24. kafli – Sparisjóður Strandamanna
Efnisyfirlit
24. Sparisjóður Strandamanna
Sparisjóður Kirkjubóls og Fellshrepps var stofnaður 19. janúar 1891. Hann var lengst af til húsa á heimili gjaldkera eða í rúm fimmtíu ár á Kirkjubóli í Steingrímsfirði. Nafni sparisjóðsins var breytt í Sparisjóð Strandamanna árið 1995. Fjórum árum síðar sameinaðist Sparisjóður Árneshrepps sparisjóðnum, en Sparisjóður Árneshrepps var stofnaður 1932 og hafði verið til húsa í Norðurfirði í 18 ár þegar til sameiningarinnar kom.
Í samþykktum sparisjóðsins frá 18. apríl 2010 segir að sparisjóðurinn sé sjálfseignarstofnun sem stundi sparisjóðastarfsemi eins og hún sé skilgreind í lögum um fjármálafyrirtæki. Sparisjóðurinn leggi áherslu á uppbyggingu samfélagsins sem hann starfar í, meðal annars með stuðningi við íþrótta- og æskulýðsstarf, líknarmál og menningarviðburði, auk annars sem orðið geti til að efla og göfga mannlífið á starfssvæði hans. Höfuðstöðvar sparisjóðsins eru að Hafnarbraut 19 á Hólmavík þar sem jafnframt er sinnt póstþjónustu á vegum Íslandspósts og vátryggingastarfsemi í umboði Sjóvár-Almennra trygginga hf. Útibú er einnig starfrækt í Norðurfirði.
Stjórnarformaður sparisjóðsins er Björn Torfason og hefur hann sinnt því hlutverki óslitið frá aðalfundi árið 2000. Starfi sparisjóðsstjóra hefur Guðmundur B. Magnússon gegnt frá árslokum 2003 þegar Benedikt Grímsson frá Kirkjubóli lét af störfum. Benedikt hafði starfað sem sparisjóðsstjóri frá árinu 1997.
Sparisjóður Strandamanna hefur jafnan verið í hópi minni sparisjóða hér á landi. Í lok árs 2007, fyrir fall bankanna, voru stofnfjárhafar 102 og eignarhaldið frekar dreift. Heildareignir námu þá rúmum 1,8 milljörðum króna eða 0,3% af heildareignum allra sparisjóðanna. Samanlagðar eignir allra sparisjóða voru þá 614 milljarðar króna. Í árslok 2011 námu heildareignir sparisjóðsins 2,2 milljörðum króna og voru þá 3,7% af heildareignum sparisjóðanna.
Sparisjóður Strandamanna var einn þeirra sparisjóða sem komu að stofnun og rekstri sameiginlegrar starfsstöðvar nokkurra sparisjóða af landsbyggðinni undir nafninu Sp-ráðgjöf ehf., en sú starfsemi hafði nokkur áhrif á útlánasafn sjóðsins. Starfsemin var til húsa að Engjateigi í Reykjavík í húsnæði sem samstarfssjóðirnir höfðu fjárfest í.1
Í byrjun árs 2007 kom til tals í stjórn sparisjóðsins að sameina hann Sparisjóði Bolungarvíkur, Sparisjóði Vestfirðinga og Sparisjóði Húnaþings og Stranda. Af því varð ekki, en um mitt árið sameinuðust tveir síðastnefndu sparisjóðirnir Sparisjóðnum í Keflavík. Í framhaldinu óskaði Sparisjóðurinn í Keflavík eftir viðræðum við Sparisjóð Strandamanna um nánara samstarf og sameiningu. Stjórn sparisjóðsins lýsti sig reiðubúna til viðræðna en ekkert varð úr þeim.2
Sparisjóður Strandamanna er eitt elsta fjármálafyrirtæki landsins og einn þriggja sparisjóða í landinu þar sem íslenska ríkið er ekki meðal stofnfjáreigenda.
24.1 Ársreikningar 2001–2011
Hér verður farið yfir þróun rekstrarreiknings og efnahagsreiknings Sparisjóðs Strandamanna, helstu liði þeirra og kennitölur á árunum 2001 til 2011. Umfjöllunin miðast við verðlag hvers árs nema annað sé tekið fram. Sparisjóðurinn tók upp breyttar reikningsskilaaðferðir árið 2007 og fór að færa markaðsverðbréf og eignarhluti í félögum sem fjáreignir á gangvirði og mat niðurfærslu vegna útlána með öðrum hætti en áður. Jafnframt var framsetning ársreikningsins þá löguð að alþjóðlegum reikningsskilastöðlum (IFRS) án þess að um eiginlega upptöku þeirra væri að ræða. Þetta kallar á nokkrar tilfærslur hér til þess að reikningar verði samanburðarhæfir á milli ára. Þessi breyting á reikningsskilaaðferðum leiddi til hækkunar á eigin fé sparisjóðsins í ársbyrjun 2007 um 87 milljónir króna.3
24.1.1 Rekstrarreikningar
Sparisjóður Strandamanna var rekinn með hagnaði öll árin frá 2001 til 2007. Á árinu 2007 nam hagnaður sparisjóðsins 67 milljónum króna og hafði hækkað um 25% frá fyrra ári. Þetta var þó minni hagnaður en árin 2004 og 2005 þegar afkoma af fjáreignum, fyrst og fremst hækkun á eignarhlut í Kaupþingi Búnaðarbanka hf., réð mestu um afkomuna. Viðsnúningur varð í rekstrinum á árinu 2008 þegar tap varð upp á 356 milljónir króna. Tapið skýrðist af 290 milljóna króna gengistapi af fjáreignum og 134 milljóna króna framlagi í afskriftareikning útlána. Áframhaldandi tap varð á rekstri sjóðsins á árinu 2009 þegar gengistap af fjáreignum nam 132 milljónum króna. Þar að auki hækkaði framlag í afskriftareikning útlána og nam 143 milljónum króna. Framlagið var einnig mjög hátt árið 2011 en tekjufærsla upp á 391 milljón króna vegna niðurfærslu skuldar við Seðlabanka Íslands leiddi til 17,5 milljóna króna hagnaðar það árið.
Hreinar rekstrartekjur
Gengisþróun fjáreigna hafði töluverð áhrif á hreinar rekstrartekjur sparisjóðsins á tímabilinu 2001–2011. Afkoma af fjáreignum skýrði nær algjörlega auknar, hreinar rekstrartekjur á árunum 2003 til 2007. Mikið gengistap varð hins vegar af þeim á árunum 2008 og 2009 sem leiddi til tapreksturs af sparisjóðnum. Áframhaldandi gengistap varð af fjáreignum 2010–2011 en vöxtur hreinna vaxta- og þjónustutekna dró úr áhrifum fjáreignatapsins á hreinar rekstrartekjur. Fjáreignastarfsemi hafði í rauninni meira að segja fyrir afkomu sparisjóðsins en kjarnastarfsemi á árunum 2003–2009.
Gengishagnaður af fjáreignum nam samtals nærri 400 milljónum króna á árunum 2003–2007 en hreinar rekstrartekjur þessara ára í heild voru 650 milljónir króna. Á árunum 2008 til 2011 varð hins vegar gengistap af fjáreignum upp á hátt í 500 milljónir króna. Gengistap ársins 2008 af fjáreignum nam 290 milljónum króna, en þar af nam gangvirðislækkun hlutabréfa 180 milljónum króna.4 Árið 2009 nam gengistap af fjáreignum 133 milljónum króna og þar af varð 75 milljóna króna tap á skuldabréfaeign sjóðsins.5 Á árinu 2011 varð 43 milljóna króna tap á fjáreignum sem skýrðist af gjaldfærslu hlutabréfa og gengistapi vegna óhagstæðrar þróunar gjaldmiðla.
Arðs- og hlutdeildartekjur vógu ekki þungt í rekstri Sparisjóðs Strandamanna. Hæstar urðu þessar tekjur á árinu 2008 eða 4,8 milljónir króna. Þar af námu arðstekjur 5,3 milljónum króna en tap var á rekstri hlutdeildarfélaga sjóðsins. Eignarhlutur í Sparisjóðabankanum var aldrei færður með hlutdeildaraðferð hjá Sparisjóði Strandamanna.6
Hreinar þjónustutekjur voru tiltölulega lítill hluti hreinna rekstrartekna á umræddu tímabili. Vægi þeirra fór lækkandi frá 2001 til 2007, úr 27% í 6% af hreinum rekstrartekjum. Á árinu 2008 hækkuðu hreinar þjónustutekjur um þriðjung frá fyrra ári. Hreinar þjónustutekjur voru 19% hreinna rekstrartekna á árinu 2011.
Aðrar rekstrartekjur voru óverulegur hluti hreinna rekstrartekna þar til árið 2006 að þær námu átta milljónum króna eða 7% af hreinum rekstrartekjum. Á árunum 2008–2011 héldust aðrar rekstrartekjur mikið til óbreyttar í krónum talið og námu 9,8 milljónum á árinu 2011 eða 20% af hreinum rekstrartekjum.
Hreinar vaxtatekjur breyttust lítið á árunum 2001 til 2007. Árið 2008 jukust þær hins vegar töluvert og tæplega tvöfölduðust árið 2009. Á árinu 2010 nam þessi tekjuliður 92,5 milljónum króna og hafði hækkað um fjórðung frá fyrra ári. Hækkunin skýrðist aðallega af lækkun meðalinnlánsvaxta úr 9,5% í 4,8% á árinu 2009. Vaxtamunur Sparisjóðs Strandamanna var alltaf hærri en meðalvaxtamunur hjá sparisjóðunum í heild og var munurinn mestur tæplega sex prósentustig árið 2001.
Stærstur hluti vaxtatekna sparisjóðsins kom frá útlánum og námu þær hæst 157 milljónum króna árið 2008, eða 94% af vaxtatekjunum. Vaxtatekjur vegna útlána lækkuðu þó á árunum 2009–2011 samhliða lækkun útlána. Vaxtatekjur vegna krafna á lánastofnanir voru yfirleitt ekki umtalsverðar en árið 2009 áttfölduðust þær og námu 65 milljónum króna, eða 31% af vaxtatekjum sparisjóðsins. Ári síðar náðu þær hámarki sínu á tímabilinu, 92 milljónum króna. Vaxtatekjur af skuldabréfum og aðrar vaxtatekjur voru nánast engar á tímabilinu.
Vaxtagjöldin voru að stærstum hluta vegna almennra innlána. Vaxtagjöld vegna lántöku voru um þriðjungur vaxtagjalda á fyrri hluta tímabilsins en fóru lækkandi til ársins 2007 þegar þær voru 11% af vaxtagjöldum. Frá 2008 jukust þau heldur og námu 14 milljónum króna árið 2011 eða 16% af vaxtagjöldum. Önnur vaxtagjöld til lánastofnana eða vegna víkjandi skulda voru nánast engin á tímabilinu.
Rekstrargjöld
Rekstrargjöld Sparisjóðs Strandamanna breyttust lítið á tímabilinu að undanskildum árunum 2008, 2009 og 2011 þegar framlag í afskriftareikning útlána margfaldaðist. Á tímabilinu 2001 til 2011 nam framlagið samtals 663 milljónum króna, en þar af voru 630 milljónir króna á árunum 2008 til 2011.
Framlag í afskriftareikning útlána var aðeins 4% rekstrargjalda árið 2007 en ári síðar nam það 68% af rekstrargjöldum sparisjóðsins. Þar af voru 76 milljónir króna eða tæplega 60% vegna lána sem veitt voru fyrir tilstuðlan Sp-ráðgjafar ehf.7 Á árinu 2009 nam framlag í afskriftareikning útlána 143 milljónum króna eða 70% rekstrargjalda. Þar af voru 96 milljónir króna eða 67% vegna lána sem Sp-ráðgjöf hf. hafði haft milligöngu um að lána.8
Á árinu 2010 var framlag í afskriftareikning miklu lægra en árin áður, eða einungis 18 milljónir króna. Ástæðuna mátti rekja til óvissu um áhrif af einum af svo kölluðum gengislánadómum9 á fjárhagsstöðu sjóðsins.10 Sérgreindur afskriftareikningur útlána sjóðsins nam þá tæplega 138 milljónum króna í árslok 2010 og jafngilti það 11,4% af heildarútlánum sjóðsins. Þegar almennar afskriftir eru teknar með var niðurfærsluhlutfall útlána sjóðsins 13,4% í lok árs 2010 en 21,3% hjá sparisjóðunum í heild.11
Á árinu 2011 nam framlag sjóðsins í afskriftareikning útlána 335 milljónum króna. Skýrðist þetta háa framlag af því að á árinu var fé lagt til hliðar vegna lána sjóðsins í erlendri mynt.12 Í lok ársins var niðurfærsluhlutfall útlána sparisjóðsins 27,8% en 14% hjá sparisjóðunum í heild. Til samanburðar hafði það verið 2,4% hjá sparisjóðnum og 1,6% hjá sparisjóðunum í heild í árslok 2007. Árin 2008–2011 voru 384 milljónir króna færðar úr afskriftareikningnum sem endanlega töpuð útlán.13
Almennur rekstrarkostnaður hækkaði tiltölulega jafnt á tímabilinu 2001 til 2011. Mest hækkaði hann um 23% árið 2007 en lækkaði um 5% árið 2009. Hlutfall rekstrarkostnaðar sjóðsins af meðaleignum þróaðist með sambærilegum hætti og hjá sparisjóðunum í heild. Hlutfallið hjá Sparisjóði Strandamanna var þó hærra en hjá sjóðunum í heild frá 2001 til 2009. Snörp hækkun hlutfallsins árið 2003 skýrist af hækkun launakostnaðar vegna starfsloka fráfarandi sparisjóðsstjóra í lok ársins.
Launakostnaður hjá Sparisjóði Strandamanna var á bilinu 41% til 53% af almennum rekstarkostnaði frá 2001 til 2011. Fjöldi stöðugilda hélst óbreyttur allt tímabilið. Í töflu 4 er yfirlit launakostnaðar hjá sjóðnum og fjöldi stöðugilda miðað við heilsdagsstörf í lok hvers reikningsárs 2001 til 2011.
Launakostnaðurinn hækkaði um 10% til 16% á hverju ári 2005 til 2007 en lækkaði svo árið 2009. Lækkunin var þó umtalsvert meiri hjá sparisjóðunum í heild og á árinu 2010 lækkaði launakostnaðurinn hjá sparisjóðunum í heild en hækkaði hjá Sparisjóði Strandamanna.
Árið 2011 hækkaði meðallaunakostnaðar á stöðugildi um 5% hjá Sparisjóði Strandamanna og hafði þá hækkað um 80% frá árinu 2001 en meðallaunakostnaður á stöðugildi hafði á sama tíma hækkað um 62% hjá sjóðunum í heild.
Frá 2001 til 2011 var meðallaunakostnaður á stöðugildi alltaf lægri hjá Sparisjóði Strandamanna en hjá sparisjóðunum í heild. Mest bar í milli á árinu 2008 þegar meðallaunakostnaður á stöðugildi nam 5.889 þúsundum króna hjá Sparisjóði Strandamanna en 9.323 þúsundum króna hjá sparisjóðunum í heild. Á árinu 2011 nam meðallaunakostnaður á stöðugildi hjá Sparisjóði Strandamanna 6.343 þúsund krónum og var það 654 þúsund krónum lægra en hjá sparisjóðunum í heild.14
Ekkert var fjallað um fríðindi starfsmanna í samþykktum sparisjóðsins en í þeim hluta samþykktanna þar sem fjallað var um sparisjóðsstjórn og sparisjóðsstjóra voru reglur um starfskjör stjórnar. Þar sagði að fyrir störf í þágu sparisjóðsins skyldi greiða stjórnarmönnum og formanni stjórnar fasta, mánaðarlega þóknun sem ákveðin skyldi á aðalfundi ár hvert. Ekki áttu sér stað neinar hlunnindagreiðslur til starfsmanna á árunum 2005 til 2011 og nutu starfsmenn ekki annarra fríðinda en almennra fríðinda hjá sparisjóðunum.
Kjarnarekstur
Frá árinu 2001 til 2011 var yfirleitt tap á kjarnarekstri Sparisjóðs Strandamanna, að undanskildum árunum 2001 til 2003 og árinu 2010.15 Tapið skýrðist fyrst og fremst af framlagi í afskriftareikning útlána en há rekstrargjöld settu einnig strik í reikninginn. Vaxta- og þjónustutekjur stóðu undir almennum rekstrarkostnaði allt tímabilið nema árin 2006 til 2008. Þá vantaði 16 milljónir króna árið 2007 og 10 milljónir króna árið 2008 til að ná endum saman. Á árinu 2008 var afkoma af kjarnarekstri neikvæð um tæplega 145 milljónir króna sem skýrðist af rúmlega 134 milljóna króna framlagi í afskriftareikning. Sömu sögu mátti segja um árin 2009 og 2011, en hagnaður varð af kjarnarekstri árið 2010 vegna lágs framlags í afskriftareikning útlána það árið.
24.1.2 Efnahagsreikningar
Hér er fjallað um stærstu eigna- og skuldaliði í efnahagsreikningi Sparisjóðs Strandamanna í lok áranna 2001 til 2011 og þróunina á tímabilinu. Í viðauka C má sjá efnahagsreikning sparisjóðsins á sömu árum á verðlagi hvers árs og á föstu verðlagi.
