "Hér erum við staddir og til lengri tíma séð, ef bankinn á að geta haldið áfram að vaxa og dafna [...] þá dugar ekki að menn séu búnir að finna leiðir til að leysa fjármögnunina sem er þar af leiðandi "innlánskonseptið" og að það að maður sé búinn að finna leið til þess að framleiða eignir, sem er eitthvað annað en íslenskar eignir sem er þá auðvitað að eiga útibú og dótturfélög erlendis. Og að ráða inn fólk til þess að búa til eignir. Maður þarf auðvitað til lengri tíma séð að finna einhverja sem geta hjálpað okkur með eigið fé.Við þurfum einhvern veginn að komast í þá stöðu að það séu einhverjir útlendingar sem vilji eiga í íslenskum bönkum og við verðum einhvern veginn þessir raunverulegu evrópsku bankar sem við vildum vera. Komast frá því að vera í 95% í eigu Íslendinga. Hvernig gerum við það? Það gerist ekki nema með því að við komumst út úr þessari krónu því að krónan er einhvern veginn í vegi þegar þú ert að kynna þetta. Maður er búinn að kynna bankana og svo segja þeir: "Hvaða króna er þetta? Nei, ég ætla ekkert að fara í það." Það gekk bara ekki að reyna að selja þetta.Annars vegar það, og hins vegar hitt:Við verðum að ná að skrá okkur á markað úti og þá er auðvitað miklu betra að við séum komin í erlenda mynt og til þess að við séum í erlendri mynt þá er auðvitað betra að við séum búin að flytja þetta alla leið. Á sama tíma og við segjum þetta erum við einhvern veginn með Íslendingahjartað sem veldur því að maður er ekki alveg tilbúinn til þess að hlaupa heldur vill maður einhvern veginn að skattarnir séu borgaðir á Íslandi.Vonin var sú að maður gæti einhvern veginn náð að komast yfir í erlenda mynt með allt eigið fé, komast inn á skráningu í erlendum markaði en samt ná að borga skattana til Íslands. Það var undirliggjandi hugsun, alla vega í Landsbankanum, menn vildu reyna að borga skattana á Íslandi. [...]Við ræddum þetta fram og til baka og partur af því, fyrstu skrefin til þess að geta komist til útlanda [...] er að þú þarft að breyta eigin fénu yfir í erlent, skref tvö er að til þess að geta komist og skráð þig á erlendan markað þá verðurðu að láta erlenda þáttinn vera orðinn mjög stóran hluta af bankanum. Það þýðir ekki að vera íslenskur banki að hálfu og erlendur að hálfu. Þú þarft að komast enn þá lengra með erlenda þáttinn. Svo þarftu náttúrulega að geta komið bókhaldinu þínu yfir í erlent, þess vegna voru menn spenntir fyrir því, Kaupþing var náttúrulega komið lengst í þessu, og að vilja skrá hlutabréfin í erlendu til þess fyrir rest að geta komist út. [...] Á síðustu stigunum árið 2008 þá er maður farinn að hugsa: "Vá, það er bara orðið hættulegt að vera íslenskur banki", vegna þess að heimurinn upplifir það að það sé ekkert "back up". Þetta er bara orðið hættulegt, það þarf einhvern veginn að komast út úr þessu." Aðspurður hvort stjórnvöld hefðu ýtt á Landsbankann að flytja höfuðstöðvar sínar úr landi svaraði hann því neitandi. Þvert á móti hefði verið ljóst að stjórnvöld hefðu ekki viljað að þeir flyttu höfuðstöðvar bankans úr landi. Aðspurður kvaðst Sigurjón ekki hafa rætt þetta mál við bankastjórn Seðlabanka Íslands. Þetta hefði verið rætt innanhúss í Landsbankanum en verið mjög viðkvæmt þar sem menn hefðu haft ólíkar skoðanir á málinu.Til þess að varpa skýrara ljósi á málið hefði Landsbankinn ráðið hagfræðingana Anne Sibert og Willem Buiter til þess að skrifa álitsgerð. Þeirra niðurstaða hefði verið að Ísland hefði tvo kosti; að halda íslensku krónunni og flytja erlendan hluta af bankakerfinu yfir á evrusvæðið eða að halda hinum erlenda hluta á Íslandi og ganga í myntbandalag Evrópu.
19.6.2 Höfðu stjórnvöld uppi hvatningu til bankanna um að færa niður efnahagsreikninga sína?
Eins og nánar er að vikið í 5. kafla var það stefna ríkisstjórnarinnar samkvæmt stjórnarsáttmála Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar frá 23. maí 2007 að tryggja að fjármálastarfsemi gæti áfram vaxið hér á landi og sótt inn á ný svið í samkeppni við önnur markaðssvæði. Þessari stefnu ríkisstjórnarinnar var ekki breytt opinberlega fyrir fall bankanna í október 2008.
Í skýrslum starfsmanna Seðlabanka Íslands fyrir rannsóknarnefnd kom fram að það hefði verið ljóst frá árinu 2006 að íslensku bankarnir þyrftu að færa niður efnahagsreikninginn hjá sér. Í skýrslu Sturlu Pálssonar, framkvæmdastjóra alþjóða- og markaðssviðs Seðlabankans, kom t.d. eftirfarandi fram: "Það blasti alveg við frá því í febrúar/mars 2006 að það þyrfti að gera eitthvað, því að það munaði [mjóu] að bankarnir færu á hausinn þá. Það var dagaspursmál að Landsbankinn [lenti í vanskilum] og þeir sögðu það bara sjálfir: "Það er kraftaverk ef við lifum þetta." Vandamálið er náttúrulega það, alla vega eins og við sáum það, að bankarnir vaxa alveg gríðarlega hratt, þeir eru algjörlega háðir fjármagnsmarkaðnum, skuldabréfamörkuðunum, [...] "innlánabasinn" þeirra hérna heima er ekki nógu stór og djúpur [...]. Evrópski skuldabréfamarkaðurinn lokaði á bankana haustið 2005 og hann opnaði aldrei aftur. Síðan kemur 2006 og þetta sem þeir kölluðu síðan "mini-krísuna", það vandamál er leyst með því að það eru gefin út alveg gríðarlega mikið af skuldabréfum inn á Bandaríkjamarkað sem eru ryksuguð upp af aðilum sem eru að pakka saman CDO-um [...] þess vegna held ég að þeim hefði mátt vera ljóst að þeir yrðu að vinda niður efnahagsreikninginn hjá sér, þeir yrðu að bæta eiginfjárstöðuna, lausafjárstöðuna, draga úr útlánaáhættunni og vinda þetta niður því að dyrnar sem lokuðust þær opnuðust aldrei aftur. [...] Og þeir náttúrulega máttu vera búnir að átta sig á því miklu fyrr [...] það sem stóð í bankagreiningarskýrslunum sem byrjuðu að birtast í febrúar 2006, þar sem var verið að tala um hvernig "áhættuprófíllinn" væri í þessum stofnunum, hvernig "fjármögnunarprófíllinn" væri og þetta voru engin leyndarmál. Það stóð upp úr [...] öllum þessum aðilum, þessum greiningaraðilum, að þeir yrðu að draga úr áhættu og það var ekki gert. [...] Síðan förum ég og Davíð Oddsson út til London í febrúar 2006 og tökum þennan venjulega fundahring og þar erum við bara teknir og rassskelltir í rauninni: "Bankarnir ykkar eru alltof áhættusæknir, fjármögnunin er að lokast á þá."" Aðspurður hvort hann hefði tekið þátt í því á þessum tíma að útbúa einhverjar tillögur um það hvernig ætti að bregðast við, svaraði Sturla því neitandi og sagði svo: "Tillagan hefði í sjálfu sér verið ósköp einföld, það var bara að kalla þá inn og reyna að hvetja þá til að gíra niður efnahagsreikninginn. Já, draga úr útlánavextinum." Aðspurður af hverju menn hefðu þá ekki gengið rösklega fram í því, svaraði hann m.a.: "Spurningin er bara hvaða heimildir stjórnvöld, Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn, hafa til þess að skikka bankana til þess að vinda niður hjá sér efnahaginn."Við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis var Arnór Sighvatsson, aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands, spurður að því hvort ekki hefði komið til greina að beita tækjum Seðlabankans á bankana til þess að fá þá til að minnka efnahaginn. Arnór svaraði: "Líklega var það orðið of seint árið 2006, vegna þess að ef þú grípur til slíkra tækja þegar bankarnir eru orðnir svona stórir og eru komnir í vanda að þá getur þú fellt bankann með því [...]. Þannig að ég held að vonir manna hafi staðið til þess [...] að bankarnir [...] mundu láta sér þetta að kenningu verða, þeir mundu reyna að draga úr áhættu eftir bestu getu, úr því að þeir lifðu af þessar hremmingar á árinu 2006 og að yrði þá smám saman hægt að vinda ofan af þessu."Í skýrslu Ingimundar Friðrikssonar, seðlabankastjóra, fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom fram að á fyrri hluta ársins 2008 hefði "Seðlabankinn átti fundi með bönkunum [...] þar sem var sífellt var verið að hamra á því, benda á að við sæjum ekki þessi merki um minnkun í umsvifum þeirra, sem þeir töluðu um." Síðan sagði Ingimundur: "Það hægði ekki á útlánavexti í þeim mæli sem þeir höfðu sagt að væri hafið og við leituðum þráfaldlega upplýsinga og komum á framfæri viðvörunum okkar við þessum mikla vexti sem hélt áfram verulega fram á árið 2008."Aðspurður hvort Seðlabanki Íslands hefði gert eitthvað til þess að hafa áhrif á stærð bankanna svaraði Davíð Oddsson, formaður bankastjórnar Seðlabankans, við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis: "Ekki öðruvísi en í almennum umræðum við bankastjórana – við höfðum miklar áhyggjur af vaxandi, mjög hraðri, útlánaaukningu sem var í bankakerfinu og við vöruðum við því. Það var sagt að menn væru byrjaðir að stíga á bremsur og þess háttar, það var reyndar sagt mjög lengi, og þegar við sáum aldrei neinar tölur sem staðfestu það – þvert á móti, útlánin voru alltaf að aukast þrátt fyrir þessar fullyrðingar – þá var sagt að þetta væri allt í pípunum, þetta eru allt ákvarðanir sem búið er að taka fyrir löngu og þetta er bara eins og olíuskip, minnir mig að hafi verið sagt, það tekur 40 km að beygja því, en menn halda alltaf að það sé eins og bátur, þetta er í pípunum en við erum ekki að samþykkja aukin útlán, þessu var haldið að okkur." Aðspurður svaraði Davíð því til að Seðlabankinn hefði ekki útbúið sérstaka skýrslu um það hve stórt bankakerfi íslenskt efnahagslíf þyldi. Síðan sagði hann: "Menn náttúrulega vöruðu við því að skuldastaða íslenska þjóðarbúsins gegnum bankakerfið – það kom fram í greinum og ræðum Seðlabankans – væri orðin óþægilega há og væri mjög hæpið að traust á þjóðinni risi undir því. Og þó að það væru eignir á móti þá gætu þær eignir veikst, eins og kom á daginn, þannig að þau sjónarmið komu oft fram af hálfu Seðlabankans – að þó að ríkisskuldir færu minnkandi væri heildarskuldastaða þjóðarbúsins orðin mjög hættuleg." Í skýrslu Davíðs kom einnig fram að það hefði margoft verið rætt við bankastjórana um að selja eignir og minnka bankana en þeir hefðu svarað: "Þið segið okkur ekkert að selja eitthvað núna á hálfvirði eða fjórðungsvirði því að þá minnkar eiginfjárstaðan strax sem því nemur." Þannig hefðu bankarnir þurft þrjú til fjögur ár til að selja eignir og minnka.
Við skýrslutöku var Eiríkur Guðnason, seðlabankastjóri, spurður að því hvað Seðlabankinn hefði gert þegar ráðherrar funduðu með bankamönnum í febrúar 2008. Eiríkur lýsti því að bankastjórn Seðlabankans hefði hvatt bankana til að draga saman efnahag sinn. Eiríkur sagðist telja að einu skilaboðin sem Seðlabankanum hefðu borist frá ríkisstjórninni hefðu verið að kanna möguleika á aukningu gjaldeyrisforðans.
