8. kafli Útlán íslensku bankanna
Efnisyfirlit
- 8.1 Inngangur
- 8.2 Gögn og nálgun við útlánagreiningu
- 8.3 Bankar og útlán þeirra
- 8.4 Vöxtur íslenska bankakerfisins
- 8.5 Þróun útlánasafns bankanna
- 8.6 Reglur um stórar áhættur
- 8.7 Útlán til fyrirtækjahópa
- 8.8 Víkjandi áhætta íslenskra banka samanborið við erlenda banka
- 8.9 Afleiðusamningar um verðbréf
- 8.10 Lánabækur dótturfélaga íslensku bankanna í Lúxemborg
- 8.11 Lánafyrirgreiðslur til alþingis- og fjölmiðlamanna
- 8.12 Lánveitingar og fyrirgreiðsla lánastofnana til nokkurra stærstu viðskiptavina þeirra
- Fylgiskjal 1
- Fylgiskjal 2
- Fylgiskjal 3
8.1 Inngangur
Í þessum kafla er leitast við að gefa mynd af útlánum íslensku bankanna á árunum fyrir fall þeirra. Þar hefur rannsóknarnefndin fyrst og fremst lagt áherslu á að taka til athugunar útlán stóru bankanna þriggja, Glitnis banka hf., Landsbanka Íslands hf. og Kaupþings banka hf. Kemur þar einkum til að fall þessara þriggja banka varð Alþingi tilefni til að ákveða þá rannsókn sem nefndinni var falið að sinna á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.Vegna stærðar sinnar og umfangs í starfsemi þeirra voru þeir einnig kerfislega mikilvægir fyrir fjármálakerfi landsins. Minni áhersla hefur því verið lögð á greiningu útlána annarra fjármálafyrirtækja.
Bankar með jafnviðamikla starfsemi og þeir íslensku eru með margbreytileg útlán. Ekki lá í augum uppi hvaða aðferðafræði bæri helst að beita við mat á útlánum bankanna. Valið var að nálgast viðfangsefnið á mismunandi hátt. Í kaflanum er leitast við að gefa heildarmynd af útlánum bankanna jafnframt því sem sagan er sögð út frá öðrum forsendum í undirköflum. Við athugun útlána er mögulegt að líta á einstakar stöðumyndir í upphafi og enda tiltekins tímabils einar og sér og rannsaka breytingar á stöðunni og ástæður þeirra. Einnig er mögulegt að nýta gögn á þann hátt að litið sé til tíðari upplýsinga um stöðubreytingar innan viðkomandi tímabils og lýsa þannig almennri þróun útlánanna.
Í kafla 8.2 er farið yfir mismunandi áherslur í útlánagreiningum mismunandi kafla og þeim gögnum sem þær byggjast á. Í kafla 8.3 er á fræðilegum grunni fjallað um helstu álitaefni um rekstur banka sem höfð voru í huga við greiningu útlána. Því næst er í kafla 8.4 farið yfir vöxt útlána í bankakerfinu og mögulegar afleiðingar þess vaxtar. Í kafla 8.5 er fjallað um heildarútlánasafn móðurfélaga íslensku bankanna, Glitnis banka hf., Landsbanka Íslands hf. og Kaupþings banka hf., síðustu árin fyrir fall þeirra í október 2008. Jafnframt er vikið að Straumi-Burðarási Fjárfestingabanka hf. þar sem við á. Í kafla 8.6 er fjallað um reglur um stórar áhættur, gerð grein fyrir innri reglum bankanna og farið yfir framkvæmd Fjármálaeftirlitsins á reglum um stórar áhættur. Kafli 8.7 lýsir þróun lána stóru bankanna þriggja og Straums-Burðaráss til tiltekinna fyrirtækjahópa sem þar eru sjálfstætt skilgreindir út frá sömu forsendum og áður. Í kafla 8.8 er lýst með dæmum hvernig umsvif íslenskra fjárfesta byggðu upp áhættu hjá íslensku bönkunum, sem í eðli sínu var svipuð víkjandi fjármögnun. Kafli 8.9 lýsir afleiðusamningum um verðbréf.
Greiningin í köflum 8.5, 8.7 og 8.9 einskorðast við móðurfélög bankanna. Í kafla 8.10 eru lánabækur dótturfélaga Landsbanka Íslands hf., Kaupþings banka hf. og Glitnis banka hf. í Lúxemborg athugaðar, þá sérstaklega með tilliti til tengsla við íslenska aðila. Þá er í kafla 8.11 fjallað um lánafyrirgreiðslu til alþingismanna og fjölmiðlamanna.
Í kafla 8.12 eru birtar niðurstöður úr sjálfstæðri úttekt sem unnin var á vegum rannsóknarnefndarinnar, undir stjórn löggiltra endurskoðenda sem störfuðu hjá nefndinni, um þróun lánveitinga og fyrirgreiðslu til nokkurra af stærstu viðskiptavinum fjármálafyrirtækjanna á tímabilinu frá 1. janúar 2007 til október 2008. Við úttektina var könnuð fyrirgreiðsla til alls 46 samstæðna en við afmörkun á hverri samstæðu var byggt á framkvæmd fjármálafyrirtækjanna á reglum um stórar áhættuskuldbindingar og hvað teldust tengdir aðilar í því sambandi. Það getur því verið munur á því hvaða félög teljast til samstæðna við þessa úttekt og þeirra fyrirtækjahópa sem miðað er við í kafla 8.7. Í kafla 8.12 er einnig litið til fleiri fjármálafyrirtækja en gert er framar í kafla 8.0 Úttektin í kafla 8.12 byggist á greiningu á útlánum (áhættuskuldbindingum) á samstæðugrundvelli hjá sex fjármálafyrirtækjum, þ.e. Landsbanka Íslands hf., Glitni banka hf., Kaupþingi banka hf. Straumi-Burðarási Fjárfestingabanka hf., Spron og Sparisjóðabankanum/Icebank hf.
Þessu til viðbótar komu erlendir sérfræðingar að greiningu rannsóknarnefndarinnar á útlánum bankanna. Greinargerð eins þeirra, Jørn Astrup Hansen, er sem fylgiskjal 1 með þessum kafla í íslenskri þýðingu en greinargerðin er birt á dönsku sem viðauki 7 í vefútgáfu skýrslunnar. Jørn Astrup Hansen hefur lengi starfað að bankamálum í Danmörku og Færeyjum. Að beiðni rannsóknarnefndar Alþingis dvaldi Jørn Astrup Hansen á Íslandi um tíma á árinu 2009 og vann með starfsfólki nefndarinnar að athugun á útlánum bankanna. Þá veitti hann rannsóknarnefndinni ráðgjöf. Í framhaldi af því tók hann saman áðurnefnda greinargerð. Í viðauka 3 með prentaðri útgáfu skýrslunnar er að finna greinargerð sem unnin er af Mark Flannery, prófessor við Florida-háskóla (University of Florida), og varðar meðal annars útlán íslensku bankanna. Mark Flannery var hér á landi um tíma á árinu 2009 á vegum rannsóknarnefndarinnar og kynnti sér starfsemi íslensku bankanna og skilaði nefndinni í framhaldi af því þeirri greinargerð sem birt er sem viðauki 3.
Í fylgiskjali 2 með kafla 8.0 eru birt yfirlit yfir 25 stærstu áhættuskuldbindingar hjá Landsbanka Íslands hf., Glitni banka hf., Kaupþingi banka hf., Straumi-Burðarási Fjárfestingarbanka hf., Spron og Sparisjóðabankanum/Icebank hf. eins og þær stóðu í október 2008. Skuldbindingar þessara stærstu skuldara eru jafnframt bornar saman við eigið fé fjármálafyrirtækjanna.
8.2 Gögn og nálgun við útlánagreiningu
Eins og nefnt var í inngangi var ákveðið að nálgast greiningu útlána bankanna á mismunandi hátt og er því byggt á mismunandi gögnum. Mismunandi er til hvaða stærða er horft auk þess sem tíðni og tímalengdir eru mismunandi eftir samhengi.
Í kafla 8.4 er leitast við að draga upp mynd af vexti Glitnis, Kaupþings og Landsbankans á árunum fyrir fall þeirra og sá vöxtur settur í samhengi við hvað rannsóknir hafa sýnt varðandi afleiðingar slíks vaxtar. Til þess að sýna þennan vöxt er stærð bankanna aftur til ársins 2000 skoðuð. Þessi kafli byggist annars vegar á uppgjörum bankanna sjálfra en einnig á gögnum frá Seðlabanka Íslands. Seðlabankinn birtir samtölur yfir útlán alls bankakerfisins í heild, með mismunandi hætti, svo sem eftir aðilum og tegund fjármálagjörninga en bankinn lagði rannsóknarnefnd Alþingis til þessar upplýsingar brotnar niður á hvern banka fyrir sig.
Kafli 8.5 fjallar um helstu eiginleika heildarútlánasafna stóru bankanna þriggja og þróun þeirra frá upphafi árs 2005. Áhersla er lögð á að varpa ljósi á mögulega veikleika í útlánasöfnum og hvaða áhrif þeir kunna að hafa haft á getu bankanna til að þola áföll. Greining þess kafla byggist á mánaðarlegum útlánagögnum frá móðurfélögum bankanna sem nánar er lýst hér að neðan en jafnframt er notast við fyrirtækjaskrá. Á sömu mánaðarlegu gögnum grundvallast greining kafla 8.7 en hún dregur fram þróun útlána til fyrirtækjahópa miðað við tiltekna skilgreiningu rannsóknarnefndarinnar á fyrirtækjahópum. Sú skilgreining grundvallast á eignarhaldi en aðalheimildir hvað það varðar eru hlutafjármiðar sem skilað er inn til skattstjóra. Þessi aðferðafræði við skilgreiningu fyrirtækjahópa er ítarlega skýrð í viðauka II um krosseignatengsl en jafnframt er hún skýrð í stuttu máli í upphafi kafla 8.7. Í kafla 8.9 voru einnig notuð mánaðarleg gögn frá móðurfélögum bankanna en sá kafli lýsir helstu afleiðum um verðbréf.Aðallega var um að ræða framvirka samninga en slíkir samningar fela í sér ákveðna útlánavirkni.
Í kafla 8.10 er fjallað um útlán dótturfélaga íslensku bankanna erlendis. Frá þessum dótturfélögum fengust ekki jafn heildstæð gögn og frá móðurfélögunum en þó voru rannsóknarnefnd Alþingis afhent yfirlitsgögn, á tilteknum tímapunktum, um lán allra dótturfélaga Kaupþings, lán Glitnis í Lúxemborg og Landsbankans í Lúxemborg. Fjallað er um útlán þessara félaga en að öðru leyti voru útlán annarra dótturfélaga að mestu leyti til erlendra aðila og því ekki fjallað um þau sérstaklega. Þó er komið að nokkru leyti inn á dótturfélögin í kafla 8.10 í rammagreinum um Kaupthing Singer & Friedlander og dótturfélag bankans á eynni Mön.
Í kafla 8.12 er fjallað um áhættuskuldbindingar sex fjármálafyrirtækja, þ.e. Glitnis, Kaupþings, Landsbankans, Straums-Burðaráss, Spron og Sparisjóðabankans/Icebank hf. Greiningin nær til 46 samstæðna sem voru á listum yfir stærstu áhættuskuldbindingar bankanna sex. Hér er notast við flokkun fjármálafyrirtækjanna sjálfra á stórum áhættum og hvaða aðilar töldust saman sem ein áhætta en í því felst grundvallarmunur milli þessa kafla og kafla 8.7. Flokkun fjármálafyrirtækjanna á því hvaða aðilar töldust til sömu félagasamstæðu var í mörgum tilvikum mismunandi. Dæmi voru um að eitt fjármálafyrirtæki tengdi tvö félög saman en ekki annað. Í kafla 8.12 var ákveðið að ganga út frá víðustu skilgreiningunni á einstökum samstæðum þannig að ef félög voru skilgreind sem tengd í a.m.k. einum banka var í greiningunni litið svo á að þau væru tengd. Kannað var hvernig skuldbindingar samstæðna breyttust frá 1. janúar 2007 fram að falli bankanna. Í þeim tilvikum sem breytingarnar voru verulegar eru fundargerðir lánanefnda og fylgigögn notuð til að skýra þær nánar. Skuldbindingarnar eru á samstæðugrunni sem er einnig frábrugðið greiningu kafla 8.7 þar sem aðeins útlán móðurfélaga koma fram. Skýringarnar ná hins vegar almennt til lánveitinga frá móðurfélagi eingöngu þar sem aðgangur rannsóknarnefndarinnar var takmarkaður að fundargerðum og fylgiskjölum frá erlendum dótturfélögum bankanna.
Eins og áður segir byggðist greining kafla 8.5, 8.7 og 8.9 á mánaðarlegum yfirlitum yfir útlán og aðrar fyrirgreiðslur Glitnis, Kaupþings, Landsbankans og Straums-Burðaráss til viðskiptavina sinna en slíkar upplýsingar voru aðeins tiltækar fyrir móðurfélög bankanna. Öflun þeirra gagna er hér skýrð stuttlega.
Rannsóknarnefnd Alþingis kallaði eftir mánaðarlegu yfirliti yfir öll útlán til viðskiptavina yfir 10 milljónum króna. Jafnframt var kallað eftir yfirlitum yfir öll útlán í lok hvers árs. Upphaflega var beðið um gögn frá janúar 2004 en vegna kerfisbundinna vandkvæða Kaupþings verður greining sem byggist á þessum gögnum afmörkuð við tímabilið frá byrjun árs 2005 fram að falli bankanna.
Í gagnabeiðni fór nefndin fram á að fá afhentar upplýsingar um lántakanda, þar með talda kennitölu, upphæð lánsins og mynt þess. Jafnframt var beðið um ítarupplýsingar um lánin, svo sem lánsform, útgáfudag, lánstíma, tíðni afborgana, vaxtakjör og vanskilaupplýsingar. Í stuttu máli kom í ljós að mjög misjafnt var hversu vel var haldið utan um þessar ítarupplýsingar á kerfisbundinn hátt. Gloppur mátti finna nokkuð víða, sérstaklega hvað varðar lánstíma og tíðni afborgana. Almennt skorti nokkuð á í þessum ítarupplýsingum að gögnin væru nógu heildstæð til að gefa fullnægjandi yfirlit.
Þá óskaði rannsóknarnefnd Alþingis eftir mánaðarlegum yfirlitum yfir alla opna framvirka samninga og valréttarsamninga um verðbréf sem bankarnir höfðu við viðskiptamenn sína. Líkt og með lánagögnin eru samningar skráðir á kennitölur.
Rannsóknarnefnd Alþingis hafði hug á að skoða þróun trygginga bankanna fyrir lánveitingum sínum síðustu árin. Því var kallað eftir mánaðarlegu yfirliti á tryggingatöflum Glitnis, Kaupþings og Landsbanka frá upphafi árs 2004. Aðeins einn bankanna, Glitnir, reyndist geta afhent heildstæða töflu yfir tryggingar fyrir lánum sem hann hafði veitt. Hinir bankarnir héldu ekki utan um upplýsingar um tryggingar aftur í tímann á þann hátt að auðvelt eða mögulegt væri að kalla fram heildstæð yfirlit. Sérstök áhersla var lögð á að fá upplýsingar um hlutabréf sem bankarnir höfðu tekið sem veð fyrir útlánum. Þessar upplýsingar fengust hjá bönkunum, hjá Glitni fólust þær í mánaðarlegu tryggingatöflunni, Kaupþing afhenti mánaðarleg yfirlit yfir veð í hlutabréfum og Landsbankinn ársfjórðungsleg.
Rétt er að taka fram að útlánagögn Seðlabankans byggjast á samanteknum tölum sem bankarnir sjálfir hafa lagt Seðlabankanum til mánaðarlega síðustu árin. Gögnin sem nefndin safnaði eru hins vegar grunngögn, byggð á upplýsingum aftur í tímann og tekin úr mismunandi kerfum bankanna. Samtölur um heildarútlán til viðskiptamanna í gögnum Seðlabankans og þær sem unnar voru upp úr grunngögnum nefndarinnar samræmdust ekki í öllum tilfellum. Að hluta til kann þetta misræmi að vera til komið vegna galla í gögnunum en einnig kann að vera að skilgreiningar aðila séu ekki alltaf nákvæmlega þær sömu, til dæmis á því hvaða aðilar teljast til fjármálafyrirtækja.
Eftir því sem leið frá aldamótum stækkaði erlendi hluti bankakerfisins í starfsemi og viðskipti í erlendri mynt jukust til muna. Lán bankanna til fyrirtækja, hvort sem er á Íslandi eða erlendis, voru við fall bankanna að langstærstum hluta í erlendri mynt. Einnig voru sveiflur í gengi krónunnar það miklar yfir það tímabil sem til skoðunar er að upphæðir lánanna í krónum gefa oft ekki raunsæja mynd af þróun kerfisins. Greiningin í kaflanum er því oft í erlendri mynt og upphæðir þá yfirleitt reiknaðar yfir í evrur. Myntval fer eftir samhengi en almennt verður leitast við að birta tölur og myndir í þeirri mynt sem gefur hvað sanngjarnasta og gleggsta mynd af stöðu mála hverju sinni.
8.3 Bankar og útlán þeirra
8.3.1 Inngangur
Í 8. kafla er fjallað um útlán íslensku bankanna, sérstaklega stóru bankanna þriggja, Glitnis, Kaupþings og Landsbanka, með áherslu á að skilja mögulega veikleika í útlánasafni þeirra. Í kafla 8.3 er fjallað lauslega um helstu þætti sem hafa ber í huga við slíka skoðun.
8.3.2 Hvatar sem bankar hafa til að taka áhættu
Bankar og fjármálastofnanir gegna því mikilvæga hlutverki í hagkerfinu að miðla fjármagni frá þeim sem eiga það til þeirra sem geta nýtt það í arðbærar fjárfestingar. Ef bankar og aðrir milliliðir væru ekki til staðar þyrfti sérhver sparifjáreigandi að ganga úr skugga um greiðslugetu þess sem hann lánar og fylgjast svo með að lánið yrði endurgreitt en slíkt yrði verulega kostnaðarsamt og hamlandi fyrir hagkerfið. Því má segja að bankar gegni því hlutverki að hafa eftirlit með lántakendum fyrir hönd sparifjáreigenda. Með banka sem milliliði standa fjármagnseigendur hins vegar frammi fyrir því vandamáli að þeir geta ekki fylgst með eignasafni bankans og geta því illa greint milli vel stæðra banka og miður stöndugra. Á óróatímum, þegar sumir bankar lenda í vandræðum, gæti það því gerst að fjármagnseigendur, sem ekki geta greint á milli veikra banka og sterkra, hlaupi til og taki fjármagn sitt út úr traustum bönkum. Slík bankaáhlaup gætu fellt banka sem að öðru jöfnu væru traustir. Þar sem bankar gegna mikilvægu hlutverki en eru jafnframt viðkvæmir fyrir áhlaupum eru flest ríki með einhvers konar öryggisnet fyrir banka. Slíkt öryggisnet getur falist í ýmsu, til dæmis geta ríki veitt eða stuðlað að innlánstryggingum, beinum eða óbeinum, til að koma í veg fyrir áhlaup eða þau geta veitt stuðning þegar bankar lenda í vandræðum. Um leið og slíkt öryggisnet er strengt myndast hvati fyrir hluthafa banka til þess að láta bankann taka mikla áhættu, þar sem hluthafarnir njóta alls hagnaðar ef vel gengur en bera aðeins hluta kostnaðarins ef illa fer. Raunar getur þessi hvati einnig verið til staðar án öryggisnets hins opinbera þar sem lánveitendur, innlánseigendur eða aðrir, munu bera hluta kostnaðarins ef illa fer.
8.3.3 Útlánaáhætta
Freistnivandinn sem lýst er hér á undan felst í því að þegar banki tekur mikla áhættu eru það hluthafar sem njóta ágóðans ef vel gengur en lánveitendur eða ríki sem bera tapið ef illa fer. Lánveitendur eða ríkið bera þó aðeins kostnað ef tap bankans er svo mikið að eigið fé hans nægi ekki til að standa undir tapinu. Mestar líkur eru á að það gerist þegar eigið fé bankans er hlutfallslega mjög lítið, samanborið við eignir, og/eða í þeim tilvikum þegar eignasafnið er mjög áhættusamt.
Til að meta áhættu eignasafns þarf að skoða einstakar eignir, hvers eðlis þær eru og hversu mikil tapsáhætta felst í þeim en jafnframt þarf að skoða samspil allra eigna í safninu. Fylgni í ávöxtun eignanna er þar lykilþáttur og sérstaklega fylgni í tapi af eignum. Í þessu felst að meta hvort tap vegna einnar eignar sé líklegt til að verða á sama tíma og tap vegna annarrar eignar. Ef virði einnar eignar er óháð virði annarrar felst í því áhættudreifing að hafa eignirnar í sama safni. Því eru sveiflur í sameinuðu eignasafni hlutfallslega minni en í tveimur aðskildum söfnum. Þetta á enn sterkar við ef eignirnar sveiflast hvor á móti annarri, þ.e. ef önnur eignin er líkleg til þess að skila hagnaði þegar hin veldur tapi og öfugt. Ef hins vegar eignirnar sveiflast í takt og eru líklegar til að valda tapi á sama tíma fæst ekki sams konar áhættudreifing. Áhættudreifing er lykilatriði í traustum bankarekstri enda hefur fall stórra banka í mjög mörgum tilvikum verið rakið til einhvers konar samþjöppunar á útlánaáhættu. Seðlabanki Bandaríkjanna flokkaði samþjöppun útlánaáhættu í þrjá grunnþætti í skýrslu árið 1993. Í fyrsta lagi þar sem um væri að ræða óvenjulega háa beina eða óbeina áhættu vegna skuldbindinga eins lántakanda eða hóps tengdra aðila. Í öðru lagi gæti samþjöppun áhættu falist í útlánaáhættu með veði í sama verðbréfi eða verðbréfum með mjög svipaða eiginleika. Í þriðja lagi teldist svo til samþjappaðrar áhættu þegar hópur lántakenda banka er svipaður á einhvern mikilvægan hátt, til dæmis ef lántakendurnir tilheyra sömu atvinnugrein eða ef ákveðinn áhættuþáttur er sameiginlegur milli þeirra.
Í raun er það eigið fé bankans, sem hlutfall af eignasafninu og áhættu þess, sem er lykilstærð. Hvatinn sem bankar hafa til þess að taka áhættu felst í því að bankinn ber aðeins tap sem nemur eigin fé. Þeim mun minna eigið fé sem bankinn hefur, því meiri er freistnivandinn. Eftir því sem eigið fé banka lækkar getur hann því haft hvata til þess að veðja á áhættusamar eignir sem sveiflast í takt og leggja þannig allt undir á eina eða fáar stórar áhættur. Þegar svo stór einstök áhætta hefur myndast í eignum bankans að hún skipti verulegu máli um það hvort bankinn stendur eða fellur er hver sá sem getur haft áhrif á útkomu þeirrar áhættu orðinn sterkur áhrifavaldur í bankanum. Ef banki hefur til dæmis veitt lán með veði í sama verðbréfinu getur myndast hvati fyrir hann að lána enn frekar til kaupa á því verðbréfi eða kaupa það sjálfur. Ef banki hefur svo veitt veruleg lán hópi fyrirtækja, sem lúta sömu stjórn eða eru fjárhagslega mjög tengd, er hætta á því að samband bankans við fyrirtækin breytist á þann hátt að vald færist frá lánveitanda til lántakanda. Bankinn stendur og fellur þá með þessum stóru lántakendum sínum og heldur áfram að lána þeim og leggur þar með allt undir að gæfan snúist þeim í hag og þeir geti endurgreitt. Peek og Rosengren sýna jafnframt að þessi hegðun er sterkari þeim mun lægra sem eigið fé bankans er. Auk þess sem þessi hegðun er skaðleg gagnvart lánveitendum bankans, sem bera tapið ef illa fer, þá veldur hún því einnig að illa reknum fyrirtækjum er haldið gangandi á kostnað betur rekinna fyrirtækja.
Vikið er að samþjöppun útlánaáhættu íslensku bankanna og áhyggjum sem erlendir aðilar höfðu af þeirri samþjöppun í viðauka 3 við skýrslu rannsóknarnefndar sem skrifaður er af Mark J. Flannery. Þá fjallar Jørn Astrup Hansen um gæði útlána bankanna auk annarra áhættuþátta í greinargerð sem birt er sem fylgiskjal 1 með kafla 8.0
8.3.4 Hraður vöxtur útlána
Rannsóknir hafa sýnt fram á að hraður útlánavöxtur veldur auknum afskriftum í framtíðinni.Til að mynda hafa starfsmenn spænska seðlabankans (Banco de Espana) slík orsakatengsl. Þá er líklegra að þau lán sem veitt eru í uppsveiflunni lendi í vanskilum en önnur. Í rannsóknum er almennt gerður greinarmunur milli innri vaxtar og ytri vaxtar, þar sem vöxtur í útlánum án þess að um yfirtökur sé að ræða er talinn öllu varhugaverðari. Ástæður þess að hraður útlánavöxtur er varhugaverður eru meðal annars taldar vera að hinir nýju lánþegar séu hrakval annarra lánastofnana. Þannig hafi stærri hluta þeirra en ella þegar verið neitað um lán annars staðar. Þegar vöxtur er hraður eru líkur til að bankar hafi hvorki nægjanlega þekkingu né nægjanlega reynslu til að meta gæði þessara nýju viðskiptavina á viðhlítandi hátt.Við þetta bætist að töf er milli tímans þegar áhættan vegna hinna auknu útlána myndast og að lán lendi í vanskilum, einkum vegna þess að lán lenda sjaldnast í vanskilum fyrr en nokkur tími er liðinn frá lántökum. Því er ekki óalgengt að sjá lækkandi vanskilahlutföll hjá bönkum sem eru með hraðan útlánavöxt, vegna þess að stærri hluti útlána er nýr.
Rannsóknir á bankakrísunni í Finnlandi á níunda áratugnum styðja þetta. Þær ganga svo langt að segja að útlánavöxtur hafi verið ein af meginorsökum seinni tíma vanskila. Þeim mun meiri sem útlánavöxturinn var á árunum 1986-1990, þeim mun meiri vandamál urðu með eignir banka árið 1993.Allt að 70% af aukningunni í vanskilum var hægt að rekja beint til útlánavaxtar. Þá bendir Ogura á hættuna þegar hröðum vexti fylgir harðnandi samkeppni. Þegar samkeppni harðnar á bankamarkaði leiðir hún til versnandi útlánasafns bankakerfisins, þar sem banki sem hefur fjármagnað viðskiptavin sinn til lengri tíma verður skyndilega fyrir því að samkeppnisaðili undirbýður hann. Samkeppnisaðilinn telur sig geta grætt á því að gamli bankinn hefur fylgst með viðskiptavininum í lengri tíma og treystir sér til að lána honum út á viðskiptasögu við gamla bankann. Gamli bankinn bregst við samkeppninni með því að bjóða enn hagstæðari kjör sem endurspegla ekki áhættuna þrátt fyrir hið sögulega viðskiptasamband. Þetta leiðir til þess að í útlánaþenslu versnar útlánasafn allra banka, og gamlir viðskiptavinir njóta sífellt betri kjara (sbr. vextir og endurgreiðsluáætlanir). Líkan Dell'Ariccia og Marquez (2004) styður þetta einnig.
Spænski seðlabankinn brást á viðeigandi hátt við þessum niðurstöðum eins og fram kemur í kafla 4.0. Hann innleiddi kvikan afskriftareikning, þar sem aukinn útlánavöxtur kallar á aukið framlag í afskriftareikning. Þessi leið er nú almennt til umræðu sem möguleg lausn á þeim vanda sem skapast getur þegar fjármálastofnanir vaxa of hratt. Í Bandaríkjunum hafa eftirlitsstofnanir nýtt sér vöxt fjármálastofnana til að segja fyrir um breytingar á hag þeirra. Í rannsóknum tengdum því kemur fram að tvennt, það er hraðan vöxt útlána og aukningu á óhefðbundnum fjármögnunarleiðum (e. non-core funding), sé hægt að tengja á ótvíræðan hátt við auknar líkur á gjaldþroti fjármálastofnunar.
Af framansögðu er ljóst að hraður útlánavöxtur íslensku bankanna gat verið vísbending um auknar framtíðarafskriftir vegna minnkandi gæða lánabókanna.
8.4 Vöxtur íslenska bankakerfisins
8.4.1 Inngangur
Vöxtur íslenska bankakerfisins síðustu árin fyrir fall bankanna var mikill og hraður. Í kafla 8.3.4 var fjallað um hættur slíks ástands en í þessum kafla verður reynt að lýsa vextinum, hraða hans og eðli.
Rannsókn á 36 löndum sem hafa farið í gegnum tímabil ofþenslu útlána sýnir að raunvöxtur heildarútlána einkageirans (e. bank credit to the private sector) var 22% að meðaltali yfir þenslutímabil þeirra. Meðalvöxtur heildarútlána til einkageirans á Íslandi var 34,2% á ári frá 1999–2006. Slíkur vöxtur á heildarskuldum einkageirans á sér ekki margar hliðstæður þó að finna megi dæmi, svo sem Lettland, en heildarskuldir einkageirans þar jukust að meðaltali um 43% á árunum 1999-2006 og í Úkraínu um 53% á sama tímabili. Grundvallarmunur var þó á hagkerfunum þar sem almenn skuldsetning hafði verið lág í báðum löndunum en heildarskuldir einkageirans voru aðeins um 10% af landsframleiðslu í Lettlandi og 2% af landsframleiðslu í Úkraínu í upphafi þenslutímabilsins. Á Íslandi jukust hins vegar útlán bankanna til einkageirans sem hlutfall af landsframleiðslu úr 64% árið 1998 í um 350% árið 2007. Ísland var meðal þeirra landa sem tekin voru fyrir í rannsókn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem komst að þeirri niðurstöðu árið 2005 að Ísland væri í hópi þeirra landa sem bjuggu við viðvarandi útlánaþenslu allt frá árinu 1997.
8.4.2 Vöxtur bankanna
Um síðustu aldamót voru þrír stórir viðskiptabankar starfandi á Íslandi, þeir voru Íslandsbanki, Landsbanki Íslands og Búnaðarbanki Íslands. Auk þeirra voru starfandi Kaupþing, sem þá var vaxandi fjárfestingarbanki, og sparisjóðir. Þetta var bankakerfi sem þjónaði aðallega þörfum innlendra aðila vegna viðskipta og umsvifa á Íslandi. Í lok árs 2000 var heildarstærð efnahags stóru viðskiptabankanna þriggja ásamt Kaupþingi um 744 milljarðar ISK, um 109% af vergri landsframleiðslu Íslands.Til samanburðar námu heildareignir allra fjármálastofnana sem bandaríski innstæðutryggingarsjóðurinn tryggir 75% af landsframleiðslu Bandaríkjanna í lok ársins 2000 og jókst það hlutfall í 93% í lok árs 2007. Stærð bankakerfisins var því mjög í takt við stærð innlends efnahags.
Eftir að einkavæðingu Landsbanka og Búnaðarbanka lauk árið 2003 voru stóru bankarnir á Íslandi allir í eigu einkaaðila. Eftir sameiningu Kaupþings og Búnaðarbankans snemma árs 2003 stóðu eftir þrír stórir einkareknir bankar ásamt minni bönkum og sparisjóðum. Með auðveldara aðgengi að lánsfé á erlendum mörkuðum en áður uxu bankarnir þrír gríðarlega næstu árin, bæði hvað varðar innri og ytri vöxt. Í lok árs 2007 var samanlögð stærð efnahags þeirra orðin 11.354 milljarðar ISK, um 873% af vergri landsframleiðslu. Þá var bankakerfið orðið tæplega níföld þjóðarframleiðsla, hlutfallslega talsvert stærra en í Sviss, landi með mjög langa bankahefð þar sem heildareignir bankakerfisins námu um 663% af landsframleiðslu á sama tíma.
Þegar vöxtur félaga er skoðaður er mikilvægt að gera greinarmun á innri og ytri vexti enda grundvallarmunur þar á. Í tilviki banka felst innri vöxtur aðallega í því að innri starfsemi vex og þar með að bankinn lánar meira út sjálfur og stækkar þannig útlánasafn sitt. Ytri vöxtur felst aftur á móti í því að eignir eru keyptar inn í bankann, yfirleitt í formi annarra banka eða félaga. Í því tilviki felst vöxturinn í því að kaupa þroskað eignasafn og starfsemi sem stutt er við í framhaldinu. Áhættan við ytri vöxt er að of hátt verð sé greitt fyrir þær eignir sem keyptar eru. Áhættan við hraðan innri vöxt er hins vegar sú að ef óvarlega er lánað leiðir það til hrakandi gæða lánasafnsins.
Á myndum 1–8 má sjá þróun heildarefnahags bankanna þriggja og stærðar útlánasafns þeirra.Tölur um heildareignir og útlán til viðskiptavina eru á samstæðugrunni og eru fengnar úr ársreikningum bankanna en tölur um útlán móðurfélags til viðskiptavina eru fengnar úr gögnum frá Seðlabanka Íslands. Myndirnar sýna tímabilið frá árslokum 2000 fram til loka september/júní 2008 en í tölum Kaupþings er Búnaðarbanki lagður við á árunum fyrir sameiningu.
Myndir 1, 3 og 5 sýna þróun efnahags Glitnis, Kaupþings og Landsbankans í íslenskum krónum en myndir 2, 4 og 6 sýna sömu þróun í evrum. Munurinn á myndunum í íslenskum krónum og evrum er mestur fyrir árið 2008 en frá árslokum 2007 til loka september 2008 hækkaði gengi evru um tæp 60% á móti krónunni. Þar sem meirihluti efnahags bankanna var í erlendri mynt endurspeglar vöxturinn í krónum árið 2008 aðallega þetta fall krónunnar. Mælt í evrum varð hins vegar lítil breyting í heildareignum og útlánum til viðskiptavina árið 2008. Þó er áhugavert að þó nokkur samdráttur varð í öllum þremur bönkunum á fyrri helmingi ársins, á bilinu 13–26%, á öðrum útlánum en móðurfélagsins. Á sama tíma drógust útlán móðurfélaganna, mæld í evrum, talsvert minna saman, eða um 2–3%.
Hjá öllum bönkunum þremur má segja að grunnmynstrið sé nokkuð svipað. Vöxtur var nokkuð jafn og mikill frá árinu 2003. Í byrjun árs 2006 hægðist á honum tímabundið þegar hin svokallaða míníkrísa skall á en í lok ársins og á árinu 2007 varð útlánavöxturinn aftur mjög mikill. Frá haustinu 2007 og fram að falli bankanna í október er svo frekar lítil heildarbreyting ef litið er fram hjá áhrifum gengisfalls krónunnar.
Á mynd 2 má sjá að skörp skil urðu í efnahag Glitnis vorið 2005 þegar bankinn keypti norska bankann BNbank ASA.Til þess að skilja vöxt bankans betur er hann brotinn niður í innri og ytri vöxt í töflu 1. Þar má sjá þróun heildareigna í íslenskum bönkum, brotna niður eftir eðli breytinga. Verðmæti fyrirtækja sem bankinn keypti fellur undir keyptar eignir í töflunni. Hér eru teknar með þær eignir sem keyptar voru og fjallað var um í ársskýrslum bankans. Sjá má að árið 2005 stendur upp úr en þar er um að ræða áðurnefnd kaup á BNbank. Eignabreytingar vegna gengishreyfinga eru reiknaðar út frá myntsamsetningu eigna samkvæmt ársreikningum. Þær breytingar sem ekki falla undir keyptar eignir eða breytingar vegna gengisbreytinga teljast innri vöxtur. Hvað varðar hlutfallslegan vöxt stendur árið 2005 upp úr með 53% ytri vöxt og 71,5% innri vöxt, alls 123,5% aukningu heildareigna. Árið 2007 var hins vegar með hæsta innri vöxt ef litið er til upphæðar vaxtarins eingöngu.
Líkt og í tilviki Glitnis varð snörp hækkun í heildareignum Kaupþings eins og sjá má á mynd 4. Hjá Kaupþingi varð hækkunin um mitt ár 2004 er danski bankinn FIH Erhvervsbank kom inn í samstæðu bankans. Þessi kaup ásamt kaupunum á breska bankanum Singer & Friedlander árið 2005 voru tvenn stærstu kaup Kaupþings á erlendum fyrirtækjum. Tafla 2 sýnir greiningu á eðli vaxtar bankans.Ytri vöxtur bankans var langhæstur árið 2004, með kaupunum á FIH, hvort sem litið er til hlutfallslegs vaxtar, sem nam 142,8%, eða upphæðar. Eins og í tilviki Glitnis var innri vöxtur hlutfallslega mestur árið 2005, rúm 53%, en ef horft er til upphæðar var innri vöxtur hæstur 2007.
Landsbankinn er frábrugðinn hinum tveimur bönkunum að því leyti að bankinn óx nær eingöngu með innri vexti síðustu 5 árin fyrir fall bankanna. Þetta má sjá í töflu 3. Fyrirtæki sem bankinn keypti á þessu tímabili voru fyrst og fremst fyrirtæki sem miðluðu verðbréfum og veittu ráðgjöf en höfðu ekki verulegan efnahag. Fyrir átti bankinn þó Heritable-bankann í Bretlandi og Landsbanka Luxembourg S.A. Sama mynstrið sést og hjá hinum bönkunum, þ.e. að hlutfallslega var innri vöxtur hæstur árið 2005 en að krónutölu var vöxturinn hæstur árið 2007.
Vöxtur allra stóru bankanna þriggja var mjög mikill, hvort sem horft er til heildarvaxtar eigna eða innri vaxtar eingöngu. Meðalvöxtur heildareigna bankakerfisins, á tímabilinu 2003–2008, var á bilinu 61–73% í krónum talið en 50–61% í evrum talið, sjá töflu 5. Ef horft er á alla þrjá bankana fyrir árin 2004–2007 sést að lægstur mældist innri vöxturinn hjá Glitni árið 2006, rétt tæp 30%. Hæst mældist innri vöxtur hjá Landsbankanum árið 2005, 88,4%.Til samanburðar má benda á að í tillögu innstæðutryggingarsjóðs Bandaríkjanna að reglugerðarbreytingu bjó sjóðurinn til kennitölu sem skyldi endurspegla samspil mikils útlánavaxtar banka og aukningar í innlánssöfnun hans, sér í lagi söfnun á innlánum utan heimamarkaðar bankans. Kennitölunni er ætlað að vera vísbending um áhættu í viðkomandi banka. Í skilgreiningu þessarar kennitölu felst að þessi áhættumælikvarði tekur gildið 0 fyrir þá banka sem hafa haft innri vöxt undir 20% síðustu fjögur ár en hækkar svo eftir því sem vöxturinn er umfram 20%.
Þessum mikla vexti fylgdi, eins og fjallað er um síðar í þessum kafla, að eignasafn bankanna urðu áhættusamari. Þessi aukna áhætta fólst meðal annars í samþjöppun útlána til fárra stórra aðila sem og mikilli aukningu lánveitinga til eignarhaldsfélaga.
Að lokum má sjá meðalvöxt heildareigna og lána til viðskiptamanna, bæði hjá samstæðu og móðurfélagi í töflu 5 (6 frá árslokum 2000).
Frekari umfjöllun um bankavöxt almennt og útlánaofþenslu er að finna í kafla 4.0
8.4.3 Ályktanir rannsóknarnefndar um vöxt útlána bankanna
Rannsóknarnefnd Alþingis telur að útlán stóru íslensku bankanna þriggja, Glitnis banka hf., Kaupþings banka hf. og Landsbanka Íslands hf., hafi síðustu árin fyrir fall þeirra vaxið langt fram úr hagkerfinu og þeim stofnunum sem áttu að hafa eftirlit með bönkunum og gæta hagsmuna innlánseigenda. Rannsóknarnefndin telur jafnframt að efnahagur og útlán bankanna hafi vaxið fram úr innviðum bankanna sjálfra. Þannig hafi utanumhald um og eftirlit með útlánum ekki fylgt eftir útlánavextinum. Þá var hröð sókn inn á nýja markaði mjög áhættusöm. Í ljósi fyrirliggjandi rannsókna og fræðigreina mátti gera ráð fyrir að líkur væru á því að gæði útlánasafna bankanna væru mun minni en ef vöxtur þeirra hefði verið hóflegur og því var ljóst að verulega myndi reyna á bankana þegar um hægðist.Eins og fram kemur í kafla 8.5 telur nefndin að þetta hafi verið raunin.Af þessum ástæðum samræmist svo mikill vöxtur ekki langtímahagsmunum trausts banka. Það er mat nefndarinnar að til staðar hafi verið hvatar til skammtímahagnaðar sem drifu vöxtinn áfram. Þessir hvatar hafi meðal annars falist í hvatakerfum bankanna sem fjallað er um í kafla 10.0 Þá hafi mikil skuldsetning stærstu eigendanna, sem jafnframt skipuðu stjórnir bankanna, verið til þess fallin að auka áhættusækni í rekstri bankanna.
Þá telur nefndin að hinn gríðarlegi vöxtur hafi ekki átt að fara fram hjá þeim sem höfðu lögboðnum skyldum að gegna um að aðhafast til að koma í veg fyrir að vöxturinn færi úr böndunum. Þar höfðu áhættustýringar bankanna veigamiklu hlutverki að gegna og þessi mikli vöxtur bankanna hefði átt að vera þeim sérstakt tilefni til inngripa og til þess að lýsa verulegum áhyggjum gagnvart hlutaðeigandi aðilum. Eftirlitsaðilum utan bankanna mátti vera ljóst að hvatar til skammtímahagnaðar voru til staðar innan bankanna og kallaði það á að eftirlitsaðilar væru enn frekar á varðbergi að þessu leyti. Nefndin minnir á að á grundvelli fyrri áfalla sem komið hafa upp í bönkum og fjármálakerfum einstakra landa liggja fyrir margvíslegar upplýsingar og fræðiskrif um hvaða afleiðingar slíkur vöxtur banka getur haft.
8.5 Þróun útlánasafns bankanna
8.5.1 Inngangur
Í greiningu þessa kafla eru lán bankanna til viðskiptamanna þeirra skoðuð. Í því felst að lán til annarra banka, innlendra og erlendra sem og dótturfélaga eru tekin út úr lánasafninu. Samskipti og samningar banka á milli eru mjög fjölbreyttir og flóknir og ekki hluti af almennri útlánastarfsemi banka og því ekki eðlilegt að blanda lánum til annarra banka inn í sömu greiningu.
Heildstæð gögn frá erlendum dótturfélögum bankanna voru ekki aðgengileg á sama hátt og frá móðurfélögum þeirra. Því byggist greiningin hér fyrst og fremst á útlánasöfnum íslensku móðurfélaganna. Það er misjafnt eftir bönkum hversu stór hluti alls útlánasafnsins er í móðurfélaginu. Í hálfsársuppgjöri Kaupþings árið 2008 var rétt rúmur helmingur útlána til viðskiptavina bankans á samstæðugrunni staðsettur í móðurfélaginu en tæpur helmingur í dótturfélögum. Í Glitni var þetta hlutfall útlána í móðurfélaginu á sama tíma 73% en 83% í Landsbankanum.
Eins og áður hefur komið fram er yfirlitsgögnum um dótturfélög bankanna í Lúxemborg lýst í kafla 8.10 og veita þau nokkra innsýn í starfsemi bankanna þar. Gögn sem bárust frá öðrum dótturfélögum bankanna, að undanskildum þeim í Lúxemborg, benda til þess að þau hafi aðallega verið til erlendra aðila sem ekki áttu í atvinnustarfsemi á Íslandi og lögðu ekki mikið til aukinnar útlánaáhættu móðurfélaganna.
8.5.2 Samsetning lántakenda bankanna
Eftir því sem leið frá aldamótum jókst vægi fjárfestingabankastarfsemi íslensku bankanna. Þetta þýddi að vægi íslenskra rekstrarfyrirtækja minnkaði verulega í lánasöfnum bankanna. Þegar bankarnir hófu, upp úr miðju ári 2004, að lána íslenskum einstaklingum fyrir íbúðakaupum af fullum krafti í samkeppni hver við annan og Íbúðalánasjóð jókst vægi lána til heimila tímabundið. En smám saman uxu lán til eignarhaldsfélaga og erlendra félaga og á árinu 2007 urðu lán til þessara aðila meira en helmingur allra lána til viðskiptavina.
Myndir 9–16 sýna samsetningu lántakenda bankanna eins og Seðlabankinn hefur birt flokkunina. Í tölum Seðlabankans eru eignarhaldsfélög ekki flokkuð sérstaklega fyrr en í apríl 2005 en frá þeim tíma óx hlutfall eignarhaldsfélaga úr 31% í 46% af öllum útlánum til íslenskra fyrirtækja. Myndir 9, 11 og 13 sýna útlán talin í milljörðum evra fyrir bankana þrjá og eru svipaðar í grunninn.Allar sýna þær mikinn vöxt, sér í lagi frá árinu 2003 þegar einkavæðingu bankakerfisins lauk. Þar eru einkum eftirtektarverð vaxandi útlán til erlendra aðila og eignarhaldsfélaga. Frá miðju ári 2004 sést einnig veruleg aukning útlána til einstaklinga þegar bankarnir fóru að veita íbúðalán af fullu kappi. Þá sést að á árinu 2007 varð veruleg aukning á lánum til erlendra aðila eins og Seðlabankinn skilgreinir þá.
Þó er nokkur munur á þróuninni milli banka ef betur er að gáð. Það er áberandi að Kaupþing lánaði langmest til erlendra aðila af bönkunum þremur, hvort sem horft er til upphæðar eða hlutfalls af heildarútlánum. Þá sést að Landsbanki var með hæstu útlánin til íslenskra rekstrarfyrirtækja, sér í lagi eftir því sem leið á tímabilið. Myndir 10, 12 og 14 sýna hlutfallslega skiptingu milli lántakenda hvers banka. Mynd 10 sýnir hvernig hlutdeild íslenskra rekstrarfyrirtækja í útlánasafninu lækkar verulega hjá Glitni. Hlutdeild eignarhaldsfélaga er hæst í Glitni af bönkunum þremur, lítillega hærri en hjá Landsbankanum. Á mynd 12 sést hið háa hlutfall erlendra aðila í útlánum Kaupþings en við fall bankans voru hátt í 60% af útlánum til erlendra aðila. Hafa verður í huga að hér er aðeins um útlán móðurfélagsins að ræða svo að hlutfallið væri enn hærra fyrir samstæðuna. Mynd 14 sýnir svo hlutfall lántakenda Landsbankans. Eins og í hinum bönkunum voru erlendir aðilar með hæst hlutfall en munurinn á milli erlendra aðila og íslenskra rekstrarfyrirtækja var ekki jafnmikill og í hinum bönkunum. Í Landsbankanum var tæpur þriðjungur útlána bankans til rekstrarfyrirtækja á árinu 2008 en rúmur þriðjungur til erlendra aðila.
Með því að flokka lánagögnin, sem nefndin fékk frá bönkunum, með upplýsingum úr fyrirtækjaskrá fæst sama mynstur. Hér eru lántakendur flokkaðir niður í eftirfarandi flokka: Einstaklingar, íslensk rekstrarfyrirtæki, íslensk eignarhaldsfélög, fyrirtæki með íslenska kennitölu en heimilisfang skráð erlendis og loks aðila án íslenskrar kennitölu. Þessi flokkun er samsvarandi flokkuninni í Seðlabankagögnunum, þó á þann hátt að í stað eins flokks fyrir erlenda aðila eru tveir flokkar hér. Jafnframt var reynt að dýpka flokkunina með því að reyna að sjá hvort eiginlegt eignarhald fyrirtækja væri íslenskt eða ekki. Í viðauka II með skýrslunni um krosseignatengsl er eiginlegt eignarhald reiknað en í eiginlegum eignarhluta, eins og hann er skilgreindur, þar felst bæði bein eign aðila og óbein eign hans í gegnum önnur félög. Aðferðafræðin er skýrð þar en í grunninn má segja að horft sé í gegnum fyrirtækjanet og eignarhaldið rakið til þeirra einstaklinga sem að baki félögunum standa. Grunngögn í þessum reikningum voru upplýsingar úr hlutafjármiðum sem félög skila til ríkisskattstjóra. Jafnframt voru stærstu skuldarar skoðaðir og ef eignarhald á þeim var ekki skilgreint í upplýsingum úr hlutafjármiðum var leitað í fundargerðum lánanefnda bankanna og öðrum gögnum sem nefndin hafði undir höndum til að fá upplýsingar um eignarhald. Fyrirtæki voru flokkuð eftir þessari aðferðafræði í tvennt, eftir því hvort ljóst var að fyrirtækið væri í meirihlutaeigu Íslendinga eða hvort ekki væri hægt að staðfesta slíkt. Niðurstöðurnar fyrir stóru bankana þrjá má sjá á myndum 17–20. Eins og áður segir er sama mynstur að sjá og í gögnum Seðlabankans, þ.e. vaxandi hlutur erlendra aðila sérstaklega og eignarhaldsfélaga. Þá má segja að tilraunin til að flokka fyrirtæki eftir eignarhaldi varpi ekki miklu nýju ljósi á samsetninguna. Stærsti hluti íslenskra félaga er rakinn til Íslendinga en mjög lítill hluti erlendu aðilanna. Mynd 21 sýnir sömu greiningu fyrir Straum-Burðarás. Straumur-Burðarás var fjárfestingarbanki eingöngu og var útlánasafn hans talsvert frábrugðið því sem var í stóru bönkunum þremur. Í fyrsta lagi var bankinn mun minni en hinir bankarnir en útlánasafn hans var rúmur tíundi hluti af meðalútlánum stóru bankanna. Hins vegar voru lántakendur bankans að langstærstum hluta eignarhaldsfélög og erlendir aðilar. Erlendir aðilar voru með yfir helming útlánasafns bankans en eignarhaldsfélög með tæpan þriðjung.
Hin mikla hlutdeild eignarhaldsfélaga er athyglisverð. Lán til eignarhaldsfélaga eru ekki tryggð með traustum rekstri heldur eru verðbréf uppistaðan í eignum þeirra, oft hlutabréf. Líta má svo á að lán til eignarhaldsfélags, sem á hlutabréf í tilteknu hlutafélagi, sé svipað víkjandi láni til hlutafélagsins. Þetta er vegna þess að ef umrætt hlutafélag lendir í erfiðleikum eru það lánardrottnar félags sem fá fyrst greitt en síðan hluthafar og þar með lánardrottnar eignarhaldsfélagsins. Markaðsáhætta vegna undirliggjandi eigna eignarhaldsfélags sem lánað er til er því mikil nema eignasafn eignarhaldsfélagsins sé mjög vel dreift eða að félagið sé mjög sterkt með hátt eiginfjárhlutfall. Lágt eiginfjárhlutfall og hærra hlutfall óáþreifanlegra eigna fyrirtækja eru meðal þeirra þátta sem spá með tölfræðilega marktækum hætti fyrir um lágt innheimtuhlutfall lána. Þorri eignarhaldsfélaga á Íslandi sem stofnuð voru á árunum 2004–2007 getur flokkast undir hvort tveggja, sjá viðauka 2 við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um rannsókn á krosseignatengslum.
Eins og kom fram var þó vöxturinn mestur til erlendra aðila. Útrás banka og þar með sókn á nýja markaði felur í sér aukna samkeppni á hinum nýja markaði. Bankarnir hófu samkeppni, einkum í Bretlandi og Lúxemborg, og fólst vöxtur þeirra að mestu leyti í aukinni útlánastarfsemi, þ.e. ekki með því að kaupa fyrirliggjandi útlánasafn með yfirtöku erlends banka. Reyndar hófu sér í lagi Kaupþing og Landsbanki innreið sína á breskan markað með kaupum á þarlendum bönkum. Hins vegar var vöxturinn mestur eftir þau kaup og í tilviki Landsbankans var stærstur hluti vaxtarins í eigin nafni. Í þeim löndum þar sem bankarnir hösluðu sér völl var hörð samkeppni fyrir.Til að verða sér úti um viðskiptavini á þeim markaði þarf að bjóða í viðskiptavini sem þegar eru í viðskiptum við banka sem fyrir eru á markaðnum. Slíkt leiðir til þess að samkeppnisaðilarnir bregðast við með því að bjóða sínum gömlu og góðu viðskiptavinum enn betri kjör. Í tilviki íslensku bankanna eru líkur á að þeir sem ekki höfðu fengið fyrirgreiðslu áður á markaðnum hafi því orðið hinir nýju viðskiptavinir íslensku (innrásar) bankanna. Almennt eru ekki líkur á að það stöðvi lánsumsækjanda sem hefur fengið höfnun í einum banka að sækja um í þeim næsta. Nýir bankar sem hefja samkeppni á grónum markaði taka við slíkum viðskiptavinum og útlánagæði bankakerfisins í því landi minnka.
8.5.3 Myntsamsetning lána
Lán í lánabókum bankanna má flokka eftir mynt lánsins.Við þessa flokkun var þó byggt á gögnum um lán sem eru hærri en 10 milljónir króna svo að minni lán detta út og því vanmetur þessi greining lítillega hlut íslensku krónunnar í útlánasöfnunum. Þetta á aðallega við um lán til einstaklinga, til dæmis yfirdráttarlán, greiðslukort og önnur smærri lán.
Þegar gengi íslensku krónunnar lækkar eykst vægi erlendra mynta í lánasafni þar sem erlend lán hækka, í krónum talið, á meðan lán í krónum standa í stað. Sérstaklega á þetta til dæmis við um þróunina á árinu 2008 þar sem gengisbreytingar krónunnar voru miklar. Þessi áhrif voru fjarlægð í greiningunni með því að reikna lán í erlendri mynt á föstu gengi. Þetta var gert til þess að láta myndirnar endurspegla þróunina í útlánastarfseminni frekar en gengisþróun. Notast var við mánaðarlokagengi janúar 2007 sem viðmiðunarpunkt þar sem sá tímapunktur er um það bil í miðju þess tímabils sem horft er til og jafnframt var gildi gengisvísitölu krónunnar þá nálægt meðalgildi tímabilsins.
Munurinn milli bankanna er helst sá að Kaupþing var með minnstan hluta sinna útlána í íslenskum krónum af stóru bönkunum þremur. Útlán Kaupþings voru líka að stærri hluta í breskum pundum heldur en hjá hinum bönkunum sem endurspeglar umfangsmeiri starfsemi þeirra í Bretlandi. Þá má sjá að vægi erlendra mynta jókst sýnu meira hjá Landsbankanum þegar líða tók á tímabilið sem má líklega rekja til þess að hann hafði betri aðgang að erlendri fjármögnun á þeim tíma, heldur en hinir bankarnir, vegna innlánssöfnunar erlendis, þ.m.t. í gegnum Icesave.
Þróun myntsamsetningarinnar var svipuð milli bankanna.Vægi erlendra mynta í heildarútlánum stendur því sem næst í stað hjá Glitni, um 55%. Hjá Landsbankanum eykst hlutfallið úr um 60% af útlánum í um 70%, á meðan hlutfallið fer úr um 65% í um 75% hjá Kaupþingi.
Það vekur athygli að íslensku bankarnir þrír skyldu hafa svo stóran hluta útlána sinna í erlendri mynt. Hlutfall erlendra aðila skýrir þetta að nokkru leyti þar sem þeir voru vaxandi hluti af útlánum bankanna, eins og fram kom í kafla 8.5.2, og voru nær eingöngu með lán í erlendri mynt. Erlendir aðilar hafa sinn rekstur almennt í erlendri mynt og því ekki ástæða til að ætla að gengi krónunnar skipti þessa aðila miklu máli.
Í lok árs 2007 var, í öllum stóru bönkunum þremur, rúmur helmingur útlána til íslenskra eignarhaldsfélaga í erlendri mynt. Þetta má sjá í töflu 7. Íslensk eignarhaldsfélög voru bæði í fjárfestingum á Íslandi sem erlendis og því erfitt að alhæfa um gjaldmiðlaáhættu sem gæti hafa verið í eignarhaldsfélögum vegna mismunandi myntsamsetningar á eignum og skuldum. Hins vegar fundust fjölmörg dæmi þess í fundargerðum lánanefnda að há lán í erlendri mynt hefðu verið veitt til kaupa á íslenskum hlutabréfum, sjá kafla 12.0. Þar sem fylgni milli íslenskra hlutabréfa og krónunnar var sterk var áhættan af slíkum lánum veruleg. Ef krónan styrktist á sama tíma og hlutabréfaverð hækkaði í krónum var ábatinn af slíkum hlutabréfalánum verulegur, en að sama skapi var tapið verulegt þegar gengi erlendra mynta hækkaði samhliða lækkandi verði á innlendum hlutabréfum.
Þessi gengisáhætta eignarhaldsfélaga skipti auðvitað félögin sjálf máli en ekki síður lánveitendur þeirra. Stóru bankarnir þrír voru allir með verulegan jákvæðan gjaldeyrisjöfnuð til þess að verja eigið fé fyrir falli krónunnar. Með í gjaldeyrisjöfnuðinum töldust hins vegar lán í erlendri mynt til íslenskra viðskiptavina. Ef viðskiptavinirnir eru ekki með greiðslugetu sem sveiflast með erlendu myntinni má færa rök fyrir því að lánin séu ekki raunveruleg eign í erlendri mynt fyrir bankann. Gengisáhættan sem bankinn hefði verið með ef hann hefði lánað í krónum hvarf ekki við það að lána íslensku viðskiptavinunum í erlendri mynt. Áhættan breyttist úr gengisáhættu í skuldaraáhættu (e. default risk).
Varðandi íslensk rekstrarfyrirtæki var svipuð staða uppi, þ.e. að meirihluti lána þeirra var í erlendri mynt. Fyrir þau fyrirtæki sem hafa tekjur í erlendri mynt, svo sem útflutningsfyrirtæki eða aðila í ferðaþjónustu, getur verið fyllilega eðlilegt og skynsamlegt að hafa fjármögnun í erlendri mynt. Ef gengi krónunnar styrkist og tekjur lækka er hagstætt að skuldir fyrirtækisins lækki á sama tíma. Við veikingu krónunnar þolir félagið aftur hækkun skulda þar sem tekjur hækka. Í töflu 8 má sjá útlán stóru bankanna þriggja til 10 umfangsmestu bálka fyrirtækja (geira), eins og þau eru flokkuð skv. ISAT-skrá. Þá má sjá hlutfall útlána í erlendri mynt til fyrirtækja hvers bálks. Almennt hækkaði hlutfall lána í erlendum myntum frá lokum árs 2005 til loka árs 2007 hjá öllum flokkum, að undanskildum "leigustarfsemi og ýmis sérhæfð þjónusta". Sjávarútvegsfyrirtæki eru almennt útflytjendur sem og mörg framleiðslufyrirtæki og eru því með tekjuhlið sem sveiflast með gengi erlendra gjaldmiðla, enda eru fyrirtæki í þessum geirum með mjög hátt hlutfall skulda í erlendri mynt eins og sést í töflunni. Hins vegar eru geirar eins og fasteignaviðskipti og heild- og smásöluverslun í raun með þveröfuga áhættu. Þegar heimagjaldmiðill fellur tengist það yfirleitt bágu efnahagsástandi í landinu. Smásala og fasteignaviðskipti eru mjög næm fyrir efnahagssveiflum svo að almennt má segja að inn í þessa geira sé þegar ákveðin gjaldeyrisáhætta byggð. Lánveitingar til fyrirtækja í þessum geirum í erlendri mynt eru því mun áhættusamari en lánveitingar til áðurnefndra útflutningsgeira. Fyrirtæki í þessum geirum voru með meirihluta skulda sinna í erlendri mynt en útlánaáhætta vegna þeirra lána var mikil vegna næmni þeirra fyrir efnahagssveiflum.
Tekjur einstaklinga eru einnig háðar efnahagssveiflum. Í niðursveiflu lækka laun oft og atvinnuleysi eykst en þetta gerist á sama tíma og gjaldmiðillinn veikist. Þannig sveiflast greiðslugeta einstaklinga almennt ekki í takt við gengi erlendra gjaldmiðla. Lán í erlendri mynt sem hlutfall af lántökum einstaklinga jukust hins vegar verulega þegar líða tók á árið 2006 og fram að falli bankanna. Hvatinn sem lá að baki lántökum í erlendri mynt var lægri vaxtakostnaður.Til þess að spara vaxtakostnaðinn tóku lántakendur á sig áhættu vegna gengissveiflna. Í raun má líta svo á að lántakendur hafi, auk þess að taka lán, verið að taka þátt í vaxtamunarviðskiptum (e. carry trade).
Hjá Glitni hófst veruleg aukning lána í erlendri mynt til einstaklinga snemma árs 2007, eins og sjá má á mynd 23 og fór frá þeim tíma úr um 6% af öllum lánum til einstaklinga í um fjórðung. Dreifingin milli mynta er nokkuð í takt við gengisvísitölu krónunnar en þó er hlutur japanska jensins og svissneska frankans heldur meiri í útlánunum en í vísitölunni. Á þessum tíma voru áhættulausir vextir í Japan um núll prósent en um þrjú prósent í Sviss.
Í tilviki Kaupþings hófst aukningin í raun snemma árs 2006, fyrir utan fá stór lán í sænskum krónum til erlends einstaklings fyrir þann tíma. Frá því í byrjun árs 2006 og fram að falli bankans fór hlutfall annarra erlendra lána úr um 4% af öllum lánum einstaklinga upp í um 17%. Mynd 25 sýnir þessa þróun. Um helmingur þessara lána var til starfsmanna Kaupþings fyrir kaupum á hlutabréfum í bankanum sem betur eru skýrð í kafla 10.0. Athygli vekur að lánin eru að langmestu leyti í japönskum jenum og svissneskum frönkum, eða svokölluðum lágvaxtamyntum þess tíma.
Mynd 27 sýnir að í Landsbankanum jókst hlutur erlendra lána til einstaklinga jafnt og þétt frá því snemma árs 2006. Fór hlutfallið úr um 5% í upphafi þess árs í yfir 20% árið 2008. Eins og hjá Kaupþingi er meirihluti erlendra lána í japönskum jenum og svissneskum frönkum.
Í öllum bönkunum þremur jókst hlutur erlendra gjaldmiðla, sér í lagi lágvaxtamynta, verulega í lánum til einstaklinga síðustu 2–3 árin fyrir fall bankanna. Gögn Seðlabankans sýna sama mynstur, að hlutfall erlendra lána hækkar örlítið frá lokum árs 2004 fram til byrjunar árs 2007 en hækkar verulega fram í september 2008. Nánar tiltekið var hlutur erlendra lána heimila samtals í bönkunum þremur um 8% í lok árs 2004, 11% í lok árs 2006 en um 29% í lok september 2008. Þessar tölur eru þó ekki reiknaðar á föstu gengi á sama hátt og þróunin var sýnd á myndunum svo að hækkunin á árinu 2008 ýkist vegna veikingar krónunnar. Þessi hlutfallslega hækkun átti sér stað á sama tíma og útlán til heimila voru almennt að aukast svo að upphæð erlendra lána hækkaði enn meira. Í krónum talið fóru erlend lán til heimila í bönkunum þremur úr 61 milljarði króna í lok árs 2006 í 232 milljarða króna við fall bankanna þriggja. Á þessum tíma er ekki hægt að segja að tekjur einstaklinga í þessum erlendu myntum hafi verið að aukast sem þessu nemur og því ljóst að veruleg gengisáhætta byggðist upp hjá íslenskum einstaklingum í aðdraganda hrunsins. Mikil umræða var um kosti lána í erlendri mynt í fjölmiðlum eins og til dæmis í grein Morgunblaðsins snemma árs 2007 þar sem borið er saman verðtryggð lán í krónum og lán í svissneskum frönkum og mögulegur sparnaður reiknaður út.Vandamálið við slíka útreikninga er hins vegar það að sveiflurnar í greiðslubyrðinni koma á versta tíma, eins og rökstutt hefur verið hér að framan. Greiðslubyrðin eykst nákvæmlega þegar líklegt er að greiðslugetan sé að minnka.
Fyrir bankana þýddi lánveiting í erlendri mynt til aðila, sem ekki höfðu greiðslugetu í samræmi við það, að útlánaáhætta byggðist upp. Enn fremur var sú útlánaáhætta mjög samþjöppuð þar sem gæði þessa hluta lánasafnsins voru mjög háð einni breytu, gengi íslensku krónunnar. Þá jók þessi uppbygging erlendra lána á hagstjórnarvanda stjórnvalda í framhaldinu.
8.5.4 Þróun afborgunarfyrirkomulags útlána bankanna
Algengt endurgreiðslufyrirkomulag lána er svokallað jafngreiðslulán. Í því felst að reglulega, til dæmis mánaðarlega eða árlega, er greidd upphæð sem er sú sama á öllum gjalddögum.Vextir eru greiddir af höfuðstól og sá hluti greiðslunnar sem er umfram vaxtagjöld fer í að greiða niður höfuðstól lánsins. Þannig er sívaxandi hluti af höfuðstólnum greiddur niður yfir tíma. Hefðbundin húsnæðislán eru yfirleitt með þessu fyrirkomulagi þannig að um hver mánaðamót er föst upphæð greidd. Á Íslandi hafa þessar greiðslur yfirleitt verið verðtryggðar sem þýðir að mánaðarlega afborgunin er föst á raunvirði. Þannig er greiðsluflæðið í grunninn hugsað á sama hátt. Annað algengt afborgunarform eru jafnar afborganir. Þá eru vextir ávallt borgaðir og síðan er föst upphæð greidd inn á höfuðstólinn. Þannig er greiðslubyrðin hæst í upphafi en lækkar svo vegna lækkandi vaxtagreiðslna af lækkandi höfuðstól. Fyrirkomulag beggja þessara afborgunarskilmála hafa það í för með sér að reglulega er greitt af láninu, allir vextir greiddir og jafnt og þétt borgað inn á höfuðstól lánsins.
Það lánafyrirkomulag sem tók yfir í vaxandi mæli á útlánum bankanna var hins vegar svokallað eingreiðslulán, oft nefnt kúlulán, þar sem annað hvort ekkert var greitt af láni, hvorki vextir né greiðsla inn á höfuðstól (hreint eingreiðslulán) eða að aðeins voru greiddir vextir á lánstímanum (vaxtakúla), í báðum tilvikum var höfuðstóllinn greiddur að fullu á lokagjalddaga.
RannsóknarnefndAlþingiskallaði eftir upplýsingum um tíðni afborganaaf útistandandilánum bankanna.Almenntvoru þau gögnekki nægjanlega heildstæð til þess að hægt væri að byggja ítarlega greiningu á þeim. Landsbankinn veitti þó upplýsingar um flokkun eftir því hvers konar fyrirkomulag var á afborgun. Lán Landsbankans voru flokkuð eftir því hvort um jafngreiðslulán, jafnar afborganir eða eingreiðslulán væri að ræða. Bankinn skilgreindi öll lán sem hafa aðeins eina greiðslu af láninu sem eingreiðslulán. Inn í þá skilgreiningu falla þar með víxlar sem og lán til lengri tíma sem hafa aðeins eina afborgun. Lánagögn frá Landsbankanum fengust úr þremur kerfum og var þessi flokkun tiltæk fyrir lán úr einu þeirra, sem innihélt um 75% allra lána bankans. Flokkun þessa stóra hluta útlánasafns Landsbankans er hér greind fyrir hverja tegund aðila (á sama hátt og þeir voru flokkaðir í kafla 8.5.2 nema ekki er flokkað eftir eignarhaldi).
Á myndum 29–33 má sjá hvernig fyrirkomulagi afborgana var háttað hjá þeim fimm tegundum aðila sem voru greindir, það er einstaklingum, fyrirtækjum og eignarhaldsfélögum. Í upphafi tímabilsins sem sýnt er á myndunum er stór hluti lána allra tegunda aðila með fyrirkomulag afborgana sem "á ekki við" og verður mikil breyting yfir í annað fyrirkomulag snemma árs 2004. Það tengist því hvernig lánin voru skráð en ekki að um svo mikla raunverulega breytingu hafi verið að ræða.
Mynd 29 sýnir afborgunarfyrirkomulag lána einstaklinga. Sjá má að lán með jöfnum greiðslum eru stærstur hluti lána til einstaklinga og ef lán með jöfnum afborgunum eru talin með eru aðeins fjórðungur lána með annað greiðslufyrirkomulag. Þetta ætti ekki að koma á óvart þar sem íbúðalán voru uppistaðan í lánum til einstaklinga og þau eru almennt með stöðugu greiðsluflæði.
Mynd 30 sýnir sömu dreifingu fyrir íslensk rekstrarfyrirtæki. Þar voru lán með jöfnum greiðslum algengust framan af tímabilinu sem skoðað er. Hlutur eingreiðslulána óx þó en varð þó aldrei jafn stór og hlutur lána með stöðugu greiðsluflæði.
Mynd 31 sýnir talsvert frábrugðna dreifingu en þar er sýnt fyrirkomulag afborgana lána eignarhaldsfélaga. Hjá eignarhaldsfélögum virðast eingreiðslulán hafa verið allsráðandi fyrirkomulag afborgana. Þegar um eingreiðslulán er að ræða kemur lánið allt til greiðslu á sama tíma, höfuðstóll ásamt vöxtum. Þannig fær lánveitandinn ekki vísbendingu í tæka tíð ef greiðslugeta lántakandans er ekki þess eðlis að hann geti staðið undir greiðslubyrðinni. Þó eru oft ákvæði í lánasamningum um gjaldfellingu ef einhverjir mælikvarðar á styrk lántakandans, svo sem eiginfjárhlutfall, fara niður fyrir tiltekin mörk en slík ákvæði eru oft háð mati en ekki endilega raunverulegu greiðslugetunni. Þá er áhætta við eingreiðslulán að möguleiki er til að fresta tapi og fela það með því að framlengja lánið stöðugt. Ekkert tap hlýst af síendurfjármögnuðu láni, eins og mönnum var tíðrætt um í sparisjóðakreppunni í Bandaríkjunum á níunda áratugnum, og í ljósi sögunnar er mikill vöxtur eingreiðslulána almennt slæm tíðindi fyrir bankarekstur. Áhyggjur af eingreiðslulánum er jafnframt að finna í viðauka við Basel II-staðalinn. Í leiðbeiningum um mat á verkefnafjármögnun er það til dæmis talið veikleikamerki ef um eingreiðslulán er að ræða en ekki reglulegar afborganir.
Á myndum 32 og 33 má svo sjá hvernig fyrirkomulag afborgana var hjá erlendum aðilum. Eingreiðslulán eru meginuppistaðan í lánum til erlendra aðila með íslenskar kennitölur og ef munurinn á rekstrarfyrirtækjum og eignarhaldsfélögum sem birtist í myndum 30 og 31 er lýsandi mætti draga þá ályktun að erlendir aðilar með íslenskar kennitölur væru aðallega eignarhaldsfélög. Fyrir aðila án íslenskrar kennitölu er hlutfall jafnra greiðslna ívið hærra en hjá fyrirtækjum með íslenska kennitölu en heimilisfang erlendis, sem myndi með sömu rökum benda til þess að meira væri um rekstrarfyrirtæki í þessum hópi en hjá erlendum aðilum með kennitölu. Það er þó ekki hægt að fullyrða um slíkt.
Eins og áður sagði var fyrirkomulag afborgana tiltækt í gögnum fyrir hluta af lánasafni Landsbankans.Til þess að draga upp mynd af afborgunarfyrirkomulagi fyrir útlánasafnið í heild sinni er gert ráð fyrir að fyrir hverja tegund lántakanda sé ofangreind dreifing lýsandi. Sú dreifing er svo heimfærð á tegund lántakanda í hinum lánakerfunum og fæst þannig nálgun fyrir fyrirkomulag afborgana þeirra hópa. Útlánasöfnin eru svo lögð saman og sýnir mynd 34 útkomuna. Þar sést að mikill vöxtur var í eingreiðslulánum umfram vöxt lána með reglulegum afborgunum.
Ef fyrirkomulag afborgana fyrir hverja tegund lántakenda Landsbankans væri lýsandi fyrir hina bankana mætti beita sömu aðferð til þess að draga upp nálgaða mynd fyrir þá. Færa má rök fyrir því að svo sé þar sem hlutdeild útlána til eignarhaldsfélaga jókst yfir allt bankakerfið í heild sinni og lán til eignarhaldsfélaga miðað við lánanefndargögn bera þess merki að eingreiðslulán hafi verið ríkjandi form á endurgreiðslum lána til þess konar félaga. Sú nálgun gefur myndirnar 35 og 36. Þær sýna svipaða þróun og hjá Landsbankanum en athuga verður að þetta sýnir fyrst og fremst sambærilega þróun í samsetningu lántakenda og fara verður varlega í að draga ályktanir um Glitni og Kaupþing út frá þessum myndum.
8.5.5 Vanskil
Ein helsta kennitala um heilsufarsástand bankastofnana er hlutfall þeirra lána sem eru í vanskilum miðað við öll útistandandi lán. Fjármálaeftirlitið safnaði gögnum um vanskil banka og birti samtölu um slíkt á heimasíðu sinni. Á heimasíðunni er höfð eftir Ragnari Hafliðasyni, aðstoðarforstjóra FME, skýring á lágu vanskilahlutfalli bankanna árið 2006 en þar kemur fram að vanskil útlána fyrirtækja og einstaklinga hafi verið með lægsta móti í lok árs 2006. "Ein skýring á lágum vanskilum er aukin hlutdeild lána með veði í íbúðarhúsnæði á síðustu misserum en reynslan sýnir að þeim fylgja minni vanskil og tapshætta. Að því leytinu er útlánaáhætta banka og sparisjóða dreifðari en áður var", sagði Ragnar. Hann bætir við á sömu heimasíðu að athuga beri að útlánaaukningin á árunum þar á undan kunni að koma fram í auknum vanskilum síðar. Þá segir að hafa beri í huga að þátttaka innlánsstofnana í fasteignalánum frá og með seinni hluta ársins 2004 kynni að hafa haft áhrif á þróun vanskila sem sýnd er á yfirlitinu.
Fjármálaeftirlitið safnaði gögnum um vanskil banka og birti samtölu um slíkt á heimasíðu sinni. Starfsmaður eftirlitsins upplýsti nefndina um að vanskilin sem eftirlitið safnaði tækju aðeins til þeirra afborgana lánsins sem ekki höfðu borist, en ekki væri tekið tillit til heildarupphæðar lánsins sem væri í vanskilum. Þaðan af síður voru tekin saman önnur lán skuldarans hefði hann látið hjá líða að greiða af einu þeirra.
Mikilvægt er að kennitölu um vanskil sé haldið úti með gagnsæjum hætti af eftirlitsaðilum svo bera megi hana saman milli ólíkra banka og ólíkra landa.Alþjóðlegir staðlar gera ráð fyrir að bankar taki þær lánagreiðslur sem ekki hafa borist innan 90 daga frá gjalddaga og leggi fram samtölu þeirra lána sem skuldari hefur látið hjá líða að greiða af í þennan tíma. Sé varfærnissjónarmiða gætt (e. prudential measures) kunna að vera ástæður fyrir að lán sem ekki hefur verið greitt af í skemmri tíma en 90 daga sé einnig flokkað sem vanskilalán. Fylgi bankar varfærnissjónarmiðum í útlánastefnu sinni er algengt að telja til önnur lán til vanskilalána, sem skuldari heldur úti gagnvart bankanum þó að hann hafi aðeins látið hjá líða að greiða af einu láni af þessum lánum.Víða eru þessi tvö viðmið sett fram hvort í sinni vísitölunni. Þá er þýðing þeirrar skilgreiningar enn meiri ef stór hluti lánasafnsins ber ekki af sér neitt greiðsluflæði, líkt og var í hinu íslenska bankakerfi fyrir fall þess. Því má leiða að því líkur að vanskilakennitalan sem Fjármálaeftirlitið miðaði við fyrir íslenska bankakerfið hafi gefið skakka mynd af rekstrarstöðu íslensku bankanna, miðað við alþjóðlega keppinauta þeirra.
Upphaflega kallaði rannsóknarnefnd Alþingis eftir vanskilum en tiltók ekki daga vanskila. Viðauki Mark Flannery við skýrsluna (viðauki 3 í bindi 9) byggist meðal annars á þeim gögnum, en þau gögn sýndu vanskil 1 dags eða eldri. Síðar bað nefndin um 90 daga vanskil. Heildstæð gögn bárust frá tveimur af stóru bönkunum þremur. Út frá þessum gögnum voru reiknaðar tvær stærðir fyrir hvorn banka. Annars vegar voru heildargreiðslur í vanskilum sem hlutfall af öllum lánum reiknaðar, sbr. skilgreiningu Fjármálaeftirlitsins á vanskilum, og hins vegar voru reiknuð heildarlán allra aðila sem höfðu greiðslur í vanskilum. Mynd 37 sýnir niðurstöðuna. Þar sem aðeins tveir bankanna veittu heildstæð gögn og þar sem nefndin hafði efasemdir um fullkominn áreiðanleika gagnanna eru nöfn bankanna ekki birt. Það sem mestu máli skiptir hér er að benda á muninn á vanskilagreiðslum annars vegar og öllum lánum vanskilaaðila hins vegar. Þar má glöggt sjá að vanskil í kerfinu voru meira aðkallandi en birt kennitala af hálfu eftirlitsaðila sýndi. Hjá banka 2 má sjá að heildarskuldir vanskilaaðila lækkuðu nokkuð jafn frá byrjun árs 2004 á meðan bankarnir voru að vaxa hratt. Þegar leið á árið 2007 og sér í lagi á árinu 2008 jukust heildarskuldir vanskilaaðila verulega hjá bankanum. Hjá banka 1 sjást talsvert meiri sveiflur í vanskilum en þó virðist nokkuð snörp aukning hafa orðið um mitt ár 2007 og sveifluðust heildarskuldir vanskilaaðila á hærra bili þaðan í frá en á árunum 2005 og 2006. En í allri þessari greiningu er vert að hafa í huga að vaxandi hluti útlána bankanna voru eingreiðslulán, sem lenda ekki í vanskilum, þrátt fyrir greiðsluerfiðleika lánþega, nema á gjalddaga. Ef eingreiðslulán eru svo framlengd ítrekað myndast augljóslega engin vanskil. Eins og fram kemur í kafla 8.12 kemur margoft fram í fundargerðum lánanefnda bankanna að endurlánað er fyrir lánum auk vaxta á gjalddaga. Í slíkum tilvikum tilkynnast ekki vanskil.
8.5.6 Veð tekin í hlutabréfum
Verðmæti veittra útlána veltur á vöxtunum sem þau bera og líkunum á að þau verði endurgreidd að fullu en jafnframt á væntum heimtum ef til vanefnda kemur. Heimturnar velta svo að miklu leyti á því hvaða veð og tryggingar standa að baki lánunum.
Ekki reyndist unnt að gera heildstæða greiningu á veðum af tveimur ástæðum.Annars vegar voru gæði gagnanna sem fengust ekki nægjanleg til að forsendur væru fyrir slíkri greiningu. Hins vegar geta veðsamningar oft verið mjög flóknir, mörg veð geta verið tekin til tryggingar fyrir sömu skuldbindingu eða eitt veð fyrir mörgum skuldbindingum.
Eins og fram kemur í kafla 8.5.1 voru eignarhaldsfélög stórir lántakendur hjá íslensku bönkunum. Eignarhaldsfélögin fjárfestu að miklu leyti í hlutabréfum og til þess að varpa nokkru ljósi á hversu miklar lánveitingar bankanna voru til hlutabréfakaupa eignarhaldsfélaga og annarra skoðaði rannsóknarnefnd Alþingis gögn um hlutabréf sem bankarnir tóku sem veð fyrir lánum.
Til þess að lýsa umfangi innlendra hlutabréfa sem Glitnir, Kaupþing og Landsbanki tóku að veði eru notuð gögn sem bankarnir afhentu nefndinni. Gögnin frá Glitni og Kaupþingi eru mánaðarleg og ná aftur til nóvember 2006 en gögnin frá Landsbankanum ná aftur til loka árs 2005 en eru ársfjórðungsleg. Þar sem greiningin er mánaðarleg er, í tilviki Landsbankans, gert ráð fyrir að veðsetning sé óbreytt í þrjá mánuði í senn. Eins og komið hefur fram áður ná gögnin einungis til móðurfélaganna, það er hins vegar ljóst að Landsbankinn í Lúxemborg og Kaupþing banki Lúxemborg voru með mikið af íslenskum hlutabréfum að veði. Nánar verður vikið að þessu í kafla 8.10.
Á mynd 38 má sjá helstu skráðu íslensku hlutabréfin sem Glitnir hafði að veði frá lokum árs 2006 fram að falli bankans. Sjá má að heildarmarkaðsvirði veðanna stóð í um 250 milljörðum króna fyrri helming árs 2007. Um mitt ár lækkaði upphæðin snarpt þegar um 30 milljarða hlutur Exista í Kaupþingi fór úr veðsetningu bankans. Eftir því sem leið á haustið 2007 og að vori 2008 lækkaði heildarupphæðin, aðallega vegna lækkandi hlutabréfaverðs. Athygli vekur að veð bankans í eigin bréfum hækkuðu í maí 2008 en sú hækkun tengist lánum sem stjórnendur Glitnis fengu til að kaupa bréf í bankanum sem vikið er að í kafla 10.0. Utan þeirra veða sem Glitnir tók í eigin bréfum veitti bankinn einnig lán og gerði kröfu um veðsetningarbann á eigin hlutabréf, til dæmis á 10% hlut FL Group í bankanum, eða tekið var veð í félögum sem áttu hlutabréf í Glitni líkt og í tilviki Stíms sem fjallað er um í kafla 12.0 og í kafla 9.0.
Mynd 39 sýnir sömu greiningu á veðum sem Kaupþing hafði í hlutabréfum. Hlutabréfaveð Kaupþings voru umfangsmeiri en hjá Glitni. Hæst fór staðan í rúma 750 milljarða króna vorið 2007. Myndin sýnir að Kaupþing var með verulega mikið af eigin hlutabréfum að veði. Því til viðbótar var Kaupþing með mikið af hlutabréfum stærsta eiganda síns, Exista, að veði fyrir lánum. Kaupþing hafði á þessum tíma að jafnaði milli 200 og 300 milljarða af eigin bréfum að veði. Þrátt fyrir lækkandi hlutabréfaverð bankans hélst markaðsvirði veðanna í eigin bréfum nánast stöðugt síðasta árið fram að falli bankans. Það þýðir að heildarnafnvirði bréfanna var að aukast. Þetta tengist auknum lánveitingum bankans til kaupa á eigin bréfum sem lýst er í kafla 12.0. Í lok september 2008 var verðmæti veða bankans í eigin bréfum 214 milljarðar sem nam tæpum 42% af öllum hlutabréfum bankans. Heildarveð tekin í hlutabréfum stærsta eiganda bankans, Exista, fóru hæst í 240 milljarða sumarið 2007 sem var yfir 55% af útistandandi hlutabréfum. Í lok september 2008 námu heildarveð bankans, tekin í hlutabréfum Exista, 52 milljörðum króna eða rúmum 61% af útistandandi bréfum. Ljóst er að virði hlutabréfa Exista var mjög háð afkomu Kaupþings og virði hlutabréfa bankans. Þegar bankinn hafði tekið veð í stórum hluta þessa eiganda síns til tryggingar veittum útlánum var bankinn kominn í þá stöðu að tryggingarstaða veittra lána bankans var orðin mjög háð gengi bréfa bankans sjálfs.Veð tekin í eiganda bankans höfðu því svipuð áhrif og veð í eigin bréfum og juku lán með þessum veðum því áhættuna sem bankinn hafði vegna mögulegrar lækkunar verðs eigin hlutabréfa, sem var mikil fyrir. Þegar virði útlána bankans var orðið mjög tengt hlutabréfaverði bankans sjálfs myndaðist sterkur hvati til þess að reyna að hafa óeðlileg áhrif á eigið hlutabréfaverð en um það er betur fjallað í kafla 12.0.
Mynd 40 sýnir heildarmarkaðsvirði helstu skráðra hlutabréfa sem Landsbankinn tók veð í. Heildarfjárhæðin var svipuð og hjá Glitni og fór hæst í tæplega 250 milljarða króna. Hæsta upphæð veða sem Landsbankinn hafði í einstöku hlutafélagi var 90 milljarðar í bréfum FL Group um mitt ár 2007, þá rúm 38% alls hlutafjár FL Group.Vorið 2008 hafði Landsbankinn tekið veð í rúmlega 2/3 allra útgefinna hluta í félaginu.
Á mynd 41 má svo sjá verðmæti helstu hlutabréfa sem Straumur-Burðarás tók að veði fyrir skuldbindingum viðskiptamanna sinna. Hæstu fjárhæðirnar liggja í hlutabréfum Glitnis fram á árið 2007 en eftir það eru það umfram annað bréf Landsbankans sem bankinn hafði að veði. Þar er nær eingöngu um að ræða bréf í eigu félaga sem Landsbankinn notaði til að verja kauprétti starfsmanna Landsbanka. Um það er nánar fjallað í kafla 10.0.
Ýmis önnur hlutabréf voru tekin að veði í bönkunum. Á myndum 42–44 má sjá upphæðir veða í þeim hlutafélögum þar sem bankarnir höfðu á einhverjum tímapunkti 10 milljarða virði eða meira að veði. Mynd 42 sýnir veð Glitnis í þessum bréfum. Stærstu liðirnir eru fasteignafélögin Keops og Landic en veð í þessum félögum voru aðallega tekin vegna lána aðila tengdra Baugi. Í janúar 2008 tók bankinn þó hlutabréf í Landic að veði þegar Gnúpur keypti hlut í félaginu. Þriðja stærsta veðið árið 2008 var svo í bréfum Mosaic Fashions en Gnúpur keypti einnig hlut í félaginu sem tekinn var að veði. Mynd 43 sýnir samsvarandi greiningu fyrir Kaupþing. Stærsti einstaki liðurinn er veð tekið í öllum hlutabréfum Símans hf., sem stærsti eigandi bankans, Exista, keypti árið 2005. Mynd 44 sýnir að lokum sömu greiningu fyrir Landsbankann. Þar er stærsti einstaki liðurinn veð í Tryggingamiðstöðinni sem FL Group keypti haustið 2007.
Til þess að lýsa umfangi veðsetningarinnar betur er sama veðsetning og á myndum 38–41 teiknuð upp en í stað þess að sýna markaðsvirði bréfanna sýna myndir 45–48 hlutfall veðsettra bréfa af öllum útgefnum hlutum viðkomandi félags. Hér eru eingöngu sýnd veð tekin í hlutabréfum stóru bankanna þriggja og svo hlutabréfum Straums-Burðaráss, Exista og FL Group. Mynd 45 sýnir veð sem Glitnir banki tók en þar sést að bankinn hafði að veði yfir 20% bréfa stærsta eiganda síns fram á árið 2008. Jafnframt sést að veð tekin í eigin hlutabréfum fara yfir 10% útistandandi bréfa í maí 2008 í tengslum við áðurnefnd kaup framkvæmdastjóra bankans. Mynd 46 sýnir veð sem Kaupþing tók í félögunum sex. Á árunum 2007 og 2008 var bankinn viðvarandi með 55-60% af hlutabréfum stærsta eiganda síns að veði. Jafnframt var bankinn að jafnaði með 30-40% af eigin bréfum að veði. Mynd 47 sýnir sömu greiningu fyrir Landsbankann. Athygli vekur að bankinn var með yfir þriðjung bréfa FL Group að veði stærstan hluta ársins 2007 og í ársbyrjun 2008, þegar veðsetning FL-hluta lækkaði í Glitni, hækkaði hún verulega í Landsbankanum og fór hæst í tæplega 70% af útistandandi hlutum. Einnig sést að í lok árs 2007 tók bankinn að veði rúman þriðjung allra bréfa Straums-Burðaráss en félög á vegum Björgólfs Guðmundssonar og Björgólfs Thors, sonar hans, voru stærstu eigendur beggja bankanna. Loks sést hækkandi hlutfall eigin bréfa sem bankinn tók að veði eftir því sem leið á árið 2008. Í mars það ár fór hlutfallið yfir 10% og um mitt ár fór það yfir 18%. Mynd 48 sýnir veð sem Straumur-Burðarás tók í bréfum bankanna og stærstu eigenda þeirra. Hlutföllin hjá bankanum voru umtalsvert lægri en í hinum bönkunum, enda Straumur mun minni banki. Athygli vekur að hæst var hlutfallið í bréfum Landsbankans en eins og áður sagði var Landsbankinn með stóran hluta bréfa Straums í veði. Heildarveðsetning hlutabréfa þessara sex félaga, samkvæmt gögnum bankanna, er sýnd á mynd 49.
Þegar veð er tekið í skráðum hlutabréfum er það gert í gegnum kerfi Verðbréfaskráningar Íslands. Hver reikningsstofnun er með svæði sem hún notar við veðsetningu hlutabréfa og ber veðsetning í gögnum Verðbréfaskráningar auðkenni viðkomandi reikningsstofnunar. Hins vegar hefur Verðbréfaskráning ekki upplýsingar um hvað liggur að baki hverri veðsetningu svo að þeim gögnum er ekki lýst hér fyrir hverja reikningsstofnun. Hins vegar er samtala allra reikningsstofnana áhugaverð þar sem hún lýsir heildarveðsetningu viðkomandi hlutabréfa í öllum reikningsstofnunum.Veðsett hlutabréf bankanna og stærstu eigenda þeirra sem hlutfall af öllum útgefnum hlutum viðkomandi hlutafélags má sjá á mynd 50. Sjá má að veðsetning hlutabréfa bæði Exista og FL Group fer yfir 70% árið 2007. Þá er um 40% hlutabréfa allra bankanna fjögurra veðsett samfellt síðustu tvö árin fram að hruni, að undanskildum Straumi-Burðarási þar sem veðsetningin fellur tímabundið niður fyrir 20%. Vikið er að áhrifum þessa í kafla 9.0 og jafnframt er umfjöllun byggð á gögnum Verðbréfaskráningar um veðsetningu hlutabréfa í kafla 12.0.
Greining þessa kafla sýnir mjög há veð tekin í hlutabréfum. Í tilviki Kaupþings voru tekin gríðarlega umfangsmikil veð í eigin hlutabréfum.Til þess að meta áhrif þessara stóru hluta sem bankarnir höfðu að veði bæði í bönkunum sjálfum og bréfum stærstu eigenda þeirra þarf þó að skoða lán til þeirra aðila sem lögðu veðin fram og veðin áttu að vera sem tryggingar fyrir. Þetta er gert í kafla 9.0 þar sem fjallað er um fjármögnun eigin fjár íslenska fjármálakerfisins.
8.5.7 Ályktanir rannsóknarnefndar Alþingis
Rannsóknarnefnd Alþingis telur að útlánasöfn stóru bankanna þriggja hafi verið mjög áhættusöm á árunum fyrir fall þeirra og útlánagæði hafi farið hratt versnandi yfir tímabilið. Hátt hlutfall lána var til eignarhaldsfélaga og vaxandi hlutdeild eingreiðslulána í útlánasafninu dró úr gæðum þeirra líkt og hagfræðikenningar spá fyrir um. Þá telur nefndin að umfang erlendra lána til aðila, sem ekki höfðu tekjur í erlendri mynt og voru ekki í rekstri sem líklegur var til að skila góðri afkomu við veikara gengi, hafi verið of mikið. Ljóst mátti vera að vanskil kæmu til með að aukast hjá þessum aðilum þegar krónan veiktist og því hafi bankarnir ofmetið gengisvarnir sínar og styrk sinn til að þola veikingu gengis krónunnar. Það hrós sem bankarnir fengu meðal eftirlitsaðila og annarra markaðsaðila vegna aukinna umsvifa sinna í útlánum til erlendra aðila utan Íslands var óverðskuldað og þar virðist ekki hafa verið tekið eðlilegt tillit til þess að aukin samkeppni banka á grónum markaði leiðir að öðru jöfnu til versnandi útlánagæða viðkomandi bankakerfis og nýir bankar á þeim markaði standa hlutfallslega verst. Nefndin telur að ef þeir veikleikar sem hér hafa verið nefndir eru skoðaðir ásamt hinni miklu samþjöppun á útlánum bankakerfisins og hárra útlána til eigenda bankanna, sem fjallað er um í kafla 8.7, birtist mynd af mjög veikbyggðu bankakerfi. Ýmsir áhættuþættir voru til staðar en jafnframt var mikil fylgni milli þeirra, svo sem milli gengis krónunnar og verðs íslenskra hlutabréfa. Verð margra þessara áhættuþátta var einnig hátt í sögulegu samhengi. Raungengi íslensku krónunnar var hátt, verð íslenskra hlutabréfa hafði hækkað gríðarlega, hafði meira en fjórfaldast á innan við fjórum árum, og vöxtur útlána erlendis átti sér að miklu leyti stað árið 2007 þegar eignaverð erlendis var hátt.
Ljóst er að sú lausafjárkrísa sem náði hápunkti haustið 2008 hafði verulega neikvæð áhrif á íslensku bankana. Lausafjárkrísan hafði óbein áhrif þar sem greiðslugeta viðskiptavina bankanna minnkaði þegar eignaverð lækkaði almennt og rekstrarskilyrði urðu erfiðari. Bein áhrif lausafjárkrísunnar voru stöðugt erfiðari endurfjármögnun bankanna. Hins vegar er það mat nefndarinnar að í ljósi þeirra þátta, sem nefndir voru hér að ofan, hafi íslenska fjármálakerfið verið mjög illa í stakk búið að þola þá erfiðleika sem í lausafjárskortinum fólust. Lánasöfn bankanna voru mjög háð eignaverði og sjóðstreymi mjög margra og stórra viðskiptavina þeirra var veikt þar sem viðskiptavinirnir voru að miklu leyti eignarhaldsfélög í fjárfestingarstarfsemi en ekki félög í rekstri. Lausafjárkrísan flýtti fyrir og magnaði þá erfiðleika sem biðu bankanna en ljóst er að þeir hefðu innan ekki langs tíma lent í mjög miklum erfiðleikum jafnvel þótt lausafjárkrísan hefði ekki orðið jafnalvarleg og raunin varð.
Rannsóknarnefnd Alþingis telur að birtingu á vanskilatölum hafi verið ábótavant. Þær voru ekki í samræmi við alþjóðlegar venjur. Hér á landi var látið nægja að birta afborganir í vanskilum í stað lána í vanskilum eða skuldbindingar þeirra viðskiptavina sem komnir eru í vanskil. Það væri því til bóta að birta bæði samtölu lána í vanskilum og heildarskuldbindingar lánþega sem eru í vanskilum. Að auki má gera ráð fyrir að með tilkomu eingreiðslulána, sem ekki eru með reglulegar afborganir, lækki vanskil óháð því hvort gæði útlána séu að aukast. Einnig má vænta þess að hlutfallsleg vanskil lækki til skamms tíma þegar útlán vaxa ört, en vaxi síðar til lengri tíma.
Rannsóknarnefnd Alþingis telur Kaupþing hafa farið út fyrir það sem eðlilegt getur talist í því að taka veð í eigin bréfum. Bankinn var kominn með veð langt umfram 10% hámarkið sem sett er fram í hlutafélagalögum. Þá telur nefndin það mjög óheppilegt að bankinn hafi tekið veð í meira en helmingi hlutabréfa stærsta eiganda síns, Exista, þar sem slíkt hefur í raun samsvarandi áhrif og að taka veð í eigin bréfum eins og rökstutt er í kafla 8.5.6. Nefndin telur einnig að hinir bankarnir tveir, Landsbanki og Glitnir, hafi farið umfram 10% veðsetningarmörk eigin bréfa á árinu 2008.
Rannsóknarnefnd Alþingis telur það hafa verið óheppilegt hversu hátt hlutfall hlutabréfa bankanna og eigenda þeirra var veðsett. Milli helmingur og þriðjungur í bréfum bankanna voru veðsett og yfir tveir þriðju bréfa stærstu eigenda Glitnis og Kaupþings, þ.e. FL Group og Exista. Þetta hafi veikt getu íslenska fjármálakerfisins til þess að standa af sér áföll og myndað sterkan hvata fyrir bankana að reyna að halda uppi verði hlutabréfanna.
8.6 Reglur um stórar áhættur
8.6.1 Inngangur
Reglur um stórar áhættur gegna mjög þýðingarmiklu hlutverki í fjármálakerfi landsins. Reglurnar hafa það meginhlutverk að vinna gegn kerfisáhættu með því að stuðla að áhættudreifingu í rekstri fjármálafyrirtækja og koma í veg fyrir keðjuverkun fjárhagslegra erfiðleika.
Umfjöllunin hér á eftir beinist að þessum reglum og hefur það markmið að leiða í ljós hvort og þá að hvaða marki reglurnar hafa átt þátt í falli bankanna haustið 2008. Hún skiptist í sex hluta. Í þeim fyrsta er vikið að bakgrunni þessara reglna og sögulegri þróun. Í öðrum hluta er vikið að gildandi reglum um stórar áhættur og efni þeirra útskýrt. Í þriðja hluta er fjallað um hvernig stærstu íslensku fjármálafyrirtækin hafa innleitt þessar reglur. Í fjórða hluta er umfjöllun um eftirlitshlutverk Fjármálaeftirlitsins með reglunum og útfærslu og framkvæmd þess á þeim. Í fimmta hluta er að finna umfjöllun um hvernig þessar reglur hafa verið innleiddar í helstu nágrannalöndum Íslands. Loks er í sjötta hluta að finna ályktanir sem verða dregnar af þessari úttekt.
