10. kafli Launa-og hvatakerfi bankanna

10.1 Þáttur hvatakerfanna í rekstri bankanna

Á síðustu árum hefur krafan um að tengja saman hag atvinnurekenda (hluthafa) og starfsmanna fyrirtækja verið áberandi og byggir hún bæði á fræðilegum og hagnýtum sjónarmiðum. Íslendingar þekkja vel til slíkra launakerfa ekki síst í sjávarútvegi þar sem aflahlutur áhafna er útbreitt fyrirkomulag og telja margir að það sé veigamikill þáttur í velgengni íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja. Starfsmenn sem vinna í þekkingariðnaði, þar sem aðgangshömlur að markaði eru tiltölulega litlar, hafa allsterka samningsstöðu gagnvart því að krefjast hlutdeildar í þeirri verðmætasköpun sem þeir vinna að. Með þeirri menntun og reynslu sem þeir hafa aflað á umræddu sviði geta þeir sjálfir veitt vinnuveitendum sínum samkeppni enda fylgir uppbyggingu á nýjum fyrirtækjum ekki mikill kostnaður.

Mikið hefur verið skrifað um lausnir á svokölluðum umboðsvanda, þ.e. hvernig hægt er að tryggja að stjórnendur vinni verk sín vel og skili vinnuveitendum sínum þar með bestum hugsanlegum árangri.Vandinn er til staðar þar sem starfsmenn búa yfir öðrum upplýsingum en eigendur fyrirtækisins en það er eigendum kostnaðarsamt og jafnvel ómögulegt að fylgjast með starfsmönnum til að tryggja að þeir vinni einatt að hag eigendanna. Með eftirliti væri mögulegt að koma í veg fyrir t.d. sjálftöku stjórnenda sem er ein helsta hættan sem steðjar að eigandanum. Bent hefur verið á að hægt sé að koma upp eftirlitsferlum til að stuðla að góðum stjórnarháttum og virkri stjórn fyrirtækisins (e. good corporate governance) og getur það dregið úr umboðsvandanum. Fræðimenn hafa jafnvel sýnt fram á að öflugar stjórnir skili hærri ávöxtun hlutafjár skráðra fyrirtækja. Árangurstenging launa er aðferð sem beitt hefur verið til að tengja saman hag starfsmanna og eigenda og draga þannig úr umboðsvandanum. Árangurstengingin er yfirleitt sérstök umbun til starfsmanna fyrir að vinna fyrirfram skilgreint verk eða ná tilteknum árangri, t.d. ákveðinni rekstrarafkomu. Rekstrarafkomuna má mæla með ýmsum hætti; með innri mælikvörðum sem skilgreindir eru í ársreikningum eða ytri mælikvörðum sem byggjast á utanaðkomandi þáttum, svo sem markaðsverði hlutabréfa skráðra fyrirtækja. Það er vandasamt að hanna hvatakerfi sem samtvinnar hag eigenda og starfsmanna á hagkvæman hátt. Starfsmenn, þá sérstaklega stjórnendur, hafa oftast betri þekkingu á fyrirtækinu en eigendur þess. Því er hætta á að þeir nýti sér yfirburði sína til að hafa áhrif á árangursmælingarnar; hagræði tölum, noti peninga fyrirtækisins til að hafa áhrif á markaðsverð þess eða vinni verk sín þannig að þeir uppfylli kröfur um árangursgreiðslur í bráð en grafi undan hagsmunum hluthafanna í lengd. Rannsóknir gefa til kynna að árangurstenging launa komi ekki í stað eftirlits með stjórnendum. Enn sem áður er meiri hætta á sjálfsafgreiðslu launa þar sem dregið er úr eftirliti með stjórnendum. Kemur þetta meðal annars fram í því að líkur á lögsóknum gegn hlutafélögunum aukast þegar stjórnir ákveða að nýta árangurstengingu launa í stað öflugs eftirlits.

Eftirfarandi umfjöllun er ætlað að svara því hvaða áhrif hvatakerfin höfðu í rekstri íslensku bankanna og hvort þau hafi átt þátt í falli þeirra.

Líkt og þekkt er úr fræðilegri umfjöllun og rætt var í kafla 3.0 hafa bankar nokkra sérstöðu sem fyrirtæki. Svigrúm til árangurstengingar launa bankamanna er að jafnaði talið minna en t.d. framleiðslufyrirtækja vegna þeirrar þjónustu sem bankar veita áhættufælnum viðskiptavinum sínum annars vegar og hins vegar vegna hinnar miklu skuldsetningar bankanna. Ef innstæðu- og skuldabréfaeigendur missa trú á bönkum veldur það óhjákvæmilega falli þeirra. Þar með brestur sú lífæð sem bankar eru gagnvart efnahagskerfum. Eftir því sem skuldsetning fyrirtækja eykst ættu laun æðstu stjórnenda og lykilstarfsmanna að vera að stærstum hluta föst laun og taka minna mið af rekstrarárangri. Þetta á ekki síst við um banka.

Það er ljóst að verkefni stjórnenda alþjóðlegra banka eru ærin og eðlilega þarf að gera miklar hæfniskröfur til bankastjórnenda. Til að tryggja að þeim sé mætt með ráðningu réttra aðila þurfa laun þeirra að vera samkeppnishæf. Sú sérstaða banka sem lýst var hér að framan, og þá um leið sú staða hversu mjög stjórnendur banka geta með ákvörðunum sínum haft áhrif á afkomu þeirra, leiðir til þess að við skipulag og framkvæmd launa- og hvatakerfa innan þeirra kann að vera varasamt að ákveða launakjör bankastjóra þannig að stærstur hluti þeirra sé háður mælikvörðum sem bankastjórarnir sjálfir og hlutaðeigandi starfsmenn geta haft töluverða stjórn á. Ólíkt sjómanninum sem er háður náttúrunni um aflabrögð hefur bankastjórinn þræði í hendi sér sem geta haft bókhaldsleg áhrif á rekstrarniðurstöðuna. Sem dæmi má nefna að síendurnýjuð lán mynda aldrei bókhaldslegt tap. Þar ráðast áhrif lánsins af ákvörðunum stjórnenda bankans.

Bankastjórnandi sem til dæmis hefur einungis einn tíunda hluta launa sinna í formi grunnlauna eða fastra launa en 90% sem hlutfall af árangri fyrirtækisins mun óhjákvæmilega einhvern tíma lenda í þeirri aðstöðu að þurfa að velja á milli þess að taka bókhaldslega ákvörðun sem leiðir til þess að hann fái greidd hærri samningsbundin laun eða velja rekstrarlegan og/eða bókhaldslegan kost í rekstri bankans sem ekki tryggir honum jafn há laun. Eins og áður segir er hættan sem af þessu leiðir sérstaklega mikil í fyrirtækjum sem þegar eru mjög skuldsett. Í harðri samkeppni nútímans verður tæpast mikil stökkbreyting á arðsemi fyrirtækis með því að auka rekstrarlegt hagræði. Aukin arðsemi verður fyrst og fremst vegna nýrra uppgötvana, tækniframfara eða fjárfestinga sem leiða af sér meiri umsvif á markaðnum. Þetta hefur aftur áhrif á verðlagningu vöru og þjónustu sem fyrirtækið býður fram og getur aukið hagnað þess. En fjárfestingum fylgir frekari skuldsetning og hjá fjármálafyrirtækjum sem þegar eru mjög skuldsett er varasamt að hvetja stjórnendur áfram með vísan í aukna arðsemi sem aðeins verður uppfyllt með meiri skuldsetningu svo vel sé. Slíkt hvatakerfi er líklegt til þess að ýta félaginu fram af brúninni, ef svo má að orði komast, því líkur eru á því að stjórnendurnir muni gera það sem þeim er uppálagt og kerfið hvetur þá til ef þeir eiga að öðrum kosti á hættu að missa vinnuna og sæta því tekjutapi sem af því leiðir.

Líkt og Sigurjón Þ. Árnason benti á í skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis hefði það jafngilt því að segja starfinu upp að fara harkalega gegn vilja stærstu hluthafa.

Í ljósi hinnar miklu skuldsetningar bankanna og þeirrar staðreyndar að þeir greiddu stjórnendum og ýmsum starfsmönnum sínum verulegar bónusgreiðslur taldi rannsóknarnefnd Alþingis nauðsynlegt að kanna hvatakerfi bankanna nánar til þess að geta metið hvort orsakir falls bankanna mætti að einhverju leyti finna í þessum þætti rekstrar þeirra. Beindist athugunin að uppbyggingu hvatakerfanna, launasamsetningu starfsmanna, því hverjir tóku ákvarðanir um kaupauka og á hvaða forsendum og hvernig lánafyrirgreiðslu til stjórnenda og starfsmanna var háttað. Þá lagði nefndin áherslu á að kanna hversu stór hluti launa voru grunnlaun hjá ólíkum hópum bankastarfsmanna og hversu stór hluti launanna var á hinn bóginn ákvarðaður út frá innri og ytri mælikvörðum (bókhaldslegum stærðum, huglægum forsendum eða þáttum sem ákvarðaðir eru úti á markaði). Jafnframt var kannað hvort sjá mætti þess dæmi að stjórnendur segðu ekki satt og rétt frá um afkomu fyrirtækisins til að mæta þeim kröfum sem hvatakerfið gerði til þeirra, líkt og kenningar spá fyrir um að geti gerst. Loks var leitast við að upplýsa hvaða markmið kerfið setti fram gagnvart stjórnendum, hvernig þeim markmiðum var náð og hvaða áhrif það hafði á fjárhagsstöðu stjórnenda og rekstur bankanna.

Algengt fyrirkomulag árangurstengingar launa er að veita umbun bæði fyrir árangur til skamms tíma sem og til langs tíma. Árlegir eða hálfsárslegir bónusar falla undir hið fyrrnefnda. Bónusarnir eru gjarnan ákvarðaðir af innri mælikvörðum, svo sem arðsemi þeirrar starfseiningar sem starfsmaðurinn vinnur fyrir og ætlað er að hvetja áfram með árangurstengingu. Hins vegar byggir árangurstenging til langs tíma aðallega á ytri mælikvörðum svo sem markaðsverði hlutabréfa fyrirtækisins. Gjarnan eru gerðir kaupréttarsamningar við starfsmanninn til að ná markmiðum til langs tíma. Starfsmaðurinn hagnast þegar hlutabréfaverð fyrirtækisins hækkar en þá getur hann innleyst hagnað þar sem innlausnarverð samningsins er orðið eitthvað lægra en hægt er að fá á markaði. Með því að selja hlutabréfin á markaði getur starfsmaðurinn notið þeirra verðhækkana og þar með hagnaðar. Í sama tilgangi kann fyrirtækið frekar að kjósa að veita starfsmanninum hlutabréf í félaginu strax við upphaf starfs með skilyrðum um að selja ekki bréfin á markaði fyrr en eftir tiltekinn tíma. Þessar tvær aðferðir hafa þó ólík áhrif á kostnað fyrirtækisins og einnig á hagsmuni starfsmannsins. Sé síðarnefnda leiðin farin getur hann strax frá upphafi greitt atkvæði á hluthafafundum en það getur hann ekki ef hann er aðeins með kaupréttarsamning.Venjan er að fyrirtækin gefi út nýja hluti í þessu skyni; annað hvort þegar nýta á kaupréttinn eða þegar starfsmanninum eru afhent bréf með skilyrðum. Þetta rýrir eignarhluta annarra hluthafa sem fyrir eru eigendur að félaginu.

10.2 Gagnasöfnun og úrtak

Á grundvelli þeirra heimilda til gagnaöflunar sem Alþingi veitti rannsóknarnefndinni með lögum nr. 142/2008 var ráðist í að búa til gagnagrunn sem næði yfir upplýsingar um allar launagreiðslur til starfsmanna móðurfélaganna, Kaupþings, Landsbankans og Glitnis, á árunum 2004–2008. Nefndin hafði ekki tök á að safna upplýsingum um launakjör starfsmanna dótturfélaga, nema að takmörkuðu leyti. Nefndin hafði aðgang að öllum ráðningarsamningum starfsmanna framangreindra lögaðila.

Greiningin miðast aðeins við þá starfsmenn sem unnu að eiginlegri bankastarfsemi. Því voru stöðugildi sem lutu að annars konar starfsemi, s.s. ræstingum, mötuneyti, læknisþjónustu og húsvörslu tekin út úr gagnasafninu. Í þeim tilfellum þar sem starfsheiti starfsmanns var ekki skilgreint í gagnasafninu var gert ráð fyrir að starfsheiti starfsmanns á fyrra eða seinna tímabili gilti. Mánaðarlegum gögnum var safnað. Ef starfsmaður var í hlutastarfi, voru starfshlutfall og laun hans færð upp eins og hann væri í fullu starfi. Mánaðarlegum gögnum var breytt í meðaltalsgögn með því að leggja saman allar mánaðargreiðslur innan hvers launaliðar og deila í með fjölda mánaða sem viðkomandi starfsmaður vann yfir árið. Upplýsingar sem eru birtar um launadreifingar miðast því við meðalmánaðarlaun starfsmannanna.

Fjöldi launaliða var mismunandi eftir bönkum allt frá 77 launaliðum upp í 271. Launaliðirnir voru samræmdir milli bankanna og dregnir saman í fjóra meginliði:

1) grunnlaun; föst mánaðarlaun, allar aðrar fastar viðbótargreiðslur svo sem bifreiðastyrkir, hlunnindi (afnot bifreiðar, sími, matur, fatakaup) og aukagreiðslur sem ekki tilheyra bónusgreiðslum,

2) bónusgreiðslur, árangurstengdar greiðslur sem inntar eru af hendi fyrir árangur fyrra árs, bónusgreiðslur vegna starfsafmælis eða aðrar greiðslur sem miða að því að halda í starfsmann og varna því að hann fari til annarra starfa,

3) innleystir kaupréttir, þ.e. skattskyldar tekjur af innlausn kaupréttarsamninga eða uppgjöri þeirra, þá aðeins af þeim hagnaði sem hlýst af innlausninni, þó að rétthafi ráðstafi hagnaði samningsins til að halda í hlutabréfin,

4) lífeyrisgreiðslur; mótframlag atvinnurekanda í lífeyrissjóð hvort sem er í sameignarsjóð eða séreignarsjóð.

Í sambærilegum rannsóknum er oftast tekið saman svokallað vilnunarvirði kaupréttarsamninga þegar þeir eru veittir starfsmönnum og það talið til hluta af launum þeirra. Ekki var tekið tillit til þess hluta launa sem greiddur var í formi hlutabréfa í bönkunum (e. restricted stock grants) (eins og dæmi voru um í Kaupþingi), né þeirra bónusgreiðslna sem haldið var eftir hverju sinni (svo sem í Glitni), heldur aðeins tekið mið af þeim bónusgreiðslum sem raunverulega voru greiddar inn á reikning starfsmannanna.

Fjölda starfsmanna og þar með mælinga í gagnasafninu má sjá í töflu 1 en heildarfjölda stöðugilda í samstæðum bankanna er að finna í töflu 2 hér á eftir. Heildarfjöldi starfsmanna í gagnasafni miðast við fjölda starfsmanna í móðurfélögum bankanna og kann því að vera annar en sem nemur stöðugildum í viðkomandi banka þar sem sumir starfsmenn eru í hlutastörfum eða orlofi (fæðingarorlofi, veikindaorlofi o.s.frv.). Þeir starfsmenn sem voru á launaskrá á hverjum tíma hjá bönkunum eru í úrtaki því sem rannsóknin tekur til. Eins og áður segir hafði rannsóknarnefnd Alþingis ekki aðgang að gögnum um launakjör starfsmanna dótturfélaga bankanna enda er launabókhaldi og útgreiðslu launa oft útvistað og gögnin því ekki hluti af gagnasafni móðurfélaganna. Starfsmenn erlendra útibúa eru þó að nokkru marki með í þessari greiningu.

Öll laun sem til umfjöllunar eru og samanburður þeirra milli ára eru staðvirt með vísitölu neysluverðs miðað við október 2008 og allur vöxtur sem hér er skráður er því raunvöxtur. Það þýðir að laun sem greidd voru út árið 2004 hafa verið reiknuð fram til ársins 2008 og endurspegla því kaupmátt á því ári. Í umfjöllun hér á eftir um starfssamninga eru laun sem samið er um sett fram á nafnvirði, þ.e. verðlagi þess árs sem samningur var gerður.

10.3 Hvatakerfi Glitnis banka hf.

10.3.1 Launadreifing Glitnis

Af stóru bönkunum þremur var breytileiki launa minnstur hjá Glitni. Nokkur breyting varð á launadreifingunni árið 2007 við eigendaskipti á bankanum, þar sem afgerandi skil urðu milli þeirra 11 starfsmanna sem hæst höfðu launin og annarra starfsmanna (sjá mynd 1 og 2). Þannig fékk 1% starfsmanna bankans sem hæstu laun höfðu á árunum 2004–2006 laun sem samsvöruðu um áttföldum launum þeirra sem lágu á miðri launadreifingunni, en var með tíföld laun þeirra árið 2007 og 2008, eins og sjá má á mynd 3.

Á árunum 2004 til 2008 urðu tiltölulega litlar breytingar á samsetningu launa um 90% starfsmanna Glitnis. Hins vegar varð töluverð breyting á launadreifingu bankans. Árið 2004 fengu þau 10% starfsmanna Glitnis sem höfðu hæstu launin rúmlega 30% af heildarlaunagreiðslum bankans en árið 2007 fékk þessi hópur ríflega 45% heildarlauna sem greidd voru starfsmönnum bankans (mynd 2). Þessa miklu tekjuaukningu hinna hæstlaunuðu má skýra með innleystum kaupréttum um 20 starfsmanna félagsins árið 2007. Meðalinnlausn kauprétta hjá þessum hópi var um 6,9 milljónir króna á mánuði, á bilinu 170 þúsund krónur þá mánuði sem viðkomandi starfaði hjá bankanum það árið, til 33,5 milljóna króna að meðaltali á mánuði. Kaupréttir skýra hins vegar ekki hækkuð laun hinna hæstlaunuðu hjá bankanum árið 2008. Bónusgreiðslur gera það hins vegar en meðalbónusgreiðslur til 1% starfsmanna með hæstu launin jukust um tæplega helming, úr 3,7 milljónum króna í 5,5 milljónir króna á mánuði, á sama tíma og meðalgrunnlaun þessa hóps lækkuðu um 7% að raungildi. Í töflu 1 eru laun 10 launahæstu starfsmanna Glitnis á árunum 2004 til 2008 birt á raunvirði miðað við árið 2008.

10.3.2 Hvatakerfi starfsmanna tekjusviða Glitnis

Rannsóknarnefnd Alþingis skoðaði sérstaklega tvo hópa innan ólíkra tekjusviða bankanna, þ.e. fyrirtækjaráðgjafar og verðbréfamiðlunar. Til samanburðar voru laun sambærilegra starfsmanna innan eins stoðsviðs greind sérstaklega, þ.e. innan greiningardeildar. Í tilfelli Glitnis reyndist verðbréfamiðlunin að meðaltali vera með hæstu launin af þessum þremur sviðum. Hærri bónusgreiðslur skýra að nokkru leyti muninn milli þessara tekjusviða þar sem grunnlaun voru umtalsvert hærri hjá fyrirtækjaráðgjöf en verðbréfamiðlun og hlutfall bónusgreiðslna af heildarlaunum því mun hærra í tilfelli verðbréfamiðlunar.

Heildarlaun starfsmanna fyrirtækjaráðgjafar á mánuði hækkuðu um tæpan helming að meðaltali frá 2004 til 2008, sjá mynd 10. Mest varð breytingin milli áranna 2004 og 2005 en þá aukningu má helst rekja til hærri bónusgreiðslna árið 2005.

Meðalheildarlaun starfsmanna verðbréfamiðlunar á mánuði ríflega tvöfölduðust frá árinu 2004 til ársins 2008, sjá mynd 11. Stærstan hluta hækkunarinnar má rekja til vaxandi bónusgreiðslna þar sem grunnlaun stóðu í stað að raunvirði milli tímabila.

Meðalheildarlaun starfsmanna greiningardeildar Glitnis á mánuði ríflega tvöfölduðust frá árinu 2004 til 2007. Frá 2004 til 2006 áttu vaxandi grunnlaun stærstan þátt í hækkun heildarlauna en árin 2007 og 2008 má sjá verulega aukningu í bónusgreiðslum til þessara starfsmanna, sjá mynd 12.

10.3.3 Árangurstenging launa hjá Glitni

Allnokkur hvatakerfi voru í notkun samtímis hjá Glitni sem tengja áttu afkomu bankans og launagreiðslur starfsmanna og fór þeim fjölgandi eftir því sem leið á tímabilið sem hér er til rannsóknar (2004–2008). Frá árinu 2006 voru einkum fjögur kerfi í gangi:

1. Hagsaukakerfi Glitnis, svokallað EVA-kerfi, (e. EVA – Economic Value Added) sem átti rætur að rekja til fyrirrennara bankans, Fjárfestingarbanka atvinnulífsins, en því kerfi var ætlað að tengja laun forstjórans við árangur hans í starfi. Eftirtaldar starfseiningar bankans voru einnig með bónusgreiðslur greiddar miðað við þetta kerfi: Skuldsett fjármögnun, fyrirtækjaráðgjöf, fyrirtækjasvið og framkvæmdastjórn.

2. Framtak var annað bónuskerfi sem hannað var fyrir stoðdeildir bankans, rekstrardeild, upplýsingatæknisvið, fjárhagssvið og aðrar stoðdeildir. Kerfið grundvallaðist á því að tiltekin bónusfjárhæð var skilgreind ásamt skilyrðum sem þurfti að uppfylla til að greiðsla færi fram.

3. Hlutdeild var þriðja kerfið sem byggði á svokölluðum veltubónusum en á þeim voru markaðsviðskiptin, viðskiptabankasviðið, einkabanki, eignastýring og fjármögnun bankans.

4. Sérstakar (ad hoc) bónusgreiðslur voru einnig leyfðar innan bankans og réðust þær af huglægu mati stjórnenda á vinnuframlagi starfsmanns óháð afkomu.

EVA-kerfið tók grundvallarbreytingum á tímabilinu og að endingu breyttist það yfir í svokallað ROE-kerfi. Árið 2001 var gert ráð fyrir að ef hagsaukamarkmið næðust þá myndi slíkt skila þeim sem rétt áttu á bónusgreiðslum tvennum mánaðarlaunum starfsmannsins, sjá mynd 13. Bankastjórnin ákvað hvaða krónutala hagsaukamarkmiðið skyldi vera hverju sinni en hagsaukinn fólst í þeirri verðmætaaukningu sem varð til milli tímabila sem árangur var mældur. Héldist rekstur bankans í horfinu frá fyrra ári fékk forstjórinn markmiðsbónus sem nam einum mánaðarlaunum og hlutfallslega í samræmi við það eftir því sem hagsaukinn jókst. Þá var gert ráð fyrir þaki á bónusgreiðslur en sú umbun sem kerfið skilaði umfram þakið var að einum þriðja hluta greidd út samstundis en tveir þriðju hlutar voru lagðir í svokallaðan bónusbanka og greiddir út ári síðar ef hagsaukinn hélt velli eða óx milli ára. Tap sem jafngilti hagsaukamarkmiðinu leiddi til þess að nokkurs konar skuld myndaðist í bónusbankanum, þ.e. bónuspotturinn yrði færður niður sem tapinu næmi, og þyrfti forstjórinn að vinna upp tapið á næsta rekstrarári til að komast í jákvæða inneign í bónus til útgreiðslu. Þannig var bónusinn beintengdur tekjum bankans að teknu tilliti til kostnaðar eigin fjár hluthafanna.

Breyting var gerð á hagsaukakerfi bankans árið 2006 en þá voru bónusgreiðslur til starfsmanna settar í beint samhengi við arðsemi eigin fjár. Þannig skyldi fullur kaupauki greiddur ef arðsemi eigin fjár næði 25%. Fyrir hvert prósentustig sem arðsemin jókst umfram það markmið skyldi bónusinn hækka um 8%. Að sama skapi lækkaði bónusinn um 8% fyrir hvert prósentustig undir 25% arðsemi. Þannig var enginn bónus greiddur út ef arðsemi eigin fjár var undir 12,5%, sem var áætlaður kostnaður eigin fjár, enda væri bankinn þá ekki að skapa arðsemi umfram fórnarkostnað eigin fjár. Þetta má sjá á mynd 14.

Greiðslur vegna þessa kerfis skyldu inntar af hendi í jöfnum hlutum tvisvar á ári, 1. mars og 1. september.Við ákvörðun á fjárhæð greiðslnanna var litið til afkomu undangengins árs og áttu greiðslurnar því báðar að vera jafnháar. Starfsmaður greiddi tekjuskatt af bónusgreiðslum auk þess að greiða 4% í lífeyrissjóð. Glitnir greiddi að auki 6% mótframlag í lífeyrissjóð.

Hlutdeildarkerfi sem byggt var á árangurstengdum greiðslum markaðsviðskipta, grundvallaðist á þeirri hugmynd að starfsmenn fengju beina hlutdeild í þeim hagnaði sem varð af starfsemi deilda eða sviða eftir því sem við átti. Þannig fengu starfsmenn verðbréfamiðlunar og gjaldeyrismiðlunar frá 0,01%–0,68% af þjónustutekjum sviðanna beggja. Mjög mikill munur var á bónusgreiðslum milli starfsmanna eða allt að 60-faldur munur. Sá sem hafði hæstar bónusgreiðslur (árið 2008) hafði um tífaldar bónusgreiðslur á við meðalstarfsmanninn.

Vegna lítils breytileika í miðlunartekjum milli mánaða er ekki hægt að sjá marktæk áhrif tekna á bónusgreiðslur með kerfisbundnum hætti. Bónusgreiðslurnar jukust þó að meðaltali jafnt og þétt milli ára. Bónusgreiðslur þær sem féllu gjaldeyrismiðluninni, sem starfssviði, í skaut voru að meðaltali 3,1 milljón króna á mánuði frá miðju ári 2005 til loka sama árs, 14,6 milljónir 2006, 26,2 milljónir 2007 en 37,7 milljónir 2008. Í verðbréfamiðlun Glitnis voru bónusgreiðslur á sama tímabili að meðaltali um 6,9 milljónir króna á mánuði árið 2005, 10,9 milljónir 2006, 14,8 milljónir 2007 og 18,7 milljónir 2008. Gjaldeyrismiðlunin virðist því hafa notið nokkurrar sérstöðu innan bankans.

Þrátt fyrir að tölfræðilíkön nái ekki að kortleggja tengingu miðlunartekna og bónusgreiðslna til starfsmanna með kerfisbundnum hætti er ljóst að bónusgreiðslur einstakra miðlara Glitnis voru í beinu hlutfalli við þær tekjur sem deild þeirra aflaði. Þess vegna er hægt að segja að í Glitni hafi verið til staðar raunveruleg árangurstenging launa miðlara.

10.3.4 Kaupréttarsamningar

Til að halda í mikilvæga starfsmenn hófst viðamikil aðgerð af hálfu stjórnenda Glitnis strax árið 2003. Gerðir voru ýmiss konar samningar við starfsmennina sjálfa eða eignarhaldsfélög þeirra. Meðal annars var um að ræða samninga um kaup á hlutabréfum í Glitni (áður Íslandsbanka), með tilteknum skilyrðum skv. samningi, lánasamninga til fjármögnunar á hlutabréfakaupum í bankanum, lánsloforð til að fjármagna hlutabréfakaup í framtíðinni og samninga um sölurétt á hlutum í bankanum.

Fyrstu samningarnir sem gerðir voru við starfsmenn og stjórnendur um kaup á hlutabréfum í bankanum voru nokkuð hófstilltir en upphæðirnar hækkuðu eftir því sem árin liðu. Upphæðir einstakra samninga á árunum 2003–2008 voru frá um 5 milljónum króna upp í 1,2 milljarða. Rannsóknarnefnd Alþingis hefur vitneskju um alls 100 samninga sem voru gerðir í þessum tilgangi hjá bankanum á árunum 2003–2008 að nafnverði samtals ríflega 15,2 milljarðar króna. Heildarlán til starfsmanna Glitnis stóðu í 54 milljörðum króna í september 2008 en slík lán höfðu numið 1,6 milljörðum í janúar 2004, eins og sjá má m.a. í töflu 5.

Í nóvember 2003 voru að minnsta kosti átta lánasamningar gerðir við starfsmenn Glitnis (sem þá hét enn Íslandsbanki) í þeim tilgangi að fjármagna hlutabréfakaup þeirra í bankanum sem nefndinni er kunnugt um. Flest lánin voru á gjalddaga 1. febrúar 2006 en í einhverjum tilvikum hafði starfsmaðurinn rétt á að fresta greiðslum í allt að tvö ár. Samhliða þessum lánasamningum voru gerðir samningar um sölurétt á sama fjölda hluta og keyptir voru með kaupsamningnum og á sama gengi og hlutirnir voru keyptir á.

Árið 2004 gerðu um 40 starfsmenn Glitnis (þá Íslandsbanka) kaupsamninga um hlutabréf í bankanum. Bankinn veitti lán til kaupanna sem greiða átti í einni greiðslu fjórum árum síðar, í mörgum tilfellum 1. febrúar 2008. Í samningunum var tekið fram í 3. gr.: "Hrökkvi markaðsverð hinna seldu hlutabréfa ekki fyrir endurgreiðslu eftirstöðva kaupverðs á gjalddaga kaupverðsins er kaupanda heimilt, með skriflegri yfirlýsingu, að falla frá kaupunum og fellur þá skuldbinding hans til greiðslu á kaupverðinu niður. Hafi kaupandi greitt inn á kaupverðið fyrir gjalddaga skal réttur hans til að falla frá kaupum sínum takmarkast við þann fjölda hluta sem er ógreiddur." Samhljóða samningar voru gerðir árið 2005 og 2006 við 18 starfsmenn eða eignarhaldsfélög þeirra. Höfuðstóll lánanna var frá 5 milljónum króna upp í allt að 396 milljónir króna. Sem dæmi má nefna samning við eignarhaldsfélagið Musku ehf. sem er í eigu Guðmundar Hjaltasonar, eins af framkvæmdastjórum Glitnis, um lán sem veitt var 12. september 2006 til kaupa á hlutabréfum að nafnvirði 20 milljónir króna en umsamið kaupverð á hlut var 19,8 sem var vísitölubundið miðað við lánskjaravísitölu. Þessi samningur bar 5% fasta ársvexti sem lögðust við höfuðstól á 12 mánaða fresti og skyldu greiddir upp við uppgjör samningsins á gjalddaga í september 2011. Þá var annar samningur gerður 31. janúar 2005 við félagið K467 ehf. sem bar 6,8% fasta vexti og skyldu þeir greiðast við uppgjör samningsins á gjalddaga 1. nóvember 2014. Á sama tíma og samningurinn var gerður var ávöxtunarkrafa óverðtryggðra ríkisbréfa sem eru á gjalddaga í mars 2017 um 7,72% en ávöxtunarkrafa ríkisbréfa á gjalddaga í febrúar 2009 var 8,3% þann sama dag, 31. janúar 2005. Fleiri dæmi eru um að vextir sem starfsmennirnir greiddu væru hagstæðari en þágildandi kjör á skuldbindingum íslenska ríkisins.

Árið 2007 voru samningar af þessu tagi a.m.k. þrír talsins en þar var um að ræða samninga um kaup á hlutabréfum í Glitni fyrir um 400 milljónir kr. við Magnús Arnar Arngrímsson, þá sérfræðing en síðar framkvæmdastjóra hjá Glitni, EV-Holding í eigu Eggerts Þórs Kristóferssonar, þáverandi forstöðumanns, síðar framkvæmdastjóra hjá Glitni, og Krems ehf. í eigu Helga Antons Eiríkssonar, framkvæmdastjóra hjá Glitni. Bankinn lánaði starfsmönnunum og fyrirtækjum í 100% eigu þeirra fyrir kaupunum með verðtryggðu láni til 5 ára á 4,95% og 5,75% vöxtum, tengdum vísitölu neysluverðs. Ávöxtunarkrafa verðtryggðra skuldabréfa með ríkisábyrgð á markaði til 7 ára var 6,2–6,3% á þeim tíma sem framkvæmdastjórarnir skrifuðu undir. Með samningum eignarhaldsfélaganna var eiginlegur söluréttur gefinn út þar sem áhættan lá öll hjá bankanum þó ekki komi það fram í lánasamningunum líkt og áður tíðkaðist. Í tilfelli Magnúsar Arnar, sem gerði samning í eigin nafni en ekki eignarhaldsfélags, var svofellt ákvæði í 5. gr.: "Samningurinn er gerður á þeirri forsendu að kaupandi starfi hjá Glitni banka hf. eða dótturfélagi eigi skemur en til 4. maí 2012. Láti kaupandi af störfum að eigin ósk fyrir þann tíma eða ef honum er sagt upp störfum fyrir þann tíma vegna brota í starfi veitir hann Glitni banka einhliða kauprétt á þeim hlutabréfum sem kaupsamningur þessi tekur til á verði sem svarar til ógreidds kaupverðs að viðbættum áföllnum vöxtum. Hafi kaupandi greitt inná kaupverðið fyrir gjalddaga skal kaupréttur Glitnis banka hf. einungis taka til þess sem hlutfallslega er ógreitt."

