29. kafli – Sparisjóður Norðfjarðar

29. Sparisjóður Norðfjarðar

Sparisjóður Norðfjarðar var stofnaður 2. maí 1920 en starfsemi hans hófst 1. september sama ár. Á þeim tíma var engin peningastofnun í Norðfirði og næstu bankaútibú voru á Eskifirði og Seyðisfirði. Á stofnfundi sjóðsins var kosin þriggja manna stjórn sem skipuð var þeim Páli G. Þormar formanni, Ingvari Pálmasyni bókara og Sigdóri V. Brekkan féhirði.

Í stofnsamþykktum sagði um tilgang sparisjóðsins:

Sparisjóðurinn er stofnaður til að geyma og ávaxta fyrir íbúa Norðfjarðar peninga; þó tekur hann einnig geymslufé frá utansveitarmönnum. Stjórnendur sjóðsins skulu eiga heima í Neskauptúni.1

Í 3. gr. gildandi samþykkta sparisjóðsins sem samþykktar voru á aðalfundi 28. júní 2010 segir:

Hlutverk sparisjóðsins er að láta gott af sér leiða og standa vörð um og þróa atvinnulíf, mannlíf og velferð á starfssvæði sjóðsins. Þá skal sparisjóðurinn rækja sérstakt samfélagshlutverk með stuðningi við íþrótta- og æskulýðsstarf og menningar- og líknarmál á starfssvæði sínu.

Sparisjóður Norðfjarðar hefur haft aðsetur að Egilsbraut 25 á Neskaupstað frá 1978. Útibú var starfrækt á Reyðarfirði frá 30. október 1998 fram á vormánuði 2012. Sparisjóðsstjóri er Vilhjálmur Grétar Pálsson og hefur hann gegnt því starfi frá 2004.

Sparisjóður Norðfjarðar var einn af minnstu sparisjóðunum hér á landi árið 2007. Samkvæmt ársreikningi fyrir það ár voru heildareignir sparisjóðsins 5,7 milljarðar króna, eða tæpt 1% af heildareignum allra sparisjóða sem þá námu 614 milljörðum króna. Til samanburðar voru eignir sparisjóðsins um 5,2 milljarðar króna í árslok 2011, eða 8% af heildareignum sparisjóðanna.

Á árinu 2008 varð varasjóður sparisjóðsins neikvæður og í októberlok var eiginfjárhlutfall sjóðsins 1,08% og því undir 8% lögbundnu lágmarki. Í janúar 2009 sótti sparisjóðurinn um eiginfjárframlag úr ríkissjóði, en ekkert varð úr því. Sparisjóðurinn hóf þá samningaviðræður við Seðlabanka Íslands um uppgjör vegna erlendra lána sparisjóðsins hjá Sparisjóðabanka Íslands hf./Icebank hf. til að fjármagna útlán sín í erlendri mynt og Seðlabankinn fékk framseldar við yfirtöku Fjármálaeftirlitsins á Sparisjóðabankanum.

Forsvarsmenn Sparisjóðs Norðfjarðar og Seðlabanka Íslands undirrituðu samkomulag um fjárhagslega endurskipulagningu sparisjóðsins 27. júlí 2010 og lögðu heimamenn fram nýtt stofnfé í sjóðinn. Eftir þessar aðgerðir fór Bankasýsla ríkisins með 49,5% stofnfjár í sparisjóðnum og Fjarðabyggð með 22,4%.

29.1 Ársreikningar 2001–2011

Hér verður farið yfir þróun rekstrarreiknings og efnahagsreiknings Sparisjóðs Norðfjarðar, helstu liði þeirra og kennitölur á árunum 2001–2011. Umfjöllunin miðast við verðlag hvers árs nema annað sé tekið fram.2

29.1.1 Rekstrarreikningar

Sparisjóður Norðfjarðar var rekinn með hagnaði frá 2001 til 2007. Hagnaður ársins 2007 nam 305 milljónum króna og skipti þar mestu gengishagnaður af fjáreignum upp á 389 milljónir króna. Þar var um að ræða gangvirðisbreytingu á eignarhlut sparisjóðsins í Sparisjóðabanka Íslands hf./Icebank hf., VBS Fjárfestingabanka hf., Sparisjóði Vestfirðinga (sem sameinaðist Sparisjóðnum í Keflavík á því ári) og Íslenskum verðbréfum hf. Sparisjóðurinn tók að færa þessar eignir sínar á gangvirði árið 2007 en hafði fram til þess fært eignarhlut sinn í Sparisjóðabankanum samkvæmt hlutdeildaraðferð og hinar eignirnar sem fjárfestingarhlutabréf á kostnaðarverði.

Tap varð á rekstri sjóðsins á árunum 2008 og 2009 og skýrðist það að mestu af gengistapi af fjáreignum og framlagi í afskriftareikning útlána. Tap ársins 2008 nam 816 milljónum króna og árið eftir tapaði sjóðurinn 183 milljónum króna. Á árinu 2008 varð jafnframt samdráttur í hreinum vaxtatekjum og hækkun á rekstrarkostnaði. Árið 2010 kom út með hagnaði en skýringin lá fyrst og fremst í tekjufærslu vegna niðurfellingar skulda. Ef horft er framhjá þeirri tekjufærslu hefði tap sjóðsins fyrir skatta það ár numið um 180 milljónum króna. Þá var gjaldfært 205 milljóna króna framlag í afskriftareikning útlána, meðal annars til að mæta þeirri óvissu sem svokallaðir gengislánadómar á árinu leiddu til.

Hreinar rekstrartekjur

Hreinar rekstrartekjur sparisjóðsins hækkuðu nokkuð og að mestu samfellt á árunum 2001–2006, en árið 2007 jukust þær til muna og fóru úr 300 milljónum króna árið 2006 í rúmar 606 milljónir króna. Arðs- og hlutdeildartekjur höfðu vaxandi áhrif á hreinar rekstrartekjur árin 2005 og 2006; næstu ár á eftir réð afkoma af fjáreignum mestu, en árið 2007 var sem fyrr sagði tekið að færa tilteknar eignir á gangvirði. Mikill viðsnúningur varð á árinu 2008 vegna gengistaps af fjáreignum. Gangvirðislækkun á eignarhlutum sjóðsins í Sparisjóðabankanum, VBS Fjárfestingarbanka hf. og Sparisjóðnum í Keflavík nam samtals 437 milljónum króna á árinu. Einnig varð rúmlega 300 milljóna króna gengistap á skuldabréfaeign og eign í verðbréfasjóðum.

Árið 2006 námu arðs- og hlutdeildartekjur sparisjóðsins 78 milljónum króna. Munaði þar mest um hlutdeild í afkomu Sparisjóðabanka Íslands/Icebank hf. sem þá var enn farið með sem hlutdeildarfélag í bókum sparisjóðsins. Þessi tekjuliður datt nær alveg út árið eftir þegar farið var að meta Sparisjóðabankahlutinn á gangvirði.

Stærstur hluti vaxtatekna Sparisjóðs Norðfjarðar kom frá útlánum, eða á bilinu 66–94%, og stærstur hluti vaxtagjalda var vegna almennra innlána til viðskiptavina. Á árinu 2005 voru vaxtatekjur vegna útlána 94% af heildarvaxtatekjum en höfðu lækkað í 75% árið 2008 vegna aukinna vaxtatekna af markaðsskuldabréfum. Vaxtagjöld vegna lántöku rúmlega tvöfölduðust á árinu 2008 líkt og vaxtagjöld vegna innlána. Meginástæður voru gengisfall krónunnar og aukin verðbólga.

Útreikningur á vaxtamun er skýrður í 8. kafla, um reikningsskil sparisjóðanna. Vaxtamunur Sparisjóðs Norðfjarðar var að öllu jöfnu býsna hár. Árið 2009 varð mestur munur á milli hans og annarra sjóða í þeim efnum, þegar vaxtamunur hjá Sparisjóði Norðfjarðar var 4,9% meðan hann var ekki nema 0,5% hjá sparisjóðunum í heild.

Rekstrargjöld

Rekstrargjöld Sparisjóðs Norðfjarðar fóru vaxandi á árunum 2001–2010, ef frá eru talin árin 2005 og 2009 þegar þau lækkuðu lítillega. Rekstrargjöldin lækkuðu um 40% á árinu

2011 þegar framlag í afskriftareikning útlána var lækkað verulega. Sparisjóðurinn færði samtals 732 milljónir króna í afskriftareikninginn á tímabilinu 2001–2011. Þar af nam framlag áranna 2008–2010 rúmum 508 milljónum króna.

Almennur rekstrarkostnaður sparisjóðsins hækkaði nokkurn veginn samfellt árin 2001–2007 en skörp hækkun varð árið 2008, eða 23%. Meginskýring þessarar hækkunar var að framlag vegna lífeyrisskuldbindingar hækkaði um 23,3 milljónir króna. Þá hækkaði tölvukostnaður um 4,8 milljónir króna. Rekstrarkostnaður sem hlutfall af meðaleignum sparisjóðsins fór að jafnaði lækkandi fram til 2009 og var það í samræmi við þróunina hjá sparisjóðunum í heild, þó hlutfallið væri hærra hjá Sparisjóði Norðfjarðar. Frá árinu 2009 var hlutfallið svipað hjá Sparisjóði Norðfjarðar og sparisjóðunum í heild.

Launakostnaður Sparisjóðs Norðfjarðar var á bilinu 40–55% af almennum rekstrarkostnaði allt tímabilið. Launakostnaður hækkaði talsvert árið 2008 en ástæðan fyrir því var tvöföldun á lífeyrisskuldbindingu. Kostnaður á hvert stöðugildi hækkaði þá að meðaltali um tæp 29%. Þrátt fyrir nánast óbreyttan fjölda starfsmanna árið 2009 lækkaði meðallaunakostnaður um 42% en það má að miklu leyti rekja til þess að lífeyrisskuldbinding sem nam 45,6 milljónum króna í árslok 2008 færðist yfir til Fjarðabyggðar.

Launakostnaður á stöðugildi þróaðist með sambærilegum hætti hjá Sparisjóði Norðfjarðar og sparisjóðunum í heild með nokkrum undantekningum. Árin 2005–2007 lækkaði hann og hágildið árið 2008 var lægra en hjá sparisjóðunum í heild. Árið 2009 lækkaði launakostnaður ívið meira hjá Sparisjóði Norðfjarðar þegar starfsmenn tóku á sig launaskerðingu að eigin ósk. Laun sparisjóðsstjóra lækkuðu á sama tíma um 22%.3

Árið 2007 fengu allir starfsmenn 200 þúsund króna desemberuppbót. Um var að ræða eingreiðslu miðað við 100% starfshlutfall. Uppbótin var samþykkt á fundi sparisjóðsstjórnar 27. nóvember 2007. Allir starfsmenn sjóðsins höfðu frumkvæði að því á árinu 2009 að gera samning um 15% lækkun launa vegna aðstæðna og gilti sá samningur allt árið 2009. Ekki voru gerðir neinir starfslokasamningar sem fólu í sér réttindi umfram kjarasamningsbundin réttindi. Starfsmenn nutu ekki annarra fríðinda en þeirra almennu fríðinda sem greint er frá í umfjöllun um risnu og fríðindi í 8. kafla.

Kjarnarekstur

Tap varð á kjarnarekstri sjóðsins á árunum 2003–2011 og skýrðist það jafnan af háum rekstrargjöldum og framlagi í afskriftareikning útlána.4 Hagnaður sjóðsins var því borinn uppi af tekjum af fjáreignum en aukið framlag í afskriftareikning útlána skýrði taprekstur áranna 2008–2011. Hreinar vaxta- og þjónustutekjur stóðu að jafnaði undir rekstrargjöldum, ef frá eru talin árin 2007–2008 og 2010–2011, en rekstrargjöld hækkuðu um tæp 24% árið 2008 samhliða tæplega helmings lækkun á hreinum vaxtatekjum. Árin 2009 til 2011 jukust hreinar vaxtatekjur á ný en vegna hárra rekstrargjalda og framlags í afskriftareikning útlána var afkoma af kjarnarekstri verulega neikvæð. Ljóst þykir að sparisjóðurinn hafi kappkostað að hagræða í rekstri eins og sjá má af lækkun rekstrargjalda á árinu 2009 en frá og með þeim tíma hækkuðu ýmis gjöld sparisjóða og annarra fjármálafyrirtækja umtalsvert, t.d. framlög í Tryggingasjóð innistæðueigenda.

Efnahagsreikningar

Hér er fjallað um stærstu eigna- og skuldaliði í efnahagsreikningi Sparisjóðs Norðfjarðar í lok áranna 2001–2011 og þróunina á tímabilinu. Í viðauka C má sjá efnahagsreikning sparisjóðsins á árunum 2001– 2011 á verðlagi hvers árs og á föstu verðlagi.

Eignir

Í árslok 2001 námu eignir Sparisjóðs Norðfjarðar 1,7 milljörðum króna en í árslok 2011 voru þær 5,2 miljarðar króna. Ef miðað er við verðlag í árslok 2011 voru heildareignir sjóðsins í árslok 2001 2,9 milljarðar króna. Þannig hafði sjóðurinn nærri tvöfaldast að stærð á þessum ellefu árum. Mynd 5 sýnir hvernig eignir sparisjóðsins í lok áranna 2001–2011 skiptust. Þar sést greinilega að eignavöxtur sjóðsins var stöðugur frá 2001 til 2007 og jafnframt að eignir hans hafa staðið í stað eða lækkað frá 2008 til 2011.

Útlán voru stærsti einstaki eignaliður sparisjóðsins allt tímabilið og var vægi þeirra af heildareignum á bilinu 51–79%. Mest voru útlánin árið 2008, eða 3,5 milljarðar króna, og námu þau þá 60% af heildareignum eftir að hafa aukist jafnt og þétt frá 2001. Á árunum 2003–2006 voru útlán þó stærri hluti af heildareignum, eða á bilinu 71–79%. Vægi þeirra lækkaði svo árið 2007 þegar markaðsskuldabréf nærri tífölduðust.

Stærstur hluti útlána sparisjóðsins var í formi skuldabréfa og voru útlánin að mestu til einstaklinga. Útlán til einstaklinga voru um 51–61% af heildarútlánum sparisjóðsins en önnur lán voru að mestu til fyrirtækja í iðnaði, sjávarútvegi og þjónustustarfsemi.

Eins og fram kemur í töflu 6 hækkaði staða afskriftareiknings umtalsvert á árunum 2008–2011. Fram til 2005 hafði hlutfall afskriftareiknings af útlánum sparisjóðsins farið lækkandi, en frá árinu 2006 snerist þróunin við. Með umtalsverðu framlagi á árunum 2008–2010 jókst vægi afskriftareikningsins í heildarútlánum úr 4,4% árið 2007 í 15,2% í árslok 2010, enda hækkaði hann um rúmar 300 milljónir króna á næstu þremur árum eftir 2007.

Kröfur á lánastofnanir voru tiltölulega lítill hluti eigna sparisjóðsins allt til ársins 2008 þegar þær nær þrefölduðust og námu í árslok 1,4 milljörðum króna. Kröfurnar jukust svo enn frekar árið 2009, um 57%, og námu 2,1 milljarði króna í lok árs, en í árslok 2011 höfðu þær svo lækkað í 370 milljónir króna. Eftir fall bankanna haustið 2008 ávaxtaði sparisjóðurinn laust fé sitt í innistæðubréfum Seðlabanka Íslands, sem teljast til krafna á lánastofnanir, en hóf kaup á markaðsskuldabréfum að nýju árið 2010 og hélt því áfram 2011.

Fjáreignir voru ekki stór hluti heildareigna sparisjóðsins á árunum 2001–2006. Vægi þeirra lækkaði reyndar úr 18% af heildareignum árið 2001 í 9% árið 2006. Árið 2007 nærri tífölduðust markaðsskuldabréf á bókum sjóðsins og hlutabréf og verðbréf með breytilegum tekjum sexfölduðust. Bókfært virði fjáreigna nam 1,8 milljörðum króna í árslok 2007 en var ári áður 387 milljónir króna. Á árunum 2008–2011 lækkaði hlutfall fjáreigna af heildareignum aftur á móti umtalsvert. Í árslok 2009 hafði bókfært virði þeirra dregist saman um 88% frá árslokum 2007 og nam 216 milljónum króna, eða 4% af heildareignum. Árin 2010 og 2011 jókst svo vægi fjáreigna á nýjan leik með kaupum á markaðsskuldabréfum.

Á árunum 2002–2005 fór vægi hlutabréfa af fjáreignum vaxandi á kostnað markaðsskuldabréfa. Á því varð þó viðsnúningur 2006 og ári síðar voru skuldabréfin 57% fjáreigna, 18% heildareigna og rúmur milljarður í krónum talið. Fjárfesting í peningamarkaðssjóði Rekstrarfélags Byrs hf. upp á 671 milljón króna skýrði að mestu þessa miklu aukningu í markaðsskuldabréfum.5

Liðurinn hlutabréf og verðbréf með breytilegum tekjum breyttist ekki mikið á fyrri hluta tímabilsins. Í árslok 2006 nam hann um 132 milljónum króna og 3% af heildareignum sparisjóðsins. Árið eftir hækkaði hann um tæpar 647 milljónir króna og nam í árslok 14% heildareigna. Hækkunina mátti rekja til gangvirðishækkunar á eignarhlutum í Sparisjóðabanka Íslands hf./Icebank hf., VBS Fjárfestingarbanka hf., Saga Capital hf. og Íslenskum verðbréfum hf. Sparisjóðabankinn hafði áður verið færður sem hlutdeildarfélag en frá og með árinu 2007 var hann settur í flokk veltuhlutabréfa. Á árinu 2008 lækkaði gangvirði hlutabréfa umtalsvert og nam gengistapið tæplega 478 milljónum króna, einkum vegna lækkunar á eignarhlutum í Sparisjóðabanka Íslands hf./Icebank hf., VBS Fjárfestingarbanka hf., Saga Capital hf. og vegna stofnfjárbréfa í Sparisjóðnum í Keflavík. Í árslok 2011 hafði hlutabréfaeignin dregist saman um 98% frá árinu 2007, eða um 760 milljónir króna, og stóð í 17,7 milljónum króna.

