20. kafli Atburðarásin frá því að beiðni Glitnis banka hf. um fyrirgreiðslu kom fram þar til bankarnir féllu
Efnisyfirlit
- 20.1 Inngangur
- 20.2 Beiðni Glitnis banka hf. um fyrirgreiðslu, viðbrögð stjórnvalda og afleiðingar
- 20.3 Atburðarásin frá því að kauptilboð ríkisins í 75% eignarhlut Glitnis banka hf. var kynnt opinberlega og fram að setningu neyðarlaganna
- 20.4 Fall Landsbanka Íslands hf.
- 20.5 Fall Kaupþings banka hf.
20.1 Inngangur
Samkvæmt 1. tölul. 1. gr. laga nr. 142/2008 um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða skal rannsóknarnefnd Alþingis varpa sem skýrustu ljósi á aðdraganda og orsakir þess vanda íslenska bankakerfisins sem varð Alþingi tilefni til að setja hin svokölluðu neyðarlög. Í kafla 19 hér að framan voru raktir helstu atburðir ársins 2007 og ársins 2008 fram til 25. september. Í þessum kafla verða aftur á móti helstu atburðir raktir frá 25. september 2008, þegar beiðni Glitnis banka hf. til Seðlabanka Íslands um fyrirgreiðslu var sett fram, og allt þar til stóru bankarnir þrír féllu í október 2008.
20.2 Beiðni Glitnis banka hf. um fyrirgreiðslu, viðbrögð stjórnvalda og afleiðingar
20.2.1 Inngangur
Um miðjan september 2008 lentu mörg fjármálafyrirtæki víðs vegar um heiminn í miklum vandræðum. Þessir erfiðleikar komu fyrir alvöru upp á yfirborðið þegar bandaríska fjármálafyrirtækið Lehman Brothers sótti um greiðslustöðvun 15. september 2008. Sama dag var upplýst um samkomulag um yfirtöku Bank of America á Merrill Lynch. Hinn 16. september 2008 var tilkynnt um neyðarfjárframlag bandarískra yfirvalda til tryggingafélagsins AIG. Hinn 18. september 2008 var síðan tilkynnt um að breski bankinn HBOS hefði verið yfirtekinn af Lloyds TSB eftir að verð hlutabréfa í hinum fyrrnefnda hafði fallið ört. Óhætt er því að segja að miklar hræringar hafi verið á alþjóðlegum fjármálamörkuðum um þetta leyti.
Tildrög þess að Glitnir banki hf. falaðist eftir fyrirgreiðslu frá Seðlabanka Íslands í síðari hluta september 2008 eru þau að ýmsir erfiðleikar höfðu komið upp við fjármögnun bankans en fyrir lá að um miðjan október þyrfti bankinn að standa skil á fjórum lánum sem námu samtals u.þ.b. 600 milljónum evra. Þar af var stærst lán sem upphaflega nam 750 milljónum Bandaríkjadala en eftirstöðvar þess námu á þessum tíma um 500 milljónum Bandaríkjadala. Gjalddagi þess var 15. október 2008. Næststærsta lánið nam 75 milljónum evra og var á gjalddaga 13. október 2008. Í þessu sambandi má einkum nefna fjögur atriði.
Í fyrsta lagi má minna á að bankinn hafði um nokkurt skeið átt í viðræðum við fjármálafyrirtækið Nordea um sölu á hluta af eignum dótturfélags Glitnis í Noregi.Við skýrslutöku upplýsti Lárus Welding, forstjóri Glitnis, að sumarið 2008 hefði reyndar komið í ljós að Danske Bank, einn af fjármögnunaraðilum norska dótturfélagsins, hafði athugasemdir við fyrirhugaða eignasölu til Nordea. Samkvæmt minnisblaði Glitnis setti Danske Bank það skilyrði fyrir sölunni að skilmálum láns bankans til dótturfélagsins yrði breytt þannig að Danske Bank fengi mun hærri vexti af láninu auk þess sem engir fjármagnsflutningar mættu eiga sér stað frá norska dótturfélaginu til Glitnis fyrr en búið væri að greiða lánið að fullu, en það yrði um mitt ár 2011. Aðkoma Danske Bank var liður í stærra sambankaláni sem dótturfélagið hafði tekið. Lárus Welding sagði að viðræður hefðu átt sér stað um málið við Danske Bank en í síðari hluta ágúst 2008 hefði komið í ljós að samkomulag myndi ekki nást um kjör á uppgreiðslunni. Því hefði verið ákveðið að reyna að vinna að eignasölu til Nordea í smærri hlutum. Nordea tilkynnti Glitni hins vegar með bréfi, dags. 23. september 2008, að ekkert yrði af þeim kaupum.
Í öðru lagi hafnaði Bayerische Landesbank beiðni Glitnis um framlengingu á tveimur lánum sem námu annars vegar 100 milljónum evra og hins vegar 50 milljónum evra. Lárus Welding tjáði rannsóknarnefnd Alþingis að sama dag og Nordea hafnaði endanlega kaupum á eignum dótturfélags Glitnis í Noregi, þ.e. 23. september 2008, hefði Bayerische Landesbank tilkynnt um framangreinda ákvörðun sína. Lárus hafði eftir starfsmönnum hins þýska banka að þar á bæ hefðu menn verið komnir með "nóg af Íslandi" og að þeirra ""Iceland limit" væri búið". Samkvæmt Lárusi mátti að hluta til rekja þessa afstöðu Bayerische Landesbank til þess að bankinn hafði nokkru áður veitt íslenska ríkinu 300 milljóna evra lán.
Í þriðja lagi höfðu fyrirsvarsmenn Glitnis átt í viðræðum við erlendan fjárfesti um aðkomu að bankanum.Við skýrslutöku lýsti Jón Ásgeir Jóhannesson því að í ágúst 2008 hefði fjárfestirinn bakkað út úr verkefninu.
Í fjórða lagi má nefna að það ástand sem ríkti á alþjóðlegum fjármálamörkuðum um þessar mundir, sér í lagi eftir fall Lehman Brothers, leiddi til þess að eignaverð lækkaði.Vilhelm Már Þorsteinsson, framkvæmdastjóri fjárstýringar Glitnis, lýsti því við skýrslutöku að þessi þróun hefði haft í för með sér aukin veðköll. Að sama skapi voru sífellt fleiri heildsöluinnlán Glitnis ekki framlengd. Í þessu samhengi má geta ódagsetts minnisblaðs Vilhelms. Þar segir m.a. að heildsöluinnlán sem voru á gjalddaga 26. og 29. september 2008 og bankinn hafði fengið "vilyrði fyrir að yrðu framlengd" upp á 150 milljónir evra "reyndust ekki verða framlengd".
Framangreind atriði gerðu það að verkum að óvissa skapaðist um hvort Glitnir gæti staðið í skilum um greiðslu á láni sem var á gjalddaga 15.október 2008.Af þessum sökum ákvað Þorsteinn Már Baldvinsson,stjórnarformaður Glitnis,að hafa samband við Davíð Oddsson, formann bankastjórnar Seðlabanka Íslands, miðvikudaginn 24. september 2008 og óska eftir fundi með honum.
20.2.2 Almennt um heimildir Seðlabanka Íslands til að veita lánastofnunum veðlán
Áður en nánar er vikið að beiðni Glitnis banka hf. um fyrirgreiðslu er rétt að fara nokkrum orðum um almennar heimildir Seðlabanka Íslands til að veita lánastofnunum lán.
Í 1. mgr. 7. gr. laga nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands er að finna heimild fyrir Seðlabankann til þess að veita "lánastofnunum, sem geta átt innlánsviðskipti við bankann, sbr. 6. gr., lán með kaupum á verðbréfum eða á annan hátt gegn tryggingum sem bankinn metur gildar". Þar segir einnig: "Lánsviðskipti þessi geta verið í innlendri eða erlendri mynt. Bankinn setur nánari reglur um viðskipti sín samkvæmt þessari málsgrein."
Í 2. mgr. 7. gr. laga nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands segir: "Þegar sérstaklega stendur á og Seðlabankinn telur þess þörf til að varðveita traust á fjármálakerfi landsins getur hann veitt lánastofnunum í lausafjárvanda ábyrgðir eða önnur lán en um ræðir í 1. mgr. á sérstökum kjörum og gegn öðrum tryggingum en um getur í 1. mgr. eða öðrum skilyrðum sem bankinn setur." Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 36/2001 er ákvæðið skýrt nánar. Þar kemur fram að hér var um nýmæli að ræða í íslenskri löggjöf. Einnig segir: "Hér er fjallað um það hlutverk seðlabanka sem kallað hefur verið lánveitandi til þrautavara (eða örþrifalánveitandi, á ensku "lender of last resort"). [...] Sérstaklega er tekið fram að þetta gildi um lausafjárvanda einstakra stofnana. Það þýðir að Seðlabankinn kemur ekki til aðstoðar með sérstakri fyrirgreiðslu til þess að efla eiginfjárstöðu stofnana sem lenda í vanda. Hann veitir með öðrum orðum ekki gjaldþrota lánastofnunum eða stofnunum með eiginfjárstöðu undir löglegum mörkum fyrirgreiðslu til þess að forða þeim frá gjaldþroti eða gera þeim kleift að uppfylla skilyrði laga um lágmarks eigið fé. Í slíkum tilvikum verður að koma til nýtt hlutafé." Síðar segir: "Seðlabankinn má aðeins veita sérstaka fyrirgreiðslu ef sannanlegt þykir að viðkomandi stofnun eigi við lausafjárvanda en ekki eiginfjárvanda að stríða." Einnig segir: "Þegar upp koma vandamál af því tagi sem ákvæði þessarar málsgreinar beinast að leiðir af sjálfu sér að Seðlabankinn mun eiga náið samstarf og samráð við Fjármálaeftirlitið við lausn þess vanda sem upp kann að hafa komið. Þá verður einnig að gera ráð fyrir því að Seðlabankinn geri ráðherra sérstaklega grein fyrir slíkum tilvikum." Loks segir: "Rök sem beint hefur verið gegn því að ákvæði þessa efnis skuli vera í seðlabankalögum eru einkum þau að með því sé skapaður svokallaður freistnivandi (e. "moral hazard") sem gerir lánastofnanir áhættusæknari en þær mundu ella verða í trausti þess að seðlabanki komi þeim til bjargar ef á bjátar.Vitað er af samskiptum við alþjóðleg fyrirtæki sem meta lánshæfi að þau leggja mikið upp úr skýrum ákvæðum um möguleika seðlabanka til þess að gegna hlutverki lánveitanda til þrautavara. Meðal annars af þeim sökum er talið eðlilegt að leggja til að það verði fest í lög um Seðlabanka Íslands."
20.2.3 Beiðni Glitnis banka hf. um fyrirgreiðslu
Um hádegisbil fimmtudaginn 25. september 2008 hittust Davíð Oddsson, formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands, og Þorsteinn Már Baldvinsson, stjórnarformaður Glitnis banka hf., á fundi í Seðlabankanum. Á fundinum lýsti Þorsteinn þeirri stöðu sem upp var komin í rekstri Glitnis og áhyggjum sínum af gjalddaga láns 15. október sama ár. Á fundi bankaráðs Seðlabankans 30. september 2008 lýsti Davíð atburðarásinni með þeim hætti að Þorsteinn hefði greint frá nokkrum atriðum sem veikt hefðu stöðu Glitnis á stuttum tíma: "Í fyrsta lagi hefði Nordea bankinn á síðustu stundu fallið frá kaupum á vörðum bréfum frá Glitni. Í öðru lagi hefði BL bankinn [Bayerische Landesbank] ekki framlengt tvö lán að fjárhæð 50m evra og 100m evra, en bankinn hafði áður gefið vilyrði um framlengingu lánanna. Í þessu sambandi hefur verið rætt að nýtekið lán ríkissjóðs hjá BL hefði haft þau áhrif að þetta lán yrði ekki framlengt, en aðspurðir hefðu starfsmenn BL sagt að aðstæður hefðu gjörbreyst við gjaldþrot Lehman. Í þriðja lagi hefði Glitnir misst heildsöluinnlán [...]. Að lokum hefðu bréf Landsbankans sem notuð hefðu verið á svokölluðum repo-lánamarkaði ekki lengur þótt tæk trygging. Glitnir hefði því að óbreyttu ekki getað greitt afborgun af láni sem félli á gjalddaga um miðjan október [...]." Haft er eftir Davíð að af hálfu Glitnis hafi verið óskað eftir lánafyrirgreiðslu sem næmi 600 milljónum evra. Á sama fundi bankaráðs Seðlabankans greindi Davíð frá því að af hálfu Glitnis hefði lánabók 561 verið boðin sem veð en henni lýsti Davíð þannig að hún samanstæði af "lánum til fyrirtækja sem veittu "offshore" olíufyrirtækjum í Noregi þjónustu".
Ingimundur Friðriksson og Eiríkur Guðnason, seðlabankastjórar, tóku ekki þátt í viðræðum Þorsteins og Davíðs fyrr en sá síðarnefndi óskaði sérstaklega eftir því að þeir kæmu inn. Í drögum að minnisblaði Ingimundar 13. október 2008 kemur fram að á fundinum hafi Þorsteinn upplýst að jafnvel þótt Glitnir fengi fyrirgreiðslu "myndi hún tæpast duga til þess að fleyta bankanum nema fram undir áramót, hugsanlega fram í janúar".
Aðspurður um framangreindan fund með Davíð Oddssyni lýsti Þorsteinn Már Baldvinsson því við skýrslutöku að fundað hefði verið í því skyni að skiptast á skoðunum og að vinna hefði átt að "einhverjum hugsanlegum lausnum". Samkvæmt skýrslu Þorsteins lyktaði fundinum þannig að menn hugðust skoða lánabók 561 hjá Glitni.
Síðar sama dag, þ.e. 25. september 2008, héldu Jóhannes Baldursson, framkvæmdastjóri markaðsviðskipta hjá Glitni, og Vilhelm Már Þorsteinsson, framkvæmdastjóri fjárstýringar Glitnis, til fundar í Seðlabankanum. Þar biðu þeirra Sturla Pálsson, framkvæmdastjóri alþjóða- og markaðssviðs Seðlabankans, og Jón Þ. Sigurgeirsson, sérfræðingur á skrifstofu bankastjórnar Seðlabankans. Við skýrslutöku lýsti Vilhelm fundinum sem mjög óformlegum. Sagði hann að farið hefði verið yfir verkefni Glitnis tengd fjármögnun. Komið hefði fram að Glitnir hafði orðið fyrir veðköllum og að eignaverð hefði haldið áfram að lækka í kjölfar falls Lehman Brothers. Einnig hefði komið fram að Glitnir sæi fram á erfiða lausafjárstöðu, sérstaklega í erlendum gjaldeyri.Töluvert hafi farið út af heildsöluinnlánum.Vilhelm segist loks hafa lýst því á fundinum að ef staðan héldi áfram að þróast með þessum hætti væri óvissa um hvort Glitnir gæti staðið við greiðslu láns á gjalddaga 15. október 2008. Hafi því verið farið fram á að Seðlabankinn veitti Glitni lán og að í stað þess að Seðlabankinn léti af hendi íslenskar krónur yrðu afhentar evrur. Samningsfjárhæðin yrði 500 milljónir evra. Ljóst hafi verið að farið var fram á óhefðbundna fyrirgreiðslu þótt að um veðlán væri að ræða. Til hafi staðið að Seðlabankanum yrði í framhaldinu veitt yfirlit yfir eignasafn Glitnis. Í ódagsettu minnisblaði Vilhelms er rætt um fundinn. Þar segir: "Að lokum var rædd sú hugmynd, sem Þorsteinn [Már Baldvinsson] hafði nefnt við Davíð [Oddsson], að Glitnir myndi "pakka" saman svokallaðri lánabók 561 sem samanstendur af traustum lánum til norskra viðskiptavina. Fjárhæð þess væri tæpar EUR 800m sem gætu þá skapað Glitni a.m.k. EUR 500m eftir eðlilegt "haircut"." Við skýrslutöku sagðist Vilhelm ekki kannast við fjárhæðina 600 milljónir evra sem nefnd hefði verið þegar síðar var ákveðið að bjóða Glitni hlutafjárframlag í stað láns. Sagði Vilhelm að sú fjárhæð hefði aldrei verið nefnd af hálfu Glitnis. Í minnisblaði Glitnis frá 28. september er rætt um að Seðlabankinn veiti Glitni veðlán sem nemi 500 milljónum evra. Lárus Welding, forstjóri Glitnis, lýsti því við skýrslutöku að farið hefði verið fram á 500 milljónir evra. Síðan bætti hann við: "Eftir á að hyggja var það nú ekki mjög vísindaleg tala hjá okkur og eflaust áttum við bara að biðja um minna sem hefði hugsanlega dugað." Þorsteinn Már Baldvinsson minntist þess reyndar við skýrslutöku að hann hefði nefnt 600 milljónir evra á fundi sínum með Davíð Oddssyni 25. september 2008. Í skjölum Seðlabankans er einnig rætt um þá fjárhæð. Aðspurður sagðist Sturla Pálsson halda að af hálfu Glitnis hefði verið farið fram á 600 milljóna evra lán en hann sagðist þó ekki viss. Það hefði hins vegar verið sú tala sem unnið var með af hálfu Seðlabankans. Þegar Davíð Oddsson var spurður að því við skýrslutöku hvort beiðni Glitnis hefði verið um veðlán eða lán til þrautavara svaraði Davíð: "Lán af þessu tagi er í eðli sínu þrautavaralán [...] þeir eru að biðja um lán í erlendum gjaldmiðli, það er ekki veðlán í okkar skilningi, það er þrauta-varalán í erlendum gjaldmiðli."
Við skýrslutöku lýsti Lárus Welding því að daginn áður en Þorsteinn Már Baldvinsson hélt til fundar við Davíð Oddsson í Seðlabanka Íslands hefði Lárus rætt við yfirmenn hjá J.P. Morgan. Lárus hafði eftirfarandi orð eftir yfirmanni hjá J.P. Morgan: "[...] við getum lánað milljarð til Íslands, við getum lánað milljarð punda til Íslands og það getur verið klárt innan 24 – 48 tíma en það er okkar stefna að við viljum lána þetta til Seðlabanka Íslands. Það er kominn tími, þeir geta ekki lengur staðið á hliðarlínunni, það er kominn tími að þeir komi sínu fjármálakerfi til aðstoðar eins og aðrir seðlabankar í heiminum. [...] Farið yfir þetta með Seðlabankanum og við getum skaffað þeim "liquidity" en þeir verða þá líka að lofa því að fara í þetta skuldabréfaútboð sem þeir hættu við þarna í apríl/ maí." Við skýrslutöku voru framangreind ummæli borin undir Davíð Oddsson. Sagðist hann ekki kannast við að sér hefðu borist neinar upplýsingar frá Glitni um hugsanlegt lán sem þetta frá J.P. Morgan.
20.2.4 Undirbúningur Seðlabanka Íslands að afgreiðslu á beiðni Glitnis banka hf. um lán og ákvörðun ríkisstjórnarinnar sem tekin var í kjölfarið
Föstudaginn 26. september 2008 funduðu Þorsteinn Már Baldvinsson og Lárus Welding með Davíð Oddssyni, en Lárus hafði áður verið á viðskiptaferðalagi erlendis. Á meðan á fundinum stóð vék Davíð sér frá til þess að ræða við Geir H. Haarde, forsætisráðherra, í síma. Geir var þá staddur í New York ásamt Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, utanríkisráðherra, í opinberum erindagjörðum. Geir lýsti því við skýrslutöku að Davíð hefði ráðlagt sér að snúa heim til Íslands þar sem Glitnir ætti í vandræðum og hefði leitað eftir fyrirgreiðslu hjá Seðlabankanum. Geir sagðist hafa upplýst Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, utanríkisráðherra, um þetta sama dag. Aðspurður sagðist Geir í raun ekki hafa vitað mikið um málið á þessum tímapunkti. Geir flýtti síðan för sinni og kom til Íslands að morgni næsta dags, þ.e. 27. september 2008. Hér skal þess getið að við skýrslutöku kannaðist Ingibjörg Sólrún Gísladóttir ekki við annað en að Geir hefði sagt sér að það væri "einhver óróleiki á fjármálamörkuðum" og að hann hygðist kanna stöðu mála á Íslandi. Ingibjörg sagði að það næsta sem hún hefði heyrt af málinu hefði verið sunnudaginn 28. september 2008 þegar Gestur Jónsson, hrl., hefði hringt í sig og spurt hvort hún vissi hvað væri að gerast í forsætisráðuneytinu. Hefði hún þá hringt í Geir H. Haarde sem hefði sagt henni að staðan væri "alvarleg hjá Glitni" og að hún þyrfti að tilnefna staðgengil til að sækja fundi á Íslandi. Ingibjörg hefði þá hringt í Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra. Ingibjörg setti þó ákveðinn fyrirvara við framburð sinn varðandi þetta tímabil vegna læknismeðferðar sem hún gekkst undir vegna alvarlegra veikinda um sama leyti. Í þessu samhengi skal þess getið að Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, lét eftirfarandi orð falla við skýrslutöku: "[...] Geir var búinn að vera í sambandi við hana Ingibjörgu Sólrúnu og ég, þegar við vorum uppi í fjármálaráðuneyti [sunnudaginn 28. september 2008], að þá var talað við hana í síma, held ég alveg klárlega, og Geir talaði við hana á laugardeginum [27. september 2008], held ég, líka." Geir H. Haarde lýsti samskiptum sínum við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur þessa helgi almennt með eftirfarandi orðum við skýrslutöku: "Nú niðurstaðan er svo sú að við förum heim á föstudagskvöldið en hún er þarna áfram með sínu nánasta samstarfsfólki og það gerist ekkert hjá henni fyrr en á mánudeginum, þá fer hún í þessa aðgerð, þannig að hún er með símann opinn alla helgina."
Samkvæmt minnisblaði Seðlabankans fundaði bankastjórn Seðlabankans með Jónasi Fr. Jónssyni, forstjóra Fjármálaeftirlitsins, og Ragnari Hafliðasyni, aðstoðarforstjóra Fjármálaeftirlitsins, föstudaginn 26. september 2008.Við skýrslutöku lýsti Ragnar Hafliðason því að á fundinum hefði áhyggjum Seðlabankans verið lýst vegna stöðu Glitnis þar sem stór gjalddagi væri framundan hjá bankanum og óskað hefði verið eftir fyrirgreiðslu frá Seðlabankanum. Jafnframt hefði Seðlabankinn óskað eftir mati Fjármálaeftirlitsins á eiginfjárstöðu Glitnis. Ragnar lýsti því þó að ekki hefði komið til þess að Fjármálaeftirlitið skilaði slíku mati þar sem síðar hefði orðið ljóst að ekki stæði til að lána Glitni heldur leggja bankanum til eiginfjárframlag, en það var í samræmi við verklag sem mælt var fyrir um í samstarfssamningi Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans frá 3. október 2006.
Síðar á föstudeginum 26. september 2008 fundaði Davíð Oddsson með Árna M. Mathiesen. Árni lýsti því við skýrslutöku að á þessum fundi hefði hann fyrst frétt af beiðni Glitnis um lán en hann sagði jafnframt að Davíð hefði frá upphafi virst telja lánveitingu vera óráð. Hefði hann þá þegar verið kominn með vísi að þeirri leið sem síðar var farin. Davíð lýsti því síðar við skýrslutöku að það mat Árna, að Davíð hefði frá upphafi talið lánveitingu vera óráð, væri rétt. Í þessu samhengi skal þess getið að Eiríkur Guðnason upplýsti við skýrslutöku að síðla á föstudeginum hefði sú afstaða mótast hjá bankastjórn Seðlabankans, Sturlu Pálssyni og Jóni Þ. Sigurgeirssyni að ekki væri rétt að veita Glitni umbeðið lán.Að sögn Eiríks var sú niðurstaða óháð þeim veðum sem Glitnir gat boðið en á þessu stigi lá ekki fyrir hvort Glitnir gæti veðsett Seðlabankanum lánabók 561.
Þegar hér var komið við sögu höfðu engir aðrir starfsmenn Seðlabankans komið að málinu. Tryggvi Pálsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Seðlabankans, sem stýrt hafði viðbúnaðarstarfi bankans og verið fulltrúi bankans ásamt Ingimundi í sérstökum samráðshópi stjórnvalda var í fríi erlendis um þetta leyti.Hann var ekki kallaður til og í tölvubréfi sem Tryggvi sendi rannsóknarnefnd Alþingis 24. nóvember 2009 segir m.a.: "Ég var í fríi erlendis 22.–29. sept. 2008. Á þeim tíma var ekki leitað til mín um ráð né ég beðinn um að flýta heimferð minni. Ingimundur hringdi þó til mín kvöldið fyrir heimkomuna til að láta mig vita um ákvörðunina varðandi Glitni og fréttamannafundinn."
Sylvía K. Ólafsdóttir sem var forstöðumaður viðbúnaðarsviðs Seðlabankans og hafði undir stjórn Tryggva umsjón með því starfi innan fjármálasviðs bankans lýsti því í skýrslutöku hjá nefndinni að hún hefði verið stödd úti á landi þessa helgi. Á sunnudeginum 28. september 2008 milli kl. 15:00 og 16:00 þegar hún var á leið til Reykjavíkur í bíl hefði Jón Þ. Sigurgeirsson hringt í hana. Sylvía lýsti því við skýrslutöku að hún hefði spurt Jón hvort þetta væri eitthvað sem hastaði þar sem hún hefði ekki verið ein í bílnum en Jón hefði ekki svarað því eða gefið í skyn hvers eðlis málið væri. Sylvía sagði því næst: "Svo hringir Ingimundur svona um kvöldmatarleytið og þá er ég í Borgarnesi og biður mig um að koma, þegar ég kem, þá kem ég, þá er mér rétt þetta minnisblað, sem sagt þar sem ákvörðunin er í raun og veru útlistuð og ég beðin um að fara yfir það."Sigríður Logadóttir, aðallögfræðingur Seðlabankans, lýsti því við skýrslutöku að hún hefði fyrst verið kölluð til starfa um "kvöldmatarleyti" sunnudaginn 28. september 2008. Nokkrir fleiri starfsmenn Seðlabankans voru einnig komnir í húsakynni bankans á þessum tíma.
Við skýrslutökur lýstu Arnór Sighvatsson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, og Þórarinn Pétursson, staðgengill aðalhagfræðings Seðlabankans, því að þeir hefðu ekki verið kallaðir til starfa í Seðlabankanum um helgina. Hefðu þeir fyrst frétt af málinu í fjölmiðlum. Þórarinn lýsti því sérstaklega að hann hefði talið nauðsynlegt að fleiri sérfræðingar Seðlabankans hefðu verið kallaðir til starfa um helgina. Við skýrslutöku af Ingimundi Friðrikssyni kom fram að hagfræðisvið Seðlabankans hefði ekki verið kallað til aðstoðar við bankastjórn í þessu máli. Aðspurður um ástæður þess að framangreindir aðilar voru ekki kallaðir til svaraði Ingimundur því til að ekki hefði gefist svigrúm til þess að fara í "neinar efnahagslegar analýsur". Sagði hann atburðarásina hafa verið "óskaplega hraða".Við skýrslutöku var sambærileg spurning borin undir Sturlu Pálsson. Hann sagði: "Ja, við höfum væntanlega litið þannig á að þeir hefðu þá fátt til málanna að leggja á því stigi máls því að við erum, þetta er í sjálfu sér ekki flókið mál."
Eftir komu sína til landsins laugardaginn 27. september 2008 fundaði Geir H. Haarde með þeim Þorsteini Má Baldvinssyni og Lárusi Welding í forsætisráðuneytinu.Tryggvi Þór Herbertsson, efnahagsráðgjafi Geirs,kom inn á fundinn nokkru eftir að hann var hafinn.Við skýrslutöku lýsti hann því að farið hefði verið yfir áhyggjur af lausafjárstöðu Glitnis en fyrir lá að bankinn þyrfti að greiða af stóru láni 15. október 2008.Tryggvi hefur eftir Þorsteini að eftir fall Lehman Brothers hafi fjármögnun verið orðin mun erfiðari og erlendir bankar farnir að segja upp lánalínum. Fram kom að Þorsteinn hefði farið á fund Davíðs í Seðlabankanum, greint honum frá stöðunni og beðið um að Seðlabankinn tryggði Glitni lán. Í ljós hefði síðan komið að lánasafn það sem Glitnir hafði boðið að veði innihélt "skilmála sem bönnuðu" veðsetningu safnsins "hjá öðrum en fjármálastofnunum og Seðlabankinn féll ekki undir þá skilgreiningu".
Ingimundur Friðriksson lýsir því í drögum sínum að minnisblaði að eftir að í ljós kom að Glitni var ekki heimilt að veðsetja Seðlabankanum lánabók 561 hafi önnur veð verið boðin "en sýnu lakari".
Hörður Felix Harðarson, framkvæmdastjóri lögfræðisviðs Glitnis, lýsti því við skýrslutöku að hann hefði fyrst frétt af málinu upp úr hádegi laugardaginn 27. september 2008 en þá hefði Lárus Welding hringt í hann og beðið hann að mæta til vinnu. Hörður segist þá fyrst hafa heyrt af því að bankinn hefði leitað eftir því við Seðlabanka Íslands að veitt yrði lán til þrautavara ef þörf krefði.Var Herði falið að grandskoða reglur um slík lán Seðlabankans. Hörður segist ekki hafa metið veðhæfi lánabókar 561, aðrir lögfræðingar bankans hafi séð um það. Í þessu samhengi nefndi Hörður Ingvar Örn Sighvatsson, lögfræðing. Við skýrslutöku lýsti Ingvar því að föstudagskvöldið 26. september 2008 hefði Jón Guðni Ómarsson, starfsmaður Glitnis, beðið sig að bíða með frekari vinnu varðandi lánabók 561 og byrja þess í stað að skoða aðra möguleika.Var þar um að ræða bifreiða- og húsnæðislán. Jón Guðni greindi sjálfur frá því við skýrslutöku að ekki hefði verið haldið áfram með vinnu í tengslum við lánabók 561 vegna þess að nánari skoðun lánasamninga hefði leitt í ljós að sú leið væri ófær.
Ætlunin var að færa lánabók 561 inn í sjóð á vegum Glitnis og láta sjóðinn síðan gefa út skuldabréf. Átti síðan að afhenda Seðlabanka Íslands skuldabréfið sem tryggingu fyrir veðláni sem Glitnir fengi. Ástæður þess að þetta gekk ekki eftir voru í meginatriðum þrjár. Í fyrsta lagi kom í ljós að í mörgum lánasamningunum var bann við því að framselja þá til annars en fjármálafyrirtækis, en slíkur sjóður uppfyllir ekki það skilyrði. Í öðru lagi var í fjölda lánasamninga áskilið samþykki lántaka fyrir framsali en öflun slíks samþykkis er afar tímafrek í framkvæmd. Í þriðja lagi var Glitnir í flestum tilvikum ekki lánveitandi til skuldarans, heldur fjármögnunaraðili að hluta samningsins (e. risk participation) á móti dótturfélagi sínu í Noregi sem veitti lánið. Móðurfélagið Glitnir hafði því ekki eitt réttarstöðu sem eiginlegur kröfuhafi gagnvart skuldara.
Á laugardeginum, eftir að komið var í ljós að ekki var hægt að nota lánabók 561, bauð Glitnir fram veð í þremur mismunandi eignasöfnum með heitið Hvalfell ABS I, Hvalfell ABS II og Hvalfell ABS III. Fyrsta eignasafnið var með undirliggjandi eignir í lánum sem veitt voru fyrirtækjum og einstaklingum til tækja- og bílakaupa. Upphæð eignavarða skuldabréfsins átti að vera 346 milljónir evra að nafnvirði og var það til 10 ára. Hvalfell ABS II var að nafnvirði 302 milljónir evra og voru undirliggjandi eignir íbúðalán einstaklinga, eða um 12.000 lán til tæplega 5.900 einstaklinga.Að lokum var Hvalfell III, það var víkjandi skuldabréf á öðrum veðrétti á eignavörðu skuldabréfavafningana Holt og Haf. Holt var að nafnvirði 305 milljónir evra og voru það 35% af heildarvafningnum. Haf var að nafnvirði 392 milljónir evra og voru það 40% af heildarvafningnum. Nánar er fjallað um þessa vafninga í kafla 7.0. Samtals voru því veðin um 1,35 milljarða evra virði, þar með var þekjan fyrir 500 milljóna evra lán um 270%.
Um hádegisbil sama dag, þ.e. 27. september 2008, tóku seðlabankastjórar á móti Jónasi Fr. Jónssyni og Ragnari Hafliðasyni. Samkvæmt minnisblaði Seðlabankans var "farið vandlega yfir málefni Glitnis" á þeim fundi.Við skýrslutöku lýsti Ragnar Hafliðason því að á fundinum hefðu komið fram efasemdir Seðlabankans um þær tryggingar sem Glitnir hefði boðið fram. Ragnar segir að sér hafi virst sem ekki væri búið að taka neina ákvörðun um viðbrögð Seðlabankans við beiðni Glitnis um fyrirgreiðslu. Aðspurður hvað rætt hafi verið á fundinum um tiltækar lausnir svaraði Ragnar: "[...] maður í raun og veru bara hlustaði á þessar vangaveltur sem Seðlabankinn var með um það að Glitnir virtist ekki hafa næg eða fullnægjandi veð, að mati Seðlabankans, til þess að leggja fram fyrir þessari fjárhæð." Ragnar segir hins vegar að "a.m.k. seint á sunnudeginum, virðist það alveg hafa orðið ofan á, þessi áform að koma þarna inn, ekki með lausafjárfyrirgreiðslu [...] heldur með því að koma inn með nýtt hlutafé sem mundi þá náttúrulega þynna út eignarhlut þeirra sem voru fyrir." Aðspurður um afstöðu sína og Jónasar til þeirrar leiðar svaraði Ragnar: "[...] ég held að við höfum ekki tekið neitt sérstaka afstöðu til þess [...] ég man nú ekki eftir því." Sagðist Ragnar ekki minnast þess að hann eða Jónas hefðu lýst skoðun sinni á fyrirhugaðri leið. Fyrr um laugardagsmorguninn hafði Jónas Fr. Jónsson fundað með bankastjórum Glitnis, Kaupþings banka hf. og Landsbanka Íslands hf., sbr. umfjöllun í kafla 20.2.5. Síðdegis 27. september 2008 héldu bankastjórar Seðlabankans yfir í forsætisráðuneytið þar sem þeir funduðu með Geir H. Haarde og Árna M. Mathiesen.Við skýrslutöku lýsti Geir því að á þessum fundi hefði honum fyrst verið gerð grein fyrir vanda Glitnis með nákvæmum hætti. Ingimundur Friðriksson segir að niðurstaða fundarins hafi verið sú að "forsætisráðherra fól Seðlabankanum að taka saman minnisblað um mögulega kosti í stöðunni". Fyrstu drög að slíku minnisblaði voru unnin sama kvöld af Jóni Þ. Sigurgeirssyni og Sturlu Pálssyni. Þegar bankastjórar Seðlabankans yfirgáfu forsætisráðuneytið rétt fyrir kl. 16 urðu fréttamenn þeirra varir fyrir tilviljun og um kvöldið voru fréttir fluttar af fundinum.
Við skýrslutöku lýsti Jón Þór Sturluson, aðstoðarmaður viðskiptaráðherra, því að laugardaginn 27. september 2008 hefði hann verið í skemmtiferð fyrir utan höfuðborgarsvæðið ásamt Björgvin G. Sigurðssyni, viðskiptaráðherra, og öðrum starfsmönnum viðskiptaráðuneytis.Eftir að Jón frétti af því að mikil fundarhöld væru í forsætisráðuneytinu hefði hann hringt í Tryggva Þór Herbertsson um kl. 16:00 eða 17:00. Tryggvi hefði hins vegar varist allra frétta og ekki gefið neitt upp. Við skýrslutöku sagði Björgvin G. Sigurðsson: "Fyrr um helgina höfðu borist fréttir af einhverjum fundum Davíðs og Árna og Geirs og við fylgdumst með því og ég man að ég bað Jón Þór að forvitnast um það, ég bað hann að hringja í Tryggva Þór, en þeir voru ágætis kunningjar. Jón hringdi í Tryggva, að mér heyrandi, og gekk mjög á hann á laugardeginum, og hinn bara fullyrti alveg "nei, nei, ekkert að gerast, bara fara yfir bankana, forsætisráðherra var að koma heim", og bara alveg blákalt. Og Jón trúði honum og við bara líka, maður reiknar ekki með því að það sé alltaf verið að ljúga að manni.Við sem sagt, af því að við vorum mjög að pæla mikið í því af hverju þeir væru að funda og svona og okkur fannst þetta besti "kanallinn" að þeim og svo ekki meira um það."
Fyrrgreint minnisblað Jóns Þ. Sigurgeirssonar og Sturlu Pálssonar ber heitið "Drög að áætlun vegna vanda fjármálakerfisins".Við skýrslutöku sagði Sturla Pálsson að í raun hefði ekki verið um tillögu að ræða. Sagði hann: "Þetta var í rauninni bara útlistun á því hvort þú vildir verða krossfestur, hengdur eða skotinn. Því það voru engar "konkret" lausnir á borðinu sem manni leið vel með [...] að myndu ganga upp. Kerfið var hrunið." Í minnis-blaðinu sjálfu eru þrenns konar markmið sett fram:
- Verja innstæðueigendur fyrir innlánatapi.
- Draga úr kerfisáhættu, tryggja öryggi uppgjörskerfa og alþjóðaviðskipti.
- Auka tiltrú innanlands og erlendis á íslenskt fjármálakerfi.
Í minnisblaðinu er fyrirliggjandi vandamálum skipt upp í skammtíma- og langtímavandamál. Hvað skammtímaþáttinn varðar segir:
- Erlend lausafjárþurrð blasir við Glitni banka og nánast óhugsandi að hann geti staðið við afborganir erlendra skuldbindinga næstu daga og/eða vikur.
- Skuldatryggingarálög gera mótaðila kvika – lánalínur og önnur viðskipti í hættu.
- Hrun skiptamarkaðar og áhrif hans á gjaldeyrismarkað valda titringi hérlendis – yfirvofandi flótti úr krónueignum – gjalddagar jöklabréfa – gengisspírall.
- Smitáhætta vegna vandamála á peninga- og gjaldeyrismarkaði lausafjárþurrðar Glitnis gæti hrundið af stað áhlaupi á innstæður Landsbanka og Kaupþings (Icesave, EDGE).
- Fjármálakreppa á erlendum mörkuðum.
- Veðlán bankanna í SÍ [Seðlabanka Íslands] tæplega 500 ma. kr.
- Fyrirkomulag gjaldeyrismarkaðar – fáir viðskiptavakar.
Vandamál til lengri tíma eru útlistuð með eftirfarandi hætti:
- Fjármögnun komandi áramóta, næstu þriggja ára (xx ma. evra)
- Of stórt fjármálakerfi.
- Varðveita verðmæti sem orðið hafa til í íslensku fjármálakerfi.
- Lausafjár- og/eða eiginfjárvandamál smærri fjármálafyrirtækja.
- Gæði eigna – veikir eigendur og viðkvæm eignarhaldsfélög.
Í minnisblaðinu eru síðan settar fram fjórar mismunandi tillögur. Fyrsta tillagan er eftirfarandi:
Yfirtaka ríkisins á Glitni
- Hlutafé afskrifað (skrifað niður – möguleiki á endurskoðun) og bankinn endurfjármagnaður með aðkomu ríkis og Seðlabanka.
- Lausafé tryggt til endurgreiðslu erlendra skammtímaskulda.
- Leitað kaupenda að bankanum í heild eða einstökum einingum hans.
- Ekki útilokað að sameina hluta á borð við útibúasvið annarri innlendri fjármálastofnun.
Kostir
- Viðráðanleg stærð – endurfjármögnun tryggð næstu 12 mánuði.
- Sala til erlends aðila dregur verulega úr kerfisáhættu.
- Glitnir nú þegar hjálpar þurfi.
Gallar
- Smitáhætta
- Hugsanlegt áhlaup á innstæður í Kaupþingi og Landsbanka.
- Leita samninga við BoE [Seðlabanka Bretlands]/FSA [fjármálaeftirlitið í Bretlandi] um stuðning við aðgerðir.
- Stór hluti hlutabréfa Glitnis veðsett LÍ [Landsbanka Íslands] og Kaupþingi.
- Ákvæði í lánasamningum.
- Búa svo um að handhafar skuldabréfa sjái sér ótvíræðan hag í því að falla frá hindrandi skilmálum.
Við skýrslutöku var Davíð Oddsson spurður hvort rætt hefði verið við Seðlabanka Bretlands eða FSA, líkt og lagt er til í minnisblaðinu hér að framan. Sagðist Davíð telja að svo hefði ekki verið.
Önnur tillaga minnisblaðsins fól í sér sameiningu Glitnis og Landsbankans og í kjölfarið endurfjármögnun hins sameinaða banka með aðkomu "ríkis og Seðlabanka". Síðan skyldi leitað að erlendum kaupendum á bankanum í heild eða einstökum einingum hans. Varðandi þessa leið er því varpað fram að kanna þurfi "þann kost að selja Icesave". Síðan er rætt um galla sem fylgja þessari leið. Í því sambandi er rætt um smitáhættu en einnig kemur fram að þessi leið sé "stór biti að kyngja" þar sem endurfjármögnun verði þung, "ekki síst í ljósi innstæðna erlendis". Loks segir í umfjöllun um galla þessarar leiðar: "Yfirlýsingar stjórnenda um gæði eigna LÍ [Landsbanka Íslands]."
Þriðja tillaga minnisblaðsins fól í sér yfirtöku ríkisins á Landsbanka Íslands. Í því sambandi er rætt um að afskrifa hlutafé og endurfjármagna bankann með aðkomu ríkis og Seðlabanka. Kaupenda skyldi leitað að bankanum í heild eða hluta. Þá skyldi útibúanet Glitnis sameinað Landsbankanum.Aðrar eignir, skuldir og eigið fé Glitnis yrði síðan einangrað í sjálfstæðu félagi og hugsanlegs kaupanda leitað. Samkvæmt minnisblaðinu felur þessi leið í sér ýmsa kosti og galla. Kostirnir eru m.a. að selja megi "einstaka hluta, m.a. Icesave". Í lista yfir galla eru mestmegnis nefndir sömu gallar og varðandi leið tvö hér að framan, þ.e. rætt er um smitáhættu og að endurfjármögnun verði þung.
Fjórða tillaga minnisblaðsins er nefnd "RÖn leiðin". Hér er vísað til hugmynda Ragnars Önundarsonar, viðskiptafræðings. Þessi leið gerir ráð fyrir að erlendir skuldabréfaeigendur "taki ábyrgð". Innlend bankastarfsemi skyldi aðgreind frá annarri starfsemi og ríkissjóður kæmi inn með hlutafjárframlag. Leiðin er ekki útfærð með nánari hætti í minnisblaðinu.
Loks er í minnisblaðinu rætt um aðrar aðgerðir sem til greina koma. Þar er m.a. lagt til að hert verði skilgreining á því hverjir teljist "tengdir aðilar" og að Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn sameinist í eina stofnun með það að markmiði að bæta skilvirkni og yfirsýn við greiningu og lausn vandamála. Einnig segir að koma þurfi í veg fyrir "sjálftöku ríkisábyrgðar".
Jón Þ. Sigurgeirsson lýsti því við skýrslutöku að fyrrgreint minnisblað hans og Sturlu Pálssonar hefði verið unnið fyrir tilmæli seðlabankastjóra, líklega Davíðs Oddssonar, og jafnframt að það hefði innihaldið þær leiðir sem ræddar voru á fundi seðlabankastjóranna með Jóni og Sturlu fyrr um daginn. Jón og Sturla hefðu komið minnisblaðinu heim til Davíðs sama kvöld. Þegar Jón hefði mætt til vinnu næsta dag, þ.e. sunnudaginn 28. september 2008, hefði "fullbúið minnisblað" legið fyrir um þá leið sem síðar var farin.Taldi Jón greinilegt að seðlabankastjórar hefðu farið sameiginlega yfir málið því Eiríkur Guðnason hefði verið tilbúinn með kynningu á þessari leið þegar Jón mætti til vinnu þann dag. Minnisblaðið ber heitið "Drög að áætlun vegna vanda fjármálafyrirtækja" og er til í tveimur mismunandi útgáfum. Endanleg útgáfa skjalsins hefst með sérstökum kafla þar sem markmið eru útlistuð:
Markmið
1. Að takmarka tjón íslensks þjóðfélags vegna þess áfalls sem yfir hefur dunið af völdum mikils róts í alþjóðlegum fjármálakerfum.
2. Að tryggja að skilvirkt bankakerfi verði áfram til staðar í landinu sem tryggir eðlileg viðskipti og þjónustu við viðskiptamenn og sér til þess að nauðsynleg og eðlileg fjármálaleg samskipti þjóðarinnar út á við geti gengið hnökralaust fyrir sig. Forsenda þess er að greiðslu- og uppgjörskerfi séu fullkomlega örugg og fær um að annast alþjóðleg viðskipti.
3. Að tryggja og lýsa yfir með afgerandi hætti að eigendur innstæðna á innlendum (íslenskum) innlánsreikningum séu tryggðir. Allar innstæður á innlendum reikningum verði tryggðar en aðrar innstæður lúti þeim tryggingum sem um þær gilda.
4. Að tryggja að langtímaáhrif álitshnekkis íslenska fjármálakerfisins verði sem minnst með fumlausum, gagnsæjum og vel undirbyggðum aðgerðum.
Líkt og áður segir er þetta minnisblað Seðlabankans til í tveimur mismunandi útgáfum. Annars vegar var um að ræða endanlega útgáfu en hluti hennar er tekinn orðréttur upp hér að framan. Hins vegar var um að ræða fyrri útgáfu skjalsins en sú útgáfa var lögð fram á fundi í fjármálaráðuneytinu síðdegis sunnudaginn 28. september 2008. Útgáfurnar tvær eru nánast samhljóða. Á þeim er þó
m.a. sá munur að í 1. tölul. fyrri útgáfunnar er markmið það sem að er stefnt orðað með öðrum hætti heldur en í 1. tölul. sem birtur er hér að framan. Í hinni upprunalegu útgáfu segir að markmiðið sé: "Að takmarka tjón íslensks þjóðfélags vegna þess áfalls sem yfir hefur dunið af völdum mikils róts í alþjóðlegum fjármálakerfum og vegna óvarkárni og taumlítillar áhættusækni íslenskra banka, helstu hluthafa þeirra og sumra viðskiptavina þeirra, sem ekki kunnu sér hóf í skuldsetningu eigna." Tryggvi Þór Herbertsson lýsti því við skýrslutöku að þegar fundað var í Seðlabankanum síðar um kvöldið hefði verið lögð fram önnur útgáfa.Virðist sem þar hafi verið komin til sögunnar seinni útgáfan.
Næsti kafli minnisblaðsins ber heitið "Vandamálið". Þar segir:
Vandamálið
Glitnir banki hefur tilkynnt Seðlabanka Íslands að þar sem lánasamningar hafi ekki verið endurnýjaðir og heildsöluinnlán hafi dregist hratt saman geti hann ekki ráðið við stórar afborganir skuldbindinga í erlendum gjaldeyri sem falla í gjalddaga um miðjan október eða fyrr. Glitnir fór þess á leit að Seðlabankinn útvegaði um 600 milljónir evra gegn beinum eða óbeinum veðum í "besta lánasafni bankans", svo nefndum "off-shore lánum" tengdum norska olíuiðnaðinum, lánabók 561 í bankanum. Lagði bankinn til að Seðlabankinn tæki 20% "haircut" af þessum veðum. Hálfum öðrum sólarhring eftir að þessi hugmynd var reifuð við Seðlabankann upplýsti Glitnir að þessi veðpakki væri ekki brúklegur vegna ákvæða í samningum sem honum tengjast og bauð aðrar en mun lakari tryggingar í staðinn.Aðspurðir svöruðu talsmenn Glitnis, Lárus Welding forstjóri og Þorsteinn Már Baldvinsson formaður stjórnar, að hjálp af þessu tagi gæti fleytt bankanum áfram um tvo til þrjá mánuði. Ljóst þykir að ekki er eftirsóknarvert né verjandi að taka framangreind veð til tryggingar fyrir þrautavaraláni Seðlabankans til Glitnis og úrslitum ræður þó að einvörðungu yrði um gálgafrest að ræða skv. mati bankans sjálfs og engir sjáanlegir möguleikar á að úr rætist í fyrirsjáanlegri framtíð og engin framtíðaráætlun til af hálfu bankans um hvernig það mætti gerast.
Þær veðtryggingar sem Glitnir bauð þegar í ljós kom að lánabók 561 yrði ekki veðsett Seðlabankanum eru hér að framan sagðar "mun lakari tryggingar". Í þessu samhengi er rétt að líta til orða Eiríks Guðnasonar við skýrslutöku. Hann sagði: "[...] þegar þeir uppgötva að þetta er ekki nothæft sem veð senda þeir upplýsingar og beiðni um önnur veð og þeir hafa gert mál úr því að Seðlabankinn hafi aldrei rannsakað þau eða skoðað þau veð. Og það er alveg rétt að þau voru ekkert mikið skoðuð. Þá vorum við búnir að móta okkar afstöðu og töldum ekki fært að veita lán." Við skýrslutöku lýsti Davíð Oddsson því að seinni veðpakkinn hefði verið skoðaður af alþjóðasviði Seðlabankans. Segir Davíð að það hafi verið "fljótlegt mat" þeirra aðila að þessi veð væru "harla léleg, svo ekki væri meira sagt". Ingimundur Friðriksson lýsti því við skýrslutökur að af hálfu Seðlabankans hefði Sturla Pálsson séð um að meta seinni veðin sem Glitnir bauð fram.Við skýrslutöku sagðist Sturla ekki eiga neitt bréflegt um niðurstöðu sína úr þeirri yfirferð. Hann sagði: "[...] ég þekki svona eignir og þarf ekkert að leggjast yfir þetta í fleiri klukkutíma til að vita hvað þetta er." Sturla bætti síðan við: "Ég veit það líka að lánveitingin sem þeir eru að fara fram á dugar ekki og eftir, menn voru líka að hugsa: af hverju ættum við að lána þeim peninga öðruvísi en að við gætum valdað stöðuna? Við getum sko, ef við ætlum að lána þeim peninga þá verðum við bara að fá bankann og það var í rauninni sú tillaga sem að var sett fram, ríkið verði 75% hluthafi í bankanum og leggur fram þessar 600, síðan náttúrulega kom strax í ljós að það var bara engan veginn nóg."
Yfirskrift þriðja kafla minnisblaðsins er "Úrlausnarefni". Þar segir:
Úrlausnarefni
Samkvæmt framansögðu er því úrlausnarefni ríkisvaldsins og Seðlabankans þetta:
1. Er rétt að Glitnir lúti almennum lögmálum fyrirtækja í þessari stöðu og stjórnin lýsi yfir gjaldþroti eins og hún er skyldug til að gera fljótlega rætist ekki úr?
2. Er til markaðslausn sem hægt er að grípa til svo fljótt og útfæra svo hratt að markaðir skaðist ekki? Hver þyrfti aðkoma ríkisins að verða að þeirri lausn og hvernig myndi aðkomu ríkisins verða mætt með samsvarandi lækkun eignarhluta hlutafjáreigenda? Rætt hefur verið um hugsanlega sameiningu Landsbanka Íslands og Glitnis (og Byrs og Straums) en ljóst er að þar með yrði langstærsti skuldari Landsbankans einn af höfuðeigendum hans sem fær ekki staðist.
3. Er rétt að ríkið (fyrir milligöngu Seðlabankans) komi bankanum til hjálpar með hlutafjárframlagi í erlendri mynt sem duga myndi til þess að leysa úr skammtímavanda bankans og komi með yfirlýsingu um að ríkið stuðli að því að tryggja tilverurétt bankans án þess að því fylgi bein ábyrgð? Ríkið (SÍ) komi inn með hlutafé þannig að það eignaðist 75% hlut í bankanum.
Halda ber því til haga að í upprunalegri útgáfu skjalsins er orðalag síðustu setningar 2. tölul. hér að ofan annað. Í stað orðanna "sem fær ekki staðist" í niðurlagi þess liðar segir "sem fær alls ekki staðist".Við skýrslutöku lýsti Eiríkur Guðnason því af hverju talið var rétt að notast við eignarhlutinn 75% í tillögu Seðlabankans. Sagði hann: "[...] 75% var bara ákveðið með hliðsjón af því að það myndi tryggja ríkissjóði full áhrif, það réði yfir auknum meirihluta." Davíð Oddsson staðfesti þetta við skýrslutöku.
Fjórði kafli minnisblaðsins ber heitið "Rök". Þar segir:
Rök
Ljóst er að verði ekki brugðist við þegar fyrsti íslenski stórbankinn lendir í vandræðum yrði því tekið sem ótvíræðri yfirlýsingu um að litlar líkur væru á að reynt yrði að bjarga öðrum. Lánshæfismat annarra banka myndi þá trúlega lækka, jafnvel hrynja. Seðlabankinn á þegar háar veðlánakröfur á Glitni sem myndu tapast að hluta eða öllu leyti. Seðlabankinn á að geta tryggt miðað við núverandi gjaldeyrisforða (og líklega aukningu á næstu dögum) að Glitnir geti staðið við skuldbindingar sínar, CDS álag á bankann myndi trúlega lækka og fjármögnunartækifæri opnast fyrr en ella.
Fimmti kafli minnisblaðsins ber heitið "Hætta". Þar segir:
Hætta
Hættan er að staða annarra viðskiptabanka myndi skaðast en þó mun minna en ef Glitnir færi í þrot. Hætta er á að vegna umræðu yrði áhlaup á innlánsreikninga í íslenskum bönkum erlendis. Hún yrði þó enn meiri ef bankinn yrði gjaldþrota. Álitshnekkir væri af að ríkisvæða áður einkavæddan banka (einkavæddur að hluta). Ekki er þó um það að ræða að ríkið stefni að langvarandi eignarhaldi á bankanum. Til álita kemur að selja hann að hluta eða öllu leyti til erlendra aðila þegar ró hefur færst yfir málefni hans á ný.
Sjötti kafli minnisblaðsins ber yfirskriftina "Þrot". Þar segir:
Þrot
Ef bankinn verður lýstur gjaldþrota þarf ríkið (Seðlabankinn) að fá án tafar að kaupa innlenda hlutann út úr þrotabúinu og setja með hlutafjárstuðningi í bankalegt horf. Þar með hefði sú lína verið dregin að íslenska ríkið telur sig ekki geta bjargað öllu íslenska bankakerfinu úr greipum erlendra kröfuhafa. Hinir tveir viðskiptabankarnir hlytu að lenda í miklum erfiðleikum mjög fljótt eftir að sú niðurstaða væri fengin.Við gjaldþroti þeirra yrði að bregðast eins og í fyrra tilfellinu og koma upp viðráðanlegu íslensku bankakerfi og tryggja að Seðlabankinn búi við nægan gjaldeyrisforða til þess að sinna þörfum ríkisins meðan verið væri að endurvinna traust.
Sjöundi og síðasti kafli minnisblaðsins ber heitið "Önnur atriði". Þar segir:
Önnur atriði
1. Í framhaldinu verður að koma til móts við háværa gagnrýni á stærð íslenska bankakerfisins og sjá til þess að það knýi skulduga viðskiptavini sína til þess að greiða niður skuldir.
2. Þar sem ríkið hefur tekið beina áhættu af bankakerfinu og ber þegar aukakostnað af stórum gjaldeyrisforða þarf að sjá til þess að útþensla þess í framhaldinu verði háð samþykki yfirvalda. Ríkari kröfur verði gerðar um laust fé og eigið fé eins og nýliðin tíð gefur ástæðu til.
3. Gera verður kröfur til þess að ofurlaun bankamanna verði þegar í stað lækkuð og láta koma glögglega fram að ríkið aðstoðar undir engum kringumstæðum banka sem ekki verður við tilmælum þessa efnis.
4. Styrkja þarf tímabundið eftirlitsvald Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins og veita Seðlabankanum heimild til þess að setja tilsjónarmenn inn í bankana, líkt og FME hefur heimild til, telji hann ástæðu til.
Við skýrslutöku var Davíð Oddsson spurður að því hvort hann væri höfundur framangreinds minnisblaðs. Davíð sagðist telja líklegt að hann væri höfundur þess, enda bæri það ýmis höfundareinkenni hans. Sagðist Davíð telja að hann hefði handskrifað skjalið laugardagskvöldið 27. september 2008 en það hefði þá líklega verið slegið inn í tölvu næsta morgun með aðkomu Eiríks Guðnasonar og Ingimundar Friðrikssonar.
Að morgni sunnudagsins 28. september 2008 fundaði bankastjórn Seðlabankans með Jóni Þ. Sigurgeirssyni og Sturlu Pálssyni.
Síðar um morguninn komu bankastjórar Landsbankans til fundar við bankastjórn Seðlabankans en um þann fund er nánar fjallað í kafla 20.2.5.
Í ódagsettu minnisblaði Vilhelms Más Þorsteinssonar, framkvæmdastjóra fjárstýringar Glitnis, kemur fram að hann hafi hringt í Sturlu Pálsson um hádegi 28. september 2008 í kjölfar þess að Jón Guðni Ómarsson sendi Sturlu yfirlit yfir Hvalfellsverkefnin þrjú sem unnið hafði verið að hjá Glitni og boðin voru fram sem tryggingar. Í minnisblaðinu segir að Sturla hafi spurt hvort þetta sé lánabók 561.Vilhelm hafi þá svarað því til að svo sé ekki vegna þess að ógerlegt sé að nota lánabók 561 vegna kvaða í lánasamningum þeirrar bókar. Hins vegar sé um að ræða þrjú mismunandi verkefni að upphæð 1,3 milljarðar evra þannig að Seðlabankinn ætti að vera í jafn góðri stöðu og ef lánabók 561 hefði verið notuð. Sturla hafi sagst ætla að reyna að skoða þetta en hann væri á leið á fund. Hafi því ekki verið farið nánar yfir málið í símtalinu.
Um kl. 14 sama dag, þ.e. 28. september 2008, mætti Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri Kaupþings banka hf., ásamt Guðna Aðalsteinssyni, framkvæmdastjóra fjárstýringar Kaupþings, til fundar í forsætisráðuneytinu. Nánar verður vikið að fundinum í kafla 20.2.5. Hreiðar lýsti því við skýrslutöku að um kl. 18:30 sama dag hefði Davíð Oddsson hringt í sig og spurt hvort til stæði að Kaupþing myndi lána Glitni 600 milljónir evra. Hreiðar segist hafa neitað því. Davíð hefði þá sagt: "Ansans, verð ég þá að gera það?" Hreiðar hefði sagt að svo væri. Davíð hefði svarað því til í gríni að hann hefði ætlað í kvikmyndahús með eiginkonu sinni þetta kvöld. Hreiðar lýsti því við skýrslutöku að það hefði síðan ekki verið fyrr en seint um kvöldið sem honum hefði verið gerð grein fyrir því að ekki yrði um lán að ræða heldur hlutafjárframlag. Sagði Hreiðar að þær upplýsingar hefðu ekki borist honum frá stjórnvöldum heldur frá Jóni Ásgeiri Jóhannessyni eða Þorsteini Má Baldvinssyni. Þegar frásögn Hreiðars af samskiptum hans við Davíð Oddsson var borin undir Davíð sagði hann að lýsingin væri líklega rétt.
Við skýrslutökur lýstu forsvarsmenn Glitnis því yfir að erfitt hefði verið að ná sambandi við starfsmenn Seðlabankans þessa helgi. Þorsteinn Már Baldvinsson, stjórnarformaður Glitnis, sagðist hafa náð sambandi við Davíð Oddsson í síma laugardaginn 27. september 2008 en Davíð hefði þá sagt að hann gæti ekki hitt Þorstein. Síðan sagði Þorsteinn: "[...] og síðan var ég svo sem að biðja starfsmennina að reyna að ná í starfsmenn Seðlabankans. Það er engin launung að við vorum þarna bara uppi í banka laugardag og sunnudag, með hóp starfsmanna með mér. Og það náðist ekki í einn eða neinn. Ég náði í Davíð einhvern tímann á sunnudeginum og hann gat ekki hitt mig þá heldur og það gat enginn starfsmaður Seðlabankans hitt starfsmenn Glitnis. Meðan við vorum þá að kasta upp hugmyndum, a, b og c, höfðum ekki annað að gera uppi í banka. En ég verð bara að játa það að ég, mér liggur við að segja, setti eitthvert ferli á stað sem ég svo sem hafði aldrei trú á fyrr en á sunnudagskvöld að væri komið í einhvern farveg, einhvern allt, allt, allt annan farveg en ég hafði haft ímyndunarafl í." Við skýrslutöku lýsti Lárus Welding samskiptum Glitnis við Seðlabankann umrædda helgi með eftirfarandi orðum: "Við heyrum ekkert frá Seðlabankanum þarna, reynt að ná í Sturlu nokkrum sinnum. Á sama tíma yfir helgina er Þorsteinn að reyna að ná í Davíð, fjórum til fimm sinnum í síma, engin samskipti. Á sunnudaginn heyra þeir í Sturlu rétt upp úr hádegi, því við höfðum reynt að ná, vorum að reyna að koma þessu strax til skila að þetta væri eitthvað vandamál, væri flóknara og menn svona, án þess að hafa neinn viðmælanda, leggja til hugsanlega einhverja aðra lausn." Við skýrslutöku ræddi Lárus einnig um beiðni Glitnis um fyrirgreiðslu og sagði: "[...] það eru engin formleg leiðbeinandi tilmæli um hvernig maður á að leggja fram svona erindi.Við fengum enga endurgjöf um það hvernig þetta ætti að vera lagt fram eða hvað menn vildu sjá eða hvernig, við fengum engin viðbrögð. Ég er ekkert að gagnrýna Seðlabankann að því leyti til en [...] ef þetta kom, eins og síðar hefur komið fram, að þetta hafi aldrei komið til greina. Það er þá alveg þvert á þau skilaboð sem við fengum á þessum óformlega fundi á föstudeginum, þá hefði ég viljað fá að vita það strax. Þá hefði ég alveg klárlega unnið að einhverjum öðrum málum."
Síðdegis sunnudaginn 28. september 2008 funduðu Geir H. Haarde, Árni M. Mathiesen, Baldur Guðlaugsson, ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytis, Bolli Þór Bollason, ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytis, og Tryggvi Þór Herbertsson með bankastjórum Seðlabankans í fjármálaráðuneytinu.Við skýrslutöku sagði Davíð Oddsson að menn hefðu ákveðið að hittast í bakhýsi á vegum fjármálaráðuneytisins í Lindargötu. Síðan sagði Davíð: "Og þegar við komum þangað bankastjórarnir þá er nú svo slysalegt hjá fjármálaráðuneytinu að þeir hafa gleymt að opna hurðina, þannig að við erum þarna læstir úti, það endaði með því að fréttamenn eru komnir og sjá okkur vera að paufast við að reyna að fara inn bakdyramegin. Þetta var nú allt eins slysalegt hvað þetta varðaði eins og verða kann." Aðspurður hvort Seðlabankinn byggi yfir áætlun um fyrirkomulag á fundarhöldum svo koma mætti í veg fyrir að utanaðkomandi aðilar, s.s. fjölmiðlar, hefðu veður af málum, svaraði Davíð því til að svo væri ekki.
Samkvæmt Tryggva Þór Herbertssyni hófst fyrrgreindur fundur á því að minnisblaði Seðlabankans var dreift sem Davíð las síðan upp.Tryggvi segir að þegar Davíð hafi verið búinn að lesa skjalið fyrir fundarmenn hafi Tryggvi kvatt sér hljóðs og sagt að með þessari aðgerð yrðu Stoðir hf. gjaldþrota. Slíkt myndi hafa gríðarleg áhrif á Kaupþing og Landsbankann vegna þess að bankarnir væru stórir lánardrottnar Stoða hf. Einnig myndi "algjörlega fjara undan veðum sem bankarnir væru með í hlutabréfum Glitnis" og að margir, ef ekki allir, sem ættu þessi bréf myndu "ekki geta svarað veðkalli". Loks segist Tryggvi hafa sagt að niðurstaðan yrði "dómínó-áhrif sem ekki væri hægt að sjá fyrir endann á" og sennilega myndi "kerfið allt hrynja".Davíð Oddsson brást ókvæða við þessum orðum Tryggva. Við skýrslutöku lýsti Davíð því reyndar að hann hefði talið veru Tryggva á fundinum óæskilega þar sem hann væri í leyfi sem forstjóri fjármálafyrirtækisins Askar Capital: "Ja, kannski, hann var með alls konar hugmyndir að fá peninga og ná í peninga og þess háttar. En ég brást bara þannig við að ég teldi óeðlilegt að við værum að fara yfir þessa þætti og hann væri [...] á fundinum. Og hann spurðist fyrir um það hvort ég væri eitthvað á móti honum og þess háttar sem að ég sagði að væri ekki en þetta væri bara óþægilegt, sem mér fannst það vera, og finnst ennþá reyndar að þetta hafi, þetta hefur ekkert með hans persónu að gera. Hann var í leyfi frá Askar Capital, Askar Capital, við getum alveg sagt það hérna, við héldum einmitt að hann væri að verða gjaldþrota. Þannig að manni var ekkert rótt yfir þessu." Davíð lýsti því einnig að á meðan á fundinum stóð hefði Geir H. Haarde hringt í Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Davíð sagði að Geir hefði síðan beðið sig að ræða við Ingibjörgu. Davíð hefði gert það og lýst þeim kostum sem fyrir hendi væru.Við skýrslutöku dró Geir fundi sína með bankastjórum Seðlabankans þessa helgi saman með þeim orðum að það hefði verið "eindregin tillaga Seðlabankans að fara þá leið sem farin var" og jafnframt að sú leið yrði farin "strax".
Jón Þór Sturluson, aðstoðarmaður viðskiptaráðherra, lýsti því við skýrslutöku að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefði hringt í hann sunnudaginn 28. september 2008 og veitt honum "óljósar upplýsingar" um málið sem upp var komið. Aðspurður hvort honum hefði ekki þótt sérstakt að Björgvin G. Sigurðsson væri ekki kallaður til svaraði Jón: "Jú, jú, ég bara er ekki að spyrja slíkra spurninga." Jón segir að síðar sama dag hafi hann verið beðinn um að mæta á fund í Seðlabankanum kl. 18:00. Minnir hann að Bolli Þór Bollason hafi verið sá sem boðaði hann til þess fundar. Síðar sama dag ræddi Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur eftir að hún hafði árangurslaust reynt að ná tali af honum. Við skýrslutöku lýsti Össur því að Ingibjörg hefði sagt honum frá tillögunni um fjárframlag ríkisins gegn 75% eignarhlut í Glitni. Við sama tækifæri hefði Ingibjörg boðað Össur til fundar í Seðlabankanum. Össur segist þá hafa lýst því yfir að hann hefði "hvorki áhuga né vit á þessu". Ingibjörg hefði þá sagt að það þyrfti einhvern með reynslu til að "stýra þessu af okkar hálfu". Össur segist því næst hafa spurt hvort hann ætti að kalla Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, til leiks. Hefði Ingibjörg beðið Össur að gera það ekki að sinni. Össur telur að hann hafi verið mættur í Seðlabankann um kl. 18:30. Í þessu samhengi má geta þess að við skýrslutöku sagði Ingibjörg enga ákvörðun hafa verið tekna af sinni hálfu um að Björgvin yrði ekki kvaddur til. Ingibjörg sagði einnig: "Mér finnst það í rauninni alveg furðulegt, að hann skuli ekki hafa verið kallaður til á þann fund, og ég kann ekki skýringu á því."
Um kl. 18 hafnaði Davíð Oddsson símleiðis tillögu sem borist hafði um kl. 15 frá Landsbanka Íslands hf. um sameiningu Landsbankans, Straums-Burðaráss Fjárfestingabanka hf. og Glitnis, sbr. nánari umfjöllun í kafla 20.2.5.
Stuttu síðar sama dag, þ.e. 28. september 2008, var fundað í Seðlabankanum. Í hóp þeirra fundarmanna sem áður höfðu fundað í fjármálaráðuneytinu bættust þá Jón Þór Sturluson og Össur Skarphéðinsson, fulltrúar Samfylkingarinnar.
Geir H. Haarde mætti í sjónvarpsviðtal á Stöð 2 um kvöldið. Ekki var fjallað um málefni Glitnis í því viðtali. Í kjölfarið hélt hann niður í forsætis-ráðuneyti til að hitta fulltrúa Landsbankans sem lögðu fram aðra tillögu um sameiningu á íslenskum bankamarkaði, sbr. nánari umfjöllun í kafla 20.2.5. Geir lýsti því við skýrslutöku að tilboðið hefði ekki verið talið "sérstaklega fýsilegt".Virðist því hafa verið hafnað síðar um kvöldið.Við skýrslutöku var Árni M. Mathiesen spurður um afstöðu sína gagnvart tillögum Landsbankans. Svaraði hann: "Mér fannst það alveg ótrúlega ósvífnar tillögur." Eftir að hafa rætt við fulltrúa Landsbankans í forsætisráðuneyti hélt Geir í Seðlabankann klukkan rúmlega 20.
Sama kvöld kl. 20:09 sendi Karl Wernersson, stjórnarformaður Milestone ehf., Jóni Þ. Sigurgeirssyni tölvubréf. Með því fylgdu hugmyndir Milestone um aðkomu ríkissjóðs og Seðlabankans að bankakerfinu.Af bréfinu má ráða að Karl var upplýstur um vandræði Glitnis og vissi jafnframt að málið væri til skoðunar innan Seðlabankans.Við skýrslutöku nefndi Jón Þ. Sigurgeirsson tölvubréfið sem dæmi þess að lausafjárvandræði Glitnis og aðkoma Seðlabankans hefði vitnast út fyrir þann þrönga hóp sem átti að vita af málinu. Jón leiðir líkur að því að þetta kunni að hafa verið ein ástæða þess að menn hafi viljað klára málið fyrir opnun markaða næsta morgun.
Sigríður Logadóttir lýsti því við skýrslutöku að um kvöldmatarleytið hefði hún verið kölluð í Seðlabankann. Þegar þangað kom hafi fundur verið að hefjast í svokölluðu bankaráðsherbergi. Þar voru saman komnir auk hennar Davíð Oddsson, Eiríkur Guðnason, Ingimundur Friðriksson, Jón Þ. Sigurgeirsson, Sturla Pálsson, Geir H. Haarde, Bolli Þór Bollason, Árni M. Mathiesen, Baldur Guðlaugsson, Össur Skarphéðinsson, Jón Þór Sturluson,Tryggvi Þór Herbertsson, Jónas Fr. Jónsson og Ragnar Hafliðason. Sigríður sagði að ekki hefði verið um langan fund að ræða. Að fundinum loknum fóru Ingimundur Friðriksson og Jónas Fr. Jónsson á stjórnarfund í Fjármálaeftirlitinu. Sigríður lýsir atburðum eftir fundinn með eftirfarandi hætti: "Síðan sem sagt voru bara menn á göngunum og farandi inn á skrifstofur, ég man að Jón Þór var stöðugt í símanum,Tryggvi Þór líka, ég sá að forsætisráðherrann fór með Davíð, ég vissi að það var einhver fundur þarna niðri í Batteríinu, ég vissi að þeir voru að koma í hús Glitnismennirnir [...]." Jón Þór Sturluson lýsti því við skýrslutöku að eftir að fyrsta fundinum lauk hafi ýmsir "hliðarfundir" átt sér stað. Síðan hafi hinir pólitísku fulltrúar farið afsíðis og rætt saman.
Samkvæmt minnisblaði Seðlabankans 3. október 2008 tóku ráðherrar ákvörðun um þá leið sem farin skyldi. Sambærilega lýsingu er að finna í drögum að minnisblaði Ingimundar Friðrikssonar 12. október 2008 en þar segir þó einnig að á fundi forsætis-, fjármála- og iðnaðarráðherra hafi verið viðstaddir "aðstoðarmenn" þeirra. Jón Þór Sturluson lýsti því við skýrslutöku að hann og Tryggvi Þór Herbertsson hefðu verið með ráðherrunum. Árni M. Mathiesen lýsti því við skýrslutöku að eftir að ákvörðunin hafði verið tekin af þeim ráðherrum sem þarna voru staddir hefði síðan verið haft samband við aðra ráðherra. Aðspurður kvaðst hann ekki sjálfur hafa hringt en hann hefði talið að Geir H. Haarde og Össur hefðu hringt í aðra ráðherra til að afla samþykkis þeirra. Í tölvubréfi sem Össur Skarphéðinsson sendi Þórunni Sveinbjarnardóttur, umhverfisráðherra, kl. 03:27 aðfaranótt mánudagsins 29. september 2008 kemur fram að Össur og Jón Þór Sturluson hafi hringt í aðra ráðherra Samfylkingarinnar fyrr um kvöldið en þar sem ekki hafi náðst í Þórunni hafi Össur ákveðið að rita henni þetta bréf. Í bréfinu segir einnig: "Glitnir kom til Seðlabankans á fimmtudag og bað um 600 milljóna evra lán. Það eru 84 milljarðar. Gjalddagi er von bráðar, 15. okt., og Glitnir getur ekki staðið við þær skuldbindingar. Innan 4 mánaða er annar stærri gjalddagar [sic], nokkrir mun smærri á milli. Mikil óvissa er um hvort Glitnir gæti staðið við þá gjalddaga, einkum þann stóra eftir 4 mánuði." Því næst segir: "Kostirnir voru að láta Glitni fara í þrot eða "beila" hann út. Hann bauð fyrst ágætis veð, norskan offshore-pakka svokallaðan. Degi síðar tilkynnti Glitnir að óheimilt væri að bjóða þau veð sökum skilmála þeirra. Bankinn bauð í staðinn annan lánapakka, sem Seðlabankinn sagði ótækan. Hann samanstæði af "bílalánum og öðrum samtíningi". Bankinn sagði við mig kategórískt að hann lánaði ekki út á slík veð. Það er hans ákvörðun, ekki okkar." Síðan segir: "Tillaga Seðlabankans til ríkisstjórnar var að í staðinn legði ríkið fram 84 milljarða í hlutafé og eignaðist 75% í bankanum. Það þýðir að innlán eru trygg, en að hlutafjáreigendur tapa gríðarlegum eignum. Þetta má kalla þjóðnýtingu eða ríkisvæðingu." Þar næst segir: "Hefði Glitnir verið látinn fara í þrot, hefðu hinir bankarnir farið illa, og LÍ rúllað. KB og LÍ eiga samtals um 70–80 milljarða veð í hlutafé Glitnis (í reynd dulin "krosseignatengsl" sem við a.m.k. vissum ekki af)." Því næst segir: "Ég var í samráði við ISG allt kvöldið, síðast eftir miðnætti, og hún vissi þar að auki um tillöguna frá í dag. Í samráði við hana féllst ég á tillöguna f.h. Samfylkingarinnar." Einnig segir: "Í reynd þýðir þetta að stærstu eigendur Glitnis verða gjaldþrota. Það kemur jafnframt vegna viðskipta þeirra við LÍ þungt högg á Landsann. Ég gekk rækilega eftir því, ásamt Jóni Þór, hvort LÍ stæði þetta af sér. Á 15 manna fundi var upplýst rækilega, að Sigurjón Þ. Árnason bankastjóri hefði í gær, sunnudag, á fundi með SÍ kl. 10 upplýst að LÍ stæði af sér það högg. Davíð bætti við að í kvöld hefði Halldór J. Kr. bankastjóri ítrekað það við sig í símtali." Þá segir: "Eigendur Glitnis tóku þessu mjög þunglega. Þeir eru á fundi í nótt. Þeir segja að í reynd þýði þetta mikil gjaldþrot, þar á meðal verði Jón Ásgeir gjaldþrota, og Stoðir, sem áður var FL. Búast má við þungu áhlaupi vegna þessa." Síðan segir: "Stjórnarandstaðan var kölluð í SÍ og kynnt málið. Hún tók því vel." Einnig segir: "Óvíst er hvort hlutafjáreigendur taki tilboðinu. Mikil reiði er meðal þeirra. Væntanlega verða þá viðskipti með Glitni stöðvuð í Kauphöllinni, og hugsanlega fleiri banka." Því næst segir: "Sameining LÍ og Glitnis er líklega til umræðu í nótt. Landsbankamenn fóru hins vegar að sofa! Þeir höfðu áður sent tilboð inn í SÍ, sem gróflega fól í sér að 200 milljarðar yrðu settir í sameinaðan banka af ríkispeningum, og að þar að auki lánaður allur gjaldeyrisvarasjóðurinn og meira til – 3 milljarðar evra. Það var óaðgengilegt, og þótti undarlegt tilboð af hálfu LÍ. Það var sett fram án samráðs við Glitni." Loks segir: "Mánudagurinn verður því til mikillar mæðu, og engin leið – sögðu sérfræðingarnir – að spá hvernig markaðurinn tekur þessu." Undir lok bréfsins segir Össur síðan að framangreindur texti sé aðeins sendur á Þórunni þar sem hann hafi ekki náð í hana fyrr um kvöldið.
Aðspurður um þá ákvörðun sem tekin var vegna stöðu Glitnis sagði Geir H. Haarde við skýrslutöku: "Það var nú ekki mikið vitnað í samráðshópinn af hálfu Seðlabankans þegar við vorum komin í þessi spor. Þá er náttúrulega, þá standa menn frammi fyrir því að þarna er komin mjög alvarleg krísa og þá er bara reynt að leysa hana og ráðgjafi ríkisstjórnarinnar prímert í þeim málum, kemur þar með ákveðnar tillögur.Við höfðum ekki forsendur til þess að gera miklar athugasemdir við hana, eða hafna henni." Össur Skarphéðinsson lýsti því við skýrslutöku að Eiríkur Guðnason hefði kynnt tillögu Seðlabankans fyrir ráðherrum. Hefði Össur við það tilefni spurt hvaða áhrif þessi aðgerð myndi hafa á hina bankana. Hefðu Eiríkur og Davíð þá báðir sagt að hinir bankarnir myndu standa þetta af sér. Segir Össur einnig að Davíð hafi hringt í Halldór J. Kristjánsson, bankastjóra Landsbankans, af þessu tilefni og hafi Halldór staðfest þennan skilning að því er Landsbankann varðaði. Við skýrslutöku staðfesti Geir H. Haarde að þegar ákvörðun var tekin um þá leið sem farin var hefði hvorki legið fyrir tölulegt mat á smitáhrifum á milli bankanna né mat á þeim áhrifum sem verðmat ríkisins á 75% hlut í Glitni kynni að hafa á hlutabréfaverð annarra banka. Í þessu samhengi má benda á að við skýrslutöku sagði Geir H. Haarde: "[...] þegar stofnunin sem er okkar sérfræðiráðgjafi og hefur alla þekkinguna innanborðs kemur með þessa tillögu þá gerir maður ráð fyrir því að þeir séu búnir að kanna allt sem máli skiptir og að tillagan sé að því leyti til í lagi." Skýrslutökur rannsóknarnefndar Alþingis og gagnaöflun hafa ekki gefið til kynna að yfirvöld hafi notið nokkurrar ráðgjafar innlendra eða erlendra utanaðkomandi sérfræðinga þegar ákvörðunin var tekin.Við þetta má bæta að við skýrslutöku sagðist Eiríkur Guðnason ekki minnast umræðu um að rætt hafi verið um áhrif sem verðmat stjórnvalda á 75% eignarhlut Glitnis gæti haft á hlutabréfaverð annarra banka. Þó hafi því "einhvers staðar" verið "lýst yfir að Landsbankinn myndi lifa það af þó að Glitnir færi á hausinn". Um þá tillögu að ríkið myndi eignast 75% eignarhluta í Glitni sagði Bolli Þór Bollason, ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytis, við skýrslutöku: "Ég man t.d. eftir því að þessir útreikningar á hlut, hvernig þetta var reiknað, það var kynnt fyrir okkur upp á svona töflu. Eiríkur Guðnason skrifaði niður þessar tölur og sýndi okkur hvernig... ja það skildi enginn hvernig þetta verð var fundið út. Hvorki fyrr né eftir að hann skýrði þetta, það breytti því ekki miklu." Við þetta má bæta að Davíð Oddsson lýsti því við skýrslutöku að menn hefðu að auki ekki átt von á að lánshæfismatsfyrirtækin myndu lækka mat sitt á bönkunum.