Af þessu leiðir að það var enginn hvati fyrir framangreinda starfsmenn að draga úr áhættu bankans og borga inn á lánin.

Eignarhaldsfélagið Landsýn, sem er í 100% eigu Bjarna Ármannssonar, fyrrum forstjóra, gerði þrjá lánasamninga árið 2006 að nafnvirði 930 milljónir kr., 905 milljónir kr. og 845 milljónir kr. Höfuðstóll lánanna var bundinn við vísitölu neysluverðs og voru eftirágreiddir ársvextir 4,35% annars vegar og 5% hins vegar í þeim lánasamningum sem rannsóknarnefnd hefur undir höndum. Ávöxtunarkrafa verðtryggðra ríkisskuldabréfa var 4,40% og 4,28% á þeim tíma sem forstjórinn skrifaði undir sína samninga.

Einn framkvæmdastjóranna, Jóhannes Baldursson, gerði samning um kaup á hlutabréfum í bankanum að nafnvirði 1 milljón króna í mars árið 2004, að verðmæti 7,7 milljónir, á gjalddaga 1. febrúar 2008.Vextirnir voru hóflegir í samanburði við kjör á almennum markaði eða um 5,4% fastir óverðtryggðir vextir. Jóhannes var þarna metinn, líkt og aðrir framkvæmdastjórar bankans, með allra áreiðanlegustu skuldurum á markaðnum, og jafnvel betri en íslenska ríkið, því til samanburðar voru vextir ríkisbréfa um 8,38% þann mánuð sem samningurinn var gerður en þau bréf eru einnig óverðtryggð.

Skilmálar í kaupsamningunum sem gerðir voru við starfsmennina sjálfa voru óhefðbundnir að tvennu leyti. Annars vegar gátu starfsmenn fallið frá kaupum á hlutabréfum í bankanum ef markaðsverð á bréfunum yrði lægra en það verð sem starfsmenn greiddu í upphafi með láninu og hins vegar var ákvæði um að starfsmenn mættu greiða inn á lánið til hlutabréfakaupanna áður en að gjalddaga kom. Ef starfsmenn hugðust hins vegar nýta sér þann rétt að falla frá kaupum á hlutabréfunum vegna óhagstæðs gengis þeirra var einungis hægt að fella niður þann hluta samningsins sem var ógreiddur á þeim tíma. Starfsmönnum var þó gert að starfa hjá bankanum a.m.k. næstu þrjú árin, þannig miðuðu samningarnir sem gerðir voru árið 2004 við að starfsmenn störfuðu hjá bankanum til 1. febrúar 2007.

Hinn 1. febrúar 2008 samdi Glitnir við starfsmenn sem voru með samninga á gjalddaga um skilmálabreytingu á þeim lánum sem veitt voru á árunum 2003–2004. Skilmálabreytingin fólst í að undirliggjandi kaup starfsmanna á hlutabréfum í bankanum voru framlengd til 1. febrúar 2009.Vextir sem starfsmönnum var gert að greiða voru lágir, til dæmis 6,4% í tilfelli Jóhannesar Baldurssonar, eins framkvæmdastjóra bankans. Annars hljóðuðu vaxtakjörin samkvæmt skilmálabreytingunum upp á fasta vexti frá 6,4% til 9,95% og án verðbóta. Lánskjörin samkvæmt kaupsamningunum voru í samræmi við m.a. lánskjör fjármálastofnana, þ.e. flatir REIBOR vextir eða LIBOR + 100 punktar. Bankinn var hins vegar sjálfur fjármagnaður á LIBOR + 400 punktar á þessum sama tíma.

Þorsteinn Már Baldvinsson, sem tók við stjórnarformennsku í bankanum hinn 20. febrúar 2008, boðaði í viðtali við Morgunblaðið þremur dögum síðar aðhald í rekstri Glitnis. Í viðtalinu segir: "Þorsteinn útilokar ekki að síðar verði gerðir kaupréttarsamningar við starfsmenn bankans, en segir að slíkir samningar verði háðir því að raunverulegur árangur náist. "Ég tel að starfsmenn eigi að hafa ávinning af því þegar fyrirtæki gengur vel," segir Þorsteinn Már."

Í maí sama ár voru þó veitt lán til eignarhaldsfélaga fjórtán starfsmanna bankans, og eins stjórnarmanns, alls að upphæð 8,3 milljarðar króna. Þrettán af eignarhaldsfélögunum fimmtán voru stofnuð sama daginn, 17. maí 2008 af KPMG. Einn lánþega var félag í eigu stjórnarmannsins Hauks Guðjónssonar og fékk það að láni 480 milljónir króna frá bankanum til að kaupa hlutabréf í Glitni fyrir 330 milljónir að markaðsvirði og verja 150 milljónum til útgreiðslu arðs til hluthafa HG Holding sem var í 100% eigu Hauks sjálfs. Lánið var myntkörfulán til fimm ára með 300–500 punkta álagi ofan á viðmiðunarvexti (300 punktar + REIBOR, EURIBOR eða LIBOR) eftir samsetningu myntkörfunnar. KÞG Holding í 100% eigu Kristins Þórs Geirssonar, framkvæmdastjóra, fékk sams konar lán og HG Holding með sama vaxtaálagi og myntsamsetningu að upphæð 1,15 milljarðar króna. Einum milljarði af láninu var varið til kaupa á hlutabréfum í Glitni en 150 milljónum til að greiða út arð til hluthafa KÞG Holding ehf. Magnús Arnar Arngrímsson, framkvæmdastjóri fjárfestingarbankasviðs, samþykkti þetta lán fyrir hönd Glitnis og Rósant Már Torfason, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar, staðfesti. Á svipuðum tíma fengu eignarhaldsfélög beggja þessara framkvæmdastjóra lán frá bankanum á svipuðum kjörum og framangreind félög þeirra Hauks og Kristins, að upphæð 800 milljónir hvort.

Kaup KÞG Holding og samsvarandi lán félagsins voru gerð að umtalsefni í Viðskiptablaðinu 19. maí 2008. Haft er eftir stjórnarformanni Glitnis, Þorsteini Má Baldvinssyni, að lán þetta sé veitt með sömu skilyrðum og lán til annarra og kaupin hafi verið gerð á markaðsvirði. Þorsteinn bætti við í viðtalinu við blaðið: "Fyrirtæki hans [Kristins] hefur góða eiginfjárstöðu og það hefur lagt fram tryggingar fyrir láninu sem uppfylla að öllu kröfur bankans hvað slíkt varðar." Í viðtalinu heldur hann áfram: "Þetta er gert að frumkvæði Kristins og er ekki hluti af hans starfskjörum og ekki er um neina sölutryggingu að ræða. Hann hefur greinilega trú á bankanum og sjálfum sér og því hefur hann ákveðið að kaupa." Í ársreikningum KÞG Holding frá 2007 kemur fram að félagið keypti 58,8 milljóna króna hlut á genginu 16,9. Félagið var með eigið fé samtals 211 milljónir, þar af 288 milljónir sem byggðust á endurmatsreikningi, en heildarhlutafé í félaginu var 500 þúsund krónur. Rekstrarlegt tap félagsins það árið var um 50 milljónir króna. Ársreikningurinn er ekki endurskoðaður. Hér veitti Glitnir hlutafélögunum HG Holding og KÞG Holding lán til útgreiðslu arðs en hvorugt félag var rekið með hagnaði árið sem arðgreiðslan féll til.

Um lánafyrirgreiðslu til framkvæmdastjóranna var eftirfarandi bókað í fundargerð áhættumatsnefndar bankans (e. risk committee) nr. 666 af fundi sem haldinn var 30. apríl 2008 um afgreiðslu mála milli funda:

"1.Afgreiðsla sérstakra mála /LW AKG SÖÞ

Óskað er eftir að RC samþykki eftirfarandi.

"Áhættunefnd heimilar að lánamál er varða framkvæmdastjóra Glitnis í framkvæmdastjórn, félög í þeirra eigu og tengdra aðila, séu kynnt og afgreidd milli funda í hluta nefndarinnar sem samanstendur hverju sinni amk af formanni nefndarinnar, varaformanni og framkvæmdastjóra áhættustýringar. Slík erindi verði ekki bókuð í almennri fundargerð nefndarinnar, heldur hljóti sérstaka bókun, en meðferð þeirra uppfylli að öllu öðru leyti fyrirmæli í starfsreglum stjórnar Glitnis, en í því felst m.a. að þau hljóti kynningu í stjórn."

Athugið að ekki leikur vafi á að þessi hluti nefndarinnar er ákvörðunarbær milli funda eða á fundi, einungis er verið að fallast á að slík erindi hljóti takmarkaða kynningu.

Niðurstaða

Samþykkt 27/4/2008: LW, AKG, HAE, RMT, GG, MAA, SÖÞ."

Ekki verður séð af fundargerðum stjórnar bankans að lánafyrirgreiðsla sú sem vísað er til í fundargerð áhættumatsnefndar, þ.e. til framkvæmdastjóra bankans, hafi verið kynnt fyrir stjórninni eins og samþykkt var af áhættumatsnefndinni. Stjórn Glitnis samþykkti hins vegar lánin til KÞG Holding og HG Holding á 178. fundi sínum 6. maí 2008.

10.3.5 Starfskjör forstjóra Glitnis banka hf.

10.3.5.1 Samningar við Bjarna Ármannsson

Bjarni Ármannsson varð forstjóri Íslandsbanka-FBA árið 2000 við sameiningu Íslandsbanka hf. og FBA Fjárfestingarbanka atvinnulífsins. Fram til ársins 2003 var Valur Valsson annar forstjóri fyrirtækisins við hlið Bjarna en á því tímabili sem hér er sérstaklega til rannsóknar, árin 2004–2008, sat Bjarni einn á forstjórastóli Íslandsbanka, síðar Glitnis, þ.e.a.s. til 1. maí 2007. Starfssamningar stjórnarinnar við hann ná aftur til 20. desember 2000. Meðal atriða sem þar koma fram og stjórn bankans hefur samþykkt, og voru nýmæli frá fyrri samningum, má nefna að lífeyrisréttindi Bjarna voru ríflegri en þekktist meðal launamanna. Samkvæmt 8. gr. samningsins frá 20. desember árið 2000 skyldi bankinn greiða 19,5% mótframlag af föstum launum Bjarna í lífeyrissjóð á móti 4% framlagi hans. Lögum samkvæmt greiddi bankinn 6% iðgjald af bónusgreiðslum á móti 4% framlagi Bjarna. Samkvæmt 3. gr. samningsins var Bjarna óheimilt, án sérstaks samþykkis bankaráðs, að vera meðeigandi eða þátttakandi í öðrum atvinnurekstri eða gegna öðrum launuðum eða ólaunuðum störfum. Forstjóranum var þó heimilt að eiga hlutabréf í öðrum hlutafélögum innan þeirra marka sem verklagsreglur bankans um fjárfestingar starfsfólks í verðbréfaviðskiptum heimiluðu á þeim tíma og taka þátt í almennum félagsmálum utan bankans.

Þá var forstjóra óheimilt, án skriflegs samþykkis bankaráðs, að eiga beint eða óbeint fjárhagslegra hagsmuna að gæta í fyrirtæki sem að einhverju leyti ræki starfsemi á sama sviði og bankinn og því í samkeppni við hann. Honum var óheimilt að starfa hjá eða fyrir slíkt fyrirtæki, t.d. sem stjórnarmaður, nefndarmaður eða ráðgjafi, nema með samþykki formanns bankaráðs. Þær kvaðir skyldu gilda í sex mánuði eftir að starfstíma hans lyki hjá bankanum.

Umsamin mánaðarlaun námu 996 þúsund krónum á mánuði í lok árs 2000 en launin skyldu taka breytingum samkvæmt launavísitölu Hagstofu Íslands á hverjum tíma. Þá kom fram í samningnum að hvor aðili hans gæti óskað eftir endurskoðun á þessari launaákvörðun ef hann teldi t.d. að laun sambærilegra aðila hjá öðrum íslenskum bönkum eða fyrirtækjum hefðu breyst umfram laun almennt í landinu. Stjórnarlaun eða aðrar greiðslur sem kynnu að falla til við störf Bjarna á vegum bankans skyldu renna til bankans sjálfs.

Bónusgreiðslur til Bjarna voru greiddar út samkvæmt árangurstengdu launakerfi bankans, EVA kerfinu, þar sem markmiðsbónus Bjarna var 325 þúsund kr. á mánuði, samtals 3,9 milljónir kr. á ári. Samkvæmt starfssamningnum var gert ráð fyrir því að ef bónusfjárhæðin væri yfir 6 milljónir kr. á ári, takmörkuðust bónusútgreiðslurnar við þá fjárhæð. Þriðjungur þeirrar bónusfjárhæðar sem áynnist umfram 6 milljónir kr. yrði strax greiddur í lífeyrissjóð Bjarna en það sem eftir stæði yrði flutt í bónusbanka til útgreiðslu síðar. Þá var samið svo um að gerður yrði kaupréttarsamningur við Bjarna á hlutabréfum í bankanum.

Risnukostnaður skyldi greiddur í samræmi við almennar reglur bankans eins og þær voru á hverjum tíma. Þá lét bankinn forstjóranum í té bifreið í eigu bankans til ótakmarkaðra afnota og var allur rekstrarkostnaður bifreiðarinnar greiddur af bankanum. Kveðið var á um 6 mánaða gagnkvæman uppsagnarfrest í samningnum sem undirritaður var 20. desember árið 2000.

10.3.5.2 Árangurstenging launa Bjarna Ármannssonar

Af athugun á efni þeirra samninga sem stjórn Glitnis gerði við Bjarna Ármannsson um árangurstengingu launa hans má ráða að þar hafi ráðið sama sjónarmið og í öðrum samningum um laun starfsmanna. Forstjórinn skrifaði undir samning um árangurstengingu launa sem byggðist á hagsaukakerfi þar sem gert var ráð fyrir að ef markmið um hagsauka bankans í heild næðist leiddi það til 30% bónusgreiðslu ofan á mánaðarlaun.

Hinn 28. ágúst 2001 var gerður kaupréttarsamningur við Bjarna Ármannsson og honum tryggður réttur til að kaupa hlutabréf í bankanum á þriggja ára tímabili samtals allt að 15 milljónir króna að nafnvirði á 4,23 krónur hlutinn. Innlausn var leyfileg í eftirfarandi áföngum: 20% í maí 2002 (þ.e. 3 milljónir að nafnvirði), 30% í maí 2003 og 50% í maí 2004. Bjarna var þó heimilt að fresta nýtingu kaupréttar milli ára hygðist hann ekki leysa til sín bréfin þegar þau voru innleysanleg. Hefði ekki allur kauprétturinn verið nýttur 31. maí 2004 skyldi forstjóranum heimilt að fresta innlausn á ónýttum kauprétti allt til 31. maí 2006. Þá félli allur óinnleystur kaupréttur niður samkvæmt e-lið 1. gr. kaupréttarsamningsins við Bjarna.

Hinn 1. mars 2002 gerði stjórn bankans viðauka við starfssamning Bjarna sem fól í sér hækkun launa hans í 1,2 milljónir kr. á mánuði í grunnlaun, viðbótarlífeyrisframlag vegna ársins 2001 sem nam 2,5 milljónum og viðbótarkauprétt á 15 milljónum hluta að nafnvirði í bankanum á genginu 4,6. Forstjóranum skyldi heimilt að nýta þann kauprétt í eftirfarandi áföngum: 20% í ágúst 2003, 30% í ágúst 2004 og 50% í ágúst 2005. Önnur ákvæði fyrri kaupréttarsamnings frá 28. ágúst 2001 giltu, svo sem frestun á innlausn kaupréttar ef hann yrði ekki nýttur í þeim áföngum sem lýst var hér að ofan.Viðaukinn var undirritaður af formanni bankaráðs, Kristjáni Ragnarssyni, og forstjóranum sjálfum, Bjarna Ármannssyni.

Hinn 16. desember 2003 ákváðu Einar Sveinsson og Kristján Ragnarsson fyrir hönd bankaráðs að Bjarna Ármannssyni yrðu greidd ein mánaðarlaun (sem þá voru ríflega 1,2 milljónir kr.) í kaupauka – óháð EVA bónuskerfi bankans.

Hinn 23. mars árið 2004 samdi Bjarni á ný um viðauka við ráðningarsamning sinn en í þetta skiptið við þáverandi bankaráðsformann Einar Sveinsson. Samkvæmt viðaukanum skyldu laun forstjórans verða 1,8 milljónir kr. á mánuði, frá áramótum 2004. Bankinn skyldi greiða honum 10 milljónir kr. í viðbótarframlag í lífeyrissjóð vegna ársins 2003 en framlagið kom til greiðslu í mars 2004. Þá skyldi bankinn greiða 10 milljónir kr. í kaupauka vegna ársins 2003 og skyldi sú fjárhæð einnig greidd í mars 2004. Sú kaupaukagreiðsla var því óháð EVA-kerfinu um árangurstengingu launa. Þá var 6. grein ráðningarsamnings Bjarna breytt á þann veg að markmiðsbónus samkvæmt EVA-kerfinu skyldi vera 650 þúsund krónur á mánuði eða samtals 7,8 milljónir á ári frá 1. janúar 2004. Færi reiknuð bónusfjárhæð yfir 12 milljónir skyldi launaútgreiðsla takmarkast við þá upphæð. Það sem áynnist umfram hana yrði hins vegar greitt í lífeyrissjóð. Þá var forstjóra heimilað að nýta kauprétti sína hvenær sem var þó ekki síðar en 31. maí 2006.Vekja má athygli á því að meginbreytingin við þetta var sú að reiknuð bónusfjárhæð umfram 12 milljóna króna hámark á bónus var greidd að fullu í lífeyrissjóð Bjarna en fór ekki að hluta í bónuspott. Þar með gat bankinn ekki lengur endurheimt bónusgreiðslur úr bónuspotti ef tap myndaðist á næstu árum eftir mikinn hagnað.

Hinn 25. febrúar 2005 var enn á ný gerður viðauki við ráðningarsamning forstjórans. Þar var kveðið á um 10 milljóna kr. aukaframlag í lífeyrissjóð Bjarna og 20 milljóna kr. kaupauka vegna ársins 2004 sem var tvöföldun kaupauka frá árinu áður.Til samanburðar jókst arður hluthafa úr 30 aurum á hverja krónu að nafnvirði árið 2003 í 40 aura eða um þriðjung.

Árið 2006 tóku nýir kjölfestufjárfestar við bankanum. Einar Sveinsson steig til hliðar sem formaður stjórnar og Þorsteinn M. Jónsson tók við stjórnarformennsku. Karl Wernersson, þá formaður kjaranefndar stjórnar Glitnis, samþykkti viðauka við ráðningarsamning forstjórans, Bjarna Ármannssonar. Þar kvað við nýjan tón í uppbyggingu hvatakerfa bankans. Föst mánaðarlaun forstjórans voru hækkuð í 3 milljónir króna. Afgerandi breyting var gerð á 6. gr. ráðningarsamningsins sem kvað á um árangurstengingu launa. EVA-kerfið heyrði sögunni til í tilfelli forstjórans en árangurstengdur bónus skyldi nú miðast við arðsemi eigin fjár bankans á árinu. Þannig yrði enginn bónus greiddur ef arðsemi væri undir 15%. Færi arðsemi eigin fjár yfir 30% greiddist ígildi árslauna í bónus. Ef arðsemi eigin fjár yrði á bilinu 15–30% yrði greitt hlutfallslega fyrir hvert brot úr prósentu uns árslaunum væri náð. Forstjórinn fengi hlutabréf í bankanum að andvirði ársgrunnlauna ef hagnaður ykist um 24%. Þá segir svo í 6. gr.: "Skal slíkur bónus ekki reiknast, aukist hagnaður um minni krónutölu en 12% en hækki línulega frá því og nái hámarki í 24%. Lágmarkseignarhaldstími á þessum bréfum skal nema 3 árum, nema sem að því lítur [sic] að greiða opinber gjöld vegna kaupanna."

Þá fengi Bjarni greiddar 20 milljónir króna í laun til viðbótar vegna ársins 2005 og 18 milljóna króna eingreiðslu í lífeyrissjóð sinn vegna sama tímabils. Uppgerður og greiddur bónus vegna fyrstu sex mánaða ársins 2006 næmi alls 43,2 milljónum króna.

Að auki var gengið frá lánasamningi við eignarhaldsfélag forstjórans vegna kaupa á hlutabréfum í bankanum að nafnverði 50 milljónir kr. en lánsfjárhæðin nam kaupverði hlutanna.

Eftir tæplega tíu ára starf Bjarna hjá bankanum var gerður við hann starfslokasamningur og tók sá samningur gildi 1. maí 2007. Glitnir gat ekki skilað öllum þeim gögnum sem rannsóknarnefnd Alþingis fór fram á varðandi þennan samning.Til að mynda vantar síðari blaðsíðu samningsins en samkvæmt upplýsingum frá Glitni tók sú síða ekki gildi heldur einungis fyrsta síða samningsins. Á fyrstu blaðsíðu er kveðið á um að Bjarni láti af störfum 1. maí 2007 og að beinum starfsskyldum hans ljúki frá og með þeim degi. Stjórnin samdi þó um að fráfarandi forstjóri yrði í sérverkefnum til 31. dags sama mánaðar og yrði félaginu til ráðgjafar til og með 1. september 2007 en þæði á meðan laun frá félaginu. Forstjóranum skyldi óheimilt að ráða sig til annarra starfa fyrr en 1. desember sama ár. Í 2. gr. samningsins samþykkti félagið að greiða forstjóranum laun og önnur hlunnindi, sbr. 5. gr. ráðingarsamnings hans, í átján mánuði frá dagsetningu starfslokasamnings. Hinn 15. janúar 2008 skyldi félagið greiða forstjóranum eingreiðslu vegna starfa hans í þágu félagsins að upphæð 270 milljónir króna.Við starfslok yrði honum greiddur 50 milljóna króna bónus fyrir árið 2007 sem teldist fullnaðargreiðsla óháð því sem hann kynni ella að hafa átt rétt á samkvæmt viðaukum við ráðningarsamning hans. Loks kom fram að yrði forstjóra gert af skattayfirvöldum að greiða skatta vegna söluréttarsamninga hans sem ekki hefðu verið nýttir og ekki væru lengur í gildi myndi félagið bæta forstjóra þann kostnað. Skuldbinding félagsins skyldi þó ekki verða hærri en 40 milljónir kr. vegna þessa.

Hinn 26. febrúar 2007 tilkynnti Bjarni launafulltrúa bankans um nýtingu kaupréttar að nafnverði 15 milljónir kr. á genginu 2,81. Lokagengi þann dag á markaði var 28,2 krónur. Bjarni óskaði eftir heimild regluvarðar vegna umræddra viðskipta og var hún veitt. Bjarni afhenti launadeild bankans ljósrit af eintaki kaupréttarsamnings og sá hún um framkvæmd viðskiptanna og greiðslu til handa Bjarna. Bjarni afhenti samninginn frá 28. ágúst 2001 sem kvað á um að innlausnargengi bréfanna væri 4,23 krónur. Ef tekið er tillit til arðgreiðslna, þar sem hvert prósentustig af nafnvirði félagsins lækkar verð hvers hlutar sem samið hefur verið um í kauprétti niður um 0,01 krónu, hefði kaupgengi bréfanna átt að vera 2,25 kr. (þ.e. 4,23 - 1,98 = 2,25). Ekki hafa borist gögn um frekari röksemdir fyrir því innlausnargengi sem nýtt var í viðskiptunum. Kaupréttarsamningurinn féll úr gildi þann 31. maí 2006 samkvæmt kaupréttarsamningi dagsettum 28. ágúst 2001, samkvæmt viðauka við ráðningarsamning forstjóra dags. 1. mars 2002 (sem vísar til samnings dags. 28. ágúst 2001 varðandi þetta atriði) og samkvæmt viðauka við ráðningarsamning dags. 23. mars 2004. Þó síðastnefndi viðaukinn hafi kveðið á um að Bjarni gæti hvenær sem væri nýtt kaupréttarsamning dags. 28. ágúst 2001 sagði þar einnig: "[...] þó ekki síðar en 31. maí 2006", sbr. 7. gr. viðaukans.

Tölvubréfasamskipti Bjarna Ármannssonar við starfskjaranefnd stjórnar Glitnis má skilja sem svo að Bjarni hafi lagt til þann valkost að í stað þess að innleysa hinn ónýtta kauprétt yrði Bjarna greitt virði samningsins beint út "ca. 370 milljónir brúttó 7%". Af samskiptunum má ráða að stjórnarmennirnir höfðu ekki undir höndum þá samninga sem Bjarni vísaði til og ekki verður séð að þeir hafi kynnt sér efni þeirra. Útgreiðsla í reiðufé var þó ekki samþykkt. Upp kom umræða milli stjórnarmannanna um sölu annarra stjórnenda Glitnis, Finns R. Stefánssonar,Tómasar Kristjánssonar og Jóns Diðriks Jónssonar, á bréfum bankans sem Jón Sigurðsson virtist vera andvígur, sbr. eftirfarandi ummæli: "Ef þeir vilja selja bréf þá er það algjörlega sér umræða sem ég er mjög neikvæður gagnvart. Kv. JS."

Ekki er að sjá á skriflegum samskiptum milli mannanna að aðrir en Jón Sigurðsson hafi veitt Bjarna Ármannssyni, forstjóra Glitnis, samþykki sitt til að nýta kaupréttinn eins og forstjórinn leitaði eftir. Ekki verður heldur séð að önnur gögn um samskipti milli Bjarna og þremenninganna liggi fyrir hjá starfskjaranefnd.

Viðskipti Bjarna með bréf Glitnis fóru fram á genginu 2,81 og voru þau tilkynnt tilVerðbréfaskráningar kl.13:55 27.febrúar 2007. Bréfin voru síðan seld samdægurs á genginu 28,2. Kl. 18:17 var tilkynnt um innlausn Bjarna á kauprétti og 380 milljóna króna hagnað hans vegna innlausnarinnar í Kauphöll.

Í viðauka við ráðningarsamning forstjóra, dags. 7. mars 2007, sem undirritaður er af Karli Wernerssyni og Bjarna Ármannssyni, segir í 1. gr.: "Bjarni Ármannsson nýtir kauprétt að hlutabréfum í Glitni að nafnverði 15 m.kr. sbr. samning um kauprétt dags. 1. mars 2002 með tilvísun í samning 28.08.2001 með tilvísun í samþykkt Bankaráðs Íslandsbanka 15. ágúst 2000. Þrátt fyrir ákvæði um tryggingar til greiðslu á lánasamningum til Landsýnar, sbr. 6. gr. lánasamninga dags. 12. janúar 2006 og samsk ákvæði í lánssamningi dags. 26. maí 2006 er Bjarna heimilt að halda þeim fjármunum sem út úr nýtingu kaupréttarins kemur."

Hinn 20. febrúar 2008, fyrir aðalfund sem haldinn var síðar sama dag, barst stjórn Glitnis bréf frá minnihlutaeiganda í félaginu, Vilhjálmi Bjarnasyni, þar sem hann óskaði eftir að nokkrum spurningum hans yrði svarað á aðalfundinum undir liðnum "önnur mál". Stuttu áður hafði Vilhjálmur komið fram í fjölmiðlum og upplýst að hann íhugaði að höfða skaðabótamál á hendur stjórn Glitnis vegna ríflegra bónusgreiðslna og ofurlauna til fyrrum forstjóra. Af tölvubréfasamskiptum stjórnenda Glitnis virðist mega ráða að þeir hafi ekki viljað að launauppgjör við fyrrverandi forstjóra yrði að fullu birt og yrði þar með til umræðu á aðalfundinum. Þegar leiðrétting barst frá endurskoðendum varðandi laun til fyrrverandi forstjóra, sem leiddi í ljós að skuldbindingar félagsins um bónusgreiðslur til handa honum voru 370 milljónir kr. en ekki 100 milljónir eins og áður hafði verið talið fram, voru viðbrögðin eftirfarandi: "Ekki góðar fréttir. Gefur Vilhjálmi mögulega skotfæri á fundinum. Hvernig gat þetta gerst?" Annar starfsmaður svarar með eftirfarandi hætti: "Þar sem greiðslan er á árinu 2008 – verður þetta ekki sett fram í reikningum 2007. Þetta verður því ekki til umfjöllunar."

Í skýringum 19 í ársreikningi félagsins fyrir árið 2007 kemur fram að Bjarni Ármannsson hafi fengið 100 milljónir í bónus á árinu 2007. Þegar framangreint er virt vakna spurningar um hvort þessi framsetning sé í samræmi við góðar reikningsskilavenjur og gefi glögga mynd af rekstri félagsins á þessum tíma.

10.3.5.3 Samningar við Lárus Welding

Lárus Welding var ráðinn til starfa sem forstjóri Glitnis 1. maí 2007. Bankaráð Glitnis gerði ráðningarsamning við hann sem var undirritaður 30. apríl sama ár. Þar var kveðið á um að samningurinn væri til 5 ára og væri uppsegjanlegur af hálfu beggja aðila með 12 mánaða fyrirvara. Samið var um föst laun forstjórans, samtals 5,5 milljónir króna á mánuði, sem væru óháð almennum launabreytingum en endurskoðuð í samráði við stjórn félagsins fyrir lok febrúar ár hvert, þó fyrst í febrúar 2009. Fengi forstjórinn stjórnarlaun fyrir setu í stjórnum annarra fyrirtækja fyrir hönd félagsins skyldu þau renna til bankans. Að auki var samið um að forstjórinn fengi 300 milljóna króna eingreiðslu frá bankanum þegar hann hæfi störf, að því skilyrði uppfylltu að hann væri að minnsta kosti í starfi hjá félaginu í 12 mánuði frá undirritun samnings. Glitnir ætti endurkröfu á forstjórann sem næmi sömu fjárhæð ef það skilyrði yrði ekki uppfyllt. Hinn 1. febrúar 2008 yrði forstjóranum svo greidd önnur eingreiðsla að upphæð 300 milljónir króna, að því gefnu að hann starfaði að minnsta kosti í 12 mánuði frá útborgun greiðslunnar hjá félaginu. Hætti hann störfum innan þess tíma yrði honum gert að endurgreiða þessa eingreiðslu.Til viðbótar launum, eingreiðslum, bónusum og kaupréttum skyldi forstjóri eiga rétt á sérstökum greiðslum frá félaginu að núvirði 250 milljónir króna á ráðningartímabilinu. Skyldu forstjóri og félagið komast að samkomulagi um útfærslu á þessum greiðslum áður en ráðningartímabili forstjórans lyki. Ef forstjórinn hætti að eigin ósk á samningstímanum skyldu þessar sérstöku greiðslur falla niður.Yrði forstjóranum á hinn bóginn sagt upp ætti hann rétt á fullri eingreiðslu og sérstökum greiðslum ef uppsögnin kæmi ekki til vegna vanefnda á samningnum.

Bónusgreiðslur til handa forstjóranum gátu numið allt að 70 milljónum króna á ári og yrðu þær ákvarðaðar af stjórn eða starfskjaranefnd að teknu tilliti til frammistöðu forstjórans, afkomu og umsvifa félagsins, auk annarra þátta sem haft gætu áhrif á verðmæti þess í bráð og lengd.

Fyrir utan bifreið sem félagið sá forstjóranum fyrir til fullra afnota, honum að kostnaðarlausu, stóð félagið straum af kostnaði við íbúð forstjórans í London, þ.m.t. húsaleiga og önnur föst gjöld. Skyldi sá kostnaður vera að hámarki 6 milljónir króna á ári.

