23. kafli Athugasemdabréf samkvæmt 13. gr. laga nr. 142/2008

Rannsóknarnefnd Alþingis var komið á fót með lögum nr. 142/2008, um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, til þess að leita sannleikans um aðdraganda og orsök falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða. Nefndinni var einnig falið að leggja mat á hvort um mistök eða vanrækslu hefði verið að ræða við framkvæmd laga og reglna um fjármálastarfsemi á Íslandi og eftirlit með henni, og loks hverjir kynnu að bera ábyrgð á því, sbr. 1. mgr. 1. gr. fyrrnefndra laga. Samkvæmt 13. gr. laga nr. 142/2008 bar nefndinni að gera þeim, sem ætla mátti að hefðu orðið á mistök eða hefðu orðið uppvísir að vanrækslu í starfi, skriflega grein fyrir afstöðu sinni til atriða sem varða þátt þeirra í málinu og nefndin íhugaði að fjalla um í skýrslu sinni til Alþingis. Í kafla 21.5.2 er nánar vikið að skýringu á hugtökunum "mistök" og "vanrækslu" í skilningi 1. mgr. 1. gr. laga 142/2008.

Með bréfum sem rannsóknarnefndin sendi alls 12 einstaklingum, sem nafngreindir eru hér á eftir, gerði nefndin þeim grein fyrir tilteknum atriðum, athöfnum eða athafnaleysi, sem hún hefði til athugunar að fjalla um í skýrslu nefndarinnar á þeim grundvelli hvort um hefði verið að ræða mistök eða vanrækslu af þeirra hálfu í þeirri merkingu sem felst í hugtökunum eins og þau eru notuð í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 142/2008. Í samræmi við 13. gr. laga nr. 142/2008 var þessum einstaklingum gefinn kostur á að koma að skriflegum athugasemdum sínum áður en nefndin tæki endanlega afstöðu til þess hvort fella bæri umræddar athafnir eða athafnaleysi undir mistök eða vanrækslu samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laganna og þá jafnframt hvort viðkomandi hefði borið ábyrgð í samræmi við þá reglu. Nefndin taldi líka rétt, þótt rætt hefði verið við viðkomandi um mörg af þessum atriðum í skýrslutökum fyrir rannsóknarnefndinni, að fá fram skriflega afstöðu þeirra til umræddra atriða vegna þeirra starfa sem þeir höfðu með höndum í aðdraganda að falli bankanna í október 2008. Á sama hátt taldi nefndin rétt að gefa þessum einstaklingum kost á að lýsa viðhorfum sínum til þess hvernig gæti reynt á ábyrgð þeirra á mistökum eða vanrækslu í merkingu 1. mgr. 1. gr. laga nr. 142/2008 og hverjar hefðu verið starfsskyldur þeirra.

Hér fer á eftir skrá yfir þá tólf einstaklinga sem nefndin boðsendi bréf 8. til 10. febrúar 2010 og gaf tækifæri til að koma skriflegum athugasemdum sínum við afmörkuð atriði sem nefndin hafði til athugunar hvort fella ætti undir 1. gr. laganna.

Skrá yfir þá sem fengu tækifæri til að koma að skriflegum athugasemdum skv. 13. gr. laga nr. 142/2008:

 • Árni M. Mathiesen, fyrrverandi fjármálaráðherra.
 • Áslaug Árnadóttir, fyrrverandi settur ráðuneytisstjóri viðskiptaráðuneytisins, skrifstofustjóri þar og formaður stjórnar Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.
 • Baldur Guðlaugsson, fyrrverandi ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins.
 • Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra.
 • Bolli Þór Bollason, áður ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytisins og nú ráðuneytisstjóri félagsmálaráðuneytisins.
 • Davíð Oddsson, fyrrverandi bankastjóri og formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands.
 • Eiríkur Guðnason, fyrrverandi bankastjóri Seðlabanka Íslands.
 • Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra.
 • Ingimundur Friðriksson, fyrrverandi bankastjóri Seðlabanka Íslands.
 • Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra.
 • Jónas Fr. Jónsson, fyrrverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins.
 • Jónína S. Lárusdóttir, ráðuneytisstjóri viðskiptaráðuneytisins.

Svör bárust frá öllum á tímabilinu 24. til 26. febrúar 2010. Bréf rannsóknarnefndar til þessara einstaklinga og svör þeirra til nefndarinnar má sjá í heild í viðauka 11 sem birtur er í vefútgáfu skýrslunnar.

Í svörum sem nefndinni bárust frá fyrrnefndum 12 einstaklingum lýstu þeir allir því viðhorfi sínu að ekki hefði verið um að ræða mistök eða vanrækslu í skilningi 1. mgr. 1. gr. laga nr. 142/2008 af þeirra hálfu um þau atriði sem nefndin hefði til athugunar og lýst var í bréfum hennar til þeirra. Þá gerðu þessir einstaklingar grein fyrir afstöðu sinni til þess hverjar hefðu verið starfsskyldur þeirra vegna þeirra atriða sem fyrirspurnir nefndarinnar beindust að. Einnig var ítrekað í svarbréfunum vísað til þess að það hefði verið á ábyrgð annarra stofnana og ráðherra eða embættismanna að fara með viðkomandi verkefni og sinna eftirliti af hálfu ríkisins með því málefni sem til umræðu var. Þá var í hluta svaranna að finna aðra afstöðu til málsatvika og til þess á hvaða lagagrundvelli leyst var úr málum heldur en áður hafði komið fram af hálfu sömu einstaklinga við rannsókn nefndarinnar. Í ljósi framangreinds ákvað nefndin að birta bæði bréf hennar til þessara 12 einstaklinga og svör þeirra og er það gert, eins og áður kemur fram, í 11. viðauka rafrænnar útgáfu skýrslunnar. Þessi gögn eru hluti af því sem fram kom við rannsókn nefndarinnar.

Í kafla 21 er að finna niðurstöður nefndarinnar, að virtum framangreindum athugasemdum, um það hvort fyrrnefndir einstaklingar teldust hafa borið ábyrgð á "mistökum eða vanrækslu" við framkvæmd laga og reglna um fjármálastarfsemi á Íslandi og eftirlit með henni í skilningi 1. gr. laga nr. 142/2008, um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða.