12. kafli Verðbréfamarkaðir

12.1 Inngangur

Í þessum kafla verður fjallað um verðbréfamarkaði og hlutverk þeirra í uppgangi og falli bankanna. Fyrst og fremst verður þar sjónum beint að hlutverki hlutabréfamarkaðarins en þó verður gefið stutt yfirlit yfir þróun á skuldabréfamarkaði sem nánar er fjallað um í öðrum köflum skýrslunnar, s.s. um fjármögnun bankanna og kafla um verðbréfasjóði bankanna.

Verðbréfamarkaðir eru fyrst og fremst viðskiptavettvangur sem leiðir saman fjármagnseigendur og fyrirtæki sem þurfa á fjármagni að halda án beinnar milligöngu banka sem geta þó í hlutverki verðbréfamiðlunar haft milligöngu um einstök viðskipti. Fjárfestir veitir félagi aukið fjármagn með því að kaupa verðbréf sem félagið gefur út, s.s. hlutabréf eða skuldabréf. Með tilkomu verðbréfamarkaðar getur samkeppni á fjármagnsmarkaði aukist þar sem fjármagnseigendur geta valið milli þess að ávaxta fjármuni sína í bönkum eða á verðbréfamarkaði og fyrirtæki sem þurfa á fjármagni að halda geta valið milli þess að sækja fjármagn til banka eða til almennra fjárfesta í gegnum verðbréfamarkaði.Virkir verðbréfamarkaðir auka því fjármögnunarmöguleika, auk þess sem viðskiptakostnaður getur lækkað þar sem kjör eru ákvörðuð á gagnsæjum markaði af mörgum markaðsaðilum og fjárfestum.

Þegar fyrirtæki ákveður að gefa út verðbréf og lætur taka þau til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði skuldbindur fyrirtækið sig samkvæmt lögum og reglum um útgefendur verðbréfa að gera opinberar allar þær upplýsingar sem gætu haft marktæk áhrif á verð fjármálagerninga þess. Með hliðsjón af þeim upplýsingum, sem og upplýsingum um verð og fjölda bréfa í viðskiptum með viðkomandi, eða sambærileg, verðbréf, stuðlar markaðurinn svo að því að fjármagnið leiti í arðbærustu fjárfestingarnar. Í eðli sínu gæti útgáfa verðbréfa á skipulegum verðbréfamarkaði því verið skilvirkari ráðstöfun á fjármagni heldur en hefðbundin bankalán eða almenn útgáfa verðbréfa þar sem meiri upplýsingar eru opinberar og fleiri aðilar koma að ákvörðunum.Auk þess geta upplýsingar um samspil kaupenda og seljenda sem eru gerðar opinberar á skipulegum verðbréfamörkuðum verið mjög verðmætar.

Virkur verðbréfamarkaður ætti einnig að geta dregið úr áhættu almennra sparifjáreigenda þar sem áhætta flyst að hluta til úr bankakerfinu og til fjárfesta sem eru tilbúnir til að taka hana sjálfir. Einnig má líta á verðbréfamarkaði sem aukin sparnaðartækifæri fyrir almenna sparifjáreigendur en slíkum fjárfestingum fylgir þó ákveðin áhætta sem nauðsynlegt er að allir sem koma að viðskiptunum séu meðvitaðir um. Það gildir einnig um opinbera eftirlitsaðila og hagsmunasamtök. Fjárfestingu í verðbréfum fylgir ekki einungis áhætta sem tengist velgengni og fjárhagsstöðu viðkomandi útgefanda, heldur einnig verðáhætta sem ræðst af því hversu erfitt eða auðvelt reynist að selja bréfin á eftirmarkaði. Ef um illseljanleg (e. illiquid) verðbréf er að ræða eru meiri líkur á að þau verði einungis seld með afföllum. Sé virk verðmyndun og mikil viðskipti með viðkomandi verðbréf er sú áhætta lágmörkuð þar sem auðveldara er að finna mótaðila og selja bréfin á eðlilegu verði. Hvað skuldabréf varðar getur virk verðmyndun með ákveðna lykilflokka, s.s. ríkistryggð skuldabréf, einnig gefið fjárfestum vissa hugmynd um hvernig skuli verðleggja önnur síður seljanleg skuldabréf sem tekin eru til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði.

Á Íslandi er starfræktur einn skipulegur verðbréfamarkaður sem nú heitir NASDAQ OMX Iceland hf. (hér eftir Kauphöllin). Þar voru hlutabréf sem og ákveðnir flokkar skuldabréfa allra bankanna tekin til viðskipta.Að auki voru viðskipti með hlutabréf Kaupþings banka hf. í kauphöllinni í Stokkhólmi, þ.e. NASDAQ OMX Stockholm. Eins og rakið verður í umfjölluninni sem á eftir fylgir hækkaði hlutabréfaverð Kaupþings, Glitnis banka hf. og Landsbanka Íslands hf. umtalsvert á árunum frá 2004 og fram á mitt ár 2007 en lækkaði svo nær samfleytt þar til Fjármálaeftirlitið tók yfir stjórnir þeirra í október 2008. Hækkun hlutabréfaverðs bankanna kann að hafa verið afleiðing en jafnframt einnig ein orsök þenslu og útrásar bankanna. Við hefðbundnar markaðsaðstæður endurspeglast velgengni og staða félaga á opinberum markaði í markaðsverði verðbréfa þeirra. Meiri sýnileiki veldur því svo að velgengni félags sem skráð er á markað getur aukið vaxtarmöguleika þess enn frekar með bættum fjármögnunarleiðum, s.s. í gegnum nýja útgáfu verðbréfa eða aðgengi að erlendu fjármagni. Umgjörð verðbréfaviðskipta á Íslandi var alþjóðleg og aðgengi erlendra aðila að íslenskum fjárfestingakostum og upplýsingum um íslensk félög gott. Því má ætla að skráning íslensku bankanna á hlutabréfamarkað og hagfelld þróun á hlutabréfaverði þeirra fram á mitt árið 2007 hafi átt þátt í að skapa þeim trúverðugleika jafnt innanlands sem utan og gert þeim kleift að sækja sér það fjármagn sem nauðsynlegt var til að knýja útrás þeirra og styðja við vöxt bankakerfisins.

Hér á eftir fer fram greining á viðskiptum, veltu og verðmyndun á íslenskum verðbréfamarkaði á árunum frá 2004 og fram til október 2008 og beinist athyglin sérstaklega að verðmyndun á hlutabréfamörkuðum. Sér í lagi verður leitast við að greina hvort hröð verðhækkun hlutabréfa íslensku bankanna og annarra stórra félaga eigi sér eðlilegar ástæður eða hvort inngrip bankanna í þessi viðskipti hafi mögulega falið í sér óeðlileg áhrif á verðþróunina og þá meðal annars með tilliti til vitneskju stjórnenda og starfsmanna bankanna um aðstæður á mörkuðum og fjármögnunar viðskiptanna.Tekin verða til athugunar viðskipti ýmissa einstaklinga, fyrirtækja og sú lánafyrirgreiðsla sem í sumum tilfellum fékkst til hlutabréfakaupa. Einnig verður komið inn á hlutverk eftirlitsaðila markaðarins og lagt mat á hvernig þeir aðilar ræktu skyldur sínar. Að lokum verður gefið yfirlit yfir veltu og verðþróun á skuldabréfamarkaði.

12.2 Öflun gagna

Til að greina hreyfingar á íslenskum verðbréfamarkaði aflaði rannsóknarnefnd Alþingis ítarlegra gagna um verðbréfaviðskipti sem fram fóru á Íslandi á tímabilinu frá 2004 og fram til október 2008.

Verðbréfaskráning Íslands hefur það hlutverk að gefa út og skrá rafrænt öll verðbréf á íslenskum verðbréfamarkaði. Verðbréfaskráning afhenti rannsóknarnefndinni færsluskrá þar sem skráðar eru allar færslur verðbréfa á íslenskum markaði frá árinu 2004 og fram til hruns bankanna. Á skránni koma fram færslur yfir viðskipti með verðbréf sem og millifærslur verðbréfa milli vörslureikninga í eigu sama aðila, upplýsingar m.a. um kennitölu viðskiptamanns, auðkenni verðbréfs, fjölda hluta/bréfa og dagsetningu. Hins vegar var ekki í öllum tilfellum unnt að fá upplýsingar um upphæð viðskipta í íslenskum krónum.

Kauphöllin hefur afhent rannsóknarnefnd Alþingis upplýsingar um öll viðskipti með hlutabréf sem komu til við sjálfvirka pörun eða voru tilkynnt í kerfi Kauphallarinnar. Þær hafa m.a. að geyma auðkenni hlutabréfs, nákvæma tímasetningu, fjölda hluta, viðskiptaverð, tegund viðskipta (þ.e. hvort um var að ræða sjálfvirka pörun, tilkynnt viðskipti, afleiðutengd viðskipti o.s.frv.), upplýsingar um þá kauphallaraðila og miðlara sem komu að viðskiptunum og um það hver átti frumkvæðið að viðskiptunum ef um var að ræða viðskipti í tilboðabók Kauphallarinnar. Sá telst eiga frumkvæðið að viðskiptum sem gengur að fyrirliggjandi kaup- eða sölutilboði fyrir tiltekið verðbréf. Einnig hefur Kauphöllin unnið, að beiðni rannsóknarnefndar Alþingis, ýmsar samtölur um þróun viðskipta með hlutabréf og skuldabréf á markaði með skráð verðbréf á Íslandi. Má þar nefna samantekt á veltutölum, þróun og samsetningu vísitalna kauphallar og gengi einstakra verðbréfa.

Að auki hefur rannsóknarnefnd Alþingis sótt ítarlegar upplýsingar til þriggja stærstu bankanna við hrun, þ.e. Kaupþings, Landsbankans og Glitnis. Um er að ræða upplýsingar um verðbréfaviðskipti sem skráðar voru í upplýsingakerfi bankanna. Þar koma fram auðkenni verðbréfs, tímasetning viðskipta, fjöldi hluta, kennitala og nafn viðskiptamanns, upplýsingar um tegund vörslureiknings, miðlara eða sölumann, mynt sem viðskipti fóru fram í og gengi þess gjaldmiðils, upphæð viðskipta í grunnmynt og upplýsingar um þá viðskiptabók (þ.e. veltubók, miðlun, afleiðubók o.s.frv.) sem viðskiptamaður á viðskipti við. Einnig óskaði rannsóknarnefnd Alþingis eftir því að bankarnir ynnu ýmsar samtölur um þróun þeirra verðbréfaviðskipta sem þeir höfðu umsjón með, s.s. myndir af stöðutöku einstakra viðskiptabóka eða viðskiptavina. Einnig óskaði rannsóknarnefndin eftir ítarlegri upplýsingum um einstaka gjörninga eftir því sem tilefni þótti til og skoðaði fundargerðir og önnur skjöl og gögn sem fengust frá bönkunum þremur.

Að lokum byggir rannsóknarnefnd Alþingis greiningu sína á verðbréfamörkuðum á skýrslutökum af ýmsum aðilum er tengdust markaðsviðskiptum á Íslandi með einum eða öðrum hætti. Er þar fyrst og fremst um að ræða ýmsa starfsmenn hinna föllnu banka en leitast var við að taka skýrslu af a.m.k. einum starfsmanni miðlunar hvers banka og einum starfsmanni deildar eigin viðskipta hvers banka auk annarra starfsmanna sem komu beint eða óbeint að verðbréfaviðskiptum.Að auki byggir skýrslan á viðtölum við ýmsa aðra starfsmenn sem bjuggu yfir nytsamlegum upplýsingum.

12.3 Umgjörð verðbréfaviðskipta

Eins og áður segir fóru hlutabréfaviðskipti á Íslandi fram í Kauphöllinni. Notast var við rafrænt viðskiptakerfi sem kallast SAXESS og var sameiginlegt kerfi meðal norrænu kauphallanna. Einungis aðilar sem höfðu tilskilin starfsleyfi, sættu eftirliti yfirvalda og uppfylltu kröfur NOREX kauphallanna um aðild gátu átt viðskipti í Kauphöllinni og nefnast þeir kauphallaraðilar. Fyrir hönd hvers kauphallaraðila voru svo ákveðnir miðlarar sem höfðu aðgang að viðskiptakerfinu en miðlarar þurfa að uppfylla viss skilyrði, s.s. um lágmarksmenntun og starfsreynslu, auk þess að hafa gengist undir próf hjá Kauphöllinni. Öll viðskipti fóru í gegnum kauphallaraðila hvort sem þau voru fyrir hans eigin reikning (e. proprietary trading) eða fyrir hönd utanaðkomandi aðila, þ.e. viðskiptavinar kauphallaraðilans.

Hver viðskiptadagur hófst og endaði á uppboðsferli til þess að ákvarða opnunar- og dagslokaverð hlutabréfanna. Hvort um sig er mikilvægt ferli, sér í lagi lokunaruppboðið sem skilgreinir opinbert dagslokaverð hlutabréfanna en það er gjarnan notað sem viðmið við útreikning á eignasöfnum hluthafa og virði ýmissa tengdra fjármálagerninga,s.s.sjóða.Að loknu opnunaruppboði Kauphallarinnar hófst tímabil samfelldra viðskipta (e. continuous trading), þar sem kauphallaraðilar gátu fært inn tilboð og viðskipti fóru fram við pörun tilboða, um leið og pörun átti sér stað. Slík viðskipti kallast pöruð viðskipti (e. automatically matched trades, auto trades) en einnig var mögulegt að semja um kjör viðskipta utan Kauphallarinnar og tilkynna um viðskiptin að því loknu. Slík viðskipti kallast tilkynnt viðskipti (e. manual trades) og er þar gjarnan um umfangsmeiri viðskipti að ræða.Tímabili samfelldra viðskipta lauk svo með lokunaruppboði eins og að framan greinir. Auðkenni kauphallaraðila voru ekki sýnileg meðan á viðskiptum dagsins stóð en aðilar að markaðnum gátu þó séð tilboð og viðskipti miðlara á vegum sama félags sem og auðkenni mótaðila síns í viðskiptum.

Á meðan samfelld viðskipti áttu sér stað mynduðu hagstæðustu kaup- og sölutilboð hverrar tilboðabókar (e. order book) svokallað verðbil (e. spread). Þau viðskipti sem síðast áttu sér stað ákvörðuðu svo viðskiptaverðið á hverjum tíma (e. last price), svo lengi sem um pöruð viðskipti var að ræða eða tilkynnt viðskipti sem voru innan verðbils á tíma tilkynningar.Verðbreytingar gátu því einungis orðið innan verðbils eða með hliðrun verðbilsins þannig að verðmyndun var fyrst og fremst knúin áfram af pöruðum viðskiptum. Áhrif tilkynntra viðskipta voru hins vegar í flestum tilvikum óbeinni, s.s. í gegnum áhrif á væntingar og mat fjárfesta á aðstæðum.

12.4 Regluverk og eftirlitsaðilar

Um viðskipti á verðbréfamarkaði og töku fjármálagerninga til viðskipta gilda lög um verðbréfaviðskipti (hér eftir vvl.). Frá 1. júlí 2003 til 1. nóvember 2007 voru í gildi lög um verðbréfaviðskipti nr. 33/2003, en þá tóku gildi ný lög um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007. Með þeim var innleidd í íslenskan rétt tilskipun Evrópusambandsins um markaði fyrir fjármálagerninga 2004/39/EB (e. Markets in Financial Instruments Directive, eða MiFID tilskipunin). Af öðrum lögum sem um þetta svið gilda má nefna lög um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 og lög um kauphallir nr. 110/2007. Þau síðarnefndu tóku gildi 1. nóvember og leystu af hólmi lög um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða nr. 34/1998. Á grundvelli þessara lagabálka hafa verið settar fjölmargar reglugerðir og reglur um verðbréfaviðskipti.

Auk framangreindra laga og reglna sá Kauphöllin um að setja reglur á grundvelli samningssambands síns við útgefendur og aðila að viðskiptakerfi Kauphallarinnar. Reglurnar voru tvíþættar og beindust annars vegar að útgefendum, þ.e. reglur fyrir útgefendur fjármálagerninga í Kauphöllinni, og hinsvegar að kauphallaraðilum, þ.e. aðildarreglur NOREX (e. NOREX Member Rules). Reglur fyrir útgefendur fjármálagerninga höfðu að mestu leyti verið samræmdar regluverki hinna NASDAQ OMX kauphallanna frá júlí 2008 og meðal NOREX kauphallanna giltu sameiginlegar aðildarreglur með örfáum undantekningum.

12.4.1 Fjármálaeftirlitið

Hlutverk Fjármálaeftirlitsins á verðbréfamarkaði er að hafa eftirlit með framkvæmd laga og reglna um verðbréfaviðskipti á Íslandi eins og nánar er fjallað um í kafla 16. Um heimildir stofnunarinnar í því sambandi fer samkvæmt XIV. kafla laga um verðbréfaviðskipti og ákvæðum laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Meðal annars er Fjármálaeftirlitinu heimilt að krefja einstaklinga og lögaðila um allar upplýsingar og gögn sem þurfa þykir.Telji stofnunin háttsemi andstæða ákvæðum laga um verðbréfaviðskipti getur hún krafist þess að háttseminni verði hætt þegar í stað og jafnframt krafist þess að atvinnustarfsemi verði stöðvuð tímabundið. Þá er Fjármálaeftirlitinu heimilt að krefjast þess að viðskiptum með tiltekna fjármálagerninga verði hætt fyrir fullt og allt, leiði athugun í ljós að viðskiptin samrýmist ekki ákvæðum laga.

Hinn 1. nóvember 2007, í kjölfar innleiðingar á MiFID tilskipuninni, var tekið í notkun nýtt eftirlitskerfi með verðbréfaviðskiptum, svokallað TRS-kerfi, sem var ætlað að auka skilvirkni verðbréfaeftirlits. Kerfið er tvíþætt, annars vegar er um að ræða tilkynningakerfi og hins vegar úrvinnslukerfi. Öllum fjármálastofnunum ber að senda um tilkynningakerfið daglegar skýrslur um viðskipti sem m.a. skulu hafa að geyma upplýsingar um fjölda, verð, auðkenni verðbréfs og viðskiptanúmer viðskiptavinar hjá viðkomandi fjármálastofnun. Samkvæmt þessu eru viðskiptamenn einungis aðgreinanlegir innan einstakra fjármálastofnana en ekki á milli stofnana. Vitað er að Fjármálaeftirlitið lagði á það ríka áherslu við viðskiptaráðuneytið við setningu laganna að mögulegt yrði að greina einstaka viðskiptaaðila hjá ólíkum fjármálastofnunum, þó með ópersónugreinanlegum hætti, líkt og þekkist í ýmsum nágrannalöndum Íslands. Í 2. tölul. 2. gr. reglugerðar nr. 191/2008, um tilkynningar um viðskipti skv. 30. gr. laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, er fjallað um auðkenningu viðskiptavinar í tilkynningu til Fjármálaeftirlitsins og segir þar: "Auðkenning viðskiptavinar sem fjármálafyrirtæki annast viðskipti fyrir í formi viðskiptanúmers eða reikningsnúmers, þ.e. tölu- og/eða bókstafir og er að hámarki 20 stafir. Auðkenningin skal vera sérkennandi, þannig að hún vísi einungis til viðkomandi viðskiptavinar, og skal notuð í öllum tilkynningum hlutaðeigandi fjármálafyrirtækis til Fjármálaeftirlitsins um viðskipti hans."

Á heimasíðu FME kemur fram að einn hluti TRS kerfisins sé úrvinnslukerfi sem gerir það kleift að greina hugsanleg brot á tilteknum ákvæðum MiFID tilskipunarinnar, þ.e. ákvæðum um bestu framkvæmd viðskipta og fjárfestavernd. Kerfið nýttist hins vegar ekki að fullu við eftirlit með öðrum þáttum, s.s. hugsanlegri markaðsmisnotkun og/eða innherjaviðskiptum.

Samkvæmt 138. gr. laga um verðbréfaviðskipti hefur Fjármálaeftirlitið heimild til að fela skipulegum verðbréfamarkaði eftirlitsverkefni. Á grundvelli þessarar heimildar fól Fjármálaeftirlitið Kauphöllinni eftirlit með ákveðnum þáttum eins og útlistað er hér að neðan. Ábyrgð á eftirliti með þessum þáttum var eftir sem áður hjá Fjármálaeftirlitinu og því bar Kauphöllinni að vísa málum til Fjármálaeftirlitsins yrði hún þess áskynja að lög kynnu að hafa verið brotin.

12.4.2 Kauphöllin

Kauphöllin hafði eftirlit með reglum sem hún gaf út auk þess sem samstarfssamningur var á milli Fjármálaeftirlitsins og Kauphallarinnar um eftirlitsverkefni sem Fjármálaeftirlitið fól Kauphöllinni. Samstarfssamningurinn fól í sér að Kauphöllin fylgdist með því að útgefendur þeirra fjármálagerninga sem teknir voru til viðskipta í Kauphöllinni og kauphallaraðilar störfuðu í samræmi við kauphallarlögin og reglur Kauphallarinnar.

Innan Kauphallarinnar var eftirliti skipt í tvennt, í útgefendaeftirlit og viðskiptaeftirlit. Undir útgefendaeftirlit flokkaðist allt eftirlit með skyldum útgefenda samkvæmt vvl. og reglum fyrir útgefendur verðbréfa í Kauphöllinni og undir viðskiptaeftirlit allt eftirlit með kauphallaraðilum, þ.e. hvort viðskipti í viðskiptakerfi Kauphallarinnar færu fram í samræmi við vvl. og aðildarreglur NOREX.

Útgefendaeftirlit Kauphallarinnar fólst m.a. í því að Kauphöllin fór yfir efni tilkynninga sem birtust opinberlega í fréttakerfi Kauphallarinnar, þ. á m. um flagganir og viðskipti innherja, og fylgdist einnig með umfjöllun og fréttum í fjölmiðlum er tengdust félögum sem höfðu fengið fjármálagerninga sína tekna til viðskipta í Kauphöllinni. Eftirlitið miðaði að því ganga úr skugga um að allar upplýsingar sem gætu haft marktæk áhrif á markaðsverð verðbréfa í Kauphöllinni væru gerðar opinberar. Kæmu upp einhver álitaefni var haft samband við útgefanda og ef tilefni þótti til var farið fram á skriflegar skýringar eða annarra upplýsinga aflað.

Við viðskiptaeftirlitið var notast við rafrænt eftirlitskerfi sem kallast SMARTS en það kerfi var notað í NOREX kauphöllunum og fleiri stórum kauphöllum, s.s. London Stock Exchange og NYSE Euronext Paris. Kerfið gerir viðvart um atburði á markaði sem gætu verið vísbending um brot á lögum eða reglum, s.s. miklar verðbreytingar, mikla veltu, viðskipti sem gætu talist óeðlileg með tilliti til markaðsaðstæðna, viðskipti í kringum birtingu verðmótandi upplýsinga og verðbreytingar í lok dags, mánaðar eða ársfjórðungs. Kæmu fram slíkar viðvaranir voru ástæður þeirra kannaðar og tilraun gerð til þess að skýra þær með hliðsjón af markaðsaðstæðum og fréttum. Ef tilefni þótti til var t.d. leitað skýringa hjá verðbréfamiðlurum, verðbréfafyrirtækjum send beiðni um skýringar á þeim viðskiptum eða háttsemi sem til athugunar var eða óskað eftir upplýsingum um aðila að viðskiptunum, þ. á m. um viðskiptavini verðbréfafyrirtækjanna.

Ef grunur lék á því að vvl. hefðu verið brotin var Fjármálaeftirlitinu send ábending um það í samræmi við samstarfssamninginn. Kæmist Kauphöllin að þeirri niðurstöðu að reglur hennar hefðu verið brotnar var henni m.a. heimilt að gera formlega athugasemd við starfshætti viðkomandi útgefanda eða kauphallaraðila, veita óopinbera eða opinbera áminningu og/eða leggja á févíti, allt eftir því hversu alvarleg brot var um að ræða á grundvelli samnings viðkomandi lögaðila við Kauphöllina. Kauphöllinni var einnig heimilt að stöðva viðskipti með fjármálagerninga félags eða setja þá á athugunarlista. Í töflu 1 og 2 má sjá hvernig afgreiðslu Kauphallarinnar á eftirlitsmálum var háttað á síðustu árum tímabilsins.

12.5 Þróun á íslenska hlutabréfamarkaðnum

Íslenskur verðbréfamarkaður kom fyrst til sögunnar árið 1985 með stofnun Verðbréfaþings Íslands hf. sem síðar varð Kauphöll Íslands hf. og heitir nú NASDAQ OMX Iceland hf. (Kauphöllin). Fyrstu hlutabréfin voru tekin til viðskipta á markaði árið 1990 og í lok ársins 2000 var fjöldi skráðra félaga orðinn 75. Upp úr því hófst tímabil samruna, yfirtaka og afskráninga sem dró úr fjölda fyrirtækja á markaðnum en heildarmarkaðsvirði félaganna jókst aftur á móti. Frá því að útreikningur Úrvalsvísitölunnar (OMX Iceland 15) hófst í ársbyrjun 1998 og þar til í ársbyrjun 2004 hafði gildi hennar hækkað um 110,29% en mestu hækkanirnar komu þó ekki fram fyrr en síðar. Frá ársbyrjun 2004 og þar til Úrvalsvísitalan náði sínu hæsta gildi í 9016,48 stigum 18. júlí 2007 nam hækkunin alls 328,76% og var sú almenna hækkun Úrvalsvísitölunnar einsdæmi meðal þróaðra hagkerfa eins og samanburður við erlendar vísitölur sýnir glöggt. Í ársbyrjun 2006 varð þó ákveðinn viðsnúningur í skamman tíma þegar hlutabréfaverð lækkaði ört en þegar leið á árið dró úr lækkunum þar til uppgangurinn hófst á ný og fyrrgreindu hámarki var svo náð um mitt ár 2007. Þetta niðursveiflutímabil hefur í daglegu tali oft verið nefnt litla kreppan (e. mini-crisis).

Hækkun vísitölunnar mátti að talsverðu leyti rekja beint eða óbeint til hækkunar á hlutabréfaverði bankanna. Samanlagt vægi Kaupþings, Landsbankans og Glitnis í Úrvalsvísitölunni hafði í upphafi árs 2004 verið um 42% en það jókst nær samfellt á tímabilinu þar til það var orðið um 72% um mitt ár 2008. Séu önnur fyrirtæki í fjármálaþjónustu tekin með breyttist hlutfallið frá tæplega 47% í ársbyrjun 2004 í rúmlega 88% um mitt ár 2008.

Samanburður á verðhreyfingum fyrirtækja í fjármálaþjónustu á Íslandi og á Norðurlöndunum almennt sýnir svipaða mynd sem sjá má með því að bera saman þróun vísitölu fjármálafyrirtækja á Íslandi (OMX Iceland Financials vísitöluna) og vísitölu fjármálafyrirtækja á Norðurlöndunum (OMX Nordic Financials vísitöluna). Sá samanburður nær aftur til ársbyrjunar 2005 þegar útreikningur á OMX Iceland Financials vísitölunni hófst en frá þeim tíma og til 18. júlí 2007 þegar hlutabréfaverð stóð í hæstu hæðum hækkaði íslenska fjármálavísitalan um 183% á meðan sú norræna hækkaði um 66%.

Þetta tímabil einkenndist einnig af ákveðinni samþjöppun og fækkun fyrirtækja á markaði, samhliða hækkun á markaðsvirði og aukinni veltu. Á myndinni hér að neðan má sjá fjölda félaga og heildarveltu á hlutabréfamarkaðnum. Eins og sjá má fækkaði félögum nokkuð ört frá upphafi árs 2004 og fram á mitt ár 2006 en fjöldinn hélst svo nokkuð stöðugur til loka tímabilsins þó nokkur fækkun hafi orðið á síðustu mánuðum þess. Þrátt fyrir miklar sveiflur í veltu jókst hún að jafnaði talsvert þegar leið á tímabilið og náði hámarki um svipað leyti og markaðsvirði fyrirtækja var hvað mest enda var þá virði þeirra hluta sem skiptu um hendur í hámarki. Mesta veltan var svo í júlí 2007 og nam þá 529 milljörðum kr. en talsverðan hluta þeirrar upphæðar má rekja til þess að gengið var frá viðskiptum vegna yfirtöku á Actavis Group hf. Þann mánuðinn nam velta með hlutabréf Actavis um 300 milljörðum, þar af um 280 milljörðum í einum viðskiptum. Actavis var í kjölfarið tekið úr viðskiptum.

Bankarnir voru ekki einungis stærstu útgefendur hlutabréfa í Kauphöllinni að markaðsvirði heldur voru þeir einnig afar atkvæðamiklir í viðskiptum í Kauphöllinni. Í töflu 3 má sjá hlutdeild bankanna í viðskiptum með hlutabréf og skuldabréf í Kauphöllinni á tímabilinu. Eins og sjá má komu bankarnir að um 74–80% af öllum viðskiptum í Kauphöllinni. Öll árin var Kaupþing stærsti aðilinn en Glitnir og Landsbankinn voru til skiptis með næstmestu veltuna.

Þó að veltuhlutdeild sé ákveðin vísbending um umsvif viðkomandi banka í hlutabréfaviðskiptum fyrir eigin reikning þarf að hafa í huga að stór hluti viðskiptanna mun hafa átt sér stað fyrir hönd viðskiptavina bankanna. Með öðrum orðum gátu bankarnir bæði átt viðskipti fyrir eigin reikning sem og fyrir hönd viðskiptavina sinna sem einskonar milliliðir. Ef viðskiptin væru skoðuð með tilliti til endanlegra kaupenda og seljenda yrði myndin líklega önnur. Við skýrslutökur fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom fram hjá hlutabréfamiðlurum að flestir þeirra töldu lífeyrissjóðina hafa verið einna atkvæðamesta á markaðnum, en nefndu einnig að viðskipti verðbréfasjóða hefðu verið mikil sem og deildir eigin viðskipta bankanna. Í skýrslu Elmars Svavarssonar, miðlara hjá Glitni, kemur t.a.m. fram að hann hafi talið lífeyrissjóði landsmanna vera bakbeinið í markaðnum allt þar til hlutabréf hafi hækkað það mikið í verði að sjóðirnir hafi verið komnir út fyrir fjárfestingarheimildir sínar í hlutabréfum: "[...]og óhjákvæmilega verða þeir svona hálfpartinn til hliðar í hlutabréfaviðskiptum eða þeir hafa bara hreinlega ekki heimildir til þess, án þess að ég viti nákvæmlega hvernig það er[...]". Svipuð skoðun kemur fram hjá Frosta Rey Rúnarssyni, miðlara hjá Kaupþingi, en aðspurður nefnir hann lífeyrissjóði, verðbréfasjóði bankanna,aðila tengda bönkunum,viðskiptavaka og bankana sjálfa sem stærstu einstöku aðila á íslenskum hlutabréfamarkaði.Af þessu má ráða að sú skoðun hafi verið ríkjandi að lífeyrissjóðir landsins, aðrir sjóðir, bankarnir og nokkrir stórir viðskiptaaðilar tengdir bönkunum hafi verið helstu þátttakendur í kauphallarviðskiptum á Íslandi.

Í lok árs 2007 var markaðsvirði hlutabréfa í viðskiptum í Kauphöllinni orðið um 204% af vergri landsframleiðslu.Til samanburðar má nefna að á sama tíma var það hlutfall um 144% fyrir Bandaríkin, 140% fyrir Bretland og á bilinu 83–144% fyrir hin Norðurlöndin. Margir fjárfestar líta svo á að ef markaðsvirði hlutabréfa á markaði fer yfir 100% hlutfall af vergri landsframleiðslu þýði það að viðkomandi markaður sé of hátt verðmetinn. Í þessu sambandi er vert að benda á að í ársbyrjun 2009 hafði þetta hlutfall lækkað niður í 84% fyrir Bandaríkin, 58% fyrir Bretland og 31–58% fyrir Norðurlöndin utan Íslands – þar sem hlutfallið var komið niður í 16%. Reyndar má benda á að sum af þessum hagkerfum eru ekki jafn opin og hið íslenska og hlutföllin því ef til vill ekki að fullu sambærileg. Þó var það svo að t.a.m. allir stærstu eigendur íslensku bankanna voru innlendir fjárfestar og því erfitt að fullyrða að erlent fjármagn hafi knúið verðmyndun á íslenskum hlutabréfamarkaði og sé ástæða fyrir háu verðmæti hans í hlutfalli við verga landsframleiðslu. Hvað sem því líður er ljóst að markaðsvirði hlutabréfa í Kauphöllinni gat ekki aukist svo mikið nema talsverðu fjármagni væri veitt inn á markaðinn á þessum árum. Það getur m.a. verið vísbending um mikla vogun (e. leveraging), þ.e. skuldsetningu, hlutabréfa. Hækkun hlutabréfaverðs kann því að hluta til að hafa verið knúin áfram af lántökum.

Til að draga upp gleggri mynd af umfangi lána til hlutabréfakaupa má skoða þróun á veðsetningu hlutabréfa á Íslandi. Sú þróun ætti að fylgja nokkuð vel aukningu eða samdrætti útlána til hlutabréfakaupa en þó verður að hafa í huga að við lánveitingu er jafnan gerð krafa um ákveðna tryggingaþekju. Það þýðir að virði bréfanna sem lögð eru að veði fyrir tilteknu láni er meira en lánsfjárhæðin sem veitt er. Með öðrum orðum þarf lántakinn að leggja sjálfur til eitthvað af eigin fé til að fjármagna fjárfestinguna. Einnig verður að hafa í huga að lánið sem veitt er gegn veðsetningu hlutabréfanna þarf ekki endilega að vera til fjármögnunar á viðkomandi bréfum heldur getur verið um margvíslegar fjárfestingar að ræða. Þó má gera ráð fyrir því að talsverður hluti veðsetningar sé beint eða óbeint vegna fjármögnunar á hlutabréfakaupum. Mynd 4 sýnir þróun á markaðsvirði veðsettra hlutabréfa sem skráð voru í Kauphöllinni sem hlutfall af heildarverðmæti markaðarins frá byrjun árs 2004 og fram til loka september 2008, þ.e. hversu hátt hlutfall markaðsins var veðsett. Til samanburðar er svo sýnd þróun á gengi heildarvísitölu Kauphallarinnar (OMXPI), sem endurspeglar markaðsvirði allra hlutabréfa sem tekin höfðu verið til viðskipta í Kauphöllinni.

Ákveðna fyrirvara verður að hafa á þeim gögnum sem myndin byggir á. Í fyrsta lagi hafði rannsóknarnefnd Alþingis ekki upplýsingar um hversu stór hluti markaðsins hafi verið veðsettur við upphaf tímabilsins en ætla má að það hlutfall hafi verið jákvætt. Því er raunveruleg veðstaða vanmetin yfir allt tímabilið og jafngildir það vanmat veðstöðunni við upphaf þess. Í öðru lagi ber að nefna það að myndin sýnir einungis beina veðsetningu hlutabréfa en hugsanlegt er að hlutabréf hafi í auknum mæli verið veðsett óbeint, t.a.m. með veðtöku í öllum eignum félags sem hefur skráð hlutabréf í eignasafni sínu. Ofangreind atriði geta því valdið því að veðsetning íslenskra hlutabréfa sé að einhverju leyti vanmetin. Það er þó ekki talið hafa veruleg áhrif á þær ályktanir sem dregnar eru af gögnunum.

Á myndinni má glögglega sjá mikla aukningu í veðsetningu hlutabréfa samfara hækkun hlutabréfaverðs allt fram til miðs árs 2007 þegar heildarvísitalan nær hámarki sínu og yfir 40% allra skráðra hlutabréfa á markaði í Kauphöllinni, miðað við markaðsvirði, eru veðsett.Veðsetningin virðist svo standa nokkuð í stað frá haustinu 2007 og fram til loka september 2008 þegar hlutabréfaverð lækkar hratt. Því má draga þá ályktun að lán til hlutabréfakaupa hafi aukist verulega í bankakerfinu og virðist talsverð fylgni vera milli þeirrar aukningar og hækkunar hlutabréfaverðs.

Í þessu samhengi er einnig vert að kanna tryggingaþekju þeirra útlána sem hafa hlutabréf að veði. Mynd 5 sýnir dreifni tryggingaþekju slíkra lána hjá stærstu bönkunum þremur, Landsbankanum, Glitni og Kaupþingi, og byggir á gögnum sem Fjármálaeftirlitið óskar reglulega eftir að fá afhent frá lánastofnunum. Af þessu má sjá að í lok mars árið 2007 voru 96,65% slíkra útlána með tryggingastöðu yfir 100%, þar af 71,41% með tryggingastöðu yfir 125%. Í lok júní 2008 hefur staðan hins vegar breyst mikið en þá hafa 29,91% slíkra útlána tryggingastöðu undir 100% og þar af hafa 9,93% veðþekju undir 75% markinu. Því er ljóst að gæði þessara lánasafna hafi rýrnað til muna á rúmu ári og má rekja ástæðu þess til þriggja atriða. Í fyrsta lagi er ljóst að mikið verðfall varð á íslenskum hlutabréfum á tímabilinu sem rýrði tryggingagildi þeirra bréfa sem upphaflega voru lögð að veði. Í öðru lagi getur þetta endurspeglað það að bankarnir hafi ekki gert formleg veðköll, þ.e. óskað eftir frekari tryggingum fyrir útlánum, með fullnægjandi hætti í kjölfar versnandi tryggingastöðu. Í þriðja lagi voru lán með veði í íslenskum hlutabréfum í mörgum tilvikum veitt í erlendri mynt en samhliða lækkun hlutabréfaverðs veiktist gengi krónunnar sem rýrði enn frekar virði hlutabréfanna gagnvart útlánunum.Við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis sagði Rúnar Magni Jónsson, viðskiptastjóri á lánasviði Kaupþings, til að mynda að líklega hefði ekki verið gengið nægilega hart fram af hálfu bankans þegar veðköll voru framkvæmd. Ætla má að svipað hafi verið við lýði hjá hinum bönkunum.

Aðspurður um framboð Glitnis og eftirspurn viðskiptavina hans eftir skuldsettum fjármálaafurðum sagði Elmar Svavarsson að eftirspurnin hefði verið gríðarleg hjá almennum fjárfestum og að "hungrið í skuldsetningar [hefði verið] brjálað". Elmar mat það svo að skuldsetning hefði farið vaxandi allt frá árinu 2003 og náð hámarki árið 2007.

"[...] ég mundi halda að þetta stutta stopp á hlutabréfamarkaðnum [vísar væntanlega til lækkunar árið 2006] þegar hann fór aðeins niður, það varð aldrei nein veruleg lækkun, svona 2003, 2004, 2004 mundi ég halda að þetta væri dálítið að byrja [þ.e. aukin skuldsetning til hlutabréfakaupa]. Þetta er komið dálítið vel af stað í lok árs 2005, 2006 þegar mínikrísan skellur á. Það var fullt af fólki sem tapaði peningum þá. Hins vegar eftir skellinn 2006 – við vitum að það er svona ákveðinn tímapunktur síðla sumars sem verður til þess að markaðurinn tekur við sér, í ágúst 2006. Þá mundi ég segja að ,,all hell broke loose". Og ef það er einhver tímapunktur sem þú vilt miða við þá mundi ég segja að það væri svona [...] það nær hámarki væntanlega í júlí 2007.Til dæmis það vor, þar er krafan um skuldsettar vörur ógnvænleg. Þetta er vont orð, en hún var það samt sko og okkur fannst það í sjálfu sér líka, svona krafsandi á dyrnar svona kröfur og bara fólk sem hafði ekkert með það að gera."