Eign í hlutdeildarfélögum nam 148 milljónum króna í árslok 2006 og var Sparisjóðabanki Íslands hf./Icebank hf. langstærsta hlutdeildarfélag sparisjóðsins. Hækkun á þessum lið til ársloka 2006 mátti því fyrst og fremst rekja til Sparisjóðabankans en með færslu hlutarins á milli eignaliða árið 2007 kom afkoman þess í stað fram í miklum gengishagnaði undir liðnum hlutabréf og verðbréf með breytilegum tekjum.

Liðurinn „Aðrar eignir og fleira“ á mynd 5 samanstóð af rekstrarfjármunum, öðrum eignum og óefnislegum eignum. Þessi liður hækkaði nokkuð á árunum 2008 og 2009 þegar tekjuskattsinneign myndaðist vegna taps á rekstri sjóðsins. Í lok árs 2008 nam skattinneignin 83 milljónum króna og hækkaði í 146 milljónir króna árið 2009. Tekjuskattsinneignin var að mestu ónýtt í árslok 2011 og stóð þá í 144 milljónum króna. Rekstrarfjármunir voru að jafnaði um 107–139 milljónir króna á árunum 2001–2011. Um var að ræða fasteignir og búnað í eigu sparisjóðsins sem færð voru til eignar á kostnaðarverði að frádregnum uppsöfnuðum afskriftum og virðisrýrnun.

Skuldir

Sparisjóður Norðfjarðar var að langstærstum hluta fjármagnaður með innlánum. Hlutfall innlána af skuldum í lok áranna 2001–2011 var á bilinu 65–96%. Innlán jukust jafnt og þétt á tímabilinu. Mest jukust þau árið 2007, eða um 32% frá fyrra ári, og námu þá tæpum 3,3 milljörðum króna, sem jafngilti 69% af heildarskuldum sjóðsins. Eftir fall bankanna var sparisjóðurinn nær algjörlega fjármagnaður af innlánum. Í árslok 2011 námu þau 4,4 milljörðum króna sem jafngilti 95% af heildarskuldum sjóðsins.

Lántaka sjóðsins jókst til muna á árinu 2004. Í árslok 2003 námu heildarlántökur 48 milljónum króna, eða 3% af heildarskuldum sjóðsins, en ári síðar höfðu þær nær tífaldast og voru um 18% heildarskulda sparisjóðsins í lok árs 2004. Vægi lántöku í fjármögnun sjóðsins varð mest árið 2005 þegar hún nam 29% af heildarskuldum, en á árunum 2004 og 2005 hófst fjármögnun Íbúðalánasjóðs á fasteignalánum sparisjóðsins. Lántökur námu hæstri fjárhæð í árslok 2008 þegar þær voru 1,4 milljarðar króna og höfðu því nær þrítugfaldast í krónum talið frá árinu 2003. Hlutfall þeirra af heildarskuldum á árinu 2008 var 24% en hlutfallið lækkaði í 3% í lok árs 2009. Lántökur sjóðsins skiptust í eftirtalda þrjá meginflokka: erlenda lánalínu hjá Sparisjóðabankanum, sem samkvæmt samkomulagi skyldi endurgreiðast í samræmi við endurgreiðslur gengistryggðra útlána sparisjóðsins; lántöku hjá Íbúðalánasjóði, sem samkvæmt samkomulagi skyldi endurgreiðast í samræmi við endurgreiðslur tilgreindra íbúðalána sparisjóðsins; og verðbréfaútgáfu sem endurgreidd var að fullu á árinu 2010.

Skuldum við lánastofnanir var aðeins til að dreifa í árslok 2009 en þær námu þá 559 milljónum króna. Um var að ræða skuld við Seðlabanka Íslands vegna yfirtöku hans á útlánum og innlánum sparisjóðanna hjá Sparisjóðabanka Íslands hf./Icebank hf. við gjaldþrot bankans.

Víkjandi lán voru lengst af ekki fyrirferðarmikill þáttur í fjármögnun sparisjóðsins. Á fundi stjórnar sjóðsins 19. september 2007 var samþykkt að taka 150 milljóna króna víkjandi lán hjá Byggðastofnun. Í fundargerð kom fram að lánið væri verðtryggt, bæri 7% vexti og að einungis þyrfti að greiða vexti í fimm ár og síðan vexti og afborganir í fimm ár til viðbótar. Tilgangur lántökunnar virðist hafa verið að hækka eiginfjárhlutfall sjóðsins, en víkjandi lán má telja til eiginfjárþáttar B samkvæmt 84., sbr. 85. gr. laga nr. 161/2002.

Eigið fé

Eigið fé Sparisjóðs Norðfjarðar samanstóð að langmestu leyti af varasjóði sem hækkaði jafnt og þétt frá 2001 til 2006. Stofnfé, sem var um 3% af eigin fé þessara ára, hækkaði fyrst og fremst með endurmati á milli ára. Ráðist var í mikla stofnfjáraukningu árið 2007 og var stofnfé þá aukið um 201 milljón króna. Samhliða mikilli hækkun á varasjóði vegna 305 milljóna króna árshagnaðar tvöfaldaðist eigið fé og nam rúmlega einum milljarði króna í árslok 2007, sem jafngilti 18% af heildarfjármögnun sjóðsins. Árið eftir greiddi sparisjóðurinn stofnfjáreigendum tæplega 111 milljóna króna arð á grundvelli afkomunnar 2007. Eftir stofnfjáraukninguna 2007 var varasjóður 79% eigin fjár. Mikill viðsnúningur varð árið 2008 vegna taps á rekstri sparisjóðsins. Eigið fé dróst þá saman um 87% og varasjóðurinn varð neikvæður um 178 milljónir króna.

Um 816 milljóna króna tap varð á rekstri sparisjóðsins árið 2008 og var það gott betur en uppsafnaður hagnaður sparisjóðsins frá 2001. Í lok október 2008 sýndi ársfjórðungsleg eiginfjárskýrsla til Fjármálaeftirlitsins að eiginfjárhlutfallið væri 1,08% og því langt undir lögbundnu lágmarki sem var 8%. Samkvæmt skýrslunni, sem byggð var á bráðabirgðauppgjöri, var bókfært eigið fé þá 214 milljónir króna en í árslok 2008 var það 135 milljónir króna og eiginfjárhlutfallið orðið neikvætt um 0,9%. Árið 2009 varð einnig tap af rekstri sjóðsins en vegna 170 milljóna króna stofnfjáraukningar urðu áhrifin ekki eins mikil á eigið fé. Eiginfjárhlutfallið í árslok nam 4,7%. Hinn 27. júlí 2010 var undirritað samkomulag við Seðlabanka Íslands um fjárhagslega endurskipulagningu sjóðsins. Í kjölfarið var stofnfé sparisjóðsins fært niður að mestu leyti og nýtt stofnfé lagt fram. Þá voru gefnar eftir skuldir við Seðlabanka Íslands upp á 269 milljónir króna og eftirgjöfin tekjufærð í rekstrarreikningi ársins 2010.

Hagnaður var af rekstri Sparisjóðs Norðfjarðar á árinu 2010 sem nam tæpum 87 milljónum króna. Meginskýringin var fyrrnefnd tekjufærsla. Eigið fé í árslok var þá 591 milljón króna, hlutfall bókfærðs eigin fjár af heildareignum 11,3% og eiginfjárhlutfallið (CAD) 20,3%. Árið 2011 varð 12 milljóna króna tap á rekstri sjóðsins og varasjóðurinn enn neikvæður um 47 milljónir króna.

29.2 Útlán, útlánareglur og lánveitingar

Útlán voru stærsti eignaliður Sparisjóðs Norðfjarðar á árunum 2005–2011. Hæst varð hlutfall útlána 79% af heildareignum í lok árs 2005 en lægst 48% í lok árs 2010. Útlán Sparisjóðs Norðfjarðar jukust á árunum 2005–2008 en mest hækkuðu útlán um rúmar 318 milljónir króna milli áranna 2005 og 2006. Útlán Sparisjóðs Norðfjarðar lækkuðu talsvert á árinu 2009 sökum framlags í afskriftareikning vegna áætlaðs taps af útlánum.

Lán í erlendum myntum voru ekki stór þáttur í útlánasafni Sparisjóðs Norðfjarðar. Þau voru mest tæp 15% útlána sjóðsins á 1. ársfjórðungi 2010 og námu þá um 415 milljónum króna. Í lok árs 2008 námu lánin tæpum 460 milljónum króna og voru þá um 13,5% af heildarútlánum.

Sparisjóður Norðfjarðar lánaði nánast eingöngu gegn skuldabréfum og í formi yfirdráttar á árunum 2005–2011.

Stærstur hluti lána sparisjóðsins var til einstaklinga en hlutfall lána til þeirra nam mest rúmu 61% árið 2005 og minnst 53% árið 2009. Fyrirtæki í þjónustustarfsemi og iðnaði voru næststærstu lántakendur sparisjóðsins og svo sjávarútvegsfyrirtæki. Engin lán voru veitt til landbúnaðar.

Niðurfærsluhlutfall sparisjóðsins nam um 4% á árunum 2005–2007. Eftir fall bankanna, gengishrun krónunnar og fjárhagserfiðleika lántakenda í kjölfarið jókst framlag á afskriftareikning árin 2008–2010 og í lok árs 2010 nam niðurfærsluhlutfallið rúmum 15%.

29.2.1 Athugasemdir eftirlitsaðila

Í nóvember 2006 gerði Fjármálaeftirlitið athugun á starfsemi og rekstri Sparisjóðs Norðfjarðar og gaf út skýrslu með niðurstöðum sínum í febrúar 2007. Þar kom fram að enginn lánþegi væri með skuldbindingar umfram 25% af eigin fé sparisjóðsins á skoðunardegi. Stjórnendur sjóðsins voru hvattir til að tryggja stöðu sína betur í skuldamálum tveggja af stærstu skuldurum sjóðsins með töku viðbótartrygginga. Eftir skoðunina var það mat Fjármálaeftirlitsins að rekstur Sparisjóðs Norðfjarðar væri í traustum farvegi. Mikill uppgangur hefði verið á starfsvæði sparisjóðsins misserin á undan og sjóðurinn notið góðs af því.

Í skýrslu um innri endurskoðun Sparisjóðs Norðfjarðar vegna ársins 2005 kom fram að mikilvægt væri að afla fjárhagsupplýsinga frá viðskiptamönnum vegna fyrirgreiðslu til þeirra eins og ákvæði útlánareglna kváðu á um. Þessar upplýsingar höfðu ekki verið til staðar við skoðun innri endurskoðanda á einstökum málum. Þá var bent á mikilvægi þess að forsvarsmenn sjóðsins öfluðu formlegra trygginga vegna skuldbindinga viðskiptamanna sinna og að lagt væri mat á gæði og verðmæti trygginga með reglubundnum hætti. Í skýrslum um innri endurskoðun sjóðsins vegna 2006 og 2007 var ítrekað að kalla þyrfti eftir fjárhagsupplýsingum frá viðskiptamönnum. Við athugun innri endurskoðanda árið 2007 var einn aðili með skuldbindingu umfram 25% af eigin fé sjóðsins. Mikilvægt var talið að kanna raunvirði trygginga nokkurra stærstu viðskiptaaðila sparisjóðsins og afla viðbótartrygginga væri þess talin þörf. Þetta var ítrekað við innri endurskoðun ársins 2008. Þá var bent á mikilvægi þess að stjórnendur hefðu aðgang að nýjustu upplýsingum um fjárhagsstöðu stærstu viðskipta- og vanskilaðila. Í skýrslu um innri endurskoðun ársins 2009 var lagt til að útlánareglur yrðu „skoðaðar“ þannig að þær tækju mið af breyttu efnahagsástandi. Var þar fyrst og fremst átt við að skýrari reglur þyrftu að gilda um heimildir vegna framlengingar lána en óljóst þótti hvað ætti að leggja fyrir stjórn vegna slíkra mála. Einn starfsmaður var með töluverð lán hjá sparisjóðnum og höfðu 3 milljónir króna verið færðar í afskriftareikning vegna þeirra. Talið var mikilvægt að sjóðurinn fengi tryggingar fyrir þessum útlánum. Þá var lagt til að reglur yrðu settar um innheimtu og gerð grein fyrir frávikum frá þeim reglum. Í skýrslu um innri endurskoðun vegna ársins 2010 kom fram að vel væri haldið utan um útlán og farið eftir lánareglum. Lánveitingar væru lagðar fyrir stjórn þegar við ætti. Við innri endurskoðun ársins 2011 kom fram að einn aðili væri með skuldbindingar umfram 20% af eigin fé sjóðsins, sem voru viðmiðunarmörk sem sjóðurinn hafði sett sér með reglum um áhættustýringu frá maí 2011. Skuldbindingar væru þó innan lögbundinna marka. Bent var á að sjóðurinn ætti að uppfæra útlánareglur sjóðsins með tilliti til vanskila og umsýslu fullnustueigna.

Samkvæmt endurskoðunarskýrslu ársins 2005 hækkuðu útlán sparisjóðsins um 703 milljónir króna á árinu, eða 25,7%. Breytinguna mátti aðallega rekja til íbúðalána en eftirspurn eftir þeim jókst töluvert með breytingum á húsnæðislánamarkaði 2003. Sparisjóðurinn hafði selt Íbúðalánasjóði greiðsluflæði lána fyrir 474 milljónir króna á árinu 2005. Ekki komu fram beinar athugasemdir við útlán sparisjóðsins í endurskoðunarskýrslu ársins 2006. Ári síðar höfðu útlán sjóðsins hækkað um 166 milljónir króna og vildi endurskoðandi í skýrslu sinni meina að hækkunin skýrðist að hluta af útlánum vegna Stapa lífeyrissjóðs. Þá hefðu íbúðalán og lán í erlendum myntum aukist. Í endurskoðunarskýrslu ársins 2008 var grunnrekstur sjóðsins, útlánastarfsemi og þjónusta tengd henni, ekki talinn standa undir rekstrarkostnaði. Afskriftareikningur útlána nam 207 milljónum króna í árslok, eða um 6% af útlánum og ábyrgðum. Þá var bent á að starfsmenn sem ekki hefðu útlánaheimildir gætu veitt fyrirgreiðslu í gegnum afgreiðslukerfi sparisjóðsins (AKS) og mikilvægt væri að skýrar reglur yrðu settar um hverjir hefðu útlánaheimildir hverju sinni. Í skýrslunni var ekki fjallað um mat á einstökum útlánum en tekið fram að ljóst væri að meiri óvissa væri um mat á útlánum en oftast áður. Var lagt til að samdar yrðu útlánareglur fyrir starfsmenn til að fylgja við veitingu útlána. Samkvæmt endurskoðunarskýrslu ársins 2009 drógust útlán sjóðsins saman um 632 milljónir króna milli ára, eða 18,8%. Ástæður þess voru fyrst og fremst þær að Íbúðalánasjóður tók til sín þau íbúðalán sem hann fjármagnaði fyrir sjóðinn á árunum 2004 og 2005, auk þess sem framlag í afskriftareikning nam 189 milljónum króna. Samkvæmt endurskoðunarskýrslu ársins 2010 nam gjaldfært framlag í afskriftareikning 205 milljónum króna. Veruleg óvissa ríkti þá um lögmæti lána í erlendri mynt og talið líklegt að hluti af lánum sjóðsins yrði dæmdur ólögmætur ef á þau reyndi fyrir dómi. Í endurskoðunarskýrslu ársins 2011 var áætlað tap sjóðsins, ef erlend lán hans yrðu dæmd ólögmæt, áætlað 154 milljónir króna. Á árinu höfðu útlán að fjárhæð 263,4 milljónir króna verið endanlega afskrifuð.

29.2.2 Útlánareglur

Stjórn Sparisjóðs Norðfjarðar samþykkti útlánareglur fyrir sparisjóðinn 29. desember 2003 sem voru settar með vísan til laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og í samræmi við reglur nr. 531/2003 um stórar áhættuskuldbindingar hjá fjármálafyrirtækjum. Þær höfðu ekki að geyma ítarleg ákvæði um lánveitingar og heimildir en samkvæmt þeim skyldu útlán þjóna þeim meginmarkmiðum að eðlilegur tekjuafgangur yrði af rekstri sjóðsins og að viðhaldið yrði traustri eiginfjárstöðu og lausafjárstöðu. Jafnframt skyldi leitast við að veita þeim er óskuðu eftir fyrirgreiðslu sem besta þjónustu á hverjum tíma. Við ákvörðun um fyrirgreiðslu til viðskiptamanna bar að gæta þess að heildarfyrirgreiðsla viðkomandi væri í hæfilegu hlutfalli af eigin fé sparisjóðsins6 með hliðsjón af tryggingum og fjárhag viðskiptaaðilans. Sama gilti um heildarfyrirgreiðslu til fleiri en eins aðila sem væru svo fjárhagslega tengdir að með tilliti til útlánaáhættu yrði að skoða skuldbindingar þeirra við sparisjóðinn í einu lagi. Heildarskuldbinding eins aðila eða fjárhagslega tengdra aðila mátti aldrei fara fram úr 25% af eigin fé sparisjóðsins samkvæmt útlánareglunum, eins og kveðið var á um í lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.

Ekki voru ákvæði í útlánareglunum um lágmarkstryggingaþekju mismunandi veðandlaga en samkvæmt reglunum bar að jafnaði að taka fullnægjandi tryggingar. Heimilt var að veita undanþágu frá tryggingartöku ef fyrirgreiðslan var smávægileg miðað við eigin fé sjóðsins eða fyrirliggjandi upplýsingar sýndu að ekki væri þörf fyrir tryggingar, enda væri einnig fylgst með afkomu og fjárhag viðskiptaaðilans á meðan skuldbindingin væri til staðar. Óljóst var þó í hvaða tilvikum væri heimilt að veita undanþágu frá tryggingartöku en reglurnar skilgreindu ekki hvaða fyrirgreiðslur teldust smávægilegar eða hvaða upplýsingar myndu sýna fram á að ekki væri þörf á tryggingum.

Sparisjóðsstjóri tók ákvörðun um lánveitingar ef heildarskuldbinding viðkomandi viðskiptamanns og fjárhagslega tengdra aðila var innan við 5% af eigin fé sparisjóðsins. Til að heildarskuldbinding eins viðskiptamanns gæti farið fram úr þeim mörkum þurfti samþykki sparisjóðsstjórnar. Sparisjóðsstjóra og stjórnarformanni var þó heimilt að taka ákvarðanir um lánveitingar umfram 5% af eigin fé sparisjóðsins á milli stjórnarfunda, að því tilskildu að sú ákvörðun væri lögð fyrir stjórn á næsta stjórnarfundi á eftir.

Samkvæmt lánareglunum bar sparisjóðsstjórn, að fengnum tillögum sparisjóðsstjóra, að tilnefna staðgengil sparisjóðsstjóra til að annast lánveitingar og ábyrgðir. Sparisjóðsstjóri hafði jafnframt heimild til að taka ákvörðun um skipulag lánveitinga og heimilda þeirra starfsmanna sem kæmu að útlánum.

Reglur sparisjóðsins höfðu ekki verið uppfærðar í lok árs 2011 í samræmi við reglur 216/2007 um stórar áhættuskuldbindingar.

29.2.3 Stærstu lántakendur

Útlán voru stærsta eign Sparisjóðs Norðfjarðar á árunum 2005–2011 og afskriftir af þeim höfðu töluverð áhrif á rekstur sparisjóðsins. Rannsóknarnefndin valdi úrtak af lántakendum til sérstakrar skoðunar og greiningar. Áhersla var lögð á að varpa ljósi á útlánastefnu sparisjóðsins, starfshætti útlánastarfsemi og ástæður fyrir afskriftum útlána. Úrtakið var valið með hliðsjón af stærð áhættuskuldbindinga sparisjóðsins, auk þess sem skoðuð voru útlán með há afskriftarframlög.7 Skýrslum um stórar áhættuskuldbindingar sem skila bar til Fjármálaeftirlitsins ársfjórðungslega samkvæmt reglum nr. 216/2007 var ætlað að varpa ljósi á áhættu fjármálafyrirtækis af útlánum og öðrum slíkum skuldbindingum og aðstoða við áhættustýringu.8 Úrtak rannsóknarnefndar samanstóð af lántakendum sem tilgreindir voru sem stærstu áhættuskuldbindingar í ársfjórðungsskýrslum sparisjóðsins til Fjármálaeftirlitsins á árunum 2007–2011. Auk skoðunar á stórum áhættuskuldbindingum gerði rannsóknarnefndin greiningu á lántakendum þar sem fært hafði verið sérgreint á afskriftareikning á árunum 2007–2011.

Í úrtakinu voru 11 lánahópar9 og var hlutfall þeirra af heildarútlánum Sparisjóðs Norðfjarðar frá 14% til 20,6%. Ástæðu þess að skuldbindingar við félögin í úrtaki rannsóknarnefndarinnar námu ekki hærra hlutfalli af heildarútlánum er að leita í dreifingu útlánasafnsins, en í því var fjöldi einstaklinga með íbúðalán sem ekki var talin ástæða til að fjalla um hér. Útlán til einstaklinga voru 59% af heildarútlánum í árslok 2008 og voru þeir allir með lán undir 25 milljónum króna.10 Úrtak rannsóknarnefndarinnar náði til 25–44% af sérgreindum afskriftum í sparisjóðnum.

Lántakendur í úrtakinu voru einkum félög sem fengu lán til að fjárfesta í rekstri, en meðal þeirra voru útgerðarfélög, vélaverkstæði, verktakafyrirtæki, fasteignafélög, bifreiðaverkstæði og fataverslun. Rekstur lántakenda var á starfssvæði Sparisjóðs Norðfjarðar. Í flestum tilvikum voru félögin með fyrirgreiðslur í formi yfirdráttarlána og skuldabréfa sem voru veitt til fjárfestinga í húsnæði, tækjum og til almenns rekstrar. Þá fengu tvö félög verkábyrgð frá sparisjóðnum vegna ákveðinna verkefna, þar á meðal vegna gatnagerðar á Reyðarfirði.

Hjá Sparisjóði Norðfjarðar voru þrettán aðilar með skuldbindingar umfram 10% af eiginfjárgrunni í árslok 2008 en tveir aðilar voru þá með skuldbindingar umfram 25% af eiginfjárgrunni og einn aðili í árslok 2009. Í árslok 2010 og 2011 var enginn umfram þau mörk.

Hér á eftir fer umfjöllun um þrjá lánahópa hjá Sparisjóði Norðfjarðar sem rannsóknarnefndin taldi ástæðu til að gera frekari grein fyrir, hvort unnið hefði verið í samræmi við lög og lánareglur sparisjóðsins og hvernig afskriftaþörf þeirra var metin. Að öðru leyti gaf rannsókn á lánahópum í úrtakinu ekki tilefni til sérstakrar umfjöllunar.

MCC ehf.

MCC ehf. var verktakafyrirtæki í Neskaupstað sem sérhæfði sig í jarðvinnu.11 Fyrirtækið hafði verið lengi í viðskiptum við Sparisjóð Norðfjarðar og var einn stærsti skuldari hans frá árinu 2007. Félagið var með fyrirgreiðslur í formi yfirdráttarláns og skuldabréfalána sem tryggð voru með 1. veðrétti í fasteign þess að Strandgötu í Neskaupstað auk veða í ýmsu lausafé, þar á meðal vörubifreiðum.

Á árunum 2006 og 2007 samþykkti stjórn sparisjóðsins nokkrum sinnum að veita félaginu fyrirgreiðslu umfram framlagðar tryggingar. Á fundi stjórnar 4. maí 2006 var samþykkt að hækka yfirdráttarheimild MCC ehf. um 3 milljónir króna og veita félaginu ábyrgð vegna kaupa á sandi. Fram kom á fundinum að heildarskuldbindingin næmi tæpum 44 milljónum króna með ábyrgðinni. Á sama tíma voru tryggingar aðeins metnar á rúmar 36 milljónir króna. Á fundi stjórnar 28. september 2006 var aftur samþykkt að hækka yfirdrátt félagsins um 1,5 milljónir króna þannig að heildarskuldbinding stæði í tæpum 39 milljónum króna. Á sama tíma voru tryggingar metnar á tæpar 38 milljónir króna. Nokkrum dögum síðar, 7. nóvember 2006, samþykkti stjórnin að veita félaginu verkábyrgð vegna gatnagerðar á Reyðarfirði. Stóð þá heildarskuldbinding MCC ehf. í tæpum 48 milljónum króna að ábyrgðinni meðtalinni en tryggingar voru óbreyttar. Tæpu ári síðar, á fundi stjórnar 30. ágúst 2007, var samþykkt að hækka yfirdrátt MCC ehf. um rúmar 4 milljónir króna án þess að frekari tryggingar væru lagðar fram. Heildarskuldbinding félagsins nam þá rúmri 41 milljón króna.

Stjórn Sparisjóðs Norðfjarðar var meðvituð um að skuldbindingar MCC ehf. væru hærri en þær tryggingar sem lagðar höfðu verið fram. Í skýrslu um innri endurskoðun sparisjóðsins vegna ársins 2007 var fjallað um stöðu MCC ehf. sem eins stærsta skuldara sparisjóðsins. Þar var haft eftir sparisjóðsstjóra að tryggingar stæðu ekki fyllilega undir fyrirgreiðslu sparisjóðsins til félagsins.12

Á fundi stjórnar 27. desember 2007 var samþykkt að veita MCC ehf. lán til að greiða upp yfirdrátt félagsins. Þá nam heildarskuldbinding félagsins 50 milljónum króna en tryggingar námu 44 milljónum króna. Fram kom á fundi stjórnar að fyrir skuldinni yrði sett tryggingarbréf með veði í eignum félagsins, þar á meðal fasteign að Strandgötu í Neskaupstað sem MCC ehf. hafði þá nýlega keypt sem fullnustueign af sparisjóðnum. Mánuði síðar, í lok janúar 2008, fékk sparisjóðurinn tryggingarbréf að fjárhæð 8 milljónir króna með 1. veðrétti í fasteigninni. Heildarverðmæti trygginga félagsins hækkaði því í 52 milljónir króna og nam heildarskuldbinding á sama tíma um 50 milljónum króna. Í lok árs 2008 nam heildarskuldbinding MCC ehf. rúmum 55 milljónum króna og var um 16,9% af eiginfjárgrunni. Ekki var fært sérgreint framlag í afskriftareikning vegna skuldbindinga félagsins.

Ári síðar var skuldbindingin 54 milljónir króna eða 15,9% af eiginfjárgrunni sparisjóðsins. Þá voru 11 milljónir króna færðar í sérgreint framlag á afskriftareikning vegna skuldbindinga félagsins. Fram kom í skýrslu um innri endurskoðun sparisjóðsins vegna ársins 2009 að MCC ehf. hefði óskað eftir gjaldþrotaskiptum og að sparisjóðurinn væri búinn að leysa til sín hluta af eignum félagsins.

Í byrjun árs 2010 lýsti Sparisjóður Norðfjarðar kröfum í þrotabú MCC ehf. Veðandlögum var afsalað til sparisjóðsins ásamt því að hann fékk framselda kröfu þrotabúsins á hendur einum einstaklingi. Þessum fullnustueignum var ráðstafað upp í hluta af skuldum MCC ehf. við sparisjóðinn. Að uppgjöri loknu stóð fyrirgreiðsla MCC ehf. í rúmum 11 milljónum króna og voru tæpar 10 milljónir króna látnar standa sem sérgreint framlag á afskriftareikningi í árslok 2010 en 11 milljónir króna voru endanlega afskrifaðar á árinu 2011.

Eikarsmiðjan ehf.

Eikarsmiðjan ehf. var byggingarfélag og einn stærsti skuldari Sparisjóðs Norðfjarðar allt frá árinu 2003.13 Fyrirgreiðslur félagsins samanstóðu af yfirdráttarheimild, skuldabréfi og ábyrgðum vegna framkvæmda félagsins við byggingu íbúðarhúsnæðis á Reyðarfirði. Frá 2003 til 2005 voru skuldbindingar Eikarsmiðjunnar ehf. án trygginga.14 Að sögn Vilhjálms G. Pálssonar sparisjóðsstjóra var hafist handa við að afla trygginga vegna skulda Eikarsmiðjunnar ehf. um áramótin 2004–2005 eftir að ábending kom frá ytri endurskoðanda sparisjóðsins um nauðsyn þess að taka formlegar tryggingar meðan á byggingu íbúðarhúsnæðisins stæði. Ekki dygði að bíða þar til eignir seldust og fjármögnun yrði greidd upp með lánum kaupenda.15

Á fundi stjórnar sparisjóðsins 27. janúar 2005 var samþykkt að hækka yfirdráttarheimild félagsins um 2 milljónir króna til að gera mætti viðbyggingu á verkstæðishúsi að Nesbraut á Reyðarfirði fokhelda, en heildarskuldbinding nam þá 71 milljón króna. Fram kom í fundargerð að skuldbindingar Eikarsmiðjunnar ehf. væru enn án trygginga en félagið væri með 12 milljóna króna lánsloforð frá Byggðastofnun. Það lán yrði notað til að greiða niður yfirdrátt hjá sparisjóðnum. Á sama tíma fékk sparisjóðurinn 35 milljóna króna tryggingarbréf á 2. veðrétti í fasteigninni, á eftir Byggðastofnun. Í júlímánuði 2005 var gengið frá viðbótartryggingum í færanlegum vélbúnaði félagsins, íbúðarhúsi eiganda þess og lóðum að Stekkjargrund á Reyðarfirði sem tilbúnar voru til byggingar.

Í skýrslu um innri endurskoðun vegna ársins 2005 var heildarskuldbinding félagsins tæpar 63 milljónir króna en þar af voru 11 milljónir króna í vanskilum. Áætlað verðmæti trygginga var 50 milljónir króna. Í ljósi slæmrar eiginfjárstöðu og tryggingavöntunar voru 10 milljónir króna færðar í sérgreindan afskriftareikning sparisjóðsins í árslok 2005 vegna skuldbindinga félagsins.

Málefni Eikarsmiðjunnar ehf. voru mikið rædd meðal stjórnenda Sparisjóðs Norðfjarðar á árinu 2006, en þá flutti félagið talsvert af viðskiptum sínum yfir til Glitnis banka hf. Sparisjóðsstjóri taldi þá breytingu hafa orðið eftir að sparisjóðurinn krafðist aukinna trygginga og heimilaði ekki frekari fyrirgreiðslur.16 Samkvæmt skýrslu um innri endurskoðun fyrir árið 2006 nam heildarskuldbinding Eikarsmiðjunnar ehf. við sparisjóðinn tæpum 67 milljónum króna á skoðunardegi og var virði trygginga félagsins metið á um 70 milljónir króna. Sérgreint framlag á afskriftareikningi í árslok 2006 nam tæpum 11 milljónum.

Í febrúar 2007 var Eikarsmiðjan ehf. úrskurðuð gjaldþrota. Fram kom á fundi stjórnar Sparisjóðs Norðfjarðar 10. maí 2007 að þrotabúið hefði afsalað sér tveimur eignum til sparisjóðsins, annars vegar parhúsi að Stekkjargrund og hins vegar verkstæði að Nesbraut, og fengist rúm 21 milljón króna upp í skuldir félagsins vegna þeirra. Eftir stóð tæpra 35 milljóna króna skuld, en þar af voru 11 milljónir króna á sérgreindum afskriftareikningi. Á árunum 2007 og 2008 leysti Sparisjóður Norðfjarðar til sín nokkrar eignir til viðbótar úr þrotabúi félagsins og samkvæmt sparisjóðsstjóra gekk vel að endurselja flestar fasteignirnar og lausafé. Þrjár lóðir að Stekkjargrund voru þó enn meðal fullnustueigna hjá Sparisjóði Norðfjarðar í árslok 2012.17

Í lok árs 2008 nam heildarskuldbinding Eikarsmiðjunnar ehf. við sparisjóðinn rúmum 37 milljónum króna og stóðu tæpar 24 milljónir króna sem sérgreint framlag á afskriftareikningi vegna skuldbindinga félagsins. Á árinu 2009 voru tæpar 24 milljónir króna endanlega afskrifaðar af skuldbindingum þess.

Lánahópur um bifreiðaverkstæði

Lán til bifreiðaverkstæðis vakti athygli rannsóknarnefndarinnar en félagið var í 16% eigu sparisjóðsins sjálfs fram til ársins 2009 og sparisjóðsstjóri, Vilhjálmur G. Pálsson, gegndi stöðu stjórnarmanns í félaginu fyrir hönd sjóðsins.18

Bifreiðaverkstæðið fékk 16,5 milljóna króna verðtryggt lán hjá Sparisjóði Norðfjarðar 5. júlí 2004. Lánið var til 15 ára með mánaðarlegum gjalddögum og til tryggingar voru tvö tryggingarbréf, samtals að fjárhæð 13 milljónir króna með 1. veðrétti í vörubirgðum félagsins og 2. veðrétti í tækjum til véla- og bifreiðaviðgerða, en á 1. veðrétti hvíldu rúmar 10 milljónir króna frá meirihlutaeiganda verkstæðisins (59%). Þá fékk bifreiðaverkstæðið 3 milljóna króna yfirdráttarheimild á árinu 2004. Að sögn Vilhjálms G. Pálssonar sparisjóðsstjóra gekk rekstur félagsins ekki sem skyldi á þessum tíma og því var neitað um frekari fyrirgreiðslur hjá sparisjóðnum.19 Á árinu 2004 voru færðar 2 milljónir króna á sérgreindan afskriftareikning vegna félagsins og hélst það framlag óbreytt til ársloka 2007. Fram kom á fundi stjórnar sparisjóðsins 28. september 2006 að félagið óskaði eftir 50 milljóna króna láni með hlutfallslegri ábyrgð eigenda, en stjórn sparisjóðsins hafnaði erindinu. Stærsti eigandi bifreiðaverkstæðisins hafði lánað félaginu talsverða fjármuni og var óskað eftir láni frá sparisjóðnum til að greiða það upp. Í september 2006 gerði sparisjóðsstjóri eftirfarandi athugasemdir í tölvupósti til fulltrúa annarra hluthafa félagsins vegna lánabeiðninnar og áhyggna hluthafa af fjárhagsvandræðum félagsins en þar sagði meðal annars:

Útlán [bifreiðaverkstæðisins] eru í dag um 18,8 millj. kr. hér hjá okkur. Til tryggingar eru tvö tryggingarbréf, annað uppreiknað nú kr. 8,3 milljónir með veði í vörubirgðum […] og hitt uppreiknað nú kr. 7,1 milljón með veð í færanlegum vélbúnaði verktaka (veð í tækjum), bókfært verð tækja er um 2,3 millj. um áramót. Tryggingar met ég því kr. 10,6 milljónir.
Afstaða stjórnar [Sparisjóðs Norðfjarðar] er sú að [bifreiðaverkstæðið] lagi þessa vöntun trygginga t.d. með veði í birgðum eða veði í útgefnum reikningum sem eru til innheimtu hjá [sparisjóðnum]. Einnig kom fram skýr afstaða hér í haust um það að [sparisjóðurinn] ábyrgist ekki lán fyrir [verkstæðið] en sótt var um 30 millj. kr. lán til okkar. […] Hvað varðar lánabeiðnina nú er afstaða okkar óbreytt.
Hvað er þá til ráða hef ég ekkert svar við í sjálfu sér, þekki reksturinn ekki nógu vel. Finnst þó að skuldin við [meirihlutaeigandann] kr. 50 millj. sé með ólíkindum há. Skýrist væntanlega af háum birgðum. Sé að kostnaðarverð seldra vara er kr. 51 millj. árið 2005 og birgðir 29 millj. (ekki mikill veltuhraði það.) […]
Árið 2004 eru birgðir 11 millj. og skuld við [meirihlutaeiganda] 5,3 millj. Ég spyr hvað er eiginlega í gangi. Það er ljóst í mínum huga að [meirihlutaeigandinn] stjórnar auðvitað öllum viðskiptum á milli félaganna og því finnst mér að frumkvæði að tillögum að bættum rekstri og fjármögnun eigi að koma þaðan.20

Sparisjóður Norðfjarðar reyndi að selja eignarhlut sinn í félaginu en án árangurs.21 Haustið 2008 neituðu fulltrúar meirihlutaeigenda í stjórn félagsins að verða við ósk Vilhjálms G. Pálssonar sparisjóðsstjóra fyrir hönd sparisjóðsins um afhendingu á ársreikningi félagsins fyrir árið 2007. Þá hafði ársreikningurinn verið undirritaður af tveimur öðrum stjórnarmönnum 27. febrúar 2008.22 Í kjölfarið tilkynnti Vilhjálmur um úrsögn sína úr stjórn félagsins.23