8.6.2 Bakgrunnur reglna um stórar áhættur og söguleg þróun
Reglur um stórar áhættur hafa það meginhlutverk að stuðla að aukinni áhættudreifingu í rekstri fjármálafyrirtækja. Bankar eru að öllu jöfnu mjög skuldsettir, samanborið við önnur fyrirtæki, og því sérstaklega mikilvægt að eignasafn þeirra sé þannig samsett að áhætta sé vel dreifð. Reglunum er ætlað að koma í veg fyrir kerfisáhættu sem lýsir sér í því að fjárhagsleg vandræði eins viðskiptavinar, eða fleiri innbyrðis tengdra viðskiptavina, hafi í för með sér fjárhagsleg vandræði viðkomandi fjármálafyrirtækis.Til þess að ná þessu markmiði var fjármálafyrirtækjum óheimilt að stofna til áhættu gagnvart einum viðskiptavini, eða hópi viðskiptavina sem eru innbyrðis tengdir á ákveðinn hátt, umfram 25% af eiginfjárgrunni þess á hverjum tíma. Ljóst er að reglurnar um stórar áhættuskuldbindingar settu mikilvægar skorður við útlánastarfsemi íslensku bankanna. Bankarnir skiluðu inn reglulegum yfirlitum yfir stórar áhættuskuldbindingar til Fjármálaeftirlitsins og í fundargerðum lánanefnda er oft vísað til hvaða áhrif tilteknar lánveitingar gætu haft á stórar áhættuskuldbindingar. Í fundargerð áhættunefndar Glitnis frá 30. apríl 2008 er til dæmis sagt um ákvörðun um lánveitingu til Styrks Invest (áður BG Capital): "Samþykkt, með fyrirvara um að kaupandi finnist að óseldum 19% hlut í Styrk þannig að Styrkur teljist utan samstæðu Baugs." Í skýrslutöku hjá rannsóknarnefnd Alþingis sagði viðskiptastjóri í Landsbankanum um sterk áhrif reglnanna: "god knows hvað hefði gerst með Eimskipafélagið og lánveitingar til Eimskipafélagsins ef það hefðu þó ekki verið stórra áhættu-skuldbindingamörk". Loks er bent á umfjöllun um eignarhaldsfélagið Stím í kafla 9.0 og í kafla 12.0 þar sem dótturfélög voru stofnuð undir Stími að því er virðist að miklu leyti til þess að koma í veg fyrir að stór áhættuskuldbinding myndaðist.
Reglur um stórar áhættur eiga rætur sínar að rekja aftur til setningar laga nr. 43/1993 um viðskiptabanka og sparisjóði og laga nr. 123/1993 um lánastofnanir, aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði. Í athugasemdum með frumvarpi sem varð að lögum nr. 43/1993 kemur fram að reglur þessar væru settar að danskri fyrirmynd en jafnframt yrði horft til vinnu innan Evrópusambandsins um samræmingu á þessum reglum sem þá var á lokastigi. Á þessum tíma var ekki mælt fyrir um stórar áhættur í tilskipunum Evrópusambandsins, heldur voru í gildi tilmæli framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins frá 22. desember 1986 um hvernig lánastofnanir ættu að hafa eftirlit með stórum áhættum (Commissions Recommendation of 22 December 1986 on monitoring and controlling large exposures of credit institutions). Í þeim tilmælum er að finna grunninn að þeim reglum sem gilda um stórar áhættur í 28.-32. gr. núgildandi tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2006/49/EB um eigið fé fjármálafyrirtækja (Directive 2006/49/EC of the European Parliament and of the Council of 15 June 2996 on the capital adequacy of investment firms and credit institutions (hér eftir CAD-tilskipunin)) og 106.-119. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2006/48/EB um stofnun og rekstur lánastofnana (Directive 2006/48/EC of the European Parliament and of the Council of 14 June 2006 relating to the taking up and pursuit of the business of credit institutions (hér eftir tilskipun um lánastofnanir)). Í 4. gr. tilmæla framkvæmdastjórnarinnar frá 1986 var miðað við að stór áhætta mætti ekki vera umfram 40% af eigin fé lánastofnunar og samtala stórra áhættuskuldbindinga mætti ekki vera umfram 800% af sama grunni. Athyglisvert er að í skilgreiningu tilmælanna á tengdum aðilum var að finna nánari útfærslu en í 45. tl. 4. gr. gildandi tilskipunar um lánastofnanir á því hvenær liggi fyrir fjárhagsleg tenging milli tveggja eða fleiri aðila, án þess að bein eða óbein yfirráð liggi fyrir (sjá skáletraðan hluta liðar (ii) í skilgreiningunni sem er ekki að finna í núgildandi tilskipun).Tengdir aðilar voru skilgreindir í 1. gr. tilmælanna á eftirfarandi hátt:
"group of connected clients' (4) means two or more persons, whether natural or legal, holding exposures from the same credit institution and any of its subsidiaries, whether on a joint or separate basis, but who are mutually associated in that: (i) one of them holds directly or indirectly power of control over the other as defined in Article 1 of Directive 83/349/EEC, or (ii) their cumulated exposures represent to the credit institution a single risk in so much as they are so interconnected with the likelihood that if one of them experiences financial problems the other or all of them are likely to encounter repayment difficulties. By way of example of such interconnections the credit institution should take into consideration the following: – common ownership, – common directors, – cross guarantees, – direct commercial interdependency which cannot be substituted in the short term."
Hinn 21. desember 1992 samþykkti ráðið tilskipun 92/121/EBE (Council Directive 92/121/EEC of 21 December 1992 on the monitoring and control of large exposures of credit institutions) sem var fyrsta tilskipunin innan Evrópusambandsins sem kvað á um bindandi reglur fyrir aðildarríkin um stórar áhættur. Leysti tilskipunin af hólmi fyrrgreind tilmæli framkvæmdastjórnarinnar sem voru hugsuð sem tæki til aðlögunar fyrir aðildarríkin. Hinn 28. júní 1994 gaf viðskiptaráðherra út fyrstu reglugerðina um stórar áhættur nr. 366/1994 um "hámark lána og ábyrgða viðskiptabanka, sparisjóða og annarra lánastofnana" með stoð í lögum nr. 43/1993 og 123/1993. Reglugerð þessi byggðist á tilskipun 92/121/EBE sem sameiginlega EES-nefndin hafði tekið ákvörðun um að innleiða hjá aðildarríkjum EES.Var þar lagður grunnur að núgildandi reglum Fjármálaeftirlitsins nr. 2 og loks 25% 31. desember 2001. Lánastofnunum var þannig gefinn aðlögunartími til 1. janúar 2002 til að laga sig að 25% viðmiðunarreglunni.
Reglugerð nr. 366/1994 var felld úr gildi með reglugerð nr. 571/1996 um sama efni. Reglugerð nr. 571/1996 var felld úr gildi með reglugerð nr. 34/2002 sem sett var með stoð í lögum nr. 113/1996 um viðskiptabanka og sparisjóði, 5. mgr. 8. gr. laga nr. 123/1993 um lánastofnanir og 2. mgr. 21. gr. laga nr. 13/1996 um verðbréfaviðskipti. Við setningu laga nr. 161/2002 var Fjármálaeftirlitinu síðan veitt heimild í 4. mgr. 30. gr. laganna til að gefa út reglur um stórar áhættuskuldbindingar. Frá og með þeim tíma hefur Fjármálaeftirlitið gefið út reglur um þetta efni. Þær fyrstu voru nr. 531/2003 um stórar áhættuskuldbindingar hjá fjármálafyrirtækjum og litu dagsins ljós 30. janúar það ár. Núgildandi reglur nr. 216 voru síðan gefnar út í mars 2007 og felldu niður reglur nr. 531/2003. Mestu breytingarnar á reglunum voru gerðar við útgáfu núgildandi reglna nr. 216/2007 sem fólu í sér innleiðingu á reglum tilskipunar Evrópusambandsins um lánastofnanir frá 2006 um stórar áhættur og CAD-tilskipuninni, sbr. og reglur Fjármálaeftirlitsins nr. 215/2007 um eiginfjárkröfur og áhættugrunn fjármálafyrirtækja. Í öllum grundvallaratriðum hafa hins vegar ákvæðin um skilgreiningu á stórum áhættum og fjárhagslega tengdum aðilum haldist óbreytt frá 1994.
8.6.3 Gildandi reglur um stórar áhættur
8.6.3.1 Almennt
Eins og fyrr er rakið byggjast núgildandi reglur um stórar áhættur á 106.–119. gr. tilskipunar Evrópusambandsins frá 2006 um lánastofnanir og 28.–32. gr. CAD tilskipunarinnar. Ákvæðin hafa verið innleidd í 30. gr. laga nr. 161/2002 og reglur Fjármálaeftirlitsins nr. 215 og 216/2007.
Samkvæmt 1. mgr. 30. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki má áhætta vegna eins eða fleiri innbyrðis tengdra viðskiptamanna ekki fara fram úr 25% af eiginfjárgrunni fjármálafyrirtækis eins og hann er skilgreindur samkvæmt 84. og 85. gr. laganna, sbr. og 1. mgr. 3. gr. reglna nr. 216/2007. Samtala fyrir stórar áhættur má ekki fara yfir 800% af eiginfjárgrunni. Áhættuskuldbindingar vegna móðurfélags eða dótturfélags fjármálafyrirtækis og/eða eins eða fleiri dótturfélaga móðurfélagsins mega ekki fara fram yfir 20% af eiginfjárgrunni, sbr. 2. mgr. 3. gr. reglna nr. 216/2007. Ef fyrirtæki eru gerð upp á samstæðugrundvelli með hlutaðeigandi fjármálafyrirtæki, eiga 20% og 25% mörkin sem nefnd eru hér að ofan ekki við, ef dreifing áhættugrunns innan samstæðu telst vera með fullnægjandi hætti.
Í reglum Fjármálaeftirlitsins um eiginfjárkröfur og áhættugrunn fjármálafyrirtækja er gert ráð fyrir að heimilt sé við ákveðnar kringumstæður að fara umfram 25% mörkin. Slíkt er hins vegar eingöngu heimilt að fengnu skriflegu samþykki Fjármálaeftirlitsins en auk þess þarf sú áhætta sem er umfram mörkin að fullnægja ákveðnum skilyrðum. Í fyrsta lagi þarf að vera um að ræða áhættuskuldbindingu í veltubók viðkomandi fjármálafyrirtækis en auk þess þarf fyrirtækið að fullnægja ýmsum skilyrðum um viðbótareiginfjárkröfu vegna slíkrar umframáhættu.
Reglur um stórar áhættur horfa eingöngu til áhættu gagnvart einstökum fjármálafyrirtækjum, en ekki gagnvart fjármálakerfi Íslands sem heild. Þannig getur áhætta eins eða fleiri innbyrðis tengdra aðila verið í hámarki hjá tveimur eða fleiri fjármálafyrirtækjum samtímis, með tilheyrandi hættu á keðjuverkun innan fjármálakerfisins ef fjárhagsleg vandræði koma upp. Regluverk Evrópusambandsins um stórar áhættur gerir ekki heldur ráð fyrir að áhætta gagnvart einu fjármálafyrirtæki hafi takmarkandi áhrif á heimild annarra fjármálafyrirtækja til að stofna til áhættu gagnvart sama eða sömu aðilum.
8.6.3.2 Skilgreiningin á áhættu
Samkvæmt 2. mgr. 30. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki er með áhættu í 1. mgr. 30. gr. sömu laga átt við lánveitingar, verðbréfaeign, eignarhluta og veittar ábyrgðir fjármálafyrirtækis vegna einstakra viðskiptamanna eða fjárhagslega tengdra aðila, "svo og annarra skuldbindinga sömu aðila gagnvart fjármálafyrirtækinu." Nánari útfærslu á áhættuskuldbindingu er síðan að finna í 1.–2. gr. reglna Fjármálaeftirlitsins nr. 216/2007, sbr.V. kafla reglna nr. 215/2007 um eiginfjárkröfur og áhættugrunn fjármálafyrirtækja.
Í stuttu máli sagt geta hvers kyns skuldbindingar fallið undir reglur um stórar áhættur. Þetta má sjá af orðalagi 2. mgr. 30. gr. laga nr. 161/2002; "[...]annarra skuldbindinga sömu aðila gagnvart fjármálafyrirtækinu." Sé um fleiri en einn áhættulið að ræða, til dæmis hlutabréfaeign og útlán, eru þeir lagðir saman við útreikning á stórum áhættum.
Reglurnar gera ekki berum orðum ráð fyrir að tryggingar á hendur þriðja aðila séu taldar með við útreikning á stórum áhættum þótt tryggingar geti í einstaka tilviki haft í för með sér að áhætta verði felld undan reglunum eins og síðar verður rætt um í tengslum við frádráttarreglur. Í þessu felst að ef fjármálafyrirtæki er með áhættuskuldbindingu á hendur X hf. vegna útláns, sem tryggt er með hlutabréfi útgefnu af Y hf., væri eingöngu horft á skuldbindinguna gagnvart X hf. Reglurnar gera ekki ráð fyrir að veðtryggingin í Y hf. sé talin með í útreikningi á stórum áhættum gagnvart Y hf. Það væri fyrst eftir að fjármálafyrirtækið hefði leyst til sín eignarhlutina í Y hf. á grundvelli vanefnda X hf., sem eignarhlutirnir í Y hf. yrðu taldir með við útreikning á stórum áhættum gagnvart Y hf.
8.6.3.3 Hvað telst vera stór áhætta?
Til þess að áhætta teljist stór þarf hún að nema 10% eða meira af eiginfjárgrunni fjármálafyrirtækis. Eins og fyrr segir má samtala slíkra áhættuskuldbindinga ekki fara yfir 800% af eiginfjárgrunni.
8.6.3.4 Tengdir viðskiptamenn
8.6.3.4.1 Almennt
Það hefur grundvallarþýðingu við framkvæmd reglna um stórar áhættur að skilgreina hvenær líta beri á tvo eða fleiri viðskiptamenn fjármálafyrirtækja sem innbyrðis tengda í skilningi 1. mgr. 30. gr. laga nr. 161/2002. Séu tveir eða fleiri aðilar skilgreindir sem innbyrðis tengdir í skilningi síðastnefnds ákvæðis er litið á skuldbindingar þeirra sem eina áhættu. Innbyrðis tengsl eru skilgreind í 2. gr. reglna Fjármálaeftirlitsins nr. 216/2007 þar sem fjárhagslega tengdir aðilar eru skilgreindir á eftirfarandi hátt:
Fjárhagslega tengdir aðilar:
Tveir eða fleiri einstaklingar eða lögpersónur sem, nema sýnt sé fram á annað, mynda eina áhættu vegna þess að einn þeirra hefur bein eða óbein yfirráð yfir hinum, eða tveir eða fleiri einstaklingar eða lögpersónur þar sem enginn einn hefur yfirráð yfir hinum, eins og skilgreint er í a. lið, en teljast til sömu áhættu vegna þess að þeir eru svo fjárhagslega tengdir að líkur eru á að ef einn þeirra lendir í fjárhagserfiðleikum eigi hinn aðilinn eða allir í greiðsluerfiðleikum.
Ofangreint ákvæði er þýðing á 45. tl. 4. gr. tilskipunar Evrópusambandsins um lánastofnanir:
'group of connected clients' means:
- two or more natural or legal persons who, unless it is shown otherwise, constitute a single risk because one of them, directly or indirectly, has control over the other or others; or
- two or more natural or legal persons between whom there is no relationship of control as set out in point (a) but who are to be regarded as constituting a single risk because they are so interconnected that, if one of them were to experience financial problems, the other or all of the others would.
Ofangreind ákvæði hafa hvorki verið útfærð nánar í lögum né reglum settum af Fjármálaeftirlitinu. Fjármálaeftirlitið hefur hins vegar notast við ákveðnar viðmiðanir við túlkun sína á þessum reglum sem fjallað er um í kafla 16.0.
8.6.3.4.2 Bein og óbein yfirráð
Ekki er skilgreint í lögum nr. 161/2002 eða reglum nr. 216/2007 hvað átt er við þegar talað er um bein eða óbein yfirráð í skilningi síðastnefndra reglna. Með yfirráðum er í grundvallaratriðum átt við að tiltekinn aðili sé í aðstöðu til að stjórna öðrum og eftir atvikum taka ákvarðanir fyrir hans hönd. Ef um lögaðila er að ræða blasir við að yfirráð liggja fyrir þegar aðili fer með meirihluta atkvæðisréttar í félaginu. Ekki skiptir máli hvort hann fer með slíkan atkvæðisrétt beint, eða í gegnum annan aðila (óbeint). Ekki skiptir heldur máli hvort slíkur réttur byggist á eignarrétti á hlutum í félaginu, samningi eða á öðrum grundvelli. Ljóst er að yfirráð geta legið fyrir við aðrar aðstæður en þessar. Það getur hins vegar verið erfitt að skilgreina nákvæmlega hvenær slíkt getur átt við og hver ytri mörkin eru.
Þótt hugtakið yfirráð sé ekki skilgreint í lögum nr. 161/2002 og reglum nr. 216/2007 er það notað víða í löggjöf á sviði félagaréttar. Ákvæði um yfirráð er þannig að finna í 3. mgr. 2. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög, 2. mgr. 17. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005, 6. tl. 2. gr. ársreikningalaga nr. 3/2006 og 1. mgr. 100. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti. Nokkuð misjafnt er hvernig yfirráð eru skilgreind í þessum lögum, enda horfa þau til mismunandi verndarhagsmuna. Það er hins vegar sameiginlegt með þeim öllum að yfirráð geta legið fyrir við ýmsar aðstæður þótt viðkomandi fari með minna en 50% af atkvæðisrétti, eins og til dæmis samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti þar sem yfirráð miðast nú við 30% atkvæðisrétt.Yfirráð geta auk þess legið fyrir á grundvelli eignatengsla, stjórnunartengsla, persónutengsla, samningstengsla og hagsmunatengsla af ýmsu tagi. Hið sama gildir að hluta til um ákvæði annarra laga sem fjalla um yfirráð, þótt lagaákvæðin séu ekki eins skýr hvað þetta varðar. Ákvæði laga um verðbréfaviðskipti hafa þá sérstöðu að ákveðin hagsmunatengsl eru talin veita löglíkur á samstarfi milli aðila, með þeim afleiðingum að leggja ber atkvæðisrétt þeirra saman við mat á því hvort yfirráðum hafi verið náð. Í 3. mgr. 100. gr. laganna eru þannig taldar upp aðstæður sem eru taldar veita löglíkur á samstarfi milli aðila. Liggi þessar aðstæður fyrir þurfa viðkomandi aðilar að sanna að þeir séu ekki í samstarfi:
1) Hjón, aðilar í staðfestri samvist, aðilar í skráðri sambúð og börn hjóna eða aðila í staðfestri samvist eða skráðri sambúð.
Tengsl milli aðila sem fela í sér bein eða óbein yfirráð annars aðilans yfir hinum eða ef tvö eða fleiri félög eru beint eða óbeint undir yfirráðum sama aðila.Taka skal tillit til tengsla aðila skv. 1., 3. og 4. tölul.
2) Félög sem aðili á með beinum eða óbeinum hætti verulegan eignarhlut í, þ.e. að aðili eigi með beinum eða óbeinum hætti a.m.k. 1/3 hluta atkvæðisréttar í viðkomandi félagi.Taka skal tillit til tengsla aðila skv. 1., 2. og 4. tölul.
3) Tengsl á milli félags og stjórnarmanna þess og félags og framkvæmdastjóra þess. Bein eða óbein tengsl á milli aðila innan eða utan þess félags sem í hlut á, hvort sem um er að ræða rík hagsmunatengsl eða persónuleg tengsl, reist á skyldleika, tengdum eða vináttu, eða tengsl reist á fjárhagslegum hagsmunum eða samningum, sem líkleg eru til að leiða til samstöðu aðila um að stýra málefnum félagsins í samráði hvor eða hver við annan þannig að þeir ráði yfir því.
Eins og sjá má af ofangreindu er litið svo á að aðilar séu í samstarfi ef þeir eiga með beinum eða óbeinum hætti 1/3 hluta atkvæðisréttar í viðkomandi félagi. Svipað ákvæði um löglíkur á samstarfi er að finna í 40. gr. a laga nr. 161/2002 sem fjallar um hvenær löglíkur teljast vera á samstarfi aðila að því er varðar reglur um virka eignarhluti. Samkvæmt síðastnefndu ákvæði dugar að aðili fari með 20% atkvæðisrétt til að hann teljist vera í samstarfi við viðkomandi. Eignarhlutir slíkra aðila eru þá lagðir saman. Ef A á 20% eignarhlut í B, eru eignarhlutir A og B þannig lagðir saman við mat á því hvort þeir fari með virkan eignarhlut í fjármálafyrirtæki. Í þessu samhengi má geta þess að náin tengsl eru talin vera milli aðila þegar tveir eða fleiri einstaklingar eða lögaðilar tengjast gegnum beint eða óbeint eignarhald á minnst 20% hlutafjár eða yfirráð yfir 20% af atkvæðisrétti fyrirtækis, sbr. 18. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.
Reglur um stórar áhættur eiga að vernda hagsmuni fjármagnseigenda með því að koma í veg fyrir of mikla samþjöppun í áhættutöku fjármálafyrirtækja. Reglurnar eiga jafnframt að vernda almannahagsmuni með því að stuðla að öruggu fjármálakerfi. Með hliðsjón af þessum verndarhagsmunum er ljóst að gera þarf sambærilegar kröfur við mat á því hvenær yfirráð liggja fyrir við beitingu reglna um stórar áhættur, eins og gert er í ofangreindum lagaákvæðum. Þótt hægt sé að hafa hliðsjón af ofangreindum lagaákvæðum við mat á því hvort bein eða óbein yfirráð liggi fyrir í skilningi reglna um stórar áhættur, er hins vegar ljóst að þeim verður ekki beitt almennt með lögjöfnun. Fjármálaeftirlitið hefur hins vegar lagaheimild samkvæmt 4. mgr. 30. gr. laga nr. 161/2002 til að útfæra reglur um stórar áhættur fjármálafyrirtækja og fjármálasamsteypa. Fjármálaeftirlitið getur því við framkvæmd eftirlits haft hliðsjón af efni framangreindra lagaákvæða við mat á því hvort og þá hvenær leggja skuli til grundvallar að yfirráð liggi fyrir. Af minnisblaði Fjármálaeftirlitsins frá nóvember 2008 um framkvæmd eftirlits með stórum áhættum má ráða að þetta hafi verið gert upp að ákveðnu marki þótt engar reglur eða leiðbeinandi tilmæli hafi verið gefin út.
8.6.3.4.3 Fjárhagslega tengdir aðilar
Samkvæmt b-lið 2. gr. reglna nr. 216/2007 skal jafnframt skilgreina skuldbindingar tveggja eða fleiri viðskiptavina sem eina áhættu ef þeir eru svo fjárhagslega tengdir "að líkur" séu á að "ef einn þeirra lendir í fjárhagserfiðleikum eigi hinn aðilinn eða allir í greiðsluerfiðleikum." Samkvæmt þessu ákvæði þurfa ekki bein eða óbein yfirráð að liggja fyrir milli tveggja eða fleiri aðila til að skuldbindingar þeirra verði flokkaðar sem ein áhætta. Það dugar að fjárhagsleg tengsl milli þeirra séu þannig að líkur séu á keðjuverkun fjárhagslegra erfiðleika milli þeirra. Ákvæðið hefur ekki verið útfært nánar af Fjármálaeftirlitinu í reglum en af minnisblaði þess frá nóvember 2008 má ráða að ákveðið verklag var lagt til grundvallar við mat á því hvenær slík tengsl væru til staðar milli aðila, sbr. nánari umfjöllun síðar.
Stóra álitamálið við túlkun b-liðar 2. gr. reglna nr. 216/2007 er hvenær rétt sé að leggja til grundvallar að líkur séu á keðjuverkun fjárhagslegra erfiðleika milli tveggja eða fleiri viðskiptavina. Af orðalagi ákvæðisins er ljóst að ekki er gert ráð fyrir að hætta á keðjuverkun sé óhjákvæmileg, til dæmis vegna samningsskuldbindinga milli aðila eins og til dæmis þegar annar aðilinn hefur tekið á sig ábyrgð á skuldbindingum hins. Það dugar að einhverjar ytri aðstæður veiti líkur á þessu. Í þessu sambandi er athyglisvert að rifja upp ákvæði 1. gr. tilmæla framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins frá 22. desember 1986 sem áður er vikið að. Þar var að finna upptalningu á dæmum sem gætu náð yfir þessar aðstæður. Þau tilvik sem þar eru nefnd eru dæmi um aðstæður sem geta leitt til þess að nauðsynlegt sé að skilgreina skuldbindingar tveggja eða fleiri viðskiptavina sem eina áhættu. Séu tveir eða fleiri lögaðilar þannig undir stjórn sömu aðila, óháð eignatengslum, er sú hætta hlutrænt séð til staðar að ef annar lendir í fjárhagslegum erfiðleikum verði teknar ákvarðanir hjá hinum um fjárhagslega aðstoð af einhverju tagi. Á sama hátt geta viðskiptatengsl verið þannig milli tveggja eða fleiri aðila að þeir séu fjárhagslega háðir hver öðrum, að minnsta kosti í einhvern tíma. Þetta getur til dæmis átt við um eiganda sérhæfðs húsnæðis sem er með einn leigutaka. Lán til eiganda slíks húsnæðis og lán til leigutaka bæri augljóslega að flokka sem eina áhættu þegar horft er til skuldbindinga eiganda húsnæðisins þar sem fyrirsjáanlegt er að hann geti lent í fjárhagslegum erfiðleikum ef eini leigutakinn hans hættir að geta greitt honum leigu. Það getur tekið lengri tíma að finna nýjan leigutaka og því ljóst að slíkir aðilar væru fjárhagslega tengdir á fyrrgreindan hátt. Svona mætti halda áfram að telja upp viðskiptatengsl af sambærilegum toga. Það eru hins vegar ekki eingöngu eigna-, stjórnunar- og viðskiptatengsl sem geta haft í för með sér að líta beri á aðila sem fjárhagslega tengda á framangreindan hátt. Fjölskyldutengsl geta jafnframt haft í för með sér að líta beri á aðila sem fjárhagslega tengda þar sem slík tengsl geta oft verið þess eðlis að leggja beri til grundvallar að líkur séu á gagnkvæmri fjárhagslegri aðstoð ef upp koma fjárhagsleg vandræði hjá einum. Getur slíkt hlutrænt séð einkum átt við þegar umræddir aðilar hafa sameiginlega viðskiptahagsmuni þar sem fjárhagslegir erfiðleikar eins geta stofnað viðskiptahagsmunum annarra í hættu. Hið sama gildir augljóslega þegar fjölskyldutengsl eru svo náin að um sameiginlegt fjárfélag er að ræða, eins og þegar um hjón er að ræða, aðila í staðfestri sambúð eða sambúðaraðila. Loks gildir þetta þegar um lögbundna framfærsluskyldu er að ræða milli aðila, til dæmis gagnvart ófjárráða barni.
Spurningin um það hvort fjárhagsleg tengsl af framangreindum toga liggja fyrir, eða eftir atvikum yfirráð, er háð mati í hvert og eitt skipti. Í fyrstu atrennu eru það óhjákvæmilega fjármálafyrirtækin sem taka afstöðu til þessa, eftir atvikum að höfðu samráði við eftirlitsaðila ef vafi kemur upp um túlkun. Í annarri atrennu kemur það í hlut Fjármálaeftirlitsins að meta hvort túlkun eftirlitsskyldra aðila á þessu ákvæði fær staðist og grípa til viðeigandi úrræða ef svo er ekki, sbr. umfjöllun hér á eftir um eftirlitsúrræði Fjármálaeftirlitsins.
8.6.3.4.4 Frádráttarreglur
Við athugun á því hvaða skuldbindingar skuli telja með sem áhættu samkvæmt reglum um stórar áhættur verður samhliða að skoða 4. gr. reglna nr. 216/2007 þar sem veitt er heimild til að undanskilja ákveðna liði frá útreikningi á stórum áhættum. Byggjast undanþágurnar á tvenns konar sjónarmiðum. Annars vegar eru gerðar ákveðnar undanþágur þegar mótaðilaáhætta er metin engin. Slíkt á við um ákveðnar skuldbindingar gagnvart ríki, seðlabanka, alþjóðastofnunum og fjölþjóðaþróunarbanka, sem án tryggingar fengju 0% áhættuvog samkvæmt reglum Fjármálaeftirlitsins nr. 215/2007 um eiginfjárkröfur og áhættugrunn fjármálafyrirtækja, sbr. a-lið 4. gr. reglna nr. 216/2007. Hins vegar eru gerðar undanþágur um ákveðna áhættuliði, ef tryggingar fyrir skuldbindingum eru mjög góðar. Slíkt á til dæmis við um skuldbindingar sem eru tryggðar með handveði í skuldabréfum ríkja, seðlabanka, alþjóðastofnana, fjölþjóðaþróunarbanka, héraðs- og sveitarstjórna og opinberra fyrirtækja sem myndu fá 0% áhættuvog samkvæmt fyrrgreindum reglum Fjármálaeftirlitsins nr. 215/2007. Reglur um áhrif einstakra trygginga og mótaðilaáhættu í þessu samhengi er að finna í 4. gr. reglna nr. 216/2007.
Framangreindu til viðbótar getur sú staða komið upp að fjármálafyrirtæki selji frá sér áhættu, til dæmis til annars fjármálafyrirtækis.Við slíkar aðstæður færist áhættan þá yfir á framsalshafa áhættunnar.
8.6.4 Reglur stærstu viðskiptabankanna um stórar áhættur
8.6.4.1 Almennt
Samkvæmt 6. gr. reglna Fjármálaeftirlitsins nr. 216/2007 um stórar áhættuskuldbindingar skulu fjármálafyrirtæki hafa yfir að ráða traustu stjórnunar- og upplýsingakerfi og innra eftirlitskerfi þar sem allar stórar áhættuskuldbindingar og breytingar á þeim eru rekjanlegar þannig að unnt sé að hafa eftirlit með þeim. Fjármálafyrirtæki eiga þá að senda Fjármálaeftirlitinu a.m.k. ársfjórðungslega skýrslu um stórar áhættuskuldbindingar einstakra viðskiptamanna eða fjárhagslega tengdra aðila. Skýrslan þarf að hafa borist Fjármálaeftirlitinu eigi síðar en 30 dögum frá uppgjörsdegi. Fjármálafyrirtækjum er skylt að greina verulega samþjöppunaráhættu í hlutfalli af eiginfjárgrunni, sem tengist útgefanda trygginga eða ábyrgða og grípa til viðeigandi ráðstafana til að draga úr slíkri áhættu. Fjármálafyrirtæki skulu tilkynna Fjármálaeftirlitinu reglulega um niðurstöður slíkra greininga.
Til að fullnægja skuldbindingum sínum samkvæmt 6. gr. reglna nr. 216/2007 þurfa fjármálafyrirtæki að setja sér innri verklagsreglur um stórar áhættuskuldbindingar. Hér að neðan er að finna umfjöllun um þær reglur sem Landsbanki Íslands hf., Kaupþing banki hf., Glitnir banki hf. og Straumur-Burðarás Fjárfestingabanki hf. settu sér. Eingöngu er vikið að þeim hluta reglnanna sem fjalla um yfirráð og fjárhagslega tengda aðila í skilningi 2. gr. reglna nr. 216/2007. Ítarlegustu útfærsluna á þessum reglum er að finna hjá Landsbankanum og Straumi-Burðarási, en hvorki Kaupþing banki né Glitnir banki útfærðu hugtökin nánar en gert er í reglum Fjármálaeftirlitsins nr. 216/2007.
8.6.4.2 Landsbanki Íslands hf.
Landsbankinn útfærði nánar í sínum reglum hvað átt væri við með beinum og óbeinum yfirráðum: Bein eða óbein yfirráð eru talin vera til staðar þegar samband er sambærilegt við samband móður- og dótturfélags eins og það hefur verið skilgreint í tilskipun um samstæðureikningsskil (Consolidated Accounts Directive 83/349/EC) sem hefur verið innleidd með 1. gr. laga nr. 3/2006, um ársreikninga, og 97. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Því er um yfirráð að ræða:
"Ef einn viðskiptamaður á meira en 50% hlutafjár (meirihluta atkvæða) í öðrum og er þá litið á að um eina skuldbindingu/áhættu sé að ræða.
Ef einn viðskiptamaður ræður eða hefur rétt til að skipa meirihluta stjórnar í öðrum viðskiptamanni, þó að hann eigi ekki meira en 50% hlutafjár, þá er litið á að um eina skuldbindingu/áhættu sé að ræða.
Ef önnur atvik, t.d. ákvörðunarvald um rekstur og fjárhagslega stjórn eða hluthafasamkomulag um stjórnun félags, leiða til þess að líta beri svo á samband sé sambærilegt við samband móður- og dótturfélags."
Eins og sjá má af ofangreindu fór Landsbankinn þá leið að nota skilgreiningu laga um ársreikninga nr. 3/2006 til að skilgreina yfirráð. Þannig er í grundvallaratriðum byggt á því að tengsl milli aðila þurfi að vera sambærileg við tengsl dóttur- og móðurfélags til að um yfirráð geti verið að ræða í skilningi reglnanna. Ljóst er að þessi skilgreining er umtalsvert þrengri en skilgreining laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti á yfirráðum sem og ákvæði 2. mgr. 17. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005.
Í reglum Landsbankans eru fjárhagsleg tengsl í skilningi b-liðar 2. gr. reglna nr. 216/2007 skilgreind nánar á eftirfarandi hátt:
"Við mat á því hvort líkur eru á að fjárhagserfiðleikar eins viðskiptamanns gætu leitt af sér greiðsluerfiðleika annars er m.a. horft til eftirfarandi atriða:
Hvort viðskiptamenn séu innan sömu samstæðu eins og skilgreint er í lögum um ársreikninga [...]
Hvort viðskiptamenn tengist þannig að eigandi (að öllu eða verulegu leyti =>50%) sé sami einstaklingurinn eða einstaklingarnir.
Hvort félög hafi sama eignarhald, sameiginlega stjórn eða framkvæmdastjórn með beinum eða óbeinum hætti.
Hvort viðskiptamenn séu í verulegum ábyrgðum og/eða gagnábyrgðum við aðra viðskiptamenn.
Hvort mikil viðskipti eða gagnkvæmt viðskiptasamband sé til staðar þannig að viðskiptamenn eru verulega háðir hvor/hverjum öðrum og tengslin verði ekki slitin með skjótum hætti, eða þannig að verulegt tjón hljótist af. Hér ætti t.d. undir þau tilvik þar sem viðskiptamaður byggir afkomu sína á viðskiptum við einn aðila þannig ef hann yrði gjaldþrota hefði það í för með sér verulega greiðsluerfiðleika fyrir viðskiptamanninn.
Við mat á því hvort telja beri aðila fjárhagslega tengda vegna áhrifa fjárhagserfiðleika eins viðskiptamanns gagnvart öðrum skal gæta varfærnis- og áhættustýringarsjónarmiða.
Við mat á eignatengslum ber að hafa til hliðsjónar að áhrif geta verið veruleg án þess að um yfirráð sé að ræða.
Við mat á því hvort aðilar séu fjárhagslega tengdir þarf að líta til þess ef um fjölskyldutengsl milli þeirra er að ræða.
Þegar um ábyrgðir er að ræða verður að fara fram mat á því hvort að sá sem veitir ábyrgðina lendi í fjárhagserfiðleikum komi til greiðslu hennar. Hafa skal til viðmiðunar hvort greiðsla ábyrgðarinnar leiði til þess að verulegur hluti af eigin fé ábyrgðarveitanda tapist. Ábyrgðir sama aðila skulu leggjast saman sem skuldbinding gagnvart bankanum.
Ef félög eru tengd vegna eignarhalds annars þeirra á hinu án þess þó að um yfirráð sé að ræða, skal engu að síður líta á þau sem fjárhagslega tengda aðila ef að full afskrift eignarhlutans hefði þau áhrif á fjárhæðir hjá félaginu sem nemur verulegum hluta af eigin fé félagsins.
Við mat á því hvort einstaklingar eru fjárhagslega tengdir getur þurft að horfa til þess hvort þeir hafa sameiginlegt heimili og skiptir þá ekki máli hvort þeir eru í hjúskap eða ekki (sameiginlegt lögheimili). einnig skal telja eigendur sameignarfélaga og sameignarfélagið sjálft vera fjárhagslega tengda aðila. Þá skal ráðandi hluthafi í hlutafélagi og einkahlutafélagi talinn tengdur félaginu sjálfu. Ennfremur skal hafa í huga að sé um gagnkvæmar ábyrgðir milli aðila að ræða, þ.e. einstaklingar eða lögaðila, getur verið rétt að telja þá fjárhagslega tengda í skilningi reglna þessara."
Í reglum Landsbankans er gert ráð fyrir að lánanefnd hans geti við ákveðnar aðstæður ákveðið að skilgreina áhættu gagnvart tveimur eða fleiri aðilum ekki sem eina áhættu, jafnvel þótt um yfirráð eða fjárhagsleg tengsl sé að ræða samkvæmt ofangreindu. Slík undanþága kemur meðal annars til greina við þær aðstæður að ákvæði í lánasamningi "útiloka að hægt sé að taka fjármuni út úr einu félagi til að fjármagna annað eða veita ábyrgðir milli félaga." Einnig gera reglurnar ráð fyrir að lánanefnd bankans geti við nánar tilgreindar aðstæður undanþegið mótaðilaáhættu frá reglunum þegar lán hefur verið veitt til eignarhaldsfélags sem hefur enga aðra starfsemi en að eiga skráða fjármálagerninga sem hafa verið settir bankanum að handveði. Er þá áhættan skilgreind á undirliggjandi fjármálagerninga, en ekki viðkomandi mótaðila/skuldara (eignarhaldsfélagið). Í dæmaskyni felur þetta ákvæði efnislega í sér að ef lán er veitt til einstaklingsins A og eignarhaldsfélagsins B, sem er alfarið í hans eigu, sé lánið til B ekki skilgreint sem áhætta á A heldur útgefanda hinna skráðu fjármálagerninga sem hafa verið settir að handveði. Síðastnefnd ákvæði eru ekki í samræmi við reglur Fjármálaeftirlitsins nr. 216/2007 sem gera ekki ráð fyrir að fjármálafyrirtæki geti einhliða tekið ákvörðun um að undanþiggja áhættu við þessar aðstæður, sé sannanlega um yfirráð að ræða milli tveggja eða fleiri aðila eða fjárhagsleg tengsl.Til að unnt sé að undanskilja áhættu með þessum hætti þarf að vera hægt að fella hana undir ákvæði 4. gr. reglna nr. 216/2007 um frádráttarliði frá reglum um stórar áhættur. Í síðastnefndu ákvæði er ekki að finna heimild til að fella áhættu niður á grundvelli ákvæða af ofangreindum toga.
8.6.4.3 Kaupþing banki hf.
Ekki er að finna nánari útfærslu á hugtakinu yfirráð og fjárhagsleg tengsl í útlánareglum Kaupþings banka hf., sbr. grein 3.5.5 í reglubók bankans frá mars 2008. Ákvæðið er efnislega samhljóða skilgreiningu a–b-liðar 2. gr. reglna Fjármálaeftirlitsins nr. 216/2007.Af þessu er ljóst að lána- og áhættunefndir bankans hafa tekið þetta til skoðunar í hvert sinn þegar ákvarðanir voru teknar um að stofna til áhættu, að höfðu samráði við áhættustýringarsvið bankans.
8.6.4.4 Glitnir banki hf.
Á sama hátt og hjá Kaupþingi banka hf. er ekki að finna nánari útfærslu á hugtökunum yfirráð og fjárhagsleg tengsl í útlánareglum Glitnis banka hf. Í reglum bankans er stuðst við skilgreiningu a–b-liðar 2. gr. reglna Fjármálaeftirlitsins nr. 216/2007, sbr. kafla 7.3 í útlánahandbók bankans (Credit Manual) frá 2007 og kafla 1.5.2 í lánahandbók bankans frá ágúst 2008.
8.6.4.5 Straumur-Burðarás Fjárfestingabanki hf.
Straumur-Burðarás Fjárfestingabanki hf. útfærði nánar hugtökin yfirráð og fjárhagsleg tengsl í reglum bankans um stórar áhættur sem voru gefnar út um vorið 2008. Ákvæði um þetta er að finna í 6. kafla reglnanna:
- "In assessing whether two or more legal entities form a single risk and should, as a consequence, be grouped together, regard shall be had for the following factors (cf. 2. Article 2 of the RoLE):
– whether the parties are so connected that they should properly be regarded as one, or
– whether one of them, directly or indirectly, has control over the other(s), or
– whether the clients concerned are so financially interconnected that, if one of them were to experience financial problems, the other(s) would be likely to encounter repayment difficulties. For the purpose of providing transparency and consistency to the process of determining the existence of control and financial dependency, the following guidelines have been set out.
6.1. Control The following guidelines shall be used to determine the existence of direct or indirect control. Specifically, two or more parties are considered to be under common control when:
one party controls more than 50% of the voting rights in another party; or
one party is owned by a husband and another by his wife or by their minor children living at home, or
other similar instances of common interests or control are evident, and the Credit Risk Management Unit determines that the parties concerned should be grouped.
6.2. Financial dependency Two or more entities shall be grouped together if there is significant financial interdependence between or among them. If A's financial performance is, for example, solely or significantly dependent upon B's performance, obligations of A and B should be regarded as a single exposure. Consideration should also be given as to whether there are any guarantees or other financial obligations between the parties concerned.
Examples indicating financial dependency between clients A and B include: A has a direct or indirect exposure to B large enough to cause severe financial difficulties for A should B experience financial difficulties. In particular, the size of the exposure relative to A's own funds shall be considered; A is a client of B, where B's financial performance is highly dependent on the relationship with A; A is an important supplier of B, where B's financial performance is highly dependent on the relationship with A; and A and B are financially dependent for other reasons as determined by the CRMU.
6.3. Multiple grouping of clients In general, an entity should not be included in more than one group of connected clients. Exceptions to this general guideline will be determined by the Credit Risk Mangement Unit."
Eins og sjá má af ofangreindu er hugtakið yfirráð skilgreint mjög þröngt í reglum bankans. Skiptir þá ekki máli hvort horft er til skilgreiningar hlutafélagalaga nr. 2/1995, laga um ársreikninga nr. 3/2006, samkeppnislaga nr. 44/2005 eða laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti. Ef horft er á skilgreininguna á fjárhagslega tengdum aðilum má einnig sjá að hún er þrengri en skilgreining b-liðar 2. gr. reglna Fjármálaeftirlitsins nr. 216/2007. Síðastnefnd ákvæði í reglum Fjármálaeftirlitsins gera þannig ekki ráð fyrir að það þurfi að vera veruleg fjárhagsleg tengsl milli aðila (significant financial interdependence) eða að aðilar þurfi að vera algerlega eða verulega háðir hver öðrum (solely or significantly dependent) til að um fjárhagsleg tengsl sé að ræða í skilningi reglnanna. Fjárhagsleg tengsl milli aðila geta haft í för með sér keðjuverkun fjárhagslegra erfiðleika, án þess að tengsl milli þeirra sé svo mikil.
8.6.5 Framkvæmd Fjármálaeftirlitsins
8.6.5.1 Eftirlitshlutverk Fjármálaeftirlitsins
Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi skal Fjármálaeftirlitið fylgjast með að starfsemi eftirlitsskyldra aðila sé í samræmi við lög, reglugerðir, reglur eða samþykktir sem um starfsemina gilda og að starfsemin sé að öðru leyti í samræmi við heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti, sbr. og 1. mgr. 107. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Fjármálaeftirlitið hefur þannig eftirlit með því að fjármálafyrirtæki starfi í samræmi við 30. gr. laga nr. 161/2002 um stórar áhættuskuldbindingar og reglur nr. 216/2007 sem settar eru með stoð í því ákvæði. Samkvæmt 7. gr. reglna nr. 216/2007 um stórar áhættuskuldbindingar skulu fjármálafyrirtæki eins og fyrr segir senda Fjármálaeftirlitinu skýrslu um stórar áhættuskuldbindingar viðskiptamanna og fjárhagslega tengdra aðila eigi sjaldnar en ársfjórðungslega, miðað við lok mars, júní, september og desember, á því formi sem það ákveður. Skýrslur þurfa að hafa borist Fjármálaeftirlitinu eigi síðar en 30 dögum frá uppgjörsdegi. Fjármálaeftirlitið fer yfir þessar skýrslur og gerir athugasemdir ef vafi kemur upp um hvort áhættuskuldbindingar séu innan lögmætra marka.
8.6.5.2 Valdheimildir Fjármálaeftirlitsins
Fjármálaeftirlitið getur gripið til víðtækra valdheimilda í tengslum framkvæmd eftirlits með stórum áhættum. Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 87/1998 er eftirlitsskyldum aðilum skylt að veita Fjármálaeftirlitinu aðgang að "öllu bókhaldi sínu, fundargerðum, skjölum og öðrum gögnum í vörslu þeirra er varða starfsemina sem Fjármálaeftirlitið telur nauðsynlegan." Samkvæmt sama ákvæði getur Fjármálaeftirlitið gert vettvangskannanir eða óskað upplýsinga "á þann hátt og svo oft sem það telur þörf á." Samkvæmt 3. mgr. 9. gr. sömu laga er einstaklingum og lögaðilum skylt að láta Fjármálaeftirlitinu í té allar upplýsingar og gögn sem það telur nauðsynleg. Ekki skiptir máli í því sambandi hvort upplýsingarnar varða þann aðila sem beiðninni er beint til eða þau skipti annarra aðila við hann er hann getur veitt upplýsingar um og varða athuganir og eftirlit Fjármálaeftirlitsins. Sérstaklega er tekið fram í síðastnefndu ákvæði að lagaákvæði um þagnarskyldu takmarki ekki skyldu til þess að veita upplýsingar og aðgang að gögnum. Samkvæmt þessu er ljóst að Fjármálaeftirlitið getur kallað eftir þeim upplýsingum sem nauðsynlegar eru til að meta hvort farið hafi verið eftir reglum um stórar áhættur.
Ef í ljós kemur að eftirlitsskyldur aðili fylgir ekki lögum og/eða reglum um stórar áhættur skal Fjármálaeftirlitið samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga nr. 87/1998 krefjast þess að úr sé bætt innan hæfilegs frests. Jafnvel þótt ekki sé ljóst að um skýrt brot gegn reglunum sé að ræða skal Fjármálaeftirlitið samkvæmt 2. mgr. 10. gr. sömu laga gera athugasemdir ef það telur "hag eða rekstur eftirlitsskylds aðila að öðru leyti óheilbrigðan og brjóta í bága við eðlilega viðskiptahætti".Við slíkar aðstæður er Fjármálaeftirlitinu heimilt, samkvæmt síðastnefndu ákvæði, að krefjast þess að úr sé bætt innan hæfilegs frests.Við aðstæður sem þessar getur Fjármálaeftirlitið samkvæmt 3. mgr. 10. gr. laganna boðað til fundar í stjórn eða framkvæmdastjórn hins eftirlitsskylda aðila til þess að fjalla um athugasemdir þess og kröfur og leiðir til úrbóta. Fulltrúa Fjármálaeftirlitsins er þá heimilt að stýra fundi og hefur hann bæði málfrelsi og tillögurétt.
Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. laga nr. 87/1998 getur Fjármálaeftirlitið lagt dagsektir á aðila ef hann veitir ekki umbeðnar upplýsingar eða sinnir ekki kröfum um úrbætur samkvæmt ofangreindu innan hæfilegs frests. Sektarákvæði þetta tekur til eftirlitsskyldra aðila sem og einstaklinga og lögaðila sem falla undir lög sem Fjármálaeftirlitinu er falið að framkvæma. Hið sama gildir um aðila sem geta veitt upplýsingar í þágu athugana um stórar áhættur. Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. laganna skulu dagsektir greiðast þangað til farið hefur verið að kröfum Fjármálaeftirlitsins og geta þær numið frá 10.000 kr. til 1 millj. kr. á dag.Við ákvörðun um fjárhæð dagsekta er heimilt að taka tillit til eðlis vanrækslu eða brots og fjárhagslegs styrkleika viðkomandi aðila.
Fjármálaeftirlitið hefur aldrei nýtt dagsektarheimild 1. mgr. 11. gr. laga nr. 87/1998 við framkvæmd eftirlits með stórum áhættum fram að falli bankanna.
8.6.5.3 Viðurlög við brotum gegn reglum um stórar áhættur
Samkvæmt 9. tl. 1. mgr. 110. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki getur Fjármálaeftirlitið lagt stjórnvaldssektir á hvern þann sem brýtur gegn ákvæði 1. mgr. 30. gr. laga nr. 161/2002 um stórar áhættuskuldbindingar. Hið sama gildir ef skuldbindingum er ekki komið í lögmætt horf innan þeirra tímamarka sem Fjármálaeftirlitið hefur gefið viðkomandi samkvæmt 3. mgr. 30. gr. laga nr. 161/2002.
Ef um meiriháttar brot er að ræða gegn reglum um stórar áhættur getur aðili bakað sér refsiábyrgð í formi sekta eða fangelsis allt að tveimur árum, liggi ekki þyngri refsing við samkvæmt öðrum lögum, ef brotið er gegn 30. gr. laganna um stórar áhættur, sbr. 7. tl. 1. mgr. 112. gr. b laga nr. 161/2002. Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. laga nr. 87/1998 ber Fjármálaeftirlitinu að vísa málum til efnahagsbrotadeildar lögreglunnar ef um meiri háttar brot er að ræða en brot gegn lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki sæta eingöngu rannsókn lögreglu að undangenginni kæru Fjármálaeftirlitsins, sbr. 1. mgr. 112. gr. d nr. 161/2002. Samkvæmt 2. mgr. 112. gr. d telst brot meiri háttar "ef það lýtur að verulegum fjárhæðum, ef verknaður er framinn með sérstaklega vítaverðum hætti eða við aðstæður sem auka mjög á saknæmi brotsins". Brot getur varðað refsingu samkvæmt ofangreindu hvort sem brot er framið af ásetningi eða gáleysi, sbr. 1. mgr. 112. gr. c laga nr. 161/2002. Hið sama gildir um stjórnvaldssektir, sbr. 4. mgr. 110. gr. laganna. Fjármálaeftirlitið hefur aldrei nýtt stjórnvaldssektarheimild samkvæmt 9. tl. 1. mgr. 110. gr. laga nr. 161/2002 við framkvæmd eftirlits. Engum slíkum málum hefur heldur verið vísað til efnahagsbrotadeildar lögreglunnar.
8.6.5.4 Útfærsla og framkvæmd Fjármálaeftirlitsins á reglum um stórar áhættur
Fjármálaeftirlitið hefur ekki með formlegum hætti útfært nánar en gert er í 2. gr. reglna nr. 216/2007 hvenær nauðsynlegt sé að skilgreina skuldbindingar tveggja eða fleiri aðila sem eina áhættu í skilningi 1. mgr. 30. gr. laga nr. 161/2002. Þannig hefur hvorki verið skilgreint nánar hvað átt sé við með yfirráðum í skilningi a-liðar 2. gr. né fjárhagsleg tengsl samkvæmt b-lið. Á hinn bóginn kemur fram í minnisblaði Fjármálaeftirlitsins frá nóvember 2008 að slíkar reglur hafi verið í mótun þótt þær hafi aldrei verið gefnar út. Í því kemur fram að við mótun þeirra reglna hefði verið horft til umræðuskjals samráðsnefndar evrópskra eftirlitsaðila með bönkum (CEBS – Committee of European Banking Supervisors) frá 7. desember 2007 (e. Second consultation paper on CEBS' technical advice to the European Commission on the review of the large exposure rules).
Í minnisblaði Fjármálaeftirlitsins frá því í nóvember 2008 er að finna umfjöllun um til hvaða atriða hefur verið horft þegar stofnunin metur hvort bein eða óbein yfirráð liggja fyrir. Um þetta segir meðal annars orðrétt:
"Yfirráð geta [...] átt við þegar aðili hefur yfir að ráða helmingi eða minna af atkvæðum félags. Þetta getur til dæmis átt við ef viðskiptavini hefur verið veitt umboð til meðhöndlunar atkvæðisréttar eða vegna ákvæðis í samþykktum félags. Einnig í þeim tilvikum þegar venjubundin þátttaka á aðalfundi félags er það lítil að fyrirsjáanlegt þykir að ákveðinn aðili mun hafa stjórn á ákvörðunum félagsins þrátt fyrir að atkvæðisréttur hans sé langt undir helmingi allra atkvæða félagsins.
Það geta einnig talist yfirráð þegar um bein eða óbein tengsl á milli aðila innan eða utan þess félags sem í hlut á er að ræða. Gildir þá einu hvort um er að ræða rík hagsmunatengsl eða persónuleg tengsl, reist á skyldleika, tengdum eða vináttu, eða tengsl reist á fjárhagslegum hagsmunum eða samningum, sem líkleg eru til að leiða til samstöðu aðila um að stýra málefnum félagsins í samráði hvor eða hver við annan þannig að þeir ráði yfir því.
Það gæti verið merki um yfirráð ef viðskiptavinur beitir einni eða fleiri af eftirfarandi heimildum:
- heimild til að ákveða þýðingarmiklar færslur, svo sem meðferð hagnaðar eða taps,
- heimild til að stjórna fjárhagslegri og rekstrarlegri stefnu félags og/eða með ákveðna starfsþætti þess s.s. fjármögnun,
- heimild til að skipa eða segja upp meirihluta stjórnenda fyrirtækisins, yfirstjórn þess, stjórnarmönnum eða öðrum með sambærileg völd,
- heimild eða umboð til að fara með meirihluta atkvæða á fundum stjórnar, hluthafafundum eða aðalfundum,
- heimild til að samræma stjórnun félags við annað eða önnur til að ná sameiginlegu markmiði.
Ef fjármálafyrirtæki er kunnugt um að einn viðskiptavinur hafi yfirráð yfir öðru félagi (lagaleg eða raunveruleg yfirráð), er mikilvægt að skoða vandlega eðli tengingarinnar og meta mögulega áhættu sem tengslin kunna að hafa í för með sér fyrir fjármálafyrirtækið. Ekki skal þó taka tillit til yfirlýsingar viðskiptavinar þar sem hann afsalar sér yfirráðum, þegar það er mat bankans að slík yfirlýsing hafi ekkert efnislegt gildi."
Ofangreind umfjöllun í minnisblaði Fjármálaeftirlitsins er að stórum hluta til þýðing á 87.–89. tl. umræðuskjalsins þar sem er að finna almenna umfjöllun um hvað átt er við með hugtakinu yfirráð að mati samráðsnefndarinnar (CEBS). Í minnisblaðinu er einnig að finna umfjöllun um hvað átt er við með hugtakinu fjárhagsleg tengsl í skilningi b-liðar 2. gr. reglna nr. 216/2007. Um þetta segir meðal annars orðrétt:
"Jafnvel þótt yfirráð eins viðskiptavinar yfir öðrum séu ekki til staðar, ber fjármálafyrirtæki að meta hvort viðskiptavinir séu háðir hvor öðrum á annan hátt og/eða hvort um samleitni sé að ræða. Ef það teljast meiri líkur en minni á því að fjárhagslegir erfiðleikar eins aðila valdi því að annar aðili lendi í greiðsluerfiðleikum, skal líta á þá sem eina heild við útreikning á stórum áhættuskuldbindingum.Tengslin geta verið annaðhvort gagnkvæm eða einhliða.
Eftirfarandi eru dæmi um að aðili sé háður öðrum og þarf fjármálafyrirtæki að færa rök fyrir því að tengja ekki slíka aðila saman:
- áhættuskuldbindingar til aðila sem eru fjárhagslega háðir hvor öðrum,
- áhættuskuldindingar til fyrirtækja þar sem sami aðili er stjórnandi og/eða stjórnarmaður hjá báðum fyrirtækjum,
- áhættuskuldbindingar vegna annars vegar viðskiptahúsnæðis og hins vegar leigjanda meirihluta sama húsnæðis,
- áhættuskuldbindingar þar sem annars vegar er aðeins einn framleiðandi/birgir tiltekinnar vöru og hins vegar aðeins einn kaupandi vörunnar,
- áhættuskuldbindingar vegna annars vegar framleiðanda/birgis vöru og hins vegar kaupanda vörunnar þar sem erfitt er að finna staðkvæmd vörunnar á skömmum tíma,
- áhættuskuldbindingar vegna fyrirtækja með fámennan samleitan hóp viðskiptavina þar sem erfitt getur reynst að afla nýrra viðskiptavina Þá skal tekið fram að tengja ber saman skuldbindingar aðila vegna fjölskyldutengsla s.s. hjónabands/sambúðar eða ófjárráða barna.
Fjármálafyrirtæki skal fylgjast með og endurmeta tengsl aðila reglulega. Komi upp ágreiningur milli fjármálafyrirtækis og Fjármálaeftirlitsins um tengingar aðila, skal ákvörðun Fjármálaeftirlitsins gilda... Fjármálaeftirlitið mælist til þess að fjármálafyrirtæki láti varfærnis- og áhættustýringarsjónarmið ráða ef vafi leikur á tengslum viðskiptavina."
Ofangreind umfjöllun í minnisblaðinu er að stórum hluta til þýðing á 91.–92. tl. umræðuskjals CEBS. Eins og sjá má er þarna að hluta til að finna sömu dæmin og talin voru upp í tilmælum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins frá 1986 og fjallað er um að ofan.
Umræða fór fram innan Fjármálaeftirlitsins á þeim tíma sem ofangreint minnisblað var gefið út um hvort rétt væri að gefa út reglur eða tilmæli af ofangreindum toga þar sem yfirráð og fjárhagsleg tengsl væru útfærð nánar. Niðurstaðan var sú að gera það ekki. Hafði þetta í för með sér að bankarnir útfærðu sjálfir nánar hvernig túlka bæri hugtakið yfirráð og fjárhagsleg tengsl. Á sama hátt hafði þetta í för með sér að fullt samræmi var ekki tryggt á framkvæmd þessara reglna milli eftirlitsskyldra aðila. Af eftirlitsframkvæmd Fjármálaeftirlitsins má ráða að oft hefur komið upp ágreiningur um útfærslu reglnanna og túlkun af hálfu eftirlitsskyldra aðila. Hefur slíkur ágreiningur þá jafnan komið upp eftir að viðkomandi fjármálafyrirtæki hefur stofnað til áhættunnar. Hefði Fjármálaeftirlitið verið búið að útfæra nánar túlkun sína á hugtökunum yfirráð og fjárhagsleg tengsl, eru minni líkur á að til áhættunnar hefði verið stofnað og má í mörgum tilvikum leggja til grundvallar að til hennar hefði ekki verið stofnað. Nærtækt er því að leggja til grundvallar að skortur á nánari útfærslu á hugtökunum yfirráð og fjárhagslega tengdir aðilar í 2. gr. reglna nr. 216/2007 hafi orsakað of frjálsa túlkun eftirlitsskyldra aðila á reglum um stórar áhættur með þeim afleiðingum að samþjöppun í útlánum og öðrum tegundum áhættu varð of mikil.
Stórar áhættuskuldbindingar árið 2004
Árið 2004 útbjó þáverandi starfsmaður Fjármálaeftirlitsins samantekt þar sem hann komst meðal annars að þeirri niðurstöðu að Kaupþing banki hf. og Landsbanki Íslands hf. hefðu ekki tengt stórar áhættuskuldbindingar saman á réttan hátt, meðal annars að því er varðar Baug Group hf. og tengda aðila. Í vinnuskjalinu eru m.a. færð rök fyrir því að Kaupþing hefði átt að telja skuldbindingar fleiri fyrirtækja með skuldbindingum Baugs Group hf. við útreikning á stórum áhættuskuldbindingum miðað við 30. júní 2004.Voru færð rök fyrir því í samantektinni að stórar áhættuskuldbindingar á Baug Group og tengda aðila næmu 67,5% af lögbundnu eigin fé bankans, sbr. töflu 1: Í vinnugögnum umrædds starfsmanns eru færð rök fyrir því að til viðbótar við framangreindar skuldbindingar hefði átt að telja með skuldbindingar Karen Millen, Fengs og fleiri aðila. Hefðu þær skuldbindingar verið taldar með námu stórar áhættuskuldbindingar Baugs Group og tengdra aðila samtals 123,6% af eiginfjárgrunni Kaupþings banka miðað við framangreint tímamark. Samkvæmt þessum vinnugögnum áttu Baugur Group og Gaumur á þessum tíma samtals 49,3% eignarhlut í Fasteignafélaginu Stoðum hf., og Eignarhaldsfélagið ISP ehf., sem var í eigu Ingibjargar Pálmadóttur, 18,1% hlut í Fasteignafélaginu Stoðum hf. Þá lá fyrir samkvæmt þessum vinnugögnum að þáverandi dótturfélag Baugs Group, BG Holding ehf., hefði átt 57% eignarhlut í Noel Limited sem átti aftur 100% eignarhlut í Patsy Limited. Þrátt fyrir það voru hvorki skuldbindingar á Patsy Limited né Noel Ltd. taldar með við útreikning á stórum áhættum Baugs Group, sbr. töflu 1. Skuldbindingar Haga voru ekki taldar með skuldbindingum Baugs Group, þrátt fyrir að Baugur Group og Gaumur færu með samtals 45,2% eignarhlut, Fasteignafélagið Stoðir með 25,5% eignarhlut og Eignarhaldsfélagið ISP ehf. með 2,1% eignarhlut.
Sambærileg vinnugögn var að finna um skuldbindingar Baugs Group og tengdra aðila gagnvart Landsbankanum. Í gögnum starfsmannsins eru færð rök fyrir því að áhættuskuldbindingar á Baug Group og tengda aðila hefðu numið 44,4% af lögbundnu eigin fé bankans hinn 30. júní 2004, sbr. töflu 2:
Áðurgreindum málum var hvorki fylgt eftir gagnvart Kaupþingi banka né Landsbankanum af hálfu Fjármálaeftirlitsins með viðeigandi valdheimildum. Samkvæmt þeim gögnum sem rannsóknarnefnd Alþingis hefur undir höndum virðist þessi vinna hafa fallið niður eftir að þessi starfsmaður hætti hjá Fjármálaeftirlitinu og var hún ekki tekin upp aftur fyrr en síðla árs 2007, um tveimur árum eftir að Jónas Fr. Jónsson tekur við stöðu forstjóra Fjármálaeftirlitsins. Aðspurður í skýrslutöku hjá rannsóknarnefndinni um stórar áhættuskuldbindingar bankanna segir Jónas Fr. Jónsson m.a. orðrétt:
"Ég verð var við þessa hluti um stórar áhættuskuldbindingar, þetta sé atriði sem skipti máli, þetta sé atriði sem þurfi að taka á á markaðnum og ég byrja strax að ræða það, ég byrja strax að setja vinnu í gang en því miður, þá kannski verður hún ekkert effektíf fyrr en við förum í þessa útlánaskoðun 2007."
Ragnar Hafliðason (RH) var næstráðandi í Fjármálaeftirlitinu á öllu tímabilinu sem um ræðir. Aðspurður í skýrslutöku um ofangreinda samantekt starfsmanns Fjármálaeftirlitsins sagði hann:
"...eins og ég bara vék að áðan, það er álitamál hvenær áttu að tengja. Það er eitt, en síðan þetta verkefni þarna sem þú ert að vitna til, var unnið þarna af tilteknum starfsmanni ...., sá starfsmaður hættir og þá var, [....] það var enginn settur sérstaklega í þetta, að viðhalda þessu, akkúrat þessari vinnu þarna í sko að svona teikna þetta upp með tilteknum hætti. Þetta var náttúrlega alveg stöðugt í, að breytast."
Rannsóknarnefndin lítur svo á að þær athugasemdir sem ofangreindur starfsmaður kom fram með árið 2004 hafi verið mjög mikilvægar og gefið Fjármálaeftirlitinu tilefni til að rannsaka fjárhagsleg tengsl ofangreindra aðila til hlítar og eftir atvikum grípa til viðeigandi valdheimilda.
Í næsta kafla er fjallað um nokkur dæmi úr eftirlitsframkvæmd Fjármálaeftirlitsins með reglum um stórar áhættur. Eins og þar kemur fram hefur iðulega komið upp ágreiningur milli Fjármálaeftirlitsins og eftirlitsskyldra aðila um túlkun á hugtökunum yfirráð og fjárhagslega tengdir aðilar. Ágreiningur af þessum toga hefur jafnan komið upp eftir að til áhættunnar hefur verið stofnað af hálfu eftirlitsskylds aðila og þá annaðhvort í kjölfar skoðunar starfsmanna Fjármálaeftirlitsins á skýrslum um stórar áhættur sem eins og fyrr segir er skylt að senda Fjármálaeftirlitinu fjórum sinnum á ári, eða í kjölfar vettvangsathugana. Það vekur sérstaka athygli að Fjármálaeftirlitið hefur ekki nýtt sér lögbundin valdheimildarúrræði til að knýja fram leiðréttingu í samræmi við túlkun stofnunarinnar á reglum um stórar áhættur. Þannig er ekki að finna dæmi þess að stofnunin hafi lagt dagsektir á eftirlitsskylda aðila í tengslum við framkvæmd reglna um stórar áhættur eða beitt heimild til að leggja á stjórnvaldssektir. Stofnunin hafði ekki heldur fram að falli bankanna í október 2008 sent nein mál frá sér sem snerta stórar áhættur til efnahagsbrotadeildar lögreglunnar. Fjármálaeftirlitið virðist hafa látið við það sitja að senda skriflegar athugasemdir til eftirlitsskyldra aðila, án þess að fylgja málum eftir á fyrrgreindan hátt. Bréfaskipti hafa þá í sumum tilvikum staðið yfir í lengri tíma, þar sem skipst hefur verið á skoðunum, án þess að nein niðurstaða hafi fengist í mál. Þetta hefur haft í för með sér að eftirlitsskyldir aðilar hafa í sumum tilvikum komist upp með það í framkvæmd að stórar áhættuskuldbindingar væru færðar í bækur þeirra í andstöðu við túlkun Fjármálaeftirlitsins, ýmist til lengri eða skemmri tíma.
8.6.5.5 Nokkur dæmi úr framkvæmd Fjármálaeftirlitsins
Hér á eftir verða talin upp nokkur dæmi úr eftirlitsframkvæmd Fjármálaeftirlitsins þar sem ágreiningur hefur komið upp á milli stofnunarinnar og eftirlitsskyldra aðila um túlkun reglna um stórar áhættur:
8.6.5.5.1 Landsbanki Íslands hf.
8.6.5.5.1.1 Actavis
Í bréfi Fjármálaeftirlitsins, dags. 22. mars 2007, eru rakin samskipti stofnunarinnar við Landsbanka Íslands hf. vegna úttektar sem var framkvæmd á áhættumælingum og áhættustýringu bankans á árinu 2005. Úttekt Fjármálaeftirlitsins hófst í apríl 2005 þegar stofnunin óskaði eftir nánar tilgreindum upplýsingum frá bankanum. Vettvangsathugun var framkvæmd hjá bankanum í september 2005 og fundir haldnir með útlánaáhættu, innri endurskoðun og bankastjórum bankans í október sama ár. Í febrúar 2006 kynnti Fjármálaeftirlitið drög að niðurstöðu athugunar á áhættum og bankanum gefinn kostur á að skila athugasemdum sem bárust í maí sama ár. Í drögum Fjármálaeftirlitsins voru gerðar fjölmargar alvarlegar athugasemdir við framkvæmd reglna um stórar áhættur. Ekkert gerðist í málinu fyrr en Fjármálaeftirlitið sendi frá sér endanlega niðurstöðu á úttektinni með fyrrgreindu bréfi dags. 22. mars 2007, eða rúmlega 10 mánuðum eftir að athugasemdir höfðu borist frá Landsbankanum og tæplega tveimur árum eftir að úttekt Fjármálaeftirlitsins hófst. Um skýringar á þessum drætti segir orðrétt í bréfi Fjármálaeftirlitsins:
"Vinna við skýrsluna hefur dregist nokkuð hjá Fjármálaeftirlitinu sem skýrist m.a. af mikilli starfsmannaveltu og annarra verkefna, s.s. viðbrögð við umræðu á markaði vegna endurfjármögnunar íslensku bankanna. Þrátt fyrir að nokkuð sé um liðið frá könnun Fjármálaeftirlitsins telur það mikilvægt að koma eftirfarandi niðurstöðum á framfæri."
Í bréfi Fjármálaeftirlitsins, dags. 22. mars 2007, voru gerðar alvarlegar athugasemdir við framkvæmd reglna um stórar áhættur. Í fyrsta lagi voru gerðar athugasemdir við það hvernig Landsbankinn skilgreindi fjárhagslega tengda aðila í nokkrum tilvikum, í öðru lagi taldi Fjármálaeftirlitið að bankinn hefði vantalið áhættur sem voru yfir 10% af eigin fé bankans, í þriðja lagi var misræmi í tölum í skýrslugjöf bankans, í fjórða lagi að skilyrði fyrir frádrætti frá stórum áhættum hefði ekki verið fullnægt í öllum tilvikum og í fimmta lagi hefði skort nafngreinanlegar upplýsingar um fyrirgreiðslur. Fjármálaeftirlitið fór fram á það í ofangreindu bréfi að þessar niðurstöður yrðu kynntar fyrir stjórn Landsbankans og að gerðar yrðu viðeigandi ráðstafanir til að bæta úr þeim atriðum sem athugasemdir voru gerðar við. Bankinn átti að gera grein fyrir stöðu mála eigi síðar en 20. apríl 2007. Með bréfi dags. 30. apríl 2007 bárust svör frá Landsbankanum. Í því bréfi var túlkun Fjármálaeftirlitsins á framkvæmd reglna um stórar áhættur mótmælt um nokkur þýðingarmikil atriði.Stærsti ágreiningurinn fjallaði um hvort skilgreina ætti Actavis Group hf.sem aðila fjárhagslega tengdan Björgólfi Thor Björgólfssyni og tengdum aðilum. Af hálfu Landsbankans var á því byggt að slíkt ætti ekki að gera en Fjármálaeftirlitið hafði komist að gagnstæðri niðurstöðu. Ekkert framhald varð að öðru leyti á þessu máli fram í september 2007 þegar Actavis Group hf. var tekið yfir og endurfjármagnað. Málið féll þá niður af hálfu Fjármálaeftirlitsins, en þá voru liðin tæplega tvö og hálft ár frá því að ofangreind úttekt hófst af hálfu stofnunarinnar.Allan þann tíma voru stórar áhættur gagnvart Björgólfi Thor og tengdum aðilum umfram hámark samkvæmt reglum um stórar áhættur, ef tekið var mið af túlkun Fjármálaeftirlitsins á yfirráðum og fjárhagslega tengdum aðilum í skilningi reglna nr. 216/2007 og sambærilegu ákvæði eldri reglna nr. 531/2003.Af minnisblaði Fjármálaeftirlitsins nr. 2 kemur fram að haldinn hafi verið innanhúsfundur hjá stofnuninni hinn 29. mars 2007 þar sem sérstaklega var fjallað um skuldbindingar Björgólfs Thors og tengdra aðila. Í minnisblaðinu kemur fram að Fjármálaeftirlitið telji engar forsendur til að breyta þeirri skoðun sinni að skilgreina bæri áhættu á Actavis Group hf. með áhættu á Björgólf Thor og tengda aðila. Á hinn bóginn kemur fram að Fjármálaeftirlitið hafi, þrátt fyrir þetta, samþykkt að heimila Landsbankanum að færa þessar skuldbindingar aðgreint við skýrsluskil miðað við 31. mars 2007. Fram kemur að slíkt verði ekki samþykkt við næstu skýrsluskil þar á eftir.
Þær athugasemdir sem Fjármálaeftirlitið gerði við skilgreiningu á fjárhagslega tengdum aðilum í tengslum við ofangreinda úttekt tóku einkum mið af skýrslu um stórar áhættur miðað við 30. júní 2005. Alvarlegasta athugasemdin laut að áhættu gagnvart Björgólfi Thor Björgólfssyni og tengdum aðilum en einnig voru gerðar athugasemdir við skilgreiningu á fjárhagslega tengdum aðilum vegna FL Group hf. og tengdra aðila, Baugs Group hf. og tengdra aðila og Avion Group hf./Magnúsar Þorsteinssonar og tengdra aðila. Hér að neðan er í stuttu máli gerð grein fyrir því máli sem mestur ágreiningur ríkti um á þessum tíma og ekki náðist niðurstaða um:
Skuldbindingar vegna Björgólfs Thors Björgólfssonar (BTB) og tengdra aðila
Í fylgiskjali með bréfi Fjármálaeftirlitsins dags. 22. mars 2007 kemst Fjármálaeftirlitið að þeirri niðurstöðu að áhættuskuldbinding Landsbankans gagnvart BTB og tengdum aðilum hafi numið að minnsta kosti 51,3 milljörðum króna kr. sem nam þá 49,7% af CAD eigin fé bankans. Þessi niðurstaða tók mið af stöðunni eftir að búið væri að beita hámarksfrádrætti samkvæmt reglum um stórar áhættur. Án frádráttar nam skuldbindingin 52% af eigin fé bankans.
Stærsti liðurinn í ágreiningi Fjármálaeftirlitsins og Landsbankans fjallaði um hvort skilgreina ætti skuldbindingar Actavis Group hf. við bankann með áhættu á BTB og ýmis félög sem óumdeilt var að væru fjárhagslega tengd honum. Á þessum tíma nam áhætta bankans vegna Actavis Group hf. 10,2% af eigin fé bankans. Af hálfu Fjármálaeftirlitsins var litið svo á að BTB og tengdir aðilar færu með raunveruleg yfirráð í Actavis Group hf. og því bæri að skilgreina skuldbindingarnar sem eina áhættu. Á þeim tíma fór BTB með 38,84% eignarhlut í Actavis Group hf.Taldi FME að tengsl BTB við Landsbankann og Burðarás hf. (síðar Straum-Burðarás) sem fóru þá samtals með 8,5% eignarhlut í Actavis Group hf. væru svo mikil að skilgreina bæri eignarhluti þeirra saman með BTB. Þá leit Fjármálaeftirlitið jafnframt til þess að aðrir hluthafar Actavis færu með smáa eignarhluti og því yrði að leggja til grundvallar að um yfirráð BTB væri að ræða í skilningi reglna um stórar áhættur. Þessari túlkun hafnaði Landsbankinn í sérstöku fylgibréfi dags. 30. apríl 2007. Þar er því haldið fram að BTB og tengdir aðilar hafi ekki farið með yfirráð í Actavis Group hf. og að ekki væri hætta á smiti á fjárhagslegum erfiðleikum milli þessara aðila vegna sterkrar fjárhagslegrar stöðu BTB og tengdra aðila að öðru leyti. Er þar sérstaklega vísað til fylgibréfs frá Novator dags. 18. apríl 2007 sem skrifað var af þessu tilefni þar sem nánari rök eru færð fyrir þessari túlkun. Eins og fyrr er rakið var Fjármálaeftirlitið ekki búið að beita valdheimildum sínum þegar Actavis Group hf. var yfirtekið og endurfjármagnað síðari hluta árs 2007.
8.6.5.5.1.2 Bakkavör Group og Exista
Samkvæmt minnisblaði Fjármálaeftirlitsins frá nóvember 2008 tengdi Landsbankinn í útlánaskýrslu 2007 ekki saman áhættu á Bakkavör Group og Exista hf., þrátt fyrir að Exista ætti 39,6% í Bakkavör auk þess sem Bakkabræður Holding B.V. ætti 45% eignarhlut í Exista. Auk þess sátu Lýður Guðmundsson og Ágúst Guðmundsson sem stjórnendur í þessum félögum. Í ljósi þessara eigna- og stjórnunartengsla taldi Fjármálaeftirlitið ljóst að umræddir aðilar væru fjárhagslega tengdir í skilningi 2. gr. reglna nr. 216/2007.
8.6.5.5.2 Kaupþing banki hf.
8.6.5.5.2.1 Mosaic Fashion
Í minnisblaði Fjármálaeftirlitsins frá nóvember 2008 kemur fram að ágreiningur hafi komið upp milli stofnunarinnar og Kaupþings banka hf. um hvort skilgreina ætti skuldbindingar gagnvart Mosaic Fashion með áhættuskuldbindingum á Baug Group, en slíkt hefði haft veruleg áhrif á áhættu bankans gagnvart Baugi Group. Ágreiningurinn kom upp vegna útlánaskýrslu Kaupþings banka hf. frá árinu 2007. Kaupþing banki hf. byggði á því að Baugur Group færi ekki með yfirráð í Mosaic Fashion og ekki væri um fjárhagsleg tengsl að ræða í skilningi 2. gr. reglna Fjármálaeftirlitsins nr. 216/2007. Fjármálaeftirlitið komst hins vegar að gagnstæðri niðurstöðu og taldi að Baugur Group hf. færi með yfirráð í Mosaic Fashion í skilningi a-liðar 2. gr. reglna nr. 216/2007. Eignarhaldið í Mosaic Fashion má sjá í töflu 9.
Í ljósi þess hversu stór eignarhlutur F-Capital ehf. var í Mosaic Fashion, sem var undir yfirráðum Baugs Group, framseldi það félag 9,01% atkvæðisréttar frá sér til Kevin Stanford og Don McCarthy (eiganda Don M. Ltd.) þannig að atkvæðisréttur F-Capital ehf. varð 39,9%. Don McCarthy sat á þessum tíma sem aðalmaður í stjórn Baugs Group og sat auk þess í stjórnum nokkurra annarra félaga sem Baugur Group átti hlut í. Af hálfu Fjármálaeftirlitsins var litið svo á að tengsl Don McCarthy og stjórnenda Mosaic Fashion, sem áttu hlut í því félagi, væru svo mikil að líta yrði á þessa aðila sem einn. Með hliðsjón af þessu taldi Fjármálaeftirlitið að um yfirráð væri að ræða og skilgreina bæri áhættu á Mosaic Fashion með áhættu á Baug Group. Fjármálaeftirlitið hafði hins vegar ekki beitt valdheimildum sínum til að knýja fram breytingar á þessu gagnvart Kaupþingi banka þegar bankinn féll í október 2008.
Markmið framsals F-Capital ehf. á 9,01% atkvæðisrétti til Kevin Stanford og Don McCarthy virðist hafa verið að koma í veg fyrir að skilgreina þyrfti áhættu á Mosaic Fashion með áhættu á Baug Group hf. Á þeim tíma sem þetta framsal átti sér stað miðuðust yfirráð í skilningi laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti við 40% atkvæðisrétt, en ekki 30% eins og reglunni var breytt með lögum nr. 22/2009. Ekki er ólíklegt að horft hafi verið til þessara marka þegar gengið var frá þessu framsali og þannig gengið út frá að nægilegt væri að framselja atkvæðisrétt undir 40% mörkin.
8.6.5.5.2.2 Baugur Group og Landic Property
Í skýrslu um stórar áhættur miðað við lok septembermánaðar árið 2007 hætti Kaupþing banki að skilgreina áhættu á Baug Group og Landic Property sem eina áhættu. Fram að þeim tíma hafði áhætta á þessi félög verið skilgreind sem ein áhætta á grundvelli þess að Baugur Group færi með yfirráð í Landic í skilningi a-liðar 2. gr. reglna Fjármálaeftirlitsins nr. 216/2007.Taldi Kaupþing banki að vegna breytinga á eignarhaldi í Landic færi Baugur Group ekki lengur með yfirráð í félaginu og því þyrfti ekki að skilgreina áhættu á þessi tvö félög sem eina. Eignarhald í Landic Property á þessum tíma má sjá í töflu 10.
Félagið 101 Capital sem fór á þessum tíma með 16,4% eignarhlut í Landic Property var í eigu Ingibjargar Pálmadóttur. Kaupþing banki horfði fram hjá þessum tengslum við skilgreiningu á hugsanlegum yfirráðum Baugs Group í félaginu.Af bréfaskiptum Kaupþings banka frá 21. desember 2007 má hins vegar ráða að eftir að Ingibjörg gekk í hjúskap með Jóni Ásgeiri Jóhannessyni hefði Ingibjörg og félög undir hennar yfirráðum verið skilgreind sem fjárhagslega tengd Baugi Group. Það var hins vegar ekki gert fram að þeim tíma, eins og skýrsla bankans miðað við 30. september 2007 bar með sér. Hér virðist bankinn hafa látið form ganga framar efni við skilgreiningu á fjárhagslega tengdum aðilum, því ljóst var á þessum tíma að mikil persónuleg tengsl voru milli Jóns Ásgeirs og Ingibjargar auk þess sem umtalsverð viðskiptaleg tengsl voru til staðar milli þeirra og félaga sem þeim tengdust.
Fjármálaeftirlitið nýtti ekki valdheimildir sínar til að knýja fram breytingar á ofangreindri skilgreiningu Kaupþings banka á stórum áhættum. Síðar áttu sér stað umtalsverðar breytingar á eignarhaldi Landic Property.
8.6.5.5.3 Glitnir banki hf.
8.6.5.5.3.1 Máttur ehf.
Í minnisblaði Fjármálaeftirlitsins frá nóvember 2008 kemur fram að ágreiningur hafi komið upp milli stofnunarinnar og Glitnis banka um hvernig ætti að skilgreina áhættu bankans á Mátt ehf., þar sem Milestone átti 50% eignarhlut í gegnum nokkur félög. Einnig voru umtalsverð stjórnunartengsl milli umræddra félaga. Áhætta á Mátt ehf. hafði af hálfu Glitnis banka verið skilgreind sem sérgreind áhætta og var því ekki flokkuð sem áhætta á Milestone-samstæðuna. Málið kom upp um mitt ár 2008 og var ekki lokið þegar bank-inn féll í október 2008.
8.6.5.5.3.2 Stím ehf.
Samkvæmt minnisblaði Fjármálaeftirlitsins frá nóvember 2008 tengdi Glitnir banki ekki saman áhættu á Stím ehf. og FL Group (síðar Stoðir). Í ljósi þess að verulegur hluti eigna Stíms ehf. (þá um það bil 1/3 hluti) var í hlutabréfum í FL Group, taldi Fjármálaeftirlitið umtalsverðar líkur á að ef FL Group myndi lenda í fjárhagslegum erfiðleikum myndi Stím ehf. jafnframt lenda í fjárhagslegum erfiðleikum. Taldi Fjármálaeftirlitið þannig vera um fjárhagsleg tengsl að ræða milli þessara aðila á grundvelli b-liðar 2. gr. reglna nr. 216/2007. Einu eignir Stíms ehf. á þessum tíma voru hlutabréf í FL Group og Glitni banka og hafði félagið tekið lán til að fjármagna kaupin á þeim bréfum.
Fjármálaeftirlitið hafði ekki beitt valdheimildum sínum til að knýja fram breytingar á útlánaáhættu Glitnis banka þegar bankinn féll í október 2008.
8.6.5.5.3.3 Félög í eigu Ingibjargar Pálmadóttur
Glitnir banki flokkaði ekki lán til félaga í eigu Ingibjargar Pálmadóttur með áhættu á hendur Baugi Group og félögum tengdum Jóni Ásgeiri Jóhannessyni.Var þetta gert þrátt fyrir að Jón Ásgeir og Ingibjörg væru saman í fjölmörgum fjárfestingum og hefðu til margra ára verið í sambúð og hjónabandi frá árinu 2007. Samkvæmt minnisblaði Fjármálaeftirlitsins frá nóvember 2008 tengdi Landsbankinn ekki heldur saman áhættu á þau í útlánaskýrslum árið 2007.
Þrátt fyrir ofangreinda afstöðu Fjármálaeftirlitsins beitti stofnunin ekki valdheimildum sínum til að knýja fram breytingar á útlánaáhættu bankanna.
8.6.5.6 Eftirlit með heildaráhættu í fjármálakerfinu
Eins og fyrr segir horfa reglur um stórar áhættur eingöngu til áhættu gagnvart einstökum fjármálafyrirtækjum en ekki gagnvart fjármálakerfi Íslands sem heild. Þannig getur áhætta eins eða fleiri innbyrðis tengdra aðila verið mjög mikil eða í hámarki hjá tveimur eða fleiri fjármálafyrirtækjum samtímis, með tilheyrandi hættu á keðjuverkun innan fjármálakerfisins ef fjárhagsleg vandræði koma upp. Þótt reglur um stórar áhættur séu hugsaðar þannig að þær eigi að koma í veg fyrir að fjármálafyrirtæki lendi í fjárhagslegum erfiðleikum vegna áhættu eins viðskiptavinar, eða innbyrðis tengdra viðskiptavina, eykst kerfisáhætta óhjákvæmilega ef áhætta slíkra aðila er mikil eða jafnvel í hámarki hjá tveimur eða fleiri fjármálafyrirtækjum. Í kafla 8.7 er farið yfir þá fyrirtækjahópa sem hæstu útlánin höfðu í bankakerfinu og sést þar að nokkrir hópar voru með umtalsverð útlán í fleiri en einum banka. Markverðastur af þessum hópum eru fyrirtæki tengd Baugi Group hf.
Þótt innlent eða erlent regluverk hafi ekki sérstaklega gert ráð fyrir takmörkun á möguleikum aðila til að stofna á sama tíma til stórra áhættuskuldbindinga gagnvart tveimur eða fleiri fjármálafyrirtækjum, hefði verið æskilegt af hálfu eftirlitsaðila að eiga frumkvæði að því að benda á þennan veikleika og leggja til breytingar til að draga úr áhættu í fjármálakerfinu.Var þetta sérstaklega æskilegt hér á landi vegna mikillar samþjöppunar á eignarhaldi fyrirtækja og krosseignatengsla, sem höfðu meðal annars verið harðlega gagnrýnd í lengri tíma af hálfu erlendra greiningaraðila.
8.6.6 Samanburður milli Íslands og helstu nágrannalanda
Í tengslum við úttekt á reglum um stórar áhættur var gerður samanburður á gildandi reglum í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Bretlandi. Ástæðan fyrir vali á þessum löndum var sú að í þessum löndum hafa íslensk fjármálafyrirtæki fyrst og fremst stundað starfsemi á undanförnum árum. Samanburðurinn beindist að því hvernig viðskiptamenn hafa verið tengdir saman vegna yfirráða eða fjárhagslegra tengsla og hvernig eftirlitsaðilar hafa staðið að framkvæmd eftirlits. Upplýsingar um gildandi reglur í þessum löndum voru fengnar frá viðurkenndum þarlendum fræðimönnum á þessu réttarsviði.
Af samanburðinum má ráða að reglur um stórar áhættur hafa verið innleiddar með sambærilegum hætti í ofangreindum löndum. Þar hefur ekki verið farin sú leið að hafa reglur um stórar áhættur strangari en tilskipunin gerir ráð fyrir, þrátt fyrir að slíkt sé heimilað í tilskipuninni. Útfærsla á því, hvenær yfirráð eða fjárhagsleg tengsl liggja fyrir, er ekki nákvæmari í löggjöf, reglugerðum eða reglum eftirlitsaðila samanburðarlandanna en útfærslan í 2. gr. reglna Fjármálaeftirlitsins nr. 216/2007. Sú grein er, eins og fyrr hefur verið rakið, þýðing á 45. tl. 4. gr. tilskipunar Evrópusambandsins um lánastofnanir. Í sumum samanburðarlöndunum er hins vegar að finna upptalningu á dæmum, eins og til dæmis í Danmörku þar sem eftirfarandi fjögur tilvik eru talin sérstaklega upp í reglum um stórar áhættur: 1) félög innan sömu samstæðu, 2) aðilar sem búa saman, hvort sem þeir eru í hjúskap eða ekki, 3) sameignarfélag og eigendur þess og 4) "hovedaktionær (hovedanpartshaver)" og viðkomandi félag.
Þrátt fyrir að reglur um stórar áhættur hafi verið innleiddar með sambærilegum hætti í helstu nágrannalöndum Íslands má ráða af réttarframkvæmd sumra þeirra að meiri festa virðist hafa verið í framkvæmd eftirlitsaðila á reglunum. Á þetta einkum við um framkvæmd eftirlits í Danmörku og Bretlandi þar sem eftirlitsaðilar hafa tekið fjölmargar ákvarðanir þar sem yfirráð og fjárhagsleg tengsl hafa verið skilgreind. Af framkvæmd eftirlitsaðila í Danmörku má til dæmis ráða að hugtakið yfirráð hefur verið skilgreint rúmt.
8.6.7 Ályktanir rannsóknarnefndar Alþingis
8.6.7.1 Innleiðing reglna um stórar áhættur
Reglur um stórar áhættur hafa verið innleiddar hér á landi í samræmi við tilskipanir Evrópusambandsins. Af hálfu Íslands var tekin ákvörðun um að hafa reglur um stórar áhættur ekki strangari en tilskipanir Evrópusambandsins gera ráð fyrir, þrátt fyrir að slíkt væri heimilt.
Eitt þýðingarmesta ákvæðið í reglum um stórar áhættur er ákvæði 2. gr. reglna Fjármálaeftirlitsins nr. 216/2007 sem fjallar um það hvenær tengja beri áhættu tveggja eða fleiri aðila saman á grundvelli yfirráða eða fjárhagslegra tengsla. Síðastnefnd hugtök eru mjög óljós og illa skilgreind í tilskipun Evrópusambandsins sem Fjármálaeftirlitið útfærði ekki nánar í sínum reglum nr. 216/2007. Hefur þetta haft í för með sér að fjármálafyrirtæki á Íslandi hafa í framkvæmd túlkað þessi hugtök of þröngt með þeim afleiðingum að of mikil samþjöppun myndaðist í áhættu þeirra.
Innleiðingin á Íslandi er þrátt fyrir ofangreint að stærstum hluta sambærileg við innleiðingu reglna um stórar áhættur í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Bretlandi.
8.6.7.2 Framkvæmd fjármálafyrirtækja
Stærstu fjármálafyrirtækin á Íslandi gáfu út reglur um stórar áhættur. Nokkuð misjafnt er hins vegar hvernig staðið var að setningu þessara reglna. Í sumum tilvikum voru gefnar út reglur sem voru efnislega samhljóða reglum Fjármálaeftirlitsins nr. 216/2007 á meðan reglurnar voru útfærðar nánar hjá öðrum.
Í þeim tilvikum sem reglur fjármálafyrirtækja um hvernig tengja bæri áhættu saman á grundvelli yfirráða eða fjárhagslegra tengsla voru ekki útfærðar nánar var ákvörðun um hvort tengja bæri aðila saman tekin af lánanefnd/áhættunefnd í samráði við áhættustýringarsvið bankanna. Þar sem enga nánari útfærslu var að finna á hugtakinu yfirráð eða fjárhagsleg tengsl hjá þessum aðilum myndaðist hætta á ósamræmi í ákvarðanatöku og sú hætta að reglurnar væru skilgreindar of þröngt. Af framkvæmd fjármálafyrirtækja má ráða að reglurnar voru í mörgum tilvikum túlkaðar mjög þröngt.
Í þeim tilvikum sem fjármálafyrirtæki útfærðu nánar í reglum sínum hugtökin yfirráð og fjárhagsleg tengsl í skilningi reglna Fjármálaeftirlitsins nr. 216/2007 um stórar áhættur var skilgreiningin mjög þröng.Var þá til dæmis valin sú skilgreining laga á hugtakinu yfirráð sem gengur skemmst á sviði félagaréttar. Í reglum sumra fjármálafyrirtækja var gert ráð fyrir að heimilt væri að veita undanþágur frá reglunum, sem voru ekki í samræmi við reglur Fjármálaeftirlitsins nr. 216/2007. Þannig er í sumum reglum gert ráð fyrir heimild lánanefndar/áhættunefndar til að veita undanþágu frá því að skilgreina áhættu tveggja eða fleiri aðila saman þrátt fyrir að yfirráð lægju óumdeilanlega fyrir á milli þeirra. Byggðist slík undanþága þá á ýmsum skilyrðum sem áttu sér ekki stoð í reglum Fjármálaeftirlitsins nr. 216/2007.
Af framkvæmd fjármálafyrirtækja á reglum um stórar áhættur má ráða að reglurnar hafa oft verið túlkaðar þröngt þegar í hlut áttu aðilar sem fóru með virka eignarhluti í bönkunum eða aðilar sem voru þeim tengdir á einhvern hátt. Þetta má glögglega ráða af málum þar sem ágreiningur hefur komið upp milli Fjármálaeftirlitsins og eftirlitsskyldra aðila. Gefur þetta til kynna að fjármálafyrirtækin hafi nýtt sér svigrúm til þröngrar túlkunar á reglunum þegar þessir aðilar áttu hlut að máli.
8.6.7.3 Framkvæmd eftirlits
Fjármálaeftirlitið taldi ekki rétt að útfæra nánar skilgreiningu á hugtökunum yfirráð og fjárhagsleg tengsl en gert er í tilskipun Evrópusambandsins um lánastofnanir. Eftirlitsaðilar í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Bretlandi virðast jafnframt hafa verið þessarar skoðunar, þótt reglurnar hafi verið útfærðar aðeins nánar í Danmörku.
Af minnisblaði Fjármálaeftirlitsins frá nóvember 2008 má ráða að Fjármálaeftirlitið túlkaði hugtakið yfirráð og fjárhagsleg tengsl í samræmi við viðmiðanir samráðsnefndar evrópskra eftirlitsaðila með bönkum (CEBS). Þetta má einnig ráða af ýmsum ágreiningsmálum sem komu upp milli Fjármálaeftirlitsins og eftirlitsskyldra aðila árin fyrir bankahrunið. Af þessum ágreiningsmálum má ráða að Fjármálaeftirlitið túlkaði hugtökin yfirráð og fjárhagsleg tengsl rúmt.
Sú staðreynd að Fjármálaeftirlitið tók ákvörðun um að útfæra hugtökin yfirráð og fjárhagsleg tengsl ekki nánar en gert er í tilskipun Evrópusambandsins um lánastofnanir hefur skapað ýmis vandamál. Þetta hefur þannig haft í för með sér að fjármálafyrirtæki hafa sjálf útfært þessi hugtök of þröngt. Fjármálaeftirlitið uppgötvar það síðan fyrst við reglubundin skýrsluskil fjármálafyrirtækja, eftir að búið er að stofna til áhættunnar. Ef Fjármálaeftirlitið hefði verið búið að leggja skýrari línur um útfærslu á þessum hugtökum eru minni líkur á því að til áhættunnar hefði verið stofnað í upphafi og þar með hefði samþjöppun áhættu ekki orðið eins mikil og raun ber vitni.
Framkvæmd eftirlits með stórum áhættum var á ýmsan hátt ófullnægjandi af hálfu Fjármálaeftirlitsins. Stofnunin beitti ekki valdheimildum sínum þrátt fyrir að vera búin að komast að þeirri niðurstöðu að einstök fjármálafyrirtæki hefðu gerst brotleg við reglurnar eða eftir atvikum túlkað þær of þröngt. Fjármálaeftirlitið hefur þannig aldrei fram að falli bankanna í október 2008 beitt dagsektum, stjórnvaldssektum eða vísað máli til efnahagsbrotadeildar lögreglu, þrátt fyrir að um tiltölulega augljós og alvarleg brot hafi verið að ræða gegn reglum um stórar áhættur miðað við túlkun stofnunarinnar á reglunum. Ekki er að sjá að Fjármálaeftirlitið hafi skort valdheimildir, heldur hafi eingöngu skort ákvörðunartöku um að beita þeim.
Reglur um stórar áhættur horfa eingöngu til áhættu gagnvart einstökum fjármálafyrirtækjum en ekki gagnvart fjármálakerfi Íslands sem heild. Þannig getur áhætta eins eða fleiri innbyrðis tengdra aðila verið í hámarki hjá tveimur eða fleiri fjármálafyrirtækjum samtímis, með tilheyrandi hættu á keðjuverkun ef fjárhagsleg vandræði koma upp. Framkvæmd eftirlits með stórum áhættum hefur ekki tekið mið af þessu.
8.7 Útlán til fyrirtækjahópa
8.7.1 Inngangur
Ákveðnir fyrirtækjahópar voru mjög umfangsmiklir í viðskiptum sínum við íslensku bankana. Í þessum kafla er leitast við að sýna þróun útlánafyrirgreiðslu bankanna til stærri fyrirtækjahópa á síðustu árunum fyrir hrun. Eins og fram kemur í kafla 8.6 risu ýmis álitaefni um hvernig hópur tengdra aðila skyldi skilgreindur samkvæmt reglum um stórar áhættuskuldbindingar og stangaðist túlkun bankanna á tíðum á við túlkun Fjármálaeftirlitsins. Í greiningu þessa kafla verður notast við sjálfstæða aðferðafræði til þess að skilgreina fyrirtækjahópa en aðferðafræðin grundvallast á upplýsingum um eignarhald fyrirtækja eins og lýst er í upphafi næsta kafla. Hóparnir sem skilgreindir eru í þessum kafla eru því aðrir en bankarnir sjálfir skilgreindu sem tengda aðila en í kafla 8.12 eru þeir hópar skoðaðir. Aðferðafræðin er hlutlæg og sú sama fyrir alla fyrirtækjahópa.