Í drögum að minnisblaði Ingimundar Friðrikssonar kemur fram að hann hafi sótt stjórnarfund Fjármálaeftirlitsins á milli kl. 22:00 og 23:00 28. september 2008. Í fundargerð Fjármálaeftirlitsins kemur fram að Ingimundur Friðriksson hafi skýrt frá "hugmyndum um að ríkið með milligöngu Seðlabankans legði verulegt fé til Glitnis með því að kaupa stóran hlut í bankanum með sérstökum samningi". Síðan segir að Jónas Fr. Jónsson hafi gert "grein fyrir aðdraganda málsins og að rætt hafi verið við bankana um markaðslausnir".
Við skýrslutöku lýsti Jón Sigurðsson, stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins, því að fyrir helgina hefði hann verið erlendis og ekki frétt af stöðu Glitnis fyrr en hann sneri aftur til landsins laugardaginn 27. september 2008. Aðspurður hver aðkoma hans hefði verið að málinu svaraði Jón: "Engin önnur en þau en að beiðni Seðlabankans þá hittist Fjármálaeftirlitið að kvöldi sunnudags og þið hafið nú séð fundargerðina, hún er afskaplega látlaus. Og í raun og veru var ekki um neitt annað að ræða þar en að segja einfaldlega: "Ef ríkið vill leggja 600 milljónir evra inn í Glitni þá eykur það náttúrulega styrk þess banka."
Um kl. 22:00 28. september 2008 hringdi Davíð Oddsson í Þorstein Má Baldvinsson og fór fram á að hann mætti í Seðlabankann ásamt stjórn og helstu hluthöfum í Glitni. Þorsteinn hafnaði þeirri málaleitan en úr varð að hann myndi mæta í Seðlabankann ásamt Lárusi Welding, forstjóra Glitnis, Gesti Jónssyni, hrl., og Herði Felix Harðarsyni, framkvæmdastjóra lögfræðisviðs Glitnis. Við skýrslutöku lýsti Lárus því að Þorsteinn hefði hafnað því að kalla til stjórn og helstu hluthafa Glitnis á fundinn í Seðlabankanum vegna þess að ekki hefði verið ljóst hvað ræða ætti á fundinum.
Um kl. 22:30 þetta kvöld mættu fyrrgreindir fulltrúar Glitnis í Seðlabankann til fundar. Fyrir utan bankann voru fréttamenn og voru myndir teknar af fulltrúum Glitnis er þeir gengu inn í Seðlabankann. Þar biðu þeirra Geir H. Haarde og Davíð Oddsson í fundarherbergi sem kallað er "Batteríið". Samkvæmt framburði Gests Jónssonar bauð Geir þá velkomna og gaf Davíð síðan orðið. Gestur segir að ljóst hafi verið að ekki var um samningaviðræður að ræða heldur hafi Davíð litið svo á að verið væri að kynna þeim ákvörðun um lausn sem stæði Glitni til boða. Gestur segir að lausnin hafi falist í 600 milljóna evra hlutafjárframlagi gegn 75% eignarhluta í Glitni. Hafi ekki verið ljóst hvort ríkið ætti að koma að þessu eða Seðlabankinn. Rétt er að taka fram að engin gögn voru lögð fram fyrir fulltrúa Glitnis á fundinum. Í þessu samhengi má nefna að tvær fundargerðir stjórnar Glitnis frá aðfaranótt mánudagsins 29. september 2008 leiða í ljós að stjórn Glitnis áleit að samkvæmt samkomulaginu yrði Seðlabankinn eigandi hlutafjárins en ekki ríkið.
Gestur segir að stutt hlé hafi síðan verið gert á fundinum svo fulltrúar Glitnis gætu ráðið ráðum sínum. Þegar fundur var aftur settur hafi Össur Skarphéðinsson bæst í hópinn ásamt Baldri Guðlaugssyni, ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytis, og Bolla Þór Bollasyni, ráðuneytisstjóra forsætisráðuneytis. Þorsteinn hafi síðan brugðist ókvæða við þeirri tillögu sem fram var komin. Davíð Oddsson hafi þá sagt að ef samþykki myndi ekki berast fyrir opnun markaða væri Seðlabankanum skylt að tilkynna Fjármálaeftirlitinu um þá vitneskju sína að óvíst væri að Glitnir gæti staðið við afborgun af láni sem væri á gjalddaga 15. október. Lárus Welding lýsti því við skýrslutöku að Davíð hefði á fundinum sagst vera ánægður með störf Lárusar og Þorsteins Más og farið væri fram á að þeir myndu starfa áfram hjá Glitni.Við skýrslutöku ræddi Sturla Pálsson um þá leið sem farin var af hálfu ríkisins: "Þessi leið sem við fórum, eða var farin, að kaupa meiri, stóran meiri hluta í bankanum, hún hafði, í mínum huga byggði hún aðallega á því að það væri óréttlætanlegt, eftir það sem á undan var gengið og eftir það hvað hefði gengið treglega að fá menn til þess að vinda niður hjá sér efnahagsreikninginn, að lána peninga gegn einhverjum veðum og hafa ennþá sömu stjórnendur í, að bankanum og þá er ég aðallega að vísa til eigandans sem náttúrulega við vissum ekki þá en mann grunaði, að aukningin í lánveitingum til eignarhaldsfélaga sem að er á árinu 2007 og 8 hafi skýrst af því að þessir aðilar sem voru stórir í fjárfestingum úti í heimi voru á fullu í að lána sér, sjálfum sér peninga. Og það var þess vegna sem að ég held að það hafi ekki komið til greina, eða mönnum þótt fýsilegt, að lána þeim peninginn og láta þá áfram sitja í bankanum." Við sama tækifæri sagði Sturla: "[...] það er tekin ákvörðun um að þeir þurfi að fá þennan pening. Menn vilja ekki lána þeim hann og skilja þá eftir við stjórnvölinn í bankanum." Aðspurður hvers vegna farið hafi verið fram á það við forstjóra og stjórnarformann Glitnis að þeir myndu starfa áfram fyrir bankann svaraði Sturla að með ákvörðuninni væri "eigendastrúktur[num] breytt".
Um kl. 23:00 mættu fulltrúar stjórnarandstöðunnar á Alþingi í Seðlabankann til fundar. Þar var um að ræða Guðna Ágústsson, Katrínu Jakobsdóttur og Kristin H. Gunnarsson.Við skýrslutöku lýsti Jón Þ. Sigurgeirsson því að Davíð Oddsson hefði beðið hann að kalla til fulltrúa stjórnarandstöðunnar. Þegar Jón hafði samband við þessa aðila voru fulltrúar Glitnis enn staddir í húsakynnum Seðlabankans. Þorsteinn Már Baldvinsson lýsti því við skýrslutöku að hann hefði orðið var við að fulltrúar stjórnarandstöðunnar voru komnir í hús þegar hlé var gert á fyrrgreindum fundi sem hann sat í Seðlabankanum þetta kvöld. Gestur Jónsson segir að þegar fulltrúar Glitnis gengu út af fundinum í Seðlabankanum hafi þeir mætt fulltrúum stjórnarandstöðunnar.
Í skýrslu Guðna Ágústssonar kom fram að hringt hefði verið til hans um kl. 11 af starfsmanni Seðlabanka Íslands og hann beðinn að koma á skyndifund í bankann. Þar hefði hann hitt Katrínu Jakobsdóttur og Kristin H. Gunnarsson og hefðu þau þrjú verið kölluð á fund með Geir H. Haarde, Össuri Skarphéðinssyni og Davíð Oddssyni. Í skýrslu Guðna kom síðan fram: "Davíð hóf máls og sagði að þetta væri neyðarástand og sagði að Geir mundi kynna okkur stöðuna sem hann og gerði og sagði að það væri komið upp mjög alvarlegt mál í Glitni. Þeir væru búnir að vera í einhverja daga í viðræðum við Seðlabankann og niðurstaða Seðlabankans væri að Glitnir væri nánast gjaldþrota. Þetta væri spurning um að taka hann þess vegna allan, en menn ætluðu að fara mannlega leið og taka hann [75%], svona til þess að skapa samstöðu.Við fórum yfir þetta og ég man að ég spurði þá margra spurninga um [...] hvað mundi gerast daginn eftir þegar þetta væri ljóst og Davíð fór svona yfir álit þeirra seðlabankastjóranna á málinu [...]. Og ég spurði þá hvort þetta þýddi bara ekki fall hinna bankanna. Þeir töldu svo ekki vera, skýrðu mér frá því að þeir teldu að vísu Landsbankann mjög veikan og að hann gæti farið. [...] Við vorum því fyrst og fremst komin bara til að fá tilkynningu um það að staðan væri þessi, það var bara verið að tilkynna okkur það og við beðin um trúnað." Skýrsla Kristins H. Gunnarssonar var í meginatriðum á sömu leið og áréttaði hann að ekki hefði verið leitað álits þeirra heldur hefði tilgangur fundarins verið að upplýsa þau. Skýrsla Katrínar Jakobsdóttur var einnig í meginatriðum á sömu lund. Í skýrslu sinni sagði hún hins vegar jafnframt: "Það var auðvitað spurt út í sem sagt stjórn Glitnis og afstöðu þeirra og þá um kvöldið var einhvern veginn upplifun mín að stjórnin væri þessu ekki endilega mótfallin en síðar kom í ljós að hún hefði verið mótfallin, en mér skilst auðvitað að það hafi verið fundarhöld um nóttina eftir þetta."
Þegar fundi með fulltrúum Glitnis lauk segistTryggvi Þór Herbertsson hafa rætt við Geir og sagt að sér litist illa á fyrirliggjandi tillögu.HafiTryggvi lagt til að hann myndi ræða við Davíð og gera úrslitatilraun til að sannfæra hann um þetta.Síðan segistTryggvi hafa beðið Davíð að ræða við sig undir fjögur augu.Hafi þeir því næst farið inn á skrifstofu Davíðs.Við skýrslutöku lýstiTryggvi samtali sínu og Davíðs með eftirfarandi hætti: "Ég var rétt byrjaður, þá trylltist hann, sagði að ég væri að grafa undan tillögum hans og sagði: "Þarna situr forsætisráðherra frammi og skelfur eins og lauf í vindi og getur ekki tekið ákvörðun. Hann hlustar á þig og þú ert að grafa undan þessu. Ef þetta gengur ekki fram mun ég persónulega sjá til þess að þér verði ólíft á Íslandi það sem eftir er." Jafnframt sagði hann að ég skyldi ekki hræra í Össuri, þá skyldi hann eiga mig á fæti. Hann var vægast sagt tryllingslegur og mér féll gjörsamlega allur ketill í eldinn. Ég brást við með því að segja að við hefðum verið samherjar til margra ára, ég hefði ekkert annað í huga en framtíð landsins okkar, hann róaðist nokkuð við það en ég sá að hann hugsaði mér þegjandi þörfina."
Við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis voru framangreind ummæli Tryggva Þórs Herbertssonar borin undir Davíð Oddsson. Davíð sagði að hann hefði vissulega rætt við Tryggva undir fjögur augu. Hann hefði heyrt frá starfsmönnum Seðlabankans að Tryggvi hefði þetta kvöld meðan hann var í bankanum átt símtöl við Jón Ásgeir Jóhannesson þar sem hann hefði lýst fyrir honum tillögum Seðlabankans varðandi Glitni. Davíð lýsti því fyrir nefndinni að hann hefði af þessum sökum verið Tryggva reiður og sagði að það gæti verið að hann hefði verið hvassyrtur í hans garð. Hann neitaði því hins vegar að hafa látið þau orð falla að hann myndi sjá til þess að Tryggva yrði ólíft á Íslandi. Þess í stað hefði hann sagt: "Og ég sagði við hann að ég mundi sjá til þess, ef hann héldi þessu áfram, að hann færi út úr húsinu og það yrðu gefin fyrirmæli um það að hann færi ekki inn í það aftur. Ég held að Ísland hafi ekki verið, sko, hann gæti verið á Íslandi en þetta var skýringin. Og hugmyndir hans, ég var hneykslaður á að hann skyldi vera að ræða af því að hann var í þeim símtölum líka, við Landsbankamenn út úr húsinu sem voru að senda okkur magnþrungnar dellutillögur. Og hann var að berjast fyrir því að við færum um nóttina í sameiningu að Landsbankanum og Glitni og þessu öllu saman sem enginn hafði heildarmynd yfir og var ekki nokkur vinnandi vegur og tóm endaleysa. Það var sú leið sem hann vildi fara." Davíð sagði einnig: "Og þegar ég, ég held ég hafi nú ekki tekið svona til orða um Geir, það má vel vera í þessum ham öllum en það var nú þannig reyndar að Össur vildi ganga að þessu plani strax og lýsti því oft yfir, Geir var miklu meira hikandi og ekkert svo sem við það að, yfir því að segja, en ég held að það hafi ekki síst verið þessi hræringur Tryggva í hinum, að það hafi verið fullt af öðrum tillögum. [...] Hann var gerandi með Milestone-mönnum í fullt af hlutum og átti að koma aftur til baka í þessa starfsemi. Mér fannst þetta allt saman mjög óþægilegt [...] og þegar var búið að segja mér þarna áður af mínum starfsmönnum að hann væri hringjandi út að lýsa við "kontakta" sína í farsíma hvað við værum að ræða þarna inni, þá fannst mér það algjörlega forkastanlegt og undirstrika það sem ég, efasemdir mínar um það að hann gæti komið fram sem fulltrúi forsætisráðherrans gagnvart Seðlabankanum og ætlast til þess að við værum, sýndum honum fulla hreinskilni. Ég algjörlega hins vegar kaupi það að í öllum þessum látum, að þá hlaut öll stjórnsýsla að fara fyrir lítið í þessum hræringum öllum, en það er samt sem áður, það var óþarfi að vera með eitthvað sem svona blasti við að gat ekki gengið. Og þetta fór í taugarnar á mér, en það getur vel verið að ég hafi verið of hérna hvassyrtur við hann þarna, en mér fannst satt best að segja, þetta var 10–20 manna fundur þar sem þeir voru að tjá sig, ráðherrarnir, og mér fannst óþægilegt fyrir Geir sem, hvað hann var hikandi og óviss og allt það, við hliðina á Össuri sem vissi miklu minna um málið sem var miklu ákveðnari í að fara þessa leið, sko, fljótt og eiginlega strax. Þannig að, og kannski hef ég kennt, að Tryggvi væri eins og maður segir að hræra í honum. Það getur vel verið að ég hafi kennt því um."
Við skýrslutöku var Össur Skarphéðinsson spurður hvort einhver hefði lýst áhyggjum af því sem leitt gæti af tillögu Seðlabankans. Össur svaraði: "Ég man ekki eftir því. Það var enginn sem, það var einn maður sem var svona "spúkí" og "krítískur" þarna á þetta, svokallaður efnahagsráðgjafi, Tryggvi Þór. Þú veist, ég var þarna náttúrulega eins og fiskur sem stokkið hefur upp á grasbala og ég króaði hann af þrisvar svona um kvöldið: "Hvað finnst þér?" Af því að ég skynja á honum að hann var ekki sáttur við þetta. Hann vildi aldrei segja það þarna. Ég sagði: "Þér ber skylda til þess [...] þú ert efnahagsráðgjafi minn líka", en þá sagði hann: "Ég er efnahagsráðgjafi forsætisráðherrans", sem við höfum reyndar alltaf reynt að hafa það þannig, ekki ráðinn endilega, alla vega ekki í samráði við okkur, en hann sem sagt, hann var greinilega svona skeptískur á þetta og gaf það til kynna með svipbrigðum og öðru, en hann sagði ekki neitt. [...] Talaði bara ekki og ég dró þá ályktun að hann þyrði það ekki út af Davíð [...]."
Samkvæmt drögum að minnisblaði Ingimundar Friðrikssonar "virtist allt í hnút" um miðnætti. Í minnisblaðinu segir: "Glitnismenn höfðu hafnað tilboði ríkisstjórnarinnar. Allir fóru heim, IF [Ingimundur Friðriksson] kl. 1."
Össur Skarphéðinsson lýsti því við skýrslutöku að seint um kvöldið hefði hann hringt í Sigurð Einarsson, stjórnarformann Kaupþings, og sagt honum að ríkið "ney[dd]ist til þess að taka yfir" Glitni. Össur sagði að Sigurði hefði litist vel á tillöguna en hefði síðar um nóttina sent Össuri smáskilaboð og sagt að aðgerð ríkisins væri "tóm vitleysa".Við skýrslutöku kannaðist Sigurður ekki við að hafa sagt að sér litist vel á tillöguna. Hann hefði hins vegar beðið um að fá að hugsa málið. Hefði hann rætt við Hreiðar Má Sigurðsson og þeir verið sammála um að þetta væri afar slæm aðgerð. Hefði Sigurður síðan hringt í Geir H. Haarde og lýst afstöðu sinni. Hefði hann hvatt til þess að Glitni yrði veitt lán gegn veði. Geir hefði svarað því til að það væri ekki hægt, búið væri að taka ákvörðun í mál-inu.Við skýrslutöku staðfesti Geir H. Haarde lýsingu Sigurðar Einarssonar á framangreindu svari sínu við beiðni Sigurðar. Sigurður Einarsson lýsti því einnig við skýrslutöku að hann hefði fyrst heyrt að vandræði væru komin upp á íslenskum fjármálamarkaði þegar Hreiðar Már Sigurðsson greindi honum frá því eftir að hafa fundað með Fjármálaeftirlitinu snemma dags laugardaginn 27. september 2008. Sigurður sagði hins vegar að honum hefði ekki verið kunnugt í hverju vandræðin fólust fyrr en að kvöldi sunnudagsins 28. september 2008.
Í kjölfar fundarins í Seðlabankanum héldu fulltrúar Glitnis í höfuðstöðvar Stoða hf. þar sem stjórn Glitnis fundaði kl. 00:15 aðfaranótt 29. september 2008. Samkvæmt fundargerð var stjórnarmönnum gerð grein fyrir atburðarás síðustu daga. Þar segir einnig að leitað hafi verið eftir 500 milljóna evra "láni frá Seðlabankanum gegn fullnægjandi tryggingum". Síðan kemur fram að Seðlabankinn hafi lýst sig tilbúinn til þess að leggja fram 600 milljónir evra sem hlutafjárframlag gegn 75% eignarhlut í bankanum. Í fundargerðinni segir einnig að á fundinum í Seðlabankanum hafi Þorsteinn Már Baldvinsson og Lárus Welding gert fulltrúum ríkisins grein fyrir því "hvaða áhrif þessi aðgerð myndi hafa á markaðinn á Íslandi". Um þetta segir í fundargerðinni: "Ljóst væri að hlutabréf Glitnis myndu falla hratt um leið og opnað yrði fyrir viðskipti með bréfin enda með þessu tilboði búið að verðleggja þau afar lágt. Það hefði aftur áhrif á veðstöðu viðskiptavina Glitnis og hinna bankanna enda hlutabréf í bankanum notuð til tryggingar í viðskiptum. Ljóst væri að þetta hefði gríðarlega alvarleg áhrif á stöðu allra viðskiptabankanna þriggja og fjölda viðskiptavina bankanna." Undir lok fundargerðar kemur fram að ákveðið hafi verið að funda að nýju síðar um nóttina. Síðari stjórnarfundur Glitnis þessa nótt var haldinn í höfuðstöðvum bankans að Kirkjusandi um kl. 05:00. Í fundargerð segir m.a.: "Þorsteinn gerði grein fyrir því að staða mála hefði ekkert breyst frá fundi stjórnar fyrr um nóttina. Engar lausnir væru í sjónmáli aðrar en að fallast á tillögu Seðlabankans. Af þeim sökum legði hann til að stjórn bankans boðaði til hluthafafundar þar sem tillaga um kaup Seðlabankans á nýju hlutafé í bankanum yrði borin undir atkvæði hluthafafundar." Síðan segir í fundargerð að Gestur Jónsson, hrl., hafi lesið upp eftirfarandi tillögu: "Á fundi sem forsætisráðherra og formaður bankastjórnar Seðlabankans áttu með forstjóra og formanni stjórnar Glitnis banka hf. í gærkvöldi lýsti formaður bankastjórnar Seðlabankans yfir vilja bankans til þess að eignast 75% hlutafjár í Glitni gegn greiðslu á 600 milljónum evra. Þess var óskað að afstaða stjórnar og stærstu hluthafa gagnvart þessu boði lægi fyrir áður en markaðir yrðu opnaðir að morgni næsta dags." Því næst kemur fram að stjórn Glitnis hafi ákveðið að boða til hluthafafundar þar sem fyrrgreind tillaga skyldi lögð fram og borin undir atkvæði hluthafa auk þess sem stjórnin myndi leita eftir afstöðu stærstu hluthafa bankans til tillögunnar. Af báðum fundargerðunum má ráða að stjórn Glitnis hafi talið tilboðið felast í því að Seðlabankinn keypti eignarhlutinn en ekki íslenska ríkið.
Samkvæmt ódagsettu minnisblaði Vilhelms Más Þorsteinssonar ræddi hann í síma við Sturlu Pálsson um kl. 02:00 eða 03:00 aðfaranótt mánudagsins 29. september 2008.Við það tækifæri hafi Sturla sagt að í raun hafi aldrei komið til greina að veita Glitni lán til þrautavara á grundvelli 7. gr. laga nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands. Í þessu samhengi hafi Sturla rætt sérstaklega um að Glitnir hafi farið fram á greiðslu í evrum en ekki íslenskum krónum. Aðspurður hafi Sturla sagt að á tímabili á laugardeginum hefði "verið í alvöru skoðun" að fara þessa leið en frá þeim tíma hefði þetta hvorki verið talið raunhæft né viðeigandi.
Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, lýsti því við skýrslutöku að hann hefði ekki verið upplýstur um atburði þessara daga fyrr en um kl. 21 sunnudagskvöldið 28. september 2008. Þá hefði Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra, hringt í hann og spurt hvort hann hefði heyrt af því sem væri að gerast varðandi Glitni. Í kjölfarið hefði Björgvin haft samband við Jón Þór Sturluson, aðstoðarmann sinn, sem þá var staddur í Seðlabankanum. Áslaug Árnadóttir, skrifstofustjóri í viðskiptaráðuneyti, lýsti því við skýrslutöku að fyrr um kvöldið, líklega á milli kl. 20:00 og 21:00, hefði Kjartan Gunnarsson, skrifstofustjóri í viðskiptaráðuneyti og varastjórnarmaður í Fjármálaeftirlitinu, hringt í sig til þess að fá símanúmer móður Áslaugar, Sigríðar Thorlacius, stjórnarmanns í Fjármálaeftirlitinu, þar sem til stóð að kalla hana á stjórnarfund Fjármálaeftirlitsins síðar sama kvöld. Áslaug segir að við sama tækifæri hafi hún gengið á Kjartan sem hafi sagt að það væri "eitthvað að gerast með Glitni". Hann hafi þó ekki viljað veita nánari upplýsingar. Áslaug hafi því næst rætt við Jónínu S. Lárusdóttur, ráðuneytisstjóra viðskiptaráðuneytis. Jónína lýsti því við skýrslutöku að eftir að hafa rætt við Áslaugu Árnadóttur í síma hefði hún rætt við Kjartan Gunnarsson. Samtalinu við Kjartan lýsti Jónína með eftirfarandi orðum: "Þá sagði hann að hann hefði verið boðaður á stjórnarfund FME um kvöldið og hann vissi lítið en hann vissi að þetta gæti eitthvað varðað Glitni, mig minnir að hann hafi sagt mér það, en hann vissi ekkert hvað væri." Jónína segist því næst hafa haldið í húsakynni viðskiptaráðuneytisins. Þangað hafi hún komið um kl. 21:30 og hafi hún þá hringt í Björgvin G. Sigurðsson. Fannst henni að Björgvin hefði þá haft veður af málinu. Björgvin hefði síðan mætt í ráðuneytið á milli kl. 23:00 og 24:00.
Við skýrslutöku ræddi Jóhanna Sigurðardóttir um það hvernig henni bárust þær upplýsingar sem leiddu til þess að hún hafði samband við Björgvin G. Sigurðsson þetta kvöld: "[...] það höfðu verið fréttir, að mig minnir, kvöldið áður, man það þó ekki glöggt, þar sem að fréttamaður var að velta fyrir sér hvað væri að ske í Stjórnarráðinu á helgi, allt í ljósum þar og svo kom kvöldið á eftir, ég bara horfði á þetta eins og hver annar, svo kom bara kvöldið á eftir og það er sama uppi og fréttamaður, -menn með spurningar og [Geir H. Haarde] kemur þarna út og segir: "Það er eðlilegt að ég sé bara að kynna mér mál, ég er búinn að vera lengi í, eða búinn að vera einhvern tíma í Ameríku og ég er bara að kalla hagfræðinga og skoða stöðuna." Þá var þetta að byrja svona að koma upp. Mér fannst það sérkennilegt og vildi vita hvað væri meira að ske, náði í Geir, hringdi í hann beint, minnir að ég hafi náð í hann í bíl, er þó ekki alveg klár á því, alla vega náðum við samtali sem var mjög stutt, og ég spurði hann að því hvort það væri eitthvað að ske og hann vildi mjög lítið segja en þó var það nægilegt til þess að ég vissi að þeir væru að skoða í alvöru einn bankann, ég man ekki hvort hann nefndi hvort það væri Glitnir, ég held það þó að hann hafi gert það. Ég spurði hver væri með honum af okkar hálfu í þessu af því að Ingibjörg var erlendis og hann sagði að Ingibjörg hefði tilnefnt Össur í það. Og meira vildi hann svo ekki segja við mig og ég ákvað þá að hringja í Björgvin bara til að leita frekari upplýsinga, taldi að hann hlyti að vita þá eitthvað meira um stöðuna. Og hringdi í hann klukkan [21:00] og hann kom algjörlega af fjöllum og alveg ljóst að hann vissi ekkert í þessu máli, en Jón Þór hafði víst verið kominn eitthvað í þetta á einhverjum stigum þarna á þessum degi eða kvöldi. Þetta er það sem ég veit um þetta mál." Aðspurð um hvernig henni hefðu síðan borist frekari upplýsingar um niðurstöðu þeirra ráðherra sem staddir voru í Seðlabankanum svaraði Jóhanna: "[...] þá hringdi Jón Þór í mig, ég man ekki um hvaða leyti það var, eitthvað nálægt miðnætti, sagði mér í örstuttu máli hvað hefði skeð og búið. Ég ræddi, held ég hafi ekki rætt meira við Björgvin eftir það." Aðspurð hvort Jón Þór Sturluson hefði verið að leita eftir samþykki eða afstöðu Jóhönnu svaraði hún: "Nei. Bara segja mér niðurstöðuna sem þá var komin." Jóhanna sagðist ekki hafa litið þannig á samtalið að verið væri að leita eftir samþykki hennar. Jóhanna sagðist heldur ekki minnast þess að Össur Skarphéðinsson hefði rætt við sig eða reynt að hafa samband við sig þetta kvöld.
Síðar um nóttina hélt Björgvin G. Sigurðsson ásamt Jóni Þór Sturlusyni í höfuðstöðvar Stoða þar sem þeir voru boðaðir til fundar við Þorstein Má Baldvinsson, Jón Ásgeir Jóhannesson og Ingibjörgu Pálmadóttur. Þar voru einnig staddir nokkrir stjórnarmenn í Glitni auk Jóns Sigurðssonar, forstjóra Stoða. Loks voru þar staddir þingmennirnir Bjarni Benediktsson og Illugi Gunnarsson. Jón Þór Sturluson lýsti því við skýrslutöku að á fundinum hefði honum og Björgvin verið tjáð að fyrirhuguð aðgerð varðandi Glitni væri "gríðarlega alvarleg fyrir ekki bara þeirra fyrirtæki heldur hina bankana [...]". Jón Þór sagði að undir lok fundarins hefði verið ákveðið að hann og Björgvin myndu ræða við Geir H. Haarde og kanna hvort lækka mætti fyrirhugað eignarhlutfall hins opinbera. Í kjölfarið héldu Björgvin og Jón Þór því til fundar við Geir á heimili hans.Var þá komið fram undir morgun. Björgvin segir að Geir hafi talið koma til greina að lækka fyrirhugað eignarhlutfall ríkisins í Glitni. Á sama tíma hafi Geir hins vegar fengið þær upplýsingar að samþykki helstu hluthafa væri komið. Hafi umræðan því ekki náð lengra.
Í drögum að minnisblaði segir Ingimundur Friðriksson að Hörður Felix Harðarson hafi hringt í sig um kl. 6:30 að morgni mánudagsins 29. september og tilkynnt að samþykki stjórnar og stærstu hluthafa Glitnis myndi berast innan stundar. Síðan segir: "Talið var óhjákvæmilegt að efna til fréttamannafundar í Seðlabankanum og kynna ákvörðun ríkisstjórnarinnar og að ráðlegt væri að Lárus Welding yrði viðstaddur. Glitnismenn voru þessu heldur andsnúnir og dróst að samþykki stærsta eigandans bærist af þeim sökum [...]. Grænt ljós var gefið á boðun fundarins eftir að ÞMB [Þorsteinn Már Baldvinsson] hafði hringt í IF [Ingimund Friðriksson] og tilkynnt að hann væri með staðfestingu stærsta hluthafans í höndunum, sem einnig var staðfest af lögfræðingi Glitnismanna, Herði Felix, í sama símtali. Meðal vitna að þessu samtali voru hinir bankastjórarnir." Í kjölfarið segir Ingimundur að boðað hafi verið til fréttamannafundar. Loks segir: "Hefði Glitnir ekki verið afgreiddur með þeim hætti sem gert var hefði bankinn orðið að tilkynna að hann hefði leitað til Seðlabankans hvort sem fyrirgreiðsla hefði þá verið veitt eður ei." Í minnisblaði Seðlabankans 3. október 2008 kemur fram að yfirlýsingar frá fulltrúum stærstu eigenda Glitnis hafi tekið að berast undir kl. 9:00. Síðan segir: "Tilkynnt var um hina síðustu símleiðis eftir að allar aðrar höfðu borist í hús og á því augnabliki var send út tilkynning um fréttamannafund í Seðlabankanum sem hófst kl. 9:40." Á fréttamannafundi Seðlabankans sagði Davíð Oddsson að ef ekki hefði komið til aðgerða ríkisins hefðu hlutabréf í Glitni orðið verðlaus með öllu.Við skýrslutöku viðurkenndi Davíð að þessi ummæli sín hefðu verið óvarkár.
Að morgni mánudagsins 29. september 2008 birti forsætisráðuneytið fréttatilkynningu á vefsíðu sinni. Þar sagði: "Gert hefur verið samkomulag milli ríkisstjórnar Íslands og helstu eigenda Glitnis banka hf. að höfðu samráði við Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitið um að ríkissjóður leggi bankanum til nýtt hlutafé. Þetta er gert með hliðsjón af þröngri lausafjárstöðu Glitnis og einstaklega erfiðum aðstæðum á alþjóðlegum fjármálamörkuðum um þessar mundir. Ríkissjóður mun með milligöngu Seðlabanka Íslands leggja Glitni til hlutafjárframlag að jafnvirði 600 milljóna evra (eða um 84 ma.kr.) og með því verða eigandi að 75% hlut í Glitni." Síðan sagði: "Boðað verður til hluthafafundar í Glitni svo fljótt sem samþykktir leyfa þar sem tillaga þar að lútandi verður lögð fram til samþykktar." Þá sagði: "Fjármálaeftirlitið metur eiginfjárstöðu og eignasafn Glitnis traust. Eiginfjárhlutfall Glitnis verður 14,5% eftir þessa aðgerð. Rekstur bankans verður með eðlilegum hætti." Loks sagði: "Ríkissjóður stefnir ekki að því að eiga eignarhlutinn í bankanum til langframa.Tilgangurinn með þessari aðgerð er að tryggja stöðugleika í fjármálakerfinu."
Geir H. Haarde boðaði til fréttamannafundar í forsætisráðuneytinu um hádegisbil 29. september 2008. Á fundinum sagði Geir að það væri skylda ríkisvaldsins að tryggja fjármálastöðugleika eftir bestu getu og að sem mest traust ríkti gagnvart bönkum. Því hefði ríkið ráðist í þá aðgerð að leggja Glitni til hlutafjárframlag. Geir ítrekaði að hér væri ekki um styrk að ræða. Ríkið gæti síðar hugsanlega selt hlut sinn og jafnvel hagnast á þeim viðskiptum. Geir benti einnig á að hlutafjáreign fylgdi áhætta og að þeir hluthafar Glitnis sem fyrir væru þyrftu að taka á sig tap. Loks sagði Geir að áfram þyrfti að vinna að því að styrkja gjaldeyrisforða þjóðarinnar.
Við skýrslutöku ræddi Hreiðar Már Sigurðsson um símafund Glitnis sem hann sagðist hafa haft veður af mánudaginn 29. september 2008: "Við fréttum af "conference call", símafundi, sem að Lárus Welding hafði átt með einum starfsmanni hans, bankans, sem vann í fjármögnunardeild bankans, sem gekk mjög illa, var okkur sagt, var mjög ótrúverðugur. [...] þeir voru spurðir, það var gengið á þá, hvað þýddi þetta? Ætlaði ríkið að sjá um alla fjármögnunina? Ætlaði ríkið að tryggja peningana? Og þau gátu ekki svarað því, höfðu ekki skýr svör hvert væri "plan" stjórnvalda og svo skilaboð sem við fengum var að það hefði farið mjög illa ofan í alþjóðlega fjárfesta." Aðspurður hvort hann teldi að Seðlabankinn hefði ekki þurft að hafa svör á reiðum höndum vegna yfirtökunnar á Glitni svaraði Hreiðar: "Augljóst. Þetta var augljóslega fyrsta spurningin sem hann mundi fá: Hvernig ætlarðu að borga gjalddagann í október? Hvernig ætlarðu að borga í janúar? Og hvernig ætlarðu að tryggja bankann? Og þau svör komu aldrei. [...] ég held að það hafi bara verið haldinn blaðamannafundur á Íslandi og á íslensku um morguninn og, þar sem þeir voru Lárus Welding og Davíð Oddsson þegar þetta var kynnt, en ég held að það hafi aldrei neinn kynningarfundur eða, sem sagt fyrir erlenda aðila."
20.2.5 Tilraunir til sameiningar á bankamarkaði
Hér að framan var fjallað um þá ákvörðun sem ríkisstjórn Íslands tók að kvöldi 28. september 2008 og aðdraganda hennar. Áður en ákvörðunin var tekin áttu sér stað ýmsar viðræður á milli bankanna um möguleika á sameiningu. Hér á eftir verða reifaðar þær viðræður sem áttu sér stað á árinu 2008 og grein gerð fyrir þeim tillögum sem bankamenn komu á framfæri við yfirvöld um aðra kosti til lausnar á fyrirliggjandi vanda. Áður en vikið verður nánar að því er rétt að halda því til haga að viðræður um samruna áttu sér einnig stað fyrr á árinu.T.a.m. bar Geir H. Haarde, forsætisráðherra, fyrir rannsóknarnefnd Alþingis að hann hefði spurt Sigurjón Þ. Árnason, bankastjóra Landsbanka Íslands hf., fyrir páska 2008 hvort til greina kæmi að Landsbankinn og Straumur-Burðarás Fjárfestingabanki hf. myndu sameinast. Sigurjón hefði ekki talið grundvöll fyrir því þar sem Straumur hefði verið of hátt verðlagður. Hann hefði hins vegar talið líklegt að Glitnir banki hf. og Byr sparisjóður gætu sameinast. Sjálfur segist Geir hafa átt von á að einhver samruni yrði meðal íslenskra banka um páskana. Ekkert varð þó af því.Við skýrslutöku tók Björgólfur Guðmundsson, formaður bankaráðs Landsbankans, undir þau orð Sigurjóns Þ. Árnasonar að ekki hefði komið til greina að sameina Landsbankann og Straum. Sagði Björgólfur að ástæðan hefði verið mikil fjárhagsleg tengsl bankanna tveggja.
Við skýrslutöku sagði Halldór J. Kristjánsson, bankastjóri Landsbankans, að í mars 2008 eða um svipað leyti hefðu forsvarsmenn Landsbankans varpað fram hugmynd um samruna Glitnis og Landsbankans með lausafjárstuðningi ríkisins. Hefði þessi hugmynd verið rædd sérstaklega við Geir H. Haarde. Hins vegar hefðu erlendir ráðgjafar Landsbankans lagt til að þessi leið yrði ekki farin þar sem "þetta kynni að verða hættuleg aðgerð vegna þess að það væru komnar alveg sérhæfðar lögfræðingasveitir í Bandaríkjunum sem væru að reyna að nota allt sem menn gerðu í þessum erfiðleikum, hvar sem er í heiminum, til að brjóta upp" lánasamninga með vísan til ákvæða í skilmálum slíkra samninga. Hurfu bankastjórar Landsbankans því frá hugmyndinni.
Við skýrslutöku tók Sigurjón Þ. Árnason undir framangreind ummæli Halldórs J. Kristjánssonar. Sigurjón sagði einnig að erlendir ráðgjafar hefðu bent á að sameining banka gæti jafnvel veikt stöðu þeirra, sbr. eftirfarandi orð: "Vandamálið er það að það er hætta á því að tvær lausafjárlínur, bara t.d. tvær swap-línur sem eitthvað magn eða tvær FX-línur eða tvær skammtímalánalínur eða tvær af einhverju, eða bara yfir höfuð svona "risk taking" hvers eðlis sem kann að vera, mundi hugsanlega ekki, [...] tvær einar yrðu ekki að tveimur, einni stórri, heldur yrðu þær bara að einni hálfri."
Í þessu samhengi má nefna að við skýrslutöku sagði Davíð Oddsson, formaður bankastjórnar Seðlabankans: "Erfiðleikar [voru] fyrir þessa banka [...] að nálgast endurnýjun á fjármögnun. Það var ekki talið endilega víst og jafnvel líklegra að [...] sameining þessara banka [...] mundi [ekki] leiða til þess að þeir ættu auðveldara með að fá lán. Það var m.a.s. talið að sumir bankanna ættu auðveldara með að fá lán einir og sér án þess að vera tengdir hinum, heldur en endilega sameiginlega. Sameiningin, eins og alltaf þegar menn tala um sameiningar, menn sáu fyrir sér hagræðingu og þess háttar [...] fækka fólki og eitthvað þess háttar en meginvandamálið á þessu augnabliki var aðgangurinn að erlendu lánsfé."
Rannsóknarnefnd Alþingis hefur undir höndum drög að minnisblaði frá Landsbankanum til ríkisstjórnar og Seðlabanka Íslands. Efnið er "Aðgerðir til að treysta undirstöður bankakerfisins". Skjalið er ódagsett en þó hefur dagsetningin 8.–10. febrúar 2008 verið handrituð inn á það. Í skjalinu segir að Ísland sé eins konar fórnarlamb óvenjulegra aðstæðna.Tvennt er sagt skipta mestu máli í þeim efnum: "Annars vegar eru íslensku bankarnir ekki komnir nógu langt í innlánafjármögnun utan Íslands og hins vegar er smæð hagkerfisins í hlutfalli við stærð íslenska fjármálamarkaðarins ákveðin hindrun." M.a. er lagt til að ríkið gangist í ábyrgð fyrir ákveðinni fjármögnun Landsbankans til allt að fimm ára. Lagt er til að Landsbankinn yfirtaki Glitni. Í skjalinu segir loks: "Það er mun farsælla að taka á vandanum af myndugleik í tíma áður en hann verður of stór til að hægt sé að leysa úr honum á farsælan hátt."
Bankastjórn Seðlabanka Íslands fundaði með stjórnendum Landsbankans 19. mars 2008. Í drögum að fundargerð Seðlabankans er haft eftir Sigurjóni Þ. Árnasyni: "Við núverandi aðstæður eiga margir skuldabréf sem keypt voru á t.d. 20p og hafa orðið fyrir gríðarlegu tjóni. Þeir liggja í lánaskjölum til að kanna möguleika á riftun á lánasamningum v. covenant-a (Change of control, sameining). Ef einum tekst að rifta lánasamningi þá fylgir bylgja. Hægt að hóta riftun. [...] Sagði ykkur frá hugmynd um að yfirtaka annan banka (Glitni) með tryggingu ríkisins gegn gjaldi og hlutleysi Samkeppniseftirlitsins. Eftir skoðun lánaskjala LÍ þá er túlkunin þannig að í bandarísku skuldaskjölunum er heimild til endurgreiðslu. Myndum ekki þora að ræða málið við lánveitendur. Þess vegna er þessi fyrri hugmynd núna komin í skúffuna. Samt er ekki hægt að standa kyrr."
Við skýrslutöku sagði Halldór J. Kristjánsson að líklega hefðu forsvarsmenn Landsbankans of lengi haft áhyggjur af því að samruni gæti rofið skilmála lánveitenda. Ástæðuna segir hann vera: "[...] að eftir því sem leið á sumarið 2008 þá held ég að bankar alþjóðlega hafi séð að þeir þurftu að styðja við bakið á hver öðrum en ekki gera hlutina erfiðari, þannig að það voru ekki eins miklar líkur á að menn færu að beita fyrir sig einhverju slíku. Einnig þegar þeir máttu gera sér ljóst að lausafjárvandræði heimsins voru það mikil að þótt þú gætir sannað skilmálabrot, þá voru ekki miklar líkur til þess að viðkomandi gæti hvort eð er endurgreitt."
Í júlí 2008 réð Geir H. Haarde Tryggva Þór Herbertsson sem sérstakan efnahagsráðgjafa sinn og hóf Tryggvi störf 1. ágúst sama ár.Tryggvi ræddi í kjölfarið við forsvarsmenn Glitnis og Landsbankans og kannaði hvort vilji væri fyrir samruna. Í hugmyndinni fólst að auk samrunans kæmi ríkið inn í sameinaðan banka með um 30 milljarða króna.Af þessu tilefni ræddi Geir sérstaklega við Björgólf Thor Björgólfsson snemma í ágúst 2008. Geir segir að Björgólfur hafi þá ekki talið samruna tímabæran. Í sama mánuði ræddi Geir einnig við Þorstein Má Baldvinsson, stjórnarformann Glitnis. Segir Geir að Þorsteinn hafi þá talið að fjárframlag ríkisins þyrfti að nema mun hærri fjárhæð en 30 milljörðum króna og þá líklega nær 100 milljörðum. Einnig hafi hann viljað hlutdeild Glitnis meiri í sameinuðum banka. Þorsteinn Már Baldvinsson lýsti því við skýrslutöku að hann hefði sjálfur verið hlynntur sameiningu þessara tveggja banka. Hins vegar sagði hann: "Ég taldi aftur á móti að það yrði að vera svolítið á "eigendabasis" og það held ég að sé alveg rétt, sem sagan segir, að það væri erfitt fyrir Björgólf Thor og Jón Ásgeir o.fl. að vinna saman. En þetta var verkefni sem ég var búinn að nefna og raunar ræða við Tryggva Þór um." Þorsteinn lýsti því jafnframt við skýrslutöku að Geir H. Haarde hefði hins vegar sagt að hann teldi samruna ekki tímabæran.
Tryggvi Þór Herbertsson lýsti því við skýrslutöku að hugmynd sín hefði verið sú að sameina Glitni og Landsbankann og selja síðan norræna starfsemi þeirra til FIH, dansks dótturfélags Kaupþings banka hf. Tryggvi segir að eftir að hann hafi rætt við Björgólf Thor Björgólfsson hafi hann áttað sig á því að þetta mundi "aldrei ganga upp" því Björgólfur hafi ekki talið hugmyndina tímabæra.Tryggvi segir að hann hafi átt erfitt með að ræða við forsvarsmenn Landsbankans því það hafi verið eins og þeir treystu honum ekki. Halldór J. Kristjánsson lýsti því við skýrslutöku að honum hefði ekki þótt Tryggvi "rétti aðilinn" til að leiða svona vinnu.Við skýrslutöku virtist Sigurjón Þ. Árnason sama sinnis.
Aðspurður um skoðun sína á sameiningu íslenskra banka sagði Davíð Oddsson: "Bankarnir voru sjálfstæðir bankar, þú gast ekkert pínt þá til samruna [...] þetta var auðvitað einhver valdakeppni og sumir ætluðu að reyna að komast yfir banka með ódýrum hætti og ímynda sér að þeir gætu fengið það, ef það væri hægt að stuðla að einhverri sameiningu." Jón Ásgeir Jóhannesson var við skýrslutöku spurður um hvort hann hefði talið nægilegt traust til staðar svo menn gætu rætt um samruna sín á milli.Taldi hann að svo hefði ekki verið. Hann sagði: "[...] sko, það var alltaf vandamál þegar þeir þrír [Hreiðar Már Sigurðsson, Lárus Welding og Sigurjón Þ. Árnason] komu saman. Það er bara, var "history" að, hversu oft var í, örugglega þrisvar eða fjórum sinnum að annaðhvort Sigurjón sprakk eða Hreiðar sprakk og þeir fóru út og skelltu hurðum. Það var dálítið vandamál sem átti sér langa sögu. Lalli var svona, litið á hann sem kannski dálítið peð á milli þeirra, voru þarna tveir kóngar og Hreiðari fannst Sigurjón alltaf vera að tala illa um Kaupþing og svo "omvendt". En það voru samt svona tveir, þrír alvörufundir þar sem menn náðu saman." Umræddir fundir segir Jón að hafi átt sér stað snemma árs 2008. Jón segist síðan hafa heyrt af því að utan landsteinanna hafi átt sér stað viðræður á milli forsvarsmanna Kaupþings og Landsbankans. Þar hafi menn komist að samkomulagi um að skipta Glitni á milli sín. Sigurjón Þ. Árnason kannaðist við fyrrgreinda fundi sem Jón Ásgeir Jóhannesson lýsir að átt hafi sér stað á Íslandi. Sigurjón lýsti einum slíkum fundi með eftirfarandi orðum: "Það erum við; ég, Hreiðar og Jón Ásgeir og erum að ræða þetta fram og til baka, hvort það séu einhverjar leiðir til að leysa þetta, hvaða möguleikar séu í stöðunni, hvort að það sé hægt að fá menn til að gera hitt og þetta, maður er að velta einhverjum hlutum upp. Það sem ég man mest eftir á þeim fundi er að Hreiðar kemur með þá lausn að það eigi bara að stúta Glitni, nánast svona efnislega. Síðan ætli hann að fá öll erlendu fyrirtækin og ég átti að fá allt íslenska. Og ég sagði: Já, nefnilega, á ég að taka allt það íslenska, sem ég þarf að fjármagna [...] með eignir sem ég get ekki fengið neitt lán út á, og þú ætlar að taka allar norsku eignirnar sem er hægt að fá pening út á. Þetta er algjört rugl. Og allar þessar hugmyndir sem þeir komu með, að það væri enginn vandi að leysa þetta með því að skipta upp Glitni þar sem þeir fengju allar erlendu eignirnar og við þær íslensku, þ.e. að þeir fengju mögulegt aðgengi að fjármagni út á erlendu eignirnar, meðan við áttum að taka allar skuldirnar og íslenskar eignir á móti sem er alveg ónothæft. Þetta var bara rugl og ég var pirraður út í hann."
Ein af ástæðum þess að ekki kom til sameiningar meðal bankanna virðist hafa verið sú að ekki ríkti traust á milli manna. Sigurjón Þ. Árnason taldi þó að á milli ákveðinna aðila hefði ríkt traust: "Það er traust á milli stjórnenda Glitnis og stjórnenda Landsbankans, gegnum Lárus og mig og þá. Það er traust í kerfinu frá mér yfir til eigenda Glitnis – það er til staðar. Það er traust frá eigendum Glitnis inn í eigendur, sem maður lítur alltaf á sem Sigga og Hreiðar, og stjórnendur KB – þar er traust á milli. Það er traust á milli Landsbankans, einkum og sér í lagi gegnum Halldór og þá, við Seðlabankann. Það er fullkomið vantraust á milli Glitnis og Seðlabankans, það er fullkomið vantraust á milli KB og Seðlabankans og það er síðan vantraust hjá stjórnendum Landsbankans og KB en ég held það sé ákveðið traust á milli eigenda Landsbankans og KB." Aðspurður um traust á milli manna í bankakerfinu sagði Sigurður Einarsson, stjórnarformaður Kaupþings: "Ég held ég geti alveg svarað því hversu mikið traust var – það var ekkert traust. Ég held að það sé nokkuð ljóst." Sigurður sagðist þó telja að í október 2008 hefði ástandið verið orðið slíkt að hann teldi að menn hefðu getað komist að samkomulagi. Björgólfur Guðmundsson lýsti því við skýrslutöku að hann liti svo á að ekkert hefði orðið af sameiningu meðal bankanna þar sem "enginn hafi treyst neinum og enginn viljað tala við neinn". Björgólfur sagði einnig: "[...] og eitt af því sem ég held að hafi nú eitt af vandamálunum í þessu öllu saman var að, voru nú samskipti yfirmanna bankanna. Þá á ég við þeirra, bankastjórnar bankanna, það voru sko Íslandsbanki, Landsbanki og hvernig þeir hugsuðu til hvors annars og hvernig sú, það var, það var ekki mikill, mikil, þeir gátu vel hugsað sér [...] þeir glöddust ekkert yfir velgengni hvors annars. Það var ekki góður tónn. [...] Ja, ég heyrði það bara þegar menn töluðu saman, er ég, ég var náttúrulega til hliðar en bara hvernig þeir töluðu um hvorn annan, það, manni fannst það mjög furðulegt að svona, mjög óvinveitt og ég held bara, búinn að velta því fyrir mér, hvort þetta gæti verið úr stúdentapólitíkinni, þeir höfðu nú allir verið saman þar, Sigurjón formaður og svo var Bjarni þarna og [...] Hreiðar Már, og þú veist, það bara á köflum fannst mér þeir vera þarna uppi í háskóla í einhverri háskólapólitík, töluðu, mállýskan var þannig, þannig að það var aldrei, aldrei, mér fannst aldrei vera þannig samband á milli bankastjóranna, svona vinveitt. Og alls ekki milli, ég hafði afskaplega lítið og eiginlega ekki neitt samband við Sigurð Einarsson. Það er ekki fyrr en að kannski hann Lárus Welding kemur í Íslandsbanka sem að verður kannski aðeins, af því að hann hafði verið starfsmaður okkar, og hvernig hann er ráðinn í Íslandsbanka veit ég ekki en hann var okkar maður í London og ... hann var náttúrulega, hann var mikill vinur Sigurjóns, en hann var held ég, starfaði mikið fyrir, eða Jón Ásgeir var stór kúnni hjá honum í London. Þannig að Lárus var ráðinn þarna og þá fyrst var það svona sem menn virtust geta talað eitthvað saman."
Hinn 22. september 2008 var tilkynnt að Glitnir og Byr hefðu hafið viðræður um samruna.
Af því sem að framan greinir má ráða að ýmsar hugmyndir voru uppi um samruna á íslenskum bankamarkaði allt frá því snemma á árinu 2008. Líkt og raun ber vitni varð þó ekkert úr samruna á milli einhverra af stóru bönkunum þremur þrátt fyrir að stjórnvöld hefðu hvatt til þess. Nú verður vikið að þeirri atburðarás sem átti sér stað í kringum helgina 27.–28. september 2008 þegar stjórnvöld ákváðu að leggja Glitni til hlutafjárframlag gegn 75% eignarhlut í bankanum.
Um kl. 19:00 föstudaginn 26. september 2008 ræddi Jónas Fr. Jónsson, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, við Lárus Welding, forstjóra Glitnis.Við skýrslutöku sagði Jónas að Lárus hefði verið bjartsýnn á að bankinn fengi fyrirgreiðslu gegn veði. Jónas sagði að á fundinum hefði einnig verið rætt um samruna. Jónas hefði sagst vera þeirrar skoðunar að skoða þyrfti stærri aðgerðir og spurt Lárus hvort honum hugnaðist samruni við Landsbankann. Lárus hefði sagst vera tilbúinn að skoða þetta en talað um að einnig væri þörf á almennum stuðningspakka við bankakerfið. Stjórnvöld þyrftu að koma þar að málum. Í kjölfarið boðaði Jónas bankastjóra Glitnis, Landsbankans og Kaupþings til fundar sem haldinn var næsta morgun.
Að morgni laugardagsins 27.september 2008 funduðu Hreiðar Már Sigurðsson,Sigurjón Þ.Árnason og Lárus Welding með Jónasi Fr. Jónssyni í húsakynnum Fjármálaeftirlitsins. Hreiðar Már Sigurðsson lýsti því við skýrslutöku að rætt hefði verið um að fjármögnunarleiðir væru að lokast bönkunum. Jónas Fr. Jónsson hefði spurt hvort menn væru að skoða sameiningu. Fundurinn hefði verið "[s] vona óformlegt spjall". Hreiðar segist hafa spurt undir lok fundar hvort einhver af bönkunum væri kominn í vandræði. Engin skýr svör hafi komið fram um það.Við skýrslutöku sagði Jónas að Lárus hefði ekki viljað ræða vanda Glitnis við Hreiðar.Að fundi loknum hefði Jónas hins vegar rætt sérstaklega við Lárus og Sigurjón og hvatt þá til að sameina Glitni og Landsbankann. Sigurjón Þ. Árnason lýsti því við skýrslutöku að á fundinum hefði Jónas ekki sagt að Glitnir hafi leitað til Seðlabankans, heldur gefið í skyn að menn ættu að kanna möguleika á sameiningu.
Sigurjón Þ. Árnason segir að stuttu eftir að fundinum lauk hafi Lárus Welding hringt í sig. Hafi Lárus sagst vera í höfuðstöðvum FL Group hf., sem þá hét reyndar Stoðir hf., og beðið Sigurjón um að koma þar til fundar. Sigurjón segist hafa tekið vel í þetta. Í húsakynnum Stoða hafi síðan beðið hans Jón Sigurðsson, forstjóri Stoða, Þorsteinn Már Baldvinsson, Jón Ásgeir Jóhannesson og Lárus Welding. Sigurjón segir að á fundinum hafi verið kannað hvort hann hefði áhuga á sameiningu Landsbankans og Glitnis. Sigurjón segir að af sinni hálfu hafi slíkt ekki verið útilokað. Hann hafi síðan haft samband við Kjartan Gunnarsson, varaformann bankaráðs Landsbankans, og beðið hann að mæta á fundinn. Björgólfur Guðmundsson, formaður bankaráðs Landsbankans, hafi hins vegar verið staddur erlendis um þetta leyti. Fundinum hefði lyktað þannig að Landsbankamenn ákváðu að ráðfæra sig við Björgólf Thor Björgólfsson.
Um hádegisbil sama dag, þ.e. 27. september 2008, tóku seðlabankastjórar á móti Jónasi Fr. Jónssyni og Ragnari Hafliðasyni, aðstoðarforstjóra Fjármálaeftirlitsins. Við skýrslutöku sagði Jónas að á fundinum hefði hann lýst þeirri skoðun sinni að hann teldi samruna heppilegustu leiðina við lausn málsins. Hefði hann einnig bent á að viðræður ættu sér stað á milli Glitnis og Landsbankans um sameiningu.
Síðdegis sama dag hófu starfsmenn Fjármálaeftirlitsins vinnu við mat á því hvert yrði eiginfjárhlutfall annars vegar sameinaðs Landsbanka og Glitnis og hins vegar Kaupþings og Glitnis. Niðurstöður Fjármálaeftirlitsins voru eftirfarandi:
Við skýrslutöku lýsti Tryggvi Þór Herbertsson því að á fundi sínum og Geirs H. Haarde með Lárusi Welding og Þorsteini Má Baldvinssyni sama dag, þ.e. 27. september 2008, hefðu fulltrúar Glitnis lagt fram áætlun um að ríkið keypti forgangshlutafé í Glitni og tryggði jafnframt fjármögnun bankans að vissu leyti. Í minnisblaði Glitnis, dags. 28. september 2008, sem ber heitið "Aðgerðaráætlun fyrir Ísland" eru settar fram tvær tillögur. Fyrri tillagan felst í því að Seðlabankinn láni Glitni 500 milljónir evra gegn veði. Síðari tillagan felst í sameiningu Glitnis og Landsbankans í nýjan banka. Jafnhliða því muni Íbúðalánasjóður yfirtaka íbúðalán bankanna tveggja, Seðlabankinn leggja til innlán að fjárhæð 1 milljarður evra og íslenska ríkið leggja til nýtt hlutafé í formi forgangshluta í nýja bankann að fjárhæð 750 milljónir evra. Loks skuli veitt undanþága "vegna samkeppnismála". Neðst í minnisblaðinu er rætt um hvað gerist ef ekki verði af sameiningu:
- Allir íslensku bankarnir munu falla, úr verður einn ríkisbanki
- Lánshæfismat ríkisins mun lækka umtalsvert, BB eða verra
- GVT [gengisvísitala] ISK [íslensku krónunnar] fellur í áður óþekkt gildi, 250 til 300
- Lífeyrissjóðirnir tapa stórum hluta eigna sinna, tap hleypur á hundruðum [milljarða]
Sama dag, þ.e. 27. september 2008, fundaði Jón Ásgeir Jóhannesson með Hreiðari Má Sigurðssyni.
Næsta dag, þ.e. sunnudaginn 28. september 2008, áttu Sigurjón Þ. Árnason og Halldór J. Kristjánsson fund með Björgólfi Thor Björgólfssyni vegna áhuga forsvarsmanna Glitnis á samrunaviðræðum. Í skýrslu Sigurjóns fyrir rannsóknarnefnd kemur fram að "eftir að Björgólfur Thor kemur að þessu, verður [þetta] meira á þá lund að það eigi að tala við Seðlabankann, ekki tala beint við Glitni". Litið hafi verið svo á að eftir að Seðlabankinn kom að málinu væri hann farinn að "stjórna málinu".
Fyrr um morguninn, þ.e. áður en bankastjórar Landsbankans funduðu með Björgólfi Thor Björgólfssyni höfðu þeir átt fund með Geir H. Haarde. Um fundinn sagði Sigurjón Þ. Árnason: "[...] þegar við erum að tala við hann verður þú að átta þig á því að við erum í rauninni ekki með góðar lausnir, sjálfir [...]. Það er ekki þannig að við séum með einhverja "patentlausn" [...]."
Um kl. 14 sunnudaginn 28. september 2008 mætti Hreiðar Már Sigurðsson ásamt Guðna Aðalsteinssyni, starfsmanni Kaupþings, til fundar í forsætisráðuneytinu. Hreiðar lýsti því við skýrslutöku að þeir hefðu fundað í um klukkustund með Geir H. Haarde og Tryggva Þór Herbertssyni. Á fundinum hefði komið fram að Glitnir þyrfti á aðstoð að halda og þeirri spurningu verið varpað fram hvort Kaupþing þyrfti einnig á aðstoð að halda. Hreiðar segist í fyrstu ekki hafa neitað þeirri spurningu með afdráttarlausum hætti. Þegar málið hafi verið rætt nánar hafi hann þó sagt að Kaupþing þyrfti ekki á aðstoð að halda og jafnframt að Kaupþing myndi ekki krefjast sambærilegrar aðstoðar ef Glitni yrði veitt aðstoð. Hreiðar segist hafa skilið Geir þannig að til stæði að lána Glitni fjármagn.
Sama dag ræddust Jón Ásgeir Jóhannesson og Hreiðar Már Sigurðsson aftur við. Við skýrslutöku lýsti Hreiðar því að Jón hefði haft samband og spurt hvort Kaupþing hefði áhuga á að kaupa starfsemi Glitnis á Norðurlöndunum fyrir 600 milljónir evra. Hreiðar segist hafa tekið fálega í það. Slíkt mætti skoða en væri ekki hægt að klára á þessum tíma. Jón Ásgeir segir að eftir að Hreiðar hafi fundað í forsætisráðuneytinu á sunnudeginum hafi hann hringt í sig. Hreiðar hafi sagt: "Ríkið ætlar að lána, þetta verður bara lán, þetta verður einhverjir, það verður einhver kostn..., það verður einhver "restriction" í því um það að fara í samrunaviðræður eða skoða sölumöguleika á eignum."
Við skýrslutöku lýsti Halldór J. Kristjánsson því að seint að kvöldi fimmtudagsins 25. september 2008 hefði Lárus Welding hringt í Sigurjón Þ. Árnason og lýst því að Glitnir hefði leitað til Seðlabankans. Halldór segir að Sigurjón hafi upplýst sig um þetta morguninn eftir, þ.e. föstudaginn 26. september 2008. Segir Halldór að þetta hafi valdið sér og Sigurjóni nokkrum áhyggjum. Sigurjón lýsti því við skýrslutöku að hann hefði hitt Lárus Welding að kvöldi 25. september. Lárus hefði falast eftir lausu fé í erlendum gjaldeyri. Sigurjón hefði sagt að Landsbankinn gæti ekki reitt slíka fjármuni af hendi. Sigurjón segist hafa áttað sig á að Glitnir væri í vandræðum en ekki gert sér grein fyrir því að Glitnir hefði verið búinn að leita til Seðlabankans. Sigurjón segir að þegar bankastjórar Landsbankans komu af fundi í Seðlabankanum næsta dag, þ.e. föstudaginn 26. september 2008, hafi þeir hins vegar mætt Jónasi Fr. Jónssyni. Sigurjón hafi þá áttað sig á málinu. Halldór J. Kristjánsson segir að Lárus Welding hafi leitað til sín laugardaginn 27. september 2008 og farið fram á að Halldór myndi ræða við bankastjórn Seðlabankans og aðstoða Glitni við að koma málinu í höfn. Segir Halldór að Lárus hafi litið svo á að Halldór ætti greiðan aðgang að bankastjórum Seðlabankans. Halldór segir að bankastjórar Landsbankans hafi síðan fundað með Geir H. Haarde að morgni sunnudagsins 28. september 2008. Þar hafi þeir kannað hvernig tekið yrði í það að Landsbankinn myndi setja fram hugmyndir sínar að lausn fyrirliggjandi vanda. Hafi Geir sagt að allar hugmyndir yrðu vel þegnar. Bankastjórar Landsbankans hafi í kjölfarið sett saman tillögu sem síðan var send Seðlabankanum kl. 15 sama dag.
Tillagan sem Landsbankinn setti fram um lausn á þeim vanda sem blasti við Glitni og þar með íslenska bankakerfinu fól í sér að ríkið myndi leggja fram 100 milljarða kr. hlutafjáraukningu í Glitni og eignast 52% í bankanum. Landsbanki og Straumur skyldu síðan sameinaðir en samkvæmt minnisblaði Landsbankans fæli slíkt í sér eiginfjáraukningu í Landsbanka sem næmi 140 milljörðum króna. Landsbankinn og Glitnir yrðu síðan sameinaðir undir merkjum fyrrnefnda bankans. Seðlabankinn skyldi svo veita hinum sameinaða banka tveggja til þriggja milljarða evra fyrirgreiðslu svo leysa mætti lausafjárvanda Glitnis. Reynt skyldi eftir föngum að selja eignir og draga saman efnahagsreikning hins sameinaða banka. Samkvæmt tillögu Landsbankans yrði eignarhald hins sameinaða banka eftirfarandi:
- Núverandi hluthafar Glitnis: u.þ.b. 18%.
- Ríkissjóður: u.þ.b. 19%.
- Núverandi hluthafar Landsbankans: u.þ.b. 40%.
- Núverandi hluthafar Straums: u.þ.b. 23%.
Við skýrslutöku sagði Halldór J. Kristjánsson að um klukkan 18 sama dag, þ.e. 28. september 2008, hefði þessari tillögu Landsbankans verið hafnað af Davíð Oddssyni í samtali við Halldór. Hefði Davíð sagt að tillögurnar hefðu ekki hlotið neinn hljómgrunn heldur beinlínis lagst illa í ráðherrana. Halldór segir að sér hafi virst sem ráðherrar hafi litið svo á að Landsbankinn hygðist nýta sér þær sérstöku aðstæður sem uppi voru til þess að yfirtaka Glitni á kostakjörum. Við skýrslutöku lýsti Davíð því að þegar þessi tillaga barst hefði hann verið inni á skrifstofu sinni ásamt Geir H. Haarde. Eftir að hafa lesið tillöguna yfir hefði Geir kallað hana "vitleysu". Síðan hefði símtal borist frá Halldóri J. Kristjánssyni sem hefði verið að spyrjast fyrir um viðtökur tilboðsins. Davíð lýsti samtali sínu og Halldórs með eftirfarandi hætti: "Ég get fengið ríkisstjórnina og bankastjórnina til að samþykkja þetta með einu skilyrði, þessa hugmynd ykkar. Hann var mjög kátur og sagði: Hvað er það? Það er að ég [...] komist í stjórn Blómavals. Þá sagði hann: Er þetta svona vitlaust? Já, þetta er svona vitlaust. Og svo lagði ég á."
Við skýrslutöku lýsti Sigurjón Þ. Árnason tildrögum þess að Landsbankinn útbjó fyrri tillögu sína: "Stóra myndin er nefnilega þessi: Jónas bað okkur um að skoða sameiningar.Við settumst niður og vorum tilbúin að gera það. Næsta skref er það að setja kerfið í gang þannig að eigendur komi að málinu. Þá liggja einhvern veginn fyrir þær upplýsingar að Seðlabankinn er einhvern veginn orðinn "aðal-playerinn" og menn vilja þar af leiðandi hafa samskipti við Seðlabankann frekar en [eigendur Glitnis] vegna þess að í rauninni sé líklegt að það séu komnir nýir eigendur að málinu. Menn stilla upp einhverjum strúktúrum í samræmi við það sem þeir telja að sé að gerast og fyrsta strúktúrnum er hafnað vegna þess að mönnum fannst þeir einhvern veginn of grófir gagnvart [...] eins og við skildum það, að Glitnir væri að fá of mikið. Og þá gengum við alla leið, sem var bara mín hugmynd – þá göngum við bara alla leið, segjum að það sé verðlaust en þá þurfa að koma 200 milljarðar inn [...]."
Sigurjón Þ. Árnason lýsti því við skýrslutöku að um kl. 18 sunnudaginn 28. september 2008 hefðu bankastjórar Landsbankans og Björgólfur Thor Björgólfsson fundað með forsvarsmönnum Glitnis í höfuðstöðvum Novator ehf. Af hálfu Glitnis hefðu mætt Jón Ásgeir Jóhannesson og Þorsteinn Már Baldvinsson. Sigurjón segir að þeir hafi verið orðnir "mjög óþolinmóðir og pirraðir". Sigurjón segist telja að Björgólfur Thor Björgólfsson hafi í raun ekki viljað tala við fulltrúa Glitnis heldur fremur við Seðlabankann. Sigurjón segir að á þessu stigi hafi menn gert ráð fyrir því að Seðlabankinn myndi lána Glitni. Spurningin hafi hins vegar verið sú á hvaða forsendum sú lánveiting yrði. Sigurjón segir að Jón Ásgeir Jóhannesson hafi lagt til samruna Glitnis og Landsbankans miðað við eignarhlutföllin 50/50. Síðar um kvöldið, líklega milli kl. 22 og 24, hafi Jón Ásgeir verið tilbúinn til þess að miða samruna við eignarhlutföllin 60/40, eigendum Landsbankans í hag.
Af hálfu Landsbankans var önnur tillaga sett fram eftir að fyrri tillögu bankans var hafnað fyrr um kvöldið. Af því tilefni mættu Halldór J. Kristjánsson og Sigurjón Þ. Árnason ásamt Björgólfi Thor Björgólfssyni og Kjartani Gunnarssyni, varaformanni bankaráðs Landsbankans, til fundar í forsætisráðuneytinu. Þar voru fyrir Geir H. Haarde og Tryggvi Þór Herbertsson. Tilboðið sem fulltrúar Landsbankans kynntu á þessum fundi var augljóslega byggt á fyrri tillögu bankans. Ákveðnar breytingar höfðu þó verið gerðar á henni. Samkvæmt minnisblaði Landsbankans skyldi ríkissjóður leggja fram 200 milljarða króna hlutafjárframlag í Glitni og fá í staðinn 100% eignarhlut í félaginu. Markaðsverðmæti Glitnis við lokun markaða 26. september 2008 er sagt 229 milljarðar króna. Landsbanki og Straumur skyldu sameinaðir og yrði viðmiðunarverð hins sameinaða banka 350 milljarðar króna. Sá banki yrði síðan sameinaður Glitni undir merkjum Landsbankans.Viðmiðunarverð Glitnis yrði 250 milljarðar króna. Samkvæmt tillögu Landsbankans yrði eignarhald hins sameinaða banka eftirfarandi:
- Núverandi hluthafar Glitnis: u.þ.b. 0%.
- Ríkissjóður: u.þ.b. 40%.
- Núverandi hluthafar Landsbankans: u.þ.b. 40%.
- Núverandi hluthafar Straums: u.þ.b. 20%.
Í minnisblaði Landsbankans er loks gert ráð fyrir að starfsemi bankans í Bretlandi verði "við fyrsta tækifæri flutt yfir í dótturfélag". Síðan segir að innlánstryggingar vegna Icesave í Bretlandi yrðu "þá alfarið hluti hins breska" innlánstryggingakerfis.
Líkt og vikið var að í kafla 20.2.4 hér að framan fékk síðara tilboð Landsbankans ekki góðar undirtektir fremur en fyrra tilboð bankans. Aðspurður um tillögur Landsbankans sagði Árni M. Mathiesen við skýrslutöku: "[Seinni tillagan] gekk nú bara út á það að Glitnisfólkið ætti að tapa öllu og þeir [eigendur Landsbankans] ættu að eiga stóran hluta í nýjum banka sem ríkið átti að fjármagna. Mér fannst það alveg ótrúlega ósvífnar tillögur." Um seinni tillöguna sagði Davíð Oddsson við skýrslutöku: "[...] og þá voru menn búnir að ímynda sér að ég væri pirraður yfir því að Baugur fengi jafnmikið hérna hlutafé í þessum banka eins og ríkið sem legði fram alla þessa peninga. Þá var í næstu tillögu, þá var Baugur kominn út og ríkið komið held ég upp í 40%, Landsbankinn 40% og Straumur 20%.Ég held að við höfum ekki svarað,mig minnir að við höfum ekki svarað þessu erindi." Við skýrslutöku var Össur Skarphéðinsson spurður um tillögur Landsbankans um sameiningu við Glitni. Össur sagði: "Jú, það var rætt, þetta er rétt, það var sagt frá einhverri tillögu þarna og Geir taldi hana af og frá, ég held að hann hafi bara orðað það svoleiðis, og Davíð alveg snarvitlaus [...]. Síðan kom inn á fundinn í formi fax endurbætur á því tilboði sem þeir sögðu að væri ennþá vitlausara og væri ekki einu sinni umræðunnar virði."
Sama kvöld kl. 20:09 sendi Karl Wernersson, stjórnarformaður Milestone ehf., Jóni Þ. Sigurgeirssyni, sérfræðingi á skrifstofu bankastjórnar Seðlabanka Íslands, tölvubréf. Með því fylgdu hugmyndir um aðkomu ríkissjóðs og Seðlabankans að bankakerfinu. Af bréfinu má ráða að Karl hafi verið upplýstur um vandræði Glitnis og jafnframt að málið væri til skoðunar innan Seðlabankans.
Að kvöldi sunnudagsins 28. september 2008 og aðfaranótt mánudagsins 29. september 2008 áttu sér stað viðræður af hálfu fulltrúa Glitnis við fulltrúa Landsbankans annars vegar og fulltrúa Kaupþings hins vegar. Jón Ásgeir Jóhannesson lýsti því við skýrslutöku að hann hefði farið í húsakynni Kaupþings um kl. 1:30 aðfaranótt 29. september. Þar hefði m.a. verið fyrir Hreiðar Már Sigurðsson. Jón segir að rætt hafi verið um möguleika á að tilkynna eitthvað um hugsanlega samvinnu eða samstarf á Norðurlöndunum. Ekkert varð þó úr þessu.
Jón var einnig í sambandi við Björgólf Thor Björgólfsson og Sigurjón Þ. Árnason um svipað leyti. Jón lýsir því að hann hafi verið tilbúinn til þess að fallast á sameiningu Landsbankans og Glitnis þannig að hluthafar Landsbankans hlytu 60% eignarhlut í sameinuðum banka en hluthafar Glitnis hlytu 40% eignarhlut. Sigurjón Þ. Árnason staðfesti þessa lýsingu við skýrslutöku. Í máli hans kom einnig fram að Björgólfur Thor hefði samþykkt þetta tilboð munnlega á milli kl. 22 og 24 um kvöldið. Sigurjón sagði hins vegar um þetta: "[...] það er náttúrulega ekkert hægt að leysa þetta án aðkomu ríkisins[...]." Jón Ásgeir Jóhannesson lýsti því við skýrslutöku að þegar leið á nóttina hefði hann ekki getað náð í Björgólf Thor þar sem hann var genginn til náða.Þar með hefði sambandið við Landsbankann í raun slitnað.Viðræðurnar leiddu því ekki til lausnar á málinu.
Bankaráð Landsbankans fundaði kl. 12:40 mánudaginn 29. september 2008. Í fundargerð segir m.a.: "Mat á áhrifum aðgerðarinnar á Landsbankann stendur yfir, en þrátt fyrir jákvæðan tón í yfirlýsingu bankastjórnar var ljóst að mjög skiptar skoðanir voru almennt um málið. Lækkun á verðmæti veða í hlutabréfum í Glitni sem hefur neikvæð áhrif á Landsbankann. Rætt var um hvort Glitnir hefði átt rétt á lausafjárstuðningi fremur en eigin fé. Aðferðin við yfirtöku Glitnis var óvenjuleg og á sér væntanlega fá fordæmi. Fimm ára CDS álag á ríkið hefur rokið upp í kjölfar tilkynningarinnar." Einnig segir: "Skipulegur samruni, a.m.k. Landsbankans og Glitnis, hefði að mati bankastjóra og bankaráðs verið heppilegri leið en þetta varð niðurstaðan."
20.2.6 Fall Glitnis banka hf.
Aðfaranótt mánudagsins 29. september 2008 ákvað stjórn Glitnis banka hf. að boða til hluthafafundar "jafnskjótt og verða [mætti]" þar sem tilboð ríkisins um kaup á 75% eignarhluta í bankanum yrði lagt fram og borið undir hluthafafund. Stjórn bankans fundaði aftur kl. 12:00 miðvikudaginn 1. október 2008. Þar var sérstaklega rætt um tímasetningu fyrirhugaðs hluthafafundar.Við skýrslutöku lýsti Hörður Felix Harðarson, framkvæmdastjóri lögfræðisviðs Glitnis, umræðum um boðun hluthafafundar með eftirfarandi hætti: "Það voru miklar umræður um það í stjórninni hvaða tími væri heppilegastur til þess að halda fundinn, það voru skiptar skoðanir um það hvort þetta ætti jafnvel að vera í litlum sal til að takmarka aðganginn eða hvort þetta ætti að vera í stórum sal til að gefa öllum kost á að koma þarna inn – það voru svona mjög skiptar skoðanir um hvar og hvenær ætti að halda þetta. [...] Síðan, ef ég man rétt, var þetta komið niður á það að fundurinn ætti að vera á laugardegi [...]." Samkvæmt fundargerð stjórnar Glitnis frá því kvöldið áður, þ.e. 30. september 2008, fór ríkisstjórnin fram á að fundurinn yrði haldinn á fimmtudegi. Málið var ekki til lykta leitt á þeim fundi heldur eins og áður segir á fundi stjórnar 1. október. Þar segir að sú ákvörðun hafi verið tekin að boða til hluthafafundar laugardaginn 11. október 2008. Um þetta sagði Hörður Felix Harðarson: "[...] ég man að ég átti samtal við Baldur Guðlaugsson [ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytis], þar sem hann var að kvarta undan því að menn hefðu ekki orðið við óskum þeirra um að hluthafafundurinn yrði haldinn annaðhvort á miðvikudags- eða fimmtudagseftirmiðdegi." Við skýrslutöku ræddi Þorsteinn Már Baldvinsson,stjórnarformaður Glitnis, um ástæður þess að til hluthafafundar var boðað laugardaginn 11. október 2008: "Ég sjálfur get bara fullyrt að ég vildi halda fundinn sem fyrst. Ég var að velta því fyrir mér að segja af mér þarna og ákvað síðan að fylgja málinu þannig að ég vildi í raun bara klára þetta. En það sem kom upp í sambandi við þetta var [...] að þarna var mikill fjöldi hluthafa sem hafði fylgt bankanum mjög lengi, í gegnum mjög mörg ár margir hverjir, að við vildum gefa þeim tækifæri til að mæta á fundinn [...]. Annars hefði fundurinn verið kláraður fyrr en það varð sem sagt niðurstaðan að boða hann á frídegi."
Daginn áður, þ.e. að morgni þriðjudagsins 30. september 2008, birti Fréttablaðið viðtal við Jón Ásgeir Jóhannesson þar sem hann ræddi um aðgerð ríkisins sem "stærsta bankarán Íslandssögunnar". Sama dag kynnti Davíð Oddsson, formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands, sér stöðu Glitnis.Við skýrslutöku hafði hann þetta um málið að segja: "Ég varð nú eiginlega fyrir "sjokki" þarna daginn eftir að menn ætla að taka Glitni yfir, þá sé ég í fyrsta skipti svona útdrátt úr lánabók, um stærstu skuldara, og þá sé ég að eigandi bankans virðist í þeim tölum skulda 170 milljarða, en reyndar reyndust það nú vera 300 og eitthvað milljarðar. Þá er forstjóri Fjármálaeftirlitsins staddur í bankanum og mér varð svo mikið um þetta að ég hljóp niður á 1. hæðina, þar sem hann var, og kallaði hann yfir í næsta herbergi og sýndi honum þessar tölur, þar sem var sko Baugur, Gaumur og FL-Group og Landic Property og bara 360... þá sagði forstjóri Fjármálaeftirlitsins: "Þú misskilur þetta, þetta eru ekkert sömu aðilarnir." Þá lamdi ég nú fast í borðið og sagði: "Þú talar ekki svona við mig drengur." En ég áttaði mig ekkert á því... mér fannst hann vera að gera grín að mér. En þetta var miklu verra því að svo voru þarna nöfn, sem ég hafði ekki þekkingu á, að voru sömu aðilarnir."
Mánudaginn 29. september 2008 lækkaði Standard & Poor's lánshæfismat Glitnis og íslenska ríkisins. Eftir því sem leið á vikuna virtist ekki ætla að draga úr vandræðum bankans. Þriðjudaginn 30. september 2008 skipaði Fjármálaeftirlitið Árna Tómasson, löggiltan endurskoðanda, sem sérstakan tilsjónarmann með Glitni. Sama dag lækkaði Moody's einnig lánshæfismat Glitnis. Lækkun á lánshæfismati leiddi til gjaldfellingar ákveðinna lána Glitnis frá erlendum bönkum. Sem dæmi má nefna að í skýrslu ALCO-nefndar Glitnis 1. október 2008 kemur fram að DZ Bank og Sumitomo Bank hafi gjaldfellt tvö lán að heildarfjárhæð 425 milljónir evra. Segir jafnframt að sú gjaldfelling hafi byggst á ákvæðum í lánaskilmálum framangreindra banka sem beinlínis kváðu á um gjaldfellingu ef til umræddrar lækkunar á lánshæfismati kæmi. Í skýrslu ALCO-nefndarinnar kemur einnig fram að líklega verði 1.000 milljóna evra lánalínu frá Deutsche Bank sagt upp. Nánar er um þessa lánalínu fjallað í kafla 7.0. Minnkandi verðmæti veða sem Glitnir hafði notað í endurhverfum viðskiptum leiddu einnig til hárra veðkalla.Veðköll á þessum tíma námu um 1.100 milljónum evra. Þar með talið var veðkall frá evrópska Seðlabankanum sem barst föstudaginn 3. október 2008 og nam 640 milljónum evra. Þeirri aðgerð var reyndar frestað tímabundið sunnudaginn 5. október 2008.