Í lok árs 2008 nam heildarskuldbinding bifreiðaverkstæðisins rúmum 15 milljónum króna og voru 13 milljónir króna færðar sem sérgreint framlag í afskriftareikning vegna skuldbindinga félagsins. Bifreiðaverkstæðið hafði hætt rekstri á árinu 2008 og á hluthafafundi 25. maí 2009 var lagt til að félagið yrði lagt niður. Bókað var á hluthafafundinum að meirihlutaeigandi tæki birgðir félagsins, sem metnar væru á um 30 milljónir króna, upp í skuldir. Eftir fundinn gerði sparisjóðsstjóri athugasemd í tölvupósti fyrir hönd Sparisjóðs Norðfjarðar um að hann hefði gert grein fyrir því á fundinum að sparisjóðurinn væri með veð í birgðum félagsins. Þá væri sparisjóðurinn tilbúinn til að fella niður 4,5 milljónir króna af 15 milljón króna skuld félagsins, en gerð væri sú krafa að hluti af andvirði sölu birgða félagsins yrði notað til að greiða skuldina við sparisjóðinn.24

Ekki kom þó til greiðslu á skuld félagsins samkvæmt tilboði Sparisjóðs Norðfjarðar og um mitt ár 2009 hafði meirihlutaeigandinn tekið til sín birgðir félagsins. Sparisjóðurinn gerði þá kröfu um að eigandinn greiddi þess í stað af kröfu félagsins til að tryggingarbréfinu með veði í birgðunum yrði aflétt.25 Sparisjóðurinn fól lögmanni að senda bifreiðaverkstæðinu greiðsluáskorun 19. ágúst 2009. Á hluthafafundi 5. nóvember 2009 var tekið fyrir gagntilboð forstjóra verkstæðisins til sparisjóðsins en síðar kom annað tilboð frá sparisjóðnum. Málum lyktaði þannig að á fundi stjórnar Sparisjóðs Norðfjarðar 10. febrúar sama ár var samþykkt að afskrifa 8,5 milljónir króna af skuldum félagsins samkvæmt samkomulagi frá 20. janúar 2010, þar sem meirihlutaeigandi keypti vörubirgðir og lausafé á rúmar 8 milljónir króna sem greiddar voru til Sparisjóðs Norðfjarðar. Í árslok 2009 hafði heildarskuldbinding bifreiðaverkstæðisins numið rúmum 16 milljónum króna og höfðu rúmar 7 milljónir króna verið færðar sem sérgreint framlag í afskriftareikning. Á árinu 2010 voru tæpar 8 milljónir króna endanlega afskrifaðar vegna skuldbindingar félagsins.

29.1.4 Lán til stjórnar, starfsmanna og tengdra aðila

Samkvæmt ákvæði 2. mgr. 57. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki bar að fara með viðskipti starfsmanna sparisjóðsins eftir þeim reglum sem stjórn setti. Tvisvar á ári bar fjármálafyrirtækjum að skila skýrslu til Fjármálaeftirlitsins um fyrirgreiðslu til venslaðra aðila þar sem fram kæmu allar fyrirgreiðslur yfir 10 milljónum króna til þeirra, það er til stjórnarmanna, maka þeirra, barna og félaga sem tengdust þeim.

Fram kom í skýrslu um innri endurskoðun fyrir árið 2009 að einn starfsmaður væri með yfirdráttarlán sem næmi um 20 milljónum króna og það væri ótryggt. Á árinu 2009 voru færðar 3 milljónir króna á sérgreindan afskriftareikning vegna skuldbindinga hans. Ekki var gerð grein fyrir þessari skuldbindingu í skýrslu sparisjóðsins til Fjármálaeftirlitsins um fyrirgreiðslur til venslaðra aðila en skuldbindingin var yfir 10 milljónum króna frá maí 2008 til maí 2010 og fór hæst í tæplega 30 milljónir króna. Að sögnVilhjálms G. Pálssonar sparisjóðsstjóra fékk umræddur starfsmaður tímabundna fyrirgreiðslu til að brúa bil vegna fasteignakaupa. Deilur urðu um kaupin og færði sparisjóðurinn í kjölfarið á sérgreindan afskriftareikning vegna skuldbindingarinnar. Á endanum var málið gert upp eftir að lendingu var náð í deilunni vegna fasteignakaupanna.26 Rannsóknarnefndin kannaði útlán til starfsmanna og fletti útlánum til þeirra upp í afriti af lánagrunni sparisjóðsins. Í töflu 13 má sjá yfirlit yfir heildarskuldbindingar starfsmanna Sparisjóðs Norðfjarðar á tímabilinu 2005–2010.

Í skýrslu um innri endurskoðun vegna ársins 2010 og 2011 kom fram að gerður hefði verið samanburður á kjörum venslaðra og óvenslaðra aðila og voru þær fyrirgreiðslur án athugasemda.

Auk félaganna sem hér er fjallað um, má geta þess að félag í eigu Guðmundar J. Skúlasonar, stjórnarmanns í Sparisjóði Norðfjarðar, G. Skúlason vélaverkstæði ehf., var stærsti skuldari sparisjóðsins á árinu 2007 og annar stærsti skuldari sjóðsins á árunum 2008–2010. Bókað var í fundargerðum stjórnar að Guðmundur hefði vikið af fundi þegar fjallað var um málefni félagsins, sem og þegar málefni samkeppnisaðila félagsins voru rædd.

29.3 Fjáreignir og fjárfestingar

Sparisjóður Norðfjarðar setti sér ekki sérstakar reglur um fjárfestingar en í reglum sparisjóðsins um framkvæmd starfa sparisjóðsstjórnar og sparisjóðsstjóra sem samþykktar voru í febrúar 2007 kom fram að fjárfestingar í fasteignum skyldu bornar upp í stjórn, sem og önnur fjárfestingaráform sem telja mætti meiriháttar eða óvenjuleg, til að mynda kaup á meiriháttar tölvubúnaði eða opnun afgreiðslustaða.27

Árið 2005 nam samanlögð verðbréfaeign allra minni sparisjóðanna 157% af samanlögðu eigin fé þeirra, en hæst varð hlutfallið 401% í árslok 2008.28 Á árunum 2005–2011 varð hlutfall fjáreigna af bókfærðu eigin fé Sparisjóðs Norðfjarðar hæst árið 2008, þegar það nam 523%, og lægst árið 2005 þegar það var 74%.

Árið 2002 seldi sparisjóðurinn hluta af hlutabréfaeign sinni í Kaupþingi banka hf., öll hlutabréf sín í Alþjóða líftryggingarfélaginu hf. og í Scandinavian Holding. Söluhagnaður var 45 milljónir króna. Ári síðar seldi sparisjóðurinn enn hlutabréf í Kaupþingi banka hf. og voru tekjur af þeirri sölu um 64 milljónir króna. Frá 2003 til 2006 breyttust fjáreignir sparisjóðsins lítillega en tekjur af þeim jukust jafnt og þétt. Sparisjóður Norðfjarðar fjárfesti töluvert í markaðsskuldabréfum árið 2007 en á sama tíma jókst einnig eign sjóðsins í hlutabréfum og verðbréfum með breytilegum tekjum. Eftir fall bankanna urðu markaðsskuldabréf o.fl. með föstum tekjum undirstaða fjáreigna sparisjóðsins. Mest fór þar fyrir skuldabréfum fyrirtækja og skammtímasjóði Íslenskra verðbréfa hf. Árið 2007 átti sparisjóðurinn rúma 671 milljón króna í skuldabréfum útgefnum af lánastofnunum.

Í árslok 2005 átti Sparisjóður Norðfjarðar 70 milljóna króna hlut í Sænesi ehf. sem hann keypti af Sparisjóði Höfðhverfinga. Samningurinn var með kauprétti Sparisjóðs Höfðhverfinga til 3. júlí 2006 á sömu bréfum fyrir 74,2 milljónir króna. Kaupin voru samþykkt á stjórnarfundi 12. janúar 2006 með vísan til samþykktar stjórnar frá 29. desember 2005, en þar hafði verið rætt um að frestaður söluhagnaður vegna bréfa í Kaupþingi kæmi þá til skattlagningar. Hluturinn var seldur aftur til Sparisjóðs Höfðhverfinga á árinu 2006.29 Sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Norðfjarðar rifjaði þessi viðskipti upp fyrir rannsóknarnefndinni:

Ég held að [Sparisjóður Höfðhverfinga] hafi sennilega verið eitthvað yfir mörkum með að eiga svona stóran hlut í þessu félagi. Og við höfum vistað þetta hjá okkur gegn einhverri þóknun. Og selt það síðan aftur seinna […]. Ég reikna með að þetta hafi sigið eitthvað í CAD-ið hjá þeim þarna.30

Sparisjóður Höfðhverfinga hafði 19 milljóna króna söluhagnað af þessum viðskiptum í ársreikningi 2005, en greiddi svo Sparisjóði Norðfjarðar 4,2 milljónir króna fyrir „hýsingu“ bréfanna á árinu 2006.

Árið 2005 tók sparisjóðurinn þátt í hlutafjáraukningu FSP hf. og Sparisjóðabanka Íslands hf. Í byrjun febrúar 2006 samþykkti sparisjóðsstjórnin að kaupa nýtt hlutafé í FSP hf. fyrir tæpar 6 milljónir króna31 og mánuði síðar var samþykkt að taka þátt í hlutafjáraukningu Sparisjóðabanka Íslands hf. fyrir 7 milljónir króna sem sparisjóðurinn átti forgangsrétt á að kaupa, en að auki var samþykkt að kaupa fyrir 8 milljónir króna í umframáskrift.32 Bókfærð eign sparisjóðsins í Sparisjóðabankanum hækkaði þó umfram þessa hlutafjáraukningu á árinu 2006 en það má rekja til þess að eignarhlutur í bankanum var bókfærður með hlutdeildaraðferð og gott gengi bankans á árinu 2006 jók bókfært virði hans hjá sparisjóðnum.

Árið 2007 færði sparisjóðurinn eign sína í Sparisjóðabanka Íslands hf. til gangvirðis og hafði af því töluverðar tekjur. Á því ári skilaði eign í Sparisjóðabankanum sparisjóðnum tekjum sem námu 130 milljónum króna, en hefðu verið 19 milljónir króna ef tekjurnar hefðu verið færðar sem hlutdeildartekjur eins og áður. Árið 2007 voru aðrar stórar fjáreignir sparisjóðsins í Íslenskum verðbréfum hf. og í VBS Fjárfestingarbanka hf. Sparisjóðurinn hafði eignast hlut í fjárfestingarbankanum eftir sameiningu hans og FSP hf. á árinu 2007, en Sparisjóður Norðfjarðar átti líkt og margir aðrir sparisjóðir hlut í FSP hf. Í febrúar 2007 samþykkti stjórn Sparisjóðs Norðfjarðar að nýta forgangsrétt sinn til kaupa á að allt að 30 milljóna króna hlutafé í Íslenskum verðbréfum hf.33 Í apríl sama ár ákvað stjórnin að nýta forgangsrétt til kaupa á tæplega 8,5 milljónum hluta í FSP hf. á genginu 1,25 kr.34 Stærsta nýja fjárfesting sparisjóðsins í félögum á árunum 2005–2011 var í Saga Capital Fjárfestingarbanka hf. á árinu 2007. Hún var samþykkt á stjórnarfundi 6. febrúar 2007 og nam um 50 milljónum króna.

Skuldabréf voru stór hluti af verðbréfaeign Sparisjóðs Norðfjarðar en hún jókst á árinu 2007, einkum vegna kaupa á skuldabréfum fyrirtækja og lánastofnana. Sparisjóðsstjóri lýsti því svo að á árinu 2007 hefðu innlán hjá sparisjóðnum aukist töluvert og hann hefði því verið í góðri stöðu með lausafé. Vextir hefðu verið háir á þessum tíma og til þess að geta greitt samkeppnishæfa innlánsvexti og haft jafnframt tekjuafgang af rekstri sparisjóðsins hefði verið talið nauðsynlegt að fjárfesta í skuldabréfum á markaði.35

Sparisjóðurinn tapaði töluverðu á skuldabréfum á árunum 2008 og 2009 þegar útgefendur þeirra stóðu ekki við skuldbindingar sínar. Á árinu 2008 nam tap sparisjóðsins á skuldabréfum 271 milljón króna og tap á hlutabréfaeign 481 milljón króna. Tap sparisjóðsins á skuldabréfum var mest á bréfum Nýsis hf., eða 73 milljónir króna, bréfum Kaupþings banka hf., rúmar 68 milljónir króna, og bréfum Samson eignarhaldsfélags hf., tæpar 52 milljónir króna. Tap sparisjóðsins á eignarhlutum í félögum var mest á hlut í Sparisjóðabanka Íslands hf. á árinu 2008, eða 271 milljón króna. Tap á hlut í VBS Fjárfestingarbanka hf. á sama tíma var 114 milljónir króna og tap á hlut í Sparisjóðnum í Keflavík nam 41 milljón króna. Tap sparisjóðsins á eignarhlutum á árinu 2009 var einkum vegna VBS Fjárfestingarbanka hf., Sparisjóðsins í Keflavík og Saga Capital hf.

Afkoma Sparisjóðs Norðfjarðar af fjáreignum hafði töluverð áhrif á rekstur hans og þá einkum árin 2007 og 2008. Önnur ár stóðu hreinar vaxtatekjur sparisjóðsins nokkurn veginn undir rekstri hans og frá 2005–2007 voru tekjur af fjáreignum nær jafnar afkomu ársins fyrir skatt. Eignasafn sparisjóðsins var sæmilega dreift, hann fjárfesti í skráðum og óskráðum hlutabréfum, hlutdeildarskírteinum í sjóðum með dreifða áhættu og skuldabréfum. Þrátt fyrir þessa dreifðu áhættu tapaði sparisjóðurinn talsverðu á fjáreignum og virðist áhersla hans á að fjárfesta í skuldabréfum frá árinu 2007 ekki hafa dugað til að draga úr áhrifum umróts á fjármálamörkuðum á árinu 2008 á efnahag og rekstur sparisjóðsins, en skuldabréf eru gjarnan talin öruggari fjárfesting en hlutabréf. Frá 2001 til 2007 var hagnaður Sparisjóðs Norðfjarðar af verðbréfaeign 793 milljónir króna á árslokaverðlagi ársins 2011, en frá 2008 til 2011 nam tap af sama lið rúmum 987 milljónum króna miðað við sama verðlag. Þannig tapaði sparisjóðurinn meira á verðbréfaeign á fjórum árum en hann hafði aflað á sjö árum þar á undan.

29.4 Fjármögnun

Efnahagur Sparisjóðs Norðfjarðar óx töluvert frá 2005 til 2011 og var sá vöxtur nær eingöngu fjármagnaður með innlánum og í minna mæli lántöku. Frá 2005 til 2011 voru innlán á bilinu 65–96% af skuldum að undanskildu eigin fé Sparisjóðs Norðfjarðar.36

Heimili áttu að meðaltali 70% af innlánum sparisjóðsins og fyrirtæki 19%.37 Hlutfall bundinna innlána var að meðaltali 58% frá ársbyrjun 2005 til ársloka 2011, hæst varð það 71% í byrjun árs 2006 og aftur í september sama ár, en lægst 39% í febrúar 2008.38 Innlán voru 73% af útlánum í árslok 2005 en hlutfallið hækkaði á hverju ári þar til í árslok 2010 þegar innlán námu 176% af útlánum, en var 167% ári síðar.

Skuld við lánastofnanir, sem nam 559 milljónum króna í árslok 2009, var vegna flutnings á ákveðnum eignum og skuldum Sparisjóðabankans til Seðlabanka Íslands þegar Fjármálaeftirlitið tók yfir vald hluthafafundar Sparisjóðabankans. Á meðal þeirra eigna og skulda voru útlán til og innlán frá sparisjóðunum. Skuld Sparisjóðs Norðfjarðar var öll gjaldkræf og 27. júlí 2010 var undirritað samkomulag um fjárhagslega endurskipulagningu sparisjóðsins við Seðlabankann, sem meðal annars fól í sér uppgjör á skuldinni.39

Lántökur sparisjóðsins námu 1,4 milljörðum króna í lok árs 2008. Þær skiptust í erlenda lánalínu frá Sparisjóðabanka Íslands hf. sem skyldi endurgreiðast í samræmi við endurgreiðslur gengistryggðra útlána sparisjóðsins, lántöku hjá Íbúðalánasjóði, sem samkvæmt samkomulagi skyldi endurgreiðast í samræmi við endurgreiðslur tilgreindra íbúðalána sparisjóðsins, og verðbréfaútgáfu sem endurgreidd var að fullu á árinu 2010. Engar lántökur voru í ársreikningum áranna 2010 og 2011.

