14. kafli Verðbréfa- og fjárfestingarsjóðir

14.1 Inngangur

Fjárfestingarsjóðir og verðbréfasjóðir eru sjóðir sem taka við fé frá almenningi, fyrirtækjum og fagfjárfestum til sameiginlegrar fjárfestingar. Sjóðunum er ætlað að fjárfesta í fjármálagerningum og öðrum eignum á grundvelli áhættudreifingar samkvæmt fyrirfram kunngerðri fjárfestingarstefnu. Fyrirkomulagið er í meginatriðum þannig að sérstakt rekstrarfélag sér um rekstur sjóðanna en félagið gefur út hlutdeildarskírteini til eigenda að sjóðunum.

Glitnir, Kaupþing og Landsbankinn áttu allir rekstrarfélög sem voru dótturfélög þeirra, þ.e. Glitnir sjóðir hf., Rekstrarfélag Kaupþings banka hf. og Landsvaki hf. Við fall bankanna voru verðbréfa- og fjárfestingarsjóðir rekstrarfélaganna þriggja samtals 94. Á árunum 2004–2008 jókst heildarverðmæti eigna þeirra sjóða sem rekstrarfélögin þrjú stýrðu um rúm 400%, eða úr 173 milljörðum króna (18,6% af vergri landsframleiðslu 2004) í 893 milljarða króna (60,5% af vergri landsframleiðslu 2008), sbr. mynd 3 í kafla 14.2.3.1. Rannsóknarnefnd Alþingis skoðaði innlenda skuldabréfasjóði sem flestum var slitið eftir fallið, þ. á m. svokallaða peningamarkaðssjóði. Með peningamarkaðssjóðum (e. money market funds) er almennt átt við verðbréfa- eða fjárfestingarsjóði sem fjárfesta í ríkisvíxlum, innstæðum, traustum fyrirtækjaskuldabréfum og öðrum áhættulitlum, auðseljanlegum verðbréfum enda er markmiðið yfirleitt stöðug og áhættulítil ávöxtun. Erlendis hafa slíkir sjóðir jafnan lánshæfiseinkunn.

Nefndin tók alls níu sjóði til sérstakrar athugunar. Hjá hverju rekstrarfélaganna voru valdir stærstu sjóðirnir fyrir almenna fjárfesta sem einkum voru markaðsettir almenningi. Í lok árs 2007 nam heildarverðmæti sjóðanna sem teknir voru til athugunar um 66% af heildarverðmæti allra verðbréfa- og fjárfestingarsjóða undir stjórn rekstrarfélaganna þriggja. Sjóðirnir voru allir skuldabréfasjóðir sem fjárfestu að meginstefnu í innlendum skuldabréfum og víxlum. Hjá Landsvaka voru skoðaðir tveir sjóðir, Peningabréf ISK og Fyrirtækjabréf. Hjá Glitni sjóðum voru skoðaðir þrír sjóðir, Sjóður 1, Sjóður 9 og Sjóður 11. Hjá Rekstrarfélagi Kaupþings voru skoðaðir fjórir sjóðir, Peningamarkaðssjóður, Hávaxtasjóður, Skuldabréf Stutt og Skammtímasjóður. Nánar er fjallað um starfsemi sjóðanna síðar í kaflanum. Flestir þessara sjóða voru fjárfestingarsjóðir í skilningi laga nr. 30/2003 um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði en eins og nánar greinir síðar felst meiri áhætta í því að fjárfesta í fjárfestingarsjóðum en verðbréfasjóðum.

Úttekt rannsóknarnefndar Alþingis tók m.a. mið af mánaðarlegum gögnum um eignir framangreindra sjóða á árunum 2005–2008, skýrslum Fjármálaeftirlitsins og skýrslum sem rekstrarfélögin sendu eftirlitinu og gögnum sem fjárfestar í sjóðunum fengu (útboðslýsingar sjóðanna og einblöðungar). Einnig bárust nefndinni upplýsingar um hlutdeildarskírteinishafa sjóðanna og eignir þeirra í sjóðunum á sama tímabili. Þá voru tekin viðtöl við starfsmenn, þ. á m. sjóðstjóra rekstarfélaganna. Nefndin fékk einnig skýrslur endurskoðunarfyrirtækja um verðmat á eignum eftir slit sjóðanna.

Rétt er að taka fram að upplýsingar þær sem liggja til grundvallar töflum og myndum í þessum kafla eru í flestum tilfellum fengnar frá rekstrarfélögunum þremur.

14.2 Yfirlit um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði

14.2.1 Lagaumhverfi

Um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði gilda samnefnd lög nr. 30/2003. Meginmarkmiðið með setningu laganna var að skapa hagstætt umhverfi til reksturs sjóða, auka fjölbreytni sjóðaúrvals, auka neytendavernd, bæta skattalega stöðu og að innleiða breytingar á tilskipun 85/611 EBE (UCITS tilskipun). Aðalatriði tilskipunarinnar voru að setja sameiginleg skilyrði um skipulag, stjórnsýslu og fjárfestingarheimildir, að heimila sjóðum sem starfa samkvæmt tilskipuninni að markaðssetja sig á Evrópska efnahagssvæðinu, að samræma neytendavernd og auðvelda viðskipti milli aðildarríkjanna.Sjóðir sem falla undir lög nr. 30/2003 skiptast í verðbréfasjóði annars vegar og fjárfestingarsjóði hins vegar. Helsti munurinn á þessum sjóðum er sá að fjárfestingarsjóðir hafa mun rýmri fjárfestingarheimildir en verðbréfasjóðir. Það lýtur einkum að því að fjárfestingarsjóður getur fjárfest í meira mæli í óskráðum verðbréfum og ekki er krafist jafnmikillar áhættudreifingar. Þá er heimilt að markaðssetja verðbréfasjóði á Evrópska efnahagssvæðinu en fjárfestingarsjóði er einungis heimilt að markaðssetja innanlands.

Hlutdeildarskírteini eru gefin út til eigenda í verðbréfa- og fjárfestingarsjóðum sem staðfesting á hlutdeild eigenda í verðbréfaeign viðkomandi sjóðs. Meginreglan er sú að hlutdeildarskírteini í verðbréfasjóðum eru ætíð innleysanleg að kröfu eiganda. Aftur á móti gera lög ekki ráð fyrir því að hlutdeildarskírteini fjárfestingarsjóða séu ætíð innleysanleg að kröfu eiganda. Ástæðan er m.a. sú að fjárfestingarstefna fjárfestingarsjóða getur verið áhættusamari en verðbréfasjóða þar sem kröfur um áhættudreifingu eru minni og fjárfestingarsjóðir geta átt meira af óskráðum verðbréfum sem eru ekki eins auðseljanleg og skráð verðbréf. Það þjónar því ekki hagsmunum eigenda fjárfestingarsjóðs að geta ætíð innleyst hlutdeildarskírteini sín í sjóðnum. Samkvæmt 1. mgr. 53. gr. laga nr. 30/2003 eru hlutdeildarskírteini fjárfestingarsjóða innlausnarskyld en um innlausn fjárfestingarsjóða fer samkvæmt reglum viðkomandi sjóðs. Rekstrarfélagi er skylt að vekja sérstaka athygli viðskiptavinar á þeim reglum sem gilda um innlausnarskyldu sjóðs. Þrátt fyrir þetta er fjárfestingarsjóðum heimilt samkvæmt ákvæðum reglna sjóðsins að fresta innlausn hlutdeildarskírteina, sbr. 2. mgr. 53. gr. laganna. Frestun skal vera almenn og taka til allra hlutdeildarskírteina og verður einungis beitt ef sérstakar ástæður mæla með því og hagsmunir eigenda hlutdeildarskírteina krefjast þess. Frestun á innlausn skal þegar tilkynnt Fjármálaeftirlitinu. Jafnframt skal frestun auglýst opinberlega. Þá getur Fjármálaeftirlitið krafist þess að innlausn hlutdeildarskírteina verði frestað krefjist hagsmunir eigenda skírteinanna eða almennings þess, sbr. 3. mgr. 53. gr.

Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laga nr. 30/2003 er skylt að greina milli reksturs og vörslu verðbréfasjóða. Fjármálafyrirtæki sem hafa umsjá og varðveislu fjármálagerninga verðbréfa- og fjárfestingarsjóða nefnast vörslufyrirtæki. Rekstrarfélag má ekki jafnframt vera vörslufyrirtæki. Þá má stjórnarmaður í rekstrarfélaginu ekki vera í stjórn vörslufyrirtækis. Rekstrarfélag semur við vörslufyrirtæki um umsjá og varðveislu fjármálagerninga verðbréfa- og fjárfestingarsjóða á vegum rekstrarfélags. Fjármunum verðbréfasjóðs skal haldið aðgreindum frá fjármunum vörslufyrirtækis. Þá skal vörslufyrirtæki vera óháð í störfum sínum og ætíð hafa hagsmuni eigenda hlutdeildarskírteina að leiðarljósi.

Þess skal gætt að í auglýsingum og annarri kynningarstarfsemi sjóða komi fram réttar og nákvæmar upplýsingar um starfsemi þeirra. Þá skal þess gætt að skýrt komi fram hvort sjóður sé verðbréfasjóður eða fjárfestingarsjóður, sbr. 1. mgr. 51. gr. Enn fremur skal í auglýsingum og annarri kynningarstarfsemi vísað í útboðslýsingu eða útdrátt úr útboðslýsingu og hvar megi nálgast þau gögn. Það er hlutverk rekstrarfélaga að sjá til þess að viðskiptavinir geri sér grein fyrir mun á áhættu fjárfestingar í verðbréfasjóðum og fjárfestingarsjóðum. Eins og síðar verður rakið virðist ekki við kynningu peningamarkaðssjóðanna hafa verið gerð nægileg grein fyrir því að um fjárfestingarsjóði væri að ræða og hvaða munur væri á þeim og verðbréfasjóðum.

Lagareglur um rekstrarfélög er að finna í lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og lögum nr. 30/2003 um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði. Rekstrarfélög eru lögum samkvæmt sjálfstæð fjármálafyrirtæki sem eiga að vera óháð móðurfélögunum. Hlutverk rekstrarfélaga er að reka verðbréfa- og fjárfestingarsjóði og aðra sjóði um sameiginlega fjárfestingu. Rekstur sjóða er starfsleyfisskyld starfsemi og leyfi til þeirrar starfsemi verður ekki veitt öðrum en rekstrarfélögum, sbr. 7. tölul. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 161/2002. Rekstrarfélög fá starfsleyfi Fjármálaeftirlitsins og geta á grunni þess starfsleyfis opnað útibú eða veitt þjónustu alls staðar á Evrópska efnahagssvæðinu. Rekstrarfélög þurfa að uppfylla ýmis skilyrði til þess að hljóta leyfi, m.a. um hlutafé, stjórn félagsins o.fl., auk lágmarkskröfu um eiginfjárgrunn rekstrarfélaga. Starfsheimildir rekstrarfélaga taka ávallt til reksturs verðbréfasjóða, reksturs fjárfestingarsjóða og reksturs fagfjárfestasjóða. Þá er rekstrarfélögum heimilt að sækja um útvíkkun á starfsleyfi til að stunda eignastýringu, fjárfestingarráðgjöf og vörslu og stjórnun fjármálagerninga í sameiginlegri fjárfestingu.

Rekstur sjóða felst m.a. í fjárfestingum í samræmi við fjárfestingarstefnu, ýmiss konar umsýslu og markaðssetningu. Þó er rekstrarfélagi heimilt að fela öðrum aðilum viss verkefni að fengnu samþykki Fjármálaeftirlitsins. Slíkt hefur þó engin áhrif á ábyrgð rekstrarfélags gagnvart eigendum hlutdeildarskírteina.

Rekstrarfélag skal í samræmi við 19. gr. laga nr. 30/2003 starfrækja verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði í samræmi við góða viðskiptahætti og venjur með trúverðugleika markaðarins og hagsmuni eigenda hlutdeildarskírteina að leiðarljósi. Í athugasemdum með frumvarpi til laganna segir meðal annars: "Með hugtökunum góðir viðskiptahættir og venjur er bæði átt við fyrirmæli sem leiða af settum lögum, eins og t.d. 11. gr. tilskipunar 93/22/EB um fjárfestingarþjónustu á sviði verðbréfaviðskipta, og eins almennari siðareglur og viðteknar venjur í fjármálastarfsemi eða einstökum undirgreinum hennar. Sambærilegt ákvæði er í lögum um fjármálafyrirtæki og frumvarpi til laga um verðbréfaviðskipti."Rekstrarfélög skulu vera óháð í störfum sínum og ætíð hafa hagsmuni eigenda hlutdeildarskírteina að leiðarljósi, sbr. 2. mgr. 15. gr. laga nr. 30/2003. Ráða má af athugasemdum með frumvarpi til laganna, þar sem vitnað er til óopinberrar greinargerðar með UCITS-tilskipuninni frá 1988, að óhæði sé afar mikilvægt. Þar sem rekstrarfélag annast rekstur verðbréfa- og fjárfestingarsjóða verður að tryggja sjálfstæði sjóðanna gagnvart móðurfélagi rekstrarfélagsins, eða bankanum í tilviki íslensku rekstrarfélaganna.

14.2.2 Starfsemi rekstrarfélaga

Rekstrarfélag er félag sem stofnað er um rekstur sjóða og eignastýringu. Rekstrarfélagið sjálft er ekki hluti af sjóðunum heldur rekur það einungis þjónustu við eigendur hlutdeildarskírteina með rekstri sjóða og eignastýringu.

Í eðli sínu eru rekstrarfélög ekki stórar einingar þar sem félögin sjálf eiga ekki verðbréf sem eru í sjóðum þeirra heldur eru verðbréfin í eigu hlutdeildarskírteinishafa. Rekstrarfélög eiga gjarnan litlar sem engar eignir sjálf og starfa ekki á inn- og útlánamarkaði. Helsti kostnaður rekstrarfélaga er að jafnaði launagjöld og þóknunarkostnaður til vörslufyrirtækja. Því má líta á rekstrarfélögin sem eins konar skel um rekstur sjóða og eignastýringu.

Fjöldi starfsmanna rekstrarfélaga bankanna þriggja var almennt á bilinu 10 til 20, allt eftir fjölda sjóða í rekstri. Rekstrarfélög eru alla jafna ekki mjög skuldsett og hafa lítið eigið fé, en ágætt eiginfjárhlutfall.

14.2.3 Fjöldi og heildarverðmæti verðbréfasjóða og fjárfestingarsjóða 2005–2008

14.2.3.1 Almennt

Heildarfjöldi verðbréfa-, fjárfestingar- og fagfjárfestasjóða þrefaldaðist frá upphafi árs 2004 til loka september 2008, úr 31 sjóði í 94. Eins og sést á mynd 1 var aukningin mest á árinu 2006. Það ár juku bankarnir verulega fjölda fjárfestingar- og fagfjárfestasjóða en þeir síðarnefndu lutu ekki eftirliti Fjármálaeftirlitsins. Fjöldi verðbréfasjóða stóð nánast í stað á sama tímabili. Fjöldi fjárfestingarsjóða jókst úr 14 sjóðum í upphafi árs 2005 í 37 sjóði í lok september 2008. Heildarverðmæti sjóða eftir sjóðsformi jókst nokkurn veginn í réttu hlutfalli við fjölda sjóða, þ.e. heildareignir fjárfestingarsjóða jukust mun meira á tímabilinu, sbr. mynd 2. Áhugavert er að bera saman fjölgun sjóða eftir sjóðsformi, sbr. mynd 1 og heildareignir sjóða eftir sjóðsformi, sbr. mynd 2.

Á árunum 2004–2008 jókst heildarverðmæti eigna þeirra sjóða sem rekstrarfélögin þrjú stýrðu um rúm 400%, eða úr 173 milljörðum króna í 893 milljarða, sbr. mynd 3. Mest var aukning heildarverðmætis sjóða hjá Rekstrarfélagi Kaupþings eða 590%, heildarverðmæti sjóða Landsvaka jókst um tæp 400% en heildarverðmæti sjóða Glitnis sjóða jókst um rúm 300%. Eins og síðar verður rakið voru stöðugildi starfsmanna Fjármálaeftirlitsins sem höfðu eftirlit með sjóðunum um 2–3 allt fram í mars 2008 þegar starfsmönnum á sjóðasviði eftirlitisins var fjölgað.

Þróunin síðustu árin fyrir fallið var sú að rekstrarfélögin stofnuðu fleiri fjárfestingarsjóði en verðbréfasjóði á árunum 2005 til 2008. Fjárfestingarsjóðir stækkuðu einnig miklu meira en sjóðir með annað sjóðsform á tímabilinu. Að einhverju leyti kann það að helgast af umframávöxtun eigna í þessum sjóðum en að mestu leyti stafar það af auknu innstreymi í þessa sjóði. Afleiðing þess að beina fjárfestum fremur í fjárfestingarsjóði en verðbréfasjóði var sú að áhætta fjárfesta jókst. Þrátt fyrir hlutfallslega aukningu fjárfestingarsjóða umfram verðbréfasjóði virðist eftirlit með sjóðunum ekki hafa aukist en eins og áður er getið fela fjárfestingarsjóðir í sér aukna áhættu fyrir fjárfesta. Ekki voru heldur sett nein takmörk af hálfu rekstrarfélaga eða Fjármálaeftirlitsins fyrir því hverjir mættu fjárfesta í slíkum sjóðum eða fyrir stofnun slíkra sjóða.

Athygli vekur að vöxtur heildarverðmætis og fjölgun fjárfestingarsjóða hófst á vormánuðum 2006, um sama leyti og evrópskir fjármagnsmarkaðir lokuðu á fjármögnun íslenskra fyrirtækja vegna neikvæðrar umfjöllunar um íslensku bankana, eins og rakið er t.d. í kafla 4 og víðar í skýrslunni.

14.2.3.2 Glitnir sjóðir

Heildarverðmæti verðbréfasjóða Glitnis sjóða dróst saman á tímabilinu 2004 til 2008 en heildarverðmæti fjárfestingarsjóða jókst á sama tíma. Fjárfestingarsjóðum fjölgaði úr einum upp í fimm á þessu tímabili. Eignir fjárfestingarsjóða Glitnis sjóða, sbr. mynd 4, jukust úr 33 milljörðum króna í 130 milljarða eða um 400% frá lokum árs 2005 þar til um mitt ár 2008. Athyglisvert er að sjá aukningu á heildarverðmæti verðbréfasjóða í lok árs 2007 á sama tíma og heildarverðmæti fjárfestingarsjóða dróst saman. Því má leiða líkur að því að eitthvað hafi verið um flutning milli sjóðsforma, þ.e. úr áhættumeiri fjárfestingarsjóðum í hlutfallslega áhættuminni verðbréfasjóði.

14.2.3.3 Landsvaki

Val á sjóðsformi við stofnun nýrra sjóða Landsvaka virðist hafa tekið mest mið af fjárfestingarsjóðum, en fjöldi slíkra sjóða fjórfaldaðist á tímabilinu 2004 til 2008, úr þremur í 12. Heildarverðmæti eigna fjárfestingarsjóða, sbr. mynd 5, jókst úr 20 milljörðum króna í 233 milljarða eða um 1200% frá upphafi árs 2004 fram á mitt ár 2008 þegar verðmæti sjóðanna var sem mest. Heildarverðmæti verðbréfasjóða minnkaði á tímabilinu allt fram á mitt ár 2008 þegar verðmæti þeirra jókst töluvert. Á sama tíma dróst heildarverðmæti fjárfestingarsjóða saman og því má leiða líkur að því að eitthvað hafi verið um flutning milli sjóðsforma, þ.e. úr áhættumeiri fjárfestingarsjóðum í hlutfallslega áhættuminni verðbréfasjóði.

14.2.3.4 Rekstrarfélag Kaupþings banka

Heildarverðmæti sjóða Rekstrarfélags Kaupþings, miðað við sjóðsform, var eilítið frábrugðið heildarverðmæti sjóða Glitnis sjóða og Landsvaka að því leyti að Rekstrarfélag Kaupþings banka starfrækti mun fleiri fagfjárfestasjóði en hin tvö rekstrarfélögin. Engu að síður má sjá álíka þróun; heildarverðmæti fjárfestingarsjóða jókst. Fjöldi fjárfestingarsjóða tvöfaldaðist úr 10 í 20 á tímabilinu, en heildarverðmæti sjóðanna jókst úr 30 milljörðum króna í 94 milljarða eða um 225% frá ársbyrjun 2004 þar til um mitt ár 2008. Í ársbyrjun 2004 var einn fagfjárfestasjóður á vegum Rekstrarfélags Kaupþings banka en í september 2008 voru þeir orðnir 22. Heildarverðmæti fagfjárfestasjóða jókst einnig verulega á tímabilinu, sbr. mynd 6, nánar tiltekið úr 5 milljörðum króna í 175 milljarða sem þýðir að eignir fagfjárfestasjóða voru 40 sinnum meiri um mitt ár 2008 en í árslok 2005.

14.3 Fjárfestingarheimildir verðbréfasjóða og fjárfestingarsjóða

14.3.1 Almennt

Allir peningamarkaðssjóðirnir voru fjárfestingarsjóðir. Fjárfestingarheimildir þeirra eru rýmri en verðbréfasjóða þar sem fjárfestingarsjóðir geta fjárfest í meira mæli í óskráðum verðbréfum og ekki er krafist jafnmikillar áhættudreifingar. Þannig er unnt að stofna blandaða sjóði skráðra og óskráðra verðbréfa eða sjóði sem fjárfesta aðallega í óskráðum verðbréfum. Þó að fjárfestingarheimildir fjárfestingarsjóða séu rýmri en verðbréfasjóða gilda að meginstofni til sömu reglur um fjárfestingarheimildir þessara tveggja sjóðstegunda, t.d. fyrirmæli um eftirlitskerfi með áhættu, viðskipti með afleiður og takmarkanir á eignasafni. Þegar vitnað er til sjóða í umfjöllun þessa kafla er bæði átt við verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði. Umfjöllunin miðast við þær reglur sem voru í gildi frá miðju ári 2003 og þar til peningamarkaðssjóðunum var slitið.

Í þeirri umfjöllun sem hér fer á eftir verður gefið stutt yfirlit um fjárfestingarheimildir verðbréfasjóða og fjárfestingarsjóða samkvæmt lögum nr. 30/2003 um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði. Rakið verður í hvers konar eignum sjóðum er heimilt að binda fé sitt, hvert sé hámark fjárfestingar í einum útgefanda og hvernig eftirliti með áhættu sé háttað.

14.3.2 Í hvers konar eignum er sjóðum heimilt að binda fé sitt?

Í 1.–7. tölul. 30. gr. laga nr. 30/2003 er mælt fyrir um hvers konar fjármálagerningum og innlánum sjóðum er heimilt að binda fé sitt í. Nánar tiltekið eru það:

1. Verðbréf og peningamarkaðsskjöl sem hafa verið skráð eða tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði en með peningamarkaðsskjölum er í lögunum átt við greiðsluhæf skjöl sem verslað er með á peningamarkaði og ætíð er hægt að meta til verðs.

2. Nýútgefin verðbréf, enda sé í skilmálum vegna útgáfu þeirra skuldbinding um að sótt verði um skráningu verðbréfanna á skipulegum verðbréfamarkaði eigi síðar en einu ári frá útgáfu þeirra.

3. Hlutdeildarskírteini verðbréfasjóða og skírteini annarra sjóða um sameiginlega fjárfestingu, að uppfylltum tilteknum skilyrðum.

4. Innlán fjármálafyrirtækja.

5. Afleiður sem skráðar eru á skipulegum verðbréfamarkaði samkvæmt nánar tilgreindum viðmiðum.

6. Afleiður utan skipulegra verðbréfamarkaða samkvæmt nánar tilgreindum viðmiðum.

7. Peningamarkaðsskjöl sem viðskipti eru með utan skipulegra verðbréfamarkaða.

Í 1. mgr. 31. gr. laga nr. 30/2003 kemur fram að þrátt fyrir ákvæði 30. gr., sem að framan er rakin, sé verðbréfasjóði heimilt að binda sem svarar allt að 10% af eignum sínum í öðrum verðbréfum og peningamarkaðsskjölum en þar getur. Samkvæmt 2. tölul. 54. gr. laganna gildir aftur á móti sú regla að fjárfestingarsjóðum er heimilt að fjárfesta í óskráðum verðbréfum og peningamarkaðsskjölum án tillits til 1. mgr. 31. gr.

14.3.3 Hvert er hámark fjárfestingar í einum útgefanda?

Samkvæmt 3. tölul. 54. gr. laga nr. 30/2003 er fjárfestingarsjóðum heimilt að binda allt að 20% af eignum sínum í verðbréfum og peningamarkaðsskjölum útgefnum af sama útgefanda. Þó er heimilt að binda allt að 35% af eignum sjóðs í skráðum verðbréfum í kauphöll og peningamarkaðsskjölum útgefnum af sama útgefanda enda sé ekki fjárfest yfir 20% í neinum öðrum útgefanda.

Ákvæði 35. gr. laga nr. 30/2003 felur aftur á móti í sér meiri takmarkanir á heimildum verðbréfasjóða til að fjárfesta í verðbréfum, peningamarkaðsskjölum eða innlánum sama útgefanda en ákvæðinu er ætlað að tryggja eðlilega áhættudreifingu í fjárfestingu þeirra. Þá eru sérstakar reglur um heimildir sjóðanna til að fjárfesta í vísitölusjóðum, sbr. 36. gr., traustum verðbréfum, sbr. 37. gr. og um fjárfestingar í verðbréfasjóðum og öðrum sjóðum um sameiginlega fjárfestingu, sbr. 38. gr. laganna.

14.3.4 Frekari takmarkanir á eignasafni sjóða

Í 39. gr. laga nr. 30/2003 er að finna frekari takmarkanir á eignasafni verðbréfasjóða og fjárfestingarsjóða. Í athugasemdum frumvarps til laganna segir að ákvæðinu sé ætlað að tryggja enn frekar áhættudreifingu í fjárfestingu sjóða. Þó að fjárfesting sé innan þeirra marka sem önnur ákvæði laganna setja gætu sjóðir fjárfest í jafnvel öllum verðbréfum eða öðrum fjármálagerningum tiltekins útgefanda. Slíkt væri í andstöðu við grundvallarsjónarmið um áhættudreifingu í rekstri sjóða. Samkvæmt framansögðu eru þær takmarkanir gerðar á samsetningu eignasafns verðbréfasjóða og fjárfestingarsjóða, sbr. 39. gr., að sjóði er óheimilt að eignast meira en:

1. 10% af hlutabréfum án atkvæðisréttar í einstöku hlutafélagi.

2. 10% af skuldaskjölum einstakra útgefenda verðbréfa.

3. 25% af hlutdeildarskírteinum verðbréfasjóðs og annarra sjóða um sameiginlega fjárfestingu.

4. 10% af peningamarkaðsskjölum einstakra útgefenda.

14.3.5 Lán og aðrar ábyrgðir

Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 30/2003 er verðbréfa-og fjárfestingarsjóðum óheimilt að veita lán eða ganga í ábyrgð fyrir aðra. Í þessu felst ekki bann við því að verðbréfasjóður veiti fé þeim aðilum sem gefa út fjármálagerninga skv. 30. gr. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er verðbréfasjóði óheimilt að taka önnur lán en skammtímalán til að standa straum af innlausn hlutdeildarskírteina en slík lán mega ekki vera hærri en sem svarar 10% af eignum sjóðsins eða einstakra deilda innan hans. Um fjárfestingarsjóði gildir aftur á móti sú regla að þeim er heimilt að taka að láni allt að 25% af verðmæti eigna sjóðs.

14.3.6 Skortsala

Verðbréfasjóði er samkvæmt 41. gr. laga nr. 30/2003 óheimilt að skortselja fjármálagerninga, þ.e. honum er óheimilt að taka verðbréf að láni tímabundið til að selja þau. Fjárfestingarsjóður má hins vegar skortselja en metið hámarkstap af viðskiptum með verðbréf sem fjárfestingarsjóður á ekki í fórum sínum má ekki nema meiru en 20% af endurmetnu innra virði sjóðsins. Þá er skortsala á óskráðum verðbréfum heimil.

14.3.7 Ráðstafanir til úrbóta

Meginreglan er sú að annmarka í fjárfestingum verður að lagfæra án ástæðulauss dráttar nema annað sé réttlætanlegt með tilliti til hagsmuna verðbréfasjóðsins og viðskiptamanna hans. Um ráðstafanir til úrbóta er svo fyrir mælt í 42. gr. laga nr. 30/2003 að fari fjárfesting sjóðs fram úr leyfilegum mörkum samkvæmt lögunum skuli þegar gerðar ráðstafanir til úrbóta og skal lögmæltu hámarki í síðasta lagi náð innan sex mánaða. Fjármálaeftirlitið getur þó í einstökum tilvikum mælt fyrir um lengri frest enda sé það augljóslega í þágu eigenda hlutdeildarskírteina.

14.3.8 Eftirlit með áhættu

Samkvæmt lögum skulu rekstrarfélög hafa yfir að ráða eftirlitskerfi sem gerir þeim kleift að vakta, meta og stýra áhættu einstakra eigna og eignasafns sjóða á hverjum tíma. Um afleiðuviðskipti eru sérstakar reglur sem ætlað er að takmarka áhættu af slíkum viðskiptum, auk þess sem sjóðir skulu gera Fjármálaeftirlitinu reglulega grein fyrir afleiðuviðskiptum sínum á því formi sem Fjármálaeftirlitið ákveður.

14.4 Fjárfestingarstefnan

14.4.1 Almennt

Eins og nánar verður rakið hér á eftir voru fjárfestingarstefnur fjárfestingarsjóða mjög almenns eðlis. Þótt um hafi verið að ræða takmarkanir á fjárfestingum í einstökum flokkum verðbréfa má í mörgum tilfellum draga í efa að um raunverulega fjárfestingarstefnu hafi verið að ræða.

14.4.2 Glitnir sjóðir

Samkvæmt bréfi frá Glitni sjóðum til rannsóknarnefndar Alþingis mótuðu starfsmenn félagsins (sjóðstjórar) fjárfestingarstefnu og endurskoðun hennar. Fjárfestingarstefna var síðan lögð fyrir stjórn rekstrarfélagsins. Þá munu útboðslýsingar og reglur sjóða hafa verið samþykktar í stjórn rekstrarfélagsins og síðan staðfestar af Fjármálaeftirlitinu.

Fjárfestingarstefnan mun hafa verið endurskoðuð árlega samhliða uppfærslu útboðslýsinga sem lögum samkvæmt ber að endurskoða árlega. Ef breyting á fjárfestingarstefnu var veruleg mun fjárfestum hafa verið sent bréf þar sem grein var gerð fyrir breytingunum og þeim gefinn kostur á að innleysa eign sína í sjóðunum áður en breytingarnar tækju gildi. Mun þetta hafa verið í samræmi við kröfur Fjármálaeftirlitsins. Enn fremur mun fjárfestingarstefna hafa verið endurskoðuð í tengslum við vöruþróun og þegar samkeppnisstaða á markaði gaf tilefni til.

Samkvæmt skýrslum innri endurskoðunar á Glitni sjóðum var það handvömm að endurskoða ekki útboðslýsingar og útdrætti útboðslýsinga árlega. Var það ítrekað í skýrslum frá árunum 2007 og 2008 og rætt um að upplýsingar varðandi útboðslýsingar á heimasíðu rekstrarfélagsins væru í sumum tilfellum villandi, rangar eða úreltar. Þetta stangast á við upplýsingar Glitnis sjóða sem nefndinni voru sendar í byrjun mars 2009 og gerð er grein fyrir í málsgreininni hér á undan.

Við endurskoðun á fjárfestingarstefnu sjóða var höfð hliðsjón af mörgum ólíkum þáttum, t.d. breytingum á markaðsaðstæðum, minna framboði af ríkisskuldabréfum og ríkisvíxlum og stærri markaði með skuldabréf og víxla fyrirtækja. Mun rekstrarfélagið hafa reynt að nýta þá fjárfestingarkosti sem voru í boði á markaði hverju sinni.

Sjóðstjórar höfðu umsjón með fjárfestingum sjóða samkvæmt reglum stjórnar um starfsheimildir sjóðstjóra sem og að fjárfestingar væru innan fjárfestingarstefnu. Dagleg stýring var í höndum sjóðstjóra. Framkvæmdastjóri rekstrarfélagsins hafði svo aftur eftirlit með sjóðstjórum.

14.4.3 Landsvaki

Samkvæmt bréfi frá Landsvaka til rannsóknarnefndar Alþingis mótaði framkvæmdastjóri fjárfestingarstefnu einstakra sjóða ásamt fjárfestingarráði. Fjárfestingarráð var samsett af sjóðstjórum, framkvæmdastjóra Landsvaka, stjórnarformanni Landsvaka og deildarstjóra áhættugreiningar hjá Landsbankanum.

Tillaga að breytingum á fjárfestingarstefnu mun hafa verið lögð fyrir stjórn Landsvaka ef talið var að hagsmunum sjóðsfélaga væri best borgið með breytingu. Ef stjórn Landsvaka samþykkti breytingartillögu var reglum og útboðslýsingu breytt og þær síðan sendar Fjármálaeftirlitinu til samþykktar. Fjárfestingarstefna gaf verulegt svigrúm innan hvers verðbréfaflokks. Einnig var það ákvörðun fjárfestingarráðs hvar sjóður staðsetti sig innan þeirra marka.

Endurskoðun fjárfestingarstefnu mun hafa farið þannig fram að farið var yfir reglur og útboðslýsingar allra sjóða einu sinni á ári og afstaða tekin til þess hvort ástæða væri til breytinga. Fjárfestingarráð sá svo um endurskoðun stefnunnar. Stjórn Landsvaka þurfti síðan að samþykkja allar breytingar á reglum sjóðsins.

Sjóðstjóri hafði yfirumsjón með fjárfestingum viðkomandi sjóðs. Ef fjárfesting nam hærri fjárhæð en 500 milljónum króna var hún háð samþykki fjárfestingarráðs. Eins gat fjárfestingarráð sett einstökum félögum sem fjárfest var í hámarksramma sem sjóðstjóra bar að halda sig innan. Þá var varasjóðstjóri skipaður með hverjum sjóði.

14.4.4 Rekstrarfélag Kaupþings banka

Samkvæmt upplýsingum Rekstrarfélags Kaupþings banka mun fjárfestingarstefna hafa verið mótuð í samræmi við markmið hvers sjóðs fyrir sig.Tekið var tillit til meðallíftíma hvers sjóðs, helstu fjárfestingarkosta sem voru í boði og framboðs þeirra á markaði til að viðhalda fjárfestingarstefnu. Fjárfestingarstefna verðbréfa- og fjárfestingarsjóða var að öllu jöfnu ekki endurskoðuð. Engri fjárfestingarstefnu mun hafa verið breytt enda lagt upp með að til þess kæmi ekki. Fjárfestingarheimildir sjóðanna voru almennt mjög rúmar samkvæmt þeirri stefnu sem samþykkt hafði verið í upphafi og þannig var það meðan sjóðirnir störfuðu.

Sjóðstjórar höfðu yfirumsjón með öllum fjárfestingum sjóða. Þá voru svokallaðir teymisfundir haldnir reglulega þar sem farið var yfir þróun á markaði og helstu tækifæri á hverjum tíma.

14.5 Samsetning eigna í peningamarkaðssjóðunum 2005–2008

14.5.1 Almennt

Í þessum kafla verður skoðað hvernig samsetningu eigna var háttað í þeim sjóðum sem teknir voru til sérstakrar athugunar. Í þessu sambandi þarf að skoða hverjar séu fjárfestingarheimildir verðbréfa- og fjárfestingarsjóða lögum samkvæmt, hver fjárfestingarstefna þeirra var og hvernig útboðslýsingum og öðru kynningarefni var háttað.

Við þá athugun sem lýst verður hér á eftir á fjárfestingum sjóðanna og þar með skuldurum þeirra verður sjónum m.a. sérstaklega beint að aðilum sem kunna að hafa tengst móðurfélagi viðkomandi sjóðs með þeim hætti að rannsóknarnefndin telur ástæðu til að draga þau tengsl fram í þessu sambandi.Tekið skal fram að þegar talað verður um aðila tengda bönkunum hér á eftir vegna eigna sjóðanna er ekki alfarið fylgt sömu mælikvörðum og stuðst er við í reglum um stórar áhættur innan bankanna. Þannig er ekki einvörðungu horft til þess hvaða áhrif greiðsluhæfni og þar með greiðsluþrot eins aðila kann að hafa á annan. Heldur er líka horft til þess hvort fyrir hendi séu veruleg eignatengsl eða viðskiptatengsl viðkomandi við hlutaðeigandi banka eða milli slíkra aðila innbyrðis og þá með tilliti til hættu á að slík tengsl kunni að hafa haft áhrif við ákvarðanir um fjárfestingar sjóðanna. Þetta er m.a. gert í ljósi þess sem síðar verður rakið um náin tengsl milli rekstrarfélaganna og bankanna. Það er svo jafnframt athugað hvernig þau félög sem talin eru tengd tilteknum banka í þessu sambandi koma við sögu í viðskiptum sjóða hjá hinum tveimur bönkunum.

14.5.2 Glitnir sjóðir

14.5.2.1 Inngangur

Hjá Glitni Sjóðum voru skoðaðir þrír sjóðir, Sjóður 1, Sjóður 9 og Sjóður 11. Á mynd 7 má sjá þróun heildarverðmætis sjóðanna frá janúar 2005 til loka septembermánaðar 2008.

Sjóður 1 var stærstur af sjóðunum þremur allt fram í september 2006 og var stærð hans tiltölulega stöðug mest allt tímabilið. Framan af ári 2005 var stærð Sjóðs 9 einnig fremur stöðug en sjóðurinn stækkaði hins vegar hratt á seinni hluta ársins. Heildarverðmæti hans í árslok 2005 var um 29 milljarðar króna en var 5,7 milljarðar í upphafi árs. Hlutfallslega var vöxtur Sjóðs 9 mestur árið 2005, alls um 402%. Eftirtektarvert er að sjóðurinn tók að stækka ört eftir að sjóðsformi hans var breytt úr verðbréfasjóði yfir í fjárfestingarsjóð. Stærð sjóðsins hélst svo nokkuð stöðug framan af ári 2006 en heildarverðmæti hans jókst hins vegar mikið á síðasta ársfjórðungi eða alls um rúmlega 24 milljarða króna og var orðið tæplega 58 milljarðar í árslok 2006. Mest varð heildarverðmæti sjóðsins í lok október 2007, alls um 141,6 milljarðar sem samsvarar um 11% af áætlaðri vergri landsframleiðslu þess árs. Eftir að stærð sjóðsins náði hámarki í október 2007 dróst heildarverðmæti hans saman milli mánaða allt fram á mitt ár 2008, alls um rúmlega 32 milljarða króna. Athyglisvert er að á sama tímabili stækkaði Sjóður 1 hins vegar um rúma 17,5 milljarða. Frá lokum maímánaðar 2008 fram í lok ágúst stækkaði Sjóður 9 á ný milli mánaða, alls um rúma 7,5 milljarða króna eða 7%. Stærð Sjóðs 11 var mjög stöðug allt tímabilið.

Í greiningunni var mest áhersla lögð á að athuga fjárfestingar stærsta sjóðsins, Sjóðs 9. Fjárfestingar sjóðanna voru m.a. athugaðar m.t.t. fjárfestinga í verðbréfum eiganda Glitnis sjóða, þ.e. Glitni banka og félögum tengdum honum. Skoðuð var eignasamsetning sjóðanna, stöðutaka í einstökum útgáfum verðbréfa, þróun eignasamsetningar á tímabilinu og að lokum sérstök mál sem komu upp við athugunina. Einnig voru viðskipti milli sjóðanna skoðuð með tilliti til þess hvort um væri að ræða umfangsmiklar hreyfingar. Verðlagning verðbréfa inn í sjóðina í samanburði við markaðsverð var ekki könnuð sérstaklega þar sem stór hluti eigna sjóðanna voru verðbréf sem höfðu grunna eða jafnvel enga virka verðmyndun á markaði. Þá voru ekki skoðuð verð í viðskiptum milli sjóða. Það er þó einsýnt að verðmyndun í viðskiptum með óskráð bréf var afar óljós.

14.5.2.2 Sjóður 9 - Peningamarkaðsbréf

Almennt

Sjóður 9 var fjárfestingarsjóður. Sjóðurinn var ein fimm sjóðsdeilda Fjárfestingarsjóðs Glitnis sem stofnaður var í desember 2003 undir heitinu Fjárfestingarsjóður Íslandsbanka. Auk Sjóðs 9 voru sjóðsdeildirnar:

- Sjóður 9.1 – Peningamarkaðsbréf EUR (stofnaður í mars 2007)

- Sjóður 9.2 – Peningamarkaðsbréf NOK (stofnaður í mars 2007)

- Sjóður 9.3 – Peningamarkaðsbréf USD (stofnaður í mars 2007)

- Sjóður 10 – Úrval innlendra hlutabréfa (stofnaður í desember 2003)

Upphaflega heyrði Sjóður 9 undir Verðbréfasjóð Glitnis en í kjölfar breytingar á fjárfestingarstefnu sjóðsins í september 2005 var sjóðsdeildin flutt yfir í Fjárfestingarsjóð Glitnis. Fjárfestingarsjóðir Glitnis voru vaxtarsjóðir sem felur í sér að vextir, arðgreiðslur og aðrar tekjur leggjast við höfuðstól viðkomandi.

Fjárfestingarstefna

Tafla 1 lýsir fjárfestingarmörkum sjóðsins í einstaka flokkum verðbréfa, þ.e. lágmarks- og hámarkshlutfalli bréfa í viðkomandi flokkum miðað við heildarverðmæti verðbréfasafnsins. Samkvæmt viðmiðunum var sjóðnum ekki skylt að fjárfesta sérstaklega í neinum einstökum flokki verðbréfa og eins mátti sjóðurinn fjárfesta allt að 100% í ríkistryggðum verðbréfum, bankabréfum, víxlum og innstæðum. Hins vegar mátti sjóðurinn ekki fjárfesta meira en 30% af heildarverðmæti verðbréfasafnsins í skráðum bréfum fyrirtækja og 25% í óskráðum bréfum. Í maí 2007 var gerð breyting á fjárfestingarstefnu sjóðsins sem fólst í því að hámarksheimild til fjárfestinga í skráðum skuldabréfum fyrirtækja var hækkuð úr 30% í 50% af heildareignum sjóðsins. Í töflunni má einnig sjá fjárfestingarstefnu sjóðsins, þ.e. að hvaða hlutfalli var stefnt í einstökum eignaflokkum að jafnaði. Þessi stefna var hins vegar ekki bindandi því sjóðstjórum var einungis skylt að halda sig innan hámarks viðmiðanna þar sem engin lágmarksviðmið voru í einstökum flokkum. Sjaldgæft var að mánaðarlokastaða sjóðsins væri í samræmi við yfirlýsta fjárfestingarstefnu. Frá árinu 2006 var eign sjóðsins í skuldabréfum með ábyrgð ríkissjóðs að jafnaði langt undir yfirlýstri fjárfestingarstefnu sjóðsins, sjá mynd 8. Í raun má því segja að frá og með árinu 2006 hafi raunverulegt eignasafn sjóðsins aldrei endurspeglað svokallaða "fjárfestingarstefnu". Framkvæmdastjóri rekstrarfélagsins og sjóðstjóri sögðu það skýrast af litlu framboði af bréfum í þessum flokki. Einnig kom fram í skýrslu sjóðstjóra Sjóðs 9 fyrir rannsóknarnefnd Alþingis að þau kjör sem í boði voru á ríkisverðbréfum hafi ekki verið í samræmi við það sem sjóðfélagar áttu von á. Þrátt fyrir það var ekki talin ástæða til að leiðrétta yfirlýsta fjárfestingarstefnu í samræmi við raunverulega eignasamsetningu sjóðsins þar sem hún rúmaðist innan fjárfestingarheimilda hans.

Samkvæmt útboðslýsingu Sjóðs 9 var markmið sjóðsins að "skila jafnri og stöðugri hækkun eigna með fjárfestingu í víxlum, innlánum eða öðrum skammtímaverðbréfum". Í útboðslýsingu var fjárfestingarstefnunni lýst þannig að eignir sjóðsins skyldu ávaxtaðar í víxlum, innlánum eða öðrum skammtímaverðbréfum útgefnum af íslenskum eða erlendum útgefendum. Jafnframt var vísað til þess að samkvæmt lögum væri sjóðnum heimilt til skamms tíma að eiga allt að 10% í lausu fé væru markaðsaðstæður ekki heppilegar til fjárfestinga vegna fjár sem fengist hefði með sölu hlutdeildarskírteina eða vegna sölu eigna sjóðsins. Framangreint væri þó ekki hluti af fjárfestingarstefnu sjóðsins. Þá væri sjóðnum heimilt að taka skammtímalán, að upphæð allt að 10% af heildareignum sjóðsins, til að mæta innlausnum. Sjóðnum var jafnframt heimilt að fjárfesta allt að 10% af heildarverðmæti sjóðsins í afleiðum.

Ávöxtunarviðmið

Yfirlýst ávöxtunarviðmið sjóðsins var þriggja mánaða skuldabréfavísitala Kauphallar Íslands (ICEX-3M-NI). Þessi vísitala byggist á ávöxtun á ríkistryggðum víxlum og skuldabréfum með þriggja mánaða líftíma. Áætlaður líftími bréfa í eignasafni sjóðsins var hins vegar óljóst skilgreindur, eða "0–1 ár". Eins og sjá má á mynd 8 voru ríkistryggð bréf að jafnaði afar lágt hlutfall af heildarverðbréfasafni sjóðsins. Í ljósi þess að samsetning undirliggjandi eigna í vísitölunni var frábrugðin fjárfestingarstefnu sjóðsins var þetta ávöxtunarviðmið fremur óheppilegt. Ávöxtunarviðmið sjóða er alla jafna ákveðin vísbending fyrir fjárfesta um áhættustig viðkomandi sjóðs.

Áhættulýsing sjóðsins

Í útboðslýsingu sagði að "[...] þar sem sjóðurinn fjárfestir að mestum hluta í íslenskum skuldabréfum þá er íslenska ríkið og viðskiptabankarnir hér á landi með besta lánshæfismatið sem er í dag Aaa skv. lánshæfisfyrirtækinu Moody's. Aðrir útgefendur skuldabréfa á Íslandi eru verðlagðir út frá þeim kjörum sem íslenska ríkið fær á íslenskum markaði [...]".

Umræða um áhættu sjóðsins í útboðslýsingu var mjög almenns eðlis. Ekki var tilgreint sérstakt áhættustig. Með tilliti til víðra fjárfestingarheimilda var því nánast ómögulegt fyrir fjárfesta að mynda sér raunhæfa skoðun á áhættu sjóðsins út frá útboðslýsingu. Í mánaðarlegum einblöðungum um gengi sjóðsins var engin lýsing á áhættu sjóðsins, né heldur því hvernig eða hvort breyting hefði orðið á áhættu í sambandi við breytingar á samsetningu eignasafnsins, stöðu einstakra skuldara eða vegna breyttra markaðsaðstæðna.

Yfirferð yfir einblöðunga rekstrarfélagsins allt frá janúar 2005 leiddi í ljós að nokkrar staðlaðar málsgreinar var að finna í mánaðaryfirlitunum, til dæmis:

"Gengi sjóðsins getur lækkað jafnt sem hækkað, en fjárfesting í sjóðnum felur í sér litla vaxtaáhættu þar sem meðaltími skuldabréfaeignar er mjög lágur. Hins vegar er skuldaraáhætta til staðar eins og í flestum öðrum sjóðum, áhætta sem tengist því að skuldarar greiði ekki sjóðnum skuldir sínar."

Í yfirlitunum mátti einnig lesa á áberandi stað að "ávöxtun sjóðsins er mjög stöðug milli vikna" og "tapsáhætta af fjárfestingu er því mjög lítil". Einnig var þar að finna nöfn þriggja til fimm stærstu skuldara sjóðsins ásamt upplýsingum um heildarfjölda skuldara, hlutfallslega eignaskiptingu eftir verðbréfaflokkum, ávöxtun og gengisþróun. Einblöðungunum var breytt talsvert í júní 2008. Textinn um mjög lága tapsáhættu var tekinn út og þess í stað settur inn kafli "Tölfræði" þar sem gerð var grein fyrir staðalfráviki ávöxtunar síðastliðin þrjú ár,VaR (value at risk) mælikvarða og Sharpe hlutfalli.