Við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis sagði Jónas Fr. Jónsson, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, að almennum tilmælum hefði verið komið á framfæri við bankastjórana um að þeir þyrftu að minnka efnahagsreikning bankanna. Aðspurður svaraði hann því til að þessi tilmæli hefðu ekki verið sett fram skriflega.Aðspurður hvort fulltrúar ríkisstjórnarinnar hefðu lagt að Kaupþingi banka hf. að minnka efnahaginn svaraði Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri Kaupþings, í skýrslu sinni fyrir rannsóknarnefnd Alþingis: "Ef það hefur verið gert þá hefur það verið mjög "casual", það hefur ekki verið neitt, það var engin vinna lögð a.m.k. af hálfu stjórnvalda, það var enginn sem kom að máli við okkur með einhverjar tillögur eða hvort menn hafi sagt á þessum fundi: "Já, já, getið þið ekki minnkað efnahagsreikninginn ykkar?" Það má vel vera, ég man það ekki." Aðspurður hvort þeir hefðu verið beðnir um tillögur um hvernig þeir ætluðu að standa að því að færa niður efnahaginn svaraði hann því til að það hefði ekki verið. Síðar í skýrslunni áréttaði hann að það sem stjórnvöld hefðu hugsanlega sagt hefði ekki verið neitt "skriflegt, það eru engar tillögur, en það má vel vera að menn hafi á einhverjum fundum sagt: "Þurfið þið ekki að lækka? Verður ekki kerfið að minnka? Er ekki lausnin að selja?" Það má vel vera að menn hafi sagt eitthvað slíkt".Við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis var Lárus Welding, forstjóri Glitnis banka hf., spurður hvort stjórnvöld hefðu lagt að Glitni að selja eignir eða draga saman starfsemina. Lárus svaraði: "Nei, ég man ekki eftir neinum "konkret" tillögum, þetta eru svona almennir fundir bara, menn eru að tala um stöðuna. Ef það má segja eitthvað, þá held ég að lexían sem verði að læra [sé] að það verður að vera miklu meiri samhæfing og samræming og samstarf á milli ríkisstjórnar, Fjármálaeftirlits og Seðlabanka, sem fyrst og fremst þarf að byggjast á því að menn séu hreinskilnir og treysti hver öðrum. Það er mjög einföld regla í viðskiptum, það treystir þér enginn nema þú sért sjálfur hreinskilinn og opinn. Ég lagði mig mikið í líma við þetta í öllum mínum samskiptum við Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið og ég held að ég hafi uppskorið traust og hreinskilni í staðinn. Þarna er ekki verið að leggja fram – það eru allir mjög kurteisir á fundum, hlutirnir eru ræddir almennt, þarna eru samkeppnisaðilar hlið við hlið, þannig að þeir augljóslega tala varlega. Og ríkisstjórnin leggur ekkert beint til nema að hún vonar að þetta fari allt að lagast." Þá bætti Lárus við: "Ég hefði talið að eftirlitið og Seðlabanki hefðu átt að kalla menn meira saman á fundi og setja þeim skýrar reglur, sem stjórnendur bankanna gætu farið með og sagt: "Þessar reglur hafa verið settar og þeim þarf að fylgja." Og okkur hefðu verið sett skilyrði að íslenska ríkið hefði sagt: "Þið þurfið að selja eignir fyrir þetta." Þá höfum við engan valkost, þá er komin skýr regla [...]. Stjórnendur bankanna hafa það markmið að reka bankana, við vinnum fyrir stjórnina, þeir eru okkar yfirmenn [...] en ef það á að gera eitthvað "drastískara", hraðar, sem hefur mjög neikvæð áhrif á eigið fé, þá verður það að koma í [...] í einhverri tilskipun eða reglu, því annars erum við í mjög miklum umboðsvanda einhvern veginn gagnvart stjórninni, sem er að vinna fyrir hluthafana. Þá segir stjórnin: "Er þetta það besta fyrir hluthafana?"" Halldór J. Kristjánsson, bankastjóri Landsbanka Íslands hf., var við skýrslutöku spurður að því hvaða skilaboð fyrirsvarsmenn ríkisstjórnarinnar hefðu fært honum varðandi umfang og starfsemi bankanna. Halldór svaraði: "[...] þeir vildu að við drægjum saman umfangið 2008, og ég held að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn "súmmeri" þetta mjög vel upp í sinni skýrslu [...] það var óumdeilt að ríkisvaldið þurfti að auka viðbúnaðarstig sitt og Seðlabankans, og bankarnir að reyna að draga saman, en markaðsaðstæður til að gera það á árinu 2008 voru erfiðar." Halldór vék síðan að þeirri skoðun sinni að rétt hefði verið af stjórnvöldum að setja stærðarmörk á bankakerfið. Hann sagði: "Það var viss vandi hjá okkur, finnst mér, kerfislega í heild sinni að stærsti banki þjóðarinnar skyldi vera með svo áhættusækin "módel" sem hann var með. Og að stærsti banki þjóðarinnar, Kaupþing, skyldi ekki einu sinni á haustmánuðum 2007 skynja aðstæður þannig að hann ætti ekki að fara að kaupa einn bankann enn í útlöndum. Og við þetta vorum við að glíma og vorum sjálfsagt annar til þriðji bankinn í stærð alla tíð, stundum þriðji og stundum annar, og það varð eiginlega, ef það átti að setja einhver markmið, þá varð eiginlega að setja einhver "kvantitatíf" markmið. Auðvitað bárum við ábyrgð á því að sníða okkur stakk eftir vexti og við fórum auðvitað hver til síns heima þykist ég vita og reyndum að gera það sem við gátum. Hins vegar stóðum við frammi fyrir því, eins og margir aðrir bankar, að ýmist voru eignir erfiðar í sölu eða við mátum það svo að það væri betra að taka lán út á þessar eignir heldur en að selja þær, nota þær til fjármögnunar heldur en að selja þær kannski á versta tíma á markaði." Aðspurður hvort haldinn hefði verið fundur með Seðlabanka Íslands eða ráðherrum þar sem menn veltu fyrir sér hvað hægt væri að gera til að umbreyta starfsemi bankanna, draga úr henni og jafnvel skipta bönkunum upp með tilliti til erlendrar starfsemi og innlendrar svaraði Halldór: "Nei, það var ekki beinlínis sest yfir slíkt."Sigurjón Þ. Árnason, bankastjóri Landsbankans, var við skýrslutöku spurður að því hvort Seðlabanki Íslands hefði sent skýr skilaboð um það að minnka ætti Landsbankann. Sigurjón kvaðst minnast þess og bætti við: "Í febrúar 2008 þá eru þeir, þ.e. Davíð Oddsson, að segja að við eigum að selja eitthvað og við segjum: "Já, bíddu, hvað?" Hann segir að við eigum að minnka. Og við erum að gera allt sem við getum til að minnka en það er ekkert hægt að gera það sem menn eru að biðja um, þ.e. að minnka um helming, þá þurfa allir að geta borgað þér og það er enginn að fara að borga. Sigurjón sagði einnig: "Eftir á að hyggja segja allir að bankarnir hafi stækkað of mikið, sem er alveg rétt, og þá segja menn: "Þessir bankamenn eru bara alveg brjálaðir að stækka svona mikið." "Ok", menn geta sagt það en það er svolítið erfitt, ég meina átti ég að koma og segja á bankaráðsfundi [...]: Nú erum við bara alveg hættir að stækka, það er ekki pláss fyrir þessa þrjá stóru banka. Hinir bankarnir ætla að halda áfram að stækka en við ætlum að stoppa.Við skulum bara leyfa þeim að stækka en við skulum bara hætta. Það er ekki einfalt að segja það [eða] að taka slíkar ákvarðanir". Sigurjón sagði einnig við sömu skýrslutöku varðandi tilmæli Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá 14. apríl 2008 um að minnka bæri bankana: "Þetta er eins og að menn komi á lakkskónum þegar þú ert úti á ballarhafi, búinn að vera að berjast í einhverju hrikalegu óveðri, þá koma einhverjir menn á lakkskóm: "Ég held að þú ættir kannski að minnka, ég held að þú ættir kannski að sigla í land." – Já, já, ég veit allt um það, en hvernig á ég að gera það? Það er ekki hægt núna, núna verð ég bara að þakka fyrir að halda mér á floti og að koma mér í gegnum með öllum hinum skipunum sem öll eru hérna á kafi á sjó í óveðrinu. Það er ekki bara þannig að maður geti bara stefnt á þessa höfn og bara komist í höfn einn, tveir og þrír. Það eru draumórar."Við skýrslutöku lét Geir H. Haarde, forsætisráðherra, eftirfarandi ummæli falla: "[...] hvað átti ríkið að gera? Átti það að skipa bönkunum að selja eignir? Þetta var alltaf sama vandamálið, það voru ekki úrræði til þess að pína bankana til að gera ákveðna hluti." Geir sagði einnig: "Við höfum ekki valdheimildir til þess að kúga þá eða knýja til að gera ákveðnar ráðstafanir. Það er hægt að tala við þá, það er hægt að beita "moral suasion", eins og það heitir víst í amerísku kennslubókunum, til þess að minnka sig, selja eignir, losa sig við útlán, það er að selja eignir og grípa til einhverra slíkra aðgerða, hætta að vera alltaf að þenja sig út [...]."Við skýrslutöku voru ummæli Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um að draga þyrfti saman efnahag íslensku bankanna borin undir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, utanríkisráðherra. Ingibjörg sagði: "[...] ég leit svo á að það væri einfaldlega bara verið að vinna í þessum málum og það væru Seðlabanki og Fjármálaeftirlitið og líka sérstaklega... eins og Seðlabankinn talaði þá væri hann að taka á bönkunum og engin ástæða til að ætla það að það væri verið að sýna þeim einhverja linkind."Við skýrslutöku var Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, spurður að því hvort hann hefði, með hliðsjón af stærð bankanna, leitt hugann að því hvort það gæti gengið til framtíðar að þeir hefðu höfuðstöðvar sínar hér á landi. Björgvin svaraði: "Já, já, ég gerði það. Ég gerði það nokkrum sinnum að umtalsefni, m.a. í þingræðu, að ég held í febrúar 2008, þar sem ég benti á það að það sem menn kölluðu svona snyrtilega hlutfallsvandinn á milli bankakerfis og myntsvæðisins okkar, gjaldmiðilsins eða Seðlabankans, væru náttúrulega með þeim hætti að það væri aldrei við það búandi. Annaðhvort mundu bankarnir þurfa að minnka eða við að fara inn á stærra myntsvæði, þetta sagði ég t.d. í þingræðu 2008 og oft annars staðar. Ég fjallaði heilmikið um gjaldmiðilsmálin okkar út frá þessu sjónarhorni. Þetta var svona drifkrafturinn í Evrópuumræðunni sem að mér sneri á þessum tíma og pirraði marga í samstarfsflokknum á þeim tíma. Ég veitti því mjög mikla athygli, mér fannst þetta mjög ógnvænlegt, af því að bankar sem að gefur augaleið að eru tíu, ellefu þjóðarframleiðslur, verða aldrei varðir af þrautavarahlutverki Seðlabanka ef þeir lenda allir í vanda á sama tíma og við veittum og ræddum heilmikið þennan kerfisbrest sem er í okkar fyrirkomulagi.Við erum þarna aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu, frjálst flæði fjármagns, öll íhlutun um starfsemi bankanna erlendis gat verið erfið jafnvel og óeðlileg út frá alþjóðasamningum, þannig að það var ekkert hlaupið að því að minnka bankana með stjórnvaldsaðgerðum, alls ekki." Við sama tækifæri sagði Björgvin: "[...] það var ekki hægt með stjórnvaldsaðgerðum að þvinga bankana til að minnka, það var ekki hægt, það er brot á alþjóðasamningum og við höfðum engan umbúnað til þess annan en þá að halda úti hófstilltri og þeirri umræðu sem maður taldi réttlætanlega án þess að ógna stöðu bankanna, umræðu um þann vanda sem fólst í stærð bankanna og smæð okkar myntkerfis."Við skýrslutöku var Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, spurður að því hvort hann hefði sett fram tillögur eða hugmyndir um breytt fyrirkomulag á starfsemi bankanna sem miðuðu að því að draga saman efnahag þeirra eða draga úr áhættu í starfseminni hér á landi, t.d. á fundum sínum með bönkunum 2007 og 2008. Árni svaraði: "Nei, þarna á þessum, umræðuefni sem sneru að mér á þessum tíma voru aðallega um uppgjörsmálin hjá þeim, hvernig þeir gætu gert upp og – en hins vegar, en ekki um það að ég væri með einhverjar hugmyndir um það að þeir ættu að, einhverjar svona frá mér um að þeir ættu að draga saman og þeir ættu að flytja höfuðstöðvarnar eða eitthvað slíkt, að það var það ekki og ég held að það hafi heldur ekki verið mitt hlutverk að hafa frumkvæði að einhverju slíku í þessu samhengi."
19.6.3 Ályktanir rannsóknarnefndar Alþingis
Að öllu framangreindu virtu er ljóst að ráðherrar beittu sér ekki fyrir því að höfuðstöðvar einhvers af stóru bönkunum yrðu fluttar úr landi, enda var það beinlínis opinber stefna þeirrar ríkisstjórnar sem var mynduð í maí 2007 að bankarnir hefðu áfram höfuðstöðvar á Íslandi, sbr. umfjöllun í kafla 5.0. Formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands kvaðst persónulega hafa verið hlynntur flutningi höfuðstöðva Kaupþings úr landi og látið þá skoðun í ljós. Ekki er hins vegar að sjá að Seðlabankinn hafi beinlínis þrýst á um slíkt í formlegum viðræðum við stjórn Kaupþings eða bankastjóra um málið. Í skýrslu Sigurðar Einarssonar, stjórnarformanns Kaupþings banka hf., fyrir rannsóknarnefnd Alþingis fullyrti hann að Seðlabankinn hefði ekki sagt þeim að nauðsynlegt væri að þeir flyttu höfuðstöðvar sínar úr landi. Fyrir liggur að um tveimur vikum fyrir fall Kaupþings ákvað stjórn Kaupþings að hrinda í framkvæmd áætlun um að flytja höfuðstöðvar erlendrar starfsemi úr landi.
