5. kafli – Samstarf sparisjóða innan Sambands íslenskra sparisjóða 1996–2008

5. Samstarf sparisjóða innan Sambands íslenskra sparisjóða 1996–2008

5.1 Inngangur

Samband íslenskra sparisjóða (SÍSP) var stofnað 27. apríl 1967 og var því ætlað að vera hagsmunabandalag sparisjóðanna og vettvangur fyrir samráð þeirra og samvinnu. Tilgangi sambandsins var lýst á þessa leið í 3. grein laga þess:

1. Að standa vörð um hagsmuni sparisjóða og styrkja starf þeirra þannig að þeir verði hæfari til að gegna því hlutverki sínu að efla sparnað og stuðla að heilbrigðu efnahagslífi þjóðarinnar.

2. Að vera málsvari sparisjóðanna og koma fram og gæta hagsmuna þeirra gagnvart stjórnvöldum og öðrum aðilum.

3. Að vera vettvangur sameiginlegra viðræðna og sameiginlegra ákvarðana sparisjóðanna.

4. Að skipuleggja og beita sér fyrir sem víðtækastri samvinnu sparisjóðanna og stuðla að hagræðingu og þróun í starfi þeirra.

5. Að fara með fyrirsvar við gerð kjarasamninga fyrir hönd sparisjóðanna, samkvæmt umboði þeirra.

6. Að vera þjónustuaðili við sparisjóðina.

7. Að annast önnur þau verkefni, sem því kann að vera falið með lögum eða á annan hátt og eru samrýmanleg markmiðum þess og tilgangi.

8. Aðilar að SÍSP skulu styðja tilgang og starfsemi þess.1

Rétt er að taka fram að þessi grein laganna stóð óbreytt í það minnsta frá aðalfundi SÍSP árið 1982, að öðru leyti en því að á aðalfundi 2005 var lítilsháttar orðalagsbreyting gerð á 5. tölulið, og síðustu málsgreininni var bætt við. Hér kemur fram að hlutverk SÍSP var ekki síst í því fólgið að standa vörð um sérstöðu sparisjóðanna á fjármálamarkaði og þar með að verja þá fyrir ásælni og áhlaupum stærri fjármálastofnana. Sigurður Hafstein, sem gegndi starfi framkvæmdastjóra SÍSP 1980–2004, hélt ræðu á aðalfundi SÍSP árið 2000 og vék þar meðal annars að utanaðkomandi ógn, sem um þær mundir birtist einkum í yfirvofandi sameiningu Landsbanka og Búnaðarbanka. Í framhaldinu sagði Sigurður:

Frá blautu barnsbeini hafa hugsjónir leitt mig áfram í lífinu. Þörfin á að trúa á eitthvað sem ég hef talið mér trú um að hefði þýðingu og væri mikilvægt íslensku samfélagi. Fyrst var hún í 25 ár samfélagspólitísk [en] síðustu 20 árin hefur hún verið sparisjóðapólitísk. Ég trúi því að sparisjóðirnir gegni miklu samfélagslegu hlutverki. Ég trúi því að sparisjóðirnir og sparisjóðahugsjónin sé leið fjármálalegrar valddreifingar í þjóðfélaginu og sparisjóðastarfsemin byggi á öðrum samfélagsgildum en að auðga hinn almáttuga fjárfesti nútíma markaðshyggju. Að sparisjóðastarfsemin stuðli að velmegun – hvar sem menn eru búsettir hér á landi. – Að skammtíma gróðasjónarmið verði ekki ráðandi um það að fólk geti fengið lífsnauðsynlega þjónustu og svo mætti lengi halda áfram.

Litlu síðar í ræðunni bætti Sigurður því við að mestu skipti að „Sparisjóðafjölskyldan á Íslandi“ sneri bökum saman andspænis „þeirri ógn sem nú steðjar að tilvist hennar“.2

Þó að stærstu sparisjóðirnir séu nú horfnir af sjónarsviðinu, starfa eftirlifandi sparisjóðir enn saman í Sambandi íslenskra sparisjóða. Í markaðsstarfi sparisjóðanna í dag koma þeir fram undir heitinu „Sparisjóðurinn“ og reka meðal annars sameiginlega vefsíðu (spar.is). Á vefsíðu SÍSP mátti til skamms tíma finna eftirfarandi klausu þar sem vikið er að atburðum síðustu ára og litið til fortíðar og framtíðar:

Það er engin nýlunda að það ólgi í sparisjóðakerfinu. Frá upphafi hafa sparisjóðir verið stofnaðir, lagt niður starfsemi, sameinast öðrum sparisjóðum eða breytt um rekstrarform. Frá því að fyrsti sparisjóðurinn var stofnaður af búlausum bændasonum í Mývatnssveit árið 1858 hafa umsvif sparisjóðanna undið upp á sig og sett mark sitt á íslenskt samfélag. Þannig er það enn í dag þó vissulega ríki óvissa um framtíðina í kjölfar ólgu á fjármálamörkuðum um allan heim og neyðarlaga sem sett voru á Íslandi í október 2008. Sagan hefur þó sýnt okkur að alltaf ná sparisjóðirnir að lenda með báða fætur á jörðinni.3

Sú ólga í sparisjóðakerfinu sem þarna er nefnd verður til umfjöllunar hér á eftir – en einnig sú trú á erindi sparisjóðanna við íslenskt samfélag sem þessi orð láta í ljós. Gerð verður grein fyrir skoðanaskiptum um eðli og stefnu sparisjóðakerfisins sem áttu sér stað innan vébanda Sambands íslenskra sparisjóða á árunum 1996–2008.

5.1.1 Almennt um skipulag og stjórnarhætti SÍSP

Áður en lengra er haldið er rétt að gera stutta grein fyrir skipulagi Sambands íslenskra sparisjóða, lagaramma þess og óskráðum hefðum sem settu sterkan svip á starfsemi þess.

Fram til ársloka 2007 var stjórn SÍSP skipuð sjö aðalmönnum og tveimur varamönnum. Á því tímabili sem hér er til skoðunar hafði skapast sú hefð að varamenn sætu jafnan stjórnarfundi og voru þeir í reynd fullgildir stjórnarmenn hvað þátttöku í umræðu og ákvörðunum áhrærði. Formaður SÍSP var kjörinn sérstaklega á aðalfundi, til eins árs í senn, en aðalmenn í stjórn voru kosnir til tveggja ára í senn og gengu þrír þeirra úr stjórn á hverju ári. Varamenn voru aftur á móti kjörnir til eins árs í senn. Í lögum SÍSP var ekki kveðið sérstaklega á um það hverjir væru gjaldgengir í stjórn sambandsins að öðru leyti en því að þeir þyrftu að vera stjórnarmenn eða starfsmenn sparisjóða. Reyndin var hins vegar sú að yfirgnæfandi meirihluti stjórnarmanna kom úr hópi sparisjóðsstjóra. Alsiða var að þegar stjórnarmaður átti ekki heimangengt á stjórnarfund hljóp annar fulltrúi sama sparisjóðs í skarðið, iðulega aðstoðarsparisjóðsstjóri hans.

Stjórn SÍSP sá um að ráða framkvæmdastjóra sambandsins og mætti hann á stjórnarfundi og tók fullan þátt í þeim, nema hvað hann hafði ekki atkvæðisrétt. Stjórnin skipaði einnig fulltrúa sparisjóðanna í stjórnir hinna ýmsu félaga og fyrirtækja sem SÍSP átti aðild að, svo sem Reiknistofu bankanna, Fjölgreiðslumiðlunar, greiðslukortafyrirtækjanna o.s.frv.

Jafnframt starfaði innan SÍSP svokallað fulltrúaráð sem í sátu tólf menn að viðbættum stjórnarmönnunum níu. Formaður SÍSP var jafnframt formaður fulltrúaráðsins. Fulltrúaráðsmennirnir tólf voru kosnir á aðalfundi og komu að jafnaði úr hópi sparisjóðsstjóra og stjórnarformanna sparisjóða. Fulltrúaráðinu bar að funda að minnsta kosti tvisvar á ári og var því ætlað „að ræða stefnu og markmið sparisjóðanna og að stuðla að samheldni þeirra á milli“.4 Þar að auki boðaði stjórnin stundum til funda með sparisjóðsstjórum og stjórnarformönnum allra sparisjóða, sem voru þá eðli málsins samkvæmt fjölmennari en fulltrúaráðsfundirnir.

Allir sparisjóðir gátu gerst aðilar að SÍSP og greiddu þá árgjald til sambandsins en upphæð árgjaldsins réðst af stærð sparisjóðanna. Á aðalfundum SÍSP gilti hins vegar lengst af sú regla að hver sparisjóður fór með eitt atkvæði, óháð stærð.

Um samsetningu stjórnar SÍSP er það að segja að á því tímabili sem hér er til skoðunar virðast engin dæmi um að aðalfundur hafi gengið gegn tillögum stjórnarinnar sjálfrar um kjör stjórnarmanna. Reyndin var sú að stærstu sparisjóðirnir fjórir, sem allir voru staðsettir á höfuðborgarsvæðinu, áttu nær undantekningarlaust fulltrúa í stjórninni.

Á árunum 1996–2007 voru lengst af um og yfir 25 sparisjóðir í landinu, en eins og yfirlitið ber með sér áttu einungis 14 sparisjóðir fulltrúa í stjórn SÍSP á tímabilinu. Stóru sparisjóðirnir fimm, Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis, Sparisjóður vélstjóra, Sparisjóðurinn í Hafnarfirði, Sparisjóður Kópavogs og Sparisjóðurinn í Keflavík, áttu nær alltaf fulltrúa í stjórn SÍSP (eða, með öðrum orðum, sparisjóðsstjórar þessara sjóða voru jafnan í stjórn sambandsins).

Segja má að Sparisjóður Mýrasýslu hafi komið næstur á eftir stóru sparisjóðunum fimm hvað snertir stjórnarsetu í SÍSP, en hann átti í reynd fastafulltrúa í stjórninni á umræddu tímabili. Þá átti Sparisjóður Húnaþings og Stranda lengst af fulltrúa í stjórn. Sparisjóður Siglufjarðar átti svo fulltrúa á fyrri hluta tímabilsins uns út af bar í rekstri sparisjóðsins og má segja að Sparisjóður Vestmannaeyja hafi tekið sæti hans í stjórn. Sparisjóður Bolungarvíkur átti lengi vel fulltrúa í stjórninni, en því skeiði lauk er Sólberg Jónsson hvarf úr stjórn á aðalfundi 2000. Sparisjóður Norðlendinga átti fulltrúa í stjórn SÍSP í þrjú ár, og var sá raunar formaður stjórnarinnar, því Jón Kr. Sólnes, stjórnarformaður Sparisjóðs Norðlendinga, var kjörinn formaður SÍSP í október 2002 eftir söguleg átök.

Eins og þessi umræða ber með sér, en kemur þó öllu skýrar fram á næstu blaðsíðum, voru yfirburðir stóru sparisjóðanna umtalsverðir innan SÍSP. Óskráðar reglur giltu um samstarf og samskipti þeirra stóru og hinna sem minni voru í sniðum, og snerust þær ekki síst um það hvernig farið skyldi með atkvæði á aðalfundum SÍSP.

Valdastaða stóru sparisjóðanna innan SÍSP birtist meðal annars í því að í þeim félögum og fyrirtækjum sem sambandið átti aðild að voru stjórnarformenn og stjórnarmenn nær eingöngu úr röðum fulltrúa stóru sjóðanna. Í þessu sambandi má einnig nefna svokallaðan „þriðjudagshóp“, nokkurs konar samráðshóp stóru sjóðanna sem fundaði reglulega á þriðjudögum. Í umræðu um stefnumótun sparisjóðanna frá og með árinu 1996 gætti nokkurrar óánægju með störf þessa hóps og var starfsemi hans að lokum bundin í lög SÍSP á aðalfundi 1998 og hann gerður að formlegri framkvæmdastjórn sambandsins. Við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefndinni greindi Guðmundur Hauksson, sem sat í stjórn SÍSP 1996–2002, þar af sem formaður síðustu tvö árin, frá því að fundir þriðjudagshópsins hefðu verið „mjög óskipulegir og […] ekki […] færðir til bókar“, en að vísu var ráðin bót á því eftir að framkvæmdastjórnin var sett á fót í formannstíð Þórs Gunnarssonar.5 Á þessum fundum voru, að sögn Guðmundar, „í rauninni teknar allar ákvarðanir sem snertu málefni sparisjóðanna“ en sá háttur hafður á að þegar mál voru borin upp á hinum eiginlegu stjórnarfundum „þá mætti […] ekki láta eins og þetta hefði verið rætt áður“.6 Eftir að Guðmundur varð formaður SÍSP hafði hann frumkvæði að því að leggja framkvæmdastjórnina af og var það samþykkt á aðalfundi sambandsins 2001.

Samstarf sparisjóðanna náði til margra og ólíkra þátta, þar á meðal reksturs tryggingarsjóðs og tölvumiðstöðvar að ógleymdum Sparisjóðabankanum. Þá stóðu sparisjóðirnir að sameiginlegu markaðsstarfi og öflugu fræðslustarfi. Nánar er gerð grein fyrir þessum þáttum hér aftar, en um Sparisjóðabankann vísast til 31. kafla.

5.2 Stefnumótun sparisjóðanna í deiglunni 1996–2006

Á aðalfundi SÍSP 18. október 1996 var Þór Gunnarsson, sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Hafnarfjarðar, kosinn formaður sambandsins og leysti þar af hólmi Baldvin Tryggvason, sparisjóðsstjóra Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, sem gegnt hafði formannsembættinu um árabil. Jafnframt tók nýr sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, Guðmundur Hauksson, sæti í stjórninni í stað Baldvins.

Nýi formaðurinn hóf þegar undirbúning að stefnumótun um samstarf sparisjóðanna, sem margir töldu löngu tímabæra. Breytt lagaumhverfi og aðstæður á markaði, ásamt tilkomu dótturfélaga sparisjóðanna á borð við SP-fjármögnun hf. og ekki síst Kaupþing, kölluðu á nýjar skilgreiningar á samstarfi sparisjóðanna og nýjan ramma utan um það. Samið var við ráðgjafarfyrirtækið Stuðul ehf., sem Gísli S. Arason rekstrarráðgjafi var í forsvari fyrir, um að stýra stefnumótunarvinnunni. Upphaflega var rætt um að ljúka vinnunni á vormánuðum 1997 en raunin varð önnur. Gísli S. Arason féll frá um sumarið og félagi hans hjá Stuðli ehf., Jóhann Magnússon, tók þá við málinu. Veturinn 1997–1998 var gerð úrslitatilraun til að ljúka stefnumótuninni og náði hún hámarki í mikilli fundahrinu í janúar og febrúar 1998, án þess þó að niðurstaða næðist. Næstu mánuði varð hlé á vinnunni en um haustið var þráðurinn tekinn upp að nýju, eða öllu heldur sá þáttur sem sneri að skiptingu á eignarhlut sparisjóðanna í dótturfélögum þeirra. Það málefni þoldi enga bið og tókst að finna á því lausn, en stefnumótunin varð að öðru leyti endaslepp í þessari lotu. Stefnumótunarvinnan dróst fram á miðjan fyrsta áratug 21. aldar og má jafnvel segja að niðurstaðan sem þá náðist hafi verið því sem næst andvana fædd, enda var þá tekið að kvarnast verulega úr „sparisjóðafjölskyldunni“ og stærstu sparisjóðirnir farnir að horfa hver í sína áttina, og þá meira út á við en inn.

Ítarleg gögn um stefnumótunarfundina er að finna í skjalasafni SÍSP og eru þau afar gagnleg heimild sem veitir mikilsverða innsýn í skoðanir þeirra sem best til þekktu á möguleikum sparisjóðarekstrar á Íslandi, og ekki síður þær deildu meiningar sem mörkuðu sambandið á þessu skeiði. Þannig eru þau skoðanaskipti sem þarna fóru fram í senn til vitnis um þau úrlausnarefni sem fylgja sparisjóðarekstri við ríkjandi aðstæður á fjármálamarkaði og um innri erfiðleika í sparisjóðasamstarfinu á umbrotatímum.

5.2.1 Stefnumótun 1997–1998: Sviðsmyndirnar fimm og fundahöld á Hótel Örk

Á fundi með nokkrum forsvarsmönnum sparisjóðanna 7. nóvember 1997 lagði stefnumótunarhópurinn sem Jóhann Magnússon veitti forstöðu fram fimm sviðsmyndir sem lýstu ólíkum kostum í framtíðarsamstarfi sparisjóðanna. Á fundinum voru Guðmundur Hauksson, sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, og Hallgrímur Jónsson, sparisjóðsstjóri Sparisjóðs vélstjóra, auk formanns SÍSP, Þórs Gunnarssonar, sem var sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Hafnarfjarðar, og Sigurðar Hafstein, framkvæmdastjóra SÍSP. Í stefnumótunarhópnum sátu hins vegar, auk Jóhanns, Ólafur Haraldsson frá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, Jónas Reynisson frá Sparisjóði Hafnarfjarðar og Ólafur H. Guðgeirsson, markaðsstjóri SÍSP. (Til stóð að boða fulltrúa Sparisjóðsins í Keflavík á fundinn, en samkvæmt fundargerð fórst það fyrir „vegna misskilnings milli aðila í vinnuhópnum“.7) Sviðsmyndirnar fimm báru eftirfarandi heiti sem lýsa ágætlega kjarna þeirra:

1. Lítið samstarf – mjög mikið valfrelsi
2. Samstarf með miklu valfrelsi
3. Meira samstarf – stefnumótun hjá SÍSP
4. Mikið samstarf – miðlæg starfsemi
5. Samrunaleið8

Hart var deilt um tillögur þessar á fundinum. Þór Gunnarsson lýsti þeirri skoðun sinni „að meira frelsi og minna samstarf sparisjóðanna myndi leiða til þess að litlir sparisjóðir myndu einangrast“.9 Hallgrímur Jónsson sagði að enginn þessara fimm valkosta væri honum að skapi og bætti því við að tillögurnar miðuðu að óheftri samkeppni þar sem „allir keppa við alla“. Í þessu fælist meðal annars að „dótturfélögin fengju fullt frelsi til að keppa við sparisjóðina“, en slík samkeppni væri „meginvandamál sparisjóðanna í dag“ og nefndi Hallgrímur í því sambandi að „dótturfélögin [væru] að bjóða í viðskiptavini sparisjóðanna“.10 Aftur á móti stæði til að „hefta Sparisjóðabankann“, en því andmælti Hallgrímur kröftuglega og taldi vænlegra að „[s]etja […] bönd á dótturfyrirtækin“.11

Ekki verður séð að stefnumótunin hafi þokast mikið áleiðis á þessum fundi – en rétt er að benda á að í þeirri togstreitu milli sjálfstæðis og samstarfs, eða samkeppni og samstöðu, sem kristallast í sviðsmyndunum fimm og viðbrögðum Þórs og Hallgríms við þeim birtast margir helstu átakapunktarnir sem settu svip á stefnumótunarvinnuna næstu mánuði og raunar ár.

Þremur vikum síðar, 28. nóvember 1997, fundaði „verkefnisstjórnin“, þ.e. sami hópur forsvarsmanna sparisjóðanna og áður, að nýju með stefnumótunarhópnum og voru þá Geirmundur Kristinsson frá Sparisjóðnum í Keflavík og Halldór Árnason frá Sparisjóðnum í Kópavogi einnig meðal fundarmanna. Í framhaldi af gagnrýni sinni á tillögur stefnumótunarhópsins lagði Hallgrímur Jónsson fram sína eigin tillögu á fundinum og kvað henni ætlað að koma í veg fyrir samkeppni innan sparisjóðakerfisins og sameina kraftana undir stjórn SÍSP. Tillaga Hallgríms mætti harðri andstöðu. Guðmundur Hauksson hafði þau orð um hana að hún væri „gjaldþrotastefna sparisjóðanna“. Viðskiptavinir myndu „í stórauknum mæli leita beint til dótturfyrirtækjanna“ og „[s]parisjóðirnir sætu eftir sem ónýtar einingar, afgreiðslur, sem hefðu það meginhlutverk að taka á móti gestum og gangandi“. Guðmundur sagði Hallgrím ganga of langt í því að „búa til eitt mynstur sem hentaði öllum“ en samstarfið yrði að „byggja á sveigjanleika, sveigjanlegu netskipulagi sem hægt væri að aðlaga að þörfum sem flestra sparisjóða“. Grundvallarverðmæti sparisjóðanna væri fólgið í sjálfstæði þeirra. Skásta lausnin gæti verið að fara samrunaleiðina og „sameina sparisjóðina og jafnvel dótturfélög í eina rekstrarheild“.12 Jónas Reynisson, Geirmundur Kristinsson og Halldór Árnason tóku undir sjónarmið Guðmundar sem bætti því síðan við að „ef dótturfélögin hefðu ekki haft frjálsræði [hefði] Kaupþing ekki náð þeim árangri sem náðst hefði í dag“. Hallgrímur svaraði því til að „meginmarkmiðið [hlyti] að vera að stækka sparisjóðina, ekki láta dótturfélögin draga úr þeim tennurnar“.

Í ljósi þessa ágreinings var brugðið á það ráð í byrjun árs 1998 að boða aðstandendur stefnumótunarinnar til tveggja daga fundar á Hótel Örk dagana 22.–23. janúar. Ekki tókst þó að ljúka umræðunni þar; „maraþonfundirnir“ í Hveragerði urðu raunar þrír en þó tókst ekki að ljúka ákveðnum málum og sú sátt sem náðist risti ekki ýkja djúpt. Ítarlegar fundargerðir þessara funda er að finna í skjalasafni SÍSP.13

Fundurinn í janúar 1998 hófst á því að Jóhann Magnússon skýrði helstu niðurstöður stefnumótunarhópsins, en þær höfðu tekið nokkrum breytingum frá því á fundunum í nóvember árið áður. Í fyrstu urðu litlar umræður um það sem Jóhann hafði fram að færa en þegar hann vék talinu að skipulagi sparisjóðasamstarfsins kom annað hljóð í strokkinn. Í upphafi umfjöllunar sinnar um þessi mál tók Jóhann saman fjögur meginatriði sem hann kvað nokkuð skýran meirihluta fyrir innan stefnumótunarhópsins:

– Leggja megináherslu á að mæta harðnandi samkeppni með [því] að auka tekjur og efla tekjugrunn sparisjóðanna. Leiðin að því marki er með markaðslegri aðgreiningu frá keppinautum, einkum með aukinni og betri þjónustu á sviðum [þar] sem sparisjóðirnir geta haft samkeppnisforskot umfram keppinauta.
– Kostnaði verði haldið sem lægstum miðað við starfsumsvif. Hinsvegar verði megináherslan í samkeppni við önnur fjármálafyrirtæki ekki [á] lækkun kostnaðar, heldur á tekjuhlið og með markaðslegri aðgreiningu.
– Innbyrðis samkeppni milli sparisjóða og við dótturfélög verði formlega viðurkennd, þar sem takmörkun á henni og reglur þar um myndu draga úr samkeppnishæfni sparisjóðaheildarinnar gagnvart öðrum keppinautum. Jafnframt verði formlega viðurkennt að svæðaskipting gildi ekki lengur og landið sé eitt markaðssvæði.
– Meginregla í samstarfi sparisjóðaheildarinnar skuli vera að samstarf sé á grunni frjálsra viðskipta hverju sinni en ekki settar hömlur á frelsi til athafna. Hinsvegar beri að finna vinnureglur og samskiptareglur [sem] auki samkeppnishæfni sparisjóðanna og draga úr núverandi ágreiningi og óþægindum í samskiptum þeirra.14

Jóhann brá síðan upp glæru þar sem vikið var að sviðsmyndunum fimm sem stefnumótunarhópurinn lagði fram á fundinum 7. nóvember 1997. Á glærunni voru umræðurnar á þeim fundi túlkaðar á þá leið að forsvarsmenn sparisjóða hefðu brugðist við sviðsmyndunum með því að leggja fram tvær tillögur, annars vegar „um mikið samstarf og stýringu dótturfélaga með stofnun eignarhaldsfélags um öll dótturfyrirtækin“ og hins vegar um „samstarf með miklu valfrelsi sparisjóða og dótturfélaga“. Í verkefnisstjórn stefnumótunarvinnunnar (þ.e. stefnumótunarhópnum) hafi síðan komið í ljós að meirihluti væri fyrir síðari kostinum, og að sú niðurstaða hafi þar að auki verið „í samræmi við skoðanir sem fram [hafi] komið frá forsvarsmönnum dótturfélaganna“. Í framhaldinu var greint frá því að meirihluti stefnumótunarhópsins hefði, í samræmi við þá „staðreynd að ákvörðunarréttur sérhvers sparisjóðs [væri] frjáls“, komist að þeirri niðurstöðu að hópurinn hefði aðeins „umboð til að stilla upp sviðsmynd um samstarf með miklu valfrelsi sparisjóða og dótturfélaga – og vinna að útfærslu þeirrar leiðar með verkefnisstjórn“.

Í glærukynningunni var tillagan skýrð nánar. Kjarni hennar var sá að öll „[s]ameiginleg starfsemi [þyrfti] að vera á grundvelli frjálsra ákvarðana sérhvers sparisjóðs“. Skipaður yrði markaðshópur með sex fulltrúum frá fimm sparisjóðum sem tæki ákvarðanir um fjárveitingar „til sameiginlegra auglýsinga- og vöruþróunarmála“ samkvæmt markaðs-áætlun. Kostnaði af markaðshópnum yrði skipt á milli þeirra sparisjóða sem ættu aðild að honum samkvæmt samkomulagi þeirra á milli. Sparisjóðir gætu þar að auki keypt afurðir og auglýsingar hver af öðrum. Hvað afurðir dótturfélaga snerti væri einstökum sparisjóðum í sjálfsvald sett hvort þeir byðu upp á þær. Jafnframt réðu þeir gjaldskrám sínum sjálfir, en gætu þó leitað ráða hjá Sparisjóðabankanum um þau mál. Þá yrði komið á fót afkomuhópi, sem í sætu fulltrúar þriggja til fimm sparisjóða, og skyldi hann sjá um að „koma fram með hugmyndir um vaxta- og gjaldskrármál til sparisjóða sem ættu aðild að hópnum og Sparisjóðabankans“ og léti sig einnig varða hagræðingu innan sparisjóðanna. Þar að auki yrði stofnaður fræðsluhópur með sex fulltrúum frá fimm sparisjóðum sem sæi um sameiginlega fræðslu á vegum sparisjóðanna. Kostnaði vegna fræðsluhópsins yrði skipt í samræmi við notkun einstakra sparisjóða á fræðslustarfinu. Þá fælu tillögurnar í sér að meginhlutverk SÍSP yrði hagsmunagæsla og stefnumótun sparisjóðasamstarfsins eftir því sem við ætti.

Ekki voru fundarmenn á eitt sáttir um þessar tillögur. Guðmundur Hauksson talaði fyrir minna samstarfi og aukinni samkeppni. Samstarfið hlyti að þrengjast; það gæti að vísu haldið áfram á sviði hagsmunagæslu, tækni- og fræðslumála, en í markaðsmálum hlyti hreinræktuð samkeppni að taka við og þá væri „allt landið undir“.15 Einhverjir fundarmanna tóku undir sjónarmið Guðmundar en Hallgrímur Jónsson andmælti þeim: „Samkeppni mun leiða til þess að ekki verður litið á okkur sem eina heild, við verðum aftur litlir og aumir.“ Þór Gunnarsson lýsti þeirri skoðun sinni að samkeppni milli sparisjóðanna væri eðlileg og mestu skipti að setja reglur um hana og virða þær.

Halldór J. Árnason tók þá til máls og kvaðst verða „rólegri ef hægt væri að stilla hlutunum þannig upp að kúnnar hvers annars verði látnir í friði“. Fulltrúar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis á fundinum andmæltu þessu sjónarmiði og sögðu það ekki raunhæft. Vissulega mætti gera heiðursmannasamkomulag um „að troða ekki á tánum hver á öðrum“, en það væri erfitt í framkvæmd. Guðmundur Hauksson benti á að „þriðja hver fjölskylda í Kópavogi [væri] t.d. með reikning í SPRON“ og vandséð væri „[h]ver [ætti] hvaða kúnna“. Hann kvaðst ósáttur við að Sparisjóður Hafnarfjarðar væri „kominn inn í Reykjavík“16 og sagði: „Ef menn vilja samkeppni er það bara gott en þar með er búið að breyta landslaginu; þess vegna fórum við m.a. inn í Kópavog“, og vísaði þar til afgreiðslu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis í Bónusverslun við Smáratorg sem þá hafði nýlega verið opnuð.

Sigurður Hafstein tók þá til máls og benti á að ekki yrði við það ráðið að viðskiptavinir færðu sig milli banka og sparisjóða. Hins vegar væri það „meðvituð ákvörðun að opna útibú á ákveðnu svæði. […] Á til dæmis að vera hægt að setja upp útibú hvar sem er eða á að halda svæðaskiptingu? SPRON til dæmis elti einn af sínum bestu kúnnum inn í Kópavog“. Umræðunni lauk með því að Jóhann Magnússon lagði til að sett yrðu á blað drög að samkomulagi um þessi mál.

Á síðari degi fundarins var rætt nánar um samstarf sparisjóðanna. Miklar umræður urðu um þann möguleika að einstakir sparisjóðir sem hefðu kosið að standa utan við sameiginlegt markaðsstarf gætu engu að síður notið góðs af því. Setja þyrfti verklagsreglur til að girða fyrir slíkt. Í framhaldinu var rætt um hagsmuni smærri sparisjóða („landsbyggðarsparisjóða“) andspænis stóru sparisjóðunum fimm á suðvesturhorninu (Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, Sparisjóði Hafnarfjarðar, Sparisjóði vélstjóra, Sparisjóðnum í Kópavogi og Sparisjóðnum í Keflavík). Í því sambandi lét Björn Jónasson, varaformaður SÍSP og sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Siglfirðinga, þau orð falla að „þetta [væri] bara svona, þessir fimm sjóðir draga vagninn“. Þór Gunnarsson lýsti þeirri skoðun sinni að markaðsáætlun yrði að vera „allra sparisjóðanna“ og af þeim sökum yrði að samþykkja hana í stjórn SÍSP. Jafnframt var rætt um nauðsyn þess að fundir markaðshóps yrðu opnir fulltrúum smærri sparisjóða, og að markaðshópur skyldi kynna drög að markaðsáætlun fyrir stjórnendum sparisjóðanna áður en áætlunin yrði samþykkt. Í því sambandi bar hlutverk framkvæmdastjórnar SÍSP á góma og var rætt um að það kæmi í hennar hlut að samþykkja markaðsáætlunina formlega. Jónas Reynisson andmælti því og vildi að markaðsnefndin hefði sjálf vald til að ganga formlega frá áætluninni. Ekki fékkst niðurstaða í þessa umræðu á fundinum.

Í umræðu um fræðslumál hélt Björn Jónasson á loft sjónarmiðum landsbyggðarinnar, sem þyrfti að njóta sérstakrar fyrirgreiðslu vegna þess kostnaðar sem hlytist af því að „fá kennara til okkar út á land“. Björn talaði einnig afdráttarlaust um mikilvægi þess að halda í regluna um „einn sjóð, eitt atkvæði“, sem gilti á aðalfundum SÍSP, það væri „hornsteinn samstarfsins“. Björn bætti við: „Litlir sjóðir hafa aldrei verið með uppsteyt gegn þessum fimm sem ráða. […] Allir eiga að vera jafnir og valdið er aldrei misnotað; þessir fimm eiga þó að ráða ferðinni.“ Sigurður Hafstein tók undir síðarnefnda atriðið: „Daginn sem litlu sjóðirnir ætla að beygja stóru sjóðina í krafti atkvæðavægis brestur samstarfið.“ Þór Gunnarsson benti aftur á móti á þann gríðarlega mun sem var á kostnaði sparisjóðanna vegna samstarfsins: „SPRON 16 milljónir, Hólahreppur 20.652 krónur“ – og mælti með því, þvert á skoðun Björns, að „það skref að stærðartengja atkvæði verði stigið“. Jónas Reynisson sagði aftur á móti að „[m]eðan SÍSP er ekki að taka verulegar fjárhagslegar ákvarðanir er þetta ekkert mál“. Guðmundur Hauksson tók undir það og sagði „gífurleg verðmæti fólgin í því að geta sest niður sem jafningjar. Hins vegar gengur jafnt atkvæðavægi ekki í stærstu málum“. Undir lok fundar lét Björn Jónasson þau orð falla að Sparisjóður Siglufjarðar vildi „ekki vera sjálfstæður heldur sameinast, vera útibú frá Sparisjóði Íslands“.

Stefnumótunarhópurinn hittist að nýju á Hótel Örk tveimur vikum síðar, dagana 5.–6. febrúar, og var skipulag sparisjóðasamstarfsins meginefni fundarins. Jóhann Magnússon fór að nýju yfir tillögurnar og breytingar sem á þeim höfðu orðið á síðasta fundi og í framhaldi af honum. Fremst í fundargerðardrögum stendur: „Meginprinsipp að sjóðirnir séu sjálfstæðar einingar og samstarfið byggist á sjálfstæðum ákvörðunum.“17 Umræðurnar hófust með því að Hallgrímur Jónsson benti á að það „geng[i] ekki að menn geti hlaupið út og suður, heldur verða menn að sætta sig við að geta ekki algerlega farið eigin leiðir; í samstarfi felst frelsisskerðing“. Sigurður Hafstein tók undir sjónarmið Hallgríms og lýsti þeirri skoðun sinni að í tillögunum væri komið að málunum úr öfugri átt, þ.e. að sjálfstæði sparisjóðanna væri lagt til grundvallar og samstarfið kæmi á eftir – réttara væri að snúa þessu við, „samstarfið gildi en sjóðirnir hafi að sjálfsögðu eigin ákvörðunarrétt“. Jóhann Magnússon svaraði á þá leið að gengið væri „út frá samstarfi sparisjóðanna en með frjálsum ákvörðunarrétti“.

Þegar hér var komið sögu vék Hallgrímur Jónsson að samkeppni sparisjóða á milli og gerði sem fyrr athugasemd við það sem honum þótti vera hugmyndir um óhefta samkeppni í glærukynningu Jóhanns. Guðmundur Hauksson lýsti hins vegar þeirri skoðun sinni að samkeppni milli sparisjóðanna væri staðreynd, „Hafnarfjörður [væri] kominn inn í Reykjavík“. Þar að auki ættu dótturfyrirtækin að fá að stunda frjálsa samkeppni, þ.e. Kaupþing, Alþjóða líftryggingafélagið og SP-fjármögnun hf., en um Sparisjóðabankann gegndi öðru máli: „Skýr skilningur að hann á ekki, má ekki og mun aldrei keppa við sjóðina. Dótturfélögin verða [hins vegar] að fá að blómstra, annars eigum við að selja þau.“

Hallgrímur Jónsson benti í framhaldinu á að vandasamt væri að ganga frá ákvæðum um hömlur á samkeppni sparisjóða, „[það] gengur ekki að við setjum í opinbert skjal að við ætlum að takmarka samkeppni“. Hallgrímur bætti því svo við að hann teldi „orðalag í glærum vera andstætt orðalagi sem samþykkt var síðast“. Jóhann Magnússon kvaðst þá hafa metið niðurstöður síðasta fundar þannig að leyfa ætti samkeppni innan tiltekins ramma sem verklagsreglur myndu kveða á um. Sigurður Hafstein benti á að höfuðborgarsvæðið væri eitt markaðssvæði og ítrekaði mikilvægi samskiptareglna. Á hinn bóginn kvaðst hann ekki kannast við umræðu um að landið væri eitt markaðssvæði og bætti því við að slíkt myndi setja samstarf sparisjóðanna í uppnám „nema við höfum því öflugri samskiptareglur“. Guðmundur Hauksson lýsti sig sammála Sigurði að öðru leyti en því að landið væri vissulega eitt markaðssvæði. Hallgrímur Jónsson tók svo aftur til máls og kvartaði undan því að starfsmönnum Kaupþings virtist hætta til að gleyma því „hver á þá“. Að svo komnu spurði Jóhann Magnússon fundarmenn: „Hvernig er hægt að finna verklagsreglur þegar svona mikill skoðanamunur er innan hópsins?“

Að loknu hádegishléi barst talið að SÍSP og hlutverki þess. Hallgrímur Jónsson og Sigurður Hafstein gerðu athugasemdir við nýja liði í umfjöllun um hlutverk sambandsins þar sem fram kom að „[s]tefnumótun einstakra sparisjóða [færi] fram innan sparisjóðanna sjálfra“ og að „[s]tefnumótun sparisjóðasamstarfsins [grundvallaðist] á samræmingu á stefnu sparisjóðanna“.18 Einnig spunnust nokkrar umræður um sérstöðu sparisjóðanna, einkum samfélagslegt hlutverk þeirra. Guðmundur Hauksson sagði í því sambandi samkvæmt fundargerðardrögunum:

Höfum hugsað þetta í SPRON, ekki nóg að þetta sé bara fyrirtæki, verðum að reka það af okkur að vera bara fyrirtæki. Ekki nóg að segja að við ætlum að afla hagnaðar, verðum að koma inn dýpri hugsun um hvað sparisjóðirnir eru og til hvers við erum fyrir þjóðfélagið. Á eftir að vega að okkur [svo], þarf að vera skýrt hvað við ætlum að vera fyrir fólkið. Þarf að vera djúpstæðara en bara að skapa vinnu.19

Undir þetta tók Jónas Reynisson fyrir hönd Sparisjóðs Hafnarfjarðar. Sigurður Hafstein minnti á að sparisjóðamenn hefðu náð því fram að sett voru lagaákvæði um menningar- og styrktarsjóði sparisjóða „sem eiga að fara í verkefni sem segja að við séum til annars en að græða peninga“. Jóhann Magnússon spurði fundarmenn hvort þarna væri kominn „samnefnarinn í sparisjóðastarfinu, […] það […] sem þið standið fyrir“, þ.e. „að láta hluta af hagnaði í góð málefni“. Geirmundur Kristinsson svaraði því til að það „[v]æri mjög erfitt að ætla að hætta þessu í dag, gætum ekki undið ofan af þessu“ – ímynd sparisjóðanna væri með öðrum orðum órofa tengd hinu samfélagslega hlutverki. Guðmundur Hauksson benti á að sparisjóðirnir sköpuðu sér „sérstöðu gagnvart hlutafélagabönkunum með því að segja að við séum að skila til baka út í samfélagið“. Jóhann Magnússon kvaðst sjá „samnefnara í því að tilvistargrunnur sparisjóðanna sé samfélagslegt hlutverk“ en sagðist ekki hafa „orðið var við það á markaðnum hingað til“. Þessi athugasemd varð tilefni til nokkurra skoðanaskipta um sýnileika sparisjóðanna. Guðmundur Hauksson og Sigurður Hafstein bentu báðir á að sýnileikinn gæti bæði verið kostur og galli. Jóhann dró umræðuna saman og sagði: „Ef við breytum félagsformi erum við að fórna stöðu okkar í samfélaginu.“

Þá barst talið að Sparisjóðabankanum og skapaðist allnokkur umræða um tengsl SÍSP og bankans og þá staðreynd að framkvæmdastjóri SÍSP og bankastjóri Sparisjóðabankans voru einn og sami maðurinn – Sigurður Hafstein. Hallgrímur Jónsson og Þór Gunnarsson lýstu í meginatriðum stuðningi við ríkjandi fyrirkomulag en töluðu jafnframt um það mikla álag sem væri á Sigurði. Jónas Reynisson og Guðmundur Hauksson töluðu öðrum fremur fyrir aðskilnaði þessara tveggja hlutverka. Sigurður og Hallgrímur viku talinu að Kaupþingi og samkomulagi sem gert var þegar fyrirtækinu var breytt í banka og laut að því að það myndi ekki keppa við Sparisjóðabankann. Við þetta hefði ekki verið staðið og Kaupþing léki „lausum hala“. Í framhaldinu tókust menn á um hlutverkaskiptingu Kaupþings og Sparisjóðabankans og voru ekki á eitt sáttir. Guðmundur Hauksson kvaðst ekkert hafa á móti því að Sparisjóðabankinn keppti við Kaupþing en hnaut þó um eitt atriði í tillögunum, þ.e. að Sparisjóðabankinn mætti „nýta sér tækifæri sem öðrum standi ekki til boða“. Þetta túlkaði Guðmundur á þá leið að Sparisjóðabankinn gæti, í krafti upplýsinga sem hann byggi yfir, haft viðskiptavini af Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis og það gæti hann ekki sætt sig við: „bankinn má ekki snerta fyrirtæki í Reykjavík“. Sigurður Hafstein tók til varna fyrir Sparisjóðabankann og kvaðst eiga „erfitt með að sjá á hvorri öxlinni við ætlum að hafa kápuna“. Sömu takmarkanir ættu að gilda fyrir Kaupþing og Sparisjóðabankann. Sigurður kvaðst telja að menn væru í meginatriðum sammála um verksvið fyrirtækjanna tveggja. Það væri gjörólíkt hvað sparisjóðina snerti þótt lagaramminn væri sá sami.