Yfirlýsingu um að ávöxtunarviðmið sjóðsins tæki mið af skammtímaskuldabréfavísitölu ríkistryggðra víxla og skuldabréfa mætti túlka sem vísbendingu um að áhætta sem fólst í verðbréfaeign sjóðsins væri sambærileg við bréf í viðmiðunarvísitölunni.Viðtöl við sjóðstjóra og framkvæmdastjóra rekstrarfélagsins benda hins vegar til þess að ávöxtun sjóðsins hafi einkum verið borin saman við ávöxtun annarra sjóða sem Sjóður 9 átti í samkeppni við. Algengt ávöxtunarviðmið sambærilegra sjóða var ávöxtunarkrafa á millibankamarkaði, svokallaðir REIBID vextir, sjá mynd 9.

Útboðslýsingin greindi frá helstu áhættuþáttum sem gætu haft áhrif á verðmæti eignarhlutar í sjóðnum. Tilgreindir voru sömu þættir og fram komu í leiðbeinandi tilmælum Fjármálaeftirlitsins nr. 3/2004 um útdrætti úr útboðslýsingum verðbréfasjóða, þ.e. markaðsáhætta, seljanleikaáhætta/lausafjáráhætta, vaxtaáhætta, greiðsluáhætta, uppgjörsáhætta, vörsluáhætta og áhætta tengd smæð markaðar eða eignatengslum útgefanda verðbréfa. Þessi hugtök voru almennt útskýrð í útboðslýsingunni en ekki var gerð grein fyrir því hvernig mati á þessum áhættuþáttum væri háttað. Einnig kom fram í útboðslýsingu:

"Sjóðurinn leitast við að halda skuldaraáhættu og vaxtaáhættu í lágmarki, sem gæti komið lítillega niður á ávöxtun en á móti er eignasafnið traustara."

Yfirlýsing sem þessi gefur sterklega til kynna að um sé að ræða fjárfestingarsjóð sem leitast við að lágmarka áhættu, sérstaklega í ljósi þess að ekki er gerð nánari grein fyrir áhættu fjárfestinga sjóðsins.

Einnig kom fram í útboðslýsingu að Glitnir banki ynni innanhússmat á helstu skuldurum bankans og það mat lægi til grundvallar við mat á fjárfestingum sjóðsins þegar um viðskiptavini Glitnis banka væri að ræða. Ekki var útskýrt hvernig áhættumat á öðrum fjárfestingarkostum sem ekki tengdust helstu skuldurum Glitnis banka færi fram. Útboðslýsing sjóðsins ásamt útdrætti úr útboðslýsingu uppfyllti öll skilyrði leiðbeinandi tilmæla Fjármálaeftirlitsins nr. 3/2004.

Eignasamsetning sjóðsins

Árið 2005 samanstóð eignasafn Sjóðs 9 aðallega af ríkistryggðum verðbréfum og verðbréfum útgefnum af bönkum og sparisjóðum. Engin verðbréf eignarhaldsfélaga voru í sjóðnum.Veruleg breyting varð á eignasamsetningunni árið 2006 þegar sjóðurinn fjárfesti lítið sem ekkert í ríkistryggðum verðbréfum en vægi verðbréfa eignarhaldsfélaga jókst stórlega. Frá og með árslokum 2006 kom vöxtur sjóðsins að langmestu leyti fram í auknum fjárfestingum í verðbréfum eignarhaldsfélaga. Þessi þróun kemur skýrt fram á myndum 10 og 11. Athyglisvert er að hlutfall verðbréfa eignarhaldsfélaga í verðbréfasafninu hélt áfram að aukast á árinu 2008 þrátt fyrir að ráða mætti af sjóðstjórum rekstrarfélaganna þriggja að verulegar efasemdir hafi skapast um lánshæfi þess háttar félaga í ljósi þess hvernig fór fyrir Gnúpi fjárfestingafélagi ehf.

Árið 2006 jukust verðbréfaeignir Sjóðs 9 um 9,7 milljarða króna (52%) og nam heildarverðmæti verðbréfasafnsins 28,1 milljarði króna í lok ársins en heildarstærð sjóðsins með innlánum var 58 milljarðar.Veruleg breyting varð á eignasamsetningu verðbréfasafnsins á árinu.Verðbréfaeign í eignarhaldsfélögum jókst um sem nam 12 milljörðum eða 124% af heildaraukningu verðbréfasafnsins, þ.e. meira en sem nemur stækkun verðbréfasafnsins í heild. Fjárfesting í verðbréfum annarra fyrirtækja jókst um sem nam 2,2 milljörðum króna, sem var 23% aukningarinnar, en á móti dróst verðmæti verðbréfaeignar í ríkistryggðum bréfum saman um 3,7 milljarða og bréf fjármálafyrirtækja um 900 milljónir króna. Í lok árs 2006 voru ríkistryggð verðbréf aðeins 2,8% af verðbréfasafninu.

Alls nam verðmæti verðbréfasafns sjóðsins 81,7 milljörðum króna í lok árs 2007.Verðbréfasafnið jókst því um rúma 53,5 milljarða sem var ríflega fimmfaldur vöxtur sjóðsins á fyrra ári, í krónum talið. Hlutfall verðbréfa eignarhaldsfélaga jókst enn frekar í safninu frá fyrra ári, úr 43% í 65%. Fjárfesting í ríkistryggðum bréfum dróst aftur verulega saman milli ára og var í árslok aðeins um 0,4% af heildarverðbréfasafninu.

Í lok ágústmánaðar 2008 var eign sjóðsins í verðbréfum eignarhaldsfélaga 86% af heildarverðbréfaeign sjóðsins.

Á árunum 2006 og 2007 voru að jafnaði 46% heildarverðmæta sjóðsins bundin í innlánum. Fyrstu níu mánuði ársins 2008 voru að jafnaði um 35% eigna sjóðsins í innlánum.

Af fjárfestingum Sjóðs 9 í eignarhaldsfélögum skera fjárfestingar í tveimur félögum sig sérstaklega úr, þ.e. Baugi Group og FL/ Stoðum. Eignir sjóðsins í verðbréfum útgefnum af þessum tveimur félögum voru að jafnaði yfir 50% af heildareignum sjóðsins í eignarhaldsfélögum.

Eignasamsetning sjóðsins eftir skráningarformi

Mynd 13 sýnir samsetningu eignasafns Sjóðs 9 eftir skráningarformi. Sjóðurinn fjárfesti nánast eingöngu í skráðum verðbréfum og innlánum allt fram í mars 2006 þegar sjóðurinn hóf fjárfestingar í óskráðum verðbréfum. Í upphafi voru fjárfestingar í óskráðum bréfum einkum bundnar við verðbréf útgefin af Baugi Group, FL/Stoðum og Straumborg ehf. Fjárfestingar í óskráðum verðbréfum jukust ört allt fram í apríl 2008 þegar heildarverðmæti óskráðra bréfa náði hámarki í tæplega 36 milljörðum króna. Hæst var hlutfall óskráðra bréfa af heildarverðmæti sjóðsins hins vegar 30% í lok mars 2008. Mynd 14 sýnir sex stærstu útgefendur óskráðra bréfa í eigu Sjóðs 9 í lok apríl en alls voru bréf þessara aðila 94% af heildarverðmæti óskráðra bréfa í sjóðnum.Tafla 3 sýnir yfirlit yfir verðbréfaeign sjóðsins í óskráðum bréfum á tímabilinu frá 2006 til loka september 2008.

Fjárfestingar í erlendum verðbréfum voru óverulegar allt undir lok starfstímabils sjóðsins. Framan af tímabilinu fjárfesti sjóðurinn fyrir allt að 1,4 milljarða króna í erlendum verðbréfum útgefnum af Kaupþingi banka en í september 2008 fjárfesti sjóðurinn fyrir 8 milljarða króna í erlendum skuldabréfum Glitnis banka, útgefnum í íslenskum krónum.

Stærstu eignir og skuldarar sjóðsins

Rannsóknarnefndin kannaði hverjir væru stærstu útgefendur verðbréfa sem Sjóður 9 fjárfesti í, þ.e. hverjir væru stærstu skuldarar sjóðsins. Samsetning hóps stærstu skuldara sjóðsins breyttist umtalsvert á tímabilinu sem er til skoðunar. Í töflu 4 er listi yfir 15 stærstu skuldara sjóðsins í lok október 2007 þegar stærð sjóðsins náði hámarki. Mynd 15 sýnir þróun eignastöðu sjóðsins í verðbréfum 10 stærstu skuldara sjóðsins í október 2007. Röðun stærstu skuldara breyttist nokkuð á tímabilinu en á mynd 16 má sjá sex stærstu skuldara sjóðsins á mismunandi rekstrartímabilum sjóðsins.

Stór hluti stærstu skuldara sjóðsins var jafnframt tengdur Glitni banka, móðurfélagi Glitnis sjóða, gegnum eignatengsl og/eða stórar áhættuskuldbindingar. Þannig má flokka eftirfarandi félög með Glitni banka:

Glitnir banki hf. og tengd félög

- Atorka Group hf.

- Baugur Group hf.

- Gnúpur fjárfestingafélag ehf.

- Landic Property hf.

- Milestone ehf.

- Stoðir hf.

- Styrkur Invest ehf.

- Hagar hf.

Þegar heildarverðbréfaeign Sjóðs 9 í Glitni banka og félögum tengdum honum er skoðuð nánar kemur í ljós að sláandi hátt hlutfall eigna sjóðsins var bundið þessum félögum. Í maí 2007, um það leyti sem stærð sjóðsins náði hámarki, fór fjárfesting sjóðsins í verðbréfum þessara félaga í 73% af heildarverðbréfaeign sjóðsins og eru þá innlán í Glitni banka ekki meðtalin. Í sjóðnum varð því gríðarleg samþjöppun eigna í félögum sem voru augljóslega nátengd hvort sem er rekstrarlega og/eða gegnum eignarhald. Það mátti því ætla að það hefði marktæk áhrif á greiðslugetu félaganna ef kæmi til gjaldþrots eins aðila. Nánar er fjallað um fjárfestingar sjóðanna í nokkrum þessara félaga síðar í kaflanum.

14.5.2.3 Sjóður 1 - Skuldabréf

Almennt

Sjóður 1 var verðbréfasjóður. Sjóðurinn var ein sex sjóðsdeilda Verðbréfasjóðs Glitnis sem stofnaður var í júlí 2003 á grunni Verðbréfasjóða Íslandsbanka hf. í kjölfar gildistöku nýrra laga nr. 30/2003 um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði. Auk Sjóðs 1 voru sjóðsdeildirnar:

- Sjóður 5 – Íslensk ríkisskuldabréf

- Sjóður 6 – Aðallistinn

- Sjóður 7 – Löng ríkisskuldabréf

- Sjóður 11 – Fyrirtækjabréf

- Sjóður 12 – Heimssafn

Nánar er fjallað um Sjóð 11 síðar í kaflanum. Samkvæmt útdrætti úr útboðslýsingu var yfirlýst markmið Sjóðs 1 "langtíma hækkun eigna með því að fjárfesta í skuldabréfum eða öðrum fjármálagerningum tengdum skuldabréfum".

Fjárfestingarstefna

Í kaflanum um fjárfestingarstefnuna í útboðslýsingu var áréttað að eignir sjóðsins skyldu ávaxtaðar í skuldabréfum en einnig væri heimilt að fjárfesta í innlánum banka.Tafla 5 sýnir fjárfestingarmörk sjóðsins í einstökum flokkum verðbréfa, þ.e. lágmarks-og hámarkshlutfall bréfa í viðkomandi flokkum miðað við heildarverðmæti verðbréfasafnsins. Í töflunni má einnig sjá fjárfestingarstefnu sjóðsins, þ.e. að hvaða hlutfalli var stefnt í einstökum eignaflokkum að jafnaði. Þessi stefna var hins vegar ekki bindandi því sjóðstjórum var einungis skylt að halda sig innan lágmarks-og hámarksviðmiðanna í einstökum flokkum.

Athyglisvert er að í útdrætti úr útboðslýsingu frá því í maí 2006 má sjá að eign sjóðsins í ríkisskuldabréfum í lok apríl var aðeins 4% af heildarverðbréfasafninu og var því langt undir yfirlýstu lágmarkshlutfalli samkvæmt fjárfestingarstefnu og þar með fjárfestingarheimildum sjóðsins.

Eignasamsetning

Eignasamsetning sjóðsins var ágætlega dreifð ef tekið er mið af fjölda útgefenda verðbréfa sem sjóðurinn fjárfesti í. Á tímabilinu janúar 2005 til september 2008 fjárfesti sjóðurinn í verðbréfum 104 mismunandi útgefenda skuldabréfa.Til samanburðar fjárfesti Sjóður 9, sem var mun stærri sjóður, alls í verðbréfum 48 mismunandi útgefenda á sama tímabili.

Eins og sjá má á mynd 19 lækkaði hlutfall skuldabréfa ríkis og sveitarfélaga verulega á kostnað aukinnar fjárfestingar í skuldabréfum eignarhaldsfélaga á tímabilinu. Stærð sjóðsins náði hámarki í lok ágúst 2008 en þá nam heildarverðmæti eignasafnsins 46,8 milljörðum króna. Tafla 6 sýnir 10 stærstu skuldunauta sjóðsins á þeim tíma, en samtals námu lán til þessara aðila 62% af heildarverðmæti sjóðsins.

Eins og fjallað er um hér að framan eru nokkur þessara félaga bæði beint og óbeint tengd Rekstrarfélagi Glitnis sjóða í gegnum móðurfélag þess Glitni banka. Samanlögð fjárfesting sjóðsins í FL/Stoðum, Glitni banka, Baugi Group, Landic Property og Styrk Invest nam alls um 13,9 milljörðum króna eða um 30% af heildarverðmæti sjóðsins.

14.5.2.4 Sjóður 11 – Fyrirtækjabréf

Almennt

Sjóður 11 var verðbréfasjóður. Samkvæmt útdrætti úr útboðslýsingu var yfirlýst markmið sjóðsins "langtíma hækkun eigna með fjárfestingum í skuldabréfum eða fjármálagerningum tengdum skuldabréfum".

Fjárfestingarstefna

Í útdrætti úr útboðslýsingu var áréttað að eignir sjóðsins skyldu ávaxtaðar í skuldabréfum fyrirtækja, banka, sveitarfélaga eða skuldabréfum með ábyrgð ríkissjóðs. Að jafnaði skyldu skuldabréf fyrirtækja, banka og sveitarfélaga vera 80% af eignum sjóðsins en heimilt væri að víkja tímabundið frá því vegna markaðsaðstæðna. Skuldabréf með ábyrgð ríkissjóðs skyldu að jafnaði vera 20% af eignum sjóðsins. Sjóðnum var heimilt að fjárfesta í öllum tímalengdum skuldabréfa en meðaltími skuldabréfasafnsins skyldi vera á bilinu fimm til tíu ár. Sjóðurinn hafði jafnframt aflað heimildar Fjármálaeftirlitsins til að fjárfesta allt að 50% eigna sinna í skuldabréfum útgefnum af ríkissjóði eða með ábyrgð hans.

Tafla 7 lýsir fjárfestingarmörkum sjóðsins í einstökum flokkum verðbréfa, þ.e. lágmarks- og hámarkshlutfalli verðbréfa í viðkomandi flokkum miðað við heildarverðmæti verðbréfasafnsins. Í töflunni má einnig sjá fjárfestingarstefnu sjóðsins, þ.e. að hvaða hlutfalli var stefnt í einstökum eignaflokkum að jafnaði. Þessi stefna var hins vegar ekki bindandi því sjóðstjórum var einungis skylt að halda sig innan lágmarks- og hámarksviðmiðanna í einstökum flokkum.

Eignasamsetning sjóðsins

Á tímabilinu janúar 2005 til september 2008 fjárfesti Sjóður 11 í bréfum 40 mismunandi skuldabréfaútgefenda. Svipaða þróun má sjá í samsetningu eignasafnsins á tímabilinu og hjá hinum sjóðunum, þ.e. lækkandi hlutfall ríkistryggðra verðbréfa á kostnað aukinnar fjárfestingar í skuldabréfum eignarhaldsfélaga. Hlutfall skuldabréfa ríkis og sveitarfélaga fór þó sjaldan mikið niður fyrir 40% af heildarverðmæti sjóðsins og fór vaxandi á árinu 2008. Stærð sjóðsins náði hámarki í lok september 2008, en þá nam heildarverðmæti eignasafnsins 7 milljörðum króna.Tafla 8 hér að neðan sýnir 10 stærstu skuldara sjóðsins á þeim tíma en samtals nam eign sjóðsins í verðbréfum útgefnum af þessum aðilum 68% af heildarverðmæti sjóðsins.

14.5.2.5 Helstu eignir sjóðanna

Glitnir banki

Sjóður 9

Frá upphafi árs 2005 til loka september 2008 var eign Sjóðs 9 í verðbréfum útgefnum af Glitni banka að meðaltali um 12% af heildarverðbréfaeign sjóðsins. Fjárfesting sjóðsins í verðbréfum Glitnis banka sveiflaðist verulega á tímabilinu eins og sjá má á mynd 22. Hæst fór hlutfallið í 18,4% í lok maí 2007 sem er vel innan við leyfilegt 35% hámark í einum útgefanda. Frá upphafi árs 2005 til loka aprílmánaðar 2007 átti sjóðurinn að jafnaði 2,2 milljarða króna í verðbréfum útgefnum af Glitni banka. Í maí 2007 jók sjóðurinn við eign í Glitnisbréfum úr 2,7 milljörðum króna í 8,2 milljarða. Fjárfestingar í bréfum Glitnis banka jukust hins vegar markvert um það leyti sem aðgangur íslensku bankanna að fjármögnun á erlendum lánsfjármörkuðum þrengdist verulega á seinni hluta árs 2007. Í lok janúar 2008 hafði sjóðurinn aftur næstum tvöfaldað eign sína í bréfum Glitnis banka í 16,3 milljarða króna. Athyglisvert er að í ágústmánuði 2008 var síðasta bréf Glitnis banka í eign Sjóðs 9 á gjalddaga og í lok mánaðarins átti sjóðurinn engin verðbréf útgefin af bankanum. Í september 2008 jók Sjóður 9 aftur stöðu sína í bréfum Glitnis banka með 8 milljarða króna fjárfestingu. Fjárfest var í skuldabréfi með breytilegum vöxtum er tóku mið af þriggja mánaða REIBOR að viðbættu 1% álagi (100 punkta). Í lok ágúst 2008 var skuldatryggingarálag á Glitni banka 867 punktar. Samkvæmt upplýsingum frá Glitni sjóðum atvikuðust viðskiptin þannig að ákveðið hafði verið að lengja í hluta innláns sem var á gjalddaga í lok október hjá Glitni banka. Jafnframt bentu starfsmenn rekstrarfélagsins á að kjörin á bréfinu hefðu verið sambærileg innlánskjörum sem rekstrarfélaginu buðust á sama tíma. Innlán Sjóðs 9 í Glitni banka í lok september 2008 námu 22,2 milljörðum króna sem voru um 60% af heildarinnlánum sjóðsins á þeim tíma.

Sjóður 1

Eign Sjóðs 1 í verðbréfum útgefnum af Glitni banka var nokkuð stöðug á tímabilinu. Að meðaltali námu bréfin 8,4% af heildarverðbréfaeign Sjóðs 1 en hæst fór hlutfallið í 10,9% í lok ágústmánaðar 2005. Sjóðurinn fjárfesti talsvert meira í Glitni banka á tímabilinu apríl til september 2008 samanborið við sama tímabil fyrra árs, eða að jafnaði 3,8 milljarða króna miðað við 1,9 milljarða. Í hlutfalli við heildarverðbréfaeign sjóðsins á þessum tímabilum var aukningin þó ekki jafn áberandi, fór í 8,6% árið 2008 miðað við 6,6% á sama tímabili 2007.

Sjóður 11

Fjárfestingar Sjóðs 11 í verðbréfum útgefnum af Glitni banka voru áberandi minni að umfangi en hjá hinum sjóðunum. Nam eign í þessum bréfum að meðaltali um 2,2% af heildarverðbréfaeign sjóðsins en hæst fór hlutfallsleg eign sjóðsins í bréfunum í 4,7% í febrúarlok 2007.

Baugur Group hf.

Sjóður 9 og Sjóður 1 hófu fjárfestingar í verðbréfum útgefnum af Baugi í mars 2006. Sjóður 9 fjárfesti í upphafi fyrir um 2 milljarða króna í verðbréfaútgáfu sem auðkennd var BAUG 06 1 en bréfin voru til eins árs. Sjóður 1 fjárfesti í sömu útgáfu fyrir um 1,5 milljarða króna. Heildarútgáfan nam 3,5 milljörðum og saman áttu sjóðirnir því alla útgáfuna. Útgáfan var í umsjón Glitnis banka. Í lok febrúar 2007, rétt fyrir gjalddaga bréfanna, keypti Sjóður 9 umrædd bréf af Sjóði 1 og átti eftir það alla útgáfuna fram að gjalddaga. Á gjalddaga bréfanna var staða sjóðsins í Baugi framlengd með kaupum á nýrri víxlaútgáfu (BAUG 08 0329) og í framhaldi af því virðist kerfisbundið hafa verið endurfjárfest í verðbréfum útgefnum af Baugi á gjalddaga.

Áréttað skal að allar fjárfestingar Sjóða 1, 9 og 11 í Baugsbréfum voru í óskráðum skuldabréfum og víxlum.

Frá apríl 2007, eftir að Baugur varð stór hluthafi í Glitni banka, jukust fjárfestingar Sjóðs 9 í Baugi jafnt og þétt fram undir lok þess árs. Mest átti sjóðurinn af verðbréfum útgefnum af félaginu í lok nóvember 2007 eða jafnvirði 13,5 milljarða króna (9,7% af heildareignum sjóðsins). Fjárfesting Sjóðs 1 í Baugi náði hámarki í maí 2008 en þá átti sjóðurinn bréf að andvirði 3,3 milljarða króna (6,6% af heildareignum sjóðsins). Í lok september 2008 átti Sjóður 9 Baugsbréf fyrir 12,5 milljarða (12,9% af heildareignum sjóðsins), Sjóður 1 fyrir 1,8 milljarða (4% af heildareignum sjóðsins) og Sjóður 11 fyrir 238 milljónir króna (3,4% af heildareignum sjóðsins).

Dæmi eru um að sjóðir innan Glitnis sjóða hafi átt viðskipti sín á milli með óskráð og illseljanleg verðbréf. Eitt athyglisvert dæmi um viðskipti þar sem Baugsbréf koma við sögu er frá lokum desembermánaðar 2007. Hinn 28. desember 2007 seldi Sjóður 9 víxlaútgáfuna BAUG 08 0329 í heild sinni til fagfjárfestasjóðsins GLB FX, 820 nafnverðseiningar, alls að nafnvirði 4,1 ma. kr. Sjóðurinn keypti svo aftur stærsta hluta útgáfunnar eftir áramótin, fyrst 620 einingar 7. janúar og svo 180 einingar 9. janúar 2008. Samkvæmt upplýsingum frá Glitni sjóðum var ástæða sölunnar í desember 2007 að útstreymi hefði verið úr sjóðnum í mánuðinum. Sjóðstjóri hefði því ákveðið að auka seljanleika en um leið að lengja líftíma eignasafnsins og draga úr fyrirtækjaáhættu með því að fjölga útgefendum í sjóðnum. Í framhaldinu hefðu verið fest kaup á víxlum og skuldabréfum útgefnum af Icelandair (IAIR 09 0123), Straumi (STRB 08 0701), Landsbanka (LAIS 98 3) og Glitni banka (GLB 08 0728). Ástæða þess að Baugsvíxlarnir voru keyptir til baka í janúar 2008 hefði verið sú að Sjóður 9 hefði byrjað að vaxa að nýju (það athugast að aðeins 2½ viðskiptadagur var á milli sölunnar og fyrstu endurkaupanna). Í útskýringum sjóðstjóra til rannsóknarnefndarinnar kom jafnframt fram að á þessum tíma hefði verið umframeftirspurn eftir fyrirtækjavíxlum. Þar sem sveiflur hefðu gert vart við sig í inn- og útstreymi í desember 2007 og byrjun janúar 2008 hefði sjóðstjóri ákveðið að taka tilboði í umræddan fyrirtækjavíxil til þess að ná fram hámarksávöxtun með tilliti til áhættu. Þegar framangreindur víxill kom á gjalddaga 29. mars 2008 var skuld samkvæmt honum framlengd með kaupum á þremur nýjum víxlaútgáfum, þ.e. 1 ma. kr. í BAUG 07 7; 1,8 ma. kr. í BAUG 08 0910 og 1,3 ma. kr. í BAUG 09 0310 A, alls um 4,2 milljarðar króna. Alls voru Baugsbréf í eigu sjóðsins að verðmæti 4,5 milljarðar króna á gjalddaga í mánuðinum en sjóðurinn endurfjárfesti um 4,2 ma. kr. af þeirri upphæð. Fjárfest var fyrir mismuninn í Sjóði 1 og ríflega það því sjóðurinn fjárfesti fyrir 636 milljónir í BAUG 08 0910. Í apríl 2008 gerði Sjóður 1 gott betur og lánaði Baugi 1 milljarð króna til viðbótar með kaupum á BAUG 07 7.

Ofangreind viðskipti eru sérstaklega athyglisverð í ljósi þess að á tímabilinu sem skoðað var voru vísbendingar um að Baugur hefði þegar átt í alvarlegum greiðsluerfiðleikum. Samkvæmt upplýsingum sem rannsóknarnefndin aflaði hafði Baugur ekki staðið skil á greiðslu á víxli (BAUG 08 0319) í eigu Peningamarkaðssjóðs Kaupþings á gjalddaga 19. mars 2008. Viðkomandi skuld var sett í innheimtu skömmu síðar. Sjóður 9 átti einnig um 1 milljarð króna í sömu útgáfu en ekki reyndi á greiðslugetu Baugs í því tilfelli því skuldinni var einfaldlega velt áfram með kaupum á nýrri víxlaútgáfu. Því má spyrja hversu vel Glitnir sjóðir hafi raunverulega kynnt sér lausafjárstöðu og greiðslugetu Baugs almennt þegar ákveðið var að framlengja 4,2 milljarða króna skuld félagsins við Sjóð 9 á gjalddaga í mars 2008. Að auki jukust heildarskuldir Baugs við Sjóð 1 um 1 milljarð króna í mánuðinum sem þá fór í hönd.

Hinn 9. júlí 2008 náðu hins vegar fréttir um slæma stöðu Baugs eyrum Glitnis sjóða þegar Baugur stóð ekki skil á greiðslu á víxli (BAUG 08 0709).Að sögn sjóðstjóra hjá Glitni sjóðum var þetta fyrsta vísbendingin sem rekstrarfélagið fékk um slæma stöðu Baugs. Að sögn sjóðstjórans hafði miðlari hjá Kaupþingi, sem upphaflega sá um útgáfu og sölu víxilsins, samband nokkru fyrir gjalddaga hans með tilboð um að sjóðurinn endurfjárfesti fyrir sömu upphæð. Sjóðstjórinn hafnaði því tilboði. Þrátt fyrir það fékk sjóðurinn ekki greiddan fyrrgreindan víxil á gjalddaga. Þegar grennslast var fyrir um greiðsluna hjá miðlara Kaupþings fengust þau svör að samkvæmt upplýsingum frá Baugi hygðist sjóðurinn endurfjárfesta andvirði víxilsins í nýjum víxlum. Því hafi ekki þótt ástæða til að ganga frá uppgjöri á víxlinum til Glitnis sjóða. Sjóðstjórinn sagðist ekki hafa viljað una því og hefði óskað eftir því við Kaupþing að þeirri greiðslu sem Baugur hafði greitt öðrum handhöfum sömu víxlaútgáfu yrði skipt hlutfallslega jafnt á alla eigendur víxilsins en úr því varð ekki.

Í framhaldinu var haft samband við Baug og óskað eftir skýringum og upplýsingum um það hvenær víxillinn fengist greiddur. Sjóðstjóri mun hafa gert Baugi grein fyrir því að til stæði að gjaldfella víxilinn. Síðar í mánuðinum óskaði aðstoðarforstjóri Baugs eftir fundi með sjóðstjóra Sjóðs 9 og framkvæmdastjóra Glitnis sjóða til að fara yfir stöðu Baugs. Farið var yfir upplýsingar og kynningu þar sem eiginfjárstaða félagsins var sögð ennþá sterk og að unnið væri að sölu eigna. Í framhaldinu var tekin sú ákvörðun að framlengja víxilinn í stuttan tíma gegn allsherjarveði til að tryggja betur möguleika á endanlegum endurheimtum allra skuldabréfa í eigu sjóðsins sem Baugur hafði gefið út. Umrætt veð reyndist vera allsherjarveð á 3. og 4. veðrétti í hlutum Baugs Group í einkahlutafélaginu BG Holding ehf. en veðskjöl eru dagsett og undirrituð 27. ágúst 2008. Það er því ljóst að tryggingarréttindi þau sem felast í veðinu eru í besta falli óljós enda stendur veðið aftarlega í kröfuröðinni, veðandlagið er hlutafé í eignarhaldsfélagi, en eignir þess voru þegar veðsettar Landsbankanum og Landsvaki, rekstrarfélag sjóða Landsbankans, var með fyrsta veðrétt í sjálfu eignarhaldsfélaginu. Þrátt fyrir að með vanskilum útgefanda verðbréfanna sem hér um ræðir væru fram komnar alvarlegar vísbendingar um aukna skuldaraáhættu, var skráð virði bréfanna í sjóðnum ekki fært niður í samræmi við líklegt markaðsverð í ljósi fram kominna upplýsinga.

Í september 2008 fjárfesti Sjóður 9 áfram í víxlum útgefnum af Baugi þrátt fyrir að félagið hefði skömmu áður ekki getað staðið í skilum með skuldbindingar sínar við sjóðinn. Í lok ágúst 2008 var skráð markaðsvirði Baugsbréfa í sjóðnum 11,5 milljarðar króna. Í lok septembermánaðar hafði staða sjóðsins í Baugsbréfum aukist um rúman milljarð króna í 12,5 milljarða (alls um 12% af heildarverðmæti sjóðsins eða 18% fyrir utan innlán). Því var ekki aðeins um að ræða framlengingu á ógreiddum víxlum útgefnum af Baugi heldur jókst heildarfjárfesting sjóðsins um rúman milljarð króna milli mánaða. Sjóðstjóri sjóðsins kvað þetta skýrast af því að Baugur hefði verið í endurteknum vanskilum.Við það hefðu safnast upp dráttarvextir sem bætt var við höfuðstól nýrra víxlaútgáfa auk þess sem ávöxtunarkrafan var hækkuð. Skráð virði bréfanna í sjóðnum tók hins vegar ekki mið af því að raunverulegt markaðsvirði þeirra væri mögulega mun lægra ef sjóðurinn neyddist til að selja bréfin á markaði.

FL Group/Stoðir

Mynd 26 sýnir eign Sjóða 1, 9 og 11 í verðbréfum útgefnum af FL/Stoðum. Framan af tímabilinu fjárfestu Sjóðir 1 og 11 lítillega í bréfum Icelandair og FL/Stoðum en samanlögð eign sjóðanna í lok febrúar 2006 var um 1,1 milljarður króna. Sjóður 9 hóf að fjárfesta í bréfum FL/Stoða í mars 2006, í upphafi fyrir um 1,5 milljarða, en í ágústmánuði sama ár hafði sjóðurinn aukið fjárfestingarnar í ríflega 4,5 milljarða. Upp úr því dró hins vegar talsvert úr fjárfestingum Sjóðs 9 í bréfum FL/Stoða og átti sjóðurinn bréf fyrir um 3,3 milljarða króna í árslok. Fjárfestingar í verðbréfum útgefnum af félaginu jukust nokkuð framan af ári 2007, verðbréfum á gjalddaga var bætt við nýjar útgáfur verðbréfa og staðan aukin jafnt og þétt fram á mitt ár 2007 þegar umtalsverð stefnubreyting virtist eiga sér stað varðandi fjárfestingar í félaginu.

Í júlí 2007 fjárfesti Sjóður 9 í skuldabréfi útgefnu af FL/Stoðum FL 09 0709 fyrir ríflega 4 milljarða króna. Í útboðslýsingu útgáfunnar sagði að heildarútgáfuheimild samkvæmt samningi væri 15 milljarðar króna en upphaflega yrðu gefin út bréf að andvirði 7 milljarða. Sjóður 1 fjárfesti einnig í sömu bréfum fyrir 1 milljarð króna. Umrædd bréf voru eingreiðslubréf til tveggja ára með árlegum vaxtagreiðslum (14,6%). Eftir fjárfestinguna átti Sjóður 9 verðbréf útgefin af FL/Stoðum að andvirði 13,2 milljarða króna. Fjárfesting Sjóðs 9 í þessu bréfi var óvenjuleg að því leyti að bréfið var til tveggja ára en samkvæmt útboðslýsingu var markmið sjóðsins að "skila jafnri og stöðugri hækkun eigna með fjárfestingu í víxlum, innlánum eða öðrum skammtímaverðbréfum". Auk þess var líftími verðbréfa sjóðsins skilgreindur á bilinu 0 til 1 ár samkvæmt útboðslýsingu og ávöxtunarviðmið sjóðsins var skuldabréfavísitala með þriggja mánaða líftíma. Sjóðirnir létu þó ekki þar við sitja því í ágúst 2007 jók FL/Stoðir útgáfuna upp í 15 milljarða króna og sjóðstjórar Sjóðs 1 og 9 keyptu alla viðbótina. Auk þess virðist sem sjóðirnir hafi keypt það sem út af stóð frá fyrri útgáfunni því að í lok mánaðarins áttu sjóðirnir FL 09 0709 bréf að andvirði 15 milljarða króna sem samkvæmt útboðslýsingunni var hámarksútgáfa í flokknum. Samkvæmt verðbréfalýsingunni áttu viðskipti að hefjast með bréfin í Kauphöllinni 29. október 2007. Í ljósi þess að einn og sami aðilinn átti svo til alla útgáfuna er ólíklegt að lífleg viðskipti hafi verið með bréfin á markaði. Umsjónaraðili útgáfunnar var Glitnir banki.

Framangreind fjárfesting í FL 09 0709 verður að teljast sérstaklega athyglisverð í ljósi eftirfarandi þátta:

1. Fjárfestingin er mjög stór.

2. Útgefandinn er eignarhaldsfélag.

3. Útgefandi skuldabréfanna er stærsti einstaki eigandinn í Glitni banka, móðurfélagi Glitnis sjóða.

4. Móðurfélag rekstrarfélagsins er stór eignaraðili í útgefandanum.

5. Vikið er frá almennri fjárfestingarstefnu Sjóðs 9 að fjárfesta einkum í skammtímabréfum.

6. Keypt er öll útgáfan sem lækkar verulega líkurnar á því að raunhæft markaðsverð myndist með bréfin og eykur seljanleikaáhættu á eftirmarkaði.

Þegar umrædd skuldabréf voru gefin út átti Glitnir banki 6,52% hlut í FL/Stoðum og FL/Stoðir áttu 30,23% hlut í Glitni banka.

Eftir þessi viðskipti áttu Sjóður 1, 9 og 11 26 milljarða króna í verðbréfum útgefnum af FL/Stoðum en þar af voru 22 milljarðar í Sjóði 9. Í lok ágúst 2009 áttu sjóðirnir þrír bréf útgefin af FL/Stoðum að andvirði um 22,8 milljarða króna.

Exista

Allir þrír sjóðirnir, Sjóðir 1, 9 og 11, fjárfestu í verðbréfum útgefnum af Exista. Sjóður 9 byrjaði þó ekki að fjárfesta í Exista bréfum fyrr en í apríl 2006, þá fyrir um 508 milljónir króna, en eign sjóðsins í bréfum Exista jókst hratt eftir því sem leið á árið. Í árslok 2006 átti sjóðurinn verðbréf útgefin af Exista fyrir um 2,2 milljarða króna. Ári síðar hafði eign sjóðsins í bréfum félagsins aukist í rúma 7 milljarða. Fjárfestingar sjóðsins í Exista bréfum bera þess skýrt merki að stöðum í bréfum á gjalddaga er haldið og skuldum útgefanda samkvæmt bréfunum velt inn í nýjar útgáfur samhliða því að heildarskuld Exista við sjóðinn eykst jafnt og þétt.

Sjóður 1 fjárfesti fyrst í MEID 04 1, sem er sjö ára kúlubréf, fyrir um 800 milljónir króna. Í janúar 2008 virðist sjóðurinn hafa selt bréfið, eða skipt því út, fyrir sömu upphæð í EXISTA 04 1 á sama gjalddaga árið 2011. Þetta eru einu Exista bréfin í eigu sjóðsins á tímabilinu janúar 2005 til september 2008.

Eign Sjóðs 11 í bréfum Exista var stöðug mestallt tímabilið, að meðaltali um 176 milljónir króna frá maí 2005 til febrúar 2008. Þá skipti sjóðurinn út sömu bréfum og að ofan greinir (MEID 04 1 fyrir EXISTA 04 1). Sjóðurinn fjárfesti hins vegar fyrir 150 milljónir króna til viðbótar í nýju bréfi (EXISTA 06 3) í mars 2008 sem jók heildareign sjóðsins í verðbréfum Exista um 300 milljónir króna.

14.5.2.6 Viðbrögð Glitnis sjóða vegna greiðslufalls/erfiðleika skuldara

Gnúpur fjárfestingafélag ehf.

Hinn 9. janúar 2008 tilkynnti Gnúpur fjárfestingafélag ehf. að fyrirtækið væri komið í greiðsluerfiðleika en samkomulag hefði náðst um endurfjármögnun eftirstandandi skulda félagsins hjá viðskiptabönkum ásamt því að samið hefði verið um aðrar skuldir. Í árslok 2007 var skráð markaðsverðmæti fjárfestingar Sjóðs 9 í víxlum útgefnum af Gnúpi (GNUP 08 0728) 854 milljónir króna. Ekki virðist sem Sjóðir 1 og 11 hafi fjárfest í Gnúpsbréfum. Hér að neðan er fjárfestingu Sjóðs 9 í Gnúpi lýst:

- Nafnverð: kr. 900.000.000

- Kaupverð: kr. 800.632.350

- Markaðsverð: kr. 857.452.932

- Söluandvirði þann 14. janúar 2008: kr. 663.859.408

- Tap af fjárfestingunni nam kr. 136.772.942 miðað við kaupverð

- Tap af fjárfestingunni nam kr. 193.593.524 miðað við markaðsverð 11. janúar 2008.

Samkvæmt upplýsingum frá Glitni sjóðum voru áhrif þessa á gengi sjóðsins óveruleg en rekstrarfélagið lækkaði tímabundið umsjónarlaun Sjóðs 9 til félagsins til þess að tryggja hagsmuni hlutdeildarskírteinishafa og lágmarka tjón þeirra. Þar sem um minniháttar tap var að ræða, að mati rekstrarfélagsins, sá félagið ekki ástæðu til að upplýsa hlutdeildarskírteinishafa um fjárfestingar í Gnúpi og tapið sem þeim fylgdi. Engar breytingar voru gerðar á stefnu sjóðsins en samkvæmt upplýsingum frá Glitni sjóðum var áhersla lögð á að auka innlán til að mæta hugsanlegum innlausnum og reynt að draga úr fyrirtækjaáhættu, t.d. með því að taka tryggingar samhliða endurfjárfestingum í skuldabréfum og víxlum fyrirtækja.

FL/Stoðir

Hinn 19. september 2008 óskaði fjármálastjóri FL/Stoða eftir fundi með Glitni sjóðum til að fara yfir stöðu félagsins og kanna vilja hjá verðbréfa-og fjárfestingarsjóðum Glitnis sjóða til endurfjárfestinga vegna víxla sem voru á gjalddaga í nóvember 2008. Á þeim fundi var farið yfir hálfsársuppgjör FL/Stoða og horfur. Eiginfjárhlutfall félagsins var 24,7%, en það hafði lækkað úr 36,9% frá því í árslok 2007 og stóðst ennþá þau viðmið sem Glitnir sjóðir hafa. Hins vegar lét framkvæmdastjóri Glitnis sjóða forsvarsmenn félagsins vita að stefnan væri að minnka vægi FL/Stoða í sjóðum félagsins. Enginn áhugi væri á endurfjárfestingum en félaginu væri velkomið að funda með öðrum starfsmönnum Glitnis sjóða og fara yfir uppgjör félagsins og framtíðarsýn.Af þeim fundi varð ekki vegna tilkynningar hinn 29. september 2008 um inngrip og hugsanleg kaup ríkisins á 75% hlutafjár í Glitni. Þetta hafði veruleg áhrif á rekstrarmöguleika Stoða og leiddi til þess að félagið óskaði eftir greiðslustöðvun. Að morgni þess dags var ljóst að rekstrarhæfi FL/Stoða var afar takmarkað enda átti félagið um þriðjungshlut í Glitni banka. Gífurleg óvissa ríkti því um verðmæti skuldabréfa útgefinna af FL/Stoðum í eigu verðbréfa-og fjárfestingarsjóða Glitnis sjóða. Ákveðið var að loka fyrir viðskipti tímabundið þar sem FL/Stoðir voru meðal stærstu útgefenda skuldabréfa í eigu Sjóðs 9 og leita leiða til að koma bréfunum í verð og selja þau út úr sjóðnum ef þess væri nokkur kostur. Ljóst var þá að bréfin yrðu seld með verulegu tapi. Nánar er vikið að sölu bréfanna úr sjóðnum í kafla 14.13.3 hér á eftir.

14.5.2.7 Önnur tilvik

Í þremur öðrum tilvikum bera gögn frá Glitni sjóðum með sér að sérstakra trygginga hafi verið aflað vegna bréfa í eigu sjóða rekstrarfélagsins. Ástæðan fyrir því að fjallað er um þessi viðskipti hér er sú að svo virðist sem rekstrarfélagið hafi verið farið að starfa fremur í ætt við banka en rekstrarfélag verðbréfasjóða. Þess ber einnig að geta að í fyrstu tveimur dæmunum hér að neðan er um að ræða nýja útgáfu á verðbréfum en í síðasta dæminu var aflað trygginga vegna verðbréfa sem sjóðir rekstrarfélagsins áttu þegar.

Eignarhaldsfélagið Fasteign hf.

Hinn 23. maí 2008 undirritaði eignarhaldsfélagið Fasteign samkomulag við Glitni sjóði sem fól í sér að Glitnir sjóðir skuldbundu sig til að kaupa víxil útgefinn af viðkomandi fyrirtæki að upphæð allt að einum milljarði króna gegn því að andvirði kaupverðsins yrði endurfjárfest í Sjóði 9.Víxlinum fylgdi jafnframt tryggingarbréf með allsherjarveði í fasteign í eigu félagsins. Eignarhaldsfélagið skuldbatt sig jafnframt til þess að innleysa ekki hlutdeildarskírteini sín í Sjóði 9 fyrir hluta eða öllu söluandvirði víxilsins nema eftir því sem þörf krefði til að mæta kostnaði vegna fyrirfram skilgreindra atriða í samkomulaginu. Í skilmálum samkomulagsins kom jafnframt fram að Glitnir sjóðir gætu neitað viðkomandi eignarhaldsfélagi um innlausn hlutdeildarskírteina í Sjóði 9 ætti eignarhaldsfélagið í verulegum greiðsluerfiðleikum þannig að vafi léki á um getu félagsins til að mæta skuldbindingum sínum samkvæmt víxlinum.

Norðurturninn ehf.

Hinn 4. júlí 2008 gaf Norðurturninn ehf. út skuldabréf til Glitnis sjóða að fjárhæð allt að 2 milljörðum króna með 1. veðrétti í fasteign í eigu félagsins. Í mánaðarlok var uppgefið markaðsvirði Sjóðs 9 í viðkomandi skuldabréfum 1.012 milljónir króna.

Eignarhaldsfélagið Kirkjuhvoll ehf.

Hinn 3. október 2008 gaf eignarhaldsfélagið Kirkjuhvoll ehf. út tryggingarbréf með veði í fasteign til tryggingar greiðslu á fjárskuldbindingum í tengslum við ákveðinn skuldabréfaflokk og aðrar skuldbindingar við Glitni banka. Í lok september 2008 var skráð eign Sjóðs 9 í viðkomandi skuldabréfaflokki 455 milljónir króna.

14.5.2.8 Ályktun rannsóknarnefndar Alþingis um starfsemi sjóða Glitnis sjóða

Stærsti sjóður rekstrarfélagsins, Sjóður 9, stækkaði mjög hratt á skömmum tíma. Vöxtur sjóðsins var hraðari en svo að unnt væri að skapa sjóðnum eðlileg starfsskilyrði miðað við smæð innlenda verðbréfamarkaðarins og takmarkað framboð af traustum auðseljanlegum verðbréfum. Áhættudreifingu m.t.t. skuldaraáhættu var verulega ábótavant og það vekur sérstaka athygli hversu hlutfall ríkistryggðra verðbréfa í eignasafninu var lágt. Fjárfestingar sjóðsins í eignarhaldsfélögum voru langt umfram það sem gæti talist eðlilegt í vel dreifðu eignasafni. Lánveitingar Sjóðs 9 til Glitnis banka og tengdra félaga voru mjög umsvifamiklar og vekja alvarlegar spurningar um óhæði rekstrarfélagsins gagnvart eiganda sínum.

Undir lok tímabilsins voru sjóðirnir farnir að starfa meira eins og bankar en fjárfestingarsjóðir. Þetta kemur meðal annars fram í því að farið var að krefjast trygginga gagnvart einstökum útgefendum og fjárfestingar í verðbréfum háðar sérstökum skilmálum um ráðstöfun andvirðis bréfanna.

Rannsóknarnefnd Alþingis gerir líka athugasemd við það að sjóðir sem þessir skuli hafa keypt útgáfur skuldabréfa í heild, eins og Sjóður 9 gerði t.d. með skuldabréfaflokkinn FL09 0709. Erfitt er að meta markaðsvirði slíkra bréfa og einnig má efast um seljanleika þeirra. Rannsóknarnefnd Alþingis bendir einnig á að Sjóður 1 fór niður fyrir yfirlýst lágmarkshlutfall, samkvæmt fjárfestingarheimildum sjóðsins, í ríkistryggðum verðbréfum fyrstu mánuði ársins 2006.

14.5.3 Sjóðir Landsvaka

14.5.3.1 Inngangur

Í kaflanum er fjallað um eignir tveggja fjárfestingarsjóða á vegum Landsvaka, Peningabréfa ISK og Fyrirtækjabréfa. Sjóðirnir voru báðir innlendir skuldabréfasjóðir, þ.e. fjárfestu nánast eingöngu í skuldabréfum útgefnum af innlendum útgefendum í krónum. Peningabréf ISK voru langstærsti sjóður Landsvaka og stærsti peningamarkaðssjóður í rekstri innlendra rekstrarfélaga en í lok júní 2008 voru eignir hans tæplega 190 milljarðar króna, tæplega 13% af áætlaðri landsframleiðslu þess árs. Fyrirtækjabréf voru mun minni sjóður og var heildarverðmæti hans um 20 milljarðar króna. Þróun heildarverðmætis þessara sjóða má sjá á mynd 30.

Í þessum hluta eru fjárfestingar sjóðanna athugaðar, m.a. í því skyni að kanna hversu stóran hluta fjárins sjóðirnir veittu aðilum sem voru tengdir helstu eigendum Landsbankans og stórum viðskiptavinum. Skoðuð var eignasamsetning sjóðanna, stöðutaka í einstökum útgáfum, þróun eignasamsetningar á tímabilinu sem til skoðunar var og einnig voru athuguð sérstök mál sem komu upp við skoðunina.Auk þessa voru viðskipti milli sjóðanna skoðuð í því augnamiði að kanna hvort um væri að ræða umfangsmiklar hreyfingar.

Verðlagning bréfa við kaup sjóðanna í samanburði við markaðsverð var ekki athuguð nákvæmlega þar sem stór hluti eigna sjóðanna voru verðbréf sem höfðu grunna eða jafnvel enga virka verðmyndun á markaði. Ekki voru skoðuð verð í viðskiptum milli sjóða en athygli vekur hve slík viðskipti voru umfangsmikil.

14.5.3.2 Peningabréf Landsvaka

Almennt

Peningabréf ISK voru fjárfestingarsjóður. Sjóðurinn var stofnaður árið 1995 og samkvæmt útboðslýsingu hans frá apríl 2008 fjárfesti hann í "vel tryggðum skammtímaverðbréfum, einkum ríkis- og bankatryggðum víxlum og skuldabréfum, víxlum og skuldabréfum sveitarfélaga og öðrum vel tryggðum verðbréfum að mati stjórnar Landsvaka hf." Tilgangur sjóðsins, sem og annarra sjóða Landsvaka, var að "veita viðtöku fé frá almenningi til sameiginlegrar fjárfestingar í fjármálagerningum og öðrum eignum á grundvelli áhættudreifingar [...]". Markmið sjóðsins var að ná stöðugri og öruggri ávöxtun og að fjárfesta í óverðtryggðum bréfum með skamman líftíma, þ.e. með gjalddaga innan árs.

