7. kafli Fjármögnun bankanna
Efnisyfirlit
- 7.1 Inngangur
- 7.2 Almennt yfirlit 1999 til 2003 – tími vaxtar og breyttrar fjármögnunar
- 7.3 Fjármögnun með útgáfu skuldabréfa árin 2004 til 2008
- 7.4 Ályktanir rannsóknarnefndar Alþingis
- 7.5 Innlán stóru bankanna þriggja
- 7.6 Endurhverf viðskipti og sambærileg veðlán
- 7.7 Heildarskiptasamningur
- 7.8 Opnar lánalínur án "MAC"-ákvæða og laust fé
- 7.9 Ályktanir rannsóknarnefndar Alþingis
7.1 Inngangur
Í þessum kafla verður farið yfir fjármögnun Kaupþings banka hf., Landsbanka Íslands hf. og Glitnis banka hf. Ljóst er að aðgangur að erlendum fjármagnsmörkuðum opnaði bönkunum dyr sem áður höfðu verið lokaðar. Það er því nauðsynlegt að leggja mat á hvaða þátt opnir fjármagnsmarkaðir áttu í vexti bankanna á fyrri hluta þessa áratugar. Lokun þessara markaða að hluta eða öllu leyti átti síðan stóran þátt í þeirri lausafjárþurrð sem myndaðist í kerfinu.
Bankar fjármagna sig í grófum dráttum með innlánum, lántöku og eigin fé. Það er nokkuð mikil einföldun að líta eingöngu á þessa þrjá þætti því algengt er að innlán séu flokkuð í óbundin og bundin innlán. Lánum er skipt niður í skammtímalán og langtímalán og með eigin fé eru oft talin víkjandi langtímalán. Í þessum kafla verður vikið að öllum þessum formum í eins konar tímaröð. Áherslur í fjármögnun íslensku bankanna voru breytilegar á því tímabili sem umfjöllunin tekur til, þ.e. frá 1999 til 2008. Fyrr á árum fjármögnuðu innlendir bankar sig mest með innlendum innlánum og með erlendum sambankalánum sem yfirleitt byggðust á langtímaviðskiptasamböndum. Á þessu varð mikil breyting þegar bankarnir fengu greiðan aðgang að evrópskum skuldabréfamörkuðum í upphafi þessarar aldar. Undir lok tímabilsins, í kjölfar þess að lausafjárkreppan hófst um mitt ár 2007, jókst mikilvægi erlendra innlána og skammtímalána hjá seðlabönkum í fjármögnun bankanna. Hér verður fyrst dregin upp heildarmynd af fjármögnun bankanna og því næst verða skuldabréfaútgáfur erlendis reifaðar. Þá verður fjallað stuttlega um víkjandi langtímalán en þau voru leið bankanna til að mæta þörf fyrir erlent eigið fé. Með hliðsjón af lausafjárkreppunni verður svo vikið að innlánum, endurhverfum viðskiptum og opnum lánalínum. Almenn opinber gögn úr ársskýrslum og frá Seðlabanka Íslands eru nýtt við að draga upp heildarmyndina. Við ítarlegri greiningu á hverjum banka fyrir sig er stuðst við gögn frá bankanum sjálfum og almennt er þá litið á tímabilið frá 1. janúar 2004 og fram að falli bankanna. Einungis er stuðst við gögn frá móðurfélögum, nema annað sé tilgreint.
7.2 Almennt yfirlit 1999 til 2003 – tími vaxtar og breyttrar fjármögnunar
Á fimm ára tímabili, frá ársbyrjun 1999 til ársloka 2003, tæplega fjórfölduðust efnahagsreikningar Landsbankans, Kaupþings (Búnaðarbankinn er talinn með fram að sameiningu) og Glitnis. Eins og sést á mynd 1 fóru skuldir auk eigin fjár bankanna úr því að vera um 4,5 milljarðar evra árið 1998 í um 16 milljarða evra árið 2003.
Árlegur vöxtur bankanna á tímabilinu var að meðaltali rétt rúmlega 30%. Sameinaður efnahagsreikningur Kaupþings og Búnaðarbanka hafði nær fimmfaldast að stærð á tímabilinu á meðan Glitnir, sem hét Íslandsbanki á þessum tíma, hafði þrefaldast. Fjármögnun bankanna byggðist í vaxandi mæli á lántöku í stað innlána. Eins og sjá má á mynd 2 lækkaði hlutfall innlána í efnahagsreikningi bankanna úr 45% árið 1998 í 30% árið 2003.
Í stað innlána voru tekin lán hjá erlendum lánastofnunum og skuldabréfaútgáfa á erlendum mörkuðum jókst. Í upphafi árs 1998 var Fjárfestingarbanki atvinnulífsins (sem sameinaðist Íslandsbanka árið 2000) einn íslensku bankanna með lánshæfismat, en það hafði hann fengið árinu áður hjá Moody's matsfyrirtækinu. FBA var með A3 í einkunn eins og sjá má í töflu 1. Í febrúar árið 1999 undirritaði FBA fyrstur íslenskra banka rammasamning um útgáfu alþjóðlegra skuldabréfa í kauphöllinni í London, svokallaða EMTNútgáfu. Þetta var mikilvægt skref fyrir bankann enda tók FBA ekki við innlánum til að fjármagna starfsemi sína. Gaf bankinn samtals út skuldabréf á EMTN markaðnum sem námu 530 milljónum evra það árið, mest til fjárfesta í Evrópu og Japan. Eins og áður kemur fram sameinuðust FBA og Íslandsbanki um mitt ár 2000. Í kjölfar sameiningarinnar hækkaði Moody's lánshæfismat sameinaða bankans í A2, eins og sjá má í töflu 1.
Íslandsbanki/FBA (síðar Glitnir) gaf út skuldabréf til lengri tíma en eins árs fyrir um einn milljarð evra árið 2000. Í nóvember var meðal annars gefið út 355 milljóna evra skuldabréf til tveggja ára, sem var "stærsta skuldabréfaútgáfa sem íslenskur útgefandi" hafði staðið fyrir á alþjóðlegum markaði. Nokkurt bakslag kom í þessa útgáfu á árinu 2001 og 2002 vegna þeirrar efnahagslægðar sem þá gekk yfir heiminn. Útgáfan náði samt aftur um milljarði evra árið 2003.
Landsbankinn fékk lánshæfismatið A3 hjá Moody's í febrúar 1998. Fitch matsfyrirtækið mat síðan lánshæfi Landsbankans upp á A (sem er sambærilegt við A2 hjá Moody's) í apríl 2001. Landsbankinn fór hins vegar ekki að neinu marki út á evrópska skuldabréfamarkaðinn fyrr en árið 2003 þegar EMTN-skuldabréfarammi hans var aukinn í 1,5 milljarða dollara. Það árið gaf Landsbankinn út EMTN-skuldabréf fyrir um 850 milljónir evra til lengri tíma en eins árs.
Lánshæfi Búnaðarbankans var metið A3 hjá Moody's frá því í júní 1999. Árið 2002 gaf Búnaðarbankinn svo fyrst út skuldabréf á evrópska skuldabréfamarkaðnum, og nam sú útgáfa um 250 milljónum evra. Árið eftir þegar Búnaðarbankinn og Kaupþing banki sameinuðust gaf hinn nýi sameinaði banki út skuldabréf fyrir 750 milljónir evra á evrópska skuldabréfamarkaðnum. Árið 2003 höfðu þá stóru bankarnir þrír á Íslandi gefið út EMTN-skuldabréf fyrir upphæð sem nam um 2,6 milljörðum evra, eða rúmlega 25% af vergri landsframleiðslu þess árs. Þetta var samt lítið í samanburði við það sem á eftir kom. Nýtt tímabil var hafið þar sem bankarnir þrír höfðu nær ótakmarkaðan aðgang að erlendum skuldabréfamörkuðum.
7.3 Fjármögnun með útgáfu skuldabréfa árin 2004 til 2008
Vöxtur bankanna þriggja á árunum fyrir 2004 var hóflegur miðað við það sem síðar varð. Frá ársbyrjun 2004 til ársloka 2007 rúmlega sjöfaldaðist samanlagður efnahagsreikningur bankanna þriggja, sjá mynd 3. Nokkuð af þessu var til komið vegna sameiningar og yfirtöku, en almennur vöxtur var einnig mikill. Ef dregin er frá sú aukning sem varð vegna yfirtöku varð efnahagsreikningurinn rúmlega fjórfaldur. Þessi vöxtur var að miklu leyti fjármagnaður með aukinni skuldabréfaútgáfu erlendis.
7.3.1 Skuldabréfaútgáfa Landsbanka Íslands hf. erlendis
Landsbanki Íslands jók verulega útgáfu sína á skuldabréfum á EMTN-markaðnum árið 2004. Fyrir þann tíma gaf Landsbankinn mjög lítið út á þeim markaði og þau skuldabréf sem gefin voru út höfðu yfir 25 punkta vaxtaálag ofan á viðmiðunarvexti. Mynd 4 sýnir útgáfu Landsbanka Íslands á skuldabréfum erlendis til lengri tíma en eins árs frá árinu 2000 fram til ársins 2008, flokkaða eftir skuldabréfamörkuðum.
Þar sést að árið 2004 gaf Landsbankinn út skuldabréf fyrir um 1,6 milljarða evra á EMTN-markaðnum. Nokkur hluti þessarar fjármögnunar var til fimm ára. Meðalálag fyrir þriggja ára lán var um 20 punktar yfir LIBOR/EURIBOR, eins og sjá má á mynd 5 sem sýnir vaxtaálag á skuldabréfaútgáfum Landsbanka Íslands frá árinu 2004 fram á mitt ár 2007. Fimm ára skuldabréfin voru nær því að vera 28 punktum yfir LIBOR/EURIBOR, sjá mynd 6. Ári síðar, eða árið 2005, gaf Landsbankinn út skuldabréf fyrir um fjóra milljarða evra á EMTN-markaðnum. Meðalálag á þriggja ára skuldabréf var þá rúmlega 15 punktar yfir LIBOR/EURIBOR, sjá mynd 5, en álag á fimm ára skuldabréf var um 22 punktar yfir viðmiðunarvöxtum (sjá mynd 6). Þessi 5 ára bréf voru einstaklega hagkvæmur fjármögnunarkostur, enda nýtti bankinn tækifærið og gaf út bréf fyrir rúmlega einn milljarð evra til fimm ára, sem lengdi meðallíftíma fjármögnunar (e. duration) Landsbankans. Undir lok árs 2005 mátti byrja að greina aukinn óróleika á mörkuðum og reyndist fjármögnun árið 2006 öllu erfiðari.
Þann 21. febrúar 2006 tilkynnti matsfyrirtækið Fitch um neikvæðar horfur fyrir lánshæfiseinkunn ríkissjóðs Íslands. Fyrr í þeim mánuði höfðu formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands, Davíð Oddsson, og framkvæmdastjóri alþjóða- og markaðssviðs Seðlabankans, Sturla Pálsson, orðið varir við neikvæðni í garð Íslands og íslensku bankanna í ferð sinni til London. Í minnisblaði Davíðs Oddssonar af fundum þeirra með matsfyrirtækjum í London kemur fram að á fundi 14. febrúar hafi matsfyrirtækið Fitch lýst "áhyggjum þeirra af stöðu mála á Íslandi. Helst stingur í augu vaxandi útlánaaukning bankakerfisins sem er fjármögnuð að miklu leyti með erlendri skuldasöfnun". Á fundi með JP Morgan sama dag mátti skilja "[...] að hættan á því að markaðurinn loki á íslensku bankana sé raunveruleg". Í kjölfar tilkynningar Fitch um neikvæðar horfur fyrir lánshæfiseinkunn ríkissjóðs fylgdu nokkrar neikvæðar matsskýrslur um bankana, meðal annars frá Merrill Lynch og Danske Bank.
Þetta ár, 2006, gaf Landsbankinn út skuldabréf fyrir 2,7 milljarða evra. Útgáfa á EMTN-markaði minnkaði verulega, úr 3,6 milljörðum evra árið 2005 í einungis rúmlega 700 milljónir evra. Í stað útgáfu á evrópskum skuldabréfamörkuðum gaf bankinn út skuldabréf fyrir verulegar fjárhæðir á US 144A MTN markaðnum (USMTN), eða 1,5 milljarða evra. Áður en Fitch sendi út tilkynningu sína náði Landsbankinn að gefa út nokkrar minni útgáfur af EMTN-skuldabréfum þar sem þriggja ára bréf voru með um 15 punkta vaxtaálagi. Seinna á árinu komu tvær stórar útgáfur á USMTN-markaðnum, annars vegar þriggja ára skuldabréf með 70 punkta álagi og hins vegar fimm ára bréf með 85 punkta álagi, eins og sjá má á myndum 5 og 6.
Á þessum tíma var ljóst að aðgengi Landsbankans að fjármagni hafði breyst mikið. Evrópski skuldabréfamarkaðurinn sem hafði opnast svo mjög árið 2004 var nú meira eða minna lokaður og vaxtaálagið orðið mun hærra. Þetta var raunin þrátt fyrir að Fitch hefði staðfest A2 lánshæfismat sitt á Landsbankanum í apríl 2006, sjá töflu 1. Árið 2007 lagði Landsbankinn megináherslu á aðra fjármögnun en skuldabréfaútgáfu, enda gaf móðurfélagið út bréf fyrir minna en einn milljarð evra það ár. Á sama tíma greiddi það upp rúma tvo milljarða af lánum, eins og sjá má á mynd 7 sem sýnir skuldabréfaútgáfu og endurgreiðslur á erlendum skuldabréfum frá árinu 2004 til 2010. Í febrúar 2007 hækkaði matsfyrirtækið Moody's lánshæfismat allra íslensku bankanna upp í hæstu mögulega einkunn, Aaa, á grundvelli þess að bankarnir væru kerfislega mikilvægir og þess væri vænst að ríkið kæmi þeim til aðstoðar ef illa færi. Þessi ákvörðun var gagnrýnd af mörgum, enda þótti hún í miklu ósamræmi við skuldabréfamarkaðinn á þessum tíma. Þrátt fyrir að lánshæfismati margra banka væri breytt í Aaa þennan dag voru íslensku bankarnir í sviðsljósinu enda var hækkunin einna mest hjá þeim. Í grein frá Reuters er haft eftir sérfræðingi frá Royal Bank of Scotland: "While defaults in European banking have not exactly been legion in recent years, creating Aaa-rated banks across the board essentially means that there is no risk in investing in financials, that buying a senior Kaupthing bond, for example, is effectively risk-free, the same as Gilts or Bunds, they wrote. It is plainly not." Hlutabréfaverð í Moody's féll um tæplega 6% þennan dag. Í apríl var matinu aftur breytt í Aa3 fyrir alla íslensku bankana sem var tveimur stigum fyrir ofan lánshæfismatið sem Landsbankinn var með í byrjun ársins. Athyglisvert er að Landsbankinn hvorki jók skuldabréfaútgáfu sína né náði augljóslega betri kjörum á þeim sex vikum sem lánshæfismat Moody's stóð í hæstu einkunn, en það bendir til þess að fjármagnsmarkaðir hafi tekið lítið mark á því mati.
Meiri hluti þeirra skuldabréfa sem Landsbankinn gaf út árið 2007 var í einni hálfs milljarðs evra útgáfu til fimm ára. Þessi skuldabréf voru einungis með 26 punkta álag yfir EURIBOR enda voru þau gefin út í maí áður en lausafjárkreppan skall á af einhverjum þunga. Skuldatryggingarálagið hafði verið að lækka jafnt og þétt frá því um vorið 2006, þá sérstaklega álag Landsbankans eins og sjá má á mynd 8. Þetta átti eftir að breytast þegar líða tók á árið 2007 þegar fjármálakreppa hófst um allan heim eins og rakið hefur verið áður hér í skýrslunni.
Skuldatryggingarálag íslensku bankanna byrjaði að hækka verulega seinni hluta árs 2007, eins og fram kemur á mynd 8, og hafði það mikil áhrif á skuldabréfaútgáfu Landsbankans sem gaf einungis út bréf í eigin umsjón seinni hluta árs. Árið 2008 gaf Landsbankinn aðeins út erlend skuldabréf fyrir tæpan milljarð og var stór hluti þeirra í eigin umsjón. Eina stóra útgáfan í erlendri umsjón voru skuldabréf með breytilegum vöxtum (e. FRN, floating rate note) fyrir 200 milljónir evra með 350 punkta vaxtaálagi sem gefin voru út í apríl. Í sama mánuði gaf Landsbankinn einnig út bréf fyrir 500 milljónir evra í eigin umsjón en 425 milljónir af þeirri upphæð enduðu í Kaupþingi í Lúxemborg og síðan í endurhverfum viðskiptum, fyrst í Seðlabanka Lúxemborgar og síðar í Seðlabanka Íslands (sjá nánari umræðu um endurhverf viðskipti síðar í kaflanum).Við fall bankans voru um sjö milljarðar evra útistandandi á skuldabréfamörkuðum. Endurgreiðslur fyrstu mánuðina eftir fall voru lágar að undanskildum gjalddaga í mars 2009 þegar greiða þurfti um 750 milljónir evra. Stórir gjalddagar voru síðan aftur í ágúst og desember 2009. Samtals hefði Landsbankinn þurft að endurfjármagna um tvo milljarða evra fram til ársloka 2009, eins og sjá má á mynd 9 sem sýnir gjalddaga erlendra skuldabréfa Landsbanka Íslands frá falli bankans í október 2008 fram til loka árs 2009.
7.3.2 Skuldabréfaútgáfa Glitnis hf. erlendis
Árið 2000 gaf Glitnir út skuldabréf fyrir um einn milljarð evra á EMTN- markaðnum og var þar mun stórtækari en áður enda hafði bankinn nýlega hlotið lánshæfismatið A2 (sjá töflu 1).Vegna þrenginga á alþjóðamörkuðum árin eftir aldamótin hófst sókn Glitnis á erlenda fjármagnsmarkaði ekki af alvöru fyrr en árið 2004 þegar Glitnir sótti um 2,5 milljarða evra á erlenda skuldabréfamarkaði, eins og mynd 10 sýnir.
Langstærstur hluti þessarar upphæðar fékkst með útgáfu skuldabréfa á EMTN-markaðnum, eða rúmir tveir milljarðar evra. Ríflega helmingurinn af þeirri upphæð var til þriggja ára en um 700 milljónir evra voru til fimm ára eða lengur. Árið 2005 var enn eitt metár en þá tók Glitnir yfir BN bankann í Noregi. Glitnir gaf það ár út skuldabréf fyrir um fjóra milljarða evra á EMTN-markaðnum og síðan fyrir annan milljarð evra samtals á norska skuldabréfamarkaðnum og þeim ástralska. Ríflega helmingurinn af þessum bréfum var til fimm ára eða lengur og jók þetta því nokkuð meðallíftíma skuldbindinga Glitnis sem var við lok árs 2005 um fjögur og hálft ár, eins og fram kemur á mynd 11.
Árið 2006 byrjaði ekki vel hjá neinum íslenskum banka og var Glitnir þar engin undantekning. Ljóst var að evrópski skuldabréfamarkaðurinn var mun þyngri í vöfum en árið áður. Þetta ár gaf Glitnir út skuldabréf fyrir um 2,5 milljarða evra á þeim markaði en hóf svo útrás á nýjan markað, Bandaríkin. Í júlí gaf Glitnir út fimm ára skuldabréf í dollurum með yfir 80 punkta vaxtaálagi yfir LIBOR. Það var mjög svipað álag og Landsbankinn og Kaupþing voru að greiða á sama tíma. Árið 2007 jók Glitnir aftur erlenda skuldabréfaútgáfu sína og munaði þar mest um útgáfu á Bandaríkjamarkaði eins og sjá má á mynd 12, þar sem útgáfa skuldabréfa erlendis og afborganir af erlendum skuldabréfum á árunum 2003 til 2009 eru sýndar. Gefin voru út skuldabréf fyrir tvo milljarða evra á EMTNmarkaðnum og aðra tvo milljarða á USMTN-markaðnum. Mesta breytingin hér miðað við árin áður var sú að afborganir voru að þyngjast umtalsvert og þurfti Glitnir að greiða um tvo milljarða evra á árinu. Nettó fjármögnun Glitnis var því um tveir milljarðar sem var minna en árin tvö á undan (sjá línu í mynd 12). Þrátt fyrir hökt á fjármagnsmörkuðum náði Glitnir að gefa út skuldabréf fyrir tæplega 700 milljónir evra í september 2007 til fimm ára en það reyndist síðasta stóra langtímaútgáfa bankans. Árið 2008 hófst illa svo ekki sé meira sagt. Glitnir áformaði að gefa út skuldabréf erlendis í upphafi árs 2008 og sendi í því augnamiði starfsmenn sína til að kanna markaðinn bæði í Evrópu og Bandaríkjunum. Slíkar ferðir höfðu verið farnar reglulega í upphafi árs. Áform um útgáfu urðu að engu þegar ljóst var að áhugi fjárfesta var enginn og má ætla að nauðasamningar Gnúps fjárfestingafélags ehf. 8. janúar hafi ekki bætt úr skák. Lokun Gnúps og nauðasamningar við bankana vöktu verulega athygli erlendis og þá sérstaklega sem dæmi um krosseignatengsl á Íslandi og hversu mikið ytra ójafnvægi var orðið hér (sjá nánar um Gnúp fjárfestingafélag ehf. í rammagrein 1). Í frétt Reuters 9. janúar 2008 sagði Lars Christensen frá Danske Bank: "What worries the market is, among other things, the large extent of cross-ownership among the Icelandic players." Í framhaldinu tvöfaldaðist skuldatryggingarálag Glitnis í janúar úr 200 punktum í 400 punkta. Árið 2008 gaf Glitnir einungis út skuldabréf erlendis fyrir rétt rúmlega 300 milljónir evra á sama tíma og tveir milljarðar evra voru á gjalddaga og því ljóst að töluverðu munaði að endar næðu saman. Af þessum 300 milljónum keypti Landsbanki Íslands 250 til að nota í endurhverfum viðskiptum í Seðlabanka Lúxemborgar (sjá nánari umfjöllun um endurhverf viðskipti í kafla 7.6).
Afborganir voru nokkuð miklar í upphafi árs 2008 en það var orðið ljóst að endurgreiðslur skuldabréfa sem voru á gjalddaga í október yrðu erfiður hjalli að komast yfir. Samtals var þar um að ræða um 750 milljónir evra, eins og fram kemur á mynd 14. Þar af var stærsti hlutinn, 750 milljónir dollara (um 510 milljónir evra), á gjalddaga 15. október en af þeirri skuldabréfaútgáfu hafði Glitnir þegar keypt til baka um þriðjung svo einungis þurfti að greiða 500 milljónir dollara (um 340 milljónir evra). Að meðtöldum öðrum gjalddögum þurfti Glitnir því að reiða fram nettó um 550 milljónir evra í október 2008. Þetta hafði afdrifaríkar afleiðingar. Mynd 14 sýnir einnig þær greiðslur sem framundan voru hjá Glitni eftir október 2008. Ber þar hæst gjalddaga í mars 2009 þegar greiða átti samtals yfir 800 milljónir evra. Á fyrsta ársfjórðungi 2009 voru um 1,2 milljarðar evra á gjalddaga hjá Glitni og samtals þurfti Glitnir að endurfjármagna 1,8 milljarða evra allt árið 2009. Miðað við að flestum bar saman um að fjármagnsmarkaðir myndu verða lokaðir eitthvað fram eftir ári 2009 var útlit til endurfjármögnunar þessara skuldabréfa vægast sagt svart.
7.3.3 Skuldabréfaútgáfa Kaupþings hf. erlendis
Árið 2003, þegar Kaupþing banki sameinaðist Búnaðarbankanum, jókst skuldabréfaútgáfa samstæðunnar á erlendum skuldabréfamörkuðum umtalsvert. Samkvæmt ársreikningi gaf bankinn út skuldabréf í tveimur stórum útgáfum á EMTN-markaðnum, samtals að upphæð 750 milljónir evra. Árið 2004 þrefölduðust því sem næst eignir Kaupþings banka, að stærstum hluta til vegna yfirtöku hans á danska FIH bankanum, en sú yfirtaka var um 80% af heildareignaaukningunni. Á árinu gaf bankinn út skuldabréf fyrir tæplega þrjá milljarða evra á EMTN-markaðnum eins og sjá má á mynd 15 sem sýnir árlega skuldabréfaútgáfu Kaupþings erlendis til lengri tíma en eins árs.
Meðalálagið fyrir þriggja ára bréf var einungis um 17 punktar á en fimm ára bréf voru með um 21 punkts álagi og virðist vaxtaálagið hafa minnkað þegar líða tók á árið 2004. Í upphafi árs 2005 var Kaupþing að gefa út skuldabréf til þriggja ára með 20 punkta álagi sem var svo komið undir 15 punkta í lok ársins. Árið 2005 gaf Kaupþing út skuldabréf fyrir meira en sex milljarða evra á erlendum mörkuðum og var ávöxtunarkrafan í algjöru lágmarki, einungis rétt rúmlega 9,5 punkta álag á þriggja ára skuldabréf og 15 punkta á fimm ára skuldabréf. Eins og hjá hinum íslensku bönkunum átti mikið eftir að breytast árið 2006. Það ár gaf Kaupþing út bréf fyrir um 5,5 milljarða evra. Samsetning útgáfunnar hafði breyst mjög mikið frá fyrra ári enda voru bréf fyrir um 3,7 milljarða evra nú gefin út í Bandaríkjunum á USMTN-markaðnum, mest í október, sjá mynd 16.
Vaxtaálagið var mjög breytilegt innan ársins, á þriggja ára skuldabréfum var það um 17 punktar fyrri hluta árs en tæplega 75 punktar seinni hluta ársins. Eins fór fimm ára vaxtaálagið úr um 20 punktum upp í 80 punkta. Myndir 17 og 18 sýna vaxtaálagið á erlendum skuldabréfaútgáfum Kaupþings á árunum 2004–2008, stærð kúlnanna endurspeglar nafnverð útgáfunnar.
Árið 2007 reyndist einnig erfitt og gaf Kaupþing einungis út skuldabréf fyrir um fjóra milljarða evra en ekkert af því var gefið út á Bandaríkjamarkaði. Vaxtaálagið lækkaði nokkuð fyrri hluta ársins en hækkaði svo skyndilega þegar lausafjárkreppan hófst um haustið og var komið vel yfir 100 punkta í lok ársins. Á árinu 2008 var enn minna gefið út, einungis fyrir rétt rúmlega tvo milljarða evra, sem var samt meira en nam afborgunum það árið.Vaxtaálagið var hins vegar orðið verulega hátt, yfir 300 punktar fyrir þriggja ára bréf og um 500 punktar fyrir fimm ára bréf. Það er líka vert að minnast á að af þessum rúmum tveimur milljörðum gaf Kaupþing út bréf fyrir um 500 milljónir evra í apríl en þau bréf tók Landsbankinn til að fara með í endurhverf viðskipti við Seðlabankann í Lúxemborg. Nánar verður rætt um þetta í kafla 7.6 um endurhverf viðskipti. Þegar Kaupþing féll í október 2008 voru afborganir hans á næstu mánuðum nokkuð viðráðanlegar en stór gjalddagi var þó í maí 2009 þegar greiða þurfti um 800 milljónir evra. Samtals þurfti Kaupþing að endurfjármagna rúma þrjá milljarða evra árið 2009 og þá eru ekki taldar með tæpar 400 milljónir evra sem voru á gjalddaga síðasta ársfjórðung ársins 2008, sjá mynd 19.