Svo virðist sem dregið hafi úr aukningu veðsetningar á hlutabréfum haustið 2007 og hún staðið nokkurn veginn í stað fram til loka september 2008 þegar hrun bankanna átti sér stað.Við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefndAlþingis kvaðst Frosti Reyr Rúnarsson,forstöðumaður verðbréfamiðlunar Kaupþings, hafa orðið var við minnkandi veltu á verðbréfamörkuðum í kjölfar aukinna erfiðleika við fjármögnun. Hluti af viðskiptum miðlunar Kaupþings hefði verið fjármagnaður í bankanum í framvirkum samningum. Taldi hann að þær tekjur sem miðlun Kaupþings aflaði með framvirkum samningum á árinu 2008 hefði einungis numið um 10% af þeim tekjum sem aflað var á þennan hátt á árinu 2007. Það hefði verið vegna þess að í lok árs 2007 hefði verið dregið úr fjármögnun verðbréfaviðskipta og að samhliða því hefði veltan minnkað.Aðspurður um almenna þróun á íslenska hlutabréfamarkaðnum og hvort fjárfestar hefðu almennt verið að auka skuldsetningu sína til frekari hlutabréfakaupa sagði Steinþór Gunnarsson, fyrrum forstöðumaður verðbréfamiðlunar í Landsbanka Íslands, eftirfarandi: "Litla kreppan [vísar væntanlega til lækkana á hlutabréfamörkuðum árið 2006] [...] hún dró tennurnar úr mörg.., úr ýmsum, fækkaði þessu mengi þó nokkuð og hún í rauninni gerði tvennt, hún gerði það annars vegar og svo hins vegar jók hún [...] þetta svona víkingaeðli okkar, að við mundum nú komast í gegnum þessa stóru kreppu líka, af því að við vorum búin að komast í gegnum þessa litlu. Það má eiginlega segja að best hefði verið hefðum við bara sett strik í gólfið þá og sagt bara: Heyrðu, nú skulum við bara hætta þessu og gíra okkur aðeins niður og "chilla" núna, ekki stækka kerfið svona mikið. Það hefði verið best, en af því að við erum Íslendingar þá [...] efldi þetta okkur.Við komumst í gegnum þessa og þá vorum við ósigrandi. Þannig var stemningin, held ég. Út af þessari litlu kreppu."

Í kafla 8.0 er einnig fjallað um framvirka samninga og þar kemur fram að talsvert var um slíka samninga. Líta má á framvirka samninga um hlutabréfakaup sem eina tegund lána til hlutabréfakaupa.

Til að varpa ljósi á hugsanleg áhrif aukins aðgengis fjárfesta að fjármagni til hlutabréfakaupa á veltu og verðmyndun á mörkuðum og hugsanlegar afleiðingar þegar aftur dregur úr slíkri fjármögnun hefur rannsóknarnefnd Alþingis tekið saman sérstaka greinargerð og er hún birt í meðfylgjandi rammagrein.

12.6 Hlutabréf bankanna

Eins og fram hefur komið hækkaði hlutabréfaverð þriggja stærstu bankanna, Kaupþings, Landsbankans og Glitnis, talsvert frá árinu 2004 og fram á mitt árið 2007 þegar verðið tók að lækka á ný. Hækkunarferlið hafði þó ekki verið samfellt þar sem hlutabréfaverð lækkaði skarpt í skamman tíma í upphafi ársins 2006 í kjölfar neikvæðrar umfjöllunar erlendis. Þetta tímabil hefur í daglegu tali gjarnan verið kallað "litla kreppan". Burtséð frá slíkum sveiflum hafði verð hlutabréfa Kaupþings hækkað frá ársbyrjun 2004 og fram til 18. júlí 2007 um 536%, Landsbanka Íslands um 661% og Glitnis um 444%, en þá urðu þáttaskil í verðþróun á innlendum hlutabréfamarkaði. Á mánuðunum sem fóru í hönd lækkaði verð hlutabréfa talsvert samhliða lækkunum á erlendum hlutabréfamörkuðum. Fram til 26. september 2008 þegar tilkynnt var að íslenska ríkið ætlaði að kaupa 75% hlut í Glitni með því að leggja til nýtt hlutafé, hafði verð hlutabréfa í Glitni lækkað um 48%, í Kaupþingi um 40% og í Landsbankanum um 44% frá hæsta gildi bréfanna. Í kjölfar frétta af fyrirhuguðum kaupum íslenska ríkisins í Glitni voru viðskipti með hlutabréf bankans stöðvuð tímabundið 29. september 2008 en hófust svo á ný degi síðar. Fram til 3. október lækkaði verð hlutabréfa bankanna svo enn frekar þannig að heildarlækkun var orðin 87% í tilviki Glitnis, 48% í tilviki Kaupþings og 52% í tilviki Landsbankans. Sú mikla lækkun sem varð á verði hlutabréfa í Glitni endurspeglaði þá þynningu sem hefði orðið á eign hluthafa með fyrirhuguðu hlutafjárframlagi ríkisins. Hinn 6. október 2008 voru viðskipti stöðvuð með hlutabréf bankanna þriggja sem og annarra fjármálafyrirtækja (Exista, Straums-Burðaráss og SPRON). Ekki áttu sér stað frekari viðskipti með hlutabréf bankanna í Kauphöllinni en viðskipti með hlutabréf Kaupþings hófust aftur á móti 8. október 2008 í kauphöllinni í Stokkhólmi (NASDAQ OMX Stockholm) en voru svo stöðvuð á ný eftir að bréfin höfðu lækkað um 34% innan dagsins.

Hér á eftir er sett fram greining á þróun hlutabréfaverðs bankanna þriggja frá ársbyrjun 2004 fram til þess að ríkið tók þá yfir. Fjallað verður um hvern banka fyrir sig og gefin heildarmynd af þróun markaða á tilteknu tímabili. Einnig verður leitast við að greina einstaka þætti sem kunnu að hafa haft áhrif á þróun hlutabréfaverðs bankanna.

12.6.1 Kaupþing

Eins og áður segir hækkaði verð hlutabréfa í Kaupþingi nær samfellt fram á mitt árið 2007. Raunar lækkaði verðið talsvert í upphafi ársins 2006 en í lok þeirrar niðursveiflu hélt verðið áfram að hækka umtalsvert þar til hápunkti var náð og við tók lækkunarferli sem stóð nær samfellt fram til gjaldþrots bankans.

Eins og komið hefur fram voru einnig viðskipti með hlutabréf Kaupþings í kauphöllinni í Stokkhólmi þar sem bréfin voru skráð í sænskum krónum undir auðkenninu KAUP SEK. Um samsvarandi hlutabréf var að ræða og var því hægt að selja bréf sem keypt voru á Íslandi í Svíþjóð og öfugt. Af þeirri ástæðu var verðþróunin, að teknu tilliti til gengis sænsku krónunnar gagnvart íslensku krónunni, nær algjörlega sú sama. Hefði svo ekki verið hefðu fjárfestar getað hagnast á því að kaupa hlutabréf á öðrum markaðnum og selja þau svo á hinum.

12.6.1.1 Kaup- og söluþrýstingur

Til þess að kafa dýpra ofan í verðþróunina má skoða hana með hliðsjón af kaup- eða söluþrýstingi á hverjum tímapunkti, en fjallað er um þann mælikvarða fyrir kaup- og söluþrýsting sem rannsóknarnefndin kýs að notast við í spássíugrein hér til hliðar. Myndin á einungis við um viðskipti í Kauphöllinni og tekur því ekki til viðskipta í kauphöllinni í Stokkhólmi.

Þegar kaup- og söluþrýstingur í tilboðabók Kaupþings er skoðaður með hliðsjón af þróun hlutabréfaverðs sést að fram til ársins 2006 virðist talsverður kaupþrýstingur fylgja þeirri hækkun sem verður á hlutabréfaverði. Árin 2004 og 2005 er kaupþrýstingur sem nemur 15.246.009 og 16.654.709 hlutum fyrir þessi ár. Í kjölfar neikvæðrar umfjöllunar um íslenska fjármálakerfið í upphafi árs 2006 myndast svo söluþrýstingur sem nemur yfir árið -11.383.154 hlutum og virði bréfanna tekur að lækka. Athygli vekur að þegar verðið tekur aftur að hækka fylgir því mjög lítill kaupþrýstingur en það er ólíkt því mynstri sem var viðvarandi fram til 2006.

Því hækkar verð hlutabréfanna mjög mikið undir litlum sem engum kaupþrýstingi en það mætti hugsanlega skýra að hluta til með því að deild eigin viðskipta Kaupþings, sem voru óformlegir viðskiptavakar með eigin hlutabréf, hafi skort bréf og því verið tregir til þess að selja hlutabréf. Um mitt ár 2007 eykst söluþrýstingur umtalsvert og hlutabréfaverðið tekur að lækka nær linnulaust út árið 2008 eða þar til bankinn kemst í þrot. Einnig vekur athygli að lækkun hlutabréfa á árinu 2008 er töluvert minni en ætla mætti ef tekið er tillit til þess kaupþrýstings sem þurfti til að hækka verðið. Þannig virðist hafa þurft lítinn og allt að því engan kaupþrýsting til að hækka verðið en mikinn söluþrýsting til þess að lækka það. Árin 2007 og 2008 er uppsafnaður söluþrýstingur upp á -30.018.147 hluti árið 2007 og -92.077.449 hluti árið 2008.

Hér vaknar sú spurning hvort reynt hafi verið með beinum hætti að ýta undir hækkun bréfanna þegar kaupáhugi var á markaði og tempra lækkun bréfanna með því að mæta strax auknum söluþrýstingi þegar verð tók að lækka. Til að svara þessari spurningu kannaði rannsóknarnefndin sérstaklega viðskipti aðila sem gætu haft fjárhagslegt bolmagn til að hafa slík áhrif á hlutabréfaverðið.Var þar sérstaklega horft til eigin viðskipta Kaupþings með hlutabréf í félaginu en einnig til viðskipta annarra banka eða fjármálastofnana.

12.6.1.2 Eigin viðskipti Kaupþings

Bankarnir þrír voru allir með öflugar deildir sem sáu um veltubókarviðskipti fyrir eigin reikning bankanna og voru þær aðskildar frá öðrum deildum sem miðluðu eða sáu um viðskipti fyrir viðskiptavini bankans. Almennt er markmið deilda eigin viðskipta að ráðstafa fjármunum bankanna sjálfra á mörkuðum, hagnast á skammtímastöðum, stunda högnunarviðskipti (e. arbitrage trading) og sjá um viðskiptavakt fyrir hönd bankans þar sem um slíkt er samið. Ef fjárfestingageta er mikil geta deildir eigin viðskipta einnig liðkað fyrir stærri viðskiptum í tilvikum þar sem mótaðila skortir eða viðkomandi fjárfestar hafa ekki svigrúm til að stunda viðskipti beint á markaði sökum verðáhættu. Þetta má gera með því að kaupa eða selja hluti í tilboðabók viðkomandi hlutabréfa (sjálfvirk viðskipti), semja svo um verð á uppsöfnuðum fjölda hlutabréfa utan tilboðabókar og tilkynna á markaðinn (tilkynnt viðskipti).

Fjárfestingarheimildir deildar eigin viðskipta Kaupþings voru almennt nokkuð rúmar og starfsmönnum jafnan fengið svigrúm til að taka stöður á markaði samkvæmt Birni Sæ Björnssyni, starfsmanni deildar eigin viðskipta Kaupþings. Aðspurður um þær fjárfestingarheimildir og veitingu þeirra sagði hann að ársfjórðungslega hafi verið sótt um nafnverðsheimildir í hverju bréfi fyrir sig, til áhættustýringardeildar bankans og svo seinna til bankastjóra. Þar fyrir utan hafi verið hægt að sækja sérstaklega um heimildir ef starfsmenn deildar eigin viðskipta töldu kauptækifæri vera til staðar.

Markmið þessa kafla er að kanna hvort deild eigin viðskipta hjá Kaupþingi hafi á einhvern hátt tryggt óeðlilegt verð á hlutabréfum sínum eða hvort viðskiptahættir bankans hafi á einhvern annan hátt stuðlað að því að rangar eða misvísandi upplýsingar hafi verið gefnar um framboð, eftirspurn eða verð hlutabréfanna.

Til þess að kanna umfang og eðli viðskipta bankanna með eigin bréf verða sérstaklega skoðuð pöruð viðskipti þó að einnig verði tekið mið af tilkynntum viðskiptum. Ástæðan fyrir því er sú að sé það markmið markaðsaðila að hafa áhrif á viðskiptaverð er það fyrst og fremst gert með því að eiga pöruð viðskipti því þau hafa alltaf áhrif á síðasta viðskiptaverð og geta með beinum hætti haft áhrif á verðbil. Tilkynnt viðskipti hafa hins vegar einungis áhrif á síðasta viðskiptaverð ef þau eru innan verðbils og hafa að auki engin bein áhrif á sjálft verðbilið. Einnig er mikilvægt að bera saman kaup og sölu sem og viðskipti hvers banka fyrir sig með hlutabréf hinna tveggja bankanna til þess að meta hvort um eðlilega viðskiptahætti hafi verið að ræða.

Þegar viðskipti deildar eigin viðskipta hjá Kaupþingi (hér eftir EVK) með hlutabréf bankans eru skoðuð kemur fram að bankinn var mjög virkur aðili á markaðnum.Yfir tímabilið í heild sinni var EVK að meðaltali 33,71% allra paraðra viðskipta í Kauphöllinni á kauphlið og 14,09% á söluhliðinni. Hvort sem skoðuð eru kaup eða sala bankans voru að meðaltali um 35% af pöruðum viðskiptum bankans að eigin frumkvæði og 65% að frumkvæði mótaðila.Til þess að skyggnast betur ofan í viðskiptin og þróunina á lengra tímabili má skoða hlutdeild EVK á kaup- og söluhliðinni með hliðsjón af þróun hlutabréfaverðs Kaupþings ásamt upplýsingum um hvort viðskiptin hafi átt sér stað að frumkvæði EVK.

Myndirnar sýna hlutfall kaupa og sölu EVK af heildarveltu paraðra viðskipta eða hversu stór hlutdeild bankans var í viðskiptum með eigin bréf þegar einungis er litið til paraðra viðskipta. Það er fyrst og fremst tvennt sem vekur athygli þegar myndirnar eru skoðaðar, annars vegar að kaup bankans virðast aukast þegar hlutabréfaverð tekur að lækka og hins vegar að salan minnkar jafnframt. Sé niðurstaðan skoðuð fyrir hvert ár fyrir sig má draga hana saman í töflu 4.

Eins og sjá má var bankinn á kauphlið viðskipta í 26,22–35,65% tilvika á ársgrundvelli fram til ársins 2007 en þá hækkaði hlutfallið upp í 46,45%. Á söluhliðinni var hlutfallið hæst árið 2004, eða 30,61%. Það lækkaði svo nær samfellt og var orðið 13,25% árið 2007 og nær ekkert, eða 1,61%, árið 2008. Á öllu tímabilinu keypti bankinn umfram sölu í pöruðum viðskiptum alls 169.391.521 hlut sem jafngildir 22,88% af heildarfjölda útgefinna hluta í lok tímabilsins. Frá júní til loka september 2008 námu kaup bankans á eigin hlutabréfum umfram sölu um 57,75%–67,35% af heildarveltu í pöruðum viðskiptum. Með öðrum orðum, þegar söluþrýstingur var hvað mestur bar bankinn ábyrgð á allt að 2/3 af öllum kaupum, jafnvel þó sala bankans sé dregin frá.

Ofangreind greining á kaupum og sölu EVK á hlutabréfum Kaupþings nær þó ekki til viðskipta þeirra með bréfin í kauphöllinni í Stokkhólmi, en rannsóknarnefndin hafði ekki aðgang að gögnum til þess að greina á milli paraðra og tilkynntra viðskipta þar. Því verður einungis litið til heildarþróunar viðskipta í kauphöllinni í Stokkhólmi en með þeim hætti er hægt að ganga úr skugga um að EVK hafi ekki verið nettó kaupendur í íslensku kauphöllinni en nettó seljendur í þeirri sænsku. Slíkt hefði hugsanlega gefið til kynna að um högnunarviðskipti (e. arbitrage trades) hefði verið að ræða þar sem markmiðið væri að hagnast á mismun á gengi bréfanna á Íslandi og í Svíþjóð. Eftirfarandi mynd sýnir uppsöfnuð viðskipti EVK í KAUP SEK tilboðabókinni, þ.e. bæði sjálfvirk og tilkynnt viðskipti. Myndin endurspeglar þó ekki raunverulega uppsöfnun eignarhlutar EVK þar sem hlutina hefði mátt kaupa eða selja í íslensku kauphöllinni en hún sýnir þó hvort EVK keyptu eða seldu meira í sænsku kauphöllinni og hvernig sú þróun var frá degi til dags.

Eins og sjá má á mynd 10 voru viðskipti EVK á fyrri hluta tímabilsins ekki hlutfallslega yfirdrifin, hvorki á kauphliðinni né á söluhliðinni. Á árunum 2004 til 2006 voru kaupin ívið meiri en salan en á árinu 2006 varð á því dálítill viðsnúningur í skamman tíma. Árið 2007 jukust hinsvegar kaup EVK svo um munaði og gerðu það nær samfellt til loka tímabilsins. Af þessu er ljóst að viðskiptahættir EVK í sænsku kauphöllinni hafa verið svipaðir þeim er voru við lýði í þeirri íslensku, þ.e. að EVK hafi keypt hlutabréf Kaupþings í miklu magni.

Einnig má skoða þróun á samanlögðum eignarhlut EVK í hlutabréfum Kaupþings í eigin hlutabréfum, hvort sem þau voru keypt í íslensku eða sænsku kauphöllinni og er það gert á mynd 11. Athuga skal að rannsóknarnefnd Alþingis hafði ekki upplýsingar um nákvæma eignastöðu EVK í upphafi tímabilsins en metur stærð þeirrar stöðu út frá þekktum upplýsingum frá síðari tímum.

Eins og sjá má hélst eignarhluturinn tiltölulega stöðugur framan af tímabilinu en tók svo að aukast með talsverðum sveiflum í lok þess. Meiri sveiflur eru á myndinni sem sýnir heildarþróunina heldur en á myndinni sem sýnir einungis viðskipti með KAUP SEK, sem gefur til kynna að þeir hlutir sem keyptir voru í sænsku kauphöllinni hafi verið seldir á Íslandi í kjölfarið, í gegnum tilkynnt viðskipti. Ef einungis er litið til tímabilsins frá hápunkti hlutabréfaverðs Kaupþings og til loka þess, líkt og gert er á mynd 12 sést greinilega hvernig eignarhluturinn safnast upp með nokkuð samfelldum hætti en dettur svo niður í nokkrum stórum skrefum eða nánar tiltekið stórum viðskiptum. Þetta sýnir að EVK keypti inn hlutabréf Kaupþings í smáskömmtum en seldi þau svo út í stærri pökkum.

Séu viðskipti Kaupþings í Kauphöllinni á Íslandi aðgreind eftir því hvort um viðskipti í gegnum tilboðabók er að ræða eða tilkynnt viðskipti kemur einnig fram áhugaverð mynd. Mynd af nettó viðskiptum í hverjum mánuði sýnir að allt árið 2008 keyptu EVK meira í gegnum tilboðabók en þau seldu í tilkynntum viðskiptum. Raunar virðist að einhverju leyti vera um sama mynstur að ræða á öllu tímabilinu frá 2004 en þó minna afgerandi.

Það sem lesa má úr þessum myndum er að Kaupþing keypti kerfisbundið hlutabréf með því að eiga viðskipti í tilboðabók bankans í Kauphöllinni og sænsku kauphöllinni, samdi um sölu á bréfunum utan markaðar og tilkynnti viðskiptin að því loknu. Lögmætar ástæður gætu verið fyrir þessum viðskiptum bankans og þau fallið undir eðlilegt verksvið veltubókar í einhverjum tilvikum. Því er nauðsynlegt að taka tillit til þessara ástæðna við skoðun á málinu. Eins og fram hefur komið höfðu deildir eigin viðskipta bankanna ákveðnar heimildir til að fjárfesta og freista þess að hagnast á skammtímastöðum á grundvelli eigin mats og greiningar á aðstæðum. Því gátu deildirnar keypt hlutabréf sem þær töldu vera of lágt verðmetin eða töldu líkur á að ættu eftir að hækka í verði með það í huga að selja þau aftur síðar.Annar möguleiki gæti verið að mikil eftirspurn hafi verið eftir hlutabréfum bankanna og í meira magni en viðkomandi fjárfestar sáu sér fært að sækja sjálfir á markað og því hafi þeir leitað til bankanna sjálfra um að útvega hlutina. Þannig hafi bankarnir verið eins konar óformlegir viðskiptavakar (e. market makers) með eigin hlutabréf. Ljóst er að kaupáhugi var á hlutabréfamarkaðnum allt fram á mitt ár 2007 þegar dæmið virðist hafa snúist við og söluþrýstingur myndast. Þegar hlutabréfaverð var á uppleið kann að hafa verið takmarkað framboð af stærri eignarhlutum í Kaupþingi þar sem færri vildu selja hlutabréf á þeim tíma. Hluta af viðskiptum Kaupþings á því tímabili mætti því skýra með því að bankinn hafi verið að safna að sér eigin bréfum til þess að anna eftirspurn fjárfesta eftir stærri hlutum. Að sögn starfsmanns EVK var eftirspurn eftir bréfum Kaupþings mikil árið 2007 sem leiddi til þess að EVK seldu meiri hluta bréfanna og áttu því í erfiðleikum með að setja fram sölutilboð. Birnir Sær sagði m.a. við skýrslutöku: "[...] mitt ár 2007 þá áttum við varla bréf út af, að okkar mati var þetta orðið ansi stretch-að, markaðurinn, þannig að á meðan það var allt að verða vitlaust á [...] gátum við lítið kvótað út af við vorum bara ekki með bréf í bókinni til að, til að koma út [...]"

Á tímabilinu sem á eftir fór tók hlutabréfaverð að lækka og má því ætla að meira framboð hafi verið af stærri eignarhlutum í bankanum en minni eftirspurn, þ.e. meiri áhugi á því að selja en kaupa. Ef skýra ætti viðskiptahætti EVK með því að bankinn hafi verið að liðka fyrir stærri viðskiptum má ætla að hann hefði verið tiltölulega virkur í sölu hlutabréfanna þegar verð þeirra tók að lækka, þ.e. að bankinn hefði keypt stærri hluti utan Kauphallarinnar og selt hlutabréf í auknum mæli beint á markaði. Sú var alls ekki raunin eins og gögnin sýna og virðist því hafa verið misræmi milli þess hvernig EVK stunduðu viðskipti eftir því hvort hlutabréfaverð var að hækka eða lækka. Því virðist sem þessi skýring eigi ekki við nema hugsanlega að einhverju leyti á þeim tímabilum þegar hlutabréfaverðið var á uppleið. Hér vaknar því sú spurning hvort markmið ofangreindra viðskipta hafi beinlínis verið að hafa áhrif á verð hlutabréfa bankans til þess að milda það verðfall sem hefði átt að koma fram miðað við eftirspurn á markaði. Hið mikla ójafnvægi sem er á milli kaupa og sölu í tilboðabók Kauphallarinnar styður þá kenningu. Almennt er fjallað um hvata banka til að eiga slík viðskipti í rammagrein 2.

Spurður út í þróun á hlutabréfaeign EVK árið 2008 sagði Birnir Sær Björnsson að EVK hefðu átt "meira en ekki neitt", að markaðurinn hefði verið dapur í einhvern tíma og EVK hefðu átt erfitt með að losa þau bréf sem tekin hefðu verið inn. Þetta taldi Birnir hafa verið stór mistök og nefndi að EVK hefðu verið "buffer" (einhvers konar höggdeyfir) á hlutabréfaverðið og EVK hefðu tekið inn á sig bréf til þess að hægja á fallinu sem hefði átt að koma strax, eða þar til hrunið kom. Aðspurður hvaða bréf hann ætti við nefndi hann auk Kaupþings, Exista og Bakkavör, en sagði þó að þar hefði verið um að ræða viðskipti af annarri stærðargráðu og að EVK hefðu átt auðveldara með að losna við þau bréf.

Þessi frásögn staðfestir að deild eigin viðskipta Kaupþings hafi með virkum hætti keypt hlutabréf í bankanum til að milda verðfallið þegar mikill söluþrýstingur myndaðist. Þetta bendir því til þess að viðskipti Kaupþings, í það minnsta frá því að hlutabréfaverð tók að lækka, megi skýra með því að EVK hafi gert tilraun til þess að hafa áhrif á hlutabréfaverð bankans til hækkunar. Hins vegar er ljóst að eign bankans í eigin hlutabréfum hefur aukist svo hratt að nauðsynlegt hefur reynst að losa stöðuna út af veltubók með einum eða öðrum hætti til þess að forðast flöggunarskyldu við 5% eignarhald. Af mynd 12 að dæma hefur sala EVK á bréfum Kaupþings árið 2008 fyrst og fremst farið fram í tiltölulega fáum en stórum viðskiptum sem svo hafa verið tilkynnt til Kauphallarinnar. Fjallað er um stærstu viðskipti með hlutabréf í Kaupþingi í sérstökum kafla hér á eftir þar sem getið er stærstu kaupenda bréfa á þessu tímabili, því lýst hvernig kaupin voru fjármögnuð og hvaða tengsl kaupandinn hafði við bankann.

Til þess að átta sig betur á viðskiptum EVK með hlutabréf Kaupþings getur verið mikilvægt að kanna hvort hagnaður eða tap var af viðskiptunum í heild sinni. Vandamálið sem upp kemur þegar meta á afkomu vegna verðbréfaviðskipta er annars vegar hvaða tímabil skuli skoða og hins vegar hvernig skuli verðmeta það eignasafn sem myndast hefur. Afkomunni má skipta í tvennt, í fyrsta lagi í tekjur og gjöld vegna kaupa og sölu á tímabilinu (samlagning á inn- og útflæði fjármagns vegna verðbréfaviðskipta) og í öðru lagi virði uppsafnaðra eigna í lok tímabilsins – en nauðsynlegt er að taka tillit til virðis uppsafnaðra eigna svo að nettó kaup (sala) komi ekki einungis fram sem gjöld (tekjur).Til þess að bera saman afkomuna verður því hagnaður hvers árs skilgreindur sem tekjur vegna sölu á hlutabréfum að frádregnum kostnaði vegna kaupa á hlutabréfum og við þá upphæð lagt verðmæti uppsafnaðrar hlutabréfaeignar vegna viðskipta ársins á tímabilinu, miðað við hlutabréfaverðið í lok tímabilsins (Afkoma – árleg uppsöfnun). Með öðrum orðum, hvert ár er skoðað fyrir sig og í lok árs metið virði þeirrar hlutabréfaeignar sem safnaðist upp á árinu (eins og gengið sé út frá því að í lok hvers tímabils sé eignin seld og söluhagnaður eða sölutap innleyst).Til nánari skýringar má setja þetta fram með eftirfarandi hætti: þar sem P táknar hlutabréfaverð, Q táknar fjölda hluta sem keyptir eru og delta I táknar breytingu á hlutabréfaeign. Hvert ár er skoðað fyrir sig þannig að t = 0 er í upphafi árs og T táknar lok þess.Til samanburðar verður kannað hver afkoman hefði verið ef EVK hefðu í hverjum mánuði átt viðskipti með hlutabréf Kaupþings fyrir sömu upphæðir og raunin var, en á meðalverði þess mánaðar (Afkoma viðmið). Árið 2008 miðast við lok september það ár og er því mat á eignastöðu miðað við dagslokaverð þess tíma.Til þess að taka tillit til stöðutöku til lengri tíma verður afkoma EVK einnig skoðuð með sömu aðferð og "Afkoma – árleg uppsöfnun" nema miðað við virði uppsafnaðrar eignar frá árinu 2004 í lok hvers árs (Afkoma – uppsöfnun frá 2004). Í lok árs 2008 er þannig til að mynda metið virði þeirra hluta sem safnast hafa upp frá árinu 2004. Niðurstaða þess er sýnd í töflunni hér að neðan. Athuga skal að gögnin eiga við um heildarafkomu EVK í viðskiptum með eigin bréf, hvort sem um var að ræða viðskipti á Íslandi eða í Svíþjóð.

Í töflu 5 og 6 sést að sé hvert ár tekið fyrir sig var tap á viðskiptum EVK með hlutabréf í Kaupþingi á fyrstu tveimur árum tímabilsins, hagnaður á árinu 2006 og svo tap árin 2007 og 2008. Sé tekið mið af viðskiptum fyrir sömu upphæðir, en á meðalverði hvers mánaðar, má sjá að í öllum tilvikum nema á árinu 2007 var afkoma EVK lakari en viðmiðið.Af því má draga þá ályktun að EVK keyptu hlutabréf á verði sem var hærra en meðalverð hvers mánaðar og/eða seldu á verði sem var lægra. Munurinn er hvað mestur á árinu 2008 og nam tap EVK tæpum tveimur og hálfum milljarði króna á tímabilinu. Eins og fram hefur komið voru kaup bankans í pöruðum viðskiptum hvað mest á því tímabili á meðan verðið lækkaði talsvert. Bankinn hefur því keypt hlutabréf í miklum mæli gegn þróun markaðarins og selt svo á verði sem tók mið af markaðsverði þegar salan fór fram – en í flestum tilvikum hefur það verið lægra en vegið meðalverð kaupanna. Sé afkoma EVK skoðuð með tilliti til virðis uppsafnaðrar hlutabréfaeignar í Kaupþingi í lok hvers árs má sjá að afkoman er neikvæð árið 2004, jákvæð á árunum 2005–2007 og aftur neikvæð á árinu 2008.

Það eru aftur á móti tveir þættir sem hafa þarf í huga þegar afkoman er skoðuð sem gætu dregið hana enn frekar niður. Í fyrsta lagi skal það nefnt að stóran hluta af tekjum EVK í viðskiptum með hlutabréf í Kaupþingi á síðari hluta tímabilsins má rekja til viðskiptanna sem fjallað er um í kafla 12.6.1.3 og 12.8. Eins og þar kemur fram var Kaupþing ekki einungis seljandi hlutabréfanna heldur voru kaupin einnig fjármögnuð af bankanum og í einhverjum tilvikum gegn litlum veðum. Fjárhagslegur ávinningur bankans af sölunni var því ekki jafn mikill og salan ein og sér gefur til kynna. Í öðru lagi skal þess getið að verð hlutabréfanna kann að hafa verið of hátt í ljósi mikilla inngripa bankans í viðskipti með þau. Af því leiðir að virði eignar bankans í eigin hlutabréfum var ofmetið og afkoman þar af leiðandi of há. Því er einnig mikilvægt að skoða aðra þætti sem geta varpað ljósi á umfang viðskiptanna, svo sem heildartekjur og heildarútgjöld EVK í pöruðum viðskiptum með hlutabréf Kaupþings.

Taflan hér að ofan sýnir heildartekjur og heildarútgjöld EVK í pöruðum viðskiptum með hlutabréf Kaupþings í Kauphöllinni, þ.e. inn- og útflæði fjármagns frá EVK beint í og úr tilboðabók Kaupþings.

Eins og sjá má var meiri fjármunum varið til kaupa heldur en komu inn við sölu öll árin að 2004 undanskildu. Þegar leið á tímabilið jókst ójafnvægið talsvert og árið 2008 var keypt fyrir rúmlega 90 milljarða króna en selt fyrir rúmlega þrjá.Yfir heildina litið veittu EVK beint rúmlega 237 milljörðum króna inn í tilboðabókina með kaupum á meðan salan nam um 97 milljörðum og munar þar því tæpum 141 milljarði króna. Þarna er bersýnilega um verulegar fjárhæðir að ræða sem Kaupþing veitti inn á markaðinn til kaupa á eigin hlutabréfum.

12.6.1.3 Stór viðskipti með hlutabréf í Kaupþingi

Markmið þessa kafla er að draga saman heildstæða mynd af stórum viðskiptum einstakra aðila með hlutabréf í Kaupþingi. Athyglin mun beinast sérstaklega að tímasetningu viðskiptanna, fjármögnun þeirra og tengslum viðskiptamanna við Kaupþing en ítarlega umfjöllun um viðskiptin og tiltekinn viðskiptavin bankans má finna í kafla 12.8, Greinargerð um lánveitingar til hlutabréfakaupa. Í ljósi umfjöllunarinnar hér að ofan verður sjónum sérstaklega beint að kaupendum í stórum hlutabréfasölum EVK og kannað hvort bankinn hafi veitt lán fyrir kaupunum til að liðka fyrir sölu á hlutum veltubókarinnar.

Við skýrslutökur fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom fram hjá starfsmönnum Kaupþings að ákveðnar breytingar hefðu orðið á lánveitingum bankans til hlutabréfakaupa undir lok árs 2007 á þann hátt að lánveitingar til hlutabréfakaupa í bankanum sjálfum fengu meira vægi. Spurður að því á hvaða tímapunkti honum hefði fundist slíkar lánveitingar byrja að aukast nefndi Rúnar Magni Jónsson, viðskiptastjóri á fyrirtækjasviði Kaupþings, lánafyrirgreiðslu í desember 2007 til Giftar fjárfestingarfélags ehf. til kaupa á hlutabréfum í Kaupþingi. Rúnar var viðskiptastjóri félagsins hjá bankanum og fór með lánamál þess.

Viðskiptin sem um ræðir fóru fram 11. desember 2007 þegar Gift fjárfestingarfélag ehf. keypti 23.068.050 hluti í Kaupþingi, eða um 3,11% í bankanum, á genginu 867. Hér er því um viðskipti upp á um 20.000 milljónir króna að ræða og var veitt lán fyrir kaupunum eins og nánar er greint frá í sérstakri umfjöllun um viðskipti Giftar.

Það vekur athygli rannsóknarnefndarinnar að seljandi hlutabréfanna var Gnúpur fjárfestingafélag ehf. en það seldi samtals 27.725.018 hluti á genginu 867 þennan sama dag. Þar af keypti AB 57 ehf., í eigu Kaupfélags Skagfirðinga (raunar í gegnum eignarhald sitt á Íslenskum sjávarafurðum), 3,5 milljónir hluta af Gnúpi og voru þau kaup fjármögnuð að fullu með láni frá Kaupþingi (um 3 milljarðar króna). Um málefni Gnúps og lokun þess skömmu síðar er sérstaklega fjallað í rammagrein 1 í kafla 7.0. Ekki er með öllu ljóst hvort framangreind sala á hlutabréfum hafi verið tilraun til að bjarga félaginu frá þroti. Þó má ljóst vera að ef hlutur í Kaupþingi af þessari stærðargráðu hefði verið seldur á markaði þá hefði það valdið umtalsverðum þrýstingi til lækkunar á verði bréfanna. Einnig má ljóst vera að hefði bankinn sjálfur keypt umrædd hlutabréf þá hefði hann farið nálægt, eða jafnvel yfir, þau mörk sem gilda um flöggun á eignarhlut í eigin bréfum. Því má ætla að ríkur hvati hafi verið fyrir bankann að liðka fyrir sölunni á bréfunum með lánveitingum.

Þar sem ekki er um að ræða beina pörun á viðskiptum sem fara í gegnum bankann er vert að skoða öll stór viðskipti þennan sama dag og eru þau birt í töflu 7. Þannig seldu EVK Straumborg ehf. 6.500.000 hluti í viðskiptum með hlutabréf Kaupþings í kauphöllinni í Stokkhólmi (KAUP SS). Á Íslandsmarkaði seldu EVK jafnframt samtals 12.103.333 hluti en stórir kaupendur þennan dag voru m.a. Straumborg ehf., Kaupthing Bank Luxembourg S.A. og Kaupþing – fjárfestingarverðbréf. Um lánafyrirgreiðslu gagnvart Straumborg er sérstaklega fjallað í kafla 12.8.2. Kaupþing – fjárfestingarverðbréf var félag sem ætlað var að halda utan um þau verðbréf Kaupþings sem ekki var fyrirhugað að selja í bráð og voru því aðgreind frá bréfum í veltubók félagsins. Því voru þau verðbréf áfram í eigu bankans þó þau væru ekki skráð í veltubók hans.

Út frá þessu telur rannsóknarnefnd Alþingis ljóst að Gift fjárfestingarfélag keypti af Gnúpi fjárfestingafélagi.

Þegar leið á árið 2008 voru þónokkur tilvik þar sem EVK seldu mikinn fjölda hlutabréfa í viðskiptum sem tilkynnt voru til Kauphallarinnar. Í töflu 8 er listi yfir stærstu viðskipti fyrirtækja með hlutabréf í bankanum árið 2008. Nánar er fjallað um lán til þessara félaga og önnur viðskipti þeirra, ef einhver voru, í kafla 12.8.2. Þó skal nefnt að í flestum tilfellum þegar Desulo Trading Ltd., Holt Investment Group Ltd, Crosslet Vale Ltd og Nýrækt ehf. (síðar Fjárfestingarfélagið Mata ehf.) voru aðilar að viðskiptunum veitti bankinn lán til kaupanna. Hér var því um að ræða umfangsmikla lánafyrirgreiðslu gagnvart fyrirtækjum með takmarkaða ábyrgð. Einnig eru viðskipti Q Iceland Finance ehf. rakin sérstaklega í kafla 12.8.2 en þar var um háar lánveitingar að ræða. Sett í samhengi við fyrri ályktun í þessum kafla um að EVK hafi kerfisbundið keypt hlutabréf í bankanum í pöruðum viðskiptum í tilboðabók Kauphallarinnar og selt í stórum tilkynntum viðskiptum sést glögglega að bankinn hefur áfram borið mikla áhættu af bréfunum í gegnum lánveitingar.

Ekki hefur þó enn verið lýst öllum viðamiklum viðskiptum árið 2008. Þegar stórar sölur veltubókar Kaupþings eru skoðaðar vekur athygli hversu oft Kaupthing Bank Luxembourg er skráð kaupandi en það er dótturfélag Kaupþings hf. Ekki er hér endilega um að ræða viðskipti þessa tiltekna dótturfélags fyrir eigin reikning, þó í einhverjum tilfellum geti svo verið, heldur má gera ráð fyrir að hlutirnir hafi verið keyptir fyrir hönd einhvers viðskiptavinar bankans inn á svokallaðan safnreikning þar sem raunverulegt eignarhald er ekki gefið upp. Rannsóknarnefnd Alþingis hefur ekki fengið afhentar nánari upplýsingar um eftirfarandi viðskipti sem fram fóru árið 2008, þ.e. hvort um viðskipti fyrir eigin reikning Kaupthing Luxembourg var að ræða eða viðskipti fyrir hönd viðskiptavinar, og ef svo var hvort lán hafi verið veitt fyrir kaupunum og þá hver tryggingastaða lánsins var. Í ljósi umfangs viðskiptanna þykir þó ástæða til að birta upplýsingar um upphæð og tímasetningu þeirra.

Tafla 9 sýnir sex stærstu viðskipti Kaupthing Bank Luxembourg S.A. við deild eigin viðskipta Kaupþings. Alls kaupir Kaupthing Bank Luxembourg 24.200.000 hluti í bankanum sem eru um 3,27% af öllu hlutafé í bankanum og er heildarkaupverð hlutanna 17.590,4 milljónir króna. Þá er ekki tekið tillit til þóknana til miðlunar bankans vegna kaupanna. Hér var því um verulega hlutdeild í bankanum að ræða þar sem raunverulegt eignarhald er ekki þekkt sökum ógagnsæis og reglna um bankaleynd í Lúxemborg. Í kafla 8.1 er fjallað nánar um bankana í Lúxemborg.

12.6.1.4 Viðskipti annarra fjármálafyrirtækja

Ljóst er af umfjölluninni hér að ofan að hlutdeild deildar eigin viðskipta Kaupþings í viðskiptum með hlutabréf bankans var veruleg. Til að draga fram heildarmynd af viðskiptum með hlutabréf Kaupþings er þó nauðsynlegt að kanna umsvif annarra stórra aðila á markaði. Í þessum kafla verða sérstaklega skoðuð viðskipti annarra fjármálastofnana, þ.e. viðskipti Glitnis og Landsbankans með hlutabréf í Kaupþingi.

Þegar viðskipti Landsbankans með hlutabréf í Kaupþingi eru skoðuð sést að fram til ársins 2008 eru umsvifin talsvert minni en í eigin viðskiptum Kaupþings og gera má ráð fyrir að mestmegnis hafi verið um skammtíma stöðutökur að ræða til að ávaxta eigið fé Landsbankans. Hinn 21. janúar 2008 gerði Landsbankinn svo samning við Kaupþing um viðskiptavakt með hlutabréf í Kaupþingi. Í kjölfarið jókst velta Landsbankans töluvert en þó er rétt að benda á að umfang viðskiptanna var jafnan svipað á kaup- og söluhlið og því er stöðubreyting bankans lítil á tímabilinu. Fróðlegt er að bera þetta saman við viðskiptamunstur eigin viðskipta Kaupþings þar sem mikið ójafnvægi var á kaup- og söluhlið í tilboðabókinni.

Þegar viðskipti Glitnis með hlutabréf í Kaupþingi eru skoðuð sést að velta þeirra er nokkru meiri þegar á heildina er litið heldur en í tilfelli Landsbankans. Það skýrist af því að Glitnir og Kaupþing gerðu með sér samning um að Glitnir héldi uppi viðskiptavakt með hlutabréf í Kaupþingi frá og með 8. desember 2004. Líkt og raunin var með viðskipti Landsbankans eftir að bankinn tók upp viðskiptavakt er umfang viðskiptanna tiltölulega jafnt á kaup- og söluhlið þrátt fyrir að eðlilega sé um einhverjar stöðutökur af hálfu bankans að ræða.

12.6.1.5 Niðurstöður og ályktanir

Greiningin hér að ofan á verðþróun hlutabréfa í Kaupþingi hefur leitt í ljós umtalsverð umsvif bankans sjálfs í viðskiptum með hlutabréfin. Ljóst er að framan af hefur verðþróun hlutabréfa í Kaupþingi fylgt almennum verðhækkunum á hlutabréfum á Íslandi en hér að framan hafa verið leiddar líkur að því að sú hækkun hafi að miklu leyti verið drifin áfram af auknum lánveitingum til hlutabréfakaupa og vanmati á þeirri áhættu sem því fylgir. Rannsóknarnefndinni er ljóst mikilvægi þess að halda uppi öflugri viðskiptavakt með hlutabréf til að tryggja skilvirka verðmyndun, minnka miklar sveiflur í gengi bréfanna og tryggja að hægt sé að eiga eðlileg viðskipti með hluti í félaginu. Rannsóknarnefndin telur þó verulega óheppilegt að bankinn sjálfur skuli hafa litið á sig sem viðskiptavaka í eigin bréfum jafnvel þótt slíkt sé ekki óheimilt samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti. Enn fremur getur rannsóknarnefnd Alþingis ekki fallist á það sjónarmið að um eðlilega viðskiptavakt af hálfu Kaupþings hafi verið að ræða þegar gengi bréfanna tók að lækka síðla árs 2007. Nefndin bendir þar til samanburðar og sem dæmi um eðlilega viðskiptavakt á viðskipti hinna bankanna með hlutabréf í Kaupþingi. Rannsóknarnefndin telur að mikið ójafnvægi á kaupum og sölu deildar eigin viðskipta Kaupþings (EVK) sýni að bankinn hafi staðið í vegi fyrir eðlilegri leiðréttingu á of háu gengi hlutabréfanna. Því til stuðnings má benda á skýrslu starfsmanns EVK sem greint hefur verið frá. Slíkt ójafnvægi getur í einhverjum tilvikum verið eðlilegt til skemmri tíma þegar markaðsaðstæður breytast, þegar um almenna stöðutöku er að ræða eða þegar viðskiptin eru liður í því að liðka fyrir kaupum eða sölu á stærri eignarhlut svo dæmi séu nefnd. Það getur hins vegar ekki gengið til lengdar. Einnig telur rannsóknarnefnd Alþingis að lánveitingar til stórra viðskipta með hlutabréf í Kaupþingi síðla árs 2007 og allt árið 2008, sem varpað er ljósi á hér að framan og fjallað er nánar um í kafla 12.8, hafi raskað með óeðlilegum hætti eftirspurn eftir hlutabréfum í bankanum og gefið til kynna að hún væri allt önnur og meiri heldur en raunin var. Jafnframt hafi bankinn sjálfur borið stærstan hluta áhættunnar af þeim gjörningum. Ekki fæst annað séð en að hluti slíkra lána hafi verið veittur til þess eins að liðka fyrir sölu eigin hlutabréfa úr veltubók bankans og komast þannig hjá því að senda inn flöggunartilkynningu, án þess þó að draga úr kaupum.

Af framansögðu er ljóst að inngrip Kaupþings í viðskipti með hlutabréf í bankanum hafa orðið til þess að skekkja þá mynd sem þáverandi hluthafar Kaupþings höfðu um verðmæti hlutabréfa sinna. Hlutirnir voru þannig taldir verðmeiri en þeir voru í raun og nýir hluthafar á þeim tíma keyptu hluti á of háu verði. Að auki kunna aðrir viðskiptamenn Kaupþings að hafa orðið fyrir skaða þar eð þeir töldu verðþróunina vera til marks um að staða bankans væri betri en síðar kom á daginn. Rannsóknarnefndin bendir einnig á það tap sem hlaust af viðskiptum bankans með eigin hlutabréf, þar sem bankinn keypti bréf á hærra verði en selt var á. Það fyrirkomulag sem haft var á lánveitingum bankans vegna ýmissa stórra viðskipta með hlutabréf í bankanum leiddi einnig til þess að endurheimt þeirra lána varð ótrygg með tilheyrandi tapi fyrir bankann og þar með fyrir þáverandi hluthafa og lánardrottna, nú kröfuhafa í þrotabú bankans.

12.6.2 Glitnir

Líkt og hjá Kaupþingi hækkaði verð hlutabréfa í Glitni banka hf. mjög mikið fram á mitt ár 2007 og náði hámarki í 30,90 kr. á hlut hinn 20. júlí 2007. Þá hófst lækkunarferli sem stóð nær samfellt fram í október 2008 þegar bankinn féll. Líkt og gert var í kaflanum um Kaupþing verður í næstu undirköflum leitast við að greina umsvif helstu fjármálafyrirtækja og fjárfesta á markaði með hlutabréf Glitnis.

12.6.2.1 Kaup- og söluþrýstingur

Þegar verðþróun í hlutabréfum í Glitni er skoðuð með hliðsjón af kaup-eða söluþrýstingi í hverjum mánuði kemur fram svipuð mynd og í tilfelli Kaupþings. Fram til ársins 2006 hækkar hlutabréfaverðið jafnt og þétt en árið 2004 er kaupþrýstingur upp á 268.309.133 hluti. Árið 2005 skiptist á kaup-og söluþrýstingur milli mánaða og er söluþrýstingur yfir árið 91.707.288 hlutir. Í upphafi ársins 2006 myndast svo talsverður söluþrýstingur á hlutabréf Glitnis og verðið tekur að lækka hratt á fyrsta fjórðungi ársins. Haustið 2006 hækkar hlutabréfaverðið mjög hratt undir fremur litlum kaupþrýstingi og jafnvel söluþrýstingi og stendur sú hækkun fram í júlí 2007 þegar verðið nær hámarki sínu. Fram til loka ársins 2007 og allt fram að hruni bankans er svo umtalsverður söluþrýstingur og tekur hlutabréfaverðið að lækka í kjölfarið. Þannig er söluþrýstingur árið 2007 810.410.482 hlutir og árið 2008 alls 1.396.950.850 hlutir. Þó vekur athygli, líkt og í tilfelli Kaupþings, að ójafnvægi virðist ríkja milli þess hversu lítinn kaupþrýsting þurfti til að hækka hlutabréfaverðið og þess hversu mikinn söluþrýsting þurfti til að lækka verðið tilsvarandi.

Til að grafast fyrir um ástæðu þeirrar ósamhverfu sem virðist vera milli verðþróunar og kaup- eða söluþrýstings kannaði rannsóknarnefndin sérstaklega viðskipti umsvifamikilla aðila á markaði með hlutabréfin og var þar einkum horft til eigin viðskipta Glitnis og viðskipta annarra banka og fjármálastofnana.

12.6.2.2 Eigin viðskipti Glitnis

Markmið þessa kafla er að kanna hvort deild eigin viðskipta Glitnis (héreftir EVG) hafi á einhvern hátt tryggt óeðlilegt verð á hlutabréfum bankans eða hvort viðskiptahættir bankans hafi á einhvern annan hátt stuðlað að því að rangar eða misvísandi upplýsingar hafi verið gefnar um framboð, eftirspurn eða verð hlutabréfanna. Könnunin er með sama sniði og þegar eigin viðskipti Kaupþings voru skoðuð í kaflanum hér á undan og verða því sérstaklega skoðuð pöruð viðskipti en þó með hliðsjón af tilkynntum viðskiptum.

Þegar viðskipti EVG með hlutabréf í Glitni eru könnuð má sjá að bankinn var almennt mjög virkur kaupandi eigin hlutabréfa en salan var hlutfallslega mjög takmörkuð.Yfir heildina voru EVG að meðaltali á kauphlið rúmlega 29,10% allra paraðra viðskipta í Kauphöllinni með hlutabréf Glitnis en einungis 1,65% á söluhliðinni. Á kauphliðinni voru um 38% viðskipta EVG að eigin frumkvæði og 62% að frumkvæði mótaðilans en 47% sölutilvika komu til að frumkvæði EVG og 53% að frumkvæði mótaðilans.Til þess að kanna þessi viðskipti nánar og þróunina á lengra tímabili má skoða hlutdeild EVG á kaup-og söluhliðinni með hliðsjón af þróun hlutabréfaverðs Glitnis ásamt upplýsingum um hvort viðskiptin hafi átt sér stað að frumkvæði EVG.

Myndirnar sýna hlutfall kaupa og sölu EVG af heildarveltu paraðra viðskipta. Það sem vekur strax athygli þegar myndirnar eru skoðaðar er hversu mikil kaup EVG voru á tímabilinu og hversu lítil salan var. Þegar kaupin voru mest námu þau hátt í 70% af heildarveltu á meðan salan var engin heila 16 mánuði tímabilsins. Jafnframt jukust kaupin talsvert þegar leið á tímabilið. Sé niðurstaðan skoðuð fyrir hvert ár fyrir sig má draga hana saman í töflu, sbr. töflu 10.

Eins og sjá má var bankinn á kauphlið viðskipta í 11,97–50,78% tilvika á ársgrundvelli. Fyrstu þrjú árin var hlutfallið hæst 21,77% en tvöfaldaðist ríflega síðustu tvö árin. Salan fór aftur á móti aldrei yfir 2% af heildarveltu á ársgrundvelli. Á öllu tímabilinu keyptu EVG 7.738.566.738 hluti umfram þann fjölda sem seldur var en það jafngildir 52% af heildarfjölda útgefinna hlutabréfa við lok tímabilsins. Frá og með ágúst 2007, eftir að hápunkti hlutabréfaverðs Glitnis hafði verið náð, voru kaup EVG umfram sölu á bilinu 36,38–68,48% af heildarveltu paraðra viðskipta.

Ljóst er að í lok tímabilsins hafði EVG ekki eignast rúmlega helming allra hlutabréfa í Glitni, eins og gögn um pöruð viðskipti gætu gefið til kynna, heldur hafa bréfin verið seld með öðrum hætti.Til þess að fá heildarsýn yfir viðskipti EVG með hlutabréf Glitnis er því ekki nóg að skoða einungis pöruð viðskipti heldur þarf einnig að hafa hliðsjón af tilkynntum viðskiptum. Myndin hér til hliðar sýnir hvernig eignarhlutur EVG þróaðist frá upphafi ársins 2006 og fram til hruns bankans í byrjun október árið 2008.

Af ofangreindu má sjá að eignarhluturinn virðist hafa haldist nokkuð stöðugur á árinu 2006 en frá þeim tíma og fram að falli bankans virðist hann hafa verið mjög sveiflukenndur þar sem hann hefur stækkað tiltölulega hratt, nálgast 5% mörkin og minnkað svo í einu skrefi þar á eftir. Á öllu tímabilinu, og sérstaklega á síðari hluta þess, tekur ferill eignarhlutarins á sig form sem mætti líkja við sagarblað þar sem eignarhluturinn stækkar smám saman og hrekkur svo niður í einu stökki. Séu viðskipti aðgreind eftir því hvort um pöruð viðskipti eða önnur viðskipti er að ræða kemur fram nokkuð merkileg mynd. Hún sýnir glögglega að kaup hafa fyrst og fremst farið fram í pöruðum viðskiptum en sala með öðrum hætti, fyrst og fremst í viðskiptum sem síðan eru tilkynnt til Kauphallarinnar eins og áður hefur verið lýst.

Bankinn virðist því kerfisbundið hafa keypt hlutabréf með því að eiga pöruð viðskipti í tilboðabók Glitnis í Kauphöllinni, samið um sölu á bréfum utan Kauphallarinnar og tilkynnt viðskiptin að því loknu. Þessir starfshættir virðast hafa verið við lýði allt frá síðari hluta ársins 2004 þó að ákveðinn vendipunktur hafi verið við mitt ár 2007 þegar hlutabréfaverðið tók að lækka, en þá jukust viðskipti EVG með bréf Glitnis umtalsvert. Eðlilegar ástæður liggja líklega að baki hluta viðskiptanna, svo sem að EVG hafi verið að anna eftirspurn fjárfesta eftir stærri eignarhlut í bankanum. Þó vekur athygli að á öllu tímabilinu eiga kaup sér nær eingöngu stað í pöruðum viðskiptum, hvort sem hlutabréfaverðið var á upp-eða niðurleið. Þetta gefur sterklega til kynna að um frávik frá eðlilegum viðskiptaháttum hafi verið að ræða og að viðskipti EVG hafi ekki verið knúin áfram af eftirspurn annarra fjárfesta. Hefði sú verið raunin hefðu EVG ekki einungis liðkað fyrir kaupum á uppgangstímum, þegar áhugi var á slíku, heldur einnig liðkað fyrir sölu þegar verð lækkaði, s.s. með því að kaupa stærri hluti á undirverði og selja þá svo smám saman á lengra tímabili.

Aðspurður um EVG sem mótaðila í viðskiptum með hlutabréf í Glitni og framboð á bréfunum almennt á síðari hluta tímabilsins sagði Elmar Svavarsson, miðlari hjá Glitni, við skýrslutöku hjá rannsóknarnefndinni, að kaupendum hefði fækkað töluvert og að það hefði ekki verið neitt sérlega erfitt að finna aðila sem tilbúnir voru að selja hlutabréf. Einnig sagði hann að eini alvöru kaupandinn að Glitnisbréfum hefði verið veltubók Glitnis (þ.e. EVG) og að hann teldi að viðskiptaháttum bankans mætti líkja við viðskipti Seðlabankans þar sem reynt er að "koma í veg fyrir að það væru of miklar hreyfingar á genginu". Þó skal hafa í huga að Elmar starfaði ekki fyrir EVG og að því gefnu að aðskilnaður miðlunar og deildar eigin viðskipta hafi haldið eru orð hans einungis til marks um sýn og tilgátur annarra markaðsaðila um viðskipti EVG.

Forstöðumaður markaðsviðskipta Glitnis á þessum tíma og yfirmaður EVG, Jóhannes Baldursson, sagði við skýrslutöku hjá rannsóknarnefndinni að hann teldi eftir á að hyggja að það hefði ekki verið heppilegt að bankinn hefði verið viðskiptavaki í eigin bréfum. Almennt um verklag Glitnis sagði hann svo að allir sem hefðu komið að rekstri bankans og hann hefði unnið með hefðu stöðugt verið að vinna að því að bjarga verðmætum fyrir bankann, hluthafa bankans og skuldabréfaeigendur hans. Þegar honum var bent á að bankar sem reyndu "að halda sér lifandi" tækju ekki alltaf hagkvæmar ákvarðanir frá þjóðhagslegu sjónarmiði, með vísan til þess m.a. að þjóðin hefði verið í ákveðnum ábyrgðum fyrir innlán bankanna, ítrekaði hann að Glitnir hefði verið að reyna að halda sér lifandi. Þá taldi hann það vera klárt mál að einhverjir aðrir hefðu hugsanlega átt að grípa inn í, s.s. Fjármálaeftirlitið.

Samtöl við fyrrgreinda starfsmenn Glitnis renna stoðum undir þá mynd af viðskiptaháttum EVG með hlutabréf í Glitni sem greiningin hér að framan kallar fram, þ.e. að EVG hafi markvisst keypt hlutabréf í bankanum til að milda verðfallið þegar söluþrýstingur myndaðist.

Til þess að kanna nánar viðskipti EVG með hlutabréf í Glitni er mikilvægt að skoða hvort hagnaður eða tap var á viðskiptunum í heild sinni. Ekki reyndist mögulegt að reikna út afkomu EVG fyrir árin 2004 og 2005 út frá þeim gögnum sem rannsóknarnefndin hafði aðgang að og því verða einungis birtar afkomutölur frá ársbyrjun 2006 til loka tímabilsins.

Í töflu 11 sést að tap var á viðskiptum Glitnis með eigin hlutabréf á árunum 2007 og 2008. Sé tekið mið af viðskiptum fyrir sömu upphæðir en á meðalverði hvers mánaðar má sjá að í öllum tilvikum var afkoma EVG lakari en viðmiðið. Öll árin munar þar talsverðu og hafa EVG því keypt hlutabréf á verði sem var hærra en meðalverðið og selt á verði sem var lægra. Sé tekið tillit til uppsafnaðrar eignastöðu er afkoman einnig neikvæð árin 2007 og 2008.

Þá skal þess getið að verð hlutabréfanna kann að hafa verið of hátt í ljósi tilrauna bankans til þess að halda því uppi. Þetta gerir það að verkum að virði eignar bankans í eigin hlutabréfum var ofmetið og afkoman þar af leiðandi of há. Því er einnig mikilvægt að skoða aðra þætti sem geta varpað ljósi á umfang viðskiptanna, svo sem heildartekjur og heildarútgjöld EVG í pöruðum viðskiptum með hlutabréf Glitnis.

Tafla 12 sýnir heildartekjur og heildarútgjöld EVG í pöruðum viðskiptum með hlutabréf Glitnis í Kauphöllinni, þ.e. inn- og útflæði fjármagns frá EVG beint í og úr tilboðabók Glitnis.

Eins og sjá má var talsvert meiri fjármunum varið til kaupa heldur en komu inn við sölu öll árin sem birt eru. Þannig veitti EVG í heild rétt tæpum 136 milljörðum króna inn í tilboðabók Glitnis í Kauphöllinni á öllu tímabilinu á meðan sala nam einungis um 4,4 milljörðum króna. Þarna er því um að ræða umtalsverða fjármuni sem Glitnir veitti inn á markaðinn með hlutabréf í bankanum sjálfum.

12.6.2.3 Stór viðskipti með hlutabréf í Glitni

Líkt og í tilfelli Kaupþings er vert að draga saman heildstæða mynd af stórum viðskiptum einstakra aðila með hlutabréf í Glitni. Eins og áður mun athyglin beinast sérstaklega að tímasetningu viðskiptanna, fjármögnun þeirra og tengslum viðskiptamanna við Glitni en ítarlega umfjöllun um viðskiptin og tiltekna viðskiptavini bankans má finna í kafla 12.8. Í ljósi umfjöllunarinnar hér að framan er rétt að beina sérstaklega athyglinni að þeim viðskiptum þar sem bankinn veitti lánafyrirgreiðslu vegna kaupa á hlutum í bankanum. Fram hefur komið að EVG keypti kerfisbundið hlutabréf í bankanum við sjálfvirka pörun viðskipta í Kauphöllinni og seldi aftur í tilkynntum viðskiptum. Ef bankinn hefur veitt mikla fyrirgreiðslu vegna kaupa á hlutabréfum í sjálfum sér er ljóst að bankinn hefur áfram borið mikla áhættu af bréfunum.Tafla 13 sýnir stærstu einstök viðskipti sem fram fóru með bréf Glitnis frá síðari hluta ársins 2007 og fram til hruns bankans árið 2008. Það skal tekið fram að í þeim tilfellum sem Glitnir banki hf., safnskráning 2, er skráður kaupandi er í raun um að ræða kaup félagsins Salt Financials (kt. 550908-1070) þann 18. september 2008 og S. Á. Bollasonar (kt. 640608-1450) þann 22. september 2008. Lánafyrirgreiðslan sem Salt Financials naut er nánar útlistuð í kafla 12.8 en tölvubréfasamskipti nokkurra af æðstu stjórnendum bankans hafa vakið athygli rannsóknarnefndarinnar. Hinn 2. september 2008 sendi Rósant Már Torfason, fjármálastjóri Glitnis á þeim tíma, eftirfarandi tölvubréf til Lárusar Welding, forstjóra, Einars Arnar Ólafssonar og Vilhelms Más Þorsteinssonar: "Vil vekja athygli á því að staða bankans í eigin bréfum er orðin mjög þung og því skynsamlegt að nálgast nýja aðila með það í huga að koma gömlum bréfum í lóg. RMT." Lárus Welding svaraði því til að Ingi Rafnar Júlíusson væri í viðræðum við Salt Investments, Þórð Má Jóhannesson, Sigurð Bollason, Sund og ónefnda aðila í sjávarútvegi. Þetta þykir sýna að æðstu stjórnendur bankans hafi verið meðvitaðir um stöðu bankans í eigin bréfum og höfðu aðkomu að, eða voru upplýstir um, kaup viðskiptavina bankans á hlutabréfum af bankanum. Umfjöllun um þær lánafyrirgreiðslur sem viðkomandi félög og einstaklingar nutu er að finna í kafla 12.7. Það er þó ljóst að í flestum tilfellum hefur verið um umtalsverðar lánveitingar að ræða.

Til viðbótar við þau viðskipti sem greint er frá hér að ofan ber að nefna að helstu stjórnendur bankans keyptu hluti í maí árið 2008. Nánar er fjallað um þessi viðskipti í kaflanum um hvatakerfi. Hlutirnir voru allir skráðir á eignarhaldsfélög í eigu viðkomandi yfirmanna og seljandi bréfanna var deild eigin viðskipta bankans, EVG.Voru viðskiptin fjármögnuð næstum að fullu af bankanum og kom fram í skýrslu Jóhannesar Baldurssonar að eigið fé hans félags var í lágmarki og ábyrgð eiganda engin umfram það. Má gera ráð fyrir að svipað hafi gilt um hin eignarhaldsfélögin.Tafla 14 sýnir lista yfir umrædd kaup stjórnenda.

Við skýrslutökur fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom fram hjá starfsmönnum Glitnis að þeir teldu tilgang ofangreindra viðskipta stjórnenda fyrst og fremst vera að umbuna þeim fyrir vel unnin störf við úrlausn vandamála bankans en í máli Jóhannesar Baldurssonar kom fram að hann hefði litið á viðskiptin sem eins konar kauprétt að hlutum í bankanum. Sett í samhengi við stöðu EVG í hlutabréfum í bankanum sjálfum á þeim tíma sem ofangreind viðskipti fóru fram má þó ljóst vera að eignarhlutur bankans hafi verið kominn nærri þeim mörkum sem gilda um flöggunarskyldu á eignarhlut í eigin bréfum. Því vaknar sú spurning hvort stjórnendur bankans hafi talið það hag bankans að losa hann við viðkomandi eignarhlut með lánveitingum til þeirra sjálfra til þess að hefta ekki frekari kaup veltubókar bankans á hlutum í bankanum til að mæta miklum söluþrýstingi.Aðspurður hafnaði Jóhannes Baldursson þessari skýringu alfarið og sagði engin tengsl hafa verið á milli lánveitinga til hlutabréfakaupa stjórnenda og stöðu deildar eigin viðskipta bankans. Ennfremur tók hann fram að ekki hefði verið birt tilkynning um viðskipti þessara aðila þar sem ekki hefði verið um innherja að ræða og því hefði gjörningnum sem slíkum ekki verið ætlað að auka traust á bankanum út á við. Að lokum má nefna að sérstaklega stór hluti hlutabréfakaupa í Glitni var fjármagnaður af bankanum með svokölluðum framvirkum samningum. Ítarlega umfjöllun um þá má finna í kafla 8.0 en eins og fram hefur komið má líta á framvirka samninga um hlutabréfakaup sem eina tegund lána til hlutabréfakaupa.

12.6.2.4 Viðskipti annarra fjármálafyrirtækja

Ljóst er af umfjölluninni hér að framan að hlutdeild EVG í viðskiptum með hlutabréf í bankanum var umtalsverð.Til að draga fram heildarmynd af viðskiptum með hlutabréfin er þó nauðsynlegt að kanna umsvif annarra stórra aðila á markaði. Í þessum kafla verða sérstaklega skoðuð viðskipti annarra fjármálafyrirtækja, sér í lagi viðskipti Kaupþings og Landsbankans með hlutabréf í Glitni. Myndir 24 og 25 sýna pöruð viðskipti deilda eigin viðskipta Kaupþings og Landsbankans með hlutabréf í Glitni sem hlutfall af veltu.

Eins og sjá má voru EVK mjög virkur aðili í viðskiptum með hlutabréf í Glitni, bæði á kaup- og söluhliðinni, en Kaupþing var viðskiptavaki með hlutabréf í Glitni allt frá desember 2004.Yfir mestan hluta tímabilsins eru kaup og sala EVK nokkuð svipuð en þegar líður á síðari hluta þess, eða um og eftir að hlutabréfaverð Glitnis náði hámarki, fóru EVK að vera nokkru atkvæðameiri á söluhliðinni. Á tímabilinu júlí 2007 til loka september 2008 var hlutdeild EVK á kauphliðinni um 13% en söluhlutdeildin var 23%.

Deild eigin viðskipta Landsbankans (EVL) átti nokkuð takmörkuð viðskipti með hlutabréf í Glitni og voru þau sérstaklega lítil á síðari hluta tímabilsins. Á því tímabili var þó eitthvað meira um sölu en í ljósi þess hversu lítil viðskiptin voru þykir ekki ástæða til þess að greina þau frekar.

12.6.2.5 Niðurstöður og ályktanir

Greiningin hér að ofan á verðþróun hlutabréfa í Glitni hefur leitt í ljós að líkt og í tilfelli Kaupþings voru umsvif bankans sjálfs í viðskiptum með hlutabréfin umtalsverð. Ljóst er að framan af hefur verðþróun hlutabréfa í Glitni fylgt almennum verðhækkunum á hlutabréfum á Íslandi en hér að framan hafa verið leiddar líkur að því að sú hækkun hafi að miklu leyti verið drifin áfram af auknum lánveitingum til hlutabréfakaupa og vanmati á þeirri áhættu sem því fylgir. Með sömu rökum og áður telur rannsóknarnefndin verulega óheppilegt að bankinn sjálfur skuli hafa litið á sig sem viðskiptavaka í eigin bréfum jafnvel þótt slíkt sé ekki óheimilt samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti. Ennfremur getur rannsóknarnefnd Alþingis ekki fallist á það sjónarmið að um eðlilega viðskiptavakt af hálfu Glitnis hafi verið að ræða þegar gengi bréfanna tók að lækka síðla árs 2007. Nefndin bendir þar til samanburðar og sem dæmi um eðlilega viðskiptavakt á viðskipti hinna bankanna með hlutabréf í Glitni. Rannsóknarnefndin telur að mikið ójafnvægi á kaupum og sölu deildar eigin viðskipta Glitnis (EVG) sýni að bankinn hafi staðið í vegi fyrir eðlilegri leiðréttingu á of háu gengi hlutabréfanna og það hafi verið viðbrögð við þeim vanda sem kominn var upp vegna of mikillar veðsetningar hlutabréfa. Eins og áður segir getur slíkt ójafnvægi í einhverjum tilvikum verið eðlilegt til skemmri tíma en getur ekki gengið til lengdar. Einnig telur rannsóknarnefnd Alþingis að lánveitingar þær, sem varpað er ljósi á hér að framan og í sérstökum kafla hér á eftir, til stórra viðskipta með hlutabréf í Glitni síðla árs 2007 og allt árið 2008 hafi raskað með óeðlilegum hætti eftirspurn eftir hlutabréfum í bankanum og gefið til kynna að hún væri allt önnur og meiri heldur en raunin var. Jafnframt hafi bankinn sjálfur borið stærstan hluta áhættunnar af þeim gjörningum. Ekki fæst annað séð en að hluti þessara lána hafi verið veittur til þess eins að liðka fyrir sölu eigin hlutabréfa úr veltubók bankans og komast þannig hjá því að senda inn flöggunartilkynningu án þess þó að draga úr kaupum.

Af framansögðu er ljóst að eigin inngrip Glitnis í viðskipti með hlutabréf í bankanum hafa orðið til þess að skekkja þá mynd sem þáverandi hluthafar Glitnis höfðu um verðmæti hlutabréfa sinna. Hlutirnir voru þannig taldir verðmeiri en þeir voru í raun og nýir hluthafar á þeim tíma keyptu hluti á of háu verði.Að auki kunna aðrir viðskiptamenn Glitnis að hafa orðið fyrir skaða þar eð þeir töldu verðþróunina vera til marks um að staða bankans væri betri en síðar kom á daginn. Rannsóknarnefndin bendir einnig á það tap sem hlaust af viðskiptum bankans með eigin hlutabréf, þar sem bankinn keypti bréf á hærra verði en selt var á. Það fyrirkomulag sem haft var á lánveitingum bankans vegna ýmissa stórra viðskipta með hlutabréf í bankanum leiddi einnig til þess að endurheimt þeirra lána varð ótrygg með tilheyrandi tapi fyrir bankann, og þar með þáverandi hluthafa og lánardrottna, og núverandi kröfuhafa í bú bankans.

12.6.3 Landsbankinn

Verðþróun hlutabréfa Landsbankans er mjög keimlík þeirri þróun sem varð á verði á hlutabréfum Kaupþings og Glitnis. Í kjölfar snarprar verðlækkunar í upphafi ársins 2006 tekur við tímabil mikilla hækkana og nær verðið hámarki í 44,60 krónum á hlut 17. október 2007.Verðið tekur svo að lækka og lækkar nær samfellt til loka ársins 2007 og allt fram að falli bankans í október 2008.

12.6.3.1 Kaup- og söluþrýstingur

Líkt og með hina bankana tvo var verðþróun hlutabréfa í Landsbankanum skoðuð með hliðsjón af kaup- og söluþrýstingi. Frá upphafi ársins 2004 fram til ársins 2006 hækkar hlutabréfaverðið jafnt og þétt. Árið 2004 er jafnan talsverður kaupþrýstingur en yfir árið er kaupþrýstingur upp á 190.925.927 hluti. Framan af árinu 2005 ríkir jafnvægi milli kaup- og söluþrýstings allt fram til nóvember og desember 2005 þegar talsverður kaupþrýstingur myndast. Fyrri hluta ársins 2006 er svo töluverður söluþrýstingur og lækkar hlutabréfaverðið í kjölfarið. Frá miðju ári 2006 er svo talsverður kaupþrýstingur sem endist fram til júlí 2007 og hækkar verðið mikið samfara því. Haustið 2007 fer svo söluþrýstingur að aukast og er hann talsverður allt til gjaldþrots bankans í október 2008 og lækkar hlutabréfaverðið samfara því. Athygli vekur að ólíkt hinum bönkunum tveimur virðist vera meiri samhverfa milli hækkunar á hlutabréfaverði bankans þegar kaupþrýstingur er mikill og lækkunar verðs þegar söluþrýstingur er mikill.

Í ljósi þess sem fram kemur í köflunum hér á undan er engu að síður talin ástæða til kanna sérstaklega viðskipti deildar eigin viðskipta Landsbankans með hlutabréf í bankanum og einnig viðskipti annarra umsvifamikilla aðila, svo sem hinna bankanna og annarra fjármálafyrirtækja og fjárfestingafélaga.

12.6.3.2 Eigin viðskipti Landsbankans

Markmið þessa kafla er að kanna hvort deild eigin viðskipta Landsbankans (hér eftir EVL) hafi með einhverjum hætti haft áhrif umfram það sem eðlilegt getur talist á verð hlutabréfa bankans eða hvort viðskiptahættir hans hafi á einhvern annan hátt stuðlað að því að rangar eða misvísandi upplýsingar hafi verið gefnar um framboð, eftirspurn eða verð hlutabréfanna. Könnunin er með sama sniði og í tilvikum Kaupþings og Glitnis í umfjölluninni að framan og verða því sérstaklega skoðuð pöruð viðskipti en þó með hliðsjón af tilkynntum viðskiptum.

Fjárfestingarheimildir deildar eigin viðskipta EVL virðast almennt hafa verið nokkuð rúmar eins og heimildir samsvarandi deilda hinna bankanna og starfsmenn fengið töluvert svigrúm til þess að athafna sig á markaði og taka sjálfstæðar ákvarðanir.Við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefndinni sagði Ívar Guðjónsson, forstöðumaður eigin fjárfestinga Landsbankans, um tilgang viðskipta með hlutabréf í bankanum að EVL hefðu verið viðskiptavakar með hlutabréf Landsbankans en að þar fyrir utan hefði markmið þeirra verið að halda um 2–4% eignarhlut, væntanlega með það í huga að ekki væri farið upp fyrir flöggunarmörk.

Þegar mánaðarleg kaup- og söluvelta EVL frá byrjun árs 2004 og fram til falls bankans er skoðuð sést að hlutdeild veltubókarinnar í heildarveltu með hlutabréf Landsbankans er jafnan tiltölulega há en þó breytileg eftir tímabilum.

Að jafnaði er veltubókin töluvert meira á kauphlið viðskiptanna en söluhlið en árið 2004 er veltubókin á kauphlið viðskipta í tilboðabók Kauphallarinnar í 12,39% tilvika en á söluhlið í 5,11% tilvika. Árið 2005 er sagan svipuð þar sem veltubókin (EVL) er á kauphlið í 11,29% tilvika en á söluhlið í 3,76% tilvika. Í ágúst 2006, þegar verðlækkun vegna neikvæðrar umfjöllunar um íslenskt bankakerfi linnir, minnka umsvif EVL hlutfallslega en árið 2006 er deildin á kauphlið í 9,46% tilvika og söluhlið í 2,97% tilvika. Árið 2007 eru umsvifin minnst en þá eru EVL á kauphlið í 7,86% tilvika en söluhlið í 3,07% tilvika. Árið 2008, þegar hlutabréfaverð í bankanum er tekið að lækka hratt, verður svo snarpur viðsnúningur og kaup aukast umtalsvert en sala dregst mikið saman. Frá byrjun árs 2008 og fram til falls bankans er deild eigin viðskipta bankans á kauphlið viðskipta með hlutabréf bankans í 45,28% tilvika en söluhlið í einungis 0,67% viðskipta.

Þegar eignarhlutur EVL í hlutabréfum í bankanum er skoðaður frá byrjun árs 2006 og fram til byrjunar október 2008 sést áþekkt munstur og hjá hinum bönkunum. Fram til júlí 2007 virðist eignarhluturinn haldast nokkuð stöðugur undir 200 milljón hlutum sem er um 1,8% hlutur í bankanum. Líkt og hjá hinum bönkunum virðist sala fyrst og fremst fara fram í stórum viðskiptum sem tilkynnt eru til Kauphallarinnar en kaup fara fram við sjálfvirka pörun í tilboðabók. Þetta munstur, sem sést glögglega á mynd 33 þar sem tilkynnt og sjálfvirkt pöruð viðskipti eru aðgreind, verður enn skýrara þegar líður á árið 2007 og á árinu 2008 þegar hlutur bankans fer á tímabili yfir 400 milljón hluti (sem eru um 3,57% í bankanum) og jafnvel yfir 500 milljón hluti við upphaf október 2008.

Á þessu má sjá að á stórum hluta tímabilsins, en þó fyrst og fremst í lok þess, hefur bankinn keypt kerfisbundið hlutabréf með því að eiga viðskipti í tilboðabók Landsbankans í Kauphöllinni og síðan samið um sölu á bréfunum utan Kauphallarinnar og tilkynnt viðskiptin að því loknu. Þessir starfshættir virðast vera af sama toga og hjá Kaupþingi og Glitni en þó hugsanlega hefjast eitthvað síðar. Um kaup EVL sagði Ívar Guðjónsson, forstöðumaður eigin fjárfestinga Landsbankans, að pressa hefði myndast þegar framboð á hlutabréfum Landsbankans fór að aukast á markaði um að EVL keyptu meira af bréfum. Sú pressa hefði t.a.m. komið frá miðlun Landsbankans. Ívar sagði jafnframt "[...] miðlunin var að hringja, hvað er að ykkur, djöfulsins aumingjaskapur, Kaupþing er alltaf að, þeir gleypa endalaust og ... þeir eru alltaf með kaupendur, það eru alltaf að eiga sér stað viðskipti með þeirra stock ... okkar er bara með of lítið magn af viðskiptum." Þarna hefur miðlun Landsbankans vísað til þess að deild eigin viðskipta Kaupþings hefði verið mjög virkur kaupandi í tilboðabók Kaupþings og viljað að EVL færu að fordæmi hennar. Að sögn Ívars var ekki orðið við þeirri beiðni og því til svarað að EVL þyrftu að halda sig innan tiltekins ramma (2–4% eignarhlut) og að ekki stæði til að auka kaupin nema hægt væri að selja hlutina aftur. Um viðskipti á síðustu vikum tímabilsins hafði Ívar eftirfarandi að segja:

"Auðvitað voru þessi frægu Imon-viðskipti og eitthvað svona sko. Svo voru þarna einhver önnur viðskipti sem áttu sér stað þegar allt var hérna á suðupunkti þarna í lokin, mikil velta, en svo bara allt í einu poppar upp einhver gríðarlega sterk eftirspurn í gegnum miðlunina og það gefur strákunum [vísun í starfsmenn EVL] enn frekari ástæðu til að halda að það sé allt í lagi að vera aðeins á kauphliðinni, þeir finna að það er eftirspurn líka og það koma gríðarlega stórar pantanir."

Eðlilegar ástæður kunna að hafa verið að baki einhverjum hluta viðskiptanna, svo sem að EVL hefðu verið að anna eftirspurn fjárfesta eftir stærri viðskiptum. Kaup umfram sölu á tímabili lækkunarinnar eru aftur á móti svo mikil að erfitt er að gera sér í hugarlund að kaupáhuginn hafi verið slíkur að EVL hefðu allt að því þurft að einoka kauphlið tilboðabókarinnar. Því til viðbótar virðast hlutirnir í flestum tilvikum hafa verið seldir á lægra verði en þeir voru keyptir og tap þess vegna hlotist af viðskiptunum.

Þegar afkoma Landsbankans vegna eigin viðskipta með hlutabréf í bankanum sjálfum er könnuð á sama hátt og í tilvikum Kaupþings og Glitnis kemur fram áhugaverð þróun.Tvennt vekur sérstaka athygli.Annars vegar að árið 2008 og raunar einnig árið 2007 var umtalsvert tap af viðskiptum með hlutabréf í bankanum. Þetta bendir til þess að markmið viðskiptanna hafi ekki endilega verið von um ávöxtun á þeim fjármunum sem EVL höfðu úr að spila, a.m.k. ekki til skemmri tíma. Hins vegar vekur athygli að raunveruleg afkoma var talsvert lakari í öllum tilfellum, nema árið 2006, ef hún er borin saman við þá afkomu sem fengist ef viðskipti færu fram á meðalverði hvers mánaðar. Þetta bendir til þess að EVL hafi í mörgum tilvikum keypt bréf yfir meðalverði og selt aftur undir meðalverði sem verður að teljast óvenjulegt út frá þeim sjónarmiðum sem deildir eigin viðskipta banka eru almennt byggð á, um ávöxtun á fjármunum bankans.

Tafla 17 sýnir heildartekjur og heildarútgjöld EVL í pöruðum viðskiptum með hlutabréf Landsbankans í Kauphöllinni, þ.e. inn- og útflæði fjármagns frá EVL beint í og úr tilboðabók Landsbankans.

Eins og sjá má var talsvert meiri fjármunum varið til kaupa heldur en var aflað með sölu hlutabréfanna öll árin og á það sérstaklega við um árið 2008 þegar verð hlutabréfa í bankanum fór að lækka. Þannig veittu EVL tæpum 79 milljörðum króna inn í tilboðabók Kauphallarinnar á öllu tímabilinu en sala nam tæpum 13 milljörðum króna. Þarna var því umtalsverðri fjárhæð veitt inn á markaðinn með hlutabréf í Landsbankanum en þó skal á það bent að um töluvert lægri fjárhæðir er að ræða en í tilfelli hinna bankanna.

12.6.3.3 Stór viðskipti með hlutabréf í Landsbankanum

Líkt og í tilvikum Kaupþings og Glitnis er vert að draga saman heildstæða mynd af stórum viðskiptum einstakra aðila með hlutabréf í Landsbankanum. Í ljósi umfjöllunarinnar hér að ofan er rétt að beina sérstaklega athyglinni að þeim viðskiptum þar sem bankinn veitti lánafyrirgreiðslu vegna kaupa á hlutum í bankanum. Fram hefur komið að EVL keyptu kerfisbundið hlutabréf í bankanum við sjálfvirka pörun viðskipta í Kauphöllinni og seldu aftur í tilkynntum viðskiptum. Ef bankinn hefur veitt mikla lánafyrirgreiðslu vegna kaupa á hlutabréfum í sjálfum sér er ljóst að bankinn hefur áfram borið mikla áhættu af bréfunum.Tafla 18 sýnir stærstu einstök viðskipti sem fram fóru með bréf Landsbankans frá síðari hluta ársins 2007 og fram til falls bankans árið 2008. Umfjöllun um þá lánafyrirgreiðslu sem viðkomandi félög og einstaklingar nutu er að hluta til að finna í kafla 12.8. Ljóst er að í einhverjum tilfellum hefur verið um umtalsverðar lánveitingar að ræða.

Til viðbótar við þau viðskipti sem greint er frá hér að ofan er vert að kanna viðskipti þeirra félaga er héldu utan um kaupréttarsamninga starfsmanna bankans. Nokkur þeirra viðskipta eru birt í töflu 19 en nánari umfjöllun um viðkomandi félög má finna í kafla 10.0.