Í útboðslýsingu sjóðsins var sérstaklega fjallað um alla þá áhættuþætti sem sjóðurinn gat verið næmur fyrir, svo sem mótaðilaáhættu, gjaldmiðlaáhættu og vaxtaáhættu. Því var ekki lýst hvernig sjóðurinn drægi úr hverjum áhættuþætti sérstaklega nema að því leyti að sjóðurinn verði sig gegn gjaldmiðlaáhættu með afleiðuviðskiptum. Í útboðslýsingu var fjárfestum skýrlega gerð grein fyrir því að ekki væri áhættulaust að fjárfesta í sjóðnum. Bæði voru áhættuþættir taldir upp og greint frá því að áhættusamara væri að fjárfesta í fjárfestingarsjóðum en verðbréfasjóðum þar sem heimildir þeirra fyrrgreindu væru mun víðtækari.

Í útboðslýsingunni var birt tafla yfir áhættukvarða sem notaðir voru til viðmiðunar. Áhætta var metin út frá staðalfráviki ávöxtunar og skiptist hún í sjö stig. Slík áhættumæling er í samræmi við viðauka leiðbeinandi tilmæla Fjármálaeftirlitsins nr. 3/2004. Hún er aftur á móti mjög einföld og engan veginn lýsandi fyrir heildaráhættu fjárfestis. Peningabréf ISK voru samkvæmt útboðslýsingu skammtímasjóður og líftími eigna sjóðsins var 0–1 ár. Slíkar eignir hafa almennt lægra staðalfrávik en eignir með lengri líftíma. Mælikvarðinn innihélt ekkert mat á öðrum áhættuþáttum, s.s. gjaldfallsáhættu, seljanleikaáhættu eða samþjöppunaráhættu. Þar af leiðandi var sjóðurinn flokkaður í áhættuminnsta flokkinn, þ.e. áhættustig 1 af 7.

Útboðslýsingu sjóðsins var breytt í apríl 2008 þegar sett var inn ávöxtunarviðmið sjóðsins en það hafði ekki áður verið til staðar. Þá varð einnig markverð breyting á fjárfestingum sjóðsins því sjóðurinn seldi allar eignir sínar í bréfum ríkis og sveitarfélaga. Þrátt fyrir það var hvorki fjárfestingarstefnu né útboðslýsingu breytt og gátu fjárfestar því illa áttað sig á að engin af bréfum sjóðsins voru ríkistryggð á þeim tíma þegar útboðslýsingin var gerð. Fjárfestar gátu hins vegar séð eignaskiptingu í einblöðungum sem birtir voru mánaðarlega. Þá uppfyllti útdráttur úr útboðslýsingu öll skilyrði leiðbeinandi tilmæla Fjármálaeftirlitsins nr. 3/2004.

Fjárfestingarstefnu sjóðsins er lýst í töflu 9.

Taflan sýnir að fjárfestingarstefna Peningabréfa ISK var mjög rúm. Raunar er erfitt að túlka fjárfestingarstefnu sem hefur svo víð vikmörk sem stefnu af nokkru tagi. Sjóðstjóra eru lítil takmörk sett með svo rúmri stefnu og draga verður þá ályktun að líklega hafi verið fremur einfalt að framfylgja henni. Ávöxtunarviðmið sjóðsins voru þriggja mánaða REIBID vextir skráðir af Seðlabanka Íslands.

Lýsing eigna Peningabréfa ISK 2005–2008

Eignir Peningabréfa ISK jukust gríðarlega á árunum 2005–2008, úr rúmum 13 milljörðum króna árið 2005 í 123 milljarða þegar sjóðnum var slitið. Hæst fóru eignir sjóðsins í tæpa 188 milljarða í lok júní 2008. Peningabréf ISK voru því langstærsti sjóður Landsvaka á því tímabili eða með um 80% af öllum eignum fjárfestingarsjóða hjá rekstrarfélaginu. Sjóðurinn fjárfesti aðallega í skráðum verðbréfum framan af viðmiðunartímabilinu en fjárfesting í óskráðum bréfum og innlánum til fjármálafyrirtækja jókst frá áramótum 2006/2007 og að miklum mun í september 2007 þegar erlendir fjármagnsmarkaðir lokuðust. Á svipuðum tíma hóf sjóðurinn fjárfestingu í erlendum verðbréfum, þ. á m. bréfum sem gefin voru út af innlendum aðilum.

Stærstu eignir og skuldarar sjóðsins

Í lok júlí 2008 voru tíu stærstu skuldarar sjóðsins þeir sem greint er frá í töflu 10. Eins og þar sést eru kröfur á þessa tíu skuldara stærsti hluti sjóðsins.

Flokka má stærstu útgefendur verðbréfa í eigu sjóðsins í hópa eftir eignatengslum og/eða stórum áhættuskuldbindingum Landsbankans, móðurfélags Landsvaka. Þannig má flokka stærstu skuldarana í eftirfarandi flokka tengdra aðila:

1. Landsbankinn og tengd félög

a. Samson ehf.

b. Straumur-Burðarás Fjárfestingabanki hf.

c. Eimskipafélag Íslands hf.

2. Glitnir og tengd félög

a. Stoðir hf.

b. Baugur Group hf.

c. Hagar hf.

d. Atorka Group hf.

e. Mosaic Fashions 3. Kaupþing og tengd félög

a. Kaupþing banki hf.

b. Exista hf.

Á mynd 32 má sjá að miðað við þessa flokkun átti sjóðurinn mikið í Landsbankanum og tengdum félögum og eru þá innlán ekki meðtalin. Jókst þetta á árinu 2008 og varð því samþjöppun eigna allveruleg.

Fjárfestingar tengdar Landsbankanum

Stærstur hluti bréfa sem tengdust Landsbankanum voru skráð bréf eða innlán hjá fjármálafyrirtækjum tengdum bankanum eins og sést á mynd 33. Ef einstök bréf Landsbankans og tengdra félaga eru skoðuð eftir flokkuninni hér að ofan sést að framan af skoðunartímabilinu fjárfesti sjóðurinn lítið í bréfum Landsbankans en meira í bréfum Straums og Samsonar eignarhaldsfélags en hluti af fjárfestingum í Straumi voru innlán. Í lok árs 2007 jók sjóðurinn hlut sinn í Straumi með innlánum til bankans. Jók sjóðurinn fjárfestingar sínar í skuldabréfum Landsbankans í marsmánuði 2008. Þá seldi sjóðurinn öll ríkistryggð bréf í sinni eigu að andvirði um 21 milljarðs króna og jók eign sína í bréfum tengdum Landsbankanum um sömu upphæð. Þar af keypti sjóðurinn víxla útgefna af bankanum, LAIS 08 0603, fyrir 17 milljarða króna og jók innlán hjá bankanum um 4 milljarða. Þannig jukust margvíslegar áhættur sjóðsins, þ.m.t. mótaðilaáhætta. Að sögn sjóðstjóra var tekin ákvörðun um að selja ríkisbréf þar sem ávöxtunarkrafa þeirra var langt frá markmiðum sjóðsins en við þá ákvörðun var horft til þess að Landsbankinn hafði alþjóðlegt lánshæfismat sem ekki var langt frá lánshæfismati ríkisins. Það er þó ljóst að sjóðstjórinn jók með þessu ávöxtun á kostnað áhættudreifingar því ríkisbréf teljast ávallt tryggari fjárfesting en bankabréf, sérstaklega þegar lánshæfismat bankans byggir að einhverju leyti á því að ríkisstuðnings er vænst, eins og var reyndin með innlendu bankana. Það vekur hins vegar athygli að um svipað leyti og Peningabréf ISK seldi öll ríkisbréf úr sjóðnum keypti Landsbankinn umtalsvert magn af ríkisbréfum, þ. á m. hluta bréfa sjóðsins. Þau voru svo notuð í veðlánum hjá Seðlabanka Evrópu, svonefndum AVENS. Á skoðunartímabilinu jók sjóðurinn innlán hjá Landsbankanum umtalsvert, úr engum innlánum upp í hæst 60 milljarða króna. Á sama tíma jókst hlutfall eigna sem tengdust bankanum miðað við heildareignir, úr tæplega 25% í rúm 60%. Má því segja að meira en helmingur eigna sjóðsins hafi verið tengdur einum aðila, Landsbankanum, móðurfélagi Landsvaka.

Áhugavert er að skoða hversu stóran hluta sjóðurinn átti í einstökum flokkum verðbréfa sem gefin voru út af stærstu skuldunautum sjóðsins sem tengdust Landsbankanum. Þar er fyrst að telja Landsbankann, sbr. mynd 34. Sjóðurinn jók fjárfestingu í bréfum Landsbankans í lok mars 2008 þegar hann keypti fyrir 17 milljarða króna í víxilútgáfu, LAIS 08 0603, sem var tveggja mánaða víxill að nafnvirði 30 milljarðar króna.Af þeirri útgáfu keypti sjóðurinn fyrir 18 milljarða að nafnverði eða 60% allrar útgáfunnar. Á gjalddaga þess víxils fékk sjóðurinn endurgreidda 18 milljarða en keypti samdægurs LAIS 08 0702 að nafnvirði 12 ma. kr., þ.e. framlengdi í raun og veru stóran hluta skuldarinnar. Sjóðurinn endurtók leikinn allt til falls bankanna, fjárfesti í skammtímavíxlum Landsbankans fyrir 12–17 milljarða króna að nafnvirði eða fyrir um 10% af heildarverðmæti sjóðsins í hvert skipti.

Ef eignir tengdar Samson eru skoðaðar nánar má sjá á mynd 35 að sjóðurinn hélt að jafnaði um 9 milljörðum króna í bréfum útgefnum af Samson. Af stærstu útgáfunum eftir október 2007, þegar fyrri útgáfur voru framlengdar, má sjá þrjár stórar útgáfur, SAMS 07 3, SAMS 07 5 og SAMS 07 6, þar sem Peningabréf keyptu alla frumútgáfu bréfanna. Því má segja að Samson hafi átt vísan aðgang að endurfjármögnun að hluta hjá sjóðnum.Svipaða sögu er að segja af fjárfestingum tengdum Straumi-Burðarás, sbr. mynd 36, en sjóðurinn átti að jafnaði um 17 milljarða króna í útgáfum og innlánum hjá bankanum. Þar voru þrjár útgáfur stærstar eftir upphaf árs 2007, STRB 06 2, STRB 07 1 og STRB 07 3. Peningabréf ISK keyptu frumútgáfur þessara bréfa í heild og héldu til slita sjóðsins.

Stærstu eignir í Eimskipafélagi Íslands frá upphafi árs 2007 og til slita sjóðsins voru tvær, HFEIM 07 2 og AVION 06 2. Peningabréf ISK áttu helming útgáfu AVION frá upphafi en einungis hluta í útgáfu Eimskipafélagsins. Fjárfestingar í þessum bréfum voru að jafnaði um 8 milljarðar króna.

Allar ofangreindar fjárfestingar rúmuðust innan fjárfestingarstefnu sjóðsins og laga nr. 30/2003 um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði. Hins vegar er álitamál hversu eðlilegt það er, m.t.t. góðra viðskiptahátta og hagsmuna hlutdeildarskírteinishafa og eins út frá áhættu, sérstaklega seljanleikaáhættu og verðmyndun, að kaupa útgáfu í heilu lagi inn í sjóðinn.

Fjárfestingar tengdar Glitni

Peningabréf ISK fjárfestu lítið í verðbréfum Glitnis banka. Sjóðurinn var hins vegar með innlán hjá bankanum.

Fjárfestingar tengdar Baugi og FL/Stoðum

Landsbankinn var einn helsti viðskiptabanki Baugs og FL Group (síðar Stoðir). Samtals fjárfestu Peningabréf ISK fyrir u.þ.b. 20–30 milljarða króna í Baugi og Stoðum sem var að jafnaði um 25% eigna sjóðsins. Eign í félögunum tveimur jókst markvert frá miðju ári 2007 eða á sama tíma og lausafjárþurrð gerði vart við sig á erlendum mörkuðum. Ef eignir tengdar Baugi eru skoðaðar nánar frá ársbyrjun 2007, sbr. mynd 38, sést að Peningabréf ISK juku fjárfestingu sína úr rúmum 6 milljörðum króna í rúma 11 milljarða á árinu 2007. Fjárfestingin var í þremur bréfum sem svo komu á gjalddaga í árslok 2008. Fjárfestingar sjóðsins í Baugi jukust enn með kaupum á BAUG ISK 07 2, 3 og 4 sem voru skuldabréf útgefin af Baugi til Landsbankans. Sjóðurinn keypti alla útgáfu þessara bréfa en flokkarnir voru allir jafnframt óskráðir.Við skýrslutöku af sjóðstjóra Peningabréfa ISK kom fram að starfsmönnum og stjórnendum Landsvaka hafi verið ljóst í desember 2007 að Baugur gat ekki endurgreitt fyrri víxla. Sjóðstjórum hafi því verið ljóst að á þessum tíma var Baugur kominn í greiðsluvanda. Þrátt fyrir það var ákveðið að framlengja víxlana með nýjum útgáfum, BAUG ISK 07 3 og BAUG ISK 07 4 og krefjast trygginga.Til tryggingar fékk Landsvaki allt hlutafé Baugs í BG Holding ehf. að nafnvirði GBP 1.273.374.Sama þróun sést þegar skoðuð er eign Peningabréfa ISK í FL/Stoðum, sbr. mynd 39, en þar kemur í ljós að sjóðurinn endurfjármagnaði skuldabréf tengd félaginu í lok árs 2007 með heildarkaupum á tveimur skuldabréfaútgáfum félagsins, FL 07 1 og FL 08 1. Flokkarnir voru báðir óskráðir þrátt fyrir að skráningarlýsing kveði á um að þeir skuli skráðir í kauphöll. Ljóst var að Landsvaki mat stöðu FL/ Stoða ekki trausta á tímabilinu, sem kemur fram í því að í lok árs 2007 óskaði sjóðurinn eftir tryggingum vegna skuldabréfaeignar sinnar.Til trygginga fékk Landsvaki öll hlutabréf í Tryggingamiðstöðinni að nafnverði 1 ma.kr.og skuldabréfaútgáfuna LANDIC 08 5 sem átti að innihalda rétt til breytinga í hlutabréf í félaginu.

Samkvæmt skýringum sjóðstjóra var tekin ákvörðun í stjórn Landsvaka um að framlengja ofangreind bréf í FL/Stoðum og Baugi þar sem ekki var talið að félögin gætu endurgreitt víxla í eigu sjóðsins í árslok 2007. Stjórnarmaður Landsvaka sagði hins vegar í skýrslutöku hjá rannsóknarnefndinni að stjórnin hefði ekki haft vitneskju um töku trygginga eða framlengingu bréfa í eigu sjóða Landsvaka.Á fundi lánanefndar Landsbankans 9. janúar 2008 var m.a. lagt fram erindi um tvær stórar lánveitingar sem samþykktar voru milli funda.Annars vegar var um að ræða 28 milljarða króna kúlulán til BG Holding ehf., dótturfélags Baugs.Viðkomandi lán var veitt með veði í ýmsum hlutabréfum í eigu félagsins, þ. á m. Iceland verslunarkeðjunni, House of Fraiser, Jane Norman o.fl. Það er sérstakt við þessa lánveitingu að í greinargerð með lánveitingunni kemur fram að lántakandi óski eftir umræddu láni til endurfjármögnunar á útistandandi lánum Baugs en jafnframt er óskað eftir því að "Landsbankinn taki þátt í 12 ma. kr. skuldabréfaútboði og að sjóðir bankans taki þátt sem fjárhæðinni nemur". Jafnframt kom fram í greinargerðinni að Landsbankinn tæki veð í eignum BG Holding og að sjóðirnir færu á annan veðrétt á eftir Landsbankanum. Alls væri því verið að lána BG Holding 40 milljarða króna. Á öðru fylgiskjali með lánveitingunni, svokölluðu Terms sheet, sem dagsett var 6. desember 2007, kemur fram að Landsbankinn fallist á að endurfjármagna umrædd lán og að 12 milljarðar króna muni koma frá sjóðunum. Í bókun lánanefndar 9. janúar 2008 er fallist á umrædda lánveitingu en þó var ekki minnst á þá 12 milljarða króna sem koma áttu frá sjóðunum. Í bókuninni sagði: "Lán ráðstafist alfarið til greiðslu van/eða ótryggðra skammtímaskulda Baugssamstæðunnar í LÍ (á Baug Group, BG Holding og Unity Investments)."

Annað sem vakti athygli rannsóknarnefndarinnar var 18 milljarða króna kúlulán Landsbankans til FL/Stoða. Í bókun fundargerðar lánanefndarinnar kom fram að til tryggingar yrðu 99,05% hlutafjár í Tryggingamiðstöðinni. Einnig kemur fram "skilyrði um skuldafjárútboð" eins og það er kallað í fundargerð. Skuldabréfið FL 07 1 birtist í eignasafni Peningabréfa ISK í eignastöðu sjóðsins í lok desember 2007. Umrædd bréf eru skráð að andvirði 12 milljarða króna og með handveði á öðrum veðrétti í ofannefndum eignarhlut í Tryggingamiðstöðinni. Í handveðsyfirlýsingunni kemur fram að um sé að ræða veð fyrir "skuldabréfum upphaflega útgefnum til Landsbanka Íslands hf. en sem síðar hafa verið framseld til verðbréfa-og fjárfestingarsjóða Landsvaka hf." Jafnframt kemur fram í yfirlýsingunni að framselji Landsvaki bréfin til þriðja aðila falli veðréttur niður. Samkvæmt útgáfulýsingu skuldabréfanna voru bréfin gefin út 20. desember 2007. Landsbanki Íslands annaðist útgáfu bréfanna og virðist samkvæmt handveðslýsingunni jafnframt hafa verið kaupandi allra bréfa í útboðinu. Peningabréf ISK fjárfestu því í 12 milljarða króna skuldabréfum til tveggja ára með veði á öðrum veðrétti sem félli niður væru bréfin seld. Rannsóknarnefndin hefur ekki fengið nákvæmar upplýsingar um hvenær og hvernig umrædd bréf komust í eigu Peningabréfa ISK í desember 2007.

Fjárfestingar tengdar Atorku

Peningabréf ISK juku einnig við eign sína í Atorku í árslok 2007 en þá keypti sjóðurinn skuldabréfaútgáfu félagsins, ATOR 07 6, í heild, upp á rúma 3 milljarða króna, og jók þannig stöðu sína í félaginu um 100%.

Fjárfestingar tengdar Kaupþingi og Exista

Fjárfestingar Peningabréfa ISK tengdar Kaupþingi voru mjög takmarkaðar fram á mitt ár 2007, sbr. mynd 40, en þá jókst fjárfestingin verulega í bréfum útgefnum af Kaupþingi og eilítið í skuldabréfum Exista. Í upphafi tímabilsins var um að ræða innlán hjá Kaupþingi, en við lok árs 2007 vék sjóðstjórinn frá þeirri stefnu sinni og fjárfesti í skammtímabréfum útgefnum af bankanum eins og sést glöggt á mynd 41. Sjóðurinn átti einungis lítinn hluta af heildarútgáfu þeirra og voru almennt regluleg markaðsviðskipti með bréfin. Við skýrslutöku af fyrrum sjóðstjóra Peningabréfa kom fram að mörkuð hefði verið stefna við lok árs 2007 og í upphafi árs 2008 um að hætta fjárfestingum í innlánum og skuldabréfum útgefnum af smærri fjármálafyrirtækjum, svo sem VBS, Saga Capital og sparisjóðum, þar sem fjárfestingarráð taldi rekstur þeirra ekki traustan. Í stað bréfa þessara fyrirtækja ætti fremur að fjárfesta í bréfum Landsbankans og Kaupþings.Eign sjóðsins í Exista samanstóð aðallega af einu skuldabréfi en sjóðurinn átti lítinn hluta af heildarútgáfu þess.

Ályktun rannsóknarnefndar Alþingis um fjárfestingar/eignir Peningabréfa ISK

Peningabréf ISK var stærsti peningamarkaðssjóður landsins. Fjárfestingar sjóðsins framan af voru fremur hóflegar og síður vilhallar félögum tengdum Landsbankanum. Það breyttist þó verulega frá árslokum 2006 og á árinu 2007.

Af samantektinni hér að ofan er ljóst að eignir Peningabréfa ISK voru að meiri hluta í eignum Landsbankans og tengdra félaga miðað við þá afmörkun sem hér er stuðst við. Einnig er ljóst að mikið var keypt af skuldabréfum Baugs og FL Group en Landsbankinn var helsti viðskiptabanki beggja félaganna. Sú staðreynd að fjárfestingar í þessum félögum voru endurnýjaðar á gjalddaga með tryggingatöku, þrátt fyrir greiðslufall, sýnir að þessi félög höfðu greiðan aðgang að endurfjármögnun hjá sjóðnum allt fram á mitt ár 2008. Einnig er ljóst að þegar herti að í fjármögnun Landsbankans jókst fjárfesting sjóðsins í bréfum bankans sem og innlánum. Var þetta gert á kostnað eignadreifingar þar sem ríkisbréf viku fyrir fjárfestingum í bankanum. Spyrja má hvort hér sé ekki á ferðinni dæmi um skort á óhæði dótturfélagsins Landsvaka gagnvart móðurfélaginu Landsbankanum.

Tryggingataka Landsvaka í lok árs 2007 og á vormánuðum 2008 verður að teljast í hæsta máta óeðlileg þar sem það er ekki hlutverk rekstrarfélags af þessu tagi að stunda útlánastarfsemi gegn töku trygginga. Þegar ljóst var að Baugur gæti ekki greitt af skuldum sínum hefði gengi sjóðsins átt að endurspegla greiðslufallið og hefði sjóðurinn ekki átt að framlengja fjárfestingar sínar í bréfum slíkra skuldara. Ef hætta hefði verið á áhlaupi á sjóðinn í kjölfarið á lækkandi gengi hefði fremur átt að loka fyrir innlausnir. Greiðslufallið átti að endurspeglast í virði eigna sjóðsins á einhvern hátt til þess að eigendur hlutdeildarskírteina hefðu rétta mynd af stöðu sjóðsins. Hagsmunir þeirra fólust ekki eingöngu í arðsemi af eign sinni heldur einnig í því að þeir hefðu haldbærar upplýsingar um hvernig eignastaða sjóðsins væri í raun svo þeir gætu metið hvort þeir vildu halda áfram að fjárfesta í sjóðnum.Til þess þurftu þeir að fá skýr markaðsskilaboð, þar á meðal upplýsingar um breytingar á gengi sjóðsins.

Í stað þess að senda skýr skilaboð til markaðarins með t.d. lækkun á gengi sjóðsins virðast stjórnarformaður og framkvæmdastjóri félagsins hafa látið hjá líða að upplýsa um væntanlegt tap með endurfjárfestingu í bréfum félags í greiðsluvanda. Af gengi sjóðsins eða kynningargögnum til fjárfesta má engan veginn ráða að skuldarar sjóðsins væru í vanda. Slíkt er ekki í samræmi við 19. gr. laga nr. 30/2003, þar sem fram kemur að rekstrarfélög eigi að hafa "trúverðugleika markaðarins og hagsmuni hlutdeildarskírteinishafa að leiðarljósi".

Þegar ákvarðanir lánanefndar Landsbankans eru skoðaðar virðist sem móðurfélagið hafi að ýmsu leyti "handstýrt" fjárfestingum sjóða Landsvaka, án tillits til arðsemi fjárfestinganna eða hagsmuna hlutdeildarskírteinishafa. Í þessu sambandi vekur sérstaka athygli að í fundargerð lánanefndar Landsbankans er vísað til "sjóða bankans" þegar ákveðið er að sjóðir Landsvaka kaupi skuldabréf af Baugi. Ekki verður annað ráðið en að ákvörðun um kaup sjóða Landsvaka á skuldabréfum útgefnum af Baugi hafi verið tekin innan móðurfélagsins, Landsbankans. Þannig benda fyrirliggjandi gögn, þ.m.t. fundargerðir lánanefndar Landsbankans, til alvarlegra bresta í óhæði Landsvaka sem sjálfstæðs fjármálafyrirtækis.Auk þess kunna inngrip og afskipti stjórnenda Landsbankans af rekstri og ákvörðunum um málefni sjóðanna að vera til marks um að Landsbankinn hafi beinlínis notað sjóðina til að takmarka stórar áhættuskuldbindingar gagnvart einstökum skuldurum bankans.

Sú ákvörðun Landsvaka að setja sjóðnum ávöxtunarmarkmið á árinu 2007 sem fól í sér að áhættudreifingu var fórnað fyrir ávöxtun verður að teljast ámælisverð. Áhættudreifing eigna var lítil og minnkaði enn frekar við sölu allra ríkisbréfa úr sjóðnum. Í raun má segja að samkeppnissjónarmið hafi haft forgang umfram hagsmuni hlutdeildarskírteinishafa við þá ákvörðun en í skýrslu sjóðstjóra kom fram að Landsvaki hefði rekið sjóði sem voru í samkeppni við aðra og að hann hefði viljað vera samkeppnishæfur. Rannsóknarnefnd Alþingis telur það einnig verulega ámælisvert að slíkur sjóður kaupi heilar útgáfur skuldabréfa. Ef einn sjóður á heila útgáfu má gera ráð fyrir að ekki sé virk verðmyndun á viðkomandi bréfum og getur það haft áhrif á verðmæti safnsins. Þar sem eignir sjóðanna eru skráðar á markaðsvirði eða síðasta söluvirði er eingöngu hægt að uppfæra verð eignanna með því að eiga viðskipti með þær. Sjá nánari umfjöllun um viðskipti milli sjóða í kafla 14.5.3.4.

14.5.3.3 Fyrirtækjabréf Landsvaka

Almennt

Fyrirtækjabréf Landsvaka voru fjárfestingarsjóður sem samkvæmt útboðslýsingu fjárfesti í "skuldabréfum traustra fyrirtækja, bankatryggðum skuldabréfum/víxlum og skuldabréfum sveitarfélaga". Í lýsingunni segir einnig: "Fyrirtækjabréf Landsbankans hyggjast fyrst og fremst fjárfesta í traustum fyrirtækjaskuldabréfum skráðum í íslensku kauphöllinni.Aðferðafræði við val á skuldabréfum skal miða að því að sjóðurinn innihaldi vel dreift eignasafn íslenskra fyrirtækjaskuldabréfa." Markmið sjóðsins var að ná betri ávöxtun en á ríkisbréfum og fjárfesti sjóðurinn aðallega í bréfum með tveggja til fjögurra ára líftíma. Áhætta sjóðsins var metin eftir sama áhættumati og Peningabréf ISK en staðalfrávik ávöxtunar var einnig lágt og var sjóðurinn metinn í flokk næstminnstu áhættu.

Útboðslýsingar Fyrirtækjabréfa og Peningabréfa ISK eru mjög svipaðar og virðist vera um staðlað form að ræða. Útboðslýsing Fyrirtækjabréfa fjallar einnig ítarlega um alla þá áhættuþætti sem snúa að eigendum hlutdeildarskírteina en lítið er fjallað um hvernig sjóðurinn takmarkar hvern áhættuþátt. Þó er þar að finna stutta umfjöllun um fjárfestingu sjóðsins í afleiðum til að verjast áhrifum vaxta og gengis á virði sjóðsins. Nýjasta útboðslýsing sem nefndin hefur undir höndum er frá því í júní 2006, en í leiðbeinandi tilmælum Fjármálaeftirlitsins er gert ráð fyrir að útboðslýsingu sé breytt ef um er að ræða umtalsverða breytingu á starfsháttum sjóðsins. Einnig er mælt með því að útboðslýsingar séu uppfærðar árlega. Því virðist ekki hafa verið fylgt hjá Landsvaka að uppfæra slíkar lýsingar en það verður að teljast villandi fyrir fjárfesta. Í útboðslýsingunni er fjárfestingarstefna sjóðsins kynnt, sbr. töflu 11 hér að neðan:

Taflan sýnir að fjárfestingarstefna Fyrirtækjabréfa var mjög rúm, eins og stefna Peningabréfa ISK, og getur því vart talist eiginleg stefna. Samkvæmt útboðslýsingu var ekki um að ræða nákvæmt ávöxtunarmarkmið annað en "að ná góðri ávöxtun og dreifingu verðbréfaeignar".

Athygli vekur að Fyrirtækjabréf eru samkvæmt útboðslýsingu fjárfestingarsjóður, en í viðauka við útboðslýsinguna er lýst þeim ákvæðum laga nr. 30/2003 sem varða fjárfestingarheimildir verðbréfasjóða. Aftur á móti er ekkert fjallað um fjárfestingarheimildir fjárfestingarsjóða samkvæmt sömu lögum. Það er því ekki skýrt gagnvart fjárfestum hvort um sé að ræða verðbréfa- eða fjárfestingarsjóð. Af þessu öllu er ljóst að útboðslýsingin var villandi um heimildir sjóðsins til fjárfestinga.

Lýsing eigna Fyrirtækjabréfa

Heildarverðmæti eigna Fyrirtækjabréfa lækkaði mikið á árunum 2006–2007, úr tæpum 35 milljörðum króna í 10 milljarða í lok árs 2007 en verðmæti sjóðsins náði 15 milljörðum króna undir lok árs 2008, sbr. mynd 42. Sjóðstjóri gaf þá skýringu að Fyrirtækjabréf hefðu almennt ekki verið talin góð sparnaðarleið fyrir almenna sparifjáreigendur og hefði því eigendum hlutdeildarskírteina verið sent bréf í upphafi árs 2007 þar sem þeim var boðið að færa eign sína í safnbréfasjóði (sjóðasjóði) Landsvaka. Einnig virðist markaðssetning þessa sjóðs ekki hafa verið eins áberandi eins og Peningabréfa ISK þar sem meðallíftími eigna sjóðsins var lengri en peningamarkaðssjóðanna. Sjóðurinn hefði því ekki talist álitlegt sparnaðarform til skemmri tíma.Framan af viðmiðunartímabilinu var langstærsti hluti eigna Fyrirtækjabréfa skráð skuldabréf. Fjárfestingar í óskráðum bréfum jukust að nokkru marki frá ársbyrjun 2008, en þá jók sjóðurinn einnig notkun afleiða samhliða auknum fjárfestingum í erlendum bréfum. Sjóðurinn fjárfesti lítið í ríkistryggðum bréfum eða innlánum þrátt fyrir að hafa til þess rúmt svigrúm í fjárfestingarstefnu.

Stærstu eignir og skuldarar sjóðsins

Ef stærstu eignir og skuldarar sjóðsins eru flokkaðir samkvæmt sömu flokkun og skuldarar Peningabréfa ISK, kemur í ljós að dreifing eigna sjóðsins var fremur jöfn yfir tímabilið á milli félaga sem tengd voru bönkunum og var að jafnaði mest fjárfest í félögum tengdum Landsbankanum, sjá mynd 43. Fyrirtækjabréf fjárfestu lítið í ríkisbréfum og eignum með ábyrgð sveitarfélaga á tímabilinu þrátt fyrir að fjárfestingarstefnan heimilaði að bundin væru allt að 80% af eignum sjóðsins í slíkum eignum. Athygli vekur að þó nokkuð var fjárfest í eignum öðrum en þeim sem tengjast bönkunum, allt að 25% af eignum sjóðsins, fram í mars 2008. Þá stækkaði sjóðurinn en hlutfallsleg eign í félögum sem ekki tengdust bönkunum jókst ekki samhliða heldur minnkaði frá 25% niður í 10%.

Landsbankinn og tengd félög

Samkvæmt yfirliti yfir eignir Fyrirtækjabréfa sem tengjast Landsbankanum fjárfesti sjóðurinn framan af nokkuð í bréfum tengdum Eimskipafélagi Íslands og Straumi-Burðarás þar sem stærstu eigendur Landsbankans voru einnig stórir eigendur en þessar fjárfestingar minnkuðu verulega á haustmánuðum 2006, sjá mynd 44. Á sama tíma dróst heildarverðmæti sjóðsins saman. Frá byrjun árs 2007 voru eignir sjóðsins tengdar Landsbankanum aðallega í Nýsi, Samson eignarhaldsfélagi og Landsbankanum og hélst sú staða fram í mars 2008 þegar sjóðurinn jók fjárfestingar í bréfum útgefnum af Samson.Verðbréf útgefin af félögum tengdum Landsbankanum voru alla jafna um 30% af eignum sjóðsins.

Eign Fyrirtækjabréfa í bréfum útgefnum af Landsbankanum á tímabilinu var aðallega í tveimur útgáfum, LAIS 03 2 og LAIS 04 1, sjá mynd 45. Eign sjóðsins í Landsbankanum hélst tiltölulega jöfn, eða um 700 milljónir króna (8% af heildareignum).

Fjárfesting sjóðsins í bréfum útgefnum af Samson var töluverð framan af viðmiðunartímabili en var að jafnaði um 8% af heildareignum. Á vormánuðum 2008 jókst eign sjóðsins í bréfum félagsins verulega og varð að lokum um 20% af heildarverðmæti sjóðsins, eins og fram kemur á mynd 46. Í mars 2008 keypti sjóðurinn útgáfuna SAMS 08 2 í heild, eða fyrir tvo milljarða, þegar heildarstærð sjóðsins var um 20 milljarðar króna. Fjárfestingin var því um 10% af heildarstærð sjóðsins. Forsvarsmenn Landsvaka virðast þó ekki hafa talið fjárfestinguna trausta þar sem óskað var eftir tryggingum vegna SAMS 08 1 og SAMS 08 2, en fyrra bréfið var í eigu Peningabréfa ISK. Til tryggingar fékk Landsvaki hlutabréf í Landsbankanum sem var 130 milljónir króna að nafnvirði. Tryggingin varð hins vegar verðlaus við fall Landsbankans, móðurfélags Landsvaka, og því heimtur af þessum tryggingum litlar sem engar. Í september 2008 keypti sjóðurinn SAMS 07 5 fyrir 1,5 milljarða króna af Peningabréfum ISK samkvæmt gögnumVerðbréfaskráningar. Það var um þriðjungur þeirrar útgáfu og jók þetta skuldaraáhættu sjóðsins verulega og mun að öllum líkindum minnka endurheimtur fyrir eigendur hlutdeildarskírteina í sjóðnum. Í ljósi þess að sjóðurinn hafði áður óskað eftir tryggingum vegna bréfa sem þegar voru í eigu sjóðsins verður að teljast sérkennilegt að sjóðstjóri hafi síðar ákveðið að auka verulega stöðu í bréfum Samsonar án trygginga.

Stöðu annarra eigna sem tengjast Landsbankanum má sjá á mynd 47. Þar má einna helst nefna einkaskuldabréf útgefið af Björgólfi Guðmundssyni, stjórnarformanni og einum stærsta eiganda Landsbankans, 400 milljónir króna að nafnvirði.

Við skýrslutöku af sjóðstjóra Fyrirtækjabréfa kom fram að stjórnarformaður og framkvæmdastjóri Landsvaka hefðu ákveðið að kaupa skuldabréf útgefið af Björgólfi Guðmundssyni í janúar 2005 og var það skráð hjá sjóðnum á þeim tíma. Bréfið var verðtryggt til fimm ára, bar 4,9% vexti og var með fimm afborgunum. Engin veðtrygging var að baki bréfinu. Að sögn sjóðstjóra Landsvaka var tilgangur skuldara að stofna minningarsjóð fyrir andvirði lánsins. Sjóðstjóri gerði athugasemdir við fjárfestinguna en framkvæmdastjóri Landsvaka og stjórnarformaður þrýstu á að bréfinu yrði bætt í safn Fyrirtækjabréfa.Á fyrri hluta árs 2008 eða rúmum tveimur árum eftir kaup bréfsins gerði Fjármálaeftirlitið athugasemdir við þessa fjárfestingu með eftirfarandi orðsendingu til Landsvaka: "Athugasemd FME í febrúar 2008, skýrsla um sundurliðun fjárfestinga m.v. 31.12.07. Í skýrslunni kemur fram að sjóðurinn fjárfesti í skuldabréfi, að nafnvirði 240.000 þ.kr., útgefnu af Björgólfi Guðmundssyni. FME óskar eftir upplýsingum um ástæður þess að farið var í þessa fjárfestingu og hvaða tryggingar sjóðurinn hefur fyrir greiðslu bréfsins."

Svar Landsvaka 14. mars 2008 var eftirfarandi: "Skuldabréfið BG051 var keypt hinn 14.01 2005.Við mat á ávöxtunarkröfu var horft til grunnvaxta HFF 14 bréfa á þeim tíma sem var 3,43%, viðskipta með skuldabréf viðskiptabankanna til sambærilegrar tímalengdar og eðlilegs áhættuálags viðkomandi skuldara, sem var talinn afar traustur. Skuldabréf til sambærilegrar tímalengdar á Kaupþing voru á þessum tíma á 3,9%-4,2%. Eðlilegt þótti að hafa viðbótarálag á bréfin. Á þessum tíma voru almennt ekki teknar tryggingar fyrir einstökum útgáfum. Lítið framboð var af góðum fjárfestingarkostum fyrir sjóðinn á þessum tíma, áhætta bréfsins var metin afar lítil og kjörin ásættanleg."

Starfsmaður Fjármálaeftirlitsins greindi forstjóra eftirlitsins, Jónasi Fr. Jónssyni, frá þessari fjárfestingu og taldi að gera ætti kröfu um að Landsvaki seldi bréfið.Að sögn starfsmannsins mun Jónas ekki hafa viljað aðhafast þar sem ekki höfðu verið gerðar athugasemdir við fjárfestinguna áður. Í bréfi til nefndarinnar frá 24. febrúar 2010 kemur fram að Jónas Fr. Jónsson minntist þess ekki að hafa átt slíkt samtal. Fyrir liggur hins vegar að Landsvaka var sent áminningarbréf um eignina, sem undirritað var af forstjóra og starfsmanni Fjármálaeftirlitsins, en í bréfinu sagði m.a.: "Fjármálaeftirlitið beinir því til Landsvaka að haga fjárfestingum sjóða sinna þannig að þær falli undir gildandi fjárfestingarstefnu sjóðanna ásamt heimildum laga nr. 30/2003 og að rekstrarfélagið noti hér eftir viðeigandi viðmið við mat á ávöxtunarkröfu fjárfestinga sinna." Á hinn bóginn var ekki tiltekinn ákveðinn frestur til að selja umrætt bréf að viðlögðum stjórnvaldssektum. Að sögn Tryggva Tryggvasonar, sem tók við starfi framkvæmdastjóra Landsvaka eftir hrun (desember 2008 til maí 2009), var uppgjör bréfsins á þann veg að útgefanda, Björgólfi Guðmundssyni, var boðið að kaupa bréfið. Hann óskaði ekki eftir því og að lokum var hluta upphæðarinnar skuldajafnað á móti eignum Björgólfs í öðrum sjóðum Landsvaka. Fullar heimtur fengust hins vegar ekki á bréfinu.

Eignir Fyrirtækjabréfa tengdar Glitni banka

Fyrirtækjabréf áttu ýmsar eignir í félögum tengdum Glitni banka, enda voru þau mun fleiri en t.d. félög tengd Landsbankanum, sbr. skiptingu í kafla 14.5.3.2. Í upphafi athugunartímabils var ein stærsta fjárfesting sjóðsins í bréfum útgefnum af Högum en sú eign var seld úr sjóðnum í upphafi árs 2007. Þá jókst eign sjóðsins í Baugi og Atorku. Fjárfestingar í þessum félögum voru að jafnaði um 25% af heildareignum sjóðsins og sést skipting þeirra á mynd 48.

Fjárfestingar í Glitni banka voru nánast engar framan af skoðunartímabili og í lok tímabils var þar einungis um að ræða eitt bréf sem selt var á almennum markaði. Af eignasamsetningu sjóðsins vekja sérstaka athygli fjárfestingar sjóðsins í Baugi, FL/Stoðum og Landic. Sjóðurinn fjárfesti einungis í einu bréfi útgefnu af Baugi, sbr. mynd 49, en það eina bréf var um 30% af heildarverðmæti sjóðsins. Bréfið var óskráð og gefið út af Landsbankanum og framselt til Landsvaka. Á mynd 49 sést nánast sama þróun á eignum tengdum Baugi og hjá Peningabréfum á mynd 38. Í lok árs 2007 minnkaði eignin niður í 0, en á þeim tíma hafði starfsfólk og stjórn Landsvaka vitneskju um að félagið gæti ekki greitt af víxlum í eigu sjóða Landsvaka, sbr. umfjöllun hér að ofan. Sama bréf Baugs sést einnig á mynd 38 eða sem eign Peningabréfa ISK, en þá er rúmlega einn milljarður króna færður milli sjóða. Í upphafi árs 2008 var svo eignin aftur færð inn til Fyrirtækjabréfa en um 200 milljónum haldið eftir hjá Peningabréfum ISK. Þegar hér var komið sögu var sjóðurinn að halda eignum í fyrirtæki sem vitað var að átti í greiðsluerfiðleikum. Engar tryggingar voru teknar fyrir bréfinu og engar skilmálabreytingar urðu á bréfinu, m.a. héldust vaxtakjör þau sömu og áður.

Þróun eigna sjóðsins í FL/Stoðum og Landic má sjá á mynd 50. Frá upphafi tímabilsins var fjárfesting í FL/Stoðum og Landic fremur takmörkuð og hélst hún hófleg út viðmiðunartímabilið.Aftur á móti vekur athygli að sjóðstjóri fjárfesti fyrir um 300 milljónir króna í LANDIC 08 1 í mars 2008 og aftur fyrir um 500 milljónir í STOD 03 09 í október 2008, þrátt fyrir vitneskju stjórnar um að Baugur, sem tengdist báðum félögum, gæti ekki greitt af víxlum í lok árs 2007.

Tafla 12 hér fyrir neðan sýnir viðskiptin með bréf FL/Stoða 2. október 2008. Sérstaka athygli vekur að bréf FL/Stoða hafi verið keypt af Fyrirtækjabréfum frá Peningabréfum ISK í október 2008 en félagið hafði óskað eftir greiðslustöðvun hinn 29. september 2008 og fengið hana samdægurs. Bréfin voru keypt inn á hálfvirði. Með viðskiptunum voru útgreiðslur til eigenda hlutdeildarskírteina Peningabréfa ISK í reynd auknar á kostnað eigenda hlutdeildarskírteina Fyrirtækjabréfa.

Eignir Fyrirtækjabréfa tengdar Kaupþingi banka

Framan af skoðunartímabilinu fjárfesti sjóðurinn lítið í bréfum útgefnum af Kaupþingi og tengdum félögum, sbr. mynd 51. Helst var fjárfest í Kaupþingi og Bakkavör, en þegar leið á árið 2007 drógust þær fjárfestingar saman en fjárfestingar í bréfum Exista rúmlega tvöfölduðust frá mars til júní 2007.

Eins og sjá má á mynd 52 hófust fjárfestingar í Kaupþingi í byrjun árs 2008 þegar sjóðurinn keypti hluta í tveimur skuldabréfum með breytilegum vöxtum (e. floaters) sem Kaupþing gaf út. Slíkar fjárfestingar samræmdust lýsingum sjóðstjóra en innstæður (og skammtímafjármálagerningar) í Kaupþingi og Landsbankanum voru taldar öruggari fjárfesting en innstæður hjá Glitni eða smærri fjármálafyrirtækjum.

Eign sjóðsins í Bakkavör og Exista breyttist eins og áður sagði lítillega á viðmiðunartímabilinu, sbr. mynd 53.

Ályktun rannsóknarnefndar Alþingis um fjárfestingar Fyrirtækjabréfa

Framan af viðmiðunartímabili var áhættu- og eignadreifing sjóðsins með ágætum en í árslok 2007 og á árinu 2008 jók sjóðurinn kaup á bréfum í fyrirtækjum tengdum Landsbankanum og Baugi verulega og fórnaði þar með áhættudreifingu sinni.

Fjárfesting í bréfi Björgólfs Guðmundssonar, þvert á vilja sjóðstjóra, vekur sérstaka furðu að áliti rannsóknarnefndarinnar enda rúmaðist fjárfestingin hvorki innan fjárfestingarstefnu sjóðsins né heldur reglna um fjárfestingar, sbr. 7. gr. reglugerðar nr. 792/2003. Það var verkefni stjórnenda sjóðsins að gæta hagsmuna þeirra sem áttu hlutdeildarskírteini í sjóðnum þar á meðal gagnvart stórum eigendum og áhrifamönnum í rekstri Landsbankans. Þá vekur það sérstaka athygli rannsóknarnefndarinnar hversu langan tíma það tók Fjármálaeftirlitið að sjá bréfið í eignasafninu og að ekkert skyldi vera aðhafst þegar eftirlitinu varð loks kunnugt um það en Fjármálaeftirlitið fær mánaðarlegar skýrslur um eignasamsetningu sjóða. Að mati rannsóknarnefndarinnar er þetta ámælisvert. Þessi viðskipti af hálfu sjóðsins hefðu átt að vera Fjármálaeftirlitinu áminning um nauðsyn þess að fylgjast betur með því hvernig staðið væri að fjárfestingum af hálfu sjóða rekstrarfélaga Landsbankans, og þá ekki bara Fyrirtækjabréfa, með tilliti til aðila sem tengdust Landsbankanum sem stórir eigendur og stórir viðskiptamenn.

Að mati rannsóknarnefndar Alþingis áttu sér einnig stað á lokamánuðum fyrir fall bankanna ýmis kaup inn í sjóðinn sem ekki verður séð að hafi samrýmst eðlilegum viðskiptaháttum með tilliti til hagsmuna þeirra sem áttu í sjóðunum. Nefndin bendir hér m.a. á kaup á verðbréfum útgefnum af Samson og á kaup á verðbréfum útgefnum af FL/Stoðum hinn 2. október 2008. Þar virðist sem tap hafi verið flutt á milli hlutdeildarskírteinishafa mismunandi sjóða í andstöðu við þær reglur sem giltu um starfsemi sjóðanna.

14.5.3.4 Viðskipti milli sjóða Landsvaka

Rannsóknarnefndin fékk aðgang að gögnum frá Landsbankanum og fráVerðbréfaskráningu Íslands um viðskipti milli aðila á markaði. Í þeim gögnum er hægt að greina viðskipti milli sjóða Landsvaka með bréf eftir dagsetningu, tíma, upphæð, gengi o.s.frv. Í tilviki verðbréfa-og fjárfestingarsjóða voru skoðuð viðskipti milli Peningabréfa ISK, EUR, USD, GBP, CAD, DKK og Fyrirtækjabréfa.

Viðskipti milli sjóða voru skoðuð á tímabilinu 2004 til 2008 og var fjöldi viðskipta milli sjóða sá sem greinir í töflu 13.

Er ljóst af töflunni að viðskipti milli Peningabréfasjóðanna í hinum ýmsu myntum voru mun meiri en milli Fyrirtækjabréfa og Peningabréfa í öðrum myntum en í ISK. Í ljósi þessa voru skoðuð sérstaklega viðskipti milli sjóðanna Peningabréf ISK/EUR og ISK/ USD og viðskipti Peningabréfa ISK við Fyrirtækjabréf. Peningabréfasjóðirnir í öðrum myntum en ISK voru stofnaðir árið 2006 svo að einungis eru skráð viðskipti milli þessara sjóða eftir þann tíma.

Viðskipti milli Peningabréfasjóðanna voru mest á árunum 2006 og 2007 en minnkuðu svo mjög á árinu 2008, sbr. mynd 54. Á því tímabili var sami sjóðstjóri yfir öllum sjóðunum.Viðskipti Peningabréfa ISK og Fyrirtækjabréfa voru lítil árin 2004–2005 en jukust verulega á árinu 2006. Í upphafi árs 2006 fór sjóðstjóri Fyrirtækjabréfa í leyfi og tók áðurnefndur sjóðstjóri við. Þessi einstaklingur hætti svo sem sjóðstjóri Peningabréfa í október 2007 en viðskipti milli sjóða voru aftur mjög lítil á árinu 2008.

Athugað var hvort viðskiptin væru afgerandi meiri á ákveðnum tímabilum, svo sem yfir áramót eða í mánuðum þegar skýrsluskil fóru fram, þ.e. í mars, júní, september og desember. Eins og sést á mynd 55 voru markvert tíðari viðskipti milli Peningabréfa ISK og EUR í skýrsluskilamánuðum en það á einnig við um Peningabréf ISK og USD.