Gerður var kaupréttarsamningur við forstjórann sem kvað á um rétt hans til að kaupa hlutabréf í félaginu að nafnvirði 150 milljónir króna. Gengi kaupréttarins miðaðist við lokagengi félagsins á markaði hinn 30. apríl 2007 sem var 26,6 og skyldi leiðréttast fyrir arðgreiðslum. Kauprétturinn var innleysanlegur að fimmtungshlut á hverju ári yfir fimm ár.

Rannsóknarnefnd Alþingis metur það svo að kostnaður Glitnis af samningnum við Lárus hafi verið um 5,1 milljarður króna þegar hann var gerður og félli hann til á 5 árum. Samningurinn var samþykktur á 35 mínútna fundi bankastjórnar 30. apríl 2007 en á þeim sama fundi sagði forstjórinn, Bjarni Ármannsson, starfi sínu lausu með formlegum hætti gagnvart bankaráðinu, nýr stjórnarformaður var kosinn og nýr forstjóri ráðinn.

Lífeyrissjóðsgreiðslur til Lárusar voru í samræmi við ákvæði í kjarasamningi Sambands íslenskra bankamanna og Samtaka atvinnulífsins. Mótframlag vinnuveitanda skyldi reiknast af grunnlaunum og greiddum bónusgreiðslum.

Forstjórinn skuldbatt sig til að eiga ekki fjárhagslegra hagsmuna að gæta í sambærilegum rekstri og félagið stundaði meðan hann sinnti störfum fyrir bankann. Slíkt bann héldist í eitt ár eftir að störfum hans fyrir bankann lyki.

Hinn 31. mars 2008 undirrituðu Þorsteinn Már Baldvinsson og Lárus Welding samning um að fresta þeirri eingreiðslu sem falla átti til 1. febrúar 2008 samkvæmt ráðningarsamningi Lárusar, að fjárhæð 300 milljónir kr., fram til 1. febrúar 2009. Samhliða yrði gengið frá láni frá bankanum til Lárusar þar sem Lárus fengi að láni 177.412.800 kr. Lánið yrði á gjalddaga 1. febrúar 2009 og myndu kjör miðast við REIBOR vexti + 0 punktar.Veð var tekið í launagreiðslunni sem átti að inna af hendi ári síðar. Lánið var eingreiðslulán þar sem vextir skyldu greiddir á gjalddaga. Félagið myndi auk framangreindrar greiðslu greiða Lárusi á gjalddaga lánsins fjárhæð sem samsvaraði öllum vaxta- og lántökukostnaði vegna tilgreinds láns. Í samningnum segir svo orðrétt: "Komi til þess að réttur Lárusar til framangreindrar eingreiðslu falli niður samkvæmt ákvæðum ráðningarsamnings ber félaginu eftir sem áður að halda Lárusi skaðlausum af vaxta- og lántökukostnaði af láninu. Skilyrði í ráðningarsamningi um störf Lárusar hjá félaginu miðast við 12 mánuði frá 1. febrúar 2008.

Uppsögn félagsins á ráðningarsamningi Lárusar fyrir 1. febrúar 2009 hefur ekki áhrif á skuldbindingu félagsins samkvæmt framangreindu. Það sama gildir um breytingar sem gerðar kunna að verða á rekstri félagsins, svo sem vegna samruna eða yfirtöku. Lárusi er ávallt heimilt að skuldajafna kröfu til þeirrar greiðslu sem gjaldféll 1. febrúar 2008 gegn framangreindu láni.

Lárus fellur ennfremur með samningi þessum frá kauprétti sem honum var veittur með 7. gr. ráðningarsamningsins. Um er að ræða kauprétt að hlutabréfum í Glitni að nafnvirði 150 milljónir króna."

Samningurinn er undirritaður af Herði F. Harðarsyni, yfirlögfræðingi bankans, og Magnúsi Arnari Arngrímssyni, framkvæmdastjóra.

Starfsmaður launadeildar Glitnis spurði Lárus í tölvubréfi hvort í framangreindum samningi fælist að hann félli frá greiðslu sem starfsmaðurinn hafði greitt Lárusi 1. febrúar sama ár en síðan bakfært mánuði síðar eða 1. mars. Í tölvupósti 5. maí 2008 svaraði Lárus því til að svo væri ekki, "en það [kæmi] inn á næsta ári". Starfsmaðurinn svaraði með annarri spurningu: "Má þá segja að við séum að fresta gjaldfærslu um 1 ár?" Lárus svaraði með tölvubréfi 6. maí kl. 07:49. Þar sagði m.a.: "Eg verd ad fa thetta ut ur reikningunum sem eg er ad kynna amorgun er thad ekki klart? Hver eru ahrifin."

Á fundi hinn 6. maí kl. 18:30 kynnti Lárus fyrir stjórn Glitnis afkomutölur fyrir fyrsta ársfjórðung 2008 þar sem fram kom að rekstrarafkoma bankans hefði batnað milli ársfjórðunga (síðasta ársfjórðungs 2007 og fyrsta ársfjórðungs 2008). Stjórnin samþykkti milliuppgjör samstæðunnar fyrir fyrsta ársfjórðung 2008 að lokinni kynningu Lárusar.

10.3.6 Nánar um launakjör forstjóra Glitnis

Meðalmánaðarlaun Bjarna Ármannssonar fimmfölduðust á þremur árum, fóru úr 9 milljónum kr. á mánuði árið 2004 í rúmar 50 milljónir kr. á mánuði árið 2007. Þessar tölur endurspegla það sem kemur fram í launakerfum bankans. Bjarni endurgreiddi félaginu 370 milljónir kr. í byrjun árs 2009, þ.m.t. þær eitt hundrað milljónir kr. sem hann fékk greiddar í bónus á árinu 2007. Árið 2007 tók Lárus Welding við forstjórastöðu Glitnis. Meðaltal heildarmánaðarlauna hans það ár nam um 84 milljónum kr. Lárus var aðeins um 4 mánuði á launaskrá hjá bankanum það árið.

Grunnlaun Bjarna Ármannssonar voru rétt rúmar 2,5 milljónir kr. að meðaltali á mánuði árin 2004 og 2005, á verðlagi ársins 2008. Árið 2006 tvöfölduðust launin í rúmlega 5,5 milljónir kr. en lækkuðu síðan aftur í um 3,5 milljónir kr. árið 2007. Hækkunin árið 2006 skýrist af launaliðnum "önnur laun" sem nam ríflega 27 milljónum kr. það árið. Grunnlaun Lárusar Welding námu rúmum 3 milljónum kr. að meðaltali á mánuði árin 2007 og 2008.

Af heildarlaunum Bjarna Ármannssonar á árunum 2004 til 2007 er hlutfall bónusgreiðslna á bilinu 18% til 29%. Árið 2007 er hlutfall bónusgreiðslna af heildarlaunum Lárusar Welding hins vegar 94%,sjá mynd 17. Bónusgreiðslur Lárusar eru að stærstum hluta 300 milljóna kr. eingreiðsla sem hann fékk samkvæmt ráðningarsamningi það ár, eins og áður segir. Hún dreifist á þá fjóra mánuði sem hann starfaði hjá bankanum árið 2007.

Hlutfall grunnlauna Bjarna Ármannssonar af meðalheildarlaunum á mánuði lækkaði úr 31% árið 2004 í 7% árið 2007. Hlutfall grunnlauna Lárusar Welding af heildarlaunum var 4% árið 2007 en ári síðar var hlutfallið 86%.

Bónusgreiðslur sem Bjarna Ármannssyni voru greiddar hækkuðu jafnt og þétt árin 2004 til 2007. Greiðslurnar námu um 1,8 milljónum kr.að meðaltali á mánuði árið 2004 en voru komnar í tæpar 9 milljónir kr.að meðaltali á mánuði árið 2007.Lárus Welding fékk greiddar um 80 milljónir kr. að meðaltali á mánuði í bónusgreiðslur þá fjóra mánuði sem hann var á launaskrá fyrirtækisins árið 2007, sbr. mynd 19.

Hlutfall lífeyrisgreiðslna af heildarlaunum Bjarna Ármannssonar var 21% árið 2004. Hlutfallið var 9% árið 2007. Hlutfall lífeyrisgreiðslna af heildarlaunum LárusarWelding var 2% árið 2007 en hækkaði í 14% ári síðar, sbr. mynd 20.

Innleystir kaupréttir Bjarna Ármannssonar námu rúmum 2 milljónum kr. að meðaltali á mánuði árið 2004 en árið 2007 námu þeir tæpum 34 milljónum kr. á mánuði að meðaltali.

10.3.7 Lánafyrirgreiðslur til starfsmanna Glitnis

Lán Glitnis til starfsmanna sinna, og/eða eignarhaldsfélaga í þeirra eigu, námu alls um 55 milljörðum króna þegar þau urðu hæst í september 2008. Sú fjárhæð samsvaraði á þeim tíma um 17% af eiginfjárgrunni bankans. Hér er litið til eignarhluta starfsmanna í félögum og tilsvarandi hlutdeildar þeirra í skuldum félaga. Miðað var við þau félög sem starfsmaður átti ráðandi hlut í, þ.e. um 20% eignarhlut eða stærri. Samkvæmt því viðmiði nam heildarlánafyrirgreiðsla Glitnis til starfsmanna og eignarhaldsfélaga þeirra alls um 35 milljörðum króna við fall bankans.Til trygginga fyrir a.m.k. þriðjungi þeirra lána stóðu hlutabréf í bankanum sjálfum.

10.3.8 Ályktanir rannsóknarnefndar Alþingis

Uppbygging EVA-kerfisins var að mörgu leyti skynsamlegri til þess að samhæfa markmið eigenda og stjórnenda en uppbygging annarra hvatakerfa. Í fyrsta lagi gerði EVA-kerfið ráð fyrir þaki á bónusútgreiðslur. Í öðru lagi var umbunað fyrir að halda óbreyttum rekstri en ekki aðeins fyrir bættan árangur eins og síðar varð og einkenndi hvatakerfi hinna bankanna. Þá var kerfið þannig uppbyggt að refsað var fyrir slælegan árangur þar sem bankinn átti þá endurkröfu á svokallaðan bónusbanka. Inneign í bónusbankanum gat orðið neikvæð (e. clawback clauses), sem hvatti til þess að gætt væri að hagsmunum hluthafa til langs tíma. Þó að kerfið hafi ýtt undir áhættusækni stuðlaði það ekki að óhóflegri áhættutöku til skamms tíma andstætt hagsmunum innstæðueigenda í bankanum og minnihlutaeigenda hans. Þó að EVA-kerfið hafi byggt á ávöxtunarkröfu um arðsemi eigin fjár, var hún hlutfallsleg frá fyrstu krónu, þ.e. bónus var greiddur fyrir hverja krónu sem félagið skilaði í hagnað. Markmiðsbónus var greiddur að fullu ef afkoma hélst óbreytt frá fyrra ári þótt hagsauki fyrirtækisins stæði í stað. Að mati rannsóknarnefndar Alþingis var það óheillavænlegt skref, a.m.k. fyrir minnihlutaeigendur bankans og innstæðueigendur, þegar bónusgreiðslum var breytt úr EVA-kerfinu yfir í svokallað ROE-kerfi, þar sem lögð er meiri áhersla á skammtímahagnað en á arðsemi félagsins til lengri tíma.

Í lok árs 2003 tók að fjara undan EVA-kerfinu. Í lok desember ákvað bankaráð Glitnis að greiða Bjarna Ármannssyni ein mánaðarlaun í bónus, óháð kerfinu, vegna rekstrarárangurs ársins 2003. Snemma árs 2004 veiktist kerfið frekar í sessi. Forstjórinn gerði þá samning um 10 milljóna króna eingreiðslu í lífeyrissjóð vegna ársins 2003. Jafnframt féllst bankaráðið á að greiða forstjóranum 10 milljónir króna í frekari bónus vegna ársins 2003. Hvort tveggja kom til greiðslu í mars 2004. Ráðningarsamningi við forstjórann var breytt á þann veg að bónus samkvæmt EVA-kerfinu var hækkaður að krónutölu. Jafnframt var lagt af það fyrirkomulag kerfisins að fresta útgreiðslum bónusa umfram ákveðið þak. Í staðinn skyldu slíkar greiðslur renna í lífeyrissjóð forstjórans. Þar með breyttist kerfið í grundvallaratriðum gagnvart þeim sem mest áríðandi var að veita aðhald, þ.e. forstjóranum. Hagsmunagæsla til langs tíma var fyrir borð borin einungis þremur árum eftir að henni var komið á fót.

Með nýjum kjölfestufjárfestum árið 2006 leið EVA-kerfið undir lok sem meginhvatarammi en ROE-kerfið tók við. Samkvæmt því gátu stjórnendur einungis átt von á fullum bónusgreiðslum (þ.e. fullum árslaunum) ef bankinn í heild sinni skilaði meiri hagnaði en sem nam 30% arðsemi eigin fjár en hlutfalli af árslaunum ef arðsemi yrði meiri en 15%. Breytingin á hvatakerfi bankans ber áhættusækni kjölfestufjárfestanna glöggt vitni. Þensla í útlánum bankans var ein afleiðing þessa, sbr. umfjöllun rannsóknarnefndar um útlán Glitnis m.a. til starfsmanna og kjölfestufjárfesta. Sú staðreynd að forstjórinn gat gert sérstaka samninga um aukagreiðslur ofan á umsamin laun og þær greiðslur sem hvatakerfið átti að færa honum að uppfylltum skilyrðum sýna svigrúm forstjórans til að bæta afkomu sína án tillits til samningsbundinna árangursmarkmiða.

Árið 2007 tók nýr forstjóri við.Valdabreyting varð með nýjum eigendum að bankanum. Þar á meðal var FL Group í stóru hlutverki. Á þessum tíma mælti ROE-kerfið fyrir um að fullar bónusgreiðslur yrðu greiddar ef arðsemi eigin fjár yrði 25%. Enginn bónus var greiddur út úr kerfinu ef arðsemin var undir 12,5%.Almennt er gengið út frá því í viðskipta- og hagfræði að einungis fá fyrirtæki á markaði, og þá einkum stór og þroskuð, geti skilað árlega með stöðugum hætti 25 krónum í hagnað fyrir hverjar 100 krónur sem lagðar eru fram í eigið fé og haldið velli til langs tíma, hvað þá 30 krónum.Arðsemiskröfur af þessu tagi verða því að teljast óraunhæfar. Sé þeim haldið til streitu eru þær til þess fallnar að ýta undir þá neikvæðu þætti sem búast má við að fylgi hvatalaunum, þ.e. að stjórnendur taki of mikla áhættu í rekstri. Í tilfelli fjármálastofnana myndi það fyrst og fremst birtast sem aukning útlánaáhættu sem veldur m.a. auknum sveiflum í rekstrarafkomu þeirra. Það samræmist hvorki markmiðum innstæðueigenda, lánardrottna né minni hluthafa, sem horfa fyrst og fremst til ávinnings fjárfestingar sinnar til langs tíma. Hætta getur jafnvel orðið á því að stjórnendur hagræði rekstrarniðurstöðum til að mæta óraunhæfum markmiðum sem liggja til grundvallar bónusgreiðslunum. Um leið eru innstæðueigendur, hluthafar, aðrir fjárfestar og opinberir eftirlitsaðilar blekktir. Það leiðir til þess að hætta getur steðjað að efnahagskerfinu öllu þegar um kerfislega mikilvægan banka er að ræða.

Rannsóknarnefnd Alþingis dregur þá ályktun að með láni til Lárusar Welding,sem veitt var til að fresta 300 milljóna kr.eingreiðslu hans samkvæmt samningi, hafi stjórn bankans haft bein áhrif á uppgjör hans á fyrsta ársfjórðungi 2008. Þar var gjaldaliði sem var alls um 5,1% af hagnaði bankans á fyrsta ársfjórðungi, frestað til eins árs, með tilheyrandi ofmati á hagnaði og þar með eigin fé. Alls 550 milljóna króna gjöld og framtíðarskuldbindingar, sem félagið tók á sig með ráðningarsamningi við Lárus og fallið höfðu til í rekstri þess, voru ekki tilkynnt í uppgjöri bankans, hvorki ársreikningi félagsins 2007 né í árshlutareikningi fyrsta ársfjórðungs 2008. Í ársreikningi 2007 er einungis tilkynnt um 300 milljóna króna eingreiðslu sem greidd var við undirritun samnings við Lárus. Í staðinn fyrir frestun á eingreiðslu þeirri sem ráðningarsamningur hans kvað á um fékk Lárus lán til eins árs. Lánið hljóðaði upp á rúmlega 177 milljónir króna og fól í sér hlunnindi honum til handa þar sem lánskjörin miðuðust við skuldaálag fjármálastofnana en ekki einstaklinga. Auk þess gekkst félagið undir að greiða alla vexti af láninu. Kjörin voru í reynd afar hagstæð, þ.e. 0% vextir.

Það vekur athygli nefndarinnar að hvorki er getið í ársskýrslu Glitnis árið 2007 um hluta skuldbindinga sem félagið tókst á hendur með ráðningarsamningi við Lárus, alls 550 milljónir kr., né skuldbindingar félagsins vegna bónusgreiðslna til Bjarna Ármannssonar, alls 270 milljónir kr. Einungis er getið þeirrar 300 milljóna króna eingreiðslu sem Lárus fékk við undirritun ráðningarsamningsins og þeirrar 100 milljóna króna greiðslu sem innt var af hendi til Bjarna Ármannssonar.

Framangreind frestun gjaldfærslu er ekki eina merkið um svigrúm sem lykilstarfsmenn Glitnis virðast hafa veitt sér til að hafa áhrif á rekstrarniðurstöður. Í skjali sem dreift var til þeirra starfsmanna sem nutu bónusgreiðslna sem tengdar voru arðsemi eigin fjár segir orðrétt:

"Leiðréttingar á rekstrarreikningi og efnahag

Almennt er reglan að ekki eru gerðar leiðréttingar á rekstrarhagnaði og efnahag bankans við útreikninga afkomutengds launakerfis. Við sérstakar aðstæður samkvæmt ákvörðun framkvæmdarstjórnar bankans má þó framkvæma leiðréttingar á efnahag og rekstrarreikningi, til hækkunar eða lækkunar. Þegar slíkt á við eru leiðréttingarnar framkvæmdar að teknu tilliti til áhrifa af tengdum þáttum svo sem skattskyldu."

Frá árinu 2003 til 2008 lánaði Glitnir starfsmönnum alls um 15 milljarða króna vegna hlutafjárkaupa í bankanum í því augnamiði að halda lykilstarfsmönnum bankans.Til að byrja með lánaði bankinn starfsmönnum umtalsverðar fjárhæðir í þeirra eigin nafni. Um leið veitti bankinn sumum starfsmönnum sölurétt á bréfunum sem láninu var ráðstafað til kaupa á. Síðar veitti bankinn frekari lán í sama tilgangi til eignarhaldsfélaga í 100% eigu starfsmanna. Lánin voru í mörgum tilvikum veitt á mjög hagstæðum kjörum, þ.e. án skuldaraálags ofan á millibankavexti eða jafnvel á vöxtum sem voru lægri en millibankavextir. Slík lánskjör tíðkast að jafnaði ekki í lánastarfsemi banka, nema þá e.t.v. til ríkja. Stjórnendur Glitnis samþykktu sjálfir lán til starfsbræðra og -systra án þess að kjör þeirra virðist hafa verið kynnt fyrir stjórn bankans eða öðrum hluthöfum með formlegum hætti. Bankinn tók hlutabréf í sjálfum sér að veði fyrir greiðslu lánanna. Slík veð eru eðlilega haldlítil þegar syrtir í álinn. Bankinn gengur trauðla að eigin bréfum við þær aðstæður þegar kalla þarf inn veð, þ.e. þegar bankinn sjálfur er undir ágjöf vegna lækkunar hlutabréfaverðs á markaði eða hann er að komast í þrot.

Af framangreindum 15 milljörðum króna, sem Glitnir veitti sem lán til hlutafjárkaupa í því skyni að hvetja lykilstarfsmenn til að starfa áfram hjá bankanum, lánaði bankinn fjórtán framkvæmdastjórum og lykilstarfsmönnum bankans alls um 8,1 milljarð í maí 2008.Vakin er athygli á því að á aðalfundi Glitnis 20. febrúar 2008 lét Þorsteinn Már Baldvinsson, nýkjörinn stjórnarformaður, þau orð falla að kaupréttarsamningar yrðu ekki gerðir við starfsfólk Glitnis eins og staðan væri.

Rannsóknarnefnd Alþingis vekur einnig athygli á lánum sem bankinn veitti stjórnarmanni og framkvæmdastjóra í gegnum eignarhaldsfélög þeirra, KÞG Holding og HG Holding, m.a. til útgreiðslu arðs hjá félögum sem voru í taprekstri. Lánin voru veitt gegn veðum í bréfum í Glitni og virði tryggingaþekju lánsins var um 85% í tilfelli KÞG Holding, en hins vegar einungis 68% í tilfelli HG Holding.

Það vekur athygli rannsóknarnefndar að ítrekað var endursamið um kjör stjórnenda og starfsmanna og þá ávallt þeim til hagsbóta. Frestun á innlausn kaupréttarsamninga og framlenging lána til starfsmanna vegna hlutafjárkaupa eru dæmi um þetta. Hér má einnig nefna innlausn Bjarna Ármannssonar á kauprétti 26. febrúar 2007 en miðað við skrifleg samningsákvæði um þann kauprétt hafði hann runnið út 31. maí 2006.

Ráðning Lárusar Welding og samþykki á ráðningarkjörum hans fór fram á 35 mínútna löngum stjórnarfundi.Vekur þetta spurningar um vandaða stjórnarhætti. Ekki verður séð af fundargerð að stjórnarmenn hafi þar fengið sérstakt ráðrúm til þess að gera athugasemdir við samninginn, eða til að kynna sér efni hans, en samningurinn var þess eðlis að krefjast mátti sérstakrar aðgæslu af þeirra hálfu fyrir hönd eigenda bankans.

Afgerandi breyting varð á uppbyggingu launa hjá æðstu stjórnendum Glitnis sem og hvatakerfi félagsins á tímabilinu 2004–2008. Umbreytingin var til þess fallin að auka verulega áhættusækni stjórnenda. Samanlögð lán til starfsmanna bankans voru orðin alls um 17% eiginfjárgrunns bankans í árslok 2007. Stór hluti þeirra átti rót sína að rekja til hvata- og umbunarkerfis bankans og voru þau lán veitt með veði í hlutabréfum í bankanum sjálfum eingöngu. Ætla má að sú háa og í raun óraunsæja ávöxtunarkrafa sem var grundvöllur hvatakerfis bankans hafi stuðlað að hinni áhættusömu útlánastarfsemi bankans, þar sem lán til stærstu eigenda bankans og tengdra aðila voru fyrirferðarmikil. Æðstu stjórnendur bankans voru hvattir til að uppfylla ávöxtunarkröfuna og umbunað samkvæmt því.

10.4 Hvatakerfi Landsbanka Íslands hf.

10.4.1 Launadreifing Landsbankans

Launabil á milli þeirra starfsmanna Landsbankans sem fengu hæst og lægst laun var mikið árið 2004, en jókst síðan hröðum skrefum á rannsóknartímabilinu. Árið 2004 runnu þannig um 30% af heildarlaunagreiðslum Landsbankans til 10% starfsmanna sem hæst laun höfðu en 55% af heildarlaunagreiðslum bankans komu í hlut sama hóps árið 2007, sjá mynd 25. Árið 2004 voru þeir hæst launuðu í félaginu (efsta prósentið í launastiganum) með milli fjögur- og fimmföld laun þeirra starfsmanna sem voru á miðri launadreifingunni í félaginu, en átjánföld meðallaun þegar hæst var árið 2007.

Samsetning launa breyttist lítið hjá 90% starfsmanna. Hlutur grunnlauna hélst nokkuð stöðugur yfir tímabilið hjá þeim.Yfir 75% starfsmanna Landsbankans fengu bónusgreiðslur í einhverju formi samkvæmt launabókhaldi bankans. Samkvæmt starfsmannastefnunni nutu allir fastir og starfandi starfsmenn bónusgreiðslna sem bankaráð ákvað að fenginni tillögu bankastjórnar. Heildarmánaðarlaun að meðaltali hjá þeim 10% af heildarfjölda starfsmanna Landsbankans sem lægst laun höfðu hækkuðu lítið sem ekkert að raungildi frá 2004 til 2008. Miðgildi heildarmánaðarlauna í bankanum fór þó úr 349 þúsund krónum árið 2004 í 448 þúsund (að meðaltali á mánuði) árið 2007. Meðaltal heildarmánaðarlauna jókst úr 470 þúsund krónum árið 2004 í 961 þúsund árið 2007. Heildarmánaðarlaun þeirra 5% starfsmanna sem höfðu hæst laun hækkuðu að meðaltali um tæpar 900 þúsund kr. frá 2004 til 2007 (1.145 þúsund í 2.021 þúsund krónur), sjá mynd 24. Heildarmánaðarlaun eins prósents starfsmanna sem hæst laun höfðu hækkuðu hins vegar úr 3,2 milljónum að meðaltali á mánuði árið 2004 í 27,5 milljónir kr. árið 2007, sjá mynd 27.

Hlutur bónusgreiðslna og ávinnings vegna innlausnar kauprétta í heildarlaunum jókst umtalsvert á því tímabili sem hér um ræðir hjá þeim hópi starfsmanna sem fengu næsthæst laun (sá hópur sem taldist til 95.–99. hundraðsmarka launadreifingarinnar). Bónusgreiðslur og innlausn kauprétta voru um 13% af heildarlaunum þeirra árið 2005, en voru tæp 40% af heildarlaunum árið 2007, sjá mynd 30. Launasamsetning hjá þeim sem allra hæstu launin fengu (fjórtán til átján starfsmenn) tók miklum breytingum á tímabilinu 2004–2007. Grunnlaun þeirra voru að meðaltali 40% af heildarlaunum árið 2004 en að meðaltali um einn tíundi af heildarlaunum árið 2007, sjá mynd 29.Til samanburðar má nefna að grunnlaun forstjóra í Bandaríkjunum voru um 20% heildarlauna að meðaltali á árunum 1992–2002, bónusar um 20% en allt að helmingur heildarlauna var í formi kauprétta. Rétt er þó að geta þess að þar eru kaupréttir sem hlutfall af heildarlaunum mældir á svokölluðu vilnunarvirði við útgáfu kaupréttanna og því ekki fyllilega sambærilegir þeim tölum sem hér eru settar fram fyrir íslensku bankana.

10.4.2 Hvatakerfi starfsmanna tekjusviða Landsbankans

10.4.2.1 Inngangur

Við ákvörðun á árangurstengdum greiðslum hafði starfsmannasvið Landsbankans til hliðsjónar svokölluð "Meginsjónarmið með árangurstengdu launakerfi Landsbankans" sem liggja fyrir á sérstöku ódagsettu skjali meðal gagna rannsóknarnefndar. Starfsmannasvið hóf að styðjast við þessi sjónarmið við útreikning slíkra greiðslna í maí 2006. Samkvæmt þeim var markmiðið að hlutfall kauprétta í heildarlaunum lykilstarfsmanna yrði hlutfallslega hærra en hlutfall bónusa. Gert var ráð fyrir að bónusgreiðslur yrðu almennt tengdar afkomu bankans í heild sinni en einnig tekið tillit til árangurs sviðs og starfseiningar og mats á árangri starfsmanns og samvinnu við aðrar einingar innan bankans. Bankastjóri og framkvæmdastjóri starfsmannasviðs skyldu sjá um mat á þessum þáttum og ákveða bónusa til þessara starfsmanna. Árangurstengd laun útibússtjóra skyldu ákvörðuð út frá arðsemi þess eigin fjár sem hverju útibúi var úthlutað. Þá yrði sérstaklega horft til bata á arðsemi yfir tíma en um þetta segir í skjalinu: "[...] óeðlilegt getur verið að greiða bónus fyrir að ná sífellt sama góða árangri. Jafnframt þarf bónusinn á einhvern hátt að taka tillit til stærðar og aukningar á umfangi útibúa milli tímabila." Útibússtjórar gátu hæst fengið þreföld mánaðarlaun sín í bónus.

Lykilstarfsmenn og stjórnendur á sviðum sem ekki voru skilgreindar hagnaðareiningar gátu fengið þreföld til tólfföld mánaðarlaun í bónus eftir ábyrgð, umfangi starfs og mati bankastjóra og starfsmannastjóra á frammistöðu þeirra.

Rannsóknarnefnd Alþingis kannaði kjör starfsmanna á tveimur tekjusviðum innan bankans og einni stoðdeild til samanburðar. Þau svið sem valin voru til nánari skoðunar voru fyrirtækjaráðgjöf, verðbréfamiðlun og greiningardeild. Þessar einingar bankans eru samanburðarhæfar hvað varðar menntunarstig og eftirspurnaráhrif.

Lykilstarfsmenn og stjórnendur í einingum sem töldust til tekjusviða s.s. verðbréfamiðlunar, gjaldeyris- og afleiðumiðlunar og fyrirtækjaráðgjafar fengu samkvæmt stefnu starfsmannasviðs beina hlutdeild í þeim hagnaði sem varð af starfsemi viðkomandi sviða. Myndaður var sameiginlegur bónuspottur sem í voru lögð 10–15% af heildartekjum deildarinnar að frádregnum kostnaði. Forstöðumaður deildarinnar úthlutaði síðan starfsmönnum úr þeim potti í samráði við framkvæmdastjóra starfsmannasviðs, framkvæmdastjóra verðbréfasviðs og bankastjóra. Kaupaukinn skyldi nema um 50% til 200% af árslaunum (þar eru talin mánaðarlaun, föst upphæð og föst hlunnindi svo sem bifreiðastyrkur) í tilfelli sérfræðinga en 350% í tilfelli yfirmanna samkvæmt fyrirfram ákveðnum samningi við hvern og einn starfsmann.

Verðbréfamiðlarar fengu bónusa greidda mánaðarlega, með mánaðartöf. Aðrir fengu bónusa greidda tvisvar á ári. Athygli vekur að reglan um verðbréfamiðlara gilti ekki um gjaldeyrismiðlara og fengu þeir greiddan út bónus tvisvar á ári líkt og önnur tekjusvið.

Um bónusgreiðslur fjárstýringar og eigin fjárfestingar bankans segir í skjalinu um meginsjónarmið með árangurstengdu launakerfi Landsbankans:

"Báðar þessar deildir nota mikið eigið fé og því getur hagnaður deildanna ýmist orðið mjög mikill eða mjög neikvæður allt eftir þróun verðbréfamarkaða. Jafnframt þarf að hafa í huga að ef bónus í þessum deildum væri miðaður við hagnað umfram eðlilega arðsemi eiginfjár kynni að myndast hvati til að vilja vera með mjög stórar stöður í markaðsbréfum. Hér er því varhugavert að nota kerfi sem byggir á hlutfalli arðsemi umfram viðmið. Réttara er að leggja mat á árangur með samanburði við þróun markaða almennt svo og sett markmið bankans um þróun á heildarstöðu bankans. [...] Sama gildir einnig hér og annarsstaðar að horft er til afkomu bankans í heild sinni, afkomu sviðs og starfseiningar starfsmanns ásamt mati á árangri starfsmanns og samvinnu við aðrar einingar innan bankans."

Kaupauki þessara starfsmanna gat numið allt að 50%–125% fjárhæð ofan á árslaun, m.ö.o. gat bónusgreiðsla numið frá fjórðungi upp í þrjá fjórðu hluta af heildarlaunum starfsmanns.

Sjóðstjórar eignastýringar bankans nutu allt að 75% álags ofan á árslaun sín í bónusgreiðslur á ári ef árangur þeirra og aðstoðarmanna þeirra var umfram sett viðmið og árangur sambærilegra sjóða á markaði. Í sérstökum tilfellum gat álagið orðið 100% ofan á árslaun. Þá var einnig horft til aukningar í sjóðum sem voru í stýringu hjá bankanum.