Að lokum skal það nefnt að líkt og í tilfelli Kaupþings fór mikið af viðskiptum með hlutabréf í bankanum í gegnum dótturfélag Landsbankans í Lúxemborg. Gera má ráð fyrir að í flestum tilfellum hafi ekki verið um að ræða kaup fyrir eigin reikning bankans heldur um svokallaða safnskráningu þar sem raunverulegt eignarhald er ekki ljóst. Rannsóknarnefndin hefur ekki upplýsingar um hverjir raunverulegir eigendur bréfanna eru og þ.a.l. ekki vitneskju um hugsanlega lánafyrirgreiðslu vegna viðskiptanna. Hins vegar er talin ástæða til að birta öll viðskipti dótturfélagsins árin 2007 og 2008 í þeim tilfellum þar sem um fjárhæðir yfir 500 milljónir króna er að ræða og er það gert í töflu 20.

Bréfaskipti Landsbankans og Glitnis

Síðari hluta september 2008 átti deild eigin viðskipta Glitnis fjórum sinnum stór viðskipti með hlutabréf í Landsbankanum. Hinn 17. september 2008 keypti hún 30 milljónir hluta í bankanum, 18. sama mánaðar voru keyptar 40 milljónir hluta, þann 19. september 2008 voru keyptar 45 milljónir hluta og þann 29. september 2008 keypti deildin 53 milljónir hluta. Alls keyptu EVG því 168 milljónir hluta, eða um 1,5% af heildarfjölda hluta í bankanum, og voru útgjöld bankans vegna þessara viðskipta alls 3.656 milljónir króna.

Þegar viðskipti Landsbankans með hlutabréf í Glitni eru skoðuð kemur í ljós að sá banki keypti einnig stóra hluti í Glitni á þessum tíma. Hinn 18. september 2008 keypti Landsbankinn 47 milljónir hluta, næsta dag voru keyptar 64 milljónir hluta, hinn 22. september 71 milljón hluta og loks 30. september 2008 keypti bankinn 280 milljónir hluta. Samtals keypti Landsbankinn því 462 milljónir hluta, eða um 3,1% af heildarfjölda hluta í bankanum og voru útgjöld Landsbankans vegna þessara viðskipta alls 3.667,75 milljónir króna.

Í ljósi þess að um nánast sömu upphæð og sama tímabil er að ræða vaknar sú spurning hvort Glitnir og Landsbankinn hafi gert með sér e.k. samkomulag um kaup á hlutabréfum hvor í öðrum upp á rúma 3,6 milljarða íslenskra króna. Ljóst er að báðir bankarnir hafa verið farnir að nálgast flöggunarskyldu á eignastöðu sinni í eigin hlutabréfum (sem gerist við 5% eign veltubókar) og því hafa þeir báðir haft hag af því að losa út bréf af veltubók eigin viðskipta.

Þetta staðfesti Ívar Guðjónsson í skýrslu sinni fyrir rannsóknarnefndAlþingis.Ennfremur kveðst hann hafa fengið fyrirmæli frá bankastjóra Landsbankans, Sigurjóni Þ. Árnasyni, um að samið hefði verið um þessi viðskipti og að hann fengi það hlutverk að ganga frá útfærslu þeirra við Glitni. Raunar ber frásögn Jóhannesar Baldurssonar, yfirmanns markaðsviðskipta hjá Glitni, ekki saman við þetta. Í skýrslu sinni fyrir rannsóknarnefndAlþingis segir hann þvert á móti að viðskiptin hafi alfarið verið að frumkvæði Landsbankans og að hann sjálfur hefði samið við Landsbankann eftir að Ívar Guðjónsson hafði samband við hann.

12.6.3.4 Viðskipti annarra fjármálafyrirtækja

Ljóst er af umfjölluninni hér að ofan að hlutdeild EVL í viðskiptum með hlutabréf bankans hefur verið umtalsverð og þá sérstaklega eftir mitt ár 2007.Til þess að setja viðskipti EVL í samhengi er aftur á móti nauðsynlegt að kanna einnig umsvif annarra stórra aðila á markaðnum. Í þessum kafla verða sérstaklega skoðuð viðskipti annarra fjármálafyrirtækja, þ.e. Kaupþings og Glitnis. Myndir 34 og 35 sýna pöruð viðskipti deilda eigin viðskipta Kaupþings og Glitnis með hlutabréf Landsbankans sem hlutfall af veltu.

Eins og sjá má voru EVK frekar virkur aðili í viðskiptum með hlutabréf Landsbankans, bæði á kaup- og söluhliðinni, en Kaupþing var viðskiptavaki með hlutabréf Landsbankans frá janúar 2008. Fyrir þann tíma höfðu EVK þó verið talsvert atkvæðamikill aðili á markaðnum. Þegar á heildina er litið er nokkurt samræmi milli kaup- og söluhliðarinnar en salan var ívið meiri á fyrri hluta tímabilsins.

EVG voru ekki mjög virkur aðili í viðskiptum með hlutabréf Landsbankans í pöruðum viðskiptum. Flesta mánuðina var hlutdeild þeirra undir 5% af heildarviðskiptum. Þó má sjá að í lok tímabilsins var salan talsvert meiri en kaupin, þ.e. frá október 2007 til loka september 2008, en þá var salan um 5,5% af heildarveltu paraðra viðskipta en kaupin voru einungis um 2,3%. Því má ætla að tilgangur viðskipta Glitnis hafi eingöngu verið stöðutökur til lengri eða skemmri tíma eftir því hvernig EVG mátu stöðu bankans á hverjum tíma.

12.6.3.5 Niðurstöður og ályktanir

Greiningin hér að ofan á verðþróun hlutabréfa í Landsbankanum hefur leitt í ljós, líkt og í tilfelli Kaupþings og Glitnis, að umsvif bankans sjálfs í viðskiptum með hlutabréfin voru umtalsverð. Ljóst er að framan af hefur verðþróun hlutabréfa í Landsbankanum fylgt almennum verðhækkunum á hlutabréfum á Íslandi en hér að framan hafa verið leiddar líkur að því að sú hækkun hafi að miklu leyti verið drifin áfram af auknum lánveitingum til hlutabréfakaupa og vanmati á þeirri áhættu sem henni fylgir. Með sömu rökum og áður telur rannsóknarnefndin óheppilegt að bankinn sjálfur skuli hafa litið á sig sem viðskiptavaka í eigin bréfum jafnvel þótt slíkt sé ekki óheimilt samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti. Ennfremur getur rannsóknarnefnd Alþingis ekki fallist á það sjónarmið að um eðlilega viðskiptavakt af hálfu Landsbankans hafi verið að ræða þegar gengi bréfanna tók að lækka síðla árs 2007. Nefndin bendir þar til samanburðar og sem dæmi um eðlilega viðskiptavakt á viðskipti hinna bankanna með hlutabréf í Landsbankanum. Eins og fram hefur komið virðist sem stefna deildar eigin viðskipta Landsbankans (EVL) í viðskiptum með hlutabréf í bankanum hafi fyrst og fremst verið að halda eignarhlut deildarinnar undir flöggunarmörkum.

Rannsóknarnefndin telur að mikið ójafnvægi á kaupum og sölu EVL sýni að bankinn hafi staðið í vegi fyrir eðlilegri leiðréttingu á of háu gengi hlutabréfanna og það sýni viðbrögð við þeim vanda sem kominn var upp vegna of mikillar veðsetningar hlutabréfa. Eins og áður segir getur slíkt ójafnvægi í einhverjum tilvikum verið eðlilegt til skemmri tíma en getur ekki gengið til lengdar. Einnig telur rannsóknarnefnd Alþingis að þau viðskipti sem varpað er ljósi á hér að ofan og fjallað er sérstaklega um í sérstökum kafla hér á eftir hafi í mörgum tilfellum raskað með óeðlilegum hætti eftirspurn eftir hlutabréfum í bankanum og gefið til kynna að hún væri allt önnur og meiri heldur en raunin var. Jafnframt hafi bankinn sjálfur í mörgum tilfellum borið verulega áhættu af viðkomandi viðskiptum. Ekki fæst annað séð en að tilgangur hluta þessara viðskipta og tilheyrandi lánveitinga hafi einungis verið að liðka fyrir sölu eigin hlutabréfa úr veltubók bankans og komast þannig hjá því að senda inn flöggunartilkynningu án þess þó að draga úr kaupum á hlutum í bankanum.

Í samræmi við það sem að framan greinir er ályktun rannsóknarnefndar Alþingis í sömu átt og í tilvikum Kaupþings og Glitnis, þ.e. að eigin inngrip Landsbankans í viðskipti með hlutabréf í bankanum hafi orðið til þess að skekkja þá mynd sem þáverandi hluthafar Landsbankans höfðu um verðmæti hlutabréfa sinna. Hlutirnir voru þannig taldir verðmeiri en þeir voru í raun og nýir hluthafar á þeim tíma keyptu hluti á of háu verði. Að auki kunna aðrir viðskiptamenn Landsbankans að hafa orðið fyrir skaða þar eð þeir töldu verðþróunina vera til marks um að staða bankans væri betri en síðar kom á daginn. Rannsóknarnefndin bendir einnig á það tap sem hlaust af viðskiptum bankans með eigin hlutabréf, þar sem bankinn keypti bréf á hærra verði en selt var á. Það fyrirkomulag sem haft var á lánveitingum bankans vegna ýmissa stórra viðskipta með hlutabréf í bankanum leiddi einnig til þess að endurheimt þeirra lána varð ótrygg með tilheyrandi tapi fyrir bankann, og þar með þáverandi hluthafa og lánardrottna, núverandi kröfuhafa í þrotabú bankans.

12.6.4 Upplýsingagjöf bankanna

Grunnforsenda þess að viðskipti geti farið fram með eðlilegum hætti á skipulegum verðbréfamarkaði er upplýsingagjöf útgefenda. Þegar útgefandi fær verðbréf sín tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði ber honum að birta lýsingu þar sem fram skulu koma allar þær upplýsingar sem með hliðsjón af eðli útgefandans og verðbréfanna eru nauðsynlegar fjárfestum til þess að þeir geti metið eignir og skuldir, fjárhagsstöðu, afkomu og framtíðarhorfur útgefanda og ábyrgðaraðila, ef við á, sem og þau réttindi sem fylgja verðbréfunum, sbr. 45. gr. vvl. Eftir að verðbréf útgefanda hafa verið tekin til viðskipta er hann svo undir viðvarandi upplýsingaskyldu þar sem upplýsingum í lýsingu skal haldið við samkvæmt vvl. og reglum Kauphallarinnar. Upplýsingar sem fjalla um eða tengjast útgefendum verðbréfa, teljast nægilega tilgreindar, hafa ekki verið gerðar opinberar og eru líklegar til þess að hafa marktæk áhrif á markaðsverð verðbréfanna, ef opinberar væru, kallast svo innherjaupplýsingar. Þeir sem hafa aðgang að slíkum upplýsingum kallast almennt innherjar en þeim má svo aftur skipta í fruminnherja, tímabundna innherja og aðra innherja. Innherjum er ekki heimilt að eiga viðskipti með verðbréf eða aðra fjármálagerninga sem upplýsingarnar eiga við, né miðla upplýsingunum eða nýta þær á annan óeðlilegan hátt. Um leið og upplýsingarnar hafa verið gerðar opinberar flokkast þær aftur á móti ekki lengur undir innherjaupplýsingar og er því öllum heimilt að eiga viðskipti á grundvelli þeirra.

Upplýsingagjöf á markaði má í grófum dráttum skipta í tvennt, í reglulega upplýsingagjöf og atviksbundna upplýsingagjöf. Til reglulegrar upplýsingagjafar flokkast t.a.m. reikningsskil og birting fjárhagsupplýsinga. Atviksbundin upplýsingagjöf miðar hins vegar að því að greint sé frá innherjaupplýsingum er varða útgefandann eins fljótt og unnt er, sem og upplýsingum um viðskipti innherja, flagganir og önnur atriði sem krafist er samkvæmt lögum og reglum. Útgefendur hafa vissar heimildir til þess að fresta birtingu innherjaupplýsinga í skamman tíma, ef frestunin miðar að því að vernda lögmæta hagsmuni útgefandans, er ekki líkleg til að villa um fyrir almenningi og útgefandi getur tryggt trúnað um upplýsingarnar. Slík frestun getur þó ekki staðið í langan tíma heldur er einungis heimil í nokkra daga, sbr. úrskurð Fjármálaeftirlitsins, dags. 4. desember 2008, vegna frestunar Hf. Eimskipafélags Íslands. Nánari umfjöllun um viðvarandi og atviksbundna upplýsingaskyldu bankanna er að finna í kafla 16.4.

Upplýsingagjöf útgefanda heyrir undir regluverði þó svo að hlutverk regluvarðar í fjármálafyrirtæki sé í raun víðtækara. Regluverðir eiga m.a. að hafa eftirlit með því og sjá til þess að allar innherjaupplýsingar séu gerðar opinberar og að þær upplýsingar sem birtar eru markaðnum séu réttar og viðeigandi. Þeim er einnig ætlað að vera tengiliður milli útgefanda og eftirlitsaðila á sviði verðbréfaviðskipta. Regluverðir þurfa því að hafa beinan aðgang að yfirstjórn þeirra félaga sem þeir starfa hjá og góða innsýn inn í öll mikilvæg málefni svo þeir geti metið aðstæður á hlutlausan hátt og séð til þess að upplýsingagjöf félaganna sé með þeim hætti sem æskilegt er.

Í skýrslutökum af aðilum sem komu að regluvörslu hjá bönkunum á þeim tíma sem rannsókn nefndarinnar hefur beinst að kom mjög skýrt fram að þeir mátu það allir svo að þeir hefðu hvorki haft nægilegar heimildir né svigrúm til þess að sinna starfi sínu af þeim krafti sem til hefði þurft. Einnig töldu þeir að regluvörsludeildirnar hefðu verið undirmannaðar, sjálfstæði þeirra hefði ekki verið nægilegt og að rekstur bankanna hefði verið svo tekjudrifinn að viljinn til þess að sinna regluvörslu hefði ekki náð lengra en að uppfylla formkröfur laga. Í mörgum tilvikum voru regluverðirnir að eigin sögn nokkurn veginn einir á báti innan síns banka og töldu sig hafa mætt miklum mótbyr þegar þeir reyndu að fara fram á meira sjálfstæði og auknar heimildir. Stjórnendur bankanna virðast hafa litið svo á að svo lengi sem Fjármálaeftirlitið gerði ekki athugasemd við verklag þeirra væru ekki forsendur fyrir umbótum. Þegar leita átti stuðnings hjá Fjármálaeftirlitinu fengust svör á borð við að "erfitt [væri] fyrir Fjármálaeftirlitið að skipa regluvörðum að vera sjálfstæðir" þar sem regluvarsla væri ekki fullt starf hjá smærri fjármálafyrirtækjum og því jafnan sinnt af lögfræðingum. Slíkar breytingar ættu því að koma frá bönkunum sjálfum. Fjármálaeftirlitið gerði þó einhverjar úttektir á störfum regluvarða innan bankanna en svo virðist sem þær hafi verið gerðar með margra ára millibili og ekki haft tilætluð áhrif.

Starf regluvarða snerist því fyrst og fremst um venjubundin verkefni svo sem að veita viðskiptaheimildir, sjá um tilkynningar til Kauphallarinnar og sjá um samskipti við Fjármálaeftirlitið. Regluverðirnir höfðu ekki þann aðgang að yfirstjórn og upplýsingum um þróun mála og mikilvæg atriði sem nauðsynlegur var til þess að þeir gætu sinnt upplýsingagjöfinni með ákjósanlegum hætti. Ekki virðist hafa verið litið svo á innan bankanna að það væri í verkahring regluvarða að meta hvort innherjaupplýsingar væru til staðar og hvort tilkynningarskylda hefði myndast og oft fréttu þeir ekki af mikilvægum atvikum fyrr en á síðustu stundu þegar þeim var sagt að senda inn tilkynningu. Dæmi um þetta var rakið hér að framan þar sem regluverðir fengu símtal kvöldið áður en tilkynning skyldi send Kauphöllinni en í því tilviki var um umfangsmikil viðskipti fruminnherja í Glitni að ræða.

Hvað upplýsingagjöf bankanna varðar verður ekki farið hér í nákvæma greiningu á sannindum einstakra fréttatilkynninga eða birtra fjárhagsupplýsinga heldur vísað um það efni til almennrar umfjöllunar um málefni er tengjast fjárhagsupplýsingum bankanna, s.s. um fjármögnun bankanna í kafla 7.0, útlánastefnu í kafla 8.0 og endurskoðun reikninga bankanna í kafla 11.0. Fjárhagsupplýsingar eru þær upplýsingar sem skipta fjárfesta á markaði hvað mestu máli. Ef gefnar hafa verið rangar upplýsingar með einum eða öðrum hætti um fjárhagsstöðu bankanna má ætla að það hafi ýtt undir óeðlilega verðmyndun á verðbréfum bankanna.

12.6.4.1 Viðskipti bankanna með hlutabréf tengdra félaga

Tengsl bankanna við önnur félög í Kauphöllinni voru í mörgum tilvikum talsverð. Sum félaganna áttu beint eða óbeint hlut í bönkunum og bankarnir voru sjálfir hluthafar í öðrum eða jafnvel sömu félögunum. Flest þeirra voru að einhverju leyti fjármögnuð af bönkunum auk þess sem bankarnir tóku í mörgum tilvikum veð í hlutabréfum þeirra vegna lánveitinga. Hagsmunir bankanna og félaga sem tengdust þeim fóru því á margan hátt saman. Í ljósi hátternis bankanna í viðskiptum með eigin hlutabréf sem skýrt er frá hér að framan er því mikilvægt að kanna einnig viðskipti þeirra með hlutabréf tengdra félaga. Ljóst er þó að hagsmunir bankanna af því að hafa áhrif á verðmyndun á hlutabréfum tengdra félaga voru ekki þeir sömu og hagsmunir þeirra gagnvart verði eigin hlutabréfa og því er greiningin ekki jafn ítarleg.Til viðbótar skal nefnt að í vissum tilvikum voru hlutabréf bankanna mjög stór hluti af heildareignum viðkomandi félaga, s.s. hlutabréf Kaupþings hjá Exista hf. og hlutabréf Glitnis hjá FL Group hf. Því hafa öll kaup á eigin hlutabréfum til þess að styðja við hlutabréfaverð einnig haft áhrif á hlutabréf viðkomandi eignarhaldsfélaga og hefur það dregið úr hvatanum til þess að hafa áhrif á verð viðkomandi félaga. Einungis eru tekin fyrir viðskipti með hlutabréf stærri aðila sem á einhvern hátt tengdust bönkunum, þ.e. Exista og Bakkavarar í tilviki Kaupþings, Straums-Burðaráss og Marels í tilviki Landsbankans og FL Group í tilviki Glitnis.

12.6.4.2 Viðskipti Kaupþings með hlutabréf í tengdum félögum

Í þessum kafla verður farið yfir viðskipti EVK með hlutabréf tveggja félaga í Kauphöllinni sem á einhvern hátt tengdust Kaupþingi, þ.e. Exista og Bakkavör. Exista var stærsti hluthafi Kaupþings með tæplega 25% eignarhlut þegar mest lét, auk þess sem Lýður Guðmundsson, starfandi stjórnarformaður Exista, var í stjórn Kaupþings frá og með árinu 2008. Exista var einnig stærsti hluthafi Bakkavarar og var Lýður Guðmundsson einnig stjórnarformaður þess félags.Auk þess var Antonios P.Yerolemou á tímabili í stjórn beggja félaga og Hildur Árnadóttir, fjármálastjóri Bakkavarar og stjórnarmaður í Exista, var á tímabili varamaður í stjórn Kaupþings. Til marks um tengsl félaganna má nefna að rétt fyrir fall Kaupþings færði Bakkavör allt laust fé sitt inn á reikning hjá Kaupþingi til þess að styðja við bankann.

Þegar viðskipti EVK með hlutabréf í Exista og Bakkavör eru tekin til athugunar sést að EVK voru í heildina litið nokkuð virkari á kauphlið tilboðabókanna heldur en söluhliðinni þó að myndin sé ekki jafn afgerandi og í viðskiptum þeirra með hlutabréf í Kaupþingi. Frá ársbyrjun 2008 til loka september það ár báru EVK ábyrgð á tæplega 38% allra kaupa í Exista þegar einungis er litið til paraðra viðskipta en salan nam rúmlega 19%. Sé litið aftur til þess þegar hlutabréf Exista voru tekin til viðskipta, í september 2006, nemur hlutdeild EVK í pöruðum viðskiptum um 36% á kauphlið og 22% á söluhlið. Eignarhlutur EVK í Exista lækkaði nokkurn veginn samfleytt frá því að hlutabréfin voru tekin til viðskipta og þar til í september 2007. Þá óx hann smám saman á ný og var orðinn um 4% af heildarfjölda hluta við fall. Ekki lítur því út fyrir að hlutirnir hafi kerfisbundið verið seldir í stærri tilkynntum viðskiptum.

Frá ársbyrjun 2008 og út september það ár báru EVK svo ábyrgð á tæplega 40% allra kaupa í Bakkavör þegar einungis er litið til paraðra viðskipta og á sama tíma nam salan rúmlega 22%. Á tímabilinu í heild sinni, þ.e. frá ársbyrjun 2004, nam kauphlutfallið tæplega 36% og söluhlutfallið tæplega 31%. Ekki virðist sem hlutirnir hafi kerfisbundið verið seldir í stærri tilkynntum viðskiptum heldur jókst eignarhlutur EVK í Bakkavör smám saman frá haustinu 2007 og var orðinn tæplega 3% af heildarfjölda hluta við fall.

Þegar viðskiptahættir EVK í viðskiptum með eigin hlutabréf og hlutabréf Exista og Bakkavarar eru bornir saman sést að í tilviki Exista og Bakkavarar voru hrein kaup ekki jafn mikil, veltan var minni auk þess sem hlutirnir voru ekki seldir kerfisbundið á ný í tilkynntum viðskiptum. Þó vekur athygli að kaup EVK í pöruðum viðskiptum umfram sölu námu rúmlega 18% af allri paraðri veltu með hlutabréf í Exista í Kauphöllinni og að pöruð kaup EVK voru meiri en pöruð sala þeirra allt frá september 2007. Sömuleiðis námu kaup EVK í pöruðum viðskiptum með hlutabréf í Bakkavör umfram sölu tæplega 11% af allri paraðri veltu á árunum 2007– 2008 og tæplega 18% á árinu 2008 fram til loka september. Hagsmunir Kaupþings af því að halda uppi verði tengdra félaga voru þó ekki jafn miklir og hagsmunir bankans gagnvart verði eigin hlutabréfa auk þess sem viðskiptin voru ekki jafn afgerandi og viðskiptin með bréf í bankanum sjálfum. Því er alls ekki hægt að útiloka að um eðlilega stöðutöku hafi verið að ræða. Auk þess skal það nefnt að markaðshlutdeild Kaupþings á hlutabréfamarkaðnum almennt var umtalsverð og því ekki óeðlilegt að kaup umfram sölu hafi verið mikil ef EVK mátu það svo að kauptækifæri væru til staðar. Í þessu samhengi ber einnig að hafa hliðsjón af því að starfsmaður EVK gaf við skýrslutöku hjá rannsóknarnefndinni til kynna að EVK hafi myndað "buffer" á kauphliðinni þegar söluþrýstingur var sem mestur í félögum sem tengdust Kaupþingi og nefndi þar sérstaklega Exista og Bakkavör.

12.6.4.3 Viðskipti Landsbankans með hlutabréf í tengdum félögum

Í þessum kafla verður farið yfir viðskipti EVL með hlutabréf tveggja félaga í Kauphöllinni sem á einhvern hátt tengdust Landsbankanum, þ.e. Straums-Burðaráss fjárfestingabanka hf. og Marel Food Systems hf. Tengsl Landsbankans og Straums-Burðaráss byggðust fyrst og fremst á sameiginlegu eignarhaldi en stærsti eigandi Landsbankans var Samson eignarhaldsfélag ehf. og stærsti eigandi Straums-Burðaráss var Samson Global Holding S.a.r.l. Bæði félögin voru í eigu Björgólfs Guðmundssonar og Björgólfs Thors Björgólfssonar. Landsbankinn var svo meðal stærstu hluthafa Marel Food Systems hf. á tímabilinu sem hér er til skoðunar.

Þegar viðskipti EVL með hlutabréf í Straumi-Burðarás er skoðuð frá upphafi árs 2004 og til hruns bankans kemur í ljós að EVL voru tiltölulega virk á bæði kaup- og söluhlið í tilboðabók Straums. Þannig var EVL á kauphlið allra paraðra viðskipta með hlutabréf í Straumi-Burðarás á tímabilinu í tæplega 11% tilvika en rúmlega 12% tilvika á söluhlið. Þetta skýrist fyrst og fremst af því að Landsbankinn og Straumur-Burðarás gerðu með sér samning um viðskiptavakt Landsbankans á útgefnum hlutabréfum þess síðarnefnda.

Þegar viðskipti EVL með hlutabréf í Marel eru skoðuð sést að þau voru tiltölulega virk frá fyrri hluta ársins 2006 og allt fram til hruns Landsbankans. Eins og sést á myndum 44 og 45 voru viðskipti bankans jafnan bæði á kaup- og söluhlið tilboðabókarinnar enda sá Landsbankinn um viðskiptavakt fyrir útistandandi hlutabréf í Marel samkvæmt samningi þeirra á milli. Athygli vekur þó að þegar líður á árið 2008, og hlutabréf Marel taka að lækka í verði, þá minnkar sala EVL á hlutum Marels í tilboðabókinni á meðan kaupveltan helst nokkurn vegin sú sama og áður.Yfir allt tímabilið voru því EVL á kauphlið allra paraðra viðskipta í rúmlega 18% tilvika og á söluhlið í tæplega 15% tilvika.

12.6.4.4 Viðskipti Glitnis með hlutabréf í tengdum félögum

Í þessum kafla verður farið yfir viðskipti EVG með hlutabréf FL Group í Kauphöllinni en FL Group var stærsti hluthafi Glitnis á síðari hluta tímabilsins sem hér er fjallað um. Forstjórar FL Group, þeir Jón Sigurðsson og á undan honum Hannes Smárason, voru í stjórn Glitnis auk þess sem Skarphéðinn Berg Steinarsson og Þorsteinn M. Jónsson voru á tímabili í stjórn beggja félaga. Loks var Glitnir einnig stór hluthafi í FL Group.

Þegar viðskipti EVG með hlutabréf í FL Group eru skoðuð kemur í ljós að nokkurn veginn frá upphafi ársins 2005 og til apríl 2007 voru EVG tiltölulega virk á kaup- og söluhliðinni og var hlutdeild þeirra á hvorri hlið um sig um 5% af öllum pöruðum viðskiptum. Að þessu tímabili loknu dró talsvert úr sölu EVG og á svipuðum tíma varð viðsnúningur í verðþróun hlutabréfa FL Group en hæsta gildi hlutabréfaverðs FL Group náðist í síðari hluta febrúar 2007. Á tímabilinu frá apríl 2007 og fram til þess að hlutabréf í FL Group voru tekin úr viðskiptum í maí 2008 voru kaup EVG um 14% af öllum pöruðum viðskiptum en salan nam um 3%. Einnig voru nokkrir mánuðir í upphafi þess tímabils þegar hlutabréf í FL Group voru tekin til viðskipta þar sem EVG voru tiltölulega virk á kauphliðinni en óvirk á söluhliðinni. Þar var þó um lítinn fjölda bréfa að ræða og skamman tíma og er því ekki talin þörf á að greina mynstur þeirra viðskipta nánar.

Ljóst er að kaup EVG á hlutabréfum í FL Group umfram sölu voru talsverð eftir að hlutabréfaverð félagsins tók að lækka. Frá apríl 2007 og út maí 2008 námu kaup umfram sölu í pöruðum viðskiptum alls um 6,6% af heildarfjölda útgefinna hluta. Hagsmunir Glitnis af því að halda uppi verði tengdra félaga voru þó ekki jafn miklir og hagsmunir bankans gagnvart verði eigin hlutabréfa auk þess sem viðskiptin voru ekki jafn afgerandi og viðskiptin með bréf í bankanum sjálfum. Því er ekki hægt að útiloka að um eðlilega stöðutöku hafi verið að ræða. Einnig skal það nefnt að markaðshlutdeild Glitnis á hlutabréfamarkaðnum almennt var umtalsverð og því ekki óeðlilegt að kaup umfram sölu hafi verið mikil ef EVG mátu það svo að kauptækifæri væru til staðar.

12.6.4.5 Niðurstaða

Af ofangreindu má sjá að kaup bankanna á hlutabréfum tengdra félaga hafa ekki verið jafn umsvifamikil og kaup þeirra á eigin hlutabréfum. Þó er ljóst að kaupin voru í mörgum tilvikum meiri heldur en salan og virðist sú tilhneiging hafa aukist þegar leið á tímabilið. Sú staðreynd að mynstrið er engan veginn jafn afgerandi og þegar viðskipti með hlutabréf sjálfra bankanna eiga í hlut er að mati rannsóknarnefndar Alþingis ekki vísbending um að umrædd viðskipti séu eðlileg heldur fyrst og fremst til marks um hversu óeðlileg viðskipti bankanna með eigin hlutabréf voru. Séu viðskipti bankanna með hlutabréf tengdra félaga metin sjálfstætt og ekki í samhengi við kaup þeirra á eigin bréfum kann því að vakna grunur um að í einhverjum tilvikum hafi bankarnir leitast við að draga úr verðlækkunum eða á annan hátt að hafa áhrif á verðmyndun á hlutabréfum félaganna.

12.6.5 Þróun á íslenska skuldabréfamarkaðnum

Nafnvirði útistandandi skuldabréfa sem tekin höfðu verið til viðskipta í Kauphöllinni jókst verulega frá árinu 2004. Í ársbyrjun 2004 var nafnvirði útistandandi skuldabréfa í Kauphöllinni alls tæplega 126 milljarðar en í lok september 2008 nam það tæpum 1.655 milljörðum, sem gerir um 1217% aukningu. Mesta aukningin var í skuldabréfum banka sem fóru úr um 4 milljörðum upp í rúma 490 milljarða og voru því orðin tæplega 30% af nafnvirði markaðarins við lok tímabilsins. Sömuleiðis var mikill vöxtur í fyrirtækjaskuldabréfum sem fóru úr 3,6 milljörðum upp í tæplega 295 milljarða og voru þá orðin um 18% af nafnvirði markaðarins. Eftir sem áður skipuðu ríkistryggð skuldabréf og skuldabréf sveitarfélaga stærsta sessinn á markaðnum og voru um 49% enda þótt vöxturinn þar hafi hlutfallslega verið talsvert minni. Athygli vekur að útgáfa bankabréfa tók ákveðið stökk upp á við árið 2008, en eins og fjallað er um í kafla 4.0 og kafla 7.0 þá skiptust bankarnir á skuldabréfum á þeim tíma, í þeim tilgangi að fjármagna þau í gegnum Seðlabanka Íslands.

Talsverð velta var með ákveðna flokka ríkistryggðra skuldabréfa, þ.e. skuldabréf útgefin af ríkissjóði Íslands og Íbúðalánasjóði. Samanlögð velta með skuldabréf ríkissjóðs, Íbúðalánasjóðs og sveitarfélaga nam um 96% af heildarveltu frá árinu 2004 til septemberloka 2008, þar af var velta með skuldabréf sveitarfélaga einungis 0,003%. Velta með skuldabréf banka nam svo rúmlega 3% af heildarveltu og velta með önnur skuldabréf tæplega 1%. Öflugur eftirmarkaður og virk verðmyndun var því fyrst og fremst með skuldabréf ríkissjóðs og Íbúðalánasjóðs á meðan hlutfallslega lítil velta var með önnur skuldabréf.

Þróunin á tímabilinu öllu var á þann veginn að viðskipti fóru vaxandi nokkuð jafnt og þétt fram til ársloka 2007 en þá varð mikil og skyndileg aukning í veltu sem ætla má að hafi að hluta til verið vegna þess að fjárfestar leituðu í öruggari fjárfestingar í ljósi aukinnar áhættu og lækkandi hlutabréfaverðs. Í janúar 2004 var heildarveltan á skuldabréfamarkaði um 91 milljarður króna en þegar mest viðskipti voru á markaðnum, í maí 2008, var hún orðin tæplega 740 milljarðar króna.

Myndir 51 og 52 sýna hvernig ávöxtunarkrafa skuldabréfa ríkissjóðs og Íbúðalánasjóðs þróaðist á tímabilinu.

Ef litið er fyrst á þróun ávöxtunarkröfu skuldabréfa Íbúðalánasjóðs má sjá að hún hækkar talsvert frá haustinu 2006 og fram undir lok árs 2007, en ávöxtunarkrafa breytist í takt við verð en með öfugum formerkjum þannig að á þessum tíma fór verð skuldabréfanna almennt lækkandi. Þetta gerist nokkurn veginn samhliða hækkun hlutabréfaverðs og getur þessi þróun verið til marks um aukna áhættusækni fjárfesta, þar sem eftirspurn eftir hlutabréfum eykst á kostnað eftirspurnar eftir ríkistryggðum skuldabréfum. Í lok árs 2007 fer ávöxtunarkrafan svo að lækka á ný, þ.e. verð skuldabréfa að hækka, samhliða lækkandi hlutabréfaverði.

Þróunin sést ekki með jafn skýrum hætti þegar ávöxtunarkrafa skuldabréfa ríkissjóðs eru skoðuð. Þau eru ekki verðtryggð og hafa verðbólguhorfur því talsverð áhrif á ávöxtunarkröfu bréfanna, en eins og fram kemur í kafla 4.0 var talsverð verðbólga á tímabilinu. Að auki má sjá að ávöxtunarkrafa virðist almennt hækka þegar líður að gjalddaga bréfanna sem skýrist hugsanlega af því að þegar líftími til gjalddaga er styttri en fjórir mánuðir eru gerðar aðrar og minni kröfur til viðskiptavaka bréfanna sem gerir það að verkum að verðmyndun verður óskilvirkari.

12.7 Niðurstöður rannsóknarnefndar Alþingis

Greining sú sem hér hefur farið fram á þróun verðbréfaviðskipta á Íslandi á tímabilinu frá 2004 og fram til hruns bankanna í október 2008 hefur leitt í ljós ýmsa misbresti á uppbyggingu verðbréfamarkaða hér á landi og gefur til kynna að markaðurinn hafi á margan hátt verið óþroskaður. Hér að framan hafa verið leiddar líkur að því að þá miklu hækkun sem varð á hlutabréfaverði frá upphafi árs 2004 fram til miðs árs 2007 megi fyrst og fremst rekja til aukinnar skuldsetningar vegna verðbréfakaupa og vanmats á þeirri auknu áhættu sem henni fylgdi. Bankarnir sjálfir voru atkvæðamiklir í lánveitingum til hlutabréfakaupa og í ákveðnum tilvikum höfðu þeir tekið veð í eigin hlutabréfum. Með fallandi hlutabréfaverði dró því úr gæðum útlánasafnsins sem aftur gat haft umtalsverð áhrif á afkomu bankanna og þar af leiðandi hlutabréfaverð þeirra. Til viðbótar voru starfsmenn í mörgum tilvikum með talsverðan eignarhlut í eigin banka sem bankinn jafnvel fjármagnaði. Því telur rannsóknarnefndin að bankarnir hafi komið sér í þrönga stöðu þegar hlutabréfaverð tók að lækka síðla árs 2007, veðþekjur á hlutabréfalánum þeirra lækkuðu og staða viðskiptavina þeirra fór versnandi.

Allir bankarnir voru umsvifamiklir kaupendur eigin hlutabréfa í pöruðum viðskiptum í Kauphöllinni þegar leið á tímabilið og þá sérstaklega eftir að verð hlutabréfanna tók að lækka. Þannig var Kaupþing á kauphlið paraðra viðskipta með hlutabréf í Kaupþingi í 46,45% tilvika árið 2008, Glitnir var á kauphlið í 44,42% paraðra viðskipta með hlutabréf í Glitni árið 2008 og Landsbankinn á kauphlið í 45,28% paraðra viðskipta með hlutabréf í Landsbankanum árið 2008. Salan var í öllum tilvikum lítil og jafnvel smávægileg þegar pöruð viðskipti eru skoðuð en Kaupþing var einungis í 1,61% tilfella á söluhlið viðskipta með eigin bréf í tilboðabók og eins voru Glitnir og Landsbankinn einungis í 1,36% og 0,67% tilfella á söluhlið viðskipta með hlutabréf í þeim sjálfum. Þess í stað fór sala fyrst og fremst fram í stórum viðskiptum utan tilboðabókarinnar sem svo voru tilkynnt til Kauphallarinnar. Einn grundvallarmunur er á þessum tveimur viðskiptaaðferðum. Pöruð viðskipti hafa bein áhrif á verðmyndun og þróun verðbilsins í tilboðabók viðkomandi félags en verðáhrif tilkynntra viðskipta eru takmörkuð þar eð slík viðskipti hafa einungis áhrif á síðasta viðskiptaverð sé um stöðluð viðskipti að ræða og þau innan verðbils. Rannsóknarnefndin telur því að bankarnir hafi allir reynt að kalla fram óeðlilega eftirspurn eftir hlutabréfum í sjálfum sér og notað til þess það svigrúm sem hægt var að skapa með viðskiptum deilda eigin viðskipta. Markmið þeirra hafi verið að tempra hraða verðlækkun og vinna þannig tíma til að greiða úr öðrum málum. Einnig telur rannsóknarnefnd Alþingis að margar af þeim lánveitingum til hlutabréfakaupa í bönkunum sjálfum sem áttu sér stað síðla árs 2007 og allt árið 2008 hafi verið til þess fallnar að auka svigrúm veltubóka bankanna til frekari hlutabréfakaupa og að ekki hafi í öllum tilfellum verið gætt að því að koma í veg fyrir að bankinn bæri alla áhættuna af verðbreytingum bréfanna.

Lán til hlutabréfakaupa og lán með veði í hlutabréfaeignum eru ekki einungis áhættusamar fyrir þá sem taka slík lán heldur eykst einnig verðáhætta annarra fjárfesta sem kaupa sömu verðbréf. Ef hlutabréf félags eru að stórum hluta veðsett getur verðlækkun komið af stað ákveðinni keðjuverkun sem leiðir til þess að heildarverðlækkun getur orðið mikil og hröð. Ákveðnar upplýsingar um veðsetningu hlutabréfaeignar voru tiltækar hjá Seðlabankanum enda þótt færa megi rök að því að þær hefðu getað verið ítarlegri og aðgengilegri. Hvað sem því líður eru fá ummerki um að fjárfestar hafi almennt tekið mið af verðáhættu vegna veðsetninga þegar ákvarðanir um kaup eða sölu hlutabréfa voru teknar og ekki verður séð að eftirlitsaðilar hafi gripið til sérstakra aðgerða þannig að ráða megi að þeir hafi verið meðvitaðir um hættuna sem slíkri skuldsetningu fylgdi.

Rannsóknarnefnd Alþingis vill benda á að ef banki kaupir sjálfur hlutabréf í stað þess að lána fyrir þeim ber hann áhættu sem nemur þeirri upphæð sem keypt er fyrir en sá ávinningur sem vænst er ræðst af mögulegum verðhækkunum og arðgreiðslum. Láni hann að fullu fyrir kaupunum, með engin önnur veð en bréfin sjálf, ber hann sömu áhættu og ef hann hefði sjálfur keypt bréfin en ávinningurinn takmarkast við þóknanir og vaxtagreiðslur sem þó er óvíst að komi til nema hlutabréfaverðið hækki eða arðgreiðslur dugi fyrir greiðslunum. Þannig eru takmörk sett á ávinning en engin á tapið.

Fræðimenn hafa fært fyrir því rök að seðlabankar eigi að hafa eftirlit með veðsetningu í hagkerfinu og grípa inn í til þess að koma í veg fyrir að hún verði of há á uppgangstímum og stuðla að aukningu þegar samdráttur er í hagkerfinu. Þannig megi hugsanlega draga úr ofvexti hagkerfisins og stuðla að auknum fjármálastöðugleika. Rannsóknarnefnd Alþingis telur að Seðlabanki Íslands eigi á grundvelli þeirrar lögmæltu skyldu sinnar að viðhalda fjármálastöðugleika að safna upplýsingum um veðsetningu og grípa jafnvel inn í ef sú staða kemur upp aftur að mikil aukning verður á veðsetningu samhliða verðhækkunum á verðbréfum og almennri þenslu í hagkerfinu.

Tilraunir bankanna til þess að halda uppi verði á eigin hlutabréfum með miklum kaupum í pöruðum viðskiptum hefðu ekki gengið upp nema mögulegt hefði verið að losna við bréfin með einhverjum hætti. Ella hefðu þeir neyðst til þess að flagga eignarhlut sínum opinberlega sem hefði getað verið talsvert veikleikamerki. Salan fór fram í stórum hlutum sem tilkynnt var um til Kauphallarinnar og í mörgum tilvikum komu bankarnir einnig að fjármögnun slíkra viðskipta.Allt ferlið,frá kaupum bankans sjálfs til fjármögnunarinnar, hangir því saman. Þeir starfsmenn bankanna sem komu að hverjum lið ferlisins, þ.e. 1) kaupum í pöruðum viðskiptum, 2) sölu stærri eignarhluta og 3) fjármögnun viðskiptanna, virðast ekki hafa verið meðvitaðir um aðra þætti þess, eins og marka má af skýrslutökum af starfsmönnum bankanna. Starfsmenn deildar eigin viðskipta höfðu ekki vitneskju um hverjir kaupendur hlutanna voru og hvernig viðskiptin voru fjármögnuð. Starfsmenn miðlunar, sem sáu í einhverjum tilvikum um að finna kaupendur að hlutunum og gengu frá viðskiptunum, vissu ekki hvort lán hefði verið veitt til viðskiptanna eða hvort greiðsla hefði komið með öðrum hætti. Aðilar sem sáu um afgreiðslu lánveitinga hafa vitað hverjum lánin voru veitt en ekki endilega hvaðan bréfin komu, þ.e. að bankinn sjálfur væri seljandi. Stjórnendur bankanna hafa þó haft yfirsýn yfir alla þessa liði auk þess sem fjármögnun viðskiptanna hefur farið fyrir lánanefndir. Enda eru upphæðirnar sem um ræðir mjög háar, aðgerðirnar umfangsmiklar og fórnarkostnaður hár.

Horft til skamms tíma mætti draga þá ályktun að kaup deilda innan bankanna sem sinna viðskiptum bankans með hlutabréf hefðu verið gerð með því hugarfari að skammt væri í botninn en þegar viðskiptin eru skoðuð í víðara samhengi má sjá að bréfin voru iðulega seld aftur og það á lægra verði en þau voru keypt á og undir eins hafist handa við að kaupa á ný. Þetta viðgekkst í hátt í ár hjá öllum bönkunum og eins og niðurstöðurnar að framan bera með sér hlaust talsvert tap af viðskiptunum. Rannsóknarnefnd Alþingis getur því ekki fallist á að kaup deilda eigin viðskipta hafi verið byggð á eðlilegum viðskiptasjónarmiðum, hvorki sjónarmiðum um eðlilega viðskiptavakt hlutabréfa né ávöxtun á fjármunum bankanna.

Í skýrslutökum rannsóknarnefndarinnar af starfsmönnum eða forsvarsmönnum deilda eigin viðskipta bankanna voru þau rök gegnumgangandi fyrir kaupum hvers banka á eigin hlutabréfum á tímabili lækkunar að með þeim hefði átt að tryggja að bréfin væru auðseljanlegri (e. liquidity). Sem viðskiptavakar hefðu bankarnir þurft að sjá til þess að eftirspurn væri til jafns við framboð á tímum tímabundins söluþrýstings svo hluthafar og áhugasamir kaupendur gætu verið fullvissir um að kæmi til þess að þeir þyrftu að selja væru ávallt kaupendur til staðar. Þannig væri verðáhætta fjárfesta lágmörkuð og það getur aukið eftirspurn eftir bréfunum til langs tíma og laðað að nýja fjárfesta. Við skýrslutöku hjá rannsóknarnefndinni sagði Jóhannes Baldursson, yfirmaður markaðsviðskipta Glitnis, til dæmis þegar rætt var um það tap sem hlaust af viðskiptum deildar eigin viðskipta Glitnis (EVG) með hlutabréf í Glitni að bankastarfsemi sú sem Glitnir stundaði væri "langhlaup", með vísan til þess að bankinn hefði verið tilbúinn til að taka á sig tap í niðursveiflu í viðskiptum með eigin hlutabréf og þá á sama hátt gróða í uppsveiflu.Að mati rannsóknarnefndarinnar fást slík rök varla staðist.Viðskiptavakar eiga að sjá til þess að kaup- og sölutilboð séu til staðar og liðka þannig fyrir viðskiptum og eðlilegri verðmyndun. Myndist kaup- eða söluþrýstingur er það hagur og skylda viðskiptavaka að aðlaga tilboð sín þar til jafnvægi hefur náðst og það magn bréfa sem hann kaupir er nokkurn veginn til jafns við það magn sem hann selur (þ.e. hækka verð þegar kaupþrýstingur er og lækka verð þegar söluþrýstingur myndast). Hlutverk viðskiptavaka er ekki að stýra verðlagi heldur að bjóða mótaðila í viðskiptum svo eðlileg og skilvirk verðmyndun geti átt sér stað. Hinn mikli söluþrýstingur sem myndaðist á síðari hluta ársins 2007 og kom fram í því að bankarnir allt að því einokuðu kauphlið tilboðabóka sinna var augljóst merki um að hlutabréfaverð þeirra væri of hátt. Bankarnir voru að auki í einhverjum tilvikum viðskiptavakar með hlutabréf annars hinna bankanna tveggja og keyptu og seldu þar svipað magn í pöruðum viðskiptum þrátt fyrir mikinn söluþrýsting og lækkandi hlutabréfaverð. Má nefna þetta sem dæmi um viðskiptahætti sem geta talist eðlilegir fyrir viðskiptavaka og það veikir enn frekar röksemdir bankanna fyrir því að viðskipti þeirra með hlutabréf í þeim sjálfum hafi verið eðlileg viðskiptavakt á íslenskum hlutabréfamarkaði.

Einnig virðist sem bankarnir hafi í sumum tilfellum litið svo á að eðlilegt sé að viðskiptavaki hafi tap af viðskiptum sínum þegar hlutabréfaverð lækkar. Að mati rannsóknarnefndarinnar er það augljóslega rangt þar sem viðskiptavaki á að stilla af tilboð sín þannig að jafn miklar líkur séu á því að hann sé sleginn á kaup- og söluhliðinni og innleysi þar með hagnað sem nemur verðbilinu. Sé staðan önnur verður að ætla að viðskiptavakinn sé að viðhalda óeðlilegu verði.

Ef markmið bankanna hefði verið að koma í veg fyrir óeðlilegar verðsveiflur, sem er þó ekki þeirra hlutverk og getur að ákveðnum skilyrðum uppfylltum fallið undir markaðsmisnotkun, hefðu þeir átt að kaupa stærri hluti utan markaðarins og selja í pöruðum viðskiptum á þeim tíma sem hlutabréfaverðið var á uppleið. Það hefði að minnsta kosti verið í samræmi við það verklag sem tíðkaðist eftir að hlutabréfaverð tók að lækka. Sú var aftur á móti ekki raunin.

Með hliðsjón af framansögðu telur rannsóknarnefnd Alþingis yfirgnæfandi líkur á því að þau viðskipti bankanna með eigin hlutabréf sem greiningin náði til hafi verið framkvæmd í þeim tilgangi að gefa misvísandi upplýsingar um eftirspurn eftir hlutabréfunum og hafa þannig áhrif á verð þeirra. Umfang viðskiptanna var svo mikið að ekki hefði verið mögulegt að halda kaupunum til streitu nema einhver sala kæmi á móti eða með því að flagga uppsöfnuðum eignarhlut opinberlega. Í mörgum tilvikum veittu bankarnir völdum viðskiptavinum lán á hagstæðum kjörum og jafnvel án trygginga til þess að liðka fyrir slíkum sölum. Í ljósi greiningarinnar að framan telur rannsóknarnefndin ljóst að það sé verulega óheppilegt að banki eða fjármálastofnun sé viðskiptavaki með eigin hlutabréf og þá ekki síst þegar þeir eru einnig lánveitendur í tengdum viðskiptum. Hagsmunir starfsmanna eru alltaf á einhvern hátt samtvinnaðir hagsmunum vinnuveitandans, einkum ef starfsmenn eru einnig hluthafar í viðkomandi félagi, og er því alltaf ákveðinn hvati til staðar til þess að hafa áhrif á verð, hafi félagið eða starfsmenn þess hag af því. Eftirlitsstofnanir þurfa einnig að hafa betri úrræði til þess að fylgjast með stöðutöku og viðskiptum fjármálafyrirtækja sem og einstakra fjárfesta svo hægt sé að koma í veg fyrir að viðskiptahættir í líkingu við þá sem voru við lýði hjá deildum eigin viðskipta bankanna verði viðhafðir í framtíðinni.

Til marks um það hugarfar sem virðist hafa ríkt innan bankanna þegar hlutabréfaverð fór að lækka nefndi Ívar Guðjónsson, forstöðumaður eigin fjárfestinga hjá Landsbankanum, í skýrslutöku hjá rannsóknarnefndinni að hann hefði talið að óeðlilegum söluþrýstingi hefði verið beitt gegn Landsbankanum á markaði og hefði þar vaknað grunur um skortsölu. Ef hlutabréfaverð er ofar verðmati markaðsaðila eru eðlileg viðbrögð þeirra að selja bréfin til þess að lágmarka tap eða skortselja þau til þess að innleysa hagnað og er það hluti af því ferli sem leiðir til skynsamlegrar verðmyndunar á markaði. Salan ætti því að halda áfram þar til verðið hefur lækkað nægilega mikið til þess að fjárfestar sjái kauptækifæri og samhliða því myndi draga úr söluþrýstingi og lægra jafnvægisverð myndast. Slíkur söluáhugi dvínar síst ef mótaðili er til staðar með um 50% markaðshlutdeild á kauphliðinni sem er tilbúinn til að kaupa bréfin á háu verði og selja þau svo aftur lágt, eins og raunin var með bankana þrjá á einhverjum tímapunkti. Skynsamir markaðsaðilar hefðu því selt eins mikið af bréfum og mögulegt var og leitast svo við að kaupa þau af bankanum á ný á lægra verði og hugsanlega á hagstæðum lánakjörum með lítilli sem engri áhættu.Vilji bankanna, og á það við um þá alla þrjá, til að liðka fyrir sölu á eigin hlutabréfum í því skyni að laða að nýja fjárfesta (sérstaklega erlenda) kann því að hafa gefið merki um veikleika þeirra og stuðlað að skortsölu á bréfunum.

Rannsóknir hafa gefið til kynna að markaðsmisnotkun sé meira vandamál á smærri mörkuðum með hlutabréf (e. emerging stock markets) heldur en á stærri og eldri hlutabréfamörkuðum, s.s. í Bandaríkjunum. Því kann að vera mikilvægt að hafa strangara eftirlit með hugsanlegri markaðsmisnotkun á smærri hlutabréfamörkuðum, s.s. hér á Íslandi, sem svo mætti draga hlutfallslega úr þegar markaðurinn þroskast og markaðsaðilum fjölgar.

Eftir að TRS-kerfinu var komið á laggirnar hjá Fjármálaeftirlitinu hafði stofnunin aðgang að gagnagrunni sem hafði að geyma stærstan hluta þeirra upplýsinga sem byggt var á við greiningu þá sem lýst er í þessum kafla, þ.e. upplýsingar um öll verðbréfaviðskipti, aðgreind eftir viðskiptaaðilum í hverjum banka fyrir sig. Fjármálaeftirlitið hefði því getað fylgst með stöðutöku allra þessara aðila á markaði og þróun hennar og þar af leiðandi séð að deildir eigin viðskipta bankanna þriggja stunduðu frá árinu 2007 umfangsmikil kaup á hlutabréfum hver í sínum banka og losuðu svo út þann eignarhlut í stórum skömmtum til þess að komast hjá því að senda út flöggunartilkynningu. Gagnagrunnurinn var þó ekkert notaður þar sem Fjármálaeftirlitið hafði ekki komið sér upp nauðsynlegum búnaði til þess að lesa og greina gögnin. Rannsóknarnefnd Alþingis telur að Fjármálaeftirlitið hafi brugðist í þessu efni. Ef Fjármálaeftirlitið hefði greint þá mynd sem dregin er upp hér hefði það kallað á rannsókn á því hvað ætti sér stað á verðbréfamörkuðum. Það kynni að hafa breytt rás atburða að einhverju leyti. Í gögnum sem rannsóknarnefnd Alþingis hefur frá Kauphöllinni er m.a. ábending til Fjármálaeftirlitsins hinn 27. janúar 2009 um að viðskipti veltubókar bankanna væri mögulega í ósamræmi við góða viðskiptahætti. Í ábendingunni segir að deild eigin viðskipta bankanna "allt að því einokuðu [...] kauphlið tilboðabókar eigin félags." Athygli vekur að þessi ábending hafi ekki komið fram fyrr þar sem hún á við tímabilið fyrir október 2008. Rannsóknarnefnd Alþingis telur nauðsynlegt að Kauphöllin og Fjármálaeftirlitið hafi með sér skýra verkaskiptingu til að svona viðskipti fái ekki að viðgangast mánuðum saman óafskipt.

Ljóst virðist að regluverðir bankanna hefðu í ríkari mæli þurft að koma að mati á því hvort innherjaupplýsingar væru til staðar og hvort tilkynningarskylda hefði myndast. Þessar starfseiningar bankanna voru undirmannaðar, fengu takmarkaðar upplýsingar til að byggja mat sitt á og höfðu lítið sem ekkert ákvörðunarvald. Upplýsingagjöfin var því að stórum hluta í höndum stjórnenda bankanna og var regluvörðum því að jafnaði einungis gert að senda tilkynningar til Kauphallarinnar án þess að þeir hefðu færi á að leggja mat á eða gagnrýna innihald þeirra.

Að mati rannsóknarnefndar Alþingis er hlutverk regluvarða mjög mikilvægt á verðbréfamörkuðum sem og í rekstri fjármálafyrirtækja. Í skýrslutökum af regluvörðum bankanna kom fram að þeir höfðu allir á einhverjum tímapunkti staðið í deilum við stjórnendur síns banka um starfssvið sitt, heimildir og úrræði. Kom þar einnig fram að þegar þeir leituðu til Fjármálaeftirlitsins um stuðning vegna slíkra atriða hefðu svörin verið takmörkuð og gagnslítil. Að mati rannsóknarnefndarinnar þurfa regluverðir að hafa sterkt bakland hjá Fjármálaeftirlitinu. Sé farið inn á þeirra verksvið eða á einhvern hátt komið í veg fyrir að þeir geti sinnt skyldum sínum er nauðsynlegt að þeir geti haft samband við Fjármálaeftirlitið, eða vísað í fyrri samskipti við stofnunina, sér til stuðnings. Þetta myndi gera yfirmönnum þeirra ljósari grein fyrir mikilvægi starfa regluvarða og því að það geti haft í för með sér alvarlegar afleiðingar ef ráðleggingar þeirra eru ekki virtar.

Sé velgengni félags á einhvern beinan hátt og að verulegu leyti háð verði eigin hlutabréfa myndast gagnhæði (e. interdependence) milli afkomu þess og hlutabréfaverðsins sem getur stuðlað að óeðlilegum verðsveiflum og dregið úr skilvirkni verðmyndunarinnar. Eins og fram hefur komið var afkoma og fjárhagsstaða bankanna á margan hátt háð verði eigin hlutabréfa þeirra. Aðstæður höfðu því myndast þar sem fallandi hlutabréfaverð hefði getað haft afdrifarík áhrif á afkomu bankanna. Þetta hefur skapað óæskilega hvata til þess að hafa með einhverjum hætti áhrif á verð hlutabréfanna þar sem mikið hefur legið við bæði frá sjónarhóli sjálfra bankanna og starfsmanna þeirra. Rannsóknarnefnd Alþingis telur mikilvægt að tryggt verði að slík aðstaða komi ekki upp aftur og í því sambandi hafa eftirlitsaðilar mikilvægu hlutverki að gegna.

12.8 Greinargerð um lánveitingar til hlutabréfakaupa

12.8.1 Inngangur

Í þessum kafla verða rannsökuð viðskipti einstaklinga og fyrirtækja með hlutabréf í Kaupþingi banka hf., Landsbanka Íslands hf. og Glitni banka hf.Við valið á aðilunum var litið til stærðar einstakra viðskipta og einnig samtölu heildarviðskipta frá upphafi árs 2007 fram að falli bankanna.Við þessa frumathugun var miðað við öll einstök viðskipti yfir 50 milljónum kr. og ef viðskipti voru yfir 50 milljónum kr. á sex mánaða tímabili.Til að þrengja viðfangsefnið var kannað hver þessara aðila hefði notið fyrirgreiðslu frá bönkunum þremur. Niðurstaðan var að nánari rannsókn var gerð á viðskiptum 32 félaga. Öll félögin, utan eitt, og einstaklingarnir sem skoðaðir voru fengu fyrirgreiðslu til hlutabréfakaupa yfir 1 milljarð kr. Ástæða þess að eitt félag með fyrirgreiðslu undir 1 milljarði kr. var skoðað er hversu sérstök lánsbeiðnin og ráðstöfun lánsins var.

Gögn sem stuðst var við í þessari rannsókn voru, auk hlutabréfaviðskiptagagna sem lýst er í kaflanum, fundargerðir lánanefnda fjármálafyrirtækjanna. Miðað var við að fram kæmi með óyggjandi hætti í lánabeiðnum eða lánaafgreiðslum að óskað væri eftir láni til hlutabréfakaupa í fjármálafyrirtæki, þ.e. að viðskiptavinurinn ætlaði sér að ráðstafa andvirði lánsins til þess að kaupa hlutabréf í fjármálafyrirtækinu sjálfu eða öðru fjármálafyrirtæki. Eftir öðrum gögnum og upplýsingum, sem nota þurfti, var óskað skriflega hjá viðkomandi fjármálafyrirtæki. Upplýsingar um félög, s.s. stjórn, samþykktir, eignarhald, eignatengsl og ársreikninga, voru fengnar úr Ársreikningaskrá ríkisskattstjóra og úr gagnagrunni Creditinfo.

Þótt reynt væri að hafa framsetninguna sem mest á samræmdu formi þurfti í ákveðnum tilvikum að lýsa hlutafjárkaupum tveggja eða fleiri félaga sameiginlega, þar sem þau voru svo samtvinnuð gegnum eigendatengsl eða á annan hátt að ekki var mögulegt að fjalla um þau hvort eða hvert í sínu lagi.

Í umfjöllun og greiningu á hverju félagi koma eftirfarandi upplýsingar fram um hvert og eitt félag:

Vikið er að því hver sé yfirlýstur tilgangur með starfsemi félagsins eins og hann birtist í samþykktum þess. Þá er jafnan greint frá því hvort um sé að ræða einkahlutafélag eða hlutafélag.Tilgreindar eru helstu eignir, s.s. eignarhlutir í öðrum félögum, fasteignir o.fl. ef við á.

Greint er frá því hverjir séu helstu eigendur félagsins. Þá eru stjórnarmenn taldir upp og framkvæmdastjóri. Ef félagið er hluti af samstæðu er getið um móðurfélagið. Jafnframt eru önnur eignatengsl rakin, s.s. dótturfélög, ef ástæða þykir til en það gat farið eftir eðli þess máls sem verið var að kanna hverju sinni.

Birt er viðskiptayfirlit fyrir hvert félag og þær lánveitingar sem fjallað er um. Þá er gerð grein fyrir hlutabréfaviðskiptum sem tengdust lánveitingunni.Yfirlitið nær yfir tímabilið frá 1. janúar 2007 til falls bankanna í október 2008.Tekið er fram hvaða fjármálafyrirtæki veittu lánið eða lánin og hversu há lánsheimildin var. Þá er greint frá kaupum og sölu hlutabréfa á markaðsvirði hverju sinni. Fram kemur hlutabréfaeign viðskiptamanns í viðkomandi fjármálafyrirtæki 1. janúar 2007 á markaðsvirði. Því næst er greint frá mun á kaup- og söluvirði hlutabréfa á tímabilinu. Að síðustu er gerð grein fyrir hlutabréfaeign viðskiptamanns í viðkomandi fjármálafyrirtæki á nafnvirði 1. janúar 2007 og við fall bankanna í október 2008.

Hafa þarf í huga, að við kaup á hlutabréfum, sem tengjast lánveitingu, liggur alltaf fyrir hversu marga hluti verið er að kaupa hverju sinni og hvert er kaupgengi þeirra. Hins vegar er í nokkrum tilfellum um sífelldar hreyfingar og millifærslur á hlutabréfum milli einstakra vörslureikninga í eigu sama aðila að ræða. Sömuleiðis voru hlutabréf mjög oft flutt fram og til baka milli félaga sem eru í eigu sömu aðila. Þessar hreyfingar geta valdið því, að stundum verður erfitt að rekja feril hlutabréfanna m.t.t. þess að finna út markaðsvirði þeirra nákvæmlega. Þegar þessi staða hefur komið upp hefur verið miðað við meðalkaup- eða sölugengi hlutabréfanna á þeim degi sem hlutabréfin voru keypt eða seld.

Farið er yfir ákvarðanir og niðurstöður lánanefnda fjármálafyrirtækjanna, hversu há lánsheimildin er og í hvaða tilgangi nota eigi andvirði lánsins. Þá er tekið fram í hvaða mánuði lánanefndin samþykkti lánsumsóknina.

Skýrt er frá hvaða tryggingar lántaki þurfi að leggja fram. Sömuleiðis kemur fram ef tryggingarnar eru einungis veð í hinum keyptu hlutabréfum. Þá er einnig greint frá mörkum á lánaþekju, veðkalli og ábyrgð á veðkalli ef upplýsingar um það koma fram í fundargerðum.

Ef vitað er um tengsl milli lántaka og fjármálafyrirtækis er þeirra tengsla getið. Eins er getið um eignatengsl, viðskiptatengsl, fjölskyldutengsl o.fl. ef upplýsingar um slík tengsl liggja fyrir.

Gerð er stuttlega grein fyrir síðasta birta ársreikningi félagsins.Tekið er fram hvert sé eigið fé félagsins í árslok og hve mikill hluti þess sé hlutafé. Þá kemur fram hver afkoma félagsins á síðasta reikningsári hafi verið. Þá kemur einnig fram hvort ársreikningurinn hafi verið endurskoðaður eða ekki. Hafi endurskoðandi aðstoðað við gerð ársreikningsins en ekki endurskoðað hann, þá er þess getið. Ef endurskoðaður ársreikningur er áritaður með fyrirvara er þess getið og fyrirvarinn birtur í heild sinni.

Þessi umfjöllun er ekki tæmandi en ætti að gefa mynd af hlut þessara fjármálafyrirtækja í umræddum lánveitingum og að vissu leyti viðskiptum með hlutabréf í þeim. Hins vegar er ekki útilokað að einstaka félag hafi verið með lánaheimildir sem farið hafi til hlutabréfakaupa án þess að um það hafi sérstaklega verið getið í fundargerðum. Þá er heldur ekki útilokað að einstaka félag hafi fengið lánaheimildir í öðrum fjármálafyrirtækjum til hlutabréfakaupa.Vitnað er til fundargerða lánanefnda þar sem það á við og eru tilvitnanir í fundargerðir, sem gerðar voru á ensku, þýddar yfir á íslensku.

Lánveitingar fjármálafyrirtækjanna til félaganna 32 nema samtals 316 milljörðum kr. sem eru um 39,2% af eigin fé stóru bankanna þriggja í lok júní 2008. Lánveitingarnar flokkast á eftirfarandi hátt niður á bankana þrjá:

Sérstaka athygli vekur að 14 félög, eða tæplega helmingur félaganna sem rannsóknin tók til, voru einungis með lágmarkshlutafé, þ.e. 500 þúsund kr., sjá töflu 2. Þessi félög fá lánaheimildir að fjárhæð 109 milljarðar kr., á móti einungis samtals 7 milljóna kr. stofnhlutafé. Félög með hlutafé á bilinu 500 þúsund kr. til 5 milljóna kr. fá lánaheimildir að fjárhæð 49 milljarðar kr. Félög með hlutafé á bilinu 5 til 50 milljóna kr. eru þrjú talsins og fá þau lánaheimildir að fjárhæð 16 milljarðar kr. Félög með 50 milljónir kr. eða meira í hlutafé eru sjö talsins og eru þau með 78 milljarða kr. í lánaheimildir.

Fjögur félög eru skráð erlendis. Litlar upplýsingar er að finna um þessi félög hérlendis. Þó er vitað að þrjú þeirra eru í íslenskri eigu og að eigendurnir eru með lögheimili hér á Íslandi.Tvö félaganna voru nýstofnuð og þar af leiðandi með enga rekstrarsögu á bak við sig þegar þau fá lánaheimildir hjá bönkunum. Þessi fjögur félög eru með 48 milljarða kr. í lánsheimildir.

Lánsheimildir félaganna sem eru með einungis 500 þúsund kr. í stofnhlutafé eru að meðaltali tæplega 8 milljarðar kr. Einnig eru lánsheimildir til félaga með stofnhlutafé milli 500 þúsund og 5 milljóna kr. að meðaltali 12,2 milljarðar kr. Í töflu 3 er yfirlit yfir öll félögin sem tekin voru til rannsóknar í þessum kafla og fyrirgreiðslur þeim til handa.

12.8.2 Umfjöllun um einstök fyrirtæki

Þáttur International ehf./Svartháfur ehf.

Hér á eftir verður fjallað samhliða um félögin Þátt International ehf. og Svartháf ehf.

Á hluthafafundi í ELL 60 ehf. sem haldinn var 12. janúar 2007 var samþykkt að breyta nafni félagsins í Þáttur International ehf. Þá var ný stjórn félagsins kjörin. Guðmundur Ólason var kjörinn í aðalstjórn og Jóhannes Sigurðsson í varastjórn. Enginn framkvæmdastjóri er skráður fyrir félaginu.

Í 2. gr. samþykkta Þáttar International ehf. eins og þær voru samþykktar 12. janúar 2007 kemur fram að:

"Tilgangur félagsins er gerð fjármögnunarsamnings við Morgan Stanley & Co. International Limited ("MSIL") og annarra tengdra samninga og skuldbindinga í tengslum við einstök viðskipti milli félagsins og MSIL, þ.m.t. að samþykkja breytta skilmála vegna kaupa félagsins á hlutabréfum í Glitni banka hf.; að veita MSIL tryggingar í eignum félagsins; eignarhald á bréfum í Glitni banka hf.; að gera samninga við móðurfélag eða tengd félög til þess að standa við skuldbindingar sínar í tengslum við einstök viðskipti milli félagsins og MSIL og lána fjármuni sem tengjast einstökum viðskiptum eða tekjum félagsins til móðurfélags eða tengdra félaga. Félaginu er ekki heimilt að sinna annarri starfsemi en heimiluð er í samþykktum þessum og er þannig ekki heimilt að gangast undir aðrar skuldbindingar, nema slíkt sé óhjákvæmilegt að lögum, eða veita tryggingar til annarra aðila en MSIL nema slíkt sé í samræmi við skilmála einstakra viðskipta við MSIL eða heimilað í samþykktum þessum."

Á hluthafafundi Þáttar International ehf. sem haldinn var 11. júní 2008 var sú breyting gerð á samþykktum félagsins að framvegis yrðu stjórnarmenn tveir og þyrfti samþykki þeirra beggja til að skuldbinda félagið. Í stjórn voru kjörnir: Guðmundur Ólason, formaður, og Einar Sveinsson, stjórnarmaður.

Á hluthafafundinum var 2. gr. (tilgangur) samþykkta félagsins jafnframt breytt og var hún nú þannig: "Tilgangur félagsins er eignarhald verðbréfa, lánastarfsemi og önnur fjármálastarfsemi, og skyldur rekstur".

Frumeigendur Þáttar International ehf. eru: SJ2 ehf. 48,8%, Skeggi ehf. 39,1% og Fjárfestingarfélagið Máttur ehf. 12,1%. Við athugun á eignarhaldi þriggja ofangreindra félaga og hvernig það greinist niður á einstaka aðila lítur eignarhald Þáttar International ehf. þannig út:

Félagið Leiftri Ltd. sem skráð er erlendis er að fullu í eigu Karls Emils og Steingríms Wernerssona.

Félagið ELL 150 ehf. er stofnað af LOGOS lögmannsþjónustu sf. hinn 17. janúar 2008. Á hluthafafundi sem haldinn er 28. febrúar 2008 er nafni félagsins breytt í Svartháf ehf. ásamt því að eigendaskipti verða á félaginu og verður Werner Ívan Rasmusson eini eigandi þess. Þá taka sæti í stjórn þau Werner Ívan Rasmusson, faðir Karls Emils og Steingríms Wernerssona, og Kristín Sigurðardóttir eiginkona hans, varamaður.Werner er jafnframt skráður framkvæmdastjóri og prókúruhafi félagsins. Félagið starfaði því undir nafninu Svartháfur ehf. frá 28. febrúar 2008. Samkvæmt samþykktum Svartháfs ehf. er tilgangur félagsins kaup, sala, rekstur, eignarhald og leiga fasteigna og hvers kyns lausafjár; eignarhald, kaup og viðskipti með hlutabréf, hluti í félögum, önnur verðbréf og hvers kyns önnur fjárhagsleg verðmæti; lánastarfsemi og skyldur rekstur.

Á tímabilinu 1. janúar 2007 til falls bankanna áttu sér stað eftirfarandi viðskipti með hlutabréf og lántökur hjá félögunum Þætti International ehf. og Svartháfi ehf. vegna hlutabréfakaupa í bönkunum:

Hlutabréfaeign Þáttar International ehf. og Svartháfs ehf. í bönkunum hinn 1. janúar 2007 er engin. Á tímabilinu fær Þáttur International ehf. lánsheimild að fjárhæð 8,9 milljarðar kr. og Svartháfur að fjárhæð 28,1 milljarður kr. Samtals eru því lánsheimildir til félaganna beggja 37 milljarðar kr. Keypt hlutabréf eru að fjárhæð 38,5 milljarðar kr. og seld hlutabréf eru að andvirði 16,2 milljarðar kr. Keypt hlutabréf umfram seld nema þannig 22,3 milljörðum kr. Hlutabréfaviðskiptin voru eingöngu á vegum Þáttar International ehf.Við fall bankanna var hlutafjáreign Þáttar International ehf. eins og að ofan greinir og var hún öll í Glitni.

Þegar litið er til einstakra viðskipta má sjá að Þáttur International kaupir hlutabréfin í Glitni í febrúar 2007 af Þætti eignarhaldsfélagi ehf. Í apríl árið 2007 selur Þáttur International svo stóran hluta bréfa sinna og koma þau viðskipti til við yfirtöku félaga sem tengjast Baugi á stjórn bankans. Nánar er fjallað um þá yfirtöku í rammagrein í kafla 6.0. Síðan eru 210 milljónir hluta seldar í maí 2008.

Þáttur International ehf. var með lán hjá Morgan Stanley (MOS). Andvirði lánsins hafði farið til að fjármagna hlutabréfakaup Þáttar International ehf. í Glitni. Jafnframt var Morgan Stanley með veð í hinum keyptu hlutabréfum. Gjalddagi lánsins hjá MOS var 8. febrúar 2008.

Áhættunefnd Glitnis samþykkti á fundi sínum 6. febrúar 2008 lánsheimild til Þáttar International ehf. að fjárhæð 102 milljónir EUR (jafnvirði 10 milljarða kr.) til að greiða inn á ofangreint lán hjá MOS. Síðar í sama mánuði eða 27. febrúar kemur fram í fundargerð áhættunefndar Glitnis að:

"LAIS ætlar ekki að koma inn í dealinn sem þýðir að við þurfum að lána ca. EUR 180 m. (jafnvirði 17,8 ma.kr.) núna til viðbótar við EUR 102 m. sem við lánuðum 8. feb. sl. Erlendu lánin hafa heldur ekki verið að skila sér eins og skyldi til okkar og vantar ca. andvirði 12 ma.kr. þar uppá. Skuldabréfaútgáfa er líka ca. helmingi lægri fjárhæð en menn töldu í upphafi."

Nefndin samþykkti að veita Þætti International ehf. viðbótarlánsheimild að fjárhæð 180 milljónir EUR. Samtals eru samþykktar lánsheimildir orðnar að fjárhæð 282 milljónir EUR eða jafnvirði 27,8 milljarða kr. Jafnframt kemur fram í fundargerð að ekki sé unnt að leggja meira í þetta mál að svo stöddu af bankans hálfu. Fyrirhuguð lán samkvæmt ofangreindum lánsheimildum áttu að fara til að greiða niður skuld Þáttar International ehf. við Morgan Stanley vegna hlutabréfakaupa þess fyrrnefnda í Glitni. Þáttur International ehf. er hluti af Milestone-samstæðunni en Milestone á 75,6% eignarhlut í félaginu. Í ljós kemur að ofangreind lán, sem Þáttur International ehf. hyggst taka til viðbótar öðrum lánum Milestone-samstæðunnar, sem þá þegar voru til staðar innan bankans, eru yfir leyfilegum útlánamörkum og gildandi reglum hvað varðar lán til sömu eða fjárhagslega tengdra aðila. Enda hafði Milestonesamsteypan í lok árs 2007 verið með rúmlega 31 milljarð kr. að láni hjá Glitni eða sem nam um 13% af eigin fé. Á fundi áhættunefndar Glitnis þann 29. febrúar 2008 er því samþykkt að hluti af skuld Þáttar International ehf. við Morgan Stanley verði fjármagnaður með tveimur lánum frá Glitni til félagsins Svartháfs ehf. Samtals eru lán Glitnis til Svartháfs í upphafi um 191 milljón EUR eða jafnvirði 18,8 milljarða kr. Lán þessi voru síðan framlengd nokkrum sinnum og stóðu í 28,1 milljarði kr. í byrjun september 2008. Ástæða hækkunarinnar var að mestu vegna gengisbreytinga og kostnaðar við framlengingar á lánunum.

Í 3. gr. reglna nr. 216/2007, um stórar áhættuskuldbindingar hjá fjármálafyrirtækjum, útgefinna af Fjármálaeftirlitinu, segir m.a.: "Stórar áhættuskuldbindingar vegna einstakra viðskiptamanna eða fjárhagslega tengdra aðila mega ekki fara yfir 25% af eiginfjárgrunni fjármálafyrirtækis". Með tilliti til þessara reglna um áhættuskuldbindingar var Glitni ekki heimilt að lána Þætti International ehf. ofangreind lán beint. Þess í stað er eftirfarandi leið farin til að greiða niður skuld Þáttar International ehf. hjá Morgan Stanley:

Fallið er frá að Glitnir láni Þætti International ehf. nauðsynlega fjárhæð beint til þess að Milestone-samstæðan verði áfram undir gildandi útlánamörkum.

Þess í stað lánar Glitnir félaginu Svartháfi ehf. 191 milljón EUR að jafnvirði 18,8 milljarða kr.

Svartháfur ehf. lánar síðan Þætti International ehf. sömu fjárhæð.

Þáttur International ehf. greiðir Glitni síðan sömu fjárhæð til baka.

Glitnir greiðir Morgan Stanley upphaflegt lán Þáttar International ehf. og tekur handveð í hlutabréfunum.

Eigendaskipti urðu að félaginu Svartháfi ehf. 28. febrúar 2008, eins og áður segir, eða daginn áður en áhættunefnd Glitnis ákveður að lána félaginu 191 milljón EUR eða 18,8 milljarða kr. Því má ætla að eigendaskipti að félaginu Svartháfi ehf. hafi farið fram gagngert í þeim tilgangi að félagið gæti tekið við láni frá Glitni og endurlánað síðan sömu fjárhæð til Þáttar International ehf. Með þessu var hægt að komast fram hjá leyfilegum útlánamörkum og gildandi reglum um stórar áhættur hvað varðar lán til sömu eða fjárhagslega tengdra aðila. Þegar áhættunefnd Glitnis samþykkir 29. febrúar 2008 lánafyrirgreiðslu til Þáttar International ehf. með milligöngu Svartháfs ehf. eru eftirfarandi tengsl milli lántakenda og bankans m.a. til staðar:

Einar Sveinsson er stjórnarformaður Glitnis. Hann er ennfremur einn af eigendum Þáttar International ehf. í gegnum Skeggja ehf. og Fjárfestingarfélagið Mátt ehf. Karl Emil Wernersson er í stjórn Glitnis. Hann er að auki í stjórn og einn aðaleigandi Þáttar International ehf. í gegnum Milestone ehf. Guðmundur Ólason er í stjórn Glitnis. Hann er ennfremur í stjórnum Þáttar International ehf., SJ2 ehf., Skeggja ehf. og Fjárfestingarfélagsins Máttar ehf., en þrjú síðasttöldu félögin mynda frumeigendur Þáttar International ehf.Werner Ívan Rasmusson,eigandi,stjórnarmaður og framkvæmdastjóri Svartháfs ehf.,er faðir Karls Emils Wernerssonar sem er í stjórn Þáttar International ehf. og Glitnis.

Samkvæmt endurskoðuðum ársreikningi 2007 nemur eigið fé Þáttar International ehf. samtals 9 milljörðum kr., þar af er hlutafé 11,7 milljarðar kr. Afkoma félagsins árið 2007 var hagnaður að fjárhæð 2,7 milljarðar kr.

Ársreikningur Svartháfs ehf. fyrir árið 2007 liggur ekki fyrir. Hlutafé er lítið eða aðeins 500 þúsund kr. Samkvæmt lánabók Glitnis voru skuldir Svartháfs ehf. við bankann 29,3 milljarðar kr. er bankinn féll.

Stím ehf. (áður FS37 ehf.)

Við umfjöllun um Stím ehf. vegna kaupa félagsins á hlutabréfum í Glitni verður fyrst farið yfir málefni FS37 ehf. en það félag varð síðar að Stími ehf. Þá verður sömuleiðis farið yfir málefni fjögurra dótturfélaga Stíms ehf., sem höfðu að því er virðist að meginmarkmiði að kaupa hvert um sig um 20% hlut í Stími ehf.

Einkahlutafélagið FS37 ehf. er stofnað í október 2007 og er stofnhlutafé félagsins 500 þúsund kr. Á fundi áhættunefndar Glitnis 12. nóvember 2007 eru málefni félagsins FS37 ehf. kynnt fyrir nefndinni. Fram kemur að nýtt eignarhaldsfélag, sem er í eigu Samherja 45%, Saga Capital 25%, Jakobs Valgeirs Flosasonar 20% og Ólafs Jóhanns Ólafssonar 10%, sé að vinna að kaupum á hlutabréfum í Glitni og FL Group, 4,9% í hvoru félagi um sig.Vinnuheiti félagsins í upphafi var FS37 ehf., en fram kemur að nafni félagsins verði fljótlega breytt.

FS37 ehf. óskaði eftir allt að 80% fjármögnun á hlutabréfakaupunum. Hins vegar kemur fram að líklegt sé að það verði einungis farið fram á 78% lántöku þar sem 20%–22% komi hugsanlega í formi eigin fjár eða með víkjandi lánum frá Fons, BYR, Saga Capital og jafnvel Icebank. Óskað er heimildar áhættunefndarinnar til að lána FS37 ehf. allt að 80% af kaupverði 4,9% hlutar í Glitni og 4,9% hlutar í FL Group. Lánsfjárhæð gæti numið allt að 24 milljörðum kr.Til tryggingar láninu verði sett að veði hin keyptu bréf í FL Group, allt hlutafé í FS37 ehf. auk sölu- og veðsetningarbanns á öðrum eignum. Niðurstaða áhættunefndarinnar var að ljúka málinu á þessum nótum.

Á fundi áhættunefndar Glitnis síðar í sama mánuði eða hinn 20. nóvember 2007 eru málefni FS37 ehf. aftur kynnt fyrir nefndinni. Fram kemur að nokkrar breytingar hafi orðið á málinu í vinnslu frá síðasta fundi nefndarinnar en að eftirfarandi fyrirkomulag sé endanlegur "strúktúr" á málinu:

"Ákveðið hafði verið að heiti nýs eignarhaldsfélags FS37 ehf. yrði Stím ehf. (áfram sama kennitala). Stefnt skuli að því að Stím ehf. kaupi 4,1% hlut í FL Group og 4,3% hlut í Glitni. Þá eru jafnframt komnir inn nýir eigendur en aðrir hafa horfið úr hópnum."

Fram kemur að STM ehf. sé á þessu stigi í eigu Glitnis en að hluturinn sé ætlaður til sölu og unnið sé að því að finna fjárfesta til að kaupa hlutinn. Félagið STM ehf. sem talið er upp meðal stofnenda Stíms ehf. og sagt vera í eigu Glitnis hefur ekki fundist á skrá hjá Fyrirtækjaskrá. Kaupverð og þóknanir eru samtals 25 milljarðar kr. sem fjármagnaðir verða á eftirfarandi hátt:

Láninu frá Glitni á að ráðstafa til kaupa á 4,1% hlut í FL Group og 4,3% hlut í Glitni.

Til tryggingar láninu verði sett að veði hin keyptu hlutabréf í FL Group, allt hlutafé í Stími ehf. (500 þúsund kr.) auk sölu- og veðsetningarbanns á öðrum eignum félagsins. Ekki er tekið beint veð í Glitnisbréfunum sem gerir það að verkum að Glitnir getur ekki innleyst til sín eða selt þau bréf ef gera þarf veðköll. Eins og fram kemur í tölvubréfi milli starfsmanna Glitnis 10. nóvember 2007 gera þeir sér grein fyrir þessu:

"Eina sem hægt er að gera er að gjaldfella lánið, fara í dómsmál (u.þ.b. 6 mán) og fá svo fjárnám í bréfunum og fara fram á nauðungarsölu í kjölfarið (3-6 mán. til viðbótar)."

Þá verði sett inn í samþykktir félagsins ákvæði um að stjórn þess eða öðrum þeim, sem heimild hafa til að skuldbinda félagið, sé óheimilt að samþykkja hvers konar fjárfestingar eða skuldsetningu án þess að hafa áður aflað skriflegs samþykkis lánveitenda félagsins á hverjum tíma.Veðköll verði í 85% LTV (118% þekja) og 90% LTV (111% þekja).

Áhættunefndin samþykkti lánveitinguna miðað við ofangreint fyrirkomulag. Lánið varð síðar 19,5 milljarðar kr. Þá fékk FS38 ehf. lán hjá Glitni að fjárhæð 2,5 milljarðar kr. til að fjármagna sinn hlut í kaupunum. Hinn 13. nóvember 2007 kaupir Stím ehf. samtals 640.000.000 hluti í Glitni fyrir samtals 16,4 milljarða kr. Kaupgengi var 25,50.

Með bréfi til Fyrirtækjaskrár dags. 20. nóv. 2007 eru tilkynntar þær breytingar að nafni félagsins FS37 ehf. hafi verið breytt í Stím ehf.Jafnframt að Jakob Valgeir Flosason sé formaður og Þórleifur Stefán Björnsson meðstjórnandi.Framkvæmdastjóri og prókúruhafi hafi verið kjörinn Þórleifur Stefán Björnsson.

Á fundi áhættunefndar Glitnis 9. janúar 2008 er enn á ný farið yfir málefni Stíms ehf. Á fundinum er lagt til að eignarhlutur í Glitni verði áfram 4,1% eins og ráðgert hafði verið en eignarhlutur í FL Group verði 2,8% í stað 4,1% og stafar það m.a. af hlutafjáraukningu í FL Group í desember 2007. Þá hefur aftur orðið breyting á eigendahópi Stíms ehf. og lítur hópurinn nú þannig út:

Í janúar 2008 er samþykkt að veita Stími ehf. 1 milljarðs kr. viðbótarlán. Lánsheimild hækkar þar með úr 19,5 milljörðum kr. í 20,5 milljarða kr. Þessu til viðbótar má nefna lán Glitnis til FS38 ehf./Fons ehf. að fjárhæð 2,5 milljarðar kr. til að fjármagna þeirra hlut í verkefninu. Í febrúar 2008 fær Stím ehf. arðgreiðslu frá Glitni að fjárhæð 236,8 milljónir kr.

Á fundi áhættunefndar Glitnis sem haldinn var 31. mars 2008 er eftirfarandi lagt til og samþykkt:

"Stím ehf. stofni fjögur ný félög sem hvert um sig kaupi u.þ.b. 20% af eignum Stíms. Stefnt er að því að viðskiptin eigi sér stað fyrir lok mars 2008.

Glitnir láni nýju félögunum fyrir 100% af kaupverðinu.

Andvirðið fari til niðurgreiðslu skulda Stíms ehf. við Glitni.

Hvert dótturfélag geri samning við móðurfélagið um 100% þátttöku í hagnaði næstu 3 árin.Verðmæti slíks samnings hefur verið metið af Markaðsviðskiptum sem 40% af undirliggjandi eign eða 4,5 milljarðar kr.

Lánveitendur taki veð í hagnaðarhlutdeildarsamningum.

Stím ehf. hefur síðan í hyggju að selja öll dótturfélögin til nýrra fjárfesta og félögin fari því út úr samstæðu Stíms."

Þá kemur fram að endanleg fjárhæð lánanna til nýju félaganna taki mið af markaðsverði hlutabréfanna á söludegi. Í árshlutauppgjöri Glitnis 30. júní 2008 voru 1,5 milljarðar kr. afskrifaðir á Stím ehf.

Félögin fjögur sem lagt var til að stofna eru:Yfir heiðar ehf., Hnokki ehf., Hvannborg ehf. og Skarfhóll ehf.

Yfir heiðar ehf.

Félagið FS56 ehf. er stofnað 22. janúar 2008. Í stjórn félagsins eru Ágúst Þórhallsson formaður og Flosi Eiríksson meðstjórnandi. Á hluthafafundi í FS56 ehf. hinn 19. mars 2008 er ákveðið að breyta nafni félagsins í Yfir heiðar ehf. Á hluthafafundi í Yfir heiðar ehf. hinn 10. júní 2008 er ákveðið að stjórn félagsins verði framvegis skipuð einum stjórnarmanni og öðrum til vara. Þeir Ágúst og Flosi hverfa þá úr stjórn félagsins. Ólafur Haraldsson verður þá formaður stjórnar og Ragnheiður M. Ólafsdóttir varamaður í stjórn.

Hnokki ehf.

Félagið FS49 ehf. er stofnað 18. desember 2007. Í stjórn félagsins eru Ágúst Þórhallsson formaður og Flosi Eiríksson meðstjórnandi. Á hluthafafundi í FS49 ehf. hinn 19. mars 2008 er ákveðið að breyta nafni félagsins í Hnokki ehf. Á hluthafafundi í Hnokka ehf. hinn 10. júní 2008 er ákveðið að stjórn félagsins verði framvegis skipuð einum stjórnarmanni og öðrum til vara. Þeir Ágúst og Flosi hverfa þá úr stjórn félagsins. Ólafur Haraldsson verður þá formaður stjórnar og Ragnheiður M. Ólafsdóttir varamaður í stjórn.

Hvannborg ehf.

Félagið FS54 ehf. er stofnað 22. janúar 2008. Í stjórn félagsins eru Ágúst Þórhallsson formaður og Flosi Eiríksson meðstjórnandi. Á hluthafafundi í FS54 ehf. hinn 19. mars 2008 er ákveðið að stjórn félagsins verði framvegis skipuð einum stjórnarmanni og öðrum til vara. Þeir Ágúst og Flosi hverfa þá úr stjórn félagsins. Ólafur Haraldsson verður þá formaður stjórnar og Ragnheiður M. Ólafsdóttir varamaður í stjórn.

Skarfhóll ehf.

Félagið FS55 ehf. er stofnað 22. janúar 2008. Í stjórn félagsins eru Ágúst Þórhallsson formaður og Flosi Eiríksson meðstjórnandi. Á hluthafafundi í FS55 ehf. hinn 19. mars 2008 er ákveðið að stjórn félagsins verði framvegis skipuð einum stjórnarmanni og öðrum til vara. Þeir Ágúst og Flosi hverfa þá úr stjórn félagsins. Ólafur Haraldsson verður þá formaður stjórnar og Ragnheiður M. Ólafsdóttir varamaður í stjórn.

Tilgangur félaganna fjögurra er sá sami: Eignarhald, umsýsla, kaup og sala verðbréfa ásamt lánastarfsemi og öðrum skyldum rekstri. Eigandi allra fjögurra félaganna er Stím ehf. Samþykktir félaganna eru allar dagsettar 10. júní 2008. Þá er heimilisfang allra félaganna Borgartún 26, 105 Reykjavík.

Öll fá félögin lánsheimild hjá Glitni að fjárhæð 3 milljarðar kr. sem ráðstafa skal á sama hátt, sem er: Að kaupa 0,85 – 0,86% hlutafjár í Glitni og 0,61% – 0,64% hlutafjár í FL Group. Lánstími er 1 ár. Lánshlutfall er 100%. Gjaldfellingarheimild hvenær sem er á lánstímanum.

Stím ehf. selur síðan félögunum fjórum Glitnisbréfin 1. apríl 2008. Fjárhæðir eru í milljónum króna.

Hlutabréfin eru seld félögunum fjórum á markaðsgengi sem var 17,15. Gengi hlutabréfanna var komið niður í 3,91 er bankinn féll.Til tryggingar lánunum er allt hlutafé í hverju félagi og hinir keyptu hlutir í FL Group. Þá er sölu- og veðsetningarbann á öðrum eignum félaganna. Ársreikningar félaganna fyrir árið 2007 liggja ekki fyrir. Hlutafé er 500 þúsund kr. hjá öllum félögunum. Engin gögn hafa fundist sem sýna fram á að Stím ehf. hafi getað selt dótturfélögin.

Q Iceland Holding ehf.

Hinn 19. september 2008 er Fyrirtækjaskrá tilkynnt að á hluthafafundi í félaginu ELL 162 ehf. sem haldinn var 30. júní 2008 hafi verið ákveðið að breyta nafni félagsins í Q Iceland Holding ehf. Samkvæmt samþykktum Q Iceland Holding ehf. er tilgangur félagsins kaup, sala, rekstur, eignarhald og leiga fasteigna og hvers kyns lausafjár; eignarhald, kaup og viðskipti með hlutabréf, hluti í félögum, önnur verðbréf og hvers kyns önnur fjárhagsleg verðmæti; lánastarfsemi og skyldur rekstur.

Fyrirtækjaskrá er síðan tilkynnt 29. september 2008 að á hluthafafundi í Q Iceland Holding ehf. sem haldinn var 30. júní 2008 hafi stjórnarmönnum félagsins verið fjölgað úr tveimur í þrjá. Stjórn félagsins var þá þannig skipuð: Guðmundur J. Oddsson, búsettur á Englandi, H.E. Sheikh Sultan Bin Jassim Al-Thani og Sheikh Mohamed Bin Khalifa Al-Thani. Sá síðastnefndi er yngri bróðir emírsins af Katar.

Á seinni hluthafafundinum er 16. gr. samþykkta félagsins jafnframt breytt og hljóðar svo eftir það:

"Stjórn félagsins skal skipuð einum til þremur mönnum, kjörnum á aðalfundi til eins árs í senn. Stjórn félagsins stýrir öllum málefnum félagsins milli hluthafafunda og gætir hagsmuna þess gagnvart þriðja manni. Undirskrift stjórnarmanns skuldbindur félagið. Undirskrift eins stjórnarmanns skuldbindur félagið nema þegar um er að ræða ráðstöfun eigna félagsins að verðmæti meira en 10.000 evrur, en þá skal afla skriflegs samþykkis hans hátignar Sheikh Mohamed bin Khalifa Al-Thani af Quatar."

Ofangreind breyting á 16. gr. samþykktanna felur í sér að einn stjórnarmaður, Sheikh Mohamed Bin Khalifa Al-Thani, getur skuldbundið Q Iceland Holding ehf. án takmarkana.

Ársreikningur Q Iceland Holding ehf. liggur ekki fyrir. Hlutafé er 500 þúsund kr. Enginn framkvæmdastjóri er skráður fyrir félaginu.

Hinn 22. september 2008 er Fyrirtækjaskrá tilkynnt að á hluthafafundi í félaginu Bakkafullur ehf. sem haldinn var 19. september 2008 hafi verið ákveðið að breyta nafni félagsins í Q Iceland Finance ehf. Kjörin var ný stjórn fyrir félagið. Í stjórn þess er Telma Halldórsdóttir sem jafnframt er framkvæmdastjóri og prókúruhafi félagsins.Tilgangur félagsins er kaup og sala hlutabréfa, eignarhald á hlutabréfum, kaup og sala fasteigna, eignarhald og rekstur fasteigna, lánastarfsemi og annar skyldur rekstur. Hlutafé er 500 þúsund kr.

Q Iceland Holding ehf. fær lán hjá Kaupþingi banka til að fjármagna kaup dótturfélags síns Q Iceland Finance á hlutabréfum í Kaupþingi.

Hinn 26. september kaupir Q Iceland Finance hlutabréf í Kaupþingi banka hf.: Hinn 26. september 2008 keypti Q Iceland Finance ehf. rúmlega 37 milljónir hluta í Kaupþingi banka af eigin viðskiptum Kaupþings banka hf. Við fall bankanna átti Q Iceland Finance ehf. ennþá öll hlutabréfin sem keypt höfðu verið. Kaupþing veitti lán fyrir öllu kaupverði hlutabréfanna ásamt kostnaði, samtals 25,7 milljarða kr.

Í september 2008 voru afgreiddar nokkrar lánsbeiðnir til Al-Thani og félaga sem honum tengjast:

Q Iceland Holding ehf., eitt félaga Al-Thani, sækir um lán að fjárhæð 28 milljónir EUR (jafnvirði 3,6 milljarða kr.) til kaupa á hlutabréfum í Alfesca.

Tvö félög í hans eigu sækja um lán til að kaupa CLN (Credit Linked Note) tengd Kaupþingi.

Þriðja lánsbeiðnin snýr síðan að fjármögnun á kaupum Al-Thani á hlutabréfum í Kaupþingi í lok september 2008. Um var að ræða kaup á 5,01% hlut í bankanum.

Í fundargerð lánanefndar Kaupþings frá 11. september 2008 er bókað:

"Q Iceland Holding ehf.

Félagið er á undanþágulista hvað lánshæfi varðar. Raunverulegur eigandi Q Iceland Holding ehf. er HH Sheikh Mohammed Bin Khalifa Al-Thani, bróðir emírsins af Qatar.

Félagið fer fram á lán að upphæð EUR 28 m, tilgangur þess er að kaupa hluti í Alfesca hf. Félagið var stofnað nýlega (2008).

Tillagan er eftirfarandi:

Lánsupphæð: Allt að EUR 28.000.000 (umsýslugjald innifalið)

Lánstími: 4 ár

Vextir: E + 2,25%

Vaxtatími: 6 mánuðir

Umsýslugjald: 1%

Veð: 850.000.000 hlutir í Alfesca hf.

Veðsetningarhlutfall: 60%

Ef veðsetningarhlutfallið fer í 80% (miðað við lokaverð á hlutum í Alfesca hf. þegar viðskipti með þá eiga sér stað) fær lántaki einn viðskiptadag til að koma því aftur í 60% með því að greiða niður lánið eða koma með ný veð, sem lánveitandi samþykkir.

Lánanefnd vísaði erindinu til lánanefndar stjórnar."

Þrátt fyrir samþykkt lánanefndar bankans varð ekkert af kaupunum á Alfesca.Al-Thani fær hins vegar lán fyrir Kaupþingsbréfunum og svo virðist sem ofangreindar 28 milljónir EUR (jafnvirði 4 milljarða kr.) hafi gengið upp í fjármögnun á þeim kaupum.

Lánveitingin vegna hlutafjárkaupanna í Kaupþingi kemur ekki fram í yfirliti yfir stórar áhættuskuldbindingar í bankanum þann 30. september 2008. Hlutafjárkaupin og lánveitingar þeim tengdar eiga sér hins vegar stað. Það staðfesta gögn úr kerfum bankans. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum bankans fór afgreiðsla lánsins og hlutabréfakaupin fram með eftirfarandi hætti:

Serval Trading Group Corp. (Serval)

Lánsfjárhæð: Fær Peningamarkaðslán hjá Kaupþingi að fjárhæð 12,8 ma.kr.

Vextir: 17,6%.

Gjalddagi: 31. október 2008.

Tryggingar: Persónuleg ábyrgð Sheikh Mohamed Bin Khalifa Al-Thani.

Eigandi: Serval er í eigu Sheikh Mohamed Bin Khalifa Al-Thani.

Millifærsla: Serval flytur 12,8 ma.kr. yfir á reikning Choice Stay.

Gerland Asset Ltd. (Gerland)

Lánsfjárhæð: Fær Peningamarkaðslán hjá Kaupþingi að fjárhæð 12,8 ma.kr.

Vextir: 17,6%.

Gjalddagi: 31. október 2008.

Tryggingar: Engar.

Eigandi: Ólafur Ólafsson.

Millifærsla: Gerland flytur 12,8 ma.kr. yfir á reikning Choice Stay.

Choice Stay

Innborgun: Choice Stay móttekur 12,8 ma.kr. frá Serval.

Innborgun: Choice Stay móttekur 12,8 ma.kr. frá Gerland.

Eigandi: Félagið er í eigu Sheikh Mohamed Bin Khalifa Al-Thani og Ólafs Ólafssonar. Félagið er skráð á Kýpur.

Millifærsla: Choice Stay flytur 25,7 ma.kr. yfir á reikning Q Iceland Finance ehf.

Q Iceland Finance ehf. (dótturfélag Q Iceland Holding ehf.)

Innborgun: Q Iceland Finance ehf. móttekur 25,7 ma.kr. frá Choice Stay.

Eigandi: Félagið er í eigu Sheikh Mohamed Bin Khalifa Al-Thani. Ráðstöfun: Q Iceland Finance kaupir 37.100.000 hluti í Kaupþingi á genginu 690, samtals 25,6 ma.kr. Þóknun banka er 128 milljónir kr. Samtals greitt 25,7 ma.kr.

Lánveitingum Kaupþings og hvaða leið peningarnir fara þegar kemur að sjálfum hlutabréfakaupunum verður best lýst á eftirfarandi hátt:

Á fundi lánanefndar stjórnar Kaupþings, dags. 24. september 2008, er samþykkt lán að fjárhæð 50 milljónir USD til félagsins Brooks Trading Ltd. en það félag er í eigu Sheikh Mohamed Bin Khalifa Al-Thani. Lánið er án ábyrgðar. Þetta lán er greitt út sem peningamarkaðslán 19. september og síðan framlengt 30. september 2008. Hinn 8. október skiptir Brooks Trading rétt rúmlega 50 milljónum USD í krónur í Kaupþingi í Lúxemborg á 250 ISK/USD. Brooks Trading Ltd. sendir greiðslufyrirmæli þann sama dag um að greiddir verði 12,5 milljarðar kr. inn á lán Serval Trading. Greiðsla Brooks Trading er fjármögnuð með andvirði ofangreinds 50 milljóna USD láns. Þann 21. október 2008 greiðir Ólafur Ólafsson 401,9 milljónir kr. inn á sama lán. Þar með er Serval Trading lánið uppgreitt.

Lánið til Brooks Trading Ltd. (Sheikh Mohamed Bin Khalifa Al-Thani) að fjárhæð 50 milljónir USD var enn ógreitt í lok október 2008. Lánið til Gerland Asset Ltd. (Ólafur Ólafsson) að fjárhæð 12,9 milljarðar kr. var enn ógreitt í janúar 2009. Lánið er án ábyrgðar. Við mat á stórum áhættuskuldbindingum Kaupþings er Gerland Asset Ltd. ekki talið tengjast Ólafi Ólafssyni og því er ekki tekið tillit til skuldbindinga Gerland Asset í kafla 8.0 við mat á heildarskuldbindingum Ólafs Ólafssonar.Við mat á tengdum aðilum/félögum er notast við víðustu skilgreiningu fjármálafyrirtækjanna sjálfra á því hvaða aðilar teljast tengdir og hverjir ekki.

Eins og fram kom hér að framan finnst engin ákvörðun í fundargerðum lánanefnda Kaupþings um lán til hlutafjárkaupa til þeirra félaga sem koma við sögu, þ.e. Q Iceland Holding ehf., Q Iceland Finance ehf., Serval Trading Group Corp. og Gerland Asset Ltd. Afborgun af láni Serval Trading í eigu Al-Thani er sérkennileg.Brooks Trading greiðir 12,5 milljarða kr.en jafnframt greiðir Ólafur

Ólafsson 401,9 milljónir kr. af láninu þó svo að hann sé ekki skuldari á láninu. Samkvæmt ofangreindu er ljóst að Sheikh Mohamed Bin Khalifa Al-Thani hefur ekki keypt hlutafé í Kaupþingi fyrir eigin fjármuni. Þá vekur það athygli hvers vegna félag í eigu Ólafs Ólafssonar, Gerland Asset Ltd., er að taka lán hjá Kaupþingi til að auðvelda þriðja aðila að kaupa hlutafé í bankanum.

Ólafur Ólafsson greiðir af láni Serval Trading en ekki af láni Gerland Asset Ltd. sem hann er þó eigandi að.

Þegar bankarnir féllu var Q Iceland Finance ehf. þriðji stærsti hluthafi Kaupþings með 5,01% eignarhlut.

Í ljósi þess að Sheikh Mohamed Bin Khalifa Al-Thani fékk allt kaupverðið að láni, er fróðlegt að sjá hvað Kaupþingsmenn sögðu þegar kaup Sheiksins á 5,01% í bankanum voru frágengin.

Í fréttatilkynningu Kaupþings frá 22. september 2008 segir m.a.:

Sigurður Einarsson, stjórnarformaður: "Okkur er mikil ánægja að bjóða hans hátign Sheikh Mohamed Bin Kalifa Al-Thani velkominn í hluthafahóp Kaupþings. Það hefur lengi verið stefna okkar að laða nýja fjárfesta að bankanum og því er ánægjulegt að sjá að við höfum nú náð að breikka hluthafahópinn enn frekar. Við hlökkum til að vinna með hans hátign Sheikh Mohamed í framtíðinni."

Í viðtali við Hreiðar Má Sigurðarson í RÚV dags. 22. september 2008 kemur m.a. fram:

"Staða Kaupþings banka á alþjóðlegum fjármálamörkuðum styrktist mjög við kaup Mohameds prins frá Katar á 5% hlut í bankanum"

Rannsóknarnefnd Alþingis getur ekki séð að kaup á hlutabréfum í bankanum fjármögnuð af bankanum sjálfum án neinnar áhættu þess er kaupir hlutinn styrki stöðu bankans.

Gift fjárfestingarfélag ehf. (áður Eignarhaldsfélag Samvinnutrygginga)

Gift fjárfestingarfélag ehf. er stofnað í júní 2007 með yfirfærslu eigna og skulda frá Eignarhaldsfélagi Samvinnutrygginga sem þá var í slitameðferð.Tilgangur félagsins er að vera eignarhaldsfélag um hluti í öðrum félögum, kaup og sala hlutabréfa, kaup og sala fasteigna, lánastarfsemi og annar skyldur rekstur. Eigandi Giftar fjárfestingarfélags ehf. er Eignarhaldsfélag Samvinnutrygginga gt. sem á 100% í Gift fjárfestingarfélagi ehf. Dótturfélög Giftar fjárfestingarfélags ehf. eru Eignarhaldsfélagið Andvaka, 50,11%, Fjárfestingarfélagið EST ehf. 100% og Löngusker ehf. 100%. Eignarhlutur í hlutdeildarfélagi er 33,33% hlutur í Langflugi ehf. Þá átti félagið hlutabréf í fjölmörgum skráðum og óskráðum félögum.

Hinn 9. maí 2007 er félagið Bank ehf. stofnað. Stofnandi Bank ehf. er Kristinn Hallgrímsson. Í stjórn félagsins eru Kristinn Hallgrímsson, formaður, og Sigrún Helga Jóhannsdóttir í varastjórn.

Á hluthafafundi í Bank ehf. hinn 15. júní er nafni félagsins breytt í Gift fjárfestingarfélag ehf. Jafnframt er stjórnarmönnum fjölgað í fimm og varamönnum í þrjá. Þá er samþykkt að hækka hlutafé félagsins úr 0,5 milljónum kr. í 4 milljónir kr. Í stjórn Giftar fjárfestingarfélags ehf. voru kjörnir Þórólfur Gíslason, formaður, Ólafur Friðriksson, Benedikt Sigurðarson, Guðsteinn Einarsson og Helgi

S. Guðmundsson. Framkvæmdastjóri var ráðinn Benedikt Sigurðarson sem jafnframt var með prókúruumboð fyrir félagið. Með bréfi til Fyrirtækjaskrár dags. 3. mars 2008 tilkynnir Gift fjárfestingarfélag ehf. að Þórólfur Gíslason hafi sagt sig úr stjórn félagsins.

Á aðalfundi Giftar fjárfestingarfélags ehf. dags. 10. apríl 2008 var félaginu kjörin ný stjórn. Í stjórninni eru: Sigurjón Rúnar Rafnsson, formaður, Guðsteinn Einarsson, Hjörleifur Jakobsson, Jafet Ólafsson og Jóhann Ásgeir Baldurs. Á tímabilinu 1. janúar 2007 til falls bankanna áttu sér stað eftirfarandi viðskipti með hlutabréf og lántökur vegna hlutabréfakaupa Giftar fjárfestingarfélags ehf. í bönkunum:

Hlutabréfaeign Giftar fjárfestingarfélags ehf. hinn 1. janúar 2007 var engin. Á hinn bóginn átti Eignarhaldsfélag Samvinnutrygginga um 2,7 milljónir hluta í Kaupþingi. Á tímabilinu fær Gift fjárfestingarfélag ehf. lánsheimildir hjá Kaupþingi að fjárhæð 20,7 milljarðar kr. til kaupa á hlutabréfum í bankanum sjálfum. Keypt hlutabréf á tímabilinu nema 20 milljörðum kr., ef undanskilin eru kaup frá Eignarhaldsfélagi Samvinnutrygginga. Salan sem fram kemur í töflunni er í raun yfirfærsla yfir í framvirkan samning við Glitni banka. Það þýðir að fjármögnun hlutabréfanna flyst yfir í framvirkan samning. Fjármögnunaráhættan flyst þá frá Kaupþingi yfir til Glitnis, en hlutabréfin eru í raun enn í eign Giftar fjárfestingarfélags ehf. Það vekur athygli að lánið hjá Kaupþingi er ekki greitt upp samtímis því sem framvirki samningurinn tekur gildi.

Á fundi lánanefndar stjórnar Kaupþings hinn 20. desember 2007 er samþykkt að lána Gift fjárfestingarfélagi ehf. samtals 20 milljarða kr.Andvirði lánsins á allt að fara til kaupa á hlutabréfum í Kaupþingi.Gift fjárfestingarfélag kaupir hlutabréfin 11.desember 2007 að stærstum hluta af fjárfestingarfélaginu Gnúpi ehf.

Lánveitingin var tvískipt: Annars vegar er lán að fjárhæð 16 milljarðar kr. til fjögurra ára og hins vegar lán að fjárhæð 4 milljarðar kr. til sex mánaða. Athygli vekur að lánveitingunni er skipt í tvennt. Annars vegar eru 80% af láninu til fjögurra ára og hins vegar eru 20% skammtímalán fyrir jaðrinum. Í rauninni er Kaupþing hér að lána 100% fyrir hlutabréfakaupum í bankanum en tryggingar aðeins teknar fyrir 80% af heildarlánsfjárhæðinni. Á fundi lánanefndar Kaupþings hinn 7. ágúst 2008 er samþykkt að framlengja lán að fjárhæð 4 milljarðar kr. sem tekið var í desember 2007 og getið er um hér að ofan. Áfallnir vextir eru að fjárhæð 0,7 milljarðar kr. sem bætast við lánið. Lánið er framlengt til febrúar 2010. Eftir hlutabréfakaupin í Kaupþingi er Gift fjárfestingarfélag ehf. orðið níundi stærsti hluthafi bankans með 2,58% eignarhluta.

Tryggingar fyrir 16 milljarða kr. láninu eru verðbréf sem Kaupþing metur tryggingarhæf en engar sérstakar tryggingar eru fyrir 4 milljarða kr. láninu. Þau verða hins vegar bæði gjaldfelld ef eigið fé fer niður fyrir 30%.Við framlengingu síðara lánsins er ekki kveðið á um tryggingar en samþykkt að það verði gjaldfellt ef eigið fé félagsins fari niður fyrir 20%. Samkvæmt endurskoðuðum ársreikningi 2007 nemur eigið fé félagsins samtals 19,3 milljörðum kr., hlutafé er 31,4 milljarðar kr. Annað eigið fé en hlutafé er því neikvætt um 12,1 milljarð kr. Afkoma félagsins árið 2007 var tap að fjárhæð 12,1 milljarður kr.

Sund ehf. (IceCapital ehf.)

Hér á eftir verður fjallað samhliða um lántökur og hlutabréfakaup Sunds ehf. og IceCapital ehf. Bæði þessi félög voru í eigu sömu aðila og eignarhlutur hvers eiganda fyrir sig var sá sami í báðum félögunum. Samrunaáætlun Sunds ehf. og IceCapital ehf. var samþykkt á hluthafafundum í báðum félögunum í júlí 2008. Samþykktir Sunds ehf. giltu óbreyttar fyrir hið sameiginlega félag. Eftir sameininguna var síðan óskað eftir að IceCapital yrði afskráð úr skrám Fyrirtækjaskrár.

Eigendur Sunds ehf. eru: Jón Kristjánsson, Gabríela Kristjánsdóttir og Gunnþórunn Jónsdóttir. Hvert þeirra um sig á 33,33% í félaginu. Stjórn félagsins skipa Jón Kristjánsson, Gunnþórunn Jónsdóttir og Páll Þór Magnússon.

Megintilgangur einkahlutafélagsins Sunds ehf. er umboðs- og heildverslun, eignarhald og viðskipti með verðbréf, rekstur og eignarhald fasteigna, svo og lánastarfsemi. Meðal helstu eigna Sunds ehf. má nefna hlutabréf í skráðum félögum, s.s. FL Group, Kaupþingi, Straumi, Bakkavör og fleiri félögum.

Helstu dótturfélög Sunds ehf. eru Eignarhaldsfélagið Sævarhöfði ehf. (eignarhluti 69% en það félag á Bifreiðar og landbúnaðarvélar hf., Ingvar Helgason hf. og fleiri félög, Sund Holding ehf. (síðar ICH 2009)), Sund Global, IceProperties ehf. Þá á Sund ehf. verðbréf í bæði skráðum og óskráðum félögum svo og ýmis hlutdeildarfélög.

Á tímabilinu 1. janúar 2007 til falls bankanna áttu sér stað eftirfarandi viðskipti með hlutabréf og lántökur vegna hlutabréfakaupa í bönkunum:

Hlutabréfaeign Sunds ehf. 1. janúar 2007 er 6,9 milljarðar kr. og voru það að mestu leyti hlutabréf í Kaupþingi en einnig í Landsbankanum. Á tímabilinu fær Sund ehf. lánsheimildir hjá bönkunum að fjárhæð 19,5 milljarðar kr. til kaupa á hlutabréfum í þeim. Keypt hlutabréf á tímabilinu nema 31,9 milljörðum kr. og seld hlutabréf eru að andvirði 25,3 milljarðar kr. Keypt hlutabréf umfram seld nema þannig 6,6 milljörðum kr.

Á fundi lánanefndar Kaupþings í apríl 2007 er greint frá því að Sund ehf. eða eitthvert af dótturfélögum Sunds ehf. hafi hug á að kaupa um 4% hlut í Glitni á genginu 27,82. Samtals nemur kaupverðið með kostnaði 16,8 milljörðum kr. Hlutabréfin eru síðan keypt í nafni Sund Holding ehf. en það félag er eitt af dótturfélögum Sunds ehf. Kaupþing samþykkir að lána Sundi ehf. 80% af fjárhæðinni eða sem nemur 13,5 milljörðum kr. Lánstími er tvö ár. Lánið er eingöngu tryggt með veði í hinum keyptu hlutabréfum.Veðkall er við 112,5%. Komi til veðkalls hefur Kaupþing heimild til að fara fram á aukið framlag kaupenda sem nemur 10% af kaupverði hlutabréfanna. Hlutabréfakaup þessi ásamt lánveitingunni þeim tengdri voru hluti af verkefni innan Kaupþings sem gekk undir vinnuheitinu "Project Tornado".Gerð er sérstök grein fyrir "Project Tornado"-verkefninu annars staðar í þessum kafla.Tveimur mánuðum síðar eru hlutabréfin seld en eins og fram kemur í töflu 5 er sú sala í raun yfirfærsla yfir í framvirkan samning í Landsbankanum. Því hefur fjármögnunin á bréfunum í raun færst yfir á Landsbankann en hlutabréfin eru í raun enn í eigu Sund Holding. Hinn 31. mars 2008 kaupir Sund ehf. svo hluta af bréfunum, alls 131.710.899 hluti, út úr framvirka samningnum. Samkvæmt lánasamningi dags. 25. mars fékk Sund 5 milljarða kr. fjölmynta lán hjá Landsbanka Íslands til að kaupa bréfin og skyldi upphæðinni einnig varið til kaupa á 10.000.000 hlut í Landsbankanum. Samkvæmt upplýsingum úr lánabók Landsbankans í Lúxemborg fá einnig þrjú félög, í eigu eigenda Sunds ehf., lánafyrirgreiðslu frá Landsbankanum í Lúxemborg, hvert að fjárhæð 2,4 milljarðar kr., til þess að kaupa hluti í Glitni. Mun hvert þessara félaga því hafa keypt 115.855.450 hluti. Þessi kaup koma ekki fram í töflunni þar sem þau voru gerð í gegnum Landsbankann í Lúxemborg. Lánin námu rúmum 20 milljónum evra hvert og samkvæmt gögnum frá Lúxemborg voru þau með veð í hlutunum í Glitni, sjálfskuldarábyrgð Sunds ehf. upp á 4 milljónir evra og ábyrgð Landsbanka Íslands upp á 20 milljónir evra. Þar með eru lánin í raun á ábyrgð móðurfélagsins. Þar með voru lánaheimildir Landsbankans til kaupa á Glitnisbréfum samtals 13,2 milljarðar, sem er í raun endurfjármögnun á fyrra láni Kaupþings.

Á fundi lánanefndar Kaupþings í október 2006 er samþykkt að lána Sundi ehf. 3 milljarða kr. Ekki kemur fram hvernig eigi að verja láninu. Um er að ræða eingreiðslulán til tveggja ára. Síðar er lánanefndin upplýst um, að á tímabilinu jan. 2007 - júní 2007 hafi Sund ehf. keypt hlutabréf í Kaupþingi að markaðsvirði 3,5 milljarðar kr. Fundur í lánanefnd Landsbankans samþykkir í maí 2007 reikningslánalínu til Sunds ehf. að fjárhæð 3 milljarðar kr. Lánalínuna á að nota til kaupa á bréfum inn í félagið. Í framhaldinu verður síðan óskað eftir langtímafjármögnun hjá Landsbankanum.

Til tryggingar lánunum voru hlutabréf í Kaupþingi, Landsbanka og Glitni auk sjálfskuldarábyrgðar Sunds ehf. vegna reikningslánalínunnar.

Samkvæmt endurskoðuðum ársreikningi 2007 nemur eigið fé samtals 15,2 milljörðum kr.,þar af er hlutafé 4 milljónir kr.Afkoma félagsins árið 2007 var hagnaður að fjárhæð 1,3 milljarðar kr.

Jötunn Holding ehf.

Jötunn Holding ehf. er stofnað í febrúar 2007. Megintilgangur félagsins er kaup, sala og eignarhald verðbréfa, eign, leiga og rekstur fasteigna, lánastarfsemi, önnur fjármálastarfsemi og skyldur rekstur.

Eigendur Jötuns Holding ehf. eru Baugur Group hf. 47%, Fons hf. 18% og WCC (Iceland) ehf. 35%. Í stjórn félagsins frá febrúar 2007 til nóvember 2007 eru Stefán Hilmar Hilmarsson, fjármálastjóri Baugs, og Rúnar Sigurpálsson. Á hluthafafundi hinn 24. október 2007 var gerð sú breyting á samþykktum Jötuns Holding ehf. að stjórn félagsins skuli skipuð þremur til fimm stjórnarmönnum. Á hluthafafundi voru eftirtaldir kosnir í þriggja manna stjórn félagsins: Paul Richmond Davidson, formaður. Stefán Hilmar Hilmarsson og Pétur Már Halldórsson voru kjörnir meðstjórnendur. Framkvæmdastjóri Jötuns Holding ehf. er Stefán Hilmar Hilmarsson.

Á tímabilinu 1. janúar 2007 til falls bankanna áttu sér stað eftirfarandi viðskipti með hlutabréf og lántökur vegna hlutabréfakaupa Jötuns Holding ehf. í bönkunum:

Hlutabréfaeign Jötuns Holding ehf. þann 1. janúar 2007 er engin enda hafði félagið þá ekki verið stofnað. Á tímabilinu fær félagið lánsheimildir hjá Kaupþingi að fjárhæð 18,9 milljarðar kr. til kaupa á hlutabréfum í Glitni banka. Keypt hlutabréf á tímabilinu nema 23 milljörðum kr. og seld hlutabréf eru 14,7 milljarðar kr. Keypt hlutabréf umfram seld nema þannig 8,4 milljörðum kr. Við fall bankanna var Jötunn Holding ehf. búið að selja nær öll hlutabréf sín í bönkunum til FL Group.

Í mars 2007 hafði Jötunn Holding ehf. keypt hluti í Glitni á genginu 29,0.Verðmæti hlutanna ásamt kostnaði var um 10,5 milljarðar kr. Í framhaldi af þessum kaupum óskar Jötunn Holding ehf. eftir láni hjá Kaupþingi að fjárhæð 10,5 milljarðar kr. til að fjármagna ofangreind hlutabréfakaup 100%. Lánsumsóknin var samþykkt af lánanefnd Kaupþings í mars 2007 og var lánið til sex mánaða.

Á fundi lánanefndar Kaupþings í apríl 2007 eru kynnt fyrirhuguð kaup Jötuns ehf. á 2,5% hlut í Glitni fyrir samtals 10,5 milljarða kr. Gert er ráð fyrir að Kaupþing láni 8,4 milljarða kr. af kaupverðinu eða 80% og að eigið fé til kaupanna verði 2,1 milljarður kr. Lánsumsóknin var samþykkt af lánanefnd Kaupþings í sama mánuði. Hlutabréfakaup þessi ásamt lánveitingunni þeim tengdri voru hluti af verkefni innan Kaupþings sem gekk undir vinnuheitinu "Project Tornado". Gerð er sérstök grein fyrir "Project Tornado"verkefninu annars staðar í þessum kafla. FL Group keypti síðan nær öll hlutabréf Jötuns Holding ehf. í maí 2008 á mun lægra verði en Jötunn Holding ehf. hafði keypt þau fyrir áður.Tap Jötuns Holding ehf. á þessum viðskiptum var þegar orðið um 8,4 milljarðar kr. í lok maí 2008.

Tryggingar fyrir lánunum voru í hlutabréfunum sjálfum.

Samkvæmt endurskoðuðum ársreikningi 2007 er eigið fé neikvætt um 7,3 milljarða kr., þar af er hlutafé 1 milljón kr. Afkoma félagsins árið 2007 var tap að fjárhæð 7,3 milljarðar kr.

Holt Investment Group Ltd.

Holt Investment Group Ltd. er skráð erlendis og er eigandi þess Skúli Þorvaldsson, áður kenndur við Hótel Holt. Engar fjárhagslegar upplýsingar er að finna hjá opinberum aðilum hér á landi um félagið. Á tímabilinu 1. janúar 2007 til falls bankanna áttu sér stað eftirfarandi viðskipti með hlutabréf og lántökur vegna hlutabréfakaupa í Kaupþingi:

Hlutabréfaeign Holt Investment Group Ltd. þann 1. janúar 2007 var engin. Á tímabilinu fær félagið lánsheimildir hjá Kaupþingi samtals að fjárhæð 18,7 milljarðar kr. til kaupa á hlutabréfum í bankanum sjálfum. Keypt hlutabréf á tímabilinu nema 18,2 milljörðum kr. og seld hlutabréf eru að andvirði 2,6 milljarðar kr. Keypt hlutabréf umfram seld nema þannig 15,6 milljörðum kr.Við fall bankanna var hlutafjáreign Holt Investment Group ehf. í Kaupþingi eins og fram kemur að framan.

Holt Investment Group Ltd. óskar í mars 2008 eftir láni hjá Kaupþingi að fjárhæð 16,1 milljarður kr. til að kaupa hluti í Kaupþingi. Á fundi lánanefndar stjórnar Kaupþings hinn 18. mars 2008 er samþykkt að veita Holt Investment Group Ltd. ofangreint lán. Í febrúar kaupir Holt Investment Group Ltd. hlutabréf í Kaupþingi að andvirði um 15,5 milljarðar kr. Seljandi þessara bréfa eru eigin viðskipti Kaupþings, sbr. töflu 30 hér framar.