Eignir
Í árslok 2001 námu eignir Sparisjóðs Strandamanna 613 milljónum króna en í árslok 2011 voru þær 2,2 milljarðar króna á verðlagi hvors árs um sig. Ef miðað er við verðlag í árslok 2011 voru heildareignir sjóðsins í árslok 2001 tæpur 1,1 milljarður króna. Þannig hafði sjóðurinn tvöfaldast á þessum ellefu árum. Vöxt eigna mátti framan af rekja til hlutabréfa og verðbréfa með breytilegum tekjum en frá árinu 2009 hafði sjóður og óbundnar innistæður í Seðlabanka mest að segja. Útlán jukust mikið á árunum 2007 og 2008 eftir jafnan vöxt en fóru svo hægt minnkandi frá 2009.
Útlán voru stærsti einstaki eignaliður sjóðsins í lok áranna 2001 til 2009 og var vægi þeirra af heildareignum að jafnaði rúmlega helmingur. Í árslok 2011 varð hlutfall útlána lægst eða 31%. Árið 2007 hækkuðu útlán um 49% og ári síðar um 41%. Stærstan hluta þessarar hækkunar mátti rekja til hækkunar á lánum í erlendri mynt vegna veikingar íslensku krónunnar á árinu 2008.16 Á árinu 2009 lækkuðu útlán um 11% frá fyrra ári vegna aukins framlags í afskriftareikning útlána. Í lok árs 2011 námu útlán 692 milljónum króna og höfðu dregist saman um þriðjung frá fyrra ári, einkum vegna framlags í afskriftareikning.17
Stærstur hluti útlána sparisjóðsins var í formi skuldabréfa, eða á bilinu 73–91%. Gengistryggð skuldabréf hækkuðu umtalsvert á árinu 2008 eða um 89% frá fyrra ári og var það að stórum hluta vegna gengisfalls íslensku krónunnar. Vægi gengistryggðra skuldabréfa af heildarútlánum sjóðsins var 58% í lok áranna 2008 og 2009 en lækkaði í 53% í lok árs 2010. Á árinu 2011 var nánast öllum lánum sjóðsins í erlendri mynt breytt í íslenskar krónur og voru gengistryggð skuldabréf aðeins 5% af heildarútlánum sjóðsins í árslok 2011.
Hlutur útlána til einstaklinga fór lækkandi og námu þau 40% af útlánum í árslok 2011. Hæstur varð hlutur þeirra 55% í árslok 2006 en lægstur 33% í lok árs 2009. Vægi lána til fyrirtækja, einkum í sjávarútvegi og þjónustustarfsemi, fór hækkandi úr 56% í árslok 2001 í 60% í lok árs 2011. Minnst varð það 45% í árslok 2006 og hæst 66% í árslok 2009.
Niðurfærsluhlutfall Sparisjóðs Strandamanna var lengi hærra en annarra sparisjóða og var það sérstaklega áberandi á árunum 2004–2006. Í skýrslu sinni fyrir rannsóknarnefndinni sagði sparisjóðsstjóri að innan sparisjóðsins hefði verið vilji til að vera „búralegir“ með tilliti til afskriftareiknings. Vilji sparisjóðsins hefði staðið til þess að hafa meira en minna í afskriftareikningnum þótt reynslan hefði verið sú að afskriftir hefðu verið frekar litlar.18 Í skýrslum endurskoðanda um endurskoðun ársreikninga áranna 2004 til 2006 kemur fram að í sparisjóðnum hafi ekki verið horft mikið til þess hversu hátt hlutfall af útlánum afskriftaframlagið var heldur eingöngu horft til fjárhæða sem nauðsynlegt þótti að færa niður um. Skýrir þetta hvers vegna niðurfærsluhlutfallið lækkaði mikið árið 2007, en það ár jukust útlán töluvert meira en áður en afskriftir ekki. Eftir fall bankanna 2008 var niðurfærsluhlutfall sparisjóðsins umtalsvert lægra en annarra sparisjóða fram til ársins 2011 en þá færði sparisjóðurinn niður flest lán sem hann hafði veitt í erlendri mynt og talin voru með ólöglega gengistengingu, meðan flestir aðrir sparisjóðir höfðu fært slík lán niður mun fyrr. Á árinu 2011 voru 335 milljónir færðar í afskriftareikning útlána og voru það allt sérgreind framlög.19 Staða afskriftareikningsins nam 266 milljónum króna í árslok 2011 og jafngilti það 27,8% af heildarútlánum sjóðsins.
Kröfur á lánastofnanir breyttust mikið á milli ára en mesta breytingin varð árið 2008 þegar þær tólffölduðust og námu 328 milljónum króna í árslok eða 16% af heildareignum sjóðsins. Kröfurnar fóru smám saman lækkandi en héldust þó hærri á árunum 2009–2011 en á árunum 2001–2007.
Sjóður og óbundnar innistæður í Seðlabanka uxu á árunum 2008–2011 og voru stærsti eignaliður sjóðsins í lok áranna 2010 og 2011. Þessi liður hækkaði umtalsvert á árinu 2009 og stóð í 818 milljónum króna í árslok sem jafngilti 33% af heildareignum. Þetta voru að langstærstu leyti innistæðubréf í Seðlabanka Íslands upp á 750 milljónir króna.20 Vægi þessa liðar af heildareignum jókst enn frekar árið 2010 þegar sjóður og óbundnar innistæður námu 1,4 milljörðum króna eða 49% af heildareignum. Í árslok 2011 var þessi eignaliður 51% af heildareignum sjóðsins og nam 1,1 milljarði króna.
Bókfært verð fjáreigna sparisjóðsins hækkaði alltaf milli ára frá 2001 til 2007. Árið 2007 tvöfölduðust fjáreignir og voru metnar á 968 milljónir króna í árslok. Munaði þar mest um aukningu hlutabréfa og verðbréfa með breytilegum tekjum. Hlutfall fjáreigna af heildareignum jókst úr 21% í árslok 2001 í 52% í árslok 2007. Bókfært verð fjáreigna lækkaði svo umtalsvert árið 2008 og áfram frá 2009 til 2011. Í lok árs 2011 var bókfært virði fjáreigna sjóðsins komið niður í 163 milljónir króna og var þá 7,3% heildareigna. Til samanburðar má geta þess að hlutfall fjáreigna af heildareignum allra sparisjóðanna var 6,6% í árslok 2011.
Markaðsskuldabréf og fleira með föstum tekjum voru vaxandi hluti fjáreigna sparisjóðsins frá 2001 til 2007 og vægi þeirra af heildareignum hækkaði úr 1% árið 2001 í 8% árið 2007. Í árslok 2007 nam bókfært verð skuldabréfaeignar sparisjóðsins 146 milljónum króna og hafði nánast tvöfaldast frá fyrra ári. Í árslok 2008 hafði bókfært verð þessa liðar lækkað, hvort heldur í krónum talið eða sem hlutfall af heildareignum, og hélt sú þróun áfram út tímabilið. Vægi skuldabréfa af fjáreignum jókst hins vegar og í árslok 2011 námu þau 60 milljónum króna sem jafngilti 37% af fjáreignum eða 3% af heildareignum sparisjóðsins.
Hlutabréf og verðbréf með breytilegum tekjum voru vaxandi eignaliður á árunum 2002 til 2007 og nam bókfært verð þeirra 816 milljónum króna í árslok 2007 eða 44% heildareigna. Þessi eignaliður hafði þá tvöfaldast frá fyrra ári. Þyngst vógu hlutdeildarskírteini verðbréfasjóða með bókfært verð upp á 501 milljón króna og hlutabréf í óskráðum félögum upp á 276 milljónir króna. Í árslok 2008 hafði hlutabréfaeign sjóðsins dregist saman um 60% og nam 322 milljónum króna í árslok. Lækkunin skýrðist að hluta af virðisrýrnun en heildargengistap af fjáreignum nam um 287 milljónum króna á árinu. Í árslok 2009 hafði hlutabréfaeign sjóðsins enn lækkað um 50% frá fyrra ári og nam þá 160 milljónum króna, en heildargengistap af fjáreignum nam 129 milljónum króna á árinu. Hlutur sparisjóðsins í hlutdeildarfyrirtækjum var óverulegur.
Á mynd 5 samanstanda aðrar eignir og fleira af rekstrarfjármunum, skattinneign og öðrum eignum. Rekstrarfjármunir voru eignfærðir á 7,5 milljónir króna í lok árs 2011. Aðrar eignir námu þá 3,8 milljónum króna en skattinneign, sem kom til á árunum 2008 og 2009, stóð í 71,3 milljónum króna í árslok 2011.
Skuldir
Innlán voru stærsti fjármögnunarþáttur Sparisjóðs Strandamanna allt tímabilið 2001–2011 og vægi þeirra í heildarskuldum sjóðsins sveiflaðist frá 50% til 99%. Mikill vöxtur hljóp í innlánin frá árinu 2007, til dæmis jukust þau um 71% árið 2009 en höfðu hækkað um 47% árið áður. Hlutfall milli innlána og útlána var nokkuð sveiflukennt á árunum 2001–2008. Það fór hæst í 99% árið 2001 en lægst í 67% árið 2007. Á árunum 2009–2011 hækkaði hlutfallið hins vegar mjög mikið og stóð í 282% árið 2011 en hafði tekið stökk úr 70% árið 2008 í 136% árið 2009.
Lántökur Sparisjóðs Strandamanna voru eingöngu frá lánastofnunum.21 Í árslok 2007 nam lántaka sjóðsins 395 milljónum króna sem var nærri tvöföldun frá fyrra ári. Á árinu 2008 tvöfölduðust lántökur sjóðsins aftur og námu 778 milljónum króna í lok árs. Hækkunina mátti að mestu leyti rekja til lækkunar á gengi íslensku krónunnar.22 Í árslok 2010 námu lántökur samtals 829 milljónum króna, sem jafnframt var hæsta gildi þeirra á tímabilinu. Á árinu 2011 var gert samkomulag um uppgjör á skuldum sparisjóðsins við Seðlabanka Íslands. Hluti skuldarinnar, 391 milljón króna, var gefinn eftir og fjárhæðin færð til tekna í rekstrarreikningi. Í endurskoðunarskýrslu með ársreikningi Sparisjóðs Strandamanna 2011 sagði um tekjufærsluna: „Sparisjóðurinn hefur litið svo á að tilgreindur afsláttur sé vegna þess að gengislán sparisjóðsins hafi verið dæmd ólögmæt og slíkt hið sama hljóti því að eiga við um lántöku sparisjóðsins sem var gengisbundin.“23
Aðrar skuldir samanstóðu af reiknuðum skuldbindingum og öðrum ósundurliðuðum skuldum. Þessi liður nam að jafnaði um 1–6% af heildarskuldum sjóðsins. Reiknaðar skuldbindingar, sem voru lífeyrisskuldbindingar, tekjuskattur til greiðslu og tekjuskattsskuldbinding, hækkuðu um rúmar 33 milljónir króna árið 2007 vegna aukinnar tekjuskattsskuldbindingar. Ári síðar varð mikið tap á rekstri sparisjóðsins og það þurrkaði út tekjuskattskuldbindinguna og leiddi til skattinneignar.
Eigið fé
Eigið fé Sparisjóðs Strandamanna jókst mikið frá 2001 til 2007. Stofnfé hækkaði milli ára, fyrst og fremst við endurmat. Ráðist var í mikla stofnfjáraukningu árið 2007 og var stofnfé þá aukið um 195 milljónir króna. Stofnfé var hverfandi hluti eigin fjár þar til árið 2007 að það náði fjórðungshlut. Vöxtur eigin fjár var nær algjörlega vegna hækkunar á varasjóði sem fjórfaldaðist frá 2001 til 2007. Eigið fé hækkaði mikið árið 2007 og nam 830 milljónum króna í árslok og var eiginfjárhlutfallið þá 45%. Rekstur sjóðsins árið 2007 skilaði 67 milljóna króna hagnaði og að auki hækkaði eigið fé vegna upptöku nýrra reikningsskilareglna (IFRS) á því ári um 87 milljónir króna. Árið eftir greiddi sparisjóðurinn stofnfjáreigendum 55 milljóna króna arð á grundvelli afkomunnar 2007. Arðgreiðslan nam 26,8% af stofnfé í árslok 2007 sem var umfram raunávöxtun eigin fjár sem var 20,2% árið 2007.
Mikið tap varð á rekstri sparisjóðsins á árinu 2008 eða 356 milljónir króna og lækkaði eigið fé í árslok 2008 í 419 milljónir króna. Eiginfjárhlutfallið var þá 23,3%. Árið 2009 varð enn tap upp á 189 milljónir króna sem þurrkaði upp varasjóðinn og lækkaði eigið fé niður í 217 milljónir króna. Samhliða því lækkaði eiginfjárhlutfallið og var 12,7% í árslok.
Hagnaður var af rekstri sparisjóðsins á árunum 2010 og 2011, um 4 milljónir króna fyrra árið en tæpar 18 milljónir síðara árið. Á árinu 2010 var framlag í afskriftareikning óverulegt, eða um 18 milljónir króna, en nokkur óvissa ríkti um réttaráhrif gengislánadóma Hæstaréttar. Árið 2011 voru tekjufærðar rúmar 390 milljónir króna vegna uppgjörs á kröfum Seðlabankans og leiddi það til 17,5 milljóna króna hagnaðar. Eigið fé í árslok 2011 nam 238 milljónum króna og eiginfjárhlutfallið var þá 16,5% en varasjóðurinn var enn neikvæður upp á 22 milljónir króna.
24.2 Útlán, útlánareglur og lánveitingar
Útlán Sparisjóðs Strandamanna voru tæpur helmingur eigna sparisjóðsins á árunum 2005–2007. Á árinu 2008 hækkaði hlutfall útlána af eignum sparisjóðsins í 57% en fór svo lækkandi eftir það og varð lægst 31% árið 2011. Útlán Sparisjóðs Strandamanna jukust jafnt og þétt á árunum 2005–2008. Mest var hækkunin milli áranna 2007 og 2008 eða um 30%, sem skýrðist einkum af hækkun á lánum í erlendri mynt. Útlán drógust hins vegar saman á árunum 2009–2011 vegna aukins framlags í afskriftareikning, einkum varð mikill samdráttur 2010–2011 sem skýrist af háu hlutfalli afskrifta vegna lána í erlendri mynt.
Stór hluti útlána Sparisjóðs Strandamanna var í erlendri mynt og höfðu gengissveiflur því umtalsverð áhrif á útlánastöðu sjóðsins. Í lok árs 2008 námu þau um 55% af heildarútlánum sjóðsins.
Sparisjóður Strandamanna lánaði mest í formi skuldabréfa. Skuldabréf í erlendum myntum voru flokkuð með skuldabréfum í ársreikningum sparisjóðsins á árunum 2005–2010. Á árinu 2008 hækkuðu skuldabréf talsvert vegna veikingar íslensku krónunnar og hækkunar á gengisbundnum lánum.
Rúmur helmingur lána sparisjóðsins var til einstaklinga á árunum 2005–2006, en á árinu 2007 breyttust hlutföllin talsvert og útlán til fyrirtækja hækkuðu í 62%. Sparisjóður Strandamanna lánaði helst til sjávarútvegsfyrirtækja en þar á eftir komu þjónustufyrirtæki.
Afskriftir námu um 7% af útlánasafni Sparisjóðs Strandamanna árin 2005 og 2006 og lækkuðu í 2,4% árið 2007. Árið 2008 nam afskriftareikningurinn hins vegar 10,4% af heildarútlánum sparisjóðsins. Mestar afskriftir áttu sér stað í árslok 2011 eða sem nam 27,8% af útlánasafninu. Samkvæmt svari sparisjóðsstjóra Sparisjóðs Strandamanna við fyrirspurn rannsóknarnefndarinnar um rökstuðning vegna sérgreindra afskrifta, var stór
hluti afskriftareikningsins frá og með árinu 2008 til kominn vegna efasemda um lögmæti gengistryggðra lána.24 Sparisjóðurinn gerði samning við Seðlabanka Íslands á árinu 2011 um lækkun krafna Seðlabankans vegna ádráttarlína í erlendri mynt sem áður höfðu tilheyrt Sparisjóðabankanum og á móti þeirri lækkun voru útlán sparisjóðsins í erlendri mynt færð niður að sama skapi.