Svipað fyrirkomulag var á bónusgreiðslum til starfsmanna einkabankaþjónustu að því undanskildu að það 75% álag sem starfsmenn gátu vænst (í sértilfellum 100%) tengdist umsvifum sviðsins, svokallaðir veltubónusar. Sem fyrr var ákvörðun um bónusa tekin af framkvæmdastjóra starfsmannasviðs, framkvæmdastjóra eignastýringar eða einkabankaþjónustu og bankastjóra eftir sameiginlega yfirferð á árangursmati með hliðsjón af ofangreindu. Í töflu 6 eru laun 10 launahæstu starfsmanna Landsbankans á árunum 2004 til 2008 birt á raunvirði miðað við árið 2008.

Samkvæmt skjalinu með meginsjónarmiðum um árangurstengingu launa starfsmanna Landsbankans, sem að sögn Atla Atlasonar, starfsmannastjóra, var fyrst lagt fram í maí 2006, var fyrst og fremst horft til heildarárangurs bankans, þ.e. arðsemi hans, þegar bónusgreiðslur til framkvæmdastjóra voru ákvarðaðar, auk mats á árangri viðkomandi sviðs og frammistöðu viðkomandi framkvæmdastjóra. Næði bankinn settum markmiðum um rekstrarárangur gátu bónusgreiðslur framkvæmdastjóra numið 9–15 mánaðarlaunum þeirra. Bankastjóri tók ákvarðanir um bónusgreiðslur til framkvæmdastjóra.

Bónusgreiðslur til verðbréfasviðs og lögfræðisviðs (auk Halldórs Jóns Kristjánssonar, bankastjóra) voru ákvarðaðar sérstaklega miðað við afkomu Landsbankans í heild. Ef arðsemi bankans fór 5 prósentustig umfram markmið (meðalvextir fjögurra ára ríkisbréfa hverju sinni auk 9 prósentustiga arðsemi eigin fjár fyrir skatta) skyldu framkvæmdastjórar og Halldór Jón Kristjánsson fá greiddan bónus sem næmi fernum mánaðarlaunum og síðan hlutfall þar af allt eftir því hvernig gekk, þ.e. 10 prósentustig í arðsemi umfram viðmið skilaði átta mánaðarlaunum o.s.frv. Engin arðsemi umfram viðmið skilaði engum viðbótarlaunum.

Um Sigurjón Þ. Árnason, bankastjóra, og Elínu Sigfúsdóttur, framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs, gilti sú regla að árlegar bónusgreiðslur skyldu ákvarðast af afkomu Landsbankans í heild. Færi arðsemi bankans 3 prósentustig umfram viðmiðunarmarkmið (meðalvextir fjögurra ára ríkisbréfa hverju sinni (12 prósentustig í maí 2006) auk 6 prósentustiga arðsemi eigin fjár fyrir skatta) skyldu þau fá greiddan kaupauka sem næmi einum árslaunum og síðan hlutfall þar af allt eftir því hvernig gengi, þ.e. 6 prósentustig umfram viðmið myndi skila tvennum árslaunum o.s.frv. Færi arðsemi ekki umfram viðmið yrði ekki um bónusgreiðslur að ræða. Bónusgreiðslur gátu að hámarki orðið þrenn árslaun.

10.4.2.2 Árangurstenging launa í Landsbankanum

Hér að framan var lýst markmiðum bankastjórnar og starfsmannasviðs Landsbankans samkvæmt áðurnefndum skjalfestum meginsjónarmiðum um árangurstengt launakerfi Landsbankans. Fyrir liggja hjá rannsóknarnefnd annars vegar gögn um þær bónusgreiðslur sem í reynd voru greiddar og hins vegar gögn um þjónustutekjur og arðsemi sem varð af starfsemi sviðanna.Af athugun á bónusgreiðslum á þeim sviðum Landsbankans sem nefndin gerði úttekt á (verðbréfamiðlun, fyrirtækjaráðgjöf og greiningardeild) verður ekki séð að þær hafi verið í samræmi við þau meginsjónarmið sem áður var lýst að laun starfsmanna skyldu vera tengd árangri. Engin tengsl fundust með tölfræðilega marktækum hætti milli tekna og bónusgreiðslna, m.ö.o. var ekki að sjá að launin væru árangurstengd í þeim skilningi að auknar tekjur leiddu til hærri bónusgreiðslna með kerfisbundnum hætti. Einnig voru hagræn áhrif lítil, þ.e. þó að tölfræðilega marktækni skorti var ekki mælanleg næmni bónusgreiðslna við tekjurnar, sjá töflu 2 í fylgiskjali 2 með þessum kafla. Í tilfelli verðbréfamiðlunar kom þó í ljós sú tenging að bónusgreiðslur sviðsins hækkuðu með árunum en ekki þannig að hægt væri að skýra það með hækkandi þjónustutekjum.

Rannsóknarnefnd Alþingis gerði sér einnig far um að kanna möguleg áhrif annarra þátta en þjónustutekna á bónusgreiðslur, svo sem áhrif kyns, starfsaldurs og lífaldurs.Vegna mælingarvanda var þó ekki hægt að segja með nægilegri vissu til um hvort og þá hvaða áhrif þessir þættir höfðu á bónusgreiðslur. Fyrir liggur hversu háar bónusgreiðslur voru greiddar starfsmönnum tekjusviðanna en ekki liggja fyrir upplýsingar um hversu mikilla tekna einstakir starfsmenn öfluðu sjálfir, aðeins sviðið í heild.

Þegar stikaprófum sleppir og gögnin eru skoðuð með lýsandi tölfræði má sjá að mikill munur er á því hversu stór hluti af þóknanatekjum er greiddur út í bónus til starfsmanna og deilda. Í fyrirtækjaráðgjöf var gert ráð fyrir að bónus væri greiddur út tvisvar á ári og tæki mið af þóknanatekjum sviðsins síðustu 6 mánuði.Verðbréfamiðlun greiddi á meðan út bónus í hverjum mánuði sem tók mið af þóknanatekjum sviðsins frá þarsíðasta mánuði. Athygli vekur að á árunum 2004 og 2005 voru upphæðir bónusa sem greiddar voru út til sviðsins nánast þær sömu og jafnvel var greidd út sama upphæð í bónus mánuð eftir mánuð þó að tekjur sviðsins væru breytilegar á þeim tíma. Eins má finna tilvik þar sem tap er á rekstri sviðsins og þóknanatekjur eru neikvæðar um 350 milljónir króna í nóvember 2007. Samt sem áður voru greiddar 25 milljónir króna í bónus til starfsmanna sviðsins mánuðinn þar á eftir (sama upphæð og greidd var út í september það ár). Þegar þóknanatekjur sviðsins voru neikvæðar um 350 milljónir króna var hins vegar greidd út um 91 milljón króna í bónus þann mánuðinn. Í október sama ár var einnig greidd út um 91 milljón króna í bónus til starfsmanna sviðsins. Á þessum þremur mánuðum frá september til nóvember 2007 voru tekjur sviðsins ríflega 178 milljónir kr. Bónusgreiðslur námu 194 milljónum kr. fyrir sama tímabil. Um fimmtungur þessara bónusgreiðslna kom í hlut forstöðumanns verðbréfamiðlunarsviðs, Steinþórs Gunnarssonar, samtals 45,1 milljón kr. (47,5 á verðlagi 2008). Samtals voru Steinþóri greiddar um 213 milljónir kr. í bónusgreiðslur árið 2007 en verðbréfamiðlun hafði samtals um 2,5 milljarða kr. í tekjur á sama ári. Heildarlaunakostnaður sviðsins var um 1,1 milljarður króna árið 2007 á verðlagi þess árs. Þar af voru 129 milljónir kr. til innlausna kauprétta en alls voru greiddar ríflega 585 milljónir í bónusa til starfsmanna sviðsins. Miðlarar sviðsins voru alls tólf til þrettán.Til samanburðar voru tekjur sviðsins um 2,4 milljarðar árið á undan en sviðið greiddi á því ári um 196 milljónir í bónusa.

Starfsmaður Landsbankans lýsti því við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis að ekki hefði verið kveðið á um bónusgreiðslur í launasamningi hans, né hefði þar verið að finna ákvæði um kaupréttarsamninga. Hann hefði engu að síður fengið tvö símtöl á ári frá yfirmanni sínum þar sem honum var tilkynnt hvað hann fengi í bónus í hvert skipti. Starfsmaðurinn var aldrei upplýstur um hvaða árangur lægi að baki bónusgreiðslu, né var honum gert ljóst hvaða framlag þyrfti að koma frá honum til að fá kaupaukann.

Þetta skýrir líka hvers vegna tölfræðileg marktækni sést ekki við könnun á tengslum þjónustu-/þóknanatekna og bónusgreiðslna á umræddum sviðum.

Við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis lýsti Atli Atlason, framkvæmdastjóri starfsmannasviðs, því að bónusgreiðslurnar hefðu verið launaákvörðun í eðli sínu. Ákveðnir mikilvægir starfsmenn hefðu verið í stöðu til að fara fram á sérstakar greiðslur sér til handa og hefðu sumir sótt slíkt fast. Þannig hefði bónus t.d. verið greiddur til starfsmanna innan verðbréfamiðlunar þrátt fyrir rekstrarlegt tap sviðsins. Sagðist hann þó telja að slíkar greiðslur hefðu verið leiðrétting á greiðslum sem fóru fram fyrr á árinu.

10.4.3 Starfskjör bankastjóra Landsbankans

10.4.3.1 Samningar Halldórs J. Kristjánssonar

Halldór J. Kristjánsson kom til starfa sem bankastjóri Landsbankans snemma árs 1998. Árið 2003 var Sigurjón Þ. Árnason ráðinn við hlið hans sem bankastjóri. Halldór og Sigurjón stýrðu báðir bankanum allt til falls hans.

Fyrsti samningur bankans við Halldór var gerður við ráðningu hans árið 1998. Í þeim samningi var ekki gert ráð fyrir annarri umbun bankastjórans en grunnlaunum, fastri þóknun fyrir nefndarsetu og viðbótarframlagi í lífeyrissjóð hans umfram það sem þekktist á almennum vinnumarkaði. Skyldu þóknanir sem bankastjórinn fékk fyrir störf á öðrum vettvangi renna til bankans sjálfs. Auk lögboðins 6% mótframlags af heildarlaunum í lífeyrissjóð skyldi Landsbankinn greiða 12% af heildarlaunum til viðbótar í tryggingarvernd og viðbótarlífeyrissparnað sem yrði í umsýslu Íslenska lífeyrissjóðsins. Gert var ráð fyrir 12 mánaða uppsagnarfresti. Auk launa á uppsagnarfresti var gert ráð fyrir starfslokagreiðslu sem rynni í lífeyrissjóð og næmi tveggja ára heildarlaunum, kæmi til uppsagnar á samningnum af hálfu bankans á árinu 1999 án þess að bankastjóri hefði gerst brotlegur í starfi. Sú upphæð skyldi lækka um fjárhæð sem næmi þrennum heildarmánaðarlaunum á ári ef til uppsagnar kæmi eftir 1999. Ákvæði samningsins um starfslokagreiðslur (e. severance pay) var því fallið úr gildi árið 2007.

Hinn 21. september 2000 var gerður nýr samningur við bankastjórann sem var tengdur árangri fyrirtækisins bæði rekstrarlegum árangri sem og breytingum á verði hlutabréfa fyrirtækisins á markaði. Samningurinn gerði ráð fyrir fyrirfram ákveðnum (e. non-discretionary) launum í formi kaupréttarsamninga.Annars vegar var um að ræða árlega kauprétti á hlutabréfum í Landsbankanum sem námu 1,5 milljónum kr. að nafnvirði á ári frá 2001 til 2005 en hins vegar kaupréttarsamninga fyrir sama tímabil. Nafnvirði samningsins skyldi ákvarðast af rekstrarárangri sem reiknaður væri út frá "arðsemi fyrir skatta". Þó var ekki tilgreint í samningnum hvers kyns arðsemi fyrir skatta væri forsenda útgáfu kaupréttarsamninganna, né tilgreint hvenær kaupréttarsamningarnir skyldu innleystir. Árangurstengdur kaupréttur byggðist á arðsemi fyrir skatta en bankastjóranum var heimilt að kaupa meira af hlutabréfum í félaginu á fyrirfram ákveðnu gengi (e. strike price) eftir því sem bankinn skilaði meiri ávöxtun eigin fjár samkvæmt ákveðinni áætlun, sjá mynd 36.

Á haustdögum 2002 var gert nýtt samkomulag við Halldór af hálfu formanns og varaformanns bankaráðs þar sem grunnlaun hans voru hækkuð miðað við verðlagsþróun en kaupréttur sá er hann ávann sér á árunum 2001 til 2003 yrði yfirfæranlegur og mætti nýta hvenær sem væri að ósk bankastjórans. Við þetta jókst virði kaupréttarsamningsins því kaupréttarsamningur sem ekki hefur neinn fyrirframskilgreindan innlausnardag er í reynd hlutabréfin sjálf. Halldór var þó ekki einn um þessa fyrirgreiðslu hjá bankanum þar sem í minnisblaði til hans frá Kristínu Rafnar, framkvæmdastjóra starfsmannasviðs, (ódagsettu) kemur fram undir lið 2: "Þar sem gengi bréfa var mjög lágt þann 1. desember 2001 (3,05) þá ákvað bankaráð að heimila starfsmönnum að flytja áunninn kauprétt sinn milli ára. Þannig er starfsmönnum heimilt að safna saman kauprétti um nokkurra ára skeið og innleysa kaupréttinn í einu lagi." Um uppgjör kaupréttarsamninga og varnir Landsbankans gegn þeim má lesa nánar hér á eftir.

Í byrjun árs 2004, eftir að nýir hluthafar komu að rekstri bankans, var gerður ítarlegur kaupréttarsamningur við Halldór og fyrri samningar gerðir upp. Samningurinn, sem var dagsettur 11. febrúar 2004, kvað á um innlausnardag. Kaupréttarhafinn gat svo innleyst kaupréttinn á markaði í 90 daga eftir innlausnardag. Ákvæði 3. mgr. 1 gr. samningsins kvað á um að engin réttindi sem samningurinn veitti yrðu nýtt eftir að innlausnartímabili lyki. Athygli vekur að kauprétturinn var innleysanlegur þá og því aðeins að starfsmaður væri í starfi þegar að innlausn kæmi. Segði starfsmaður upp starfi sínu var honum heimilt að nýta þann rétt sem þegar hafði áunnist. Rétturinn til kaupa á bréfunum var með öllu óframseljanlegur með þeirri undantekningu að ef kaupréttarhafinn félli frá, yrði óvinnufær vegna örorku eða viðamiklar breytingar yrðu á rekstri félagsins, yrði hann gerður upp eða yrði framseljanlegur. Í síðasta tilvikinu kvað samningurinn á um víðtækar heimildir stjórnar til að fullnusta samninginn við kaupréttarhafann og á hvaða degi mismunur á kaupverði og markaðsverði yrði greiddur.

Þriðji kaupréttarsamningurinn sem gerður var af hálfu Landsbankans við Halldór Jón Kristjánsson, bankastjóra, var undirritaður af honum sjálfum og formanni bankaráðs 1. apríl 2005. Þar var Halldóri veittur réttur til kaupa á 25 milljónum hluta í bankanum á genginu 14,25. Þar af voru 10 milljónir hluta áunnir 1. desember sama ár en 5 milljónir hluta áunnir á hverju ári 2005–2008. Samningurinn kvað á um að 60% af áunnum kauprétti 1. desember 2005 væri innleysanlegur þremur árum síðar, 1. desember 2008. Kaupréttarsamningur þessi var að öðru leyti samhljóða samningnum frá 11. febrúar 2004.

Ólíkt hinum bankastjóra Landsbankans, Sigurjóni Þ. Árnasyni, naut Halldór engra sértækra bónusgreiðslna á árinu 2005. Árið 2006 var honum greiddur bónus fyrir rekstrarárangur 2005 líkt og kveðið var á um í samningi við Sigurjón, dags. 23. apríl 2003. Athygli vekur að arðsemin sem liggur til grundvallar bónusgreiðslunni, 64,2 prósentustig, er nokkuð hærri en sú sem fjárfestum var tilkynnt í ársreikningi 2005, 56 prósentustig, skv. útreikningum sem rannsóknarnefnd hefur undir höndum.

Samningur Halldórs um lífeyrisgreiðslur miðaðist framan af við kjör bankamanna um greiðslur í lífeyrissjóð og viðbótarlífeyrissjóð. Árið 2005 námu lífeyrisgreiðslur Halldórs um 5% af heildarlaunum hans enda innleystur kaupréttur stór hluti heildarlauna sem ekki var greitt af í lífeyrissjóð, þar sem hann ákvað að halda þeim hlutabréfum í bankanum sem hann innleysti á þeim tíma. Breyting varð þó á þessu árið 2008 en þá námu greiðslur bankans í lífeyrissjóð vegna Halldórs um 30% heildarlauna hans.

10.4.3.2 Samningar Sigurjóns Þ. Árnasonar

Formaður bankaráðs gerði ráðningarsamning við Sigurjón Þ. Árnason 21. apríl 2003. Samkvæmt samningnum fékk Sigurjón greiddar alls 20 milljónir króna við undirritun samningsins vegna þeirra lífeyris-, orlofs- og kaupréttarhlunninda sem hann var talinn hafa orðið af við að yfirgefa þáverandi stöðu sína sem forstöðumaður hjá Búnaðarbankanum. Samkvæmt samningnum greiddi bankinn um 20% launa hans í lífeyrissjóð á móti þeim 4% sem Sigurjón greiddi sjálfur.

Ráðningarsamningurinn kvað á um að Sigurjón fengi kauprétt á 15 milljónum hluta á innlausnargenginu 4,12 sem áynnust hlutfallslega á fjögurra ára tímabili og yrðu innleysanlegir að 60% hluta eftir þann tíma, og hlutfallslega áfram næstu tvö árin. Hvert prósentustig af nafnverði í arðgreiðslur á kaupréttartímabilinu lækkaði innlausnargengið um 0,01 kr. á hlut.

Bónusgreiðslur samkvæmt ráðningarsamningnum tóku mið af afkomu Landsbankans í heild sinni. Ef arðsemi bankans færi 5 prósentustigum umfram viðmið skyldi Sigurjón fá kaupauka sem næmi fernum mánaðarlaunum en 10 prósentustig í arðsemi bankans umfram viðmið skilaði Sigurjóni áttföldum mánaðarlaunum hans.Yrði engin arðsemi umfram viðmið skyldi enga bónusa greiða. Viðmið sem formaður bankaráðs Landsbankans setti í samningi aðila 21. apríl 2003 voru meðalvextir á fjögurra ára ríkisbréfum (sem þá voru 7,05%) að viðbættum 9 prósentustigum í arðsemi eigin fjár fyrir skatta samtals 16,05 prósentustig. Fyrir árin 2003 og 2004 skyldu bónusgreiðslur vera samkvæmt ákvörðun formanns bankaráðs, Björgólfs Guðmundssonar, með hliðsjón af mati á frammistöðu bankans í ljósi aðstæðna, þ.e. háð eigin ákvörðun og vilja formannsins (e. discretionary). Bónusgreiðslurnar skyldu greiddar 1. apríl ár hvert. Formaður og varaformaður bankaráðs ákváðu bónusgreiðslur Sigurjóns fyrir árin 2003 og 2004 og verður ekki séð að Sigurjón hafi miðað við þær greiðslur fengið greitt samkvæmt þeim viðmiðum sem sett voru um bónusgreiðslur til hans í samningi hans og formanns bankaráðs Landsbankans frá apríl 2003.

Viðmið um lágmarksrekstrarárangur sem skilyrði fyrir greiðslu bónusa til Sigurjóns lækkuðu umtalsvert í viðauka við ráðningarsamning sem undirritaður var í ágúst 2005. Í stað 5 prósentustiga arðsemi eigin fjár umfram viðmið þurfti samkvæmt viðaukanum einungis að ná 3 prósentustigum í arðsemi eigin fjár til þess að Sigurjón ætti rétt á kaupaukagreiðslum.Viðmiðið lækkaði einnig úr 9 prósentustiga álagi ofan á ríkisbréf til fjögurra ára í 6% (7,5% + 6% samtals 13,5%). Einnig varð sú breyting að í stað lotugreiðslna þar sem Sigurjón gat fengið greidd fern mánaðarlaun ef arðsemi eigin fjár yrði 5 prósentustig umfram viðmið og fern í viðbót ef hún yrði 10% eða meira umfram viðmið skyldi Sigurjón nú fá kaupauka sem næmi einum árslaunum ef arðsemin færi umfram viðmiðið 3 prósentustig (að viðbættum vöxtum ríkisbréfa til fjögurra ára og 6 prósentustiga áhættuálagi), sem var lækkun um 2,55 prósentustig, og hlutfallslega (af árslaunum) umfram það eftir því sem arðsemi jókst. Þannig myndi 6 prósentustiga arðsemi eigin fjár umfram viðmið skila tvennum árslaunum, þ.e. 24 mánaðarlaunum. Hámark bónusgreiðslna var ákveðið þrenn árslaun (36 mánaðarlaun). Bónusgreiðslur áttu eftir þetta að koma til greiðslu 1. mars ár hvert og 30% af reiknaðri bónusgreiðslu skyldu greidd í séreignarlífeyrissjóð.

Þannig fimmfaldaðist næmi bónusgreiðslna við eigið fé úr 0,8 í 4 (þ.e. áður fékk Sigurjón 80% af einum mánaðarlaunum fyrir hverja prósentustigaaukningu arðsemi eigin fjár umfram viðmið, sem nú var lægra en áður, en eftir breytingu hlaut hann fern mánaðarlaun í bónusgreiðslur).Til upplýsingar má benda á það sem áður kom fram að bónusgreiðslur Halldórs J. Kristjánssonar voru eftir sem áður samkvæmt samningnum sem Sigurjón gerði árið 2003.Til að Halldór gæti átt tilkall til sambærilegra fjárhæða í bónusa og Sigurjón varð því Landsbankinn að ná mun ríkulegri ávöxtun eigin fjár en nægði til bónusgreiðslna til Sigurjóns fyrir sömu tímabil. Formaður bankaráðs Landsbankans samþykkti þessa breytingu fyrir hönd Landsbankans.

Kaupréttarsamningar sem gerðir voru við Sigurjón og Halldór J. Kristjánsson voru samhljóða, að öðru leyti en um upphæðir, svo sem um framsal og innlausn. Innlausnardagur í samningi Sigurjóns skyldi vera 1. desember 2006 (að 60% hluta áunnins kaupréttar) með 90 daga fresti til innlausnar eftir þann dag eins og áður var lýst í umfjöllun um kaupréttarsamninga Halldórs hér að framan.

Þá urðu þær breytingar í janúar 2005 að mótframlag Landsbankans til lífeyrisgreiðslna í séreignarsjóð Sigurjóns skyldu nema 30% af launum hans á móti 4% framlagi hans sjálfs. Samkvæmt viðauka við ráðningarsamning dags. 10. ágúst 2005 skyldi "framlag Landsbankans á móti iðgjaldi Sigurjóns hækka um 10 prósentustig frá og með 1. ágúst 2005".

10.4.4 Nánar um laun bankastjóra Landsbankans

Heildarmánaðarlaun Sigurjóns Þ. Árnasonar rúmlega nífölduðust frá árinu 2004 til 2008 og voru tæpar 35 milljónir króna að meðaltali á mánuði árið 2008. Heildarmánaðarlaun Halldórs J. Kristjánssonar voru tæpar 3 milljónir að meðaltali á mánuði árið 2004 en fóru í rúmar 25 milljónir króna að meðaltali á mánuði árið 2005. Árin 2006 til 2008 voru launin á bilinu 8,5 til 13 milljónir króna að meðaltali á mánuði, uppreiknað til ársins 2008.

Samtals námu launagreiðslur á árunum 2004 til 2008 til Halldórs J. Kristjánssonar 680 milljónum kr. Launagreiðslur til Sigurjóns Þ. Árnasonar yfir sama tímabil námu 963 milljónum kr. (í báðum tilvikum samtals á verðlagi hvers árs). Heildarlaun bankastjóranna tveggja voru nánast jafnhá árið 2004 eða 4,5 milljónir kr. að meðaltali á mánuði. Þau þróuðust með ólíkum hætti eftir því sem á leið, sjá mynd 37. Grunnlaun þeirra (mánaðarlaun auk fastrar greiðslu, hlunninda og annarra launa sem greidd voru í reiðufé og tengdust ekki árangri) voru hin sömu framan af. Með samningum sem Sigurjón gerði við bankaráðið árið 2005 varð nokkur munur á launum bankastjóranna en ári síðar var munurinn afmáður hvað grunnlaunin áhrærði. Grunnlaun beggja voru ríflega 3 milljónir kr. á mánuði að meðaltali á árunum 2007 og 2008 og lækkuðu lítillega að raungildi á því tímabili. Hlutfall grunnlauna í heildarlaunum lækkaði þó mikið hjá þeim báðum á tímabilinu eða úr því að vera 43% af heildarlaunum Sigurjóns og 60% af heildarlaunum Halldórs árið 2004 í að vera tæplega 10% af heildarlaunum Halldórs árið 2005 (þá innleysti hann áunninn kauprétt) og sama hlutfall árið 2008 hjá Sigurjóni.

Grunnlaun Sigurjóns Þ. Árnasonar náðu hámarki árið 2006 er þau voru rúmar 3,3 milljónir króna að meðaltali á mánuði. Þá höfðu grunnlaun hans tvöfaldast frá árinu 2004. Lítils háttar lækkun varð á grunnlaunum hans árið 2007. Grunnlaun Halldórs J. Kristjánssonar tvöfölduðust milli áranna 2004 og 2008, fóru úr rúmlega 1,5 milljónum króna að meðaltali á mánuði í rúmar 3 milljónir króna.

Bónusgreiðslum til forstjóranna var ólíkt farið eins og fjallað er um hér að ofan. Í tilfelli Sigurjóns námu þær allt að 25 milljónum króna að meðaltali á mánuði árið 2008, einkum vegna 125 milljóna kr. eingreiðslu sem hann fékk í október það ár, en um 10 milljónum kr. á mánuði árin 2006 og 2007. Bónusgreiðslur til Halldórs námu hins vegar um 5 til 7 milljónum kr. að meðaltali á mánuði árin 2006–2008. Halldór fékk engar bónusgreiðslur árið 2005, en árið 2004 fékk hann greiddar um 700 þúsund krónur að meðaltali á mánuði í bónus, sjá mynd 40.

Hlutfall bónusgreiðslna af heildarlaunum Sigurjóns Þ. Árnasonar hækkaði úr 37% árið 2004 í 72% árið 2008. Hlutfall bónusgreiðslna af heildarlaunum Halldórs J. Kristjánssonar var hæst árið 2006 eða 64% en hlutfallið lækkaði síðan aftur, sjá mynd 41.

Lífeyrisgreiðslur voru töluverður hluti af heildarlaunum Sigurjóns. Slíkar greiðslur námu 20–30% af heildarlaunum hans en frá 5% og upp í 35% af heildarlaunum Halldórs. Árið 2005 fékk Halldór stóran hluta launa sinna greiddan út í formi kaupréttar sem hann innleysti. Hann seldi þó ekki hlutabréfin sem hann innleysti til sín og greiddi því ekki í lífeyrissjóð af þeim tekjum. Það skýrir hið lága hlutfall lífeyrisgreiðslna af heildarlaunum hans það ár, sjá nánar á mynd 42.

Halldór J. Kristjánsson innleysti tæplega 22 milljóna króna hagnað í kaupréttum að meðaltali á mánuði árið 2005 (miðað við verðlag við fall bankans 2008). Hann innleysti um 120 milljóna kr. hagnað á verðlagi ársins 2005 en hlaut einnig um 100 milljónir kr. í svokölluð kaupréttarhlunnindi, sem hér eru lögð að jöfnu. Sigurjón innleysti aldrei hlutabréf samkvæmt kaupréttum sínum heldur gerði samkomulag við formann bankaráðs þann 1. desember 2006 um að fresta innlausn allra kauprétta sinna um allt að 4 ár frá síðasta nýtingardegi, enda væri hann í starfi hjá bankanum. Hann bar því við í skýrslutöku hjá rannsóknarnefnd að birting launaupplýsinga í tímaritum á Íslandi hefði valdið því að hann hafi viljað fresta innlausn kauprétta þangað til að hann hætti að vinna fyrir bankann. Miðað við 4. október 2007 átti Sigurjón 140 milljónir óinnleystra kaupréttarhluta í Landsbankanum, sjá einnig mynd 43.

10.4.5 Fjármögnun og innlausn kaupréttarsamninga í Landsbankanum

Árið 2000 voru kaupréttarsamningar innleiddir í launa- og hvatakerfi Landsbankans. Ólíkt viðtekinni venju á erlendum mörkuðum þar sem hlutafélög gefa út nýtt hlutafé til að mæta innlausn kaupréttarsamninga var fyrst ákveðið, á þeim tíma sem ríkið var aðaleigandi bankans, að stofna fjárhaldsfélög (e. trusts) á aflandssvæðum. Þetta var að fyrirmynd hvatakerfis Búnaðarbankans sem hafði komið upp tveimur félögum, Otris S.A og Ferradis Holding S.A., á Bresku Jómfrúaeyjum eða einu hinna svonefndu aflandssvæða. Félögin, sem Landsbankinn setti á stofn, voru síðar í umsýslu og umsjá m.a. Kristjáns Gunnars Valdimarssonar, þáverandi forstöðumanns skattasviðs Landsbankans, og Hauks Þórs Haraldssonar, framkvæmdastjóra fjármála- og rekstrarsviðs bankans. Framan af var framkvæmdin sú þegar gerðir voru kaupréttarsamningar við starfsmenn að Landsbankinn lánaði eignarhaldsfélögunum LB Holding árið 2000, þá Marcus Capital Ltd. árið 2004 og að lokum Proteus Global Holding árið 2005 fyrir kaupum á hlutabréfum í bankanum. Þetta var gert í því skyni að verja stöðu bankans vegna skuldbindinga gagnvart starfsmönnum um að afhenda bréfin síðar á tilteknu gengi. Undirliggjandi veð fyrir lánunum voru hlutabréfin sjálf. Landsbankinn gerði síðan framvirkan samning við hvert eignarhaldsfélag fyrir sig um afhendingu á bréfunum sem fól í sér fjármagnskostnað fyrir bankann en tekjustreymi fyrir hið erlenda eignarhaldsfélag til að standa straum af vaxtakostnaði vegna fjármögnunar hlutabréfakaupanna. Þegar bréfin hækkuðu í verði myndaðist eigið fé í félögunum. Fjármögnun á félögunum færðist yfir í hina bankana tvo, Glitni og Kaupþing, árið 2006 og staðfesti Sigurjón Þ. Árnason það við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis.

Hin erlendu fjárhaldsfélög, sem síðar urðu a.m.k. þrjú talsins, voru eignalaus í upphafi en áttu að fullu tvö til fjögur eignarhaldsfélög sem stofnuð voru til þess að halda utan um hlutabréf Landsbankans. Þessi félög voru sjálfseignarstofnanir. Kaupréttarsamningar voru gerðir við stjórnendur og lykilstarfsmenn bankans og náðu slíkir samningar hámarki á tímabilinu frá lokum árs 2007 og fram til falls bankans í október 2008 en þá náðu þeir til 13,2% hlutafjár í bankanum. Ástæða þess að stofnuð voru fleiri eignarhaldsfélög var sú að með því mátti komast hjá flöggunarskyldu samkvæmt IX. kafla laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, sbr. samsvarandi ákvæði eldri laga nr. 33/2003 um sama efni. Fram til ársins 2006 fengu eignarhaldsfélögin, eins og áður sagði, lán hjá Landsbankanum og keyptu hlutabréf í samræmi við þá kauprétti sem veittir voru starfsmönnum. Frá árinu 2006 fjármögnuðu Glitnir, Kaupþing og Straumur þessi félög og Landsbankinn gaf út sjálfskuldarábyrgð til tryggingar lántökunni hjá Glitni og Kaupþingi en ekki gagnvart lánum frá Straumi. Hin erlendu eignarhaldsfélög áttu síðan að standa skil á afhendingu bréfanna ef verð bréfanna yrði hærra en kaupréttargengið og kaupréttirnir yrðu nýttir, samkvæmt framvirkum samningum. Ef gengi bréfanna yrði lægra en kaupréttargengið yrðu kaupréttirnir ekki nýttir sem þýddi að félagið ætti hlutabréf sem stæðu ekki undir láninu sem hafði verið tekið til að kaupa þau. Þar með hefði lækkun hlutabréfaverðsins endanlega fallið á bankann sjálfan. Með öðrum orðum má segja að bankinn hafi í raun gefið hinu erlenda félagi sölurétt þar sem bankinn veitti sjálfskuldarábyrgð vegna lánanna sem fjármögnuð voru af Glitni og Kaupþingi, en þó ekki gagnvart þeim lánum sem Straumur fjármagnaði. Því hélst áhætta af lækkun bréfanna ávallt hjá bankanum sjálfum eða fjárhagslega tengdum aðilum hans, s.s. Straumi.