Í skýrslum forsvarsmanna bankanna fyrir rannsóknarnefnd kom fram að hvorki Seðlabanki Íslands, Fjármálaeftirlitið né ráðherrar hefðu lagt fyrir þá formlegar tillögur um að draga úr stærð bankanna. Á hinn bóginn ýmist muna þeir ekki eða útiloka ekki að stjórnvöld hafi með almennum hætti lagt að þeim að draga úr útlánum og færa niður efnahagsreikning bankanna.
Nánari ályktanir rannsóknarnefndar Alþingis um þessar niðurstöður er að finna í kafla 21.0.
19.7 Upplýsingar um stórar áhættuskuldbindingar sem Seðlabanki Íslands hafði aðgang að
19.7.1 Dæmi um upplýsingar sem Seðlabanka Íslands bárust um stórar áhættuskuldbindingar og hugsanlega kerfisáhættu
Samkvæmt 4. gr. laga nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands er það hlutverk stofnunarinnar að stuðla að virku og öruggu fjármálakerfi. Stórar áhættuskuldbindingar sömu eða skyldra aðila í mörgum fjármálastofnunum er eitt af því sem valdið getur kerfisáhættu. Í skýrslu Sylvíu Kristínar Ólafsdóttur, forstöðumanns viðbúnaðarsviðs Seðlabankans, fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom fram að fljótlega eftir að hún kom til starfa í Seðlabankanum í febrúar 2007 hefði hún orðið þess áskynja að hugsanlega væri fyrir hendi kerfisáhætta vegna stórra áhættuskuldbindinga skyldra aðila hér á landi í fjármálastofnunum. Það sem hefði vakið athygli hennar á þessu hefðu verið myndir sem erlendir bankar, þ.m.t. J.P. Morgan, hefðu dregið upp.Aðspurð hvernig þessu hefði verið fylgt eftir af Seðlabankanum svaraði hún því til að bankinn hefði ekki haft aðgang að nauðsynlegum upplýsingum svo hægt hefði verið að fylgja þessu eftir. Í skýrslu Davíðs Oddssonar, formanns bankastjórnar Seðlabankans, fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom fram að um mitt sumar árið 2008 hefði leitað til hans maður, sem hann vildi ekki nafngreina, sem vann í einum af stóru bönkunum. Hann hefði komið með mynd, sem hann hafði teiknað af tengslum stærstu lánþega bankanna og hvað þessir tengdu aðilar hefðu fengið að láni í stóru bönkunum þremur. Þetta hefði verið "bara venjulegur bankamaður" sem hefði blöskrað ástandið. Þannig hefði eitt fyrirtæki, þ.e. Baugur Group hf., t.d. skuldað samtals 700 til 800 milljarða kr. í þessum bönkum. Maðurinn hefði bannað Davíð að sýna þetta skjal því hann hefði verið hræddur um starf sitt í bankanum. Þessi bankamaður sagðist aðeins vera kominn "með toppinn á þessu" þannig að ástandið gæti verið verra. Síðan sagði Davíð orðrétt: "Og ef það var svo þá sá ég fyrir mér að þessir bankar mundu fyrr eða síðar allir fara á hausinn." Aðspurður kvaðst Davíð hafa tekið mál um stórar áhættuskuldbindingar upp á fundi með Fjármálaeftirlitinu en þær upplýsingar sem hann hefði fengið frá forstjóra þess hefðu ekki stemmt við þær upplýsingar sem bankamaðurinn hefði veitt honum. Davíð var þá spurður til hvaða ráðstafana hann hefði gripið til þess að ganga úr skugga um hvað væri rétt í þessu. Hann svaraði þá: "Ég gerði engar sérstakar ráðstafanir aðrar en þær, ég hafði þessar upplýsingar, þær styrktu mig í þessari trú, ég var búinn að – ég reyndar held að ég hafi sagt mínum félögum frá því, að ég væri að fá upplýsingar sem væri verið að vinna sem virtust benda í þá átt að mínar áhyggjur í þessum efnum væru réttar en fullyrðingar Fjármálaeftirlitsins væru rangar. Ég sýndi þeim ekki þetta plagg en, af því að ég hafði bara [verið bundinn] trúnaði með það." Í skýrslutöku af Ingimundi Friðrikssyni, seðlabankastjóra, en hann átti jafnframt sæti í stjórn Fjármálaeftirlitsins, var vikið að verkaskiptingu á milli Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins varðandi stórar áhættuskuldbindingar. Í skýrslu sinni sagði Ingimundur m.a. svo: "Nú reyndar er það svo að Seðlabankinn hafði ekki sömu smáatriðaupplýsingar úr reikningum bankanna og þar með talið úr útlánabókinni og Fjármálaeftirlitið hafði. Það var náttúrulega verkaskipting þarna á milli þessara stofnana og Seðlabankinn hafði t.d. ekki upplýsingar um stórar áhættuskuldbindingar bankanna, sundurliðað eftir einstökum [lántakendum], það er nokkuð sem var viðfangsefni Fjármálaeftirlitsins að vaka yfir og þær upplýsingar höfðum við ekki og okkar athygli beindist þá miklu frekar að því að skoða fjármögnun bankakerfisins í heild sinni og lausafjárstöðu þess í heild sinni. Að gera kannanir á þáttum eins og útlánagæðunum frá sjónarhóli heildarinnar, ekki með því að skoða það innan frá eins og Fjármálaeftirlitið gerði, greiningar til dæmis í Fjármálastöðugleika tvö síðustu árin á gæðum og mögulegu útlánatapi, rannsóknir sem gerðar eru með hliðstæðum hætti og við þekkjum að gert er annars staðar. En þetta voru ekki greiningar sem byggðu á frumgögnum innan úr fyrirtækjum, vegna þess að það var Fjármálaeftirlitsins." Ingimundur var þá spurður að því hvort Seðlabanka Íslands hefði í raun verið mögulegt að meta hina kerfislægu áhættu nema slíkar upplýsingar lægju fyrir. Ingimundur svaraði: "Ég held að við höfum talið okkur geta gert það, a.m.k. nálgast það mjög mikið með þessum greiningum sem við gerðum á gæðum eignasafnsins á grundvelli – það er reyndar [...] í tveimur síðustu fjármálastöðugleikaskýrslum, býsna ítarlegar greiningar á gæðum og fyrir kerfið í heild sinni og við töldum það að við hefðum þær upplýsingar sem við þyrftum í þessum efnum, til þess að geta lagt þetta heildarmat á það, já." Aðspurður sagði hann að þær upplýsingar sem bankinn hefði haft aðgang að og byggt á hefðu ekki lotið að tengslum á milli fyrirtækja.
Í skýrslu Jóns Þ. Sigurgeirssonar, sérfræðings á skrifstofu bankastjórnar Seðlabankans, fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom fram að eftir helgina í september 2008, þegar ríkisstjórnin hefði gert hluthöfum Glitnis tilboð í kaup á bankanum, hefðu fyrirsvarsmenn Glitnis komið á fund upp í Seðlabanka og m.a. fundað með Ingimundi Friðrikssyni þar sem afhent hefði verið afrit af lánabók Glitnis. Ingimundur hefði afhent honum gögnin til skoðunar og hann hefði verið að gera það þegar Davíð hefði borið þar að. Í skýrslu Jóns sagði síðan: "Og Davíð Oddsson kom inn á skrifstofu til mín og spurði mig hvað ég væri með í höndunum og ég sagði honum það." Jón sagði að Davíð hefði í kjölfarið kynnt sér gögnin.Í skýrslu Davíðs Oddssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom eftirfarandi fram um viðbrögð hans þegar hann sá lánabók Glitnis: "Ég varð nú eiginlega fyrir "sjokki" þarna daginn eftir að menn ætla að taka Glitni yfir, þá sé ég í fyrsta skipti svona útdrátt úr lánabók, um stærstu skuldara, og þá sé ég að eigandi bankans virðist í þeim tölum skulda 170 milljarða, en reyndar reyndust það nú vera 300 og eitthvað milljarðar. Þá er forstjóri Fjármálaeftirlitsins staddur í bankanum og mér varð svo mikið um þetta að ég hljóp niður á fyrstu hæðina, þar sem hann var, og kallaði hann yfir í næsta herbergi og sýndi honum þessar tölur, þar sem var sko Baugur, Gaumur og FL-Group og Landic Property og bara 360... þá sagði forstjóri Fjármálaeftirlitsins: "Þú misskilur þetta, þetta eru ekkert sömu aðilarnir." Þá lamdi ég nú fast í borðið og sagði: "Þú talar ekki svona við mig drengur." En ég áttaði mig ekkert á því... mér fannst hann vera að gera grín að mér. En þetta var miklu verra því að svo voru þarna nöfn, sem ég hafði ekki þekkingu á, að voru sömu aðilarnir."Við skýrslutöku sagði Jónas Fr. Jónsson, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, að hann og Davíð Oddsson hefðu rætt saman vegna yfirlits úr lánabók Glitnis. Aðspurður um það hvaða sjónarmið Davíð hefði haft uppi í því samtali svaraði Jónas: "[...] þau sjónarmið sem hann hafði uppi var náttúrulega það að hann taldi náttúrulega vera miklar lánveitingar, sérstaklega þarna á Baug m.a. og ég benti honum á það að það væri í sjálfu sér ekki nýtt, það væru þarna ákveðnar tryggingar á móti sem væru settar fram, hann yrði að horfa á það líka. Og hann sagði að þetta væri allt rusl, það var farið þá sérstaklega í það með Glitnismönnum og okkur og Árna Tómassyni að fara yfir það."Við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom fram hjá Sturlu Pálssyni, framkvæmdastjóra alþjóða- og markaðssviðs Seðlabankans, að Seðlabankinn hefði ekki lagaheimildir til að kalla eftir upplýsingum úr lánabókum bankanna eða kynna sér stórar áhættuskuldbindingar þeirra. Aðspurður hvort ekki hefði komið til greina að skilyrða fyrirgreiðslu Seðlabankans við það að fá upplýsingar úr lánabók sagði Sturla: "Ég er ekki viss um að við höfum komist upp með svoleiðis ofbeldi gagnvart þeim, einfaldlega vegna þess að stjórnvald þarf að hugsa um hversu langt er verjandi að ganga." Sturla sagði einnig að ef bankarnir hefðu viljað sýna sér lánabækur sínar þá hefði hann ekki viljað taka við þeim.
19.7.2 Miðlun upplýsinga á milli Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands
Í skýrslu Davíðs Oddssonar, formanns bankastjórnar Seðlabankans, fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom fram að Seðlabankinn hefði almennt ekki fengið upplýsingar frá Fjármálaeftirlitinu um nafngreinda aðila. Aðspurður hvort Seðlabankanum hefði ekki verið brýn þörf á að fá slíkar upplýsingar til þess að rækja hlutverk sitt við að hafa eftirlit með kerfisáhættu svaraði hann: "Við höfðum þær ekki og það var ekki gert ráð fyrir því, sá skilningur var á milli viðskiptaaðila, t.d. fengum við það bara að einhver X ætti og Y ætti og Z ætti, auðvitað gátum við kannski giskað eitthvað á hverjir væru X,Y og Z, út frá því sem við fengum, en ég sá t.d. aldrei þennan eiganda Glitnis fyrr en ég sá bara þessar tölur sem ég fékk að sjá 2. október [2008] þegar þetta virtist vera að falla í eigu ríkisins." Aðspurður hvort Seðlabankinn hefði beðið um slíkar nafngreindar upplýsingar frá Fjármálaeftirlitinu svaraði Davíð að svo hefði ekki verið og bætti við: "Við vildum fá að vita hvort lán til tengdra aðila og eigenda væru [...] innan allra marka og okkur var sagt að það væri.Við áttuðum okkur ekki á [...] fyrr en síðar á því að þeir litu t.d. svo á að Björgólfur Guðmundsson og Björgólfur Thor væru ótengdir aðilar." Davíð sagði einnig: "[...] við fengum aldrei neinar tölur í Seðlabankanum um einstaka aðila og reyndar, eins og hefur komið fram á einhverjum minnisblöðum og fundargerðum, vildum við það ekki. Það kom hins vegar einu sinni fyrir, á fundi með bankastjórum Landsbankans, að Sigurjón Árnason rétti okkur yfir borðið tölur og þá sá ég einhverja skuldara og einhver nöfn og um leið og ég sá það sagði ég að þetta vildum við ekki hafa hér og ættum ekki að hafa samkvæmt lögum, þetta væri Fjármálaeftirlitsins. Þannig að við vildum ekki sjá einstök nöfn, hvorki af innstæðueigendum né skuldurum, það væri ekki okkar verkefni, þannig að við afhentum það strax til baka." Aðspurður hvort Seðlabankinn hefði getað rækt það verkefni að hafa eftirlit með kerfisáhættu þegar hann hafði ekki glögga sýn á áhættuskuldbindingar þvert á fjármálakerfið svaraði Davíð: "Það var mjög erfitt, þess vegna var ég kominn að þeirri niðurstöðu mjög fljótlega að það hefði átt að sameina Fjármálaeftirlitið og Seðlabankann." Davíð benti á að í Seðlabankanum hefðu menn talið að þeir hefðu ekki heimild til þess að biðja Fjármálaeftirlitið um upplýsingar um útlán sundurgreind á einstaka aðila. Aðspurður hvaða upplýsingar Seðlabankinn hefði fengið um útlán svaraði Davíð: "Við spurðumst fyrir á þessum sameiginlegu fundum, mjög oft á þessum sameiginlegu fundum um hvernig væri varið hérna lánum til eigenda og tengdra aðila og það kom margoft fram og reyndar voru sýnd einhver plögg um það, sem eru sjálfsagt til í Seðlabankanum, um það að þetta ætti að vera allt í lagi og allt innan marka. Þetta gerðum við vegna þess [...] að erlendu aðilarnir, sem við þurftum að eiga góð samskipti við [...] til þess að selja fyrir okkur skuldabréf ef við ætluðum að stækka gjaldeyrisforðann [...] þráspurðu okkur og þegar við vorum að svara því að þetta virtist allt vera í lagi, samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfðum, þá hafði maður á tilfinningunni að okkur væri ekki trúað."