24.2.1 Athugasemdir eftirlitsaðila
Fjármálaeftirlitið gerði ekki úttekt á starfsemi Sparisjóðs Strandamanna á tímabilinu 2005 til 2011. Fjármálaeftirlitið hafði hins vegar unnið skýrslu á árinu 2004 um athugun á áhættum og innra eftirliti í starfsemi sparisjóðsins sem gefin var út í janúar 2005. Í skýrslunni kom meðal annars fram að lánareglur sjóðsins frá 1999 væru barn síns tíma og að sjóðurinn þyrfti að setja sér nýjar lánareglur sem og aðrar starfsreglur, svo sem afskriftareglur. Þá kom fram að sparisjóðurinn væri með undanþágu frá rekstri innri endurskoðunardeildar. Samkvæmt þeirri undanþágu átti stjórn sparisjóðsins að gera Fjármálaeftirlitinu árlega grein fyrir þeim þáttum í innra eftirliti sem sem fjallað væri um í leiðbeinandi tilmælum nr. 4/2003 varðandi undanþágu frá starfrækslu endurskoðunardeildar hjá fjármálafyrirtæki. Því lágu ekki fyrir skýrslur um innri endurskoðun hjá sjóðnum á tímabilinu 2005 til 2010. Stjórn sparisjóðsins skilaði greinargerðum til Fjármálaeftirlitsins vegna innra eftirlits fyrir árin 2004 og 2005, 2008 og 2010. Ernst & Young vann skýrslu um innri endurskoðun ársins 2011 en þar kom m.a. fram að ein skuldbinding væri umfram 25% af eiginfjárgrunni.
Í endurskoðunarskýrslu ársins 2005 var ekki að finna beinar athugasemdir við útlán sparisjóðsins. Skoðaður var formlegur frágangur skuldabréfa og víxla, tryggingar vegna lánveitinga og ábyrgða og hvort lánveitingar væru í samræmi við reglur sjóðsins og reyndust allir þessir þættir í lagi hjá sparisjóðnum. Sama kom fram í endurskoðunarskýrslum 2006, 2007 og 2008. Í endurskoðunarskýrslu ársins 2008 kom jafnframt fram að skuldbindingar tveggja aðila væru yfir 25% af eiginfjárgrunni sparisjóðsins og að finna þyrfti leið til þess að lækka skuldbindingar þessara aðila. Samkvæmt skýrslunni námu lán sem veitt höfðu verið fyrir milligöngu Sp-ráðgjafar ehf. um 222 milljónum króna. Veruleg óvissa væri um innheimtu á hluta þessara lána og því hefðu 76 milljónir króna verið færðar í afskriftareikning vegna þeirra. Samkvæmt endurskoðunarskýrslu ársins 2009 voru fjórir aðilar með skuldbindingar yfir 25% af eiginfjárgrunni sparisjóðsins og þar af tveir yfir 60%. Tekið var fram að eiginfjárgrunnur sjóðsins hefði lækkað um 45% á milli ára og farið úr 370 milljónum króna í 202 milljónir króna. Framlag í afskriftareikning á árinu nam 143 milljónum króna og endanlega töpuð útlán voru 60 milljónir króna. Í endurskoðunarskýrslu ársins 2010 kom fram að eiginfjárgrunnur sjóðsins hefði enn lækkað og farið úr 202 milljónum króna í 134 milljónir króna. Fimm aðilar voru með skuldbindingar umfram 25% af eiginfjárgrunni og þar af tveir með skuldbindingar umfram 90% af eiginfjárgrunni. Var ítrekað að sjóðurinn þyrfti að finna leiðir til að lækka hlutfall þessara skuldbindinga og kom fram að Fjármálaeftirlitið hefði verið upplýst um þessa stöðu. Í lok árs 2009 hafði afskriftareikningur útlána verið 219 milljónir króna eða um 16,8% af heildarútlánum og ábyrgðum. Sama hlutfall fyrir árið 2010 var 13,2%. Í lok árs 2011 var einn aðili með skuldbindingu umfram 25% af eiginfjárgrunni. Framlag í afskriftareikning útlána á árinu nam 335 milljónum króna samanborið við 18 milljónir króna frá árinu á undan. Hækkun framlagsins skýrðist af því að lagt var til hliðar vegna lána í erlendri mynt en samhliða var lántaka sparisjóðsins við Seðlabankann gerð upp og tekjufærði sparisjóðurinn 391 milljón króna vegna þess.25
24.2.2 Útlánareglur
Stjórn Sparisjóðs Strandamanna samþykkti útlánareglur sparisjóðsins 29. desember 2003 með vísan til laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og þágildandi reglna nr. 531/2003 um stórar áhættuskuldbindingar hjá fjármálafyrirtækjum. Frá sama degi giltu einnig reglur Sparisjóðs Strandamanna um framkvæmd starfa sparisjóðsstjórnar og sparisjóðsstjóra sem var ætlað að setja skýrari ramma um lánveitingar hjá sparisjóðnum. Þær voru síðar uppfærðar og endurútgefnar 26. janúar 2007. Í nóvember 2007 var gerður viðauki við útlánareglur sjóðsins og útlánaheimildir rýmkaðar eins og nánar er fjallað um hér aftar.
Útlánareglur Sparisjóðs Strandamanna höfðu ekki að geyma ítarleg ákvæði um lánveitingar og heimildir. Samkvæmt reglunum bar útlánum að þjóna þeim meginmarkmiðum að eðlilegur tekjuafgangur yrði af rekstri sjóðsins og að traustri eiginfjárstöðu og lausafjárstöðu
yrði viðhaldið. Jafnframt skyldi leitast við að veita þeim sem óskuðu eftir fyrirgreiðslu sem besta þjónustu á hverjum tíma.
Við ákvörðun um fyrirgreiðslu til viðskiptamanna bar að gæta þess að heildarfyrirgreiðsla viðkomandi væri í hæfilegu hlutfalli við eigið fé sparisjóðsins26 með hliðsjón af þeim tryggingum sem til staðar voru og fjárhag viðskiptaaðilans. Sama gilti um heildarfyrirgreiðslu til fleiri en eins aðila sem væru svo fjárhagslega tengdir að með tilliti til útlánaáhættu yrði að skoða skuldbindingar þeirra við sparisjóðinn í einu lagi. Samkvæmt útlánareglunum mátti heildarskuldbinding eins aðila eða fjárhagslega tengdra aðila aldrei vera umfram 25% af eigin fé sparisjóðsins.
Engin ákvæði voru í útlánareglum sparisjóðsins um hámarksveðsetningarhlutfall eigna (lágmarkstryggingarþekju) en samkvæmt reglunum bar að jafnaði að taka fullnægjandi tryggingar. Þó var tilgreint sérstaklega í útlánareglunum að raunmat á tryggingarandlagi skyldi fara fram og gögn því til staðfestingar skyldu skjalfest, án þess að tilgreint væri í reglunum hvernig meta bæri veðandlögin.
Undanþága frá töku trygginga var heimil en óljóst var í útlánareglunum við hvaða aðstæður það væri heimilt. Þó var gerð krafa um að fjárhagsupplýsingar viðkomandi viðskiptamanns lægju fyrir og að fylgst væri með afkomu og fjárhag viðkomandi. Þá var heimilt að veita lán án trygginga ef um var að ræða smávægilega fyrirgreiðslu miðað við eigið fé sparisjóðsins og fyrir lægi fullnægjandi vitneskja um greiðslugetu viðskiptaaðilans. Enga skilgreiningu var þó að finna á því í útlánareglunum hvað teldist vera smávægileg fyrirgreiðsla eða hvaða upplýsingar teldust fullnægjandi um greiðslugetu viðskiptaaðilans. Almennt bar að taka mið af fyrri viðskiptum lántaka við sparisjóðinn og meta greiðsluhæfi einstaklinga og afla upplýsinga um fjárhag og rekstur lögaðila þegar lán voru veitt. Ef viðskiptamaður sparisjóðsins var atvinnufyrirtæki, bar eftir því sem unnt var að afla ársreikninga, rekstrar- og greiðsluáætlana og annarra fjárhagslegra upplýsinga.
Sparisjóðsstjóri gat tekið ákvörðun um útlán ef heildarskuldbindingar viðkomandi og fjárhagslega tengdra aðila voru innan við 2,5% af eiginfjárgrunni sparisjóðsins en í samráði við stjórnarformann sparisjóðsins ef heildarskuldbinding viðkomandi aðila var á bilinu 2,5% til 5% af eiginfjárgrunni sparisjóðsins. Til að heildarskuldbinding eins viðskiptamanns gæti farið fram úr 5% af eiginfjárgrunni sjóðsins þurfti samþykki sparisjóðsstjórnar. Samkvæmt lánareglunum bar sparisjóðsstjórn, að fengnum tillögum sparisjóðsstjóra, að tilnefna staðgengil sparisjóðsstjóra til að annast lánveitingar og ábyrgðir en sparisjóðsstjóri hafði jafnframt heimild til að taka ákvörðun um skipulag lánveitinga og heimildir þeirra starfsmanna sem komu að útlánum með umboði frá sparisjóðsstjóra. Í Sparisjóði Strandamanna var ekki starfandi lánanefnd.
Stjórn Sparisjóðs Strandamanna samþykkti á fundi 7. nóvember 2007 auknar útlánaheimildir starfsmanna sparisjóðsins og var breytingin gerð með viðauka við útlánareglurnar frá árinu 2003. Samkvæmt viðaukanum hafði stjórn sparisjóðsins heimild til að samþykkja heildarfyrirgreiðslu viðskiptamanns eða fjárhagslega tengdra aðila sem nam allt að 25% af eiginfjárgrunni og var heimild sparisjóðsstjóra hækkuð í 5% af eiginfjárgrunni og allt að 10% af eiginfjárgrunni í samráði við stjórnarformann.
Samkvæmt reglum sparisjóðsins um framkvæmd starfa sparisjóðsstjórnar og sparisjóðsstjóra bar að taka fyrir skýrslu um útlánaáhættu á þriggja mánaða fresti að minnsta kosti sem fæli meðal annars í sér yfirlit yfir skuldbindingar stærstu viðskiptaaðila sjóðsins og yfirlit yfir lánveitingar og ábyrgðir þeirra sem fóru fram úr 2,5% af eiginfjárgrunni sparisjóðsins. Viðmiðið við mat á stærstu viðskiptaaðilum sparisjóðsins var að heildarskuldbinding væri hærri en 2,5% af eiginfjárgrunni sparisjóðsins.
Samkvæmt reglum um framkvæmd starfa sparisjóðsstjórnar og sparisjóðsstjóra bar stjórn að sjá til þess að sparisjóðsstjóri og aðrir stjórnendur fylgdu útlánastefnu sjóðsins og inntu af hendi þær aðgerðir sem þörf væri á til að fylgja áhættustefnu og mörkum áhættutöku í rekstri. Reglur um áhættustýringu höfðu ekki verið settar.27
Reglur um framlög í afskriftareikning og endanlegar afskriftir útlána voru samþykktar af stjórn árið 2003. Samkvæmt 3. gr. þeirra skyldi færa sérstök afskriftaframlög í afskriftareikning útlána til að mæta áætluðu tapi vegna skuldbindinga lánþega sem á uppgjörsdegi væru metnar í sérstakri tapshættu. Lánþegar sem kæmu til skoðunar væru þeir sem a) hefðu verið í vanskilum í 3 mánuði eða lengur, b) væru komnir í greiðslustöðvun, c) gert hefði verið árangurslaust fjárnám hjá, d) væru gjaldþrota, e) hefðu lagt inn beiðni um nauðasamninga, eða f) aðrar aðstæður ættu við sem skertu gjaldþol eða greiðslugetu þeirra og gerðu það líklegt að ekki yrði staðið að fullu við lánasamninga.
24.2.3 Stærstu lántakendur
Útlán voru stærsta eign sparisjóðsins á árunum 2005–2011 og höfðu afskriftir útlána nokkur áhrif á rekstrarárangur sparisjóðsins. Rannsóknarnefndin valdi úrtak lántakenda til sérstakrar skoðunar og greiningar. Markmiðið með skoðuninni var að varpa ljósi á útlánastefnu sparisjóðsins, starfshætti útlánastarfsemi og ástæður afskrifta. Úrtakið var valið með hliðsjón af stærð áhættuskuldbindinga sparisjóðsins, auk þess sem skoðuð voru lán með há afskriftaframlög.28 Skýrslum um stórar áhættuskuldbindingar sem skila bar til Fjármálaeftirlitsins ársfjórðungslega samkvæmt reglum nr. 216/2007 var ætlað að varpa ljósi á áhættu fjármálafyrirtækis af útlánum og öðrum slíkum skuldbindingum og aðstoða við áhættustýringu.29 Úrtak rannsóknarnefndarinnar samanstóð af lántakendum sem voru tilgreindir sem stærstu áhættuskuldbindingarnar á ársfjórðungsskýrslum sparisjóðsins til Fjármálaeftirlitsins á árunum 2007 til 2011. Til viðbótar við helstu áhættuskuldbindingar sjóðsins voru í úrtakinu lántakendur þar sem fært hafði verið sérgreint á afskriftareikning á árunum 2007–2011. Úrtakið nær til 32% til 43% útlánasafns og 35% til 93% af sérgreindum afskriftaframlögum eftir því til hvaða árs er litið. Í úrtakinu voru 8 lánahópar30 sem allt voru lögaðilar, ásamt tengdum aðilum.
Þau félög sem sparisjóðurinn lánaði til fengu einkum fyrirgreiðslu til þess að fjárfesta í rekstri sínum. Í úrtaki rannsóknarnefndarinnar voru fimm stærstu aðilarnir sjávarútvegsfyrirtæki. Í flestum tilvikum voru fyrirtækin með fyrirgreiðslur í formi yfirdráttarlána og skuldabréfa sem voru veitt til fjárfestinga í bátum, aflaheimildum, húsnæði og tækjum eða til almenns rekstrar. Öll voru félögin með lán í erlendri mynt sem hækkuðu gríðarlega á árinu 2008. Í flestum tilvikum greiddu félögin af lánum sínum og fengu ekki aðrar niðurfærslur en þær sem veittar voru vegna lána í erlendri mynt. Aðeins einn aðili í úrtakinu fékk aðra og meiri afskrift en vegna erlendra lána.31 Almennt var ekki að sjá sérstaka annmarka á lánveitingum til þessara félaga né heldur að þær hafi verið með óeðlilegum hætti.
Þátttaka sparisjóðsins í verkefnum Sp-ráðgjafar ehf. var einn helsti veikleikinn í útlánasafninu.32 Tvö af félögunum í úttekt rannsóknarnefndarinnar á lánasafni Sparisjóðs Strandamanna voru með skuldbindingar vegna þeirra verkefna en hlutur sparisjóðsins í lánum á vegum Sp-ráðgjafar ehf. var yfirleitt um 10%. Þau félög sem fengu lán fyrir milligöngu Sp-ráðgjafar ehf. í úrtaki rannsóknarnefndar voru nýstofnuð einkahlutafélög sem fengu lán í erlendri mynt til kaupa á öðru einkahlutafélagi. Var um 100% fjármögnun að ræða og sameinuðust hin nýstofnuðu einkahlutafélög hinu yfirtekna félagi með öfugum samruna í kjölfar skuldsettrar yfirtöku. Til tryggingar lánunum voru veð í hlutabréfum yfirtekna félagsins (keypta félagsins) með 100% veðsetningarhlutfalli. Aðspurður um tryggingar fyrir þessum lánum sagði Björn Torfason, stjórnarformaður sparisjóðsins: „Þetta voru bara 2007 tryggingar, held ég.”33 Að sögn hans var áhætta af lánunum og vegna lántakendanna metin af Sp-ráðgjöf ehf. sem hafði jafnframt alla umsýslu lánanna á sínum höndum. Á árinu 2008 tvöfölduðust þessi lán sökum veikingar íslensku krónunnar. Eignir hinna yfirteknu félaga höfðu þá rýrnað verulega sökum skuldsetningarinnar frá yfirtökufélögunum og höfðu þau ekki nægjanlegt sjóðstreymi til að greiða af lánum sínum. Lántakendurnir urðu á endanum gjaldþrota og neyddist Sparisjóður Strandamanna, ásamt öðrum sparisjóðum sem voru þátttakendur í Sp-ráðgjöf ehf., til að afskrifa stóran hluta af lánunum.
Í úrtaki rannsóknarnefndarinnar voru tveir aðilar með áhættuskuldbindingar umfram 25% af eiginfjárgrunni sparisjóðsins frá árslokum 2008 til 2011. Í svari Fjármálaeftirlitsins við fyrirspurn rannsóknarnefndarinnar um það hvort Sparisjóður Strandamanna hefði tilkynnt Fjármálaeftirlitinu um það þegar skuldbindingar fóru yfir 25% af eiginfjárgrunni sagði:
Sparisjóður Strandamanna tilkynnti ávallt um það til FME þegar áhættur vegna einstakra viðskiptamanna eða fjárhagslega tengdra aðila fóru yfir 25% af eigin fé sparisjóðsins. Orsakavaldurinn var á þessum tíma mikil hækkun gengisbundinna útlána sjóðsins við gengisfall krónunnar. FME var þannig meðvitað um stöðu sjóðsins í þessum efnum.34
Rannsóknarnefndin taldi ástæðu til að gera frekari grein fyrir málum eftirfarandi þriggja lánahópa, sem og því hvort unnið hefði verið í samræmi við lög og lánareglur sparisjóðsins, og hvernig afskriftarþörf var metin. Að öðru leyti gaf skoðun á öðrum lánahópum í úrtakinu ekki tilefni til sérstakrar umfjöllunar.
DGN ehf.