Í skýrslutöku var sjóðstjóri hjá Landsvaka inntur eftir því hvers vegna slík viðskipti hefðu átt sér stað.Var því svarað að sjóðirnir hefðu alla jafna ekki átt viðskipti sín á milli nema í einstaka tilvikum til að jafna stöðu sjóða og halda fjárfestingarheimildum. Það vekur sérstaka athygli að viðskiptin voru tíð á ákveðnum tímabilum þegar sjóðstjóri þeirra sjóða sem áttu viðskipti sín í milli var einn og hinn sami.

Í ljósi þessa má taka nokkur dæmi um viðskipti sem þykja eftirtektarverð.

Í lok júní 2006 seldu Peningabréf ISK verðbréf,AVION 06 2, fyrir 210 milljónir króna að nafnverði til Peningabréfa EUR. Á þeim tíma áttu Peningabréf ISK um 3 milljarða króna að nafnvirði í verðbréfaflokknum.Viku síðar eða 6. júlí 2006 gengu kaupin til baka fyrir sömu nafnverðsupphæð.

Áhrif þessara viðskipta eru þau að markaðsverð bréfanna hækkar þar sem síðustu viðskipti með bréfið eru skráð viðskipti milli þessara sjóða. Breytingar á gengi bréfsins valda því að markaðsverð hækkar á öllum eignum sjóðanna í þessu bréfi, en slíkt hækkar gengi sjóðsins.

Af gagnagrunni yfir allar hreyfingar ofangreinds bréfs má ráða að eftir upprunalega útgáfu keypti Landsvaki öll bréf útgáfunnar og dreifði á Peningabréfasjóði. Þeir áttu svo mjög ör viðskipti með bréfin sín á milli með misháar upphæðir en þær voru jafnvel allt niður í eina nafnverðseiningu. Má af því ráða að sjóðir Landsvaka hafi í raun handstýrt verði á þessum bréfum.

Annað dæmi um sambærilega færslu eru viðskipti með BAUG 06 2.

Hér seldu Peningabréf USD bréf fyrir 90 milljónir að nafnverði til Peningabréfa ISK. Tveimur vikum síðar keyptu Peningabréf USD bréf fyrir 100 milljónir að nafnverði aftur af Peningabréfum ISK. Viðskipti með þessi bréf milli Peningabréfasjóða Landsvaka voru mjög tíð á tímabilinu, jafnvel niður í eina milljón. Eins og með fyrra bréfið áttu Peningabréf stóran hluta af útgáfu verðbréfsins eða nær 5 milljarða króna. Aftur höfðu viðskiptin þau áhrif að gengi sjóðanna hækkaði þar sem markaðsverð bréfanna hækkaði við nýja gengisskráningu.

Í skýrslutöku af sjóðstjóra sem var á áðurnefndu tímabili sjóðstjóri yfir öllum sjóðunum kom fram staðfesting á þessu ferli. Starfsmaðurinn tók við sem sjóðstjóri við lok árs 2005 og var einnig sjóðstjóri Peningabréfasjóða í myntum þegar þeir voru stofnaðir 2006. Þá skýrði sjóðstjóri frá því að hann hefði framkvæmt slíkar tilfærslur sem lið í lausafjárstýringu sjóðanna. Hefði sjóðstjórinn ákveðið einhliða, með upplýsingar frá miðlurum til hliðsjónar, verð á þeim verðbréfum sem flutt voru á milli sjóða ef ekki voru til skráð markaðsverð. Þau verð voru svo skráð í gagnagrunn Landsbankans og þar með Landsvaka.Taldi sjóðstjórinn slíkar tilfærslur vel til þess fallnar að mæta þörfum viðskiptavina sjóðanna vegna þriggja meginatriða:

1. Kostnaður hlutdeildarskírteinishafa yrði lægri þar sem ekki þyrfti að borga miðlurum fyrir kaup/sölu.

2. Hægt væri að selja bréfin á "nær raunvirði" þegar bréfin voru í raun illseljanleg nema í mjög litlu magni eða jafnvel alls ekki.

3. Slíkar eignahreyfingar milli sjóða gerðu stórum viðskiptavinum kleift að færa viðskipti sín auðveldlega milli sjóða þar sem hægt var að innleysa úr þeim samdægurs.Ályktun rannsóknarnefndar Alþingis um viðskipti milli sjóða Rannsóknarnefndin getur ekki fallist á ofangreind rök. Skilvirkni fjármálamarkaða byggist á því að verðmyndun með fjármálagerninga grundvallist á upplýsingum sem allir aðilar hafa aðgang að. Hefði sjóðurinn reynt að selja bréfin á markaði hefði slíkt jafnvel haft í för með sér miklar verðbreytingar þar sem markaður var ekki móttækilegur fyrir því magni sem þurfti að selja, nema jafnvel með miklum afslætti, en slíkt hefði þá myndað raunverulegt markaðsverð fyrir verðbréfin. Hefðu verðin lækkað mjög hefðu fjárfestingar sjóðanna skilað minni arðsemi og þar með hefði ávöxtun þeirra orðið lakari. Hliðaráhrif þess hefðu orðið þau að sjóðirnir hefðu jafnvel ekki stækkað eins mikið og raun bar vitni þar sem ávöxtun þeirra hefði ekki verið eins góð, t.d. í samanburði við kjör á innlánsreikningum á sama tímabili. Innlausn viðskiptavina úr þessum sjóðum var almennt samdægurs. Færa má rök fyrir því að slíkt samrýmist ekki eðlilegum viðskiptaháttum sjóðs af því tagi sem hér er fjallað um. Ef viðskiptavinir sem eiga hlutfallslega mikið af eignum sjóðsins geta samdægurs flutt sig á milli sjóða skapar það mikla lausafjárþörf í einum sjóði en eykur lausafé annars sjóðs. Í skýrslu sjóðstjóra kom fram að slíkir tilflutningar gátu jafnvel numið milljörðum króna. Þá þurfti einn sjóður og eigendur hlutdeildarskírteina hans að taka á sig mikið tap ef sjóðurinn þurfti skyndilega að selja stóran hluta af eignum. Má jafnvel líta á slíkar tilfærslur sem lausafjárstýringu fyrirtækja en í skýrslu sjóðstjóra kom fram að fyrirtæki voru jafnvel farin að nota sjóðina sem einskonar tékkareikninga. Slík lausafjárstýring á ekki að fara fram í sjóðum sem hafa sameiginlega fjárfestingu í þágu eigenda hlutdeildarskírteina að markmiði heldur hjá bönkum þar sem tilfærslur eins fyrirtækis eiga ekki að hafa hagnaðar- eða tapsáhrif á aðra hlutdeildarskírteinishafa. Þetta innlausnarfyrirkomulag var samkvæmt athugun nefndarinnar ekki einsdæmi hjá Landsvaka heldur átti það við um alla peningamarkaðssjóði. Hér er að mati rannsóknarnefndar Alþingis rétt að vekja athygli á þeim mun sem er á verðbréfasjóðum og fjárfestingarsjóðum og felst í því að hlutdeildarskírteini þeirra síðarnefndu eru ekki ætíð innleysanleg að kröfu eigenda skírteinanna. Ástæðan er sú að fjárfestingarstefna fjárfestingarsjóða getur verið áhættusöm, t.d. getur áhættudreifing verið minni en í verðbréfasjóðum auk þess sem óskráð verðbréf geta verið í verðbréfasafni sjóðs en þau eru ekki eins seljanleg og skráð verðbréf. Þannig er í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 30/2003 um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði bent á að það þjóni ekki hagsmunum viðskiptavina sjóðs að geta ætíð innleyst hlutdeildarskírteini sín í fjárfestingarsjóði.Lausafjárstýring sjóða á ekki að vera á milli sjóða, heldur er eðlilegra að sjóðir séu með samning við aðra fjármálastofnun til að mæta skammtímasveiflum í innlausnum. Þar sem slík þjónusta hefur í för með sér kostnað fyrir sjóðinn má ætla að það yrði hvati til að koma í veg fyrir að fjárfestar í sjóðunum stunduðu skammtímatilfærslur. Slíku væri hægt að ná fram til dæmis með takmörkunum á því hvenær innlausn mætti vera, láta innlausn taka nokkra daga eða láta eigendur hlutdeildarskírteina greiða fast gjald fyrir innlausn.

14.5.4 Sjóðir Rekstrarfélags Kaupþings banka hf.

14.5.4.1 Inngangur

Hjá Rekstrarfélagi Kaupþings banka hf. (RKB) voru skoðaðir fjórir sjóðir, Peningamarkaðssjóður, Hávaxtasjóður, Skuldabréf Stutt og Skammtímasjóður. Á mynd 56 má sjá þróun heildarverðmætis sjóðanna frá janúar 2005 til loka september 2008.

Allt frá miðju ári 2006 skar stærð Peningamarkaðssjóðsins sig verulega úr miðað við þróun hinna sjóðanna. Framan af ári 2005 var stærð sjóðsins fremur stöðug og svipuð þróun Hávaxta- og Skammtímasjóðsins. Sjóðurinn tvöfaldaðist hins vegar undir lok árs 2005 á sama tíma og Skammtímasjóðurinn dróst verulega saman. Árið 2006 voru litlar breytingar á stærð sjóðsins en snemma árs 2007 tók hann að vaxa hratt. Sjóðurinn náði hámarki í lok nóvember 2007 þegar heildarverðmæti hans nam ríflega 114 milljörðum króna sem samsvaraði um 9% af áætlaðri vergri landsframleiðslu þess árs. Sjóðurinn minnkaði hins vegar hratt frá þeim tíma og var aðeins um 45 milljarðar króna í lok september 2008.

Í september 2005 var heildarstærð Skammtímasjóðsins um 20 milljarðar króna eftir að hann hafði vaxið að meðaltali um 2 milljarða á mánuði frá ársbyrjun. Næstu fjóra mánuði dróst sjóðurinn hins vegar saman um hátt í 70% og var heildarverðmæti eigna aðeins um 6 milljarðar í lok janúar 2006. Þá tók sjóðurinn að vaxa hratt að nýju og náði hámarki í lok júlí 2006 í tæpum 23 milljörðum en minnkaði því næst niður í um 5 milljarða undir lok árs 2006. Stærð sjóðsins var frá þeim tíma nokkuð stöðug í kringum 5 milljarðar króna allt fram á annan ársfjórðung 2008 þegar talsverður vöxtur varð á eignum hans. Í lok september 2008 nam stærð sjóðsins tæpum 8,2 milljörðum króna.

Hávaxtasjóðurinn þróaðist á svipaðan hátt og Skammtímasjóðurinn að því undanskildu að mun minni sveiflur voru á stærð hans á seinni hluta árs 2005 og árið 2006. Mest nam heildarverðmæti sjóðsins um 15,1 milljarði í upphafi árs 2006 en í lok september 2008 var það tæpir 8 milljarðar króna.

Skuldabréf Stutt var langminnstur af sjóðunum sem voru til skoðunar. Stærð sjóðsins var að meðaltali um 79 milljónir króna á árinu 2007 en náði hámarki í 741 milljón króna undir lok tímabilsins, í september 2008.

14.5.4.2 Peningamarkaðssjóður

Peningamarkaðssjóður Kaupþings var fjárfestingarsjóður sem samkvæmt útboðslýsingu fjárfesti í "blönduðu safni verðbréfa, aðallega víxlum og skuldabréfum til skamms tíma". Markmið sjóðsins mun hafa verið að ná góðri ávöxtun og áhættudreifingu með fjárfestingu í verðtryggðum og óverðtryggðum bréfum með mjög skamman líftíma. Sjóðurinn var metinn í áhættuminnsta flokk á kvarðanum 1–7. Áhættumat var byggt á leiðbeinandi tilmælum Fjármálaeftirlitsins.

Í útboðslýsingunni var kynnt fjárfestingarstefna sjóðsins, sbr. tafla 16:

Í útboðslýsingunni var ekki skilgreint eiginlegt ávöxtunarmarkmið annað en "að ná góðri ávöxtun og áhættudreifingu".

Eignasamsetning sjóðsins

Eignir Peningamarkaðssjóðs jukust mikið á skoðunartímabilinu, einkum á árinu 2007, sbr. mynd 57, en þá jukust þær um 270% frá upphafi árs til loka nóvember. Á sama tíma jukust fjárfestingar sjóðsins í innlánum til fjármálafyrirtækja um 1000%.

Árið 2005 voru að meðaltali um 7% af eignum sjóðsins í formi verðbréfa ríkis og sveitarfélaga en það sem eftir lifði tímabilsins var lítið sem ekkert fjárfest í þessum flokki verðbréfa. Árin 2005 og 2006 voru ríflega 2/3 hlutar verðmætis sjóðsins bundnir í verðbréfum fjármálafyrirtækja en þetta hlutfall snarlækkaði niður í um fjórðung árið 2007 og 15% árið 2008. Á móti lægra hlutfalli eigna í verðbréfum fjármálafyrirtækja jókst hins vegar hlutfall innlána úr 8% árið 2006 í 31% árið 2007.

Fyrstu níu mánuði ársins 2008 var um helmingur eigna sjóðsins að meðaltali bundinn í innlánum, að stærstum hluta hjá Kaupþingi banka.

Fjárfestingar sjóðsins í verðbréfum eignarhaldsfélaga sveiflaðist talsvert á tímabilinu. Árið 2005 voru að jafnaði 8% eigna sjóðsins bundin í verðbréfum þess háttar fyrirtækja. Frá upphafi árs 2006 fram á mitt ár fimmfaldaðist hlutfallsleg eign sjóðsins í þessari tegund bréfa og yfir árið í heild voru að jafnaði 23% af heildarverðmæti sjóðsins bundin í verðbréfum eignarhaldsfélaga. Árið 2007 fjárfesti sjóðurinn áfram af miklum krafti í eignarhaldsfélögum og var að meðaltali með 41% eigna hans bundið í þeim. Hæst fór hlutfall verðbréfa eignarhaldsfélaga í sjóðnum í um 51% í janúar og febrúar 2008 en í kjölfar falls Gnúps eignarhaldsfélags, sem sjóðurinn hafði fjárfest í fyrir ríflega 900 milljónir króna, lækkaði hlutfall bréfa eignarhaldsfélaga í eignasafninu verulega allt fram undir lok tímabilsins. Í lok september 2008 voru 24% af heildarverðmæti sjóðsins bundin í verðbréfum útgefnum af eignarhaldsfélögum. Stærstu einstöku fjárfestingar sjóðsins í eignarhaldsfélögum í janúar 2008 voru í verðbréfum Exista fyrir um 14,9 milljarða króna, Baugi Group fyrir um 4,8 milljarða og Norvik fyrir ríflega 3 milljarða króna.

Hlutfall eigna sjóðsins í verðbréfum annarra fyrirtækja var á bilinu 1–3% að jafnaði á tímabilinu.

Framan af viðmiðunartímabilinu voru skráð skuldabréf langstærsti hluti eigna Peningamarkaðssjóðs, sbr. mynd 59, en fjárfestingar í óskráðum verðbréfum jukust hins vegar verulega á árinu 2007. Samkvæmt fjárfestingarstefnu sjóðsins, sem að framan greinir, var sjóðnum ekki heimilt að fjárfesta meira en 10% eigna sjóðsins í óskráðum eignum. Fjárfestingar sjóðsins í óskráðum bréfum fóru hins vegar í 13–15% á tímabilinu nóvember 2007 til janúar 2008 samkvæmt gögnum sem rannsóknarnefnd Alþingis hefur undir höndum, þ.e. töluvert umfram þau 10% sem miðað var við í fjárfestingarstefnu sjóðsins. Í febrúar 2008 gerði Fjármálaeftirlitið athugasemdir við að sjóðurinn væri kominn fram úr heimildum. Eftirfarandi skýringar bárust frá RKB hinn 14. mars 2008: "Ástæða þess að óskráðar eignir sjóðsins fóru yfir leyfileg mörk er sú að keyptir voru tveir víxlar, útgefnir af Icebank hf., undir þeim formerkjum að þeir yrðu skráðir í OMX Nordic Exchange Iceland hf. Það var hins vegar ekki gert og enginn afgerandi skýring hefur fengist frá Icebank hf. af hverju það var ekki gert. Gjalddagi annars víxilsins var 3. janúar 2008, en sjóðurinn minnkaði að sama skapi þannig að hlutfall óskráðra eigna var nánast óbreytt þann 25. janúar sl. eða 12,4%. Gjalddagi síðari víxilsins var 1. febrúar sl. og þá fór hlutfallið niður fyrir 10%."

Sjóðurinn fjárfesti mjög lítið í erlendum verðbréfum árið 2005 en árið 2006 voru að jafnaði 3% verðbréfasafnsins í erlendum bréfum. Hlutfall erlendra bréfa í heildarverðbréfasafninu jókst í 4% árið 2007 og á tímabilinu janúar til loka september 2008 voru að jafnaði um 9% heildarverðmætis sjóðsins bundin í erlendum verðbréfum.

Helstu skuldarar sjóðsins

Í lok nóvember 2007 náði stærð Peningamarkaðssjóðs Kaupþings hámarki. Á þeim tímapunkti voru stærstu skuldarar sjóðsins þeir sem greinir í töflu 18.

Hluti af stærstu skuldurum sjóðsins var jafnframt tengdur Kaupþingi banka, móðurfélagi rekstrarfélags Kaupþings banka, gegnum eignatengsl og/eða stórar áhættuskuldbindingar og er þá miðað við þær forsendur sem nefndin byggir á við þessa athugun sína, sbr. kafla 14.5.1. Þannig má flokka eftirfarandi félög með Kaupþingi:

1. Kaupþing og tengd félög

a. Kaupþing banki hf.

b. Exista hf.

c. Bakkavör hf.

d. Norvik hf. og tengd félög

e. NIBC

Ef eignir sjóðsins eru flokkaðar í samræmi við ofangreinda skilgreiningu kemur í ljós að stór hluti eignanna var í fyrirtækjum tengdum Kaupþingi. Hæst fór hlutfall eigna í Kaupþingi og tengdum félögum í 63% af heildareignum sjóðsins í lok janúar 2007. Nánar er fjallað um fjárfestingar sjóðsins í þessum félögum síðar. Athygli vekur að sjóðurinn fjárfesti nánast ekkert í bréfum ríkis og sveitarfélaga á tímabilinu.

Nánar um Landsbankann og tengd félög

Félögin sem litið verður á hér eru Landsbanki Íslands hf., Samson eignarhaldsfélag ehf., Straumur-Burðarás Fjárfestingabanki hf., Eimskipafélag Íslands hf., Actavis Group hf. og Nýsir hf.

Að jafnaði voru um 14% af heildarverðmæti Peningamarkaðssjóðs bundin í verðbréfum og innlánum í Landsbankanum og tengdum félögum. Fjárfestingar sjóðsins í bréfum þessara félaga sveifluðust hins vegar mikið á tímabilinu, allt frá því að vera um 32% af heildareignum í sjóðnum í desember 2005 niður í að vera innan við 1%, sbr. mynd 60. Frá ársbyrjun 2007 voru fjárfestingarnar einkum í innlánum hjá Straumi. Fjárfestingarnar voru almennt í skammtímabréfum að undanskildum eignum í Eimskip og Samson, þar sem fjárfest var til eins árs.

Peningamarkaðssjóðurinn fjárfesti í skuldabréfi Eimskips (HFEIM 07 2) fyrir um 1 milljarð króna í október 2007 og Skammtímasjóður RKB fjárfesti einnig í sömu útgáfu fyrir um hálfan milljarð króna. Þegar Eimskip birti uppgjör í maí 2008 var ljóst að félagið uppfyllti ekki lánaskilmála varðandi eiginfjárhlutfall. Samkvæmt skilmálum skuldabréfaútgáfunnar hafði félagið þá þrjá mánuði til að laga eiginfjárhlutfall sitt ella kæmi til gjaldfellingar skuldabréfsins.Við skýrslutöku af sjóðstjóra hjá RKB kom fram að rekstrarfélagið hefði þegar hafið viðræður við Eimskip. Ekki hefði komið til greina að semja um skuldina og fengu sjóðirnir að lokum greitt í ágústmánuði 2008.

Nánar um Glitni og tengd félög

Félög sem litið verður til eru Glitnir banki hf., FL/Stoðir hf., Baugur Group hf., Landic Property hf. og Atorka Group hf.

Peningamarkaðssjóður Kaupþings átti margvíslegar eignir í Glitni og verðbréfum tengdra félaga, sbr. mynd 61, en þar má sjá að fjárfestingar í fyrirtækjabréfum jukust verulega á árinu 2007 en drógust svo aftur saman á vormánuðum 2008.Virðist sjóðurinn markvisst hafa minnkað stöðu sína í bréfum Glitnis, Stoða, Landic og Baugs á þeim tíma en aukið innlán til Glitnis. Fjárfestingar í Glitni og tengdum félögum voru að jafnaði um 22% á tímabilinu.

Baugur Group hf.

Áhugavert er að skoða eignir í Baugi, sbr. mynd 62, og þá sérstaklega með tilliti til kaupa sjóðsins í hverri verðbréfaútgáfu. Sjóðurinn jók stöðu sína í Baugi í upphafi árs 2007 með kaupum á BAUG 07 2 og BAUG 08 0319. Fyrra bréfið (víxill) var útgefið í júlí 2007 en í sama mánuði kom BAUG 07 0709 á gjalddaga. Sjóðurinn átti yfir 2/3 í báðum útgáfum en Kaupþing annaðist útgáfu bréfanna. Á árinu keypti sjóðurinn einnig 2/3 í BAUG 08 0319 (víxill) en Kaupþing var einnig umsjónaraðili þeirrar útgáfu.

Fram kom að í mars 2008 gat Baugur ekki staðið skil á uppgreiðslu víxilsins BAUG 08 0319 að andvirði ríflega 2,6 milljarða króna.Viðbrögð rekstrarfélagsins voru að setja skuldina í lögfræðiinnheimtu. Því lauk með því að Baugur greiddi loks víxilinn í júní 2008. Þrátt fyrir að gjaldfallin skuld Baugs væri yfir 5% af heildarverðmæti eigna sjóðsins hélt gengi hans áfram að hækka milli mánaða. Með öðrum orðum, engin varúðarniðurfærsla var gerð á verðmæti kröfunnar né heldur á eignarhlut í öðrum verðbréfum sama útgefanda. Alls námu eignir sjóðsins í Baugi á þessu tímabili um 10% af heildarverðmæti sjóðsins. Greiðslufall Baugs, eins af stærstu skuldurum sjóðsins, hafði því ekki bein áhrif á gengi sjóðsins skv. upplýsingum frá sjóðstjóra. Sjóðstjórar munu ekki hafa álitið það í sínum verkahring að hlutast til um verðmat á eignum sjóðsins. Það hafi verið hlutverk vörslufélagsins Arion og verðmatsnefndar að verðmeta eignir sjóðanna. Í verðmatsnefndinni munu hafa setið m.a. sjóðstjórar frá RKB og miðlarar frá Kaupþingi banka.

FL Group/Stoðir hf.

Peningamarkaðssjóðurinn hóf að fjárfesta í verðbréfum Stoða í mars 2006. Í fyrstu fjárfesti sjóðurinn fyrir um 1 milljarð króna en jók jafnt og þétt stöðu sína á næstu mánuðum. Undir lok árs 2007 átti sjóðurinn verðbréf útgefin af Stoðum að andvirði um 4,5 milljarða króna. Í upphafi árs 2008 tók sjóðurinn hins vegar að losa stöður sínar í bréfum Stoða ört út úr sjóðnum og í lok maí hafði sjóðurinn losað sig við öll bréf félagsins.

Nánar um Kaupþing og tengd félög

Félög sem tengd eru Kaupþingi eru Exista hf., Bakkavör hf., Straumborg ehf., Norvik hf. og tengd félög og NIBC.

Árið 2005 voru að jafnaði um 28% af heildarverðmæti Peningamarkaðssjóðsins bundin í eignum tengdum Kaupþingi banka ásamt félögum tengdum móðurfélaginu. Árin 2006 og 2007 hækkaði þetta hlutfall verulega eða í um 38% og 40% að jafnaði. Undir lok tímabilsins, þ.e. frá ársbyrjun 2008 til septemberloka, var hlutfall eigna sem tengdar voru þessum félögum að jafnaði yfir helmingur eigna sjóðsins eða alls um 54%.

Árið 2007 jókst fjárfesting í bréfum Exista og innlánum í Kaupþingi eins og lesa má úr mynd 63. Fram að þeim tíma hafði sjóðurinn aðallega fjárfest í bréfum Kaupþings en þær fjárfestingar minnkuðu markvert á öðrum ársfjórðungi 2007 en á sama tíma jukust innlán hjá bankanum verulega. Þessi breyting sést vel á mynd 64

Exista hf.

Peningamarkaðssjóðurinn fjárfesti umtalsvert í skuldabréfum Exista árið 2007. Síðasta nýfjárfesting inn í sjóðinn virðist hafa verið í október 2007 en eftir það var ekki fjárfest í nýjum bréfum þegar bréf í eigu sjóðsins komu á gjalddaga. Stór eign sjóðsins (4,2 ma. kr.) í Exista skuldabréfi sem var á gjalddaga um mitt ár 2009 var seld úr sjóðnum í mars 2008. Í lok september 2008 átti sjóðurinn víxla útgefna af Exista með gjalddaga 8. október 2008 að verðmæti um 4,1 milljarður króna ásamt skuldabréfum að verðmæti um 70 milljónir króna.

Straumborg ehf.

Peningamarkaðssjóður fjárfesti fyrst í víxlum Straumborgar ehf. í maí 2006 fyrir um 201 milljón króna en jók stöðu sína í sömu víxlaútgáfu um helming í október sama ár. Í upphafi árs 2007 keypti sjóðurinn víxla í nýrri útgáfu að andvirði um 1,05 milljarða króna. Kröfum Peningamarkaðssjóðs samkvæmt víxlum sem voru á gjalddaga 2007 var velt áfram með því að sjóðurinn endurfjárfesti í nýjum útgáfum allt fram í októbermánuð sama árs þegar heildarskuld Straumborgar við sjóðinn nam um 2,1 milljarði króna. Athyglisvert er að sjóðurinn hætti frekari fjárfestingum í verðbréfum félagsins eftir að Norvest ehf., sem er í eigu Straumborgar ehf., seldi stærstan hluta af eign sinni í Kaupþingi banka í október 2007.

Norvik

Peningamarkaðssjóður fjárfesti fyrst í verðbréfum Norvik banka, sem er banki í Lettlandi, í mars 2007, þá fyrir alls um 1,8 milljarða króna í þremur víxlaútgáfum. Í aprílmánuði jók sjóðurinn eign sína með fjárfestingu í einni útgáfu um tæpan milljarð króna.Andvirði víxils á gjalddaga í maí var endurfjárfest í annarri víxlaútgáfu. Þegar mest var nam eign sjóðsins í verðbréfum Norvik banka ríflega 2,8 milljörðum króna. Engar frekari fjárfestingar voru í bréfum bankans eftir að Norvest, aðaleigandi Norvik banka, seldi verulegan hluta af eign sinni í Kaupþingi banka.

NIBC

Athyglisvert er að sjóðurinn hóf fjárfestingar í skuldabréfum NIBC í september 2007 um svipað leyti og tilkynnt var um kaup Kaupþings banka á hollenska bankanum. Í fyrstu fjárfesti sjóðurinn fyrir um 500 milljónir króna en mánuði seinna var fjárfest fyrir um 1 milljarð til viðbótar. Mest nam heildarverðmæti verðbréfa NIBC í eigu sjóðsins tæplega 1,7 milljörðum í janúar 2008 en þá hætti sjóðurinn frekari fjárfestingum. Á sama tíma tilkynnti Kaupþing banki að horfið hefði verið frá kaupum á NIBC.

14.5.4.3 Hávaxtasjóður

Hávaxtasjóður var fjárfestingarsjóður stofnaður árið 2000. Samkvæmt útboðslýsingu var markmið sjóðsins góð ávöxtun og áhættudreifing með því að fjárfesta aðallega í skuldabréfum fjármálafyrirtækja og annarra fyrirtækja til skamms tíma. Jafnframt sagði í útboðslýsingu að sjóðurinn leitaðist við að fjárfesta í skuldabréfum sem skráð væru eða yrðu skráð í Kauphöll Íslands. Eign sjóðsins í óskráðum víxlum og skuldabréfum mætti þó vera allt að 10% af heildareignum hans.

Sjóðurinn var metinn í áhættuflokk 2 á kvarðanum 1–7 þar sem 1 er lágmarksáhætta og 7 er hámarksáhætta. Áhættumat var byggt á leiðbeinandi tilmælum Fjármálaeftirlitsins.

Í útboðslýsingunni var kynnt fjárfestingarstefna sjóðsins, sbr. tafla 19:

Í útboðslýsingunni er ekki skilgreint eiginlegt ávöxtunarmarkmið annað en "að ná góðri ávöxtun og áhættudreifingu [...]".

Þrátt fyrir að sjóðurinn væri fjárfestingarsjóður skv. III kafla laga nr. 30/2003, og hefði því rýmri fjárfestingarheimildir en verðbréfasjóðir, sagði í útboðslýsingu að sjóðurinn myndi eingöngu nýta heimild 3. tölul. 54. gr. laganna um aukið svigrúm fjárfestingarsjóða umfram verðbréfasjóði til að binda allt að 20% af eignum sínum í verðbréfum og peningamarkaðsskjölum útgefnum af sama útgefanda. Samkvæmt þessu var sjóðnum ekki heimilt að nýta aðrar fjárfestingarheimildir 54. gr. laganna. Í útboðslýsingu sagði af þessu tilefni að "aukin áhætta sjóðsins sem fjárfestingarsjóðs með takmarkaðar fjárfestingarheimildir mun því aðeins felast í minni áhættudreifingu heldur en gildir um verðbréfasjóði".

Á mynd 66 má sjá þróun og skiptingu eigna sjóðsins á athugunartímabilinu. Mynd 67 sýnir hlutfallslega skiptingu eigna sjóðsins eftir útgefendum. Sjóðurinn stækkaði úr um 10,4 milljörðum króna í janúar 2005 í tæpa 15 milljarða í september sama ár en heildarverðmæti hans dróst hins vegar verulega saman á seinni helmingi ársins 2006 og hélst því næst tiltölulega stöðugt til loka tímabilsins. Hlutfallslega litlar breytingar voru á eignasamsetningu sjóðsins. Markverðasta breytingin var að undir lok árs 2005 minnkaði hlutur verðbréfa ríkis og sveitarfélaga í verðbréfasafninu á kostnað aukinnar fjárfestingar í verðbréfum eignarhaldsfélaga.

14.5.4.4 Skammtímasjóður

Skammtímasjóður var fjárfestingarsjóður stofnaður árið 1996. Samkvæmt útboðslýsingu, útgefinni 12. nóvember 2007, var markmið sjóðsins að ná góðri ávöxtun og áhættudreifingu með því að fjárfesta í blönduðu safni verðbréfa, aðallega víxlum og skuldabréfum til skamms tíma. Í lýsingunni sagði jafnframt að leitast væri við að fjárfesta í skuldabréfum sem væru eða yrðu skráð í Kauphöll Íslands. Meðallíftími verðbréfa sjóðsins væri stuttur og með þeim hætti væri reynt að forðast sveiflur og tryggja jafna ávöxtun. Sjóðurinn fjárfesti bæði í verðtryggðum og óverðtryggðum verðbréfum sem tryggði jafnari ávöxtun milli mánaða en ella. Eign sjóðsins í óskráðum víxlum og skuldabréfum mátti nema allt að 10% af heildareignum hans.

Sjóðurinn var metinn í áhættuflokk 2 á kvarðanum 1–7 þar sem 1 er lágmarksáhætta og 7 er hámarksáhætta. Áhættumat var byggt á leiðbeinandi tilmælum Fjármálaeftirlitsins.

Í útboðslýsingunni var fjárfestingarstefna sjóðsins kynnt, sbr. tafla 20.

Í útboðslýsingunni er ekki skilgreint eiginlegt ávöxtunarmarkmið annað en "að ná góðri ávöxtun og áhættudreifingu [...]".

Heildarstærð sjóðsins sveiflaðist verulega á árunum 2005 og 2006. Til að mynda var heildarverðmæti eigna hans um 6,4 milljarðar króna í janúar 2006 en tæpir 22,7 milljarðar í júnímánuði sama ár. Stærð sjóðsins var mun stöðugri árið 2007, að jafnaði um 4,8 ma. kr. en hann stækkaði aftur umtalsvert á árinu 2008. Athyglisvert er að svo til allur vöxtur sjóðsins árið 2008 var í innlánum eins og sjá má á myndum 68 og 69. Í töflu 21 að neðan má sjá meðalsamsetningu eigna sjóðsins á tímabilinu janúar 2005 til loka september 2008.

14.5.4.5 Skuldabréf Stutt

Skuldabréf Stutt var fjárfestingarsjóður stofnaður 17. maí 2006. Samkvæmt útboðslýsingu, útgefinni 12. nóvember 2007, var markmið sjóðsins að ná góðri ávöxtun og áhættudreifingu með því að fjárfesta í blönduðu safni verðbréfa, einkum víxlum og skuldabréfum. Stefnt væri að því að meðallíftími verðbréfa sjóðsins væri á bilinu 1–4 ár. Sjóðurinn hafði heimild til að fjárfesta bæði í verðtryggðum og óverðtryggðum verðbréfum. Eign sjóðsins í óskráðum víxlum og skuldabréfum mátti nema allt að 10% af heildareignum hans.

Sjóðurinn var metinn í áhættuflokk 2 á kvarðanum 1–7 þar sem 1 er lágmarksáhætta og 7 er hámarksáhætta. Áhættumat var byggt á leiðbeinandi tilmælum Fjármálaeftirlitsins.

Í útboðslýsingunni var fjárfestingarstefna sjóðsins kynnt, sbr. tafla 22.

Eins og sjá má á mynd 70 var sjóðurinn mjög lítill í samanburði við hina sjóði RKB sem fjallað er um hér að framan. Heildarverðmæti eigna hans náði fyrst 100 milljónum króna um mitt ár 2007 og hélst lítið breytt fram undir lok tímabilsins þegar sjóðurinn stækkaði skyndilega í ríflega 700 milljónir króna.

Í útdrætti úr útboðslýsingu sagði: "Kaupþing Skuldabréf-Stutt hyggst nýta sér heimild til að fjárfesta í bréfum útgefnum af ríki eða sveitarfélögum umfram 35% og allt að 100% sbr. 37. gr. laga nr. 30/2003. Þar sem ríki og sveitarfélög eru mjög stórir útgefendur á skuldabréfamarkaði og sérstaklega á löngum skuldabréfum er líklegt að hlutdeild slíkra bréfa verði að jafnaði yfir 35%." Á mynd 71 má sjá hlutfallslega skiptingu eigna sjóðsins eftir útgefendum.Augljóst er af samsetningu eignasafnsins að yfirlýst markmið sjóðsins að fjárfesta að jafnaði yfir 35% eigna sjóðsins í verðbréfum ríkis og sveitarfélaga var ekki uppfyllt fyrr en frá og með upphafi árs 2008. Eignasamsetningin rúmast þó að öðru leyti innan fjárfestingarheimilda sjóðsins samkvæmt útboðslýsingu.

14.5.4.6 Ályktanir rannsóknarnefndar Alþingis um fjárfestingar peningamarkaðssjóða Kaupþings

Í útboðslýsingum allra ofangreindra sjóða Rekstrarfélags Kaupþings banka hf. (RKB) er tiltekin leyfileg hámarkseign sjóðanna í tilteknum flokkum verðbréfa en ekkert skilyrði um lágmark. Því er ekki um eiginlega fjárfestingarstefnu að ræða þar sem ekki er tiltekið ákveðið hlutfall sem sjóðurinn stefnir að því að halda í viðkomandi fjárfestingarflokkum.

Í ljósi þess að Peningamarkaðssjóðurinn var langstærstur af þeim fjórum sjóðum RKB sem skoðaðir voru var mest áhersla lögð á hann. Stórum hluta heildareigna sjóðsins var varið til að fjárfesta í móðurfélagi rekstrarfélagsins og félögum sem nefndin telur tengjast því, sbr. skilgreiningu fyrr í kaflanum. Á seinni helmingi árs 2006 var þetta hlutfall um og yfir 50% af heildareignum sjóðsins og árið 2008 talsvert hærra. Þetta vekur óneitanlega upp spurningar um sjálfstæði rekstrarfélags sjóðanna gagnvart eiganda sínum. Fjárfestingar í NIBC og Norvik banka eru sérstaklega athyglisverðar í þessu sambandi því afar sjaldgæft var að sjóðurinn fjárfesti í verðbréfum erlendra banka og því um að ræða talsvert frávik frá fjárfestingum sjóðsins. Þá var hér einnig um að ræða tengsl skuldaranna við móðurfélagið og stóran hluthafa í því.

Lítið sem ekkert var fjárfest í bréfum ríkis og sveitarfélaga á árunum 2006 til og með 2008.

Á árinu 2008 var um helmingur eigna Peningamarkaðssjóðsins, stærsta sjóðs RKB, að jafnaði bundinn í innlánum og stór hluti innlánanna var í Kaupþingi. Ef ekki hefði komið til setning neyðarlaganna sem gerðu innlán að forgangskröfu í þrotabú fjármálastofnananna er ljóst að tap eigenda hlutdeildarskírteina hefði orðið gríðarlegt við hrun bankanna. Staða einstakra hlutdeildarskírteinishafa hefði verið mun betri ef þeir hefðu sjálfir lagt fé sitt á innlánsreikninga þar sem lágmarkstryggingarvernd hefði þá náð til hvers og eins þeirra. Í ljósi þessa verður gríðarlega hátt hlutfall fjárfestinga sjóðsins í innlánum illa talið samrýmast eðlilegri áhættudreifingu í þágu hagsmuna eigenda hlutdeildarskírteina í sjóðnum.

14.6 Áhættustýring

14.6.1 Almennt

Þar sem rekstrarfélög eru fjármálafyrirtæki í skilningi laga nr. 161/2002 skulu þau á hverjum tíma hafa yfir að ráða tryggu eftirlitskerfi til að fylgjast með áhættu í tengslum við alla starfsemi sína, sbr. 17. gr. laganna. Þá er áréttað í 33. gr. laga nr. 30/2003 um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði að rekstrarfélög eigi að hafa yfir að ráða eftirlitskerfi sem geri þeim kleift að vakta, meta og stýra áhættu einstakra eigna og eignasafns verðbréfasjóða á hverjum tíma. Um afleiðuviðskipti gilda sérstakar reglur sem ætlað er að takmarka áhættu af slíkum viðskiptum, auk þess sem gera skal Fjármálaeftirlitinu reglulega grein fyrir afleiðuviðskiptum verðbréfasjóða og fjárfestingarsjóða í því formi sem Fjármálaeftirlitið ákveður, sbr. 34. gr. laganna. Þá er í 1. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 995/2007 vikið að aðgerðum sem fjármálafyrirtæki ber að grípa til vegna áhættustýringar. Í 2. mgr. ákvæðisins segir að fjármálafyrirtæki skuli koma á og viðhalda óháðri starfseiningu sem hefur með höndum áhættustýringu þar sem slíkt er eðlilegt með tilliti til umfangs og eðlis starfsemi fyrirtækisins. Ákvæði um áhættustýringu er einnig að finna í leiðbeinandi tilmælum Fjármálaeftirlitsins nr. 1/2002 um innra eftirlit og áhættustýringu hjá fjármálafyrirtækjum og 2/2006 um afleiðunotkun verðbréfasjóða.

Þess er áður getið að samkvæmt 18. gr. laga nr. 30/2003 er heimilt að útvista hluta af verkefnum rekstrarfélags. Helstu verkefni rekstrarfélags, sem teljast til reksturs verðbréfa- og fjárfestingarsjóða, eru talin upp í 17. gr. laganna en upptalningin er ekki tæmandi.

Ætla verður að áhættustýring sé eitt af verkefnum rekstrarfélaga. Aldrei er heimilt að útvista öllum verkefnum rekstrarfélags. Þannig er óheimilt að fela vörslufyrirtæki eða öðru félagi verkefni sem varða fjárfestingar í samræmi við fjárfestingarstefnu fari hagsmunir þess ekki saman við hagsmuni rekstrarfélags og eigenda hlutdeildarskírteina. Feli rekstrarfélag öðru fyrirtæki hluta af verkefnum sínum hefur það engin áhrif á ábyrgð rekstrarfélags gagnvart eigendum hlutdeildarskírteina. Það er grundvallaratriði að útvistun er einungis heimil að fengnu samþykki Fjármálaeftirlitsins, sbr. 1. mgr. 18. gr. laga nr. 30/2003. Nánari reglur um útvistun verkefna rekstrarfélaga eru í reglugerð nr. 792/2003. Rannsóknarnefnd Alþingis leitaði svara við því með bréfum til rekstrarfélaganna, dags. 4. mars 2009, hverjir hefðu séð um áhættustýringu og hver hefðu verið viðmið áhættustýringarinnar.

14.6.2 Hver sá um áhættustýringu?

14.6.2.1 Glitnir sjóðir

Samkvæmt upplýsingum Glitnis sjóða annaðist Glitnir banki áhættustýringu fyrir Glitni sjóði samkvæmt útvistunarsamningi. Frá miðju ári 2007 hafði starfsmaður áhættustýringar Glitnis banka, aðsetur í húsnæði rekstrarfélagsins. Eins og greinir hér á eftir hafði ekki verið aflað staðfests leyfis hjá Fjármálaeftirlitinu fyrir útvistun áhættustýringar samkvæmt útvistunarsamningi, dags. 23. janúar 2006, og gerði Fjármálaeftirlitið alvarlegar athugasemdir við þetta.

14.6.2.2 Landsvaki

Samkvæmt upplýsingum Landsvaka sáu starfsmenn innra eftirlits Landsbankans um áhættumat og eftirlit með sjóðum Landsvaka en eins og síðar greinir lá ekki fyrir samþykki Fjármálaeftirlitsins fyrir þeirri útvistun eins og skylt var. Innra eftirlit var deild innan eignastýringarsviðs. Í deildinni störfuðu einn til fimm starfsmenn ásamt deildarstjóra.

14.6.2.3 Rekstrarfélag Kaupþings banka

Samkvæmt upplýsingum frá rekstrarfélaginu sáu starfsmenn innan rekstrarfélagsins um áhættumat sjóða. Hópur sjóðstjóra kom saman ásamt yfirmanni og skoðaði áhættumat hvers sjóðs fyrir sig.

14.6.3 Skýrslur Fjármálaeftirlitsins um áhættustýringu

14.6.3.1 Almennt

Fjármálaeftirlitinu ber að hafa eftirlit með því að áhættustýring hjá rekstrarfélögum verðbréfasjóða samrýmist þeim lögum sem að framan greinir. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum var úttekt Fjármálaeftirlitsins á áhættustýringu sjóðanna gerð með vettvangskönnun í maí 2008 sem síðar verður fjallað um. Hér á eftir verða dregnar saman niðurstöður þeirrar könnunar. Í stuttu máli má segja að Fjármálaeftirlitið hafi gert miklar athugasemdir við það hvernig áhættustýringu sjóðanna var háttað og voru þær settar fram í skýrslum sem gerðar voru í kjölfarið.

14.6.3.2 Glitnir sjóðir

Í skýrslu Fjármálaeftirlitsins um vettvangsathugunina er vitnað til skýrslu innri endurskoðunar vegna úttektar á Glitni sjóðum frá ágúst 2007. Þar segir að ekki hafi verið gert formlegt áhættumat á rekstrinum þrátt fyrir kröfu í lögum og leiðbeinandi tilmælum Fjármálaeftirlitsins. Bæði innri og ytri endurskoðendur rekstrarfélagsins hafi áður gert athugasemdir við þetta. Einnig hafi verið ráðinn starfsmaður til Áhættustýringar Glitnis banka sem staðsettur hafi verið hjá Glitni sjóðum og sinnt hafi þessu verkefni fyrir rekstrarfélagið "að sinni a.m.k.". Í skýrslu Fjármálaeftirlitsins kom fram að ekki hefði verið óskað leyfis stofnunarinnar fyrir útvistun þessa verkefnis og gerði Fjármálaeftirlitið alvarlegar athugasemdir við þessa framkvæmd og benti á að brot gegn 1. mgr. 18. gr. laga nr. 30/2003 varðaði við 6. tölul. 1. mgr. 68. gr. og 4. tölul. 70. gr. b. laganna.

Í skýrslu Fjármálaeftirlitsins kom einnig fram að samkvæmt ársreikningi Glitnis sjóða fyrir árið 2007 væru heildareignir félagsins rúmlega 223 milljarðar króna, fjöldi starfsmanna 20 og fjöldi sjóða sem félagið ræki tíu. Með hliðsjón af þessu væri umfang rekstrarins slíkt að æskilegt væri að félagið kæmi á fót óháðri einingu sem hefði með höndum áhættustýringu.

Af framangreindu tilefni gerði Fjármálaeftirlitið þær athugasemdir að skýrslur um innri endurskoðun yrðu gerðar árlega og næðu til þeirra atriða sem talin væru upp í þjónustusamningi. Gerð var athugasemd við að ekki hefði verið leitað samþykkis Fjármálaeftirlitsins þegar áhættustýringu var útvistað til Glitnis banka, svo sem skylt væri samkvæmt 18. gr. laga nr. 30/2003. Auk þess var mælst til þess að áhættustýringu Glitnis sjóða yrði framvegis sinnt innan félagsins.

14.6.3.3 Landsvaki

Í skýrslu Fjármálaeftirlitsins kom fram að samkvæmt bréfi Landsvaka til eftirlitsins, dags. 9. júlí 2008, væri áhættustýringu útvistað til Landsbankans án þess að til staðar væri gildur útvistunarsamningur. Fjármálaeftirlitið gerði athugasemd við framkvæmdina þar sem ekki hefði verið aflað samþykkis eftirlitsins við útvistun áhættustýringar. Þá segir í skýrslunni að samkvæmt ársreikningi Landsvaka fyrir árið 2007 hafi heildareignir félagsins verið tæplega 235 milljarðar króna, fjöldi starfsmanna 13 og fjöldi sjóða sem félagið rak 21. Með hliðsjón af þessu taldi Fjármálaeftirlitið umfang rekstrarins slíkt að félaginu væri skylt að koma á fót óháðri einingu sem hefði með höndum áhættustýringu. Farið var fram á að Landsvaki kæmi slíkri einingu á fót. Einnig var bent á að skýrsla innri endurskoðunar hefði ekki verið tekin til umfjöllunar á stjórnarfundum.

14.6.3.4 Rekstrarfélag Kaupþings banka

Í skýrslu Fjármálaeftirlitsins sagði að tveir starfsmenn Áhættustýringar Kaupþings banka sinntu eingöngu verkefnum fyrir rekstrarfélagið (RKB). Enginn samningur hefði verið um þessa þjónustu milli rekstrarfélagsins og bankans en vegna fyrirspurnar Fjármálaeftirlitsins myndi rekstrarfélagið gera samning við Kaupþing banka um þá þjónustu sem félagið hefði útvistað til Áhættustýringar Kaupþings banka.

Í skýrslunni sagði að samkvæmt ársreikningi RKB fyrir árið 2007 hefðu heildareignir félagsins verið rúmlega 176 milljarðar króna, fjöldi starfsmanna 37 og fjöldi sjóða sem félagið rak 28. Með hliðsjón af því væri umfang rekstrarins slíkt að æskilegt væri að félagið kæmi á fót óháðri einingu sem hefði með höndum áhættustýringu. Í svari RKB var tekið fram að áhættustýringu safna hefði ekki verið útvistað heldur væri slík áhættustýring ávallt í höndum sjóðstjóra viðkomandi sjóðs og RKB. Fjármálaeftirlitið gerði athugasemdir við að sjóðstjórar sæju um áhættustýringu sjóðsins en með því hefðu þeir eftirlit með sjálfum sér. Farið var fram á að sinn hvor aðilinn sinnti sjóðastýringu og áhættustýringu. Þá sagði að RKB hefði ekki andmælt því að hafa útvistað annarri áhættustýringu til Kaupþings banka en áhættustýringu safna. Á það var bent að sækja þyrfti formlega um undanþágu fyrir útvistun þeirrar áhættustýringar.

14.6.4 Hver voru viðmið áhættustýringar?

14.6.4.1 Glitnir sjóðir

Samkvæmt upplýsingum frá Glitni sjóðum reiknaði áhættustýring mánaðarlega út áhættumælikvarða sem mældu áhættu sjóðs, árangur hans að teknu tilliti til áhættu og áhættu miðað við viðmiðunarvísitölu. Í bréfi rekstrarfélagsins kom fram að mælikvarðarnir hefðu verið eftirfarandi:Flökt,Alpha,Beta,Sharpe hlutfall,Value at Risk og Tracking error.