Aðspurður um það hvort ekki hefði verið ástæða til að miðla upplýsingum um stórar áhættuskuldbindingar til Seðlabankans svo bankinn gæti metið kerfisáhættuna svaraði Jónas Fr. Jónsson: "Ég meina, ég veit ekki nákvæmlega hvað Seðlabankinn hafði upplýsingar um á hverjum tíma, skilurðu? Það sem ég er að segja er það að stórar áhættur og aðilar sem væru stórir í kerfinu, það var búið að vera vandamál í kerfinu bara ég veit ekki hvað langt aftur. [...] Hefðum við átt að skoða þetta betur? Hefðum við átt að dreifa upplýsingum?
Jú, jú, það er náttúrulega líka verið að segja: Menn verða að biðja um upplýsingar."
Líkt og rakið er í kafla 19.3.7 hér að framan vann Seðlabanki Svíþjóðar greinargerð um stöðu íslenskra banka vorið 2008 og aftur í september sama ár. Seðlabanki Íslands hafði milligöngu um gagnaöflun frá Fjármálaeftirlitinu fyrir Seðlabanka Svíþjóðar í þessum verkefnum. Ragnar Hafliðason, aðstoðarforstjóri Fjármálaeftirlitsins, lýsti því við skýrslutöku að vegna bankaleyndar hefðu upplýsingar um nöfn einstakra aðila ekki verið látin fylgja með gögnum stofnunarinnar en á honum mátti skilja að óskað hefði verið eftir upplýsingunum á nafngreinanlegu formi.Við sömu skýrslutöku kom fram hjá Ragnari að yfirleitt hefði þeirri meginreglu einnig verið fylgt að afhenda Seðlabanka Íslands ekki nafngreinanlegar upplýsingar. Ragnar sagði að hins vegar hefði Seðlabankinn átt að geta áttað sig á því hvort sömu skuldarar hefðu verið í fleiri bönkum því sami litur hefði verið notaður um hvern aðila í samantektum. Eiríkur Guðnason, seðlabankastjóri, lýsti því við skýrslutöku að Seðlabankinn hefði átt góð samskipti við Fjármálaeftirlitið varðandi miðlun upplýsinga. Hann bætti þó við: "En þegar kom að einhverjum málum sem varða þagnarskyldu Fjármálaeftirlitsins þá höfðum við ekki alltaf innsýn inn í það.Við höfðum ekki yfirsýn yfir einstaka skuldara, hvað þeir skulduðu í kerfinu í heild, kannski svolítið hér og svolítið þar o.s.frv."Um samstarfssamning Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands er fjallað í kafla 16.0.
19.7.3 Ályktanir rannsóknarnefndar Alþingis
Eins og áður segir er það hlutverk Seðlabanka Íslands að stuðla að virku og öruggu fjármálakerfi, sbr. 4. gr. laga nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands. Eftir að Seðlabanki Íslands fékk rökstuddan grun um að sérstök kerfisáhætta væri að myndast vegna náinna tengsla á milli lántakenda sem voru með mjög há lán hjá mörgum fjármálastofnunum hér á landi var komið fram sérstakt tilefni að mati rannsóknarnefndar Alþingis fyrir Seðlabankann til að kalla eftir nauðsynlegum upplýsingum frá Fjármálaeftirlitinu til þess að leggja mat á áhættuna. Í því sambandi er einnig rétt að taka fram að túlkun Fjármálaeftirlitsins á reglum um stórar áhættuskuldbindingar þurfti ekki í einu og öllu að falla saman við mat Seðlabanka Íslands á þeim tengslum milli fyrirtækja sem skapað gátu kerfisáhættu. Í 4. mgr. 35. gr. laga nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands og í 2. mgr. 15. gr. laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi er mælt fyrir um gagnkvæma upplýsingagjöf á milli Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins. Þannig er sérstaklega mælt fyrir um að Fjármálaeftirlitið skuli veita Seðlabankanum allar upplýsingar sem stofnunin býr yfir og nýtast í starfsemi bankans í síðastnefnda ákvæðinu. Þær upplýsingar sem þannig er miðlað á milli stofnananna eru áfram háðar þagnarskyldu, sbr. 3. mgr. 15. gr. laga nr. 87/1998. Verður þannig ekki séð að skort hafi að lögum heimild fyrir Fjármálaeftirlitið til að afhenda Seðlabankanum upplýsingar um stórar áhættuskuldbindingar á nafngreindu formi svo og aðrar upplýsingar, sem bankanum var þörf á til þess að rækja lögbundið hlutverk sitt við að stuðla að virku og öruggu fjármálakerfi og Fjármálaeftirlitið hafði yfir að ráða, væri um þær beðið. Þar sem ekki hafa komið fram neinar viðhlítandi skýringar á því af hverju Seðlabankinn lét hjá líða að kalla eftir þessum upplýsingum verður að telja að það hafi verið afar gagnrýnisvert að slíkt skyldi ekki vera gert.
Til viðbótar skal þess getið að í 29. gr. laga um Seðlabanka Íslands er að finna sérstaka heimild fyrir Seðlabankann til þess að afla milliliðalaust upplýsinga frá þeim lánastofnunum sem eru í lánaviðskiptum við Seðlabankann, sbr. 6. og 7. gr. laganna. Í 7. gr. er t.d. fjallað um aðila sem eiga í endurhverfum viðskiptum við Seðlabankann eða fá veðlán hjá honum. Í 29. gr. kemur síðan fram að markmið þessarar heimildar til milliliðalausrar upplýsingaöflunar sé að Seðlabankinn geti sinnt hlutverki sínu samkvæmt 3. og 4. gr. sömu laga, en í 4. gr. er rætt um það hlutverk Seðlabankans að stuðla að virku og öruggu fjármálakerfi. Umrædd lánaviðskipti bankanna við Seðlabankann færðust líka verulega í vöxt á árinu og undirliggjandi í þeim voru kröfur á bankana þar sem gæði útlána þeirra gátu haft afgerandi þýðingu um endurgreiðslumöguleika á þeim lánum sem Seðlabankinn var að veita.Við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom sá skilningur bæði fram hjá formanni bankastjórnar Seðlabankans og framkvæmdastjóra alþjóða-og markaðssviðs Seðlabankans að stofnunin hefði enga heimild til slíkrar gagnaöflunar. Rannsóknarnefnd Alþingis hefur enga skýringu fengið á því hvers vegna þessir lykilstjórnendur Seðlabankans gerðu sér ekki grein fyrir skýrri heimild í 29. gr. laga um Seðlabanka Íslands sem þeim er ætlað að starfa eftir. Nánar er fjallað um þetta í kafla 20.0.
19.8 Afstaða erlendra seðlabankastjóra til Íslands
19.8.1 Upplýsingar sem fram komu í skýrslutökum
Við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis lýsti Ingimundur Friðriksson því hvernig "tónn" erlendra seðlabankastjóra hefði orðið neikvæðari gagnvart Íslandi eftir lokaðan fund þeirra í Washington helgina 12.–13. apríl 2008. Á sama tíma átti Seðlabanki Íslands í viðræðum við seðlabanka Evrópu, Bandaríkjanna, Bretlands, Svíþjóðar, Danmerkur og Noregs um gerð gjaldeyrisskiptasamninga. Í byrjun maí var orðið ljóst að seðlabankar Evrópu, Bretlands og Bandaríkjanna yrðu ekki þátttakendur í slíkum samningi, sbr. umfjöllun í köflum 19.3.7 og 19.3.8 hér að framan.