Eins og í kafla 8.5 eru upphæðir birtar í evrum til þess að endurspegla betur raunverulegar lánveitingar fremur en gengisbreytingar. Til þess að setja lánastöður í samhengi við reglur um stórar áhættuskuldbindingar eru heildarútlán til hvers fyrirtækjahóps jafnframt birt sem hlutfall af eiginfjárgrunni þess banka sem veitti lánin. Markmið kaflans er þó fyrst og fremst að varpa ljósi á samþjöppun áhættu en ekki að ákvarða hvort um lögbrot hafi verið að ræða.
8.7.2 Aðferðafræði við skilgreiningu fyrirtækjahópa
Aðferðafræðin sem beitt er til þess að skilgreina tengda aðila í greiningunni í kafla 8.7.2 er ítarlega útskýrð í viðauka II um krosseignatengsl en rétt er samt að lýsa stuttlega grunnhugsun hennar hér. Aðferðafræðin byggist á eignatengslum og grunngögnin eru hlutafjármiðar sem skilað er til ríkisskattstjóra. Eignarhaldsupplýsingarnar sem notaðar eru til þess að skilgreina tengda aðila eru byggðar á einum tímapunkti, þ.e. um áramótin 2007–2008. Fyrir stærri lántakendur sem hlutafjármiðar gátu ekki útskýrt eignarhald á var leitað handvirkt að eignarhaldsupplýsingum í þeim gögnum sem rannsóknarnefndin hafði undir höndum. Helst ber þar að nefna skýrslur og fundargerðir ýmiss konar sem bankarnir afhentu nefndinni.
Aðferðafræðin skilgreinir ákveðna "aðalaðila" sem unnið er út frá. Áhrifa- og eignamiklir einstaklingar geta verið valdir sem aðalaðilar sem og stór fyrirtæki sem tengjast mörgum. Þegar einstaklingur er valinn sem aðalaðili telst hópurinn sem tengdur er honum vera þau fyrirtæki sem hann á beint eða óbeint meira en 20% eignarhald í. Þegar fyrirtæki er valið sem aðalaðili er sömu aðferð beitt nema jafnframt teljast þeir aðilar til hópsins sem eiga meira en 20% eignarhald í aðalaðilanum. Einnig er bætt við þeim aðilum sem taldir eru fjárhagslega tengdir aðalaðilanum. Í því felst að þeir aðilar séu líklegir til að lenda í fjárhagserfiðleikum þegar aðalaðilinn lendir í greiðsluerfiðleikum. Hér er notast við það viðmið að verðmæti eiginlegs eignarhlutar aðilans í aðalaðilanum þurfi að vera meira en bæði eigið fé aðilans sem og 20% af heildareignum aðilans.Aðferðafræðin miðast að því að taka saman hópa aðila sem mynda saman tengda áhættu í kringum aðalaðilann. Það er að segja að aðilar hópsins eru ýmist líklegir til þess að lenda í vandræðum ef aðalaðilinn lendir í vandræðum og/eða vandræði þeirra eru líkleg til að skila sér í tapi til aðalaðilans sem kann þá að valda vandræðum annarra aðila hópsins. Með því að leggja saman útlán til allra aðila slíks hóps er reynt að draga fram hversu há heildarútlán væru til aðila sem líkur væru á að lentu í fjárhagserfiðleikum á sama tíma. Með þessari skilgreiningu getur sami aðilinn tilheyrt tveimur eða fleiri hópum sem skilgreindir eru út frá mismunandi aðalaðilum.
Eins og vikið var að í kafla 8.6 er ljóst að í framkvæmd túlkuðu bankarnir ákvæðin um tengsl aðila, í reglum um stórar áhættur, mjög þröngt. Sú aðferðafræði sem hér er beitt er ekki óumdeilanleg en hún er skýr og hlutlæg og varpar ljósi á samþjöppun áhættu. Það skal tekið fram að þessi aðferðafræði tekur ekki til tengsla í gegnum setu í stjórnum eða þess háttar, nema samhliða því séu eignatengsl eins og lýst var að ofan.
8.7.3 Fyrirtækjahóparnir
Samkvæmt aðferðafræðinni, sem lýst var í kafla 8.7.2 og beitt er hér, er fyrirtækjahópur skilgreindur út frá vali á aðalaðila, annaðhvort fyrirtæki eða einstaklingi. Hér er leitast við að lýsa þeim fyrirtækjahópum sem mest fengu lánað frá íslensku bönkunum.Valdir eru aðalaðilar til þess að fjalla um stærstu fyrirtækjahópana sem bankarnir skilgreindu sjálfir og lýsa hvernig sömu fyrirtækjahópar eru skilgreindir með aðferðafræði sem notuð er hér. Jafnframt eru skoðaðir stærstu hópar sem skilgreindir eru út frá einstaklingum sem aðalaðilum. Milli sumra hópa er nokkur skörun, þar sem í sumum tilfellum eru aðilar sem eiga sameiginlegar eignir. Eins og nefnt var í kafla 8.7.2 hér á undan getur því sama félag komið fyrir í fleiri en einum hópi. Á þann hátt er verið að lýsa því að sama félag getur verið tengt tveimur stórum aðilum sem hvor um sig geta talist þungamiðjur fyrirtækjahóps.
Greiningin byggist á útlánum móðurfélaga bankanna en ekki dótturfélaga. Þetta er vegna skorts á gögnum frá dótturfélögunum eins og lýst var í kafla 8.5.1. Myndir eru dregnar upp af þróun heildarútlána hvers fyrirtækjahóps frá byrjun árs 2005 fram til loka september 2008. Inni í því teljast bein útlán og svo upphæð fjármögnunar sem bundin er í framvirkum samningum. Sú heildarútlánaupphæð er því ekki nákvæmlega sú sama og áhættuskuldbinding eins og hún er reiknuð í samhengi við reglur um stórar áhættur. Helsti munurinn á þessum tveimur stærðum er sá að í heildarútlánaupphæðinni er frádrætti ekki beitt, til dæmis ef áhætta vegna útláns hefði verið seld til annars banka, og þá eru upphæðir framvirkra samninga að fullu inni í heildarútlánaupphæðinni en í útreikningi áhættuskuldbindinga koma framvirkir samningar ekki að fullu inn. Ábyrgðir eru ekki sýndar á myndum en þær eru nefndar hjá þeim hópum þar sem þær voru verulegar. Almennt var þó ekki mikið um háar ábyrgðir, samkvæmt gögnum um móðurfélögin. Hjá Glitni fór heildarupphæð ábyrgða hæst í rúma 30 milljarða króna í lok september 2008, hjá Kaupþingi námu ábyrgðir hæst rúmum 90 milljörðum í lok árs 2007 og í Landsbankanum fóru ábyrgðir hæst í rúma 90 milljarða króna í lok september 2008. Sumir fyrirtækjahópanna í greiningunni kunna að hafa haft mikil útlán í einum banka en lítil sem engin í öðrum og þá er aðeins lýst þróun í þeim banka sem veitti viðkomandi samstæðu veruleg lán. Þar sem meirihluti lána var í erlendri mynt og verulegar sveiflur voru í gengi krónunnar á tímabilinu er hér talið gefa eðlilegri mynd að birta lánsfjárhæðir í evrum.
Tölur um eiginfjárgrunn sem eru notaðar í greiningunni hér eru fengnar úr ársreikningum og því er um að ræða eiginfjárgrunn samstæðunnar en ekki móðurfélagsins eingöngu. Þær tölur voru bornar saman við tölur sem birtar voru í skýrslum um stórar áhættuskuldbindingar, sem bankarnir skiluðu inn til Fjármálaeftirlitsins. Í þeim skýrslum er bæði tiltekinn eiginfjárgrunnur móðurfélags og eiginfjárgrunnur samstæðu en hlutfallslega var mjög lítill munur að jafnaði á eiginfjárgrunni móðurfélagsins og samstæðunnar. Auk þess náðu þau gögn ekki jafnlangt aftur í tímann og ársreikningarnir. Að jafnaði var þó eiginfjárgrunnur samstæðunnar aðeins hærri en móðurfélagsins svo að hlutfall útlána af eiginfjárgrunni er hér lítillega vanmetið frekar en ofmetið. Þá kemur fram í kafla 11.0 að nefndin telur að veigamikil rök leiði til þeirrar niðurstöðu að veð sem tekin voru í eigin hlutabréfum bankanna hafi átt að koma til frádráttar við útreikning á eigin fé þeirra og því kunni eigið fé bankanna að hafa verið of hátt metið. Að því marki sem eigið fé hefur verið of hátt metið hefur það sömu áhrif, þ.e. að hlutfall útlána af eiginfjárgrunni er hér frekar vanmetið en ofmetið.
Þar sem eignarhaldsupplýsingarnar sem byggt er á eru aðeins frá einum tímapunkti er skilgreiningin á tengdum hópi réttust á þeim tímapunkti. Ekki var reiknað út frá hverjum tímapunkti þar sem það hefði verið tímafrekt en ekki bætt miklu við greininguna. Þetta veldur því að í nokkrum tilvikum teljast útlán hóps hærri snemma tímabilsins en ella, þ.e. í þeim tilvikum þar sem fyrirtæki komu inn í hópinn á tímabilinu sem skoðað var.Til dæmis má nefna að Lýsing hf. er sett í hóp Exista hf. og er þar með birt með Exista fyrir allt tímabilið þrátt fyrir að Exista hafi ekki keypt Lýsingu fyrr en á árinu 2006. Í öðrum tilvikum gæti vantað fyrirtæki sem hefðu átt að teljast með hópnum snemma tímabils. Þar má nefna að Fjárfestingarfélagið Grettir hf. var í tæplega helmingseigu Sunda hf. þangað til vorið 2007. Þar sem Grettir var kominn úr eigu Sunda í lok árs 2007 fellur Grettir ekki undir hópinn sem skilgreindur er með Sund sem aðalaðila. Þannig voru raunveruleg útlán Sundahópsins hærri fyrir árin 2005 og 2006 en greiningin hér gefur til kynna. Þau tilvik þar sem þetta hefur áhrif á greiningu eru hins vegar mjög fá og þetta hefur aðeins áhrif á heildarútlán hópsins snemma tímabilsins sem skoðað var. Fyrirtækjahóparnir sem skoðaðir eru í greiningu þessa kafla eru misstórir, bæði hvað varðar heildarútlán til hóps sem og fjölda aðila sem teljast til hóps og eru á bak við lánin.Takmörk eru fyrir því hversu marga aðila er hægt að merkja inn á hverja mynd en fyrir stærri aðila eru fleiri aðilar sýndir. Jafnan er þó hluti lána sem fellur undir "önnur félög" hópsins.Til þess að auka gagnsæi á því hvaða félög eru "önnur félög" er, fyrir hvern fyrirtækjahóp, birt tafla í fylgiskjali 3 við þennan kafla sem sýnir hvaða fyrirtæki teljast til hópsins. Í þeirri töflu er jafnframt sýnd hámarkslánastaða viðkomandi fyrirtækis hjá öllum bönkum síðustu ár ásamt tímasetningu þess hápunkts. Á þann hátt má betur skiljast hvaða fyrirtæki skipta máli í hverjum fyrirtækjahópi.
Við umfjöllun um hvern hóp er einnig vísað til lána viðkomandi hóps í dótturfélögum í Lúxemborg þar sem við á. Að öðru leyti er umfjöllun um lán dótturfélaga íslensku bankanna í Lúxemborg í kafla 8.10 eins og áður segir.
8.7.3.1 Baugur Group hf.
Sá fyrirtækjahópur sem umfangsmestur var í viðskiptum við íslensku bankana var Baugur Group hf. og tengdir aðilar. Útlán til Baugshópsins voru veruleg í öllum þremur bönkunum; Glitni, Kaupþingi og Landsbankanum. Í upphafi árs 2005 var Landsbankinn með hæst útlán til hópsins, Kaupþing með litlu minna og Glitnir svo með áberandi lægst útlán en á seinni hluta árs 2007 voru allir bankarnir með hátt í eða yfir tveggja milljarða evra útlán til samstæðunnar. FL Group, sem Baugur var stærsti hluthafinn í, var stærsti hluthafi Glitnis við fall bankans.
Mynd 51 sýnir þróun heildarútlána Baugshópsins hjá móðurfélögum stóru bankanna þriggja, sem fóru hæst í 5.740 milljónir evra í lok árs 2007, eða sem nam um 11% af öllum útlánum móðurfélaganna. Á sama tíma námu útlán bara til Baugs Group og FL Group tæpum 2,3 milljörðum evra, um 21% af samanlögðum eiginfjárgrunni stóru bankanna þriggja. Útlán bankanna þriggja til hópsins í heild sinni námu 53% af samanlögðum eiginfjárgrunni bankanna. Sjá má á myndinni að "Önnur félög" í hópnum voru með umtalsverð útlán hjá bönkunum. Sökum mikils fjölda félaga í Baugshópnum er erfitt að sýna þau öll á mynd en bent er á töflu 1 í fylgiskjali 3 við þennan kafla. Sú tafla sýnir alla aðila hópsins sem einhvern tímann frá upphafi árs 2005 höfðu yfir 5 milljóna evra heildarútlán hjáð stóru bönkunum þremur og Straumi-Burðarási.
Mynd 52 sýnir þróun útlána móðurfélags Glitnis til Baugs og tengdra aðila. Meginuppistaðan í útlánum til samstæðunnar er hjá Baugi sjálfum og því næst FL Group. Sjá má að þessir aðilar fara yfir 25% af eiginfjárgrunni Glitnis árið 2006 en á þeim tíma voru tengsl félaganna ekki jafnsterk og á árinu 2007. Eftir hlutafjáraukningu FL Group í desember 2007 var Baugur langstærsti hluthafi FL Group (sem raunar breyttist þá í Stoðir) og stjórnunarleg yfirráð Baugs yfir FL voru orðin skýr en Jón Ásgeir Jóhannesson var stjórnarformaður beggja félaga á þessum tíma. Í byrjun árs 2008 fara útlán Glitnis til þessara tveggja félaga yfir 40% af eiginfjárgrunni.Almennt voru þessi félög ekki flokkuð saman sem ein áhættuskuldbinding þrátt fyrir þessa skýru tengingu. Í rammagrein um samskipti Glitnis og Landic Property er ekki annað að sjá en að Jón Ásgeir Jóhannesson staðfesti þessa tengingu. Lárus Welding tók við af Bjarna Ármannssyni sem forstjóri Glitnis í lok apríl 2007. Þetta gerðist í kjölfar stórviðskipta sem fjallað er um í kafla 6.0 þar sem aðilar tengdir Baugi og fleiri juku hlut sinn verulega í bankanum. Ef útlán Baugshópsins hjá Glitni eru skoðuð sést að þau jukust verulega, eða rétt tæplega tvöfölduðust, næstu 6-10 mánuði eftir forstjóraskiptin. Bæði jukust útlán til FL og Baugs beint en einnig bættust önnur fyrirtæki hópsins við, eins og Kjarrhólmi og Landic Property (áður Fasteignafélagið Stoðir). Þegar heildarútlán móðurfélags Glitnis til Baugshópsins voru hæst fóru þau yfir 1,8 milljarða evra (þá 226,5 milljarða króna) eða í 66,7% af eiginfjárgrunni Glitnis.
Í ágúst 2008 veitti Glitnir ábyrgð á skuldbindingu Sports Investments, dótturfélags Baugs, vegna fyrirhugaðra kaupa á 10% hlut í Formúlu 1 liði. Samkvæmt fundargerð áhættunefndar voru samþykktar ábyrgðir vegna tæplega 20 milljóna punda skuldbindingar en í lok september 2008 stóð ábyrgðin í um 10 milljónum punda (12,5 milljónum evra) samkvæmt mánaðarlokayfirlitum.
Glitnir grípur til aðgerða gagnvart Landic Property
Fyrri hluta september 2008 var Glitnir að vinna í því að bæta stöðu sína gagnvart fasteignafélaginu Landic Property. Í því fólst að bankinn sóttist eftir auknum áhrifum á stjórnun fyrirtækisins til þess að tryggja hámarksendurheimtur bankans af lánum til Landic. Magnús Arnar Arngrímsson, framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs á Íslandi, sendi tölvubréf hinn 12. september 2008 til Skarphéðins Bergs Steinarssonar, þáverandi forstjóra Landic Property, um að bréf myndi berast um þessar aðgerðir bankans. Svar kom fyrir hönd Landic frá Jóni Ásgeiri Jóhannessyni sem hófst á orðunum: "Sæll Magnús. Sem aðaleigandi Stoða sem er stærsti hluthafi í Glitni langar mig að vita hvernig svona bréf á að þjóna hagsmunum bankans." Í tölvubréfinu setti Jón Ásgeir fram nokkrar spurningar um málið til Magnúsar. Sú síðasta var eftirfarandi "Gera stjórnendur sér grein fyrir því að Stoðir aðaleigandi Landic er jafnframt með leyfi FME að fara með ráðandi eignarhlut í Glitni hvernig heldur að þetta bréf líti út frá því sjónarmiði?" Ekki er annað að sjá en að Jón Ásgeir hafi talið sig bæran um að koma fram bæði af hálfu stjórnar FL og Baugs. Í því ljósi verður ekki annað séð en félögin hafi verið tengd í þeirri merkingu sem hér er miðað við. Bréfið ber einnig vitni því umboði sem fulltrúar stærstu hluthafa bankans, sem ekki sátu í bankaráði, töldu sig hafa til að hlutast til um daglegan rekstur bankans.
Mynd 53 sýnir þróun útlána móðurfélags Kaupþings til Baugshópsins. Heildarútlán til hópsins voru frekar stöðug frá byrjun árs 2006 fram að falli bankanna ef frá eru talin Mosaic Fashions Finance Ltd og Jötunn Holding ehf. Kaupþing tengdi ekki Mosaic við Baug, eins og fjallað er um í kafla 8.6, þrátt fyrir að F-Holding, dótturfélag Baugs sem Baugur átti að fullu, hafi átt 49% hlut í Mosaic. Jötunn Holding er síðan félag, 40% í eigu Baugs, sem var hluti af stórviðskiptum með hlutabréf í Glitni vorið 2007 sem voru undanfari stjórnarskipta í þeim banka. Nánar er fjallað um það í kafla 6.0. Með þessum félögum fóru útlán til hópsins hátt í 35% af eiginfjárgrunni Kaupþings á árinu 2007. Á það skal bent að talsverð lækkun birtist á grafinu frá miðju ári 2008. Sú lækkun er þó að miklu leyti vegna skuldatilfærslu sem tengist flutningi á fyrirtækinu Högum úr Baugi yfir í félagið 1998 ehf. sem fjallað er um í rammagrein. Félagið 1998 fellur ekki inn í Baugshópinn í aðferðafræðinni sem hér er beitt. Bæði 1998 og Baugur myndu þó falla inn í hóp sem væri skilgreindur út frá Fjárfestingarfélaginu Gaumi, sjá kafla 8.12.
Auk útlánanna á myndinni veitti Kaupþing ábyrgðir vegna skuldbindinga Baugs sjálfs, sem hæst fóru í um 80 milljónir evra í júní 2008, og vegna skuldbindinga Mosaic Fashions Finance Limited, sem námu hæst rúmum 20 milljónum evra um mitt ár 2007.
1998 – Verkefnin Gaumur lausnir og Lausnir
Vorið 2008 lánaði Kaupþing eignarhaldsfélaginu 1998 ehf. um 30,6 milljarða króna til að kaupa Haga út úr Baugi. Hluthafar 1998 voru Fjárfestingarfélagið Gaumur (82,3%), Eignarhaldsfélagið ISP (8,9%) og Bague SA (8,8%). Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum fólst þessi lánafyrirgreiðsla og annað sem henni tengist í eftirfarandi:
Í upphafi mars 2008 var útbúin kynning í Kaupþingi sem lýsir hvernig Kaupþing sá fyrir sér lausn á þeim vanda sem kominn var upp hjá Baugi Group. Þar kom fram að Baugur Group hafði tapað umtalsverðum fjárhæðum síðustu mánuðina og að Fjárfestingarfélagið Gaumur væri metið með neikvætt eigið fé. Í kynningunni segir m.a.:
"Looking at the cash needs for the months to come, Baugur is not going to be able to fulfill its obligations without outside intervention/help."
Í umræddri kynningu komu fram tvær meginhugmyndir:
(1) BG lausnir (síðar kallað verkefnið Lausnir). Þar er meðal annars miðað við að skylda Baug til að selja hluti sína í Jane Norman og Booker, en þar sem markaðsaðstæður væru slæmar yrði Kaupþing að vera kaupandinn. Glitnir var með útistandandi lán fyrir Booker-hlutabréfunum og miðaði lausnin að því að leysa það mál.
(2) Gaumur lausnir: Sett var fram hugmynd um að selja Haga til Fjárfestingafélagsins Gaums á móti greiðslu í hlutabréfum í Baugi, sem yrði útgönguleið fyrir Jóhannes Jónsson. Hagar yrðu greiddir út til hluthafa í Baugi Group, sem myndi gefa Kaupþingi 89% veð í Högum.
Í lokin segir að "a strive should be made to leave some of the debt against Hagar shares in Baugur Group".
Í tölvubréfi frá Hreiðari Má Sigurðssyni, forstjóra Kaupþings, til Sigurðar Einarssonar, stjórnarformanns, og annarra starfsmanna Kaupþings 8. apríl 2008 kl. 16:57 kemur fram að Hreiðar hafi hitt Jón Ásgeir Jóhannesson (JÁJ) vegna verkefnisins "Gaumur lausnir". Hreiðar sagði að JÁJ litist vel á nálgunina og að vonandi værum "við komnir þarna áleiðis með lausn sem tryggir okkar hagsmuni." Hann bætti jafnframt við að Baugsmenn hefðu áhyggjur af gjalddögum víxla í júní og júlí, og að hann hefði tjáð JÁJ að Kaupþing myndi skoða lausnir á þeim málum ef Baugur myndi vinna með þeim í þeim anda sem þeir vildu, sbr. lið (1) hér að framan. Hinn 29. maí 2008 var lánsbeiðni útbúin, mjög í anda upphaflegu tillögunnar. Samtals voru Jane Norman og Milton keypt af Baugi Group fyrir sem nam um 8 milljörðum króna, af Jötni Holding fyrir sem nam um 2 milljörðum króna og af BG Equity1 fyrir sem nam um 3,5 milljörðum króna. Þannig fóru 13,5 milljarðar króna út til að kaupa þessi hlutabréf, en aftur inn í Kaupþing sem greiðsla á skuldum þessara félaga við bankann. Þessu til viðbótar lánaði Kaupþing fyrir endurgreiðslu á víxlum Baugs, sbr. tölvubréfið hér að framan, og fyrir kostnaði vegna verkefnisins. Að lokum tók Kaupþing á sig ábyrgð á láni sem Glitnir var með útistandandi, að virði um 9,5 milljarðar króna. Lokaniðurstaða var að Kaupþing átti eftir viðskiptin hlutabréf í Jane Norman og Milton að virði um 13,5 milljarðar króna í stað útistandandi skulda Baugs og félaga honum tengdum en Kaupþing þurfti að auki að leggja út fyrir víxlunum. Fjármunaútstreymi frá Kaupþingi var því um 1,6 milljarðar króna.
Seinna verkefnið var því sem næst óbreytt frá tillögum Kaupþings í mars. Kaupþing lánaði félaginu 1998 ehf. 30,6 milljarða króna. Félagið 1998 keypti því næst Haga út úr Baugi fyrir 30 milljarða króna, af því notaði Baugur 10,2 milljarða króna til að greiða upp lán til Kaupþings og 4,7 milljarða króna til að greiða upp lán við Glitni. Baugur keypti síðan eigin hlutabréf af Fjárfestingafélaginu Gaumi ehf. (7,2 ma.kr.), Gaumi Holding ehf. (1,6 ma.kr.), Eignarhaldsfélaginu ISP (4,9 ma.kr.) og Bague S.A. (1,3 ma.kr.). Allur peningurinn fór því út úr og inn í Kaupþing eða Kaupþing Lúxemborg að undanskildum 4,7 milljörðum króna sem fóru til Glitnis.
Niðurstaða þessara tveggja verkefna var því (ef Kaupþing Lúxemborg er tekið með Kaupþingi) að um 6,3 milljarðar króna voru greiddir til annarra kröfuhafa en Kaupþings. Það varð einnig aukning í ábyrgðum sem nam um 9,5 milljörðum króna. Á móti fékk Kaupþing hlutabréf í Jane Norman og Milton í stað lána á Baug Group og skyld félög og síðan fékk Kaupþing 95,7% kauprétt á hlutabréfum í Högum ef 1998 ehf. stæði ekki í skilum.
Rannsóknarnefnd Alþingis vekur athygli á því að Baugur Group notaði hluta af sölutekjum sínum af því að selja Haga til 1998 ehf. til að kaupa eigin hlutabréf af stærstu eigendum sínum. Í þessu tilviki var um að ræða 15 milljarða króna virði hlutafjár, að því gefnu að hlutirnir hafi verið rétt verðlagðir, og ekki verður séð að félagið hafi selt öðrum þetta hlutafé síðar. Raunin var því sú að eigendur Baugs voru með þessu að taka til sín hluta af fjármunum félagsins, án þess að nokkuð lægi fyrir um hvort hagnaður yrði af rekstri félagsins árið 2008. Í eðli sínu jafngildir þetta arðgreiðslu, en með útgreiðslu á þessu formi var komist hjá því að uppfylla þyrfti skilyrði sem lög setja fyrir arðgreiðslum úr félögum. Baugur hf. var ekki búinn að selja hlutabréfin aftur út úr félaginu við fall bankanna, og hafði fyrirtækið heldur ekki farið þá leið að færa niður hlutaféð. Reglum um arðgreiðslu og lækkun hlutafjár er ætlað að vernda hagsmuni kröfuhafa en á þessum tíma voru þeir m.a. Landsbanki Íslands, lífeyrissjóðir og peningamarkaðssjóðir. Lækkun hlutafjár með greiðslu til hluthafa þarf t.d. að kynna fyrirfram með auglýsingum í Lögbirtingablaði, sbr. 53. gr. laga nr. 2/1995. Nefndin telur ljóst af þeim gögnum sem hún hefur kynnt sér að sú aðferð sem þarna var viðhöfð við kaup Baugs á eigin hlutabréfum hafi verið til þess fallin að rýra hagsmuni og stöðu þeirra fjármálafyrirtækja sem áttu kröfur á Baug og rannsókn nefndarinnar tekur til.
Mynd 54 sýnir þróun útlána móðurfélags Landsbankans til Baugshópsins.Aftur er áhugavert að líta á Baug og FL Group eingöngu en frá miðju ári 2007 og fram á árið 2008 sveifluðust heildarútlán Landsbankans til þessara tveggja fyrirtækja milli 25% og 30% af eiginfjárgrunni bankans. Meðal annarra stórra lántakenda í Landsbankanum úr þessum hópi má til dæmis nefna Goldsmiths,Teymi, Og Fjarskipti og fleiri.Allt frá byrjun árs 2005 fóru heildarútlán Baugshópsins ekki undir 50% af eiginfjárgrunni.Þó verður að hafa í huga, eins og áður hefur komið fram, að skilgreining hópsins er miðuð við lok árs 2007 svo að framan af tímabilinu er hún ekki jafnmarktæk.
Ábyrgð var útistandandi vegna skuldbindinga FL Group síðustu þrjá mánuði ársins 2007 og nam sú ábyrgð að jafnaði 17 milljónum evra. Jafnframt veitti Landsbankinn 3,2 milljarða ábyrgð á skuldbindingum Landic Property hf. og 1,8 milljarða ábyrgð á skuldbindingum FS6 ehf. gagnvart Glitni í september 2008. Þær ábyrgðir tengdust viðskiptum félagsins Styttu ehf. sem fjallað er um í kafla 8.12.
Mynd 55 sýnir útlán Straums-Burðaráss til Baugshópsins. FL Group og Baugur mynduðu grunninn, líkt og hjá stóru bönkunum, og stóðu fyrir um helmingi útlána bankans til hópsins í heild. Útlán til hópsins fóru hæst í rúman hálfan milljarð evra í lok árs 2006 sem þá nam yfir 35% af eiginfjárgrunni bankans.
8.7.3.2 Exista hf.
Exista hf. var stærsti einstaki hluthafi Kaupþings allt tímabilið sem skoðað var, með yfir fimmtungshlut.
Mynd 56 sýnir þróun útlána móðurfélaga stóru bankanna þriggja til Exista og tengdra félaga frá ársbyrjun 2005 fram til loka september 2008. Megnið af útlánunum var til Exista sjálfs, Símans, sem Exista eignaðist seinni hluta árs 2005, og Lýsingar, sem Exista eignaðist um mitt ár 2006. Heildarútlán stóru bankanna þriggja til hópsins sveifluðust í kringum 2 milljarða evra síðustu tvö árin fyrir fall þeirra.
Mynd 57 sýnir þróun útlána móðurfélags Glitnis til Existahópsins og þar sést að Exista og Síminn voru með bróðurpart lánanna. Þriðji stærsti aðilinn var svo Kista-fjárfestingarfélag ehf, sem var fjárfestingarfélag sparisjóðanna utan um eignarhlut þeirra í Exista. Kista átti nær eingöngu hlutabréf í Exista, og jók hlut sinn talsvert árið 2007 með lánum frá Kaupþingi, Glitni og Straumi. Kista fellur því undir Existahópinn hér þar sem eignir þess eru alveg háðar Exista og útlán til félagsins þar með einnig. Í ársbyrjun 2006 fór útlánastaða samsteypunnar sem hlutfall af eiginfjárgrunni bankans yfir 25% en eftir það sveiflaðist hlutfallið um 20%.
Mynd 58 sýnir þróun útlána móðurfélags Kaupþings til Existahópsins. Lýsing er þar stærsti hlutinn framan af en árið 2007 fluttust þær skuldir inn í Exista. Þá voru Síminn og Bakkabraedur Holding BV í Hollandi stórir skuldarar. Myndin sýnir heildarútlán sem hlutfall af eiginfjárgrunni Kaupþings ofan við 30% í lok árs 2005 og byrjun árs 2006 en þá var Lýsing ekki orðin hluti af Exista. Hlutfallið fór tímabundið aftur yfir 30% um mitt ár 2007 en sveiflaðist að öðru leyti um 25% mörkin.
Auk útlánanna veitti Kaupþing ábyrgðir vegna skuldbindinga New Ortland II Equity Limited en félagið var í eigu Ágústs og Lýðs Guðmundssona. Ábyrgðirnar sveifluðust nokkuð en fóru hæst í rúmar 50 milljónir evra í febrúar 2008.
Mynd 59 sýnir útlán Landsbankans til Existahópsins. Fyrir utan tímabundin útlán til Símans voru nær öll lánin til Exista sjálfs. Jafnframt veitti Landsbankinn ábyrgð á skuldbindingum Skipta hf., dótturfélags Exista, gagnvart Glitni í september 2008. Sú ábyrgð var upp á 5 milljarða króna og tengist viðskiptum félagsins Styttu ehf. sem fjallað er um í kafla 8.12.
8.7.3.3 Robert Tchenguiz
Af íslensku bönkunum voru Robert Tchenguiz og félög honum tengd aðeins í viðskiptum við Kaupþing svo að nokkru nemi. Mynd 60 sýnir þróun útlána móðurfélags Kaupþings til Robert Tchenguiz og fyrirtækja hans.
Félagið Razino Properties Ltd. fékk vorið 2007 lán sem námu um 613 milljónum evra (þá tæpir 54 milljarðar króna). Fram til desembermánaðar sama ár var þetta langstærsta útlánastaðan til félaga Tchenguiz. Síðla árs 2007 voru útlán vegna afleiðusamninga ýmissa fyrirtækja Tchenguiz sameinuð undir regnhlífarsamningi í Oscatello Investments Ltd. Útlánastaða Oscatello óx nokkuð jafnt og þétt fram að falli bankans og í júlí 2008 bættist við tæplega 220 milljóna evra útlán til Violet Capital Group Ltd í gegnum framvirkan samning eins og fjallað er um í kafla 8.9.3.2.
Snemma árs 2008 fóru heildarútlán móðurfélagsins til Tchenguiz-hópsins yfir 25% af eiginfjárgrunni samstæðunnar en þrátt fyrir það var haldið áfram að lána til Oscatello og raunar annarra fyrirtækja Tchenguiz. Þá var stór hluti lánveitinganna til Oscatello til þess að svara veðköllum sem erlendir bankar gerðu við Tchenguiz vegna afleiðusamninga.Til dæmis má nefna að á fundi lánanefndar stjórnar Kaupþings í janúar 2008 var Oscatello veitt yfirdráttarheimild til þess að svara mögulegum veðköllum fjármálafyrirtækisins Dawnay Day, bandaríska fjárfestingarbankans Morgan Stanley og Kaupthing Singer & Friedlander en sú heimild var hækkuð enn frekar á tveimur næstu fundum nefndarinnar, fyrst í mars og aftur í maí. Ávallt voru ástæður lánveitinganna sagðar vera til að svara veðköllum áðurnefndra banka. Í lok maí var þessi yfirdráttarheimild komin í 600 milljónir punda en kjörin voru 2,75% yfir libor-vöxtum. Kaupþing var því tilbúið að lána Oscatello á sama tíma og aðrir bankar voru að reyna að bæta tryggingastöðu sína gagnvart félögum Tchenguiz. Þá gerðist þetta á tíma þar sem lausafjárvandræði íslensku bankanna voru að verða mjög mikil.
Auk útlánanna voru útistandandi ábyrgðir Kaupþings vegna skuldbindinga Thorson Investment Limited, dótturfélags Oscatello, frá vori 2007 fram á mitt ár 2008. Hæstar voru þær um mitt ár 2007, um 300 milljónir evra, en á árinu 2008 sveifluðust þær um 50 milljónir evra.
Þá voru félög tengd Robert Tchenguiz einnig með umtalsverð lán við Kaupþing í Lúxemborg. Í lok ágúst 2008 námu áhættuskuldbindingar þar 26 milljörðum króna eða um 210 milljónum evra.
Eins og áður hefur komið fram eru tengingar hér eingöngu gerðar á grundvelli eignarhalds en ekki á grundvelli stjórnarsetu. Robert Tchenguiz var í stjórn Exista frá 14. mars 2007 og ef slík tengsl væru lögð til grundvallar mætti færa rök að því að Tchenguiz og Exista ættu að flokkast sem tengdir aðilar.
8.7.3.4 Björgólfur Thor Björgólfsson
Björgólfur Thor Björgólfsson var helmingseigandi í Samson eignarhaldsfélagi á móti föður sínum, Björgólfi Guðmundssyni, frá miðju ári 2005 en Samson var stærsti eigandi Landsbanka Íslands, með yfir 40% eignarhlut. Jafnframt var Björgólfur Thor stærsti eigandi og stjórnarformaður Straums-Burðaráss.
Mynd 61 sýnir heildarútlán Björgólfs Thors og tengdra aðila hjá móðurfélögum stóru bankanna þriggja. Þrír stærstu einstöku liðirnir voru Samson, Actavis (og tengd félög) og Fjárfestingarfélagið Grettir. Raunar var Fjárfestingarfélagið Grettir að stærstum hluta í eigu Björgólfs Guðmundssonar en í gegnum Samson og Novator var eiginleg eign Björgólfs Thors rétt rúmur fimmtungur í félaginu. Eins og fjallað er um í kafla 8.6.4.5 taldi Landsbankinn Actavis ekki tengt Björgólfi Thor, sem var stjórnarformaður félagsins. Útlán til hóps Björgólfs Thors fóru hæst í rúmlega 1,3 milljarða evra og voru þau aðallega hjá Glitni og Landsbankanum. Hlutur "annarra félaga" í hópnum er hér nokkur og er bent á töflu 4 í fylgiskjali 3 við þennan kafla en hún sýnir öll helstu félög sem töldust með í hópnum samkvæmt þeirri aðferðafræði sem beitt var.
Mynd 62 sýnir þróun útlána Glitnis til hóps Björgólfs Thors. Fjárfestingarfélagið Klaki ehf. var félag í eigu Björgólfs Thors utan um hlutabréf í Actavis. Því má í raun skipta útlánum Glitnis til hóps Björgólfs Thors í tvennt, til Samsonar annars vegar og hins vegar til Actavis og Klaka.Á árinu 2007 fóru heildarútlán hópsins yfir 30% af eiginfjárgrunni Glitnis.Við yfirtöku Björgólfs Thors á Actavis um mitt ár 2007, sem fjallað er um í kafla 8.8, voru skuldir bæði Actavis og Klaka við bankann greiddar upp og eftir það voru skuldir hópsins fyrst og fremst af hálfu Samson, um 10% af eiginfjárgrunni Glitnis.
Útlán Kaupþings til hóps Björgólfs Thors má sjá á mynd 63 en þau voru umtalsvert lægri en í hinum bönkunum. Samson var stærsti lántakandinn en Amber International, næststærsti lántakandinn, var annað félag í eigu Björgólfs Thors utan um hlutabréf í Actavis.
Mynd 64 sýnir útlán Landsbankans til hóps Björgólfs Thors. Þau voru nær eingöngu til Fjárfestingarfélagsins Grettis og Actavistengdra félaga. Sjá má að við yfirtöku Björgólfs á Actavis greiddi Actavis upp skuld sína við Landsbankann en örlítið hærra lán var veitt til Actavis Pharma Holding 2, sem var stofnað í kringum yfirtökuna. Nánar er sagt frá því í kafla 8.8. Í september 2008 veitti Landsbankinn Samson 168 milljóna punda lán, sem samkvæmt fundargerð lánanefndar Landsbankans var vegna gjaldþrots XL Leisure Group og ráðstafaðist allt til lækkunar á skuldbindingum við bankann. Síðustu 18 mánuðina fyrir fall Landsbankans sveifluðust heildarútlán móðurfélagsins til hóps Björgólfs Thors í kringum 20% af eiginfjárgrunni bankans.
Jafnframt var Björgólfur Thor langstærsta áhættuskuldbinding Landsbankans í Lúxemborg, eins og fjallað er um í kafla 8.10, upp á rúmlega 300 milljónir evra í lok september 2008. Það svaraði til tæplega 12% af eiginfjárgrunni samstæðu bankans um mitt ár 2008. Þá voru útistandandi ábyrgðir Landsbankans vegna tveggja félaga hópsins frá mars 2008 enn til staðar í lok september 2008. Ábyrgðir vegna skuldbindinga Novator Telecom Bulgaria Ltd. námu um 40 milljónum evra og ábyrgðir vegna Novator Partners LLP um 20 milljónum evra.
Mynd 65 sýnir útlán Straums-Burðaráss til Björgólfs Thors og tengdra aðila.Eins og hjá hinum bönkunum voru Samson og Actavistengd félög með stóran hluta útlána hópsins hjá Straumi-Burðarási. Jafnframt voru fasteignafélög tengd Björgólfi með lán í bankanum, svo sem AB Capital, Samson Properties og Samsons Partners – Properties 1. Þá veitti Straumur-Burðarás ábyrgðir vegna skuldbindinga bæði Björgólfs sjálfs og AB Capital ehf. Ábyrgðin vegna AB Capital var veitt í júní 2008, nam upphaflega 18,5 milljónum evra en í lok september 2008 nam hún 28 milljónum evra. Ábyrgð vegna Björgólfs var veitt í september 2008 og nam um 12 milljónum evra.
8.7.3.5 Björgólfur Guðmundsson
Björgólfur Guðmundsson var helmingseigandi í Samson eignarhaldsfélagi á móti syni sínum, Björgólfi Thor Björgólfssyni, frá miðju ári 2005. Félagið var stærsti eigandi Landsbankans og Björgólfur eldri var formaður bankaráðs bankans. Jafnframt var Björgólfur Guðmundsson stór eigandi í Straumi-Burðarási, þar sem sonur hans var stjórnarformaður. Þar með mætti færa rök fyrir því að þetta séu tengdir hópar, en hér eru þeir teknar í hvor í sínu lagi.
Mynd 66 sýnir heildarútlán móðurfélaga stóru bankanna þriggja til Björgólfs Guðmundssonar og aðila tengdra honum. Hæst fóru útlán til hóps Björgólfs yfir 1,3 milljarða evra. Helstu lántakendur í hópi Björgólfs voru Samson annars vegar og félög tengd Hlutafélaginu Eimskipafélagi Íslands hins vegar. Um Samson hefur nokkuð verið rætt í samhengi við Björgólf Thor og umfjöllun um Eimskipafélagið er síðar í þessum kafla. Fyrir utan þetta tvennt var Icelandic Group stærsti lántakandinn í hópnum.
Mynd 67 sýnir heildarútlán Glitnis til Björgólfs Guðmundssonar og aðila sem honum tengjast. Samson var langstærsti lántakandi hópsins hjá Glitni. Heildarútlán hópsins fóru hæst í tæp 15% af eiginfjárgrunni bankans og voru að jafnaði yfir 10%.
Eins og kom fram í umfjöllun um Björgólf Thor var Samson með útlán í Kaupþingi en að öðru leyti var hópur Björgólfs Guðmundssonar með lítil útlán í bankanum. Þetta má sjá á mynd 68. Þó veitti Kaupþing ábyrgðir vegna skuldbindinga Fjárfestingarfélagsins Grettis ehf. gagnvart Landsbankanum frá ágúst 2007 til ágúst 2008. Fram til júlí 2008 sveifluðust þær ábyrgðir milli 15 og 50 milljóna evra en í júlí og ágúst 2008 námu þær tæpum 150 milljónum evra (18 milljörðum króna).
Mynd 69 sýnir heildarútlán hóps Björgólfs Guðmundssonar hjá Landsbankanum sem fóru hæst í rúmar 900 milljónir evra. Heildarútlánin sveifluðust stærstan hluta tímabilsins á milli 30-35% af eiginfjárgrunni bankans.
Mynd 70 sýnir heildarútlán hóps Björgólfs Guðmundssonar hjá Straumi-Burðarási en stærsti hluti þeirra er til félaga sem tengjast Eimskipafélaginu. Síðla árs 2005 fóru útlán hópsins yfir 15% af eiginfjárgrunni bankans og héldust nokkuð stöðug þangað til um áramótin 2007/2008 þegar lán voru veitt Eimskipafélaginu og dótturfélögum þess, VersaCold Cascade og VersaCold U.S. Við það fóru heildarútlán Straums-Burðaráss til hóps Björgólfs yfir 350 milljónir evra og voru um og yfir 30% af eiginfjárgrunni eftir það.
8.7.3.6 Milestone ehf.
Milestone, félag að stærstum hluta í eigu bræðranna Karls og Steingríms Wernerssona, var stór hluthafi Glitnis allt tímabilið sem skoðað var. Þó minnkaði hlutur félagsins nokkuð í bankanum við sölu stórs hlutar vorið 2007, sem fjallað er um í kafla 6.0.
Mynd 71 sýnir útlán stóru bankanna þriggja til Milestone og tengdra aðila. Framan af tímabilinu er Milestone sjálft langstærsti lántakandinn í hópnum. Inn á myndina eru sett félögin Rákungur, Földungur og Svartháfur. Þau voru ekki öll formlega í eigu Milestone en öll voru þau stofnuð til þess að kaupa eignir út úr félögum tengdum Milestone og greiða þannig niður skuldir þeirra. Um þetta er nánar fjallað í kafla 8.8.
Mynd 72 sýnir heildarútlán Glitnis til Milestone og tengdra aðila. Á seinni helmingi ársins 2005 fara þau yfir 30% af eiginfjárgrunni bankans en þaðan í frá sveiflaðist þetta hlutfall frá 15% og yfir 20%. Á árinu 2008 veltur svo hlutfallið á því hvernig litið er á félögin sem stofnuð voru til þess að greiða upp skuldir Milestone erlendis. Jafnframt voru útistandandi ábyrgðir Glitnis vegna skuldbindinga Racon Holdings AB, dótturfélags Milestone, frá október 2007 til júní 2008 sem námu að jafnaði um 10 milljónum evra.
Útlán hinna tveggja stóru bankanna til Milestone-hópsins voru talsvert minni en hjá Glitni. Sýnu meiri voru þau þó hjá Landsbankanum, sér í lagi í hlutfalli við stærð bankans, og er það aðallega Milestone sjálft sem var stærsti lántakandinn. Myndir 73 og 74 sýna útlán Kaupþings og Landsbanka til Milestone-hópsins. Jafnframt veitti Landsbankinn ábyrgð á skuldbindingum Milestone gagnvart Glitni í september 2008. Sú ábyrgð var upp á 5,7 milljarða króna og tengist viðskiptum félagsins Styttu ehf. sem fjallað er um í kafla 8.12.
Mynd 75 sýnir útlán Straums-Burðaráss til Milestone-hópsins. Sjá má að sem hlutfall af eiginfjárgrunni voru útlánin veruleg, sérstaklega á árinu 2006 og í byrjun árs 2007 en um vorið 2007 lækkuðu skuldirnar umtalsvert í tengslum við sölu Milestone á stórum hluta í Glitni. Um þau viðskipti er fjallað í kafla 6.0.
8.7.3.7 Hlutafélagið Eimskipafélag Íslands
Mynd 76 sýnir heildarútlán stóru bankanna þriggja til Eimskipafélagshópsins. Langstærstur hluti útlána Hlutafélagsins Eimskipafélags Íslands og tengdra aðila var í Landsbankanum. Fjárfestingarfélagið Grettir hf. og Frontline Holding S.A. áttu hvort sinn þriðjunginn í félaginu en Björgólfur Guðmundsson var stærsti eigandi Grettis (í gegnum önnur félög) og Magnús Þorsteinsson, fyrrum meðeigandi Björgólfs í Samson eignarhaldsfélagi, var eigandi Frontline.
Mynd 77 sýnir útlán Glitnis til Eimskipafélagshópsins. Heildarútlán fóru hæst í um 100 milljónir evra en sem hlutfall af eiginfjárgrunni bankans sveifluðust þau í kringum 4% á tímabilinu. Síðustu 18 mánuðina má segja að lánin skiptist í þrjá nokkuð jafna hluta þar sem félagið sjálft var með einn hluta en tveir aðaleigendur þess hvor sinn hlutann.
Útlán Kaupþings til hópsins voru mjög takmörkuð en þau má sjá á mynd 78. Eyfirðingur ehf. er með einu verulegu útlánastöðuna en Eyfirðingur var félag í eigu Baldurs Guðnasonar, fyrrum forstjóra Eimskipafélagsins. Eyfirðingur fékk lán til kaupa á hlutabréfum í Eimskipafélaginu og fékk jafnframt sölurétt vegna þeirra bréfa. Þegar Baldur lét af störfum hjá félaginu í byrjun árs 2008 nýtti hann sölurétt sinn og Eimskipafélagið tók yfir lánið.
Mynd 79 sýnir þróun heildarútlána Eimskipafélagshópsins hjá Landsbankanum.Verulegur vöxtur varð á útlánum til hópsins á árinu 2005. Stærsti einstaki lántakinn var Fjárfestingarfélagið Grettir ehf. en framan af voru Eimskipafélagið sjálft og Frontline einnig stórir lántakendur. Á árinu 2006 var XL Leisure Group selt út úr Eimskipafélaginu til félagsins Jointrace sem var í eigu stjórnenda XL og Magnúsar Þorsteinssonar. Jointrace fékk 280 milljóna evra lán frá Landsbankanum til kaupanna.Andvirði lánsins gekk allt til lækkunar skulda Eimskipafélagsins við bankann en jafnframt gekk Eimskipafélagið í ábyrgð fyrir láninu. Útlán Landsbankans til Jointrace eru hér sett inn á myndina með Eimskipafélagshópnum vegna ábyrgðar Eimskipafélagsins á þessu stóra láni. Rúmlega 100 milljóna evra lán Frontline var greitt upp síðla árs 2006. Eins og sjá má í umfjölluninni um Landsbankann í Lúxemborg í kafla 8.10 sést hins vegar að Frontline var með 140 milljóna evra lán þar. Því gæti hafa verið um tilfærslu lánsins til Lúxemborgar að ræða. Frá miðju ári 2005 sveiflaðist heildarútlánatalan um og yfir 25% af eiginfjárgrunni.
Jafnframt veitti Landsbankinn ábyrgðir vegna skuldbindinga nokkurra félaga hópsins. Hlutafélagið Eimskipafélag Íslands og Eimskipafélag Íslands ehf. voru með ábyrgðir sem sveifluðust nokkuð, fóru hæst í um 90 milljónir evra samtals seinni hluta árs 2006 en námu að jafnaði 20–30 milljónum evra frá byrjun árs 2007. Þá veitti Landsbankinn ábyrgðir vegna XL Leisure Group PLC. snemma árs 2007 og námu þær á bilinu 10–15 milljónum evra að jafnaði.
Mynd 80 sýnir þróun útlána Straums-Burðaráss til Eimskipafélagshópsins. Útlánin voru nokkur á árunum 2006 og 2007 en jukust svo verulega í upphafi árs 2008. Bæði var þar um að ræða lán beint til Eimskipafélagsins og tengdra félaga. Á fyrstu 9 mánuðum ársins fóru útlán hópsins úr því að vera næstum engin og upp í 20% af eiginfjárgrunni bankans.
8.7.3.8 Magnús Kristinsson
Mynd 81 sýnir útlán stóru bankanna þriggja til Magnúsar Kristinssonar og félaga sem tengdust honum. Framan af tímabilinu voru lán til hópsins aðallega til félaganna BK-44 ehf. og Smáeyjar ehf. en frá og með nóvember 2006 var Gnúpur fjárfestingafélag ehf. á bak við megnið af útlánum til hópsins, sem hæst námu yfir 1150 milljónum evra í október 2008. Snemma árs 2008 gekk Gnúpur í gegnum samninga við lánardrottna en eftir þá samninga var Gnúpur eign Glitnis. Nánar er fjallað um þetta í rammagrein í kafla 7.0.
Mynd 82 sýnir útlán Glitnis til hóps Magnúsar Kristinssonar. Mynstrið er svipað og á mynd 81 en hjá Glitni voru útlánin framan af til BK-44 ehf. og svo aðallega til Gnúps. Hæst fóru útlán Glitnis til hópsins í tæpar 550 milljónir evra seinni hluta árs 2007 og námu útlánin þá rúmlega 22% af eiginfjárgrunni bankans. Á myndinni sést að um mitt ár tók Stapi fjárfestingarfélag ehf. við hluta af lánum Gnúps en Stapi var dótturfélag Gnúps og keypti meðal annars hlutabréf í Landic Property og Mosaic út úr Gnúpi.
Mynd 83 sýnir lán Kaupþings til hópsins en þau voru miklum mun minni en lán hinna bankanna. Hjá Kaupþingi var aðeins um að ræða framvirka samninga um ýmis verðbréf.
Mynd 84 sýnir útlán Landsbankans til hóps Magnúsar Kristinssonar. Svipað mynstur sést og hjá Glitni, en hjá Landsbankanum voru útlánin framan af til Smáeyjar ehf. en svo aðallega til Gnúps. Seinni hluta árs 2007 fóru þó lán til Smáeyjar aftur að aukast á sama tíma og þau lækkuðu til Gnúps. Meðal þessara lána voru framvirkir samningar um hlutabréf Landsbankans. Frekari umfjöllun um Gnúp er í kafla 8.12 og í rammagrein í 7. kafla.
8.7.3.9 Ólafur Ólafsson
Í gegnum fjárfestingarfélagið Kjalar, sem Ólafur Ólafsson átti yfir 90% hlut í, var Ólafur næststærsti hluthafi Kaupþings með tæplega 10% hlut.
Mynd 85 sýnir þróun heildarútlána móðurfélaga stóru bankanna þriggja til Ólafs Ólafssonar og tengdra aðila en hæst fóru þau yfir 1,3 milljarða evra. Kjalar var með stærsta hlutann af þeim en einnig var HB Grandi með nokkuð stór lán, sem og dótturfélög Kjalars, Egla, Egla Invest og Kjalar Invest. Mikil lækkun varð í heildarútlánum til hópsins vorið 2007 en um það leyti flutti Kjalar fjármögnun á hlut sínum í Kaupþingi til Citibank. Um það er fjallað í kafla 8.8.
Mynd 86 sýnir útlán Glitnis til hóps Ólafs Ólafssonar, sem voru nokkuð stöðug yfir tímabilið, um 350 milljónir evra. Framan af voru Kjalar, Egla, HB Grandi og Samskip stærstu lántakendur Glitnis í hópnum. Seinni hlutann eru dótturfélög Kjalars, Egla Invest og Kjalar Invest stærstu lántakendurnir. Kjalar Invest var félag utan um Alfesca en Egla Invest fékk lán hjá Glitni í tengslum við uppgreiðslu lána við Citibank, sem fjallað er um í kafla 8.8. Þá voru skuldir Samskipa og Kjalars fluttar í Festingu, dótturfélag Kjalars, snemma árs 2008. Frá því snemma árs 2006 sveifluðust heildarútlán hópsins sem hlutfall af eiginfjárgrunni Glitnis í kringum 15%.
Mynd 87 sýnir útlán Kaupþings til hóps Ólafs Ólafssonar. Frá miðju ári 2006 var Kjalar stærsti lántakandinn. Eftir því sem leið á haustið 2007 og framan af árinu 2008 hækkuðu útlán til Kjalars verulega og tengdist það áðurnefndum uppgreiðslum lána við Citibank. Í september 2008 veitti Kaupþing tveimur dótturfélögum Kjalars, Partridge Management Group og Harlow Equities, lán í tengslum við viðskipti um skuldatryggingarafleiður Kaupþings. Um það er fjallað í kafla 7.0. Sem hlutfall af eiginfjárgrunni Kaupþings hækkuðu útlán hópsins hratt síðasta árið og voru tæp 18% við fall bankans.
Mynd 88 sýnir útlán Landsbankans til hóps Ólafs Ólafssonar. Allt fram að endurfjármögnun Kaupþingshlutar Kjalars voru útlán Landsbankans til hópsins um og yfir 200 milljónir evra. Þaðan í frá voru þó lánin aðeins um 50 milljónir evra, sem nam um 2,5% af eiginfjárgrunni bankans.
8.7.3.10 Fons hf.
Mynd 89 sýnir útlán stóru bankanna þriggja til Fons hf. og tengdra aðila. Fons var stærsti lántakandi hópsins, sér í lagi eftir því sem leið á tímabilið. Framan af tímabilinu voru útlán félagsins aðallega hjá Landsbankanum en á árinu 2007 varð veruleg aukning útlána til Fons og fleiri félaga í hópnum hjá Glitni.
Mynd 90 sýnir útlán Glitnis til Fonshópsins. Framan af tímabilinu voru útlán til hópsins aðallega til Skeljungs en sumarið 2007 varð mikil aukning útlána til hópsins. Í ágúst fékk Fons lán frá bankanum í gegnum framvirka samninga um ýmis hlutabréf upp á um 200 milljónir evra, en meðal stærstu undirliggjandi hlutabréfa í samningunum voru bréf þýsku bankanna Commerzbank og Deutsche Bank, bréf Glitnis sjálfs og bréf bandaríska flugfélagsins Americorp. Eftir það sveifluðust lán félagsins milli 200 og 300 milljóna evra, ýmist í formi framvirkra samninga eða beinna lána.Tvö félög úr Baugshópnum voru jafnframt með veruleg lán, þ.e. Milton ehf. og Sólin skín ehf. en Fons átti stóra hluta í þeim félögum á móti Baugi. Um var að ræða framvirka samninga hjá þessum félögum og er nánar fjallað um þá í kafla 8.9. Hæst fóru útlán Glitnis til hópsins í tæp 23% af eiginfjárgrunni í upphafi árs 2008. Eins og í tilviki Baugs vekur athygli að veruleg útlánaaukning varð til hópsins skömmu eftir stjórnar- og forstjóraskipti í bankanum. Þá veitti bankinn Skeljungi 13,3 milljóna dollara bankaábyrgð vegna eldsneytisviðskipta en ábyrgðir vegna skuldbindinga félagsins fóru hæst í sem nam tæpum 15 milljónum evra vorið 2008.
Hópurinn var með umtalsvert lægri lán frá Kaupþingi á tímabilinu eins og sjá má á mynd 91.
Mynd 92 sýnir lán Landsbankans til Fonshópsins, sem voru aðallega til Fons sjálfs. Útlánin uxu nokkuð jafnt og þétt á árunum 2006 og 2007 og fóru hæst í um 380 milljónir evra seinni part árs 2008 eða sem nam þá um 14% af eiginfjárgrunni bankans. Eins og sjá má á myndinni lækkuðu skuldir Fons verulega í september, enda greiddi Fons upp um 48 milljarða króna lán í þeim mánuði. Þetta var gert þegar félagið Stytta ehf. keypti Iceland Foods Group Limited af Fons fyrir 50 milljarða króna, sem fengnar voru að láni hjá Landsbankanum,sjá nánar í kafla 8.12.Þá voru útistandandi ábyrgðir Landsbankans frá mars 2008 vegna skuldbindinga NorthernTravel Holding hf. sem námu um 20 milljónum evra. Þær voru enn til staðar í lok september 2008.
8.7.3.11 Atorka Group hf
Mynd 93 sýnir heildarútlán stóru bankanna þriggja til Atorku Group hf. og tengdra félaga. Lánin uxu nokkuð jafnt og þétt fram á vorið 2007 þegar veruleg útlánaaukning til hópsins varð.
Mynd 94 sýnir þróun útlána Glitnis til Atorkuhópsins. Sjá má að lánin voru ekki veruleg í bankanum fyrr en sumarið 2007 en þá jukust lán til hópsins talsvert og fóru hæst í tæpar 350 milljónir evra, eða tæp 14% af eiginfjárgrunni bankans, í byrjun árs 2008. Stærstur hluti þessara útlána var til Geysis Green Energy ehf. og dótturfélags þess, Hvers 02 Holding ehf., en Atorka var næststærsti hluthafi Geysis á eftir FL Group og áttu félögin samtals yfir 80% hlutabréfa Geysis.
Mynd 95 sýnir þróun útlána Landsbankans til Atorkuhópsins. Þau jukust nokkuð jafnt og þétt fram á seinni hluta ársins 2007 þegar þau fóru í 290 milljónir evra eða tæp 11% af eiginfjárgrunni bankans.
8.7.3.12 Samherji hf.
Mynd 96 sýnir útlán stóru bankanna þriggja til Samherja hf. og tengdra aðila en hæst námu þau rúmum 570 milljónum evra.
Mynd 97 sýnir útlán Glitnis til Samherjahópsins. Þau voru nokkuð stöðug í rúmum 100 milljónum evra þangað til vorið 2007 en þá hækkuðu þau snarpt og fóru hæst í rúmar 380 milljónir evra vorið 2008 eða sem nam tæpum 13% af eiginfjárgrunni bankans. Athygli vekur að mesta útlánaaukningin á sér stað skömmu eftir forstjóraskipti í Glitni. Mynd 98 sýnir útlán Kaupþings til hópsins sem fóru hæst í um 250 milljónir evra. Mynd 99 sýnir loks útlán Landsbankans til Samherjahópsins en þau voru stærstan hluta tímabilsins undir 100 milljónum evra. Jafnframt veitti Landsbankinn ábyrgð á skuldbindingum Kötlu Seafood ehf., dótturfélags Samherja, gagnvart Glitni í september 2008. Sú ábyrgð var upp á 7 milljarða króna og tengist viðskiptum félagsins Styttu ehf. sem fjallað er um í kafla 8.12.
8.7.3.13 Byggingarfélag Gylfa og Gunnars hf.
Mynd 100 sýnir heildarútlán Byggingarfélags Gylfa og Gunnars hf. (Bygg) og tengdra aðila hjá stóru bönkunum þremur en þau fóru alls yfir hálfan milljarð evra. Mynd 101 sýnir útlán Glitnis til hópsins sem fóru aldrei yfir 6% af eiginfjárgrunni bankans. Stærstu aðilar þar voru Bygg sjálft og Bygg Invest. Mynd 102 sýnir útlán Kaupþings til hópsins. Þar er nánast aðeins um eitt lán að ræða, til Saxbygg Invest, en það tengist kaupum á stórum hlut í Glitni vorið 2007 sem fjallað er um í kafla 6.0. Saxbygg Invest var dótturfélag Saxbygg, sem var í helmingseigu Byggs á móti Saxhóli sem fjallað er um hér á eftir. Útlánin fóru aldrei yfir 5% af eiginfjárgrunni bankans.
Mynd 103 sýnir útlán Landsbankans til hópsins, sem voru álíka há og hjá hinum bönkunum tveimur til samans. Lánin hækkuðu smám saman með tímanum og voru síðasta rúma árið um eða yfir 10% af eiginfjárgrunni bankans.
8.7.3.14 Jákub á Dul Jacobsen
Mynd 104 sýnir útlán stóru bankanna þriggja til Jákubs á Dul Jacobsen og félaga sem honum tengdust.Vöxturinn var nokkuð jafn frá árinu 2005 og fóru útlánin hæst í um 470 milljónir í lok september 2008. Framan af tímabilinu var hópurinn aðallega með útlán hjá Kaupþingi en eins og sjá má á mynd 105 fóru þau hæst yfir 300 milljónir evra.
Frá byrjun árs 2006 uxu útlán Landsbankans til hópsins, aðallega til Lagersins ehf., nokkuð jafnt og þétt auk þess sem þau hækkuðu snarpt seinni hluta árs 2007. Lánin má sjá á mynd 106 en hæst voru þau í lok tímabilsins, rétt rúmar 250 milljónir evra og rétt rúmlega 10% af eiginfjárgrunni Landsbankans.
8.7.3.15 BNT hf.
BNT var í aðaleigu bræðranna Benedikts og Einars Sveinssona og fjölskyldna þeirra, en einnig átti Milestone hluta í félaginu. Þeir voru stórir eigendur, ásamt Milestone, í Glitni allt tímabilið sem skoðað var. Sér í lagi voru þeir stórir eigendur áður en þeir seldu stóran hluta eignar sinnar í bankanum vorið 2007. Meðal annars var Einar Sveinsson stjórnarformaður bankans um tíma.
Mynd 107 sýnir útlán þriggja stóru bankanna til félagsins BNT og tengdra aðila. Fyrir utan félagið sjálft voru helstu aðilar olíufélagið N1, Umtak fasteignafélag og Fjárfestingafélagið Máttur.
Mynd 108 sýnir útlán Glitnis til BNT og tengdra aðila en fyrir utan um 130 milljóna evra útlán frá Kaupþingi til Umtaks fasteignafélags, sem sjá má á mynd 109, voru aðeins veruleg lán frá Glitni til hópsins. Stærsti einstaki lántakandi Glitnis var N1 en Fjárfestingafélagið Máttur og BNT sjálft voru einnig stórir lántakendur, með um tæplega 100 milljóna evra lán hvort við fall bankans. Sem hlutfall af eiginfjárgrunni bankans fóru heildarútlán Glitnis til hópsins hæst í yfir 20% í byrjun árs 2006 og voru tæp 15% við fall bankans.
8.7.3.16 Eyrir Invest ehf.
Mynd 110 sýnir útlán stóru bankanna þriggja til Eyris Invest ehf. og tengdra aðila. Þau uxu jafnt og þétt á tímabilinu og hækkuðu snarpt snemma árs 2008. Mynd 111 sýnir útlán Glitnis til Eyrishópsins og mynd 112 sýnir útlán Kaupþings til hópsins.
Mynd 113 sýnir útlán Landsbankans til Eyrishópsins en þau námu um 50 milljónum evra fram í mars 2007 en þá fékk Eyrir Invest ehf. 4 milljarða króna að láni til að endurfjármagna skuldir á gjalddaga og til kaupa á hlutabréfum. Um vorið 2008 jukust heildarútlán til hópsins tímabundið í rúmar 370 milljónir evra, sem þá nam tæpum 15% af eiginfjárgrunni bankans. Þar af voru 190 milljónir evra til Marel Food Systems vegna brúarláns til að fjármagna kaupin á Stork.
8.7.3.17 FI fjárfestingar ehf.
Mynd 114 sýnir útlán stóru bankanna þriggja til FI-fjárfestinga og tengdra félaga en félagið, sem hét áður Fjárfestingafélagið Primus, var í eigu Hannesar Smárasonar og aðaleign þess var hlutur Hannesar í FL Group. Heildarútlán til hópsins sveifluðust nokkuð á tímabilinu og fóru hæst í rúmar 400 milljónir evra. Mynd 115 sýnir útlán Glitnis til hópsins og mynd 116 útlán Kaupþings.
Stærstur hluti lána félagsins var þó hjá Landsbankanum eins og sjá má á mynd 117. Hæst fóru útlán bankans til FI-hópsins í rúmar 320 milljónir evra í lok árs 2007 og sem hlutfall af eiginfjárgrunni bankans námu lánin hæst rúmlega 10%. Mynd 118 sýnir loks útlán Straums-Burðaráss til hópsins.
8.7.3.18 Icelandair Group hf.
Mynd 119 sýnir útlán stóru bankanna þriggja til Icelandair Group hf. og tengdra aðila. Í lok árs 2006 var Icelandair selt út úr FL Group og skráð á markað. Sá tímapunktur sést vel á mynd 119, en þá jukust lán til félagsins sjálfs auk nýrra eigenda þess.
Mynd 120 sýnir útlán Glitnis til Icelandair-hópsins en eftir að hafa hækkað mjög í tengslum við hlutafjárútboðið jukust lánin jafnt og þétt þar til þau náðu hámarki í byrjun árs 2008. Þá námu þau um 320 milljónum evra, eða sem nam 13% af eiginfjárgrunni bankans. Mynd 121 sýnir útlán Kaupþings til hópsins og mynd 122 sýnir útlán Landsbankans.
8.7.3.19 Nýsir hf.
Mynd 123 sýnir útlán stóru bankanna þriggja til Nýsis hf. og tengdra aðila. Útlánin jukust jafnt og þétt alveg fram á haustið 2008 og fóru hæst í tæpar 340 milljónir evra. Mynd 124 sýnir útlán Glitnis til hópsins.
Landsbankinn var á bak við langstærstan hluta útlána til Nýsishópsins eins og sést á mynd 125. Hæst fóru lán bankans til hópsins í rúmar 300 milljónir evra eða sem nam um 12% af eiginfjárgrunni bankans.
8.7.3.20 Nordic Partners ehf.
Mynd 126 sýnir þróun útlána Landsbankans til Nordic Partners ehf. og tengdra aðila en hópurinn var með óveruleg lán hjá öðrum bönkum. Sjá má að stærsti hluti lánanna var til NP Properties AB en hæst voru lán til hópsins í lok september 2008, um 300 milljónir evra eða um 12% af eiginfjárgrunni bankans. Jafnframt voru útistandandi ábyrgðir Landsbankans vegna skuldbindinga tveggja félaga hópsins fram til loka september 2008. Um 18 milljóna evra ábyrgð var útistandandi frá september 2007 vegna NP Properties AB og um 40 milljóna evra ábyrgð vegna NP Confectionary AB.
8.7.3.21 Eignarhaldsfélagið Fasteign hf.
Mynd 127 sýnir útlán Glitnis til Eignarhaldsfélagsins Fasteignar hf. en bankinn átti sjálfur tæplega 40% hlut í félaginu. Sjá má að útlánin jukust jafnt og þétt og voru hæst í lok september 2008 og stóðu þá í um 260 milljónum evra, eða um 11% af eiginfjárgrunni bankans.
8.7.3.22 Saxhóll ehf.
Mynd 128 sýnir útlán stóru bankanna þriggja til Saxhóls og tengdra aðila. Þróunin var svipuð og hjá Bygg hér á undan, enda stór hluti fjárfestinga sameiginlegur í gegnum Saxbygg. Utan þessara sameiginlegu þátta var Saxhóll lítillega umfangsminni í lántökum en Bygg. Mynd 129 sýnir útlán Glitnis til Saxhóls-hópsins sem voru ávallt undir 5% af eiginfjárgrunni. Mynd 130 sýnir útlán hópsins hjá Kaupþingi, en sú mynd er því sem næst sú sama og mynd 102. Útlán Landsbankans voru, eins og í tilviki Byggs, nokkru hærri en í hinum bönkunum framan af. Útlán Landsbankans til hópsins má sjá á mynd 131. Frá byrjun árs 2006 sveiflaðist hlutfall útlána bankans af eiginfjárgrunni á bilinu 6–8%.
8.7.3.23 Sund ehf.
Mynd 132 sýnir heildarútlán Sunda ehf. hjá stóru bönkunum þremur. Lánin hækkuðu jafnt og þétt frá árinu 2005 og fóru hæst yfir 470 milljónir evra seinni hluta árs 2007. Mynd 133 sýnir útlán hópsins hjá Glitni en hæst voru þau í ágúst 2008, tæpar 140 milljónir evra. Mynd 134 sýnir útlán Kaupþings til hópsins en þau voru stærstan hluta tímabilsins nokkuð undir 100 milljónum evra. Vorið 2007 var þó veitt lán til Sunda Holding ehf. sem jók útlán til hópsins tímabundið í um 270 milljónir evra. Lánveitingin til Sunda Holding tengdist kaupum félagsins á hlut í Glitni en nánar er fjallað um þau viðskipti í kafla 6.0. Þá veitti Kaupþing einnig ábyrgðir vegna skuldbindinga Bifreiða & landbúnaðarvéla ehf. Þær ábyrgðir sveifluðust í kringum 10 milljónir evra á árunum 2007 og 2008.
Fjármögnun Glitnishlutar Sunda Holding fluttist svo yfir til Landsbankans eins og sjá má á mynd 135 en hæst fóru lán bankans til Sundahópsins í rúmar 270 milljónir evra, sem nam rétt rúmum 10% af eiginfjárgrunni bankans. Mynd 136 sýnir loks lán Straums-Burðaráss til hópsins.
8.7.3.24 Gift fjárfestingafélag ehf.
Mynd 137 sýnir útlán stóru bankanna þriggja til Giftar fjárfestingafélags ehf. og tengdra aðila. Gift tók yfir eignir og skuldir Eignarhaldsfélagsins Samvinnutrygginga í lok árs 2007 en Gift var dótturfélag Samvinnutrygginga. Mynd 138 sýnir útlán Glitnis til hópsins, mynd 139 sýnir útlán Kaupþings og mynd 140 sýnir útlán Landsbankans. Hæst voru útlán Kaupþings til hópsins en veruleg hækkun í desember 2007 tengist lánveitingu til kaupa félagsins á hlutabréfum Kaupþings frá fjárfestingafélaginu Gnúpi. Um þau viðskipti er nánar fjallað í kafla 12.0.
8.7.3.25 Straumborg ehf.
Mynd 141 sýnir heildarútlán stóru bankanna þriggja til Straumborgar ehf. og tengdra félaga. Stærstu lántakendur hópsins voru Straumborg sjálf, Norvik hf., Norvest ehf. og Smáragarður ehf. Hæst fóru útlán til hópsins í um 430 milljónir evra. Mynd 142 sýnir útlán Glitnis til hópsins en þau fóru hæst í tæpar 140 milljónir evra. Mynd 143 sýnir útlán Kaupþings til hópsins en lán til Smáragarðs uxu nokkuð snarpt seinni hluta árs 2007. Hæst fóru lán hópsins hjá Kaupþingi í tæpar 200 milljónir evra. Mynd 144 sýnir loks útlán Landsbankans til hópsins. Þau voru nokkuð stöðug, milli 100 og 150 milljónir evra, fyrir utan mitt ár 2007 þegar þau hækkuðu snarpt í tæpar 250 milljónir evra. Ef myndir 143 og 144 eru skoðaðar sést að um tilfærslu lána milli Landsbankans og Kaupþings var að ræða seinni hluta árs 2007.
8.7.3.26 Jakob Valgeir Flosason
Mynd 145 sýnir útlán stóru bankanna þriggja til Jakobs Valgeirs Flosasonar og tengdra aðila en þau hækkuðu verulega á árinu 2007. Mynd 146 sýnir útlán Glitnis til hópsins, mynd 147 útlán Kaupþings og mynd 148 útlán Landsbankans. Frekari umfjöllun um útlán til Jakobs Valgeirs Flosasonar er að finna í kafla 8.12.
8.7.3.27 Brim hf.
Mynd 149 sýnir útlán stóru bankanna þriggja til Brims hf. og tengdra aðila. Mynd 150 sýnir útlán Glitnis til Brimshópsins og mynd 151 sýnir útlán Landsbankans til hópsins.
8.7.3.28 Materia Invest ehf.
Mynd 152 sýnir útlán stóru bankanna þriggja til Materia Invest ehf. og tengdra aðila. Mynd 153 sýnir útlán Glitnis til hópsins, mynd 154 útlán Kaupþings og mynd 155 útlán Landsbankans. Auk þessara útlána voru útistandandi ábyrgðir Kaupþings vegna skuldbindinga Kevins Stanfords, en Stanford átti þriðjung í Materia á móti Magnúsi Ármanni og Þorsteini M. Jónssyni. Þessar ábyrgðir námu um 110 milljónum evra frá seinni hluta árs 2005 fram á mitt ár 2006. Frá maí 2007 voru þær hins vegar talsvert hærri og námu um 250 milljónum evra. Þá skal bent á umfjöllun í kafla 7.0 um aðkomu Trenvis Ltd., félags í eigu Stanfords, að viðskiptum með skuldatryggingar Kaupþings í september 2008.
8.7.3.29 Skúli Þorvaldsson
Mynd 156 sýnir útlán Kaupþings til Skúla Þorvaldssonar og tengdra aðila. Þau tengjast annars vegar lánum til kaupa á hlutabréfum Kaupþings, sem fjallað er um í kafla 12.0, og hins vegar skuldatryggingaviðskiptum, sem fjallað er um í kafla 7.0. Auk lánanna veitti Kaupþing ábyrgð vegna skuldbindinga Holly Beach S.A. en þær ábyrgðir námu um 50 milljónum evra í ágúst og september 2008.
Skúli var einnig með umfangsmikil lán í Kaupþingi í Lúxemborg, eða sem nam um 460 milljónum evra í lok ágúst 2008 eins og fram kemur í kaflanum dótturfélög bankanna í Lúxemborg hér á eftir.
8.7.3.30 Fram ehf.
Mynd 157 sýnir útlán stóru bankanna þriggja til Fram ehf. og tengdra aðila. Mynd 158 sýnir útlán Glitnis til hópsins og mynd 159 útlán Landsbankans.
8.7.3.31 Stök fyrirtæki með stór útlán
Nokkur erlend félög voru með nokkuð stór útlán en tengdust ekki öðrum lántakendum bankanna beint og sjá má útlán þeirra stærstu á mynd 160. Salmones Cupquelan S.A. var með lán hjá Glitni og IOLIET Beheer B.V. var með lán hjá Landsbankanum. Önnur félög sem fram koma á myndinni voru með lán hjá Kaupþingi. Um Crosslet Vale Ltd. og Desulo Trading Ltd. er fjallað í kafla 12.0 í tengslum við lán til kaupa á hlutabréfum í Kaupþingi og Onca 2007-1 Ltd. varð til í tengslum við fyrirhuguð kaup Kaupþings á hollenska bankanum NIBC en nánar er fjallað um félagið í rammagrein hér á eftir.
Undirmálslán og NIBC bankinn
Kaupþing tilkynnti 15. ágúst 2007 að það hygðist kaupa hollenska bankann NIBC fyrir 2.985 milljónir evra. Í tilkynningunni kom fram að bandarísk undirmálslán í eigu NIBC skyldu flytjast yfir í fyrirtæki undir stjórn seljanda áður en kaupin gengju í gegn. Þannig myndi áhættan af þessum undirmálslánum ekki verða tekin yfir af Kaupþingi. Sama dag og kaupin voru tilkynnt ákvað lánshæfismatsfyrirtækið Moody's að setja Kaupþing (Aa3) og NIBC (Baa1) á lista yfir fyrirtæki með lánshæfi sem þyrfti að endurmeta, Kaupþing til mögulegrar lækkunar en NIBC til mögulegrar hækkunar. Moody's nefndi sérstaklega í tilkynningunni að eftir því hefði verið tekið að undirmálslán NIBC fylgdu ekki með í kaupunum, heldur yrðu áfram í eigu seljandans JC Flowers.Tvö lánamál sem fylgdu í kjölfarið urðu rannsóknarnefnd Alþingis tilefni til að draga saman frekari upplýsingar um þau.
Verkefnið Demantur (Project Diamond) og Onca 2007-1 Ltd.
Félagið Onca 2007-1 Limited var stofnað í tengslum við væntanlega yfirtöku Kaupþings á NIBC en Bjarki H. Diego, framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Kaupþings, lýsti í tölvubréfi til Sigurðar Einarssonar, Hreiðars Más Sigurðssonar, og fleiri starfsmanna Kaupþings tilurð félagsins þannig að það væri "félag (SPV) sem stofnað er í þeim tilgangi einum að halda utan um sk. "US sub – prime eignir" sem nú eru í eigu NIBC". Í tölvubréfinu kom einnig fram að afgreiða þyrfti lán til Onca, og væri þetta gert í tengslum við kaup Kaupþings banka hf. á NIBC. Bjarki bætti við að "í samningaviðræðum á milli aðila hefur Kauppþing lagt á það ríka áherslu að áðurgreindum "sub–prime" eignum verði haldið utan við kaupin vegna áhættu á því að þær geti lækkað í verði sakir óróa á húsnæðis- og lánamörkuðum í US." Lánið sem verið var að leita samþykkis vegna nam 280 milljónum dollara. Samþykki barst frá Sigurði Einarssyni fyrir kl. 20 þá um kvöldið og daginn eftir tilkynnti Kaupþing um fyrirhuguð kaup sín á NIBC.
Formlega voru þessi lán samþykkt á fundi lánanefndar stjórnar 16. október 2007. Þar var samþykkt að veita 236,5 milljóna dollara lán til kaupa á eignunum frá NIBC. Lánið var til þriggja ára og skyldu greiðast af þeim LIBOR-vextir ásamt 2% álagi. Einnig var samþykkt lán að upphæð 43,75 milljónir dollara sem brúarlán til að greiða kostnað og skatta við yfirfærslu eignanna. Á móti kom NIBC með eigið fé í félagið sem nam um 290 milljónum dollara. Rannsóknarnefnd Alþingis vill benda á að þetta var gert opinbert á markaði, þar sem tilkynnt var að undirmálslán NIBC, nettó að upphæð 528 milljónir dollara, hefðu verið færð í félag sem var meðal annars fjármagnað með "super-senior" láni frá Kaupþingi upp á 280 milljónir dollara.Í tilkynningu frá Kaupþingi 30. janúar 2008 kom fram að samkomulag hefði náðst milli Kaupþings og NIBC um að falla frá fyrirhugaðri yfirtöku. Í tilkynningunni kom sérstaklega fram að þetta væri gert "án þess að sérstakur kostnaður falli á Kaupþing". Sama dag kom fram á stjórnarfundi Kaupþings að þessi niðurstaða hefði náðst eftir 30 daga viðræður en í lokin hefði þetta verið sameiginleg ákvörðun. Þó var bent á að tvö málefni stæðu enn út af borðinu, annars vegar Onca, sem lýst hefur verið hér að framan, og Veca sem lýst verður hér á eftir. Gert var ráð fyrir að þessi verkefni stæðu eftir sem áður, enda virtust báðir aðilar hafa áhuga á að halda uppi nánum samskiptum.
Í fyrsta ársfjórðungsuppgjöri bankans árið 2008 höfðu eignir Onca rýrnað verulega og var lánið fært niður um 70%. Þetta var ekki endanleg afskrift heldur endurmetanleg niðurfærsla. Í sambandi við það vekur athygli að í fundargerð stjórnar frá 30. apríl 2008 kemur fram að virðismat 280 milljóna dollaranna sem lánaðir hefðu verið til Onca væri komið í 28 milljónir dollara, eða sem næmi 90% niðurfærslu.Aftur á móti var niðurfærslunni haldið í 70% af virði lánsins í hálfsársuppgjöri bankans sama ár.
Í lok nóvember 2008 gaf Moody's 23% af eignum Onca Ca-einkunn og 51% af þeim einkunnina C, sem þýðir að eignirnar voru nálægt eða komnar í vanskil. Á sama tíma gaf Standard and Poor's 73,5% af eignasafninu lánshæfismatið CC sem flokkar eignirnar sem viðkvæmar spákaupmennskueignir.
Í janúar 2009 bauð kaupandi 5 milljónir dollara í allar eignir Onca. Deloitte LLP í London taldi í verðmati sínu fyrir Fjármálaeftirlitið í apríl 2009 að virði eignanna í safninu væri um það bil 0-5 milljónir dollara. Hins vegar ber að nefna að Guðný Arna Sveinsdóttir, sem var áður starfsmaður Kaupþings og sat um tíma í skilanefnd Kaupþings, taldi að þetta verðmat væri "frekar agressívt þarna niður á við..... ég veit ekki betur og hef heyrt það að það séu að koma peningar inn á þennan strúktúr".
Verkefnið Veca og veðlán við Seðlabanka Evrópu
Í tölvubréfi frá Bjarka H. Diego, framkvæmdastjóra hjá Kaupþingi, 19. september 2007 kl. 20.11 til lánanefndar stjórnar var kynnt fyrirhuguð lánveiting í tengslum við skuldavafning sem NIBC var að setja saman til að nota í fjármögnun. VZ110 (Vredezicht's-Gravenhage 110 B.V.) var félag sem var 100% í eigu NIBC. Félagið hafði fjárfest að mestu í bandarískum skuldabréfavafningum.Vegna aukins flökts á fjármálamörkuðum var tap að myndast í þessu félagi sem yfirfærðist síðan beint á rekstrarreikning NIBC. Tilgangur lánveitingarinnar var yfirfærsla þessara eigna yfir í félagið NIBC Venture Capital N.V. (VECA) sem var að fullu í eigu NIBC Holding sem aftur var að fullu í eigu NIBC. Þetta átti að gera NIBC kleift að færa eignirnar jafnt og þétt niður í bókhaldi sínu með afskriftum (e. amortised cost), í stað þess að færa þær á markaðsvirði (e. market to market). Fjármögnun verkefnisins átti að hluta til að koma frá evrópska seðlabankanum, þar sem skipta átti eignum Veca upp í A- og B-flokk, fá lánshæfismat á A-flokkinn og nota hann síðan í endurhverf viðskipti við Seðlabanka Evrópu. Í fyrrgreindu tölvubréfi segir Bjarki H. Diego meðal annars að "lánveiting þessi eigi rætur sínar að rekja til nýlegra kaupa á NIBC banka og er tilgangur með lánveitingunni m.a. að tryggja að þeir skuldavafningar sem um er að ræða muni ekki fara í gegnum rekstrarreikning NIBC banka."
Lánin sem beðið var um voru annars vegar 300 milljónir evra til NIBC Holding og hins vegar 450 milljónir evra til félags sem hét Liquidity Management.Þessi lán enduðu að lokum bæði inni í Veca og voru notuð til að greiða fyrir eignir VZ110. Á móti þessum 750 milljóna evra lánum ætlaði NIBC banki að leggja inn 450 milljónir evra sem innlán strax. Því til viðbótar skyldu 300 milljónir evra koma inn í Kaupþing eftir að forgangsskuldabréfi Veca hefði verið komið inn sem veð á móti láni hjá evrópska seðlabankanum.
Það sem náðist fram með þessu fyrirkomulagi var fyrst og fremst tvennt. Í fyrsta lagi var komið í veg fyrir að tap hlytist hjá NIBC vegna minnkandi markaðsvirðis eignanna. Í öðru lagi yrðu eignirnar nú að hluta til fjármagnaðar af Seðlabanka Evrópu en það myndi bæta lausafjárstöðu NIBC. Lán Kaupþings til Veca var ekki greitt upp þegar kaupin á NIBC gengu ekki eftir.
Viðskiptunum með Onca og Veca var lýst á eftirfarandi hátt í tilkynningu NIBC: "NIBC's US sub-prime related portfolio was sold on 24 August 2007 to a company controlled by the shareholders of NIBC Holding N.V. for USD 528 million.The acquisition by that company was partially funded by USD 248 million from NIBC Holding N.V. advanced in exchange for preference shares in the company, which were subsequently distributed by NIBC Holding N.V. to NIBC Holding N.V.'s shareholders as a dividend. During 2007, NIBC recognised a pre tax trading loss of EUR 124 million on this portfolio (2006: nil). As of 24 August 2007, both NIBC Bank N.V. and NIBC Holding N.V. are no longer exposed to US sub prime residential mortgage securities.
On 24 August 2007,NIBC entered into a total return swap under which all gains and losses on NIBC's portfolio of US Commercial Real Estate structured credits (mainly CMBS and CRE CDOs) were transfered to NIBC Venture Capital N.V.,a public limited liability company incorporated under the laws of the Netherlands (Veca).Veca is indirectly a 100% subsidiary of NIBC Holding N.V. Under the terms of the total return swap between Veca and NIBC,Veca prepaid the equivalent of EUR 948 million to NIBC.Veca financed itself through EUR 300 million of equity provided by NIBC Holding N.V., EUR 198 million of subordinated financing provided by NIBC and EUR 450 million of senior debt provided by a third party.
Under the terms of the total return swap between NIBC and Veca, fair value movements on the US commercial real estate portfolio are offset by compensating fair value movements on the total return swap. On 21 December 2007, NIBC terminated the total return swap by transferring the contractual rights to receive cash flows on the portfolio of US Commercial Real Estate structured credits to Veca.As consequence of this transfer, NIBC derecognised these assets on 21 December 2007. In the period from 1 January 2007 to 24 August 2007, NIBC recognised a trading loss of EUR 48 million net of tax on this portolio (2006: nil)."
8.7.4 Stórar áhættur tengdar bönkunum
Þegar hóparnir, sem fjallað var um í kafla 8.7.3, eru skoðaðir stendur einn hópur upp úr en það er hópur Baugs Group hf. Áhætta allra bankanna vegna þessa hóps var gríðarleg. Mest var þó áhætta Glitnis vegna hópsins, ef horft er til hlutfalls af eiginfjárgrunni, en stærsti hluthafi Glitnis síðustu misserin fyrir fall bankans var FL Group þar sem Baugur var stærsti hluthafinn. Aðrir af stærstu hópunum voru allir stórir hluthafar í bönkunum.Töflur 11–14 sýna stærstu hópana í hverjum banka.Val á aðalaðilum sem hóparnir eru skilgreindir út frá er byggt á umfjöllun kafla 8.7.3.Töflurnar sýna þá hópa sem höfðu útlán í tilteknum banka sem námu yfir 10% af eiginfjárgrunni bankans einhvern tímann á árunum 2007 og 2008. Ekki er farið lengra aftur í tímann þar sem hóparnir eru myndaðir út frá eignarhaldsupplýsingum í lok árs 2007. Þá er sýnt hæsta hlutfall sem útlán til hóps voru af eiginfjárgrunni bankans ásamt tímasetningu þess hápunkts.
Tafla 11 sýnir hópana fyrir Glitni. Stærsti hópurinn var hópur Baugs Group hf. sem var, eins og áður segir, stærsti hluthafi bankans í gegnum FL Group. Á lista yfir stærstu hópana eru hópar Milestone og BNT hf. sem voru meðal stærstu hluthafa bankans fram á vor 2007 og héldu saman eftir 7% hlut í bankanum í gegnum Þátt International eftir vorið 2007. Hópur Fons hf. var einnig einn af stærstu lántakendum bankans en Fons var í miklum viðskiptum við Baug og FL Group. Sem dæmi um eignir sem Baugur og Fons áttu hvort um sig 25% eða meira í má a.m.k. nefna Milton ehf., Sólin Skín ehf. og Arena Holding ehf. Þá er Samherji hf. á listanum en næststærsti eigandi hans var Þorsteinn Már Baldvinsson sem varð stjórnarformaður Glitnis í febrúar 2008. Loks var Þorsteinn Vilhelmsson ásamt fjölskyldu sinni stærsti eigandi Atorku Group hf. Af stórum hluthöfum annarra banka má svo sjá hópa Björgólfs Thors Björgólfssonar, Exista hf. og Ólafs Ólafssonar.
Tafla 12 sýnir stærstu hópa Kaupþings. Efstur á þeim lista er Robert Tchenguiz, fyrrverandi stjórnarformaður Exista, stærsta hluthafa bankans. Næst kemur hópur Baugs og tveir stærstu eigendurnir standa á bak við þriðja og fjórða stærsta hópinn, þ.e. Exista hf. og Ólafur Ólafsson.
Tafla 13 sýnir stærstu lántakendahópa Landsbankans. Hópur Baugs Group hf. er stærstur en þar á eftir koma hópar Björgólfs Guðmundssonar og sonar hans Björgólfs Thors. Hlutafélagið Eimskipafélagið er einnig á listanum en hópur þess er að miklu leyti innifalinn í hópi Björgólfs Guðmundssonar og raunar er mikil skörun milli hópa feðganna. Í Straumi-Burðarási voru sömu aðilar umfangsmestir og í Landsbankanum, þ.e. Baugur og aðilar tengdir Björgólfsfeðgum. Stærsti eigandi Straums-Burðaráss var Samson Global Holdings S.a.r.l.,félag í eigu feðganna og var Björgólfur Thor stjórnarformaður bankans.Auk þeirra var Milestone stór lántakandi.Tafla 14 sýnir þetta.
Auk ofangreindra aðila, sem voru í ráðandi stöðu eða mjög tengdir aðilum í ráðandi stöðum í bönkunum, má nefna Gnúp og Bygg sem voru stórir lántakendur í bönkunum og áttu jafnframt stóra hluti í bönkunum.
Þessi mikla skörun hluthafa og lántakenda bankanna vekur upp spurningar. Í fyrsta lagi verður það að teljast mjög óheppilegt fyrir áhættu bankanna að stór hluti útlánasafns þeirra sé til aðila sem eiga afkomu sína undir því hvernig tekst til í rekstri bankanna og eru því fljótir að finna fyrir því ef bönkunum gengur illa. Um þetta er nánar fjallað í 9. kafla.
Hitt atriðið varðar það hvort stærstu eigendur banka og aðilar þeim tengdir hafi notið stöðu sinnar í samskiptum við banka og fengið óeðlilega lánafyrirgreiðslu. Basel-nefnd Alþjóðagreiðslubankans varar sérstaklega við því að bankar kunni að meta greiðslugetu lántakanda á annan hátt ef hann er lykilhluthafi eða stjórnarmaður. Rannsóknir hafa sýnt fram á óeðlilegar lánveitingar til eigenda banka, sérstaklega í löndum þar sem minnihlutavernd og eftirliti er ábótavant.Til dæmis má nefna rannsóknir sem gerðar hafa verið á lánveitingum í Mexíkó,Taílandi og Rússlandi á 10. áratugi síðustu aldar.
Eins og fram kemur hér á undan voru stærstu lántakendur í öllum bönkunum aðallega eigendur bankanna sem bendir til þess að um kerfisbundið mynstur hafi verið að ræða, þ.e. að eigendur bankanna hafi átt óeðlilega góðan aðgang að lánsfé í bönkum sínum. Í Glitni urðu hins vegar stjórnarskipti vorið 2007 sem nánar er fjallað um í kafla 6.0. Þá komu nýir aðilar í stjórn og forstjóraskipti áttu sér stað. Ákveðið mynstur sést hjá þeim aðilum sem nefndir voru sem tengdir Glitni hér að ofan og tengdust hópi nýrra eigenda, þ.e. hópum Baugs Group hf. og Fons hf. Um vorið og sumarið eftir stjórnarskipti eykst lánafyrirgreiðsla við þessa hópa verulega. Þetta sést á myndum 52 og 90.
8.7.5 Ályktanir rannsóknarnefndar Alþingis
Rannsóknarnefnd Alþingis telur að samþjöppun áhættu hjá íslensku bönkunum hafi verið orðin hættulega mikil þó nokkru fyrir fall þeirra. Bæði á þetta við um lánveitingar til ákveðinna hópa innan hvers banka en jafnframt að sömu hópar hafi myndað stórar áhættur í fleiri en einum banka. Af þeim sökum hafi kerfisleg áhætta vegna útlána verið orðin veruleg. Skýrasta dæmið um þetta er Baugur Group og fyrirtæki honum tengd. Í öllum þremur stóru bönkunum og Straumi-Burðarási var Baugshópurinn orðinn of stór áhætta. Það er ámælisvert að áhættustýringar bankanna hafi leyft þessari áhættu að byggjast upp. Fyrir utan þá miklu áhættu sem hver banki bar vegna Baugshópsins mátti öllum bönkunum vera ljóst að skuldsetning hópsins í öðrum bönkum væri einnig veruleg. Í öllum bönkunum virðast lausnir á þessum vanda hafa miðast að því að rökstyðja fyrir eftirlitsaðilum að ekki væri um mikla samþjöppun áhættu að ræða fremur en að horfa til raunverulegrar áhættu og reyna að draga úr henni. Hið sama má segja um Exista, Björgólf Thor Björgólfsson, Björgólf Guðmundsson og Ólaf Ólafsson, þótt áhætta vegna þessara aðila hafi verið nokkru minni en Baugshópsins.
Stærstu eigendur bankanna voru fyrirferðarmiklir þegar kom að stórum áhættum bankanna. Rannsóknarnefndin telur að eigendur allra stóru bankanna þriggja og Straums-Burðaráss hafi fengið óeðlilega mikinn aðgang að lánsfé hjá þessum bönkum að því er virðist í krafti eignarhalds síns. Þannig virðast Baugur og FL Group hafa beitt ráðandi stöðu sinni í Glitni banka til þess að hafa áhrif á lánveitingar bankans til félaga sem þeim tengdust og gripið inn í eðlilegar tilraunir bankans til þess að gæta hagsmuna sinna gagnvart þeim félögum sem bankinn hafði lánað. Þá jukust lánveitingar verulega til nýrra eigenda og stjórnenda Glitnis eftir stjórnar- og forstjóraskiptin vorið 2007. Því bera dæmin um Baugshópinn og Fonshópinn vitni.
Rannsóknarnefnd Alþingis telur í ljósi þess sem hér að framan er nefnt að rekstur íslensku bankanna hafi um margt einkennst af því að hámarka hag stærri hluthafanna sem héldu um stjórnartauma í bönkunum fremur en að reka trausta banka með hagsmuni allra hluthafa í huga og ábyrgð gagnvart kröfuhöfum. Stærri hluthafar höfðu, í ljósi mikillar skuldsetningar sinnar, mun meiri hag af áhættusækni bankanna og jafnframt fengu þeir góðan aðgang að lánsfé.
Rannsóknarnefnd Alþingis telur að útlán Kaupþings til Robert Tchenguiz og félaga hans hafi verið umfram það sem eðlilegt gat talist á viðskiptalegum forsendum. Reglum um stórar áhættuskuldbindingar var ekki fylgt. Af þeim gögnum sem nefndin hefur aflað frá Kaupþingi er erfitt að koma auga á að lánveitingar af þeirri stærðargráðu, sem félög Tchenguiz fengu á tíma lausafjárþrenginga, hafi verið gerðar með hagsmuni bankans í huga.
Auk allra stærstu hluthafa bankanna voru jafnframt margir aðrir úr röðum nokkuð stórra hluthafa í bönkunum, beint eða óbeint, hluti af þeim hópum sem mynduðu stórar áhættur.Til dæmis áttu hópar Magnúsar Kristinssonar, Saxhóls, Byggingarfélags Gylfa og Gunnars, BNT, Sunda, Giftar, Straumborgar og Jakobs Valgeirs allir hluti í einum eða fleiri bankanna. Þá lá áhætta FI-fjárfestinga að mestu leyti í hlutabréfum FL Group sem voru aftur verulega háð Glitni. Því voru skil á skuldum þessara aðila mjög háð afkomu bankanna sjálfra og hlutabréfaverði.
Þau atriði sem lýst hefur verið hér að framan leiddu til þess að bankakerfið í heild sinni varð mjög viðkvæmt fyrir ytri áföllum, svo sem skyndilegum samdrætti í lánalínum til landsins Það er mat nefndarinnar að við eftirlit með stórum áhættum bankanna hafi eftirlitsaðilar ekki eingöngu átt að ganga harðar fram í að koma í veg fyrir samþjöppun áhættu í hverjum banka fyrir sig, eins og vikið er að í köflum 8.6 og 16.0, heldur hafi einnig skort verulega á að þeir mætu rétt kerfisáhættu fjármálakerfisins í heild. Í kafla 19.0 er fjallað um þær upplýsingar um stórar áhættuskuldbindingar sem Seðlabanki Íslands hafði aðgang að til að rækja eftirlit með kerfisáhættu fjármálakerfisins.
8.8 Víkjandi áhætta íslenskra banka samanborið við erlenda banka
8.8.1 Inngangur
Á árunum fyrir fall íslensku bankanna þóttu þeir almennt áhættusæknir. Í þessum kafla eru rakin dæmi um aðkomu íslenskra banka að fjármögnun íslenskra fjárfesta sem höfðu fengið lánafyrirgreiðslur erlendra banka.