7.3.4 Greiðslubyrði vegna erlendu skuldabréfanna
Næstu 15 mánuðina eftir fall bankanna voru samtals um 8,5 milljarðar evra á gjalddaga hjá bönkunum þremur. Ein þyngsta greiðslan var í mars 2009, en eins og áður hefur komið fram voru mjög háar endurgreiðslur skuldabréfa á gjalddaga hjá Glitni þann mánuð, um 800 milljónir evra. Því til viðbótar voru endurgreiðslur Landsbankans vegna bréfa á gjalddaga í mars sem námu um 700 milljónum evra. Samtals námu endurgreiðslur í mars tæpum tveimur milljörðum evra, eins og fram kemur á mynd 20 sem sýnir heildarafborganir bankanna þriggja fyrstu mánuðina eftir fall þeirra.Auk stóra gjalddagans í mars voru stór lán á gjalddaga í desember 2009,um 1,3 milljarðar evra. Ljóst er af þessum tölum að árið 2009 hefði orðið mjög þungt fyrir bankana vegna fyrirsjáanlegra endurgreiðslna.Til að endurfjármagna þessi lán hefði þurft upphæð sem jafngilti vel rúmlega helmingi landsframleiðslu, jafnvel þó að gengið hefði haldist óbreytt miðað við 25. september 2008. Útistandandi skuldabréf á móðurfélög bankanna voru samtals um 35 milljarðar evra við fall þeirra.
7.3.5 Skuldatryggingamarkaðurinn og lánshæfistengd skuldabréf
Eins og áður er nefnt dvínuðu tækifæri íslensku bankanna til útgáfu á evrópska skuldabréfamarkaðnum í upphafi árs 2006. Bankarnir þurftu þá að greiða mun hærra vaxtaálag en aðrar evrópskar fjármálastofnanir í sama áhættuhópi, samanber skýrslu Merrill Lynch frá 7. mars 2006 þar sem tekið er fram að íslensku bankarnir borgi sambærilegt vaxtaálag og bankastofnanir í nýmarkaðsríkjum (e. emerging markets), eða um 50 punkta yfir álagi hjá sambærilegum evrópskum bönkum. Fóru þá allir bankarnir að leita inn á nýja markaði og tókst Landsbankanum og Kaupþingi að komast inn á Bandaríkjamarkað strax það sama ár. Náðu þeir að gefa út skuldabréf fyrir samtals rúmlega fimm milljarða evra en álagið var hátt eða um 80 punktar.
Þetta álag endurspeglaði vel það skuldatryggingarálag (CDS) sem var á bönkunum á þessum tíma en það var hátt miðað við lánshæfismat þeirra (sjá almenna umfjöllun um skuldatryggingarálag í rammagrein). Þetta varð til þess að skuldabréf bankanna urðu "ódýr" leið til að hækka meðaleinkunn skuldavafninga (CDO's). Eins og Sturla Pálsson, framkvæmdastjóri alþjóða- og markaðssviðs Seðlabankans, orðaði það: "[Í]slensku bankarnir eru ódýrasta kreditið í sinni rating-kategoríu", það er, þeir borga hæstu vextina miðað við lánshæfismat. Sigurjón Þ. Árnason, bankastjóri Landsbankans, vildi þó ekki meina að munurinn hefði verið svo mikill heldur að "það [munaði] bara einhverjum tveim, þrem punktum og í gamla daga þá lifði þessi markaður einn, tveir, þrír punktar". Samkvæmt skýrslu fyrrum starfsmanns Merrill Lynch, Jóns Jónssonar, voru almenn (senior) skuldabréf Kaupþings og Landsbankans með 30–50 punkta álag yfir meðalálagi á banka í sama áhættuflokki í lok árs 2006. Hvað sem því líður þá bendir allt til þess að skuldabréf íslensku bankanna hafi verið mikið notuð í skuldavafninga. Haft var til dæmis eftir yfirmanni (Credit Derivative and Structured Credit) hjá Morgan Stanley í frétt hjá Reuters að skuldabréf frá íslensku bönkunum hefðu verið í hundruðum skuldavafninga. Líklegt er að þetta hafi haft áhrif á skuldatryggingamarkaðinn sem byrjaði að sýna ýmis merki þess að fólk teldi að ekki væri allt með felldu hjá íslensku bönkunum.
Í febrúar 2006 fóru íslenskir bankamenn í auknum mæli að beina sjónum að skuldatryggingarálagi enda hafði það þá þegar hækkað nokkuð fyrir íslensku bankana og var eins og áður kemur fram ekki í samræmi við skuldatryggingarálag annarra fjármálastofnana í sama áhættuflokki. Skuldatryggingarálag fór þó lækkandi þegar líða tók á árið 2006 og hélt áfram að lækka fram á mitt ár 2007. Í júlí það ár hófst svo lausafjárkreppan og fór þá skuldatryggingarálag íslensku bankanna ört hækkandi. Í lok árs 2007 hafði skuldatryggingarálag Landsbankans hækkað um tæplega 100 punkta, Glitnis um 170 punkta og álag Kaupþings hafði hækkað um 240 punkta á árinu. Líklega hafði þar meðal annars áhrif væntanleg yfirtaka Kaupþings á hollenska bankanum NIBC en vitað var að undirmálslánaáhætta bankans var mikil. Við fall Gnúps fjárfestingafélags 9. janúar 2008 hækkaði skuldatryggingarálag enn frekar og var Kaupþing þá komið upp í um 400 punkta álag. Samkvæmt skýrslu Frederic S. Mishkin og Tryggva Þ. Herbertssonar var mat markaðarins, miðað við ákveðnar forsendur, að það væru 100% líkur á fjármálakreppu þegar skuldatryggingarálag færi í 500 punkta. Í mars fór svo skuldatryggingarálag Glitnis og Kaupþings yfir 900 punkta sem aftur gaf til kynna að skuldatryggingamarkaðurinn mat líkurnar á greiðsluþroti hvors banka um 50%. Bankastjórar íslensku bankanna voru almennt sammála um að skuldatryggingarálagið gæfi ranga mynd af stöðu bankanna. Í mars 2008 tjáði Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri Kaupþings, sig um þetta í ræðu á fundi Íslenskameríska verslunarráðsins í New York. Sagði hann "[s]kuldatryggingarálag bankanna gefa ranga mynd af stöðu þeirra". Jafnframt sagði hann að tilraunir Kaupþings til að kaupa Kaupþingsbréf á þessum kjörum hefðu ekki gengið. Forsvarsmenn þjóðarinnar virtust einnig vera á sama máli, sbr. viðtal við Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sem birtist 4. mars 2008 í The Financial Times. Þar sagði hann:"The CDS spreads are totally out of line and not justified given the fundamental situation of the banks." Jónas Fr. Jónsson, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, sagði í ræðu 10. apríl 2008: "Eins og ég vék að áðan er svokallað skuldatryggingarálag íslensku bankanna langt fyrir utan öll skynsemismörk. Ég er ekki einn um þá skoðun, en matsfyrirtækið Moody's sagði í áliti sínu í gær að "núverandi skuldatryggingarálag ýkti á ósanngjarnan hátt íslenska skuldaraáhættu". Svipaðar skoðanir hafa komið frá öðrum marktækum greiningaraðilum svo sem fyrirtækinu Credit Sights. Að mínu mati eru orsakir þessa háa álags sálræn, tæknileg og hátternisbundin. Það sem um er að ræða er almenn áhættufælni á alþjóðamörkuðum, tæknilegir ágallar á óskipulegum og grunnum markaði og afleiðing illskeyttrar umræðu um bankana og íslenskt efnahagslíf."
Þetta hafa viðmælendur rannsóknarnefndar Alþingis tekið undir nú eftir fall bankanna. Sigurður Einarsson, starfandi stjórnarformaður Kaupþings, sagði að veltan á þessum mörkuðum hefði verið stopul og að einstök viðskipti hefðu getað haft mikil áhrif á markaðinn. Jafnframt að þar sem þetta hefði verið skjámarkaður hefði verð getað hækkað án þess að viðskipti stæðu þar að baki. Sigurjón Þ. Árnason taldi að uppsveiflan á skuldatryggingarálaginu í mars 2008 hefði verið árás, enda hefði upphaf markaðar með skuldatryggingar á íslenska banka verið krafa fjárfesta um að geta skortselt í þeim.
Árið 2006 voru skuldatryggingar í Kaupþingi og Landsbanka á lista yfir skuldatryggingar vegna 25 lögaðila sem mest velta var með hjá iTraxxEurope.Við fall bankanna námu útistandandi skuldatryggingarsamningar samtals meira en 70 milljörðum dollara, nettó voru þeir tæplega átta milljarðar dollara, sjá mynd 24.Til samanburðar voru útistandandi skuldatryggingarsamningar við Lehman við fall hans 72 milljarðar dollara, nettó um 21 milljarður dollara. Skuldabréf á móðurfélög bankanna við fall voru um 35 milljarðar evra eða rúmir 50 milljarðar dollara eins og fram kemur í kaflanum hér á undan.
7.3.6 Lánshæfistengd skuldabréf
Allir þrír bankarnir fóru í einhverjum mæli inn á markaðinn fyrir lánshæfistengd skuldabréf (credit linked notes) en sá markaður er nátengdur skuldatryggingamarkaðnum (sjá almenna umfjöllun um lánshæfistengd skuldabréf í rammagrein). Þetta var væntanlega gert til að gera útvöldum viðskiptavinum kleift að nýta sér jákvæðan punktamun (e. basis) vegna hárra skuldatrygginga. Það er mögulegt að hagnast á því ef skuldatrygginga- og skuldabréfamarkaðir eru ekki samstíga. Punktamunur er skilgreindur sem mismunurinn á skuldatryggingarálagi og skuldaálagi.
CDS punktamunur = Skuldatryggingarálag mínus Vaxtaálag á skuldabréf
Ef punktamunurinn er neikvæður, þ.e. vaxtaálag á skuldabréf er hærra en skuldatryggingarálag, geta fjárfestar samtímis keypt skuldabréf og skuldatryggingu og notið jákvæðs vaxtamunar án nokkurrar áhættu. En eins og fram kemur hér að ofan töldu forsvarsmenn bankanna að þessu væri öfugt farið, það er að skuldatryggingarálag væri hærra en vaxtaálag á skuldabréf.Við slíkar aðstæður eru minni tækifæri til að hagnast án áhættu þar sem erfitt er að skortselja skuldabréfin. Bankarnir fóru því þá leið að gera ákveðnum viðskiptavinum sínum kleift að selja skuldatryggingar og þá yfirleitt með lánum frá bönkunum sem jafngildir skortsölu á skuldabréfum bankanna.
Hér verður fjallað um aðkomu hvers banka fyrir sig að markaði með lánshæfistengd skuldabréf.
7.3.6.1 Landsbankinn
Landsbankinn var milliliður og kom á viðskiptum milli viðskiptavina sinna og UBS AG, Jersey Branch. Samningurinn sem dagsettur er 25. mars 2008 var kallaður Alfa Beta Chi Delta. Gjalddagi lánshæfistengda skuldabréfsins var 2013 og upphæðin var samtals 3,1 milljarður íslenskra króna. Þetta skuldabréf var tengt jafnt við lánshæfi Kaupþings og Glitnis. Gjaldfelling varð ef þessir bankar:
1. urðu gjaldþrota,
2. greiddu ekki skuldir sínar, þegar greiðslan var yfir 1 milljón dollara eða jafngildi þess eða
3. gengu í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu.
UBS AG hafði heimild til að kalla eftir meiri fjármunum frá viðskiptavinum Landsbankans ef markaðsvirði lánshæfistengda skuldabréfsins fór niður fyrir fimmtíu prósent af fyrirfram gefinni samningsupphæð í evrum. Vextirnir sem fjárfestirinn (viðskiptavinur Landsbankans) innheimti ársfjórðungslega voru breytilegir, eða á ársgrunni 10,70% ofan á REIBOR. Þetta jafngilti 25,70% vöxtum á útgáfudegi. Þeir viðskiptavinir Landsbankans sem lögðu fé í þetta, það er keyptu skuldabréfið, voru lífeyrissjóðir, JV ehf. (í eigu Jakobs Flosasonar) og tveir aðrir einstaklingar (þeir lögðu einungis fram 10 milljónir hvor af eigin fé svo þeir verða ekki nefndir aftur). Lífeyrissjóðirnir notuðu eignir sínar til að kaupa skuldabréfið þannig að þeir tóku áhættu á bankana sjálfir. Lífeyrissjóður verkfræðinga lagði til einn milljarð, Stafir lífeyrissjóður og Almenni lífeyrissjóðurinn (einnig fyrir hönd Eftirlaunasjóðs Glitnis og Lífeyrissjóðs bænda) lögðu um hálfan milljarð í samninginn. Jakob Flosason fékk að nýta sér fjármagn sem Landsbankinn var með að handveði til kaupa á lánshæfistengda skuldabréfinu. Gegn þessu fékk Landsbankinn veð í skuldabréfinu. Segja má að þarna hafi Landsbankinn fært áhættu úr lausafé, það er úr handveðinu, yfir í áhættu á hina íslensku bankana tvo.
Veðkall var á tímabilinu vegna lækkandi gengis og ákváðu þá flestir þessara aðila að loka stöðu sinni nema Lífeyrissjóður verkfræðinga og Almenni lífeyrissjóðurinn. Þeir lögðu meira fé í samninginn, nú í evrum, og héldu áfram með hann fram að falli bankanna. Önnur mikilvæg breyting var gerð eftir að samningurinn tók gildi. Sú breyting fól í sér að kaupandi lánshæfistengda skuldabréfsins skyldi skila skuldabréfinu inn ef greiðslufall yrði (raunveruleg skil).
Allir sem að þessum samningi komu hér á landi töpuðu miklu og þá sérstaklega þeir aðilar sem héldu stöðu sinni opinni eftir veðkallið. Sigurjón Þ. Árnason lýsti því að þetta hefðu ekki verið skynsamleg viðskipti og sagði: "[Við hefðum] aldrei átt að gera þetta". Jafnframt taldi hann þennan samning einan sinnar tegundar hjá Landsbankanum.
7.3.6.2 Glitnir
Glitnir hafði milligöngu um sams konar samning milli eignarhaldsfélagsins Red Square Invest ehf. og Credit Suisse. Red Square Invest keypti lánshæfistengt skuldabréf að nafnvirði 30 milljónir evra (rúmlega 2,5 milljarðar króna við gerð samnings) af Credit Suisse árið 2007 og fjármagnaði Glitnir þau kaup. Í ársreikningi Red Square fyrir árið 2007 kemur fram að eigið fé fyrirtækisins sé um milljarður króna. Miðað við mögulega skuldbindingu sem af samningnum gat hlotist má segja að þetta sé lítið eigið fé, þannig að draga má í efa að Red Square hefði getað staðið í skilum.
Greiðslur af lánshæfistengda skuldabréfinu tóku mið af skuldatryggingar-álagi á Kaupþing. Tryggingar fyrir láninu voru í evrum og voru upphaflega 6% af fjárhæðinni en þegar skuldatryggingarálagið á Kaupþing byrjaði að aukast þurfti að framkvæma veðköll á Red Square Invest sem Glitnir gerði.
7.3.6.3 Kaupþing
Kaupþing var milliliður við sölu á skuldatryggingum á sjálfan sig. Útgefandi lánshæfistengda skuldabréfsins var Deutsche Bank (þ.e. kaupandi skuldatryggingar), en kaupendur skuldabréfsins og þar með seljendur skuldatryggingarinnar voru stórir viðskiptavinir Kaupþings.
Strax í upphafi árs 2008 fékk Kaupþing Deutsche Bank sér til ráðgjafar um hvernig hafa mætti áhrif á skuldatryggingarálagið. Á kynningu í byrjun febrúar ráðlagði Deutsche Bank Kaupþingi meðal annars að eyða öllu lausu fé sem kæmi inn í að kaupa til baka skammtímaeiginskuldabréf til að reyna að gera skuldatryggingarkúrfuna eðlilega. Um sumarið kom svo fram í tölvubréfi frá starfsmanni Deutsche Bank hugmynd um viðskipti með lánshæfistengd skuldabréf. Segir þar að með þeim verði áhrifin á skuldatryggingarálagið bein en ekki óbein eins og þegar um sé að ræða kaup á eigin bréfum. Einnig segir að þessi viðskipti verði fjármögnuð. Í lok bréfsins kemur svo fram að best sé að tímasetja útgáfuna rétt til að fá "most "bang for the buck"". Í tölvubréfum sem gengu milli Sigurðar Einarssonar og Hreiðars Más Sigurðssonar í framhaldinu koma þeir sér saman um að ekki þurfi að fá lífeyrissjóði með í planið en að þetta skuli þeir gera "ekki spurning".
Sigurður Einarsson sagði að frumkvæðið að viðskiptunum hefðu komið frá Deutsche Bank. "Þær fólust í því að fá aðila til þess að skrifa tryggingarnar á móti þeim sem vildu kaupa þær.Til þess að skapa framboð á tryggingunum, sem var ekki neitt.Vegna þess að það sem við sáum að var að gerast á markaðnum, eða töldum okkur sjá, var það að skjáverðið hækkaði alltaf og það voru ákveðnir aðilar, ákveðnir sjóðir sem komu með ákveðið tilboð, engin viðskipti, hækkuðu tilboðið, engin viðskipti, hækkuðu það, hækkuðu það, hækkuðu og hækkuðu."
Lánshæfistengda skuldabréfið var á gjalddaga í október 2013. Skulda-tryggingin var upp á 750 milljónir evra.Vextirnir á bréfinu voru þriggja mánaða EURIBOR-vextir plús 1.122,4 punktar (á þessum tíma var skuldatryggingarálag Kaupþings um 900 punktar). Í upphafi var ætlunin að þrjú félög tækju þátt í þessu en þau voru í eigu sex einstaklinga sem voru í miklum viðskiptum við Kaupþing. Þessi þrjú félög áttu að kaupa lánshæfistengd skuldabréf að nafnvirði 125 milljónir evra hvert, með tryggingu upp á 250 milljónir hvert. Svo virðist þó sem viðskiptin hafi ekki átt sér stað við eitt félagið þegar á hólminn var komið. Eigendur tveggja félaga fengu 130 milljónir evra að láni frá Kaupþingi í Lúxemborg. 125 milljónir evra voru eiginfjárframlag til félaganna en 5 milljónir evra gengu til greiðslu þóknunar til Deutsche Bank. Þar sem samningurinn var 250 milljóna evra virði þá fengu félögin 125 milljónir evra að láni frá Deutsche Bank og var lánið með ákvæði um gjaldfellingu ef skuldatryggingarálag færi upp fyrir ákveðin mörk.
Eignarhaldi á félögunum er lýst á myndinni hér á eftir. Chesterfield United Inc. var í eigu Kevin Stanford, Karen Millen, Tony Yerolemou og Skúla Þorvaldssonar en Partridge Management Group S.A. var í eigu Ólafs Ólafssonar. Þessi félög keyptu sannarlega lánshæfistengd skuldabréf af Deutsche Bank. Kaupþing í Lúxemborg lánaði Trenvis Ltd., Charbon Capital Ltd. og Holly Beach S.A. fyrir eiginfjárframlagi þeirra í Chesterfield, samtals 130 milljónir evra, en lánin voru færð heim til Íslands 29. ágúst 2008. Eins var Harlow Equities S.A. fjármagnað með 130 milljónum evra í gegnum Kaupþing í Lúxemborg en lánið var flutt til Íslands 26. september 2008. Það má sjá að þessar lánabeiðnir voru lagðar fram á fundi lánanefndar samstæðunnar 11. september 2008 en þar var öllu vísað til lánanefndar stjórnar. Á fundi lánanefndar stjórnar 24. september voru lánin samþykkt. Einnig var samþykkt lán til Mink Trading Corporation upp á 130 milljónir evra en ekki er að sjá að það hafi verið greitt út.Til viðbótar við þessi lán til eiginfjárframlaga voru samþykkt lán til Partridge Management Group upp á 50 milljónir evra sem veita átti til móts við hluta af framtíðarávinningi sem skapast gæti af samningnum. Einnig var samþykkt 50 milljóna dollara lán til Brooks Trading Ltd. vegna þess sama. Benda verður á að þessi hagnaður myndi þá aðeins verða til ef Kaupþing færi ekki í greiðsluþrot. Þannig áttu þessi félög að fá lán gegn tekjustreymi sem aðeins yrði ef Kaupþing væri í rekstri. Ekki fæst séð af gögnum rannsóknarnefndarinnar að lánið til Partridge hafi verið greitt út en lánið til Brooks var greitt út hjá Kaupþingi á Íslandi 30. september. Þetta vekur sérstaka athygli þar sem það var veitt á móti framtíðartekjustreymi af samningi sem ekki er hægt að sjá að stofnað hafi verið til. Eins og lýst er nánar í kafla 8.0 um útlán eru líkur á að þessar 50 milljónir dollara tengist viðskiptum Q Iceland Finance ehf. sem þar er fjallað um. Þetta lán er á bókum Kaupþings á Íslandi fram í miðjan nóvember 2008.
Eins og fram er komið tók Deutsche Bank um helming áhættunnar á sig, eða 125 milljónir evra á hvort félag. Það er því vert að benda á að lánanefnd stjórnar Kaupþings samþykkti lán fyrir bæði Chesterfield United Inc. og Partridge Management Group S.A. að upphæð 125 milljónir evra hvort þann 2. október 2008 til að mæta "veðköllum" vegna þessa hjá Deutsche Bank. Féð var greitt út hjá Kaupþingi í þremur greiðslum á hvort félag.
Á tímabilinu 29. ágúst til 8. október 2008 lánaði Kaupþing því 510 milljónir evra í þessi skuldatryggingarviðskipti ef undanskildar eru 50 milljónir dollara sem nefndar eru hér á undan. Þessar 510 milljónir evra fóru beint til Deutsche Bank. Ekkert eigið fé kom þarna til heldur var þetta allt fjármagnað af Kaupþingi. Með þessum viðskiptum var því búið að flytja skuldabréfaáhættu Kaupþings yfir á Kaupþing. Hreiðar Már Sigurðsson sagði við skýrslutöku að það hefði ekki verið neitt nema hagnaðarvon hjá viðskiptavinum bankans sem seldu þessar skuldatryggingar, það er ef bankinn færi í greiðsluþrot þá væri hagnaður núll en ef hann væri enn í rekstri í október 2013 þá myndu þessir viðskiptavinir hagnast. Því til viðbótar sagði Hreiðar: "Ja, þetta var, við töldum að þetta væri þess virði að gera þetta, eins og ég segi, við töldum að við værum að nota fjármuni bankans á ágætlegan hátt, fá ágætis tekjur af þeim fjármunum.Við töldum að það væri mikilvægt að athuga hvort þessi markaður væri raunverulegur eða ekki og við töldum að þetta væri gott fyrir þessa viðskiptavini, sem voru stórir viðskiptavinir og borguðu okkur fullar þóknanir og skulduðu okkur náttúrulega peninga, svo það að staða þeirra mundi batna væri gott fyrir bankann."
Hreiðar Már sagði við skýrslutöku að þessi viðskipti með lánshæfistengd skuldabréf hefðu haft áhrif á skuldatryggingarálag Kaupþings: "[Það] lækkar þarna í kringum þetta, um svona 200–300 punkta, mundi ég halda." Rannsóknarnefndin hefur undir höndum samning undirritaðan af Chesterfield United þar sem 8. ágúst 2008 er settur sem upphafsdagur samningsins. Það má svo sjá að um 10. ágúst 2008 lækkar skuldatryggingarálagið á Kaupþing úr tæpum 1000 punktum í um 700 punkta, þannig að ætla má að þessir samningar hafi í raun haft áhrif á verð á skuldatryggingum á Kaupþing, enda eru upphæðir þeirra verulegar.
7.3.6.4 Sparisjóðabankinn (Icebank)
Rétt þykir að fjalla hér stuttlega um skuldatryggingakaup Icebank af viðskiptavinum sínum. Þetta voru raunverulegar skuldatryggingar en ekki lánshæfistengd skuldabréf. Hér á það við eins og um aðrar tryggingar að nauðsynlegt er að sá sem tryggir geti staðið í skilum ef áfall verður. Þetta er ein af ástæðum þess að tryggingafélög eru yfirleitt stöndug og undir eftirliti eins og fram kom hér á undan. Rannsóknarnefndin fékk í hendurnar níu samninga við eignarhaldsfélög og einn samning við einstakling. Samkvæmt þeim tók viðskiptavinurinn á sig áhættu vegna greiðslufalls og verðlækkunar á undirliggjandi bréfum, gjaldþrots útgefanda og hæfis undirliggjandi bréfa til tryggingar í viðskiptum við Seðlabanka Íslands. Síðastnefnda atriðið er ekki staðlað skuldatryggingarákvæði og verður vikið að því nánar síðar. Icebank var mótaðilinn í samningunum og þar með viðtakandi greiðslu ef ákveðin atvik yrðu, sjá hér á eftir. Í töflu 7.3 eru taldir upp þeir samningar sem rannsóknarnefndin fékk í hendurnar. Samkvæmt bréfi frá Sigurði Jónssyni, endurskoðanda Icebank, voru aðeins samningarnir við Miðbæjareignir ehf.,Trek ehf. og Red Square Invest ehf. opnir þegar bankinn var tekinn yfir.Viðskiptamaðurinn er sá sem tryggir undirliggjandi skuldabréf upp að nafnverði. Í öllum tilvikum var verið að tryggja skuldabréf Glitnis á gjalddaga í ágúst 2008, júní 2009 og lok október 2009. Atlantic Ridge Capital ehf. sem var í árslok 2007 með eigið fé upp á 10 milljónir króna skuldatryggði skuldabréf Glitnis að fjárhæð 2.000 milljónir króna í tveimur mismunandi samningum eða sem nemur tvöhundruðföldu eigin fé. Eignir félagsins námu 48 milljónum króna. Miðbæjareignir ehf. voru með eigið fé sem nam 105 milljónum króna í árslok 2007 og skuldatryggðu skuldabréf Glitnis að fjárhæð 8.000 milljónir króna í tveimur samningum. Samkvæmt eiganda Miðbæjareigna ehf. þurfti félagið að leggja fram til tryggingar eignir sem metnar voru að tryggingarígildi 160 milljónir samkvæmt samningnum eða 2% af fjárhæðinni. "Tryggingin stóð á jöfnu móti frádragi (e. haircut) á undirliggjandi bréf í endurhverfum viðskiptum við Seðlabanka Íslands. Icebank keypti svo bréfin af Glitni, fékk svo einkaaðila eins og Miðbæjareignir ehf.
til þess að leggja fram 2% tryggingu og úthýsti þannig tæknilega áhættu sinni af þessum viðskiptum." "Einu skilyrðin fyrir því að gera samningana á þessum tíma voru að Miðbæjareignir ehf. væri búið að skrifa undir viðskiptasamning við bankann og að félagið væri flokkað sem fagfjárfestir skv. reglum bankans."Viðskiptaþóknunin sem Icebank greiddi fyrir þetta var á bilinu 30–50 punktar. Skuldatryggingarálagið var um 80 punktar í október 2007, milli 100 og 150 punktar í nóvember og desember og það var komið yfir 300 punkta í janúar 2008. Það er því ljóst að þóknunin fyrir þessar tryggingar var langt undir skuldatryggingarálagi á erlendum mörkuðum og vekur það athygli.