DGN ehf. var fasteignafélag stofnað árið 2007 sem keypti fasteignir á höfuðborgarsvæðinu sem síðan voru leigðar Hróa Hetti ehf. undir veitingarekstur.35 Sp-ráðgjöf ehf. kom á viðskiptum milli sparisjóðanna og félagsins.36 Sparisjóður Strandamanna gerði ekki grein fyrir skuldbindingum DGN ehf. á ársfjórðungsskýrslum til Fjármálaeftirlitsins um stórar áhættuskuldbindingar þar sem eiginleg lánveiting var í raun hlutdeild í láni Sparisjóðs Bolungarvíkur til DGN ehf.
DGN ehf. og Sparisjóður Bolungarvíkur undirrituðu lánasamning 26. september 2007 um lán í erlendum myntum að andvirði 160 milljóna króna til kaupa á fasteignum við Smiðjuveg 4a í Kópavogi og Hjallahraun 13 í Hafnarfirði. Gerðir voru samningar milli Sparisjóðs Bolungarvíkur og annarra sparisjóða sem voru þátttakendur í þessari sameiginlegu lánveitingu37 undir forystu Sp-ráðgjafar ehf. Sparisjóður Strandamanna fjármagnaði 10% hlut í verkefninu, um 16 milljónir króna. Til tryggingar heildarláninu var 1. veðréttur í hinum keyptu fasteignum. Lánveitingin var samþykkt af stjórn Sparisjóðs Strandamanna á fundi 10. október 2007.
Lán DGN ehf. hækkaði talsvert á árinu 2008 sökum óhagstæðra gengisbreytinga en í árslok 2008 nam heildarskuldbinding félagsins hjá Sparisjóði Strandamanna 38 milljónum króna. Í árslok 2009 nam heildarskuldbindingin hjá sparisjóðnum tæpri 41 milljón króna og rúmum 44 milljónum króna í árslok 2010. Sérgreind afskrift, 23 milljónir króna, var færð vegna skuldbindingar félagsins í árslok 2008 og var staðan óbreytt út árið 2010. Ástæðan fyrir sérgreindu afskriftinni var hækkun á láni félagsins vegna gengisfalls íslensku krónunnar auk samdráttar á tekjum félagsins. Af þeim sökum og vegna efasemda sem upp voru komnar um lögmæti lána sem bundin voru gengi erlendra mynta þótti nauðsynlegt að færa sérgreinda afskrift vegna lánsins.38 Árið 2011 afskrifaði Sparisjóður Strandamanna endanlega rúmar 43 milljónir króna af skuldbindingu DGN ehf. og nam heildarskuldbinding félagsins 17 milljónum króna í árslok 2011.39 DGN ehf. var úrskurðað gjaldþrota í september 2012.
Hexa ehf.
Hexa ehf.40 var félag sem starfaði við innflutning og sölu á vinnufatnaði.41 Sp-ráðgjöf ehf. hafði milligöngu um fjármögnun upphaflegra kaupa Arnarmúla ehf. á öllu hlutafé Hexa ehf. í maí 2007 fyrir 277 milljónir króna en Sparisjóður Strandamanna tók ekki þátt í þeirri fjármögnun. Hexa ehf. leitaði síðan til Sp-ráðgjafar ehf. með beiðni um fjármögnun vegna kaupa á einkahlutafélaginu Kolti ehf. sem átti og rak vinnufataverslun undir nafninu Þjarkur. Heildarkaupverðið var 240 milljónir króna. Lagt var til að Protinus ehf., eignarhaldsfélag í eigu þeirra sparisjóða sem áttu Sp-ráðgjöf ehf.,42 keypti til viðbótar lánveitingunni fasteign Kolts ehf. að Smiðjuvegi 6 á 46 milljónir króna og leigði síðan Kolti ehf. þar til svigrúm gæfist hjá félaginu að kaupa fasteignina til baka.
Hexa ehf. fékk samtals 240 milljóna króna lán 7. september 2007 fyrir milligöngu Sp-ráðgjafar ehf. Þar af voru 194 milljónir króna til kaupa á rekstri, lager og tækjum Kolts ehf., 30 milljónir króna til að endurfjármagna eldri skuldir Kolts ehf. og 16 milljónir króna til að greiða kostnað við lántöku og þóknun til Sp-ráðgjafar ehf. Um 100% fjármögnun var að ræða og var ekkert eiginfjárframlag af hálfu kaupanda. Fjármögnunin samanstóð af þremur lánasamningum í erlendri mynt milli Hexa ehf. og Sparisjóðs Bolungarvíkur. Sparisjóður Bolungarvíkur gerði svo samning við aðra sparisjóði sem voru þátttakendur í þessari sameiginlegu lánveitingu fyrir milligöngu Sp-ráðgjafar ehf. um aðild þeirra að verkefninu og fjármögnun þess. Hlutur Sparisjóðs Strandamanna var 7% í heildarfjármögnuninni en til tryggingar var 1. veðréttur í öllum hlutum Hexa ehf. í Kolti ehf. og óútfyllt tryggingarvíxilform útgefin af Hexa ehf.
Tæpum þremur mánuðum eftir undirritun lánasamninganna leitaði Hexa ehf. aftur til Sp-ráðgjafar ehf. með beiðni um viðbótarfjármögnun upp á 43 milljónir króna en Sparisjóður Strandamanna tók ekki þátt í þeirri lánveitingu.
Lán Hexa ehf. hækkuðu töluvert á árinu 2008 vegna óhagstæðra gengisbreytinga og í lok ársins nam heildarskuldbinding félagsins hjá Sparisjóði Strandamanna 37 milljónum króna. Voru 22 milljónir króna færðar í sérgreindan afskriftareikning vegna skuldbindinganna í árslok 2008. Ástæðan fyrir sérgreindu afskriftaframlagi var hækkun á lánum félagsins við gengisfall íslensku krónunnar auk samdráttar sem hafði orðið á tekjum félagsins. Af þeim sökum og vegna efasemda sem upp voru komnar um lögmæti lána sem bundin voru erlendri mynt þótti nauðsynlegt að færa sérgreinda afskrift vegna lánsins.43
Í árslok 2009 nam heildarskuldbinding Hexa ehf. hjá Sparisjóði Strandamanna rúmum 33 milljónum króna og var fjárhæðin að fullu færð í sérgreindan afskriftareikning í árslok. Krafan var endanlega afskrifuð á árinu 2010, þá að fjárhæð 34 milljónir króna, en Hexa ehf. var úrskurðað gjaldþrota í september 2009. Í janúar 2010 var Koltur ehf. einnig úrskurðað gjaldþrota.
Félagasamtök í landbúnaði
Félagasamtök sem þjónustuðu landbúnaðinn í Strandasýslu voru með eitt skuldabréfalán og eitt yfirdráttarlán hjá sparisjóðnum. Fyrirgreiðslan var upphaflega til komin vegna útgáfu bókar um byggðasögu Strandamanna. Vinnu við bókina var ekki lokið þegar sparisjóðsstjóri gerði athugasemdir við þessa skýrslu 17. október 2013.
Samtökin gáfu út 4 milljóna króna skuldabréf 16. mars 2001 sem endurgreiða átti ári síðar. Bréfið var ekki greitt upp á gjalddaga heldur var skilmálum þess breytt árlega og greiðslum frestað til næsta árs að viðbættum áföllnum vöxtum.44 Þá voru félagasamtökin með yfirdrátt hjá sparisjóðnum sem ekkert var greitt af að frátöldum innborgunum einstakra styrkveitinga vegna útgáfu bókarinnar. Ekki var aukið við yfirdráttarheimildina en vaxtakostnaður hlóðst upp milli ára.
Í árslok 2008 nam heildarskuldbinding samtakanna 30 milljónum króna; þar af voru rúmar 11 milljónir króna vegna skuldabréfsins og tæpar 19 milljónir króna vegna yfirdráttarláns. Þá voru 10 milljónir króna á sérgreindum afskriftareikningi vegna skuldbindingar samtakanna. Hún hækkaði á árunum 2009 og 2010 vegna uppsafnaðs vaxtakostnaðar og nam tæpum 37 milljónum króna í árslok 2009 og tæpum 44 milljónum króna í árslok 2010. Árið 2009 voru færðar 5 milljónir króna til viðbótar á sérgreindan afskriftareikning vegna félagsins og milljón króna til viðbótar árið eftir. Í árslok 2011 nam heildarskuldbinding sambandsins 49 milljónum króna og sérgreind afskrift 26 milljónum króna. Skuldabréfið var með sjálfskuldarábyrgð forsvarsmanna bókarinnar og félagasamtakanna en félagasamtökin skrifuðu undir víxil vegna yfirdráttarins.
Samkvæmt upplýsingum frá sparisjóðsstjóra var fjallað um stöðu félagasamtakanna á mörgum stjórnarfundum sparisjóðsins og málið rætt við ytri endurskoðendur sparisjóðsins. Sparisjóðsstjóri setti sig margoft í samband við forsvarsmenn samtakanna og höfunda byggðasögunnar sem voru jafnan bjartsýnir á að verkefninu færi að ljúka. Forsvarsmenn félagasamtakanna hófu jafnframt viðræður við sveitarfélögin á Ströndum um hugsanlega aðkomu þeirra að máli samtakanna.45
24.2.4 Lán til stjórnar, starfsmanna og tengdra aðila
Samkvæmt 2. mgr. 57. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki bar að fara með viðskipti starfsmanna sparisjóðsins eftir þeim reglum sem stjórn setti. Samkvæmt útlánareglum sparisjóðsins frá 2003 skyldi leggja lán til stjórnarmanna fyrir stjórn til samþykktar ef heildarskuldbinding viðkomandi stjórnarmanns og maka fór yfir 5 milljónir króna. Um lánveitingar til sparisjóðsstjóra og maka hans var vísað til 1. mgr. 57. gr. laga um fjármálafyrirtæki, þar sem kveðið var á um að stjórn skyldi samþykkja fyrirgreiðslur og að þær ættu að hlíta sömu reglum og giltu um viðskipti við almenna viðskiptamenn í sambærilegum viðskiptum. Um almenna starfsmenn gilti sú regla að lán til þeirra urðu að lúta sömu reglum og útlán til annarra viðskiptamanna sjóðsins og bar sparisjóðsstjóra að gera stjórn grein fyrir slíkum lánum og færa í gerðabók.
Í reglum sparisjóðsins um framkvæmd starfa sparisjóðsstjórnar og sparisjóðsstjóra voru ákvæði sem kváðu á um að stjórnarmenn skyldu ekki taka þátt í meðferð mála sem vörðuðu viðskipti þeirra sjálfra, fyrirtækja sem þeir áttu virkan eignarhlut í, fyrirtækja þar sem þeir sátu í stjórn eða voru fyrirsvarsmenn fyrir eða áttu verulegra hagsmuna að gæta í viðskiptum við sparisjóðinn. Þá bar ávallt að gæta þess að stjórnarmenn fengju ekki aðgang að gögnum er vörðuðu afgreiðslu máls sem þeir voru vanhæfir til að taka þátt í. Vanhæfum stjórnarmanni bar að víkja sæti áður en efni máls var kynnt.
Sjá má af fundargerðum sparisjóðsins að þegar stjórn fjallaði um lánveitingar til félaga sem tengdust stjórnarmönnum lýstu þeir sem í hlut áttu sig vanhæfa við afgreiðslu máls og viku af fundi meðan á afgreiðslu stóð. Sem dæmi má nefna að Jenný Jensdóttir stjórnarmaður Sparisjóðs Strandamanna lýsti sig vanhæfa og vék sæti þegar fjallað var um lánafyrirgreiðslur til Fiskvinnslunnar Drangs ehf. og Útgerðarfélagsins Skúla ehf. þar sem hún sat í stjórn, svo og þegar fjallað var um lán til Kaldrananeshrepps, þar sem hún var oddviti.
Rannsóknarnefndin kannaði hvort venslaðir aðilar Sparisjóðs Strandamanna, það er stjórnarmenn í sparisjóðnum, makar þeirra, félög í eigu stjórnarmanna eða maka,46 eða félög þar sem stjórnarmenn sparisjóðsins sátu í stjórn, hefðu notið óvenjulegrar lánafyrirgreiðslu hjá sparisjóðnum. Athugunin var framkvæmd með þeim hætti að kennitölur umræddra aðila voru keyrðar saman við lánagrunn sparisjóðsins.47 Enginn venslaður aðili var með óvenjulega fyrirgreiðslu og enginn stjórnarmaður var með fyrirgreiðslu yfir 10 milljónum króna á tímabilinu. Aðeins tvö vensluð félög, Fiskvinnslan Drangur ehf. og Útgerðarfélagið Skúli ehf., voru með heildarfyrirgreiðslur yfir 10 milljónir króna á tímabilinu, en ekki verður séð að fyrirgreiðslur til þeirra hafi verið óvenjulegar.
Hjá sparisjóðnum störfuðu samtals átta starfsmenn á árunum 2005–2011. Þar af höfðu fimm starfsmenn tekið lán í sparisjóðnum. Enginn starfsmanna var með óvenjulega fyrirgreiðslu eða háa skuldbindingu hjá sparisjóðnum á tímabilinu en heildarfyrirgreiðsla til starfsmanna var á bilinu 2 til 3 milljónir króna. Skuldbindingarnar námu aldrei meira en 0,5% af heildarlánum sparisjóðsins. Lán til starfsmanna gáfu ekki tilefni til athugasemda.
24.3 Fjáreignir og fjárfestingar
Sparisjóður Strandamanna setti sér ekki sérstakar reglur um fjárfestingar en í reglum um framkvæmd starfa sparisjóðsstjórnar og sparisjóðsstjóra48 kom fram að heimildir sparisjóðsstjóra til fjárfestingar í verðbréfum færu eftir reglum stjórnar sparisjóðsins um áhættustýringu. Þá skyldi stjórnin fjalla um meiriháttar eða óvenjulegar fjárfestingar, auk fjárfestinga í öðrum fasteignum en fullnustueignum. Sparisjóðurinn, eða stjórn hans, hafði þó ekki sett neinar reglur um áhættustýringu.49
Árið 2005 nam samanlögð verðbréfaeign minni sparisjóða 157% af samanlögðu eigin fé þeirra en hæst varð þetta hlutfall 401% í árslok 2008.50 Hlutfall fjáreigna af eigin fé Sparisjóðs Strandamanna varð hæst 121% í árslok 2009 en lægst 68% árið 2011. Fjáreignir voru óvenju hátt hlutfall af eignum sparisjóðsins miðað við sama hlutfall hjá minni sparisjóðunum í heild á árunum 2005–2009, en þær urðu mest 52% af eignum sparisjóðsins árið 2007. Þetta hlutfall fór síðan lækkandi hjá Sparisjóði Strandamanna þegar leið á tímabilið og í árslok 2010 og 2011 var það orðið svipað og heildarhlutfallið fyrir litlu sparisjóðina.
Fjáreignir Sparisjóðs Strandamanna voru einkum í hlutabréfum og verðbréfum með breytilegum tekjum en markaðsskuldabréf námu mest 146 milljónum króna árið 2007. Stærsta fjáreign sparisjóðsins í árslok 2005 var í hlutabréfum Kaupþings banka hf., 172 milljónir króna, en á sama tíma átti sparisjóðurinn um 80 milljónir króna í verðbréfasjóðum Íslenskra verðbréfa hf. og 106 milljónir króna í sjóðum Byrs sparisjóðs. Í byrjun árs 2006 seldi Sparisjóður Strandamanna megnið af hlutabréfaeign sinni í Kaupþingi banka hf. og nam söluhagnaður af bréfunum 15,9 milljónum króna. Í árslok 2006 átti sparisjóðurinn 843 milljónir í sjóðum hjá Íslenskum verðbréfum hf. og 246 milljónir króna í sjóðum Byrs sparisjóðs.
Um fjárfestingar sparisjóðsins sagði sparisjóðsstjóri í skýrslu sinni fyrir rannsóknarnefndinni að sparisjóðurinn hefði átt talsvert af hlutabréfum í Kaupþingi eins og margir sparisjóðir, en menn hefðu haft áhyggjur af svo stórri áhættu, bundinni í þeim bréfum. Með vaxandi verðmæti þeirra hefði verið ákveðið að dreifa áhættunni og fjárfesta meðal annars í öðrum fjármálafyrirtækjum smátt og smátt, samhliða sölu Kaupþingsbréfanna. Sparisjóðurinn hefði fjárfest meðal annars í stóru bönkunum og öðrum félögum og átt verðbréfasöfn hjá nokkrum verðbréfafyrirtækjum, svo sem Íslenskum verðbréfum, VSP, sem síðar fluttist til Byrs, Sparisjóðabankanum og MP banka. Það hafi verið markviss ákvörðun að dreifa eignunum og hafi sparisjóðurinn lagt talsverða fjármuni í peningamarkaðssjóði hjá Íslenskum verðbréfum, Byr og MP banka, enda talið að minnsta áhættan lægi í þeim. Endurheimturnar úr þeim hafi síðan orðið um 70–80% hjá Byr og MP banka, en miklu minni hjá Íslenskum verðbréfum. Það hafi farið illa með sparisjóðinn, því eignin þar var einna stærst.51
Sparisjóður Strandamanna hafði lengi átt hlut í Sparisjóðabanka Íslands hf. og FSP hf. Stjórn sparisjóðsins samþykkti 11. febrúar 2006 að taka þátt í hlutafjáraukningu FSP hf. og á sama fundi var samþykkt að taka þátt í hlutafjáraukningu í Sparisjóðabankanum. Árið 2007 sameinuðust FSP hf. og VBS Fjárfestingarbanki hf. og sama ár sameinaðist Sparisjóður Vestfirðinga Sparisjóðnum í Keflavík. Stjórn Sparisjóðs Strandamanna samþykkti á fundi 14. desember 2007 að taka þátt í stofnfjáraukningu í Sparisjóði Vestfirðinga í tengslum við samrunann en átti forkaupsrétt að stofnfé sem nam 4,5 milljónum króna. Í ársreikningi 2007 hóf Sparisjóður Strandamanna að bókfæra bréf í óskráðum félögum eins og Sparisjóðabankanum, VBS Fjárfestingarbanka hf. og Sparisjóðnum í Keflavík á gangvirði. Matsbreytingar á markaðsverðbréfum og eignarhlutum í félögum vegna þessarar breytingar hækkuðu þessar eignir um 95 milljónir króna á árinu.