Á fundi samráðshóps forsætisráðuneytis, fjármálaráðuneytis, viðskiptaráðuneytis, Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands um fjármálastöðugleika og viðbúnað fimmtudaginn 2. október 2008 var rætt um fyrirhugaðan hluthafafund Glitnis. Í drögum að fundargerð segir að Glitnir hafi óskað eftir skriflegri yfirlýsingu frá ríkinu um að það telji sig bundið af tilboði sínu um hlutafjárframlag. Því næst er haft eftir Tryggva Pálssyni, framkvæmdastjóra fjármálasviðs Seðlabankans, að "stjórnvöld hafi enn ekki mótað stefnu sína og séu ef til vill ekki bundin vegna breyttra forsenda".
Á fundi samráðshópsins daginn eftir, þ.e. föstudaginn 3. október 2008, var enn á ný rætt um málefni Glitnis. Í drögum að fundargerð er haft eftir Baldri Guðlaugssyni að stjórn Glitnis hafi kallað eftir sérstakri yfirlýsingu þess efnis að ríkið muni standa við yfirlýsingu um framlag hlutafjár í Glitni. Síðan segir: "Glitnismenn segjast ekki geta auglýst fundinn án slíkrar yfirlýsingar. [...] Þeir segjast líka verða að fá slíka yfirlýsingu til að ganga frá uppgjöri. BG [Baldur Guðlaugsson] segist vera orðinn tortrygginn og að Glitnir geri sér líklega grein fyrir að möguleiki sé á riftun samkomulagsins. BG segist telja að ekki sé skynsamlegt að staðfesta með formlegum hætti meira en komið er."
Í handskrifuðu minnisblaði Árna M. Mathiesen, fjármálaráðherra, kemur fram að ráðherrar hafi fundað með seðlabankastjórum kl. 20:45 laugardagskvöldið 4. október 2008. Í minnisblaðinu er haft eftir Davíð Oddssyni að staða Glitnis sé lakari en menn hafi átt von á."Covenantar" hafi orðið virkir vegna lækkunar lánshæfismats.Aðaleigandi bankans sé jafnframt stærsti skuldari hans.Árni hefur loks skrifað: "Glitnir fer þá á höfuðið á mánudag."
Í öðru handskrifuðu minnisblaði Árna M. Mathiesen kemur fram að ráðherrar hafi fundað með fulltrúum Glitnis í Ráðherrabústaðnum sunnudaginn 5. október 2008 kl. 11:30. Fram kemur að Geir H. Haarde, forsætisráðherra, hafi spurt um horfur morgundagsins hjá Glitni. Í minnisblaðinu segir að Lárus Welding, forstjóri Glitnis, hafi sagt að bankinn þurfi á aðstoð Seðlabankans að halda. Segir að Lárus hafi nefnt að bankinn þyrfti að standa skil á 425 milljónum evra nk. þriðjudag auk þess sem fyrir liggi veðkall frá Seðlabanka Evrópu sem nemi 600 milljónum evra. Umrætt veðkall hafi borist með símtali föstudagskvöldið 3. október 2008.
Stefán Svavarsson, aðalendurskoðandi Seðlabankans, sendi bankastjórn stofnunarinnar minnisblað sunnudaginn 5. október 2008 um könnun sína á eigna- og skuldastöðu Glitnis. Í minnisblaðinu kemst Stefán að þeirri niðurstöðu að afskriftareikningur útlána Glitnis þurfi að nema um 74 milljörðum króna. Síðan segir: "Auk þessara afskrifta þykir rétt að gera ráð fyrir tjóni vegna skuldabréfa í safni Sjóðs 9 en bankinn mun hafa samþykkt að taka á sig helminginn af niðurfærsluþörfinni þar." Undir lok minnisblaðsins segir: "Vandinn sem við blasir er að mínu mati tvíþættur. Annars vegar að erlend fjármögnun hefur brugðist vegna kulnunar á mörkuðum og af því stafar lausafjárvandi bankans en ekki vegna rýrnunar á eignasafni hans. Hitt er svo einnig vandamál að efnahagsreikningur bankans er of stór, þegar jafnframt er tekið tillit til stöðu annarra banka. Þá má búast við að, jafnvel þótt takist að greiða niður skuldir við óþvingaðar aðstæður, og skala þannig niður reikninga bankanna, að eitthvert fé tapist eigi að síður sem gangi til rýrnunar á eigin fé. Áhætta gagnvart þjóðarbúinu er mikil við þær aðstæður sem nú ríkja og lausafjárvandinn sem við blasir gæti orðið að alvarlegum eiginfjárvanda."
Mánudaginn 6. október 2008 aflaði fjármálaráðuneytið sér lögfræðiálits um skuldbindingargildi samkomulags á milli ríkisstjórnarinnar og stærstu hluthafa og stjórnenda Glitnis. Lögmennirnir komast að þeirri niðurstöðu í minnisblaði sínu að "allverulegar líkur [séu] á því að sá stórfelldi forsendubrestur, sem nú þegar hefur orðið fyrir efnum umræddra hlutafjárkaupa, sé þess eðlis að á honum yrði byggt til ógildingar/riftunar fyrirliggjandi samkomulags". Lögmennirnir setja þó þann fyrirvara við niðurstöðu sína að það sé útilokað miðað við fyrirliggjandi forsendur og knappa skoðun að fullyrða um þetta með nægilegri vissu.
Sama dag, þ.e. 6. október 2008, ritaði stjórn Glitnis Árna M. Mathiesen, fjármálaráðherra, bréf þar sem farið var fram á að fjármálaráðherra beindi þeim tilmælum til Fjármálaeftirlitsins að stofnunin flýtti fyrirhuguðum hluthafafundi Glitnis þannig að fundurinn yrði haldinn kl. 12:00 þriðjudaginn 7. október 2008 í stað laugardagsins 11. október sama ár. Stjórn bankans rökstyður erindi sitt m.a. með vísan til "þeirra aðstæðna sem nú ríkja á fjármálamörkuðum", erfiðrar lausafjárstöðu bankans og 2. mgr. 5. gr. frumvarps til
laga um heimild til fjárveitingar vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. Samhljóða erindi var einnig sent Fjármálaeftirlitinu. Í fundargerð stjórnar Glitnis 6. október 2008 kemur fram að svar við fyrrgreindu erindi hafi borist frá Fjármálaeftirlitinu um kl. 23:00 sama dag. Í því bréfi hafi verið gerð grein fyrir því að ekki yrði tekin afstaða til beiðni Glitnis þar sem áðurnefnt lagafrumvarp hefði ekki enn verið samþykkt. Síðar um kvöldið var frumvarp til fyrrgreindra laga samþykkt á Alþingi. Lög þessi hafa í daglegu tali gengið undir nafninu neyðarlögin. Ítrekaði stjórn Glitnis þá fyrra erindi sitt. Nánari umfjöllun um neyðarlögin er að finna í kafla 20.3.11.
Lögmennirnir sem tekið höfðu saman fyrrgreint minnisblað fyrir fjármálaráðuneytið 6. október 2008 unnu jafnframt drög að sérstöku riftunarbréfi fyrir hönd ríkisins gagnvart stjórn Glitnis, dags. 7. sama mánaðar. Ekki kom hins vegar til þess að þetta bréf yrði sent.
Sama dag, þ.e. 7. október 2008, fundaði stjórn Glitnis aftur. Fundurinn stóð með hléum allan daginn og fram til kl. rúmlega 21:00. Í fundargerðinni segir að erindi bankans til Fjármálaeftirlitsins sem ítrekað hefði verið kvöldið áður hafi ekki verið svarað. Hörður Felix Harðarson lýsti beiðni stjórnar Glitnis með eftirfarandi orðum: "[...] það kemur fram ósk um það til Fjármálaeftirlitsins, hún er send skriflega, og það er nú sent bara alveg á þessum síðasta degi, þar sem menn voru að reyna, kannski í ákveðinni örvæntingu, að leita leiða til þess að láta þetta ganga. En ég held að öllum hafi verið orðið það ljóst á þeim tímapunkti að það stóð ekkert til að efna þetta tilboð." Í fyrrgreindri fundargerð Glitnis kemur einnig fram að Seðlabankinn hafi hafnað beiðni Glitnis um lán í evrum. Rannsóknarnefnd Alþingis hefur umrætt bréf Seðlabankans undir höndum. Þar segir að það sé á misskilningi byggt að tekist hafi samningar á milli Glitnis og Seðlabankans um lán að fjárhæð 941.500.000 evrur. Í fundargerð stjórnar Glitnis segir að þegar framangreind atriði lágu fyrir hafi stjórn bankans sent Fjármálaeftirlitinu bréf og tilkynnt að stjórn bankans teldi skilyrði fyrir inngripum stofnunarinnar samkvæmt hinum nýju neyðarlögum vera uppfyllt. Samkvæmt fundargerðinni tilkynnti Þorsteinn Már Baldvinsson loks stjórninni um komu fulltrúa Fjármálaeftirlitsins. Fram kemur að Þorsteinn hafi þá búist við því að stofnunin myndi þá víkja stjórn bankans frá og taka yfir starfsemi hans. Af þessum sökum hafi fundi verið frestað kl. 21:20.
Við skýrslutöku var Geir H. Haarde spurður að því hvenær sú ákvörðun hefði verið tekin af hálfu ríkisins að leggja ekki fram fjármuni inn í Glitni.Við það tækifæri sagði Geir: "Það gerðist af sjálfu sér eftir að neyðarlögin tóku gildi og þegar Glitnir leitaði til ríkisins á þriðjudeginum, þeir höfðu sjálfir ákveðið að hafa ekki hluthafafundinn fyrr en á annan laugardag þarna, sem er þá 11. væntanlega, og þar með var þetta bara orðið "óaktúelt" og datt bara upp fyrir af sjálfu sér, þurfti ekki að taka afstöðu til þess."
Að kvöldi 7. október 2008 tilkynnti Fjármálaeftirlitið að stofnunin hefði gripið inn í rekstur Glitnis á grundvelli heimildar í neyðarlögum. Í tilkynningu Fjármálaeftirlitsins kom fram að þessi ákvörðun hefði verið tekin í kjölfar bréfs frá stjórn Glitnis þar sem fram hefði komið að stjórnin teldi skilyrði neyðarlaga fyrir inngripi í rekstur bankans vera uppfyllt. Í ákvörðun Fjármálaeftirlitsins fólst að fyrri stjórn yrði vikið frá, stofnunin tæki yfir vald hluthafafundar og loks yrði bankanum skipuð sérstök skilanefnd.
Með bréfi, dags. 8. október 2008, sem sent var skilanefnd Glitnis lýsti Árni M. Mathiesen yfir riftun af hálfu ríkisstjórnarinnar á samkomulaginu sem gert hafði verið við stjórn og helstu hluthafa Glitnis 29. september sama ár. Fram kemur að ástæða riftunarinnar séu brostnar og rangar forsendur. Í bréfinu segir einnig að fjárþörf Glitnis virðist hafa verið stórlega vanmetin af stjórn og forráðamönnum Glitnis.
20.2.7 Ályktanir rannsóknarnefndar Alþingis
Af hálfu Þorsteins Más Baldvinssonar, stjórnarformanns Glitnis banka hf., er því lýst að hann hafi farið á fund formanns bankastjórnar Seðlabanka Íslands 25. september 2008 til að kynna honum að hann hefði áhyggjur af því að bankinn gæti ekki staðið í skilum með lán sem var á gjalddaga 15. október sama ár.Af framburði fyrirsvarsmanna Glitnis verður ráðið að í þeirra huga var óskað eftir veðláni skv. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands sem ekki féll þó innan þágildandi reglna sem Seðlabankinn hafði sjálfur sett sér með stoð í þeirri málsgrein. Fyrirsvarsmönnum Glitnis og Seðlabankans ber ekki að öllu leyti saman um hver hafi verið fjárhæð hins umbeðna láns og þá hvort beðið var um 500 eða 600 milljónir evra en síðari upphæðin svaraði til nær 25% af gjaldeyrisforða Seðlabankans eins og hann var 30. september 2008. Af skýrslu Davíðs Oddssonar, formanns bankastjórnar Seðlabanka Íslands, fyrir rannsóknarnefnd Alþingis verður ráðið að Seðlabankinn hafi litið svo á að lánafyrirgreiðslan sem um var beðið hafi í eðli sínu verið ósk um lán til þrautavara, en á grundvelli 2. mgr. 7. gr. laga nr. 36/2001 getur Seðlabankinn, þegar sérstaklega stendur á og hann telur þess þörf til að varðveita traust á fjármálakerfi landsins, veitt lánastofnunum í lausafjárvanda ábyrgðir eða önnur lán en um ræðir í 1. mgr. 7. gr. á sérstökum kjörum og gegn öðrum tryggingum en um getur í 1. mgr. eða öðrum skilyrðum sem bankinn setur.
Í bréfi Davíðs Oddssonar til rannsóknarnefndar Alþingis frá 24. febrúar 2010 leggur hann áherslu á að "engin formleg beiðni um þrautavaralán" hafi komið fram af hálfu Glitnis. Í sama bréfi segir Davíð hins vegar að á fundi hans með Þorsteini Má Baldvinssyni 25. september 2008 hafi bæði komið fram að Þorsteinn teldi að "greiðslufall yrði líklegast hjá bankanum innan örfárra vikna" og hann hafi óskað eftir "drjúg[um] hluta gjaldeyrisforða þjóðarinnar" að láni af því tilefni. Rannsóknarnefnd Alþingis áréttar að í lögum nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands eru ekki sett fram nein formskilyrði varðandi beiðni um lán til þrautavara og það sem hér skipti máli var innan hvaða valdheimilda að lögum gat komið til greina að Seðlabankinn veitti Glitni fyrirgreiðslu miðað við þær aðstæður sem stjórnarformaður Glitnis hafði lýst.
Seðlabanki Íslands er samkvæmt lögum sjálfstæð stofnun í eigu ríkisins og ber því í störfum sínum að fara eftir þeim almennu lögum og reglum sem gilda um starfsemi ríkisstofnana og meðferð stjórnsýsluvalds, auk þeirra sérstöku laga sem sett hafa verið um starfsemi hans. Þar getur t.d. verið um að ræða reglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og óskráðar grundvallarreglur stjórnsýsluréttar auk þess sem stofnuninni ber í störfum sínum að fylgja vönduðum stjórnsýsluháttum.
Fyrir liggur að af hálfu Glitnis var ekki lagt fram neitt skriflegt erindi um þá beiðni sem formaður stjórnar Glitnis reifaði fyrst á fundi með bankastjórum Seðlabankans í hádeginu 25. september 2008. Þá liggur ekki fyrir að slíkt skjal hafi verið lagt fram á síðari fundum stjórnenda og starfsmanna Glitnis með fulltrúum Seðlabankans að öðru leyti en því að síðar voru lagðar fram upplýsingar um þau veð sem Glitnir bauð. Rannsóknarnefnd Alþingis telur að ekki verði ályktað með öðrum hætti en að það hafi verið handvömm af hálfu stjórnenda Glitnis að hafa ekki, áður en þeir buðu fram svonefnda lánabók 561 sem veð fyrir umbeðnu láni, gert sér grein fyrir þeim takmörkunum sem voru á því að nýta umrætt lánasafn í þessu sambandi. Þótt erindi Glitnis hefði þannig sýnilega átt að vera betur undirbúið áður en það var lagt fyrir stjórnendur Seðlabankans breytir það ekki því að það var á ábyrgð stjórnenda Seðlabankans að afgreiða framkomna beiðni Glitnis í samræmi við stjórnsýslureglur.
Samkvæmt skilningi stjórnenda Seðlabankans var í reynd verið að óska eftir láni til þrautavara á grundvelli 2. mgr. 7. gr. laga nr. 36/2001 og rannsóknarnefndin telur ekki tilefni til að gera athugasemdir við þá afstöðu Seðlabankans. Af því leiddi hins vegar að fram var komin beiðni af hálfu lögaðilans, Glitnis banka hf., um að stjórnvaldið, Seðlabanki Íslands, tæki afstöðu til erindis sem varðaði ekki einungis verulega fjárhagslega hagsmuni Glitnis og gat haft áhrif um tilvist félagsins til framtíðar heldur einnig hvort beitt yrði lagaheimild sem beindist að því að varðveita traust á fjármálakerfi landsins og laut því að verulegum almannahagsmunum. Á Seðlabankanum og stjórnendum hans hvíldi sú skylda að tryggja að skýrt lægi fyrir hvert væri efni þess erindis sem þeir þurftu að taka afstöðu til og þar með að hvaða atriðum meðferð þeirra á erindinu þyrfti að lúta þannig að það yrði afgreitt með fullnægjandi hætti gagnvart þeim sem setti beiðnina fram. Rannsóknarnefnd Alþingis telur, að með tilliti til þess hversu afdrifaríkt málefni var um að ræða og með hliðsjón af vönduðum stjórnsýsluháttum, hefði Seðlabankinn í þessu tilviki átt að ganga eftir því að Glitnir legði fram formlegt og skriflegt erindi um beiðni sína þar sem fram kæmi rökstuðningur fyrir henni og því væri lýst hvernig Glitnir teldi að umbeðin fyrirgreiðsla ætti að gagnast bankanum í fyrirsjáanlegum erfiðleikum. Þá var einnig rétt að svo afdrifaríkt erindi um málefni hlutafélagsins stafaði frá stjórn þess.
Bankastjórn Seðlabanka Íslands var í september 2008 skipuð þremur bankastjórum og bar samkvæmt 23. gr. laga nr. 36/2001 ábyrgð á rekstri bankans og fór með ákvörðunarvald í öllum málefnum hans sem ekki voru öðrum falin með lögunum. Bankastjórnin var því, eins og það hefur verið nefnt í stjórnsýslurétti, fjölskipað stjórnvald eða stjórnsýslunefnd þar sem bankastjórarnir fóru allir saman með þau störf sem bankastjórninni voru falin. Í 24. gr. laga nr. 36/2001 var tekið fram að fundur bankastjórnarinnar væri ályktunarhæfur ef meiri hluti bankastjórnar sæti hann. Afl atkvæða réði úrslitum við afgreiðslu mála. Féllu atkvæði jöfn réði atkvæði formanns bankastjórnar. Í 3. mgr. 24. gr. sagði að ákvarðanir bankastjórnar skyldu skráðar og áritaðar af bankastjórn.Tekið var fram í upphafi lagagreinarinnar að formaður bankastjórnar væri talsmaður bankans og kæmi fram fyrir hönd bankastjórnar.
Með beiðni Glitnis um fyrirgreiðslu og með tilliti til fyrirsjáanlegra erfiðleika við að standa í skilum með greiðslur var komið fram hjá Seðlabanka Íslands erindi sem bankastjórninni bar að taka afstöðu til. Ákvæði 2. mgr. 7. gr. laga nr. 36/2001 um þrautavaralán og skylda fyrirgreiðslu Seðlabankans fela ekki í sér að lánastofnun eigi rétt til slíkrar fyrirgreiðslu að uppfylltum tilteknum skilyrðum heldur er þetta matskennd heimild sem Seðlabankinn tekur afstöðu til hvort beita eigi. Ákvörðun Seðlabankans um hvort og hvernig hann leysir úr erindi lánastofnunar um slíka fyrirgreiðslu til þrauta-vara kann augljóslega að hafa bein áhrif á það hvort hlutaðeigandi lánastofnun getur framvegis rækt þær skyldur sem á henni hvíla samkvæmt því starfsleyfi sem hún hefur fengið frá stjórnvöldum og að sama skapi rétt hennar til að nýta sér leyfið. Jafnframt kann ákvörðun Seðlabankans við þessar aðstæður að hafa afdrifarík áhrif á verðmæti eignarhluta í viðkomandi lánastofnun. Þegar litið er til þeirra atriða sem tilgreind eru í 2. mgr. 7. gr. laga nr. 36/2001 og haft í huga hversu afdrifarík og fjárhagslega mikilvæg ákvörðun um afgreiðslu slíks erindis gat orðið með tilliti til hagsmuna lánastofnunarinnar verður að telja að ákvörðun Seðlabanka Íslands á grundvelli 2. mgr. 7. gr. laga nr. 36/2001 feli í sér meðferð opinbers valds sem lúti reglum um stjórnvaldsákvarðanir, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Rannsóknarnefnd Alþingis telur á hinn bóginn ástæðu til að árétta að þótt ekki væri byggt á stjórnsýslulögum nr. 37/1993 við úrlausn málsins, myndu hinar almennu óskráðu meginreglur stjórnsýsluréttarins gilda. Hin óskráða rannsóknarregla og hin óskráða regla um skyldu til að tilkynna um lyktir máls, leiða til sömu niðurstöðu í máli þessu og ákvæði stjórnsýslulaga.
Þá er rétt að minna á að gera þarf greinarmun á þeirri málsmeðferð sem lýtur að töku ákvörðunar um hvort Seðlabanki Íslands veiti lánastofnun lán eða aðra fyrirgreiðslu til þrautavara og svo málsmeðferð vegna frágangs lánsskjala og samninga sem hugsanlega kunna að verða gerðir í tilefni af slíkri fyrirgreiðslu, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 23. mars 2000, mál nr. 407/1999.
Á Seðlabankanum hvíldi þannig sú skylda að leggja viðhlítandi grundvöll að ákvörðunum sínum með forsvaranlegri rannsókn og málsmeðferð og byggja ákvörðun sína síðan á lögum og málefnalegum sjónarmiðum.
Hinn 31. desember 2001 gáfu Seðlabanki Íslands og Fjármálaeftirlitið út áfangaskýrslu vegna viðbúnaðaráætlunar þeirra. Þessi áætlun er hluti af viðbúnaðaráætlun Seðlabanka Íslands og gagnasafni bankans um hana sem nefnt er "Svarta bókin". Samkvæmt bankastjórnarsamþykkt nr. 1167 frá 20. ágúst 2008, sem er meðal efnis 1. kafla Svörtu bókarinnar um "Verklag við lausafjárstuðning", er það fyrsta sem gera skal þegar beiðni um aðstoð vegna lausafjárvanda er tekin til meðferðar, að kalla saman starfshóp um viðbrögð við lausafjárvanda sem annast greiningu á stöðu málsins. Starfshópurinn á síðan að gera tillögu um afgreiðslu þess. Í kafla 1.2.2. í Svörtu bókinni er að finna eyðublað fyrir tillögu starfshópsins til bankastjórnar. Samkvæmt grein 1.1. í framangreindri bankastjórnarsamþykkt skipa starfshópinn framkvæmdastjóri fjármálasviðs, sem gegnir formennsku, framkvæmdastjóri upplýsingasviðs, framkvæmdastjóri alþjóða- og markaðssviðs og forstöðumaður viðbúnaðar.
Af framangreindu er ljóst að bankastjórn Seðlabankans hafði á grundvelli stjórnunarheimilda sinna samkvæmt lögum nr. 36/2001 sérstaklega mælt fyrir um tiltekið fyrirkomulag og málsmeðferð ef stofnuninni bærist beiðni um aðstoð vegna lausafjárvanda. Ganga verður út frá því að þetta verklag hafi haft það að markmiði að skapa, eins og kostur er, formlegan farveg innan stofnunarinnar til að tryggja faglega úrlausn og vinnslu slíkra beiðna.Við meðferð slíkra mála þarf jafnframt að gæta þess lögmælta markmiðs Seðlabankans sem býr að baki þrautavaralánshlutverki hans samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laganna, að varðveita traust á fjármálakerfi landsins, auk þess sem ákvarðanir stofnunarinnar í því efni kunna að vera mikilvægur liður í að stuðla að virku og öruggu fjármálakerfi, sbr. og 4. gr. sömu laga. Fyrir liggur að stjórn Seðlabanka Íslands lét hjá líða að fylgja eigin viðbragðsáætlun, m.a. með því að kalla saman umræddan starfshóp um viðbrögð við lausafjárvanda.
Í þessu sambandi minnir nefndin á það að upplýst er að formaður starfshópsins,Tryggvi Pálsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs, var staddur erlendis. Ekki hafa komið fram viðhlítandi skýringar á því af hverju hann var ekki kvaddur heim til starfa.Auk þess að eiga sæti í nefndum starfshópi hafði Tryggvi einnig tekið þátt í starfi samráðshóps þriggja ráðuneyta, Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins um fjármálastöðugleika og viðbúnað, sbr. nánari umfjöllun um samráðshópinn og störf hans í köflum 19.2–19.4. Á fjármálasviði Seðlabankans hafði einnig verið unnið að margvíslegum verkefnum og mati á leiðum til að bregðast við ef bankar og fjármálastofnanir lentu í vanda. Þannig hafði sérstökum starfsmanni þar verið falið það verkefni að vera forstöðumaður viðbúnaðar auk þess sem fleiri starfsmenn sviðsins störfuðu að þessum viðfangsefnum undir stjórn Tryggva. Forstöðumaður viðbúnaðar og aðrir starfsmenn af fjármálasviði bankans voru fyrst kallaðir til starfa um kvöldmatarleytið á sunnudeginum 28. september 2008 en þá hafði málinu í reynd verið ráðið til lykta. Af þeim gögnum sem lögð hafa verið fyrir rannsóknarnefnd Alþingis verður ekki annað ráðið en einungis bankastjórar Seðlabankans svo og Sturla Pálsson, framkvæmdastjóri alþjóða- og markaðssviðs Seðlabankans, og Jón Þ. Sigurgeirsson, sérfræðingur á skrifstofu bankastjórnar Seðlabankans, hafi af hálfu stofnunarinnar unnið að undirbúningi að úrlausn málsins frá fimmtudeginum 25.september 2008 og allt fram eftir degi sunnudaginn 28. september 2008.Af þessum hópi hafði aðeins einn, Ingimundur Friðriksson, seðlabankastjóri, tekið þátt í starfi áðurnefnds samráðshóps þriggja ráðuneyta, Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans. Sturla Pálsson átti sæti í starfshópi Seðlabankans um viðbrögð við lausafjárvanda. Jón Þ. Sigurgeirsson tók sæti í þeim hópi vorið 2008.Við athugun rannsóknarnefndar Alþingis hefur komið fram að við úrlausn og tillögugerð vegna beiðni Glitnis var ekki stuðst við þau gögn eða aðra formlega undirbúningsvinnu vegna viðbúnaðar sem unnin hafði verið innan Seðlabankans eða áðurnefnds samráðshóps þótt ganga verði út frá því að fimmmenningarnir sem komu að málinu innan Seðlabankans hafi þekkt til þeirrar vinnu.
Áður hefur verið bent á að af hálfu Glitnis lá ekki fyrir nein skrifleg greinargerð eða lýsing á tilefni þess erindis sem bankinn bar fram við Seðlabanka Íslands eða því hvernig Glitnir teldi að umbeðin fyrirgreiðsla kæmi til með að gagnast við að bæta úr lausafjárþörf bankans. Á Seðlabankanum hvíldi sú skylda að leggja forsvaranlegan, málefnalegan og lögmætan grundvöll að afgreiðslu á beiðni Glitnis. Í því fólst m.a. að tryggja að málið væri nægjanlega upplýst áður en ákvörðun væri tekin í því.
Þegar þess er gætt hvaða upplýsingar voru til staðar í Seðlabanka Íslands þegar bankinn fjallaði um erindi Glitnis samkvæmt því sem lagt hefur verið fyrir rannsóknarnefndina, um rekstur, fjármögnun, útlánasafn og tengsl (smithættu) lána og veðsetninga milli íslensku bankanna og annarra aðila sem gátu haft verulega þýðingu um framtíðarstöðu íslenska fjármálakerfisins, telur rannsóknarnefndin ljóst að töluvert hafi skort á yfirsýn yfir stöðu Glitnis. Að mati rannsóknarnefndar Alþingis verður því að álykta svo að það geti ekki talist annað en veruleg vanræksla af hálfu bankastjórnar Seðlabankans að stofnunin hafi ekki aflað sjálf milliliðalaust nánari upplýsinga um stöðu bankans og lánabók hans svo og upplýsinga um önnur þau atriði sem haft gátu þýðingu fyrir mat á því hvort forsvaranlegt væri að veita bankanum þrautavaralán. Í því sambandi ber að leggja áherslu á að mál höfðu þróast hratt til verri vegar síðustu vikur þar á undan varðandi mat á eignum bankanna þannig að ástæða gat verið til að ætla að stjórnvöld hefðu ekki áreiðanlegar upplýsingar. Enda þótt tíminn hafi verið mjög stuttur sem Seðlabankinn hafði til að rannsaka og undirbúa málið hefði verið hægt að senda starfsmenn bankans inn í Glitni og fara yfir bækur hans. Kom einnig á daginn að nokkrum dögum síðar gat endurskoðandi Seðlabanka Íslands, Stefán Svavarsson, á einum degi aflað sér mun gleggri upplýsinga um stöðu Glitnis en Seðlabanki Íslands hafði haft á þessum tíma.
Tveimur dögum eftir að málinu var til lykta ráðið af hálfu ríkisstjórnarinnar að tillögu Seðlabanka Íslands barst bankanum yfirlit úr lánabók Glitnis yfir 30 stærstu skuldarana. Kvaðst Davíð Oddsson þá hafa orðið fyrir "sjokki" þegar komið hefði í ljós að eigendur bankans skulduðu 170 milljarða en hjá Seðlabankanum hefðu menn ekki haft þær upplýsingar. Í minnisblaði Stefáns Svavarssonar, aðalendurskoðanda bankans, til bankastjórnar Seðlabanka Íslands frá 5. október 2008 kom m.a. fram að afskriftarþörf Glitnis næmi um 74 milljörðum króna og væri meiri hluti þeirrar fjárhæðar vegna falls á bréfum í Glitni sem voru til tryggingar útlánum. Stappaði því nærri að innspýting á fé frá ríkissjóði til bankans svaraði til fyrrnefndra þarfa á afskriftum. Þegar litið er til framangreindra orða formanns bankastjórnar Seðlabanka Íslands og nefnds minnisblaðs aðalendurskoðanda bankans verður ekki annað séð en að stofnunina hafi skort nægar upplýsingar, m.a. um stórar áhættuskuldbindingar, útlánagæði og tryggingar Glitnis, til að meta stöðu Glitnis rétt á þessum tímapunkti.Verður þannig ekki séð að Seðlabankinn hafi haft forsendur til að meta hvort sú leið sem mælt var með við ríkisstjórnina væri forsvaranleg. Samkvæmt skýrslum Davíðs Oddssonar og Sturlu Pálssonar er ljóst að Seðlabankinn virðist ekki hafa talið sér heimilt að gera kröfu um aðgang að upplýsingum og gögnum hjá Glitni í tilefni af ósk hans um veðlán. Á þetta fellst rannsóknarnefndin ekki. Skýrt er tekið fram í 1. mgr. 29. gr. laga nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands að bankinn geti "milliliðalaust aflað upplýsinga frá þeim sem eru í viðskiptum við bankann skv. 6. gr., sbr. 7. gr.". Eins og hér að framan er rakið var ágreiningslaust að erindi Glitnis átti undir 7. gr. laganna og verkefni bankans var unnið samkvæmt markmiði 4. gr. laganna að stuðla að virku og öruggu fjármálakerfi.Verður þannig ekki séð að Seðlabanki Íslands hafi nýtt sér þau lagaúrræði sem bankanum voru búin til þess að upplýsa málið á viðhlítandi hátt.Vegna skorts á upplýsingum gátu þeir fáu starfsmenn sem unnu að úrlausn málsins innan Seðlabanka Íslands ekki fyllilega áttað sig á stöðu Glitnis. Þá var heldur ekki farið fram á aðstoð Fjármálaeftirlitsins ef frá er talið að Seðlabankinn óskaði eftir mati þess á því hvort vandamál Glitnis væru einvörðungu lausafjárskortur og ekki eiginfjárvandi, eins og nánar verður vikið að hér síðar. Þar sem ekki var staðið að rannsókn á stöðu Glitnis með fullnægjandi hætti skorti nauðsynlegar upplýsingar úr bókum Glitnis.Af þessum sökum verður ekki séð að viðhlítandi grundvöllur hafi verið lagður að þeirri ákvörðun Seðlabanka Íslands að hafna umsókn Glitnis um lán og mæla með því við ríkisstjórnina að kaupa 75% hlut í bankanum.
Eftir að bankastjórn Seðlabankans hafði komist að þeirri niðurstöðu að það væri ekki forsvaranlegt að lána Glitni umbeðna fjármuni, annars vegar vegna þess að þeir fjármunir mundu ekki duga til að bjarga bankanum og einnig vegna þess að framboðin veð voru ekki nægjanlega trygg að mati bankans, bar bankastjórn Seðlabankans að afgreiða erindi Glitnis með ákvörðun sem var skráð og árituð af bankastjórninni í samræmi við 3. mgr. 24. gr. laga nr. 36/2001. Seðlabankanum bar síðan að tilkynna Glitni um þær lyktir málsins í samræmi við 1. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eða hina óskráðu meginreglu um tilkynningu ákvarðana. Það var svo allt annað mál hvort bankastjórnin teldi rétt við þá afgreiðslu að láta það koma fram gagnvart Glitni að hún hygðist gera tillögu til ríkisstjórnarinnar um að leitað yrði annarra leiða til að greiða úr vanda Glitnis.Við það tækifæri hefði bankastjórn Seðlabankans jafnframt getað gefið stjórnendum Glitnis stuttan frest til að tjá sig um viðhorf sín til þess að sú leið yrði farin eða hvað þeir hygðust gera til að bregðast við synjun Seðlabankans. Regla 1. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga og hinnar óskráðu meginreglu um að aðila máls skuli tilkynnt um ákvörðun stjórnvalds er m.a. reist á því að þar með gefist aðilanum kostur á að leita bæði frekari skýringa og endurupptöku málsins, og þá með tilvísun til nýrra gagna og upplýsinga. Það sem er ekki síður mikilvægt er að aðili, sem hefur fengið t.d. synjun stjórnvalds um að það beiti lagaheimild sinni til að veita ákveðna fyrirgreiðslu, geti meðan ráðrúm er til leitað annarra leiða til að leysa úr fyrirsjáanlegum vanda. Hér verður að hafa í huga að eins og mál þetta var lagt fyrir af hálfu Glitnis gagnvart Seðlabankanum lutu áhyggjur Glitnismanna að því að þeir kynnu að eiga í erfiðleikum með að standa skil á greiðslum á láni sem félli í gjalddaga 15. október 2008 en upplýsingar um þennan stóra gjalddaga láns hjá Glitni höfðu lengi legið fyrir á alþjóðlegum fjármálamarkaði og hjá innlendum aðilum.
Ekki er fyllilega ljóst hvenær sú niðurstaða bankastjórnar Seðlabankans um að veita Glitni hvorki veðlán né fyrirgreiðslu til þrautavara á grundvelli 2. mgr. 7. gr. laga nr. 36/2001 lá fyrir. Af svörum þeirra sem komu að málinu innan Seðlabankans og úr hópi ráðherra, verður ráðið að strax síðdegis föstudaginn 26. september 2008 hafi sú afstaða mótast hjá bankastjórninni að ekki væri rétt að veita Glitni umbeðið lán svo vitnað sé til orða Eiríks Guðnasonar, bankastjóra. Það var hins vegar ekki fyrr en um kl. 22.00 sunnudagskvöldið 28. september sem fyrirsvarsmenn Glitnis voru boðaðir á fund í Seðlabankanum þar sem þeim var síðan gert ljóst að af lánveitingu yrði ekki auk þess sem þeim var gerð grein fyrir tilboði ríkisins um kaup á 75% eignarhlut í bankanum. Stóðu fyrirsvarsmenn Glitnis nánast frammi fyrir gerðum hlut þar sem leysa varð vanda bankans fyrir opnun markaða á mánudagsmorgun, m.a. þar sem fjölmiðlum var orðið ljóst, eftir að fyrirsvarsmenn Glitnis sáust ganga í hús Seðlabankans á sunnudagskvöldið, að sú vinna sem unnin var í Seðlabankanum þá um helgina var að öllum líkindum vegna Glitnis. Stjórnendur Glitnis fengu þannig nánast ekkert ráðrúm til að huga að því hvort þeir kysu og gætu farið aðrar leiðir til að mæta aðsteðjandi vanda í rekstri fyrirtækisins.
Á gátlista Seðlabanka Íslands í "Svörtu bók" hans yfir aðgerðir ef til fjármálakreppu kemur er m.a. vikið að þeirri spurningu hvort önnur fjármálafyrirtæki í greininni séu tilbúin til að leggja sameiginlega fram fé til að koma í veg fyrir þrot fjármálafyrirtækis vegna þess ímyndarskaða sem slíkt kynni að hafa í för með sér og versnandi lánskjara á innlendum og erlendum lánamörkuðum fyrir alla markaðsaðila. Þótt óformlegur fundur hefði verið haldinn í Fjármálaeftirlitinu á laugardagsmorgni með fyrirsvarsmönnum þriggja stærstu bankanna og þeir hvattir til að kanna möguleika á sameiningu kom sá fundur ekki í stað þess að haldinn væri fundur í Seðlabanka Íslands og/eða af hálfu ráðherra ríkisstjórnarinnar, enda voru ekki lagðar fram upplýsingar um eðli þess vanda sem við var að glíma á fundinum í Fjármálaeftirlitinu. Sama á við um þau símtöl sem upplýst er að formaður bankastjórnar Seðlabankans átti við tiltekna fyrirsvarsmenn Landsbanka Íslands hf. og Kaupþings banka hf. Eðli málsins samkvæmt er það ekki á færi rannsóknarnefndarinnar að segja til um það nú hvort hægt hefði verið að bjarga Glitni með atbeina Kaupþings og Landsbankans og þá eftir atvikum ríkissjóðs í sameiningu eða með sameiningu á starfsemi banka eins og aðstæður voru á mörkuðum í lok september og byrjun október þetta ár. Á þessum tíma hafði þannig ekki farið fram samræmd skoðun á útlánasafni Glitnis og það sama gilti um hina bankana. Sá vandi sem var uppi laut heldur ekki að skorti á lausafé í íslenskum krónum heldur í erlendum gjaldeyri. Þá var t.d. sérstök hætta á að sömu lánalínur héldust ekki opnar í sama mæli gagnvart kröfuhöfum sem báðir bankarnir skiptu við eftir að þeir hefðu sameinast. Á hinn bóginn telur rannsóknarnefndin ljóst að slíkur fundur með fyrirsvarsmönnum bankanna hefði verið gagnlegur þar sem afla mátti upplýsinga um smitáhrif fyrirhugaðra aðgerða og mats þeirra á þeim fáu valkostum sem fyrir lágu miðað við stöðu hvers banka. Enda þótt hringt hafi verið í Halldór J. Kristjánsson, bankastjóra Landsbankans, og hann spurður hvort Landsbankinn myndi standa af sér aðgerðina, fór ekki fram viðhlítandi könnun í bönkunum sjálfum á smitáhrifum yfir á þá vegna þeirrar gengislækkunar á hlutabréfum í Glitni sem tilboð ríkisins fól í sér. Í þessu sambandi er rétt að minna á að á fyrrnefndum gátlista Seðlabankans fyrir aðgerðir ef til fjármálakreppu kemur er m.a. vikið að þeirri spurningu hvort björgunaraðgerðir muni hafa neikvæð áhrif á stöðu annarra fyrirtækja í greininni.Að mati rannsóknarnefndar Alþingis var slík upplýsingaöflun bæði eðlilegur og nauðsynlegur þáttur í því að leggja viðhlítandi grundvöll að ákvörðun Seðlabankans.
Sá vandi sem við blasti í málefnum Glitnis og hugsanleg aðkoma Seðlabankans og íslenska ríkisins að lausn hans hafði afgerandi þýðingu fyrir næstu framtíð þeirra banka sem voru kerfislega mikilvægir í íslenska bankakerfinu, ekki síst þar sem erlendir aðilar virtust gjarnan líta á þá sem einn aðila. Þessi vandi og takmarkaðir möguleikar Seðlabankans og íslenska ríkisins til að koma bankakerfinu til aðstoðar voru einkum afleiðing af mikilli stækkun bankanna allra síðustu ár í hlutfalli t.d. við þjóðarframleiðslu og gjaldeyrisvaraforða. Á þessum tíma var líka þegar til staðar í stjórnkerfinu vitneskja um þann vanda sem Landsbankinn stóð frammi fyrir gagnvart breskum og hollenskum yfirvöldum vegna innlánsreikninga í útibúum bankans í Bretlandi og Hollandi. Stjórnvöld stóðu því frammi fyrir því að veruleg hætta var á að vandi eins eða einhvers hluta einkafyrirtækja í þessari starfsgrein hefði afgerandi áhrif á rekstur annarra fyrirtækja á fjármálamarkaði með tilheyrandi afleiðingum fyrir fjármálastöðugleika og efnahagslíf landsins. Rannsóknarnefnd Alþingis telur að við þessar aðstæður hafi stjórnvöldum verið rétt, bæði með tilliti til hagsmuna starfsgreinarinnar og opinberra hagsmuna, að hafa frumkvæði að beinum viðræðum við stjórnendur, að minnsta kosti stærstu fyrirtækjanna á fjármálamarkaði, og viðræðum þeirra í milli um hvaða möguleikar væru á aðkomu fyrirtækjanna sjálfra að lausn þess vanda sem upp var kominn og stjórnvöld stóðu frammi fyrir.
Hér að framan var lýst þeim viðræðum og samtölum sem fram fóru á árinu 2008 um hugsanlega sameiningu fjármálafyrirtækja í heild eða að hluta sem lið í að styrkja stöðu þeirra. Það er ljóst að þrátt fyrir aðkomu og vitneskju fyrirsvarsmanna ríkisstjórnar, Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins um þessi samtöl, og að einhverju marki hvatningu um að þessi mál yrðu skoðuð, kom aldrei til þess að fulltrúar ríkisins beittu sér fyrir því að þessi mál yrðu sett í formlegan farveg. Þannig var t.d. ekki farin sú leið að tiltekinn aðili hefði af hálfu ríkisins umsjón og umboð til að knýja á um svör og vinnu bankanna til að ganga úr skugga um hvort slíkar sameiningar væru raunhæfur kostur og hverju þær myndu skila til að styrkja stöðu íslenska bankakerfisins. Í þessu sambandi skipti miklu að fyrirsvarsmönnum bankanna væri ljóst hver væri afstaða æðstu stjórnvalda þessara mála, þ.m.t. til stærðar bankanna og umfangs starfsemi þeirra á Íslandi, og hvert væri umboð þess fulltrúa ríkisins sem kæmi fram gagnvart þeim. Rannsóknarnefnd Alþingis tekur fram að hún fær ekki séð að sú hafi verið raunin í þeim samtölum sem efnahagsráðgjafi forsætisráðherra átti við fyrirsvarsmenn bankanna eftir að hann kom til starfa 1. ágúst 2008.
Í störfum sínum leitaði rannsóknarnefnd Alþingis sérstaklega eftir upplýsingum um hvort Seðlabankinn hefði kallað eftir aðstoð eða ráðgjöf erlendra sérfræðinga við vinnu sína í kjölfar beiðni Glitnis um fyrirgreiðslu. Skemmst er frá því að segja að slíkrar ráðgjafar naut ekki við í Seðlabankanum. Þrátt fyrir tengsl íslenska bankakerfisins við sams konar starfsemi og markaði í öðrum löndum, sérstaklega í Evrópu, hafa ekki komið fram upplýsingar um að fyrirsvarsmenn hlutaðeigandi stjórnvalda, Seðlabanka Íslands, Fjármálaeftirlitsins eða ríkisstjórnar og ráðuneyta, hafi rætt við eða kynnt fyrir fyrirsvarsmönnum systurstofnana sinna í þeim löndum þar sem starfsemi íslensku bankanna var fyrirferðarmest þá stöðu sem upp var komin í fjármálakerfinu á Íslandi með beiðni Glitnis og hugsanlegum aðgerðum stjórnvalda af því tilefni. Þá verður heldur ekki séð að íslensk stjórnvöld hafi beinlínis á þessum tímapunkti leitað eftir stuðningi eða samstarfi við erlend stjórnvöld um aðgerðir til að leysa úr þeim vanda sem upp var kominn. Rannsóknarnefnd Alþingis minnir enn á þá vitneskju sem til staðar var á þessum tíma í íslenska stjórnkerfinu um þau vandkvæði sem komin voru upp í samskiptum Landsbankans við stjórnvöld erlendis, sérstaklega í Bretlandi, vegna Icesave reikninganna og hugsanlegs flutnings þeirra yfir í dótturfélög með tilheyrandi eignaflutningi.
Enda þótt Seðlabankinn hefði töluvert af upplýsingum um Glitni hafði hann þó ekki sömu yfirsýn yfir rekstur bankans eins og Fjármálaeftirlitið. Fyrir liggur að á fundi föstudaginn 26. september óskaði Seðlabankinn eftir því við Fjármálaeftirlitið að upplýst yrði hvort vandamál Glitnis væru einvörðungu lausafjárskortur og ekki eiginfjárvandi. Ekki kom til þess að Fjármálaeftirlitið skilaði skýrslu um þetta þar sem fljótlega varð ljóst að Glitni stæði ekki veðlán til boða. Athygli vekur hins vegar að ekki verður séð að Fjármálaeftirlitinu hafi verið sérstaklega falið að veita ríkisstjórninni umsögn um tillögu Seðlabanka Íslands og þá sérstaklega hugsanleg smitáhrif yfir á aðrar fjármálastofnanir.Tillaga Seðlabankans lá nokkuð ljós fyrir um hádegisbil á sunnudeginum 28. september þannig að ráðrúm var til þess að fela Fjármálaeftirlitinu þetta verkefni.
Það hefur vakið athygli rannsóknarnefndar Alþingis að þrátt fyrir að ljóst mætti vera að beiðni Glitnis, hvernig sem leyst yrði úr henni af hálfu stjórnvalda, gæti samhliða öðrum erfiðleikum sem þegar voru komnir til hjá íslensku bönkunum haft veruleg áhrif á ýmsar þjóðhagstærðir taldi bankastjórn Seðlabankans ekki þörf á því að leita eftir aðkomu eða áliti sérfræðinga á hagfræðisviði stofnunarinnar þegar bankastjórnin undirbjó afgreiðslu á beiðni Glitnis og tillögugerð til ríkisstjórnar. Rétt er að minna á að til úrlausnar var hvort veita ætti í þessu tilviki fyrirgreiðslu sem svaraði til um fjórðungs af gjaldeyrisforða Seðlabankans og vitað var um þær kröfur sem Landsbankinn stóð frammi fyrir um flutning fjármuna til bresks dótturfélags ef flytja átti Icesave reikningana þangað. Þá var sú hætta fyrir hendi að afgreiðsla á máli Glitnis kallaði á aukið umtal um málefni og stöðu íslensku bankanna erlendis sem aftur gat haft áhrif á viðbrögð innstæðueigenda erlendis, skuldatryggingamarkað og afstöðu matsfyrirtækja. Hér skipti líka máli hver yrði líkleg þróun í gengi íslensku krónunnar í kjölfar afgreiðslu stjórnvalda á beiðni Glitnis. Rannsóknarnefndin telur að þær skýringar, sem komið hafa fram af hálfu bankastjórnarinnar og þeirra starfsmanna Seðlabankans sem unnu að afgreiðslu á beiðni Glitnis, um hvers vegna ekki var leitað eftir aðkomu eða áliti sérfræðinga af hagfræðisviði séu ekki fullnægjandi. Það eitt að skammur tími hafi gefist til athugunar á málinu afsakar ekki að látið hafi verið hjá líða að kanna hvort viðkomandi sérfræðingar teldu unnt að láta í té álit eða mat á þeim atriðum sem gat verið þörf á. Sérstök ástæða var líka til þess að samhliða tillögu bankastjórnar Seðlabankans til ríkisstjórnar um kaup ríkisins á 75% hlut í Glitni lægi fyrir sérfræðilegt mat á líklegum afleiðingum þeirra viðskipta á þá efnahagslegu þætti í íslensku þjóðarbúi sem ríkisstjórn á hverjum tíma þarf að gæta að.
Eftir að ljóst varð að Seðlabankinn vildi gera tillögu til ríkisstjórnarinnar um aðra lausn á vanda Glitnis en þá að Seðlabankinn veitti honum lán til þrautavara, þurftu þeir ráðherrar sem fóru með þau málefnasvið er ákvörðunin varðaði verulega að koma að umfjöllun um málið að íslenskum stjórnlögum. Samkvæmt 15. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 73/1969 um Stjórnarráð Íslands, skipar forseti ráðherra og skiptir með þeim störfum. Samkvæmt 14. gr. stjórnarskárinnar bera ráðherrar ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum. Með þetta í huga tekur rannsóknarnefndin fram að samkvæmt 2. tölul. 13. gr. reglugerðar nr. 177/2007 um Stjórnarráð Íslands, sbr. 2. tölul. 15. gr. eldri reglugerðar nr. 3/2004 um sama efni, fór viðskiptaráðherra með málefni er vörðuðu fjármálamarkað. Ekki er því vafa undirorpið að málefni er varða fjármálafyrirtæki eins og Glitni heyrðu á þessum tíma undir málefnasvið viðskiptaráðherra. Úrlausn um beiðni Glitnis um fyrirgreiðslu vegna þess vanda sem talinn var fyrirsjáanlegur í rekstri hans með aðkomu íslenska ríkisins laut eins og málum var komið ekki bara að einföldum kaupum ríkisins á eignarhluta í hlutafélagi heldur var þar verið að taka afstöðu til þess hvort og hvernig íslenska ríkið ætlaði að standa að stuðningi við og blanda sér í rekstur banka á Íslandi næstu misserin. Niðurstaða í þessu máli af hálfu ríkisstjórnar Íslands og þá annarra valdbærra ráðherra en viðskiptaráðherra, ef því var að skipta, varðaði því bæði Glitni sem fjármálafyrirtæki og einnig málefni fjármálafyrirtækja í landinu almennt og stefnumörkun ríkisstjórnarinnar í málefnum þeirra. Að þessu virtu er það afstaða rannsóknarnefndarinnar að þegar horft er til þess lagagrundvallar, sem upplýst er að legið hafi til grundvallar aðkomu fjármálaráðherra að tilboðsgerð ríkisstjórnarinnar um kaup á eignarhlut í Glitni, verði ekki ályktað á annan veg en að fjármálaráðherra hafi vanrækt að viðhafa það samráð í þessu sambandi við viðskiptaráðherra sem sá lagagrundvöllur gerði ótvírætt ráð fyrir.
Atvik kunna að vera með þeim hætti í einstökum málum, eins og í því tilviki sem hér er rætt, að forsætisráðherra sé á grundvelli verkstjórnarvalds síns, sbr. 5. tölul. 2. gr. reglugerðar nr. 177/2007, til fyrirsvars fyrir ríkisstjórn í samskiptum við einstök stjórnvöld eða eftir atvikum einkaaðila við upphaf máls og meðan því vindur fram. Ljóst er að forsætisráðherra hefur þar ákveðið svigrúm til að ákveða verklag á vettvangi ríkisstjórnar og Stjórnarráðsins í heild. Hvað sem því líður er ljóst að þegar kemur að hinni eiginlegu ákvörðun verður sá ráðherra, sem ábyrgð ber á henni að stjórnlögum, að taka hana.Varði ákvörðun þannig veruleg málefnasvið annars ráðherra verður í samræmi við grunnreglu 14. gr. stjórnarskrárinnar um einstaklingsbundið sjálfræði ráðherra að tryggja aðkomu hans að málinu þannig að honum gefist kostur á að koma viðhorfum sínum og ráðuneytis síns að. Með því gefst hlutaðeigandi ráðherra einnig raunhæfur kostur á að leggja grunn að afstöðu sinni til fyrirhugaðrar ákvörðunar með því að nýta sér sérfræðiþekkingu og reynslu embættismanna og annarra sérfræðinga í ráðuneyti sínu. Ákvæði 17. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 2. gr. laga nr. 73/1969 um Stjórnarráð Íslands, er m.a. ætlað að gegna þessu hlutverki en þar er mælt svo fyrir að ráðherrafundi skuli halda um nýmæli í lögum og um mikilvæg stjórnarmálefni. Í þessu samhengi er rétt að minna á að skv. 3. og 7. gr. laga nr. 4/1963 um ráðherraábyrgð ber sá ráðherra ábyrgð sem ritar undir stjórnarerindi, hvort sem það er gert með eða án atbeina forseta. Ráðherra sem hefur ráðið til ákvörðunarinnar ber einnig ábyrgð á henni skv. 3. gr. sömu laga. Þá bera ráðherrar ábyrgð á embættisathöfn á ráðherrafundi skv. 17. gr. stjórnarskrárinnar sem með ráðum, fortölum, atkvæði eða á annan hátt hafa stuðlað að þeirri athöfn.
Af hálfu forsætisráðherra var ekki farin sú leið að boða til ríkisstjórnarfundar og ræða þá stöðu sem upp var komin í málefnum Glitnis áður en fyrirsvarsmönnum bankans var gerð grein fyrir tilboði íslenska ríkisins um að kaupa 75% hlut í bankanum. Einstökum ráðherrum gafst því ekki tækifæri til að kynna sér málið eða hafa uppi sjónarmið um leiðir til lausnar á því á ríkisstjórnarfundi. Þá verður ekki séð að viðskiptaráðherra, Björgvin G. Sigurðsson, hafi fengið þá vitneskju um málið, áður en þeir ráðherrar sem viðstaddir voru í Seðlabankanum ákváðu hvaða leið yrði farin gagnvart Glitni, að honum væri unnt að nýta sér þann rétt sem ráðherra er tryggður í 17. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 2. gr. laga nr. 73/1969 um Stjórnarráð Íslands, til að óska eftir ríkisstjórnarfundi vegna málsins. Þegar framangreint er virt og þá sérstaklega sú staðreynd að fjármálafyrirtæki heyrðu að stjórnlögum undir málefnasvið viðskiptaráðherra, telur rannsóknarnefnd Alþingis að forsætisráðherra hafi sem stjórnanda ríkisstjórnarfunda og vegna stjórnskipulegs hlutverks síns borið að ganga eftir því að viðskiptaráðherra væri upplýstur um þá tillögu sem bankastjórn Seðlabankans hafði gert til ríkisstjórnar um úrlausn í málefnum Glitnis áður en henni yrði ráðið til lykta af hálfu ríkisstjórnar eða annarra ráðherra. Þar með hefði viðskiptaráðherra gefist tækifæri til að bregðast við í samræmi við stjórnskipulega ábyrgð sína og skyldur og að minnsta kosti koma að sjónarmiðum sínum þótt sú tillaga sem til umfjöllunar var félli að efni til undir valdheimildir og endanlega tillögugerð fjármálaráðherra til Alþingis eftir umfjöllun á ríkisstjórnarfundi. Sú staða að forsætisráðherra færi á þessum tíma stjórnarfarslega með málefni Seðlabanka Íslands og hagstjórn almennt leysti hann ekki undan því að upplýsa viðskiptaráðherra um málið. Rannsóknarnefnd Alþingis tekur jafnframt fram að hún telur að framangreind skylda gagnvart viðskiptaráðherra hafi hvílt á forsætisráðherra óháð því hvort formaður hins stjórnarflokksins tæki þá ákvörðun að óska eftir að annar ráðherra mætti til fundar um málið í Seðlabankanum sem fulltrúi sinn.
Vegna þess sem rakið hefur verið hér að framan um stöðu viðskiptaráðherra og þá um leið ráðuneytis hans telur rannsóknarnefndin rétt að minna á að í þeim samningi sem stjórnvöld gerðu sín í milli 21. febrúar 2006 um stofnun og starf sérstaks samráðshóps til að fjalla um fjármálastöðugleika og viðbúnað sagði: "Skapist þær aðstæður að fjármálakerfinu sé talin hætta búin vegna áfalls í fjármálafyrirtæki eða á markaði skal efnt til umfjöllunar í samráðshópnum án tafar." Bæði ráðuneyti forsætisráðherra og fjármálaráðherra auk Seðlabanka Íslands höfðu því með samningi lýst því yfir að vandi af því tagi sem blasti við í málefnum Glitnis skyldi koma til umfjöllunar á vettvangi samráðshópsins og það án tafar. Eftir þessum samningi var ekki farið við umfjöllun stjórnvalda um þá stöðu sem komin var upp hjá Glitni en viðskiptaráðherra og ráðuneyti hans máttu gera ráð fyrir að hann fengi vitneskjum slík mál að minnsta kosti með aðkomu fulltrúa ráðuneytisins í samráðshópnum.
Fundur ráðherra í Seðlabankanum að kvöldi sunnudagsins 28. september 2008 var ekki eiginlegur ríkisstjórnarfundur eða ráðherrafundur í merkingu stjórnarskrárinnar. Ekki verður því annað séð en að það hafi verið á valdi forsætisráðherra að ákveða hverjir voru viðstaddir í Seðlabankanum af hálfu ríkisstjórnarinnar, þó að því gættu að þar væri að lágmarki sá ráðherra sem fór með valdheimildir til þeirrar ráðstöfunar fjármuna úr ríkissjóði sem um var fjallað og að sá ráðherra sem að stjórnlögum fór með málefni fjármálafyrirtækja hefði verið nægjanlega upplýstur um málið, sbr. það sem áður sagði. Það var svo forsætisráðherra, að höfðu samráði við þá ráðherra sem stóðu að ákvörðun um það tilboð sem stjórnendum Glitnis var gert, að tryggja að fyrir hendi væri nægjanlegur stuðningur á vettvangi ríkisstjórnar og Alþingis til að standa við tilboðið og þá ráðstöfun fjármuna sem af því leiddi ef því yrði tekið.
Það vekur sérstaka athygli að ákvörðun ráðherranna að fara að tillögu Seðlabanka Íslands var ekki færð til bókar eða skráð áður en hún var kynnt fulltrúum Glitnis. Það eina sem um hana virðist að finna ritað er fréttatilkynning forsætisráðuneytis sem birtist daginn eftir. Þó nam fjárhæð sú er ákvörðunin laut að, eins og áður segir, nálægt fjórðungi af gjaldeyrisforða Seðlabanka Íslands eins og hann var 30. september 2008. Þetta hafði þær afleiðingar, að þegar að því kom að kynna ákvörðunina fyrir fyrirsvarsmönnum Glitnis að kvöldi 28. september 2008 voru engin skrifleg gögn til taks til þess að afhenda og útskýra inntak tilboðsins. Það er mat rannsóknarnefndar Alþingis að það hafi verið ótæk vinnubrögð að gera fyrirsvarsmönnum Glitnis einvörðungu grein fyrir tilboði ríkisstjórnarinnar munnlega í ljósi þeirra hagsmuna sem í húfi voru. Kom einnig á daginn að misskilningur varð um efni tilboðsins hjá fyrirsvarsmönnum Glitnis þar sem talið var að Seðlabankinn en ekki ríkissjóður væri tilboðsgjafi í 75% hlut bankans.
Rannsóknarnefnd Alþingis fær ekki séð af þeim upplýsingum sem hún hefur aflað, m.a. með skýrslutökum, að í reynd hafi verið fjallað um hvað ætla mætti um trúverðugleika þeirra aðgerða sem Seðlabankinn lagði til í málefnum Glitnis. Hvorki virðist hafa verið fjallað um þetta innan bankans um þessa helgi né virðast seðlabankastjórar hafa gert stjórnvöldum grein fyrir því að allt byggði á að þessi aðgerð væri trúverðug gagnvart erlendum fjárfestum og matsfyrirtækjum. Rannsóknarnefnd Alþingis telur þetta ámælisvert þar sem stjórnendum Seðlabankans mátti sem sérfróðum aðilum á þessu sviði vera ljóst að veruleg hætta væri á að inngrip ríkisins í Glitni, með þeim hætti sem lagt var til, yrði talin ótrúverðug aðgerð. Þar má í fyrsta lagi benda á að fjárhæðin sem um var að ræða var nálægt fjórðungi gjaldeyrisforða Seðlabanka Íslands. Þá er ekki síður ástæða til að benda á að Glitnir, sem ekki hafði haft árangur sem erfiði við að reyna að fjármagna sig á erlendum mörkuðum í um eitt ár, var með um 1,4 milljarða evra á gjalddaga á næstu sex mánuðum, og þær upplýsingar voru opinberar. Ofan á þetta bættist að Seðlabanki Íslands hafði heldur ekki náð að efla gjaldeyrisforða sinn að neinu marki þrátt fyrir endurteknar yfirlýsingar um það markmið sitt, sbr. nánari umfjöllun í kafla 4.0. Þannig blasti við erlendum fjárfestum og matsfyrirtækjum að fjármagnsmarkaðir væru einnig lokaðir íslenska ríkinu. Það mátti því vera ljóst að mikil hætta var á að erlendir fjárfestar og matsfyrirtæki myndu álíta að ríkið væri ekki sá bakhjarl sem Glitnir þurfti á að halda, heldur fremur að Glitnir væri of stór biti fyrir ríkið, enda var bankinn með skuldir sem námu um tvöfaldri þjóðarframleiðslu Íslands. Þetta hefði átt að vera stjórnendum Seðlabankans ljóst og hefðu þeir átt að ræða þá stöðu sem komið gæti upp ef kaup ríkissjóðs á 75% hlut í bankanum yrðu til þess að lánshæfismat yrði lækkað og skuldir gjaldfelldar í framhaldinu. Ekki er að sjá að líkur á hugsanlegri gjaldfellingu hafi verið metnar á rökstuddan hátt af Seðlabanka Íslands. Rannsóknarnefnd Alþingis bendir í því sambandi einnig á að endurhverf lán Glitnis sem voru á gjalddaga strax í október 2008 námu um 500 milljónum evra og að heildsöluinnlán Glitnis í London námu samsvarandi fjárhæð. Báðar þessar fjármögnunarleiðir eru mjög næmar fyrir breytingum á högum banka, hvað þá lánshæfismatsbreytingum. Þannig er ljóst að mikil hætta fylgdi þessari aðgerð sem eins og áður segir virðist ekki hafa verið könnuð að neinu marki. Rannsóknarnefnd Alþingis telur að bankastjórn Seðlabankans hafi ekki gætt þess að nægjanlega væri hugað að þessu atriði. Þá fór hvorki fram greining né mat á líklegu tapi sem myndast gæti hjá Landsbanka Íslands hf. og Kaupþingi banka hf., bæði beint vegna lækkunar á hlutabréfaverði Glitnis og samhliða líklegu gjaldþroti Stoða, og ekki síður vegna mögulegs verðfalls á hlutabréfaverði þeirra. Á markaði hafði ávallt verið mjög sterk fylgni milli hlutabréfaverðs bankanna. Ljóst mátti því vera að fjárfestar kæmu til með að líta á verðið sem ríkið bauðst til að kaupa 75% hlut í Glitni á sem upplýsingar um raunverulegt virði Glitnis og að mikil hætta væri á því að þetta mat yrði yfirfært á hina bankana. Þessi augljósu smitáhrif gerðu aðgerðina enn ótrúverðugri gagnvart erlendum fjárfestum og matsfyrirtækjum. Því metur rannsóknarnefnd Alþingis það svo að veruleg hætta hafi verið á að þessi aðgerð, sem byggði á því að auka traust fjárfesta, myndi þvert á móti rýra traust fjárfesta á íslenska fjármálakerfinu.
Rannsóknarnefndin telur í þessu sambandi einnig rétt að benda á að í minnisblaði tveggja starfsmanna Seðlabanka Íslands sem unnu að undirbúningi málsins fyrir bankastjórnina kom fram undir liðnum smitáhætta tillaga um að leitað yrði samninga við Seðlabanka Bretlands og fjármálaeftirlitið þar í landi um stuðning við aðgerðir. Ekki verður séð að þessu hafi verið fylgt eftir áður en tilkynnt var opinberlega um aðgerðir ríkisins í málefnum Glitnis. Í lýsingu atvika hér að framan kom fram að forráðamenn Glitnis fengu litlar sem engar upplýsingar frá Seðlabankanum um athugun á erindi þeirra. Af hálfu bankastjórnar Seðlabankans virðist frá upphafi hafa verið lögð áhersla á að ljúka afgreiðslu á málinu með hraði. Hafa ber í huga að erindi Glitnis kom fram fimmtudaginn 25. september 2008 og sá vandi sem lýst var að blasti við laut að greiðslu sem bankinn þyrfti að inna af hendi um miðjan október 2008. Miðað við þessar upplýsingar verður ekki séð að sá tími sem Seðlabankinn átti að hafa til að fjalla um málið hafi þurft að koma í veg fyrir að þeir aðilar innan bankans sem samkvæmt eigin samþykktum Seðlabankans áttu að koma að málinu væru kallaðir til. Sama er að segja um samráðshóp stjórnvalda. Þá verður heldur ekki séð að tímaþáttur málsins hafi átt að hindra að nánar væri rætt við forráðamenn Glitnis um hvaða kostir kynnu að vera fyrir hendi í þeirri stöðu sem upp var komin í málefnum bankans. Og þó svo að það hefði verið mat bankastjórnarinnar að rétt væri að hraða afgreiðslu þessa máls eins og kostur væri fær rannsóknarnefndin ekki séð að sá tími sem Seðlabankinn þó gaf sér til afgreiðslu þess hafi verið of naumur til að hægt væri að kalla framangreinda aðila að málinu.
Í skýrslu Davíðs Oddssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom fram að Seðlabankinn hefði ekki sérstaka viðbúnaðaráætlun um leynd fundarhalda og annarra aðgerða í tilefni af lausafjárvanda fjármálastofnana. Í skýrslu Geirs H. Haarde kom fram að slík viðbúnaðaráætlun væri heldur ekki til staðar í forsætisráðuneytinu. Þau mistök voru gerð að leynd fundarhalda um stöðu Glitnis var ekki gætt nægilega og fjölmiðlar fengu fljótt veður af viðbúnaði stjórnvalda og hlutu að gera sér grein fyrir því að hann laut að Glitni eftir að fyrirsvarsmenn hans sáust ganga inn í hús Seðlabanka Íslands sunnudagskvöldið 28. september 2008. Þetta leiddi til þess að óhjákvæmilegt varð að bregðast við fyrir opnun markaða mánudaginn 29. september 2008. Gjalddagi lánaskuldbindingar Glitnis var hins vegar ekki fyrr en 15. október 2008. Gagnrýnisvert er að ekki skyldi betur gætt að því að halda leynd um fundarhöld og aðgerðir sem þagnarskylda ríkti um hjá starfsmönnum Seðlabanka Íslands og Stjórnarráðs Íslands. Óháð reglum um upplýsingagjöf bæði af hálfu stjórnvalda og fjármálafyrirtækja er nauðsynlegt að fyrir liggi áætlun af hálfu stjórnvalda um hvernig standa eigi að fundarhöldum þegar ráðið er til lykta erindi af því tagi sem stjórnendur Glitnis höfðu borið upp við bankastjórn Seðlabankans.
Í kafla 20.2.5 hér að framan var vikið að tölvubréfi sem Karl Wernersson, stjórnarformaður Milestone ehf., sendi Jóni Þ. Sigurgeirssyni, sérfræðingi á skrifstofu bankastjórnar Seðlabanka Íslands, kl. 20:09 28. september 2008. Af bréfi þessu er ljóst að afskipti Seðlabankans af málefnum Glitnis höfðu vitnast út fyrir þann þrönga hóp sem átti að vita af málinu. Ekki liggur fyrir hvaðan þær upplýsingar bárust. Eitt af þeim atriðum sem um hafði verið fjallað í viðbúnaðarstarfi stjórnvalda til undirbúnings áföllum í fjármálakerfinu var mikilvægi þess að vanda til kynningar á aðkomu stjórnvalda og úrræðum sem þau kynnu að grípa til vegna slíkra áfalla. Var þá bæði horft til þess hvernig staðið yrði að slíkri kynningu gagnvart almenningi í fjölmiðlum og einnig sérhæfðari og ítarlegri kynningum gagnvart öðrum fjármálafyrirtækjum, matsfyrirtækjum og erlendum stjórnvöldum. Fram kom að það hvernig til tækist um slíkar kynningar gæti skipt sköpum um viðbrögð og þar með árangur af ákvörðunum stjórnvalda. Það vekur athygli rannsóknarnefndar Alþingis að á þeim tíma þegar ríkisstjórnin réð Glitnismálinu til lykta með atbeina Seðlabankans virðist ekki hafa verið fyrir hendi nein áætlun eða skipulag um hvernig ætti að standa að kynningu á ákvörðun íslenska ríkisins. Fyrir liggur að blaðamannafundur var haldinn í Seðlabanka Íslands árla morguns 29. september þar sem viðstaddir voru bankastjórar Seðlabankans og bankastjóri Glitnis. Um hádegisbil hélt síðan forsætisráðherra fréttamannafund í Stjórnarráðinu og bankastjóri Glitnis hélt símafund með erlendum viðskiptaaðilum bankans. Að öðru leyti sjást þess ekki merki að ákvörðun ríkisins í málefnum Glitnis hafi á þessum tíma skipulega verið kynnt af hálfu íslenskra stjórnvalda t.d. fyrir erlendum matsfyrirtækjum eða stjórnvöldum í þeim löndum þar sem íslensku bankarnir voru með starfsemi. Rannsóknarnefnd Alþingis telur að í þessum efnum hefði mátt standa betur að verki af hálfu íslenskra stjórnvalda.
20.3 Atburðarásin frá því að kauptilboð ríkisins í 75% eignarhlut Glitnis banka hf. var kynnt opinberlega og fram að setningu neyðarlaganna
20.3.1 Viðbrögð markaðarins við kauptilboði ríkisins í Glitni banka hf.
Aðspurður um viðbrögð markaðarins eftir tilkynningu um samkomulag um aðkomu ríkisins sem hluthafa í Glitni banka hf. svaraði Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri Kaupþings banka hf., því til við skýrslutöku að krónan hefði styrkst í fyrstu viðskiptum dagsins en síðan hefði hún farið að hríðfalla og skuldatryggingarálögin haldið áfram að hækka. Segist hann ekki hafa heyrt í einum einasta manni "sem taldi þetta trúverðugan leik".
Guðmundur Jónsson, sviðsstjóri hjá Fjármálaeftirlitinu, lýsti því við skýrslutöku að aðgerð ríkisins sem kynnt var mánudagsmorguninn 29. september 2008 hefði komið sér á óvart. Fjármálaeftirlitið hefði þá strax hafið vinnu við að kanna hver smitáhrif aðgerðarinnar kynnu að vera gagnvart öðrum fjármálafyrirtækjum. Aðspurður hvort Seðlabankinn hefði ekki haft þær upplýsingar undir höndum frá Fjármálaeftirlitinu sagði Guðmundur að svo hefði ekki verið. Seðlabankinn hefði ekki óskað eftir slíkum upplýsingum og Guðmundur og samstarfsmenn hans hefðu ekki vitað af því að til greina kæmi af hálfu ríkisins að fara í þessa aðgerð. Segir hann að aðgerðin hafi haft "gríðarleg óbein áhrif á allan markaðinn". Enn fremur hafi starfsmenn Fjármálaeftirlitsins haft miklar áhyggjur því að sögn Guðmundar hafi þeir séð að þegar "einn banki hrundi niður um þetta mikið þá í raun og veru sagði það sig sjálft að hinir mundu fylgja á eftir" hvað varðar hlutabréfaverð og lánshæfismat.
Í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins mánudaginn 29. september var greint frá því að Stoðir hf., stærsti eigandi Glitnis banka hf., hefði sótt um greiðslustöðvun og beiðnin verið samþykkt samdægurs. Sama dag sendi stjórn Stoða frá sér fréttatilkynningu þar sem m.a. sagði: "Ljóst má vera að Glitnir þurfti á aðstoð Seðlabankans að halda vegna lausafjárvanda sem bar brátt að. Rekstur Glitnis hefur hins vegar verið með ágætum, bankinn skilað góðum hagnaði og eigið fé Glitnis nam um 200 milljörðum króna um mitt þetta ár. Það er mat stjórnar Stoða að Seðlabankinn hafi haft aðra og farsælli kosti í stöðunni en að taka Glitni yfir. Harkalegt inngrip Seðlabankans er ekkert annað en eignaupptaka þar sem hluthafar Glitnis tapa vel á annað hundrað milljörðum króna. Seðlabankinn og ríkisstjórnin stilltu stjórn og stærstu eigendum Glitnis upp við vegg í skjóli nætur og þeir áttu því enga kosti aðra en að samþykkja tillöguna. Atburðarásin var með þeim hætti að ekkert tóm gafst til að leita annarra lausna, frekar en að meta heildaráhrif aðgerðanna á íslenskt fjármálalíf. Stjórn Stoða harmar þessar aðgerðir og lýsir fullri ábyrgð á afleiðingum þeirra á hendur bankastjórnar Seðlabankans."
Hinn 29. september 2008 lækkaði Standard & Poor's lánshæfismat ríkissjóðs. Næsta dag, þ.e. 30. september 2008, lækkaði Fitch Ratings lánshæfismat ríkissjóðs auk þess sem Moody's tilkynnti að fyrirtækið hefði tekið lánshæfismat ríkissjóðs til endurskoðunar. Lánshæfismat stóru bankanna þriggja var einnig lækkað um þetta leyti, sjá töflu 1 sem sýnir þróun á lánshæfismati á langtímaskuldbindingum bankanna samkvæmt mati Moody's.
Í þessu samhengi má geta þess að við skýrslutöku sagði Davíð Oddsson, formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands, að menn hefðu ekki átt von á að lánshæfismatsfyrirtækin myndu lækka mat sitt á bönkunum.
Hinn 29. september 2008 sendi Seðlabankinn Landsbanka Íslands hf. og Kaupþingi bréf þar sem óskað var eftir tíðari upplýsingagjöf um stöðu innlána. Í bréfinu til Kaupþings var einnig óskað eftir sundurliðun lánalína, jafnt skuldbundnum sem óskuldbundnum, og breytingum sem á þeim hefðu orðið. Með skyldu fylgja upplýsingar um kjör línanna og mat bankans um möguleika á að draga á þær.
Í kvöldfréttum ríkissjónvarps 29.september 2008 var birt viðtal við Davíð Oddsson.Aðspurður um fyrirhugaða yfirtöku ríkisins á Glitni sagði Davíð: "Og þegar að þessum ólgusjó linnir, af því að auðvitað linnir öllum slíkum fárviðrum fyrr eða síðar, þá mun þessi banki standa vel og þá geri ég ráð fyrir því að ríkið muni losa sig við sinn eignarhlut og þá geri ég ráð fyrir því að ríkið, og þar með skattborgararnir muni hagnast á öllu saman."
Að kvöldi 29. september 2008 funduðu Björgólfur Thor Björgólfsson og bankastjórar Landsbankans, þeir Halldór J. Kristjánsson og Sigurjón Þ. Árnason, með Geir H. Haarde, forsætisráðherra.Við skýrslutöku lýsti Sigurjón fundinum með eftirfarandi hætti: "[...] við vorum náttúrulega ósáttir með að það hefði ekki verið tekið í þessar tillögur á nokkurn hátt og búið að gera þessa aðgerð sem við töldum mjög hættulega og hugsuðum kannski: Það væri kannski ennþá hægt að fara í einhverjar svona sameiningarviðræður og reyna einhvern veginn að leysa úr þessu. Og það er búin til glærukynning og eitthvað fleira sem er sent og við förum með upp til Geirs [...] efnislega er sagt að þeir hafi sett eigið fé inn í bankana en með aðgerðinni sem gerð var tapaðist náttúrulega allt út aftur og jafnvel meira til, a.m.k. jafnmikið og það sé mikið tjón innan Glitnis, innan Kaupþings, innan Landsbankans út af þessu, væntanlega meira tjón en eigið féð sem þeir settu inn [...] en út úr þessu gerðist ekkert, þetta ferli var komið í gang og það var ekkert hægt að stoppa það."
Kl. 08:30 að morgni þriðjudagsins 30. september 2008 fundaði starfshópur Seðlabankans um viðbrögð við lausafjárvanda. Í fundargerð kemur fram að um 1. stöðumatsfund hafi verið að ræða. Þegar upp var staðið urðu fundir hópsins fjórir talsins í þessari viku. Í upphafi fundargerðar segir að Tryggvi Pálsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs, hafi óskað eftir því að framvegis yrðu reglulegir stöðufundir milli kl. 08:30 og 08:45 þar sem farið yrði yfir stöðuna og verkefni dagsins. Síðar í fundargerð segir: "JÞS [Jón Þ. Sigurgeirsson] lagði áherslu á að ef þeir [Fitch Ratings] lækka LÍ þá færi allt af stað." Síðar í fundargerð er haft eftir Tryggva Pálssyni: "[Tryggvi Pálsson] nefndi einnig að yfirmaður eignastýringar Glitnis væri logandi hræddur um Stoðir sem er stærsta eign sjóðs 9. Glitnir var að reyna að ná fólki í þennan sjóð. Mikill órói er á peningamarkaðssjóðum."
Í handskrifuðum fundarpunktum sem Tryggvi Pálsson skráði 30. september 2008 er lýst fundi hans, Jóns Þ. Sigurgeirssonar, sérfræðings á skrifstofu bankastjórnar Seðlabankans, og Sturlu Pálssonar, framkvæmdastjóra alþjóða- og markaðssviðs Seðlabankans, með bankastjórn Seðlabankans þennan dag. Fram kemur að fundurinn hafi hafist kl. 09:20. Undir lok skjalsins segir að Davíð Oddsson hafi sagt að mynda þyrfti starfshóp sem skipaður skyldi Ragnari Önundarsyni, viðskiptafræðingi, Karli Axelssyni, hrl., Stefáni Svavarssyni, aðalendurskoðanda Seðlabankans, og Sturlu Pálssyni. Gerðar voru ráðstafanir til að fá Ragnar og Karl til að mæta á fund í bankanum og segir nánar af upphafi starfs þessa starfshóps sem gekk undir nafninu aðgerðarhópur Seðlabankans í kafla 20.3.3. Í framangreindu skjali segir einnig að Sturla Pálsson hafi rætt um varnarlínur og er þá mynd dregin upp af fimm hringjum. Í fyrsta og innsta hring myndarinnar er ritað "Ríkið". Í öðrum hringnum stendur "Íslenskir sparifjáreigendur". Í þriðja hringinn er ritað "Erlendir sparifjáreigendur". Í fjórða hringnum stendur "Skuldabréfaeigendur" og í þeim fimmta og ysta stendur "Hluthafar".