Holt Investment Group Ltd. óskar í september 2008 eftir láni hjá Kaupþingi að fjárhæð 2,6 milljarðar kr. til að kaupa hluti í Kaupþingi. Á fundi lánanefndar stjórnar Kaupþings hinn 24. september 2008 er samþykkt að veita Holt Investment Group Ltd. ofangreint lán. Með þessum hlutabréfakaupum var Holt Investment Group Ltd. komið með um 3% eignarhluta í Kaupþingi og um leið orðið áttundi stærsti hluthafinn í bankanum. Það vekur athygli að þessi hlutabréf eru keypt 11. september af eigin viðskiptum Kaupþings en jafnframt seld til baka til eigin viðskipta Kaupþings ellefu dögum síðar á hærra verði. Hagnaður Holt Investment Group Ltd. af þessum viðskiptum var um 90 milljónir kr.

Til tryggingar fyrra láninu eru hin keyptu hlutabréf í Kaupþingi og einnig hlutabréf í Skiptum hf., sem metin voru á tæplega 1 milljarð kr.Til tryggingar síðara láninu eru hin keyptu hlutabréf í Kaupþingi og einnig hlutabréf í Exista og veðsetningarbann á allar eignir Holt Investment Group Ltd.

Enginn ársreikningur eða aðrar fjárhagslegar upplýsingar liggja fyrir um félagið hér á landi enda félagið nýstofnað þegar það fékk lánið. Samkvæmt upplýsingum frá Kaupþingi var Holt Investment viðskiptavinur í eignastýringu í Lúxemborg.

Saxbygg Invest ehf.

Saxbygg Invest ehf. er stofnað í mars 2007. Megintilgangur félagsins er kaup, sala, rekstur, eignarhald og leiga fasteigna og hvers kyns lausafjár; eignarhald, kaup og viðskipti með hlutabréf, hluti í félögum, önnur verðbréf og hvers kyns önnur fjárhagsleg verðmæti; lánastarfsemi og skyldur rekstur.

Saxbygg Invest ehf. er dótturfélag Saxbygg ehf. Saxbygg ehf. er í eigu Saxhóls ehf. og Byggingarfélags Gylfa og Gunnars hf. Í stjórn Saxbygg Invest ehf. eru: Jón Þorsteinn Jónsson, Einar Örn Jónsson, Gunnar Þorláksson og Gylfi Ómar Héðinsson. Framkvæmdastjóri félagsins er Björn Ingi Sveinsson. Á hluthafafundi í maí 2009 var nafni félagsins Saxbygg Invest ehf. breytt í Icarus Invest ehf.

Á tímabilinu 1. janúar 2007 til falls bankanna áttu sér stað eftirfarandi viðskipti með hlutabréf og lántökur vegna hlutabréfakaupa í bönkunum:

Hlutabréfaeign Saxbygg Invest ehf. í Glitni þann 1. janúar 2007 er engin. Á tímabilinu fær félagið lánsheimild hjá Kaupþingi að fjárhæð 16,8 milljarðar kr. til kaupa á hlutabréfum í Glitni. Keypt hlutabréf á tímabilinu nema 20,7 milljörðum kr. Engin hlutabréf eru seld á tímabilinu.Við fall bankanna átti Saxbygg Invest ehf. ennþá öll hlutabréf sín í Glitni.

Á fundi lánanefndar Kaupþings í apríl 2007 er greint frá því að Saxbygg Invest ehf., sem er dótturfélag Saxbygg ehf., hafi hug á að kaupa um 5% hlut í Glitni á genginu 27,82. Samtals nemur kaupverðið með kostnaði 21 milljarði kr. Kaupþing samþykkir að lána Saxbygg Invest ehf. 80% af kaupverðinu eða sem nemur 16,8 milljörðum kr. Eftir þessi hlutabréfakaup var Saxbygg Invest ehf. orðið fimmti stærsti hluthafi í Glitni með 5% eignarhluta. Hlutabréfakaup þessi ásamt lánveitingu þeim tengdum voru hluti af verkefni innan Kaupþings sem gekk undir vinnuheitinu "Project Tornado". Gerð er sérstök grein fyrir "Project Tornado"-verkefninu annars staðar í þessum kafla.

Til tryggingar láninu eru eingöngu hin keyptu hlutabréf í Glitni.

Samkvæmt endurskoðuðum ársreikningi 2007 er eigið fé neikvætt um 5,6 milljarða kr. Hlutafé er 500 þúsund kr.Afkoma félagsins árið 2007 var tap að fjárhæð 5,6 milljarðar kr.

Egla Invest B.V.

Egla Invest B.V. er eignarhaldsfélag sem skráð er erlendis. Af þeim sökum er litlar sem engar upplýsingar að finna um félagið hjá opinberum aðilum hér á landi. Á lánsbeiðni sem lögð er fyrir lánanefnd Glitnis 23. maí 2008 kemur fram að innan við eitt ár er síðan félagið var stofnað. Egla Invest B.V. er í eigu Kjalars hf. en Kjalar hf. heldur utan um ca. 10% eignarhlut í Kaupþingi. Aðaleigandi Kjalars með 94% eignarhlut er Ólafur Ólafsson, stærsti eigandi Samskipa hf. Óþekktir hluthafar eiga 6%. Megintilgangur Kjalars hf. er að vera eignarhaldsfélag um eignarhluti í öðrum félögum sem stjórn ákveður hverju sinni, ráðgjafastarfsemi, kaup og sala hlutabréfa, eignarhald og rekstur fasteigna og lánastarfsemi.

Stjórn Kjalars hf. skipa eftirtaldir samkvæmt fundi dags. 24. september 2007: Kristinn Hallgrímsson er formaður, Ásbjörn Gíslason og Ólafur Ólafsson eru meðstjórnendur.

Á tímabilinu 1. janúar 2007 til falls bankanna áttu sér stað eftirfarandi viðskipti með hlutabréf og lántökur vegna hlutabréfakaupa Eglu Invest B.V. í bönkunum:

Hlutabréfaeign Eglu Invest B.V. í bönkunum hinn 1. janúar 2007 var engin en þann 30. september árið 2008 á félagið 73.153.352 hluti í Kaupþingi og voru þeir hlutir upphaflega í eigu félaganna Eglu hf. og Kjalars Inv. B.V.Tekin lán eru samtals að fjárhæð 16 milljarðar kr. sem ætluð eru til hlutabréfakaupa. Seld hlutabréf eru engin.

Í mars 2008 óskar Egla Invest B.V. eftir láni hjá Glitni að jafnvirði allt að 120 milljónum EUR sem jafngiltu þá um 16 milljörðum kr. Fram kemur að andvirði lánsins eigi að fara til að fjármagna fyrirhuguð hlutabréfakaup í Kaupþingi. Áhættunefnd Glitnis samþykkti ofangreinda lánsbeiðni. Málinu var jafnframt vísað til stjórnar bankans til staðfestingar. Með hlutabréfakaupum sínum í Kaupþingi var Egla Invest B.V. orðin þriðji stærsti hluthafinn í Kaupþingi með 9,88% eignarhlut.

Til tryggingar láninu voru hlutabréf í Kaupþingi. Lánshlutfall verður 70%.Verðmæti trygginga um 22,8 milljarðar kr.

Ársreikningur Eglu Invest B.V. er ekki til staðar enda félagið skráð erlendis eins og fram hefur komið hér að framan. Í gögnum bankans kemur hins vegar fram að við mat á lánveitingu til Eglu Invest B.V. hafi verið lögð áhersla á að skoða fjárhagsupplýsingar um Kjalar hf. og hin skráðu hlutabréf í Kaupþingi, enda voru þessi hlutabréf eina eign Eglu Invest B.V.

"Eina eign félagsins er 9,88% hlutur í Kaupþingi eða 21.708.000 hlutir."

Á árinu 2007 var tap fyrir skatta á Kjalari hf. um 7,5 milljarðar kr. og hafði eigið fé félagsins lækkað á sama tíma og eignir höfðu aukist um 25%.

Crosslet Vale Limited

Crosslet Vale Limited er fjárfestingarfélag í eigu bræðranna Mendi og Moises Gertner. Samskipti bræðranna við Kaupþing hefjast á árinu 2006 fyrir tilstilli viðskiptafélaga þeirra, Robert Tchenguiz. Gertner-bræður hafa verið umsvifamiklir í fasteignaviðskiptum í Bretlandi. Þá hafa þeir fjárfest í ýmsum verkefnum í Kongó eins og koparnámum og olíuvinnslu. Þá áttu þér námuréttindi í Bólivíu og Chile.

Félagið er skráð erlendis og er því engar upplýsingar um það að hafa hjá opinberum aðilum hér á landi.

Á tímabilinu 1. janúar 2007 til falls bankanna áttu sér stað eftirfarandi viðskipti með hlutabréf og lántökur þeim tengdar vegna hlutabréfakaupa í bönkunum:

Hlutabréfaeign Crosslet Vale Ltd. í Kaupþingi 1. janúar 2007 var engin. Í júní árið 2008 fær félagið lánsheimild hjá Kaupþingi að fjárhæð 14,9 milljarðar kr. til kaupa á hlutabréfum í bankanum sjálfum fyrir 13,9 milljarða kr. og eru þeir hlutir keyptir af deild eigin viðskipta Kaupþings.Engin hlutabréf eru seld.Við fall bankanna átti Crosslet Vale Ltd.því ennþá öll hlutabréfin sem keypt höfðu verið í Kaupþingi en það voru 18.500.000 hlutir að nafnvirði.

Hinn 18. júní 2008 sendir Bjarki H. Diego, framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs, tölvubréf til lánanefndar stjórnar Kaupþings. Viðtakendur eru Sigurður Einarsson, Hreiðar Már Sigurðsson, Gunnar Páll Pálsson, Bjarnfreður Ólafsson og Steingrímur Kárason, framkvæmdastjóri áhættustýringar. Afrit af skeytinu fengu Áhættustýring á Íslandi og Lánastýring.

"Ágætu meðlimir lánanefndar stjórnar.

Meðfylgjandi er lánsbeiðni vegna fyrirhugaðrar lánveitingar til Crosslet Vale, sem er eignarhaldsfélag í eigu Moises og Mendi

Gertner, viðskiptavina bankans.

Í stuttu máli er að ræða lánsbeiðni allt að EUR 120 milljónir vegna kaupa á 18,5 milljónum hluta í Kaupþingi banka. Lánið verður tryggt með sjálfskuldarábyrgð þeirra bræðra, auk krossveðs í hlutabréfum í Katanga Mining [KAT.TO] Congo, sem eru skráð í Kauphöllinni í Toronto í Kanada og landi í Plzen í Tékklandi sem CBRE mat í maí sl.á EUR 120 milljónir,en auk þess verður veðsetningarbann (Negative Pledge) á hinum keyptu hlutabréfum í Kaupþingi.

Fyrrgreindar tryggingar eiga að standa undir skuldbindingum vegna lánsbeiðni og annarra skuldbindinga á hendur Crosslet Vale á hendur bankanum – og er þá ekki tekið tillit til verðmæta hlutabréfa í Kaupþingi, sem eins og áður segir eru háð veðsetningarbanni.

Ágætt væri ef afstaða til lánveitingar þessarar gæti legið fyrir hið fyrsta þar sem ætlunin er að afgreiða viðskipti vegna umræddra hlutabréfakaupa fyrir helgi".

Ofangreint erindi um lán til Crosslet Vale að fjárhæð 14,9 milljarðar kr. er samþykkt samdægurs og næsta dag af hverjum og einum stjórnarmanni lánanefndar bankans.

Þar sem lánið var upphaflega samþykkt milli funda er það síðar borið upp á fundi lánanefndar stjórnar Kaupþings 24. september 2008. Lántakan er formlega samþykkt og færð til bókar á þeim fundi.

Samþykkt milli funda 11.06.2008

"Beðið er um eingreiðslulán, brúarlán að fjárhæð EUR 120 m í SEK. Tilgangur þess er að kaupa hlutabréf í Kaupþingi. Tryggingarþekja ca. 100%. Til tryggingar er veðsetningarbann á hlutabréfunum auk núgildandi veðs sem eru til tryggingar öðrum skuldbindingum Crosslet Vale."

Lánið að fjárhæð 120 milljónir EUR á að greiðast út í SEK. Lánið er eingreiðslulán til tveggja ára. Vextir eru Libor + 2,5% og þóknun til banka 1%. Ofangreind hlutabréfakaup námu samtals 2,5% af öllu hlutafé Kaupþings og voru hlutabréfin keypt á genginu 750 kr. pr. hlut sem var markaðsgengi á þeim tíma.

Til tryggingar láninu var sjálfskuldarábyrgð og krossveð í öðrum tryggingum. Að auki var veðsetningarbann sett á hin keyptu hlutabréf. Bankinn tók því ekki beint veð í hlutabréfunum sjálfum.

Það vekur athygli á hve miklum hraða lántakan þarf að samþykkjast, þannig að hlutabréfakaup Crosslet Vale í Kaupþingi geti farið fram fyrir helgi.Tölvubréfið til lánanefndarinnar fer út að kvöldi 18. júní 2008 sem er miðvikudagur.Tveimur klukkustundum síðar er einn stjórnarmaður búinn að samþykkja erindið. Með tölvubréfinu fylgdu jafnframt kynningargögn frá fyrirtækjasviði bankans. Afstaða og mat áhættustýringar bankans hvað varðar lánsbeiðnina fylgdi ekki með útsendum gögnum til stjórnarmanna en ekki er víst hvort það hafi legið fyrir.

Ársreikningur félagsins liggur ekki fyrir enda félagið skráð erlendis.

Desulo Trading Ltd.

Desulo Trading Ltd. er stofnað og skráð í Nikosíu á Kýpur í október 2007. Ekki liggur ljóst fyrir hverjir eru í stjórn Desulo Trading Ltd. Í fundargerð lánanefndar Kaupþings dags. 5. júní 2008 kemur fram að eigandi Desulo Trading Ltd. sé Egill Ágústsson, framkvæmdastjóri Íslensk-Ameríska. Þar sem félagið er skráð á Kýpur er engar opinberar upplýsingar að finna um félagið hér á landi aðrar en beiðni um kennitölu fyrir erlent fyrirtæki vegna bankaviðskipta á Íslandi. Á beiðninni kemur fram að umboðsaðili/tengiliður félagsins hér á landi sé Kaupþing banki hf.

Tilgangur Desulo Trading Ltd. eru viðskipti sem gerð er nánari grein fyrir í samþykktum félagsins í 45 tölusettum greinum. Hlutafé er 1.000 EUR sem skiptist í 1.000 hluti.

Á tímabilinu 1. janúar 2007 til falls bankanna áttu sér stað eftirfarandi viðskipti með hlutabréf og lántökur þeim tengdar vegna hlutabréfakaupa í bönkunum:

Hlutabréfaeign Desulo Trading Ltd. í Kaupþingi 1. janúar 2007 var engin. Frá miðju ári 2008 fram að falli Kaupþings fær félagið lánsheimildir hjá Kaupþingi að fjárhæð 13,4 milljarðar kr. til kaupa á hlutabréfum í bankanum sjálfum. Keypt hlutabréf á tímabilinu nema 13,3 milljörðum kr. Engin hlutabréf eru seld. Við fall bankanna átti Desulo Trading Ltd. því ennþá öll hlutabréfin sem keypt höfðu verið í Kaupþingi. Hlutabréf eru keypt fyrir sem nemur rúmum 7 milljörðum kr. af Kaupþingi banka í Lúxemborg, af vörslureikningi þar svo ómögulegt er að vita hverjir seljendur eru. Athyglisvert er að í september eru öll hlutabréfin keypt af Kaupþingi banka, eigin viðskiptum. Nema þau viðskipti samtals um 4 milljörðum kr.

Á lánanefndarfundi Kaupþings banka þann 4. júní 2008 er veitt lánsheimild upp á 5 milljarða íslenskra króna og 150 milljónir sænskra króna til Desulo Trading Limited til kaupa á hlutabréfum í Kaupþingi banka. Hlutabréfin eru að mestu leyti keypt með milligöngu Kaupþings banka í Lúxemborg. Lánið er tryggt með veði í öllum eignum lántakans, sem eru hlutabréf í Kaupþingi, og negative pledge í öllum eignum Desulo Trading Limited. 16. júní 2008 kaupir Desulo 6.500.000 hluti í Kaupþingi. Jafnframt festir Desulo kaup á 2.349.500 hlutum í Kaupþingi í kauphöllinni í Stokkhólmi.

Á lánafundi Kaupþings banka 19. júní er samþykkt að veita Desulo aukið lán upp á 770 milljónir kr. til kaupa á hlutabréfum í Kaupþingi. Þann 30. júní 2008 kaupir Desulo svo 1 milljón hluta í Kaupþingi.Viðkomandi hlutabréf eru veitt sem handveð til tryggingar láninu.

Enn er aukið við lánveitingar til Desulo Trading Ltd.þann 7.ágúst 2008 með láni upp á 1.500 milljónir kr. til kaupa á 2 milljónum hluta í Kaupþingi. Hlutirnir eru færðir inn á vörslureikning Desulo þann 12. ágúst 2008.

Að lokum er þann 25.september 2008 enn veitt lán til Desulo Trading Ltd.allt að 4.140 milljónum kr.til að fjármagna hlutabréfakaup í Kaupþingi. Fjöldi keyptra hluta er 6,5 milljónir og höfðu þeir verið keyptir dagana 16.–19. september 2008 en raunar voru 500.000 hlutir síðan seldir þann 22. september 2008. Heildarútgjöld vegna viðskiptanna eru því um 4.089 milljónir kr. Fram kemur í fundargerð lánanefndar að lagðar séu að handveði allar eignir Desulo Trading, sem samanstanda af hlutabréfum í Kaupþingi. Eins og áður kemur fram er seljandi bréfanna Kaupþing banki, eigin viðskipti.

Hinn 22. september 2008, þegar öll viðskipti Desulo Trading hafa átt sér stað, á félagið því alls 15.500.000 hluti í Kaupþingi keypta á íslenska markaðnum og 2.349.500 hluti keypta á markaði með hlutabréf í Svíþjóð. Samtals er því um að ræða 17.849.500 hluti eða um 2,41% af heildarhlutafé bankans sem er fjármagnað að fullu af bankanum.Að minnsta kosti 6 milljónir af þessum hlutum voru keyptir af eigin viðskiptum Kaupþings banka.

Einu tryggingar fyrir láninu eru hlutabréfin sjálf sem lögð eru inn í bankann að handveði og kemur fram í fundargerðum lánanefndar Kaupþings að það séu allar eignir félagsins.

Ársreikningur félagsins liggur ekki fyrir enda félagið skráð erlendis.

Elliðahamar ehf./Elliðatindar ehf.

Hlutafélagið Elliðahamar ehf. er stofnað árið 2005. Elliðahamar ehf. er móðurfélag Elliðatinda ehf. sem stofnað er í apríl 2007. Bæði félögin voru í eigu sama eiganda.Viðskipti voru nær eingöngu milli félaganna sjálfra og svo bankanna.Tilgangur beggja félaganna var sá sami sem er: "Kaup, sala, rekstur, eignarhald og leiga fasteigna og hvers kyns lausafjár, eignarhald, kaup og viðskipti með hlutabréf, hluti í félögum, önnur verðbréf og hvers kyns önnur fjárhagsleg verðmæti; lánastarfsemi og skyldur rekstur."

Eigandi Elliðahamars ehf. og Elliðatinda ehf. var Gunnar Sturluson.Stjórn Elliðahamars ehf. og Elliðatinda ehf. skipuðu þau Gunnar Sturluson og Guðrún Margrét Baldursdóttir.

Hinn 29. apríl 2008 segja þau Gunnar Sturluson og Guðrún Margrét Baldursdóttir sig úr stjórn Elliðahamars ehf. og Elliðatinda ehf. Í stjórnir félaganna koma Jakob Bjarnason og Gizur Bergsteinsson. Jafnframt er tilkynnt um breytingu á póstfangi beggja félaganna og verður það framvegis Kaupþing banki hf., Jakob Bjarnason. Hinn 31. október 2008 segir Gizur Bergsteinsson sig úr stjórnum Elliðahamars ehf. og Elliðatinda ehf.

Á tímabilinu 1. janúar 2007 til falls bankanna áttu Elliðahamar ehf. og Elliðatindar ehf. eftirfarandi viðskipti með hlutabréf og lántökur vegna hlutabréfakaupa í bönkunum:

Hlutabréfaeign Elliðahamars ehf. og Elliðatinda ehf. 1. janúar 2007 var engin. Útgefnar lánsheimildir bankanna nema samtals 9,7 milljörðum kr. Keypt hlutabréf nema samtals 13,7 milljörðum kr. og seld hlutabréf eru að andvirði um 11,8 milljarðar kr. Andvirði keyptra hlutabréfa umfram seldra nemur 1,9 milljörðum kr.Við fall bankanna voru bæði félögin búin að selja öll hlutabréf sín í bönkunum þremur.

Í mars 2007 kaupir Elliðahamar ehf. hlutabréf í Glitni fyrir 5,2 milljarða kr. Eigandi Elliðahamars ehf. óskaði eftir því að Kaupþing fjármagnaði hlutabréfakaupin 100%. Lánanefnd Kaupþings samþykkti ofangreinda lánsumsókn á fundi sínum í sama mánuði. Í apríl 2007 kaupir Elliðahamar ehf. hlutabréf í Glitni fyrir 4,2 milljarða kr. Á fundi sínum í apríl 2007 samþykkir lánanefnd stjórnar Kaupþings að lána Elliðahamri 3,4 milljarða kr. eða sem nemur 80% af kaupverði hlutabréfanna. Hlutabréfakaup þessi ásamt lánveitingunni þeim tengdri eru hluti af verkefni innan Kaupþings sem gekk undir vinnuheitinu "Project Tornado". Gerð er sérstök grein fyrir "Project Tornado"-verkefninu annars staðar í þessum kafla.

Í ársbyrjun 2007 var í gildi afleiðusamningur milli Elliðahamars ehf. og Landsbankans. Í júlí 2007 stóð afleiðuramminn í 1,1 milljarði kr. Á tímabilinu kaupir Elliðahamar ehf. hlutabréf í Landsbankanum fyrir 1,5 milljarða kr. Hlutabréfin sem Elliðahamar ehf. keypti voru síðan flutt yfir á Elliðatinda ehf. Bæði félögin voru í eigu sama aðila.

Engar tryggingar voru teknar fyrir lánunum aðrar en veð í hlutabréfunum sjálfum.

Samkvæmt endurskoðuðum ársreikningi Elliðahamars ehf. fyrir árið 2007 er eigið fé félagsins í árslok neikvætt um 4,9 milljarða kr., þar af er hlutafé 500 þúsund kr. Afkoma félagsins árið 2007 var tap að fjárhæð 4,9 milljarðar kr.

Straumborg ehf./Norvest ehf.

Á hluthafafundi sem haldinn var 29. ágúst 2007 í Norvest ehf. og á stjórnarfundi í Straumborg ehf. 30. ágúst 2007 var lögð fram áætlun um samruna félaganna. Samruninn var samþykktur hjá báðum félögunum í samræmi við áður gerða samrunaáætlun.Yfirtekna félaginu, Norvest ehf., var þar með slitið og runnu réttindi og skyldur þess í heild sinni til yfirtökufélagsins, Straumborgar ehf. Hér verður því fjallað sameiginlega um Straumborg ehf. og Norvest ehf. þar sem Straumborg ehf. yfirtók Norvest ehf. á tímabilinu. Í umfjöllun um áhættuskuldbindingar einstakra aðila í kafla 8.0 er Straumborg ehf. hluti af samstæðunni Norvik hf.

Eigandi Norvest ehf. var Straumborg ehf. sem átti 100% í félaginu. Í stjórn Norvest voru Jón Helgi Guðmundsson og Brynja Halldórsdóttir varamaður. Brynja var jafnframt í framkvæmdastjórn Norvikur hf.

Tilgangur Straumborgar ehf. er eignarhald á hlutum í öðrum félögum, verðbréfum, alhliðaþjónusta á sviði bókhalds, fjármála og annar skyldur rekstur. Straumborg á eignarhlut í fjölmörgum félögum, s.s. Ares fjárfestingarfélagi ehf. 80%, Norvik Banka JSC (Lettlandi) 51%, Norvik hf. 21,9%, Norvik fasteignum ehf. 21,9% og Eyri Invest ehf. 11,9%.

Eigendur Straumborgar ehf. eru: Jón Helgi Guðmundsson 48,6%, Steinunn Jónsdóttir 14,3%, Iðunn Jónsdóttir 14,3%, Guðmundur H. Jónsson 14,3% og aðrir hluthafar eiga 8,5%. Í stjórn félagsins eru Jón Helgi Guðmundsson, formaður, Guðmundur

H. Jónsson og Steinunn Jónsdóttir eru meðstjórnendur, framkvæmdastjóri er Hjalti Baldursson.

Á tímabilinu 1. janúar 2007 til falls bankanna áttu sér stað eftirfarandi viðskipti með hlutabréf og lántökur Norvest ehf. og Straumborgar hf. vegna hlutabréfakaupa í bönkunum:

Hlutabréfaeign Straumborgar ehf./Norvest ehf. þann 1. janúar 2007 er samtals 10,1 milljarður kr. og voru það eingöngu hlutabréf í Kaupþingi. Á tímabilinu eru veittar lánsheimildir bankanna samtals að fjárhæð 7,8 milljarðar kr. Keypt hlutabréf á tímabilinu nema 14 milljörðum kr. og seld hlutabréf eru að andvirði 21 milljarður kr. Seld hlutabréf umfram keypt nema þannig að andvirði 7 milljörðum kr.Við fall bankanna var Straumborg ehf. búin að selja öll hlutabréf sín í bönkunum.

Í desember 2007 heimilar Kaupþing að veita Straumborg ehf. yfirdrátt til 1. júní 2008 að fjárhæð 2 milljarðar kr. til kaupa á hlutabréfum í Kaupþingi. Lánveitingin var samþykkt af lánanefnd stjórnar Kaupþings sama dag. Seljandi bréfanna er Kaupþing banki, eigin viðskipti.

Í maí 2007 samþykkir lánanefnd Landsbanka Íslands hf. lán til Norvest ehf. að fjárhæð 3,8 milljarðar kr. vegna kaupa á hlutabréfum úr framvirkum samningi í Kaupþingi. Í desember 2007 er samþykkt í Landsbankanum að veita Straumborg ehf. 2 milljarða kr. peningamarkaðslínu til 21. desember 2007. Um er að ræða brúarlán vegna kaupa félagsins á hlutabréfum í Kaupþingi. Síðan er gert ráð fyrir að lánið verði endurfjármagnað af erlendum banka. Lánveitingin var samþykkt af lánanefnd Landsbankans sama dag.

Engar tryggingar voru fyrir yfirdrættinum í Kaupþingi en samþykkt að lánið yrði gjaldfellt ef eigið fé fyrirtækisins færi niður fyrir 30%. Fyrir Landsbankaláninu í maí 2007 var tekið veð í hlutabréfum í Kaupþingi. Ekki var gert ráð fyrir neinum viðbótartryggingum vegna brúarlánsins í desember 2007, þannig að tryggingar urðu þær sömu og þá þegar voru fyrir hendi.

Samkvæmt endurskoðuðum ársreikningi Straumborgar ehf. 2007 nemur eigið fé samtals 19,5 milljörðum kr., þar af er hlutafé 395,2 milljónir kr. Afkoma félagsins árið 2007 var hagnaður að fjárhæð 2,4 milljarðar kr.

Salt Investments ehf. og Salt Financials ehf.

Félagið Eilífsfell ehf. er stofnað af Endurskoðunarstofunni Deloitte ehf. í febrúar 2006. Á hluthafafundi sem haldinn er 31. desember 2006 er nafni félagsins breytt í Elkington ehf. Á hluthafafundi í Elkington ehf. sem haldinn er 3. september 2007 er nafni félagsins breytt í Salt Investments ehf.Tilgangur Salt Investments ehf. er kaup, sala og eignarhald á verðbréfum, kaup, sala og rekstur fasteigna og lausafjár ásamt lánastarfsemi tengdri rekstrinum og annar skyldur rekstur. Salt Investments ehf. á í ýmsum félögum, s.s. Lat ehf. 100%, Smáraturni ehf. 100%, Salt Financials ehf. 100%, Salt Constructions ehf. 100%, HBH Framkvæmdum ehf. 50% og Latabæ ehf. 21%.

Salt Financials ehf. er í 100% eigu Salt Investments ehf.

Eigendur Salt Investments ehf. eru Vilhelm Róbert Wessman 94% og óþekktir hluthafar eiga 6%. Í stjórn félagsins eru Vilhelm Róbert Wessman, formaður, Árni Harðarson og Divya C. Patel. Framkvæmdastjóri er Árni Harðarson.

Á tímabilinu 1. janúar 2007 til falls bankanna áttu sér stað eftirfarandi viðskipti með hlutabréf og lántökur vegna hlutabréfakaupa í bönkunum

Hlutabréfaeign Salt Investments ehf. og Salt Financials ehf. 1. janúar 2007 er engin. Á tímabilinu fær félagið lánsheimild hjá Glitni að fjárhæð 12,8 milljarðar kr. til kaupa á hlutabréfum í bankanum sjálfum. Keypt hlutabréf á tímabilinu nema 12,5 milljörðum kr. Engin hlutabréf eru seld.Við fall bankanna var hlutafjáreign Salt Investments ehf. í Glitni eins og fram kemur að framan.

Í desember 2007 er tekið fyrir í lánanefnd Glitnis erindi Salt Investments ehf. þar sem félagið óskar eftir láni hjá Glitni að fjárhæð allt að 7,5 milljarðar kr. til 15 mánaða.Andvirði lánsins á að fara til kaupa á hlutabréfum í Glitni.Lánanefnd Glitnis samþykkti erindið með eftirfarandi bókun:

"Til tryggingar verði allir hlutir að 1,8 ma.kr. í Salt Generics í Luxemburg og hlutir í Glitni. Áður en lánið verður veitt þarf að skoða hluthafasamkomulag í Novator Pharma s.a.r.l. og ganga úr skugga um það að hlutirnir hafi ekki verið veðsettir öðrum.Auk þess verða eigendaskipti á Salt Invest og Salt Generics óheimil á lánstímanum. Jafnframt verða settir inn covinantar um að ef "Rollin" EBITDA Actavis verði lægri en EUR 250 millj. þá sé það brot á samningnum."

Hinn 17. september 2008 er tekið fyrir í lánanefnd Glitnis erindi Salt Investments ehf. um að óstofnað félag í 100% eigu þess fái 5,3 milljarða kr. að láni til að kaupa 2,5% í Glitni banka hf. eða allt að 370 milljónir hluta. Lánið var kúlulán til 18-24 mánaða. Félögin Salt Investments ehf. og Salt Generics s.a.r.l. gengust í sjálfskuldarábyrgð fyrir allt að 1.200 milljónum kr. Óstofnaða félagið var Salt Financials ehf. Lánabeiðnin var samþykkt.

Í september 2008 var Salt Investments ehf. orðið sjötti stærsti hluthafinn í Glitni með 4,81% eignarhlut.

Samkvæmt ársreikningi 2007 nemur eigið fé samtals 9,6 milljörðum kr., þar af er hlutafé 500 þúsund kr. Afkoma félagsins árið 2007 var hagnaður að fjárhæð 11,5 milljarðar kr. Ársreikningurinn er ekki endurskoðaður en endurskoðandi aðstoðaði við gerð hans.

Smáey ehf.

Félagið er stofnað í desember 1994 og þá sem Smáey hf. Í maí 1996 er félagið gert að einkahlutafélagi og heitir upp frá því Smáey ehf. Megintilgangur Smáeyjar ehf. er kaup og sala verðbréfa svo og rekstur fasteigna og lánastarfsemi.

Eigendur Smáeyjar ehf. eru hjónin Magnús Kristinsson og Lóa Skarphéðinsdóttir og skipa þau jafnframt stjórn félagsins. Framkvæmdastjóri er Magnús Kristinsson. Í umfjöllun um áhættuskuldbindingar einstakra aðila í kafla 8.0 er Smáey ehf. hluti af samstæðunni Bergur-Huginn ehf.

Á tímabilinu 1. janúar 2007 til falls bankanna áttu sér stað eftirfarandi viðskipti með hlutabréf og lántökur vegna hlutabréfakaupa í bönkunum:

Hlutabréfaeign Smáeyjar ehf. þann 1. janúar 2007 var að markaðsvirði 217,9 milljónir kr. og voru það eingöngu hlutabréf í Landsbankanum. Á tímabilinu fær Smáey ehf. lánsheimild hjá Landsbankanum að fjárhæð 7,2 milljarðar kr. til kaupa á hlutabréfum í bankanum sjálfum. Keypt hlutabréf á tímabilinu nema 11,6 milljörðum kr. og seld hlutabréf eru að andvirði 3 milljarðar kr. Keypt hlutabréf umfram seld nema þannig 8,6 milljörðum kr. Megnið af hlutabréfunum er keypt af LI-Hedge, sem er hlutabréfasafn Landsbanka Íslands sem notað er til að verja framvirka samninga. Þessi kaup voru því fyrst og fremst tilfærsla úr framvirkum samningum milli félagsins og Landsbanka Íslands yfir í skuldsett kaup. Slíkt felur í raun enga breytingu í sér, hvorki fyrir félagið né Landsbankann. Þessu er lýst nánar hér fyrir neðan.

Í október 2007 samþykkir lánanefnd Landsbankans 2,5 milljarða kr. afleiðuramma til 6 mánaða vegna framvirkra kaupa Smáeyjar ehf. á hlutabréfum í Landsbankanum fyrir 5 - 8 milljarða kr. Síðan yrði þessi staða fjármögnuð með öðrum tryggingum frá Smáey, svo sem hlutabréfum í Bergi-Hugin, Bergey eignarhaldsfélagi eða Gnúpi fjárfestingafélagi.

Í nóvember 2007 er síðan ákveðið að í stað afleiðuramma Smáeyjar að fjárhæð 2,5 milljarðar kr. sem samþykktur var í október komi 4 milljarða kr. afleiðurammi til 6 mánaða.

Í febrúar 2008 samþykkir lánanefnd Landsbankans lán til Smáeyjar ehf. að fjárhæð 1 milljarður kr. Lánstími er 1 ár.Tilgangur með láninu er að gera upp framvirkan samning um kaup á hlutabréfum í Landsbankanum. Í júlí 2008 samþykkir lánanefnd Landsbankans lán til Smáeyjar ehf. að fjárhæð 2,1 milljarður kr. til að gera upp framvirkan samning um kaup á hlutabréfum í Landsbankanum (markaðsvirði 1,8 milljarðar kr.). Lánstími er 1 ár.

Áætlað verðmæti trygginga vegna fyrirgreiðslu Landsbankans á árinu 2007 er 15,1 milljarður kr. en vegna lánanna í febrúar og júlí 2008 eru veð í hinum keyptu hlutabréfum. Samkvæmt endurskoðuðum ársreikningi 2007 nemur eigið fé samtals 3,1 milljarði kr., þar af er hlutafé 5 milljónir kr.Afkoma félagsins árið 2007 var tap að fjárhæð 12,6 milljarðar kr. Ársreikningurinn er ekki endurskoðaður en endurskoðandi aðstoðaði við gerð hans.

Jakob Valgeir ehf.

Jakob Valgeir ehf. er útgerðarfélag í Bolungarvík sem stofnað er árið 1990.Tilgangur félagsins er rekstur alhliða útgerðarfyrirtækis, vinnsla sjávarafurða svo og rekstur fasteigna, lánastarfsemi og skyld starfsemi.

Fyrir árið 2007 kom félagið lítið sem ekkert nálægt verðbréfaviðskiptum en strax í ársbyrjun 2007 fer félagið út í umfangsmikil verðbréfaviðskipti.Eigendur Jakobs Valgeirs ehf. eru: Flosi Valgeir Jakobsson 41,2%, Áll ehf. 50%. Aðrir hluthafar eiga 8,8% í félaginu. Eigandi að Áli ehf. er Jakob Valgeir Flosason og á hann félagið 100%.

Stjórn félagsins skipa: Flosi Valgeir Jakobsson, formaður, Jakob Valgeir Flosason, Ásgeir Guðbjartsson og Guðbjartur Flosason. Framkvæmdastjóri Jakobs Valgeirs ehf. er Jakob Valgeir Flosason.

Á tímabilinu 1. janúar 2007 til falls bankanna áttu sér stað eftirfarandi viðskipti með hlutabréf og lántökur vegna hlutabréfakaupa í bönkunum:

Hlutabréfaeign Jakobs Valgeirs ehf. 1. janúar 2007 er 14,3 milljónir kr. og voru það eingöngu hlutabréf í Glitni. Á tímabilinu fær Jakob Valgeir ehf. lánsheimildir hjá bönkunum að fjárhæð 6,4 milljarðar kr. til kaupa á hlutabréfum í bönkunum sjálfum. Keypt hlutabréf á tímabilinu nema 16,1 milljarði kr. og seld hlutabréf eru að andvirði 14,8 milljarðar kr. Keypt hlutabréf umfram seld nema þannig 1,3 milljörðum kr. Við fall bankanna var Jakob Valgeir ehf. þannig að mestu búið að selja hlutabréf sín í bönkunum. Félagið átti þó enn hlutabréf í Glitni.

Í febrúar 2007 samþykkir lánanefnd Kaupþings að Jakob Valgeir ehf. fái lán til þriggja ára að fjárhæð 2 milljarðar kr. Af andvirði lánsins eiga 1,4 milljarðar kr. að fara til að fjármagna lokun á framvirkum samningi vegna kaupa á hlutabréfum í Glitni og 600 milljónir kr. eiga að fara til kaupa á skráðum verðbréfum. Lánanefnd Landsbankans samþykkti í maí 2007 beiðni frá Jakobi Valgeiri ehf. um þriggja ára kúlulán að fjárhæð 2,5 milljarðar kr. Andvirði lánsins á að fara til að kaupa hlutabréf í Landsbankanum og Exista.

Lánanefnd Landsbankans samþykkti í október 2007 beiðni frá Jakobi Valgeiri ehf. um þriggja ára kúlulán að fjárhæð 1 milljarður kr. Andvirði lánsins á að fara til að kaupa hlutabréf í Kaupþingi.

Jakob Valgeir ehf. hafði verið með framvirkan hlutabréfasamning við Glitni í rúmt ár. Samningurinn var upp á um 50 milljónir hluta í Glitni. Jakob Valgeir ehf. hafði áhuga á að eiga a.m.k. 35 milljónir hluta í lengri tíma og færa yfir á vörslureikning gegn eingreiðsluláni til þriggja ára. Félagið óskaði því eftir um 870 milljóna kr. láni til kaupa á hlutabréfum í Glitni. Á fundi lánanefndar Glitnis í janúar 2007 var samþykkt að verða við beiðni Jakobs Valgeirs ehf. og yrði lánsfjárhæðin 870 milljónir kr. eins og farið hafði verið fram á.

Til tryggingar fyrir lánunum voru tekin veð í hinum keyptu hlutum í bönkunum, í öðrum skráðum verðbréfum, í handbæru fé og í veiðiheimildum.

Samkvæmt ársreikningi 2007 er eigið fé neikvætt um 234,5 milljónir kr., þar af er hlutafé 42,5 milljónir kr. Afkoma félagsins árið 2007 var tap að fjárhæð 744,5 milljónir kr. Ársreikningurinn er ekki endurskoðaður en endurskoðandi aðstoðaði við gerð hans.

Bygg Invest ehf.

Félagið Bygg hf. er stofnað árið 1990. Tilgangur félagsins var "bygginga- og verktakastarfsemi hvers konar, kaup og sala fasteigna, rekstur fasteigna og svo lánastarfsemi". Árið 1995 er félagið gert að einkahlutafélagi og heitir þá Bygg ehf. Árið 2006 er nafni félagsins aftur breytt og heitir þá Bygg Invest ehf. Jafnframt er tilgangi félagsins breytt og verður "eignarhald á hlutabréfum og öðrum verðbréfum og annar skyldur rekstur". Í maí 2009 verður aftur nafnabreyting og heitir félagið þá CDG ehf.

Eigandi Bygg Invest ehf. er Byggingarfélag Gylfa og Gunnars hf. sem á 100% í félaginu. Eigendur Byggingarfélags Gylfa og Gunnars hf. eru Gylfi Ómar Héðinsson og Gunnar Þorláksson sem eiga 50% hvor. Stjórn Bygg Invest ehf. skipuðu Gylfi Ómar Héðinsson og Gunnar Þorláksson.