Á fundi stjórnar Sparisjóðs Strandamanna 15. mars 2007 var samþykkt að kaupa hlutafé í Saga Capital Fjárfestingarbanka hf. fyrir 50 milljónir króna. Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson framkvæmdastjóri Saga Capital hafði þá kynnt félagið fyrir sparisjóðsstjóra og Sigurði Jónssyni stjórnarmanni. Þegar fyrrum sparisjóðsstjóri var spurður hvort fjárfest hefði verið í félaginu til þess að auka þjónustuframboð og fara í fjárfestingu á sameiginlegum vettvangi sparisjóðanna, líkt og hafði tíðkast um nokkur önnur félög sagði hann: „Ég man ekki eftir því að Saga Capital ætti að verða eitthvert þjónustufyrirbæri fyrir sparisjóðina, þarna var fyrst og fremst verið að fjárfesta, en auðvitað kann það að vera þótt ég minnist þess ekki.“52
Í árslok 2007 var um 501 milljón króna af eignum Sparisjóðs Strandamanna í verðbréfasjóðum, þar af 274 milljónir í umsjón Íslenskra verðbréfa hf. og 325 milljónir í hlutabréfasjóðum Sparisjóðabankans. Hjá Íslenskum verðbréfum hf. átti sparisjóðurinn um 229 milljónir króna í peningamarkaðssjóði og hjá Sparisjóðabankanum um 87 milljónir króna í sams konar sjóði.
Sparisjóður Strandamanna hagnaðist um 74 milljónir króna á hlutabréfaeign sinni í Kaupþingi banka hf. á árunum 2005 og 2006. Árið 2006 hafði sparisjóðurinn jafnframt góðar tekjur af eignarhlut sínum í Sparisjóðabanka Íslands hf. eða um 34 milljónir króna og árið 2007 skilaði eignarhlutur sparisjóðsins í VBS Fjárfestingarbanka hf. 27 milljóna króna tekjum. Árið 2008 tapaði sparisjóðurinn 288 milljónum króna á verðbréfaeign sinni, einkum á Sparisjóðabankanum, VBS Fjárfestingarbanka hf., Sparisjóðnum í Keflavík og SP-Fjármögnun hf.
Afkoma af fjáreignum hafði mikil áhrif á rekstrarniðurstöðu Sparisjóðs Strandamanna 2005–2011. Hún átti stóran þátt í hagnaði áranna 2005–2007 og í tapi áranna 2008 og 2009. Árið 2008 var tap af fjáreignum um 290 milljónir króna en heildartap á rekstri sparisjóðsins um 420 milljónir króna og ári síðar var tap af fjáreignum enn um helmingur taps af rekstri sparisjóðsins. Afkoma Sparisjóðs Strandamanna af fjáreignum á árslokaverðlagi ársins 2011 var jákvæð um 586 milljónir króna yfir tímabilið 2001 til 2007 en neikvæð um 560 milljónir króna frá 2008 til 2011.
Sparisjóðsstjóri tjáði rannsóknarnefndinni að tekjur af verðbréfum hefðu átt sinn þátt í að halda rekstrinum á réttu róli. Hann hefði óskað eftir áliti starfsmanns Sparisjóðabankans á verðbréfasafni sparisjóðsins ekki löngu fyrir fall bankanna 2008, einkum hvort honum þætti það áhættusækið, en matið hafi verið að svo væri ekki. Forsvarsmenn sparisjóðsins hafi gert sér grein fyrir þeirri áhættu sem fylgdi slíkum eignum og var ljóst að hagnaður síðustu ára hafi fyrst og fremst verið til kominn af verðbréfaeign sjóðsins, enda hefðu tekjur af vaxtamun og þjónustutekjum verið „þverrandi tekjulind“. Eftir á að hyggja taldi sparisjóðsstjórinn að þeir hefðu átt að haga málum með öðrum hætti, en á þeim tíma hefðu þeir talið sig vera að gera rétt. Hugmyndin hafi ekki verið sú að taka of mikla áhættu, en ytri aðstæður kunni að hafa mótað viðhorfin að einhverju leyti.53
24.4 Fjármögnun
Efnahagur Sparisjóðs Strandamanna tæplega þrefaldaðist frá árslokum 2005 til ársloka 2010. Þær skuldir sem fjármögnuðu vöxtinn voru einkum innlán og lántaka. Á tímabilinu 2005–2011 voru innlán á bilinu 50–99% af skuldum sparisjóðsins að undanskildu eigin fé, hæst var hlutfall þeirra árið 2011 og lægst árið 2008.54
Að meðaltali áttu heimili um 76% innlána í sparisjóðnum og fyrirtæki 12%.55 Bundin innlán voru að meðaltali 14% innlána, lægst var hlutfall þeirra 7% í nóvember 2005 og hæst 27% í ágúst 2011.56 Innlán voru á bilinu 67–282% af útlánum sparisjóðsins 2005–2011, hlutfallið var lægst árið 2007 og hæst 2011. Lántaka sparisjóðsins var næststærsti fjármögnunarþáttur hans, en hún jókst töluvert á árunum 2005–2008. Rammasamningur við Sparisjóðabanka Íslands hf. um lánsheimild í erlendum gjaldmiðlum var eina lántaka sparisjóðsins.
Hinn 13. apríl 2010 undirritaði Sparisjóður Strandamanna samkomulag við Seðlabanka Íslands um uppgjör krafna sem Seðlabankinn eignaðist sem gagngjald vegna yfirfærslu innlána Sparisjóðabanka Íslands til hans í mars 2009. Sparisjóðurinn gerði kröfurnar upp í byrjun september 2011 með því að greiða um 526 milljónir króna.57
Sparisjóður Strandamanna gerði tvo lánasamninga við Íbúðalánasjóð. Sá fyrri var gerður í desember 2004 og var upphafleg lánsupphæð rúmar 17 milljónir króna. Að baki honum stóðu þrjú lán í eigu sparisjóðsins. Seinna lánið, sem var veitt í apríl 2005, var með sama sniði en þar var lánsupphæðin rúmar 22 milljónir króna og að baki því voru fimm lán í eigu sparisjóðsins.58
24.5 Stofnfé, stofnfjáreigendur og sameiningarhugmyndir
Í samþykktum sparisjóðsins frá 26. júní 1999 kom fram að við samruna Sparisjóðs Árneshrepps og Sparisjóðs Strandamanna væri stofnfé sjóðsins 1.202.250 krónur og skiptist í 75 hluti. Stofnfjáreigendur ættu einn eða fleiri jafngilda stofnfjárhluti og hefðu atkvæðisrétt í réttu hlutfalli við stofnfjáreign. Einstökum stofnfjáraðilum væri þó aldrei heimilt að fara með meira en 5% af heildaratkvæðamagni í sparisjóðnum fyrir sjálfs sín hönd eða annarra. Enginn atkvæðisréttur skyldi fylgja þeim stofnfjárbréfum sem sparisjóðurinn kynni að eiga sjálfur, en að öðru leyti væru allir stofnfjárhlutir jafnréttháir. Þá var sala eða framsal stofnfjárhlutar óheimil nema með samþykki sparisjóðsstjórnar og veðsetning stofnfjárhlutar var óheimil. Fundur stofnfjáreigenda gat ákveðið að auka stofnféð umfram það sem kveðið væri á um í samþykktunum og var heimilt að auka stofnfé með endurmati. Verð nýrra stofnfjárhluta skyldi ekki vera lægra en nafnverð áður útgefinna hluta að viðbættri ónýttri heimild til endurmats stofnfjár. Við aukningu stofnfjár skyldu stofnfjáreigendur eiga rétt til þess að skrá sig fyrir auknu stofnfé í réttu hlutfalli við stofnfjáreign sína. Stofnfjáraðilum var jafnframt heimilt að framselja forkaupsrétt sinn, kysu þeir ekki að nýta hann sjálfir.
Samþykktunum var breytt á aðalfundi stofnfjáreigenda sparisjóðsins 3. maí 2003. Þá var ákveðið að stofnfé skyldi ekki vera lægra en 1.723.680 krónur og skiptast í ekki færri en 84 hluti. Þá skyldu stofnfjáreigendur ekki vera færri en 30. Heimilað var að auka stofnfé með ráðstöfun hluta hagnaðar en í eldri samþykktum var aðeins minnst á heimild til að auka stofnfé með endurmati. Aðrar breytingar voru ekki gerðar á ákvæðum samþykktanna um stofnfé sparisjóðsins.
Hinn 23. nóvember 2007 var samþykktum sparisjóðsins aftur breytt og kveðið á um að stofnfé skyldi ekki vera lægra en 9.294.880 krónur og skiptast í margfeldi einnar krónu. Skipting í aðrar einingar var þó heimil með samþykki aðalfundar. Öðrum ákvæðum um stofnfé var ekki breytt.
Næst voru gerðar breytingar á samþykktum sjóðsins 18. apríl 2010. Þá var ákveðið að fundur stofnfjáreiganda gæti ákveðið að auka stofnfé umfram það sem kveðið væri á um í samþykktum með áskrift nýrra stofnfjárhluta. Lágmarksverð nýrra stofnfjárhluta skyldi vera jafnhátt nafnverði stofnfjárhluta í sparisjóðnum. Einnig var samþykkt að fundur stofnfjáreigenda gæti, að tillögu stjórnar, ákveðið að lækka stofnfé sjóðsins til jöfnunar taps sem ekki yrði jafnað á annan hátt. Aðalfundi sparisjóðsins var einnig gert kleift að heimila stjórn hans að ráðstafa allt að 50% hagnaðar til hækkunar á nafnverði stofnfjár í sjóðnum og til arðgreiðslu til stofnfjáreigenda. Þó gátu arðgreiðslur ekki orðið hærri en stjórn sparisjóðsins legði til. Heimild til að ráðstafa hagnaði með þessum hætti var háð því að fyrir hendi væri óráðstafað eigið fé í sparisjóðnum.
Frá árinu 2001 til 2004 fjölgaði stofnfjáreigendum Sparisjóðs Strandamanna lítillega, úr 75 í 87, og áttu allir stofnfjáreigendur jafnan hlut.59 Í árslok 2005 voru stofnfjáreigendur 86 talsins og áttu þrír stærstu allir jafnstóran hlut í sparisjóðnum. Að öðru leyti var stofnfjáreignin dreifð og áttu aðrir stofnfjáreigendur einn eða tvo hluti hver. Ári síðar dreifðist stofnfjáreignin enn meira vegna stofnfjáraukningar, auk þess sem stofnfjáreigendum fjölgaði um sex. Frá 2007 til 2011 voru stofnfjáreigendur 102 talsins.60
Einungis tveir lögaðilar áttu stofnfé í sjóðnum frá árinu 2001, Varða hf. átti stofnfjárhlut í sparisjóðnum til ársins 2007 og árið 2010 eignaðist Arion banki hf. 1,4% stofnfjárhlut í sparisjóðnum. Viðskipti með stofnfjárbréf voru fátíð og helstu ástæður eigendaskipta voru í tengslum við erfðaskipti.
Á aðalfundi Sparisjóðs Strandamanna 31. mars 2005 var borin upp tillaga um greiðslu arðs vegna ársins 2004 sem næmi 50% af stofnfjáreign eins og hún var 31. desember 2004, en hagnaður vegna ársins var 110 milljónir króna. Arðinn átti að greiða út 18. maí 2005. Jafnframt var borin upp tillaga um að auka stofnfé sparisjóðsins um tæpar 2,3 milljónir króna og tvöfalda fjölda stofnfjárhluta. Báðar tillögurnar voru samþykktar á fundinum án umræðu og með atkvæðum allra fundarmanna. Undir lok aðalfundarins kom fram fyrirspurn um áhuga annarra fjármálastofnana á yfirtöku sparisjóðsins. Fundarstjóri svaraði því til „að víst hefði komið fyrirspurn frá Landsbanka þess efnis en verið hafnað“.61 Sumarið 2005 var nýja stofnféð selt en heimild til kaupa skiptist á milli stofnfjáreigenda í hlutfalli við stofnfjáreign. Stofnfjáraukningin nam rúmlega 1,4 milljónum króna, eða tæpum 62% af því sem í boði var62 og var stofnfé sparisjóðsins í árslok 2005 3,7 milljónir króna.
Á aðalfundi sparisjóðsins 11. apríl 2006 var að nýju lögð fram tillaga um aukningu og sölu stofnfjár. Tillagan var tvíþætt: annars vegar að stofnfé sparisjóðsins yrði aukið um 4.027.264 krónur og fjöldi stofnfjárhluta tvöfaldaður; hins vegar að stjórn sjóðsins fengi heimild til að selja 35 stofnfjárhluti til nýrra aðila án forkaupsréttar, en það voru hlutir sem ekki höfðu gengið út við stofnfjáraukninguna árið áður. Samkvæmt fundargerð urðu einhverjar umræður um tillögurnar en þeirra er ekki getið nánar. Tillögurnar voru síðan samþykktar.63 Við sölu á stofnfjárhlutum var nokkuð um að stofnfjáreigendur óskuðu eftir að kaupa hluti umfram forkaupsrétt sinn, og einnig voru sex nýir stofnfjárhafar í hópi kaupendanna og fékk hver þeirra að kaupa einn hlut.64
Sameiningu við aðra sparisjóði bar á góma á fundi stjórnar sparisjóðsins 26. janúar 2007. Sparisjóðsstjóri greindi frá fundi með fulltrúum Sparisjóðs Vestfirðinga, Sparisjóðs Bolungarvíkur og Sparisjóðs Húnaþings og Stranda 16. janúar „þar sem rædd voru sameiningarmál sparisjóða og hvort leggja ætti til að skoðun færi fram á því hvort vilji væri til að sameina þessa fjóra sjóði í einn öflugan sjóð“.65 Sameiningarmálin voru svo tekin fyrir á aðalfundi sparisjóðsins 15. apríl 2007, en þar var fært til bókar að almenn andstaða væri við slíkar hugmyndir, bæði meðal fundarmanna, stjórnar og sparisjóðsstjóra. Þá segir í fundargerð að fram hafi komið fyrirspurn „um hvort og hvernig yrði brugðist við lækkun gengis verðbréfa“ og henni verið svarað á þá leið „að ekki lægi neitt fyrir, en hvert tilvik fyrir sig yrði skoðað“. Einnig var borin upp fyrirspurn um „hækkun ýmissa skulda milli ára, en sundurliðað svar fékkst ekki“.
Á stjórnarfundi 14. ágúst 2007 voru teknar fyrir óskir þriggja einstaklinga um kaup á stofnfé í sparisjóðnum, en öllum umsóknunum var hafnað með vísan til „fyrri ákvörðunar stjórnar um meðferð stofnfjár“. Tveir umsækjendanna voru stjórnarmenn eða nátengdir þeim, en sá þriðji, sem falaðist eftir ótilgreindum fjölda stofnfjárhluta, var sagður til heimilis á Húsavík og var ekki meðal stofnfjáreigenda. Á næsta fundi stjórnarinnar, 11. september 2007, var á hinn bóginn samþykkt samhljóða að selja stofnfjárhlut til dóttur stjórnarformanns sparisjóðsins. Á fundinum var einnig rætt bréf frá Sparisjóðnum í Keflavík þar sem óskað var eftir viðræðum sem miða skyldu að „nánara samstarfi og sameiningu til að styrkja sparisjóðina í landinu“. Í fundargerð lýsti stjórn sparisjóðsins sig „reiðubúna til viðræðna við Sparisjóð Keflavíkur til að fylgjast með framvindu þessara mála og kanna hverjir kostir [væru] á samstarfi og til að ræða framtíð sparisjóðanna í landinu“.
Björgvin G. Sigurðsson, þáverandi viðskiptaráðherra, skipaði nefnd 28. ágúst 2007 sem ætlað var að skýra lagaumhverfi sparisjóða.66 Á fundi stjórnar sparisjóðsins 10. október sama ár voru málefni sparisjóðanna rædd og skýrt frá þessari nefndarskipan. Í fundargerð var bókað: „Þar til niðurstaða fæst hefur stjórnin ákveðið að heimila ekki viðskipti með stofnfjárbréf. Á það bæði við um sölu nýrra stofnfjárbréfa og viðskipti með eldri bréf. Þessi ákvörðun er einnig tekin í ljósi þess umróts sem er í umhverfi sparisjóðanna.“ Þrátt fyrir þetta var ákveðið á fundi stjórnar sparisjóðsins tæpum mánuði síðar, eða 7. nóvember, þar sem rætt var um stöðu og framtíð sparisjóðsins, að boða til stofnfjáreigendafundar 23. nóvember sama ár þar sem lagt yrði til að auka stofnfé um allt að 210 milljónir króna.