Sparisjóður Norðfjarðar gerði tvo lánasamninga við Íbúðalánasjóð. Sá fyrri var gerður í desember 2004 og var upphafleg lánsupphæð tæpar 390 milljónir króna. Að baki lánasamningnum stóðu 42 lán í eigu sparisjóðsins. Seinna lánið, sem var veitt í apríl 2005, var með sama sniði en þar var lánsupphæðin rúmar 117 milljónir króna og að baki því stóðu 17 lán í eigu sparisjóðsins.40

Árið 2007 tók Sparisjóður Norðfjarðar 150 milljóna króna víkjandi lán til tíu ára hjá Byggðastofnun og var lántakan samþykkt á stjórnarfundi sparisjóðsins 19. september 2007. Á sama stjórnarfundi var rætt um að lánið myndi hækka eiginfjárhlutfall sparisjóðsins upp í um það bil 15%. Í lok árs 2007 var eiginfjárhlutfall sparisjóðsins 15,3% en hefði verið 11,8% ef lánið hefði ekki komið til. Við fjárhagslega endurskipulagningu sparisjóðsins nam lánið 196 milljónum króna. Af þeim voru 37 milljónir króna settar í varasjóð sparisjóðsins og 160 milljónum króna breytt í stofnfé sem síðan var framselt íslenska ríkinu.41

29.5 Stofnfé og stofnfjáreigendur

Samkvæmt samþykktum Sparisjóðs Norðfjarðar frá 2003 skyldi stofnfé hans eigi vera minna en 9.033.476 krónur, skiptast í að minnsta kosti 268 jafnháa hluti og skyldi eitt atkvæði fylgja hverjum hlut. Stofnfjáreigendur skyldu aldrei vera færri en 60 en þeir gátu átt einn eða fleiri jafngilda stofnfjárhluti, þó ekki fleiri en tíu, og skyldi atkvæðisréttur þeirra vera í réttu hlutfalli við stofnfjáreign. Hver stofnfjáreigandi gat ekki farið með meira en 5% af heildaratkvæðamagni í sparisjóðnum, fyrir sjálfs sín hönd eða annarra. Stjórn þurfti að samþykkja sölu eða framsal stofnfjárhluta milli aðila en veðsetning þeirra var óheimil. Fundur stofnfjáreigenda gat ákveðið að auka stofnfé umfram það sem kveðið var á um í samþykktunum með áskrift nýrra stofnfjárhluta og einnig var heimilt að auka stofnfé með endurmati og með ráðstöfun hluta hagnaðar. Við aukningu stofnfjár skyldu stofnfjáreigendur eiga rétt til þess að skrá sig fyrir auknu stofnfé í réttu hlutfalli við stofnfjáreign sína.42

Á fundi stofnfjáreigenda sparisjóðsins 27. nóvember 2007 var samþykktunum breytt og stofnfé ákveðið 14.393.208 krónur sem skiptist í jafnmarga einnar krónu nafnverðshluti. Ákvæði um hámarks stofnfjáreign hvers stofnfjáreiganda var breytt og miðaðist þá við 5% af útgefnu stofnfé í stað tíu stofnfjárhluta. Eigendaskipti á stofnfé umfram þessi mörk töldust ógild og skyldi stjórnin hafna beiðnum um slíkt. Þá var samþykkt heimild til útgáfu stofnfjárbréfa með rafrænum hætti og veðsetning stofnfjárhluta leyfð með samþykki stjórnar. Stjórn fékk heimild fram til ársloka 2010 til að auka stofnfé sparisjóðsins um allt að 600 milljónir króna og var stefnt að því að bjóða út 201 milljón króna fyrir árslok 2007. Stofnfjáraðilar áttu forgang til áskriftar í réttu hlutfalli við stofnfjáreign.43 Stofnfjáreigendafundur sparisjóðsins 9. desember 2008 felldi síðan úr samþykktunum ákvæði um 5% hámarks eignarhlut á stofnfé.44 Þá fékk stjórn sparisjóðsins heimild til loka árs 2012 til að auka stofnfé um 300 milljónir króna til viðbótar þeim 399 milljónum sem óseldar voru af fyrri heimild.

Samþykktum sparisjóðsins var enn breytt á stofnfjáreigendafundi 28. júní 2010 en þær breytingar voru liður í að ná fram fjárhagslegri endurskipulagningu sjóðsins sem fjallað er um í kafla 29.6. Þeir sem átt höfðu stofnfé samþykktu að færa það niður til jöfnunar taps sem ekki yrði jafnað á annan hátt45 og kröfuhafar sjóðsins breyttu kröfum í stofnfé. Fyrri heimild stjórnar til stofnfjáraukningar um allt að 300 milljónir króna var þá enn í gildi og í nýjum samþykktum var stjórninni heimilað að auka stofnfé um allt að 159.493.000 krónur með sama hætti. Þá var framsal eða önnur ráðstöfun stofnfjárhluta heimiluð án takmarkana.

Stofnfé Sparisjóðs Norðfjarðar var 11 milljónir króna í árslok 2005. Ári seinna hækkaði stofnféð í 13 milljónir króna vegna sérstaks endurmats og endurmats vegna verðlagsbreytinga. Á þessum árum voru stofnfjáreigendur 77 talsins, allt einstaklingar. Stærstu stofnfjáreigendurnir áttu hver um sig 1,87% af heildarstofnfé. Þeir voru 41 talsins og áttu samanlagt 76,5% hlut.46

29.5.2 Stofnfjáraukning, sameiningarviðræður og hugmyndir um hlutafélagsvæðingu

Á stjórnarfundi Sparisjóðs Norðfjarðar 16. október 2007 var fjallað um sameiningar við aðra sparisjóði en þá hafði verið rætt við Sparisjóð Þórshafnar og nágrennis, Sparisjóð Suður-Þingeyinga og Sparisjóð Höfðhverfinga um sameiningu og stefnt var að framhaldsfundi um þau málefni. Í sameiningartillögu sparisjóðsins var gert ráð fyrir að skiptihlutfall sameinaðra sjóða yrði jafnað, þeim breytt í hlutafélagasparisjóði og þeir síðan sameinaðir.47 Þannig yrði til sjálfseignarstofnun á hverju starfssvæði fyrir sig áður en til sameiningar kæmi en samkvæmt þágildandi lögum fengi slík stofnun hlutafé í samræmi við þann hluta eiginfjár sem ekki gengi til stofnfjáreigenda við hlutafélagsvæðingu, sbr. þágildandi 74. og 76. gr. laga nr. 161/2002. Tilgangur sjálfseignarstofnunar var að stuðla að viðgangi og vexti í starfi sparisjóðsins og var aðeins heimilt að úthluta af fjármunum hennar til menningar- og líknarmála á starfssvæði viðkomandi sparisjóðs sem breytt væri í hlutafélag. Þannig hefði verið tryggt að starfssvæði hvers sparisjóðs um sig hefði notið ágóðans af uppsöfnuðum varasjóði þeirra.

Á fundinum samþykkti stjórn sparisjóðsins að boða stofnfjáreigendur á fund til að ræða stofnfjáraukningu með það í huga að jafna skiptihlutfall í sparisjóðunum sem hugðust sameinast. Lögð var áhersla á að skiptihlutföllin yrðu að vera þannig að stofnfjáreigendur yrðu sáttir við sinn hlut og áhrif í sameinuðum sjóði.48 Ef ekki yrði úr sameiningu, yrði engu að síður hugað að því að breyta sparisjóðnum í hlutafélag og stofnféð sem safnaðist í útboðinu notað til þess að auka hlut stofnfjáreigenda í hlutafélaginu. Það myndi auka möguleika á að sameinast sparisjóði eða banka.49 Sparisjóður Þórshafnar og nágrennis og Sparisjóður Höfðhverfinga drógu sig úr sameiningarviðræðunum áður en stofnfjáreigendafundurinn var haldinn og ákvað stjórnin þá að einblína á að breyta sparisjóðnum í hlutafélag.50

Á stofnfjáreigendafundi Sparisjóðs Norðfjarðar 27. nóvember 2007 var samþykktum sjóðsins breytt. Á fundinum ræddi Jón Kr. Ólafsson stjórnarformaður sparisjóðsins um stöðu hans í ljósi mikilla hræringa í sparisjóðakerfinu og ótryggrar afkomu sjóðsins. Í máli hans kom fram að „mikil lækkunarhrina [hefði hafist] á mörkuðum“ á síðari helmingi ársins 2007 og væru „fjármálafyrirtæki þar í fararbroddi“. Hann bætti við: „Af þeim sökum er ekki búist við jafn miklum hagnaði á seinni helmingi þessa árs og á þeim fyrri, því raunin hefur verið sú að regluleg starfsemi er ekki að skila miklum hagnaði. Staða sparisjóðsins er þó sterk og traust.“ Þá vék hann að samrunahugmyndum og tillögu um hlutafélagsvæðingu:

Stofnfjáreigendur í allmörgum sparisjóðum hafa samþykkt undanfarið að hefja samrunaferli við aðra sparisjóði en þar eru leiðandi stóru sparisjóðirnir á suðvesturhorni landsins eins og Sparisjóðurinn í Keflavík og Byr sparisjóður. Það verður auðvitað hver að taka sína ákvörðun út frá sínum forsendum en það er samdóma álit stjórnar Sparisjóðs Norðfjarðar að búa þurfi til sátt milli þess samfélags sem Sparisjóðurinn starfar í og ykkar stofnfjáreigenda.
Það er samdóma álit allra stjórnarmanna í Sparisjóði Norðfjarðar að nauðsynlegt sé að styrkja Sparisjóðinn sem allra fyrst til þess að hann verði betur í stakk búinn að takast á við þær breytingar sem framundan eru. Það er skoðun stjórnar að sameining Sparisjóðsins við aðra sparisjóði komi vart til greina að óbreyttu. Þar á ég við að sameining sparisjóðsins sem stofnfjársparisjóður við annan mun stærri á suðvesturhorninu sem dæmi hámarkar að vísu arð til stofnfjáreigenda en skilur ekkert eftir í samfélaginu af þeim fjármunum sem hér hafa orðið til í gegnum áratugina og ávallt hefur verið litið á að séu eign samfélagsins af stofnfjáreigendum og löggjafanum. Stjórnun, stefnumótun og allar ákvarðanir færast einnig til stjórnar hins sameinaða sjóðs.51

Í framhaldinu vék hann að sameiningartilburðum sparisjóða á norðausturhluta landsins fyrr á árinu og greindi frá því að ekkert hefði orðið úr þeim. Í viðræðunum hefði Sparisjóður Norðfjarðar gengið út frá því að sparisjóðirnir sem til stóð að sameina færu fyrst í stofnfjáraukningu og yrði síðan breytt í hlutafélög. „Þannig hefði orðið til landshlutasparisjóður með breiðan hóp stofnfjáreigenda og með fjórar sjálfseignarstofnanir hverja á sínu heimasvæði sjóðanna sem myndað hefði einn nokkuð öflugan sparisjóð.“ Því næst sagði hann:

Stjórn Sparisjóðs Norðfjarðar hefur því markað sér þá stefnu að breyta eigi sparisjóðnum í hlutafélagssjóð, þannig að stofnfjáreigendur og sjálfseignarstofnun sem tilheyrir samfélaginu fari með stjórn hans og eignarhald og njóti arðs af þeirri eign ef vel gengur. Arð sjálfseignarstofnunarinnar má nota til góðra málefna í sveitarfélaginu. Tíminn fram að næsta aðalfundi verði notaður til að huga nánar að þessu markmiði og vinna að stefnumótun varðandi þetta. Áður en þetta er gert er þó nauðsynlegt að hækka hlutfall stofnfjár í sparisjóðnum til að auka vægi stofnfjáreigenda í heildar eigin fé hans.52

Á fundinum óskaði stjórn sparisjóðsins eftir heimild fundarins til stofnfjáraukningar um allt að 600 milljónir króna „[t]il að styrkja og efla Sparisjóð Norðfjarðar í harðnandi samkeppni á íslenskum fjármálamarkaði“ en hluti þeirrar heimildar yrði nýttur strax í árslok 2007, eða 201 milljón króna. Um stofnfjáraukninguna sagði stjórnarformaðurinn:

Við þessa aukningu núna sem er allstór fjárhæð á ekki fleiri aðila [þ.e. 77 stofnfjáraðila alls] er stefnt að því að greiða út góðan arð strax á næsta ári, þ.e. ef aukningin nær fram að ganga fyrir áramót.
Sparisjóðurinn á óuppfærðar eignir í öðrum félögum sem mögulegt er að færa upp á þessu ári að hluta til og innleysa þannig góðan hagnað. Stefnt er að því að greiða út að minnsta kosti helming aukningarinnar í arð. Stofnfjáreigendur fá því til baka a.m.k. helming þeirrar aukningar sem þeir ákveða að taka, strax eftir næsta aðalfund ef þetta gengur eftir, í formi arðgreiðslu. Boðið verður upp á aðstoð við fjármögnun á kaupunum í samvinnu við Saga Capital á Akureyri þar sem greiðslum af láni verði stillt upp þannig að arðgreiðslur frá Sparisjóðnum geti gengið inn á það.53

Í lok ræðu sinnar beindi stjórnarformaðurinn þeirri áminningu stjórnar sparisjóðsins til fundarmanna að „ávallt [fylgi] einhver áhætta fjárfestingum í öllum félögum og hver stofnfjáraðili fyrir sig [yrði] að taka sína ákvörðun“ en benti þó á að stjórnin áliti að hér væri um „góða fjárfestingu að ræða til framtíðar“.54

Við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefndinni bar stjórnarformaðurinn að á þessum tíma hefði stofnfé í sparisjóðnum verið eftirsótt og hefði hann meðal annars heyrt af því að „menn [hefðu komið] að sunnan“ og boðið stofnfjáreigendum „gull og græna skóga og allt upp í tíu milljónir fyrir hlut í sparisjóðnum“.55 Sagði hann töluverðar áhyggjur hafa verið uppi um það að sparisjóðurinn yrði keyptur upp eða tekinn yfir:

Sparisjóður Keflavíkur bauð okkur litlu upp í vagninn, ef við vildum vera með. Þetta var mikið stríð á milli manna. Menn voru alls ekki sammála hvert þeir vildu fara í þessum málum og það eina sem okkur datt í hug þá var að auka stofnféð snarlega þannig að það yrði ekki eins auðvelt að kaupa það, því að við réðum ekkert ferðinni eftir að Fjármálaeftirlitið gaf leyfi á að kaupa stofnfé á yfirverði, þá fór allt á fulla ferð. Það var eina vörnin sem sparisjóðirnir höfðu.
Það vildu allir eignast sparisjóðinn. […] Það voru ekki bara sparisjóðirnir, það voru bankarnir líka. […] Við vildum bara hafa alla þræði klára og ráða því hvar sjóðurinn endaði. Það var bara verið á fullu í því hvar við myndum enda ef við réðum ekki lengur ferðinni, ef við neyddumst til að selja sjóðinn. […] Það [yrði] náttúrulega gert í fullu samráði við stofnfjáraðila og reyna í lengstu lög að sjóðurinn fengi að lifa, en allavega að hafa áhrif á það hvernig hann endaði. Okkur hugnaðist ekki alveg að fara upp í vagninn fyrir sunnan. Við töldum að þá myndum við missa öll tök á þessu og ekki ráða einu eða neinu en það gat verið kostur t.d. að selja Íslandsbanka útibúið, þeir voru þá tilbúnir til að halda því opnu áfram.56

Stofnfé Sparisjóðs Norðfjarðar í lok árs 2006 var rúmar 13 milljónir en tæpur hálfur milljarður var í varasjóði sparisjóðsins. Töluverður hagnaður var fyrirsjáanlegur á árinu 2007 en þá var farið að færa eignarhluta sparisjóðsins á gangvirði, sem áður höfðu verið færðir á kaupverði eða með hlutdeildaraðferð. Árið 2007 var gangvirðisbreyting eigna vegna þessa 389 milljónir króna.57

Við vissum af því að við áttum þarna dulbúinn hagnað í mörgum félögum, við höfðum aldrei fært þau upp í ársreikningnum og það var svona dálítil pressa frá endurskoðandanum og fleiri sparisjóðum að við færum að gera þetta á raunvirði. Það væri langeðlilegast gagnvart uppgjöri á fyrirtækinu, því að það sýndi ekki rétta stöðu sparisjóðsins. Það var miklu sterkara en tölur sögðu til um. Þetta var auðvitað gert 2007, út af ástandinu, að ná góðum hagnaði inn.58

Eins og fyrr segir var rætt um að fylgja stofnfjáraukningunni eftir með ríflegri arðgreiðslu strax árið eftir.

Planið var bara þetta þegar við fórum af stað. Það náttúrulega var ekki hljómgrunnur hjá stofnfjáraðilum að koma með alla þessa peninga inn. Mikið af þessu er eldra fólk sem komið er af vinnumarkaði. Við vorum náttúrulega að biðja það að koma með sitt sparifé þarna inn og okkur fannst bara á þessum tímapunkti og við lögðum bara málin þannig upp að sparisjóðurinn skyldi einu sinni borga góðan arð. Svona í sögu sjóðsins, það var neyð. Og þetta var gulrótin til þess að fá stofnfjáraðila til þess að koma þarna inn, að við myndum borga strax út aftur góðan arð og auðvelda þeim kaupin.59

Aðspurður hvort taka hefði átt úr varasjóðnum til að greiða stofnfjáreigendum sagði stjórnarformaðurinn: „Já, það má alveg segja það. Þetta er það sem margir sparisjóðir ætluðu að reyna að gera.“60

Í skýrslutöku fyrir rannsóknarnefndinni lýsti sparisjóðsstjóri aðdraganda stofnfjáraukningarinnar í sömu megindráttum og stjórnarformaðurinn. Komið höfðu „útsendarar sem voru að kaupa og bjóða í stofnféð“, og stjórnendur sparisjóðsins hefðu verið „hræddir um að missa allt féð úr sparisjóðnum úr heimabyggðinni og inn í hít fyrir sunnan“. Aðspurður kvaðst sparisjóðsstjóri hafa heyrt að þarna hefðu verið á ferð „einhverjir milliliðir að reyna að græða“ og bætti við: „Maður svo sem veit það ekki nákvæmlega, en einhverju fólki höfðu verið boðnir töluverðir peningar fyrir stofnfé en það komu aldrei neinar beiðnir fyrir stjórnina um eignabreytingar eða neitt sem kom til afgreiðslu.“61

Spurður nánar um það hvaðan hugmyndirnar um stofnfjáraukninguna komu, sagði sparisjóðsstjóri að umræðan meðal stofnfjáreigenda um þau mál hefði „kannski ekki [verið] mikil“:

Maður heyrði ekki mikið úti í bæ, eða umræðu meðal stofnfjáreigenda sjálfra. Það var í sjálfu sér ekki allavega komið til mín og verið að pressa á þetta. Eða maður heyrði ekki af því að stofnfjáreigendur væru eitthvað mikið að pressa á þetta. Þetta var kannski eitthvað
sem menn voru að sjá í kringum sig og aðra vera að gera. En stjórnin var bara hrædd um að missa sjóðinn frá sér.62

Vilhjálmur greindi frá því að í framhaldi af sameiningarhugmyndum sparisjóða á Norðausturlandi hefði verið rætt um að breyta sparisjóðnum í hlutafélag og að jafnframt yrði sett á fót sjálfseignarstofnun sem tæki yfir megnið af eigin fé sjóðsins. „Þannig væru menn búnir að negla niður þetta fé inni í viðkomandi sveitarfélagi,“ sagði Vilhjálmur og vísaði til þess að umrætt fé hefði í reynd verið að safnast upp allt frá stofnun sparisjóðsins, þ.e. í 90 ár. Ekki hefði verið sanngjarnt að það hyrfi úr byggðarlaginu. Sparisjóður Norðfjarðar væri „sparisjóður af gamla skólanum“ sem þýddi að „þessi hagnaður sem hefur myndast í sjóðnum eigi bara heima í viðkomandi sveitarfélagi og sé ekki beint eign stofnfjáreigenda“. Engu að síður tók hann undir það að arðgreiðsluloforðið í tengslum við stofnfjáraukninguna hefði verið til þess ætlað að „friða stofnfjáreigendur“:

Og síðan auðvitað er aukningin líka til þess að gera eitthvað fyrir stofnfjáreigendur. Það er náttúrulega verið að stækka aðeins [hlut] þeirra í heildareiginfénu. Menn voru bara hræddir um að missa allan sjóðinn og allt annað eigið fé eitthvert burtu, í einhverja braskara.63

Stofnfjáraukningunni lauk í desember 2007. Stofnfjáraðilar áttu forgang til áskriftar í réttu hlutfalli við stofnfjáreign sína og tóku 75 stofnfjáreigendur þátt í stofnfjáraukningunni. Af þeim tóku 13 lán til kaupanna hjá Saga Capital Fjárfestingarbanka hf.64 Lánin voru til þriggja og hálfs árs og greiðslur af þeim fyrstu tvö árin voru háðar arðgreiðslum frá Sparisjóði Norðfjarðar. Eftir tvö ár skyldu eftirstöðvar lánanna greiddar með 18 jöfnum afborgunum. Í lok árs 2007 var stofnfé sparisjóðsins 216,9 milljónir króna og stofnfjárhafar 79 talsins.65 Stærstu stofnfjárhafar sjóðsins áttu hver um sig 2% hlut; þeir voru 26 talsins og áttu því samanlagt 52% stofnfjárhlut í sjóðnum.66

Á aðalfundi Sparisjóðs Norðfjarðar 2. apríl 2008 hvatti stjórn sparisjóðsins til þess að varlega yrði farið í að breyta sjóðnum í hlutafélag. Þar kom fram að viðskiptaráðherra nýrrar ríkisstjórnar hefði skipað nefnd til að endurskoða áttunda kafla laga um fjármálafyrirtæki í því skyni að breyta gildandi ákvæðum svo að „[…] lagaumhverfi sparisjóða [yrði] ekki [þeim] fjármálafyrirtækjum hamlandi í ört vaxandi samkeppni á fjármálamarkaði“67 og taldi sparisjóðsstjórnin ráðlegt að sjá hvað kæmi út úr störfum þessarar nefndar áður en ráðist yrði í aðgerðir. Auk þess taldi stjórnin ráðlegt að fylgjast vel með þróuninni á fjármálamörkuðum, þar sem mikill óróleiki hefði skapað almenna óvissu í efnahagsmálum.68 Ekkert varð af frekari áformum um hlutafélagsvæðingu eða sameiningu sparisjóðsins við aðra.

Á stofnfjáreigendafundi Sparisjóðs Norðfjarðar 9. desember 2008 var farið yfir stöðu sparisjóðsins og lögð áhersla á nauðsyn þess að leggja honum til aukið stofnfé til að standast kröfur laga um eiginfjárhlutfall. Þar kom fram að í október sama ár hefði eiginfjárhlutfallið verið komið niður fyrir hið lögbundna 8% lágmark. Fjármálaeftirlitið hefði óskað eftir upplýsingum um aðgerðir til að ráða bót á eiginfjárhlutfallinu og yrði sparisjóðurinn að bregðast við því. Stofnfjáreigendur samþykktu á fundinum að falla frá forgangsrétti sínum að stofnfé til þess að stjórn gæti nýtt gildandi heimildir til að gefa út nýtt stofnfé, að nafnverði 399 milljónir króna, sem selt yrði lögaðilum og opinberum aðilum. Stofnfjáraðilum sem fyrir voru var þó heimilt að skrá sig fyrir 50 milljónum króna af þessari stofnfjáraukningu. Þá veitti fundurinn stjórn sparisjóðsins heimild til að auka stofnfé um 300 milljónir króna til viðbótar þeim 399 milljónum sem eftir voru af fyrri heimild. Gilti nýja heimildin út árið 2012.69

Í kjölfar þessa komu tveir nýir stofnfjáreigendur að sparisjóðnum sem jafnframt voru einu lögaðilarnir sem áttu stofnfé í sparisjóðnum, en þetta voru Stapi lífeyrissjóður og Austfjarðaleið ehf. Lífeyrissjóðurinn varð stærsti stofnfjáreigandinn með kaupum á stofnfé að nafnverði 40 milljónir króna en Austfjarðaleið ehf. keypti stofnfé fyrir fimm milljónir að nafnverði og átti um 1,6% hlut í árslok 2008. Heildarfjárhæð stofnfjáraukningarinnar var 48 milljónir króna. Að auki fékk sparisjóðurinn loforð frá fjársterkum lögaðilum á svæðinu um kaup á stofnfé upp á samanlagt 205 milljónir króna að nafnverði. Af þeirri fjárhæð voru 190 milljónir háðar sérstökum skilyrðum en 15 milljónir voru borgaðar inn stuttu eftir áramót.70 Í mars 2009 lögðu fjórir nýir stofnfjáreigendur, Fjarðabyggð, Samvinnufélag útgerðamanna, Launafl ehf. og G. Skúlason ehf., fram stofnfé sem nam samtals 170 milljónum króna.71

Á árinu 2010 gekkst sparisjóðurinn undir fjárhagslega endurskipulagningu og breyttu stærstu kröfuhafarnir, Seðlabanki Íslands og Byggðastofnun, hluta krafna sinna í stofnfé en stofnfjáreigendur sem fyrir voru í sparisjóðnum samþykktu að þeirra stofnfé yrði fært niður frá því sem áður var og áttu um 10% af stofnfé sparisjóðsins eftir endurskipulagningu.72 Í lok árs 2010 voru stofnfjárhafar 86 og var Bankasýsla ríkisins, sem fór með eignarhlut í sparisjóðnum fyrir hönd ríkissjóðs, stærst með 49,5% eignarhlut.

29.6 Fjárhagsleg endurskipulagning

Í upphafi árs 2008 var staða Sparisjóðs Norðfjarðar ágæt, hagnaður af rekstri sjóðsins árið 2007 var 305 milljónir króna, eigið fé sjóðsins nam rúmum milljarði króna og eiginfjárhlutfallið var 15,3%. Sjóðurinn fór ekki varhluta af þeirri þróun sem varð á fjármálamörkuðum á árinu 2008 og hafði fall íslensku viðskiptabankanna mikil áhrif á Sparisjóð Norðfjarðar eins og flesta sparisjóði í landinu. Samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2008 var tap á rekstri sparisjóðsins um 816 milljónir króna. Eigið fé sparisjóðsins í árslok 2008 nam 135 milljónum króna og eiginfjárhlutfallið var neikvætt um 0,9%.

Hinn 22. október 2008 fór Fjármálaeftirlitið fram á að Sparisjóður Norðfjarðar skilaði árituðu reikningsuppgjöri fyrir 30. september 2008, þar sem gögn Fjármálaeftirlitsins um efnahagsliði og eiginfjárstöðu Sparisjóðs Norðfjarðar bentu til þess að eiginfjárhlutfall sparisjóðsins væri undir lögbundnu lágmarki.73 Þar sem uppgjörið sýndi að eiginfjárhlutfallið væri 1,9% óskaði Fjármálaeftirlitið eftir greinargerð um þær ráðstafanir sem sparisjóðurinn hygðist grípa til, til þess að koma eiginfjárhlutfalli sínu í lögbundið horf.74

Í greinargerð sparisjóðsins 1. desember 2008 var gerð grein fyrir því að þegar hefðu verið kannaðar leiðir til að koma eiginfjárhlutfallinu yfir lögbundið lágmark. Leitað hafi verið til stærri aðila í sveitarfélaginu um kaup á stofnfé, en til skoðunar væri einnig að sparisjóðurinn seldi eignarhluta sína í öðrum fjármálafyrirtækjum. Endanleg svör höfðu ekki borist þegar greinargerðinni var skilað en nokkrir höfðu lagt fram viljayfirlýsingar um kaup á stofnfé. Kaupin voru í flestum tilvikum skilyrt aðkomu sveitarfélagsins eða ríkisins. Þá var til skoðunar möguleg yfirtaka sveitarfélagsins Fjarðabyggðar á lífeyrisskuldbindingum Sparisjóðs Norðfjarðar gagnvart Lífeyrissjóði Neskaupstaðar upp á 136 milljónir króna. Ef af því yrði væru komin loforð fyrir samtals 200 milljónum króna í stofnfé þegar í desember 2008 sem talið var duga til að koma eiginfjárhlutfalli sparisjóðsins yfir 8%. Þá var til athugunar að selja Íbúðalánasjóði fasteignalán sjóðsins til að lækka áhættugrunn og kanna möguleika á samruna eða samstarfi við aðra sparisjóði.75

Á stofnfjáreigendafundi 9. desember 2008 var kynnt ákvörðun stjórnar um að auka stofnfé um allt að 399 milljónir króna af gildandi heimild.76 Sama dag veitti Fjármálaeftirlitið Sparisjóði Norðfjarðar frest til 12. janúar 2009 til að auka við eiginfjárgrunn sinn. Nýtt stofnfé leiddi til hækkunar á eiginfjárhlutfalli sparisjóðsins eins og Jón Kristinn Ólafsson, stjórnarformaður sparisjóðsins, lýsti fyrir rannsóknarnefndinni:

Fljótlega 2008 eftir að við duttum niður fyrir leyfileg mörk í CAD-inu, fórum við að ræða málin, hvað það þýddi fyrir okkur, og það kom strax í ljós að við fengjum enga aðstoð nema að koma okkur sjálfir upp fjárfestum. Þá náttúrulega fórum við af stað á fullt að ræða við okkar fólk, okkar bakland. Það bara tóku allir þessu svona, menn vildu bara að sjóðurinn lifði og það voru allir tilbúnir til að gera það sem þeir gátu í þeim efnum og það tókst að koma sjóðnum aftur upp fyrir 8 %.77

29.6.1 Umsókn um 20% eiginfjárframlag

Sparisjóður Norðfjarðar sótti um eiginfjárframlag úr ríkissjóði á grundvelli reglna um framlag til sparisjóða skv. 2. gr. laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitinga úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., 19. janúar 2009.78 Óskaði sparisjóðurinn eftir eiginfjárframlagi sem nam allt að 20% af bókfærðu eigin fé eins og það var í árslok 2007, eða 202 milljónum króna.79 Í staðfestingu endurskoðanda, sem fylgdi umsókninni, kom fram að hefði stofnfjáraukning átt sér stað fyrir lok nóvember 2008 og sparisjóðurinn fengið 20% framlag úr ríkissjóði á sama tíma, hefði eiginfjárhlutfallið verið 14,2% í lok nóvember 2008 og því innan þeirra marka sem reglur um eiginfjárframlag til sparisjóða settu.80 Í umsókninni kom fram að bæjarráð Fjarðabyggðar hefði samþykkt að kaupa stofnfé fyrir 140 milljónir króna og hefði samkomulag um kaupin og yfirtöku lífeyrisskuldbindingar verið undirritað 15. janúar 2009. Samkomulagið yrði þó ógilt kæmi ríkið ekki inn með stofnfé. Stapi lífeyrissjóður hafði samþykkt að kaupa stofnfé fyrir 40 milljónir króna sem greiddar voru inn í desember 2008 og Samvinnufélag útvegsmanna í Neskaupstað hafði samþykkt að kaupa stofnfé fyrir allt að 50 milljónir króna. Kaupin voru þó skilyrt aðkomu Fjarðabyggðar og ríkisins. Samvinnufélagið greiddi 15 milljónir króna af loforðinu 19. janúar 2009, en vildi bíða með að greiða 35 milljónir króna þar til aðkoma ríkisins væri ljós. Stjórn G. Skúlasonar ehf. greiddi inn 5 milljónir króna af stofnfé 9. janúar 2009 og Launafl ehf. greiddi 10 milljónir króna vegna stofnfjárkaupa 12. janúar 2009. Stjórn Austfjarðaleiðar ehf. keypti stofnfé fyrir 5 milljónir króna 30. desember 2008. Því til viðbótar seldist stofnfé fyrir tæpar 3 milljónir króna til stofnfjárhafa í desember 2008. Samtals var því aflað tæplega 253 milljóna króna í nýtt stofnfé.81

Umsókn Sparisjóðs Norðfjarðar var vísað til Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins til umsagnar.82 Í minnisblaði Fjármálaeftirlitsins um rekstrarhæfi Sparisjóðs Norðfjarðar sagði að í heild væri áætlun sparisjóðsins raunhæf, spár um kostnaðarliði ættu að vera nokkuð áreiðanlegar og ekki miklar líkur á að þær væru langt frá settum markmiðum. Tekjuáætlun sparisjóðsins væri ekki óraunhæf en meiri óvissa væri um þann þátt rekstrarins.83 Fjármálaeftirlitið lagði til að Sparisjóði Norðfjarðar yrði veitt 20% eiginfjárframlag úr ríkissjóði.

Seðlabanki Íslands sendi fjármálaráðuneytinu sameiginlega umsögn um umsóknir sparisjóðanna um eiginfjárframlag úr ríkissjóði 21. apríl 2009. Í umsögn sinni lagði Seðlabanki Íslands ríka áherslu á að breytingar yrðu gerðar á yfirstjórn viðkomandi fjármálafyrirtækja, þar sem það ætti við, að framtíðar arðgreiðslur yrðu takmörkunum háðar og að nýjar viðskiptaáætlanir myndu liggja fyrir. Þá lagði Seðlabankinn áherslu á að leitað yrði leiða til að fá fleiri aðila til að leggja sparisjóðunum til nýtt eigið fé, til að styrkja þá og dreifa eignarhaldi, og að tryggt yrði að fyrirliggjandi tap yrði borið af þáverandi eigendum áður en ríkið myndi leggja til nýtt eigið fé. Mikilvægt væri að Fjármálaeftirlitið og endurskoðendur sparisjóðanna myndu meta eigið fé þeirra og að það yrði fært niður eins og þörf væri á, áður en ríkissjóður legði til nýtt eigið fé.84

29.6.2 Aðdragandi fjárhagslegrar endurskipulagningar

Fleiri sparisjóðir sóttu um eiginfjárframlag úr ríkissjóði og í kjölfarið fór fjármálaráðuneytið fram á að fengið yrði óháð endurskoðunarfyrirtæki til að fara yfir ársreikninga og leggja mat á virði eigna sparisjóðanna. PricewaterhouseCoopers hf. var fengið til að gera fjárhagslega áreiðanleikakönnun á ákveðnum þáttum í efnahagsreikningi og starfsemi Sparisjóðs Norðfjarðar og skilaði skýrslu sinni 24. júní 2009. Helstu niðurstöður voru að virðisrýrnun eigna væri 101 milljón króna meiri en sparisjóðurinn hefði gert ráð fyrir í ársreikningi fyrir árið 2008, en væri tekið tillit til skattaáhrifa væri virðisrýrnunin 89 milljónir króna. Eigið fé sjóðsins væri því 46,3 milljónir króna.85

Helstu ástæður niðurfærslunnar voru versnandi staða og verðgildi veða nokkurra stórra lántakenda, en mat á fjáreignum var einnig lægra en samkvæmt ársreikningi 2008. Að teknu tilliti til aukinnar niðurfærslu samkvæmt matinu, þyrfti stofnfjáraukning sparisjóðsins að nema um 380 milljónum króna til þess að eiginfjárhlutfall hans uppfyllti lágmarksviðmið reglna um framlag til sparisjóða. Stjórn sparisjóðsins hafði aflað samþykkis fyrir 253 milljónum króna af nýju stofnfé og hluti þess hafði þegar verið innborgaður.86

Fjármálaeftirlitið veitti Sparisjóði Norðfjarðar aukinn frest til að auka við eiginfjárgrunn sinn með bréfi 22. júní 2009, í þetta sinn til 10. júlí 2009. Í bréfinu var vísað til ársuppgjörs sparisjóðsins fyrir árið 2008, þar sem eiginfjárhlutfallið var neikvætt um 0,9%, og eiginfjárskýrslu 31. mars 2009, en þar kom fram að eiginfjárhlutfall sparisjóðsins væri 6,2%.87 Í svari Sparisjóðs Norðfjarðar til Fjármálaeftirlitsins 25. júní 2009 kom fram að sjóðurinn hefði þegar gripið til ráðstafana til að auka við eiginfjárgrunn sinn, fyrst með stofnfjáraukningu í kringum áramótin 2008–2009 og með sölu á hlutabréfum sjóðsins í Íslenskum verðbréfum hf. 28. apríl 2009 til Lífeyrissjóðs starfsmanna sveitarfélaga. Að teknu tilliti til þeirra aðgerða hefði eiginfjárhlutfallið samkvæmt eiginfjárskýrslu verið 10,27% að sögn sparisjóðsins. Taldi sparisjóðurinn því að eiginfjárhlutfallið væri yfir lögbundnu lágmarki en beðið væri aðgerða af hálfu ríkisins.88 Í niðurlagi bréfsins kom fram að drög að árshlutareikningi myndu liggja fyrir undir lok júlí 2009 og sparisjóðurinn myndi láta Fjármálaeftirlitið vita ef líkur væru á að lágmarkskröfur um eiginfjárhlutfall yrðu ekki uppfylltar.89