Um helmingur þessara mælikvarða mælir áhættu í sjóði, en þá er einungis stuðst við ávöxtun sjóðs, ekki eignasamsetningu eða samfylgni ávöxtunar eignanna. Samkvæmt upplýsingum rekstrarfélagsins virðist hafa verið miðað við lög og reglur sem giltu um sjóðina og útboðslýsingar þeirra. Einnig kom fram að rekstrarfélagið hefði sett sér strangari reglur um val á útgefendum. Ekkert mat virðist hafa verið á gjaldþrotalíkum eða líkum á smitáhrifum gjaldþrota.

14.6.4.2 Landsvaki

Samkvæmt upplýsingum frá Landsvaka voru viðmið áhættustýringar þessi:

- Lög og reglur sem gilda um sjóðarekstur.

- Reglur sjóðanna útgefnar af Landsvaka og samþykktar af Fjármálaeftirlitinu.

- Fylgst var með að fjárfestingarstefna væri ekki brotin.

- Eftirlit var með því að ávöxtun væri í samræmi við fjárfestingarviðmið.

- Fylgst var með því að verklagsreglum um fjárfestingar væri fylgt.

- Gert var mat á greiðslufærni helstu skuldara til að meta hvort rétt væri að fjárfesta í skuldaskjölum útgefnum af þeim. - Það mat var framkvæmt af starfsmanni eignastýringar Landsbankans og var í formi skýrslna sem unnar voru upp úr ársreikningum félaganna. Skýrslurnar voru kynntar fjárfestingarráði.

Að öðru leyti en að framan greinir voru ekki sérstök viðmið sett fyrir áhættustýringu sjóðanna. Rannsóknarnefnd Alþingis bárust engar upplýsingar um hvort sjóðurinn fylgdi mælikvörðum um áhættu og ávöxtun eða samfylgni ávöxtunar eigna. Ekkert mat virðist hafa verið á gjaldþrotalíkum eða líkum á smitáhrifum gjaldþrota.

14.6.4.3 Rekstrarfélag Kaupþings banka

Í svari Rekstrarfélags Kaupþings banka við bréfi rannsóknarnefndar Alþingis sagði að spurningin væri frekar óljós. Ef átt væri við viðmið áhættumatsins hefði flokkunin byggst á mati eftir því hversu mikilla sveiflna í ávöxtun mátti vænta í framtíðinni og hefði verið horft á sögulegar sveiflur undirliggjandi fjármálagerninga. Enn fremur hefði verið tekið tillit til meðallíftíma hvers sjóðs fyrir sig og þeirra viðmiða sem honum hefðu verið ætluð. Ekkert mat virðist hafa verið á gjaldþrotalíkum eða líkum á smitáhrifum gjaldþrota.

14.6.5 Gildi reglna nr. 216/2007 um stórar áhættuskuldbindingar hjá verðbréfa- og fjárfestingarsjóðum

Rekstrarfélög verðbréfa- og fjárfestingarsjóða eru sjálfstæð fjármálafyrirtæki. Af því leiðir að reglur nr. 216/2007 um stórar áhættuskuldbindingar hjá fjármálafyrirtækjum gilda um starfsemi þeirra. Rekstrarfélögin skiluðu Fjármálaeftirlitinu skýrslum um stórar áhættuskuldbindingar svo sem skylt er samkvæmt 7. gr. reglnanna. Nánast engar áhættuskuldbindingar voru skráðar hjá rekstrarfélögunum. Það er eðlilegt þegar haft er í huga að rekstrarfélög eiga almennt ekki sjálf fjármálagerninga heldur er það hlutverk þeirra að reka verðbréfa- og fjárfestingarsjóði fyrir fjárfesta. Þar af leiðandi ná skýrslur samkvæmt reglum nr. 216/2007 ekki tilgangi sínum í tilviki rekstrarfélaga enda tengist áhættan sjóðunum en ekki félaginu. Áhætta fjárfestinga var aftur á móti mikil vegna innbyrðis tengsla útgefenda þeirra verðbréfa sem sjóðirnir áttu.Verðbréfaeign fjárfestingarsjóða var að mestu leyti bundin í verðbréfum móðurfélaga rekstrarfélaganna (bankanna) og í bréfum eigenda þeirra og félaga í þeirra eigu.Við þetta bættust svo innstæður sem einnig voru að mestu leyti í þeim banka sem var móðurfélag rekstrarfélags viðkomandi fjárfestingarsjóðs. Er því ljóst að áhætta vegna þessara innbyrðis tengsla var mikil.

Þó að í lögum nr. 30/2003 um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði séu fyrirmæli í 35. gr. um hámark fjárfestingar í einum útgefanda er þar ekki nema að takmörkuðu leyti vikið að innbyrðis tengslum útgefenda verðbréfa sem verðbréfasjóðir geta fjárfest í. Aftur á móti gildir 35. gr. ekki um fjárfestingarsjóði, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 54. gr. laganna. Þannig gildir ekki um fjárfestingarsjóði ákvæði 6. mgr. 35. gr. þess efnis að aðilar sem teljist til sömu samstæðu skuli teljast einn aðili við útreikning samkvæmt greininni. Um er að ræða innleiðingu á 22. gr. tilskipunar 2001/108/EB þar sem tekið er svo til orða að "[f]élög, sem teljast til sömu samstæðu í samstæðureikningum samkvæmt skilgreiningu í tilskipun 83/349/EBE [...], [skuli] teljast einn aðili við útreikning á mörkum samkvæmt þessari grein". Af 6. mgr. 35. gr. leiðir því að ekki gilda sömu ströngu kröfur um áhættudreifingu í tilviki fjárfestingarsjóða en peningamarkaðssjóðirnir voru allir fjárfestingarsjóðir.

Hefðu svipaðar reglur um stórar áhættuskuldbindingar gilt um verðbréfa- og fjárfestingarsjóði og gilda um fjármálafyrirtæki má vel vera að fjárfestingar hefðu verið dreifðari og áhætta hlutdeildarskírteinishafa verið minni. Spyrja má hvort ástæða hefði verið til að meta áhættu sjóðanna, sem rekstrarfélögin ráku, með svipuðum hætti og þegar stórar áhættuskuldbindingar fjármálafyrirtækja eru metnar. Þetta breytir þó engu um það að rekstrarfélögin áttu að meta sjálfstætt áhættu sjóðanna, sbr. 33. gr. laga nr. 30/2003 um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði.

14.6.6 Ályktun rannsóknarnefndar Alþingis um áhættustýringu

Að framan er rakið hvernig áhættustýringu var háttað hjá rekstrarfélögunum. Að mati rannsóknarnefndar fullnægði fyrirkomulag áhættustýringar félaganna tæpast þeim faglegu kröfum sem gera verður til svo mikilvægs þáttar í starfsemi sjálfstæðra fjármálafyrirtækja. Þá verður að gera athugasemdir við það að Fjármálaeftirlitið virðist ekki hafa fundið að því hvernig áhættustýringu var háttað fyrr en árið 2008.

Að því er varðar kröfur laga til áhættustýringar vekur sérstaka athygli að Glitnir sjóðir og Landsvaki útvistuðu áhættustýringu til móðurfélaganna, Glitnis banka og Landsbankans, án gilds útvistunarsamnings og án samþykkis Fjármálaeftirlitsins. Með því að leita ekki samþykkis Fjármálaeftirlitsins fyrir útvistun áhættustýringar brutu þessi rekstrarfélög gegn 18. gr. laga nr. 30/2003. Að mati rannsóknarnefndar Alþingis verður að telja að þessi útvistun áhættustýringar til móðurfélaganna, án sérstaks samnings við móðurfélagið eða samþykkis Fjármálaeftirlitsins, endurspegli bæði skort á fagmennsku og því óhæði sem rekstrarfélögin áttu að hafa frá móðurfélögum sínum, bönkunum, sem sjálfstæð fjármálafyrirtæki.

Áhættustýringu Rekstrarfélags Kaupþings banka var ekki útvistað til móðurfélagsins. Þeir annmarkar voru aftur á móti á framkvæmdinni að sjóðstjórar sáu sjálfir um áhættustýringu sjóðanna en þannig höfðu þeir eftirlit með sjálfum sér. Síðar fór Fjármálaeftirlitið fram á að sinn hvor aðilinn sinnti sjóðastýringu og áhættustýringu.

Í ljósi umfangs starfsemi rekstrarfélaganna sem að framan er lýst verður að mati rannsóknarnefndar Alþingis að fallast á það með Fjármálaeftirlitinu að æskilegt hefði verið "með tilliti til umfangs og eðlis starfsemi fyrirtækisins", sbr. 2. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 995/2007 um fjárfestavernd og viðskiptahætti fjármálafyrirtækja, að félögin hefðu komið á og viðhaldið óháðum starfseiningum sem hefðu haft með höndum áhættustýringu.

Þegar virtir eru þeir mælikvarðar sem notaðir voru til áhættumats virðist matið eingöngu hafa náð til einstakra skuldara, en ekki heildarsamsetningar eigna í sjóðunum. Í öllu falli hefði átt að skoða mun betur fylgni ávöxtunar eignanna og tengsla eigenda. Á síðari stigum virðist ávöxtun hafa verið nánast eini mælikvarðinn sem sjóðirnir miðuðu sig við, og þá helst ávöxtun sjóða hjá samkeppnisaðilum. Eitt skýrasta dæmi þess er sala ríkistryggðra eigna úr öllum sjóðunum á árunum 2007 og 2008.Virðist áhættudreifingu þar hafa verið fórnað fyrir ávöxtun. Staðfestu skýrslutökur af sjóðstjórum þessa ályktun.

14.7 Óhæði rekstrarfélaganna

14.7.1 Almennt

Það er grundvallaratriði að rekstrarfélög séu óháð í störfum sínum og hafi ætíð hagsmuni eigenda hlutdeildarskírteina að leiðarljósi, sbr. 2. mgr. 15. gr. laga nr. 33/2003. Áhersla er lögð á mikilvægi óhæðis í athugasemdum með frumvarpi til laganna en þar er m.a. vitnað til óopinberrar greinargerðar með UCITS tilskipuninni frá 1988. Þegar rekstrarfélag er dótturfélag banka verður að tryggja sjálfstæði þess gagnvart móðurfélaginu. Þegar metið er hvort rekstrarfélag er óháð móðurfélagi er m.a. eðlilegt að líta til þess hvernig stjórn rekstrarfélags er skipuð og hvert sjálfstæði þess er í raun gagnvart móðurfélaginu. Þá er rétt að skoða tengsl starfsmanna rekstrarfélaganna við móðurfélögin (bankana), svo sem launamál o.fl.

Fjármálaeftirlitið gerði á árinu 2008 athugun á óhæði rekstrarfélaganna þriggja og skilaði skýrslum í kjölfarið. Skýrslur um Glitni sjóði og Rekstrarfélag Kaupþings eru frá febrúar 2009 en skýrsla um Landsvaka frá mars 2009. Í skýrslunum eru gerðar margvíslegar athugasemdir að því er varðar óhæði félaganna. Í þeirri umfjöllun sem hér fer á eftir er m.a. byggt á þessum skýrslum auk annarra gagna sem aflað var. Í skýrslunum var réttilega á það bent að til þess að rekstrarfélag gæti uppfyllt kröfur um óhæði væri nauðsynlegt að stjórn þess væri óháð félaginu sjálfu og stórum hluthöfum. Stjórn sem væri óháð félaginu sjálfu eða móðurfélagi þess væri betur til þess fallin að gæta hagsmuna félagsins og þá einnig eigenda hlutdeildarskírteina.Væri stjórn að öllu eða mestu leyti skipuð starfsmönnum félagsins sjálfs eða fulltrúum stórra hluthafa væri veruleg hætta á því að hagsmunir hlutdeildarskírteinishafa væru fyrir borð bornir en það stríddi gegn 19. gr. laga nr. 161/2002 sem fjallar um eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og 1. mgr. 10. gr. laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

14.7.2 Starfsmenn rekstrarfélaganna og launakerfi

14.7.2.1 Glitnir sjóðir

Samkvæmt upplýsingum frá Glitni sjóðum greiddi rekstrarfélagið sjóðstjórum laun. Þeir voru á bónuskerfi árin 2005–2007 en ekkert bónuskerfi var árið 2008. Fram kom að bónuskerfið byggðist á þremur þáttum: "Árangur í ávöxtun umfram viðmiðunarvísitölur, gilti 2/5 hluta – Vöxtur eigna í stýringu þar sem markmiðið var 25% vöxtur á ári, gilti 2/5 hluta – Ákvörðun framkvæmdastjóra, gilti 1/5." Hámark árangurstengdra launa var á bilinu 30–60% af föstum launum. Þá voru einstakir starfsmenn með hámarksþak árangurstengdra launa allt að 100% af föstum launum.

14.7.2.2 Landsvaki

Samkvæmt upplýsingum frá Landsvaka greiddi rekstrarfélagið sjóðstjórum laun. Greiðslur til sjóðstjóra og aðstoðarmanna þeirra voru árangurstengdar. Fram kom að "[v]ið mat á árangri var horft til samanburðar við árangur sambærilegra sjóða á markaði og árangur umfram sett viðmið. Þá var einnig horft til aukningar í sjóðum sem voru í stýringu. Ákvörðun um árangurstengingu var tekin af framkvæmdastjóra starfsmannasviðs, framkvæmdastjóra eignastýringar og bankastjóra [Landsbankans] eftir sameiginlega yfirferð á árangursmati, byggðu á ofangreindu, ásamt almennu mati á árangri einstakra starfsmanna í starfi."

14.7.2.3 Rekstrarfélag Kaupþings banka

Samkvæmt upplýsingum Rekstrarfélags Kaupþings banka greiddi rekstrarfélagið sjóðstjórum laun en eftirfarandi ákvæði munu hafa verið sett í samninga sjóðstjóra sem gerðir voru árið 2007:"Bónus er greiddur tvisvar á ári, þ.e. 1. febrúar og 1. ágúst. Bónusgreiðslur eru miðaðar við afkomu bankans, afkomu Eignastýringarsviðsins og frammistöðu starfsmanns. Bónus er þó ekki greiddur ef afkomumarkmið bankans nást ekki (núna 15%)." Í samningunum sagði enn fremur: "Bónus er greiddur út tvisvar sinnum á ári ef arðsemismarkmið Rekstrarfélags Kaupþings banka og Kaupþings banka samstæðunnar nást. Bónus er ákveðinn af framkvæmdastjóra félagsins í samráði við forstjóra og framkvæmdastjóra Starfsmannasviðs. Ef bónus verður 5.000.000 eða meira á ári fer 20% af bónus í bónuspott sem geymist til þriggja ára og er tengdur gengi hlutabréfa í Kaupþingi."

14.7.2.4 Samskipti starfsmanna við móðurfélög rekstrarfélaganna

Öll rekstrarfélögin voru staðsett innan veggja móðurfélaganna, jafnvel var innangengt milli þessara tveggja fjármálafyrirtækja. Í öllum tilvikum var um sameiginlega aðstöðu starfsmanna að ræða, auk þess sem starfsmannamálum var útvistað til móðurfélaganna. Þó að sjóðstjórum og öðrum starfsmönnum hafi verið ljóst að rekstrarfélögin sem þeir störfuðu hjá væru sjálfstæð fjármálafyrirtæki má ráða af skýrslum þeirra að sterk tengsl voru við viðkomandi móðurfélag (banka). Ekki verður annað ráðið en að þeir hafi nánast litið á sig sem starfsmenn viðkomandi banka. Þá má benda á að starfsmennirnir voru allir með netfang viðkomandi banka. Í skýrslutökum kom m.a. fram að sjóðstjóri Landsvaka leitaði til starfsmannastjóra Landsbankans varðandi kjaramál sín. Þá nutu starfsmenn rekstrarfélaganna almennt einnig sömu fríðinda og starfsmenn móðurfélaga, svo sem á skemmtunum starfsfólks. Starfsmenn rekstrarfélaga höfðu því mikil samskipti við starfsmenn móðurfélaga og móðurfélagið sjálft.

14.7.3 Stjórnir rekstrarfélaganna

14.7.3.1 Almennt

Rekstrarfélögin voru dótturfélög hinna föllnu banka. Algengt er að móðurfélag leitist við að stjórna dótturfélagi á grundvelli eignarhlutar síns og þeirra valda sem það fer með. Þessi áhrif koma einkum í ljós þegar móðurfélag nýtir sér eignarhlut sinn á hluthafafundum í dótturfélagi eða þegar móðurfélag nýtir rétt sinn til að kjósa stjórn í dótturfélagi. Almennt er móðurfélögum þetta fullkomlega heimilt.Aftur á móti getur hið sama ekki gilt fyrirvaralaust um rekstrarfélög sem eru í eigu fjármálafyrirtækja. Um slík rekstrarfélög gilda sérstakar reglur sem hljóta að takmarka afskipti móðurfélags af rekstri þeirra, t.d. sú regla að rekstrarfélög skuli vera óháð í störfum sínum og hafa ætíð hagsmuni hlutdeildarskírteinishafa að leiðarljósi, sbr. 2. mgr. 15. gr. laga nr. 30/2003. Þannig verða hagsmunir viðskiptamanna rekstrarfélagsins að ganga fyrir hagsmunum móðurfélagsins. Enn fremur gildir sú regla samkvæmt 19. gr. laga nr. 161/2002 að fjármálafyrirtæki skuli starfa í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti.

14.7.3.2 Verkaskipting stjórnar og framkvæmdastjóra og starfshættir stjórnar

Rekstrarfélögin eru fjármálafyrirtæki og um þau gilda því lög nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Samkvæmt 1. mgr. 54. gr. þeirra skal kveðið á um verkaskiptingu stjórnar og framkvæmdastjóra í samþykktum fjármálafyrirtækis. Sú verkaskipting skal taka mið af ákvæðum laga nr. 2/1995 um hlutafélög en í 68. gr. þeirra er kveðið á um að framkvæmdastjóri skuli að meginstefnu til annast daglegan rekstur félags en stjórnin sinna stefnumótun, eftirliti og töku meiri háttar ákvarðana. Þá er stjórninni skylt að setja sér starfsreglur en sú skylda leiðir af ákvæðum 4. mgr. 70. gr. hlutafélagalaga. Í starfsreglum skal kveðið nánar á um framkvæmd starfa stjórnarinnar og sérstaklega fjallað um heimildir stjórnar til að taka ákvarðanir um einstök viðskipti, framkvæmd reglna um sérstakt hæfi stjórnarmanna, meðferð stjórnar á upplýsingum um einstaka viðskiptamenn, setu stjórnarmanna í stjórnum dótturfyrirtækja og hlutdeildarfélaga, og framkvæmd reglna um meðferð viðskiptaerinda stjórnarmanna, sbr. 2. mgr. 54. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Gert er ráð fyrir að Fjármálaeftirlitinu sé sent afrit reglnanna og síðari breytinga á þeim. Með því móti gefst Fjármálaeftirlitinu færi á að gera athugasemdir ef það telur reglurnar á einhvern hátt fara í bága við lögin þótt ekki sé áskilin staðfesting Fjármálaeftirlitsins. Í leiðbeinandi tilmælum Fjármálaeftirlitsins nr. 5/2003 kemur fram að í starfsreglum stjórnar, skv. 2. mgr. 54. gr. laga nr. 161/2002, skuli kveða sérstaklega á um þær aðstæður sem valdið geti vanhæfi stjórnarmanns í rekstrarfélagi við meðferð máls vegna tengsla við vörslufyrirtæki eða annað fjármálafyrirtæki innan sömu samstæðu.

Í 55. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki segir að stjórn fjármálafyrirtækis skuli ekki taka þátt í ákvörðunum um einstök viðskipti nema umfang þeirra sé verulegt miðað við stærð fyrirtækisins. Einstakir stjórnarmenn skuli ekki hafa afskipti af ákvörðunum um einstök viðskipti. Í 2. mgr. 55. gr. eru ófrávíkjanlegar reglur um sérstakt hæfi stjórnarmanna við meðferð einstakra mála. Þar segir síðan að stjórnarmenn fjármálafyrirtækis skuli ekki taka þátt í meðferð máls ef mál varðar:

1. viðskipti þeirra sjálfra eða fyrirtækja sem þeir sitja í stjórn hjá, eru fyrirsvarsmenn fyrir eða eiga að öðru leyti verulegra hagsmuna að gæta í; eða

2. viðskipti samkeppnisaðila þeirra aðila sem ræðir um í 1. tölul. Hið sama skal gilda um viðskipti aðila sem eru tengdir stjórnarmönnum persónulega eða fjárhagslega. Samkvæmt 3. mgr. 55. gr. skulu viðskiptaerindi stjórnarmanna, sem og fyrirtækja sem þeir eru í fyrirsvari fyrir, lögð fyrir stjórn fjármálafyrirtækis, eða stjórnarformann félags, til samþykktar eða synjunar. Stjórn fjármálafyrirtækis er þó heimilt að setja almennar reglur um afgreiðslu slíkra mála þar sem fyrir fram er ákveðið hvaða viðskiptaerindi þurfi, og þurfi ekki, sérstaka umfjöllun stjórnar áður en til afgreiðslu þeirra kemur, sbr. 54. gr. Rökin fyrir þessari ríkari kröfu til afgreiðslu viðskiptaerinda stjórnarmanna í 3. mgr. 55. gr. eru að slíkt sé nauðsynlegt til að koma í veg fyrir að stjórnarmenn geti í krafti stöðu sinnar komið á viðskiptum sem ella hefðu ekki verið samþykkt. Í leiðbeinandi tilmælum nr. 4/2006 kemur m.a. fram að hyggist fjármálafyrirtæki nýta sér undantekningarheimildina í 3. mgr. 55. gr. þurfi stjórnin að setja almennar reglur um afgreiðslu slíkra mála. Fjármálaeftirlitið hefur lagaheimild til að leggja stjórnvaldssektir á hvern þann sem brýtur gegn 2. og 3. mgr. 55. gr., auk þess sem það varðar sektum eða fangelsi allt að tveimur árum að brjóta gegn ákvæðunum.

Samkvæmt 4. mgr. 70. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög ber að halda gerðabók um það sem gerist á stjórnarfundum og skal hún undirrituð af þeim er fund sitja. Þá segir að stjórnarmaður eða framkvæmdastjóri, sem ekki eru sammála ákvörðun stjórnar, eigi rétt á að fá sérálit sitt skráð í gerðabókina. Í skýrslum Fjármálaeftirlitsins um óhæði rekstrarfélaganna voru gerðar ýmsar athugasemdir við fundargerðir stjórna.

14.7.3.3 Glitnir sjóðir

Stjórnarmenn Glitnis sjóða árið 2005 voru Sigurður B. Stefánsson, formaður stjórnar, Gunnar Jónsson hrl., varaformaður, Guðmundur

H. Garðarsson og Steinunn Kristín Þórðardóttir. Sigurður og Steinunn Kristín voru starfsmenn móðurfélags rekstrarfélagsins, Glitnis banka. Gunnar Jónsson og Guðmundur H. Garðarsson, sem áður hafði setið í stjórn Íslandsbanka hf. (síðar Glitnir banki), voru utanaðkomandi stjórnarmenn. Árið 2006 var stjórnin skipuð með sama hætti nema að Almar Guðmundsson, starfsmaður bankans, leysti Sigurð B. Stefánsson af hólmi sem stjórnarformaður. Rekstrarfélagið Glitnir sjóðir greiddi laun annarra stjórnarmanna en starfsmanna bankans en í því tilviki runnu stjórnarlaun til bankans. Stjórnarmenn voru ekki á árangurstengdum launum.

Árið 2007 var stjórnin skipuð Almari Guðmundssyni, formanni stjórnar og starfsmanni Glitnis, Gunnari Jónssyni hrl., varaformanni, sem var varamaður í stjórn Glitnis banka frá og með 20. febrúar 2007, Illuga Gunnarssyni, alþingismanni, og Katrínu Oddsdóttur, starfsmanni bankans. Árið 2008 var stjórnin skipuð með sama hætti nema að Eggert Þór Kristófersson leysti Almar Guðmundsson af hólmi sem stjórnarformaður.

Af framansögðu er ljóst að stjórn Glitnis sjóða hafði mikil tengsl við móðurfélagið, Glitni banka, gegnum stjórnarsetu starfsmanna bankans. Af skýrslu Fjármálaeftirlitsins frá febrúar 2009 má ráða að framkvæmdastjórn og stjórn rekstrarfélagsins hafi haft lítið sjálfstæði gagnvart móðurfélaginu. Þannig taldi Fjármálaeftirlitið það ekki samrýmast heilbrigðum viðskiptaháttum að framkvæmdastjóri Eignastýringar Glitnis sæti sjálfkrafa í stjórn Glitnis sjóða auk þess sem stofnunin fór fram á að meirihluti stjórnarmanna rekstrarfélagsins yrði óháður móðurfélaginu. Þá benti Fjármálaeftirlitið einnig á að í frétt um breytingu á stjórn Glitnis sjóða, sem birtist á heimasíðu Glitnis 28. apríl 2008, kæmi fram að Glitnir sjóðir væru "hluti af Eignastýringu Glitnis". Sú fullyrðing sem birtist í tilvitnaðri frétt stenst ekki ákvæði laga nr. 30/2003 er varða sjálfstæði rekstrarfélaga. Glitnir sjóðir voru sjálfstætt fjármálafyrirtæki sem hafði réttindi og bar skyldur óháð móðurfélagi þess. Engu að síður er sú afstaða sem birtist í fréttinni lýsandi um þá staðreynd að sjálfstæði rekstrarfélagsins gagnvart móðurfélaginu, Glitni banka, var lítið sem ekkert.

Fjármálaeftirlitið gerði í skýrslu sinni frá febrúar 2009 athugasemd við það að margar af fundargerðum stjórnar Glitnis sjóða væru ekki undirritaðar af öllum stjórnarmönnum sem fundina sátu og áréttaði að stjórnarmönnum bæri að undirrita fundargerðir stjórnar. Þá var gerð athugasemd við að stjórnarmenn sem jafnframt voru starfsmenn móðurfélags rekstrarfélagsins hefðu ekki vikið af fundi þegar málefni Glitnis sjóða gagnvart Glitni banka voru tekin fyrir. Áréttað var að stjórnarmenn yrðu að víkja af fundum og mættu ekki fá aðgang að gögnum máls þegar þeir væru vanhæfir, sbr. 55. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Þá gerði Fjármálaeftirlitið athugasemd við setu framkvæmdastjóra Eignastýringar Glitnis banka í stjórn rekstrarfélagsins. Afstaða Glitnis sjóða í bréfi til Fjármálaeftirlitsins, dags. 1. september 2008, var sú að svo íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun sem fælist í þeirri athugasemd yrði að byggja á ítarlegri rökum en tilvísun til heilbrigðra viðskiptahátta.

14.7.3.4 Landsvaki

Árin 2005–2008 sátu í stjórn Landsvaka Stefán H. Stefánsson, formaður stjórnar, en meðstjórnendur voru Erla H. Aðalgeirsdóttir, eiginkona Stefáns og yfirmaður bókhaldssviðs Landsbankans, og Þórir Örn Ingólfsson, yfirmaður áhættustýringar Landsbankans. Varamenn voru Gunnar Viðar, Hermann Jónasson og Tryggvi Tryggvason, allir starfsmenn Landsbankans. Frá 28. ágúst 2008 og fram að falli móðurfélags rekstrarfélagsins, Landsbankans, skipuðu stjórnina Stefán H. Stefánsson, formaður, og bankastjórar Landsbankans, Sigurjón Þ. Árnason og Halldór J. Kristjánsson. Varamenn voru Þórir Örn Ingólfsson, Gunnar Viðar og Gunnar Thoroddsen, allir starfsmenn bankans. Stjórnarmenn fengu ekki greidd laun fyrir setu í stjórn rekstrarfélagsins. Af þessu er ljóst að allir stjórnarmenn og varastjórnarmenn Landsvaka voru lykilstarfsmenn í Landsbankanum.

Telja verður að allir stjórnarmenn Landsvaka hafi verið fyrirsvarsmenn Landsbankans í skilningi 1. tölul. 2. mgr. 55. gr. laga nr. 161/2002, bæði bankastjórar Landsbankans og Gunnar Thoroddsen, bankastjóri dótturfélags Landsbanka Íslands, Landsbankans í Lúxemborg, sem og aðrir stjórnarmenn, enda gegndu þeir allir framkvæmdastjórastöðum innan Landsbankans. Áður er rakið að stór hluti af verðbréfum í eigu peningamarkaðssjóða Landsvaka var gefinn út af Landsbankanum, aðilum tengdum Landsbankanum og öðrum fjármálafyrirtækjum.Af þessu leiðir að hafi stjórnarmenn tekið ákvarðanir varðandi kaup á bréfum þessara aðila eða önnur viðskipti, svo sem við Landsbankann við útvistun verkefna, kunna þeir að hafa verið vanhæfir til ákvarðanatöku. Það er ljóst að stjórn Landsvaka hafði mikil tengsl við móðurfélag rekstrarfélagsins, Landsbankann, í gegnum stjórnarsetu starfsmanna bankans og ekki verður séð að þeir hafi vegna stöðu sinnar getað talist hlutlausir þegar teknar voru ákvarðanir varðandi Landsbankann, tengda aðila eða samkeppnisaðila.

Athygli vekur að bankastjórar Landsbankans tóku sæti í stjórn Landsvaka 28. ágúst 2008. Sú ákvörðun gat ekki samrýmst sjálfstæði og óhæði Landsvaka sem var þó lítið fyrir. Raunar höfðu bankastjórar undir höndum miklar upplýsingar um rekstur Landsvaka, m.a. lista yfir stóran hluta hlutdeildarskírteinishafa sem stjórnarformaður félagsins sendi þeim 31. maí 2008. Sú upplýsingagjöf er dæmi um hversu lítið sjálfstæði Landsvaka var gagnvart Landsbankanum. Þetta var andstætt reglum um meðferð þessara upplýsinga enda ríkir þagnarskylda um slíkar upplýsingar, sbr. 58. gr. laga nr. 161/2002. Í skýrslu framkvæmdastjóra Landsvaka á þessum tíma fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom fram að hann hefði verið sáttur við skipunina, enda væru bankastjórarnir "öflugir menn" sem gott væri að hafa í stjórn. Af þessu verður ekki séð að framkvæmdastjórinn hafi haft áhyggjur af óhæði Landsvaka gagnvart yfirstjórn Landsbankans.

Í skýrslu Fjármálaeftirlitsins frá mars 2009 kom fram að í mörgum tilvikum skorti á að fundargerðir stjórnar Landsvaka væru undirritaðar í gerðabók í samræmi við fyrirmæli 4. mgr. 70. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög. Fundargerðir teldust vera full sönnun þess sem fram færi á fundum og því væri mikilvægt að þær væru undirritaðar af þeim sem sætu fundina. Þá var nefnt að á fundi stjórnar 31. mars 2008 hefði verið fjallað um hvort endurskoða ætti samninga við Landsbankann og hefði það verið samþykkt. Allir stjórnarmenn Landsvaka hefðu verið fyrirsvarsmenn tiltekinna deilda Landsbankans. Því yrði að telja að allir stjórnarmenn hefðu verið vanhæfir til að fjalla um þetta atriði, sbr. 1. tölul. 2. mgr. 55. gr. laga nr. 161/2002, sem mælir svo fyrir að stjórnarmenn skuli ekki taka þátt í meðferð máls ef málið varðar fyrirtæki sem þeir eru fyrirsvarsmenn fyrir.

Þá gerði Fjármálaeftirlitið athugasemdir við starfsreglur stjórnar Landsvaka þar sem í reglunum var ávallt vísað til Landsbanka Eignastýringar hf. Þarna var um að ræða nafn sem félaginu var kunnugt um að Fjármálaeftirlitið hefði gert athugasemdir við og ekki samþykkt að yrði notað. Þá var gerð athugasemd við það að í 7. gr. reglna Landsvaka segði að formaður stjórnar gæti tekið þátt í daglegum störfum og nefndum félagsins, þó með þeim takmörkunum sem leiddu af ákvæðum 55. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Benti Fjármálaeftirlitið á að samkvæmt 68. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög væri hlutverk stjórnar að hafa eftirlit með þeim sem annast daglegan rekstur. Fjármálaeftirlitið teldi það ekki samræmast heilbrigðum viðskiptaháttum skv. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 87/1998 og góðum stjórnarháttum að formaður stjórnar, sem einnig væri framkvæmdastjóri eignastýringar hjá öðru fjármálafyrirtæki, tæki bæði þátt í daglegum rekstri og hefði eftirlit með honum. Loks var gerð athugasemd við það að í reglunum væri ekki ákvæði um stjórnarsetu framkvæmdastjóra í dótturfyrirtæki eða hlutdeildarfyrirtæki eða þátttöku annarra starfsmanna í atvinnurekstri, sbr. 56. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.

14.7.3.5 Rekstrarfélag Kaupþings banka

Stjórnarmenn Rekstrarfélags Kaupþings banka árið 2005 til loka árs 2007 voru Þórarinn Sveinsson,Andri V.Sigurðsson og Birgir Örn Arnarson, framkvæmdastjóri áhættustýringar. Í varastjórn sátu Eggert Páll Ólason, Ragnar Jónasson og Helgi Sigurðsson. Frá áramótum 2008 sátu í stjórn Þórarinn Sveinsson,Birgir Örn Arnarson og Sigurður Guðmundsson.Í varastjórn sátu Helgi Sigurðsson,Andri V. Sigurðsson og Eiríkur Dór Jónsson. Stjórnarmenn fengu ekki greidd laun fyrir setu í stjórn rekstrarfélagsins. Allir stjórnarmenn og varastjórnarmenn voru starfsmenn móðurfélags rekstrarfélagsins, Kaupþings.Af þessu má ráða að stjórn Rekstrarfélags Kaupþings banka hafði mikil tengsl við móðurfélag rekstrarfélagsins, Kaupþing, gegnum stjórnarsetu starfsmanna þess.

Dagleg stjórn RKB var í höndum Ómars Kaldal Ágústssonar, framkvæmdastjóra rekstrarfélagsins, sem fór með rekstur og starfsmannamál og Þórarins Sveinssonar, stjórnarformanns, sem setti saman fjárfestingarteymi rekstrarfélagsins og sinnti öðrum tæknilegum þáttum rekstrarins. Auk þess að vera stjórnarformaður í rekstrarfélaginu var Þórarinn framkvæmdastjóri Eignastýringar Kaupþings. Athyglisvert er að framkvæmdastjóri RKB uppfyllti ekki lagaskilyrði til þess að gegna starfinu þar sem hann hafði ekki lokið námi í verðbréfaviðskiptum eins og skylt er, sbr. 53. gr. laga nr. 161/2002. Sama skilyrði var að finna í 15. gr. samþykkta RKB á þessum tíma.

Í skýrslu Fjármálaeftirlitsins frá febrúar 2009 kom fram að dagleg stjórn hefði verið í höndum Sigurðar Guðmundssonar en fram hefði komið í tölvubréfi Ómars Kaldal til Fjármálaeftirlitsins 22. júlí 2008 að Sigurður sinnti störfum framkvæmdastjóra í fjarveru Ómars. Þá hefði Sigurður jafnframt sinnt vinnu við breytingar á reglum sjóða RKB. Á sama tíma hefði hann setið í stjórn RKB auk þess sem hann hefði verið starfsmaður lögfræðisviðs Kaupþings. Í skýrslu Fjármálaeftirlitsins sagði að það gæti ekki talist æskilegt að stjórnarmenn rekstrarfélagsins sinntu daglegum störfum hjá félaginu en Sigurður hefði m.a. komið að flestöllum samskiptum rekstrarfélagsins við Fjármálaeftirlitið auk þess sem hann sinnti störfum framkvæmdastjóra í fjarveru hans. Á það var bent að hlutverk félagsstjórnar væri m.a. að sinna eftirliti með starfsemi félags. Sinnti einn og sami aðili almennum störfum fyrir félagið auk stjórnarsetu hefði hann eftirlit með sjálfum sér.

Í skýrslu Fjármálaeftirlitsins frá febrúar 2009 greinir að eftirlitið hafi fengið afhentar fundargerðir stjórnar RKB frá 1. júní 2007 til 9. júní 2008. Hafi flestar fundargerðirnar verið haldnar þeim annmarka að þar væri eingöngu getið dagskrár fundar en ekki greint frá því hvaða ákvarðanir hefðu verið teknar á fundinum. Tilgangurinn með færslu fundargerðabókar væri m.a. sá að unnt væri að staðreyna hvaða ákvarðanir stjórn félagsins hafi tekið, hvaða stefnumótun hafi farið fram, að stjórnin hafi starfað í samræmi við samþykktir félagsins, lög og reglur á hverjum tíma og að hún hafi sinnt lögboðnu eftirlitshlutverki sínu. Fundargerðir væru þannig mikilvæg gögn fyrir endurskoðendur, innri endurskoðun og eftirlitsaðila til að sannreyna að ákvarðanir hafi verið lögformlega rétt teknar. Hafi fundargerðir RKB aðeins að takmörkuðu leyti getað gegnt þessu hlutverki.

14.7.4 Hversu nákvæmar og réttar upplýsingar voru veittar um rekstrarfélögin?

14.7.4.1 Almennt

Þar sem rekstrarfélög skulu vera óháð í störfum sínum og ætíð hafa hagsmuni eigenda hlutdeildarskírteina að leiðarljósi skiptir miklu máli hvernig þau eru kynnt. Þá kemur m.a. fram í 51. gr. laga nr. 30/2003 að í auglýsingum og annarri kynningarstarfsemi verðbréfasjóða skuli þess gætt að fram komi réttar og nákvæmar upplýsingar um starfsemi þessara aðila.

14.7.4.2 Glitnir sjóðir

Glitnir sjóðir höfðu ekki eigin heimasíðu heldur voru sjóðir þess kynntir á heimasíðu Glitnis. Á kynningarsíðu sjóðanna kom fram að þeir væru "reknir af Glitni" en jafnframt var þar að finna upplýsingar um Glitni sjóði. Þetta fyrirkomulag má telja sérstakt enda benti Fjármálaeftirlitið á að til að aðgreina rekstrarfélagið betur frá móðurfélaginu væri æskilegt að skýrt kæmi fram að sjóðirnir væru reknir af því en ekki Glitni. Rekstrarfélagið átti sér svæði á heimasíðu Glitnis en nauðsynlegt var að rekja sig í gegnum fjölmargar slóðir á heimasíðu bankans áður en hægt var að nálgast upplýsingar um rekstraraðila sjóðanna. Fyrirkomulagið var til þess fallið að gefa í skyn að Glitnir væri rekstraraðili sjóðanna. Starfsmenn rekstrarfélagsins voru aðgreindir frá starfsmönnum Glitnis en fram kom á nafnspjaldi þeirra að þeir störfuðu fyrir Glitni sjóði. Hins vegar var ekki um að ræða sérstakt tölvupóstfang sem vísaði til þess að um starfsmenn rekstrarfélagsins væri að ræða en ekki bankans.

14.7.4.3 Landsvaki

Landsvaki var ekki með eigin heimasíðu heldur voru sjóðir sem félagið rak kynntir á heimasíðu Landsbankans. Ekki kom fram á heimasíðunni að Landsvaki sæi um rekstur sjóðanna og bæri ábyrgð á þeim heldur bar kynning þeirra með sér að um væri að ræða sjóði sem Landsbankinn byði upp á í starfsemi sinni. Fjármálaeftirlitið gerði t.d. athugasemd við að ekki væri tekið fram að Landsvaki ræki sjóðina. Landsvaki var lítillega kynntur sem dótturfélag bankans undir liðnum "dóttur- og hlutdeildarfélög" og tekið fram að það sérhæfði sig í eignastýringu og rekstri sjóða. Á sama stað var tekið fram að Landsvaki heyrði undir eignastýringarsvið Landsbankans. Fjármálaeftirlitið gerði athugasemd við að Landsvaki væri kynntur sem hluti af deild innan Landsbankans. Þá hefðu starfsmenn Landsvaka sömu tölvupóstföng og starfsmenn Landsbankans en í undirskrift þeirra á tölvubréfum kæmi fram að þeir störfuðu hjá Landsvaka en einnig á eignastýringarsviði. Nafnspjöld starfsmanna væru merkt Landsbankanum en nafn Landsvaka kæmi hvergi fram. Þá kæmi fram í útboðslýsingum Fyrirtækjabréfa að "[m]eð kaupum í Fyrirtækjabréfum tryggja fjárfestar sér hlutdeild í sérfræðiþekkingu sjóðsstjóra Landsbankans og aðgang að öflugu greiningarneti bankans".

Fjármálaeftirlitið benti á að mikilvægt væri að rekstrarfélagið ætti sér heimasíðu eða sérstakt svæði á heimasíðu bankans þar sem upplýsingar um félagið kæmu skýrt fram. Þá væri mikilvægt að aðgreina rekstrarfélagið frá móðurfélaginu að því er varðaði netföng, bréfsefni og annað útsent efni félagsins.

14.7.4.4 Rekstrarfélag Kaupþings banka

Í skýrslu Fjármálaeftirlitsins frá febrúar 2009 kom fram að RKB væri ekki með eigin heimasíðu en upplýsingar um sjóði félagsins mætti finna á heimasíðu móðurfélagsins, Kaupþings. Ekki væri ljóst af upplýsingum á heimasíðu bankans að RKB ræki sjóðina og að bankinn væri söluaðili þeirra. Þvert á móti segði að Kaupþing ræki verðbréfasjóðina og að sjóðastýring félli undir Eignastýringu Kaupþings. Litlar sem engar upplýsingar væri að finna um RKB, m.a. væru ekki á heimasíðu upplýsingar um stjórn félagsins, ársreikninga þess, framkvæmdastjóra o.fl. Að ýmsu öðru leyti væri RKB ekki aðgreint frá móðurfélagi sínu, m.a. væru tölvupóstföng starfsmanna rekstrarfélagsins ekki aðgreind frá tölvupóstföngum starfsmanna bankans auk þess sem félagið deildi bréfsefni með bankanum. Fjármálaeftirlitið taldi mikilvægt að rekstrarfélagið ætti sér heimasíðu eða sérstakt svæði á heimasíðu bankans þar sem upplýsingar um félagið kæmu skýrt fram. Einnig væri mikilvægt að aðgreina félagið betur frá móðurfélaginu hvað varðaði netföng, bréfsefni og annað útsent efni félagsins.

Eftir að Fjármálaeftirlitið gerði athugasemdir virðist RKB hafa komið á fót eigin heimasíðu (www.rkb.is). Fjármálaeftirlitið gerði alvarlegar athugasemdir við tölvupóst starfsmanns RKB til Eignastýringar Kaupþings 4. september 2008, þar sem heimasíða rekstrarfélagsins var kynnt, en þar sagði: "Nú hefur verið sett í loftið sér vefsíða fyrir Rekstrarfélag Kaupþings banka hf. vegna tilmæla frá Fjármálaeftirlitinu.Við munum ekki nota þessa síðu og mælumst til að sjóðasíða Kaupþings sé notuð.Vefsíða rekstrarfélagsins www. rkb.is er mjög basic og inniheldur einungis nauðsynlegar upplýsingar er varða félagið."

14.7.5 Innri endurskoðun

14.7.5.1 Almennt

Í 16. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki segir að við fjármálafyrirtæki skuli starfa endurskoðunardeild sem annist innri endurskoðun. Stjórn fjármálafyrirtækis skal ráða forstöðumann endurskoðunardeildar sem fer með innri endurskoðun í umboði hennar. Innri endurskoðun er hluti af skipulagi fjármálafyrirtækja og er þáttur í eftirlitskerfi þeirra. Fjármálaeftirlitið getur, með hliðsjón af eðli og umfangi rekstrarins, veitt undanþágu frá starfrækslu slíkrar endurskoðunardeildar og sett þeim fyrirtækjum skilyrði sem slíka undanþágu fá.

Samkvæmt d-lið 2. tölul. 17. gr. laga nr. 30/2003 er innra eftirlit þáttur í rekstri verðbréfasjóða en skv. 1. mgr. 18. gr. laganna er rekstrarfélagi heimilt að útvista því verkefni að fengnu samþykki Fjármálaeftirlitsins. Í 3. lið leiðbeinandi tilmæla Fjármálaeftirlitsins nr. 4/2003 um undanþágur frá starfrækslu endurskoðunardeildar hjá fjármálafyrirtæki segir að skilyrði fyrir útvistun innri endurskoðunar sé að niðurstöður úttektar á innra eftirliti séu að lágmarki árlega kynntar stjórn fjármálafyrirtækis, skriflega í sérstakri skýrslu. Sjá einnig 14. lið leiðbeinandi tilmæla Fjármálaeftirlitsins nr. 1/2002 um innra eftirlit og áhættustýringu hjá fjármálafyrirtækjum. Í 11. kafla er fjallað almennt um innra eftirlit.

Rannsóknarnefnd Alþingis hefur skoðað skýrslur Fjármálaeftirlitsins þar sem innri endurskoðun er tekin til umfjöllunar. Einnig hafa verið skoðaðar alls tíu skýrslur innri endurskoðunar rekstrarfélaganna frá árinu 2005 til ársins 2008. Helmingur þessara skýrslna var vegna Landsvaka, þrjár vegna Rekstrarfélags Kaupþings banka og tvær vegna Glitnis sjóða. Í því sem hér fer á eftir er mest áhersla lögð á skýrslur sem gerðar voru árið 2009 vegna ársins 2008. Í skýrslunum koma fram athugasemdir um að bæta þurfi innra eftirlitskerfi sjóðanna, sérstaklega í tengslum við fjárfestingarstefnu þeirra. Þá er enn fremur talin þörf á að áhættumat sé framkvæmt og bent á að ekki sé gætt nægilega að stjórnunarlegum aðskilnaði milli fjármálafyrirtækjanna og sjóðanna. Hér á eftir eru nokkur dæmi rakin.

14.7.5.2 Glitnir sjóðir

Í skýrslu Fjármálaeftirlitsins frá febrúar 2009 voru gerðar athugasemdir við framkvæmd innri endurskoðunar. Þar sagði að fundargerðir stjórnar rekstrarfélagsins frá 1. júní 2007 til 9. júní 2008 bæru ekki með sér að stjórnin hefði tekið til umræðu skýrslu um innri endurskoðun félagsins. Fjármálaeftirlitið fór fram á að skýrslur um innri endurskoðun væru gerðar árlega og næðu til þeirra atriða sem talin væru upp í þjónustusamningi. Einnig var gerð krafa um að stjórn rekstrarfélagsins tæki skýrsluna til skoðunar árlega á stjórnarfundi.

Í skýrslu innri endurskoðanda Íslandsbanka til Glitnis sjóða frá mars 2009 vegna 2008 kemur fram að skoðun á starfsemi Glitnis sjóða hafi farið fram í ágúst og september 2008. Þegar skoðun var lokið og skýrslugerð í vinnslu hafi starfsemi Glitnis banka verið tekin yfir af Fjármálaeftirlitinu. Í kjölfar þess hafi verið framkvæmdar ýmsar skoðanir innan bankans, m.a. tengdar starfsemi Glitnis sjóða. Sérstaklega hafi verið til skoðunar hvort innlausnir hafi verið afgreiddar úr lokuðum sjóðum, auk þess sem farið hafi verið yfir viðskipti með eignir verðbréfasjóðanna. Hafi útgáfu skýrslunnar því verið frestað um óákveðinn tíma. Í skýrslunni kom fram að innri endurskoðun teldi að efla þyrfti innra eftirlit í rekstri Glitnis sjóða. Vanda þyrfti bókanir í fundargerðum stjórnar þannig að eftirlit stjórnar kæmi skýrt fram. Þá þyrfti að gæta að því að stjórn tæki að lágmarki fyrir þau atriði sem krafa væri gerð um í gildandi starfsreglum hennar hverju sinni. Engin merki væru um að skýrsla innri endurskoðunar hefði verið lögð fram og rædd í stjórn árið 2008. Þá væri nokkuð um eldri athugasemdir innri endurskoðunar sem ekki hefði verið brugðist við á viðeigandi hátt.