Á stofnfjáreigendafundinum 23. nóvember 2007 lagði Helgi F. Arnarsson, endurskoðandi sparisjóðsins, fram árshlutareikning sparisjóðsins og sagði í fundargerð að hann væri „nú gerður eftir alþjóðlegum reikningsskilastöðlum“. Þá skýrði hann fyrir fundinum tilkomu tillögu stjórnar um 210 milljóna króna stofnfjáraukningu ásamt breytingum í starfsumhverfi sparisjóða í landinu. Tillaga stjórnar um stofnfjáraukninguna sem sparisjóðsstjórinn lagði fram á fundinum var svo samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða. Einnig var samþykkt heimild til veðsetningar stofnfjár í sparisjóðnum að tilskildu samþykki stjórnar sparisjóðsins og breytingu á nafnverði hlutar þar sem hver stofnfjárhlutur skyldi framvegis vera ein króna í stað 25.000 króna. Að loknum fundi stofnfjáreigenda fundaði stjórn sparisjóðsins og samþykkti að nýta sér strax heimild til stofnfjáraukningar upp á rúmar 195 milljónir króna að nafnverði og var áskriftartíminn frá 30. nóvember til 11. desember 2007.67
Fyrir rannsóknarnefndinni var Björn Torfason, stjórnarformaður Sparisjóðs Strandamanna, spurður um ástæður þess að ráðist var í stofnfjáraukninguna. Björn kvað sjóðinn ekki hafa skort fé á þessum tíma, en stofnfé hafi verið lítill hluti af eigin fé sparisjóðsins, eða 8 milljónir króna og varasjóðurinn 550 milljónir. Stofnfjáraukningin hafi frekar komið til af því að rétt hafi þótt að huga að hagsmunum stofnfjáreigenda sem hefðu ekki verið „að fá mikið út úr peningunum sínum“ og að mikilvægt hefði þótt að „þeir fengju hluta af arðinum“. Spurður nánar um það hvaðan hugmyndin um stofnfjáraukninguna hefði komið svaraði Björn því til að hún hefði komið „frá endurskoðandanum“ sem hefði komið á fund stjórnar og talað um „að við ættum að fara í stofnfjáraukningu“. Spurður um rök endurskoðandans fyrir þessari skoðun kvaðst Björn telja að „hann hafi viljað að stofnfjáraðilar eignuðust meiri hlutdeild í sjóðnum“, en eitthvað hafi verið um það að hringt hafi verið í stofnfjáraðila og boðið í hluti þeirra á yfirverði. Sagði Björn stofnfjáraðilana sjálfa ekki hafa sýnt af sér óþolinmæði í þessu efni eða sýnt frumkvæði að stofnfjáraukningu. Sú hugmynd hefði komið upp á fundi með endurskoðanda sparisjóðsins að leggja fyrir stofnfjáreigendur tillögu um að auka stofnfé og „verjast þannig inngripi utanaðkomandi aðila í sjóðinn“. Þannig „yrði starfsemin áfram tryggð í heimabyggð“.68
Í skýrslutöku fyrir rannsóknarnefndinni var Guðmundur B. Magnússon sparisjóðsstjóri spurður um ástæður stofnfjáraukningarinnar. Í svarinu vísaði hann til þess að flestir sparisjóðir hafi á þessum tíma verið að auka stofnfé sitt eða verið búnir að því. Sótt hafi verið í að kaupa lágt metið stofnfé, einkum af fólki utan svæðisins. Heyrst hefði af því að hringt hefði verið í fólk og það spurt út í stofnfjáreign sína og falast eftir stofnfé. Með hliðsjón af því hvað aðrir sparisjóðir hefðu verið að aðhafast í þessum efnum hafi þótt ástæða til að kanna hvort stofnfjáreigendurnir hefðu áhuga á að auka stofnfé sitt og efla sparisjóðinn. Björn Torfason bar einnig fyrir rannsóknarnefndinni að hringt hefði verið í stofnfjáreigendur og falast eftir stofnfjárbréfum en kvaðst ekki viss um hvort þeir sem það gerðu hefðu verið á sjálfs sín vegum eða annarra aðila, svo sem fjármálastofnana.
Útboðinu lauk 11. desember 2007 og tóku 99 af 102 stofnfjáreigendum þátt í aukningunni. Vegna stofnfjáraukningarinnar bauðst stofnfjáreigendum lánsfjármögnun hjá Kaupþingi og var lánsumsóknarblað sent til stofnfjáreigenda samhliða greiðsluseðlum.69 Nokkuð var um það að stofnfjáreigendur notfærðu sér það.
Á árinu 2008 báru umræður í stjórn sparisjóðsins og á aðalfundi þess merki að nokkur óvissa væri um stöðu sparisjóða í landinu og samstarf þeirra. Á aðalfundi sparisjóðsins 13. apríl 2008 kom fram nokkur óánægja með rekstrarafkomu ársins 2007 og spurt „hvort ekki hefði verið gert ráð fyrir betri rekstrarafkomu ársins þegar stofnfjáraukning var samþykkt undir lok ársins“. Fram kom í svari að verðfall á fjármálamörkuðum hefði valdið því að afkoman varð ekki betri. Afkoma sparisjóðsins hefði þó „ekki verið verri en annarra fjármálastofnana nema síður væri“ og var það rakið til hagstæðrar samsetningar verðbréfasafns sparisjóðsins.70 Á fundi stjórnar 15. júlí 2008 greindi sparisjóðsstjóri frá fundi sparisjóðsstjóra sem haldinn var á vegum Sambands íslenskra sparisjóða þar sem farið var yfir stöðu sparisjóðanna. Í fundargerð var bókað: „Fagleg greining hefur ekki farið fram en vísað í umræður í þjóðfélaginu. Hjá sumum sparisjóðum er útlitið mjög dökkt.“
Umræða um möguleg kaup sparisjóðsins á útibúi Kaupþings banka hf. á Hólmavík og húsnæði þess hafði átt sér stað í stjórn sparisjóðsins frá árinu 2007. Á stjórnarfundi 21. ágúst 2008 var fært til bókar að Kaupþing banki hf. hefði komið þeirri ósk á framfæri við Helga F. Arnarson, endurskoðanda sparisjóðsins, að „yfirtakan“ færi fram 1. nóvember það ár en drög að kaupsamningi höfðu legið fyrir frá því í desember 2007. Ekkert varð úr þeim áformum en á stjórnarfundi 28. september 2008 var fært til bókar að Kaupþing hefði ítrekað við endurskoðanda sparisjóðsins hvort sparisjóðurinn héldi sig við fyrri áform um kaup á rekstri útibúsins.
Þá var greint frá því á fundi stjórnar 31. ágúst 2008 að stjórnarformaður og sparisjóðsstjóri hefðu átt fund með forsvarsmönnum MP Fjárfestingarbanka hf. þar sem vilji bankans til yfirtöku á sparisjóðnum eða samstarfs við hann var ræddur. Lagði bankinn „fram þrjár leiðir sem stjórn spsj. [skyldi] fjalla um“ og voru eftirfarandi leiðir skráðar í fundargerð:
1. MP er til í að kaupa Sparisjóð Strandamanna, þ.e.a.s. allt stofnfé sjóðsins og um leið tryggja bankaþjónustu á Ströndum.
2. MP er til í að aðstoða við sameiningu sparisjóðsins og höfðu þeir þá áhuga á að kaupa kennitölu sjóðsins og ýmsa aðganga s.s. RB, Visa o.fl. sem veruleg verðmæti eru í. Þannig mætti auka verðmæti sjóðsins.
3. MP er til í að gera þjónustusamning við sparisjóðinn um afnot af aðgangi sjóðsins að Reiknistofunni fáist til þess leyfi sem eru háð lögum og reglum og einnig reglum Reiknistofunnar. Slíkur samningur fæli í sér greiðslur til sparisjóðsins og hugsanlega einhver bakvinnsluverkefni.
Frekari útfærsla á hugmyndum MP Fjárfestingarbanka hf. var lögð fyrir fund stjórnar sparisjóðsins 28. september sama ár og fólst í hugmyndum um kaup á sparisjóðnum og að stofnað yrði „Rekstrarfélag Sparisjóðs Strandamanna“. Fundur var fyrirhugaður með fulltrúum bankans í Reykjavík 7. október og fór sparisjóðsstjóri ásamt þremur stjórnarmönnum til fundarins. Í fundargerð stjórnarfundar sparisjóðsins frá 21. október 2008 var ritað um förina: „Rétt áður en fundurinn átti að byrja var hann afboðaður og hefur MP-fjárfestingabanki ekki haft samband aftur.“71
24.6 Viðbrögð við breyttum aðstæðum eftir fall íslensku bankanna 2008
Í upphafi árs 2008 var staða Sparisjóðs Strandamanna nokkuð góð. Hagnaður af rekstri sparisjóðsins árið 2007 var 67 milljónir króna, eigið fé sjóðsins í árslok nam 830 milljónum króna og eiginfjárhlutfallið var 32,4%. Sparisjóðurinn hafði aukið við stofnfé sitt undir lok árs 2007 um 195 milljónir króna og var stofnféð í árslok rúmar 204 milljónir króna. Þótt staða sjóðsins hafi verið sterk í upphafi árs fór sjóðurinn ekki varhluta af þróun á fjármálamörkuðum á árinu 2008. Hafði fall íslensku viðskiptabankanna þar mikil áhrif. Samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2008 varð tap á rekstri sjóðsins upp á 356 milljónir króna, eigið fé sparisjóðsins í árslok nam rúmum 419 milljónum króna og eiginfjárhlutfallið var 23,3%.
Með 2. gr. laga nr. 125/2008 var fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, heimilað að leggja sparisjóðunum til fjárhæð sem nam allt að 20% af bókfærðu eigin fé viðkomandi sparisjóðs vegna sérstakra og óvenjulegra aðstæðna á fjarmálamarkaði. Nánar var kveðið á um útfærslu og skilyrði eiginfjárframlags í reglum sem settar voru 18. desember 2008.72 Meðal skilyrða var að eiginfjárhlutfall viðkomandi sparisjóðs yrði ekki lægra en 12% að meðtöldu eiginfjárframlagi ríkissjóðs, en þó ekki hærra en 15%.73 Flestir sparisjóðanna sóttu um eiginfjárframlag á grundvelli laganna en Sparisjóður Strandamanna gerði það ekki. Eiginfjárhlutfall hans var vel yfir lögbundnu lágmarki og hærra en svo að sparisjóðurinn félli undir reglurnar til að hljóta eiginfjárframlag úr ríkissjóði eða þyrfti að leita eftir slíku framlagi.
Þótt sparisjóðurinn hafi ekki undirgengist fjárhagslega endurskipulagningu á sama hátt og margir hinna sparisjóðanna, gekk hann til samninga við Seðlabanka Íslands vegna uppgjörs á kröfum á hendur sparisjóðnum. Undir lok sumars 2009 tóku fjármálaráðuneytið og Seðlabanki Íslands, undir forystu bankans, upp nánari samvinnu um fjárhagslega endurskipulagningu sparisjóða, þegar ljóst var að sparisjóðirnir uppfylltu ekki allir skilyrði reglna um framlag til sparisjóða.74 Seðlabanki Íslands var helsti kröfuhafi sparisjóðanna á þessum tíma, eftir að hafa fengið framseldar kröfur Sparisjóðabankans á hendur sparisjóðunum, sbr. ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 21. mars sama ár. Þar á meðal voru kröfur á hendur Sparisjóði Strandamanna sem námu 774 milljónum króna.75 Í september 2009 sendi Seðlabanki Íslands, í samvinnu við fjármálaráðuneytið, sparisjóðunum tillögu um meðferð krafna á hendur sparisjóðunum og var unnið að frekari útfærslu hennar um veturinn. Hinn 1. febrúar 2010 sendi Seðlabankinn síðan sparisjóðunum bréf þar sem þeim var boðið að semja um uppgjör krafna með ákveðnum kjörum og skilyrðum.76 Viku síðar, 8. febrúar, kynnti Fjármálaeftirlitið sparisjóðnum kröfur sínar varðandi fjárhagslega endurskipulagningu með aðild ríkissjóðs á grundvelli laga nr. 125/2008 eða með aðild Seðlabanka Íslands á grundvelli samnings um uppgjör krafna. Fjármálaeftirlitið gerði þá meðal annars kröfu um að eiginfjárhlutfallið yrði að lágmarki 16% að lokinni fjárhagslegri endurskipulagningu.77 Auknar kröfur Fjármálaeftirlitsins um eiginfjárhlutfall tóku þó ekki til Sparisjóðs Strandamanna þar sem hann sótti ekki um slíkt eiginfjárframlag.
24.6.1 Aðdragandi að samkomulagi við Seðlabanka Íslands
Í bréfi sparisjóðsins til Seðlabankans 5. febrúar 2010 var lýst áhuga á að gera samning um uppgjör skuldanna, en talið var óhjákvæmilegt að líta til fleiri þátta en fram komu í bréfi Seðlabankans, enda væri um verulega fjárhæð að ræða. Meðal þeirra leiða sem bent var á í bréfi Seðlabankans 1. febrúar 2010 var að gera upp kröfur gegn 12% afslætti. Í tillögum sparisjóðsins var aðeins gert ráð fyrir að hluti yrði gerður upp og þá gegn hámarksafslætti en að öðru leyti yrði kröfum breytt í stofnfé, víkjandi og almenn lán, og að hluti yrði felldur niður. Seðlabankinn féllst ekki á tillögu sparisjóðsins og benti á að 12% afsláttur yrði aðeins veittur ef allar kröfur yrðu greiddar, afsláttur yrði ekki veittur á uppgreiðslu hluta skuldarinnar.78
Í kjölfar fundar fyrirsvarsmanna sparisjóðsins með fulltrúum Seðlabankans 8. mars 2010 sendi sparisjóðurinn Seðlabankanum nýja tillögu að uppgjöri skulda 12. mars 2010.79 Í henni voru lagðar til sambærilegar breytingar á kröfunni og áður, nema hvorki var gert ráð fyrir afskriftum né uppgreiðslu að hluta. Tillaga var gerð um að lækka stofnfé um 93 milljónir króna, eða sem samsvaraði neikvæðri stöðu varasjóðs auk eignfærðrar skattinneignar, í samræmi við skilyrði bankans. Yrði skuld sjóðsins við bankann gerð upp með þessum hætti yrði eiginfjárhlutfallið um 19%. Þá stæði sparisjóðnum til boða að greiða upp skuld sína við bankann með afföllum og var þá gert ráð fyrir að eiginfjárhlutfall sparisjóðsins í árslok 2010 yrði um 17%. Seðlabankinn samþykkti tilboð sparisjóðsins en veitti honum jafnframt frest til að ákveða hvort um endurgreiðslu á kröfum bankans yrði að ræða eða ekki.80
Á stjórnarfundi 26. mars 2010 samþykkti stjórn sparisjóðsins að greiða upp skuldina við Seðlabankann. Á sama fundi var lagður fram ársreikningur fyrir árið 2009, þar sem fram kom að tap af rekstri nam tæpum 190 milljónum króna og eiginfjárhlutfallið 12,7%. Áhrif þess að greiða kröfu Seðlabankans með 12% afslætti, miðað við stöðu í árslok 2009, væru að eiginfjárhlutfallið hefði hækkað úr 12,7% í 17,7%. Af hálfu sparisjóðsins var undirritað samkomulag um uppgjör á skuldum við Seðlabanka Íslands 13. apríl 2010. Í samkomulaginu fólst uppgjör á kröfum í erlendum myntum samkvæmt „Rammasamningi um lánsheimild milli Sparisjóðs Strandamanna og Sparisjóðabanka Íslands hf.“ frá 21. janúar 2005, sem framseldar höfðu verið Seðlabanka Íslands og skyldi krónufjárhæð krafnanna lækka um 12% við greiðslu miðað við stöðu þeirra á uppgjörsdegi.