Þessir samningar eru allir nokkuð samhljóða og kveður 8. gr. á um skuldbindingu viðskiptamannsins:
"8. gr. Greiðsla
Viðskiptamaður skal, að kröfu bankans, greiða bankanum samningsfjárhæð samnings þessa, ásamt fjárhæð sem samsvarar áföllnum vöxtum af undirliggjandi bréfum, dráttarvöxtum og kostnaði ef eitt af eftirfarandi tilvikum telst komið fram:
1. Útgefandi undirliggjandi bréfa samnings þessa stendur ekki í skilum með greiðslu vaxta og/eða höfuðstóls samkvæmt undirliggjandi bréfum samningsins.
2. Einhver kröfuhafa gjaldfellir undirliggjandi bréf.
3. Gert er fjárnám eða framkvæmd kyrrsetning, löggeymsla eða lögbann hjá útgefanda undirliggjandi bréfa samnings þessa, eða móður- eða dótturfélagi hans, fram komi ósk um gjaldþrotaskipti á búi einhvers þeirra, eitthvert þeirra leiti nauðasamninga, eign einhvers þeirra sé auglýst á nauðungaruppboði eða óskað sé eftir greiðslustöðvun og/eða niðurfellingu skulda einhvers þeirra.
4. Undirliggjandi bréf samnings þessa eru ekki lengur hæf til tryggingar í viðskiptum við Seðlabanka Íslands skv. 11. gr. reglna nr. 541/2007, um viðskipti fjármálafyrirtækja við Seðlabanka Íslands.
5. Seðlabanki Íslands beitir frekara frádragi (e. Haircut) á undirliggjandi bréf samnings þessa, sbr. 12. gr. reglna um viðskipti fjármálafyrirtækja við Seðlabanka Íslands, nr. 541/2007, á líftíma samningsins.
6. Samningi þessum er lokað í samræmi við 17. gr. samnings þessa eða vegna tilvika sem lýst er í 19. gr. samnings þessa."
Í 17. gr. er sagt að viðskiptamaður geti lokað samningi fyrir lokadag en kostnaður getur numið allt að 0,25% af samningsfjárhæð fyrir hvern mánuð sem eftir er af samningstímanum. Samkvæmt sömu grein má bankinn loka samningnum hvenær sem er og af hvaða ástæðu sem er. Fyrstu þrír liðir 8. greinarinnar eru nokkuð algengir og staðlaðir úr skuldatryggingarsamningum en á hinn bóginn eru liðir 4 og 5 harla óvenjulegir. Hér er viðskiptamaður að tryggja Icebank fyrir breytingum á starfsreglum Seðlabanka Íslands. Þessi samningur er því mun víðtækari en staðlaðir skuldatryggingarsamningar. Lægri þóknun í þessum samningi en skuldatryggingarálag erlendis vekur athygli í ljósi þess að meiri skyldur, og þar með áhætta, fylgja þessum samningi en hefðbundnum skuldatryggingarsamningum.
Rannsóknarnefnd Alþingis vekur athygli á því að Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með markaðsáhættu fjármálastofnana. Undir markaðsáhættu flokkast eign á skuldabréfum, en Icebank átti mjög mikið af þeim vegna þess að hann nýtti sér skuldabréf annarra fjármálastofnana til að taka veðlán í Seðlabanka Íslands (sjá nánar hér á eftir og í kafla 4.0). Skuldatryggingar voru þess eðlis að ekki var lengur litið á skuldabréfin sem áhættu, enda var Icebank "tryggður" ef til greiðslufalls kæmi. Þetta var mikilvægt því að jafnvel með þessum tryggingum, sem notaðar voru til að draga frá markaðsáhættu bankans, féll Icebank á óopinberum álagsprófum hjá Fjármálaeftirlitinu á fyrsta ársfjórðungi 2008. Eiginfjárhlutfall Icebank fór úr 10,4% í 7,6% við álag á markaðsáhættu. Mestu munaði þar um 1,7% lækkun á eiginfjárhlutfalli við 7% lækkun á gengi skuldabréfa. Ef 31 milljarðs króna áhættu sem tryggð er í þessum samningum er bætt við hefði álagið fært eiginfjárhlutfall niður í tæp 6% sem hefði þá væntanlega orðið til að vekja Fjármálaeftirlitið til umhugsunar. Því er tilgangur þessara samninga ljós.
7.3.7 Víkjandi langtímalán
Víkjandi langtímalán ("hybrid" skuldabréf) fengu aukið vægi í rekstri og reikningsskilum íslensku bankanna síðustu ár og hér verður stuttlega fjallað um þau. Þar sem eigið fé var alltaf gefið upp í krónum eru fjárhæðir settar fram í krónum í þessum kafla.Víkjandi langtímalán verða að uppfylla ákveðin skilyrði til að teljast hluti af eigin fé banka. Það verður að verja innlánseigendur en jafnframt vera fjárfestingarkostur fyrir fjárfesta. Mikilvægt er að hægt sé að nýta slík lán til að mæta rekstrartapi þegar það á við, en ekki einungis þegar gjaldþrot blasir við. Ef þessum skilyrðum er ekki fullnægt er ekki við hæfi að telja víkjandi langtímalán til eigin fjár. Slík lán eru þó aldrei metin til jafns við annað eigið fé. Bankar geta gefið út víkjandi langtímalán og hækkað eiginfjárhlutfall sitt án þess að þynna út eignarhald þeirra sem þegar eiga bankann. Þetta er einn af aðalhvötum banka almennt til að gefa út víkjandi langtímalán.
Færa má rök fyrir því að hvatar íslensku bankanna til útgáfu víkjandi langtímalána gætu hafa verið aðrir og verður komið að því síðar. Heimild bankanna til að nýta sér útgáfu víkjandi langtímalána til hækkunar eigin fjár var að því er virðist fyrst staðfest við setningu reglugerðar nr. 852/2000. Lánin máttu þá að hámarki nema 15% af eiginfjárþætti A í eiginfjárútreikningi, bæði fyrir móðurfélag og samstæðu. Fjármálaeftirlitinu barst ábending frá Glitni þess efnis að reglur á Íslandi væru ekki sambærilegar við þær sem giltu í Evrópu. Í framhaldi af því var ráðist í vinnu við að endurskoða regluna um víkjandi langtímalán og 17. desember 2004 birti Fjármálaeftirlitið umræðuskjal um drög að reglum um viðbótareiginfjárliði fyrir fjármálafyrirtæki. Í þessum drögum var lagt til að fjármálafyrirtækjum yrði gefinn kostur á að gefa út nýja tegund víkjandi langtímalána þannig að heildarfjárhæð slíkra lána væri allt að 33% af eiginfjárþætti A. Nýjar reglur voru gefnar út 26. janúar 2005 og eru þær enn í gildi. Í umræðuskjali Fjármálaeftirlitsins kemur fram að tilgangurinn með breytingunni sé að "samræma reglur um eigin fé íslenskra fjármálafyrirtækja því sem tíðkast í mörgum ríkjum innan evrópska efnahagssvæðisins". Fram kemur að við þessar breytingar hafi verið "hafðar til hliðsjónar reglur sem tekið [hafi] gildi í nokkrum ríkjum innan EES" og að markmiðið hafi verið að "gera íslenskum fjármálafyrirtækjum kleift að sækja aukið eigið fé á nýja markaði jafnframt því að eiginleikar þessara viðbótareiginfjárliða nálgist eiginleika almenns hlutafjár útfrá hagsmunum útgefanda". Eftir þessa breytingu jukust víkjandi langtímalántökur íslensku bankanna nokkuð, sjá myndir 25–30.
Strax fyrsta árið eftir að reglurnar tóku gildi jukust víkjandi langtímalán Kaupþings um 45 milljarða króna og þar af um 27 milljarða króna í eiginfjárlið A. Glitnir og Landsbankinn voru því sem næst samstíga og juku báðir víkjandi langtímalán sín um 27 milljarða króna og þar af um 15 milljarða króna í eiginfjárþætti A. Hlutfall víkjandi langtímalána í lögbundnu eigin fé bankanna hækkaði ekki mikið en hjá Glitni og Kaupþingi jukust lánin umtalsvert sem hluti af eiginfjárþætti A, úr um 10% í um 20%. Í lok árs 2007 voru víkjandi langtímalán á milli 43% og 55% af eiginfjárgrunni bankanna (eiginfjárliður A+B+C). Á árinu 2008 jókst vægi þessara liða enn, enda eru þessi lán flest í erlendum gjaldmiðlum en annað eigið fé er í íslenskum krónum.
Erlendur sérfræðingur sem vann með rannsóknarnefndinni að einstökum þáttum rannsóknarinnar hafði á orði við nefndina að þetta hlutfall væri hátt. Það væri bagalegt ef þessi lán væru í raun ekki svipaðs eðlis og eigið fé. Í framhaldinu kannaði hann allnokkra lánasamninga um víkjandi langtímalán til að kanna hvort þeir uppfylltu þær kröfur að virka sem eigið fé ef á reyndi. Hann taldi svo vera í öllum tilvikum.Til samanburðar má þó segja að þegar reglurnar voru settar voru flest Norðurlöndin með 15% hámark á víkjandi langtímalánum í eiginfjárþætti A, að Finnlandi undanskildu sem þó átti eftir að lækka hlutfallið niður í 15% á árinu 2006. Þessu til viðbótar má nefna að "Basel Committee on Banking Supervision" (BCBS) mælti með að hámark víkjandi langtímalána væri 15% af eiginfjárlið A, vegna þess að fjármálastofnanir ættu að geta uppfyllt kröfur um eigið fé án þess að grípa of mikið til slíkra lántaka. Þetta voru einungis leiðbeinandi fyrirmæli og ljóst er að sum önnur lönd í Evrópu ákváðu að hafa svipað hámark og leyft var hér á landi eins og sjá má í töflu 4 sem er frá árinu 2007.
Fyrir íslensku bankana reyndist þetta svigrúm til að hafa víkjandi langtímalán inni sem eigið fé verðmætt. Í fyrsta lagi var reglum breytt á tíma þegar mikið framboð var á lánsfé hvort sem það voru skuldabréfalán eða víkjandi langtímalán, svo það reyndist auðvelt að ná í þetta aukna eigið fé. Í öðru lagi hafði reynst erfitt að fá erlenda fjárfesta til að fjárfesta í hlutabréfum bankanna meðal annars vegna krónuáhættu. Þarna myndaðist möguleiki til að fá inn erlent fé sem var talið með í eiginfjárgrunni og þar sem útgáfurnar voru í erlendri mynt reyndist þetta auðveldara en að fá fjárfesta til að fjárfesta í hlutabréfum. Í þriðja lagi var heppilegt að vera þó með þennan hluta af eiginfjárgrunni í erlendri mynt þegar krónan byrjaði að veikjast því það minnkaði þörfina á að vera með gjaldeyrisvarasjóð til að verja eigið fé. Að lokum má þó benda aftur á að víkjandi langtímalán henta vel til að auka eiginfjárgrunn án þess að þynna út eignarhald eða að fá viðbótar eigið fé frá eigendum.
7.4 Ályktanir rannsóknarnefndar Alþingis
Lausafjárgnótt og aðgangur að erlendum skuldabréfamörkuðum var meginuppspretta vaxtar bankanna á nýrri öld. Á árinu 2005 sóttu bankarnir um 14 milljarða evra á erlenda skuldabréfamarkaði, það er rétt rúmlega landsframleiðslu þess árs. Þetta var tvöföldun frá árinu áður. Flest lánanna voru til þriggja til fimm ára. Ljóst er því að með svona miklum lántökum komu bankarnir sér í erfiða stöðu vegna endurfjármögnunar að þremur til fimm árum liðnum, sérstaklega í ljósi þess að alls óvíst var að fjármagnsmarkaðir myndu haldast jafn opnir og þeir voru á þessum tíma. Þessi aukning í útgáfu á skuldabréfum erlendis hefði einnig átt að gefa Fjármálaeftirlitinu næga ástæðu til að staldra við og kanna betur hvernig þessum fjármunum var varið, sérstaklega hve góð útlán bankanna voru. Þetta hefði einnig átt að vera Seðlabanka Íslands ástæða til að kanna hvaða áhrif stóraukin fjármögnun erlendis frá hefði mögulega á fjármálastöðugleika vegna skuldsetningar innlendra fyrirtækja og jafnvel einstaklinga í erlendri mynt. Árið 2006 dró úr fjármögnun á evrópska skuldabréfamarkaðinum og fór hún niður um fjóra milljarða evra. Þessi samdráttur árið 2006 gefur skýrt til kynna að farið hafði verið of geyst inn á markaði og að þeir hefðu mettast. Þannig hafði þegar myndast endurfjármögnunaráhætta vegna þess fjármagns sem sótt var á markaði árið 2005 og var, eins og áður segir, mest til þriggja eða fimm ára.
Þegar fjármagnsmarkaðir lokuðust tímabundið snemma árs 2006 gafst gott tækifæri til að endurmeta stöðuna og þar með þá áhættu sem þegar hafði skapast í íslenska fjármálakerfinu. Rétt hefði verið að koma böndum á vöxt bankanna í framhaldinu og huga meira að gæðum eigna í staðinn. Í þessu sambandi þurftu þeir aðilar sem komu að rekstri bankanna og eftirliti með þeim að gæta sérstaklega að þeim takmörkunum sem eðli málsins samkvæmt leiddi af erlendum skuldbindingum og vaxandi starfsemi bankanna erlendis með tilliti til íslensku krónunnar sem gjaldmiðils og möguleika Seðlabanka Íslands til að rækja hlutverk sitt sem lánveitandi til þrautavara. Ljóst er að innan bankanna var rætt um að draga saman seglin en því miður varð ekkert af því þegar skuldabréfamarkaðurinn í Bandaríkjunum opnaðist í lok sumars 2006. Sú opnun var að miklu leyti vegna skuldavafninganna, þar sem íslensk skuldabréf voru tekin inn í vafningana í skjóli hás lánshæfismats matsfyrirtækjanna en á sama tíma voru íslensku bankarnir almennt að greiða háa vexti miðað við lánshæfismat þeirra. Slíkt gaf til kynna ákveðið mat markaða á gæðum skuldabréfa bankanna.
Við fall bankanna kom í ljós að endurgreiðslustaða erlendra skuldabréfa móðurfélaga bankanna var nokkuð mismunandi. Landsbankinn þurfti að endurfjármagna um tvo milljarða evra fram til loka árs 2009. Glitnir þurfti að endurfjármagna um 2,5 milljarða evra að meðtöldum gjalddögunum í október 2008. Kaupþing þurfti að endurfjármagna um 3,5 milljarða evra á sama tímabili.
Miðað við stærð bankanna var greiðslubyrði Glitnis þyngst en staða Landsbankans og Kaupþings var svipuð að þessu leyti.
Markaðurinn fyrir skuldatryggingar gaf allt frá ársbyrjun 2006 skýr merki um að íslensku bankarnir voru álitnir áhættumeiri en bankar í sama lánshæfisflokki. Þessi munur jókst sérstaklega þegar líða tók á árið 2007. Um vorið 2008 mátti vera ljóst að á þessum markaði voru taldar verulegar líkur á greiðslufalli bankanna innan skamms tíma. Hvað sem leið sjónarmiðum um að þessi viðskipti væru ekki gagnsæ voru þetta engu að síður viðbrögð þessa markaðar sem gerði beinlínis út á mat á líklegu greiðslufalli. Eins og rakið er annars staðar í þessari skýrslu höfðu stjórnendur Seðlabanka Íslands þegar á þessum tíma staðið frammi fyrir því mati erlendra seðlabanka og stórra fjármálafyrirtækja erlendis að illa horfði með stöðu íslensku bankanna. Þessum upplýsingum hafði verið komið á framfæri við suma af ráðherrum í ríkisstjórninni. Fyrirsvarsmönnum íslensku bankanna hafði líka verið kynnt þessi afstaða. Í stað þess að taka alvarlega þau merki sem markaðurinn gaf þá um mat á íslensku bönkunum var af hálfu forsvarsmanna þjóðarinnar, einkum ráðherra, brugðist við með ummælum og aðgerðum sem fólu í sér að ríkið snerist í vörn fyrir bankana. Rannsóknarnefndin telur að þess hafi ekki verið nægjanlega gætt af hálfu þeirra sem fram komu fyrir hönd íslenska ríkisins að þessu leyti að ganga úr skugga um réttmæti þess mats markaðarins sem birtist í skuldatryggingunum. Forstjóri Fjármálaeftirlitsins, Jónas Fr. Jónsson, lýsti því fyrir rannsóknarnefndinni að hann hefði tekið orð manna um að markaðurinn væri lítt virkur, og því lítið að marka hann, trúanleg en kannaði hvorki sjálfur né lét starfsmenn sína kanna hvað væri til í mati skuldatryggingamarkaðarins á íslensku bönkunum. Hann vísaði líka til þess að aðrir aðilar hefðu komist að svipaðri niðurstöðu um umfang þessara viðskipta og benti þar á "bæði Credit Sights og Moody's sem voru búin að setja fram mjög svipaða skoðun". Á sama tíma og forstjóri Fjármálaeftirlitsins segist litla vitneskju hafa haft um stærð þessa markaðar er heldur ekki að sjá að eftirlitsaðilar hér á landi hafi gert sér grein fyrir að íslensku bankarnir voru sjálfir að fara inn á hann í gegnum lánshæfistryggð skuldabréf.
Miðað við stærð markaðarins er erfitt að fullyrða að hann hafi ekki verið virkur. Einnig vakti það athygli rannsóknarnefndar Alþingis að við athugun hennar kom fram að allir bankarnir (nema Icebank) voru milliliðir eða tóku beinan þátt í markaðinum með skuldatryggingar á því vaxtaálagi sem þar var skráð, og jafnvel hærra, á sama tíma og þeir sögðu vaxtaálagið vera rangt. Ekki er að sjá að viðskiptavinir þeirra hafi verið tilbúnir að tryggja bankana fyrir lægri kostnað jafnvel þó að í flestum tilvikum hafi áhættan af tryggingunum öll legið hjá bönkunum sjálfum vegna lánafyrirgreiðslna. Almennt telur rannsóknarnefnd Alþingis að hér hafi verið gefið viðvörunarmerki sem Íslendingar kusu að horfa framhjá.
Þessu til viðbótar má benda á að sala innlendra aðila á skuldatryggingum eða kaup innlendra aðila á lánshæfistengdum skuldabréfum jafngildir því að flytja til Íslands áhættuna af skuldabréfum bankanna sem áður hafði mest verið erlendis. Það sama gildir ef kaup á lánshæfistengdu skuldabréfi eru fjármögnuð að fullu af innlendum bönkum án fullnægjandi trygginga fyrir láninu. Þessi viðskipti juku því á áhættuna í íslenska fjármálakerfinu og innlendan kostnað af mögulegum fjármálaáföllum. Eins og rakið er hér að framan telur rannsóknarnefndin sérstaka ástæðu til að vekja athygli á því fyrirkomulagi sem haft var á þessum samningum í tilviki Icebank. Þar er ekki bara ástæða til að staðnæmast við álitaefni um greiðsluhæfni þeirra sem seldu þessar tryggingar ef til greiðslufalls hefði komið og hvernig skilmálarnir eru tengdir breytingum á reglum um viðskipti Seðlabanka Íslands við fjármálafyrirtæki, heldur einnig hvernig gengið var frá þessum viðskiptum af hálfu bankans með tilliti til möguleika eftirlitsaðila til að átta sig á þeim. Skuldatryggingarnar voru nýttar til frádráttar á tilkynntri skuldabréfaáhættu bankans, óháð greiðsluhæfni seljenda trygginganna.
Hátt hlutfall víkjandi langtímalána hér á landi hefur ekki haft afgerandi þýðingu þegar kemur að falli bankanna. Það vekur á hinn bóginn athygli hvernig Fjármálaeftirlitið beitti, eins og greint er frá hér að framan, heimild sinni til að veita íslensku bönkunum rýmri möguleika í þessu efni heldur en tíðkaðist t.d. annars staðar á Norðurlöndum. Í þessu sambandi er rétt að benda á að Páll Gunnar Pálsson, þáverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins, hafði árið 2001 bent á að eiginfjárhlutfall án víkjandi lána hefði lækkað verulega hjá sparisjóðunum í landinu á árunum 1995–2000 eða úr 16% í 8,6% og hann bætti við: "Við höfum sérstaklega varað við því að víkjandi lán séu í ríkum mæli tekin til að fullnægja skilyrðum um eiginfjárhlutföll, en lánastofnunum ber að mati Fjármálaeftirlitsins að stefna að því að eiginfjárhlutfall án víkjandi lána sé að lágmarki 8%."
Rannsóknarnefndin hefur í sérstakri rammagrein hér að framan fjallað um málefni Gnúps fjárfestingafélags ehf. Sú umfjöllun er rannsóknarnefndinni tilefni til þess að benda á að líkur á hagsmunaárekstrum aukast þegar forstjórar fjárfestingarfélaga stunda fjárfestingar á eigin vegum og í gegnum félög sín á sama tíma og þeir gegna störfum fyrir fjárfestingarfélagið sem þeir hafa að lögum sérstakar trúnaðarskyldur við. Þótt í þessari rammagrein hafi sérstaklega verið fjallað um málefni fjárfestingarfélags telur rannsóknarnefndin rétt að benda á að eins og starfsemi fjármálafyrirtækja, þ.m.t. bankanna, þróaðist hér á landi síðustu ár er tilefni til þess að hugað verði sérstaklega að því að setja því skorður að æðstu stjórnendur slíkra félaga stundi í eigin nafni fjárfestingarstarfsemi sem tengst getur starfi þeirra. Einnig vill rannsóknarnefnd Alþingis í tilefni af þeim skuldabréfaviðskiptum sem lýst er í rammagreininni um Gnúp benda á að fjárfestingar í skuldabréfum útgefnum af eignarhaldsfélögum sem eingöngu eru mynduð utan um hlutabréf geta varla flokkast sem álitlegar fjárfestingar fyrir verðbréfasjóði sem eiga að fjárfesta í skuldabréfum. Það er þó ekki svo að skilja að ef búið er að fjárfesta í slíku beri því félagi sem heldur bréfinu að bera það tap sem af því hlýst en ekki aðrir, eins og virðist hafa gerst í tilfelli Glitnis Eignarhaldsfélags ehf.
7.5 Innlán stóru bankanna þriggja
Í þessum kafla verður farið yfir þróun innlána hjá stóru bönkunum þremur og lögð áhersla á heildarinnlán og innlán á Íslandi. Farið er ítarlega í innlán í útibúum erlendis í kafla 18.0.
7.5.1 Innlán bankanna á samstæðugrundvelli
Innlán eru venjulega ein helsta fjármögnunarleið banka. Hjá íslensku bönkunum hafði mikilvægi þeirra hins vegar minnkað hlutfallslega frá 1998 og allt fram að miðju ári 2006. Á árinu 1998 voru bankarnir þrír að meðaltali með 45% af fjármögnun í gegnum innlán en í kjölfar þess að evrópski skuldabréfamarkaðurinn opnast lækkaði þetta hlutfall niður í rétt rúm 22% í lok árs 2004, eins og fram kemur á mynd 31.
Innlán sem hlutfall af útlánum hafði einnig lækkað verulega, sérstaklega hjá Kaupþing banka. Í byrjun árs 2006 þegar matsfyrirtæki greina frá áhyggjum sínum af íslensku efnahagslífi benda þau meðal annars á að íslensku bankarnir fjármagni sig að litlu leyti með innlánum og er hlutfall innlána af útlánum talið lágt samanborið við sambærilega banka erlendis. Þessa þróun má sjá á mynd 32 en í upphafi árs 2006 voru innlán í Landsbankanum um 45% sem hlutfall af útlánum en samsvarandi hlutfall var um 30% hjá Kaupþingi og 25% hjá Glitni. Greiningaraðilar bentu einnig réttilega á að óvíst væri að þessi greiði aðgangur að skuldabréfamörkuðum héldist til lengri tíma. Í kjölfarið tóku bankarnir til við að treysta innlánsgrunn sinn. Eins og einnig er greint frá í kafla 18.0 hófst innlánasöfnun íslensku bankanna í erlendum útibúum með svonefndum heildsöluinnlánum, þ.e. innlánum sem fást með samningum fyrir milligöngu miðlara. Í þeim tilvikum er gjarnan um að ræða fjármuni sem fyrirtæki, opinberar stofnanir, félagasamtök eða fjársterkir einstaklingar kjósa að geyma í ákveðinn tíma með umsaminni ávöxtun. Síðar kom til þess að bankarnir fóru að bjóða sérstaka innlánsreikninga sem ætlaðir voru einstaklingum. Landsbankinn var þar í fararbroddi, fyrst með söfnun heildsöluinnlána og síðar smásöluinnlána. Þegar lausafjárkreppan hófst svo um mitt ár 2007 varð þessi fjármögnunarleið enn mikilvægari þar sem skuldabréfamarkaðir voru nú að mestu leyti lokaðir. Heildarfjárhæð innlána jókst um leið og bankarnir stækkuðu og um haustið 2007 náðu innlán viðskiptavina, stóru bankanna þriggja, hámarki í um 38 milljónum evra, eins og sjá má á mynd 33. Í þessum kafla verður eins og áður sagði farið í stuttu máli yfir þróun innlána hjá stóru bönkunum þremur en í kafla 18 er farið ítarlega í innlán bankanna erlendis og er því ekki ástæða til að víkja að þeim eins nákvæmlega í þessari umfjöllun.