Við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis var Davíð Oddsson, formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands, beðinn um að lýsa samskiptum sínum við erlenda seðlabankastjóra, og þá einkum evrópska, og hver afstaða þeirra hefði verið til íslenskra banka. Fram kom hjá Davíð að mikil samskipti hefðu verið við aðra seðlabanka. Þannig hefði Davíð á þremur og hálfu ári átt um þrjátíu fundi með bankastjórum seðlabanka hinna Norðurlandanna. Þá hefði hann hitt seðlabankastjóra víða að úr heiminum sex sinnum á ári í Basel. Það hefði verið ljóst að áhyggjur kollega hans hefðu farið vaxandi af íslensku bönkunum á fyrsta ársfjórðungi 2008. Þá sagði hann: "Þó að það væru lítil viðskipti í Finnlandi þá voru Finnar mjög neikvæðir í garð íslensku bankanna, einkum Kaupþings [...] Svíar voru mjög pirraðir af því að þarna voru menn byrjaðir að bjóða mönnum innlán." Davíð sagði að erlendir seðlabankastjórar hefðu haft uppi stór orð um nauðsyn þess að minnka íslenska bankakerfið hratt. Aðspurður um það hvaða áhyggjur erlendir starfsbræður hans hefðu haft svaraði hann: "Það var mjög líkt því sem kom fram hjá þessum erlendu aðilum sem ég lýsti fyrir ríkisstjórninni áður – að þetta væri ekki "sound" bankastarfsemi og það bæri með sér að þeir sjálfir tryðu ekki sínum eigin orðum, að þeir væru farnir að leita eftir innlánum við vaxtakjör sem að mati þessara manna væru úr línu við það sem aðrir væru að bjóða. [...] sænski seðlabankastjórinn var þeirrar skoðunar að svona stórt bankakerfi "versus" Ísland gæti ekki lengur þrifist, það var skoðun sem hann fór að byggja upp hjá sér svona í apríl, maí 2008, og þurfti svo sem ekki að koma á óvart. Það gerðist reyndar 28. eða 29. júní [2008] [...] þá er ég staddur í Basel [...] þá var ég kynntur fyrir [seðlabankastjóra Lúxemborgar] og er rétt búinn að heilsa honum [...] og þá segir hann bara svona: Þitt bankakerfi – eins og það hét – er í miklum ógöngum. [...] sagði hann að hann teldi að íslenska bankakerfið væri á hraðri leið til glötunar og ætti enga von og hann markaði það af því hvernig þeir væru að reyna að ná í peninga í gegnum Lúxemborg, um evrópska seðlabankann, og í framhaldinu átti ég nú fund með honum, daginn eftir, og bankastjórum norrænu bankanna sem þarna voru – kl. 7 um morguninn skelltum við á fundi og svo fengum við hann til að koma til Íslands, bara fáum dögum seinna, og þá var augljóst – það var dálítið merkilegt, því að það var mikið talað um það hér á landi, bæði bankamennirnir og stjórnmálamennirnir, að þetta væri svo erfitt fyrir þá, íslensku bankana, því að þeir hefðu bara aðgang að íslenskri krónu í gegnum Seðlabankann en hefðu ekki neinn aðgang að evrum, en þarna [...] voru [þeir] komnir með lánafyrirgreiðslu upp á fimm milljarða evra [...] það var hærra hlutfall "per" þjóðarframleiðslu en Spánn, með alla sína erfiðleika [...] til viðbótar höfðu þeir mjög mikla fyrirgreiðslu gegnum veðlánin íslensku í sínum eigin gjaldmiðli. Þannig að fyrirgreiðsla seðlabanka við íslensku bankana var orðin óheyrileg og spursmálið er – við vorum að segja það hérna áðan – kannski hefur legið fyrir í tvö til þrjú ár að ef það kæmi svona krísa, fjármögnunarkrísa, þá mundu bankarnir fara á hausinn, menn gátu ekki séð 2005, 2006, fyrri part 2007, að það kæmi slík fjármálakrísa, þess vegna gat maður ekki sagt að þetta færi nokkurn tímann á hausinn þó að maður hefði miklar áhyggjur af því dæmi, en eftir að fjármagnskrísan kom upp þá gat maður sagt: "Ef hún stendur í 12 mánuði þá fer þetta á hausinn" – þetta var bara ekkert mikið flóknara en það dæmið. [...] Hvenær var þetta algjörlega orðið óumflýjanlegt að þetta færi á hausinn, svona eftir á að hyggja þá er það þegar evrópski seðlabankinn ákveður að þrengja kost þeirra hjá sér, byrja að láta þá borga niður, því að þá byrja þeir að færa úr þessum Icesave reikningum t.d. í Hollandi og víðar til að reyna að bjarga sér gagnvart evrópska seðlabankanum og það byrjar svona óróleiki á öllum þessum stöðum, og sama gerist með Kaupþing."Í minnisblaði Ingimundar Friðrikssonar er fjallað um framangreindan fund í Basel undir lok júní 2008. Þar segir að af hálfu Seðlabanka Íslands hafi tveir seðlabankastjórar sótt fundinn. Í minnisblaðinu kemur einnig fram að þeim hafi verið mjög brugðið við viðmót norrænna seðlabankastjóra á þeim fundum. Ingimundur segir síðan: "Engu var líkara en að þeir forðuðust eins og heitan eldinn að hitta þá íslensku eða sjást nokkurs staðar nálægt þeim. Meira segja var það svo að bankastjóri eins norrænu seðlabankanna forðaðist að heilsa þeim íslensku með handabandi þar til hann gat ekki annað þegar hann lenti í lyftu með öðrum þeirra og var þá ekki kveðjan hlýrri en svo að hann rétti vinstri höndina." Í þessu samhengi skal þess getið að við skýrslutöku sagði Davíð Oddsson að viðmót Stefan Ingves, bankastjóra Seðlabanka Svíþjóðar, hefði gjörbreyst til hins verra að loknum fundi seðlabankastjóra svokallaðra G10-ríkja sem fram hefði farið um vorið 2008. Síðan bætti Davíð við: "Og svo hafði hann – ég held að það hafi nú verið seinna sem hann heilsaði ekki Eiríki." Í framangreindum drögum Ingimundar Friðrikssonar að minnisblaði kemur einnig fram að á fundinum hafi bankastjóri Seðlabankans í Lúxemborg óskað eftir fundi með "íslenska og öðrum norrænum seðlabankastjórum". Síðan segir í skjalinu: "Á þeim fundi gerði hann grein fyrir því að íslensku viðskiptabankarnir hefðu nýtt sér fyrirgreiðslu Seðlabanka Evrópu fram úr öllu hófi og sagði að engir bankar vildu lengur eiga viðskipti við íslenska viðskiptabanka út í heimi. Þeir væru eins og holdsveikisjúklingar sem enginn vildi koma nálægt. Í kjölfarið bauð formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands bankastjóra Seðlabanka Lúxemborgar að koma til Íslands svo fljótt sem verða mætti til frekari viðræðna um málið. Eftir Baselferðina gerðist það sömuleiðis að forseti Seðlabanka Evrópu hringdi í formann bankastjórnar Seðlabankans og gerði honum grein fyrir hinu sama og var mjög mikið niðri fyrir. Hann sagði íslensku bankana hafa lagt fram algjörlega ónýt veð í Seðlabanka Evrópu, jafnvel gervipappíra eins og því var lýst."Davíð Oddsson var spurður að því hvort hann hefði upplifað einhvern samblástur gegn Íslandi. Hann svaraði: "Ekki alveg fyrst í stað hafði ég það á tilfinningunni að þetta væri þannig. En þó var það svo að ég sagði við íslensku bankana, sem töldu að þeir mundu bjarga sér þó að "credit-crunch-ið" yrði áfram, með þessari nýju leið, að safna innlánum [...]: Þessir menn telja að þið séuð að eyðileggja þeirra bankakerfi, raska þeirri bankalegu ró sem þar er og grafa undan því, og þó að þeir eigi að hugsa um einhverja heildarhagsmuni þá hugsa þeir fyrst um sitt land og þeir munu ekki leyfa þetta, og þeir eru þegar komnir í startholurnar gegn því. [...] á þessum Basel-kvöldum, þar sem enginn mátti vera nema bankastjórarnir, þar hélt Axel Weber, þáverandi bankastjóri Bundesbank, stutta tölu [...] og þá sagði hann: "Mesta hættan sem nú steðjar að okkur, til viðbótar við allt annað, varðandi stöðugleika í okkar bankakerfi er óábyrg innrás inn á og röskun á stöðugleika á innlánsmarkaði." Davíð sagði að þetta hefði líklega verið í mars 2008. Davíð sagði einnig: "Síðan fann maður náttúrulega frá Noregi að þar var orðinn mikill pirringur – fyrst út í Glitni en svo ennþá meira út í Kaupþing sem ætlaði að fara að opna, og opnaði, innlánsreikninga og lýsing þeirra var alveg skiljanleg. Þeir sögðu: "Við erum hér með "fully funded", öfugt við ykkur, innstæðutryggingasjóðskerfi." Í það hafa norsku bankarnir borgað í áratugi og það hefur aldrei á það reynt þannig að [...] þeir eru búnir að byggja það upp. Nú kemur Kaupþing, fer inn í þetta sama kerfi, hefur ekki borgað krónu inn í það, býður hærri vexti en allir hinir og enginn leggur inn hærri upphæð en nákvæmlega það sem tryggingarsjóðurinn verndar, sem er helmingi hærra en einhverjir aðrir gera, og þetta er bara árás, því að þetta kostar Kaupþing ekkert að þessu leyti til, því að þetta er engin áhætta fyrir kúnnann og hinir eru búnir að borga í kerfið og maður fann alveg tóninn í þessu, hvernig þetta var, og Svíarnir - það var vaxandi óþol hjá þessum mönnum í garð íslensku bankanna [...]. Þessi oflátungsframganga var bersýnilega farin að fara mjög mikið í taugarnar á mönnum og menn voru áhyggjufullir. En þó var þetta svolítið mismunandi og við áttum nú fund með Mervyn King í Englandsbanka, hann var þá orðinn órólegur út af innlánssöfnun svona, hvað það gæti verið kvikt og allt þess háttar. Ég talaði svo við hann "prívat" nokkrum sinnum, við sátum nú saman frá London til Basel í flugvél og [...] þeir voru náttúrulega með mjög stórt og mikið bankakerfi hjá sér þar og voru ekki eins uppteknir af þessari íslensku innrás, eða hvað það væri, eins og það sem smærra var, en höfðu áhyggjur af hvort þessi innlánssöfnun væri nægilega varfærin."
Í skýrslu Davíðs Oddssonar kom einnig fram að straumhvörf hefðu orðið í afstöðu evrópskra seðlabankastjóra eftir fund seðlabankastjóra G10 landanna í Basel sem var haldinn 4. maí 2008. Í skýrslu Ingimundar Friðrikssonar kom einnig fram að augljós afstöðubreyting hefði orðið til Íslands eftir þennan fund G10 landanna. Már Guðmundsson, sem á þessum tíma var hagfræðingur hjá Alþjóðagreiðslubankanum í Basel, staðfesti að honum hefði verið kunnugt um að á fundinum hefðu komið fram efasemdir af hálfu erlendra seðlabankastjóra um það hvernig íslenskir bankar gætu boðið svo háa vexti líkt og raun hefði borið vitni. Már skýrði þetta nánar: "Oft í þessum fræðum er það náttúrulega tekið sem dæmi að ef menn eru farnir að bjóða eitthvað miklu hærri vexti heldur en aðrir, þá séu þeir að færa sig út í áætlunum. Þeir hafa annaðhvort feikilega mikla þörf fyrir fjármagn og séu þar með komnir út í svolítið horn, eða þá að þeir eru með háa vexti og þeir þurfi þá að sækja í mjög áhættusamar fjárfestingar til að geta staðið undir því. Nú veit ég það að bankarnir héldu því oft fram að þeir gætu þetta m.a. vegna þess að þeirra starfsemi væri svo... kostnaðurinn í þessu væri svo lítill af því að þetta færi fram á netinu o.s.frv. og þess vegna hefðu þeir samkeppnisforskot og annað þvílíkt. En það skiptir ekki máli upp á þessa hluti, þá vakti þetta mjög mikla tortryggni."
Í skýrslu Davíðs Oddssonar kom fram að hann hefði átt fund með Nout Wellink, seðlabankastjóra Hollands, í Basel 8. september 2008 og hefði Wellink verið hvumpinn og mjög stóryrtur um framgöngu íslensku bankanna við töku innlána og að þeir yrðu stöðvaðir. Davíð kvaðst þá hafa spurt hvort ekki yrði farið að evrópskum reglum við það. Hefði Wellink svarað því til að enginn vandi væri að finna því stoð í evrópskum reglum að stöðva hina óábyrgu íslensku bankastarfsemi. Íslensku bankarnir gætu ekki staðið við skuldbindingar sínar ef á þá yrði gert áhlaup. Fram hefði komið að Wellink væri ekki aðeins að tala fyrir hönd Hollands heldur væri þetta "sameiginlegur skilningur þeirra þarna í Evrópu". Sagði Davíð að þessi afstaða hollenska seðlabankastjórans hefði verið af sama toga og fram hefði komið í fyrrnefndri ræðu Weber.
Í skýrslu Davíðs Oddssonar kom einnig fram að það hefði verið engu líkara en að Stefan Ingves, seðlabankastjóri Svíþjóðar, hefði viljað að íslensku bankarnir minnkuðu verulega og seldu eigur sínar á tveimur til þremur mánuðum og það hefði verið óbilgjörn krafa. Komið hefði fram í viðræðum við norrænu seðlabankana sú afstaða að engin ástæða væri til þess að íslensku bankarnir væru stærri en næmi fjórfaldri þjóðarframleiðslu. Hefði hann þá bent á að þessu marki yrði ekki náð á fáeinum mánuðum. Norski og danski seðlabankastjórinn hefðu sagst skilja það en áréttað að Íslendingar væru hins vegar að gera "allt of lítið og allt of hægt" í því að minnka bankana. Þegar gerðir voru skiptasamningar við norrænu seðlabankana í maí 2008 hefði það síðan komið skýrt fram að dregið væri í efa að ríkisstjórnin ætlaði að takast á við vandann. Davíð sagði að norrænu bankastjórarnir hefðu sagt við sig: "Við vitum að þið skiljið þetta og þið viljið þetta en við verðum bara að hafa "uppáskrift" ráðherra." Davíð kvaðst hafa verið orðinn vonlítill um að samningar næðust þarna um kvöldið og því hefði hann endað með því að segja: "Ég fullyrði það að forsætisráðherra er búinn að lofa mér því að hann muni fylgja þessu fast eftir. Og þá kemur allt í einu: "Ég vil heyra það frá hans munni." Og ég segi: "Bíddu, hvenær? Af því að við erum að klára þetta í kvöld." Þeir hefðu svarað: "Núna." Hefði þá verið hringt í Geir H. Haarde, forsætisráðherra, og farið fram á það að ráðherrar í ríkisstjórninni undirrituðu yfirlýsingu þar sem veitt yrðu loforð annars vegar um ábyrga stefnu í ríkisfjármálum og hins vegar um Íbúðalánasjóð. Yfirlýsingin var undirrituð 15. maí 2008 þótt dagsetning skjalsins sé ranglega sögð 16. apríl 2007. Nánar er um þennan samning fjallað í kafla 4.0 og þar er umrætt skjal jafnframt birt.