Áform ríkisins og Seðlabanka Íslands um fjárhagslega endurskipulagningu sparisjóðanna var háð samþykki Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA). Á fundum fulltrúa Seðlabanka og fjármálaráðuneytis með fulltrúum Eftirlitsstofnunarinnar 26. maí 2010 kom fram að forsvarsmenn hennar ættu erfitt að sjá fyrir sér að 12% afsláttur sem Seðlabankinn hygðist veita þremur smærri sparisjóðum á uppgjöri krafna Seðlabankans, þeirra á meðal Sparisjóði Strandamanna, stæðist reglur um ríkisaðstoð. Að óbreyttu myndi eftirgjöf af því tagi ekki verða samþykkt.81 Eftir að sú niðurstaða Eftirlitsstofnunar EFTA lá fyrir kom fram í tölvupósti frá Stefáni Þór Sigtryggssyni, starfsmanni á fjármálasviði Seðlabanka Íslands, til Guðmundar Björgvins Magnússonar sparisjóðsstjóra, að nú lægi fyrir að Eftirlitsstofnun EFTA hefði ekki samþykkt þá aðgerð og því yrði uppgreiðslunni frestað þar til samþykki eftirlitsstofnunarinnar lægi fyrir.82
Í kjölfar dóma Hæstaréttar 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010, um lögmæti lánsskuldbindinga í íslenskum krónum tengdum gengi erlendra gjaldmiðla, sendu Fjármálaeftirlitið og Seðlabanki Íslands fjármálafyrirtækjum tilmæli vegna óskuldbindandi gengistryggingarákvæða 30. júní 2010. Fjármálafyrirtækjum var síðan gert að endurmeta eiginfjárþörf sína í ljósi þessara aðstæðna og tryggja að eigið fé yrði nægilegt til þess að mæta hugsanlegri rýrnun eigna umfram það sem endurreikningur hefði í för með sér.83 Sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Strandamanna leit svo á að með þessu hefði Seðlabankinn einnig lagt mat á gengistryggða skuld sjóðsins. Vegna tilmælanna og þeirra dóma Hæstaréttar sem þar var vísað til, óskaði hann eftir staðfestingu á því með hvaða hætti Seðlabankinn mæti skuld sparisjóðsins.84
Á haustmánuðum 2010 var aftur farið að huga að frágangi samkomulags milli sparisjóðsins og Seðlabankans en þar sem Eftirlitstofnun EFTA hafði ekki samþykkt fyrra fyrirkomulag var nú lagt upp með að lækka afslátt við uppgjör krafnanna í 11% í stað 12% áður.85 Stjórn sparisjóðsins vildi að í samkomulaginu yrði fyrirvari um mögulegt ólögmæti lántökunnar hjá Sparisjóðabankanum. Með fyrirvaranum hefði sjóðurinn rétt til að krefja Seðlabankann um endurgreiðslu reyndust erlendar lánveitingar sjóðsins til viðskipavina hans ólöglegar. Stjórn heimilaði sparisjóðsstjóra að ganga til samninga við Seðlabankann undir þessum formerkjum.86 Ekkert varð af gerð samkomulagsins á þessum tíma og var Sparisjóður Strandamanna eini sparisjóðurinn sem ekki hafði lokið við gerð samkomulags við Seðlabankann um uppgjör krafna í lok árs 2010.
Fyrir rannsóknarnefndinni sagði Guðmundur B. Magnússon sparisjóðsstjóri að sparisjóðurinn hefði lengi verið í samningaviðræðum við Seðlabankann með það sjónarmið að það þyrfti að „flytja þetta niður“. Komin hefðu verið drög að samningi en á Þorláksmessu 2010 hefði komið tölvupóstur frá starfsmanni Seðlabankans þar sem hann bað Guðmund um að hafa samband við sig vegna krafna bankans á hendur sparisjóðnum.87 Kvaðst Guðmundur hafa heyrt í honum á milli hátíðanna og fengið að vita að ákveðið hefði verið að gera ekki upp við sparisjóðinn. Hann hefði svo haft samband við stjórnarformanninn og kynnt honum málið án þess að vita í raun hvað það þýddi fyrir sparisjóðinn. Málið hafi svo verið rætt á næsta stjórnarfundi. Í mars hafi síðan verið hafnar viðræður við Eignasafn Seðlabankans sem enduðu með uppgjöri í september sama ár.88 Guðmundur sagði að ekki hefðu verið tilgreindar sérstakar ástæður þess að ekki hefði verið gengið frá uppgjöri við sparisjóðinn, aðeins að „við hefðum ekki fallið inn í þetta mynstur eða eitthvað svoleiðis“.89 Um samningaviðræðurnar við Seðlabankann sagði hann: „Mér fannst allan tímann að lítið tillit væri tekið til okkar sjónarmiða þótt þetta ættu að heita samningaviðræður. Við reyndum að fá viðtal við hærra setta aðila í bankanum, en það gekk ekki.“90
24.6.2 Endurútreikningur og uppgjör krafna Seðlabanka Íslands
Í byrjun árs 2011 voru kröfur Seðlabanka Íslands á hendur sparisjóðnum seldar Eignasafni Seðlabanka Íslands með 11% afslætti, en þó með þeim fyrirvara að ef minna fengist fyrir kröfuna myndi kaupverðið til Seðlabankans lækka.91
Í ársreikningi fyrir árið 2010 kom fram að óvissa væri vegna dóma Hæstaréttar um gengisbundin lán sem leiddi af sér óvissu um fjárhagsstöðu sparisjóðsins. Ekki hafði verið gengið frá samkomulagi milli sparisjóðsins og Seðlabankans um uppgjör á skuldum við bankann þrátt fyrir að legið hefði fyrir óstaðfestur samningur þar að lútandi. Þá hefðu í febrúar 2011 fallið dómar í Hæstarétti þar sem tiltekin gengistryggð lán til fyrirtækja voru dæmd ólögmæt. Vegna þessa ríkti því eftir sem áður óvissa um lögmæti ýmissa útlána, lánasamninga og annarra fjármálagerninga sem tengdir voru erlendum myntum, og áhrif þessara dóma á fjárhagsstöðu sparisjóðsins. Fram kom það álit stjórnar sjóðsins að yrðu gengisbundin útlán sjóðsins dæmd ólögmæt kynni slíkt hið sama að eiga við um lán sjóðsins hjá Seðlabankanum og því kynni slík niðurstaða um gengisbundin lán að verða sjóðnum hagstæð.92 Sparisjóður Strandamanna fékk Teris til að endurreikna kröfu Seðlabankans og var sá útreikningur tilbúinn í byrjun maí 2011. Staða kröfu Seðlabanka Íslands nam þá tæpum 832 milljónum króna en eftir endurreikning 395 milljónum króna sem var um 52,5% lækkun.93
Í byrjun júlí 2011 framkvæmdi Fjármálaeftirlitið vettvangsskoðun hjá Sparisjóði Strandamanna. Skoðunin leiddi í ljós að staða sparisjóðsins væri ekki sterk og að hann myndi „standa og falla“ með því hve mikinn afslátt hann fengi af kröfum Seðlabankans. Jafnframt kom fram að fengi sparisjóðurinn umbeðinn afslátt, myndi eiginfjárstaða hans batna og rekstrargrundvöllur yrði tryggður að sinni. Lögfræðingar Seðlabankans væru að fara yfir málið og líklegt væri að fallist yrði á hugmyndir sparisjóðsins.94 Í bréfi Fjármálaeftirlitsins til sparisjóðsins 28. júlí 2011 kom fram að eiginfjárhlutfall sparisjóðsins samkvæmt eiginfjárskýrslu væri 8,57% og taldi Fjármálaeftirlitið ástæðu til að ætla að eiginfjárgrunnur sparisjóðsins kynni að vera undir 8% í ljósi óvissu um mat á útlánum og lántöku vegna gengistryggðra lánasamninga sparisjóðsins. Fjármálaeftirlitið veitti sparisjóðnum því frest til 31. ágúst 2011 til að skila endurskoðuðu reikningsuppgjöri miðað við 30. júní 2011. Væri niðurstaðan sú að sparisjóðurinn uppfyllti ekki ákvæði laga um lágmarks eiginfjárhlutfall var óskað eftir ítarlegri greinargerð um þær ráðstafanir sem sjóðurinn hygðist grípa til fyrir 15. september 2011.95
Á 20. stjórnarfundi Eignasafns Seðlabanka Íslands sem haldinn var 19. og 22. ágúst 2011 var fjallað um málefni Sparisjóðs Strandamanna. Í minnisblaði sem lagt var fram á fundinum sagði að Sparisjóður Strandamanna hefði farið fram á að upphafleg krafa Seðlabankans yrði talin falla undir að vera ólögmætt gengistryggt lán.96 Ef ekki yrði fallist á það myndi eiginfjárhlutfall sparisjóðsins falla undir lögbundið 8% lágmark. Í minnisblaðinu kom einnig fram að sparisjóðurinn hefði frest frá Fjármálaeftirlitinu til ágústloka til að skila endurskoðuðu reikningsuppgjöri, en þyrfti ella að fara fram á undanþágu frá Fjármálaeftirlitinu, leggja fram áætlun um framtíðarrekstur og hvernig hann hygðist ná upp eiginfjárhlutfallinu og þá upp í 16% í stað 8%.97 Stjórn Eignasafns Seðlabankans var því vandi á vöndum en samþykkti 19. ágúst 2011 að láta endurreikna kröfu á hendur Sparisjóði Strandamanna miðað við lægstu óverðtryggðu vexti Seðlabanka Íslands. Var það gert í ljósi þess að Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf. taldi það hámarka og flýta endurheimtum sínum.98 Var litið svo á að þetta væri leið til að ljúka málinu en væri ekki viðurkenning á því að um ólögmætt lán væri að ræða.99
Samkvæmt stjórnarfundargerð sparisjóðsins 22. ágúst 2011 var sparisjóðnum tilkynnt að kröfur Seðlabankans yrðu endurreiknaðar og til grundvallar endurútreikningi yrði lagður útreikningur Teris, sem þó ætti eftir að yfirfara. Endanlegar niðurstöður lægju ekki fyrir, en í drögum að ársreikningi hefði verið gert ráð fyrir að eftirstöðvar þessarar skuldar, eftir endurútreikning, næmu um 490 milljónum króna.100
Vegna uppgjörs á kröfum vegna ádráttarlána í erlendum myntum greiddi Sparisjóður Strandamanna rúmar 526 milljónir króna og var krafa Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf. á hendur Sparisjóði Strandamanna þar með að fullu greidd.101
Í lok árs 2011 nam hagnaður af rekstri Sparisjóðs Strandamanna 17,5 milljónum króna, en þá hafði eftirgjöf skulda að fjárhæð 391 milljón króna verið tekjufærð. Bókfært eigið fé í árslok 2011 nam 238 milljónum króna og var eiginfjárhlutfallið 16,5%.102
24.7 Arður af stofnfjáreign
Sparisjóður Strandamanna greiddi stofnfjárhöfum jafnan arð af stofnfé þeirra. Á árunum 2001 til 2009 námu arðgreiðslur vegna næstliðinna rekstrarára samtals 71,7 milljónum króna. Greiddur var svo mikill arður sem reglur Tryggingasjóðs sparisjóða leyfðu og stundum umfram það.103 Vegna ársins 2004 var arðgreiðsluhlutfallið 49,4% af stofnfé meðan hámarkið, raunarðsemi eigin fjár, var 47,8%. Eftir það var það aðeins vegna ársins 2006 sem arðgreiðslan var í samræmi við reglur Tryggingasjóðs. Arðgreiðslan vegna ársins 2007 var 41,8 milljónir króna umfram það sem heimilt var samkvæmt reglunum. Reglur Tryggingasjóðs giltu til ársins 2009 þegar lögum var breytt en eftir það mátti greiða út arð sem næmi að hámarki 50% af hagnaði.104 Sparisjóðurinn greiddi ekki arð vegna áranna 2009 til 2011. Arðgreiðslur og forsendur þeirra eru tíundaðar í töflu 21.
Í lögum um fjármálafyrirtæki var heimild til að endurmeta stofnfé sparisjóðs og greiða inn á stofnfjárreikninga stofnfjáreigenda og skyldi höfð hliðsjón af verðlagsbreytingum við endurmatið.105 Árin 2005–2009 var stofnfé Sparisjóðs Strandamanna hækkað með endurmati vegna verðlagsbreytinga samtals um 49,7 milljónir króna. Endurmatið árið 2008 var lægra en nam verðlagsbreytingum innan ársins. Það hefði mátt nema 34,5 milljónum króna en ekki voru nýttar til þessa nema 12,3 milljónir króna. Mismunurinn, 22,1 milljón króna, var svo nýttur til hækkunar á stofnfénu árið 2009. Stofnfé var ekki verðbætt eftir 2009.
Í sömu lögum var jafnframt heimild til þess að ráðstafa 10% af hagnaði næstliðins rekstrarárs til hækkunar stofnfjár með svokölluðu sérstöku endurmati.106 Hækkunin mátti þó ekki vera meiri en 5% á ári og ekki mátti flytja heimild til þessa endurmats milli ára. Á aðalfundum sparisjóðsins 2001–2008 var samþykkt að hækka stofnfé í lok næstliðins árs um 5%, nema hvað hækkunin var ákveðin 3,1% vegna ársins 2007, þar sem ekki mátti verja meira en 10% af hagnaði ársins til sérstaks endurmats. Sérstakt endurmat vegna þessara ára nam samtals 7,3 milljónum króna og var í samræmi við reglur. Auk þessa var stofnféð hækkað um 36,5 milljónir króna árið 2009 og þess getið í ársreikningi að það væri „endurmat stofnfjár vegna ársins 2008“. Þetta gat ekki verið sérstakt endurmat vegna 2008 því það var óheimilt vegna tapsins það ár. Hér hlaut því að vera um að ræða það sem ónýtt var af verðbótahækkuninni vegna 2008, en það voru eins og áður sagði 22,1 milljón króna. Ekki er að sjá að heimild hafi verið í reglunum til að hækka stofnfé um 14,4 milljónir króna sem stofnféð var hækkað umfram það.
Í töflu 21 eru tilfærðar þær upplýsingar sem útreikningur á arði og endurmati byggist á. Hafa verður í huga að arðurinn og sérstaka endurmatið eru þar höfð undir því ári sem þau eru útreiknuð. Arðurinn var hins vegar greiddur út ári síðar og sérstaka endurmatið bættist þá við stofnféð. Ástæða þess er sú að tillaga stjórnar um hvort tveggja þurfti að hljóta samþykki aðalfundar til þess að koma til framkvæmdar. Þannig sjást viðkomandi fjárhæðir ekki fyrr en í ársreikningi næsta árs.
24.8 Innra eftirlit
Við skoðun á innra eftirliti sparisjóðanna var leitast við að kanna hvernig fyrirkomulagi þess var háttað og hvort veikleikar hafi verið í eftirlitskerfum sparisjóðanna. Almenna umfjöllun um innra eftirlit, hlutverk stjórnar, innri endurskoðun og áhættustýringu almennt er að finna í 6. kafla, en eftirfarandi umfjöllun lýtur að virkni þessara þátta í starfsemi Sparisjóðs Strandamanna og áhrif þeirra á rekstur sparisjóðsins. Áhersla var lögð á tímabilið frá 2005 til 2011.
24.8.1 Innri endurskoðun
Sparisjóður Strandamanna starfrækti ekki eigin endurskoðunardeild á tímabilinu sem var til skoðunar. Fjármálaeftirlitið hafði veitt honum undanþágu frá starfrækslu innri endurskoðunardeildar frá árinu 1995. Undanþágan var endurnýjuð í desember 2008 með því skilyrði að stjórn Sparisjóðs Strandamanna gerði Fjármálaeftirlitinu árlega grein fyrir þeim þáttum í innra eftirliti sem fjallað er um í 4. kafla leiðbeinandi tilmæla nr. 4/2003. Í janúar 2006 kallaði Fjármálaeftirlitið eftir skýrslum um innra eftirlit vegna áranna 2004 og 2005 og lagði stjórn og sparisjóðsstjóri fram umbeðin gögn í júní 2006. Um var að ræða greinargerð frá stjórn um innra eftirlit 2004–2005 og var meðal annars vísað til skýrslu ytri endurskoðenda um atriði á borð við varðveislu og meðferð fjármuna sparisjóðsins, fjárfestingarstefnu, skýrslur til opinberra yfirvalda, stöðu stærstu skuldara og dreifingu útlána. Engin frávik, athugasemdir eða ábendingar komu fram um innra eftirlit sjóðsins. Í bréfi stjórnar og sparisjóðsstjóra til Fjármálaeftirlitsins 18. júní 2006 sagði meðal annars:
Eins og fram kemur í meðfylgjandi greinargerð stjórnar sjóðsins varðandi innra eftirlit og skýrslu endurskoðanda sjóðsins vegna hans athugana á rekstri sjóðsins þá er þessum þáttum eins vel sinnt hjá sjóðnum og hægt er. Hluti af endurskoðun ytri endurskoðanda sjóðsins hefur verið að kanna þá þætti sem annars falla undir eftirlit innri endurskoðanda. Vegna smæðar sjóðsins er hætt við að eftirlit innri og ytri endurskoðanda skarist það mikið að í raun verði um hreinan tvíverknað að ræða, það er báðir aðilar verði í raun að skoða sama hlutinn. Ávinningur sjóðsins af eftirlitinu verði því lítill en kostnaður hans þeim mun meiri.107
Í bréfinu var jafnframt óskað eftir áframhaldandi undanþágu frá því að gera sérstakan samning við ytri aðila um innra eftirlit hjá sjóðnum þrátt fyrir að sparisjóðurinn væri kominn yfir viðmiðunarmörk sem Fjármálaeftirlitið hafði sett sparisjóðnum. Í september 2006 veitti Fjármálaeftirlitið sparisjóðnum umbeðna undanþágu með sömu skilyrðum og áður og skilaði stjórn sparisjóðsins samsvarandi skýrslum um innra eftirlit vegna áranna 2006–2010. Skýrslurnar voru efnislega sambærilegar þeim fyrri og var ekki að finna nein frávik, athugasemdir eða ábendingar um virkni innra eftirlits. Í skýrslu stjórnar vegna innra eftirlits ársins 2010 kom fram að stjórninni væri ljóst að á yfirstandandi ári þyrfti sjóðurinn að uppfylla kröfur um fyrirkomulag innri endurskoðunar með því að gera samning við þar til bæran aðila um innri endurskoðun sjóðsins í samræmi við lög og reglur og gerði sparisjóðurinn svo samning í september 2011 við Ernst og Young hf. um innri endurskoðun sparisjóðsins frá árinu 2011. Fékk sparisjóðurinn svo undanþágu frá starfrækslu innri endurskoðunardeildar frá Fjármálaeftirlitinu 15. desember 2011.