Eignarhaldsfélögin sem sett voru á fót í ofangreindum tilgangi voru a.m.k. eftirfarandi:

LB Holding Ltd. (kt. 630600-9010) var skráð á Guernsey. Í fyrstu fjármagnaði Landsbankinn sjálfur félagið til kaupa á bréfum í bankanum en eftir 2006 fjármagnaði Straumur kaup á alls 150 milljónum hluta að nafnvirði í Landsbankanum. Tekin voru tvö lán hjá Straumi. Fyrra lánið var tekið 10. október 2006 að upphæð rúmlega tveir milljarðar kr. Lánstími var 142 dagar en heimild var til framlengingar lánstíma til 26. febrúar 2011. Lánið bar 8,22% fasta óverðtryggða ársvexti. Síðara lánið var tekið 30. janúar 2007 að upphæð rúmlega 700 milljónir kr. Lánstími var 364 dagar en heimild var til framlengingar til 25. janúar 2012. Lánið bar 11,20% fasta óverðtryggða ársvexti. Tryggingar fyrir báðum lánum voru hlutabréf í Landsbankanum og nam tryggingarhlutfallið upphaflega 150%. Heimilt var að krefjast aukinna trygginga ef tryggingarhlutfallið færi niður fyrir 130%. Staða fyrra lánsins hinn 30. september 2008 var tæplega 2,7 milljarðar króna. Í mars 2008 fór Landsbankinn fram á að Straumur veitti LB Holding framlengingu vegna síðara lánsins sem hafði verið á gjalddaga 30. janúar 2008. Gegn framlengingunni greiddi Landsbankinn Straumi 500 milljónir króna fyrirfram.

Aflandsfélög Landsbankans

Aðferðum Landsbanka Íslands hf. til að komast hjá flöggunarskyldu vegna eignarhalds á bréfum í Landsbankanum sem ætluð voru til að mæta skuldbindingum félagsins vegna kaupréttarsamninga starfsmanna og til að stækka eiginfjárgrunn bankans er lýst hér á eftir. Aflandsfélögin voru að fullu undir stjórn og fjárhagslegum yfirráðum Landsbankans og gaf bankinn út sjálfskuldarábyrgðir í sínu nafni til að ábyrgjast lán þeirra (t.d. Zimham Corp. og Empennage Inc.) hjá Kaupþingi og Glitni. Athygli vekur að Landsbankinn þurfti ekki að leggja fram sambærilega ábyrgð gagnvart Straumi en stærsti hluthafinn var hinn sami í báðum bönkum, Björgólfur Thor Björgólfsson. Um hugsanlegar ástæður að baki fyrirkomulagi þessara viðskipta kemur helst til greina að þar hafi ráðið markmið um: að stækka eiginfjárgrunn Landsbankans; að hækka verð á hlutabréfum í Landsbankanum með kaupþrýstingi sem myndaðist vegna bréfa er keypt voru á markaði; að komast hjá yfirtökuskyldu Samsonar eignarhaldsfélags vegna útgáfu kaupréttarsamninga; og komast hjá lækkun eiginfjárgrunns Landsbankans.

Kargile Portfolio Inc. (kt. 481204-9170) var skráð á eyjunni Tortóla. Landsbankinn fjármagnaði sjálfur kaup félagsins á hlutabréfum alls 42,7 milljónir hluta í bankanum. Lánin voru tvö árið 2005. Fyrra lánið hljóðaði upp á rúmar 475 milljónir króna og var til tveggja ára. Lánið var á föstum 8,70% vöxtum. Síðara lánið hljóðaði upp á rúmar 50 milljónir króna og var það einnig til tveggja ára. Lánið var á föstum vöxtum sem miðuðust við 0,50% álag ofan á eins mánaðar REIBOR vexti.Tryggingar fyrir báðum lánunum voru hlutabréf í Landsbankanum, þau sömu og keypt voru. Lánin voru afgreidd á milli funda lánanefndar Landsbankans en upplýsingar um þau er að finna í fundargerðum lánanefndarinnar frá 2. febrúar og 18. maí 2005. Í desember 2006 var fjármögnun á bréfum til Kargile Portfolio Inc. komin yfir til Straums. Staða láns Straums til Kargile hinn 30. september 2008 var um 308 milljónir króna.

Marcus Capital Ltd. (kt. 510305-9810) var skráð á eyjunni Tortóla. Félagið keypti 90 milljónir hluta að nafnvirði í Landsbankanum. Kaupin fjármagnaði Landsbankinn sjálfur en síðar Straumur-Burðarás. Upprunalega lánið hjá Landsbankanum var rúmur einn milljarður króna með lánstíma til tveggja ára. Það bar fasta vexti sem miðuðust við 0,5% álag ofan á eins mánaðar REIBOR.Trygging fyrir láninu voru hlutabréf í Landsbankanum, þau sömu og keypt voru. Lánið var afgreitt á milli funda lánanefndar Landsbankans en upplýsingar um það er að finna í fundargerð lánanefndarinnar frá 18. maí 2005. Færsla lánsins til Straums átti sér stað á árinu 2006. Hinn 30. september 2008 stóð lánið í tæplega 1,2 milljörðum króna.

Empennage Inc. (kt. 690506-9710) var skráð í Panama. Félagið fékk 2,5 milljarða króna lán hjá Kaupþingi í júlí 2006 með veði í 122,5 milljónum hluta í Landsbankanum. Lánið var á gjalddaga þann 30. júní 2007 en með heimild um framlengingu til 30. júní 2008. Lánið bar 10,95% fasta vexti. Staða láns Empennage 30. september 2008 var tæpir 7,9 milljarðar króna.

Frá júlí 2006 og fram til ágúst 2006 keypti Empennage alls 123.269.412 hluti að nafnverði sem var þá að markaðsvirði um 2,5 milljarðar kr.Tafla 8 sýnir einstök viðskipti Empennage Inc. árið 2006.

Hinn 29. júní 2007 keypti Empennage um 115 milljónir hluta í Landsbankanum á genginu 30,4 af LI Hedge. Verðmæti viðskiptanna var um 3,5 milljarðar kr. Lokagengi hlutabréfa í Landsbankanum þann dag var aftur á móti 38,1. LI Hedge hélt utan um varnir á framvirkum samningum fyrir bankann. Í sama mánuði losaði Smáey ehf. stöðu sína í framvirkum samningi 70 milljónir að nafnvirði í Landsbankanum en LI Hedge keypti af einu sviði bankans, svokölluðum eigin viðskiptum, sem nam mismuninum af 115 milljónum og þeim bréfum sem sjóðnum áskotnaðist við innlausn Smáeyjar.Varð heildareign Empennage í Landsbankanum nú 238.269.412 hlutir eða um 7,24 milljarðar kr. sé miðað við gengið 30,4.

Útlán Kaupþings til Empennage í júlí 2007 námu 4,4 milljörðum kr. Heildarskuld félagsins við bankann í lok júlí 2007 var alls 6,9 milljarðar kr. Handveðssamningur dagsettur 28. júní 2007 er með veði í öllum verðmætum í vörslusafni Empennage hjá Arion–verðbréfavörslu. Bragi Gunnarsson, starfsmaður Landsbankans, skrifaði undir handveðssamninginn. Gagnvart hluthafaskrá Landsbankans var Arion orðinn hluthafi með um 223,5 milljónir hluta fyrir hönd Empennage eftir júlí 2007. Það sem út af stóð, um 15 milljónir hluta, voru enn á nafni Empennage samkvæmt hluthafaskrá en Moody's nefnir Empennage sem ellefta stærsta hluthafa Landsbankans skv. hluthafaskrá frá 10. maí sama ár, með alls 123 milljónir hluta. Athygli vekur að lánsfjáraukning til félagsins í júlí 2007 er ríflega 800 milljónum króna hærri en útlögð fjárhæð til hlutabréfakaupanna eftir að tekið hefur verið tillit til viðskiptakostnaðar.Fyrir hönd Kaupþings samþykktu Hreiðar Már Sigurðsson og Jakob Bjarnason lánið á fundi lánanefndar sem þeir sátu tveir. Hreiðar Már tók málið upp undir liðnum önnur mál, án sérstaks kynningarefnis. Engin fylgiskjöl voru til grundvallar lánveitingunni önnur en sjálfskuldarábyrgð Landsbankans sem undirrituð var af Sigurjóni Þ. Árnasyni og Elínu Sigfúsdóttur. Innan Landsbankans sá Haukur Þór Haraldsson um viðskipti og fjárhagslega umsýslu með fjárhaldsfélögunum og eignarhaldsfélögum þeirra.

Vextir á láni Empennage hjá Kaupþingi á viðmiðunardegi 30. september 2008 voru 14,15% og tryggingaþekja 130%. Í úttekt innri endurskoðunar Kaupþings frá 7. júní 2009 sagði: "01.10.2008 eru lánin [til Empennage] framlengd einhliða af Bjarka Diego frá gjalddaga 05.08.2008 með nýjum gjalddaga 15.10.2008 þar sem vöxtum af láni ISK 6,8 ma., ISK 1.077.130.069 er bætt við. Samtals ISK 7.877.130.069 án allra pappíra eða heimilda lánanefnda, samkvæmt fyrirskipun Bjarka Diego." Þann 7. júní 2009 voru lánin enn í vanskilum í bókum Kaupþings.

Við frekari eftirgrennslan rannsóknarnefndar Alþingis á síðustu stigum rannsóknar sinnar kom í ljós að Landsbankinn gaf út nýtt hlutafé, alls 6,8 milljarða að markaðsvirði eða 172 milljónir að nafnvirði, í ágúst 2007 sem var 1,5% af útistandandi hlutum eftir hlutafjáraukningu.Alls voru þá útistandandi tæpir 1,2 milljarðar að nafnvirði í félaginu.Á sama tíma lánaði Kaupþing Landsbankanum fyrir þessari aukningu hlutafjár í bankanum í gegnum félagið Empennage sem keypti alls 115 milljónir að nafnverði. Hér vaknar því sú spurning hvort eiginfjárhlutfall bankans hafi hækkað án raunverulegs eiginfjárframlags. Breyting á samþykktum félagsins til aukningar hlutafjárins var undirrituð 31. júlí 2007 af Björgólfi Guðmundssyni, Svöfu Grönfeldt og Þorgeiri Baldurssyni, bankaráðsmönnum í Landsbankanum.

Zimham Corporation (kt. 690506-9980) var skráð í Panama. Enginn eigandi var skráður en erfingi (e. registered beneficial owner of the trust) var Rauði krossinn. Kaupþing lánaði félaginu 4,5 milljarða króna í júní 2006 gegn sjálfsskuldarábyrgð Landsbankans sem undirrituð var af Sigurjóni Þ. Árnasyni og Elínu Sigfúsdóttur. Lánið frá Kaupþingi var endurgreitt í júní 2007. Í sama mánuði veitti Glitnir Zimham 5,6 milljarða kr. lán með 160% tryggingaþekju og handveði í tæplega 238 milljónum hluta í Landsbankanum.Vegna lækkandi verðs á hlutabréfum Landsbankans var fljótlega gert veðkall á félagið. Félagið sótti þá um lækkun tryggingaþekjunnar niður í 125% sem var samþykkt milli lánanefndarfunda Glitnis af Lárusi Welding, Guðmundi Hjaltasyni og Alexander K. Guðmundssyni þann 8. febrúar 2008. Þetta var fært til bókar á fundi lánanefndar 13. febrúar sama ár.Tekið var fram að þetta væri gert gegn því að félagið greiddi lánið strax niður um 300 milljónir og að félagið yrði áhættumetið samkvæmt starfsreglum bankans. Zimham var í vanskilum við Glitni við fall Landsbankans í október 2008. Ekki eru nein gögn um að veðköll hafi farið fram síðan í febrúar það ár en tryggingaþekjan var komin niður um 1,2 milljarða miðað við upprunalegan lánasamning í ágúst það ár. Staða láns Zimham við Glitni 30. september 2008 var ríflega 5,6 milljarðar króna.

Peko Investment Company Ltd. (kt. 510305-9730) var skráð á eyjunni Tortóla. Félagið átti 130 milljónir hluta að nafnvirði í Landsbankanum sem voru fjármagnaðir af Straumi-Burðarás. Hinn 29. september 2006 tók félagið rúmlega 1,5 milljarða króna lán, upphaflega til 153 daga en með heimild til framlengingar lánstímans til 26. febrúar 2011. Lánið bar fasta 8,22% óverðtryggða ársvexti.Tryggingar fyrir láninu voru hlutabréf í Landsbankanum og var tryggingaþekja 150%. Heimilt var að krefjast aukinna trygginga ef tryggingaþekja færi niður fyrir 130%. Staða lánsins 30. september 2008 var 1,7 milljarðar króna.

Proteus Global Holding S.A. (kt. 520204-9030) var skráð á eyjunni Tortóla. Proteus átti 207,9 milljónir hluta að nafnvirði í Landsbankanum sem voru fjármagnaðir af Straumi-Burðarás.Tæpir 1,4 milljarðar króna voru teknir að láni 29. september 2006 til 153 daga en með heimild til framlengingar lánstíma til 26. febrúar 2011. Lánið bar fasta 8,22% óverðtryggða ársvexti. Tryggingar fyrir láninu voru hlutabréf í Landsbankanum með 150% tryggingaþekju.Var heimilt að krefjast aukinna trygginga ef tryggingaþekjan færi niður fyrir 130%. Staða lánsins þann 30. september 2008 var tæplega 1,6 milljarðar króna.

Veðheimild til þriðja aðila í bréfum Proteus Global Holding í Landsbankanum

Proteus Global Holding kemur aftur við sögu á fundi lánanefndar Straums-Burðaráss hinn 15. janúar 2007. Þar kemur fram að félagið Proteus Global Holding veiti félaginu NewCo veðheimild í bréfum sínum í Landsbankanum, alls 105 milljónir að nafnvirði, vegna láns til NewCo frá Straumi alls um 5,7 milljarðar króna (með 200 vaxtapunkta álagi og veðkall miðað við 130% tryggingaþekju). Rannsóknarnefnd Alþingis hefur ekki þetta veðleyfi undir höndum. Á þeim tíma var tryggingaþekja Proteus Global Holding alls 425%. Í fundargerðinni kemur fram að NewCo sé í 50,1% eigu Kurt Kejser og fjölskyldu (KKN Invest) og það hafi unnið með stjórnendum Straums að því að auðvelda hugsanlega yfirtöku á 10–12,5% hlutafjár í félaginu Property Group sem sé fasteignafélag í Danmörku og eigi meðal annars fasteignir þar. Sú yfirtaka fari í gegnum félagið NewCo sem aftur verði í 49,9% eigu Straums og 50,1% eigu KKN Invest. Markmiðið sé að NewCo kaupi 20–25% hlut í Property Group. Þeir sem vilji selja hlutinn í Property Group séu BG Partners (10%) og B2B Holding (5%). Ennfremur muni félagið Partner Holding selja 10–12,5% í félaginu Property Group til EIK Bank og annarra fjárfesta. BG Partners muni þó halda um 40% af sínum hlut í Property Group.

Fyrirtækjasamsteypan fyrir framangreinda sölu hlutabréfa í Property Group:

Eftir sölu hluta í Property Group:

Lánið var samþykkt á lánanefndarfundi Straums 7. desember 2007 á grundvelli þeirrar tillögu sem lá fyrir og kynnt hafði verið á fundi hinn 15. janúar sama ár. Þá kemur fram hér að seljandi hlutanna var GOGS ehf. sem var í 100% eigu fyrrverandi framkvæmdastjóra Straums, Guðmundar Arnar Þórðarsonar. Sambýliskona hans, Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir, var varamaður stjórnar GOGS ehf. og einnig framkvæmdastjóri fjárstýringar Straums þegar lánið var veitt.

Kimball Associated Inc. (kt. 550107-9880) var skráð í Panama. Straumur-Burðarás fjármagnaði kaup Kimball Associated á hlutabréfum í Landsbankanum, rúmlega 326 milljónir að nafnvirði. Straumur veitti lánið 30. janúar 2007. Lánsfjárhæð var 6,513 milljarðar kr. Þar af skyldi ráðstafa 6,5 milljörðum kr. inn á reikning lántaka í Landsbankanum í Lúxemborg en 13 milljónir voru greiddar í lántökuþóknun til Straums. Lánið var til 364 daga en með heimild til framlengingar lánstíma til 25. janúar 2012. Lánið bar fasta óverðtryggða 11,20% ársvexti.Tryggingar fyrir láninu voru hlutabréf í Landsbankanum í eigu Kimball Associated en einnig undirritaði Proteus Global Holding handveðsyfirlýsingu þar sem sett voru að handveði hlutabréf í Landsbankanum vegna lánsins. Tryggingaþekjan var 150% og var heimilt að krefjast aukinna trygginga ef tryggingaþekjan færi niður fyrir 130%. Staða láns Kimball Associated Inc. hjá Straumi var 6,5 milljarðar króna þann 30. september 2008. Hinn 29. janúar 2007 veittu þau George Allen og Carmen Wong, fyrir hönd stjórnar Kimball Associated, Kristjáni G. Valdimarssyni, lögfræðingi hjá Landsbankanum, umboð til að undirrita lánið fyrir hönd félagsins. Í mars 2008 greiddi Landsbankinn 800 milljónir króna fyrirfram gegn framlengingu lánsins frá Straumi um þrjá mánuði en það hafði verið á gjalddaga 30. janúar 2008.

Hinn 29. janúar 2008 sóttist Straumur eftir því að kaupa skuldatryggingu af Glitni, þ.e. að Glitnir tæki á sig áhættu vegna Kimball Associated til eins mánaðar gegn þóknun, en þau viðskipti gengu ekki í gegn. Þá sneri Straumur sér til Kaupþings sem seldi bankanum skuldatryggingu í mars. Með henni samþykkti Kaupþing að taka á sig áhættu af Kimball Associated í einn mánuð, frá 30. mars til 30. apríl 2008. Aðeins tveir lánanefndarfulltrúar Kaupþings, Hreiðar Már Sigurðsson og Bjarki Diego, sátu þann fund lánanefndar þar sem skuldatryggingin var samþykkt. Í júlí 2008 sótti Kimball Associated aftur um þriggja mánaða framlengingu lánsins. Þá kallaði Straumur eftir frekari tryggingum fyrir endurgreiðslu lánsins. Samkvæmt fundargerðum lánanefndar Straums skyldi Kaupþing veita frekari veðtryggingu gegn því að Straumur legði fram ábyrgð vegna láns Kaupþings til Kjalar.

Samkvæmt athugun á lánabókum bankanna voru Empennage Inc. og Zimham Corporated aldrei fjármögnuð af Landsbankanum. Hin sex félögin voru fjármögnuð af Landsbankanum sjálfum út þriðja ársfjórðung 2006. Þá hurfu þau úr bókum bankans og eru í bókum Straums eftir það. Útistandandi lán umræddra félaga hjá Straumi voru alls tæplega 14 milljarðar kr. við fall Landsbankans. Athygli vekur að Straumur virðist ekki hafa kallað eftir frekari ábyrgðum af hálfu Landsbankans á sama hátt og Kaupþing og Glitnir gerðu þegar lánin féllu niður fyrir umsamda tryggingaþekju.

Rétt er að geta þess að Landsbankinn fjármagnaði sams konar "kaupréttarfélög" fyrir Straum og veitti þeim alls um 6,1 milljarðs króna lánafyrirgreiðslu sem skiptist jafnt niður á þrjú félög skráð á Tortóla á Bresku Jómfrúaeyjum:Omicron S.A.,Visgan Corp.og Criollo S.A. Lánasamningarnir voru samhljóða og gerðir 22. desember 2006, sjá einnig fylgiskjal 1 með þessum kafla. Undirskriftir á samningunum eru illlæsilegar en virðast vera undirskriftir Jóns Þórs Grímssonar og Árna Maríassonar.

Eignir framangreindra félaga voru samanlagt um 13,2% af hlutafé Landsbankans frá miðju ári 2006 til falls bankans, sjá mynd 44 um eignarhlutfall fjárhalds- og eignarhaldsfélaga á Tortóla og í Panama í Landsbankanum. Rannsóknarnefnd Alþingis hefur ekki fundið skýringar á ráðstöfunum á um 225 milljónum hluta í Landsbankanum af þeim 1.480 milljónum hluta sem voru útistandandi vegna kaupréttarsamninga í lok árs 2007 miðað við ársreikning. Heildarinnlausn starfsmanna Landsbankans á kaupréttarsamningum nam 217 milljónum að nafnvirði í félaginu á árunum 2004–2008. Ekki er að sjá að Landsbankinn hafi dregið á eign aflandsfélaganna til að mæta þessari innlausn starfsmannanna.

Í skýrslu Kristjáns G.Valdimarssonar, fyrrum forstöðumanns skattasviðs Landsbankans, fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom fram að stærsti hluthafinn í Landsbankanum, Samson eignarhaldsfélag ehf., hefði notið undanþágu frá yfirtökuskyldu við kaupin á bankanum á þeirri forsendu að hlutafjáreign færi ekki yfir þau ríflega 45,8% sem félagið hafði keypt í bankanum.Venja er í tengslum við kaupréttarsamninga að gefa út viðbótarhlutabréf til þeirra sem innleysa kaupréttinn. Í tilviki Landsbankans hefði það þynnt út hlut Samsonar eignarhaldsfélags ehf. Ef kaupréttarsamningar hefðu verið gerðir með þeim hætti, hefði félagið ekki getað tryggt meirihlutaeign sína í bankanum eftir innlausn því reglur um yfirtökuskyldu hefðu mögulega getað átt við að sögn Kristjáns ef Samson eignarhaldsfélag ehf. hefði síðar ætlað að auka við hlut sinn að nýju.

Kristján Gunnar Valdimarsson lýsti því við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis að fyrir aðalfund Landsbankans 9. febrúar 2007 hefði Sigurjón Þ. Árnason, bankastjóri, farið þess á leit við sig að safna saman umboðum frá stjórnum erlendu fjárhaldsfélaganna sem héldu samanlagt utan um 13,2% eignarhluta í bankanum og fara með atkvæðarétt félaganna á fundinum og þá einkum til að leggja starfskjarastefnu bankaráðs lið. Samkvæmt Kristjáni var þetta gert og sagðist hann í samræmi við það hafa farið með atkvæðarétt félaganna á fundinum skv. umboði og greitt atkvæði á fundinum.

Um 20% af nafnvirði upprunalegra kaupréttarsamninga starfsmanna Landsbankans, sem áður höfðu starfað hjá Búnaðarbankanum, voru til innlausnar í desember 2007. Eins og Sigurjón Þ. Árnason, bankastjóri Landsbankans, rakti í skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis lét bankinn hjá líða að efna kaupréttarsamningana við starfsmennina í lok árs 2007. Þegar hann var inntur eftir því hvort ekki hefði verið eðlilegt að láta kaupréttarsamningana ganga í gegn með hefðbundnum hætti, þ.e. að starfsmenn keyptu bréf af bankanum á innlausnarverði og gætu svo eftir atvikum selt þau á markaði þannig að hagnaður yrði innleystur, sagði bankastjórinn að óheppilegt hefði verið að lykilstarfsmenn væru að innleysa hagnað í desember 2007 vegna kaupréttanna svona hver í kapp við annan. Bankinn hefði ekki haft svigrúm á þeim tíma til að lána þeim fyrir kaupum vegna kaupréttanna, hvorki til að standa skil á skattgreiðslum vegna innlausnarinnar né til að halda í bréfin áfram. Af orðum bankastjórans virðist mega ráða að stjórn bankans hafi sjálf viljað hafa stjórn á því hvernig sala á bréfunum fór fram á markaði eftir að kaupréttir væru innleystir. Það væri t.d. ástæðan fyrir því að allir samningarnir voru með sama innlausnardag enda keypti bankinn sjálfur þau bréf í bankanum sem voru innleyst með þessum hætti, svo sem innlausn Halldórs J. Kristjánssonar í upphafi árs 2005.

10.4.6 Lánafyrirgreiðsla til starfsmanna Landsbankans

Fáir starfsmenn Landsbankans tóku lán í eigin nafni eða nafni eignarhaldsfélaga í þeirra eigu hjá útibúum Landsbankans á Íslandi að upphæð 100 milljónir kr. eða meira. Landsbankinn lánaði alls tæplega 2 milljarða kr. til starfsmanna sem fengu meira en 100 milljónir að láni hver. Um 40% þeirra lána sem Landsbankinn veitti starfsmönnum sínum gengu til Guðmundar Péturs Davíðssonar. Hann er bróðursonur Björgólfs Guðmundssonar. Lán Guðmundar og eignarhaldsfélags hans, Brimholts, stóðu í tæplega 800 milljónum kr. í lok september 2008.

Heildarútlán allra starfsmanna Landsbankans sem voru útistandandi við fall bankans námu alls um 14 milljörðum króna.

10.4.7 Ályktanir rannsóknarnefndar Alþingis

Hvatakerfi Landsbankans byggði á tveimur meginstoðum; skammtíma bónusgreiðslum og umtalsverðum kaupréttarsamningum lykilstarfsmanna sem bankinn bar mikinn kostnað af. Bónusgreiðslur Landsbankans til lykilstarfsmanna voru ekki tengdar árangri að öðru leyti en því að bónus skyldi greiddur ef arðsemi eigin fjár væri á bilinu 9–14% hærri en ávöxtunarkrafa ríkisskuldabréfa (til meðallangs tíma) á uppgjörstímanum. Mismunandi skilyrði giltu um útgreiðslu bónuss gagnvart einstökum lykilstarfsmönnum. Þannig giltu t.d. ólíkir samningar um bónusgreiðslur til bankastjóranna, Halldórs J. Kristjánssonar og Sigurjóns Þ. Árnasonar. Bónusgreiðslur til starfsmanna voru að stórum hluta byggðar á mati æðstu stjórnenda, bankastjórans Sigurjóns Þ. Árnasonar sem fór með starfsmannamál og framkvæmdastjóra viðkomandi sviðs. Eins og staðið var að þessum ákvörðunum í Landsbankanum er ekki hægt að útiloka að það hversu ákveðið einstakir starfsmenn sóttust eftir bónusum og mismunandi aðstaða starfsmanna til þess að gera slíkar kröfur hafi í reynd haft sitt að segja þegar kom að ákvörðun yfirmanna um bónusa.Við þessar aðstæður kann því möguleiki einstakra starfsmanna til að hafa með viðskiptum sem þeir sinna innan bankans áhrif á sýnt umfang og færðar tekjur sviðs/deildar til skamms tíma að fá meiri þýðingu en mat á framleiðni starfsmanna og þá til lengri tíma.

Veltubónusar voru einnig áberandi í Landsbankanum, s.s. greiðsla til handa þjónustufulltrúa ef viðskiptavinur opnaði nýjan reikning eða færði sparnað sinn frá bankareikningi yfir í peningamarkaðssjóð. Hætt er við því að áhersla starfsmanna verði frekar á að afla nýrra viðskipta heldur en að viðhalda þeim gömlu. Veltubónusar hjá sjóðstjórum, líkt og voru tíðkaðir í Landsbankanum, leiða almennt til mikillar markaðssóknar sjóða sem hefur þau áhrif að þeir stækka án þess að slíkt sé nokkur mælikvarði á hæfni starfsmannsins til að skapa virði fyrir viðskiptavininn.

Almennt jukust bónusgreiðslur mikið milli ára í Landsbankanum á meðan tekjur þeirra starfssviða sem rannsóknarnefnd athugaði sérstaklega stóðu í stað. Sérstaka athygli vekur sú staðreynd að greiddir voru bónusar til verðbréfamiðlunar haustið 2007 sem námu hærri upphæð en tekjurnar sem sviðið skapaði á samsvarandi tímabili.

Starfskjör Halldórs J. Kristjánssonar og Sigurjóns Þ. Árnasonar voru að ýmsu leyti ólík kjörum annarra lykilstarfsmanna. Halldór innleysti kauprétt sinn árið 2005 samkvæmt samningi en þegar kom að innlausn Sigurjóns 1. desember 2006 gerði hann samning við bankaráðsformanninn um að fresta öllum kaupréttum uns hann hætti hjá bankanum. Virði kaupréttarsamninga sem ekki hafa innlausnardag er í raun hlutabréfin sjálf. Því lengri tími sem er þar til innlausn á sér stað og því verðmætari sem hlutabréfin verða, þeim mun meira vex fórnarkostnaður fyrirtækisins vegna kaupréttanna. Kaupréttarsamningar starfsmanna sem voru óinnleystir höfðu hins vegar hagfelld áhrif á ítök kjölfestufjárfestanna í Landsbankanum eins og nánar verður vikið að hér á eftir.

Ályktanir rannsóknarnefndar Alþingis um þá aðferð Landsbankans að verja sig vegna framtíðarkostnaðar við kaupréttarsamninga með því að kaupa samsvarandi hlutabréf í bankanum á sama tíma og kaupréttarsamningar voru gerðir við lykilstarfsmenn eru eftirfarandi:

Fjármögnun á kaupréttarsamningum var upphaflega á hendi Landsbankans sjálfs en síðar lögðu stjórnendur bankans fram sjálfskuldarábyrgð Landsbankans (eða fjárhagslega tengdra aðila sbr. lánsfjármögnun Straums). Því var ekki um varnir á framtíðarskuldbindingum bankans að ræða þar sem áhættan hvíldi á bankanum sjálfum allan tímann.

Kaupin á hlutabréfunum inn í aflandsfélög, eftir að fjármögnun félaganna var tryggð, skapaði kaupþrýsting á bréf í Landsbankanum sem stjórnendur stýrðu og stuðluðu að hækkun hlutabréfa í bankanum á markaði eða vörnuðu lækkun verðs.

Leiða má að því líkur að sú ráðstöfun bankans að verða ekki við innlausn kaupréttarsamninga starfsmanna sem voru á innlausn 1. desember 2007 og næstu 90 daga þar á eftir kunni að hafa komið í veg fyrir lækkun á verði hlutabréfa Landsbankans á markaði. Með ráðstöfunum sínum kom Landsbankinn í veg fyrir að starfsmenn fengju að kaupa hlutabréfin á umsömdu verði en slíkt hefði fyrirsjáanlega myndað söluþrýsting á verð hlutabréfa í bankanum ef starfsmenn innleystu hagnað sinn vegna þeirra.

Ákvörðun stjórnenda og kjölfestufjárfesta bankans að fjármagna hlutabréfakaup á eigin bréfum í því skyni að "verja" stöðu bankans vegna útgefinna kauprétta í stað þess að gefa út nýja hluti eftir því sem kaupréttarsamningarnir voru á innlausn, tryggði kjölfestufjárfesti, eignarhaldsfélaginu Samson ehf., óbreytt yfirráð í bankanum. Ef bankinn hefði ekki fjármagnað og/eða gengist í ábyrgðir fyrir þann 13,2% hlut í honum sjálfum, sem bundinn var í kaupréttarsamningum, og hin hefðbundna leið verið farin að gefa út nýja hluti til að uppfylla kaupréttarsamninga starfsmanna hefði eignarhaldsfélagið Samson ehf. mögulega getað misst yfirráð í bankanum.

Landsbankinn kom hlutabréfum sem ætluð voru til að mæta skuldbindingum vegna kaupréttarsamninga starfsmanna fyrir í um átta aflandsfélögum og virðist það hafa verið gert í því skyni að komast hjá flöggunarskyldu. Ekki verður annað séð en að öll félögin hafi í reynd lotið sömu stjórn. Þannig var t.d umboðum safnað frá stjórnum allra félaganna, sem voru í höndum lögmanna á aflandssvæðum, til að starfsmaður Landsbankans gæti farið með atkvæðarétt félaganna á aðalfundi bankans vorið 2007. Upplýsingar um þessi stjórnunarlegu yfirráð Landsbankans á félögunum komu ekki fram gagnvart fjárfestum, smærri hluthöfum og eftirlitsaðilum. Stjórnunarleg tengsl félaganna endurspeglast einnig í þeirri staðreynd að eitt félaganna, Proteus, lánaði öðru nýju systurfélagi, Kimball Associated, sem hafði ekkert eigið fé, hlutabréf sín sem tryggingu fyrir lánsfé hins nýja félags. Það sem rakið hefur verið hér að framan bendir til þess að reglum um flöggunarskyldu hafi ekki verið fylgt.