Í skýrslu Geirs H. Haarde fyrir rannsóknarnefnd Alþingis lét hann eftirfarandi orð falla um tilurð fyrrnefndrar yfirlýsingar: "Þegar Seðlabankinn gerði gjaldeyrisskiptasamning við norrænu seðlabankana, sem var um miðjan maí 2008, þá setja þeir skilyrði, þeir vilja ekki vera að lána okkur [...] nema að þeir telji að það sé verið að gera rétta og skynsamlega hluti. Það gerðist nú þannig að [...] formaður bankastjórnarinnar var nú búinn að vera að tala við ýmsa sína kollega og engir höfðu sýnt þessu neinn áhuga, að hjálpa okkur, nema Skandinavarnir. Og [...] það er á fundi í Ósló sem hann hringir til mín, ég held að þetta sé 14. maí í fyrra – ég var staddur á Ísafirði, þess vegna man ég þetta, því þetta var ekki bara á skrifstofunni, man þetta mjög vel – og hann sagði: "Ég er hérna með sænska kollega mínum Stefan Ingves, ég vil gjarnan að þú talir við hann, við erum að reyna að klára hér ákveðin mál og hann verður að heyra í þér um það hvað það er sem þeir setja fyrir sig." Og ég talaði við hann, færði mig á milli herbergja þarna á Hótel Ísafirði og þá segir hann: "Við getum ekki bara verið að láta peninga hér af hendi, við verðum að fá einhverja fullvissu um það að þið séuð að gera réttu hlutina og ég fer fram á það við þig sem forsætisráðherra að þú gefir út yfirlýsingu í framhaldi af þessu samkomulagi þar sem þetta kemur fram." Það voru tvö atriði, annars vegar ábyrg stefna í ríkisfjármálum – það var nú ekki vandamál, því við ætluðum hvort eð er að halda því fram – og hitt var Íbúðalánasjóður, vegna þess að allir útlendingar sem höfðu eitthvað stúderað hér ástandið, þeir höfðu sent hingað sérfræðinga, settu fingurinn á útlán hjá Íbúðalánasjóði, og að við mundum gera eitthvað í því sem skipti máli. [...] Þegar heim kom, fórum í þetta strax og þá [...] var líka ákveðið að auk þess sem ég gæfi út þessa yfirlýsingu þá hittumst við þarna fjórir ráðherrar og það var búið til skjal sem var síðan lagt inn í Seðlabankann en ekki birt um það hvað ætti að gera á þessu sviði. Aðili að því samkomulagi var félagsmálaráðherra [...] núverandi forsætisráðherra, sem hafði jafnan tregðast mjög við öllum breytingum á Íbúðalánasjóði, það var ekkert öðruvísi, það var ekkert sem breyttist gagnvart þessu þegar Samfylkingin tók við af Framsóknarflokknum í félagsmálaráðuneytinu, það var bara sama stefnan, ekki skerða hár á höfði Íbúðalánasjóðs eða skjólstæðinga hans, eins og það var kallað. Þannig að við töldum að við hefðum fengið ákveðna viðspyrnu með óvæntri aðild sænska seðlabankastjórans, Stefan Ingves, gagnvart því að fara í þetta mál. Nú þetta er eitt af því auðvitað svo sem að ekki hefur unnist tími til að ljúka." Hinn 16. maí 2008 birti forsætisráðherra eftirfarandi yfirlýsingu á heimasíðu forsætisráðuneytisins:
"Ríkisstjórnin og Seðlabanki Íslands hafa að undanförnu undirbúið margvíslegar aðgerðir til að styrkja aðgang Seðlabankans að erlendu lausafé og efla traust á íslenskt fjármálakerfi og efnahagslíf.
Ég fagna þeirri tilkynningu sem gefin var út í dag um tvíhliða gjaldmiðlaskiptasamninga milli seðlabanka Danmerkur, Noregs, Svíþjóðar og Íslands og tel það mikilvægt skref í átt að ofangreindum markmiðum. Frekari aðgerðir til að styrkja erlenda lausafjárstöðu Seðlabankans eru í undirbúningi.
Af þessu tilefni vil ég einnig leggja áherslu á þá meginstefnu ríkisstjórnarinnar að stuðla að auknum hagvexti og skipulagsbreytingum á íslenska hagkerfinu með það fyrir augum að treysta efnahagslegan stöðugleika.
Til þess að bæta virkni peningamálastefnunnar mun ríkisstjórnin meðal annars þegar undirbúa og birta trúverðuga áætlun um umbætur og breytingar á skipulagi Íbúðalánasjóðs.
Til þess að tryggja áframhaldandi trausta opinbera fjármálastjórn munu stjórnvöld leitast við að viðhalda hinu lága skuldastigi hins opinbera og styrkja umgjörð fjármálastefnunnar.
Stjórnvöld munu einnig vinna að þessum markmiðum á öðrum sviðum."
Í bréfi Geirs H. Haarde til rannsóknarnefndar Alþingis 24. febrúar 2010 kemur fram að hann hefði gert fulltrúum stjórnarandstöðuflokkanna grein fyrir þessu máli og aðkomu ríkisstjórnarinnar að því.
Við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis sagði Davíð Oddsson m.a.: "Þegar þetta var undirritað, þá sögðum við af okkar hálfu: "Við vekjum athygli á því að erlendu bankarnir gera ráð fyrir því að við sendum þeim reglubundið skýrslur um hvernig gangi, "swap-samningarnir", við erum ekki búin að landa þeim eins og fiski hérna í eitt skipti fyrir öll, sem við getum bara tekið og sett í reip, það er ekki þannig, við þurfum að endurnýja þetta með tilteknum hætti, innan tiltekinna fárra vikna, þannig að við erum búin að koma þessu þannig fyrir að menn hafa á okkur ákveðinn krók, þannig að [...] við verðum að reyna að redda þessu með Íbúðalánasjóð og þess háttar", sem margoft var búið að gefa yfirlýsingar um, en síðan var aldrei fylgt eftir, eins og menn vita."Í skýrslu Steingríms J. Sigfússonar, núverandi fjármálaráðherra, fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom fram að hann hefði farið til Svíþjóðar í lok júní árið 2009 til þess að freista þess að fá hagstæðari lánskjör á lánum frá Norðurlöndum. Á fundum sem hann átti með Anders Borg, fjármálaráðherra Svíþjóðar, og Stefan Ingves, sænska seðlabankastjóranum, hefði komið fram að óánægja hefði verið á Norðurlöndum með það að íslensk stjórnvöld hefðu hvorki staðið við né sýnt viðleitni til að standa við það samkomulag sem gert var í tilefni af gjaldeyrisskiptasamningunum frá því í maí 2008.Við skýrslutöku sagði Steingrímur: "Ég upplifði það á þessum fundum og hef reyndar gert það víðar að áhyggjur manna á Norðurlöndunum og víðar hafi verið orðnar miklu meiri en opinbert var á þessum tíma og að menn hafi greinilega reynt að koma þeim skilaboðum með ýmsum hætti til íslenskra stjórnvalda og íslenskra stofnana en fundist kannski lítið gerast í framhaldinu og síðan kom það fram að lokum [...] að það hefði ekki bætt úr skák að í beinu framhaldi af því að gerðir voru þessir samningar á milli seðlabankanna, þá er haldinn reglubundinn seðlabankastjórafundur Norðurlandanna og á þann fund mætti ekki seðlabankastjóri eða bankastjóri Seðlabanka Íslands, sem að þeir höfðu greinilega tekið sem svona heldur lítinn þakklætisvott eða samstarfsvilja af Íslands hálfu í beinu framhaldi af því að [...] samið var um þessar lánalínur."19.8.2 Upplýsingar sem rannsóknarnefnd Alþingis aflaði frá bankastjóra Seðlabanka Svíþjóðar
Rannsóknarnefnd Alþingis ritaði Stefan Ingves, bankastjóra Seðlabanka Svíþjóðar, bréf 4. nóvember 2009 þar sem þess var m.a. farið á leit að hann myndi svara ákveðnum spurningum um samskipti við Seðlabanka Íslands og gjaldeyrisskiptasamninga sem gerðir voru við Seðlabanka Íslands vorið 2008. Ingves svaraði með bréfi, dags. 22. janúar 2010. Í bréfinu kemur m.a. fram að Ingves telji að það hafi fyrst verið í ágúst 2006 sem hann hafi lýst áhyggjum sínum varðandi fjármálastöðugleika á Íslandi við Davíð Oddsson, formann bankastjórnar Seðlabanka Íslands. Hafi Ingves þá einkum haft í huga stærð og útþenslu íslensku bankanna. Ingves ræðir einnig í bréfi sínu um að beiðni Seðlabanka Íslands um gjaldeyrisskiptasamninga vorið 2008 hafi ekki komið á óvart miðað við þróun mála á alþjóðlegum fjármagnsmörkuðum á þeim tíma. Hann segir að honum hafi þótt fulltrúar Seðlabanka Íslands áhyggjufullir, ekki sérlega vel undirbúnir og heldur ekki gera sér fulla grein fyrir þeim hættum sem verið hefðu fyrir hendi. Ingves lýsir því einnig að í kjölfar gjaldeyrisskiptasamninganna hafi ekki náðst mikill árangur hjá íslenskum stjórnvöldum við að framkvæma nauðsynlegar breytingar á efnahagsmálum sínum. T.a.m. hafi stærð fjármálageirans í raun lítið breyst. Ingves tekur fram að hann hafi þó gert sér grein fyrir því að erfitt væri fyrir stjórnvöld að breyta um stefnu á skömmum tíma miðað við þáverandi markaðsaðstæður. Undir lok bréfsins lýsir Ingves loks þeirri skoðun sinni að óskýrt eignarhald ásamt örum vexti efnahagsreiknings bankanna hafi leitt til hættuástands sem íslensk stjórnvöld hafi hvorki virst átta sig á né fyllilega skilið hvernig mætti mæta með því að draga úr stærð bankanna.
19.8.3 Ályktanir rannsóknarnefndar Alþingis
Kjarnann úr kafla 19.8.1 og 19.8.2 má draga saman þannig að á fyrsta ársfjórðungi ársins 2008 var orðið ljóst að áhyggjur af stærð íslenska bankakerfisins fóru vaxandi meðal sumra evrópskra seðlabankastjóra. Þannig töldu norrænu seðlabankastjórarnir að ganga yrði hratt í að minnka íslensku bankana þar sem þeir væru allt of stórir miðað við getu íslenska ríkisins og Seðlabanka Íslands til að koma þeim til aðstoðar ef þeir lentu í erfiðleikum. Einnig liggur fyrir að íslensku bankarnir höfðu að auki bakað sér óvild í Evrópu með tvenns konar hætti. Annars vegar með því að hefja töku innlána á hærri vöxtum en aðrir bankar töldu sig geta boðið. Litið var á þessa hegðun íslensku bankanna sem óábyrga og sem hættumerki um stöðu þeirra auk þess sem litið var svo á að hún ógnaði stöðugleika á þessum mörkuðum. Hins vegar höfðu bankarnir valdið reiði stjórnenda Seðlabanka Evrópu með framgöngu sinni í endurhverfum viðskiptum við bankann í gegnum Seðlabanka Lúxemborgar. Hlutfallslega voru endurhverf viðskipti íslensku bankanna við Seðlabanka Evrópu með því hæsta sem gerðist í Evrópu auk þess sem stofnunin gerði alvarlegar athugasemdir við þau bréf, sem bankarnir höfðu notað í viðskiptum við hann. Nánar er um þessi viðskipti fjallað í kafla 7.0.
Í skýrslu Davíðs Oddssonar, formanns bankastjórnar Seðlabanka Íslands, kom fram að hann hefði skýrt orðið var við viðhorfsbreytingu hjá bankastjórum evrópskra seðlabanka eftir fund G10 landanna sem haldinn var í byrjun maí 2008.Af fyrirliggjandi upplýsingum verður jafnframt ráðið að strax í apríl hafi þessa breytta viðhorfs tekið að gæta í hópi hinna erlendu seðlabankastjóra. Verður ekki annað séð en að á þessum tíma hafi margir þeirra verið komnir á þá skoðun að umfang vanda hinna íslensku fjármálafyrirtækja væri slíkt að það yrði ekki leyst með skiptasamningum við Seðlabanka Íslands eða annarri fyrirgreiðslu sem þeir gætu veitt, heldur yrði íslenska ríkið að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um aðstoð. Í þessu samhengi verður það vart talin tilviljun að Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, lagði til við Geir H. Haarde að Íslendingar sneru sér til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á fundi þeirra sem haldinn var í Downingstræti 10 24. apríl 2008 líkt og rakið er í kafla 19.3.7. Í raun voru það einvörðungu seðlabankar Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar sem með eftirgangsmunum fengust til að gera gjaldeyrisskiptasamninga við Seðlabanka Íslands. Það gerðist þó ekki fyrr en forsætisráðherra veitti loforð um að þrýst yrði á íslensku bankana að draga saman stærð efnahagsreikninga sinna með hliðsjón af tillögum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. En loforð forsætisráðherra Íslands í símtali var af hálfu hinna norrænu seðlabankastjóra ekki talið nægjanlegt heldur var krafist undirritaðrar yfirlýsingar þriggja ráðherra ríkisstjórnarinnar um ábyrga stefnu í ríkisfjármálum og um breytingar á Íbúðalánasjóði. Fyrirgreiðsla norrænu seðlabankanna var þannig bundin skilyrðum um að ríkisstjórn Íslands beitti sér fyrir ákveðnum pólitískum aðgerðum og athöfnum af hálfu Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins. Ráðherrarnir undirrituðu yfirlýsinguna 15. maí 2008 ásamt bankastjórn Seðlabanka Íslands en hún var ekki birt opinberlega eða lögð fram á ríkisstjórnarfundi. Jóhanna Sigurðardóttir lýsti því við skýrslutöku að yfirlýsingin hefði heldur ekki verið rædd í ríkisstjórn.Að framansögðu athuguðu virðist það hafa verið mat norrænna seðlabanka að íslensk yfirvöld hefðu ekki beitt sér af nægilegu afli við að draga úr stærð íslensku fjármálafyrirtækjanna, hefðu ekki haldið uppi nægilega ábyrgri stefnu í ríkisfjármálum auk þess sem ekki hefði verið ráðist í breytingar á Íbúðalánasjóði sem taldar væru nauðsynlegar. Svo notuð séu orð, sem Davíð Oddsson eignar bankastjórum danska og norska Seðlabankans, höfðu íslensk stjórnvöld gert "allt of lítið og allt of hægt" í því að minnka íslensku fjármálafyrirtækin. Ekki verður séð að bankastjórar norrænu seðlabankanna hafi borið mikið traust til þess að íslenska ríkisstjórnin myndi ráðast í þessi verkefni fyrst þess var sérstaklega krafist að fá loforð ráðherranna um nauðsynlegar umbætur skjalfest og undirrituð. Og bankastjórarnir gerðu líka kröfu um að þeir yrðu jafn harðan upplýstir um hvað stjórnvöld gerðu til þess að framkvæma hin gefnu loforð. Þegar lítið varð um efndir á fyrrnefndum loforðum af hálfu ríkisstjórnarinnar sumarið 2008 bætti hún gráu ofan á svart. Verður því ekki annað séð en að þegar þetta aðgerðaleysi bættist við það viðhorf sem áður hafði verið uppi á vettvangi erlendra seðlabanka gagnvart Íslandi hafi íslensk stjórnvöld verið orðin mjög einangruð að þessu leyti á alþjóðavettvangi og þar með átt í fá hús að venda þegar kom að falli íslensku bankanna í október 2008.