Enginn innri endurskoðandi var því starfandi hjá Sparisjóði Strandamanna á árunum 2005 til 2010, en Ernst & Young hf. önnuðust innri endurskoðun frá og með 2011. Í verklýsingu, sem var hluti af ráðningarsamningum, kom fram að vinna Ernst & Young yrði unnin á grundvelli endurskoðunaráætlunar sem samþykkt væri af stjórn. Einnig kom fram að úttektir Ernst & Young á innra eftirliti sparisjóðsins skyldu reglulega ná til þeirra 16 þátta sem fram koma í leiðbeinandi tilmælum Fjármálaeftirlitsins nr. 3/2008 um störf endurskoðunardeilda fjármálafyrirtækis.108 Úttekt Ernst & Young hf. vegna ársins 2011 miðaði fyrst og fremst að því að kynnast innviðum sparisjóðsins og leggja drög að úttekt ársins 2012.109
1 . „Sparisjóður Vestfirðinga opnar starfsstöð í Reykjavík“, flateyri.is september 2006, http://www.flateyri.is/lesa_frett.php?id=1449.
2 . Í athugasemdum til rannsóknarnefndarinnar 17. október 2013 sagði Guðmundur B. Magnússon sparisjóðsstjóri að sameiningunni hefði verið hafnað. Fundargerðir stjórnar sparisjóðsins bera hins vegar ekki með sér að sameiningar hafi verið ræddar frekar fram að aðalfundi á árinu 2008.
3 . Nánar er fjallað um meðhöndlun ársreikninga og reikningsskilareglur í 8. kafla, um reikningsskil sparisjóðanna.
4 . Skýrsla KPMG hf. um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðs Strandamanna 2008, 26. mars 2009.
5 . Skýrsla KPMG hf. um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðs Strandamanna 2009, 19. apríl 2010.
6 . Í 8. kafla er greint frá mismunandi aðferðum við skráningu og mat fjáreigna, þar á meðal hlutdeildaraðferð.
7 . Skýrsla KPMG hf. um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðs Strandamanna 2008, 26. mars 2009.
8 . Skýrsla KPMG hf. um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðs Strandamanna 2009, 19. apríl 2010.
9 . Um er að ræða dóm Hæstaréttar í máli nr. 600/2011 frá 15. febrúar 2012.
10 . Ársreikningur Sparisjóðs Strandamanna 2010.
11 . Niðurfærsla útlána sem hlutfall af útlánum.
12 . Skýrsla KPMG hf. um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðs Strandamanna 2010, 22. mars 2011.
13 . Skýrsla KPMG hf. um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðs Strandamanna 2011, 12. apríl 2012.
14 . Um launaþróun sparisjóðanna í heild er fjallað í 8. kafla, um reikningsskil sparisjóðanna. Þar má jafnframt lesa almennt um risnu og fríðindi starfsmanna sparisjóðanna.
15 . Útreikningur á kjarnarekstri er skýrður nánar í 8. kafla, um reikningsskil sparisjóðanna.
16 . Skýrsla KPMG hf. um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðs Strandamanna 2008, 26. mars 2009.
17 . Skýrsla KPMG hf. um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðs Strandamanna 2011, 12. apríl 2012.
18 . Skýrsla Guðmundar B. Magnússonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 17. apríl 2013.
19 . Skýrsla KPMG hf. um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðs Strandamanna 2011, 12. apríl 2012.
20 . Skýrsla KPMG hf. um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðs Strandamanna 2009, 19. apríl 2010.
21 . Ársreikningar Sparisjóðs Strandamanna 2001–2011.
22 . Skýrsla KPMG hf. um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðs Strandamanna 2008, 26. mars 2009.
23 . Skýrsla KPMG hf. um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðs Strandamanna 2011, 12. apríl 2012.
24 . Tölvuskeyti Sparisjóðs Strandamanna til rannsóknarnefndarinnar 26. september 2012.
25 . Skýrsla KPMG hf. um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðs Strandamanna 2011, 12. apríl 2012.
26 . Um skilgreiningu á eigin fé vísast til 84. gr. og 85. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki
27 . Tölvuskeyti Sparisjóðs Strandamanna til rannsóknarnefndarinnar 10. maí 2013.
28 . Nánari umfjöllun um aðferðafræði, forsendur og gögn má finna í 9. kafla, um útlán sparisjóðanna.
29 . Sjá nánari umfjöllun í 6. og 9. kafla.
30 . Lánahópur samanstendur af tveimur eða fleiri viðskiptamönnum sem eru fjárhagslega tengdir í skilningi 1. mgr. 30. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Um nánari skilgreiningu á lánahópi vísast til umfjöllunar í 9. kafla.
31 . Í athugasemdum sparisjóðsstjóra, Guðmundar B. Magnússonar, til rannsóknarnefndarinnar í tölvupósti 18. október 2013 kom fram að niðurfærslan hefði verið vegna „Beinu brautarinnar“, sérstaks samkomulags um fjárhagslega endurskipulagningu.
32 . Sp-ráðgjöf ehf. var samstarfsverkefni fimm sparisjóða af landsbyggðinni og starfaði sem þjónustueining þeirra á höfuðborgarsvæðinu. Sp-ráðgjöf ehf. veitti ekki útlán heldur var milligönguaðili milli sparisjóðanna og lántakenda og skiptust lánin milli þeirra eftir ákveðnu hlutfalli hverju sinni. Sjá nánari umfjöllun um Sp-ráðgjöf ehf. í 9. kafla.
33 . Skýrsla Björns Torfasonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 16. apríl 2013. Í athugasemd Björns til rannsóknarnefndarinnar með tölvuskeyti 7. mars 2014 benti hann á að með þessum orðum sínum átti hann við að um hafi verið að ræða tryggingar í bréfum, fasteignum og rekstri, sem sparisjóðurinn hafi metið gildar á þeim tíma. Í athugasemdum Guðmundar B. Magnússonar til rannsóknarnefndarinnar 17. október 2013 kom fram að tryggingar vegna annarra verkefna hefðu yfirleitt verið rekstrartryggingar (veð í tækjum og tólum) eða fasteignaveð.
34 . Tölvuskeyti Fjármálaeftirlitsins til rannsóknarnefndarinnar 13. september 2012.
35 . Félagið var í eigu Dagbjarts Bjarnasonar, Gísla Ingasonar og Nikulásar K. Jónssonar en sömu aðilar áttu einnig Hróa Hött ehf. sem rak veitingahúsakeðju.
36 . Sjá nánari umfjöllun um starfsemi Sp-ráðgjafar ehf. í 9. kafla.
37 . Sambærilegar fyrirgreiðslur ganga oft undir heitinu sambankalán.
38 . Tölvuskeyti Sparisjóðs Strandamanna til rannsóknarnefndarinnar 26. september 2012.
39 . Tölvuskeyti Sparisjóðs Strandamanna til rannsóknarnefndarinnar 7. febrúar 2013.
40 . Nafni félagsins var breytt í KK 1905 ehf. í maí 2009.
41 . Samkvæmt hlutafjármiðum fyrir árið 2007 var félagið í meirihlutaeigu Guðmundar Sigþórssonar, en aðrir eigendur voru BYR sparisjóður, Kontakt ehf., Sp-ráðgjöf ehf., Sigurður Guðjónsson, Sigurlaug Kristín Sævarsdóttir, Jón Baldvin Haraldsson og Ársæll Óskar Steinmóðsson. Svipað eignarhald var árið 2008, en miðað er við eignarhaldið árið 2007 þegar lánveiting átti sér stað.
42 . Sparisjóðs Húnaþings og Stranda, Sparisjóðs Vestfirðinga, Sparisjóðs Bolungarvíkur, Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis og Sparisjóðs Strandamanna.
43 . Tölvuskeyti Sparisjóðs Strandamanna til rannsóknarnefndarinnar 26. september 2012.
44 . Bréf Sparisjóðs Strandamanna til rannsóknarnefndarinnar 6. september 2012.
45 . Bréf Sparisjóðs Strandamanna til rannsóknarnefndarinnar 6. september 2012.
46 . Miðað var við 20% lágmarks eignarhlut.
47 . Mögulegt er að ekki hafi öll útlán komið fram í útlánagrunni sparisjóðsins og eru upplýsingarnar því settar fram með þeim fyrirvara.
48 . Ákvæði um fjárfestingar voru samhljóða í reglunum frá 2003 og í nýrri útgáfu þeirra frá árinu 2007.
49 . Tölvuskeyti Sparisjóðs Strandamanna til rannsóknarnefndarinnar 10. maí 2013.
50 . Um það hverjir töldust til minni sparisjóða og hverjir til hinna stærri vísast til taflna 5, 9 og 10 í 8. kafla skýrslunnar.
51 . Skýrsla Guðmundar B. Magnússonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 17. apríl 2013.
52 . Skýrsla Guðmundar B. Magnússonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 17. apríl 2013.
53 . Skýrsla Guðmundar B. Magnússonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 17. apríl 2013.
54 . Sjá nánari útskýringu í upphafi 11. kafla, um fjármögnun sparisjóðanna.
55 . Atvinnugreinaflokkun innlána sparisjóðsins sem skilað var mánaðarlega til Seðlabanka Íslands frá júlí 2007 til desember 2011.
56 . Lausafjáryfirlit Sparisjóðs Strandamanna, skýrsla unnin af sparisjóðnum og skilað til Seðlabanka Íslands mánaðarlega frá janúar 2005 til desember 2011.
57 . Tölvuskeyti Hauks C. Benediktssonar til Guðmundar Björgvins Magnússonar 1. september 2011.
58 . Nánar er fjallað um fjármögnun íbúðalána sparisjóðanna hjá Íbúðalánasjóði í 11. kafla.
59 . Stofnfjáreigendalistar Sparisjóðs Strandamanna í árslok 2001–2004.
60 . Stofnfjáreigendalistar Sparisjóðs Strandamanna í árslok 2001–2004.
61 . Aðalfundur Sparisjóðs Strandamanna, 31. mars 2005. Engar upplýsingar um þessa fyrirspurn Landsbankans er að finna í fundargerðum stjórnar sparisjóðsins frá þessum tíma.
62 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Strandamanna, 14. júní 2005.
63 . Fundargerð aðalfundar Sparisjóðs Strandamanna, 11. apríl 2006.
64 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Strandamanna, 18. júní 2006.
65 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Strandamanna, 26. janúar 2007.
66 . Nefndin var síðar leyst frá störfum án þess að skila frumvarpsdrögum, sbr. ummæli í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 76/2009.
67 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Strandamanna, 23. nóvember 2007.
68 . Skýrsla Björns Torfasonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 16. apríl 2013.
69 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Strandamanna, 14. desember 2007.
70 . Fundargerð aðalfundar Sparisjóðs Strandamanna, 13. apríl 2008.
71 . MP Banki hf. keypti nb.is-sparisjóð hf. í lok mars 2009 og fékk þannig viðskiptabankanúmer og aðgang að Reiknistofu bankanna.
72 . Reglur um framlag til sparisjóða skv. 2. gr. laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. frá 18. desember 2008.
73 . Nánar er fjallað um lög nr. 125/2008 og reglur um eiginfjárframlög til sparisjóða í 13. kafla.
74 . Bréf Seðlabanka Íslands til sparisjóða 8. september 2009.
75 . Minnisblað Seðlabanka Íslands um vinnu með kröfur Seðlabanka Íslands á hendur sparisjóðunum, 21. ágúst 2009.
76 . Ákvörðun bankastjóra Seðlabanka Íslands nr. 1028, 1. febrúar 2010. Um bréf Seðlabanka Íslands, kjör hans og skilmála má lesa í 13. kafla.
77 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til sparisjóða 8. febrúar 2010. Frekari umfjöllun um kröfur Fjármálaeftirlitsins er í 13. kafla.
78 . Tölvuskeyti Seðlabanka Íslands til Sparisjóðs Strandamanna 4. mars 2010.
79 . Tölvuskeyti Sparisjóðs Strandamanna til Seðlabanka Íslands 12. mars 2010.
80 . Tölvuskeyti starfsmanns Seðlabanka Íslands til starfsmanna Seðlabanka Íslands og fjármálaráðuneytisins 18. mars 2010.
81 . Tölvuskeyti Stefáns Þórs Sigtryggssonar, starfsmanns Seðlabanka Íslands, til Más Guðmundssonar seðlabankastjóra 26. maí 2010.
82 . Tölvuskeyti starfsmanns Seðlabanka Íslands til Sparisjóðs Strandamanna 22. júní 2010. Nánar er fjallað um Eftirlitsstofnun EFTA og ákvarðanir hennar í 13. kafla.
83 . „Tilmæli Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands til fjármálafyrirtækja vegna óskuldbindandi gengistryggingarákvæða“, fme.is, http://www.fme.is/utgefid-efni/frettir-og-tilkynningar/frettir/nr/650. Sjá nánar í 13. kafla.
84 . Tölvuskeyti Sparisjóðs Strandamanna til starfsmanns Seðlabanka Íslands 30. júní 2010.
85 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Strandamanna, 14. desember 2010.
86 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Strandamanna, 14. desember 2010.
87 . Skýrsla Guðmundar B. Magnússonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 17. apríl 2013; tölvuskeyti Stefáns Þórs Sigtryggssonar til Guðmundar B. Magnússonar 23. desember 2010.
88 . Skýrsla Guðmundar B. Magnússonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 17. apríl 2013.
89 . Skýrsla Guðmundar B. Magnússonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 17. apríl 2013.
90 . Skýrsla Guðmundar B. Magnússonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 17. apríl 2013.
91 . Tölvuskeyti Jónasar Þórðarsonar, starfsmanns Seðlabanka Íslands, til Tryggva Pálssonar, starfsmanns Seðlabanka Íslands, 28. desember 2010; tölvuskeyti Jónasar Þórðarsonar, starfsmanns Seðlabanka Íslands, til Tryggva Pálssonar, starfsmanns Seðlabanka Íslands, 30. desember 2010.
92 . Ársreikningur Sparisjóðs Strandamanna 2010.
93 . Tölvuskeyti Guðmundar Björgvins Magnússonar til Hauks C. Benediktssonar 2. maí 2011.
94 . Vettvangsathugun Fjármálaeftirlitsins hjá Sparisjóði Strandamanna – Minnisblað Seðlabanka Íslands, 4. júlí 2011.
95 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til Sparisjóðs Strandamanna 28. júlí 2011.
96 . Minnisblaðið er ódagsett og óundirritað en barst rannsóknarnefndinni frá Seðlabanka Íslands og ber með sér að það sé unnið í bankanum.
97 . Minnisblað Seðlabanka Íslands, lagt fram á stjórnarfundi Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf., 19. ágúst 2011.
98 . Tölvuskeyti framkvæmdastjóra Sölvhóls ehf. (eignaumsýslufélags í eigu Seðlabanka Íslands) til Sparisjóðs Strandamanna 29. ágúst 2011.
99 . Tölvuskeyti Seðlabanka Íslands til Sparisjóðs Strandamanna 1. september 2011.
100 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Strandamanna, 22. ágúst 2011.
101 . Tölvuskeyti Seðlabanka Íslands til Sparisjóðs Strandamanna 1. september 2011.
102 . Ársreikningur Sparisjóðs Strandamanna 2011. Ekki var fjallað sérstaklega um uppgjör krafna Seðlabanka Íslands í ársreikningi sparisjóðsins, aðeins var getið um tekjufærða eftirgjöf skulda og fjárhæð eftirgjafar.
103 . Gerð er grein fyrir reglum um greiðslu arðs í 12. kafla.
104 . Lögum um fjármálafyrirtæki var breytt með lögum nr. 76/2009. Sjá nánari umfjöllun í 12. kafla.
105 . Þessi heimild hafði verið við lýði allt frá 1993. Ákvæðinu var síðar breytt með lögum nr. 76/2009. Sjá nánari umfjöllun í 12. kafla.
106 . Sú heimild kom inn í lög 2001. Ákvæðinu var síðar breytt með lögum nr. 76/2009. Sjá nánari umfjöllun í 12. kafla.
107 . Bréf Sparisjóðs Strandamanna til Fjármálaeftirlitsins 18. júní 2006.
108 . Skýrsla Ernst & Young hf. um innri endurskoðun Sparisjóðs Strandamanna 2011, 27. apríl 2012.
109 . Skýrsla Ernst & Young hf. um innri endurskoðun Sparisjóðs Strandamanna 2011, 27. apríl 2012.