20.3.2 Fundur ríkisstjórnarinnar 30. september 2008
Kl. 09:30 að morgni þriðjudagsins 30. september 2008 fundaði ríkisstjórn Íslands. Þegar nokkuð var liðið á fundinn hafði Davíð Oddsson, formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands, samband við Geir H. Haarde, forsætisráðherra, og óskaði eftir að mæta á fund ríkisstjórnarinnar. Féllst Geir á þá beiðni. Í fundargerð ríkisstjórnar segir að Davíð Oddsson hafi komið á fundinn og gert "grein fyrir stöðunni". Því næst segir í fundargerðinni: "Ákveðið að ráðuneytisstjórar forsætisráðuneytisins, fjármálaráðuneytisins og viðskiptaráðuneytisins verði í neyðarteymi SÍ [Seðlabanka Íslands]." Síðan segir í fundargerð: "Seðlabankastjóri vék af fundi." Við skýrslutöku lýsti Davíð Oddsson aðkomu sinni að fundinum með eftirfarandi orðum: "Og svo fór ég inn á fundinn og hérna forsætisráðherra bauð mig velkominn á fundinn og hann sagði að það væri óþarfi að tala mikið um Glitnismálið eins og það væri, því hann hafði notað tækifærið áður en ég [kom], hann vildi að ég mundi koma til að aðeins að reifa það mál og gaf mér svo orðið og þá sagðist ég eiga það erindi að ég teldi að það væru verulegar líkur á því að allt íslenska bankakerfið yrði hrunið á næstu tíu til fimmtán dögum." Davíð sagðist síðan hafa rætt um að ef einhverju sinni hefði skapast þörf fyrir sérstaka þjóðstjórn þá væri það nú. Því næst sagði Davíð: "Og þá skyndilega varð þetta aðalatriði fundarins, mér til mikillar undrunar, tveir ráðherrar þau Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir [menntamálaráðherra] og Össur Skarphéðinsson [iðnaðarráðherra] urðu hin reiðustu og sögðu að formaður bankastjórnarinnar hefði ekkert leyfi til þess að koma og gefa fyrirmæli um að mynda þjóðstjórn, þannig að ég bað nú um orðið aftur og sagði að ég hefði ekki verið að gefa nein fyrirmæli um það [...]."
Við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis lýsti Geir H. Haarde fundinum með eftirfarandi orðum: "Eftir að fundurinn var byrjaður fæ ég boð um það að Davíð Oddsson sé í símanum. Hans erindi var þá það að óska eftir því að fá að koma á ríkisstjórnarfundinn til að gera grein fyrir því hvernig mál væru að þróast. Þá er liðinn náttúrulega heill viðskiptadagur frá því að þetta er allt tilkynnt, sem er gert þarna að morgni mánudagsins. Hann kemur á fundinn og segir okkur hvernig staðan sé, hún hafi versnað, það sé nokkurt áhlaup, eins og hann orðaði það, á reikninga íslensku bankanna erlendis og það sé líklegt að það komi "downgrade" frá einhverjum af matsfyrirtækjunum og að í einhverjum löndum, einhvers staðar úti á mörkuðum, sé verið að þrengja að íslensku... og loka lánalínum. Þetta voru sem sagt þau vandamál sem nú blöstu við. Þeir hefðu hins vegar gert munnlegan samning við J.P. Morgan um tveggja milljarða evra fyrirgreiðslu til einhverra ára, fimm, sex ára, að mér skildist. Nú, síðan, áður en hann fór að ræða þetta, lét hann orð falla sem hefðu kannski verið betur ósögð en voru þó ekki sögð, held ég, í þeim tilgangi að spilla fyrir með neinum hætti. Því þegar hann kemur á fundinn segir hann svona í þann mund sem hann er að setjast: Ástandið er orðið þannig að ef einhvern tímann var þörf fyrir þjóðstjórn þá tel ég að það sé núna. Einhverjir fundarmenn tóku þetta mjög óstinnt upp en mér finnst þetta vera algjört aukaatriði í atburðarásinni sjálfri, en ákveðnir ráðherrar ákváðu að taka þetta mjög óstinnt upp og voru að pæla í þessu á fundinum og svo síðar meir og litu á þetta sem vantraust á núverandi ríkisstjórn sem það náttúrulega var ekki. Þetta var bara almenn athugasemd um það að nú yrðu allir að standa saman, ég tók það nú þannig. Og reyndar var þetta eitt af því sem við formaður Vinstri grænna ræddum kvöldið áður og var auðvitað inni í myndinni. En því miður þá varð það, að þetta skyldi hrökkva út úr honum við þessar aðstæður, til þess að þetta varð þá þegar algjörlega óraunhæft. Samfylkingin stökk bara upp á afturfæturna og setti út neglurnar gagnvart þessari hugmynd vegna þess að þeir töldu að hún væri komin frá honum. Þannig var nú andúðin á honum og því sem frá honum kom. Þannig að þetta var mjög óheppilegt að hann skyldi hafa misst þetta út úr sér, en ég held að það sé rétta lýsingin á því, hann var ekkert að segja mönnum að þeir ættu að gera þetta eða neitt slíkt." Aðspurður hvort orð Davíðs hefðu einnig leitt til viðbragða af hálfu ráðherra Sjálfstæðisflokksins svaraði Geir: "Já, já, sérstaklega menntamálaráðherrann var óánægð með þetta, en ég held – það var alveg óþarfi að skilja þetta eitthvað öðruvísi en þetta var meint. Og ég tel að þetta hafi einfaldlega verið meint svona, hann vissi vel að það var ekki hans hlutverk að gera þetta og það var það sem menntamálaráðherrann sagði nokkrum dögum seinna þegar þetta komst í hámæli því að þetta komst í hámæli."
Við skýrslutöku lýsti Össur Skarphéðinsson ríkisstjórnarfundinum m.a. með eftirfarandi orðum: "En þarna var hann [Davíð Oddsson] ofsalega reyttur og tættur og eins og ég sagði frá því, eins og blöndu af einhverju taugalosti og sturlun. Hann kom þarna og "dóserar". Og hann sagði að þetta væri mesti vandi sem Ísland hefði nokkru sinni staðið frammi fyrir, lánalínur væru að hækka, Fitch væri að lækka matið á Landsbankanum og það væri ekkert að gera annað heldur en að sameina alla íslensku bankana. Og kom þessi fræga setning: "Ef einhvern tíma er þörf fyrir þjóðstjórn á Íslandi þá er það núna."" Össur sagði einnig að Davíð hefði lagt til að "innlendar eignir og skuldir og útlán" yrðu teknar og settar "í íslenska sérbanka, úr öllum bönkunum, setja inn íslenskt hlutafé, skilja allt eftir til þess að það tapist". Síðan hefði Davíð sagt að viðgengist hefði "glæframennska og glæpamennska af versta tagi, sem hefði verið klappað fyrir". Því næst hefði Davíð sagt: "Og við þyrftum að vera viðbúin að gera þetta núna strax í dag.Verið að loka lánalínum á Ísland, núna og á ríkið í dag. Hann var bara í losti, kallinn. Og KB [Kaupþing banki hf.] hefði sagt að þeir væru, það væri tryggt út næsta ár en innstæður á tölvureikningum væru að rjúka út. Og hann kom með einhverja tillögu, Seðlabankinn gerir sínar ráðstafanir og hann talaði um þessa neyðarnefnd [...]."
Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, lýsti fundinum með eftirfarandi hætti við skýrslutöku: "Og svo allt í einu stormar Davíð inn á fundinn, í miklu uppnámi og bara alveg leit mjög illa út og [...] var greinilega mikið niðri fyrir og þá segir hann að hann óttist það að íslenska fjármálakerfið sé bara allt að fara og það verði bara núna á eftir að setja niður vinnu um að hirða alla bankana af öllum eigendum, bara strax, íslensku starfsemina og skera á útrásarvíkingana, sem hafa skuldsett þjóðina þannig að landráðum líkist, sagði hann orðrétt."
Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, lýsti fundinum við skýrslutöku með eftirfarandi orðum: "Ja, hann var náttúrulega bara alveg skelfilegur og það lá við að maður hringdi heim til þess bara að biðja konuna að fara út og kaupa mjólk, svo það yrði örugglega til mjólk í ísskápnum, það var nú þannig lýsingarnar sem voru á því hvaða ástand mundi skapast." Árni segir að umræðan um þjóðstjórn hafi hellt olíu á eld og segir hann þetta hafa leitt til mikils vantrausts á milli Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks.Afleiðingarnar hafi verið þær að frumkvæði í vinnu stjórnvalda hafi flust frá Seðlabankanum yfir til Fjármálaeftirlitsins.
Í þessu samhengi má nefna að Össur Skarphéðinsson lýsti því við skýrslutöku að sama dag hefði hann, eftir að hafa ráðfært sig við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, utanríkisráðherra, rætt við Geir H. Haarde og sagt: "[...] ég teldi þetta allt saman ótækt og sagði honum þá í fyrsta skipti að ég teldi að það væri ekki hægt að sigla í gegnum svona, með hann [Davíð Oddsson] þarna sem kæmi bara og "dikteraði" til ríkisstjórnar, því að hann var náttúrulega líka í þessari sturlun, var hrokafullur við ríkisstjórnina, tók orðið af Geir og svona. Þetta var bara gæi sem kom og hann vissi hvernig átti að gera þetta, væri allt í steik en það ætti að gera það svona. Það vantaði bara að segja: "Svo á ég að stýra þessu." Fannst mér."
Davíð Oddsson lýsti því við skýrslutöku að á ríkisstjórnarfundinum hefði hann einnig rætt um viðbúnaðarhóp Seðlabankans sem hefði verið stækkaður vegna þess hve stofnunin liti stöðu mála alvarlegum augum: "[...] ég sagði að þetta mál væri orðið það alvarlegt að við værum núna með viðbúnaðarhóp, stækkaðan viðbúnaðarhóp sjálfir, ef menn tækju þetta ekki þetta alvarlega, uppi í Seðlabankanum, þar sem við værum búnir að bæta við mönnum við það sem, það starfsfólk sem þar væri, og ég man ekki hvort ég sagði frá lögfræðilegum sérfræðingi og bankalegum sérfræðingi og þess háttar, en þá sögðu menn: "Megum við ekki bæta við frá einhverjum af þessum nefndum?" Og við sögðum að það væri fagnaðarefni ef það væri einhver sem gæti gert það. En svo mjög fljótlega eftir það þá var þetta starf flutt úr Seðlabankanum yfir í önnur húsakynni."
Eftir að ríkisstjórnarfundinum lauk hafði Björgvin G. Sigurðsson samband við Jónínu S. Lárusdóttur, ráðuneytisstjóra viðskiptaráðuneytis, og bað hana að halda samstundis í Seðlabankann. Við skýrslutöku sagði Björgvin: "Þeir voru að taka til sín sem sagt alla stjórnun á þessu máli, Seðlabankinn, og menn upplifðu bara gríðarlega valdabaráttu í gangi í landinu þarna, það væri bara hálfgerð valdaránstilraun." Björgvin segist því að hluta til hafa sent Jónínu til "að vera á vettvangi til að fylgjast með hvað þeir væru eiginlega að gera, það vissi það enginn".
Af gögnum sem rannsóknarnefnd Alþingis hefur fengið aðgang að, þ.m.t. tölvusamskiptum ráðherra, er ljóst að strax í kjölfar komu Davíðs Oddssonar á ríkisstjórnarfundinn 30. september 2008 og ummæla hans þar um þjóðstjórn kom fram í röðum ráðherra sú afstaða að Davíð ætti að víkja úr starfi seðlabankastjóra. Þessi afstaða kom fram af hálfu ráðherra í báðum stjórnarflokkunum og þeir komu henni á framfæri við forsætisráðherra í kjölfar fundarins. Í þessu samhengi skal vísað til ummæla Össurar Skarphéðinssonar sem vitnað er til hér að framan.Að auki má nefna að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sendi Geir H.Haarde tölvubréf að kvöldi 1. október 2008 þar sem hún lýsti þeirri afstöðu sinni að það gengi ekki að embættismaður gengi inn á ríkisstjórnarfund og segði að önnur stjórn ætti að taka við og bætti við: "Slíkur maður þarf að víkja." Eins og fram er komið lýsti Össur Skarphéðinsson því við skýrslutöku að samstaða hefði verið innan starfandi ráðherrahóps Samfylkingarinnar um að gera strax kröfu um að formaður bankastjórnar Seðlabankans viki úr starfi en formaður Samfylkingarinnar hefði ekki talið rétt að fara fram með þá kröfu á því stigi. Upplýsingar um ummæli formanns bankastjórnar Seðlabankans á ríkisstjórnarfundinum komu einnig fram í fjölmiðlum. Fréttablaðið birti frétt á forsíðu sinni 2. október 2008 um málið og í hádegisfréttum Ríkisútvarps fimmtudaginn 2. október 2008 var rætt við Össur Skarphéðinsson um málið. Össur sagði m.a.: "Nú, mín afstaða, hún er náttúrulega alveg skýr, seðlabankastjóri á ekki að vera að blanda sér í landsmálin og hann á ekki að vera að gefa út yfirlýsingar sem eru pólitískar að eðli til." Össur bætti því við að stjórnarflokkarnir hefðu sérstaklega sterkan þingmeirihluta og því væri nokkurs konar "þjóðstjórn" þegar starfandi. Í þessu samhengi má einnig nefna viðtal Morgunblaðsins við Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur sem birtist föstudaginn 3. október 2008. Þar var m.a. haft eftir Þorgerði: "Menn verða að vita hvert þeirra hlutverk er hverju sinni og hlutverk seðlabankastjórnar er að huga að peningamálum og stuðla að fjármálalegum stöðugleika. Seðlabankastjóri ætti að sinna því en ekki vera að blanda sér í pólitík með þessum hætti." Síðan var í viðtalinu haft eftir Þorgerði að "hugmyndir Davíðs Oddssonar, seðlabankastjóra, um þjóðstjórn [væru] hvorki tímabærar né [kæmu] úr réttri átt".
20.3.3 Störf aðgerðarhóps í Seðlabanka Íslands 30. september 2008
Að morgni 30. september 2008 hafði Davíð Oddsson, formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands, samband við Karl Axelsson, hrl., og Ragnar Önundarson, viðskiptafræðing, og bað þá að koma til starfa fyrir Seðlabankann. Karl lýsti því við skýrslutöku að Davíð hefði hringt í sig um kl. 09:15 þennan morgun. Ragnar Önundarson sagði að Davíð hefði hringt í sig þegar hann kom út af ríkisstjórnarfundi og var á leið í Seðlabankann. Þeir Karl og Ragnar segjast síðan hafa verið mættir í húsakynni Seðlabankans um kl. 11:00. Á fundi sem þá var haldinn voru auk þeirra m.a. Davíð Oddsson, Sturla Pálsson, framkvæmdastjóri alþjóða- og markaðssviðs Seðlabankans, Sigríður Logadóttir, aðallögfræðingur Seðlabankans, Baldur Guðlaugsson, ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytis, Bolli Þór Bollason, ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytis, Jónína S. Lárusdóttir, ráðuneytisstjóri viðskiptaráðuneytis, Rúnar Guðmundsson, sviðsstjóri hjá Fjármálaeftirlitinu, Halldór S. Magnússon, fyrrverandi bankastarfsmaður, og Stefán Svavarsson, innri endurskoðandi Seðlabankans.
Jónína S. Lárusdóttir lýsti því við skýrslutöku að í upphafi fundarins hefði Davíð Oddsson tekið til máls. Hefði hann lýst því ástandi sem skapast hefði. Jónína segir Davíð hafa sagt að til greina kæmi að setja bráðabirgðalög samdægurs. Standa þyrfti vörð um ríkið. Meginboðskapur Davíðs var að sögn Jónínu sá að: "[...] yfirtakan á Glitni hefði í rauninni ekki haft þær afleiðingar sem menn vildu [því að] matsfyrirtækin og aðrir hefðu ekki trú á íslenska ríkinu, að það gæti þá bjargað öðrum bönkum, og við værum að fá allt kerfið í höfuðið [...]. Og fjárhagslegt bolmagn ríkissjóðs væri uppurið ef við ætluðum að taka að okkur skuldbindingar sex- eða sjöfaldrar landsframleiðslu. Þannig að það yrði að gera "ringfence", sem sagt að búa til íslenskan banka sem tæki á móti íslenskum viðskiptum, og þetta þurfi bara að vinnast núna. Það var sem sagt formaður bankastjórnarinnar og svo var líka Sturla Pálsson, sem var þarna með erindi." Við skýrslutöku sagði Karl Axelsson að Sturla Pálsson hefði farið "[...] yfir eitthvað svona hagfræðilegt "concept" þar sem voru teiknaðir upp einhverjir hringir sem voru úr fjármálakerfi þjóðarinnar og innst var bara eftir, þið vitið, innstæðurnar og grunnurinn. Og það var einhver umræða um þetta í framhaldinu, að ef [...] ekki væri hægt að verja þessar síðustu víggirðingar þá værum við að sigla hér inn í einhvers konar þjóðfélag anarkismans næstu 30 árin."
Við skýrslutöku útskýrði Sturla Pálsson hugmynd sína þannig að dregin skyldi víglína utan um ríkið og það yrði innst. Síðan sagði Sturla: "Fyrir utan það væru innlendir innlánseigendur, þar fyrir utan væru erlendir innlánseigendur, [...] fyrir utan væru skuldabréfa-, hlutabréfaeigendur víkjandi lána, þeir væru hvort sem er "done" meira og minna, en að það þyrfti að verja þessa víglínu og ríkissjóð, passa það að ríkissjóður, við færum ekki í þjóðargjaldþrot. Út á það gekk "strategían" [...]."
Jónína S. Lárusdóttir sagði við skýrslutöku að á þessum fundi hefði hún minnt á að varðandi innlend og erlend innlán þyrftu menn að hafa skuldbindingar EES-samningsins í huga. Segir hún að Davíð Oddsson hafi verið ósáttur við þessi ummæli hennar. Loks lýsti Jónína því að áður en Davíð Oddsson yfirgaf fundinn hefði hann sagt: "Teningunum er kastað."
Rúnar Guðmundsson lýsti því við skýrslutöku að 30. september 2008 hefði Jónas Fr. Jónsson, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, sent hann í Seðlabankann. Þegar þangað kom hefði Jónína S. Lárusdóttir sagt honum að ástæða væri til að ætla að bankarnir væru að hrynja og að hið snarasta þyrfti að setja saman áætlun um til hvaða viðbragða skyldi gripið og um mögulegar heimildir stjórnvalda til inngripa. Rúnar segir að í kjölfarið hafi menn sest niður og reynt að kortleggja hvað hafi verið að gerast og til hvaða ráðstafana mætti grípa.
Í handskrifuðum fundarpunktum Guðrúnar Ögmundsdóttur, starfsmanns Seðlabankans, vegna framangreinds fundar segir að fundurinn hafi hafist kl.12:15.Fram kemur að fundinn hafi sótt auk Guðrúnar Tryggvi Pálsson,Sigríður Logadóttir,Stefán Svavarsson, Karl Axelsson, Ragnar Önundarson, Baldur Guðlaugsson, Bolli Þór Bollason og Jónína S. Lárusdóttir. Af fundarpunktum má ráða að rætt hafi verið um það hvaða leiðir væru tækar til lausnar á vanda bankanna og hvort og þá hvers kyns lagaheimildir stjórnvöld þyrftu að hafa til að taka á vandanum. Einnig segir að rætt hafi verið um hvort lagaheimild ætti að vera almenn heimild til inngripa í rekstur fjármálafyrirtækja eða sértæk að því leyti að sérstaklega yrði tilgreint í lagaheimildinni að hvaða fjármálafyrirtæki hún beindist. Fram kemur að rætt hafi verið um að hafa tilbúið frumvarp til bráðabirgðalaga sem setja mætti 3. október 2008. Fram kemur að rædd hafi verið hugmynd um skiptingu banka á grundvelli kenninga um góðan banka og slæman banka. Um þetta segir að Tryggvi Pálsson hafi sagt að slíkt hafi m.a. verið gert í Svíþjóð. Hér sé hins vegar gengið miklu lengra þar sem um bankakerfi heils lands sé að ræða. Haft er eftir Ragnari Önundarsyni að til greina komi að frysta erlend innlán en gera þau jafnframt að forgangskröfum. Síðar í fundarpunktum segir að kl. 13:15 hafi Rúnar Guðmundsson mætt á fundinn. Fram kemur að fljótlega eftir komu Rúnars hafi fundinum verið slitið en jafnframt ákveðið að ráðuneytisstjórar myndu aftur sækja fund með hópnum í Seðlabankanum kl. 16:00 sama dag. Því næst segir í skjalinu að í millitíðinni hafi Sigríður Logadóttir, Sturla Pálsson,Tryggvi Pálsson, Rúnar Guðmundsson og Stefán Svavarsson fundað áfram. Fram kemur að Guðrún Ögmundsdóttir hafi áfram ritað fundarpunkta. Síðan segir að Tryggvi Pálsson hafi útskýrt framvindu mála fyrir Rúnari Guðmundssyni og Sturla Pálsson hafi að því búnu lýst hugmynd um að draga víglínu í kringum ríkið. Síðar segir að Ragnar Önundarson hafi spurt hvort innstæður séu forgangskröfur. Huga þurfi að slíku. Fram kemur að kl. 15:23 hafi Perla Ösp Ásgeirsdóttir, starfsmaður Seðlabankans, komið inn á fundinn með "upplýsingar um lánalínur". Þá segir að kl. 15:45 hafi Stefán Svavarsson gert grein fyrir vandamálum sem upp hafi komið hjá Glitni, lán séu að gjaldfalla og bankinn uppfylli ekki reglur um lágmarks eiginfjárhlutfall. Því næst segir að Sigríður Logadóttir hafi komið inn á fundinn. Einnig segir í skjalinu að kl. 15:50 hafi drög að minnisblaði aðgerðarhóps verið lesin yfir og lagfærð. Fram kemur að kl. 15:59 hafi Bolli Þór Bollason mætt á fundinn. Því næst segir að kl. 16:13 hafi Ragnar Önundarson skýrt frá "valkosti I". Í beinu framhaldi segir að kl. 16:17 hafi Jónas Fr. Jónsson mætt á fundinn. Ráða má af skjalinu að Baldur Guðlaugsson hafi einnig verið mættur á fundinn á þessari stundu. Síðan segir í skjalinu að rætt hafi verið um "valkosti" II og III.Varðandi nánari umfjöllun um þessa valkosti vísast til umfjöllunar um minnisblöð aðgerðarhópsins hér að neðan. Í fundarpunktunum segir að kl. 16:29 hafi Sturla Pálsson lýst því að lánshæfismatsfyrirtækið Moody's hefði lækkað Glitni um "þrjá notcha". Af skjalinu má ráða að um þetta leyti hafi Karl Axelsson og Jónína S. Lárusdóttir verið stödd á fundinum. Fram kemur að áfram hafi verið rætt um fyrirliggjandi valkosti og um hugsanlega erfiðleika ef til þess kæmi að greint yrði á milli innstæðueigenda innan og utan Íslands. Haft er eftir Jónasi Fr. Jónssyni: "Skv. ljótu stresstesti um 30 daga. Mikið prinsipp mál með innst.eig. (erl.). Pólitískar afleiðingar svo miklar." Því næst er haft eftir Ragnari Önundarsyni: "Tryggingarsjóður gæti eignast forgangskröfu." Síðar segir að kl. 17:19 hafi Sturla Pálsson og Tryggvi Pálsson farið af fundinum. Síðar segir að Jónína S. Lárusdóttir hafi dreift tillögu að breytingu á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Tillagan fól í sér að við lögin myndi bætast 100. gr. a. Fram kemur í fundarpunktum að rætt hafi verið um hvers kyns heimildir æskilegt væri að setja í lög. Síðar segir að Jónas Fr. Jónsson hafi sagt að til greina komi að styrkja möguleika stjórnvalda til að neita fjármálafyrirtækjum að stofna dótturfélög erlendis. Þá segir að Stefán Svavarsson hafi lýst efasemdum um að breska fjármálaeftirlitið (FSA) samþykki flutning Icesave innlána yfir í dótturfélag Landsbankans, Heritable Bank, þar sem FSA muni hugsanlega ekki lítast á lánabók Landsbankans. Af skjalinu má ráða að Tryggvi Pálsson hafi verið mættur aftur á fundinn um kl. 18:00. Síðar segir að Ragnar Önundarson hafi spurt: "Er hægt að gera innlánskröfur að forgangskröfum?" Ekki er að sjá að skýrt svar hafi komið fram á fundinum við þessari spurningu. Undir lok fundarpunkta kemur fram að ákveðið hafi verið að funda aftur kl. 11:30 næsta dag, þ.e. 1. október 2008. Síðan segir að fundi hafi verið slitið kl. 18:18. Kl. 18:19 hafi "lögfræðihópur" flutt í annað fundarherbergi en Tryggvi Pálsson, Stefán Svavarsson, Ragnar Önundarson og Guðrún Ögmundsdóttir hafi orðið eftir til að "laga drög". Þeirri vinnu hafi lokið kl. 19:40.
Karl Axelsson lýsti því við skýrslutöku að á fundi í Seðlabankanum þennan dag hefði Jónas Fr. Jónsson kynnt niðurstöður úr nýjustu "þolprófum" Fjármálaeftirlitsins.Við það tækifæri hefði Jónas sagt að miðað við allra verstu forsendur ættu bankarnir um mánuð eftir ólifaðan.
Rannsóknarnefnd Alþingis hefur undir höndum drög að tveimur minnisblöðum, dags. 30. september 2008, sem sögð eru minnisblöð "aðgerðarhóps". Í þessu sambandi skal þess getið að við skýrslutöku sagði Karl Axelsson að sér hefði ekki verið tilkynnt um að hann væri þátttakandi í einhvers konar formlegum hópi. Í öðru minnisblaðinu eru settir fram þrír valkostir.Tilgangurinn með tillögunum er sagður sá að tryggja bankaþjónustu fyrir almenning og fyrirtæki á Íslandi auk þess að takmarka áhættu ríkisins af umfangsmikilli erlendri starfsemi innlendra fjármálafyrirtækja.
Fyrsta tillagan gengur út á að "mynda þrjú stök dótturfélög um innlenda starfsemi stærstu bankanna þriggja". Síðan segir í tillögunni: "Ríkið lánar móðurfélögum (núverandi bönkum) fyrir hlutafjárframlagi til dótturfélaga gegn veði í hlutabréfunum. Í þessu felst að eigið fé gömlu bankanna stendur til tryggingar erlendum kröfum eingöngu."
Önnur tillagan gengur út á að ríkið "sem eigandi Glitnis reki hann áfram og ábyrgist hann". Önnur fjármálafyrirtæki fái hins vegar ekki ríkisstuðning. Erlendir innstæðueigendur "í útibúum íslenskra banka erlendis fái með löggjöf forgangskröfu í bú viðkomandi banka".
Þriðja tillagan er sú sama og fyrsta tillagan að því leyti að stefnt yrði að því að skipta "starfsemi bankanna þriggja [...] í innlenda og erlenda starfsemi". Innlendi þátturinn yrði hins vegar við "greiðsluþrot einhvers móðurbankanna færður yfir í Glitni".
Í hinu minnisblaði aðgerðarhópsins frá sama degi eru settar fram tvær tillögur.Tilgangurinn er sagður sá að tryggja bankaþjónustu fyrir einstaklinga og lögaðila á Íslandi og jafnframt að halda áhættu ríkisins innan viðráðanlegra marka. Þetta er sagt krefjast takmörkunar á áhættu ríkisins af umfangsmikilli erlendri starfsemi banka. Fyrri tillagan er sögð "valkvæð leið" sem unnin yrði í samstarfi við bankana. Síðari tillagan er að taka stjórnvaldsákvörðun óháð fyrri leiðinni. Sú leið skyldi farin ef samkomulag næðist ekki við banka eða ef stjórnvöld myndu telja að fyrri leiðin skilaði ekki árangri. Ekki er tilefni til að rekja tvær framangreindar leiðir nánar við þessa umfjöllun.
Miðvikudaginn 1.október 2008 setti forseti Íslands Alþingi.Við skýrslutöku lýsti Jónína S.Lárusdóttir því að hún hefði hitt Bolla Þór Bollason við þingsetninguna. Við það tækifæri hefði hún lýst því að henni þættu aðgerðir stjórnvalda í "furðulegum farvegi" sem hún skildi ekki. Segir Jónína að Bolli hafi tekið undir þetta. Jónína segist einnig hafa gert athugasemdir við þátttöku Ragnars Önundarsonar í aðgerðarhópi stjórnvalda, enda væri henni ekki kunnugt um stöðu hans eða trúnaðarskyldur.
Við skýrslutöku lýsti Sigríður Logadóttir því að það hefði stuðað hana að utanaðkomandi aðilar hefðu komið að vinnu stjórnvalda því verið var að vinna með svo mikilvægar trúnaðarupplýsingar. Sigríður segir: "Ég meina, þetta bara í raun og veru jaðrar við öryggi ríkisins. Og þarna koma inn einstaklingar þarna inn í fundarherbergi, eða sem sagt koma þarna inn, inn í þennan samráðshóp og þennan aðgerðarhóp og ég vissi ekkert hver hefði samið við þá eða talað við þá eða hvað þeir mættu, t.d. eins og Ragnar [Önundarson] var nýbúinn að skrifa í blöðin – hann heitir Halldór S. Magnússon, hinn sem kom – og mér fannst þetta hálfóþægilegt að vita ekki nákvæmlega hver staða þeirra var þarna."
Í minnisblaði sínu frá 1. október 2008 veltir Ragnar Önundarson því upp hvort hægt sé að gera innlán að forgangskröfum. Í minnisblaðinu segir m.a.: "Hugmyndin er sú að innlán verði forgangskröfur, í því skyni að Tryggingarsjóður innlána geti ábyrgst öll innlán og jafnvel hækkað trygginguna. Gengið er út frá því að sjóðurinn eignist forgangskröfuna við innlausn innlánatrygginga. Sjóðurinn yrði við þetta mun lánshæfari eining en hann er í dag." Í minnisblaðinu segir einnig: "Hugmyndin þyrfti að fara í stóra lögfræðilega skoðun og haldast utan við þann feril sem aðgerðahópur SB [Seðlabankans] er nú að vinna að, vegna þess hve víðtæk hún þyrfti að vera." Ragnar lýsti því við skýrslutöku að hann hefði verið fyrstur til þess að setja fram hugmyndina um að innlán yrðu forgangskröfur. Hefði henni í fyrstu verið hafnað innan aðgerðarhópsins. Þegar neyðarlögin voru sett hefði þessi leið hins vegar verið farin.
20.3.4 Fundur bankaráðs Seðlabanka Íslands 30. september 2008
Síðdegis þriðjudaginn 30. september 2008 fundaði bankaráð Seðlabanka Íslands. Í fundargerð kemur fram að Davíð Oddsson hafi lýst aðdraganda þeirrar ákvörðunar sem tekin var vegna stöðu Glitnis. Síðar í fundargerð segir: "Davíð sagði að sér væri ekki rótt, allur fjármálaheimurinn væri í bál og brandi. Meira að segja vagga kapítalismans í Bandaríkjunum væri á hvolfi. Heimurinn ætti að taka sér viku pásu, því sá atgangur sem nú á sér stað gerir illt verra, en þótt veröldin sé slæm ber okkur skylda til að gera það sem að okkur snýr. Nú er ekki tíminn til að eltast við sökudólga. Það verður að grípa til úrræða áður en það verður um seinan. Davíð Oddsson sagðist hafa kynnt þessa skoðun sína á ríkisstjórnarfundi og hafa sagt að ef einhvern tímann hefði verið jarðvegur fyrir þjóðstjórn þá væri það á þessari stundu." Síðar segir í fundargerð: "Jón Sigurðsson sagði að Fjármálaeftirlitið hefði átt fund sl. sunnudagskvöld, þar sem Ingimundur Friðriksson hefði kynnt stöðu mála. Í framhaldinu myndi Fjármálaeftirlitið formlega stöðva viðskipti með hlutabréf í Glitni, ítreka aðvörun um skortsölu og e.t.v. að nefna tilsjónarmann með starfsemi Glitnis. Á formlegu hliðinni teldi Fjármálaeftirlitið mikilvægt að upplýst væri um lagastoð fyrir aðgerðum helgarinnar. Fjármálaeftirlitið myndi jafnframt meta annarrar umferðaráhrifin af atvikum helgarinnar. Jón Sigurðsson sagði að hann teldi óhjákvæmilegt að hluthafar töpuðu, en taldi að stjórnendur hefðu átt að víkja.Varðandi innstæðurnar á erlendu reikningunum sagði Jón að vissulega hefði verið útstreymi, en reikningunum hefði jafnframt fjölgað og skýringin á því væri líklega sú að menn væru að dreifa fjármunum til að komast undir tryggingarmörkin. Innstæðurnar væru vissulega bundnar óvissu, sá banki væri ekki til sem stæðist allsherjar áhlaup."
20.3.5 Viðbrögð stjórnvalda 1. til 3. október 2008
Starfshópur Seðlabankans um viðbrögð við lausafjárvanda fundaði öðru sinni í þessari viku kl. 08:30 1. október 2008 (2. stöðumatsfundur). Í fundargerð segir að daginn áður hafi lánshæfismat íslensku bankanna verið lækkað af lánshæfismatsfyrirtækjum. Helsta áfallið hafi verið lækkun Moody's. Lánshæfismatsfyrirtækin spyrji hvort Ísland sé ekki að fara að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Í fundargerð er haft eftir Tryggva Pálssyni, framkvæmdastjóra fjármálasviðs Seðlabankans, að daginn áður hafi verið fundað með samráðshópi forsætisráðuneytis, fjármálaráðuneytis, viðskiptaráðuneytis, Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands um fjármálastöðugleika og viðbúnað. Fundað hafi verið stuttlega með bankastjórn. Loks hafi verið "fallist á myndun aðgerðarhóps". Í fundargerð segir síðan:"Hópinn skipa ásamt TP [Tryggva Pálssyni],Karl Axelsson,Ragnar Önundarson,Stefán Svavarsson.Rúnar Guðmundsson (FME), SP [Sturla Pálsson] og GÖ [Guðrún Ögmundsdóttir] störfuðu einnig með hópnum. Hópnum var falið að útbúa varaáætlun og athuga hvort hægt væri að skilja að einhverju leyti á milli erlendrar og innlendrar starfsemi bankanna."
Í handskrifuðum fundarpunktum Guðrúnar Ögmundsdóttur, starfsmanns Seðlabankans, kemur fram að eftir að framangreindum stöðumatsfundi lauk hafi verið haldinn vinnufundur kl. 09:00 í herbergi 105 í Seðlabankanum. Í upphafi hafi setið fundinn auk Guðrúnar Tryggvi Pálsson, Sylvía Kristín Ólafsdóttir, forstöðumaður viðbúnaðarsviðs Seðlabankans, Jónas Þórðarson, starfsmaður Seðlabankans og framkvæmdastjóri Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta,og Tómas Örn Kristinsson,framkvæmdastjóri upplýsingasviðs Seðlabankans. Fram kemur að kl. 09:56 hafi Stefán Svavarsson, aðalendurskoðandi Seðlabankans, verið kallaður á fundinn til að stýra vinnunni og svara spurningum. Af skjalinu má ráða að Perla Ösp Ásgeirsdóttir, starfsmaður Seðlabankans, hafi verið mætt á fundinn um þetta leyti. Kl. 11:14 hafi Ragnar Önundarson, viðskiptafræðingur, síðan mætt á fundinn. Af fundarpunktum má ráða að m.a. hafi verið rætt um kenningar um góðan banka og slæman banka, brúunarbanka og svokallaða írska leið.
Síðar í fundarpunktum Seðlabankans segir að kl. 11:30 hafi annar fundur hafist í fundarherbergi 105. Fram kemur að fundinn hafi sótt Tryggvi Pálsson, Sigríður Logadóttir, aðallögfræðingur Seðlabankans, Ragnar Önundarson, Stefán Svavarsson, Sylvía Kristín Ólafsdóttir, Karl Axelsson, hrl., Baldur Guðlaugsson, ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytis, Bolli Þór Bollason, ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytis, og Jónína S. Lárusdóttir, ráðuneytisstjóri viðskiptaráðuneytis. Í fundarpunktum kemur einnig fram að Jónas Fr. Jónsson, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, Ragnar Hafliðason, aðstoðarforstjóri Fjármálaeftirlitsins, og Rúnar Guðmundsson, sviðsstjóri hjá Fjármálaeftirlitinu, hafi fljótlega mætt á fundinn. Fram kemur að rætt hafi verið um að lán sem nemi 425 milljónum evra hafi gjaldfallið hjá Glitni. Haft er eftir Tryggva Pálssyni að miklu minni tími sé til stefnu en æskilegt sé. Því næst hafi hann spurt annars vegar um stefnumörkun ríkisins og hins vegar um hvort menn vilji nota vikuna til að semja við lánardrottna. Síðar í fundarpunktum er haft eftir Jónasi Fr. Jónssyni: "Þurfum að hugsa um samskipti við útlönd eftir þetta. Þurfum að hugsa um framtíðina. Kannski þarf að setja verulegan þunga á Landsbanka Íslands að br. í dótturfélag." Því næst er haft eftir Baldri Guðlaugssyni: "Er það ekki þegar til staðar." Síðar er haft eftir Bolla Þór Bollasyni: "Þarf að ýta á Landsbanka Íslands, hefur verið ýtt ansi hressilega." Síðar í fundarpunktum segir að Karl Axelsson hafi kynnt niðurstöðu lögfræðihóps. Haft er eftir Karli að sértæk aðgerð sé vonlaus. Síðan segir að hann hafi dreift breyttri tillögu að almennri löggjöf sem unnin hefði verið undangenginn dag. Loks kemur fram að Bolli Þór Bollason hafi sagt að hann yrði að fara eftir fimm mínútur þar sem hann þyrfti að vera viðstaddur þingsetningu forseta. Fram kemur að kl. 12:55 hafi fundinum verið slitið. Samkvæmt fundarpunktunum fóru ráðuneytisstjórarnir þrír þá af fundinum en hópurinn fundaði áfram til kl. 13:15.
Samkvæmt framangreindum fundarpunktum hófst annar fundur í herbergi 105 í Seðlabankanum kl. 13:40. Fram kemur að þann fund hafi sótt Tómas Örn Kristinsson, Ragnar Önundarson, Stefán Svavarsson, Sylvía Kristín Ólafsdóttir, Guðrún Ögmundsdóttir og Perla Ösp Ásgeirsdóttir. Í upphafi segir: "TÖK [Tómas Örn Kristinsson] tekur saman í skjal, mismunandi leiðir og útfærslur." Fram kemur að kl. 14:17 hafi Sigríður Logadóttir mætt á fundinn. Hún hafi lýst því að búið væri að boða hluthafafund í Glitni banka hf. laugardaginn 11. október. Síðar segir að kl. 15:09 hafi Perla Ösp Ásgeirsdóttir yfirgefið fundinn en Jónas Þórðarson hafi mætt á sama tíma til að fjalla um Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta og hvernig útgreiðsla þurfi að fara fram. Fram kemur að fundarmenn hafi velt fyrir sér hvort hægt væri að greiða innstæðutryggingar út í íslenskum krónum fremur en erlendum gjaldmiðli. Fram kemur að kl. 15:33 hafi menn tekið að ræða svokallaða sænska leið og er þar vikið að brúunarbönkum og ruslbönkum. Þá hafi Ragnar Önundarson velt því upp hvort til greina kæmi að Íbúðalánasjóður gæti keypt íbúðalán bankanna. Kl. 16:55 hafi fundi verið slitið.
Í minnisblaði starfsmanna Seðlabankans, dags. 1. október 2008, er rætt um hugmyndir aðgerðarhóps sem fram komu í drögum að minnisblaði, dags. 30. september 2008. Seðlabankinn setur fram ýmis sjónarmið vegna fyrrgreinds minnisblaðs. Síðan er þeim möguleika teflt fram hvort aðrar leiðir kunni að koma til greina. Í því sambandi eru tvær leiðir settar fram. Annars vegar svokölluð írsk leið sem sögð er felast í því að ríkið ábyrgist innlán, skuldir og hluta af "víkjandi lánum (Tier 1) til tveggja ára". Um þessa leið segir loks að spurning sé hversu raunhæf hún sé fyrir Ísland. Hin leiðin sem sett er fram er svokölluð sænsk leið. Í því sambandi er rætt um "brúunarbanka" eða "endurvinnslubanka" sem kaupa muni erlendar eignir banka og einangra þær frá innlendri starfsemi. Í minnisblaðinu segir að sænska ríkið hafi á sínum tíma farið þessa leið, yfirtekið bankana og ábyrgst skuldir þeirra. Aðgerð sem þessi kalli þó mögulega á aukna fjármögnun af hálfu ríkisins.
Starfshópur Seðlabankans um viðbrögð við lausafjárvanda fundaði aftur kl. 08:30 fimmtudaginn 2. október 2008 (3. stöðumatsfundur). Í fundargerð er haft eftir Tryggva Pálssyni að uppgjörskeðjur séu farnar að "hiksta" og að það verði ögurstund um næstu helgi og nú þyrfti aðgerðaáætlun. Síðar segir að Tryggvi hafi rætt um að aðgerðarhópurinn muni nú vinna í þremur hlutum, þ.e. lögfræðihópur sér, Fjármálaeftirlitið sér og Seðlabankinn ásamt Ragnari Önundarsyni sér. Í handskrifuðum fundarpunktum Seðlabankans kemur einnig fram að starfsmenn Seðlabankans hafi unnið að svokallaðri írskri og sænskri leið en Fjármálaeftirlitið hafi unnið að svokallaðri útibúaleið.
Í handskrifuðum fundarpunktum Guðrúnar Ögmundsdóttur kemur fram að kl. 08:56 sama dag hafi Guðrún, Sylvía Kristín Ólafsdóttir, Stefán Svavarsson, Perla Ösp Ásgeirsdóttir, Tómas Örn Kristinsson og Ragnar Önundarson fundað. Í skjalinu segir að rætt hafi verið um svokallaða írska leið sem sögð er fyrsta skrefið í svokallaðri sænskri leið. Fram kemur að unnið sé að minnisblaði og að kl. 10:20 hafi skjalið verið sent Jónasi Fr. Jónssyni í þeirri mynd sem skjalið var þá. Síðar í fundarpunktum kemur fram að kl. 10:42 hafi Jónasi og Ragnari Hafliðasyni verið send önnur útgáfa skjalsins.
Í gögnum frá Seðlabanka Íslands er að finna minnisblað, dags. 2. október 2008, um "Næstu skref". Inn á skjalið hefur verið handskrifað: "Tekið saman fyrir fund samráðshóps." Skjalið er svohljóðandi:
Minnisblað
2. okt. 2008
Næstu skref:
Stig 1 – Aðgerð sett í gang án tafar
A. Samningar sem gera þarf við lánardrottna Glitnis áður en til hluthafafundar kemur (11. okt 2008). Ef til þessa kæmi þyrfti að móta stefnu stjórnvalda til að nota samningsstöðu til að takmarka kröfur lánardrottna, þ.m.t. gjaldfellingarskilmála, vaxtaskilmála, viðbrögð við höfnun, ætti að taka Glitni yfir 100% eða jafnvel láta hann fara í þrot?
B. Aðgerðarhópur undirbúi neyðaráætlun.
Stig 2 – Næstu aðgerðir
A. Viðræður við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um aðstoð. IMF getur sett skilyrði fyrir lántöku. Kemur ekki inn í fyrr en "krísan er farin í gang".
B. Ábyrgðaryfirlýsing allra innlána (afbrigði af írsku leiðinni).
a. Ríkið yfirtaki Tryggingarsjóð innstæðueigenda.
C. Lífeyrissjóðir selji erlendar eignir á verðtryggðum kjörum til Seðlabankans. Sbr. lið 5 aftast í þessu riti.
Stig 3 – Neyðaráætlun
A. Yfirtaka skuldbindinga (sænska leiðin).
B. Íbúðalánasjóður kaupi fasteignalán bankanna. [...]
Í framhaldinu er í skjalinu rakin svokölluð írsk leið. Um hana segir m.a.: "Á Írlandi lýsti ríkissjóður því yfir að hann ábyrgðist innlán, skuldir og víkjandi lán (Tier 1). Hver stofnun þar þarf að greiða ábyrgðargjald til ríkissjóðs." Síðan er nánar farið yfir kosti og galla þeirrar leiðar. Því næst er farið yfir svokallaða sænska leið en hún er í meginatriðum sögð vera eftirfarandi: "Sænska ríkið gaf út yfirlýsingu um að það myndi ábyrgjast innlán og skuldir innlendra banka, þó ekki hlutafé eigenda. Sett var á laggirnar sérstök stofnun sem hafði það hlutverk að stýra aðgerðum í nánu samráði við seðlabankann og fjármálaeftirlitið. Síðar voru stofnuð tvö fyrirtæki sem keyptu varhugaverðar eignir af bönkunum á matsverði sem miðað var við "líklegt verðgildi" til meðal-langs tíma." Því næst segir: "Greiðslan fyrir eignina var í formi reiðufjár, stundum gjaldeyris, en fyrir hverja krónu sem lögð var fram tók ríkið yfir hlutafé til jafnvirðis af eigendum. Bankar voru flokkaðir í þrjá hópa, A) tímabundnir erfiðleikar sem þörfnuðust lítilla aðgerða, þeir fengu tímabundna fyrirgreiðslu með hvata til að leysa sín mál sjálfir. B) leysanlegir erfiðleikar en tímafrekir, voru stundum teknir yfir af ríki og síðar seldir. C) ill/óleysanleg vandamál." Síðan segir: "Í tilviki C) var eignum skipt í góðar eða slæmar. Góðu eignirnar voru seldar en þær slæmu voru settar í annað fyrirtækjanna sem að ofan er sagt frá og reynt að gera einhvern mat úr þeim." Í framhaldinu er leiðinni lýst nánar. Síðan er í minnisblaðinu nefnt að fleiri þekktar leiðir komi til greina og í dæmaskyni nefndar norsk og finnsk leið sem ekki eru útskýrðar frekar. Loks er rætt um aðrar aðgerðir og þær skýrðar í stuttu máli.Tekið skal fram að rannsóknarnefnd Alþingis hefur einnig undir höndum fyrri drög að þessu minnisblaði. Inn á það eintak Seðlabankans er handskrifuð tímasetningin 09:38.
Sama dag, þ.e. 2. október 2008, fundaði samráðshópur forsætisráðuneytis, fjármálaráðuneytis, viðskiptaráðuneytis, Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands um fjármálastöðugleika og viðbúnað. Í drögum að fundargerð er haft eftir Baldri Guðlaugssyni, ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytis, að ákveðin hugmynd hafi vaknað sem sé algjörlega "á hugmyndastigi og ekki rædd öðruvísi". Sú hugmynd snúi að aðkomu lífeyrissjóðanna að Glitni. Matsfyrirtæki telji að ríkið hafi færst of mikið í fang varðandi Glitni. Baldur nefnir hvort til greina komi að lífeyrissjóðir komi inn í Glitni við hlið ríkisins sem hluthafar og greiði fyrir það með gjaldeyri. Síðar í drögum að fundargerð er haft eftir Jónínu S. Lárusdóttur, ráðuneytisstjóra viðskiptaráðuneytis, "að ef ríkið hætti við Glitni þá rúlli allt". Þá hafi Tryggvi Pálsson sagt að "það sé hvort sem er allt að rúlla". Samkvæmt fundargerð var því næst rætt frekar um hugsanlega aðkomu lífeyrissjóðanna að lausn vandans. Síðan segir: "IF [Ingimundur Friðriksson] segir þetta í raun vera akademískar spurningar þar sem ekki sé einu sinni víst að við lifum til helgar." Því næst er rætt um símafund með lánshæfismatsfyrirtækinu Moody's sem fram kemur að átt hafi sér stað um morguninn. Á þeim fundi hafi verið spurt hvort ríkið hyggist taka á sig skuldbindingar bankakerfisins og setja sig um leið í þrot. Síðar í fundargerð er haft eftir Tryggva Pálssyni að í "raun hafi aðkoma ríkisins að Glitni virkað þveröfugt við það sem ætlað var". Síðan segir: "TP [Tryggvi Pálsson] nefnir þau yfirlit sem Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið eru að vinna. Í gær var ákveðið að vinna áfram þær tillögur sem fram voru komnar; Seðlabankinn ætlaði að fara yfir ábyrgðaryfirlýsingu innlána (írsku leiðina) og yfirtöku ríkisins á ákveðnum illseljanlegum/slæmum eignum (sænska leiðin). [...] JFrJ [Jónas Fr. Jónsson] segir enn verið að vinna svonefnda útibúaleið í FME og hann geti því ekki kynnt þá vinnu enn sem komið er." Í fundargerð kemur fram að undir lok fundar hafi Jónas Fr. Jónsson, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, sagt að "í versta falli þá verji ríkið bankann sem það eigi þegar". Síðan er haft eftir Ingimundi Friðrikssyni, seðlabankastjóra, að mikilvægt sé að "halda greiðslukerfum í landinu gangandi og viðskiptum við útlönd" og loks að verja innstæður.
Sama dag, þ.e. 2. október 2008, sendi Arnór Sighvatsson, aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands, bankastjórn Seðlabankans minnisblað um aðgerðir í peningamálum. Undir lok minnisblaðsins lýsir Arnór því að hann telji brýnt að grípa til fjórþættra ráðstafana til að snúa við falli íslensku krónunnar og koma í veg fyrir verðbólguholskeflu í kjölfarið. Ráðstafanirnar eru í fyrsta lagi að bæta lausafjárstöðu á gjaldeyrismarkaði með því að gera gjaldmiðlaskiptasamninga við bankana. Í öðru lagi að hækka stýrivexti umtalsvert. Í þriðja lagi að gefa út yfirlýsingu um að Seðlabankinn muni áfram stefna að því að ná verðbólgumarkmiðinu og að hann vilji stuðla að verulegri gengishækkun krónunnar í því skyni. Í fjórða lagi að breyta fyrirkomulagi útboða ríkissjóðs þannig að kröfur um ávöxtun taki meira mið af stýrivöxtum. Loks lýsir Arnór því að hann telji heppilegast að fyrstu þrjár tillögurnar sem Seðlabankinn geti ákveðið einhliða fylgist að en samhliða verði unnið að því að afla samþykkis ríkissjóðs fyrir síðustu aðgerðinni.
Í smáskilaboðum sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, sendi Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sama dag, þ.e. 2. október 2008 kemur fram að eftir umhugsun vilji Ingibjörg leggja eftirfarandi texta inn hjá Geir: "[É]g hef lengi heyrt umtalsverda gagnryni ur fjarmalageiranum á ad SI sé ekki faglega sterkur a svidi fjarmalastodugleika og hafi nu ordid faa innanbudar sem thekki til a lanamorkudum sbr. thad sem gerdist hjá Bayerische Landesbank. Hugsanlega tharf rikisstjornin ad styrkja sina adkomu. Bendi a Ynga Örn i Lsb. Gerdu svo Má Gudmundsson ad Sedlabankastjora i stad DO.Thad mun thykja traust. Hann hefur samböndin. Ég held ad thetta sé ákv ögurstund. Kv Isg[.]"
Starfshópur Seðlabankans um viðbrögð við lausafjárvanda fundaði föstudaginn 3. október 2008 (4. stöðumatsfundur). Í fundargerð er m.a. haft eftir Tryggva Pálssyni að nú sé orðið of seint að fara í "æfingar að skipta á milli innlendrar og erlendrar starfsemi bankanna".Tryggvi hafi einnig sagt að nú þurfi þeir sem hafa ákvörðunarvald að stilla bönkunum upp við vegg. Í fundargerð segir loks: "Athuga verður ef að bankarnir fara í þrot hvað yrði um greiðslumiðlun í landinu. LA [Lilja Alfreðsdóttir] sagði að greiðsluþjónusta gæti farið að liggja niðri í um vikutíma og það gæti haft í för með sér mikinn álitshnekki." Í fundargerðinni kemur fram að lögð hafi verið fram drög að minnisblaði starfshóps um viðbrögð við lausafjárvanda frá 2. október 2008.
Í fyrrgreindum drögum að minnisblaði starfshóps um viðbrögð við lausafjárvanda, dags. 2. október 2008, er ýmsum möguleikum teflt fram án þess að tekin sé frekari afstaða til þeirra. Sem dæmi má nefna að sú hugmynd er sett fram að samninga megi gera við lífeyrissjóði um skipti á erlendum eignum fyrir verðtryggð ríkisskuldabréf. Þá er einnig bent á að til greina komi að hefja viðræður við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Undir lok skjalsins segir: "Ábyrgðaryfirlýsing vegna innlánaverndar gæti verið ótímabær á þessu stigi
m.a. vegna hættu á áhlaupi fyrirtækja, stofnana og einstaklinga sem ekki nytu verndar. Jafnframt kann enn að gefast tími til dótturfélagavæðingar erlendis."
Kl. 09:30 föstudaginn 3. október 2008 fundaði ríkisstjórn Íslands. Í fundargerð segir að forsætisráðherra hafi tekið til umræðu atburðarás síðustu daga og stöðu bankanna. Síðan segir: "Iðnaðarráðherra [Össur Skarphéðinsson] sagði ummæli seðlabankastjóra um þjóðstjórn á síðasta ríkisstjórnarfundi óviðeigandi gagnvart núverandi ríkisstjórn og taldi rétt að hann viki úr embætti." Því næst segir í fundargerðinni: "Viðskiptaráðherra [Björgvin G. Sigurðsson] gagnrýndi að ráðherra bankamála skuli ekki hafa verið hafður með í ráðum í Glitnismálinu fyrr en á sunnudagskvöldi." Við skýrslutöku lýsti Björgvin G. Sigurðsson fundinum með eftirfarandi orðum: "[...] og þessi stórfurðulega helgi hefst þarna á föstudeginum með næsta ríkisstjórnarfundi. Þar bókar Össur mjög harkalega um innkomu [...] seðlabankastjóra og hans tillögur um þjóðstjórnina og það og forsætisráðherra þótti þetta mjög óþægilegt að hann skyldi bóka svona, það væri eiginlega aldrei bókað og það mundi fara út og svona. Og ég bókaði sjálfur mjög harkalega bókun, þarna var þetta Glitnismál búið að krauma í manni alla vikuna, og ég bókaði á sama fundi um það að mér þætti það forkastanlegt og með öllu óeðlilegt hvernig atburðarásin var og að ráðuneyti bankamála hefði ekki verið haft með og svona, mér fannst það rétt á þeim tíma. Þarna eru náttúrulega komnar upp miklar umræður um bankana, alls konar umræður um að það verði hérna jafnvel vöruskortur og ég veit ekki hvað og hvað og við erum svona að reyna að slá náttúrulega á þetta og töldum þegar við fórum inn í helgina að kerfinu væri viðbjargandi."
Við skýrslutöku lýsti Ragnar Önundarson því að aðgerðarhópurinn sem settur var á fót í Seðlabankanum að morgni þriðjudagsins 30. september 2008 hefði starfað fram til hádegis föstudaginn 3. október sama ár "því að þá komu ráðuneytisstjórarnir og þá skildum við, má segja, þá eftir með "pródúktið" af okkar starfi, minnisblöð um það hvaða leiðir kæmu til greina". Sagði Ragnar að þar með hefði störfum aðgerðarhópsins lokið og hefði Ragnar ekkert komið að viðlagastarfi um helgina. Ragnar hefði hins vegar af öðrum ástæðum komið aftur til starfa fyrir Seðlabankann í næstu viku á eftir. Þá hefði hann unnið að því að halda greiðslukerfum gangandi, sérstaklega varðandi Visa, MasterCard og American Express.
Í hádegisfréttum Ríkisútvarps föstudaginn 3. október 2008 var rætt við Gylfa Magnússon, dósent við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands.Við þetta tækifæri sagði Gylfi m.a.: "Íslenska fjármálakerfið er komið í greiðsluþrot, við getum ekki staðið við skuldbindingar gagnvart, eða skuldbindingar okkar í erlendri mynt og það er meira að segja ekki hægt að útvega gjaldeyri núna til þess að flytja inn eðlilegar vörur. Það er hins vegar ekki þannig farið að landið sé gjaldþrota eða að ríkið sé gjaldþrota, það er ekki þannig, en það eru allmörg innlend hlutafélög og þar með talið bankarnir, í reynd tæknilega séð gjaldþrota." Í sama fréttatíma var rætt við Geir
H. Haarde. Hann sagði að fólk þyrfti ekki að óttast um innstæður sínar í lánastofnunum á Íslandi. Ummæli Gylfa Magnússonar voru þá borin undir Geir sem sagði að sér væri ekki kunnugt um að íslenska bankakerfið væri komið í greiðsluþrot og sagði að hann teldi ekki rétt að ýta undir vangaveltur í þeim efnum. Síðar í fréttatímanum var rætt við Sigurð Einarsson, stjórnarformann Kaupþings banka hf., sem sagði að um misskilning væri að ræða hjá Gylfa Magnússyni. Fremur væri um það að ræða að faglegur trúverðugleiki Gylfa sem dósents væri nálægt gjaldþroti. Málið snerist um hvort nægt laust fé væri til staðar í kerfinu. Loks var síðan rætt við Davíð Oddsson, formann bankastjórnar Seðlabanka Íslands. Davíð sagði að menn yrðu að fara mjög varlega og magna ekki upp þann vanda sem fyrir hendi væri. Þrengingar væru á gjaldeyrismarkaði en hann væri áfram opinn þótt hann myndi ábyggilega hökta nokkuð næstu daga. Seðlabankinn hefði yfir að ráða miklum gjaldeyrisforða og gæti tryggt þarfir ríkisins samfellt um níu mánuði án þess að annað kæmi til.
Upp úr kl. 13:00 sama dag, þ.e. 3. október 2008, fundaði Geir H. Haarde með Sigurði Einarssyni og Hreiðari Má Sigurðssyni, forstjóra Kaupþings,í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu.Í tölvubréfi Geirs H.Haarde til rannsóknarnefndar Alþingis,dags.17.mars 2009, segir að á meðan á fundinum stóð hafi ritari Geirs fært honum þau skilaboð að Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands, hefði hringt og óskaði eftir að ræða við Geir. Í bréfinu segir einnig: "Sagðist hann [Darling] vilja tjá mér að dótturfélag Kaupþings, KSF, hefði að dómi breskra yfirvalda gert sig sekt um að flytja fé frá Bretlandi með óeðlilegum hætti, samtals 600 milljónir punda. Málið væri litið svo alvarlegum augum að FSA myndi loka starfsemi bankans þá um kvöldið ef þessir fjármunir yrðu ekki þegar endurgreiddir." Geir segist hafa greint Sigurði og Hreiðari frá þessu. Síðan segir í bréfi Geirs: "Tíðindin virtust koma þeim í opna skjöldu en þeir hringdu þegar í íslenska Fjármálaeftirlitið og báðu það að hafa samband við rétta aðila hjá FSA. Einnig hringdu þeir strax í forstjóra KSF, sem þá var staddur í bíl á leið til fundar við FSA. Fullvissuðu þeir mig um að þeir gætu leyst þetta mál, en töldu jafnframt að í málinu væri einhver misskilningur sem auðvelt ætti að vera að greiða úr." Samkvæmt tölvubréfi Páls Þórhallssonar, starfsmanns forsætisráðuneytis, til rannsóknarnefndar Alþingis 10. mars 2009, þurrkaðist hljóðupptaka af samtali Geirs og Darling út vegna mistaka sem urðu fyrir "handvömm starfsmanna stjórnarráðsins".
Í minnisblaði Jóns Þ. Sigurgeirssonar, sérfræðings á skrifstofu bankastjórnar Seðlabankans, og Lilju Alfreðsdóttur, starfsmanns Seðlabankans, frá 3. október 2008 er lýst símafundi með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem fram fór sama dag. Í minnisblaðinu segir að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi átt frumkvæði að fundinum. Auk Jóns og Lilju sat Ingimundur Friðriksson fundinn. Fram kemur að fulltrúar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafi spurt út í "þann orðróm að von væri á utanaðkomandi fjárhagsaðstoð". Því næst segir: "IF [Ingimundur Friðriksson] skýrði það út að þessar upplýsingar kæmu frá efnahagsráðgjafa forsætisráðherra,Tryggva Þ. Herbertssyni, og ekki væri hægt að fara nánar út í það á þessari stundu." Síðan segir að spurt hafi verið hvort Seðlabankinn væri í sambandi við hugsanlega lánveitendur. Hafi Ingimundur þá greint frá því í stuttu máli hvernig viðræðum við Seðlabanka Evrópu og Seðlabanka Bretlands hefði lyktað um vorið. Einnig segir að Ingimundur hafi lýst því að eftirspurn Seðlabankans eftir gjaldmiðlaskiptasamningum væri meiri en framboð. Því næst kemur fram að fulltrúi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafi spurt hvort framkvæmdastjóri sjóðsins ætti að hafa samband við formann bankastjórnar Seðlabankans og í framhaldi segir: "IF sagði að SÍ yrði í sambandi hvað það varðaði á mánudaginn. Því næst spurði [fulltrúi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins] hvort Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ætti að senda sendinefnd til landsins í næstu viku. IF sagði að hann þyrfti að ræða betur við önnur stjórnvöld. [Fulltrúi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins] spurði í framhaldinu hvort stjórnvöld væru að skoða alla möguleika hvað fjármögnun varðar og hvort fjárhagsaðstoð frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum væri útilokuð á þessu stigi. IF svaraði því til að stjórnvöld hefðu ekki hugleitt að snúa sér til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins."
Um kl. 17:30 föstudaginn 3. október 2008 fundaði samráðshópur forsætisráðuneytis, fjármálaráðuneytis, viðskiptaráðuneytis, Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands um fjármálastöðugleika og viðbúnað. Í drögum að fundargerð segir m.a.: "BÞB [Bolli Þór Bollason] segir í upphafi fundar að á mánudagsmorgun sl. var von um að við gætum haldið þremur bönkum, nú er spurning hvort við getum haldið einum." Í fundargerð kemur fram að Tryggvi Pálsson hafi farið yfir helstu niðurstöður eftir samtöl við þjónustuver bankanna.Vikan hafi farið hægt af stað en "nú sé í raun hafið bankaáhlaup". Síðan er rætt um fyrri hugmyndir um aðkomu lífeyrissjóða.
Haft er eftir Baldri Guðlaugssyni að upphaflega hafi menn gert ráð fyrir því að lífeyrissjóðirnir væru tilbúnir að taka þátt þar sem það væri þeim hagstætt. Baldri skiljist hins vegar á ASÍ að þetta þurfi að vera hluti af stærri pakka efnahagsaðgerða og jafnvel kjaramála. Slíkt muni taka langan tíma. Síðan er haft eftir Baldri: "Staðan hjá bönkunum muni ekki breytast þó tilkynnt verði að ríkið muni fá einhvern gjaldeyri inn í landið." Síðar í drögum að fundargerð kemur fram að Ragnar Hafliðason, aðstoðarforstjóri Fjármálaeftirlitsins, hafi hringt inn á fundinn og sagt að fjármálaeftirlit Lúxemborgar hafi haft samband og tilkynnt um að veðköll verði á Landsbankann og Glitni mánudaginn 6. október. Um háar fjárhæðir sé að ræða. Síðar í fundargerð er haft eftir Jónasi Fr. Jónssyni að hann leggi áherslu á að "mjög mikilvægt sé að helgin verði nýtt".Telji hann að kostnaðargreina þurfi alla kosti. Síðan segir: "Nú hafi FME unnið útibúaleið sem gengur út á að nota heimild í lögum til að taka yfir útibú og rekstrarhluta." Jónas hafi síðan farið yfir samantekt Fjármálaeftirlitsins um útibúaleið sem dreift var á fundi. Í fundargerð er haft eftir Baldri Guðlaugssyni að eins og leiðinni sé lýst séu teknar yfir meiri eignir en skuldir. Kaupandi vilji væntanlega fá eignir sem séu jafnmiklar og skuldir. Því næst segir í fundargerð að Baldur Guðlaugsson hafi spurt hvort sérfræðingahópur hafi skilað vinnu sinni. Í drögum að fundargerð segir að Tryggvi Pálsson hafi þá bent á að hópur Seðlabankans hafi skilað "plaggi í gær" og Fjármálaeftirlitið hafi skilað áætlun um útibúaleið á þessum fundi. Ætla má að með fyrrnefndri tilvísun í hóp Seðlabankans sé átt við svokallaðan aðgerðarhóp Seðlabankans sem nefndur var hér að framan. Í beinu framhaldi segir: "Nú þurfi stefnu frá stjórnvöldum og þá verði farið af stað að meta þá stefnu. Hægt sé að setja sérfræðinga í að reikna, á því hafi verið hægt að byrja í apríl en nú sé líka hægt að byrja. Nú þurfi bara frá stjórnvöldum hvað eigi að reikna."
Rannsóknarnefnd Alþingis hefur undir höndum fyrrgreint minnisblað Fjármálaeftirlitsins um svokallaða "útibúaleið". Samkvæmt þessari leið skyldi Fjármálaeftirlitinu fengin "heimild í lögum til að m.a. taka yfir rekstur fjármálafyrirtækis í heild eða hluta og getur ráðstafað slíku fyrirtæki í heild eða hluta við [sic] annað fyrirtæki". Fram kemur að einstök útibú bankanna á Íslandi séu nær eingöngu í innanlandsstarfsemi og með sérstakt bankanúmer í RB-kerfum. Því sé auðvelt að aðgreina þau frá starfsemi höfuðstöðva bankanna. Um áætlunina segir í minnisblaði Fjármálaeftirlitsins að þetta sé framkvæmanlegt en flókið, tímafrekt, mjög viðkvæmt og að auki umfangsmikil aðgerð. Markmiðið sé að halda uppi ákveðinni lágmarksþjónustu. Með áætluninni sé áhætta ríkisins af umfangsmikilli erlendri starfsemi bankanna takmörkuð. Ýmsir veikleikar áætlunarinnar eru taldir upp í lok minnisblaðsins. Af gögnum sem bárust frá Fjármálaeftirlitinu má ráða að innan stofnunarinnar hafi áfram verið unnið með þetta skjal og er því til 2. útgáfa af því.
Kl. 17:54 sama dag, þ.e. 3. október 2008, sendi Auður Gísladóttir, starfsmaður Seðlabankans, Tryggva Pálssyni tölvubréf. Í bréfinu segir að úttektir á seðlum þennan dag úr bönkum á Íslandi hafi numið um 5,5 milljörðum kr. Í framhaldinu áframsendi Tryggvi tölvubréfið á samráðshóp forsætisráðuneytis, fjármálaráðuneytis, viðskiptaráðuneytis, Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans um fjármálastöðugleika og viðbúnað.Í því bréfi segir Tryggvi að venjuleg úttekt á föstudegi sé um 200 milljónir kr.Við skýrslutöku ræddi Jónas Fr. Jónsson um úttektir úr bönkum þennan dag: "[...] svo var náttúrulega föstudagurinn alveg skelfilegur eftir að Gylfi Magnússon mætti í Ríkisútvarpið og talaði um gjaldþrot bankanna. Það voru meira en tuttugufaldar úttektir á seðlum þennan dag, þetta var náttúrulega, þetta var náttúrulega mjög súrrealískt."
20.3.6 Viðlagaundirbúningur í Seðlabanka Íslands helgina 4.–5. október 2008
Af þeim gögnum og upplýsingum sem rannsóknarnefnd Alþingis hefur aflað er ljóst að helgina 4.–5. október 2008 unnu starfsmenn Seðlabanka Íslands að ýmsum verkefnum til undirbúnings því ef til frekari áfalla kæmi í rekstri íslensku bankanna næstu daga. Þá komu einnig til landsins erlendir sérfræðingar sem bankinn hafði kallað til. Eins og nánar verður lýst síðar virðist þetta starf þó að mestu hafa verið unnið án tengsla við annan viðlagaundirbúning sem unnið var að á vegum stjórnvalda þessa helgi ef undan er skilin þátttaka bankastjóra Seðlabankans í fundum með ráðherrum í Ráðherrabústaðnum og fundum sem þeir áttu með einstökum bankastjórum viðskiptabankanna. Síðar verður vikið að samskiptum og aðkomu starfsmanna Seðlabankans og þeirra erlendu sérfræðinga sem komu til Íslands á vegum bankans að því viðlagastarfi og fundahöldum sem fram fóru utan bankans um helgina.
Í drögum að minnisblaði Tryggva Pálssonar, framkvæmdastjóra fjármálasviðs Seðlabanka Íslands, til bankastjórnar Seðlabankans um skipulag viðlagavinnu í Seðlabankanum helgina 4.–5. október 2008 var gerð tillaga um skipulag þessarar vinnu. Samkvæmt drögunum skyldi bankastjórn annast "yfirstjórn, mótun tillagna um aðgerðir og samskipti við utanaðkomandi". Jafnframt skyldu fimm vinnuhópar hefja störf strax og hafa "sem viðmið í upphafi svonefnda Glitnisleið, þ.e. að ríkið sjái til þess að Glitnir starfi áfram og geti veitt bankaþjónustu en sú forsenda [er] jafnframt gefin að a.m.k. Kaupþing og Landsbankinn komist í greiðsluþrot í næstu viku". Hóparnir sem Tryggvi lagði til að komið yrði á fót eru:
1. Greiðslumiðlunarhópur. Honum var ætlað að finna leiðir til að greiðslumiðlun yrði sem öruggust og skilvirkust, bæði innanlands og við útlönd.
2. Fjármögnunarhópur. Honum var ætlað að meta fjármögnunarþörf og -getu Glitnis og ríkissjóðs á næstu vikum og mánuðum.
3. Innstæðutryggingarhópur. Honum var ætlað að skila mati á skuldbindingum Tryggingarsjóðsins og valkostum á skuldbindingum.
4. Efnahagshópur. Honum var ætlað að "meta efnahagsleg áhrif m.t.t. ofangreindra forsendna og útbúa svonefnt hitakort".
5. Almannatengslahópur. Honum var ætlað að undirbúa spurningar og svör sem Seðlabankinn og fleiri gætu nýtt í almannatengslum á næstunni. Hópnum var jafnframt ætlað að koma með "tillögur um kynningarefni og svörun fyrirspurna í síma og á netinu á íslensku og ensku".
Í síðari drögum Tryggva Pálssonar að framangreindu skjali, dags. sunnudaginn 5. október 2008, er búið að bæta nýjum hópi inn á milli hópa nr. 4 og 5. Um er að ræða seðlahóp sem ætlað er að útfæra tillögu um "móttöku og geymslu seðla sem almenningur hefur tekið úr bönkum og sparisjóðum". Inn á skjalið hefur auk þess verið handskrifuð lýsing á tveimur hópum til viðbótar. Annar á að annast gjaldeyrishöft og skilaskyldu. Hinum er ætlað að koma að yfirtöku banka án þess að til gjaldþrotaúrskurðar komi. Ekki liggja fyrir hjá rannsóknarnefnd Alþingis skrifleg gögn um það hvernig staðið var að vinnu einstakra hópa en eins og áður sagði virðist þessi vinna að mestu hafa verið án tengsla við annað viðlagastarf sem verið var að vinna á vegum stjórnvalda þessa helgi.Að einhverju marki mun það starf sem unnið var í þessum hópum síðan hafa nýst í starfi Seðlabankans vikuna á eftir þegar greiða þurfti úr málum bankanna og greiðslumiðlun m.a. við útlönd.
Í tölvubréfi sem Tryggvi Pálsson sendi rannsóknarnefnd Alþingis 24. nóvember 2009 kom fram að hann hefði verið erlendis 22.–29. september 2008. Lýsti hann því einnig að unnið hefði verið skipulega og af kappi helgina 4.–5. október 2008 og að hóparnir hefðu síðan haldið áfram eftir það. Því næst víkur Tryggvi sérstaklega að þeirri vinnu sem fram fór eftir helgina og segir: "Auk þess fékk ég að kalla til aðra fyrrum samstarfsmenn mína úr Íslandsbanka, þ.e. Ragnar Önundarson, Halldór S. Magnússon og Sigríði Maríu Torfadóttur. Ragnar tók þátt í vinnu hóps um yfirtöku banka. Halldór hjálpaði greiðslumiðlunarhópi og Sigga Maja fór í úthringingar o.fl. til að koma erlendu greiðslumiðluninni aftur af stað."
Loks skal þess getið hér að fulltrúar J.P. Morgan komu hingað til lands 5. október 2008 að beiðni Seðlabanka Íslands.Við skýrslutöku lýsti Sturla Pálsson, framkvæmdastjóri alþjóða- og markaðssviðs Seðlabankans, því að "J.P. Morgan [væri] búinn að vera áratugum saman í viðskiptum, bæði við stjórnvöld og síðan við bankana, þannig að þeir [hefðu haft] nokkuð glögga mynd af" viðskiptum á Íslandi. Fulltrúar J.P. Morgan voru þrír en sá fjórði bættist við mánudaginn 6. október 2008. Fyrir hópnum fór Michael Ridley. Í kafla 20.3.11 er fjallað um fund fulltrúa J.P. Morgan með ríkisstjórninni sem haldinn var síðla kvölds sunnudaginn 5. október 2008.
Í kafla 20.3.12 er nánar greint frá vinnu sérfræðings frá Seðlabanka Bretlands sem starfaði fyrir Seðlabanka Íslands helgina 4.–5. október 2008.
20.3.7 Störf sérfræðingahóps forsætisráðherra 3. til 5. október 2008
Hinn 2. október 2008 ákváðu tveir hagfræðingar hvor í sínu lagi og að eigin frumkvæði, annar staddur í Reykjavík og hinn í New York, að senda Geir H. Haarde, forsætisráðherra, hugmyndir sínar um nauðsynlegar aðgerðir til að bregðast við yfirvofandi vanda í fjármálakerfi Íslands. Friðrik Már Baldursson, prófessor í hagfræði við Háskólann í Reykjavík, sendi Geir tölvubréf kl. 15:38 og það hófst á orðunum: "Ég bið þig að afsaka að ég gerist svo djarfur að skrifa þér beint. En ég get ekki orða bundist og vil því leggja eftirfarandi fram til umhugsunar [...]." Í bréfinu dró Friðrik saman tillögur sínar í efnahagsmálum og segir í upphafi: "Það er orðin spurning um líf eða dauða íslensks efnahagslífs að skilja á milli alþjóðlegrar og innlendrar starfsemi bankanna og koma höfuðstöðvum þeirra úr landi." Geir svaraði bréfinu kl. 15:45 og þakkaði góðar ábendingar. Kl. 09:47 næsta morgun, þ.e. föstudaginn 3. október 2008, sendi Friðrik Geir síðan annað tölvubréf. Í því segir: "Með fylgir minnisblað þar sem hugmyndir um flutning banka eru settar fram á skipulagðari hátt en í tölvupóstum frá því í gær. Ég læt framhleypninni þá lokið." Við skýrslutöku lýsti Friðrik því að hann hefði einnig sent Jóni Þór Sturlusyni, aðstoðarmanni viðskiptaráðherra, minnisblaðið sama dag kl. 14:12, þ.e. 3. október 2008. Um kl. 18:00 sama dag var rætt við Friðrik í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins. Friðrik sagði að forgangsmál væri að tryggja fjármögnun fjármálakerfisins. Í öðru lagi þyrfti að vinda ofan af efnahagsreikningi landsins. Slíkt verði gert með því að selja eignir bankanna eða flytja þá úr landi. Skuldbindingar Íslands næmu áttfaldri landsframleiðslu. Flutningur Kaupþings úr landi gæti t.d. sýnt að íslenska ríkið væri í stakk búið til að standa við bakið á bönkunum.
Jón Steinsson, hagfræðingur, sem búsettur er í Bandaríkjunum og er lektor við Columbia háskólann í New York, sendi Geir H. Haarde, forsætisráðherra, tölvubréf kl. 08:19 að morgni 3. október 2008 ásamt minnisblaði þar sem hann lýsti afstöðu sinni varðandi það til hvaða aðgerða væri nauðsynlegt að grípa til að snúa við hruni krónunnar. Í því efni taldi hann bráðnauðsynlegt að ríkið og Seðlabankinn ykju aðgang bankanna að lausu fé í krónum með því að víkka veðheimildir í Seðlabankanum. Jón lauk bréfi sínu með þessum orðum: "Ég ákvað (að eigin frumkvæði) að koma heim til Íslands í nótt. Ef ég get orðið þér að liði á einhvern hátt getur þú náð í mig í síma [...]." Jón lýsti því við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis að fimmtudaginn 2. október 2008 hefði hann ákveðið að snúa til Íslands og við heimkomuna daginn eftir hefði hann sent Geir, ofangreint bréf. Eins og Geir lýsir sjálfur hér á eftir var kunningsskapur milli hans og Jóns og einnig voru í hópi kunningja Jóns ýmsir sem unnu náið með Geir þ.m.t. á vettvangi Sjálfstæðisflokksins. Strax að morgni 3. október 2008 fékk Geir hvatningu úr þeim hópi um að fá Jón til liðs við sig og til ráðgjafar. Geir óskaði eftir að Jón kæmi til fundar við sig í Ráðherrabústaðnum kl. 14.00 föstudaginn 3. október og gekk það eftir. Jón segir að þegar hann hitti Geir hafi hann virst vera á barmi taugaáfalls. Geir hafi í upphafi sagt að forsvarsmenn Kaupþings banka hf. væru í næsta herbergi og að hann hafi rétt í þessu verið að ræða við Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands. Hætta sé á að einn eða fleiri af bönkunum verði "settir í þrot" fyrir lokun markaða. Í kjölfar fundarins segir Jón að hann hafi haldið í húsakynni Seðlabankans þar sem hann hitti gamla vinnufélaga sína. Þeir hafi sagt að "allt hagfræðisviðið hafi verið fryst úti". Jón sagðist hafa skilið þá þannig að yfirstjórn bankans hefði ekkert samráð við hagfræðisviðið um hvað gera ætti og hefði ekki beðið það um að koma að vinnu "um hvað ætti að gera [...] og að yfirstjórnin [hefði] í rauninni ekki hlustað á neinar tillögur sem þeir komu sjálfir með að eigin frumkvæði".
Starfsmenn Seðlabankans hefðu sagt Jóni að Davíð Oddsson, formaður bankastjórnar Seðlabankans, talaði um Geir sem "idjót". Um kl. 16:00 hefði Jón síðan fengið símtal frá Geir sem hefði beðið sig að koma niður í Ráðherrabústaðinn og ræða við sig. Þegar þangað var komið hefði fljótlega borið að garði Árna M. Mathiesen, fjármálaráðherra, og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, menntamálaráðherra, auk Bolla Þórs Bollasonar, ráðuneytisstjóra forsætisráðuneytis, og Tryggva Þórs Herbertssonar. Jón segir að tilgangur fundarins af hálfu Geirs hafi virst vera sá að tilkynna sínum samstarfsmönnum að staðan væri orðin gríðarlega alvarleg. Síðan hafi Geir beðið Jón að vinna að lausn mála. Jón hafi síðan spurt hvort hann mætti kalla til tvo af hagfræðingum Seðlabankans, þá Arnór Sighvatsson og Þórarin Pétursson. Geir hafi samþykkt það með semingi. Jón hafi einnig spurt hvort hann mætti kalla til Jón Þór Sturluson, aðstoðarmann viðskiptaráðherra, en Jón Þór hafði hringt í hann stuttu áður. Geir hafi þá svarað því neitandi og segir Jón að sig minni að Geir hafi sagt að ekki skyldi rætt við Samfylkinguna fyrr en næsta dag.Að kvöldi sama dags segist Jón hafa ráðfært sig við fyrrgreinda hagfræðinga Seðlabankans.
Jón Steinsson lýsti því einnig við skýrslutöku að næsta morgun, þ.e. laugardaginn 4. október 2008, hefði hann verið beðinn um að mæta á fund í forsætisráðuneytinu um kl. 11:30. Þar hefði Jón síðan hitt fyrir Bolla Þór Bollason og Tryggva Þór Herbertsson. Þeir hefðu lýst því að samráðshópur forsætisráðuneytis, fjármálaráðuneytis, viðskiptaráðuneytis, Fjármála-eftirlitsins og Seðlabanka Íslands um fjármálastöðugleika og viðbúnað hefði fundað kvöldið áður. Hefðu þeir sagt að samráðshópurinn væri lamaður "vegna þess að afstaða fulltrúa Seðlabankans í nefndinni [væri] allt önnur en afstaða annarra í [hópnum]". Síðan sagði Jón: "Eins og ég man þetta þá var þessu lýst þannig fyrir mér að fulltrúi Seðlabankans vildi sem sagt láta bankana fara á hausinn og mig minnir að ég hafi spurt hvað það þýði að láta bankana fara á hausinn og ég veit ekki til þess að ég hafi fengið nein svör um það." Síðan lýsti Jón því að Bolli og Tryggvi hefðu virst vera komnir á þá skoðun að það þýddi ekki að treysta á samráðshópinn lengur. Forsætisráðuneytið þyrfti að hafa sitt eigið "plan" og ætlaði sér þess vegna að setja af stað starfshóp sem ætti að vinna neyðaráætlun um helgina. Ásamt Jóni voru kvaddir til starfa í þann hóp, utan Stjórnarráðsins, Friðrik Már Baldursson, hagfræðingur, og Bogi Nils Bogason, endurskoðandi. Auk þess voru Tryggvi Þór Herbertsson og Jón Þór Sturluson í hópnum.