Hallgrímur Jónsson tók undir með Sigurði og gekk raunar svo langt að fullyrða að Kaupþingi leyfðist allt en Sparisjóðabankanum ekkert. Dótturfélögin ættu hins vegar að starfa í sátt og samlyndi á sama hátt og sparisjóðirnir. Jafnframt benti Hallgrímur á mikilvægi Sparisjóðabankans fyrir vöxt sparisjóðakerfisins.

Daginn eftir var umræðu um dótturfyrirtækin haldið áfram og var hún mjög á sömu nótum og áður: tekist var á um hvort og hvernig dótturfyrirtækin ættu að sneiða hjá samkeppni við sparisjóðina. Kaupþing bar þar mjög á góma eins og fyrri daginn og á köflum gengu brigsl manna á milli um að einn sparisjóður hefði „stolið“ viðskiptavinum af öðrum.

Að því búnu var tekið til við að ræða um eignarform sparisjóðanna. Rætt var um leiðir til að auka eigið fé og töluðu Sigurður Hafstein og Þór Gunnarsson um samvinnufélög, hlutafélagabanka og „norsku leiðina“ í því sambandi. Guðmundur Hauksson lýsti þeirri skoðun sinni að nauðsynlegt væri að ræða þessi mál í þaula, því að breytingar væru óhjákvæmilegar: „Krafa mun koma upp að fyrst við getum keypt önnur félög þá sé líka hægt að kaupa í okkur.“ Sjálfur kvaðst Guðmundur vilja skoða „að farið verði alla leið í hlutafjárvæðingu“. Sigurður Hafstein fékk síðan orðið og sagði m.a.:

Spurningin [er] fyrst og fremst sú hvort við ætlum að standa fyrir því að hér séu reknir sparisjóðir, peningastofnanir sem reknar eru á öðrum grunni en viðskiptabankarnir. Ætlum við að reka sparisjóði eða litla hlutafélagabanka? Þessu verðum við að svara. Ef við segjumst ætla að reka stofnanir sem eru öðru vísi en bankarnir getum við útilokað hlutafélagaformið, sem ekki er endilega löggilt besta formið á að reka fjármálafyrirtæki.

Sigurður vísaði síðan til reynslunnar í Danmörku, þar sem aðalfundir stærstu sparisjóða hefðu ákveðið að breyta sjóðunum í hlutafélög – og skömmu síðar hefðu þeir runnið saman við bankana. Sigurður bætti við: „Komi gott tilboð í eigið fé selur fólk“ – og fullyrti í framhaldinu að hlutafjárvæðing sparisjóða hefði í för með sér að „rekstrarformið sparisjóður“ legðist af.

Síðasta málið sem náðist að ræða á þessum tveggja daga fundi var skipting kostnaðar vegna samstarfs. Miklar umræður spunnust um þá skoðun SPRON-manna að óeðlilegt væri að skipta kostnaði við sameiginleg markaðsmál og rekstur SÍSP eftir stærð sparisjóðanna. Ólafur Haraldsson lét t.d. þau orð falla að ekki væri eðlilegt að Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis greiddi „helmingi meira en SPVÉL og aðrir sem [væru] í samkeppni við þá“. Ólafur fullyrti einnig að markaðshópur SÍSP væri „óstarfhæfur“ og setti það í samhengi við kostnaðarhlutdeild og áhrif: „Gengur ekki að þurfa að greiða eftir stærð og þurfa að sætta sig við að ráða bara 1/27.“ Hallgrímur Jónsson brást hart við þessum orðum Ólafs og kvað hann vilja „frysta markaðsmálin“. „Engin sanngirni“ væri til dæmis í því að Sparisjóðurinn í Kópavogi greiddi jafn mikið og Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis til markaðsmála. Sama mætti segja um sparisjóði á landsbyggðinni sem þó greiddu sinn hlut „möglunarlaust þó þeir sjái ekki að þeir hafi neinn hag af því“. Með öðrum orðum væri „fráleitt“ að allir greiddu jafnt til markaðsmála.

Jónas Reynisson benti í framhaldinu á að breytt kostnaðarskipting vegna markaðsmála kallaði ekki bara á breytt atkvæðavægi innan SÍSP heldur líka á breyttan eignarhlut í dótturfélögum. Um kostnaðarskiptinguna sagði hann að ekki væri „fráleitt að skipta þessu eins og gert er í dag“. Þór Gunnarsson fagnaði því að þetta mál hefði komið upp, en játaði að hann hefði ekki átt von á jafn róttækum tillögum frá stefnumótunarhópnum og raun bar vitni. Þór sagði koma til greina að tengja atkvæðavægi innan SÍSP við greiðslur til sambandsins en benti jafnframt á að þá gætu þrír af stærstu sparisjóðunum myndað meirihluta í sambandinu. Jafnframt hélt Þór því fram að „stærsti sjóðurinn [fengi] alltaf mest út úr markaðsmálum“. Guðmundur Hauksson fullyrti hins vegar að það væri verulega ósanngjarnt að Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis borgaði mest til samstarfsins, miklar breytingar hefðu orðið á samstarfinu og umhverfi sparisjóðanna og því yrði að skoða hlutina upp á nýtt. Eins og málin stæðu væri „tilfinning“ SPRON-manna sú að þeir legðu meira til samstarfsins en þeir fengju til baka. Þeir hefðu „ekki [...] sama vægi og þeir [hefðu] haft, miðað við peningaframlag og vinnuframlag“. Guðmundur bætti við: „Ef við erum ósammála því sem sagt er eða gert undir heildarflaggi [sparisjóðanna] þá erum við í vondum málum.“ Hallgrímur Jónsson kvað þessar fullyrðingar vekja furðu og sakaði Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis að nýju um að halda sameiginlegum markaðsmálum sparisjóðanna í gíslingu.

Aðstandendur stefnumótunarinnar hittust þriðja sinni til tveggja daga fundarhalda á Hótel Örk 25.–26. febrúar. Samkvæmt nýjustu gerð glærukynningar Jóhanns Magnússonar var meginmarkmið fundarins að komast að efnislegri niðurstöðu um samstarf sparisjóðanna og dótturfyrirtækjanna. Með öðrum orðum var þráðurinn tekinn upp þar sem frá var horfið 6. febrúar. Hallgrímur Jónsson greindi frá því í upphafi fundar að í millitíðinni hefði komið fram á fundi framkvæmdastjórnar SÍSP „að ekki yrði gengið að tillögum um breytingar á kostnaðarskiptingu, greiða verður eftir stærð“.20 Hallgrímur bætti því við að hann sæi ekki heldur ástæðu til að breyta atkvæðavægi.

Halldór J. Árnason sneri talinu að markaðsmálunum og stakk upp á að reynt yrði að koma saman markaðsáætlun fyrir þá 10 mánuði ársins sem eftir væru. Ólafur Haraldsson hafnaði þeirri hugmynd umbúðalaust og bætti því við að innan Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hefði lengi gætt óánægju með kostnaðarskiptinguna. Hann vék síðan að athugasemdum við markaðsáætlun ársins 1998 sem hann hafði sent Ólafi H. Guðgeirssyni markaðsstjóra SÍSP í tölvuskeyti rúmum mánuði fyrr, 21. janúar, og af fundargerðardrögum má ráða að hann hafi lagt tölvuskeytið fram á fundinum. Eins og fram kom á fundinum á Hótel Örk 5.–6. febrúar hefði að öllu jöfnu átt að samþykkja markaðsáætlunina áður en árið 1997 var úti, en það reyndist ekki mögulegt vegna þess að samþykki Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis lá ekki fyrir. Í tölvuskeyti Ólafs Haraldssonar til nafna síns (sem hefur verið fellt inn í fundargerðardrög stefnumótunarfundarins 25.–26. febrúar) kemur fram að ástæða þess að SPRON-menn drógu að senda inn athugasemdir við áætlunina hafi verið sú að þeir hefðu vonast til að fá „nýja kostnaðarskiptingu sparisjóðanna“ á hreint fyrst, svo og „hvernig fyrirkomulag samstarfs sparisjóðanna á þessu sviði verður í framtíðinni“. Í tölvuskeytinu lýsti Ólafur því yfir að SPRON-menn væru „mjög sammála þeim hugmyndum sem hafa verið uppi í verkefnahópnum (v/stefnumótunarinnar) varðandi markaðssamstarf sparisjóðanna enda verði kostnaðarskiptingu breytt og stærð sparisjóða ráði ferðinni varðandi ákvarðanir“. Jafnframt greindi Ólafur frá því „að SPRON [myndi] í framtíðinni auka sjálfstæði sitt á sviði markaðsmála og breyta um áherslur“ og að það þýddi „að þátttaka í sameiginlegum markaðsmálum breytist mikið. Þó getur breytt kostnaðarskipting og nýtt fyrirkomulag samstarfs sparisjóðanna í markaðsmálum haft einhver áhrif á það mál“. Þessu fylgja sundurliðaðar tillögur um þá þætti markaðsmála sem að mati Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis væri eðlilegt að yrðu hluti af sameiginlegu markaðsstarfi – svo og um þætti sem ættu ekki að heyra undir slíkt samstarf (sjá rammagrein). Einnig óskaði Ólafur eftir því að íhugað yrði að breyta „samstarfi við þá augl[ýsinga]stofu sem mest er notuð með tilliti til þess að hún er jafnframt augl[ýsinga]stofa a.m.k. tveggja sparisjóða sem eru í samkeppni við SPRON“.

Ólafur lagði síðan fram sundurliðaða tillögu um kostnað vegna sameiginlegra markaðsmála á árinu 1998 sem fól í sér umtalsverðan niðurskurð á áætluninni sem markaðsnefnd undir forystu Ólafs H. Guðgeirssonar hafði skilað frá sér. Ólafur Haraldsson lagði til að útgjöldin yrðu 21 milljón króna (að viðbættum virðisaukaskatti) í stað 43 milljóna króna sem upphaflega var gert ráð fyrir. Að lokum lagði Ólafur fram tvær tillögur um kostnaðarskiptingu sparisjóðanna vegna sameiginlegra markaðsmála:

Varðandi nýja kostnaðarskiptingu má sjá hér tvær hugmyndir til skoðunar:
Fyrirkomulag verði þannig að enginn sparisjóður greiði hærri hlutdeild en x% t.d. 10–15%.
Fyrirkomulag verði þannig að sparisjóðir í samkeppni greiði sömu hlutdeild t.d. SPRON; SPKÓP; SPVÉL og SPHAF greiði 12,5% hver eða 50% samtals (nokkuð nálægt þeirra hlutdeild af heildinni). Þetta myndi ekki hafa áhrif á landsbyggðarsparisjóði. Þess má geta að dæmi eru um það að þessir fjórir sparisjóðir hafa skipt kostnaði í einstökum málum með þessum hætti. Bæta mætti SPIKE og SPMÝR í þennan hóp. Þá gæti komið til greina að semja um lægra hlutfall f. SPKÓP og SPMÝR o.s.frv.

Í lokaorðum tölvuskeytis síns benti Ólafur á að „hér [væri] ekki um að ræða beinar tillögur heldur hugmyndir til að ræða“.

Líflegar umræður urðu á stefnumótunarfundinum í kjölfarið á þessu útspili Ólafs Haraldssonar. Hallgrímur Jónsson kvartaði enn undan því að Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis hefði „stoppað afgreiðslu markaðsmála“ og gert markaðsnefndina „óstarfhæfa“. Guðmundur Hauksson tók þá til máls og talaði vafningalaust:

Orð ÓHAR standa; það var ekki SPRON sem ákvað að svæðaskiptingin væri fyrir bí, í kjölfarið erum við komnir í hörku samkeppni. Þurfum að eyða auknum fjármunum í markaðsmál SPRON og munum taka það af sameiginlegum markaðsmálum. Allmikill munur á hvort verið er að tala um þann sem ber uppistöðu kostnaðar eða aðra. Teljum að búið sé að breyta aðstæðum á markaði, búið að hafna tillögum okkar um að jafna eitthvað skiptingu kostnaðar milli samkeppnisaðila. Okkar afstaða er endanleg.

Þór Gunnarsson varð fyrstur til að bregðast við þessum orðum Guðmundar og sagði að orðið hefði „[v]eruleg skoðanabreyting á afstöðu SPRON frá tímum Baldvins [Tryggvasonar]“. Þór bætti því við að hann „[gæti] ekki fallist á að sjóðir misjafnrar stærðar og með misjafna aðstöðu greiði jafnt“. Hallgrímur Jónsson lýsti þeirri skoðun sinni að „verið [væri] að leggja niður sameiginleg markaðsmál og allir fara að berjast hver við annan og allir tapa“. Jafnframt sakaði hann SPRON-menn um að hafa verið að leita sér að átyllu til að losna úr markaðssamstarfinu. Þessi orð urðu Jóhanni Magnússyni tilefni til að biðja fulltrúa Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis á fundinum að taka af öll tvímæli um það hvort þeir vildu „sleppa út“. Guðmundur Hauksson svaraði og talaði um „[r]angtúlkanir“ og bætti við: „Ef við viljum fara út úr sameiginlegum markaðsmálum segjum við það.“ Hins vegar væri ekki sanngjarnt að menn héldu því fram hver í kapp við annan að aðstæður væru breyttar en „SPRON eigi svo áfram að borga brúsann“. Þór Gunnarsson lét í ljós þá skoðun að 21 milljón væri of lág fjárhæð til að unnt væri að ná árangri í markaðsmálum, en síðan tók Jóhann Magnússon aftur til máls og dró saman stöðuna á eftirfarandi hátt:

SPRON fellur frá sínum tillögum um breytta kostnaðarskiptingu, en dregur um leið línur um kostnað sem er svo lág að aðrir geta ekki fallist á það. Er ekki verið að fara þar með bakdyramegin að málinu, þ.e. knýja fram breytta kostnaðarskiptingu?

Hallgrímur Jónsson tók undir þetta og kvað Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis vera að stilla mönnum upp við vegg: „Annað hvort eiga menn að sætta sig við tillögur SPRON eða hætta samstarfinu.“ Við svo búið var ákveðið að gera hlé á fundinum og ræddust menn við í smærri hópum til að reyna að leysa hnútinn sem umræðan var komin í. Þegar fundurinn kom saman aftur lagði Þór Gunnarsson til að farið yrði að tillögu SPRON-manna um fjárframlag til markaðsmála fyrir árið 1998. Aðrir sjóðir mættu hins vegar vinna saman að öðrum markaðsverkefnum og myndi SÍSP liðsinna við það. Kostnaðarhlutdeild sparisjóðanna vegna markaðsmála færi eftir niðurstöðu efnahagsreiknings einstakra sjóða. Þessi tillaga var samþykkt.

Jónas Reynisson benti á að óvíst væri að þessi lausn félli í kramið hjá smærri sparisjóðum (sem áttu engan fulltrúa á fundinum eins og hér hefur komið fram). Þór Gunnarsson tók undir það og brýndi fyrir mönnum mikilvægi þess að kynna málið vel fyrir öllum sparisjóðunum; jafnframt yrði að bera málið upp til samþykktar í stjórn SÍSP. Guðmundur Hauksson lýsti því yfir að SPRON-menn álitu að breyta þyrfti reglum um atkvæðavægi „hvort sem það er gert hér eða síðar“. Hins vegar hefði hann engar áþreifanlegar tillögur tilbúnar í þá veru. Sigurður Hafstein tók til máls og benti á að „[h]vað atkvæðavægi varðar þá er SÍSP ekki hlutafélag heldur hagsmunafélag“. Með það í huga teldi hann það „[s]por afturábak“ að hrófla við atkvæðavæginu, „slíkt hefði slæm áhrif á minni aðila innan samstarfsins“. Jafnframt benti Sigurður á að aldrei hefði reynt á atkvæðavægið þegar ákvarðanir voru teknar innan SÍSP. Þór Gunnarsson tók undir þetta og benti á að allt stefndi í að stærstu sjóðirnir yrðu innan tíðar komnir með meira en helming heildarveltu sparisjóðanna. Því væri í reynd verið „að setja niður á blað að stærstu sjóðirnir ráða“. Guðmundur Hauksson sagði að SPRON-menn væru sáttir við að hafa 1/27 hluta atkvæða þegar rætt væri um „félagsmál“, en öðru máli gegndi um fjármál. Í framhaldinu vísaði hann til Sameinuðu þjóðanna „þar sem sumir hafa neitunarvald“. Hann klykkti út með því að fullyrða að „[s]tærðarmunur [væri] að reka félagsskapinn í sundur“. Hallgrímur Jónsson lýsti þeirri skoðun sinni að best væri að komast að samkomulagi um öll mál og forðast atkvæðagreiðslur.

Hér lauk umræðunni um þessi málefni. Fundargerðardrögin eru nokkuð óljós um lokaorð og niðurstöðu fundarins, en svo virðist sem málinu hafi verið vísað til framkvæmdastjórnar SÍSP.

5.2.2 Bréf Jóhanns Magnússonar til Þórs Gunnarssonar 12. maí 1998

Hinn 12. maí 1998 skrifaði Jóhann Magnússon bréf til Þórs Gunnarssonar formanns SÍSP þar sem hann tók saman stöðu stefnumótunarmálanna og lagði jafnframt fram „persónulegar vangaveltur“ um það hvernig vinnan við stefnumótunina hefði gengið og hvers mætti vænta af henni.21 Í bréfinu segir Jóhann stefnumótunarvinnuna vissulega hafa skilað ýmsu, miklum upplýsingum hefði verið safnað saman, opin skoðanaskipti hefðu orðið og samkomulag náðst um „vissa þætti og forsendur og grundvöll sparisjóðasamstarfsins“. Þó væri því ekki að neita að „stefnumótunarvinnan hefur ekki skilað þeim árangri sem æskilegt hefði verið fyrir sparisjóðina“. Jóhann nefnir síðan sex atriði sem betur hefðu mátt fara.

Í fyrsta lagi er „mjög erfitt að ná fram samkomulagi um sameiginlega stefnu sparisjóðanna“ og er orsökin, að sögn Jóhanns, „[s]tjórnunarleg uppbygging sparisjóðakerfisins“. Þetta sé óðum að verða „mesti veikleiki“ sparisjóðakerfisins. Sparisjóðirnir séu ólíkir hvað varðar stærð og hagsmuni og því séu „skoðanir stjórnenda innan sparisjóðakerfisins um mikilvæga þætti […] mjög mismunandi“. Jóhann bætir við: „Framtíðarsýnin er um margt ólík, áherslur eru mjög ólíkar, kynslóðabil er milli stjórnenda, og mismunandi hugmyndir eru uppi um hvernig eigi að bregðast við vaxandi samkeppni.“ Raunin hafi hreinlega orðið sú að „undanfarna mánuði […] hefur dregið sundur með mönnum og dregið úr samstarfsvilja sparisjóðanna frá því sem áður var“. Niðurstaða Jóhanns um þessi efni er býsna sláandi:

Vegna framangreindra atriða hefur stefnumótunarvinnan fyrst og fremst snúist um hvað stjórnendur innan sparisjóðakerfisins geta komið sér saman um varðandi samstarfið, en ekki snúist um mikilvægustu þætti stefnumótunarvinnu og svarað mörgum mikilvægustu spurningunum sem sparisjóðirnir þurfa að svara varðandi stöðu sína og stefnu til framtíðar.

Í öðru lagi finnur Jóhann að því að margir sparisjóðir hafi „mótað sína eigin stefnu, algerlega án samráðs við aðra sparisjóði eða SÍSP“. Eða, nánar tiltekið:

Þessir sparisjóðir hafa mótað stefnu sína út frá eigin hag sem sjálfstæðar stofnanir í harðri samkeppni á fjármagnsmarkaði, þar sem aðrir sparisjóðir eru skilgreindir sem keppinautar ekki síður en samstarfsaðilar. Ljóst er að stefna þessara sparisjóða fer ekki alltaf saman. Jafnframt er ljóst að stefna einstakra stærri sparisjóða byggir ekki á sparisjóðasamstarfinu sem hornsteini, heldur á því að byggja hratt upp sem mesta samkeppnishæfni innan eigin stofnunar. Helstu ástæður þessarar þróunar eru annars vegar ólíkar skoðanir stjórnenda innan sparisjóðakerfisins um framtíðarstefnu og hinsvegar að sparisjóðasamstarfið sé of svifaseint og ómarkvisst til að geta svarað samkeppninni af þeirri festu sem til þarf. Við núverandi aðstæður þarf stefna sparisjóðasamstarfsins, sem fram fer á vettvangi SÍSP, að taka tillit til stefnu allra sparisjóða, eigi viðkomandi sparisjóðir að vera tilbúnir til að samþykkja hana og vinna eftir henni. Því miður verð ég að segja að í stað þess að ná fram samstilltri stefnu sem gæti verið sparisjóðunum beitt vopn til framtíðar, stefnir nú í að stefnumótun á vegum SÍSP verði hálfgerð moðsuða af misjafnlega mikilvægum þáttum, sem flestir stjórnendur innan sparisjóðaheildarinnar geta verið sammála um.

Í þriðja lagi bendir Jóhann á þann eðlismun sem sé á sparisjóðum á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni. Hinir fyrrnefndu „eru á sama markaðssvæði og höfða til sömu viðskiptavina“ og séu nú þegar „komnir í samkeppni sín á milli ekki síður en í samkeppni við önnur fjármálafyrirtæki“. Þá eigi þeir einnig í vaxandi samkeppni við „eigið dótturfyrirtæki, Kaupþing hf.“ og sama gæti átt við um fleiri dótturfyrirtæki. Jóhann bætir við:

Einstakir sparisjóðir hafa ráðist í aðgerðir, á grundvelli eigin stefnumótunarvinnu, sem aðrir sparisjóðir hafa skilgreint sem samkeppnisaðgerðir sem beinast gegn þeim og jafnvel sparisjóðasamstarfinu í heild. Stjórnendur innan sparisjóðaheildarinnar skilgreina aðra sparisjóði í auknum mæli sem samkeppnisaðila ekki síður en samstarfsaðila. Svo virðist sem stjórnendur innan sparisjóðaheildarinnar séu mun viðkvæmari fyrir þessari innbyrðis samkeppni en fyrir samkeppni frá öðrum fjármálafyrirtækjum, þrátt fyrir að innbyrðis samkeppni sé í reynd verulega lítill hluti af heildarsamkeppni viðkomandi sparisjóða. Ljóst má vera að við þessar aðstæður mun vart skapast grundvöllur til að koma með sameiginlega stefnu í markaðsmálum og samkeppnismálum.

Jóhann bendir á að samkeppnislög takmarki vitaskuld „möguleika á skiptingu markaðssvæða sem áður var mikilvægur grundvöllur sparisjóðasamstarfsins“. Þessi staðreynd, ásamt því að „[s]tjórnendur sumra stórra sparisjóða“ – en engan veginn allra sparisjóða – „hafa […] talið að svæðaskipting eigi ekki við lengur og landið allt sé eitt markaðssvæði“, valdi því að „[l]jóst [sé] […] að samkeppni milli sparisjóða mun aukast áfram hvað sem viðvíkur niðurstöðu stefnumótunarvinnu á vegum SÍSP“. Þar með „[dragi] úr forsendum samstarfs á þeim grunni sem verið hefur til þessa meðal sparisjóðanna“, hvað þá forsendum sameiginlegrar stefnumótunar.

Í fjórða lagi bendir Jóhann á óhagræðið sem hlýst af miklu sjálfstæði einstakra eininga innan sparisjóðakerfisins. Samanburðurinn við viðskiptabanka, sem „geta beitt einstökum einingum sem tækjum á samstilltan hátt í samkeppni til að ná sem mestu út úr heildinni til lengri tíma“, verður þannig afar óhagstæður sparisjóðunum. Með öðrum orðum geti sparisjóðirnir ekki „nýtt þann slagkraft sem býr í heildinni“ og megi þar um kenna „núverandi uppbygging[u] sparisjóðakerfisins“.

Í fimmta lagi ræðir Jóhann um þær ólíku skoðanir sem stjórnendur sparisjóðanna hafi á hlutverki samstarfsins. Sumir telji það eiga að snúast um hagsmunagæslu og „samstarf á sviðum sem ekki eru samkeppnismál“. Aðrir telji „nánara samstarf nauðsynlegt til að ná árangri til framtíðar“. „Þessi ólíku viðhorf, sem eru grundvallarviðhorf til samstarfsins, hafa endurspeglast gegnum alla stefnumótunarvinnuna.“

Í sjötta og síðasta lagi segir Jóhann:

Táknrænt er að ekki er mikill áhugi á að ljúka stefnumótunarvinnunni á vegum SÍSP í dag. Mikilvægir þættir stefnumótunarvinnunnar hafa verið settir í hendur einstakra vinnuhópa eða vísað til framkvæmdastjórnar og öðrum þáttum frestað. […] Að mínu mati vantar talsvert á að tekið hafi verið á veigamiklum atriðum í framtíðarstefnu sparisjóðanna […].

Heildarályktunin sem Jóhann dregur af þessum sex liðum er sú að hann kveðst telja „líklegt að stefnumótunarvinnan muni ekki leiða til þess árangurs sem stefnt var að í upphafi“.

Í síðari hluta bréfsins tínir Jóhann til nokkur mikilvæg atriði sem ekki hafi verið tekið á í stefnumótunarvinnunni. Jóhann sér fyrir sér, og færir fyrir því margvísleg rök, að draga muni sundur með sparisjóðunum vegna ólíkrar aðstöðu þeirra hvað varðar markaðsmál og samkeppnishæfni: þeir stóru muni stækka en hinir minni eiga í vök að verjast. Segja má að kjarnann í bréfi Jóhanns sé að finna í eftirfarandi orðum hans: „Svo virðist sem vilji til náins samstarfs og jafnvel samruna sé takmarkaður meðal sparisjóðanna og meira í orði en á borði.“

5.2.3 Deilt um dótturfélög

Á stjórnarfundi SÍSP 29. júní 1998 gerði Jóhann Magnússon ítarlega grein fyrir stöðu stefnumótunarmála. Fram kemur í fundargerð að ólokið sé verkefnum er varði eftirfarandi málaflokka:

a) Framtíðarstefnu Tryggingarsjóðs sparisjóða og viðbrögð við vanda einstakra
sparisjóða í framtíðinni.
b) Breytingu á félagsformi/eignarformi sparisjóða.
c) Þátttöku sparisjóða í uppstokkun á fjármagnsmarkaði.
d) Breytingu á eignarhlutdeild sparisjóða í dótturfélögum.
e) Lögfestingu framkvæmdastjórnar SÍSP og skerpingu á stjórnskipulagi og stjórnunar- uppbyggingu sparisjóðasamstarfsins.
f) Húsnæðismál.

Á fundinum var rætt um að halda fund með stjórnendum allra sparisjóða og kynna þeim þessa stöðu mála. Ekki er ljóst hvort af þessu varð, en stefnumótunarhópurinn hélt í það minnsta áfram fundahaldi veturinn 1998–1999 og einbeitti sér þá að skiptingu á eignarhaldi dótturfélaga sparisjóðanna. Ekki verður greint frá þessum fundum hér að neinu marki, en óhætt er að segja að þar hafi á köflum orðið átök af svipuðum toga og í fundahrinunni í janúar og febrúar 1998. Fundað var á Hótel Sögu 2. nóvember, 16. nóvember og 14. desember 1998 og náðist samkomulag um skiptingu eignarhluta í Sparisjóðabanka Íslands hf., SP-fjármögnun hf. og Alþjóða líftryggingafélaginu. Lausnin fólst í því að miða eignarhluti einstakra sparisjóða við samsetta hlutfallstölu sem fengin var með því að leggja saman niðurstöðu efnahagsreiknings, heildartekjur og eigið fé í hlutföllunum 45/45/10 (sjá nánar hér aftar). Ekki náðist að ræða um eignarskiptingu Kaupþings en 16. febrúar 1999 var haldinn fundur þar sem gerð voru drög að samkomulagi um það mál.

Á stjórnarfundi SÍSP 17. maí 1999 var lítillega rætt um stöðu stefnumótunarinnar og við það tækifæri lét Hallgrímur Jónsson þau orð falla „að ef hlutafélagsleiðin verði valin hverfi sparisjóðir af sjónarsviðinu“. Lagt var fram minnisblað um eignaskiptingu í dótturfélögunum, þar á meðal Kaupþingi, samkvæmt 45/45/10-leiðinni og lét Sólberg Jónsson, sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Bolungarvíkur, í ljós að sparisjóðir á landsbyggðinni væru ekki sáttir við þá niðurstöðu. Þá var greint frá því að markaðsstjóri SÍSP, Ólafur H. Guðgeirsson, væri að láta af störfum. Fram kemur í fundargerð að starf markaðsstjóra hefði reynst vera „nokkuð „strembið““. Tveir síðustu markaðsstjórar hefðu ekki enst lengi í starfi og hafi ástæða þess verið „ágreiningur við sparisjóði“. Á stjórnarfundi 26. júlí 1999 var síðan greint frá því að Sara Lind Þorsteinsdóttir hefði verið ráðin markaðsstjóri í stað Ólafs.

Á fundi stjórnar 27. september 1999 var enn rætt um eignarhlutdeild í dótturfélögum. Fram kom að á fundi með „flestum sparisjóðsstjórum“ 26. febrúar hefði verið samþykkt að auka hlutafé í dótturfélögunum þannig að það nálgaðist að verða sú stærð sem 45/45/10-reglan kvað á um. Reglan er skýrð á þann hátt í fundargerð stjórnarfundarins að niðurstöðutala efnahagsreiknings að frádregnu eigin fé gildi 45%, meðaltal af heildartekjum önnur 45% og meðaltal af eigin fé 31. desember 1997, 30. júní 1998 og 31. desember 1998 gildi síðan 10%.

Sama dag voru svo haldnir hluthafafundir í dótturfélögunum fjórum þar sem tilhögun eignarskiptingarinnar var samþykkt. Þeim sparisjóðum sem áttu stærri hluti í dótturfélögunum en fyrrnefnd viðmiðunartala sagði til um var þá gert að selja viðkomandi dótturfélagi umframhlutinn, og þeim sjóðum sem áttu minni hlut var gert að kaupa það sem á vantaði. Jafnframt átti að auka hlutafé í dótturfélögunum og selja það samkvæmt 45/45/10-reglunni.

Rúmum mánuði áður höfðu orðið atburðir í íslensku viðskiptalífi sem sparisjóðirnir áttu snaran þátt í og áttu eftir að draga nokkurn dilk á eftir sér. Dótturfélag sparisjóðanna og Kaupþings hf., Scandinavian Holding S.A., sem átti tæpan fjórðungshlut í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. (FBA), seldi þennan hlut sinn í bankanum til félagsins Orca S.A. og tilkynnti Kaupþing um söluna 3. ágúst 1999.22 Hinn 12. ágúst var haldinn stjórnarfundur í Scandinavian Holding þar sem ganga átti formlega frá sölunni en í stjórn félagsins sátu á þessum tíma Þór Gunnarsson, Guðmundur Hauksson, Hallgrímur Jónsson, Sigurður Hafstein og Sigurður Einarsson. Fundurinn varð langur og á köflum var tvísýnt um niðurstöðuna, en að lokum fór svo að salan var samþykkt með atkvæðum allra fundarmanna nema Þórs Gunnarssonar sem sat hjá.23

Við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefndinni greindi Guðmundur Hauksson frá því að aðstandendur sparisjóðanna og Kaupþings hf. hefðu ákveðið að losa eignarhlut sinn í FBA eftir að í ljós kom að stjórnvöld höfðu í hyggju að bíða með áform um að selja 51% hlut ríkisins í FBA þangað til Landsbankinn og Búnaðarbankinn hefðu verið seldir. Í framhaldinu hefði Kaupþing hafið leit að mögulegum kaupendum. Guðmundur segir svo frá:

Ég […] fór í langt frí í millitíðinni. Kaupþing fór inn á markaðinn og kannaði möguleikana og kom með þá niðurstöðu að það væru aðilar tilbúnir til að kaupa. Þeir væru búnir að skrifa undir heimild til þess arna með fyrirvara um samþykki stjórnar. Þegar þetta varð ljóst þá byrjaði mikill darraðardans […]. Það var gífurlega mikið búið að fjalla um þetta í fjölmiðlum þá og ýmsir reiðir sparisjóðunum fyrir að ætla að selja. Ég satt að segja skildi það ekki, því við höfðum keypt þessi bréf á markaði, ekki með kennitölukaupum. Og þegar við fengum engin svör sem við vorum sáttir við frá stjórnvöldum um hvernig ætti að standa að framhaldinu þá bara vildi ég ekki vera ábyrgur fyrir því að þessir aðilar, Kaupþing og sparisjóðirnir, væru með bundna þrjá milljarða í einhverri óvissu. Og því voru hlutabréfin seld og við högnuðumst um 1,3 milljarða á þessum viðskiptum. En þá varð allt vitlaust eins og kunnugt er og forsætisráðherra nánast gekk af göflunum. En þetta varð miklu, miklu djúpstæðara. Þetta leiddi til þess að aðilar innan Sambands sparisjóðanna vildu lúta vilja forsætisráðherra í þessu efni og koma í veg fyrir að samningurinn yrði samþykktur. Þannig að það var tekist hart á um þessi mál. Það má eiginlega segja að aldrei hafi gróið um heilt eftir þetta. Annars vegar voru þeir sem voru hliðhollir sjónarmiðum forsætisráðherra í þessu efni en hins vegar við hinir sem vorum bara að vinna að málefnum sparisjóðanna og höfðum engin önnur sjónarmið en að reyna að skapa verðmæti og vinna sem best við kunnum að málefnum sparisjóðanna og neituðum að kyngja því að stjórnmálaleg sjónarmið ættu að ráða ferðinni hjá okkur. Við lentum í hörðum útistöðum við þessa aðila og þið getið rakið allt sem þið viljið eftir þetta, bæði þau átök sem voru innan Sambands sparisjóðanna og í samstarfi sparisjóðanna, þetta leiddi mest af þessari ákvörðun.24

Sigurður Hafstein segir svo frá að hann hafi fyrst heyrt af því í útvarpsfréttum að Orca-hópurinn hafi keypt hlutinn í FBA. Sigurður lýsir viðbrögðum sínum svo:

Ég er mjög stilltur maður en ég varð alveg brjálaður yfir því að frétta af því í útvarpi að það hefði verið tekin ákvörðun um þessa sölu og krafðist þess að það færi ekki lengra og það yrði haldinn, strax eftir verslunarmannahelgi, stjórnarfundur þar sem þetta yrði rætt. Svo kom nú í ljós að þessi gerningur olli gríðarlegu pólitísku moldviðri og það var eiginlega í fyrsta skipti sem við innan sparisjóðanna lentum undir, ef svo má orða, í hinni pólitísku umræðu. Og það var vegna þess að stjórnvöld tóku þessu mjög illa og höfðu hugsað sér að þetta yrði farið með aftur á markað. Á þessu yrði dreifð eignaraðild og að með þessum gjörningi hefðu þau áform verið eyðilögð. Og síðan var haldinn mikill átakafundur í stjórn Scandinavian Holding. Og það kom í ljós að þeir sem við hafði verið talað höfðu fengið mjög misvísandi upplýsingar. Einum var sagt að ég hefði samþykkt þetta og öðrum var sagt að við báðir hinir fulltrúarnir, við vorum þrír fulltrúar sparisjóðanna í stjórninni, hefðum samþykkt þetta. Okkur fannst vera komið mjög í bakið á okkur með þetta.25

Sigurður kvaðst hafa greitt atkvæði með sölunni á stjórnarfundinum, þrátt fyrir að sér hefðu „fundist vinnubrögðin í þessu vera fyrir neðan allar hellur og gersamlega óboðleg“ vegna þess að sér hefði þótt einsýnt að stjórn félags „sem væri sameign Kaupþings og sparisjóðanna, og sparisjóðirnir áttu Kaupþing á þessum tíma, [gæti] ekki komið í bakið á framkvæmdastjórum fyrirtækisins og gert þá ómerka sinna gerða“. Slíkt hefði „bara skapað Kaupþingi tjón og tjón Kaupþings var á sama tíma tjón sparisjóðanna“. Sigurður bætti því við að þessir atburðir hefðu ekki fallið í kramið hjá forsætisráðherra sem hefði ekki litið sparisjóðina sömu augum upp frá þessu.26

Hallgrímur Jónsson lýsir fundinum og aðdraganda hans á þessa leið:

Til mín komu tveir aðalstjórnendur Kaupþings og sögðust hugsanlega hafa tilboð í hlutafé Scandinavian Holding og spurðu hvort þeir mættu kanna málið betur. Ég samþykkti það, en í þeirri samþykkt fólst engin heimild til sölu. Það næsta sem ég frétti í fjölmiðlum var að sala hefði farið fram. Þessi frétt kom flatt upp á flesta stjórnarmenn félagsins, t.d var Sigurður Hafstein einn stjórnarmanna staddur í sumarbústað og hafði ekkert af málinu heyrt. Til staðfestingar á sölunni var haldinn stjórnarfundur. Fundurinn var langur og mikið deilt á Kaupþingsmenn fyrir hvernig staðið var að málum. Að lokum var salan samþykkt með meirihluta atkvæða. 27

Hallgrímur neitaði því hins vegar að þessir atburðir hefðu haft áhrif á afstöðu ráðamanna til sparisjóðanna til langframa.

Á fundi stjórnar SÍSP 23. ágúst 1999 var rætt um málefni Scandinavian Holding A.S. undir liðnum „Önnur mál“. Í fundargerð segir að Sigurður Hafstein hafi greint frá „áhyggjum sínum þessa dagana vegna afstöðu stjórnvalda og stjórnmálamanna til sparisjóða sem hafi breyst vegna sölu sparisjóðanna á hlutabréfum í FBA. Hans mat var að þessi staða hafi ekki verið verri í 20 ár. Fyrir SÍSP væri þetta mikið áhyggjuefni og mjög alvarlegt út frá hagsmunagæsluhlutverki þess gagnvart hinu opinbera“. Á næsta stjórnarfundi, 27. september, bar þessi mál enn á góma. Ríkið hafði þá auglýst 51% hlut sinn í FBA til sölu og lagði Þór Gunnarsson formaður fram tillögu um að kanna í samráði við Sparisjóðabankann og Kaupþing hvort eða hvernig sparisjóðirnir ættu að koma að kaupum á þessum hlut, og að formanni og framkvæmdastjóra yrði falið að reka málið. Guðmundur Hauksson lýsti því yfir að þessi tillaga fæli í sér „vantraust á sig þar sem hann hafi unnið að þessu máli og einnig sagði hann að ekki væri minnst á Scandinavian Holding SA í þessu samhengi. Hér væri um stefnubreytingu að ræða frá því sem verið hefði“. Tillaga Þórs var ekki afgreidd á fundinum og ekkert varð úr þeim áformum sem í henni fólust. Á stjórnarfundi 22. nóvember 1999 var fært til bókar að Guðmundur Hauksson hefði gert grein fyrir „endalokum“ FBA-málsins:

Viðræður voru í gangi milli sparisjóðanna og lífeyrissjóðanna um 51% hlutafjárkaup. Ákveðin skilyrði voru uppi um m.a. að Orca hópurinn yrði leystur upp, sameining FBA og Kaupþings og verðmætamat Kaupþings. Af hálfu sparisjóðanna er þessu máli lokið. Reynt var að kaupa meirihluta í FBA en gekk ekki og eftir situr hagnaður, 1,3 milljarður af sölunni hjá sparisjóðunum.