Þá sagði í skýrslu innri endurskoðunar að áhættumat vegna rekstraráhættu væri ekki tilbúið og mikilvægt væri að framkvæmdastjóri sæi til þess að á hverjum tíma lægi fyrir sjálfstætt áhættumat vegna rekstrar félagsins, þ.m.t. mat sem sneri að rekstraráhættuþáttum. Slíkt mat væri mikilvægur þáttur í að meta stöðu og virkni eftirlitsþátta og þörf fyrir frekari aðgerðir. Þá væri nauðsynlegt að bregðast við ábendingum Fjármálaeftirlitsins um að félaginu væri óheimilt að útvista áhættustýringu til móðurfélagsins. Jafnframt þyrfti að ganga frá þjónustusamningum vegna þeirrar þjónustu sem félagið hefði útvistað til móðurfélagsins og senda þá til Fjármálaeftirlitsins til samþykktar.

14.7.5.3 Landsvaki

Í skýrslu Fjármálaeftirlitsins frá mars 2009 voru gerðar athugasemdir við innri endurskoðun Landsvaka. Þar sagði að í samningi Landsvaka og endurskoðunardeildar Landsbankans, dags. 23. október 2003, um innri endurskoðun Landsvaka kæmi fram að endurskoðunardeild bankans skyldi árlega semja skýrslu um niðurstöður athugana sem byggðu á atriðum sem fram kæmu í 4. lið leiðbeinandi tilmæla Fjármálaeftirlitsins nr. 4/2003 en skýrsla þessi skyldi liggja fyrir í síðasta lagi í mars á ári hverju. Í skýrslu Fjármálaeftirlitsins sagði að fundargerðir stjórnar rekstrarfélagsins frá 1. júní 2007 til 9. júní 2008 bæru ekki með sér að skýrsla um innri endurskoðun frá fyrra ári hefði verið tekin til umfjöllunar. Fór Fjármálaeftirlitið fram á að úttekt innri endurskoðunar færi fram árlega og innan þeirra tímamarka sem kveðið væri á um í útvistunarsamningi sem og að skýrsla innri endurskoðunar yrði tekin til umfjöllunar á fundum stjórnar.

Í skýrslu innri endurskoðanda Landsbanka til Landsvaka í maí 2009 vegna 2008 segir að árið 2008 hafi verið mjög erfitt fyrir rekstur allra fjármálafyrirtækja og hafi Landsvaki þar ekki verið undanskilinn. Fyrir dyrum hafi staðið umtalsverðar skipulagsbreytingar á rekstri Landsvaka en vegna sviptinga á fjármálamörkuðum hafi ekki gefist færi á að fylgja þeim eftir eins og áformað hafi verið. Í skýrslu innri endurskoðunar sem lögð hafi verið fram í júní 2008 hafi jafnframt verið komið á framfæri ýmsum ábendingum til úrbóta en af fyrrnefndum ástæðum hafi ekki verið hægt að bregðast við þeim að öllu leyti. Bæru athugasemdir í skýrslu vegna ársins 2008 þess merki. Þá segir að úttekt innri endurskoðunar hafi leitt í ljós að góð fagþekking sé til staðar hjá starfsmönnum Landsvaka og starfsmönnum sem sinni vörslu og bókhaldi sjóðanna. Þá sé varðveisla og meðferð fjármuna einnig í góðu horfi. Þó er bent á ýmis atriði sem þarfnist úrbóta. Aðallega er um að ræða athugasemdir sem lúta að skipulagi starfseminnar og skorti á formlegum starfslýsingum þannig að verksvið, ábyrgð og heimildir stjórnenda og almennra starfsmanna séu skýrar. Þá segir að mikil tengsl séu milli Landsvaka og móðurfélagsins, Landsbanka. Bent er á nauðsyn þess að greina hættu á hagsmunaárekstrum og móta skriflega stefnu og samskiptareglur til að takmarka þessa áhættu. Loks er gerð athugasemd við að fjárfestingaákvarðanir séu ekki í öllum tilfellum teknar með formlegum og rekjanlegum hætti.

Í skýrslu innri endurskoðanda Landsbanka til Landsvaka í júní 2008 vegna 2007 kom fram að kannað hefði verið hvort fyrir lægju skriflegar starfsreglur og starfslýsingar. Fram kom að hvorki hefðu verið settar formlegar starfsreglur fyrir Landsvaka né samdar starfslýsingar fyrir einstaka starfsmenn. Lögð var áhersla á mikilvægi þess að slíkar reglur og starfslýsingar væru fyrir hendi þannig að verksvið, ábyrgð og heimildir væru skýrar og unnt væri að staðfesta aðgreiningu starfa. Fram kom að þetta myndi breytast samhliða fyrirhuguðum breytingum á eignastýringarsviði. Þá sagði að telja mætti óheppileg tengsl stjórnarmanna og þeirrar deildar innan Landsbankans (Varsla og viðskiptaumsjón) sem sinni hvað mestri þjónustu við Landsvaka samkvæmt útvistunarsamningi Landsvaka við bankann en þetta myndi breytast samhliða fyrirhuguðum breytingum á eignastýringarsviði.

14.7.5.4 Rekstrarfélag Kaupþings banka

Í skýrslu Fjármálaeftirlitsins frá febrúar 2009 var vikið að samningi um innri endurskoðun milli Rekstrarfélags Kaupþings banka (RKB) og innri endurskoðunardeildar Kaupþings banka, dags. 11. desember 2003. Í yfirlýsingu um innri endurskoðun í RKB, dags. 25. janúar 2008, segði að ekki hafi verið gerð endanleg skýrsla um innri endurskoðun árið 2006 á starfsemi sjóðsins en ætla mætti að ástand innri mála rekstrarfélagsins hefðu verið í svipuðu horfi og fram kæmi í skýrslum innri endurskoðunar frá 2005 og 2007. Fjármálaeftirlitið tók fram að samkvæmt þessu virtist innri endurskoðun ekki vera í samræmi við leiðbeinandi tilmæli nr. 4/2003 og var gerð athugasemd við framkvæmdina. Þá kom fram að fundargerðir stjórnar RKB frá 1. júní 2007 til 9. júní 2008 bæru ekki með sér að stjórnin hefði tekið til umræðu skýrslu um innri endurskoðun félagsins.

Í skýrslu innri endurskoðanda Kaupþings banka til Rekstrarfélags Kaupþings banka frá janúar 2009 vegna 2008 kemur fram að innri endurskoðun telji mikilvægt að Áhættustýring eða sá aðili, sem sinni eftirliti eða reki eftirlitskerfi, þekki bæði lög og fjárfestingarstefnur og hafi sjálfstæða skoðun á því hvort eftirlitskerfin virki sem skyldi. Náið samstarf við RKB varðandi þetta sé eigi að síður mjög mikilvægt.

Í skýrslu innri endurskoðanda Kaupþings banka til Rekstrarfélags Kaupþings banka frá maí 2007 segir m.a. að koma verði á markvissu eftirliti með afslætti af þóknunum og að eftirlitskerfi með fjárfestingarstefnum hafi ekki verið fullnægjandi. Innri endurskoðun vinni nú að sérstakri úttekt á eftirliti með fjárfestingarstefnum, bæði hvað varði áreiðanleika kerfa og verklag við eftirfylgni frávika. Þá segir að leggja verði áherslu á að starfsmenn ljúki prófi í verðbréfaviðskiptum.

14.7.6 Skýrslur ytri endurskoðenda

Rannsóknarnefnd Alþingis hefur skoðað endurskoðunarskýrslur ytri endurskoðenda rekstrarfélaganna vegna fjárhagsáranna 2006 til 2008. Á þessu tímabili endurskoðaði KPMG Rekstrarfélag Kaupþings banka en PricewaterhouseCoopers endurskoðaði bæði Landsvaka og Glitni sjóði (nú Íslandssjóðir hf.). Ársreikningar allra sjóðanna sem til skoðunar voru voru áritaðir án athugasemda nema ársreikningur Íslandssjóða hf. (áður Glitnir sjóðir) 2008 en þar var ein ábending um óvissu sem tengdist uppgjöri við Glitni banka. Sérstaklega voru endurskoðunarskýrslur vegna fjárhagsáranna 2007 og 2008 yfirfarnar. Helstu athugasemdir ytri endurskoðenda sneru að því að sjóðirnir fylgdu ekki í hvívetna fjárfestingarstefnu og að bæta mætti ýmsa þætti innra eftirlits. Skulu hér nefnd nokkur dæmi úr skýrslum ytri endurskoðenda.

Í endurskoðunarskýrslu KPMG frá mars 2009 vegna Rekstrarfélags Kaupþings banka vegna ársreiknings 2008 um innra eftirlit eru áréttaðar ábendingar innri endurskoðunar og segir þar m.a.: "Lagfæra þarf eftirlitskerfið fyrir verðbréfa- og fjárfestingarsjóði þannig að það haldi einnig utan um fjárfestingarstefnu sjóða." Um fjárfestingarstefnu segir m.a.: "Við ítrekum fyrri ábendingar okkar um að fjárfestingarstefnu sjóða sé fylgt." Um skuldabréfaeign segir: "Félagið keypti þann 1. október 2008 skuldabréf af sjóðum í rekstri félagsins. Kaupverð var 3.099 millj.kr. Áætlað markaðsverð bréfanna í árslok er 250 millj.kr. Gjaldfærsla vegna þessa nemur því 2.849 millj.kr."

Í endurskoðunarskýrslu PWC frá júlí 2009 vegna Glitnis sjóða (nú Íslandssjóðir hf.) vegna ársreiknings 2008 um innra eftirlit segir m.a.: "Við teljum mikilvægt að stjórn fjalli um innra eftirlit og virkni þess á fundum sínum með reglulegum hætti.Við teljum einnig mikilvægt að stjórn og stjórnendur fylgi eftir athugasemdum og ábendingum innri og ytri endurskoðenda er snúa að innra eftirliti." Ytri endurskoðandi segir m.a. um verðmat einstakra verðbréfa í árslok 2008: "PWC gerir ekki athugasemdir við verðmat einstakra verðbréfa í árslok 2008 miðað við þær upplýsingar sem stjórnendur rekstrarfélagsins bjuggu yfir þá og í ársbyrjun 2009 [...]. Mat stjórnenda tók hinsvegar ekki tillit til atburða sem áttu sér stað eftir árslok 2008 [...]. Ef tekið hafi verið tillit til atburða sem áttu sér stað eftir lok reikningsárs hefðu einstök verðbréf sjóða Íslandssjóða lækkað verulega og gengi hlutdeildarskírteina sjóðanna sömuleiðis lækkað."

Í endurskoðunarskýrslu PWC frá júní 2009 vegna Landsvaka vegna ársreiknings 2008 um innra eftirlit segir m.a. að PWC hafi gert margar athugasemdir við innra eftirlit og kynnt þær fyrir stjórnendum sjóðsins og hvetji þá til að gera átak í að innleiða og taka tillit til þeirra ábendinga.

Í endurskoðunarbréfi í kjölfar könnunar á árshlutauppgjöri Landsvaka 1. janúar til 30. júní 2008 segir m.a. um innra eftirlit: "Við höfum veitt því athygli að gæði afstemminga reikninga eru minni en búist var við og að ferli fjárhagsdeildar við gerð þeirra og yfirferð þarfnast lagfæringar." Um verðmat verðbréfa segir: "Mat okkar er að verðmat sé einn af helstu áhættuþáttum í rekstri Landsvaka. Komið hafa upp tilvik þar sem spurning hefur verið hvort það mat sem notast var við sé rétt." Um reglufylgni segir m.a.: "Skortur er á eftirliti og yfirsýn lögfræðideildar."

14.7.7 Ályktun rannsóknarnefndar Alþingis um óhæði rekstrarfélaganna

Rekstrarfélög eru sjálfstæð fjármálafyrirtæki. Það hefur mikla þýðingu að þau séu óháð móðurfélögum sínum. Eins og umfjöllunin hér að framan ber með sér var sjálfstæði rekstrarfélaganna gagnvart móðurfélögunum, bönkunum, lítið. Birtist það annars vegar í því að skýrum ákvæðum laga, sem ætlað er að tryggja óhæði og vernda hagsmuni hlutdeildarskírteinishafa, var ekki fylgt og hins vegar í afstöðu stjórnar og starfsmanna rekstrarfélaganna gagnvart sjálfstæði þeirra. Starfsmenn litu nánast á sig sem starfsmenn bankanna og leitast var við að tengja starfsemi rekstrarfélaganna við móðurfélögin, bankana. Glöggt dæmi um hvernig skorti á að starfsmenn rekstrarfélaganna gættu að sjálfstæði þeirra var þegar framkvæmdastjóri Landsvaka sendi bankastjórum Landsbankans tölvubréf 31. maí 2008 sem innihélt lista yfir stóran hluta eigenda hlutdeildarskírteina. Ekki verður séð að þessar upplýsingar hafi átt neitt erindi til bankastjóranna enda um að ræða upplýsingar annars fjármálafyrirtækis sem þagnarskylda ríkti um, sbr. 58. gr. laga nr. 161/2002.

Starfsmenn og launakerfi. Starfsmenn rekstrarfélaganna höfðu mikil samskipti við móðurfélagið og starfsmenn þess, auk þess sem húsnæði var sameiginlegt. Einnig voru launakerfi, launagreiðslur og bónusar tengdir móðurfélaginu á einn eða annan hátt, sérstaklega í tilviki Landsvaka og Rekstrarfélags Kaupþings banka. Hjá Landsvaka tóku þrír lykilstarfsmenn Landsbankans ákvörðun um árangurstengingu launa, þ.e. framkvæmdastjóri starfsmannasviðs, framkvæmdastjóri eignastýringar og bankastjóri Landsbankans. Hjá Rekstrarfélagi Kaupþings banka var þóknun starfsmanna rekstrarfélagsins miðuð við "árangur Kaupþings banka hf. eða samstæðunnar". Það er ljóst að starfsmenn rekstrarfélaganna voru á engan hátt ótengdir móðurfélaginu og að öllum líkindum hefur starf þeirra litast af þeim tengslum. Að mati rannsóknarnefndar Alþingis ber þetta fyrirkomulag vitni um verulegan skort á óhæði þessara rekstrarfélaga. Það er afar sérstakt að launakjör sjálfstæðra fjármálafyrirtækja, sem einungis ber að hafa hagsmuni viðskiptavina sinna (hlutdeildarskírteinishafa) að leiðarljósi, skuli ráðast ýmist af ákvörðun starfsmanna annars fjármálafyrirtækis eða afkomu þess. Launakerfi af þessu tagi eru til þess fallin að grafa undan óhæði rekstrarfélaga gagnvart móðurfélögum sem samkvæmt lögum ber að tryggja. Engu máli skiptir þótt hér sé um samstæðu að ræða í skilningi félagaréttar enda bar að tryggja óhæði rekstrarfélaganna, sbr. 2. mgr. 15. gr. laga nr. 30/2003, alveg án tillits til þess. Launakjör starfsmanna tóku ekki mið af hagsmunum hlutdeildarskírteinishafa sem starfsmönnunum bar að gæta heldur voru launakerfin til þess fallin að starfsmenn rekstrarfélaga tækju fremur mið af hagsmunum móðurfélagsins.

Skipan stjórna rekstrarfélaganna. Skipan stjórna rekstrarfélaganna var til þess fallin að draga úr sjálfstæði þeirra. Í Glitni sjóðum var meirihluti stjórnar skipaður starfsmönnum í Glitni banka og síðar einnig varamanni í stjórn bankans en stjórnir Landsvaka og Rekstrarfélags Kaupþings banka voru einungis skipaðar starfsmönnum Landsbankans og Kaupþings. Raunar sýnir skipan stjórnanna hversu óhæði rekstrarfélaganna var lítið gagnvart móðurfélögunum, bönkunum. Þetta birtist alveg sérstaklega þegar bankastjórar Landsbankans tóku sæti í stjórn Landsvaka 28. ágúst 2008. Skipan stjórna rekstrarfélaganna var með þeim hætti að stjórnarmenn hlutu oft að verða vanhæfir til töku ákvarðana. Í tilvikum Rekstrarfélags Kaupþings banka og Landsbankans verður ekki annað séð en að allir stjórnarmenn, aðal- og varamenn, hafi verið vanhæfir og stjórnin þar með ekki ályktunarhæf, þegar um var að ræða ákvarðanir sem vörðuðu móðurfélögin. Nauðsynlegt er að stjórn rekstrarfélags sé óháð viðkomandi banka (móðurfélaginu) og stórum hluthöfum hans til þess að félagið geti uppfyllt kröfur um óhæði. Að þessu leyti tekur rannsóknarnefnd Alþingis undir þau sjónarmið sem birtast í skýrslum Fjármálaeftirlitsins um óhæði rekstrarfélaganna að með því að stjórn sé að öllu eða mestu leyti skipuð starfsmönnum móðurfélagsins sjálfs eða fulltrúum stórra hluthafa sé veruleg hætta á því að hagsmunir hlutdeildarskírteinishafa verði fyrir borð bornir en slíkt stríði gegn 19. gr. laga nr. 161/2002 sem fjallar um eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og 1. mgr. 10. gr. laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Í þessu sambandi áréttar rannsóknarnefnd Alþingis að almenn sjónarmið um samband móðurfélags við dótturfélag geta ekki fullum fetum átt við þegar fjármálafyrirtæki er móðurfélag rekstrarfélags verðbréfasjóðs. Reglur laga nr. 30/2003 um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði setja afskiptum móðurfélagsins takmörk, einkum ákvæði er lúta að óhæði rekstrarfélags.

Eftirlit stjórna. Á stjórnum fjármálafyrirtækja hvíla ríkar skyldur samkvæmt lögum nr. 2/1995 um hlutafélög og lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, eins og að framan greinir. Það er m.a. hlutverk félagsstjórnar að sjá til þess að skipulag félags og starfsemi sé jafnan í réttu og góðu horfi. Í þessu sambandi er afar brýnt að stjórn fylgist með því að fylgt sé þeim lögum og reglum sem um félagið gilda.Að framan er rakið að ýmsir misbrestir voru á starfsemi rekstrarfélaganna að þessu leyti og voru m.a. gerðar miklar athugasemdir vegna þessa í skýrslum Fjármálaeftirlitsins og skýrslum innri endurskoðenda frá 2009 vegna ársins 2008. Hér má m.a. nefna að ekki verður ráðið að skýrslur um innri endurskoðun hafi verið teknar fyrir og ræddar í stjórnum rekstrarfélaganna þannig að fyrirmælum 3. liðar leiðbeinandi tilmæla Fjármálaeftirlitsins nr. 4/2003 virðist ekki hafa verið fylgt. Þá var misbrestur á bókunum í fundargerðum. Mikilvægt er að fundargerðir séu undirritaðar og hafi að geyma upplýsingar um þær ákvarðanir sem teknar eru, m.a. til að unnt sé að koma við endurskoðun og fullnægjandi eftirliti. Þá verður að mati rannsóknarnefndar Alþingis að teljast með miklum ólíkindum að stjórn Rekstrarfélags Kaupþings banka hafi ráðið mann sem hvorki uppfyllti almenn hæfisskilyrði laga né samþykkta rekstrarfélagsins til að gegna starfi framkvæmdastjóra. Af öllu þessu og fyrirliggjandi gögnum verður því ráðið að eftirlit stjórna rekstrarfélaganna hafi ekki uppfyllt þær kröfur sem gera má til fjármálafyrirtækja að þessu leyti.

Kynning á rekstrarfélögunum. Telja verður að kynning á rekstrarfélögunum hafi verið villandi. Leitast var við að láta í veðri vaka að félögin væru hluti af viðkomandi móðurfélagi, nánast eins og sérstök deild innan banka. Rekstrarfélögin höfðu ekki eigin heimasíðu og starfsmenn þeirra höfðu netföng bankanna. Í tilviki Landsvaka voru starfsmenn með nafnspjöld frá Landsbankanum. Þá virðist ætlun Rekstrarfélags Kaupþings banka hafa verið sú að nota sjóðasíðu Kaupþings banka fremur en eigin heimasíðu (www.rkb.is). Heimasíðan innihélt einungis lágmarksupplýsingar um félagið og virðist því aðallega hafa verið sett upp í því skyni að mæta lágmarkskröfum Fjármálaeftirlitsins um óhæði. Að mati rannsóknarnefndar Alþingis virðist óhæði kynningar á rekstrarfélögunum hafa verið ófullnægjandi og ekki fullnægja áskilnaði 51. gr. laga nr. 30/2003 um að í auglýsingum og annarri kynningarstarfsemi verðbréfasjóða skuli þess gætt að fram komi réttar og nákvæmar upplýsingar um starfsemi þessara aðila. Þetta kemur heim og saman við aðrar ályktanir í þessum kafla um að óhæði rekstrarfélaganna hafi ekki verið tryggt með fullnægjandi hætti.

Innri endurskoðun. Að framan er gerð grein fyrir skýrslum um innri endurskoðun. Ráða má að þessum þætti hafi verið ábótavant hjá öllum rekstrarfélögunum. Innri endurskoðun rekstrarfélaganna var ófullnægjandi. Þeir aðilar sem tryggja eiga að þessi mál séu í lagi eru stjórn félags, innri endurskoðun, ytri endurskoðendur og Fjármálaeftirlitið. Þá má nefna að óhæði upplýsingakerfa og skriflegum reglum um sjálfstætt upplýsingakerfi var áfátt að mati Fjármálaeftirlitsins og getur rannsóknarnefnd Alþingis tekið undir þá afstöðu.

Afstaða rekstrarfélaganna til óhæðis stjórnarmanna. Athyglisvert er að í bréfi Glitnis sjóða til Fjármálaeftirlitsins, dags. 1. september 2008, var þeirri skoðun lýst að svo íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun sem fælist í athugasemd eftirlitsins við setu framkvæmdastjóra eignastýringar Glitnis banka í stjórn rekstrarfélagsins yrði að byggja á ítarlegri rökum en tilvísun til heilbrigðra viðskiptahátta. Að mati rannsóknarnefndar birtist hér sú afstaða sem fjármálafyrirtæki virðast hafa haft til heimilda Fjármálaeftirlitsins, þ.e. að heimildir eftirlitsins hafi verið mjög takmarkaðar. Þessi afstaða kemur þó engan veginn heim og saman við þær víðtæku lagaheimildir sem Fjármálaeftirlitinu eru fengnar með lögum. Hlutverk Fjármálaeftirlitsins er að fylgjast með því að starfsemi eftirlitsskyldra aðila sé í samræmi við lög, reglugerðir, reglur eða samþykktir sem um starfsemina gilda og að starfsemin sé að öðru leyti í samræmi við heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti, sbr. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 87/1998. Eftirlitið tekur því ekki eingöngu til settra laga og reglna heldur einnig til þess hvort starfsemi sé að öðru leyti í samræmi við heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti. Í lögskýringargögnum er beinlínis á því byggt að stofnunin hafi svigrúm til að leggja ákveðið huglægt mat á hvort starfsemin sé heilbrigð og eðlileg þótt ákvæði laga og reglna hafi ekki verið brotin.Tekið er fram að slíku mati beri þó að beita af varfærni.

14.8 Hvernig var kynningarstarfsemi háttað?

14.8.1 Almennt

Í 43. gr. laga nr. 30/2003 er mælt fyrir um markaðssetningu verðbréfasjóða, með staðfestu innan Evrópska efnahagssvæðisins, hér á landi. Þar kemur fram að erlendur verðbréfasjóður með staðfestu og staðfestingu í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins geti markaðssett skírteini sín hér á landi tveimur mánuðum eftir að Fjármálaeftirlitið hefur fengið tilkynningu um fyrirhugaða starfsemi frá verðbréfasjóðnum.

Í 51. gr. laga nr. 30/2003 segir að í auglýsingum og annarri kynningarstarfsemi verðbréfasjóða skuli þess gætt að fram komi réttar og nákvæmar upplýsingar um starfsemi þessara aðila. Þess skuli gætt að skýrt komi fram hvort sjóður sé verðbréfasjóður eða fjárfestingarsjóður. Þá segir að í auglýsingum og annarri kynningarstarfsemi skuli vísað í útboðslýsingu eða útdrátt úr útboðslýsingu og hvar megi nálgast þau gögn. Peningamarkaðssjóðirnir voru fjárfestingarsjóðir í skilningi laga nr. 30/2003 um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði. Eins og áður segir eru fjárfestingarheimildir fjárfestingarsjóða rýmri en verðbréfasjóða og því eru þeir áhættusamari en verðbréfasjóðir.Af þessum sökum er brýnt að fjárfestar í sjóðum geri sér grein fyrir í hverju munurinn á verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði felst. Það er hlutverk rekstrarfélaga að sjá til þess að viðskiptavinir séu meðvitaðir um þennan mun.

14.8.2 Nánar um kynningarstarfsemina

Eins og neðangreind athugun rannsóknarnefndarinnar ber með sér er ljóst að kynning peningamarkaðssjóða var í ýmsum tilvikum til þess fallin að villa um fyrir viðtakandanum. Þannig voru sjóðirnir kynntir almenningi ýmist sem áhættulausir eða mjög áhættulitlir. Af þeim skriflegu upplýsingum um peningamarkaðssjóði sem rekstrarfélögin dreifðu, svo sem útboðslýsingum og mánaðarlegum einblöðungum, verður ekki séð að almennt hafi verið fullyrt að um áhættulausa fjárfestingu hafi verið að ræða. Aftur á móti verður ráðið af tölvupóstsamskiptum starfsmanna bankanna, bæði þeirra í milli og milli þeirra og viðskiptamanna, að í mörgum tilvikum hafi verið fullyrt að um áhættulausa fjárfestingu væri að ræða, eins og nánar verður rakið hér á eftir. Auk þess hefur rannsóknarnefndin undir höndum tölvubréf frá 4. október 2007 þar sem um er að ræða leiðbeiningar ráðgjafa hjá Glitni banka til starfsmanna í símasöluveri. Þar er um að ræða ýmsar almennar ráðleggingar til símasölumanna um hvernig haga eigi símtölum við viðskiptamenn. Þar segir m.a.: "Sjóður 9 (Peningamarkaðssjóður), alveg öruggur sjóður, betri ávöxtun en allir innlánsreikningar okkar 15,3%, enginn binditími, það besta örugga sem býðst í dag. Allir ættu að vera með peningana sína í þessum sjóð frekar en á reikningum ef þeir vilja ekki taka neina áhættu."

Í tölvubréfi ráðgjafa í ráðgjafarveri Glitnis 28. nóvember 2007 til starfsmanna í símasöluveri (soluverid@glitnir.is) er því lýst hvernig selja skuli áskrift að sjóðum: "Sjóður 9 er áhættulaus peningamarkaðssjóður sem gefur mjög háa ávöxtun, eða 15,2% á ársgrundvelli (miðað við síðustu 6 mánuði) í dag sökum hárra stýrivaxta." Í tölvubréfi frá sama starfsmanni 27. febrúar 2008 til símasöluvers er þó tekið svo til orða að sjóðurinn sé með "lágmarksáhættu".

Ráðgjöf þjónustufulltrúa Landsbankans til viðskiptavinar í tölvubréfi 18. janúar 2008 er þessi: "Þetta eru í raun verðbréf en þó eru engin hlutabréf í sjóðnum sem þýðir að þetta er mjög lítil áhætta, virkar nánast eins og allir aðrir reikningar."

Í tölvubréfi ráðgjafa á útibúa- og einstaklingssviði eins af bönkunum til viðskiptavinar 28. ágúst 2008 segir: "Eins og þú sérð bera peningabréfin góða vexti, þrátt fyrir að þykja örugg sparnaðarleið [...]." Í tölvubréfi þjónustufulltrúa í útibúi eins af bönkunum til viðskiptavinar 19. febrúar 2008 segir: "Annars hafa peningabréfin gefið 15,2% ávöxtun frá áramótum þannig að það væri e.t.v. betri sparnaðarleið komin og án áhættu."

Þá eru tölvupóstsamskipti milli tveggja starfsmanna Landsbankans 5. febrúar 2008 athyglisverð í sambandi við afstöðuna til markaðssetningar og sölu á áskrift að peningamarkaðssjóðum. Þar segir m.a.: "Þó að ég sé að hringja fyrir söluverið eða eitthvað annað þá segist ég alltaf vera að hringja úr útibúinu þar sem viðskiptavinurinn er í viðskiptum, það gerir það persónulegra."

Í tölvubréfi ráðgjafa Landsbankans til viðskiptavinar 13. febrúar 2008 segir: "Þó að þessar breytingar eigi eftir að eiga sér stað þá breytist það ekki að gengi Peningabréfa er aldrei neikvætt, sem þýðir að þú átt aldrei að geta tapað höfuðstól eða uppsafnaðri ávöxtun." Sami ráðgjafi segir í tölvubréfi til viðskiptavinar 18. apríl 2008: "Varðandi Peningabréfin þá eru þau að gefa milli 15–16% ávöxtun um þessar mundir sem er einstaklega gott þegar litið er til þess að þetta er áhættulaus sjóður. Ég myndi því ekki ráðleggja þér að færa eign þína úr þeim sjóði í dag." Þá segir sami ráðgjafi enn fremur: "Ef þér hins vegar líður illa með peninginn í áhættunni og vilt ekki sjá hann lækka enn frekar (sem ekki ólíklegt að geti gerst til skemmri tíma), þá myndi ég ráðleggja þér að stökkva út og setja peninginn í áhættulausa fjárfestingu eins og t.d. Peningabréf." Þá er að finna fleiri tölvupósta frá sama ráðgjafa þar sem fullyrt er að Peningabréf séu áhættulaus fjárfestingarkostur.

Í tölvubréfi starfsmanns Landsbankans til fjölda annarra starfsmanna 3. apríl 2003 kveðst hann hafa sent eftirfarandi póst á fyrirtæki og stofnanir: "Peningabréf halda forskoti á millibankakjör og því má fullyrða að fjármunum sé vel varið í slíkan sjóð ef leitað er eftir áhættulausum skammtímakosti." Í tölvubréfi þjónustufulltrúa hjá Landsbankanum til viðskiptavinar 28. janúar 2008 segir: "Ég talaði við þig áðan varðandi snilldar sparnaðarleiðina okkar.Við erum að tala um Peningabréfin: [...] Engin áhætta."

Í tölvubréfi starfsmanns Kaupþings til viðskiptavinar 5. mars 2007 segir: "Ertu að spá í áhættulaust? Ef svo myndi ég velja Peningamarkaðssjóð [...]." Í tölvubréfi sama starfsmanns til viðskiptavinar segir: "[...] en ertu ekki viss um að þú viljir ekki setja þetta í peningamarkaðssjóðinn hjá okkur sem er að gefa rúmlega 15% ávöxtun núna og er áhættulaus." Enn fremur segir í tölvubréfi frá sama starfsmanni um peningamarkaðssjóð: "[...] hann er svipað öruggur, engin áhætta og ætti að vera betri." Þá segir í tölvubréfi annars starfsmanns Kaupþings til viðskiptavinar 11. september 2007: "Peningamarkaðssjóður skilar hátt í 15% ávöxtun. Engin áhætta þar." Hér hafa verið nefnd nokkur dæmi þar sem beinlínis er fullyrt að Peningamarkaðssjóður Kaupþings sé áhættulaus fjárfesting en rannsóknarnefnd Alþingis hefur skoðað ýmsa aðra tölvupósta starfsmanna Kaupþings, sem seldu sjóðina, þar sem hið sama er fullyrt. Rannsóknarnefnd Alþingis hefur einnig undir höndum gögn þar sem framkvæmdastjóri Rekstrarfélags Kaupþings banka var að velta fyrir sér ýmsum sölusetningum, m.a. þessari: "Viltu áhættulausa fjárfestingu?"

Ekki virðast þó allir hafa fengið sömu ráðgjöf en athyglisvert dæmi um það er að finna í tölvubréfi frá 28. maí 2008 þar sem starfsmaður Landsbankans mælir fremur með innlánsreikningi en peningabréfum við viðskiptamann sem virðist vera kunningi.

14.8.3 Ályktun um kynningarstarfsemi

Af framansögðu má ráða að kynning á peningamarkaðssjóðum rekstrarfélaganna var í mörgum tilvikum mjög villandi. Það verður ekki séð að í prentuðu kynningarefni hafi verið fullyrt að sjóðirnir væru áhættulitlir eða áhættulausir. Aftur á móti verður ráðið af þeim tölvupóstum sem rannsóknarnefnd Alþingis hefur skoðað að öðru máli hafi gegnt um kynningu á peningamarkaðssjóðum allra rekstrarfélaganna í tölvupóstum, þ.e. að þeir hafi ítrekað verið kynntir sem áhættulausir eða áhættulitlir. Ekkert verður fullyrt um það hvort meira hafi verið um slíka kynningu hjá einu rekstrarfélagi en öðru.Að mati rannsóknarnefndar Alþingis er sú kynningarstarfsemi sem að framan er lýst í andstöðu við þær kröfur sem gerðar eru í 1. málsl. 1. mgr. 51. gr. laga nr. 30/2003 en þar er mælt svo fyrir að í auglýsingum og annarri kynningarstarfsemi verðbréfasjóða skuli þess gætt að fram komi réttar og nákvæmar upplýsingar um starfsemi þessara aðila. Fullyrðingar um að fjárfestingarsjóðir séu áhættulitlir eða áhættulausir standast vitaskuld ekki. Þá verður heldur ekki séð að þess hafi almennt verið gætt í kynningarstarfsemi að skýrt kæmi fram hvort sjóður væri verðbréfasjóður eða fjárfestingarsjóður svo sem áskilið er 2. málsl. 1. mgr. 51. gr. sömu laga. Það var þó sérstaklega mikilvægt í ljósi þess að fjárfestingarheimildir fjárfestingarsjóða eru rýmri en verðbréfasjóða og þeir því almennt áhættusamari fjárfesting.

14.9 Hlutdeildarskírteinishafar

14.9.1 Útflæði úr sjóðum fyrir október 2008

Á gögnum um heildareignir sjóðanna sem rannsóknarnefndin skoðaði sérstaklega sést að sjóðirnir minnkuðu töluvert á síðari árshelmingi 2008, einkum í lok sumars eins og sést á mynd 72. Samdráttur heildarverðmætis sjóðanna skýrist nær eingöngu af innlausnum hlutdeildarskírteinishafa, þ.e. að þeir selji hluta af eða alla eign sína í sjóðum. Á haustmánuðum tók að gæta almennrar óvissu um innlenda bankakerfið og hversu traust það væri í raun.

14.9.2 Samspil innlánstrygginga, eignar í hlutdeildarskírteinum og neyðarlaganna

Á haustmánuðum 2008 voru í gildi innstæðutryggingar samkvæmt lögum nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta og var hámarkstrygging á einstakling 20.887 evrur sem jafngilti um 3.000.000 kr. en nánar má lesa um útfærslu slíkrar tryggingar í 17. kafla. Að jafnaði mátti því hver einstaklingur gera ráð fyrir að innlán hans hjá hverjum banka væru tryggð upp að þeirri fjárhæð. Sjóðirnir buðu upp á annars konar form sparnaðar, þ.e. ávöxtunarleið sem skv. útboðslýsingum og kynningum átti að dreifa áhættu fjárfestis með því að fjárfesta í fjármálagerningum ríkis, sveitarfélaga og ýmissa fyrirtækja. Því hefði mátt reikna með að sjóðirnir væru góð fjárfestingarleið fyrir aðila sem ættu fjármuni umfram lágmarksinnstæðutryggingu þar sem eignadreifing myndi almennt hækka endurheimtuhlutfall kæmi til greiðslufalls á einstökum eignum sjóðanna.

Fjárfestar virtust leita í breytt sparnaðarform á árinu 2007 og fyrri hluta árs 2008 þegar sjóðirnir stækkuðu mjög hratt. Á sama tíma voru í gangi söluherferðir í þessa sjóði, jafnt með símtölum og ráðleggingum til viðskiptavina bankanna, sérstaklega hjá Landsbankanum og Glitni. Þannig löðuðu sjóðirnir að sér fjármagn frá bönkunum sem annars er líklegt að hefði verið ávaxtað á innlánsreikningum.Aukna eftirspurn meðal almennings eftir þessari sparnaðarleið má líklega að mestu leyti rekja til hærri ávöxtunar en almennt var á innlánsreikningum ásamt því að sjóðirnir voru yfirleitt markaðssettir sem áhættulitlir. Fyrirtæki notuðu einnig sjóðina að einhverju leyti til að geyma laust fé í skamman tíma og jafnvel til lausafjárstýringar. Einnig eru dæmi þess að lífeyrissjóðir hafi fjárfest talsvert í verðbréfa- og fjárfestingarsjóðum. Á haustmánuðum 2008 jókst óvissa um íslenska bankakerfið og einstaka banka, einkum meðal erlendra greiningaraðila. Fór þá að bera á innlausnum úr sjóðunum, þvert á það sem búast mætti við miðað við þær innlánstryggingar sem voru í gildi og það að sjóðirnir auglýstu áhættudreifingu. Athygli vekur hversu mikið var um innlausnir frá júnímánuði til loka september en um mitt ár 2008 var ekki að sjá neina breytingu á starfsemi sjóðanna eða afgerandi slæmar fréttir um stöðu bankanna þriggja, móðurfélaga rekstrarfélaganna. Ekki er að sjá af einblöðungum að staða sjóðanna hafi verið verri en á vormánuðum og ekki var neitt um tilkynningar frá rekstrarfélögunum sjálfum. Þeir sem tóku út höfðu því væntanlega grunsemdir um raunverulega stöðu sjóðanna, eins og áður hefur verið fjallað um. Það er því áhugavert að rannsaka nánar hverjir það voru sem tóku út fé sitt á þessum tíma og hversu mikið var tekið út.

Á fullkomnum markaði hafa allir aðilar sömu upplýsingar t.d. um þróun á fjármálamörkuðum. Í reynd er svo ekki. Í þessu tilviki má gera ráð fyrir að starfsmenn fjármálafyrirtækja, eftirlitsaðila, fjölmiðla og ráðuneyta gætu mögulega hafa haft betri upplýsingar um stöðu bankanna en almenningur. Samkvæmt þeirri kenningu ættu þessir aðilar að hafa haft betra tækifæri til að koma fjármunum sínum í var fyrr en aðrir. Þeir aðilar sem nýttu sér upplýsingar sem þeir fengu starfs síns vegna og innleystu hlutdeildarskírteini sín fyrr en ella fengu að jafnaði meira fé fyrir hlutdeildarskírteini sín en aðrir sem innleystu síðar.Við miklar innlausnir þurfa sjóðir að nýta það lausa fé sem til staðar er í sjóðnum, en þegar það þrýtur þurfa þeir að selja eignir. Þá má gera ráð fyrir að sjóðirnir selji fyrst eignir sem hafa markaðsverð og djúpur markaður er fyrir s.s. ríkisbréf. Einnig má gera ráð fyrir að sjóðirnir lækki innlánastöðu sína hjá öðrum fjármálafyrirtækjum og með því versni lausafjárstaða þeirra. Þegar þær eignir eru uppurnar þurfa sjóðirnir að grípa til þess ráðs að selja eignir sem lítill markaður er fyrir og þarf þá jafnvel að selja slíkar eignir á undirverði miðað við skráð virði í sjóðnum. Þannig eru líkur á að eignastaða sjóðsins rýrni gagnvart þeim eigendum hlutdeildarskírteina sem eftir eru í viðkomandi sjóði.

Það hlýtur að vera umhugsunarefni sjóðstjóra og framkvæmdastjóra rekstrarfélags hvort loka eigi fyrir innlausnir úr sjóði þegar mikið er um þær. Slíkt væri eðlilegt til að gæta jafnræðis milli hlutdeildarskírteinishafa.

14.9.3 Gögn rannsóknarnefndar Alþingis um eigendur hlutdeildarskírteina

Til athugunar á ofangreindu fékk rannsóknarnefndin gögn um eigendur hlutdeildarskírteina þeirra sjóða sem til athugunar voru frá rekstrarfélögunum þremur. Gögnin hafa að geyma yfirlit yfir mánaðarlega stöðu hlutdeildarskírteinishafa í krónum hjá einstökum sjóðum. Listinn var svo samkeyrður við lista yfir starfsmenn, stjórnendur, stjórnarmenn eftirfarandi fyrirtækja og stofnana, maka þeirra, börn þeirra og fyrirtæki þeim tengd:

- Landsbanka Íslands hf.

- Glitnis banka hf.

- Kaupþings banka hf.

- SPRON

- Icebank hf.

- Straums-Burðaráss Fjárfestingabanka hf.

- Alþingis

- Ráðuneyta

- Fjármálaeftirlitsins

- Seðlabanka Íslands

- 365 – miðla ehf.

- RÚV

- Árvakurs hf.

- Viðskiptablaðsins

- Stjórnarmenn eftirtalinna lífeyrissjóða:

- Gildis

- Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins

- Lífeyrissjóðs verkfræðinga

- Lífeyrissjóðs verslunarmanna

- Sameinaða lífeyrissjóðsins

- Stapa

Ætla mætti að starfsmenn þessara fyrirtækja og stofnana gætu mögulega hafa verið í aðstöðu til að nýta sér upplýsingar sem gætu haft áhrif á ákvörðunartöku hvað varðar eign í þeim sjóðum sem hér eru til athugunar. Eftirfarandi atriði voru skoðuð sérstaklega:

1. Hver var fjöldi aðila sem gæti hafa haft betri upplýsingar um stöðu og rekstur sjóðanna en almenningur?

2. Hvenær tóku þessir aðilar út eignir sínar í sjóðunum?

3. Er marktækur munur á niðurstöðum atriða 1–2 ef þau eru borin saman við aðila sem ekki eru í úrtakinu.

14.9.4 Tölfræði

Frá Landsvaka og Glitni sjóðum bárust gögn fyrir tímabilið 2005–2008 en sambærileg gögn bárust einungis fyrir árið 2008 frá Rekstrarfélagi Kaupþings. Listar yfir eigendur hlutdeildarskírteina sýndu samtals 47.240 nöfn fyrir allt tímabilið. Hér á eftir verður einungis fjallað um þá sem áttu hlutdeildarskírteini frá lokum mars 2008 þar sem nefndin hefur samanburðarhæfar upplýsingar um það ár frá öllum rekstrarfélögunum. Í janúar 2008 var upplýst um greiðsluerfiðleika Gnúps ehf. og hafði það veruleg áhrif á peningamarkaðssjóði Kaupþings og Glitnis, þrátt fyrir að sá síðarnefndi sýndi það ekki í gengi sjóðsins, sbr. umfjöllun hér að framan.Tap vegna Gnúps var ímyndaráfall fyrir sjóði rekstrarfélaganna og á tímabili stóð mikill styr um gengi sjóða. Því var ákveðið í þessum hluta að miða við tímabilið eftir mars þegar almennt má búast við að úttektir sem rekja má til falls Gnúps hafi dvínað.Þýðið, þ.e.a.s. allir eigendur hlutdeildarskírteina á árinu 2008, var því um 15.906 aðilar.

Úrtakið samanstóð af starfsmönnum fyrirtækjanna og stofnananna sem nefnd eru hér að ofan. Í töflu 23 hér að ofan má sjá að starfsmenn, stjórnarmenn, makar og börn í viðmiðunarhópi voru samtals 2.213. Ótengdir einstaklingar voru 12.742. Fyrirtæki tengd starfsmannahópi voru 374 en ótengd fyrirtæki voru 577. Í þessari könnun er miðað við lok mars 2008 þar sem þá má gera ráð fyrir, samkvæmt fyrri umfjöllun um tryggingatöku sjóðanna, að vitneskja um vanda stærstu skuldara þeirra hafi verið orðin almenn meðal stjórnenda innan bankanna.

14.9.5 Úrtakshópurinn þrengdur

Eign þessara aðila var á mjög víðu bili, allt frá nokkrum krónum og upp í milljarða svo að nauðsyn þótti að takmarka listann til að minnka úrtakið. Þar komu til greina tvenns konar takmarkanir, annars vegar að miða við hversu mikið viðkomandi hlutdeildarskírteinishafi átti í krónum og hins vegar hversu stóran hluta viðkomandi innleysti af eign sinni.

Í tilfelli fyrri takmörkunarinnar var reiknuð dreifing á heildareignum á árinu 2008. Kom þá í ljós að 90% hlutdeildarskírteinishafa áttu minna en 15 milljónir króna og 99% áttu minna en 32 milljónir.Var því ákveðið að nota svipaðar upphæðaviðmiðanir, þ.e. 15 m.kr. og 30 m.kr., til að þrengja úrtakshópinn og miðast viðmiðunarhóparnir við þessar upphæðir. Eins og sést á töflu 23 hér að ofan minnkar úrtakið allverulega við þessar takmarkanir.

Til að þrengja hópinn enn frekar var ákveðið að skoða einungis þá sem tóku út umtalsverðan hluta af eign sinni í sjóðunum sem hér eru til umfjöllunar. Þá var miðað við að eigandi hlutdeildarskírteinis hefði tekið út helming (50%) eða meira af samanlagðri eign sinni. Á myndum 73 og 74 hér til hliðar sést hve stórt hlutfall viðmiðunarhóparnir tóku út eftir upphæðamörkum. Ljóst er af báðum myndunum að hlutfallslega fleiri starfsmenn og tengdir aðilar tóku út inneignir á bilinu 50%–75% og 90%–100% heldur en ótengdir aðilar. Eins kemur fram að fyrirtæki tengdra aðila eru stærsti hópur þeirra sem tóku út 99–100% af eign sinni.

Myndir 75 og 76 sýna í hvaða mánuði stærstu úttektir einstakra hópa voru, miðað við fyrirfram gefin upphæðamörk. Aftur er áberandi að tengd fyrirtæki taka meira út en aðrir á fyrri hluta tímabilsins en einnig er áhugavert að skoða hversu jafnir hóparnir verða í júlí og ágúst 2008. Á þeim tíma voru flestir sjóðirnir farnir að minnka og farið að bera verulega á innlausnum.Athyglisvert er einnig að sjá að ótengdir einstaklingar og fyrirtæki innleysa mikið í apríl, mun meira en starfsmenn og tengdir aðilar. Ef til vill myndi hlutfallið breytast verulega ef skoðað væri tímabilið alveg frá ársbyrjun 2008.

14.9.6 Úttektir stærstu eigenda hlutdeildarskírteina og ályktanir

Rannsóknarnefndin skoðaði nánar úttektir hóps stærstu eigenda hlutdeildarskírteina m.t.t. upphæða og starfsstöðva. Af þeim samanburði er ljóst að þó nokkur munur var á milli hæstu stöðu og úttekta hjá tengdum aðilum annars vegar og ótengdum aðilum hins vegar á því tímabili sem athugunin tók til. Gögnin sem rannsóknarnefndin hafði til greiningar voru stöðugögn fyrir mánaðarlok hjá litlum hluta sjóða í rekstri rekstrarfélaganna þriggja.Til að gera betri greiningu þyrfti að hafa aðgang að færsluskrám til að sjá hvenær stærstu innlausnir áttu sér stað og hvort annað markvert gerðist á tímabilinu. Rannsóknarnefnd Alþingis vekur hins vegar athygli á því hversu mörg fyrirtæki tengd þeim aðilum sem voru í úrtaki nefndarinnar seldu nær öll hlutdeildarskírteini sín á tímabilinu.

Greiningin sem birtist hér að ofan er því einungis grunngreining á hreyfingum eigna hlutdeildarskírteinishafa og eins og nánar kemur fram í kafla 22 vísar nefndin því til ríkissaksóknara, og þar með eftir atvikum Fjármálaeftirlitisins og sérstaks saksóknara, að nánar verði hugað að breytingum á eignastöðu hlutdeildarskírteinishafa á árinu 2008 og þá m.a. í ljósi þess hvort ætla megi að munur hafi verið á aðgengi þessara aðila að upplýsingum um stöðu sjóðanna með tilliti til þeirra reglna sem gilda um meðferð þeirra upplýsinga.

14.10 Hvernig var eftirliti Fjármálaeftirlitsins með sjóðunum háttað?

14.10.1 Almennt

Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með verðbréfasjóðum og fjárfestingarsjóðum samkvæmt 7. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og lögum nr. 30/2003 um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði. Samkvæmt 66. gr. laga nr. 30/2003 hefur Fjármálaeftirlitið eftirlit með því að starfsemi verðbréfasjóða, fjárfestingarsjóða, rekstrarfélaga og vörslufyrirtækja sé í samræmi við lög og reglugerðir sem um þessa aðila gilda. Fjármálaeftirlitið hefur aðgang að öllum gögnum og upplýsingum hjá þeim aðilum sem lögin taka til og það telur nauðsynleg vegna eftirlitsins. Um eftirlitið gilda, eftir því sem við getur átt, lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.Telji Fjármálaeftirlitið að starfsemi brjóti gegn ákvæðum laganna, reglugerða og reglna settra samkvæmt þeim, eða sé að öðru leyti óeðlileg, óheilbrigð eða ótraust getur það veitt viðkomandi hæfilegan frest til úrbóta nema brot séu alvarleg. Samkvæmt framansögðu eru lagaheimildir Fjármálaeftirlitsins víðtækar og hefur stofnunin skilyrðislaust aðgang að öllum gögnum sem nauðsynleg eru vegna eftirlitsins.