Undir lok sumars 2009 tóku fjármálaráðuneytið og Seðlabanki Íslands, undir forystu bankans, upp nánari samvinnu um fjárhagslega endurskipulagningu sparisjóða, þegar ljóst var að sparisjóðirnir uppfylltu ekki allir skilyrði reglna um framlag til sparisjóða.90 Seðlabanki Íslands var helsti kröfuhafi sparisjóðanna á þessum tíma, eftir að hafa fengið framseldar kröfur Sparisjóðabankans á hendur sparisjóðunum, sbr. ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 21. mars sama ár. Þar á meðal voru kröfur á hendur Sparisjóði Norðfjarðar sem námu 532 milljónum króna.91 Í september 2009 sendi Seðlabanki Íslands, í samvinnu við fjármálaráðuneytið, sparisjóðunum tillögu um meðferð krafna á hendur sparisjóðunum og var unnið að frekari útfærslu hennar um veturinn. Hinn 1. febrúar 2010 sendi Seðlabankinn síðan sparisjóðunum bréf þar sem þeim var boðið að semja um uppgjör krafna með ákveðnum kjörum og skilyrðum.92 Viku síðar, 8. febrúar, kynnti Fjármálaeftirlitið sparisjóðnum kröfur sínar varðandi fjárhagslega endurskipulagningu með aðild ríkissjóðs á grundvelli laga nr. 125/2008 eða með aðild Seðlabanka Íslands á grundvelli samnings um uppgjör krafna. Fjármálaeftirlitið gerði þá meðal annars kröfu um að eiginfjárhlutfallið yrði að lágmarki 16% að lokinni fjárhagslegri endurskipulagningu.93

Sparisjóðurinn sendi Fjármálaeftirlitinu útreikninga vegna skilyrða um eiginfjár- og lausafjárkröfur þess sem settar voru fram í bréfinu. Fjármálaeftirlitið taldi að yfirferð gagna gæfi ekki tilefni til annars en að álykta að sparisjóðurinn myndi standast gerðar kröfur að lokinni fjárhagslegri endurskipulagningu. Því samþykkti Fjármálaeftirlitið, miðað við fyrirliggjandi gögn, að sparisjóðurinn gengi til endanlegra samninga við Seðlabanka Íslands og aðra kröfuhafa um fjárhagslega endurskipulagningu.94

29.6.3 Samkomulag um fjárhagslega endurskipulagningu

Sparisjóður Norðfjarðar óskaði eftir að kröfuhafar sínir, Seðlabanki Íslands og Byggðastofnun, kæmu að fjárhagslegri endurskipulagningu sparisjóðsins, en ekki var um aðra langtímakröfuhafa að ræða. Í bréfi til Seðlabankans 25. febrúar 2010 benti sparisjóðurinn á að í desember 2008 og janúar 2009 hefði nýtt stofnfé verið selt til að bæta eiginfjárhlutfall sjóðsins. Sparisjóðurinn ítrekaði þá afstöðu sína að ekki bæri að færa niður það stofnfé sem lagt hefði verið fram til þess að bjarga sparisjóðnum og greitt inn með fyrirvara um aðkomu ríkisins og taldi sparisjóðurinn að Seðlabankinn, Fjármálaeftirlitið og fjármálaráðuneytið hefðu sýnt því sjónarmiði mikinn skilning.95 Stjórnarformaður sparisjóðsins sagði það hafa verið „alveg á hreinu að [stjórnvöld] kæmu ekki með neina aðstoð inn í sjóðinn nema við kæmum okkur sjálfir yfir 8% markið. Við allavega tókum því þannig. Síðan kom ríkið, Seðlabankinn, að endurfjármögnun Sparisjóðs Norðfjarðar eins og hjá flestum öðrum sparisjóðum á landsbyggðinni“.96 Þá lagði sparisjóðurinn mikla áherslu á að eldri stofnfjárhafar héldu eftir ásættanlegum hlut, eða um 10% af stofnfé eftir fjárhagslega endurskipulagningu.97

Sparisjóður Norðfjarðar kynnti Seðlabankanum áætlun sína um fjárhagslega endurskipulagningu 3. mars 2010. Í fyrsta lagi var gert ráð fyrir að eldra stofnfé yrði fært niður um 76,4%; í öðru lagi yrði víkjandi láni Byggðastofnunar að fjárhæð 196 milljónir króna breytt í stofnfé en tæpar 37 milljónir króna afskrifaðar; í þriðja lagi var gert ráð fyrir að Seðlabanki Íslands breytti 150 milljónum króna af kröfum sínum í stofnfé, 152 milljónum króna í víkjandi lán og myndi afskrifa 268 milljónir króna, og í fjórða lagi kæmu 253 milljónir króna af nýju stofnfé. Tillögurnar gerðu ráð fyrir að eiginfjárgrunnur sparisjóðsins yrði 712 milljónir króna og eiginfjárhlutfallið 22,6% eftir fjárhagslega endurskipulagningu.98

Hlutur þeirra sem áttu stofnfé áður en til niðurfærslu kæmi samkvæmt fyrsta lið tillögunnar yrði þá 10% í sjóðnum eftir endurskipulagninguna, en stofnfjáreigendur höfðu gert sér vonir um að niðurfærslan yrði mun minni en gert var ráð fyrir.99 Stjórnarformaður sparisjóðsins kvað Seðlabankann hafa farið fram á að einungis 5% eldra stofnfjár yrðu skilin eftir í sjóðnum, en að lokum hafi náðst sátt um að það yrði 10%:

Ég held það kannski breytt stöðunni svolítið gagnvart okkur að okkur skyldi takast að fá nýtt stofnfé inn og reisa sjóðinn aftur, að menn hafi nú kannski aðeins sýnt okkur meiri sanngirni, þessum sjóði, heldur en sumum. Allavega, ég veit það ekki, en maður svona hefur það á tilfinningunni.100

Seðlabanki Íslands samþykkti tilboð Sparisjóðs Norðfjarðar 4. mars 2010, en endanlegur frágangur samnings beið samþykkis annarra kröfuhafa og Fjármálaeftirlitsins.101 Áform ríkisins og Seðlabanka Íslands um fjárhagslega endurskipulagningu sparisjóðanna voru einnig háð samþykki Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) sem samþykkti áformin 21. júní 2010.102

Í kjölfar dóma Hæstaréttar 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010, um lögmæti lánsskuldbindinga í íslenskum krónum tengdra gengi erlendra gjaldmiðla, sendu Fjármálaeftirlitið og Seðlabanki Íslands fjármálafyrirtækjum tilmæli vegna óskuldbindandi gengistryggingarákvæða 30. júní 2010. Fjármálafyrirtækjum var síðan gert að endurmeta eiginfjárþörf sína í ljósi þessara aðstæðna og tryggja að eigið fé yrði nægilegt til þess að mæta hugsanlegri rýrnun eigna umfram það sem endurreikningur hefði í för með sér.103 Forsvarsmenn og endurskoðendur Sparisjóðs Norðfjarðar könnuðu áhrif dómanna í kjölfarið í samráði við Fjármálaeftirlitið miðað við gefnar forsendur Fjármálaeftirlitsins um vaxtakjör og var niðurstaðan sú að dómarnir hefðu ekki teljandi áhrif á fjárhagslega endurskipulagningu sparisjóðsins í samræmi við kröfur Fjármálaeftirlitsins.104

Eftir að samþykki Eftirlitsstofnunar EFTA lá fyrir og ljóst var orðið að dómar Hæstaréttar hefðu ekki íþyngjandi áhrif á sparisjóðinn, leit Fjármálaeftirlitið svo á, þrátt fyrir að grunnrekstur sparisjóðsins væri í járnum, að ekki væri ástæða til að ætla annað en að sparisjóðurinn næði að snúa grunnrekstrinum við á næstu misserum. Þannig væri til að mynda að vænta viðamikilla hagræðingaraðgerða hjá sparisjóðunum eftir að Bankasýsla ríkisins tæki við eignarhlutum ríkisins í þeim. Því staðfesti Fjármálaeftirlitið fyrra samþykki sitt frá 24. mars 2010 um að kröfur þess vegna fjárhagslegrar endurskipulagningar væru uppfylltar.105

Samkomulag Sparisjóðs Norðfjarðar og Seðlabanka Íslands um fjárhagslega endurskipulagningu var undirritað 27. júlí 2010 og kom það í stað eiginfjárframlags úr ríkissjóði. Samkomulagið tók til krafna samkvæmt „Rammasamningi um reikningslán milli Sparisjóðs Norðfjarðar og Sparisjóðabanka Íslands hf.“ frá 9. desember 2004, en kröfurnar á uppgjörsdegi námu 559 milljónum króna. Í uppgjörinu fólst að sparisjóðurinn skyldi greiða 140 milljónir af kröfu Seðlabankans með nýju víkjandi láni í erlendum myntum til 7 ára106 og 150 milljónir með stofnfé sem nam 24% stofnfjár sparisjóðsins eftir fjárhagslega endurskipulagningu. Eftirstöðvar kröfunnar, 269 milljónir króna, yrðu afskrifaðar.107 Samkvæmt samkomulaginu skyldi sparisjóðurinn uppfylla tiltekin skilyrði fyrir 1. ágúst 2010, meðal annars að leggja fyrir stofnfjáreigendafund breytingar á samþykktum sparisjóðsins sem sneru að lækkun stofnfjár og umbreytingu krafna í stofnfé, en tillögurnar höfðu þegar verið samþykktar á stofnfjáreigendafundi 28. júní.108 Á stjórnarfundi sparisjóðsins 27. júlí 2010 samþykkti stjórn sparisjóðsins síðan samkomulag um fjárhagslega endurskipulagningu og tillögu um að falla frá beiðni um eiginfjárframlag úr ríkissjóði.

Við fjárhagslega endurskipulagningu Sparisjóðs Norðfjarðar eignaðist Seðlabanki Íslands 24% stofnfjár og Byggðastofnun 25,5%, samtals 49,5% heildarstofnfjár. Eldri stofnfjárhafar áttu 10% og nýir stofnfjárhafar 40,6%, þar af átti Fjarðabyggð 22,4%.109 Að lokinni fjárhagslegri endurskipulagningu varð hagnaður af rekstri Sparisjóðs Norðfjarðar en hann nam 86,7 milljónum króna á árinu 2010. Á því ári var tekjufærð niðurfelling skuldar við Seðlabankann sem nam 269 milljónum króna. Bókfært eigið fé í árslok 2010 var um 591 milljón króna og eiginfjárhlutfallið 20,3%.110 Hins vegar varð um 12 milljóna króna tap af rekstri sparisjóðsins á árinu 2011 og í lok þess árs nam bókfært eigið fé hans um 578 milljónum króna og var eiginfjárhlutfall sparisjóðsins 18,2%.111

29.7 Arður af stofnfjáreign

Sparisjóður Norðfjarðar greiddi stofnfjárhöfum lengst af arð af stofnfé þeirra. Á árunum 2001–2008 námu arðgreiðslur vegna næstliðinna ára samtals 119 milljónum króna. Oftast var um að ræða hámarksarðgreiðsluhlutfall samkvæmt reglum Tryggingasjóðs sparisjóða. Þó hefði mátt greiða hærri arð en gert var vegna ársins 2005, en þá námu arðgreiðslur 10,4% af stofnfé í lok árs, en raunávöxtun eigin fjár var 17,3% á árinu, sbr. töflu 21. Arðgreiðsluhlutfall vegna rekstraráranna 2006 og 2007 réðst af raunávöxtun eigin fjár hvort þessara ára. Sparisjóðurinn greiddi engan arð eftir 2008.112

Í lögum um fjármálafyrirtæki var heimild til að endurmeta stofnfé sparisjóðs og greiða inn á stofnfjárreikninga stofnfjáreigenda, og skyldi höfð hliðsjón af verðlagsbreytingum við endurmatið.113 Árin 2005–2008 var stofnfé Sparisjóðs Norðfjarðar hækkað með endurmati vegna verðlagsbreytinga um 42 milljónir króna. Framkvæmdin var í samræmi við reglur. Endurmati vegna ársins 2004 var þó ekki bætt við stofnféð í árslok heldur árið eftir og sama gilti um endurmat vegna ársins 2005, en því var bætt við stofnféð á árinu 2006 ásamt endurmatinu vegna 2006. Stofnfé var ekki verðbætt eftir 2008.

Í sömu lögum var jafnframt heimild til þess að ráðstafa 10% af hagnaði næstliðins rekstrarárs til hækkunar stofnfjár með svokölluðu sérstöku endurmati.114 Hækkunin mátti þó ekki vera meiri en 5% á ári og ekki mátti flytja heimild til þessa endurmats milli ára. Sparisjóðurinn nýtti heimildina til sérstaks endurmats og hækkaði stofnféð jafnan um 5% á ári, nema vegna ársins 2008 þegar tap var á rekstrinum. Síðan hefur ekki verið um sérstakt endurmat að ræða.

Í töflu 21 eru tilfærðar allar þær upplýsingar sem útreikningur á arði og endurmati byggist á. Hafa verður í huga að arðurinn og sérstaka endurmatið eru þar höfð undir því ári sem þau eru útreiknuð. Arðurinn var greiddur út ári síðar og sérstaka endurmatið bættist þá við stofnféð. Ástæða þess er sú að tillaga stjórnar um hvort tveggja þurfti að hljóta samþykki aðalfundar til þess að koma til framkvæmda. Þannig sjást viðkomandi fjárhæðir ekki fyrr en í ársreikningi næsta árs.

29.8 Innra eftirlit

Við skoðun á innra eftirliti sparisjóðanna var leitast við að kanna hvernig fyrirkomulagi þess var háttað og hvort veikleikar hafi verið í eftirlitskerfum sparisjóðanna. Almenna umfjöllun um innra eftirlit, hlutverk stjórnar, innri endurskoðun og áhættustýringu er að finna í 6. kafla, en eftirfarandi umfjöllun lýtur að virkni þessara þátta í starfsemi Sparisjóðs Norðfjarðar og áhrif þeirra á rekstur sparisjóðsins. Áhersla var lögð á tímabilið frá 2005 til 2010.

29.8.1 Innri endurskoðun

Sparisjóður Norðfjarðar starfrækti ekki eigin endurskoðunardeild á því tímabili sem til athugunar var, en Fjármálaeftirlitið veitti sparisjóðnum undanþágu frá rekstri eigin innri endurskoðunardeildar í kjölfar þess að sparisjóðurinn gerði samning um innri endurskoðun við KPMG endurskoðun hf.115 árið 2004. Sá KPMG um innri endurskoðun fyrir sparisjóðinn það tímabil sem til skoðunar var. Fólst innri endurskoðun meðal annars í könnun á þáttum í innra eftirliti sparisjóðsins, hvort unnið hafi verið í samræmi við ákvarðanir stjórnar, hvort starfsreglur hafi verið virtar, sem og lög og aðrar viðmiðanir. Í ráðningarbréfi innri endurskoðanda frá 10. desember 2003 sagði að reglulega skyldu gerðar athuganir á ákveðnum þáttum sem taldir voru upp í bréfinu og voru í samræmi við leiðbeinandi tilmæli Fjármálaeftirlitsins, með þeirri undantekningu þó að skoðun fjárvörslureikninga ætti ekki við í tilviki sparisjóðsins.

Í skýrslu innri endurskoðanda vegna ársins 2005 kom fram að almennt hefði innra eftirlit komið vel út. Bent var á mikilvægi þess að stjórnendur sparisjóðsins hefðu aðgang að nýjustu upplýsingum um fjárhagsstöðu stærstu viðskipta- og vanskilaaðila sparisjóðsins á hverjum tíma. Í einstaka tilvikum höfðu komið upp frávik frá útlánareglum, þar sem ekki hafði verið aflað ársreikninga og annarra gagna í tengslum við fyrirgreiðslu til viðskiptamanna. Þá væri einnig mikilvægt að forsvarsmenn sparisjóðsins öfluðu formlegra trygginga vegna skuldbindinga viðskiptamanna sinna og að lagt væri mat á gæði og verðmæti trygginga með reglubundnum hætti. Athugasemdir voru gerðar við eftirfylgni við færslu starfsmanna milli starfa innan sparisjóðsins með tilliti til innra eftirlits og bent á nauðsyn þess að hafa reglur um almenna þjónustu við starfsmenn. Athugasemdir voru gerðar við tryggingar útlána og fram kom að vanskil væru hlutfallslega meiri en hjá öðrum innlánsstofnunum.116

Í skýrslu innri endurskoðunar vegna ársins 2006 var ítrekað mikilvægi þess að kalla eftir fjárhagsupplýsingum frá viðskiptamönnum ítrekað. Ekki voru gerðar athugasemdir við innra eftirlit sparisjóðsins, þó frávik hafi reynst varðandi talningar víxla og skuldabréfa en vinnureglur þar að lútandi skorti.117 Í skýrslu innri endurskoðunar vegna ársins 2007 var enn á ný ítrekað mikilvægi þess að kalla eftir fjárhagsupplýsingum frá viðskiptamönnum, en einn aðili var með skuldbindingu umfram mörk um stórar áhættuskuldbindingar. Athugasemd var gerð við könnun á raunvirði trygginga, auk þess sem KPMG taldi að hækka þyrfti framlög í afskriftareikning útlána. Í skýrslu innri endurskoðunar vegna ársins 2008 var enn á ný ítrekað mikilvægi þess að stjórnendur hefðu aðgang að nýjustu upplýsingum um fjárhagsstöðu stærstu viðskipta- og vanskilaaðila. Í ljósi aðstæðna á fjármálamörkuðum taldi KPMG brýnt að stjórnendur fylgdust grannt með stöðu fyrirtækja og einstaklinga vegna hugsanlegra vanskila, lausafjárstöðu og aðgangi að fjármagni.118

Í tengslum við umsókn sparisjóðsins um 20% eiginfjárframlag úr ríkissjóði, fór fjármálaráðuneytið fram á að PricewaterhouseCoopers framkvæmdi áreiðanleikakönnun á afmörkuðum þáttum í efnahag og starfsemi sparisjóðsins. Meginniðurstöður hennar voru að færa þyrfti niður eignir sparisjóðsins. Undir lok árs 2009 óskaði Fjármálaeftirlitið eftir að PricewaterhouseCoopers yfirfæri fyrra mat sitt, en síðar var ákveðið að innri endurskoðandi færi yfir matið og kannaði hvort verulegar breytingar hefðu átt sér stað. Var því lögð meiri áhersla á virði ákveðinna eigna en venja var af hálfu innri endurskoðanda.119 Lagði innri endurskoðandi til að útlánareglur sparisjóðsins yrðu „skoðaðar“ svo þær tækju mið af breyttu efnahagsástandi. Lagði hann einnig til að settar yrðu reglur um innheimtu og að gerð yrði grein fyrir frávikum frá þeim reglum.