Á aðalfundi SÍSP, 8. október 1999 héldu formaður SÍSP og framkvæmdastjóri þess, þ.e. Þór Gunnarsson og Sigurður Hafstein, að vanda ræður þar sem þeir reifuðu stöðu og horfur sparisjóðakerfisins. Í ræðu sinni vék Þór í fáum orðum að sölunni á hlut Scandinavian Holding í FBA og sagði að í umræðunni um þá atburði hefði verið „vegið ómaklega að sparisjóðunum og fyrirtækjum þeirra“ og að þessi umræða hefði „gefið andstæðingum okkar tilefni til árása á sparisjóðina“ sem hefði „ekki allt farið hátt en undiraldan er þung“.28 Sigurður ræddi aftur á móti nokkuð ítarlega um atburðina í ræðu sinni, að vísu með nokkuð almennu orðalagi. Strax í upphafsorðum ræðunnar sagði hann:

Pólitísk staða sparisjóðanna er nú um þessar mundir veikari en oftast áður. Í umræðu undangenginna vikna hafa sparisjóðirnir mátt þola ósanngjarna umfjöllun og á stundum hótanir. Mönnum hafa verið gerðar upp skoðanir og áform, sem þeir ekki hafa og gerðar upp athafnir sem þeir hafa ekki framkvæmt. Aðstæður hafa verið erfiðar við að bera hönd fyrir höfuð, ekki af því að málstaðurinn sé ekki góður heldur [er] aðstöðumunur við að koma skoðunum á framfæri svo yfirþyrmandi að þögnin hefur oft verið eina úrræðið jafnvel þó máltækið segi að þögn sé sama og samþykki.
Ef til vill hlaut að koma að því að sparisjóðirnir lentu í pólitísku mótlæti. Vöxtur þeirra og viðgangur vekur upp blendnar tilfinningar sumstaðar úti í þjóðfélaginu.
Bankastofnanir eru vinsæll skotspónn og undangengna áratugi hafa sparisjóðirnir siglt lygnan sjó, þegar hart hefur verið veist að bönkunum. Nú var hins vegar komið að því að spjótunum yrði beint gegn þeim. Og það kom á óvart úr hvaða átt þau komu. En öllu óveðri slotar að lokum og þá gefst tækifæri til að meta tjón og hefja uppbyggingarstarf.
Breið pólitísk velvild hefur verið gæfa sparisjóðanna undangengna áratugi. Hinn stóri hópur forystumanna sparisjóðanna vítt og breitt um landið, hefur verið þeirra sterkasta vopn. Nú þegar nauðsyn ber til, að endurreisa glataða pólitíska velvild, verður ekki nógsamlega brýnt fyrir ykkur sem hér eruð og skipið forystusveit sparisjóðanna vítt og breitt um landið, mikilvægi þess fyrir sparisjóðina að þið leggið ykkar lóð á vogarskálina og beitið áhrifum ykkar í því endurreisnarstarfi, sem er sparisjóðunum svo mikilvægt. Rök okkar eru einföld fyrir því sem gert var þegar ósönnum samsæriskenningum hefur verið ýtt út af borðinu. Þau kristallast í því að aðilar á fjármagnsmarkaði keyptu hlutabréf á markaði og seldu aftur á markaði eins og lagalegt umhverfi býður upp á að allir geti gert hvenær sem þeir telja, að hagsmunum sínum, sé með slíkum gjörningi best borgið.29

Í framhaldinu vék Sigurður að þeirri skoðun, sem hann sagði hafa birst í viðtali í „virtu og víðlesnu blaði […] fyrir fáum vikum“, að sparisjóðirnir væru „hálf opinberar stofnanir“. Sigurður kvað þessa skoðun koma sér á óvart „því í öllu því umhverfi sem sparisjóðirnir hafa starfað þessi ár eru þeir jafnan skilgreindir í hópi einkafyrirtækja í samanburði við ríkisbankakerfið sem hefur verið svo lífseigt hér á landi“. Til stuðnings máli sínu vitnaði Sigurður síðan til þess hvernig stofnun Sparisjóðs Hornafjarðar og nágrennis bar að. Það væri gott dæmi um frumkvæði einstaklinga til að stofna fjármálafyrirtæki sem væri ekki hlutafélag vegna þess að

þessir fjárfestar og frumkvöðlar létu sér nægja að fá arð af áhættufé sínu í formi vaxta af því eins og reksturinn frekast gat leyft en gerðu ekki kröfu um hlutdeild í uppsöfnuðu eigið fé þegar og ef það myndaðist. Samþykktu að það, ef eitthvað yrði, rynni til samfélagsins sem myndaði hagnaðinn með viðskiptum við fyrirtækið þegar og ef það yrði lagt niður. Sú samfélagslega hugsun sem hér býr að baki hefur ekkert með opinbert eignarhald að gera heldur er hún önnur aðkoma að fyrirtækjarekstri sem algengust er. Fyrirkomulag sem á að vera til þess fallið að skapa sátt um eignamyndun enda er hún ekki einstaklingsbundin heldur í þágu alls almennings.

Sigurður ræddi síðan nánar muninn á hlutafélagsforminu og rekstrarformi sparisjóða og sagði að þar væri í raun „aðeins um stigsmun í væntingum um arð af fjárfestingu að ræða en ekki eðlismun“. Sigurður bætti við: „Þegar sagt er að sparisjóður sé sjálfseignarstofnun þýðir það með engum hætti að fé hans sé án hirðis – heldur að ráðstöfun eigin fjár við slit er önnur og e.t.v. óeigingjarnari en í hlutafélagi eða sameignarfélagi.“ Því færi fjarri að þetta þýddi að sparisjóðir væru „hálf opinber“ félög.

Að þessu sögðu beindi Sigurður sjónum sínum inn á við, þ.e. að samstarfi sparisjóðanna. Hann ræddi um mikla velgengni sparisjóðakerfisins sem hefði haft þá óæskilegu afleiðingu að „samhljómurinn meðal sparisjóðanna [væri] því miður að dofna“:

Traustið sem er svo nauðsynlegt milli samherja sýnist ekki lengur til staðar. Í stað þess ber mest á pirringi milli þeirra sem mynda eiga liðsheildina og hann smitar út frá sér og allir verða óánægðir aðrir en keppinautarnir sem brosa breitt þegar sparisjóðaskútunni er hressilega vaggað.

Í beinu framhaldi vék Sigurður að samkeppni milli sparisjóðanna og sagði þá ekki sleppa „úr þeirri sjálfheldu sem samstarf sparisjóðanna stefnir í nema allir leggist á eitt og leggi til hliðar áform um að skapa sér forskot á hina“. Í lok ræðu sinnar greip Sigurður til líkingar og sagði: „Samvinnu sparisjóðanna er ekki þröngvað upp á okkur. Hún er ávöxtur á linditré reynslunnar.“

5.2.4 Stefnumótun árið 2000: Hlutafélag í eigu sparisjóðanna

Stefnumótunarátakið 1998–1999 varð heldur endasleppt og snemma árs 2000 fóru þær raddir að heyrast innan SÍSP að taka þyrfti að nýju til við það mikla verk að móta sparisjóðunum stefnu til framtíðar.30 Á stjórnarfundi 27. mars 2000 var greint frá því að Guðjón Guðmundsson ráðgjafi hefði verið ráðinn til að stjórna stefnumótunarvinnu á vegum SÍSP og starfshópur verið skipaður honum til fulltingis. Samsetning starfshópsins varð Sólberg Jónssyni, fulltrúa Sparisjóðs Bolungarvíkur í stjórninni, tilefni til að vekja máls á því „hvort ekki væri æskilegt að hafa 1–2 aðila í nefndinni frá landsbyggðinni“. Í framhaldinu spannst allnokkur umræða þar sem andstæðir pólar tókust á, annars vegar sjónarmið landsbyggðarinnar og hins vegar hlutafélagsformsins.31 Í fundargerð er haft eftir Ólafi Haraldssyni (sem sat fundinn sem fulltrúi Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis í fjarveru Guðmundar Haukssonar) að stefnumótunarnefndin væri að hluta til óþörf, því „mikið efni“ lægi þegar fyrir „og ekki væri þörf á að vinna það aftur“. Þess má geta að Ólafur átti sjálfur sæti í stefnumótunarhópnum nýja.

Hópurinn lét hendur standa fram úr ermum og boðaði sparisjóðsstjóra til fundar á Hótel Örk 8.–9. maí 2000 þar sem hópurinn kynnti tillögur sínar. Um helmingur af skýrslu hópsins (sem raunar er í formi glærukynningar) er lagður undir umfjöllun um stöðu sparisjóða og sparisjóðasambanda á Norðurlöndum, með sérstakri áherslu á Norska sparisjóðasambandið, Eika-Gruppen AS, Sparebanken 1, Gjensidige NOR og Lokale pengeinstitutter. Í seinni hluta skýrslunnar er horft til framtíðar og dregnar upp þrjár sviðsmyndir.

Sviðsmynd A er kennd við „Samtök“ og kemst næst því að miðast við óbreytt ástand. Á fyrstu glærunni sem sérstaklega er helguð þessari sviðsmynd er tekið fram að hún byggist á „fyrri vinnu um stefnumótun sparisjóðanna“.32 Sparisjóðir verði styrktir „sem sjálfstæð og sveigjanleg fjármálafyrirtæki“ sem nýti sér hagkvæmni stærðarinnar og leggi rækt við ímynd sína „sem sjálfstæð, persónuleg og fjölskylduvæn fjármálafyrirtæki sem taka virkan þátt í staðbundnum samfélagslegum verkefnum“. Frjáls aðild verði að samtökunum „og allir keppa við alla“. Hlutverk SÍSP verði fólgið í hagsmunagæslu og rekstri samstarfsverkefna og þjónustu. Sparisjóðabankinn og Tölvumiðstöð sparisjóðanna verði hlutafélög, „þjónustufyrirtæki í eigu sparisjóðanna“ en „ekki í beinni samkeppni við sparisjóði“. Aftur á móti verði dótturfélög sparisjóðanna, sem einnig verða hlutafélög, í „[s]amkeppni (og samstarf[i]) við sparisjóðina“. Þar að auki er gert ráð fyrir hlutafélögum sem verði fjárfestingarfélög, „[s]érhæfð félög um sérstök verkefni“. Á skipuriti sem fylgir tillögunni kemur fram skýr aðgreining á stórum sparisjóðum og litlum: þeir fyrrgreindu tengjast Sparisjóðabankanum, Tölvumiðstöð sparisjóðanna og dótturfélögunum, en þeir síðarnefndu gera það ekki – eða, eins og það er orðað á síðustu glærunni sem fylgir þessari tillögu: „Sparisjóðir á suðvesturhorninu stjórna í raun dótturfélögum“.

Sviðsmyndir B og C eru kynntar til sögu í skýrslunni með sameiginlegri glæru undir yfirskriftinni „Grunnatriði mynda B og C“. Fyrsti punkturinn á glærunni er í formi eins konar slagorðs með rauðu letri: „Ef sparisjóður vill vera sjálfstæður verður hann að gera það sem þarf til að halda sjálfstæði“. Meðal þess sem kemur fram á glærunni er að hlutafélögin sem lagt er til að verði stofnuð sjái um að þróa „þjónustuna, samstarf og samninga“ og að þau verði „samstarfsvettvangur þeirra sem vilja vinna saman“. Hins vegar sé það svo að „[v]iðskiptaleg viðfangsefni og hagsmunagæsla fari ekki saman“ og því verði hlutverk SÍSP einskorðað við að „annast hagsmunagæslu allra sparisjóða“.

Sviðsmynd B, sem nefnd er „Félagar hf“, felur í sér að stofnað verði sannkallað hlutafélag, „[þ]jónustufyrirtæki stofnað fyrir og af sparisjóðum sem vilja vinna saman“ þar sem
„[s]tjórnendur eiga hluti og njóta árangurs“. Þannig yrði til fjármálasamsteypa sem byggði upp „stærðarhagkvæmni og frumkvæði til að tryggja samkeppnisstöðu sparisjóðanna“. Nánar tiltekið felst í tillögunni að greint verði á milli „grunnpakka“, sem öllum hlutaðeigandi sparisjóðum beri skylda til að taka þátt í, og „viðbótarafurða“ sem þeim sé frjálst að eiga aðild að – gegn greiðslu. Í þessum anda verði „[s]amkeppni lágmörkuð og skilgreind“, til grundvallar liggi „[v]el skilgreind hugmyndafræði og stefna“ og yfir hlutafélaginu ríki
„[s]jálfstæð stjórn valin eftir þekkingu“ og „[s]terk framkvæmdastjórn með mikið frumkvæði“. Þetta fyrirkomulag muni „[e]ngin áhrif [hafa] á eignarform eða samruna sparisjóða“.

Sviðsmynd C, sem kallast „Samvinna hf“, snýst um að komið verði á samstarfi „jafnsterkra sparisjóða eða sparisjóðaheilda“ þar sem „[a]llir [eru] jafnir í samstarfinu“ og „[a]llar nýjungar og hugmyndir [eru] boðnar hópnum“. Nánar tiltekið felst í tillögunni að aðildarsparisjóðirnir reki sameiginlega markaðssetningu, notist við sama merki og eigi sér sama „prófíl“. Afurðafyrirtæki, upplýsingakerfi og fræðslusvið séu sameiginleg og samvinna sé um innkaup, eignarform, uppbyggingu og samstarf við aðra. Þannig verði „[e]ngin samkeppni innan hópsins“. Aðildarsparisjóðunum sé skylt „að taka þátt í fjármögnun allra þátta“.

Í skýrslunni kemur fram að sviðsmyndir B og C séu báðar byggðar á norskum fyrirmyndum, þ.e. svonefndum Eika-hóp í fyrra tilvikinu og Sparbanken 1 í síðara tilvikinu.

Í lok skýrslunnar leggur stefnumótunarnefndin fram þá skýru og eindregnu tillögu að fundurinn samþykki viljayfirlýsingu um stofnun hlutafélags samkvæmt sviðsmyndum B eða C, að haldin verði „ráðstefna“ um stofnun félagsins í september og að félagið taki síðan formlega til starfa 1. október 2000. Þessi tillaga náði ekki fram að ganga og ekkert varð af stofnun hlutafélagsins. Ekki verður ráðið af fundargerðum stjórnar SÍSP eða öðrum gögnum hvað olli þessu. Hins vegar voru þær ólíku hugmyndir um æskilega þróun mála sem stefnumótunarnefndin fjallaði um í skýrslu sinni engan veginn úr sögunni innan sparisjóðafjölskyldunnar.

5.2.5 Stefnumótun í stjórnartíð Guðmundar Haukssonar

Þór Gunnarsson vék úr sæti formanns SÍSP á aðalfundi í október 2000 og Guðmundur Hauksson tók við.33 Ein meginröksemd Guðmundar fyrir því að brýnt væri að hann settist í formannsstólinn var sú að hann þekkti öðrum betur til þeirra breytinga á lagaumhverfi og starfsaðstæðum sparisjóðanna sem í vændum væru.34 Á fyrsta stjórnarfundinum sem Guðmundur stýrði, 6. nóvember 2000, var rætt um þessar breytingar og dreift til fundarmanna skjölum sem í fundargerð voru sögð „sérstakt trúnaðarmál“ og fjölluðu um „ákveðna möguleika á rekstrarformum sparisjóða“. Skjölin urðu samkvæmt fundargerðinni tilefni til umræðna um „útfærslu á „stofnfjárbréfum“ […] þannig að þau geti verið ákjósanlegri kostur heldur en þau eru í dag. Þetta gæti hentað þeim sparisjóðum sem sjá sér ekki hag af því að breyta sér í hlutafélög“. Einnig var rætt um það „hve lengi […] það [væri] ásættanlegt“ að atkvæðisréttur stofnfjárhafa væri að hámarki 5%.

Guðmundur tók síðan til við að móta tillögur um framtíð sparisjóðakerfisins. Tillögur stefnumótunarhóps sparisjóðanna voru lagðar til hliðar og þess í stað var endurskoðunarfyrirtækið KPMG fengið til að taka saman nýja skýrslu um þessi mál.35 Á stjórnarfundi SÍSP 22. janúar 2001 greindi Guðmundur frá fyrirhuguðum fundi daginn eftir með sparisjóðsstjórum og stjórnarmönnum sparisjóða, þar sem skýrslan yrði lögð fram. Guðmundur sagði „að menn þyrftu að fá nokkurn tíma til að skoða málið“ og kvaðst „vera tilbúinn til að fara í heimsóknir til sparisjóða og kanna sjónarmið þeirra fljótlega í kjölfar fundarins“. Hallgrímur Jónsson kvartaði á hinn bóginn undan því að „litlar sem engar umræður [hefðu] átt sér stað um efni þetta á vettvangi stjórnar SÍSP og því þyrfti nokkurn tíma til að átta sig á hugsanlegum breytingum og möguleikum þeirra“.

Ekki hafa fundist gögn um umræðuna á fundinum 23. janúar, en skýrslan sem KPMG vann að beiðni Guðmundar, og var til umræðu á fundinum, er í fórum rannsóknarnefndarinnar. Skýrslan er í formi glærukynningar og ber yfirskriftina „Samband íslenskra sparisjóða: Framtíðaráform og tillögur að nýju skipulagi á þjónustu sparisjóðanna og félaga í þeirra eigu“. Í upphafi kynningarinnar er tekið fram að markmið tillagnanna sé að „[v]iðhalda sérstöðu sparisjóðanna“ sem er sögð fela í sér „náin tengsl við sitt nánasta umhverfi“, „sjálfstæðar rekstrareiningar“ og „öflugt og víðtækt samstarf“.36 Sparisjóðunum sé nauðsynlegt að huga að stöðu sinni og finna leiðir til að auka eigið fé vegna breyttra lagalegra skilyrða, aukinnar samkeppni og krafna um hraða og skilvirka upplýsingavinnslu, svo dæmi séu tekin. Á glæru sem ber yfirskriftina „Framtíðarsýn“ er svo varpað fram þeirri hugmynd að stofna „Sparisjóðabanka Íslands hf.“ sem verði „[o]pið félag á markaði sem á allt hlutafé í einstökum rekstrareiningum“ og verði þannig úr garði gert að innan þess rúmist „[n]úverandi starfsemi sparisjóðanna og fyrirtækja í þeirra eigu“. Jafnframt er tekið fram að höfuðmáli skipti að „[v]iðhalda persónulegri þjónustu sparisjóðanna sem eru tengiliður bankans við markaðinn“. Þannig náist meginmarkmiðið: „Stærð, hagkvæmni og sterkir innviðir.“37

Meginefni skýrslunnar er síðan lýsing á fjórum ólíkum leiðum sem sparisjóðunum standi til boða til að bregðast við hinum breyttu aðstæðum. Allar leiðirnar byggjast á þeirri forsendu sem fyrst var lýst, að stofnaður verði Sparisjóðabanki Íslands hf. með samruna Sparisjóðabankans og Kaupþings. Hér verður ekki farið í saumana á hverri leið fyrir sig, en látið nægja að huga að þeirri síðustu, „Leið 4“, sem er sú leið sem skýrsluhöfundar leggja mesta áherslu á. Leiðinni er lýst í fjórum skrefum (sjá mynd 1).

Á næstu glæru er gerð grein fyrir kostum og göllum þessarar tillögu. Kostirnir eru sagðir vera eftirfarandi:

Rætur sparisjóðanna haldast.
Hægt að bjóða sparisjóðum upp á valkosti.
Eignarhald og hagsmunir núverandi hluthafa í Kaupþingi ekki í andstöðu við hagsmuni heildarinnar.
Einfaldari útfærsla.

Hvað gallana varðar er aðeins eitt atriði nefnt: „Valkostir fyrir sparisjóðina geta dregið úr samþjöppun eigin fjár.“

Í framhaldinu er farið nánar í saumana á þessari tillögu. Talað er um að fjölga rekstrareiningum í því skyni að „skerpa á áherslum“ og er í því sambandi nefnt að skilja eignastýringu frá öðrum rekstri Kaupþings og sameina hana síðan „samsvarandi einingum í sparisjóðunum í sérstöku félagi (einkafirma)“. Jafnframt verði annað félag stofnað „um þjónustu við stærri fyrirtæki […] sem tekur til sín þá starfsemi úr Kaupþingi, SPB og sparisjóðunum“ en minni og meðalstórum fyrirtækjum verði áfram þjónað í sparisjóðunum. Loks er bent á að sjá megi fyrir sér að fjölga rekstrareiningum enn frekar í framtíðinni, „t.d. dótturfyrirtæki Kaupþings erlendis, Spakur ehf, netbanki, o.s.frv.“. Á síðustu glærunni eru kostir þessarar leiðar ítrekaðir og þeir tengdir við markmið skýrslugerðarinnar sem nefnd voru í upphafi glærukynningarinnar.

Sem fyrr segir hafa ekki fundist skrifleg gögn um það sem fram fór á fundinum þar sem Guðmundur lagði skýrsluna fram, en á stjórnarfundi 12. febrúar urðu líflegar umræður um fundinn og þá stefnu sem Guðmundur var óðum að marka. Páll Sigurðsson, sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Húnaþings og Stranda, sagði „menn hjá sér ekki tilbúna strax til breytinga“ og að „[s]tjórnarmenn hans spyrðu þeirrar spurningar að ef breyta þurfi rekstrarfyrirkomulagi hvort Landsbanki eða Búnaðarbanki gætu þá ekki allt eins sett upp afgreiðslu á staðnum“. Halldór Árnason „lagði til að stjórn SÍSP gæfi málinu sérstakan tíma og hugsanlegt væri að halda sérstakan fund stjórnar SÍSP um þetta efni“. Hallgrímur Jónsson tók undir þetta „þar sem málið er stórt og snerti marga. Hér væri um að ræða samþjöppun sparisjóða, meiri miðstýringu og leiðir til að auka eigið fé“. Guðmundur Hauksson skýrði hins vegar markmið breytinganna þannig að þeim væri ætlað „að skapa betri samkeppnisstöðu og styrkja innviðina“ og lagði ríka áherslu á að „fá fram afstöðu sparisjóðanna sem fyrst“. Þar að auki kom fram á fundinum „að nú þegar hefðu 13–14 sparisjóðir selt sinn hlut í Kaupþingi hf. og gæti það haft einhver áhrif [á það] hvaða afstöðu þeir taka til málsins“.

Í handskrifuðum minnispunktum Þórðar J. Guðlaugssonar fundarritara, sem fylgja samþykktri fundargerð í skjalasafni SÍSP, kemur fram að Hallgrímur Jónsson hafi tekið svo til orða á fundinum að tillögurnar þýddu að sparisjóðirnir misstu sjálfstæði sitt. Hallgrímur bætti við: „Við erum að stofna banka með þessum tillögum.“38 Þetta álit, að tillögurnar sem Guðmundur Hauksson lagði fram á fundinum fælu í sér að sparisjóðakerfið í þáverandi mynd yrði lagt niður og í staðinn stofnaður nýr viðskiptabanki með aðild sparisjóðanna, reyndist lífseigt.39 Við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefndinni gerði Guðmundur skýrsluna að umtalsefni og kvað þessa ráðandi túlkun á misskilningi byggða – og kallaði hana hræðsluáróður. Ekki hefði verið ætlunin að allir sparisjóðir rynnu inn í hinn nýja sameinaða banka (sem nefndur er SPB-Kaupþing á glærunni á mynd 1).40 Aftur á móti er ótvírætt að tillögurnar fólu í sér að bankinn yrði sameinaður Kaupþingi. Hugmyndir Guðmundar hlutu því að koma til kasta Sparisjóðabankans rétt eins og SÍSP, og þar voru hæg heimatökin, því Guðmundur sat í stjórn bankans. Aðrir stjórnarmenn í bankanum voru á þessum tíma Hallgrímur Jónsson (formaður), Friðrik Friðriksson (frá Sparisjóði Svarfdæla), Geirmundur Kristinsson og Jónas Reynisson. Sigurður Hafstein bankastjóri Sparisjóðabankans sat einnig stjórnarfundi en hafði ekki atkvæðisrétt. Á fundi stjórnar Sparisjóðabankans 19. febrúar fylgdi Guðmundur stefnumótunarhugmyndum sínum eftir með því að leggja fram tillögu um að „gerð verði úttekt á kostum þess og göllum, að sameina Sparisjóðabankann og Kaupþing og nefndi KPMG ráðgjöf í því sambandi“. Jafnframt fór Guðmundur fram á að úttektin yrði tekin fyrir á stjórnarfundi 1. mars „þar sem ástæða væri til að taka málið fyrir á aðalfundi bankans“ 9. mars. Í fundargerð segir að stjórnarformaður (Hallgrímur Jónsson) hafi talið „öll tormerki á að slík sameining gæti verið fýsilegur kostur fyrir sparisjóðina enda væri eignaraðild þeirra að þessum tveimur fyrirtækjum nú mjög ólík“. Hann bætti því við að hann teldi „að ekki mundi vera almennur vilji til þess hjá sparisjóðunum að fara þá leið að sameinast í eitt félag“. Friðrik Friðriksson og Geirmundur Kristinsson tóku aftur á móti undir tillögu Guðmundar. Í framhaldinu urðu „[s]narpar umræður“ samkvæmt fundargerð og lauk þeim með því „að formaður lýsti yfir að meirihluti myndi vera fyrir því í bankaráðinu að umbeðin úttekt verði gerð“ og fól bankastjóra framkvæmd málsins.

Á stjórnarfundi Sparisjóðabankans 1. mars lagði fulltrúi KPMG fram frumdrög að umræddri úttekt. Miklar umræður urðu um málið og héldu þær áfram á stjórnarfundi 5. mars. Þar barst talið að stefnumótunarvinnu sparisjóðanna í víðara samhengi og lýstu Jónas Reynisson og Geirmundur Kristinsson þeirri skoðun að rétt væri að fá botn í þá vinnu áður en sameiningaráformin sem Guðmundur aðhylltist yrðu að veruleika. Hallgrímur Jónsson sagði hins vegar að ekki kæmi „til álita […] að sameina Sparisjóðabankann og Kaupþing nema þá allir sparisjóðirnir […] gerðu það samhliða“. Guðmundur Hauksson vísaði samkvæmt fundargerð í stefnumótunartillögurnar sem lagðar höfðu verið fram í stjórn SÍSP og lagði „áherslu á, að í svonefndri leið 4 í hugmyndum um framtíðarskipulag á samstarfi sparisjóðanna væru margir möguleikar og taldi hann víst að þar væri rúm fyrir vilja allra sparisjóðanna“. Jónas Reynisson „viðraði þá hugmynd að fulltrúar stærstu sparisjóðanna funduðu um stefnu sína í samstarfsmálum áður en umræðan færi víðar“. Ekki fékkst niðurstaða í umræðuna á fundinum.

Málið var ekki rætt á aðalfundi Sparisjóðabankans 9. mars ef marka má fundargerð. Stjórn bankans var endurkjörin á fundinum og átti að skipta með sér verkum á stjórnarfundi í beinu framhaldi af aðalfundinum. Þá brá svo við að Guðmundur Hauksson bað um að stjórnarfundi yrði frestað og var það samþykkt. Aftur var hist til fundahalda 19. mars en að nýju var fundi frestað, í það skiptið vegna „eindreginna tilmæla“ frá Geirmundi Kristinssyni. Hinn 26. mars tókst loks að sigla verkaskiptingunni í höfn, en þá fór svo að sitjandi formaður, Hallgrímur Jónsson, var felldur í kosningu eftir að Guðmundur Hauksson hafði lagt til að Geirmundur Kristinsson yrði formaður og Friðrik Friðriksson varaformaður. Síðar á fundinum lagði Hallgrímur fram tillögu um að selja öll hlutabréf Sparisjóðabankans í Kaupþingi en sú tillaga var felld með atkvæðum hins „nýja meirihluta“ í stjórninni eins og ritað var í fundargerð. Í kjölfar þessara tíðinda sendi Hallgrímur bréf til allra sparisjóðsstjóra þar sem hann sakaði Geirmund um að hafa gengið á bak orða sinna um stuðning við sig í stjórnarformannskjörinu.41 Geirmundur, Friðrik og Guðmundur svöruðu bréfi Hallgríms 24. apríl og vísuðu ásökunum hans á bug, svo og lýsingu hans á atburðarásinni. Bréfritarar beina síðan sjónum að því sem þeir segja „aðalástæðu“ þess að Hallgrímur var ekki endurkjörinn og segja hana vera þá „að hann varð ekki við vilja og óskum meirihluta stjórnar um að fá í hendur ýmsar upplýsingar um rekstur bankans og um skoðun á stöðu bankans m.t.t. framtíðar“. Fyrir bréfriturum, þ.e. „meirihluta stjórnar í Sparisjóðabankanum“, vaki hins vegar að „renna traustari stoðum undir rekstur hans“. Samruni við „önnur félög sparisjóðanna“ sé þar aðeins „einn af mörgum“ möguleikum „sem kannaðir verða“. Að lokum lýsa bréfritarar efasemdum sínum um að samstarf innan stjórnar Sparisjóðabankans geti „byggst á því trausti og heilindum sem verða að vera til staðar“.42

Raunin varð sú að stjórn Sparisjóðabankans var því sem næst óstarfhæf næstu mánuðina. Haldið var áfram með skýrslugerð á vegum KPMG og var „lokaskýrsla“ lögð fram á stjórnarfundi 30. ágúst og tekin til umræðu á næsta fundi þar á eftir, 17. september. Þar urðu snarpar umræður og lét Hallgrímur m.a. þau orð falla að „skýrslan væri byggð á misskilningi og vankunnáttu og á neikvæðum nótum gagnvart bankanum“. Jafnframt kvartaði Hallgrímur undan því að „formaður Sambands sparisjóðanna“, þ.e. Guðmundur Hauksson, væri í óða önn að kynna eina leiðina sem dregin væri upp í skýrslunni fyrir sparisjóðafólki um land allt. Þessi leið „fæli í sér samdrátt á þjónustustigi bankans“ og hefði Guðmundur með þessu athæfi sínu „stórskaðað bankann“.

Guðmundur svaraði á þá lund að „markmið skýrslunnar væri að styrkja bankann eftir að hann hafi tapað á sjötta hundrað milljónum og að það stefndi í enn verra“, og bætti því við að „nú væri nóg komið af illmælgi og rógburði í sinn garð“. Hallgrímur svaraði fullum hálsi og sagði „að hér væri verið að leggja til að eyðileggja bankann“. Undir lok fundarins „[b]auð Guðmundur Hallgrími að biðjast afsökunar“ á þeim ummælum sínum að Guðmundur hefði stórskaðað bankann, en Hallgrímur hafnaði því. Guðmundur krafðist þess þá að boðað yrði til hluthafafundar „þar sem framkoma Hallgríms væri óþolandi“. Beiðni um hluthafafund hafði þá raunar borist frá fleiri sparisjóðum, og á næsta stjórnarfundi, 24. september, var samþykkt að boða til slíks fundar 4. október þar sem rætt yrði um stefnu bankans og kosin ný stjórn.

Ekki er ástæða til að rekja þessa sögu frekar hér að öðru leyti en því að í aðdraganda hluthafafundarins söfnuðu fylkingarnar tvær liði og leit út fyrir að mjótt yrði á munum. Samkvæmt forsíðufrétt Fréttablaðsins frá 2. október taldi önnur fylkingin (sem kenna mætti við Hallgrím) sig vera með 48,38% atkvæða á bak við sig og hina fylkinguna (sem kenna mætti við Guðmund) með 48,33%.43 Þegar á hólminn var komið var gripið til þess ráðs að fresta stjórnarkjöri á hluthafafundinum og stjórn gefinn mánaðarfrestur til að koma sér saman um stefnumótunartillögu.44 Það gekk eftir og áður en árið var úti hafði náðst sátt innan stjórnar um tiltekna tillögu um stefnu bankans, sem varð til sem eins konar sáttaleið milli þeirra tillagna sem fylkingarnar tvær settu á oddinn. Á stjórnarfundi 13. desember 2001 var bókað að vinnunni við stefnumótun bankans væri „farsællega lokið“. Á þessum sama stjórnarfundi tilkynnti Sigurður Hafstein „að hann hefði ákveðið að segja starfi sínu sem bankastjóri lausu eftir 15 ár í starfi og helga starfskrafta sína alfarið Sambandi sparisjóða“ og yrði hann ráðinn í fullt starf hjá SÍSP frá og með áramótunum. Á stjórnarfundi Sparisjóðabankans 11. janúar 2002 var ráðning Finns Sveinbjörnssonar sem bankastjóra svo samþykkt.

Eins og hér hefur komið fram voru viðhorf stjórnarmanna í SÍSP (og Sparisjóðabankanum) til Kaupþings hf. snar þáttur í afstöðu þeirra til Guðmundar Haukssonar og þeirrar stefnumörkunar sem hann vildi standa fyrir. Á stjórnarfundi SÍSP 12. febrúar 2001 sagði Guðmundur frá því að Kaupþing „ásamt fleiri aðilum og fjórum sparisjóðum“ hefði keypt 77,24% hlutafjár í Frjálsa fjárfestingarbankanum hf. Guðmundur kvaðst hafa sent bréf til sparisjóðsstjóra og boðið „öllum sparisjóðum sem ekki eru hluthafar í bankanum […] að gerast hluthafar“. Í bréfi sínu greinir Guðmundur frá því að kaupin séu þegar farin að skila árangri sem hljóti að gleðja sparisjóðamenn: „Frjálsi fjárfestingarbankinn hf. hefur þegar fengið á sig það yfirbragð að vera sparisjóðafyrirtæki, því í stjórnarkjöri sem fram fór á hluthafafundi þann 6. febrúar sl. voru í stjórn hans kjörnir fjórir sparisjóðsstjórar auk forstjóra Kaupþings hf.“

Í bréfinu hvetur Guðmundur sparisjóðsstjórana til að fylgja fordæmi hinna og leggja fé í Frjálsa fjárfestingarbankann hf. Til standi að kaupa aðra hluthafa í bankanum út og koma því þar með í kring að „til ráðstöfunar [verði] hlutir í bankanum sem hinir nýju meirihlutaeigendur vilja allra helst sjá í höndum sparisjóðanna“.45 Vilji núverandi hluthafar ekki selja, bjóðist sparisjóðunum hins vegar að kaupa af meirihlutaeigendunum nýju.

Þá dregur Guðmundur upp mynd af þeim möguleikum sem eru í stöðunni og brýnir menn til verka:

Sú opnun sem gerð var á Kaupþingi hf. á síðasta ári, með því að gera það að almenningshlutafélagi, jók þau verðmæti sem sparisjóðirnir eiga og áttu í félaginu svo um munaði. En hún knýr jafnframt á skjótar aðgerðir í skipulagsmálum fyrirtækja í eigu sparisjóðanna að öðru leyti. Við verðum að nýta okkur til ítrasta þann útrásarkraft sem býr í Kaupþingi hf. og um leið að auka þau verðmæti sem eru fólgin í öðrum dótturfélögum sparisjóðanna. Það mun stórlega efla samkeppnisstöðu sparisjóðanna og dótturfélaganna og þannig styrkja stöðu sparisjóðafjölskyldunnar enn frekar en orðið er. Okkur er mögulegt að nýta eignarhluti okkar í öðrum félögum sparisjóðanna til að viðhalda og helst auka hluti okkar í Kaupþingi hf. um leið og við sækjum okkur nýtt eigið fé á hlutabréfamarkaði.
Ég vek máls á þessu í tengslum við ofangreint þátttökuboð, af þeirri ástæðu að ég sé fyrir að Frjálsi fjárfestingarbankinn hf. hlýtur að verða hluti af þeirri uppstokkun sem við verðum að gera á málum okkar sparisjóðanna.
Hlutirnir gerast hratt svo sem kaupin á Frjálsa fjárfestingarbankanum hf. sanna. Það var ekki til einskis sem Kaupþingsmenn sátu yfir þeim á gamlársdag fram á kvöld. Markmiðið var að auka verðmæti sem bundin eru í félögunum með hagræðingu og aukinni markaðssókn.

Ekki verður séð af fundargerð hvaða hljómgrunn þetta bréf Guðmundar hlaut meðal stjórnarmanna SÍSP. Hitt er ljóst að tilboðið hlaut dræmar viðtökur hjá sparisjóðunum; fyrirætlanir Guðmundar um dreifða eignaraðild á Frjálsa fjárfestingarbankanum hf. runnu út í sandinn og í lok árs 2001 var eignarhlutur Kaupþings hf. í bankanum kominn upp í 99,4%.46 Rétt er að hafa í huga að þegar sparisjóðirnir fengu tilboðið um að kaupa hlut í Frjálsa fjárfestingarbankanum hf. voru hugmyndirnar um framtíð sparisjóðanna og Sparisjóðabankans einnig í deiglunni.

Ræða Guðmundar Haukssonar á aðalfundi SÍSP í október 2001 var að miklu leyti helguð umræðu um framtíð sparisjóðanna og gefur hún góða hugmynd um þau skref sem hann íhugaði að stíga í framhaldinu. Í upphafi máls síns sagði Guðmundur fundarmenn geta verið ánægða með árangurinn sem náðst hefði og að enn betri tíð væri vonandi í vændum, því að sparisjóðalögin nýju, sem tóku gildi 13. júní 2001 og fólu í sér að heimilt varð að breyta sparisjóðum í hlutafélög, opnuðu sparisjóðunum mikil „tækifæri til frekari vaxtar“.47 Ekki væri þó allt í lukkunnar velstandi innan sparisjóðafjölskyldunnar:

Því miður verður þó ekki fram hjá því litið að ólíkar skoðanir eru um hvert stefna beri í málefnum dótturfélaga sparisjóðanna. Þetta hefur komið niður á samskiptum einstaklinga og er ekki á þessari stundu ljóst hvert það kann að leiða okkur. Ég vil hins vegar árétta að það er eðlismunur á starfsemi Sambands íslenskra sparisjóða sem hagsmunasamtaka og rekstri dótturfélaga. Vonandi tekst að finna ásættanlega niðurstöðu í þessum skoðanaágreiningi sem fyrst.

Guðmundur vék síðan að efnahagslegum aðstæðum í þjóðfélaginu og lýsti áhyggjum sínum af viðskiptahalla, mikilli verðbólgu, háu vaxtastigi, lágu gengi og kaupmáttaraukningu sem byggð væri á sandi. Staða sparisjóðanna væri þó afar góð og mun betri en hjá öðrum íslenskum fjármálafyrirtækjum:

Þannig rúmlega þrefaldaðist hagnaður sparisjóðanna eftir skatta milli áranna 1999 og 2000 á meðan að hagnaður viðskiptabankanna, eftir skatta, dróst saman um tæplega 70%. Að sjálfsögðu skýrist þessi mikla aukning í hagnaði sparisjóðanna, einkum með skráningu Kaupþings hf. á aðallista Verðbréfaþings Íslands og mikils gengishagnaðar sparisjóðanna vegna þess.

Guðmundur minnti á sterka stöðu sparisjóðanna hvað innlán snerti (24,2% markaðshlutdeild) og góða eiginfjárstöðu þeirra: „er þetta í fyrsta sinn sem sparisjóðirnir geta státað af meira eigin fé en Landsbanki Íslands.“

Að því búnu vék Guðmundur að áformum sem uppi voru í byrjun ársins um að sameina Landsbanka og Búnaðarbanka:

Uppstokkun á fjármagnsmarkaði varð minni á þessu starfsári SÍSP en ætlað var. Ríkisstjórnin fór sér hægar í einkavæðingu ríkisbankanna en þeir höfðu áformað. Samkeppnisstofnun hafnaði þeim möguleika að sameina þessa banka og ber það að mínu mati gott vitni um að sú stofnun ber glöggt auga á hvar sársaukaþröskuldar samkeppninnar liggja.

Þá beindi Guðmundur sjónum að hagsmunagæslu á vegum SÍSP og ræddi í alllöngu máli um nýorðnar breytingar á lögum um sparisjóði:

Þetta er ugglaust eitt af mikilvægustu málum sem sparisjóðirnir hafa beitt sér fyrir því það opnar sparisjóðum tækifæri til að styrkja eiginfjárstöðu sína óháð því hvort félagsformi sparisjóðanna er breytt eða ekki. Þannig gefst þeim kostur á að sækja fram á fjármagnsmarkaðnum og treysta eiginfjárstöðu sína.
Hin mikla velgengni sem sparisjóðirnir hafa notið á undanförnum árum hefur gert það að verkum að eiginfjárhlutfall þeirra hefur stöðugt lækkað, þrátt fyrir hagnað af rekstri. Sé markmið þeirra að nýta sér áfram sóknarmöguleika á markaði og eiga hlutdeild í dótturfélögum, er þeim flestum nauðsynlegt að auka eigið fé sitt. Spurningin, sem stjórnendur einstakra sparisjóða þurfa að svara, er hvort nýta eigi sóknarfæri og stefna að örum vexti, sem kallar á aukið eigið fé umfram það sem hagnaður myndar.

Guðmundur staðhæfði að í þessu efni væru tvær leiðir færar: „Annars vegar er hægt að gefa út ný stofnfjárskírteini í núverandi rekstrarformi eða breyta félagsforminu í hlutafélag og gefa út hlutabréf.“ Fyrirhugaðar lagabreytingar væru til þess gerðar að „auka áhuga almennings á að kaupa stofnfé“ en á móti kæmi að „þekking almennings á þessu formi er lítil“ og fyrir vikið yrðu „[s]tofnfjárskírteini […] ekki sama markaðsvara eins og t.d. hlutabréf“. Niðurstaða Guðmundar var skýr: „Það má því vera ljóst að ef stærri sparisjóðir vilja auka innborgað eigið fé umtalsvert verður hlutafélagsformið heppilegra.“

Sú staðreynd að hlutabréfaformið er almennt viðurkennt, og þekkt meðal fjárfesta, leiddi að sögn Guðmundar til þess að „markaðsverð slíkra verðbréfa er hærra“ og fyrir vikið fengju „fyrirtæki […] ódýrara fjármagn með útgáfu hlutabréfa en annarra og minna þekktra verðbréfaforma“. Þetta væri ein helsta ástæða þess að „löggjöf hefur verið breytt í mörgum löndum Evrópu sem gerir sparisjóðum kleift að breyta félagsformi sínu í hlutafélög, ef þeir kjósa svo“.

En hlutafélagsformið hentaði ekki bara stærri sparisjóðum, heldur líka þeim minni „ef markmið þeirra er að sameinast öðrum félögum eða sparisjóðum“:

Meginástæðan er sú að sá hluti eiginfjár sem ekki er innborgað fé, þ.e.a.s. uppsafnaður hagnaður fyrri ára, verður eftir í heimabyggðinni í vörslu sjálfseignarstofnunar. Sjálfseignarstofnunin hefur heimild til að úthluta eignum sínum, t.d. greiddum arði, til menningar- og líknarmála í byggðarlagi sínu. Þannig verður ávallt munur á sparisjóði sem hlutafélagi og hefðbundnum viðskiptabanka. Núverandi eðlismunur á sparisjóði og viðskiptabanka viðhelst því með þessum hætti. Sparisjóðirnir geta áfram veitt verulegum fjármunum til uppbyggingar á sínu starfssvæði og vaxið þannig áfram í þeim jarðvegi sem þeir eiga rætur, auk þess sem hluthafar eiga kost á góðri ávöxtun af sinni fjárfestingu.