7.5.2 Innlán Landsbanka Íslands hf.
Landsbanki Íslands treysti ávallt meira á innlán en Glitnir og Kaupþing. Innláns-/útláns hlutfall hans lækkaði ekki jafn mikið og hjá hinum tveimur bönkunum fram til ársins 2006 og fór það aldrei niður fyrir 40% (mynd 32 and 33). Fjármálaeftirlitið fékk tilkynningu frá Landsbankanum um mitt ár 2005 um að áætlað væri að hefja söfnun heildsöluinnlána í gegnum útibúið í Bretlandi. Innlánasöfnunin hófst svo í nóvember það ár og í lok árs 2005 var Landsbankinn kominn með tæplega 300 milljónir evra í heildsöluinnlán í útibúi sínu í Bretlandi. Á fjórða ársfjórðungi 2006 hóf Landsbanki Íslands svo að safna smásöluinnlánum erlendis, fyrst í útibúi bankans í Bretlandi, en eins og áður er að vikið er fjallað um þau sérstaklega í kafla 18.0.Við þetta hækkuðu innlán bankans hratt og fóru úr því að vera 40% sem hlutfall af útlánum í yfir 80% hlutfall af útlánum.
Frá lokum þriðja ársfjórðungs 2006 til miðs árs 2007 þrefölduðust innlán viðskiptavina í Landsbankasamstæðunni sem var aukning um tæpa tíu milljarða evra. Mesti hluti þessa vaxtar var í útibúi Landsbankans í Bretlandi í Icesave netreikningunum. Smásöluinnlán í Bretlandi höfðu vaxið úr engu í 6,6 milljarða evra og á sama tíma höfðu heildsöluinnlán bæði í breskum og hollenskum útibúum Landsbankans vaxið um 2,5 milljarða evra. Þessa þróun má sjá á mynd 37 sem sýnir innlán í útibúum Landsbankans í Bretlandi og Hollandi. Þess má geta að á þessu tímabili voru netreikningar Icesave ávallt í fyrsta sæti í "best buy"-vaxtasamanburðartöflum í Bretlandi.Til að setja þessar tölur í samhengi má benda á að gjaldeyrisforði Seðlabanka Íslands í lok árs 2007 var tæplega tveir milljarðar evra. Hafði Landsbankinn því safnað sem nemur fimmföldum gjaldeyrisvaraforða Seðlabankans í innlán á um níu mánuðum og þessi vöxtur var að níu tíundu hlutum í erlendum innlánum. Þetta góða gengi hinna nýju innlánsreikninga bankans nýtti Landsbankinn sér og bankinn gaf út mun minna á skuldabréfamörkuðum á árinu 2007 en árin áður eins og sjá má í undirkafla 7.2.1.
Upp úr miðju ári 2007 fóru innstæður að flæða út úr erlendum útibúum Landsbankans meðal annars vegna slæmrar umfjöllunar um íslensku bankana í fjölmiðlum í Bretlandi. Mest varð útflæðið svo í byrjun árs 2008 og þá sérstaklega í febrúar og mars. Innlánin í Bretlandi og Hollandi minnkuðu um rúma tvo milljarða evra á þessum tveimur mánuðum enda var lánshæfismat bankans lækkað í lok febrúar úr Aa3 í A2. Innstæður Landsbankans í þessum útibúum tóku svo að aukast aftur um vorið eftir að útibúið í Hollandi byrjaði að safna smásöluinnstæðum og hélt sú þróun áfram fram í september. Í byrjun september 2008 voru heildsöluinnlán í Bretlandi og Hollandi samtals um einn milljarður evra og höfðu þau lækkað úr þremur milljörðum evra frá september 2007. Útflæðið á árinu hafði þá verið um tveir milljarðar evra. Staðan var einnig þannig að af þeim rúma milljarði evra sem enn var inni í útibúum Landsbankans í Bretlandi og Hollandi voru um 600 milljónir evra á gjalddaga fyrir lok nóvember 2008. Á sama tíma jukust innstæður á Icesave í Bretlandi og Hollandi um 1,1 milljarð evra. Þessi aukning var því ekki nægileg til að mæta útflæði heildsöluinnlána úr sömu útibúum þessa síðustu 12 mánuði. Heildarútflæði (nettóútflæði) af innlánsreikningunum í Bretlandi og Hollandi síðasta árið fyrir fall bankans var tæpur milljarður evra. Það má því segja að innlán hafi ekki náð að fjármagna Landsbankann síðustu 12 mánuðina fyrir fall eða eins og Sigurjón Þ. Árnason sagði: "Þá er stóra myndin sú að heildsöluinnlán Landsbankans minnka gríðarlega [...]. En í staðinn kemur inn retail-lán í Hollandi, þannig að það nettar hvert annað út [...] Í Bretlandi þá minnka heildsöluinnlán, Icesave er í öllum meginatriðum óbreytt, þ.e. stóra myndin, en heildsöluinnlánin minnka og fjármögnunin sem kemur í staðinn fyrir það er væntanlega ECB-repo.
Útflæði heildsöluinnlána má eflaust rekja til hækkandi skuldatryggingar-álags Landsbankans og einnig til lækkunar lánshæfismats í lok febrúar 2008. Heildsöluinnlán eru yfirleitt mjög næm fyrir lánshæfismati. Almennir innstæðueigendur bregðast við meiri óvissu á annan hátt. Icesave innlánin lækka ekki í heild en meðalupphæð innlána á hvern reikning lækkar umtalsvert á þessum tíma. Meðalupphæðin lækkar úr um 45.000 pundum um mitt ár 2007 í um 16.000 pund við fall bankans og virðast það vera bein viðbrögð við 20.000 evra viðmiðunarupphæð á tryggingu innlánstryggingarsjóðs. Nánar verður vikið að þessu í kafla 17.0.
7.5.3 Innlán Kaupþings banka hf.
Á árunum 2004 og 2005 voru innlán hjá Kaupþingi nokkuð svipuð (sjá mynd 40) en með mikilli útlánaþenslu lækkuðu innlán sem hlutfall af útlánum og fór það hlutfall lægst í um 20% í lok árs 2004 (sjá mynd 39). Í ársreikningi samstæðunnar árið 2006 er ekki minnst á innlán sem hluta af fjármögnun. Þetta breyttist árið 2007. Í ársreikningi þess árs er sagt að aukning innlána sé mest áberandi nýjungin í að breikka fjármögnunargrunn samstæðunnar enda höfðu innlán því sem næst tvöfaldast það árið. Aukningin var mest á Íslandi það árið eða 157%.
Á síðasta ársfjórðungi 2007 var svo Kaupthing Edge net-innlánsreikningunum hleypt af stokkunum. Fyrstu Edge reikningarnir voru opnaðir í Finnlandi og Svíþjóð en fljótlega eftir áramótin voru þeir einnig á boðstólum í Noregi, Bretlandi, Belgíu, Þýskalandi og í fleiri löndum. Edge reikningarnir uxu hratt eða um 5,4 milljarða evra á árinu 2008. Á mynd 41 má sjá vöxt í innlánum hjá Kaupthing Edge, flokkað niður eftir löndum og eins og sjá má var vöxturinn mestur í Bretlandi. Það sem var frábrugðið hér miðað við Landsbankann var að vel rúmlega 4,2 milljarðar evra komu inn í dótturfélög Kaupþings og voru innlánstryggingar þeirra því ekki á ábyrgð Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.
Dótturfélög eru almennt mun sjálfstæðari einingar en útibú og fjármagnsflutningar milli móður- og dótturfélags takmörkunum háðir, sérstaklega í Bretlandi þar sem Kaupþing var að safna stórum hluta af sínum innlánum. Þrátt fyrir það sagði Hreiðar Már Sigurðsson að flutningur fjármuna hefði ekki verið mikið mál: "Við náðum sko í sjálfu sér bara í það sem var í útibúum [...], við sáum fyrir okkur að við gætum "upstream"-að töluvert miklu, t.a.m. ef þú skoðar þar sem við höfðum náð mestum árangrinum í dótturfélagi var í Bretlandi en á efnahagsreikningi móðurfélagsins var mjög mikið af breskum eignum, svo við vorum búin að leggja fram plön og fá samþykki í stjórn Kaupthing Singer & Friedlander að þeir mundu kaupa af okkur þarna eignir, breskar eignir." Auk þessara endurhverfu viðskipta voru settar upp opnar "swap"-lánalínur milli móðurfélagsins og Kaupthing Singer & Friedlander. Í september 2008 var ný stefna kynnt innan Kaupþings. Þar sem skuldabréfamarkaðurinn var mun erfiðari en áður var markið sett á að ná 50% innláns-/útlánshlutfalli fyrir lok árs 2008. Þessu til viðbótar var sett markmið um að auka innlán um tíu milljarða evra á árinu 2009 og ná þannig yfir 100% innláns-/ útlánshlutfalli.
7.5.4 Innlán Glitnis banka hf.
Hjá Glitni voru innlán nokkuð stöðugur hluti heildarfjármögnunar bankans, eða um 25–30%, allt frá árinu 2004 og fram að falli bankans.
Innlán sem hlutfall af útlánum hækkuðu nokkuð á árinu 2007 eins og sjá má á mynd 43 þegar bankinn hóf sókn á breskan heildsöluinnlánsmarkað. Þetta var svar bankans við gagnrýni matsfyrirtækjanna í upphafi árs 2006. Alls urðu heildarinnlán hjá Glitni mest um átta milljarðar evra í lok nóvember 2007 og þar af voru rétt tæplega fimm milljarðar evra erlend innlán.
Stærsti hluti erlendu innlánanna voru smásöluinnlán í Noregi sem voru að mestu leyti nýtt þar í landi. Það voru heildsöluinnlánin í London sem ollu Glitni vandkvæðum á árinu 2008 en þar runnu út um 1,2 milljarðar evra frá ársbyrjun fram að falli bankans, eins og sjá má á mynd 45.
Í lok júní 2008 hleypti Glitnir banki af stokkunum nýjum innlánsreikningum sem hétu "Save & Save" í Noregi og Íslandi. Þessir reikningar voru kynntir sem sparireikningar tengdir umhverfismálum. Um stofnun þessara innlánsreikninga sagði Lárus Welding, forstjóri Glitnis, við skýrslutöku: "Við vorum að reyna náttúrlega eitthvað að safna innlánum einnig, en það var alveg ljóst að andrúmsloftið til innlánasöfnunar var mjög neikvætt." Stefnt var á að koma á fót slíkum innlánsreikningum í Bretlandi og öðrum löndum í gegnum Lúxemborg í upphafi árs 2009.
7.6 Endurhverf viðskipti og sambærileg veðlán
Í þessum kafla verður farið yfir endurhverf viðskipti og sambærileg veðlán Kaupþings banka hf., Glitnis banka hf. og Landsbanka Íslands hf. Seðlabankar veita almennt fjármálafyrirtækjum skammtímalausafjárfyrirgreiðslur annaðhvort í formi endurhverfra viðskipta eða í formi skammtímaveðlána. Þessu til viðbótar hafa lán á milli fjármálastofnana í auknum mæli verið í formi endurhverfra viðskipta eða sambærilegra veðlána.Almennt hefur þróunin verið yfir í veðlán frá endurhverfum viðskiptum og er það gert til einföldunar svo ekki þurfi að yfirfæra eignarhald á undirliggjandi eign.
Endurhverf viðskipti fela í sér að fjármálastofnun selur seðlabanka eða annarri fjármálastofnun markaðsverðbréf með loforði um að kaupa þau aftur til baka á hærra verði að einhverjum tíma liðnum. Þessi viðskipti eru í eðli sínu til skamms tíma, oft ein vika, stundum mánuður, en sjaldan til lengri tíma. Munurinn á sölu- og kaupverði eru vextirnir sem fjármálastofnunin borgar fyrir lánið. Almennt má hugsa þetta sem skipti á eign á móti lausu fé, eða "liquidity transformation". Algengast er að ríkisskuldabréf eða önnur mjög traust verðbréf séu notuð sem andlag í þessum viðskiptum. Þegar breytt er úr endurhverfu láni í veðlán er markaðsverðbréfið ekki selt heldur einungis tekið sem handveð af lánveitanda. Hér á eftir verður orðið veðlán notað fyrir bæði endurhverf viðskipti og skammtímaveðlán sem eru sambærileg endurhverfum viðskiptum.Veðlánamarkaðurinn hefur aukist mjög að mikilvægi á alþjóðavísu á síðustu árum. Hann tvöfaldaðist að stærð frá árinu 2002 til 2007 og námu heildarskuldbindingar hans sem voru útistandandi í lok árs 2007 um 20.000 milljörðum dollara í Evrópu og Bandaríkjunum samanlagt. Þessi lán bera yfirleitt mjög lága vexti sökum þeirra veða sem liggja á bak við þau. Áhættan sem þeim fylgir er þó nokkur og felst fyrst og fremst í því sem kallast markaðsáhætta, það er að verð undirliggjandi veðs breytist á líftíma lánsins.Vextirnir ráðast af almennum markaðsaðstæðum, líftíma lánsins og öryggi veðsins ásamt nokkrum öðrum þáttum.Til að verja sig fyrir sveiflum í markaðsverði veðsins taka lánveitendur almennt frádrag (e. haircut) af lánunum. Sem dæmi um þetta má nefna að Seðlabanki Íslands var með 1% frádrag á ríkisskuldabréfum á gjalddaga innan tveggja ára en með 2% frádrag á skuldabréfum bankanna með sömu gjalddaga. Þetta helgast af því að ríkisskuldabréf eru álitin öruggari veðkostur. Munurinn getur líka verið vegna líftíma lánsins. Þannig var til dæmis 7% frádrag á langtímaskuldabréfum bankanna. Þetta helgast af því að verð á skuldabréfum er næmara fyrir vaxtaflökti eftir því sem líftími þeirra er lengri.
Þegar lausafjárkreppan skall á fékk þessi fjármögnunarkostur aukna þýðingu, meðal annars vegna þess að lánveitendur sáu sér ekki fært að lána fé öðruvísi en gegn tryggum veðum, þ.e. óveðtryggði millibankamarkaðurinn hrundi og eftir stóðu veðlánin. Það urðu þó nokkrar breytingar á markaðnum þar sem auknar áhyggjur af mótaðilanum (lántakandanum) urðu til þess að líftími veðlánanna var styttur, frádrag hækkað og almennt voru ríkari kröfur gerðar um gæði innlagðra verðbréfa. Seðlabankar heimsins veittu í auknum mæli lausafjárfyrirgreiðslu á þessu formi til að koma í veg fyrir að lausafjárkreppan ylli víðtækum gjaldþrotum fjármálastofnana. Hjá Seðlabanka Bandaríkjanna jukust fyrirgreiðslurnar á þessu formi mest vorið 2008 þegar þær fóru úr því að vera milli 20 og 40 milljarðar dollara í um og yfir 120 milljarðar dollara eins og mynd 46 sýnir. Þessu til viðbótar komu Seðlabanki Bandaríkjanna (11. mars 2008, "Term Securities Lending Facility") og Seðlabanki Bretlands (21. apríl 2008, "Special liquidity scheme") á fót skuldabréfaviðskiptum þar sem fjármálastofnanir áttu kost á að koma með fyrirfram skilgreind markaðsverðbréf og skipta á þeim og ríkisskuldabréfum. Þetta var gert í því augnamiði að liðka fyrir veðlánsviðskiptum milli fjármálastofnana sem höfðu í auknum mæli neitað að taka við neinu nema ríkisskuldabréfum í slíkum viðskiptum.
Þessar nýju reglur útskýra meðal annars af hverju aukningin á endurhverfum viðskiptum Seðlabanka Bandaríkjanna stöðvast vorið 2008, eins og fram kemur á mynd 46. Alls urðu þessi skuldabréfaviðskipti hæst um 200 milljarðar dollara í Bandaríkjunum og í Bretlandi fóru þau upp í um 200 milljarða punda (360 milljarða dollara) í september 2008.
Mynd 47 sýnir endurhverf viðskipti fjármálastofnana í Evrópu. Þar jukust veðlánaveitingar úr um 280 milljörðum evra í júlí 2007 í um 350 milljarða evra við fall Lehman Brothers í september 2008.Veðlán jukust einnig mjög hjá íslensku bönkunum á þessum tíma. Í lok árs 2006 og fram á mitt ár 2007 voru stóru íslensku bankarnir þrír með um tvo milljarða evra í veðlán, eins og mynd 48 sýnir. Um leið og lausafjárkreppan hófst byrjuðu þessi veðlán að aukast hratt og fóru úr tveimur milljörðum evra í yfir níu milljarða evra á síðustu 15 mánuðunum fram að falli bankanna. Á sama tíma stækkuðu bankarnir ekkert þannig að hlutur veðlána jókst úr 2% í 9% af heildarskuldum bankanna. Mesta hlutfallslega aukningin var hjá Glitni og vó það upp á móti því að þar var minna um söfnun erlendra innlána en hjá hinum bönkunum tveimur.
Í eftirfarandi undirköflum verður farið yfir veðlán stóru íslensku bankanna þriggja. Fyrst verður fjallað um veðlán hjá Seðlabanka Íslands, þar næst er farið yfir veðlán þeirra hjá Seðlabankanum í Lúxemborg en slík lán eru í raun veðlán frá Seðlabanka Evrópu og að lokum verður farið yfir önnur veðlán bankanna frá öðrum fjármálastofnunum.
7.6.1 Veðlán hjá Seðlabanka Íslands
Fjallað er um veðlán Seðlabanka Íslands í kafla 4.0 svo hér verður einungis stiklað á stóru út frá fjármögnunarsjónarmiði veðlánanna. Eins og áður hefur komið fram veitti Seðlabanki Íslands fjármálafyrirtækjum vikulega lausafjárfyrirgreiðslu á veðlánsformi. Þau verðbréf sem eru gjaldgeng í þessum lánum eru meðal annars ríkisskuldabréf (RIKV, RIKS, Ríkisbréf og Innistæðubréf), Íbúðalánasjóðsbréf (HFF) og bréf fjármálafyrirtækja. Rétt er að árétta að veðlán hjá Seðlabanka Íslands eru veitt í íslenskum krónum. Um mitt ár 2006 voru bankarnir þrír samtals með um og yfir 100 milljarða króna í veðlánum frá Seðlabanka Íslands, eins og fram kemur á myndum 49 og 50. Hlutur Landsbankans jókst allt það ár og allt fram að áramótum 2007 þegar Landsbankinn einn var með um 100 milljarða króna en hinir tveir bankarnir voru í litlum veðlánsviðskiptum við Seðlabankann. Eftir áramótin breyttist þetta mikið þegar bæði Kaupþing og Glitnir juku verulegu lántöku sína hjá Seðlabankanum. Þá fór heildarlántakan mest upp í um 200 milljarða króna eða tæplega tvo milljarða evra í apríl 2008.
Reglum um veðlán var breytt nokkrum sinnum á árinu 2008. Fyrst í janúar voru verðbréf í erlendum gjaldmiðlum heimiluð og reglur um sértryggð skuldabréf rýmkaðar. Í mars var svo fallið frá þeirri kröfu að útgefendur skuldabréfanna yrðu að hafa lágmarkslánshæfismat heldur var látið nægja að sértryggð skuldabréf hefðu lánshæfismatið. Þetta var í takt við það sem þá gerðist hjá öðrum seðlabönkum í hinum vestræna heimi. Eða eins og Sturla Pálsson, framkvæmdastjóri alþjóða- og markaðssviðs Seðlabanka Íslands, sagði við skýrslutöku: "Við vorum búnir að opna á allt, við vorum, kjallarinn í Seðlabankanum er fullur af brettum með handhafaskuldabréfum [...] við tókum af þeim allt sem þeir gátu afhent."
Bankarnir þrír nýttu sér þessar breytingar eins og sjá má þegar litið er til undirliggjandi veða hjá bönkunum þremur. Á myndum 51 og 52 má sjá undirliggjandi veð í veðlánum Glitnis og Kaupþings við Seðlabanka Íslands. Þar má sjá að bæði Glitnir og Kaupþing hafa nær eingöngu notað bréf Íbúðalánasjóðs til veðlána allt fram í mars 2008 en þá byrja báðir þessir bankar að auka verulega veðlánatöku sína og þá fyrst og fremst með veðum í sértryggðum skuldabréfum. Þó er Kaupþing með Glitnisbréf inni sem veð hjá Seðlabankanum nær allt árið og um 40 milljarða króna af Landsbankabréfum undir það síðasta. Leiða má líkur að því að Landsbankabréfin hafi komið út úr Seðlabankanum í Lúxemborg þar sem þau eru í erlendri mynt og bankabréfum var úthýst þaðan um mitt sumar 2007. Nánar verður vikið að þessu í næsta kafla.
Landsbankinn er með nokkuð ólíkt mynstur miðað við hina bankana tvo, eins og sjá má á mynd 53. Í fyrsta lagi er hann með skuldabréf frá Landsvirkjun inni sem veð allt frá miðju ári 2006 en það sem vekur meiri athygli eru jöklabréfin sem bankinn er með inni sem veð allt frá því vorið 2007. Þessi jöklabréf voru gefin út af austurríska ríkinu, RABO-bankanum og KFW-bankanum. Þar með var Seðlabanki Íslands óbeint að lána þessum aðilum með milligöngu Landsbanka Íslands. Um vorið 2008 dró mjög úr veðlánatöku Landsbankans hjá Seðlabankanum og var hún orðin nánast engin um sumarið. Þetta segir hins vegar aðeins hálfa sögu um skuldastöðu bankans og tengist m.a. flutningi skuldabréfa til hollensks dótturfélags í eigu bankans að nafni Avens, en að þeim viðskiptum verður vikið hér á eftir.
Eins og sagt er frá í kafla 4.0 tóku bankarnir þrír einnig lán frá Seðlabanka Íslands óbeint í gegnum aðrar lánastofnanir og þá sérstaklega Icebank. Eins og sjá má á mynd 54 jók Icebank verulega lántöku með veði í skuldabréfum gefnum út af Landsbanka Íslands á sama tíma og Landsbanki Íslands minnkaði sín veðlán hjá Seðlabankanum. Icebank var einnig með veðlán á móti, á milli 30 og 40 milljarða króna af skuldabréfum Glitnis, allt árið 2008. Skuldabréf Kaupþings komu inn í auknum mæli um sumarið og náðu mest upp í um 40 milljarða króna í byrjun október 2008.
Eins og sjá má á síðustu myndum var mikið af bankabréfum inni í Seðlabanka Íslands allt árið 2008 og þá einnig við fall bankanna. Í júlí 2008 sendir Seðlabanki Íslands samhljóða bréf til bankanna þar sem fram kemur að vegna aukningar á notkun óvarðra bankaskuldabréfa sem veða síðustu mánuðina, sem sögð er "að hluta skiljanleg í ljósi erfiðra aðstæðna á innlendum og erlendum fjármálamörkuðum", hafi Seðlabankinn tekið þá ákvörðun að taka ekki inn fleiri slík bréf frá og með 17. júlí nema að undangenginni sérstakri athugun. Þetta var gert í því augnamiði að auka gæði veðbókar bankans, samkvæmt því sem fram kemur í bréfinu. Því til viðbótar kemur fram að "sett verða fjárhæðamörk á hvern útgefenda [skuldabréfs] fyrir sig og fjármálafyrirtækjum gefinn ákveðinn tími til að laga sig að breyttum reglum". Samhliða þessu ætlaði Seðlabankinn að "breyta reglum um veð til þess að auðvelda fjármálafyrirtækjum notkun varinna skuldabréfa í viðskiptum við bankann". Glitnir var með lítið af óvörðum skuldabréfum bankanna inni á þessum tíma og hélst það óbreytt fram að falli. Landsbankinn veðsetur ný Glitnisbréf í ágúst fyrir tæpa átta milljarða króna 13. ágúst en þau bréf eru fljótt farin út aftur. Kaupþing veðsetur tæpa 46 milljarða af skuldabréfum Glitnis daginn áður en þetta bréf er dagsett og eykur þá upphæð um tæpa tíu milljarða fram að falli. Hjá Icebank minnka lán gegn veði í skuldabréfum Glitnis og haldast nær óbreytt í veðum í skuldabréfum Landsbankans. Lán frá Seðlabankanum til Icebank með veðum í skuldabréfum Kaupþings aukast hins vegar verulega, úr 22 milljörðum 16. júlí 2008 í 39 milljarða 24. september 2008. Hjá þessum fjórum bönkum minnka veðlán frá Seðlabanka Íslands til þeirra gegn veðum í óvörðum skuldabréfum bankanna óverulega, eða um sex milljarða á þessu tímabili, frá 206 milljörðum 16. júlí 2008 í 200 milljarða 24. september 2008. Þar munar mest um samdrátt í lánum gegn skuldabréfum Glitnis banka (18 milljarða samdráttur), á meðan veð í skuldabréfum Kaupþings og Landsbanka aukast töluvert.
Lítið af ríkisskuldabréfum er sett að veði hjá Seðlabanka Íslands en það á rætur sínar að rekja til þess hversu lítið var gefið út af slíkum bréfum á síðustu árum.Til samanburðar eru yfir 80% af veðlánum í Evrópu með ríkisskuldabréf sem undirliggjandi veð. Því má einnig bæta við að allt fram til 19. september 2007 tók Seðlabanki Bretlands einungis bresk ríkisskuldabréf eða betri bréf sem veðhæf í veðlánum. Þegar reglur um möguleg veð voru síðar rýmkaðar 19. september 2008 voru bankabréf ekki á meðal veðhæfra bréfa þar.
7.6.2 Veðlán hjá Seðlabanka Evrópu
Seðlabanki Evrópu hafði á boðstólum tvenns konar veðlán á tímabilinu sem skoðað verður (daglán eru ekki tekin með). Þetta er annars vegar það sem þeir kalla "main refinancing operations" (MRO) sem eru skammtímaveðlán veitt reglulega til einnar viku í senn og hins vegar "longer-term refinancing operations" (LTRO) sem eru veðlán til þriggja mánaða eða lengur. Bankar í Evrópu nýta sér þessar fyrirgreiðslur í gegnum seðlabanka þess lands þar sem þeir eru staðsettir. Þar sem Kaupþing, Glitnir og Landsbankinn voru með dótturfélög í Lúxemborg höfðu þeir aðgang að lausafjárlánum frá Seðlabanka Evrópu í gegnum Seðlabankann í Lúxemborg.
Seðlabanki Evrópu jók sín hefðbundnu veðlán ekki mikið í upphafi lausafjárkrísunnar (mitt ár 2007) heldur voru þau stöðug og námu um 400 milljörðum evra (mynd 55). Það var í raun ekki fyrr en eftir fall Lehman Brothers um miðjan september 2008 að veruleg aukning varð á lausafjáraðstoð í formi veðlána. Á aðeins tveimur mánuðum, frá 1. september til 1. nóvember 2008, fór summa skammtíma- og langtímaveðlána úr um 500 milljörðum evra í 900 milljarða evra. Þróunin hjá Seðlabankanum í Lúxemborg er sveiflukenndari.Veðlánin aukast nokkuð í ágúst 2008 en svo er ekki að sjá neina aukningu eftir fall Lehman Brothers (mynd 56).
Þetta var alls ekki raunin hjá íslensku bönkunum sem allir juku verulega lántökur sínar hjá Seðlabanka Evrópu í upphafi árs 2008. Eins og mynd 57 sýnir fara lántökur íslensku bankanna þriggja úr því að vera um einn milljarður evra í upphafi ársins í að vera mest um 4,6 milljarðar evra um mitt ár 2008. Hér á eftir verður rakið hvernig bankarnir juku veðlán sín hjá Seðlabanka Evrópu og hver ástæðan var fyrir þeim samdrætti sem verður upp úr miðju ári 2008.