8.8.2 Aðkoma erlendra banka að fjármögnun íslenskra fjárfesta
Mikið fjármagn kom sem lánsfé inn í íslensku bankana. Bankarnir lánuðu síðan mikið af þessu fé til íslenskra fjárfesta, ýmist til fjárfestinga á Íslandi eða erlendis. Minna var um að íslenskir fjárfestar fengju beinar lánafyrirgreiðslur frá erlendum bönkum en þó eru þess nokkur dæmi. Án þess að reyna að lýsa á ítarlegan hátt öllum mögulegum lánveitingum erlendra banka til Íslendinga eða fjárfestum tengdum Íslandi er hér vikið að nokkrum stórum lánafyrirgreiðslum sem íslenskir fjárfestar fengu og hvernig þær tengjast uppbyggingu áhættu í íslenska bankakerfinu.
8.8.2.1 Deutsche Bank tekur þátt í fjármögnun yfirtöku á Actavis
Seint í júlí 2007 gekk í gegn yfirtaka Björgólfs Thors Björgólfssonar og félaga sem honum tengdust á lyfjafyrirtækinu Actavis. Salan var stærstu einstöku viðskipti sem nokkurn tímann höfðu átt sér stað í íslensku kauphöllinni, dagurinn sem viðskiptin fóru fram var sá veltumesti og með sölunni komu gríðarlegir fjármunir inn á íslenskan hlutabréfamarkað enda náði íslenska úrvalsvísitalan sínu hæsta gildi nánast samhliða þessum viðskiptum. Fjármögnun yfirtökunnar má greina í fernt, kaupendur lögðu fram eiginfjárframlag, Landsbankinn og Straumur lánuðu hluta og þýski bankinn Deutsche Bank lánaði einnig umtalsverðan hluta. Íslensku bankarnir og Deutsche Bank fjármögnuðu kaupin hins vegar á mismunandi hátt og tóku mjög ólíka áhættu.
Yfirtökutilboðið í Actavis var í evrum, 1,075 evra á hlut og alls voru viðskiptin upp á tæpa 3,2 milljarða hluta. Kaupverðið nam því tæpum 3,5 milljörðum evra. Það var félagið Actavis Pharma Holding 5 sem keypti Actavis og greiddi ofangreint kaupverð til seljenda Actavis. Actavis Pharma Holding 5 var efst í keðju 5 félaga með því sem næst sama nafn: Actavis Pharma Holding (APH) 1, 2, 3, 4 og 5. Keðjan var uppbyggð á eftirfarandi hátt:
Hluthafar APH 1 lögðu um einn milljarð evra inn í félagið. Þetta eiginfjárframlag var í rauninni sá hlutur sem félög tengd Björgólfi höfðu átt í Actavis fyrir yfirtökuna. Eiginfjárframlagið var lagt inn í APH 2 sem hlutafé. Jafnframt fékk APH 2 lán upp á um 1,2 milljarða evra. APH 2 lagði allt fé sitt, lánsféð og eiginfjárframlagið inn í APH 3. APH 3 lagði féð inn í APH 4 sem fékk einnig lán hjá Deutsche Bank upp á um 800 milljónir evra. Þessir heildarfjármunir voru svo lagðir inn í APH 5 sem keypti Actavis. Þessi keðja var í raun byggð upp til þess að ná fram forgangsröðun fjármögnunar. Með keðjufyrirkomulaginu var í raun lánið sem veitt var til APH 4 með fyrsta veðrétt á Actavis, lánið til APH 2 með annan veðrétt og aftast í kröfuröðinni voru svo hluthafarnir sem lögðu inn hlutafé í APH 1.
Samkvæmt lánabókum Landsbankans og Straums-Burðaráss lánaði Landsbankinn upphaflega 300 milljónir evra (þá um 25 milljarðar króna) til APH 2 en í september tók Straumur-Burðarás yfir þriðjung af þeirri fjármögnun. Þannig lánuðu þessir tveir íslensku bankar inn í víkjandi hluta fjármögnunarinnar en Deutsche Bank var með fyrsta veð í Actavis í gegnum APH 4. Þetta víkjandi eðli fjármögnunarinnar var endurspeglað í kjörum lánanna til APH 2 en þau báru háa vexti, 23% á fjármögnun í evrum.
8.8.2.2 Milestone fær lán hjá Morgan Stanley til að kaupa Invik og fjármagna hlutabréfakaup í Glitni
Í byrjun árs 2007 voru FL Group og tengdir aðilar stærsti eigendahópur Glitnis. Næststærsti hópurinn var Milestone og dótturfélög hans með um fimmtung hlutafjár.Vorið 2007 urðu stórviðskipti með hlutabréf Glitnis sem nánar er fjallað um í kafla 6.0. Í þessum viðskiptum seldi Milestone hluta af eign sinni í Glitni, um 13%, og fékk í þeirri sölu milli 50 og 60 milljarða króna. Með þessari sölu og sölu á hluta Milestone á 5,9% hlut í Actavis fyrir um 15 milljarða króna hafði félagið innleyst mikinn hagnað og lausafjárstaða félagsins var mjög sterk. Í kjölfarið keypti Milestone, í gegnum dótturfyrirtæki sitt Racon, sænska bankann Invik & Co á rúmar 800 milljónir evra sem svaraði þá til um 70 milljörðum króna. Auk þess sem Milestone lagði til eigið fé í kaupin lánaði bandaríski bankinn Morgan Stanley 285 milljónir evra til að fjármagna kaupin.
Í aðdraganda áðurnefndra viðskipta með hlutabréf Glitnis voru nokkrar tilfærslur á Glitnishlutum milli félaga sem tengdust Milestone. Ein af þeim tilfærslum var flutningur á um 7% hlut í Glitni yfir í Þátt International. Þáttur International var að stærstum hluta í eigu Milestone (í gegnum Sjóvá og dótturfélög þess) en félög tengd Einari og Benedikt Sveinssonum áttu um fjórðung í Þætti International. Þessi 7% hlutur var fjármagnaður að hluta með eigin fé en einnig fékk félagið lán hjá Morgan Stanley með veð í hlutunum.
Eftir þessi viðskipti var efnahagsreikningur Milestone orðinn um 3,9 milljarðar evra (um 350 milljarðar króna) á samstæðugrunni og skuldir samstæðunnar um 3,1 milljarður evra.
8.8.2.3 Citibank fjármagnar hlutabréfaeign Kjalars í Kaupþingi
Ólafur Ólafsson var næststærsti hluthafi í Kaupþingi banka í gegnum félög sín Eglu hf. og Kjalar hf. frá því að Búnaðarbankinn sameinaðist Kaupþingi. Nánar tiltekið átti Ólafur Ólafsson yfir 90% af hlutafé Kjalars sem átti svo 99,9% hlutafjár Eglu. Fram á árið 2006 var Kaupþingshlutur þessarar samstæðu í Eglu. Síðla þess árs var eignarhluturinn fluttur í dótturfélag í Hollandi, Kjalar Invest BV, þar sem hann var fram á sumar 2007.
Í júní 2007 var leitað til Citibank til þess að fjármagna Kaupþingshlutinn. Það gekk eftir, hluturinn var fluttur í annað hollenskt félag, Eglu Invest BV, sem fékk lán frá Citibank sem nam 60% af markaðsvirði hlutabréfanna. Lánið var með veði í þessum hlutabréfum Kaupþings, sem voru eina eign Eglu Invest, og veðkall var ef markaðsvirði bréfanna félli niður fyrir 70% af upphæð lánsins. Lánið var að stórum hluta notað til þess að greiða niður lán Kjalars og Eglu við íslensku bankana, sérstaklega við Landsbankann og Kaupþing.
Þessi lántaka var mjög heppileg enda flutti hún fjármögnun hlutafjár Kaupþings úr bankanum sjálfum og til erlendra og óskyldra aðila.
Nánar er fjallað um Kjalar í kafla 8.12 hér á eftir.
8.8.2.4 Sampo-hlutur Exista fjármagnaður af Citibank
Í mars 2006 var samþykkt lánafyrirkomulag til fjármögnunar á kaupum rúmlega 10% hlutar í finnska tryggingafyrirtækinu Sampo. Kaupandinn var félagið Exafin BV en endaeigandi þess var, ef horft er í gegnum röð nokkurra fyrirtækja, Tchenguiz Family Trust. Í fyrirkomulaginu fólst að bandaríski bankinn Citibank veitti lán til kaupa á hlutabréfunum í Sampo. Eiginfjárframlag Exafin inn í kaupin, 100 milljónir evra, kom að hálfu frá Tchenguiz Family Trust en hinn helminginn lagði Kaupþing fram, í gegnum dótturfyrirtæki sitt Isis, sem hagnaðarþátttökulán. Jafnframt veitti Kaupþing Citibank blöndu af sölurétti og ábyrgð sem skuldbatt Kaupþing til þess að leggja fram veð þegar verð hlutabréfanna lækkaði niður fyrir ákveðinn þröskuld. Að minnsta kosti hafði reynt á þessa ábyrgð einu sinni því að í júlí 2006, eftir verðlækkun hlutabréfa Sampo, var samþykkt hækkun á tryggingarfjárhæð sem Kaupþing lagði inn í Citibank. Þá námu heildartryggingar sem Kaupþing hafði lagt fram 360 milljónum evra.
Í febrúar 2007 keypti Exista félagið Exafin BV af félögum í eigum Tchenguiz Family Trust. Þá var hagnaðarþátttökulánið frá Isis jafnframt greitt upp en hinn hluti lánafyrirkomulagsins var óbreyttur. Citibank fjármagnaði því áfram hlutabréfin en Kaupþing skyldi leggja fram tryggingar ef Citibank gerði veðkall vegna verðlækkunar bréfanna. Til þess að draga úr áhættu á Kaupþing lagði Exista fram ábyrgð gagnvart veðköllunum. Á þann hátt gat Kaupþing gengið að Exista til þess að endurheimta tryggingar sem lagðar höfðu verið fram.
8.8.3 Lánin flytjast heim til Íslands
Á seinni helmingi árs 2007 þegar alþjóðlegir lánamarkaðir voru orðnir mjög erfiðir og eignaverð farið að lækka, þrengdist staða íslenskra fjárfesta mjög, enda margir hverjir mjög skuldsettir. Með lækkandi hlutabréfaverði versnaði tryggingastaða lána og erlendir lánveitendur íslensku fjárfestanna fóru að kalla eftir auknum tryggingum. Viðbrögð íslensku bankanna voru að lána fyrir þessum tryggingum.
8.8.3.1 Glitnir lánar til uppgreiðslu skulda Milestone hjá Morgan Stanley
Snemma árs 2008 var hlutabréfaverð í Glitni búið að lækka mikið og lán dótturfélaga Milestone hjá Morgan Stanley og Citibank voru í uppnámi og Milestone leitaði til Glitnis til að leysa úr þessum málum. Eftir nokkrar þreifingar lánaði Glitnir til þess að greiða upp þessi lán en lausnin var í raun þríþætt.
Til að greiða upp skuldir Þáttar International og Racon við Morgan Stanley voru stofnuð tvö félög sem á endanum báru heitin Svartháfur og Földungur. Svartháfur var skráður í eigu Werners Rasmussonar, föður aðaleigenda Milestone, Karls og Steingríms Wernerssona. Földungur var hins vegar í eigu Milestone, Skeggja ehf. og Fjárfestingafélagsins Máttar ehf. í sömu hlutföllum og félögin áttu Þátt International ehf. Í febrúar 2008 lánaði Glitnir rúmlega 100 milljónir evra inn í Földung með veði í Glitnisbréfum Þáttar International og fleiri eignum. Í mars voru síðan greiddar 50 milljónir evra inn á það lán til að losa veðin af Glitnishlutunum en þá voru Svartháfi lánaðar rúmlega 190 milljónir evra. Hluti þess láns var lánaður áfram til Þáttar International en hluti til Racon. Glitnir fékk þannig Invik banka og 7% hlut í sjálfum sér sem veð fyrir láninu.
Nánar er fjallað um Svartháf í kafla 8.12 og Rákung í kafla 12.7.
8.8.3.2 Kaupþing greiðir upp skuldir Eglu Invest hjá Citibank
Í janúar 2008 var hlutabréfaverð Kaupþings búið að lækka talsvert frá sumrinu áður á sama tíma og gengi krónunnar hafði veikst. Þetta olli því að veðstaða láns Eglu Invest gagnvart Citibank hafði versnað mjög, verðmæti hlutabréfanna var komið niður fyrir 70% veðkallsþröskuldinn, og Citibank kallaði eftir frekari tryggingum frá Eglu Invest.Til þess að mæta veðkallinu leitaði Kjalar eftir láni frá Kaupþingi og veitti Kaupþing Kjalari 120 milljóna evra lán. Í mars sama ár féll svo krónan verulega og þá var tryggingastaða lánsins orðin mun verri. Í mars veitti Kaupþing Kjalari lán til þess að greiða lánið til Citibank að fullu. Í apríl lánaði svo Glitnir Eglu Invest hluta upphæðarinnar, um 120 milljónir evra, og Kjalar notaði það fé til að lækka skuld sína við Kaupþing.
Þegar upp var staðið höfðu Glitnir og Kaupþing lánað Kjalari og Eglu Invest um 400 milljónir evra til að greiða Citibank skuldirnar og koma í veg fyrir að Citibank tæki hlutabréfin í Kaupþingi til sín.
8.8.3.3 Glitnir greiðir upp lokahluta láns FL hjá Morgan Stanley
Í mars 2008 var FL Group að leita eftir endurfjármögnun á 10% eignarhlut sínum í Glitni sem Morgan Stanley hafði fjármagnað. Fram kemur í fundargerð áhættunefndar Glitnis, 25. mars það ár, að félagið hafi greitt verulega inn á lánið hjá Morgan Stanley en í lok árs 2007 voru heildarskuldir FL Group við Morgan Stanley rétt tæpir 30 milljarðar króna (en líklega var ekki allur hluti þess vegna Glitnisbréfanna). Á fundinum var ákveðið að veita FL Group 50 milljóna evra lán (þá tæpir 6 milljarðar króna) til að greiða upp síðasta hluta lánsins við Morgan Stanley.
8.8.3.4 Landsbanki lánar fyrir veðkalli Deutsche Bank vegna fjármögnunar kaupa á Actavis
Í lánasamningi Deutsche Bank, aðallánveitanda Actavis, við félagið voru ákvæði um ákveðin eiginfjárhlutföll. Landsbanki Íslands lánaði um 200 milljónir evra í víkjandi lán inn í félagið (félagastrúktúrinn) við upphaflegu kaupin.
Um mitt ár 2008 hafði Actavis ekki gengið sem skyldi og því var hætta á að þessi hlutföll gætu fallið niður fyrir umsamin lágmörk. Því leitaði aðaleigandi Actavis, Björgólfur Thor Björgólfsson, til Landsbankans um lánafyrirgreiðslu til þess að koma í veg fyrir að Deutsche Bank gjaldfelldi lán á Actavis.
Samkvæmt lánasamningi dagsettum 25. júní 2008 átti Landsbanki Íslands í Lúxemborg að veita félaginu BeeTeeBee Ltd. 50 milljóna evra lán með fullri ábyrgð Landsbankans hf. BeeTeeBee Ltd. var félag í eigu Björgólfs Thors með aðsetur á Bresku Jómfrúaeyjunum. Þremur mánuðum síðar, nánar tiltekið 30. september, var svo bætt við þennan lánasamning og lánið hækkað upp í 153 milljónir evra. Sá samningur var undirritaður af Tómasi O. Hanssyni fyrir hönd lánþega og Marinó Frey Sigurjónssyni fyrir hönd lánveitanda. Samkvæmt Sigurjóni Þ. Árnasyni var þetta lán veitt til BeeTeeBee til að félagið gæti lánað Actavis víkjandi langtímalán til að mæta kröfu Deutsche Bank um aukið eigið fé inn í félagið.
Samkvæmt ábyrgðarsamningi dagsettum 30.september 2008 tók Landsbankinn veð í Novator Telecom Poland S.a.r.l.fyrir láninu. Því til viðbótar fékk Landsbankinn Björgólf Thor til að leggja fram ábyrgð Givenshire Equities S.a.r.l. félagsins fyrir skuldbindingum Björgólfs Guðmundssonar vegna sjálfskuldarábyrgðar á skuldbindingum Grettis Eignarhaldsfélags Givenshire Equities S.a.r.l. hélt utan um eignarhlut Björgólfs í Samson eignarhaldsfélaginu. Sigurjón Þ. Árnason lýsti þessu svo í skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis:
"Þá endar það þannig að það er þarna í síðustu vikunni, eitthvað svoleiðis, þá endar það þannig að við lánum Björgólfi Thor af okkar pening til þess að hann geti staðið við ákveðna hluti í Actavis, gegn því að hann láti okkur fá veð í seinni hlutanum í, láti pabba sinn fá veð, sem sagt, til þess að láta okkur fá þannig að Landsbankinn sé kominn með 100% veð í Samson-eignarhaldsfélagi. [....] [n] æsta verkefni þá í tengslum við það er auðvitað að finna nýja eigendur til þess að taka allt draslið yfir."
Sigurjón Þ. Árnason kvaðst hafa rætt við Kjartan Gunnarsson, varaformann bankaráðs Landsbankans, um að þessi samningur opnaði leiðina fyrir nýja eigendur að bankanum. Þegar rannsóknarnefnd Alþingis spurði Kjartan út í það samtal í skýrslutöku fyrir nefndinni sagði hann:
"Já, ég kannast við að það hafi margt verið rætt við mig, og margt á þessum dögum, um marga hluti. En ég væri sem sagt að segja meira en ég treysti mér til þess að standa við ef ég fullyrti að hann hefði nákvæmlega sagt þetta. En ég kannast við nafnið á félögunum og kannast við þennan svona ... þessa pakka alla."
Hið 153 milljóna evra lán til BeeTeeBee Ltd. var flutt ásamt öðrum lánum frá Lúxemborg til Landsbankans á Íslandi í byrjun október.
8.8.4 Samanburður við fall Gnúps
Gnúpur fjárfestingafélag ehf. var einn af stærstu skuldurum íslenska bankakerfisins eins og fram kemur í kafla 8.7. Í kafla 7.0 um fjármögnun bankanna er fjallað um Gnúp og áhrif þess þegar félagið fór í gegnum fjármálaendurskipulagningu í byrjun árs 2008. Eins og fram kemur í þeim kafla beindi fall Gnúps sjónum erlendra aðila að veikleikum í íslenska fjármálakerfinu og hafði mjög neikvæð áhrif á fjármögnunarmöguleika íslensku bankanna.Til dæmis sagði Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri Kaupþings: "...við sáum hvað gerðist með Gnúp þetta litla félag sem var þarna, sem við töldum að yrði ekki mikil frétt, hvaða áhrif það hefði, það lokaði á fjármögnunar, það var a.m.k. eitt af því sem lokaði á fjármögnunarmöguleika Glitnis í Ameríku á þeim tíma." Sigurjón Þ. Árnason, bankastjóri Landsbankans, tók í sama streng og sagði að "...þetta hafði mjög mikil áhrif á credit spread-in á þeim tímapunkti vegna þess að þetta fór einhvern veginn inn í þann, þá kreðsu. Gnúpur hafði áhrif þangað. Og það var vegna þess að Gnúpur var svo stór eignarhluti í Kaupþingi og FL sem síðan aftur var stór í Glitni."
Vandi bankanna við erfiðleika Gnúps síðla árs 2007 var í raun tvíþættur, annars vegar var félagið með verulegar skuldir við bankana sem erfitt var að innheimta. Hins vegar voru eignir Gnúps aðallega hlutabréf Kaupþings og FL Group, eins og nánar er skýrt í kafla 7.0, auk minni hluta í Glitni og fleiri félögum. Ef bankarnir gengju að félaginu og seldu eignir þess fyrir skuldum þýddi það að hlutabréf bankanna og FL Group lækkuðu verulega í verði. Í kafla 12.0 er bent á að hluti af lausn Gnúps-krísunnar var að Kaupþing lánaði Gift fjárfestingarfélagi ehf. um 20 milljarða króna til að kaupa hluta Kaupþingshlutabréfanna út úr Gnúpi, þrátt fyrir að skuldir Gnúps við bankann hafi mest verið um þriðjungur þeirrar upphæðar.
Því má segja að staða Gnúps hafi verið um sumt svipuð og félaga í dæmunum hér á undan. Skuldir félagsins voru verulegar við íslensku bankana og það átti verulega hluti í bönkunum og eigendum þeirra. Þá hefði fall annars stórs íslensks fjárfestingafélags líklega haft svipuð áhrif á erlenda aðila varðandi það að vekja athygli á veikleikum fjármálakerfisins. Aftur á móti var Gnúpur ólíkur hinum félögunum hvað það varðar að félagið var ekki með verulegar skuldir erlendis og því voru lánveitingar til að kaupa eignir út úr því að miklu leyti tilfærsla skulda innan bankanna eða milli íslensku bankanna fremur en nýjar lánveitingar sem kröfðust útgreiðslu fjármuna.
8.8.5 Ályktanir rannsóknarnefndar Alþingis
Dæmin í köflum 8.8.2 og 8.8.3 ásamt lánveitingum til Oscatello, sem fjallað er um í köflum 8.7 og 8.12, eiga eftirfarandi sameiginlegt. Þau lýsa því þegar lykileigendur og áhrifamenn í íslensku bönkunum fengu fjármögnun erlendis en samhliða veittu íslensku bankarnir víkjandi fjármögnun, ýmist beint eða óbeint, á þann hátt að þegar erlendu bankarnir neituðu að framlengja lánin um haustið 2007 og í byrjun árs 2008 endurfjármögnuðu íslensku bankarnir þau. Þannig lánuðu íslensku bankarnir mjög mikla fjármuni á þeim tíma þegar verulegur lausafjárskortur hrjáði þá. Rannsóknarnefnd Alþingis telur að lánveitingar erlendu bankanna til íslensku fjárfestanna hafi aukið áhættu íslensku bankanna þar sem þeir virðast oft í reynd hafa verið lánveitendur til þrautavara fyrir þessa fjárfesta.
Það er mat rannsóknarnefndar Alþingis að ástæður þessara lánveitinga hafi verið sambland af nokkrum þáttum. Í fyrsta lagi hafi íslensku bankarnir verið búnir að lána þessum aðilum svo háar upphæðir að bankarnir hafi átt mjög mikið undir því að aðilarnir næðu að rétta úr kútnum. Í öðru lagi hafi þessir aðilar haft óeðlilega mikinn aðgang að lánsfé í bönkunum í krafti eignarhluta sinna og áhrifa í bönkunum, eins og áður er vikið að í kafla 8.7. Í þriðja lagi hafi það haft mikið að segja að lánveitingarnar voru að stórum hluta til þess að fjármagna hlutabréf í bönkunum sjálfum og hafi því verið hluti af tilraunum bankanna til þess að viðhalda verði hlutabréfanna eins og fjallað er um í 12. kafla. Loks hafi bankarnir talið að skaðleg áhrif neikvæðrar umfjöllunar yrðu veruleg ef annað stórt fjárfestingarfélag lenti í miklum vandræðum.
Sleitulausar hækkanir eignaverðs fram að upphafi lausafjárkrísunnar virðast hafa dregið mjög úr skynjaðri tapsáhættu í bankakerfinu. Þetta skekkta áhættumat olli því að mikil áhætta byggðist upp og þegar að niðursveiflunni kom virðist of mikill vilji hafa verið til þess að lána enn frekar til viðskiptavina í þrengingum. Nefndin telur að bankarnir hafi með umræddum lánveitingum að hluta til verið að reyna að lágmarka tjón sitt og bregðast við þeirri stöðu sem þeir höfðu skapað sem var að eiga svo mikið undir afkomu eigenda sinna. Eigi að síður má draga í efa að ákvarðanir bankanna um að greiða upp umrædd lán við erlenda banka hafi verið í þágu hagsmuna almennra hluthafa og kröfuhafa bankans. Með lánveitingunum var umfram annað staðinn vörður um hag skuldsettra eigenda bankanna og þær juku tapsáhættu bankanna sjálfra og hækkuðu kostnaðinn sem á endanum varð við fall bankanna.
8.9 Afleiðusamningar um verðbréf
8.9.1 Inngangur
Eins og fram kemur í kafla 8.5 var talsverður hluti útlána íslensku bankanna til eignarhaldsfélaga. Þau lán voru síðan notuð til þess að fjárfesta í hlutabréfum og öðrum fjármálagjörningum. Með afleiðusamningum geta fjárfestar náð samsvarandi áhættu, þ.e. keypt verðbréf sem banki lánar fyrir. Í þessum kafla er reynt að lýsa viðskiptum með helstu afleiður sem hafa svipaða virkni og útlán til verðbréfakaupa. Eins og í greiningu kafla 8.5 er greining þessa kafla aðeins byggð á afleiðubókum móðurfélaga bankanna en ekki dótturfélaga.
8.9.2 Almenn lýsing á afleiðusamningum um verðbréf
Algengustu form afleiðusamninga um verðbréf eru framtíðarsamningar og framvirkir samningar annars vegar og valréttir hins vegar. Framvirkur samningur er samningur sem tveir aðilar gera um að annar aðilinn selji hinum ákveðið verðbréf á fyrirframákveðnu verði á tilteknum tímapunkti í framtíðinni, og er sá samningur bindandi fyrir báða aðila. Framtíðarsamningur er að flestu leyti eins og framvirkur samningur nema að framtíðarsamningar eru skráðir í kauphöll og eru yfirleitt gerðir upp daglega en framvirkir samningar eru yfirleitt utan kauphallar og gerðir upp í lok samningstímans.Valréttur er samningur þar sem annar aðilinn hefur rétt, en ekki skyldu, til þess að kaupa eða selja ákveðið verðbréf á fyrirframákveðnu verði á tilteknum tímapunkti í framtíðinni. Hinn aðilinn er hins vegar skuldbundinn til þess að eiga viðskiptin ef fyrri aðilinn krefst þess. Sá grundvallarmunur er því á framvirkum samningi og valrétti að í framvirkum samningi eru bæði réttindi og skyldur til að eiga viðskiptin á báðum aðilum en í valrétti er rétturinn til að eiga viðskiptin öðrum megin en skyldan hinum megin.
8.9.2.1 Framvirkir samningar
Á Íslandi hafa framvirkir samningar verið mun algengara form en valréttir, eins og fram kemur í greiningunni hér á eftir, þótt valréttarviðskipti hafi aukist þónokkuð síðustu ár. Þrátt fyrir nokkrar tilraunir til að koma viðskiptum með staðlaðar afleiður í kauphöll hafa viðskipti með framtíðarsamninga og aðrar skráðar afleiður verið mjög takmörkuð á Íslandi og mun umfangsminni en óskráðar. Yfirleitt eru framvirku samningarnir kaupsamningar sem viðskiptavinir banka gera um eitthvert tiltekið verðbréf sem felst þá í því að viðskiptavinurinn lofar að kaupa verðbréfið á ákveðnu verði á ákveðnum tímapunkti af bankanum sem á móti lofar að selja bréfið. Þar sem bankinn vill ekki vera útsettur fyrir áhættu vegna verðbreytinga á undirliggjandi verðbréfi kaupir hann að jafnaði verðbréfið strax og á það til afhendingar þegar að gjalddaga kemur. Bankinn bindur þar með fé í verðbréfinu svo að framvirkur samningur er í raun jafngildur láni til hlutabréfakaupa þar sem bankinn tekur handveð í bréfunum. Með framvirkum samningi er þessi lánveiting sett í mjög ákveðinn farveg sem er yfirleitt vel skilgreindur og utanumhald og eftirlit með samningnum vel mótað og skilvirkt eins og fjallað verður um hér á eftir.
Framvirkir sölusamningar tíðkast líka víða. Í þeim felst að viðskiptavinurinn gerir samning um að selja bankanum tiltekið bréf í framtíðinni.Til að verja sína áhættu þarf bankinn að selja umrætt bréf strax. Það getur bankinn gert ef hann á bréfið á sínum bókum af einhverjum ástæðum eða með því að fá það lánað frá þriðja aðila og lofa að skila því þegar viðskiptavinurinn selur það aftur. Slík viðskipti eru oft kölluð skortsala þar sem útkoman er í raun sú að viðskiptavinurinn er að selja bréf sem hann ekki á. Á Íslandi hafa þessi viðskipti ekki tíðkast í miklum mæli. Grundvallarforsenda fyrir þeim er að nægt framboð sé á verðbréfum til láns en á Íslandi hefur svo ekki verið. Nánar er fjallað um skortsölur í kafla 12.0.
Rétt er að lýsa dæmigerðu fyrirkomulagi afleiðuviðskipta á borð við framvirka samninga og utanumhaldi og eftirliti með þeim til þess að draga fram muninn á þeim og venjulegum útlánum. Þegar viðskiptavinur gerir framvirkan samning við bankann greiðir hann ekkert í upphafi enda fær hann ekkert í upphafi, framvirki samningurinn er bara loforð um viðskipti í framtíðinni. Hins vegar vill bankinn hafa tryggingu fyrir því að viðskiptavinurinn geti staðið við sinn hluta svo að bankinn krefst þess að viðskiptavinurinn leggi fram fjármuni (reiðufé eða verðbréf) sem bankinn heldur eftir sem tryggingu fram að uppgjöri framvirka samningsins. Dæmigert er að tryggingar séu á bilinu 20-50% af heildarvirði framvirka samningsins. Þegar á samninginn líður breytist verð undirliggjandi verðbréfs og þá getur myndast tap hjá viðskiptavininum. Þegar það tap er orðið það hátt að það nálgist framlagðar tryggingar kallar bankinn eftir frekari tryggingum í svokölluðu veðkalli. Ef viðskiptavinurinn getur ekki lagt fram frekari tryggingar má bankinn loka framvirka samningnum á markaðsverði með því að selja undirliggjandi verðbréf. Í rauninni á bankinn að loka samningnum ef viðskiptavinurinn getur ekki lagt fram frekari veð, ella er hann að taka á sig markaðsáhættu á verðbréfinu sem getur reynst banka skeinuhætt, sérstaklega þegar mikið er um slíkt.
Samningsformið í framvirka samningnum veitir þar með bankanum yfirleitt mjög skýr og skilvirk úrræði til að bregðast við mögulegum greiðsluörðugleikum viðskiptavinarins og koma þannig í veg fyrir útlánatap í tæka tíð. Þetta er forsenda þess að framvirkir samningar teljast almennt ekki á sama hátt til útlána í reikningum banka.Til dæmis telst útlánaígildi framvirks samnings í lánahlið CAD-hlutfallsins aðeins 6% af heildarmarkaðsvirði samningsins ef hann er til eins árs eða skemmri tíma.Til samanburðar myndi venjulegt lán til sama aðila teljast sem 100% útlánaígildi.
Styrkur samningsformsins í framvirka samningnum og rökstuðningurinn fyrir annars konar meðhöndlun lánsins í reikningum bankans veltur hins vegar á þeirri grundvallarforsendu að hægt sé að ganga að veðunum og selja þau á nógu háu verði til þess að greiða niður skuldina vegna framvirka samningsins. Því þarf bankinn ætíð að vera tilbúinn til að ganga að veðum þegar þess gerist þörf en jafnframt þarf markaðurinn að vera nógu djúpur til þess að geta tekið við því magni sem selja þarf án þess að verð hreyfist gríðarlega.
Ef markaður með verðbréfin er mjög grunnur og verðmyndun á þeim léleg getur reynst erfitt að ganga að veðunum og selja bréfin. Þetta á sérstaklega við ef bankinn er búinn að fjármagna það stóra fjárhæð í sama verðbréfinu að hann getur ekki gengið að veðunum og selt þau hratt og örugglega. Þetta gildir í raun hvort sem um er að ræða að einn aðili sé með viðkomandi verðbréf í einum framvirkum samningi eða fjöldi minni aðila. Það sem skiptir máli er að þegar verðbréfið lækkar í verði þarf að vera hægt að selja það í öllum samningum, annars eru veðköll á viðkomandi bréf illframkvæmanleg.
8.9.2.2 Valréttarsamningar
Eins og áður segir felst í valréttarsamningi réttur annars samningsaðilans, en ekki skylda, til þess að eiga ákveðin viðskipti við hinn aðilann, sem er skyldaður til að eiga viðskiptin, á fyrirfram ákveðnum tíma. Ef um kauprétt (sölurétt) er að ræða hefur aðili A rétt til að kaupa (selja) tiltekna afurð, til dæmis hlutabréf, af aðila B á ákveðnu verði á tilteknum tíma. Aðili B er skyldugur til að eiga viðskiptin ef aðili A kýs það.
Til dæmis gæti aðili A átt rétt á að kaupa 100 krónur nafnverðs af ákveðnu hlutabréfi á genginu 1000 á ákvörðunartíma valréttarins. Ef gengi bréfsins er 1100 á þeim tíma velur hann að kaupa bréfin á 100 þúsund krónur og getur selt þau aftur á 110 þúsund krónur og hagnast um 10 þúsund krónur. Ef gengið er hins vegar 900 nýtir A ekki réttinn til að kaupa bréfið á genginu 1000. Í fyrra tilvikinu hagnast eigandi valréttarins um 10 þúsund krónur við uppgjör en í seinna tilvikinu hagnast hann hvorki né tapar.
Að eiga valrétt felur því í sér verðmæti því að ef í ljós kemur að viðskiptin eru hagstæð velur handhafi valréttarins að láta viðskiptin eiga sér stað en ef þau væru honum óhagstæð myndi hann láta þau niður falla. Þessi verðmæti eru verðlögð og handhafi valréttarins greiðir í upphafi valréttargjald til seljanda valréttarins. Eftir að valréttargjaldið er greitt er handhafi valréttarins búinn að inna sínar skyldur af hendi en seljandinn er með útistandandi skuldbindingu að eins miklu leyti og verð undirliggjandi eignarinnar getur hreyfst til verri vegar fyrir seljandann.
Þegar viðskiptamaður kaupir valrétt af banka þarf hann því aðeins að greiða valréttargjaldið. Ef viðskiptamaðurinn hins vegar selur bankanum valréttinn er krafan, sem bankinn gæti átt á viðskiptamanninn við uppgjör, þannig að bankinn krefur viðskiptamanninn um tryggingar á svipaðan hátt og um framvirkan samning væri að ræða.
8.9.3 Framvirkir samningar bankanna
Í framvirkum samningi er bæði eigna- og skuldahlið. Framvirkir samningar um verðbréf á Íslandi voru yfirleitt kaupsamningar af hálfu viðskiptavinar síðustu árin og því var eignahlið þeirra yfirleitt tiltekið verðbréf en á móti skuldaði viðskiptavinurinn bankanum ákveðna fjárhæð. Til þess að meta umfang samninganna verður að velja að taka annaðhvort eignahliðina eða skuldahliðina. Hér er umfang framvirkra samninga metið út frá fjármögnunarhliðinni en ekki markaðsvirði undirliggjandi eignar. Þetta er eðlilegt þar sem umfjöllunin hér er aðallega til að varpa ljósi á útlánavirkni samninganna.
Sem dæmi mætti hugsa sér að viðskiptamaður banka gerði samning um að kaupa 100 krónur að nafnverði í tilteknu hlutabréfi af bankanum eftir 1 ár. Ef gengi hlutabréfsins væri í dag 1000 og vextir 10% væri því samningurinn um það að viðskiptamaðurinn greiddi 110 þúsund krónur og fengi á móti þessar 100 krónur að nafnvirði af bréfum hlutafélagsins. Bein lánveiting til hlutabréfakaupa hefði falist í því að viðskiptamaðurinn hefði fengið 100 þúsund krónur að láni og keypt hlutabréfin sjálfur. Eftir ár hefði hann svo þurft að greiða bankanum 110 þúsund krónur til baka. Í báðum tilvikunum lætur bankinn 100 þúsund krónur á dag til þess að fjármagna hlutabréfakaupin og fær á móti 110 þúsund krónur og skiptir þá engu hvort virði bréfanna er 50 þúsund krónur, 150 þúsund krónur eða eitthvað annað.
Eins og áður var sagt voru framvirkir sölusamningar sjaldgæfir. Nokkuð var þó um sölusamninga um ríkistryggð skuldabréf, enda hefur hvað dýpsti markaðurinn verið með þau bréf af íslenskum verðbréfum eins og komið er inn á í kafla 14.0. Í greiningunni er reiknuð út heildarfjármögnun bankanna sem bundin er í framvirkum samningum og ef sölusamningar eru þar á meðal dragast þeir því frá fjármögnunartölunum. Þetta útskýrir það að fyrir ríkistryggð skuldabréf er fjármögnunin neikvæð á köflum hjá Kaupþingi. Þetta þýðir að heildarupphæð framvirkra sölusamninga um ríkistryggð skuldabréf hefur verið hærri en heildarupphæð framvirkra kaupsamninga.
Framvirkir samningar voru framan af tímabilinu sem skoðað er að mestu leyti í íslenskum krónum en það færðist í aukana að þeir væru fjármagnaðir í erlendri mynt. Þegar verðbréf í íslenskum krónum voru fjármögnuð í erlendri mynt kölluðust þau oft skiptasamningar. Slíkir samningar fólu því í sér gengisáhættu. Hér eru þessir samningar allir skoðaðir saman. Á myndum 161–164 má sjá fjárhæðir bundnar í útlánum vegna framvirkra samninga í Glitni, Kaupþingi, Landsbankanum og Straumi-Burðarási frá ársbyrjun 2005, greint niður eftir mynt fjármögnunar. Þar sem mikill meirihluti fjármögnunar framvirkra samninga var í íslenskum krónum eru tölur hér birtar í íslenskum krónum, upphæðir í milljörðum króna. Á myndum 165–168 má svo sjá sömu myndir, nema flokkað eftir tegund undirliggjandi verðbréfa. Myndirnar eru byggðar á mánaðarlegum yfirlitum yfir alla útistandandi framvirka samninga sem kallað var eftir frá hverjum banka fyrir sig.
Umfang og samsetning framvirkra samninga var þó nokkuð mismunandi eftir bönkum. Heildarfjármögnun framvirkra samninga var að jafnaði hæst í Glitni af bönkunum. Það skýrist hins vegar að miklu leyti af mun stærri stöðum í ríkistryggðum skuldabréfum sem bankinn fjármagnaði fyrir hönd viðskiptavina í framvirkum samningum. Að öðru leyti er samsetningu framvirkra samninga fyrir hvern banka lýst síðar.
8.9.3.1 Glitnir
Eins og sést á mynd 165 sveiflaðist heildarfjármögnun framvirkra samninga hjá Glitni í kringum 200 milljarða króna frá því snemma árs 2006. Þá sést að af þessum 200 milljörðum var að jafnaði um helmingurinn vegna samninga um ríkistryggð skuldabréf en það voru nær eingöngu íbúðabréf. Næststærsti hlutinn lengst af var innlend hlutabréf. Þegar leið á árið 2007 og svo á árinu 2008 var hlutur innlendra skuldabréfa fyrirtækja einnig orðinn umtalsverður.
Á mynd 169 má sjá stærstu viðskiptavini að baki framvirkum samningum um ríkistryggð skuldabréf.Valdir voru allir viðskiptavinir sem um einhver mánaðamót höfðu yfir 10 milljarða stöðu opna frá byrjun árs 2005. Sjá má að stærsti aðilinn í þessum samningum er Íbúðalánasjóður.Aðrir stórir aðilar eru Samson eignarhaldsfélag,FL Group (síðar Stoðir),nokkrir erlendir vogunarsjóðir og Lífeyrissjóðir Bankastræti 7. Sú stóra staða í ríkistryggðum skuldabréfum sem Íbúðalánasjóður var búinn að byggja upp í framvirkum samningum er mjög sérstök. Sú staða var öll í svokölluðum íbúðabréfum, sem sjóðurinn er sjálfur útgefandi að. Frá byrjun árs 2006 og fram á síðustu mánuði ársins 2007 sveiflaðist staðan á bilinu 40–55 milljarðar. Ef þetta er borið saman við heildarútgáfu allra íbúðabréfa, sem var á tímabilinu á milli 400 og 500 milljarðar, sést að staðan nam um 10% af öllum útgefnum skuldabréfum sjóðsins. Þar sem framvirkur samningur er í raun lán til verðbréfakaupa var þessi stóra staða í raun langtímafjármögnun sem Glitnir veitti Íbúðalánasjóði til þess að kaupa til baka eigin skuldabréf og greiða þau upp. Því má segja að um 90% af útgefnum skuldabréfum Íbúðalánasjóðs hafi verið raunveruleg fjármögnun sjóðsins. Sjóðurinn hafi svo verið búinn að greiða upp 10% langtímafjármögnunarinnar með kaupum á eigin bréfum og þannig verið 10% fjármagnaður til skamms tíma af Glitni.
Næststærsti flokkurinn hjá Glitni voru innlend hlutabréf en minna var um erlend hlutabréf. Á mynd 170 má sjá yfirlit yfir stærð framvirkra hlutabréfasamninga flokkað niður á helstu bréf. Þar má sjá að þau hlutabréf sem hæstu framvirku samningarnir voru um voru hlutabréf bankans sjálfs og sveifluðust upphæðir þeirra um 20 milljarða frá miðju ári 2007. Ef horft er aðallega til áranna 2007 og 2008 sést að hlutabréf FL Group, stærsta eiganda Glitnis, eru þau hlutabréf sem voru næstmest fjármögnuð í framvirkum samningum bankans. Ef horft er fram til ársins 2006 má sjá að nokkuð háar upphæðir voru um bréf Kaupþings og Straums-Burðaráss auk Glitnis og FL Group.
Mynd 171 sýnir þá viðskiptavini sem voru með stærstar stöður, meira en 5 milljarða króna á einhverjum tíma, í framvirkum samningum hjá Glitni. Það vekur athygli að á seinni hluta tímabilsins á myndinni voru flestir stærstu viðskiptavinirnir nátengdir FL Group. Fons var stór eigandi FL Group, BG Capital er dótturfélag Baugs, stærsta eiganda FL Group, Sólin Skín ehf. var félag í 89,5% eigu Fons og Baugs og svo var FL Group sjálft með tæplega 10 milljarða framvirka samninga.
Frá seinni hluta árs 2007 sést að bandaríski bankinn Morgan Stanley var með neikvæða stöðu. Þessi staða var vegna framvirks kaupsamnings sem Glitnir átti við Morgan Stanley. Sá samningur var um hlutabréf í Marks & Spencer verslanakeðjunni. Sólin skín ehf., dótturfélag Baugs, átti síðan kaupsamning um sömu bréf við Glitni. Þetta var því í raun leið til þess að láta Morgan Stanley fjármagna þessa verðbréfaeign hjá Baugi. Mótaðilaáhættan vegna Sólin skín var þó hjá Glitni.
Á árinu 2007 fóru framvirkir samningar á skuldabréf, önnur en ríkistryggð, að verða nokkuð stórir og óx hlutur þeirra snemma árs 2008. Áður en þeir samningar eru skoðaðir er rétt að skoða hvað framvirkur samningur á fyrirtækjaskuldabréf þýðir raunverulega. Eins og fjallað er um í kafla 12.0 var velta með fyrirtækjaskuldabréf mjög lítil og verðmyndun léleg. Með svo grunnan markað er eigandi skuldabréfs ekki aðallega að taka verðáhættu eins og ef um mjög seljanlegt bréf væri að ræða heldur er hann í raun að taka á sig skuldaraáhættu á útgefandann. Ef slíkt skuldabréf er undirliggjandi í framvirkum samningi er mjög erfitt að gera veðkall og selja bréfin á markaði ef nauðsynlegar tryggingar fást ekki frá viðskiptavininum. Því má færa rök fyrir því að með því að viðskiptavinur geri framvirkan kaupsamning um lítt seljanlegt skuldabréf við banka sé bankinn að lána útgefanda skuldabréfsins andvirði bréfsins en með milligöngu viðskiptavinarins.Viðskiptavinurinn taki þar með á sig skuldaraáhættu á útgefanda bréfsins og ef til greiðslufalls útgefandans kæmi myndi tjónið falla á viðskiptavininn en ekki bankann.Til þess að þessi viðskipti virki að fullu þarf því viðskiptavinurinn að vera líklegur til þess að geta þolað tjónið og veitt bankanum nógu miklar tryggingar til þess að ef til greiðslufalls kemur verði það ekki bankinn sem beri tjónið. Í rauninni er svona framvirkur samningur sambærilegur við það að viðskiptavinurinn selji bankanum skuldatryggingu á útgefandann, þ.e. viðskiptavinurinn fær greiddan vaxtamun (skuldatryggingarálag) á meðan útgefandi fer ekki í þrot en ef til greiðslufalls útgefanda kemur fellur tapið á viðskiptavininn.
Ef mynd 172 er skoðuð sést að stærstur hluti þeirra skuldabréfa sem voru í framvirkum samningum hjá Glitni var útgefinn af Kaupþingi, eða á bilinu 30–40 milljarðar. Af þeirri upphæð var FL Group með um 15 milljarða. Þar með gaf FL Group í raun út skuldatryggingu til Glitnis fyrir mögulegu greiðslufalli Kaupþings. Ef það er haft í huga að stærsta eign FL Group var hlutur félagsins í Glitni er erfitt að sjá fyrir sviðsmynd þar sem Kaupþing lendir í greiðsluþroti en FL Group stæði á sama tíma sterkt til þess að þola tapið af skuldabréfunum. Því er ljóst að þessi samningur var mjög áhættusamur fyrir Glitni.
Þar sem Glitnir fjármagnaði bréfin missti bankinn út mikið laust fé. Hins vegar notaði Glitnir bréfin í endurhverf viðskipti og fékk þannig lán, fyrst í krónum frá Seðlabankanum, en þar sem þessi skuldabréf voru öll í erlendri mynt tókst bankanum síðustu mánuðina fyrir fall að fá lán í erlendri mynt frá erlendum bönkum út á þessi bréf. Um notkun á þessum og öðrum skuldabréfum í endurhverfum viðskiptum við seðlabanka bæði Íslands og Evrópu má sjá nánari umfjöllun í kafla 7.0.
Næststærsti hluti skuldabréfa í framvirkum samningum hjá Glitni var skuldabréf útgefin af FL Group. Alls fór sú staða upp í 12 milljarða króna. Síðustu mánuði fyrir hrun voru þrír aðilar með framvirka samninga um þessi skuldabréf. GLB FX, gjaldeyrissjóður í Glitni, var með samninga upp á tvo milljarða. Glúx ehf. var með samninga upp á rúma 2 milljarða en félagið var hvorki með eignir né skuldir í lok árs 2007 samkvæmt rekstrarframtali félagsins sem skilað var til ríkisskattstjóra. Samkvæmt veðtöflu Glitnis voru veð upp á 140 milljónir veittar sem trygging fyrir viðskiptunum. Stærsti aðilinn var hins vegar félagið Consensus ehf. með um 8 milljarða. Það félag er skráð án eigna og með 117 þúsund króna skuldir í lok árs 2007 samkvæmt rekstrarframtali. Samkvæmt veðtöflu Glitnis lagði Consensus fram 580 milljóna króna víxil útgefinn af Icebank til tryggingar viðskiptunum. Í útlánaskýrslu frá Icebank hinn 24. febrúar 2009 eru útistandandi lán til Consensus 599 milljónir en um lánið segir í skýrslunni: "Lánið notaði Consensus til að kaupa víxla útgefna af bankanum. Consensus lagði víxlana síðan fram sem tryggingu vegna framvirks samnings um kaup á skuldabréfum FL Group sem félagið gerði við Glitni. Mun bankinn leitast við að nota víxlana í skuldajöfnun á móti skuldbindingum við Glitni." Því virðist Icebank hafa lánað eiginfjárframlag Consensus í viðskiptunum.
Eins og kemur fram í kafla 8.7 hér á undan hafði lánafyrirgreiðsla Glitnis til FL Group og tengdra aðila vaxið verulega fram á árið 2008 og átti bankinn erfitt með að lána félaginu meira vegna reglna um stórar áhættuskuldbindingar. Með því að fá viðskiptavini til þess að gera framvirka kaupsamninga um skuldabréf Glitnis var hægt að lána FL Group þessa 12 milljarða þar sem áhættan var formlega á félögunum sem gerðu framvirku samningana við bankann. Til þess að áhættan væri hins vegar sannarlega ekki Glitnis hefðu þessi félög þurft að vera nógu sterk til þess að þola greiðslufall FL Group.
8.9.3.2 Kaupþing
Fram til árs 2007 námu framvirkir samningar um verðbréf í Kaupþingi um 50–70 milljörðum króna sem samanstóðu aðallega af erlendum og innlendum hlutabréfum eins og sést á mynd 166. Nokkuð var um framvirka samninga á ríkistryggð skuldabréf, sem viðskiptavinir ýmist keyptu eða seldu framvirkt. Snemma árs 2007 varð hins vegar mikil aukning í stærð framvirkra samninga, þegar heildarumfang þeirra jókst um rétta 100 milljarða.
Mynd 173 sýnir heildarfjármögnun framvirkra samninga um hlutabréf, brotið niður eftir því hvaða hlutabréf voru undirliggjandi, en birt eru þau bréf sem voru með heildarstöðu upp á meira en 10 milljarða króna á einhverjum tímapunkti. Framan af voru hlutabréf stóru bankanna þriggja og ýmis önnur hlutabréf. Snemma árs 2007 bættist við stór staða, um 20 milljarðar, í finnska tryggingafélaginu Sampo sem Exista var á bak við þegar félagið var að byggja upp kjölfestuhlut sinn í tryggingafélaginu. Sú staða var til staðar fram á mitt sama ár. Hin stóra staðan sem bættist við framvirku samningana á sama tíma er rúmlega 50 milljarða hlutur Razino Properties Limited í Sainsbury's verslanakeðjunni. Aðaleigandi Razino Properties Limited var Robert Tchenguiz. Þessi samningur var framlengdur áfram og var enn til staðar við fall bankans í október 2008. Þá var nokkuð stór samningur um hlutabréf Marks & Spencer en að baki þeim samningi var Baugur Group. Fram kom í umfjölluninni um framvirka samninga hjá Glitni að dótturfélag Baugs og Fons var einnig með framvirka samninga um hlutabréf Marks & Spencer. Þannig voru hlutir Baugs í Marks & Spencer í fjármögnun bæði hjá Kaupþingi og Glitni.
Á mynd 174 má sjá stærð framvirkra samninga, greint niður á viðskiptavini sem að baki samningunum standa.
Almennt minnkaði umfang framvirkra samninga frá miðju ári 2007 fram að falli enda hlutabréfaverð farið að lækka og fjármögnun Kaupþings jafnframt farin að verða erfiðari. Fjármögnun hlutabréfanna í Sainsbury's og Marks & Spencer hélst þó áfram. Á sumar- og haustmánuðum ársins 2008 bættust síðan þrjár stórar stöður við. Tæplega 30 milljarða samningur var gerður við Violet Capital Group Limited,sem var í aðaleigu Robert Tchenguiz.Undirliggjandi hlutabréf í þeim viðskiptum voru hlutabréf í Mitchells & Butlers. Tæplega 30 milljarða samningur var gerður í ágúst við Gallagher Holdings Limited, sem var í eigu rússneska kaupsýslumannsins Alisher Usmanov. Undirliggjandi hlutabréf í þeim viðskiptum var Mmc Norilsk Adr, alþjóðlegt námufyrirtæki upprunnið í Rússlandi. Samkvæmt lánaumsókn í Kaupþingi 24. september 2008 er Usmanov sagður eigandi 1,48% hlutar í Kaupþingi en sú lánaumsókn sneri að láni til kaupa tæplega 10% hlutar í finnska tryggingafélaginu Sampo. Í september gerði svo Desulo Trading Limited tæplega 30 milljarða framvirkan kaupsamning um hlutabréf í Sampo. Um Desulo er fjallað nánar í kafla 12.0 í sambandi við stór lán sem félagið fékk hjá Kaupþingi til að kaupa hlutabréf í Kaupþingi. Stóran hluta ársins 2008 voru veðköll vegna fjármögnunar í gegnum endurhverf viðskipti með bréf Sampo ítrekað nefnd í lausafjárskýrslum. Þar er greint frá því að lausafjárstaðan batni ef verð bréfanna hækkar og versni ef verðið lækkar og því hafði Kaupþing hag af því að verð bréfanna væri sem hæst.
8.9.3.3 Landsbanki
Á mynd 167 má sjá yfirlit yfir fjárhæðir framvirkra samninga Landsbankans, flokkað eftir tegund undirliggjandi verðbréfa. Að langmestu leyti var um hlutabréf að ræða, meira af innlendum en þó nokkuð af erlendum einnig.
Mynd 175 sýnir upphæðir samninga um hlutabréf eftir undirliggjandi bréfum. Af íslenskum hlutabréfum voru bréf Landsbankans sjálfs, Glitnis og FL Group hvað stærst. Af erlendum hlutabréfum var stærsti hlutinn hlutabréf í eigu Baugs eða tengdra aðila. Unity Investments var félag í eigu FL Group, Baugs Group og Kevin Stanford en það félag var með samninga um hlutabréf í bresku verslanakeðjunum Woolworths, Debenhams og French Connection. Þá var Baugur Group sjálfur með framvirka samninga um hlutabréf Debenhams og bandarísku verslanakeðjunnar Saks.
Á mynd 176 má sjá framvirka samninga um hlutabréf greinda niður á viðskiptavini. Sjá má að Baugur Group og tengdir aðilar voru umsvifamiklir í framvirkum hlutabréfaviðskiptum í Landsbankanum. Þá var Sund Holding með stóran framvirkan samning um hlutabréf Glitnis sem nánar er fjallað um í kafla 6.0.
8.9.3.4 Straumur-Burðarás
Mynd 168 sýnir umfang framvirkra samninga í Straumi-Burðarás sem var eðlilega mun minna en í stóru bönkunum þremur enda var bankinn mun minni en stóru bankarnir. Heildarfjárhæð framvirkra samninga fór hæst í um 20 milljarða króna og voru samningarnir að langmestu leyti um íslensk hlutabréf, og samsetning hlutabréfanna var mjög breytileg. Hins vegar var einn viðskiptavinur afgerandi stærri en aðrir en það var FL Group eins og sjá má á mynd 177.
8.9.3.5 Um lokun á framvirkum samningum
Eins og segir í kafla 8.9.1.1 eru framvirkir samningar meðhöndlaðir á annan hátt í áhættureikningum en önnur lán á grundvelli þess að framvirkir samningar eru með tryggingar og veðköll eru gerð ef tap myndast í samningi. Þetta er gert til þess að framvirkir samningar myndi litla sem enga beina útlánaáhættu.
Myndir 178–180 sýna heildarhagnað eða -tap viðskiptavina bankanna vegna framvirkra samninga um innlend hlutabréf.Til samanburðar er sýnd þriggja mánaða breyting úrvalsvísitölu íslenskra hlutabréfa á sama tíma. Breyting þriggja mánaða er valin þar sem framvirkir samningar um íslensk hlutabréf voru oftast 1–3 mánuðir. Allar myndirnar sýna sama grunnmynstrið, þ.e. að heildarhagnaður sveiflast í takt við hlutabréfaverð. Þetta er eðlilegt þar sem hagnaður eða tap framvirks samnings veltur fyrst og fremst á verðþróun undirliggjandi eignar frá því að samningurinn var gerður. Hins vegar eru myndirnar nokkuð frábrugðnar milli banka. Í fyrsta lagi eru tölurnar almennt hærri hjá Landsbanka og Glitni en hjá Kaupþingi sem endurspeglar meira umfang framvirkra samninga um íslensk hlutabréf í Landsbanka og Glitni eins og fram kemur í köflunum hér á undan. Hitt atriðið felst í mismunandi samspili verðþróunar hlutabréfanna og hagnaðar og taps sem safnast í samningunum. Hjá Kaupþingi var fylgni milli uppsafnaðs hagnaðar (og taps) við verðbreytingu úrvalsvísitölunnar mjög stöðug og helst að sjá að óinnleystur hagnaður hafi yfirleitt verið meiri en ætla mætti út frá verðbreytingu vísitölunnar og óinnleyst tap minna. Hjá Landsbankanum er að mestu leyti sömu sögu að segja nema hagnaður og tap var ýmist hærra eða lægra en verðbreyting vísitölunnar gefur til kynna. Í tilviki Glitnis virðist hins vegar annað vera uppi á teningnum. Síðla árs 2006 og framan af árinu 2007 hækkaði hlutabréfaverð mikið en lítill sem enginn hagnaður safnaðist í opnum samningum viðskiptavina bankans. Þegar hlutabréfaverðið fór að lækka safnaðist hins vegar upp tap eins og eðlilegt var en síðan hélst það og jókst þrátt fyrir að hægðist á lækkun hlutabréfaverðsins. Því virðist svo hafa verið að hagnaður hafi jafnharðan verið innleystur en tap ekki gert upp og tapsamningar verið framlengdir. Þess ber þó að geta að rannsóknarnefnd Alþingis gerði ekki sérstaka greiningu á veðköllum svo að ekki er hægt að útiloka að veð hafi borist bankanum. Í skýrslu Ernst & Young hf. um meðferð framvirkra samninga í Glitni banka er komið inn á þetta atriði. Í umfjöllun um afleiðuviðskipti Jakobs Valgeirs Flosasonar við bankana segir í skýrslunni: "It appears that whenever he lost Jakob extended the contract but he got be paid out for every profitable trade. In hindsight this was not beneficial for the bank since this was adding to the banks counterparty risk by allowing clients to remove collateral, open contracts at a profit are in a sense collateral. By always selling of profitable trades and leaving the bad trades behind, the margin call ratio is consistently at a minus for the client. It appears Jakob's case is not an isolated one and this seems to have been standard practice."
Um tryggingarþekju í lánum til hlutabréfakaupa er einnig fjallað í kafla 12.0.
8.9.4 Valréttir um hlutabréf
Eins og áður segir var umfang hlutabréfavalrétta mun minna en framvirkra samninga. Heildarupphæð útistandandi framvirkra samninga var margir tugir milljarðar að jafnaði á sama tíma og valréttir námu hundruðum milljóna eða nokkrum milljörðum. Gögnin sem rannsóknarnefnd Alþings fékk varðandi valréttarsamninga um hlutabréf eru ekki alveg jafnaðgengileg og gögnin um framvirku samningana og gefa því ekki sömu tækifæri á jafnítarlegri greiningu. Lítið umfang valréttarviðskipta gefur raunar ekki tilefni til jafnítarlegrar greiningar og varðandi framvirku samningana en hér er þó greint frá helstu atriðum um umfang valrétta og áhrif þeirra á áhættu í fjármálakerfinu. Hér er aðeins fjallað um valrétti um íslensk hlutabréf. Þetta er gert þar sem þau valréttarviðskipti sem bankarnir höfðu við viðskiptavini sína um erlend verðbréf fólust yfirleitt bara í því að miðla valréttum erlendis frá til innlendra viðskiptavina. Þá höfðu þessi viðskipti ekki áhrif á innlendan hlutabréfamarkað á sama hátt og valréttirnir um íslensk hlutabréf.
Út frá gögnunum má segja að Glitnir hafi síðustu misserin fyrir fall bankanna verið þó nokkuð umsvifameiri í hlutabréfavalréttarviðskiptum en Kaupþing og Landsbankinn. Ef frá eru talin viðskipti milli bankanna voru Kaupþing og Landsbankinn að jafnaði hvor um sig með útistandandi valrétti þar sem upphæðir undirliggjandi bréfa voru undir 3 milljörðum alls. Milli bankanna þriggja voru svo útistandandi valréttir þar sem undirliggjandi bréf námu hæst yfir 10 milljörðum árið 2007 en stundum engu.
Glitnir var nokkuð sér á báti af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi var bankinn almennt með mun meira af valréttum útistandandi. Á árunum 2007 og 2008 námu útistandandi almennir valréttir til viðskiptamanna 5–10 milljörðum. Í öðru lagi voru stórir valréttarsamningar gerðir í tengslum við nokkrar útgáfur afleiðutengdra skuldabréfa árið 2007 og er fjallað um það efni hér á eftir.
8.9.4.1 Afleiðutengd skuldabréf
Viðskipti með afleiðutengd skuldabréf hafa tíðkast lengi erlendis og á Íslandi í þó nokkur ár.Afleiðutengd skuldabréf eru margs konar og geta í raun verið hvers konar skuldabréf þar sem ávöxtunin er tengd einhverri ytri breytu, eins og til dæmis verði hlutabréfs, hrávöru eða gjaldmiðils. Það sem var óvenjulegt við skuldabréfaútgáfurnar sem Glitnir hafði milligöngu um á miðju ári 2007 var að þau voru tengd íslenskum hlutabréfum og voru öllu stærri en önnur sambærileg bréf sem gefin höfðu verið út hérlendis. Í rammagrein um fjármögnuð afleiðutengd skuldabréf er tekið dæmi um eitt bréfanna en alls voru þessar útgáfur sex talsins og voru allar svipað uppbyggðar. Þær fólu í sér að eigendur bréfanna nutu góðs af hækkun undirliggjandi hlutabréfa. Í töflu 15 má sjá yfirlit um bréfin. Sjá má að alls voru 10,8 milljarðar af hlutabréfum Glitnis, 6 milljarðar af hlutabréfum Straums-Burðaráss og 4,2 milljarðar af hlutabréfum Kaupþings undirliggjandi.Til þess að ná fram þeim eiginleika bréfanna að þau greiði ávöxtun í samræmi við hækkun umræddra hlutabréfa gerðu útgefendurnir samninga við Glitni um kauprétti um hlutabréfin. Við gerð valréttarsamninganna þurfti Glitnir að kaupa hluta af undirliggjandi hlutabréfum. Því má í raun segja að þessi gjörningur hafi falið í sér að kaupendur afleiðutengdu bréfanna hafi verið að kaupa ákveðinn hluta undirliggjandi hlutabréfanna. Þar sem Glitnir lánaði svo einnig fyrir kaupum á skuldabréfunum var í raun um skuldsetta fjármögnun hlutabréfa að miklu leyti að ræða.
Fjármögnuð afleiðutengd skuldabréf
Dæmi um afleiðutengd skuldabréf sem gefin voru út um mitt ár 2007 var STRB 07 5 sem gefið var út af Straumi-Burðarási.Til útskýringar er hér tekið dæmi um hvernig 100 krónu fjárfesting í bréfinu hefði virkað.
Bréfið var hannað þannig að kaupandi bréfsins lagði fram 100 krónur í upphafi. Á gjalddaga bréfsins, 16 mánuðum síðar, skyldi svo kaupandinn fá 95 krónur greiddar til baka en jafnframt fengi hann ágóða af hækkun á gengi hlutabréfa Glitnis. Nánar tiltekið fengi kaupandinn 120% af hækkun hlutabréfa Glitnis allt upp að 50% hækkun bréfsins. Ef hlutabréf Glitnis hefðu til dæmis hækkað um 25% á þessum 16 mánuðum hefði fjárfestirinn fengið 95 krónurnar að viðbættum 1,2*0,25*100 = 30 krónum eða alls 125 krónur. Í besta falli hækkaði hlutabréfið um 50% eða meira og þá fengi eigandi bréfsins alls 155 krónur af fjárfestingu sinni. Í versta falli hefði bréfið ekki hækkað neitt eða jafnvel lækkað. Þá fengi eigandi bréfsins aðeins 95 krónurnar til baka, það er að segja svo fremi sem útgefandi bréfsins, Straumur-Burðarás, væri ekki farinn í þrot þegar á gjalddaga kæmi. Þetta bréf bjó þannig til leið fyrir fjárfesta til að taka þátt í hlutabréfahækkun Glitnis án þess að bera fulla tapsáhættu vegna hlutabréfanna en þó einnig með hámarki á mögulegum hagnaði. Slíkt bréf getur mjög vel fallið að fjárfestingarstefnu aðila sem vill fjárfesta í hlutabréfamarkaðnum án þess að taka fulla áhættu sem markaðnum fylgir.
Til þess að gera ávöxtunina enn meira aðlaðandi var hins vegar ákveðið að bjóða fjárfestum að fá lán frá Glitni til þess að kaupa þetta skuldabréf. Fjárfestum var boðið að leggja fram 6 krónur í upphafi og fá lánaðar 94 til að kaupa 100 króna nafnvirði bréfsins. Þannig náðist fram mjög mikil vogun og fyrir hvern hundraðshluta sem hlutabréf Glitnis hækkaði fékkst 20% ávöxtun á þessar 6 krónur sem fjárfestirinn lagði fram. En að sama skapi var tapið mikið ef bréfið hækkaði ekki þar sem háir vextir reiknuðust á lánið og þótt 6 krónurnar væru allt sem fjárfestirinn lagði fram í upphafi var tap hans ekki takmarkað við þær 6 krónur. Ef hlutabréf Glitnis myndu ekki hækka neitt fengi hann 95 krónur til baka og þyrfti að borga 94 krónur til baka með vöxtum. Hann hefði því líklega tapað á bilinu 15-20 krónum eða um fjórfalt það sem hann lagði fram í upphafi.
8.9.5 Ályktanir rannsóknarnefndar Alþingis
Framvirkir samningar virðast að miklu leyti hafa verið notaðir sem langtímafjármögnunarleið fyrir stórar verðbréfastöður. Í einhverjum tilvikum virðist þetta hafa verið gert með erlend hlutabréf og skuldabréf til þess að fá umrædd bréf beint inn á bækur bankanna svo að hægt væri að nota þau í endurhverfum viðskiptum við erlendar fjármálastofnanir og sækja þannig fjármögnun í erlendri mynt. Í mörgum tilvikum virðast framvirkir samningar hins vegar hafa verið notaðir sem leið til þess að lána viðskiptavinum til hlutabréfakaupa. Umfang þessara útlána var nokkuð en þó ekki verulegt í samanburði við heildarútlán bankanna. Hins vegar vekur það athygli að stærstu lántakendur bankans voru jafnframt stærstu lántakendur í gegnum framvirka samninga. Hjá Glitni voru félög tengd FL Group umsvifamikil,hjá Kaupþingi voru hæstu samningarnir við Razino Properties,félag Robert Tchenguiz,og í Landsbankanum var Baugur stærsti lántakandinn. Í tilviki Glitnis var nokkuð um það að hlutabréfin sem voru fjármögnuð væru hlutabréf bankans sjálfs eða hlutabréf stærsta eigandans, FL Group, en eins og nánar er vikið að í kafla 9.0 er langtímafjármögnun eigin hlutabréfa fjármálafyrirtækjanna og hlutabréfa helstu eigenda óheppileg þar sem slíkt veikir fjármögnun eiginfjár kerfisins.
Framvirk viðskipti Glitnis með skuldabréf FL Group virðast að miklu leyti hafa verið til þess að bankinn gæti veitt félaginu lán í gegnum þriðja aðila sem tók litla áhættu í viðskiptunum. Þannig gat bankinn veitt félaginu hærri lán en ella.
Svo virðist sem Glitnir hafi gert upp framvirka samninga á mjög mismunandi hátt eftir því hvort um hagnað eða tap í samningunum var að ræða. Þegar hagnaður myndaðist var hann greiddur út til viðskiptavina en tapi var fleytt áfram. Á þennan hátt byggðist upp mikil útlánaáhætta hjá bankanum í gegnum framvirka samninga.
8.10 Lánabækur dótturfélaga íslensku bankanna í Lúxemborg
8.10.1 Inngangur
Kaupþing, Landsbankinn og Glitnir starfræktu allir dótturfélög í Lúxemborg, þ.e. Glitnir Bank Luxembourg S.A., Kaupthing Bank Luxembourg S.A. og Landsbanki Luxembourg S.A. Stærð og umfang þessara dótturfélaga var umtalsvert og til þess að fá heildarsýn yfir starfsemi bankanna er því mikilvægt að varpa einhverju ljósi á áhættuskuldbindingar þeirra í Lúxemborg. Hér á eftir fylgir því stutt umfjöllun um áhættuskuldbindingar dóttureiningar hvers banka fyrir sig þar í landi.
8.10.2 Öflun gagna
Lög um bankaleynd í Lúxemborg gerðu það að verkum að ekki reyndist gerlegt að afla jafnítarlegra gagna um starfsemina þar í landi og gert var fyrir móðurfélögin, en hér fylgir yfirlit yfir þau gögn sem mögulegt var að afla.
Commission de Surveillance du Secteur Financier er fjármálaeftirlit Lúxemborgar. Fjármálaeftirlit Lúxemborgar veitti rannsóknarnefnd Alþingis aðgang að skýrslum um lánastarfsemi (e. report on credit activity) sem hver banki fyrir sig hafði látið endurskoðendafyrirtæki taka saman og senda eftirlitinu sumarið 2008, en skýrslurnar miða við stöðu hvers banka fyrir sig hinn 31. mars 2008. Í tilviki Kaupthing Bank Luxembourg S.A. hafði KPMG í Lúxemborg séð um skýrslugerðina en í tilviki Landsbanki Luxembourg S.A. og Glitnir Bank Luxembourg
S.A. sáu PricewaterhouseCoopers í Lúxemborg um gerð hennar. Yfirlit um skiptingu útlánabókar Glitnir Bank Luxembourg fengust frá skilanefnd þess banka, fyrir dagsetningarnar 31. desember 2007 og 30. september 2008.
Afar takmörkuð gögn um útlán Kaupthing Bank Luxembourg og Landsbanki Luxembourg voru hér á Íslandi en rannsóknarnefnd Alþingis fékk aðgang að þeim.
8.10.3 Glitnir Bank Luxembourg S.A.
Í þessum kafla er að finna stutt yfirlit yfir dreifingu og samsetningu áhættuskuldbindinga (e. exposure) Glitnir Bank Luxembourg
S.A. Eins og greint verður frá hér að neðan var stærsti hluti áhættuskuldbindinga Glitnir Bank Luxembourg vegna fjármögnunar á fasteignaverkefnum í Þýskalandi, Noregi, Danmörku og Svíþjóð með veði í fasteignum. Einkabankaþjónusta (e. private banking) var einungis lítill hluti af starfsemi bankans, sem og útlán með veði í verðbréfum íslensku bankanna. Því þótti ekki ástæða til að greina áhættuskuldbindingar Glitnir Bank Luxembourg jafnnákvæmlega og gert er með samsvarandi dótturfélög Kaupþings og Landsbankans hér á eftir. Nánari skipting á starfsemi Glitnir Bank Luxembourg, fyrir hinn 31. desember 2007 og 30. september 2008, er sem eftir segir:
31. desember 2007
Heildarstærð lánabókarinnar var 1.274,1 milljón evra. Þar af voru 93,7% vegna fjármögnunar á fasteignaverkefnum, 6,17% vegna sérbankaþjónustu og 0,13% tengt annarri fjármögnun. Undir sérbankaþjónustu heyrðu m.a. lán með veði í verðbréfum en slík lán voru um 5,45% af lánabókinni. Séu veðin skoðuð nánar má sjá að þau skiptust í verðbréf útgefin á Íslandi, sem voru 51,8% af heildinni (12,85% útgefin af Glitni), og önnur verðbréf, sem voru því 48,2% af heildinni. Það þýðir að 48,8 milljónir evra voru með veðum í íslenskum verðbréfum, og rúmlega 12 milljónir evra með veðum í verðbréfum útgefnum af Glitni.
30. september 2008
Heildarstærð lánabókarinnar var 1051 milljón evra. Þar af voru 91,74% vegna fjármögnunar á fasteignaverkefnum, 8,16% í einkabankaþjónustu og 0,11% í annarri fjármögnun. Undir einkabankaþjónustu heyrðu m.a. lán með veði í verðbréfum en slík lán voru um 7,27% af lánabókinni. Séu veðin skoðuð nánar má sjá að þau skiptust í verðbréf útgefin á Íslandi, sem voru 36,5% af heildinni (7,12% útgefin af Glitni), og önnur verðbréf, sem voru því 63,5% af heildinni. Lækkun á hlutfalli íslenskra verðbréfa af heildarverðmæti trygginga má rekja til þess að miklar verðlækkanir höfðu orðið á íslenskum verðbréfamarkaði á þessum tíma, auk þess sem íslenska krónan hafði veikst talsvert gagnvart evrunni.
Í skýrslu PricewaterhouseCoopers, sem gerð var fyrir fjármálaeftirlitið í Lúxemborg, er vísað til þess að meirihluti lánabókar Glitnir Bank Luxembourg sé vegna fjármögnunar á fasteignaverkefnum. Um stórar áhættufjárfestingar eru ekki nefnd fyrirtæki sem tengjast Íslandi með beinum hætti, svo rannsóknarnefndinni sé kunnugt um, en þó er vísað til þess að í einhverjum tilvikum hafi móðurfélagið (Glitnir banki) verið í ábyrgð vegna lána og námu þær ábyrgðir um 18 milljónum evra í maí 2008. Af 47 áhættuskuldbindingum sem námu yfir 10 milljónum evra að stærð fengu 34 áhættuflokkunina engin sýnileg áhætta, 6 hlutu flokkunina markverð áhætta án þess að þörf væri á virðisaðlögun og 7 fengu flokkunina markverð áhætta með þörf á virðisaðlögun (e. risky and requiring a value adjustment).
Glitnir Bank Luxembourg sendi fjármálaeftirlitinu í Lúxemborg viðbótarupplýsingar hinn 5. september 2008 í tengslum við þær 7 áhættuskuldbindingar sem flokkaðar voru undir markverða áhættu með þörf á virðisaðlögun. Þar kemur fram að um tvær samstæður er að ræða, hvorug með bein tengsl við Ísland.
8.10.4 Kaupthing Bank Luxembourg S.A.
Í þessum kafla er að finna stutt yfirlit yfir stærstu áhættuskuldbindingar (e. exposure) Kaupthing Bank Luxemborg S.A. miðað við stærstu lántakendur bankans samkvæmt yfirliti sem sýnir stöðuna eins og hún var 31. ágúst 2008. Lán eru flokkuð niður eftir eignarhaldi lántakenda og er samtala reiknuð fyrir lán sem heyra undir sömu samstæðu (e. group), samkvæmt flokkun sjálfs bankans, og verður stuðst við þá flokkun hér.
Undir áhættuskuldbindingum eru flokkuð lán og afleiður. Afleiður eru reiknaðar með áhættuleiðréttingum til þess að sýna útlánaígildi þeirra. Tafla 16 sýnir 20 stærstu lántakendur Kaupthing Bank Luxemborg S.A. hinn 31. ágúst 2008. Benda má á að Robert Tchenguiz, Exista og Kjalar voru einnig stórar áhættuskuldbindingar hjá Kaupþingi banka hf. á Íslandi. Þar var Robert Tchenguiz stærsti lántakandi bankans, Exista annar stærsti en Kjalar sá fjórði. Kevin Stanford var einnig með umtalsverð lán þar. Skúli Þorvaldsson var hins vegar með hæstu áhættuskuldbindingarnar og var með um þrisvar sinnum hærri skuldbindingar hjá Kaupþingi í Lúxemborg en hjá móðurfélaginu sem fjallað er um í kafla 8.7. KCPII var hins vegar fjárfestingarfélag, meðal annars í eigu Kaupþings og lykilstjórnenda Kaupþings, og má lesa nánar um það í kafla 10.0 þar sem fjallað er um hvatakerfi Kaupþings.
Af ofangreindu má sjá að heildaráhættuskuldbinding stærsta lántakanda bankans, Skúla Þorvaldssonar, var um 15,5% af öllum áhættuskuldbindingum bankans. Fimm stærstu lántakendur bankans voru svo með 44,5% hlutdeild af heildaráhættuskuldbindingum hans,þ.e.Skúli Þorvaldsson,Kevin G.Stanford,Robert Tchenguiz,Antonios Yerolemou og Exista Group.Þessir aðilar eiga það allir sameiginlegt að hafa beint eða óbeint átt talsverðan eignarhlut í Kaupþingi á þessum sama tíma, þ.e. 24,71% í tilviki Exista, um 2,97% eða hærra í tilviki Skúla Þorvaldssonar, um 1,9% eða hærra í tilviki Kevin G. Stanford, um 1,5% eða hærra í tilviki Robert Tchenguiz og um 0,85% eða hærra í tilviki Antonios Yerolemou. Á mynd 181 má sjá hlutfallslega skiptingu 20 stærstu áhættuskuldbindinga Kaupthing Bank Luxembourg.
Í skýrslu sem KPMG í Lúxemborg gerði fyrir Commission de Surveillance du Secteur Financier (fjármálaeftirlitið í Lúxemborg) er m.a. gerð athugasemd við að veð fyrir lánum hefðu að stórum hluta verið tekin í verðbréfum sem tengdust íslenskum mörkuðum og var þar sérstaklega vísað til hlutabréfa í Kaupþingi, Exista og Bakkavör, en bankinn flokkaði þau sem tengd félög samkvæmt skýrslunni. Í því samhengi var bent á að bankinn gæti átt í vandræðum með að losa um stórar stöður í viðkomandi verðbréfum við þáverandi markaðsaðstæður. Einnig kom fram að bankinn hefði ekki takmarkað veðtökur með hliðsjón af landfræðilegum þáttum, mótaðila, gjaldmiðli eða atvinnugrein, en í þeim efnum væri að sjá talsverða samþjöppun.Að auki var bent á að skortur hefði verið á formlegri aðferðafræði við verðmat á óskráðum eignum sem teknar höfðu verið að veði.Verðmæti þeirra hefði verið metið á kaupverði bréfanna og það verð uppfært ef viðskipti höfðu orðið með bréfin frá þeim tíma, eða ef hægt var að nálgast upplýsingar um verð eða verðmat með öðrum leiðum. Þá var bent á að óvissa hefði ríkt um það hvort bókfært verðmæti veðanna hefði getað fengist fyrir bréfin ef til sölu kæmi þar sem um illseljanlegar (e. illiquid) eignir hefði verið að ræða við þáverandi markaðsaðstæður. Í því samhengi skal á það bent að verðbréf um allan heim höfðu lækkað talsvert í verði á þeim tíma.
Tafla 17 sýnir eignir skuldunauta Kaupthing Bank Luxembourg sem lagðar höfðu verið fram sem tryggingar og voru yfir 40 milljónum evra að markaðsvirði. Um er að ræða skráð hlutabréf. Dálkurinn "fjöldi eignasafna" sýnir fjölda eignasafna sem veð höfðu verið tekin í. Lækkaði virði verðbréfa sem útgefin voru af ofangreindum hefði það því neikvæð áhrif á tryggingar bankans og þar með á áhættuskuldbindingarnar sem tryggingar lágu að baki. Þær upphæðir sem gefnar eru upp í töflunni endurspegla ekki upphæð áhættuskuldbindinganna sjálfra, því yfirleitt var krafist ákveðinnar tryggingarþekju, þ.e. virði trygginganna skyldi vera ákveðnu hlutfalli hærra en skuldbindingarinnar.
Eins og fram kemur í kafla 9.0 og kafla 11.0 telur rannsóknarnefnd Alþingis að veigamikil rök leiði til þeirrar niðurstöðu að Kaupþing hefði átt að draga frá eigin fé þau lán sem höfðu hlutabréf í Kaupþingi sem undirliggjandi veð. Hér er sú upphæð 480 milljónir evra, eða á gengi í mars 2008 um 58 milljarðar íslenskra króna.
Við greiningu á áhættuskuldbindingum sem námu yfir 20 milljónum evra, alls til félaga tengdra 34 lögaðilum, og framkvæmd var fyrir fjármálaeftirlitið í Lúxemborg, var niðurstaðan sú að 26 þeirra fengu áhættuflokkunina engin sýnileg áhætta (e. no apparent risk) en 8 hlutu flokkunina markverð áhætta án þess að þörf væri á virðisaðlögun (e. remarkable risk with no necessary value adjustment). Þær áhættuskuldbindingar sem einhver sýnileg áhætta var talin fylgja má sjá í töflu 18.
Önnur dótturfélög Kaupþings
Rannsóknarnefnd Alþingis kannaði lánabækur annarra dótturfélaga Kaupþings og ljóst var að tengslin við Ísland voru mest í Kaupþingi í Lúxemborg. Þess ber þó að geta að í Kaupthing Singer & Friedlander var Robert Tchenguiz fimmti stærsti lánþeginn 31. ágúst 2008. Þá skuldaði hann um 95 milljónir evra þar. Númer átta og níu voru Exista og bróðir Roberts,Vincent, sem skulduðu um 8 milljónir evra í KSF. Kaupthing Capital Partners (KCP II ehf.) var einnig með lán í KSF upp á um 5 milljónir evra. Á eyjunni Mön var sjötta og sjöunda stærsta skuldbindingin við Exista annars vegar og Robert Tchenguiz hins vegar, báðar upp á tæpar 1,5 milljónir evra.
8.10.5 Landsbanki Luxembourg S.A.
Í þessum kafla er að finna stutt yfirlit yfir stærstu áhættuskuldbindingar (e. exposure) Landsbanki Luxembourg S.A. miðað við stærstu lántakendur bankans samkvæmt yfirliti sem sýnir stöðuna eins og hún var 2. október 2008. Lán eru flokkuð niður eftir eignarhaldi lántakenda og er samtala reiknuð fyrir lán sem heyra undir sömu samstæðu (e. group), samkvæmt flokkun bankans sjálfs, og verður stuðst við þá flokkun hér. Undir áhættuskuldbindingar flokkast lán ásamt framvirkum samningum.Við verðmat á framvirkum samningum var notast við uppreiknað markaðsvirði.
Tafla 19 sýnir 20 stærstu lántakendur Landsbanki Luxembourg S.A. hinn 2. október 2008 en taflan byggist á gögnum sem fundust í tölvubréfi frá Landsbankanum í Lúxemborg til starfsmanns Landsbankans. Það sem vekur hvað mesta athygli þegar gögnin eru skoðuð er hversu stórar áhættuskuldbindingar tengdar Björgólfi Thor Björgólfssyni voru sem hlutfall af heildaráhættuskuldbindingum í Landsbanki Luxembourg S.A., eða um 23%. Björgólfur Thor var á þessum tíma annar eigandi Samson eignarhaldsfélags ehf., sem var stærsti hluthafi Landsbankans. Hinn eigandi Samson eignarhaldsfélags ehf. var Björgólfur Guðmundsson, en hann var fimmti stærsti skuldari Landsbanki Luxembourg S.A. með rúmt 1% heildaráhættuskuldbindinga. Næststærsta áhættuskuldbindingin, tæp 3% allra áhættuskuldbindinga Landsbankans í Lúxemborg, var vegna erlends einstaklings sem rannsóknarnefnd Alþingis fær ekki séð að hafi tengsl við Ísland eða aðra starfsemi íslensku bankanna fram að falli þeirra en þar á eftir voru Erna Kristjánsdóttir og Kevin
G. Stanford. Séu einungis 20 stærstu skuldunautar Landsbanka Luxembourg S.A. skoðaðir má sjá að Björgólfur Thor Björgólfsson var þar með ríflega 58% hlutdeild en mynd 182 sýnir skiptinguna milli 20 stærstu skuldaranna. Stærsta einstaka lánið til félags sem tengist Björgólfi Thor nemur 153 milljónum evra og var til félagsins BeeTeeBee Ltd. Þetta lán var veitt 30. september 2008. Nánari umfjöllun um það lán er í kafla 8.8.
Við greiningu á áhættuskuldbindingum, sem námu yfir 20 milljónum evra 31.3.2008, alls til félaga sem tengdust 35 aðilum og framkvæmd var fyrir fjármálaeftirlitið í Lúxemborg var niðurstaðan sú að 23 þeirra fengu áhættuflokkunina engin sýnileg áhætta (e. no apparent risk) en 12 hlutu flokkunina markverð áhætta án þess að þörf væri á virðisaðlögun (e. remarkable risk with no necessary value adjustment). Þær áhættuskuldbindingar sem einhver sýnileg áhætta var talin fylgja má sjá í töflu 20.
Í skýrslu PricewaterhouseCoopers, sem gerð var fyrir fjármálaeftirlitið í Lúxemborg, er fjallað um gæði trygginga Landsbankans í Lúxemborg. Þar kemur m.a. fram að í túlkun á niðurstöðum úr álagsprófunum var á það bent að vegna erfiðleika á mörkuðum frá haustinu 2007, þá sérstaklega á íslenska markaðinum, hefði virði þeirra trygginga sem Landsbanki Luxembourg hafði tekið vegna lánveitinga lækkað umtalsvert. Ein mesta áhættan væri því fólgin í þeirri staðreynd að íslensk hlutabréf hefðu verið tekin að veði í talsverðum mæli, sem og minni seljanleiki slíkra eigna.
Tafla 21 sýnir óbeina áhættu Landsbankans í Lúxemborg vegna trygginga sem bankinn hafði tekið í tengslum við áhættuskuldbindingar, þ.e. veð og ábyrgðir.
Taflan sýnir tryggingar sem bankinn hafði tekið vegna áhættuskuldbindinga.Til þess að setja upphæðirnar í samhengi eru þær svo reiknaðar sem hlutfall af eigin fé Landsbankans í Lúxemborg. Sjálfar áhættuskuldbindingarnar voru almennt óháðar þeim félögum sem talin eru upp hér að ofan. Lækkun á virði verðbréfa, sem gefin eru út af ofangreindum félögum og Landsbanki Luxembourg hafði tekið að veði, hefði haft neikvæð áhrif á tryggingar bankans og þar með á áhættu vegna fyrrgreindra skuldbindinga. Þær upphæðir sem gefnar eru upp í töflunni endurspegla ekki upphæð áhættuskuldbindinganna sjálfra því að yfirleitt var krafist ákveðinnar tryggingarþekju, þ.e. virði trygginganna skyldi vera ákveðnu hlutfalli hærra en skuldbindingarinnar. Langumfangsmesta áhættan í töflunni er gagnvart Landsbanka Íslands beint, en undir það falla verðbréfalán sem síðan voru sett að veði í seðlabankanum í Lúxemborg (Banque centrale de Luxembourg).
8.10.5.1 Flutningur áhættuskuldbindinga frá Landsbanki Luxembourg S.A. til Landsbanka Íslands hf.
Talsverður hluti áhættuskuldbindinga Landsbanki Luxembourg voru lán sem veitt höfðu verið með sjálfskuldarábyrgð móðurfélagsins, þ.e. Landsbanka Íslands, eða um 562 milljónir evra (sem er um 41,31% af heildaráhættuskuldbindingum Landsbanki Luxembourg) hinn 31. mars 2008.
Að sögn Sigurjóns Þ. Árnasonar, bankastjóra Landsbankans, föluðust viðskiptavinir bankans eftir því að taka lán í gegnum Landsbanki Luxembourg þar sem litið væri svo á að bankaleynd væri til staðar í Lúxemborg en á Íslandi væri ekki hægt að treysta á slíkt.Til þess að koma til móts við kröfur viðskiptavina bankans en án þess að þó brjóta reglur um stórar áhættuskuldbindingar sem voru við lýði í Lúxemborg voru lánin því veitt í gegnum Landsbanki Luxembourg en með ábyrgð móðurfélagsins. Í reynd má því líta svo á að Landsbanki Íslands hafi veitt lánin en að afgreiðslan hafi farið fram í gegnum Landsbankann í Lúxemborg og því féllu þau undir þarlend lög um bankaleynd. Stór lán höfðu "til margra ára" verið afgreidd með þeim hætti, en samkvæmt skýrslu Sigurjóns Þ. Árnasonar máttu bankar í Lúxemborg vera með "ótakmarkaða áhættu á móðurfélagið", sem var öfugt við þær reglur sem voru t.a.m. við lýði í Bretlandi.
Í aðdragandanum að falli bankanna var farið fram á að stórar áhættuskuldbindingar með ábyrgð móðurfélagsins yrðu fluttar að fullu til Landsbanka Íslands og kom beiðni um þá færslu frá forsvarsmönnum Landsbanki Luxembourg. Um var að ræða lán að samanlögðu virði 784 milljónir evra (794 milljónir áður en tekið er tillit til virðisrýrnunar). Þegar lántakendurnir eru flokkaðir niður á samstæðugrundvelli kemur í ljós að um 11 aðila er að ræða og má sjá þá í töflu 22.
Stærsti lántakandinn sem færslan náði til er Björgólfur Thor Björgólfsson, með um 225 milljónir evra, en þar á meðal var 153 milljóna evra lán sem veitt var í lok september 2008 og fjallað er um í kafla 8.8. Rúmar 65 milljónir evra voru veittar til þriggja félaga að fullu í eigu Sunda ehf. (undir Páll Þór Magnússon í töflu). Upphafsdagur þessara lána er í september 2008. Þó hefur rannsóknarnefnd Alþingis einnig undir höndum gögn sem virðast sýna að þessi lán hafi verið veitt í mars 2008, í framhaldi af því að CFD-samningar (e. contract of difference) milli Sunds ehf. og Landsbankans um sömu hluti runnu út.Veðin á bak við þessi lán voru hlutabréf í Glitni.
8.10.6 Ályktanir rannsóknarnefndar Alþingis
Rannsóknarnefnd Alþingis telur að Kaupþing í Lúxemborg hafi að miklu leyti fjármagnað sömu viðskiptavini og Kaupþing hf. Sérstaka athygli vekur að fimm stærstu áhættuskuldbindingar bankans varða stóra eigendur bankans.
Rúmlega 1,1 milljarðs evra virði af hlutabréfum í Kaupþingi, Exista og Bakkavör var að veði hjá Kaupþingi í Lúxemborg. Um er að ræða sjálfan bankann, stóra eigendur hans og tengda aðila. Slíkt fyrirkomulag var að áliti rannsóknarnefndarinnar afar óheppilegt, sérstaklega hvað varðar bréf Kaupþings og Exista, þar sem ljóst mátti vera að ákveðin vandkvæði gætu orðið við að kalla eftir þeim tryggingum og gera ráðstafanir til að innheimta lán með veði í þeim bréfum þegar á reyndi en um það er nánar fjallað í kafla 8.5.
Ljóst er að Landsbankinn í Lúxemborg hafi að umtalsverðu leyti verið notaður til þess að fjármagna starfsemi fyrirtækja Björgólfs Thors Björgólfssonar. Þá er sérstaklega athyglisvert að stór hluti þessara skuldbindinga verður til rétt fyrir fall bankans.
Að stórum hluta hafa lán Landsbankans verið til íslenskra aðila og var óbein áhætta bankans vegna trygginga einnig að stórum hluta tengd Íslandi með beinum hætti, s.s. vegna verðbréfa og trygginga móðurfélagsins og verðbréfa Eimskipa, Straums-Burðaráss og Glitnis.
Bankinn veitti í miklum mæli lán með ábyrgð Landsbankans á Íslandi og var bankaleyndin í Lúxemborg einn hvatinn á bak við slíkar lánveitingar að sögn bankastjóra Landsbankans. Að mati rannsóknarnefndarinnar verður ekki annað séð en að í mörgum tilvikum hafi verið um að ræða lán frá Landsbanka Íslands til íslenskra aðila sem afgreidd hafi verið í gegnum Landsbankann í Lúxemborg í þeim tilgangi að draga úr gagnsæi.
8.11 Lánafyrirgreiðslur til alþingis- og fjölmiðlamanna
8.11.1 Inngangur
Til að kanna hvort alþingismenn og fjölmiðlamenn hafi notið óeðlilegrar lánafyrirgreiðslu í íslensku bönkunum var eftirfarandi greining gerð. Fyrir hvern aðila, þingmann eða fjölmiðlamann, var samanlögð lánastaða aðilans sjálfs, maka hans og félaga í helmings- eða meirihlutaeigu þeirra í Glitni, Kaupþingi, Landsbanka og Straumi-Burðarási könnuð. Þessi heildarlánastaða var könnuð aftur til byrjunar árs 2005 og hæsta heildarlánastaða tímabilsins skráð. Þeir aðilar sem höfðu yfir 100 milljónir að láni alls, samkvæmt þessari aðferðafræði, voru skoðaðir sérstaklega og er þeirri athugun lýst hér að neðan.Viðmiðið var valið með það í huga að flest lán undir þessum mörkum eru eingöngu húsnæðislán og telja má slíkt til eðlilegrar fjármögnunar einstaklinga.
Kennitölulistar yfir alþingismenn voru fengnir frá Alþingi og hvað fjölmiðlamenn varðar var kallað eftir kennitölulistum starfsmanna frá eftirfarandi fjölmiðlum: Ríkisútvarpinu,Viðskiptablaðinu, Birtingi, 365 Fjölmiðlum og Árvakri.
8.11.2 Alþingismenn
Tafla 23 sýnir þá þingmenn sem höfðu, ásamt maka og félögum þeirra, heildarlánastöðu yfir 100 milljónum króna einhvern tímann frá ársbyrjun 2005 og fram að falli bankanna í október 2008. Hæsta útlánastaðan sést í töflunni og tímasetning hennar.
Öll veruleg lán sem tengjast Sólveigu Pétursdóttur á tímabilinu voru á vegum eiginmanns hennar, Kristins Björnssonar. Stærstu lánin voru til félags Kristins, Mercatura ehf., og af þeim voru hæstu lánin í gegnum framvirka samninga. Helstu verðbréf sem lágu að baki þeim samningum voru hlutabréf FL Group hf., Glitnis banka hf. og Kaupþings banka hf. og skuldabréf Icebank. Í stærstu lánum og framvirkum samningum Kristins og Mercatura var Glitnir mótaðili. Þá var félag í helmingseigu Kristins, Geri ehf., með 200–300 milljóna króna lán hjá Landsbanka á tímabilinu.
Öll veruleg lán sem tengjast Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur á tímabilinu voru á vegum eiginmanns hennar, Kristjáns Arasonar. Stærstu lánin voru fyrst til Kristjáns beint en síðar til félags í hans eigu, 7 hægri ehf., vegna kaupa á hlutabréfum í Kaupþingi banka hf. Kristján var framkvæmdastjóri í bankanum og tengdust lánin starfshlunnindum til hans en um það er nánar fjallað í kafla 10.0.
Öll veruleg lán sem tengjast Herdísi Þórðardóttur á tímabilinu voru á vegum eiginmanns hennar, Jóhannesar Sigurðar Ólafssonar, eða félags í sameiginlegri eigu þeirra. Stærstu lánin voru í gegnum framvirka samninga um íslensk hlutabréf, svo sem hlutabréf FL Group hf., Landsbanka Íslands hf., Straums-Burðaráss Fjárfestingabanka hf. og Actavis Group hf. Umfang viðskiptanna var mest árið 2006. Á árinu 2005 gerði Jóhannes S. Ólafsson ehf., félag í sameiginlegri eigu þeirra hjóna, nokkuð af framvirkum samningum en um nokkru lægri fjárhæðir en Jóhannes sjálfur.
Öll veruleg lán sem tengjast Lúðvík Bergvinssyni á tímabilinu voru á vegum fasteignafélags í helmingseigu hans, Miðkletts eignarhaldsfélags ehf., og voru þau fengin hjá Landsbanka Íslands hf.
Öll veruleg lán sem tengjast Jónínu Bjartmarz á tímabilinu voru á vegum eiginmanns hennar, Péturs Þórs Sigurðssonar. Jafnframt voru öll veruleg lán til félags Péturs, Lindarvatns ehf. Lánveitandi félagsins var Landsbanki Íslands hf.
Stærstu lán Árna Magnússonar voru í Glitni banka hf. en Árni var ráðinn sem forstöðumaður til bankans árið 2006. Lánafyrirgreiðslurnar voru annars vegar til Árna sjálfs og hins vegar til félags í hans eigu,AM Equity ehf., en það félag fékk 100 milljóna króna lán til hlutabréfakaupa í bankanum sjálfum.
Helstu lán Ármanns Kristins Ólafssonar voru annars vegar lán í Kaupþingi banka hf. og hins vegar lán í Landsbankanum í gegnum framvirka samninga. Undirliggjandi í þeim samningum voru ýmis hlutabréf, innlend og erlend. Stærstu samningarnir voru um hlutabréf Straums-Burðaráss Fjárfestingabanka hf.
Helstu lán Bjarna Benediktssonar voru í Glitni banka hf. Annars vegar var um bein lán að ræða og hins vegar um lán í gegnum framvirka samninga. Fyrir utan einn um 45 milljóna króna framvirkan samning um hlutabréf Glitnis í upphafi árs 2006 voru þeir framvirku samningar allir um hlutabréf erlendra banka, Deutsche Bank, Morgan Stanley og Lehman Brothers.
Öll veruleg lán sem tengjast Ástu Möller á tímabilinu voru á vegum eiginmanns hennar, Hauks Þórs Haukssonar. Stærsti hluti þeirra lána var í gegnum framvirka samninga sem Stafholt ehf., félag Hauks, og Investis ehf., félag í helmingseigu Stafholts, gerðu. Stærstu samningarnir voru um íbúðabréf, þ.e. skuldabréf gefin út af Íbúðalánasjóði. Framvirku samningarnir voru gerðir við Kaupþing banka hf. en lán voru í Landsbanka Íslands hf.
Þau lán sem tengjast Ólöfu Nordal á tímabilinu voru lán til hennar og eiginmanns hennar, Tómasar Más Sigurðssonar, og voru aðallega í Landsbanka Íslands hf. og Glitni banka hf.
8.11.3 Fjölmiðlamenn
Tafla 24 sýnir þá fjölmiðlamenn sem höfðu, ásamt maka og félögum þeirra, heildarlánastöðu yfir 100 milljónum króna einhvern tímann frá ársbyrjun 2005 og fram að falli bankanna í október 2008.