Niðurstöðu sína í þessum málaflokki dró Guðmundur saman sem hér segir:

Markmiðið með þeim breytingum sem gerðar voru á lögum um sparisjóði fyrr á þessu ári var að opna þeim dyr, gefa þeim tækifæri til að styrkja grunninn til að áfram mætti efla starfsemina þannig að þeir sætu ekki eftir í harðnandi samkeppni á fjármálamarkaði. Það er síðan undir okkur komið, sem hér erum saman komin, á hvern hátt við nýtum okkur þá möguleika sem okkur standa til boða til heilla fyrir sparisjóðina.

Guðmundur lauk ræðu sinni með því að víkja að stöðu dótturfélaga sparisjóðanna og beinir þar aftur sjónum að Kaupþingi:

Staða dótturfélaganna hefur verið mikið til umfjöllunar á þessu starfsári SÍSP, eins og endranær.
Hæst ber þar ákvörðun um að opna Kaupþing fyrir almennum fjárfestum og skrá félagið á Verðbréfaþingi Íslands. Ekki ríkti eining um þessa framkvæmd, en hún skilaði sparisjóðunum miklum hagnaði sem hefur styrkt verulega stöðu þeirra, bæði hvað eigið fé snertir og um leið samkeppnisstöðu þeirra. Hagnaður sparisjóðanna af eignarhaldi í Kaupþingi og í Scandinavian Holding hefur á undanförnum árum skipt sköpum í afkomu sparisjóðanna. Hefði ekki komið til þessara þátta værum við að horfa á allt aðra stöðu hjá fjölmörgum sparisjóðum.

Guðmundur færði síðan rök fyrir því að greina ætti „dóttur- og hlutdeildarfélög“ sparisjóðanna í tvo hópa: „Annars vegar þau fyrirtæki sem snerta beinlínis grundvallarþætti í starfsemi sparisjóðanna, hins vegar fyrirtæki sem sparisjóðirnir hafa stofnað eða keypt með það í huga að fá arð á fjárfestingu sína eða auka þjónustuúrvalið.“ Í fyrri flokkinn féllu t.d. Sparisjóðabankinn, Tölvumiðstöð sparisjóðanna, Reiknistofa bankanna, Visa og Europay, en síðari flokkurinn „gæti rúmað verðbréfafyrirtæki, eignarhaldsfélög eins og Scandinavian Holding, Alþjóða líftryggingafélagið og SP fjármögnun“, þ.e. fyrirtæki sem ætlað væri að skila góðum arði. Sparisjóðir gætu haft ólíkar ástæður fyrir því að fjárfesta í slíkum fyrirtækjum, og mikilvægt væri að þeir gætu auðveldlega losað um slíkar fjárfestingar þegar þörf krefði.

Ekki verður séð að mikil hreyfing hafi orðið í stefnumótun sparisjóðakerfisins á síðara ári Guðmundar sem stjórnarformaður SÍSP en það ár einkenndist mjög af tilraun Búnaðarbankans til að yfirtaka Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis sumarið 2002. Viðbrögð sparisjóðamanna við þeirri tilraun báru vott um mikinn einhug, fyrst í stað að minnsta kosti – en síðan skarst Guðmundur Hauksson úr leik og studdi svokallaða starfsmannasjóðsleið í óþökk félaga sinna í stjórn SÍSP.48 Svo fór að Guðmundur var sviptur stjórnarformannsembættinu á aðalfundi SÍSP í október 2002 er hann beið lægri hlut fyrir Jóni Kr. Sólnes í atkvæðagreiðslu.49

5.2.6 Stefnumótun í stjórnartíð Jóns Kr. Sólnes: Fyrsta tilraun – bindandi samstarf

Jón Kr. Sólnes hafði ekki setið lengi á formannsstóli þegar fram komu kröfur um að SÍSP tæki upp þráðinn í stefnumótun sparisjóðanna. Á stjórnarfundi 14. janúar 2003 óskaði Hallgrímur Jónsson eftir því „að vinna við stefnumótun hæfist með enn þéttara samstarf sparisjóðanna að leiðarljósi“. Tilefni þessarar beiðni Hallgríms var umræða um málefni Sparisjóðs Hólahrepps og fyrirhugaða breytingu hans í hlutafélag. Hugmynd Hallgríms féll í frjóan jarðveg og á næsta stjórnarfundi var formlega samþykkt tillaga hans um að setja saman starfshóp „sem horfi til framtíðar“ og leitaði svara við spurningunni „hvar sparisjóðirnir staðsetji sig í breyttu umhverfi“. Auk fulltrúa frá SÍSP skyldi hópurinn skipaður „ákveðnum fjölda starfsmanna sparisjóðanna sem hingað til hafa ekki verið í fremstu röð þessa málaflokks“.50 Í mars var óskað eftir tilnefningum í nefndina frá sparisjóðunum og nefndin tók síðan til óspilltra málanna. Í henni áttu sæti Davíð Sigurjónsson (Sparisjóðabankanum), Gísli Jafetsson (fræðslu- og markaðsstjóri SÍSP), Kristinn Lárusson (Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis), Magnús Pálsson (Sparisjóði Hafnarfjarðar), Margrét Hólm Valsdóttir (Sparisjóði Suður-Þingeyinga), Ragnar Z. Guðjónsson (Sparisjóði vélstjóra) og Þröstur Leósson (Sparisjóðnum í Keflavík). Nefndin skilaði áfangaskýrslu á stjórnarfundi SÍSP 13. maí, sem Ólafur Haraldsson (Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis) og Finnur Sveinbjörnsson (nýráðinn bankastjóri Sparisjóðabankans) sátu einnig. Í skýrslunni var lýst fjórum sviðsmyndum, eða hugmyndum um framtíð samstarfsins, og þær bornar saman í töflu.51

Hugmyndum nefndarinnar var vel tekið á stjórnarfundinum og samþykkt var að „ákveðnar sviðsmyndir yrðu útfærðar frekar“. Á stjórnarfundi 10. júní – sem Guðmundur Hauksson sat fyrir hönd Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, þrátt fyrir að sparisjóðurinn ætti á þessu tímabili ekki fulltrúa í stjórninni – lagði nefndin síðan fram endanlega tillögu sína. Leiðin sem varð ofan á var sú sem kennd er við bindandi samstarf. Nánari grein er gerð fyrir henni í glærukynningu sem er meðal fundargagna stjórnarfundarins. Þar er grunnskipulagi sparisjóðakerfisins þannig lýst að miðlæg stjórnunareining, sem nefnd er „Sparisjóðurinn“, reki ásamt öðrum kjarnaeiningum „víðtækt þjónustunet, sem myndar öfluga heild til eflingar samkeppnisstöðu [S]parisjóðsins“. Hlutverk Sparisjóðsins er síðan nánar skilgreint þannig að það felist í „að treysta fjárhagslega velferð viðskiptavina sinna með því að veita vandaða þjónustu á fjórum sviðum“, þ.e. almenna bankaþjónustu, verðbréfaþjónustu, kaup- og eignarleiguþjónustu og tryggingaþjónustu. Talað er um að þrír síðastnefndu þættirnir eigi sér „bakland“ í fyrirtækjum í eigu sparisjóðanna. Þeir sparisjóðir sem það vilji megi starfa saman að því að bjóða þjónustu á þessum fjórum sviðum og starfi þá „undir sameiginlegu vörumerki“.52

Undir liðnum „Framtíðarsýn“ segir síðan í glærukynningunni að markmiðið sé að „uppfylla kröfur stofnfjáraðila um langtímaarðsemi og þarfir viðskiptavina“, svo og að „byggja upp nýja skilvirka stjórnunareiningu, Mótun, sem tekur að sér mörg af núverandi verkefnum SÍSP og fer með forystuhlutverk í málefnum Sparisjóðsins“. Þannig verði til farvegur fyrir „skilvirka ákvarðanatöku í samstarfi sparisjóða“, eða, með öðrum orðum, „forystufélag sem annast heildarstefnumótun, hagsmunagæslu, markaðs- og fræðslumál og fer með stjórnun Tryggingasjóðs [sparisjóðanna]“. Tekið er fram að stjórn Mótunar „verði skipuð fulltrúum SPRON, SPH, SPV, SPKef og að auki komi fulltrúi annarra sparisjóða“ og að kostnaður vegna félagsins „skiptist eftir stærð sparisjóða“. Þar að auki verði „Sparisjóðurinn […] beinn eignaraðili að Eign sem er rekið í formi fjárfestingarsjóðs“ og hafi það verkefni helst að „samræma vinnubrögð og þátttöku í stuðningseiningum“.

Mikil umræða varð um stefnumótunartillöguna á stjórnarfundinum. Umræðan var þó mjög á almennum nótum og flestir virðast hafa verið jákvæðir í garð tillögunnar. Að lokum var ákveðið að halda vinnunni áfram, boða til fundar með sparisjóðsstjórum og stjórnarformönnum undir lok júní og leggja svo lokatillögur og lagabreytingar fyrir aðalfund í október. Þessar áætlanir fóru út um þúfur. Engar beinar heimildir hafa fundist um fundinn með stjórnendum sparisjóðanna, sem haldinn var 8. september en ekki í júní eins og að var stefnt í upphafi. Stefnumótunarmálin bar á góma af og til á fundum stjórnar SÍSP um sumarið og haustið, og bera fundargerðir þess merki að ólíkar skoðanir hafi verið uppi. Þegar kom að aðalfundi var svo ákveðið að falla frá því að leggja stefnumótunartillöguna fram.53

Á aðalfundinum kom fljótlega í ljós að engin eining ríkti um hugmyndina um bindandi samstarf. Strax í umræðum um skýrslu formanns og ársreikning kvaddi Guðmundur Hauksson sér hljóðs og kvartaði undan niðurstöðu stefnumótunarhópsins og benti jafnframt á að „þeirri leið sem SPRON hafði mælt með“ hefði verið ýtt til hliðar. Guðmundur bætti því við að öllum mætti vera ljóst að sú leið sem valin var „mundi takmarka mjög möguleika íslenskra sparisjóða“. Guðmundur vék síðan að fundinum 8. september þar sem tillögurnar voru kynntar. Þangað hefðu SPRON-menn komið með útfærðar tillögur en þeim hefði ekki verið gefinn kostur á að kynna þær, og stjórnarformanni Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hefði beinlínis verið synjað um að tjá sig í lok fundarins. „Ég hygg að þetta sé eini fulltrúaráðsfundur í sögu Sambands sparisjóða, þar sem slíkt hefur gerst“, sagði Guðmundur. Í framhaldinu fullyrti hann að ekki væru allir sömu skoðunar í stefnumótunarmálum innan SÍSP og greindi frá því að sér hefðu „borist tvær áþekkar tillögur m.a. frá varaformanni Sambandsins um grunn að pottþéttu samstarfi og þessar tillögur þóttu mjög nálægt þeim hugmyndum sem SPRON hefur sett fram“. Geirmundur Kristinsson, sem var varaformaður SÍSP á þessum tíma, tók til máls síðar á fundinum og staðfesti þetta.

Þá kvaddi sér hljóðs Finnur Sveinbjörnsson, bankastjóri Sparisjóðabankans.54 Finnur byrjaði á að rifja upp ævintýri H.C. Andersens um nýju fötin keisarans og gaf í skyn að í ræðu sinni hygðist hann taka að sér hlutverk barnsins í ævintýrinu, þ.e. að benda á augljós sannindi sem enginn annar þyrði að hafa orð á. Sannleikurinn væri sá að hver höndin væri upp á móti annarri í sparisjóðakerfinu og starfsfólk sparisjóðanna færi ekki varhluta af því. Finnur líkti þessu ástandi við erfitt hjónaband, „börnin þau skynja strax ef bjátar eitthvað á og þau skilja ekkert í því af hverju pabbi og mamma ræða ekki málin og leysa þau“. Látið væri reka á reiðanum í stað þess að taka ákveðna stefnu. Lífið og fjármálamarkaðurinn stæðu ekki í stað. „Það er ekki allt í lagi í samstarfinu“, sagði Finnur, og því til sönnunar benti hann á hversu illa SÍSP héldist á markaðsstjórum. Viðbúið væri að fleira starfsfólk færi sömu leið og Finnur kvaðst ekki geta horft upp á það með hendur í skauti.55

Finnur taldi síðan upp þrjá kosti sem hann sagði að fælu ekki í sér lausn á vandanum. Í fyrsta lagi „að bíða eftir því að Guðmundur Hauksson hætti, að hann verði rekinn eða að hann fari í Kaupþing Búnaðarbanka“. Í þessu sambandi sá Finnur ástæðu til að benda á að Guðmundur væri ekki gallalaus en hann hefði líka mikla mannkosti, „vissulega er hann eigingjarn, skapstór en hann er líka hugmyndaríkur og fullur af drifkrafti“. Annar kosturinn sem Finnur tiltók var að „bíða eftir að Sigurður Hafstein hætti og láta eins og allt sé í himnalagi í markaðs- og fræðslumálum“. Þriðji kosturinn var svohljóðandi:

Að höggva á hnútinn með einhverjum hætti […] ef við slítum þessum fundi á þeim nótum að við skulum bara halda áfram að þrauka þorrann og góuna án þess að taka til hendinni þá er samstarfið liðið undir lok, kannski ekki formlega en í reynd. Ef við förum af þessum fundi án þess að höggva á hnútinn, þá er samstarfið liðið undir lok.

Þessu til skýringar staðhæfði Finnur að „strax eftir helgina“ myndu „bankinn og sjálfsagt einhverjir sparisjóðir beita sér fyrir því að þá verði loksins sett í gang ýmis verkefni sem hafi setið á hakanum vegna þess að allir eru að bíða“, eins þótt þessi verkefni gætu talist eiga „betur heima hjá SÍSP“. Kyrrstöðuna yrði að rjúfa, það væri skylda Finns og annarra stjórnenda gagnvart starfsfólki sínu og fyrirtækjunum:

Það verða engir sigurvegarar, það verða engir sigraðir en okkur ber skylda til þess gagnvart sparisjóðunum, starfsfólkinu og velunnurum sparisjóðanna um land allt að finna lausn, sem gerir það að verkum að það verður hægt að sækja fram af krafti. Hagsmunir og skoðanir örfárra einstaklinga, verða að víkja fyrir hagsmunum heildarinnar. Þetta er sannleikurinn og þetta vita flest ef ekki öll ykkar sem eruð hér á staðnum og ég endurtek einu sinni enn að ef við hummum þetta fram af okkur […] þá er ég alveg sannfærður um að samstarfið er í reynd liðið undir lok.

Í lok ræðu sinnar greindi Finnur frá því að hann og Sæmundur Sæmundsson hjá Tölvumiðstöð sparisjóðanna hefðu sett saman tillögu til að „höggva á hnútinn“ og að þeir hygðust leggja hana fram til afgreiðslu á fundinum.

Tillagan, sem bar heitið „Þróttmikið samstarf sparisjóðanna – höggvið á hnútinn“, var þríþætt. Í fyrsta lagi var lagt til að „sett [skyldi] á laggir stjórnunarlega og fjárhagslega sjálfstæð eining innan sambandsins [þ.e. SÍSP] til að sinna sameiginlegum verkefnum á sviði rekstrar-, markaðs- og fræðslumála“.56 Í öðru lagi að framkvæmdastjórn þessarar nýju einingar skyldi „meta hvort æskilegt sé að greina enn frekar á milli hagsmunagæslu SÍSP og verkefna á sviðum rekstrar-, markaðs- og fræðslumála með því að stofna sérstakt félag um þessa þætti eða vista þá annars staðar innan sparisjóðasamstarfsins“. Í þriðja lagi var svo lagt til að nýja framkvæmdastjórnin setti á laggirnar „þrjá tímabundna vinnuhópa er ljúki störfum fyrir áramót, einn um verðbréfaþjónustu, annan um fyrirtækjaþjónustu og þann þriðja um erlend tækifæri“. Í tillögunni var gert ráð fyrir að í framkvæmdastjórninni sætu fimm menn, þ.e. „bankastjóri Sparisjóðabankans, framkvæmdastjóri Tölvumiðstöðvar sparisjóðanna og þrír menn valdir af stjórn SÍSP og skal einn af þeim vera formaður framkvæmdastjórnarinnar“.

Tillögunni fylgdi ítarleg greinargerð þar sem meðal annars má lesa að „[á]hersla næstu misseri verði á stórsókn sparisjóðanna“, annars vegar „[ú]t á við sem kemur fram í aukinni markaðshlutdeild, auknum tekjum og aukinni virðingu á fjármálamarkaði og í þjóðfélaginu í heild“, og hins vegar „[i]nn á við sem kemur fram í aukinni hagkvæmni, aukinni arðsemi og auknu sjálfstrausti og ánægju starfsmanna“.

Ekki verður ráðið af fundargerð aðalfundarins hvað varð um tillögu Finns og Sæmundar, en önnur gögn benda til þess að hún hafi verið borin undir atkvæði og felld.57 Henni var þó síður en svo stungið undir stól eins og framvinda stefnumótunarmála SÍSP næstu mánuði og jafnvel ár ber glöggt vitni um.

Eftir að tillaga Finns og Sæmundar hafði verið afgreidd voru teknar fyrir tillögur til breytinga á lögum SÍSP. Guðmundur Hauksson gagnrýndi stjórnina harðlega fyrir ólýðræðisleg og slæleg vinnubrögð við tillögugerðina. Lagabreytingarnar fólu m.a. í sér að vísa mætti sparisjóðum úr SÍSP ef þeir kæmust í eigu samkeppnisaðila, og var ætlunin með því að koma í veg fyrir að samkeppnisaðilar fengju aðgang að viðkvæmum upplýsingum um starfsemi sparisjóðanna. Guðmundur viðurkenndi reyndar að vert væri að gefa þessum rökum gaum. Líklegt væri að eignarhald á stofnfé breyttist í einhverjum sparisjóðum og að einhverjum þeirra yrði breytt í hlutafélög. „Þetta réttlætir hins vegar ekki þau ólýðræðislegu vinnubrögð, sem tillögur stjórnarinnar ganga út frá.“58 Nær væri „að taka viðkvæmustu þættina undan […] SÍSP [og] gera að sjálfstæðum félögum í eigu sjóðanna“, eins og tillaga Finns og Sæmundar gerði ráð fyrir.

Að loknu máli Guðmundar fékk Sigurður Hafstein orðið og tók til varna fyrir lagabreytingarnar. Menn hefðu heyrt ávæning af því að samkeppnisaðilar væru að velta fyrir sér að stofna sparisjóði gagngert „til að fá […] tengingu í okkar starf“. Eðlilegt væri að samtök eins og SÍSP mætu það „á hverjum tíma ef […] nýr sparisjóður er stofnaður hvort […] hann á erindi inn í samtökin og hvort […] það er í samræmi við hagsmuni þeirra sem fyrir eru hvort að hann komist þar inn“. Sigurður benti á að allskyns trúnaðarupplýsingar gengju manna á milli innan sparisjóðakerfisins og bætti við: „Mér er það bara gjörsamlega óskiljanlegt að nokkur maður geti með nokkru móti mælt því [bót] að trúnaðarupplýsingar úr starfsemi sparisjóðanna eigi beinan aðgang inn í stjórn fyrir samkeppnisaðila“.

Í lok fundar voru lagabreytingartillögurnar samþykktar, en ekki er ljóst af fundargerð hvernig atkvæði féllu. Matthías Á. Mathiesen, stjórnarformaður Sparisjóðs Hafnarfjarðar, lagði síðan fram eftirfarandi tillögu, sem finna má handskrifaða í skjalasafni SÍSP:

Aðalfundur SÍSP 3. okt. 2003 samþykkir að ný stjórn SÍSP ljúki stefnumótunarvinnu sparisjóðanna og efni til fundar aðila SÍSP fyrir nóvemberlok þar sem stefnumótun verði samþykkt í takt.59

Efst á blaðinu stendur með sömu rithönd: „Guð má vita hvar við dönsum næstu jól.“

Ekkert kemur fram í fundargerð um afdrif þessarar tillögu Matthíasar, en af framvindu mála næstu vikurnar má ráða að hún hafi verið samþykkt.

5.2.7 Stefnumótun í stjórnartíð Jóns Kr. Sólnes – önnur tilraun

Stjórn SÍSP, sem var endurkjörin í heild sinni á aðalfundinum á Selfossi í byrjun október 2003, kom saman til síns fyrsta fundar á nýju starfsári tæpum tveimur vikum síðar. Á fundinn mættu einnig Finnur Sveinbjörnsson og Sæmundur Sæmundsson og skýrðu nánar tillöguna sem þeir höfðu lagt fram á aðalfundinum. Finnur tók m.a. svo til orða, samkvæmt fundargerð, að „hugmyndin sneri að eins konar útibúaþjónustu“.60 Jón Kr. Sólnes „áréttaði fyrri orð sín og samþykkt stjórnar um þann farveg sem stefnumótunarverkefninu er ætlað“, en Þór Gunnarsson lagði til (í samræmi við tillögu Matthíasar Á. Mathiesen í lok aðalfundarins) að boðaður yrði fundur um þessi mál með sparisjóðsstjórum og stjórnarformönnum sparisjóðanna, og yrði fundurinn 14. nóvember og boðað til hans tafarlaust. Var það samþykkt.

Stjórnin fundaði svo að nýju 13. nóvember og fór þá yfir tillögur sem leggja átti fyrir fundinn með sparisjóðsstjórum og stjórnarformönnum daginn eftir. Til undirbúnings tillögunum hafði verið haldinn vinnufundur að Hótel Rangá 23.–24. október. Vinnufundinn sátu stjórnarmenn SÍSP, Finnur og Sæmundur og þrír fulltrúar úr stefnumótunarhópnum sem mótaði tillöguna um bindandi samstarf, þeir Magnús Pálsson, Davíð Sigurjónsson og Ragnar Z. Guðjónsson. Tillögurnar voru samþykktar samhljóða á stjórnarfundinum og því til staðfestingar rituðu fundarmenn upphafsstafi sína neðst á hverja blaðsíðu og skrifuðu þar að auki undir skjalið í heild sinni á öftustu blaðsíðunni.

Tillögurnar, sem voru í formi glærukynningar, voru að stærstum hluta samhljóða leiðinni sem kennd var við „bindandi samstarf“ og hætt var við að leggja fram á aðalfundinum í októberbyrjun. Þó var talað um að skipa ætti sérstakan starfshóp sem ætlað yrði „að skilgreina það samstarf sparisjóða og þjónustuframboð á sviði bankaþjónustu sem kynnt verði undir vörumerkinu SPARISJÓÐURINN“, svo og „að móta réttindi og skyldur sparisjóðanna á þessu sviði“.61 Í tillögunum var SÍSP lýst svo að það væri „bandalag sjálfstæðra sparisjóða“ sem bjóði „fjögur skilgreind grunnþjónustusvið“, móti „sameiginlega heildarstefnu og megingildi sparisjóðanna“ og myndi „faglegan vettvang fyrir sameiginlegar stefnumarkandi ákvarðanir“. Komið skyldi á fót „samstarfsráð[i] sem verði skipað framkvæmdastjórum þriggja kjarnaeininga (SÍSP, SPB, TS)“ og yrði framkvæmdastjóri SÍSP formaður hópsins. Samstarfsráðinu var ætlað að „[greiða] fyrir upplýsingaflæði“ og „[annast] samræmingu og útfærslu á sameiginlegri stefnu sparisjóðanna“. Undir samstarfsráðið heyrði markaðshópur, fræðsluhópur, þróunarhópur og afkomuhópur. Um Sparisjóðabankann sagði meðal annars að honum væri ætlað að leita „nýrra viðskipta sem ekki eru á hefðbundnu starfssviði sparisjóða“ og að hann ætti að leitast við „að haga þjónustu sinni með þeim hætti að allir sparisjóðir sjái sér hag í að skipta við hann“.

Til fundarins 14. nóvember 2003, sem var formlegur aukafundur samkvæmt lögum SÍSP, komu 40 fulltrúar frá 20 sparisjóðum, þ.e. sparisjóðsstjórar og stjórnarformenn hvers sjóðs fyrir sig.62 Fundurinn bar þess þó nokkur merki að fulltrúar stærsta sparisjóðsins, Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, létu sig vanta. Þremur dögum áður, 11. nóvember, höfðu Jón G. Tómasson stjórnarformaður Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis og Guðmundur Hauksson sparisjóðsstjóri ritað bréf til stjórnar SÍSP þar sem þeir tilkynntu að þeir sæju „ekki tilgang í að taka þátt“ í fundinum vegna þess að þeir gætu engan veginn sætt sig við hugmyndina um „bindandi samstarf“ og tillaga Finns og Sæmundar, sem þeim væri meira að skapi, hefði verið felld á aðalfundinum.63

Þegar til kom lágu sjónarmið Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis þó ekki algerlega óbætt hjá garði á fundinum. Eftir að stefnumótunartillagan hafði verið kynnt í upphafi fundar bað Geirmundur Kristinsson um orðið og lagði fram greinargerð fyrir hönd Sparisjóðsins í Keflavík. Þar segir m.a.:

Við í Sparisjóðnum í Keflavík höfum ekki áhuga á að binda okkur í samstarf með tilteknum hluta sparisjóðanna – og slíta með því samstarfi við aðra – enda lítum við þannig á að þá séum við komnir í blokk sem þýðir leið 3. Okkar markmið var og er að leið verði fundin sem feli í sér að allir sparisjóðirnir vinni saman að sömu markmiðum. Slík leið er örugglega til, enda kom fram tillaga á síðasta aðalfundi sem var studd af stærsta sparisjóðnum ásamt nokkrum öðrum. Það bendir til þess að grundvöllur sé fyrir því að ná saman, ef aðilar hafa umburðarlyndi og þolinmæði. Á það hefur verulega skort í þeirri vinnu sem að baki er […]. Sú vinna einkenndist meira af persónulegum ágreiningi frekar en hagsmunum sparisjóðanna.64

Geirmundur sagði að úr því að „stærsti sparisjóðurinn er ekki með“ yrði að líta svo á að „stefnumótunarvinnan hafi mistekist“ og því „liggi [ekki] á að samþykkja tillöguna“. Að svo mæltu lagði hann fram formlega tillögu um að fresta ákvörðun um stefnumótunina.65 Hallgrímur Jónsson bað þá um orðið og sagði:

Stefnumótun lýkur aldrei. Spron hefur ekki viljað fara eftir leið 2 þ.e. formfast bindandi samstarf. Höfum tekið það út af borðinu og tölum um sjálfstæða sparisjóði. Það sem þarf að hafa ákveðnar reglur um er um sérvörur okkar sem þurfa að lúta ákveðnum lögmálum. Er viss um að þó leiðir hafi skilið á vissum sviðum muni Spron koma aftur til okkar og það muni gróa um heilt.

Að lokum minnti Hallgrímur á að Geirmundur hefði staðið að tillögu stjórnarinnar eins og aðrir stjórnarmenn og skoraði á hann að draga til baka tillögu Sparisjóðsins í Keflavík um frestun. Undir það tók Jón Kr. Sólnes, stjórnarformaður SÍSP. Jón ræddi einnig nokkuð um deilurnar við Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis og sagði tillögurnar sem lægju fyrir fundinum vera nánast samhljóða hugmyndunum sem Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis vildi taka til umræðu á átakafundinum 8. september sem Guðmundi Haukssyni varð tíðrætt um á aðalfundinum.

Þá tók til máls Magnús Brandsson frá Sparisjóði Hólahrepps og mælti fyrir því að tillaga stjórnarinnar yrði samþykkt. Magnús sagði ágreininginn ekki snúast um málefni heldur persónur. Undir þetta tóku Eiríkur Finnur Greipsson frá Sparisjóði Vestfirðinga og Jón Björnsson frá Sparisjóði Norðlendinga. Jafnframt héldu þeir allir á lofti mikilvægi þess að reyna að fá Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis aftur til samstarfs.

Geirmundur Kristinsson fékk síðan orðið að nýju og sagðist ekki hafa ætlað „að hleypa fundinum upp“. Hann tók undir orð Magnúsar Brandssonar og kvaðst geta „sætt sig við að ef það væri staðfest af stjórninni að aðilar væru settir í það að vinna áfram að því að ná öllum sparisjóðum saman að þessari stefnumótun“. Í framhaldi af þessari yfirlýsingu bauðst hann til að draga tillögu sína (og Sparisjóðsins í Keflavík) til baka – að því tilskildu að eftirfarandi fyrirvara væri bætt við tillögu stjórnar:

Framkomin tillaga stjórnar SÍSP um stefnumótun verði samþykkt, en stjórnin vinni áfram að stefnumótun sparisjóðanna með einingu sparisjóðanna að markmiði.

Af fundargerð verður ekki ráðið hvort þessi síðari tillaga Geirmundar var borin undir atkvæði en í minnispunktum fundarritara kemur fram að fundarstjóri hafi „litið svo á“ að hún hafi verið samþykkt. Svo virðist sem enginn hafi tjáð sig um stefnumótunartillöguna eftir að Geirmundur lauk máli sínu en tillaga stjórnarinnar var í það minnsta borin upp og samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

Jón Kr. Sólnes átti síðasta orðið á fundinum og óskaði viðstöddum til hamingju með áfangann – og átti þar við þau tímamót að tillaga um stefnu sparisjóðanna hafði loks verið samþykkt eftir margra ára aðdraganda. Jafnframt tók hann undir það að betra hefði verið að „sjá alla sparisjóði við borðið“. Hann minnti á að sparisjóðirnir hefðu „átt við ramman reip að draga“ á fjármagnsmarkaði en þeir hefðu aldrei ætlað að „hasla [sér] völl á sama vettvangi og stóru viðskiptabankarnir“. Nú þyrfti að taka til óspilltra málanna og hrinda af stað starfshópunum sem um var rætt í tillögunum.

Þetta gekk eftir, og á næsta stjórnarfundi SÍSP, 9. desember, var greint frá því að starfshóparnir hefðu tekið til starfa. En um jólaleytið dundu ný stórtíðindi yfir og settu stefnumótunarvinnuna aftur úr skorðum: fyrirhugaður samruni Kaupþings-Búnaðarbanka og Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis.66 Svo fór að vinnan við að marka sparisjóðasamstarfinu stefnu lá að mestu niðri á árinu 2004.

Á aðalfundi SÍSP í október 2004 hélt Sigurður Hafstein ræðu í tilefni af starfslokum sínum sem framkvæmdastjóri sambandsins, en hann hafði gegnt því embætti allt frá árinu 1980. Sigurður ræddi ítarlega um samstarf sparisjóðanna og tók m.a. svo til orða að „[m]ismunandi framtíðarsýn einstakra stjórnenda sparisjóðanna [hafi byrjað] að trufla samstarf þeirra þegar fyrir um 8 árum síðan“.67 Hann fór ekki leynt með að þessi ár hefðu verið honum „tími vonbrigða“. Þó hefði „[n]ýleg stefnumótun sparisjóða þar sem allir hafa sömu hagsmuna að gæta“ fyllt hann „nýrri bjartsýni“. En hún fór fyrir lítið, því sú uppgötvun „að til væru aðilar innan eigin vébanda sem töldu aðra hagsmuni æðri en framgang þessa samstarfs sem er grundvöllur tilvistar þeirra – hefur valdið mér gríðarlegum vonbrigðum og gert starfið erfitt“.

Sigurður ræddi síðan kosti og galla samstarfs þar sem aðilarnir eru jafn margir og raunin var innan SÍSP. Hann rifjaði upp að „[m]illi áranna 1990 og 2000 gekk sparisjóðunum betur en bönkunum. Nú gengur bönkunum betur“. Þetta kvað Sigurður fylla sig depurð – og það varð honum tilefni til að hamra enn og aftur á mikilvægi samstöðunnar og hinu sérstaka hlutverki sparisjóðanna. Stefnumótunin nýja miðaði að því að tryggja að sparisjóðir störfuðu áfram vítt og breitt um landið. „Ekki var fallist á hugmyndir um samruna í eitt fyrirtæki sem hefði þýtt endalok starfseminnar í því formi sem við þekkjum.“ Sparisjóðirnir yrðu að vera „hornsteinar í héraði“ og forðast að vera „háðir fjarlægu valdi sem skammtar og refsar“.

5.2.8 Niðurstaða stefnumótunarinnar: „Tímanna tákn“

Á stjórnarfundi SÍSP 18. janúar 2005 bar stefnumótun á góma eftir nokkurt hlé. Guðjón Guðmundsson, sem tók við af Sigurði Hafstein sem framkvæmdastjóri SÍSP á aðalfundinum í október 2004, lagði fram minnisblað þar sem rætt var um nauðsyn þess að markaðshópur SÍSP yrði „raunverulega stefnumótandi“. Síðar á fundinum var svo vikið nánar að stefnumótunarmálum og samhæfingu milli dótturfélaga. Guðjón lagði einnig fram minnispunkta um þau mál og segir um það í fundargerð: „Til að tryggja að hagsmunir sparisjóðanna fari saman í öllum dótturfélögum er óskað staðfestingar á að SÍSP sé rétti vettvangurinn fyrir samhæfingu stefnumótunarvinnu.“ Viðbrögð fundarmanna við þessari málaleitan voru nokkuð blendin, enda voru dótturfélögin mörg hver farin að vinna að stefnumótun, óháð SÍSP. Ragnar Z. Guðjónsson, sem leyst hafði Hallgrím Jónsson af hólmi sem sparisjóðsstjóri Sparisjóðs vélstjóra, lýsti t.d. þeirri skoðun sinni að samhæfing stefnunnar ætti að fara fram fyrir milligöngu stjórna dótturfélaganna. Niðurstaða umræðunnar var færð til bókar sem hér segir: „Stjórnarmenn hinna ýmsu stjórna hittist en samþykkt að ferlið verði á þann hátt eins og lagt er til í minnispunktum GG.“

Á stjórnarfundi 19. júlí 2005 var rætt um tillögur, sem lagðar yrðu fram á næsta aðalfundi, „um breytingu á lögum um atkvæðavægi á aðalfundi, kosningu stjórnar, sérstaka stjórn markaðsheitisins SPARISJÓÐURINN“ og aðgreiningu á ólíkum þáttum í hlutverki SÍSP og samstarfi sparisjóðanna almennt. Fundarmenn fögnuðu tillögunum og sögðu þær „tímanna tákn“, en þó var velt upp spurningum um skiptingu atkvæða og þeim breytingum á hlutverki SÍSP sem í þessum hugmyndum fólust. Samþykkt var að útfæra tillögurnar nánar og leggja þær fyrir fund sparisjóðsstjóra og stjórnarformanna 16. ágúst.

Sá fundur fór fram á Hótel Sögu og urðu þar allnokkrar umræður um tillögurnar. Ragnar Z. Guðjónsson og Gísli Kjartansson lýstu stuðningi við þær en töldu þó rétt að skoða þær betur. Jóhann Antonsson frá Sparisjóði Svarfdæla taldi að „breyta [ætti] vægi atkvæða í áföngum“ og bætti við að það yrði „að ræða meðferð á sölu stofnfjár og hvernig þróunin verður. Hvernig varðveitum við ýmislegt í okkar eigin ímynd og það sem stendur á bak við Sparisjóðinn“. Jón Kr. Sólnes svaraði þessu á þá leið að „[s]tofnfjármálin [yrðu] rædd og fundinn til þess tími“. Geirmundur Kristinsson lýsti þeirri skoðun sinni að skrefið ætti að stíga til fulls „en mætti taka í áföngum“.68

Guðmundur Hauksson lýsti því yfir að hann teldi „æskilegt að stíga þessi skref hvort sem það er í einu lagi eða í áföngum“. Vanda þyrfti til tillagnanna og framkvæmdarinnar „og taka þá allt lagaumhverfið upp“. Jafnframt kvað hann „[h]ugmyndir sem fram koma í skipuriti til góðs“ og lýsti fyrir hönd Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis „áhuga á þátttöku í starfi vinnuhóps“.

Að lokum tók Ari Teitsson til máls og brýndi fyrir mönnum að „fara gætilega“ og
„[v]anda sig við verkaskiptingu milli stjórnar SÍSP og sparisjóðanna“. Einnig þyrfti að gæta að kostnaði.

Tillögurnar voru síðan lagðar fyrir aðalfund 14. október 2005 í formi lagabreytinga. Helsta breytingin sem varðaði hlutverk SÍSP var fólgin í því að bætt var inn í lögin nýrri grein, sem varð 6. grein laganna, og hljóðaði svo:

SÍSP er vettvangur samstarfs sparisjóða á hverju sviði sem þeir óska óháð fjölda samstarfsaðila. Samstarfsverkefni sem ekki nær til allra sparisjóða skal stjórnað af þeim sem taka þátt í því. Stjórn SÍSP fær ekki sértækar upplýsingar um slík samstarfsverkefni og starfsfólk SÍSP er bundið trúnaði gagnvart hverjum og einum sparisjóði og verkefnum þeirra.
Samstarfsverkefni skulu kostuð að fullu af þeim sparisjóðum sem taka þátt í þeim.69

Jafnframt var breytt lagaákvæði um atkvæðavægi sparisjóða, og það látið ráðast af stærð þeirra eftir reglu sem lýst er svo í 8. grein laganna:

Heildaratkvæðafjöldi á fundum SÍSP skal vera 1000. Atkvæðum skal skipt þannig milli sparisjóða að fyrst fær sérhver sparisjóður tuttugu atkvæði. Síðan skal afgangi atkvæða skipt hlutfallslega milli þeirra í samræmi við greiðslu árgjalda á yfirstandandi ári.70

Meðal gagna sem dreift var til fundarmanna fyrir fundinn var tafla sem sýndi atkvæðavægið og önnur sem sýndi kostnaðarskiptinguna. Tafla 3 hefur að geyma samantekt úr töflunum tveimur.

Skemmst er frá því að segja að lagabreytingarnar voru samþykktar á aðalfundinum í október 2005. Þar með má segja að náðst hafi niðurstaða í þeirri stefnumótunarvinnu sem staðið hafði innan SÍSP í níu ár. Í það minnsta voru deilur um atkvæðavægi til lykta leiddar – og reglunni um að hver sparisjóður færi með eitt atkvæði á aðalfundum var varpað fyrir róða.

Til að glöggva sig betur á því nýja skipulagi SÍSP sem komið var á með lagabreytingunum má leita í aðalfundarbækling ársins 2006, svokallaða „Árbók SÍSP“, en þar eru lagabreytingarnar skýrðar. Rætt er sérstaklega um hina nýju 6. grein, sem felur í sér að „formlega [er] viðurkennt að SÍSP geti og skuli starfa fyrir sparisjóðina óháð því hvort allir séu með“.71 Þessi lagabreyting hafði ákveðnar afleiðingar fyrir starfsemi SÍSP:

Með samþykkt 6. greinarinnar varð nauðsynlegt að breyta skipulagi, vinnubrögðum og reikningshaldi SÍSP. Fyrsta skrefið var að stofna til sjálfstæðs samstarfsverkefnis innan SÍSP undir heitinu „Sparisjóðurinn“. Þar er vísað til samstarfs 21 sparisjóðs undir vörumerkinu Sparisjóðurinn. Sparisjóðurinn vinnur í samræmi við sjálfstætt samkomulag þátttakendanna í samstarfinu, undir sérstakri 5 manna stjórn og með starfsfólk sem eingöngu vinnur að málefnum Sparisjóðsins.72

Jafnframt er greint frá því að Fræðslumiðstöð sparisjóðanna hafi með þessari skipulagsbreytingu orðið að sjálfstæðri rekstrareiningu sem fjármögnuð var af notendum. „Grunnþjónusta SÍSP, hagsmunagæsla og önnur verkefni, sem eru unnin fyrir hönd og með hagsmuni allra í huga, er fjármögnuð með árgjöldum.“73

Í kafla sem ber heitið „Markaðsstarf sparisjóðanna“ er síðan gerð sérstök grein fyrir starfsemi Sparisjóðsins. Í inngangsorðum kaflans segir: „Sparisjóðirnir hafa undanfarið ár markaðssett sig undir fjórum mismunandi vörumerkjum: Netbankinn, Sparisjóðurinn, SPRON og S24.“74 Um Sparisjóðinn segir síðan:

Í árslok 2005 skrifuðu 21 sparisjóðir undir samkomulag um samstarf sparisjóða sem vinna sameiginlega undir vörumerkinu Sparisjóðurinn. Með samkomulaginu færist formlegt ákvörðunarvald í markaðsmálum og vöruþróun í hendur sérstakrar stjórnar Sparisjóðsins. Fyrstu stjórn Sparisjóðsins skipa: Guðjón Guðmundsson, Margrét Tryggvadóttir, Ragnar Z. Guðjónsson, Geirmundur Kristinsson, Carl H. Erlingsson, Örn Arnar Óskarsson og Magnús Pálsson. Margrét Tryggvadóttir er verkefnastjóri Sparisjóðsins.75

Fram kemur að starfræktur sé sérstakur markaðshópur Sparisjóðsins sem sjái um „markaðssetningu á vörumerkinu ‚Sparisjóðurinn‘“. Hópur þessi „er skipaður fulltrúum sparisjóða á höfuðborgarsvæðinu ásamt fulltrúum frá SÍSP“ og fundar einu sinni í viku.76

Þess má að lokum geta að Jón Kr. Sólnes lét af embætti formanns SÍSP á aðalfundinum í október 2005 og tók Gísli Kjartansson, sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Mýrasýslu, við formannsembættinu. Einnig urðu þau tíðindi að Ólafur Haraldsson var kjörinn í stjórn fyrir hönd Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, og lauk þar með þriggja ára tímabili þar sem SPRON stóð utan stjórnar SÍSP.

5.3 SÍSP og átökin kringum Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis

Burtséð frá skoðanaskiptum um stefnu SÍSP og framtíð sparisjóðasamstarfsins markaðist saga sparisjóðakerfisins á fyrstu árum 21. aldarinnar mjög af átökum um stöðu og stefnu stærsta sparisjóðsins, Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis. Ástæða er til að gefa þessum deilum um og umhverfis SPRON sérstakan gaum.

5.3.1 Markaðsmál sparisjóðanna, með og án Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 1998–2002

Togstreitan í samstarfi sparisjóðanna á síðustu árum 20. aldar birtist ekki síst í deilum um markaðsmál, sem snerust öðru fremur um stöðu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis innan samstarfsins. Þegar hefur verið vikið nokkuð að þessum átökum í kafla 5.2.1, í tengslum við stefnumótunarvinnuna veturinn 1997–1998. Deilurnar héldu áfram og undir lok árs 1998 tók Ólafur Haraldsson, þáverandi aðstoðarsparisjóðsstjóri Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, saman minnisblað þar sem fram kom að SPRON hygðist að vísu taka þátt í sameiginlegu markaðsstarfi sparisjóðanna á árinu 1999 – en aðeins með tilteknum fyrirvörum og skilyrðum. Meðal fyrirvaranna má nefna kröfu um aðra skiptingu á kostnaði en lögð hafði verið til, að fyrirhuguð auglýsingaherferð „verði með þeim hætti að SPRON sætti sig við hana“, að „ákveðnir aðilar hætti sífelldum dylgjum og ásökunum í garð SPRON um ónógan samstarfsvilja o.fl. á þessu sviði en því miður hefur samstarfið á þessu ári einkennst af því“, og að „tryggt sé að hagsmunaárekstur verði ekki til staðar vegna vinnu Íslensku auglýsingastofunnar fyrir tvo sparisjóði sem eru í yfirlýstri samkeppni við SPRON á sama tíma og hún sér um nær öll sameiginleg auglýsingamál sparisjóðanna“.77

Þessi kröfugerð af hálfu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis gaf tóninn fyrir starf markaðshóps SÍSP á árinu 1999, en það einkenndist af samstarfserfiðleikum. Þannig barst markaðshópnum tölvuskeyti frá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis 25. febrúar 1999 með alvarlegum athugasemdum og breytingartillögum við áðurnefnda auglýsingaherferð sem unnin var af Íslensku auglýsingastofunni. Af fundargerðum má ráða að þessar athugasemdir Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis komu markaðshópnum á óvart, ekki síst í ljósi þess að fulltrúi SPRON sat í hópnum og hafði ekki gert neinar athugasemdir við mótun kynningarherferðarinnar fram að þessu. Lausn virðist hafa fundist á málinu sem allir gátu sætt sig við, en líklegt má telja að þessir erfiðleikar hafi verið angi af óánægju Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis með sparisjóðasamstarfið og þær skyldur og kvaðir sem því fylgdu.

Eftir að Guðmundur Hauksson, sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, tók við formennsku í SÍSP í október 2000 batnaði samstarf sparisjóðanna í markaðsmálum nokkuð, að minnsta kosti um stundarsakir. Guðmundur lét það verða eitt sitt fyrsta verk sem formaður að móta nýja markaðsstefnu og skipaði í því skyni nýjan markaðsmála- og stefnumótunarhóp sem í voru Ólafur Haraldsson (Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis), Ragnar Z. Guðjónsson (Sparisjóði vélstjóra) og Friðrik Halldórsson (Sparisjóðabankanum), ásamt Þórði Sverrissyni frá ráðgjafarfyrirtækinu Forskoti hf. og síðar Gísla Jafetssyni fræðslu- og markaðsstjóra SÍSP. Í ræðu sinni á aðalfundi SÍSP í október 2001 ræddi Guðmundur í alllöngu máli um það hversu mikill einhugur hefði ríkt um starf þessa nýja markaðshóps, bæði innan hópsins sjálfs og meðal stjórnarmanna SÍSP.78 Hópurinn hefði líka starfað af mikilli elju og dugnaði: „Hópurinn skilaði […] á mjög skömmum tíma tillögum um þessi mál en slíkt hafði ekki tekist í langvarandi stefnumótunarvinnu sparisjóðanna.“ Í tillögum hópsins, sem voru samþykktar á stjórnarfundi 13. desember 2000, fólst að framlög SÍSP til markaðsmála voru tvöfölduð og í byrjun árs 2001 var hrundið af stað ímyndarherferðinni „Af öllu hjarta“ sem auglýsingastofan Ydda sá um.

Ekki voru þó sparisjóðirnir alveg samstíga í markaðsmálum á þessu tímabili. Í fundargerð stjórnarfundar SÍSP 14. janúar 2002 kemur fram að Gísli Jafetsson og Sigurður Hafstein hafi vakið máls á óhagræði sem hlytist af því þegar einstakir sparisjóðir hættu við þátttöku í sameiginlegum markaðsverkefnum. Í framhaldinu er eftirfarandi fært til bókar:

Eins og málum er háttað í dag, í markaðsverkefnum, er tekið tillit til þessa ef fyrir liggur áður en ráðist er í verkefni hverjir verða ekki með. Ekki er hægt að segja sig frá þátttöku ef verkefni er farið af stað. Fundarmenn sammála þessu og samþykkt að mótaðar verði tillögur þar sem fram komi hver fyrirvarinn skuli vera og annað í þessu sambandi.

Á stormasömum stjórnarfundi 22. ágúst sama ár varð síðan nokkur umræða um notkun svonefnds „hjartasmára“, sem tengdist ímyndarherferðinni „Af öllu hjarta“. Nánar segir frá þessum fundi í kafla 5.3.2, en helsta mál á dagskrá hans voru nýjustu tíðindi af yfirtökutilraun Búnaðarbankans á Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis. Fundurinn dróst á langinn og þurfti Guðmundur Hauksson frá að hverfa áður en honum lauk. Í lok fundarins barst talið að ímyndarmálum og segir um það í fundargerð:

Þeir stjórnarmenn flestir sem tjáðu sig lögðu til sókn í ímyndarmálum sem ekki yrði í anda og ekki með hjartasmáranum. Almennt vildu stjórnarmenn að notkun hjartasmárans yrði hætt nema við alveg sérstök tilefni.

Þegar fundargerð þessi var borin upp til samþykktar í upphafi næsta stjórnarfundar, að Guðmundi viðstöddum, kom fram „[a]thugasemd í formi bókunar“ frá Guðmundi þar sem hann „harmar niðurstöðu fundarins um þetta mál og telur að hún verði ekki til góðs, varðandi framgöngu markaðsmála“.79

5.3.2 Tilraun Búnaðarbankans til yfirtöku á Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis sumarið 2002

Fimmtudaginn 27. júní 2002 var boðað til stjórnarfundar SÍSP í allnokkrum flýti í tilefni af tilboði fimmmenninganna svokölluðu til stofnfjáreigenda í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis. Á fundinum fór Guðmundur Hauksson formaður SÍSP „yfir stöðu mála í dag [og] vitnaði í lögin um banka og sparisjóði – og reifaði aðdraganda þeirrar aðfarar sem nú er gerð að SPRON og sparisjóðastarfseminni“. Í fundargerð er síðan ítrekað að „[h]ér [sé] um að ræða aðför að [s]parisjóðunum á Íslandi“. Guðmundur lagði fram yfirlýsingu til samþykktar og voru fundarmenn á einu máli um að senda hana til fjölmiðla. Yfirlýsingin birtist daginn eftir í Morgunblaðinu og víðar (sjá rammagrein).

Þriðjudaginn 2. júlí fundaði stjórnin að nýju og umræðum um viðbrögð við yfirtökutilboðinu var fram haldið. Guðmundur Hauksson „áréttaði“ samkvæmt fundargerð að þessir atburðir allir hefðu „ekkert með lagabreytinguna frá því í fyrra að gera“, þ.e. lög nr. 71/2001 sem heimiluðu hlutafjárvæðingu sparisjóða, og bætti við:

Einnig þarf að taka ákveðið á málum hvernig sem úrskurður Fjármálaeftirlitsins verður. Búast má við nýjum útfærslum á tilboðum úr hendi bankanna gagnvart öðrum sparisjóðum, enda hefur því verið lýst yfir af forsvarsmönnum þeirra. Aðför bankanna snýst um að leggja niður sparisjóðina og afnema sparisjóðastarfsemi á Íslandi.

Sigurður Hafstein greindi síðan frá samskiptum sparisjóðamanna við viðskiptaráðherra og efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis. Í framhaldinu ítrekaði Hallgrímur Jónsson „fyrri andstöðu sína við hlutafjárvæðingu sparisjóðanna“ og „[l]agði […] til að horfið yrði til fyrri lagaákvæða um sparisjóðina“. Geirmundur Kristinsson tók undir þessi orð og talaði um nauðsyn þess að menn kæmu „sér saman um hvernig sparisjóðirnir ættu að starfa í framtíðinni“ og stæðu saman um það fyrirkomulag. Guðmundur Hauksson kvaðst sammála þessu og ræddi um nauðsyn þess að „sparisjóðirnir móti [framtíð sína] sjálfir með tilliti til öflunar eigin fjár“. Hallgrímur Jónsson og Þór Gunnarsson ítrekuðu mikilvægi samstöðunnar.

Hinn 23. júlí 2002 kom stjórn SÍSP saman til fundar og enn var aðeins eitt mál á dagskrá, þ.e. „málefni sparisjóðanna“. Fyrir fundinum lá greinargerð Fjármálaeftirlitsins um yfirtökutilraun Búnaðarbankans á Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis. Guðmundur Hauksson fór yfir greinargerðina og niðurstöður hennar og hafði þau orð um hana að hún væri „mikil og tyrfin lesning sem kallar á nokkra yfirlegu“. Í fundargerðinni segir að ljóst sé „að Fjármálaeftirlitið getur gripið inn í þann feril sem farinn er af stað“ en á hinn bóginn komi á „óvart […] að heimilt sé að eiga viðskipti milli aðila með stofnfé á yfirverði“. Í framhaldinu er bent á að „[t]il eru orðin tvö verð á sparisjóði, verð á stofnfé og markaðsverð“. Guðmundur hvatti til að brugðist yrði við án tafar en jafnframt kemur fram í fundargerðinni að „[í] bráð [sé] engin lausn sjáanleg“. Þó mætti „[f]ara af stað með upplýsingagjöf um sparisjóðina gagnvart opinberum aðilum“.

Hallgrímur Jónsson tók þá til máls og fullyrti að málið hefði stórskaðað sparisjóðina. Hann bætti því við að „[b]regðast [þyrfti] við áróðri um að enginn eigi sparisjóðina“ og brýndi fyrir samherjum sínum að „vera samstíga um það hvernig við viljum styrkja sparisjóðastarfsemina og læra af mistökum annarra í þeim efnum. Verjast allir sem einn. Fá almenningsálitið með okkur“. Guðmundur Hauksson fékk orðið að nýju og sagði:

Búið er að ýta hlutafélagavæðingu til hliðar í SPRON. Búið að skoða hvernig þessum málum er háttað erlendis. Finna þarf íslenskt módel. Ef hlutafélagaleiðin gengur ekki þarf að finna aðrar leiðir til öflunar aukins eigin fjár.

Í framhaldinu ræddi Sigurður Hafstein um mögulega lagasetningu og sagði frá fundi sínum með starfsmönnum viðskiptaráðuneytisins daginn áður. Einnig var rætt um sparisjóði á Norðurlöndum og umgjörð þeirra. Möguleikinn á því að setja bráðabirgðalög kom til tals og sagði Guðmundur Hauksson að það þyrfti „að skoða eins og annað“. Þá var rætt um fyrirhugaðan fund stofnfjáreigenda í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis 12. ágúst.

Á stjórnarfundi 22. ágúst 2002 var fundur stofnfjáreigendanna að baki og ný staða komin upp í málinu þar eð starfsmannasjóður Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hafði lýst áhuga á að kaupa meirihluta stofnfjár í sparisjóðnum. Í upphafi stjórnarfundarins lagði Guðmundur Hauksson málin upp sem hér segir:

[…] ljóst væri að mál hafi verið að þróast á annan veg en menn ætluðu. Efnisþættir væru tvíþættir: Staða SPRON annars vegar og staða sparisjóðanna og samstarfsins í heild sinni hins vegar. Fram þurfi að fara skilgreining á grundvallarmálum sparisjóðanna.

Guðmundur sagði síðan frá fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis 29. júlí 2002 og lét þau orð falla í því sambandi að „[s]jónarmið „fimmmenninganna“ [hefðu] hvergi komið fram fyrr, hvorki á aðalfundum SPRON eða kynningarfundum um hlutafjárvæðingu“. Þá vék Guðmundur að áformum um hlutafélagsvæðingu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis og sagði að þeim hefði „verið ýtt frá“.

Þór Gunnarsson bað Guðmund um að skýra hver munurinn væri á tilboðunum tveimur sem fram væru komin í stofnfé Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis. Guðmundur sagði tilboð fimmmenninganna og Búnaðarbankans felast í „hlutafélagavæðingu og sameiningu við Búnaðarbankann“ en tilboð starfsmannanna miðaðist hins vegar við „að reka sparisjóðinn óbreyttan áfram“.

Hallgrímur Jónsson tók næstur til máls og sagði m.a. frá fundi sínum og Sigurðar Hafstein með forsætisráðherra. Fram kemur í fundargerð stjórnarfundarins að fundur þessi hafi staðið í eina og hálfa klukkustund og að þar hafi verið „farið yfir stöðu sparisjóðanna ef tilboð Búnaðarbanka Íslands næði fram að ganga“. Hallgrímur lýsti þeirri skoðun sinni að sparisjóðirnir ættu að leita til dómstóla og lagði fram „athugun“, eins og það er kallað í fundargerð, sem laut að því hvort um „kæranlega ákvörðun“ Fjármálaeftirlitsins væri að ræða. Hallgrímur kvað rétt að láta á það reyna og lagði til að SÍSP legði fram kæru.

Sigurður Hafstein tók síðan til máls og

skýrði frá fundi efnahags- og viðskiptanefndar og ósk fundarmanna nefndarinnar [um] að Samband íslenskra sparisjóða komi með tillögu um útfærslu á breytingu á lögum sem hugsanlega þurfi að gera. Möguleiki er á að efnahags- og viðskiptanefnd hafi frumkvæði að lagasetningu.

Í framhaldinu tók Sigurður undir þá tillögu Hallgríms að SÍSP „kærði málið […] enda sé það hlutverk Sambandsins að standa vörð um hagsmuni sparisjóðanna“. Hann lagði síðan fram bókun um að kæra úrskurð Fjármálaeftirlitsins (sjá rammagrein) og var hún samþykkt. Þór Gunnarsson tók þá til máls og sagði „nauðsynlegt að ákveða hver væri málsvari sparisjóðanna og kærumálsins“, og lagði til að það yrði Sigurður Hafstein. Var það samþykkt. Finnur Sveinbjörnsson, sem sat fundinn sem fulltrúi Sparisjóðabankans, ræddi í framhaldinu um nauðsyn þess að „hafa alveg á hreinu […] hver sé talsmaður sparisjóðanna í framhaldi málsins“. Málið var rætt nánar og samþykkt að fela Þór Gunnarssyni og Gísla Kjartanssyni að ræða við Guðmund Hauksson, sem horfinn var af fundinum þegar hér var komið sögu, „um stöðu hans í þessu erfiða máli“.

Næsti stjórnarfundur SÍSP var 17. september 2002. Þar lagði Sigurður Hafstein fram hugmyndir að breytingum á ákvæðum um sparisjóði í frumvarpi til laga um fjármálafyrirtæki sem taka átti fyrir á fundi bankalaganefndar þennan sama dag og daginn eftir. Fram kom að nefndin hygðist ljúka störfum innan tíu daga. Greint er frá því í fundargerðinni að Sigurður Hafstein hafi farið yfir „störf nefndarinnar og stöðu athugasemda hans við vinnugögn um frumvarpið“, en hann var fulltrúi sparisjóðanna í nefndinni. Jafnframt var „[k]allað […] eftir athugasemdum stjórnarmanna“ en ekki er tilgreint hvort slíkar athugasemdir komu fram.

Aðalfundur SÍSP var haldinn 4. október 2002 og eins og áður hefur komið fram var Guðmundur Hauksson felldur úr formannsstóli á fundinum er hann beið lægri hlut fyrir Jóni Kr. Sólnes í formannskjöri. Nánar er sagt frá þeim atburðum í kafla 5.3.4.

5.3.3 Fyrirhugaður samruni Kaupþings Búnaðarbanka hf. og Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis í árslok 2003

Hinn 30. desember 2003 var stjórn SÍSP boðuð til aukafundar til að ræða um stöðu sparisjóðanna í tilefni af fréttum af væntanlegum samruna Kaupþings Búnaðarbanka hf. og Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis. Á þessum tíma átti Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis engan fulltrúa í stjórn SÍSP og voru samskipti SPRON og SÍSP afar stirð um þessar mundir (sjá kafla 5.3.5).

Á stjórnarfundinum 30. desember lét Hallgrímur Jónsson í ljós þá ósk sína að „heimild til að breyta sparisjóðum í hlutafélag verði hreinlega felld niður“. Ingimar Haraldsson, sem sat fundinn af hálfu Sparisjóðs Hafnarfjarðar, lýsti því yfir að „engin áform [væru] í stjórn SPH um breytingar á rekstrarformi“. Páll Sigurðsson frá Sparisjóði Húnaþings og Stranda benti á að „umræða [um] hvað verði um sjóðina [kitlaði] marga“ og talaði fyrir nauðsyn þess að „stoppa umræðuna áður en hún fer á fullt“. Í framhaldinu nefndi hann að sínum sparisjóði hefði borist „viðræðubeiðni“ frá Landsbankanum og að lögð hefðu verið drög að svari við henni.

Geirmundur Kristinsson talaði um „alvarleika málsins“ og taldi ekkert geta komið í veg fyrir söluna á Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis til Kaupþings Búnaðarbanka hf., enda lægi ákvörðun stjórnar SPRON fyrir. Geirmundur bætti við: „Skýr skilaboð þarf frá stjórnvöldum um gildi sparisjóðanna. Sparisjóðirnir starfa í skjóli stjórnvalda í nágrannalöndunum.“

Angantýr Jónasson frá Sparisjóði Vestfirðinga sagði „ekki annað [koma] til greina en að berjast fyrir tilvist sparisjóðanna. Ríkisstjórnin verður að vera með – hliðholl okkur“. Hallgrímur Jónsson lýsti þeirri skoðun sinni að þeir sem væru kosnir til stjórnarsetu í sparisjóðunum ættu að „standa vörð um sparisjóðina“.

Sigurður Hafstein sagði að „hlutverk sparisjóðanna allra [væri] að bregðast við og síðan stjórnar og starfsmanna SÍSP að svara“. Sigurður talaði síðan um þann möguleika að breyta ákvæðum laga um samsetningu stjórnar sjálfseignarstofnunarinnar sem færi með yfirráð yfir eigin fé sparisjóða. Hallgrímur Jónsson sagði að „[k]oma [þyrfti] fram að sparisjóðirnir eru ekki til sölu“.

Að lokum ræddi Sigurður Hafstein um næstu skref, „m.a. viðræður við þingmenn“, og samþykkt var „að boðað yrði til allsherjarfundar sparisjóðanna en þá liggi fyrir samþykktir allra stjórna sparisjóða“.

Stjórn SÍSP fundaði að nýju 11. janúar 2004. Þar talaði Sigurður Hafstein um mikilvægi þess að „[s]annfæra landsmenn um að víðtækir þjóðfélagslegir hagsmunir séu að þessi valkostur [þ.e. sparisjóðakerfið] sé til staðar og hvaða breytingar við viljum fá til að viðhalda honum“. Gísli Kjartansson áréttaði að Sparisjóður Mýrasýslu væri ekki til sölu. Ólafur Elísson frá Sparisjóði Vestmannaeyja ræddi meðal annars um stofnfé og hlutafé og sagði: „Hugsunin með stofnfé var að þetta væri sem bundin bók en nú væri farið að horfa á stofnfé sem hlutafé sem það ekki er.“ Geirmundur Kristinsson benti á að „[e]kki er hægt að taka hlutlausa ákvörðun um verðmæti stofnfjár þegar fyrir liggur tilboð í stofnféð“.

Finnur Sveinbjörnsson, sem boðaður hafði verið sérstaklega á fundinn, sagði „deginum ljósara að ríkisstjórnin grípi ekki inn í“, en samþykkt var „að leitast yrði við […] að fá fram breytingu á [lagaákvæðum um] stjórn sjálfseignarstofnunarinnar“.

Hinn 6. febrúar 2004 tóku svo gildi lög nr. 4/2004 um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki þar sem kveðið var á um breytingar á tilhögun stjórnar sjálfseignarstofnunar sem færi með virkan eignarhlut í hlutafélagssparisjóði, auk þess sem skilið var skýrar en áður á milli stofnfjáreigenda eða hluthafa annars vegar og sjálfseignarstofnunar hins vegar.80

Á stjórnarfundi SÍSP 12. febrúar 2004 var rætt um stöðu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis innan sparisjóðasamstarfsins. Jón Kr. Sólnes lýsti þeirri skoðun sinni að taka þyrfti upp viðræður við SPRON um það „á hvern hátt þeir vilji starfa áfram innan SÍSP og SPB [Sparisjóðabankans]“. Gísli Kjartansson og Hallgrímur Jónsson tóku undir þetta. Þór Gunnarsson lagði hins vegar til að SÍSP færi formlega fram á skýringar frá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis „á ýmsum fullyrðingum sem fram hafa verið settar“ og varaði jafnframt við „ástandi síðustu 7 ára“. Ólafur Elísson andmælti þessu og varaði við öfgum og afarkostum sem gætu spillt fyrir samstarfinu. Carl H. Erlingsson talaði fyrir því að „halda fram fyrri sjónarmiðum stjórnar SÍSP“ og átti þar við að yfirtaka Kaupþings Búnaðarbanka hf. á Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis „gengi ekki skv. lögum“. Jón Kr. Sólnes sagði viðbrögð SÍSP snúast um að „verja okkur fyrir keðjuverkun“. Tilraunir til þess að yfirtaka Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis fóru út um þúfur og SPRON var áfram sparisjóður. Framangreind orðaskipti á stjórnarfundi SÍSP bera samt með sér að staða Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis innan sparisjóðafjölskyldunnar var orðin óljós.

5.3.4 Bitist um formannsembættið

Árið 2002 varð örlagaríkt hvað samskipti Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis og SÍSP snerti. Yfirtökutilburðir „fimmmenninganna“ gagnvart Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis um sumarið kölluðu í fyrstu fram mikla samstöðu meðal sparisjóðamanna, jafnvel meiri samstöðu en sést hafði um langa hríð, eins og sjá má á frásögninni hér á undan. Þessi þíða í samskiptum forsvarsmanna Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis og annarra framámanna í sparisjóðasamstarfinu stóð þó ekki lengi, enda risti ágreiningurinn djúpt. Átökin náðu hápunkti í október 2002 þegar tíð Guðmundar Haukssonar á formannsstóli SÍSP lauk nokkuð snögglega. Áður en vikið er að þeim atburðum er þó rétt að greina stuttlega frá aðdraganda þess að Guðmundur tók við sem formaður haustið 2000.

Fjórum dögum fyrir aðalfundinn, þ.e. 16. október 2000, barst Sigurði Hafstein framkvæmdastjóra SÍSP bréf frá Arnari Sigurmundssyni, stjórnarformanni Sparisjóðs Vestmannaeyja, þar sem Arnar lýsti áhyggjum sínum og stjórnar Sparisjóðs Vestmannaeyja af málefnum og markaðsstöðu sparisjóðanna. Sameining Landsbankans og Búnaðarbankans var yfirvofandi, að sögn Arnars, og því stefndi í að í landinu yrðu tveir stórir viðskiptabankar ásamt rúmlega 20 sparisjóðum, auk Sparisjóðabankans og Kaupþings. Jafnframt lægi fyrir að viðskiptaráðherra væri með lagafrumvarp í smíðum um starfsemi sparisjóðanna og í því ljósi væri bagalegt að stefnumótunarvinnu sparisjóðanna væri ólokið. Bregðast þyrfti við hið fyrsta: „Breyttur bankaheimur kallar á breytingar hjá okkur.“ Í þessu sambandi nefndi Arnar sérstaklega að á næstu árum myndi „eignaraðild í Kaupþingi [færast] í auknum mæli frá sparisjóðunum“ og að breytingar á „[v]ægi annarra fyrirtækja sparisjóðanna“ væru einnig í vændum. Mestu skipti við þessar aðstæður að aðstandendur sparisjóðanna sýndu samstöðu.81

Í bréfinu lagði Arnar til að gripið yrði til tvenns konar ráðstafana. Í fyrsta lagi fór hann fram á að aðalfundir SÍSP yrðu framvegis haldnir „eigi síðar en í lok aprílmánaðar“. Í öðru lagi varaði hann við „hörðum og persónulegum kosningaslag“ um formannsembætti SÍSP sem væri í uppsiglingu, því að ljóst væri „að Guðmundur Hauksson sparisjóðsstjóri og stjórnarmaður sækist nú eftir kjöri til formanns“ en jafnframt hygðist sitjandi formaður, Þór Gunnarsson, gefa kost á sér til endurkjörs til eins árs í viðbót (en láta svo af embætti). „Í þeim kosningum verður enginn sigurvegari,“ sagði Arnar, „en samstaða sparisjóðanna mun tapa í þeim slag.“

Arnar kvaðst hafa rætt þessi mál við Þór og Guðmund, svo og við Sigurð Hafstein framkvæmdastjóra SÍSP. Tillaga Arnars til lausnar vandanum var skýr og afdráttarlaus: Á aðalfundinum 20. október „þarf fráfarandi formaður að taka fram í ræðu sinni að hann sækist ekki eftir endurkjöri á aðalfundinum vorið 2001. Að þessu sögðu þarf Guðmundur Hauksson að lýsa því yfir að hann sækist ekki eftir kjöri til formanns fyrr en á aðalfundinum vorið 2001“.

Í lok bréfs síns brýndi Arnar kollega sína til verka. Nú þyrfti að láta hendur standa fram úr ermum, ný löggjöf væri væntanleg og því þyrfti að hraða stefnumótun. „Ný lög um sparisjóðina þar sem gert verði ráð fyrir heimild til hlutafélagaforms munu ef vel tekst til gefa sparisjóðunum ný sóknarfæri í næstu framtíð.“

Bréf Arnars var lagt fram á fundi stjórnar SÍSP 19. október 2000, daginn fyrir aðalfund. Samkvæmt fundargerð sköpuðust „[t]öluverðar umræður“ um efni bréfsins og voru menn ekki á eitt sáttir. Menn skiptust á skoðunum um fyrri tillögu Arnars, að færa aðalfund fram í apríl, en náðu ekki niðurstöðu í það mál. Hvað síðari tillögu Arnars snertir var eftirfarandi lýsing færð til bókar:

Ljóst er að til formanns SÍSP eru tveir menn í boði og voru stjórnarmenn missáttir við að þurfa að fara út í kosningu á aðalfundi og var lagt til að menn reyndu að ná sáttum um niðurstöðuna fyrir aðalfundinn sem haldinn verður á morgun föstudaginn 20. október. Fundarmenn ræddu nokkuð kosningar til formannskjörs á aðalfundi og töldu flestir að kosningar væru hin versta staða fyrir sparisjóðina því samstaða sparisjóðanna byggði á samheldni.

Þrátt fyrir þessa afstöðu „flestra“ fundarmanna náðist engin sátt á fundinum eins og lokaorð þessa liðar fundargerðarinnar vitna um: „Engin endanleg niðurstaða var um framangreind mál og verður að bíða niðurstöðu til morguns.“

Þegar til kom þurfti ekki að kjósa á milli Þórs og Guðmundar á aðalfundinum. Þegar að formannskjörinu kom kvaddi Þór sér hljóðs og lýsti því yfir að hann drægi framboð sitt til baka og Guðmundur varð því sjálfkjörinn.

Málin þróuðust á annan hátt á aðalfundinum tveimur árum síðar, í október 2002.82 Að lokinni skýrslu stjórnar, sem Guðmundur Hauksson flutti, og framlagningu ársreikninga, sem Sigurður Hafstein sá um, gaf fundarstjóri orðið laust. Ari Teitsson tók þá til máls og talaði um góða frammistöðu sparisjóðanna þó að blikur væru vissulega á lofti, og átti þá ekki síst við það að í heildina tekið varð tap á rekstri íslenskra sparisjóða á árinu 2001, og það væri nokkuð sem menn ættu ekki að venjast. Verra væri þó, sagði Ari, „að raunveruleg staða sparisjóðanna [væri] í uppnámi“.83 Ari vísaði í skýrslu stjórnar og tók undir það sjónarmið formannsins að „það gæti farið svo að allt fari á versta veg, að sparisjóðirnir verði hreinlega keyptir upp á næstu árum, þ.e.a.s. þeir sparisjóðir sem einhver vill eiga“. Ari bætti því við að sér sýndist raunin vera sú að „einhver vilji […] a.m.k. […] spá í sparisjóðina“, enda ættu þeir 17 milljarða í eigin fé.

„[V]andi okkar er mikill,“ sagði Ari í beinu framhaldi, „í þjóðfélagi þar sem peningarnir ráða meiru og meiru og græðgin verður æ taumlausari.“ Sparisjóðafólk þyrfti að spyrja sig: „Hvað viljum við vera og hvernig ætlum við að vera það sem við viljum vera.“ Ari kvaðst „taka undir með Guðmundi [Haukssyni] þegar hann segir að við viljum fá að vera […] áfram sparisjóðir […] fólksins í landinu og ég held kannski raunar í meira mæli en áður sparisjóðir byggðanna“. Bankastofnunum á landsbyggðinni færi óðum fækkandi og þar kæmi til kasta sparisjóðanna. Ari ræddi síðan um einkavæðingu bankanna, sem þá var í fullum gangi, og möguleika sparisjóðanna í því nýja umhverfi sem þannig skapaðist. Hann vék að þeirri kunnuglegu staðhæfingu að eigið fé sparisjóðanna væri „fé án hirðis“ og hafnaði henni:

Það held ég að sé nefnilega ekki [og] ég held að við höfum ákveðnar skyldur til þess að vera hirðir þessa fjár og nota það í skynsamlega þágu en þá kannski kemur að því að [við] erum ekki […] endilega sammála um hvernig við eigum að nota það. Það er hægt að nota það á ýmsa vegu, sumir vilja nota það til þess að viðhalda atvinnustarfsemi í byggðunum, aðrir vilja nota það í menningarplássunum. […] það er líka hugsanlegt að við föllum í þá freistni að nota það í eigin þágu, byggja flott yfir okkur, gera vel við starfsfólk, borga há stjórnarlaun o.s.frv.

Síðan talaði Ari um mikilvægi þess að standa saman, en vissulega hefði verið „núningur hér innan fjölskyldunnar“, eins og Guðmundur hefði bent á í skýrslu sinni, en það ætti þó helst við á höfuðborgarsvæðinu. Aðalatriðið kvað Ari vera það að „yfirtökumöguleikar á þessum 17 milljörðum okkar mega ekki vera fyrir hendi“.

Síðar á fundinum gerði Sigurður Hafstein grein fyrir hinu nýja frumvarpi til laga um fjármálafyrirtæki. Meðal annars vék hann að sérákvæðum sem komu til vegna yfirtökutilboðsins í Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis. Skipaður hefði verið sérstakur undirhópur innan bankalaganefndar til að fara yfir ákvæði laganna með þetta í huga: „Tillögur hópsins eru hluti af frumvarpinu án þess að bankalaganefnd tæki sérstaka afstöðu til þeirra og þó [að] fulltrúi bankanna væri þeim andvígur.“84 Í framhaldinu ræddi Sigurður um stofnfé og eigið fé, mikilvægi dreifðrar eignaraðildar og fleira. Hann vitnaði í greinargerð með lögum nr. 71/2001 þar sem segir að stofnfjárhlutir skuli keyptir og seldir á nafnverði og sagði síðan:

Það kom [okkur] því í opna skjöldu þegar Fjármálaeftirlitið komst að þeirri niðurstöðu að heimilt væri að greiða yfirverð fyrir stofnfjárhluti í sparisjóðum. Niðurstaðan leiddi til óþolandi réttaróvissu fyrir sparisjóðina varðandi það hver væri staða þeirra gagnvart hugsanlegum fjandsamlegum yfirtökutilboðum af hendi annarra fjármálafyrirtækja.

Af þessum sökum hefði „það [verið] mikið fagnaðarefni að viðskiptaráðherra skyldi taka þá pólitísku ákvörðun að nauðsynlegt væri að efla yfirtökuvarnir sparisjóða“. Sigurður skýrði síðan þau ákvæði sem bætt hefði verið inn í frumvarpið í þessu skyni en vék að lokum að tveimur breytingum á gildandi lögum sem ríkisstjórnin hefði „fyrr í þessari viku“ ákveðið að fella brott úr frumvarpinu:

Önnur var um að stofnfjáreiganda væri aldrei heimilt að fara með umboð nema eins annars stofnfjáreiganda. Hitt, að í stjórn sjálfseignarstofnunar sem stofnuð væri vegna breytinga sparisjóðs í hlutafélag skyldu eiga sæti tveir fulltrúar þess sveitarfélags sem sparisjóðurinn ætti heimilisfesti í við breytingu hans í hlutafélag, tveir fulltrúar hluthafa í sparisjóðnum kjörnir á aðalfundi og einn fulltrúi skipaður af ráðherra samkvæmt tilnefningu samtaka sparisjóða. – Af hverju þessi ákvæði voru felld út – því verður hver að svara fyrir sig. – Því svörin byggja enn sem komið er á getgátum.

Sér í lagi kvaðst Sigurður harma að síðarnefnda breytingin hefði verið felld niður „því í henni hefði falist sterkt vopn gegn fjandsamlegri yfirtöku“. Yfirtökutilboð Búnaðarbankans gagnvart Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis hefði til dæmis aldrei komið til ef þetta ákvæði hefði verið í lögum.

Í lok ræðunnar minnti Sigurður á að endanlegur texti frumvarpsins væri málamiðlun en sparisjóðafólk gæti almennt vel við unað. Nýju lögin ættu að geta tryggt sparisjóðina og „valddreifingarsjónarmið“ þeirra í sessi. Meðal annarra fundarmanna gætti á hinn bóginn nokkurra efasemda um að yfirtökuvarnirnar í fumvarpinu héldu þegar á reyndi.

Þegar kom að formannskjöri greindi fundarstjóri frá því að Guðmundur Hauksson gæfi kost á sér til endurkjörs. Ari Teitsson bað þá um orðið og lagði til að Jón Kr. Sólnes, stjórnarformaður Sparisjóðs Norðlendinga, yrði næsti formaður stjórnar.85 Fleiri tillögur eða framboð bárust ekki. Jón Kr. Sólnes bað um orðið og greindi frá því að hann hefði „ákveðið að taka áskorun“ um að bjóða sig fram og fullyrti að „við þessar aðstæður […] [væri] ekkert óeðlilegt við það að kjósa á milli manna“. Jón ræddi síðan um óróann í kringum sparisjóðina á liðnum mánuðum, sem skaðað hefði ímynd þeirra, og bætti við:

Mín skoðun er sú að sparisjóðirnir eigi að halda sjálfstæði sínu eins og kostur er og leitast jafnframt við að efla samstarf sitt eins og ég hef heyrt frá flestum fundarmönnum sem hér hafa tekið til máls í dag. Ég lýsi því yfir að ég er reiðubúinn til þess að leggja mína krafta […] fram til að efla samstarf sparisjóða […].

Gísli Kjartansson tók þá til máls og kvaðst hafa orðið var við það „undanfarið að menn hafa verið að hafa samband við sparisjóðsstjórnir vítt og breitt um landið með það í huga að koma Guðmundi Haukssyni frá sem formanni sambandsins“. Sjálfur sagðist Gísli „lítið [hafa] af þessu vitað […], kannski vegna þess að menn hafa vitað að t.d. ég væri góður stuðningsmaður Guðmundar og ekki að ástæðulausu“. Gísli lýsti furðu sinni á því að framboð væri komið fram gegn Guðmundi, því þannig væru vaktar upp „deilur, gamlar deilur“. Síðan beindi Gísli spjótum sínum að Ara Teitssyni:

Hér kom maður upp áðan og hélt mikla ræðu, […] ekki mjög góða, og lagði áherslu á samstarfið, lagði áherslu á að við þyrftum að standa saman. Ég hugsaði með mér: ekki fer þessi maður að veitast að Guðmundi Haukssyni, sem formanni stjórnarinnar, svo stendur hann upp korteri eftir að hann hélt ræðuna um [að] samstarfið þyrfti nú að halda, þetta væri svo gríðarlega mikilvægt að við stæðum allir saman, og býr sig undir að kljúfa fylkinguna. Það er verið að kljúfa fylkinguna og við vitum ósköp vel sem þekkjum hér eitthvað til að þetta skiptist í mjög álíka stóra hópa, þeir sem styðja þessa tvo menn. […] Ég verð að lýsa miklum vonbrigðum með þetta, að þetta skuli koma upp hjá okkur. Guðmundur hefur staðið sig afburða vel sem formaður, vinnusamur, duglegur, drifið hlutina áfram við að endurskipuleggja og hreinsa virkilega upp […].

Gísli lýsti síðan efasemdum um að Jón Kr. Sólnes væri hæfur til að gegna formannsembættinu í ljósi þess að hann hefði ekki einu sinni setið í stjórn SÍSP fram að þessu. Gísli lauk ræðu sinni með því að skora á félaga sína „að gera ekki þann óvinafögnuð að við köstum góðum formanni á dyr með þessum hætti sem hér er undirbúinn“.

Þessu næst bað Jóhann Antonsson frá Sparisjóði Svarfdæla um orðið. Hann tók undir orð Gísla og kvaðst vilja „draga það fram að maður sátta og samlyndis úr Þingeyjarsýslunni kastar núna stríðshanskanum“. Framboð Jóns Kr. Sólnes væri ekki „svæðisbundið framboð“, þ.e. Norðurland stæði ekki sameinað að baki honum. Guðmundur Hauksson væri „færasti bankamaður þjóðarinnar“ og glapræði væri að ýta honum til hliðar.

Árni Þór Sigurðsson stjórnarmaður í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis var næstur á mælendaskrá og lýsti fullu trausti til Guðmundar fyrir hönd stjórnar SPRON. Sérkennilegt væri að sá sparisjóður sem orðið hefði fyrir „árás“ þá um sumarið ætti að gjalda fyrir það á aðalfundi með þessum hætti. „Það væru skilaboð sem […] ég held að andstæðingar sparisjóðanna gætu ekki misskilið.“ Drífa Sigfúsdóttir, stjórnarmaður í Sparisjóðnum í Keflavík, tók síðan til máls. Hún hvatti til samstöðu og sagði að kosningar við þessar aðstæður jafngiltu því „að [við] höfum ekki getað staðið saman um þær ákvarðanir sem […] formaðurinn hefur verið að berjast í“. Það væru slæm skilaboð til samfélagsins. Sparisjóðurinn í Keflavík lýsti fullum stuðningi við Guðmund. Að svo mæltu fór Drífa fram á að Jón drægi framboð sitt til baka – ella væri hann að leggja lóð á vogarskálar fimmmenninganna margfrægu.

Þá tók Þór Gunnarsson til máls:

Fundarstjóri, gott fundarfólk. Það er skemmtilegt sem fráfarandi formaður sambandsins að hlusta á áhuga fólks á að ganga til kosninga. Ég minni á það að fyrir tveimur árum þá sátum við úti á Hótel Loftleiðum, það víbraði loftið, vegna þess að kosningar lágu í loftinu. Þá var ég formaður og Guðmundur hafði áhuga á að fá kosningu. Nú það var ekkert við þetta að athuga annað heldur en bara að lýðræðislega var þetta rétta aðferðin, þar sem tveir menn sóttust eftir sama sætinu. Ég vék af vettvangi á síðustu stundu, til þess að reyna að halda frið í hópnum en er kannski ekki búinn að vera á þessum tveimur árum nákvæmlega sá sami og menn vilja halda. Ef ég vík hér að nokkrum atriðum: við sluppum við það að kjósa um formann vegna þess að ég vék af vettvangi, við sluppum ekki við það að kjósa um sæti formanns bankaráðs Sparisjóðabankans. Þar var kosið. Við sluppum ekki við það að kjósa um sæti í nokkrum stjórnum dótturfyrirtækja. Þar var líka kosið og mönnum ýtt til hliðar […]. Af hverju er það svona hættulegt allt í einu. Ég fæ það ekki séð.