Um áramótin 2007/2008 voru Glitnir og Landsbankinn með töluverðar fjárhæðir að láni hjá Seðlabanka Evrópu. Meginmunurinn á þessum lánum var að Glitnir var eingöngu með skuldabréf Landsbanka Íslands að veði hjá Seðlabanka Evrópu en Landsbankinn var með erlend skuldabréf að veði hjá bankanum. Erlendu skuldabréfin sem Landsbankinn fór að fjármagna í gegnum Seðlabanka Evrópu höfðu upphaflega verið hugsuð sem lausafjáreign á móti Icesave reikningum bankans í Englandi (sjá umfjöllun í kafla 18.0), en þegar hér er komið er lausafjárþörf bankans orðin svo mikil að ganga þurfti á þennan varasjóð. Í stað þess að selja bréfin var frekar brugðið á það ráð að veðsetja Seðlabanka Evrópu þau.
Í mars 2008 byrja bankarnir að skiptast á skuldabréfum gefnum út í erlendum myntum í þeim tilgangi að nota þau sem veð fyrir lánum frá Seðlabanka Evrópu. Glitnir gaf út 750 milljónir evra í mars 2008 (20. mars og 27. mars).Við útgáfu voru bréfin ekki seld svo þau voru ekki færð í bækur bankans. Í stað þess að selja þessi skuldabréf voru þau lánuð með verðbréfaláni til Landsbankans, 500 milljónir evra, og til Kaupþings, 250 milljónir evra. Þrátt fyrir þetta voru bréfin ennþá ekki færð í bókhald bankans. Glitnir fékk á móti tryggingu í formi reiðufjár frá Landsbankanum en verðbréfalán á móti frá Kaupþingi. Í fundargerð "asset and liability committee" frá 16.apríl 2008 er talað um þetta sem skuldabréfa-"swap".Að gefnu tilefni vill rannsóknarnefnd Alþingis að það komi fram að þessi skuldabréfaútgáfa var með í grunngögnum frá Glitni til rannsóknarnefndar Alþingis frá upphafi. Skuldabréfin að upphæð 500 milljónir evra sem Landsbankinn fékk að láni voru komin út til Landsbankans í Lúxemborg og þaðan inn í Seðlabanka Evrópu sem veð á móti láni strax um mánaðamótin mars/apríl 2008. Landsbanki Íslands nýtti þau sem veð fram í júlí 2008 en það kemur fram hér síðar af hverju þessi bréf voru ekki nýtt eftir það. Kaupþing lagði 200 milljóna evra skuldabréf inn í Seðlabanka Evrópu í apríl en hætti einnig að nýta þau sem veð upp úr miðju sumri.
Kaupþing gaf einnig út evruskuldabréf vorið 2008, nánar tiltekið 2. apríl. Samtals var útgáfan 500 milljónir evra í þremur útgáfum. Öll þessi bréf enda í Landsbankanum í Lúxemborg sem verðbréfalán frá Landsbanka Íslands og þaðan eru þau notuð sem veð fyrir lántöku hjá Seðlabanka Evrópu allt fram á mitt sumar. Sama dag og Kaupþing gaf út sín skuldabréf gaf Landsbankinn einnig út 500 milljarða evra skuldabréf. Af því keypti Kaupþing 425 milljarða evra og lagði inn sem veð gegn láni hjá Seðlabanka Evrópu í apríl en sú upphæð lækkaði svo í 250 milljónir evra.
Þessi skuldabréf voru öll gefin út á vöxtum langt fyrir neðan skuldatryggingarálag bankanna eða á milli 275 og 350 pkt. álagi. Á þessum tíma var skuldatryggingarálag íslensku bankanna á milli 600 og 950 pkt.Vakti þetta nokkra athygli enda benti Seðlabanki Íslands sérstaklega á það í minnisblaði, sem sent var erlendum seðlabankastjórum með bréfi, sem merki um að skuldatryggingarálög bankanna gæfu ekki rétta mynd af fjármögnunarkostnaði bankanna. Þá er vert að benda á að Kaupþing gaf út skuldabréf að upphæð 775 milljónir dollara 10. mars 2008 með Deutsche Bank sem miðlara. Þessi bréf voru gefin út með 607 pkt. álagi sem var einungis um 65 pkt. undir skuldatryggingarálaginu þann daginn. Í skýrslu Hreiðars Más Sigurðssonar, forstjóra Kaupþings, fyrir rannsóknarnefndinni 21. júlí 2009 kom fram að bankarnir hefðu átt samtöl og sammælst um þessa hugmynd, [að skiptast á skuldabréfum], en þeim hafði verið tjáð að bankar annars staðar í Evrópu væru að skiptast á skuldabréfum og nota sem tryggingar fyrir fjármagni frá Seðlabanka Evrópu, þ.e. svokölluð "ástarbréf". Hann hefði rætt þetta við Sigurjón Þ. Árnason, bankastjóra Landsbankans, en síðan hefði Guðni Níels Aðalsteinsson, framkvæmdastjóri fjárstýringar Kaupþings, og Jón Þorsteinn Oddleifsson, forstöðumaður fjárstýringar hjá Landsbankanum, tekið við málinu.
Veðlán íslensku bankanna hjá Seðlabanka Evrópu jukust um 2,5 milljarða evra frá upphafi febrúar 2008 til loka apríl 2008. Ljóst er að þessi aukning vakti athygli hjá Seðlabanka Evrópu. Í lok apríl, nánar tiltekið föstudaginn 25. apríl um klukkan tvö eftir hádegi, hringdi seðlabankastjóri Evrópu, Jean-Claude Trichet, í Davíð Oddsson. Klukkutíma síðar var Davíð Oddsson búinn að boða til sín á fund forstjóra Fjármálaeftirlitsins, Jónas Fr. Jónsson, og stjórnendur bankanna þriggja, þá Sigurjón Þ. Árnason, Sigurð Einarsson og Lárus Welding.Fundinn sátu af hálfu Seðlabanka Íslands Davíð Oddsson, Ingimundur Friðriksson, Jón Þ. Sigurgeirsson, Sturla Pálsson og Tryggvi Pálsson. Í drögum að fundargerð kemur fram að Davíð Oddsson hafi tjáð viðstöddum að fundurinn væri haldinn til að ræða símtal Jean-Claudes Trichet. Hefði Trichet verið mikið "niðri fyrir, hálf æstur". Hefði hann sagt að íslensku bankarnir væru með hátt í fjóra milljarða evra í veðlán í gegnum Seðlabanka Lúxemborgar. Davíð Oddsson sagði jafnframt að Trichet hefði sagt að hluti bréfanna sem lögð væru að veði væru "abnormal, artificial".Trichet hefði því næst krafist fundar með fulltrúum íslensku bankanna, fulltrúum Seðlabanka Íslands og fulltrúum Fjármálaeftirlitsins mánudaginn 28. apríl. Davíð Oddsson lýsti yfir áhyggjum af því að þetta myndi hafa áhrif á gjaldeyrisskiptasamninga við Norðurlöndin sem voru svo gott sem í höfn. Jónas Fr. Jónsson sagðist ekki þekkja reglur Seðlabanka Evrópu en að hann gerði nú ráð fyrir að bankarnir væru "innan formreglna ECB". Sturla Pálsson sagðist ekki sjá "hvað [væri] "artificial" en síðan fóru fulltrúar bankanna að ræða íslensku bankaskuldabréfin. Sigurður Einarsson sagði að Kaupþing væri að nota Glitnisbréf í veðlán sem samkvæmt gögnum rannsóknarnefndarinnar voru um 200 milljónir evra. Hann sagði jafnframt að þeir hefðu verið að búa sig undir að leggja inn bréf frá Landsbankanum að upphæð 425 milljónir evra. Samkvæmt gögnum rannsóknarnefndarinnar voru þessi bréf komin inn í Seðlabanka Evrópu þegar hér var komið. Þannig var Kaupþing með um 625 milljónir evra í íslenskum bankabréfum veðsett hjá Seðlabanka Evrópu. Sigurjón Þ. Árnason, bankastjóri Landsbankans, segir að Landsbankinn hafi verið "með stærri upphæðir en þetta örugglega". Samkvæmt gögnum rannsóknarnefndar Alþingis var Landsbankinn búinn að leggja inn skuldabréf á Glitni sem námu 500 milljónum evra og skuldabréf á Kaupþing sem námu 580 milljónum evra í Landsbankann í Lúxemborg. Ekki er ljóst hversu stór hluti af þessum bréfum hafði þá verið lagður inn hjá Seðlabanka Evrópu en að meðaltali var Landsbankinn í Lúxemborg með að veði þar um helming skuldabréfa í sinni vörslu á þessum tíma. Lárus Welding sagði að Glitnir væri með 600 milljónir evra í gegnum Lúxemborg. Samkvæmt gögnum rannsóknarnefndarinnar voru veðin á móti því láni meðal annars skuldabréf að upphæð um 100 milljónir evra á Kaupþing og skuldabréf að upphæð um 235 milljónir evra á Landsbankann. Samtals námu því íslensk bankabréf sem lögð höfðu verið að veði í Seðlabanka Evrópu um 1,5 milljörðum evra á þessum tíma. Á miðjum fundi var Davíð Oddsson kallaður frá til að ræða við seðlabankastjóra Lúxemborgar. Þegar Davíð kom aftur á fundinn upplýsti hann fundarmenn um að hann hefði tjáð seðlabankastjóra Lúxemborgar að það væri ekki krísa í gangi. Almennt virtist seðlabankastjóri Lúxemborgar hafa áhyggjur af magni lánanna þar sem íslensku bankarnir voru komnir með vel rúmlega 10% af öllum veðlánum í gegnum Lúxemborg á sama tíma og þeir voru einungis um 1,7% af heildarstærð bankakerfisins þar.
Mánudaginn 28. apríl 2008 ræddu forsvarsmenn bankanna ásamt Sturlu Pálssyni frá Seðlabanka Íslands og Árna Huldari Sveinbjörnssyni, starfsmanni Fjármálaeftirlitsins, við fulltrúa Seðlabanka Lúxemborgar á fundi ytra. Þar kom fram að bæði umfang og gagnkvæmni í bréfasafni íslensku viðskiptabankanna vekti athygli. Samkvæmt minnisblaði frá Ingimundi Friðrikssyni náðist samkomulag á þessum fundi.Við skýrslutöku sagði Ingimundur að samið hefði verið um ákveðið hámark.
Samkomulagið var meðal annars um það að íslensku bankabréfin mættu ekki nema meira en 40% af þeim veðum sem lögð voru inn í Seðlabanka Evrópu. Upp úr þessu fara bankarnir að huga að öðrum mögulegum veðum til að leggja inn hjá bankanum. Hjá Landsbanka og Glitni urðu eignavarin skuldabréf fyrir valinu.
7.6.2.1 Glitnir, eignavarin skuldabréf
Glitnir var fyrstur til að búa til eignavarin skuldabréf (e. asset securitisation via SPV) sem síðan fengu lánsmat frá matsfyrirtækjum. Tilgangur þessa var að breyta illseljanlegum eignum í eignir sem væru veðhæfar inn í Seðlabanka Evrópu og að breyta eignum sem væri hægt að nota sem veð inn í Seðlabanka Íslands í eignir sem væri hægt að veðsetja inn í Seðlabanka Evrópu.Aðferðin sem Glitnir notaði er vel þekkt. Eignastrúktúrarnir voru settir upp á Írlandi þar sem Írland er hluti af Evrópusambandinu. Eignastrúktúrarnir taka við eignasafni frá Glitni sem gefur svo út skuldabréf, stundum með mismunandi forgangskröfu á þessar eignir. Þannig er búið að eyrnamerkja þessar eignir á móti þessum skuldabréfum eða verðbréfaeignum. Á skýringarmyndinni er gert ráð fyrir útgáfu forgangsskuldabréfs og víkjandi skuldabréfs. Matsfyrirtæki er fengið til að gefa forgangsskuldabréfinu lánsmatseinkunn sem er nauðsynleg til að bréfið sé veðhæft inn í Seðlabanka Evrópu. Glitnir gat því lagt eignavarða skuldabréfið inn sem veð í Seðlabanka Evrópu gegn evruláni. Þannig var Seðlabanki Evrópu kominn með trygg veð sem komin voru með gæðastimpil frá matsfyrirtæki. Hver áhrifin af þessu gátu orðið fyrir aðra kröfuhafa Glitnis verður vikið að í ályktunum.
Viðbótarflækja var oft á þessum strúktúrum þar sem eignirnar sem Glitnir (eða Landsbankinn, sjá síðar) setti inn í þessa eignastrúktúra voru í hinum ýmsu gjaldmiðlum. Oftar en ekki voru þær í íslenskum krónum en Seðlabanki Evrópu tekur einungis við skuldabréfum sem eru í evrum. Það þurfti því að umbreyta tekjustreymi frá þessum eignum yfir í evrur til að eignastrúktúrinn gæti gefið út skuldabréf í evrum. Þetta var almennt gert með gjaldmiðlaskiptasamningi við Glitni sjálfan. Markmiðið með því leggja eignir úr Glitni að veði var að tryggja réttarstöðu kröfuhafa, hér Seðlabanka Evrópu. Réttarstaða kröfuhafans var þó ekki fyllilega tryggð þar sem veðið var að einhverju leyti eignir í íslenskum krónum eða öðrum gjaldmiðlum. Ef til greiðslufalls Glitnis kæmi gæti bankinn ekki staðið við gjaldmiðlaskiptasamninginn. Það er því ljóst að veð með gjaldmiðlaskiptasamningi við lántakandann sjálfan er jafngilt veði án gjaldmiðlaskiptasamnings við slíkar aðstæður, það er veð í öðrum gjaldmiðlum en evrum. Það eru veð sem Seðlabanki Evrópu tekur ekki gild. Öðru máli hefði gegnt ef Glitnir hefði getað tryggt eignastrúktúrnum gjaldmiðlaskiptasamning við annan banka sem ekki hefði lent í greiðslufalli samtímis Glitni. Nánar verður vikið að þessu í ályktunum.
Að lokum má nefna að þessi verðbréfun breytti engu í reikningshaldi Glitnis. Þar sem Glitnir átti eignastrúktúrinn að fullu var hann í heild á efnahagsreikningi bankans. Undirliggjandi eignir voru því enn á efnahagsreikningi bankans og endurhverfa lánið kom einungis inn sem lán gegn veði.
Fyrsti eignastrúktúrinn, Holt, innihélt eignir sem voru innlendar eignir að um það bil einum þriðja hluta, breskar eignir að einum þriðja og einn þriðji hluti annað. Glitnir gerði gjaldmiðlaskiptasamning við Holt þar sem hann skuldbatt sig til að skipta krónum og öðrum gjaldmiðlum yfir í evrur á gjalddaga. Holti var síðan skipt upp í forgangsskuldabréf (A-hluti) á fyrsta veðrétti sem var að nafnvirði 585 milljónir evra og víkjandi skuldabréf (B-hluti) sem var að nafnvirði 305 milljónir evra. Ef tap verður á eignunum lendir það fyrst á B-hlutanum þar sem A-hlutinn er skuldabréf á fyrsta veðrétti. A-hlutinn fékk svo lánsmatseinkunnina A+ hjá S&P. Glitnir í Lúxemborg lagði 210 milljóna evra skuldabréf úr Holti fyrst að veði 22. maí 2008 og fékk á móti 90 daga veðlán að upphæð 200 milljónir evra. Síðan voru skuldabréf á fyrsta veðrétti í Holt nýtt betur í júlí, eins og sjá má á mynd 58 hér framar. 10. júlí bættist svo við eignavarið skuldabréf frá Holm að nafnvirði 174 milljónir evra. Þriðji og síðasta eignastrúktúrinn, Haf, var fyrst nýttur að einhverju marki í veðlán hjá Seðlabanka Evrópu um miðjan september 2008. Þessi strúktúr innihélt lán að nafnvirði 966 milljónir evra sem voru að mestu leyti til íslenskra lántakenda (um þrír fjórðu hlutir). Eins og áður var gerður gjaldmiðlaskiptasamningur milli Glitnis og Hafs þar sem Glitnir skuldbatt sig til að breyta öðrum gjaldmiðlum en evrum í evrur á gjalddaga og í þessu tilviki fól það í sér, að mestum hluta, gjaldeyrisskipti úr krónum í evrur. Skuldabréfin sem gefin voru út af Hafi með fyrsta veðrétti (að nafnvirði 574 milljónir evra) fengu lánshæfiseinkunnina A1 hjá Moody's. Í töflu 6 má sjá 10 stærstu eignirnar í Hafi.
Holt- og Haf-strúktúrarnir koma báðir við sögu í kafla 20.0 þar sem fjallað er um beiðni Glitnis um fyrirgreiðslu frá Seðlabanka Íslands í lok september 2008. Eftir að í ljós kom að lánabók 561 væri ekki tæk sem veð bauð Glitnir Seðlabanka Íslands aðrar tryggingar gegn hinni umbeðnu fyrirgreiðslu. Í þessum seinni pakka Glitnis var að finna þrjú eignavarin skuldabréf, Hvalfell I, Hvalfell II og Hvalfell III, að nafnvirði samtals 1,35 milljarðar evra.Tvö af þessum eignavörðu skuldabréfum áttu að innihalda eða vera með sem "undirliggjandi eignir" annars vegar íslensk húsnæðislán í ýmsum gjaldmiðlum og hins vegar bíla- og tækjalán í ýmsum gjaldmiðlum. Lánin átti að selja inn í fjárfestingarsjóð (sökum tímaskorts var ekki hægt að búa til sérstakt félag) sem síðan myndi gefa út eignavörðu skuldabréfin til að leggja að veði inn í Seðlabanka Íslands. Fjárfestingarsjóðurinn varði sig svo fyrir gjaldeyrisáhættu með því að gera gjaldmiðlaskiptasamning við Glitni. Þriðja eignavarða skuldabréfið átti að vera með víkjandi skuldabréfin Holt og Haf sem undirliggjandi eignir. Samtals námu þessi víkjandi skuldabréf 698 milljónum evra eða voru rúmlega helmingur af nafnvirði þeirra veða sem Glitnir lagði fram. Eins og áður hefur komið fram voru Holt og Haf hvort um sig með rúmlega einn þriðja hluta nafnvirðis í víkjandi skuldabréfi (B-hluta). Það þýddi að ef um 35% tap hefði orðið á skuldabréfum Holts og/eða Hafs fengi víkjandi skuldabréfið ekkert í sinn hlut þar sem allt tap færi fyrst á það. Með eignasafn Hafs í huga má leiðar líkur að því að tapið gæti orðið verulegt ef veruleg áföll yrðu í rekstri bankanna. Það má þó jafnframt benda á að Holt var ekki með eins mikið af íslenskum eignum. 8. október var mat Glitnis á Hafi komið niður í um 475–602 milljónir evra frá upphaflegu nafnvirði, 966 milljónum evra. Þar sem fyrsti veðréttur var að nafnvirði 574 milljónir evra hefði þetta þýtt að heimtur fyrir skuldabréf á öðrum veðrétti yrðu að hámarki 28 milljónir evra.
7.6.2.2 Landsbankinn, eignavarin skuldabréf
Af bönkunum þremur sótti Landsbankinn hvað mest í fjármuni frá Seðlabanka Evrópu og hafði rúma tvo milljarða evra í veðlánum frá bankanum þegar mest lét, um mitt ár 2008. Þar munaði mikið um eignavarin skuldabréf gefin út af tveimur strúktúrum, það er Avens og Betula. Erlendir ráðgjafar aðstoðuðu Landsbankann við að búa til eignastrúktúrana eins og fram kom hjá forstöðumanni fjárstýringar Landsbanka Íslands í skýrslutöku hjá rannsóknarnefndinni: "Þetta náttúrlega er svo sem ekki séríslenskt fyrirbrigði, þeir komu hérna í röðum, erlendu bankarnir, að bjóðast til að aðstoða okkur við þetta allt saman, Credit Suisse aðstoðaði okkur í þessu, með þennan tiltekna strúktúr."
Avens-eignastrúktúrinn gaf út eignavarin skuldabréf 21. maí 2008 með Credit Suisse sem tilsjónarmann.Tilgangur þessarar útgáfu var að breyta skuldabréfum í íslenskum krónum í skuldabréf í evrum. Öll skuldabréfin úr Avens voru á fyrsta veðrétti, þ.e. það voru engin víkjandi skuldabréf gefin út af Avens þar sem undirliggjandi eignir þóttu öruggar. Höfuðstóllinn var rétt undir milljarði evra (938,3 milljónir evra). Inni í strúktúrnum, sem var einkafélag með takmarkaða ábyrgð skráð í Hollandi, voru skuldabréf sem áður voru í eigu Landsbanka Íslands. Þetta voru skuldabréf útgefin af Íbúða-lánasjóði að nafnvirði 57 milljarðar króna, ríkisskuldabréf að nafnvirði 28 milljarðar króna og skuldabréf á Raiffeisen-Boerenleenbank B.A. að nafnvirði 15 milljarðar króna. Samtals voru þetta bréf að nafnvirði 100 milljarðar króna sem voru á gjalddaga allt frá febrúar 2009 fram til júní 2044.
Til þess að breyta greiðsluflæðinu úr krónum yfir í evrur, svo hægt væri að nota þetta til endurhverfra viðskipta inni í Seðlabanka Evrópu, gerðu Avens og Landsbankinn með sér gjaldmiðlaskiptasamning sem kvað á um að Landsbankinn skipti á evrum fyrir krónur á þriggja mánaða fresti fram að lokagjalddaga bréfanna 2044 eða fram að því að skuldirnar voru uppgreiddar.
Í júní 2008 lagði Landsbankinn eignavarin skuldabréf frá Avens inn í Landsbankann í Lúxemborg. Í sama mánuði lagði Landsbanki Íslands eigna- varin skuldabréf frá öðrum eignastrúktúr, Betula, inn í Seðlabankann í Lúxemborg en sá strúktúr var með undirliggjandi eignir í erlendum gjaldmiðlum. Eins og með aðra strúktúra sem lýst hefur verið hér var gerður gjaldmiðlaskiptasamningur milli Betula og Landsbankans um að skipta öðrum gjaldmiðlum en evrum í evrur á gjalddaga. Betula var að nafnvirði 800 milljónir evra og var skipt í forgangsskuldabréf (500 milljónir evra) og víkjandi skuldabréf (300 milljónir evra). Í júní hækkuðu veðlán Landsbankans frá Seðlabanka Evrópu um 310 milljónir evra. Þessi eignavörðu skuldabréf fengu aukna þýðingu í júlí eftir að forsvarsmenn Seðlabanka Lúxemborgar komu til landsins til að ræða við bæði forsvarsmenn bankanna og seðlabankastjórana, eins og nú verður nánar vikið að.
Aftur er nú vikið að almennri umfjöllun um veðlán bankanna í Seðlabankanum í Evrópu. Í lok júní 2008 var Davíð Oddsson staddur í Basel í Sviss og hitti hann þá Yves Mersch, seðlabankastjóra Lúxemborgar (BCL). Davíð Oddsson lýsti fyrstu kynnum þeirra, við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis, á eftirfarandi hátt: "[É]g hafði ekki hitt hann en þá var ég kynntur fyrir honum og er rétt búinn að heilsa honum og segja eitthvað svona nice-tískt – fallegt veður í Basel eða eitthvað – og þá segir hann bara svona: Þitt bankakerfi – eins og það hét – er í miklum ógöngum." Síðar um kvöldið reyndi Davíð að fá útskýringu seðlabankastjórans á þessum orðum sem sagði þá að "hann teldi að íslenska bankakerfið væri á hraðri leið til glötunar og ætti enga von og hann markaði það af því hvernig þeir væru að reyna að ná í peninga í gegnum Lúxemborg frá Seðlabanka Evrópu".
Daginn eftir átti Davíð Oddsson fund með seðlabankastjóranum ásamt bankastjórum norrænu bankanna. Þá var ákveðið að Yves Mersch kæmi til Íslands nokkrum dögum síðar. Í skýrslu sinni sagði Davíð Oddsson síðan: "[Þ]að var dálítið merkilegt, því að það var mikið talað um það hér á landi, bæði bankamennirnir og stjórnmálamennirnir, að þetta væri svo erfitt fyrir þá, íslensku bankana, því að þeir hefðu bara aðgang að íslenskri krónu í gegnum Seðlabankann en hefðu ekki neinn aðgang að evrum, en þarna kom á daginn að þeir voru komnir með lánafyrirgreiðslu upp á 5 milljarða evra og það var ... eins og mér var bent á ... um þetta vissi ég ekki neitt." Samkvæmt drögum að fundargerð úr Seðlabanka Íslands var haldinn fundur 4.júlí með Yves Mersch,Nicolas Weber,sem var yfir veðlánum hjá Seðlabanka Lúxemborgar, og Frank Bisdorff frá fjármálaeftirlitinu í Lúxemborg. Fundinn sátu fyrir hönd Íslands Davíð Oddsson, Ingimundur Friðriksson, Sturla Pálsson og Jónas Fr. Jónsson. Samkvæmt þessum drögum er ljóst að Yves Mersch hafði orðið fyrir sínum mönnum og fór hann ekki í grafgötur með sína meiningu. Lýsti hann áhyggjum Seðlabanka Lúxemborgar yfir miklum vexti í veðlánstöku íslensku bankanna og að það hefði verið vöxtur í hverri viku að undanförnu. Hann lét einnig í ljós áhyggjur af því að íslensku bankarnir byðu ávallt hæstu vextina í evrópskum útboðum ("highest bidders in the euro system"). Hann lýsti því svo að þetta hefði byrjað í janúar með lágum upphæðum en vaxið hratt þarna strax um vorið og hefði náð upp í þrjá milljarða evra. Það væri meira en gjaldeyrisvaraforði Íslands sem hefði valdið þeim áhyggjum. Hann sagði að engin formleg ákvörðun um breytingar hefði verið gerð í apríl en að bankarnir hefðu sagst eiga nóg af öðrum veðum til að leggja inn í stað þeirra sem voru inni þá. Hann hefði gefið til kynna við bankana í apríl að það væri í lagi að vera með um 25% af veðunum í bankabréfum (ástarbréfum) en í stað þess að minnka bankabréfin hefðu bankarnir gert sér lítið fyrir og aukið heildarlántökuna.Til viðbótar við þau veð sem voru fyrir inni "komu inn strúktúrar, með kannski hálfri blaðsíðu um þá og engar upplýsingar um undirliggjandi eignir". "Við höfum engar almennilegar upplýsingar um þetta." Hann hefði haldið áfram reiðilestri sínum með því að segja að núna væru um fimm milljarðar evra útistandandi í lánum til bankanna og að Landsbanki Íslands væri hæstbjóðandi í öllu evrópska veðlánakerfinu. Frá því í apríl hefðu bankarnir hver um sig gert eftirfarandi:
- Kaupþing hefði greitt niður 300 milljónir evra en síðan komið inn með um 450 milljónir evra í ný veð. Þeir virtust vera í lagi, með minnst að láni af bönkunum þremur.