Á tímabilinu 1. janúar 2007 til falls bankanna áttu sér stað eftirfarandi viðskipti með hlutabréf og lántökur vegna hlutabréfakaupa í bönkunum:

Hlutabréfaeign Bygg Invest ehf. 1. janúar 2007 er um 1 milljarður kr. og er öll í Glitni. Á tímabilinu fær Bygg Invest ehf. lánsheimildir hjá Landsbanka Íslands hf. að fjárhæð 5,7 milljarðar kr. til kaupa á hlutabréfum í bönkunum. Keypt hlutabréf á tímabilinu nema 6,4 milljörðum kr. Seld hlutabréf eru að fjárhæð 0,5 milljarðar kr. Keypt hlutabréf umfram seld nema tæplega 6 milljörðum kr.Við fall bankanna átti Bygg Invest ehf. því mestöll hlutabréf sín ennþá eins og fram kemur hér að framan.

Í júlí 2007 fær Bygg Invest ehf. samþykkt eingreiðslulán hjá Landsbanka Íslands að fjárhæð 4,5 milljarðar kr. Lánið er til 5 ára. Andvirði lánsins á að nýta til að gera upp framvirkan samning í Glitnisbréfum hjá Glitni, framvirkan samning hjá Landsbankanum vegna FL Group og til að fjármagna Boreas Capital Fund (Landsvaki). Ákvörðun um lánveitinguna er tekin á fundi lánanefndar Landsbankans í júlí 2007. Í október 2007 fær Bygg Invest ehf. kúlulán hjá Landsbanka Íslands að fjárhæð 1,2 milljarðar kr. Lánið er til 2 ára. Lánið er veitt til kaupa Bygg Invest ehf. á hlutabréfum í Landsbankanum að markaðsvirði 1,5 milljarðar kr. Ákvörðun um lánveitinguna er tekin af lánanefnd Landsbankans.

Tryggingar fyrir 4,5 milljarða kr. láninu eru handveð í hlutabréfasafni Bygg Invest ehf. sem samanstendur m.a. af hlutabréfum í Glitni, Landsbankanum, FL Group og Boreas Capital Fund, samtals að markaðsvirði 6 milljarðar kr.Til tryggingar 1,2 milljarða kr. láninu eru hin keyptu hlutabréf í Landsbankanum og er veðhlutfall 80%.

Móðurfélag Bygg Invest ehf., Byggingarfélag Gylfa og Gunnars hf., var einn af stærri viðskiptavinum Landsbankans.

Samkvæmt endurskoðuðum ársreikningi 2007 nemur eigið fé samtals 10,5 milljörðum kr., þar af er hlutafé 8 milljarðar kr. Afkoma félagsins árið 2007 var hagnaður að fjárhæð 2,5 milljarðar kr.

Rákungur ehf.

Einkahlutafélagið Rákungur ehf. er stofnað í ársbyrjun 2008. Megintilgangur félagsins er kaup, sala, rekstur, eignarhald og leiga fasteigna og hvers kyns lausafjár. Eignarhald, kaup og viðskipti með hlutabréf, hluti í félögum, önnur verðbréf og hvers kyns önnur fjárhagsleg verðmæti, lánastarfsemi og skyldur rekstur.

Eigendur Rákungs ehf. eru Guðmundur Ólason 33,4% í gegnum félagið Lokkadís ehf. og Jóhannes Sigurðsson 66,6% í gegnum félögin JS ráðgjöf ehf., Kraflar ehf. og Hrollur ehf. Stjórn Rákungs ehf. skipa Jóhannes Sigurðsson og Arnar Guðmundsson, varamaður. Samanlagt hlutafé félaganna fjögurra sem mynda eigendahóp Rákungs ehf. er lítið eða samtals 3,5 milljónir kr. Þá er afkoma félaganna á árinu 2007 neikvæð um 88,6 milljónir kr.

Á tímabilinu 1. janúar 2007 til falls bankanna áttu sér stað eftirfarandi viðskipti með hlutabréf og lántökur vegna hlutabréfakaupa í bönkunum:

Hlutabréfaeign Rákungs ehf. 1. janúar 2007 er engin. Í febrúar 2008 fær Rákungur ehf. lánsheimild hjá Glitni að fjárhæð 5,2 milljarðar kr. til kaupa á hlutabréfum í bankanum sjálfum. Keypt hlutabréf á tímabilinu nema 5,2 milljörðum kr. Engin hlutabréf eru seld. Eftir hlutafjárkaupin í Glitni er Rákungur ehf. orðinn tólfti stærsti hluthafinn í bankanum með 2,0% eignarhlut. Eigin viðskipti Glitnis banka selja öll hlutabréfin til Rákungs ehf.

Á fundi áhættunefndar Glitnis sem haldinn var í febrúar 2008 kemur fram að fyrirhugað sé að stofna nýtt félag, SPV (e. Special Purpose Vehicle), sem kaupa muni um 2% hlutafjár í bankanum fyrir um 5,2 milljarða kr. Félagið hlaut síðan nafnið Rákungur ehf. Rákungur ehf. óskaði síðan eftir 100% fjármögnun á hlutabréfakaupunum. Áhættunefnd Glitnis samþykkti síðan ofangreinda lánveitingu að því tilskildu að eigið fé yrði á bilinu 300 - 500 milljónir kr.

Til tryggingar láninu yrði annaðhvort um að ræða veðsetningu á VS-reikningi (vörslureikningi) þar sem bréfin yrðu vistuð eða sett yrði veðsetningarbann á eignir félagsins ásamt banni við frekari skuldsetningu. Jafnframt yrði tekið veð í hlutabréfum Rákungs ehf. Félagið yrði jafnframt í skuldastýringu hjá Glitni.

Guðmundur Ólason og Jóhannes Sigurðsson eru jafnframt stjórnarmenn í félaginu Þætti International ehf., sem átti 5,59% hlut í Glitni í september 2008. Þá var Guðmundur einnig framkvæmdastjóri Milestone og Jóhannes aðstoðarframkvæmdastjóri. Milestone er 100% eigandi Þáttar International ehf.

Rákungur ehf. er stofnað í febrúar 2008. Ársreikningur félagsins liggur ekki fyrir. Hlutafé Rákungs ehf. er 500 þúsund kr.

Imon ehf.

Samkvæmt samþykktum félagsins er tilgangur þess fjárfestingar og rekstur. Félagið er stofnað árið 2006 og hefur stundað viðskipti með verðbréf. Eigandi félagsins er Magnús Ármann og á hann 100% í félaginu. Í stjórn Imons ehf. eru Magnús Ármann og Einar Þór Sverrisson, varamaður.

Á tímabilinu 1. janúar 2007 til falls bankanna áttu sér stað eftirfarandi viðskipti með hlutabréf og lántökur vegna hlutabréfakaupa í bönkunum:

Hlutabréfaeign Imons ehf. í bönkunum þann 1. janúar 2007 var engin. Imon ehf. fær lánsheimild hjá Landsbankanum í lok september 2008 að fjárhæð 5,2 milljarðar kr. til að kaupa hlutabréf í bankanum sjálfum. Keypt hlutabréf rétt fyrir fall bankanna nema 9 milljörðum kr. Hlutabréfin voru öll keypt af Landsbanka Íslands, eigin viðskiptum.

Hinn 30. september 2008 keypti Imon ehf. hlutabréf í Landsbankanum fyrir 5,2 milljarða kr. og þann 3. október 2008 hlutafé í sama banka fyrir 3,8 milljarða kr. eða samtals 9 milljarða kr. að markaðsvirði.

Þann 8. október 2008 fær Imon ehf. lán í Landsbankanum að fjárhæð 5,2 milljarðar kr. Lánið er kúlulán til 20 mánaða. Ofangreind lánveiting var tekin á óformlegum fundi sem haldinn var þann 8. október 2008 og hana tóku Sigurjón Þ. Árnason, Halldór J. Kristjánsson og Sigríður Elín Sigfúsdóttir. Fundarstaður: Bankastjóragangur: Austurstræti 11.

Þrátt fyrir eftirgrennslan hefur Landsbankanum ekki tekist að hafa uppi á neinum gögnum sem sýna hvernig seinni hlutabréfakaup Imons ehf., sem fram fóru þann 3. október 2008, að fjárhæð 3,8 milljarðar kr., voru fjármögnuð. Helsta eign Imons ehf. í árslok 2007 eru eignarhlutir í Byr sparisjóði sem bókfærðir eru á 3,8 milljarða kr. Helstu skuldir eru vegna verðbréfaviðskipta og nema þær 4,1 milljarði kr.

Tryggingar eru handveð í hlutabréfum Landsbankans að nafnvirði 250 milljónir kr. (kaupverð 5,1 milljarður kr.) auk trygginga í stofnfjárbréfum í Byr sparisjóði. Heildarveðhlutfall er 86–95%.

Samkvæmt endurskoðuðum ársreikningi 2007 er eigið fé Imons ehf. neikvætt um samtals 314,4 milljónir kr., þar af er hlutafé 10 milljónir kr. Afkoma félagsins árið 2007 var tap að fjárhæð 319,8 milljónir kr. Í endurskoðuðum ársreikningi fyrir árið 2007 kemur fram svohljóðandi fyrirvari hjá endurskoðanda félagsins:

"Tap félagsins samkvæmt rekstrarreikningi nam 319,8 millj. kr. á árinu. Skuldir eru 4,1 ma.kr. umfram peningalegar eignir og bókfært eigið fé samkvæmt efnahagsreikningi í árslok var neikvætt um 314,4 millj. kr. Framsetning ársreikningsins er miðuð við áframhaldandi rekstur, en forsendur þess eru að félaginu takist að standa við skuldbindingar sínar í framtíðinni og semja við lánardrottna sína."

IceProperties ehf.

IceProperties ehf. er stofnað í febrúar 2004 og þá undir nafni 3X Holding ehf. Á árinu 2007 var nafni félagsins breytt úr 3X Holding ehf. í IceProperties ehf. Samkvæmt samþykktum IceProperties ehf. er megintilgangur félagsins alhliðafjárfestingar, kaup, sala og rekstur fasteigna og skyldur rekstur. Eignasafn félagsins var fyrst og fremst í formi fasteigna. Í umfjöllun um áhættuskuldbindingar einstakra aðila í kafla 8.0 er IceProperties ehf. hluti af samstæðunni Sund ehf.

Eigandi IceProperties ehf. er Sund ehf. og á það 100% í félaginu. Eigendur Sunds ehf. eru þau Jón Kristjánsson, Gabríela Kristjánsdóttir og Gunnþórunn Jónsdóttir. Hvert þeirra um sig á 33,33% í Sundi ehf. Stjórn IceProperties ehf. skipa Jón Kristjánsson framkvæmdastjóri og Gunnþórunn Jónsdóttir varamaður.

Á tímabilinu 1. janúar 2007 til falls bankanna áttu sér stað eftirfarandi viðskipti með hlutabréf og lántökur vegna hlutabréfakaupa í bönkunum í milljónum króna:

IceProperties ehf. átti engin hlutabréf í bönkunum þann 1. janúar 2007. Keypt hlutabréf í febrúar 2008 nema 4,5 milljörðum kr. en engin hlutabréf eru seld.Við fall bankanna voru því hlutabréfin, sem öll voru í Glitni, enn í eigu IceProperties ehf. Seljandi bréfanna var Glitnir banki, eigin viðskipti.

IceProperties ehf. hafði hug á að kaupa hlutabréf í Glitni fyrir 5 milljarða kr. og óskaði eftir að bankinn fjármagnaði kaupin 100%. Lánsbeiðni félagsins var samþykkt á fundi áhættunefndar Glitnis í febrúar 2008. Gert var ráð fyrir að lánið yrði til allt að þriggja ára með árlegri endurskoðun á vaxtakjörum og fjárhagsstöðu félagsins.

Svo virðist sem ekki hafi verið gengið endanlega frá því á fundi áhættunefndarinnar hvernig tryggingum á láninu yrði háttað. Hins vegar kemur fram að annaðhvort verði um að ræða veðsetningu á VS-reikningi þar sem bréfin verði vistuð eða sett verði veðsetningarbann á eignir félagsins, ásamt banni við frekari skuldsetningu. Eignasafn IceProperties ehf. var eins og áður er getið fyrst og fremst í formi fasteigna og má þar m.a. nefna 6. og 7. hæð í Kringlunni 4-6, Austurstræti 20 (Hressingarskálinn) og fleiri eignir. Þá kemur fram að fasteignirnar séu lítið veðsettar og talið að eigið fé inni í félaginu sé um 1,5 milljarðar kr. Engin veð voru hins vegar tekin í fasteignum félagsins.

Eigandi IceProperties ehf., Sund ehf., var einn af stærri eigendum Glitnis en Sund ehf. átti 2,04% í bankanum og var um leið ellefti stærsti hluthafinn þegar lánveitingin og hlutabréfakaupin fóru fram.

Samkvæmt endurskoðuðum ársreikningi 2007 er eigið fé neikvætt um 800 þúsund kr. Hlutafé er 500 þúsund kr. Hagnaður af rekstri félagsins árið 2007 nam samtals 44 milljónum kr.

Soffanías Cecilsson hf.

Soffanías Cecilsson hf. er stofnað í desember 1992.Tilgangur félagsins samkvæmt samþykktum þess er almenn atvinnustarfsemi svo sem fiskverkun, útgerð, kaup og sala hlutabréfa sem og annarra verðbréfa, heildsala, smásala, umboðssala, framleiðsla, rekstur fasteigna, lánastarfsemi svo og nauðsynleg umsvif þessu tengd. Einnig að reisa og reka almennar kaupleiguíbúðir.

Soffanías Cecilsson hf. hefur starfað við útgerð og fiskverkun í Grundarfirði um árabil. Stofnandi þess og aðaleigandi var Soffanías Cecilsson. Núverandi eigendur eru afkomendur Soffaníasar, þau Magnús Soffaníasson, Sóley Soffaníasdóttir og Kristín Soffaníasdóttir. Aðrir eiga minni hlut.

Í stjórn félagsins eru: Rúnar Sigtryggur Magnason, formaður, Sigríður Finsen og Sigurður Sigurbergsson. Framkvæmdastjóri er Sigurður Sigurbergsson.

Á tímabilinu 1. janúar 2007 til falls bankanna áttu sér stað eftirfarandi viðskipti með hlutabréf og lántökur vegna hlutabréfakaupa í bönkunum:

Hlutabréfaeign Soffaníasar Cecilssonar hf. 1. janúar 2007 er 116,6 milljónir kr. Keypt hlutabréf á tímabilinu nema 2,6 milljörðum kr. Engin hlutabréf eru seld á tímabilinu sem hér er til umfjöllunar.Við fall bankanna tapaðist því allt það hlutafé sem félagið hafði keypt í Landsbankanum.

Soffanías Cecilsson hf. sótti um og fékk samþykkt nokkur lán í Landsbanka Íslands hf. og er megintilgangur með lántökunum sá að kaupa hlutabréf í Landsbankanum ásamt peningabréfum útgefnum af sama banka. Í mars 2007 (afgreitt milli funda) fær félagið 3 milljarða kr. lán sem verja á til kaupa á peningabréfum og hlutabréfum í Landsbankanum. Lánið var kúlulán til þriggja ára og í erlendri mynt. Í ágúst 2007 (afgreitt milli funda) fær félagið 1,5 milljarða kr. kúlulán og er lánið til þriggja ára. Í apríl 2008 er afleiðurammi félagsins vegna skuldastýringar hækkaður um 400 milljónir kr. og verður 800 milljónir kr. Ástæða hækkunarinnar var veiking ISK og tap á samningum sem félagið hafði gert m.a. vegna hlutabréfakaupa. Samtals nema lánveitingar Landsbankans vegna verðbréfakaupa 4,9 milljörðum kr. Ofangreindar ákvarðanir voru allar teknar af lánanefnd Landsbanka Íslands hf.

Til tryggingar 3 milljarða kr. láninu eru handveð í Peningabréfum og hlutabréfum í Landsbanka Íslands hf. Jafnframt er kveðið á um að ef virði hlutabréfa fari undir 80% af lánsfjárhæð beri félaginu að veita bankanum frekari tryggingar "(þá væntanlega í kvóta)" auk tryggingabréfa í skipum félagsins.Til tryggingar láninu að fjárhæð 1,5 milljarðar kr. er handveð í Peningabréfum og hlutabréfum Landsbankans. Jafnframt er kveðið á um að ef virði hlutabréfa fari undir 80% af lánsfjárhæð beri félaginu að veita bankanum frekari tryggingar "(þá væntanlega í kvóta)".Tryggingar á afleiðuramma félagsins voru þáverandi tryggingar í verðbréfum og skipum.

Reikningsár félagsins miðast við fiskveiðiárið. Ársreikningur fyrir tímabilið 1. sept. 2007 - 31. ágúst 2008 hefur ekki enn borist Ársreikningaskrá. Samkvæmt ársreikningi 1. sept. 2006 - 31. ágúst 2007 nam eigið fé félagsins samtals 1,5 milljörðum kr., þar af er hlutafé 50 milljónir kr. Samkvæmt endurskoðuðum ársreikningi var hagnaður framangreint tímabil 1 milljarður kr.

Fjárfestingarfélagið Mata ehf. (áður Nýrækt)

Einkahlutafélagið Nýrækt ehf. er stofnað í desember 1996. Á hluthafafundi í Nýrækt ehf. 28. mars 2008 er nafni félagsins breytt í Fjárfestingarfélagið Mata ehf. Á hluthafafundi 1. október 2008 er nafni félagsins enn breytt og nú í Nýrækt ehf. Í umfjöllun nefndarinnar er notað nafnið Fjárfestingarfélagið Mata ehf. þar sem félagið hét því nafni þegar lánamál félagsins voru til umfjöllunar í Kaupþingi. Fjárfestingarfélagið Mata ehf. er dótturfélag Eignarhaldsfélagsins Mata hf. og Sundagarða hf. Hvort félag á 50% eignarhlut í Fjárfestingarfélaginu Mata ehf.Tilgangur félagsins er fjárfesting í verðbréfum og verslunarrekstur.

Eigendur Fjárfestingarfélagsins Mata ehf. í gegnum Eignarhaldsfélagið Mata hf. og Sundagarða hf. eru Gísli V. Einarsson og fjölskylda með 84,5% eignarhlut. Óþekktir hluthafar eiga 15,5% í félaginu. Í stjórn Fjárfestingarfélagsins Mata ehf. eru Eggert Árni Gíslason og Gunnar Þór Gíslason. Enginn framkvæmdastjóri er skráður fyrir félaginu.

Á tímabilinu 1. janúar 2007 til falls bankanna áttu sér stað eftirfarandi viðskipti með hlutabréf og lántökur vegna hlutabréfakaupa í bönkunum:

Hlutabréfaeign Fjárfestingarfélagsins Mata ehf. (áður Nýræktar ehf.) 1. janúar 2007 er 300 þúsund kr. Í mars 2008 fær félagið lánsheimild hjá Kaupþingi að fjárhæð 3,8 milljarðar kr. 25. mars 2008 kaupir félagið hlutabréf í Kaupþingi fyrir 3,6 milljarða kr. af Kaupþingi banka, eigin viðskiptum.Við fall bankanna átti Fjárfestingarfélagið Mata ehf. hlutabréf í Kaupþingi að nafnvirði 5 milljónir kr.

Hinn 5. júní 2008 sækir Fjárfestingarfélagið Mata ehf. um lán að fjárhæð 3,8 milljarðar kr. til eins árs hjá Kaupþingi. Lánanefnd bankans samþykkir erindið. Andvirði lánsins á að fara til að gera upp tvö bráðabirgðalán í bankanum sem tekin höfðu verið vegna kaupa Fjárfestingarfélagsins Mata ehf. á hlutum í Kaupþingi.

Til tryggingar láninu eru hin keyptu hlutabréf í Kaupþingi og/eða veðsetningarbann á eignir félagsins.

Samkvæmt ársreikningi 2007 er eigið fé neikvætt að fjárhæð 37,6 milljónir kr., þar af er hlutafé 1 milljón kr. Afkoma félagsins árið 2007 var tap að fjárhæð 27,3 milljónir kr. Ársreikningurinn er ekki endurskoðaður en endurskoðandi aðstoðaði við gerð hans.

Hrómundur ehf.

Einkahlutafélagið Hrómundur ehf. er stofnað árið 1990. Samkvæmt samþykktum félagsins er megintilgangur þess fjárfestingarstarfsemi, bygging og rekstur fasteigna, verslun, lánastarfsemi og annar skyldur rekstur. Meðal helstu eigna Hrómundar ehf. má nefna 32,9% eignarhluta í Fjárfestingarfélaginu Mætti ehf., 17,1% í Skeggja ehf. Þá á Hrómundur ehf. 11,6% hlut í félaginu Þætti International ehf. í gegnum Fjárfestingarfélagið Mátt ehf. og Skeggja ehf. (skv. upplýsingum úr Fyrirtækjaskrá).

Eigendur Hrómundar ehf. eru Einar Sveinsson og fjölskylda. Í stjórn félagsins eru hjónin Einar Sveinsson og Birna Hrólfsdóttir, varamaður.

Á tímabilinu 1. janúar 2007 til falls bankanna áttu sér stað eftirfarandi viðskipti með hlutabréf og lántökur vegna hlutabréfakaupa í bönkunum:

Hlutabréfaeign Hrómundar þann 1. janúar 2007 er 6,4 milljarðar kr. Hrómundur fær lánsheimildir til hlutabréfakaupa að fjárhæð 3 milljarðar kr. Keypt hlutabréf á tímabilinu nema 1 milljarði kr. og seld hlutabréf eru að andvirði 8 milljarðar kr. Seld hlutabréf umfram keypt nema þannig samtals 7 milljörðum kr. Við fall bankanna var Hrómundur ehf. búið að selja öll hlutabréf sín bæði í Kaupþingi og Glitni.

Á fundi áhættunefndar Glitnis 26. febrúar 2007 óskar Hrómundur ehf. eftir láni að fjárhæð 1 milljarður kr. Andvirði lánsins á að fara til kaupa á verðbréfum í skráðum hlutafélögum og BNT hf. Erindið var samþykkt á sama fundi. Lánið er eingreiðslulán til þriggja ára með vaxtagreiðslum á 6 mánaða fresti.

Á fundi lánanefndar Kaupþings 27. september 2007 er samþykkt að veita Hrómundi ehf. lán að fjárhæð 2 milljarðar kr. til að kaupa hlutabréf í Kaupþingi. Lánið er eingreiðslulán til þriggja ára.

Tryggingar vegna Glitnislánsins eru handveð í vörslusafni félagsins. Lánaþekja, veðkall og ábyrgð á veðkalli verði á sama grunni og fyrri lánveitingar til Hrómundar ehf.Tryggingar vegna Kaupþingslánsins eru hlutabréf Hrómundar ehf. í Kaupþingi, Exista og PMSJ (peningamarkaðssjóði Kaupþings, e. Kaupþing Bond Investment Fund).

Einar Sveinsson sat um árabil í stjórn Glitnis og var formaður stjórnar félagsins í nokkur ár eða allt til 30. apríl 2007.

Samkvæmt ársreikningi 2007 nemur eigið fé samtals 3,9 milljörðum kr., þar af er hlutafé 2,7 milljónir kr. Afkoma félagsins árið 2007 var hagnaður að fjárhæð 748,5 milljónir kr. Ársreikningurinn er ekki endurskoðaður en endurskoðandi aðstoðaði við gerð hans.

Eignarhaldsfélagið Oddaflug ehf.

Eignarhaldsfélagið Oddaflug ehf. er stofnað í janúar 2004. Samkvæmt samþykktum félagsins er tilgangur þess kaup, sala og eignarhald verðbréfa; eign, leiga og rekstur fasteigna; lánastarfsemi, önnur fjármálastarfsemi og skyldur rekstur. Í árslok 2007 á félagið eitt dótturfélag en það er Oddaflug BV og er það 100% í eigu Eignarhaldsfélagsins Oddaflugs ehf. Eignarhluturinn er bókfærður á 18,6 milljarða kr. í ársreikningi Eignarhaldsfélagsins Oddaflugs ehf. í árslok 2007. Engar aðrar upplýsingar er að finna um Oddaflug BV þar sem félagið er ekki skráð á Íslandi.

Aðaleigandi Eignarhaldsfélagsins Oddaflugs ehf. er Hannes Smárason í gegnum Fjárfestingarfélagið Primus ehf., 86,1%, og Eignarhaldsfélagið Sveipur ehf. 13,9%. Í stjórn félagsins eru Hannes Smárason, formaður, skráður í Bretlandi, og Smári Sigurðsson, varamaður.

Á tímabilinu 1. janúar 2007 til falls bankanna áttu sér stað eftirfarandi viðskipti með hlutabréf og lántökur þeim tengdar vegna hlutabréfakaupa í bönkunum:

Hlutabréfaeign Eignarhaldsfélagsins Oddaflugs ehf. í bönkunum þann 1. janúar 2007 var engin. Á tímabilinu fær félagið lánsheimild hjá Landsbankanum að fjárhæð 2 milljarðar kr. til kaupa á hlutabréfum í bankanum sjálfum. Keypt hlutabréf á tímabilinu nema 3 milljörðum kr. og seld hlutabréf eru að andvirði 1,7 milljarðar kr. Keypt hlutabréf umfram seld nema þannig 1,3 milljörðum kr.Við fall bankanna var Eignarhaldsfélagið Oddaflug ehf. búið að selja sem nemur tveimur þriðju hlutum af hlutabréfum sínum í Landsbanka Íslands, að nafnvirði. Í apríl 2008 kaupir Landsbanki Íslands, eigin viðskipti, hlutabréf af félaginu fyrir um 1,2 milljarða kr.

Eignarhaldsfélagið Oddaflug ehf. sækir í apríl 2007 um 2 milljarða kr. reikningslánalínu til Landsbanka Íslands hf. til eins árs. Yfirlýstur tilgangur með lántökunni er að kaupa hlutabréf í Landsbankanum. Lánveitingin er samþykkt á fundi lánanefndar bankans í apríl 2007 og eru hlutabréfin keypt í kjölfarið.

Til tryggingar láninu eru hlutabréf í FL Group auk keyptra hlutabréfa í Landsbankanum. Heildarveðhlutfall verður allt að 48,5%.

Samkvæmt ársreikningi 2007 nemur eigið fé samtals 11 milljörðum kr., þar af er hlutafé 6,7 milljarðar kr. Í endurskoðuðum ársreikningi kemur fram að tap á rekstri félagsins árið 2007 var að fjárhæð 18,8 milljarðar kr. Í framangreindum ársreikningi kemur fram svohljóðandi fyrirvari frá endurskoðanda félagsins:

"Tap félagsins samkvæmt rekstrarreikningi nam 18,8 ma.kr. á árinu. Skuldir eru 1,8 ma.kr. umfram peningalegar eignir og bókfært eigið fé samkvæmt efnahagsreikningi í árslok var 11 ma.kr. Framsetning ársreikningsins er miðuð við áframhaldandi rekstur, en forsendur þess eru að félaginu takist að standa við skuldbindingar sínar í framtíðinni."

AB 76 ehf.

AB 76 ehf. er stofnað í mars 2007. Samkvæmt samþykktum félagsins er tilgangur þess fjárfesting í hlutabréfum og öðrum verðbréfum svo og kaup og rekstur fasteigna og annar skyldur rekstur.

Aðaleigendur AB 76 ehf. eru Jón Halldórsson og fjölskylda. Í skýrslu stjórnar AB 76 ehf. með ársreikningi fyrir árið 2007 kemur fram að hluthafar í félaginu séu samtals 16 og að enginn þeirra eigi 10% eða meira í félaginu. Þrátt fyrir eftirgrennslan fengust ekki upplýsingar um hverjir aðrir hluthafar í félaginu væru.

Í stjórn félagsins eru Halldór H. Jónsson og Jón Gunnar Jónsson. Halldór er jafnframt framkvæmdastjóri félagsins.

Á tímabilinu 1. janúar 2007 til falls bankanna áttu sér stað eftirfarandi viðskipti með hlutabréf og lántökur vegna hlutabréfakaupa í bönkunum:

Hlutabréfaeign AB 76 ehf. í bönkunum 1. janúar 2007 var engin. Á tímabilinu fær AB 76 ehf. lánsheimild hjá Kaupþingi að fjárhæð 1,5 milljarðar kr. Keypt hlutabréf á tímabilinu nema 2,8 milljörðum kr. og seld hlutabréf eru að andvirði 2,4 milljarðar kr. Keypt hlutabréf umfram seld nema þannig 0,4 milljörðum kr.Við fall bankanna var AB 76 ehf. búið að selja öll hlutabréf sín í Kaupþingi að undanskildum 100.000 hlutum að nafnvirði. Einnig hafði félagið selt öll hlutabréf sín í Landsbankanum er bankarnir féllu.

Á fundi lánanefndar Kaupþings sem haldinn var í apríl 2007 er samþykkt að lána 1 milljarð kr. til "hins nýstofnaða félags AB 76 ehf.". Lánið á að nota til kaupa á hlutabréfum, að langmestu leyti í Kaupþingi. Lánanefndin samþykkti að lánið yrði til þriggja ára.

Á fundi lánanefndar Kaupþings sem haldinn var í maí 2007 var kynnt ný beiðni frá AB 76 ehf. um að bankinn hækkaði útlánamörk félagsins um 0,5 milljarða kr. og að þau yrðu sett í 1,5 milljarða kr. Lánanefndin samþykkti erindið og að lánakjör á viðbótarláninu yrðu þau sömu og á fyrra láninu.

Tryggingar voru veð í bréfunum sjálfum. Upphafsþekja var á bilinu 150%-180%.Veðkall við 130%.

Samkvæmt ársreikningi 2007 nemur eigið fé samtals 554,1 milljón kr. Hlutafé er 1,1 milljarður kr. Afkoma félagsins árið 2007 var tap að fjárhæð 545,9 milljónir kr. Ársreikningurinn er ekki endurskoðaður en endurskoðandi aðstoðaði við gerð hans.

KÞG Holding ehf.

KÞG Holding ehf. er stofnað í júní 2004. Megintilgangur félagsins er eignarhald á hlutabréfum, lánastarfsemi og annar skyldur rekstur. KÞG Holding ehf. á 15,5% hlut í Eignarhaldsfélaginu Sævarhöfða ehf. en það félag á m.a. Ingvar Helgason, Bifreiðar og landbúnaðarvélar og hlut í ALP bílaleigu.

Eigandi KÞG Holding ehf. er Kristinn Þór Geirsson og með honum í stjórn er Thelma Víglundsdóttir, bæði búsett á sama stað.

Framkvæmdastjóri er Kristinn Þór Geirsson.

Á tímabilinu 1. janúar 2007 til falls bankanna áttu sér stað eftirfarandi viðskipti með hlutabréf og lántökur vegna hlutabréfakaupa í Glitni:

KÞG Holding ehf. átti engin hlutabréf í bönkunum í janúar 2007. Í apríl 2008 fær félagið lánsheimild hjá Glitni að fjárhæð 1,15 milljarðar kr. Keypt eru hlutabréf sem nema 1 milljarði kr. í sama mánuði. Hlutabréfin eru keypt af Glitni banka, eigin viðskiptum.

KÞG Holding ehf. sækir í apríl 2008 um lán hjá Glitni að fjárhæð 1,15 milljarðar kr. Megintilgangur með lántökunni er tvíþættur. Annars vegar að kaupa hlutabréf í Glitni fyrir 1 milljarð kr. og hins vegar að greiða arð til eiganda KÞG Holding ehf. að fjárhæð 150 milljónir kr. Félagið hafði hins vegar verið rekið með 51 milljónar kr. tapi árið 2007. Lánveitingin er samþykkt samdægurs af Lárusi Welding bankastjóra og (hin undirskriftin er ólæsileg). Samþykktin fór fram milli funda lánanefndar Glitnis. Ákvörðun um lánveitinguna virðist síðan ekki koma til formlegrar staðfestingar í lánanefnd bankans samkvæmt fundargerðum nefndarinnar.

Fyrir er Glitnir með veð í öllum hlutabréfum KÞG Holding ehf. í Eignarhaldsfélaginu Sævarhöfða ehf.Til viðbótar þessum tryggingum setur lántaki vörslureikning sinn í Glitni að handveði. Samhliða lánveitingunni samþykkir Glitnir að fella niður sjálfskuldarábyrgðir Kristins Þórs og Sunds ehf. á skuldbindingum KÞG Holding ehf. við bankann.

Á aðalfundi Glitnis banka hf. 20. febrúar 2008 er Kristinn Þór Geirsson kosinn í stjórn Glitnis og er frá þeim tíma orðinn fruminnherji í bankanum. Einkahlutafélag Kristins Þórs, KÞG Holding ehf., er um leið orðið aðili fjárhagslega tengdur fruminnherja. Hinn 14. apríl 2008 er tilkynnt að Kristinn fari úr stjórn bankans enda var þá búið að ráða hann framkvæmdastjóra fjármála- og rekstrarsviðs Glitnis og var hann í því starfi fram að falli bankans. Í stað Kristins í stjórn bankans kemur Haukur Guðjónsson. Þeir Kristinn og Haukur voru viðskiptafélagar í Ingvari Helgasyni hf., Bifreiðum og landbúnaðarvélum hf., Eignarhaldsfélaginu Sævarhöfða ehf. og fleiri félögum.

Samkvæmt ársreikningi 2007 nam eigið fé samtals 211,4 milljónum kr., þar af er hlutafé 500 þúsund kr. Afkoma félagsins árið 2007 var tap að fjárhæð 51 milljón kr. Ársreikningurinn er ekki endurskoðaður en endurskoðandi aðstoðaði við gerð hans.

HG Holding ehf.

HG Holding ehf. er stofnað árið 2004. Samkvæmt samþykktum félagsins er megintilgangur þess eignarhald á hlutabréfum, lánastarfsemi og annar skyldur rekstur. HG Holding ehf. á 15,5% hlut í Eignarhaldsfélaginu Sævarhöfða ehf. en það félag á m.a. Ingvar Helgason, Bifreiðar og landbúnaðarvélar og hlut í ALP bílaleigu. Einnig á HG Holding ehf. 16,0% í Fasteignafélaginu Sævarhöfða ehf. en það félag á m.a. fasteignirnar Sævarhöfða 2, Sævarhöfða 2A og Íshellu 7.

Eigandi HG Holding ehf. er Haukur Guðjónsson. Í stjórn félagsins eru þau Haukur Guðjónsson og Guðbjörg Guðmundsdóttir, bæði búsett á sama stað. Framkvæmdastjóri er Haukur Guðjónsson.

Á tímabilinu 1. janúar 2007 til falls bankanna áttu sér stað eftirfarandi viðskipti með hlutabréf og lántökur vegna hlutabréfakaupa:

HG Holding ehf. átti engin hlutabréf í bönkunum í janúar 2007. Í apríl 2008 fær félagið lánsheimild hjá Glitni að fjárhæð 480 milljónir kr. Kaupir félagið hlutabréf í Glitni fyrir sem nemur 328 milljónum kr. Seljandi bréfanna er Glitnir banki, eigin viðskipti.

HG Holding ehf. sækir í apríl 2008 um lán hjá Glitni að fjárhæð 480 milljónir kr. Megintilgangur með lántökunni er tvíþættur. Annars vegar að kaupa hlutabréf í Glitni fyrir 330 milljónir kr. og hins vegar að greiða arð til eiganda HG Holding ehf. að fjárhæð 150 milljónir kr. Félagið hafði hins vegar verið rekið með 50,8 milljóna kr. tapi árið 2007. Lánveitingin er samþykkt samdægurs af Lárusi Welding bankastjóra og (hin undirskriftin er ólæsileg). Samþykktin fór fram milli funda lánanefndar Glitnis. Ákvörðun um lánveitinguna virðist síðan ekki koma til formlegrar staðfestingar í lánanefnd bankans samkvæmt fundargerðum nefndarinnar.

Fyrir er Glitnir með veð í öllum bréfum HG Holding ehf. í Eignarhaldsfélaginu Sævarhöfða ehf.Til viðbótar þessum tryggingum setur lántaki vörslureikning sinn í Glitni að handveði. Samhliða lánveitingunni samþykkir Glitnir að fella niður sjálfskuldarábyrgðir Hauks Guðjónssonar og Sunds ehf. á skuldbindingum HG Holding ehf. við bankann.

Á aðalfundi Glitnis banka hf. 20. febrúar 2008 er Haukur Guðjónsson kjörinn sem varamaður í stjórn Glitnis. Þann 14. apríl 2008 kemur Haukur Guðjónsson inn í aðalstjórn Glitnis þegar Kristinn Þór Geirsson (KÞG Holding ehf.) fer úr stjórn Glitnis, þar sem hann var að taka við starfi sem framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrarsviðs Glitnis. Þeir Haukur og Kristinn voru viðskiptafélagar í Ingvari Helgasyni, Bifreiðum og landbúnaðarvélum, Eignarhaldsfélaginu Sævarhöfða ehf. og fleiri félögum. Frá 14. apríl 2008 er Haukur Guðjónsson skráður sem fruminnherji í Glitni og HG Holding ehf. skráð sem fjárhagslega tengdur aðili.

Samkvæmt ársreikningi 2007 nam eigið fé HG Holding ehf. samtals 210,7 milljónum kr., þar af nam hlutafé 500 þúsund kr. Afkoma félagsins árið 2007 var tap að fjárhæð 50,8 milljónir kr. Ársreikningurinn er ekki endurskoðaður en endurskoðandi aðstoðaði við gerð hans.

Project Tornado

Á fundi lánanefndar stjórnar Kaupþings 5. apríl 2007 er lánanefndinni kynnt verkefni sem unnið hefur verið að innan bankans og hlotið vinnuheitið "Project Tornado".Verkefnið gekk út á að hópur fjárfesta væri tilbúinn til að kaupa umtalsverðan hlut í Glitni eða um 19,4% af öllu hlutafé bankans og væri kaupverðið um 80 milljarðar kr.Væntanlegir fjárfestar væru: Saxbygg ehf. (5,0%), Sund ehf. (4,0), Jötunn Holding ehf. (2,5%), Elliðahamar ehf. (1,0%), Glitnir banki hf. (4,2%) og Kaupþing (2,7%).

Glitnir og Kaupþing voru síðan ekki í hinum endanlega kaupendahópi, þannig að aðeins fjögur fyrsttöldu félögin tóku þátt í kaupunum, sbr. yfirlit hér síðar. Helstu eigendur og stjórnendur félaganna fjögurra, sem tóku þátt í hlutafjárkaupunum, voru:

Saxbygg ehf.

Eigendur eru Bygg Invest ehf. og Saxhóll ehf. Í stjórn félagsins eru Jón Þorsteinn Jónsson, Einar Örn Jónsson, Gunnar Þorláksson og Gylfi Ómar Héðinsson.

Sund ehf.

Eigendur eru Jón Kristjánsson, Gabríela Kristjánsdóttir og Gunnþórunn Jónsdóttir. Hvert þeirra um sig á 33,33% í félaginu. Stjórn félagsins skipa Jón Kristjánsson, Gunnþórunn Jónsdóttir og Páll Þór Magnússon.

Jötunn Holding ehf.

Eigendur eru Baugur Group hf. 47%, Fons hf. 18% og WCC (Iceland) ehf. 35%.Í stjórn félagsins eru Stefán Hilmar Hilmarsson,fjármálastjóri Baugs, og Pálmi Haraldsson, aðaleigandi Fons hf.

Elliðahamar ehf.

Eigandi er Gunnar Sturluson. Í stjórn félagsins voru hjónin Gunnar Sturluson og Guðrún Margrét Baldursdóttir.

Kaupverð, lánskjör, þóknanir og annað fyrirkomulag sem tengdist kaupunum var það sama hjá öllum félögunum.

Samtals kaupa félögin fjögur 12,5% af öllu hlutafé í Glitni. Heildarkaupverð er 53 milljarðar kr., þ.a. er söluþóknun og umsýslugjald til Kaupþings 890,4 milljónir kr. Kaupþing lánar félögunum 80% af kaupverðinu eða 42 milljarða kr. Lánstími er tvö ár. Framlag kaupenda átti að vera 20% af kaupverðinu eða 10,5 milljarðar kr.

Lánin voru eingöngu tryggð með veði í hlutabréfunum sjálfum.Veðkall er við 112,5%. Komi til veðkalls hefur Kaupþing heimild til að fara fram á aukið framlag kaupenda sem nemur 10% af heildarkaupverðinu hjá hverju fyrirtæki um sig.

Lánanefnd stjórnar Kaupþings samþykkti á sama fundi hinn 5. apríl 2007 að fjármagna hlutafjárkaupin eins og að ofan greinir. Ekki hefur fengist skýring á því hvers vegna bæði Kaupþing og Glitnir hættu við hin áformuðu hlutafjárkaup sín í Glitni. Eins og fram kemur hér framar var reiknað með að þau næmu samtals 6,9% af hlutafé Glitnis eða 29 milljörðum kr.