Fleiri tóku ekki til máls og var gengið til skriflegra kosninga. Atkvæði féllu þannig að Guðmundur Hauksson fékk 10 atkvæði, Jón Kr. Sólnes 13 atkvæði og einn seðill var auður. Jón Kr. Sólnes fékk orðið og sagði:

Fundarstjóri, góðir fundarmenn, ég vil þakka það traust sem […] mér hefur verið sýnt með þessu kjöri. Ég ætla að vona að mér megi takast ásamt ykkur sem hér eruð, að vinna að góðu og öflugu samstarfi sparisjóða og ég mun að sjálfsögðu gera mér far um það að ganga í smiðju til þeirra sem kunna mér betur til verka á hverjum tíma en ég vil ítreka það að ég þakka þetta traust.

Leitað var til Guðmundar Haukssonar um að gefa kost á sér í stjórn SÍSP en hann varð ekki við því. Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis átti því engan fulltrúa í hinni nýju stjórn. Í lok fundar bað Guðmundur um orðið og sagði:

Góðir fundarmenn, ég hef notið trausts ykkar undanfarin ár til ýmissa starfa á vegum Sambands sparisjóða á vettvangi sparisjóðanna og fyrir það vil ég þakka. Þetta hafa verið ánægjuleg ár og mjög árangursrík og ég hef átt mjög gott samstarf við flesta á þessum vettvangi. Að lokum vil ég svo þakka þeim sem hafa mig stutt í gegnum tíðina og þá sérstaklega í dag.

Fundarstjóri, Arnar Sigurmundsson, sló svo botn í fundinn með því að brýna fyrir nýrri stjórn að „gera allt sem í hennar valdi stendur [til] að ná fram sáttum“. Jafnframt hét hann á Guðmund og SPRON-menn „að leggjast […] á árar með okkur öllum því framundan er örugglega ströng barátta […] fyrir tilurð sparisjóðanna hér á landi“. Arnar bætti því við að atburðir sumarsins sýndu „að sumir aðilar í þjóðfélaginu svífast einskis, þeim varð ekki að ósk sinni en við þurfum umfram allt að halda vöku okkar. SPRON tók slaginn fyrir okkur öll, við þurfum að standa með SPRON og sparisjóðafólk þarf að standa saman“.

5.3.5 Samskipti SÍSP og Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis 2002–2005

Eitt stærsta verkefni hinnar nýju stjórnar SÍSP undir forystu Jóns Kr. Sólnes hlaut að felast í því að ná sáttum við stjórnendur Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis. Við það varð ekki unað að stærsti sparisjóðurinn væri nær áhrifalaus innan samstarfs sparisjóðanna, ekki síst í ljósi ytri aðstæðna. Vandinn var þó sá að sáttavilji var lítill meðal SPRON-manna og sárindin mikil eftir aðalfundinn í október 2002. Raunin varð sú að gjörvöll formannstíð Jóns einkenndist af miður uppbyggilegum skeytasendingum milli SÍSP og Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis sem ætla má að hafi átt ríkan þátt í að draga enn frekar úr samstöðu sparisjóðanna.

Á stjórnarfundi SÍSP 14. janúar 2003 var samþykkt „í framhaldi af fyrri umræðu um sama mál að bjóða með bréfi fulltrúa SPRON þátttöku í stjórnarfundum SÍSP“. Á næsta stjórnarfundi var svo lagt fram bréf Sigurðar Hafstein til Guðmundar Haukssonar sparisjóðsstjóra Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis. Þar greindi Sigurður frá því að sú staðreynd að Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis ætti ekki aðild að stjórn SÍSP hefði verið til umræðu á stjórnarfundum SÍSP og að niðurstaðan hefði orðið sú að þetta ástand væri „bagalegt fyrir hagsmuni bæði sparisjóðaheildarinnar sem og einstakra sparisjóða þar á meðal hagsmuni Sparisjóðs Reykjavíkur og nágr[ennis]“.86 Þá segir í bréfinu:

Breytingar á íslenskum bankamarkaði sem leiða munu af einkavæðingu ríkisbankanna nú í desember og janúar valda því að samkeppnisstaða sparisjóðanna er nú öll önnur en var fyrir aðeins fáum mánuðum. Landsbanki hefur lýst yfir að hans helsta markmið sé að endurheimta fyrri markaðshlutdeild. Íslandsbanki hefur lýst yfir að hans markmið um aukna markaðshlutdeild náist fyrst og síðast gegnum sparisjóðina og yfirlýsingar forráðamanna Búnaðarbanka um að sparisjóðirnir séu að einangrast í íslenskum bankarekstri kalla allar á viðbrögð af hálfu sparisjóðanna sem verða að vera tilbúnir til að ganga fram með það einarða markmið að þessir bankar allir og hver um sig byggi framtíð sína á öðru en því að sækja gegn sparisjóðum. Gerbreyttar aðstæður á íslenskum bankamarkaði leiða því til þess að sparisjóðirnir þurfa að snúa bökum saman. Þegar fjórir bankar sameinuðust í Íslandsbanka 1990–1991 brugðust sparisjóðirnir við með því að hafa vikulegt samráð til að flýta ákvörðunartöku og bregðast þannig við áður óþekktri samkeppni. Nú hafa svipaðar aðstæður skapast aftur og þá hljóta sparisjóðirnir, vilji þeir eiga framtíð, að bregðast við. Í viðræðum við fulltrúa samkeppnisaðila er ljóst að sundrung sparisjóða er drifkraftur þeirra markmiða sem þeir nú setja sér. Samstíga með skilgreind markmið varðandi viðskipti við einstaklinga sem og smá og meðalstór fyrirtæki geta sparisjóðirnir bæði varist og sótt fram.

Á stjórnarfundi SÍSP 27. mars var lagt fram svarbréf frá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, dagsett 7. mars og undirritað af Jóni G. Tómassyni formanni stjórnar SPRON og Guðmundi Haukssyni. Þar „árétta“ Jón og Guðmundur, með tilvísun til bréfs Sigurðar, „að SPRON hefur frá fyrstu tíð tekið þátt í og oft gegnt forystuhlutverki við að móta stefnu og störf Sambands íslenskra sparisjóða“ og af þeirra hálfu hafi „jafnan verið lögð áhersla á, að samstarf og aukin samvinna sparisjóðanna væri þeim nauðsynleg í harðnandi samkeppni“. Raunar hafi starfsemi SÍSP og samvinna sparisjóða „aukist verulega á liðnum árum og áratugum, svo sem nefnt er í bréfi yðar“, og að þetta hafi gerst „[u]ndir forystu fulltrúa SPRON“.87 Í framhaldinu venda bréfritarar kvæði sínu í kross og víkja umbúðalaust að átökum síðustu missera:

Á liðnu ári áttu stjórnendur SPRON í harðvítugum deilum, m.a. við samkeppnisaðila, deilum sem vörðuðu tilvist og framtíð allra sparisjóða í landinu.
Í stað þess að standa þétt að baki SPRON við þessar aðstæður bundust nokkrir sparisjóðir samtökum um að fella fulltrúa SPRON frá formennsku í Sambandinu án þess að nokkur efnisleg rök væru tilgreind fyrir þeirri aðgerð. Þá var þetta gert með því að beita atkvæðavægi skv. reglum, sem ekki eru í neinu samræmi við eðlilegar og lýðræðislegar leikreglur. Var sérstaklega varað við því fyrir aðalfundinn að beita þessari aðferð, enda hefur ríkt um það skilningur allt frá stofnun Sambandsins, að ekki yrði myndaður meirihluti á slíkum grunni. Yrði það gert, hlytu reglur Sambandsins um atkvæðavægi og/eða kostnaðargreiðslur að koma til skoðunar.

Þessar athugasemdir verða Jóni og Guðmundi tilefni til að benda á að „[í] þeirri hörðu samkeppni sem nú ríkir á fjármagnsmarkaði [geti] fyrirtæki ekki efnt til útgjalda nema þau séu liður í tekjumyndun eða til þess fallin að styrkja stöðu viðkomandi fyrirtækis með öðrum hætti“. Þessu sé ekki að heilsa hvað kostnað Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis vegna samstarfs sparisjóða snertir. Jón og Guðmundur ljúka bréfi sínu með eftirfarandi málaleitan:

Leitað er eftir viðhorfi stjórnar Sambands íslenskra sparisjóða til þess, að ákvæði laga Sambandsins verði tekin til endurskoðunar þannig að eðlileg tengsl verði á milli atkvæðavægis og hlutdeildar sparisjóða í greiðslu kostnaðar við starfsemi Sambandsins. Dæmi um slík ákvæði er að finna hjá ýmsum hagsmunasamtökum.

Á stjórnarfundinum 27. mars var ákveðið að fela Jóni Kr. Sólnes að svara „fyrir hönd stjórnar SÍSP þeim atriðum sem að stjórninni snúa“ en „því sem snýr að atkvæðavægi“ var aftur á móti vísað til stjórna einstakra sparisjóða.

Endirinn varð sá að það kom í hlut Sigurðar Hafstein að svara bréfi Jóns og Guðmundar og gerði hann það 11. júní. Hann víkur fyrst að beiðni þeirra um endurskoðun á lögum SÍSP með tilliti til atkvæðavægis einstakra sparisjóða. Sigurður greinir frá því að hann hafi sent öllum sparisjóðum bréf 17. mars, þar sem hann óskar eftir afstöðu þeirra til málsins, og minnir jafnframt á „að til ákvörðunar þarf atbeina 2/3 hluta sparisjóða og því ljóst að víðtækur stuðningur þarf að vera við þá grundvallarbreytingu á eðli sambandsins sem felst í hugmyndum sparisjóðsins [þ.e. Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis]“. Staðan á málinu sé sú að „[e]nn skortir mikið á að svör hafi borist við erindi sambandsins“ frá aðildarsparisjóðunum, en „[á]fram verður […] unnið að því að niðurstaða fáist“.88

Að því búnu snýr Sigurður sér að áhyggjum Guðmundar og Jóns af því að hagur Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis af samstarfi sparisjóða sé ekki í samræmi við kostnaðinn sem sparisjóðurinn leggur í samstarfið. Í þessu sambandi hverfur Sigurður aftur til ársins 1999 og þeirra breytinga sem þá urðu á samstarfi sparisjóðanna:

Varðandi kostnað af samstarfinu almennt og skiptingu hans milli einstakra sparisjóða er hins vegar nauðsynlegt að rifja upp að í september 1999 var eignarhlutdeild í dótturfyrirtækjum sparisjóðanna „stokkuð upp“ og hlutdeild í kostnaði vegna Sambandsins og Tryggingasjóðs fest í tilgreint hlutfall. Á sama tíma var hætt að miða gjöld við hlutfall innlána í einstökum sparisjóðum. Megin röksemd fyrir breyttum eignarhlutum í fyrirtækjunum (beinum og óbeinum) var sú að hlutdeildin endurspeglaði þar með hlutfall af útgjöldum vegna samvinnunnar. Eins og kunnugt er var þessi aðgerð ekki sársaukalaus af hálfu þeirra er selja þurftu hluta af eign sinni í fyrirtækjunum. Hagur hinna sem keyptu var hins vegar mikill vegna ákvörðunar um verð fyrir umrædda hluti. Standi vilji til þess í dag að lækka kostnaðarhlutfall við samstarfið hlýtur að vakna sú spurning hvort forsendur fyrir uppstokkun eigna 1999 séu þá brostnar og hún skuli því ganga til baka. Vart er hægt bæði að halda og sleppa.

Hinn 4. júlí skrifaði Guðmundur Hauksson ítarlegt bréf til stjórnar SÍSP þar sem hann ber SÍSP, og sér í lagi Sigurð Hafstein, þungum sökum. Bréfum og tölvuskeytum Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis til SÍSP hafi ekki verið svarað eða þá „svarað með óviðunandi hætti“. „Slíkt háttalag er ámælisvert,“ segir Guðmundur, „og spillir fyrir árangri í samstarfinu.“89 Guðmundur sakar SÍSP um seinagang og segir „slík vinnubrögð geta stefnt stöðu sparisjóðanna í hættu í því harða samkeppnisumhverfi sem nú ríkir á fjármagnsmarkaði“.

Síðan víkur Guðmundur að bréfi Sigurðar frá 11. júní og segir það hafa „vakið undrun okkar og vonbrigði, bæði hvað varðar meðferð efnis sem og framsetningu þess“. Megintilgangur bréfsins hafi verið að óska „eftir áliti stjórnar SÍSP“, en ekki hinna einstöku sparisjóða, til þess hvort „eðlileg tengsl [væru] milli atkvæðavægis og hlutdeildar sparisjóða í greiðslu kostnaðar af starfsemi Sambandsins“. Guðmundur kvartar undan því að það hafi tekið þrjá mánuði að upplýsa Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis um þá ákvörðun stjórnar SÍSP að vísa málinu til „sparisjóðanna í landinu“.

Að því búnu snýr Guðmundur sér að deilunni um hag Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis af samstarfi sparisjóðanna. Hann ítrekar þá skoðun sína að Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis hafi „um langt árabil lagt meira af mörkum fjárhagslega en sem nemur fjárhagslegum ávinningi“ af samstarfinu. Þetta hafi verið „gert vísvitandi til að efla stöðu sparisjóðanna í landinu með langtímasjónarmið í huga“. Þegar á reyndi hafi launin fyrir þessa fórnarlund hins vegar reynst æði rýr:

Þegar SPRON stóð […] í átökum s.l. sumar og haust – og þurfti í fyrsta sinn á málefnalegum stuðningi að halda frá sparisjóðunum, var unnið á móti stöðu SPRON og þeim einstaklingum sem voru í forsvari fyrir sparisjóðnum. Hvernig á að réttlæta útgjöld umfram ávinning undir þessum kringumstæðum? Er þá ekki komið að því að gera réttmæta kröfu til þess að útgjöld skili eðlilegum fjárhagslegum ávinningi?

Þá beinir Guðmundur sjónum að umræðu Sigurðar um stofnun dótturfyrirtækjanna 1999 og skiptingu eignarhluta í þeim. „Þessi framsetning efnis er með ólíkindum,“ segir Guðmundur og bætir við: „Leiðrétting sú sem átti sér stað meðal sparisjóða á kostnaðar- og eignarhlutum náði til allra sparisjóðanna. […] Sú leiðrétting var ekki knúin áfram af SPRON. Þetta var sameiginleg niðurstaða úr viðræðum sparisjóðanna og hafði mun meiri áhrif fyrir aðra sparisjóði en SPRON.“

Í framhaldinu rifjar Guðmundur upp atburði ársins 1996 þegar „SPRON og þrír aðrir sparisjóðir [gáfu] öðrum eftir stóran hlut af kauprétti sínum í Kaupþingi á kaupverði, þrátt fyrir að þessir sparisjóðir hefðu í 10 ár tekið áhættu og lagt félaginu til nauðsynlegt fé til reksturs og uppbyggingar félagsins. […] Þeir sparisjóðir sem ekki höfðu átt hlutafé í Kaupþingi fengu þessa fjárfestingu þannig á silfurfati og það er þessari fjárfestingu í raun að þakka að það eru 24 sparisjóðir starfræktir á landinu í dag“.

Undir lok bréfsins kvartar Guðmundur enn undan samskiptunum við SÍSP og segir: „Það er illt að þurfa að skrifa bréf sem þetta, en hjá því varð ekki komist.“ Lokaorð bréfsins eru:

Því er hér skorað á stjórn SÍSP að taka strax á vandamálum í rekstri og samskiptum af Sambandsins hálfu. Það viðmót sem SPRON hefur mætt af hálfu SÍSP getur ekki verið grundvöllur farsæls samstarfs.

Hinn 10. júlí 2003 skrifaði Sigurður Hafstein langt bréf til framkvæmdastjórnar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis. Í upphafi bréfsins minnir hann á að sjónarmiðin sem fram komu í bréfi SPRON-manna 7. mars hafi sannarlega verið reifuð á stjórnarfundi SÍSP 11. mars.90 Meginefni bréfsins er ítarleg greinargerð fyrir skipulagi Reiknistofu bankanna og Fjölgreiðslumiðlunar með tilliti til hlutdeildar sparisjóðanna og SÍSP í stjórn þeirra í tilefni af endurteknum óskum Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis um breytingar á aðild sinni að þessum fyrirtækjum. Þar að auki er gerð grein fyrir samskiptum sparisjóða við greiðslukortafyrirtæki. Markmið Sigurðar er að færa rök fyrir því að á þessu sviði séu „hagsmunir SPRON að öllu leyti samtvinnaðir […] hagsmunum annarra sparisjóða“. Sigurður fullyrðir engu að síður að hvorki SÍSP né stjórnarmenn þess muni leggja stein í götu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis í þessum efnum:

Þvert á móti má vænta að fulltrúar Sambandsins greiði því atkvæði sitt innan viðkomandi stjórna að hugmyndir SPRON nái fram að ganga og með því stuðla að því að sparisjóðurinn nái fram vilja sínum. Þvingað samstarf er ekki hluti verkefna Sambandsins. Hver sparisjóður verður að líta til heildarhagsmuna sinna og meta hvort þeim sé betur borgið utan samvinnunnar eða innan hennar. Ný stefnumótun sparisjóðanna gerir þó nú á frumstigi ráð fyrir því að sum verkefni verði bundin enda stefnumótunarhópi falið að vinna hugmyndir á grundvelli hugmynda um bundna samvinnu. Einstökum sparisjóðum verður þó ætíð heimilt að standa utan slíkrar samvinnu og vinna hagsmunum sínum framgang einir og sér. Bundin samvinna þýðir hins vegar að réttindum fylgja skyldur.

Sigurður víkur síðan að því hvernig rætt er um SÍSP í bréfi Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis: þar sé talað um „‚hagsmunasamtökin‘ SÍSP og því orðfari augljóslega ætluð tiltekin merking“. Sigurður gengst við þessari einkunn, en túlkar hana svo að umræddri hagsmunagæslu sé „ætlað […] að tryggja hagsmuni sparisjóða í samræmi við tilgang Sambandsins og lög þess“.

Undir lok bréfsins snýr Sigurður sér að kröfu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis um „áhrif í samræmi við stærð“ og segir málið í vinnslu en það fái „að sjálfsögðu ekki endanlega afgreiðslu fyrr en á aðalfundi SÍSP“ um haustið. Ekki sé raunhæft að skilja þetta mál frá heildarstefnumótunarvinnunni sem í gangi sé.

Að lokum vekur Sigurður máls á mikilvægi samstarfs sparisjóðanna og bendir á þau áhrif sem breytingar á samstarfinu hafi á alla sparisjóði: „Að mati stjórnar SÍSP eru framtíðarhagsmunir sparisjóðanna nátengdir starfsemi Sambandsins.“ Sigurður óskar síðan eftir því að fulltrúar SÍSP og Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hittist og ræði málin, „bréfaskriftir og orðsendingar milli aðila séu ekki til þess fallnar að skila árangri“.

Hinn 27. ágúst 2003 ritaði Guðmundur Hauksson stutt bréf til Sigurðar Hafstein þar sem hann hafnar beiðni Sigurðar um viðræður á þeim grundvelli að „forsendur skort[i]“ þar eð „efni bréfs SPRON til stjórnar SÍSP frá 7. mars s.l. [hafi] enn ekki verið svarað“. Þar að auki sé framundan fundur í fulltrúaráði sparisjóðanna „þar sem nýjar tillögur stefnumótunarhóps sparisjóðanna verða kynntar. Á þeim fundi mun SPRON kynna sín sjónarmið“.91 Hér er átt við fundinn sem Guðmundur vísaði til í gagnrýni sinni á stefnumótunarvinnuna á aðalfundinum í október 2003 (sjá kafla 5.3.4).

Í aðdraganda aðalfundarins var samþykkt í stjórn SÍSP að „leita viðhorfa SPRON“ til tilnefningar stjórnarmanna.92 Á stjórnarfundi daginn fyrir aðalfund greindi Jón Kr. Sólnes hins vegar frá því að „á fundi sínum með SPRON síðdegis hefði sparisjóðsstjóri tilkynnt að SPRON tæki ekki tilnefningu um sæti í stjórn“.93

Eins og áður hefur komið fram lét Guðmundur Hauksson mjög til sín taka á aðalfundinum 3. október 2003 og vék þar ekki aðeins að stefnumótunartillögum stjórnarinnar (sjá kafla 5.2.6) heldur einnig að óánægju Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis með stjórnskipulag SÍSP. Þegar orðið var gefið laust að lokinni skýrslu stjórnar og kynningu á ársreikningi kvaddi Guðmundur sér hljóðs og vék talinu að kosningu formanns á aðalfundinum 2002 og þeirri staðreynd að „[v]ilji 2/3 hluta allra sparisjóðanna náði [þar] ekki fram að ganga“. Ákvæði í lögum SÍSP um atkvæðavægi hefðu verið orðin úrelt en fulltrúum Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hefði hins vegar verið talin trú um að aldrei yrði látið reyna á þau. Guðmundur greindi síðan frá bréfi Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis til stjórnar SÍSP frá 7. mars 2003 og kvartaði undan því að hafa ekki fengið neitt svar við því, a.m.k. ekki „[e]fnislega“.94 Guðmundur sagði að sér og sínum mönnum væri ljóst að til að breyta lögum um atkvæðavægi þyrfti „a.m.k. 2/3 hluta atkvæða sparisjóðanna“. Af þeim sökum hefðu þeir bryddað upp á málinu strax í mars, svo gefast mætti góður tími til að undirbúa lagabreytingartillögu þessa efnis. Ekkert hefði hins vegar orðið úr því og væri það til marks um að „enginn vilji er til slíks hjá stjórn SÍSP“. Guðmundur kvaðst líta svo á að í þessu væri falið „mjög skýrt svar í raun“.

Samskipti SÍSP og Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis bötnuðu ekki í kjölfar þessa aðalfundar. Hinn 8. október 2003, fimm dögum eftir aðalfundinn, sendi Ólafur Haraldsson, framkvæmdastjóri rekstrar hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, tölvuskeyti til Sæmundar Sæmundssonar, framkvæmdastjóra Tölvumiðstöðvar sparisjóðanna, þar sem hann tilkynnti að „[f]rá og með deginum í dag heimilar Spron og Nb.is enga gagnavinnslu frá Sambandi íslenskra sparisjóða úr gögnum sínum nema með sérstöku samþykki Spron eða Nb.is hverju sinni“.95 Skeyti þetta kom til umræðu á stjórnarfundi SÍSP 14. október og við það tækifæri lét Þór Gunnarsson í ljós þá ósk sína „að starfsfólk fái vinnufrið til að sinna sínu góða starfi og að komið verði í veg fyrir að starfsfólk SÍSP hverfi frá störfum vegna deilna“.

Í aðdraganda aukafundarins 14. nóvember 2003, sem fjallað var um í kafla 5.2.7, barst öllum stjórnarformönnum og sparisjóðsstjórum sparisjóða á Íslandi ítarlegt bréf frá Jóni G. Tómassyni og Guðmundi Haukssyni (sjá rammagrein). Þar er stefnumótunartillögu stjórnar SÍSP, sem kennd var við „bindandi samstarf“, andmælt og jafnframt tilkynnt að fulltrúar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hyggist ekki sækja aukafundinn. Stefnumótunartillagan var samþykkt á fundinum þrátt fyrir þessi andmæli.96

Eftir aukafundinn voru samskipti SÍSP og Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis í sama farvegi og áður: SPRON-menn sökuðu SÍSP um að svara ekki innsendum erindum sínum en fulltrúar SÍSP sóru slíkt af sér og báru því jafnframt við að óskir SPRON sköðuðu heildarhagsmuni sparisjóðanna.97

Á stjórnarfundi SÍSP 29. júní 2004 var rætt ítarlega um samvinnuna við Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis. Formaður og varaformaður SÍSP, Jón Kr. Sólnes og Gísli Kjartansson, höfðu átt fund með Guðmundi Haukssyni þá um morguninn. Ekki kemur fram í fundargerð hvað þeim fór á milli en Geirmundur Kristinsson lagði til að stjórn SÍSP fundaði í framhaldinu með „stjórn eða hluta stjórnar“ Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis og var það samþykkt.

Í fundargerð stjórnarfundar 21. september 2004 kemur fram að fundað hafði verið með stjórn Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis og greindu Jón Kr. Sólnes, Geirmundur Kristinsson og Hallgrímur Jónsson frá fundinum. Ekki kemur þó fram í fundargerðinni hvað rætt var á fundi þessum, en í það minnsta var ákveðið að halda áfram viðræðunum við SPRON.

Á stjórnarfundi 12. október 2004, þremur dögum fyrir aðalfund, var rætt um breytingar á stjórn og fært til bókar að „[á]ður en gengið verði frá tillögu um nýja stjórn mun formaður SÍSP hitta stjórnarformann SPRON“ sem þá var Óskar Magnússon. Þær viðræður skiluðu engum árangri. Samskipti Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis og SÍSP voru svo heldur tíðindalítil á árinu 2005 – með öðrum orðum fóru þau batnandi. Svo fór að á aðalfundi 14. október 2005 var Ólafur Haraldsson kjörinn í stjórn SÍSP og má segja að þar með hafi „kalda stríðinu“ í samskiptum SÍSP og Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis lokið.

5.4 Þverrandi mikilvægi SÍSP

Eftir aðalfundinn í október 2005 tók heldur að dofna yfir starfsemi SÍSP og samstarfi sparisjóðanna almennt. Ekki verður gerð ítarleg grein fyrir þessu tímabili hér en látið nægja að taka eitt lýsandi dæmi.

Á stjórnarfundi SÍSP 14. ágúst 2007 var rætt um greinarkorn sem birtist á vef Viðskiptaráðs tæpri viku fyrr undir yfirskriftinni „Nútímavæðing sparisjóðaumhverfisins“. Þar er lýst áhyggjum yfir stöðu sparisjóðanna og gefið í skyn að þeir séu úreltir og þá sé óðum að daga uppi. Fyrir þeim hljóti að liggja að breytast í hlutafélög. Í greininni er varasjóður sparisjóðanna nefndur „sjálfala fé“ sem hljóti að vera til óþurftar við tilburði til hlutafélagavæðingar, sér í lagi í þeim tilvikum þar sem stofnfé er langtum minna en varasjóðurinn – þá leiði hlutafjárvæðing óhjákvæmilega til ríkisvæðingar.98

Fundargerð stjórnarfundarins er heldur brotakennd og fáorð um viðbrögðin sem grein þessi kallaði fram hjá stjórnarmönnum, en þó er greint frá því að allir stjórnarmenn hafi tjáð sig um málið. Jafnframt kemur fram að mikilvægt sé að „menn snúi saman bökum“ og að það sé „[b]akslag þegar slík skoðun kemur fram“. Rætt var um að sparisjóðirnir gætu tekið á sig ýmsar myndir, „eitt form henti einum og annað hinum“. Að lokum er færð til bókar eftirfarandi staðhæfing: „Hagsmunasamtökin geta ekki svarað fyrir alla sparisjóðina.“

Til grundvallar umræðunni á stjórnarfundinum voru tveir pistlar eða minnisblöð sem höfðu að geyma býsna afdráttarlaus svör við greinarkorninu á vef Viðskiptaráðs fyrir hönd sparisjóðanna. Pistlarnir virðast ekki hafa verið birtir á opinberum vettvangi.

Annar pistillinn er undirritaður af Guðjóni Guðmundssyni, framkvæmdastjóra SÍSP, og ber heitið „Staða sparisjóðanna á Íslandi aldrei verið sterkari“. Þar er staðhæft að sparisjóðirnir standi vel og rekstur þeirra sé arðbær, og raunar sé „samkeppnisstaða þeirra á einstaklings- og fyrirtækjamarkaði á flesta mælikvarða […] sterkari en viðskiptabankanna“. Staða sparisjóðanna sé „sterkari en dæmi eru um í 150 ára sögu þeirra, um leið og þeir leggja gríðarlega áherslu á og fjármuni í atvinnulíf og mannlíf hver á sínu svæði“. Í því sambandi er bent á menningarhús á Dalvík, sem nýbúið var að taka fyrstu skóflustunguna að, og hlutafélag um framhaldsskóla í Borgarnesi, en í báðum þessum verkefnum hafi sparisjóðir leikið lykilhlutverk. Síðan segir í pistlinum:

Maður hlýtur að velta fyrir sér hvað rekur Viðskiptaráð til að birta skoðun hlaðna gildismati og rangfærslum, er það þjóðhagslega hagkvæmt eða nauðsynlegt að steypa allt og alla í sama mót, eru viðskiptabankarnir að ásælast fyrirtæki og markaði sem þeir hafa ekki getað unnið í eðlilegri samkeppni eða eru fjárfestar sem hafa greitt ofurverð fyrir stofnfé að ásælast annað eigið fé sjóðanna.99

Í beinu framhaldi er vikið að þeirri ósk sem sett er fram í pistli Viðskiptaráðs, að eigið fé sjóðanna færist óskipt til stofnfjáreigenda. Guðjón mætir þessari skoðun af fullri hörku: „Með þessu er Viðskiptaráð að tala fyrir því að einstaklingum verði færðir milljarðar króna sem margítrekað hefur verið í lögum og lagaskýringum að eru alls ekki eign þeirra. Getur verið að eiginhagsmunir þeirra sem skrifa skoðun Viðskiptaráðs blandist inn í þetta mat?“

Síðan segir hann:

Sparisjóðirnir á Íslandi eru framsækin og vel rekin fyrirtæki með frábært starfsfólk og stjórnendur. Sparisjóðirnir hafna því að stjórnendur þeirra og starfsfólk sé ekki hæft vegna þess að það gengur ekki fyrir þeim ofurlaunum sem viðskiptabankarnir greiða völdum starfsmönnum. Staða sparisjóðanna og rekstur sýnir svo ekki verður um villst að stjórnendur þeirra og starfsfólk er starfi sínu vaxið.

Í hinum pistlinum, sem ber yfirskriftina „Nútímavæðing sparisjóðanna“, er í upphafi vakið máls á uppgangi fjármálalífsins á Íslandi og bent á að „[s]parisjóðirnir [hafi] flestir tekið fullan þátt í þeirri þróun og gerjun“. Síðan er vikið að „skoðun“ Viðskiptaráðs sem sögð er „illa ígrunduð og rökstudd“. Af henni megi „helst skilja að sparisjóðir séu upp til hópa gamaldags og örmagna stofnanir sem eru löngu búnir að tapa samkeppninni við viðskiptabankana“. Þetta eigi hins vegar ekki við rök að styðjast, því „enginn mótmælir því að sparisjóðir hafa betri ímynd og meiri velvilja viðskiptavina en viðskiptabankarnir“. Sparisjóðirnir hafi „fengið bestu einkunn viðskiptavina í öllum mælingum sem gerðar hafa verið á Íslandi síðan mælingar hófust (í bráðum áratug)“. Jafnframt hafi markaðshlutdeild sparisjóða aukist „í viðskiptum við einstaklinga og smærri fyrirtæki […] og hagnaður sparisjóða (sem hlutfall af eigin fé – arðsemi) verið sambærilegur og stundum betri en viðskiptabankanna“. Niðurstaða höfundar pistilsins er afdráttarlaus: „Ef þetta er ekki góð samkeppnisstaða eru mín fræði önnur en Viðskiptaráðs.“100

Að því búnu beinir höfundur sjónum að umræðu um rekstrarform sparisjóðanna:

Viðskiptaráð fullyrðir að hlutafélagaformið sé hið eina rétta án þess að rökstyðja það á nokkurn hátt þó rekstur sparisjóða í formi sjálfseignarfélags hafi aldrei gengið betur en síðustu ár. Nýleg rannsókn viðskiptaháskólans í Osló á rekstri bankastofnana í Noregi á tímabilinu 1982 til 2002 sýnir að sparisjóðir (sjálfseignarstofnanir) standa sig jafn vel og hlutafélagabankar á uppgangstímum og betur í niðursveiflu. Niðurstaðan kom verulega á óvart enda margir sem hafa gefið sér gagnrýnislaust að hlutafélagsformið sé öðrum formum æðra.

Þá er vikið að eigin fé sparisjóðanna og staðhæft að þeir sparisjóðir sem hafi viljað auka eigið fé sitt hafi „ekki átt í neinum vandræðum með það“. Hins vegar sé ekki víst að allir sparisjóðir telji æskilegt að vaxa og stækka, og raunar sé „örugglega engum til góðs að allar fjármálastofnanir landsins mótist í sama far, vinni eins og hafi sömu áherslur“. Samkeppnisumhverfið yrði fátækara ef vonir Viðskiptaráðs rættust og sparisjóðirnir hyrfu af sjónarsviðinu.

Staðhæfingu Viðskiptaráðs um óljóst eignarhald og nauðsyn þess að koma eigin fé í hendur stofnfjáreigenda er einnig mætt af hörku í þessum pistli. Höfundur segir að „maður [hljóti] að spyrja sig hvort græðgi sé orðið ráðandi viðhorf innan Viðskiptaráðs“. Minnt er á að stofnfjáreigandi sparisjóðs eigi stofnfé sitt en því fylgi ekkert tilkall til eigin fjár sparisjóðsins. „Stofnfé er í eðli sínu ekki sambærilegt við hlutafé og stofnfé ber alltaf a.m.k. hæstu vexti, sama hvað á dynur. Þannig hefur stofnfé í flestum sparisjóðum borið meiri arð en flest hlutabréf ef litið er til síðustu 10 ára. Nú gerir Viðskiptaráð kröfu fyrir hönd stofnfjáreigenda um að þeir eignist líka annað eigið fé, þó það sé andstætt lögum.“

Hvað eignarhaldið snertir vísar höfundur málatilbúnaði Viðskiptaráðs beinustu leið til föðurhúsanna: „Eignarhald í sparisjóðum er mjög skýrt. Miklu skýrara en í mörgum öðrum sjálfseignarfélögum, s.s. samvinnufélögum, íþróttafélögum, hjálparsamtökum eða Viðskiptaráði sjálfu. Viðskiptaráð er sennilega ein ríkasta sjálfseignarstofnun landsins án þess að það sé skilgreint í lögum hvert eignir þess ganga ef það er lagt niður.“ Aftur á móti sé alveg skýrt að þegar sparisjóður sé lagður niður eigi „umhverfi“ hans að „njóta þeirra fjármuna sem sparisjóðurinn skilur eftir sig – ekki einstaklingur heldur samfélagið“. Þetta sé „algjörlega skýrt í lögum og ætti ekki að vefjast fyrir neinum“.

Að lokum hvetur höfundur til „umburðarlyndi[s] gagnvart ólíkum formum eignarhalds, stjórnunar og rekstrar“.

Þremur og hálfum mánuði síðar, 28. nóvember 2007, hélt Viðskiptaráð, ásamt Samtökum fjármálafyrirtækja og Viðskiptaráðuneytinu, morgunverðarfund um stöðu sparisjóðanna. Á fundinum töluðu Kjartan Gunnarsson formaður sparisjóðanefndar viðskiptaráðherra, Jónas Fr. Jónsson forstjóri Fjármálaeftirlitsins, Guðjón Guðmundsson framkvæmdastjóri SÍSP og Geirmundur Kristinsson sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Keflavíkur.

Ræðu Guðjóns má sjá í rammagrein.101

Þess má að lokum geta að á stjórnarfundi SÍSP 18. september 2007, þ.e. næsta stjórnarfundi á eftir þeim þar sem pistill Viðskiptaráðs var til umræðu, var rætt um framtíð SÍSP og lagði Guðjón Guðmundsson fram minnisblað um málið. Gísli Kjartansson, sem tók við sem formaður SÍSP á aðalfundi 2006, lýsti þeirri skoðun sinni að sambandið ætti að vera áfram við lýði og talaði um skyldurnar við „okkar góða starfsfólk“ og ábyrgð „gagnvart öllum sparisjóðum“. Þó þyrfti vissulega að huga að breytingum innan SÍSP vegna breytinga innan sparisjóðanna.

5.5 Annað samstarf á vettvangi sparisjóðanna

5.5.1 Tryggingasjóður sparisjóða

Tryggingarsjóði sparisjóða var komið á fót með lögum nr. 69/1941 um sparisjóði en með lögum nr. 87/1985 var sjóðurinn gerður að samtryggingarsjóði og tók nýr tryggingarsjóður formlega til starfa sem sjálfseignarstofnun árið 1986.102 Á sama tíma tók til starfa sérstakur Tryggingarsjóður viðskiptabanka sem var ríkisstofnun. Hlutverk Tryggingasjóðs hefur falist í því að tryggja hagsmuni viðskiptamanna sparisjóða og í því skyni fjárhagslegt öryggi sparisjóða og full skil á innlánsfé við endurskipulagningu og slit sparisjóða. Öllum sparisjóðum er skylt að eiga aðild að sjóðnum. Með lögum nr. 43/1993 um viðskiptabanka og sparisjóði voru ítarlegri ákvæði sett um Tryggingarsjóð sparisjóða en verið höfðu í gildi fram að því og hlutverk hans skilgreint nánar.

Tryggingarsjóður sparisjóða skiptist áður í tvær deildir, innstæðudeild og lánadeild. Árið 2000 tók Tryggingasjóður innstæðueigenda og fjárfesta til starfa, sbr. lög nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, og færðist innstæðudeild Tryggingarsjóðs sparisjóða yfir í hinn nýja sjóð. Þar með var lánadeildin ein eftir innan tryggingarsjóðsins. Hlutverk Tryggingasjóðs sparisjóða103 upp frá því var að vera öryggissjóður sparisjóðanna, sbr. 19. gr. laganna. Á aukafundi Tryggingasjóðs 10. mars 2000 var samþykktum sjóðsins breytt til samræmis við hin nýju lög.104 Smávægilegar breytingar og viðaukar við samþykktirnar voru staðfest 6. október 2001, 4. október 2003 og 15. október 2004. Síðasta útgáfa samþykktanna var staðfest af ráðherra 2. febrúar 2005.

Tryggingasjóður innstæðueigenda greiðir innstæðueigendum ákveðið hlutfall innstæðna ef banki eða sparisjóður fer í þrot og getur ekki staðið við skuldbindingar sínar. Lánadeild Tryggingasjóðs sparisjóða hefur heimild til að veita sparisjóði lán eða yfirtaka tilteknar eignir sparisjóðs, ganga í ábyrgðir fyrir sparisjóð, bæta sérstakt tap og kostnað sem sparisjóður verður fyrir og veita sparisjóðum stuðning á annan hátt sem stjórn sjóðsins tekur ákvarðanir um í samræmi við ákvæði laga nr. 98/1999 og samþykktir sjóðsins. Tryggingasjóði sparisjóða er enn fremur heimilt að veita sparisjóði víkjandi lán í því skyni að efla eiginfjárstöðu hans.105

Framlög sparisjóða til Tryggingasjóðs eru ákveðin á aðalfundi hans ár hvert. Árgjaldi er skipt á milli einstakra sparisjóða í sömu hlutföllum og notast er við þegar árgjöld til Sambands íslenskra sparisjóða eru reiknuð. Árgjaldið má þó ekki fara yfir tiltekið hámark.106

Frá árinu 1993 var Tryggingasjóði sparisjóða falið það hlutverk að ákvarða hámarkshlutfall arðgreiðslna sparisjóðanna. Fram til ársins 2004 gaf Tryggingasjóðurinn út ákveðið hlutfall af stofnfé sem arðgreiðslur máttu ná og allir sparisjóðir skyldu miða við. Árið 2004 varð sú breyting að hámarksarðgreiðsluhlutfallið mátti miða við raunarðsemi eigin fjár sparisjóðs samkvæmt eftirfarandi reiknireglu:

Heildararðsemi eigin fjár var miðuð við skilgreiningu Fjármálaeftirlitsins, sem var

hagnaður ársins […] í hlutfalli af meðalstöðu eigin fjár í ársbyrjun og árslok eftir að eiginfjárstaða í árslok hefur verið leiðrétt um hagnað ársins. Við útreikninginn hefur verið tekið tillit til áhrifa leiðréttinga á eigin fé í ársbyrjun og verulegra frávika eiginfjárhreyfinga frá meðalstöðu ársins.107

Nánar er fjallað um þennan þátt í starfsemi Tryggingasjóðs sparisjóða í 12. kafla.