Athugun rannsóknarnefndar Alþingis hefur leitt í ljós að eftirlit Fjármálaeftirlitsins fólst fyrst og fremst í því að fylgjast með því að rekstrarfélögin sinntu lögmæltum skýrsluskilum. Ekki verður ráðið að vettvangsrannsóknir hafi farið fram fyrr en árið 2007. Skýrslugerð snerti marga fleti á starfsemi rekstrarfélaga og sjóða og tíðni skýrsluskila var misjöfn eins og sést í töflunni á næstu síðu.

Af yfirlitinu má ráða að tilgangurinn með skýrslunum sé að gefa haldgott yfirlit yfir starfsemi rekstrarfélaga og sjóði þeirra. Þannig innihalda skýrslur um sundurliðun fjárfestinga allar helstu upplýsingar sem máli skipta til eftirlits m.a.:

- Nafn útgefanda.

- Auðkenni verðbréfs.

- Tegund fjárfestingar (skuldabréf, hlutabréf o.s.frv.).

- Skráningu bréfs.

- Fjölda nafnverðseininga.

- Gengi viðkomandi gernings á skýrsluskiladegi.

- Gjaldmiðil viðkomandi gernings á skýrsluskiladegi.

- Bókfært verð eignar.

Einnig hafði Fjármálaeftirlitið samkvæmt yfirlitum um skýrsluskil upplýsingar um viðskipti tengdra aðila. Þær upplýsingar fengust jafnt beint frá rekstrarfélögum og endurskoðendum rekstrarfélaganna en einnig hafði eftirlitið aðgang að skýrslum innri endurskoðenda. Rannsóknarnefndin óskaði eftir öllum skýrslum um þá sjóði sem helst voru til skoðunar fyrir tímabilið 2005–2008. Skýrslur bárust fyrir árin 2007–2008 en skýrslur fyrri ára voru ekki til á rafrænu formi.

Þegar Fjármálaeftirlitið fékk sendar skýrslur frá sjóðunum fór starfsmaður eftirlitsins yfir þær m.t.t. þess hvort sjóðurinn starfaði samkvæmt lögum, fjárfestingastefnu sjóðsins og leiðbeinandi tilmælum Fjármálaeftirlitsins. Skýrsluskil voru að jafnaði eigi síðar en 30 dögum eftir uppgjörsdag. Starfsmenn Fjármálaeftirlitsins virðast ekki hafa farið skipulega yfir fjárfestingar í tímaröð, þ.e. fylgt eftir þeim breytingum sem urðu á stöðu einstakra verðbréfa milli mánaða.

14.10.2 Hversu margir starfsmenn sinntu eftirliti 2005–2008?

Frá árinu 2005 var eftirlit með verðbréfasjóðum og fjárfestingarsjóðum eitt til tvö stöðugildi hjá Fjármálaeftirlitinu, þar af var lögfræðingur í 70% starfi. Fjárhagslegt eftirlit með rekstrarfélögunum og verðbréfasjóðunum var á lánasviði. Samkvæmt skýrslum sem teknar voru af starfsmönnum Fjármálaeftirlitsins og gögnum sem nefndinni bárust var enginn starfsmaður við fjárhagslegt eftirlit frá nóvember 2006 til nóvember 2007 enda var starfsmaðurinn sem sinnti starfinu í löngu leyfi en frá nóvember 2006 og fram í maí 2007 vann hann þó engu að síður tæplega 300 vinnustundir. Þá var ráðinn inn einn nýr starfsmaður til að sinna því eftirliti.

Samkvæmt yfirliti yfir ábyrgðarmenn sjóða frá 2008 virðast hafa verið tveir ábyrgðarmenn með fjárhagslegu eftirliti og annar þeirra sinnt eftirliti með öllum rekstrarfélögum stóru bankanna þriggja og sjóðum þeirra. Heildarfjöldi sjóða undir eftirliti viðkomandi starfsmanns var 67, þar af 12 hjá Glitni sjóðum, 22 hjá Landsvaka og 33 hjá Rekstrarfélagi Kaupþings banka. Starfsmaðurinn hafði eftirlit með öllum sjóðum óháð formi, gjaldmiðlum eða fjárfestingum.Tveir ábyrgðarmenn sinntu lögfræðilegu eftirliti.Af rafrænu yfirliti Fjármálaeftirlitsins yfir skýrsluskil verðbréfasjóða má ráða, sbr. töflu 24 hér að ofan, að hver sjóður hafi skilað um 35 skýrslum á ári, en hvert rekstrarfélag hafi skilað um 6 skýrslum. Samkvæmt því þurfti starfsmaður, sem hafði eftirlit með sjóðum rekstrarfélaganna þriggja, að fara yfir 35 skýrslur fyrir hvern hinna 67 sjóða árlega eða um 2.345 skýrslur. Einnig þurfti starfsmaðurinn að fara yfir 18 skýrslur um rekstrarfélögin þrjú.

Af gögnum málsins verður ekkert ráðið um það hvort starfsmennirnir hafi eingöngu sinnt þessu eftirliti eða haft víðtækara ábyrgðarsvið en fram kom í skýrslutökum að starfsmenn sem sinntu fjárhagslegu eftirliti sinntu einnig öðrum þáttum, svo sem vettvangsrannsóknum.Miðað við þann fjölda skýrslna sem Fjármálaeftirlitinu berst má færa rök fyrir því að þetta eftirlitssvið Fjármálaeftirlitsins hafi verið stórlega undirmannað. Þá verður ekki séð að einn og sami starfsmaður geti haft nægilega yfirsýn yfir svo marga sjóði.Viðkomandi þyrfti einnig að hafa mjög haldbæra þekkingu á ólíkum mörkuðum því eftirlit var óháð því hvort um var að ræða hlutabréfa- eða skuldabréfasjóði. Það er ljóst að stöðugildum vegna eftirlits með sjóðunum var ekki fjölgað í neinu samræmi við vöxt sjóðanna en eignir sjóða undir eftirliti Fjármálaeftirlitsins jukust úr 173 milljörðum króna í árslok 2003 í 627 milljarða króna í árslok 2007 eða um rúm 260%.

Fjármálaeftirlitið gekk eftir því að lögmæltum skýrsluskilum væri sinnt, að skýrslur væru rétt útfylltar og að fjárfestingar sjóðanna hefðu verið innan heimilda. Hins vegar virðist annars konar frumkvæðiseftirlit ekki hafa átt sér stað, t.d. með verðmyndun á markaði, undirliggjandi verðmæti bréfa í sjóðunum eða með því hversu stórt hlutfall af útgáfu verðbréfaflokks viðkomandi sjóður keypti, þrátt fyrir ákvæði 39. gr. laga nr. 30/2003 sem fjalla um takmarkanir á eignasafni. Ekki virðist heldur hafa verið kallað eftir skýrslum án fyrirvara, þ.e. Fjármálaeftirlitið hélt sig eingöngu við reglubundin skýrsluskil og frá og með 2007 vettvangsrannsóknir, sbr. kafla 14.10.3.

14.10.3 Vettvangskannanir Fjármálaeftirlitsins

14.10.3.1 Almennt

Fjármálaeftirlitinu er heimilt að gera vettvangskannanir eða óska upplýsinga á þann hátt og svo oft sem það telur þörf á, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 87/1998, en þessi heimild hefur verið í lögunum frá upphafi.Af gögnum málsins virðist sem Fjármálaeftirlitið hafi ekki nýtt sér heimildir til vettvangskannana hjá rekstrarfélögunum fyrr en í lok árs 2007. Á tímabilinu nóvember 2007 til október 2008 fór Fjármálaeftirlitið í þrjár vettvangskannanir. Sú fyrsta var almenn vettvangskönnun á starfsemi, sjálfstæði (óhæði) og fjárfestingum sjóðanna. Önnur vettvangskönnunin fór fram á tímabilinu maí til júní 2008 en í þeirri könnun var óhæði rekstrarfélaganna aftur skoðað. Síðasta vettvangskönnunin var svo framkvæmd í nóvember 2008 og sneri hún að markaðssetningu sjóðanna.

14.10.3.2 Almenn vettvangskönnun í nóvember 2007

Í nóvember og desember 2007 fór Fjármálaeftirlitið í vettvangskönnun til stóru rekstrarfélaganna þriggja vegna fjárfestinga og óhæðis. Könnunin laut aðallega að peningamarkaðssjóðum rekstrarfélaganna en í minnisblaði starfsmanna Fjármálaeftirlitsins kemur fram að "[í] nóvember og desember hóf Fjármálaeftirlitið athugun á Peningamarkaðssjóðum rekstrarfélaga verðbréfasjóða". Samkvæmt gögnum rannsóknarnefndarinnar hafði Seðlabanki Íslands stuttu áður sent eftirlitinu athugasemdir vegna fjárfestinga sjóðanna en þær athugasemdir beindust aðallega að eignasamsetningu sjóðanna. Niðurstaða Fjármálaeftirlitsins af þessari vettvangskönnun samkvæmt minnisblaði starfsmanna var sú að gera ekki athugasemdir við fjárfestingar sjóðanna. Aftur á móti voru gerðar athugasemdir við forsendur fjárfestinga í innlánum hjá öllum sjóðunum og það að peningamarkaðssjóðir Landsvaka hefðu farið fram úr fjárfestingarheimildum. Einnig voru gerðar athugasemdir við óhæði félagsins gagnvart móðurfélaginu þar sem stjórn rekstrarfélagsins var að fullu skipuð starfsmönnum Landsbankans og því voru allir stjórnarmenn vanhæfir þegar kom að ákvörðunum um fjárfestingar í verðbréfum bankans og tengdra félaga.

Um það leyti sem vettvangskannanir stóðu yfir í desember 2007 hafði Landsvaki þegar hafið töku trygginga fyrir verðbréfum útgefnum af Baugi, sbr. umfjöllun í kafla 14.5.Af því má ráða að Landsvaki mat stöðu Baugs ekki eins trausta og verðlagning bréfanna gaf til kynna. Fjármálaeftirlitið gerði ekki athugasemdir við þessar fjárfestingar. Það gefur til kynna að annað hvort hafi eftirlitinu ekki verið um þetta kunnugt eða að það hafi samþykkt töku slíkra trygginga. Ekkert verður ráðið um þetta af minnisblaði starfsmanna Fjármálaeftirlitsins. Einnig vekur athygli að á sama tíma var Peningamarkaðssjóður Rekstrarfélags Kaupþings banka farinn að draga verulega úr fjárfestingum í eignarhaldsfélögum tengdum bönkunum og fjárfesti fremur í innlánum. Það bendir því ekkert til þess að tapsáhætta Peningamarkaðssjóðs Kaupþings hafi verið minni en hinna sjóðanna. Staða Sjóðs 9, stærsta peningamarkaðssjóðs Glitnis sjóða, var ekki síður athyglisverð undir lok árs 2007. Hlutfall verðbréfa eignarhaldsfélaga var alls um 65% af heildarverðbréfasafninu, þau voru að stærstum hluta í félögum tengdum Glitni banka, og fjárfesting í ríkistryggðum bréfum var aðeins um 0,4% af heildarverðbréfasafninu. Auk þess voru að jafnaði 46% heildarverðmæta sjóðsins bundin í innlánum á árunum 2006 og 2007.

Þrátt fyrir að Fjármálaeftirlitið hafi ekki gert athugasemdir við fjárfestingar peningamarkaðssjóða taldi eftirlitið tilefni til að benda öllum rekstrarfélögunum sérstaklega á 2. mgr. 15. gr. og 19. gr. laga nr. 30/2003, sem taka annars vegar til þess að rekstrarfélög skuli vera óháð í störfum sínum og ætíð hafa hagsmuni eigenda hlutdeildarskírteina að leiðarljósi og hins vegar að þau skuli starfrækja verðbréfasjóði í samræmi við góða viðskiptahætti og venjur með trúverðugleika markaðarins og hagsmuni eigenda hlutdeildarskírteina að leiðarljósi. Þetta rennir stoðum undir það að Fjármálaeftirlitið hafi á þessum tíma talið að óhæði rekstrarfélaganna gagnvart móðurfélögunum og fyrirtækjum þeim tengdum hafi verið fremur lítið.

14.10.3.3 Vettvangskönnun vegna óhæðis í maí 2008

Fjármálaeftirlitið gerði í maí 2008 úttekt á öllum rekstrarfélögunum. Markmiðið var að meta óhæði þeirra skv. 15. gr. laga nr. 30/2003 og leiðbeiningar Fjármálaeftirlitsins nr. 5/2003. Einnig var athugaður aðskilnaður rekstrar og vörslu, þar sem vörsluaðilar voru gjarnan móðurfélög rekstrarfélaganna. Í kafla 14.7 að framan er vikið að meginatriðum þessarar rannsóknar.

Helstu athugasemdir Fjármálaeftirlitsins við starfsemi Landsvaka voru þessar:

- Óhæði stjórnarmanna væri ekkert þar sem þeir væru allir starfsmenn móðurfélagsins. Einnig sætu þeir fundi og tækju ákvarðanir sem varði Landsbankann, en slíkt sé óheimilt skv. 2. mgr. 55 gr. laga nr. 161/2002.

- Fjárfestingarráð væri skipað tveimur starfsmönnum móðurfélagsins sem aðgang hefðu að trúnaðarupplýsingum sem ekki ættu að berast milli fjármálafyrirtækja.

- Fjárfestingar sjóðasjóða Landsvaka, t.d. Safnbréf varfærin og Safnbréf blönduð, væru eingöngu í öðrum sjóðum Landsvaka og ekki væri leitað tilboða annars staðar. Sjóðstjóri og framkvæmdastjóri hefðu því brotið gegn 2. mgr. 15. gr. laga nr. 30/2003.

- Athugasemdir voru gerðar við áform um að skipa bankastjóra Landsbankans í stjórn Landsvaka.

- Veikleikar væru á eftirliti og utanumhaldi með aðgangsheimildum að upplýsingatæknikerfum Landsvaka.

- Áhættustýringu hefði verið útvistað til Landsbankans án heimildar Fjármálaeftirlitsins.

Fjármálaeftirlitið óskaði eftir umbótum á ofangreindum þáttum þegar í stað, að öðru leyti en því að áhættustýring skyldi vera í höndum Landsvaka eigi síðar en að þremur mánuðum liðnum.Var það mat eftirlitsins að óhæði Landsvaka væri "ekki í nægilega góðu horfi". Landsvaki sinnti þó ekki athugasemdum Fjármálaeftirlitsins nægilega vel. Sem dæmi má nefna að í lok október 2008, eftir fall bankanna, voru stjórnarmenn Landsvaka allir starfsmenn Landsbankans auk þess sem bankastjórar sátu í stjórninni. Fjárfestingarráð var enn að hluta skipað starfsmönnum Landsbankans og tóku því starfsmenn bankans enn þátt í ákvörðunum um einstakar fjárfestingar sjóða Landsvaka. Samkvæmt skýrslu starfsmanna Fjármálaeftirlitsins fyrir rannsóknarnefnd Alþingis var endanleg skýrsla vegna óhæðis ekki birt Landsvaka fyrr en í febrúar 2009, en vinnu við skýrslurnar var ekki lokið fyrr vegna falls bankanna.Helstu athugasemdir Fjármálaeftirlitsins við starfsemi Glitnis sjóða voru þessar:

- Framkvæmdastjóri eignastýringar Glitnis ætti fast sæti í stjórn Glitnis sjóða, en slíkt væri andstætt 63. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög.

- Framkvæmdastjóri eignastýringar Glitnis væri jafnframt stjórnarformaður Glitnis sjóða. Þar sem stjórn ætti að hafa eftirlit með störfum félagsins samræmdist það ekki eðlilegum viðskiptaháttum, sbr. 19. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, að sami aðili gegndi báðum störfunum.

- Framkvæmd aðgangstakmarkana að upplýsingakerfum rekstrarfélagsins samræmdist ekki heilbrigðum viðskiptaháttum.

- Stjórnarmenn Glitnis sjóða, sem einnig væru starfsmenn Glitnis, vikju ekki af fundi þegar fjárfestingar í bankanum og tengdum félögum væru ræddar.

- Áhættustýringu hefði verið útvistað til Glitnis án heimildar Fjármálaeftirlitsins.

Fjármálaeftirlitið óskaði eftir umbótum en fram kemur í skýrslunni að Glitnir sjóðir hafi þegar lagfært einstaka þætti. Hins vegar mótmælti rekstrarfélagið athugasemdum um framkvæmdastjóra félagsins. Lokamat Fjármálaeftirlitsins var að óhæði Glitnis sjóða væri "ekki í nægilega góðu horfi".

Helstu athugasemdir Fjármálaeftirlitsins við starfsemi Rekstarfélags Kaupþings voru þessar:

- Framkvæmdastjóri eignastýringar Kaupþings banka væri stjórnarformaður rekstarfélagsins. Hann setti saman fjárfestingarteymi innan rekstrarfélagsins, en slíkt væri brot á 1. mgr. 55. gr. laga nr. 161/2002. Þá segir í skýrslu FME: "Seta hans í stjórn rekstrarfélagsins er til þess fallin að valda þeim hagsmunaárekstrum að hann getur, sem stjórnarmaður, fengið upplýsingar sem eiga leynt að fara og ekki berast á milli tveggja fjármálafyrirtækja [...] sem eru í samkeppni við hvort annað."

- Aðkoma stjórnarformanns rekstrarfélagsins að daglegum rekstri væri brot á reglum félagsins.

- Framkvæmdastjóri hefði ekki lokið prófi í verðbréfaviðskiptum sem væri brot á 53. gr. laga nr. 161/2002 og einnig brot á samþykktum rekstrarfélagsins.

- Enginn stjórnarmaður væri óháður móðurfélaginu. Þeir væru því allir vanhæfir til að fjalla um málefni sem tengdust Kaupþingi banka og tengdum félögum.

- Framkvæmdastjórar áhættustýringar og eignastýringar Kaupþings banka ættu sæti í stjórn. Þeir væru því vanhæfir til að fjalla um málefni sem tengist samkeppnisaðilum bankans, svo sem Landsbankanum eða Glitni, þar sem trúnaðargögn um kjör viðkomandi banka gætu borist á milli tveggja fjármálafyrirtækja sem lögum samkvæmt beri að greina á milli.

- Fjárfestingar sjóðasjóða Kaupþings, t.d. Verðbréfavals 2–5, væru eingöngu í öðrum sjóðum rekstrarfélagsins og ekki væri leitað tilboða annars staðar. Fjármálaeftirlitið teldi sjóðstjóra og framkvæmdastjóra því brjóta gegn 2. mgr. skv. 15. gr. laga nr. 30/2003.

- Rekstrarfélagið hefði ekki sérstaka heimasíðu og erfitt væri að finna upplýsingar um félagið eða rekstur þess á heimasíðu Kaupþings banka. Rekstrarfélagið bætti úr þessu en í tölvuskeyti starfsmanns Kaupþings kom fram að félagið myndi ekki "nota þessa síðu og [mælast] til að sjóðasíða Kaupþings [væri] notuð. Vefsíða rekstrarfélagsins [...væri] mjög basic og [innihéldi] einungis nauðsynlegar upplýsingar er [varði] félagið". Fjármálaeftirlitið gerði alvarlegar athugasemdir við þetta og taldi slíkt vera tilraun til þess að blekkja eftirlitsaðila sem gæti leitt til sviptingar starfsleyfis.

- Áhættustýringu safna væri ekki útvistað heldur hefði hver sjóðstjóri eftirlit með viðkomandi sjóði. Fjármálaeftirlitið gerði athugasemdir við að sjóðstjórar hefðu eftirlit með sjálfum sér.

Aftur óskaði Fjármálaeftirlitið eftir úrbótum þegar í stað. Var það lokamat eftirlitsins að óhæði Rekstrarfélags Kaupþings væri "ekki í nægilega góðu horfi".

14.10.3.4 Samantekt um vettvangskannanir

Í skýrslum, sem gerðar voru vegna úttektarinnar árið 2007, voru gerðar athugasemdir við óhæði allra rekstrarfélaganna. Þær sneru aðallega að því að aðgreining milli móðurfélaganna, bankanna, og dótturfélaganna, rekstrarfélaganna, væri ófullnægjandi. Einnig er ljóst af skýrslu Fjármálaeftirlitsins að rekstur og starfsemi rekstrarfélaganna hafði verið í svipuðu horfi í nokkurn tíma fyrir júní 2008 og því er lýst að í ýmsum tilvikum væri hún ekki í samræmi við lög.

Athygli vekur að Fjármálaeftirlitið beitti ekki nema í takmörkuðum mæli valdheimildum sínum af ofangreindum tilefnum. Þá gerði stofnunin ekki reka að því fyrr en árið 2008 að gera úttekt á félögunum með tilliti til óhæðis en ráða má af minnisblaði frá fyrri vettvangsheimsókn í nóvember 2007 að Fjármálaeftirlitinu hafi verið fullljóst, jafnvel fyrir 2003, að óhæði rekstrarfélaganna var ófullnægjandi. Það má einnig teljast skýrt m.t.t. inngangskafla í leiðbeinandi tilmælum nr. 5/2003 sem fjallað er um hér að ofan.

Fjármálaeftirlitið veitti einnig mjög rúman tímafrest til lagfæringa þar sem kröfur um úrbætur urðu ekki virkar fyrr en við birtingu lokaskýrslu, sem var eftir fall bankanna. Í skýrslutökum var starfsmaður Fjármálaeftirlitsins inntur eftir skýringum á því hvers vegna eftirlitið tók ekki dýpra í árinni og beitti jafnvel viðurlögum. Starfsmaðurinn kvað að slíkt hefði "ekki tíðkast" og að forstjóri Fjármálaeftirlitsins hefði verið mjög áhugalaus um allt sem viðkom eftirliti með sjóðum.Þá skal þess getið að í nóvember 2008 fór fram vettvangskönnun vegna markaðssetningar sjóðanna. Rannsóknarnefndin óskaði eftir gögnum varðandi téða könnun, en Fjármálaeftirlitið hafði ekki lokið skýrslugerð vegna hennar í byrjun árs 2010. Nefndinni bárust hins vegar tölvuskeyti sem Fjármálaeftirlitinu voru send í vettvangskönnuninni og hefur rannsóknarnefnd Alþingis stuðst við þau skeyti í umfjöllun í kafla 14.8.

14.10.4 Leiðbeinandi tilmæli Fjármálaeftirlitsins

Fjármálaeftirlitinu er heimilt að gefa út og birta opinberlega almenn leiðbeinandi tilmæli um starfsemi eftirlitsskyldra aðila, enda varði málefnið hóp eftirlitsskyldra aðila, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 87/1998. Með stoð í þessari heimild hafa verið gefin út leiðbeinandi tilmæli sem snerta verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði. Þessi tilmæli hafa ekki lagastoð í hefðbundnum skilningi. Þau eru því ekki skuldbindandi á sama hátt og ákvæði reglugerða og reglna sem settar eru með sérstakri heimild í lögum. Hugsunin að baki tilmælunum er hins vegar sú að þau geti orðið grundvöllur krafna Fjármálaeftirlitsins um úrbætur með tilvísun til heilbrigðra og eðlilegra viðskiptahátta. Það er hlutverk Fjármálaeftirlitsins að fylgjast með því að starfsemi eftirlitsskyldra aðila sé í samræmi við heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti, sbr. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 87/1998. Leiðbeinandi tilmæli geta því haft þýðingu við túlkun ákvæðisins þegar Fjármálaeftirlitið metur hvort viðskiptahættir teljast heilbrigðir og eðlilegir.

Fjármálaeftirlitið setti ýmis leiðbeinandi tilmæli sem koma til skoðunar í tengslum við rekstur verðbréfa- og fjárfestingarsjóða. Um var að ræða leiðbeinandi tilmæli nr. 5/2003 um aðskilnað og vörslu og óhæði rekstrarfélaga verðbréfasjóða, leiðbeinandi tilmæli nr. 3/2004 um útdrætti úr útboðslýsingum verðbréfasjóða og leiðbeinandi tilmæli nr. 2/2006 um afleiðunotkun verðbréfasjóða. Um starfsemi rekstrarfélaga giltu einnig leiðbeinandi tilmæli um efni reglna skv. 2. mgr. 54. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.

Í leiðbeinandi tilmælum nr. 5/2003 er almennt fjallað um rekstur, vörslu og óhæði rekstrarfélaga. Í inngangshluta kemur sérstaklega fram að Fjármálaeftirlitið hafi fyrir setningu laga nr. 30/2003 gert athugasemdir við fyrirkomulag á rekstri og vörslu eigna fjárfestingarsjóða, sem eftirlitið taldi brjóta í bága við þágildandi lög nr. 10/1993. Af því má draga þá ályktun að Fjármálaeftirlitið hafi fyrir setningu laga nr. 30/2003 gert sér ljóst að óhæði rekstrarfélaganna væri næsta lítið. Rík ástæða var til að bregðast við því ástandi með útgáfu leiðbeinandi tilmæla. Aftur á móti brugðust rekstrarfélögin ekki við tilmælunum þegar þau voru sett en fullyrða má að starfsemi þeirra hafi í veigamiklum atriðum stangast á við tilmælin. Þrátt fyrir það verður ekki ráðið að Fjármálaeftirlitið hafi fylgt eftir tilmælunum gagnvart rekstrarfélögunum fyrr en við vettvangsrannsókn í júní 2008.

Í leiðbeinandi tilmælum nr. 3/2004 er fjallað um hvað þurfi að vera til staðar í útdráttum úr útboðslýsingum verðbréfasjóða. Tilmælin fela í sér ítarlegan lista yfir þau atriði sem þurfa að koma fram og með hvaða hætti þau skuli sett fram í útdrættinum. Efnislega eru tilmælin vel útfærð miðað við þann tilgang sem þau eiga að þjóna. Gallinn er sá að eftirlit Fjármálaeftirlitsins með því að þeim sé fylgt felst fyrst og fremst í því að ganga úr skugga um að tilteknum formsatriðum hafi verið fylgt (e."box-ticking").Athygli vekur að Fjármálaeftirlitið taldi þörf á að gefa út ítarleg leiðbeinandi tilmæli um útdrátt úr útboðslýsinum en engin tilmæli voru gefin út um áhættustýringu eða áhættumat á sjóðum. Í framangreindum tilmælum er að vísu að finna tilvísun til þeirra almennu áhættuþátta sem geta haft áhrif á sjóðina og mælst til að þeim sé raðað eftir mikilvægi í útboðslýsingunni.

Einn alvarlegasta veikleika leiðbeinandi tilmæla nr. 3/2004 er finna í kafla 3.2.4 "Viðbótarbirting tölfræðilegs mælikvarða áhættu". Þar er heimild til handa sjóðum sem starfræktir hafa verið í eitt ár til að birta tölfræðilegan mælikvarða áhættu með einni tölu eða orði, byggðu á verðbreytingum sjóðs. Í viðauka II við tilmælin er formúla um útreikning ávöxtunar og verðbreytileika (flökts). Á grundvelli þessara leiðbeininga birtu sjóðir upplýsingar um áhættu sjóðanna sem eingöngu voru byggðar á flökti ávöxtunar. Flökt ávöxtunar er hins vegar eingöngu einn mælikvarði á áhættu ávöxtunar í verðbréfasafni og koma þar mun fleiri þættir við sögu, sem eftirlitið telur sjálft upp í kafla 3.2.2 í tilmælunum, svo sem frammistöðuáhætta, höfuðstólsáhætta, mótaðilaáhætta o.s.frv. Aftur á móti er ekki gert ráð fyrir að þessir áhættuþættir séu teknir inn í tölfræðilegan mælikvarða. Af þessu má draga þá ályktun að áhætta þessara sjóða hafi verið stórlega vanmetin enda þótt hún hafi verið birt í samræmi við fyrrnefnd leiðbeinandi tilmæli. Starfsmenn Fjármálaeftirlitsins virðast hafa gert sér grein fyrir því að þeir mælikvarðar sem miðað var við væru villandi. Starfsmennirnir virtust þó ekki átta sig á því að rekstrarfélögin/sjóðirnir byggðu áhættuupplýsingar eingöngu á útreikningi á flökti í samræmi við viðauka við leiðbeinandi tilmæli frá Fjármálaeftirlitinu sjálfu.Á grundvelli framangreinds mælikvarða gátu peningamarkaðssjóðir kynnt sig sem áhættuminnstu sjóði sem í boði væru hjá rekstrarfélögunum eins og þeir áhættukvarðar, sem fjallað var um hér að framan, bera með sér. Sjóðirnir fjárfestu aðallega í skammtímafjármálagerningum sem hafa minna flökt í ávöxtun en langtímagerningar. Af þessu leiddi að flökt ávöxtunar var mjög lágt – og þar með einnig tölfræðilegur mælikvarði áhættu samkvæmt framansögðu. Af þessu má draga þá ályktun að leiðbeinandi tilmæli Fjármálaeftirlitsins hafi ekki verið fullnægjandi mælikvarði á áhættu sjóðanna.

14.10.5 Hvernig beitti Fjármálaeftirlitið valdheimildum sínum?

Fjármálaeftirlitið hefur heimildir til að leggja stjórnvaldssektir á brotlegan aðila samkvæmt 68. gr. laga nr. 30/2003 en kveðið er á um sektir eða fangelsi í 70. gr. b–d. Þessum ákvæðum var breytt með lögum nr. 55/2007 um breytingar á lagaákvæðum um viðurlög við brotum á fjármálamarkaði. Með lögunum voru heimildir Fjármálaeftirlitsins auknar og lögfest heimild til álagningar stjórnvaldssekta en áður lágu aðeins refsiviðurlög við brotum á lögunum. Þá hefur Fjármálaeftirlitið heimild til þess að afturkalla staðfestingu verðbréfasjóðs eða fjárfestingarsjóðs hafi rekstrarfélag brotið með alvarlegum hætti eða ítrekað gegn lögunum, reglum, samþykktum eða reglugerðum settum samkvæmt þeim, sbr. 9. gr. laganna. Fyrir breytingu laganna voru viðurlagaákvæði í 68. gr. (sektir), 69. gr. (sektir og fangelsi) og 70. gr. (refsiábyrgð lögaðila, tilraun og hlutdeild og fyrning sakar). Í þessum ákvæðum var skýrt kveðið á um refsiábyrgð vegna þeirrar háttsemi sem hér skiptir máli, svo sem vegna brota gegn reglum um óhæði og fjárfestingar. Auk framangreindra úrræða hafði Fjármálaeftirlitið víðtækar heimildir samkvæmt lögum nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, þar á meðal að gera athugasemdir við starfsemi rekstrarfélaganna og krefjast úrbóta.

Ekki verður séð af fyrirliggjandi gögnum að Fjármálaeftirlitið hafi nokkurn tíma látið reyna á framangreind viðurlög. Starfsmenn eftirlitsins staðfestu þetta í skýrslutökum hjá rannsóknarnefnd Alþingis.

14.10.6 Ályktun rannsóknarnefndar Alþingis um eftirlit Fjármálaeftirlitsins með sjóðunum

Heildarstærð peningamarkaðssjóða fór yfir 400 milljarða króna árið 2007 sem jafngildir um 31% af vergri landsframleiðslu (VLF). Í heild fór verðmæti verðbréfa- og fjárfestingarsjóða á vegum stóru bankanna þriggja yfir 900 milljarða króna í júní 2008 (61% af VLF) en þar af voru um 278 milljarðar í fagfjárfestasjóðum. Ljóst má vera að starfsmenn Fjármálaeftirlitsins sem komu að eftirliti með þessari starfsemi voru alltof fáir til að geta sinnt því með fullnægjandi hætti. Aðeins einn starfsmaður sinnti eftirliti með öllum verðbréfa- og fjárfestingarsjóðum fram undir lok árs 2007. Það verður að telja næsta hæpið að einn starfsmaður geti haft sérfræðiþekkingu á fjölbreyttum fjárfestingum í skuldabréfum, hlutabréfum, flóknum afleiðum og framvirkum samningum. Hafa verður í huga að einvörðungu á vegum stóru bankanna þriggja voru 59 starfandi verðbréfa- og fjárfestingarsjóðir um mitt ár 2007. Eini starfsmaður Fjármálaeftirlitsins í eftirliti með sjóðum fór í langt leyfi í nóvember 2006 en vann þó tæplega 300 vinnustundir frá þeim tíma og fram í maí 2007. Enginn var ráðinn í hans stað í heilt ár og voru sjóðirnir því í raun því sem næst án eftirlits á því tímabili. Slíkt verður að teljast alvarleg vanræksla af hálfu Fjármálaeftirlitsins á lögbundnum eftirlitsskyldum stofnunarinnar með verðbréfa- og fjárfestingarsjóðum.

Eftirlitið virðist fyrst og fremst hafa falist í því að ganga úr skugga um að skýrslum væri skilað á réttum tíma og í réttu horfi. Þær athugasemdir sem Fjármálaeftirlitið gerði við starfsemi sjóðanna sneru einkum að formlegum atriðum í rekstrinum. Starfsmenn eftirlitsins virðast ekki hafa kannað annað en hvort sjóðirnir hafi uppfyllt formlegar kröfur laga, svo sem hvort fjárfestingar hafi verið innan tiltekinna marka o.s.frv. Engin minnisblöð hafa borist frá Fjármálaeftirlitinu þar sem starfsmenn gera athugasemdir eða greina frá áhyggjum sínum vegna fjárfestinga sjóðanna, hvorki samþjöppun né fjárfestinga í fjármálagerningum félaga sem ætla mætti að væru "tengdir aðilar".Auk þess hafa ekki komið fram nein skjöl þar sem fram koma niðurstöður eigin kannana starfsmanna og ábendingar í því sambandi. Af því má ráða að lítill hvati eða möguleikar hafa verið fyrir starfsmenn eftirlitsins til að gera athuganir umfram lágmarkskröfur. Í ljósi þess hversu atkvæðalítið Fjármálaeftirlitið var gagnvart sjóðunum má spyrja hvort starfsmenn stofnunarinnar hafi gert sér grein fyrir þeirri áhættu sem fólst í starfsemi þeirra.

Ágætlega var staðið að vettvangskönnunum FME í nóvember og desember 2007 og maí 2008. Engu að síður má spyrja hvers vegna ekki var farið í vettvangskannanir fyrr en í desember 2007 en sú könnun varðaði fjárfestingar og óhæði. Í þessu sambandi verður að minnast sérstaklega á það sem áður er rakið að Fjármálaeftirlitinu virðist hafa verið ljóst þegar árið 2003 að óhæði væri ábótavant, eins og sérstaklega má ráða af leiðbeinandi tilmælum nr. 5/2003 frá 29. október 2003, um aðskilnað reksturs og vörslu og óhæði rekstrarfélaga verðbréfasjóða skv. 15. gr. laga nr. 30/2003, um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði. Þar er á það bent að á liðnum misserum hafi "Fjármálaeftirlitið gert athugasemdir við fyrirkomulag á rekstri og vörslu eigna verðbréfasjóða þar sem það samrýmdist ekki lögum nr. 10/1993, sbr. tilskipun 85/611, og þeim hagsmunum sem löggjöfinni var ætlað að vernda". Að mati rannsóknarnefndar Alþingis er það ámælisvert að Fjármálaeftirlitið hafi ekki farið í vettvangskannanir fyrr en í árslok 2007 í ljósi þess að eftirlitið virðist um árabil hafa haft áhyggjur af óhæði rekstrarfélaganna.

Í þeim tilvikum sem Fjármálaeftirlitið gerði athugasemdir við að fjárfestingar brytu í bága við útgefna fjárfestingarstefnu voru tímamörk mjög rúm til lagfæringar. Hvað varðar athugasemdir um óhæði sem áður er lýst kom skýrt fram í skýrslum Fjármálaeftirlitsins að rekstrarfélögin andmæltu sterklega einstökum alvarlegum athugasemdum og virtu jafnvel að vettugi tilmæli hennar. Má þar nefna skipun bankastjóra Landsbankans í stjórn Landsvaka eftir mjög skýra ábendingu Fjármálaeftirlitsins um nauðsyn óhæðis.

Sjóðasvið Fjármálaeftirlitsins hafði ekkert eftirlit með viðskiptum starfsmanna sjóðanna eða aðila þeim tengdum eða viðskiptum sjóða sín á milli. Stofnunin fór ekki yfir verðlagningu eigna, hvorki við kaup né sölu. Ekki var kannað hversu stóran hluta af útgáfum einstakra verðbréfa sjóðirnir keyptu né heldur fylgst með viðskiptum með þau bréf. Þannig gat Fjármálaeftirlitið ekki gert sér grein fyrir því hvort sjóðirnir ættu viðskipti með hluta eignasafns síns sem gátu verið liður í að hækka verðmat eignanna. Þá voru forsendur "mark to market" aðferðafræði sjóðanna heldur ekki metnar. Fjármálaeftirlitið hafði ekki eftirlit með því hvernig gengi sjóðanna var reiknað og það var ekki fyrr en í lok árs 2008 að stofnunin sá að sjóðir Landsvaka voru skráðir með tvöfalt gengi.Sjóðasvið Fjármálaeftirlitsins hafði ekki eftirlit með áhættustýringu sjóðanna og var ekki meðvitað um hvernig mat móðurfélögin notuðu til að meta áhættu. Engin leiðbeinandi tilmæli voru gefin út um áhættumat sjóðanna.

Í skýrslum sem teknar voru af starfsmönnum Fjármálaeftirlitsins kom fram að upplýsingakerfi eftirlitsins væru í mjög slöku ástandi sem gerði eftirlit mun erfiðara en tilefni væri til. Ekki væri hægt að skoða tímaraðir nema handvirkt og öll yfirferð skýrslna væri handvirk. Slíkt gerði eftirlit með fjárfestingum sjóðanna mjög óskilvirkt.

Fjármálaeftirlitið taldi sig tæpast geta staðið á því að takmarka fjárfestingar eða hlutast til um það með hvaða hætti verðbréfasjóðir fjárfestu svo lengi sem þeir voru tæknilega séð innan marka fjárfestingaheimilda laganna og fjárfestingarstefnu sjóðanna sjálfra, en hvort tveggja eru mjög rúmar heimildir. Þetta vekur sérstaka athygli þegar ákvæði 19. gr. laga nr. 30/2003 er haft í huga en þar er mælt fyrir um að rekstrarfélag skuli starfrækja verðbréfasjóði í samræmi við góða viðskiptahætti og með trúverðugleika markaðarins að leiðarljósi. Fjármálaeftirlitinu bar einnig að fylgjast með að starfsemi rekstrarfélaga sem eftirlitsskyldra aðila væri í samræmi við heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti, sbr. 8. gr. laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, en fyrir brot á þeim lögum skal refsað með sektum eða fangelsi allt að einu ári liggi ekki þyngri refsing við broti samkvæmt öðrum lögum, sbr. 20. gr. laganna.

Af framansögðu er ljóst að eftirlit Fjármálaeftirlitsins með starfsemi sjóðanna var fremur yfirborðskennt og fólst fyrst og fremst í því að fylgjast með að skýrsluskil væru í lagi. Fjármálaeftirlitið staðreyndi ekki sjálft þær upplýsingar sem fram komu í skýrslum með sjálfstæðri rannsókn. Má orða það svo að eftirlitið hafi verið fyrst og fremst formlegt ("box-ticking") en ekki efnislegt. Þá liggur fyrir að Fjármálaeftirlitið beitti í mjög takmörkuðum mæli þeim valdheimildum sem eftirlitinu voru fengnar að lögum.

Við skýrslutöku af yfirmanni sjóðasviðs hjá Fjármálaeftirlitinu kom fram að stofnunin hyggist efla eftirlit með fagfjárfestasjóðum. Spyrja má, í ljósi þeirrar greiningar sem rannsóknarnefndin hefur gert, hvort ekki sé hyggilegra að Fjármálaeftirlitið sinni betur eftirliti með þeim sjóðum sem almennir fjárfestar hafa aðgang að og skerpi fremur á skilgreiningu fagfjárfesta.

14.11 Samandregnar ályktanir rannsóknarnefndar Alþingis um peningamarkaðssjóði

14.11.1 Ályktun um sjóðsform og þróun heildarverðmætis sjóða rekstrarfélaganna

Peningamarkaðssjóðir rekstrarfélaga, sem voru dótturfélög hinna föllnu banka, voru flestir fjárfestingarsjóðir. Fjárfestingarheimildir fjárfestingarsjóða voru rýmri en verðbréfasjóða. Peningamarkaðssjóðirnir voru fyrst og fremst innlendir skuldabréfasjóðir sem fjárfestu í skuldabréfum útgefnum af íslenskum aðilum. Svo virðist sem aukin áhersla hafi verið lögð á fjárfestingarsjóði á kostnað verðbréfasjóða, sérstaklega frá miðju ári 2006. Afleiðingin var sú að fjárfestum var beint í sjóði sem fólu í sér meiri áhættu en verðbréfasjóðir. Samkvæmt skýringum starfsmanna rekstrarfélaga sjóðanna var mikil samkeppni um sem besta ávöxtun. Það vekur athygli að fjárfestingarsjóðum fjölgaði og heildarverðmæti þeirra jókst árið 2006 þegar fjármögnunarleiðir íslenskra fyrirtækja á evrópskum fjármagnsmörkuðum lokuðust vegna neikvæðrar umfjöllunar um íslensku bankana.

14.11.2 Ályktun um fjárfestingar peningamarkaðssjóðanna

Við skoðun á fjárfestingum peningamarkaðssjóða á vegum rekstrarfélaganna þriggja sést að allir fjárfestu þeir að meginstefnu í verðbréfum og innlánum hjá móðurfélagi viðkomandi rekstrarfélags eða félögum sem rannsóknarnefndin hefur við þessa athugun talið tengjast þeim eða eigendum bankanna.Þetta er eitt helsta einkenni fjárfestinganna.Að mati rannsóknarnefndar Alþingis getur tilviljun ein ekki hafa ráðið þessum ákvörðunum um fjárfestingar.

Peningamarkaðssjóðirnir uxu hratt og urðu, að mati rannsóknarnefndar Alþingis, allt of stórir fyrir íslenskan verðbréfamarkað enda var framboð af traustum, auðseljanlegum verðbréfum mjög takmarkað. Þá var það einkenni allra sjóðanna við fall bankanna að hlutfall ríkistryggðra verðbréfa í eignasafninu var allt of lágt miðað við það sem eðlilegt getur talist við rekstur sjóða af því tagi sem hér um ræðir. Benda má á að í fjárfestingarstefnu allra peningamarkaðssjóðanna var gert ráð fyrir háum efri mörkum leyfilegs hlutfalls verðbréfa ríkis og sveitarfélaga af heildarverðmæti sjóðanna.

Það einkennir einnig síðustu mánuðina fyrir fall bankanna að rekstarfélögin fjárfestu að nýju í verðbréfum tiltekinna útgefenda þegar kom að gjalddaga eldri verðbréfa. Þetta á einkum við Glitni sjóði og Landsvaka. Skuldir útgefenda voru þannig endurfjármagnaðar þegar kom að gjalddaga. Samhliða framlengingu skuldanna var leitast við að gæta hagsmuna þeirra sem höfðu fjárfest í sjóðunum með því að afla tryggingarréttinda hjá útgefendum. Þegar hér var komið sögu virðist starfsemi peningamarkaðssjóðanna fremur hafa svipað til hefðbundinnar útlánastarfsemi banka. Sú starfsemi, sem hér hefur verið lýst, samræmist aftur á móti ekki hlutverki peningamarkaðssjóða. Í þessu sambandi skal minnt á að með peningamarkaðsskjölum er átt við greiðsluhæf skjöl sem verslað er með á peningamarkaði og ætíð er hægt að meta til verðs, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 30/2003 um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði. Draga má í efa að þau verðbréf, sem voru ekkert annað en greiðslufrestur á skuld sem útgefandi gat ekki greitt á gjalddaga, hafi fullnægt þessu skilyrði.

Fjármunir peningamarkaðssjóðanna voru að hluta til bundnir í innlánum hjá fjármálafyrirtækjum, að meginstefnu í móðurfélagi viðkomandi rekstrarfélags, en eins og áður segir getur tilviljun ein ekki hafa ráðið því vali.Telja má að hlutfall innlána peningamarkaðssjóða á vegum Glitnis sjóða og Landsvaka hafi verið eðlilegt fyrir sjóði af þessu tagi. Aftur á móti má gera athugasemdir við innlán Peningamarkaðssjóðs Kaupþings sem námu að jafnaði um helmingi eigna sjóðsins á árinu 2008 og 2/3 við slit sjóðsins. Eins og áður er rakið er ljóst að hefðu neyðarlögin ekki verið sett hefðu þessar innstæður svo gott sem glatast í heild sinni þótt staðan hefði væntanlega verið mismunandi eftir því hvaða eignir komu til ráðstöfunar við uppgjör á bönkunum. Fyrir setningu neyðarlaganna hefði staða einstakra hlutdeildarskírteinishafa verið betri ef þeir hefðu sjálfir bundið fé sitt á innlánsreikninga. Lágmarkstryggingarvernd hefði þá gilt um innlán þeirra en að því marki sem innlán sjóðanna voru á nafni rekstrarfélaganna, og þar með dótturfélaga bankanna, nutu þau ekki trygginga af hálfu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta, sbr. þágildandi ákvæði 6. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999. Af þessu leiðir að ekki er unnt að álykta svo að betur hafi verið staðið að fjárfestingum í Peningamarkaðssjóði Kaupþings þótt við slit sjóðsins hafi útgreiðsluhlutfall til hlutdeildarskírteinishafa á endanum orðið hærra en í peningamarkaðssjóðum Glitnis sjóða og Landsvaka.

Rannsóknarnefnd Alþingis bendir á að við rannsókn hennar hafa komið fram gögn sem sýna að á fundi lánanefndar Landsbankans var því lýst yfir, samhliða afgreiðslu á umsókn um lánafyrirgreiðslu bankans, að ákveðið hefði verið að sjóðir Landsvaka keyptu skuldabréf útgefnum af umsækjanda um lán. Slík áhrif og tengsl bankans sem móðurfélags rekstrarfélagsins á ákvarðanir um fjárfestingar sjóða þess voru alls ekki samrýmanlegar þeim grundvelli sem fjárfestingar sjálfstæðra peningamarkaðssjóða eiga að byggjast á.

Rannsóknarnefnd Alþingis telur það verulega ámælisvert að sjóðir skyldu kaupa í heild alla útgáfu tiltekinna verðbréfa. Ef einn sjóður á heila útgáfu skuldabréfa má gera ráð fyrir að ekki sé til staðar virk verðmyndun á markaði með viðkomandi verðbréf og það getur haft áhrif á verðmæti safnsins. Þar sem eignir sjóðanna eru skráðar á markaðsvirði eða síðasta söluvirði er eingöngu hægt að uppfæra verð eignanna með því að eiga viðskipti með þær.

Rannsóknarnefnd Alþingis telur einnig verulega ámælisvert að sjóðir eigi í viðskiptum með skuldabréf sín á milli í miklum mæli, þá sérstaklega ef kaupunum er snúið við innan skamms tíma og einnig ef að sami sjóðstjórinn á í hlut. Þarna geta verulegir hagsmunir verið í húfi, sérstaklega ef viðskiptin eru með lítinn hluta af stórri eign sjóðsins. Slík viðskipti geta haft veruleg áhrif til hækkunar á virðismati sjóðsins, án þess að ljóst sé að um raunverulegt markaðsvirði sé að ræða. Þessu til viðbótar er ljóst að lausafjárstýring sjóða á ekki að fara fram með viðskiptum á milli sjóða, heldur er eðlilegra að sjóðir séu með samning við aðra fjármálastofnun til að taka við skammtímasveiflum í lausu fé. Þar sem slík þjónusta hefur í för með sér kostnað má ætla að það yrði hvati til að koma í veg fyrir að fjárfestar í sjóðunum stunduðu skammtímatilfærslur. Slíku væri hægt að ná fram til dæmis með takmörkunum á því hvenær innlausn má fara fram, láta innlausn taka nokkra daga eða láta eigendur hlutdeildarskírteina greiða fast gjald fyrir innlausn.

Fjárfesting eins af sjóðum Landsvaka í skuldabréfi útgefnu af Björgólfi Guðmundssyni, þvert á vilja sjóðstjóra, vekur sérstaka furðu að áliti rannsóknarnefndarinnar enda rúmaðist fjárfestingin hvorki innan fjárfestingarstefnu sjóðsins né heldur reglna um fjárfestingar, sbr. 7. gr. reglugerðar nr. 792/2003.