Friðrik Már Baldursson sagði við skýrslutöku hjá rannsóknarnefndinni að laugardaginn 4. október 2008 hefði Jón Þór Sturluson haft samband við sig að morgni og beðið sig að mæta á fund í viðskiptaráðuneytinu. Hefði hann fallist á beiðnina. Skömmu síðar hefði Tryggvi Þór Herbertsson hins vegar hringt til sín og beðið sig að mæta til fundar í forsætisráðuneytið. Friðrik segist hafa ákveðið að mæta frekar í forsætisráðuneytið og hafi tilkynnt Jóni Þór Sturlusyni um það. Um þetta sagði Friðrik við skýrslutöku: "[...] ástæðan fyrir því að ég ákvað það var ósköp einfaldlega sú að forsætisráðuneytið fer með stjórn efnahagsmála og sér í lagi með Seðlabankann og, ja, mér fannst einfaldlega að þar væri réttara að og raunar vissi auðvitað heldur ekki uppleggið, þ.e. að það væri verið að funda í raun og veru annars vegar í viðskiptaráðuneytinu einhvern veginn að það væri ekki verið að "co-ordinera", skilurðu? Og hérna og ég gat augljóslega ekki verið á báðum stöðum á sama tíma þannig að ég fer niður í forsætisráðuneytið [...]." Friðrik segist hafa verið kominn í forsætisráðuneytið á milli kl. 12:00 og 12:30 sama dag. Fundinum þar lýsti Friðrik þannig að Tryggvi Þór Herbertsson hefði gert grein fyrir þeirri stöðu sem upp var komin. Mjög miklar greiðslur væru að falla á íslensku bankana og óhjákvæmilegt að bregðast við því.Tryggvi hefði verið með ákveðnar hugmyndir um það hvernig bregðast ætti við, þ.e. að "búa til innlent bankakerfi, sem sagt að girða af innlenda starfsemi bankanna". Hópnum hefði síðan verið falið það verkefni að útbúa "plön að aðgerðarplani með þetta að markmiði". Friðrik segist hafa spurt af hverju Seðlabankinn hefði ekki aðkomu að málinu. Hafi hann fengið þau svör frá Tryggva að það væri ekki hægt að eiga við Seðlabankann í þessu máli vegna þess að Davíð Oddsson "væri með þá einu lausn í huga að láta þetta allt saman fara í þrot". Jón Steinsson segir að við sama tækifæri hafi verið "sérstaklega hnykkt á því að Seðlabankinn ætti ekki að vita af því sem við værum að gera".
Aðspurður svaraði Jón Þór Sturluson því við skýrslutöku að ástæða þess að Seðlabankinn hefði ekki komið að umræddum hópi sérfræðinga hefði verið sú að á þessum tíma hefði ríkt "djúpstæð tortryggni á milli Seðlabankans og [...] stórs hluta ríkisstjórnarinnar". Jón bætti því við að menn hefðu ekki verið "trúaðir á þær aðgerðir sem seðlabankastjórinn [hrinti] af stað þarna fyrr í vikunni".
Aðspurður hvenær Geir H. Haarde hefði fundað með Jóni Steinssyni svaraði Geir við skýrslutöku: "Ég kallaði hann til og bað hann að vera okkur innan handar hér [...]. Ég hafði nú annað slagið talað við hann vegna þess að ég þekki hann og hans fjölskyldu persónulega. Hann kemur heim og hann og Friðrik Már Baldursson hella sér í þetta mál á mínum vegum [...]. Ég leitaði til Jóns eftir að hann var kominn til landsins um að vera mér innan handar og ég leit svo á að hann væri að gera það persónulega fyrir mig. Hann hafði náttúrulega enga stöðu, sem utanaðkomandi maður, í því efni. Hver talaði nákvæmlega við Friðrik er ég ekki með á hreinu en hann náttúrulega var maður, eins og ég segi, sem naut mikils trausts og virðingar í faginu."
Þegar Friðrik Már Baldursson var spurður að því hvort sérfræðingahópurinn hefði fengið afhent einhver gögn hjá forsætisráðuneytinu um það viðlagastarf sem áður hefði verið unnið að á vegum stjórnvalda, t.d. úr starfi samráðshóps ráðuneytanna, Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins, svaraði hann því neitandi. Sama hefði átt við um þá vinnu sem unnin hafði verið í Seðlabankanum vikuna þar á undan.
Fundi hópsins sem kallaður hafði verið til starfa af hálfu forsætisráðherra með starfsmönnum forsætisráðuneytisins lauk upp úr hádeginu laugardaginn 4. október. Þegar þeir komu út úr Stjórnarráðinu lá ekkert fyrir um hvar þeir gætu haft starfsaðstöðu og þeir ákváðu því að fara í húsakynni Háskólans í Reykjavík. Jón Steinsson lýsti upphafi vinnu hópsins með eftirfarandi orðum: "Auðvitað er þetta gríðarlega ómarkvisst til þess að byrja með vegna þess að við höfum engar upplýsingar, við fáum engar sérstakar upplýsingar. Það fyrsta sem við gerum er að byrja að prenta út ársskýrslur bankanna og árshlutaskýrslur bankanna [...]." Fljótlega var þó ákveðið að vinna að verkefninu í Fjármálaeftirlitinu þar sem nálgast mætti frekari upplýsingar. Jón Steinsson lýsti því við skýrslutöku að síðan hefði Jón Þór Sturluson kallað eftir samþykki bankanna fyrir því að "vinnuhópi undir forystu Friðriks Más Baldurssonar" yrðu veittar upplýsingar sem Fjármálaeftirlitið byggi yfir, s.s. aðgangur að lánabókum. Samþykki bankanna lá fyrir laust fyrir kl. 16 á laugardeginum. Jón segir síðan að hópurinn hafi fundað stuttlega með Geir H. Haarde, Árna M. Mathiesen, Jóhönnu Sigurðardóttur, félagsmálaráðherra, og Össuri Skarphéðinssyni, iðnaðarráðherra, auk þeirra Baldurs Guðlaugssonar, ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytis, og Bolla Þórs Bollasonar um kl. 18:00 sama dag, þ.e. laugardaginn 4. október 2008. Í dagbók Jóns segir að ráðherrarnir hafi á fundinum virst "áhugasamir um tillögur" hópsins. Jón segir að í kjölfar fundarins hafi sérfræðingahópurinn haldið aftur í Fjármálaeftirlitið þar sem unnið var fram eftir nóttu.
Í handskrifuðu minnisblaði Árna M. Mathiesen er rætt um framangreindan fund. Segir að hann hafi hafist kl. 18:20 þennan dag. Segir að af hálfu Jóns Steinssonar hafi verið lögð áhersla á að "minnka kerfið".
Það var síðan að morgni sunnudagsins 5. október 2008 sem fyrrgreindur hópur sérfræðinga forsætisráðuneytis hélt kynningu á áætlunum sínum í Ráðherrabústaðnum. Samkvæmt dagbók Jóns Steinssonar ákvað hópurinn að fjölmenna á fundinn til þess að "geta örugglega svarað öllum spurningum". Síðan segir í dagbókinni: "Þegar komið er niður í Ráðherrabústað eru mikil fundarhöld í gangi. Það virðast vera bankamenn að koma og fara öllum stundum. En á einhverjum tímapunkti koma ráðherrarnir niður í stóra fundarherbergið til þess að hlusta á tillögur okkar. Það eru Geir, Össur, Árni, Björgvin og síðan Jón Sig. ásamt Bolla og Baldri." Tryggvi Þór Herbertsson hafði orð fyrir sérfræðingahópnum.
Í skjali fyrrgreinds hóps sérfræðinga sem nefnt er "Neyðaráætlun fyrir íslenska bankakerfið" segir að lykilvandamálið sé að íslenska bankakerfið sé of stórt. Síðan segir að verkefni hópsins hafi verið að vinna neyðaráætlun "um að búa til bankakerfi af viðráðanlegri stærð" sem grípa megi til "ef stefnir í greiðsluþrot Landsbankans eða Kaupþings". Því næst er vikið að fyrirsjáanlegri fjármögnunarþörf Glitnis, Kaupþings og Landsbankans. Síðan er rætt um að vinna að lagabreytingu sem feli í sér að Fjármálaeftirlitinu verði veitt opin heimild til að taka yfir rekstur fjármálafyrirtækis í heild eða hluta og ráðstafa slíku fyrirtæki í heild eða hluta til annars fyrirtækis. Um þetta segir að slíkt megi "eingöngu leggja fram ef stefnir í þrot". Síðan segir í skjalinu:
Neyðarleiðir
- Í því tilviki þegar bankar geta ekki staðið við skuldbindingar sínar, einir sér eða saman.
- Til að tryggja hnökralausa bankastarfsemi (greiðslumiðlun, samskipti við útlönd og infrastrúktúr) í landinu þarf a.m.k. að tryggja að einn "móðurbanki" haldi áfram starfsemi.
- Hér eru kynntar þrjár mögulegar leiðir.
A. Útibúaleiðin (Glitnir + útibú annarra banka)
1,2 x VLF [verg landsframleiðsla]
B. Innlend starfsemi (innlend rekstrarfélög en engin holding félög)
1,9 x VLF
C. Ekkert gert: Bankarnir berjast áfram
12,8 x VLF
Í skjalinu er síðan farið yfir hverja og eina leið og kostir þeirra og gallar reifaðir. Leið A fólst í því að Glitnir myndi selja erlenda starfsemi og starfa síðan áfram. Glitnir myndi kaupa útibúastarfsemi Landsbankans og Kaupþings. Ríkið myndi tryggja Glitni nauðsynlegt eigið fé og tryggja skuldbindingar bankans en aðstoða Landsbankann og Kaupþing ekki frekar en þegar hefði verið gert.
Leið B fólst í því að Glitnir myndi, líkt og samkvæmt leið A, selja erlenda starfsemi og starfa áfram. Bankinn skyldi síðan kaupa alla innlenda starfsemi Kaupþings og Landsbankans að undanskildum lánum til eignarhaldsfélaga. Starfsemi Glitnis myndi síðan miða að því að þjónusta einstaklinga og fyrirtæki "stór og smá". Líkt og samkvæmt leið A myndi ríkið tryggja Glitni nauðsynlegt eigið fé og tryggja skuldbindingar bankans en aðstoða Landsbankann og Kaupþing ekki frekar en þegar hefði verið gert.
Leið C fólst í því að grípa ekki til neinna aðgerða og láta bankana þar með lenda í greiðsluþroti. Ef til greiðsluþrots kæmi yrði landið "meira og minna án greiðslumiðlunar". Um þá leið segir m.a. í neyðaráætluninni að breyta þurfi lögum til að innstæðueigendur njóti forgangs við gjaldþrot banka. Einnig segir að hugsanlega komi til greina að kaupa innlenda starfsemi úr þrotabúunum og setja í Byr sparisjóð.
Aðspurður hvaða leið sérfræðingarnir töldu þá bestu svöruðu Friðrik Már Baldursson og Jón Steinsson því við skýrslutökur að það hefði verið leið B. Leið C hefði hins vegar verið sú leið sem Friðrik sagði að sér hefði verið gefið til kynna að Seðlabankinn styddi, án þess þó að hann "heyrði það nokkurn tímann frá Seðlabankanum".
Undir lok skjalsins segir að að ýmsu þurfi að hyggja. Í því samhengi segir að erlend fjármögnun muni lokast algjörlega og tryggja verði fjármögnun frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum ef "ekki gengur annars staðar".Við skýrslutöku sagði Jón Steinsson að hann og Friðrik Már hefðu þurft að berjast fyrir því að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn yrði nefndur í glærukynningunni. Tryggvi Þór Herbertsson hefði barist gegn því þar sem hann hefði talið að skilyrði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins "fyrir "prógrammi" yrðu svo svakaleg að það myndi verða mjög skaðlegt fyrir Ísland". Í skjali hópsins segir einnig: "Allar leiðirnar eru gríðarlegri óvissu undirorpnar." Loks segist hópurinn ítreka að leiðirnar séu algjör neyðarúrræði sem einungis eigi við ef öll önnur sund lokast.
Jón Steinsson lýsti andrúmsloftinu á fundinum með eftirfarandi hætti við skýrslutöku: "[...] og það er gríðarlega mikill hraði á öllum hlutum, það eru allir í símanum, það eru allir í miklu "panic-ástandi"." Um viðbrögð viðstaddra við tillögum sérfræðingahópsins segir Jón: "Ég held að þeim hafi fundist þetta róttækar hugmyndir og þeir hafi í rauninni ekki verið búnir að sannfæra sjálfa sig um að þetta þyrfti að gera svo að ég held að þeir hafi ekki tekið þetta sérstaklega alvarlega. Síðan sko strax eftir fundinn með okkur þá fara Össur og Geir inn í herbergi og ræða saman og síðan kemur Össur út, tekur hressilega í nefið [...] og leggur svo hendurnar utan um mig og, ég held það hafi verið Friðrik, og segir: Ég held að [...] þetta standist alls ekki stjórnarskrána það sem þið eruð að leggja fram. [...] Og þetta var sagt svona í einhverju gamni – meira í gamni en í alvöru – og mig minnir að ég hafi reynt að ræða þetta eitthvað við hann sko en [...] hann ætlaði sér ekkert að ræða þetta neitt alvarlega við okkur."
Við skýrslutökur kom fram að eftir kynninguna hefðu nánast engar spurningar verið lagðar fyrir hópinn.
Við skýrslutöku lýsti Jón Steinsson því að síðar sama dag hefði Bolli Þór Bollason beðið sig um að mæta aftur í Ráðherrabústaðinn. Jón segir að hann og Friðrik Már Baldursson hafi verið mættir um kl. 16:00. Síðar hafi Jón Þór Sturluson bæst við. Hafi þeir beðið eftir því að fundur hefðist með ráðherrum. Sá fundur hafi hafist um kl. 18:00. Í millitíðinni segir Jón að bankamenn hafi komið og farið.
Í handskrifuðu minnisblaði Árna M. Mathiesen kemur fram að ráðherrar hafi fundað í Ráðherrabústaðnum með fulltrúum Kaupþings banka hf. og Landsbanka Íslands hf. kl. 17:00. Í minnisblaði Árna er rætt um minnisblað Kaupþings og Landsbankans. Í því minnisblaði segir:
Minnisblað: 5. október 2008
Glitnir banki hf. fer í greiðslustöðvun/gjaldþrot að kveldi 5. október 2008. Ástæður gjaldþrots er bág (neikvæð) eiginfjárstaða staða [sic] bankans og lausafjár skortur [sic]. Af þessum sökum fellur niður samkomulag ríkissjóðs við stærstu hluthafa Glitnis frá því fyrir viku síðan.
Til að tryggja fjármálalegan stöðugleika í landinu og hagsmuni Íslendinga tekur Kaupþing banki hf. og Landsbanki Íslands hf. yfir allan rekstur, eignir og innlánastarfsemi Glitnis banka hf. Bankarnir munu yfirtaka öll innlán, afleiðuviðskipti og kröfur útgefnar í íslenskum krónum.
Yfirtakan fer fram með þeim hætti að Kaupþing yfirtekur (f.h. Kaupþings og Lansdbankans [sic]) rekstur Glitnis en útlánasafni Glitnis verður skipt jafnt á milli bankanna tveggja skv. nánara samkomulagi.
Ótryggðir kröfuhafar Glitnis, eigendur víkjandi skuldabréfa sem bankinn hefur gefið út og hluthafar bankans tapa sínum fjármunum.
Ríkisstjórn landsins þarf að setja sérstök lög til að tryggja þessu framgang. Þau lög koma m.a. inn á lög um fjármálafyrirtæki og samkeppnisrétt.
Ríkisstjórn lýsir yfir ábyrgð á öllum innistæðum í íslenskum bönkum og gildir sú ábyrgð til næstu 2ja ára.
Seðlabanki Íslands tryggir Landsbanka Íslands hf. 1.000 milljónir evra og Kaupþingi banka hf. 500 milljónir evra þegar í stað í formi endurhverfra viðskipta.
Texta ofangreinds minnisblaðs er einnig að finna í tölvubréfi Hreiðars Más Sigurðssonar, forstjóra Kaupþings, til Björgólfs Thors Björgólfssonar 5. október 2008 kl. 19:00.
Í fyrrgreindu minnisblaði Árna M. Mathiesen þar sem rætt er um fund fulltrúa Kaupþings og Landsbankans með ráðherrum segir að minnisblað bankanna feli í sér sameiginlega tillögu. Rætt er um færslu Icesave innlána Landsbankans yfir til dótturfélags bankans, Heritable Bank, með "fast track". Haft er eftir Sigurði Einarssyni að bankarnir geti sett tryggingar að veði gegn fyrirgreiðslu Seðlabankans. Segir að Sigurður hafi í þessu samhengi nefnt hlutabréf danska bankans FIH. Við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis ræddi Árni M. Mathiesen um minnisblöð sín af fundum með bankamönnum þessa helgi: "Þessir hérna punktar hérna hjá mér, þetta eru lýsingar á fundum þar sem að bankamenn voru að ljúga að okkur." Árni segir: "Og verstur var Björgólfur [Thor Björgólfsson] [...] og hann var að ljúga að hinum líka og þeir komu svo bara um kvöldið og sögðu: Það er ekkert að marka það sem þessi maður segir. Þeir voru að reyna að finna leið til að sameina Kaupþing og Landsbankann til þess að þeir gætu staðið þetta og Björgólfur sagði bara:Við reddum þessu og við reddum þessu."
Jón Steinsson lýsti því við skýrslutöku að fundur með Geir H. Haarde, Árna M. Mathiesen, Össuri Skarphéðinssyni, Björgvin G. Sigurðssyni, Bolla Þór Bollasyni, Baldri Guðlaugssyni og Jóni Sigurðssyni, formanni stjórnar Fjármálaeftirlitsins, hefði síðan hafist um kl. 18:00 sama dag, þ.e. 5. október 2008. Jón Steinsson segir að ásamt sér hafi Tryggvi Þór Herbertsson, Friðrik Már Baldursson og Jón Þór Sturluson sótt fundinn.Til hafi staðið að ræða tillögur bankamanna um hvernig bjarga mætti bankakerfinu. Jón segir: "Fyrir okkur liggur þessi tillaga um að Seðlabankinn veiti, sýnist mér, Landsbankanum og Kaupþingi samanlagt 1.500 milljónir evra og láti Glitni fara í gjaldþrot. Og við erum einmitt spurðir um okkar álit á þessari tillögu og við erum allir mjög neikvæðir á þessa tillögu og ég man að ég sagði m.a. að mér fyndist þessi tillaga í rauninni vera hálft tilboð, það væri þarna önnur hliðin á tilboðinu, sem væri hvað ríkið ætlaði að gera, en hin hliðin á tilboðinu, sem væri hvað bankarnir ætluðu að gera í staðinn, væri mjög óljós og það væri ekkert í hendi hvað það varðar, það væri einhvers konar loforð um það að bankarnir myndu minnka hjá sér efnahagsreikninginn svo að ég tók mjög eindregna afstöðu að þetta væri sóun á almannafé og að við værum í rauninni að kasta þessum 1.500 milljónum evra á glæ og bankarnir myndu væntanlega hrynja þremur til fjórum dögum seinna og ríkissjóður yrði í miklu verri stöðu þá heldur en ef hann tæki ekki þessu tilboði. Ég held að allir okkar hafi "basically" verið á þessari sömu skoðun." Jón segir að síðan hafi tekið við umræður: "[...] það var einhver umræða þar sem bæði ráðherrarnir voru að spyrja okkur spurninga, ráðherrarnir voru að spyrja ráðuneytisstjórana spurninga og það var einhvers konar umræða um afleiðingarnar af því að gera þetta og hitt. Þarna virðast ráðherrarnir vera komnir í allt annan gír, þarna virðast þeir vera að nálgast það að þurfa að taka ákvörðun um framhaldið og virðast, eins og þetta kom mér fyrir sjónir, miklu opnari fyrir þeim möguleika að gera eitthvað mjög "drastískt" eins og að setja neyðarlög. Hins vegar lá... það var ennþá á þessum tímapunkti, minnir mig, sem það hangir yfir okkur þessi vofa að Seðlabanki Evrópu sé að gera veðkall í íslensku bönkunum og það muni í rauninni setja allt af stað bara snemma á mánudagsmorgninum, að í rauninni bankarnir geti ekkert opnað á mánudeginum.
Í handskrifuðu minnisblaði Árna M. Mathiesen er fjallað um framangreindan fund ráðherra með sérfræðingahópi forsætisráðuneytisins. Fjallað er um fundinn í beinu framhaldi af umfjöllun um fund ráðherra með fulltrúum Kaupþings og Landsbankans. Í minnisblaðinu segir að fundurinn hafi hafist kl.18:30 sunnudaginn 5.október 2008.Í minnisblaðinu er haft eftir Tryggva Þór Herbertssyni: "Of áhættusamt." Af samhenginu virðist mega ráða að hér sé rætt um tillögur Kaupþings og Landsbankans. Síðan er haft eftir Jóni Steinssyni að honum lítist ekki á þetta. Haft er eftir Friðriki Má Baldurssyni: "Mjög áhættusamt." Loks er haft eftir Jóni Þór Sturlusyni að kerfið muni minnka mjög lítið og að verið sé að kaupa tíma.
Við skýrslutöku sagði Jón Steinsson: "Síðan lýkur þessum fundi og við förum aftur inn í þetta herbergi, við þrír a.m.k., ég, Friðrik og Jón Þór, og sitjum þar bara áfram og bara svona upp á von og óvon um að við getum orðið að liði seinna um kvöldið. Ég man að mér leið mjög vel eftir þennan fund af því að ég held... mér fannst eins og við hefðum haft einhver áhrif á þessum fundi og við hefðum e.t.v. hjálpað til við að sannfæra ráðherrana um að lána ekki bönkunum 1.500 milljónir evra. Síðan líður eitthvað og bíður og við borðuðum og [...] svo á einhverjum tímapunkti kemur Geir inn til okkar og er í alveg... alveg rosalega "high", rosalega ánægður eins og það sé gríðarlegu fargi af honum létt, og þá minnir mig að hann hafi sagt að hann hafi verið í símanum við Gordon Brown og mér svona skildist að það sem hafi gerst í þessu símtali hafi verið að Gordon Brown hafi tjáð honum að Seðlabanki Evrópu ætlaði að falla frá þessu veðkalli á íslensku bankana. [...] Þá leið mér eins og, þú veist, eins og þetta blasti við alþjóð þá kom hann bara þarna í sjónvarpi kl. [23] og sagði:Vinna helgarinnar hefur gert það að verkum að við þurfum ekki að gera neitt – sem ég held að hafi komið til af því að... hann var að vísa í það að við hefðum komist hjá því að Seðlabanki Evrópu gerði veðkall í bankana eða þannig skildi ég það. Síðan aðeins seinna þarna um kvöldið koma menn frá J.P. Morgan..."
20.3.8 Fundur ráðherra með Davíð Oddssyni í Ráðherrabústaðnum 4. október 2008
Í handskrifuðu minnisblaði Árna M. Mathiesen, fjármálaráðherra, er grein gerð fyrir fundi sem ráðherrar áttu með Davíð Oddssyni, formanni bankastjórnar Seðlabanka Íslands, í Ráðherrabústaðnum 4. október 2008 kl. 16:40. Fram kemur að farið hafi verið yfir stöðu Glitnis banka hf.
Við skýrslutöku lýsti Árni M. Mathiesen fundinum nánar: "[...] þá er Davíð bara að segja okkur frá því hvað er að gerast, það sé verið að fara yfir stöðu Glitnis og það séu Árni Tómasson og Stefán Svavarsson sem séu að því. Það sé verið að fara yfir svo Kaupþing, það þurfi að bæta þessum 1,6 milljarði punda inn í Singer & Friedlander og það er þetta sem símtalið hjá Gordon Brown snerist um." Árni segir að Davíð hafi síðan lesið upp endurrit af símtali Davíðs og Mervyn King, bankastjóra Seðlabanka Bretlands, sem fram fór á ensku. Um þetta sagði Árni: "Hann lagði áherslu á það að Mervyn King hefði svona eiginlega verið að leggja blessun sína yfir þessa aðferðafræði að skipta upp bönkunum og það þýddi að það væri svo og svo mikið sem væri afskrifað. Ég veit ekki alveg hvort þetta er nákvæmt að skrifa hérna að hann mundi ekki mótmæla sem sagt Icesave, þetta ætti að vera víðtækara en bara Icesave, um aðgerðina í heild. En miðað við enska textann fannst mér Davíð leggja of mikið upp úr orðum Mervyn King, að hann væri að leggja blessun sína yfir það sem við værum að gera, bæði búinn að lesa of mikið í orðin sjálf og eins er það ekki Mervyn King að samþykkja einhverja svona hluti, jafnvel þótt hann sé seðlabankastjóri, það eru ráðherrarnir hinir sem taka ákvörðun um það." Síðan segir Árni að King hafi ráðlagt "stórar ákvarðanir".Aðspurður hvað átt sé við með þeim orðum svaraði Árni: "Ég hugsa að hann hafi kannski ekkert verið ósáttur við þessa aðgerð sem var verið að gera, svo fremi sem að við greiddum eitthvað upp í þetta allavegana."
Samkvæmt framansögðu voru skiptar skoðanir um það hvernig túlka bæri orð Mervyn King þar sem hann lýsti ákveðnum skilningi á því að íslensk stjórnvöld þyrftu að grípa til aðgerða í tilefni af þeim mikla vanda sem að steðjaði. Í símtalinu lýsti Davíð Oddsson einnig skilningi á því að bresk yfirvöld þyrftu að verja sína hagsmuni og gætu m.a. þurft að grípa inn í starfsemi Kaupthing Singer & Friedlander.
Endurrit af framangreindu samtali Davíðs Oddssonar og Mervyn King ber ekki með sér að Davíð hafi í upphafi samtalsins óskað leyfis Mervyn King fyrir því að fá að hljóðrita það, líkt og skylt er samkvæmt 1. mgr. 48. gr. laga nr. 81/2003 um fjarskipti. Í endurritinu kemur einnig fram að Davíð hafi sérstaklega nefnt að um trúnaðarsamtal væri að ræða, sbr. orð hans ("because we are talking 100% in secrecy and private"), og að Mervyn King hafi játað því. Af þeirri ástæðu veitti rannsóknarnefnd Alþingis King tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri varðandi hugsanlega birtingu efnis úr endurriti samtalsins. Í bréfi sem nefndinni barst frá Graham Nicholson, lögfræðingi hjá Seðlabanka Bretlands, dags. 17. desember 2009, kemur fram að Davíð hafi ekki upplýst King um fyrirhugaða hljóðritun samtalsins. Hljóðritunin gangi einnig gegn venjum í samskiptum milli seðlabanka. Í samtalinu hafi loks komið fram viðkvæmar upplýsingar um margvíslega banka. Af hálfu Mervyn King sé því lagst gegn birtingu endurritsins.
Það efni samtalsins, sem ólíkar skoðanir voru uppi um hvernig skilja bæri og þýðingu hefur fyrir skilning á rás atburða, er í meginatriðum komið fram í framangreindri skýrslu Árna M. Mathiesen. Í ljósi þess að samtalið virðist ekki hafa verið hljóðritað í samræmi við ákvæði laga um fjarskipti og Mervyn King hefur lagst gegn birtingu þess telur rannsóknarnefnd Alþingis ekki rétt að birta skjalið.
20.3.9 Viðræður stjórnvalda við lífeyrissjóði og aðila vinnumarkaðarins helgina 4.–5. október 2008
Helgina 4.–5. október 2008 birtust fréttir í fjölmiðlum um fundi stjórnvalda með aðilum vinnumarkaðarins og forsvarsmönnum lífeyrissjóða. Sem dæmi má nefna að á forsíðu Fréttablaðsins 5. október sama ár segir að lífeyrissjóðir hafi "boðist til að flytja hluta erlendra eigna sinna heim svo fremi sem fjármálastofnanir geri það". Í fréttinni er haft eftir Arnari Sigmundssyni, formanni stjórnar Landssamtaka lífeyrissjóða, að allir verði að koma að þessum björgunarleiðangri og ræðir í því sambandi um stjórnvöld, Seðlabankann, viðskiptabankana, fjárfestingarfélög og aðila vinnumarkaðarins. Segir Arnar að öðruvísi sé þetta ekki framkvæmanlegt.
Við skýrslutöku lýsti Halldór J. Kristjánsson, bankastjóri Landsbanka Íslands hf. og stjórnarmaður í Samtökum atvinnulífsins, því að í þeirri viku sem tilkynnt var um fyrirhugaða yfirtöku ríkisins á Glitni banka hf. hefðu áhyggjur manna aukist eftir því sem á leið. Halldór sagði síðan: "Ég sit þá í stjórn Samtaka atvinnulífs og ég veit sem stjórnarmaður þar að það eru þreifingar hafnar um það að nú verði að nota næstu helgi til að gera eitthvað víðtækt og heildstætt. [...] meginhluti stjórnarinnar [hjá Samtökum atvinnulífsins] var akkúrat í sameiginlegri ferð til Brussel. Ég var reyndar ekki í því vegna ástandsins, þannig að það er ekki fyrr en föstudaginn [3. október 2008], sem sagt eftir því sem ég fæ frásögn af, þá eru menn að ræða saman eitthvað óformlega, við erum vafalaust að lýsa áhyggjum, ég man ekki við hvern, hvar, en alls staðar. En ég sit stjórnarfund Samtaka atvinnulífs, ég hygg í hádeginu á föstudaginn, eða þegar líður á föstudaginn 3., þar sem mér er gerð grein fyrir því að varaformaður – formaður var einhvers staðar annars staðar – en varaformaðurinn og framkvæmdastjórinn hefðu farið á fund ríkisstjórnarinnar eða fulltrúa ríkisstjórnarinnar á föstudagsmorgni, ásamt ASÍ, og þar hafi verið rætt um það hvort þeir væru til í víðtæka vinnu um helgina til að ná þessum stóru aðgerðum fram. Inn í þann pakka vorum við náttúrulega staðráðnir í að reyna að koma með þá einhverjar aðgerðir gagnvart fjármálamarkaðnum."
Tryggvi Þór Herbertsson, efnahagsráðgjafi forsætisráðherra, lýsti því við skýrslutöku að hugmynd um aðkomu lífeyrissjóða að lausn fyrirliggjandi vanda hefði verið ein af þeim leiðum sem rædd var um þetta leyti. Sagði Tryggvi að umræðan hefði fyrir alvöru hafist í vikunni eftir að tilkynnt var um tilboð ríkisins í 75% eignarhlut í Glitni.Tryggvi minntist þess ekki hvaðan hugmyndin kom.
Davíð Oddsson, formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands, lýsti því við skýrslutöku að Geir H. Haarde, forsætisráðherra, hefði hringt í sig og upplýst um hugmyndina um aðkomu lífeyrissjóðanna. Davíð segir að hugmyndin hafi ekki komið frá Seðlabankanum.
Geir H. Haarde minntist þess heldur ekki við skýrslutöku hvaðan hugmyndin var komin. Tillögunni lýsti Geir með eftirfarandi orðum: "Vandamálið var það að það vantaði gjaldeyri inn í landið. Lífeyrissjóðirnir höfðu fjárfest mikið í útlöndum. Það lá fyrir að þeir höfðu ekki upp á síðkastið hagnast eins mikið á því eins og þeir höfðu gert sér vonir um, þannig að það gat verið beggja hagur að koma með þá peninga heim og lina þennan gjaldeyrisskort.Við tölum síðan við þá á laugardeginum um þetta mál." Geir sagði jafnframt: "Laugardagurinn fór að öðru leyti í að tala mest við aðila vinnumarkaðarins, ASÍ og VSÍ, hefðbundið samtal, og svo lífeyrissjóðina. Þeir lögðu fram alveg ákveðið plan um það hvernig þeir gætu hjálpað til en að vísu með miklum skilyrðum." Við sama tækifæri lýsti Geir H. Haarde því að viðræður stjórnvalda við aðila vinnumarkaðarins og lífeyrissjóðina hefðu hins vegar í raun verið "ákveðið skjól". Geir sagði að stjórnvöld hefðu ekki viljað "að það spyrðist út hvað menn voru í raun og veru að undirbúa gagnvart mánudeginum og setningu neyðarlaga". Í beinu framhaldi sagði Geir: "[...] við vildum ekkert að það spyrðist út fyrr en að það yrði tilkynnt í sjónvarpinu, ef til þess kæmi, eftir kl. 4 á mánudeginum, þannig að við höfðum ákveðið skjól af því og kannski var það ekki mjög fallega gert gagnvart þeim aðilum. En sem sagt fundir helgarinnar voru alveg tvenns konar, það voru þeir aðilar og svo voru það bankarnir."
Við skýrslutöku lýsti Hreiðar Már Sigurðsson því að Kaupþing banki hf. hefði ekki haft frumkvæði að því að fá lífeyrissjóðina til aðstoðar. Hreiðar sagði: "[...] við skildum náttúrulega ekkert hvað var að gerast, eins og á sunnudeginum þegar verið var að kalla inn alla þessa mismunandi aðila inn í Ráðherrabústað og mér fannst það bara vera [...] engin verkstjórn á fundum eða vinnu þennan dag, þessa helgi. Það var þarna, forsætisráðherra sat við endann og allir þessir ráðgjafar og allir að koma með tillögur og allir svo nýir og nýir og nýir. Ég veit að heilinn á mér hefði verið orðinn soðinn..." Hreiðar sagði jafnframt að sér hefði virst sem engin markviss vinna væri unnin og bætti við: "[...] og það að kalla inn Samtök atvinnulífsins og vinnuveitenda, með fullri virðingu fyrir þeim, [...] við áttuðum okkur ekkert á um hvað væri að ræða, við höfðum bara ekki hugmynd um það."
Björgvin G. Sigurðsson lýsti þessari helgi almennt með eftirfarandi orðum við skýrslutöku: "[...] það fattaði enginn fyrir helgina að við værum að fara að sigla inn í það að allt bankakerfið væri bara að fara til fjandans. Og við vorum náttúrulega inn á milli skelfingu lostnir þannig, en auðvitað reyndi maður bara að halda ró sinni og stillingu og átta sig á ástandinu og það tókst nú mjög vel svona næstu daga og vikur á eftir miðað við hvað gekk á."
20.3.10 Tillaga forsætisráðherra um neyðarstjórn
Við skýrslutökur fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom fram að í aðdraganda falls þriggja stærstu banka Íslands hefði Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sett fram tillögu um sérstaka neyðarstjórn vegna þeirra aðgerða sem grípa þyrfti til.Viðmælendur rannsóknarnefndar Alþingis voru ekki sammála um nákvæma tímasetningu þeirrar tillögu. Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, sagðist ekki vera viss en hann teldi að tillagan hefði komið fram aðfaranótt þriðjudagsins 7. október 2008.Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, lýsti því að tillagan hefði fyrst komið fram laugardaginn 4. október 2008 en þá hefði málið verið látið liggja þar til það hefði síðar verið tekið upp. Davíð Oddsson, formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands, sagðist ekki viss um dagsetninguna en giskaði þó á að tillagan hefði komið fram í kringum 1. eða 2. október 2008. Jón Þór Sturluson, aðstoðarmaður viðskiptaráðherra, sagðist ekki vera viss en taldi að tillagan hefði komið fram laugardagskvöldið 4. október 2008. Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, lýsti því að tillagan hefði komið fram í Ráðherrabústaðnum sunnudaginn 5. október 2008. Geir H. Haarde sagði við skýrslutöku að það væri rangt sem fram kæmi í bók GuðnaTh.Jóhannessonar, Hrunið, að tillagan hefði verið sett fram þriðjudaginn 7. október 2008. Hið rétta væri að hann hefði borið tillögu sína fram 5. október 2008. Geir lýsti tillögu sinni með eftirfarandi orðum: "Já, það er þarna síðdegi eða á sunnudagskvöldi. Það var reyndar hugsað þannig af minni hálfu að þeir þrír aðilar sem helst kæmu að þessu máli, Seðlabankinn, Fjármálaeftirlitið, fjármálaráðuneytið, mundu skipa eins konar yfirstjórn vegna þessara nauðsynlegu aðgerða sem þyrfti að grípa til og þá fannst mér eðlilegt að sá maður sem hefði mest "senioritet" af þessum þremur mönnum sem þarna var verið að tala um, sem sagt formaður bankastjórnarinnar, formaður stjórnar Fjármálaeftirlitsins, ráðuneytisstjóri – að sá sem hefði mest "senioritet" yrði formaður [Davíð Oddsson]. Þá kom á daginn, og það stemmir náttúrulega við það sem hafði komið fram á ríkisstjórnarfundinum á föstudeginum, og reyndar kom mér á óvart hversu mikil harka var í því, að iðnaðarráðherrann sagði mér að það kæmi ekki til greina. Hins vegar mundi hann samþykkja þennan þriggja manna hóp ef formaður stjórnar bankaeftirlitsins, Fjármálaeftirlitsins, yrði formaður. Með öðrum orðum máttu þetta vera þessir einstaklingar en þeir urðu að sitja þarna í annarri röð en ég hafði lagt til, en þetta gat formaður bankastjórnarinnar hins vegar ekki sætt sig við – og niðurstaðan varð þá sú, og ég reyndar vildi ekki gera það þannig, þannig að við ákváðum að hafa þetta bara hjá okkur í þessum hópi ráðherra."
Við skýrslutöku lýsti Björgvin G. Sigurðsson tillögu Geirs H. Haarde með eftirfarandi orðum: "Það áttu að vera fulltrúar frá sem sagt forsætisráðuneyti og fjármálaráðuneyti, og ég segi við borðið: Og það verður að sjálfsögðu fulltrúi frá viðskiptaráðuneytinu líka og FME, annað hvort. Já, já, auðvitað, segir hann. En það var ekki inni í tillögunni sem var greinilega samin af Davíð og hann átti að vera formaður og svo áttu þetta að vera fulltrúar frá þessum tveimur ráðuneytum, enginn frá sem sagt okkur. Og ég geri strax tillögu um að Jón Sigurðsson fari þarna inn. Og við biðjum svo um fundarhlé, af því að þarna er Davíð á fundinum, Davíð og Ingimundur voru þarna, og við förum fram Samfylkingarráðherrarnir og segjum að það munum við aldrei samþykkja að Davíð verði formaður hópsins og Össur fer og segir Geir það og hann, honum brá alveg rosalega, bara var mjög brugðið yfir því og held ég að hann hafi sagt, bað hann að gera sér þetta ekki. En það var alveg klárt af okkar hálfu, við hefðum frekar – við vorum alltaf með það á hreinu, alla þessa viku lá undir að menn voru að spá í hvort við ættum að sprengja stjórnina á þessu máli öllu, Glitnismálinu, og Össur vildi það, en ekki formaðurinn, þannig að það munaði litlu að við gerðum það út af Glitnismálinu og Davíð Oddssyni og engu öðru, það sauð svoleiðis á mönnum." Björgvin sagði einnig: "Og þá endar þetta á því að fyrst að Davíð var ekki formaður þá var þessi stjórn aldrei skipuð og þá var bara ákveðið að ráðherrarnir sjálfir væru í þessu, þannig að þetta var [...] það síðasta sem við sáum af Davíð, hann bara yfirgaf bústaðinn og í rauninni kom ekkert mikið meira nálægt þessu ferli [...]."
Davíð Oddsson lýsti tillögu Geirs H. Haarde með eftirfarandi orðum: "[...] fyrst ætlaði forsætisráðherrann að hafa þriggja manna yfirstjórn og bað mig á fundi að vera yfirmaður þeirrar yfirstjórnar og þá hótaði Össur Skarphéðinsson stjórnarslitum, hann sagðist geta sætt sig við Jón Sigurðsson sem var mjög hlægilegt. Ég sagði þá við forsætisráðherra að mér væri alveg nákvæmlega sama um þetta [...] enda vorum við að verða örmagna þarna við vorum svo þreyttir, en ég sagði við hann að hann ætti bara að vera formaður sjálfur og finna svo einhverja menn, ekki vera að láta Össur hóta sér stjórnarslitum. Þetta er náttúrulega ekkert vit að vera í ríkisstjórn sem að á örlagatíma er að hóta stjórnarslitum út af hinu og þessu, þetta var tóm vitleysa allt saman, var orðið það." Davíð sagði einnig: "[...] það er það fyrsta sem ég verð var við að Samfylkingin sé að kaupa þetta fjölmiðlafár. Svo kemur hann inn og var þá í öngum sínum Geir og kannski svona fannst þetta ósvífið gagnvart mér en hann er í öngum sínum þarna að menn ætli að fara út úr stjórninni á versta tíma. Ég sagði: Blessaður vertu ekki, láttu hann ekki vera að setja, þennan pilt setja þig upp að vegg, segðu bara að þú verðir formaðurinn og það þurfi ekki að vera að tala um einhverja aðra menn og þá er ég ekkert að trufla þá mynd, ég get ekki hugsað mér að vera að trufla þá mynd í augnablikinu."
Við skýrslutöku lýsti Össur Skarphéðinsson tillögu Geirs H. Haarde með eftirfarandi orðum: "En á þessum fundi þá er Davíð, og Geir, og Geir kemur allt í einu með þessa tillögu um að setja upp neyðarstjórn. Ókei, það er ráðherranefnd, formleg ráðherranefnd og síðan áttu að vera ráðuneytisstjórar þar undir og hann segir: Og ég tel þá eðlilegt að ég sem forsætisráðherra tilnefni formanninn. Það kom hik á mig og hann sá það og talið berst þá eitthvað annað. Og þá, svo kemur hann allt í einu með: Minn fulltrúi og þar með formaður, þess sem hann kallar neyðarstjórn og átti að vera svona að "executera" þetta allt sem þurfti, sjá um þessa daglegu neyðarstjórnun, á að vera aðalbankastjóri Seðlabankans. Þá bað ég um fundarhlé og sagðist ekki fallast á það en bað um fundarhlé og það var fundarhlé og Geir kom og talaði við mig og var mjög stressaður. Ég sagði að það kæmi ekki til greina, hann gæti beðið okkur um að ganga héðan út og rekið okkur úr ríkisstjórninni, en [...] ég gæti ekki fallist á þetta, ég hefði ekki heimild til þess. Ég hefði lýst því yfir í ríkisstjórninni að þessi maður væri ekki hæfur og hann myndi ekki geta byggt það samstarf við ríkisstjórn eins og hefur komið fram, hann væri í reynd að leggja til að hún legði niður störf og önnur stjórn tæki við. Þetta þýddi það að það ætti auðvitað að vera fullkominn trúnaðarbrestur á milli hans líka og Davíðs, og sagði honum þetta. Og frá því er skemmst að segja að hann nánast skalf og nötraði. Hann sagði: "Þú getur ekki gert mér þetta. Ég get ekki farið þarna upp og sagt þetta við Davíð." "Það er það sem þú verður að gera", sagði ég. Þetta var töluvert langt fundarhlé og svo fór hann upp og skömmu síðar heyrðum við þung skref eftir ganginum, og Davíð Oddsson gekk út og kom ekki aftur."
Rannsóknarnefnd Alþingis hefur undir höndum tölvubréf sem Össur Skarphéðinsson sendi kl. 01:25 aðfaranótt sunnudagsins 5. október 2008. Í bréfinu segir Össur að fyrr um kvöldið hefði Geir H. Haarde lagt til að Davíð Oddsson yrði settur yfir "neyðarstjórnun hugsanlegs kerfishruns".
20.3.11 Aðgerðir stjórnvalda að kvöldi sunnudagsins 5. október 2008
Um kvöldmatarleyti 5. október 2008 hringdi Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, í Geir H. Haarde, forsætisráðherra. Í tölvubréfi Geirs til rannsóknarnefndar Alþingis, dags. 17. mars 2009, segir Geir erindi Brown hafa verið tvíþætt: "Annars vegar að hvetja til þess að Ísland leitaði stuðnings hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum eins og gert var nokkru síðar. Bauðst hann til að tala strax sjálfur við forstjóra IMF um málið, sem ég þakkaði honum fyrir. Hins vegar vildi Brown greina mér frá því að bresk yfirvöld teldu að KSF hefði brotið bresk lög og flutt 1600 (ekki 600) milljónir punda úr landi.Var greinilegt að hann taldi þetta mjög alvarlegt. Ég sagði honum sem var að ég hefði orð Kaupþingsmanna fyrir því (frá því fyrr sama dag, er ég innti þá eftir málinu) að þeir væru komnir að samkomulagi við FSA um hvernig þetta mál yrði leyst. Sagðist hann þá taka orð mín fyrir því og ekki vilja ræða þetta frekar. Er ég ræddi þetta mál við Kaupþingsmenn á sunnudeginum virtust þeir vita af því að nú væri af hálfu Breta rætt um 1600 milljónir punda í stað þeirra 600 sem fjármálaráðherrann nefndi í samtalinu á föstudeginum." Í bréfi sínu segir Geir að vegna mistaka í stjórnarráðinu hafi síðasti hluti upptöku þessa samtals eyðilagst.
Við skýrslutöku lýsti Friðrik Már Baldursson því að eftir að Geir hefði rætt við Gordon Brown hefði hann sagt að Brown hefði sagt sér að skynsamlegt væri að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
Kl. 22:00 sama kvöld, þ.e. 5. október 2008, fundaði ríkisstjórn Íslands. Samkvæmt fundargerð lagði forsætisráðherra fram og kynnti yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um innstæðutryggingar og lagði til að hún yrði send fjölmiðlum. Samkvæmt fundargerð var málið "rætt og samþykkt". Því næst segir að forsætisráðherra hafi tekið til umræðu hugsanlega lántöku hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Ingimundur Friðriksson, seðlabankastjóri, sótti fundinn og samkvæmt fundargerð gerði hann grein fyrir ferli lántöku hjá sjóðnum en vék síðan af fundinum. Við skýrslutöku ræddi Árni M. Mathiesen um umræður á þessum ríkisstjórnarfundi um lántöku hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og sagði: "Þá kemur Geir þar með, hann bryddar sem sagt upp á þessu, án þess að taka afstöðu til þess sjálfur og ég held eiginlega að það hafi bara verið við Björgvin aftur sem vorum jákvæðir fyrir því að skoða það, þó að maður svona kvæði kannski ekki alveg upp úr með það, en mikil andstaða hjá öðrum, ég man sérstaklega eftir Jóhönnu, mjög mikil andstaða hjá Jóhönnu og Össur sveiflaðist nú fram og til baka í þessu og ég held að allir upphaflega okkar megin hafi verið neikvæðir. En ég held hins vegar að Davíð hafi nefnt þetta einhvern tíma á þessum fundum, en svona nefnt þetta og ýtt því til hliðar í leiðinni." Árni var þá spurður hver afstaða Davíðs Oddssonar hefði verið til lántöku hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Árni svaraði: "Hann var algjörlega á móti því. Hann hringdi í mig áður en ég fór til Washington þarna seinna í vikunni og bara, það var bara: Árni minn, bara fyrir alla muni, aldrei til gjaldeyrissjóðsins."
Nánar er fjallað um yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um innstæðutryggingar í kafla 17.0.
Um kl. 23:00 sunnudaginn 5. október 2008 ræddi Geir H. Haarde stuttlega við fréttamenn fyrir utan Ráðherrabústaðinn. Í fjölmiðlum er haft eftir honum: "Þessi helgi hefur skilað því að við teljum núna ekki lengur nauðsynlegt að vera með sérstakan pakka með aðgerðum." Við skýrslutöku ræddi Geir H. Haarde um fyrrgreind ummæli sem höfð voru eftir honum í fjölmiðlum: "Það er tvennt sem liggur á bak við þetta og þessi setning er nú látin falla þarna seint að kvöldi þegar ég er á leiðinni úr Ráðherrabústaðnum og stend á tröppunum og er á leiðinni á þingflokksfund, sem er haldinn þarna mjög seint, en síðan fórum við aftur upp í bústað um miðnættið eins og þið vitið. Það sem er á bak við þetta er tvennt: Í fyrsta lagi það að við teljum ekki þörf á sérstökum pakka í tengslum við aðila vinnumarkaðarins, lífeyrissjóðina og það sem kalla mætti hin almennu efnahagsmál en á bak við þetta liggur líka þetta sem ég nefndi rétt í þessu að þessir fundir með bönkunum þarna um kvöldmat gáfu okkur til kynna að þeir væru brattari en við höfðum haldið – í raun og veru verður þetta ekki ljóst fyrr en á fundinum með J.P. Morgan eftir miðnætti, eftir að þessi ummæli eru látin falla, að niðurstaðan sem varð á mánudeginum var orðin óhjákvæmileg. Og þess vegna voru þessi orð sögð. Það hefði mátt, og sennilega átt, að orða þetta betur og öðruvísi og það hefur verið mikið gert með þetta, t.d. í þeim bókum sem skrifaðar hafa verið, en ég veit hvað ég meinti með þessu."
Við skýrslutöku ræddi Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, um framangreind orð sem höfð voru eftir Geir H. Haarde í fjölmiðlum að kvöldi 5. október 2008: "[...] þetta snerist um það að þessar kröfur sem evrópski seðlabankinn var að gera á þá, það var fallið frá þeim. Þá kom svo ákveðið svikalogn, pressan var af, [...] og mönnum létti, en svo þegar menn hittu J.P. Morgan mennina, þá eiginlega gerðu menn sér grein fyrir því að þetta væri bara stundarfriður og að þetta væri ekkert, við yrðum að fara þessa leið."
Í kjölfar ríkisstjórnarfundar héldu ráðherrar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar á sinn hvorn þingflokksfundinn í húsakynnum Alþingis.Við skýrslutöku lýsti Össur Skarphéðinsson þingflokksfundi Samfylkingarinnar með eftirfarandi orðum: "[...] það er þingflokksfundur, langur og erfiður og þá er liðin heil vika og ég var m.a. að segja þingflokknum frá því að, hvernig ég upplifði það þannig að okkur væri algjörlega haldið utan við þetta, ekki af Geir eða Árna, af Baldri. Baldur var svona, fannst mér, "the driving force" og ég er nú blíður og alltaf í samskiptum við fólk en, þannig lagað, en ég man það að ég þurfti að brýna mig og æpa og öskra á Baldur til þess að, sko að þetta gengi ekki. Hann var alltaf í einhverju makki þarna inni í Ráðherrabústaðnum og ég spurði: Hvað eruð þið að tala um? Hvað ætlið þið að gera? Já, en þetta var bara Baldur. Fannst mér. Ég var að kvarta og kveina undan þessu við þingflokkinn, að þetta væri bara atburðarás sem væri drifin af Baldri og þá væntanlega Davíð Oddssyni, "paranoia" Samfylkingarmanna, sjáið þið." Össur sagði að eftir að þingflokksfundi Samfylkingar lauk hefði Geir H. Haarde haft samband og beðið sig að mæta til fundar í Ráðherrabústaðnum. Össur sagðist telja að þetta hefði verið um miðnætti.
Þrír starfsmenn fjármálafyrirtækisins J.P. Morgan höfðu komið til landsins upp úr hádegi sunnudaginn 5. október 2008 samkvæmt ósk Seðlabanka Íslands og voru að störfum þar um kvöldið. Þessir starfsmenn J.P. Morgan höfðu áður veitt Seðlabankanum ráðgjöf og þekktu því til aðstæðna á íslenskum fjármálamarkaði. Jón Þ. Sigurgeirsson, sérfræðingur á skrifstofu bankastjórnar Seðlabankans, lýsti því við skýrslutöku að þegar leið á sunnudagskvöldið hefðu starfsmenn Seðlabankans talið að það kynni að vera gagnlegt fyrir fulltrúa ríkisstjórnarinnar að hitta þessa starfsmenn J.P. Morgan og heyra þeirra sýn á stöðu mála. Eftir að hafa rætt við bankastjóra Seðlabankans, sagðist Jón hafa náð tali af Baldri Guðlaugssyni, ráðuneytisstjóra, og niðurstaðan hefði orðið sú að starfsmenn J.P. Morgan kæmu niður í Ráðherrabústað til fundar við ráðherra. Starfsmenn J.P. Morgan sem fóru til fundarins voru Michael Ridley, Johan Bergendahl og Gary Weiss. Sá fyrstnefndi hafði orð fyrir þeim á fundinum og að sögn Ridley hófst fundurinn ekki fyrr en undir kl. 2 um nóttina.
Auk Geirs H. Haarde voru á fundinum Árni M. Mathiesen, Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, auk ráðuneytisstjóranna Bolla Þórs Bollasonar og Baldurs Guðlaugssonar.Við skýrslutöku lýsti Geir H. Haarde því að starfsmenn J.P. Morgan hefðu verið hérlendis á vegum Seðlabankans og upp hefði komið sú hugmynd að það gæti verið "heppilegt og jafnvel nauðsynlegt" fyrir ráðherrana að hitta þessa menn. Geir sagði að sig minnti að hugmyndin hefði komið frá Davíð Oddssyni. Geir sagði einnig: "Nú það er fleira sem gerist þessa helgi vegna þess að hann, formaður bankastjórnarinnar, talar við kollega sína í Bretlandi, þið hafið eflaust útskriftina að því samtali. Hann taldi að þar hefðu fallið mjög mikilvæg ummæli sem mætti túlka þannig að Bank of England og Bretarnir mundu hafa skilning á því sem hér þyrfti að gera, þ.e.a.s. þetta "ring fencing" dæmi, skipta upp í gamla og nýja, það væri skilningur á því að við þessar aðstæður væri ekki hægt að hugsa um annað en íslenska hagsmuni." Um fund-inn með J.P. Morgan sagði Geir: "[...] það var aðallega einn maður sem var í forsvari fyrir þá, þeir voru þarna þrír, þeir voru orðnir mjög þreyttir þegar þetta var reyndar, eins og fleiri fundarmenn en þetta var allt mjög skýrt engu að síður sem frá þeim kom og þeir sögðu svona í stuttu máli það að tilraunin með að gera Ísland að svona mikilvægu – sem íslensku bankarnir hefðu gert með því að stækka svona hratt – hefði mistekist og gæti ekki lifað af við þær aðstæður sem skapast höfðu á alþjóðamarkaðinum og nú væri ekkert að gera annað en að grípa í taumana og það væri best að gera það með þeim hætti sem menn voru að tala um." Geir sagði að fulltrúar J.P. Morgan hefðu talið að þetta væri "búið spil". Geir sagði síðan: "Ég er ekki viss um að það hafi verið sérstaklega nefnt en öllum sem sátu þennan fund var ljós alvara málsins og hvað þeir voru í raun og veru að segja alvarlega hluti og þegar þetta var varð mér ljóst að við þyrftum að gera ráðstafanir til að fara í sjónvarpið þarna daginn eftir o.s.frv."
Jón Steinsson, hagfræðingur, lýsti því við skýrslutöku að hann hefði verið í Ráðherrabústaðnum þetta kvöld ásamt Friðriki Má Baldurssyni, hagfræðingi, og Jóni Þór Sturlusyni, aðstoðarmanni viðskiptaráðherra. Sturla Pálsson, framkvæmdastjóri alþjóða- og markaðssviðs Seðlabankans, hefði komið í Ráðherrabústaðinn með fulltrúum J.P. Morgan. Síðan sagði Jón: "Bolli var búinn að tjá okkur að það væri gott að við værum á þessum fundi, bara svona sem augu og eyru sko. En Geir virðist vera gríðarlega mikið á móti því að vera með mikið af fólki á svona fundum og segir okkur að fara heim rétt fyrir fundinn. Síðan er hringt í mig rétt eftir fundinn, kl. hálf þrjú eða eitthvað, ég er sofandi, og það er ... hvort það er Tryggvi sem segir mér að það hafi verið stórkostleg mistök að við höfum ekki verið á þessum fundi, að þarna hafi sannleikurinn komið fram og það sé augljóst að við ættum að keyra á neyðarplanið og ég eigi bara að vakna snemma og byrja að framkvæma þetta neyðarplan."
Við skýrslutöku lýsti Árni M. Mathiesen fundinum með J.P. Morgan með eftirfarandi orðum: "[...] og þá hittum við þessa menn frá
J.P. Morgan og það var eiginlega "krúsíalt", því þá er eiginlega tekin ákvörðun um það að fara í neyðarlögin [...]." Árni sagði einnig: "[...] þeir eiginlega sögðu bara að það væri ekki um neitt annað að ræða heldur en að undirbúa okkur undir það að við þyrftum að fara inn í bankana og skipta þeim upp og beita þessari Washington Mutual aðferð, þetta væri bara viðurkennd aðferð í svona stöðu og lýstu því." Við skýrslutökuna spurði rannsóknarnefnd Alþingis Árna því næst hvort svokölluð Washington Mutual aðferð væri ekki sú aðferð að skipta banka í "góðan" banka og "slæman" banka. Árni svaraði: "Jú, það var raunverulega það sem var gert."
Björgvin G. Sigurðsson lýsti því við skýrslutöku að þrír fulltrúar J.P. Morgan hefðu sótt fundinn með ráðherrum þetta kvöld. Sá sem orð hefði haft fyrir fulltrúum J.P. Morgan hafi verið breskur. Um þann mann sagði Björgvin: "Hann var hérna lengi, svo var hann fenginn til að vera hérna áfram, hann var hérna heillengi, það var mjög greinilega vel reyndur og sjóaður maður. Þannig að einhvern veginn, þetta var mjög undarleg stund, allt í einu varð okkur þetta morgunljóst, maðurinn bara teiknaði þetta upp á töflu. Bara allt í einu, þetta var svona stund sannleikans eftir þessa geðveiku rússíbanahelgi, sem var kannski meira og minna byggð á óskhyggju, örugglega eftir á."
Össur Skarphéðinsson lýsti fundinum við skýrslutöku með eftirfarandi orðum: "Þar eru þrír prúðbúnir og vel mæltir yfirstéttar Bretar frá J.P. Morgan sem hafði verið ráðinn sem sérstakur ráðgjafi Seðlabankans. Þetta voru svakalega "næs" menn og gaman að tala við og þeir alveg létu okkur fá það svoleiðis á milli augnanna. [...] Þeir bara sögðu það svona "ganske pent" að þetta myndi allt saman falla, allir bankarnir myndu falla og það hefði kannski verið mögulegt fyrir okkur, töldu þeir, að verja Kaupþing. [...] Þeir voru með svona svipaða versjón, og kannski var hún þaðan komin, og Davíð Oddsson var með, þ.e.a.s. að girða af landið. Ég gat ekki skilið það öðruvísi." Össur sagði einnig: "Þeir voru alla vega ekki með mikið af pappírum. En ég held að þeir hafi verið búnir að vera þarna í einhverja daga kannski, kannski lengur. Og þeir höfðu, ég hef ekki hugmynd um hvaðan þeir höfðu sínar, þeir virtust tala, þeir þekktu fjármálakreppur og þeir sögðu: Þetta er bara svona, ykkar bankakerfi er þannig að það er varla hægt að bjarga því. Og ef það er hægt að bjarga einhverju þá er það Kaupþ..., þá er það KB. Þeir töluðu um að þeir væru snjallir."
Í tölvubréfi sem Össur Skarphéðinsson sendi kl. 03:48 aðfaranótt mánudagsins 6. október 2008 segir Össur frá fundi ráðherra með fulltrúum J.P. Morgan. Össur segir að fulltrúar fyrirtækisins hafi ráðlagt "að þingið samþykkti á morgun, helst í nótt" sérstakar heimildir fyrir stjórnvöld til að bregðast við aðsteðjandi vanda. Auk þess hafi þeir lagt til að samningi við Glitni yrði rift.
Við skýrslutöku var Baldur Guðlaugsson spurður að því hvenær stjórnvöldum hefði orðið það ljóst að grípa þyrfti til þeirra aðgerða sem í neyðarlögunum fólust. Baldur svaraði: "Það kann að hafa verið eitthvað mismunandi en ég held þó að það hafi a.m.k. svona endanlega gerst aðfaranótt mánudags. Þá [höfðu] komið til landsins þarna um helgina sérfræðingar frá J.P. Morgan á vegum Seðlabankans og voru búnir að, náttúrulega þekktu til íslenskra málefna, ef ég man rétt, einhverjir sem höfðu verið í tengslum hér við Ísland og höfðu svo eitthvað farið yfir stöðuna með þeim Seðlabankamönnum. Það var síðan sem sé haldinn fundur, það var bara eftir miðnætti á sunnudeginum, þar sem að þeir mættu þessir fulltrúar J.P. Morgan og fóru svona yfir stöðuna, eins og þeim sýndist hún vera, og í rauninni drógu þá mynd, miðað við bara, eins og ég segi, þeir vissu þá um, höfðu bara fengið "rapport" um svona hvernig bankarnir sjálfir höfðu verið að lýsa þeim vandræðum sem þeir voru þá að byrja að lenda í gagnvart þarna lánalínum og útflæði af reikningum og allt þetta. Að þessir aðilar sögðu bara: Þið verðið bara að horfast í augu við það að þið getið ekki bjargað öðrum, það er ekki hægt."
Að lokinni framsögu Michael Ridley óskaði Geir H. Haarde eftir því að starfsmenn J.P. Morgan vikju af fundinum en biðu um stund meðan ráðherrarnir ræddu málið. Þeir komu svo aftur inn á fundinn og svöruðu spurningum fundarmanna.
20.3.12 Neyðarlögin
Kl. 23:18 mánudaginn 6. október 2008 samþykkti Alþingi lög nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., sem í daglegu tali hafa verið nefnd neyðarlögin. Áður en nánar verður vikið að inntaki laganna er rétt að rekja undirbúning lagasetningarinnar í grófum dráttum og hverjir komu að þeirri vinnu.
Líkt og fjallað er um hér á eftir og nánar er rakið í kafla 19.0 hafði sérstakur starfshópur forsætisráðuneytis, fjármálaráðuneytis, viðskiptaráðuneytis, Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands skilað af sér greinargerð 17. febrúar 2006 þar sem sagði að huga þyrfti að "breytingum á lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og lögum um fjármálafyrirtæki". Í framhaldi af þessu var hafin vinna við drög að lagafrumvarpi, sbr. það sem kom fram hjá Jónasi Fr. Jónssyni, forstjóra Fjármálaeftirlitsins, við skýrslutöku um að snemma á árinu 2006, líklega í febrúar, hefði slík vinna verið sett af stað innan Fjármálaeftirlitsins. Jónas bætti því við að þar hefði verið kominn grunnurinn að neyðarlögunum. Jónas sagði að síðar hefði viðskiptaráðuneytið fengið frumvarpsdrögin í hendur og unnið úr þeim. Loks sagði hann að síðsumars 2008 hefðu verið komin "heilmikil svona drög". Drögin hefðu síðan verið kláruð helgina 4.–5. október 2008.
Aðspurður hvenær vinna hófst við frumvarpsdrög svaraði Rúnar Guðmundsson, sviðsstjóri hjá Fjármálaeftirlitinu, við skýrslutöku: "[...] fyrir alvöru fer þetta af stað 2008, við lærum svo mikið af norrænu viðlagaæfingunni [...] 2007, hún var alveg frábært verkfæri raunverulega fyrir okkur. Strax frá þeirri stundu þá ákváðum við að stofna þennan viðbúnaðarhóp sem þið þekkið og hugsa miklu meira um þetta sem möguleika að FME geti gripið inn í með skjótum hætti og tekið yfir eftirlitsskyldan aðila. Þannig að ég mundi segja að fyrir alvöru byrjar þetta 2008." Rúnar segir að í kjölfar norrænu viðlagaæfingarinnar sem fram fór haustið 2007 hafi menn áttað sig á því að sérstaklega þyrfti að huga að heimildum Fjármálaeftirlitsins til yfirtöku: "[...] þ.e. að grípa inn í, hvort sem við tökum yfir reksturinn eða klárlega þurfum við heimild til að víkja frá stjórn og [...] það byrjaði bara að fæðast síðan á árinu 2008 með miklum þunga og þunginn kom síðan fyrir alvöru þegar á leið á árið og þá var það þannig m.a. að Jónas bað mig um að fara eða lét mig fara í samstarfshóp [forsætisráðuneytis,] fjármálaráðuneytis, viðskiptaráðuneytis [og Fjármálaeftirlitsins] og Seðlabanka, og við byrjuðum þarna að undirbúa drög að frumvarpi [...]" í júlí 2008. Rúnar segir að Jónas Fr. Jónsson hafi farið þess á leit við sig að hann tæki saman "einföld drög að ákvæði" sem myndi fjalla um möguleg úrræði Fjármálaeftirlitsins til yfirtöku. Rúnar segir að þau drög hafi síðan verið kynnt í samráðshópi forsætisráðuneytis, fjármálaráðuneytis, viðskiptaráðuneytis, Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands um fjármálastöðugleika og viðbúnað. Rúnar segir að í framhaldinu hafi verið tekin ákvörðun um að "vinnuhópur yrði settur af stað sem mundi skoða þetta frekar og vinna þetta frekar áfram og það var gert".
Í drögum að fundargerð fyrrnefnds samráðshóps stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað 1. apríl 2008 kemur fram að Bolli Þór Bollason, ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytis, hafi spurt hversu mikil vinna sé að "koma með frumvarp um breytingar á lagaákvæðum um fjármálaeftirlit". Því næst er haft eftir Jónasi Fr. Jónssyni að frumdrög séu tilbúin og að þau hafi verið sýnd viðskiptaráðuneyti og sé nokkur vinna eftir. Því næst er haft eftir Baldri Guðlaugssyni, ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytis, að "slíkt frumvarp þyrfti helst að leggja fram á rólegum tíma eða þegar krísa er skollin á".
Við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis var Bolli Þór Bollason spurður að því hvort á framangreindum fundi 1. apríl 2008 hefði verið ágreiningur um það hversu mikla áherslu ætti að leggja á lagafrumvarpið sem verið var að vinna að. Bolli svaraði: "Nei, það voru allir algjörlega sammála um að það þyrfti að undirbúa svona frumvörp og ég held að menn hafi líka verið sammála því að tímasetningin væri náttúrulega mjög viðkvæm. Það var að sumu leyti okkar Akkilesarhæll í þessu öllu. Á þessum tíma vorum við komin inn í krísuumhverfi. Þarna var mjög neikvæð umræða um íslensku bankana og að ætla sér að fara fram með einhver lagafrumvörp sem fælu í sér hert ákvæði Fjármálaeftirlitsins, eða víðtækari heimildir til inngripa. Ég held að allir hafi verið sammála því að það gæti hreinlega bara framkallað hrun bankanna. En menn voru alveg sammála um að það þyrfti að herða á þessum ákvæðum og að Fjármálaeftirlitið hefði ekki nógu víðtækar heimildir, eins og er í mörgum öðrum löndum."
Dagana 8.–9. apríl 2008 heimsóttu fulltrúar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins Ísland. Í kjölfarið unnu þeir skýrslu, dags. 14. apríl 2008, sem ekki var gerð opinber en var þó kynnt Seðlabankanum. Í skýrslunni segir m.a.: "On bank resolution, however, the authorities' legal powers appear relatively weak, as the supervisory agency does not have the power to intervene and take over a bank."
Dagana 23. júní til 4. júlí 2008 heimsótti sendinefnd Alþjóðagjaldeyris-sjóðsins Ísland. Hinn 4. júlí sama ár birti Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn síðan opinberlega samantekt á niðurstöðum sendinefndarinnar. Í samantektinni er m.a. vikið að aðgerðum stjórnvalda til að mæta erfiðari aðstæðum á fjármálamarkaðnum: "The authorities should strengthen the crisis prevention and resolution framework further, building on the progress already made. Supervisory powers and resources have been significantly boosted.The formal frameworks for coordination between domestic agencies and across the Nordic region have been established and tested.The task force on liquidity management, established in the fall 2007, has advanced its work on high-frequency monitoring and modeling. All these efforts should continue in full force, including by compiling all existing elements of contingency planning into a single framework. In addition, the bank resolution framework should be strengthened to provide the FME with additional legislative powers."
Í þessu samhengi skal þess getið að sá starfshópur stjórnvalda sem getið var í upphafi kaflans og skilaði af sér greinargerð 17. febrúar 2006 hafði m.a. lagt eftirfarandi til við stjórnarformann Fjármálaeftirlitsins, bankastjórn Seðlabanka Íslands og forsætis-, utanríkis-, fjármála- og viðskiptaráðherra: "Æskilegt er að Fjármálaeftirlitið geti knúið fram breytingar á stjórnun og endurskoðun fjármálafyrirtækis. Þannig geti Fjármálaeftirlitið vikið stjórn, framkvæmdastjóra og eftir atvikum endurskoðanda úr starfi og skipað nýja í þeirra stað. Til greina kemur jafnframt að kveða á um einhliða heimild eftirlitsins til að taka við tilteknar aðstæður yfir vald hluthafafundar eða fundar stofnfjáreigenda að þessu leyti. Önnur leið væri að kveða á um heimild Fjármálaeftirlitsins til að boða til hluthafafundar eða fundar stofnfjáreigenda og leggja þar fyrir og knýja fram tillögu um breytingar á stjórn og endurskoðun. Mikilvægt gæti verið að Fjármálaeftirlitið hefði val um hvor þessara leiða væri farin m.t.t. aðstæðna hverju sinni. Heimildir af þessu tagi eiga sér fordæmi í nágrannalöndum og eru í samræmi við alþjóðlegar grunnreglur um árangursríkt bankaeftirlit. Í þessu sambandi má nefna að í úttekt Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á fjármálastöðugleika hér á landi á árinu 2003 kom fram að þrátt fyrir að heimildir og úrræði Fjármálaeftirlitsins hefðu verið auknar á undanförnum misserum, væri enn skortur á að eftirlitið hefði nauðsynlegar heimildir m.t.t. kjarnareglna fyrir árangursríkt bankaeftirlit (e. Core Principles for Effective Banking Supervision, Principle 22) [útgefinna] af Basel-nefnd um bankaeftirlit á árinu 1997. Í tilvitnuðu ákvæði kjarnareglnanna kemur m.a. fram að til þess að verja hag innstæðueigenda og kröfuhafa og koma í veg fyrir að sá vandi sem steðjar að viðkomandi banka hafi keðjuverkandi áhrif í fjármálakerfinu, verði eftirlitsaðilar að vera í stakk búnir til að knýja fram aðgerðir til úrbóta á réttum tíma sem geri þeim kleift að beita viðeigandi úrræðum í takt við eðli þeirra vandamála sem fyrir hendi eru hverju sinni. Kveðið er á um að eftirlitsaðilar ættu að hafa heimild m.a. [til] þess að víkja til hliðar ráðandi eigendum, stjórnarmönnum og framkvæmdastjórum eða til þess að takmarka völd þeirra. Einnig kemur fram að við sérstakar aðstæður ættu eftirlitsaðilar að hafa möguleika á að skipa tilsjónarmann með banka." Jafnframt sagði í greinargerð hópsins: "Einnig kann að vera mikilvægt að Fjármálaeftirlitið hafi heimildir til þess að takmarka eða banna ráðstöfun eftirlitsskylds aðila á fjármunum sínum og eignum sé það liður í aðgerðum til að koma fjárhag þess á réttan kjöl." Loks sagði einnig í greinargerðinni: "Huga þarf að heimildum stjórnvalda til þess að taka tímabundið yfir vald hluthafafundar [eða fundar stofnfjáreigenda] í kerfismikilvægu fjármálafyrirtæki þegar skilyrði 9. gr. laga um fjármálafyrirtæki til afturköllunar á starfsleyfi eru uppfyllt, en ekki þykir ráðlegt að afturkalla starfsleyfið og taka fyrirtækið til hefðbundinna slita skv. 2. mgr. 10. gr. sömu laga. [...] Þess í stað tækju stjórnvöld tímabundið yfir vald hluthafafundar til þess að knýja fram tilteknar aðgerðir í því skyni að leysa úr rekstrarvanda fjármálafyrirtækis. Sem dæmi um slíkar aðgerðir má nefna hlutafjáraukningu, samruna eða yfirtöku aðila sem stendur betur að vígi." Nánar er fjallað um tillögur hópsins í kafla 19.0.
Í drögum að fundargerð samráðshóps forsætisráðuneytis, fjármálaráðuneytis, viðskiptaráðuneytis, Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands um fjármálastöðugleika og viðbúnað 7. júlí 2008 kemur fram að Bolli Þór Bollason hafi spurt um stöðu "frumvarpssmíðin[nar] um breytingar á lagaákvæðum á fjármálamarkaði". Síðan segir í drögum að fundargerð: "Viðskiptaráðuneytið og FME hafa verið að fara aftur yfir áður unnin drög. IF [Ingimundur Friðriksson] óskaði eftir því að meðlimir hópsins fengju að sjá drögin og sendi ÁÁ [Áslaug Árnadóttir] þau til hópsins í kjölfar fundarins."
Áslaug Árnadóttir sendi meðlimum samráðshópsins tölvubréf 8. júlí 2008 og fylgdu því frumvarpsdrögin. Í bréfinu segir Áslaug, sem þá gegndi stöðu setts ráðuneytisstjóra viðskiptaráðuneytis, m.a.: "Þetta eru drög sem unnin voru hjá FME og við höfum síðan farið yfir í ráðuneytinu. Það er matsatriði, ef þörf verður á, hvort að leggja á svona frumvarp fram í heild eða velja úr því ákveðin atriði. Þá þyrftu að vera skýrari ákvæði um "brúunar banka" þ.e. heimild fyrir FME til að taka yfir rekstur eftirlitsskylds aðila. Þá er spurning hvort fela eigi FME slíkt vald eða öðrum aðila." Síðan segir Áslaug: "Þá þyrftu e.t.v. að vera þarna nákvæmari ákvæði um samvinnu við eftirlitsaðila í öðrum löndum þar sem fjármálafyrirtæki er með starfsemi. Einnig má velta fyrir sér hvort kveða eigi á um upplýsingaskyldu FME til stjórnvalda/neytenda/hluthafa o.fl. og þarf e.t.v. að vera undanþága frá þagnarskylduákvæðum laganna. Einnig þarf að huga að undanþágu frá ákvæðum stjórnsýslulaga.Verið er að vinna að nánari útfærslu á þessum atriðum í ráðuneytinu."
Við skýrslutöku lýsti Áslaug Árnadóttir því að Jónas Fr. Jónsson hefði látið hana fá frumvarpsdrög Fjármálaeftirlitsins á pappír 1. apríl 2008. Síðan hefði hún fengið rafrænt eintak í kringum 5. maí 2008. Áslaug segir að í kjölfarið hafi hún verið: "[...] búin að laga þetta aðeins til og þetta var í rauninni þannig tilbúið til framlagningar [...] en þá voru það bara það sem núna er í 100. gr. a, var í neyðarlögunum í 100. gr. a. Þetta voru þau atriði." Hér er átt við ákvæði sem varð 100. gr. a í lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Áslaug sendi rannsóknarnefnd Alþingis síðar afrit af tölvubréfi sem Rúnar Guðmundsson, sviðsstjóri hjá Fjármálaeftirlitinu, hafði sent henni 5. maí 2008 kl. 14:19. Með því bréfi fylgdu framangreind frumvarpsdrög.
Hér að neðan eru síðan þau frumvarpsdrög sem Áslaug sendi fulltrúum samráðshóps stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað 8. júlí 2008.Tekið skal fram að tillögur að lagaákvæðum eru nánast alveg óbreyttar frá þeirri útgáfu draganna sem Rúnar Guðmundsson sendi Áslaugu 5. maí sama ár. Helsta breytingin var að búið var að bæta inn almennum athugasemdum um ákvæði frumvarpsdraganna.
TRÚNAÐARMÁL
Júlí 2008
Vinnuskjal
Drög að frumvarpi að breytingum á lagaákvæðum á fjármálamarkaði
I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, með síðari breytingum.
1. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:
1. 3. mgr. orðast svo:
Þegar svo stendur á sem greinir í 1. eða 2. mgr. eða við sérstakar aðstæður skv.V. kafla laga þessara, getur Fjármálaeftirlitið boðað til fundar í stjórn eða framkvæmdastjórn hins eftirlitsskylda aðila til þess að fjalla um athugasemdir þess og kröfur og leiðir til úrbóta.
2. Nýr málsliður bætist við 3. mgr., svohljóðandi: Fjármálaeftirlitinu er jafnframt heimilt að boða til hluthafafundar við sérstakar aðstæður skv.V. kafla laga þessara.
2. gr.
Nýr kafli,V. kafli sem hefur fyrirsögnina Sérstakir rekstrarerfið-leikar hjá eftirlitsskyldum aðilum, bætist við með fimm nýjum greinum og breytast kafla- og greinatölur samkvæmt því.
a. (16. gr.)
Gildissvið.
Auk úrræða samkvæmt III. kafla laga þessara, getur Fjármálaeftirlitið gripið til aðgerða sem kveðið er á um í þessum kafla, telji það þörf á vegna sérstakra aðstæðna eða atvika. Með sérstökum aðstæðum eða atvikum er átt við sérstaka rekstrarerfiðleika hjá eftirlitsskyldum aðilum, m.a. líkur á því að þeir geti ekki staðið við skuldbindingar sínar gagnvart viðskiptavinum eða kröfuhöfum, forsendur afturköllunar starfsleyfis séu líklega fyrir hendi eða líkur standi til að þeir geti ekki uppfyllt kröfur um lágmarks eigið fé eða gjaldþol og að önnur úrræði Fjármálaeftirlitsins séu ekki líkleg til þess að bera árangur. Slíkar aðgerðir skulu miða að því að leysa úr rekstrarvanda eftirlitsskylds aðila þannig að starfsleyfisskilyrðum verði fullnægt á ný og að því að takmarka hættu á tjóni á fjármálamarkaði.
b. (17. gr.)
Boðun hluthafafundar eða fundar stofnfjáreigenda.
Við aðstæður eða atvik sem kveðið er á um í 16. gr. laganna, getur Fjármálaeftirlitið boðað til hluthafafundar eða fundar stofnfjáreigenda. Fulltrúi Fjármálaeftirlitsins skal stýra fundi og hefur hann málfrelsi og tillögurétt. Fjármálaeftirlitið er við þessar aðstæður ekki bundið af ákvæðum hlutafélagalaga eða samþykkta eftirlitsskyldra aðila um fundarboðun, frest til fundarboðunar eða dagskrá.
c. (18. gr.)
Takmörkun á ákvörðunarvaldi stjórnar og frávikning stjórnar. Fjármálaeftirlitið getur takmarkað ákvörðunarvald stjórnar eftirlitsskylds aðila tímabundið, m.a. með skipun sérstaks tilsjónarmanns með rekstri hins eftirlitsskylda aðila. Fjármálaeftirlitið skal kveða nánar á um valdheimildir slíks tilsjónarmanns í skipunarbréfi.
Fjármálaeftirlitið getur vikið frá stjórn hins eftirlitsskylda aðila, að hluta til eða í heild sinni, tímabundið eða til frambúðar, verði stjórnarmenn ekki tafarlaust við kröfu Fjármálaeftirlitsins um að víkja úr stjórn. Sama gildir um framkvæmdastjóra og endurskoðanda hins eftirlitsskylda aðila.
d. (19. gr.)
Takmörkun á ráðstöfunum og fullnustugerðir kröfuhafa.