- Landsbankinn hefði greitt niður 200 milljónir evra en bætt við einum milljarði evra, þar af væru 900 milljónir evra í einhverjum strúktúr með engar upplýsingar. Undirliggjandi eignir væru ekki í evrum heldur kæmi þetta eignavarða skuldabréf með gjaldmiðlaskiptasamning þar sem þeir væru mótaðilinn. "Þetta gengur ekki lengur – við munum breyta reglum um útboð veðlána hjá evrópska seðlabankanum til að forðast slíka gjörninga."
- Glitnir greiddi niður 400 milljónir evra en bætti við 800 milljónum evra í eignavörðum skuldabréfum (strúktúrum) "sem við erum ekki vissir um hvað eru".
Síðan sagði hann að það yrði að verða viðsnúningur á þessu og það innan þriggja vikna. Hann vildi einnig fá fjármögnunaráætlun. Í fyrrnefndum drögum að fundargerð er síðan haft eftir honum: "I have an increasing bad feeling – no funding plan, worse collateral, increased eurosystem funding – I am not sure that this is just a liquidity situation – maybe something different [...] I have talked with our Nordic colleagues and know that this is not a feeling I have alone – either the banks are not liquid or do not want to restructure."
Yves Mersch hélt áfram og sagði að á þessum tímapunkti væri staðan sú að enginn banki vildi hafa íslensku bankana sem mótaðila í samningum en að þeir hefðu gjaldmiðlaskiptasamning á móti þeim! Það gæti þýtt tap fyrir þá og að hann myndi reyna að koma í veg fyrir slíkt. "Our exposure is far beyond the capital of the lender of last resort." Hann sagðist vilja að dregið yrði úr veðlánstöku um 25% í næstu viku – annars yrði gripið til aðgerða. Hann sagði að fulltrúar seðlabankanna þyrftu að setjast niður saman til að komast að einhverri niðurstöðu. Hann lýsti því næst yfir þeirri skoðun sinni að nauðsynlegt væri fyrir Seðlabanka Íslands að taka lán til að auka gjaldeyrisforða sinn jafnvel þó að það yrði ekki sársaukalaust en betra væri að taka lán núna en seinna. Í fyrrnefndum drögum að fundargerð er síðan haft eftir honum: "I am concerned that we do not have the presence of a lender of last resort". Þá tók Davíð Oddsson til máls og sagði að mikilvægt væri að komast að samkomulagi um þetta. Sturla Pálsson sagði einnig að það yrði hjálplegt ef ekki yrði lokað strax á lántökur bankanna og að þeir hefðu tíma til aðlögunar.
Yves Mersch benti þá á að það væri of mikil einföldun að tala alltaf um bankana þrjá saman. Hann spurði um eigendur bankanna og sagðist hafa upplýsingar um að sumir eigendur væru í verri stöðu en aðrir og að ein leið væri að að flytja fé til eigenda. Þessi umræða virðist ekki hafa náð lengra. Því næst tilkynnti hann að reglum um veðlán yrði breytt sérstaklega gagnvart eignavörðum skuldabréfum og gjaldeyrisskiptasamningum. Hann sagði að þar sem íslensku bankarnir væru mest í þessum strúktúrum myndi þessi breyting reynast þeim erfið. Að þeir myndu þurfa að finna þrjá milljarða evra á næstu sex mánuðum.
Jónas Fr. Jónsson spurði þá: "Have the banks breached the rules or have they breached the spirit of the rules or does it have to do with magnitude." Yves Mersch svaraði: "They may respect the letter – but not the spirit ...it is behavior that signals desperation – are they loosing money out somewhere?" Davíð Oddsson sagði að Yves Mersch hefði verið mjög hreinskilinn á fundum sínum með forsvarsmönnum bankanna til að þeir skildu hversu alvarleg staðan væri. Í skýrslu sinni fyrir rannsóknarnefnd Alþingis sagði Davíð Oddsson að þegar í ljós hefði komið að Seðlabanki Evrópu hugðist "skrúfa fyrir" fjármögnun í gegnum sig, "á [því] augnabliki held ég að ekki hafi verið aftur snúið".
Síðar um daginn fundaði Yves Mersch með forsvarsmönnum hvers banka fyrir sig. Eða eins og Sigurjón Þ. Árnason skýrði frá "ræddu þeir við hvern bankann á fætur öðrum og útskýrðu það að Seðlabanki Evrópu væri ekki "lender of last resort", við ættum að versla við Seðlabanka Íslands. Og að við værum ekki partur af Evrópubandalaginu [...] Hann fór bara röklega yfir málin, hann var ekki með nein leiðindi." Sigurjón sagði jafnframt að það hefði komið fram að þeir væru "highest bidders" í evrópska veðlánakerfinu, og sagði hann að það hefði komið honum nokkuð á óvart, "við vissum ekki af því, en við vildum auðvitað tryggja að við misstum ekki fjármögnunina að sjálfsögðu." "Hann sagði að við þyrftum að borga til baka og við sögðum OK, þá verðum við bara að gera það. Maður hugsaði að þetta væri nú ekki það sem íslenska kerfið þyrfti á að halda að þarna væri búið að takmarka enn frekar fjármunaöflun okkar. En við hugsuðum, þetta er þá bara svona, þá gerum við þetta bara, ekki getum við slegist við þá." Jón Þorsteinn Oddleifsson, sem einnig fór á fundinn með Sigurjóni, sagði að það hefði verið fundið að því að gjaldmiðlaskiptasamningurinn væri á móti Landsbankanum sjálfum enda færi svo að Landsbankinn yrði gjaldþrota myndi Seðlabanki Evrópu enda með eignir í krónum. Því var óskað eftir að nýr mótaðili yrði fundinn fyrir gjaldmiðlaskiptasamninginn. "Það er skemmst frá því að segja að það gekk ekki," sagði Jón.
Að sögn Vilhelms Más Þorsteinssonar, framkvæmdastjóra fjárstýringar Glitnis, lýsti seðlabankastjóri Lúxemborgar yfir "áhyggjum sínum [af því] hvað þetta [veðlánin hefðu] vaxið hratt á skömmum tíma, sem var auðvitað bara eðlilegt af því að ég held að við höfum byrjað á þessu kannski í maí eða eitthvað svoleiðis og hérna, eitthvað, einhver bréf voru þarna líka inni sem þeir sögðu okkur að þeir vildu ekki sjá, og ef ég man rétt að þá ætluðu þeir að gefa okkur fram til loka ágúst til þess að taka þau bréf [bréf á Kaupþing] út. Skilaboðin voru hins vegar skýr, að þeir vildu ekki sjá þessa upphæð vaxa."
Yves Mersch sendi bönkunum bréf fyrir þennan fund, sem dagsett var 30. júní, en í því segir hann meðal annars að fyrir 15. júlí eigi magn bankabréfa að vera komið niður í 25% og síðan eigi þau að hverfa með öllu sem fyrst og að fylgst verði með að svo verði gert. Útskýrir hann að til þessara aðgerða sé gripið vegna þess hversu tengdir íslensku bankarnir séu og að það sé þeim mikið áhyggjuefni út frá sjónarmiði áhættustýringar. Í bréfinu segir: "In the event of difficulties encountered by any of the involved banks, there would be a significant likelihood that the other banks would be impacted."
Strax í lok júlímánaðar voru nær öll bankabréfin komin út úr Seðlabanka Evrópu, en strúktúrarnir voru enn þar inni með gjaldmiðlaskiptasamningum við bankana sjálfa og var engin breyting þar á fram að falli bankanna í byrjun október. Í byrjun september 2008 tilkynnti Seðlabanki Evrópu að reglum um veðlán yrði breytt. Áttu þessar nýju reglur, sem var fyrst og fremst beint gegn eignavörðum skuldabréfum, að taka gildi 1. febrúar 2009. Ein af ástæðunum fyrir þessum breyttu reglum var að Seðlabanki Evrópu var með minni kröfur um veð en Seðlabanki Bretlands og Seðlabanki Bandaríkjanna. Því var sú áhætta fyrir hendi að bankar í sífellt erfiðari lausafjárvanda myndu nýta sér það til að leggja verstu veðin inn í Seðlabanka Evrópu eins og þeir virðast hafa óttast að væri raunin með veð íslensku bankanna.
15. ágúst 2008 virðist Kaupþing fá upplýsingar um að allt sé með felldu með viðskipti þeirra við Seðlabanka Evrópu, eins og fram kemur í tölvubréfi frá starfsmanni Kaupþings í Lúxemborg til Guðmundar Þórðar Guðmundssonar, framkvæmdastjóra fjárstýringar Kaupþings á Íslandi. Samt kemur fram að ekki sé hægt að auka fjármögnun í gegnum Lúxemborg að svo stöddu. Þetta verður t.d. ráðið af eftirfarandi tölvubréfi:
"I called Mr Zenner today.
The governor Mersch had the Governing Council last week in Frankfurt.They have again examined our situation and the situation is as follow:
They are happy with the efforts.They are not expecting more efforts.They are not anymore waiting for a "funding plan" (I made them a presentation last week and it looks like they were happy with the material and explanations).
Nevertheless, we won't be able to increase the funding through the ECB and they want us to keep the same kind of collateral (no structured credits...)."
7.6.2.3 Önnur veðlán og lokadagarnir
Fyrir utan Seðlabanka Íslands og Seðlabanka Evrópu var Glitnir í töluverðum veðlánsviðskiptum við Royal Bank of Scotland, Royal Bank of Scotland London (bæði flokkuð undir RBS í myndinni) og Dekabank. Sem veð á móti lánunum í Dekabank var mikið gefið út af skuldabréfum í evrum af Landsbankanum og Kaupþingi.Veðin sem fóru til Royal Bank of Scotland voru á hinn bóginn fyrst og fremst erlend skuldabréf. Mynd 62 sýnir öll veðlán Glitnis og einnig veðlán frá Glitni til Landsbanka Íslands.
Eins og fram kemur hér framar minnkaði Landsbankinn stöðu sína í Seðlabanka Íslands verulega þegar líða tók á árið 2008 og í staðinn komu veðlán hjá Seðlabanka Evrópu og við Royal Bank of Scotland (sjá mynd 63).
Inn í þessar tölur vantar þær upphæðir sem voru í endurhverfum viðskiptum við ýmsa banka og gerð voru í gegnum Bretland. Í byrjun október 2008 námu þau viðskipti um 84 milljónum evra. Þar var stærst lán frá Société Générale að upphæð um 59 milljónir evra, mest með veði í hlutabréfum í Volkswagen AG.
Eins og sjá má af mynd 64 jók Kaupþing verulega veðlán sín frá miðju ári 2007. Um mitt ár 2007 voru helstu viðskiptavinir Kaupþings Dresdner banki og Seðlabanki Íslands. Um haustið aukast endurhverf viðskipti við Kaupthing Singer & Friedlander (hér eftir nefnt KSF) mikið eða úr engu í ágúst 2007 í um 600 milljónir evra um áramótin þar á eftir. Á sama tíma bætast við aðrir bankar. Bæði UBS og Royal Bank of Scotland juku lánveitingar sínar í um 300 milljónir evra og var Barclays-banki búinn að lána svipaða fjárhæð í upphafi árs 2008.Veð að baki þessum lánum voru erlend skuldabréf. Hér verða skoðuð aðeins nánar þau veðlán sem Kaupþing fékk frá dótturfélagi sínu KSF. Frá því í maí 2008 og fram að falli bankans jukust þessi lán úr um 200 milljónum evra í yfir 1,5 milljarða evra.
Í júní 2008 er tekin ákvörðun um að beina endurhverfum viðskiptum Kaupþings í gegnum KSF eða, eins og kemur fram í minnisblaði frá Kaupþingi, að öllum hlutabréfaveðlánum sem ekki væru nú þegar samningsbundin skyldi beint í gegnum þá sérfræðinga sem ynnu í KSF. Í sama minnisblaði kemur fram að viðskiptin væru "gerð á viðskiptalegum forsendum og því [mætti] ætla að öllu jöfnu hafi KSF sett þau bréf sem hann fékk frá móðurfélaginu áfram til þriðja aðila á hærra verði en þeir borguðu móðurfélaginu fyrir bréfin." Rannsóknarnefnd Alþingis getur út frá grunngögnum frá Kaupþingi séð að vextir á samningum við Kaupþing voru almennt hærri. Á hinn bóginn var frádragið yfirleitt hærra hjá þriðja aðila gagnvart KSF heldur en KSF gerði kröfu um gagnvart Kaupþingi.
Einnig vill rannsóknarnefnd Alþingis benda á að samkvæmt gögnum sem dregin eru saman á mynd 64, er ekki að sjá að veðlán Kaupþings flytjist yfir til KSF heldur virðist fyrst og fremst um beina aukningu á veðlánum að ræða í upphafi sumars sem á nær öll rætur sínar að rekja til KSF. Ekki er að sjá að veðlán við aðra mótaðila minnki að neinu marki á móti.
Verðbréfin sem voru að veði á móti lánum KSF til Kaupþings voru mest Sainsbury's, Mitchels & Butlers og Glitnisbréf.Við þetta bættust bréf í Storebrand og Landsbankabréf að einhverju leyti. Önnur bréf eru fyrst og fremst erlend verðbréf. Þegar aukning var á lánveitingum í júlí 2008 var það fyrst og fremst út á Mitchels & Butlers-bréf, Glitnisbréf og Landsbankabréf. Í lok september voru um 8% veðanna í íslenskum krónum og um 14% veðanna með íslenskri áhættu. Sjá má veðin í lok september í töflu 7.
Rétt er að benda á að Kaupþing fékk einnig lán hjá KSF með CFD-samningum (e. contract of difference, sjá rammagrein 7). Þessir samningar virka að mestu á svipaðan hátt og endurhverf viðskipti þar sem viðskiptavinurinn fær greitt eða þarf að greiða muninn á markaðsverði bréfanna á upphafsdegi samnings og markaðsverði bréfanna á lokadegi samnings. Í upphafi október var Kaupþing með hlutabréf að verðmæti um 320 milljónir evra sem voru fjármögnuð með þessum hætti í gegnum KSF. Undirliggjandi bréf voru fyrst og fremst Sainsbury's.
Við fall Lehman Brothers er ljóst að veðlánamarkaðurinn breyttist mikið. Lánveitendur kölluðu eftir frekari veðum og samningar voru ekki framlengdir heldur var þeim lokað. Í tölvubréfi frá starfsmanni Kaupþings til starfsmanns KSF segir meðal annars að mótaðilinn fyrir Sampo hafi ekki verið tilbúinn til að endurnýja samning örfáum dögum eftir fall Lehman Brothers. Það þýðir að lánið frá KSF til Kaupþings sem nam um 150 milljónum evra, með veðum í Sampo-bréfunum, var nú fjármagnað af KSF eingöngu en ekki þriðja aðila. Síðar í þeim mánuði er hljóðið orðið nokkuð annað í starfsmönnum Kaupþings. Í tölvubréfi frá yfirmanni fjárstýringar samstæðunnar, Heiðari Inga Ólafssyni, til starfsmanns KSF kemur fram: "We need to make use of your strong cash position once again.We are looking to move 1,295 million shs [shares] of Alfesca (appr. 62mEUR) to you guys and these shs like other icelandic shs would have to stay on b/s [balance sheet] (this actually is big enough position that we would have to alert/flag if we would move it outside the group) [...]We would like to do as low of a haircut as possible so how low could you guys go on the HC?"
Seinna upplýsir Heiðar Ingi Ólafsson að það sé verið að gera þetta vegna þrýstings á gjaldeyrisborðinu á Íslandi. Þetta gekk eftir. Sama kvöld er annað tölvubréf sent frá starfsmanni Kaupþings til starfsmanns KSF þar sem sagt er: "Like you have been well aware of we have really been combing through our books for securities to repo to KSF. I want to refresh my memory regarding Icelandic corporate bonds.Was that something you couldn't take due to regulatory reasons or were there other reasons that can be reconsidered now that we really need to use all possible means to move liquidity from KSF to parent?"
Í svari KSF við þessu er sagt að ekki sé hægt að taka skuldabréf með lánshæfiseinkunn undir BBB-, sem í reynd sló þetta út af borðinu enda voru þessi íslensku skuldabréf ekki með lánshæfiseinkunn. Starfsmaður Kaupþings heldur þó áfram og bendir á að það hafi verið hægt að fá veðlán út á sams konar bréf hjá öðrum bönkum, svo sem Dresdner, hvað valdi? Í svari frá KSF er sagt að þetta varði við BASEL II-reglur, þar sem skuldabréf undir BBB- teljist ekki sem veð, og þar með yrði að telja lánið sem ótryggt lán.
Síðan fer nokkur umræða fram milli starfsmanna bankanna um að lækka frádragið sem tekið er af bréfum frá Kaupþingi niður í leyfilegt lágmarksfrádrag til að vinna á móti verðlækkunum á eignum og í tölvubréfi innan KSF segir: "We will be moving the haircut that we charge Kaup HF to the absolute minimum FSA regulatory limits." Þetta er á sama tíma og aðrar fjármálastofnanir eru að hækka frádrag og loka samningum. Þetta er staðfest í tölvubréfi frá KSF til Heiðars Inga Ólafssonar 30. september kl. 9:23 en þar kemur fram: "we are using new haricuts [sic], and will use Live pricing to minimise the margin call. It is [sic] unfortunately still means we need to call."
Í byrjun október er staðan orðin sú að Kaupþing virðist ekki lengur getað greitt veðköll. Í tölvubréfi frá starfsmanni KSF til starfsmanna Kaupþings 8. október kl. 12:49 er áréttað að Kaupþing þurfi að greiða veðköll í pundum ekki krónum, eins og gert hafði verið daginn áður. Kallað er eftir tæpum 78 milljónum punda strax.
Gögn sem rannsóknarnefnd Alþingis hefur fengið benda til þess að strax í lok september hafi veðin sem Kaupþing lagði inn á móti lánum sínum hjá KSF verið komin niður fyrir lánsupphæðina. Þar hafi vantað upp á tæpar 250 milljónir evra. Þ.e. 250 milljónir evra vantar upp á markaðsvirði veðanna til að veðin yrðu jafn há lánunum. Í slíkum veðlánum er meginreglan að markaðsvirði veða verður að vera hærra en lánið, sérstaklega þegar um hlutabréfaveð er að ræða, eins og hér. Því má ætla að skort hafi á veð fyrir töluvert hærri fjárhæð en 250 milljónir evra. Síðar í október er munurinn orðinn yfir 500 milljónir evra, þ.e. skuldbinding Kaupþings við KSF var um 1,7 milljarðar evra en veðin voru metin á um 1,2 milljarða evra. Þessi þróun var fyrst og fremst vegna fallandi verðs á verðbréfum og þá sérstaklega á íslenskum verðbréfum.
Í byrjun október 2008 var ljóst af þeim gögnum sem rannsóknarnefndin hefur undir höndum að KSF fékk ekki fjármögnun frá þriðja aðila nema fyrir um 20% af þeim veðlánum sem það veitir Kaupþingi. Það er rétt að árétta að í kjölfarið á falli Lehman Brothers er mjög líklegt að mörgum veðlánasamningum hafi verið lokað svo ætla má að KSF hafi náð að endurfjármagna heldur stærri hluta en þetta fyrir miðjan september. Athygli vekur þá að KSF skuli ekki velta kostnaði af lokun þessara samninga áfram yfir á Kaupþing heldur þvert á móti auka veðlán sín við Kaupþing, sbr. til dæmis veðlánið á móti Alfesca-bréfunum sem áður er nefnt. Þetta sem fram kemur hér að framan sýnir hversu mikla áhættu KSF tók á sig með því að vera "milliliður" Kaupþings í þessum samningum, því að það er engan veginn eins borðleggjandi fyrir KSF að loka samningum við móðurfélag sitt, Kaupþing, eins og það er fyrir þriðja aðila að loka samningum við KSF. Einnig er rétt að benda aftur á að ekki er ljóst hvort þetta hafi verið milliliðahlutverk eða bara beinar lánveitingar frá KSF og þar með leið til að ná innstæðum af Kaupthing Edge til Kaupþings. Ljóst er að eftir situr KSF sem stór lánardrottinn Kaupþings. Eins og rakið er nánar í kafla 20.0 telur rannsóknarnefnd Alþingis að þessi viðskipti hafi meðal annars átt þátt í að Bretar tóku yfir KSF í Bretlandi þó að lausafjárskiptasamningur milli Kaupþings og KSF hafi þar eflaust vegið þyngra, sjá nánari umfjöllun í kafla 20.0 um fall Kaupþings.
Landsbankinn og Glitnir lentu á hinn bóginn í verulegum vandræðum með veðlán sín eftir fall Lehman Brothers og ágerðust vandræðin eftir að Glitnir var tekinn yfir af stjórnvöldum. Samkvæmt tölvubréfi frá starfsmanni Glitnis til Vilhelms Más Þorsteinssonar, framkvæmdastjóra hjá Glitni, 14. september 2008 kl. 20:42 var Glitnir með um 17,7 milljónir evra af bréfum sem voru beint tengd Lehman Brothers (verðmat í lok ágúst). Tvö bréfanna að virði samtals um 13,9 milljónir evra voru inni sem veð á móti veðláni frá Commerzbank og Fortis Bank. Þriðja bréfið var inni í eignastrúktúrnum Holm og var það um þriggja milljóna evra virði. Að lokum var víkjandi skuldabréf að virði 0,9 milljónir evra sem var hvergi nýtt sem veð. Víkjandi bréfið var væntanlega allt tapað en vegna hinna bréfanna mátti búast við veðköllum vegna þess að markaðsvirði þeirra hafði lækkað verulega. Þetta voru bara beinu áhrifin af falli Lehman Brothers en við þetta bættist að öll verðbréf lækkuðu verulega í verði á þessum tíma og Glitnir hafði, eins og áður er komið fram, mjög reitt sig á fjármögnun með veðum í verðbréfum. Á næstu dögum komu veðköll vegna veðlána og einnig vegna afleiðuviðskipta sem námu um 200 milljónum evra.
Í ljósi þess að verið var að loka mörgum veðlánasamningum er áhugavert að líta til þeirra veðlána sem voru á gjalddaga hjá Glitni í október. Fyrstu tvær vikurnar voru samtals 260 milljónir evra á gjalddaga hjá Royal Bank of Scotland og Dekabank, eins og fram kemur í töflu 8. Fram til loka október var þessi upphæð tæpar 550 milljónir evra, nokkurn veginn sama upphæð og skuldabréfaafborganir Glitnis í október.Talsvert af þessum veðlánum voru með undirliggjandi skuldabréf í íslensku bönkunum eða um 430 milljónir evra.
Til viðbótar við það sem sjá má í töflu 8 voru veðlán við Seðlabanka Evrópu sem nema um 500 milljónum evra á gjalddaga 8. október. Þessi veðlán voru með veðum í Holti og Hafi sem áður var rætt um í þessum kafla og innihéldu báðir eignastrúktúrarnir mikið af íslenskum skuldabréfum. Glitnir náði að endurfjármagna 292 milljónir evra af þessum veðlánum í eina viku svo það varð útstreymi að upphæð 208 milljónir evra 8. október. Síðan voru 280 milljónir evra á gjalddaga hjá Seðlabanka Evrópu 9. október en vert er að geta þess að það var veðlán með veðum eingöngu í erlendum skuldabréfum. Þegar ríkið setti fram tilboð sitt um að koma inn í Glitni voru sem sagt 780 milljóna evra veðlán, hjá Seðlabanka Evrópu, á gjalddaga í október og önnur veðlán sem námu 540 milljónum evra á gjalddaga í sama mánuði. Rannsóknarnefnd Alþingis getur eðli málsins samkvæmt ekkert sagt til um hvort þessi veðlán hefðu verið framlengd eða ekki ef aðgerðir stjórnvalda hefðu orðið til þess að auka traust á Glitni banka. Á hinn bóginn hefði verið nauðsynlegt fyrir stjórnvöld að hafa yfirsýn yfir þessa skammtímafjármögnunaráhættu í ljósi mögulegra neikvæðra áhrifa af kaupum þeirra á 75% hlut í Glitni banka. Enda kom það á daginn að veðköll vegna endurhverfra viðskipta voru mjög mikil eftir að matsfyrirtæki lækkuðu lánshæfismat Glitnis 30. september 2008.
Landsbankinn lenti líka í víðtækum veðköllum í byrjun október. Það veigamesta kom eftir lokun markaða föstudaginn 3. október 2008 þegar Seðlabanki Evrópu tilkynnti Landsbankanum að hann myndi endurmeta þær eignir sem Landsbankinn var með hjá honum. Þetta var gert á grundvelli þess að lánshæfiseinkunn íslenska ríkisins hafði verið lækkuð. Það hafði áhrif á öll íslensku skuldabréfin sem voru í Avens-eignastrúktúrnum og gjaldmiðlaskiptasamninginn sem var milli Avens og Landsbanka Íslands. Miðað við það þurfti Landsbankinn að standa skil á 400 milljónum evra í veðkalli þá um helgina. Landsbankinn, sem var með um 1,5 milljarða evra að láni gegn veðum metnum á markaðsvirði 2,6 milljarðar evra, hafði hins vegar talið að hann hefði svigrúm til að auka veðlán sín við Seðlabanka Evrópu um allt að 400 milljónir evra en í staðinn var honum gert að lækka veðlán sín um 400 milljónir evra. Sigurjón Þ. Árnason sagði að þarna hefðu áætlanir Landsbankans breyst til verri vegar um 800 milljónir evra. Þetta fór þó þannig að Landsbanki Íslands þurfti ekki að greiða þetta veðkall þar sem Seðlabanki Evrópu féll frá kröfu sinni. Hins vegar var ekkert meira svigrúm fyrir Landsbankann að sækja sér fé til Seðlabanka Evrópu.
7.7 Heildarskiptasamningur
7.7.1 Almennt um heildarskiptasamninga
Íslensku bankarnir gerðu heildarskiptasamninga við nokkra erlenda banka. Heildarskiptasamningur (e. total return swap (TRS)) er tvíhliða samningur milli tveggja fjármálastofnana þar sem þær koma sér saman um að skiptast á reglulegum tekjum af safni af fjármálaafurðum annars vegar og reglulegum greiðslum hins vegar (sem yfirleitt eru millibankavextir (LIBOR) að viðbættu álagi). Í tilviki íslensku bankanna voru þetta samningar milli íslensku bankanna og stórra erlendra banka, svo sem Barclay's, Deutsche Bank og JP Morgan. Algengast er að undirliggjandi sé safn af lánum eða skuldabréfum fyrirtækja. Í hnotskurn fela slíkir samningar í sér að erlendur banki veitir fjármögnun til viðskiptavinar innlenda bankans gegn fastri vaxtagreiðslu en innlendi bankinn tekur á sig alla skuldaraáhættu.