5.5.1.1  Starfsemi Tryggingasjóðs sparisjóða 2000–2011

Samkvæmt samþykktum Tryggingasjóðs sparisjóða fór aðalfundur með æðsta vald í málefnum hans. Sérhver sparisjóður tilnefndi fulltrúa til þess að fara með atkvæði sjóðsins á aðalfundi. Atkvæðisréttur hvers sparisjóðs var í samræmi við hlut hans í heildareignum sparisjóða næstliðið ár fyrir aðalfund. Stjórn sjóðsins var skipuð fimm mönnum. Fjórir stjórnarmenn ásamt jafnmörgum varamönnum voru kjörnir á aðalfundi til eins árs í senn. Fimmti stjórnarmaðurinn var tilnefndur af ráðherra til þriggja ára í senn. Stjórnin kaus sér formann úr sínum hópi og skipti með sér verkum að öðru leyti. Hún fór með málefni sjóðsins á milli aðalfunda og hélt fundi svo oft sem þurfa þótti. Með breytingu á samþykktum sjóðsins 15. október 2004 varð stjórninni heimilt að ráða sjóðnum framkvæmdastjóra. Áður kváðu samþykktirnar á um að framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sparisjóða hefði á hendi daglegan rekstur Tryggingasjóðs. Samkvæmt nýja ákvæðinu skyldu framkvæmdastjóri Tryggingasjóðs og framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sparisjóða sitja stjórnarfundi og hafa þar bæði málfrelsi og tillögurétt.

Á fyrstu árum aldarinnar þurfti Tryggingasjóður að láta til sín taka í málefnum nokkurra sparisjóða. Á stjórnarfundi sjóðsins 22. febrúar 2001 var rætt um stöðu einstakra sparisjóða og kom þar fram að huga þyrfti að Sparisjóði Hornafjarðar og nágrennis. Þá um sumarið sóttu Þór Gunnarsson, formaður stjórnar Tryggingasjóðsins, og Sigurður Jónsson endurskoðandi sparisjóðinn heim og greindi Þór frá því á stjórnarfundi Tryggingasjóðs 11. september að sparisjóðurinn hefði lánað þremur tengdum aðilum samtals 134 milljónir króna, sem jafngilti 81% af eigin fé sparisjóðsins, og segir um málið í fundargerð að tryggingar „séu með þeim hætti, að verulegur vafi ríki um innheimtanleika þessara lána [og] því sé sú staða uppi að vafi leiki á því hvort sparisjóðurinn uppfylli tilskilið lágmark um eigið fé“. Ákveðið var á stjórnarfundinum að gefa út ábyrgð fyrir lánunum en krefjast þess jafnframt að sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Hornafjarðar og nágrennis yrði látinn víkja.

Á aðalfundi Tryggingasjóðs 6. október 2001 greindi Þór Gunnarsson stjórnarformaður frá því að Tryggingasjóður hefði á árinu gefið út ábyrgðir vegna Sparisjóðs Hornafjarðar og nágrennis upp á 185 milljónir króna. Rakti Þór erfiðleika sparisjóðsins fyrst og fremst til mistaka í útlánum og vakti sérstaklega athygli fundarmanna á þeirri áhættu sem fylgdi því þegar sparisjóðir lánuðu „út fyrir starfssvæði [sitt] sem erfitt væri að fylgjast með og [væri það] oftar en ekki stórhættulegt“. Þór greindi jafnframt frá því að „reyndir starfsmenn“ frá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis og Sparisjóði Hafnarfjarðar hefðu séð um „að endurskipuleggja verkferli bókhalds og stjórnunar- og ákvörðunarhætti innan sparisjóðsins en stórátaks [væri] þörf í þeim efnum“.

Á stjórnarfundi 9. nóvember 2001 var kastljósinu beint að Sparisjóði Siglufjarðar. Sýnt þótti að þar væru mál komin í óefni og varð sú staðreynd tilefni til umræðna um að „breyta [þyrfti] vinnubrögðum þeim sem viðhöfð [væru] við eftirlit með sparisjóðunum svo komast [mætti] fyrr að raunverulegri stöðu sjóðanna“ og eftirfarandi athugasemd bætt við: „Sparisjóðsstjórar sem komast í vandræði leyna aðra því eins lengi og þeir mögulega geta.“ Sigurður Hafstein, sem á þessum tíma var framkvæmdastjóri bæði Sambands íslenskra sparisjóða og Tryggingasjóðs og þar að auki bankastjóri Sparisjóðabankans, upplýsti

að 1. nóv. sl. hafi varaformaður stjórnar Sparisjóðs Siglufjarðar ásamt settum sparisjóðsstjóra komið að máli við sig og lagt fram upplýsingar frá Fjármálaeftirlitinu (FME) um að afskrifa þyrfti um 285 millj.kr. hjá sjóðnum. Þeir töldu þó persónulega að þessi tala þyrfti ekki að vera hærri en 200 millj.kr. FME telur að markaðseignir sjóðsins séu ofmetnar og eigið fé sjóðsins sé í raun uppurið. Leituðu þeir félagar ráða um hvað gera skyldi í stöðunni.108

Í framhaldinu var rætt um það á stjórnarfundinum að kanna hug forsvarsmanna sparisjóðanna til þess að hlaupa undir bagga með Sparisjóði Siglufjarðar. Tryggingasjóðurinn taldi sig ekki aflögufæran í bili enda hafði hann tekið á sig miklar skuldbindingar vegna Sparisjóðs Hornafjarðar og nágrennis.

Hinn 15. nóvember fundaði stjórn Tryggingasjóðs að nýju og ræddi málefni Sparisjóðs Siglufjarðar. Þar kom fram að forsvarsmenn Sparisjóðs Mýrasýslu hefðu „haft frumkvæði að því að kanna hug nokkurra sparisjóða til þess að koma inn með aukið stofnfé í sjóðinn, allt að 60 millj.kr.“. Hafa þyrfti hraðar hendur enda hafði Fjármálaeftirlitið gefið sparisjóðnum frest til 19. nóvember til að finna lausn á sínum málum. Í framhaldinu skýrði Sigurður Hafstein frá því að málefni Sparisjóðs Siglufjarðar hefðu verið til umfjöllunar á fundi bankaráðs Sparisjóðabankans fyrr um daginn. Komið hefði í ljós að afurðalán sem bankinn hefði tekið þátt í með sparisjóðnum að veita Rækjuvinnslunni Pólum hf. hefði „farið úr böndum“ því ekki hefði einvörðungu verið lánað „út á afurðir til fjármögnunar rekstursins heldur einnig til fjárfestinga og viðhalds“. Öll umsjón lánsins átti að vera í höndum sparisjóðsins. Sigurður lýsti því yfir að Sparisjóðabankinn teldi sig „ekki bundinn af slíkum ákvörðunum sem teknar [hefðu] verið á skjön við þann samning sem í gildi var milli aðila“. Jafnframt kom fram að „[t]ryggingagat“ í málinu væri um 90 milljónir króna og að Tryggingasjóður þyrfti hugsanlega að „koma að og tryggja“ umrædda fjárhæð „ef þeir sparisjóðir sem Sp. Mýrasýslu hefur verið að ræða við [ættu] að hafa áhuga á málinu“. Síðar á fundinum kom fram að Sparisjóðabankinn væri tilbúinn til að leggja fram 25 milljónir króna sem „nýtt stofnfé“ í sparisjóðinn og að sú fjárhæð kæmi þá til lækkunar á þeirri „ábyrgð sem Tryggingarsjóður [þyrfti] að leggja til“.

Stjórnin fundaði að nýju 23. nóvember og var fært til bókar: „Að mati stjórnar sjóðsins er mjög brýnt að fá niðurstöðu í ágreiningsmál Sparisjóðabankans og sparisjóðsins vegna rækjuverksmiðjunnar Póla, það er stærsta einstaka málið. Sjóðurinn telur sig eingöngu eiga að bera 30 millj. kr. tjón og bankinn þá það sem upp á vantar“. Um vanda sparisjóðsins segir síðan í fundargerðinni:

Áberandi eru verulegar lánveitingar til einstaklinga til kaupa á hlutabréfum í Decode, tryggingavöntun er þar veruleg og skjalagerð við tryggingatöku oft og tíðum ábótavant. Þá er vanskilainnheimtu einnig verulega ábótavant. Þá eru og nokkur mál er tengjast sparisjóðsstjóranum persónulega […]. Þá er stjórnarformaður sjóðsins á afskriftarlista og í vanskilum.

Þessu til viðbótar var fært til bókar að svo virtist sem „ýmsir viðskiptavinir [hefðu] getað gengið nokkuð frítt um sjóðinn og tekið lán án trygginga“.

Sigurður Hafstein áréttaði óánægju sína og Sparisjóðabankans með frammistöðu forsvarsmanna sparisjóðsins hvað varðaði málefni Póla. Hann greindi m.a. frá því að fundað hefði verið með stjórnendum fyrirtækisins og sparisjóðsins 5. júlí 2000 og rætt um „að laga þyrfti þá stöðu sem komin var upp í afurðaláninu“. Að lokum áréttaði Sigurður að bankinn liti svo á „að sparisjóðurinn [hefði] þverbrotið það samkomulag sem í gangi var“ og að málið væri því bankanum „óviðkomandi“. Niðurstaðan var sú að boða í snatri til fundar með fulltrúum úr stjórnum Tryggingasjóðs og Sambands íslenskra sparisjóða og bankaráði Sparisjóðabankans síðar um daginn. Þar urðu miklar umræður um málið og var meðal annars talað um að ábyrgð sparisjóðsins takmarkaðist við 30 milljónir króna en bankans við verðmæti trygginganna. Í fundargerð segir síðan: „[V]arð megin niðurstaðan sú, að burtséð frá því hvar ábyrgðin í þessu máli lægi, réði sparisjóðurinn alls ekki við að bera hana umfram það, sem að framan greinir – yrði að öðrum kosti gjaldþrota með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir bankann og sparisjóðina í heild“109 Sú lausn sem síðar fannst á málinu fól í sér að bankinn yfirtæki lánið en Tryggingasjóður gæfi út ábyrgð að fjárhæð 35 milljónir króna.110

Á árinu 2002 voru Sparisjóður Hornafjarðar og nágrennis og Sparisjóður Siglufjarðar áfram til umræðu í stjórn Tryggingasjóðsins. Sú hugmynd kom upp að sameina Sparisjóð Siglufjarðar og Sparisjóð Ólafsfjarðar og breyta hinum sameinaða sparisjóði síðan í hlutafélag. Ekkert varð þó úr því. Á stjórnarfundi 22. ágúst 2002 var enn á ný rætt um nauðsyn þess að skipta um sparisjóðsstjóra hjá Sparisjóði Hornafjarðar og nágrennis og á næsta fundi á eftir, 26. september, var Þór Gunnarssyni falið að „ræða við stjórnarformann Sparisjóðs Hornafjarðar og nágrennis um það hvort ekki [væri] rétt að segja viðkomandi manni upp störfum“.

Fundur stjórnarinnar 26. september 2002 fór fram í húsakynnum Sparisjóðs Bolungarvíkur, en fyrr um daginn hafði stjórnin fundað á Ísafirði með forráðamönnum Sparisjóðs Vestfirðinga þar sem farið var yfir stöðu þess sparisjóðs.111 Á seinni fundinum var fært til bókar að ljóst væri að stjórnendum Sparisjóðs Vestfirðinga væri „verulegur vandi á höndum ef þeim [ætti] að takast að stýra sjóðnum heilum í höfn“. Á fundinum með forsvarsmönnum sparisjóðsins kom m.a. fram að hann væri „enn að bíta úr nálinni vegna sölu á Sparisjóði Önundarfjarðar og Sparisjóði Súðavíkur til Kaupþings og SPRON. Sú sala [hefði] haft verulegan kostnað í för með sér vegna ýmissa vandamála sem upp [hefðu] komið síðar og menn gerðu ekki ráð fyrir í upphafi“. Þá hefðu lánamál reynst erfiðari en ráð var fyrir gert, meðal annars megi ætla „að Valdimarsdómurinn hafi kostað Eyrasparisjóð a.m.k. um 200 millj.kr. vegna þess að fjarað hefur undir tryggingum hans“.112 Síðar á fundinum kom fram að sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Vestfirðinga, Angantýr Jónasson, teldi að „Eyrasparisjóður [hefði] í raun verið gjaldþrota þegar til sameiningar við hina sjóðina kom“.

Á árinu 2003 voru málefni Sparisjóðs Hornafjarðar og nágrennis enn í hámæli í stjórn Tryggingasjóðs sparisjóða. Í byrjun árs kom í ljós að eiginfjárhlutfall sparisjóðsins var komið niður í 6,2% og samþykkti stjórn Tryggingasjóðs að veita sparisjóðnum 35 milljón króna ábyrgð. Á næstu mánuðum var unnið að því að fá annan sparisjóð til að hlaupa undir bagga með Sparisjóði Hornafjarðar og nágrennis og á stjórnarfundi Tryggingasjóðs 5. maí 2003 kom fram að Sparisjóður Vestmannaeyja, Sparisjóður Bolungarvíkur og Sparisjóður Norðfjarðar hefðu lýst áhuga á því að koma að rekstri sparisjóðsins, með yfirtöku, sameiningu eða kaupum. Sá síðastnefndi skarst úr leik þegar til kom en á stjórnarfundi 15. maí voru lögð fram bréf frá Sparisjóði Vestmannaeyja og Sparisjóði Bolungarvíkur þar sem lýst var hugmyndum sparisjóðanna um „aðkomu að fjárhagslegri endurskipulagningu SPHORN“. Á meðan málið var afgreitt viku tveir stjórnarmenn, þeir Ólafur Elísson og Ásgeir Sólbergsson, af fundi, enda voru þeir sparisjóðsstjórar þeirra tveggja sparisjóða sem voru um hituna. Niðurstaðan varð sú að taka tilboði Sparisjóðs Vestmannaeyja og voru röksemdirnar fyrir því bæði fjárhagslegar og landfræðilegar. Fært var til bókar í fundargerðinni að Ásgeir Sólbergsson, sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Bolungarvíkur, hefði „tekið þessu“, en Ólafur Elísson, sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Vestmannaeyja og varaformaður stjórnar Tryggingasjóðs, hefði aftur á móti fagnað niðurstöðunni. Á stjórnarfundi 3. júlí 2003 kom svo fram að ætlunin væri að auka stofnfé í Sparisjóði Hornafjarðar og nágrennis um 220 milljónir króna og að Sparisjóður Vestmannaeyja yrði eftir það eigandi 70% stofnfjár í sjóðnum.113

Í ræðu Þórs Gunnarssonar formanns stjórnar Tryggingasjóðs á aðalfundi sjóðsins 4. október 2003 kom fram að kostnaður sjóðsins vegna Sparisjóðs Hornafjarðar og nágrennis næmi 131 milljón króna og yrði það „ekki endurkrafið“. Þór lét þess jafnframt getið í ræðunni að „tapið í sparisjóðakerfinu á seinustu árum“ gæti numið hátt í milljarði króna.

Angantýr Jónasson, sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Vestfirðinga, var boðaður á fund stjórnar Tryggingasjóðs 13. febrúar 2004 og upplýsti að útlánatöp Sparisjóðs Vestfirðinga frá stofnun næmu líklega einum milljarði króna, og að þegar hefðu 700 milljónir króna verið afskrifaðar. Fært var til bókar að vandann mætti að miklu leyti rekja til „suðurfjarða Vestfjarða“.114

Hinn 16. mars 2004 var svo haldinn fundur í húsnæði Sparisjóðs Hafnarfjarðar þar sem stjórnir Tryggingasjóðs, Sparisjóðabankans og Sambands íslenskra sparisjóða fóru yfir málefni Sparisjóðs Vestfirðinga. Fram kom að óljóst væri hvort Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis tæki þátt í þeim björgunaraðgerðum sem gripið yrði til. Umræður spunnust um byggðamál og Hallgrímur Jónsson lét þau orð falla að „sparisjóðirnir yrðu að hjálpa hver öðrum og heiður sparisjóðanna [væri] í veði“. Hinn 6. apríl 2004 fundaði stjórn Tryggingasjóðs að nýju og samþykkti að veita Sparisjóði Vestfirðinga aðstoð í formi óafturkræfs framlags að fjárhæð 45 milljónir króna og stofnfjárkaupa sem námu sömu fjárhæð. Jafnframt var gert ráð fyrir því að sparisjóðirnir og Sparisjóðabankinn tækju þátt í aðgerðunum með stofnfjárkaupum og víkjandi láni. Þegar til kom lagði 21 sparisjóður, af þeim 24 sem starfandi voru á þessum tíma, málinu lið með stofnfjárkaupum.115

Aðstoð Tryggingasjóðs við Sparisjóð Vestfirðinga lauk ekki með framansögðu. Stofnfjárkaupin sem samþykkt voru 6. apríl 2004 fóru ekki fram fyrr en um mitt ár 2005. Á fundi stjórnar Tryggingasjóðs 20. maí 2005 var samþykkt að kaupa fyrir 7 milljónir króna meira en upphaflega var ákveðið til þess að ljúka mætti tilteknu uppgjörsmáli sparisjóðsins gagnvart Sparisjóðabankanum. Stofnfé var því keypt fyrir 52 milljónir króna og eftir kaupin nam eignarhluti Tryggingasjóðs í Sparisjóði Vestfirðinga 21,6%. Markmiðið með stofnfjárkaupum Tryggingasjóðs var þarna, eins og ævinlega, að aðstoða sparisjóðinn í erfiðri stöðu og gera honum þannig kleift að rétta af reksturinn. Síðan yrði stofnféð selt og Tryggingasjóður endurheimti þá bundið fé sitt. Slíkt hafði oft verið gert og Tryggingasjóður annað hvort endurheimt framlagt fé eða selt stofnfé með tapi, háð því hver staða viðkomandi sparisjóðs var. Á fundi stjórnar Tryggingasjóðs 22. ágúst 2007 var stjórnin sammála um að eðlilegt væri að sjóðurinn drægi sig út úr stofnfjáreigendahópi Sparisjóðs Vestfirðinga, en rétt væri þó að fara rólega og bíða eftir að stjórn sparisjóðsins lyki stefnumótunarvinnu sinni sem þá stóð yfir.

Fyrir stjórnarfundi í sjóðnum 18. september lá beiðni frá Sparisjóði Vestfirðinga um að Tryggingasjóðurinn innleysti stofnfjáreign sína í sparisjóðnum. Það hefði þá verið með vísitöluframreikningi og eðlilegum vöxtum. Nú var hins vegar sú þróun orðin að markaðsverð var komið á stofnfé sparisjóða. Með innlausn stofnfjárbréfanna hefði Tryggingasjóður orðið af verðmætum sem ekki gátu gengið til sparisjóðsins sjálfs, því honum var hvorki heimilt að kaupa né selja stofnfjárbréf nema á framreiknuðu nafnverði. Þeir aðilar sem síðan myndu kaupa bréfin á slíku verði myndu njóta verðmætisaukningarinnar við endursölu bréfanna. Af þessum sökum hafnaði stjórn Tryggingasjóðs erindinu.116

Tæpum mánuði síðar kom upp staða sem setti stjórn Tryggingasjóðs í mikinn vanda. Á stjórnarfundi 11. október 2007 lá fyrir samþykkt fundar stofnfjáreigenda í Sparisjóði Vestfirðinga tveimur dögum fyrr þar sem samþykkt var tillaga stjórnar sparisjóðsins um stofnfjáraukningu. Á þessum fundi var borin upp og samþykkt með einu mótatkvæði breytingartillaga eins stofnfjáreiganda við tillögu stjórnar þar sem eftirfarandi skilyrði var sett: „Áður en til aukningar stofnfjár kemur skal stjórn Sparisjóðs Vestfirðinga hafa gengið frá því við stjórn Tryggingasjóðs sparisjóða að sjóðurinn taki ekki þátt í stofnfjáraukningu þessari.“117 Fulltrúi ráðherra í stjórn Tryggingasjóðs lét bóka afstöðu ráðuneytisins til þátttöku sjóðsins í nefndri stofnfjáraukningu, en ráðuneytið lagðist gegn henni þar sem slík þátttaka „væri fjárfesting sem ekki samræmdist hlutverki sjóðsins sem öryggissjóðs sem þarf að gæta jafnræðissjónarmiða“. Fulltrúar sparisjóðanna í stjórn Tryggingasjóðs voru á einu máli um að samþykkt Vestfirðinganna um að setja það sem skilyrði að einn stofnfjáreigandi sæti hjá við stofnfjáraukninguna til að gefa öðrum stofnfjáreigendum kost á að auka enn frekar við stofnfjáreign sína væri með ólíkindum. Með samþykkt fundar stofnfjáreigenda í Sparisjóði Vestfirðinga væri í rauninni verið að samþykkja að einn stofnfjáreigandi hefði minni rétt en aðrir. Á næsta stjórnarfundi hjá Tryggingasjóði, 16. október, var þó samþykkt með þremur atkvæðum gegn einu að sjóðurinn tæki ekki þátt í stofnfjáraukningunni, sem var í rauninni liður í samrunaáætlun Sparisjóðs Vestfirðinga, Sparisjóðs Húnaþings og Stranda og Sparisjóðsins í Keflavík. Fulltrúi ráðherra sat hjá við atkvæðagreiðsluna.118

Tæpum tveimur mánuðum eftir fyrrnefndan fund stofnfjáreigenda í Sparisjóði Vestfirðinga héldu þeir aftur fund þar sem samþykktur var samruni við Sparisjóðinn í Keflavík og Sparisjóð Húnaþings og Stranda. Jafnframt var þá samþykkt enn frekari aukning stofnfjár án þess að setja það skilyrði að Tryggingasjóður sparisjóða sæti hjá við stofnfjáraukninguna.119 Það leiddi til þess að stjórn Tryggingasjóðs samþykkti á fundi sínum 7. desember 2007 með fjórum atkvæðum (fulltrúi ráðherra sat hjá) að taka þátt í þessari síðari stofnfjáraukningu. Tryggingasjóður keypti því stofnfé í sparisjóðnum fyrir 45 milljónir króna í árslok 2007.

Frá og með árinu 2005 hafði fækkað mjög þeim málum þar sem Tryggingasjóður þurfti að láta til sín taka. Þegar þau erfiðu úrlausnarefni sem hér hefur verið lýst komu upp á fyrstu árum aldarinnar þótti forsvarsmönnum Tryggingasjóðs, og sparisjóðakerfisins alls, sýnt að girða þyrfti fyrir slíkar uppákomur eftir föngum með því að veita sparisjóðunum vítt og breitt um landið aukið aðhald. Í þessum anda tók stjórn Tryggingasjóðs að gera stórauknar kröfur til sparisjóðanna um upplýsingagjöf og á árinu 2002 tók hún jafnframt upp þann sið að sækja sparisjóðina heim og funda með forráðamönnum þeirra. Þannig voru fjórir til fimm sparisjóðir heimsóttir ár hvert. Reyndist eitthvað athugavert í rekstri þeirra voru sérfræðingar frá stærri sparisjóðunum gerðir út af örkinni, iðulega frá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis og Sparisjóði Hafnarfjarðar, til aðstoðar og ráðgjafar. Segja má að samvinnu sparisjóðanna að þessu leyti megi hafa til marks um farsælt samstarf þeirra á fyrsta áratug aldarinnar.

Tryggingasjóður sparisjóða hafði samkvæmt 68. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki haft með höndum það hlutverk að setja reglur um og ákveða árlega hámarkshlutfall arðgreiðslu sparisjóðanna. Talsverðar umræður urðu á stjórnarfundum Tryggingasjóðs á árinu 2007 um arðgreiðslur, sem höfðu farið mjög hækkandi hjá nokkrum sparisjóðum. Á stjórnarfundi 7. mars 2008 voru væntanlegar arðgreiðslur vegna ársins 2007 til umræðu. Fulltrúa ráðherra í stjórninni var þá falið að kanna hvort Tryggingasjóði bæri skylda til eftirlits með því að ákvörðun sjóðsins um hámarkshlutfall arðgreiðslu væri fylgt í framkvæmd. Á næsta stjórnarfundi, 5. júní 2008, lá fyrir minnisblað um þetta frá fulltrúa ráðherra í stjórninni. Í fundargerð sagði: „Fundarmenn voru sammála niðurstöðu [fulltrúa ráðherra], þ.e. að eftirlitsskyldan væri fyrst og fremst hjá FME, hins vegar væri eðlilegt að TRSP aflaði upplýsinga frá sparisjóðum varðandi arðgreiðslur og tilkynni FME/ráðherra ef uppvíst verður að sparisjóður uppfylli ekki skyldur sínar.“120

Með breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki um mitt ár 2009 var ákvörðunin um hámarksarðgreiðsluhlutfall hjá sparisjóðum tekin úr höndum stjórnar Tryggingasjóðs sparisjóða og lögð í hendur aðalfundar í hverjum sparisjóði.121

Á haustþingi 2009 var lagt fram frumvarp til laga um innstæðutryggingar og innstæðukerfi fyrir fjárfesta.122 Þar var í bráðabirgðaákvæði II lagt til að Tryggingasjóður sparisjóða yrði lagður niður 31. desember 2009 og að eignir hans skyldu þá renna til sparisjóðanna í sömu hlutföllum og nam hlutdeild þeirra í heildarinnstæðum hjá sparisjóðum eins og hún var í lok árs 2009. Frumvarpið náði ekki fram að ganga en í meðförum Alþingis vorið 2010 var búið að færa slit Tryggingasjóðs til ársloka 2010. Ári síðar var aftur lagt fram frumvarp undir sama nafni sem innihélt samsvarandi bráðabirgðaákvæði um slit sjóðsins í árslok 2010.123 Það frumvarp varð heldur ekki að lögum en við aðra umræðu þess í mars 2011 var samþykkt breyting á fyrrnefndu ákvæði þess efnis að við slit Tryggingasjóðs sparisjóða, sem yrðu þegar við gildistöku laganna, skyldu eignir hans renna til nýs sjóðs, Öryggissjóðs sparisjóða, sem heimilt yrði að stofna samkvæmt frumvarpinu. Þótt ekki hafi orðið af þessum áformum settu þau nokkurt mark á starfsemi Tryggingasjóðs. Ekki hafa til að mynda verið innheimt árgjöld til sjóðsins síðan árið 2010.

Loks skulu hér til upplýsingar birtir samandregnir ársreikningar Tryggingasjóðs fyrir tímabilið 2000–2011. Þeir eru hér sýndir á verðlagi hvers árs. Fyrst koma rekstrarreikningarnir í töflu 5 og efnahagsreikningarnir í töflu 6.

Tekjur Tryggingasjóðs voru fyrst og fremst árgjaldið eða framlög sparisjóðanna, sem voru ákveðin á aðalfundi hans ár hvert og tók hlutfallsleg skipting árgjalds milli einstakra sparisjóða mið af sömu reiknireglu og gilti um árgjöld til Sambands íslenskra sparisjóða hverju sinni. Framlögin skyldu samkvæmt samþykktum Tryggingasjóðs nema að hámarki 50 milljónum króna á ári og tæki sú fjárhæð mið af hækkun vísitölu neysluverðs frá dagsetningu upphaflegrar gerðar samþykktanna, þ.e. 10. mars 2000. Stjórn sjóðsins fékk þó samþykki fyrir því að framlagið árin 2002 og 2003 yrði 75 milljónir króna hvort ár vegna þeirra erfiðu mála sem sjóðurinn tók þátt í að leysa um þær mundir. Sjóðnum var í upphafi markaður sá rammi að hann yxi í 350–500 milljónir króna.124 Í árslok 2007 námu heildareignir sjóðsins rúmum 400 milljónum króna og var því ákveðið að lækka árgjaldið verulega og halda sjóðnum nokkurn veginn í þeirri stærð. Ekkert árgjald var innheimt árið 2011, svo sem fyrr sagði.

Vaxtatekjur og verðbætur voru einnig drjúgur tekjuliður. Eftir því sem sjóðurinn stækkaði fór hann að hafa yfir umtalsverðu lausu fé að ráða. Það leiddi til þess að stjórnin samþykkti fjárfestingastefnu á fundi sínum 23. júní 2005. Það sama ár var tekið að fjárfesta í skuldabréfasjóðum, fyrst og fremst í ríkisskuldabréfum og skuldabréfum sveitarfélaga. Þessi tekjuliður hækkaði umtalsvert árið 2005 og enn frekar eftir það. Frá og með 2009 var þetta stærsti tekjuliður Tryggingasjóðs.

Gjaldahliðin skiptist í meginatriðum í rekstrarkostnað og útgjöld vegna aðstoðar við einstaka sparisjóði. Rekstrarkostnaðurinn var fyrst og fremst launakostnaður. Sérstakur framkvæmdastjóri var ráðinn að sjóðnum í september 2004, en fram til þess tíma hafði framkvæmdastjóri SÍSP sinnt sjóðnum í hlutastarfi. Stjórnarmenn fengu einnig greidda mánaðarlega þóknun sem ákveðin var á aðalfundi sjóðsins hvert ár. Þóknun stjórnarformanns var tvöföld. Fjármagnstekjuskattur var óverulegur framan af tímabilinu en fór vaxandi svo sem sjá má í töflunni. Skatthlutfallið hækkaði úr 10% í 20% árið 2009 vegna skattalagabreytinga.

Helstu gjöld önnur voru eftirfarandi: Árið 2002 féllu ábyrgðir vegna Sparisjóðs Hornafjarðar og nágrennis upp á 48 milljónir króna á Tryggingasjóð. Á árinu 2003 greiddi sjóðurinn 131 milljón króna vegna Sparisjóðs Hornafjarðar og 35 milljónir króna vegna Sparisjóðs Siglufjarðar. Árið 2004 veitti Tryggingasjóður Sparisjóði Vestfirðinga 45 milljóna króna óafturkræft framlag. Gjaldfærsla vegna sparisjóða átti sér næst stað 2009 þegar sjóðurinn afskrifaði nær allt stofnfé sitt í Sparisjóðnum í Keflavík, um 97,2 milljónir króna. Þar var um að ræða fyrrum stofnfé í Sparisjóði Vestfirðinga. Afgangurinn af þeirri stofnfjáreign, 5 milljónir króna, var svo afskrifaður ári síðar. Það sama ár færði sjóðurinn einnig niður að hluta nýkeypt stofnfé í Sparisjóði Þórshafnar og nágrennis og stofnfé í Sparisjóði Vestmannaeyja sem áður hafði verið veitt sem víkjandi lán til sparisjóðsins og breytt í stofnfé. Sömu bréf voru enn færð niður að nokkru árið 2011.

Á árinu 2011 samþykkti stjórn Tryggingasjóðs að greiða þá starfandi sparisjóðum 50% af greiddri ábyrgð til innstæðudeildar Tryggingasjóðs innstæðueigenda og fjárfesta sem féll á einstaka sparisjóði í nóvember 2008 í kjölfar falls bankanna. Þessi stuðningur Tryggingasjóðs við sparisjóðina nam 49 milljónum króna.125

Efnahagsreikningar sjóðsins fyrir umrætt tímabil eru tilfærðir í töflu 6. Efst er lausaféð sýnt, þ.e. bankainnstæður og verðbréf. Þar sést að lausafjárstaðan hefur verið allgóð að árunum 2003 og 2007 undanskildum. Framan af tímabilinu var lausafé varðveitt í Sparisjóðabanka Íslands en eftir 2007 var leitað annarra leiða með ávöxtun þess.

Neðri hluti töflunnar sýnir aðrar eignir Tryggingasjóðs. Þar sést stofnfjáreignin í Sparisjóði Ólafsfjarðar sem Tryggingasjóður keypti á 140 milljónir króna árið 1997. Stofnféð var endurmetið til samræmis við bókfært verð þess hjá sparisjóðnum um 37,4 milljónir króna árið 2003. Tryggingasjóður seldi þessi stofnfjárbréf til heimamanna árið 2004 fyrir 130 milljónir króna. Sjóðurinn keypti árið 2001 eins og framar greindi stofnfjárbréf í Sparisjóði Hornafjarðar og nágrennis fyrir 40 milljónir króna. Þessu stofnfé var að miklum hluta breytt á árinu 2004 í víkjandi lán og því sem eftir var árið 2006. Um stofnfjáreignina í Sparisjóði Vestfirðinga og síðar í Sparisjóðnum í Keflavík hefur þegar verið fjallað. Hún var færð niður að fullu árin 2009 og 2010.

Víkjandi lán sem upphaflega var veitt Sparisjóði Hornafjarðar og nágrennis fluttist yfir til Sparisjóðs Vestmannaeyja við sameiningu sjóðanna. Því var breytt í 19 milljóna króna stofnfé á árinu 2010. Það sama ár keypti Tryggingasjóður stofnfé í Sparisjóði Þórshafnar og nágrennis fyrir 60 milljónir króna, en það var fært niður um 18 milljónir króna í ársreikningi Tryggingasjóðs það ár. Í árslok 2011 átti Tryggingasjóður ekki stofnfjárbréf í öðrum sparisjóðum en þessum tveimur.

Loks skal þess getið að á fundi stjórnar Tryggingasjóðs sparisjóða 4. september 2012 var samþykkt að kaupa stofnfé fyrir 10 milljónir króna í Sparisjóði Svarfdæla og jafnframt að veita honum 70 milljóna króna víkjandi lán til 10 ára með 7% vöxtum auk verðtryggingar.

5.5.2 Tölvumiðstöð sparisjóðanna

Reiknistofa bankanna var stofnuð 1973 með það að markmiði að samnýta tölvubúnað, draga úr kostnaði og koma á samræmdum aðferðum við gagnavinnslu. Jafnframt hugðust bankarnir draga saman í tölvudeildum sínum. Sparisjóðirnir áttu aðild að Reiknistofu bankanna frá árinu 1976. Með lögum um Seðlabanka Íslands frá 1986 var bönkum og sparisjóðum veitt heimild til að ákveða vaxtakjör sín og þar með jókst samkeppni banka og sparisjóða um nýja og sveigjanlegri innlánareikninga. Þessu fylgdi að bankarnir efldu tölvudeildir sínar að nýju í því augnamiði að greina sig betur hver frá öðrum.

Sparisjóðurinn í Keflavík kom á fót tölvudeild árið 1975 og var upphaflegur tilgangur hennar sá að halda utan um iðgjaldabókhald Lífeyrissjóðs Suðurnesja. Smám saman víkkaði starfsemi tölvudeildarinnar út og á vegum hennar var hannað tölvukerfi fyrir flest bankaverkefni sparisjóðsins. Fljótlega tóku aðrir sparisjóðir að nýta sér þjónustu deildarinnar í tengslum við sérreikninga sparisjóðanna sem lutu reiknireglum er féllu ekki að kerfum Reiknistofu bankanna.

Þegar umsvif tölvudeilda bankanna jukust kviknuðu hugmyndir um að stofna sérstaka tölvudeild á vegum sparisjóðanna. Eftir nokkurn aðdraganda var samstarfssamningur um Tölvumiðstöð sparisjóðanna undirritaður 10. mars 1989 af fulltrúum Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, Sparisjóðs Hafnarfjarðar, Sparisjóðsins í Keflavík, Sparisjóðs vélstjóra, Sparisjóðs Kópavogs, Sparisjóðs Mýrasýslu og Lánastofnunar sparisjóðanna. Í fyrstu stjórn Tölvumiðstöðvarinnar sátu Baldvin Tryggvason, stjórnarformaður, Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, Geirmundur Kristinsson, Sparisjóðnum í Keflavík, Matthías Á. Mathiesen, Sparisjóði Hafnarfjarðar, Oddný Óskarsdóttir, Sparisjóði vélstjóra, og Sigurður Hafstein, Lánastofnun sparisjóðanna. Fyrsti framkvæmdastjóri Tölvumiðstöðvarinnar var Jón Ragnar Höskuldsson.126 Matthías Á. Mathiesen tók fljótlega við sem stjórnarformaður Tölvumiðstöðvarinnar og gegndi því embætti í 13 ár.127

Hinn 21. maí 1993 sendu stjórnarformaður og framkvæmdastjóri Tölvumiðstöðvarinnar, ásamt framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sparisjóða, bréf til allra þeirra sparisjóða sem ekki áttu aðild að Tölvumiðstöðinni. Þar var greint frá því að á aðalfundi Tölvumiðstöðvarinnar 21. apríl 1993 hefði verið „samþykktur nýr samstarfssamningur eignaraðila sem gerir ráð fyrir að allir sparisjóðir gangi til samstarfsins“. Í bréfinu kemur fram að sú breyting sé að verða á stefnu Reiknistofu bankanna að hún muni þaðan í frá ekki sinna „nýjum verkefnum“ á sviði tölvuvinnslu og upplýsingatækni, „heldur muni eignaraðilar [hennar] sjálfir hanna þau, hver á sínum heimavelli“. Jafnframt er bent á að flestir sparisjóðir nýti sér þá þegar þjónustu Tölvumiðstöðvarinnar að einhverju leyti og þeir hvattir til að stíga skrefið til fulls og gerast fullgildir aðilar að miðstöðinni. Kostnaður vegna miðstöðvarinnar muni skiptast milli sparisjóðanna „í hlutfalli við niðurstöðutölu efnahagsreiknings næst liðins árs“ en að auki þurfi sparisjóðir sem hyggjast gerast aðilar að Tölvumiðstöðinni að greiða stofngjald sem nemi 0,1‰ af niðurstöðu efnahagsreiknings ársins 1992.128 Þessi málaleitan fékk góðar viðtökur meðal sparisjóðanna og gengu þeir allir sem einn inn í samstarfið um Tölvumiðstöð sparisjóðanna 1. júlí 1993.129

Rekstur Tölvumiðstöðvarinnar gekk vel í áranna rás og fyrirtækið óx jafnt og þétt í takt við auknar þarfir sparisjóðanna á sviði upplýsingatækni. Á fyrstu árum 21. aldar fór fjöldi starfsmanna yfir fjórða tuginn og stofnað var dótturfyrirtækið Spakur hf. sem sá meðal annars um sölu á samnefndu tölvukerfi til annarra fjármálafyrirtækja.130

Á árinu 2002 var lögð fram ný framtíðarstefna Tölvumiðstöðvarinnar og fól hún í sér að fyrirtækið færði út kvíarnar og leitaðist við að ná viðskiptum annarra fjármálafyrirtækja en sparisjóðanna.131 Í október 2003 skrifuðu eignaraðilar Tölvumiðstöðvarinnar undir nýjan samstarfssamning sem tók gildi í byrjun ársins 2004 og fól hann meðal annars í sér að auðveldara varð að víkka eigendahópinn út. Um þetta leyti var einnig tekin upp ný og nákvæmari gjaldskrá.132

Miklar annir einkenndu starfsemi Tölvumiðstöðvarinnar næstu ár. Starfsmönnum fjölgaði ört og í október 2006 voru þeir orðnir 84 talsins. Meðal viðskiptavina dótturfyrirtækisins Spaks hf. mátti þá nefna Landsbanka Íslands hf., Seðlabankann, Íbúðalánasjóð, Straum-Burðarás hf. og MP Fjárfestingarbanka hf.133

Á árinu 2007 urðu síðan tímamót í starfsemi Tölvumiðstöðvarinnar. Á aðalfundi í mars var samþykkt að breyta nafni fyrirtækisins í Teris og jafnframt var nafni dótturfélagsins Spaks ehf. breytt í TerisPlús ehf.134 Í árbók Sambands íslenskra sparisjóða, sem lögð var fram á aðalfundi sambandsins í október 2007, segir um þær nýju áherslur sem nafnabreytingunni fylgdu:

Með nýju nafni var kynnt ný stefna fyrirtækisins. Má segja að ný stefna marki þáttaskil í rekstri Teris. Nú mun fyrirtækið ekki eingöngu einbeita sér að því að þjóna eigendum sínum heldur á það að leita nýrra viðskiptavina svo og eignaraðila í hópi fjármálafyrirtækja. Jafnframt ákvað stjórn Teris að frá og með árinu 2007 skyldi fyrirtækið rekið sem hagnaðareining, en ekki sem kostnaðareining eins og verið hefur allar götur frá stofnun þess. Arðsemi verður nú höfð að leiðarljósi við ákvörðun og framkvæmd allra verkefna og fyrirtækið mun axla meiri ábyrgð á allri vöruþróun en verið hefur fram til þessa. Það má því segja að klippt hafi verið á naflastrenginn að hluta frá eigendunum en þeir verða eftir sem áður þungamiðjan í allri starfsemi fyrirtækisins og Teris mun sinna þeim af kostgæfni, hér eftir sem hingað til.135

Í framhaldinu er greint frá því að vöxtur fyrirtækisins haldi áfram „sem aldrei fyrr“, verkefnastaðan sé „svo góð að fyrirtækið [hafi] ekki getað annað öllum verkefnum sem til þess hafa borist undanfarin misseri“, og að starfsmönnum hafi fjölgað um 50% á árinu. Jafnframt er frá því skýrt að dótturfélagið TerisPlús ehf. hafi keypt hugbúnaðarfyrirtækið Mentis af Glitni banka hf.

