Skipan rannsóknarnefndar Alþingis
Hinn 12. desember 2008 samþykkti Alþingi frumvarp til laga um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða. Lögin hlutu númerið 142/2008 við birtingu í Stjórnartíðindum. Frumvarpið var lagt fram af forseta Alþingis og formönnum allra stjórnmálaflokka á Alþingi og var afrakstur samkomulags um skipan sérstakrar rannsóknarnefndar.
Samkvæmt 2. gr. laga nr. 142/2008 um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða skulu eiga sæti í rannsóknarnefndinni einn dómari Hæstaréttar Íslands, umboðsmaður Alþingis og einn hagfræðingur, löggiltur endurskoðandi eða háskólamenntaður sérfræðingur, sem hefur víðtæka þekkingu á efnahags
málum og/eða starfsemi fjármálamarkaða.
Um sérstakt hæfi nefndarmanna fer eftir sömu reglum og fram koma í 3. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Nefndin skal birta opinberlega upplýsingar um hlutabréfaeign nefndarmanna í fjármálafyrirtækjum sem aðgerðir stjórnvalda samkvæmt lögum nr. 125/2008 hafa tekið til, skuldir þeirra við þau, svo og starfsleg tengsl þeirra, maka þeirra og náinna skyldmenna þeirra við þá sem sinnt hafa stjórnunarstörfum í umræddum fjármálafyrirtækjum eða þeim stofnunum ríkisins sem rannsókn nefndarinnar beinist að. Sama gildir um önnur atriði sem haft geta áhrif á sérstakt hæfi nefndarmanna. Upplýsingar þessar skulu miðast við síðastliðin fimm ár fyrir gildistöku laganna, fjárhæðir sem eru yfir fimm milljónir króna og einnig eignarhluta umfram þá fjárhæð í félögum sem átt hafa hluti í umræddum fjármálafyrirtækjum 1. september 2008.
Lokið var við að skipa í nefndina 30. desember 2008. Í henni eiga sæti Páll Hreinsson hæstaréttardómari, Tryggvi Gunnarsson umboðsmaður Alþingis og Sigríður Benediktsdóttir kennari við hagfræðideild Yale-háskóla í Bandaríkjunum.
Í samræmi við 3. mgr. 2. gr. laga nr. 142/2008 skipaði forsætisnefnd Alþingis einnig sérstakan vinnuhóp til að leggja mat á hvort skýringar á falli íslensku bankanna og tengdum efnahagsáföllum megi að einhverju leyti finna í starfsháttum og siðferði. Í starfshópinn voru skipuð dr.Vilhjálmur Árnason, prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands; Salvör Nordal, forstöðumaður Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands, og Kristín Ástgeirsdóttir, framkvæmdastýra Jafnréttisráðs.