Lán til Björns Inga Hrafnssonar voru öll veitt af Kaupþingi banka hf.Annars vegar voru lánin til Björns beint en þau voru hæst í lok september 2008, rúmar 100 milljónir króna. Hins vegar voru lán veitt til félags í hans eigu, Caramba-hugmyndir og orð ehf. Þau lán voru því sem næst öll í formi framvirkra samninga um hlutabréf. Þau hlutabréf sem hæstu samningarnir voru um voru í Kaupþingi, Exista, Bakkavör og Spron. Þá vekur athygli að í september 2008 gerði félagið nýja samninga um kaup á hlutabréfum Exista, sem námu um 230 milljónum króna.Við gerð þeirra samninga ríflega tvöfölduðust skuldir félagsins.
Lán til Óla Björns Kárasonar voru að langmestu leyti til félags hans ÓB-fjárfestingar ehf. og félaga í meirihlutaeigu þess, Framtíðarsýnar hf. (áður 2012 ehf.) og Fiskifrétta ehf. (áður 2013 ehf.) en Framtíðarsýn gaf út Viðskiptablaðið og Fiskifréttir gáfu út samnefnt blað. Lán til þessara þriggja félaga voru öll frá Kaupþingi banka. Þegar lán til þessara félaga voru hæst voru þau að mestu leyti til Framtíðarsýnar og Fiskifrétta en að nokkru leyti virðast þau hafa færst yfir til ÓB-fjárfestingar fram á byrjun árs 2006. Þaðan í frá voru skuldirnar eingöngu í útgáfufélögunum tveimur en þær voru um 200 milljónir fram til ársins 2007 og um 100 milljónir frá því snemma þess árs.
Styrmir Gunnarsson hafði lán í öllum stóru bönkunum þremur á tímabilinu. Hæst voru þau í byrjun árs 2006 en fyrstu 7 mánuði ársins námu lán hans frá Landsbankanum um 130 milljónum. Frá miðju ári 2007 voru lán hans við bankana þrjá undir 100 milljónum króna.
8.12 Lánveitingar og fyrirgreiðsla lánastofnana til nokkurra stærstu viðskiptavina þeirra
8.12.1 Inngangur
Við skoðun á heildarfyrirgreiðslu fjármálafyrirtækja til stærstu viðskiptavina og/eða tengdra aðila, hér eftir nefndar samstæður í þessum skilningi, var gengið út frá upplýsingum um stærstu áhættuskuldbindingar hvers fjármálafyrirtækis fyrir sig, eða Landsbanka, Kaupþings, Glitnis, Straums, Spron og Sparisjóðabankans. Upplýsingarnar sem gengið er út frá eru á samstæðugrunni. Stórar áhættuskuldbindingar eru skilgreindar í 2. gr. reglna um stórar áhættuskuldbindingar hjá fjármálafyrirtækjum (216/2007):
"Áhættuskuldbinding: Eignaliðir og liðir utan efnahagsreiknings sem tilgreindir eru í V. kafla reglna Fjármálaeftirlitsins um eiginfjárkröfu og áhættugrunn fjármálafyrirtækja, nr. 215/2007. Útlánaígildi viðkomandi liða skal reiknað í samræmi við ákvæði V. kafla sömu reglna. Eignaliðir sem dragast frá við útreikning á eiginfjárgrunni samkvæmt eiginfjárákvæðum laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki eru undanskildir. Afleiður sem tilgreindar eru í IV. kafla ofangreindra reglna skulu reiknast samkvæmt aðferðum sbr. viðauka III skv. 55. gr. A reglna Fjármálaeftirlitsins um eiginfjárkröfu og áhættugrunn fjármálafyrirtækja nr. 215/2007."
Fjármálafyrirtækin skiluðu yfirliti yfir stærstu áhættuskuldbindingar sínar eins og þær stóðu í byrjun janúar 2007 og lok október 2008. Miðað er við heildaráhættuskuldbindingar og er þar átt við lán, afleiður og ábyrgðir, sem hlutfall af eiginfjárgrunni. Í 3. gr. reglna nr. 216/2007 er nánari skilgreining á stórum áhættuskuldbindingum:
"Stórar áhættuskuldbindingar vegna einstakra viðskiptamanna eða fjárhagslega tengdra aðila mega ekki fara yfir 25% af eiginfjárgrunni fjármálafyrirtækis, sbr. þó 2. mgr. Teljist einhver hluti viðkomandi áhættuskuldbindingar vera staða í veltubók skal við mat á áhættugrunni fara með þá stöðu sem umframáhættu sbr. ákvæði X. kafla reglna Fjármálaeftirlitsins um eiginfjárkröfu og áhættugrunn fjármálafyrirtækja. Áhættuskuldbindingar vegna móðurfélags eða dótturfélags fjármálafyrirtækisins og/eða eins eða fleiri dótturfélaga móðurfélagsins mega ekki fara fram yfir 20% af eiginfjárgrunni.
Heildarfjárhæð stórra áhættuskuldbindinga má ekki fara yfir 800% af eiginfjárgrunni fjármálafyrirtækis.
Ákvæði 1. og 2. mgr. eiga ekki við um áhættuskuldbindingar vegna fyrirtækja sem mynda samstæðu með hlutaðeigandi fjármálafyrirtæki og falla undir eftirlit og varúðarkröfur á samstæðugrundvelli enda sé dreifing áhættugrunns innan samstæðu með fullnægjandi hætti."
Ekki er tekið tillit til frádráttarliða sem eru leyfilegir samkvæmt reglum FME og tilgreindir eru í 4. gr. reglna 216/2007 sökum þess að hér er aðeins litið á skuldbindingarnar sjálfar og ekki lagt mat á gæði veða. Sem dæmi um slíka frádráttarliði má nefna áhættuskuldbindingar sem eru tryggðar með handveði í verðbréfum öðrum en þeim sem tilgreind eru í e-lið 4. gr. og er þar m.a. átt við hlutabréf sem skráð eru á skipulegum verðbréfamarkaði. Upphæðir og breyting þeirra milli tímabila miðast við stöðu í íslenskum krónum en hafa ber í huga að gengisbreytingar voru verulegar síðustu mánuðina sem voru til athugunar 2008 og hefur það því veruleg áhrif á lokastöðu. Á tímabilinu, sem til skoðunar var, veiktist krónan um tæp 58%. Sökum þess er upphafs- og lokastaðan sem og breytingin þar á milli einnig tekin saman í evrum (EUR).
Notast er við flokkun fjármálafyrirtækjanna sjálfra á stórum áhættum, þ.e. hvernig þau flokkuðu og tengdu aðila/félög saman í samstæðu, sem skoða beri sem eina áhættu. Um er að ræða félög sem ýmist eru tengd saman vegna eignatengsla eða fjárhagslegra tengsla. Fjármálafyrirtækin fylgdu m.a. reglum nr. 216/2007 um stórar áhættuskuldbindingar hjá fjármálafyrirtækjum en í 2. gr. reglnanna segir:
"Fjárhagslega tengdir aðilar:
a. Tveir eða fleiri einstaklingar eða lögpersónur sem, nema sýnt sé fram á annað, mynda eina áhættu vegna þess að einn þeirra hefur bein eða óbein yfirráð yfir hinum, eða
b. tveir eða fleiri einstaklingar eða lögpersónur þar sem enginn einn hefur yfirráð yfir hinum, eins og skilgreint er í a. lið, en teljast til sömu áhættu vegna þess að þeir eru svo fjárhagslega tengdir að líkur eru á að ef einn þeirra lendir í fjárhagserfiðleikum eigi hinn aðilinn eða allir í greiðsluerfiðleikum."
Flokkun fjármálafyrirtækjanna á því hvaða aðilar töldust til sömu samstæðu var í mörgum tilfellum mismunandi og dæmi voru um að tvö félög væru tengd saman í einu fjármálafyrirtæki en ekki í öðru. Ákveðið var að ganga út frá víðustu skilgreiningunni á einstökum samstæðum í þessari greinargerð, þ.e. ef um var að ræða mismunandi flokkun milli fjármálafyrirtækja var gengið út frá þeirri skilgreiningu sem tók til fleiri félaga fremur en færri. Í þessari samantekt voru ekki gerðar sérstakar athuganir á því hvort aðilar hefðu átt að vera tengdir ákveðnum eða öðrum hópum.
Samstæðurnar sem mynda úrtakið, sem var til sérstakrar skoðunar, endurspegla um helming af stærstu áhættuskuldbindingum fjármálafyrirtækjanna. Skoðunin fól í sér að greina viðskipti allra félaganna innan samstæðnanna við hvert og eitt fjármálafyrirtæki á tímabilinu janúar 2007 til október 2008. Greiningin fór þannig fram að upplýsingar um afgreiðslur fjármálafyrirtækjanna til handa hverri samstæðu fyrir sig voru unnar úr fundargerðum lánanefnda fjármálafyrirtækjanna og fylgigögnum. Í sumum tilvikum var einnig aflað annarra gagna, s.s. fjárhagsupplýsinga, upplýsinga um tengsl félaga, eigendur, stjórnendur, upplýsinga um einstök viðskipti o.fl. bæði frá bönkunum, Lánstrausti og af heimasíðum fyrirtækjanna. Allar tölulegar upplýsingar, sem unnið var út frá, voru fengnar frá fjármálafyrirtækjunum sjálfum. Í texta voru síðan tekin dæmi um einstakar lánveitingar og vitnað er í fundargerðir eftir því sem við á. Þau dæmi, sem valin voru til umfjöllunar, þóttu ýmist varpa ljósi á hvernig afgreiðslum fjármálafyrirtækjanna á lánafyrirgreiðslum til samstæðnanna var háttað eða vöktu athygli rannsóknarnefndarinnar að öðru leyti.
Tilgangur lánveitingar hverju sinni var skoðaður ásamt tryggingum og annað er máli skipti. Nýjar lánveitingar voru flokkaðar eftir því hver tilgangur þeirra var; t.d. hvort um venjulegt rekstrarlán var að ræða eða lán vegna fjárfestinga sem skýrt er sem verðbréfakaup. Það á þá bæði við um kaup á hlutabréfum í skráðum og óskráðum félögum. Lán til annars eru t.d. lán til fasteignakaupa eða rekstrarfjármuna en einnig ábyrgðir o.fl.
Tryggingar voru skilgreindar eftir tegund veðs og skiptast í fjóra flokka; reiðufé, hlutabréf, annað eins og fasteignir eða rekstrarfjármunir og að síðustu engar tryggingar eða óskilgreindar. Í síðastnefnda flokkinn falla bæði lán sem eru algerlega ótryggð eins og
t.d. reikningslánalínur sem og þau lán sem samkvæmt fundargerðum hafa ekkert skilgreint veð á bak við sig. Hlutabréf til tryggingar eru bæði skráð og óskráð bréf og geta t.d. verið eignarhlutur í eignarhaldsfélagi. Annað er víðtækur flokkur og falla bæði fasteignir, rekstrarfjármunir og sjóðstreymi þar undir. Einnig voru teknar saman heildarfjárhæðir endurfjármögnunar og framlengingar bæði á lánum til lengri og skemmri tíma.
Ábyrgðir fjármálafyrirtækjanna á skuldbindingum aðila í öðrum fjármálafyrirtækjum voru dregnar frá einstökum fyrirtækjum en hins vegar eru þær hluti af samtölu heildarskuldbindinga einstakra fjármálafyrirtækja.
Úrtakið tekur til 46 samstæðna, þar af voru 12 þeirra í viðskiptum við alla stóru viðskiptabankana þrjá og 14 í fleiri en einum banka. Ein samstæðan í þessari úttekt, Fjárfestingarfélagið Gaumur, var með skuldbindingar í öllum fjármálafyrirtækjunum sex sem til skoðunar voru. Um er að ræða bæði innlenda og erlenda aðila sem voru ýmist í viðskiptum við móðurfélög fjármálafyrirtækjanna á Íslandi eða erlend útibú þeirra.
Í umfjölluninni um einstakar samstæður er stiklað á stóru hvað varðar sögu helstu félaganna sem mynda samstæðurnar og starfsemi, stjórnendur og stjórn tilgreind. Að jafnaði er gengið út frá upplýsingum úr ársskýrslum félaganna frá árinu 2007. Einnig er fjallað um tengsl eigenda og stjórnenda félaganna við fjármálafyrirtækin í þeim tilvikum sem það á við. Farið er í gegnum helstu lánafyrirgreiðslur til handa samstæðunum og að lokum er reynt að varpa ljósi á stöðu umræddra samstæðna í nóvember 2009, ári eftir hrun. Athygli skal vakin á því að að jafnaði fengust ekki upplýsingar um einstakar lánveitingar erlendra útibúa fjármálafyrirtækjanna aðrar en stöðutölur á upphafs- og lokadegi úttektarinnar.
Eins og áður segir er gengið út frá skilgreiningum fjármálafyrirtækjanna sjálfra á samstæðunum og heitum þeirra. Samstæður heita því ýmist nöfnum helstu forsvarsmanna samstæðnanna eða lykilfélaga, allt eftir því hvernig þær voru skilgreindar og nefndar hjá fjármálafyrirtækjunum.
Teknar voru stærstu áhættuskuldbindingar í hverju fjármálafyrirtæki fyrir sig, Landsbanka, Glitni, Kaupþingi, Spron, Sparisjóðabankanum og Straumi, og þær skoðaðar í samhengi. Út frá því var valið ákveðið úrtak sem samanstendur af stærstu skuldbindingunum í einstökum fjármálafyrirtækjum, stærstu áhættuskuldbindingum í heild sinni og öðrum athyglisverðum dæmum sem oftar en ekki lúta að fjármögnun á hlutabréfakaupum. Sökum mismunandi stærðar efnahags bankanna er umfang umræddra samstæða mismunandi eða allt frá 1,6 milljörðum upp í 309 milljarða. Þrátt fyrir smæð ákveðinna samstæðna verða þær að teljast mikilvægt umfjöllunarefni þar sem heildarskuldbindingar þeirra innan minni bankanna eins og Straums, Spron og Sparisjóðabankans voru stór hluti af eiginfjárgrunni þeirra banka. Kröfur bankanna á aðrar fjármálastofnanir eru ekki meðtaldar. Stærstu skuldbindingar Spron og Sparisjóðabankans voru þannig aðeins brot af því sem gerðist í stóru viðskiptabönkunum, Landsbanka, Glitni og Kaupþingi, en engu að síður koma þær til umfjöllunar í þessari úttekt þar sem þær vógu þungt í heildaráhættuskuldbindingum þeirra.
Markmiðið með þessari úttekt er að greina breytingar á skuldbindingum stærstu viðskiptamanna bankanna á tímabilinu og hvaða ástæður hafi legið að baki ákvörðunum um ný lán. Þessi umfjöllun er ekki tæmandi en gefur ákveðna mynd af því sem fram fór í fjármálafyrirtækjunum, þ.e. þeim viðskiptaháttum og vandamálum sem þeim fylgdu. Ekki er heldur útilokað að einstakar samstæður hafi verið með skuldbindingar í öðrum fjármálafyrirtækjum en þeim sem vitnað er til og er það þá tilkomið vegna þess að þær teljast ekki með stórum áhættuskuldbindingum í þeim fjármálafyrirtækjum.Vitnað er í fundargerðir lánanefnda þar sem það á við og eru tilvitnanir í fundargerðir sem ritaðar voru á ensku þýddar yfir á íslensku.
Þær samstæður sem um ræðir sem og undirliggjandi félög voru í mismunandi rekstri, allt frá eignarhaldsfélögum til rekstrarfélaga hvers konar og er saga þeirra eftir hrun misjöfn. Mörg þeirra eru gjaldþrota eða í greiðslustöðvun en þó eru einnig dæmi um félög í góðum rekstri. Samstæðurnar sem teknar voru til skoðunar eru birtar á spássíum við hlið greiningarinnar, það er hvaða einstök félög eru þar undirliggjandi heildarskuldbindingum hvers fyrir sig, en þær er einnig að finna í viðauka 9 í rafrænni útgáfu skýrslunnar.
8.12.2 Yfirlit yfir heildar- og stórar áhættuskuldbindingar fjármálafyrirtækjanna
Heildaráhættuskuldbindingar þeirra sex fjármálafyrirtækja, sem til skoðunar voru, þ.e. Landsbankans, Kaupþings, Glitnis, Straums, Spron og Sparisjóðabankans (áður Icebank), námu samtals 14.250 milljörðum króna í október 2008 samkvæmt áætluðu mati þeirra. Endanleg samantekt um áhættuskuldbindingar fjármálafyrirtækjanna á samstæðugrunni lá ekki fyrir í október 2008 og því þurftu bankarnir að reyna að leggja mat á heildaráhættuskuldbindingar sínar, eru þessar upplýsingar því besta nálgun sem fáanleg var.
Áhættuskuldbindingar 246 samstæðna voru yfir helmingur af heildaráhættuskuldbindingum í framangreindum fjármálafyrirtækjum eða samtals 7.430 milljarðar króna. Mynd 183 sýnir hlutfallslega skiptingu stærstu áhættuskuldbindinga þeirra sex fjármálafyrirtækja sem voru til skoðunar. Þar kemur fram að skuldbindingar þriggja stærstu viðskiptabankanna vega um 93% og Straums, Spron og Sparisjóðabankans samtals 7%. Eigið fé fjármálafyrirtækjanna (samstæður) um mitt ár 2008 nam 14% af stærstu áhættuskuldbindingum sem hér eru til skoðunar.
Í janúar 2007 nam fyrirgreiðsla fjármálafyrirtækjanna til 246 stærstu samstæðnanna 3.312 milljörðum króna. Í október 2008 var fyrirgreiðslan orðin 7.430 milljarðar króna, sem er aukning um 4.117 milljarða króna eða 124% á tímabilinu. Í evrum var aukningin ríflega 16 milljarðar eða um 46%. Hlutfallslega var mesta aukningin hjá Sparisjóðabankanum, tæplega níföldun, og vega stærstu áhættuskuldbindingarnar hvað mest þar eða 78% en minnst vógu áhættuskuldbindingarnar hjá Spron eða 18%. Í krónum varð mesta aukningin hjá Landsbankanum eða 1.527 milljarðar króna. Sjá mynd 184.
Úrtakið, sem var til sérstakrar skoðunar, endurspeglar um helming af stærstu áhættuskuldbindingum fjármálafyrirtækjanna. Kannaðar voru 46 samstæður sem samanstanda af 524 félögum. Skoðunin fólst í að greina viðskipti allra félaganna sem mynduðu samstæðurnar við hvert og eitt fjármálafyrirtæki á tímabilinu janúar 2007 til október 2008. Heildarskuldbindingar þeirra félaga sem voru í úrtakinu námu í lok tímabilsins 3.164 milljörðum króna eða 22% af heildaráhættuskuldbindingum fjármálafyrirtækjanna.
Í janúar 2007 nam fyrirgreiðsla fjármálafyrirtækjanna til þeirra 46 samstæðna sem voru til sérstakrar skoðunar 1.180 milljörðum króna en í lok október 2008 námu þær 3.164 milljörðum króna og jukust því um 1.984 milljarða króna eða um 168% á tímabilinu. Í evrum var aukningin ríflega 9 milljarðar eða um 74%. Hlutfallslega var aukningin mest hjá Sparisjóðabankanum, tæplega áttföldun, en í krónum talið var mesta aukningin hjá Kaupþingi, um 860 milljarðar króna. Sjá mynd 185.
Í janúar 2007 vógu fyrirgreiðslur til þeirra samstæðna sem til skoðunar voru um 36% af stærstu áhættuskuldbindingum fjármálafyrirtækjanna. Í október 2008 er hlutfallið komið í 43%, sem þýðir að útlán til stærstu viðskiptavina bankanna aukast meira en útlán til annarra viðskiptavina þeirra. Mynd 186 sýnir hvernig þróunin er í hverju fjármálafyrirtæki fyrir sig. Hjá Kaupþingi, Glitni og Straumi eykst vægi stærstu viðskiptavina en minnkar hjá Landsbankanum, Spron og Sparisjóðabankanum.
Á tímabilinu samþykktu lánanefndir fjármálafyrirtækjanna lánveitingar til samstæðnanna sem voru til sérstakrar skoðunar fyrir 3.012 milljarða króna, þar af var framlenging lána 988 milljarðar króna eða tæplega 33% af samþykktum fyrirgreiðslum og 84% af stöðu félaganna í upphafi tímabilsins.
Nýjar lánveitingar til samstæðnanna sem voru til skoðunar námu ríflega 2.026 milljörðum króna á tímabilinu, þar af var um 877 milljörðum króna ráðstafað til rekstrar eða 43%, 811 milljörðum króna í verðbréf eða 40% og 337 milljörðum króna í annað eða 17%. Ráðstöfun í verðbréf getur m.a. verið kaup á skráðum og óskráðum hlutabréfum og á hlutabréfum eignarhaldsfélaga. Undir liðnum " Annað " eru m.a. fyrirgreiðslur til kaupa á fasteignum. Upphæðir miðast við dagsetningu þegar lánveiting er samþykkt og eru erlendar fjárhæðir umreiknaðar í krónur m.v. gengi þess dags. (Sjá mynd 187.)
Tryggingar, sem stóðu að baki nýjum lánveitingum á tímabilinu, voru greindar eftir tryggingatöku í hlutabréfum, þ.e. í skráðum og óskráðum hlutabréfum, hlutabréfum einkahlutafélaga og öðrum verðbréfum, í reiðufé og í öðrum veðum, s.s. veðum í fasteignum og rekstrarfjármunum. Að lokum eru lánveitingar án sérgreindra trygginga. Stærsti hluti nýrra lánveitinga á tímabilinu var með veð í hlutabréfum eða um 54% sem svarar til um 1.090 milljarða króna og lán án sérgreindra trygginga voru 20% sem svarar til 390 milljarða króna. Önnur veð voru 496 milljarðar króna eða 24%. Sjá mynd 188.
8.12.3 Umfjöllun um lánveitingar til einstakra samstæðna og heildarskuldbindingar
8.12.3.1 Exista hf. og tengd félög
Áhættuskuldbindingar október 2008: 308,6 milljarðar króna.
Exista starfaði á sviði vátrygginga, eignaleigu og fjárfestinga. Exista var stærsti hluthafi í Sampo Group, Kaupþingi banka og Bakkavör Group. Exista átti jafnframt að fullu tvö tryggingafélög,Vátryggingafélag Íslands hf. (VÍS) og Líftryggingafélag Íslands hf. (Lífís), og eignaleigufyrirtækið Lýsingu. Exista átti einnig 100% hlut í Skiptum, móðurfélagi Símans og fleiri fyrirtækja á sviði fjarskipta og upplýsingatækni. Félagið átti ennfremur hluti í nokkrum öðrum fyrirtækjum, meðal annars um helmingshlut í Öryggismiðstöðinni.
Hluthafar Exista hf. voru um 30.000 í lok maí 2008. Stærstu hluthafar félagsins voru Bakkabræður Holding BV, Kista fjárfestingafélag ehf., Gift fjárfestingafélag ehf. og Gildi lífeyrissjóður.
Stjórnarformaður Exista var Lýður Guðmundsson og forstjórar voru Erlendur Hjaltason og Sigurður Valtýsson.
Á tímabilinu 1. janúar 2007 til 30. september 2008 hækkuðu skuldir Exista og tengdra félaga um 115,1 milljarð króna, eða um 75,8 milljónir evra. Þessar skuldir greinast þannig eftir lánveitendum:
Nýjar lánveitingar samkvæmt ákvörðunum lánanefnda námu 232,9 milljörðum króna á tímabilinu. Andvirði þessara lána var ráðstafað til rekstrar (99,9 ma.kr.), til verðbréfakaupa (109,8 ma.kr.) og til annars (23,2 ma.kr.). Endurfjármögnun eldri lána á tímabilinu nam 105,8 milljörðum króna eða sem svarar til 55% af skuldastöðu í upphafi tímabilsins.
Til tryggingar nýjum lánveitingum voru tekin veð í hlutabréfum að fjárhæð 57,2 milljarðar króna og veð í reiðufé 16,1 milljarður króna. Lán án sérgreindra trygginga námu alls 159,6 milljörðum króna.
Mesta aukning á skuldastöðu Exista er við Kaupþing, en Exista var á þessum tíma einn stærsti einstaki eigandi Kaupþings og átti jafnframt alltaf fulltrúa í stjórn bankans. Lánin voru oft veitt án sérgreindra trygginga, eða samtals að fjárhæð 144 milljarðar króna. Lán sem veitt voru gegn tryggingum í hlutabréfum námu samtals 48 milljörðum króna. Stærstu einstöku verðbréfakaupin á tímabilinu voru kaup Exista í febrúar 2007 á 9,52% hlut í Sampo Oy af Robert Tchenguiz, síðar stjórnarmanni í Exista (tók sæti í stjórn í mars 2007), með yfirtöku lána að fjárhæð 75,6 milljarðar króna. Til viðbótar var félaginu veitt ábyrgð að fjárhæð 14,2 milljarðar króna vegna fjármögnunar sem tengdist eignarhaldi á Sampo.
Á árunum 2007 og 2008 voru félaginu iðulega veittar framlengingar á lánum, auk viðbótarlána, eða lánum skuldbreytt og veðum aflétt eða breytt eftir þörfum Exista hverju sinni. Í árslok 2007 óskaði félagið m.a. eftir 20 milljarða króna víkjandi skuldabréfaláni hjá Kaupþingi banka, en bankinn samþykkti að veita félaginu 30 milljarða króna.Tilgangur víkjandi lánsins var að styrkja eiginfjárstöðu félagsins, eins og fram kemur í fundargerð lánanefndar 28. desember 2007:
"Exista óskar þess, að Kaupþing banki hf. veiti félaginu allt að 20 ma.kr. víkjandi lán.Vegna mikillar ókyrrðar á fjármálamarkaði á síðari helmingi þessa árs vill Exista styrkja eiginfjárstöðu sína til að mæta áframhaldandi ókyrrð og með frekari fjárfestingartækifæri í huga. Exista starfar á sviði vátrygginga, eignaleigu og fjárfestinga.
Skuldir Exista eru nú 38,2 ma.kr. en ásamt tengdum aðilum eru þær 87 ma.kr. Exista stefnir að því að gera áhættuskiptasamning við Straum fjárfestingarbanka hf. og lækka þar með skuldbindingar sínar um 10 ma.kr. en um það þarf að fjalla á síðari stigum.
Lánanefnd stjórnar Kaupþings banka hf. samþykkti að veita Exista víkjandi lán, allt að 30 ma.kr. í stað 20 ma.kr. eins og farið var fram á. Álagið er REIBOR/LIBOR + 4% með fyrirvara um markaðsaðstæður og lánstími 3-5 ár."
Í janúar 2008 óskaði Exista eftir að handveði lána í reiðufé yrði aflétt gegn því að bankinn fengi veð í hlutabréfum í Bakkavör en tilgangurinn var að styrkja lausafjárstöðuna samkvæmt fundargerð lánanefndar 30/1 2008:
"Exista óskar þess að Kaupþing banki hf. losi um veð á láni nr. 4271 og 6861 en það er handveð í innistæðu samkvæmt samningi frá 28. desember 2007. Í stað þess mun Exista afhenda Kaupþingi banka handveð í hlutabréfum í Bakkavör Group hf., tryggingarþekjan er 200% og veðkall við 150%.Veðið verður takmarkað veð, sem þýðir, að skuldina tengda láninu skuli skilgreina sem áhættuskuldbindingu tengda hlutabréfum í Bakkavör Group hf. en ekki Exista hf. Exista vill styrkja eiginfjárstöðu sína og hluti af því er að allt laust fé verði óbundið. Álag verður L+2,5%. Lánanefnd stjórnar samþykkti erindið."
Í maí 2008 óskaði félagið enn eftir að bankinn gæfi eftir veð í hlutabréfunum í Bakkavör auk þess að veita VÍS, dótturfélagi Exista, ábyrgð vegna vátryggingasamninga gegn sjálfskuldarábyrgð Exista. Exista virðist þannig hafa verið í mikilli fjárþörf á þessum tíma og sífellt leitað til bankans um fjárhagslega fyrirgreiðslu, sbr. fundargerð lánanefndar 29/5 2008:
"Lánanefnd stjórnar varð við eftirfarandi beiðni milli funda:
1. Skilmálabreytingar á lánum nr. 4271 og 6861:
Losað um veð, lánin verða ótryggð en með endurkröfurétti gagnvart Exista hf.
2. Tryggingar fyrir VÍS.
Exista hefur farið fram á, að Kaupþing taki við þeim ábyrgðum fyrir VÍS, sem áður voru á hendi Lýsingar en með endurkröfurétti gagnvart Exista einnig. Ábyrgðirnar eru vegna tveggja ábyrgðarskuldbindinga VÍS. Ábyrgðirnar gildi til 31. desember 2008."
Í mars 2010 er ekki annað að sjá af opinberum upplýsingum en að Exista hf. starfi enn. Hinn 4. mars samþykktu kröfuhafar Bakkavarar nauðasamninga félagsins og áttu þeir þá eftir að hljóta staðfestingu héraðsdóms Reykjavíkur. Samkvæmt fréttum af efni samninganna felst m.a. í þeim að kröfuhafar eignist Exista hf. og þar með eignir þess félags.
8.12.3.2 Fjárfestingafélagið Gaumur ehf. og tengd félög
Áhættuskuldbindingar október 2008: 279,1 milljarður króna.
Fjárfestingafélagið Gaumur var umsvifamikið í smásölurekstri, bæði á Íslandi, í Bretlandi og á Norðurlöndunum. Sögu Gaums má rekja aftur til 1989 þegar feðgarnir Jóhannes Jónsson og Jón Ásgeir Jóhannesson opnuðu fyrstu Bónus-verslunina í Reykjavík. Umsvif þeirra á matvörumarkaði jukust jafnt og þétt og var sameining Bónuss og Hagkaups undir merkjum Baugs mikilvægur þáttur í þeirri þróun. Baugur Group varð síðan til árið 2002 og jókst umfang starfseminnar verulega á næstu árum, einkum erlendis. Gaumur átti um 75% í Baugi Group sem var eitt umsvifamesta fjárfestingarfélag landsins og um leið þriðja stærsta smásölufyrirtæki á Norðurlöndum. Meðal innlendra fjárfestinga Baugs má nefna Haga hf. sem m.a. reka Bónus, Hagkaup, 10-11 o.fl., Stoðir hf., Landic Property, 365 miðla o.fl.Af erlendum fjárfestingum má nefna Mosaic Fashions, sem átti og rak um 1.700 verslanir í 27 löndum, Goldsmiths, Julian Graves, Hamleys og MK One. Auk þess átti Baugur ráðandi hlut í Magasin og Illum í Danmörku. Gaumur var í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar (41%), Jóhannesar Jónssonar (22,5%), Ásu Ásgeirsdóttur (22,5%), Kristínar Jóhannesdóttur (10%) auk annarra hluthafa (4%). Jóhannes Jónsson var formaður stjórnar Fjárfestingafélagsins Gaums og framkvæmdastjóri þess var Kristín Jóhannesdóttir. Stjórnarformaður Baugs var Jón Ásgeir Jóhannesson og forstjóri félagsins var Gunnar Sigurðsson. Á tímabilinu 1. janúar 2007 til 30. september 2008 hækkuðu skuldir Gaums og tengdra félaga í heildina um 114,7 milljarða króna. Í evrum hækkuðu skuldbindingar félaganna um 180,7 milljónir eða 10%. Skuldirnar greindust þannig eftir lánveitendum:
Nýjar lánveitingar samkvæmt ákvörðun lánanefnda námu 246,9 milljörðum króna á tímabilinu.Andvirði þessara lána var ráðstafað til rekstrar (112,6 ma.kr.), til verðbréfakaupa (124,1 ma.kr.) og til annars (10,2 ma.kr.). Endurfjármögnun eldri lána á tímabilinu nam 123,9 milljörðum króna eða sem svarar til 75% af skuldastöðu í upphafi tímabilsins.
Til tryggingar nýjum lánveitingum voru tekin veð í hlutabréfum að fjárhæð 168,8 milljarðar króna, veð í reiðufé 19,2 milljarðar króna og önnur veð samtals 38,0 milljarðar króna. Þannig námu lán án sérgreindra trygginga alls 20,9 milljörðum króna.
Við fall Sparisjóðabankans (Icebank) 20. mars 2009 var staðan á skuld Baugs hf. við bankann 7,5 milljarðar króna, þar af voru 6,7 milljarðar króna í formi framvirks samnings sem gerður var í lok júní 2008 og var með lokagjalddaga 3. nóvember 2008 og er ekki meðtalinn í töflunni hér að framan. Samningurinn var ekki gerður upp og því sendur í innheimtu í byrjun janúar 2009.Til tryggingar samningnum lagði Baugur hf. fram hlutabréf í Whistles, FL Group og Kaupþingi.
Til samstæðu Fjárfestingafélagsins Gaums teljast ótal félög og er Baugur og dótturfélög þess langstærstur hluti samstæðunnar. Mesta aukning fyrirgreiðslu á tímabilinu til samstæðu Gaums er í Landsbanka og er hún að mestu utan funda. Þónokkur aukning verður þó á afgreiðslum til handa samstæðunni í Glitni á síðari hluta tímabils.
Ákvarðanir lánanefnda virðast mikið til taka mið af versnandi stöðu Baugs og tengdra félaga, þ.e. töluvert var um endurfjármögnun og lán fyrir vöxtum og afborgunum. Sem dæmi má nefna að félög innan samstæðunnar fengu ítrekað fyrirgreiðslu til að mæta veðköllum vegna hlutabréfa.Virðast bankarnir þannig fremur hafa kosið að veita frekari fyrirgreiðslu í stað þess að selja eignir til að mæta veðköllum. Eitt dæmi um þetta er fyrirgreiðsla til Eignarhaldsfélagsins ISP sem afgreidd er á lánanefndarfundi í Landsbanka 5. mars 2008:
"Eignarhaldsfélagið ISP ehf; framlenging á 700 mkr afleiðuramma auk 350 mkr hækkunar, eða alls 1.050 mkr afleiðurammi til 21/1 2009 (vegna framvirkra kaupa á hlutabréfum í FL Group, tapsstaða 760 mkr.) Hækkunin er til að ná utan um stöðuna.Til tryggingar tapsstöðu verði handveð í 65 mkr að nv í Landic Property (mv 910 mkr.)."
Að sama skapi eru ákvarðanir oft teknar með það fyrir augum að minnka heildarfyrirgreiðslu Gaums í bankanum, sér í lagi á þetta við um Glitni. Dæmi eru um að veðláni sé breytt í framvirkan hlutabréfasamning með það fyrir augum að lækka áhættuskuldbindingar Baugs eins og eftirfarandi dæmi úr fundargerð áhættunefndar Glitnis frá 31. mars 2008 sýnir:
"Gerðar hafa verið breytingar á Baugs-samstæðunni með það að markmiði að lækka heildarskuldbindingar hennar hjá bankanum. Þessar breytingar eru eftirfarandi:
Kaupþing hefur gengist í ábyrgð á skuldbindingum Milton hjá Glitni. Lánin eru með gjalddaga í haust. Ábyrgðina má draga að fullu frá láninu. Láni BG Capital ehf. með veði í hlutabréfum í FL var breytt í framvirkan hlutabréfasamning.Við það lækkuðu skuldbindingar við bankann um c.a. 5 milljarða." Síðustu vikur og mánuði fyrir fall bankanna dregur úr nýjum lánveitingum til félagsins eins og annarra en hins vegar fá félög, sem tengjast Baugssamstæðu, enn fyrirgreiðslu, sér í lagi hjá Glitni, eins og í tilfelli 101 Chalet, eignarhaldsfélags utan um skíðasetur í Frakklandi, en sú lánveiting var samþykkt sumarið 2008 eins og fram kemur í meðfylgjandi fundargerð áhættunefndar Glitnis frá 27. ágúst 2008:
"101 Chalet ehf. er að fjárfesta í skíðasetri í Frakklandi (í gegnum Piano Holding og BG Denmark). Glitnir fjármagnaði fyrstu útborgun, 35% yfirtökuverðsins, eða EUR 6,6 millj. í formi yfirdráttar í júlí 2008 (ISK 800m). Litið er á fjármögnunina sem brúarlán á meðan skíðasetrið er í byggingu. Langtímafjármögnun verður í öðrum banka, en búist er við, að Fortis bank greini frá lánaskilmálum fyrir lok þessarar viku.
Fjárfestingafélagið Gaumur og Piano Holding S.A. ábyrgjast yfirdráttinn. Hlutabréf í BG Denmark og Piano Holding S.A. verða sett að handveði (enn ófrágengið). Annað lán, EUR 7m, verður fjármagnað af Landsbankanum. Heildarfjármögnun vegna skíðasetursins verður EUR 21 m. Búist er við, að fjármögnun Fortis (eða annars banka) verði EUR 22m, sem er u.þ.b. 80% af matsvirði fasteignarinnar sem er EUR 28 millj.Verðmatið var unnið af franska fyrirtækinu Vallat en það er sagt eitt fremsta fasteignafélagið á þessu svæði."
Að baki 101 Chalet stóðu eignarhaldsfélög í eigu Jóns Ásgeirs og Ingibjargar Pálmadóttur, Piano Holding og BG Denmark. Reyndar var það svo að Glitnir flokkaði ekki 101 Chalet né nein félög er tengdust Ingibjörgu Pálmadóttur með Fjárfestingafélaginu Gaumi þegar kom að flokkun stórra áhættuskuldbindinga. Er það í ósamræmi við hina bankana þar sem félög Ingibjargar og Gaums (þ.m.t. Baugur) eru flokkuð saman. Í þessari greiningu hefur það og verið gert. Ef Glitnir hefði hins vegar gert það, hefði bankinn sprungið á samstæðumörkum, þ.e. farið yfir hið lögmælta 25% hámark af eiginfjárgrunni, varðandi stórar áhættuskuldbindingar á Baugs.
Baugur hf. fékk ítrekað reikningslánalínur án utanaðkomandi trygginga, en það var þó ekki meginregla hjá bönkunum að veita slík lán. Baugur átti stóran hlut (36%) í FL Group sem aftur var stærsti eigandi Glitnis. Fulltrúar þeirra félaga sátu í stjórn bankans. Fyrirgreiðsla til Baugs og tengdra félaga jókst verulega eftir að félögin bættu við eignarhlut sinn í bankanum. Baugur og tengdir aðilar voru bæði í viðskiptum við bankana hér á landi sem og dótturfélög þeirra erlendis.
Í lok árs 2007 fær Baugur víkjandi lán hjá öllum bönkunum, 5 milljarða króna í Landsbanka, 5 milljarða króna í Kaupþingi og 15 milljarða króna í Glitni. Samhliða lánveitingunni taka bankarnir hluta upphæðarinnar að veði í formi innstæðu í bönkunum, í sumum tilfellum í jafnhárri innstæðu og lánsupphæðin eins og í Landsbanka eða í stórum hluta hennar eins og í tilfelli Kaupþings. Glitnir tekur veð í 2/3 hlutum lánsfjárhæðarinnar en greiðir 5 milljarða út til félagsins. Þessar lánveitingar koma inn sem veltufjármunir í reikningum Baugs og bæta þar með veltufjárstöðu félagsins um áramót.
Ein stærsta einstaka lánveitingin til samstæðu Gaums fer fram vorið 2008 þegar Kaupþing lánar eignarhaldsfélaginu 1998 ehf. um 30,6 milljarða króna til að kaupa Haga út úr Baugi. Hluthafar 1998 voru Fjárfestingafélagið Gaumur (82,3%), Eignarhaldsfélagið ISP (8,9%) og Bague SA (8,8%).
Tilgangur lánsins var m.a. að bæta tryggingastöðu bankans og greiða niður 25 milljarða króna lán hjá Kaupþingi og 5 milljarða króna lán hjá Glitni. Eins og fram kemur í kafla 8.7.3.1, rammagrein 3 hér að framan þá er greitt niður 10 milljarða króna lán hjá Baugi og 15 milljarða króna lán hjá eigendum Baugs.
Hinn 11. febrúar 2009 var Baugi Group hf. með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur veitt heimild til greiðslustöðvunar til 4. mars s.á. Með úrskurði 11. mars s.á. synjaði sami dómstóll beiðni Baugs Group hf. um framlengingu greiðslustöðvunar (mál nr. X-4/2009). Sama dag óskaði stjórn félagsins eftir gjaldþrotaskiptum á félaginu og var búið tekið til skipta 13. mars s.á. Í mars 2010 stóðu skipti enn yfir. Gjaldþrot Baugs er eitt það stærsta sem orðið hefur hér á landi. Framtíð Fjárfestingafélagsins Gaums er óráðin.
8.12.3.3 Robert Tchenguiz og tengd félög
Áhættuskuldbindingar október 2008: 278,7 milljarðar króna.
Robert Tchenguiz var einn af stærstu viðskiptavinum Kaupþings Singer & Friedlander og stærsti einstaki lántakandi hjá Kaupþingi á samstæðugrunni. Umsvif hans voru mikil á fasteignamarkaði í London en einnig fjárfesti hann talsvert í veitingageiranum í Bretlandi. Hann varð stór hluthafi í Exista í kjölfar sölu á hlut sínum í finnska félaginu Sampo til Exista í ársbyrjun 2007. Hann tók sæti í stjórn Exista á aðalfundi félagsins í mars 2007. Hann er forstjóri breska eignarhaldsfélagsins R20 sem hann stofnaði árið 2002. Meðal fjárfestinga Tchenguiz má nefna bresku verslanakeðjuna J Sainsbury og Somerfield.
Á tímabilinu janúar 2007 til október 2008 hækkuðu skuldir Roberts Tchenguiz og tengdra félaga um 212,6 milljarða króna. Tchenguiz átti eingöngu í viðskiptum við Kaupþing. Sé litið til aukningar skuldbindinga í evrum, hækkuðu þær um 1.216,6 milljónir eða 174%:
Nýjar lánveitingar samkvæmt ákvörðun lánanefnda námu 198,5 milljörðum króna á tímabilinu.Andvirði þessara lána var ráðstafað til rekstrar (116,7 ma.kr.) og til verðbréfakaupa (81,8 ma.kr.). Endurfjármögnun eldri lána á tímabilinu nam 119,6 milljörðum króna eða sem svarar til 181% af skuldastöðu í upphafi tímabilsins.
Til tryggingar nýjum lánveitingum voru tekin veð í hlutabréfum að fjárhæð 186,1 milljarður króna og önnur veð samtals 12,4 milljarðar króna.
Kröfur á Robert Tchenguiz (RT) og tengd félög voru langstærsta áhættuskuldbinding Kaupþings í lok september 2008, þar á eftir kom Exista samstæðan með um 171 milljarð. Þá eru reyndar ekki meðtaldar kröfur á fjármálastofnanir. Þá kom Tchenguiz að eignarhaldi í Kaupþingi í gegnum eignarhlut sinn í Exista.Mikil aukning fyrirgreiðslu tilTchenguiz á tímabilinu janúar 2007 til október 2008 er athyglisverð í ljósi þess. Síðla árs 2007 fer að halla undan fæti hjá mörgum félaga Tchenguiz. Í fundargerðum lánanefndar stjórnar Kaupþings kemur fram að alloft lánar bankinn Tchenguiz til að mæta veðköllum í öðrum bönkum. Til að mynda námu lánveitingar vegna veðkalla um 33 milljörðum króna á fyrstu 9 mánuðum ársins 2008.Stóran hluta af heildaraukningu fyrirgreiðslu tilTchenguiz má því rekja til björgunaraðgerða af hálfu bankans. Bankinn valdi að fara þá leið í stað þess að vera harðari og fara jafnvel fram á eignasölu úr safni Tchenguiz enda hefði það ef til vill reynst erfitt í ljósi eignatengsla og hugsanlega haft áhrif á frekari viðskipti. Dæmi um slíkar björgunaraðgerð má finna í fundargerð lánanefndar stjórnar Kaupþings frá 29. maí 2008:
"Óskað er eftir auknum yfirdrætti, 0358-36-509(BCA) um GBP 86 m – úr GBP 514 m í GBP 600 m. Álag er 275 bps yfir Libor.
Lánið verður notað til að mæta hugsanlegum veðköllum vegna skulda í Dawnay Day, Morgan Stanley, Kaupþingi Luxemborg og Kaupþingi Singer & Friedlander. Laust fé verður í vörslu Kaupþings á Íslandi sem þýðir, að lánsfjárupphæðin mun lækka, batni eiginfjárstaðan.
Robert Tchenguiz (RT) hefur eignast hlut í nokkrum skráðum félögum í gegnum Tchenguiz Discretionary Trust (TDT). Í desember sl.var TDT endurfjármagnað í gegnum Oscatello Investments Limited.Á síðustu vikum hefur markaðsvirði helstu eigna RT rýrnað verulega.Til að mæta frekari veðköllum og greiða niður lán á nafni Oscatello er óskað samþykkis á yfirdráttarheimild upp á GBP 600 m. Lánanefnd kynnti sér eiginfjárstöðu TDT 26.05.2008 og einnig samantekt yfir eignir og skuldbindingar."
Ljóst er af fundargerðum lánanefnda Kaupþings sem og bankaráðs að Tchenguiz hefur komið með talsvert af viðskiptum til bankans, bæði beint í gegnum eigin félög en líka með því að kynna bankann fyrir viðskiptafélögum sínum. Dæmi um það eru þeir Gertnerbræður (Crosslet Vale) sem komu í viðskipti við Kaupþing 2006.Ætla má að Tchenguiz hafi með því notið ákveðinnar velvildar meðal stjórnenda bankans og átt þannig greiðari aðgang að fyrirgreiðslu en ella.
Tchenguiz var fyrirferðarmikill í TRS og CFD viðskiptum og áttu þau sér að mestu stað í Lúxemborg og London. Allstór hluti lánveitinganna átti uppruna í Kaupþingi Lúxemborg.
Í mars 2008 lánar Kaupþing bróður Roberts,Vincent Tchenguiz (VT),rúma 14 milljarða króna (100 milljónir punda) gegn öðrum veðrétti í leigugreiðslum af fasteignum í hans eigu. Fyrsti veðréttur kemur inn sem nýjar tryggingar fyrir RT.Vegna þessara tengsla og í ljósi þess að sama veðið tryggir skuldbindingar RT og VT, er spurning hvort ekki hafi verið rétt að flokka þá bræður saman í stórum áhættuskuldbindingum, sbr. reglur 216/2007.
Í september 2008 tekur bankinn svo ákvörðun um að færa hluta af fyrirgreiðslu Robert Tchenguiz yfir á systur hans, Lisu Tchenguiz, eða um 250 milljónir evra. Er það gert með því að hún yfirtekur tvö lán, vegna Town and City Pub Company og Bay Restaurant Holdings.Tilgangurinn var að minnka heildarskuldbindingar Robert Tchenguiz í bankanum. Kemur það fram í fundargerð frá 24. september 2008 og fylgigögnum. Samkvæmt yfirliti yfir stórar áhættur frá 30. september 2008 virðist sem þessar skuldbindingar séu enn flokkaðar með Robert Tchenguiz.
Heildarskuldir Vincent Tchenguiz námu um 30 milljörðum króna (209 milljónum evra samkvæmt yfirliti yfir stórar áhættur frá 24. september 2008). Séu þessar skuldbindingar taldar með skuldbindingum Roberts Tchenguiz nema þær samtals um 318 milljörðum króna. Þetta eru um 55% af lögbundnu eigin fé 30.6.2006, sem er meira en tvöfalt lögbundna hámarkið 25%. Út frá upplýsingum bankanna um stórar áhættuskuldbindingar verður ekki séð að systkinin hafi átt í viðskiptum við aðra íslenska banka en Kaupþing.
8.12.3.4 Björgólfur Thor Björgólfsson og tengd félög
Áhættuskuldbindingar október 2008: 170,4 milljarðar króna.
Björgólfur Thor Björgólfsson hefur verið umsvifamikill fjárfestir, bæði innanlands og utan. Ásamt föður sínum, Björgólfi Guðmundssyni, og fleirum rak hann Bravo-bruggverksmiðjuna í Rússlandi sem þeir seldu síðar til Heineken.Við einkavæðingu bankanna keyptu þeir feðgar ásamt félaga sínum, Magnúsi Þorsteinssyni, meirihluta í Landsbanka Íslands hf. í gegnum eignarhaldsfélag þeirra, Samson. Meðal annarra fjárfestinga Björgólfs Thors má nefna hluti í Actavis og Straumi-Burðarás. Þá hefur Björgólfur verið mjög virkur í fjárfestingum á fjarskiptamarkaði og átti m.a. stóra hluti í símafyrirtækjum í Búlgaríu,Tékklandi og Póllandi um tíma. Fjárfestingarfélag Björgólfs Thors, Novator, fjárfesti einnig töluvert í Finnlandi, m.a. í finnska símafyrirtækinu Elisa. Meðal annarra fjárfestinga Novators á Íslandi má nefna símafyrirtækið Nova (100%), CCP hf. (34% í gegnum félagið NP ehf.) og Verne Holdings ehf. (50%).
Björgólfur Thor leiddi í flestum tilfellum starfsemi sinna félaga en meðal náinna samstarfsmanna má nefna Tómas Ottó Hansson (í stjórn Novators ehf.), Sigþór Sigmarsson (í stjórn Novators ehf.), Heiðar Má Guðjónsson (framkvæmdastjóra hjá Novator Partners LLP) og Andra Sveinsson (fjármálastjóra Novator Partners LLP), en sá síðastnefndi sat í bankaráði Landsbankans.
Á tímabilinu janúar 2007 til október 2008 hækkuðu skuldir Björgólfs Thors og tengdra félaga í íslenskum krónum um 97,0 milljarða. Sé litið til breytinga í evrum, þá hækka heildarskuldbindingar um 395,4 milljónir eða 51% frá upphafi til loka tímabils:
Nýjar lánveitingar samkvæmt ákvörðun lánanefnda námu 50,0 milljörðum króna á milli tímabila. Andvirði þessara lána var að stærstum hluta ráðstafað til rekstrar (25,7 ma.kr.), til verðbréfakaupa (22 ma.kr.) og til annars (2,3 ma.kr.). Endurfjármögnun eldri lána á tímabilinu nam um 21,6 milljörðum króna eða sem svarar til 29% af skuldastöðu í upphafi tímabilsins.
Meirihluti nýrra lánveitinga var ótryggður eða tryggður með núverandi tryggingum, 19,4 milljarðar króna voru tryggðir með hlutabréfum, 100 milljónir króna með reiðufé og aðrar tryggingar námu 8,4 milljörðum króna.
Stærsta aukningin í fyrirgreiðslu til Björgólfs Thors er til félagsins BeeTeeBee Ltd., um 23,7 milljarðar króna. Um 8 milljarðar af því voru veittir í lok júní 2008, en í lok september er samkomulaginu breytt þannig að lánafyrirgreiðslan verður samtals 23,7 milljarðar króna (153 milljónir evra). Þetta lán er veitt í þeim tilgangi að BeeTeeBee geti svo lánað Actavis fjármagnið sem víkjandi langtímalán. Deutsche Bank hafði þá gefið til kynna að Actavis væri við það að brjóta lánaskilmála í sambandi við of lágt eigið fé og þurfti því víkjandi lán til að styrkja Actavis.Þetta lán er rætt nánar í kafla 8.8.2.1.Annar hluti af aukinni fyrirgreiðslu Landsbankans til Björgólfs Thors er óskýrður enda var fyrirgreiðslan veitt í gegnum félög í Lúxemborg og aðgengi að upplýsingum um lán veitt þar er takmarkað. Um er að ræða aukna fyrirgreiðslu til Novator International Holding Ltd., 6 milljarða króna, Novator Asset Management, 5 milljarða króna, og Novator Finland Oy, 7,8 milljarða króna. Einnig eru upplýsingar varðandi lánveitingar til Novator Pharma Holding takmarkaðar. Það eru því engar upplýsingar um tilgang þessara lánveitinga, tryggingar eða annað. Lítilsháttar aukning varð á fyrirgreiðslu Straums til Björgólfs Thors og félaga á tímabilinu sem til skoðunar var en fyrst og fremst voru afgreiðslur lánanefndar framlengingar og endurfjármögnun áður veittra lána. Sumarið 2007 kemur þó til stór lánveiting vegna kaupa Björgólfs á Actavis Group eða alls um 16,3 milljarðar króna (180 milljónir evra). Þetta lán var jafnframt stærsta stóra áhættuskuldbinding Straums. Meðfylgjandi er úr fundargerð lánanefndar Straums frá 16. ágúst 2007:
"Lána- og fjárfestingarnefnd hefur samþykkt að taka þátt sem nemur 180 millj. EUR af heildarfjárhæð 1,2 milljarða EUR víkjandi láni með uppsöfnuðum vöxtum í tengslum við yfirtöku Novator Pharma Holding 1 hf. á Actavis Group hf. Skilmálum og kjörum er lýst í lánarnefndarkynningu.
Samkvæmt 24. grein alþjóðlegu reikningsskilastaðlanna IAS telst lánið lán til venslaðra aðila vegna tengsla Björgólfs Thors við lántakann og lánveitandann."
Lánið var eingreiðslulán til 11 ára með 15% vöxtum sem greiðast áttu uppsafnaðir á lokagjalddaga. Í febrúar 2008 voru gerðar skilmálabreytingar þannig að sá hluti sem var með uppsöfnuðum vöxtum (PIK lán) var lækkaður en millilagslán var hækkað í staðinn. Á fylgiblaði kemur fram að rekstraráætlun er talin vera óraunsæ (e. aggressive) og ólíklegt að hægt verði að endurgreiða lánið á gjalddaga miðað við það, sjá fundargerð frá 4. febrúar 2008:
"Þann 27. ágúst 2007 lauk fjárfestingarfélag Björgólfs Thors, Novator, yfirtöku á Actavis Group, skráðu íslensku lyfjafyrirtæki með markaðsverðmætið 3 milljarðar EUR. Í fyrstu var ætlunin að fjármagna 5,6 milljarða EUR yfirtökuna með 4,5 milljarða EUR lánapakka (að meðtöldu víkjandi láni með uppsöfnuðum vöxtum), sem svarar til 10,7 x EBITDA skuldsetningar og 19,9% eiginfjárhlutfalls, byggt á áætluðum hagnaði fyrir afskriftir og skatta 2007 að fjárhæð 420,1 millj. EUR. Á þeim tíma tók Straumur þátt í víkjandi láni sem nemur 100 millj. EUR gegn 1,5% fyrirframgreiddri þóknun. Restin af fjármögnuninni var í höndum Deutsche Bank og Landsbanka.Vegna núverandi markaðsaðstæðna hefur ekki tekist að selja lánið eins og gert var ráð fyrir. Þess vegna hafa lánveitendur ákveðið að endurskoða lánastrúktúrinn og verðlagningu í þeirri von að gera lánið meira aðlaðandi fyrir fjárfesta. Meginmunurinn á milli nýja strúktúrsins og þess fyrri eru minnkandi hlutföll af víkjandi láni og láni á öðrum veðrétti, og hefur þeim verið skipt út fyrir millilagslán.Vaxtaálag hefur auk þess verið hækkað á öllum lánum"
Landsbankinn var einnig með verulegar skuldbindingar vegna kaupanna á Actavis, eða um 49,5 milljarða samkvæmt yfirliti yfir stórar áhættuskuldbindingar bankans frá 30. september 2008.
Björgólfur Thor var meirihlutaeigandi Landsbankans ásamt föður sínum, Björgólfi Guðmundssyni, í gegnum félag þeirra, Samson eignarhaldsfélag. Þeir feðgar áttu einnig meirihluta í Straumi í gegnum annað félag, Samson Global Holdings, en það var í jafnri eigu eignarhaldsfélaga þeirra feðga. Björgólfur Guðmundsson var stjórnarformaður Landsbanka og Björgólfur Thor stjórnarformaður Straums. Björgólfur Guðmundsson taldist til venslaðra aðila í Straumi en ekki til tengdra aðila þar sem hann sat ekki í stjórn bankans þrátt fyrir að vera stór hluthafi.Að sama skapi taldist Björgólfur Thor ekki til tengdra aðila í Landsbanka enda sat hann ekki í bankaráði bankans.Venslaðir aðilar eru skilgreindir í b-lið III. kafla leiðbeinandi tilmæla um efni reglna skv. 2. mgr. 54. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki:
"Fjármálaeftirlitið telur venslaða aðila m.a. vera:
1) Aðal- og varamenn í stjórn, stjórnendur, lykilstarfsmenn og nánir fjölskyldumeðlimir þessara aðila.
2) Með vísan til 1. töluliðar ber að líta til hliðstæðra aðila í dótturfélögum og tengdum félögum.
3) Hluthafar sem eiga með beinum eða óbeinum hætti 5% eignarhlut eða stærri í fjármálafyrirtækinu, eða teljast til eins af tíu stærstu hluthöfum þess.
4) Fyrirtæki sem framangreindir aðilar eiga a.m.k. 10% hlut í, starfa hjá eða gegna stjórnarstöðum fyrir."
Lánveitingar til tengdra aðila þurftu sérstakt samþykki stjórnar. Í desember 2008, þegar lausafjárstaða Straums var veik, lánaði bankinn félagi Björgólfs Thors 10 milljónir evra til þess að það gæti endurgreitt lánveitingu til eiganda en í staðinn lagði Björgólfur upphæðina inn sem innlán í Straumi, sbr. fundargerð lánanefndar frá 12. desember 2008:
"Project Paper (samþykkt með tölvupósti 8. desember) Straumur mun lána Novator One LP €10m í 6 mánuði (lán innan samstæðu). Það mun gera Novator One LP kleift að endurgreiða €10m lán frá Björgólfi Thor Björgólfssyni (BTB). BTB mun láta lánið, €10m, liggja sem innlán í Straumi í 6 mánuði. Straumur mun taka veð (handveð) í innláninu til að tryggja lánið til Novator One. Lánstími lánsins og innlánsins verður 6 mánuðir og vextir af láninu til Novator One verða þeir sömu og á innláni BTB. Hér er um að ræða viðskipti á milli tengdra aðila og þarfnast samþykkis stjórnar."
Lánveitingar Straums til Björgólfs Guðmundssonar þurftu því ekki umfjöllun í stjórn bankans og eins var það í Landsbanka varðandi Björgólf Thor.
Með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur hinn 7. október 2008 var Samson eignarhaldsfélagi ehf. veitt heimild til greiðslustöðvunar. Beiðni félagsins um framlengingu greiðslustöðvunar var synjað með úrskurði sama dómstóls, dags. 4. nóvember 2008 (mál nr. X-19/2008). Í kjölfarið óskaði stjórn félagsins eftir því við héraðsdóm Reykjavíkur að bú félagsins yrði tekið til gjaldþrotaskipta.
Fallist var á beiðnina. Í mars 2010 stóðu skipti enn yfir. Ekki liggja fyrir upplýsingar um stöðu annarra félaga í eigu Björgólfs Thors.
8.12.3.5 Stoðir ehf. og tengd félög
Áhættuskuldbindingar október 2008: 165,6 milljarðar króna.
Stoðir (áður FL Group) er eignarhaldsfélag, sem var stærsti hluthafi Glitnis með um 30% hlut, var langstærsti hluthafi Landic Property hf. með um 39,8% hlut og átti m.a.Tryggingamiðstöðina (TM) og ráðandi hlut í evrópska drykkjarvöruframleiðandanum Refresco. Stoðir áttu einnig eignarhluti og hagsmuni í ýmsum félögum og verkefnum, innanlands og utan, s.s. Royal Unibrew, Glacier Renewable Energy Fund (Geysir Green Energy), Bayrock og Iceland Foods. Stoðir urðu til við umbreytingu ferðaþjónustufélagsins Flugleiða í FL Group árið 2005 og leiddi Hannes Smárason, fyrrum aðaleigandi og stjórnandi þess, þá umbreytingu. Í kjölfarið varð fjárfestingastarfsemi aðalverkefni félagsins og ferðaþjónustan og flugrekstur voru sett inn í dótturfélög. Árið 2006 dró félagið sig út úr flugrekstri þegar Icelandair Group var selt út úr samstæðunni.
Baugur Group hf. átti stærsta hlutinn í Stoðum eða 36%. Meðal annarra hluthafa voru Oddaflug (10,9%), Gnúpur fjárfestingafélag (10,9%) og óþekktir hluthafar (42%).
Jón Ásgeir Jóhannesson var stjórnarformaður fram til vors 2008 en þá tók Ingibjörg Pálmadóttir við stjórnarformennsku í félaginu. Jón Sigurðsson var forstjóri félagsins og Sveinbjörn Indriðason fjármálastjóri.
Á tímabilinu 1. janúar 2007 til 30. september 2008 hækkuðu skuldir FL Group og tengdra félaga um 110,1 milljarð króna. Í evrum er hækkunin 551,6 milljónir eða 94% sem greinast þannig eftir lánveitendum:
Á tímabilinu námu nýjar lánveitingar samkvæmt ákvörðun lánanefnda 107,8 milljörðum króna.Andvirði þessara lána var ráðstafað til rekstrar (61,8 ma.kr.), til verðbréfakaupa (43,2 ma.kr.) og til annars (2,8 ma.kr.). Endurfjármögnun eldri lána á tímabilinu nam 40,5 milljörðum króna eða sem svarar til 73% af skuldastöðu í upphafi tímabilsins.
Til tryggingar nýjum lánveitingum voru tekin veð í hlutabréfum að fjárhæð 80,5 milljarðar króna og önnur veð samtals 24,3 milljarðar króna. Þannig námu lán án sérgreindra trygginga alls 3 milljörðum króna.
Sparisjóðabankinn lánar Stoðum 3,2 milljarða króna á tímabilinu nóvember 2008 til mars 2009 í formi skammtímaláns og er það ekki meðtalið í ofangreindri töflu þar sem það liggur fyrir utan það tímabil sem til skoðunar var. Til tryggingar lánveitingu Sparisjóðabankans voru hlutabréf í Landic Property.
Stoðir voru í viðskiptum við alla stóru viðskiptabankana. Í upphafi tímabilsins voru þeir þó aðallega í viðskiptum við Landsbanka og Kaupþing. Stoðir voru fyrst og fremst í viðskiptum við móðurfélög bankanna hér heima og engin erlend félög eru hluti af samstæðu samkvæmt yfirliti yfir stórar áhættuskuldbindingar í lok tímabilsins.
Landsbankinn eykur fyrirgreiðslu til Stoða mest bankanna í krónum talið en hlutfallsleg aukning er langmest í Glitni eða 772%. Það er athyglisvert í ljósi þess að Stoðir koma inn í hóp stærstu hluthafa Glitnis á vormánuðum 2007 og áttu tæp 30% í bankanum við fall hans. Félagið virðist hafa notið umtalsverðrar fyrirgreiðslu í bankanum. Aukning fyrirgreiðslu til Stoða í Sparisjóðabankanum á sér öll stað síðast á árinu 2008 eða í byrjun árs 2009.Vekur það nokkra athygli, sér í lagi í ljósi erfiðrar stöðu félagsins á þeim tíma en Stoðir óska eftir greiðslustöðvun í september 2008, eftir að ríkið ákvað að taka yfir stóran hluta af Glitni.
Stoðir og tengd félög áttu fulltrúa í stjórn Glitnis. Þorsteinn M. Jónsson, sem sat í stjórn Stoða, var stjórnarformaður Glitnis frá 2007 – 2008. Þá tók Jón Sigurðsson, forstjóri Stoða, einnig sæti í stjórn Glitnis vorið 2007. Dæmi eru um að ákvarðanir varðandi lánveitingar til Stoða og tengdra félaga séu afgreiddar á milli funda. Frá og með haustinu 2007 afgreiðir áhættunefnd að jafnaði eitt mál í hverjum mánuði tengt Stoðum. Útstreymi fjármagns úr bankanum til félagsins á þessum tíma er umtalsvert, sem dæmi má nefna að félagið fær "neyðarlínu" í nóvember 2007 en 10 dögum síðar er þessi lína hækkuð um 60% og í febrúar 2008 er henni breytt í fjármögnun til 2 ára. Þessar lánveitingar eru raktar hér að neðan.
Úr fundargerð áhættunefndar Glitnis frá 12. nóvember 2007:
"FL Group vantar neyðarlínu að fjárhæð allt að 10 milljarðar. Tilgangur línunnar er að mæta mögulegum tryggingarköllum vegna samninga á móti hlutabréfum. Félagið hefur gengið verulega á laust fé undanfarið vegna þessa.Til tryggingar láninu býður félagið veð í nokkrum óskráðum eignum."
Áhættunefnd hækkar áður samþykkta línu um 6 milljarða króna samkvæmt fundargerð frá 22. nóvember 2007:
"Óskað er eftir tímabundinni hækkun á áður veittri línu (10 milljarðar) um 6 milljarða til 4ra vikna.Tilgangur með hækkuninni er að mæta veðköllum vegna stöðutöku í erlendum hlutabréfum.Til tryggingar láninu býður félagið veð í Tryggingamiðstöðinni að verðmæti 10 milljarða."
Á fundi áhættunefndar 12. febrúar 2008 er áður veittri "neyðarlínu" breytt í langtímalán til 2 ára:
"Í nóvember 2007 lánaði Glitnir FL Group ISK 10 milljarða skammtímalán með gjalddaga í maí 2008. FL Group hefur nú óskað eftir framlengingu á láninu um 2 ár.Til tryggingar láninu eru í dag hlutabréf í Landic, Refresco og Geysi Green samtals metin á 21 milljarð."
Á sama fundi var ákveðið að hækka mörk hámarksviðskiptastöðu á FL Group úr 38 milljörðum króna í 41,5 milljarða króna. Kom þetta fyrst og fremst til vegna veikingar krónunnar, og var FL Group í raun á þessum tíma komið yfir þau mörk sem stjórn Glitnis hafði samþykkt á samstæðuna. Þetta var samþykkt og vísað til stjórnar til samþykkis, en jafnframt tekin ákvörðun að viðskiptastjóri kynni málefni FL Group í heild fyrir áhættunefnd.
Annað dæmi um veitingu skammtímaláns til FL Group má finna í fundargerð frá því 25. mars 2008, en þá fær félagið 5 milljarða króna skammtímalán til 28. mars til að greiða hluta af víxli á gjalddaga þá. Þessu 5 milljarða króna skammtímaláni er breytt í langtímalán til þriggja ára í byrjun apríl.
Á fundinum 25. mars 2008 er einnig samþykkt að lána FL Group 50 milljónir evra til að fjármagna eignarhlut FL Group í Glitni. Þessi eignarhlutur var þá í fjármögnun hjá Morgan Stanley sem var að gera veðköll. Lánið átti að byggja á "núverandi tryggingastöðu félagsins við Glitni", eða vera án sérstakra veða.
Hinn 29. september 2008 veitti héraðsdómur Reykjavíkur Stoðum heimild til greiðslustöðvunar. Greiðslustöðvunin var framlengd allt til 6. apríl 2009 og með úrskurði sama dómstóls þann dag var Stoðum veitt heimild til að leita nauðasamninga við kröfuhafa. Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti nauðasamninga félagsins 16. júní 2009.Við það eignuðust stærstu kröfuhafarnir, Glitnir og NBI – Landsbankinn, allt hlutafé félagsins.
Hannes Smárason og Elliðatindar ehf.
Elliðatindar ehf. var félag skráð í eigu Gunnars Sturlusonar, lögmanns hjá Logos. Þetta félag tengdist eigendaskiptum á Glitni banka hf. um vorið 2007, sbr. kafla 6.0. Af tölvubréfssamskiptum einstakra starfsmanna Kaupþings banka og Hannesar Smárasonar er ljóst að byrjað er að leita eftir auknum tryggingum fyrir lánum þess félags síðla árs 2007. Það er athyglisvert að Hannes hefur með höndum samninga við Hreiðar Má Sigurðsson bankastjóra um úrlausn mála fyrir Elliðatinda. Félag sem lögformlega tengdist Hannesi ekki á neinn hátt en af umræddum tölvubréfssamskiptum má ætla að Fjárfestingarfélagið Primus (síðar FI fjárfestingar ehf.), félag Hannesar, hafi verið í ábyrgð fyrir skuldbindingum Elliðatinda. Hannes Smárason sendi Hreiðari Má tölvubréf 27. desember 2007, klukkan 12.57, þar sem Hannes býður meðal annars eigin ábyrgð upp á 750 milljónir króna fyrir skuldum Elliðatinda. Þessari ábyrgð átti svo að skipta út fyrir reiðufé eftir um fjórar vikur, sjá hér til hliðar.
Hreiðar Már leitar eftir upplýsingum innan bankans um stöðu mála þann 2. janúar 2008 og berst tölvubréf frá starfsmanni bankans til Hreiðars þar sem fram kemur að félagið skuldar meira en það á, sem nemur 1.574 milljónum króna. Einnig kemur fram að Kaupþing er með lausafjártryggingu upp á 1,3 milljarða króna. Starfsmaðurinn heldur áfram og segir "Í raun tel ég að félagið standi enn verr heldur en lítur út þar sem þetta voru áætlaðar tölur frá þeim sjálfum."
Í janúar fóru fram nokkur bréfaskipti milli Gunnars Sturlusonar og Hannesar annars vegar og bankans hins vegar varðandi Elliðatinda. Undir lok mánaðarins er þolinmæði bankans á þrotum og lofar Gunnar greiðslu. Eftir að starfsmaður Kaupþings gengur á eftir henni kemur í ljós að Hannes er að vinna í eignasölu og til greina kemur að nota fé sem fæst með sölu á íbúð í London og sölu á flugvél sem greiðslu upp í skuldina. Síðustu samskipti sem rannsóknarnefndin hefur undir höndum og varða Elliðatinda, er stöðuskýrsla frá Jakobi Bjarnasyni, starfsmanni Kaupþings, til Hreiðars Más en í henni kemur fram að lögfræðingur Hannesar, Gunnar Sturluson, hafi dregið sig í hlé. Meðfylgjandi eru athugasemdir Jakobs:
Elliðatindar - "HS er að tefja tíman. Hann kom til baka með tillögu um að við tækjum félögin og flugvélina og hann yrði laus allra mála. Setti á lögfræðing hans að það myndi ekki duga, við vildum líka fá veð í íbúðinni og verðbréfasafninu hans þar. Svar lögfræðingsins var að HS væri með málið, m.ö.o., lögfræðingurinn hans hefur dregið sig í hlé. Mun ekki gefa HS neinn frið fyrir mér fyrr en þessu er lokið af eða á."
Í Landsbanka Íslands var farið að ræða sértækar niðurfærslur á útlánum í apríl 2008. Í tölvubréfssamskiptum starfsmanna bankans kemur fram að gert sé ráð fyrir að tap Elliðatinda sé endanlegt tap og að það verði keyrt í gegnum AH-reikninginn þeirra. Á þessum tímapunkti var þetta eina afskriftaframlagið vegna afleiðna í bankanum. Samkvæmt tölvubréfi frá 11. júní hafði lokauppgjör farið fram vegna Elliðatinda með þeirri afleiðingu að tékkareikningur 0106-26-1129 er í mínus um 205.707.580. Í kjölfarið taka við umræður starfsmanna bankans um innheimtuaðgerðir gagnvart Gunnari Sturlusyni og þar með Hannesi.
Málefni Elliðatinda virðist að lokum leyst með samkomulagi við Hannes Smárason. Í tölvubréfi milli starfsmanna Landsbankans kemur fram að skuld Elliðatinda verði greidd með láni sem Fjárfestingarfélagið Primus tekur þótt Elliðatindar séu lögformlega í eigu Gunnars Sturlusonar.
8.12.3.6 Kjalar ehf. og tengd félög
Áhættuskuldbindingar október 2008: 146,7 milljarðar króna.
Kjalar er fjárfestingarfélag sem er að langstærstum hluta í eigu Ólafs Ólafssonar eða 94%. Kjalar ehf. var stofnað 1991 utan um eignarhlut Ólafs Ólafssonar í Samskipum hf. Árið 2002 var félaginu breytt í fjárfestingarfélag sem fjárfesti einkum í flutningastarfsemi, fjármálastarfsemi, fasteignum og matvælaiðnaði. Meðal helstu fjárfestinga voru hlutir í Kaupþingi, Samskipum, Alfesca, HB Granda og Iceland Seafood International.Tengsl Ólafs Ólafssonar og Kaupþings má rekja til þess er Búnaðarbankinn var einkavæddur, en hann fór fyrir S-hópnum sem keypti meirihluta í bankanum sem síðar var svo sameinaður Kaupþingi 2003.
Kristinn Hallgrímsson var stjórnarformaður Kjalars og framkvæmdastjóri félagsins var Hjörleifur Jakobsson. Ólafur Ólafsson sat auk Kristins í stjórn ásamt Ásbirni Gíslasyni, forstjóra Samskipa.
Á tímabilinu janúar 2007 til október 2008 hækkuðu skuldir Kjalars og tengdra félaga um 89,8 milljarða króna. Í evrum talið hækkuðu skuldbindingar Kjalars um 406,7 milljónir eða 68% sem greinast á eftirfarandi hátt milli lánveitenda:
Á tímabilinu námu nýjar lánveitingar samkvæmt ákvörðun lánanefnda 97,2 milljörðum króna.Andvirði þessara lána var ráðstafað til rekstrar (43,6 ma.kr.) og til verðbréfakaupa (53,6 ma.kr.). Endurfjármögnun eldri lána á tímabilinu nam 33 milljörðum króna eða sem svarar til 58% af skuldastöðu í upphafi tímabilsins.
Til tryggingar nýjum lánveitingum voru tekin veð í hlutabréfum að fjárhæð 81 milljarður króna og önnur veð samtals 9,3 milljarðar króna. Þannig námu lán án sérgreindra trygginga alls 6,9 milljörðum króna.
Kjalar var einn stærsti lántakandi hjá Kaupþingi og jafnframt í hópi stærstu eigenda bankans með rétt um 10% af hlutafé hans. Hjörleifur Jakobsson, framkvæmdastjóri Kjalars, sat í stjórn Kaupþings. Heildaraukning fyrirgreiðslu til Kjalars er mest í Kaupþingi af bönkunum á tímabilinu, hvort heldur er í krónum talið eða hlutfallslega. Þá eykst einnig fyrirgreiðsla til handa samstæðunni verulega í Glitni, en Kjalar og tengd félög greiða upp öll sín lán í Landsbankanum á tímabilinu.
Af einstökum lánveitingum Kaupþings sem vert er að nefna er yfirtaka bankans á fjármögnun Citibank á Kaupþingsbréfum Eglu, dótturfélags Kjalars.Vorið 2008 varð mikið verðfall á bréfum Kaupþings og það leiddi til þess að Citibank gerði veðkall. Kaupþing kom þar að og fékk annan veðrétt í Kaupþingsbréfum til tryggingar fyrir láninu, á eftir Glitni og Citibank. Fljótlega með vorinu yfirtók bankinn þó alla fjármögnun bréfanna af Citibank. Um þetta var ítrekað fjallað í fundargerðum lánanefndar stjórnar Kaupþings, m.a. þann 18. mars 2008:
"Endurskipulagning á skuldbindingum Kjalars. Kjalar hefur fjármagnað eign sína í Kaupþingi í gegnum Citi í næstum eitt ár.
Fjármögnunin var með viðmið um veðkall ef verð hlutabréfa lækkaði um 50% frá því að fjármögnunin var gerð.Vegna lækkunar á gengi hlutabréfa í Kaupþingi og gengislækkunar krónunnar var þessu viðmiði mætt í síðustu viku.
Líklegast er, að Kaupþing verði að fjármagna eign Kjalars í Kaupþingi, a.m.k. þar til varanleg lausn hefur fundist. Fram kom á fundinum, að Kaupþing ætti í viðræðum við Citi."
Fyrirgreiðsla til Kjalars og tengdra aðila er mest í formi hlutabréfalána en einnig í skammtímalánum og afleiðum. Ólafur Ólafsson, eigandi Kjalars, er einn þeirra aðila sem bankinn gefur kost á láni til CLN kaupa (e. Credit Linked Note) í september 2008. Meðfylgjandi er úr fundargerð lánanefndar stjórnar Kaupþings banka frá 24. september 2008:
"Harlow Eguities S.A. er eignarhaldsfélag að baki Partridge Management Group S.A. Partridge Management Group S.A. er félag með sérstakan tilgangog er eini tilgangur þess að fjárfesta í lánshæfistengdum lánum tengdum skuldatryggingarálagi Kaupþings banka (KB). Ólafur Ólafsson er eigandi Harlow Equities S.A.
Lánshæfistengda bréfið er með gjalddaga 20. september 2013. Nafnverð bréfsins er EUR 125m með skuldatryggingu að nafnverði EUR 205m [sic].Vextir bréfsins eru 3 mánaða EURIBOR að viðbættum 1.380 punktum.
Beiðni Harlow Equities:
Lánsfjárupphæð: EUR 130m
Lánstími: 5 ára kúlulán (gjalddagi 20.09.2013)
Vaxtaálag: 1,5%, ársfjórðungslegar vaxtagreiðslur
Lántökugjald: 1,45% og ársfjórðungslegar afborganir í samræmi við vaxtagreiðslur af bréfinu, með lokagreiðslu í október 2013.
Tryggingar:Veð í hlutafé Harlow Holding og einnig í hlutabréfum sem Harlow á í Partridge Management Group S.A.
Beiðni Partridge Management Group S.A:
Lánsfjárupphæð: EUR 50m
Lánstími: 5 ára kúlulán (gjalddagi 20.09.2013)
Vaxtaálag: 1,5% og ársfjórðungslegar afborganir
Lántökugjald: 1,45% og ársfjórðungslegar afborganir í samræmi við vaxtagreiðslur af bréfinu, með lokagreiðslu í október 2013.
Tryggingar:Veð í skuldatengda bréfinu."
Eins og sjá má hefur lánanefnd stjórnar samþykkt 100% lán fyrir lánshæfistengdu skuldabréfunum og bætt um betur og einnig samþykkt lán upp á 50 milljónir evra sem átti að vera fyrir framtíðarvaxtatekjum af þessu bréfi. Þrátt fyrir þessa samþykkt er ekki hægt að sjá að þessar 50 milljónir evra hafi verið greiddir út úr Kaupþingi, 130 milljónir evra eru hins vegar greiddar út.
Í fundargerð frá fundi lánanefndar Kaupþings (Group Credit Committee) hinn 2. október 2008 kemur fram að Deutsche Bank hafi gert veðkall vegna þessa lánshæfistengda bréfs og var því samþykkt að auka lánveitingu til handa Partridge Management Group til að mæta því veðkalli:
"Partridge Management Group S.A.
Lánanefndin féllst á að auka lánveitingu, sem samþykkt var á fundi lánanefndar í síðustu viku, um EUR 125 m til að mæta veðköllum frá Deutsche Bank."
Á fundi lánanefndar Kaupþings (GCC) 25. september 2008 er samþykkt að aflétta veðum af hlutabréfum í Kaupþingi sem Kjalar hafði lagt fram sem tryggingu fyrir skuldbindingum sínum hjá bankanum.Tilgangurinn er að mæta veðköllum hjá Glitni banka.
Ólafur Ólafsson tengist einnig málefnum Sheikh Mohammed Bin Khalifa Al-Thani í Kaupþingi. Ólafur kom á sambandi Al-Thani og bankans, en í september 2008 samþykkti lánanefnd Kaupþings nokkur lán til Al-Thani og félaga sem honum tengjast, eitt þeirra sneri að fjármögnun á kaupum Al-Thani á hlutabréfum í Kaupþingi, en hann keypti rúm 5% í bankanum í lok september 2008. Gögn bankans sýna ótvíræð tengsl á milli Ólafs Ólafssonar og kaupa Al-Thani á Kaupþingsbréfunum. Hluti lánsins er greiddur inn á reikning Serval, félags í eigu Al-Thani, hinn hlutinn er greiddur inn á reikning Gerland, félags í eigu Ólafs Ólafssonar. Fjárhæðin er síðan flutt yfir á reikning Choice Stay, sem er félag í eigu sheikhsins og Ólafs, og þaðan er andvirðið síðan flutt yfir á vörslureikning Q Iceland Finance sem fjármagnaði Kaupþingsbréfin.
Samkvæmt minnisblaði innri endurskoðunar Kaupþings frá 21. janúar 2009 er Serval-lánið uppgreitt í október 2008, fyrst með greiðslu frá Brooks Trading, félagi í eigu Al-Thani, þann 8. október, 12,5 milljörðum króna, og síðan með greiðslu frá Ólafi Ólafssyni þann 21. október að fjárhæð 402 milljónir króna. Brooks Trading fékk lánaðar 50 milljónir dollara 19. september 2008 frá Kaupþingi (Peningamarkaðsútlán nr. 398424 / 449463), undir því yfirskini að það væri fyrirframgreiddur hagnaður af viðskiptum með lánshæfistengd skuldabréf (sjá kafla 7.0 um fjármögnun bankanna). Þetta lán er síðan framlengt 30. september 2008 (lánsnúmer 449745). Hinn 8. október 2008 skiptir Brooks Trading 50 milljónum dollara í krónur í Kaupþingi í Lúxemborg á 250 kr/USD og sama dag greiðir það 12,5 milljarða króna í láni Serval Trading eins og áður kom fram. Þannig er ljóst að lánið var borgað upp með láni frá Kaupþingi. Lánið til Gerland er enn ógreitt í janúar 2009. Það var án ábyrgðar.
Hinn 27. apríl 2009 féllst Héraðsdómur Reykjavíkur á beiðni Eglu hf., dótturfélags Kjalars, um heimild til þess að leita nauðasamninga við lánardrottna sína. Kröfuhafar félagsins samþykktu fyrirliggjandi frumvarp til nauðasamnings 9. júní s.á. og staðfesti Héraðsdómur Reykjavíkur síðar samninginn.
8.12.3.7 Björgólfur Guðmundsson og tengd félög
Áhættuskuldbindingar október 2008: 148,1 milljarður króna.
Björgólfur Guðmundsson var einn af aðaleigendum Landsbankans í gegnum Samson eignarhaldsfélag ehf. og var hann formaður bankaráðs bankans. Meðal annarra fjárfestinga Björgólfs má nefna fasteignir, útgáfustarfsemi, flutningastarfsemi (Eimskip) o.fl. Þá kom hann að kaupum á enska fótboltafélaginu West Ham United og varð síðar stjórnarformaður þess.
Á tímabilinu janúar 2007 til október 2008 hækkuðu skuldir Björgólfs Guðmundssonar og tengdra félaga um 77,4 milljarða króna. Í evrum talið hækkuðu skuldbindingar tengdar Björgólfi Guðmundssyni um 271,2 milljónir eða 36% frá upphafi til loka tímabils:
Á tímabilinu námu nýjar lánveitingar samkvæmt ákvörðun lánanefnda 116,7 milljörðum króna.Andvirði þessara lána var ráðstafað til rekstrar (88,3 ma.kr.) og til verðbréfakaupa (28,4 ma.kr.). Endurfjármögnun eldri lána á tímabilinu nam 74,0 milljörðum króna eða sem svarar til 105% af skuldastöðu í upphafi tímabilsins.
Til tryggingar nýjum lánveitingum voru tekin veð í hlutabréfum að fjárhæð 60,2 milljarðar króna og önnur veð samtals 54,0 milljarðar króna. Þannig námu lán án sérgreindra trygginga alls 2,5 milljörðum króna.
Skuldbindingar Björgólfs og félaga er honum tengdust voru önnur stærsta áhættuskuldbinding Landsbankans, eða 23,5% af eigin fé og námu við fall bankans 90,4 milljörðum króna. Meðal heildarskuldbindinga sem tengdust Björgólfi nemur hæst 31,6 milljarða króna skuld Samsonar eignarhaldsfélags, 28,4 milljarða króna skuldir Grettis eignarhaldsfélags og 20,5 milljarða króna skuldbindingar Fjárfestingarfélagsins Grettis. Alls nemur heildaraukning skuldbindinga á tímabilinu sem er til skoðunar um 70 milljörðum króna í Landsbankanum. Þar af jókst fyrirgreiðsla til Björgólfs Guðmundssonar sjálfs um rúma 4 milljarða króna en engar skýringar hafa fengist um það frá bankanum sökum þess að umrædd lánveiting var veitt í Landsbankanum í Lúxemborg.
Straumur samþykkir tvær lánveitingar handa félögum í eigu Björgólfs Guðmundssonar í desember 2006. Annars vegar er um að ræða lán til Bell Global, 2,5 milljarða króna, með veði í bréfum í Samson eignarhaldsfélagi ehf. Hins vegar var um að ræða lán til Hansa ehf. að fjárhæð 45 milljónir GBP vegna kaupa á breska fótboltafélaginu West Ham United. Til tryggingar því láni er ábyrgð frá Bell Global og sjálfskuldarábyrgð Björgólfs Guðmundssonar. Veðum í Samson-bréfum er reyndar aflétt í júní 2008 gegn ábyrgð Björgólfs Thors Björgólfssonar. Meðfylgjandi mynd úr kynningu fyrir lánanefnd Straums frá júní 2008 sýnir annars vegar eignarhald og tengsl milli félaga Björgólfs Guðmundssonar og hins vegar fjárhagsleg tengsl Björgólfs (BG) og Björgólfs Thors (BTB) vegna lána Straums til handa Bell Global og Hansa en Björgólfur Thor er í ábyrgð fyrir Bell Global-láninu og fyrir um helmingi af Hansa-láninu.
Þar sem Björgólfur Guðmundsson var formaður bankaráðs Landsbankans þurftu fyrirgreiðslur til handa honum eða félögum sem honum tengdust að hljóta staðfestingu bankaráðs. Meðfylgjandi er afgreiðsla á nokkrum málum til félaga sem tengjast Björgólfi úr fundargerð bankaráðs 14. desember 2006:
"Formaður bankaráðs og Þór Kristjánsson yfirgáfu nú fundinn vegna tengsla við næstu dagskrármál. Kjartan Gunnarsson stýrði fundi.
8.5. Hansa ehf er ábyrgðaraðili vegna félags sem farið hefur illa og kynntu bankastjórar og Elín Sigfúsdóttir málið. Nú reynir á ábyrgð Hansa. Hansa sækir um 393 mkr kúlulán til 18 mánaða vegna þessa til uppgjörs við bankann.Verði með sjálfskuldarábyrgð Björgólfs Guðmundssonar.Tillagan til bankaráðsins er um ofangreint lán til Hansa. Kjartan og Þorgeir samþykktu fyrir sitt leyti og staðfestingu Gunnars Felixsonar var aflað utan fundar.
8.6. Tillaga um lánveitingu til félags sem Björgólfur Guðmundsson og Magnús Þorsteinsson eiga saman og tengist Edda Printing and Publishing Ltd. Með sjálfsskuldarábyrgð þeirra beggja. Um er að ræða hækkun lánalínu úr USD 18m í USD 21,5m til félagsins sem er skráð í Luxembourg. Óskað er eftir formlegu samþykki bankaráðsins til þessarar lánveitingar. Kjartan og Þorgeir samþykktu báðir á fundinum og staðfestingu Gunnars Felixsonar var aflað utan fundar.
8.7. Hugsanleg skammtímafyrirgreiðsla til formanns bankaráðs Björgólfs Guðmundssonar að upphæð 2.500 m.kr. til kaupa á hlutabréfum í Straumi. Þetta er til viðbótar núverandi fyrirgreiðslu sem lækkar þó um 1 milljarð króna.Tryggt með hlutabréfum í Straumi. Heimild þessi var samþykkt af Kjartani Gunnarssyni og Þorgeiri Baldurssyni og staðfestingar Gunnars Felixsonar.
Farið var yfir kjör og tryggingar vegna ofangreindra mála og staðfest að þau væru sambærileg þeim sem tíðkast innan bankans fyrir sambærileg viðskipti." Málin sem tekin voru fyrir voru af ýmsum toga og tengdust einnig Björgólfi persónulega, sbr. meðfylgjandi mál er varðaði húsakaup hans í Portúgal. Meðfylgjandi er úr fundargerð bankaráðs frá 31. október 2007:
"Fyrirgreiðsla til tengds aðila. Kjartan mælti fyrir málinu sem Elín Sigfúsdóttir lagði fram og skýrði.Tillagan var um EUR 9 milljóna lánveitingu til 5 ára til formanns bankaráðs vegna húsakaupa í Portúgal. Bankaráð ákvað jafnframt vaxtakjör í samræmi við markaðsvexti. Lagt var fram heildaryfirlit um skuldbindingar og tryggingar Björgólfs Guðmundssonar við bankann þann 30. september 2007.Tryggingarþekja er góð. Kjartan og Þorgeir samþykktu málið og verður það jafnfram kynnt Svöfu til ákvörðunar."
Í janúar 2008 voru teknar fyrir nokkrar framlengingar á lánum til handa félögum tengdum Björgólfi, Rainwood, Forsíðu og Gretti. Forsíða var eignarhaldsfélag utan um Árvakur. Rainwood var eignarhaldsfélag í eigu Björgólfs sem hélt utan um eignarhlut hans í Straumi. Það lán var veitt hjá Landsbankanum í Lúxemborg. Sjá tilvitnun í fundargerð bankaráðs frá 28. janúar 2008:
"Formaður bankaráðs var ekki viðstaddur þennan lið og varaformaður stjórnaði fundi á meðan.
Samþykkt var framlenging á fyrirgreiðslu til þriggja félaga tengdum Björgólfi Guðmundssyni en þau eru Rainwood, Forsíða og Grettir.Auk þess var endurnýjuð heimild fyrir félag í eigu Björgólfs Guðmundssonar til að yfirtaka lán BM Ráðgjafar (Sífrera). Það félag var tekið til gjaldþrotaskipta en félag í eigu Björgólfs var í ábyrgð fyrir lánum. Öll þessi lán eru á eðlilegum markaðskjörum og skilmálum."
Björgólfur Guðmundsson var stór hluthafi í Fjárfestingarfélaginu Gretti hf., einum stærsta eiganda Hf. Eimskipafélags Íslands. Lán sem tengdist Gretti vegna Icelandic Group var staðfest á fundi bankaráðs þann 7. apríl 2008. Meðfylgjandi er úr fundargerð ráðsins:
"Lánamál fyrir formann bankaráðs. Andri Sveinsson kvaddi og Þór Kristjánsson yfirgaf fundinn fyrir þessa umfjöllun. Bankaráð samþykkti tillögur bankastjórnar um eftirgreinar lánafyrirgreiðslur til félaga sem tengjast formanni bankaráðs.
Fjárfestingarfélagið Grettir:
- 41 millj. Evrur v/fjármögnunar á víkjandi láni inn í Icelandic
- Óbreytt framlenging á 2.335 mkr. fyrirgreiðslu
Forsíða ehf. (eignarhaldsfélag um Árvakur):
- Óbreytt framlenging á 665 mkr. fyrirgreiðslu. Farið var yfir vaxtakjör og tryggingar og þær taldar eðlilegar."
Í september 2008 eiga sér stað þónokkrar færslur á milli Fjárfestingarfélagsins Grettis og Grettis eignarhaldsfélags ehf. Í þeim hræringum kemur til töluverð aukning á sjálfskuldarábyrgðum Björgólfs Guðmundssonar, sem aftur hefur áhrif á aukningu fyrirgreiðslu til handa Björgólfi, eins og eftirfarandi dæmi úr fundargerð lánanefndar Landsbankans frá 8. október 2008 sýnir:
"Fjárfestingarfélagið Grettir ehf. (VAR) – 18.000 m.kr. lán til 5/1'09 á Reibor /Libor + 2,90% gegn sj.sk.áb. Björgólfs Guðmundssonar. Andvirði ráðstafast alfarið til lækkunar á láni félagsins nr. 8437. Aðrar skuldbindingar félagsins færast yfir á Gretti eignarhaldsfélag ehf. Þetta lán verður eina skuldin sem eftir verður í félaginu (eina eign félagsins verður hlutabréf í Eimskip, aðrar eignir og skuldir fara í Gretti eignarhaldsfélag).
Grettir eignarhaldsfélag ehf. (VAR) – 17.416,4 m.kr. lán gegn sj.sk.áb. Björgólfs Guðmundssonar og handveð í hlutabréfum í Icelandic Group (IG). Andvirði ráðstafast alfarið til lækkunar á lánum Fjárfestingarfélagsins Grettis í LÍ.Yfirtaka á 5.180 m.kr. láni.Til tryggingar er sj.sk.áb. Björgólfs Guðmundssonar og handveð í víkjandi skuldabréfi á IG."
Þessar lánveitingar eru staðfestar á fundi bankaráðs Landsbankans sem haldinn var 5. september 2008:
"Sérstök bókun: Bankastjórn lagði fyrir bankaráð tillögu um lánveitingu til Samson eignarhaldsfélags ehf vegna kaupa félagsins á kröfu bankans á hendur Jointrace Ltd. sem er með ábyrgð Hf Eimskipafélags Íslands. Lánið verði að fjárhæð kr. 27ma.Til 3 ára í erlendum myntum. Nánar er fjallað um lánið og lánskjör í meðfylgjandi ákvörðun. Jafnframt lagði bankastjórn fram eftirfarandi lánaákvarðanir til staðfestingar sem tengjast félögum í eigu formanns bankaráðs og eru til komnar vegna breytinga á fyrirkomulagi lánafyrirgreiðslna sem ekki leiða til aukinna útlána en eru tengdar tilfærslum á eignarhaldi og framlengingum á núverandi fyrirgreiðslu:
1. Fjárfestingarfélagið Grettir ehf og Grettir eignarhaldsfélag ehf.
2. Forsíða ehf.
3. Bell Global Investments sarl.
Tillögur þessar voru samþykktar, skv. meðfylgjandi skjölum, af viðstöddum bankaráðsmönnum."
Samson eignarhaldsfélag var úrskurðað gjaldþrota í nóvember 2008, eins og fyrr greinir. Langstærstur hluti eigna félagsins var hlutabréf í Landsbankanum. Straumur, langstærsti kröfuhafi Hansa ehf., eignarhaldsfélags Björgólfs utan um hlutinn í West Ham, yfirtók West Ham í júní 2009. Ólafsfell, félag Björgólfs, var úrskurðað gjaldþrota í mars 2009 og Björgólfur Guðmundsson sjálfur var úrskurðaður gjaldþrota 31. júlí 2009.
8.12.3.8 Landic Property hf. og tengd félög
Áhættuskuldbindingar október 2008: 141,4 milljarðar króna.
Landic Property hf. (áður Fasteignafélagið Stoðir hf.) var eitt stærsta fasteignafélagið á Norðurlöndum, með starfsemi á Íslandi, Finnlandi, Danmörku og Svíþjóð. Félagið sérhæfði sig í umsýslu og leigu á atvinnuhúsnæði til fyrirtækja og einstaklinga. Umsvif Landic Property jukust verulega á síðustu árum, sér í lagi eftir kaup á fasteignafélaginu Keops í Danmörku árið 2007.
Sögu Landic Property má rekja allt aftur til 1999 þegar Fasteignafélagið Stoðir hf. var stofnað. Árið 2002 sameinuðust Fasteignafélagið Stoðir hf. og Þyrping hf. undir nafni Fasteignafélagsins Stoða hf. Á árinu 2005 keypti félagið danska fasteignafélagið Atlas Ejendomme, sem átti m.a. fasteignir stórverslananna Illum og Magasin í Kaupmannahöfn. Umsvif félagsins jukust enn með kaupum á danska fasteignafélaginu Keops árið 2007. Meðal stærstu viðskiptavina Landic Property á Íslandi voru Hagar, Reykjavíkurborg, Landsbankinn, Glitnir, Hilton Hotel og Actavis.
Stærstu hluthafar félagsins sumarið 2008 voru Stoðir hf. (39,8%), Ingibjörg Stefanía Pálmadóttir og tengdir aðilar (16,3%), Stapi fjárfestingarfélag ehf. (13%) og Fons hf. (7,5%).
Stjórnarformaður Landic Property var Kristín Jóhannesdóttir, framkvæmdastjóri Fjárfestingafélagsins Gaums ehf., en meðal annarra í stjórn var Ingibjörg Pálmadóttir. Forstjóri Landic Property Group var Skarphéðinn Berg Steinarsson eða allt fram til nóvember 2008 þegar Viðar Þorkelsson tók við. Fjármálastjóri félagsins var Gunnar Petersen. Skarphéðinn Berg sat í stjórn Glitnis frá ársbyrjun 2006 fram á vorið 2008.
Á tímabilinu janúar 2007 til október 2008 hækkuðu skuldir Landic Property og tengdra félaga um 138,2 milljarða króna. Í evrum hækkuðu skuldbindingarnar um 937,9 milljónir frá upphafi til loka tímabils. Það skal þó haft í huga að hér er ekki tekið tillit til stöðu sem forveri Landic Property (Stoðir) var með í bönkunum í upphafi tímabils, þar sem félagið taldist á þeim tímapunkti með samstæðu Fjárfestingafélagsins Gaums. Samtals námu skuldbindingar Landic (Stoða) um 26,3 milljörðum króna í janúar 2007 í bönkunum. Sé tekið tillit til þeirrar stöðu jukust skuldbindingar samstæðunnar um 111,9 milljarða króna:
Á tímabilinu námu nýjar lánveitingar samkvæmt ákvörðun lánanefnda 97,8 milljörðum króna.Andvirði þessara lána var ráðstafað til rekstrar (61,9 ma.kr.), til verðbréfakaupa (31,8 ma.kr.) og til annars (4,1 ma.kr.). Endurfjármögnun eldri lána á tímabilinu nam 50 milljörðum króna.
Til tryggingar nýjum lánveitingum voru tekin veð í hlutabréfum að fjárhæð 32,5 milljarðar króna, veð í reiðufé 0,6 milljarðar króna og önnur veð samtals 56,4 milljarðar króna. Lán án sérgreindra trygginga námu alls 8,3 milljörðum króna.