19.9 Sjónarmið forsvarsmanna þriggja stóru bankanna
19.9.1 Samskipti þeirra við Seðlabanka Íslands
Í skýrslu Hreiðars Más Sigurðssonar, forstjóra Kaupþings banka hf., kom eftirfarandi afstaða fram til Seðlabankans: "Ég held að það hafi verið mjög mikil mistök að setja Davíð Oddsson sem seðlabankastjóra, ég tel það og það bara vegna sögunnar og það var aldrei traust á milli okkar og hans [...] við sögðum alltaf satt og rétt frá og reyndum að koma með góð ráð og byggja traust en það var bara, held ég, ekki einfaldlega hægt [...] ég fékk áhyggjur þegar maður ræddi við hann, hann átti það til svona í tveggja manna tali okkar að fara að rægja keppinauta okkar [...] og þá náttúrulega fór ég strax að hugsa strax: "Hvernig talar hann um mig þegar ég er ekki inni í þessu herbergi?" Svo það náttúrulega, í hans allri aðkomu er þetta náttúrulega, þetta er bara pólitík." Hreiðar sagði einnig: "Já, t.a.m. vorum við með ársfjórðungslega fundi, á milli bankans, Seðlabankans og okkar, og reglan var sú að við fórum til þeirra og þeir komu til okkar, svo að það var, og þegar þeir komu til okkar þá var svona, var hefðin sú að þá var meiri tíma eytt í að við kynntum starfsemi okkar og þegar við fórum niður í Seðlabankann þá var meiri tíma eytt í að fjalla um [mál]. En auðvitað voru alltaf einhver síðan dagskráratriði önnur sem þurfti að fara í gegnum, en það var svona reglan. En það er eitt sem ég tók sem mér fannst fjandsamleg yfirlýsing, mér fannst það, ég tók því þannig, að Tryggvi Pálsson upplýsir mig um það, starfsmaður Seðlabankans, að það sé kominn nýr seðlabankastjóri og hann hafi ákveðið að hætta með þessa fundi, þessa ársfjórðungslegu fundi og ekki nóg með það að þeir fundir sem verði haldnir í framtíðinni, þeir verði bara haldnir í Seðlabankanum, hann ætlaði ekki að koma í heimsókn til okkar. Og ég tók því sem svona fjandsamlegu [...] hann ætlaði ekki að fara að heimsækja, koma í heimsókn í þessa banka."Davíð Oddsson, formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands, lýsti því við skýrslutöku að framangreindir fundir hefðu ekki verið á þann veg að seðlabankastjórar kynntu sér starfsemi bankanna heldur fremur: "[...] þetta var svona meira samkvæmislíf fannst mér, það sem maður horfði á, og eins var það þannig að þetta var heilmikið um það að þeir hittu alla bankana í einu, sem ég gat aldrei skilið því að – við reyndar hittum þá kannski einu sinni á ári í einu með fulltrúa, þ.e. þá hét það nú stjórn [Samtaka fjármálafyrirtækja] og þá komu þeir allir í einu og mér fannst það alltaf gagnslitlir fundir því þeir voru allir að passa sig hver á öðrum. Og svo voru einhver kvöldverðarboð og þess háttar þar á undan." Í skýrslu Sigurðar Einarssonar, stjórnarformanns Kaupþings, fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom eftirfarandi fram: "[Við] eigum [...] ekki mikil samskipti svona síðustu misserin hans sem forsætisráðherra. En hann kemur reglulega fram og hreytir ónotum, aðallega í Kaupþing. Síðan verður hann seðlabankastjóri [...].Við reyndum að gera eins gott úr málunum og hægt var og eins og seðlabankastjóri var ítrekað að segja við mig: "Sigurður, Sigurður, við erum í sama bátnum núna og það þýðir ekki að vera með þessar erjur lengur, nú eru sömu hagsmunir." Og það var alveg rétt hjá honum. Síðan förum við svona að huga að því að reyna að flytja bankann úr landi, og þessi evruumræða fór alveg óheyrilega í taugarnar á seðlabankastjóra." Sigurður lýsti því hvernig samskiptin hefðu breyst við Seðlabankann eftir að Davíð Oddsson varð formaður bankastjórnar Seðlabankans: "Hér áður fyrr voru reglulegir fundir með bankastjóra Seðlabankans. Ég held að við höfum haft, það var lágmark, og þetta var að frumkvæði bankastjóra Seðlabankans, og það voru alltaf ársfjórðungslegir fundir með Kaupþingi. Oft var það þannig að annar fundurinn var haldinn í Seðlabanka og næsta fund komu þeir í heimsókn í bankann svona til að kynna sér aðeins starfsemina betur. Þessi fundir voru lagðir af með nýjum bankastjóra og engir reglulegir fundir haldnir. Þannig að það var enginn "díalóg" við Seðlabankann. Og þeir fundir sem [við] áttum síðar með Seðlabankanum, eftir að nýr bankastjóri Seðlabankans tók við, voru meira "ad-hoc" fundir. Til dæmis fundur í apríl 2008, í kjölfar bréfs sem ég sendi forsætisráðherra með afrit á seðlabankastjóra þar sem ég vara við því að það sé bara logn á undan storminum núna."Lárus Welding, forstjóri Glitnis banka hf., kvaðst hafa átt sinn fyrsta fund með Davíð Oddssyni sennilega 16. nóvember 2007 eða skömmu fyrir það og hefðu samskipti þeirra byrjað brösuglega þar sem Davíð hefði greinilega ekki verið ánægður með þróun mála hjá Glitni og hefði dembt því yfir sig. Lárus sagði að aðferðin hefði kannski virkað vel því fundurinn hefði vakið hann vel til umhugsunar. Eftir þetta hefðu þeir átt marga fundi og hefði hann ávallt verið mjög hreinskilinn við Davíð.Við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis ræddi Sigurjón Þ. Árnason, bankastjóri Landsbanka Íslands hf., almennt um samskipti sín við Seðlabankann. Hann sagði: "En samskiptin við Seðlabankann, almennt séð, eru ótrúlega lítil. [...] Almennt séð hringdi Davíð ekki í mig. Kerfið virkaði þannig að Davíð talaði við Halldór, Sturla talaði við Jón Þorstein eða við mig. Ég og Stulli erum vinir, sátum hlið við hlið í menntaskóla, þetta er allt svona á Íslandi, við þekkjumst því ágætlega, þó að við séum ekki vinir í dag en við þekkjumst sögulega séð og getum því alveg talað saman, óháð vinnu.Við tölum því stundum saman en almennt séð var það Jón Þorsteinn sem var í samskiptum við hann."
19.9.2 Um ýmislegt sem miður fór að mati forsvarsmanna bankanna
Hér að framan hefur verið vikið að viðhorfum forsvarsmanna bankanna til tiltekinna atriða sem til umfjöllunar hafa verið. Við skýrslutökur komu hins vegar einnig fram viðhorf um ýmislegt annað sem miður fór. Hér á eftir verður stuttlega vikið að nokkrum þessara atriða.
Margir forsvarsmanna bankanna lýstu því við skýrslutökur að íslensku bankarnir hefðu þróast í að verða áhættusæknari og hefðu nánast allir bankarnir farið yfir í sama áhættusækna viðskiptamódelið. Í skýrslu Hreiðars Más Sigurðssonar, forstjóra Kaupþings, kom t.d. eftirfarandi fram: "Við a.m.k. skilgreindum okkur alltaf sem fyrirtækja- og fjárfestingarbanka. [...] ég held að það hafi verið slæmt fyrir íslenska kerfið að hinir tveir bankarnir ákváðu að fara sömu leið og það urðu sem sagt þrír bankar á Íslandi sem skilgreindu sig sem fyrirtækja- og fjárfestingarbanka sem ætluðu í útrás til Evrópu. Ég hélt kannski að, kannski hefðum við getað þolað það ef við værum með einn banka sem væri í þessu og hinir hefðu sinnt einhverju öðru."Þá kom fram hjá mörgum viðmælendum rannsóknarnefndarinnar að gagnstætt því sem margir virtust telja hefði verið afar hörð samkeppni á milli bankanna á Íslandi sem að sumu leyti hefði komið þeim í ógöngur. Um þetta atriði sagði Sigurjón Þ. Árnason, bankastjóri Landsbankans: "Eitt af stóru vandamálunum í íslensku bankakerfi [...] var að hluta til að það var of mikil samkeppni [...] annars vegar ertu með verðlagningu sem þér finnst vera rökrétt og rétt [...] og svo kemstu að því að það verslar bara enginn við þig og þá er það bara þannig að þá þarftu eitthvað að breyta. [...] Þegar Kaupþing fór út í íbúðalánin þá var ég bara hundfúll yfir því, mér fannst það bara algjört rugl [...]. Hvernig á maður að geta keppt á 4,15%, eða 4,45 eins og þeir byrjuðu á? Hvernig á ég að fjármagna þetta, hvar á ég að fá langtímafé til að fjármagna fasta vexti í 4,45 eða 4,55? [...] Þetta er bara rugl og allt sem var sagt í fjölmiðlum til að útskýra þetta, að menn væru svo stórir í erlendu og svoleiðis, allt bara rugl. Þetta stenst enga bankalega skoðun, allt sem menn voru að segja hjá KB. En hvað áttirðu að gera? Þegar kerfið er hannað þannig að ef þú ferð í viðskipti þá ertu læstur næstu 40 ár. Hvað áttu að gera? Og þú bara ferð út í vitleysuna líka." Við skýrslutökur höfðu forsvarsmenn bankanna mörg orð um þau vandamál í starfsskilyrðum bankanna er lutu að íslensku krónunni. Í skýrslu Sigurðar Einarssonar, stjórnarformanns Kaupþings, fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom fram að hann hefði talið gengi íslensku krónunnar allt of hátt árið 2003 og það fengi ekki staðist til lengdar. Í erindi sem hann hélt 13. febrúar 2003 kvaðst hann hafa sagt það óskiljanlegt að Seðlabanki Íslands væri ekki að kaupa meiri gjaldeyri og selja krónur til þess að veikja krónuna og styrkja um leið gjaldeyrisvaraforða sinn, en hann hefði verið á þeirri skoðun að stórauka bæri gjaldeyrisvaraforðann. Aftur hefði þetta stuðlað að því að ójafnvægi í viðskiptum við útlönd hefði numið tugum prósenta af þjóðarframleiðslu og þetta umhverfi, sem Sigurður sagði að stjórnvöld hefðu sætt sig við, hefði orsakað að mikil eftirspurn hefði verið eftir því að fá að taka lán í erlendri mynt. Sigurður sagði að Kaupþing hefði eindregið varað við slíkum lánum þegar lántakendur hefðu ekki haft tekjur í erlendri mynt. Sigurjón Þ. Árnason minntist einnig á það hversu mikil eftirspurn hefði verið eftir því að fá að taka lán í erlendri mynt. Sigurjón sagði m.a.: "Flestir halda að það hafi verið að troða því ofan í kokið á fólki að taka erlent lán út á húsin en það var akkúrat öfugt, menn grenjuðu að fá þetta. Meira að segja sagði ég einhvern tíma á útibússtjórafundi að þeir yrðu reknir ef þeir héldu áfram að lána erlent. En samt gerðist það af því að eftirspurnin var orðin svo gríðarleg."