Í skýrslu innri endurskoðanda vegna ársins 2010 kom fram að KPMG teldi að vel væri haldið utan um útlán og að farið væri að lánareglum. Ekki hefðu komið upp frávik við samanburð á kjörum venslaðra og annarra viðskiptamanna. Utanumhald um veittar ábyrgðir væri gott, fyrirliggjandi væru tryggingar vegna allra stærri ábyrgða og vel haldið utan um innheimtu og vanskilamál. Í örfáum tilvikum hafi skýrslum til opinberra aðila verið skilað eftir eindaga. Þá var gerð athugasemd við öryggismál sparisjóðsins.120

 


 

1 . Smári Geirsson, Sparisjóður í 70 ár: Saga Sparisjóðs Norðfjarðar 1920–1990, Norðfirði 1992, bls. 43.

2 . Nánar er fjallað um meðhöndlun ársreikninga og reikningsskilareglur í 8. kafla.

3 . Um launaþróun hjá sparisjóðunum í heild er fjallað í 8. kafla, um reikningsskil sparisjóðanna.

4 . Útreikningur á kjarnarekstri er skýrður nánar í 8. kafla.

5 . Samkvæmt upplýsingum um hlutdeildarskírteinishafa í Rekstrarfélagi Byrs hf. frá Verdis hf.

6 . Um skilgreiningu á eigin fé eða eiginfjárgrunni var vísað til 84. gr. og 85. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.

7 . Nánari umfjöllun um aðferðafræði, forsendur og gögn má finna í 9. kafla, um útlán sparisjóðanna.

8 . Lánveiting hjá fjármálafyrirtæki er skilgreind sem „áhætta“, sbr. 2. mgr. 30. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Það telst vera stór áhættuskuldbinding þegar viðskiptamaður eða fjárhagslega tengdir aðilar fá lán, ábyrgðir, gera framvirka samninga eða fá aðrar fyrirgreiðslur hjá fjármálafyrirtæki og slík skuldbinding fer yfir 10% af eiginfjárgrunni fjármálafyrirtækisins. Áhættuskuldbindingar einstakra viðskiptamanna eða fjárhagslega tengdra aðila máttu ekki fara yfir 25% af eiginfjárgrunni, sbr. 30. gr. laga um fjármálafyrirtæki, og færi áhættuskuldbinding fram yfir þau mörk bar að tilkynna það Fjármálaeftirlitinu án tafar.

9 . Lánahópur samanstendur af tveimur eða fleiri viðskiptamönnum sem eru fjárhagslega tengdir í skilningi 1. mgr. 30. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Um nánari skilgreiningu á lánahópi vísast til umfjöllunar í 9. kafla, um útlán.

10 . Skýrsla PricewaterhouseCoopers vegna könnunar á afmörkuðum þáttum í efnahag og starfsemi Sparisjóðs Norðfjarðar, 24. júní 2009.

11 . Félagið var í eigu Sigtryggs Stefáns Reynaldssonar, Bjarka Freys Arnórssonar og Guðröðar Hákonarsonar.

12 . Skýrsla KPMG hf. um innri endurskoðun Sparisjóðs Norðfjarðar fyrir árið 2007, 19. nóvember 2007.

13 . Samkvæmt hlutafjármiðum ríkisskattstjóra var félagið í eigu Stefáns Árna Guðmundssonar.

14 . Fram kom í skýrslu Vilhjálms G. Pálssonar sparisjóðsstjóra fyrir rannsóknarnefndinni að áður en hann kom til starfa hefði ekki verið staðið nægilega vel að töku trygginga og gerði hann og endurskoðandi athugasemdir við verklagið. Sparisjóðurinn útbjó þá nýjan verkferil þar sem gert var að skilyrði að byggingarfélög væru að lágmarki búin að undirrita lóðarleigusamning sem hægt væri að veðsetja áður en byggingar risu. Þá fengu byggingarfélög ekki lánað meira en sem nam því sem búið var að byggja hverju sinni.

15 . Skýrsla Vilhjálms G. Pálssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 15. apríl 2013.

16 . Skýrsla Vilhjálms G. Pálssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 15. apríl 2013.

17 . Skýrsla Vilhjálms G. Pálssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 15. apríl 2013.

18 . Samkvæmt hlutafjármiðum sem skilað er til ríkisskattstjóra.

19 . Skýrsla Vilhjálms G. Pálssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 15. apríl 2013.

20 . Tölvuskeyti Sparisjóðs Norðfjarðar til forstjóra bifreiðaverkstæðisins 28. september 2006.

21 . Tölvuskeyti Sparisjóðs Norðfjarðar til rannsóknarnefndarinnar 17. júlí 2012.

22 . Tölvuskeyti Sparisjóðs Norðfjarðar til forstjóra bifreiðaverkstæðisins 17. desember 2008.

23 . Samkvæmt tilkynningum til fyrirtækjaskrár. Upplýsingar fengnar frá ríkisskattstjóra.

24 . Tölvuskeyti Sparisjóðs Norðfjarðar til meirihlutaeiganda bifreiðaverkstæðisins 28. maí 2009.

25 . Skýrsla PricewaterhouseCoopers vegna könnunar á afmörkuðum þáttum í efnahag og starfsemi Sparisjóðs Norðfjarðar, 24. júní 2009.

26 . Skýrsla Vilhjálms G. Pálssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 19. apríl 2013.

27 . Það eintak af reglunum sem rannsóknarnefndinni var afhent er ekki undirritað og virðist óklárað, þar sem í því skjali er breytingasaga þess. Í stjórnarfundargerð frá 6. febrúar 2007 er bókað samþykki fyrir starfsreglum stjórnar en 6. febrúar 2007 er sama dagsetning og á reglum sem afhentar voru nefndinni.

28 . Um það hverjir töldust til minni sparisjóða og hverjir til hinna stærri vísast til taflna 5, 9 og 10 í 8. kafla skýrslunnar.

29 . Tölvuskeyti Sparisjóðs Norðfjarðar til rannsóknarnefndarinnar 5. maí 2013.

30 . Skýrsla Vilhjálms G. Pálssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 19. apríl 2013.

31 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Norðfjarðar, 7. febrúar 2006.

32 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Norðfjarðar, 30. mars 2006.

33 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Norðfjarðar, 15. febrúar 2007.

34 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Norðfjarðar, 12. apríl 2007.

35 . Skýrsla Vilhjálms G. Pálssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 15. apríl 2013.

36 . Sjá nánari útskýringu í upphafi 11. kafla, um fjármögnun sparisjóðanna.

37 . Atvinnugreinaflokkun innlána sparisjóðsins sem skilað var mánaðarlega til Seðlabanka Íslands frá júlí 2007 til desember 2011.

38 . Mánaðarleg lausafjáryfirlit Sparisjóðs Norðfjarðar til Seðlabankans, janúar 2005 til desember 2011.

39 . Minnisblað um samninga um endurskipulagningu skulda Sparisjóðs Norðfjarðar, 4. nóvember 2010.

40 . Nánar er fjallað um fjármögnun íbúðalána sparisjóðanna hjá Íbúðalánasjóði í 11. kafla.

41 . Tölvuskeyti Sparisjóðs Norðfjarðar til rannsóknarnefndarinnar 6. desember 2012.

42 . Samþykktir fyrir Sparisjóð Norðfjarðar, 11. apríl 2003.

43 . Fundargerð stofnfjáreigendafundar í Sparisjóði Norðfjarðar, 27. nóvember 2007.

44 . Samkvæmt lögum var engum stofnfjáraðila sparisjóðs heimilt að fara með meira en 5% af heildaratkvæðamagni í sparisjóðnum þar til 2009, þegar sparisjóðunum var heimilað að ákvarða sjálfir slíkar takmarkanir í samþykktum sínum.

45 . Heimild til að lækka stofnfé kom inn í lög nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki árið 2009 með lögum nr. 76/2009. Áður var slíkt ekki mögulegt fyrir sparisjóði.

46 . Ársreikningar Sparisjóðs Norðfjarðar; stofnfjáreigendalistar Sparisjóðs Norðfjarðar.

47 . Við samruna sparisjóða var oft gripið til stofnfjáraukningar í öðrum eða báðum þeirra sjóða sem til stóð að sameina svo að hlutfall stofnfjár af eigin fé í nýjum sjóði yrði sambærilegt við samruna sparisjóðanna. Var það nefnt skiptihlutfall. Nánar er fjallað um skiptihlutfall við samruna í 12. kafla.

48 . Skýrsla Jóns Kr. Ólafssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 9. apríl 2013.

49 . Skýrsla Jóns Kr. Ólafssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 9. apríl 2013.

50 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Norðfjarðar, 8. nóvember 2007.

51 . Fundargerð stofnfjáreigendafundar í Sparisjóði Norðfjarðar, 27. nóvember 2007.

52 . Fundargerð stofnfjáreigendafundar í Sparisjóði Norðfjarðar, 27. nóvember 2007.

53 . Fundargerð stofnfjáreigendafundar í Sparisjóði Norðfjarðar, 27. nóvember 2007.

54 . Fundargerð stofnfjáreigendafundar í Sparisjóði Norðfjarðar, 27. nóvember 2007.

55 . Skýrsla Jóns Kr. Ólafssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 9. apríl 2013.

56 . Skýrsla Jóns Kr. Ólafssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 9. apríl 2013.

57 . Skýrsla KPMG hf. um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðs Norðfjarðar 2007, 12. mars 2008.

58 . Skýrsla Jóns Kr. Ólafssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 9. apríl 2013.

59 . Skýrsla Jóns Kr. Ólafssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 9. apríl 2013.

60 . Skýrsla Jóns Kr. Ólafssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 9. apríl 2013.

61 . Skýrsla Vilhjálms G. Pálssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 15. apríl 2013.

62 . Skýrsla Vilhjálms G. Pálssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 15. apríl 2013.

63 . Skýrsla Vilhjálms G. Pálssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 15. apríl 2013.

64 . Greinargerð um fjárhagslega könnun á tilteknum þáttum í efnahagsreikningi og starfsemi Saga Capital Fjárfestingarbanka hf., trúnaðarskýrsla unnin fyrir Saga Capital Fjárfestingarbanka hf. og Seðlabanka Íslands af Möttli ehf., júní 2009.

65 . Í athugasemd Vilhjálms G. Pálssonar til rannsóknarnefndarinnar 3. október 2013 benti hann á að ekki hefði verið um eiginlega fjölgun stofnfjáreigenda að ræða. Fjöldinn hefði aðallega breyst vegna erfðamála og fjárskipta.

66 . Bréf Sparisjóðs Norðfjarðar til stofnfjáreigenda Sparisjóðs Norðfjarðar 28. nóvember 2007; stofnfjárlisti Sparisjóðs Norðfjarðar, 2007; lánasamningur milli Saga Capital Fjárfestingarbanka hf. og lántaka, 19. desember 2007; ársreikningur Sparisjóðs Norðfjarðar 2007.

67 . Í fundargerð aðalfundarins var vitnað í þessi orð sem var meðal annars að finna í fréttatilkynningu viðskiptaráðuneytisins „Nefnd sem fara á yfir lagaumhverfi sparisjóðanna“ 28. ágúst 2007 sem birt var á vefsíðu ráðuneytisins. Sjá http://www.atvinnuvegaraduneyti.is/utgafa/frettir/eldri-frettir/evr/nr/2679.

68 . Fundargerð aðalfundar Sparisjóðs Norðfjarðar, 2. apríl 2008.

69 . Fundargerð stofnfjáreigendafundar Sparisjóðs Norðfjarðar, 9. desember 2008.

70 . Bréf Sparisjóðs Norðfjarðar til fjármálaráðuneytisins 19. janúar 2009; fundargerð stjórnar Sparisjóðs Norðfjarðar, 15. janúar 2009.

71 . Stofnfjáreigendalistar Sparisjóðs Norðfjarðar.

72 . Ársreikningur Sparisjóðs Norðfjarðar 2010.

73 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til Sparisjóðs Norðfjarðar 22. október 2008.

74 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til Sparisjóðs Norðfjarðar 6. nóvember 2008.

75 . Bréf Sparisjóðs Norðfjarðar til Fjármálaeftirlitsins 1. desember 2008.

76 . Hinn 27. nóvember 2007 hafði stjórn Sparisjóðs Norðfjarðar verið veitt heimild til að auka stofnfé um allt að 600 milljónir króna með áskrift nýrra stofnfjárhluta. Á þessum tíma voru enn ónýttar 399 milljónir króna af þeirri heimild.

77 . Skýrsla Jóns Kr. Ólafssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 9. apríl 2013.

78 . Fjallað er um reglur um framlag til sparisjóða skv. 2. gr. laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitinga úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. í 13. kafla.

79 . Sparisjóður Norðfjarðar – árshlutauppgjör, 30. nóvember 2008.

80 . Bréf Sparisjóðs Norðfjarðar til fjármálaráðuneytisins 19. janúar 2009.

81 . Bréf Sparisjóðs Norðfjarðar til fjármálaráðuneytisins 19. janúar 2009.

82 . Bréf fjármálaráðuneytisins til Fjármálaeftirlitsins 17. mars 2009; bréf fjármálaráðuneytisins til Seðlabanka Íslands 17. mars 2009.

83 . Sparisjóður Norðfjarðar – minnisblað um rekstrarhæfi, 19. mars 2009.

84 . Bréf Seðlabanka Íslands til fjármálaráðuneytisins 21. apríl 2009. Nánar er fjallað um umsögn Seðlabankans um umsóknir sparisjóðanna í 13. kafla.

85 . Skýrsla PricewaterhouseCoopers vegna könnunar á afmörkuðum þáttum í efnahag og starfsemi Sparisjóðs Norðfjarðar, 24. júní 2009.

86 . Skýrsla PricewaterhouseCoopers vegna könnunar á afmörkuðum þáttum í efnahag og starfsemi Sparisjóðs Norðfjarðar, 24. júní 2009.

87 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til Sparisjóðs Norðfjarðar 22. júní 2009.

88 . Bréf Sparisjóðs Norðfjarðar til Fjármálaeftirlitsins 25. júní 2009.

89 . Í árshlutareikningi fyrir tímabilið frá 1. janúar til 30. júní 2009 var eiginfjárhlutfall sparisjóðsins 8,7%.

90 . Bréf Seðlabanka Íslands til sparisjóða 8. september 2009.

91 . Minnisblað Seðlabanka Íslands um vinnu með kröfur Seðlabanka Íslands á hendur sparisjóðunum, 21. ágúst 2009.

92 . Ákvörðun bankastjóra Seðlabanka Íslands nr. 1028, 1. febrúar 2010. Um bréf Seðlabanka Íslands, kjör hans og skilmála má lesa í 13. kafla.

93 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til sparisjóða 8. febrúar 2010. Frekari umfjöllun um kröfur Fjármálaeftirlitsins er í 13. kafla.

94 . Bréf Sparisjóðs Norðfjarðar til Fjármálaeftirlitsins 11. mars 2010; bréf Fjármálaeftirlitsins til Sparisjóðs Norðfjarðar 23. mars 2010.

95 . Bréf Sparisjóðs Norðfjarðar til Seðlabanka Íslands 25. febrúar 2010.

96 . Skýrsla Jóns Kr. Ólafssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 9. apríl 2013.

97 . Bréf Sparisjóðs Norðfjarðar til Seðlabanka Íslands 25. febrúar 2010.

98 . Tillaga Saga Capital Fjárfestingarbanka um fjárhagslega endurskipulagningu Sparisjóðs Norðfjarðar, mars 2010.

99 . Skýrsla Vilhjálms G. Pálssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 19. apríl 2013.

100 . Skýrsla Jóns Kr. Ólafssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 9. apríl 2013.

101 . Bréf Seðlabanka Íslands til Sparisjóðs Norðfjarðar 4. mars 2010.

102 . Nánari umfjöllun um ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA er í 13. kafla.

103 . „Tilmæli Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands til fjármálafyrirtækja vegna óskuldbindandi gengistryggingarákvæða“, fme.is, http://www.fme.is/utgefid-efni/frettir-og-tilkynningar/frettir/nr/650. Sjá nánar í 13. kafla.

104 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til Sparisjóðs Norðfjarðar 30. ágúst 2010.

105 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til Sparisjóðs Norðfjarðar 30. ágúst 2010.

106 . Hlutföllin milli mynta í nýju víkjandi láni sparisjóðsins voru 50% í evrum, 40% í Bandaríkjadölum og 10% í sterlingspundum.

107 . Samkomulag um fjárhagslega endurskipulagningu milli Seðlabanka Íslands og Sparisjóðs Norðfjarðar, 27. júlí 2010.

108 . Samkomulag um fjárhagslega endurskipulagningu milli Seðlabanka Íslands og Sparisjóðs Norðfjarðar, 27. júlí 2010.

109 . Til nýrra stofnfjárhafa töldust Fjarðabyggð, Stapi lífeyrissjóður, Samvinnufélag útvegsmanna í Neskaupstað, G. Skúlason ehf., Launafl ehf. og Austfjarðaleið ehf., auk eldri stofnfjárhafa sem lögðu fram nýtt stofnfé.

110 . Ársreikningur Sparisjóðs Norðfjarðar 2010.

111 . Ársreikningur Sparisjóðs Norðfjarðar 2011.

112 . Gerð er grein fyrir reglum um greiðslu arðs í 12. kafla.

113 . Þessi heimild hafði verið við lýði allt frá 1993. Ákvæðinu var síðar breytt með lögum nr. 76/2009. Sjá nánari umfjöllun í 12. kafla.

114 . Sú heimild kom inn í lög 2001. Ákvæðinu var síðar breytt með lögum nr. 76/2009. Sjá nánari umfjöllun í 12. kafla.

115 . Nú KPMG hf.

116 . Skýrsla KPMG hf. um innri endurskoðun Sparisjóðs Norðfjarðar fyrir árið 2005, 15. nóvember 2005.

117 . Skýrsla KPMG hf. um innri endurskoðun Sparisjóðs Norðfjarðar fyrir árið 2006, 15. nóvember 2006.

118 . Skýrsla KPMG hf. um innri endurskoðun Sparisjóðs Norðfjarðar fyrir árið 2008, 12. september 2008.

119 . Skýrsla KPMG hf. um innri endurskoðun Sparisjóðs Norðfjarðar fyrir árið 2009, febrúar 2010. Fjallað er um umsókn sparisjóðsins og fjárhagslega endurskipulagningu í 13. kafla.

120 . Skýrsla KPMG hf. um innri endurskoðun Sparisjóðs Norðfjarðar fyrir árið 2010, janúar 2011.