Landic Property var í viðskiptum við alla viðskiptabankana þrjá auk Sparisjóðabankans og Straums. Dreifingin var nokkuð jöfn meðal stóru bankanna, en áberandi munur er á stöðu félagsins hjá þeim í upphafi. Þá er Landic Property að stærstum hluta hjá Kaupþingi. Glitnir og Landsbanki auka því fyrirgreiðslu til félagsins hlutfallslega mest. Það er þó áberandi hve stór hluti aukinnar fyrirgreiðslu til Landic Property á árinu 2008 á sér stað hjá Glitni en Landic Property er að stórum hluta í eigu Stoða hf., sem jafnframt er stærsti hluthafi Glitnis. Fimmtungur heildaraukningar lána til Landic Property er ein lánveiting hjá Glitni, sem veitt er sumarið 2007 vegna kaupa félagsins á Keops í Danmörku, eins og eftirfarandi brot úr fundargerð áhættunefndar Glitnis banka frá 28. júní 2007 sýnir:
"Project Para - Fasteignafélagið Stoðir hf. vinnur að því að bjóða í öll hlutabréf í Keops. Stoðir eru eitt af helstu fasteignafyrirtækjum á Norðurlöndum en Keops er stærsta skráða fasteignafyrirtækið í Danmörku. Farið er fram á, að Glitnir fjármagni kaupin á hlutabréfum í Keops A/S svo fremi Stoðir eignist a.m.k. 90% hlutafjár og atkvæðisréttar í Keops. Stoðir gætu þá keypt út aðra hluthafa og afskráð félagið. Heildarfjármögnun er DKK 1.890 m og ábyrgð á DKK 550 m Private Placement og DKK 600 m skuldabréfaútgáfu.
Niðurstaða: Samþykkt, stefnt að aukinni þóknun og það skilyrði sett, að Stoðir og Baugur séu ekki tengdir aðilar með tilliti til reglna um stórar áhættuskuldbindingar."
Sumarið 2008 einkenndist almennt af "reddingum", þ.e. verið var að bæta lausafjárstöðu Landic Property og tengdra félaga eða framlengja gjaldfallin lán og afborganir. Dæmi um þetta má finna í eftirfarandi fundargerðum áhættunefndar Glitnis banka:
"2/7 2008 – Landic Property fær 100 m DKK lán (ca 1,680 ma) til eins árs vegna sölu á Keops Development. Samhliða sölunni mun Landic kaupa fasteignaportfolio af Stones Investment. Þær eignir verða settar inn í sérstakan skattastrúktur í Danmörku,
K/S strúktur. Landic mun síðan lána þessa 1,7 ma áfram til K/S strúktursins. Til tryggingar fær bankinn lánasamninginn milli Landic og K/S strúkturs og annan veðrétt í undirliggjandi eignum.
2/7 2008 – Landic; samhliða ofangreindu fær félagið 700 m lán til að standa skil á greiðslu til EuroHypo. Lánið er til eins árs, tryggingar ótilgreindar.
27/8 2008 – Landic Property; peningamarkaðslán að fjárhæð 100 m DKK (1,7 m) til að leysa lausafjárvanda í Keops Development. Lánið á að greiðast 5. okt. með innistæðu á reikningi í Sparkassen Sjælland.
23/9 2008 – Landic Property og tengd félög; framlengingar á öllum lánum sem eru á gjalddaga ásamt vaxtagreiðslum alls 14,8 ma ISK. Einnig er aflétt allsherjarveði 1,1 ma ISK á eignir í Borgartúni 21 gegn greiðslu á láni 800 m. 100 m DKK sem eru á Escrow reikningi í Sparkassen verða notaðar í rekstur Keops í stað þess að greiða skammtímalán hjá Glitni."
Landic Property hf. sótti um greiðslustöðvun í apríl 2009 og hóf þá vinnu við sölu á erlendum fasteignasöfnum. Í júní lögðu stjórnir danskra dótturfélaga Landic Property hf., Keops Development A/S, Landic Property A/S og Landic Investment A/S, fram beiðni um gjaldþrotaskipti hjá dómstólum í Kaupmannahöfn. Í nóvember 2009 lauk Landic Property við samning við lánardrottna sína um fjárhagslega endurskipulagningu félagsins. Samningarnir tryggja áframhaldandi rekstrargrundvöll innlends fasteignasafns félagsins undir nafninu Landic Property Ísland ehf., sem samanstendur af 120 fasteignum, einkum verslunar- og skrifstofuhúsnæði miðsvæðis í Reykjavík. Félagið skipti um nafn í janúar 2010 og tók upp nafnið Reitir. Í lok janúar 2010 óskaði stjórn félagsins eftir því við héraðsdóm Reykjavíkur að bú félagsins yrði tekið til gjaldþrotaskipta en kröfuhafar félagsins höfðu þá fellt frumvarp til nauðasamnings fyrir félagið.>
8.12.3.9 Eimskip og tengd félög
Áhættuskuldbindingar október 2008: 104,8 milljarðar króna.
Hf. Eimskipafélag Íslands (Eimskip) var fyrsta íslenska skipafélagið, stofnað árið 1914. Í upphafi sá fyrirtækið einungis um sjóflutninga en annast nú alhliða flutningsþjónustu um allan heim. Dótturfélög þess eru VersaCold og Atlas sem starfa saman í kæligeymslu-og flutningageiranum, Eimskip Flytjandi sem rekur þjónustunet í flutningum á Íslandi,TVG-Zimsen sem annast sérhæfða flutningsmiðlun í sjó-og flugfrakt og skjalagerð, Eimskip-CTC sem rekur skipaflota og vörugeymslur og er sérhæft í flutningum á hitastýrðum vörum og Faroe Ship, sem er elsta og stærsta flutningafyrirtæki Færeyja.
Stærstu hluthafar félagsins voru Fjárfestingarfélagið Grettir ehf. og Frontline Holding S.A., hvor aðili með 33,2% eignarhlut í félaginu.
Eigendur Fjárfestingarfélagsins Grettis ehf. voru Hansa ehf. með 63% eignarhlut og Ópera Fjárfestingar ehf. með 25,6%. Eigandi Hansa ehf. var Ólafsfell ehf. en eigandi þess félags var Björgólfur Guðmundsson. Eigandi Óperu Fjárfestinga ehf. var Samson eignarhaldsfélag ehf. Eigendur Samson eignarhaldsfélags voru Bell Global, skráð á Kýpur, félag í eigu Björgólfs Guðmundssonar, og Givenshire, skráð á Guernsey, eigandi BjörgólfurThor Björgólfsson.
Eigandi Frontline Holdings S.A., sem var skráð í Lúxemborg, var Magnús Þorsteinsson. Stjórnarformaður Eimskips fram í desember 2007 var Magnús Þorsteinsson en þá tók Sindri Sindrason við stjórnarformennsku. Forstjóri félagsins fram í febrúar 2008 var Baldur Guðnason en Gylfi Sigfússon tók við forstjórastarfinu í maí 2008. Á tímabilinu 1. janúar 2007 til 30. september 2008 hækkuðu skuldir Eimskips og tengdra félaga um 60,9 milljarða króna sem greinast þannig eftir lánveitendum. Í evrum hækkuðu skuldbindingar um 256,4 milljónir eða 55%:
Nýjar lánveitingar samkvæmt ákvörðun lánanefndar voru 34,0 milljarðar króna. Andvirði þessara lána var ráðstafað að mestu til kaupa á hlutabréfum í félögum í flutningastarfsemi. Heildarskuldbinding hækkaði um 60,9 milljarða króna, þar af var aukning vegna breytinga á samstæðu 21,2 milljarðar króna.
Til tryggingar nýjum lánveitingum voru tekin veð í hlutabréfum (3,6 ma.kr.) og í fasteignum (25,0 ma.kr.). Þannig námu lán án sérgreindra trygginga alls 5,4 milljörðum króna.
Eimskip stækkaði umtalsvert hin síðustu ár, að stórum hluta vegna fjárfestinga. Félagið einbeitti sér að uppbyggingu á flutningakerfum, vöru- og kæligeymslum. Einn liður í þeim fjárfestingum voru kaupin á Innovate, sem síðar reyndust samstæðunni þungur baggi. Eimskip varð á endanum að afskrifa 9,0 milljarða króna vegna þessara kaupa. Meðfylgjandi er úr fundargerð lánanefndar Glitnis frá 1. apríl 2008 þegar reksturinn var kominn í vandræði, aðeins tæpum tveimur árum eftir að kaupin áttu sér stað og endurmeta þurfti lánaskilmála félagsins:
"Heildarskuldir Eimskip Group (dótturfélög meðtalin) við Glitni eru ISK 6,7 ma.kr. og þar af hafa lán að upphæð 5,5 ma.kr. ekki uppfyllt lánaskilmála síðustu mánuði. Þau félög, sem hafa brotið gegn þeim, eru móðurfélagið, Eimskipafélag Íslands hf., með 4 ma.kr. og dótturfélagið Innovate Rail Ltd. með 1,5 ma.kr.Við höfum átt fundi með framkvæmdastjórn Eimskips til að reyna að átta okkur á og laga þessa stöðu. Framkvæmdastjórnin hefur beðið Glitni að sjá í gegnum fingur sér með brot á lánaskilmálum til loka uppgjörsársins 2006/07 (31.10.2007) og á fyrsta fjórðungi 2007/08 (31.1.2008).
Tvær meginástæður eru fyrir því, að ekki hefur verið staðið við lánaskilmála. Dregist hefur að selja og endurleigja í Kanada (CAD 925 m) en það verður gert fyrir lok 2. ársfjórðungs (30.4.2008). Hin er aflétting á ábyrgð til handa XL að fjárhæð USD 280 m sem verður lokið 5. maí. Þegar ráðin hefur verið bót á þessum atriðum mun Eimskip uppfylla lánasamninga.
Brot dótturfélagsins Innovate í UK á lánaskilmálum stafa af erfiðleikum í dótturfélaginu Corby Chilled Distribution. Fulltrúar okkar í London hafa reynt að finna viðunandi lausn á þessu í nokkra mánuði en án árangurs. Ljóst er, að rekstur Innovate verður ekki ásættanlegur á næstunni og starfsmenn okkar í London vinna því að því að hætta þessum viðskiptum."
Lánveitingar Straums til Eimskips tengjast allar kaupum Eimskips á fyrirtækjunum Atlas Cold Storage og VersaCold sem ætlað var að styrkja dreifingarkerfi þess, m.a. á frosnum matvælum, alls um 26 milljarðar króna. Meðfylgjandi eru meðmæli lánasviðs Straums úr fylgigögnum með afgreiðslu lánanefndar frá 20. október 2007:
"Lánasvið leggur til að Straumur skuldbindi sig til að taka þátt með:
Víkjandi lán (2. veðréttur) að fjárhæð 150 millj. CAD til eins árs með framlengingarmöguleika til 1 árs, 13% vaxtaálag sem hækkar í 15% verði því framlengt, þóknun 250 punktar og 350 punktar ef lánið verður framlengt. Tryggingar eru 2. veðréttur í öllum fasteignum fasteignafélagsins.
Ábyrgð til handa Landsbanka fyrir hönd Eimskips að fjárhæð 85 millj. CAD í tengslum við umbreytanleg skuldabréf. Lánstími 1 ár, álag – á eftir að ákveða, þóknun – á eftir að ákveða.Tryggingar; engar. Greiðsla háð skilyrðum um fullnægjandi skjalagerð. Megináhætta felst í endurfjármögnun fasteignafélagsins sem áætlað er að eigi sér stað fyrir árslok 2008. Eimskip hefur fyrir hönd fasteignafélagsins falið fyrirtækjaráðgjöf Straums að annast ráðgjöf um endurfjármögnunina. Áætluð arðsemi eiginfjár á víkjandi lánið er 80%."
Lánveitingar Landsbanka til Eimskips voru annars vegar aukning á yfirdráttarlánum og afleiðurömmum að fjárhæð 4,3 milljarðar króna og bráðabirgðalán vegna kaupa á frystiskipi, samtals um 4,0 milljarðar króna, og hins vegar langtímalán um 1,6 milljarðar króna vegna vöruhótels. Þá var Eimskipi einnig veitt lán að fjárhæð 1,6 milljarðar króna sem ráðstafað var til greiðslu inn á lán Frontline Holdings S.A., eignarhaldsfélags í Lúxemborg í eigu Magnúsar Þorsteinssonar, eins eigenda Eimskips. Meðfylgjandi er úr fundargerð lánanefndar Landsbanka frá 14. maí 2008:
"Hlutafélagið Eimskipafélag Ísl. - 21 millj. USD (1.620 m.kr.) lán til eins árs á Libor + 3,5% án utanaðkomandi trygginga.Vextir greiðist eftir 6 mán. Andvirði lánsins ráðstafast alfarið til greiðslu inn á lán Frontline Holding S.A. í Landsbanka Luxembourg. Nettóflæði er því 0."
Hinn 1. júlí 2009 féllst héraðsdómur Reykjavíkur á beiðni Eimskips um heimild til að leita nauðasamninga. Kröfuhafar félagsins samþykktu frumvarp að nauðasamningi 14. ágúst s.á. og staðfesti Héraðsdómur Reykjavíkur samninginn 28. s.m.
8.12.3.10 Lagerinn ehf. og tengd félög
Áhættuskuldbindingar október 2008: 96,5 milljarðar króna.
Jákup á Dul Jacobsen hóf verslun í heimalandi sínu, Færeyjum, árið 1986 með opnun Skemmunnar, en það er Rúmfatalagerinn í Færeyjum. Ári síðar var Rúmfatalagerinn á Íslandi stofnaður. Móðurfélag Rúmfatalagersins er eignarhaldsfélagið Lagerinn ehf., sem stofnað var 2005 og er alfarið í eigu Jákups. Lagerinn ehf. heldur utan um megnið af fjárfestingum Jákups en helstu eignir eru m.a. SMI Real Estate, Ilva,The Pier ehf. og Eik banki. Starfsemi félaga Jákups náði víða, t.d. til Kanada, Færeyja, Eystrasaltslandanna og Rúmeníu auk Íslands.
Jákup á Dul stýrði starfseminni og fjármálastjóri var Sigurður Ágúst Berntsson.
Á tímabilinu 1. janúar 2007 til 30. september 2008 hækkuðu skuldir Jákups á Dul og tengdra félaga um 70,0 milljarða króna. Í evrum hækkuðu skuldirnar um 382,9 milljónir eða um 137%:
Nýjar lánveitingar samkvæmt ákvörðun lánanefnda námu 14 milljörðum króna á tímabilinu.Andvirði þessara lána var ráðstafað til rekstrar (10,5 ma.kr.) og til verðbréfakaupa (3,5 ma.kr.). Endurfjármögnun eldri lána á tímabilinu nam 5,1 milljarði króna eða sem svarar til 19% af skuldastöðu í upphafi tímabilsins.
Til tryggingar nýjum lánveitingum voru tekin veð í hlutabréfum að fjárhæð 3,5 milljarðar króna og önnur veð námu 10,5 milljörðum króna.
Viðskipti Jákups á Dul og tengdra félaga voru fyrst og fremst við Kaupþing. Félögin juku þó líka skuldbindingar sínar í Landsbankanum töluvert á tímabilinu, einkum 2007. Stóran hluta af því má rekja til starfsemi félagsins í Kanada. Kaupþing tók nokkra áhættu með lánveitingum til Jákups á Dul vegna kaupa á Ilva og reyndist Kaupþing síðar þurfa að taka félagið til sín. Bankarnir studdu við útrás Jákups til Kanada og Eystrasaltsríkjanna og lánuðu þónokkuð til verkefna þar. Þá fékk Jákup lán til fjárfestinga í verðbréfum, einkum í Færeyjum. Dæmi um slíka lánveitingu má finna í fundargerð lánanefndar Kaupþings (CCC) frá 14. júní 2007:
"Lagerinn ehf. fer fram á lán vegna þátttöku í hlutafjárútboði Færeyjabanka. Sóst er eftir 10% (metin á 190m DKK) hlut í bankanum en ekki er búist við að ná meira en 5% (metin á 95m DKK). Lánað verður í formi skammtímalána til að byrja með en innan nokkurra mánaða má búast við, að farið verði fram á langtímafjármögnun.Til tryggingar verður veð í hlutabréfum í Færeyjabanka. Eigið fé í samningnum verður veð í eignarhluta Jákups Jacobsen í Smáratorgi ehf. (82,4%). Lánanefnd samþykkti lán allt að 190m DKK á kjörum líkum þeim, sem Lagerinn hefur fyrr notið."
Samkvæmt upplýsingum frá bönkunum í janúar 2010 er Ilva A/S gjaldþrota og verið er að vinna að sölu á ýmsum eignum Lagersins og dótturfélaga þess. Þá hefur Landsbankinn (LBI) leyst til sín meirihluta hlutafjár í SMI.
8.12.3.11 Milestone ehf. og tengd félög
Áhættuskuldbindingar október 2008: 91,5 milljarðar króna.
Milestone ehf. er fjárfestingarfélag sem átti eignarhluti í félögum í mismunandi starfsgreinum, m.a. á sviði trygginga, fjármála, lyfjaframleiðslu og -sölu og fasteignareksturs. Milestone átti þannig eignarhluti í Sjóvá-Almennum tryggingum hf., Glitni banka hf.,Askar Capital hf. og Moderna Finance AB og Invik & Co AB í Svíþjóð. Milestone ehf. var skráð í Kauphöll Íslands.
Stærstu hluthafar félagsins voru bræðurnir Karl (28%) og Steingrímur Wernerssynir (22%) með samtals um 50% eignarhlut og Leiftri Ltd. með um 45% eignarhlut. Leiftri Ltd., sem skráð er á Bresku Jómfrúaeyjum, er að fullu í eigu Karls og Steingríms Wernerssona samkvæmt upplýsingum í ársreikningi Milestone ehf. fyrir árið 2007.
Stjórnarformaður Milestone var Karl Emil Wernersson og forstjóri var Guðmundur Ólason.
Á tímabilinu janúar 2007 til október 2008 hækkuðu skuldir Milestone og tengdra félaga um 30,2 milljarða króna. Í evrum lækkuðu skuldbindingar um 18,6 milljónir eða um 3%:
Nýjar lánveitingar samkvæmt ákvörðunum lánanefnda námu 54,3 milljörðum króna á tímabilinu. Andvirði þessara lána var ráðstafað til rekstrar (39,5 ma.kr.), til verðbréfakaupa (8,7 ma.kr.) og til annars (6,1 ma.kr.). Endurfjármögnun eldri lána á tímabilinu nam 26,2 milljörðum króna eða sem svarar til 36% af skuldastöðu í upphafi tímabilsins.
Til tryggingar nýjum lánveitingum voru tekin veð í hlutabréfum að fjárhæð 20,4 milljarðar króna, veð í reiðufé 4,3 milljarðar króna og önnur veð samtals 18,3 milljarðar króna. Þannig námu lán án sérgreindra trygginga alls 11,3 milljörðum króna.
Mesta aukning fyrirgreiðslu á tímabilinu til þessarar samsteypu er í Glitni, en Milestone og félög tengd því eða eigendum þess voru stórir hluthafar í bankanum, áttu yfir 20% af útistandandi hlutafé bankans þar til í mars 2007, þegar eigendaskipti urðu að stærstu hlutum í bankanum. Karl Wernersson átti sæti í stjórn bankans um árabil og fram til þess tíma.
Fyrirgreiðsla Glitnis til félagsins Þáttar International ehf., sem var í eigu Milestone, tengdist hlutabréfaeign Þáttar International ehf. í Glitni, en kaup á hlutafénu voru fjármögnuð af Morgan Stanley. Lánasamningi Þáttar International ehf. við Morgan Stanley virðist hafa verið sagt upp vegna ákvæða í samningum og leitaði félagið því eftir fjármögnun á láninu hjá Glitni, sbr. fundargerð lánanefndar 27. febrúar 2008:
"Þáttur International ehf. er með lán vegna fjármögnunar á GLB hlutum hjá Morgan Stanley (MOS) og Racon, eigandi Invik, er með brúarfjármögnun vegna kaupanna á Invik. Bæði þessi lán eru í uppnámi um þessar mundir. LAIS ætlar ekki að koma með neitt inn í dealinn sem þýðir að við þurfum að lána ca EUR 180 m núna til viðbótar við EUR 102 m sem við lánuðum 8. feb. sl.
Erlendu innlánin hafa heldur ekki verið að skila sér eins og skyldi til okkar og vantar ca. andvirði 12 ma.kr. þar uppá. Skuldabréfaútgáfa er líka ca. helmingi lægri fjárhæð en menn töldu í upphafi."
Andvirði lánsins rann þó ekki til Þáttar International ehf., heldur til fyrirtækisins Svartháfs ehf., sem aftur lánaði Þætti International ehf. fyrir þessum hlutafjárkaupum. Eigandi Svartháfs ehf., Werner Ívan Rasmusson, er tengdur eigendum Milestone, en hann er faðir bræðranna sem eru aðaleigendur Milestone. Svartháfur var ekki skilgreindur sem aðili tengdur við Milestone-samstæðuna við útreikning á áhættugrunni útlána gagnvart eigin fé bankans. Svartháfur var einn af stærstu lántökum bankans.
Einnig er athyglisverð fyrirgreiðsla Glitnis til félagsins Rákungs ehf., sem er hluti af Milestone-samstæðunni, en kemur þó ekki fram á yfirliti frá Glitni sem félag tengt Milestone við útreikning á áhættugrunni útlána gagnvart eigin fé bankans. Rákungi ehf. var veitt 6,7 milljarða króna lán til að kaupa hlutabréf í Glitni, skv. fundargerð lánanefndar 31/3 2008:
"Rákungur ehf., félag í eigu Milestone ehf., fjárfesti í 297.614.026 hlutum í Glitni banka hf. í febrúar sl. Lán til félagsins var samþykkt í áhættunefnd í febrúar 2007 [sic]. Samþykkt var að lána með PM láni á meðan gengið væri frá skjalagerð vegna langtímaláns.Vegna veikingar krónu á þeim tíma sem liðið hefur frá því að PM lán var veitt hefur andvirði þess hækkað verulega og er komið upp fyrir þær heimildir sem áhættunefnd samþykkti á sínum tíma.
Er þess hér með óskað að staðfest verði ný mörk fyrir félagið, 6,7 ma.kr., svo unnt verði að greiða út langtímalánið, sem stendur nú í jafngildi um 6,5 m.kr."
Starfsmenn Glitnis virðast hafa hagað þessum lánveitingum með það í huga að þær kæmu ekki fram hjá raunverulegum lántaka, Milestone, því Milestone-samstæðan var fyrir með mjög háa skuldastöðu við bankann. Þess í stað voru lánin veitt til nýstofnaðra einkahlutafélaga sem voru í eigu aðila sem tengjast Milestone með óbeinum hætti, líklega til þess að hægt væri að halda þessum lánveitingum utan samstæðu Milestone í uppgjörum vegna útreiknings á áhættugrunni útlána gagnvart eigin fé bankans. Ljóst er að Glitnir vissi að fyrirtækið var undir stjórn Milestone, sbr. það sem fram kemur í fundargerð lánanefndar hér að ofan. Rannsóknarnefnd Alþingis vill líka benda á að hér er verið að veita erlent lán fyrir kaupum á innlendum hlutabréfum, sem var því miður ekki óalgengt á þessum tíma og verður rætt nánar í ályktunum.
Á árunum 2007 og 2008 voru félögum innan samstæðu Milestone einnig iðulega veittar framlengingar á lánum auk viðbótarlána eða lánum skuldbreytt eftir þörfum hverju sinni. Félagið virðist þannig hafa verið í mikilli fjárþörf á þessum tíma og sífellt leitað til bankans um fjárhagslega fyrirgreiðslu, sbr. fundargerð lánanefndar 18/7 2008:
"Þann 1. júní var Milestone lán upp á ISK 2 ma á gjalddaga. Um er að ræða lán sem var upphaflega ISK 1,7 ma og greitt út í maí 2006. Þetta lán ásamt öðrum lánum til Milestone, Askar Capital og Avant eru tryggð með sama pakkanum. Tryggingarþekja er neikvæð um ISK 3,7 ma. Milestone er að vinna í því að útvega bankanum auknar tryggingar til þess að laga þetta ISK 3,7 ma tryggingargat sem við erum með í dag. Milestone hefur óskað eftir því að við framlengjum þessum ISK 2 ma til 15. júlí, en þá eru ca. ISK 13.9 ma á gjalddaga. Lagt er til að samþykkt verði að framlengja þessum ISK 2 ma til 15.7.2008. Einnig er lagt er til að vextirnir verði hækkaðir úr 3% upp í 4,5%."
Fjallað var einnig um þetta lán í fundargerð 27/8 2008:
"Félagið hefur óskað eftir framlengingu á láni upp á ISK 2.200 m sem var á gjalddaga 15.7.2008. Hafa þeir farið fram á 3 mánaða framlengingu og boðið sem aukaveð Stater Bank í Makedóníu. Eiginfjárframlag þeirra í Stater Bank er EUR 9 m (ISK 1.100m). Milestone er ennþá með tryggingargat upp á ISK 3.987 m sem mun lækka niður í ISK 2.900 m ef við tökum Stater Bankbréfin.Verið er að vinna í því að loka þessu gati en sú vinna gengur hægt."
Skilanefnd Glitnis tók yfir allt hlutafé Milestone í Moderna í mars 2009 og hefur unnið að því að selja eignir út úr félaginu. Milestone fékk heimild til að leita nauðasamninga við lánardrottna í júní 2009. Kröfuhafar höfnuðu frumvarpi að nauðasamningi sem kom fram. Stjórn félagsins óskaði þá eftir við Héraðsdóm Reykjavíkur að félagið yrði tekið til gjaldþrotaskipta og féllst dómurinn á þá beiðni 18. september 2009. Skilanefnd Glitnis tók yfir Svartháf í desember 2009.
8.12.3.12 Skúli Þorvaldsson og tengd félög
Áhættuskuldbindingar október 2008: 80,3 milljarðar króna.
Skúli Þorvaldsson var umfangsmikill fjárfestir og nokkur fyrirtæki í hans einkaeign voru í viðskiptum við Kaupþing í Lúxemborg. Auk þess átti hann ásamt systur sinni félögin Holt Holding og Morecra. Hann átti einnig fyrirtækin Holly Beach, Marple Holding og Immo Croissance Sicav sem voru tengd viðskiptum í vogunarsjóðum. Skúli var stærsti einstaki lántakandi Kaupþings í Lúxemborg.
Á tímabilinu janúar 2007 til október 2008 hækkuðu skuldir Skúla Þorvaldssonar og tengdra félaga um 57,1 milljarð króna. Í evrum hækkuðu skuldbindingar um 306,6 milljónir eða 125%:
Nýjar lánveitingar samkvæmt ákvörðun lánanefnda voru 41,2 milljarðar króna á tímabilinu.Andvirði þessara lána var ráðstafað til verðbréfakaupa. Endurfjármögnun eldri lána á tímabilinu nam 17,2 milljörðum króna eða sem svarar til 74% af skuldastöðu í upphafi tímabilsins.
Til tryggingar nýjum lánveitingum voru tekin veð í hlutabréfum að fjárhæð 25,2 milljarðar króna. Þannig námu lán án sérgreindra trygginga alls 16,0 milljörðum króna.
Eins og fram kemur í töflunni hér að ofan var Skúli eingöngu í viðskiptum við Kaupþing. Á tímabilinu fær Skúli nokkrum sinnum aukna fyrirgreiðslu vegna hlutabréfakaupa í Kaupþingi og kaupa á lánshæfistengdum skuldabréfum (CLN). Í september 2007 er samþykkt að veita félaginu 180 milljóna evra lánsheimild til viðbótar við þær 193 milljónir evra sem félagið var með fyrir, til verðbréfakaupa o.fl. Í mars 2008 kaupir fjárfestingarfélag Skúla, Holt Investment Group Ltd., 22.000.000 hluti í Kaupþingi og fær til þess lán að fjárhæð 16,1 milljarður króna. Kjör lánsins eru í takt við almenn viðmið sem bankinn hafði en hins vegar er ekki gerð sambærileg krafa um tryggingarþekju í upphafi eins og venja var, en hún var aðeins 104%. Sjá umfjöllun í fundargerð frá 18. mars 2008:
"Holt Investment Group Ltd. fer fram á lán að upphæð ISK 16.100.000.000 til að kaupa 22.000.000 hluti í Kaupþingi banka.
Lánsfjárupphæð: 16.100.000.000. Lánstími: 1 ár. Álag: L/R +2,75%. Lántökugjald: 2%.
Tryggingar: 22.000.000 hlutir í Kaupþingi banka og 142.938.276 hlutir í Skiptum ehf. Markaðsvirði hlutanna í Skiptum er 142.938.276*6,4=ISK 914.800.000.
Heildarvirði trygginga: Kaupþ. 15,85 ma.kr. (22.000.000*720) + Skipti 900 m (142.938.276*6,4) = ISK 16,75 ma.kr.
Upprunaleg tryggingaþekja): 17,05/16,1 = 104%.
Veðkall: 100%.
Holt Investmennt Group Ltd. er á undanþágulista áhættunefndar. Félagið er í eigu Skúla Þorvaldssonar og er nýstofnað. Heildareignir Skúla Þorvaldssonar eru EUR 351 m, þar af reiðufé EUR 113 m.
Lánanefnd samþykkti beiðnina."
Í september 2008 samþykkir lánanefnd bankans 46,8 milljóna evra lán til félags Skúla vegna kaupa á lánshæfistengdum skuldabréfum (CLN). Lánanefndin veitti nokkrum vel völdum viðskiptavinum slík lán á þeim tíma. Talið er að með þeim lánum og þar með láninu til Holly Beach S.A. hafi Kaupþing verið að reyna að hafa áhrif á skuldatryggingarálag bankans á þeim tíma með tiltölulega flóknum viðskiptum í samvinnu við Deutsche Bank og nokkra af helstu viðskiptavinum sínum, sjá umfjöllun í kafla 7.0. Lánið sem veitt var til Holly Beach S.A., sem var í eigu Skúla Þorvaldssonar, að fjárhæð 7,0 milljarðar króna, var til að fjármagna eiginfjárframlag Holly Beach S.A. í Chesterfield Capital Ltd., en það félag fjárfesti í lánshæfistengdum bréfum útgefnum af Deutsche Bank og tengd Kaupþingi. Á sama fundi samþykkir lánanefnd stjórnar að veita Holt Investment Group Ltd. lán að fjárhæð 2.570 milljónir króna til að kaupa 3.700.000 hluti í Kaupþingi. Bókun í fundargerð lánanefndar Kaupþings 24. september 2008 vegna þessara viðskipta og lánafyrirgreiðslu vegna kaupa á hlutabréfum í Kaupþingi er eftirfarandi:
"Heildarskuldir Skúla Þorvaldssonar og tengdra aðila eru 73.949.645.019 ISK. Eru þær að mestu til komnar vegna ýmissa viðskipta SÞ við bankann og tryggðar eru með hlutabréfum (underlying securities). Undantekning frá því er skuld Immo Croissance SICAV SII, sem tengist yfirtöku á fasteignafélagi, sem áður var að jöfnu í eigu SÞ og Baugs.Verið er að fjalla um fjármögnun þess láns."
Beiðni frá Holly Beach:
"Holly Beach er á undanþágulista hvað varðar lánshæfi.
Chesterfield er SPV og tilgangur þess sá einn að fjárfesta í lánshæfistengdum bréfum útgefnum af Deutsche Bank (DB) og tengd Kaupþingi banka (KB)
Fjórir fjárfestar standa að Chesterfield. Sjá skýringarmynd."
"Lánshæfistengda bréfið er á gjalddaga 20. september 2013. Nafnverð er EUR 125m með skuldatryggingu að nafnverði EUR 250m.Vextir bréfsins eru 3m EURIBOR + 1122.4 punktar. Kostnaður er 5m EUR.
Holly Beach á 36% í Chesterfield. Skúli Þorvaldsson fer með ráðandi hlut í Holly Beach. Félagið er á undanþágulista hvað varðar áhættumat. Félagið fer fram á lánafyrirgreiðslu, EUR 46,8 m, sem er eiginfjárframlag þess í þessum viðskiptum.
Beiðnin:
Lánsfjárupphæð: EUR 46,8m
Lánstími: 5 ár (gjalddagi 20.09.2013)
Lánskjör: 1,5%, ársfjórðungslegar afborganir
Lántökukostnaður: 1,45%
Tryggingar:Veð í hlutafé Holly Beach og í þeim hlutum, sem Holly Beach á í Chesterfield og í Immo Croissance SICAV SII"
"Beiðni frá Holt Investment Group Ltd: Holt Investment Group Ltd. fer fram á lán að upphæð ISK 2.570m. Félagið er á undanþágulista hvað lánshæfi varðar. Tilgangur með láninu er að fjármagna kaup á 3.700.000 hlutum í Kaupþingi banka. Fyrir á félagið 22.000.000 hluti í Kaupþingi og 93.971.303 hluti í Exista hf.
Beiðnin er svohljóðandi:
Lánsfjárupphæð: Allt að ISK 2.570m
Gjalddagi: 02.07.2009
Vextir: R+3%-5%
Tryggingar: Allar eignir lántaka, sem eru hlutir í Kaupþingi banka og Exista – og/eða veðsetningarbann á allar eignir Holt
Investment Group Ltd.
Lánanefnd samþykkti beiðnina."
Kaupþing lánaði einnig beint inn í Chesterfield United og var það félag með 14,9 milljarða króna stöðu við fall bankans í október 2008. Í lok september gerði Deutsche Bank veðkall og samþykkti lánanefnd Kaupþings á fundi sínum 2. október 2008 frekari lánveitingu til Chesterfield til að mæta því veðkalli:
"Chesterfield United Inc.- Lánanefnd samþykkir að hækka lánið, sem lánanefnd stjórnar samþykkti á fundi í síðustu viku, um EUR 125m vegna veðkalla frá Deutsche Bank."
8.12.3.13 Mosaic Fashions og tengd félög
Áhættuskuldbindingar október 2008: 78,7 milljarðar króna.
Í lok árs 2006 sameinuðust Mosaic Fashions og Rubicon Retail Group (áður Studio Group Ltd.) undir nafni Mosaic Fashions hf. Sameinað félag myndaði fjórðu stærstu tískuvörukeðju Bretlands, með um 1.700 verslanir í 27 löndum. Helstu vörumerki félagsins voru Oasis, Coast, Karen Millen,Whistles, Shoe Studio Group,Warehouse og Principles. Mosaic Fashions hf. var skráð á íslenskan hlutabréfamarkað 2005 en afskráð í október 2007. Í mars 2009 var Mosaic Fashions hf. tekið til gjaldþrotaskipta og helstu vörumerki þess seld til Aurora Fashions og Shoe Studio.
Í lok september 2008 voru helstu eigendur Mosaic Fashions hf. F-Capital ehf., sem var að fullu í eigu Baugs Group hf., með 49% eignarhlut, Kaupþing banki hf. með 20% eignarhlut og Stapi fjárfestingarfélag ehf. með 11,2% hlut.
Forstjóri Mosaic Fashions var Derek Lovelock. Stjórnarmenn voru Stewart Binnie, Richard Glanville, Margaret Lustman, Michael Shearwood, Frank Sekula, Gunnar Sigurðsson og Jón Ásgeir Jóhannesson.
Á tímabilinu janúar 2007 til október 2008 hækkuðu skuldir Mosaic Fashions hf. og tengdra félaga um 6,5 milljarða króna. Í evrum lækkuðu skuldir Mosaic Fashions aftur á móti um 222,4 milljónir á tímabilinu eða um 29%:
Nýjar lánveitingar samkvæmt ákvörðun lánanefnda námu samtals 12,8 milljörðum króna á tímabilinu. Andvirðinu var ráðstafað til að greiða afborganir og vexti af lánum félagsins hjá Kaupþingi. Tryggingar fyrir fyrirgreiðslunni voru rekstur og eignir Mosaic Fashions.
Á fundi lánanefndar Kaupþings 7. september 2006 er tekin fyrir beiðni félagsins um endurfjármögnun sameinaðs félags, Mosaic Fashions og Rubicon Retail, þar sem samþykkt er að leggja málið fyrir lánanefnd stjórnar:
"Ljóst er að um er að ræða stórar fjárhæðir og snýst mesta óvissan um hvort finna má samstarfsbanka, og hvernig ganga muni að selja lánið niður, einkum með tilliti til þess hversu erfiður tískumarkaðurinn hefur verið undanfarið. Kanna áhuga hjá RBS og Barclays Bank auk nokkurra annarra banka. Þá þarf einnig að athuga hjá innviðum bankans, m.a. hjá Fjárstýringu, hvort við getum eins og sakir standa farið út í svona stórt verkefni, einkum með tilliti til þess ef við skyldum sitja uppi með alla fjárhæðina lengur en til stendur."
Í minnisblaði, dagsettu 19. september 2006, sem sent var til lánanefndar Kaupþings frá starfsmönnum Kaupþings, kemur fram að búið sé að samþykkja að undirrita 450 milljóna punda lán til að fjármagna yfirtöku Mosaic Fashions á Rubicon:
"Eins og kunnugt er þá hefur Kaupthing Bank samþykkt að undirrita GBP 450 mln lán til að fjármagna yfirtöku Mosaic Fashions á RRG ( Rubicon Retail Group Ltd.)"
Bókun á samþykkt á áðurnefndri lánveitingu er ekki að finna í fundargerðum lánanefndar stjórnar Kaupþings.
Í apríl 2008 samþykkir lánanefnd Kaupþings að breyta skilmálum í lánasamningum Mosaic Fashions hf. til að koma í veg fyrir að endurskoðendur félagsins árituðu reikning félagsins með fyrirvara, sbr. neðangreinda samþykkt 25. apríl 2008:
"Óskað er eftir því, að lánaskilmálum verði breytt til að koma í veg fyrir, að endurskoðendur félagsins (KPMG) geri athugasemd við ársreikning Mosaic fyrir 2007. Til að KPMG sé fært um að árita endurskoðaða ársreikninga er lagt til að gera meðfylgjandi breytingar:
- Breyta skilmálanum um 90 millj. GBP hagnað fyrir afskriftir, vexti og skatta (EBITDA), sem settur var fyrir 31. janúar 2009 í 85 millj. GBP skilmála fyrir 30. apríl 2009. Þetta leiðir til 19% svigrúms á áætlunina en hins vegar munu aðrir fjárhagslegir skilmálar brjóta gegn skilmálanum um 89 millj. GBP hagnað fyrir afskriftir, vexti og skatta.
- Laga skilmála um vaxtaþekju í júlí og október 2008 til að gefa meira svigrúm.
- Breyta prófun á öllum fjárhagslegum skilmálum (nema sjóðstreymi) 31. janúar 2009 þannig að þeir verði á sömu línu og á ársfjórðungnum á undan.
- Laga skilmála um sjóðstreymi í janúar 2009 í 0.9:1.0
Lánanefnd samþykkti ofangreindar breytingar."
Frekari fyrirgreiðsla til Mosaic Fashions var tekin fyrir á fundi lánanefndar Kaupþings 18. september 2008:
"Lánshæfi er BB. Heildarskuldir eru GBP 415 m.
Beiðnin: GBP 20 millj. afleiðulína til að gera Kaupthing Singer & Friedlander kleift að sjá Mosaic fyrir nægri USD vernd og mæta árlegri USD 250 m gjaldeyrisvarnarkröfu. Nýja lánið verður forgangskrafa á sama veðrétti og núverandi forgangslán og bankinn mun með samningi koma í veg fyrir að Mosaic noti einhvern annan gjaldeyrismiðlara til að tryggja umsjón KSF með öllum gjaldeyrisviðskiptum félagsins. Lánanefnd samþykkti beiðnina."
Kaupþing stofnaði nýtt félag, Aurora Fashions, í samvinnu við stjórnendur Mosaic á fyrsta ársfjórðungi 2009 sem yfirtók rekstur helstu verslanakeðja félagsins, m.a. Karen Millen, Coast, Warehouse og Oasis. Aðrar eignir voru seldar. Mosaic Fashions var veitt heimild til gjaldþrotaskipta í mars 2009.
8.12.3.14 Nordic Partners ehf. og tengd félög
Áhættuskuldbindingar október 2008: 78,5 milljarðar króna.
Nordic Partners ehf. var fjárfestingarfélag sem fjárfesti í framleiðslu og sölu matvæla, þróun og rekstri fasteigna og sérhæfðri ferðaþjónustu. Helstu eignir félagsins voru fasteignafélög sem áttu og ráku umfangsmiklar fasteignir í Austur-Evrópu og hótel og veitingarekstur í Kaupmannahöfn, s.s. hið sögufræga hótel D'Angleterre. Í byrjun árs 2008 keyptu Nordic Partners eitt stærsta matvælafyrirtæki í Mið- og Austur-Evrópu, tékkneska félagið Hamé. Nordic Partners var með starfsemi á Íslandi, Lettlandi, Litháen, Tékklandi, Póllandi og Danmörku. NP Properties AB var eignarhaldsfélag utan um allar fasteignir Nordic Partners og tengdra félaga; Nordic Sea var eignarhaldsfélag um starfsemi á Íslandi sem tengdist rekstri sérvöru-matvælabúða; Nordic Wings hélt utan um kaup og rekstur flugvéla og NP Confectionary hélt utan um rekstur matvælafyrirtækja í Eystrasaltslöndum og Póllandi.
Eigendur Nordic Partners voru Gísli Þór Reynisson (53%), J&K eignarhaldsfélag (36%), sem er í eigu Jóns Þórs Hjaltasonar og Bjarna Gunnarssonar, og loks Daumants Vitolis (11% - viðskiptafélagi Gísla í Lettlandi). Gísli Þór Reynisson var stjórnarformaður og stýrði daglegum rekstri félagsins.
Á tímabilinu 1. janúar 2007 til 30. september 2008 hækkuðu skuldir Nordic Partners og tengdra félaga um 65,6 milljarða króna. Í evrum talið hækkuðu skuldbindingar félaganna um 403,1 milljón eða 295% frá upphafi tímabils:
Nýjar lánveitingar samkvæmt ákvörðun lánanefnda námu 47,7 milljörðum króna á tímabilinu. Andvirði þessara lána var ráðstafað til rekstrar (0,5 ma.kr.), til verðbréfakaupa (15,2 ma.kr.) og til annars (32 ma.kr.). Skýrist það fyrst og fremst af hótelkaupum í Danmörku. Endurfjármögnun eldri lána á tímabilinu nam 57,3 milljörðum króna eða sem svarar til 443% af skuldastöðu í upphafi tímabilsins.
Til tryggingar nýjum lánveitingum voru tekin veð í hlutabréfum að fjárhæð 15,2 milljarðar króna og önnur veð samtals 32,5 milljarðar króna, mest fasteignaveð.
Nordic Partners og tengd félög voru í viðskiptum við Landsbanka. Stærstur hluti lánveitinga á síðustu misserum til Nordic Partners er annars vegar vegna hótelkaupa í Danmörku og hins vegar fyrirtækjakaupa í Tékklandi. Skýrir það að stórum hluta aukna fyrirgreiðslu bankans. Svo virðist sem bankinn hafi verið tilbúinn til að taka þónokkra áhættu í þessum lánveitingum, til að mynda lánaði bankinn nokkuð umfram verðmat hótelanna í Danmörku. Reyndar var tilgangur lánveitingarinnar aðeins að brúa bil fram að endanlegri fjármögnun Royal Bank of Scotland. Sú fjármögnun gekk hins vegar ekki eftir og sat Landsbankinn því uppi með lánið vegna hótelanna. Meðfylgjandi er úr fundargerð lánanefndar Landsbanka frá 15. ágúst 2008:
"Nordic Partners ehf.– 1.012 millj.DKK (12.145 m.kr) lán til allt að 12 mán. á Libor + 1,95% auk 0,2% lántökugjalds.Til tryggingar verði 1. veðr. í 3 hótelum á góðum stöðum í Kaupmannahöfn, þ.e. Hotel D' Angleterre, Hotel Front og Kong Frederik (áætl. verðmæti 860-920 millj.DKK).Verði lánið afgreitt í gegnum nýtt félag verði það með sj.sk.áb. Nordic Partners ehf.Verður síðan endurfjármagnað í RBS (90% LTV)."
Viðskiptasaga Nordic Partners við Landsbankann spannar þónokkur ár og tók bankinn virkan þátt í uppbyggingu og auknum umsvifum félagsins síðustu árin. Umsvif félagsins voru lítil hér á landi en umtalsverð í Danmörku, Eystrasaltslöndunum og Austur-Evrópu.
8.12.3.15 Saxhóll ehf. og tengd félög
Áhættuskuldbindingar október 2008: 78,4 milljarðar króna.
Saxhóll ehf. eignarhaldsfélag var í eigu systkinanna Júlíusar Þórs Jónssonar, Sigrúnar Jónsdóttur, Rutar Jónsdóttur, Einars Arnar Jónssonar og Jóns Þorsteins Jónssonar. Saxhóll var umsvifamikið í fasteignaviðskiptum bæði hérlendis og erlendis og í fjárfestingum í fjármálageira. Félagið átti m.a. stóran hlut í Glitni um tíma og í BYR sparisjóði. Þá átti Saxhóll helmingshlut í Saxbyggi á móti BYGG – Byggingarfélagi Gylfa og Gunnars. Saxbygg átti um 5% hlut í Glitni við fall bankans. Jón Þorsteinn Jónsson var stjórnarformaður félagsins en framkvæmdastjóri var Einar Örn Jónsson. Á tímabilinu janúar 2007 til október 2008 hækkuðu skuldir Saxhóls og tengdra félaga um 71,5 milljarða króna. Í evrum talið hækkuðu skuldbindingar félaganna um 466 milljónir eða 641% á tímabilinu:
Nýjar lánveitingar samkvæmt ákvörðun lánanefnda námu 40,2 milljörðum króna á tímabilinu. Andvirði þessara lána var ráðstafað til rekstrar (6,3 ma.kr.), til verðbréfakaupa (24,4 ma.kr.) og til annars (9,5 ma.kr.). Endurfjármögnun eldri lána á tímabilinu nam 14 milljörðum króna eða sem svarar til 204% af skuldastöðu í upphafi tímabilsins.
Til tryggingar nýjum lánveitingum voru tekin veð í hlutabréfum að fjárhæð 27,1 milljarður króna og önnur veð samtals 7,3 milljarðar króna. Þannig námu lán án sérgreindra trygginga alls 5,8 milljörðum króna.
Saxhóll og tengd félög voru í viðskiptum við alla stóru bankana þrjá. Í upphafi tímabilsins voru viðskiptin við Glitni takmörkuð og félögin áttu í nær engum viðskiptum við Kaupþing. Aukning fyrirgreiðslunnar í Glitni og Kaupþingi má fyrst og fremst rekja til fjárfestingarverkefna, einkum í verðbréfum. Félögin voru að stærstum hluta með fjármögnun á fasteignaverkefnum sínum hjá Landsbankanum. Saxhóll var stór hluthafi í Glitni og sat einstaklingur tengdur félaginu í stjórn bankans.
Umfang starfsemi Saxhóls og tengdra félaga var einkum hérlendis en félagið fjárfesti einnig í nokkrum verkefnum utan Íslands, m.a. í Berlín. Glitnir banki lánaði Saxbyggi 25 milljónir evra vegna fasteignaverkefna þar eins og sést í meðfylgjandi fundargerð lánanefndar Glitnis frá 13. nóvember 2007:
"Saxbygg hefur óskað eftir EUR25m (2.200 m.kr.) kúluláni til 3ja ára til fasteignaverkefna í Berlín.Veð verður tekið í umræddum fasteignum. Saxbygg er með þrjú verkefni í gangi í Berlín. Í fyrsta lagi er það verkefni sem gengur undir nafninu Berlín Tower. Það eru tveir turnar sem verða með 272 íbúðum í þegar framkvæmdum verður lokið.Verkefni númer tvö gengur undir nafninu Stazi byggingin og er skrifstofubygging sem var notuð af Stazi að einhverju leyti. Þá eign verður að strippa niður og byggja upp frá útveggjum. Þriðja verkefnið er tvær eignir sem eru að samanlögðu verðmæti um €3m sem þá vantar fjármögnun á. Þeir eru komnir með tilboð í þriðja verkefnið en vilja fá tilboð frá okkur á móti.
Samþykkt. 80% lánveiting til 3 ára með ábyrgð Saxbyggs ehf. Skilyrði:Yfirlýsing frá Saxbyggi ehf. þar sem fram kemur að ekki verði um frekari veðsetningar á eignunum að ræða."
Þá fjárfesti Saxhóll töluvert í verðbréfum, þar á meðal í hlutabréfum í Glitni, og fékk meðal annars til þess lán í Kaupþingi eins og fram kemur í fundargerð lánanefndar Kaupþings frá 5. apríl 2007. Lánveitingin var hluti af Project Tornado. Þá keypti Saxbygg 744 milljónir hluta eða 5% af heildarhlutafé Glitnis og fékk til þess 16,8 milljarða króna lán. Saxhóll og Saxbygg keyptu einnig í Kaupthing Capital Partners II-sjóðnum fyrir um 15 milljónir punda eða um 1,9 milljarða króna eins og fram kemur í fundargerð lánanefndar Kaupþings frá 13. desember 2007:
"Saxbygg ehf. biður um lán, GBP 10.000.000 (nú ISK 1.250.000.000), til að kaupa í Kaupthing Capital Partners II. KCP II hefur í dag farið fram á, að 15% heildarupphæðarinnar verði greidd út. Lánsfjárupphæð: GBP 10.000.000. Lánstími: 1 ár en heimild til að framlengja í allt að 5 ár, um eitt ár í senn. Eftirfarandi er lagt til:Vextir: L +1,75%. Umsýslugjald: 0,1% - 0,5%. Upphafleg tryggingaþekja: 140% - 160%.Veðkall: 120% - 135%. Lánanefnd samþykkti beiðnina.
Saxhóll ehf. biður um lán, GBP 5.000.000 (nú ISK 625.000.000) til að kaupa í Kaupthing Capital Partners II. KCP II hefur í dag farið fram á, að 15% heildarupphæðarinnar verði greidd út. Lánsfjárupphæð: GBP 5.000.000. Lánstími: 1 ár en heimild til að framlengja í allt að 5 ár, um eitt ár í senn. Eftirfarandi er lagt til:Vextir: L +1,75%. Umsýslugjald: 0,1% - 0.5%. Upphafleg tryggingaþekja: 140%.Veðkall: 130%. Lánanefnd samþykkti beiðnina."
Icarus ehf., sem áður hét Saxbygg, óskaði í maí 2009 eftir því að félagið yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Í október 2009 óskuðu eigendur Heiðarsólar ehf., sem áður hét Saxhóll ehf., eftir að félagið yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Eignir félagsins rýrnuðu verulega við bankahrunið og rekstrarskilyrði reyndust félaginu erfið.
8.12.3.16 Samherji hf. og tengd félög
Áhættuskuldbindingar október 2008: 75,2 milljarðar króna.
Félagið er alhliða sjávarútvegsfyrirtæki og í hópi stærstu fyrirtækja landsins í þeim geira. Félagið er með starfsemi bæði á Íslandi og erlendis. Samstæðan gerir út tuttugu og sjö skip og rekur landvinnslu á Akureyri, í Dalvíkurbyggð, í Grindavík, í Grimsby og í Cuxhaven. Samherji var stofnaður 1972 en grunnurinn að starfsemi félagsins í dag var lagður 1983 með kaupum á Guðsteini GK. Guðsteini var breytt í frystiskip sem síðar fékk nafnið Akureyrin EA. Meðal félaga sem eru tengd Samherja má nefna Síldarvinnsluna. Helstu eigendur Síldarvinnslunnar eru Gjögur hf., Samherji og Snæfugl ehf., sem er ríflega 61% í eigu Samherja. Forstjóri Samherja er jafnframt stjórnarformaður Síldarvinnslunnar.
Helstu eigendur Samherja voru Kristján V. Vilhelmsson og Þorsteinn Már Baldvinsson en eignarhlutur þeirra í félaginu var um 64%.
Stjórnarformaður var Eiríkur S. Jóhannsson og framkvæmdastjóri var Þorsteinn Már Baldvinsson. Þorsteinn Már var stjórnarformaður Glitnis banka frá því í febrúar 2008.
Á tímabilinu 1. janúar 2007 til 30. september 2008 hækkuðu skuldir Samherja og tengdra félaga um 41,2 milljarða króna. Í evrum hækkuðu skuldir um 157,3 milljónir eða 44%:
Nýjar lánveitingar samkvæmt ákvörðun lánanefnda voru 22,5 milljarðar króna. Andvirði þessara lána var ráðstafað til rekstrar (7,0 ma.kr.), til verðbréfakaupa (0,3 ma.kr.) og til annars (15,2 ma.kr.). Aukning heildarskuldbindinga nam 41,2 milljörðum króna og samanstendur hún af nýjum lánveitingum, framlengingum og gengisbreytingum.
Til tryggingar nýjum lánveitingum voru tekin veð, aðallega í skipum, samtals 22,3 milljarðar króna. Þannig námu lán án sérgreindra trygginga alls 0,2 milljörðum króna.
Mesta aukning á skuldastöðu Samherja var við Glitni, en framkvæmdastjóri og einn aðaleigandi Samherja, Þorsteinn Már Baldvinsson var stjórnarformaður bankans á þessu tímabili.Andvirði lánanna frá Glitni og einnig Landsbanka,að hluta til,var ráðstafað til fjárfestinga í útgerðarfélögum hérlendis og erlendis. Stærsta einstaka fyrirgreiðslan var vegna kaupa Samherja á erlendri starfsemi Sjólaskipa og tengdra félaga, sem gerðu út sex verksmiðjuskip og tvö þjónustuskip í lögsögu Máritaníu og Marokkó. Einnig keypti Síldarvinnslan hf. Súluna EA-300. Auk þess sem fjárfest var í frystigeymslu og endurbótum á skipum.
Samherji fær brúarlán hjá Glitni í júlí 2007 vegna kaupanna á Sjólaskipum en því láni er breytt í langtímalán í nóvember sama ár. Meðfylgjandi er afgreiðsla lánanefndar á brúarláninu frá 4. júlí 2007:
"Samherji og Sjólaskip hafa gert samkomulag um að Samherji hf. kaupi erlenda starfsemi Sjólaskipa hf. og tengdra félaga. Samherji hf. hefur óskað eftir brúarláni að fjárhæð allt að 140 m.EUR (11.700 m.kr.) til allt að 3 mán. til kaupanna. Heildarvirði Sjólaskipa er 190 m. EUR og hefur Samherji þegar lagt fram 50 m.EUR sem eigin fjárframlag.
Sjólaskip hefur gert út 6 verksmiðjuskip og tvö þjónustuskip í lögsögu Máritaníu og Marokkós s.l. 10 ár. Sjólaskip eru með höfuðstöðvar á Íslandi, en bækistöðvar á Kanaríeyjum.Við reksturinn starfa ríflega eittþúsund manns, þ. á m. 80 Íslendingar.
Lagt er til að erindið verði samþykkt og Samherja verði veitt brúarlán að fjárhæð allt að 140 m.EUR til 3 mánaða, kjör: LIBOR + 1,20%. Ekki greidd þóknun af brúarláni ef lánið verður endurfjármagnað til lengri tíma hjá Glitni. Handveð í hlutabréfum í Kötlu Seafood ehf. sem er eignarhaldsfélag Samherja um fjárfestinguna. Bann við veðsetningu og skuldsetningu Kötlu Seafood."
Samherji stofnar ásamt Glitni fjárfestingarfélagið Marine Capital í þeim tilgangi að fjárfesta í fyrirtækjum tengdum sjávarútvegi. Félagið fær fyrirgreiðslu frá Glitni, sem samþykkt er á lánanefndarfundi 7. nóvember 2007:
"Samherji og Glitnir hyggjast stofna fjárfestingarfélagið Marine Capital, sem mun fjárfesta í hlutabréfum í sjávarútvegsfyrirtækjum og fyrirtækjum sem þjónusta sjávarútveginn. Samsetning sjóðsins verður til að byrja með þessi;
Eignir Marine Capital verða 32,0% hlutur í Kötlu I, sem er nú að fullu í eigu Samherja, og 6,24% hlutur í Rem Offshore, fyrirtæki, sem skráð er í norsku kauphöllinni. Að auki munu Glitnir og Samherji leggja félaginu til fé og afrakstur af lántöku rennur einnig inn í félagið.
2. nóv. 2007 keypti Samherji 6,24% hlut í Rem Offshore og hefur gert hluthafasamkomulag um að eignast 25% hlutafjárins. Ætlunin er, að þessi hlutabréf renni inn í Marine Capital.
Óskað er samþykktar á láni, EUR 65 m, til fjárfestingarfélags í eigu Glitnis (40%) og Samherja (60%). Eigið fé félagsins verður EUR 50 m og heildarvirði eigna EUR 115 m."
Samherji fjárfesti einnig í öðru en sjávarútvegsfyrirtækjum. Eitt dótturfélaga Samherja, Kaldbakur, átti á árinu 2008 34% hlut í Styrk Invest hf. en það félag keypti allan hlut Baugs Group hf. í FL Group hf. Þá átti Kaldbakur einnig 0,8% hlut í Kaupþingi á árinu 2007. Í fundargerð áhættunefndar Glitnis frá 12. nóvember 2007 kemur fram að Samherji eigi hlut í félagi sem ætlað var að fjárfesta í hlutabréfum í Glitni og FL Group. Félagið hét FS37, síðar Stím. Svo virðist þó sem þetta hafi ekki gengið eftir hvað Samherja varðar, heldur verður Glitnir stór eigandi í stað hans:
"Nýtt eignarhaldsfélag, FS37 ehf., í eigu Samherja 45%, Saga Capital 25%, Jakobs Flosasonar 20% og Ólafs Jóhanns Ólafssonar 10%, er að vinna að kaupum á hlutabréfum í Glitni og FL Group, 4,9% í hvoru félagi. Félagið heitir í upphafi FS37 ehf. en nafni félagsins verður breytt fljótlega. Félagið hefur óskað eftir allt að 80% fjármögnun á kaupunum, en líklegast að það verði einungis tæp 78%. 20% - 22% kæmu í eigin fé annars vegar og hins vegar í víkjandi lánum frá Fons, BYR, Saga Capital og jafnvel Icebank.
Óskað er eftir heimild til að lána FS37 ehf. allt að 80% af kaupverði 4,9% hlutar í Glitni og 4,9% hlutar í FL Group, lánsfjárhæð allt að 24 milljörðum.Til tryggingar láninu verði sett að veði hin keyptu bréf í FL Group, allt hlutafé í FS37 ehf. auk sölu- og veðsetningarbanns á öðrum eignum félagsins. Inni í samþykktum félagsins verður ákvæði um að stjórn félagsins, eða öðrum þeim sem heimild hafa til að binda félagið, sé óheimilt að samþykkja hvers konar fjárfestingar eða skuldsetningu án þess að hafa áður aflað skriflegs samþykkis lánveitenda félagsins á hverjum tíma EÐA önnur ákvæði sem tryggja sömu niðurstöðu."
Athygli vekur að handveð virðist vera tekið í FL Group-bréfunum en ekki í Glitnisbréfunum. Þess í stað er tekið veð í hlutafé FS37 ehf. auk sölu- og veðsetningarbanns á þar með talið Glitnisbréfunum. Ekki hafa orðið breytingar á eignarhaldi eða rekstri Samherja og tengdra félaga svo vitað sé.
8.12.3.17 Magnús Kristinsson og tengd félög
Áhættuskuldbindingar október 2008: 71,2 milljarðar króna.
Magnús Kristinsson og tengd félög hafa verið umsvifamikil, m.a. á sviði sjávarútvegs, fjármálastarfsemi, hlutabréfaviðskipta, fasteignareksturs, bílasölu og bílaleigu. Meðal félaga innan þessarar samstæðu voru Smáey ehf., Bergur-Huginn ehf., Toyota á Íslandi hf., Bergey fasteignafélag ehf., Bílaleiga Flugleiða ehf. og M. Kristinsson ehf.
Aðaleigandi og stjórnandi þessara félaga var Magnús Kristinsson, útgerðarmaður í Vestmannaeyjum. Á tímabilinu janúar 2007 til október 2008 hækkuðu skuldbindingar samstæðunnar um 56,0 milljarða króna. Í evrum hækkuðu skuldbindingar um 328,6 milljónir eða 205%:
Nýjar lánveitingar samkvæmt ákvörðun lánanefnda námu 52,5 milljörðum króna á tímabilinu. Andvirði þessara lána var ráðstafað til rekstrar (32,7 ma.kr.), til verðbréfakaupa (17,9 ma.kr.) og til annars (1,9 ma.kr.). Endurfjármögnun eldri lána á tímabilinu nam 4,7 milljörðum króna eða sem svarar til 31% af skuldastöðu í upphafi tímabilsins.
Til tryggingar nýjum lánveitingum voru tekin veð í hlutabréfum að fjárhæð 20,4 milljarðar króna og önnur veð samtals 5,1 milljarður króna. Lán án sérgreindra trygginga námu alls 27,0 milljörðum króna.
Mesta skuldaaukning samstæðunnar er við Landsbanka, samtals 48,3 milljarðar króna. Stærsti hluti hennar eða 39,2 milljarðar króna er vegna lána sem veitt voru til Smáeyjar ehf., félags í eigu Magnúsar Kristinssonar og eiginkonu hans. Meginhluta þessara lána var ráðstafað til kaupa á hlutabréfum í Kaupþingi, Stoðum, Landsbankanum og fleiri félögum, auk kaupa á hlutum í félögum tengdum rekstri Toyota-umboðsins, m.a. í Danmörku. Lánið til kaupa á dönsku félögunum var veitt á milli funda og afgreitt í fundargerð frá 18. júlí 2007:
"Smáey ehf. – 2.240 mkr. (200 millj. DKK) kúlulán til 3 ára á Libor + 1,30% vegna kaupa á 3 dönskum félögum um rekstur á Toyota–umboði í Rödovre í Danmörku. Tryggingar verða hlutabréf í keyptum félögum/fasteignum auk núverandi trygginga (hlutabréf í Bergi-Huginn ehf.)"
Oft var fjallað um og veittar samþykktir fyrir lánum til Smáeyjar ehf. Þannig voru á tímabilinu frá maí til nóvember 2007 veittir samtals 11,2 milljarðar króna í reikningslán, kúlulán eða lánaramma vegna afleiðuviðskipta.
Auk þess voru veitt lán til Smáeyjar í janúar 2008 sem tengdust stöðu og vanskilum Fjárfestingafélagsins Gnúps við Landsbankann, en Smáey átti um 40% eignarhlut í því félagi. Gnúpur var í verulegum vandræðum vegna lækkunar hlutabréfaverðs og sölutregðu á mörkuðum. Í tilraun til að bjarga Gnúpi fékk Smáey fyrst lánaða 1,5 milljarða króna til að veita félaginu víkjandi lán og svo 8,0 milljarða króna til að kaupa eignir út úr félaginu, aðallega hlutabréf í Kaupþingi og Stoðum og lækka skuldsetningu þess, sbr. fundargerð lánanefndar:
"Smáey - alls 15.590 m.kr. fjármögnun (allt til greiðslu skuldbindinga í LÍ), þ.e. a.) 8.010 m.kr. kúlulán til eins árs á Libor + 2,5% vegna kaupa á hlutabréfum í Kaupþingi og FL Group af Gnúpi fjárfestingarfélagi (ráðstafast allt til lækkunar á lánum Gnúps í LÍ) og b.) 7.580 m.kr. kúlulán til 1 árs á Libor + 2,75% vegna uppgjörs á eftirstöðvum framvirks samnings í LÍ.Til tryggingar fyrra láninu verði handveð í hlutabréfum í LÍ, Bergi-Huginn,Toyota á Íslandi, Bergey eignarhaldsfélagi, Gnúpi fjárfestingarfélagi og KJ/KJ Ejendom, samtals að verðmæti ca. 25 ma.kr."
Smáey hafði einnig ásamt eigandanum, Magnúsi Kristinssyni, tekið stóra framvirka stöðu vegna kaupa á hlutabréfum í Landsbanka. Þegar tap myndaðist á þessum samningum var ákveðið að færa fjármögnun á því yfir í lán. Heildartap við uppgjör á afleiðusamningunum nam á tímabilinu desember 2007 til febrúar 2008 10.762 milljónum króna. Eitt dæmi er frá 2. júlí 2008 eins og sjá má á meðfylgjandi broti úr fundargerð lánanefndar Landsbanka:
"Smáey ehf. – 2.130 mkr. lán til 1 árs á Libor + 2,9% til að gera upp framvirkan samning um kaup á hlutabréfum í LÍ (nv.79.428.919 – mv.1.843 mkr. m.v. gengi 23,2).Til tryggingar verði 1. veðr. í hlutabréfunum."
8.12.3.18 Magnolia Finance VI
Áhættuskuldbindingar október 2008: 68,7 milljarðar króna.
Magnolia Finance var félag með takmarkaðri ábyrgð, skráð á Írlandi. Félagið fjárfesti í lánshæfistengdum lánum (CLL - Credit Linked Loan). New Bond Street Asset Management (NBSAM), dótturfélag Kaupþings, stýrði safni af ABS-eignum sem voru geymdar í sérstöku SPV (Special purpose vehicle) sem kallað var Café. Kaupþing var með óbeina lánalínu inn í Café-safnið í gegnum Dresdner Bank. Kaupþing og Credit Suisse International (CSI) tóku síðan upp viðræður um tilfærslu á þessum strúktúr þannig að CSI myndi yfirtaka réttindi og skyldur Kaupþings varðandi lánalínuna sem bankinn var með og á móti veitti Kaupþing 2 skuldatengd lán (CLL) til Magnolia VI, með vísun í tvö lánasöfn; 225 milljónir USD með tilvísun í lánasafn 1 (stærð 1.333 milljónir USD) og 425 milljónir USD með tilvísun í lánasafn 2 (stærð 1.319 milljónir USD). Þá afturkallaði Kaupþing línuna til Dresdner banka.
Undirliggjandi lánasöfn, 1 og 2, samanstóðu af ýmsum CLO's (Collateralized loan obligations) og CDO's (Collateralized debt obligations) auk CMBS (Commercial mortage-backed securities), bandarískum og evrópskum. Flestar undirliggjandi eignir voru með lánshæfismat frá Moody's, Aaa – A2, e. Áhætta Kaupþings fólst fyrst og fremst í því að tap yrði á einhverjum undirliggjandi eigna safnsins og þannig myndi bankinn tapa hluta af láni sínu til Magnolia Finance.
Á tímabilinu janúar 2007 til október 2008 kom til nýrra skuldbindingarMagnolia Finance og tengdra félaga að fjárhæð 68,7 milljarðar króna. Nýjar skuldbindingar í evrum voru 472,5 milljónir:
Samkvæmt fundargerð lánanefndar stjórnar Kaupþings voru samþykkt ný lán að fjárhæð 650 milljónir USD eða 39,8 milljarðar króna. Mismunurinn á heildaraukningunni, 68,7 milljörðum króna, og þeim 39,8 milljörðum króna sem samþykktir voru, skýrist því af gengismun. Ekki var um neina endurfjármögnun eldri lána að ræða á tímabilinu.Til tryggingar nýjum lánveitingum voru tekin önnur veð, samtals 39,7 milljarðar króna.
Úr fundargerð lánanefndar Kaupþings frá 13. desember 2007:
"Magnolia – Leitað er samþykkis fyrir tveimur skuldatengdum lánum (Credit Linked Loans) og lækkun á lánalínu til Dresdner Bank.
a.) Að veita Magnolia VI 2007-2 skuldatengt lán (Credit Linked Loan) að fjárhæð USD 425 m. Af lánsupphæðinni mun Magnolia VI 2007-2 leggja inn á reikning í Kaupþingi banka USD 158 m.
b.) Að veita Magnolia VI 2007-3 skuldatengt-lán að fjárhæð USD 225 m. Af lánsupphæðinni mun Magnolia VI 2007-3 leggja inn á reikning í Kaupþingi banka USD 84 m. Lánanefndin samþykkti erindið."
Ekki er vitað um breytingar á rekstri né skipulagi Magnolia Finance, en samkvæmt upplýsingum í janúar 2010 vinnur skilanefnd að því að rekja eignir og stöðu mála.
8.12.3.19 Norvik (BYKO) og tengd félög
Áhættuskuldbindingar október 2008: 64,7 milljarðar króna.
Rætur Norvik hf. ná aftur til ársins 1962 með stofnun byggingarvöruverslunarinnar BYKO. Nú er BYKO hluti af eignarhaldsfélaginu Norvik hf. BYKO er stærst á sínu sviði á Íslandi og rekur átta byggingarvöruverslanir hér á landi auk timburafgreiðslna. Undir rekstur BYKO heyra einnig tvær rafmagnsvöru- og heimilistækjaverslanir ELKO og húsgagnaverslanir undir nafni Húsgagnahallarinnar, ásamt sportvöruverslunum Intersport. Norvik hf. á auk þess Kaupás hf. sem rekur 39 matvöruverslanir með þremur fyrirtækjanöfnum, Nóatún, 11-11 og Krónuna. Einnig rekur samstæðan og á nokkur fyrirtæki erlendis sem tengjast timburiðnaði, m.a. í Lettlandi, Rússlandi og Bretlandi. Á árinu 2007 keypti samstæðan stærstu sögunarmyllu í Lettlandi og varð með því fimmti stærsti framleiðandi í timburiðnaði þar í landi. Einnig er samstæðan eignaraðili að JCV Norvik Banka í Lettlandi. Félagið Smáragarður ehf. sér um byggingarframkvæmdir og rekstur á fasteignum, sem samstæðan notar við starfsemi sína, en fjárfestingar í verðbréfum hafa verið í nafni Straumborgar ehf.
Helstu eigendur eru Jón Helgi Guðmundsson og Straumborg ehf., sem er í meirihlutaeign Jóns Helga og fjölskyldu hans.
Stjórnarformaður Norvik hf. er Jón Helgi Guðmundsson og framkvæmdastjóri Brynja Halldórsdóttir. Framkvæmdastjóri BYKO er Sigurður E. Ragnarsson.
Á tímabilinu janúar 2007 til október 2008 hækkuðu skuldir Norvik og tengdra félaga um 40,2 milljarða króna. Í evrum hækkuðu skuldbindingar um 185,1 milljón eða 71%:
Nýjar lánveitingar samkvæmt ákvörðun lánanefnda námu 71,9 milljörðum króna á tímabilinu. Andvirði þessara lána var ráðstafað til rekstrar (37,5 ma.kr.), til verðbréfakaupa (2,0 ma.kr.) og til annars (32,4 ma.kr.). Endurfjármögnun eldri lána á tímabilinu nam 26,7 milljörðum króna eða sem svarar til 109% af skuldastöðu í upphafi tímabilsins.
Til tryggingar nýjum lánveitingum voru tekin veð í hlutabréfum að fjárhæð 13,0 milljarðar króna og önnur veð samtals 35,3 milljarðar króna. Þannig námu lán án sérgreindra trygginga alls 23,6 milljörðum króna.
Mesta skuldaaukning samstæðunnar á tímabilinu var við Kaupþing, en eigendur Norvik/BYKO voru stórir hluthafar í Kaupþingi. Framkvæmdastjóri Norvik, Brynja Halldórsdóttir, var í stjórn Kaupþings á árunum 2007 og 2008.
Lánin voru m.a. veitt til að fjármagna byggingaframkvæmdir gegn tryggingum í þeim, veltufjármunum og kaupleigufjármunum, sbr. fundargerð lánanefndar:
"18/5 2007 var samþykkt að veita félaginu Smáragarður ehf. 9,2 ma.kr. lán til 25 ára og 10 ma.kr. til 2-3 ára. Lánin eru til endurfjármögnunar á núverandi eignum, 9,2 ma.kr., og 10 ma.kr. vegna fjármögnunar á byggingarkostnaði (90%).Tryggingar eru 1. veðréttur í öllum veltufjármunum og pledge (tryggingu) vegna kaupleigufjármuna vegna 9,2 ma.kr. lánsins og 1. veðréttur í viðkomandi byggingarframkvæmdum vegna 10 ma.kr. láns."
Einnig voru veitt lán til fjárfestinga í hlutabréfum, m.a. 2ja milljarða króna lán í lok árs 2007 til kaupa á hlutabréfum í Kaupþingi.
Þá var nokkuð um framlengingar lána og skammtímalán á tímabilinu auk viðbótarlána til að styrkja lausafjárstöðu félaga innan samstæðunnar, en á árunum 2007 og 2008 námu slík lán samtals 10,7 milljörðum króna.
Glitnir veitti eigendum samstæðunnar lán, m.a. til kaupa á fyrirtækjum erlendis, JSC Norvik Banka í Lettlandi og Jarl Træ AB, sögunarmyllu í Svíþjóð. Heildarlánin námu um 3,5 milljörðum króna á árunum 2007 og 2008.
8.12.3.20 Sund og tengd félög
Áhættuskuldbindingar október 2008: 63,8 milljarðar króna.
Fjárfestingarfélagið Sund var umsvifamikið í fjárfestingum á síðustu árum, einkum innanlands. Sund átti m.a. bílaumboðin Ingvar Helgason ehf. og Bifreiðar og landbúnaðarvélar. Fjárfestingar í fjármálafyrirtækjum voru áberandi, félagið átti m.a. um 12% hlut í VBS Fjárfestingabanka, 2% í Glitni, 1% í Landsbanka og um 0,6% í Kaupþingi við fall þeirra. Þá átti Ice Capital stóra hluti í Eimskip og Icelandic Group í gegnum fjárfestingarfélagið Gretti og keypti ráðandi hlut í Tryggingamiðstöðinni ásamt FL Group vorið 2007 en seldi hlut sinn til FL Group í september sama ár.Viðskiptasambönd Sunds voru fjölbreytt og má meðal annars finna dæmi um fjárfestingar sem tengjast Björgólfsfeðgum, Ólafi Ólafssyni og Jóni Ásgeiri Jóhannessyni.
Hluthafar Sunds ehf. voru þrír: Gunnþórunn Jónsdóttir (33,3%), Gabríela Kristjánsdóttir (33,3%) og Jón Kristjánsson (33,3%). Jón stýrði félaginu ásamt mági sínum, Páli Þ. Magnússyni.
Á tímabilinu 1. janúar 2007 til 30. september 2008 hækkuðu skuldir Sunds og tengdra félaga um 44,7 milljarða króna. Í evrum talið hækkuðu skuldbindingar félaganna um 236,5 milljónir eða 117%:
Á tímabilinu 1/1 2007 til 30/9 2008 námu nýjar lánveitingar samkvæmt ákvörðun lánanefnda 43,3 milljörðum króna. Andvirði þessara lána var ráðstafað til rekstrar (21,1 ma.kr.), til verðbréfakaupa (21,5 ma.kr.) og til annars (0,7 ma.kr.).
Til tryggingar nýjum lánveitingum voru tekin veð í hlutabréfum að fjárhæð 28,2 milljarðar króna, önnur veð námu samtals 14,9 milljörðum króna. Lán án sérgreindra trygginga námu alls 0,2 milljörðum króna.
Eins og fram kemur í töflunni hér að ofan átti Sund og tengd félög í viðskiptum við alla stóru viðskiptabankana. Umsvifin voru þó mest í Landsbankanum en mesta aukningin á tímabilinu er í Glitni. Jafnframt því að vera einn stærsti viðskiptavinur bankanna var Sund hluthafi í þeim öllum.
Það er athyglisvert að samfara því að félagið eykur verulega við eignarhlut sinn í Glitni, eða í 2%, fær það allt að 20 milljarða króna fyrirgreiðslu frá bankanum. Sund átti Ingvar Helgason ehf. og B&L og var framkvæmdastjóri þeirra Kristinn Þór Geirsson. Kristinn sat í stjórn Glitnis og var síðan á vormánuðum 2008 ráðinn inn í stjórnendateymi hans.Tók þá varamaður hans, Haukur Guðjónsson, við stjórnarsetunni en Haukur var aðstoðarforstjóri bílaumboðanna.
Hlutur Sunds í Glitni var að hluta til fjármagnaður af Kaupþingi en meðfylgjandi er ákvörðun lánanefndar stjórnar Kaupþings frá 5. apríl 2007 um lán vegna hlutabréfakaupa sem var hluti af Project Tornado:
"Sund ehf. eða dótturfélag Sunds ehf. mun eignast u.þ.b. 595m hluti eða 4% af öllu hlutafé í Glitni.Taflan hér fyrir neðan sýnir helstu stærðir.
Að auki mun Sund ehf. skuldbinda sig til að leggja fram 1.684 m í reiðufé ef farið er fram yfir veðkallsmörk. Heildarskuld
Sunds í Kaupþingi er nú ISK 6 ma. auk vaxta (innan við ISK 6,5 ma. alls).
Kaupþing á í viðræðum við Sund ehf. um að auka þessa skuld nokkuð og útvega lánalínu að fjárhæð allt að ISK 6 ma. Sú lánalína verður þó ótengd Project Tornado, verður beint við Sund og með veð í hlutabréfasafni, ótengdum áðurnefndum hlutabréfum í Glitni."
Eftirfarandi eru útdrættir úr fundargerð lánanefndar Landsbankans frá 16. apríl 2008 þar sem bókaðar eru ákvarðanir teknar á milli funda er varða fjármögnun á Glitnis-bréfum:
"Sund; 5,6 ma.kr. kúla til 5 ára.Til að kaupa hluta hlutabréfa sem Sund Holding er með í framvirkum samningi á verðbréfasviði.Tryggingar; hlutabréf. Sund Holding; 4 ma.kr. kúla til að gera upp tap á framvirkum samningi um kaup á hlutabréfum í Glitni.Tryggingar; sjálfskuldarábyrgð Sunds ehf.
Sund Holding; 700 mkr. afleiðurammi til 6/10 vegna CFD á Glitni banka að nv.100 mkr. á genginu 15.Tryggingar; sjálfskuldarábyrgð Sunds." Sund tók gjarnan virkan þátt í fjárfestingum með öðrum eins og meðfylgjandi dæmi úr fundargerð áhættunefndar Glitnis frá 30. janúar 2008 sýnir. Svo virðist sem Sund hafi tekið á sig tímabundið og áhættulaust hlut í Northern Travel Holding fyrir Fons:
"Sund keypti á árinu 2007 um 22% hlut í NTH (Northern Travel Holding) móðurfélagi Sterling, Iceland Express, Astreus o.fl. félaga í ferðaþjónustu. Glitnir fjármagnaði kaupin með 2,8 milljarða láni með gjalddaga í desember. Engar tryggingar voru fyrir láninu aðrar en hinn keypti hlutur. Áhættunefnd var hinsvegar kunnugt um sölurétt Sunds og kaupskyldu Baugs á eignarhlutnum. Í lok desember gerist það hinsvegar að Fons lýsir því yfir að hann muni kaupa eignarhlut Sunds í NTH í janúar og óskar eftir að fá að yfirtaka ofangreint lán Sunds og leggja eignarhlutinn að veði fyrir láninu.
Áður en það gerist (og fyrir áramót) að Fons kaupir bréfin þurfti NTH að leysa til sín hlutinn ásamt láni Sunds hjá bankanum. Það var gert með því að NTH keypti eigin bréf af Sund og haldi á fram í lok janúar þegar Fons kaupir bréfin sbr. hér að ofan. NTH má halda á svona stórum hlut í sjálfum sér ef það liggur fyrir að Fons muni kaupa þau í janúar. Fyrir á Fons 44% í félaginu og FL Group með 34%.
Í janúar hafa komið fram nýir kaupendur að eignarhlutnum í félaginu. Um er að ræða nýstofnað eignarhaldsfélag í eigu Þorsteins Arnar Guðmundssonar forstjóra NTH (50%) og Einars Þórs Sverrissonar (50%). Félagið verður stofnað með lágmarkshlutafé. Óskað hefur verið eftir því að fá 100% fjármögnun á kaupin á eignarhlutnum í NTH. Til tryggingar verði hinn keypti hlutur auk söluréttar á Fons hf.
- Óskað er eftir samþykki á kúluláni til Newco- ISK 2,9 milljarðar
- 2ja ára kúla
- Álag 3,0%
- Lántökugjald 1%
- Tryggingar
- Eignarhluturinn í NTH - 22%
- Söluréttur á Fons
- Óskað er eftir viðskiptamörkum fyrir láninu
Niðurstaða: Samþykkt. Sjálfskuldarábyrgð Fons í stað söluréttar er skilyrði.Verðlagning endurspegli áhættu."
8.12.3.21 Kevin G. Stanford og tengd félög
Áhættuskuldbindingar október 2008: 63,4 milljarðar króna.
Kevin G. Stanford er umfangsmikill fjárfestir og þrjú fyrirtæki í hans einkaeign voru í viðskiptum við Kaupthing Luxembourg S.A. Auk þess stofnaði hann félagið Trenvis til að fjárfesta í félaginu Chesterfield sem aftur fjárfesti í lánshæfistengdum bréfum tengdum Kaupþingi sem gefin voru út af Deutsche Bank. Kevin G. Stanford var annar stærsti lántakandi Kaupþings í Lúxemborg.
Á tímabilinu janúar 2007 til október 2008 hækkuðu skuldir Kevin G. Stanford og tengdra félaga um 30,2 milljarða króna. Í evrum hækkuðu skuldbindingar um 84,4 milljónir eða 24%:
Nýjar lánveitingar samkvæmt ákvörðun lánanefnda námu 45,0 milljörðum króna.Andvirði þessara lána var ráðstafað til verðbréfakaupa (5,8 ma.kr.) og til annars (39,2 ma.kr.). Endurfjármögnun eldri lána á tímabilinu nam 31,3 milljörðum króna eða sem svarar til 94% af skuldastöðu í upphafi tímabilsins.
Til tryggingar nýjum lánveitingum voru tekin veð í hlutabréfum að fjárhæð 5,9 milljarðar króna. Þannig námu lán án sérgreindra trygginga alls 39,2 milljörðum króna.
Lán var veitt til Kevin Gerald Stanford að fjárhæð 12,9 milljarðar króna án þess að tilgangs með því væri getið né trygginga. Eina gagnið varðandi lánið er tölvubréf starfsmanns fyrirtækjasviðs Kaupþings til starfsmanns í fjárstýringu bankans, dags. 18. ágúst 2008, sem biður um að honum sé veitt þetta lán í tvær vikur og andvirðið greitt inn á ISK reikning hjá Kaupthing Luxembourg S.A. Lán var einnig veitt til Trenvis LTD., sem var í eigu Kevin Stanford og Karen Millen, að fjárhæð 6,3 milljarðar króna til að fjármagna eiginfjárframlag Trenvis LTD. í Chesterfield Capital Ltd., en það félag fjárfesti í lánshæfistengdum bréfum útgefnum af Deutsche Bank (DB) og tengd Kaupþingi banka.
Með láni til Trenvis LTD.,auk annarra félaga sem bankinn lánaði í sama tilgangi,var Kaupþing að reyna að hafa áhrif á skuldatryggingarálag bankans á þeim tíma með tiltölulega flóknum viðskiptum í samvinnu við Deutsche Bank og nokkra af helstu viðskiptavinum sínum, Kevin G. Stanford og Karen Millen í þessu tilviki. Bókun í fundargerð lánanefndar Kaupþings vegna þessara viðskipta 24. september 2008 er eftirfarandi:
"Kevin Stanford/Trenvis Limited – Heildarskuldin er nú 34 ma.kr., tryggð með ýmsum eignum í vörslu Kaupþings í Luxemborg, í kjölfar fyrirhugaðs flutnings á skuld Kevin Stanfords yfir til Kaupþings hf., en hún mun fara í ISK 40 ma.kr. ef beiðnin er samþykkt.Trenvis Limited er á undanþágulista hvað varðar áhættumat."
Chesterfield er félag með sérstakan tilgang og eini tilgangur þess er að fjárfesta í skuldatengdum bréfum útgefnum af Deutsche Bank (DB) og tengdum Kaupþingi banka.
Fjórir fjárfestar standa að Chesterfield (sjá skýringarmynd í kafla 8.12.3.12).
Lánshæfistengda bréfið er með gjalddaga 20. september 2013. Nafnverð bréfsins er 125 milljónir evra og nafnverð undirliggjandi skuldatryggingar er 250 milljónir evra. Vextir eru 3 milljónir EURIBOR + 1122.4 punktar. Kostnaður er 5 milljónir evra. Í áðurgreindri fundargerð lánanefndar Kaupþings frá 24. september 2008 kemur einnig fram:
"Trenvis Limited er eitt af þremur eignarhaldsfélögum, sem standa að Chesterfield. Félagið fer fram á lán, EUR 41,6m, sem er eiginfjárframlag þess í þessum viðskiptum. Kevin Stanford og Karen Millen fara með ráðandi hlut í Trenvis Limited. Heildarskuld Kevin Stanfords og tengdra aðila er 62,7 ma.kr.
Beiðnin:
Lánsfjárupphæð: EUR 41,6m
Lánstími: 5 ár (gjalddagi 20.09.2013)
Álag: 1,5%, ársfjórðungslegar afborganir
Lántökugjald: 1,45%
Tryggingar:Veð í hlutafé Trenvis Limited og hlutbréf sem Trenvis Limited á í Chesterfield.
Lánanefnd samþykkti beiðnina."
Í lok september 2008 gerði Deutsche Bank veðkall og samþykkti lánanefnd Kaupþings á fundi sínum 2. október 2008 frekari lánveitingu til Chesterfield til að mæta því veðkalli:
"Chesterfield United Inc. – Lánanefnd samþykkti að hækka lánið, sem lánanefnd stjórnar samþykkti á fundi í síðustu viku, um EUR 125m vegna veðkalla frá Deutsche Bank."
Kevin Stanford átti um 25% hlut í Unity Investments en Baugur átti um 37,5% hlut í því félagi. Hann átti um 65% í tískuverslanakeðjunni All Saints en Kaupþing var með hlut hans að veði fyrir persónulegu láni. Á vormánuðum 2009 voru uppi áform um að auka við hlutafé í All Saints en Kaupþing var á móti því, það hefði rýrt veðstöðu bankans.
Kevin Stanford átti Materia Invest ehf. ásamt Magnúsi Ármann og Þorsteini M. Jónssyni. Félagið var einn stærsti hluthafinn í Stoðum hf. með rúm 10% samkvæmt ársreikningi félagsins 2007.
8.12.3.22 Stytta ehf.
Áhættuskuldbindingar október 2008: 60 milljarðar króna.
Stytta ehf. var stofnað til að halda utan um kaup félagsins á 22,5% hlut í Iceland Foods Group Ltd. af Fons hf. í júlí 2008.
Eigendur Styttu ehf. voru Stoðir hf. (áður FL Group hf.) með 36,4% eignarhlut og þrír helstu stjórnendur Iceland Foods Group Ltd. með samtals 63,6% hlut, Malcolm Walker, Andrew Pritchard og Tarsem Dhaliwal.
Stjórnarformaður og prókúruhafi félagsins var Bernhard Nils Bogason.
Á tímabilinu 1. janúar 2007 til 30. september 2008 hækkuðu skuldir Styttu ehf. um 60,0 milljarða króna. Í evrum hækkuðu skuldbindingar félagsins um 412,3 milljónir:
Nýjar lánveitingar samkvæmt ákvörðun lánanefnda námu 55,7 milljörðum króna á tímabilinu. Andvirðinu var ráðstafað til kaupa á verðbréfum.
Til tryggingar láninu voru hlutir Styttu ehf. og Stoða hf. í Iceland Foods Group Ltd., samtals 29,7% að verðmæti 66 milljarðar króna, og hlutir Stoða hf. í Landic Property hf., verðmæti 5,7 milljarðar króna. Heildarverðmæti trygginga þegar lánið var greitt út var metið á um 71,7 milljarða króna.
Undanfari lánveitingar Landsbankans og Glitnis til Styttu ehf. er samningur sem Stoðir hf., Fons hf. og Stytta ehf. gerðu í júlí 2008. Í samningnum er ákveðið að Fons hf. selji annars vegar Stoðum hf. 7,2% hlut í Iceland Foods Group Ltd. og 7,5% hlut í Landic Property hf. og hins vegar Styttu 22,5% hlut í Iceland Foods Group Ltd. Meðfylgjandi er hluti af lánasamningi á milli framangreindra aðila, dagsettur 18. júlí 2008:
"1. gr. Hið selda Stoðir lofa að kaupa og Fons að selja eftirtaldar eignir:
66.794 A1 hluti sem Fons á í Iceland Foods Group Limited. Eignarhluturinn jafngildir 7,2% af heildarhlutafé félagsins. Kaupverð er kr. 16.000.000.000,- sextán milljarðar ISK. 405.717.327 hlutir Fons í Landic Property hf., kt. 450599-3529.
Eignarhluturinn jafngildir 7,52% af heildarhlutafé félagsins. Kaupverð er kr. 5.680.000.000- fimm milljarðar sexhundruð og áttatíu milljónir ISK. Stytta lofar að kaupa og Fons að selja eftirtaldar eignir:
208.731 A1 hluti sem Fons á í Iceland Foods Group Limited. Eignarhluturinn jafngildir 22,5% af heildarhlutafé félagsins. Kaupverð er kr. 50.000.000.000,- fimmtíu milljarðar ISK.
2. gr. Greiðsla kaupverðs
Stoðir skulu greiða kaupverð skv. 1. gr. með eftirfarandi hætti:
2.1 Með afhendingu til Fons á neðangreindum verðmætum, hlutafé, hluthafalánum og kröfum á hendur Northern Travel Holding hf., kt. 690606-1860, Efstalandi 26, Reykjavík og Sterling Airlines A/S, skr.nr. 18235404, Copenhagen Airport South, Dragoer að verðmæti kr. 16.000.000.000,- sextán milljarðar ISK. Nánar tilgreint er um að ræða eftirtalið:
2.1.1 Hlutafé í Northern Travel Holding hf. að nafnverði 4.000.000.000,
2.1.2 Krafa á Northern Travel Holding hf. samkvæmt hluthafaláni dagsett 26. desember 2006, upphaflega 14.000.000.000, ásamt áföllnum vöxtum.
2.1.3 Krafa á Northern Travel Holding hf. samkvæmt hluthafaláni, dagsett 11. mars 2008, upphaflega DKK 90.455.251 og EUR 4.259.651, ásamt áföllnum vöxtum.
2.1.4 Krafa á Sterling Airlines A/S samkvæmt víkjandi lánasamningi dagsettum 11. mars 2008, upphaflega DKK 50.000.000, ásamt áföllnum vöxtum.
2.1.5 Krafa á Northern Travel Holding hf. samkvæmt hluthafaláni, dagsett 26. júní 2008, upphaflega krónur 150.000.000 ásamt áföllnum vöxtum.
2.2 Með afhendingu skuldabréfa útgefnum af Stoðum
2.2.1 Að fjárhæð kr. 2.680.000.000 – tveir milljarðar sex hundruð og áttatíu milljónir ISK. Bréfið skal bera markaðsvexti í samræmi við lánskjör á markaði. Bréfið skal vera til fimm ára og skulu vextir höfuðstóls færðir árlega. Skuldabréfið skal sölutryggt hjá viðurkenndri fjármálastofnun eigi síðar en 1. apríl 2009.
2.2.2 Að fjárhæð kr. 3.000.000.000 – þrír milljarðar ISK. Bréfið skal bera markaðsvexti í samræmi við lánskjör á markaði. Bréfið skal vera til fimm ára og skulu vextir höfuðstóls færðir árlega. Skuldabréfið skal sölutryggt hjá viðurkenndri fjármálastofnun eigi síðar en 1. apríl 2009.
Stytta skal greiða kaupverð skv. 1. gr. með eftirfarandi hætti:
2.3 Með yfirtöku eða niðurgreiðslu á lánum Fons hjá Landsbanka Íslands hf., að fjárhæð kr. 45.000.000.000 – fjörutíu og fimm milljarðar ISK.
2.4 Greiðslu í reiðufé við uppgjör viðskipta, kr. 5.000.000.000 – fimm milljarðar ISK."
Síðar er gerður viðauki (ódagsettur) við framangreindan samning og samning sem Stoðir og Fons gera sín á milli vegna fjármögnunar Sterling A/S. Í viðaukanum kemur fram að samkvæmt samningnum, dagsettum 18. júlí 2008, eigi Stytta að yfirtaka skuldir Fons í Landsbankanum að verðmæti 45 milljarðar króna en við yfirtöku eru lánin komin í 48 milljarða króna og lækkar því reiðufjárgreiðsla Styttu til Fons úr 5 milljörðum króna í 2 milljarða króna.
Stofnun Styttu og skuldsetning kemur til að frumkvæði stjórnenda Stoða hf. Í fylgiskjölum með fundargerð lánanefndar Landsbankans, dagsettri 16. september 2008, kemur fram að Stoðir treysti sér ekki lengur til að styðja við rekstur Northern Travel Group en Fons sé aftur á móti til í það.
"Sterling sem er í eigu NTG hefur átt í miklum rekstrarerfiðleikum og sjá Stoðir ekki fram á að geta stutt reksturinn meira á næstunni. Eigendur Fons hafa hins vegar trú á rekstrinum og eru tilbúnir til að setja pening áfram inn í félagið og sjá til hvort þetta gangi ekki upp."
Framangreind viðskipti eru fjármögnuð með nýju láni að fjárhæð 50 milljarðar króna frá Landsbankanum og 5,7 milljarðar króna frá Glitni hf. Lánanefnd Landsbankans tók málið fyrir á fundi sínum 24. september 2008, sbr. eftirfarandi samþykkt:
"Lánamál afgreidd milli funda (JÞG)
Stytta ehf. (ÁM) – 50 ma.kr. PIK lán til 2ja ára á Reibor + 3,25%/Libor + 4,50% auk 0,25% lántökugjalds. Andvirði ráðstafast alfarið til uppgreiðslu á lánum Fons hf., Sikker ehf. (yfirtökufélag Securitas) og fleiri aðila í LÍ.Til tryggingar er 29,7% hlutur í Iceland Foods og hlutabréf að nv. 405.717.327 kr. í Landic Property hf. Verðmæti hlutabréfanna í Iceland í sölunni er um 40,5 millj. GBP (66 ma.kr.) og Landic á u.þ.b. 5,7 ma.kr. Alls verða því veð m.v. þetta um 71,7 ma.kr. á móti láni upp á 50 ma.kr. (70% veðhl.).Til að minnka "exposure" LÍ á Styttu og þar með áhættu á það félag er lagt upp með að LÍ selji frá sér 22,5 ma.kr. áhættu til Glitnis banka. Það yrðu þá ábyrgðir sem tækju yfir allan lánstímann, áfallna vexti og annan kostnað. Á móti tæki LÍ áhættu á 6 mótaðilum af Glitni (Katla Seafood 7 ma.kr., Exista 5,7 ma.kr., Milestone 5 ma.kr., Landic Property 3,2 ma.kr. og Fasteignafélagið Stoðir 1,8 ma.kr.)."
Þess má geta að aðeins 48 milljarðar króna komu til uppgreiðslu lána hjá Landsbanka Íslands, 2 milljarða króna fékk Fons til að "kaupa út Iceland Express [...] það eina sem hefur gerst vont í þessu er það að Iceland Express, það er keypt þarna síðan út og hluti af peningunum fer í það."
Lánanefnd Glitnis tekur málið fyrir á fundi sínum 17. september 2008, þar sem m.a. er samþykkt að lána Styttu ehf. 5,7 milljarða króna. Tryggingar fyrir láninu eru annar veðréttur í 29,7% hlut í Iceland Foods og í 7,5% hlut í Landic Property á eftir Landsbankanum, sbr. ofangreinda samþykkt. Andvirðinu var ráðstafað til að kaupa 7,5% hlut í Landic Property af Stoðum hf. Um er að ræða hluti sem Stoðir kaupa af Fons, sbr. samning sem félögin gerðu með sér 18. júlí 2008.
Samhliða lánveitingu upp á 5,7 milljarða króna til Styttu samþykkir Glitnir að taka ábyrgð á 22,5 milljörðum króna af láni Landsbankans til Styttu ehf. gegn því að Landsbankinn taki á sig ábyrgðir gagnvart Glitni, samtals að fjárhæð 27,7 milljarðar króna.
Í tengslum við framangreindar samþykktir Landsbankans og Glitnis er gengið frá ábyrgðaryfirlýsingum við fimm aðila af hálfu Glitnis, samtals fyrir 22 milljarða króna, þ.e. Katla Seafood 7 milljarða króna, Skipti hf. 5 milljarða króna, Milestone hf. 5 milljarða króna, Landic Property 3,2 milljarða króna og FS6 ehf. 1,8 milljarða króna. Miðað við heildarútlánalista Landsbankans hefur ekki verið gengið frá ábyrgðaryfirlýsingu vegna Exista upp á 5,7 milljarða króna eins og samþykktir lánanefnda bankanna gerðu ráð fyrir.
Samkvæmt upplýsingum frá Landsbankanum hefur verið gengið að tryggingum félagsins sem voru aðallega tæplega 30% hlutur í Iceland Foods Group.