Fjármálaeftirlitið getur ef nauðsyn krefur, eftir atvikum í samráði við erlend eftirlitsstjórnvöld, takmarkað eða bannað ráðstöfun eftirlitsskylds aðila, á fjármunum sínum og eignum sé það liður í aðgerðum til að koma fjárhag hans á réttan kjöl. [Í skjalinu er hér tilvísun til neðanmálsgreinar. Þar segir: "Athuga samspil við Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta."] Fjármálaeftirlitið getur jafnframt krafist þess að eftirlitsskyldur aðili sæki um greiðslustöðvun í samræmi við ákvæði laga um gjaldþrotaskipti, sé það talið nauðsynlegur liður í því að leysa úr fjárhags- eða rekstrarvanda hins eftirlitsskylda aðila. Ákvæði laga um gjaldþrotaskipti gilda um greiðslustöðvun eftirlitsskylds aðila, en val eftirlitsskylds aðila á aðstoðarmanni skuldara skal þó staðfest af Fjármálaeftirlitinu. [Í skjalinu er hér tilvísun til neðanmálsgreinar. Þar segir: "Athuga samspil við lög um gjaldþrotaskipti o.fl."]
e. (20. gr.)
Tímabundið afnám á valdi hluthafafundar í sérstökum tilvikum.
Sé það ljóst að mati Fjármálaeftirlitsins að úrræði samkvæmt lögum þessum eða þeim sérlögum sem um starfsemi eftirlitsskyldra aðila gilda, nái ekki tilskildum árangri við lausn á fjárhags- eða rekstrarvanda eftirlitsskylds aðila, getur Fjármálaeftirlitið tímabundið tekið yfir vald hluthafafundar eða fundar stofnfjáreigenda í því skyni að taka ákvarðanir um nauðsynlegar aðgerðir.
f. (21. gr.)
Heimild til að ljúka greiðslu áfallinna krafna og til yfirtöku og samruna.
Fjármálaeftirlitinu, eða tilsjónarmanni með eftirlitsskyldum aðila, er heimilt að taka í sínar vörslur þær eignir sem mæta eiga skuldbindingum hins eftirlitsskylda aðila og láta meta verðmæti eigna og ljúka greiðslu áfallinna krafna eftir því sem forsvaranlegt þykir. [Í skjalinu er hér tilvísun til neðanmálsgreinar. Þar segir: "Athuga lög um gjaldþrotaskipti o.fl."] Fjármálaeftirlitinu er heimilt að leita til annarra eftirlitsskyldra aðila um mögulega yfirtöku eða samruna. Fjármálaeftirlitið heimilar samruna umræddra aðila að teknu tilliti til laga um vátryggingastarfsemi og laga um fjármálafyrirtæki eftir því sem við á.
II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, með síðari breytingum.
3. gr.
Við 86. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
Fjármálaeftirlitið getur tekið ákvörðun um að víkja frá ákvæðum 2.–4. mgr. ef sérstakar aðstæður eða atvik eru fyrir hendi eða ef talin er þörf á að grípa inn með öðrum hætti en þar er kveðið á um, í samræmi við almennar eftirlitsheimildir.
III. KAFLI
Breyting á lögum nr. 60/1994, um vátryggingastarfsemi, með síðari breytingum.
4. gr.
Við 90. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
Fjármálaeftirlitið getur tekið ákvörðun um að víkja frá ákvæðum 1.–9. mgr. ef sérstakar aðstæður eða atvik teljast vera fyrir hendi eða ef talin er þörf á að grípa inn með öðrum hætti en þar er kveðið á um, í samræmi við almennar eftirlitsheimildir.
IV. KAFLI
Gildistaka.
5. gr.
Lög þessi öðlast þegar gildi.
Þá fylgja frumvarpsdrögunum almennar athugasemdir og sérstakar athugasemdir við einstakar greinar þeirra.
Við skýrslutöku lýsti Sigríður Logadóttir, aðallögfræðingur Seðlabankans, því að Ingimundur Friðriksson, seðlabankastjóri, hefði afhent henni frumvarpsdrögin eftir að Áslaug sendi honum þau í tölvubréfi. Sigríður sagði: "[...] hann bað mig um að líta yfir þetta frumvarp, þá hafði verið í umræðunni fram eftir ári að ef allt færi á versta veg og fjármálafyrirtæki bara hreinlega færu yfir, þá hefðum við ekki gjaldþrotalög, löggjöfin var gjörsamlega, að mínu mati, vanbúin því að takast á við slíkar aðstæður, sem sagt grípa inn í einn, tveir og þrír. Og líka að grípa inn í stjórn fyrirtækisins þannig að það væri hægt að stýra því, sem sagt án þess að það þyrfti að grípa til gjaldþrotaskipta-úrskurðar, vegna þess að það hefði verið alveg "fatal" að nota gjaldþrotaskiptalögin íslensku. Þannig að þetta er sem sagt tölvupóstur, sem hann lét mig hafa, ég man ekki nákvæmlega hvaða dag hann lét mig hafa, þetta er bara stuttu eftir þennan
8. júlí, þannig að ég var búin að vera með þetta á borðinu hjá mér þegar að hópurinn þarna kom fyrst saman. Og ég man alltaf eftir því þegar ég las þetta fyrst að mér fannst þetta mjög drastískt, en þetta er nú ekki drastískt miðað við það sem síðan endirinn varð þarna 6. október."
Í drögum að fundargerð samráðshóps stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað 15. júlí 2008 segir m.a.: "Rætt var um frumvarpsdrög sem ÁÁ [Áslaug Árnadóttir] hafði dreift fyrir nokkru og rætt um almenna löggjöf og sértæka. BÞB [Bolli Þór Bollason] taldi nauðsynlegt að vinna textana áfram þótt ólíklegt væri að slíkar breytingar gætu náð fram að ganga við núverandi aðstæður. Hins vegar væri rétt að undirbúa frumvarp eða bráðabirgðalagatexta sem tæki á hugsanlegum vanda eins af stóru bönkunum undir forystu fjármálaráðuneytis með liðsinni lögfræðinga úr öðrum stofnunum. BG [Baldur Guðlaugsson] sagðist myndu koma því í farveg."
Í drögum að fundargerð samráðshópsins 22. júlí 2008 segir m.a.: "BB [Bolli Þór Bollason] sagði að næsta verkefni samráðshópsins væri að láta vinna drög að texta bráðabirgðalaga eða frumvarpi. Hann kvað tilganginn vera þann að fá fram svör við "ólystuga matseðlinum". ÁÁ [Áslaug Árnadóttir] sagði að sér hefði fundist að fundargerð fyrri fundar hefði verið villandi um þetta. Þar var fyrst fjallað um frumvarpsdrögin sem ÁÁ lagði fram og í beinu framhaldi að fjármálaráðuneytið ætlaði að vinna textann áfram í samvinnu við lögfræðinga annarra ráðuneyta. ÁÁ kom því á framfæri að þau lög sem gera þarf breytingar á eru öll á málefnasviði viðskiptaráðuneytisins og því getur fjármálaráðuneytið ekki stýrt vinnuhópi sem breyta á þeim ákvæðum. Niðurstaða umræðunnar varð sú að fjármálaráðuneytið stýri vinnuhópi sem undirbúa á texta frumvarps til laga eða bráðabirgðalaga um aðkomu ríkisins ef það þarf að grípa inn í eða hafa afskipti af rekstri fjármálafyrirtækja. Þá þarf viðskiptaráðuneytið jafnframt að kanna hvort að breyta þarf lögum um fjármálafyrirtæki, vátryggingastarfsemi, lögum um hlutafélög og einkahlutafélög og lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi vegna frumvarpsdraga þeirra sem starfshópur á vegum fjármálaráðuneytis vinnur. Á fundinum voru eftirfarandi fulltrúar tilnefndir í vinnuhópinn, Þórhallur Arason sem stýrir honum, Sigríður Rafnar fulltrúi viðskiptaráðuneytis, Rúnar Guðmundsson fulltrúi FME og Sigríður Logadóttir fulltrúi Seðlabanka Íslands." Við skýrslutöku lýsti Sigríður Logadóttir því að Hafsteinn S. Hafsteinsson, starfsmaður fjármálaráðuneytis, hafi einnig starfað með hópnum. Í gögnum Sigríðar Rafnar Pétursdóttur kemur fram að hópurinn hafi starfað undir stjórn Þórhalls Arasonar, skrifstofustjóra í fjármálaráðuneytinu.
Í drögum að fundargerð samráðshóps stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað 31. júlí 2008 segir m.a.: "JFJ [Jónas Fr. Jónsson] kvað óljóst hvert verkefni (mandate) lögfræðingahópsins væri. Fulltrúi FME hefði komið af fyrsta fundi hópsins með önnur skilaboð en þau að hópurinn ætti að semja drög að frumvarpi. ÁÁ sagði tilganginn þann að semja búta sem mætti nýta til að setja í frumvarp en þar sem eðli hugsanlegs áfalls gæti verið af margskonar toga væri erfitt að semja drög að einu frumvarpi." Síðan segir: "BG sagði verkefnið vera að skýra hvaða valkostum ríkið gæti staðið frammi fyrir almennt og sértækt við mismunandi aðstæður. Frumvarpsdrög yrðu samin í framhaldi af því." Því næst segir: "JFJ sagði að þá hefði hann misskilið málið. Starfshópur FME og Seðlabankans hefði verið búinn að draga upp sviðsmyndir áfalls og nauðsynlegt væri að semja frumvarpsdrög í samræmi við það. BG sagði ekki þörf á hóp til að semja fjögurra greina frumvarp."
Í drögum að fundargerð samráðshópsins 16. september 2008 segir m.a.: "BÞB sagði að ráðherrarnir hefðu einnig rætt um hverjum ætti að bjarga. Ekki væri ætlunin að bjarga hluthöfum og ekki væri sjálfgefið að taka ætti tillit til allra skuldbindinga.Tímaröðin væri eftirfarandi: Fyrst yrðu að liggja fyrir drög að yfirlýsingum um innstæðuvernd og fleira. Þess mætti vænta að sama sólarhring gæti þurft drög að lagafrumvörpum um m.a. yfirtöku og aðkomu nýrra fjárfesta. E.t.v. gæfist lengri tími fyrir önnur atriði." Síðan segir: "BG nefndi að ef eignir og skuldir yrðu færðar yfir á annan lögaðila væri auðveldara að skilja eftir ákveðnar skuldbindingar. JFJ bætti við að væntanlega þyrfti að færa niður kröfur og búast mætti við að hagsmunaaðilar færu í dómsmál. Taka þyrfti tillit til margra ákvæða svo sem "change of control" ákvæða. BÞB nefndi að eins og staðan væri nú fyndust væntanlega ekki margir viljugir kaupendur." Síðan segir: "TP [Tryggvi Pálsson] spurði hvort "lögfræðihópurinn" gæti útfært hvernig færa mætti eignir og skuldir yfir til nýs lögaðila og hvort ekki væri nauðsynlegt að fá ráðgjöf endurskoðenda. Einnig þyrfti að setja hópnum tímafrest. BG sagðist setja hópnum tímamörk." Því næst segir: "JFJ fór yfir "ólystuga matseðilinn" frá 25. apríl sl. Liðir 5 og 6 tengjast viðfangsefni "lögfræðingahópsins", þ.e. meginskilyrði fyrir eiginfjárstuðningi og texti lagafrumvarps um m.a. þynningu hluta, þvingaðan samruna og brúunarbanka."
Við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis lýsti Rúnar Guðmunds-son vinnu vinnuhóps fjármálaráðuneytis, viðskiptaráðuneytis og Fjármála-eftirlitsins við frumvarpsdrögin með eftirfarandi orðum: "Það gekk mjög mikið út á það með hvaða hætti getur FME yfirtekið þá eftirlitsskyldan aðila og án þess að ég sé að halla á menn um of, þá fannst okkur, mér og viðskiptaráðuneytinu, fullhægt ganga í þessum vinnuhópi, af því að fjármálaráðuneytisfulltrúarnir tveir sem voru, þeir voru svo mikið í að grandskoða, hvað er t.d. "bad bank", með hvaða hætti má yfirtaka o.s.frv. og það fór rosalega mikill tími og margir fundir í að ræða þessa möguleika. Okkur fannst vanta: Bíddu, úrræðin liggja ljós fyrir, við þurfum bara að taka ákvörðun um hvað við viljum mæla með. En þeir tóku sér mjög góðan tíma í að skoða og þeir náttúrulega komu að þessu verandi ekki sérfræðingar kannski um lánastarfsemi og þeir vildu svona fá upplýsingar um hvernig eru reglurnar og auðvitað þurfa menn að vanda sig í þessu og allt það. Þannig að þetta gekk ekki mjög hratt að koma þessari vinnu áfram og á endanum [...] þá eiginlega [slitnaði] upp úr [...] og viðskiptaráðuneytið tók þetta yfir og ég og Kjartan Gunnarsson og Sigríður Rafnar í viðskiptaráðuneytinu, okkur var svo falið, af því að þetta var nú á ábyrgðarsviði viðskiptaráðuneytisins, aðeins að fínstilla þetta betur." Aðspurður hvenær vinnan hefði færst yfir til viðskiptaráðuneytis frá fjármálaráðuneyti svaraði Rúnar að það hefði verið í byrjun september 2008. Þá hefði hann farið að funda með Kjartani Gunnarssyni, skrifstofustjóra í viðskiptaráðuneyti, og Sigríði Rafnar Pétursdóttur.
Í yfirliti Sigríðar Rafnar Pétursdóttur yfir framvindu mála hjá vinnuhópi fjármálaráðuneytis,viðskiptaráðuneytis og Fjármálaeftirlitsins kemur fram að vinnuhópurinn hafi fundað sjö sinnum á tímabilinu 8. júlí 2008 til og með 3. október sama ár. Í skjali Sigríðar kemur einnig fram að hún hafi auk þess fundað með Kjartani Gunnarssyni og Rúnari Guðmundssyni 4. september 2008. Í punktum Sigríðar frá þeim fundi segir að hún hafi þar á undan rætt starf vinnuhópsins við Jónínu S. Lárusdóttur, ráðuneytisstjóra viðskiptaráðuneytis, og Kjartan Gunnarsson. Sigríður hefur skrifað um þetta: "Ómarkvissir fundir, óljóst mandat (ekki á sömu blaðsíðunni?)."
Rannsóknarnefnd Alþingis hefur undir höndum frumvarpsdrög sem bera með sér að vera unnin af vinnuhópi fjármálaráðuneytis, viðskiptaráðuneytis og Fjármálaeftirlitsins.
Drög að frumvarpi um heimild ríkisstjórnarinnar til að leggja fram fjármuni til yfirtöku eða stofnunar fjármálafyrirtækis eða annars eftirlitsskylds aðila samkvæmt lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi nr. 87/1998
1. kafli
1. gr.
Við sérstakar aðstæður er ríkisstjórn Íslands heimilt, að fengnu áliti Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands og fjármálaráðuneytisins og viðskiptaráðuneytisins, að leggja fram kr. ........ til stofnunar fjármálafyrirtækis eða til yfirtöku fjármálafyrirtækis.
Með sérstökum aðstæðum skv. 1. mgr. er átt við rekstrarerfiðleika hjá eftirlitsskyldum aðilum þar sem líklegt er að þeir geti ekki staðið við skuldbindingar sínar gagnvart viðskiptavinum eða kröfuhöfum, forsendur afturköllunar starfsleyfis séu líklega fyrir hendi eða líkur standi til að þeir geti ekki uppfyllt kröfur um lágmarks eigið fé eða gjaldþol og þar sem önnur úrræði Fjármálaeftirlitsins eru ekki líkleg til þess að bera árangur. Slíkar aðgerðir skulu miða að því að leysa úr því ástandi sem skapast hefur á fjármálamarkaði og takmarka áhættu á tjóni á fjármálamarkaði.
Ef ríkissjóður tekur þá ákvörðun að stofna eða yfirtaka fjármálafyrirtæki gilda ákvæði laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 eftir því sem við á.
Ef tekin er ákvörðun um að yfirtaka rekstur eftirlitsskylds aðila skal fulltrúi ríkissjóðs boða til hluthafafundar eða fundar stofnfjáreigenda. Fulltrúi ríkissjóðs skal stýra fundinum og hefur hann málfrelsi og tillögurétt.Við þessar aðstæður eru aðilar ekki bundnir af ákvæðum hlutafélagalaga eða samþykkta eftirlitsskyldra aðila um fundarboðun eða frest til fundarboðunar.
2. kafli
2. gr.
Lög þessi öðlast þegar gildi.
Meðfylgjandi frumvarpsdrögunum voru jafnframt athugasemdir við drögin og einstakar greinar þeirra.
Við skýrslutöku lýsti Áslaug Árnadóttir því að hún hefði gert verulegar athugasemdir við það fyrirkomulag að vinnuhópurinn sem semja átti lagafrumvarpið skyldi heyra undir fjármálaráðuneytið.Við skýrslutöku sagði Áslaug: "Og við skipuðum í þann hóp fulltrúa úr ráðuneytinu hjá okkur, Sigríði Rafnar Pétursdóttur, en, og Kjartan Gunnarsson kom þar eitthvað að líka, en jafnframt settum við þá bara á fót okkar eigin hóp, af því að okkur fannst miklu meira sem þyrfti að skoða í lögum viðskiptaráðuneytisins heldur en, varðandi þessa fjármögnun. Svo að þau tvö voru í þessum hóp fjármálaráðuneytisins, þau tvö stjórnuðu líka þá hóp á vegum viðskiptaráðuneytisins sem í var líka Rúnar Guðmundsson og það var haft samráð við Sigríði Logadóttur í Seðlabankanum. Hún, veit ekki hvort hún hitti þau á fundum en hún alla vega var "involveruð" í þetta. Þessi hópur var alveg tilbúinn þarna í september með frumvarp þar sem m.a. var, og kjarninn þar, þar var búið að setja þetta upp í að þetta yrði 100. gr. a og búið að leggja til breytingar á 3. mgr. 9. gr. og einhverjum svona sem kom, sem fór svo beint inn í neyðarlagafrumvarpið. Fjármálaráðuneytið gekk mjög illa í þeim hópi, það kom nú til ykkar allt frá henni Sigríði Rafnar og allt í kringum þann hóp kom hérna um daginn til ykkar. Hún var mjög "frústreruð", fannst ekkert ganga og engar ákvarðanir vera teknar og ekkert að gerast í rauninni. Sá hópur átti að vinna mjög hratt og við skildum það þannig að hann ætti bara að vera að ljúka, búinn að ljúka störfum í ágúst, en það gekk mjög hægt."
Áslaug Árnadóttir lýsti því jafnframt við skýrslutöku að haldið hefði verið áfram með vinnu í framangreindum hópi viðskiptaráðuneytis eftir að tilkynnt var um fyrirhugaða yfirtöku ríkisins á Glitni banka hf. Um þetta sagði Áslaug: "Svo kemur þetta bara upp í rauninni, fórum að skoða þetta aftur þarna í bara vikunni eftir að Glitnir var tekinn, þá fór þetta alveg á fullt, þá vorum við með þessi ágætu drög sem þessi, okkar hópur hafði unnið, Sigríður, Kjartan og Rúnar úr FME, Sigríður Logadóttir vegna þess sem á undan var gengið."Áslaug sagði einnig um þetta efni: "Það voru einhver svona nánari fyrirmæli, ég man nú ekki nákvæmlega hvernig þetta var, en okkar niðurstaða, lögfræðinganna, var sú að þetta væri ekki hægt, það væri lögfræðilega ekki hægt að semja svona frumvarp. Þá lögðum við fram þessi frumvarpsdrög sem við höfðum með 100. gr. a og þessum ákvæðum. Það voru allir sammála um það og það eru þarna tölvupóstar þar sem við sendum þeim þau drög, svo rafrænt.Við sátum yfir þeim drögum, breyttum þeim eitthvað og löguðum þau til og þá voru svona allir nokkuð sáttir við að það væri kominn svona góður grunnur að svona."
Við skýrslutöku ræddi Jónína S. Lárusdóttir um tillöguna sem Áslaug Árnadóttir vék að og nefnd er hér að ofan, um frumvarp um yfirtöku á banka X og flutning innlendrar starfsemi hans yfir í Glitni. Um þetta sagði Jónína: "[...] það kom náttúrulega fram að það væri til 100. gr. a og allt það og FME er svolítið mikið að tala um það á þessum fundum, þessa vikuna, hvort það væri þá hægt að gera [...] eitthvað frumvarp um aðgerðina sem slíka. Það var meira að segja gerð ein lítil tilraun til þess að – þetta var bara ekki hægt að innlend starfsemi einhvers banka ætti bara að fara yfir í Glitni. Það var óskað eftir því að það yrði gerð tilraun til að setja upp slíkt frumvarp, sem náði svona langt. [...] þetta var náttúrulega bara engan veginn fær leið."
Við skýrslutöku lýsti Rúnar Guðmundsson því að þriðjudaginn 30. september 2008 hefði Jónas Fr. Jónsson beðið sig að fara "hið snarasta" í Seðlabankann. Þar hefði hann hitt fyrir Ragnar Önundarson, viðskiptafræðing, og Jónínu S. Lárusdóttur. Rúnar lýsir atburðarásinni með eftirfarandi orðum: "[...] þá fer ég niður í Seðlabanka, hitti þar m.a. ráðuneytisstjóra viðskiptaráðuneytisins og hún segir mér raunverulega hvert erindi fundarins var. Ég hafði ekki fengið það hjá Jónasi og þá segir hún bara eiginlega efnislega beint í andlitið á mér að ástæða sé til að ætla að bankarnir séu að hrynja og við þurfum bara hið snarasta að setja saman einhverja áætlun til þess að m.a., til hvaða viðbragða á að grípa og mögulegar heimildir þá stjórnvalda til inngripa. Þetta fékk ég sem sagt bara í andlitið þarna niðri í Seðlabanka og ég settist bara niður með þeim Ragnari og fleirum og við vorum bara með "powerpoint" uppi á skjánum og byrjuðum að reyna að kortleggja, hvað er að gerast? Hvað á mögulega, til hvaða ráðstafana á mögulega að grípa o.s.frv? Og þetta var svona "brainstorming" og þannig var þetta unnið og síðan bara eins og hendi var veifað." Í þessu samhengi skal tekið fram að Rúnar hafði um vorið 2008 tekið þátt í vinnu við undirbúning sviðsmynda fjármálaáfalls með starfsmönnum Seðlabankans að frumkvæði samráðshóps stjórnvalda.
Rúnar lýsti því einnig við skýrslutöku að hann hefði ekkert komið frekar að vinnu við frumvarpið eftir föstudaginn 3. október 2008: "Ég kom ekkert síðan frekar að þessu og þarna helgina miklu í byrjun október þegar hrunið átti sér stað þá bara frétti ég af þessu í fjölmiðlum eins og margur annar að búið var að semja frumvarp og það yrði keyrt í gegnum þingið og svo hlustaði ég bara á ræðu forsætisráðherra eins og allur annar almenningur og upplifði þetta." Rúnar var þannig hvorki viðstaddur né tók þátt í því starfi sem unnið var innan Fjármálaeftirlitsins helgina 4.–5. október 2008 en starfsmenn stofnunarinnar unnu þá meðal annars að því að aðstoða sérfræðingahóp forsætisráðherra.
Jónína S. Lárusdóttir lýsti því við skýrslutöku að unnið hefði verið við frumvarpið vikuna eftir að tilkynnt var um fyrirhugaða yfirtöku ríkisins á Glitni: "[...] sem sagt þá viku og svo var bara vinnan kláruð þarna um helgina, laugardag og sunnudag." Jónína sagði: "100. gr. a, sem er nú kjarni laganna, hún á sér langa forsögu og er kláruð þarna í rauninni í vikunni mikið til. En síðan er það á laugardeginum og sunnudeginum sem er unnið mjög "intensívt" í frumvarpinu." Jónína segir að um helgina hafi aukinn mannskapur verið kallaður til: "Það var ég og staðgengill minn [Áslaug Árnadóttir] og það var – við kölluðum til Sigríði Rafnar. Ég man ekki hvort við kölluðum hana til á laugardeginum eða sunnudeginum. Síðan var Þóra Margrét Hjaltested þarna líka hjá okkur – já, þetta var allt á sunnudeginum og laugardagskvöldið. Og svo var Valgerður Rún Benediktsdóttir líka hjá mér og svo var FME í þessu, Íris Björk [Hreinsdóttir vann ákvæðið] um sparisjóðina, Árni Huldar [Sveinbjörnsson], Jóhannes Karl Sveinsson, lögmaður. Jóhannes var náttúrulega bara úti um allt."
Við skýrslutöku lýsti Jóhannes Karl Sveinsson, hrl., því að um kl. 22:00 laugardaginn 4. október 2008 hefði Jónas Fr. Jónsson haft samband við sig og spurt hvort hann hefði tök á að koma að verkefni sem þá væri verið að vinna að innan Fjármálaeftirlitsins. Þegar Jóhannes mætti í húsakynni Fjármálaeftirlitsins hefði Jónas Fr. Jónsson lýst stöðunni fyrir honum. Síðan hefði Jóhannes byrjað að vinna að frumvarpinu ásamt starfsmönnum viðskiptaráðuneytis og Fjármálaeftirlitsins. Jóhannes lýsti vinnunni laugardagskvöldið og aðfaranótt sunnudagsins með eftirfarandi orðum: "Þetta frumvarp er náttúrulega unnið á vegum viðskiptaráðuneytisins, þannig að það voru starfsmenn viðskiptaráðuneytisins og ráðuneytisstjórinn og skrifstofustjórinn Áslaug, sem svona héldu utan um frumvarpið á þeim tíma og þær voru þarna til staðar þetta kvöld, ásamt með öðrum starfsmönnum Fjármálaeftirlitsins." Jóhannes sagði einnig: "Síðan vinnum við í þessu þessa nótt þarna, aðfaranótt sunnudagsins, við erum svona komin langt með að klára frumvarpið þarna undir morgun og samhliða vorum við byrjuð að leggja drög að hugsanlegum ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins, sem yrði þá að taka ef frumvarpið yrði að lögum, svona reyna að átta okkur á því hvað gæti gerst. Þarna á vettvangi voru líka til ráðgjafar, það voru svona – því auðvitað þurftum við að greina stöðuna í leiðinni, við þurftum að átta okkur á því hversu, hvernig var staða bankanna, hverjar voru skuldbindingar þeirra sem voru að falla þarna á þessum tíma, innstæðuumfang, innstæðuskuldbindingarnar, við þurftum náttúrulega að átta okkur mjög vel á og annað." Síðan sagði Jóhannes: "Þarna voru á vettvangi uppi í Fjármálaeftirliti sem sagt þessir svokölluðu efnahagsráðgjafar ríkisstjórnarinnar, Tryggvi Þór Herbertsson, Jón Steinsson og Friðrik Már Baldursson, voru þarna þetta kvöld að vinna. Þeir voru búnir að teikna þessa stöðu nokkuð upp og við fengum upplýsingar frá þeim og síðan auðvitað jafnóðum ráðfærðum okkur við þá og starfsmenn Fjármálaeftirlitsins. Síðan heldur þessi vinna áfram seinni partinn á sunnudeginum [...] 5. október. Þá flytjum við nú reyndar [...] þessa vinnu upp í viðskiptaráðuneyti, [...] og þá eru komnir fleiri starfsmenn viðskiptaráðuneytisins að vinnunni, það er Áslaug var og Jónína er og Þóra Hjaltested og Sigríður Rafnar, a.m.k. svona "aktívar" í því og eru þarna með okkur í þessu fram á kvöld þá sunnudaginn 5., þá má segja að við höldum bara áfram þar sem frá var horfið og þá er svona lokið við held ég að mestu endanlega gerð frumvarpsins, þarna um nóttina." Aðspurður hvaða erlendu ráðgjafar hefðu verið í Fjármálaeftirlitinu aðfaranótt sunnudagsins 5. október 2008 svaraði Jóhannes: "Það voru náttúrulega ýmsir sem voru þarna á ferðinni, þetta virtist vera svona að miðstöð þessarar vinnu væri inni í Fjármálaeftirliti, menn voru að vinna, eins og ég sagði áðan, að ýmsum "plönum". Það var verið að vinna svona í hagfræðilegum málefnum, ef svo má segja, það voru efnahagsráðgjafarnir, þeir voru að funda með erlendum ráðgjöfum sem voru frá J.P. Morgan á þessum tíma líklega, einir þrír eða fjórir. Þarna komu líka við sögu tveir ráðgjafar frá McKinsey-fyrirtækinu, þeir voru hins vegar fyrst og fremst svona að skipuleggja, í skipulagningar- og samræmingarvinnu, komu ekkert að frumvarpinu sjálfu eða slíkt. Ég held að þeir J.P. Morgan menn hafi fyrst og fremst verið svona í hugmyndafræðinni, þeir hafi ekki beinlínis verið í frumvarpssmíðinni, þeir hafi svona verið að ráðleggja mönnum til hvaða ráða væri hægt að grípa og leggja upp einhverja línu, frekar heldur en að vera í frumvarpsgerðinni." Í þessu samhengi skal þess getið að fulltrúar J.P. Morgan komu til Íslands síðdegis sunnudaginn 5. október 2008. Þrátt fyrir að fundur þeirra með ríkisstjórn síðla kvölds þann dag virðist hafa verið afdrifaríkur varðandi afstöðu yfirvalda til fyrirliggjandi vanda verður ekki séð að þeir hafi í raun komið að nokkurri vinnu við neyðarlögin. Jónas Fr. Jónsson staðfesti þann skilning við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefndinni.
Jón Sigurðsson, stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins, var við skýrslutöku spurður um hvert hlutverk ráðgjafa frá McKinsey hefði verið. Jón svaraði: "Já, ég skildi það aldrei." Síðan bætti hann við: "Nei, ég bara svara því svona. Það voru allt of margir ráðgjafar og allt of fá ráð. Í alvöru, það var þannig. Hins vegar þurfti auðvitað að höggva á marga hnúta og gera eitthvað og ég tel að það gangi nú kraftaverki næst að það var hægt að halda þessu íslenska greiðslu- og bankakerfi á floti þessi dægur. Ég tel að það sé meiri háttar árangur."
Jónas Fr. Jónsson lýsti því við skýrslutöku að hann hefði óskað eftir því að ráðgjafar frá McKinsey yrðu kallaðir til. Hefði hann rætt málið í samráðshópnum, sérstaklega við Bolla fyrir helgina 4.–5. október 2008. Ráðgjafarnir hefðu síðan komið fljótlega, hugsanlega að kvöldi föstudagsins 3. sama mánaðar. Jónas sagði að hann minntist þess þó ekki að þeir hefðu komið að vinnu með Fjármálaeftirlitinu fyrr en á mánudeginum 6. október 2008.
Um þær valdheimildir sem frumvarpið ætlaði Fjármálaeftirlitinu og þær fyrirmyndir sem hafðar voru til hliðsjónar við frumvarpsvinnuna sagði Jóhannes Karl Sveinsson: "Það lá nokkuð fyrir að þetta yrði að vera, eins og þið sjáið þegar þið lesið frumvarpið, það er mjög opið, Fjármálaeftirlitið getur nánast gripið til allra mögulegra aðgerða sem þykja ná markmiðinu og við vorum með, við fengum gögn. Roskilde bank var t.d. nýfallinn þarna þegar þetta gerist og við fengum gögn frá danska fjármálaeftirlitinu um það hvernig þeir fóru í það mál, við fengum gögn frá Bretlandi um Bradford & Bingley sem var líka nýfallinn þarna, bankinn þar sem voru fluttar innstæður yfir í Abbey-bankann.Við skoðuðum Washington Mutual en hann var nýfallinn þarna,við skoðuðum þetta allt saman og reyndum svona að átta okkur á því hvaða tæki þyrftu að vera alveg klárlega fyrir hendi, þetta eru náttúrulega mjög óvenjulegar aðstæður. Þannig að ég held að, það voru ýmsir aðrir kostir skoðaðir, allavegana áður en endanlegar ákvarðanir voru teknar, en við frumvarpsgerðina var lögð áhersla á að hafa sem víðtækastar og opnastar heimildir."
Við skýrslutöku ræddi Jónína S. Lárusdóttir um fund ráðherra með sérfræðingahópi forsætisráðuneytisins að morgni sunnudagsins 5. október 2008 þegar tillögur hópsins "Neyðaráætlun fyrir íslenska bankakerfið" voru kynntar.Við skýrslutöku var Jónína spurð hvenær ríkisstjórnin hefði sett fram skilaboð um að hafa þyrfti frumvarp til neyðarlaga tilbúið. Jónína svaraði: "Við erum bara að vinna í þessu, það er enginn sem segir okkur að gera það. Ég meina, við bara þannig, finnum til ábyrgðartilfinningar og það var [...] í rauninni ekki [virk yfirstjórn]. Ég meina þannig lagað. Það var verið að vinna að þessu í FME og forstjóri FME var náttúrulega þarna úti um allt og svona. En það var enginn sem var haus, það var enginn sem sagði: Þið gerið þetta og þið gerið þetta." Jónína segir að skilaboð um að hafa frumvarpið tilbúið hafi borist frá ríkisstjórninni aðfaranótt mánudagsins 6. október 2008. Aðspurð hvort þetta hafi ekki verið fyrr en um þá nótt svaraði Jónína: "Þar sem það kemur svona endanlega, [...]." Jónína segir að síðan hafi verið gengið frá frumvarpinu um nóttina: "Það er Jóhannes Karl, það er Árni Huldar frá FME og það er Áslaug Árnadóttir og Sigríður Rafnar og Valgerður Rún og það er Þóra Margrét Hjaltested."
Margvíslegar breytingar voru gerðar á frumvarpsdrögum til neyðarlaga frá því um vorið 2008 og fram til þess að vinnu lauk við frumvarpið 6. október sama ár.Við skýrslutöku nefndi Áslaug Árnadóttir í þessu samhengi að drögin sem hún fékk í hendur frá Fjármálaeftirlitinu 1. apríl 2008 og hún lagaði til hefðu í raun orðið 5. gr. neyðarlaganna, sem fól í sér nýtt ákvæði, 100. gr. a, í lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.Vinna vinnuhóps fjármálaráðuneytis, viðskiptaráðuneytis og Fjármálaeftirlitsins hefði leitt til þess ákvæðis sem varð 1. gr. neyðarlaganna. Fjármálaeftirlitið hefði síðan lagt til 2. gr. neyðarlaganna sem varðaði sparisjóði. Áslaug sagði einnig: "[...] um helgina þarna þá var, þá kom þessi innstæðuvinkill inn í þetta og þá, á laugardagskvöldinu minnir mig, þá, jú, á laugardagskvöldinu skrifuðum við þessi ákvæði sem breyttu lögunum um Tryggingarsjóðinn og settum inn þarna líka breytingu á 103. gr. laga um fjármálafyrirtæki, um sem sagt forgangskröfurnar, hvaða kröfur væru forgangskröfur."
Aðspurðar um hvaðan sú hugmynd hefði komið að gera innstæður að forgangskröfum við gjaldþrotaskipti sögðust Áslaug Árnadóttir og Jónína S. Lárusdóttir ekki vera alveg vissar. Áslaugu minnti þó að hugsanlega hefði hugmyndin komið frá Jónasi Fr. Jónssyni.
Líkt og fram kemur í kafla 20.3.3 hér að framan hefur rannsóknarnefnd Alþingis undir höndum minnisblað Ragnars Önundarsonar, viðskiptafræðings, frá 1. október 2008. Í minnisblaðinu veltir Ragnar því upp hvort hægt sé að gera innlán að forgangskröfum. Í minnisblaðinu segir m.a.: "Hugmyndin er sú að innlán verði forgangskröfur, í því skyni að Tryggingarsjóður innlána geti ábyrgst öll innlán og jafnvel hækkað trygginguna. Gengið er út frá því að sjóðurinn eignist forgangskröfuna við innlausn innlánatrygginga. Sjóðurinn yrði við þetta mun lánshæfari eining en hann er í dag." Við skýrslutöku kom fram hjá Ragnari að þessari tillögu hefði í fyrstu verið hafnað innan aðgerðarhópsins. Þegar neyðarlögin voru sett hefði þessi leið hins vegar verið farin.
Við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis lýsti Sigríður Logadóttir því að snemma morguns sunnudaginn 5. október 2008 hefði hún verið á stöðufundi í bankaráðsherbergi Seðlabankans með öðrum starfsmönnum stofnunarinnar. Síðan sagði Sigríður: "Og Davíð kemur inn og segir: Nú er það bara svart, ECB [Seðlabanki Evrópu] er með þessi veðköll. Þá var það bara alveg ljóst að kerfið var að hrynja, það mundi bara hrynja eftir helgina. Og menn sátu bara og horfðu hver á annan og hugsuðu: "Hvað gerum við?" Og ég sat með þennan tölvupóst þarna, eða sem sagt ekki tölvupóst, ég sat með frumvarpið sem við höfðum verið að vesenast með þarna og það var sem sagt hérna, menn voru náttúrulega mjög niðurdregnir, þetta er alveg með ólíkindum. Jæja, nema það að ég segi eitthvað svona að það eina sem er hægt í stöðunni sé að setja lög sem geta, þannig að það sé hægt að grípa inn í fyrirtækin, því ef þau fara í þrot þá verður það algjörlega "fallít", varðandi sem sagt að meðhöndla slík þrotabú, bara löggjöfin hentar ekki fyrir það. Svo ég spyr hvort að – ég spurði á þessum fundi hvort að menn vissu til þess að það væri verið að smíða lög, til þess að geta gripið inn í, og ég gleymi þessu aldrei að Davíð, hann segir eitthvað: "Bíddu, hvað meinarðu? Hvaða lög? Hvaða frumvarp?" Og ég segi honum sem sagt frá þessu frumvarpi og hann segir:Veit hann hérna, ég ætla að vita hvort hann Geir viti af þessu. Svo rauk hann út úr fundarherberginu með – nei, ég held að hann hafi ekki tekið skjalið – en allavegana hann rauk út úr fundarherberginu og sem sagt hann sást ekki meira næsta klukkutímann og maður vissi í raun og veru ekki hvað væri að gerast. Síðan bara þarna um daginn þá bara fer allt af stað í þessa lagavinnu."
Sigríður Logadóttir segir að sama dag, þ.e. 5. október 2008, hafi hún ráðfært sig við sérfræðing Seðlabanka Bretlands sem staddur var hér á landi. Sigríður segir að hann hafi bent sér á ýmis atriði úr breskum lögum sem heimila inngrip í rekstur banka. Sigríður segir að þetta hafi nýst við vinnuna við frumvarpsdrög að neyðarlögunum: "Frumvarpið [...] var ekki unnið í Seðlabankanum, það var unnið í viðskiptaráðuneytinu. Ég var alltaf í sambandi við viðskiptaráðuneytið, ég reyndar var í einhverju smásambandi líka við fjármálaráðuneytið, þá aðallega Baldur, og þetta bara byrjar þannig að það er dregið upp þarna frumvarp og síðan er það sent á milli manna. Það var sent til okkar og ég kom með athugasemd um það að það stóð í upphaflega frumvarpinu að Fjármálaeftirlitið hefði heimild til þess að grípa inn í, taka yfir rekstur fjármálafyrirtækis og það var að mínu mati ekki fullnægjandi, vegna þess að þú getur tekið yfir rekstur, það sem þú þarft að taka yfir eru náttúrulega eignir, skuldbindingar, eins og það er orðað hérna í greininni. Nei, þetta er eins og ég hafði þetta þarna fyrst, þá stóð í 3. mgr. að, vikið stjórn frá að hluta til eða heild sinni tekið yfir rekstur fjármálafyrirtækis. Og ég gerði athugasemdir við þetta og sagði að það yrði að standa þarna: "Eignir, skuldir og skuldbindingar." Ég man ekki hvernig þetta var á endanum, það kemur fram í, það er sem sagt í lögunum. Þetta var eitt af því sem við höfðum farið yfir með, eitt af því sem ég náði að fara yfir með Bretanum, það var að lagagreinin yrði að "covera" hvað tekið væri yfir og það mætti ekki vera vafi á því hvað Fjármálaeftirlitið gæti tekið yfir. Þannig að þetta með að taka yfir rekstur var ekki fullnægjandi og þessu var sem betur fer breytt, þannig að lagagreinin náði yfir það sem taka þurfti – taka eignir, réttindi og skyldur [...]." Sigríður segir að hún hafi verið í stöðugu símasambandi við viðskiptaráðuneytið fram eftir degi 5. október 2008.
Ingimundur Friðriksson sendi Bolla Þór Bollasyni, Baldri Guðlaugssyni og Jónasi Fr. Jónssyni tölvubréf 5. október 2008. Með bréfinu fylgdi eftirfarandi minnisblað sem Ingimundur segir að Marc Dobler, sérfræðingur Seðlabanka Bretlands, hafi tekið saman sama dag:
Draft Contingency Plan for Worst Case Scenario
If a bank is not meeting its obligations and is to default we suggest that domestic operations are nationalized in the following manner:
a. A policy statement is issued that all domestic deposit current and saving accounts (including foreign currency?) are guaranteed by the state.
b. Immediately do a "good bank – bad bank" split.Take out the domestic branches and their operations and leave the banks foreign operations in insolvency/administration.Taken over under the name of the new bank are the following:
a. The branch and interiors, IT system, staff, cash, etc.
b. We move the domestic deposits from the bad bank to the good bank
i. Kaupþing domestic deposits amount to (other than financial institutions, end of August figures): 529.216.113.000
ii. Glitnir domestic deposits amount to (other than financial institutions, end of August figures): 389.814.019.000
iii. Landsbanki domestic deposits amount to (other than financial institutions, end of August figures): 1.498.620.662
c. Consider moving matching domestic assets (domestic loan portfolio) to the new bank.This needs to be analyzed by lawyers before doing so, because we are moving assets from the creditors that are left behind and we might face litigation charges from them. (There might be long term costs for the Icelandic banks due to depositor preference if local people are benefited at the expense of foreigners by taking assets out of the rump.)
a. The total values of these assets are XXX and the credit quality is expected to be higher than many other assets left behind.We presumably would only take the matching assets in values plus extra for capital needs.
b. The alternative would be to offer compensation for those disadvantaged or to match the liabilities in the good bank with cash (or cash equivalents) and for the state to take place of the domestic depositors in the administration of the bad bank.There will be a cost for Authorities equivalent to the losses the depositors would have incurred if they had been left behind as unsecured creditors in the administration of the bad bank.
To push this through we need emergency legislation to be drafted.The draft that is ready gives the FSA general powers but might not be sufficient to effect a good bad bank split.
A service level agreement between the "bad" and the "good" bank must be signed that provides for the servicing of the assets and liabilities left behind.
According to this plan all payment intermediation and the payment systems work since we are keeping in place current payment infrastructure.
Rannsóknarnefnd Alþingis setti sig í samband við Marc Dobler og óskaði eftir frekari upplýsingum um aðkomu hans að vinnu íslenskra stjórnvalda í október 2008. Hinn 21. janúar 2010 barst nefndinni tölvubréf frá sérfræðingnum þar sem fram kom að hann hefði verið sendur með stuttum fyrirvara af yfirmönnum sínum í Seðlabanka Bretlands til Íslands í þeim tilgangi að aðstoða og veita óformlega ráðgjöf vegna beiðni Davíðs Oddssonar, formanns bankastjórnar Seðlabanka Íslands, til Mervyn King, bankastjóra Seðlabanka Bretlands. Dobler lýsir því einnig í bréfinu að hann hafi verið valinn til starfans af yfirmönnum sínum vegna reynslu sinnar við undirbúning sambærilegrar löggjafar erlendis sem ætlað var að bregðast við rekstrarerfiðleikum banka. Í bréfinu áréttar Dobler einnig að hann hafi ekki komið fram með formlegum hætti fyrir hönd breskra yfirvalda í þessari ferð sinni til Íslands. Því er síðan lýst að hann hafi tekið þátt í vinnu við drög þau að minnisblaði sem birt eru hér að ofan. Hann hafi hins vegar ekki haft fullt forræði á efni skjalsins (e. editorial control). Loks kemur einnig fram að Dobler hafi gert athugasemdir við fastsetningu gengis íslensku krónunnar en slíka aðgerð hafi hann talið varhugaverða á meðan á fjármálakrísu stæði.
Samkvæmt minnisblaði Perlu Aspar Ásgeirsdóttur, sérfræðings á fjármálasviði Seðlabankans, til Tryggva Pálssonar, framkvæmdastjóra fjármálasviðs Seðlabankans, átti Dobler ýmsa fundi í Seðlabankanum dagana 5.–6. október 2008. Um kl. 14:00 6. október hélt Dobler síðan af landi brott.
Karl Axelsson, hrl., lýsti því við skýrslutöku að þegar hann kom að vinnu aðgerðarhóps stjórnvalda innan Seðlabankans þriðjudaginn 30. september 2008 hefði Jónas Fr. Jónsson beðið sig um að líta á frumvarpið til neyðarlaganna. Karl segist hafa gert það og komið með nokkrar ábendingar. Mestan hluta helgarinnar 4.–5. október 2008 var Karl síðan erlendis. Segist hann hafa snúið aftur til landsins sunnudaginn 5. október 2008: "Svo er það bara þannig að ég kem eftir hádegi á sunnudegi, þá bíður mín bara bíll frá Seðlabankanum úti í Keflavík og ég fer inn í banka, svo ég dragi bara upp yfirlit af þessu kannski, ég fer inn í banka og þá er náttúrulega svona hálfgert "panik-ástand" þar. Menn eru að spá í það hvað gerist á morgun, mánudag, bankarnir opna aftur og þá er orðið alveg ljóst að þessi lagaútfærsla, bara hún er að bresta á. Það er greinilega byrjaður að vera pólitískur undirbúningur undir það þannig að menn voru í sjálfu sér bara farnir að horfast í augu við það að þetta væri að dynja á. Og ég er svo í bankanum, ég er auðvitað farinn heim bara níu, tíu, þá var þetta svona allt í hálfgerðri kyrrstöðu. Ég man hins vegar að þeir voru í einhverjum símtölum þarna, þeir voru allir í bankanum, bankastjórarnir, það voru einhver símtöl út til Evrópu og kl. níu kom eitthvert símtal frá Seðlabanka Evrópu með einhverjum góðum fréttum." Um vinnu sína þetta kvöld sagði Karl við skýrslutöku: "[...] sunnudagskvöldið, þá er sem sagt fólk á vegum viðskiptaráðuneytis og Fjármálaeftirlits að vinna úti í Arnarhvoli að, áfram með frumvarpið og sem sagt bæði Baldur og sennilega Davíð, í gegnum þá Sigríði, leggja áherslu á að ég komi að því svo ég hringdi í Jónínu, en hún svona eiginlega dró... ja, ég skildi það a.m.k. fljótt að [hún] hefði ekki áhuga á að fá mig að þeirri vinnu. Þannig að ég kom ekkert meira að beinlínis þessari vinnu í kringum frumvarpið." Karl skýrði þessi ummæli nánar: "Ég sagði bara Sigríði Logadóttur sem var þarna með mér, sem, og hringdi í Baldur reyndar og sagði honum að þau hefðu ekki áhuga á þessu. Það var náttúrulega, auðvitað af því að þú ert að tala um: Voru menn að vinna saman? þá er svolítið sérkennilegt að ráðuneytisstjórinn í fjármálaráðuneytinu biður mig að hringja í ráðuneytisstjórann í viðskiptaráðuneytinu til þess að tryggja það að ég fái að koma að einhverri vinnu sem er þá í gangi úti í Arnarhvoli. [...] Ja, þau voru náttúrulega búin að vera að deila um tryggingaskylduna og allt þetta. Ég svo sem veit það ekki, ég hef ekkert leyfi til að segja það, en þetta alla vega var svolítið sérkennilegt. En það líka kann að skýrast af því að menn sem tveim dögum áður töldu sig eiga mánuð minnst upp á að hlaupa, að þeir allt í einu sáu fram á að þetta var orðið klukkutímaspursmál."
Við skýrslutöku lýsti Sigríður Logadóttir því að stuttu áður hefði Seðlabankinn gert samning við lögmannsstofuna LEX um lögfræðiráðgjöf, en Karl Axelsson er einn eigenda hennar. Síðan sagði Sigríður: "Og hérna Karl Axels kom þarna niður í banka þarna 5. október og það myndaðist svona einhver – ég veit ekki hvað á að kalla það – myndaðist einhver svona kergja á milli viðskiptaráðuneytisins og Seðlabankans." Um þetta sagði Sigríður einnig: "[...] það hefur verið svolítið svona [...] kannski ekki alveg nógu gott "chemistry" á milli Seðlabankans og viðskiptaráðuneytisins, ég veit ekkert af hverju. Ég hef ekki rökréttar skýringar á því. Jæja, nema það að kannski fannst þeim við skipta okkur of mikið af, eða ég veit það ekki, nema það varð svona svolítið hlé á því á að við fengjum frumvarpið sent til okkar þarna seinni partinn á sunnudeginum."
Kl. 08:30 mánudaginn 6. október 2008 fundaði ríkisstjórn Íslands. Samkvæmt fundargerð lagði Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, fram og kynnti frumvarp til laga um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. ásamt minnisblaði dags. 6. október 2008. Lagði Björgvin til að málið yrði sent þingflokkum til meðferðar. Samkvæmt fundargerð var málið rætt ítarlega og samþykkt. Við skýrslutöku lýsti Geir H. Haarde að síðar hefði verið ákveðið að hann myndi sjálfur flytja frumvarpið á Alþingi.
Í fyrrgreindu minnisblaði Björgvins G. Sigurðssonar segir m.a.: "Í frumvarpinu er lagt til að lögfest verði ákvæði sem heimila fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs við sérstakar aðstæður á fjármálamarkaði að reiða fram fjármagn til að stofna nýtt fjármálafyrirtæki eða yfirtaka fjármálafyrirtæki í heild eða hluta. Þá er lagt til að lögfest verði heimild fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs til að leggja sparisjóði til fjárhæð sem nemur allt að 20% af bókfærðu eigin fé hans. Að auki eru lagðar til breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki, lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, lögum um innstæðutryggingar og lögum um húsnæðismál." Frumvarpið sjálft fylgir minnisblaðinu. Í frumvarpinu segir m.a.: "Að undanförnu hafa dunið yfir fjármálamarkaði hremmingar sem einkum hafa lýst sér í skorti á lausafé vegna takmarkaðs lánsframboðs. Íslensk fjármálafyrirtæki hafa ekki farið varhluta af þessum hremmingum frekar en fjármálafyrirtæki í öðrum löndum.Við þessar erfiðu aðstæður hafa stjórnvöld víða um heim neyðst til að grípa til ráðstafana er miða að því að tryggja virkni fjármálakerfisins og efla traust almennings á því." Í frumvarpinu er síðan sagt að breytingarnar sem fyrirhugaðar séu með frumvarpinu séu lagðar til "í því skyni að gera stjórnvöldum kleift að bregðast við því ástandi sem nú er á fjármálamörkuðum".
Samkvæmt fundargerð ríkisstjórnar sótti Jónína S. Lárusdóttir framangreindan ríkisstjórnarfund.Við skýrslutöku var Jónína spurð hvort rædd hefðu verið hugsanleg vandamál varðandi stjórnskipulegt gildi einstakra ákvæða frumvarpsins. Jónína svaraði því til að hún minntist ekki slíkrar umræðu. Jónína sagði að kl. 13:34 sama dag, þ.e. 6. október 2008, hefðu borist skilaboð frá forsætisráðuneytinu um að setja ætti inn ákvæði í frumvarp til neyðarlaganna um að Seðlabankanum væri heimilt að eiga og reka fjármálafyrirtæki. Tölvubréf frá ritara forsætisráðherra staðfestir þetta. Jónína S. Lárusdóttir lýsti því við skýrslutöku að þetta ákvæði hefði ekki samræmst efni frumvarpsins: "Þannig að ég lét ráðherra vita af þessu og hafði samband síðan við ráðuneytisstjórann í forsætisráðuneytinu sem benti mér á að tala við Seðlabankann. Þá fékk ég þær skýringar að þetta væri út af því að Seðlabankinn væri búinn að taka allsherjarveð, þarna út af FIH. [....] Og aftur fannst okkur þetta vera mjög vítt ákvæði miðað við tilganginn [...] og svo er ég að spyrja hversu langan tíma þetta þurfi að gera, því ég fæ þær "meldingar" að þetta eigi þá að vera til eins skamms tíma eins og hægt væri og þrengja. Það var ekki pólitískur vilji til þess að setja inn ákvæði í lög um að Seðlabankinn mætti eiga fjármálafyrirtæki. Þetta fer sem sagt inn í þingskjalið og það gerðist nú þarna um daginn, sem hefur aldrei gerst hvorki fyrr né síðar, að við fengum opið þingskjalið frá þinginu. Það er alltaf læst og [...] þá var sett ákvæði til bráðabirgða að honum væri heimilt að eiga þetta [...]. Og þetta var mjög mikill titringur út af þessu og formaður bankastjórnar Seðlabankans sem sagt [...] hann var mjög ákveðinn og ég var að tala við Sigríði Loga og hann fékk símann og talaði um að þetta þyrfti að vera svona." Jónína segir að í kjölfarið hafi þetta farið inn í frumvarpið og hún ekki vitað betur en að málið væri frágengið. Jónína sagði síðan: "Svo kem ég niður í þing og þá kemur ráðuneytisstjórinn í forsætisráðuneytinu til mín og segir: Er þetta inni frá FIH? Er þetta inni frá FIH? Og ég segi: Þetta er inni með FIH, það kom melding frá ykkur. Það kom frá þeim upphaflega að þetta ætti að fara inn í frumvarpið. Þetta má ekki vera inni, þetta má ekki vera inni." Jónína segist ekki hafa fengið skýringar á því af hverju þetta ákvæði mátti ekki vera í frumvarpinu: "Ég veit það ekki og hef aldrei vitað það og einhvern veginn og þess vegna er frumvarpið prentað upp, af því að þetta var þá tekið út og frumvarpið prentað upp. En þetta hafði farið eitthvað, það var búið að dreifa þessu."
Sigríður Logadóttir lýsti því við skýrslutöku að vinnu við frumvarp til neyðarlaga hefði verið haldið áfram á mánudagsmorgninum 6. október 2008: "[...] og þá er það komið upp að Kaupþing er í vandræðum og það endar með því að Seðlabankinn ákveður að lána Kaupþingi gegn veði í öllum FIH-bankanum og það er sem sagt ákveðið á hádegi. Þannig að þennan 6. október er verið að varpa þessu frumvarpi ennþá á milli og sem sagt hver með "comment" og annað varðandi þetta frumvarp og það er verið að lána Kaupþingi gegn veði þarna í FIH-bankanum. [...] það fór náttúrulega þessi eftirmiðdagur fór í þennan veðsamning og samskiptin við Kaupþing og að danska hlutafélagaskráin skráði inn veðið þannig að það yrði pottþétt og undirskriftir yrðu fengnar og allt þetta. Þannig að, og í millitíðinni er líka verið að smíða þetta frumvarp. Og ég er í sambandi við viðskiptaráðuneytið og það er sem sagt í umræðunni er þetta hvort Seðlabankinn geti svo eignast bankann ef hann skyldi þurfa að taka hann yfir. Jú, það er þarna grein í seðlabankalögunum sem segir það að Seðlabankinn getur átt hluti í Kauphöll, verðbréfafyrirtæki eða einhverju slíku, og það eina sem þú getur í raun og veru sagt á svona degi er að það er ekkert sem bannar það að Seðlabankinn eigi banka sem fullnustueign, en að sjálfsögðu náttúrulega enginn löggjafi sem að hefur það í kollinum að Seðlabankinn sé að eiga viðskiptabanka, það er náttúrulega bara "absúrd" í raun og veru í fjármálakerfinu að Seðlabankinn sé að eiga banka. Jæja, þannig að þetta er líka í umræðunni þarna í þessu lagafrumvarpi að það sé jafnvel sett inn í frumvarpið að Seðlabankinn geti tekið yfir bankann út af þessari sem sagt veðsetningu. Nema það að ég er að ganga á eftir því við viðskiptaráðuneytið að fá frumvarpið til yfirlestrar, því við vildum náttúrulega fá að sjá hvernig þessi frumvarpsgrein átti að hljóða. Jónína Lár er að hringja í mig og spyrja nákvæmlega út í heitið á FIH-bankanum og ég hugsa með mér: Bíddu, af hverju er hún að spyrja að þessu? En ég lét hana samt hafa það, af hverju ætti ég ekki að gera það, ég meina þetta er ráðuneytisstjóri í ráðuneytinu, nema það að eitthvað var svona í hausnum á mér þannig að ég geng á eftir því við hana að fá frumvarpið, þau voru mjög svona "reluctant" að senda okkur frumvarpið. Svo kemur frumvarpið og þá stendur bara skýrum stöfum í frumvarpinu að Seðlabanka Íslands sé heimilt að yfirtaka FIH-bankann. [...] það er ekki almenn heimild, það er bara nafngreindur þessi sérstaki banki og við bara hugsuðum: Hvað er að ráðuneytinu? Eru þau gersamlega gengin af göflunum? Þú getur ekki sett svona í frumvarp, ég meina hvað heldurðu að markaðurinn mundi...? Þú ert búinn að eyðileggja bankann um leið og þú setur svona í frumvarp. Jæja, nema það að þegar hún er að senda mér þetta frumvarp og jafnframt hringir í mig í leiðinni þá er Davíð akkúrat hér inni á skrifstofunni hjá mér og við sjáum þetta og náttúrulega bara fengum "sjokk" og Davíð náttúrulega trompaðist, þannig að hann hérna talar við Jónínu og bara gjöra svo vel að taka þetta út "med det samme". Nema það þetta er þarna seinni partinn 6. október þegar menn eru að fara að renna út á tíma með það að koma þessu í gegn á þessum sólarhring. Og Seðlabankinn var búinn að leggja það til að það yrði þessi almenna heimild í frumvarpinu sem sagt að við gætum átt banka. Nema það, kannski brá henni svona rosalega, þetta bara féll gjörsamlega út. [...] Þetta féll gjörsamlega út, þetta er ekkert í lögunum, fór bara algjörlega út. [...] maður setur ekki inn nafn á bankanum. Jæja nema það, þetta var alveg bara ferlegt, því að þrátt fyrir í raun og veru að það væri ennþá verið að vinna í frumvarpinu – við getum orðað það þannig að viðskiptaráðuneytið var greinilega, taldi þarna að frumvarpsvinnunni væri lokið út af því að það var búið að senda frumvarpið niður á þing. Og það komst inn á netið með þessari grein og þegar það uppgötvast þá náttúrulega trompaðist náttúrulega liðið hérna uppi á 5. hæðinni í Seðlabankanum. Ég fékk bara símtal frá Kaupþingi sem segir: Heyrðu, við erum að lesa það hérna á netinu að þið ætlið að taka yfir FIH-bankann. Þannig að það var hringt niður á Alþingi og bara snarlega beðið um að þetta yrði tekið út og þetta er sem sagt allt að gerast á sama hálftímanum eða klukkutímanum, þannig að það fór aldrei inn í frumvarpið þessi almenna heimild, sem hefði náttúrulega eiginlega þurft að vera, vegna þess að við erum ekki bara með FIH-bankann sem fullnustueign núna heldur líka banka hér á landi."
Í hádegisfréttum Ríkisútvarps sama dag, þ.e. 6. október 2008, var sagt frá því að Fjármálaeftirlitið hefði ákveðið að stöðva viðskipti með hlutabréf í stóru viðskiptabönkunum þremur ásamt Exista hf., Straumi-Burðarás Fjárfestingabanka hf. og Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis hf.
Kl. 16:00 mánudaginn 6. október 2008 flutti Geir H. Haarde þjóðinni ávarp. Ávarpið sem síðan var birt á vefsíðu forsætisráðuneytisins er eftirfarandi:
Ávarp forsætisráðherra vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði
6.10.2008
Góðir Íslendingar.
Ég hef óskað eftir því að fá að ávarpa ykkur á þessari stundu, nú þegar miklir erfiðleikar steðja að íslensku þjóðinni. Heimsbyggðin öll gengur nú í gegnum mikla fjármálakreppu og má jafna áhrifum hennar á bankakerfi heimsins við efnahagslegar hamfarir.Stórir og stöndugir bankar beggja vegna Atlantshafsins hafa orðið kreppunni að bráð og ríkisstjórnir í mörgum löndum róa nú lífróður til að bjarga því sem bjargað verður heima fyrir. Í aðstæðum sem þessum hugsar auðvitað hver þjóð fyrst og síðast um sinn eigin hag. Jafnvel stærstu hagkerfi heims eiga í tvísýnni baráttu við afleiðingar kreppunnar.
Íslensku bankarnir hafa ekki frekar en aðrir alþjóðlegir bankar farið varhluta af þessari miklu bankakreppu og staða þeirra nú er mjög alvarleg. Á undanförnum árum hafa vöxtur og velgengni íslensku bankanna verið ævintýri líkust. Mikil sóknarfæri sköpuðust þegar aðgengi að lánsfé á erlendum mörkuðum var í hámarki og bankarnir, ásamt öðrum íslenskum fyrirtækjum, nýttu sér tækifærið til sóknar og útrásar.
Á þessum tíma hafa íslensku bankarnir stækkað gríðarlega og nema skuldbindingar þeirra nú margfaldri þjóðarframleiðslu Íslands. Undir öllum eðlilegum kringumstæðum væru stórir bankar líklegri til að standa af sér tímabundinn mótbyr en þær hamfarir sem nú ríða yfir heimsbyggðina eru annars eðlis og stærð bankanna í samanburði við íslenska hagkerfið er í dag þeirra helsti veikleiki.
Þegar alþjóðlega fjármálakreppan hófst fyrir rétt rúmu ári með hruni fasteignamarkaðarins í Bandaríkjunum og keðjuverkun vegna svokallaðra undirmálslána var staða íslensku bankanna talin sterk,enda höfðu þeir ekki tekið þátt í slíkum viðskiptum að neinu marki.En afleiðingar þeirrar keðjuverkunar sem þá hófst hafa reynst alvarlegri og umfangsmeiri en nokkurn óraði fyrir.
Á allra síðustu vikum hefur fjármálakerfi heimsins orðið fyrir gríðarlegum áföllum. Nokkrir af stærstu fjárfestingabönkum heims hafa orðið kreppunni að bráð og lausafé á mörkuðum í raun og veru þurrkast upp. Þetta hefur haft þau áhrif að stórir alþjóðlegir bankar hafa kippt að sér höndum við fjármögnun annarra banka og algjört vantraust hefur skapast í viðskiptum banka á milli. Af þessum völdum hefur staða íslensku bankanna versnað mjög hratt á allra síðustu dögum.
Góðir landsmenn.
Ríkisstjórn Íslands, Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið hafa síðustu daga og vikur unnið baki brotnu að lausn á þeim gríðarlegu erfiðleikum sem steðja að íslensku bönkunum í góðu samstarfi við þá sjálfa.Að þeirri vinnu hafa ýmsir aðilar komið,til að mynda lífeyrissjóðir og aðilar vinnumarkaðarins. Af hálfu ríkisstjórnarinnar hefur allt kapp verið lagt á að íslensku bankarnir seldu erlendar eignir sínar og minnkuðu umsvif sín svo að íslenska ríkið, svo smátt í samanburði við íslensku bankana, hefði bolmagn til að styðja við bakið á þeim.Við skulum hafa í huga í því samhengi að þær risastóru aðgerðir sem bandarísk yfirvöld hafa ákveðið til bjargar þarlendu bankakerfi eru um 5% af þeirra landsframleiðslu. Efnahagur íslensku bankanna er hins vegar margföld landsframleiðsla Íslendinga.
Ákvörðun um umfangsmiklar björgunaraðgerðir til handa íslensku bönkunum er því ekki spurning um að skattgreiðendur axli þyngri byrðar tímabundið heldur varðar hún stöðu íslensku þjóðarinnar í heild sinni til langrar framtíðar.
Ríkisstjórnin hefur lýst því yfir að hún muni gera það sem í hennar valdi stendur til að styðja við bankakerfið. Í þeirri viðleitni hafa margir mikilvægir áfangar náðst á síðustu vikum og mánuðum. En í því ógnarástandi sem nú ríkir á fjármálamörkuðum heimsins þá felst mikil áhætta í því fyrir íslensku þjóðina alla að tryggja bönkunum örugga líflínu. Þetta verða menn að hafa í huga þegar talað er um erlenda lántöku ríkissjóðs upp á þúsundir milljarða til að verja bankana í þeim ólgusjó sem þeir eru nú staddir í. Sú hætta er raunveruleg, góðir landsmenn, að íslenska þjóðarbúið myndi, ef allt færi á versta veg, sogast með bönkunum inn í brimrótið og afleiðingin yrði þjóðargjaldþrot. Engin ábyrg ríkisstjórn teflir framtíð þjóðar sinnar í slíka tvísýnu, jafnvel þótt sjálft bankakerfi þjóðarinnar sé í húfi.Til slíks höfum við, ráðamenn þjóðarinnar, ekki leyfi. Íslenska þjóðin og framtíð hennar gengur framar öllum öðrum hagsmunum.
Um helgina var fundað nær linnulaust um stöðu fjármálakerfisins. Ég get fullyrt að allir þeir sem komu að því borði reyndu sitt ítrasta til að búa svo um hnútana að starfsemi banka og fjármálastofnana gæti haldið áfram í dag og ávinningur af vinnu helgarinnar gerði það að verkum að í gærkvöldi var útlit fyrir það að bankarnir gætu fleytt sér áfram um sinn. Af þeim sökum gat ég þess í gærkvöldi að það væri mat mitt og ríkisstjórnarinnar að ekki væri ástæða til sérstakra aðgerða af okkar hálfu. Engin ábyrg stjórnvöld kynna afdrifaríkar aðgerðir varðandi banka- og fjármálakerfi sinnar þjóðar nema allar aðrar leiðir séu lokaðar.
Þessi staða hefur nú í dag gerbreyst til hins verra. Stórar lánalínur við bankana hafa lokast og ákveðið var í morgun að loka fyrir viðskipti með bankastofnanir í Kauphöll Íslands.
Nú reynir á ábyrg og fumlaus viðbrögð. Ég mun nú á eftir mæla fyrir frumvarpi á Alþingi sem mun gera ríkissjóði kleift að bregðast við því ástandi sem nú er á fjármálamörkuðum. Ég hef rætt við forystu stjórnarandstöðunnar í dag og fengið góð orð um að frumvarpið verði afgreitt í dag. Þakka ég þeim samstarfið í því efni.
Með lagabreytingum þessum munum við aðlaga bankakerfið að íslenskum aðstæðum og endurreisa traust erlendra aðila á banka- og fjármálastarfsemi á Íslandi.Verði lögin samþykkt í dag má gera ráð fyrir að þessar heimildir verði virkar strax í kjölfarið.
Ég vil taka af öll tvímæli um að innstæður Íslendinga og séreignasparnaður í íslensku bönkunum öllum er tryggur og ríkissjóður mun sjá til þess að slíkar inneignir skili sér til sparifjáreigenda að fullu. Um þetta þarf enginn að efast. Þá munu stjórnvöld sjá til þess að atvinnulíf landsins hafi aðgang að fjármagni og bankaþjónustu eftir því sem frekast er unnt.
Góðir Íslendingar.
Mér er ljóst að þetta ástand er mörgum mikið áfall sem veldur okkur öllum bæði ótta og angist. Undir þeim kringumstæðum er afar brýnt að stjórnvöld, fyrirtæki, félagasamtök, foreldrar og aðrir sem geta látið gott af sér leiða, leiti allra leiða til að daglegt líf fari ekki úr skorðum.
Ef einhvern tímann hefur verið þörf á því að íslenska þjóðin stæði saman og sýndi æðruleysi andspænis erfiðleikum – þá er sú stund runnin upp. Ég hvet ykkur öll til að standa vörð um það sem mestu máli skiptir í lífi hvers einasta manns, standa vörð um þau lífsgildi sem standast það gjörningaveður sem nú geisar. Ég hvet fjölskyldur til að ræða saman og láta ekki örvæntingu ná yfirhöndinni þótt útlitið sé svart hjá mörgum.Við þurfum að útskýra fyrir börnunum okkar að heimurinn sé ekki á heljarþröm og við þurfum sjálf, hvert og eitt, að finna kjark innra með okkur til að horfa fram á veginn.
Þrátt fyrir þessi miklu áföll er framtíð þjóðarinnar bæði trygg og björt.Það sem mestu máli skiptir er að undirstöður samfélagsins og efnahagslífsins eru traustar, þótt yfirbyggingin gefi eftir í þeim hamförum sem nú ríða yfir.Við eigum auðlindir, bæði í sjó og á landi, sem munu tryggja okkur góða lífsafkomu sama hvað á dynur. Menntun þjóðarinnar og sá mannauður sem hér er til staðar er ekki síður öfundsverður í augum annarra þjóða en náttúruauðlindirnar.Við höfum að sama skapi tækifæri til endurreisnar í fjármálakerfinu.Við höfum lært af þeim mistökum sem gerð voru á hinum miklu uppgangstímum og sú reynsla verður okkur dýrmæt þegar fram í sækir. Með sameiginlegu átaki og af þeirri bjartsýni sem einkennir íslenska þjóð munum við komast í gegnum þessa erfiðleika og hefja nýja og þróttmikla sókn.
Góðir landsmenn.
Verkefni stjórnvalda á næstu dögum er skýrt: að koma í veg fyrir að upplausnarástand skapist, ef íslensku bankarnir verða óstarfhæfir að einhverju marki.Til þess hafa stjórnvöld margvísleg úrræði og þeim verður beitt. Á hinum pólitíska vettvangi, jafnt sem annars staðar, er mikilvægt að slíðra sverðin við þessar aðstæður. Miklu skiptir að við sýnum bæði stillingu og yfirvegun þá erfiðu daga sem nú fara í hönd, látum ekki hugfallast og styðjum hvert annað með ráðum og dáð. Á þann hátt, með íslenska bjartsýni, æðruleysi og samstöðu að vopni, munum við standa storminn af okkur.
Guð blessi Ísland.
Kl. 16:54 mánudaginn 6. október 2008 mælti Geir H. Haarde, forsætisráðherra, fyrir frumvarpi til laga um heimild til fjárveit
ingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði. Frumvarpið var svohljóðandi, að undanskildu því að hér hefur verið
fjarlægt ákvæði um heimild Seðlabanka til að taka yfir og reka FIH, dótturfélag Kaupþings, sbr. umfjöllun hér að framan:
Þskj. 80 - 80. mál.
Prentað upp.
Brottfall texta.
Frumvarp til laga
um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl.
(Lagt fyrir Alþingi á 136. löggjafarþingi 2008–2009.)
I. KAFLI
Heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði.
1. gr.
Við sérstakar aðstæður á fjármálamarkaði er fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs heimilt að reiða fram fjármagn til að stofna nýtt fjármálafyrirtæki eða yfirtaka fjármálafyrirtæki eða þrotabú þess í heild eða að hluta.
Með sérstökum aðstæðum er átt við sérstaka fjárhags-og/eða rekstrarerfiðleika hjá fjármálafyrirtæki, m.a. líkur á að það geti ekki staðið við skuldbindingar sínar gagnvart viðskiptavinum eða kröfuhöfum, forsendur afturköllunar starfsleyfis séu líklega fyrir hendi eða líkur standi til að það geti ekki uppfyllt kröfur um lágmarks eigið fé og að úrræði Fjármálaeftirlitsins séu ekki líkleg til þess að takmarka tjón eða hættu á tjóni á fjármálamarkaði. Þá er með sérstökum aðstæðum m.a. átt við ef fjármálafyrirtæki hefur óskað eftir eða fengið heimild til greiðslustöðvunar eða nauðasamninga eða óskað eftir gjaldþrotaskiptum eða verið úrskurðað gjaldþrota.
Ákvæði laga um fjármálafyrirtæki gilda ekki hvað varðar heimild ríkisins til að eignast virkan eignarhlut í fjármálafyrirtæki samkvæmt þessum lögum. Ákvæði laga um verðbréfaviðskipti um yfirtökuskyldu og lýsingar gilda ekki um öflun og meðferð eignarhlutar ríkissjóðs í fjármálafyrirtækjum samkvæmt þessum lögum. Ákvæði laga um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum gilda ekki um yfirtöku fjármálafyrirtækis í heild eða að hluta samkvæmt lögum þessum.Við stofnun hlutafélags í því skyni að taka við rekstri fjármálafyrirtækis að hluta til eða í heild sinni skal það félag undanþegið ákvæðum hlutafélagalaga um lágmarksfjölda hluthafa skv. 2. mgr. 3. gr. svo og ákvæðum 6.–8. gr. laganna um sérfræðiskýrslu. Fyrirtæki sem stofnað er samkvæmt þessari grein hefur starfsleyfi sem viðskiptabanki samkvæmt ákvæðum 1. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga um fjármálafyrirtæki.
2. gr.
Við þær sérstöku aðstæður sem greinir í 1. gr. er fjármálaráðherra fyrir hönd ríkisjóðs [sic] heimilt að leggja sparisjóði til fjárhæð sem nemur allt að 20% af bókfærðu eigin fé hans. Ríkissjóður fær stofnfjárbréf eða hlutabréf í sparisjóðnum sem endurgjald í samræmi við eiginfjárframlag sem lagt er til. Fjárhæð útgefinna stofnfjárhluta til ríkissjóðs skal að nafnverði nema sömu upphæð og það fjárframlag sem innt er af hendi og skal það stofnfé njóta sömu stöðu og aðrir stofnfjárhlutir í viðkomandi sjóði. Þegar um er að ræða sparisjóð sem breytt hefur verið í hlutafélag samkvæmt ákvæðum laga um fjármálafyrirtæki skal hið nýja hlutafé nema sama hlutfalli gagnvart öðru útgefnu hlutafé og fjárframlagið er í hlutfalli við bókfært eigin fé félagsins. Ákvæði þetta tekur jöfnum höndum til stofnfjársparisjóða og þeirra sparisjóða sem breytt hefur verið í hlutafélag samkvæmt ákvæðum laga þessara eftir því sem við á. Ef stjórn sparisjóðs samþykkir er heimilt að víkja frá ákvæðum 66. gr. laga um fjármálafyrirtæki um boðun fundar stofnfjáreigenda og forgangsrétt þeirra til aukningar stofnfjár eða hlutafjár.
II. KAFLI
Breyting á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, með síðari breytingum.
3. gr.
6. tölul. 1. mgr. 9. gr. laganna orðast svo: hafi ráðstafanir sem gripið hefur verið til á grundvelli ákvæða um inngrip Fjármálaeftirlitsins í eignir, réttindi og skyldur fjármálafyrirtækis skv. 100. gr. a ekki náð árangri eða hafi verið kveðinn upp úrskurður um slit fyrirtækisins skv. XII. kafla.
4. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 70. gr. laganna:
a. Við 2. mgr. 70. gr. laganna bætist nýr stafliður, svohljóðandi: að um sé að ræða aðkomu ríkissjóðs skv. 2. gr. laga um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði.
b. Við 3. mgr. bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Þegar ríkissjóður er stofnfjáreigandi í sparisjóði fer fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs með atkvæði í samræmi við stofnfjáreign ríkisjóðs [sic] í sparisjóðnum. Sama gildir um atkvæðisrétt vegna hlutafjár í sparisjóði sem breytt hefur verið í hlutafélag.
5. gr.
Á eftir 100. gr. laganna kemur ný grein, 100. gr. a, svohljóðandi, ásamt fyrirsögn:
Sérstakar ráðstafanir.
Fjármálaeftirlitið getur gripið til sérstakra ráðstafana í samræmi við ákvæði þessarar greinar telji það þörf á vegna sérstakra aðstæðna eða atvika, í því skyni að takmarka tjón eða hættu á tjóni á fjármálamarkaði. Með sérstökum aðstæðum eða atvikum er átt við sérstaka fjárhags- og/eða rekstrarerfiðleika hjá fjármálafyrirtæki, m.a. líkur á að það geti ekki staðið við skuldbindingar sínar gagnvart viðskiptavinum eða kröfuhöfum, forsendur afturköllunar starfsleyfis séu líklega fyrir hendi eða líkur standi til að það geti ekki uppfyllt kröfur um lágmarks eigið fé og að önnur úrræði Fjármálaeftirlitsins séu ekki líkleg til þess að bera árangur. Þá er með sérstökum aðstæðum m.a. átt við ef fjármálafyrirtæki hefur óskað eftir eða fengið heimild til greiðslustöðvunar eða nauðasamninga eða óskað eftir gjaldþrotaskiptum eða verið úrskurðað gjaldþrota.
Við aðstæður eða atvik sem tilgreind eru í 1. mgr. getur Fjármálaeftirlitið boðað til hluthafafundar eða fundar stofnfjáreigenda. Fulltrúi Fjármálaeftirlitsins skal stýra fundi og hefur hann málfrelsi og tillögurétt. Fjármálaeftirlitið er við þessar aðstæður ekki bundið af ákvæðum hlutafélagalaga eða samþykkta fjármálafyrirtækis um fundarboðun, fresti til fundarboðunar eða tillögugerðar til breytinga á samþykktum.
Séu aðstæður mjög knýjandi getur Fjármálaeftirlitið tekið yfir vald hluthafafundar eða fundar stofnfjáreigenda í því skyni að taka ákvarðanir um nauðsynlegar aðgerðir, m.a. takmarkað ákvörðunarvald stjórnar, vikið stjórn frá að hluta til eða í heild sinni, tekið yfir eignir, réttindi og skyldur fjármálafyrirtækis í heild eða að hluta eða ráðstafað slíku fyrirtæki í heild eða að hluta meðal annars með samruna þess við annað fyrirtæki. Við slíka ráðstöfun gilda hvorki ákvæði laga um verðbréfaviðskipti um tilboðsskyldu né ákvæði laga um fjármálafyrirtæki um auglýsingu samruna fjármálafyrirtækja í Lögbirtingablaði. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að framselja öll réttindi að því marki sem nauðsynlegt er í slíkum tilfellum. Verði það niðurstaða Fjármálaeftirlitsins að samruni viðkomandi fjármálafyrirtækis við annað tryggi best þá hagsmuni sem í húfi eru gilda ákvæði samkeppnislaga og samrunaákvæði laga um fjármálafyrirtæki ekki um samrunann. Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um yfirtöku á rekstri fjármálafyrirtækis skal tilkynnt stjórn þess og rökstudd skriflega. Fjármálaeftirlitið skal birta tilkynninguna opinberlega. Starfræki fyrirtækið útibú eða þjónustustarfsemi í öðru ríki skal tilkynningin send lögbærum eftirlitsaðilum í því ríki.
Ef nauðsyn krefur getur Fjármálaeftirlitið takmarkað eða bannað ráðstöfun fjármuna og eigna fjármálafyrirtækis. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að taka í sínar vörslur þær eignir sem mæta eiga skuldbindingum fjármálafyrirtækis og láta meta verðmæti eigna og ráðstafa þeim til greiðslu áfallinna krafna eftir því sem þörf krefur. Þá er Fjármálaeftirlitinu heimilt að rifta sölu eigna sem átt hefur sér stað allt að mánuði áður en Fjármálaeftirlitið greip til sérstakra ráðstafana samkvæmt þessari grein.
Fjármálaeftirlitið getur krafist þess að fjármálafyrirtæki sæki um greiðslustöðvun eða leiti heimildar til nauðasamninga í samræmi við ákvæði laga um gjaldþrotaskipti, sbr. kafla XII. A, ef það er talið nauðsynlegur liður í að leysa úr fjárhags- eða rekstrarvanda fyrirtækisins. Val fyrirtækis á aðstoðarmanni við greiðslustöðvun skal staðfest af Fjármálaeftirlitinu. Fjármálaeftirlitið getur jafnframt krafist þess að fjármálafyrirtæki verði tekið til gjaldþrotaskipta í samræmi við ákvæði laga um gjaldþrotaskipti.
Grein þessi gildir óháð því hvort fjármálafyrirtæki hafi óskað eftir eða fengið heimild til greiðslustöðvunar, nauðasamninga eða óskað eftir gjaldþrotaskiptum eða verið úrskurðað gjaldþrota. Í þeim tilvikum hefur Fjármálaeftirlitið óskertar heimildir til ráðstöfunar réttindum og skyldum viðkomandi fjármálafyrirtækis eða þrotabús. Ákvæði IV.–VII. kafla stjórnsýslulaga gilda ekki um málsmeðferð og ákvarðanatöku Fjármálaeftirlitsins samkvæmt þessari grein.
Forstjóri, starfsmenn og stjórnarmenn Fjármálaeftirlitsins eru ekki skaðabótaskyldir vegna ákvarðana og framkvæmdar samkvæmt þessari grein.
Ríkissjóður ber ábyrgð á kostnaði af framkvæmd aðgerða Fjármálaeftirlitsins á grundvelli greinar þessarar, þar með talið skiptakostnaði ef til slíks kostnaðar stofnast.
6. gr.
Við 103. gr. laganna bætist ný málsgrein sem verður 1. mgr., svohljóðandi:
Við skipti á búi fjármálafyrirtækis njóta kröfur vegna innstæðna, samkvæmt lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, rétthæðar skv. 1. mgr. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl.
III. KAFLI
Breyting á lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998, með síðari breytingum.
7. gr.
Við 8. gr. laganna bætist ný málsgrein sem verður 4. mgr., svohljóðandi
Lendi eftirlitsskyldur aðili, annar en fjármálafyrirtæki, í sérstökum fjárhags- og/eða rekstrarerfiðleikum þannig að Fjármálaeftirlitið telur þörf á að grípa til sérstakra ráðstafana í því skyni að takmarka tjón eða hættu á tjóni á fjármálamarkaði gilda ákvæði 100. gr. a laga um fjármálafyrirtæki um heimildir Fjármálaeftirlitsins til inngrips í starfsemina.
IV. KAFLI
Breyting á lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, nr. 98/1999, með síðari breytingum.
8. gr.
Við 1. mgr. 9. gr. laganna bætast þrír nýir málsliðir er orðast svo: Sjóðnum er heimilt við endurgreiðslu andvirðis innstæðu úr innstæðudeild að inna greiðsluna af hendi í samræmi við skilmála er gilda um innstæðu eða verðbréf, t.d. hvað varðar binditíma, uppsögn og þess háttar. Ávallt skal heimilt að endurgreiða andvirði innstæðu, verðbréfa eða reiðufjár í íslenskum krónum, óháð því hvort það hefur í öndverðu verið í annarri mynt. Sjóðnum er heimilt að nýta sér kröfur viðkomandi fjármálafyrirtækis á hendur viðskiptamanni til skuldajafnaðar gegn kröfu viðskiptamanns á greiðslu andvirði innstæðu.
9. gr.
Við 3. mgr. 10. gr. laganna bætist nýr málsliður: Krafa sjóðsins nýtur rétthæðar í samræmi við 1. mgr. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. við gjaldþrotaskipti, en ella er hún aðfararhæf án undangengins dóms eða sáttar.
V. KAFLI
Breyting á lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998, með síðari breytingum.
10. gr.
Á eftir 2. tölul. 9. gr. laganna kemur nýr töluliður, svohljóðandi:Að kaupa skuldabréf fjármálafyrirtækja sem tryggð eru með veði í íbúðarhúsnæði.
11. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 15. gr. laganna:
a.Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi: Íbúðalánasjóði er heimilt að kaupa skuldabréf fjármálafyrir-tækja, sem tryggð eru með veði í íbúðarhúsnæði. Ekki þarf að leita samþykkis skuldara fyrir slíkri yfirfærslu.
b. Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Lánveitingar Íbúðalánasjóðs. Kaup skuldabréfa af fjármálafyrirtækjum.
12. gr.
Á eftir orðunum "lánveitingar Íbúðalánasjóðs" í 29. gr. laganna kemur: kaup skuldabréfa af fjármálafyrirtækjum sem tryggð eru með veði í íbúðarhúsnæði.
VI. KAFLI
Gildistaka.
13. gr.
Lög þessi öðlast þegar gildi. Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 8. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað binda lög þessi alla þegar við birtingu.
Meðfylgjandi frumvarpinu voru einnig athugasemdir við það og einstakar greinar þess.
Um kl. rúmlega 18:00 sama dag hélt Geir H. Haarde fréttamannafund. Sagt var frá fundinum í beinni útsendingu í kvöldfréttum
Ríkisútvarpsins:
Geir H. Haarde: Góða kvöldið öll sömul.To those of you who are from the international press I would like to say good evening, and I will address you in English later on during this press briefing. Mig langar til þess að byrja á því að gera nokkra grein fyrir því ástandi sem nú hefur skapast og því frumvarpi sem að ég hef mælt fyrir hér á Alþingi.Við höfum ekki vænti ég farið varhluta af því flest hver hvað hefur verið í deiglunni í þjóðfélaginu í dag og undanfarið og alþjóðlega fjármálakreppan er núna fyrir alvöru farin að segja til sín á Íslandi. Íslensku bankarnir sem af dugnaði og myndarskap höfðu byggt upp mikla starfsemi erlendis og gert sjálfa sig að alþjóðlegum bönkum eru núna fórnarlömb þessara ytri aðstæðna og hafa þurft að berjast mikilli varnarbaráttu við núverandi aðstæður þegar að uppspretta fjármögnunar og lána hafa, hafa þrotið. Uppspretturnar hafa horfið. Þá er mikill vandi á höndum eins og öllum hlýtur að vera ljóst og ég tel mjög líklegt að hefði ekki þessi kreppa komið til að þá hefðu bankarnir getað spjarað sig ágætlega undir stjórn þeirra öflugu manna sem þeim hafa stjórnað og með því góða og öfluga starfsfólki sem hjá bönkunum vinna. En nú er hins vegar komið á daginn að í einhverjum tilvikum kannski ekki öllum, þá er skuldsetning bankanna of mikil og heildarskuldsetningin sem að þeir hafa staðið fyrir er þjóðarbúinu ofviða. Íslenska þjóðin með sína þjóðarframleiðslu ræður ekki við að skulda jafnháar upphæðir og hér er um að tefla. En umsvif bankakerfisins og efnahagur þess, eru núna um það bil tólfföld þjóðarframleiðsla.Ég veit að bankarnir hafa gert sitt ýtrasta og það höfum við öll gert í ríkisstjórninni og stofnunum ríkisins til þess að afstýra því að til erfiðleika á borð við það sem að nú blasa við myndi koma.En þegar erfiðleikarnir blasa við þá er ekkert um annað að ræða en að horfast í augu við það og takast á við vandann eins og nauðsynlegt er af fullkomnu æðruleysi og manndómi.Við erum í dag að afla okkur lagaheimilda á Alþingi til þess að geta brugðist við þeim aðstæðum sem að skapast hafa og veita Fjármálaeftirlitinu mjög víðtækar heimildir til að grípa inn í starfsemi fjármálafyrirtækja ef í harðbakkann slær. Í frumvarpinu eru jafnframt önnur ákvæði sem að þjóna sama tilgangi og sömuleiðis eru ákvæði um að Íbúðalánasjóði verði heimilt að yfirtaka húsnæðislán fjármálastofnana.Tilgangurinn með öllu þessu er sá að gæta hagsmuna íslensku þjóðarinnar í hvívetna, koma í veg fyrir að þjóðin verði á skuldaklafa næstu áratugina og bjarga því sem bjargað verður miðað við núverandi aðstæður. Það verðum við að gera, hagsmunir þjóðarinnar eru ríkari heldur en hagsmunir einstakra bankastofnana.Þetta er staðan og ég óskaði þess vegna eftir því í dag,sem er afar óvenjulegt,að fá að flytja þjóðinni ávarp í útvarpi og sjónvarpi og fór þar yfir þetta mál. Ég tel mig hafa útskýrt hvernig málið er vaxið og hver er nauðsyn þess að grípa nú þegar inn í þessa stöðu.Við vonum auðvitað að, að bankakerfið í heild fari ekki á hliðina og að einhverjir þættir í því, jafnvel mjög stórir, geti haldið áfram eðlilegri og ódýrri starfsemi en því miður er ákveðin hætta á að það verði ekki allt kerfið. Þó það sé ekki endanlega komið í ljós en markmiðið með aðgerðunum er meðal annars að tryggja það að almenningur fái eðlilega bankaþjónustu, allt verði með eðlilegum hætti og eins og það á að vera þegar að bankar opna til dæmis í fyrramálið, almenningur geti leitað til sama starfsfólksins og það er vant að gera og fyrirgreiðsla sú sem að bankarnir veita hinum almennu viðskiptavinum sé óbreytt.Við munum gera allar ráðstafanir sem að við höfum vald á til að tryggja að almenningur hafi þessa þjónustu, það á við um greiðslukortaþjónustu, hraðbankaþjónustu og fleira og fleira en það þurfa margir aðilar að koma saman og vinna úr þessu máli og þar reynir fyrst og fremst á Fjármálaeftirlitið en einnig ýmsa aðra aðila og stofnanir.Ég get viðurkennt mjög fúslega að það eru ekki eftirsóknarverð spor að standa í að þurfa að tilkynna þjóðinni það sem að, það ástand sem nú er upp komið og útskýra það, en ég get bara fullvissað landsmenn um það að við í ríkisstjórninni og við í þeim stofnunum ríkisins sem að þessu máli höfum komið höfum eingöngu hagsmuni fólksins í landinu að leiðarljósi jafnvel þótt grípa þurfi til harkalegra ráðstafana gagnvart ýmsum, ýmsum þeim sem að hér eiga hagsmuna að gæta. Það er jafnan þannig þegar að, þegar að, þegar ástand sem þetta kemur upp að þá verða hluthafar fyrir tjóni, hluthafar í fyrirtækjum sem að fara illa en í tilfelli sem þessu þá er viðbúið að það verði fleiri en hluthafarnir, líka lánardrottnar með einhverju marki, að einhverju marki sem ekki fá kröfur sínar greiddar, það er bara hluti af eðli þessa máls. Ég undirstrika það að hér er um það að tefla að tryggja framtíðarhagsmuni þjóðarinnar og ég þykist vita það að almenningur í landinu muni skynja og skilja hvað hér er á ferðinni og hvers vegna talið er nauðsynlegt að grípa til þessara ráðstafana og enn á ný vil ég ítreka að innstæðum landsmanna í bönkum hér á landi er borgið,þær verða að fullu tryggðar.Að svo mæltu vildi ég gefa færi á að einhverjir vilji spyrja hér spurninga.
Í meðförum Alþingis voru gerðar nokkrar breytingar á frumvarpinu sem forsætisráðherra lagði fram síðdegis þennan dag fram til þess að það var loks samþykkt. Rétt er að rekja þær breytingar. Meirihluti viðskiptanefndar Alþingis lagði til eftirfarandi breytingar á frumvarpinu:
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 82 - 80. mál.
Breytingartillögur
við frv. til l. um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl.
Frá meiri hluta viðskiptanefndar (ÁÓÁ, GSB, JónG, BjörkG, BÁ, LB, BJJ, HöskÞ).
1. Við 1. gr.
a. Á eftir orðunum "Við sérstakar" í 1. mgr. komi: og mjög óvenjulegar.
b. Í stað orðanna "sérstökum aðstæðum" í 2. mgr. komi: sérstökum og mjög óvenjulegum aðstæðum á fjármálamarkaði, sbr. 1. mgr.
2. Við 2. gr. Á eftir 3. málsl. komi nýr málsliður, svohljóðandi: Fjármálaeftirlitinu er heimilt að setja sérstakar reglur um viðskipti með stofnbréf í slíkum tilvikum.
3. Við 5. gr. bætist ný efnismálsgrein, er verður 4. mgr., svohljóðandi:
Fjármálaeftirlitinu er heimilt, samhliða því sem ákvörðun er tekin um að víkja stjórn fjármálafyrirtækisins frá, að skipa því fimm manna skilanefnd sem fari með allar heimildir stjórnar samkvæmt ákvæðum hlutafélagalaga. Skilanefnd skal fara með öll málefni fjármálafyrirtækisins, þar á meðal að hafa umsjón með allri meðferð eigna þess, svo og að annast annan rekstur þess. Skilanefnd skal fara eftir og framkvæma þær ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins sem teknar eru á grundvelli ákvæðis þessa. Ákvæði 64. og 65. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. eiga ekki við meðan skilanefnd samkvæmt ákvæði þessu fer með málefni fjármálafyrirtækisins. Á sama tíma verður ekki komið fram gagnvart fjármálafyrirtækinu aðfarargerð á grundvelli laga um aðför eða kyrrsetningu á grundvelli laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl.
4. Við 8. gr. bætist nýr liður, svohljóðandi:
Við 6. mgr. 9. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Þó skulu innstæður sem aðildarfyrirtæki eða móður- og dótturfyrirtæki þeirra hafa í vörslu sinni fyrir hönd viðskiptavina ekki undanskildar tryggingu skv. 1. mgr. Þá skulu innstæður verðbréfasjóða, fjárfestingarsjóða, fagfjárfestasjóða, lífeyrissjóða eða annarra sjóða um sameiginlega fjárfestingu ekki undanskildar tryggingu skv. 1. mgr., jafnvel þótt vörsluaðili eða rekstrarfélag slíkra sjóða sé aðildarfyrirtæki eða móður- eða dótturfyrirtæki aðildarfyrirtækja.
5. Við 10. gr. Á eftir orðunum "Að kaupa" komi: eða endurfjármagna.
6. Við 11. gr.Við efnismálsgrein a-liðar bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ráðherra er heimilt að mæla nánar fyrir um slíka yfirfærslu í reglugerð.
7. Á eftir 12. gr. komi ný grein er orðist svo:
Á undan orðunum "53. gr." í 1., 2. og 6. mgr. 48. gr. laganna kemur: 2. tölul. 9. gr. og.
8. Við bætist ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
Lög þessi skulu endurskoðuð fyrir 1. janúar 2010.
Loks var gerð smávægileg breyting á breytingartillögu meirihluta viðskiptanefndar sem tekin var upp hér að framan. Breytingin fól í sér lagfæringu á tilvísun 7. tölul. breytingartillögunnar til "2. tölul. 9. gr. og" með þeim hætti að í stað tilvitnaðra orða skyldi þar standa "2. mgr. 15. gr. og".
Líkt og breytingartillaga meirihluta viðskiptanefndar ber með sér kom þar fyrst inn í frumvarpið ákvæði um skilanefndir. Við skýrslutöku ræddi Jóhannes Karl Sveinsson um að við vinnu að frumvarpsdrögum helgina 4.–5. október 2008 hefði sér virst að menn hefðu ekki verið búnir að leiða hugann að uppgjöri vegna falls fjármálafyrirtækis að öðru leyti en því að almennar reglur fullnusturéttar myndu gilda. Mánudaginn 6. október 2008 hefðu menn hins vegar farið að ræða um þessi mál og erlendir ráðgjafar bent á að þörf væri á "sérstökum lagaúrræðum vegna þess sem við tæki hjá bönkunum, það væri þörf á annars konar meðferð heldur en hefðbundinni gjaldþrotameðferð og þá kemur þetta inn, þá setjast menn niður og semja þessi ákvæði um skilanefndina þarna, held ég, seinni partinn 6. október".
Árni Huldar Sveinbjörnsson, starfsmaður Fjármálaeftirlitsins, sendi Áslaugu Árnadóttur tölvubréf kl. 18:35 6. október 2008. Efni bréfsins er samkvæmt fyrirsögn þess breytingar á lagafrumvarpi til neyðarlaga. Með bréfinu fylgdi tillaga að umræddri lagabreytingu. Þar er um að ræða drög að þeirri breytingu sem síðar um kvöldið varð að breytingartillögu meirihluta viðskiptanefndar varðandi skilanefndir.
Frumvarpið til neyðarlaga var síðan endanlega samþykkt með atkvæðagreiðslu þingmanna sem fram fór á milli kl. 23:18 og 23:19 sama dag, þ.e. 6. október 2008.
20.3.13 Ályktanir rannsóknarnefndar Alþingis
Líkt og að framan greinir hafði fyrirhuguð innkoma ríkisvaldsins í Glitni banka hf. ekki tilætluð áhrif. Réð þar mestu að engin tiltrú ríkti á fjármálamarkaði um að íslenska ríkið hefði fjárhagslegt bolmagn og hvað þá aðgang að erlendum gjaldeyri til þess að koma Glitni til bjargar. Þar við bættist að almennur ótti var við að ef einn af stóru bönkunum færi, féllu allir stóru bankarnir. Ljóst mátti því vera að komið var að úrslitastundu á íslenskum fjármálamarkaði. Stjórnvöld þurftu nauðsynlega að bregðast við og reyndi þá á það hversu undirbúin þau voru til að takast á við þann vanda.
Frá því hefur verið sagt að samráðshópi forsætisráðuneytis, fjármálaráðuneytis, viðskiptaráðuneytis, Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands um fjármálastöðugleika og viðbúnað var formlega komið á fót hinn 21. febrúar 2006. Eins og rakið hefur verið komu ítrekað fram á þeim vettvangi ábendingar um nauðsyn þess að unnin yrði viðbúnaðaráætlun sem tiltæk væri ef til áfalla kæmi í rekstri íslensku bankanna. Þrátt fyrir þetta hafði skipulagi vinnu hópsins ekki verið hagað með þeim hætti að hópurinn sem slíkur, eða fyrir atbeina hans þær stofnanir sem að honum áttu aðild, hefðu lokið gerð draga að viðbúnaðaráætlun sem hægt væri að leggja fyrir ríkisstjórn, sbr. umfjöllun í köflum 19.2–19.4.
Í skýrslu Davíðs Oddssonar, formanns bankastjórnar Seðlabankans, fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom fram að þar sem ekki hefðu verið teknar þær ákvarðanir í samráðshópnum sem Seðlabankinn hefði verið að kalla eftir hefði bankastjórnin brugðist við að morgni 30. september 2008 með því að koma á fót eigin aðgerðarhópi Seðlabankans. Hópurinn var skipaður starfsmönnum bankans og utanaðkomandi einstaklingum og var honum ætlað að gera tillögur um aðgerðir og viðbúnað vegna stöðu bankanna. Davíð sagðist hafa tilkynnt ríkisstjórn um skipan hópsins á fundi hennar að morgni sama dags. Þar óskuðu ráðherrar eftir því að ráðuneytisstjórar þeirra sömu ráðuneyta og sæti áttu í samráðshópnum kæmu að starfi hópsins. Fjármálaeftirlitið sendi einnig fulltrúa sinn til þátttöku í starfi þessa hóps. Þar sem samráðshópi stjórnvalda hafði ekki lánast að ljúka gerð viðbúnaðaráætlunar vegna fjármálaáfalls ríkti ákveðin upplausn í stjórnkerfinu þegar ljóst varð hver urðu viðbrögðin við tilboði ríkisins um kaup á 75% hlut í Glitni. Svo virðist sem Seðlabanki Íslands hafa þá tekið frumkvæðið. Bankinn setti á fót eigin aðgerðarhóp sem í reynd var falið að takast á við verkefni sem ætla hefði mátt að kæmu til umfjöllunar á vettvangi samráðshóps stjórnvalda ef tekið er mið af því samkomulagi sem lá til grundvallar stofnun hans. Þá verður ekki ráðið af gögnum um starf þessa aðgerðarhóps Seðlabankans að þar hafi menn beinlínis tekið til við að vinna nánar úr tillögum eða drögum sem legið hafi fyrir, t.d. frá samráðshópi stjórnvalda, Seðlabankanum eða Fjármálaeftirlitinu, heldur hafi þar verið ráðist í að leysa verkefnið frá grunni að öðru leyti en því að í aðgerðarhópnum voru einstaklingar sem þekktu til þeirrar vinnu og gagna sem áður höfðu verið tekin saman um þessi mál hjá Seðlabankanum og Fjármálaeftirlitinu. Þrátt fyrir að ráðuneytisstjórar forsætisráðuneytisins, fjármálaráðuneytisins og viðskiptaráðuneytisins og síðan einnig forstjóri Fjármálaeftirlitsins, sem öll áttu sæti í samráðshópnum, kæmu til funda við aðgerðarhóp Seðlabankans verður ekki séð að þau hafi átt aðild að beinni tillögugerð aðgerðarhópsins. Þá gætti jafnframt tortryggni í röðum ráðuneytisstjóranna yfir því að Seðlabankinn hefði fengið utanaðkomandi einstaklinga til að koma og vinna að málum sem væru viðkvæm og bundin trúnaði. Þessi aðgerðarhópur Seðlabankans varð ekki langlífur og starfi hans lauk um miðjan dag föstudaginn 3. október 2008 en hópurinn hafði þá skilað ákveðnum tillögum um möguleg næstu skref og aðgerðir. Hópurinn sem slíkur var ekki kallaður saman helgina 4.–5. október 2008 en starfsfólk Seðlabanka Íslands vann áfram að þessum málum þá helgi.
Innan Fjármálaeftirlitsins hafði þessa viku m.a. verið unnið að gerð tillögu um svonefnda útibúaleið sem byggði á því að sérgreina og taka út úr bönkunum innlenda starfsemi þeirra. Samráðshópur stjórnvalda kom saman til fundar tvisvar í vikunni, þ.e. 2. og 3. október. Auk þess að ræða versnandi horfur í starfsemi bankanna var á fundum samráðshópsins rætt um mögulegar aðgerðir og þær tillögur sem komið höfðu fram á vettvangi Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins. Af drögum að fundargerð frá síðari fundi samráðshópsins sem lauk kl. 19:50 föstudaginn 3. október er ljóst að fundarmenn gerðu sér grein fyrir að komið var að ögurstund í lífi íslensku bankanna. Menn spurðu: Hvar stöndum við á mánudaginn? Eftir öðrum fulltrúa Seðlabankans er skráð að nú þurfi stefnu frá stjórnvöldum og síðan verði farið í að meta þá stefnu. Fulltrúinn bætti við að hægt sé að setja sérfræðinga til að reikna, "á því hafi verið hægt að byrja í apríl en nú sé líka hægt að byrja. Nú þurfi bara frá stjórnvöldum hvað eigi að reikna." Engar ákvarðanir voru þó teknar um frekari fundahöld hópsins en fundinum lauk með þeim orðum formannsins, ráðuneytisstjóra forsætisráðuneytisins, að nú yrði fundað með ráðherrum.
Það er ljóst að í kjölfar komu formanns bankastjórnar Seðlabankans á fund ríkisstjórnarinnar 30. september 2008 gætti vaxandi tortryggni sumra ráðherra í garð yfirstjórnar Seðlabanka Íslands og togstreitu um hver ætti að stýra ferðinni þegar kom að frekari vinnu við undirbúning aðgerða til að mæta fjármálaáfalli. Svo virðist sem tortryggni og samstarfsörðugleikar milli einstakra manna hafi fremur ráðið þar ferðinni en mikilvægi þess að stjórnvöld sýndu samstöðu og leituðust við að nýta þá þekkingu sem til staðar var hjá stofnunum ríkisins. Á sama tíma var viðbúnaðarvinna stjórnvalda í reynd í molum og viðbúið að þau stæðu brátt frammi fyrir greiðsluþroti íslenska bankakerfisins.
Enn á ný var settur á fót starfshópur til þess að vinna að viðbrögðum við því ástandi sem skapast hafði 4. október 2008 og að þessu sinni á vegum forsætisráðherra. Í hópnum voru hagfræðingarnir Jón Steinsson og Friðrik Már Baldursson auk Tryggva Þórs Herbertssonar, efnahagsráðgjafa forsætisráðherra, og Jóns Þórs Sturlusonar, aðstoðarmanns viðskiptaráðherra.Tveir hinir fyrstnefndu höfðu að eigin frumkvæði boðið forsætisráðherra starfskrafta sína. Bogi Nils Bogason, endurskoðandi, starfaði einnig með hópnum.
Hópnum var falið að útbúa "aðgerðaplan" sem miðaði að því að koma á fót bankakerfi af viðráðanlegri stærð sem virkja mætti ef til þess kæmi að banki færi í þrot.Athygli vekur að til starfa í hópnum var ekki kallaður hagfræðingur með sérþekkingu á rekstri banka eða annar sérfræðingur með þekkingu eða reynslu af starfi viðskiptabanka né lögfræðingur með sérþekkingu á sviði gjaldþrotaréttar. Viðfangsefnið var þó ekki síst að átta sig á því hvaða staða kæmi upp ef bankarnir færu í greiðsluþrot og hvaða möguleikar væru fyrir hendi, bæði samkvæmt gildandi lögum og einnig að breyttum lögum, til þess að takast á við þann vanda. Þar skipti máli bæði stærð bankanna og lagaleg úrræði. Hér hlaut einnig að hafa þýðingu að geta með skjótum hætti áttað sig á því hvort einhverjar takmarkanir, og þá hverjar, væru samkvæmt reglum EES-samningsins á mögulegum úrræðum íslenskra stjórnvalda og Alþingis við þessar aðstæður. Það vekur einnig athygli að engir af sérfræðingum Seðlabanka Íslands komu að verkinu en djúpstæð tortryggni ríkti, eins og áður segir, á milli Seðlabanka Íslands og hluta ráðherrahópsins í ríkisstjórn. Þetta er sérstaklega eftirtektarvert í ljósi þess að sérfræðingar Seðlabankans höfðu um skeið unnið að því að afla margvíslegra gagna um viðbrögð við fjármálaáföllum og auk þess bjuggu sérfræðingar hagfræðisviðs bankans yfir upplýsingum og þekkingu um þær þjóðhagslegu stærðir sem þarna hlaut að reyna á. Annað dæmi um hvernig tengslin við fyrra undirbúningsstarf stjórnvalda á þessu sviði slitnuðu þegar kom að lokaþættinum er að starfsmaður Fjármálaeftirlitsins, sem unnið hafði með starfsmönnum Seðlabankans og ráðuneytanna vorið og sumarið 2008, m.a. að því að draga upp sviðsmynd fjármálaáfalls og móta tillögur að lagafrumvarpi og hafði að lokum verið falið að vinna í aðgerðarhópi Seðlabankans, var ekki kallaður til verka helgina 4. og 5. október 2008. Samráðshópur stjórnvalda kom sem slíkur ekki heldur saman þessa helgi.
Við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis upplýsti Jón Steinsson, hagfræðingur, að á fundi í forsætisráðuneytinu laugardaginn 4. október 2008 hefði komið fram það viðhorf að samráðshópurinn væri lamaður vegna þess að afstaða fulltrúa Seðlabankans í hópnum væri allt önnur en afstaða annarra innan hans. Það skal tekið fram að af drögum að fundargerð vegna fundar samráðshópsins 3. október 2008 verður ekkert ráðið um að slíkur ágreiningur hafi verið uppi og rannsóknarnefndinni hefur ekki tekist að upplýsa að annað hafi mótað þessa afstöðu en sú tortryggni og togstreita sem áður var lýst. Í máli Jóns kom einnig fram að af hálfu forsætisráðuneytisins hefði verið lögð áhersla á að ekki yrði haft formlegt samband við Seðlabankann vegna starfs hins nýja starfshóps sem kominn var að verkinu.
Það er táknrænt fyrir það hvernig fyrra starf stjórnvalda að þessum málum nýttist lítt eða illa þegar nýir hópar komu stöðugt að verkinu, að starfshópur forsætisráðherra, sem hóf störf um hádegi laugardaginn 4. október 2008, fékk engin gögn afhent frá ráðuneytinu hvorki um starf eða tillögur samráðshóps stjórnvalda né um það sem fram var komið hjá þeim aðgerðarhópi sem starfað hafði á vegum Seðlabankans dagana á undan. Hópnum var heldur ekki fengin nein starfsaðstaða af hálfu ráðuneytisins. Meðlimir hans þurftu að finna hana sjálfir.
Eins og vikið er að í kafla 19.2 var skipaður vinnuhópur um viðbúnað stjórnvalda við hugsanlegum áföllum í fjármálakerfi sem skilaði sérstakri greinargerð 17. febrúar 2006. Í greinargerðinni er vikið að þörf á lagabreytingu til þess að auka valdheimildir Fjármálaeftirlitsins. Á fyrri hluta þess árs var svo nokkuð unnið að samningu lagafrumvarps á vegum Fjármálaeftirlitsins. Það var síðan ekki fyrr en snemma árs 2008 sem samráðshópur stjórnvalda tók þráðinn upp að nýju og vann að undirbúningi frumvarpsins. Í stórum dráttum má segja að það eina sem kom sýnilega að notum úr vinnu samráðshópsins hafi verið þessi frumvarpsdrög sem urðu að 100. gr. a í lögum um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002. Í meginatriðum voru önnur ákvæði neyðar-laganna, sem voru mörg hver afar flókin og yfirgripsmikil, samin 4. til 6. október 2008 í miklu tímahraki og án aðstoðar t.d. sérfræðinga á sviði gjaldþrotaréttar sem mikið hlaut þó að reyna á við útfærslu frumvarpsins. Þegar í áðurnefndri greinargerð frá árinu 2006 hafði verið fjallað um nauðsyn þess að hugað yrði að því hvaða áhrif EES-samningurinn og þær réttarreglur sem af honum leiddi hefðu á möguleika íslenskra stjórnvalda til að útfæra leiðir og lagareglur til að bregðast við áföllum í rekstri bankanna. Af þeim gögnum sem rannsóknarnefndin hefur fengið afhent um viðbúnaðarstarf stjórnvalda og undirbúning að setningu framangreindra laga verður ekki séð að hugað hafi verið sérstaklega að eða tekin saman gögn um þýðingu EES-reglna og þeirra hugsanlegu takmarkana sem af þeim leiddi fyrir val á leiðum við lagasetningu á þessu sviði.
Ríki eru almennt misilla í stakk búin til að mæta fjármálaáfalli. Stjórnvöld á Íslandi voru alveg einstaklega illa undir það búin að takast á við slíkt áfall og kom þar margt til. Samráðshópnum hafði lítið orðið ágengt í því að semja viðbúnaðaráætlun. Þá höfðu atburðir helgina 27.–28. september, sem raktir eru í kafla 20.2, svo og þau viðhorf sem Davíð Oddsson hafði lýst á fundi ríkisstjórnarinnar 30. september í raun skapað djúpstæða tortryggni nokkurra ráðherra í ríkisstjórninni í garð Davíðs Oddssonar og þar með gagnvart stjórn Seðlabanka Íslands. Þá skorti einnig á traust á milli ráðherra innan ríkisstjórnarinnar, en eins og vikið var að í kafla 20.2 hér að framan hafði Björgvin G. Sigurðsson, ráðherra bankamála, ekki einu sinni verið upplýstur um stöðu mála þegar kom að því að ráða málum Glitnis til lykta sunnudaginn 28. september 2008. Bókanir í fundargerð ríkisstjórnar 3. október 2008 staðfesta þessa þverbresti sem komnir voru í burðarvirki ríkisstjórnarsamstarfsins.
Það verður alls ekki sagt að samráðshópurinn hafi í vinnu sinni lotið styrkri pólitískri yfirstjórn um það hvernig haga bæri gerð viðbúnaðaráætlunar. Tillögur innan hópsins um gerð slíkrar áætlunar og þar með að kallað yrði eftir stefnu ríkisstjórnar í þessum málum höfðu ekki náð fram að ganga. Það er ljóst að viðhorf innan hópsins um nauðsyn þess að slík áætlun yrði unnin voru mismunandi. Miðað við þann réttargrundvöll sem starf samráðshópsins var reist á var hópnum sem slíkum ekki ætlað að taka ákvarðanir. Þeir sem sátu í hópnum voru þar í krafti embætta sinna innan stjórnkerfisins og bar því að bregðast við þeim upplýsingum sem fram komu innan samráðshópsins og beinum tillögum á þann hátt sem samræmdist starfi og starfsskyldum þeirra sem embættismanna og starfsmanna stjórnsýslunnar og þar með þeirrar stofnunar sem þeir komu fram fyrir.Væri viðfangsefnið stjórnarfarslega t.d. á málefnasviði forsætisráðuneytisins bar ráðuneytisstjóra þess að upplýsa forsætisráðherra um málið og leita eftir afgreiðslu hans ef þörf krafði.
Sú staðreynd að ekki hafði verið unnin formleg viðbúnaðaráætlun þýddi að hvorki innan samráðshópsins né hjá hlutaðeigandi stjórnvöldum hafði nægjanlega verið hugað að ýmsum þáttum sem augljóslega hlaut að reyna á ef til meiriháttar fjármálaáfalls kæmi á Íslandi. Dæmi um þetta er að ekki verður séð að á starfstíma hópsins hafi í reynd verið lagt tölulegt mat á hvaða fjármunum íslenska ríkið og Seðlabankinn þyrftu að ráða yfir til að styðja við íslenska bankakerfið, ef fylgja ætti fram yfirlýsingum ráðherra. Sama er að segja um útreikninga á hugsanlegum kostnaði sem kynni að falla á íslenskt samfélag ef til meiriháttar fjármálaáfalls kæmi. Þannig mætti taka ýmis dæmi um atriði sem viðbúnaðaráætlun hefði knúið á um útfærslu á. Gerð viðbúnaðaráætlunar, og svo ekki sé talað um ef hún hefði hlotið prófun með æfingu, hefði þannig kallað fram mat á veikleikum og styrkleikum stjórnkerfisins gagnvart raunverulegu áfalli. Svo tekin séu einföld dæmi þá verður ekki séð að fyrir hafi legið nein áætlun um hvernig ætti að halda uppi greiðslukerfum og greiðslusamskiptum við erlenda banka ef verulegir hnökrar kæmu upp í íslenska bankakerfinu. Þá liggja engin gögn fyrir um að skipulega hafi verið undirbúið hvernig standa ætti að kynningu á aðgerðum og samskiptum við fjölmiðla eða aðra aðila, ekki síst erlendis, sem mikilvægt var að fengju strax réttar og nákvæmar upplýsingar. Gerð viðbúnaðaráætlunar hefði líka kallað á mat á mismunandi kostum varðandi það hvað hægt væri að gera til að greiða úr eða varðveita ákveðna þætti í starfsemi íslensku bankanna ef til fjármálaáfalls kæmi. Slíkt mat hefði væntanlega kallað á nánari skoðun stjórnvalda, og þá fleiri stjórnvalda saman, á sambandi ýmissa þátta í rekstri bankanna, tengslum skuldbindinga milli þeirra og gæðum eigna. Hér verður ekki endurtekið hversu mjög skorti á að upplýsingar um slík atriði lægju fyrir þegar stjórnvöld þurftu að takast á við vanda íslensku bankanna í lok september og byrjun október 2008.
Eftir að ljóst varð að aðgerðir ríkisstjórnarinnar í málum Glitnis höfðu ekki borið árangur tók ákveðið stjórnleysi við í viðbúnaðarmálum þar sem Seðlabanki og ríkisstjórn gengu ekki í takt og yfirstjórn skorti þar sem tekið hefði verið af skarið um hvert stefna bæri. Með skipun sérfræðingahópsins 4. október 2008 tók forsætisráðherra loks ákvörðun og lagði málið í ákveðinn farveg. Samráðshópur stjórnvalda hafði fengist við viðlagaundirbúning frá 21. febrúar 2006 til 3. október 2008, hópur sá sem Seðlabankinn kvaddi til vann að viðlagaundirbúningi frá 30. september til 3. október 2008, og sérfræðingahópur forsætisráðherra vann að viðlagaundirbúningi frá 4. október 2008.Var þannig um að ræða þriðja hópinn sem á skömmum tíma var falið að vinna að viðlagaundirbúningi en hann fékk þó ekki aðgang að öllum afrakstri vinnu hinna hópanna tveggja og var það því fyrsta verkefni hópsins að prenta út ársreikninga stóru fjármálafyrirtækjanna á starfsstöð eins af meðlimum hópsins, í Háskólanum í Reykjavík. Framangreind vinnubrögð yfirvalda við viðlagaundirbúning með það að markmiði að verja fjármálakerfi landsins og aðra grundvallarhagsmuni ríkis og þjóðar voru ótæk, afar gagnrýnisverð og á engan hátt í samræmi við það hvernig þjóðir með þróaða fjármálamarkaði og stjórnsýslu haga almennt starfsháttum sínum.
Að framansögðu athuguðu telur rannsóknarnefnd Alþingis að mikið hafi skort á að unnið hafi verið að viðbúnaðarmálum ríkisins á skipulegan og vandaðan hátt. Rétt er þó að halda því til haga að nefndin telur ekki hægt að fullyrða að þótt vandað hefði verið betur til viðbúnaðarvinnu á árinu 2008 hefði verið hægt að bjarga íslensku bönkunum frá falli. Á hinn bóginn hefði vandaður undirbúningur verið til þess fallinn að draga mun meira úr því tjóni sem fall bankanna orsakaði. Íslensk stjórnvöld hefðu þá einnig verið í stakk búin til að móta sér fyrr stefnu um mörg af þeim álitaefnum sem taka þurfti af skarið um og því haft betri forsendur til að svara fyrirspurnum breskra og hollenskra stjórnvalda.
20.4 Fall Landsbanka Íslands hf.
20.4.1 Almennt
Hinn 1. október 2008 var sagt frá því í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins að Straumur-Burðarás Fjárfestingabanki hf. hefði keypt fyrirtæki Landsbanka Íslands hf. á sviði fjárfestingarþjónustu og verðbréfamiðlunar í Evrópu. Um var að ræða fjögur fyrirtæki, þ.e. Landsbankinn Kepler, Kepler Services í Sviss, Landsbankinn Securities og Merrion Landsbanki. Í bókun, sem gerð var á fundi bankaráðs Landsbankans seint að kvöldi 30. september 2008 þar sem salan var samþykkt, er lýst því ástandi sem komið var upp hjá bankanum og viðskiptavinum hans í framhaldi af aðgerðum ríkisins gagnvart Glitni. Í framhaldi af henni er haft eftir Sigurjóni Þ. Árnasyni, bankastjóra, um söluna: "Vegna þessa er ljóst að nokkuð mun ganga á eigið fé Landsbankans. Hægt væri að hækka hlutafé en slíkt er tímafrekt og vandasamt í núverandi umhverfi á fjármálamarkaði.Að mati Landsbankans er nauðsynlegt að selja dótturfélög til að losa um eigið fé sem og viðskiptavild af bókum bankans. Bókfært virði þriggja félaga er 380 m. en 250 milljarða viðskiptavild losnar við sölu félaganna og styrkir eigið fé. Þessi sala mun því gagnast Landsbankanum ákaflega vel og hafa svipuð áhrif og hlutafjárhækkun. Kaupverðið verður greitt að hluta með láni til Straums en að hluta með lánasafni sem Straumur mun framselja Landsbankanum. Jafnframt er gert ráð fyrir að hluti af viðskiptunum verði að Landsbankinn láni Straumi skuldabréf sem þeir geta notað til endurhverfra viðskipta við Seðlabankann."
Í kafla 18 er fjallað um Icesave innlánsreikninga Landsbankans. Þar er einnig fjallað um atburði tengda Landsbankanum sem áttu sér stað í lok september og byrjun október 2008. Þar er sérstaklega rakið að Seðlabanki Evrópu setti fram veðkall sem nam 400 milljónum evra gagnvart Landsbankanum föstudaginn 3. október.
Í minnisblaði bankastjórnar Landsbankans til ríkisstjórnar Íslands, Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins, dags. laugardaginn 4. október 2008, kemur m.a. fram að lausafjárstaða Landsbankans hafi breyst til hins verra að undanförnu og að "ef fram [haldi] sem horfi [sé] ljóst að lausafjárþurrð [geti] myndast hjá Landsbankanum á næstu vikum". Fram kemur að lausafjárstaða bankans í íslenskum krónum sé mjög sterk en vegna "gjaldeyrisskorts á gjaldeyrisskiptasamningamarkaði og nú nýlega gjaldeyrismarkaðnum sjálfum [sé] ekki möguleiki að nýta lausafé Landsbankans í ISK til að framkvæma greiðslur í erlendum myntum". Einnig segir að bankinn eigi um 500 milljónir evra í framvirkum samningum hjá íslenskum lífeyrissjóðum sem komnir séu á gjalddaga. Um þetta segir síðan: "Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir starfsmanna Landsbankans hafa lífeyrissjóðir ekki fengist til að gera upp þá samninga." Landsbankinn nefnir loks þrjú atriði sem hugsanlega gætu "aðstoðað bankann í núverandi þrengingum". Í fyrsta lagi er rætt um möguleika á sameiningu Landsbankans og Glitnis banka hf. með aðkomu ríkisins. Um þetta segir í minnisblaðinu að hlutafjáraukning þyrfti að taka tillit til þarfa sameinaðs banka. Í öðru lagi er rætt um að ríkið geti hætt við hlutafjáraukningu í Glitni "en set[t] félagið þess í stað í skiptameðferð". Síðan verði stærstu eignir Glitnis færðar niður og seldar Landsbankanum og Kaupþingi banka hf. Um þessa leið segir í minnisblaðinu að verði hún farin telji Landsbankinn "vel mögulegt að stærstu hluthafar bankans gætu lagt fram nýtt eigið fé" að verðmæti 600 milljónir evra. Loks er í minnisblaðinu rætt um að "sameiningar fjármálafyrirtækja yrðu kannaðar að því gefnu að slíkar aðgerðir yrðu taldar lífvænlegar og til þess fallnar að styrkja fjármálakerfið". Síðan segir: "Að mati Landsbankans er ljóst að ef ekkert verður að gert til að auka lausafé og mæta rýrnun eigin fjár blasir aðeins við opinber skiptameðferð á Landsbankanum."
Samkvæmt handskrifuðu minnisblaði Árna M. Mathiesen, fjármálaráðherra, funduðu fulltrúar Landsbankans með ráðherrum í Ráðherrabústaðnum kl. 10:30 að morgni sunnudagsins 5. október 2008. Samkvæmt minnisblaðinu var rætt um lausafjárvanda Landsbankans, Icesave innlán og horfur á næstu dögum. Haft er eftir Yngva Erni Kristinssyni, framkvæmdastjóra verðbréfasviðs Landsbankans, að bankinn geti að óbreyttu ekki opnað næsta dag.
Um hádegi sama dag fundaði bankastjórn Seðlabankans með fulltrúum Landsbankans.Af drögum Seðlabankans að fundargerð má ráða að farið hafi verið yfir stöðu bankans og fjármögnunarþörf næstu daga. Fram kemur að föstudaginn 3. október hafi breska fjármálaeftirlitið (FSA) lagt fram auknar kröfur um "cash" og að tilkynnt hafi verið um lækkun fyrirgreiðslu frá Seðlabanka Evrópu. Hvort tveggja þurfi að reiða fram fyrir mánudaginn 6. sama mánaðar. Fram kemur að Sigurjón Þ. Árnason hafi lagt til að sett verði lög sem setji innlán framar skuldabréfum í forgangsröð og geri ríkinu kleift að taka eignir út á móti til þess að standa undir skuldbindingum.
Samkvæmt handskrifuðu minnisblaði Árna M. Mathiesen funduðu fulltrúar Kaupþings banka hf. og Landsbankans með ráðherrum kl. 17:00 sama dag, þ.e. 5. október 2008. Á fundinum lögðu fulltrúar bankanna tveggja fram sérstakt minnisblað. Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri Kaupþings, lýsti því við skýrslutöku að hann, Sigurður Einarsson, formaður stjórnar Kaupþings, og Lýður Guðmundsson, forstjóri Exista, hefðu fundað með Björgólfi Thor Björgólfssyni nokkrum dögum áður. Hreiðar segir að Björgólfur Thor hafi þá verið búinn að taka yfir stjórn Landsbankans. Hreiðar segir að fulltrúar Kaupþings hafi ekki fengið réttar upplýsingar um stöðu bankans frá Björgólfi Thor. Um þetta segir Hreiðar: "[...] það var logið að okkur. Og við hringjum í hann [Björgólf Thor Björgólfsson] fyrir fundinn á sunnudeginum, hvort það sé búið að leysa þessi mál, augljóslega því vorum að keyra þessa hugmynd að bjarga bæði Landsbankanum og okkur, og hann staðfesti það við Sigurð og ég hlusta á það símtal: Það er í lagi, við erum búnir að redda þessu. Svo við förum aftur með þessa tillögu til ríkisstjórnarinnar og þá er stærri fundur, þá er kominn Jón Sigurðsson, stjórnarformaður FME, Jón Þór Sturluson er líka mættur, aðstoðarmaður Björgvins, og svo þessir ráðherrar, eins og áður, og Baldur og Bolli."
Við skýrslutöku lýsti Sigurður Einarsson því að að kvöldi 3. eða 4. október 2008 hefði Kjartan Gunnarsson, varaformaður bankaráðs Landsbankans, haft samband og farið fram á fund með Kaupþingsmönnum. Sigurður sagði: "Og við hittum hann kl. eitt um nóttina. Og ég man bara að manni var mjög brugðið, Kjartan greinilega alveg í "sjokki" og spurði hvort við gætum ekki yfirtekið Landsbankann, þetta væri búið. Við vissum tæplega náttúrulega hvað karlinn átti við og formaður Landsbankans var hvergi nærstaddur og hluthafi Landsbankans var hvergi nærstaddur og þetta var bara eitthvert upplausnarástand. Svo náði ég nú í Björgólf Thor, sem greinilega – þótt hann þykist ekki með markaskrána að gera var nú greinilega allt í öllu – og hann sannfærir mig um það að Landsbankinn sé búinn að leysa úr sínum verstu málum. Og ég verð náttúrulega mjög glaður við og við förum um morguninn og hittum ráðherrana og allan þennan flokk þarna í Ráðherrabústaðnum." Fundinum með ráðherrum að morgni sunnudagsins 5. október 2008 lýsti Sigurður Einarsson með eftirfarandi orðum: "Og við förum að útlista þessar hugmyndir um að það væri best að Landsbankinn og Kaupþing geri þetta í sameiningu, þ.e. taka yfir Glitni og bjarga þessu kerfi. Og við sjáum að það kemur furðusvipur á ráðherrana. Og þá er okkur ljóst að Landsbankinn hefur sagt þeim eitthvað annað, þeir höfðu þá sagt okkur ósatt kvöldið áður. Svo koma þeir inn bankastjórarnir og Björgólfur Thor. Og ég fer eitthvað að spjalla við þá í anddyrinu, á ganginum. Og Halldór Jón fer að vera með einhverjar ægilegar vangaveltur um að þetta sé allt búið o.s.frv. Þá kemur Björgólfur Thor og rífur í hann inn í herbergi og vill greinilega ekki að við náum að tala saman.Mér fannst þetta allt mjög undarlegt.Við förum yfir í Tjarnargötu og vorum búnir að leggja undir okkur húsið sem Exista á í næsta húsi við Ráðherrabústaðinn.Vorum fljótir til ef einhverjir skyldu vilja tala við okkur. Þá síðar þann dag, ég held að ég fari rétt með atburðarásina, þá fréttum við af þessum "margin call-um" í til dæmis í evrópska seðlabankanum, sem Landsbankinn hafði aldrei sagt okkur af. Og þá gerum [við] okkur grein fyrir því að Björgólfur Thor hafði verið að segja mér ósatt. Og veit ekkert hvort það hafði áhrif á það sem gerðist á eftir, að við vorum ekkert kallaðir aftur inn í Ráðherrabústaðinn.
En í rauninni leið bara restin af helginni að við héngum þarna og biðum og biðum og biðum, og það næsta sem við vitum er að það er einhver bein sjónvarpssending frá tröppunum á Ráðherrabústaðnum þar sem forsætisráðherra segir að allt sé í stakasta lagi og ekki ástæða til að gera neitt."
Við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis ræddi Árni M. Mathiesen um minnisblöð sín af fundum með bankamönnum þessa helgi: "Þessir hérna punktar hérna hjá mér, þetta eru lýsingar á fundum þar sem að bankamenn voru að ljúga að okkur." Árni segir: "Og verstur var Björgólfur [Thor Björgólfsson] [...] og hann var að ljúga að hinum líka og þeir komu svo bara um kvöldið og sögðu: Það er ekkert að marka það sem þessi maður segir. Þeir voru að reyna að finna leið til að sameina Kaupþing og Landsbankann til þess að þeir gætu staðið þetta og Björgólfur sagði bara:Við reddum þessu og við reddum þessu."
Um kl. 16:00 sunnudaginn 5. október 2008 segist Jón Steinsson, hagfræðingur, hafa mætt í Ráðherrabústaðinn, en hann hafði einnig fundað þar fyrr sama dag. Jón segir að hann hafi ásamt Friðriki Má Baldurssyni, hagfræðingi, beðið eftir því að fundur hæfist með ráðherrum. Sá fundur hafi hafist um kl. 18:00. Í millitíðinni hafi bankamenn komið og farið. Jón segir að á meðan biðinni stóð hafi hann heyrt ýmsar sögur og rakti hann eina sem dæmi: "[...] ein sagan er sú einmitt að Landsbankamennirnir hafi farið inn og lagt eitthvert plan fyrir ríkisstjórnina og að það hafi verið augljóst á látbragði Sigurjóns Árnasonar að hann hafi ekki haft trú á þessu plani og Árni Matt hafi tekið eftir þessu og eftir að fundurinn var að leysast upp hafi Árni Matt komið að máli við Sigurjón og spurt hann eitthvað svona: "Hefurðu trú á þessu?" Og þá hafi Björgólfur Thor tekið utan um Sigurjón og í rauninni hrint honum út úr herberginu og lokað á nefið á Árna Matt. Þetta var sagan sem ég heyrði."
Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, lýsti þessum atburðum með öðrum hætti við skýrslutöku: "Landsbankamenn voru náttúrulega alltaf að reyna að sannfæra okkur um það [að hægt væri að bjarga Landsbankanum] en svo var það samt svo sérkennilegt að á síðasta fundinum með þeim á sunnudagsmorgninum með Landsbankamönnum, þá voru þarna Björgólfur Thor, Halldór og Sigurjón. Björgólfur var mjög vígreifur og hérna, svo eru þeir að labba út og allir farnir út nema Sigurjón og þá segir hann svona upp úr eins manns hljóði: Þetta er búið. Og þeir eiginlega kippa honum út og Össur segir: Hvað sagðirðu? Og þá segir Árni Matt: Nei, leyfðu honum að fara, leyfðu honum að fara. Ég veit ekki hvort hann sagði þetta óvart en auðvitað vissu þeir, það var að renna upp fyrir þeim líka að þetta væri búið en það var í rauninni bara verið að reyna til þrautar allar leiðir, er hægt að bjarga þeim og hvernig? Kaupþing, eiga þeir að kaupa allt draslið? Þeir vildu kaupa Glitni, töldu sig geta tekið hann yfir og haldið öllu gangandi og – þannig að það var allt rætt, alveg út og suður."
Við skýrslutöku lýsti Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, þessum fundi með eftirfarandi orðum: "[Landsbankamenn] [k]omu að kynna okkur eitthvað, frábært tilboð. Og hann [Björgólfur Thor Björgólfsson] sat þarna í sínum flottu fötum, ofsalegur "seller", að selja eitthvað sem gekk út á það að þeir áttu að fá Glitni ókeypis og fá alla skapaða hluti og síðan allan gjaldeyrisforðann og eitthvert "guarantee" til viðbótar. Og Halldór Kristjánsson sat þarna svona eins og laminn hundur og tók ekki mikið undir þetta. Svo var þessi fundur búinn, Sigurjón var þarna, það voru snúðar á borðunum, skornir í tvennt, stórir snúðar. Sigurjón er nú munnstór maður og mikill og þegar þeir voru farnir út og hann var einn eftir þá tók hann svona hálfan snúð, tróð honum upp í andlitið á sér og skaut undan snúðnum þessari setningu: Ég hef ekki trú á þessu, ég hef ekki trú á þessu. Þá kom svona hönd með gullúri og kippti honum út."
Hér að framan var greint frá því að Seðlabanki Evrópu setti fram 400 milljóna evra veðkall gagnvart Landsbankanum föstudaginn 3. október 2008. Að kvöldi sunnudagsins 5. sama mánaðar dró Seðlabanki Evrópu þetta veðkall til baka.
Sama kvöld, þ.e. 5. október 2008, áttu bankastjórar Landsbankans símafund með FSA. Þar kom fram sú krafa FSA að 200 milljónir punda bærust næsta morgun vegna útflæðis af Icesave reikningum útibús Landsbankans í London. Við sama tækifæri krafðist FSA þess að 53 milljónir punda bærust að auki innan sama tímafrests vegna dótturfélags Landsbankans í London, Heritable Bank Ltd.
Líkt og nánar er rakið í kafla 18.0 rituðu bankastjórar Landsbankans Seðlabankanum bréf mánudaginn 6. október 2008 þar sem rætt var um brýna þörf bankans á fjármunum í erlendri mynt.Af drögum Seðlabankans að fundargerð frá sama degi má ráða að beiðni Landsbankans um fyrirgreiðslu hafi verið hafnað samdægurs. Þar er haft eftir Davíð Oddssyni að ekki sé hægt að lána Landsbankanum þar sem búið sé að lána öðrum banka stóra upphæð.
Síðdegis sama dag, þ.e. 6. október 2008, ákvað FSA að beita valdheimildum sínum gagnvart Landsbankanum. Í ákvörðun FSA fólst að Landsbankanum væri ekki heimilt að bera fyrir sig ákvæði í samningum við viðskiptavini sem ella hefðu heimilað bankanum að seinka útgreiðslu innstæðna tímabundið um allt að 60 daga, nema að fengnu samþykki FSA. Landsbankinn mótmælti þessari ákvörðun með bréfi dags. 7. sama mánaðar.
Um kl. 20:30 6. október 2008 fundaði bankaráð Landsbankans. Í fundargerð segir m.a.: "Tilefni fundarins var að sögn Kjartans [Gunnarssonar] í fyrsta lagi lög sem verið er að setja á fjármálamarkaði, sem eru mjög víðtæk lög til inngripa í bankastarfsemi við tilteknar aðstæður. Í öðru lagi greiðslugeta Landsbankans þar sem bankinn gat ekki uppfyllt nýja kröfu um að leggja til hliðar greiðslu, alls 200 milljónir punda, vegna viðbótarkröfu fjármálaeftirlitsins breska. Þá hafnaði Seðlabanki Íslands ósk Landsbankans um endurhverf viðskipti að upphæð EUR 500m gegn veði í úrvali góðra skuldabréfa alls að upphæð EUR 2,8 milljarðar. Jafnframt eru gjaldeyrismarkaðir nánast lokaðir og því vonlaust að reyna að kaupa gjaldeyri fyrir það lausafé sem bankinn á. Bankinn á með öðrum orðum laust fé en ekki nægjanlegan lausan gjaldeyri á þessum tímapunkti." Því næst segir í skjalinu: "Þetta leiðir til þess að á morgun getur komið upp sú staða að ekki verði staðið við venjulegar greiðslur í erlendri mynt vegna takmarkaðra gjaldeyrisviðskipta. Þegar er búið að loka fyrir innborganir á Icesave í Hollandi. Eftir samráð við breska fjármálaeftirlitið (FSA) var ákveðið að hætta að taka við innlánum á Icesave í Bretlandi, þrátt fyrir tillögu Landsbankans þar um óskaði FSA eftir að bankinn nýtti ekki heimild sína, skv. skilmálum Icesave reikninga, til 60 daga tafar á útgreiðslum af Icesave vegna ótta við smitáhrif í breska kerfinu. Þegar óskað var eftir fyrst venjulegu láni og síðar neyðarláni frá ECB voru þeir búnir að endurmeta til lækkunar íslensk verðbréf sem gerðu þetta ókleift enda væru Landsbankinn og Ísland ekki kerfislega mikilvæg fyrir Evrusvæðið að þeirra mati. Útstreymi af Icesave jókst til muna eftir ræðu forsætisráðherra fyrr í dag." Síðar í fundargerð kemur fram að Kjartan Gunnarsson hafi lagt fram tvær tillögur. Í fyrsta lagi segir að skoða verði hvort hafa eigi samband við Fjármálaeftirlitið á grundvelli neyðarlaga sem verið sé að setja á Alþingi. Í öðru lagi verði teknar upp viðræður við stjórnarformann og forstjóra Glitnis banka hf. um það hvort grundvöllur sé fyrir sameiningu Glitnis og Landsbankans. Síðan segir í fundargerðinni: "Niðurstaða fundarins var sú að nú þegar verður haft samband við stjórnarformann FME um þessar hugmyndir og síðan sömuleiðis teknar upp viðræður við Glitni. Mjög mikilvægt er að viðskiptabankarnir verði opnir á morgun. Lokað ætti að vera fyrir viðskipti með hlutabréf Landsbankans á morgun. Útborganir úr sjóðum bankans verða einnig óheimilar á morgun með sama hætti og í dag.Vöru- og þjónustuviðskipti ættu að vera forgangsviðskipti. Þá ætti einnig að sögn Sigurjóns [Þ. Árnasonar] að óska eftir því við þá lífeyrissjóði sem eru í viðskiptum við okkur að fá til baka frá þeim þær EUR 500 milljónir sem þeir skulda okkur í framvirkum samningum." Því næst segir í fundargerðinni: "Andri Sveinsson sagðist telja Glitni hafa áhuga á að ræða málin og tók Sigurjón undir það. Halldór [J. Kristjánsson] sagði mikilvægt samhliða þessu að fá frá öllum framkvæmdastjórunum upplýsingar um greiðslur á vegum sinna sviða og mikilvægi þeirra næstu daga þannig að skilanefnd gæti forgangsraðað greiðslum ef til slíkrar meðferðar kæmi. Þetta þarf að vera tilbúið í fyrramálið. Æskilegt væri einnig að Seðlabankinn hefði milligöngu um veitingu ríkisábyrgðar á inn- og útflutningsábyrgðir. Halldór nefndi að ef ekki verður greitt inn í Heritable 53 milljónir punda í lausafjárstuðning á morgun þá verði hann tekinn í "public administration" og seldur. Vandamál hans er nú lækkun heildsöluinnlána í framhaldi af lækkun lánshæfismats í síðustu viku." Loks kemur fram í fundargerðinni að fundinum hafi verið slitið um kl. 21:00.
Eins og vikið er að í kafla 18.0 var útibúi Landsbankans í London lokað að kvöldi 6. október 2008. Sama kvöld settu bresk yfirvöld sig í samband við íslensk stjórnvöld. Kl. 21:08 þann dag sendi Sturla Sigurjónsson, starfsmaður forsætisráðuneytisins, Geir H. Haarde, forsætisráðherra, Baldri Guðlaugssyni, ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytis, Bolla Þór Bollasyni, ráðuneytisstjóra forsætisráðuneytis, og Grétu Ingþórsdóttur, aðstoðarmanni forsætisráðherra, tölvubréf. Fyrirsögn bréfsins er "Bretar krefjast skýringa". Þar segir að Sturla hafi verið í samskiptum við breska sendiherrann á Íslandi. Sturla hafi vísað til bréfs íslenskra stjórnvalda sem sent var breskum stjórnvöldum sl. helgi, sbr. bréf Jónínu S. Lárusdóttur, ráðuneytisstjóra viðskiptaráðuneytis, til Clive Maxwell, starfsmanns breska fjármálaráðuneytisins, dags. 5. október 2008. Sturla segir að breska fjármálaráðuneytið telji bréfið ekki svara öllum spurningum sínum og að Bretar telji þörf á betri skýringum þetta kvöld þannig að hægt verði að undirbúa opnun markaða næsta morgun. Breski sendiherrann hafi ítrekað að ná þyrfti tali af fjármálaráðherra eða ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytis sem fyrst og hafi sendiherrann sagst hafa um það bein fyrirmæli frá Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands.
Í bréfi íslenskra stjórnvalda til Maxwell sem vísað er til hér að framan segir að ef þörf krefji muni ríkisstjórn Íslands styðja Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta við að afla nauðsynlegra fjármuna til að sjóðurinn geti staðið undir lágmarksbótafjárhæðinni ef til greiðslufalls Landsbankans og útibús fyrirtækisins í London komi.
Hinn 6. október 2008 kl. 21:38 sendi Sturla Sigurjónsson annað tölvubréf til Geirs H. Haarde, Baldurs Guðlaugssonar, Bolla Þórs Bollasonar og Grétu Ingþórsdóttur. Fyrirsögnin er "Bretar mjög óánægðir". Í bréfinu segir að sendiherra Bretlands hafi hringt aftur og lagt áherslu á að Alistair Darling biði eftir "skýrslu sinni" frá Reykjavík. Ef ekki fengjust fullnægjandi skýringar frá íslenskum stjórnvöldum sama kvöld yrði það túlkað með mjög neikvæðum hætti í London og myndi hafa alvarleg áhrif á "tvíhliða samskiptin". Um trúnaðarbrest yrði að ræða.
Kl. 22:08 sama dag svaraði Baldur Guðlaugsson síðara erindi Sturlu Sigurjónssonar. Baldur segir að ef allt gengur eftir verði komin upp ný staða næsta morgun. Síðan segir hann: "Við erum ekki að leita eftir neinni sérstakri umlíðan eða sveigjanleika Breta á þessum tímapunkti og því engin ástæða til þess að vera að gefa þeim færi á að kreista okkur eitthvað meira út af innstæðutryggingum. Geturðu ekki fundið einhvern flöt á því að afsaka að það sé enginn ínáanlegur hér og nú?"
Kl. 22:12 sama dag svaraði Sturla Sigurjónsson tölvubréfi Baldurs Guðlaugssonar. Sturla segist hafa haft samband við breska sendiherrann og látið vita að haft yrði samband næsta morgun. Sendiherrann hafi spurt hvort það yrði fyrir opnun markaða. Sturla hafi ekki getað lofað því. Að lokum spyr Sturla hvort Baldur muni hringja í sendiherrann.
Kl. 22:18 sama dag svaraði Baldur Guðlaugsson tölvubréfi Sturlu Sigurjónssonar. Baldur segir: "Ég veit ekki hvort eða hvenær ég kemst til þess."
Kl. 22:37 sama dag sendi Sturla Sigurjónsson Geir H. Haarde, Bolla Þór Bollasyni og Grétu Ingþórsdóttur tölvubréf. Fyrirsögnin er "Darling vill hringja í GHH". Í bréfinu segir að breski sendiherrann hafi hringt aftur og að Darling vilji hringja í Geir H. Haarde snemma næsta morgun. Sturla spyr hvort vilji sé til að ræða við hann og hvaða númer hann eigi að gefa upp.
Kl. 22:44 sama dag svaraði Gréta Ingþórsdóttir bréfi Sturlu Sigurjónssonar. Gréta segir að eðlilegast sé að Darling ræði við Árna M. Mathiesen, fjármálaráðherra. Darling megi hringja í tiltekið símanúmer kl. 9:15 næsta morgun.
Klukkan 23:18 hinn 6. október 2008 voru samþykkt lög á Alþingi sem birt voru næsta dag sem lög nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., eða hin svokölluðu neyðarlög. Sérstök skilanefnd yfirtók rekstur Landsbankans að morgni 7. október á grundvelli laganna. Í ákvörðun Fjármálaeftirlitsins segir að á fundi með stjórnendum Landsbankans 6. sama mánaðar hafi komið fram að "aðstæður bankans væru alvarlegar og að bankinn teldi ljóst að hann myndi falla undir [...] ákvæði 5. gr. frumvarpsins [til neyðarlaga] (þ.e. 100. gr. a.), yrði það að lögum". Einnig segir að Fjármálaeftirlitið hafi undir höndum afrit af fundargerð bankaráðs Landsbankans frá 6. sama mánaðar þar sem fjallað sé meðal annars um takmarkaða greiðslugetu bankans. Síðan segir í ákvörðun Fjármálaeftirlitsins að stofnunin meti það svo að "skilyrði 100. gr. a. laga um fjármálafyrirtæki séu uppfyllt, í ljósi þessara knýjandi fjárhags- og rekstrarerfiðleika Landsbanka Íslands hf., kerfislegs mikilvægis hans og þeirra keðjuverkandi áhrifa sem mögulegt gjaldþrot hans kynni að hafa á íslenska hagkerfið", enda telji stofnunin önnur úrræði ekki líkleg til þess að bera árangur. Því hafi verið ákveðið að taka yfir vald hluthafafundar Landsbankans og víkja félagsstjórn hans frá í heild sinni en skipa í stað hennar sérstaka skilanefnd.
Að morgni 7. október 2008 ræddust Alistair Darling og Árni M. Mathiesen við í síma að frumkvæði Darling. Fyrir liggur hljóðupptaka af símtalinu. Athygli vekur að Darling virðist upphaflega standa í þeirri trú að hann sé að ræða við Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra. Sá misskilningur er hins vegar leiðréttur í upphafi símtalsins af Árna. Darling spyr um stöðu þeirra sem eiga innstæður í Landsbankanum í Bretlandi. Árni bendir á að á Íslandi sé sérstakur tryggingarsjóður samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins. Varðandi frekari skýringar vísar Árni í bréf íslenska viðskiptaráðuneytisins sem sent var breskum yfirvöldum 5. október 2008 og jafnframt í stuðningsyfirlýsingu íslensku ríkisstjórnarinnar til sjóðsins. Í beinu framhaldi af þessu spyr Darling Árna hvort þetta þýði að 16.000 punda lágmarksgreiðsla samkvæmt tilskipuninni verði greidd breskum innstæðueigendum. Árni segist vona að svo verði. Hann geti ekki fullyrt eða ábyrgst það á þessari stundu en vissulega sé unnið að því að leysa málið. Þetta sé eitthvað sem menn vilji ekki hafa "hangandi" yfir sér. Síðar segist Darling hafa fengið þær upplýsingar að íslenska ríkið hyggist ábyrgjast innstæður íslenskra innstæðueigenda. Árni svarar því til að svo sé, innstæður í bönkum og útibúum þeirra á Íslandi séu tryggðar. Darling spyr þá hvort þetta eigi einnig við um útibú utan Íslands. Árni svarar þessu á þann veg að svo sé ekki umfram það sem þegar hafi komið fram í bréfi viðskiptaráðuneytisins. Darling spyr hvort þetta sé ekki brot á EES-samningnum. Árni telur að svo sé ekki. Síðar segir Árni Íslendinga eiga við mikinn vanda að etja um þessar mundir. Sé hann bjartsýnn á að hin nýja löggjöf (neyðarlögin) muni verða til þess að einfalda lausn þessara mála. Darling víkur þá að fundi sem hann átti með Björgvin G. Sigurðssyni, Jóni Sigurðssyni og öðrum íslenskum embættismönnum í London 2. september 2008. Segir hann umrædda aðila hafa lýst því sem svo að ekki væri tilefni til þess að hafa nokkrar áhyggjur af stöðu bankanna í London.Telur Darling að sér hafi verið veittar rangar upplýsingar. Árni segist vona að svo hafi ekki verið. Hann hafi hins vegar ekki setið umræddan fund. Darling spyr þá um stöðu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta. Árni segir sjóðinn búa yfir nokkrum fjármunum en þeir verði að teljast takmarkaðir með hliðsjón af fyrirsjáanlegum útgjöldum. Darling spyr hvort hugsanlegt sé að ekki reynist nægir fjármunir í sjóðnum. Árni segir það vera hugsanlegt. Síðar spyr Darling hvort það sé rétt að Landsbankinn hafi þá ekki fengið þær 200 milljónir punda sem bankinn hafi sagst ætla að útvega. Árni segir að það sé rétt, bank-inn hafi ekki fengið þá fjármuni. Darling spyr Árna hvort hann átti sig á því að orðspor Íslands verði hræðilegt. Árni segist skilja það en að ríkisstjórnin muni gera allt sem í hennar valdi standi til að koma í veg fyrir slíkt. Tryggja þurfi ástandið hér heima fyrir áður en hægt sé að ábyrgjast nokkuð annað. Undir lok samtalsins leggur Árni til að breska fjármálaeftirlitið (FSA) og Fjármálaeftirlitið á Íslandi verði í sambandi. Darling segir að öll sú hjálp sem Árni geti veitt muni koma að góðum notum.
Morguninn eftir, þ.e. hinn 8. október 2008, var rætt við Alistair Darling á bresku ríkisútvarpsstöðinni BBC Radio 4 um aðgerðir breskra yfirvalda í tengslum við erfiðleika bankakerfisins þar í landi.Talið barst fljótlega að Icesave reikningum Landsbankans.Af því tilefni lét Darling þau orð falla að ríkisstjórn Íslands hafi daginn áður sagt sér að hún hyggist ekki virða skuldbindingar sínar í Bretlandi. Yfirlýsing sem Darling veitti síðar þegar hann kom fyrir breska þingnefnd staðfestir að með orðum sínum hafi Darling verið að vísa til fyrrgreinds samtals við Árna M. Mathiesen.
Sama dag, þ.e. 8. október 2008, yfirtóku bresk stjórnvöld Heritable Bank og útibú Landsbankans í London. Þá kyrrsettu bresk stjórnvöld eignir Landsbankans og eignir sem tengjast Landsbankanum en eru í eigu, vörslu eða undir yfirráðum íslenskra stjórnvalda á grundvelli laga um varnir gegn hryðjuverkum, glæpum og um öryggi frá 2001 (Anti-terrorism, Crime and Security Act 2001).
Í fylgiskjali með ákvörðuninni eru röksemdir fyrir henni dregnar saman með eftirfarandi hætti:
Samkvæmt ofangreindu benda bresk stjórnvöld á að Landsbanki Íslands hf. sé kominn í skiptameðferð á Íslandi en íslensk yfirvöld hafi ekki gefið til kynna hvernig farið verði með erlenda kröfuhafa. Því næst er vísað til ábyrgðaryfirlýsingar íslenskra stjórnvalda varðandi innstæður á Íslandi.Tekið er fram að innstæðueigendur utan Íslands njóti ekki verndar samkvæmt yfirlýsingunni. Halda bresk stjórnvöld því fram að í þessu felist mismunun á grundvelli þjóðernis sem sé brot á EES-samningnum.
Fyrrgreind lög um varnir gegn hryðjuverkum, glæpum og um öryggi voru sett í desember árið 2001 í kjölfar hryðjuverkaárása í Bandaríkjunum. Árið 2003 gerði sérstök nefnd undir stjórn Newton lávarðar tillögur að breytingum á hinum bresku lögum um varnir gegn hryðjuverkum, glæpum og um öryggi. Í skýrslu nefndarinnar var m.a. lagt til að heimild til frystingar eigna í öðrum tilvikum en tengjast beinlínis hryðjuverkum verði færð úr lögunum yfir í almennan lagabálk. Bresk yfirvöld beittu sér hins vegar ekki fyrir slíkri breytingu og höfnuðu því reyndar beinlínis í umræðuskjali sem ríkisstjórnin gaf út árið 2004. Heimildina til frystingar eigna er því enn að finna í lögunum sem beitt var með fyrrgreindum hætti gegn Landsbankanum og íslenskum stjórnvöldum 8. október 2008.
Að morgni 8. október 2008 héldu Gordon Brown og Alistair Darling fréttamannafund. Á fundinum sagði Brown m.a.: "These decisions are the best way of providing long term security for depositors and savers. And as people will now know, we are taking legal action against the Icelandic authorities to recover the money lost to people who deposited in UK branches of this bank. The Chancellor is saying today that he will stand behind the deposits of these customers."
Sama dag kom sendiherra Íslands í London mótmælum gegn aðgerðum Breta á framfæri í breska forsætisráðuneytinu.
Á næstu dögum og mánuðum gerði breska fjármálaráðuneytið margvíslegar breytingar og undanþágur frá ákvörðun sinni. Ákvarðanir hvað þetta varðar komu til framkvæmda 9., 13., 21. og 29. október 2008 og 7. nóvember 2008.
Að morgni 8. október 2008 ræddust Árni M. Mathiesen og Paul Myners, lávarður og ráðherra í málefnum fjármálaþjónustu (e. Financial Services Secretary), við í síma og var samtalið hljóðritað. Af endurriti samtalsins má ráða að Myners hafi hringt í Árna. Í samtalinu segir Myners m.a. að það hafi valdið breskum stjórnvöldum áhyggjum að á undanförnum dögum hafi þau ekki getað fengið á hreint hver staða breskra innstæðueigenda sé gagnvart íslenskum bönkum. Myners segist vonast eftir því að fjármálaráðuneytið geti aðstoðað bresk yfirvöld við að öðlast betri skilning á málinu. Myners segir einnig að breska ríkisstjórnin hafi ákveðið að vernda fjárhagslega hagsmuni Bretlands og gripið til viðeigandi aðgerða í því skyni. Myners bætir því við að bresk yfirvöld vonist eftir því að hægt verði að leysa málið með uppbyggilegu samstarfi. Árni svarar því til að íslensk stjórnvöld séu vissulega viljug til að starfa með breskum stjórnvöldum til að ná þessu markmiði. Árni greinir Myners frá löggjöf sem stjórnvöld vonist til að veiti innstæðueigendum forgang við úthlutun eigna þrotabúa fjármálafyrirtækja og segir að vonast sé eftir því að enginn kostnaður lendi á innstæðueigendum. Síðan segir Árni að líkt og fram hafi komið í bréfum íslenskra stjórnvalda muni íslensk yfirvöld augljóslega hlíta þeim skuldbindingum sem á þeim hvíla og á sjóðnum á grundvelli tilskipunarinnar. Árni segist telja að mikilvægast sé að stjórnvöld landanna tveggja starfi saman, leysi vandann og reyni að ná því markmiði án þess að skjóta almenningi í löndunum tveimur skelk í bringu. Myners segir að málið mætti vera skýrara og spyr hvern hentugast sé að bresk stjórnvöld eigi í samskiptum við til að átta sig betur á stöðu mála. Árni segir að Fjármálaeftirlitið sé sá aðili sem rétt sé að ræða við. Árni leggur einnig til að Bretar sendi fulltrúa sinn sem starfað gæti með Fjármálaeftirlitinu. Árni bætir því síðan við að íslensk stjórnvöld vilji ekki hafa þetta mál "hangandi" yfir sér með tilheyrandi skaðlegum áhrifum á samskipti þjóðanna næstu árin.
Eftir hádegi 9. október 2008 ræddi Geir H. Haarde við Alistair Darling í síma og var símtalið hljóðritað. Í tölvubréfi til rannsóknarnefndar Alþingis 17. mars 2009 lýsir Geir því að eftir að Bretar beittu lögum um varnir gegn hryðjuverkum, glæpum og um öryggi hafi hann gert tilraun til að ná sambandi við Gordon Brown en hafi þess í stað fengið samband við Darling. Rannsóknarnefnd Alþingis hefur undir höndum endurrit samtalsins. Í því segist Darling vilja útskýra aðgerðir breska ríkisins. Jafnframt vilji hann benda á að ýmsar fyrirskipanir verði gefnar á næsta klukkutímanum í því skyni að lögaðilar og einstaklingar geti áfram sinnt viðskiptum sínum og fært fjármuni sína til. Sem ástæðu fyrir þeim aðgerðum sem breska ríkið hafi gripið til nefnir Darling tvö atriði úr samtali sínu við Árna M. Mathiesen frá 7. október.Annars vegar segist Darling hafa spurt Árna um stöðuna varðandi Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta. Árni hafi svarað því til að hann gæti ekki ábyrgst að hafa fjármuni til að verja til greiðslu á innstæðutryggingunum. Darling segir að af þessum sökum hafi breska ríkið þurft að taka á sig kostnað sem nemi 2,5 milljörðum punda. Hins vegar segir Darling að hann hafi spurt Árna hvort skuldbindingar sem Fjármálaeftirlitið hafi tekist á hendur yrðu virtar. Hafi Árni svarað því til að ekki væri hægt að virða þær. Darling segir að aðgerðir breskra yfirvalda séu framkvæmdar með miklum trega. Síðar í samtalinu segir Darling jafnframt að kollegi Geirs hafi sagt sér að ríkisstjórnin hygðist vernda íslenska innstæðueigendur en enga aðra. Ætla verður að hér eigi Darling við Árna M. Mathiesen. Af þessu tilefni áréttar Geir að því hafi verið lýst opinberlega að ríkisstjórnin hygðist tryggja íslenskar innstæður í heild sinni. Telji hann þetta fyllilega heimilt samkvæmt EES-samningnum að því gefnu að yfirvöld standi við skuldbindingar tryggingarsjóðsins.
Sama dag, þ.e. hinn 9. október 2008, kom Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, fram í viðtali á BBC og sagði þá m.a.: "What happened in Iceland is completely unacceptable. I've been in touch with the Icelandic prime minister. I said this is effectively illegal action that they have taken.We are freezing the assets of Icelandic companies in the United Kingdom where we can.We will take further action against the Icelandic authorities wherever that is necessary to recover the money. [...] But this is fundamentally a problem of an Icelandic-registered company, Icelandic-registered financial services authority – they have failed not only the people of Iceland, they have failed people in Britain."
Ummæli Brown hér að framan beinast ekki einvörðungu að Landsbankanum heldur segir einnig að eignir íslenskra fyrirtækja í Bretlandi hafi verið frystar. Ekkert kom hins vegar fram um slíkt í stjórnvaldsákvörðun breska fjármálaráðuneytisins um frystingu eigna Landsbankans frá 8. október 2008.
Síðar sama dag, þ.e. 9. október 2008, kom Brown fram í fréttum á sjónvarpsstöðinni Sky og sagði þá m.a.: "The issue is basically this.The Icelandic banks have collapsed, the Icelandic authorities have to take some responsibility for it.They cannot just default and say that they're going to take on none of the responsibility for what has happened. [...] But the responsibility for this lies fairly and squarely with the Icelandic authorities, and they have a duty in my view to meet the obligations that they owe to citizens who have invested from Britain in Icelandic banks."
Á vefsíðu breskra stjórnvalda er að finna lista yfir þá aðila sem beittir eru viðurlögum samkvæmt lögum um varnir gegn hryðjuverkum, glæpum og um öryggi. Hinn 10. október 2008 leit listinn svona út:
Landsbankinn var á listanum fram til 22. október 2008 þegar breska fjármálaráðuneytið breytti uppsetningu listans með þeim hætti að Landsbankinn var settur í sérstakan flokk neðar á vefsíðunni. Sá flokkur innihélt upplýsingar um frystingu eigna sem ekki byggðist á viðurlögum vegna hryðjuverka. Bresk yfirvöld lýstu því yfir við sendiráð Íslands í London að breytingin væri gerð vegna athugasemda íslenska ríkisins.
Um klukkan 22 laugardaginn 11. október 2008 barst sendiráði Íslands í London yfirlýsing um að ákvörðun á grundvelli laganna um varnir gegn hryðjuverkum, glæpum og um öryggi næði einungis til Landsbankans en ekki til annarra íslenskra fyrirtækja. Það leið hins vegar langur tíma áður en íslensk fyrirtæki gátu aftur fengið fjármuni flutta í gegnum breska banka þar sem bresk stjórnvöld birtu ekki þessa yfirlýsingu opinberlega. Fyrrgreint bréf breskra stjórnvalda er að finna hér:
Hinn 28. október 2008 voru málefni tengd ákvörðun breskra stjórnvalda um frystingu eigna Landsbankans rædd í lávarðadeild breska þingsins. Myners lávarður færði þar rök fyrir ákvörðuninni. Hann sagði m.a. að ákvörðunin hefði verið tekin vegna þess að íslensk stjórnvöld og Landsbankinn hefðu virst vera u.þ.b. að grípa til aðgerða sem væru skaðlegar breskum efnahag, þ. á m. breskum innstæðueigendum. Á þessum tíma hefði traust innstæðueigenda gagnvart bönkum hins vegar verið veikt og því nauðsynlegt að bregðast við. Þá hefði legið fyrir smitáhætta gagnvart breska fjármálageiranum. Beiting laga um varnir gegn hryðjuverkum, glæpum og um öryggi var skýrð þannig að íslenska ríkisstjórnin hefði ekki getað skýrt stöðu breskra kröfuhafa í gjaldþrotaferli Landsbankans og þar með hefði ógn verið fyrir hendi gagnvart breskum hagsmunum. Loks hefðu aðgerðir íslensku ríkisstjórnarinnar virst fara í bága við skuldbindingar Íslands samkvæmt EES-samningnum þar sem ákveðnar yfirlýsingar forsætisráðherra Íslands hefðu gefið til kynna að þótt íslenskir innstæðueigendur nytu verndar þá kynni öðrum kröfuhöfum, þ. á m. breskum, að verða mismunað. Sagði Myners að ekki hefði verið gripið til þeirra aðgerða sem raun bar vitni fyrr en eftir ítarlegar viðræður á ráðherrastigi sem og embættismannastigi gagnvart íslenskum yfirvöldum. Bresk yfirvöld hefðu ekki getað fengið þá fullvissu sem þau töldu nauðsynlegt að lægi fyrir um að Ísland myndi standa við skuldbindingar sínar gagnvart innstæðueigendum útibús Landsbankans í Bretlandi. Því hefði verið talin nauðsyn á að bregðast hratt við, sérstaklega í ljósi alvarleika málsins.