Rannsóknir hafa sýnt að forstjórar fyrirtækja fresta í sífellt meira mæli launagreiðslum með því að auka hlut lífeyrisframlags og þ.a.l. tekna í framtíðinni fyrir störf sem unnin eru í nútíð. Stór þáttur launa Sigurjóns Þ. Árnasonar var greiddur í lífeyrissjóð og þá einkum séreignarsjóð. Það sama átti við hjá Halldóri J. Kristjánssyni. Sigurjón innleysti aldrei kauprétti sína, eins og áður sagði, heldur gerði samkomulag við formann bankaráðs um frestun innlausna. Hann bar því við í skýrslutöku að birting launaupplýsinga í tímaritum á Íslandi hefði valdið því að hann vildi fresta innlausn kaupréttar þangað til að hann hætti að vinna fyrir bankann. Það er eðlilegt og æskilegt að upplýsingar um hvatakerfi og laun forstjóra skráðra hlutafélaga séu uppi á borðum, enda er það stór þáttur í stjórnarháttum fyrirtækisins og hefur spágildi um frammistöðu þess sem og rekstrarhæfi. Það er þó heppilegra að tengja slíka kröfu lagaumhverfinu með skýrum hætti. Ella er hægt að stýra því sem almenningi er látið í té sem leiðir til þess að rangar ályktanir eru dregnar um rekstrarmöguleika fyrirtækisins.

Að öllu framangreindu virtu er ljóst að hvatakerfi Landsbankans var til þess fallið að hafa veruleg áhrif á rekstrarskilyrði hans.

10.5 Hvatakerfi Kaupþings banka hf.

10.5.1 Launadreifing Kaupþings

Launadreifingin í Kaupþingi breyttist lítið á tímabilinu sem hér er til athugunar, þ.e. frá 2004 til falls bankans í október 2008. Árið 2004 féllu um 48% útgreiddra launa Kaupþings í skaut þeim 10% starfsmanna sem höfðu hæst laun og um 50% árið 2007.

Af framangreindu má ráða að munur á milli launahæstu og launalægstu starfsmanna Kaupþings var mikill. Árið 2007 námu heildarlaun forstjóra Kaupþings tæplega 159-földum launum meðalstarfsmanns í bankanum. Launamunur á milli þeirra 25% starfsmanna sem hæstu launin höfðu og þeirra 25% starfsmanna með lægstu launin var tvöfaldur. Ef skoðaður er launamunur þeirra 10% starfsmanna sem voru hæst launaðir og þeirra 10% með lægstu launin að meðaltali á mánuði árið 2008 var fyrrnefndi hópurinn með rúmlega 6-föld laun þess síðarnefnda. Launahæstu fjórir til fjórtán starfsmennirnir (það 1% starfsmanna Kaupþings sem hæst laun hafði) höfðu á tímabilinu að meðaltali 13 til 16-föld mánaðarlaun þeirra starfsmanna sem lágu í miðri launadreifingunni.

Vægi launaliða var ólíkt hjá mismunandi launahópum innan bankans. Hjá þeim 10% starfsmanna sem lægst höfðu launin voru grunnlaun um 88% af heildarlaunagreiðslum að meðaltali, bónusar voru um 1%, innleystir kaupréttarsamningar um 4% og lífeyrisgreiðslur um 7% af heildarlaunagreiðslum. Hjá þeim 10–25% starfsmanna sem næstlægst höfðu launin voru grunnlaunin langstærstur launaliða að meðaltali, eða um 89% af heildarlaunum.Vægi grunnlauna í Kaupþingi fór lækkandi eftir því sem laun starfsmanna hækkuðu og vægi bónusa í heildarlaunum jókst. Sú þróun festi sig frekar í sessi með tímanum hjá launahæstu hópunum en árið 2007 voru grunnlaun um 35% af heildarlaunum þeirra sem hlutu allra hæstu launin. Samsetning launaliða breyttist þó lítið hjá 90% starfsmanna Kaupþings á öllu tímabilinu.

10.5.2 Hvatakerfi starfsmanna tekjusviða Kaupþings

Laun "lykilstarfsmanna" Kaupþings, eins og þeir voru kallaðir í starfsmanna- og launastefnu bankans, skiptust í föst laun og kaupauka sem voru greiddir út tvisvar á ári til starfsmanna tekjusviða, en einu sinni á ári til starfsmanna stoðsviða. Kaupaukarnir tóku mið af árangri undangenginna sex eða tólf mánaða. Þá nutu ákveðnir starfsmenn sérstakrar lánafyrirgreiðslu með veðum í hlutabréfum Kaupþings.Við ákvörðun á bónusgreiðslum var tekið tillit til rekstrarárangurs bankans í heild sem og viðkomandi deildar samkvæmt starfsmannastefnunni. Skilyrði þess að bónus yrði greiddur var að markmið um 15% arðsemi eigin fjár bankans næðust. Í töflu 11 eru laun 10 launahæstu starfsmanna Kaupþings á árunum 2004 til 2008 birt á raunvirði miðað við árið 2008.

Heildarlaun starfsmanna tekjusviðanna hækkuðu. Hlutur bónusgreiðslna jókst úr 20% árið 2004 í 35% árið 2008 hjá starfsmönnum fyrirtækjaráðgjafar. Bónusgreiðslur voru 23% af heildarlaunum verðbréfamiðlara árið 2004 en 37% árið 2008. Um innleysta kauprétti var vart að ræða hjá starfsmönnum verðbréfamiðlunar eftir árið 2006 og voru ekki áberandi launaliður meðal þeirra sem sinntu fyrirtækjaráðgjöf enda ný stefna tekin upp í því efni með fjármögnun á hlutabréfum í Kaupþingi með 10% persónulegri ábyrgð starfsmannanna.

Heildarmánaðarlaun að meðaltali í verðbréfamiðlun Kaupþings hækkuðu úr rúmlega 1,5 milljónum króna árið 2004 í rúmlega 2,5 milljónir árið 2006. Grunnlaunin jukust milli áranna 2005 og 2006 en lækkuðu síðan á ný að raungildi.

Þróun heildarmánaðarlauna í fyrirtækjaráðgjöf Kaupþings að meðaltali var mjög áþekk launaþróun verðbréfamiðlunar bankans. Launin hækkuðu úr tæplega 1,5 milljónum króna árið 2004 í tæplega 2,5 milljónir árið 2006. Grunnlaun uxu jafnt og þétt til 2006 en tóku þá að lækka að raungildi. Bónusar jukust frá 2004 til 2006 en stóðu nánast í stað eftir það, sjá mynd 58.

Athygli vekur að hlutur bónusgreiðslna í heildarlaunum starfsmanna greiningardeildar jókst hröðum skrefum og var orðinn um 30% af heildarlaunum 2008 en vart mælanlegur árið 2004. Fólk í greiningardeild hlaut auk þess kaupréttarsamninga sem voru innleystir á árunum 2005, 2007 og 2008.

Þróun mánaðarlauna í greiningardeild Kaupþings er töluvert frábrugðin launaþróun verðbréfamiðlunar og fyrirtækjaráðgjafar bankans. Heildarlaun tvöfölduðust á tímabilinu og voru komin í tæpar 1,5 milljónir kr. að meðaltali á mánuði árið 2008. Grunnlaunin voru frekar stöðug yfir tímabilið. Helsta breytingin var á bónusgreiðslum sem jukust verulega á árunum 2007 og 2008, sjá mynd 59.

Grunnlaun þess 1% starfsmanna Kaupþings sem hæstu launin höfðu voru um þriðjungur af heildarlaunum þessara starfsmanna að meðaltali. Stærstur hluti heildartekna þeirra var hagnaður vegna innleystra kaupréttarsamninga, frá þriðjungi heildarlauna árið 2007 upp í ríflega 60% árið 2005 að meðaltali, sjá mynd 51.

Árið 2006 var kynnt nýtt fyrirkomulag á kaupaukum sem gerði ráð fyrir því að ákveðið hlutfall yrði miðað við gengi hlutabréfa bankans og útgreiðslu frestað í þrjú ár. Greiðslan var þannig háð því meginskilyrði að starfsmaður væri ennþá í starfi innan samstæðunnar. Um 814 þúsund hlutir í bankanum höfðu verið lagðir til hliðar í þessum tilgangi þegar bankinn féll. Ekki hefur verið tekið tillit til þeirra í þessari greiningu þar sem þeir voru ekki enn orðnir hluti af launagreiðslum sem höfðu farið fram í gegnum launakerfi bankans. Innlausn hlutabréfanna voru því ávísun á hugsanlegan kaupauka í framtíðinni. Erfitt er að meta virði þessara 814 þúsund hluta en við upphaf árs 2008 var gengi Kaupþings 847 krónur á hlut og kostnaður félagsins, að mati rannsóknarnefndar, vegna þessa launaþáttar alls um 690 milljónir kr. á þeim tíma. Alls naut 101 starfsmaður bónuss í formi hlutabréfa í bankanum.

10.5.2.1 Kaupréttarsamningar starfsmanna Kaupþings

Á árinu 2005 voru útistandandi kaupréttarsamningar starfsmanna um 13 milljónir hluta (130 milljónir kr. að nafnvirði). Innlausnarverð þeirra var á bilinu 600 til 660 á hlut (hver hlutur var tíu kr. að nafnvirði). Stærstur hluti þeirra var þó ekki laus til innlausnar fyrr en 2008, eða um 10 milljónir hluta. Árið 2006 voru gerðir nýir samningar um kauprétt starfsmanna á rúmlega 20 milljónum hluta í bankanum.Tiltölulega lítill hluti af þeim kaupréttum sem veittir voru eftir árið 2005 var innleystur fyrir utan þær 4,2 milljónir hluta sem innleystar voru á árunum 2007 til 2008.Við fall bankans voru um 35 milljónir hluta í bankanum útistandandi vegna kaupréttarsamninga starfsmanna, sjá nánar á mynd 60.

Sú krafa var þó uppi meðal starfsmanna og stjórnenda Kaupþings að fá heldur lán hjá félaginu til kaupa á bréfum með sölurétti fremur en að gefnir væru út kaupréttir. Sú aðferð var mun hagstæðari fyrir starfsmennina þar sem kaupréttir voru skattlagðir með sama hætti og laun en hagnaður vegna hlutafjárkaupa sem fjármagnaður var með lánum bar einungis 10% fjármagnstekjuskatt. Aðferðin var einnig heppilegri fyrir fyrirtækið að sögn forstjórans, Hreiðars Más Sigurðssonar, þar sem fyrirtækið greiddi þá ekki tryggingargjald vegna þeirra eins og ef um kauprétti hefði verið að ræða.

Aflandsfélög notuð til að verja stöðu Búnaðarbanka Íslands vegna valrétta starfsmanna hans

Í janúar 2002 stofnaði Búnaðarbanki Íslands hf. tvö félög á Bresku Jómfrúaeyjum. Annað félagið hét Otris S.A. og hitt Ferradis Holding S.A. Stjórnarmenn félagsins voru tveir erlendir aðilar auk Andra Vilhjálms Sveinssonar. Félögin voru stofnuð til þess að halda utan um hlutabréf í Búnaðarbanka Íslands sem keypt voru sem varnir á móti valréttum lykilstarfsmanna bankans. Um stofnun félaga af þessum toga af hálfu Landsbanka Íslands hf. er fjallað í kafla 4.5 hér að framan. Við sameiningu Kaupþings og Búnaðarbankans árið 2003 komust þessi félög undir stjórn hins sameinaða banka. Í lok árs 2003 voru félögin bæði mjög stórir eigendur í bankanum.

Ferradis Holding S.A. átti yfir 5,3 milljónir hluta en Otris S.A. yfir 3,5 milljónir hluta. Samtals voru þessi félög áttundi stærsti hluthafi bankans með yfir 2% hlut. Um miðjan september árið 2004 voru bréfin seld út úr þessum félögum til dótturfélags Kaupþings í Lúxemborg. Rannsóknarnefnd Alþingis gat ekki rakið frekar hverjir kaupendurnir voru. Miðað við verð á hlutabréfum í Kaupþingi á þessum tíma má ætla að söluverðið hafi verið um 4,5 milljarðar króna. Ljóst er að þegar þetta var gert voru þeir starfsmenn sem áttu valréttina á móti þessum vörnum flestir hættir störfum hjá bankanum enda fluttu flestir þeirra sig yfir til Landsbankans fyrir sameiningu Kaupþings og Búnaðarbankans. Í ljósi þessa var Guðný Arna Sveinsdóttir, fyrrum fjármálastjóri Kaupþings, spurð að því við skýrslutöku hjá rannsóknarnefnd hvort söluandvirði bréfanna hefði verið fært heim eða látið sitja eftir úti í þessum félögum. Guðný svaraði: "Ég veit ... það er ekki komið heim ... ég er alveg viss um það." Líklegt má þó telja að hluti af þessum sölutekjum hafi verið notaður til að greiða niður lán þessara félaga sem upphaflega voru tekin hjá Búnaðarbankanum. Þessi félög komu síðan aftur við sögu bankans 2007. Kaupþing var með sértryggða lánavafninga (CDO, Collateralized Debt Obligation) í gegnum útibú sitt við New Bond Street í London. Einn af þeim vafningum var kallaður Café-prógrammið.Var þá eignum safnað saman inn í félag, lánshæfismats aflað og síðan gefnir út eignavarðir víxlar (ABCP, Asset Backed Commercial Paper) sem keyptir voru af peningamarkaðssjóðum í Bandaríkjunum. Þetta var gert með milligöngu Dresdner bankans í Bandaríkjunum sem á móti veitti Kaupþingi óbeina lausafjárlínu. Í lok árs 2007 dró Dresdner banki sig út úr þessum viðskiptum þar sem salan á eignavörðu víxlunum hafði dregist verulega saman. Kaupþing þurfti því að finna aðra leið til að fjármagna þessar eignir. Hluti af eignunum var þá fjármagnaður með aðstoð Credit Suisse í gegnum félag sem hét Magnolia og var staðsett á Írlandi. Magnolia fékk samtals 650 milljóna dollara lán frá Kaupþingi 13. desember 2007 til að fjármagna tvo vafninga. Á móti kom 242 milljóna dollara innlán Magnolia til Kaupþings. Þetta lán var síðan notað til að greiða niður lán sem Dresdner banki hafði haft hjá Kaupþingi.Vafningarnir og áhættan sem þeim fylgdu var slík að Kaupþing tók fyrst á sig það tap sem myndast gæti á eignunum. Samkvæmt Hreiðari Má Sigurðssyni var afgangurinn af Café vafningnum seldur til félaganna Ferradis og Otris. Kaupþing lánaði félögunum til að kaupa þessar eignir út úr Café. Þar sem eigið fé var fyrir í þessum félögum var þar með hægt að fresta því að afskrifa þessar eignir af efnahagsreikningi Kaupþings.

Í upphafi árs 2008 voru Ferradis og Otris með um 28,5 milljarða kr. lán frá Kaupþingi banka hf.

10.5.2.2 Lán starfsmanna Kaupþings til hlutabréfakaupa

Samkvæmt fréttatilkynningu Kaupþings Búnaðarbanka var sú stefna samþykkt á aðalfundi bankans 27. mars 2004 að æskilegt væri að lykilstarfsmenn væru einnig hluthafar bankans með afgerandi hætti. Í því skyni var samþykkt að veita starfsmönnum kauprétti og þeim boðið að taka lán hjá bankanum til að fjármagna kaup á hlutabréfum í félaginu og samfara því var veittur söluréttur á bréfunum.

Eftir framangreinda stefnumótun aðalfundar í mars 2004 jukust lán til starfsmanna Kaupþings mikið. Lánin voru orðin liðlega 5 milljarðar króna í upphafi árs 2005. Á aðalfundi bankans 2004 gerði Ásgeir Thoroddsen, formaður launanefndar, grein fyrir launafyrirkomulagi bankans. Þar var samþykkt tillaga stjórnar að kaup og söluréttir til starfsmanna gætu verið allt að 9% af útgefnum hlutum í bankanum. Í ræðu formanns launanefndar var sérstaklega tekið fram að starfsmenn ættu ekki að bera fjárhagslega áhættu af kaupum á hlutafé í bankanum en nytu á hinn bóginn ávinnings af því að hlutabréfin hækkuðu í verði. Skaðleysi starfsmanna var á þessum tíma tryggt með útgáfu sölurétta. Lán sem veitt voru starfsmönnum í þessu skyni árið 2003 voru á sambærilegum kjörum og bankinn naut sjálfur, þ.e. REIBOR vextir án álags. Lán til starfsmanna sem veitt voru árið 2005 voru hins vegar með 120 punkta álagi ofan á REIBOR og sama vaxtaálag var ef lánið var veitt í erlendum myntum en þá ofan á LIBOR eða EURIBOR vexti. Vextirnir skyldu lagðir við höfuðstólinn einu sinni á ári en gjalddagi lánanna sem veitt voru árið 2005 var 1. desember 2010. Á þremur og hálfu ári (frá ársbyrjun 2005) ríflega áttfölduðust lán sem Kaupþing veitti starfsmönnum sínum til hlutafjárkaupa í bankanum og stóðu í um 45 milljörðum kr. í upphafi árs 2008 eða tæplega 10% af eiginfjárgrunni bankans. Lánin stóðu í 60 milljörðum króna við fall bankans í byrjun október 2008.

IFRS reikningsskilastaðlar gera ráð fyrir að sölurétti beri að draga frá eiginfjárgrunni félags. Stjórnendur Kaupþings leituðu því leiða til að haga þessari tegund hvatalauna, þ.e. lánum til hlutabréfakaupa með sölurétti á bréfunum fyrir andvirði veðsins við lántöku, á annan veg með atbeina endurskoðenda bankans. Lausnin fólst í því að veita lán með 10% sjálfsskuldarábyrgð starfsmannsins á höfuðstól og vöxtum þess gegn því að starfsmaður félli frá söluréttinum.Yfirlýsing vegna niðurfellingar söluréttar var send Kauphöll Íslands 31. desember 2005. Kveðið var á um að til veðkalla vegna öflunar frekari trygginga kæmi ef virði veða færi niður fyrir 90% af höfuðstól lána að teknu tilliti til vaxta. Bankinn knúði ekki fram veðköll þegar bréfin tóku að lækka árið 2007 og veðþekja fór niður fyrir tilskilin mörk þar sem stjórnendur leituðu að "annarri lausn", sbr. ummæli Guðmundar Þórðar Guðmundssonar hér á eftir. Endurskoðendur bankans virðast þó ekki hafa litið til sambands eiginfjárgrunns bankans og lána til starfsmanna fyrir hlutabréfum í bankanum fyrr en á þeim tímapunkti, þ.e. þegar hlutabréf í bankanum tóku að lækka og virði veðanna þar með. Fyrir rannsóknarnefnd var ytri endurskoðandi Kaupþings, Reynir Stefán Gylfason, spurður hvort hann hefði kynnt sér reglur í öðrum löndum um reikningslega meðferð á lánum hlutafélaga til starfsmanna í því skyni að kaupa hlutabréf í félaginu. Svar Reynis hljóðaði svo:

"Nei, við sem sagt, þegar að þetta var, 2005, þá var náttúrulega innleiðing á alþjóðlegum reikningsskilastöðlum og þá fór fram gríðarleg umræða, annars vegar innan bara okkar félags hérna innanhúss á Íslandi, KPMG, jafnframt á milli endurskoðunarskrifstofa sem voru þá með þessi, þessa banka, [...] við spurðum, ég meina, hvernig eru menn að meðhöndla lán til starfsmanna með veði í eigin bréfum. Þar kom einhvers staðar fram að slíkt væri óheimilt, t.d. ef ég man rétt í Lúxemborg. Þannig að við fengum aldrei komment, sagt: Heyrðu, þetta er óeðlilegur gjörningur, þetta ætti aldrei ... ."

Aðspurður hver munurinn væri á því að veita sölurétt annars vegar og hins vegar að veita lán, án ábyrgðar, svaraði Sigurður Einarsson, stjórnarformaður Kaupþings, á þessa leið: "Ég hugsa að það sé eitthvað lítill munur á því."

Í þessu sambandi má geta þess að lánveitingar af því tagi sem Kaupþing og Glitnir veittu starfsmönnum sínum hafa verið bannaðar í Bandaríkjunum frá árinu 1950 samkvæmt lögum um innstæðutryggingarsjóð þar í landi en þau eiga rætur að rekja til ársins 1828.

Fyrirsvarsmenn bankans virðast hafa lagt hart að starfsmönnum að taka við háum lánum til kaupa á hlutabréfum og fyrirtækjamenning sú er við lýði var innan bankans hneig einnig í þá átt. Guðmundur Þórður Guðmundsson, framkvæmdastjóri hjá Kaupþingi, lýsti þessu með eftirfarandi hætti: "[...] ef þú sest niður með yfirmanni þínum: Heyrðu, ég bara hef ekki efni á að taka svona stórt lán hjá þér. Hann: Mér finnst að, þú átt að taka þetta. Ég: Nei, veistu að mér líst ekki á þetta, ég er ekki með nógu há laun til þess að standa undir þessu hérna. Hann: Þú þarft ekki að hafa áhyggjur af því, það eru, áhætta þín er í raun og veru mjög takmörkuð eða engin. Þú tekur þetta hér."

Við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd kom fram hjá Hreiðari Má Sigurðssyni að heildarlánveitingar bankans til starfsfólks vegna kaupa þess á hlutabréfum í bankanum á framangreindum grundvelli hefðu numið 50 milljörðum króna. Miðað við áðurnefnda 10% sjálfskuldarábyrgð á höfuðstól námu persónulegar skuldbindingar starfsfólks því um 5 milljörðum króna. Um þetta komu m.a. fram hjá Hreiðari Má þau sjónarmið sem vitnað er til hér til hliðar.

Þegar kom að þeim tíma að það reyndi hugsanlega á veðköll síðla árs 2007 vegna 10% sjálfskuldarábyrgðar starfsmanna á lánunum var ekki hlaupið að því fyrir þá að selja hlutabréfin í Kaupþingi til að mæta veðköllunum. Samkvæmt 7. gr. lánssamninga sem starfsmenn undirrituðu vegna lána með veðum í hlutabréfum Kaupþings var óheimilt að selja eða veðsetja bréfin fyrr en lánið væri að fullu greitt. Samkvæmt upplýsingum frá framkvæmdastjóra lögfræðisviðs bankans, seldu starfsmenn aðeins 0,9% af heildarhlutafé sínu á árinu 2006, 2,2% á árinu 2007 og 0,6% á árinu 2008. Það kom þó ekki aðeins til af tryggð heldur einnig vegna nefndra kvaða sem mælt var fyrir um gagnvart starfsmönnum í lánasamningum. Starfsmenn Kaupþings áttu á þessum tíma samtals ríflega 7% í bankanum.

Starfsmenn Kaupþings sem gáfu skýrslu fyrir rannsóknarnefnd 4. september 2009 mátu það svo að bankinn hefði í raun með þessu haldið í "gíslingu" mörgum starfsmönnum sem tekið höfðu lán af þessu tagi. Fyrirsvarsmenn bankans hefðu stöðugt veitt sama svarið þegar starfsmenn báru sig eftir heimildum til að selja bréfin og mæta veðköllum. Það var á þann veg að verið væri að skoða málið.

Í fyrrnefndri skýrslutöku sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson: "Í samningnum er líka kveðið á um að þegar þetta er komið niður fyrir ákveðna þekju, þá eigi að koma veðkall frá bankanum, ef að því er ekki sinnt, þá megi bankinn leysa til sín bréfin og já, gera upp í raun og veru lánin og í raun og veru, þegar var bent á þetta, þá var sagt: Það er sem sagt verið að leita að annarri lausn. Og þetta er auðvitað vísbending um það að það mátti aldrei sýna veikleika með því að selja bréf í raun og veru. Og þetta náttúrulega er þannig að ég vil meina það að þú varst með stóran hóp starfsfólks sem var í raun og veru, þetta var bara hreint út, í bara gíslingu í meira en ár og jafnvel lengri tíma hjá banka með þessa stöðu. Nema það bara að segja upp eða hætta og þá vissi kannski fólk ekki í raun og veru hver staða þess var ef það hefði tekið upp á því. [...] Hagsmunirnir voru það miklir, alveg satt, ef við sýnum veikleika, ef lykilstjórnendur, stór hópur lykilstjórnenda fer að selja bréfin sín í bankanum, þá bara hrynur þetta [...]."

Í greinargerð framkvæmdastjóra lögfræðisviðs Kaupþings sem afhent var rannsóknarnefnd í mars 2009 sagði til skýringar þessu:

"Samkvæmt reglum bankans var starfsmönnum ekki heimilt á þessum tíma [árið 2005] að stofna félög utan um fjárfestinguna þar sem Fjármálaeftirlitið taldi að eignarhaldsfélög starfsmanna brytu í bága gegn gagnsæisreglum á fjármálamarkaði (sjá reglur bankans sem staðfest var af FME). Enginn vafi er á því að starfsmenn bankans hefðu sett þessi kaup inná félag ef afstaða FME á þessum tíma hefði ekki komið í veg fyrir það. Því ráða ekki aðeins sjónarmið um áhættu heldur einnig hrein hagkvæmnissjónarmið varðandi möguleika starfsmanna að draga frá fjármagnskostnað. [...] Reynt var að líkja eftir félagaforminu með því að takmarka ábyrgð starfsmanna við 10% persónulega ábyrgð auk trygginga sem fólust í undirliggjandi andvirði verðmæti hlutanna, sem á þessum tíma var verulega hærra en lánsfjárhæðin. Lagt var til grundvallar að bréfin yrðu seld ef tryggingaþekjan færi niður fyrir 120% mörk og þannig væri útilokað að starfsmenn gætu orðið fyrir fjárhagslegum skaða."

Að minnsta kosti hluti stjórnenda Kaupþings fylgdi því eftir að koma lánunum úr persónulegri ábyrgð sinni. Þann 12. desember 2006 sendu Magnús Guðmundsson, framkvæmdastjóri Kaupþings Lúxemborg, og Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kaupþings Singer & Friedlander, tölvubréf af netfangi Magnúsar til Sigurðar Einarssonar og Hreiðars Más Sigurðssonar og afrit á Ármann Þorvaldsson. Í bréfinu kom fram hugmynd um að stjórnendurnir gætu losað sig undan persónulegri ábyrgð vegna lánanna þannig að Kaupþing bæri alla áhættu.Tekið skal fram að innan hornklofa eru skýringar rannsóknarnefndar á hugtökum sem skammstöfuð eru í bréfinu:

"Sæll Siggi og Hreiðar

Þar sem að Ármann er búinn að ræða þetta við ykkur höfum við talað okkur saman (samtök loyal CEOa) og komist að þessari hugmynd um bréf okkar í bankanum:

1. Við stofnum SPV (hver um sig) [eignarhaldsfélag eða Special Purpose Vehicle] og setjum öll bréf og lán í það félag.

2. Við fáum viðbótarlán uppá að 90% LTV [Loan to Value, eða 90 krónur að láni fyrir hverjar 100 sem eru í félaginu þegar] sem þýðir að við tökum út einhvern pening strax.

3. Við fáum heimild fyrir að fá lánað meira ef gengi KB hækkar sem nemur 90% LTV upp að genginu 1000. Þannig að ef gengið fer yfir 1000 þá getum við ekki fengið meira lánað.

4. Bankinn hefði engin margincall á okkur og myndi taka á sig fræðilegt tap ef að yrði

Við hefðum áhuga á að nota hluta af þessu fjármagni til að setja inní Kaupthing Capital Partners (principal investment sjóður bankans)

Kveðja Magnús og Ármann

Eins og við höfum sagt áður þá höfum við rætt þessa hugmynd við Ingólf líka."

Tölvubréf Magnúsar og Ármanns lýsir tiltekinni afstöðu meðal æðstu stjórnenda bankans um hvernig binda eigi saman hag hluthafa og stjórnenda.Tillagan sem þarna er sett fram felst í því að stjórnendur geti innleyst áhættulausan hagnað sinn með því að leggja stöðugt meiri áhættu á bankann og hluthafa. Þeir leggja til að eignarhaldsfélög þeirra taki við bréfum sem þegar hafa verið veðsett í bankanum og fái enn frekari lán frá bankanum. Með þessu hefðu þeir getað greitt arð út úr félögunum með lánunum og veðsett alla þá hækkun sem orðið hafði á bréfunum síðan þau voru fyrst veðsett. Þess má geta að Ármann færði lán sín yfir í eignarhaldsfélag í janúar 2007 en Hreiðar Már hafði gert það vorið 2006.

Félagið Kaupthing Capital Partners II Fund L.P. (KCPII/Master) virðist m.a. hafa verið notað í sama tilgangi og Magnús og Ármann lýstu í tölvubréfi sínu. Sjóðurinn átti einnig að halda utan um fjárfestingar Kaupþings í óskráðum bréfum og var opinberlega kynntur sem lokaður sjóður í eigu félagsins, fagfjárfesta og viðskiptavina bankans í einkabankaþjónustu hans. Hinn 14. desember samþykkti lánanefnd stjórnar Kaupþings lán Kaupþings Lúxemborg til starfsmanna eða eignarhaldsfélaga í þeirra eigu sem námu allt að 137 milljónum sterlingspunda til að fjárfesta í félaginu KCPII. Um 47 milljónir punda skyldu skiptast milli eftirtalinna aðila:

Á sama lánanefndarfundi tók nefndin fyrir umsókn KCPII/Master um að Kaupþing myndi veita félaginu bankaábyrgð (e. back up guarantee) að hámarki 45 milljónir evra. Að auki fór fjárfestingarsjóðurinn KCPII Fund sjálfur fram á lán sem nam alls 84 milljónum sterlingspunda (þá um 120 milljónir evra) til að fleyta félaginu yfir tímabundinn lausafjárvanda. Tilgangur félagsins er fremur óljós af fundargerð lánanefndar að dæma en því var ætlað að "fjárfesta í fyrirtækjum á sanngjörnum verðum, með hagnaðarmöguleika og skapa sjóðstreymi, sem hafa þegar komið sér vel fyrir á markaði og hafa skýrar leikáætlanir til að byggja upp virði fyrir hluthafana með innri vexti og/eða yfirtökum".

Þar sem lánsupphæðin sem KCPII sóttist eftir var það há að hún taldist stór áhættuskuldbinding fyrir Kaupþing Lúxemborg (sem miðaðist við 84 milljónir evra) fór sjóðurinn fram á að móðurfélagið Kaupþing á Íslandi veitti ábyrgð fyrir því sem út af stæði, upp að 120 milljónum evra.Veð Kaupþings Lúxemborg fyrir lánunum voru bréfin í sjóðnum sjálfum sem og bréf starfsmanna sem stóðu að sjóðnum í Kaupþingi. Ekki fylgir nákvæm útlistun á veðunum í fundargerð lánanefndar. Hinn 31. ágúst 2008 var KCPII/Master með 83,6 milljónir evra að láni hjá Kaupþingi Lúxemborg.

Aðrir starfsmenn sem nutu lánafyrirgreiðslu með afgreiðslu lánanefndar stjórnar skv. fylgiskjölum fundargerðarinnar (nefndir KCPII Investors) til kaupa í KCPII/Master, og sem lögðu fram 10% eigið fé á móti láninu, voru:

Lánin vegna fjárfestinga starfsmanna í Kaupthing Capital Partners II Fund námu því a.m.k. um 109 milljónum punda eða ríflega 19 milljörðum króna miðað við gengi krónunnar við fall bankans. Kaupþing Capital Partners II fékk svo samþykkta lánafyrirgreiðslu fyrir alls 137 milljónir punda sem samsvarar 24 milljörðum króna miðað við gengi íslensku krónunnar og sterlingspunds 30. september 2008. Stærstur hluti þessara 43 milljarða króna vegna Kaupthing Capital Partners (19 milljarðar beint til stjórnenda) er því viðbót við þá 45 milljarða sem æðstu stjórnendur Kaupþings höfðu þegar fengið í lán hjá bankanum í árslok 2007.