14.11.3 Ályktun um áhættustýringu

Að mati rannsóknarnefndar Alþingis fullnægði fyrirkomulag áhættustýringar rekstrarfélaganna ekki þeim faglegu kröfum sem gera verður til þess konar starfsemi fjármálafyrirtækja. Þá skorti á að uppfylltar væru kröfur laga nr. 30/2003 um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði. Þannig útvistuðu Glitnir sjóðir og Landsvaki áhættustýringu til móðurfélaganna, Glitnis banka og Landsbankans, án gilds útvistunarsamnings og án samþykkis Fjármálaeftirlitsins svo sem lög bjóða, sbr. 18. gr. laga nr. 30/2003 um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði. Áhættustýringu Rekstrarfélags Kaupþings banka var ekki útvistað til móðurfélagsins. Aftur á móti sáu sjóðstjórar sjálfir um áhættustýringu sjóðanna en þannig höfðu þeir eftirlit með sjálfum sér.

Miðað við heildareignir rekstrarfélaganna þriggja árið 2007 verður að telja að umfang rekstrar þeirra hafi verið slíkt að æskilegt hefði verið "með tilliti til umfangs og eðlis starfsemi fyrirtækisins", sbr. 2. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 995/2007 um fjárfestavernd og viðskiptahætti fjármálafyrirtækja, að þau kæmu á og viðhéldu óháðum starfseiningum sem sinntu áhættustýringu.

Af þeim mælikvörðum sem rekstrarfélögin notuðu til áhættumats er ljóst að hjá engu þeirra var um að ræða skipulagt mat á heildaráhættu sjóðanna. Matið virðist eingöngu hafa náð til einstakra skuldara en ekki heildarsamsetningar eigna í sjóðunum eða samfylgni ávöxtunar eignanna. Ekkert mat virðist hafa verið á gjaldþrotalíkum eða líkum á smitáhrifum gjaldþrota. Miðað við eignasamsetningu sjóðanna telur rannsóknarnefnd Alþingis að áhættumat sem hefði tekið tillit til heildarsamsetningarinnar hefði gefið réttari mynd af þeirri áhættu sem var til staðar innan sjóðanna.

14.11.4 Ályktun um sjálfstæði rekstrarfélaganna gagnvart móðurfélögunum

Að mati rannsóknarnefndar Alþingis er ljóst að sjálfstæði rekstrarfélaganna gagnvart móðurfélögunum, bönkunum, var verulega ábótavant. Starfsmenn rekstrarfélaganna höfðu mikil samskipti við móðurfélagið og starfsmenn þess, auk þess sem húsnæði var sameiginlegt. Þá voru launakerfi, launagreiðslur og bónusar tengdir móðurfélaginu að ýmsu leyti, sérstaklega í tilviki Landsvaka og Rekstrarfélags Kaupþings banka. Launafyrirkomulagið var meðal annars til þess fallið að starfsmenn rekstrarfélaganna tækju fremur mið af hagsmunum móðurfélagsins en hagsmunum eigenda hlutdeildarskírteina.

Skipan stjórna rekstrarfélaganna var einnig til þess fallin að draga úr sjálfstæði þeirra, enda voru stjórnirnar ýmist að meirihluta til eða alfarið skipaðar starfsmönnum bankanna. Að mati rannsóknarnefndar Alþingis getur ekki skipt máli þótt um samstæðu hafi verið að ræða í skilningi félagaréttar. Um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði gilda sérstök lög nr. 30/2003 og samkvæmt 2. mgr. 15. gr. þeirra bar að tryggja óhæði rekstrarfélaganna alveg án tillits til samstæðusjónarmiða. Þetta er alveg sérstaklega ljóst þegar haft er í huga að móðurfélagið og dótturfélagið, bankinn og rekstrarfélagið, eru sjálfstæð fjármálafyrirtæki sem hvort um sig býr yfir upplýsingum sem leynt eiga að fara.

Að mati rannsóknarnefndar Alþingis var kynning á rekstrarfélögunum villandi. Látið var í veðri vaka að félögin væru hluti af viðkomandi móðurfélagi, bankanum, nánast eins og sérstök deild innan hans.Af því sem að framan er rakið má raunar álykta að það hafi verið í samræmi við þá sýn sem starfsmenn höfðu af stöðu félaganna. Það breytir þó ekki því að slíkt fyrirkomulag stenst ekki kröfur laga. Sú kynning á rekstrarfélögunum sem að framan er lýst uppfyllti ekki þær kröfur sem gerðar eru í 51. gr. laga nr. 30/2003 um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, en í 1. málsl. 1. mgr. greinarinnar segir að í auglýsingum og annarri kynningarstarfsemi verðbréfasjóða skuli þess gætt að fram komi réttar og nákvæmar upplýsingar um starfsemi þessara aðila.

14.11.5 Ályktun um kynningarstarfsemi

Af þeim tölvubréfum sem rannsóknarnefnd Alþingis hefur skoðað og sendir voru í tengslum við kynningu á peningamarkaðssjóðum allra bankanna má ráða að sjóðirnir hafi ítrekað verið kynntir sem áhættulausir eða áhættulitlir. Að mati rannsóknarnefndar Alþingis var þessi kynningarstarfsemi ekki í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru í 51. gr. laga nr. 30/2003 og gerð er grein fyrir hér að framan. Fullyrðingar um að fjárfestingarsjóðir séu áhættulitlir eða áhættulausir standast vitaskuld ekki.

14.11.6 Ályktun um eftirlit Fjármálaeftirlitsins með verðbréfa- og fjárfestingarsjóðum

Eftirlit Fjármálaeftirlitsins með verðbréfasjóðum og fjárfestingarsjóðum var ófullnægjandi. Aðeins einn starfsmaður hafði eftirlit með öllum verðbréfa-og fjárfestingarsjóðum allt fram undir árslok 2007 en þá var þeim fjölgað. Raunar var lítið eftirlit með sjóðunum um eins árs skeið, eða frá nóvember 2006, þegar viðkomandi starfsmaður fór í leyfi en á þeim tíma mun hann hafa unnið tæplega 300 stundir. Þetta takmarkaða eftirlit var í engu samræmi við umfang sjóðanna eða þá fjárhagslegu hagsmuni sem um var að tefla fyrir almenning. Til viðbótar kom síðan að rekstrarfélögin störfuðu í nánu sambýli við móðurfélögin og það eitt hefði átt að gefa Fjármálaeftirlitinu tilefni til að hafa á sér andvara gagnvart starfsháttum og óhæði rekstrarfélaganna.

Eftirlit með peningamarkaðssjóðum virðist fyrst og fremst hafa falist í því að ganga úr skugga um að skýrslum væri skilað á réttum tíma og í réttu horfi. Þær fáu athugasemdir sem Fjármálaeftirlitið gerði við starfsemi sjóðanna sneru einkum að formsatriðum og því að formlegar kröfur laga hefðu ekki verið uppfylltar (e. "box ticking"), t.d. að fjárfestingar hefðu ekki verið innan tiltekinna marka. Eftirlitið staðreyndi ekki sjálft þær upplýsingar sem fram komu í skýrslum með sjálfstæðri rannsókn. Þannig skoðaði Fjármálaeftirlitið t.d. ekki gæði fjárfestinga verðbréfa- og fjárfestingarsjóða enda taldi eftirlitið sig tæpast geta haft afskipti af því hvernig sjóðirnir fjárfestu, svo lengi sem þeir voru innan marka fjárfestingaheimilda laganna og fjárfestingarstefnu sjóðanna sjálfra. Þau mörk voru hins vegar svo rúm að þau höfðu lítil áhrif til takmörkunar í þessu efni.Að mati rannsóknarnefndar Alþingis birtist í þessu afstaða sem telja má að Fjármálaeftirlitið hafi í of ríkum mæli lagt til grundvallar í eftirliti sínu. Það er ekki séríslenskt vandamál að eftirlit takmarkist um of við formlega þætti enda er t.d. á það bent í svokallaðri Turner skýrslu að við eftirlit ætti að fylgja reglunni um "economic substance not legal form".

Ekki verður séð að lögmætisregla stjórnsýsluréttarins hafi staðið því í vegi að Fjármálaeftirlitið beitti heimildum sínum til að hafa afskipti af fjárfestingum sjóðanna. Lögin gerðu beinlínis ráð fyrir að Fjármálaeftirlitið gæti byggt tilmæli og kröfur á matskenndum heimildum eins og um hvað teldist til góðra viðskiptahátta.

Svo virðist sem starfsmenn Fjármálaeftirlitsins hafi ekki fyllilega gert sér grein fyrir þeirri áhættu sem fólst í starfsemi sjóðanna.

Þá var ekki skoðað hvort útgefendur verðbréfa sem sjóðirnir fjárfestu í tengdust með þeim hætti að staða eins hefði áhrif á möguleika hins til að standa við greiðsluskuldbindingar sínar og að þeir mynduðu því sameiginlega í reynd aukna áhættu. Fjármálaeftirlitið hafði heldur ekki eftirlit með áhættustýringu sjóðanna og vissi ekki hvernig mat móðurfélögin notuðu til að meta áhættur. Engin leiðbeinandi tilmæli voru gefin út um áhættumat sjóðanna.

Það vekur sérstaka athygli rannsóknarnefndarinnar hversu langan tíma það tók Fjármálaeftirlitið að verða vart við skuldabréf sem gefið var út af tilteknum einstaklingi í Fyrirtækjabréfasjóði Landsvaka, enda fær Fjármálaeftirlitið mánaðarlegar skýrslur um eignasamsetningu sjóða. Rannsóknarnefndin telur ljóst að óháð því hversu langt var um liðið síðan skuldabréfið kom inn í sjóðinn hefði Fjármálaeftirlitið átt að krefjast þess að það yrði tafarlaust selt út úr sjóðnum. Í þeim tilvikum sem Fjármálaeftirlitið gerði athugasemdir við brot á fjárfestingarstefnu voru tímamörk mjög rúm til lagfæringar. Eftirlitið beitti heldur ekki þeim valdheimildum sem það hefur að lögum. Ekki var að finna hjá stofnuninni neina verkferla eða leiðbeiningar um beitingu þessara valdheimilda, áminningum o.þ.h. Þá er ljóst að upplýsingakerfi eftirlitsins voru í mjög slöku ástandi og gerðu eftirlit mun erfiðara en tilefni var til. Þannig var öll yfirferð skýrslna handvirk en það gerir eftirlit með fjárfestingum sjóðanna mjög óskilvirkt.

14.12 Greinargerð um uppgjör peningamarkaðssjóða eftir fall bankanna

14.12.1 Inngangur

Í kjölfar þess að stóru bankarnir þrír, Glitnir, Kaupþing og Landsbankinn, féllu í byrjun október 2008 kom til uppgjörs á þeim verðbréfa- og fjárfestingarsjóðum sem starfræktir höfðu verið á vegum rekstrarfélaga í eigu þessara banka. Í tengslum við athugun rannsóknarnefndar Alþingis á starfsemi verðbréfa- og fjárfestingarsjóða sem lýst hefur verið hér að framan og við öflun annarra upplýsinga hafa komið fram margvísleg gögn og upplýsingar sem lúta að uppgjöri þessara sjóða eftir fall bankanna.

Meginviðfangsefni rannsóknarnefndar Alþingis er að varpa sem skýrustu ljósi á aðdraganda og orsakir þess vanda íslenska bankakerfisins sem leiddi til falls bankanna þriggja. Að meginstefnu til hefur rannsókn nefndarinnar tekið til atvika fram að falli bankanna en tekið er fram í 2. mgr. 1. gr. laga nr. 142/2008 að nefndin geti eftir því sem hún telur nauðsynlegt látið rannsókn sína taka til atburða eftir gildistöku neyðarlaganna, laga nr. 125/2008, en lögin tóku gildi 7. október 2008. Í samræmi við þessa heimild hefur nefndin ákveðið að birta hér á eftir samantekt upplýsinga sem nefndin aflaði um uppgjör sjóða rekstrarfélaganna og þá einnig um þátt stjórnvalda í aðdraganda þess að því marki sem nefndin hefur upplýsingar og gögn um það. Nefndin tekur hins vegar fram að hún telur ekki tilefni til þess að ljúka þessari samantekt með ályktunum af sinni hálfu enda er hér um að ræða atriði sem lúta fyrst og fremst að einkaréttarlegu uppgjöri á þessum sjóðum eftir fall bankanna gagnvart eigendum hlutdeildarskírteina og ráðstöfun fjármuna af hálfu þeirra sem fóru með stjórn rekstrarfélaganna og bankanna á þeim tíma sem þær ákvarðanir voru teknar.

14.12.2 Aðdragandi og almennt um uppgjör sjóðanna

Hinn 17. október 2008 beindi Fjármálaeftirlitið þeim tilmælum til rekstrarfélaga verðbréfasjóða að gera ráðstafanir til þess að peningamarkaðssjóðum félaganna yrði slitið. Einnig var mælst til þess að ekki yrði opnað fyrir innlausnir í sjóðunum heldur að sjóðfélagar fengju greitt úr þeim. Í því fælist að allt laust fé hvers peningamarkaðssjóðs yrði greitt inn á innlánsreikninga sjóðfélaga í hlutfalli við eign þeirra og jafnræði þeirra yrði haft að leiðarljósi. Í tilmælunum var einnig lagt til að greitt yrði mánaðarlega inn á innlánsreikninga sjóðfélaga í samræmi við hlutfallslega eign þeirra eftir því sem aðrar eignir sjóðsins fengjust greiddar, uns engar eignir væru eftir í eignasafni sjóðanna.

Fjármálaeftirlitið hafði áður stöðvað viðskipti með alla fjármálagerninga í bönkum og tengdum félögum hinn 3. október 2008. Á þeim tveimur vikum sem liðu frá stöðvun viðskipta og þar til tilmæli voru gefin um að slíta sjóðunum voru uppi ýmsar hugmyndir um hvernig leysa ætti vanda sjóðanna og komu þar að máli rekstrarfélögin, sem voru orðin dótturfélög nýju bankanna, bankarnir sjálfir, viðskiptaráðuneytið og Fjármálaeftirlitið. Rannsóknarnefndin hefur aflað gagna um hinar ýmsu tillögur sem lagðar voru fram og verður atburðarásin rakin stuttlega í þessum hluta.

Við fall bankanna þriggja var útséð um slit peningamarkaðssjóðanna enda samanstóðu eignir þeirra, auk innlána, að mestu leyti af verðbréfum útgefnum af bönkunum þremur og félögum tengdum þeim. Peningamarkaðssjóður Kaupþings hafði þó nokkra sérstöðu þar sem 2/3 hlutar eigna hans voru innlán í Kaupþingi.Við hrunið var lokað fyrir innlausnir í sjóðunum og óttuðust eigendur hlutdeildarskírteina að glata fé sínu.

Fjármálaeftirlitið leitaðist á þessum tveimur vikum við að safna upplýsingum um stærð peningamarkaðssjóða, eignir þeirra og um það hvert væri hlutfall almennra fjárfesta, lífeyrissjóða og fagfjárfesta í sjóðunum. Þetta var nauðsynlegt ef aðgerðir skyldu miðast við að verja einungis hagsmuni hluta eigenda hlutdeildarskírteina, en sú hugmynd hafði komið upp hjá Fjármálaeftirlitinu. Aftur á móti hafði Fjármálaeftirlitið ekki alveg nákvæmar upplýsingar um stöðu sjóðanna við fallið. Þar sem rekstrarfélögum ber einungis að skila upplýsingum um stöðu sjóðanna á þriggja mánaða fresti og nýjustu skýrslur Fjármálaeftirlitsins voru frá lokum júní 2008 þurfti eftirlitið að afla nýrra upplýsinga hjá rekstrarfélögunum.

Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, lýsti því yfir á fréttamannafundi 8. október 2008 að leitað yrði leiða til að tryggja peningamarkaðssjóði. Síðar þann sama dag sendu rekstrarfélögin skeyti til Fjármálaeftirlitsins þar sem hugmyndir þeirra um uppgjör sjóðanna voru settar fram en áður höfðu fulltrúar eftirlitsins fundað með framkvæmdastjórum sex rekstrarfélaga.

Tillögurnar miðuðu aðallega að aðkomu ríkisins til að lágmarka tap sjóðanna og helst var einblínt á að ríkið keypti skuldabréf útgefin af hinum föllnu bönkum (bankabréf) úr sjóðunum. Helgaðist þetta af því að lög nr. 125/2008 (neyðarlögin), sem tóku gildi 7. október 2008, höfðu sett eigendur hlutdeildarskírteina skör lægra en innlánseigendur þar sem stór hluti eignasafns peningamarkaðssjóðanna voru bankabréf. Samkvæmt tillögunum yrði sjóðunum skipt í tvo flokka,A og B. Reiðufé og söluhæfar eignir yrðu settar í A flokk. Að auki myndi ríkið kaupa illseljanleg bréf úr sjóðunum og myndu greiðslur fyrir þau bréf ásamt öðrum eignum í A flokki ganga til hlutdeildarskírteinishafa. Aðrar eignir yrðu eftir í B flokki og yrðu greiddar út t.d. mánaðarlega. Þess ber að geta að engin heimild var í neyðarlögunum fyrir aðkomu ríkisins að uppgjöri peningamarkaðssjóða.Yfirlýsingar forsætisráðherra um að allar bankainnstæður væru tryggðar náðu ekki til hlutdeildarskírteina í verðbréfa- og fjárfestingarsjóðum.

Einnig kynntu starfsmenn Fjármálaeftirlitsins þá hugmynd að almenningur og lífeyrissjóðir nytu forgangs hvað varðar útgreiðslur úr peningamarkaðssjóðunum, en fagfjárfestar myndu fá greitt það sem eftir stæði eftir útgreiðslur til tveggja fyrrnefndu fjárfestahópanna.

Sú hugmynd kom fram að ríkið kæmi að slitum á peningamarkaðssjóðunum. Jón Þór Sturluson, aðstoðarmaður viðskiptaráðherra, hafði samband við Fjármálaeftirlitið til þess að ræða hvernig unnt væri að slíta peningamarkaðssjóðunum og greiða eigendum út það fé sem bundið væri í þeim. Hófust þá samskipti milli Jóns Þórs, Jóns Steinssonar, sem starfaði sem ráðgjafi forsætisráðherra, starfsmanna ýmissa ráðuneyta og starfsmanna Fjármálaeftirlitsins. Í gögnum sem rannsóknarnefndin hefur undir höndum kemur fram að Jón Þór og Jón Steinsson hafi sniðið lausn sem rædd var innan þessa hóps. Í samtölum Jóns Þórs við starfsmenn Fjármálaeftirlitsins lagði hann ríka áherslu á að við slit sjóðanna yrði sama hlutfall fjár greitt út úr öllum sjóðunum.Hinn 14. október 2008 voru mikil tölvupóstsamskipti milli Jóns Þórs og Jóns Steinssonar um það hvaða leið ætti að fara. Voru þeir sammála um að takmarka þyrfti umfang björgunaraðgerða eins og unnt væri.Til dæmis mætti gera betur við almenning en fagfjárfesta. Þá væri unnt að bæta tjónið að hluta en ekki öllu leyti. Miðaði lausn þeirra við að gömlu bankarnir keyptu bankabréf úr sjóðunum á nafnverði en um afföll annarra bréfa færi eftir endurheimtuhlutfalli. Almenningi gæfist tækifæri til að innleysa hlutdeildarskírteini sín eftir kaupin á bankabréfunum eða að bíða og sjá hvort endurheimtuhlutfall á fyrirtækjabréfum yrði hærra en áætlað var í lausninni. Jón Þór sagði hins vegar í skýrslutöku hjá rannsóknarnefndinni að hann hefði ekki talið það mögulegt að gömlu bankarnir keyptu bréfin, en sú yfirlýsing gengur þvert á tillögur hans og Jóns Steinssonar.Fjármálaeftirlitið fundaði með formönnum skilanefnda hinna föllnu banka um hugsanleg kaup bankanna á verðbréfum peningamarkaðssjóðanna. Niðurstaðan af þeim fundi var sú að bankarnir væru ekki tilbúnir til að kaupa bréfin. Meðal annars var til þess vísað að slík ráðstöfun kynni að skerða hagsmuni kröfuhafa hinna föllnu banka og gæti leitt til riftunarmála á grundvelli laga um gjaldþrotaskipti. Því var ljóst að sú lausn var ekki fær og var Fjármálaeftirlitið sammála sjónarmiði skilanefndanna þvert á vilja viðskiptaráðuneytisins.

Af tölvubréfi Jóns Þórs til Halldóru Ólafsdóttur hjá Fjármálaeftirlitinu 15. október 2008 má ráða að ríkið kæmi ekki frekar að málinu með fjárstuðningi heldur hefðu Björgvin G. Sigurðsson og Jónas Fr. Jónsson afráðið að nýju bankarnir keyptu skuldabréf viðskiptabankanna þriggja úr sjóðunum. Jón Þór kannaðist hins vegar ekki við samskipti Björgvins og Jónasar Fr. í skýrslutökum hjá rannsóknarnefnd Alþingis. Einnig er ljóst að ráðuneytið þrýsti á Fjármálaeftirlitið að samþykkja kaup skilanefnda á bankabréfunum en varð ekki ágengt í því máli eins og tölvuskeyti Jóns Þórs Sturlusonar til Bolla Bollasonar og Jóns Steinssonar frá 16. október 2008 ber með sér: "Ég er alveg sammála Jóni, en tel það fullreynt gagnvart FME að þeir samþykki uppkaup gömlu félaganna á bankabréfum úr sjóðunum. Allt sem við gerum gagnvart peningamarkaðssjóðunum mun því kosta alvöru peninga."Nokkru síðar óskaði Jón Þór Sturluson, aðstoðarmaður viðskiptaráðherra, eftir því að Fjármálaeftirlitið boðaði til fundar með bankastjórum nýju bankanna þriggja til þess að samhæfa útgreiðslur úr peningamarkaðssjóðunum við slit. Þeirri málaleitan höfnuðu starfsmenn Fjármálaeftirlitsins enda var afstaða eftirlitsins sú að meta þyrfti sjálfstætt verðmæti þeirra eigna sem væru í peningamarkaðssjóðunum við slit þeirra. Sögðu starfsmenn Fjármálaeftirlitsins í skýrslutöku hjá rannsóknarnefndinni að þeim hefðu þótt þetta mjög óeðlileg afskipti ráðuneytisins af málinu. Eftir þetta kom Fjármálaeftirlitið ekkert frekar að málum vegna slita peningamarkaðssjóðanna og voru málefni sjóðanna í höndum nýju bankanna sem tekið höfðu við rekstrarfélögum sjóðanna sem móðurfélög þeirra. Fjármálaeftirlitið leit svo á að það væri ekki hlutverk þess að taka viðskiptalegar ákvarðanir.Aftur á móti reyndi eftirlitið að koma þeim skilaboðum áleiðis að við kaup á verðbréfum úr peningamarkaðssjóðum yrði miðað við sama verðmat á bréfum sömu útgefenda. Innan Fjármálaeftirlitsins voru ýmsar hugmyndir ræddar um það hvernig unnt væri að slíta sjóðunum. Í skýrslutökum kom fram að starfsmenn Fjármálaeftirlitsins hefðu ávallt horft á lausnir á málum allra rekstrarfélaganna en ekki einungis rekstrarfélaga hinna föllnu banka.

Það varð því raunin að nýju bankarnir keyptu bréf sjóðanna með hliðsjón af verðmati óháðra endurskoðenda. Nánar er fjallað um þá framkvæmd hér að neðan.

Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, sagði við skýrslutöku hjá rannsóknarnefndinni þegar hann var spurður um afskipti sín af uppgjöri peningamarkaðssjóðanna: "Við hvöttum til þess að þeir yrðu gerðir upp með samræmdum hætti ...Við vonuðum náttúrulega að það fengist sem mest upp í þetta af því það var ofboðslegur – af því það er ekki eins og auðmenn Íslands hafi átt peningana sína þar, það er náttúrulega bara hinn breiði almenningur sem var að – maður var að fá alveg hroðalegar upphringingar frá fólki sem hafði verið að selja íbúðir og arfinn sinn og henti þessu inn í þessa sjóði því bankarnir virðast í einhverjum tilfellum hafa blekkt fólk að þetta væru innlán, tryggð og varin sem innlán, sem eru náttúrulega hreinar blekkingar, af því þetta eru ekki innlán, þetta eru áhættufjárfestingar. En við höfðum ekki afskipti annað en að við hvöttum til þess að þetta yrði gert upp og það yrði gert á viðskiptalegum forsendum. En við hvöttum mjög til að þetta yrði gert upp með samræmdum hætti." Björgvin sagði að þetta hefði m.a. verið gert með tölvupóstum frá aðstoðarmanni hans til einhverra bankaráðsmanna og svo í samtölum.

Glitnir sendi forsætisráðherra og fjármálaráðherra minnisblað 30. september 2008 þar sem fjallað var um peningamarkaðssjóði og skuldabréfasjóði Glitnis sjóða og lagt til að Glitnir banki keypti skuldabréf útgefin af Stoðum af Glitni sjóðum að lágmarki fyrir 50% af uppreiknuðu markaðssvirði.Að sögn Lárusar Welding fundaði hann með Geir H. Haarde, forsætisráðherra, og Árna M. Mathiesen, fjármálaráðherra, um þessi uppkaup. Lárus kvaðst hafa verið í "svolitlum umboðsvanda" þar sem í hans huga hefði ríkið verið við það að verða eigandi. Í símtali við Geir hefði komið fram að Geir teldi þetta erfitt mál en hann hefði gefið í skyn: "Jú, ætli það verði ekki að gera þetta." Þá hefði Árni sagst ekki myndu setja sig upp á móti málinu.Að sögn Lárusar voru greiddir 10 eða 11 milljarðar króna fyrir skuldabréfin. Síðan segir í skýrslu Lárusar: "[...] þetta var að mínu mati ekki svakaleg fjárhæð og aðalatriðið var að halda sjóðunum gangandi og reyna að viðhalda bankanum, halda áfram að halda bankanum gangandi. Þetta er svo aftur tekið á stjórnarfundi um kvöldið, þar sem ég lýsi því að ég sé að vísu búinn að ræða þetta við ráðherrana, forsætis- og fjármálaráðherra.Tryggvi Þór var búinn að sitja líka fund með okkur um daginn með Illuga, stjórnarmanni í þessu í sjóðunum. Illugi náttúrulega lagði mikla áherslu á að þetta yrði leyst og þetta er samþykkt af stjórninni og svo gert, tilkynnt í fréttunum klukkan tíu þetta kvöld, þetta var þriðjudagskvöld."

Að sögn Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, voru áform bankans um að kaupa tiltekin bréf úr sjóðunum kynnt þeim fjármálaráðherra. Forsvarsmenn Glitnis hefðu lagt mikla áherslu á að þetta yrði gert og að þeir fjármálaráðherra hefðu ekki séð ástæðu til að amast við því. Þetta hefði ekki verið samkvæmt eindregnum tilmælum ráðherranna eða að þeir hefðu krafist þess. Hefðu ráðherrarnir í raun og veru lítið haft með þetta að gera en forsvarsmenn Glitnis hefðu ákveðið að sýna þeim þetta, bæði til að skapa, að því er forsætisráðherra taldi, sjálfum sér skjól og geta sagt frá því í stjórn sjóðsins og einnig vegna þess að svokölluð "Glitnisleið" lá á borðinu. Á þessum tíma hefði verið reiknað með því að sú leið næði fram að ganga og málið ekki þannig komið að bankinn væri að fara í þrot eða að neyðarlagaleiðin yrði ofan á. Aðspurður um það hvort forsvarsmenn Glitnis hefðu komið til að kynna ráðherrunum tveimur þetta, en ekki til að fá já eða nei, sagði Geir H. Haarde þá hafa komið til að kynna þeim þetta og kanna hvort ráðherrarnir hefðu athugasemdir við það. "Ef við hefðum sagt: Nei, við viljum þetta alls ekki, þá býst ég við að þeir hefðu hugsað sig tvisvar um áður [...]." Aðspurður um hvort ráðherrarnir hefðu ekki gert athugasemdir við leiðina kvað Geir að miðað við það hvernig málið var lagt upp af hálfu forsvarsmanna Glitnis hefðu ráðherrarnir talið að þeir ættu ekki að amast við því.Við skýrslutöku af Árna M. Mathiesen, fjármálaráðherra, kom fram að hann hefði sagt við Lárus Welding að ákvörðun um kaup Glitnis banka á skuldabréfum Stoða, eins og lýst var í minnisblaði til þeirra forsætisráðherra, yrði bara að vera þeirra mál í bankanum, þeirra ákvörðun að taka, þetta væri bankaleg ákvörðun hvernig menn færu með svona sjóði. Árni kvaðst ekki hafa samþykkt neinar ákvarðanir, þetta væru ákvarðanir Lárusar Welding að taka.Um uppgjör annarra peningamarkaðssjóða sagði Árni að reynt hefði verið að koma peningamarkaðssjóðunum inn á borð hjá sér en hann hefði reynt að ýta þeim frá sér eins og hann mögulega hefði getað, því þetta hefðu ekki verið ákvarðanir sem honum hefði fundist að ættu að vera á hans borði. Þessu hefði verið ýtt inn í viðskiptaráðuneytið sem hefði viljað fá fjármálaráðuneytið inn í þetta til þess að taka einhverjar ákvarðanir en Árni hefði ekki viljað taka ákvarðanir um þessi mál. Þetta hefðu verið ákvarðanir sem bankarnir yrðu að taka út frá sínum viðskiptahagsmunum.

14.12.3 Glitnir sjóðir

Peningamarkaðssjóði Glitnis sjóða,Sjóði 9, var slitið 30. október 2008,en síðasti viðskiptadagur var 6.október 2008. Útgreiðsluhlutfall úr sjóðnum var 85,12% miðað við gengi síðasta viðskiptadags.

Hinn 29. september 2008 var tilkynnt að íslenska ríkið myndi eignast 75% hlut í Glitni fyrir 600 milljónir evra eða um 84 milljarða íslenskra króna. Eftir þessa tilkynningu óskaði framkvæmdastjóri Glitnis sjóða eftir því að stjórnarformaður Glitnis sjóða ræddi við forsvarsmenn Glitnis banka um mögulegan stuðning bankans við sjóðina. Rannsóknarnefnd Alþingis bárust engin nákvæm skrifleg gögn um atburðarásina sem fylgdi í kjölfarið en af munnlegum frásögnum, tölvupóstum og mánaðarlegum yfirlitsgögnum um eignir sjóðanna má ráða að þessar viðræður hafi leitt til eftirfarandi aðgerða:

Í fyrsta lagi að hinn 30. september féllst stjórn Glitnis banka á að kaupa út öll bréf Stoða í Sjóði 9 og Sjóði 1 á verði sem var 50% af skráðu virði bréfanna þar sem óvíst væri um framhald félagsins í ljósi aðkomu ríkisins að bankanum. Í lok ágúst 2008 var skráð virði umræddra bréfa um 21,3 milljarðar króna. Kaupverðið hefur því væntanlega verið um 10,7 milljarðar. Gengi Sjóðs 9 lækkaði í kjölfarið um 7%. Stoðir voru fyrir væntanleg kaup ríkisins á 75% hlut í bankanum stærsti einstaki hluthafi Glitnis banka.

Í öðru lagi að Eignarhaldsfélag Glitnis, sem helstu forsvarsmenn Glitnis banka stýrðu, keypti hlutdeildarskírteini fyrir 33 milljarða króna í Sjóði 9 dagana 2. og 3. október 2008. Þessa daga var mikið útstreymi úr sjóðnum. Heildareignir sjóðsins voru á þeim tíma um 90 milljarðar króna. Samkvæmt 54. gr. laga nr. 30/2003 er fjárfestingarsjóðum heimilt að taka að láni allt að 25% af verðmæti eigna sjóðs til að mæta t.d. útflæði úr sjóðnum. Þessi heimild var ekki nýtt en þess í stað keypti Eignarhaldsfélag Glitnis umrædd hlutdeildarskírteini.

Héraðsdómur Reykjavíkur hafði þegar 29. september 2008 samþykkt beiðni FL/Stoða um greiðslustöðvun. Því vakna spurningar um það hvort stjórn Glitnis banka hafi með þessum aðgerðum gætt til hins ýtrasta hagsmuna hluthafa sinna (sérstaklega væntanlegs hluthafa sem var ríkið). Glitni banka bar engin skylda til að taka á sig tap hlutdeildarskírteinishafa í sjóðum á vegum Glitnis sjóða. Í raun hefði verið eðlilegt að loka þegar fyrir innlausnir úr sjóðunum í ljósi mikillar óvissu um verðmæti bréfa eignarhaldsfélaga er tengdust Glitni banka. Þessi aðgerð hefði í raun verið nauðsynleg til að tryggja jafnan rétt hlutdeildarskírteinishafa. Í lok ágúst 2008 voru um 60% verðbréfa Sjóðs 9 útgefin af félögum sem áttu afkoma sína beint eða óbeint undir verðmæti hlutabréfa í Glitni banka.

Í ljósi aðstæðna mætti líta á fyrrgreindar aðgerðir Glitnis banka, sem þá var á leið í meirihlutaeigu ríkisins, sem lausafjáraðstoð við sjóðina. Því vaknar sú spurning hvort bankinn hafi í raun haft faldar áhættuskuldbindingar utan efnahags vegna sjóða rekstrarfélagsins.

Í mati alþjóðlegra matsfyrirtækja á lánshæfi bankans er hvorki gert ráð fyrir beinni né óbeinni ábyrgð Glitnis banka á rekstri Glitnis sjóða, enda var síðarnefnda félagið sjálfstætt fjármálafyrirtæki. Í skýrslutökum hjá rannsóknarnefndinni kom hins vegar fram hjá öllum starfsmönnum rekstrarfélaganna að þeir hafi litið á bankann sem bakhjarl, sem hann sannarlega var í dæmi Glitnis banka.

Framangreindar aðgerðir stjórnar Glitnis banka í kjölfar tilkynningar um að ríkið myndi eignast 75% hlut í bankanum leiddu til þess að við slit Sjóðs 9 átti Eignarhaldsfélag Glitnis 54% af hlutdeildarskírteinum sjóðsins. Við slitin voru eignir sjóðsins um 77 milljarðar króna og átti eignarhaldsfélagið því um 41 milljarð. Hinn 23. október 2008 var samið við Eignarhaldsfélag Glitnis um hlutfallslega skiptingu eigna og fékk eignarhaldsfélagið, þá í eigu Nýja Glitnis, um 54% af öllum eignum sjóðsins, þ.e. innlánum og verðbréfum. Hefðu kaupin ekki farið fram væri næsta víst að útgreiðsluhlutfall sjóðsins hefði verið mun lægra.

Sama dag, þ.e. 23. október 2008, samþykkti svo stjórn Nýja Glitnis banka að kaupa öll verðbréf sjóðsins sem eftir stóðu eftir uppgjör hans við Eignarhaldsfélag Glitnis á um 70% af bókfærðu virði þeirra. Greiddi bankinn því Sjóði 9 um 13 milljarða króna.

14.12.4 Landsvaki

Peningamarkaðssjóðir Landsvaka fóru hæst í 250 milljarða króna um mitt ár 2008 en heildarstærð þeirra við lokun var 120 milljarðar króna. Við fall Landsbankans rak Landsvaki 28 sjóði en auk þess var félagið fjárfestingaráðgjafi fjögurra sjóða í Lúxemborg og stýrði fjárvörslusöfnum. Eigendur hlutdeildarskírteina í peningamarkaðssjóðum voru 16.400 við fallið og þar af var fjöldi fyrirtækja sem hafði lausafé sitt í sjóðunum.Auk þess áttu 13 lífeyrissjóðir fé í sjóðunum en Íslenski lífeyrissjóðurinn, sem Landsbankinn rak, átti mest.

Hinn 19. október 2008 kom stjórn Nýja Landsbanka Íslands hf. (síðar NBI hf.) saman og fór yfir stöðu peningamarkaðssjóða. Í fundargerð var m.a. bókað að farið hefði verið yfir stöðu sjóðanna, hagsmuni bankans af því að eignir hlutdeildarskírteinishafa viðhéldust og tillögur að því hvernig bankinn gæti keypt eignir sjóðanna. Fram kom að Elín Sigfúsdóttir, bankastjóri, hefði kynnt stjórninni mögulegar leiðir við að kaupa umræddar eignir. Ein leið væri sú að bankinn keypti eignir af sjóðunum fyrir um 66,2 ma. kr. sem greitt yrði fyrir í formi innlána. Þessi niðurstaða gerði ráð fyrir því að útgreiðsluhlutfall yrði að meðaltali 75%. Í bréfi bankastjórans til stjórnarinnar kom fram að áhætta bankans fælist í því að endanlegt virði keyptra eigna stæði ekki undir kaupverði.

Hinn 22. október 2008 var haldinn stjórnarfundur í NBI hf. Á fundinum voru tekin fyrir málefni peningamarkaðssjóða. Bankastjóri benti á að skuldabréf sem bankar gáfu út hefðu nánast orðið verðlaus við lagabreytingu sem setti kröfur vegna innlána skör hærra við gjaldþrot banka. Stefán Héðinn Stefánsson, framkvæmdastjóri eignastýringasviðs Landsbankans og stjórnarformaður Landsvaka, gerði grein fyrir verðmati á eignum sjóðanna og lagði til að NBI hf. keypti eignir af sjóðunum sem greiddar yrðu í formi innlána. Bæði útlánaeftirlit Landsbankans og KPMG hefðu metið fyrirtækjaskuldabréf og í stórum dráttum væri mat þessara aðila sambærilegt á heildina litið þegar horft væri til efri marka þess sem áætlað væri að endurheimtist. Nokkuð frávik væri á mati aðilanna tveggja þegar litið væri til mögulegra neðri marka slíkrar endurheimtu en þar væri mat KPMG varfærnara. Í máli Stefáns kom einnig fram að talsverð hætta væri þó á að heildarniðurstaðan yrði tap fyrir NBI hf. Þá kom fram að eðlilegt væri að um lokauppgjör við sjóðina yrði að ræða "því ekki er rétt að láta bankann bera áhættuna af mögulegu tapi en ætla sjóðunum arðinn af mögulegum hagnaði" eins og það er bókað í fundargerð. Niðurstaðan var sú að bankaráð samþykkti að ganga frá kaupum á eignasafni peningamarkaðssjóða Landsvaka samkvæmt þeim gögnum sem lögð voru fyrir bankaráð. Endanlegri afgreiðslu var þó vísað til næsta fundar sem haldinn var 27. október 2008.

Í bréfi forstöðumanns og deildarstjóra útlánaeftirlits til bankaráðs, dags. 21. október 2008, kom fram að mat eftirlitsins á endurheimtuhlutfalli við þessar aðstæður byggðist meira á tilfinningu vegna þess hve upplýsingar væru af skornum skammti og óvissuþættir margir. Gerði eftirlitið einkum fyrirvara um þetta hlutfall hjá Baugi og Eimskipum. Í flestum tilvikum væri um að ræða markaðsskuldabréf sem hefðu ekki sérgreindar tryggingar. Félögin ættu bæði í miklum erfiðleikum. Lentu þau í þroti mætti allt eins búast við því að ekki fengjust allar kröfur greiddar og þættu hlutföllin á þau há. Baugur hefði þó sérgreindar tryggingar sem byggðu á virði hlutabréfa í BG Holding ehf. en virði þess gæti þó dvínað hratt ef illa færi. Þá sagði að Stoðir væru í greiðslustöðvun en að gert væri ráð fyrir að veð í Landic sem væru á móti til tryggingar skuldinni héldu. Um endurheimtuhlutfall skuldabréfa í Kaupþingi ríkti enn óvissa. Ljóst þætti að innlán kæmu framar í röðinni þegar kæmi að uppgjöri skulda Kaupþings. Því þætti 45% hlutfall hátt og sama mætti segja um hina íslensku bankana. Þá sagði að ekkert mat væri lagt á erlendar lánastofnanir og eins hefði eftirlitið ekki upplýsingar um Mosaic. Ekki væru gerðar aðrar athugasemdir við PPT skjal frá Stefáni H. Stefánssyni.

KPMG skilaði hinn 22. október 2008 mati á endurheimtuhlutfalli (e. recovery rate) nokkurra íslenskra fyrirtækjaskuldabréfa í peningamarkaðssjóðunum. Í matinu kemur fram að aðferðafræðin sem notuð var hafi tekið tillit til þeirrar miklu óvissu sem ríkti um fjárhagsstöðu og greiðslugetu margra þeirra fyrirtækja sem væru greiðendur skuldabréfa sem sjóðirnir ættu. Sú leið var farin að stilla upp tveimur sviðsmyndum þar sem önnur þeirra endurspeglaði væntingar um jákvæða þróun á ástandi og hin neikvæða þróun. Væntanlegt endurheimtuhlutfall á gjalddaga væri svo metið miðað við hvora sviðsmynd á kvarðanum 0%, 25%, 50%, 75% og 100%. Þá var áréttað að í ljósi eðlis verkefnisins, núverandi markaðsaðstæðna og hins takmarkaða tíma sem gefinn hefði verið til að ljúka verkefninu liti KPMG svo á að fyrirtækið bæri ekki ábyrgð á hugsanlegu beinu eða óbeinu tjóni sem verkkaupi eða aðrir teldu sig verða fyrir vegna ákvarðana sem teknar yrðu í framhaldinu.

Hinn 27. október 2008 var haldinn stjórnarfundur í NBI hf. Á fundinum kom fram að endurgreiðsluhlutfall peningamarkaðssjóða miðað við þessa niðurstöðu væri þannig eftir myntum að af ISK greiddust 68,40%, af EUR 71,50%, af USD 60,20%, af GBP 71,70% og af DKK 67,80%. Þá var nokkuð rætt um áhættu af kaupum NBI á lánasafninu og kom fram að mesta áhættan væri talin fólgin í lánum til Kaupþings sem metin væru á 45% af höfuðstól. Ljóst væri að mikil óvissa væri um það verðmæti. Skuldir Eimskipafélags Íslands hf. væru metnar á 70% en talsverð umræða hefði verið um stöðu þess félags. Til tryggingar skuldum Baugs væru veð í BG Holding sem m.a. ætti Iceland verslanirnar í Bretlandi og væri það talið gott veð. Skuldir Stoða væru tryggðar með veði í Landic sem ætti mikið safn fasteigna víðs vegar um heim. Nokkur umræða varð um mat á einstökum eignum en bankaráð taldi ekki forsendur til að breyta verðmati eignasafns frá síðasta fundi þrátt fyrir að unnt væri að benda á veikleika einstakra eigna. Bankaráð lýsti yfir vonbrigðum með að ekki næðist hærra endurgreiðsluhlutfall á peningamarkaðssjóðina en fyrir lægi en lítið væri við því að gera úr því sem komið væri. Bankaráð samþykkti að kaupa allt eignasafn peningamarkaðssjóða Landsvaka hf. Stefnt skyldi að því að greiða allt kaupverðið í einu lagi þannig að unnt væri að slíta sjóðunum á sem skemmstum tíma.

Í bréfi bankastjóra til stjórnar NBI um stöðu peningamarkaðssjóða, dags. 27. október 2008, kom fram að við nánari útfærslu og samningavinnu við skilanefnd Landsbankans þar sem lögfræðiráðgjöf Landsbankans hefði komið fram fyrir hönd bankans, Logos og PricewaterhouseCoopers, hefði komið í ljós að hluti þeirra skuldabréfa sem sjóðirnir ættu á Landsbankann væri ekki tækur til skuldajöfnunar á móti afleiðuskuldum sjóðanna.Þessi niðurstaða hefði slæm áhrif á stöðu Pen ISK og Pen EUR.Að óbreyttu og miðað við að þau skuldabréf á Landsbankann færu niður í núll myndi útgreiðsluhlutfall sjóðanna breytast í: ISK 68,40%, af EUR 65,40%, af USD 60,50%, af GBP 71,70% og af DKK 68,80%. Pen GBP og DKK hækkuðu aðeins eftir uppgjör afleiðusamninga, ISK og EUR lækkuðu nokkuð.

14.12.5 Rekstrarfélag Kaupþings banka

Peningamarkaðssjóði Kaupþings var slitið í nóvember 2008 eftir að hafa greitt út eina heildargreiðslu til hlutdeildarskírteinishafa sjóðsins 31. október 2008. Hlutfall útgreiðslu nam 85,3%. Síðasti viðskiptadagur sjóðsins var 3. október 2008. Fjármálaeftirlitið hafði stöðvað tímabundið viðskipti með alla fjármálagerninga nokkurra félaga í Kauphöllinni en innlausnum þeirra sjóða sem höfðu að geyma fjármálagerninga þessara félaga mun hafa verið frestað til að gæta jafnræðis hlutdeildarskírteinishafa.

Í kjölfar þess að Fjármálaeftirlitið beindi þeim tilmælum 17. október 2008 til rekstrarfélaga verðbréfasjóða að grípa til aðgerða til slita á peningamarkaðssjóðum í rekstri þeirra fékk Rekstrarfélag Kaupþings endurskoðunarfyrirtæki til að endurmeta skuldabréf Peningamarkaðssjóðs. Þeirri aðferðafræði var beitt að meta bréfin út frá væntu endurheimtuhlutfalli (e. recovery rate) og jafnframt að taka tillit til þeirrar miklu óvissu sem ríkti um fjárhagsstöðu og endurgreiðslugetu margra þeirra fyrirtækja sem um ræddi. Við matið var horft til fjárhagsstöðu útgefenda skuldabréfanna, eins og hún var á þeim tíma, sem og væntanlegrar greiðslugetu útgefenda á næstu árum. Matið var síðan lagt fyrir stjórn Nýja Kaupþings banka hf. en tillagan fól í sér niðurfærslu á skuldabréfum fjármálafyrirtækja og skuldabréfum fyrirtækja. Í kjölfarið lagði Fjármálaeftirlitið til að fenginn yrði óháður aðili til að verðmeta eignir annarra sjóða Rekstrarfélags Kaupþings. Um var að ræða KPMG sem einnig hafði skoðað eignir sjóða Landsvaka.

Við slit á Peningamarkaðssjóði Kaupþings skiptust eignir sjóðsins í innlán sem námu 66%, skuldabréf fjármálafyrirtækja sem námu 14% og skuldabréf fyrirtækja sem námu 20% af sjóðnum. Hlutdeildarskírteinishafar sjóðsins fengu 85,3% af fé sínu til baka. Allt reiðufé í sjóðnum var greitt eða 66% af sjóðnum. Skuldabréf fyrirtækja og skuldabréf fjármálafyrirtækja voru seld fyrir að meðaltali 43% sem aftur leiddi til 14,7% lækkunar sjóðsins. Stærð sjóðsins við lokun var 36,3 milljarðar króna og greiddist því úr sjóðnum tæpur 31 milljarður.

Samsetning eigna sjóðsins var með þeim hætti að stærsti liðurinn var, eins og fyrr segir, í formi innlána sem námu rúmum 66% af sjóðnum. Skuldabréf í Kaupþingi voru 11,4% af sjóðnum, skuldabréf í Exista námu 6,8% af sjóðnum og skuldabréf í Atorku námu 5,4% af sjóðnum.

Málefni Peningamarkaðssjóðs og Skammtímasjóðs voru tekin fyrir á fundi stjórnar Nýja Kaupþings hinn 27. október 2008. Á fundinum var gerð grein fyrir því að eignum sjóðanna mætti skipta í þrennt, reiðufé, skuldabréf fyrirtækja og bréf útgefin af fjármálafyrirtækjum. Gerðu tillögurnar ráð fyrir að Nýja Kaupþing keypti öll bréf útgefin af Kaupþingi og Glitni annað hvort á 30% eða 50% af virði þeirra, svo og aðrar eignir sjóðanna með tilliti til endurmats á virði þeirra. Jafnframt yrði stærstu kröfuhöfum sjóðanna boðið að fá þessi bréf afhent í hlutfalli við eign sína ef þeir væru ekki sáttir við niðurstöðu tillagnanna. Báðar tillögurnar hefðu verið nokkuð hærri en gróft bráðabirgðamat gerði ráð fyrir. Á móti kæmi að ekki væri óalgengt að rekstraraðilar sjóða, sem hefðu af þeim miklar tekjur, bættu sjóðunum tekjutap vegna fjárfestinga, auk þess sem horfa yrði til samkeppnis- og samræmissjónarmiða við þetta mat. Stjórn bankans samþykkti tillögu sem fól í sér að Nýja Kaupþing keypti öll bréf útgefin af bönkunum, Kaupþingi og Glitni, af sjóðunum á 30% af virði þeirra eins og þau voru metin hinn 3. október 2008 og fyrirtækjabréf samkvæmt mati KPMG.