Í upphafi samningsins leggur erlendi bankinn til fjármögnunina í lánasafnið og tekur veð í safninu á móti. Einnig leggur innlendi bankinn fram veð í formi lausafjár, yfirleitt um 10–30% af virði undirliggjandi eigna, til erlenda bankans. Þannig er erlendi bankinn með veðþekju sem nemur 110 til 130%. Með reglulegu millibili eru undirliggjandi eignir verðlagðar og ef markaðsvirði lána safnsins hefur lækkað ber íslenska bankanum að reiða fram aukin lausafjárveð eða kaupa lánasafnið svo þekjan haldist óbreytt. Ef markaðsvirði skuldanna hefur hins vegar hækkað ber erlenda bankanum að láta til baka undirliggjandi veð sem því nemur. Með reglulegu millibili eru svo vaxtagreiðslur af lánasafninu annars vegar sem ganga til innlenda bankans og hins vegar af fjármögnuninni sem fer frá innlenda bankanum til erlenda bankans.Vextirnir af lánasafninu eru hærri en vextirnir af fjármögnuninni, enda er áhættan á lánasafnið venjulega meiri en áhættan á innlenda bankann. Þannig hagnast innlendi bankinn sem nemur vaxtamuninum.
Flæðiritið sýnir greiðsluflæði slíkra heildarskiptasamninga. Erlendi bankinn innheimtir vexti frá lántakanda og sendir þá áfram til íslenska bankans og fær í staðinn fasta vexti jafngilda LIBOR-vöxtum og álagi. Auk þess tekur íslenski bankinn á sig skuldaraáhættu og því er heildarávöxtun íslenska bankans vaxtamunur auk þeirrar hækkunar eða lækkunar sem verður á matsvirði eignarinnar. Því getur heildarávöxtun á hverju tímabili verið neikvæð ef mikil lækkun er á verðmati á eigninni.Verst er útkoman ef lánasafnið verður verðlaust (gjaldþrot skuldunauta) því þá þarf innlendi bankinn að standa í skilum vegna allrar fjármögnunarinnar en fær litlar eða engar vaxtatekjur eða höfuðstólsgreiðslur á móti.
Ástæða þess að íslensku bankarnir fóru þessa fjármögnunarleið var að þeir töldu sig búa yfir upplýsingum um greiðslugetu ákveðinna fyrirtækja sem erlendi bankinn hafði ekki og því gætu íslensku bankarnir hagnast á því að greiða fyrir lánasamningum sem milliliðir.
Munurinn á því að fjármagna lánasafn í gegnum heildarskiptasamning í stað þess að hafa það í útlánabók er meðal annars sá að allar breytingar á markaðsvirði safnsins koma strax fram sem hagnaður eða tap. Lán í útlánabók er hins vegar virðismetið af bankanum sjálfum miðað við metna greiðslugetu hvers lánþega og þá yfirleitt óháð ríkjandi ávöxtunarkröfu.
7.7.2 Glitnir banki hf.
Glitnir gerði heildarskiptasamning við Citibank 12. desember 2006. Samkvæmt samningnum mátti Glitnir nýta sér að hámarki 550 milljónir evra (47 milljarða króna á þáverandi gengi). Fyrst um sinn nýtti Glitnir sér ekki þessa lánalínu en skráir hana í lausafjárskýrslu sinni. Í nóvember 2007 reyndi Glitnir að nýta þennan samning og fjármagna þannig verðtryggð íslensk húsnæðislán, sem bankinn átti þá þegar, og fá þannig evrur. Citibank var hikandi við að afgreiða lánið samkvæmt samningnum en ekki mótfallinn því. En eftir að Glitnir hafði lokið við að skrá skuldabréfin sem nýta átti í febrúar 2008 lýsti Citibank því yfir að hann myndi ekki standa við samninginn. Citibank setti fram þau rök að húsnæðislánin uppfylltu ekki skilyrði samningsins. Um miðjan apríl 2008 tekur Glitnir þessa línu út af lausafjáryfirlitum sínum sem lausafjárlínu (e. committed lines) en almennt breyttist lausafjáryfirlitið lítið þar sem skuldabréfunum var bætt inn sem verðbréfum sem hægt var að nýta í veðlán (e. repo eligible bonds). Þar með varð lítil breyting á lausafjárstöðu Glitnis, eins og hún var kynnt á "asset and liability"-fundum (ALCO) innanhúss, þrátt fyrir að þetta hefði verið áfall fyrir Glitni, þar sem lokast hafði á mjög stóra lánalínu í evrum (550 milljónir evra, sem jafngiltu 65 milljörðum króna á þáverandi gengi) en veðlán frá Seðlabankanum voru einvörðungu í krónum.
Bankarnir skiluðu á þessum tíma lausafjárskýrslum til Seðlabankans. Seðlabankinn fylgdist þó aðeins með lausafjárstöðu bankanna í krónum talið og sá því enga breytingu á stöðu Glitnis. Í september 2007 gerði Glitnir tvo heildarskiptasamninga, við Barclays Capital og Royal Bank of Scotland. Í apríl 2008 hafði Glitnir nýtt samtals 724 milljónir evra í fjármögnun frá þessum lánalínum. Í september 2008 hafði undirliggjandi skuldasafn þessara lána lækkað töluvert í verði sem leiddi af sér há veðköll og þar með þrýsting á lausafjárstöðu bankans.
7.7.3 Landsbanki Íslands hf.
Landsbankinn hóf að gera heildarskiptasamninga í febrúar 2006 með samningum við þrjá banka, Barclays Capital, Deutsche Bank og JP Morgan. Umfang þessara samninga jókst hratt en um áramótin 2007–2008 voru útistandandi samningar að nafnvirði um 90 milljarðar króna. Haustið 2007 og vorið 2008 varð mikið tap á þessum samningum vegna lækkandi markaðsverðs á undirliggjandi lánasöfnum. Samtals var tapið orðið um sex milljarðar króna í lok janúar 2008 (sjá töflu 9). Þetta hafði í för með sér þrýsting á lausafjárstöðu bankans sem varð að reiða fram ný veð í formi lausafjár í evrum.
Hér var því um að ræða samning með eignalegg (lánasafnið) sem var að falla í verði á meðan skuldaleggurinn (fjármögnunin) hélst óbreyttur. Bankinn ákvað að færa skuldalegginn á markaðsvirði í árshlutauppgjöri 2008. Það leiddi til þess að afkoman batnaði um 6,4 milljarða króna sem var um fimmtungur af bókfærðum hagnaði fyrstu 6 mánuði ársins 2008. Hér var því farin sú leið að bókfæra hagnað af fjármögnunarhluta samninganna á móti þar sem talið var að þessi fjármögnun væri með lægra vaxtaálag en bankinn gæti fjármagnað sig fyrir á mörkuðum.Vextirnir sem Landsbankinn greiddi fyrir fjármögnunina á heildarskiptasamningunum voru á bilinu 45–75 punktar yfir LIBOR-vöxtum. Til að ákvarða hagnað bankans af þessari ódýru fjármögnun þurfti að ákvarða hvaða vaxtaálag bankinn hefði í raun úti á markaði. Eins og áður kemur fram var þessi fjármögnun með eignaveðum og einnig viðbótarpeningaveðum, svo að ætla má að skuldatryggingarálag bankans hafi ekki verið gott viðmið, enda á það við óveðtryggð skuldabréf.
Þórir Örn Ingólfsson, forstöðumaður áhættustýringar Landsbankans, fjallaði við skýrslutöku fyrir nefndinni m.a. um við hvaða vexti hefði komið til greina að miða þegar litið var til markaðarins. Sagði hann við skýrslutöku að hann hefði talið rangt að líta til skuldatryggingarálaganna, en ekki vegna þess að fjármögnunin væri frábrugðin heldur vegna þess að hann hefði haft á "tilfinningu" að þau væru röng. Þórir sagði að kúrfan hefði upphaflega komið frá munnlegum tilboðum sem hefðu verið gerð í heildarskiptasamninga en ekki verið tekið. Í fyrsta ársfjórðungsuppgjörinu væri viðmiðunar-markaðsálagið 350 punktar fyrir 0 til 18 mánuði og 285 punktar fyrir 18 mánuði og lengur. Tekjufærður hagnaður við þetta varð, eins og áður sagði, 6,4 milljarðar króna á fyrsta ársfjórðungnum. Þetta var rúmlega þriðjungur af hagnaði þess ársfjórðungs en hann var 17,4 milljarðar króna. Tapið af heildarskiptasamningunum fyrstu þrjá mánuði ársins var um 5 milljarðar króna og varð lítil breyting á því þegar leið á árið (sjá "bókfært tap" í töflu 9). Við skýrslutöku sagði Þórir að þetta hefði verið það tap sem ásættanlegt var og miðað var við fram að falli.Viðmiðunarvextir hefðu þá í raun ráðist af ásættanlegu tapi í uppgjörum næstu mánuðina, í stað þess að "markaðsvextir" væru áætlaðir. Herbert V. Baldursson, endurskoðandi, sem vann í bókhaldi Landsbankans, sagði við skýrslutöku að hann hefði komið að því að meta þá vexti sem notaðir voru til viðmiðunar, enda skipti það meginmáli bókhaldslega, "en ég man ekki alveg við hvað var miðað". Jafnframt sagði hann:
"[Þ]að sem ég man var það að þarna voru sem sagt vextirnir á fleygiferð og kannski ekki alveg hægt að tala um markaðsvexti því að markaðirnir voru frosnir á þessum tíma. Og það sem ég kannski man var það [að] menn voru ekki að fara kannski í hæstu hæðir með vextina, menn voru því ekki að færa þarna á móti allt sem hugsanlega [...] hefði verið hægt að færa."
Ytri endurskoðendur Landsbankans létu nefndinni í té gögn um það hvernig tekjufærslan og þar með vaxtamatið var endurskoðað. Þar kemur fram að talið sé að heimild til að gera þetta sé í BC 87-BC92 í IAS 39. Jafnframt kemur fram að vaxtamatið byggðist meðal annars á skriflegu fjármögnunartilboði frá Deutsche Bank frá 25. apríl 2008, þar sem lán á móti veðum voru boðin fyrir vaxtakjör á bilinu Libor + 285 til Libor +350. Í tilboðinu kemur ekki fram til hversu langs tíma lánin voru. Réttmæti þessara tilboða voru könnuð "í gegnum fyrrverandi starfsmann PwC GCMG" hjá Deutsche Bank. Þar kom fram að tilboðið var raunverulegt.
Ekki verður lagt mat á það hér hver hafi verið raunverulegur vaxtamunur á fjármögnunarmöguleikum bankans vorið 2008 enda ástand þannig á mörkuðum að bankanum buðust fáir nýir samningar af þessari gerð. Hins vegar endurnýjaði Landsbankinn TRSsamning sinn við JP Morgan í júní 2008 um fjármögnun til tveggja ára á vöxtum með 100 punkta álagi yfir LIBOR-vöxtum. Ef gert er ráð fyrir 100 punktum yfir LIBOR-vöxtum og ef sömu reikningsaðferðum væri beitt að öðru leyti hefði bókfærður hagnaður af fjármögnuninni aftur á móti orðið um 0,6 milljarðar króna 30. júní 2008 í stað 5,6 milljarða króna.
Tekjufærsla vegna breytinga á markaðsvirði skulda, eins og lýst er hér að framan, er heimiluð í ákveðnum tilvikum samkvæmt reikningsskilareglum IAS 39 um sanngjarnt verð (e. fair value), enda sé raunhæft mat lagt á fjármögnunina og slíkt tekið fram í skýringum við ársreikning. Þá má einnig gera þetta ef það er bókhaldslegt ósamræmi (e. accounting mismatch), það er þegar eigna- og skuldaleggir eru í einum og sama samningi en eignin er færð á markaðsvirði þó að skuldin sé það ekki. Í slíkum tilvikum þykir réttlætanlegt að færa skuldir á markaðsvirði. Notkun þessarar reglu í öðrum tilvikum hefur hins vegar verið umdeild. Þegar reglunum um þetta var breytt tjáði BASEL-nefndin sig um breytingarnar á þennan hátt: "It could permit companies to report increased profits when their own creditworthiness deteriorates. Additionally, for financial instruments without observable market prices arising from active markets, it may be difficult for companies to determine reliable fair values and for auditors to audit these estimates.Thus, the Committee noted that if the fair value option is applied to financial instruments that are not traded in active markets and lack reliable fair values, this option may permit companies to manage earnings in ways that would not easily be detected by financial statement users."
Bankinn birti uppgjör samkvæmt IFRS-bókhaldsstöðlum. Í árshlutauppgjörum er það gert miðað við IAS 34. Í árshlutareikningi Landsbankans 30. júní 2008 var ekki að finna sérstakar upplýsingar um þessa tekjufærslu, en færa má rök fyrir að það hafi borið að gera með vísan til 1. mgr. 88. gr. reglna nr. 834/2003 um reikningsskil lánastofnana þar sem um var að ræða tæplega fimmtung af bókfærðum hagnaði fyrstu sex mánuði ársins 2008 sem var 29,5 milljarðar króna en vænta mátti að slíkar upplýsingar hefðu þýðingu við mat markaðarins á afkomu bankans.
Í þessu sambandi skal þess einnig getið að í bréfi endurskoðenda til stjórnenda Landsbankans í kjölfar könnunar á árshlutareikningi janúar til júní 2008 gera þeir almenna athugasemd um meðferð bankans á afleiðum og áhættusamböndum og tilkynna að á næstunni muni þeir yfirfara sérstaklega allar skráningar áhættusambanda bankans.
7.7.4 Kaupþing banki hf.
Kaupþing fjármagnaði lán nokkurra viðskiptavina Kaupþings í Lúxemborg í gegnum heildarskiptasamninga. Í upphafi árs 2008 voru útistandandi lán í gegnum heildarskiptasamninga samtals 164 milljónir evra. Helstu viðskiptavinir voru Exista með 79 milljónir evra og Teton ehf. með 28 milljónir evra. Útistandandi heildarskiptasamningar lækkuðu mikið þá um vorið og í júní voru aðeins útistandandi 14 milljónir evra hjá Teton ehf. auk minni aðila, eða samtals 30 milljónir evra.Þessi lága staða hélst fram að falli bankans og gefur því ekki tilefni til frekari umfjöllunar hér.
7.8 Opnar lánalínur án "MAC"-ákvæða og laust fé
Seðlabanki Íslands sinnir lausafjáreftirliti með lánastofnunum á grundvelli heimildar sinnar í 12. gr. laga um bankann nr. 36/2001 um lágmark eða meðaltal lauss fjár slíkra stofnana. Í þessum kafla verður vikið að lið sem var nokkuð stór hjá öllum bönkunum þremur þegar litið var til lausafjár, það er opinna lánalína án "MAC"-ákvæða (MAC-ákvæði: material adverse change clause). Það eru opnar lánalínur sem eru ekki háðar lánshæfismati eða öðrum þeim þáttum sem snúa að starfsemi bankans. Lánveitandi lofar að lána ákveðna upphæð óháð því hvort eitthvað hafi breyst sem varðar starfsemi lántakanda frá undirritun samningsins. Þessar línur eru því taldar nokkuð öruggar til að nýta til fjármögnunar jafnvel þegar áhlaup eru hafin á bankann. Ingimundur Friðriksson, seðlabankastjóri, hafði orð á því í skýrslu sinni fyrir rannsóknarnefndinni að lausafjárlína sem Glitnir hefði verið með hefði "í reynd ekki verið til, nema að nafninu til. Hún var með slíkum afarkostum að okkur skildist á endanum að það kom ekki til álita að nýta hana". Nefndin taldi ástæðu til að kanna nánar þær lausafjárlínur sem bankarnir þrír voru með í lausafjárskýrslum sem skilað var til Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins. Hér verður jafnframt stiklað á stóru um laust fé bankanna.
7.8.1 Lausafjáreftirlit
Eins og áður kom fram sinnir Seðlabanki Íslands lausafjáreftirliti með fjármálastofnunum. Fram til ársins 2008 náði þetta eftirlit eingöngu til lausafjárstöðu fjármálastofnana í innlendri mynt og einungis í móðurfélagi stofnunar. Í lok árs 2007 fer Fjármálaeftirlitið að þreifa fyrir sér varðandi þetta eftirlit og í framhaldi af því er gerður samningur milli Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins um lausafjáreftirlit vorið 2008. Fjármálaeftirlitið þróaði nýjar lausafjárskýrslur sem byggðust á eftirlitsskýrslum frá Moody's. Kallað var eftir gögnum um laust fé fyrir næstu 0–8 dagana, sem var í samræmi við kröfur fjármálaeftirlitsins í Bretlandi. Einnig kallaði Fjármálaeftirlitið eftir gögnum um lausar eignir og skuldbindingar næstu 0–18 mánuði. Þessar skýrslur innihéldu gögn á samstæðugrundvelli í krónum fyrst en í júlí 2008 var einnig byrjað að kalla eftir þessum sömu gögnum í erlendum gjaldmiðlum. Skýrslurnar um lausafjárstöðu bankanna í erlendum gjaldmiðlum voru þó einungis sendar til Fjármálaeftirlitsins og voru í raun enn í þróun. Til að mynda var skýrslan sett fram í krónum svo erfitt var að gera samanburð á fjárhæðum milli mánaða. Seðlabanki Íslands og Fjármálaeftirlitið nýttu sér svo ákveðnar forsendur til að kanna hvort lausafjárstaða bankanna væri ásættanleg. Þar voru forsendur um útflæði meðal annars að 25% af erlendum innlánum sem laus væru á hverjum tíma yrðu tekin út innan mánaðarins og að 5% af innlendum innlánum færu út innan mánaðarins. Um innflæði var meðal annars gert ráð fyrir 75% heimtum á innlendum hlutabréfum.
7.8.2 Glitnir banki hf.
Í lausafjárskýrslu Glitnis í krónum sem send var til Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins í lok ágúst 2008 var ekki hægt að sjá að nokkur lausafjárhætta steðjaði að bankanum næstu tvo mánuði. Miðað við forsendur Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands hafði bankinn til ráðstöfunar 891 milljarð króna næstu tvo mánuði á meðan útgjöldin gátu orðið um 522 milljarðar króna. Þannig virtist Glitnir hafa meira en nóg laust fé til að mæta lausafjárþörf fyrir september og október. Á þessum tveimur mánuðum taldi Glitnir mögulegt að innheimta meira en sem nam útlánum á því tímabili en þau voru um 70 milljarðar króna. Einnig var ljóst að Glitnir taldi sig eiga möguleika á að auka endurhverf viðskipti um 55 milljarða á tímabilinu. Lausafjárskýrslan í erlendri mynt leit einnig nokkuð vel út og miðað við gefnar forsendur Fjármálaeftirlitsins nam laust fé í erlendri mynt um 660 milljörðum króna en skuldbindingar voru um 358 milljarðar króna. Meðal skuldbindinga Glitnis voru stórir gjalddagar í október sem námu tæpum 75 milljörðum króna.
Í öruggu lausu fé voru verðbréf fyrir veðlán í erlendum seðlabönkum 108 milljarðar króna og í öðru lausu fé voru skuldabréf nýtanleg sem veð fyrir önnur veðlán að upphæð 130 milljarðar króna. Þarna taldi Glitnir að hann hefði aðgang að tæplega 240 milljörðum króna í erlendri mynt í gegnum veðlán.
Opnar lánalínur án "MAC"-ákvæða voru um 118 milljarðar króna af öruggu lausu fé næstu tvo mánuði og var þar fyrst og fremst um að ræða einn samning við Deutsche Bank að upphæð einn milljarður evra að nafnvirði, um 120 milljarðar króna. Þetta var sem sagt rúmlega einn sjötti af lausu fé bankans.
Samkvæmt skýrslu Jóns Guðna Ómarssonar, forstöðumanns fjárstýringar, var ekki ljóst að þetta væri í raun laust fé enda sagði hann: "[M]ér skilst allavega að Deutsche Bank-línan hafi alltaf verið þannig að það væri svona bara þrautavaralína í sjálfu sér. En svo man ég að það var einhvern tíma umræða [...] þarna um sumarið um að Deutsche hefði komið með einhver skilaboð um að það væri nú ekkert endilega rosa auðvelt, bara eins og allir aðrir bankar, eins og Deu.., eins og Citi, það væri hérna að losa sig út úr samningum, sko, það væri nú ekkert mjög hlaupið að því að hérna draga á þetta."
Í samningnum sem Glitnir gerði við Deutsche Bank 29. janúar 2008 skuldbindur Deutsche Bank sig til að veita lausafjárlán allt að einum milljarði evra til Glitnis banka. Formið á láninu var þannig að Deutsche Bank skuldbatt sig til að vera milliliður í útboði á skuldabréfum fyrir hönd Glitnis.Verðið á skuldabréfunum átti þá að ákvarðast af meðaltilboði sex kaupenda. Ef hins vegar kaupendur væru ekki fyrir hendi skuldbatt Deutsche Bank sig til að kaupa það sem út af stæði en þó á því verði sem hann sjálfur kysi og með tilliti til skuldatryggingarálags Glitnis. Þannig segir orðrétt í samningnum:
"[T]he liquidity facility provider shall obtain credit quotations in the credit default swap market to cover the full amount of the shortfall and make a BID (at such level as it shall, in its sole and absolute discretion determine) to purchase the Shortfall, and the Subscription Price will be the weighted average of all Bids (including the Bid of the Liquidity Facility Provider) obtained."
Einnig var í þessum samningi ákvæði um að hann yrði ekki lengur í gildi ef lánshæfismat Glitnis færi niður fyrir Baa2 (Moody's, outlook stable). Því féll þessi samningur úr gildi 30. september 2008 án þess að Glitnir nýtti sér hann. Árlegur kostnaður Glitnis af þessum lausafjársamningi var 0,40% af einum milljarði evra eða fjórar milljónir evra.
7.8.3 Kaupþing banki hf.
Í lausafjárskýrslu Kaupþings, sem send var til Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins í lok ágúst, taldi Kaupþing að það væri með aðgang að allt að 2.749 milljörðum króna næstu tvo mánuðina á meðan útgjöldin gætu mest orðið 1.853 milljarðar króna. Þannig var Kaupþing með meira en nóg laust fé til að mæta lausafjárþörf fyrir september og október. Stærsta talan í báðum þessum liðum er annars vegar greiðsla lána og útflæði lána en þær tölur eru alveg jafn stórar svo það leit út fyrir að Kaupþing gæti takmarkað útlán sem næmi greiðslum af lánum. Greiðslur af lánum áttu að nema rúmum 750 milljörðum króna. Í lausafjárskýrslunni um aðra gjaldmiðla en krónuna kom fram að miðað við forsendur Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins væri mögulegt útflæði 1.614 milljarðar króna en laust fé til að mæta því væri 2.470 milljarðar króna.
Eignir sem hægt var að nota til að fá veðlán frá erlendum seðlabönkum og voru því taldar til öruggs lausafjár voru um 65 milljarðar króna. Á sama tíma voru skuldabréf sem talin voru nýtanleg til veðlána hjá öðrum en seðlabönkum samtals 505 milljarðar króna. Taldist það einnig sem laust fé í september og október. Þar með voru möguleg veðlán rúmlega einn fimmti af lausu fé sem Kaupþing taldi sig hafa aðgang að.
Opnar lánalínur án "MAC"-skilyrða töldust með öruggu lausu fé. Hjá Kaupþingi voru þær um 430 milljarðar króna. Rannsóknarnefnd Alþingis kallaði eftir gögnum um þessar línur sem reyndust sex talsins við Kaupþing og tvær við FIH-banka. Stærstu opnu lánalínurnar, einn milljarður evra hvor, voru frá Deutsche Bank og Dresdner Bank. Dresdner-lánalínan var frá 28. júlí 2006 með nokkuð hagkvæmum kjörum enda var Kaupþing búið að nýta sér að hluta þessa lánalínu til að taka lán. Samningur um Deutsche Bank-línuna var dagsettur 9. nóvember 2007. Í samningnum skuldbatt Deutsche Bank sig til að vera milliliður í skuldabréfaútboði fyrir allt að einum milljarði evra fyrir hönd Kaupþings. Verðið á skuldabréfunum átti þá að ákvarðast af meðaltilboði kaupenda. Ef hins vegar kaupendur væru ekki til staðar skuldbatt Deutsche Bank sig til að kaupa það sem út af stæði en þó á því verði sem hann sjálfur kysi. Í samningnum segir þannig orðrétt:
"4.3. In the event that the liquidity Facility Provider is unable to obtain sufficient Bids to cover the full Issue Amount, the liquidity facility provider shall determine the subscription price in respect of the portion of the Issue Amount which is not subject to any Bid in its sole discretion."
Einnig var í þessum samningi ákvæði um að hann yrði ekki lengur í gildi ef lánshæfismat Kaupþings færi niður fyrir Baa2 (Moody's). Þannig féll þessi samningur úr gildi 10. október 2008. Kaupþing nýtti sér aldrei þennan samning. Árlegur kostnaður Kaupþings af þessum lausafjársamningi var 0,35% af einum milljarði evra eða 3,5 milljónir evra.
7.8.4 Landsbanki Íslands hf.
Miðað við forsendur Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins leit lausafjárstaða Landsbanka Íslands vel út í lok ágúst 2008 fyrir næstu 18 mánuði. Þegar litið var til næstu tveggja mánaða, þ.e. september og október 2008, var mögulegt laust fé talið nema 1.465 milljörðum króna en mögulegt útflæði næstu tvo mánuði miðað við forsendur var um 1.038 milljarðar króna. Miðað við þetta yfirlit taldi Landsbankinn eins og Kaupþing að útlán gætu því sem næst svarað til þess sem kæmi inn við innheimtu á vöxtum og höfuðstól lána. Í lausafjárskýrslu í erlendum gjaldmiðlum var laust fé, bæði öruggt og annað, um 1.195 milljarðar króna en mögulegt útflæði í erlendum gjaldmiðlum var 859 milljarðar króna. Mögulegt útflæði vegna innlána var talið vera um 225 milljarðar króna (bæði smásölu og heildsölu). Helsta örugga lausa féð voru eignir lausar til veðlána í erlendum seðlabönkum, um 120 milljarðar. Í öðru lausu fé voru eignir sem hægt væri að nota í eignavarða vafninga, 262 milljarðar, og skuldabréf nýtanleg í veðlán, um 145 milljarðar. Landsbanki Íslands var einungis með um 28 milljarða í opnar lánalínur án "MAC"-ákvæða. Sigurjón Þ. Árnason, bankastjóri Landsbankans, sagði hins vegar við skýrslutöku að bankanum hefði verið boðin slík lína en forsvarsmenn bankans ekki tekið henni. Í skýrslu sinni sagði hann m.a.: "Þetta er eitt af því sem okkur var boðið, og það getur vel verið að það hafi verið Deutsche Bank sem bauð það, ég hugsa að það sé m.a.s. rétt. Það var verið að bjóða okkur svona línur sem voru lausafjárlínur en voru ekki raunverulegar lausafjárlínur [...] en línur sem eru bara svona dauðalínur [...] sem sagt þannig að ef þú ert að draga á þær þá máttu draga en verðlagningin er óendanleg og þar af leiðandi er hægt að gera bara fyrirtækið gjaldþrota, hirða allt eigið fé."