Hinn 16. desember 2008 ritaði Árni M. Mathiesen Alistair Darling bréf þar sem fram kom sú krafa íslenskra stjórnvalda að ákvörðun breska fjármálaráðuneytisins (e. Landsbanki Freezing Order), sem fól í sér fyrrgreinda beitingu breskra laga um varnir gegn hryðjuverkum, glæpum og um öryggi, yrði samstundis afturkölluð. Jafnframt var farið fram á rökstuðning fyrir beitingu laganna. Meðfylgjandi bréfinu var samantekt á röksemdum íslenskra stjórnvalda fyrir því að ekki hefði verið réttmætt að beita lögunum. Einnig kemur fram að óháð því álitaefni gætu skilyrði fyrir slíkri aðgerð í öllu falli ekki lengur talist til staðar. Hinn 9. janúar 2009 hafði ekkert svar enn borist frá breska fjármálaráðuneytinu. Ítrekaði Árni þá erindi sitt með bréfi sama dag.
Svar barst frá breska fjármálaráðuneytinu 13. febrúar 2009. Í bréfinu sem dags. er 11. febrúar sama ár og undirritað af Clive Maxwell, starfsmanni ráðuneytisins, er farið yfir aðdraganda og röksemdir þess að ákveðið var að beita lögum um varnir gegn hryðjuverkum, glæpum og um öryggi. Jafnframt kemur fram að breska ríkið telji enn tilefni til að viðhalda þeirri ákvörðun um frystingu eigna sem tekin hafi verið 8. október 2008. Áréttað er að beiting fyrrgreindra laga tengist ekki hryðjuverkastarfsemi. Því næst er skilgreint hverjir teljist þeir aðilar (e. specified persons) sem ákvörðuninni er beint að. Í fyrsta lagi er þar um að ræða Landsbanka Íslands hf. Í öðru lagi nánar tiltekin íslensk stjórnvöld (Seðlabanki Íslands, Fjármálaeftirlitið, skilanefnd Landsbankans og ríkisstjórn Íslands).
Í bréfi breska fjármálaráðuneytisins eru skilyrði fyrir beitingu hins umdeilda lagaákvæðis því næst rakin. Í fyrsta lagi er áskilið að ráðuneytið telji sennilegt að verknaður hafi verið framinn sem sé skaðlegur breskum efnahag í heild eða hluta. Í öðru lagi þarf sá aðili sem hlut á að máli að falla utan yfirráða breska ríkisins.Tiltekið er að svo sé ástatt um þá aðila sem hin umdeilda ákvörðun beinist að. Loks er áskilið að þessir aðilar séu þeir sem hafi framið eða séu líklegir til að fremja hinn umrædda verknað. Í skemmstu máli sagt telur hið breska ráðuneyti að framangreind skilyrði séu uppfyllt. Verður nú vikið nokkrum orðum að þeim röksemdum sem ráðuneytið setur fram til stuðnings ákvörðun sinni.
Aðalástæða þess að breska fjármálaráðuneytið greip til umræddra aðgerða er samkvæmt bréfi þess sú að talið var líklegt að íslenska ríkisstjórnin myndi beita mismunun við úthlutun eigna Landsbankans, þ.e. til verndar íslenskum innstæðueigendum en til tjóns fyrir breska innstæðueigendur og kröfuhafa. Þetta er rökstutt með vísan til skuldbindinga Íslands á grundvelli EES-samningsins. Fram kemur að yfirlýsingar íslensku ríkisstjórnarinnar, þ. á m. forsætisráðherra, hafi sannfært breska fjármálaráðuneytið um það að íslenska ríkisstjórnin hygðist standa við bakið á Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta hvað varðar skuldbindingar sjóðsins innanlands en ekki erlendar skuldbindingar. Síðan er fjallað um samtal Alistair Darling og Árna M. Mathiesen frá 7. október. Haft er eftir Árna að hann geti ekki ábyrgst að Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta geti greitt breskum innstæðueigendum lágmarksfjárhæðina samkvæmt tilskipun 94/19/EB. Því næst er tekið fram að litið sé svo á að íslensk stjórnvöld hafi veitt mótsagnakenndar yfirlýsingar um það hvort fyrrgreindar skuldbindingar yrðu virtar. Í þessu sambandi er sérstaklega vikið að bréfi viðskiptaráðuneytis frá 5. október 2008 til breska fjármálaráðuneytisins. Þá hafi yfirlýsingar um að íslensk stjórnvöld myndu standa við skuldbindingar sínar ekki verið í samræmi við gjörðir þeirra.
Í öðru lagi var talið að aðgerðir íslensku ríkisstjórnarinnar væru til þess fallnar að grafa verulega undan trausti breskra sparifjáreigenda á breska bankakerfinu og þar með ógna fjármálastöðugleika landsins. Á sama tíma hafi hins vegar verið mikil þörf á að varðveita slíkt traust. Í þriðja lagi taldi breska fjármálaráðuneytið smitáhættu vera til staðar innan breska fjármálakerfisins í kjölfar falls Landsbankans og aðgerða íslenskra stjórnvalda. Hætta gæti því skapast á að áhlaup yrði gert á fleiri fjármálastofnanir. Slíkt hefði slæm áhrif á breskan efnahag.
Loks taldi breska fjármálaráðuneytið að íslensk stjórnvöld hefðu ekki tryggt breskum kröfuhöfum næga vernd. Þetta hefði þær afleiðingar að breska bankakerfið yrði fyrir fjárútlátum í gegnum breska systurstofnun (Financial Services Compensation Scheme) hins íslenska tryggingarsjóðs. Skipti þá máli að um þessar mundir væru breskar fjármálastofnanir undir miklu álagi. Breska fjármálaráðuneytið tekur sérstaklega fram að litið sé svo á að meðalhófs hafi verið gætt við töku ákvörðunar ráðuneytisins.
Undir lok bréfsins er rökstutt hvers vegna hin umdeilda ákvörðun sé enn við lýði. Fram kemur að málið sé haft til áframhaldandi skoðunar innan ráðuneytisins. Ekki þyki þó tilefni til að afturkalla ákvörðunina að sinni. Aðalröksemdir ráðuneytisins fyrir þessu eru tvenns konar. Í fyrsta lagi telur ráðuneytið að ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um yfirfærslu eigna yfir í Nýja Landsbankann hf. hafi leitt til mismununar gagnvart breskum og öðrum erlendum kröfuhöfum. Í öðru lagi bendir ráðuneytið á að breska ríkið hafi 8. október 2008 talið nauðsynlegt að ábyrgjast innstæður almennra sparifjáreigenda í því skyni að tryggja tiltrú fjárfesta á bankakerfinu. Telur ráðuneytið því að mikill kostnaður muni falla á breska skattgreiðendur ef ekki berast greiðslur frá Landsbankanum eða Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta. Í þessu sambandi minnir ráðuneytið á að þrátt fyrir að íslenska ríkisstjórnin hafi lýst yfir vilja til að standa við skuldbindingar Íslands samkvæmt tilskipun 94/19/EB þá hafi ekki enn náðst samkomulag um nánara fjárhagslegt fyrirkomulag auk þess sem ráðuneytinu skiljist að íslensk stjórnvöld skorti pólitískt umboð til að ganga endanlega frá samningum við bresk yfirvöld.
Það var síðan 10. júní 2009 sem breska fjármálaráðuneytið tók þá ákvörðun að aflétta frystingu eigna tengdra Landsbankanum og tók ákvörðunin gildi 15. sama mánaðar. Í fréttatilkynningu ráðuneytisins kemur fram að frystingu eigna hafi verið aflétt þar sem tekist hafi samningar við íslensk stjórnvöld um ábyrgð í tengslum við innstæður útibús Landsbankans í London.
20.4.2 Ályktanir rannsóknarnefndar Alþingis
Líkt og að framan greinir tók Fjármálaeftirlitið yfir vald hluthafafundar Landsbanka Íslands hf. 7. október 2008 og vék stjórn félagsins til hliðar en skipaði í hennar stað sérstaka skilanefnd. Ástæða þessarar ákvörðunar var m.a. það mat stofnunarinnar að knýjandi fjárhags- og rekstrarerfiðleikar hrjáðu Landsbankann. Í þessu samhengi skal það tekið fram að óháð lausafjárstöðu Landsbankans í íslenskum krónum gat bankinn ekki aflað sér nægilegs erlends gjaldeyris til að verða við kröfum sem breska fjármálaeftirlitið (FSA) setti fram á símafundi að kvöldi sunnudagsins 5. október 2008 um flutning fjármuna til Bretlands næsta morgun. Ástæða þeirrar kröfu var að um nokkurt skeið höfðu innstæðueigendur í Bretlandi gert áhlaup á bankann með tilheyrandi úttektum af reikningum útibús hans þar í landi. Hinn 6. sama mánaðar hafði FSA síðan meinað Landsbankanum að bera fyrir sig skilmála í samningum sínum sem ella hefðu heimilað bankanum að fresta útgreiðslu innlána um allt að 60 daga. Sama dag hafnaði Seðlabanki Íslands því að veita Landsbankanum fyrirgreiðslu. Loks skal þess getið að 30. september 2008 veitti Landsbankinn félagi í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar lán að andvirði 153 milljóna evra. Ekki verður því séð að helstu eigendur bankans hafi haft hug á eða getu til að veita bankanum það aukna fé sem þörf var á til þess að rekstri hans yrði haldið áfram. Að kvöldi 6. október var síðan útibúi bankans í London lokað. Ekki verður annað ráðið en að greiðsluþrot bankans hafi blasað við á þessum tíma og því hafi Fjármálaeftirlitinu verið rétt að skipa bankanum sérstaka skilanefnd 7. október 2008. Lausafjárskortur í erlendri mynt leiddi af sér greiðsluþrot bankans. Hvort vandi hans var eiginfjárvandi eður ei skipti ekki máli þegar hér var komið sögu, enda var Seðlabanki Íslands ekki í stakk búinn til að veita Landsbankanum fyrirgreiðslu, jafnvel þótt viðunandi veð hefðu verið talin fyrir hendi. Ekki er að sjá að Seðlabanki Íslands hafi á nokkru stigi málsins lagt mat á það hvort Landsbankinn ætti við lausafjár- eða eiginfjárvandræði að etja. Skortur á slíku mati af hálfu Seðlabanka Íslands er aðfinnsluverður að mati rannsóknarnefndar Alþingis, ekki síst þar sem Landsbankinn var kerfislega mikilvægur og fall hans yrði því óhjákvæmilega kostnaðarsamt fyrir hagkerfið í heild sinni.
Hinn 8. október 2008 yfirtóku bresk stjórnvöld Heritable Bank og útibú Landsbankans í London auk þess að kyrrsetja eignir Landsbankans og eignir sem tengdust bankanum en voru í eigu, vörslu eða undir yfirráðum íslenskra stjórnvalda á grundvelli laga um varnir gegn hryðjuverkum, glæpum og um öryggi frá 2001 (Anti-terrorism, Crime and Security Act 2001), svokallaðra hryðjuverkalaga. Þótt komið hafi til þessara aðgerða breskra stjórnvalda eftir fall Landsbanka Íslands hf. hefur rannsóknarnefnd Alþingis hér að framan talið rétt, með tilliti til áhrifa þessara aðgerða á eignir Landsbankans og íslenska hagsmuni að öðru leyti, að draga saman upplýsingar um aðdraganda þeirra og að hluta til það sem komið hefur fram síðar um þær. Ályktunum nefndarinnar hér er því fyrst og fremst ætlað að draga fram ákveðin meginatriði þessara atvika.
Þegar rökstuðningur breska fjármálaráðuneytisins fyrir beitingu laga um varnir gegn hryðjuverkum, glæpum og um öryggi, sem fram kemur í bréfi þess frá 13. febrúar 2009, er virtur er ljóst að hann samræmist ekki að öllu leyti þeim rökstuðningi sem Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands, veitti Geir H. Haarde, forsætisráðherra, í símtali hinn 9. október 2008. Í samtalinu setti Darling fram tvíþætt rök fyrir ákvörðun um beitingu laga um varnir gegn hryðjuverkum, glæpum og um öryggi og byggðust þau á samtali hans við Árna M. Mathiesen, fjármálaráðherra, tveimur dögum fyrr. Annars vegar hélt Darling því fram að aðspurður um stöðu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta, hefði Árni svarað því til að hann gæti ekki ábyrgst að hafa fjármuni til að verja til greiðslu á innstæðutryggingunum. Síðari fullyrðingin sem Darling eignaði Árna var á þann veg að ekki væri hægt að virða skuldbindingar sem Fjármálaeftirlitið hefði tekist á hendur gagnvart Bretum. Skemmst er frá því að segja að þessi staðhæfing kemur hvergi fyrir í samtali Árna og Darling. Af samhenginu virðist nærtækast að ætla að með þessu hafi Darling ætlað að benda á að Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta hefði ekki fjárhagslega getu til að standa við skuldbindingar sínar. Í bréfi breska fjármálaráðuneytisins frá 13. febrúar 2009 er aðalástæðan fyrir beitingu bresku laganna um varnir gegn hryðjuverkum, glæpum og um öryggi gegn Íslandi á hinn bóginn sögð sú að talið var líklegt að íslenska ríkisstjórnin myndi beita mismunun við úthlutun eigna Landsbanka Íslands hf., þ.e. til verndar íslenskum innstæðueigendum en til tjóns fyrir breska innstæðueigendur og kröfuhafa. Í viðtali Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, á sjónvarpsstöðinni Sky 9. október 2008 kom hins vegar fram það viðhorf að íslensk stjórnvöld yrðu einfaldlega að bera ábyrgð á falli íslensku bankanna.
Þess má einnig geta að síðar í samtali sínu við Geir sagði Darling að Árni hefði sagt sér að íslensk stjórnvöld hygðust vernda íslenska innstæðueigendur og enga aðra. Ekki er að sjá að þessi staðhæfing komi fyrir í samtali Darling og Árna. Þá má einnig vekja athygli á því að ekki verður séð að fullyrðing Darling í breska ríkisútvarpinu morguninn eftir samtal sitt við Árna M. Mathiesen eigi við rök að styðjast. Þar lýsir Darling því berum orðum yfir að íslensk stjórnvöld hafi deginum áður lýst því yfir við sig að þau hygðust ekki standa við skuldbindingar sínar í Bretlandi. Þessa yfirlýsingu er ekki að finna í samtali þeirra Árna og Darling.Yfirlýsing sem Darling veitti síðar þegar hann kom fyrir breska þingnefnd staðfestir að hér var Darling samt sem áður að vísa til samtals síns við Árna.
Hinn 4. apríl 2009 kom út sérstök skýrsla, Banking Crisis:The impact of the failure of the Icelandic banks, á vegum breskrar þingnefndar (Treasury Select Committee). Niðurstaða þingnefndarinnar er sú að í samtali Alistair Darling og Árna M. Mathiesen hafi Árni ekki lýst því yfir að ríkisstjórn Íslands hygðist ekki efna skuldbindingar sínar. Þvert á móti hafi Árni gefið til kynna með skýrum hætti að Ísland hygðist beita tryggingarsjóði sínum til að reyna að standa við skuldbindingar sínar gagnvart breskum innstæðueigendum. Nefndin segir þá aðferð hafa leitt til skuldbindingar Íslands á greiðslu lágmarksfjárhæðar samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins.
Það skal tekið fram að ekki verður annað séð en að hlutaðeigandi bresk stjórnvöld hafi, eftir að Fjármálaeftirlitið á Íslandi hafði yfirtekið rekstur Landsbanka Íslands hf., getað gripið til almennra og hefðbundinna úrræða til að kyrrsetja allar eigur Landsbankans í London, eftir að útibúi hans hafði verið lokað þar. Í stað þess var tekin sú ákvörðun í breska fjármálaráðuneytinu að kyrrsetja allar eigur bankans og tilteknar eignir sem tengdust honum á grundvelli laga um varnir gegn hryðjuverkum, glæpum og um öryggi frá 2001. Minnt skal á að sjálfur forsætisráðherra Bretlands lýsti því opinberlega yfir að gripið hefði verið til þeirrar ráðstöfunar að frysta eignir íslenskra fyrirtækja í Bretlandi, sbr. orðin: "We are freezing the assets of Icelandic companies in the United Kingdom where we can." Stjórnvaldsákvörðun breska fjármálaráðuneytisins innihélt hins vegar engin slík fyrirmæli. Í samræmi við orð Gordons Brown virðast fjármunir flestra Íslendinga og íslenskra fyrir-tækja hins vegar hafa verið kyrrsettir í breskum bönkum fyrstu dagana eftir tilkynningu breska fjármálaráðuneytisins um beitingu laganna um varnir gegn hryðjuverkum, glæpum og um öryggi. Þar sem mjög stór hluti greiðslna fyrir útflutning Íslands til annarra landa fer í gegnum breska banka til Íslands hafði þessi aðgerð afar skaðleg áhrif á íslenskt atvinnulíf sem stóð þó höllum fæti eftir hrun íslenska bankakerfisins. Bresk stjórnvöld brugðust ekki við rangfærslu Brown með opinberri leiðréttingu þrátt fyrir að íslensk stjórnvöld hefðu farið fram á slíkt. Tveimur dögum eftir ummæli Brown sendi hins vegar starfsmaður breska forsætisráðuneytisins staðfestingu á því að bresk stjórnvöld hefðu ekki gripið til frystingar eigna annarra íslenskra fyrirtækja en Landsbankans. Bresk yfirvöld birtu þó ekki þessa staðfestingu opinberlega og hún gerði því eðli máls samkvæmt lítið til að bæta það tjón sem opinberar yfirlýsingar forsætisráðherra Bretlands í breskum fjölmiðlum tveimur dögum áður höfðu valdið.
Það er ljóst að með aðgerðum sínum beittu bresk stjórnvöld harkalegri úrræðum en falist hefðu í hefðbundinni kyrrsetningu eigna Landsbankans eða öðrum venjulegum tryggingarráðstöfunum sem algengt er að gripið sé til í tilefni af greiðslustöðvun fjármálafyrirtækis. Vart er hægt að draga aðra ályktun af skýringum breskra ráðamanna en þá að með aðgerðinni hafi ætlunin verið að "refsa" íslenskum stjórnvöldum en bresk stjórnvöld töldu gjörðir íslenskra stjórnvalda ekki hafa verið í samræmi við yfirlýsingar þeirra um að þau myndu standa við skuldbindingar sínar. Þá virðast bresk stjórnvöld einnig hafa dregið í efa heimild íslenskra stjórnvalda til að tryggja innstæður á Íslandi að fullu en ekki í Bretlandi og litið svo á að með því væri jafnrétti innstæðueigenda ekki virt.
Rannsóknarnefndin telur það gagnrýnisvert að íslensk stjórnvöld skuli ekki hafa sinnt því að útskýra með skýrari hætti fyrir breskum stjórnvöldum hver afstaða íslenskra stjórnvalda væri gagnvart skuldbindingum Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta þótt eftir því væri leitað.Tengist það því hversu lengi íslensk stjórnvöld voru að gera upp við sig hvaða stefnu taka bæri en nánar er að því vikið í kafla 17.0. Þá vanræktu íslensk stjórnvöld einnig að útskýra bæði forsendur og hina pólitísku stefnu sem tekin var með neyðarlögunum fyrir breskum og hollenskum stjórnvöldum.Telur rannsóknarnefnd Alþingis að íslenskum stjórnvöldum hafi að lágmarki borið að fela utanríkisþjónustunni að útskýra meginsjónarmið sín fyrir þeim eftir lokun markaða 6. október 2008 þegar frumvarpið var lagt fyrir Alþingi, úr því ráðherrar ákváðu að ræða ekki milliliðalaust við ráðamenn þeirra ríkja þar sem íslensku bankarnir voru umsvifamestir. Sérstaklega var þetta brýnt gagnvart breskum og hollenskum ráðamönnum. Það var til þess fallið að hleypa aukinni hörku í samskipti þjóðanna að íslensk stjórnvöld létu þetta undir höfuð leggjast.
20.5 Fall Kaupþings banka hf.
20.5.1 Inngangur
Aðfaranótt 9. október 2008 tilkynnti Fjármálaeftirlitið að stofnunin hefði gripið inn í rekstur Kaupþings banka hf. á grundvelli heimildar í lögum nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., sem í daglegu tali hafa verið nefnd neyðarlög. Í tilkynningunni kom fram að þessi ákvörðun hefði verið tekin í kjölfar þess að stjórn Kaupþings fór þess á leit við stofnunina að hún tæki yfir vald hluthafafundar. Fram kom að stjórn Kaupþings hefði að auki sagt af sér. Í ákvörðun Fjármálaeftirlitsins fólst að fyrri stjórn yrði vikið frá, stofnunin tæki yfir vald hluthafafundar og að bankanum yrði skipuð sérstök skilanefnd.
Þremur dögum áður, þ.e. 6. október 2008, hafði Seðlabanki Íslands hins vegar samþykkt að veita Kaupþingi lán sem nam 500 milljónum evra gegn veði í danska bankanum FIH. Aðspurður hvernig þeim fjármunum hefði verið ráðstafað svaraði Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri Kaupþings, við skýrslutöku: "[...] stærsta einstaka greiðslan sem fer út úr bankanum er rúmlega, u.þ.b. 200 milljónir evra til sænska seðlabankans, það er stærsta einstaka, held ég, greiðslan sem fer út úr Kaupþingi þessa síðustu viku til tíu daga, annars erum við að leggja inn, "supporta" okkur í Lúxemborg vegna innlánsáhlaups sem er þar. Það er áhlaup í Finnlandi, það er áhlaup í Noregi, það er það sem er að gerast, það eru repo-viðskiptin okkar [...]." Auk framangreinds láns frá 6. október 2008 lánaði Seðlabankinn Kaupþingi 73 milljónir evra 2. sama mánaðar vegna fyrirhugaðrar aðkomu Kaupþings að Sparisjóði Mýrasýslu, sem átt hafði í nokkrum fjárhagserfiðleikum, og 200 milljónir norskra króna með svokölluðum spot-samningi 8. sama mánaðar.
Þegar leitað er svara við því af hverju Kaupþing féll þarf að beina sjónum að dótturfélagi Kaupþings í Bretlandi, Kaupthing Singer & Friedlander. Í lánasamningum Kaupþings og útgefnum skuldabréfum bankans til meðallangs tíma á evrópska skuldabréfamarkaðnum (MTN) voru ákvæði þess efnis að færi stórt dótturfélag Kaupþings í vanskil jafngilti slíkt vanskilum móðurfélagsins. Rannsóknarnefnd Alþingis hefur kynnt sér efni slíkra skilmála.Af þeim má ráða að ef til þess kæmi að Kaupthing Singer & Friedlander færi í þrot myndi það leiða til gjaldfellingar ýmissa lánasamninga og skuldabréfa Kaupþings sem voru af þeirri stærðargráðu að slíkt myndi leiða til falls Kaupþings. Endalok Kaupþings réðust því endanlega með falli dótturfélagsins Kaupthing Singer & Friedlander sem nánar verður vikið að hér á eftir.
20.5.2 Kaupthing Singer & Friedlander
Árið 2005 festi Kaupþing banki hf. kaup á breska bankanum Singer & Friedlander en sá banki hafði verið stofnaður 1907. Í kjölfar kaupanna var nafninu síðan breytt í Kaupthing Singer & Friedlander (hér eftir nefnt KSF).
Í skýrslum Ármanns Þorvaldssonar, bankastjóra KSF, og Sigurðar Einarssonar, stjórnarformanns Kaupþings, fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom fram að KSF hefði m.a. séð um endurhverf viðskipti við fyrirtæki í samstæðunni frá því í júní 2008.
Hinn 4. febrúar 2008 byrjaði KSF að bjóða upp á bæði óbundna og bundna innlánsreikninga á veraldarvefnum undir vörumerkinu "Kaupthing Edge". Breska fjármálaeftirlitið (FSA) gerði kröfu um að KSF héldi ávallt 95% af innlánunum í lausu fé eða ígildi þess. Frá þessum viðmiðum voru ákveðnar undantekningar sem hér verða ekki raktar. KSF reyndi síðar að fá lausafjárviðmiðin lækkuð með hliðsjón af reynslu varðandi úttekt af reikningunum. Í mars 2008, á meðan FSA hafði erindið til meðferðar, gerði KSF lausafjárskiptasamninga (e. "swap") við móðurfélagið samtals að fjárhæð 1,1 milljarður breskra punda. KSF samþykkti að veita Kaupþingi endurtekin sólarhrings lán en Kaupþing lofaði að lána KSF sömu fjárhæð til þriggja mánaða. Lausafjárreglur í Bretlandi leiddu til þess að KSF gat talið kröfu sína um endurgreiðslu á hendur móðurfélaginu til lauss fjár. Þar með uppfyllti KSF kröfur FSA um laust fé vegna Edge innlána. KSF gat hins vegar ráðstafað lánsfé sem borist hafði frá Kaupþingi, s.s. með útlánum eða öðrum fjárfestingum. Ef til þess kæmi að gert yrði áhlaup á KSF af Edge innstæðueigendum gerði FSA ráð fyrir því að kröfur stofnunarinnar um laust fé leiddu til þess að KSF gæti endurgreitt innstæðueigendum án vandkvæða. Lausafjárskiptasamningar dóttur- og móðurfélags leiddu hins vegar til þess að lausafjárstaða KSF varð háð möguleikum Kaupþings til greiðslu. Greiðsluerfiðleikar Kaupþings gátu því leitt til þess að KSF uppfyllti ekki lausafjárkröfur FSA. Ármann Þorvaldsson, bankastjóri KSF, lýsti því fyrir rannsóknarnefnd Alþingis að hann hefði talið að FSA væri að fullu kunnugt um framangreinda skiptasamninga. Rannsóknarnefnd Alþingis kallaði eftir frekari upplýsingum um skiptasamningana frá Nýja Kaupþingi banka hf. Þau svör bárust þaðan að líklega hefði skriflegur samningur ekki verið gerður vegna viðskiptanna. Þess í stað bárust tölvubréfaskipti starfsmanna Kaupþings og KSF sem lýstu samningunum lauslega. Líkt og að framan greinir námu viðskiptin rúmlega milljarði punda.
Mánudaginn 29. september 2008, eftir að tilkynnt hafði verið um kaup íslenska ríkisins á 75% hlutafjár í Glitni banka hf., hafði Ármann Þorvaldsson samband við FSA og tilkynnti stofnuninni að unnið yrði eftir lausafjárviðlagaáætlun bankans. Í framhaldinu heimsóttu starfsmenn FSA starfsstöðvar KSF. Í skýrslu Ármanns fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom fram að hann teldi misskilnings hafa gætt hjá starfsmönnum FSA um lausafjárstöðu KSF. Hefðu þeir virst álíta að KSF hefði yfir meira lausafé að ráða. Þannig hefðu þeir ekki áttað sig á því að heildsöluinnlán höfðu minnkað um 1,5 milljarða punda á meðan innlán einstaklinga á Edge reikninga höfðu aukist upp í 2,8 milljarða punda. Þá hefðu þeir að því er virtist ekki heldur áttað sig fyllilega á lausafjárskiptasamningnum við móðurfélagið þrátt fyrir að samningurinn hefði verið útskýrður fyrir þeim í mars 2008 og tilgreindur á lausafjárskýrslum eftir það. Í skýrslu Hreiðars Más Sigurðssonar, forstjóra Kaupþings, fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom fram að hann liti svo á að sá misskilningur hefði ríkt hjá FSA að KSF væri smásölubanki og því hefði þeim starfsmönnum FSA sem fengust við slíka starfsemi verið falið að hafa eftirlit með KSF. Miklu nær hefði verið að líta á KSF sem fjárfestingarbanka. Ármann Þorvaldsson kvaðst hafa heyrt föstudaginn 3. október 2008 að tiltekinn starfsmaður FSA virtist í þeirri villu að einn milljarður punda hefði verið færður yfir til móðurfélagsins. Þannig hefðu starfsmenn FSA í fyrstu ekki virst átta sig á að samningurinn við móðurfélagið hefði í eðli sínu verið lausafjárskiptasamningur. Ármann kvaðst telja að starfsmenn FSA hefðu síðan áttað sig á staðreyndum málsins sama dag eða um helgina þar á eftir.
Í vitnaskýrslu Sheilu Nicoll, starfsmanns FSA, frá 8. október 2008 vegna málareksturs Kaupþings í Bretlandi kemur fram að 30. september 2008 hafi nettó útflæði af reikningum Kaupthing Edge verið 37 milljónir punda.Af því tilefni hafi FSA beint þeim tilmælum til KSF að krefjast fyrirgreiðslu á grundvelli fyrrnefnds lausafjárskiptasamnings við móðurfélagið en sá samningur hljóðaði upp á 1,1 milljarð punda. Nicoll bendir síðan á að Kaupþing hafi ekki getað innt umbeðna greiðslu af hendi til KSF.Tekið skal fram að af hálfu Kaupþings er því haldið fram að þetta hafi ekki gerst fyrr en 2. október 2008. Í skýrslu Nicoll segir að FSA hafi orðið ljóst að 1,1 milljarður punda samkvæmt lausafjárskiptasamningnum hafi verið talinn með í lausafjárskýrslum KSF þrátt fyrir að móðurfélagið gæti ekki staðið við skyldur sínar samkvæmt samningnum. Þar með hafi FSA litið svo á að um verulegt brot KSF á lausafjárreglum stofnunarinnar hafi verið að ræða.
Í skýrslu Ármanns Þorvaldssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom fram að haldinn hefði verið fundur hjá FSA 2. október 2008 þar sem Ármann var spurður um það hvort hann gæti krafist eins milljarðs punda á grundvelli lausafjárskiptasamningsins við móðurfélagið. Hann kveðst hafa svarað því til að hann teldi að það væri ekki hægt. Þá hafi hann verið spurður að því hversu mikið hann teldi að hægt væri að draga á samninginn. Kvaðst hann hafa giskað á að e.t.v. væri mögulegt að fá 300 til 400 milljónir punda. Í ljós hafi komið að Kaupþing gat afhent KSF 100 milljónir punda daginn eftir og hafi FSA þá haldið áfram að knýja á um að móðurfélagið léti KSF fá 300 milljónir punda til viðbótar.
Hinn 3. október 2008 tók FSA sérstaka stjórnvaldsákvörðun gagnvart KSF. Samkvæmt ákvörðuninni skyldi KSF leggja öll innlán dagana 2. og 3. október 2008 inn á reikning hjá Seðlabanka Bretlands. Þá mátti bankinn ekki annast neina afgreiðslu sem var hærri en 250.000 pund nema að fengnu samþykki FSA. Ennfremur var bankanum bannað að framkvæma nokkuð sem væri ívilnandi fyrir móðurfélagið nema FSA hefði verið tilkynnt skriflega um það áður með þriggja daga fyrirvara.
Í skýrslu Ármanns Þorvaldssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom fram að starfsmenn FSA hefðu fundið að því að þegar þrenginga tók að gæta á markaði í endurhverfum viðskiptum í kjölfar falls Lehman Brothers hefði KSF samt sem áður haldið áfram að gera samninga við móðurfélagið um endurhverf viðskipti án þess að geta velt þessum viðskiptum áfram á markaði. Hefði lausafjárstaða KSF versnað af þessum sökum. Taldi Ármann að hinn 1. október 2008 hefði KSF vantað um einn milljarð punda í lausafé til þess að vera réttu megin við strikið miðað við lausafjárreglur þegar í ljós kom að ekki var hægt að draga á lausafjárskiptasamninginn við móðurfélagið. Hjá Ármanni kom fram að FSA hefði hins vegar talið 1,5 milljarða punda vanta þegar litið væri til þess hvernig staðið hefði verið að endurhverfum viðskiptum við móðurfélagið sem ekki hefði verið velt áfram á markaði.
Hinn 3. október 2008 fundaði Geir H. Haarde, forsætisráðherra, með Sigurði Einarssyni og Hreiðari Má Sigurðssyni. Geir hefur lýst því fyrir rannsóknarnefnd Alþingis að Sigurður og Hreiðar hafi tjáð sér að FSA hefði sama morgun gert kröfu um að Kaupthing Singer & Friedlander myndi greiða 80 milljónir punda til "að styrkja stöðu sína þar í landi". Þeir hafi jafnframt upplýst sig um að þegar hefði verið brugðist við þeirri ósk.Á meðan á fundinum stóð bar ritari Geirs honum þau skilaboð að Alistair Darling,fjármálaráðherra Bretlands, hefði hringt og óskað eftir að fá að ræða við Geir. Í kjölfarið áttu Geir og Darling samtal. Eins og áður kemur fram var samtalið hljóðritað, en það þurrkaðist út fyrir handvömm. Í tölvubréfi til rannsóknarnefndar Alþingis lýsti Geir samtalinu með eftirfarandi hætti: "Sagðist hann [Darling] vilja tjá mér að dótturfélag Kaupþings, KSF, hefði að dómi breskra yfirvalda gert sig sekt um að flytja fé frá Bretlandi með óeðlilegum hætti, samtals 600 milljónir punda. Málið væri litið svo alvarlegum augum að FSA myndi loka starfsemi bankans þá um kvöldið ef þessir fjármunir yrðu ekki þegar endurgreiddir. Sagðist hann vilja að ég vissi af þessari stöðu en jafnframt fór hann þess á leit að ég beitti mér fyrir því að Kaupþing á Íslandi gripi þegar í taumana. Ég sagðist vera í aðstöðu til að koma þeim skilaboðum samstundis á framfæri og myndi gera það sem ég gæti til að þetta mál leystist." Geir segist hafa greint Sigurði og Hreiðari frá þessu. Síðan segir í bréfi Geirs: "Tíðindin virtust koma þeim í opna skjöldu en þeir hringdu þegar í íslenska fjármálaeftirlitið og báðu það að hafa samband við rétta aðila hjá FSA. Einnig hringdu þeir strax í forstjóra KSF, sem þá var staddur í bíl á leið til fundar við FSA. Fullvissuðu þeir mig um að þeir gætu leyst þetta mál, en töldu jafnframt að í málinu væri einhver misskilningur sem auðvelt ætti að vera að greiða úr."
Samkvæmt skýrslu Clive Maxwell, starfsmanns breska fjármálaráðuneytisins, fyrir breskum dómstólum 14. apríl 2009 upplýsti FSA breska fjármálaráðuneytið um að KSF hefði fyrir 3. október 2008 greitt veðköll sem numið hefðu u.þ.b. 500 til 600 milljónum punda fyrir hönd Kaupþings og þannig í raun fært móðurfélaginu fjármuni.
Jon Pain, starfsmaður FSA, nefndi þetta atriði einnig í tölvubréfi til Jónasar Fr. Jónssonar, forstjóra Fjármálaeftirlitsins, 3. október 2008. Pain segir að FSA hafi gert þá kröfu til KSF að bankinn héldi ávallt a.m.k. 95% af óbundnum innlánum, sem jafngildi um tveimur milljörðum punda, tiltækum í reiðufé eða öðru því sem nánast jafngildi reiðufé. Þennan sama dag hafi komið í ljós að lausafé bankans nemi einungis 500 milljónum punda. Því telji FSA ljóst að KSF hafi brotið lausafjárreglur stofnunarinnar og að í upplýsingagjöf KSF hafi lausafjárstaðan verið verulega ýkt.Til viðbótar hafi KSF notað lausafé sitt til þess að standa straum af veðköllum á móðurfélagið (vegna verðlækkunar á verðbréfum) að fjárhæð 500 milljónir punda en þetta feli einnig í sér brot á reglum stofnunarinnar.Af þessum sökum fari FSA fram á að 1.600 milljónir punda verði fluttar til KSF fyrir lok viðskipta mánudaginn 6. október 2008 svo að FSA muni heimila áframhaldandi rekstur KSF sem viðtakanda innlána í Bretlandi. Framangreind fjárhæð er sundurliðuð þannig að annars vegar sé um að ræða 1.100 milljónir punda vegna innláns hjá samstæðunni og hins vegar 500 milljónir punda vegna framangreindra veðkalla. Jónas er loks beðinn um að staðfesta að endurgreiðslan muni nást fram svo FSA þurfi ekki að grípa til frekari ráðstafana.
Vegna framangreinds bréfs Jons Pain hélt Jónas Fr. Jónsson fund með Sigurði Einarssyni, Hreiðari Má Sigurðssyni og Guðna Aðalsteinssyni, framkvæmdastjóra fjárstýringar Kaupþings, um klukkan 17:00 hinn 3. október 2008. Guðni Aðalsteinsson hefur borið að þeir hafi fullvissað Jónas um að þeir hefðu ekki á ólögmætan hátt flutt fjármuni frá KSF til Kaupþings. Þá segir Guðni að meðan á fundinum stóð hafi Hreiðar Már Sigurðsson hringt í Ármann Þorvaldsson sem þá hafi verið að koma af fundi með starfsmönnum FSA þar sem rætt var um tveggja vikna áætlun um sölu eigna í þeim tilgangi að afla lausafjár.
Um helgina 4. og 5. október 2008 bjuggu starfsmenn KSF ásamt starfsmönnum Kaupþings til áætlun um sölu eigna KSF til að afla fjár til þess að mæta kröfum FSA. Í skýrslu Ármanns Þorvaldssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom fram að starfsmenn FSA hefðu farið yfir áætlunina á laugardeginum 4. október 2008. Hann hefði svo hringt í Juliu Dunn, starfsmann FSA, og fengið samþykki fyrir áætluninni. Kvaðst hann hafa gert það þar sem hann hefði áður frétt frá starfsmönnum Kaupþings, sem hefðu haft það eftir starfsmönnum Fjármálaeftirlitsins, að KSF yrði lokað ef ekki kæmu inn 1,5 milljarðar punda. Ármann taldi að raunhæft hefði verið að bankinn gæti selt eignir fyrir einn milljarð punda á 10 dögum.
Um "kvöldmatarleyti" sunnudaginn 5. október 2008 bárust Geir H. Haarde þau skilaboð að Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, óskaði eftir samtali við hann. Ræddust þeir í kjölfarið við í síma. Í tölvubréfi til rannsóknarnefndar Alþingis lýsti Geir því að Brown hefði átt tvíþætt erindi við sig.Annars vegar hefði Brown hvatt til þess að Ísland leitaði stuðnings Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Seinni þætti erindisins lýsti Geir með eftirfarandi hætti: "Hins vegar vildi Brown greina mér frá því að bresk yfirvöld teldu að KSF hefði brotið bresk lög og flutt 1600 (ekki 600) milljónir punda úr landi. Var greinilegt að hann taldi þetta mjög alvarlegt. Ég sagði honum sem var að ég hefði orð Kaupþingsmanna fyrir því (frá því fyrr sama dag, er ég innti þá eftir málinu) að þeir væru komnir að samkomulagi við FSA um hvernig þetta mál yrði leyst. Sagðist hann þá taka orð mín fyrir því og ekki vilja ræða þetta frekar. Er ég ræddi þetta mál við Kaupþingsmenn á sunnudeginum virtust þeir vita af því að nú væri af hálfu Breta rætt um 1600 milljónir punda í stað þeirra 600 sem fjármálaráðherrann nefndi í samtalinu á föstudeginum." Samtalið var hljóðritað. Rannsóknarnefnd Alþingis var afhentur hluti samtalsins og jafnframt tjáð að hluti upptökunnar hefði þurrkast út fyrir handvömm.
Klukkan 11:52 6. október 2008 sendi Hector Sants, forstjóri FSA, Hreiðari Má Sigurðssyni tölvubréf og lýsti því að ákaflega hjálplegt væri ef Hreiðar gæti staðfest að hann væri tilbúinn til þess að veita Barclays banka upplýsingar.Virðist FSA hafa haft milligöngu um að kanna hvort Barclays kynni að geta keypt rekstur eða hluta rekstrar KSF.
Klukkan 12:32 sama dag svaraði Hreiðar Már Sigurðsson tölvubréfi Hectors Sants og sagðist geta staðfest að Kaupþing standi við áætlun sína, bæði hvað varðar það að útvega lausafé sem og að draga úr skuldum á efnahagsreikningi KSF. Samkvæmt áætluninni verði KSF tryggðar yfir 700 milljónir punda á efnahagsreikning sinn fyrir lok viðskipta sama dag. Reyndar segir Hreiðar að hluti þessara viðskipta sé T+2 og T+3 og því muni Sants ekki sjá þetta allt sama kvöld. Hins vegar hafi þegar verið samið um viðskiptin við breskar fjármálastofnanir. Enn fremur segir Hreiðar að hjá Kaupþingi hafi menn ekki orðið varir við stórt áhlaup á Kaupthing Edge reikningana. Hann bætir því við að engar endurgreiðslur í langtímafjármögnun séu fyrirsjáanlegar á næstunni. Segist hann því viss um að lausafjárstaðan muni halda áfram að batna á næstu dögum og vikum. Hreiðar segir einnig að leitað hafi verið eftir aðstoð Deutsche Bank við að fara yfir þá kosti sem fyrir hendi séu varðandi alþjóðlega starfsemi Kaupþings. Hann segir enn fremur að vel yrði tekið í að Barclays myndi líta á bresk umsvif Kaupþings. Segir hann að innan Kaupþings sé um þessar mundir litið á breska starfsemi fyrirtækisins sem lykilþátt í rekstrinum og eigi það einnig við um framtíðarsýn fyrirtækisins. Hins vegar tekur hann fram að í ljósi yfirstandandi óróa á mörkuðum ríki vissulega skilningur á því að sveigjanleiki sé nauðsynlegur til að tryggja hagsmuni allra hlutaðeigandi. Að lokum biður Hreiðar Sants að hafa samband við Ármann Þorvaldsson svo koma megi á fundi með Barclays.
Klukkan 16:40 6. október 2008 ritaði Julia Dunn Ármanni Þorvaldssyni tölvubréf og benti á að í ljósi nýliðinna atburða á Íslandi væri ljóst að KSF kynni á einhverjum tímapunkti að telja rétt að óska eftir greiðslustöðvun eða einhvers konar skiptameðferð á fyrirtækinu. Í þessu samhengi bendir Dunn á ýmis formsatriði sem gæta þurfi að ef til slíks komi.
Í skýrslu Ármanns Þorvaldssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kemur fram að hann hafi rætt við Jon Pain að kvöldi 6. október 2008 og spurst fyrir um það hvort Seðlabanki Bretlands gæti ekki veitt KSF lánafyrirgreiðslu en bankinn ætti útlánasafn upp á 3,7 milljarða punda sem hægt væri að veðsetja. Segir Ármann að Pain hafi án nokkurra málalenginga hafnað þeirri málaleitan.
Þegar KSF opnaði að morgni 7. október 2008 nam lausafjárstaða fyrirtækisins 396 milljónum punda.
Sama morgun fundaði bankastjórn Seðlabanka Íslands með Hreiðari Má Sigurðssyni og Sigurði Einarssyni. Í drögum að fundarpunktum Seðlabankans er haft er Sigurði: "Allir að kreista pening frá okkur." Einnig er haft eftir Sigurði: "FSA á bakinu á okkur og kröfurnar breytast stöðugt.Trúin farin."
Klukkan 12:05 sama dag, þ.e. 7. október 2008, ritaði Hector Sants Hreiðari Má Sigurðssyni tölvubréf þar sem hann áréttaði að bærist KSF ekki lausafé samdægurs gæti bankinn ekki haldið áfram rekstri.
Klukkan 12:55 sama dag óskaði Hreiðar Már Sigurðsson eftir því með tölvubréfi að Hector Sants eða Jon Pain hefðu símasamband við hann.
Klukkan 12:57 sama dag ritaði Hreiðar Már Sigurðsson Hector Sants tölvubréf þar sem hann tilkynnti að fyrr um daginn hefði verið gengið frá sölu á þeim hlutum í Mitchells & Butlers Ltd. sem hefði verið á efnahagsreikningi bankans. Andvirði sölunnar, 130 milljónir punda, yrðu til taks við opnun bankans daginn eftir. Þá myndi Ravi frá J.C. Flowers koma í bankann um kvöldið ásamt teymi sínu og væri Hreiðar vongóður um að samningar myndu nást við J.C. Flowers sem hægt væri að tilkynna um fyrir opnun daginn eftir.
Í vitnaskýrslu Sheilu Nicoll frá 8. október 2008 kemur fram að hinn 7. október 2008 hafi nettó útflæði af Kaupthing Edge reikningum verið 95,5 milljónir punda.
Klukkan 17:35 7. október 2008 ritaði Jon Pain Hreiðari Má Sigurðssyni tölvubréf sem svar við bréfi Hreiðars fyrr um daginn. Í bréfinu segist Pain vilja veita Hreiðari yfirlit yfir mat FSA á stöðu KSF. Í þessu sambandi nefnir Pain nokkur atriði:
1. FSA hafi orðið vart við aukið útstreymi af almennum innlánsreikningum KSF og telji stofnunin hættu á að þetta útflæði verði áframhaldandi.
2. Af þessum sökum telji FSA raunverulega hættu á að KSF muni ekki "lifa af". Verði það raunin muni FSA neyðast til þess að setja KSF í greiðslustöðvun.
3. Til þess að veita Kaupþingi tækifæri til viðræðna við J.C. Flowers muni FSA ekki taka endanlega ákvörðun fyrr en kl. 7:30 að morgni næsta dags.
4. Af þessum sökum fari FSA fram á að Kaupþing staðfesti með tölvubréfi fyrir kl. 6:30 næsta morgun hvort viðræðurnar hafi borið árangur eður ei.Til þess að FSA geti fallist á að heimila KSF að starfa eftir kl. 7:30 næsta morgun þurfi stofnunin framangreinda staðfestingu ásamt annars vegar skýrri skuldbindingu um að J.C. Flowers muni veita dótturfélaginu nægilegt fjármagn samstundis þann dag svo fyrirtækið geti staðið við skuldbindingar sínar og hins vegar skýrri fjármögnunaráætlun sem sýni fram á stuðning við fyrirtækið fram yfir þetta tímabil.
Pain lýsir síðan fyrir hönd FSA von um að viðræður Kaupþings og J.C. Flowers muni skila árangri. Segir hann að FSA geri allt sem í valdi stofnunarinnar standi til þess að halda KSF í rekstri eins lengi og hægt sé. Loks lýsir Pain yfir vonbrigðum FSA með að viðræður við Barclays hafi ekki skilað árangri.Tekur Pain undir rök Hreiðars varðandi ástæðu þess að viðræðurnar leiddu ekki til samkomulags. Þessar ástæður eru hins vegar ekki raktar í bréfinu. Hvað varðar hugsanleg viðskipti tengd Royal Bank of Scotland segist Pain telja að sömu erfiðleikar verði við að afla stuðnings yfirvalda. Pain bendir að lokum á að FSA sé að skoða hvort til greina komi að Seðlabanki Bretlands geti veitt fyrirgreiðslu. Pain telur að slíkt sé ólíklegt og að auki myndi slíkt þurfa að eiga sér langan aðdraganda.
Í skýrslu Ármanns Þorvaldssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom fram að ástæða þess að ekki hefði orðið af samningum við Barclays hafi verið sú að fyrirtækið hefði ekki haft hug á því að kaupa hlutabréfin í KSF heldur einvörðungu eignir bankans með umtalsverðum afföllum.
Klukkan 18:57 sama dag, þ.e. 7. október 2008, sendi Hreiðar Már Sigurðsson Hector Sants og Jon Pain tölvubréf þar sem hann fór yfir stöðu mála. Hreiðar nefnir þrjú atriði sem hann segir Kaupþingsmenn hafa unnið að frá því kvöldið áður:
1. Um morguninn hafi verið fundað með Seðlabanka Íslands varðandi endurhverf viðskipti Kaupþings. Seðlabankinn hafi ákveðið að auka fyrirgreiðslu til Kaupþings og hafi Kaupþing í lok dags tryggt sér veðlán, skuldabréf sveitarfélaga og skuldabréf með ríkisábyrgð að fjárhæð 600 milljónir breskra punda sem hægt verði að nota í viðskiptum daginn eftir.
2. Forsvarsmenn Kaupþings hafi fundað með þremur stærstu lífeyrissjóðum Íslands, sem einnig séu stórir hluthafar í bankanum. Lífeyrissjóðirnir hafi ákveðið að selja eignir og færa lausafé í erlendri mynt til Kaupþings. Þetta muni eiga sér stað á næstu þremur dögum. Heildarfjárhæð muni nema 500 til 1.000 milljónum evra.
3. Kaupþingsmenn hafi átt í viðræðum við ríkisstjórn Íslands og Fjármálaeftirlitið vegna Glitnis. Þeim viðræðum verði haldið áfram þetta kvöld. Einn möguleiki sé að Glitni verði skipt upp í tvo banka, sbr. kenningar um góðan banka og slæman banka, og að Kaupþing muni þá yfirtaka starfsemi, eignir og innstæður Glitnis. Ef þessi aðgerð gangi eftir segist Hreiðar sannfærður um að slíkt muni styrkja starfsemi og fjárhagsstöðu Kaupþings verulega. Innan Kaupþings búist menn við frekari upplýsingum síðar um kvöldið.
Í bréfinu segir Hreiðar að Kaupþing hafi haldið áfram að vinna eftir þeirri áætlun sem gerð hafi verið vegna KSF undangengna helgi. Segir hann að eftirfarandi þáttaskil hafi orðið þennan dag:
1. Eign í Mitchells & Butlers Ltd. hafi verið seld fyrir 130 milljónir punda. Greiðslur muni berast næsta dag, þ.e. 8. október 2008.
2. Eign í Sampo hafi verið seld fyrir 175 milljónir evra. Greiðslur muni berast nk. fimmtudag, þ.e. 9. október 2008.
3. Viðskiptavinur hafi lagt inn 150 milljónir dollara. Greiðslur muni berast næsta dag, þ.e. 8. október 2008.
4. Eign í Alfesca hafi verið seld fyrir 45 milljónir punda. Greiðslur muni berast nk. fimmtudag, þ.e. 9. október 2008.
Hreiðar segir því næst að enn sé unnið að sölu Sainsbury og stefnt að því að ganga frá sölunni næsta dag. Nú sé fyrirhugaður fundur með hópi frá J.C. Flowers. Markmið þess fundar sé að selja rekstur KSF til J.C. Flowers. Loks segir Hreiðar að ef samningar náist ekki telji Kaupþingsmenn samt sem áður að Kaupþing geti stutt við KSF þannig að fyrirtækið komist í gegnum þetta hættuástand og að tryggja megi rekstrinum nægt lausafé.
Klukkan 00:03 8. október 2008 sendi Hreiðar Már Sigurðsson Hector Sants tölvubréf og greindi honum frá því að samningaviðræður við J.C. Flowers hefðu ekki borið árangur vegna hins skamma tíma sem fulltrúar J.C. Flowers hefðu haft til þess að fara í gegnum bækur KSF. Stjórn Kaupþings hafi hins vegar ákveðið að styðja KSF og veita fyrirtækinu nægilegt lausafé. Næsta dag verði því 300 milljónir punda lagðar inn í KSF. Til viðbótar muni viðskiptavinur leggja inn 75 milljónir punda og sala eigna muni síðan gefa af sér 130 milljónir punda. Samtals verði KSF því tryggðar 505 milljónir punda í nýju lausafé daginn eftir. Meira lausafé sé síðan tryggt fimmtudaginn 9. október 2008 með sölu eigna fyrir 180 milljónir punda auk þess sem móðurfélagið muni tryggja aðgengi að meira lausafé ef þörf verði á. Loks segir Hreiðar að síðar sömu nótt verði send út fréttatilkynning þar sem fram komi að Kaupþing hafi hafið viðræður við Fjármálaeftirlitið og skilanefnd Glitnis um að Kaupþing yfirtaki eignir og starfsemi Glitnis. Markmiðið sé að ljúka samningum eins fljótt og unnt sé.
Klukkan 07:11 sama dag, þ.e. 8. október 2008, svaraði Hector Sants Hreiðari og þakkaði fyrir að vera upplýstur um stöðu mála, þar á meðal um viðræður við J.C. Flowers. Sants segir greinilegt að lausafjárstaða KSF sé að verða mjög alvarleg og nýjustu upplýsingar bendi til þess að afla þurfi umtalsverðs fjár næstu daga og vikur.Til viðbótar, í ljósi áframhaldandi óvissu um stöðu íslensku bankanna í hugum breskra innstæðueigenda, telji Sants að FSA og Kaupþing þurfi að reikna með miklu útflæði af Edge reikningunum en í dag nemi þeir um 2,8 milljörðum punda. Í ljósi þessa fer FSA fram á að fyrir liggi fyrir kl. 09:00 sama dag:
1. Að 300 milljónir punda hafi verið fluttar á reikning KSF í London og að sama eigi við um 98 milljarða króna greiðslu á London reikninginn.
2. Nákvæmar skýringar á því hvernig Kaupþing hyggist bregðast við útstreymi fjár sem ljóst sé að verði út úr KSF næstu 10 daga.
3. Áætlun um hvernig Kaupþing hyggist fjármagna heildarendurgreiðslu á 2,8 milljörðum punda ef þess gerist þörf og hvernig bankinn hyggist þá viðhalda hæfilegu lausafé í kjölfarið.
Loks óskar Sants eftir staðfestingu fyrir sama tímamark á því að Seðlabanki Íslands muni fallast á framangreindar greiðslur auk þess sem hann fer fram á upplýsingar um þau áhrif sem yfirtaka á Glitni hefði á fjármögnun samstæðu Kaupþings.
Um kl. 07:00 sama dag, þ.e. 8. október 2008, kynnti breska ríkisstjórnin áætlun um "Credit Guarantee Scheme" og um stofnun sjóðs sem bar heitið "Bank Recapitalisation Fund" þar sem 500 milljörðum punda skyldi varið til að styðja við breska bankakerfið.
Klukkan 07:49 sama dag sendi Hreiðar Már Sigurðsson Hector Sants tölvubréf þar sem fram kom að verið væri að vinna að þeirri áætlun sem Sants hefði beðið um. Þá segir í bréfinu að fyrirsvarsmenn Kaupþings séu áhugasamir um fyrirætlanir bresku ríkisstjórnarinnar sem kynntar hafi verið fyrr um morguninn. Þar sem KSF sé breskur banki virðist hann uppfylla þau skilyrði sem kynnt hafi verið og lýsir Hreiðar sérstökum áhuga á þátttöku KSF í áætluninni án tafar. Hreiðar óskar jafnframt leiðbeininga um hvernig bankinn eigi að bera sig að við að sækja um aðild að áætluninni. Fram kemur að Hreiðar hafi verið í sambandi við Juliu Dunn varðandi lausafjárstöðu til skemmri tíma. Þá tekur Hreiðar fram að hann telji rétt að upplýsa FSA um að Royal Bank of Scotland hafi verið ákaflega seinvirkur í því að flytja fé yfir til KSF, hver svo sem ástæðan sé, og segir hann einnig að öll hjálp við að flýta því ferli sé vel þegin.
Ármann Þorvaldsson tjáði rannsóknarnefnd Alþingis að rétt fyrir kl. 08:00 þennan dag, þ.e. 8. október 2008, hafi Julia Dunn hringt í sig og áréttað að flytja þyrfti 300 milljónir punda yfir til KSF.
Klukkan 08:19 sama dag, þ.e. 8. október 2008, sendi Hreiðar Már Sigurðsson Hector Sants tölvubréf þar sem hann tilkynnti að Kaupþing hefði undirritað söluumboð til Deutsche Bank vegna KSF. Jafnframt væri Kaupþing að "eltast við" Seðlabanka Íslands og stefnt væri að því að senda FSA staðfestingu á tilflutningi 300 milljóna breskra punda eins fljótt og kostur yrði. Í skýrslu Hreiðars fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom fram að sama morgun hefðu Kaupþingsmenn farið í það verkefni að "smala saman" umræddum 300 milljónum punda.
Um svipað leyti og Deutsche Bank tók að sér sölu á KSF fyrir Kaupþing áttu sér stað viðræður á milli sömu aðila um að Deutsche Bank myndi lána KSF 500 milljónir punda til þriggja mánaða gegn veði í margvíslegum eignum KSF. Með sama hætti og ekkert varð úr sölu á KSF gekk þessi lánveiting ekki eftir.
Í greinargerð í máli því, sem skilanefnd Kaupþings höfðaði á hendur breska fjármálaráðuneytinu 7. janúar 2009, kemur fram að um klukkan 10:00 hinn 8. október 2008 hafi FSA formlega tekið þá ákvörðun að banna KSF að taka við nýjum innlánum. Samkvæmt ákvörðuninni skyldi hún taka gildi kl. 13:30 sama dag.
Í skýrslu Ármanns Þorvaldssonar og Sigurðar Einarssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom fram að alveg fyrirvaralaust hefði breska fjármálaráðuneytið síðan flutt innlánsreikninga Kaupthing Edge frá KSF yfir til hollenska bankans ING Direct N.V.
Í ákvörðuninni fólst að innstæður Edge reikninga KSF voru færðar til félags í eigu Seðlabanka Bretlands sem bar nafnið Deposit management (Edge). Innstæðurnar voru síðan færðar úr því félagi yfir til hollenska bankans ING Direct N.V.
Með ákvörðun breska fjármálaráðuneytisins fylgdi einnig skjal sem ber heitið "Summary: Intervention & Options". Þar segir m.a. að ákvörðunin sé tekin með það fyrir augum að vernda almannahagsmuni og tryggja stöðugleika breska fjármálakerfisins við aðstæður þar sem FSA telur að viðtakandi innstæðna uppfylli ekki lengur skilyrði fyrir slíku starfsleyfi. Einnig kemur fram að breska ríkisstjórnin hafi vegið og metið marga kosti og telji þetta vera bestu lausnina við að vernda innstæðueigendur og viðhalda trausti almennra innstæðueigenda.
Alistair Darling tók til máls í breska þinginu (e. House of Commons) kl. 12:33 8. október 2008 og lét þá eftirfarandi orð falla: "I want to say something about the three Icelandic banks; Landsbanki, its UK subsidiary, Heritable, and Kaupthing, which was put into liquidation within the last hour.The Financial Services Authority decided yesterday that Heritable could not continue to meet its obligations and today it has taken exactly the same decision for Kaupthing. I have therefore used the special powers that I have under the Banking (Special Provisions) Act to transfer most of their retail deposits to ING, the Dutch bank, which is working to secure business as usual for its customers to protect its savers' money.The rest of those Icelandic businesses have been put into administration."
Tekið skal fram að í ofangreindri ræðu er því ranglega haldið fram að KSF hafi verið settur í skiptameðferð á síðustu klukkustund. Af máli ráðherrans verður jafnframt ráðið að sú ákvörðun að flytja Edge innlánsreikninga KSF yfir í hollenska bankann ING Direct
N.V. á grundvelli Banking (Special Provisions) Act hafi verið bein afleiðing af þessari röngu staðhæfingu.
Um sama leyti og breski fjármálaráðherrann var að flytja ræðu sína áttu fyrirsvarsmenn Kaupþings og KSF símafund með forstjóra FSA. Í skýrslu Ármanns Þorvaldssonar fyrir rannsóknarnefnd kom fram að um leið og hann hefði séð í sjónvarpsfréttum að fjármálaráðherra hefði tekið yfir innlán KSF og fært þau til ING Direct N.V. hefði hann hringt í Juliu Dunn og spurt hana hvað væri að gerast þar sem hann taldi að þau væru að vinna í því að afla 300 milljóna punda til að halda bankanum opnum og hefðu þau ráðgert símafund síðar um daginn um það atriði. Hefði Dunn þá komið af fjöllum og óskað eftir því að fá að hringja í Ármann síðar. Hefði þannig verið ljóst að starfsmönnum FSA var almennt ekki kunnugt um aðgerðir fjármálaráðuneytisins. Dunn hefði síðan hringt aftur og sagt að ef KSF kæmi með 300 milljónir punda gæti bankinn haldið áfram rekstri sínum. Ármann segir að í beinu framhaldi hafi síðan verið haldinn símafundur með Hector Sants. Þar hafi FSA fyrst spurt hvort margræddar 300 milljónir punda væru á leiðinni. Hreiðar hafi þá bent FSA á að það væru lítil heilindi í þeirra samskiptum þar sem innlánin væru hirt af KSF án nokkurrar viðvörunar á meðan verið væri að vinna eftir áætlun sem samþykkt hefði verið af FSA um að afla bankanum lausafjár.Við þessar aðstæður væri vart réttlætanlegt að færa 300 milljónir punda frá móðurfélaginu. Hafi Hector Sants þá óskað eftir því að KSF yrði settur í greiðslustöðvun. Hreiðar hafi þá spurst á ný fyrir um það hvort KSF, sem breskur banki, fengi aðgang að áætlun breskra yfirvalda um endurfjármögnun bankakerfisins. Hector Sants hafi þá svarað því til: "Those funds are not for you."
Klukkan 14:49 sama dag, þ.e. 8. október 2008, var KSF settur í greiðslustöðvun. Ein af röksemdum fyrir því að setja bæri KSF í greiðslustöðvun var að innlán bankans hefðu verið flutt til annars banka með ákvörðun fjármálaráðherra, sbr. eftirfarandi orð: "The Bank is funded in large part by way of deposits totalling £3.2 billion. [...] As a result of the events set out above, it is highly likely that there will be a loss of confidence in the Bank; in particular those depositors who remain after the Transfer Order takes effect are likely to wish to withdraw their funds immediately. Accordingly, the Bank would be likely to face rapidly increasing demands for payments of its liabilities, which it would be unable to fund."
Í vitnaskýrslu Clive Maxwell, starfsmanns breska fjármálaráðuneytisins, 14. apríl 2009 vegna málareksturs Kaupþings í Bretlandi dregur Maxwell saman þá alvarlegu ógn sem bresk yfirvöld töldu aðsteðjandi. Í fyrsta lagi hafi mikið hættuástand einkennt fjármálakerfi heimsins. Íslenskir bankar hafi fallið þar undir og hluti þeirra talinn líklegur til að falla. Hinn 8. október 2008 hafi bresk yfirvöld í öðru lagi talið líklegt að KSF myndi ekki uppfylla kröfur sem áskildar séu fyrir starfsleyfi samkvæmt Financial Services and Markets Act 2000 (FSMA) og yrði því gert óheimilt að taka við frekari innlánum. Ef til slíks banns kæmi væri ólíklegt að KSF gæti bætt lausafjárstöðu sína og endurheimt starfsleyfi frá FSA. Í þriðja lagi hafi bresk yfirvöld talið að ef KSF félli léki vafi á bæði vilja og getu íslenskra stjórnvalda til að vernda innstæður viðskiptavina KSF. Í fjórða lagi hafi FSA álitið að ef til falls KSF kæmi, að því viðbættu að Landsbanki Íslands hf. og Heritable Bank hefðu fallið, án þess að útgreiðsla ætti sér fljótlega stað til innstæðueigenda hefði það slæm áhrif á traust innstæðueigenda, sérstaklega gagnvart breskri systurstofnun Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta. Þetta gæti einnig leitt til úttekta af innlánsreikningum annarra banka.
Í vitnisburði sínum lýsir Maxwell því loks að ofangreind fjögur atriði hafi verið talin geta haft slæm áhrif á breskan efnahag. Á þessum tíma hafi umhverfið einkennst af óvenjulega miklum áhyggjum almennra innstæðueigenda.Við þær aðstæður hafi breska fjármálaráðuneytið ályktað að ef 170.000 almennir innstæðueigendur þyrftu að horfast í augu við verulegar tafir á útgreiðslu fjármuna frá hinni bresku systurstofnun Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta auk mögulegs taps á hluta innstæðna sinna þá yrði slíkt afar skaðlegt fjármálastöðugleika í landinu. Maxwell lýsir því loks að með þessi rök í huga hafi breska fjármálaráðuneytið tekið þá ákvörðun að færa innlánsreikninga KSF yfir til annarrar fjármálastofnunar.
Í vitnaskýrslu sinni 15. júní 2009 vegna málareksturs Kaupþings í Bretlandi dregur Guðni Aðalsteinsson saman ályktanir sínar um málið. Guðni segir að þegar ákvörðun um flutning Edge reikninga Kaupþings var tekin að morgni 8. október 2008 hafi Kaupþing enn gert ráð fyrir því að útvega mætti KSF 1,1 milljarð punda. Sú fjárhæð fengist með 300 milljónum punda frá Kaupþingi, 98 milljörðum íslenskra króna frá Seðlabanka Íslands, 130 milljónum punda vegna Mitchells & Butlers og 75 milljónum punda af nýjum innstæðum. Að auki segir Guðni að af hálfu Kaupþings hafi verið búist við 200 milljónum punda fimmtudaginn 9. október 2008 vegna sölu á hlutabréfum í Sampo og Alfesca. Kaupþing hafi verið að vinna að frekari sölu í samræmi við áætlun bankans og FSA. Þar af leiðandi telur Guðni að hægt hefði verið að afla meiri fjármuna á næstu dögum. Guðni bendir einnig á að viðræður við Deutsche Bank hafi lofað góðu.Telur Guðni að KSF hafi verið u.þ.b. búinn að nálgast nægilegt lausafé til að "halda lífi" og hefði Kaupþing skuldbundið sig til þess að afla nægilegs lausafjár. Guðni segir að ákvörðun FSA um flutning Edge reikninga hefði átt að vera algjört örþrifaúrræði stofnunarinnar. FSA hafi brugðist þeirri skyldu að bíða og sjá hvort þær aðgerðir sem voru í framkvæmd myndu leiða til viðunandi lausnar. Guðni segir að aðgerðir FSA og breska fjármálaráðuneytisins hafi farið í bága við meðalhóf. Enn fremur hafi breskum yfirvöldum staðið margar aðrar leiðir til boða. Breska ríkisstjórnin hafi getað útvegað lausafé og neyðarsjóði. FSA hafi ekki beðið til þess að sjá hvort KSF gæti uppfyllt skilyrði fyrir slíkri aðstoð. KSF hafi getað sett eignir að veði gegn lausafé. Að öðrum kosti hafi breska ríkið getað yfirtekið rekstur KSF tímabundið og síðar selt fyrirtækið.
Ákvörðun breska fjármálaráðuneytisins um flutning á innstæðum á "Edge" reikningum var tekin á grundvelli 1. mgr. 6. gr. "Banking (Special Provisions) Act 2008" en þar segir: "The Treasury may by order make provision for or in connection with, or in consequence of, the transfer of property, rights and liabilities of an authorised UK deposit-taker to either (or each) of the following
– (a) a company wholly owned by the Bank of England or the Treasury; (b) a body corporate not within paragraph (a)."
Skilyrði þess að beita megi framangreindri heimild samkvæmt atvikum málsins koma fram í a-lið 2. mgr. 2. gr. laganna en þar segir: "The Purposes are - (a) maintaining the stability of the UK financial system in circumstances where the Treasury consider that there would be a serious threat to its stability if the order were not made."
Þegar tekin var afstaða til þess hvort hægt væri að flytja innlánin frá KSF varð því að leggja mat á það hvort alvarleg ógn steðjaði að stöðugleika breska fjármálakerfisins yrði ákvörðun um flutning á innstæðunum ekki tekin. Alistair Darling vék að skýringum á frumvarpinu sem fram komu í breska þinginu við meðferð þess áður en það varð að svonefndum lögum "Banking (Special Provisions) Act 2008".Við það tækifæri lét hann m.a. eftirfarandi orð falla: "There must be a serious threat to the stability of the financial system before the powers are exercised. That is a high test to be met, and the action must be proportionate. The Treasury must consider alternatives.The circumstances go way beyond simply a threat to depositors."
Af hálfu Kaupþings var því haldið fram að samkvæmt þeim orðum Darling, sem vitnað var til hér að framan, yrði mjög alvarleg ógn að vera til staðar. Miklar kröfur bæri að gera í þessum efnum og gæta yrði meðalhófs. Breska fjármálaráðuneytinu hefði því borið að meta þá kosti sem í stöðunni voru. Minnt var á að þær kröfur sem séu gerðar séu mun meiri en svo að það eitt nægi að innstæðueigendum stafi ógn af stöðunni. Kaupþing vakti athygli á þessum síðustu orðum í ljósi þess að bresk stjórnvöld hefðu lagt þunga áherslu á að verið væri að bjarga innstæðueigendum með flutningi á innstæðum frá KSF, sbr. orðin: "[...] will provide protection and continuity of business for depositors." Sbr. einnig ummælin: "[...] and considers this to be the best solution for protecting depositors and ensuring retail consumer confidence." Vakin var athygli á því að fjármálaráðherra Bretlands hefði rökstutt þessa aðgerð með sömu rökum í breska þinginu sama dag og til hennar var gripið, með orðunum: "I therefore used powers that I have under the Banking (Special Provisions) Act to transfer most of their retail deposits to ING, the Dutch bank, which is working to ensure that it is business as usual for all its customers, protecting its savers' money." Þegar til alls þessa væri litið taldi Kaupþing að hin ráðandi ástæða fyrir flutningi innstæðna KSF hefði verið sú að bjarga hagsmunum innstæðueigenda. Hin ströngu skilyrði Banking (Special Provisions) Act hefðu því ekki verið uppfyllt.
Hinn 20. október 2009 felldi breski dómstóllinn,The High Court of Justice – Queen's Bench Division – Administrative Court, dóm sinn í málinu og var niðurstaðan sú að ákvörðun um flutning innstæðna frá KSF hefði bæði verið málefnaleg og lögleg. Í því sambandi var talið að ákvörðunin hefði aðallega byggst á hinu lögmæta sjónarmiði að ógn steðjaði að stöðugleika breska fjármálakerfisins. Var fallist á með breska ríkinu að viðhorfin um að verja hagsmuni innstæðueigenda í KSF hefðu aðeins verið hluti af röksemdafærslu sem leiddi ráðuneytið að þeirri niðurstöðu að fýsilegt væri að taka ákvörðun um að flytja innstæðurnar í ljósi markmiðs laganna, fremur en að þar væri um að ræða yfirlýsingu um annað og ráðandi sjónarmið sem ákvörðun um flutninginn hefði verið byggð á.
20.5.3 Ályktanir rannsóknarnefndar Alþingis
Hér að framan hefur rannsóknarnefndin sérstaklega beint sjónum sínum að þætti dótturfélagsins Kaupthing Singer & Friedlander (KSF) í falli Kaupþings banka hf. Kaupþing banki hf., bæði móðurfélagið á Íslandi og dótturfélög þess, var með starfsemi í ýmsum löndum utan Íslands á þessum tíma og það er ljóst að þegar erfiðleikar komu upp á yfirborðið í starfsemi hinna íslensku bankanna, fyrst Glitnis og síðan Landsbankans, um mánaðamótin september/október 2008 var þess skammt að bíða að áhrif þess segðu til sín í rekstri Kaupþings. Þetta lýsti sér m.a. í auknu útstreymi fjár af innlánsreikningum og erfiðleikum við að endurnýja samninga. Eftir athugun nefndarinnar þótti sýnt að hvað sem leið áhrifum þessara erfiðleika á einstakar starfseiningar innan Kaupþings hafi þau atvik sem tengdust KSF verið mest afgerandi um fall Kaupþings og því er sérstaklega fjallað um þau í ályktunum nefndarinnar hér á eftir.
Lausafjárstaða KSF tók að versna frá miðjum september 2008 þegar Lehman Brothers féll. Ef marka má bréf Jons Pain, starfsmanns FSA, til Jónasar Fr. Jónssonar, forstjóra Fjármálaeftirlitsins, frá 3. október 2008 voru það aðallega tvö atriði sem mestu réðu um örlög KSF. Í fyrsta lagi gat móðurfélagið, Kaupþing banki hf., ekki staðið við lausafjárskiptasamninga sem gerðir höfðu verið við KSF í mars 2008 og námu samtals 1,1 milljarði punda, en líkt og fram er komið höfðu samningarnir verið taldir sem laust fé í lausafjárskýrslum KSF til FSA. Í öðru lagi höfðu endurhverf viðskipti á milli Kaupþings og KSF aukist frá því í ágúst 2008 og eftir því sem erfiðleikar jukust á mörkuðum varð KSF örðugra að velta þeim samningum áfram út á markaði, eins og fram kemur í kafla 7.0. Þessu til viðbótar hafði KSF ekki krafið Kaupþing um veðköll vegna verðlækkunar á verðbréfum og taldi FSA þau nema um 500 milljónum punda, eins og fram kemur á mynd 1 sem sýnir endurhverf lán KSF til Kaupþings og undirliggjandi veð. FSA taldi KSF því vanta samtals 1,6 milljarða punda í lausafé.
Af þeim gögnum sem rannsóknarnefnd Alþingis hefur undir höndum má draga þá ályktun að rökrétt hefði verið af hálfu KSF að framkvæma fyrrgreind veðköll gagnvart Kaupþingi í stað þess að taka algjörlega á sig þann kostnað og áhættu sem hlaust af lækkandi verði umræddra verðbréfa.Verður ekki annað séð en að hér hafi samband fyrirtækjanna tveggja sem móður- og dótturfélags leitt til þess að viðskipti þeirra í milli hafi ekki verið rekin á grundvelli armslengdarsjónarmiða. Rannsóknarnefnd Alþingis gerir því ekki athugasemd við þá afstöðu breskra yfirvalda að KSF hafi vanrækt að framkvæma veðköll sem námu 500 milljónum punda gagnvart Kaupþingi. Í þessu samhengi má vísa til myndar 3.Til þess að einhver tryggingarþekja sé fyrir hendi þarf verðmæti veðanna að nema hærri fjárhæð en lánið. Í þessu tilviki hafði verðmæti veða lækkað en lánin til Kaupþings aukist í pundum talið. Afleiðing þess að veðköll voru ekki framkvæmd var sú að lausafjárstaða Kaupþings styrktist á kostnað KSF.
Til viðbótar við vanrækslu á að framkvæma veðköll er einnig ljóst að hluta hinna endurhverfu viðskipta KSF og Kaupþings sem KSF hafði áður velt út á markað var ekki hægt að velta þar áfram þar sem mótaðilar KSF vildu ekki endurnýja samningana.Við eðlilegar aðstæður hefði slíkt leitt til samsvarandi lokunar af hálfu KSF gagnvart Kaupþingi, enda má segja að KSF hafi í raun komið fram sem milligöngumaður fyrir Kaupþing í umræddum viðskiptum. Þetta varð hins vegar ekki raunin heldur héldu endurhverfu lánin á milli Kaupþings og KSF þvert á móti áfram að aukast. Aftur er þetta dæmi um að ekki hafi verið gætt armlengdarsjónarmiða á milli móður- og dótturfélags.
Ekki kemur á óvart að FSA skuli hafa álitið lausafjárskiptasamning KSF og Kaupþings haldlítinn þegar ljóst var orðið að Kaupþing gat ekki staðið við hann. Ekki er þó síður athyglisvert að skriflegur samningur virðist ekki hafa verið gerður um þessi lausafjárskipti, sérstaklega í ljósi þeirra upphæða sem um var að ræða.
Í kaflanum hér að framan var rakið efni tölvubréfs Hreiðars Más Sigurðssonar, forstjóra Kaupþings, til Hectors Sants, forstjóra FSA, og Jons Pain, starfsmanns FSA, frá 7. október 2008. Í bréfinu ræðir Hreiðar um þrjú atriði sem unnið sé að, þ. á m. að íslenskir lífeyrissjóðir hafi ákveðið að selja eignir og færa lausafé í erlendri mynt til Kaupþings. Segir Hreiðar að þetta muni eiga sér stað á næstu þremur dögum og að heildarfjárhæð verði 500 til 1000 milljónir evra. Rannsóknarnefnd Alþingis hefur ekki fengið í hendur nein gögn sem styðja þessa fullyrðingu Hreiðars. Því til viðbótar fær rannsóknarnefnd Alþingis ekki séð að Seðlabanki Íslands hafi haft í ráði að veita Kaupþingi 600 milljóna evra veðlán, örfáum dögum eftir að hann veitti bankanum 500 milljóna evra lán (6. október) gegn veði í FIH bankanum. Þar sem ekki er að sjá að þessir fjármunir hafi verið fastir í hendi telur rannsóknarnefnd Alþingis fullyrðingu Hreiðars hafa verið óvarlega.
Eins og nánar greinir hér að framan höfðu bæði Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands, og Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, símasamband við Geir H. Haarde, forsætisráðherra, og sökuðu starfsmenn KSF og Kaupþings um ólögmæta fjármagnsflutninga frá Bretlandi til Íslands án þess þó að útskýra nánar í hverju hin meinta ólögmæta háttsemi væri fólgin. Undrun sætir að Fjármálaeftirlitið skyldi ekki á þessu tímamarki senda starfsmenn sína inn í höfuðstöðvar Kaupþings til þess að ganga úr skugga um hvort ólögmætir fjármagnsflutningar hefðu átt sér stað, en í ljósi eðlis ásakananna og með tilliti til þess hverjir báru þær fram, var að mati rannsóknarnefndar Alþingis brýnt tilefni til þess. Íslensk stjórnvöld gátu ekki í svörum sínum til breskra yfirvalda vísað til þess að þau hefðu kannað þetta af eigin raun með athugun á færslum og bókhaldi Kaupþings á Íslandi heldur vísuðu þau aðeins til munnlegra svara fyrirsvarsmanna Kaupþings. Af hálfu íslenskra stjórnvalda var því ekki gripið til eðlilegra ráðstafana til þess að upplýsa málið.
Athygli vekur að í ræðu sinni í breska þinginu (e. House of Commons) kl. 12:33 8. október 2008 hélt Alistair Darling því ranglega fram að KSF hefði verið settur í skiptameðferð á síðustu klukkustund, sbr. orðin: "Kaupthing, which was put into liquidation within the last hour." Af máli ráðherrans verður jafnframt ráðið að sú ákvörðun að flytja Edge innlánsreikninga KSF yfir í hollenska bankann ING Direct N.V. á grundvelli Banking (Special Provisions) Act hafi verið bein afleiðing af þessari staðhæfingu, sbr. eftirfarandi orð Darling: "I have therefore used the special powers that I have under the Banking (Special Provisions) Act to transfer most of their retail deposits to ING, the Dutch bank, which is working to secure business as usual for its customers to protect its savers' money." Hið rétta er að á þessum tíma hafði KSF ekki verið tekinn til skiptameðferðar. Hins vegar hafði FSA bannað KSF að taka við nýjum innlánum og tók sú ákvörðun gildi kl. 13:30 þennan sama dag. KSF var hins vegar ekki sett í greiðslustöðvun fyrr en kl. 14:49 umræddan dag og þá m.a. með þeim rökstuðningi að búið væri að flytja innlánin frá bankanum, en sú starfsemi væri afar mikilvægur þáttur í fjármögnun bankans. Þegar þessi orð og röksemdir breskra stjórnvalda eru virt verður ekki sagt að augljóst sé hvað sé orsök og hvað afleiðing í þeirra huga í þessari atburðarás sem þau stýrðu.