8.12.3.23 Crosslet Vale
Áhættuskuldbindingar október 2008: 56,6 milljarðar króna. Crosslet Vale var fjárfestingarfélag í eigu bræðra; Mendi og Moises Gertner. Aðkoma þeirra inn í Kaupþing árið 2006 er í gegnum viðskiptafélaga þeirra, Robert Tchenguiz. Gertner-bræður voru umsvifamiklir í fasteignaviðskiptum í Bretlandi og síðar fjárfestu þeir í ýmsum verkefnum í Afríku, m.a. í olíulindum og koparnámum í Kongó. Einnig áttu þeir námuréttindi í Bólivíu og Chile. Þeir bræður keyptu stóran hlut (2,5%) í Kaupþingi banka sumarið 2008, fyrir 120 milljónir evra.
Á tímabilinu 1. janúar 2007 til 30. september 2008 hækkuðu skuldir Crosslet Vale og tengdra félaga um 42,4 milljarða króna. Í evrum hækkuðu skuldir um 239,1 milljón eða um 159%:
Á tímabilinu janúar 2007 til október 2008 námu nýjar lánveitingar samkvæmt ákvörðun lánanefnda 24,3 milljörðum króna. Andvirði þessara lána var ráðstafað til rekstrar (9,4 ma.kr.) og til verðbréfakaupa (14,9 ma.kr.). Hér eru fjárfestingar í olíulindum skilgreindar sem rekstur. Framlengingar námu alls 37 milljörðum króna.
Til tryggingar nýjum lánveitingum voru tekin veð í hlutabréfum í olíulindum, í lóð í Tékklandi auk sjálfskuldarábyrgðar.Alls námu veð í hlutabréfum 15,8 milljörðum króna og önnur veð námu samtals 8,5 milljörðum króna.
Kaupþing á Íslandi lánaði Gertner-bræðrum 100 milljónir punda á árinu 2006. Í ágúst árið 2007 var 30 milljónum punda bætt við þessa lánveitingu til að fjármagna byggingu járnbrautar. Umrætt lán, 130 milljónir punda, var síðan framlengt í tvígang á fyrri hluta ársins 2008, síðast í júní 2008 og þá til 6 mánaða (gjalddagi 5. desember 2008), og auknar tryggingar teknar. Stærstur hluti lánveitingarinnar var til að fjármagna fasteignir og námuréttindi.
"Crosslet Vale – Fyrirtækið er á undantekningarlista hvað varðar áhættumat. Heildarskuldir þess nú eru 42,8 ma.kr. Gertnerbræður, Moises og Mendi, hafa mjög góð sambönd í Kongó (Democratic Republic of the Congo-DRC) í gegnum vin þeirra og fjárfestingarfélaga, Dan Gertler, sem dvalist hefur í DRC árum saman. Hafa þeir Gertner-bræður á prjónunum umfangsmikla fjárfestingu í DRC, t.d. lagningu þúsunda km járnbrautar. Hefur Kaupþing átt í viðræðum við þá bræður um aðra fjárfestingarmöguleika í DRC, t.d. um báxíðvinnslu, súrálsvinnslu og álbræðslu ásamt því að byggja vatnsorkuver. Hefur Kaupþing kynnt hvort tveggja fyrir Landsvirkjun og iðnaðarráðuneytinu.
Farið er fram á, að Lánafyrirgreiðsla C verði aukin um 230 milljón USD þannig að hún færi úr 120 millj. í 350 millj. USD. Um yrði að ræða brúarlán í allt að 12 mánuði – hugsanlega samsett (millilagslán og breytiréttur í hlutafé) og þóknun yrði að vera rífleg. Lánanefndin samþykkti að skoða málið frekar þar sem meiri upplýsinga er þörf um tryggingar."
Í júní 2008 er samþykkt lán til handa Crosslet Vale vegna kaupa á hlutabréfum í Kaupþingi (2,5% hlutur). Lánið nam 120 milljónum evra eða um 14,9 milljörðum króna sem samsvaraði ca. 100% tryggingarþekju.Til tryggingar voru sjálfskuldarábyrgð, krossveð í öðrum tryggingum auk þess sem veðsetningarbann var sett á Kaupþingshlutina, bankinn tók þ.a.l. ekki beint veð í bréfunum. Málið var tekið fyrir á milli funda og afgreitt í tölvubréfi milli meðlima lánanefndar stjórnar. Meðfylgjandi er úr fundargerð lánanefndar stjórnar Kaupþings frá 24. september 2008 þar sem fram kemur að lánveitingin hafi verið samþykkt á milli funda:
Samþykkt milli funda 11.06.2008
"Beðið er um kúlulán, brúarlán að fjárhæð EUR 120 m í SEK.Tilgangur þess er að kaupa hlutabréf í Kaupþingi.Tryggingarþekja ca. 100%. Til tryggingar er veðsetningarbann á hlutabréfunum auk núgildandi veðs sem eru til tryggingar öðrum skuldbindingum Crosslet Vale."
Þá sækja Gertner-bræður um 60 milljóna dala lán þann 11.september 2008 vegna fjárfestingar í olíulindum í Angóla.Til tryggingar kæmi krossveð í öðrum tryggingum; lóð í Plzen í Tékklandi,hlutabréf í umræddum olíulindum,auk annarra óskráðra trygginga sem eru af hálfu lántaka metnar á yfir 1 milljarð dala.Að auki er bankinn með persónulegar ábyrgðir frá Gertner-bræðrum. Þetta lán er afgreitt á milli funda eins og fram kemur í neðangreindum útdrætti úr fundargerð lánanefndar frá 24. september:
Samþykkt milli funda 14.09.2008
"Óskað er eftir samþykki við því, að Lánafyrirgreiðsla C verði aukin um allt að 60 m USD.Tilgangurinn er að fjármagna kaup á olíuréttindum. Lánstími er 3 mánuðir."
8.12.3.24 Atorka Group
Áhættuskuldbindingar október 2008: 50,3 milljarðar króna.
Atorka var fjárfestingarfélag sem fjárfesti í skráðum og óskráðum fyrirtækjum. Meðal helstu eigna Atorku má nefna Promens hf., sem er meðal stærstu plastverksmiðja í heimi, Geysir Green Energy, gámafyrirtækið Inter Bulk Group og Clyde Process Solutions, sem var í framleiðslu á flutningskerfum.
Stærstu hluthafar Atorku voru Skessa ehf. með 10,9% eignarhlut, Harðbakur ehf. með 8,9%, Ránarborg hf. með 8,4%, Eagle Investments Holdings SA með 5,2% og Landsbankinn með 4,9%. Auk Landsbankans áttu LI-Hedge 4,8% og Landsbanki Luxembourg
S.A. 4,2% hlut í félaginu. Skessa, Harðbakur og Ránarborg eru allt félög sem tengjast forstjóra og stjórnarformanni félagsins. Stjórnarformaður Atorku Group var Þorsteinn Vilhelmsson og forstjóri var Magnús Jónsson. Á tímabilinu janúar 2007 til október 2008 hækkuðu skuldir Atorku og tengdra félaga um 25,3 milljarða króna. Í evrum hækkuðu skuldir Atorku um 81,6 milljónir eða 31%. Skuldbindingar Atorku og tengdra félaga greinast þannig eftir lánveitendum:
Á tímabilinu námu nýjar lánveitingar samkvæmt ákvörðun lánanefnda 16,7 milljörðum króna.Andvirði þessara lána var ráðstafað til rekstrar.
Til tryggingar nýjum lánveitingum voru tekin veð í hlutabréfum (7,4 ma.kr.), í reiðufé (1 ma.kr.) og önnur veð (samtals 4 ma.kr.). Lán án sérgreindra trygginga námu 4,3 milljörðum króna.
Lánveitingar Landsbanka til samstæðunnar á tímabilinu voru að stærstum hluta reikningslánalínur og afleiðurammar til handa Atorku Group. Eignarhaldsfélög þeirra Þorsteins Vilhelmssonar stjórnarformanns og Magnúsar Jónssonar forstjóra fengu samtals 7,5 milljarða króna að láni, þar af fóru 3,4 milljarðar króna til niðurgreiðslu á lánum í bankanum. Þessar lánveitingar eru allar skilgreindar í rekstur þar sem ekki var tiltekið í fundargerðum að um ákveðnar fjárfestingar væri að ræða.
Atorka og tengd félög voru einnig í viðskiptum við Glitni en umfangið var nokkru minna en í Landsbankanum.Atorka Group fékk 4 milljarða króna að láni frá Glitni síðla árs 2007 til að fjármagna ný fjárfestingarverkefni. Ekki voru teknar ákveðnar tryggingar fyrir láninu aðrar en fjárhagslegar kvaðir. Meðfylgjandi er útdráttur úr fundargerð lánanefndar Glitnis frá 9. nóvember 2007:
"Atorka hefur farið fram á 4 milljarða króna lán allt að 2 ár.Tilgangur lánsins er að fjármagna ný fjárfestingaverkefni auk þess að styðja við frekari vöxt núverandi fjárfestingaverkefna.Atorka er með veltilánasamning sem er með stöðu upp á kr. 1.290.000.000 sem verður greitt upp með nýja láninu." Atorka lagði fram beiðni um heimild til að leita nauðasamninga í október 2009 en fjárhagsstaða félagsins versnaði umtalsvert við hrun bankanna. Nauðasamningar voru samþykktir í desember og tóku kröfuhafar félagið yfir í kjölfarið.
8.12.3.25 REIM Plc.
Áhættuskuldbindingar október 2008: 45,3 milljarðar króna.
Invista REIM var stærsta skráða fasteignasjóðafélag Bretlands með starfsemi í London, París og á Guernsey. Félagið fjárfesti bæði í atvinnuhúsnæði og íbúðarhúsnæði í Bretlandi og annars staðar í Evrópu.
Á tímabilinu janúar 2007 til október 2008 hækkuðu skuldir REIM og tengdra félaga um 39,4 milljarða króna en í evrum talið hækkuðu þær um 249,6 milljónir eða 405%. Félögin voru aðeins í viðskiptum við Kaupþing banka eins og greina má í eftirfarandi töflu:
Á tímabilinu janúar 2007 til október 2008 námu nýjar lánveitingar samkvæmt ákvörðun lánanefnda 31,6 milljörðum króna. Andvirði þessara lána var ráðstafað til fjárfestinga í fasteignaverkefnum.
Til tryggingar nýjum lánveitingum voru tekin veð í fasteignum að fjárhæð 31,6 milljarðar króna.
Kaupþing fjármagnaði yfirtöku Reim Plc. á eignasafni fasteignafélagsins Celcius í maí 2007 með 342 milljóna evra brúarláni til 12 mánaða. Fasteignafélagið Celsius átti og rak atvinnu- og íbúðarhúsnæði víðsvegar í Frakklandi. Á meðal eigna félagsins voru Carrefour, Areva og France Telecom.
Til að nýta að fullu skattalegt hagræði sem skapaðist með yfirtöku á eignasafni Celsius var framkvæmdin þannig: Invista og Propinvest setja upp SPV,sem saman mynda JV (Joint Venture – samstarfsverkefni) og mun það félag eignast öll hlutabréfin í Aerium Properties 1 SARL.Aerium er raunverulega eignarhaldsfélagið utan um verkefnið og á einstök eignarhaldsfélög sem aftur eiga frönsk SARL-félög eins og sjá má á eftirfarandi tengslamynd. Kaupþing lánar bæði inn í einstöku félögin og fjármagnar mismuninn til Aerium. Frönsku SARL-félögin veita ábyrgð til að tryggja lánin og síðan fær bankinn veð í eignarhaldsfélögum í Lúxemborg (LUXeignarhaldsfélögunum).
Til stóð að lánið sem veitt var í maí 2007 myndi brúa bil innleiðingar eignasafnsins inn í evrópskan fasteignasjóð Invista en vegna niðursveiflunnar þurfti að skoða aðra fjármögnunarmöguleika. Í maí 2008 tekst Celsius að ljúka sölu á 23 af þeim 34 eignum, sem til staðar voru í safninu, inn í annan sjóð sem Invista stýrði, Clerical Medical, fyrir 170 milljónir evra. Í júní sama ár var fyrirgreiðsla Kaupþings lækkuð enn frekar með innspýtingu eigin fjár, að fjárhæð 30 milljónir evra. Myndin sýnir tengsl á milli félaga sem tengjast framangreindum viðskiptum.
Þá bætir bankinn við láni til handa Teighmore Ltd. í maí 2007, alls 25 milljónum punda, en lánið var veitt í ágúst 2006. Meðfylgjandi er úr fundargerð lánanefndar Kaupþings (GCC) frá 31. maí 2007:
"Shard of Glass / Teighmore & New London Bridge House Í ágúst 2006 samþykkti lánanefnd 68 millj. GBP þátttöku í 196 millj. GBP láni, þar sem Kaupþing Singer og Friedlander tók 30 millj. GBP og umsjónaraðilinn, Nationwide Building Society (NBS), tók restina eða 98 millj. GBP. Nú liggur fyrir beiðni um samþykki lánanefndar á jafnri 8,6 millj. GBP aukningu á þátttöku okkar í 196 millj. GBP sambankaláni. Heildaraukning sem lántaki óskar eftir er 25 millj. GBP og verður heildarlántakan því 221 millj. GBP. Breytingin og skipting á heildarláninu er sem hér segir: Lánið verður kúlulán með gjalddaga eigi síðar en 31. desember 2007. Tryggingar verða veð í landi og byggingum við London
Bridge. Álag á lánið hækkar og verður 225 punktar og umsjónarþóknun verður 0,6% á hækkunina. Endurgreiðslugjald verður 215 þús. GBP á hluta af láninu, til greiðslu við endurfjármögnun eða 31. desember 2007, hvort heldur er fyrr. Skilmálar veðhlutfalls hækka í 53% (var 50%). Til viðbótar er leitað samþykkis fyrir undanþágu á endurgreiðslu á 12.687.500 GBP virðisaukaskatti sem hefur verið nýttur af lántaka til að mæta greiðslum vegna for-framkvæmdakostnaðar fyrir Shard og New London Bridge House. Lánanefnd samþykkti umrædda beiðni."
8.12.3.26 Gift fjárfestingarfélag ehf. og tengd félög
Áhættuskuldbindingar október 2008: 40,3 milljarðar.
Félagið var stofnað í júní árið 2007 með yfirfærslu eigna og skulda frá Eignarhaldsfélagi Samvinnutrygginga gt. Starfsemi þess fólst í fjármálastarfsemi og eignarhaldi á hlutabréfum.
Helstu eignir félagsins voru hlutabréf í Exista, Kaupþingi, Glitni, Straumi og Landsbanka Íslands.
Félagið var í 100% eigu Eignarhaldsfélags Samvinnutrygginga gt.
Samkvæmt ársreikningi 2008 var stjórnarformaður félagsins Guðsteinn Einarsson og framkvæmdastjóri Benedikt Sigurðarson.
Á tímabilinu janúar 2007 til október 2008 hækkuðu skuldir Giftar fjárfestingarfélags og tengdra félaga um 21,4 milljarða króna. Í evrum hækkuðu skuldbindingar um 77,6 milljónir eða 39%:
Nýjar lánveitingar samkvæmt ákvörðun lánanefnda námu 26,4 milljörðum króna á tímabilinu. Andvirði þessara lána var ráðstafað til rekstrar (6,4 ma.kr.) og til verðbréfakaupa (20,0 ma.kr.). Endurfjármögnun eldri lána á tímabilinu nam 11,4 milljörðum króna eða sem svarar til 60% af skuldastöðu í upphafi tímabilsins.
Til tryggingar nýjum lánveitingum voru tekin veð í hlutabréfum að fjárhæð 25,1 milljarður króna og önnur veð samtals 0,6 milljarðar króna. Þannig námu lán án sérgreindra trygginga alls 0,7 milljörðum króna.
Skuldaaukningin varð aðallega hjá Kaupþingi, en lánanefnd stjórnar Kaupþings samþykkti að veita félaginu samtals 20 milljarða króna lán til kaupa á hlutabréfum í Kaupþingi. Annars vegar lán að fjárhæð 16 milljarðar króna til 4 ára, gegn tryggingum í verðbréfum, og hins vegar 4 milljarða króna lán til 6 mánaða. Engar tryggingar voru veittar fyrir láni að fjárhæð 4 milljarðar króna en í lánasamningum er tekið fram að gjaldfella megi lánið ef eiginfjárhlutfall félagsins fer niður fyrir 30%. Skammtímalánið er framlengt reglulega og áföllnum vöxtum, samtals 700 milljónum króna, þá bætt við höfuðstólinn.
Kaupþing virðist með þessu vera að veita félaginu 100% lán til kaupa á hlutabréfum í bankanum. Annars vegar lán að fjárhæð 16 milljarðar króna með veði í hlutabréfum, tryggingarþekja 125%, og hins vegar 4 milljarða króna án trygginga, sjá meðfylgjandi fundargerð lánanefndar stjórnar Kaupþings frá 14. desember 2007. Í þessu tilviki er því einnig lánað fyrir eiginfjárframlagi Giftar.
"Beðið er um lán að fjárhæð ISK 20 ma.kr. til að kaupa hluti í Kaupþingi banka.Tilhögun lánsins verði með þessum hætti
1. Lánsfjárupphæð: ISK 16 ma.kr.
Lánstími: 4 ár.
Álag: L/R +2,25%
Umsýslugjald: 0,5%
Tryggingar: Hlutabréf sem Kaupþing banki tekur gild.
Upphafleg tryggingaþekja: 125%
Veðkall: 125%
Aðrir skilmálar: Lánið gjaldfellur ef eigið fé Giftar fer niður fyrir 30%.
2.Lánsfjárupphæð: ISK 4 ma.kr.
Lánstími: 6 mánuðir
Álag: L/R +2,25%
Umsýslugjald: 0,5%
Tryggingar: Ótryggt
Aðrir skilmálar: Lánið gjaldfellur ef eigið fé Giftar fer niður fyrir 30%.
Allar eignir og skuldbindingar Samvinnutryggingar Holding Co verða fluttar í Gift Investment Co. Lánanefnd stjórnar samþykkti beiðnina."
Lánið að fjárhæð 4 milljarðar króna var síðan framlengt reglulega og áföllnum vöxtum bætt við höfuðstólinn hverju sinni og var lánið ógreitt við fall bankans í október 2008. Eigið fé Giftar var neikvætt um 39 milljarða króna í lok árs 2008.
8.12.3.27 Eyrir Invest ehf.
Áhættuskuldbindingar október 2008: 36,7 milljarðar króna.
Eyrir Invest ehf. er fjárfestingarfélag. Samanlagt eru feðgarnir Árni Oddur Þórðarson (17,3%) og Þórður Magnússon (20,2%) stærstu hluthafar þess.Tilgangur félagsins er kaup og sala hlutabréfa og annarra verðbréfa, svo og önnur fjármálastarfsemi. Þeir feðgar stofnuðu félagið á miðju ári 2000 sem eignarhaldsfélag utan um eignarhlut sinn í fjárfestingarfélaginu Gildingu. Gilding rann síðar saman við Búnaðarbankann og fékk Eyrir við það hlutabréf í Búnaðarbankanum í skiptum fyrir bréf sín í Gildingu. Þetta markaði upphafið að eiginlegri starfsemi Eyris. Stærstu eignir félagsins voru Marel Food Systems (38,4%) og Össur hf. (20%). Einnig fjárfesti Eyrir Invest í hollenska félaginu Stork (17%). Meðal annarra hluthafa í Eyri má nefna Straumborg (8,6%), Sigurjón Jónsson (8,3%) og NBI hf. (27,5%). Þórður Magnússon er stjórnarformaður og með framkvæmdastjórn fer Árni Oddur Þórðarson. Á tímabilinu janúar 2007 til október 2008 hækkuðu skuldir Eyris Invest um 29,1 milljarð króna. Í evrum hækkuðu skuldir um 171,6 milljónir eða um 213%: Nýjar lánveitingar samkvæmt ákvörðun lánanefnda námu 17,0 milljörðum króna á tímabilinu. Andvirði þessara lána var ráðstafað til rekstrar (4,6 ma.kr.) og til verðbréfakaupa (12,4 ma.kr.). Til tryggingar nýjum lánveitingum voru tekin veð í hlutabréfum að fjárhæð 12,6 milljarðar króna og önnur veð samtals 0,6 milljarðar króna. Á þessu tímabili, sem til skoðunar er, var stór hluti fjárfestinga félagsins tengdur hollenska félaginu Stork N.V. en kaupin voru tengd kaupum Marels á tiltekinni rekstrareiningu hollenska félagsins. Fyrirgreiðsla bankanna til Eyris Invest virðist í flestum tilvikum hafa verið með eðlilegum hætti eins og sjá má í meðfylgjandi fundargerð áhættunefndar Glitnis frá 27. febrúar 2007:
"Félagið óskar eftir 1,5 ma.kr. láni með tryggingum í hlutabréfum í Marel hf. og Össuri hf. Óskað er eftir að tryggingarþekjan verði 150% og að veðkalll verði í 130%.Afgreiðsla:Samþykkt gegn því að tryggingarþekjan verði 170% og veðkall í 150%.Leggja þarf fram tryggingar í dreifðara eignasafni til þess að þekjan og veðkall verði lækkað."
8.12.3.28 Jakob Valgeir ehf. og tengd félög
Áhættuskuldbindingar október 2008: 31,8 milljarðar króna.
Jakob Valgeir og tengd félög voru upphaflega útgerðar- og fiskvinnslufyrirtæki í Bolungarvík en byrjuðu síðar að stunda markaðsviðskipti með afleiður og hlutabréf, m.a. í Glitni, Landsbanka, Exista, Stoðum og nokkrum útgerðarfyrirtækjum. Félagið er í meirihlutaeign Jakobs Valgeirs Flosasonar og Flosa Valgeirs Jakobssonar. Framkvæmdastjóri Jakobs Valgeirs ehf. er Jakob Valgeir Flosason. Á tímabilinu janúar 2007 til október 2008 hækkuðu skuldir Jakobs Valgeirs og tengdra félaga um 27,6 milljarða króna. Í evrum hækkuðu skuldbindingar um 174,2 milljónir eða 391%:
Nýjar lánveitingar samkvæmt ákvörðun lánanefnda námu 13,0 milljörðum króna á tímabilinu.Andvirði þessara lána var ráðstafað til rekstrar (2,7 ma.kr.), til verðbréfakaupa (9,3 ma.kr.) og til annars (1,0 ma.kr.). Endurfjármögnun eldri lána á tímabilinu nam 0,7 milljörðum króna eða sem svarar til 17% af skuldastöðu í upphafi tímabilsins.
Til tryggingar nýjum lánveitingum voru tekin veð í hlutabréfum að fjárhæð 9,3 milljarðar króna, veð í reiðufé 0,3 milljarðar króna og önnur veð samtals 1,3 milljarðar króna. Þannig námu lán án sérgreindra trygginga alls 0,3 milljörðum króna.
Veruleg hækkun er á skuldastöðu félaganna innan samstæðunnar, bæði hjá Glitni og í Landsbankanum. Hækkunin er að stórum hluta til komin vegna afleiðuviðskipta sem og hlutabréfakaupa eins og meðfylgjandi dæmi úr fundargerð lánanefndar Glitnis frá 23. janúar 2007 sýnir:
"Félagið hefur verið með framvirkan hlutabréfasamning í gangi í rúmt eitt ár, upp á um 50 milljón hluti í Glitni. Félagið hefur áhuga á að eiga a.m.k. 35 milljón hluti í lengri tíma og færa yfir á vörslureikning gegn kúluláni til 3ja ára. Félagið hefur óskað eftir um 870 milljón kr.láni til kaupa á hlutabréfum í Glitni.Tillaga: Óskað er eftir heimild Lánanefndar til að lána Jakob Valgeir ehf. samkvæmt ofangreindu. Lánamörk hækki um 700 millj. og verði 3.135 milljónir. Lánið verði í tveimur lánasamningum: 50% eða 435 milljónir kúlulán til 3 ára með veði í vörslusafni með Glitnisbréfunum, tryggingarþekja í lánssamningnum verði 200%. Ef hlutfallið lækkar niður fyrir 170% þá þarf að koma því aftur í 200% innan 14 daga. Ef hlutfallið lækkar niður fyrir 140% þá þarf að koma því aftur í 200% innan 3 daga. 50% eða 435 milljónir kúlulán til 3 ára með veði í skipi félagsins (Þorlákur ÍS-15 sknr. 2446) ásamt aflaheimildum. Lánamörk samstæðu verði 4.215.000.000.
Afgreiðsla: Samþykkt gegn sjálfskuldarábyrgð eigenda fyrir láninu sem er með veð í skipinu. Endurskoðað þegar samstæðuuppgjör liggur fyrir."
Einnig er hér dæmi sem afgreiðslu láns í Landsbanka 23. maí 2007:
"Jakob Valgeir ehf. – 2.500 mkr. kúlulán til 3ja ára á Libor + 1,70% gegn handveði í keyptum hlutabréfum í LÍ og Exista hf. að markaðsvirði 2.500 mkr. og veði í 100% hlut félagsins í Guðbjarti ehf. (útgerðarfélag í Bolungarvík). Miðað við þessa uppsetningu er veðhlutfall á keyptum bréfum 65% og á bréf í Guðbjarti ehf. 50%. Endurmetið eigið fé félagsins er áætlað ca. 6 ma.kr."
Skuldaaukning hjá Glitni var vegna lána sem veitt voru til hlutabréfakaupa í Glitni og nokkrum útgerðarfyrirtækjum, sem síðan voru sameinuð Jakobi Valgeir ehf. Öllum lánum þessara fyrirtækja var skuldskeytt við Jakob Valgeir ehf. Í byrjun árs 2009 var Jakob Valgeir ehf. breytt í JV ehf. Ástæðan fyrir nafnbreytingunni var sú að Jakob Valgeir ehf. (áður Guðbjartur ehf.) keypti allan rekstur, þ.e. eignir fiskvinnslu og útgerðar frá JV ehf. og greiddi það með yfirtöku tiltekinna skulda JV ehf., en eftir sátu aðeins skuldir og engar eignir í því félagi. Skuldir JV ehf. við Glitni 30. september 2008 námu 3,8 milljörðum króna og gerir bankinn ráð fyrir að JV ehf. fari í þrot vegna þessara skulda við bankann.
Áður hafði JV ehf. stundað markaðsviðskipti, en tap vegna afleiðuviðskipta jókst verulega á árinu 2008. Félagið var með umtalsverða stöðu í hlutabréfum í árslok 2007. Á árinu 2008 var þessari stöðu lokað með miklu tapi. Heildarskuldbinding JV ehf. vegna markaðsviðskipta 30. september 2008 nam 4,9 milljörðum króna.Til þess að mæta tapinu voru opnaðir framvirkir samningar í evrum þar sem JV ehf. skuldbatt sig til að afhenda tiltekna fjárhæð af evrum á gengi sem var nokkuð undir markaðsgengi en þó nógu hátt til að tryggja jákvæðan rekstur. Þannig ætlaði félagið að vinna sig út úr mikilli skuldsetningu. Meðfylgjandi er úr fundargerð lánanefndar Glitnis frá 18. janúar 2008:
"Jakob Valgeir ehf. er í tapi með framvirka samninga hjá GLB og vantar töluvert uppá að tryggingar þær sem bankinn hefur nægi fyrir því tapi. Kaupþing á 1300 mkr. tryggingabréf með veði í skipi félagsins (Þorlákur Ís-15) sem GLB getur leyst til sín með því að greiða upp 300 mkr. skuldbindingar Jakobs Valgeirs ehf. við Kaupþing. Þetta þýðir að tryggingar bankans aukast um 1000 mkr. og lokast því nánast tryggingagat vegna taps á framvirkum samningum. Ástæða er til að laga tryggingastöðuna nú þegar, þess vegna er óskað samþykkis milli funda."
Þá vekur athygli að Jakob Valgeir Flosason er meðal þeirra fjárfesta sem tengjast Stími, félagi sem fjárfesti í hlutabréfum í Glitni og Stoðum og fékk til þess lán í bankanum. Í fundargerð áhættunefndar frá því í nóvember 2007 er talað um að eignarhlutur Jakobs Valgeirs og félaga sé 32,5% í Stími. Eignarhald breytist í byrjun árs 2008 og svo virðist sem hlutur Jakobs Valgeirs Flosasonar og félaga hafi minnkað. Í mars eru eignir Stíms seldar yfir í fjögur ný félög sem öll eru í eigu Stíms og var tilgangurinn eftir sem áður að halda á bréfum í FL Group og Glitni.
Skuldaaukning hjá Landsbanka er aðallega vegna hlutafjárviðskipta, m.a. í Landsbanka, Glitni, Exista og Rekavík ehf. Einnig vegna kaupa á hlutum í útgerðarfélögum og aflaheimildum..
8.12.3.29 Salt Investments ehf. og tengd félög
Áhættuskuldbindingar október 2008: 29,9 milljarðar króna.
Salt Investments ehf. er fjárfestingarfélag. Stærstu eignir félagsins voru eignarhlutur í Actavis Group hf., Glitni banka hf. og umtalsverðar fasteignir, m.a. í Brasilíu og á Spáni. Einnig átti félagið hluti í Latabæ ehf., HBH Framkvæmdum og Maður lifandi. Helstu eignarhaldsfélög í eigu Salt Investments ehf. eru Salt Financials ehf., Salt Generics Luxembourg, Salt Pharma Luxembourg, Salt Portfolio Investments og Salt Properties ehf. (áður Perla Investments), AB Capital ehf. og Salt Constructions. Salt Investments ehf. var að 94% í eigu Vilhelms Róberts Wessmans og að 6% í eigu starfsmanna félagsins.
Stjórnarformaður félagsins er Vilhelm Róbert Wessman og framkvæmdastjóri er Árni Harðarson.
Á tímabilinu janúar 2007 til október 2008 hækkuðu skuldir Salt Investments ehf. og tengdra félaga um 27,5 milljarða króna. Í evrum hækkuðu skuldbindingar félaganna um 180,5 milljónir eða um 719%:
Nýjar lánveitingar samkvæmt ákvörðun lánanefnda voru um 26,7 milljarðar króna. á tímabilinu. Andvirði þessara lána var ráðstafað til kaupa á verðbréfum. Aukning heildarskuldbindinga nam 27,5 milljörðum króna og samanstendur af nýjum lánveitingum, afborgunum og gengisbreytingum.
Tryggingar fyrir stærstum hluta fyrirgreiðslna Glitnis eru verðbréf, þar á meðal hlutabréf í Glitni. Í tilviki lánveitinga Sparisjóðabankans eru engar tryggingar fyrir utan heimild sem bankinn hefur til að fylla út handveðssamning með veði í hlutabréfum Sparisjóðabankans.
Skuldaaukningin varð aðallega hjá Glitni, en lánanefnd stjórnar Glitnis samþykkti að veita félaginu samtals 23,3 milljarða króna lán þar af var 12,6 milljörðum króna ráðstafað til kaupa á hlutum í Glitni hf. Um er að ræða tvær samþykktir í lánanefnd bankans. Annars vegar 28. desember 2007, þar sem samþykkt var 7,5 milljarða króna fyrirgreiðsla:
"Lagt er til að veita allt að 7,5 ma.kr. lán til 15 mánaða.Til tryggingar verði allir hlutir að 1.750 m.kr. í Salt Generics (sem á 12% hlut í Novator Pharma S.a.r.l. sem á 78% hlut í Actavis) og allir keyptir hlutir í Glitni."
Og hins vegar samþykkt frá 18. september 2008:
"Óstofnað félag í 100% eigu Salt Investments ehf. hefur óskað eftir að kaupa allt að 2,5% í Glitni banka hf. eða allt að 370m hluti að verðmæti ca. 5.150 m.kr. Óskað hefur verið eftir láni fyrir samsvarandi fjárhæð til 18-24 mánaða. Félögin Salt Investments ehf. og Salt Generics S.a.r.l. munu gangast í sjálfskuldarábyrgð fyrir allt að 1.200 m.kr."
Í nóvember 2007 fær Salt Investments lánalínu hjá fjárstýringu bankans að fjárhæð 8,0 milljónir evra sem var jafnvirði um 750 milljóna króna. Kjörin voru breytileg en engar tryggingar voru fyrir fyrirgreiðslunni. Lánið var síðar framlengt og breytt í peningamarkaðslán án þess að lagðar væru fram tryggingar. Fyrirgreiðslur Sparisjóðabankans sem fóru í gegnum fjárstýringu voru almennt ekki til umræðu eða til samþykktar í lánanefnd bankans eða í stjórn.
Bankaráð Sparisjóðabankans samþykkti fyrirgreiðslu til Grænnar grósku ehf. og Salt Investments ehf. á fundi sínum 19. júní 2008. Lánveitingarnar eru til komnar vegna kaupa Grænnar grósku og Salt Investments á hlutabréfum í Sparisjóðabankanum, annars vegar af bankanum sjálfum og hins vegar af fyrrum starfsmönnum bankans:
" ... staðfesti bankaráð samþykki sitt vegna lánveitingar til dótturfélags Salt Investments, Grænnar grósku ehf., vegna fjármögnunar á kaupum á öllum eignarhlutum í Breiðutanga, G-tveimur og Lagos ehf. af fyrrverandi bankastjóra og tveimur fyrrverandi framkvæmdastjórum bankans. Loks samþykkti bankaráð sölu bankans á 1% hlut í bankanum sjálfum til Salt Investments. Kaupin eru tilkomin vegna söluréttar BYRS á hendur bankanum á þessum 1% hlut í bankanum en bankinn er með sölunni kominn niður fyrir þau 10% mörk sem bankanum er heimilt að eiga eða hafa að veði í eigin hlutabréfum samkvæmt 29. gr. laga um fjármálafyrirtæki. Jafnframt samþykkti bankaráð að bankinn myndi lána Salt Investments hf. vegna þesara kaupa."
Frekari lánveiting til Salt Investments er samþykkt á fundi lánanefndar Sparisjóðabankans 18. september 2008:
"Samþykkt að veita Salt Investments skammtímalán fyrir allt að 250 mkr. til að fjármagna kaup félagsins á hlutabréfum í Icebank."
Salt Investments ehf. og tengd félög eru öll vensluð Sparisjóðabankanum þar sem framkvæmdastjóri félagsins, Árni Harðarson, er varamaður í stjórn bankans, ásamt því að vera stjórnandi eða stjórnarmaður í öllum félögum Salt Investments ehf.
Skuldir Salt Investments og tengdra félaga hjá Straumi eru tilkomnar vegna fasteignaverkefna AB Capital ehf. á Spáni. Lánið var upphaflega á gjalddaga í janúar 2007 en var framlengt ítrekað á árunum 2007 og 2008.AB Capital ehf. var í sameiginlegri eigu félaga í eigu Róberts Wessmans og Björgólfs Thors Björgólfssonar.
Ekki er vitað til þess að breytingar á rekstri né eignarhaldi hafi verið gerðar á árinu 2009.
8.12.3.30 Svartháfur ehf.
Áhættuskuldbindingar október 2008: 29,3 milljarðar króna.
Svartháfur ehf. (áður Gleypnir ehf. og þar áður ELL 150 ehf.) var stofnaður til að taka yfir fjármögnun Þáttar International ehf. Þáttur
International ehf. var 48,8% í eigu SJ2 ehf. sem var að fullu í eigu Sjóvár-Almennra trygginga hf. sem var dótturfélag Milestone hf. Svartháfur ehf. var að fullu í eigu Werners Ívars Rasmussonar, sem jafnframt var framkvæmdastjóri og stjórnarformaður félagsins. Á tímabilinu janúar 2007 til október 2008 námu nýjar skuldbindingar Svartháfs ehf. 29,3 milljörðum króna. Í evrum hækkuðu skuldbindingar félagsins um 201,7 milljónir:
Lánveitingar samkvæmt ákvörðun lánanefndar námu 74,2 milljörðum króna, þar af eru ný lán 23,4 milljarðar króna og framlengingar 50,8 milljarðar króna á tímabilinu. Andvirði þessara lána var ráðstafað til að greiða upp skuld Þáttar International við Morgan Stanley.
Til tryggingar nýjum lánveitingum voru tekin veð í hlutabréfum Moderna (áður Invik). Fyrirgreiðsla Glitnis til Svartháfs ehf. tengist því að lánasamningi Þáttar International ehf. og Racon ehf. við Morgan Stanley er sagt upp. Upphaflega hafði Þáttur International ehf. fjármagnað kaup á 7% hlut í Glitni hf. og kaup Racon ehf. á sænska tryggingafélaginu Invik með lánum frá Morgan Stanley. Á lánanefndarfundi Glitnis 6. febrúar 2008 er samþykkt að koma að endurfjármögnun á lánum framangreindra félaga hjá Morgan Stanley:
"Þáttur International ehf. er með lán vegna fjármögnunar á GLB hlutum hjá Morgan Stanley (MOS) og Racon, eigandi Invik, er með brúarfjármögnun vegna kaupanna á Invik. Bæði þessi lán eru í uppnámi um þessar mundir.
Lán EUR 158 milljónir með veði í 7% hlut í GLB verðmæti EUR 209 m. Milestone og tengdir aðilar hafa jafnframt lagt fram deposit að fjárhæð EUR 58 m, LT 48%. MOS hefur krafist þess að lánið verði borgað upp eigi síðar en 8. febrúar nk (föstudagurinn næsti, senda þarf greiðslu af stað á miðvikudag). Nettó lánsfjárhæð til greiðslu EUR 100 m.
Brúarlán til 1 árs, EUR 220 m með veð í öllum hlutum Invik. Milestone keypti Invik á EUR 807 m í júlí á sl. ári og fékk lán í gegnum Racon að fjárhæð EUR 285 m. (LTV 35%). Í nóvember greiddu þeir niður EUR 70 m. (LTV 27%). Þeir hafa skuldbundið sig til þess að losa þetta lán út fyrir 1. mars. [...]
[...] Þar sem um knappan tíma er að ræða er lagt til að byrja að leysa hluta 1) hér að fram þ.e. fjármögnun á 7% hluta í GLB. Hugmyndin gengur út á það að Depositið EUR 58 m. verði notað til að greiða niður MOS lánið sem stendur þá í EUR 100 m og að Glitnir brúarfjármagni til 31. mars. Á móti þessu láni leggur Banque Invik og Moderna/Invik fram deposit inn til GLB að fjárhæð EUR 100 m. Þetta þýðir að lánið er cash neutral.
Til óstofnaðs félagsins/Þáttar International ehf. rennur einungis ca EUR 50 m af bréfunum þar sem MOS hefur krafist þess að þeir hafi áfram GLB hluti að verðmæti ca. EUR 100 m. að veði þar til að lán 2 hefur verið greitt upp."
Á lánanefndarfundi Glitnis 29. febrúar 2008 er fyrirgreiðsla til ELL 150 ehf. (nú Svartháfur ehf.) samþykkt:
"Þann 29. febrúar er uppgreiðsla á EUR 217 m skuld við Morgan Stanley (MOS) og hefur ELL 150 ehf. (ELL) óskað eftir brúarláni að upphæð EUR 117m til að standa skil á hluta þeirrar uppgreiðslu. Þetta brúarlán verður 'Cash Neutral' þar sem Glitnir mun fá rúmlega þá upphæð til baka í formi innlána.
Til viðbótar við EUR 117m hefur ELL óskað eftir EUR 70m til 2ja vikna. Lánin eru til uppgreiðslu á láni sem var vegna kaupa á Invik. [...] Niðurstaða: Samþykkt.Tryggt sé að unnt sé að ganga að veði ef ekki er staðið við innlán. Invik sett sölu- og veðsetningarbann."
Ekki er tekið handveð í framangreindum innlánum frá Banque Invik og Moderna og því er ekki hægt að sjá að bankinn hafi verið í aðstöðu til að tryggja að innlánin séu í bankanum út líftíma lánanna. Á árinu 2008 er lánið til Svartháfs framlengt ítrekað án greiðslu vaxta eða breytingar á tryggingarstöðu. Á fundi lánanefndar Glitnis 24. september 2008 er enn og aftur tekin fyrir beiðni félagsins um framlengingu á lánum félagsins:
"EUR 71 m brúarlánið var upphaflega á gjalddaga 16.3.2008 og hefur lántakandinn þegar fengið þrjár framlengingar til 1.9.2008. EUR 119 m lánið var upphaflega á gjalddaga 1.6.2008 en hefur verið framlengt einu sinni til 1.9.2008.Til tryggingar á lánunum í Svartháf erum við með öll hlutabréf Moderna (áður Invik) sem keypt voru í júlí 2007 á EUR 807 m og gefa þau GLB mjög góða tryggingarþekju. Samþykkt að framlengja til 1. október 2008."
Samkvæmt upplýsingum frá Glitni töldu þeir Svartháf ekki venslaðan Milestone þótt fyrirgreiðslu hafi verið ráðstafað til greiðslu skuldar Þáttar International ehf. og Racon ehf. við Morgan Stanley og tryggingar bankans fyrir lánveitingunni til Svartháfs ehf. séu allt hlutafé Moderna, félags sem er að fullu í eigu Milestone.Werner Rasmusson, eigandi og stjórnarmaður Svartháfs, er faðir bræðranna Karls og Steingríms Wernerssona.
8.12.3.31 Fons hf. og tengd félög
Áhættuskuldbindingar október 2008: 23,9 milljarðar króna.
Fons hf. var fjárfestingarfélag sem sérhæfði sig í umbreytingarfjárfestingum. Það fjárfesti þannig í félögum sem áttu möguleika til vaxtar og hagræðingar og kom inn sem virkur eigandi. Meðal fjárfestinga félagsins má nefna Stoðir hf., bresku verslanakeðjuna Iceland Foods Group,Securitas á Íslandi og sænsku ferðaskrifstofuna Ticket.Þá átti Fons hlut í Northern Travel Holding (NTH) og eignaðist félagið að fullu í september 2008 eftir að það keypti nær 35% hlut Stoða Invest í NTH, sbr. umfjöllun um Styttu hér að framan.
Fons var í eigu Pálma Haraldssonar (60%) og Jóhannesar Kristinssonar (40%). Sigurður Guðjónsson var stjórnarformaður en Pálmi var framkvæmdastjóri félagsins og meðstjórnandi. Pálmi Haraldsson var viðskiptafélagi Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og tók virkan þátt í mörgum af helstu fjárfestingum Baugs Group og tengdra félaga.
Á tímabilinu janúar 2007 til október 2008 lækkuðu skuldir Fons og tengdra félaga um 12,3 milljarða króna eins og sjá má í eftirfarandi töflu yfir einstakar fjármálastofnanir, einkum vegna yfirtöku Styttu ehf. á skuldbindingum Fons. Í evrum talið lækka skuldbindingar Fons um 218,9 milljónir eða 57%:
Á tímabilinu námu nýjar lánveitingar samkvæmt ákvörðun lánanefnda 39,3 milljörðum króna.Andvirði þessara lána var ráðstafað til rekstrar (20,9 ma.kr.) og til verðbréfakaupa (18,4 ma.kr.). Staða Fons breyttist þó verulega við yfirtöku Styttu ehf. á öllum skuldbindingum félagsins í Landsbankanum eins og fram kemur í ofangreindri töflu. Endurfjármögnun og framlengingar lána á tímabilinu námu 50,4 milljörðum króna eða sem svarar til 139% af skuldastöðu í upphafi tímabilsins.
Til tryggingar nýjum lánveitingum voru tekin veð í hlutabréfum að fjárhæð 18,4 milljarðar króna, veð í reiðufé 1,2 milljarðar króna og önnur veð samtals 2,5 milljarðar króna. Þannig námu lán án sérgreindra trygginga alls 17,2 milljörðum króna.
Umsvif Fons voru mest í Landsbankanum en hins vegar eykst fyrirgreiðsla til félagsins mest í Glitni á tímabilinu eða um 18,8 milljarða króna. Sú aukning kemur þó ekki til fyrr en eftir mitt ár 2007 þegar Stoðir, Baugur og tengdir aðilar eru orðnir meirihlutaeigendur að Glitni.Við skoðun og yfirferð á afgreiðslu lánamála til Fons er einkum tvennt sem vekur athygli, annars vegar háar fjárhæðir ótryggðra lána og hins vegar hversu viljugt félagið var að "koma til bjargar" hinum ýmsu aðilum og losa þá við tilteknar fjárfestingar tímabundið. Þeir aðilar voru allir tengdir Baugi eða tengdum félögum.
Meðfylgjandi er dæmi um lán sem veitt er félaginu án trygginga 20. nóvember 2007 og tengist Stími:
"Áhættunefnd samþykkti lán til Fons hf. milli funda fimmtudaginn 15. nóvember. Nokkrar breytingar voru gerðar á lokatilhögun lánsins og er hún þessi: Fons hf. fór fram á lán, ISK 2,5 ma.kr. Fons notaði lánið til að fjármagna mezzanine lán, 2,5 ma.kr. til Project Stím. Project Stím er yfirtaka á 4,3% hluta í GLB og 4,1% hlut í FL Group. Fons lánaði ISK 2,5 ma.kr. til félags með takmarkaðan tilgang, sem mun lána sömu upphæð sem millilagslán vegna verkefnisins.
Óskað er staðfestingar á lokatilhögun láns til Fons hf.
Ótryggt kúlulán til eins árs, ISK 2,5 ma.kr., álag 2,5%, þóknun 1%. Þess er krafist, að eigið fé sé ekki minna en ISK 25 ma.kr. og eiginfjárhlutfall ekki minna en 30%. Ekki verður um ársfjórðungslega skýrslugjöf að ræða en viðskiptastjóri mun ársfjórðungslega kynna sér stöðuna."
Í desember 2007 kaupir Fons 6,8% hlut í Stoðum frá Sólmon og Oddaflugi, fyrir 10,2 milljarða króna. Glitnir lánar að fullu fyrir kaupunum til tveggja ára gegn veði í hlutabréfunum. Er það ekki í samræmi við almennar lánareglur bankans en almennt var gerð krafa um 150-160% tryggingu fyrir lánum til hlutabréfakaupa. Í sömu afgreiðslu fær Glitnir söluumboð fyrir Uppsprettu, 8,7 milljarða króna, og verður hluti notaður til að lækka lánin í 4 milljarða króna. Þá óskar Fons eftir 2,5 milljarða króna láni til að fjármagna kröfu sem félagið á á hendur Baugi, til 27 mánaða. Sjá meðfylgjandi útdrátt úr fundargerð áhættunefndar Glitnis frá 6. desember 2007:
"Fons hf. er að kaupa 6,8% hlut í FL Group af Sólmon ehf. (2,3%) og Oddaflugi B.V. (4,5%). Sólmon og Oddaflug hafa fjármagnað kaup sín í FL Group hjá Glitni en bæði félögin standa frammi fyrir veðkalli. Kaupverðið verður @16,1, heildarverðmæti ISK 10,2 ma.kr. Lagt er til, að Glitnir útvegi Fons 10,2 ma.kr. kúlulán fyrir kaupunum.Viðbótartrygging fyrir láninu verður öll hlutabréf í Uppsprettu hf. (Skeljungi). Glitnir mun ábyrgjast sölu á Uppsprettu fyrir ISK 9,2 ma.kr., þóknun verði 0,5 ma.kr. Ábyrgðin gildir þar til 1. apríl 2008 og söluverðið (ISK 8,7 ma.kr.) verður notað til að lækka lánið í 4 ma.kr. Þá getur Fons krafist þess að veðum verði aflétt þannig að tryggingaþekja fari niður í 150%. Óskað er samþykkis fyrir: ISK 10,2 ma.kr. kúluláni til Fons hf. Lánstími: 2 ár, Álag 2,75%, Þóknun 0,5% Tryggingar verði 653 millj. hlutir í FL Group og sölusamningur varðandi Skeljung Tryggingaþekja 150%, fyrsta veðkall við 140% og annað veðkall við 125%. Fons er með lánasamning við Baug frá því í febrúar 2007 til þriggja ára, upphæð 3,7 ma.kr. Fons fer fram á ISK 2,5 ma.kr.lán til 27 mánaða. Álag 2,75%, 0,5 – 0,75%.Trygging er lánasamningur milli Fons og Baugs, ISK 3,7 ma.kr."
Þá eru nokkur dæmi um að félagið fái samþykki lánanefndar Glitnis fyrir að fresta afborgunum lána og vaxtaafborgunum. Hinn 30. apríl 2008 er samþykkt frestun á afborgun af láni sem veitt var í desember 2007, alls 850 milljónum króna, til 1. júní. Þá fær FS38, félag að fullu í eigu Fons, 2,2 milljarða króna lán í júní 2008 til að kaupa 25,7% hlut Fons í eignarhaldsfélaginu Aurum. 200 milljónir króna voru notaðar í að greiða af lánum Fons. Afborgun að fjárhæð 700 milljónir króna var frestað fram í febrúar 2009 og vaxtaafborgun af 10,3 milljarða króna láni, 904 milljónum króna, var frestað fram í desember 2008.
Heildarfyrirgreiðsla Landsbankans til Fons og tengdra félaga var komin í um 22 milljarða króna í desember 2007 og var það allt ótryggt þegar félagið fær endurfjármögnun í formi skammtímaláns til tveggja ára. Meðfylgjandi er úr fundargerð lánanefndar LÍ frá 19. desember 2007:
"Fons hf. óskar eftir endurfjármögnun á núverandi skammtímaláni (nr.4458) sem stendur nú í fjárhæð 24 mö.kr. Vextir yrðu gerðir upp (ca.2,0 ma.kr.) en höfuðstóllinn (ca.22 ma.kr.) færður yfir í tveggja ára vaxtagreiðslubréf."
Þegar endurfjármögnun er lokið halda skuldbindingar Fons hins vegar áfram að hækka í Landsbankanum og eru þónokkur dæmi um hækkun lánalínu á vormánuðum 2008 sem oft var veitt gegn tryggingum í handbæru fé eða hlutafé. Í september 2008 yfirtekur eignarhaldsfélagið Stytta ehf. nær allar skuldbindingar Fons hjá Landsbanka sem og eignir félagsins í Landic Property og Iceland Foods. Á sama tíma yfirtekur Fons Northern Travel Holding (NTH). Stytta ehf. er félag sem er í eigu Stoða (36%), og þriggja stjórnenda (64%) Iceland Foods en félagið var upphaflega stofnað utan um eignarhald á bréfum í Iceland Foods Group. Skuldbindingar Fons námu á þeim tíma um 48 milljörðum króna.
Fons var tekið til gjaldþrotaskipta í apríl 2009.
8.12.3.32 Property Group og tengd félög
Áhættuskuldbindingar október 2008: 18,6 milljarðar króna.
Property Group var stofnað 1. janúar 2006. Markmið félagsins var að afla fjárfestingartækifæra fyrir fjárfesta í fasteignaviðskiptum og/eða kaup og sala fasteigna, en markaðssvæði þess var í Skandinavíu og í nærliggjandi löndum, einkum Þýskalandi og í Eystrasaltslöndum.
Helstu eigendur félagsins voru BG Partners ehf. (Guðmundur Þórðarson og Birgir Þór Bieltvedt) með 50,1% eignarhlut og Partner Holding A/S með 37,5% eignarhlut, en eigendur þess voru stofnendur og rekstraraðilar Property Group áður en íslensku hluthafarnir komu að félaginu.
Á tímabilinu janúar 2007 til október 2008 hækkuðu skuldir Property Group og tengdra félaga um 18,2 milljarða króna. Í evrum hækkuðu skuldbindingar um 123,3 milljónir:
Nýjar lánveitingar samkvæmt ákvörðun lánanefnda voru 16,9 milljarðar króna.Andvirði þessara lána var ráðstafað til rekstrar (1,4 ma.kr.), til verðbréfakaupa (9,6 ma.kr.) og til annars (5,9 ma.kr.).Til tryggingar nýjum lánveitingum voru tekin veð í hlutabréfum að fjárhæð 13,4 milljarðar króna og önnur veð samtals 3,5 milljarðar króna.
Lánveitingar til Property Group tengdust flestar fjárfestingum í félögum í byggingariðnaði í Danmörku og Svíþjóð eða kaupum á tilteknum fasteignum. Stærstur hluti lánanna fór til að fjármagna eiginfjárframlag eigenda og tryggingar voru í formi hlutafjár. Fasteignaverð var hátt á þessum stöðum í byrjun tímabilsins en fór síðan lækkandi samhliða sölutregðu á fasteignamarkaðinum. Það leiddi til þess að bankinn þurfti að framlengja lán og/eða veita viðbótarlán til að mæta greiðsluerfiðleikum félaganna, því fjármögnun þessara fasteignaviðskipta var yfirleitt með skammtímalánum.
8.12.3.33 Stapi fjárfestingafélag ehf.
Áhættuskuldbindingar október 2008: 17,3 milljarðar króna.
Stapi fjárfestingafélag ehf. varð til við fjárhagslega endurskipulagningu Gnúps fjárfestingafélags ehf. í byrjun árs 2008. Helsta eign félagsins var 11,2% hlutur í Mosaic Fashions hf.
Í lok september 2008 var Stapi fjárfestingafélag að fullu í eigu Tómasar Hermannssonar sem jafnframt var framkvæmdastjóri, stjórnarmaður og prókúruhafi félagsins. Í júní 2009 hættir Tómas Hermannsson sem framkvæmdastjóri, ásamt því að hætta í stjórn félagsins, og við tekur Eiríkur S. Jóhannsson sem stjórnarformaður og framkvæmdastjóri.
Á tímabilinu janúar 2007 til október 2008 hækkuðu skuldir Stapa fjárfestingafélags ehf. um 17,3 milljarða króna. Í evrum hækkuðu skuldbindingar félagsins um 118,7 milljónir:
Nýjar lánveitingar samkvæmt ákvörðun lánanefnda námu 16,6 milljörðum króna á tímabilinu. Andvirði þessara lána var notað til kaupa á hlutabréfum í Mosaic Fashions hf.
Til tryggingar láninu eru öll bréf í eigu Stapa fjárfestingafélags ehf., þ.e. keyptir hlutir í Mosaic Fashions hf. og hlutir í Landic Property hf.
Meðfylgjandi er afgreiðsla málsins samkvæmt fundargerð lánanefndar Glitnis hf. 2. júlí 2008 þar sem samþykkt er að veita Stapa fjárfestingafélagi ehf. lán að fjárhæð 16,6 milljarðar króna til að kaupa 11,2% hlut í Mosaic Fashions ehf.:
"Stapi Fjárfestingafélag (100% í eigu Gnúps) er að kaupa Mosaic Fashion bréf af Gnúp fyrir ISK 6 ma. Fyrir í eigu Stapa eru Landic Property bréf að verðmæti ISK 10 ma. sem voru fjármögnuð með láni frá Gnúpi. Óskað er eftir því að Glitnir láni Stapa ISK 16.522.516.667 til kaupa á Mosaic bréfunum, endurfjármögnun á láninu frá Gnúp og þeim vöxtum sem til greiðslu eru á Gnúps láninu. Til tryggingar láninu verða öll bréfin í eigu Stapa, þ.e. Mosaic 4.631.596 hlutir) og Landic (699.300.699 hlutir). Þegar gengið hefur verið frá kaupum Stapa á Mosaic bréfunum er hugmyndin sú að selja félagið til TH ehf. og mun Glitnir eiga kauprétt á Stapa. Þegar Gnúpur verður búinn að selja Stapa Mosaic bréfin mun Gnúpur verða seldur til Brekku II (félag í eigu Þórðar Más). Brekka II mun síðan selja Gnúp áfram til Vindabúða."
Í september 2008 eru lánamörk félagsins hækkuð um 1,4 milljarða króna í 18 milljarða króna. Líkt og að framan greinir var Mosaic Fashions úrskurðað gjaldþrota í mars 2009.
8.12.3.34 ADR-HAANPAA og tengd félög
Áhættuskuldbindingar október 2008: 14,6 milljarðar króna.
ADR-HAANPAA var stofnað árið 1949 og er eitt af stærstu flutningafyrirtækjum á Norðurlöndum á sviði fljótandi efna. Fyrirtækið annast flutninga innan og á milli Norðurlandanna, Eystrasaltslandanna, Póllands og Rússlands. Pamplona Capital Management keypti félagið 2005 og endurfjármagnaði það með aðstoð Straums á síðari hluta ársins 2007 og fjárfesti Straumur samhliða því í félaginu. Samstæðan fór í gegnum mikla endurskipulagningu á árinu 2008 og styrkti reksturinn í Evrópu með yfirtöku á Eurotank AB.
Félagið er í eigu framtakssjóðsins Pamplona Capital Partners I (80,8%), Straums-Burðaráss (7,7%) og stjórnenda félagsins (11,5%).
Peter Larsen hefur verið stjórnarformaður síðan 2006 og forstjóri félagsins síðan 2007 er Vesa Itkonen.
Á tímabilinu janúar 2007 til október 2008 voru lánveitingar til ADR-HAANPAA og tengdra félaga 14,6 milljarðar króna. Í evrum hækkuðu skuldbindingar um 100,6 milljónir:
Nýjar lánveitingar samkvæmt ákvörðun lánanefnda námu 13,4 milljörðum króna. Andvirði þessara lána var ráðstafað til rekstrar.
Til tryggingar nýjum lánveitingum voru tekin veð í rekstrarfjármunum að fjárhæð 13,4 milljarðar króna.
Lán voru veitt í desember 2007 til fjárhagslegrar endurskipulagningar á félaginu og kaupum á norrænum félögum í sömu grein til að styrkja stöðu þess á þeim markaði. Sumarið 2008 tók að bera á erfiðleikum hjá félaginu sökum hækkandi eldsneytisverðs. Fjárhagslegir skilmálar voru endurskoðaðir haustið 2008 og var fyrirgreiðsla til félagsins aukin lítillega.
Meðfylgjandi, úr kynningu lánanefndar Straums frá 31. október 2007, eru helstu atriði er varða lánveitinguna sem og fjárfestingu bankans í hlutabréfum félagsins:
"Pamplona keypti finnska félagið ADR af EQT og öðrum hluthöfum í júlí 2005. Lánasvið og fyrirtækjaráðgjöf Straums hafa unnið saman að því að styðja við áætlanir um endurfjármögnun félagsins. ADR er markaðsleiðandi í flutningi fljótandi efna á
Norðurlöndum. Starfsemi félagsins nær til Finnlands, Eistlands, Svíþjóðar, Rússlands og Noregs. Með þessari endurfjármögnun er markmiðið að fjármagna áframhaldandi vöxt félagsins í Rússlandi og skipta út núverandi bankasamstarfi við Sampo Bank. Bankinn hefur nýlega endurmetið lánasafn sitt. Straumur vonast til að hagnast á því og verða meginsamstarfsaðili Pamplona.
Straumi var falið að setja saman allsherjarfjármögnun, bæði með lánsfé og eigin fé. Lánsfjárhlutinn samanstendur af tveimur lánum; 45 millj. EUR láni og 5 millj. EUR ádráttarlínu sem er óádregin til að byrja með. Heildarskuldsetning, byggð á áætluðum hagnaði fyrir afskriftir og vexti að fjárhæð 8,7 millj. EUR, er 5,1x, með 28,1% eiginfjárhlutfalli. Eiginfjárhlutinn samanstendur af;
2.338 millj. EUR af almennu hlutafé (samsvarar 7,6% af heildarútistandandi hlutabréfum) og 0.662 millj. EUR af lánum á 10% (samsvarar 8,7% af heildarlánum útistandandi). Hlutirnir verða keyptir af núverandi hluthöfum."
Eftirfarandi er úr fundargerð lánanefndar Straums frá 28. ágúst 2008 þegar sótt var um heimild til endurfjármögnunar og endurskipulagningar félagsins:
"ADR er leiðandi flutningafyrirtæki á sviði fljótandi efna á Norðurlöndunum.Verkefnið Sisu var beiðni frá Pamplona um endurfjármögnun á ADR. Heildarskuldbindingar félagsins við Straum eru 45 millj. EUR af almennum lánum, 5 millj. EUR af veltufjármögnun og 3 millj. EUR í eigið fé. Rekstur ADR hefur verið undir áætlunum síðustu mánuði einkum vegna hækkandi eldsneytisverðs. ADR horfir nú til þess að yfirtaka Eurotank, sænskt flutningafyrirtæki, til að bæta fjárhagslega og strategíska stöðu sína.Verðið verður 4,4 millj.EUR og verður greitt út á næstu 4 árum.ADR hefur farið þess á leit við Straum að bankinn gefi út ábyrgð að fjárhæð 3,7 millj. EUR vegna yfirtökunnar á Eurotank. Þá fer ADR einnig þess á leit að Straumur endursetji fjárhagslega skilmála fyrir næstu ársfjórðunga.
Lána- og fjárfestingarnefnd samþykkir ofangreindar kröfur með eftirfarandi skilyrðum:
1. Uppsafnaðir vextir verða hækkaðir um 3% á meðan skuldsetning félagsins er yfir skilmálum.
2. Samkvæmt lánssamningi munu greiddir vextir af láninu og ádráttarlínunni hækka um 0,5% á meðan skuldsetning er yfir mörkum.
3. Þóknun Straums fyrir ábyrgðina verður 3% fyrirfram.Að því undanskildu verða skilmálar ábyrgðarinnar þeir sömu og í samningi um ádráttarlínuna." Ekki hafa orðið verulegar breytingar á rekstri né eignarhaldi félagsins á árinu 2009.
8.12.3.35 Penninn ehf. og tengd félög
Áhættuskuldbindingar október 2008: 11,1 milljarður króna.
Penninn ehf. (nú GPI ehf.) átti og rak verslanir Eymundssons og Pennans, Saltfélagið og kaffihúsakeðjuna Te og kaffi. Auk þess átti Penninn helmingshlut í Habitat á Íslandi, meirihluta í húsgagnafyrirtækinu Coppa í Lettlandi, rekstrarvörukeðjuna Daily Service sem starfar í Eistlandi, Lettlandi og Litháen og kaffiframleiðandann Melna Kafija í Lettlandi, auk fleiri fyrirtækja.
Penninn ehf. var að 35,9% í eigu Tírufjárfestinga ehf. og að 61% í eigu þriggja erlendra eignarhaldsfélaga, sem skráð eru í Lúxemborg,þ.e.Aikito Eng 26,6%,Puba Trading 19,5%,Blue Sky 14,9% og loks Járnfrúarinnar ehf.með 3,1% eignarhlut.Eigendur Tírufjárfestinga ehf. voru Kristinn Vilbergsson 52%, Þórður Hermann Kolbeinsson 40% og Friðrik Smári Friðriksson 8%. Önnur eignarhaldsfélög sem eru tengd Pennanum ehf. eru AN Holding ehf., Smárar ehf. og Café Holding ehf.
Kristinn Vilbergsson var forstjóri Pennans og lengst af var Stefán Friðfinnsson stjórnarformaður eða þar til 18. apríl 2008. Aðrir stjórnarmenn voru Ómar Benediktsson og Vilberg Vilbergsson. Á tímabilinu janúar 2007 til október 2008 hækkuðu skuldir Pennans og tengdra félaga um 9,7 milljarða króna. Í evrum hækkuðu skuldbindingar félaganna um 61,7 milljónir eða um 418%:
Nýjar lánveitingar samkvæmt ákvörðun lánanefnda námu 6 milljörðum króna. Andvirði þessara lána var ráðstafað til verðbréfakaupa (3 ma.kr.) og til rekstrar (3 ma.kr.). Endurfjármögnun eldri lána og framlengingar á tímabilinu námu samtals 8,0 milljörðum króna sem svarar til 571% af skuldastöðu í upphafi tímabilsins.
Til tryggingar nýjum lánveitingum voru 6,0 milljarðar króna í verðbréfum, þ.e. hlutabréf í yfirteknum félögum á Íslandi og í Finnlandi, Lettlandi og Litháen. Loks var Penninn í sjálfskuldarábyrgð fyrir stórum hluta fyrirgreiðslna til tengdra félaga. Á fundi lánanefndar Kaupþings 1. mars 2007 er tekin fyrir beiðni Pennans um fjármögnun á finnsku skrifstofuvörufyrirtæki. Kaupþing samþykkir að lána fyrir öllu kaupverðinu að viðbættum kostnaði vegna kaupanna:
"Penninn hf. hyggst kaupa finnska fyrirtækið Tamore, kaupverðið er EUR 17m.
Beiðnin er tvíþætt:
- EUR 6,5 m lán fyrir 35% eiginfjárframlagi, með frekari skuldsetningu Pennans
- EUR 12 m lán til að fjármagna yfirtökuna.
Vegna þessa er óskað eftir því að Kaupþing fjármagni yfirtökuna 100% með EUR 18,5 m láni, lántökukostnaður innifalinn."
Á fundi lánanefndar Kaupþings 18. september 2007 er samþykkt að endurfjármagna þáverandi skuldir Pennans ásamt því að veita nýtt lán:
"Heildarskuldir hjá Kaupþingi eru 2,3 ma.kr. en verði orðið við beiðninni, verða þær 3,1 ma.kr [...] Óskað er samþykkis fyrir 800 mkr. láni, 500 mkr. til að kaupa hlutabréf í AN Holding og 300 mkr. til að fjármagna skammtímalán. Að því frágengnu óskar Penninn eftir endurfjármögnun núverandi lána."
Á lánanefndarfundi Sparisjóðabankans 20. apríl 2007 er tekin fyrir beiðni AN holding ehf. um fyrirgreiðslu: "AN Holding ehf. Upphafleg beiðni var um millilagslán allt að 4m. EUR til 12 mánaða á LIBOR +8,5%. Rétt fyrir fundinn kom upp sú staða að Hansabank sem er með grunnlánið næði e.t.v. ekki að fjármagna dæmið fyrir næsta föstudag." Á fundi lánanefndar 3. maí 2007 er samþykkt að taka yfir fjármögnun vegna skuldsettrar yfirtöku á Daily Service UAG skrif>
stofuvörufyrirtæki í Litháen í maí 2007, samtals 12,4 milljónir evra:
"[...] samþykkti lán að fjárhæð A) EUR 7,4 m. lánstími 12 mán, kjör: LIBOR/EURIBOR 3,5% B) EUR 4m lánstími 12 mán, kjör LIBOR/EURIBOR 6,8%, tryggingar; Handveð í öllum hlutabréfum lántaka AN Holding ehf."
Í maí 2008 eru vanskil AN Holding ehf. og annarra félaga tengdra Pennanum við Sparisjóðabankann komin í 1,6 milljarða króna. Frá maí til september 2008 eru félögunum engu að síður veitt ný lán að fjárhæð tæplega 1 milljarður króna og skammtímaskuldir framlengdar ítrekað.
Á lánanefndarfundi Sparisjóðabankans 18. september 2008 er eftirfarandi samþykkt:
"AN Holding,AN samþykkti framlengingu á lánasamningi að fjárhæð 1.687 m.kr.lánstími til 30.10.2008,kjör LIBOR +6,8% á 4m EUR og 3,5% á 7,5 m.EUR. Samþykkt með þeim skilyrðum að ábyrgðir frá sparisjóðum eða öðrum fjármálastofnunum muni dekka stórar áhættuskuldbindingar."
Félög tengd Pennanum ehf. virðast hafa verið í mikilli fjárþörf á tímabilinu og ekki haft neina burði til að standa við skuldbindingar sínar við Kaupþing og Sparisjóðabankann og því þurft ítrekað að óska eftir framlengingum og endurfjármögnun lána. Sparisjóðabankinn þurfti ítrekað að afla ábyrgðar frá öðrum sparisjóðum eða fjármálastofnunum þar sem skuldbindingar félagsins og tengdra aðila voru komnar yfir leyfileg mörk stórra áhættuskuldbindinga bankans. Undir lok árs 2008 hófst endurskipulagning á félaginu og varð niðurstaðan sú að Nýi Kaupþing banki yfirtók rekstur Pennans í mars 2009.
8.12.3.36 Nordcar og tengd félög
Áhættuskuldbindingar október 2008: 6 milljarðar króna.
Nordcar Holding var stofnað á árinu 2007 af RedSquare Invest og Norvest til að kaupa Östergaard Biler, sem er eitt stærsta bílaleigufyrirtæki Danmerkur. Straumur fjármagnaði kaupin. Östergaard Biler hefur frá árinu 1989 verið rekið undir sérleyfi frá Europcar. RedSquare Invest var í ársbyrjun 2007 sjötti stærsti hluthafi Glitnis. Norvest Invest átti 2,6% hlut í Bakkavör og var auk þess sjöundi stærsti hluthafi Kaupþings.
Eigendur RedSquare Invest eru Jón Snorrason og Sturla Snorrason. Framkvæmdastjórar voru Sveinn Biering Jónsson og Hlíf
Sturludóttir. Eigandi Norvest Invest er Straumborg ehf., en það félag er í eigu Jóns Helga Guðmundssonar og hans fjölskyldu. Á tímabilinu janúar 2007 til október 2008 hækkuðu skuldir Nordcar og tengdra félaga um 6,0 milljarða króna. Í evrum hækkuðu skuldbindingar um 41,2 milljónir: Nýjar lánveitingar samkvæmt ákvörðun lánanefnda námu 5,8 milljörðum króna á tímabilinu. Andvirði þessara lána var ráðstafað til rekstrar. Til tryggingar nýjum lánveitingum voru tekin veð í bílaleigubílum, samtals 5,8 milljarðar króna. Lánin voru veitt 23. febrúar 2007 til kaupa á Europcar Denmark. Lántaki var félag að hálfu í eigu RedSquare Invest og að hálfu í eigu Norvest Invest. Félagið yfirtók síðan Östergaard Biler og Nordcar A/S (Europcar). Meðfylgjandi er útdráttur um lánveitinguna úr lánanefndarkynningu Straums:
"Fyrirtækjaráðgjöf Straums í Kaupmannahöfn leitaði til lánasviðs með þátttöku og stuðning við Verkefni Norður.Verkefnið fólst í yfirtöku á Östergaard Biler (Europcar), leiðandi bílaleigu í Danmörku. Fyrirtækjaráðgjöf Straums annast ráðgjöf til kaupendanna, RedSquare Invest (50%) og Norvest (50%). Eiginfjárhlutinn nemur alls 50 millj. DKK sem er um 35% af heildarvirði félagsins (að undanskildum fasteignum og veðlánum tryggðum með eignum). Lánasvið sér um brúarlán að fjárhæð 232,5 millj. DKK sem á að greiðast niður í 97,1 millj. eftir 6 mánuði. Brúarlánið greiðist niður með afrakstri af ; A) endurfjármögnun á bílaflota með eignatryggðum veðlánum sem leiðir af sér 117,7 millj. DKK og B) sölu á fasteignum sem leiðir af sér 17,7 millj. DKK. Heildarskuldbindingar til langs tíma verða því 247,1 millj. DKK sem skiptist í: A) Yfirtökufjármögnun 97,1 millj. DKK tryggð með 1. veðrétti í eignarhaldsfélaginu og ábyrgð frá eigendum, og B) eignatryggð veðlán að fjárhæð 150 millj. DKK með 2. veðrétti í Europcar DK, á eftir DnB Nord Bank."
Halla tók undan fæti á síðari hluta ársins 2008 og í september braut félagið fjárhagslega skilmála sem leiddi til þess að lánveitandinn á fyrsta veðrétti, Danske Bank, krafðist fjárhagslegrar endurskipulagningar félagsins. Meðfylgjandi er umfjöllun lánanefndar Straums um málið, fundargerð frá 11. febrúar 2009: "Í mars 2007 sá fyrirtækjaráðgjöf Straums um yfirtöku RedSquare Invest og Norvest (sem síðar sameinaðist Straumborg) á Europcar í Danmörku. Lánasvið Straums veitti 232 millj. DKK lán til yfirtökufélagsins og víkjandi lán að fjárhæð 150 millj. DKK til rekstrarfélagsins. Östergaard Biler (rekstrarfélagið) braut fjárhagslega skilmála lánasamnings í september 2008 sem varð til þess að Danske Bank gerði kröfu á fjárhagslega endurskipulagningu á félaginu í þeim tilgangi að bæta stöðu sína varðandi lán sín til félagsins. Lánasvið gerir þá tillögu að færa rekstrarfélagslánið upp í eignarhaldsfélagið og endurfjármagna það með 50 millj. DKK afborgunarláni og 250 millj. DKK eingreiðslubréfi, ganga að veðum í hlutabréfum í NordCar Holding ApS og ganga á ábyrgðir frá eigendum. Lánanefnd leggur til að Straumur krefjist greiðslu eða trygginga frá báðum ábekingum. Lánasvið mun upplýsa lána- og fjárfestinganefnd um stöðu mála þegar fram líða stundir. Að auki var lánanefnd áhugasöm um að fá 1. veðrétt í NordCar fasteignafélagi."
8.12.3.37 Lindberg ehf. og tengd félög (Magnús Jónatansson)
Áhættuskuldbindingar október 2008: 5,9 milljarðar króna.
Lindberg ehf. og tengd félög eiga það sammerkt að vera að hluta til í eigu Sparisjóðabankans og að hluta til í eigu Magnúsar Jónatanssonar og vera stofnuð utan um hin ýmsu fasteignaverkefni. Lindberg ehf. er stofnað utan um fasteignaverkefni í Örfirisey. Hagalind ehf. var stofnað utan um jarðakaup í Mosfellsbæ, Kambaland ehf. og Kambalind ehf. voru eigendur að landi í Hveragerði.
Eigendur Lindbergs ehf. voru Sparisjóðabankinn með 25% hlut, Magnús Jónatansson með 22,5% hlut, Ólafur Garðarsson með 22,5% hlut og Grettisstiklur (Línuhönnun) með 20% hlut. Hagalind ehf. var 40% í eigu Sparisjóðabankans og 60% í eigu Magnúsar Jónatanssonar. Kambaland ehf. er 50% í eigu Sparisjóðabankans, 37,5% í eigu félaga sem tengd eru Magnúsi Jónatanssyni. Kambalind ehf. er síðan alfarið í eigu Kambalands ehf.
Framkvæmdastjóri Lindbergs ehf. var Ólafur Garðarsson og stjórnarformaður Arinbjörn Friðriksson. Á tímabilinu janúar 2007 til október 2008 hækkuðu skuldir Lindbergs ehf. og tengdra félaga um 4,0 milljarða króna sem greinast þannig eftir lánveitendum. Í evrum hækkuðu skuldbindingar félaganna um 20,2 milljónir eða um 99%:
Nýjar lánveitingar samkvæmt ákvörðun lánanefnda námu 1,5 milljörðum króna á tímabilinu. Andvirði þessara lána var ráðstafað til kaupa á lóðum. Endurfjármögnun eldri lána á tímabilinu nam 0,6 milljörðum króna sem svarar til 32% af skuldastöðu í upphafi tímabilsins. Aukning heildarskuldbindinga nam 4,0 milljörðum króna sem samanstendur af nýjum lánveitingum, afborgunum og gengisbreytingum.
Til tryggingar nýjum lánveitingum voru tekin veð í hlutabréfum eignarhaldsfélaganna og veð í lóðum að fjárhæð 1,5 milljarðar króna. Í fundargerð stjórnar Sparisjóðabankans 16. janúar 2007 er fjallað um lánsloforð bankans til Hagalindar, Kambalands og Kambalindar:
"Um er að ræða fasteignaverkefni í Hveragerði og Mosfellsbæ og nema lán og lánsloforð bankans til verkefnanna nú um 2.065 mkr. en lagt er til að þau megi hæst nema 2.200 mkr. Nokkrar umræður voru um áhættuna sem þeim tengjast og talið óráðlagt að ráðast í frekari fyrirgreiðslu til þeirra en nú er lagt til."
Í fundargerð lánanefndar 14. júní 2007 er samþykkt að hækka fyrirgreiðslu til Lindbergs ehf. úr 1,3 milljörðum króna í 1,5 milljarða króna, sem ráðstafað var til að kaupa land í Örfirisey með það í huga að nýta það til íbúðabyggðar.
Athygli vekur að þegar lánið er veitt var ekki til nýtt skipulag fyrir Örfirisey og því ekki hægt að gera áætlanir um það hvenær uppbygging gæti hafist og því síður hvenær og hvort fjárfestingin myndi skila tekjum fyrir bankann. Í ljósi þessa verður að telja að töluverð óvissa og áhætta hafi fylgt verkefninu.
Í skýrslu um stærstu útlán Sparisjóðabankans sem dagsett er 24. febrúar 2009 kemur fram að stjórnendur bankans voru vel meðvitaðir um áhættuna sem tengdist útlánum til félaga er tengdust Magnúsi Jónatanssyni:
"Að sögn bankastjóra var ljóst þegar farið var í þessar fjárfestingar að einu veðin sem yrðu á bak við þessi verkefni væru þau lönd sem voru fjármögnuð í upphafi. Því var það meðvituð ákvörðun að kalla ekki eftir auknum tryggingum þrátt fyrir að tryggingaþekja væri undir viðmiðum (125%). Stjórnendur gerðu sér grein fyrir því að bankinn væri að taka alla áhættuna.Verið var að fjárfesta í tækifæri sem Magnús Jónatansson átti hugmyndina að."
Við útgáfu skýrslu rannsóknarnefndarinnar veit nefndin ekki til þess að breytingar hafi orðið á rekstri eða eignarhaldi á félögum innan samstæðunnar.
8.12.3.38 Scanbox Entertainment Group
Áhættuskuldbindingar október 2008: 5,8 milljarðar króna.
Scanbox Entertainment Group var kvikmyndafyrirtæki í Danmörku. Félagið var í hópi stærstu dreifingaraðila á kvikmyndum á Norðurlöndum og átti einnig safn norrænna kvikmynda. Sigurjón Sighvatsson keypti meirihluta í félaginu í ársbyrjun 2006 en sumarið 2007 tók hann félagið alfarið yfir með fjármögnun frá Straumi. Ráðgjafar Sigurjóns við fyrri kaupin voru FIH, dótturfélag Kaupþings. Einn liður í þeirri framkvæmd var að Kaupþing fékk "rétt" (warrant) að 25% af bréfum í Scanbox Entertainment Holding A/S.
Á tímabilinu janúar 2007 til október 2008 kemur til fyrirgreiðsla Straums við Scanbox, alls um 5,8 milljarðar króna eða 39,9 milljónir evra:
Nýjar lánveitingar samkvæmt ákvörðun lánanefnda námu 3,3 milljörðum króna. Andvirði þessara lána var ráðstafað til verðbréfakaupa.
Straumur kemur að yfirtöku og endurfjármögnun á Scanbox í júní 2007 með láni að fjárhæð 285 milljónir DKK. Meðfylgjandi er úr kynningargögnum lánanefndar bankans frá 29. júní 2007:
"Scan Ehf., meirhlutaeigandi SEH, hefur haft samband við STRB Corporate Finance Copenhagen vegna fyrirhugaðrar yfirtöku á Blockbuster Denmark, einni stærstu mynda- og leikjaleigu í Danmörku. Auk yfirtökunnar stefnir Scan Ehf. að því að auka eignarhlut sinn í SEH með því að taka við kaupheimildum hjá Kaupþingi. SEH vill einnig endurfjármagna núverandi skuld sína í Kaupþingi. STRB C hefur rætt við STRB Debt Finance Copenhagen varðandi endurfjármögnun á SEH hjá Kaupþingi.Við teljum, að hér sé á ferðinni gott viðskiptatækifæri burtséð frá því hvort af yfirtöku Blockbuster verður Lánsbeiðnin í stuttu máli:
- DKK 50 m til Scan Ehf. (SCAN) – Yfirtökulán 5 ára kúla Libor +3,00% +2,50 uppsafnað
- DKK 16,50 m til Scanbox Entertainment Holding A/S (SEH) – Endurfjármögnunarlán, 5 ára kúla Libor +3,00%
- DKK 195 m til Scanbox Entertainment Group A/S (SEG) – Endurfjármögnunarlán, 5 ára (Amort) Libor +2,50% DKK 23,50 m til Scanbox Entertainment Group A/S (SEG) – CAPEX lán 5 ára kúla Libor +0,00% +4,00% uppsafnað."
8.12.3.39 Suðurnesjamenn ehf. og tengd félög
Áhættuskuldbindingar október 2008: 5,7 milljarðar króna.
Suðurnesjamenn ehf. var stofnað snemma á árinu 2007 til að kaupa hlut íslenska ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja en þegar það gekk ekki eftir fjárfesti félagið í Sparisjóði Keflavíkur, Sparisjóðabankanum og Bláa lóninu. Önnur félög sem flokkuð eru með Suðurnesjamönnum ehf. eru SM1 ehf. og Bakvörður ehf.
Við stofnun Suðurnesjamanna ehf. voru eigendur félagsins fimm og allir með jafnan eignarhlut, þ.e. Kaupfélag Suðurnesja (svf.), Nesfiskur ehf.,Vísir hf., Gnúpverjar ehf. og Hvatning ehf. Á tímabilinu breytist eignarhaldið og kemur Sparisjóður Keflavíkur inn í hluthafahópinn.
Stjórnarformaður Suðurnesjamanna ehf. var Eiríkur Tómasson. Lengst af var Grímur Karl Sæmundsen framkvæmdastjóri félagsins eða þar til 31. mars 2008.
Á tímabilinu janúar 2007 til október 2008 hækkuðu skuldir Suðurnesjamanna og tengdra félaga um 5,6 milljarða króna. Í evrum hækkuðu skuldbindingar félaganna um 38,3 milljónir:
Nýjar lánveitingar samkvæmt ákvörðun lánanefnda námu 4,7 milljörðum króna á tímabilinu (Sparisjóðabankinn 4,1 ma.kr. og SPRON 0,6 ma.kr.). Andvirði þessara lána var ráðstafað til verðbréfakaupa, þ.e. til kaupa á hlutum í Sparisjóði Keflavíkur (SpKef) og SPRON.
Tryggingar fyrir framangreindum fyrirgreiðslum voru veð í bréfum Sparisjóðabankans, SPRON og SpKef.
Suðurnesjamenn ehf. og tengd félög voru vensluð Sparisjóðabankanum vegna eignarhlutar Sparisjóðsins í Keflavík í Suðurnesjamönnum ehf. og tengdum félögum. Grímur Sæmundsen var lengst af framkvæmdastjóri Suðurnesjamanna og sat jafnframt í stjórn Sparisjóðabankans. Geirmundur Kristinsson var sparisjóðsstjóri í Sparisjóðnum í Keflavík ásamt því að vera stjórnarformaður bankaráðs Sparisjóðabankans. Suðurnesjamenn og tengd félög voru einn af stærri lántakendum Sparisjóðabankans.
Suðurnesjamenn ehf., SM 1 ehf. og Bakvörður ehf. fengu upphaflega fyrirgreiðslu frá Sparisjóðabankanum í formi framvirks samnings vegna kaupa á stofnbréfum Sparisjóðs Keflavíkur.Tryggingarnar fyrir framangreindum fyrirgreiðslum voru veð í keyptum hlutum. Í kjölfar vanefnda félaganna var samningunum breytt í útlán 2. júlí 2008 og skuldir Suðurnesjamanna og tengdra aðila færðar niður um 2,1 milljarð króna.
Lánanefnd Sparisjóðabankans samþykkti á fundi sínum 6. desember 2007 fyrirgreiðslu vegna kaupa sex aðila á hlutum í bankanum, þar á meðal er SM1 ehf. sem var að 100% í eigu Suðurnesjamanna:
"FS [Finnur Sveinbjörnsson] samþykkir 6 erlend lán vegna þátttöku bankans í lánveitingum til kaupa á hlutafé í bankanum [...] SM1 ehf. fjárhæð 527.772.141 kr."
Sparisjóðurinn í Keflavík átti á þessum tíma 13,9% hlut í Suðurnesjamönnum ehf., ásamt því að eiga 15,2% hlut í Sparisjóðabankanum.
Á lánanefndarfundi Sparisjóðabankans 12. febrúar 2008 er gerð grein fyrir undirbúningi lánafyrirgreiðslu til Suðurnesjamanna ehf. og Bakvarðar ehf., sbr. eftirfarandi:
"Lánin gætu numið andvirði allt að 2.900 mkr. til Suðurnesjamanna ehf. og allt að 700 mkr. til Bakvarðar ehf. í erlendum myntum. Þau verða 3ja ára kúlulán með 6,00% álagi á LIBOR/EURIBOR og að lántökugjald verði 0,5%. Þar sem báðir þessir aðilar eru venslaðir bankanum eru lánin til endanlegrar afgreiðslu í bankaráðinu."
Framangreind fyrirgreiðsla er til umfjöllunar á fundum bankaráðsins 5. og 19. febrúar 2008 og svo aftur á fundi bankaráðs 6. mars 2008 þar sem bankaráðið samþykkir lánveitinguna. Á árinu 2008 þurfti Sparisjóðabankinn ítrekað að óska eftir ábyrgðum frá öðrum sparisjóðum vegna lána Suðurnesjamanna og tengdra aðila þar sem lán þeirra voru komin yfir leyfileg mörk stórra áhættuskuldbindinga.
Samkvæmt fundargerðum lánanefndar SPRON eru heimildir fyrir um 630 milljóna króna lánveitingu til Suðurnesjamanna. Í september 2007 er farið fram á hækkun á útlánamörkum í 1.850 milljónir króna sem ekki er samþykkt, en þá eru heildarskuldir Suðurnesjamanna við SPRON komnar í 1.737 milljónir króna.
Suðurnesjamenn ehf. var úrskurðað gjaldþrota 4. mars 2009.
8.12.3.40 Brautarholt 20 ehf. og tengd félög
Áhættuskuldbindingar október 2008: 4,1 milljarður króna.
Brautarholt 20 ehf. og tengd félög eiga og reka ýmsar fasteignir á Íslandi. Helstu félögin og einstaklingar sem tengjast Brautarholti 20 ehf. eru Strengur byggingar ehf., Strengur fjárfestingar ehf., Parket ehf., Þórarinn Arnar Sævarsson og Ívar Ómar Atlason.
Brautarholt 20 ehf. er í helmingseigu Ívars Ómars Atlasonar, framkvæmdastjóra félagsins, og Þórarins Arnars Sævarssonar, stjórnarformanns félagsins. Strengur fjárfestingar ehf. er að 40% í eigu Steinsness, dótturfélags SPRON. Strengur byggingar ehf. er að 40% í eigu Ívars Ómars Atlasonar, 40% í eigu Þórarins Arnars Sævarssonar og 20% í eigu Fasteignafélagsins Hlíðar ehf. sem er að fullu í eigu Frjálsa fjárfestingarbankans hf.
Á tímabilinu janúar 2007 til október 2008 hækkuðu skuldir Brautarholts og tengdra félaga um 2,7 milljarða króna. Í evrum hækkuðu skuldbindingar um 13,2 milljónir eða 86%: Nýjar lánveitingar samkvæmt ákvörðun lánanefnda námu 1,4 milljörðum króna á tímabilinu. Andvirði þessara lána var ráðstafað til kaupa á fasteignum og til rekstrar. Til tryggingar nýjum lánveitingum eru fasteignir í eigu félaganna. Í mars 2007 samþykkir bankaráð SPRON lánaramma fyrir Brautarholt 20 ehf. og tengd félög upp á 1,45 milljarða króna til ýmissa verkefna, heildarskuldbindingar Brautarholts 20 ehf. og tengdra félaga voru þá þegar komnar í 1,4 milljarða króna. Í apríl samþykkir lánanefnd ný mörk á Streng fjárfestingar vegna kaupa á Remax-sérsöluleyfum, sbr. fundargerð lánanefndar SPRON frá 12. apríl 2007:
"Óskað er eftir lánamörkum á félagið vegna kaupa á Remax sérsöluleyfum í Evrópu, um er að ræða 49% hlut í Remax London, 51% hlut í Remax UK-South og 50% hlut í Remax-Baltic og Remax Finland. Spron fer með 40% eignarhlut í Streng fjárfestingum ehf. þar sem Steinsnes, dótturfélag SPRON, er eigandi þess hlutar í félaginu, félagið þarf að greiða í þrepum greiðslur vegna kaupanna eins og hér segir: 10.04.07- 200.000 pund, 31.07.07 – 250.000 pund, og 31.12.07 ca. 300.000 pund. Heildarþörf á fjármögnun á árinu er því 1.000.000 pund til viðbótar við það sem félagið er með í yfirdráttarskuld sem færð verður yfir í lánssamning.Tryggingar eru handveð í eignarhlutum Þórarins og Gunnars í Norðurhlíð fasteignafélagi ehf. og Streng byggingum ehf. Fyrirtækjaráðgjöf SPRON hefur unnið verðmat á þessum eignarhlutum og metið það samtals á 236 mkr. Lánamörk félagsins óskast sett 200 mkr. til 04.04.08."
Í september 2007 er heildarlánveiting SPRON til Brautarholts og tengdra aðila komin yfir 14,4% af CAD hlutfalli en stefna SPRON hafði verið að enginn einn skuldari færi yfir 10%. Engu að síður aukast skuldir samstæðu Brautarholts um 1,6 milljarða króna frá því að þetta er bókað á stjórnarfundi bankans.
8.12.3.41 Víking ehf. og tengd félög
Áhættuskuldbindingar október 2008: 3,5 milljarðar króna.
Víking og tengd félög eiga og reka fasteignir á höfuðborgarsvæðinu. Félög tengd Víking ehf. eru Norðurhlíð fasteignafélag ehf. og
Hraunbær 107 ehf. Eigendur og stjórnendur félaganna eru Ágúst Bjarnason og Sigurður Þ. Sigurðsson. Á tímabilinu janúar 2007 til október 2008 hækkuðu skuldir Víking og tengdra félaga um 1,5 milljarða króna. Í evrum hækkuðu skuldbindingar félaganna um 2,7 milljónir eða 13%: Nýjar lánveitingar samkvæmt ákvörðun lánanefnda námu 1,1 milljarði króna á tímabilinu. Andvirði þessara lána var ráðstafað til kaupa á fasteignum og til rekstrar. Tryggingar fyrir lánveitingum eru fasteignir félaganna. Víking ehf. og tengd félög eru meðal stærstu lántakenda SPRON. Í mars 2007 eru félögin þegar komin í vanskil hjá bankanum, sbr. bókun á lánanefndarfundi 1. mars 2007: "Útibúinu er kunnugt um vanskilastöðu en mælir með þessu engu að síður.Allar skuldbindingar félaganna eru vel tryggðar og þau hafa skilað inn miklum tekjum til útibúsins."
Á fundi lánanefndar SPRON 10. september 2007 er samþykkt beiðni Norðurhlíðar fasteignafélags ehf. um hækkun á útlánamörkum:
"Í ljósi hækkunar verðmats á Plastprenthúsið óskar félagið eftir 375 mkr. erlendu kúluláni með vaxtageiðslu til þriggja ára. Með þessu vill félagið nýta veðrými eignarinnar í ný og arðsöm verkefni. [...] Fjármuni mun félagið m.a. nýta sem eiginfjárframlag í önnur verkefni; við kaup á fasteignum og hlutabréfum."
Þann 18. október 2007 er beiðni félagsins um hækkun á útlánamörkum tekin fyrir en búið var að samþykkja beiðnina milli funda:
"Félögin hafa alla tíð verið gríðarlega arðsöm fyrir SPRON sökum þess að oftar en ekki liggja gjalddagar í vanskilum með tilheyrandi kostnaði.... Félagið óskar eftir 100% fjármögnun á lóðinni Hesthálsi 15. .... Lánamörk óskast hækkuð og sett 1.100 mkr. til 01.06.2008."
Í lok árs, 30. desember 2008, er tekin fyrir beiðni félagsins um ný lánamörk fyrir Víking og tengd félög og að láni félagsins verði ekki breytt í íslenskar krónur:
"Fasteignir félaganna hafa ekki verið uppfærðar í ársreikningi og eru bókfærðar þar á upphaflegu kaupverði. Því er klárlega dulið eigið fé í fastafjármunum félaganna. [...] erlendu láni 472 verði ekki myntbreytt að sinni þannig að eigendur nái hugsanlega gengistapinu til baka að einhverju leyti.Að öðrum kosti er enginn hvati eigenda til þess að halda áfram með félagið og hámarka arðsemi þess. Ný lánamörk óskast sett í 1.100 mkr. til 01.06.2009."
Í lok þriðja ársfjórðungs voru heildarskuldir Víking og tengdra félaga komnar í 3,5 milljarða króna og því er framangreind samþykkt í engu samræmi við raunverulega stöðu félagsins hjá SPRON. Eignatengsl eru á milli Norðurhlíðar fasteignafélags og Strengs fjárfestingafélags ehf. sem er tengt félögum í eigu Ívars Ómars Atlasonar og Þórarins Arnars Sævarssonar sem eiga og stjórna félögum tengdum Brautarholti 20 ehf.,sem fjallað er um hér að framan.
8.12.3.42 Eignarhaldsfélagið Kirkjuhvoll ehf. og tengd félög
Áhættuskuldbindingar október 2008: 3,3 milljarðar króna.
Eignarhaldsfélagið Kirkjuhvoll ehf. var stofnað 1995. Félagið á og rekur fasteignir, þar á meðal eru höfuðstöðvar Olíuverslunar Íslands í Sundagörðum og nýbygging við Tryggvagötu.Í maí 2009 var nafni félagsins breytt í Eignarhaldsfélagið Vindasúlur ehf.Önnur tengd félög eru Kirkjuhvoll sf. og Eignasmiðjan ehf.
Eigendur og stjórnendur félaganna voru Karl Steingrímsson og Ester Ólafsdóttir. Á tímabilinu janúar 2007 til október 2008 hækkuðu skuldir félaga sem tengdust Karli Steingrímssyni um 2,3 milljarða króna. Í evrum hækkuðu skuldbindingar félaganna um 12,0 milljónir eða um 115%: Nýjar lánveitingar samkvæmt ákvörðun lánanefnda námu 2,3 milljörðum króna.Andvirði þessara lána var ráðstafað til rekstrar og til kaupa á fasteignum. Aukning heildarskuldbindinga nam þannig 2,3 milljörðum króna.
Stærsta lánveiting á tímabilinu er fyrirgreiðsla frá Kaupþingi að fjárhæð 1,1 milljarður króna í júlí 2007. Lánið var veitt til kaupa á höfuðstöðvum Olíuverslunar Íslands við Sundagarða 2 í Reykjavík. Kaupverðið var um 1,2 milljarðar króna.Að öðru leyti er félagið í mestum viðskiptum við SPRON á tímabilinu og er félagið eitt af stærri einstökum viðskiptavinum bankans. Meðfylgjandi er úr fundargerð lánanefndar Kaupþings frá 26. júlí 2007:
"Eignarhaldsfélagið Kirkjuhvoll ehf., sem er í eigu Karls Steingrímssonar, fer fram á lán að upphæð ISK 1,075 ma.kr. til að kaupa fasteign í Sundagörðum 2, sem er í eigu Olíuverslunar Íslands. Kauptilboð er ISK 1,225 ma.kr. og lánsbeiðnin er ISK 1,075 ma.kr. Lánanefnd samþykkti eftirfarandi: Kúlulán ISK 980 m, lánstími 2 ár með möguleika á framlengingu í eitt ár, álag L+1,65%, framlengingargjald 0,25%, umsýslugjald 0,5-1,0% og uppgreiðslugjald 0,25%.Trygging verður veð í eigninni Sundagörðum 2, matsverð 1,22 ma.kr., veð í leigusamningum og leigugjaldi. Eða kúlulán, 1.075 m, lánstími 2 ár og möguleiki á eins árs framlengingu, álag L+1,65%, framlengingargjald 0,25%, umsýslugjald 0,5-1,0% og uppgreiðslugjald 0,25%.Tryggingar verða þá veð í hinni keyptu eign í Sundagörðum 2, matsverð ISK 1,22 ma.kr., veð í leigusamningum og leigugjaldi og veð í öðrum eignum Karls Steingrímssonar, metnar á ISK 95 m a.m.k."
8.12.3.43 Zegna III Holdings Inc.
Áhættuskuldbindingar október 2008: 2,9 milljarðar króna.
Zegna III Holdings Inc. er breskt félag sem stofnað var til að kaupa fasteign í Belgravia-hverfinu í London um mitt ár 2007. Hugmyndin var að breyta húsinu, sem áður hýsti breska Rauða krossinn, í 14 lúxusíbúðir enda er húsið í einu af betri hverfunum í London. Áætlað var að verkefnið myndi klárast 2009 en í febrúar 2009 var ljóst að það myndi a.m.k. tefjast fram í mars 2010.
Zegna III Holdings Inc. var að fullu í eigu Nuevitas International Holdings, sem er að fullu í eigu Alastair Cunningham. Simon Kelly er stjórnarformaður og framkvæmdastjóri Zegna III Holdings Inc.
Á tímabilinu janúar 2007 til október 2008 hækkuðu skuldir Zegna III Holdings Inc. um 2,9 milljarða króna. Í evrum hækkuðu skuldbindingar félagsins um 20,2 milljónir:
Nýjar lánveitingar samkvæmt ákvörðun lánanefnda námu 1,6 milljörðum króna. Andvirði þessara lána var ráðstafað til endurbyggingar á fasteign í miðborg Lundúna.
Til tryggingar láninu er annar veðréttur í keyptri fasteign í London á eftir Royal Bank of Scotland (RBS), sem var aðallánveitandi verkefnisins.
Á fundi lánanefndar Sparisjóðabankans 1. ágúst 2007 var tekin fyrir beiðni Zegna um fyrirgreiðslu undir liðnum Lánamál: Lagt fyrir fund til samþykktar:
"FS samþykkti millilagslán að fjárhæð 10,5 m.GBP. Lánstími 30 mánuðir, vextir 20% greiðast með höfuðstólsgreiðs.........