7.9 Ályktanir rannsóknarnefndar Alþingis
Erlend innlán íslensku bankanna jukust verulega frá lokum árs 2006 og var það m.a. svar bankanna við þeirri gagnrýni sem fram hafði komið í upphafi þess árs um einhæfa fjármögnun bankanna á erlendum skuldabréfamörkuðum. Reyndar höfðu bankarnir skömmu áður hafið söfnun samningsbundinna heildsöluinnlána og náð góðum árangri þar. Þessi söfnun innlána erlendis jókst síðan enn eftir að Landsbankinn hóf að bjóða netinnlánsreikninga, Icesave, til einstaklinga haustið 2006. Innlánin komu hratt inn og í boði voru hærri vextir en gjarnan voru í boði hjá öðrum bönkum. Eftir að lausafjárkreppan hófst varð ljóst að erlendu innlánin voru ekki eins stöðug fjármögnun og innlend innlán eru að jafnaði. Það sýndi sig að þessi innlán voru viðkvæm gagnvart umræðu um stöðu efnahagsmála á Íslandi og þar með bankanna, sérstaklega kom þetta fram í tilviki heildsöluinnlánanna, sem voru auk þess mjög viðkvæm fyrir lánshæfismati. Þau innlán lækkuðu þegar leið á árið 2007 og fóru hratt út þegar leið á árið 2008. Hjá einstaklingunum er ástæða til þess að ætla að óvissa um getu innstæðutryggingarkerfis heimaríkis banka og þá um leið í hvaða mæli má vænta stuðnings stjórnvalda, í þessu tilviki íslenska ríkisins, til að vernda innlán þeirra auki líkur á að innlánin streymi hraðar út um leið og eitthvað bjátar á.
Erlendu innlánin sem voru uppspretta fjármagns fyrir Landsbanka Íslands hf. á seinni hluta árs 2006 og á fyrri helmingi ársins 2007 reyndust að lokum það sem varð bankanum að falli í byrjun október 2008. Í raun má segja hið sama um Kaupþing banka hf. þar sem kröfur breska fjármálaeftirlitsins um laust fé í KSF (Kaupthing Singer & Friedlander) á móti innlánum þar voru meðal þess sem að lokum varð bankanum að falli (sjá kafla 20.0). Heildsöluinnlán Glitnis banka hf. í Bretlandi urðu einnig þung byrði þegar þau byrjuðu að renna út á árinu 2008.
Það er ljóst að íslensku bankarnir töldu að aukin söfnun innlána erlendis væri vænleg leið af þeirra hálfu til að bregðast við þegar þrengdi að öðrum möguleikum við útvegun lánsfjár. Rétt eins kom fram í aðdraganda að falli íslensku bankanna er ekki hægt að leggja þessi innlán að jöfnu þegar kemur að áhættu banka vegna útstreymis. Rétt er að minna á að aukning hinna erlendu innlána bankanna kemur til strax á árinu 2007 og að því marki sem tilefni var til að bregðast við þessari breyttu fjármögnun bankanna, bæði af hálfu þeirra sjálfra og íslenskra stjórnvalda, hefðu slík viðbrögð þurft að koma til á því ári. Nánar verður ályktað af hálfu nefndarinnar um hlut stjórnvalda og þýðingu þessara erlendu innlána þegar kom að varðstöðu um fjármálastöðugleika Íslands og þar með mati á stöðu þeirra banka sem töldust kerfislega mikilvægir hér á landi í kafla 21.0 og þá að undangenginni umfjöllun um Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta í kafla 17.0 og um innlán í fjármálastofnun erlendis í kafla 18.0.
Veðlán jukust verulega hjá öllum bönkunum þremur eftir að lausafjárkreppan hófst haustið 2007. Þróuðust mál þannig að veðlán jukust úr því að vera um tveir milljarðar evra, sem mestmegnis voru frá Seðlabanka Íslands, yfir í það að vera yfir níu milljarðar evra við fall bankanna.Tæplega helmingur veðlána við fall bankanna voru lán frá Seðlabanka Evrópu. Hér verður að gefa gaum að eðlismun fjármögnunar á grundvelli skuldabréfaútgáfu annars vegar og fjármögnunar með veðlánum hins vegar. Sá munur kemur aðallega fram í því að í stað þriggja til fimm ára skuldabréfa komu veðlán sem flest voru veitt til einnar viku þótt sum væru til sex mánaða. Fyrir bankana varð þessi aukning í fjármögnun með skammtímaveðlánum til þess að auka verulega fjármögnunaráhættu þeirra. Þetta er skýrt dæmi um það hvernig meðallíftími fjármögnunar bankanna styttist sífellt í lausafjárkreppunni. Líkt og innlán eru veðlán, sérstaklega frá öðrum aðilum en seðlabönkum, viðkvæm fyrir breytingum á markaðsaðstæðum. Þeir sem veita veðlán geta t.a.m. hafnað endurnýjun eða framlengingu þeirra á gjalddaga eða ákveðið að auka frádrag. Augaleið gefur að eftir því sem alþjóðlegir fjármálamarkaðir urðu viðkvæmari og lausafjárskorts gætti víðar tók að gæta meiri áhrifa vegna þessarar áhættu. Til viðbótar fór verð verðbréfa í heiminum almennt lækkandi á þessum tíma. Slíkt hefur óneitanlega áhrif á veðlán þar sem undirliggjandi veð eru verðbréf. Þetta hefur þá bæði þá afleiðingu að aukin veðköll verða vegna verðlækkana á undirliggjandi veðum og næst þegar endurnýja á lán fást lægri lán á móti verðminni veðum.
Af framangreindu má draga þá ályktun að stórauknu hlutfalli veðlána við fjármögnun bankanna hafi fylgt ýmsar hættur umfram langtímafjármögnun með skuldabréfaútgáfu. Í framhaldinu er eðlilegt að spyrja af hverju bankarnir fjármögnuðu sig þá frekar með veðlánum en skuldabréfaútgáfu á þessum tíma. Svarið er einfalt og átti eftir að hafa mjög afdrifaríkar afleiðingar. Skuldabréfaútgáfa stóð bönkunum ekki til boða á þessum tíma. Bankarnir sóttu því í að nota þá möguleika sem þeir höfðu til að ná í laust fé með þessu móti og þá ekki bara íslenskar krónur heldur líka erlendan gjaldeyri. Þetta var gert samkvæmt þeim væntingum stjórnenda bankanna að senn færi að rofa til á hinum alþjóðlega fjármálamarkaði og bankarnir gætu á ný sótt sér fé til lengri tíma á mörkuðum.Við þessar aðstæður reyndi öðru fremur á að þau innlendu yfirvöld sem áttu að fylgjast með stöðugleika í fjármálakerfi landsins gættu að þeirri áhættu sem þarna var að magnast. Þar reyndi sérstaklega á hlutverk Seðlabanka Íslands sem bæði var þar í eftirlitshlutverki og veitti bönkunum hluta þessara veðlána. Þegar farið er yfir minnisblöð, drög að fundargerðum og önnur gögn sem rannsóknarnefndin fékk frá Seðlabanka Íslands hafa ekki komið fram nein gögn sem sýna að bankinn hafi skipulega greint þessa áhættu og síðan tekið hana gagngert til umfjöllunar á fundum með stjórnendum bankanna eða með öðrum hætti að undanskildu bréfi sem Seðlabankinn sendi öllum bönkunum 17. júlí 2008 og nánar verður fjallað um hér á eftir.
Veðlánin áttu eflaust þátt í því að efnahagsreikningar bankanna drógust ekki saman þegar líða tók á lausafjárkreppuna. Í stað þess að selja markaðsverðbréf sín kusu bankarnir að setja þau að veði í lánaviðskiptum, enda jukust afföll á markaði verulega á þessum tíma, sem hefði haft tilheyrandi áhrif á eiginfjárhlutfall bankanna. Í þessu sambandi er þó rétt að benda á að ef undirliggjandi skuldabréf hefðu verið seld í stað þess að vera grundvöllur fjármögnunar hefði endurgreiðsluóvissa minnkað en ekki aukist. Rétt hefði því verið að meta það á móti þeim afföllum sem voru á markaðsverðbréfum á þessum tíma.
Í nóvember 2007 var Seðlabanka Íslands orðið ljóst að íslensku bankarnir voru farnir að stunda það í ríkum mæli að gefa út óvarin skuldabréf sem síðan voru seld öðrum fjármálafyrirtækjum, einkum Icebank, sem aftur notuðu skuldabréfin sem veð til þess að afla sér lána frá Seðlabanka Íslands. Með slíkum viðskiptum fóru fjármálafyrirtækin í raun í kringum þá reglu Seðlabankans að lán séu ekki veitt gegn veði í eigin skuldabréfum fjármálafyrirtækis. Þrátt fyrir þessa vitneskju spornaði Seðlabanki Íslands ekki við slíkum veðsetningum og reyndi ekki að afla sér traustari veða. Samtímis urðu minni fjármálastofnanir stórir lánardrottnar bankanna þriggja, með þeirri áhættu sem því fylgdi.
Það var ekki fyrr en 17. júlí 2009 sem Seðlabanki Íslands virtist loks ætla að bæta veðstöðu sína þegar hann sendi bönkunum samhljóða bréf þar sem m.a. segir að engin ný óvarin skuldabréf á innlend fjármálafyrirtæki verði samþykkt veðhæf nema að undangenginni sérstakri athugun. Líkt og nánar er rakið í kafla 7.6.1. hér að framan var þeirri stefnubreytingu Seðlabankans sem sett er fram í bréfinu ekki fylgt eftir að neinu ráði.
Í skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis 7. ágúst 2009 sagði Davíð Oddsson, formaður bankastjórnar Seðlabankans, að ekki hefði verið hægt að loka á þessi veð þar sem fréttir um slíkt hefðu orðið bönkunum að falli og hann bætti við að Seðlabankinn hefði "þá þurft að margfalda starfsfólkið ef við hefðum ætlað að fara að skipta út bréfum". Jafnframt sagði hann: "[B]ankarnir áttu þá ekkert til [...] bankarnir voru að deyja." Um hver hefði verið meginástæðan fyrir þessum fyrirgreiðslum í formi veðlána svaraði Davíð að hún hefði verið "sú að við vildum í heimagjaldmiðlinum veita sömu fyrirgreiðslu við þessar erfiðu aðstæður – krafan var alls staðar sú, yfirlýsingar ríkisvalds alls staðar var sú að það yrði allt gert sem hægt væri til að styðja við bakið á bankakerfinu, alls staðar í heiminum ..." Rannsóknarnefnd Alþingis bendir á að heimild Seðlabanka Íslands til að veita lánastofnunum lán með kaupum á verðbréfum samkvæmt 7. gr. laga nr. 36/2001 er bundin því skilyrði að þau séu veitt gegn tryggingum sem bankinn metur gildar. Það sem rakið var hér að framan um viðhorf Seðlabankans til stöðu bankanna á þeim tíma sem umrædd veðlánaviðskipti færðust í aukana fyrri hluta árs 2008, og það sem bankastjórn Seðlabankans taldi m.a. tilefni til að kynna ráðherrum úr ríkisstjórn Íslands um áhyggjur af stöðu bankanna á sama tíma og rakið er á öðrum stöðum í skýrslu þessari, fær illa samrýmst því að þau veð sem Seðlabankinn tók hafi verið trygg. Rannsóknarnefndin minnir á það sem áður sagði um að við rannsókn nefndarinnar hafa ekki komið fram nein gögn sem sýna hvernig staðið var að mati á umræddum veðum og þá með tilliti til þess á hvaða grundvelli Seðlabankinn taldi þau trygg umfram það sem haft var eftir formanni bankastjórnar Seðlabankans hér að framan. Rannsóknarnefndin telur ástæðu til að benda á að miðað við það sem almennt tíðkast í samskiptum seðlabanka og fjármálastofnana verði ekki annað séð en Seðlabanki Íslands hefði getað takmarkað einstök veð án þess að slíkt hefði farið í hámæli og valdið falli bankanna. Í þessu samhengi verður ekki fram hjá því litið að Seðlabanki Evrópu og Seðlabanki Lúxemborgar gerðu tvívegis breytingar á veðkröfum vegna lánveitinga til íslensku bankanna og hafði Seðlabanki Íslands fulla vitneskju um það, en almenningur ekki. Þegar eignasöfn bankanna við fall þeirra eru virt verður ekki fallist á með formanni bankastjórnar Seðlabanka Íslands að bankarnir hafi ekki haft neinar aðrar eignir til að leggja að veði þótt staða þeirra hafi verið misgóð að því leyti. Var því illskiljanlegt að þess skyldi ekki hafa verið freistað að taka önnur veð í ljósi þess viðhorfs sem uppi var um stöðu bankanna innan og af hálfu bankastjórnar Seðlabankans allt frá því á fyrri hluta árs 2008. Þess skal þó getið að formaður bankastjórnar Seðlabankans benti á að tapið hefði verið mun meira eftir að forgangsröðun krafna var breytt með neyðarlögunum. Þótt sú hafi orðið raunin bendir rannsóknarnefndin á að það breytir því ekki að allt fram eftir árinu 2008 voru til innan bankanna tryggari eignir heldur en lágu að baki þeim veðlánum sem Seðlabankinn veitti. Af hálfu Seðlabankans var líka á sama tíma staðið að undirbúningi viðbúnaðar og samráði við önnur stjórnvöld ef illa færi um rekstur bankanna og því enn frekari ástæða til þess að Seðlabankinn hagaði veðtöku þannig að til þess gæti komið að gripið yrði til neyðarráðstafana af því tagi sem raunin varð í tilefni af kerfishruni í fjármálastarfsemi.
Við skýrslutöku var Sturla Pálsson, framkvæmdastjóri alþjóða-og markaðssviðs Seðlabankans, spurður að því hvort ekki hefði komið til tals að skipta veðum í óvörðum skuldabréfum út fyrir önnur veð. Sturla svaraði: "Jú, en þá hefði ég alveg eins getað farið að loka bönkunum." Sturla var þá spurður hvort ekki hefði komið til greina að taka einhverjar lánabækur bankanna að veði í stað framangreindra óvarinna skuldabréfa. Sturla svaraði: "Nei, nei, nei.Við vorum búnir að opna á allt, við vorum, kjallarinn í Seðlabankanum er fullur af brettum með handhafaskuldabréfum.Við vorum búnir að taka af þeim, við tókum af þeim allt sem þeir gátu afhent. [...] Það sem við reynum að gera með því að opna á þessa ABS-a og þetta erlenda er að byrja á að opna á allt sem þeir geta afhent okkur rafrænt. Það er bara svo rosalega mikið vesen að taka við einhverju sem er fýsískt skuldabréf. Og það er í rauninni ekki fyrr en held ég bara í september sem við erum farnir að taka þetta á brettum, þarna fasteigna..." Almennt benti Sturla á: "[E]f þú skoðar veðlánareglur í heiminum og þær breytingar sem menn hafa verið að gera á veðlánareglum þá er það þannig, við ákváðum að halda okkur bara við reglurnar eins og þær voru.Við vissum það að við þyrftum að koma lausafé út í kerfið, "no matter what". Eina leiðin til þess að það væri smuga að þetta kerfi lifði þetta af væri að það fengi lausafjárfyrirgreiðslu. Í staðinn fyrir að gera t.d. eins og við hefðum getað gert, eins og danski seðlabankinn sem lánaði bara án trygginga út á það eigið fé sem var umfram 8 prósentin, menn, hefðum alveg getað gert eins og bandaríski seðlabankinn, að lána út á hlutabréf og alls konar hluti.Við ákveðum það, þetta er í rauninni ekki spurning hvort að þú lánar þessum bönkum laust fé, heldur hvernig þú ætlar að gera það.Við ákváðum að halda okkur bara við þessar reglur eins og þær eru og gera það með þessum hætti." Ekki verður á það fallist að það geti talist málefnalegar ástæður þess að ekki var leitað eftir haldbetri veðum að það hafi verið "rosalega mikið vesen að taka við einhverju sem er fýsískt skuldabréf", enda var það beinlínis hlutverk stofnunarinnar að huga að veðtryggingum fyrir kröfum sínum á hendur fjármálastofnunum og varð það hlutverk síst léttvægara eftir því sem lánveitingar til þeirra jukust hratt og numu vikulega fjárhæðum sambærilegum árlegum fjárlögum ríkisins.
Eftir því sem leið á vorið 2008 jókst mikilvægi þess að Seðlabankinn myndi leiðrétta þau mistök sín með því að afla sér traustari veða. Í því samhengi verður að líta til þess að við fall bankanna námu heildarlánveitingar Seðlabanka Íslands með veði í óvörðum skuldabréfum til íslenskra fjármálafyrirtækja rúmlega 300 milljörðum króna, en þar af voru um 200 milljarðar vegna veðlána stóru bankanna þriggja og Icebank.
Íslensku bankarnir fóru sömu leið og þeir gerðu hér heima um skipti á verðbréfum gagnvart Seðlabanka Evrópu en voru fljótt stöðvaðir. Fljótlega eftir að bankarnir skiptust á skuldabréfum í erlendri mynt til að veðsetja hjá Seðlabanka Evrópu voru æðstu stjórnendur þar komnir í málið. Seðlabankastjóri Evrópu hringdi í lok apríl og var ómyrkur í máli. Sama dag hringdi líka seðlabankastjóri Lúxemborgar. Ljóst mátti því vera að þessir seðlabankastjórar litu málið alvarlegum augum. Nokkrum dögum síðar var óformlegt samkomulag gert í Lúxemborg til að takmarka notkun skuldabréfa bankanna í Seðlabanka Evrópu. Hér var gripið í taumana um leið án þess að það hefði verið gert opinbert. Þessi uppákoma virtist ekki duga til að stöðva íslensku bankana í veðlánstöku í gegnum dótturfélög sín í Lúxemborg.Veðlánin jukust upp í um 4,5 milljarða evra í lok júní, enda þótt bönkunum hefði mátt vera ljóst að þetta myndi valda óróa miðað við viðbrögðin í apríl. Innlend stjórnvöld virðast ekki hafa séð neina ástæðu til að fylgjast með framgöngu bankanna hjá Seðlabanka Evrópu, ef marka má orð Davíðs Oddssonar, formanns bankastjórnar Seðlabankans, um að það hafi komið honum í opna skjöldu í lok júní þegar Yves Mersch tilkynnti honum "bara svona" að bankarnir þrír væru með um fimm milljarða evra að láni frá Seðlabanka Evrópu. Að þessu sinni höfðu bankarnir gengið svo fram af seðlabankastjóra Lúxemborgar að hann ákvað að koma til landsins með starfsmönnum sínum og lesa mönnum pistilinn. Það sem nú var vandamál voru ekki einungis hin óvörðu skuldabréf bankanna heldur líka gjaldmiðlaskiptasamningar sem í gildi voru milli eignastrúktúra á vegum bankanna og bankanna sjálfra. Ljóst er að íslensku bankarnir höfðu vakið reiði hjá seðlabankastjórum Seðlabankans í Lúxemborg og Seðlabankans í Evrópu. Þetta átti sinn þátt í að Ísland var afskipt á vettvangi seðlabankanna með þeim afleiðingum sem það hafði fyrir öflun lánsfjár af hálfu Seðlabanka Íslands og íslenska ríkisins og viðhorf þeirra sem fóru fyrir seðlabönkum í Evrópu til starfsemi íslensku bankanna þar.
Athygli vekur að ekki verður ráðið af fyrirliggjandi gögnum að Seðlabanki Íslands hafi gagngert fylgst með stöðu íslensku bankanna í Seðlabanka Evrópu eftir viðvörunina í apríl til að koma í veg fyrir að slíkt endurtæki sig.
Eignavörðu skuldabréfin sem Glitnir og Landsbankinn bjuggu til og notuðu sem veð inn í Seðlabanka Evrópu voru alls engin nýmæli. Slík skuldabréf voru veðhæf í Seðlabanka Evrópu svo lengi sem þau höfðu lánshæfismat og voru í evrum. Til þess að breyta greiðsluflæðinu úr krónum og öðrum gjaldmiðlum yfir í evrur gerðu Glitnir og Landsbankinn sjálfir gjaldmiðlaskiptasamninga við þá eignastrúktúra sem gáfu út skuldabréfin. Við fall bankanna sat Seðlabanki Evrópu uppi með annars vegar, í tilfelli Avens (Landsbankinn), skuldabréf í helmingi verðminni krónum og engan til að skipta krónunum yfir í evrur á föstu gengi. Skuldabréfin höfðu einnig lækkað í verði vegna lækkunar á lánshæfi íslenska ríkisins. Hins vegar sat Seðlabanki Evrópu uppi með eignir að litlum hluta í krónum, í tilfelli Holts og Hafs (Glitnir), en þeim mun meiri áhættu tengda íslenskum fyrirtækjaskuldabréfum í erlendum gjaldmiðlum. Stærsta einstaka eignin í Hafi var skuldabréf gefið út af stærsta eiganda Glitnis. Af þessu er ljóst að Seðlabanki Evrópu var kominn með mikla íslenska áhættu eftir að þessi veð höfðu verið lögð inn á móti lánum frá bankanum.
Rannsóknarnefnd Alþingis telur að skuldabréfin sem Glitnir gaf út í lok mars og færði ekki í bækur sínar hefðu átt að koma fram í bókhaldi Glitnis sem skuld enda eru þau sjálfstæð krafa á Glitni óháð þeim verðbréfum eða innlánum sem Glitnir skipti þeim út fyrir. Reiðuféð og verðbréfin sem Glitnir fékk á móti hefðu að sama skapi átt að færa sem eign. Þegar litið er til verðbréfanna var nauðsynlegt að mótaðilaáhættan sem felst í þessari verðbréfaeign væri rétt metin enda voru verðbréfin sjálfstæð krafa Glitnis á viðkomandi útgefanda.
Fram kemur að Kaupþing og KSF gera með sér samning um að KSF verði milliliður í veðlánsviðskiptum Kaupþings. Ljóst er að með þessu var mikilli áhættu varpað yfir á KSF sem þar með var kominn með einn stóran viðskiptavin sem hann lánaði gegn veði, sem er Kaupþing banki hf., á meðan KSF fjármagnaði þau viðskipti hjá mörgum aðilum með því að taka veðlán. Áhættan var ekki einungis samþjöppunaráhætta heldur einnig sú að hætta var á að hagsmunir móðurfélags yrðu teknir fram yfir hagsmuni dótturfélagsins þegar á reyndi. Eftir fall Lehman Brothers 15. september 2008 byrja flestar fjármálastofnanir að draga saman seglin.Almennt voru veðlán ekki endurnýjuð og ef þau voru endurnýjuð var það með hærra frádragi. Þvert á þetta aukast veðlán frá KSF til Kaupþings hf. á sama tíma og veðin rýrna í verði. Frádrag er lækkað niður í mögulegt lágmark. Líklegt er að KSF hafi á sama tíma verið að missa fjármögnun á veðunum frá þriðja aðila, enda var svo komið í lokin að einungis 20% af veðlánum Kaupþings hf. voru í raun með "milligöngu" KSF, þar sem hin veðlánin fóru beint frá KSF. Ekki er því hægt að útiloka að hagsmunir móðurfélagsins hafi verið teknir fram yfir hagsmuni KSF enda eru þau veðköll sem af þessu hlutust ein af nefndum orsökum þess að FSA tók yfir KSF að lokum.
Hér er ástæða til að benda á þá áhættu sem fólst í skammtímafjármögnun þegar ríkið setti fram tilboð sitt um kaup á 75% hlut í Glitni. Áður er rakið að veðlán frá fjármálastofnunum að upphæð um 500 milljónir evra voru á gjalddaga í október 2008 hjá Glitni. Þá eru ekki talin með veðlán frá Seðlabanka Evrópu. Eins og einnig er lýst í 20. kafla er ekki að sjá að stjórnvöldum hafi verið þessi áhætta ljós þegar fulltrúar ríkisstjórnarinnar tóku afstöðu til tillögu Seðlabankans um málefni Glitnis 28. september 2008.
Þegar tap heildarskiptasamninga (e. TRS) Landsbanka Íslands jókst verulega í upphafi árs 2008 var heimild til að færa fjármögnunarhluta samningsins á markaðsvirði (e. fair value) samkvæmt IFRS-stöðlum nýtt til tekjufærslu og það hafði þannig áhrif á afkomu bankans. Rannsóknarnefnd Alþingis gerir athugasemd við það að viðmiðunarvextir við útreikning hagnaðarins virðast hafa verið fundnir miðað við "ásættanlegt" tap fremur en markaðsaðstæður. Í hálfsársuppgjöri 2008 námu tekjur Landsbankans af því að færa fjármögnunarhlið heildarskiptasamninganna um 5,5 milljarða króna eða sem nemur 20% af hagnaði bankans. Rannsóknarnefnd Alþingis telur að í ljósi þess að þetta var verulegur hluti hagnaðar bankans hefði verið rétt að geta þess í skýringum með árshlutareikningunum að ákveðnar skuldir væru færðar á markaðsvirði og hvernig þær væru metnar, jafnvel þó að um árshlutareikning væri að ræða.
Tekjufærslu Kaupþings á árinu 2008, sem nam 16 milljörðum króna, vegna færslu skulda á markaðsvirði, hefði einnig átt að nefna í skýringum við árshlutauppgjör bankans. Þessi tekjufærsla var færð á fyrsta ársfjórðungi og nam þá rétt tæplega hagnaði bankans, og hlýtur því að teljast það mikilvæg rekstri bankans að hennar hafi borið að geta í skýringum. Rannsóknarnefnd Alþingis vill líka vekja athygli á því að ekki er hægt að sjá að sérstakur eignaleggur sé tengdur við þessi lán, en almennt er talið að slíkt sé mikilvægt sem ástæða fyrir færslu skulda á markaðsvirði.
Rannsóknarnefnd Alþingis telur að það hafi verið nauðsynlegt fyrir Seðlabanka Íslands að framkvæma lausafjáreftirlit í erlendum gjaldmiðlum hjá fjármálafyrirtækjunum. Sérstaklega var þetta knýjandi eftir að gjaldmiðlaskiptamarkaðurinn lokaðist í mars. Þessi vinna var hafin en hafði ekki náð það langt að viðunandi væri. Það vekur athygli að allir bankarnir voru með mjög góða lausafjárstöðu í lok ágúst 2008 og útlitið var bjart næstu tvo mánuðina, jafnvel að meðtöldum greiðslum Glitnis af stórum lánum í október. Því má segja að þessar lausafjárskýrslur hafi ekki gefið þá viðvörun sem aðstæður á þessum tíma gáfu tilefni til. Má meðal annars rekja það til þess að stórir liðir í skýrslunum urðu að engu þegar harðnaði á dalnum. Í þessu sambandi má sérstaklega nefna stórar opnar lánalínur vegna "MAC"-ákvæða en ætla verður að þessir samningar hefðu aldrei verið notaðir sem neyðarlausafjárlínur vegna verðlagningarákvæða í þeim.