Sigurjón Þ. Árnason áréttaði einnig að miklar sveiflur á gengi íslensku krónunnar hefðu gert útflutningsfyrirtækjum ákaflega erfitt fyrir. Sigurjón sagði m.a.: "Markmið með öllu sem við gerum er að eiga gott líf – svo getum við haft skoðun á því hvað er að hafa gott líf, það er svona mismunandi, en efnislega trúa flestir því að hafir þú meiri peninga, meira umleikis sé lífið heldur betra. Það gæti reyndar verið "feill" þar en alla vega trúa menn því almennt. Svo trúa menn því að það að auka hagvöxt valdi því að allir hafi það betra að meðaltali og þess vegna vilja menn hagvöxt. Markmiðið er að fá hagvöxt vegna þess að það á að vera betra líf.Til þess að fá hagvöxt trúa menn því að stöðugleiki hjálpi til við að búa til hagvöxt, sem er líka rétt. Svo kemur "feillinn", [að] 2,5% verðbólga mæld með vísitölu neysluverðs sé skilgreining á stöðugleika. Það er algjör misskilningur. Þarna er einhver algjör "feill". Skilgreining á stöðugleika er ekki 2,5% verðbólga mæld með vísitölu neysluverðs, það þarf að vera einhvers konar stöðugleiki í gengi, það er ekki hægt að reka fyrirtæki þegar gengið fer út og suður, þá þurfa allir að vera sérfræðingar í gengi en ekki því að búa til vöru eða að selja þjónustu." Sigurjón lýsti því sem hann kallaði séríslensk vandamál með svohljóðandi hætti: "Við erum með Seðlabanka sem er ekki með bakland til að styðja við mynt sem er náttúrulega bara út í hött að vera með, yfir höfuð, þegar þú ert kominn með stórt bankakerfi. Hún virkar fínt þegar þú ert með sjávarútveg og var kannski góð fyrir okkur á sínum tíma en eftir að við komum með þetta stóra bankakerfi þá er þetta ekki hægt. Það að láta bankakerfið verða svona stórt og vera ekki búinn að hugsa um bakland á neinn hátt það eru bara mistök af allra hálfu, mistök okkar að láta bankana verða stóra og mistök hinna að búa ekki til baklandið úr því á annað borð var verið að leyfa bönkunum að verða stórir. Það eiga allir sína sök í því. Kannski gerðu menn sér bara ekki grein fyrir því fyrr en of seint. Ég held að það sé ekki nein illkvittni í því af neinna hálfu."Varðandi stærð bankanna sögðu ýmsir viðmælendur rannsóknarnefndar Alþingis að hægt hefði verið að hemja stærð þeirra ef stjórnvöld hefðu viljað beita sér fyrir því. Annars vegar hefði t.d. verið hægt að gera kröfu um hærra eiginfjárhlutfall bankanna af hálfu Fjármálaeftirlitsins og hins vegar hefði Seðlabanki Íslands getað beitt bindiskyldu. Um bindiskylduna sagði t.d. Sigurjón Þ. Árnason: "Ef Seðlabankinn vill bremsa [bankana] með einhverjum hressilegum hætti af og gerir þessa hluti þá getur hann notað bindiskyldu til þess. [...] Seðlabankinn hefur lýst því yfir að hann hafi ekki getað gert eitt eða neitt til þess að hemja vöxt bankanna [...] segir að hann hafi engin stjórntæki, bara vaxtatæki þá er það bara [...] ekki rétt [...]. Svarið er: "Bindiskylda er stjórntæki sem Seðlabankinn hefur, einkum og sér í lagi til að hemja útlánavöxt í raun." En sem banki ertu alltaf frekar á móti því að vera með bindiskyldu vegna þess að bindiskylda felur í sér að það er tekið ákveðið magn af peningum hjá þér og sett á lága vexti í Seðlabankanum í staðinn fyrir að þú gætir lánað [þá] út og fengið [hærri vexti]."Forsvarsmenn bankanna létu ýmis ummæli falla um vandamál við fjármögnun bankanna. Þannig kom t.d. fram í skýrslu Hreiðars Más Sigurðssonar að það hefði haft mjög afdrifaríkar afleiðingar fyrir bankann að komast í flokkinn AAA hjá Moody's. Hreiðar sagði: "En eftir á að hyggja var þetta hins vegar mjög slæmt fyrir okkur. Það sem gerist er það að lánshæfismatið rýkur upp og síðan þurfa þeir að fara að vinda ofan af mikilli gagnrýni sem þeir fá á sig fyrir þetta, svo þeir byrja að lækka lánshæfismatið, svo við erum á neikvæðum horfum til lækkunar og það sem gerist, bara traust aðila á lánshæfismati Moody's einfaldlega nærri því hvarf, a.m.k. í Evrópu. Þetta hins vegar gerði það líka að verkum að þetta [...] bætti ansi mikið í bjartsýnina og þá eignabólu sem varð til á Íslandi." Þá benti Hreiðar einnig á að það hefði verið stór veikleiki hins íslenska bankakerfis "hversu mikið var fjármagnað á heildsölumarkaði og á markaði og ástæðan er einfaldlega sú að [...] þá er alltaf einhver krísa á þessum mörkuðum". Í skýrslu Hreiðars kom einnig fram að það hefði bakað Íslendingum mikla óvild hjá mörgum evrópskum seðlabönkum þegar þeir hófu að taka við innlánum. Evrópsku seðlabankastjórarnir hefðu verið samtaka um að vilja þá burt þar sem háir vextir íslensku bankanna á innlán í Evrópu hefðu verið að valda því að vaxtalækkanir seðlabankanna hefðu ekki náð í gegn: "Við vitum náttúrulega bara af öllu, að þetta var mjög óþægilegt fyrir alla stóru bankana og við vitum það að vextir, þeir voru byrjaðir að lækka vexti þarna á þessum tíma og að vextirnir voru að lækka miklu hægar heldur en þeir vildu." Loks sagði Hreiðar Már að það sem átt hefði þátt í að fella Landsbankann og Glitni banka hf. hefði verið það hvernig þeir komu fram gagnvart Seðlabanka Evrópu í endurhverfum viðskiptum.
Í skýrslu Hreiðars Más Sigurðssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom einnig fram sú afstaða að Seðlabanki Íslands hefði gert þau mistök að taka aðallega skuldabréf í bönkunum sem veð fyrir lánum til bankanna. Þannig hefði Seðlabankinn átt að taka veð í eignum bankanna. Þrátt fyrir að því væri nú haldið fram af Seðlabankanum að það væri flókið, þá væri það ekki rétt. Hefði Seðlabankinn þannig átt að fara svipaða leið og Seðlabanki Evrópu hefði gert í lok apríl 2008 þar sem lokað hefði verið á bankabréfin. Þannig hefði átt að taka veð í íbúðalánum og útlánum til sjávarútvegsfyrirtækja. Síðan bætti Hreiðar við: "Ef seðlabankastjóri trúði því virkilega að þetta kerfi gæti verið að hrynja, eins og hann heldur fram í dag, þá átti hann náttúrulega aldrei að lána Sparisjóðabanka Íslands þrettánfalt eigið fé hans, 130 milljarða, og hann átti aldrei að hleypa þessum erlendu aðilum inn í íslenska ríkið. Það er þetta sem skýrir þetta gríðarlega gjaldþrot Seðlabankans."
Svipuð viðhorf komu fram í skýrslu Sigurjóns Þ. Árnasonar, bankastjóra Landsbankans, en hann sagði: "Hvers vegna er Seðlabanki Íslands með mikið af bankabréfum? [...] Það er vegna þess að í reglunum hjá þeim er það þannig að þeir taka bara á móti "rate-uðum" bréfum og þá hafa þeir tvo valmöguleika, þ.e. ríkisbréf og bankabréf, ekkert annað virkar. Hvers vegna gera þeir það? Vegna þess að þeir nenna ekki að skoða útlán sem veð [...]. Því auðvitað er það þannig að hlutverk seðlabanka til þess að lána lausafé þegar menn vantar [...] en ef þú ert ósáttur við veðið þá áttu bara að lækka lánshlutfallið [...]. En seðlabankar nenna ekki að gera þetta, almennt séð í heiminum – þeir mundu auðvitað aldrei viðurkenna það, en þetta er bara raunveruleikinn – þess vegna treysta þeir bara á það að horfa á "rating"."Framangreind viðhorf voru borin undir Davíð Oddsson, formann bankastjórnar Seðlabanka Íslands, við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis. Davíð sagði: "Mínar skýringar eru þessar: Það var auðvitað vitað, og það kemur fram í fundargerðum í bankaráðinu, ég sagði frá því í bankaráðinu, að þessi ástarbréf – eins og ég kalla þau, ég bjó nú til það nafn – væru, ef allt færi á versta veg, í eðli sínu ákveðin froða og því gerði ég ríkisstjórninni auðvitað grein fyrir. En um leið og við segðum að Sparisjóður Reykjavíkur eða Sparisjóður Keflavíkur eða Sparisjóðabankinn – við tækjum ekki mark á bréfi sem Landsbankinn ábyrgðist af því að við teldum að hann mundi fara á hausinn þá færi hann á hausinn, ekki daginn eftir heldur síðdegis þann sama dag. Svona var þetta." Aðspurður hvort ekki hefði verið hægt að taka veð í öðru en bankabréfum svaraði Davíð: "Það hefði verið miklu flóknara, já og erfiðara, að ég hygg. Mitt fólk hafði farið yfir það, en ég er ekki með það á takteinunum, það hefði orðið miklu flóknara og erfiðara og þurfti mikinn mannskap."
Í þessu samhengi má einnig minna á svör Sturlu Pálssonar, framkvæmdastjóra alþjóða- og markaðssviðs Seðlabankans, sem fjallað er um í kafla 19.3.10 hér að framan: "Það er bara svo rosalega mikið vesen að taka við einhverju sem er "fysískt" skuldabréf. Og það er í rauninni ekki fyrr en held ég bara í september sem við erum farnir að taka þetta á brettum, þarna [fasteignaveðin]."Í skýrslu Sigurjóns Þ. Árnasonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis var rætt um ólíkt form lánasamninga hér á landi í samanburði við þá miklu stöðlun á formi slíkra samninga sem viðgengst erlendis. Sigurjón sagði að ekki væri við því að búast að erlendir eftirlitsaðilar skildu alveg íslenska útlánaframkvæmd. Erlendis væri sérhæfing mjög mikil. Síðan sagði Sigurjón: "Lánin eru því ekki svona tær eins og þeim finnst að þau hljóti að vera, að það sé bara hægt að fá, já ef þið eigið svona mikið af lánum út á fasteignir þá tökum við það bara. Lán út á fasteignir hjá okkur eru í mörgum tilfellum hjá okkur bara partur af fyrirgreiðslu fyrirtækisins og það er krossveðsett á móti, þessu og þessu og þessu. Þetta er svona eitt risastórt spaghettí sem þjónustar heilt atvinnulíf sem er allt annars eðlis."Við umræður um vandamál sem sögð voru séríslensk bar á góma að eigendur bankanna hefðu verið ákaflega fyrirferðarmiklir á markaði og hefði það valdið stjórnendum bankanna ákveðnum vanda. Þá hefðu erlendir aðilar haft áhyggjur af krosseignatengslum og skuldsetningu. Í skýrslu Hreiðars Más Sigurðssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom t.d. fram að þeir greiningaraðilar sem sett hefðu sig vel inn í málin á Íslandi í ársbyrjun 2006 hefðu ekki aðeins haft áhyggjur af krosseignatengslum á Íslandi heldur einnig skuldsetningu kerfisins, þ.e. "að það væri skuldsetning á bak við hlutabréfin í bönkunum sem væru búnir að skuldsetja sig mikið, þeir lánuðu inn í fyrirtæki, inn í félög sem skuldsettu sig aftur og fóru [síðan] og keyptu skuldsett fyrirtæki".
Fram kom að íslensku bankarnir hefðu fengið í fangið mjög illa sett íslensk fyrirtæki síðla árs 2007 og í byrjun árs 2008 sem hefðu verið í viðskiptum við erlenda banka sem hefðu sagt upp þeim viðskiptum. Af skýrslum bankamanna að dæma virðist mega ráða að þannig hafi safnast upp mörg "lík í lestinni" á þessum tíma. Hreiðar Már Sigurðsson sagði t.d.: "Við vitum það eftir á að þetta var að gerast hjá nokkuð [...] stórum aðilum sem voru með viðskipti við íslensku bankana. Og erlendu bankarnir voru að fara út, voru að loka á þá, [...] það sem íslensku bankarnir þurftu þá að taka ákvörðun á þeim tíma: "Eigum við að standa á bak við þessa viðskiptavini okkar og hjálpa þeim og reyna að komast í gegnum þetta eða eigum við að taka [þá föstum tökum]."" Hreiðar Már sagði að ef fyrirtæki hefðu verið látin fara í þrot hefði það verið metið sem veikleikamerki og af þeim sökum hefði verið talið að þeir yrðu að koma þessum fyrirtækjum til aðstoðar.
19.9.3 Um sjónarmið forsvarsmanna stóru bankanna þriggja
Hér verða ekki dregnar saman sérstakar ályktanir vegna þeirra sjónarmiða forsvarsmanna þriggja stóru bankanna sem reifuð eru í kafla 19.9 heldur verður nánar vikið að þessum atriðum í kafla 21.0 eftir því sem tilefni er til og þá í tengslum við önnur atriði sem þar verður fjallað um.