Hvað varðar lán starfsmanna á Íslandi skal tekið fram að ekki færðu starfsmenn lán og hlutabréf sín yfir í eignarhaldsfélög ef undan eru skildir fjórir starfsmenn sem fengu til þess sérstakt leyfi Hreiðars Más Sigurðssonar og Guðnýjar Örnu Sveinsdóttur, fjármálastjóra, árið 2008. Það voru Kristján Arason (febrúar 2008), Ingvar Vilhjálmsson (október 2008), Hannes Frímann Hrólfsson (október 2008) og Guðni Níels Aðalsteinsson (október 2008). Bjarki Diego, framkvæmdastjóri, hafði stofnað eignarhaldsfélagið DAB ehf. í ágúst 2007. Lán Bjarka með veðum í Kaupþingi voru þó að stærstum hluta tekin í hans eigin nafni en hlutabréf í Kaupþingi sem voru veðandlag lánsins voru færð sem eign eignarhaldsfélagsins í apríl 2008, alls um 1,5 milljónir hluta, þá að verðmæti um 1,3 milljarðar króna.

Bjarki H. Diego var skráður fruminnherji í Kaupþingi. Einkahlutafélag hans, DAB ehf., hefði átt skv. reglum að vera á skrá hjá Fjármálaeftirlitinu sem félag fjárhagslega tengt fruminnherja en var það ekki. Þannig var ekki tilkynnt um kaup Bjarka á hlutabréfunum í viðskiptakerfi Kauphallarinnar en hér var um kaup fruminnherja að ræða.

Sama á við um Guðna Níels Aðalsteinsson og félag hans RST ehf. en viðskipti þessara aðila voru ekki tilkynnt til Kauphallarinnar eins og reglur kveða á um. Guðni var skráður fruminnherji í Kaupþingi og einkahlutafélag hans RST ehf. var skráð sem fjárhagslega tengdur aðili.

Í fundargerðinni fyrir 24. fund lánanefndar stjórnar Kaupþings þann 14. desember 2007 kemur eftirfarandi fram á bls. 2:

Kaupthing Capital Partners II Fund

The request is of a Back up Guarantee in the amount of maximum EUR 45m. Kaupthing Luxemburg has granted Kaupthing Capital Partners II Fund, an approval of a loan request in the total amount of GBP 84m (approx. EUR 120m) to cover temporary cash flow needs. Kaupthing Capital Partners II Fund L.P. (KCPII) is constituted based on a Limited Partnership Agreement between KCP II efg (Iceland) as Founder Partner and The Limited Partners. The Fund will, through the Investment Manager, target companies which are accessible at reasonable prices, are profitable and cash generative, which occupy established market positions and have a clear strategy to build shareholder value through organic and/or acquisition-led growth. Since the amount of the requested facility exceeds KBLUX large exposure limit (Currently EUR 82m) the difference up to approx. EUR 120m will have to be covered by a Guarantee from KBICE. The Guarantee fee will be as follows:

- 1.2% p.a. for the guaranteed amount corresponding to the utilised portion of the committed facility.

- 0.6% p.a. for the guaranteed amount corresponding to the unutilised portion of the committed facility.

The Board Credit Committee approved the request.

Kaupthing Capital Partners II Fund - Employees

An approval of loan facilities in the amount of up to GBP 137m is sought.The purpose is to invest in Kaupthing Capital Partners II Fund L.P.The borrowers are Kaupthing Bank employees, requesting up to GBP 47m, and a holding company which will be in the ownership of the Fund employees and key employees of Investment Banking, requesting up to GBP 90m.

The GBP 47m will be divided between the following individuals/entities:

Maturity will be 1 year, margin L+1.75%.

A pledge will be taken in the invested participation of the fund as well as all shares in Kaupthing Bank held by the employees in question.

The Board Credit Committee approved the request but recommended that the Board of Directors of Kaupthing Bank, or its appropriate sub-committees, would put down directions on transactions between employees of Kaupthing Bank hf. and funds administered by the bank.

The approval of granting loans to Sigurdur Einarsson and Hreidar Mar Sigurdsson is in line with a resolution made at the 329th meeting of the Board of Directors of Kaupthing Bank hf., where, in accordance with article 57 of Act No. 161/2002 on Financial Undertakings and Internal Control and Procedural Handbook, the board agreed to grant Sigurdur Einarsson and Hreidar Mar Sigurdsson a loan of 10 million GBP each due to investments in KCP II., based on normal terms and monitored by the internal auditor in accordance with general rules.

Þar sem Magnús Guðmundsson (forstjóri Kaupthing Bank Luxembourg) og Ármann H. Þorvaldsson (forstjóri Kaupthing Singer & Friedlander) voru báðir starfsmenn dótturfélaga Kaupþings kemur skuldastaða þeirra (eða eignarhaldsfélaga í þeirra eigu) ekki fram á þeim myndum sem hér eru sýndar að ofan. Samkvæmt lánabókum og skýrslu innri endurskoðunar Kaupþings frá 30. júní 2008 var skuldastaða Magnúsar 3,1 milljarður kr. en tryggingaþekja lánsins var á þeim tíma komin niður í 84%. Félagið Ármann Þorvaldsson ehf. skuldaði móðurfélaginu 3,5 milljarða á sama tíma og tryggingaþekja var 83%. Magnús stofnaði eignarhaldsfélagið Magnús Guðmundsson ehf. í júní 2008 en félagið átti ekki í neinni starfsemi það árið og er skuldlaust skv. ársreikningi 2008 og lánabókum móðurfélags Kaupþings.

Í greinargerð framkvæmdastjóra lögfræðisviðs Kaupþings sem rannsóknarnefndinni var afhent í mars 2009 segir til skýringar þessu:

"Á árinu 2006 féll FME frá þeirri afstöðu sinni að leggjast gegn því að starfsmenn stofnuðu eignarhaldsfélög um kaup á hlutum. Á stjórnarfundi 24. maí 2006 var samþykkt að veita forstjóra félagsins heimild til þess að stofna félag utan um hlutafé sitt í bankanum. Í fundargerð var bókað að öll persónuleg ábyrgð hans á skuldum falli niður. Starfsreglum bankans var breytt til samræmis við þetta.

[....]

Þegar verð hluta lækkaði á árinu 2007 var bankanum nokkur vandi á höndum að nýta sér hefðbundin ákvæði um veðköll bréfanna.

Ástæðan var sú að slík innlausn hefði kallað á tilkynningar til Kauphallar um stórfelldar sölur starfsmanna á hlutafé í bankanum sem hefði óhjákvæmilega vakið mikla tortryggni hjá öðrum hluthöfum bankans, greiningaraðilum og fjárfestum almennt. [....] Þegar starfsmenn óskuðu eftir uppgjöri á lánunum ákvað bankinn að nýta sér ekki skilmála í bréfunum um veðköll en fullvissaði starfsmenn bankans hins vegar um það að þeir þyrftu ekki að hafa áhyggjur af því að gengið yrði að skuldinni á þá persónulega."

Framangreind frásögn er á sama veg og kom fram í bréfi sem stjórnarformaður félagsins, Sigurður Einarsson, skrifaði frá London 26. janúar 2009 og sagt var til vina og vandamanna en birtist á opinberum vettvangi, á vefsíðum svo sem mbl.is:

"Þegar verð hlutanna lækkaði á árinu 2007 var bankanum nokkur vandi á höndum að nýta sér hefðbundin ákvæði um veðköll hlutabréfanna. Ástæðan var sú að stórfelldar sölur starfsmanna á hlutafé í bankanum hefðu óhjákvæmilega vakið mikla tortryggni hjá öðrum hluthöfum bankans, greiningaraðilum og fjárfestum almennt.Til viðbótar þessu höfðu einstakir starfsmenn bankans stöðu innherja sem torveldaði sölu hlutanna enn frekar."

Á stjórnarfundi 25. september 2008 samþykkti stjórn Kaupþings að fella niður persónulegar ábyrgðir starfsmanna þannig að ábyrgð þeirra takmarkaðist við þær tryggingar sem lagðar hefðu verið fram þegar lánin voru veitt.

Þau lán sem Kaupþing hafði veitt Sigurði Einarssyni, stjórnarformanni bankans, til hlutabréfakaupa í bankanum stóðu í um 6,3 milljörðum hjá móðurfélagi Kaupþings við fall bankans. Þá eru ótalin lán frá Kaupþingi Lúxemborg til félaga í eigu Sigurðar, s.s.The S InvestTrust ogThemisto S.A.,en það síðarnefnda var samkvæmt bókum Kaupþings í Lúxemborg með a.m.k. 10 milljónir evra að láni, sjá frekari umfjöllun um Kaupthing Capital Partners II Fund.

10.5.2.3 Árangurstenging launa starfsmanna Kaupþings

Að undanskilinni lánafyrirgreiðslu til kaupa á hlutabréfum í Kaupþingi fólust árangurstengdar greiðslur starfsmanna Kaupþings að mestu í bónusgreiðslum. Kaupréttarsamningar sem árangurstengd laun voru á undanhaldi í bankanum allt frá 2005 til falls hans. Ákvarðanir um upphæðir bónusgreiðslnanna voru í höndum forstjóra, stjórnarformanns, framkvæmdastjóra viðkomandi sviðs og starfsmannastjóra. Rannsóknarnefnd Alþingis fær ekki séð af athugun sem hún hefur gert að bónusgreiðslurnar hafi verið tengdar rekstrarárangri bankans með kerfisbundnum hætti heldur virðast þær hafa verið háðar huglægu mati stjórnenda.

Til marks um bónusákvarðanir æðstu stjórnenda Kaupþings er m.a. tölvubréf sem Sigurður Einarsson, stjórnarformaður, sendi Magnúsi Guðmundssyni, forstjóra Kaupþings Lúxemborg, 9. júlí 2008.Vitnað er til tölvubréfsins hér til hliðar og í beinu framhaldi til svars Magnúsar, sem sent var samdægurs frá BlackBerry Wireless Handheld símtæki.

Það er athyglisverð þróun að bónusgreiðslur til stjórnenda eru hæstar á árinu 2008. Á sama tíma og rekstur bankans var erfiður, lausafjárþröng hrjáði hann og verð á hlutabréfum hans féllu í verði fengu stjórnendur hærri bónusa en dæmi voru um áður. Bónusarnir fóru úr 1,3 milljónum kr. að meðaltali á mánuði árið 2007 í 2,1 milljón kr. að meðaltali á mánuði árið 2008. Upphæðir bónusa til helstu lykilstjórnenda, s.s. Guðnýjar Örnu Sveinsdóttur, fjármálastjóra, Guðna Níelsar Aðalsteinssonar, yfirmanns fjárstýringar, Steingríms Kárasonar, yfirmanns áhættustýringar, og fleiri, hækkuðu úr 15 milljónum kr. fyrir fyrri árshelming 2007 í 25 milljónir kr. fyrir fyrri árshelming 2008. Þetta á þó ekki við um þá aðila sem voru með allra hæstu launin, svo sem Hreiðar Má Sigurðsson forstjóra, en bónusgreiðslur hans lækkuðu úr 6,2 milljónum kr. á mánuði árið 2007 niður í 3,5 milljónir kr. á mánuði að meðaltali árið 2008. Árshlutauppgjör Kaupþings sýna að afkoma bankans batnaði ekki á þessu tímabili en hagnaður á hvern hlut á fyrri árshelmingi 2007 var 34,6 krónur á hlut en 21,5 krónur á hlut á fyrri árshelmingi 2008.

10.5.3 Starfskjör forstjóra og stjórnarformanns Kaupþings

10.5.3.1 Samningar við Sigurð Einarsson

Sigurður Einarsson var ráðinn forstjóri Kaupþings 16. september 1997. Mánaðarlaun hans samkvæmt ráðningarsamningi voru 550 þúsund krónur á mánuði. Skyldu launin hækka í samræmi við almennar hækkanir launa á vinnumarkaði í kjarasamningum. Bónusgreiðslur forstjórans yrðu 2% af hagnaði Kaupþings eftir skatta samkvæmt endurskoðuðu ársuppgjöri fyrir liðið starfsár ef hagnaður næði 15% af arðsemi eigin fjár eins og það var í upphafi liðins starfsárs, en 3% ef arðsemin færi yfir 20% af eigin fé. Færi hagnaður eftir skatta yfir 30% fengi forstjórinn 4% af hagnaði í bónus.

Framlag Kaupþings í lífeyrissjóð Sigurðar var alls 26% af föstum mánaðarlaunum hans, þ.e. 20% til viðbótar lögbundnu lágmarksframlagi, en mótframlag Sigurðar var 4%.

Ekki voru gerðar breytingar á ráðningarkjörum Sigurðar fyrr en 20. nóvember 2003, þegar hann var ráðinn stjórnarformaður Kaupþings banka hf. við sameiningu Kaupþings og Búnaðarbankans. Þá var gert samkomulag milli hans og félagsins um ráðningarkjör í hina nýju stöðu. Í grein 1.2. í samkomulaginu segir að laun fyrir hefðbundin störf stjórnarformanns séu ákveðin á hluthafafundi en laun fyrir sérstök verkefni hans (e. special tasks) séu ákveðin samkvæmt samkomulaginu. Í samkomulaginu er kveðið á um að hin sérstöku verkefni felist í því að stilla saman starfsemi hinna ýmsu útibúa og dótturfélaga Kaupþings milli landa og þannig tryggja að samsteypan vinni sem ein heild að sama markmiði. Fram kemur að gert sé ráð fyrir að stjórnarformaður Kaupþings banka þjóni fyrirtækinu einnig sem stjórnarformaður dótturfyrirtækja og útibúa en hljóti ekki sérstaka greiðslu fyrir þá þjónustu.

Laun fyrir þessi sérstöku verkefni voru ákveðin í samningnum alls 3,3 milljónir króna á mánuði en endurskoðun launakjaranna færi fram árlega. Bónusgreiðslur til stjórnarformannsins skyldu nema 2% af þeim hagnaði sem bankinn skilaði til hluthafa umfram 15% arðsemi eigin fjár. Bónusgreiðslurnar gætu þó aldrei orðið hærri en ársgrunnlaun sem voru samkvæmt þessum samningi 39,6 milljónir króna.

Kaupréttir voru hins vegar veittir í samningnum og voru þeir byggðir á sambærilegum samningum og gerðir höfðu verið við stjórnarformanninn 11. október 2000 (alls 8,2 milljónir á innlausnarverðinu 10,25), og söluréttur á bréfum í bankanum samkvæmt samningi frá 31. desember 2001 (söluréttur á 8 milljónum að nafnvirði í bankanum á 97,6 milljónir kr.). Hinn 30. júní 2003 skyldi stjórnarformanninum samkvæmt samningnum að auki veitt lán, alls rúmir 4 milljarðar kr., til kaupa á 1,5% hlut í bankanum en samningurinn skyldi taka gildi 1. júlí 2003. Gefinn yrði út söluréttur á bréfin á verði 30. júní 2003 en vaxtakostnaður vegna lánsins skyldi metinn til hækkunar verðsins. Ef Sigurður yrði skemur en 5 ár í starfi skyldi bankinn hafa kauprétt á bréfunum á verði sem næmi innlausnarverði (þ.e. því verði sem stjórnarformaðurinn hefði keypt bréfin á) að teknu tilliti til vaxtakostnaðar vegna lánsins, í hlutfalli við þau ár sem hann myndi starfa á því 5 ára tímabili.

Samkvæmt framangreindu kvað samningur Sigurðar og Kaupþings á um að bankinn bæri í öllum tilvikum vaxtakostnað þess rúmlega 4 milljarða króna láns vegna kaupa á 1,5% hlut í bankanum sem kveðið var á um í samningnum að Sigurður fengi. Ef Sigurður hætti sem stjórnarformaður var mælt fyrir um kauprétt bankans á bréfum hans á því verði sem hann keypti þau upphaflega á en ofan á það verð legðist vaxtakostnaður lánsins fram til þess tíma sem hann hyrfi úr starfinu. Skyldi Sigurður hins vegar sitja í starfi samkvæmt því sem gert var ráð fyrir í samningnum og nýta sér sölurétt þegar lánið kæmi á gjalddaga, sem telja verður ljóst að hefði aðeins komið til ef markaðsvirði hlutabréfa Kaupþings væri Sigurði ekki hagstætt á því tímamarki, myndi bankinn kaupa af honum bréfin á upphaflegu verði (e. strike price) að viðbættum vaxtakostnaði lánsins. Áhættan af þessum gerningi lá því öll á bankanum sjálfum.

Lífeyrisgreiðslur Kaupþings til Sigurðar voru með óhefðbundnu sniði. Bankinn skyldi greiða 10% ofan á laun hans og bónusgreiðslur í lífeyrissjóð en það innihélt mótframlag vinnuveitanda. Þá gat hann lagt í lífeyrissjóð sinn að eigin vild af launum sínum (e. voluntary payments) en Kaupþing myndi greiða á móti í samræmi við almenn viðmið. Að auki myndi bankinn greiða 20% af grunnlaunum og bónusgreiðslum sem aukalega greiðslu í séreignarsparnað Sigurðar. Félagið setti það skilyrði að Sigurður ætti ekki frekari lífeyriskröfur á hendur því umfram það sem lagt var til hliðar í séreignarlífeyrissparnað og sameignarsjóði sem Sigurður var aðili að.

Sigurður átti rétt á biðlaunum (e. severence pay) til 12 mánaða, tæki hann ekki endurkjöri sínu sem stjórnarformaður.Að öðrum kosti skyldu biðlaun vera 24 mánuðir. Honum skyldi óheimilt að þiggja laun hjá aðila sem stjórnin mæti sem samkeppnisaðila á meðan að hann þæði biðlaun frá bankanum.

Í ljósi neikvæðrar athygli sem kaupréttarákvæði samnings Sigurðar frá 20. nóvember 2003 fengu í opinberri umræðu á Íslandi var gerður nýr samningur við Sigurð 30. desember 2003, en samningur frá 20. nóvember s.á. var felldur úr gildi. Í yfirlýsingu Hreiðars Más Sigurðssonar og Sigurðar Einarssonar sem birtist í Kauphöllinni 21. nóvember 2003 segir: "Í ljósi umræðna um samning okkar um kaup á hlutabréfum í Kaupþingi Búnaðarbanka óskum við eftir að koma eftirgreindu á framfæri: [...] höfum við ákveðið að falla frá hinum nýgerða samningi um kaup á hlutabréfum í bankanum og orðið hefur að samkomulagi milli okkar og stjórnar Kaupþings Búnaðarbanka að efna til nýrra samningaviðræðna um kaup okkar og kjör. Í þeim viðræðum munum við sem fyrr leggja áherslu á að hagur hluthafa bankans og æðstu stjórnenda fari saman og sömuleiðis að kjör þeirra taki mið af því sem eðlilegt telst í samkeppnisumhverfi bankans."

Samkvæmt hinum nýja samningi voru laun Sigurðar sem starfandi stjórnarformanns alls 740 þúsund krónur á mánuði fyrir árið 2003. Sérstök laun vegna formennsku í stjórn Kaupþings banka voru til viðbótar 300 þúsund krónur á mánuði fyrir árið 2003. Þannig yrðu heildarlaun hans fyrir árið 2003 alls 12.480.000 kr. Bónusgreiðslur fyrir árið 2003 skyldu vera 50 milljónir kr. vegna góðrar afkomu bankans.

Í grein 3.4. hins nýja samnings var kveðið á um að bankaráðið legði fram tillögu á aðalfundi félagsins 20. mars 2004 um að starfsmenn bankans ættu á hverjum tíma tilkall til þess að eiga allt að 7% af hlutafé bankans.Verð hlutanna skyldi vera á markaðsvirði þegar slíkt yrði boðið fram. Sem þáttur í þessari stefnumótun skyldi stjórnarformanninum veitt um 4 milljarða kr. lán til kaupa á bréfum í bankanum með tilheyrandi sölurétti eins og lýst var í samningnum frá 20. nóvember 2003.

Samningurinn frá 30. desember 2003 skyldi taka gildi hinn 1. janúar 2004. Að öðru leyti en því sem að ofan er getið var hann samhljóða samningi þeim sem gerður hafði verið við Sigurð 20. nóvember 2003.

Viðauki var gerður við samninginn frá 30. desember 2003 þar sem kveðið var á um greiðslur til Sigurðar vegna starfa hans fyrir bankann í London en þangað flutti hann á árinu 2003. Þar skyldu laun hans vera 26 þúsund pund á mánuði en samningurinn frá 30. desember kvað á um laun í íslenskum krónum. Staðaruppbót skyldi greidd 4 þúsund pund á mánuði til viðbótar við grunnlaun. Flutningskostnaður skyldi greiddur til baka vegna flutninga hans sjálfs það árið til London, alls 40 þúsund pund. Einnig skyldi bankinn bera "sanngjarnan" kostnað vegna flutninga fjölskyldu hans til London á árinu 2004. Þá skyldi bankinn einnig greiða "sanngjarna" leigu fyrir ákjósanlegan húsakost handa Sigurði og fjölskyldu hans, sem væri "þægilega" staðsettur í London.

Hinn 25. janúar 2005 var gerður nýr viðauki við ráðningarsamning Sigurðar í stað þess viðauka sem gerður hafði verið við samninginn frá 30. desember 2003.Við það féll hinn eldri viðauki frá 30. desember 2003 úr gildi. Nýi viðaukinn tók gildi 1. janúar 2005 og gilti til 31. desember 2005. Helstu breytingar frá fyrra viðauka voru þær að laun Sigurðar voru þar hækkuð í 30.000 pund á mánuði. Með viðaukanum var Sigurði heimilað að ákveða hversu stór hluti bónusgreiðslna hans yrði greiddur í pundum og/eða ráðstafað að hluta eða öllu leyti í lífeyrisgreiðslur, en þá án sérstaks mótframlags frá vinnuveitandanum.

Hinn 18. desember 2006 var þriðji starfskjarasamningurinn gerður við Sigurð Einarsson sem um leið felldi úr gildi alla fyrri samninga og samningsviðauka sem gerðir höfðu verið við hann. Þar var kveðið á um að stjórn bankans hefði heimild til þess að gera starfskjarasamning við Sigurð um sérstök verkefni utan þeirra sem heyrðu til hefðbundinna starfa stjórnarformanns og hluthafafundur kvað á um. Samningurinn tiltók einnig starfsskyldur Sigurðar en þær skyldu felast í stefnumótun og samhæfingu ólíkra útibúa og dótturfyrirtækja sem og að skapa og sækja ný viðskiptatækifæri bankans á erlendri grundu.

Mánaðarlaun samkvæmt hinum nýja samningi árið 2006 voru ákveðin 45.000 bresk pund frá og með 1. janúar 2007 en þau skyldu endurskoðuð árlega af starfskjaranefnd bankaráðs. Sem fyrr voru bónusgreiðslur forstjórans 2% af hagnaði bankans umfram 15% arðsemi eigin fjár. Þó skyldi árlegur bónus ekki vera umfram ársgrunnlaun (45.000*12) í breskum pundum.

Árlegir kaupréttir stjórnarformannsins áttu uppruna sinn í samningi frá því í mars 2004, alls 812 þúsund hlutir á genginu 102,5 á ári. Þeir skyldu renna sitt skeið um mitt ár 2008. Í samningnum 18. desember 2006 var staðfest að bankaráð legði fram þá tillögu að árlegir kaupréttir á 812 þúsund hlutum héldust í þrjú ár til viðbótar, 2009, 2010 og 2011. Þó skyldi innlausnarverð miðast við markaðsverð á aðalfundardegi. Réttur til innlausnar væri í hlutfalli við þau ár sem stjórnarformaðurinn væri í starfi á þessum tíma.

Lífeyrisgreiðslur og viðbótarframlag í lífeyrissjóð Sigurðar breyttust ekki í þessum nýja samningi frá því sem áður var.

Biðlaunatími Sigurðar lengdist úr 24 mánuðum í 46 mánuði, þ.e. ef honum yrði sagt upp. Kysi hann sjálfur að hætta störfum ætti hann rétt á 12 mánaða biðlaunum. Biðlaun skyldu samanstanda af grunnlaunum og lífeyrisgreiðslum.

Í grein 5.3. í samningnum kom fram að stjórn bankans gæti einhliða og án fyrirvara sagt upp samningnum við Sigurð ef stjórnin teldi að Sigurður hefði gerst brotlegur við samninginn, hefði orðið uppvís að vanrækslu eða vanhæfni, ef hann hefði brotið af sér af ásetningi eða ef hann yrði ákærður fyrir aðra refsiverða háttsemi.

Í samningum stjórnar Kaupþings við Sigurð var fjallað um þátttöku bankans í húsnæðiskostnaði Sigurðar vegna búsetu og starfs í London eftir að verkefni hans fyrir bankann fluttust þangað. Á fundi stjórnar 28. maí 2008 samþykkti stjórnin beiðni stjórnarformannsins um að bankinn leigði af honum húsnæði sem hann hafði keypt og bankinn fjármagnað. Þriðji aðili skyldi meta hvort leigukjör bankans á húsnæðinu væru ásættanleg. Sigurður hafði fengið lán frá Kaupþingi Lúxemborg til að fjármagna kaup á húsnæðinu en leiguverðið sem bankinn gekkst inn á að greiða Sigurði var ákveðið sem fjárhæð sem nam kostnaði og afborgunum af láninu.

Auk leigu sem bankinn greiddi Sigurði fyrir húsnæði samkvæmt samningi, lagði bankinn til greiðslu vegna húsbúnaðar á einkaheimili Sigurðar í Lundúnum 24. september 2008, alls 57 þúsund pund eða um 9 milljónir kr. Rannsóknarnefnd Alþingis hefur þrátt fyrir ítrekaða eftirgrennslan ekki fengið gögn í hendur sem sýna hvernig staðið hefur verið að endurgreiðslu þessara fjármuna. Útibú Kaupþings í London innti af hendi ofangreindar greiðslur vegna húsaleigu og húsbúnaðar. Starfsemi þess útibús virðist ekki hafa verið háð eftirliti innra eftirlits eða endurskoðunar Kaupþings á Íslandi og aðkoma ytri endurskoðenda virðist líka hafa verið takmörkuð. Nánar er fjallað um rekstur útibús Kaupþings banka hf. í London í rammagrein hér að neðan.

Útibú Kaupþings í London og kostnaður við störf stjórnarformanns frá árinu 2005 að falli bankans í október 2008

Á árinu 2005 komu fram ábendingar af hálfu breskra skattyfirvalda um að ekki væri eðlilegt að kostnaður sem tengdist stjórnarformanni Kaupþings væri færður til gjalda hjá litlu dótturfélagi bankans í Bretlandi á þeim tíma, Kaupthing Ltd. Ábendingarnar byggðu á því að samband á milli tekjufærslu og gjaldfærslu í reikningi félagsins væri rofið með þessum hætti við reikningsfærslu. Í framhaldi af þessum athugasemdum stofnaði Kaupþing útibú móðurfélagsins í Bretlandi.

Heildarkostnaður vegna reksturs útibúsins frá maí 2005 til október 2008 nam alls 1.311,5 milljónum króna. Auk stjórnarformanns starfaði einn aðstoðarmaður í útibúinu á fyrri helmingi tímabilsins en tveir á seinni hluta þess. Rannsóknarnefnd Alþingis óskaði eftir því við Kaupþing banka hf. að gerð yrði grein fyrir helstu útgjöldum útibúsins, hvernig hefði verið háttað meðferð þessara gjalda í reikningsskilum bankans, hvernig innra eftirlit bankans hefði komið að útibúinu og jafnframt innri og ytri endurskoðun. Allt frá miðju ári 2009 hefur rannsóknarnefndin leitað eftir svörum við þessum atriðum en fyrirspurnir borið takmarkaðan árangur þrátt fyrir viðleitni starfsmanna bankans sem leitað hefur verið til. Þar kemur fyrst til að fylgigögn bókhalds útibúsins voru vistuð hjá dótturfélagi í London en bókhaldsgagn sem færsla í bókhaldi samstæðunnar byggðist á var samandregið yfirlit á einni A4 blaðsíðu.Ytra eftirlit bankans var óvirkt gagnvart útgjöldum þessa útibús í London og einnig innri endurskoðun.

Við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd 7. september 2009 komu meðal annars fram eftirfarandi sjónarmið innri endurskoðanda Kaupþings, Lilju Steinþórsdóttur, um framangreind atriði útibús bankans í London: "Í fyrsta lagi vissi ég ekki persónulega um annað en að þetta væri bara inni í öllu "geiminu" og þá undir eftirliti bæði fjármálasviðs og fjármálastjóra og ytri endurskoðanda." Innri endurskoðandi bankans var einnig spurð að því hvenær hún hefði fyrst frétt af því að svo væri ekki. Svar hennar var að það væri "bara núna í þessari rannsókn". Þá var hún spurð hvernig slíkt hefði getað gerst og svaraði hún því svo: "[É]g held að það sé vegna mjög, bæði vegna þess, eins og þú segir, að þetta var stjórnarformaðurinn, svona ef maður reynir bara að líta á sálfræðina á bak við þetta, og þetta er ekkert endilega það eina sem stjórnendur bankans voru að taka til sín án þess að það væri eftirlit með því." Um hið síðastnefnda sagði innri endurskoðandinn nánar: "[J]a, ég er t.d. með í huga að það var einhver geymsla hérna inni í Skútuvogi eða einhvers staðar full af einhverjum bílum, græjum, tjaldvögnum og einhverju svona dótaríi sem stjórnendur höfðu aðgang að, til dæmis. [...] En síðar held ég að fjármálastjórinn, Guðný Arna, hún var gífurlega sterkur karakter [...]. Hún bara stjórnaði þessu. Ég held að það hafi verið helst það."

Við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd 31. júlí 2009 voru ytri endurskoðendur Kaupþings banka hf., KPMG, spurðir hvort þeir hefðu endurskoðað starfsemi útibúsins í London. Reynir Stefán Gylfason, löggildur endurskoðandi, svaraði: "Ég þyrfti bara að fá að skoða og svara ykkur [...], svara því sérstaklega." Með bréfi til rannsóknarnefndar, dags. 12. ágúst 2009, frá KPMG er því lýst hvernig staðið var að endurskoðun á útgjöldum vegna stjórnarformanns Kaupþings. Í bréfinu sagði: "Við höfum ekki skoðað sérstaklega útgjöld vegna stjórnarformanns Kaupþings. Meðal kostnaðar undir þessum lið eru laun stjórnarformanns og kostnaður við húsnæði í London, sem hvort tveggja er talið honum til skattskyldra tekna og er hluti launaskýringar í ársreikningi, sem er endurskoðuð."

Heildarkostnaður við rekstur útibúsins nam á tímabilinu 1.311,5 milljónum króna. Hann skiptist þannig að 759,7 milljónir kr. eru vegna launaútgjalda, eða um 58% af heildarkostnaðinum, og 551,8 milljónir kr. vegna annars kostnaðar, eða 42% af heildarkostnaðinum. Bónusgreiðslur voru 28% af heildarlaunakostnaði eða 213,4 milljónir kr. á tímabilinu. Ef heildarlaunakostnaði er skipt á 2,5 stöðugildi alls tímabilsins að jafnaði nemur hann 131 milljón kr. á ári. Á árinu 2007 hækkar húsnæðiskostnaður frá árinu áður um 30 milljónir kr. og ferðakostnaður um svipaða fjárhæð.

10.5.3.2 Samningar við Hreiðar Má Sigurðsson

Hreiðar Már Sigurðsson var ráðinn aðstoðarforstjóri Kaupþings 1. ágúst 1998. Föst mánaðarlaun hans samkvæmt ráðningarsamningi voru 375.000 krónur.Að auki skyldu bónusgreiðslur Hreiðars nema 2% af hagnaði bankans eftir skatta samkvæmt endurskoðuðu ársuppgjöri fyrir liðið starfsár ef hagnaður næði 15% af arðsemi á eigið fé fyrirtækisins eins og það var í upphafi ársins. Lífeyrisgreiðslur Kaupþings námu 10% af heildarlaunum Hreiðars til viðbótar við hans eigið 4% framlag. Í 6. gr. samningsins skuldbatt Kaupþing sig til að greiða skólagjöld fyrir Hreiðar í allt að 2 ár ef hann ákvæði að fara í framhaldsnám eftir 30. september 2000. Gegn þessu lofaði Hreiðar að vinna hjá fyrirtækinu í 12 mánuði eftir að námi lyki.