Tryggingar: 2. veðréttur í fasteignum á eftir RBS."
Þann 4. október 2007 er samþykkt á fundi lánanefndar að hækka fyrirgreiðslu til Zegna um 2 milljónir punda eða í 12,5 milljónir punda.
Í útlánaskýrslu sem unnin var af starfsmönnum Sparisjóðabankans og birt 24. febrúar 2009 kemur fram að bankinn hafi lítið sem ekkert svigrúm til að bregðast við breyttum aðstæðum á fasteignamarkaði í tilviki Zegna III Holdings þar sem bankinn sé á öðrum veðrétti og veðrými sé lítið. Sá banki, sem sé á fyrsta veðrétti, sem í þessu tilviki er RBS, stjórni að mestum hluta allri ákvörðunartöku. Eiginfjárframlag til verkefnisins var um 4% og því verður að telja að verkefnið hafi falið í sér töluverða áhættu fyrir Sparisjóðabankann.
8.12.3.44 Eignarhaldsfélagið Arev og tengd félög
Áhættuskuldbindingar október 2008: 2,7 milljarðar króna.
Eignarhaldsfélagið Arev ehf. heldur utan um félög sem eru að fullu eða að hluta til í eigu félaga sem tengd eru Jóni Scheving Thorsteinssyni. Helstu eignir félagsins eru Arev verðbréfafyrirtæki hf., einkafjármagnssjóðurinn Arev N1 ehf. og Wine Holding ehf.
Einkafjármagnssjóðurinn Arev N1 ehf. er að 67% í eigu Eignarhaldsfélagsins Arev ehf. og að 33% í eigu Sparisjóðabankans. Sjóðurinn fjárfestir í óskráðum vaxtarfyrirtækjum, aðallega á sviði heildsölu, smásölu og þjónustu.Verðmætasta eign sjóðsins er eignarhlutur félagsins í Áltaki. Önnur fyrirtæki sem sjóðurinn á í eru Next, Emmessís,Yggdrasill, Sævar Karl, Kraum og Agóra.
Eignarhaldsfélagið Arev ehf. er að 60% í eigu JST Holding ehf., sem er að 90% í eigu Jóns Schevings Thorsteinssonar, sem jafnframt er stjórnarformaður félagsins.
Á tímabilinu janúar 2007 til október 2008 hækkuðu skuldir Eignarhaldsfélagsins Arev ehf. og tengdra félaga um 2,7 milljarða króna. Í evrum hækkuðu skuldbindingar félaganna um 18,6 milljónir:
Nýjar lánveitingar samkvæmt ákvörðun lánanefnda námu 3,9 milljörðum króna á tímabilinu. Andvirði þessara lána var ráðstafað til verðbréfakaupa (3,4 ma.kr.) og til rekstrar (0,5 ma.kr.). Til tryggingar nýjum lánveitingum voru tekin veð í hlutabréfum eignarhaldsfélaganna að fjárhæð 3,0 milljarðar króna, sjálfskuldarábyrgð eigenda 0,5 milljarðar króna og lán án sérgreindra trygginga voru 0,4 milljarðar króna.
Stærsta einstaka skuld Eignarhaldsfélagsins Arev og tengdra félaga er skuld Wine Holding ehf. við Sparisjóðabankann sem stóð í lok tímabilsins í 1,1 milljarði króna.Wine Holding ehf. var stofnað í kringum skuldsetta yfirtöku á lettnesku vínheildsölufyrirtæki, SIA Interbaltija.Kaupandinn var SIA Wine Holding en lántaki Wine Holding ehf.,sem er að 40% í eigu Eignarhaldsfélagsins Arev ehf., 40% í eigu Tírufjárfestinga ehf.og 20% í eigu Vesturhafnar ehf.Tryggingar fyrir láninu voru fyrsti veðréttur í hlutafé Wine Holding ehf.
Fyrirgreiðsla til Wine Holding ehf.var tvískipt,fyrri hluti lánsins var samþykktur á fundi lánanefndar 19.nóvember 2007 og síðari hlutinn 15. janúar 2008, sbr. eftirfarandi:
"19. nóvember 07 – Wine Holding ehf. samþykkt 6,1 mEUR lán:
a) 3mEUR til 3 ára vextir greiddir 6 mán fresti, kúla – libor +3,95%
b) 2mEUR til allt að 7 ára, afborganir - libor +3,4%
c) 1,1mEUR mezzanine lán til 2ja ára kúla með pik vöxtum libor +8%
Tryggingar: 1. veðréttur í öllu hlutafé Wine Holding ehf.
15. janúar 08 – Wine Holding samþykkir lán 7mEur og ábyrgð á að hámarki 3,5mEUR
a) 3.5mEUR til 3 ára vextir greiddir 6 mán fresti, kúla – libor +3,95%
b) 2.5mEUR til allt að 7 ára, afborganir - libor +3,4%
c) 1 mEUR mezzanine lán til 2ja ára kúla með pik vöxtum libor +8%
Tryggingar: 1. veðréttur í öllu hlutafé Wine Holding ehf.
Ábyrgð 3,5 mEUR sem stendur til loka júní 2008."
8.12.3.45 14 sp/f.
Áhættuskuldbindingar október 2008: 2,1 milljarður króna.
14 sp/f er færeyskt fjárfestingarfélag sem kom í viðskipti við SPRON í framhaldi af kaupum þess á stofnfjárhlutum í SPRON. Eigendur 14 sp/f eru Gunnar Mohr og Poul Zvonko.
Á tímabilinu janúar 2007 til október hækkuðu skuldir 14 sp/f um 2,1 milljarð króna. Í evrum hækkuðu skuldbindingar félagsins um 14,4 milljónir:
Nýjar lánveitingar samkvæmt ákvörðun lánanefnda námu 1,7 milljörðum króna. Andvirði þessara lána var ráðstafað til verðbréfakaupa.
Skuldir 14 sp/f eru upphaflega komnar til þegar dótturfélagi þess, íslenska félaginu 14 ehf., er veitt 1 milljarðs króna lán til að kaupa hluti í færeyska bankanum Eik Banka. Í desember 2007 eru lánamörk 14 sp/f hækkuð í 1,25 milljarða króna og aftur á fundi lánanefndar SPRON 25. ágúst 2008:
"Hækka þarf lánamörk á félagið í 1700 mkr vegna veikingar á ikr síðustu mánuði. [...] eignir félagsins eru í erlendum myntum (DKR) sama á við um skuldir félagsins. Gengi isk hefur því ekkert að segja með rekstur félagsins, reikna má þó með því að aðstæður á eignamarkaði í Færeyjum séu svipaðar og á Íslandi. ATH gjaldfellingarákvæði í lánasamningi kveða á um 110% tryggingarþekju, ákvæði þessu hefur meðvitað ekki verið framfylgt."
8.12.3.46 Knightscross Ltd., Bákn ehf. og Investum Holding ehf.
Áhættuskuldbindingar október 2008: 1,6 milljarðar króna.
Knightscross Ltd. er félag sem stofnað var utan um fjárfestingu á fasteign í London. Knightscross Ltd., Bákn ehf. og Investum Holding ehf. eiga það sameiginlegt að tengjast Brandi Thor Ludwig á einn eða annan hátt.
Bákn ehf.er að fullu í eigu Thor Ventures ApS,sem er að fullu í eigu félagsins Thor Investment Ltd.á Kýpur,sem er í eigu Brands Thor Ludwig og Önnu Margrétar Rögnvaldsdóttur. Knightscross Ltd. er að hluta til í eigu SJ Properties Knightsbridge Ltd. sem er í eigu Knightsbridge ehf. (áður SJ Properties Knightsbridge ehf.), sem er að 62% í eigu Bákns ehf. og 38% í eigu SJ fasteigna ehf. SJ fasteignir ehf. eru að fullu í eigu Sjóvár-Almennra trygginga hf. Investum Holding ehf. er í eigu Sigurðar Hrafns Kiernan, 40%, Brands Thor Ludwig, 40%, og Guðmundar Björns Árnasonar, 20%.
Á tímabilinu janúar 2007 til október 2008 var stofnað til skuldbindinga við Knightscross og tengd félög að fjárhæð 1,6 milljarðar króna. Í evrum hækkuðu skuldbindingar félaganna um 10,8 milljónir:
Nýjar lánveitingar samkvæmt ákvörðun lánanefnda námu 2,8 milljörðum króna á tímabilinu. Andvirði þessara lána var ráðstafað til kaupa á fasteignum erlendis.
Til tryggingar framangreindum lánveitingum voru tekin veð í fasteignum fyrir 2,0 milljarða króna og 0,8 milljarða króna í hlutabréfum.
Stærsti hluti fyrirgreiðslunnar er lán til Knightscross Ltd. vegna fasteignaverkefnis í London, eða um 1 milljarður króna. Tryggingar fyrir láninu voru annar veðréttur í keyptri eign á eftir Royal Bank of Scotland (RBS). Við lánveitinguna var áætlað að veðsetningarhlutfall væri um 85%. Á árinu 2008 er óskað ítrekað eftir framlengingu lána Knightscross Ltd. og tengdra aðila, meðal annars vegna málssóknar á hendur Knightscross í tengslum við vandræði með leyfi frá borgaryfirvöldum í London.
Á fundi lánanefndar Sparisjóðabankans 6. nóvember 2008 er tekin fyrir beiðni Knightscross um framlengingu undir liðnum Lánamál: Samþykkt á milli funda:
"AH (Agnar Hansson) samþykkti beiðni frá Knightscross Limited um að framlengja lánssamning að fjárhæð GBP 4.600.000 til 31. janúar 2009."
Samhliða framangreindri samþykkt var einnig tekin fyrir breyting á tryggingum í tengslum við lánveitingu Sparisjóðabankans til Knightscross og Bákns ehf.
"AH (Agnar Hansson) samþykkti beiðni frá Bákni um afléttingu á handveði í hlutabréfum Bákns í Keira 1 ehf. sem eru til tryggingar fyrir greiðslu vegna fasteignaverkefnis í Tyrklandi. Í stað ofangreinds veðs fékk bankinn handveð í 49,6% hlut Bákns í Knightsbridge ehf."
8.12.4 Ályktanir rannsóknarnefndar Alþingis
Heildaráhættuskuldbindingar stóru bankanna þriggja, auk Straums, SPRON og Sparisjóðabankans, námu í október 2008 14.250 milljörðum króna og um helmingur þeirra tengdist 246 samstæðum, þ.e. aðilum sem bankarnir tengdu saman samkvæmt reglum um tengda aðila í samræmi við reglur um stórar áhættuskuldbindingar. Rannsóknarnefnd Alþingis ákvað að taka til sérstakrar skoðunar í þeirri úttekt sem lýst er í þessum kafla 46 samstæður sem samanstóðu af 524 aðilum og voru með 22% af áhættuskuldbindingunum eða 3.165 milljarða króna sem svarar til fimmtungs af efnahag fjármálafyrirtækjanna (samstæður) um mitt ár 2008.
Stærstu skuldarar allra stóru viðskiptabankanna voru jafnframt í hópi stærstu eigenda þeirra. Bein tengsl fulltrúa þeirra í stjórnum viðskiptabankanna við æðstu stjórnendur þeirra virðast hafa orðið til þess að fjölmargar ákvarðanir um stórar lánveitingar voru teknar án efnislegrar skoðunar sem settar reglur gerðu kröfu um og áttu að vera forsenda ákvörðunar um einstakar lánveitingar. Lán voru einnig stundum veitt án trygginga og þá meðal annars til aðila sem tengdust eigendum fjármálafyrirtækjanna.
Fyrirgreiðsla fjármálafyrirtækjanna til þeirra aðila sem voru í úrtakinu, sem tekið var til sérstakrar skoðunar, einkenndist á árunum 2007 og 2008 fram að falli bankanna af því að endurfjármagna fyrri lánveitingar þar sem viðskiptavinur gat ekki staðið við áður gerða samninga. Um þriðjung aukinnar heildarfyrirgreiðslu má rekja til þess. Þá voru þessum aðilum veitt ný lán til að mæta veðköllum vegna framvirkra samninga og vanskila, bæði hjá innlendum og erlendum fjármálafyrirtækjum. Í því sambandi má benda á að flest fjármálafyrirtækin tóku yfir erlenda fjármögnun á hlutabréfum stærstu eigenda sinna í árslok 2007 og ársbyrjun 2008, eins og fram kemur einnig í kafla 8.8. Erlendu fjármálafyrirtækin gerðu veðköll vegna lækkunar á hlutabréfaverði og voru eigendur í fæstum tilvikum færir um að mæta þeim eða koma fram með auknar tryggingar. Þannig juku fjármálafyrirtækin verulega útlán sín vegna hlutabréfaeignar viðskiptavina fjármálafyrirtækjanna.
Lán til hlutabréfakaupa voru algeng. Í þessum tilvikum var oftar en ekki um að ræða umtalsverð lán fyrir kaupum á hlutabréfum í eigin fjármálafyrirtæki. Af nýjum lánveitingum til samstæðnanna 46 á umræddu tímabili voru 54% með tryggingartöku í hlutabréfum.
Lán til þessara kaupa voru í mörgum tilvikum veitt í erlendum gjaldmiðlum sem gerði það að verkum að mikil gengisáhætta var tengd þeim. Ef gengi krónunnar lækkaði þá hækkuðu lánin í íslenskum krónum á meðan virði veðanna, hlutabréfanna, stóð í stað eða lækkaði líka. Þrátt fyrir að veðköll hafi aukist á síðustu misserum fyrir fall bankanna var sjaldan gengið að veðum og eignir seldar enda voru eigendur bankanna oft þeir sem stóðu á bak við stærstu hlutabréfastöðurnar.
Dæmi voru um að stóru viðskiptabankarnir veittu víkjandi lán, einkum í árslok 2007, til stærstu viðskiptavina sinna. Samhliða lánveitingunni tóku bankarnir hluta af upphæðinni að veði í formi innstæðu í bönkunum. Í sumum tilfellum í jafnhárri innstæðu og lánsupphæðin eða í stórum hluta hennar. Með þessu voru fjármálafyrirtækin að hafa áhrif á reikningsskil þessara fyrirtækja þar sem víkjandi lán bættu eigið fé og innstæðan bætti veltufjárstöðu þeirra um áramót.
Fylgiskjal 1
Jørn Astrup Hansen:
Jørn Astrup Hansen er fæddur í Sædding á Jótlandi árið 1942. Hann er cand. oecon. frá Árósaháskóla og er fyrrverandi bankastjóri. Hann hefur reynslu af því að koma að stjórnun banka sem lent hafa í fjármálaáföllum. Þannig var hann skipaður í stjórn Midtbank í Herning 1988 við endurreisn bankans. Hann var skipaður forstjóri Sjóvinnubankans í Færeyjum 1. janúar 1993 sem sameinaðist Føroyja banka í apríl 1994 og sinnti því starfi til ársins 2005. Eftir fall EBH bank A/S haustið 2008 tók Finansiel Stabilitet A/S, endurskipulagningarfélag í eigu danska ríkisins, bankann yfir og var Jørn Astrup Hansen skipaður formaður stjórnar félagsins.
Að beiðni rannsóknarnefndar Alþingis dvaldi Jørn Astrup Hansen á Íslandi um tíma á árinu 2009 og vann með starfsfólki nefndarinnar að athugun á útlánum stóru íslensku bankanna þriggja og veitti nefndinni ráðgjöf. Í framhaldi af því tók hann saman þá greinargerð sem hér fylgir í íslenskri þýðingu um mat sitt á starfsemi bankanna og þá m.a. í samanburði við starfshætti og reglur í Danmörku. Greinargerðin er birt á dönsku sem viðauki 7 í rafrænni útgáfu skýrslu rannsóknarnefndarinnar.
Íslenskir bankar
Inngangur
Íslensku bankarnir féllu á haustdögum 2008. Eflaust voru margar ástæður fyrir því. Bankar lentu í vandræðum víðar en á Íslandi. Sumar ástæður erfiðleikanna á Íslandi voru einnig fyrir hendi í öðrum löndum.
Þó er almennt talið að ekkert land hafi orðið eins illa úti í bankakreppunni og Ísland. Annars staðar tókst að mestu leyti að lóðsa bankana gegnum kreppuna með ríkisábyrgðum á skuldbindingum þeirra, en ekki reyndist unnt að bjarga íslensku bönkunum þrátt fyrir að ríkið yfirtæki þá.
Því er rík ástæða til að velta fyrir sér hvort sérstakar aðstæður hafi átt þátt í hruni íslensku bankanna.
Tap bankanna reyndist það mikið að afskrifa varð eigið fé þeirra (og ríflega það) sem tap.There are two sides of the balance sheet: the left side and the right side.On the left side,nothing is right.And on the right side,nothing is left (Það eru tvær hliðar á efnahagsreikningum: sú vinstri og sú hægri.Vinstra megin er ekkert rétt. Og hægra megin er ekkert eftir.) Í þessari greinargerð verður því sjónum beint að eignahlið efnahagsreikninga bankanna.
Hér verður bent á ýmsa þætti sem ætla má að hafi hver fyrir sig en þó aðallega í sameiningu átt ríkan þátt í hruninu. Ætla má, því að í ársskýrslum bankanna og skýrslum endurskoðenda til stjórna bankanna er aðeins fjallað yfirborðslega um þessa þætti.
Því er þörf á nánari rannsókn til að kveða á um hvort og þá í hve miklum mæli einstakir (áhættu)þættir sem fjallað er um hér á eftir áttu þátt í hruni bankanna.
Áhættuþættir:
- Gífurlegur vöxtur útlána
- Misvægi innlána og útlána
- Gífurleg lán til kaupa á eigin hlutabréfum
- Afar stór lán til stórhluthafa, bankastjórnar og framkvæmdastjórnar
- Ófullnægjandi uppgjör á stórum áhættuskuldbindingum
- Veðsetning á föstum eignum frekar en greiðsluflæði
- Önnur starfsemi en bankaþjónusta
Hér á eftir verður fjallað stuttlega um þessa þætti. Með almennu orðalagi – og í tengslum við íslensku bankana. Eingöngu verður fjallað um aðstæður í stóru bönkunum þremur, Kaupþingi banka hf., Glitni banka hf. og Landsbanka Íslands hf.
A. Gífurlegur vöxtur útlána
Gífurlegur vöxtur hafði einkennt íslensku bankana á síðari árum, einkum útlán þeirra. Þeirri þróun er lýst í töflunni hér á eftir.
Hafa ber í huga að talsverður hluti vaxtarins stafaði af kaupum á öðrum fyrirtækjum og starfsemi. Einnig má minna á að gengi íslensku krónunnar sveiflaðist töluvert á tímabilinu og að það féll mjög mikið á fyrri hluta ársins 2008. Mikilvægt er að hafa þetta í huga því lán bankanna voru að miklu leyti veitt í öðrum gjaldmiðlum (en íslensku krónunni).
Engu að síður er vöxturinn afar óvenjulegur. Reynslan sýnir að hraður vöxtur gerir miklar kröfur til rekstrarins. Reynslan sýnir að hraður vöxtur felur yfirleitt í sér verulega tapsáhættu. Í Danmörku nam árlegur útlánavöxtur tveggja banka, Hróarskeldubanka og ebh bank, 50% en aðeins í stuttan tíma (skemur en 5 ár). Báðir urðu þeir gjaldþrota á árinu 2008 og höfðu þá tapað miklu á útlánum.
B. Misvægi innlána og útlána
Hefðbundin bankastarfsemi felst í að breyta mörgum, litlum og skammvinnum innlánum í stór útlán til lengri tíma. Það getur verið ýmsum vandkvæðum bundið.Til dæmis skorti á greiðslugetu útlánaþega!
Ef eigið fé er hæfilegt og jafnvægi milli inn- og útlána má hins vegar ætla að við eðlilegar aðstæður verði engin vandræði með lausafjárstöðuna.Innlán sem tekin eru út úr banka eru yfirleitt endurfjármögnuð með nýjum innlánum.Afborganir af útlánum geta að miklu leyti fjármagnað ný útlán. Þá er að vísu gert ráð fyrir að innlán séu í réttu hlutfalli við útlán bankanna.
Því fór fjarri að þessi skilyrði væru fyrir hendi í íslensku bönkunum.
Augljóst er að íslensku bankarnir tóku mikla áhættu. Líklega er sjaldgæft að bankar sem eru að forminu til hefðbundnir viðskiptabankar (commercial banks) spjari sig til lengri tíma með svo takmarkaða eiginfjármögnun útlána sinna. Íslensku bönkunum tókst það lengi vel, en þá staðreynd ber að skoða í ljósi þess að allt tímabilið frá árinu 2001 einkenndist af óvenjulega góðri lausafjárstöðu og óvenjulega lágum vöxtum.
Lehman Brothers varð gjaldþrota 15. september 2008. Peningamarkaðir frusu. Það reyndist örlagaríkt fyrir íslensku bankana. Enda þótt lausafjárskortur hafi velt íslensku bönkunum var hann ekki orsök þess að þeir urðu gjaldþrota.
Í greinargerð þessari verður ekki lagt frekara mat á skuldir bankanna.
C. Gífurleg lán til kaupa á eigin hlutabréfum
Félagalöggjöf kveður á um að félög geti ekki, af eðlilegum ástæðum, skráð sig fyrir eigin hlutabréfum. Félag getur ekki togað sig upp af sjálfsdáðum, það getur ekki tekið eigin hluti að veði. Því eru (einnig) takmörk sett hvað bankar geta gengið langt í að lána gegn veðum í eigin hlutabréfum.
Ef eigin hlutabréf eru seld með þeim skilmála að þau eigi að kaupa aftur síðar, ber að bókfæra hlutabréfin sem eign bankanna í reikningsskilum. Hlutabréfin geta því ekki talist hluti af eigin fé, heldur ber að draga þau frá við útreikninga á eiginfjárhlutfalli bankans. Hafi bankinn veitt lán gegn veði í eigin hlutabréfum, getur Fjármálaeftirlitið krafist þess að veðsettu hlutabréfin verði dregin frá við útreikninga á eiginfjárhlutfalli bankans, ef ætla má að markmið veðsetningarinnar sé að komast hjá frádrætti frá eigin fé.
Reglurnar eiga að tryggja að eigið fé sé ekki tilbúningur heldur raunverulegt og vernda þannig hagsmuni sparifjáreigenda og annarra kröfuhafa bankanna.
Samkvæmt framkomnum upplýsingum hafa íslensku bankarnir reiknað hlutabréf, sem í raun voru skráð og í eigu bankans, sem hluta af eigin fé sínu.
i. Landsbanki Íslands hf.
Landsbankinn hafði í árslok 2007 veitt bankastjórn og starfsfólki kauprétti að 1.488,7 milljónum hluta, eða 13,2% af hlutafénu, á lausnarverði á bilinu 3,58-39,4 kr. Undir eðlilegum kringumstæðum hefði mátt ætla að Landsbankinn gæfi út ný hlutabréf þegar og ef starfsfólkið nýtti sér forkaupsréttinn. Eða að Landsbankinn tryggði forkaupsréttinn með því að eiga næg eigin hlutabréf til þess að mæta þeirri skuldbindingu. Þá hefði átt að mótreikna virði eigin hlutabréfa í eigin fé bankans.
Landsbankinn fór með eignarhald hlutabréfanna fyrir eigin reikning – en samkvæmt því sem upplýst hefur verið, ekki í eigin bókhaldi. Bankinn hefði þar að auki ekki mátt eiga hlutafé í bankanum sem nam meira en 10% af heildarhlutafé. Hlutunum var komið fyrir í eignarhaldsfélögum en þau héldu hlutabréfunum fyrir hönd Landsbankans til þess að bankinn gæti sinnt skyldum sem leiddu af útgáfu kauprétta.Yfir eignarhaldsfélögunum réðu sjálfseignarstofnanir (e./d. trusts) sem skráð voru í fjarlægum ríkjum.
Eignarhaldsfélögin tóku lán hjá samkeppnisaðilum Landsbankans með veði í bréfunum: Straumi-Burðarási hf., Kaupþingi banka hf. og Glitni banka hf. Þessi tengsl sýna hið óvenjulega nána samstarf bankanna. Landsbankinn hafði vissulega ábyrgst lánin gagnvart Kaupþingi og Glitni! Hér virðist liggja fyrir sniðganga (d. omgåelse) á lagareglum og hefði henni eflaust verið hafnað af yfirvöldum, hefði þeim verið kunnugt um hana!
Samkvæmt skráningu kauphallar í árslok 2007 var virði hlutabréfanna 52,8 milljarðar króna, eða hvorki meira né minna en 29,4% af bókfærðum eignum Landsbankans.
Mér er ekki ljóst á hvaða gengi eignarhaldsfélögin bókfærðu hlutabréfin, né á hvaða gengi þau voru veðsett. Þó er ástæða til að ætla að fyrirkomulagið hafi falið í sér gífurlegt ofmat á eigin fé Landsbankans. Það kom í ljós á haustdögum 2008!
ii. Kaupþing banki hf.
Í ársskýrslu Kaupþings 2007 er greint frá því að í lok árs hafi 7,8% hlutur í bankanum verið í eigu starfsmanna bankans. Kauphallarvirðið nam 51 milljarði króna. Það er óvenjulega há upphæð.
Samkvæmt framkomnum upplýsingum höfðu starfsmennirnir hins vegar fjármagnað hlutabréfakaupin með lántökum hjá Kaupþingi, sem í öllum aðalatriðum bar því áhættu vegna hlutabréfanna. Í byrjun hafði bankinn veitt starfsfólki sölurétt á hlutabréfunum (rétt til að endurselja bankanum hlutabréfin á kaupgengi), þannig að skuldbindingin fól ekki í sér áhættu fyrir starfsmenn.
Þetta átti eftir að breytast.Sölurétturinn féll úr gildi og skuldari þurfti að ábyrgjast lánið.Að einhverju leyti var starfsfólki þó gefinn kostur á að flytja skuldbindingarnar í fyrirtæki [eignarhaldsfélög] með lágmarks eigin fé (hálfri milljón króna) sem stofnað var sérstaklega í þessu skyni en það fól í sér að persónuleg ábyrgð starfsmanna var í raun og veru ekki til staðar. Í staðinn fyrir hin hagstæðu "lánakjör" skuldbatt starfsfólkið sig til að selja ekki hlutabréfin, sem í reynd voru veðsett bankanum.
Hinn 25. september 2008 axlaði stjórn Kaupþings afleiðingarnar að fullu með því að ákveða að bankinn skyldi falla frá öllum kröfum á hendur starfsmönnum sem tekið höfðu lán hjá Kaupþingi til kaupa á hlutabréfum í bankanum gegn veði í hlutabréfunum. Formanni bankastjórnar buðust sömu hagstæðu kjör! Ljóst er að "hlutabréfaeign" starfsfólksins fólst í raun og veru í forkaupsrétti á hlutabréfum (rétti til að kaupa hlutabréf af bankanum fyrir andvirði lánsins). Samkvæmt meginreglunni um efni framar formi hefði átt að bókfæra þessa gjörninga í reikningum bankans sem (ótryggð) útlán og útgefinn kauprétt á hlutabréfum bankans, en ekki sem lán (með veði í eigin hlutabréfum).
Bankinn hafði gefið starfsfólki sínu "a free ride". Hlutina hefði átt að bókfæra sem eignir bankans og undir öllum kringumstæðum hefði átt að draga gjörninginn frá við uppgjör á eiginfjárhlutfalli bankans.
Þeirri spurningu er ósvarað hvort yfirleitt sé ráðlegt að starfsfólk gerist hluthafar í banka í þeim mæli sem stefnt var að. Hefði hlutabréfaeignin verið raunveruleg hefði hún hugsanlega ógnað efnahagslegri velferð starfsfólksins. Starfsfólk var látið taka þátt í gjörningi sem virðist hafa verið þáttur í gífurlegri hagræðingu á gengi hlutabréfa.
Það vekur hins vegar furðu að ekki hafi verið bundinn endi á þetta framferði. Það virðist naumast verjandi að starfsfólk bankans skuldsetji sig hjá vinnuveitanda í jafnmiklum mæli og raun bar vitni. Bankar eiga ekki að hafa starfsmenn í vinnu sem eru ekki borgunarmenn fyrir skuldum sínum. Greinileg áhætta felst í því að bankastarfsmenn hafi ekki reglu á fjármálum sínum!
Endurskoðendur vöktu reyndar athygli á þessum vanda í febrúar 2008. Í lok árs 2007 höfðu "lykilstarfsmenn" Kaupþings tekið lán hjá bankanum að andvirði hvorki meira né minna en 29.411 milljónir króna. Lánunum hafði að miklu leyti verið varið til kaupa á hlutum í bankanum og voru hlutabréfin yfirleitt fjármögnuð að fullu með lánum. Í október 2007 fór gengi hlutabréfa í Kaupþingi að lækka og í lok ársins voru lán sumra starfsmanna orðin hærri en kauphallarvirði hlutabréfanna. Lánin voru án þeirrar tryggingar sem gert hafði verið ráð fyrir og starfsmennirnir voru líklega ófærir um að greiða þau. Ástandið átti eftir að versna enn frekar.
Endurskoðendunum var kunnugt um að stjórn bankans myndi hvorki þvinga fram sölu hinna veðsettu bréfa né krefjast frekari trygginga, og töldu þeir það "very important" (afar mikilvægt) að stjórn bankans brygðist við þessum vanda. Það gerði stjórnin eins og kunnugt er. Þegar allt var um seinan!
Framkvæmdastjóri fjárstýringar (group treasurer) Kaupþings hafði tekið 1.063 milljóna króna lán til kaupa á hlutabréfum en samsvarandi lán framkvæmdastjóra útlána (group credit officer) nam 221 milljón króna. Ingvar Vilhjálmsson, sem hafði umsjón með hluta af kauphallarviðskiptum bankans, hafði tekið lán fyrir kaupum á hlutabréfum sem nam hvorki meira né minna en 4.715 milljónum króna. Þetta er óneitanlega umhugsunarvert! Slík aðstaða brýtur skýrlega í bága við 77. grein danskra laga um fjármálastarfsemi. Ætla má að samsvarandi reglur sé að finna í íslenskum bankalögum.
Í ársskýrslu kemur fram að eignarhlutur stjórnarformanns Kaupþings í fyrirtækinu hafi verið 1,10% en eignarhlutur forstjórans 0,98%. Kauphallarvirði þeirra var annars vegar 7.199 milljónir króna og hins vegar 6.367 milljónir króna. Forstjórinn kom hlutabréfum sínum fyrir í hlutafélagi, en stjórnarformaðurinn var skráður persónulega sem hluthafi. Það kemur ekki fram í ársskýrslu að hve miklu leyti stjórnarformaður og forstjóri höfðu tekið lán í Kaupþingi fyrir hlutabréfunum.
Kaupþing gefur upp í ársskýrslu 2007 að stjórnarformaður eigi 8.180.423 hluti og forkaupsrétt að 3.248.000 hlutum en það mun í raun ekki vera rétt. Formaðurinn átti ekki, eða einungis í litlum mæli, hlutabréf í Kaupþingi. Síðar kom á daginn að hann átti forkaupsrétt að hlutabréfum bankans í slíkum mæli að erfitt er að gera sér það í hugarlund.
Lán til kaupa á hlutabréfum eða hagræðing á gengi á eigin kostnað
Lántaka til kaupa á eigin hlutabréfum felur í sér sérstaklega mikla áhættu. Þegar gengi hlutabréfa bankans fellur, lenda lán hluthafanna í vanskilum.Veðið (hlutabréfin) þarf að leysa út (selja) með enn meira gengisfalli. Hætta á keðjuverkun vofir yfir. Fallandi gengi hlutabréfa banka þarf ekki að vera til merkis um rýrnun á raunverulegum efnahag bankans en hér hefur það í för með sér að bankinn verður fyrir tapi á lánveitingum vegna hlutabréfakaupa.
a. Kaupþing banki hf. Kaupþing er lýsandi dæmi um hvernig hlutirnir geta farið úrskeiðis. Þegar hlutabréf bankans fóru að falla, lét bankinn taka sig í gíslingu fyrir óbreytta stefnu um hátt gengi hlutabréfa.Að því er virðist var þetta gert til að standa vörð um umsamin mörk (margin) á lánum til kaupa á hlutabréfum. Frá júní 2005 til október 2008 keypti bankinn eigin hlutabréf í kauphöllinni í Reykjavík fyrir 143 milljarða króna nettó, og var þeim í miklum mæli komið fyrir á veðsettum vörslureikningum.
Á árinu 2008 keypti bankinn bara á íslenskum hlutabréfamarkaði eigin hlutabréf fyrir andvirði 87 milljarða króna (nettó). Þegar lokað var fyrir hlutabréfaviðskipti í október 2008 átti Kaupþing 22,6 milljónir hluta í bankanum. Samkvæmt gengi kauphallar í lok september 2008 nam bókfært virði eigin hlutabréfa bankans 16 milljörðum króna.
Lán voru tekin í bankanum fyrir hlutabréfakaupunum og þau sett inn á vörslureikninga í eigu fjárfestingarfyrirtækja með litla eiginfjármögnun. Í raun og veru voru hlutabréfin í eigu bankans. Ef við til einföldunar gerum ráð fyrir að hlutabréfin sem Kaupþing (áfram)seldi á árinu 2008 væru öll á vörslureikningum sem myndast höfðu með lánsfjármögnun bankans, og ef við erum raunsæ og ætlum að hluthafinn/lántakandinn sé ófær um að greiða, þá varði Kaupþing 103 milljörðum króna á árinu 2008, eða 29% af eignum bankans í ársbyrjun, til endurkaupa/innlausnar á eigin hlutabréfum. Aðgerðir Kaupþings í kauphöllinni í Stokkhólmi eru ekki með í þessum útreikningum.
Bankinn var að komast í eigu sjálfs sín! Hinn 18. mars 2008 veitti Kaupþing t.d. nýstofnuðu félagi, Holt Investment Group Ltd., 16.100 milljóna króna lán til kaupa á 22 milljónum hluta í bankanum en kaupvirði þeirra nam 15.850 milljónum króna. Hinn 11. júní 2008 fékk Crosslet Vale eingreiðslulán (bridge loan-bullit) að andvirði 120 milljónir evra til að fjármagna kaup á hlutabréfum í Kaupþingi.Tryggingin var veðsetningarbann (e. negative pledge)!
Í fundargerð lánanefndar bankans 18. mars 2008 er að finna athyglisverðan kafla. Í fundargerðinni er fjallað um skuldbindingar bankans gagnvart Kjalari hf., sem virðist hafa staðið frammi fyrir fjárhagslegri endurskipulagningu. Upplýst er að Kjalar, sem var næststærsti hluthafi Kaupþings með 9,9% eignarhlut, hafi í gegnum dótturfélag sitt, Egla Invest B.V., tekið lán hjá Citibank til að fjármagna hlutabréfakaupin en nú hafi bankinn sagt upp láninu. Í fundargerðinni segir að "líklega muni Kaupþing þurfa að fjármagna hlut Kjalars í Kaupþingi".Tilvist Kaupþings var ógnað.
En bankarnir fjármögnuðu ekki aðeins skuldsett kaup á eigin hlutabréfum. Þeir fjármögnuðu einnig kaup á hlutabréfum samkeppnisaðilanna (kollega sinna!) í miklum mæli. Hinn 5. apríl 2007 veitti Kaupþing Saxbygg, Sundi, Jötni og Elliðahamri lán að andvirði alls 42.110 milljónir króna til kaupa á 12,5% hlutabréfa í Glitni. Lán Kaupþings samsvaraði 29% af eigin fé Glitnis.Viðskiptin höfðu ekki áhrif á eigið fé Glitnis en drógu að vísu úr stöðugleika bankakerfisins. Eigið fé bankanna var að miklu leyti aðeins til á bókum þeirra. Með skuldsettum kaupum á hlutabréfum verður í raun útstreymi á eigin fé í bankakerfinu.
Á árunum 2007 og 2008 virðist áhætta af því að eiga hlutabréf hafa verið færð yfir á fyrirtæki með litla eiginfjármögnun. Hinn 11. september 2008 veitti lánanefnd Kaupþings t.d. S. Bollasyni ehf. lán að andvirði 4,8 milljarðar króna til kaupa á hlutum í Exista hf. Í lánasamningi kemur fram að greiða eigi 10% árangursþóknun (d./e. success fee) af nettóhagnaði að 2 árum liðnum. Hins vegar er ekki tekið fram hvor aðilinn eigi að fá árangursþóknunina – Sigurður Bollason eða Kaupþing!
Hinn 11. september 2008 veitti Kaupþing einnig nýstofnuðu fyrirtæki, Q Iceland Holding ehf. (sem sagt var í eigu bróður emírsins í Katar), 28 milljóna evra lán til kaupa á 850 milljónum hluta (14,6% eignarhlut) í Alfesca hf., en eignarhlutur Kaupþings í Alfesca var 22% og eignarhlutur Kjalars hf. (næststærsta hluthafa Kaupþings) 40%. Seljanda hlutanna er ekki getið í lánasamningi.
b. Glitnir banki hf.
20. febrúar 2008 veitti Glitnir óstofnuðu SPV-fyrirtæki (Special Purpose Vehicle), með 300 milljónir króna í eigin fé, 5,6 milljarða króna lán til kaupa á 2% eignarhlut í bankanum fyrir 5,2 milljarða króna. SPV-ið var í eigu fjögurra fyrirtækja sem öll voru tengd Milestone. Þó virðist Glitnir ekki hafa tengt þessa skuldbindingu við skuldbindingar bankans gagnvart Milestone.
Hinn 12. nóvember 2007 veitti Glitnir Stími ehf. 19,6 milljarða króna lán (80% kaupverðs) til kaupa á 4,3% eignarhlut í Glitni og 4,3% eignarhlut í FL Group hf. Þegar lánið var veitt var Stím í eigu fjögurra hluthafa utan bankans, þar á meðal Jakobs Valgeirs Flosasonar en eignarhlutur hans í Stími var 20%. Í beinu framhaldi af lánveitingunni jók Jakob Valgeir Flosason eignarhlut sinn um 12,5% í 32,5%, en Glitnir gerðist einnig hluthafi með 32,5% eignarhlut.
Hinn 31. mars 2008 seldi Stím ehf. 4 x 20% af hlutabréfunum til fjögurra nýstofnaðra dótturfyrirtækja sem tóku fjögur lán hjá Glitni, alls 12 milljarða króna, til að fjármagna kaupin að fullu. Móðurfyrirtækið Stím ehf. gekkst ekki í ábyrgð fyrir þessum lánum.
Þáttur International ehf. var fyrirtæki í eigu Milestone sem hafði tekið lán hjá Morgan Stanley-banka til kaupa á hlutum í Glitni. Á árinu 2008 krafðist Morgan Stanley þess að lánið, að andvirði 217 milljónir evra, yrði greitt. Þá endurfjármagnaði Glitnir hlutabréfin með 190 milljóna evra láni til Svartháfs ehf. (í eigu föður Karls Wernerssonar), en fyrirtækið lánaði upphæðina áfram til Þáttar International ehf. Hér er um að ræða skýr brot á reglum um lán til tengdra aðila. Í raun hafði Glitnir í sjónhendingu afhent um 6,8% eigna sinna og án þess að tilkynna það opinberlega!
Hinn 9. apríl 2008 lánaði Glitnir HG Holding 480 milljónir króna til kaupa á hlutabréfum í Glitni að andvirði 330 milljónir króna. Samtímis leysti bankinn eina hluthafann, Hauk Guðjónsson (HG), undan sjálfskuldarábyrgð á lánum bankans til HG Holding, en Haukur sat einnig í stjórn Glitnis. Þetta verður að teljast mjög vafasamur gjörningur.
Sama dag, 9. apríl 2008, lánaði Glitnir einnig KÞG Holding 1.150 milljónir króna til kaupa á hlutabréfum í Glitni að andvirði 1.000 milljónir króna. Samtímis leysti bankinn eina hluthafa fyrirtækisins undan sjálfskuldarábyrgð á lánum bankans til KÞG Holding. Hinn 17. september 2008 veitti Glitnir óstofnuðu fyrirtæki í eigu Salt Investments ehf. 5.150 milljóna króna lán gegn takmarkaðri ábyrgð að andvirði 1.200 milljónir króna til kaupa á 2,5% af hlutabréfum bankans fyrir 5.150 milljónir króna.
Í desember 2007 hafði Salt Investments ehf. tekið 9,8 milljarða króna lán til kaupa á 2,3% eignarhlut Glitnis og átti nú 4,6% hlut í bankanum. 23. september 2008 veitti Glitnir leyfi fyrir skuldskeytingu, þ.e. skuldaraskiptum, og tók þá dótturfyrirtækið Salt Financials ehf. yfir lán móðurfyrirtækisins að andvirði 9,8 milljarðar króna. Samtímis leysti Glitnir framkvæmdastjóra fyrirtækisins undan sjálfskuldarábyrgð.
Hinn 17. september 2008 veitti Glitnir óstofnuðu fyrirtæki í eigu Sigurðar Bollasonar 4,5 milljarða króna lán til kaupa á 298 milljónum hluta í Glitni (2% eignarhald í bankanum), gegn sjálfskuldarábyrgð Sigurðar að fjárhæð 0,9 milljarðar króna. Camel rating benti á í maí 2008 að bankinn hefði vanrækt að upplýsa í hve miklum mæli hlutabréf í Glitni voru sett að veði fyrir útlánum bankans. Sama réttmæta gagnrýni getur einnig átt við Kaupþing og Landsbanka.
c. Landsbanki Íslands hf. Hinn 16. apríl 2008 veitti Landsbankinn Sundi ehf. 5,6 milljarða króna lán til að standa við framvirkan samning um kaup á hlutabréfum í Glitni og Landsbanka en markaðsvirði þeirra var samtals 2,7 milljarðar króna. Gegn sjálfskuldarábyrgð Sunds ehf. lánaði Landsbankinn auk þess Sundi Holding ehf. 4 milljarða króna til að fjármagna tap á framvirkum samningi um hlutabréf í Glitni.Tapi viðskiptavinarins á framvirkum samningum um hlutabréf hefur hér verið breytt í útlánaáhættu í reikningum bankans.
Hinn 8. október 2008 var bókað með óformlegum hætti í fundargerðabók lánanefndar Landsbankans að bankinn hefði síðan 24. september 2008 veitt Imon ehf. 5.163 milljóna króna lán til kaupa á hlutabréfum í bankanum að verðmæti 5.150 milljónir króna.
D. Lán til tengdra aðila
Íslensku bankarnir hafa veitt óvenju mikil lán til forystu bankanna (meðlima bankastjórna og framkvæmdastjórnar), stórra hluthafa og tengdra félaga.
Skuldbindingar við tengda aðila virðast hafa verið mjög verulegar. Á miðju ári 2008 hafði Kaupþing veitt tengdum aðilum lán sem námu 42% af eigin fé bankans. Samsvarandi tala hjá Glitni var 37% en hjá Landsbanka 32%. Þetta hlýtur að teljast mjög óvenjulegt fyrir viðskiptabanka sem skráðir eru í kauphöll og taka á móti innlánum frá almenningi.
Hér virðast lánveitingar hafa náð því marki, sem hjá meðlimum stjórnar og framkvæmdastjórnar má óttast að skapi aðstæður sem eru ósamrýmanlegar því sjálfstæði sem venjulega er talið vera forsenda fyrir því að geta valdið leiðtogastöðu í banka á tilhlýðilegan hátt.
Auðvelt er að koma auga á vandamálið þegar stór/ir hluthafi/-ar, sem á/eiga fulltrúa í stjórnum bankanna, er/u einnig stór/ir lántaki/ar í bönkunum. Þrátt fyrir að stjórnin taki formlega tillit til venjulegra hæfisreglna, er öll bankastjórnin þó háð þeim hluthafa (hluthöfum) sem ræður meirihluta atkvæða á aðalfundi.Augljós hætta er á því að lánveitingar bankastjórnar beri keim af gagnkvæmum vinargreiðum.Yfirvegað og gagnrýnið mat á lánaumsóknum víkur til hliðar.
Dæmi um vafasamar lánveitingar til bankastjórnarmanna eru lánafyrirgreiðslur Kaupþings við Antonius P.Yerolemou, en í september 2008 nam skuldbinding hans við bankann 365 milljónum evra, þar af höfðu þó 203 milljónir evra ekki verið nýttar. Eigið fé Yerolemous og fyrirtækja hans var neikvætt um 46,3 milljónir evra.Yerolemou var ekki fit and proper. Yerolemou hefði því átt að víkja úr bankastjórn. Í dönskum lögum um fjármálastarfsemi er kveðið á um slík tengsl í 64. grein. Ætla má að samsvarandi reglur sé að finna í íslenskri bankalöggjöf.
Annað dæmi eru lánveitingar Glitnis til FL Group hf. Lánveitingar til FL Group fóru "óformlega" fram, eftir því sem upplýst er. Oft voru lánveitingarnar ekki einu sinni afgreiddar í lánanefnd bankans. Samkvæmt 78. grein danskra laga um fjármálastarfsemi hefði lánanefnd ekki einu sinni getað veitt slík lán. Í ljósi tvíþætts hlutverks Þorsteins Jónssonar og Jóns Sigurðssonar í FL Group og Glitni hefði bankastjórnin í heild átt að koma að afgreiðslu lánsins. Þessi aðstaða getur heldur varla hafa verið í samræmi við íslenska löggjöf.
Reyndar er ástæða til að ætla að bankarnir hafi í ársskýrslum sínum að verulegu marki vanmetið hið raunverulega umfang útlána til tengdra aðila, á sama hátt og umfang stórra áhættuskuldbindinga bankanna var áreiðanlega vanmetið, sjá annars nánar hér fyrir neðan.
Í maí 2008 taldi Camels rating að áhættulán (risky lending) til stærstu hluthafa Glitnis og tengdra fyrirtækja hafi numið um 93,3% af áhættugrunni bankans (CAD). Camels rating er með fyrirvara um óskýrar skilgreiningar Glitnis en telur að heildarútlán bankans til tengdra aðila nemi 102% af áhættugrunni (CAD).Tölurnar eru mjög frábrugðnar þeim upplýsingum sem fram koma í hálfsársuppgjöri Glitnis á árinu 2008.
Landsbankinn gefur upp að hann hafi ekki tekið þátt í fjármögnun Samson eignarhaldsfélags ehf. og er það eflaust rétt. En bank-inn veitti Björgólfi Guðmundssyni og fyrirtækjum hans mjög stór lán. Auk þess tók Landsbankinn þátt í mjög umdeildri fjármögnun Samson eignarhaldsfélags ehf. í gegnum sjóði í umsjón Landsbankans.
Í apríl 2008 var það mat Camels rating að útlán Landsbankans til tengdra aðila hafi numið 11,3% af öllum útlánum og andvirði 84,8% af áhættugrunni bankans (CAD). Tölurnar eru mun hærri en þær tölur sem Landsbankinn gaf sjálfur upp í hálfsársuppgjöri 2008. Camels bendir sérstaklega á mjög stór útlán til Björgólfs Guðmundssonar og Björgólfs Thors Björgólfssonar.
Í september 2008 brast stíflan. 5. september 2008 veitti stjórn Landsbankans Samson eignarhaldsfélagi ehf. lán sem nam hvorki meira né minna en 168 milljónum sterlingspunda. Sama dag veitti bankastjórnin fyrirtækjum Björgólfs Guðmundssonar, fjárfestingarfélaginu Gretti ehf. og Gretti eignarhaldsfélagi ehf., lán að andvirði 18.000 milljónir króna, 22.596 milljónir króna og 7,3 milljónir evra.
Heildarskuldbindingar bankans við Björgólf námu á þessum tíma 33,4% af áhættugrunni bankans (CAD). Bankinn hafði farið fram úr lögboðnu hámarki fyrir stórar áhættuskuldbindingar. Samkvæmt 4. málsgrein 145. greinar laga um fjármálastarfsemi (DK) hefði tafarlaust átt að tilkynna þessa áhættuskuldbindingu til Fjármálaeftirlits. Gera má ráð fyrir að á Íslandi sé álíka skylda um tilkynningu til Fjármálaeftirlitsins.
Eignarhald bankanna
Í danskri bankalöggjöf er regla sem kveður á um að hverjum einstaklingi eða lögaðila sem hyggst eignast hlut beint eða óbeint sem nemur 10% eða meira af eignarhlut banka, beri að tilkynna Fjármálaeftirliti um slíkt fyrirfram, og þurfi Fjármálaeftirlit að samþykkja fyrirhuguð kaup. Reglan á að tryggja að hlutabréfakaupin fari ekki í bága við eðlilegan og skynsamlegan rekstur bankans.
Fjármálaeftirlitið hefði greinilega, ef sams konar reglur gilda á Íslandi, getað komið í veg fyrir hlutabréfakaup FL Group í Glitni. Fjármálaeftirlitið hefði hugsanlega getað hindrað Exista í að komast til áhrifa í Kaupþingi. Með tilliti til aðstæðna hefði þó varla verið hægt að koma í veg fyrir að Björgólfur Guðmundsson næði ráðandi stöðu í Landsbankanum.
Það hlýtur að vera öllum ljóst að FL Group (og Baugur) höfðu ekki fjárhagslega burði til að verja 31% eignarhlut sinn í Glitni. Fjármálaeftirlitið hefði sennilega getað (og hefði átt að) koma í veg fyrir að Exista yrði stórhluthafi í Kaupþingi í krafti verulegs krosseignarhalds milli þessara tveggja aðila. Á árinu 2003 hafði Björgólfur Guðmundsson þó líklega fjárhagslega burði til að leggja undir sig 40% eignarhlut Landsbankans en umdeildur starfsferill Björgólfs gæti hafa staðið í vegi vilja hans til að eignast banka.
Varla þarf að ræða það að Jón Ásgeir Jóhannesson, Björgólfur Guðmundsson og Bakkabræðurnir [Ágúst og Lýður Guðmundssynir] réðu ekki við eignarhald á bönkunum. Sjálfir voru þeir í fararbroddi við hömlulausa þenslu útlána sem felldu bankana.
E. Stórir viðskiptavinir og áhættuskuldbindingar (tengd áhætta)
Samkvæmt bankalögum má áhætta vegna eins eða fleiri innbyrðis tengdra viðskiptamanna ekki fara fram úr 25% af áhættugrunni banka (CAD), og samtala allra áhættuskuldbindinga, sem nema meira en 10% af eigin fé, má ekki fara yfir 800% af áhættugrunni (CAD).Allir þrír stóru bankarnir héldu því fram í lengstu lög að þeir fylgdu þessum ákvæðum.
Við útreikning á skuldbindingum með tilliti til bankalöggjafar á hins vegar að líta á allar skuldbindingar hóps af innbyrðis tengdum viðskiptavinum sem eina skuldbindingu. Ákvæði þetta veldur oft vafa og ágreiningi við eftirlitsstofnanir.
Augljóst er að líta ber á lánafyrirgreiðslur til félaga sem tilheyra sömu fyrirtækjasamstæðu sem eina (samstæðu-)áhættuskuldbindingu. Fari A, beint eða óbeint, með meirihluta í B, ber að túlka skuldbindingar A og B sem eina skuldbindingu samkvæmt bankalöggjöf.
Þetta á einnig við um tvo eða fleiri einstaklinga eða lögaðila, þar sem enginn fer með yfirráð yfir hinum, ef fyrir hendi eru þess háttar tengsl á milli þeirra að telja verði líklegt að fjárhagsörðugleikar eins aðila geti teflt í voða endurgreiðslu hjá hinum. Þessi regla kemur fram í reglum Fjármálaeftirlitsins nr. 216 frá 2. mars 2007, sem byggist á lögum nr. 161/2002.
Þegar skoðuð eru yfirlit yfir útlánaviðskiptavini bankanna, getur manni virst sem þeir hafi að verulegu leyti vanrækt að flokka tengda viðskiptavini (connected risk) með réttum hætti. Leiða má líkur að því að bankarnir hafi haft mun fleiri stóra lánþega með skuldbindingar umfram 10% af eigin fé bankans en gefið var upp í ársskýrslu.
i. Baugur Group hf.
Í árslok 2007 gaf Kaupþing upp skuldbindingar Baugs Group hf. (46.910 milljónir króna) og Mosaic Fashions Ltd. (49.836 milljónir króna) sem tvær sjálfstæðar skuldbindingar þrátt fyrir að Baugur hefði verið ráðandi hluthafi (með 49% eignarhald) í síðarnefnda fyrirtækinu. Camels rating nefnir að einnig beri að líta á Jötun sem hluta af áhættuskuldbindingu Baugs og mat í maí 2008 að skuldbindingar Baugs og tengdra félaga við Kaupþing væru yfir 30% af áhættugrunni bankans (CAD).
En það eru ekki einungis skuldbinding við Mosaic Fashions og Jötun sem ber að skoða sem hluta af skuldbindingum Baugs. Sama á áreiðanlega við um skuldbindingar (a.m.k.) FL Group hf., Stoða hf., Landic Property hf. og (hugsanlega) Fons. Mjög líklegt er að Kevin G. Stanford hafi einnig haft slík tengsl við Baug Group, að Kaupþing hefði átt að líta á Baug og Stanford sem sameiginlega áhættu.
Lánafyrirgreiðslur Kaupþings við Kevin G. Stanford, sem námu 519 milljónum evra í september 2008, eru reyndar einnig sérstaklega athyglisverðar að öðru leyti. Í september 2008 var eignarhlutur Stanford í Kaupþingi 4,2% og var hann því fjórði stærsti hluthafi í Kaupþingi. Svo virðist sem Stanford hafi að töluverðu leyti tekið lán til að fjárfesta, ekki aðeins í hlutabréfum Kaupþings heldur einnig í kröfum [d. fordring] á bankann. Erfitt er að sjá hvaða lögmæt markmið geta hafa búið að baki þeim ráðstöfunum.
Margt bendir til þess að bönkunum hafi verið fyllilega ljóst að líta bæri á Baug og Stoðir sem tengda aðila samkvæmt bankalöggjöfinni. Fram kemur í eigin skjölum Glitnis að lánafyrirgreiðslur til Baugs og Stoða hafi verið afgreiddar í einu lagi.Við lánveitingu nr. 505, 26. febrúar 2007, hækkaði bankinn lánin til Stoða upp í 6,9 milljarða króna og til Baugs í 30 milljarða króna.
Hinn 21. mars 2007 gaf Glitnir upp að heildarmörk á áhættuskuldbindingum við Baugur Group, Stoðir og tengd félög væru samtals 33,9 milljarðar króna. Í fundargerð frá 18. júní 2007 stendur "að enn sé talið að Stoðir sé hluti áhættu Baugs Group og að þessu beri að stjórna innan heildarmarka".
Hinn 28. júní 2007 veitti Glitnir Stoðum lán að andvirði 3,0 milljarðar danskra króna til kaupa á Keops A/S. Um leið fékk Baugur lán að upphæð 575 milljónir danskra króna í sama tilgangi. Glitnir veitti lánin með því markmiði að auka þóknunartekjur bankans (!) og að því tilskildu að Stoðir og Baugur séu ekki fjármálalega tengdir aðilar samkvæmt ákvæðum bankalaga um stórar áhættuskuldbindingar!
Hinn 25. júlí 2007 veitti Glitnir 6.900 milljóna króna lán til 101 Capital ehf. til kaupa á 19% eignarhlut Baugur Group í Stoðum. Félagið 101 Capital er í eigu Ingibjargar S. Pálmadóttur, sambýliskonu og síðar eiginkonu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, aðalhluthafa í Baugur Group.
Hinn 12. september 2007 veitti Glitnir Baugur Group 36.900 milljóna króna lán og Stoðum 30.510 milljóna króna lán. Þetta nam annars vegar 25,3% og hins vegar 20,9% af eigin fé Glitnis. Á fundinum lagði lánanefnd til að "að Stoðir verði ekki skilgreindar sem dóttur/hlutdeildarfélag Baugs og verði því ekki reiknaðar inn í allsherjaráhættu Baugs Group". Lánanefnd hafði uppfyllt eigin skilyrði!
En Glitnir átti ekki eingöngu að gefa upp skuldbindingar við Stoðir sem hluta af áhættunni í tengslum við Baug. Í maí 2008 gefur Camels rating upp að stórar áhættulánveitingar (big risky lending) til félaga sem tengdust Glitni gegnum FL Group (Baugs, FL Group, Landic Property og Fons) nemi 56,9% af áhættugrunni bankans (CAD).
ii. Exista
Þegar 19. desember 2005 var Kaupþing með 49.660 milljóna króna skuldbindingar á Exista (og tengd félög). Þetta jafngilti 33,2% af bókfærðu eigin fé bankans.
Hinn 28. desember 2007 námu skuldbindingar Exista 87 milljörðum króna, samkvæmt fundargerð lánanefndar, eða 27% af eigin fé Kaupþings. Exista hafði farið fram á við Kaupþing að bankinn veitti félaginu heimild fyrir víkjandi láni að andvirði 20 milljarðar króna. Lánanefnd hækkaði óumbeðin upphæðina í 30 milljarða króna, og nam skuldbinding félagsins við bankann þá 36% af eigin fé hans.
Hinn 29. maí 2008 stendur stuttort í fundargerð lánanefndarinnar: "Heildarlánsáhætta vegna Exista og tengdra aðila í Kaupþing Group eru 122,6 milljarðar króna". Þetta svaraði til 35,4% af eigin fé bankans.
Samkvæmt útlánabók Kaupþings dags. 25. september 2008 voru lánafyrirgreiðslur bankans til Bakkavarar Group hf., Bakkavarar (London) Ltd. og Skipta hf. ekki reiknaðar sem hluti af skuldbindingum Exista Group hf. Í yfirlitinu hér fyrir neðan um stórar áhættuskuldbindingar er Bakkavör Group reiknuð með skuldbindingum Exista samstæðunnar við Kaupþing; líklega ættu skuldbindingar Skipta við Kaupþing einnig að reiknast sem hluti af skuldbindingum Exista við Kaupþing.
Í yfirliti yfir skuldbindingar við Exista dags. 25. september 2008 gefur Kaupþing upp að eign bankans á hlutabréfum í Exista séu "n/a" (not applicable) [eigi ekki að færast eðli málsins samkvæmt]. Lagt er til grundvallar að við lok september 2008 hafi Kaupþing ekki (lengur) verið hluthafi í Exista hf.
Svo hlýtur að virðast sem Kaupþing hafi greinilega vanmetið áhættuna vegna skuldbindinga Exista samstæðunnar við bankann.
1. Hinn 25. september 2008 námu lán bankans til Bakkabræður Holding BV samtals 252,5 milljónum evra.Til tryggingar skuldbindingunni hafði Kaupþing veðsett 6.408 milljónir hluta í Exista hf., á kauphallargenginu 283 milljónir evra. Síðan gaf Kaupþing upp að öryggismörk lánsins væru u.þ.b. 11% ("Loan to Value is around 89 pct."). Lánið telst m.ö.o. vera fyllilega tryggt.
Kaupþing upplýsir í yfirlitinu frá 25. september 2008 að Kaupthing Bank hafi veðsett hlutabréfin á vörslureikningnum. Eftir því sem upplýst hefur verið kom þessi framsetning til vegna mistaka. Þannig kemur í ljós að vörslureikningurinn var veðsettur af skuldara, Bakkabræður Holding BV.
Bakkabræður Holding BV, sem er stærsti hluthafi Exista hf., er eignarhaldsfélag í eigu bræðranna Ágústs og Lýðs Guðmundssona.
Sjá má að greiðslugeta Bakkabræður Holding BV stendur og fellur með virði hlutabréfanna í Exista hf. Hlutabréf í Exista verður þannig ekki talin gild sem trygging fyrir skuldbindingum móðurfélagsins við Kaupþing.
2. Þegar af þessu virðist ljóst að Kaupþing ofmat tryggingar sínar vegna skuldbindinga Exista um 252,5 milljónir evra og vanmat á sama hátt ótryggða áhættu gagnvart Exista um 252,5 milljónir evra. Það svaraði til 7,5% af bókfærðu eigin fé Kaupþings í lok árs 2007, samkvæmt seinasta skráða gengi íslensku krónunnar á þeim tíma.
Fleiri dæmi eru um að Bakkabræður hafi hlotið hagstæða sérmeðferð hjá Kaupþingi. Hinn 24. júlí 2007 leysti bankinn Lýð Guðmundsson undan persónulegri ábyrgð vegna skuldbindinga Barello Global. Á móti fékk bankinn veð í hlutabréfum í Barello Global. Bankinn gaf frá sér hina endanlegu tryggingu á láninu gegn ímynduðu veði. Hinn 30. janúar 2008 létti Kaupþing veðböndum af vörslureikningi í reiðufé sem Exista hafði sett sem tryggingu fyrir lánum sínum hjá bankanum gegn því að bankinn fengi veð í hlutabréfum í Bakkavör Group hf. Um leið leysti bankinn Exista undan persónulegri skuldaábyrgð. Exista tryggði nú aðeins með andvirði hlutabréfa í Bakkavör Group. Sérlega óvenjuleg aðstaða.
Varla leikur nokkur vafi á að skuldbinding Exista við Kaupþing 25. september 2008 var umfram hámarksmörk laganna um 25% af áhættugrunni bankans (CAD). Svo hafði verið um langa hríð.
iii.Aðrir
Skuldbindingar annars stórs hluthafa við Kaupþing virðast heldur ekki hafa verið bókfærðar með réttum hætti. Skuldbindingar Alfesca hf. eru þannig ekki bókfærðar í tengslum við skuldbindingar Kjalars hf.
Kaupþing virðist reyndar hafa haft ansi afslappaða afstöðu til (mjög) stórra áhættuskuldbindinga. Hinn 10. október 2006 veitti lánanefnd bankans John Hargreaves (Project Missouri, Heads up) lán að andvirði 583 milljónir sterlingspunda til kaupa á 47% eignarhlut í Matalan PLC. Andvirði lánsins var 74.665 milljónir króna eða 38,5% af eigin fé Kaupþings. Fram kemur í fundargerð "að samkvæmt áliti samsteyputeymisins [syndication team] geri lánanefnd sér ljóst að heildarupphæðin gæti orðið útistandandi í bókum bankans fram til seinni helmings ársins 2007".
Að mati Camels rating svaraði heildarupphæð stórra áhættuskuldbindinga [total big risky lending] í Kaupþingi í maí 2008 til 88% af áhættugrunni bankans (CAD). Camels benti reyndar einnig á þá mjög svo verulegu áhættu sem fylgdi afar mikilli hlutabréfaeign Kaupþings, sem Camels taldi að næmi 30% af áhættugrunni bankans (CAD).
Annars virðast bankarnir hafa verið vanir að deila mjög stórum skuldbindingum niður til að komast hjá því að lenda upp á kant við ákvæði um að takmarka stærð einstakra skuldbindinga. Gagnstætt því sem búast hefði mátt við hafa stórhluthafarnir í Kaupþingi, Glitni og Landsbanka fengið stóra lánafyrirgreiðslu hjá hinum tveimur bönkunum. Bankarnir hafa deilt áhættunni í miklum og óheppilegum mæli. Bankarnir hafa tileinkað sér grunnregluna Know your customer (Þekkið viðskiptavini ykkar) og misst yfirsýnina fyrir vikið. Samstarfsaðferðir bankanna í stórum lánsviðskiptum virðast í það heila tekið afar gagnrýnisverðar.
Samkvæmt framkomnum upplýsingum fékk Baugur Group víkjandi lán að andvirði 25 milljarðar króna frá stóru bönkunum þremur í árslok 2007.Andvirði lánanna var að miklu leyti komið fyrir á formi innlána í lánveitandi bönkum sem tóku veð í innláninu.Allur gjörningurinn er sýndin ein. Þetta eru merki um fegrun reikninga hjá Baugi og bönkunum.
Fleiri dæmi eru um fegranir ("window dressing"). Hinn 16. október 2007 veitti Kaupþing NIBC lán að andvirði 750 milljónir evra. NIBC lagði alla lánsupphæðina inn sem innlán hjá Kaupþingi!
Bankarnir tóku á sig tengdar áhættuskuldbindingar sem reyndust afdrifaríkar. Sundraðir stöndum vér – sameinaðir föllum vér! ("Divided we stand – united we fall!"). Hrunið á haustdögum 2008 hrinti af stað keðjuverkun meðal fjölda stórra skuldara bankanna og er skólabókardæmi um tengda áhættu (connected risk).
Tengdir aðilar (connected risk/tengd áhætta)
Hér á eftir fer yfirlit yfir skuldbindingar nokkurra stórra viðskiptavina bankanna í lok september 2009. Skuldbindingarnar (viðskiptavinirnir) eru flokkaðar eins og allt bendir til að beri að flokka þær samkvæmt ákvæðum laga um stórar áhættuskuldbindingar (tengda áhættu).
Upphæðirnar eru ógnvekjandi. Bankarnir áttu hver fyrir sig, og samanlagt, óheyrilega stórar skuldbindingar. Ekki virðist leika nokkur vafi á því að bankarnir hafi, löngu fyrir september 2008, gerst brotlegir við eitt helsta grundvallarákvæði bankalöggjafarinnar, að skuldbindingar (eða tengd áhætta) eins eða fleiri innbyrðis tengdra viðskiptamanna megi aldrei vera umfram 25% af áhættugrunni banka (CAD).
Ástæða er til að ætla að reikningsfærslur bankanna um tengda áhættu hafi ekki verið með réttum hætti. Bankarnir hafa beitt formlegum brögðum til að skilgreina hugtakið "tengd áhætta" alltof þröngt. Bankarnir settu form framar efni. Bankarnir blekktu yfirvöld og sjálfa sig um leið.
Bankarnir brutu ekki aðeins lög heldur fóru þeir einnig yfir sín eigin mörk. Eða færðu mörkin eftir þörfum. Umdeildustu og vafasömustu skuldbindingar sem Kaupþing átti voru á lista yfir undanþágur frá lánshæfismati ("the exception list with regard to credit rating")!
Ástæða er til að taka ákvæði um tengda áhættu sérlega alvarlega. Það er venjulega allt of mikil samþjöppuð áhætta í útlánasafni sem fellir banka.
F. Fjárfestingarbankar
Í ársskýrslu Kaupþings 2007 stendur að skipta megi lánasafni bankans að mestu í tvo flokka, þ.e. 1) lán sem byggjast á traustu og fyrirsjáanlegu sjóðsflæði og eiginfjárstöðu lántaka, og 2) lán með veði í auðseljanlegum eignum með mjög mikla tryggingarþekju.
Á síðari árum hefur ekki aðeins útlánastarfsemi Kaupþings heldur einnig hinna íslensku bankanna einkennst æ meira af fjárfestingarbankaþjónustu með veðsetningu fastra eigna (fasteigna) og verðbréfa. Straumur-Burðarás hf. var eina fyrirtækið sem lýsti starfsemi sinni sem fjárfestingarbankaþjónustu.Allir bankarnir fjármögnuðu þó að töluverðu marki viðskipti með fyrirtæki gegn veði í hlutabréfum, iðulega óskráðum. Þegar Kaupþing lýsir eignunum sem auðseljanlegum er það afar villandi.Alls ekki er hægt að flokka fasteignir og óskráð hlutabréf sem auðseljanlegar eignir.
Stóru íslensku bankarnir þrír höfðu að miklu leyti fengist við fjárfestingarbankaþjónustu, öfugt við viðskiptabankaþjónustu, en hegðuðu sér ekki nægilega í samræmi við það.Til dæmis með því að tryggja sér miklu traustari fjármögnun til að vega upp á móti því að hinar veðsettu eignir voru einmitt ekki auðbreytanlegar í reiðufé.
Í hálfsársuppgjöri Kaupþings árið 2007 kemur fram að 39% útlána hafi farið til fjármögnunar á eignarhaldsfélögum og fjárfestingum í fasteignum. Samsvarandi hlutfall í Glitni var 40% samkvæmt hálfsársuppgjöri bankans á miðju ári 2008. Landsbankinn gefur ekki upp samsvarandi tölur um útlánastarfsemi sína en varla er ástæða til að ætla að bankinn víki frá braut Kaupþings og Glitnis. Bankarnir þrír draga svo mjög dám hver af öðrum að eftirtekt vekur.
Fjárfestingarbankaþjónusta er sérlega áhættusöm. Það er ekki að ástæðulausu að bandarísku fjárfestingarbönkunum sem urðu verst úti í kreppunni er nú bannað að taka við innlánum frá almenningi.Yfirleitt er miklu minni áhætta fólgin í að taka fjárstreymi (cash flows) að veði en fastar eignir.
Bundin veð
Hafi lántaki greiðsluflæði getur hann greitt af láni sínu. Það sama á ekki endilega við um fasteignir og afar sjaldan um óskráð hlutabréf. Lántökur með lágri eiginfjármögnun, sem virðast hafa verið reglan frekar en undantekningin, fela í sér að lánið byggist á virði veðsins en ekki greiðslugetu lántakanda.
Lánið fer því að líkjast veðmáli.Trygging er fyrir endurgreiðslu lánsins á gjalddaga, ef og aðeins ef veðið hefur hækkað í verði, og virðisaukningin er hærri en lánavextir. Um er að ræða ójafnt veðmál. Lántaki tekur á sig takmarkaða áhættu (á að tapa takmörkuðu eigin fé) gegn horfum á, fræðilega séð, ótakmörkuðum hagnaði. Lánveitandi tekur hins vegar á sig þá áhættu að tapa öllu sínu framlagi (láninu) í von um takmarkaðan ávinning (vaxtaframlegð o.s.frv.).
Í bréfi endurskoðenda til stjórnar Kaupþings í febrúar 2008 kemur fram að á síðari árum hafi bankinn veitt veðlán til hlutabréfakaupa viðskiptavina sinna að 75% kaupvirðis. Kaupin fara yfirleitt fram í SPV (eignarhaldsfélagi sem stofnað er í þessum tilgangi). Sé gert ráð fyrir að utanaðkomandi fjármögnun á hinu keypta fyrirtæki nemi 75%, þá nemur eigið fé í fyrirtækjasamstæðunni eingöngu 6,25% af eignum. Nú er veðið ekki lengur 33% hærra en lánið heldur aðeins 6,7%.
Ef við gerum ráð fyrir að hlutabréfin séu færð á tvöföldu bókfærðu virði [hjá móðurfélaginu], verður lánið 12,5% hærra en raunverulegar eignir fyrirtækjasamstæðunnar! Bókhaldslega hafa viðskiptin verið dulbúin með bókfærðri viðskiptavild fyrirtækisins.Viðskiptavild er þó vafasamur grundvöllur trygginga. Hjá fyrirtækjum í greiðsluerfiðleikum er sjaldan hægt að finna mikla viðskiptavild.
Framlög í fríðu – auðveld leið til eigin fjár
Ástæða er til að ætla að bókfært eigið fé í mörgum stórum íslenskum eignarhaldsfélögum hafi að miklu leyti verið uppblásið. Það er auðvelt að sjá að verðlagning sé handahófskennd, þegar hluthafinn leggur eigin eignarhaldsfélagi til framlag í fríðu (í vöru eða þjónustu en ekki í peningum). Þegar hluthafi blæs upp verð á þess háttar framlagi getur hann einnig blásið upp eigið fé eignarhaldsfélagsins án þess að grípa til buddunnar.
En viðskipti sem byggjast á eintómu lofti takmarkast ekki við framlög í fríðu frá hluthöfum eignarhaldsfélagsins.Viðskiptin með SterlingAirlines eru gott dæmi um það.Árið 2006 keypti Pálmi Haraldsson Sterling á málamyndaverði en fyrirtækið var í miklum taprekstri. Hann seldi fyrirtækið skömmu síðar með hagnaði sem nam tveggja stafa tölu í milljörðum króna. Þetta skýrist vitaskuld með því að kaupandinn, FL Group, greiddi Pálma í nýútgefnum hlutabréfum. FL Group gat þannig aukið bókfærðar eignir sínar með upphæð sem nam slíku framlagi. Pálmi gat þannig bókfært hagnað á pappírnum.Allt voru þetta þó sýndarverðmæti. Sterling Airlines varð gjaldþrota í október 2008.
Persónuleg ábyrgð sem stjórntæki
Greinilegt er að bankarnir vanræktu mjög að krefjast persónulegrar ábyrgðar á þessum mjög áhættusömu skuldbindingum. Nú hefur komið í ljós að bankinn tapaði öllu, en lántaki gat að miklu leyti lokað tapið inni í hugvitssömum fyrirtækjasamsteypum og því haldið tiltölulega óáreittur áfram rekstri þess hluta samsteypunnar sem skilaði hagnaði.
Þrátt fyrir að persónuleg ábyrgð (aðal)hluthafa standi ekki endilega í nokkru hlutfallslegu samræmi við lánið, tryggir ábyrgðin að lántaki og bankinn eigi sameiginlegra hagsmuna að gæta, einnig þegar illa fer. Minni hætta er þá á því að lántaki braski stjórnlaust með fé bankans.
Endursamningar um lán - ráð gegn vanskilum
Fjármögnun virðist oft hafa verið í formi eingreiðslulána (kúlulána). Það bendir einmitt til þess að ekki hafi verið búist við því að veðið dygði til að greiða niður lánið. Oft virðast banki og lántaki ekki hafa gert sér raunhæfar hugmyndir um hvernig lánið skyldi gert upp á gjalddaga.
Í ársskýrslu Glitnis 2007 kom fram að bankinn endurskipulegði frekar gjaldfallin lán, þegar hægt væri, í stað þess að leysa til sín veðið. Það felur yfirleitt í sér að lán er framlengt og samið um nýja skilmála. Það getur varla talist óvenjulegt eða brjóta í bága við almennar starfsvenjur banka. En síðan bætir Glitnir við: "Þegar endursamið hefur verið um lánskjör, telst lánið ekki lengur fallið í gjalddaga (past due)."
Samkvæmt gildandi reglum á að færa lánið niður, ef hlutlausar vísbendingar eru um að bankinn verði ekki fær um að innheimta allar gjaldfallnar afborganir, í samræmi við upphaflega skilmála lánssamnings eða fjárhæð sem samsvarar núvirði greiðslnanna (eftirstöðvar skuldar). Ógreiddir vextir og afborganir geta oft verið fyrstu vísbendingarnar um tap.
Augljóst er að bankinn hefur að verulegu leyti sjálfdæmi um hvort fyrir liggi hlutlausar vísbendingar um verðmætarýrnun. Augljóst er að bankinn getur velt verulegum niðurfærslum á undan sér í drjúgan tíma. Það er gert með því að veita yfirdráttarheimild eða hækka lánið þannig að hægt verði að greiða gjaldfallna vexti!
Rík ástæða er til að vera á verði ef meginreglan er sú að innheimta ekki (ekki sé hægt að innheimta) gjaldfallin lán! Endurteknar framlengingar á lánum eru nokkuð öruggar vísbendingar um stigmagnandi rýrnun útlánasafns.
Endursölumarkaður
Þegar allt var orðið um seinan reyndu bankarnir að losna við útlánin af bókunum. Sumarið 2008 ýtti Glitnir tveimur írskum SPV-fyrirtækjum úr vör sem bankinn réð yfir með það fyrir augum að breyta bundnum útlánum í lánshæfistengd skuldabréf (víxla) sem hægt var að veðsetja á hagstæðum kjörum í seðlabankakerfi Evrópu. Um var að ræða Holt Funding í maí og Haf Funding í júlí þar sem annað var hugsað fyrir erlend útlán en hitt íslensk útlán.
Í september 2008 áformaði Landsbankinn að breyta útlánum í tryggð skuldabréf (Collateralized Debt Obligations) gegnum Lehman Brothers. Það var um seinan. Fyrir Landsbankann – og fyrir Lehman!
Kaupþing varð einnig að leita út á endursölumarkað. Hinn 11. september 2008 lagði lánanefnd bankans til að bankastjórnin veitti 190 milljóna evra lán til Chesterfield United Inc. sem var í eigu þriggja eignarhaldsfélaga. Markmiðið var að hópurinn tæki 125 milljóna evra lán hjá [Kaupþingi] til þess að taka yfir 250 milljóna evra lánshæfistengd skuldabréf (Credit Linked Notes) með viðskiptavini Kaupþings sem skuldara við Deutsche Bank. Þær 65 milljónir evra sem eftir voru af lántökunni átti að nota til að greiða kostnað og þóknun (kick-back) þátttakenda í viðskiptunum sem nam 60 milljónum evra.
Að eignarhaldsfélögunum stóðu einstaklingar sem voru nátengdir Kaupþingi – Skúli Þorvaldsson,Tony Yerolemou ásamt Karen Millen/Kevin Stanford – meðan Ólafur Ólafsson stóð að baki Chesterfield United Inc.Allir voru þeir á lista yfir undanþágur frá lánshæfismati (the exception list with regard to credit rating). Þessir aðilar tóku þó aðeins þátt að nafninu til því Kaupþing axlaði allan kostnað og áhættu á viðskiptunum.
Það virðist mjög gagnrýnisvert að Kaupþing hafi ætlað að greiða þátttakendunum (þeirra á meðal voru tveir stærstu hluthafar bankans en þar af sat annar í bankastjórn) fyrirfram ábata að andvirði 60 milljónir evra fyrir að taka þátt í slíkri sýndarfléttu.
Öll viðskiptin áttu að tryggja 250 milljóna evra skuldbindingar í eigu Deutsche Bank sem Kaupþing hafði endurfjármagnað með lánshæfistengdum skuldabréfum (Credit Linked Notes). Það var gert með því að Kaupþing lagði fram 130 milljónir evra sem eigið fé. Bankinn varð að leggja fram sérstakar tryggingar fyrir skuldbindingum viðskiptavina bankans gagnvart þriðja aðila! Merki um hina mjög svo tvísýnu stöðu sem bankinn var þá kominn í.
G. Önnur starfsemi en bankaþjónusta
Samkvæmt dönskum lögum má fyrirtæki (banki) sem tekur á móti innlánum frá almenningi eða öðrum fjármunum sem á að greiða til baka, og veitir lán á eigin vegum, ekki stunda aðra starfsemi (en bankaþjónustu). Slíkar reglur gilda greinilega ekki á Íslandi. Að minnsta kosti hefur þeim ekki verið framfylgt.
Íslensku bankarnir hafa í miklum mæli tekið fjárhagslegan þátt í rekstri fyrirtækja viðskiptavina sinna. Kaupþing gerði þetta að listgrein ["gjorde en dyd ud af forholdet"]. Helsta dæmið er stór eignarhlutur bankans í Exista samstæðunni.
Glitnir átti lengi 35% af hlutabréfum í fasteignafélaginu Hanza eignum ehf. Bankinn var einn af stofnendum Geysir Green Energy en hafði áður með 16% eignarhlut átt meirihluta bréfa í fyrirtækinu ásamt FL Group (43%). Sjóður í umsjón Glitnis fer nú með 40% eignarhlut í Geysir Green Energy. Glitnir hefur veitt 28,6 milljarða króna lán til Geysir Green Energy. Hefði bankinn veitt lánið ef hann hefði ekki verið stór hluthafi í fyrirtækinu?
Reynslan virðist sýna að stór eignarhlutur er oft ósamrýmanlegur verulegum lánafyrirgreiðslum. Það hefur reynst erfitt að sitja báðum megin borðsins. Bankinn hefur sem eigandi oft óskað eftir stærri lánum en bankinn sem lánveitandi hefur talið skynsamlegt!
Með hlutfallslega verulegri skuldsetningu atvinnulífsins og með veðsetningu hlutafjár sem útbreidda framkvæmd eru íslensku bankarnir oft aðeins hársbreidd frá eignarhaldinu sjálfu. Eigi bankinn veð í hlutafé gjaldþrota félags er bankinn í raun eigandi þess.Aðeins er hægt að vona að bankinn geri sér grein fyrir þessu í tæka tíð.Að öðrum kosti getur það orðið dýrkeypt.
Haustið 2009 þurfti Landsbankinn að taka formlega yfir eignarhald á Húsasmiðjunni hf. Það verður varla í síðasta sinn sem bankarnir þurfa að fara í vinnugallann. Ástæða er til að ætla að bankarnir munu iðulega telja sig neydda til að taka yfir eignarhald fyrirtækja sem líkur eru á að lendi í erfiðleikum vegna óhóflegrar skuldsetningar. En það er nógu erfitt að reka banka.Við höfum einmitt fengið sýnikennslu í því. Bankarnir hafa varla bolmagn til að sinna öðrum atvinnurekstri.
H. Niðurstaða Bankarnir tóku of mikla áhættu
Íslensku bankarnir tóku gífurlega áhættu. Þeir juku útlán og tóku yfir banka og fjármálastofnanir, einkum erlendis, á ógnarhraða. Þeir tóku því á sig skuldbindingar sem höfðu gífurlega kerfisáhættu í för með sér. Hraður vöxtur útlána er vandasamur jafnvel fyrir bestu banka.Vöxtur íslensku bankanna var í sérflokki.
Vöxtur útlána afhjúpaði og beindi athyglinni að Akkilesarhæl íslensku bankanna – fjármögnuninni. Innlán íslensku bankanna hafa ávallt verið tiltölulega lítil. Gífurlegur vöxtur útlána íslensku bankanna á nýrri öld gerði þá sífellt háðari því að geta tekið og endurfjármagnað mjög stór lán á alþjóðlegum fjármagnsmörkuðum.
Þegar fjármagnsmarkaðir hrundu á haustdögum 2008 voru örlög íslensku bankanna innsigluð. Bankarnir höfðu skuldsett sig að því marki að það gerði íslensk yfirvöld að áhrifalausum áhorfendum með atburðunum.
Íslensku bankarnir voru stofnaðir sem hefðbundnir viðskiptabankar (commercial banks) og störfuðu í þeim anda fram á öndverðan þennan áratug. En íslensku bankarnir færðust á fáum árum yfir í fjárfestingarbankastarfsemi. Ásamt viðskiptavinum sínum og fyrir hönd þeirra réðust bankarnir oft út í mjög stór kaup á fyrirtækjum og öðrum eignum.
Í leiðinni tóku bankarnir að verulegu marki eigin stöður í hlutabréfum, bæði skráðum og óskráðum. Bankarnir söfnuðu upp mjög mikilli áhættu í efnahagsreikningum sínum. Jafnmikið eða meira leyndist undir yfirborðinu. Bankarnir höfðu í mjög miklum mæli veitt viðskiptamönnum sínum lán til kaupa á hlutabréfum.
Meðal viðskiptavina bankanna var mikill fjöldi eignarhaldsfélaga og fjárfestingarfélaga (oft SPV-félög sem stofnuð voru af þessu tilefni) sem áttu stóra eignarhluti sem fjármagnaðir voru með lánum. Bankarnir lögðu oft til fjármögnun án þess að tryggja sér persónulega ábyrgð hluthafanna. Í alltof ríkum mæli lá áhættan af lánum hjá bönkunum sjálfum – fremur en hjá viðskiptavinum.
Eignarhlutirnir reyndust í hæsta máta illseljanlegir. Bankarnir höfðu yfirleitt tryggt fjármögnun með föstum eingreiðslulánum (kúlulán). Það nægði þó ekki. Lánin varð að framlengja.Aftur og aftur. Mjög lítill veltuhraði var á útlánum bankanna. Þessar aðstæður juku fjármögnunarerfiðleika þeirra.
Bankarnir réðust í alltof stórar skuldbindingar
Ísland er lítið land. Þrír tiltölulega stórir bankar hefðu hæglega átt að geta þjónað jafnvel stærstu fyrirtækjum landsins án þess að brjóta mikilvægustu reglu í bankalöggjöfinni sem kveður á um að takmarka beri hámarksstærð einstakra skuldbindinga við 25% af áhættugrunni bankans.
Allt of stórar einstakar skuldbindingar hafa eflaust orðið fleiri bönkum að falli en nokkuð annað. Full ástæða er því til að taka fyrrnefnda reglu bankalöggjafarinnar alvarlega. Það er einnig rík ástæða að reikningsfæra skuldbindingar margra viðskiptavina sameiginlega sem eina skuldbindingu, ef skuldbindingarnar fela í sér tengda áhættu.
Íslensku bankarnir brutu gegn þessari reglu. Þeir réðust m.a.s. út í mjög stór viðskipti og virtu á engan hátt ákvæði í reglum Fjármálaeftirlitsins nr. 216 frá 2. mars 2007, þar sem "tengd áhætta" er skilgreind.
Bankarnir réðust í fáránlega stór viðskipti. Í lok september 2008 námu heildarskuldbindingar Baugssamstæðunnar (Baugur Group og félaga sem tengdust Baugi á þann hátt að ætla mætti að þau hefðu tengda áhættu) við stóru bankana þrjá líklega 700 milljörðum króna. Endanleg afmörkun skuldbindinga í samræmi við reglur nr. 216 krefst hins vegar nánari athugunar.
Þrátt fyrir að skuldbindingum við Baugsfyrirtækin hefði verið skipt jafnt (miðað við eiginfjárgrunn bankanna) á milli Kaupþings, Landsbanka og Glitnis, hefðu viðskiptin gert alla bankana þrjá brotlega við reglugerð nr. 216. Meira að segja svo um munaði.
Eftir á að hyggja er erfitt að skera úr um hver féll fyrst, Baugur eða bankarnir. Staðreyndin er sú að hrun í aðeins einu mikilvægu félagi í Baugssamsteypunni hefði að öllum líkindum nægt til að draga alla þrjá bankana með sér í fallinu. Baugur og bankarnir fólu í raun og veru í sér sameiginlega áhættu. Þessi furðumiklu tengsl sýna að bankarnir voru komnir allt of nálægt viðskiptavinum sínum.
Á sama hátt voru skuldbindingar Björgólfs Guðmundssonar og Björgólfs Thors Björgólfssonar og félaga undir stjórn þeirra feðga orðnar það miklar að fall aðeins eins þeirra hefði örugglega dregið ekki aðeins Landsbankann heldur einnig Glitni með í fallinu. Skuldbindingar Ólafs Ólafssonar (Kjalars), stórs hluthafa í Kaupþingi, ógnuðu ekki aðeins Kaupþingi heldur einnig Glitni.
Skuldbindingar Exista og Roberts Tchenguiz gagnvart Kaupþingi voru svo miklar að fall annars þeirra hefði fellt Kaupþing.Á sama hátt hefði Karl Wernersson einnig getað ýtt Glitni fram af brúninni.
Þá er einnig líklegt að bankarnir þrír hafi átt viðskipti innbyrðis í þvílíku umfangi að fall eins þeirra hefði dregið hina tvo með.
Aðferðir bankanna til að fjármagna stóra hluthafa í hinum tveimur bönkunum sýna greinilega að engin mörk voru á milli bankanna. Bankarnir höfðu ekki aðeins færst of nálægt viðskiptavinum sínum heldur einnig hver öðrum.
Umfangsmikil endurkaup eigin hlutabréfa
Allir bankarnir þrír notuðu sérstaklega óheilbrigðar aðferðir sem fólust í að veita lánsfjármögnun til kaupa á eigin hlutabréfum gegn veðum í bréfunum sjálfum. Lán fyrir kaupum eigin bréfa gegn veði í þeim varð eftir október 2007 þannig að formi og umfangi að gera má ráð fyrir að hafi brotið gegn lögum. Í raun og veru rýrðu bankarnir hlutafé sitt án þess að það kæmi nokkurs staðar fram í bókum þeirra. Og án þess að það hefði verið lagt fyrir, eða samþykkt af, aðalfundi.
Ekki er ljóst hvers vegna sama gagnrýnisverða framkvæmdin komst á hjá öllum bönkunum þremur. Líklega hafa menn viljað styrkja gengi hlutabréfanna. En það er nú einu sinni ekki hlutverk félags sem gefur út hlutabréf að ákveða gengi þeirra – heldur hlutabréfamarkaðarins. Augljóst er að bankarnir lentu í vítahring þegar þeir hófu að fjármagna kaup á eigin hlutabréfum hjá viðskiptavinum sem skorti bæði greiðslugetu og -vilja. Bankarnir sáu sig knúna til að vernda virði trygginga sinna – sinna eigin hlutabréfa.
Ekki er ljóst hvernig þessi keðjuverkun hófst – hvað það var sem kveikti þennan áhuga bankanna á gengi hlutabréfa þeirra. En það er líklega ágætis ágiskun að hinar fáránlegu valréttaraðferðir hafi valdið þeirri óeðlilegu athygli sem gengi hlutabréfanna fékk. Hin útbreidda aðferð að gera starfsmenn að stórum hluthöfum í bönkunum með því að lána fyrir því, bjó til óheilbrigð gagnkvæm tengsl. Allir flæktust þar inn í. Í slíku umhverfi verða ekki margir til að benda á keisarann.
Bankarnir – hlaðborð stóru hluthafanna
Stóru íslensku bankarnir þrír voru í raun hver á valdi síns stórhluthafa eða vel skilgreinds hóps hluthafa. Ekki þarf meirihluta hlutabréfa til að stjórna fyrirtæki sem er skráð í kauphöllinni og með dreifða eignaraðild að öðru leyti.
Björgólfur gat haft Landsbankann á valdi sínu einn og óstuddur. Jón Ásgeir (með aðstoð Karls Wernerssonar) stjórnaði Glitni, en Ágúst og Lýður Guðmundssynir (með aðstoð Ólafs Ólafssonar) stjórnuðu Kaupþingi. Ágúst og Lýður Guðmundssynir virðast að miklu leyti hafa lagt áhrif sín í Kaupþingi í hendur valdamikils stjórnarformanns, Sigurðar Einarssonar, en hann var lengi stór hluthafi, fyrir hönd bankans, í Exista, fyrirtæki þeirra bræðra.
Sigurður var starfandi stjórnarformaður en það er umdeilt fyrirkomulag sem ekki er hefð fyrir á Norðurlöndum og reyndar bannað í Danmörku. Ótakmörkuð ítök í bönkunum þremur virðast hafa verið á höndum færri en tíu manns, þar sem Sigurður, Björgólfur og Jón Ásgeir voru valdamestir. Þetta er gífurleg samþjöppun valds. Bankarnir stóðust það ekki með eftirlitskerfum sínum.
Stórhluthafarnir fimm sem réðu lögum og lofum í stjórnum bankanna höfðu, ásamt fyrirtækjum sem nátengd voru hluthöfunum, tekið lán í bönkunum að andvirði líklega samtals 1.650 milljarðar króna. Robert Tchenguiz er hér ekki talinn til nátengdra aðila við stórhluthafa en viðskipti hans við Kaupþing námu 279 milljörðum króna og var hann næststærsti viðskiptavinur bankans. En Tchenguiz átti reyndar sæti í stjórn Exista hf., stærsta hluthafa Kaupþings!
Fimm stærstu hluthafar bankanna voru einnig fimm stærstu viðskiptavinir þeirra. Langstærstu! En ekki nóg með það. Þeir sátu einnig í bankastjórn eða áttu fulltrúa þar. Fyrirkomulagið virðist vægast sagt vafasamt. Hætta á klíkuskap og sjálfsafgreiðslu vofir yfir. Yfirlit yfir stærstu viðskipti bankanna segir sína sögu.
Samþjöppun eignarhalds á bönkunum, sem má að miklu leyti rekja til einkavæðingar bankanna árið 2002, átti eftir að leiða til mikilla hamfara.
Stjórnir bankanna og yfirvöld brugðust
Augljóst er að stjórn bankanna brást. Hið sama virðist eiga við um endurskoðendur. Það er óskiljanlegt að á Íslandi, þar sem allir þekkja alla, hafi verið hægt að líta svo lengi fram hjá því að ýmsar stórar skuldbindingar bankanna, væru þær bókfærðar rétt, brytu í bága við lög og reglugerðir. Það er óskiljanlegt að í Reykjavík, þar sem bankarnir voru svo áberandi í kauphöllinni, hafi menn ekki uppgötvað að bankarnir keyptu árið fyrir fall bankanna eigin hlutabréf í ógnvekjandi mæli og komu þeim fyrir hjá leppum bankanna.
Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn virðast einnig hafa brugðist. Óljóst er hvort löggjafinn og yfirvöld hafi gert sér grein fyrir þeirri ábyrgð sem fylgir miklum umsvifum þriggja stórra banka fyrir utan landsteinana. Þá er óljóst hvort Fjármálaeftirlitið hafði nægileg úrræði til að beisla bankana. Líklega voru hvorki löggjafinn né yfirvöld í stakk búin til að fylgja bönkunum eftir á ógnarhraða þeirra. Bankarnir voru orðnir óviðráðanlegir.
Hrun íslensku bankanna var af sögulegri stærð. Í Danmörku þarf að leita allt aftur til gjaldþrots Landsmandsbanken á árinu 1922 til að finna bankahrun af sömu stærð. Í kjölfar þess var ýmsum ákvæðum bætt í danska bankalöggjöf sem enn mynda hryggjarstykkið í henni.
Ákvæðin takmarka hámarksstærð einstakra skuldbindinga; ákvæðin eiga að tryggja að bankastjórn hygli ekki eigin hagsmunum eða tengdra aðila; ákvæðin eiga að tryggja að bankar, bankastjórnir og bankastarfsfólk braski ekki með hlutabréf bankanna. Þetta eru ákvæði sem á Íslandi virðist ekki hafa verið tekið nægilega mikið tillit til.
Fjölmiðlar voru seinir að bregðast við bönkunum
Fjórða valdið, fjölmiðlarnir, virðist einnig hafa brugðist. Bankar eru gott fréttaefni. (Það geta menn sannfærst um við lestur dagblaða á liðnu ári.) Þrátt fyrir bankaleynd hefðu gagnrýnir fjölmiðlar getað afhjúpað hvað var á seyði í bönkunum miklu fyrr.
Stór hluti íslenskra prentmiðla var hins vegar undir stjórn eða áhrifum Björgólfs og Jóns Ásgeirs. Sterk yfirvöld og frjálsa fjölmiðla þarf til að hafa taumhald á bönkunum.
Eftirmáli
Lagagrundvöllur
Þegar vísað er til gildandi laga í þessari greinargerð, er átt við dönsk lög um fjármálastarfsemi. Oft er samsvarandi reglur að finna í íslenskum lögum en ekki alltaf. Í greinargerðinni er ekki tekin afstaða til íslensks lagagrundvallar sem er í gildi.
Þegar leiddar eru líkur að því í greinargerðinni að tilteknar aðstæður brjóti í bága við lög (lög um fjármálastarfsemi), brjóta þær vitaskuld einnig gegn íslenskum lögum svo framarlega sem samsvarandi reglur er að finna í íslenskum lögum. Ef samsvarandi reglur er ekki að finna í íslenskum lögum getur umfjöllun í greinargerðinni kannski hvatt menn til að velta fyrir sér hvort ástæða sé til að setja samsvarandi reglur í íslensk lög.
Heimildir
Efnið sem stuðst hefur verið við í þessu stutta mati á ýmsum þáttum í starfsemi stóru bankanna þriggja hefur starfsfólk rannsóknarnefndar Alþingis, sem vann að athugun á útlánastarfsemi bankanna, lagt í té. Nefndin hefur safnað miklu af gagnlegum upplýsingum sem virðast nægja til að gefa fullnægjandi mynd af lánastefnu bankanna og umfangi viðskipta þeirra.
11. desember 2009
Jørn Astrup Hansen
Fylgiskjal 2
Áhættuskuldbindingar 25 stærstu skuldara fjármálafyrirtækjanna bornar saman við eiginfjárgrunn þeirra skv. reglum FME, heildaráhættu og bókfært eigið fé 30. júní 2008.
Áhættuskuldbindingum 25 stærstu aðilanna hjá hverju fjármálafyrirtæki fyrir sig er hér raðað upp eftir fjárhæðum og fundið út hvert hlutfall skuldbindinganna væri m.t.t. eiginfjárgrunns skv. reglum Fjármálaeftirlitsins, við heildaráhættuskuldbindingar og bókfært eigið fé viðkomandi fjármálafyrirtækis.
Eiginfjárgrunnur skv. 3. gr. reglna nr. 530/2004 um viðmið við mat Fjármálaeftirlitsins á áhættu fjármálafyrirtækja um ákvörðun um eiginfjárhlutfall umfram lögbundið lágmark. Þetta þýðir að fjármálafyrirtæki þarf að jafnaði að geta staðist áföll sem samtímis leiða til niðurfærslu eignaliða fjármálafyrirtækis án þess að eiginfjárhlutfall þess fari niður fyrir 8%. Eiginfjárhlutfall þetta er oft nefnt CADhlutfall. Öll fjármálafyrirtækin nema Spron skiluðu inn upplýsingum um þetta atriði og miðuðu þau við uppgjör sitt 30. júní 2008.
Gerð er grein fyrir heildaráhættuskuldbindingum hvers fjármálafyrirtækis fyrir sig ásamt áhættuskuldbindingum tiltekinna aðila og félaga þeim tengdra. Miðað var við áhættuskuldbindingarnar eins og þær stóðu í október 2008. Flokkun tengdra aðila og fjárhæðir skuldbindinga eru í samræmi við þær upplýsingar sem komu frá fjármálafyrirtækjunum.
Bókfært eigið fé fjármálafyrirtækisins (samstæðu) miðað við 30. júní 2008.
Fylgiskjal 3
Í þessu fylgiskjali eru listaðir upp hóparnir sem notaðir eru til grundvallar greiningunni í kafla 8.1-8.11. Sjá skilgreiningu á aðferðafræðinni við tengingar í kafla 8.7.2 og í viðauka 2 við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um krosseignatengsl.