Í mars 2008 samþykkti stjórn fyrirtækisins nýja stefnu fyrirtækisins og segir um hana í árbók Sambands íslenskra sparisjóða að þar hafi „markið [verið] sett hátt og fyrirtækinu ætlað að þróast í átt til meira sjálfstæðis, um leið og fleiri stoðum verði rennt undir reksturinn með því að afla nýrra viðskiptavina“. Fram kemur að starfsmönnum hafi fjölgað um 65% á árinu og að verkefnastaða sé góð „[þ]rátt fyrir versnandi aðstæður hjá fjármálafyrirtækjum“. Ekki sé gert ráð fyrir „teljandi vexti“ á árinu 2008.136

Áhrifa bankahrunsins tók að gæta allverulega í rekstri Teris á árinu 2009 og var ráðist í mikinn niðurskurð, ekki síst eftir að Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis, Sparisjóðabankinn og Sparisjóður Mýrasýslu féllu. Starfsfólki var fækkað og umsvif skorin niður um tæpan helming.137 Eftir að Fjármálaeftirlitið yfirtók Byr sparisjóð og Sparisjóðinn í Keflavík þyngdist róðurinn enn frekar. Í byrjun ársins 2012 gerði Reiknistofa bankanna hf. tilboð í hluta af eignum Teris og varð úr að 5. júlí 2012 heimilaði Samkeppniseftirlitið samruna fyrirtækjanna.138

5.5.3 Fræðslumiðstöð sparisjóðanna

Í febrúar 1997 var Gísli Jafetsson ráðinn fræðslustjóri Sambands íslenskra sparisjóða og um leið var Fræðslumiðstöð sparisjóðanna hleypt af stokkunum. Gísli gegndi embætti fræðslustjóra sambandsins allt til ársins 2012.139 Í ræðu sinni á aðalfundi Sambands íslenskra sparisjóða 31. október 1997 greindi Þór Gunnarsson, formaður SÍSP, frá tilurð Fræðslumiðstöðvarinnar og ráðningu Gísla og skilgreindi verkefni hans sem hér segir:

1. Fagleg starfsmenntun og starfsþjálfun starfsmanna sparisjóðanna í þjónustu og samskiptum við viðskiptamenn.

2. Framhaldsmenntun og kynningar fyrir starfsmenn í tengslum við nýjungar í starfsemi sparisjóðanna og breytingar á bankamarkaðinum.

3. Fræðsla fyrir starfsfólk, þar sem kynnt er starfsemi og þjónusta fyrirtækja sparisjóðanna.

4. Samþætting á fræðslustarfsemi sparisjóðanna og uppbygging á heildstæðu fræðslustarfi fyrir starfsfólk.

5. Samstarf við Tölvumiðstöðina um vinnslu handbóka og gerð kennsluefnis um kerfi TS [Tölvumiðstöðvar sparisjóðanna].

Þór greindi einnig frá því að með fræðslustjóranum starfaði fræðslunefnd „sem skipuð er fulltrúum sparisjóðanna hér á Suðvesturhorninu, þ.e. þeim Oddnýju Lárusdóttur frá SPHAF, Ásdísi Ýr Jakobsdóttur frá SPKEF, Ólínu Sveinsdóttur frá SPKÓP, Hörpu Gunnarsdóttur frá SPRON og Gyðu Ásmundsdóttur frá SPVÉL“.140

Starfsemi Fræðslumiðstöðvarinnar fólst fyrst og fremst í viðamiklu námskeiðshaldi fyrir starfsfólk sparisjóða sem tók á sig skipulagða mynd undir lok aldarinnar og fékk nafnið Sparnám. Í lok ársins 2000 útskrifuðust fyrstu nemendurnir úr Sparnámi, 24 talsins, og brautskráðist sami fjöldi nemenda næstu árin. Árið 2002 var ákveðið að auka fjölbreytni námsins og bjóða upp á framhaldsnámskeið, Sparnám II. Námið var ætlað stjórnendum og millistjórnendum sparisjóðanna sem lokið hefðu Sparnámi I eða hefðu háskólamenntun. Í desember 2004 útskrifuðust fyrstu nemendurnir úr framhaldsnáminu, 17 talsins.141

Meðal annarra námskeiða sem Fræðslumiðstöðin bauð upp á má nefna ýmis námskeið fyrir viðskiptavini sparisjóðanna (einkum þá elstu og yngstu), enskunám fyrir starfsfólk sparisjóðanna, þjónustunámskeið, stjórnendanámskeið, ráðgjafanámskeið, námskeið um lögfræðileg efni o.fl. Á árinu 2004 var tekin upp sú nýbreytni að halda námskeið á Akureyri og Ísafirði, en þjónusta við landsbyggðina hafði verið forgangsatriði hjá Fræðslumiðstöðinni frá upphafi. Samstarf var haft við Háskólann í Reykjavík um mörg þessara námskeiða. Til marks um umfang starfsemi Fræðslumiðstöðvarinnar má nefna að á árinu 2006 stóð hún fyrir um 90 námskeiðum sem um 1000 nemendur sátu.142

Eftir fall bankanna 2008 tók að draga úr fræðslustarfi sparisjóðanna.143 Fyrst í stað var starfsemi Fræðslumiðstöðvarinnar þó að mestu óskert og boðið var upp á ýmsa nýbreytni eins og eftirfarandi klausa úr árbók Sambands íslenskra sparisjóða 2009 ber vott um:

Eftir bankahrunið í október 2008 og því gjörningaveðri sem skapaðist í sparisjóðaumhverfinu sl. vor ákvað Fræðslumiðstöð í samstarfi við Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja (SSF) að styðja við fyrrverandi starfsfólk sparisjóðanna á erfiðum tímum. Frá byrjun aprílmánaðar fram í miðjan júní var boðið upp á opið hús einu sinni í viku þar sem fengnir voru gestir með uppbyggileg erindi með það að markmiði að styðja við bakið á fyrrverandi starfsfólki sparisjóðafjölskyldunnar. Almenn ánægja skapaðist með verkefnið, en ætla má að rúmlega 20 manns hafi mætt vikulega að meðaltali og nýtt sér þennan vettvang þegar mest var. Með þessu sýndu sparisjóðirnir samfélagslega ábyrgð gagnvart fyrrverandi starfsfólki sínu með því að skapa vettvang og huga að vellíðan og vexti á óvissutímum.144

Eftir þetta dró hægt og bítandi úr starfsemi Fræðslumiðstöðvarinnar og hefur hún nú verið lögð af.

5.6 Samantekt og niðurstöður

Í þessum kafla hefur verið veitt innsýn í þá miklu hugmyndadeiglu sem sparisjóðakerfið á Íslandi gekk í gegnum undir lok 20. aldar og á fyrstu árum þessarar aldar, með sérstakri áherslu á þær umræður um stöðu og stefnu sem fram fóru innan vébanda Sambands íslenskra sparisjóða (SÍSP). Vafalaust má af þessu draga margvíslegan lærdóm sem að gagni má koma þegar fengist er við spurningar um hugsanlega framtíð sparisjóðarekstrar á Íslandi við núverandi aðstæður. Hér á eftir verða dregin fram nokkur atriði sem einkenndu umræðuna og ástæða er til að gefa sérstakan gaum.

Skipting landsins í markaðssvæði. Eitt af því sem vafðist mjög fyrir sparisjóðamönnum við upphaf stefnumótunarvinnu SÍSP undir lok 20. aldar, og setti raunar svip sinn á gjörvallt tímabilið fram að falli bankanna, var spurningin um markaðssvæði einstakra sparisjóða. Eins og kemur fram hér í skýrslunni stóðu sparisjóðirnir frá upphafi í nánum tengslum við sína heimabyggð enda voru þeir á löngum tímabilum einu fjármálastofnanirnar sem sinntu fámennum byggðarlögum vítt og breitt um landið – þeir voru „hornsteinar í héraði“. Sambýlinu við viðskiptabankana var í aðalatriðum þannig háttað að sparisjóðirnir héldu sínu á landsvísu þótt ný bankaútibú spryttu upp hér og þar. Eftir 1990 kom hins vegar upp sú nýja staða að sparisjóðirnir sjálfir fóru að sækja hver inn á svæði annars. Í Reykjavík höfðu raunar verið starfandi tveir sparisjóðir allt frá árinu 1961, er Sparisjóður vélstjóra var stofnaður, en heita má að á milli hans og Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hafi ríkt þegjandi samkomulag sem ekki virðist hafa verið brotið fyrr en á síðustu árum 20. aldar. Um svipað leyti opnaði Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis afgreiðslu í Bónusverslun í Kópavogi og fleiri dæmi mætti nefna um slíkar „innrásir“ einstakra sparisjóða á „yfirráðasvæði“ annars sparisjóðs. Eins og kom fram í kafla 5.1.1 hér á undan ollu þessar breyttu aðstæður miklum titringi meðal forsvarsmanna sparisjóðanna við upphaf stefnumótunarstarfsins – svo mjög að á köflum var engu líkara en þeir þyldu verr samkeppni frá öðrum sparisjóðum en frá fyrirtækjum utan sparisjóðafjölskyldunnar. En dýpri spurning sem svara þarf er hvort breyttar forsendur í bankaviðskiptum, t.d. hvað varðar netbanka og rafræn samskipti almennt, hafi ekki orðið til þess að það sé einfaldlega ógerlegt að skipta landinu á milli sín eins og sparisjóðirnir gerðu á 20. öld.

Samkeppni eða samstarf? Annar flötur á togstreitunni sem einkenndi stefnumótun sparisjóðanna varðaði þau andstæðu sjónarmið sem kenna má við samkeppni og samstarf. Annars vegar var sú skoðun að sparisjóðunum bæri að keppa sín á milli, það væri raunar óumflýjanlegt og jafnvel skylda þeirra. Til þess lágu ýmis rök, en einna þyngst vó sú staðreynd að samstarf sparisjóðanna mátti ekki verða svo náið að úr yrði óleyfilegt samráð í skilningi laga. Með öðrum orðum var sparisjóðunum nauðugur einn kostur að láta í það minnsta í veðri vaka að þeir stæðu í samkeppni hver við annan að einhverju marki. Umræður innan SÍSP bera þess vitni hve örðugt reyndist að finna réttan meðalveg í þessu efni – en slíkan veg varð þó að finna, því að óheft samkeppnissjónarmið áttu lengst af lítinn hljómgrunn innan sparisjóðakerfisins. Hins vegar litu margir svo á að sparisjóðirnir ættu tilvist sína samstöðunni að þakka – án hennar yrðu þeir „litlir og aumir“, eins og einn sparisjóðsstjórinn orðaði það.145 Sparisjóðunum væri lífsnauðsynlegt að geta komið fram sem ein heild gagnvart stjórnvöldum, öðrum fjármálastofnunum og að einhverju leyti viðskiptavinum sínum. Í samstöðunni fælist mikill styrkur sem einstakir sparisjóðir nytu að endingu góðs af. Eins og hér hefur komið fram ríkti þó alls ekki fullur einhugur um þessi sjónarmið og komu andófsraddirnar ekki síst úr röðum stærstu sparisjóðanna.

Stórir og litlir sparisjóðir. Það segir sig sjálft að samkeppnissjónarmið eru þeim sterkustu sérlega hugleikin, en hugsjónir um samstarf og samvinnu þeim sem veikari eru. Þessi staðreynd tók á sig einkar skýra mynd í sögu sparisjóðanna á Íslandi á tímabilinu sem hér um ræðir. Stærstu sparisjóðirnir fjórir (eða fimm) voru allsráðandi innan SÍSP, áttu í reynd fastafulltrúa í stjórn og ætluðust til þess að minni sparisjóðirnir færu að vilja þeirra. Lengi vel var þó sá hængur á að atkvæðavægi á aðalfundum SÍSP var jafnt, hver sparisjóður fór með eitt atkvæði, óháð stærð, og því gátu smærri sparisjóðirnir í reynd knúið fram breytingar í krafti fjöldans. Í stefnumótunarstarfi SÍSP kom það sjónarmið stærri sparisjóðanna margoft fram að hinir minni mættu ekki fyrir nokkra muni nýta sér þetta úrræði sitt: „Daginn sem litlu sjóðirnir ætla að beygja stóru sjóðina í krafti atkvæðavægis brestur samstarfið“, eins og framkvæmdastjóri SÍSP orðaði það á einum stefnumótunarfundinum.146 Segja má að þessi dagur hafi runnið upp á aðalfundi SÍSP í október 2002, þegar reglunni um „einn sjóð, eitt atkvæði“ var beitt í því skyni að fella sitjandi formann, sem jafnframt var sparisjóðsstjóri stærsta sparisjóðsins (Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis), og kjósa í hans stað fulltrúa úr röðum smærri sparisjóða. Að vísu verður ekki fullyrt að þar hafi einfaldlega verið um að ræða bandalag hinna smáu gegn hinum stóru, því báðir frambjóðendurnir fengu atkvæði stærri og minni sparisjóða. Engu að síður skildi atvik þetta eftir sig djúp spor og olli því að Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis stóð utan stjórnar SÍSP, og vann í reynd gegn starfsemi sambandsins, á þriggja ára tímabili. Ekki greri um heilt fyrr en ákvæðið um jafnt atkvæðavægi á aðalfundum SÍSP var afnumið.

Persónulegur ágreiningur. Eins og hér hefur komið fram gekk forsvarsmönnum sparisjóðanna afar illa að ná saman um stefnu og framtíð sparisjóðanna, en þó töldu þeir sér ætíð skylt að halda áfram að leita sátta og fóru þá iðulega fögrum orðum um mikilvægi samstöðunnar og sparisjóðahugsjónarinnar. Þegar sagan af þessari viðleitni sparisjóðamanna er skoðuð er þó erfitt að verjast þeirri hugsun að ágreiningur um hagsmunamál og framtíð sparisjóðanna hafi litast af persónulegum ágreiningi manna á milli. Við skýrslutökur fyrir rannsóknarnefndinni kom þetta skýrt í ljós.

Mikilvægi ímyndarinnar. Á tímabilinu sem hér um ræðir nutu sparisjóðirnir lengst af mikillar velvildar viðskiptavina sinna og ímynd þeirra var öðrum fjármálafyrirtækjum öfundarefni. Þessari vegsemd fylgdi sá vandi að halda í þau miklu verðmæti sem fólgin voru í ímyndinni um leið og tekist var á við breyttar og æ þrengri aðstæður á markaði, sem iðulega kölluðu á tilraunir til breytinga á starfseminni og jafnvel á eðli sparisjóðanna. Verkefnið var með öðrum orðum í því fólgið að halda uppi ímyndinni um sparisjóðina sem aðhylltust gömlu gildin þótt þeir væru í raun nútímaleg fjármálafyrirtæki sem áttu margt eða jafnvel flest sameiginlegt með stóru viðskiptabönkunum (og fóru sumir að lokum sömu leið og þeir). Þetta vekur upp spurningar um það sem sparisjóðamenn kalla iðulega sparisjóðahugsjónina, inntak hennar og framtíð.

Vöxtur eða viðgangur. Þegar vinnan við stefnumótun sparisjóðanna hófst 1996 voru breytingar á rekstrarformi sparisjóðanna eitt stærsta viðfangsefnið, enda voru aðstæður á fjármálamarkaði að breytast. Umræðan snerist að miklu leyti um hlutafélagsformið sem vænlegustu leiðina til að tryggja sparisjóðunum vaxtarmöguleika, en á móti var því haldið fram að hlutafélagsvæðing yrði banabiti sparisjóðanna. Þarna var því tekist á um það hvort sparisjóðunum væri nauðugur einn kostur að vaxa (hratt) svo að þeir fengju staðist samkeppnina við bankana og önnur fjármálafyrirtæki, eða hvort þeim væri fært að sitja við sinn keip, halda í sitt gamla rekstrarform og tryggja þannig viðgang sinn (en ekki endilega vöxt). Undir niðri býr ágreiningur um eðli sparisjóðanna og rekstrargrundvöll þeirra, og svo virðist sem margir sparisjóðamenn hafi litið svo á að sparisjóður gæti ekki orðið að hlutafélagi án þess að fórna um leið því sem gerði hann að sparisjóði. Í þessu ljósi má líkja stöðu sparisjóðanna á þessu tímabili við umsátur þar sem tveir kostir blöstu við: að sækja fram og reyna að brjótast út úr herkvínni, en hætta með því á að blandast „óvininum“ og renna saman við hann, eða að láta fyrirberast og verjast eftir mætti í þeirri von að umsátrinu linnti eða í það minnsta að gert yrði hlé á því. Eftir situr spurningin um rekstrarform sparisjóðanna, hvort og þá hvernig það fái staðist við þær markaðsaðstæður sem nú eru uppi.

 


 

1 . Samband íslenskra sparisjóða: Aðalfundur 2011, bls. 13–14.

2 . Ræða Sigurðar Hafstein á aðalfundi SÍSP 20. október 2000.

3 . „Um SÍSP“, vefsafn.is, http://wayback.vefsafn.is/wayback/20120810000000/http://www.sparisjodirnir.is/category.aspx?catID=9.

4 . Þetta orðalag mátti finna í 16. gr. laga Sambands íslenskra sparisjóða, sjá t.d. ársskýrslu sambandsins sem lögð var fram á aðalfundi 2003. Lögunum var síðar breytt og skyldi kalla sparisjóðsstjóra og stjórnarmenn til fundar að minnsta kosti einu sinni á ári til að ræða brýn málefni sparisjóðanna hverju sinni.

5 . Í athugasemd til rannsóknarnefndarinnar 4. september 2013 benti Þór Gunnarsson á að hann hefði margsinnis reynt að formbinda starfsemi þriðjudagshópsins, m.a. með því að halda formlegar fundargerðir og leggja þær fyrir stjórn SÍSP. – Í athugasemd til rannsóknarnefndarinnar 13. september 2013 benti Hallgrímur Jónsson hins vegar á að fundir þriðjudagshópsins hefðu átt að vera óformlegir og óþarft að færa þá til bókar. Langt hefði verið á milli funda stjórnar SÍSP og oft hefði þurft að taka skjótar ákvarðanir.

6 . Skýrsla Guðmundar Haukssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina, 16. maí 2013.

7 . Samband íslenskra sparisjóða: Stefnumótun, fundargerð 7. nóvember [1997].

8 . Stefnumótun sparisjóðanna: Áfanganiðurstöður 7. nóvember 1997, bls. 7–16 (glærur 14–31).

9 . Samband íslenskra sparisjóða: Stefnumótun, fundargerð 7. nóvember [1997].

10 . Dótturfélög sparisjóðanna á þessum tíma voru Kaupþing, SP-fjármögnun hf. og Alþjóða líftryggingafélagið auk Sparisjóðabankans.

11 . Samband íslenskra sparisjóða: Stefnumótun, fundargerð 7. nóvember [1997].

12 . Samband íslenskra sparisjóða: Stefnumótun, fundargerð 28. nóvember [1997].

13 . Rétt er að taka fram að umræddar fundargerðir bera nokkur merki þess að hafa verið ritaðar með hraði og ekki hefur verið gengið endanlega frá þeim til samþykktar. Ef til vill væri því réttara að tala um drög að fundargerðum. Heimildagildi þeirra er þó ótvírætt.

14 . Stefnumótun sparisjóðanna: Áfanganiðurstöður og vinnurammi fyrir verkefnisstjórn. Vinnufundur Hótel Örk 22.–23. janúar 1998, glærukynning.

15 . Stefnumótun sparisjóðanna: Fundur Hótel Örk 21. [þ.e. 22.–23.] janúar 1998, fundargerðardrög.

16 . Í athugasemd til rannsóknarnefndarinnar 6. september 2013 benti Guðmundur Hauksson á að með þessu hefði hann átt við markaðssókn Sparisjóðs Hafnarfjarðar, sem hefði meðal annars beinst að viðskiptavinum Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, fremur en opnun afgreiðslna eða útibúa í borginni.

17 . Stefnumótun sparisjóðanna: Trúnaðarmál, Fundur 2, Hótel Örk 5. febrúar 1998.

18 . Stefnumótun sparisjóðanna: Vinnurammi fyrir verkefnisstjórn, vinnufundur nr. 2, Hótel Örk 5.–6. febrúar 1998.

19 . Stefnumótun sparisjóðanna: Trúnaðarmál, Fundur 2, Hótel Örk 5. febrúar 1998.

20 . Stefnumótun: Fundur 3, Hótel Örk 25. og 26. febrúar 1998.

21 . Bréf Jóhanns Magnússonar til Þórs Gunnarssonar 12. maí 1998.

22 . Magnús Sveinn Helgason, Íslenskt viðskiptalíf – breytingar og samspil við fjármálakerfið, Viðauki 5 við skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um fall íslensku bankanna, Reykjavík 2010, bls. 62.

23 . Í athugasemd til rannsóknarnefndarinnar 4. september 2013 benti Þór Gunnarsson á að hann hefði ekki talið það í sínum verkahring sem sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Hafnarfjarðar að taka ákvörðun um sölu hlutarins heldur hefði ákvörðunin átt að vera stjórnar sparisjóðsins.

24 . Skýrsla Guðmundar Haukssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina, 15. maí 2013.

25 . Skýrsla Sigurðar Hafstein fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina, 5. apríl 2013.

26 . Skýrsla Sigurðar Hafstein fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina, 5. apríl 2013.

27 . Skýrsla Hallgríms G. Jónssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina, 26. apríl 2013.

28 . Þór Gunnarsson, ræða á aðalfundi SÍSP október 1999.

29 . Sigurður Hafstein, ræða flutt á aðalfundi Sambands sparisjóða 8. október 1999.

30 . Rétt er að hafa í huga að um þessar mundir starfaði nefnd á vegum viðskiptaráðherra sem ætlað var að huga að stöðu og hlutverki sparisjóðanna á íslenskum fjármagnsmarkaði en í henni sátu m.a. Guðmundur Hauksson og Sigurður Hafstein. Nefndinni var síðar falið að semja frumvarp til laga sem heimilaði hlutafélagavæðingu sparisjóðanna (lög nr. 71/2001).

31 . Fundargerð stjórnar SÍSP – handskrifaðir minnispunktar fundarritara, 27. mars 2000.

32 . Stefnumótun Sparisjóðanna: Stjórnunarleg uppbygging – Fundur á Hótel Örk 8. til 9. maí 2000.

33 . Sjá nánari umfjöllun í kafla 5.3.4.

34 . Guðmundur Hauksson átti sæti í nefnd sem vann að breytingum á lögum um banka og sparisjóði sem urðu síðar að lögum nr. 71/2001. Með þeim lögum var m.a. heimilað að breyta rekstrarformi sparisjóðs í hlutafélag. Í athugasemd til rannsóknarnefndarinnar 6. september 2013 lagði Guðmundur Hauksson áherslu á að þessar breytingar hefðu haft það meginmarkmið að gera sparisjóðunum kleift að afla aukins eigin fjár og styrkja þannig stöðu sína á markaðnum, burtséð frá því hvort sparisjóðir kysu að starfa í óbreyttu rekstrarformi eða ekki. Guðmundur benti einnig á að forveri hans Baldvin Tryggvason hefði lýst áhyggjum sínum af vandkvæðum sparisjóða með að afla sér aukins eigin fjár allt frá árinu 1983.

35 . Skýrsla Guðmundar Haukssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina, 15. maí 2013; skýrsla Hallgríms G. Jónssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina, 26. apríl 2013.

36 . Samband íslenskra sparisjóða: Framtíðaráform og tillögur að nýju skipulagi á þjónustu sparisjóðanna og félaga í þeirra eigu, ódagsett glærukynning.

37 . Í athugasemd til rannsóknarnefndarinnar 4. september 2013 benti Þór Gunnarsson á að skýrslan hefði verið unnin að frumkvæði Guðmundar Haukssonar og án samþykkis fyrir fjárveitingu til hennar, en síðar hafi borist reikningur fyrir vinnunni upp á þriðja tug milljóna króna. Honum hafi sjálfum ekki verið kunnugt um þessi vinnubrögð fyrr en löngu síðar.

38 . Fyrir neðan þessi orð kemur eftirtektarverður punktur frá fundarritara: „Hér á ég að bóka mjög lítið, eitthvað pínulítið samt.“ Yfir þessi orð er slegið tveimur strikum.

39 . Sbr. t.d. skýrslur Sigurðar Hafstein og Hallgríms G. Jónssonar fyrir rannsóknarnefndinni.

40 . Skýrsla Guðmundar Haukssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina, 15. maí 2013.

41 . Hallgrímur Jónsson, Til sparisjóða landsins: Minnisblað vegna atburða í tengslum við ársfund Sparisjóðabanka Íslands hf. árið 2001, ódagsett.

42 . Geirmundur Kristinsson, Friðrik Friðriksson og Guðmundur Hauksson, Til sparisjóðsstjóra, 24. apríl 2001.

43 . „Bullandi átök um stjórn og stefnu Sparisjóðabankans“, Fréttablaðið 2. október 2001. – Með fréttinni birtist listi, sem þó var ekki tæmandi, yfir þá sparisjóði sem tilheyrðu hvorri fylkingunni um sig: „Í annarri fylkingunni, en í henni eru þeir sem eiga eignarhlut í Kaupþingi, eru sparisjóðir Reykjavíkur, Siglufjarðar, Mýrasýslu, Svarfdæla og Vestfjarða. Á lista þeirra eru Geirmundur Kristinsson, Friðrik Friðriksson, Guðmundur Hauksson og Gísli Kjartansson, Sparisjóði Mýrasýslu. Í hinni fylkingunni, en þeir hafa flestir selt hlut sinn í Kaupþingi, eru m.a. sparisjóðir Hafnarfjarðar, vélstjóra, Kópavogs, Hólahrepps, Þórshafnar, Ólafsvíkur, Norðlendinga, Hornafjarðar, Höfðhverfinga og Stranda“. Á þennan lista vantaði eftirtalda sparisjóði: Sparisjóð Bolungarvíkur, Sparisjóð Húnaþings og Stranda, Sparisjóð Norðfjarðar, Sparisjóð Ólafsfjarðar, Sparisjóð Suður-Þingeyinga, Sparisjóð Vestmannaeyja, Sparisjóð Kaupþings og nb.is – sparisjóð.

44 . Á hluthafafundinum gagnrýndi Guðmundur Hauksson stjórn bankans harðlega og lagði fram bókanir sínar á fundum bankaráðs sem ekki hefði verið sinnt, en þar fór hann m.a. fram á úttekt á skuldastöðu bankans.

45 . Bréf Guðmundar Haukssonar til sparisjóðsstjóra 12. febrúar 2001.

46 . Frjálsi fjárfestingarbankinn hf., Ársreikningur 2001, bls. 3.

47 . Guðmundur Hauksson, SÍSP aðalfundur 2001 haldinn á Akureyri 5. október 2001.

48 . Sjá nánari umfjöllun í kafla 5.3.2.

49 . Sjá kafla 5.3.4.

50 . Fundargerð stjórnar SÍSP 11. febrúar 2003.

51 . Stefnumótandi samstarf sparisjóðanna, glærukynning, 6. júní 2003.

52 . Stefnumótandi samstarf sparisjóðanna, glærukynning, 6. júní 2003.

53 . Fundargerð stjórnar SÍSP 2. október 2003.

54 . Handrit ræðunnar er að finna í skjalasafni SÍSP en hér er fylgt fundargerðardrögum sem skrifuð voru upp eftir hljóðupptöku, enda fara þau eðli málsins samkvæmt nær því sem raunverulega var sagt á fundinum.

55 . Ómerkt fundargerðardrög aðalfundar SÍSP 3. október 2003.

56 . Þróttmikið samstarf sparisjóðanna – höggvið á hnútinn, tillaga á aðalfundi SÍSP 3. október 2003 á Hótel Selfossi.

57 . Bréf Jóns G. Tómassonar og Guðmundar Haukssonar til sparisjóða á Íslandi 11. nóvember 2003.

58 . Ómerkt fundargerðardrög aðalfundar SÍSP 3. október 2003.

59 . Handskrifað minnisblað frá aðalfundi SÍSP 3. október 2003.

60 . Fundargerð stjórnar SÍSP 14. október 2003.

61 . Stefnumótun sparisjóðanna, ódagsett glærukynning.

62 . Fundargerð aukafundar Sambands íslenskra sparisjóða föstudaginn 14. nóvember 2003.

63 . Nánar er fjallað um bréfið í kafla 5.3.5.

64 . Til aukafundar Sambands íslenskra sparisjóða: Tillaga Sparisjóðsins í Keflavík.

65 . Fundargerð aukafundar Sambands íslenskra sparisjóða föstudaginn 14. nóvember 2003.

66 . Sjá kafla 5.3.3.

67 . Sigurður Hafstein, ræða flutt á aðalfundi Sambands sparisjóða 15. október 2004.

68 . Fundargerð fundar sparisjóðsstjóra og stjórnarformanna 16. ágúst 2005.

69 . Tillaga til breytinga á lögum SÍSP á aðalfundi 14. október 2005.

70 . Samband íslenskra sparisjóða: Aðalfundur 2006, bls. 50.

71 . Samband íslenskra sparisjóða: Aðalfundur 2006, bls. 4.

72 . Samband íslenskra sparisjóða: Aðalfundur 2006, bls. 4.

73 . Samband íslenskra sparisjóða: Aðalfundur 2006, bls. 5.

74 . Samband íslenskra sparisjóða: Aðalfundur 2006, bls. 14.

75 . Samband íslenskra sparisjóða: Aðalfundur 2006, bls. 14.

76 . Samband íslenskra sparisjóða: Aðalfundur 2006, bls. 14.

77 . Fyrirvarar SPRON vegna markaðsáætlunar sparisjóðanna 1999, minnisblað merkt „óh“, 7. desember 1998.

78 . Guðmundur Hauksson, SÍSP aðalfundur 2001 haldinn á Akureyri 5. október 2001.

79 . Fundargerð stjórnar SÍSP 17. sept. 2002. – Þess ber að geta að þessa frásögn af bókun Guðmundar er að finna í tölvutækri gerð fundargerðarinnar sem auðkennd er með orðinu „FYRRI“. Í endanlegri gerð fundargerðarinnar, þeirri sem lögð var fram til samþykktar á stjórnarfundi 2. október, hefur hún hins vegar verið fjarlægð.

80 . Sjá nánari umfjöllun í 4. kafla, um lagaumhverfi sparisjóðanna.

81 . Bréf Arnars Sigurmundssonar til stjórnar Sambands ísl. sparisjóða 15. október 2000.

82 . Í umfjöllun um fundinn er byggt á skjali merktu „Aðalfundur október 2002“ sem hefur að geyma uppskrift eftir hljóðupptöku af fundinum.

83 . Aðalfundur október 2002, fundargerðardrög.

84 . Sigurður Hafstein, aðalfundur 4. okt. 2002.

85 . Aðalfundur október 2002, fundargerðardrög.

86 . Bréf Sigurðar Hafstein til Guðmundar Haukssonar 31. janúar 2003.

87 . Bréf Jóns G. Tómassonar og Guðmundar Haukssonar til Sambands íslenskra sparisjóða 7. mars 2002.

88 . Bréf Sigurðar Hafstein til Guðmundar Haukssonar 11. júní 2003.

89 . Bréf Guðmundar Haukssonar til stjórnar SÍSP 4. júlí 2003.

90 . Bréf Sigurðar Hafstein til framkvæmdastjórnar SPRON 10. júlí 2003.

91 . Bréf Guðmundar Haukssonar til Sigurðar Hafstein 27. ágúst 2003.

92 . Fundargerð stjórnar SÍSP 29. september 2003.

93 . Fundargerð stjórnar SÍSP 2. október 2003.

94 . Ómerkt fundargerðardrög aðalfundar SÍSP 3. október 2003.

95 . Tölvuskeyti Ólafs Haraldssonar til Sæmundar Sæmundssonar 8. október 2003.

96 . Sjá kafla 5.2.7.

97 . Sjá t.d. bréf Jóns Kr. Sólnes til stjórnar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis 16. mars 2004.

98 . „Nútímavæðing sparisjóðaumhverfisins“, skoðun Viðskiptaráðs 8. ágúst 2007, http://www.vi.is/files/1460934193Spar4.pdf.

99 . Guðjón Guðmundsson, „Staða sparisjóðanna á Íslandi aldrei verið sterkari“, ódagsett minnisblað.

100 . Nútímavæðing sparisjóðanna, ódagsett minnisblað, höfundar ekki getið.

101 . „Morgunverðarfundur um stöðu sparisjóðanna“, vefsíða Viðskiptaráðs Íslands, http://www.vi.is/um-vi/frettir/nr/605.

102 . Sjá nánari umfjöllun í 4. kafla, um lagaumhverfi sparisjóða.

103 . Frá og með árinu 2000 var öryggissjóðurinn nefndur Tryggingasjóður sparisjóða en fram til þess hafði hann verið kallaður Tryggingarsjóður í samræmi við það sem gert var í lögum.

104 . Samþykktir fyrir Tryggingasjóð sparisjóða frá 10. mars 2000, sbr. auglýsingu nr. 16/2002 í B-deild Stjórnartíðinda.

105 . Samþykktir fyrir Tryggingasjóð sparisjóða 2. febrúar 2005.

106 . Samþykktir fyrir Tryggingasjóð sparisjóða 2. febrúar 2005.

107 . Bréf Tryggingasjóðs sparisjóða til allra sparisjóða 27. janúar 2005.

108 . Fundargerð stjórnar Tryggingasjóðs sparisjóða 9. nóvember 2001.

109 . Fundargerð frá sameiginlegum fundi stjórna Tryggingasjóðs sparisjóða, Sambands íslenskra sparisjóða og bankaráðs Sparisjóðabankans 23. nóvember 2001.

110 . Sbr. fundargerð stjórnar Sparisjóðabankans 26. nóvember 2001.

111 . Sparisjóður Vestfirðinga var stofnaður 28. apríl 2001 við sameiningu fjögurra sparisjóða á Vestfjörðum, þ.e. Sparisjóðs Súðavíkur, Sparisjóðs Önundarfjarðar, Sparisjóðs Þingeyrar og Eyrasparisjóðs á Patreksfirði. Sjá nánar 19. kafla.

112 . Valdimarsdómurinn svokallaði (dómur Hæstaréttar nr. 145/1998) féll í máli Valdimars Jóhannessonar gegn íslenska ríkinu 3. desember 1998 og fól í sér að 5. gr. laga nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða stangaðist á við jafnræðisreglur stjórnarskrár.

113 . Nánar er fjallað um Sparisjóð Hornafjarðar og nágrennis í 30. kafla.

114 . Sparisjóður Vestfirðinga var stofnaður snemma á árinu 2001.

115 . Fundargerð aðalfundar Tryggingasjóðs sparisjóða 15. október 2004; Samband íslenskra sparisjóða: Aðalfundur 2004.

116 . Sbr. skýrslu formanns stjórnar Tryggingasjóðs sparisjóða á aðalfundi sjóðsins 19. október 2007.

117 . Fundargerð stofnfjáreigendafundar í Sparisjóði Vestfirðinga 9. október 2007. Samkvæmt fundargerðinni urðu talsverðar umræður um breytingartillöguna. Þótt stjórnendur sparisjóðsins vildu hafa samráð við Tryggingasjóð um málið fóru umræðurnar fljótt út í það að Tryggingasjóður mundi hafa mikinn ávinning af því að taka þátt í stofnfjáraukningunni, ávinning sem annars yrði „eftir heima í héraði“. Í fundargerðinni er greint svo frá máli eins fundarmanna: „[Hann] sagði það til skammar ef T.S. ætlaði að haga sér eins og okurkarlar. Hann sagðist styðja [tillöguna] heilshugar og vill ekki að við látum troða á okkur.“ Þetta virðist hafa verið lýsandi fyrir andrúmsloftið á fundinum.

118 . Í skýrslu formanns stjórnar Tryggingasjóðs sparisjóða á aðalfundi sjóðsins 19. október 2007, þ.e. þremur dögum eftir þessa samþykkt, gerði hann grein fyrir þessu máli og sagði m.a.: „Stjórn Tryggingasjóðs var sannanlega vandi á höndum. Annars vegar stolt og réttlætiskennd sem hefði kallað á synjun erindis Sparisjóðs Vestfirðinga, óháð því hvaða afleiðingar það myndi hafa, hins vegar að sýna yfirvegun og skynsemi og samþykkja erindið og tryggja þannig þá miklu hagsmuni sem fólgnir eru í málinu fyrir sparisjóðinn. Eftir ýtarlegar umræður féllst stjórnin á ósk sparisjóðsins. – Það er hægt að hafa mörg orð um þennan makalausa gjörning stofnfjáreigenda Sparisjóðs Vestfirðinga og hvað hann felur í sér gagnvart Tryggingasjóði og öðrum sparisjóðum í landinu, sem sameiginlega eiga og bera ábyrgð á Tryggingasjóði. Ég ætla hins vegar ekki að fara út í slíkt nú, en þar sem þetta mál á sér ekkert fordæmi, taldi ég rétt að gera fundinum grein fyrir því.“

119 . Fundargerð stofnfjáreigendafundar í Sparisjóði Vestfirðinga 30. nóvember 2007.

120 . Fjallað er nánar um arðgreiðslur sparisjóðanna í 12. kafla og í köflunum um einstaka sparisjóði.

121 . Sbr. lög nr. 76/2009 um breyting á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, með síðari breytingum. Með 10. gr. þeirra laga var 68. gr. laga um fjármálafyrirtæki breytt og hljóðaði svo eftir breytinguna: „Aðalfundur sparisjóðs getur heimilað stjórn sparisjóðs að ráðstafa allt að 50% hagnaðar hans til hækkunar á nafnverði stofnfjár og arðgreiðslu til stofnfjáreigenda. Með hagnaði samkvæmt þessari grein er átt við hagnað eftir skatta samkvæmt samþykktum ársreikningi fyrir síðasta reikningsár. Aðalfundur má ekki ákveða að úthluta meiri arði en stjórn sparisjóðs leggur til eða samþykkir. – Heimild til ráðstöfunar hagnaðar skv. 1. mgr. er því aðeins fyrir hendi að um óráðstafað eigið fé sé að ræða í viðkomandi sparisjóði.“ Ákvæðið var síðar fellt brott með lögum nr. 77/2012, en frá og með þeim tíma gilda ákvæði laga nr. 2/1995, um hlutafélög, um ráðstöfun hagnaðar og arðgreiðslur hjá sparisjóðum, sbr. 62. og 66. gr. laga nr. 161/2002, þó með þeim takmörkunum sem greinir í 63. gr. laganna, en þar er sparisjóðum gert að ráðstafa að lágmarki 5% af hagnaði liðins árs fyrir skatt til samfélagslegra verkefna á starfssvæði sínu. Sjá nánari umfjöllun í 12. kafla.

122 . Þskj. 291, 138. löggjafarþing 2009-2010 (enn óbirt í A-deild Alþingistíðinda)

123 . Þskj. 268, 139. löggjafarþing 2010-2011 (enn óbirt í A-deild Alþingistíðinda)

124 . Sbr. fundargerð stjórnar Tryggingasjóðs sparisjóða 10. mars 2000.

125 . Sbr. fundargerð stjórnar Tryggingasjóðs sparisjóða 23. nóvember 2011.

126 . Tölvumiðstöð sparisjóðanna – Teris: Lausleg upprifjun á tilurð fyrirtækisins, samantekt Jóns Ragnars Höskuldssonar fyrir rannsóknarnefndina 25. september 2013.

127 . Samband íslenskra sparisjóða: Árbók 2004, bls. 18.

128 . Bréf Matthíasar Á. Mathiesen, Jóns Ragnars Höskuldssonar og Sigurðar Hafstein til allra sparisjóða 21. maí 1993.

129 . Tölvumiðstöð sparisjóðanna – Teris: Lausleg upprifjun á tilurð fyrirtækisins, samantekt Jóns Ragnars Höskuldssonar fyrir rannsóknarnefndina 25. september 2013.

130 . Samband íslenskra sparisjóða: Aðalfundur 2001.

131 . Samband íslenskra sparisjóða: Aðalfundur 2002.

132 . Samband íslenskra sparisjóða: Aðalfundur 2004, bls. 18.

133 . Samband íslenskra sparisjóða: Aðalfundur 2006, bls. 20–21.

134 . Í frétt Morgunblaðsins um nafnabreytinguna frá 23. mars 2007 segir: „Teris er afbrigði af forn-gríska karlmannsnafninu Eleutherios sem merkti frjáls og óháður. Í forn-grísku er til sagnorðið tereo sem þýðir vernda eða vaka yfir.“

135 . Samband íslenskra sparisjóða: Aðalfundur 2007, bls. 21.

136 . Samband íslenskra sparisjóða: Aðalfundur 2008, bls. 23.

137 . Samband íslenskra sparisjóða: Aðalfundur 2009, bls. 21.

138 . „Samruni Reiknistofu bankanna hf. og Teris heimilaður“, vefsíða Reiknistofu bankanna, http://www.rb.is/um-rb/frettir/nanar/item1994/Samruni_Reiknistofu_bankanna_hf__og_Teris_heimiladur.

139 . Þar að auki gegndi Gísli embætti markaðsstjóra SÍSP um árabil eins og hér hefur komið fram.

140 . Ræða stjórnarformanns Þórs Gunnarssonar á aðalfundi SÍSP 31. október 1997.

141 . Upplýsingar úr árbókum Sambands íslenskra sparisjóða 2001–2005.

142 . Samband íslenskra sparisjóða: Aðalfundur 2007, bls. 10.

143 . Samband íslenskra sparisjóða: Aðalfundur 2010, bls. 13.

144 . Samband íslenskra sparisjóða: Aðalfundur 2009, bls. 13.

145 . Stefnumótun sparisjóðanna: Fundur Hótel Örk 21. [þ.e. 22.–23.] janúar 1998, fundargerðardrög.

146 . Stefnumótun sparisjóðanna: Fundur Hótel Örk 21. [þ.e. 22.–23.] janúar 1998, fundargerðardrög.