Rannsóknarnefnd Alþingis fór fram á það við Kaupþing að fá afhenta alla samninga bankans við forstjóra og stjórnarformann. Aðeins tveir samningar bárust varðandi kjör Hreiðars. Annars vegar fyrrnefndur samningur frá árinu 1998 og hins vegar samningur sem gerður var 18. desember 2006. Í þeim síðarnefnda var gert ráð fyrir að mánaðarlaun Hreiðars væru 45.000 bresk pund og endurskoðuð árlega. Gert var ráð fyrir að bónusgreiðslur til Hreiðars næmu 2% af hagnaði bankans sem væri umfram 15% arðsemi eigin fjár en sú fjárhæð yrði ekki hærri en sem næmi árslaunum hans (45.000*12).

Frá mars 2004 naut Hreiðar árlegra kauprétta á alls 812.000 hlutum í bankanum á innlausnarverði 303 fram til ársins 2008. Samkvæmt samningnum frá 18. desember 2006 skyldi stjórnin bera upp tillögu á aðalfundi 2007 um að framlengja hina árlegu kauprétti Hreiðars til ársins 2011, en innlausnarverð skyldi miðast við markaðsvirði þann dag sem aðalfundur yrði haldinn. Kauprétturinn ávannst þó ekki nema þá aðeins að Hreiðar héldi áfram störfum hjá bankanum í þrjú ár frá mars 2009. Áunninn kaupréttur yrði hlutfallslegur miðað við þann tíma sem Hreiðar væri í starfi hjá bankanum, kysi hann að hverfa til annarra starfa innan þessara þriggja ára.

Lífeyrisgreiðslur bankans til Hreiðars voru 10% af föstum launum sem og bónusgreiðslum en þar með er talið hið lögboðna 6% mótframlag atvinnurekanda. Eins og í samningi Sigurðar Einarssonar var Hreiðari heimilt að leggja meira af launum sínum til hliðar í lífeyrissjóð og njóta hefðbundins mótframlags frá bankanum í slíkum tilvikum. Að auki greiddi bankinn 20% af launum og bónusgreiðslum í séreignarsjóð en tekið var fram að umfram það gæti Hreiðar ekki átt frekari kröfur á hendur bankanum um lífeyrisgreiðslur.

Bankinn greiddi allan ferðakostnað, þ.m.t. fæðiskostnað og húsnæði fyrir forstjórann á ferðum hans fyrir bankann, sem og fyrir konu hans ef tilhlýðilegt var talið að hún ferðaðist með honum í erindrekstri hans fyrir bankann. Bankinn stóð einnig straum af rekstri og kostnaði vegna bifreiðar forstjórans og fjarskipta.

Gagnkvæmur uppsagnarfrestur Hreiðars og bankans var 12 mánuðir en hann átti rétt á 48 mánaða biðlaunum eftir að störfum hans fyrir bankann lyki. Á biðlaunatímanum var Hreiðari óheimilt að starfa fyrir annan banka eða samkeppnisaðila bankans.

Í grein 5.3. í samningi Kaupþings við Hreiðar frá 18. desember 2006 kom fram að stjórn bankans gæti sagt samningnum upp einhliða og án fyrirvara ef hún teldi að Hreiðar hefði gerst brotlegur við ákvæði samningsins, ef hann yrði uppvís að vanrækslu eða vanhæfni, ef hann bryti af sér af ásetningi eða yrði ákærður fyrir aðra refsiverða háttsemi.

10.5.3.3 Samningar við Ingólf Helgason

Ingólfur Helgason var ráðinn til Kaupþings 13. júlí 1994 sem starfsmaður verðbréfasviðs við miðlun verðbréfa. Launakjör hans miðuðust við 7% hlutdeild í hagnaði verðbréfasviðsins (í hverjum mánuði "áður en tillit er tekið til skatta"). Launin skyldu þó ekki vera lægri en 200.000 kr. á mánuði en ekki hærri en 300.000 kr. Ekki skyldi greitt fyrir unna yfirvinnu nema sérstaklega yrði um það samið.

Hinn 9. ágúst 1996 undirrituðu Ingólfur og þáverandi forstöðumaður verðbréfasviðs, Sigurður Einarsson, nýtt samkomulag þar sem grunnlaun Ingólfs voru hækkuð í 250 þúsund krónur á mánuði en jafnframt fengi Ingólfur 25 þúsund krónur greiddar ef áætlanir mánaðarins um afkomu verðbréfasviðs stæðust. Hann skyldi einnig fá greiddan bónus sem næmi 2% af meðaltali afkomu þriggja mánaða á undan. Samkomulagið gerði einnig ráð fyrir því að Kaupþing keypti Einingabréf fyrir eina milljón króna að markaðsvirði og ef Ingólfur yrði enn í starfi 30. september 1998 skyldu bréfin færast yfir á nafn hans.

Ingólfur varð forstöðumaður markaðsviðskipta Kaupþings árið 2001. Hinn 1. júní 2001 gerðu Kaupþing og Ingólfur nýtt samkomulag um launakjör hans. Þar voru mánaðarlaun hans ákveðin alls 600.000 kr. Afkomutenging yrði með þeim hætti að Ingólfur skyldi fá greiddan bónus sem næmi 1% af meðaltali hagnaðar MIH (miðlun innlendra hlutabréfa), MEH (miðlun erlendra hlutabréfa), MS (miðlun skuldabréfa) og EVK (eigin viðskipti Kaupþings) næstu þrjá mánuði á undan, samkvæmt upplýsingum frá bókhaldi og áhættustýringu Kaupþings hf. Ingólfi skyldi einnig látin í té bifreið Kaupþings til eigin nota.

Hinn 25. febrúar 2004 var Ingólfur gerður að framkvæmdastjóra markaðsviðskipta Kaupþings banka hf. (KB banka). Ingólfi skyldi óheimilt að taka að sér önnur störf meðan hann gegndi stöðunni hjá bankanum, nema með skriflegu samþykki forstjóra. Þá var ákveðið að mánaðarlaun Ingólfs yrðu 900 þúsund kr. Bónusgreiðslur skyldu greiddar tvisvar á ári, 1. febrúar og 1. ágúst. Slíkar greiðslur skyldu taka mið af árangri samstæðunnar í heild, KB banka á Íslandi og markaðsviðskipta bankans. Bónus yrði greiddur ef arðsemi færi umfram 15% af eigin fé bankans. Forstjóri ákvað bónusgreiðslur í samráði við stjórnarformann og starfsmannastjóra. Lífeyrisgreiðslur Ingólfs samkvæmt samningnum voru sambærilegar almennum greiðslum til bankamanna.

Tveimur árum síðar, 1. janúar 2006, var Ingólfur ráðinn forstjóri Kaupþings banka á Íslandi. Grunnmánaðarlaun hans samkvæmt launasamningi voru 2,5 milljónir kr. á mánuði.Yrði hagnaður bankans yfir 15% af eigin fé skyldi Ingólfur njóta bónusgreiðslna sem forstjóri samstæðunnar ákvarðaði í samráði við stjórnarformann. Bónus yrði reiknaður fyrir sex mánuði í senn (tímabilin voru janúar til júní og júlí til desember) og greiðast 1. febrúar og 1. ágúst fyrir liðið tímabil. Lífeyrissjóðsgreiðslur yrðu 11% af grunnlaunum og bónusum en þar með var talið hið lögboðna 6% mótframlag launagreiðanda.Forstjórinn fengi afnot af bifreið í eigu Kaupþings að verðmæti 9 milljónir kr. Skyldi bankinn greiða allan kostnað af rekstri bifreiðarinnar. Samningurinn kvað á um 12 mánaða uppsagnarfrest ef starfsmaður segði starfinu lausu en 24 mánaða uppsagnarfrest ef frumkvæðið yrði bankans. Ingólfi var meinað að hefja störf hjá keppinautum bankans næstu 12 mánuði eftir að starfi fyrir bankann lyki.

10.5.4 Nánar um laun bankastjóra Kaupþings

Heildarlaun Hreiðars Más Sigurðssonar að meðaltali á mánuði ríflega fjórfölduðust á árunum 2004 til 2006 og voru rúmar 80 milljónir kr. á mánuði árið 2006. Heildarlaun hans að meðaltali á mánuði lækkuðu eftir það niður í tæpar 50 milljónir kr. árið 2008. Heildarlaun Ingólfs Helgasonar voru í kringum 10 milljónir kr. að meðaltali á mánuði allt tímabilið.

Grunnlaun Hreiðars Más Sigurðssonar voru lægst árið 2005 eða tæpar 8 milljónir kr. að meðaltali á mánuði. Þau urðu hæst rúmar 12 milljónir kr. árið 2007. Grunnlaun Ingólfs Helgasonar voru tæpar 4 milljónir kr. að meðaltali á mánuði árin 2004 og 2008 en náðu hámarki árið 2006 í rúmum 7 milljónum kr. að raungildi, sbr. mynd 65.

Bónusgreiðslur til Ingólfs Helgasonar náðu hámarki árið 2006 í um 4,5 milljónum kr. að meðaltali á mánuði. Bónusgreiðslur Hreiðars Más Sigurðssonar náðu hámarki árið 2007 í rúmum 6 milljónum kr. að meðaltali á mánuði, önnur ár voru bónusgreiðslur þeirra í kringum 4 og 5 milljónir kr. að meðaltali á mánuði, sbr. mynd 66.

Hlutfall grunnlauna af heildarlaunum Hreiðars Más Sigurðssonar féll úr 54% árið 2004 í 13% árið 2006 en hækkaði svo aftur og nam 20% árið 2008. Hlutfall grunnlauna af heildarlaunum Ingólfs Helgasonar var lægst árið 2005 og nam þá 32% en var önnur ár í kringum 50%, sjá mynd 67.

Hlutfall bónusgreiðslna af heildarlaunum Hreiðars Más Sigurðssonar lækkaði úr tæpum 30% árið 2004 í tæp 5% árið 2006. Árin 2007 og 2008 var hlutfallið í kringum 8%. Árið 2004 nam hlutfall bónusgreiðslna af heildarlaunum Ingólfs Helgasonar rúmlega 35% en lækkaði niður í tæp 25% ári síðar. Síðan varð hækkun á hlutfallinu. Árið 2008 hafði það náð rúmum 45%, sbr. mynd 68.

Hlutfall lífeyrisgreiðslna í heildarlaunum forstjóra Kaupþings var á bilinu 4–8% á árunum 2005–2008. Þetta lága hlutfall helgast m.a. af því að innleystir kaupréttir vógu þungt í heildarlaunum en ekki var greitt í lífeyrissjóð af þeim tekjum, sbr. mynd 69.

Ingólfur Helgason innleysti rúmar 5 milljónir kr. í kaupréttum að meðaltali á mánuði árið 2005 og rúma hálfa milljón kr. á mánuði árið 2007. Innleystir kaupréttir hjá Hreiðari Má Sigurðssyni hækkuðu frá 2004 til 2006. Árið 2006 innleysti hann rúmar 60 milljónir kr. að meðaltali á mánuði en innlausnir fóru síðan minnkandi á árunum 2007 og 2008, sbr. mynd 70.

10.5.5 Ályktanir rannsóknarnefndar Alþingis

Kaupaukakerfi Kaupþings einkenndist af vilja stjórnarinnar og stærstu hluthafa til að hvetja starfsmenn og stjórnendur til mikillar áhættutöku. Merki þess má finna allt frá árinu 1994, sbr. samning við Ingólf Helgason, síðar forstjóra Kaupþings á Íslandi, sem byggði á hlutdeild í hagnaði einvörðungu. Sú stefna hélst yfir allt það tímabil sem hér er til rannsóknar (janúar 2004 til október 2008). Hjá starfsmönnum Kaupþings var launamunur meiri en hjá starfsmönnum hinna bankanna tveggja.

Heildarlaun þeirra 10% starfsmanna Kaupþings sem hæst laun höfðu voru með þeim hæstu hjá íslenskum bönkum á þessu tímabili. Þau voru að jafnaði um 15–18 sinnum laun þeirra starfsmanna sem höfðu meðallaun í bankanum (þ.e. miðgildi launa). Það tók þá starfsmenn sem voru í hópi þeirra 10% sem höfðu lægstu launin þrjú ár að afla sömu tekna og 1% starfsmanna sem hæstu launin þáðu fengu á einum mánuði að meðaltali.

Ljóst er að stjórnendur Kaupþings ákváðu, með samþykki hluthafa, að hverfa frá hvatalaunum í formi kaupréttarsamninga árið 2005 en veittu lykilstarfsmönnum þess í stað lán til hlutafjárkaupa til að ná sama markmiði. Lánin höfðu ýmsa kosti í för með sér fyrir stjórnendur. Ástæðan fyrir þessari umbreytingu á hvatalaununum mun hafa verið sú að stjórnendur Kaupþings vildu koma bankanum undan launakostnaði, kostnaði félagsins vegna opinberra gjalda, draga úr skattbyrði starfsmannanna vegna færslu úr tekjuskatti í fjármagnstekjuskatt, en einnig stuðla að því að vaxtakostnaður vegna lánanna yrði frádráttarbær frá skatti eins og í tilfelli forstjóra Kaupþings og forstjóra Kaupthing Singer & Friedlander sem færðu hluti sína síðar yfir í eignarhaldsfélög.

Það vekur athygli að endurskoðendur skuli hafa látið þá samninga óátalda sem stjórnendur gerðu við bankann eftir að upphaflegar athugasemdir endurskoðendanna komu fram um að söluréttir á hlutabréfum í bankanum skyldu dregnir frá eigin fé bankans. Líkt og að framan er rakið fela samningar um lán til kaupa á hlutabréfum með veðum í bréfunum sjálfum og ekki nema 10% sjálfskuldarábyrgð starfsmanna í meginatriðum í sér það sama og að veita sölurétt fyrir 90% af bréfunum.

Starfsmannalán Kaupþings voru af þeirri stærðargráðu að ljóst var að lántakendurnir væru vart borgunarmenn fyrir þeim ef hlutabréf Kaupþings lækkuðu verulega í verði, hvað þá ef Kaupþing yrði gjaldþrota og hlutabréfin þar með verðlaus. Hluthafafundur Kaupþings samþykkti þá tilhögun í mars 2004 að bankinn myndi lána starfsmönnum fyrir allt að 9% af eigin bréfum Kaupþings. Ástæða þess að hluthafafundur samþykkti að veita starfsmönnum sínum slík lán var að sögn formanns starfskjaranefndar, Ásgeirs Thoroddsen, en hann bar tillöguna upp á hluthafafundinum, sú að lánafyrirgreiðslunni hefði verið ætlað að binda saman hag hluthafa og stjórnenda. Það verður að teljast sérlega veikburða samræming hagsmuna ef starfsmenn njóta alls hagnaðar meðan vel gengur en hluthafar sitja uppi með alla áhættuna og þar með gríðarlegt tap ef illa gengur.

Hér að framan var sagt frá viðbrögðum Kaupþings við því að verð bréfa sem lágu sem veð fyrir lánum starfsmanna vegna hlutabréfakaupa lækkaði. Bankinn ákvað í fyrsta lagi að leysa ekki til sín bréf starfsmanna þegar veðköllum vegna lækkandi tryggingaþekju lánanna var ekki sinnt. Í öðru lagi sinnti bankinn ekki beiðnum þeirra starfsmanna sem sóttust eftir því að selja bréf sín í því skyni að mæta veðköllum á lánum sínum. Í þriðja lagi ákvað síðan stjórnin að leysa starfsmenn undan sjálfskuldarábyrgð vegna lánanna. Þessi viðbrögð hlutu, eðli máls samkvæmt, að geta haft áhrif á hlutabréfaverð bankans.

Starfskjör Sigurðar Einarssonar, stjórnarformanns Kaupþings, t.d. lán til kaupa á 1,5% hlut í bankanum með sölurétti frá árinu 2003, tengdu saman hag hluthafa og stjórnenda með sérstæðum hætti. Tilhögunin fól í sér ávísun á áhættulausan hagnað til handa Sigurði en hvatinn sem felst í slíku kerfi er að auka áhættu í rekstri. Þetta hefur í för með sér að stjórnendur bankans leggja mögulega kapp á skjótfenginn gróða, með miklum og áhættusömum útlánum til skamms tíma, sem jafnframt felur í sér hættu á auknum vanskilum og útlánatöpum til lengri tíma.

Hin fjárhagslega niðurstaða af söluréttinum sem gefinn var út samhliða láni bankans til stjórnarformannsins árið 2003 var í meginatriðum sú sama fyrir hann og ef gefnir hefðu verið út kaupréttir ef frá eru taldir lægri skattar sem fylgja lánafyrirkomulaginu. Í þessu samhengi er athyglisvert að skoða til samanburðar hversu stór hluti af útistandandi hlutum (nafnvirði) almenningshlutafélaga í Bandaríkjunum er lagður til hliðar í kauprétti til handa stjórnendum og öðrum lykilstarfsmönnum. Frá 1992–2002 voru útistandandi kaupréttir í almenningshlutafélögum í Bandaríkjunum að meðaltali á bilinu 1,4%–2,1% af útistandandi hlutum félaganna. Samanlagðir útistandandi kaupréttir og hlutabréf starfsmanna fjármögnuð af Kaupþingi voru hins vegar á miðju ári 2008 um 11–13% af heildarhlutafé bankans. Kaupréttir forstjóra í Bandaríkjunum eru að meðaltali um 0,17% af útistandandi hlutafé í almenningshlutafélögum. Sigurður Einarsson hlaut hins vegar árið 2003 kauprétt á 1,5% hlut í Kaupþingi með lánasamningnum sem þá var gerður við hann – þá er önnur fyrirgreiðsla í formi kauprétta eða lána með veði í fyrirtækinu ótalin.Við þetta bætist svo sú staðreynd að verðbréfamarkaður er grunnur á Íslandi sem gerir hreyfingar starfsmanna út úr stöðum sínum í bankanum mjög erfiðar, einkum sökum þess hversu hátt hlutfall af heildarvirði hlutabréfanna um var að ræða.

Rannsóknarnefnd Alþingis telur að umfang beins og óbeins eignarhluta starfsmanna Kaupþings eða ávísun þar á, sem rekja má til starfs- og launasamninga, hafi verið svo mikið að það hafi verið til þess fallið að hvetja til aukinnar áhættusækni til skamms tíma og þar með til útlánastefnu sem gat orðið bankanum skaðleg. Nánari umfjöllun um útlán bankans er að finna í kafla 8.0.

Kaupréttir í stórum skömmtum hafa viðlíka áhrif á hegðun stjórnenda og lán til kaupa á hlutabréfum með lítilli eða engri persónulegri ábyrgð. Undir eðlilegum kringumstæðum, hefðu lán til kaupa á hlutabréfum í bankanum þýtt lækkun eigin fjár sem er bönkum, sem rekstrarfélögum, dýrkeypt.

Árlegur rekstrarkostnaður útibús Kaupþings í London vegna stjórnarformannsins Sigurðar Einarssonar var ekki undir eftirliti innri eða ytri endurskoðenda bankans. Þar sem launagreiðslur og leiga Kaupþings á húsnæði Sigurðar fóru allar í gegnum útibúið hafði rannsóknarnefnd Alþingis ekki undir höndum gögn sem gerðu nefndinni kleift að kanna launagreiðslur til hans með sama hætti og launagreiðslur til annarra forsvarsmanna bankans. Það hefði átt að vera sérstakt áhersluatriði stjórnar bankans og ytri endurskoðanda að fylgjast með útgjöldum sem tengdust stjórnarformanni þar sem hann var jafnframt í fullu starfi hjá bankanum.

Lánafyrirgreiðsla til æðstu stjórnenda Kaupþings vegna fjárfestinga þeirra í Kaupthing Capital Partners II Fund er athyglisverð. Samskipti starfsmannanna sjálfra í tölvupóstum benda m.a. til að lánin hafi verið veitt án veða og/eða starfsmenn Kaupþings hafi veðsett sömu bréf í bankanum oftar en einu sinni. Félagið Kaupthing Capital Partners II Fund var tekið til gjaldþrotaskipta hinn 15. október 2008.

Í rammagrein 3 kemur fram að við sameiningu Búnaðarbanka Íslands og Kaupþings létu stjórnendur hjá líða að leysa upp aflandsfélög sem Búnaðarbankinn hafði sett upp á Tortóla, Otris S.A. og Ferradis Holding S.A., en þau höfðu þann eina tilgang að halda utan um hlutabréf í Búnaðarbanka Íslands til varnar kaupréttarsamningum starfsmanna hans. Eignir félaganna voru ekki á bókum Kaupþings sem hélt stjórnunarlegum yfirráðum yfir félögunum. Þótt telja megi líklegt að upprunaleg skuld félaganna við Búnaðarbankann til kaupa á bréfum bankans hafi verið greidd ber vitnisburður Guðnýjar Örnu Sveinsdóttur, fyrrum fjármálastjóra Kaupþings, með sér að stjórnendur hafi látið hjá líða að gera félögin upp og innleysa þann hagnað sem varð þegar bréf félaganna í Kaupþingi voru seld til dótturfélags Kaupþings í Lúxemborg þar sem engin þörf var lengur á vörnum vegna kaupréttarsamninga starfsmanna Búnaðarbankans. Flestir þessara starfsmanna höfðu flutt sig frá Búnaðarbankanum yfir í Landsbankann þegar Sigurjón Þ. Árnason var ráðinn þangað. Rannsóknarnefnd Alþingis hefur ekki getað rakið fyllilega hvað varð um það fjármagn sem myndaðist í félögunum tveimur en svo virðist sem stjórnendur Kaupþings hafi komið sér upp nokkurs konar afskriftarreikningi sem þeir nýttu síðar til að mæta því tapi sem ella hefði myndast á bókum Kaupþings í lok árs 2007 vegna misheppnaðra fjárfestinga í skuldabréfavafningum.

Fylgiskjal 1

Hlutabréfakaup lykilstarfsmanna Sparisjóðabankans (Icebank) og Straums-Burðaráss Fjárfestingabanka hf.

Rannsóknarnefnd Alþingis óskaði eftir því við Straum-Burðarás hf., Sparisjóðabankann og SPRON að nefndinni yrðu veittar upplýsingar um stöðu þeirrar fyrirgreiðslu sem starfsmenn nutu til kaupa á hlutum í fyrirtækjunum eins og hún var í byrjun október 2008. Tvö fyrstnefndu fyrirtækin létu í té umbeðnar upplýsingar en SPRON taldi sér ekki unnt að gera það, m.a. af tæknilegum ástæðum og vegna tímaskorts að sögn.

Hlutabréfakaup og lán til félaga í eigu stjórnenda Sparisjóðabankans (Icebank) á markaðsvirði tímabilið 1. janúar 2007 til 21. mars

Á seinni hluta ársins 2007 keyptu félög í eigu lykilstjórnenda og stjórnarmanna Sparisjóðabankans hf. hlutabréf í bankanum, þá að markaðsvirði um 8.780,6 milljónir kr. eða sem nam 27,5% af öllu hlutafé bankans. Hlutabréfakaupin voru fjármögnuð að mestum hluta með lánum frá Sparisjóðabankanum en einnig með lánum frá SPRON, Sparisjóði Keflavíkur, Byr og Sparisjóði Mýrasýslu. Mestur hluti lánanna var í erlendri mynt.Tryggingar fyrir lánunum voru handveð í hlutabréfunum sjálfum.

Taflan hér að neðan sýnir stöðu lánanna eins og hún var í september 2008. Hækkun lánanna má fyrst og fremst rekja til lækkunar á gengi krónunnar. Jafnframt hafði mat á hlutabréfum Sparisjóðabankans lækkað verulega eða um tæp 68% og var innra virði þeirra um 9,5 miðað við árshlutauppgjör bankans 30. júní 2008.

Í október 2007 keyptu félög í eigu bankastjóra Sparisjóðabankans og fimm annarra lykilstjórnenda hluti í bankanum er námu 8,5% af hlutafé bankans. Samtals keyptu þau 96.950.663 hluti að nafnvirði og nam heildarkaupverð þeirra 2.714,3 milljónum króna. Eigendur þessara félaga voru: Finnur Sveinbjörnsson bankastjóri, Gunnar Svavarsson, framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs, Agnar Hansson,framkvæmdastjóri fjárstýringar og síðar bankastjóri Icebank,Hafdís Þóra Karlsdóttir,framkvæmdastjóri rekstrarsviðs,Anna Þ. Reynisdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri viðskiptaþjónustu og Ólafur Styrmir Ottósson, framkvæmdastjóri erlendra viðskipta og staðgengill bankastjóra, síðar aðstoðarbankastjóri.

Í minnisblaði bankastjóra til bankaráðs, dags. 9. október 2007, var m.a. greint frá því að ofangreindir stjórnendur bankans þyrftu á fjármögnun að halda til að geta keypt hluti í bankanum. Í fundargerð stjórnar Sparisjóðabankans, dags. 9. október 2007, var fjallað um þátttöku bankans í fjármögnun á hlutabréfakaupunum. Þar kom m.a. eftirfarandi fram:

"Í minnisblaði bankastjóra er lagt til að formanni bankaráðsins og varaformanni verði veitt fullt umboð til þess að ganga til samninga við lántaka úr hópi kaupenda um lánsfjárhæðir og lánskjör með fulltingi sérfræðinga bankans auk ytri endurskoðenda verði það talið heppilegt.Var það samþykkt samhljóða."

Formaður bankaráðsins á þessum tíma var Geirmundur Kristinsson, sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Keflavíkur, og varaformaður ráðsins var Steinþór Jónsson.

Í áðurnefndu minnisblaði bankastjórans lagði hann til eftirfarandi fyrirkomulag við lánveitingar til félaga í eigu stjórnenda bankans:

"[...] bankaráð veiti formanni og varaformanni bankaráðs ótakmarkað umboð til að semja við bankastjóra og framkvæmdastjóra um allt að 100% fjármögnun bankans með aðstoð viðeigandi sérfræðinga bankans og ytri endurskoðenda."

Í fundargerð bankaráðsins var eftirfarandi bókað um fjármögnun á hlutafjárkaupum félaga í eigu stjórnenda Sparisjóðabankans:

"Var síðan bókuð sú niðurstaða að formanni og varaformanni væri veitt fullt umboð til þess að leiða málið til farsælla lykta í samráði við ytri endurskoðanda bankans eftir því sem nauðsynlegt var talið."

Í kjölfar þessa samþykkti bankaráð Sparisjóðabankans breytingar á reglum um eigin verðbréfaviðskipti stjórnenda bankans til að gera þeim kleift að kaupa hluti í bankanum í gegnum félög í þeirra eigu. Síðar samþykkti bankaráðið einnig að bankinn lánaði til kaupa á hlutabréfum í bankanum og að tekið yrði handveð í þeim hlutum sem lánað væri fyrir án viðbótartrygginga.

Til viðbótar framangreindum hlutabréfakaupum og lánum til stjórnenda bankans var samþykkt í lánanefnd bankans í október 2007 að lána félögum í eigu Steinþórs Jónssonar, varaformanns bankaráðs, Aðalsteins Jóhannssonar (framkvæmdastjóra fyrirtækjaráðgjafar frá 1. jan. 2008), Sigurðar Smára Gylfasonar (framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs frá 1. jan. 2008) og Sveins Hannessonar, varamanns í stjórn Sparisjóðabankans, til hlutafjárkaupa í bankanum. Eins og með fyrri lán bankans til stjórnenda var einungis tekið handveð í hinum keyptu hlutabréfum og engar viðbótartryggingar teknar.

Þeir Aðalsteinn Jóhannsson og Sigurður Smári Gylfason voru aðaleigendur Behrens Fyrirtækjaráðgjafar. Um miðjan október 2007 var tilkynnt að Icebank hefði keypt Behrens Fyrirtækjaráðgjöf og að starfsemi félagsins yrði sameinuð starfsemi Sparisjóðabankans.

Um áramótin 2007–2008 urðu breytingar á stjórnendahópi Icebank. Finnur Sveinbjörnsson, Hafdís Karlsdóttir og Gunnar Svavarsson létu af störfum. Agnar Hansson, framkvæmdastjóri fjárstýringar, varð bankastjóri og ráðnir voru til bankans þeir Aðalsteinn Jóhannsson og Sigurður Smári Gylfason, fyrrum eigendur Behrens Fyrirtækjaráðgjafar.

Félög í eigu þeirra Finns, Gunnars og Hafdísar áttu samtals 5,6% hlutafjár í bankanum. Fram kom á bankaráðsfundi hinn 19. júní 2007, eða rösklega hálfu ári áður en þau létu af störfum hjá Sparisjóðabankanum, að samþykkt hefði verið að lána félaginu Grænni grósku ehf. (dótturfélagi Salt Investment ehf.) samtals 26,3 milljónir króna vegna kaupa á félögunum Breiðutanga ehf. (félagi Finns), Lagos ehf. (félagi Gunnars) og G-tveimur ehf. (félagi Hafdísar).

Engar tryggingar voru fyrir láni þessu aðrar en að bankinn var með kauprétt í eignarhlutum dótturfélaga á grundvelli samkomulags á milli lántaka (Grænnar grósku ehf.), Sparisjóðabankans og dótturfélaganna Breiðutanga ehf., Lagos ehf. og G-tveggja ehf.

Í mars 2008 var samþykkt í bankaráði Sparisjóðabankans að veita félögum í eigu Agnars Hanssonar, Önnu Reynisdóttur og Ólafs S. Ottóssonar viðbótarlán fyrir seinni fjármögnun á hlutafjárkaupum í bankanum. Lánin voru með sömu kjörum og fyrri lán sem félög þeirra fengu í apríl 2007.

Eignarhaldsfélög á vegum Straums-Burðaráss hf., kaup þeirra á hlutabréfum í bankanum og skuldastaða þeirra í október 2008.

Straumur-Burðarás stóð að stofnun þriggja eignarhaldsfélaga. Félögin voru öll skráð á Bresku Jómfrúaeyjum. Megintilgangur eignarhaldsfélaganna var að halda utan um hlutabréfaeign í Straumi-Burðarási en hlutabréfin voru hugsuð til að mæta innlausn á kaupréttarsamningum sem gerðir höfðu verið við helstu stjórnendur bankans.

Í fundargerð 166. fundar lánanefndar Landsbanka Íslands hf. hinn 10. janúar 2007 kemur fram að á milli funda nefndarinnar höfðu þrjú samskonar lán verið samþykkt af hálfu bankans til eignarhaldsfélaganna Visgan Corporation,Omicron Association S.A.og Criollo

S.A. Hvert lán var upphaflega að fjárhæð 2.037 milljónir króna og voru lánin öll eingreiðslulán með gjalddaga 6. mars 2007. Heimild var veitt til að framlengja lánin um 1 ár í senn allt til 6. mars 2010. Kjör á lánunum voru REIBOR + 1,40% auk 0,20% lántökugjalds. Samtals var upphafleg lánsfjárhæð til félaganna þriggja 6.111 milljónir króna.Til tryggingar lánunum voru hlutabréf í Straumi-Burðarás samtals 507 milljón hlutir að nafnvirði. Hlutfall lánsins í samanburði við undirliggjandi veð var 150% veðhlutfall, eða 67% tryggingaþekja, skv. fundargerðinni. Lánin voru framlengd og staða þeirra í lok september 2008 var orðin samtals 7.966 milljónir króna. Samanlögð hlutafjáreign framangreindra félaga nam 4,9% af hlutafé Straums-Burðaráss.

Visgan Corporation

Visgan Corporation er skráð á Bresku Jómfrúaeyjum. Félagið keypti 169 milljónir hluta að nafnvirði í Straumi-Burðarási. Landsbanki Íslands sá um að fjármagna kaupin á hlutabréfunum.Lánastaða Visgan Corp.gagnvart Landsbankanum í lok september 2008 var 2.655 milljónir króna.

Omicron Association S.A.

Omicron Association er skráð á Bresku Jómfrúaeyjum. Félagið keypti 169 milljónir hluta að nafnvirði í Straumi-Burðarási. Landsbanki Íslands sá um að fjármagna kaupin. Lánastaða Omicron gagnvart Landsbankanum í lok september 2008 var 2.655 milljónir króna.

Criollo S.A.

Criollo S.A. er skráð á Bresku Jómfrúaeyjum. Criollo keypti samtals um 169 milljónir hluta að nafnvirði í Straumi-Burðarási. Landsbanki Íslands sá um að fjármagna kaupin. Lánastaða Criollo gagnvart Landsbankanum í lok september 2008 var 2.655 milljónir króna.

Fylgiskjal 2

OLS-greining á næmni þóknanatekna á bónusgreiðslur miðlara Glitnis.