30. kafli – Sparisjóður Vestmannaeyja

30. Sparisjóður Vestmannaeyja

Sparisjóður Vestmannaeyja var stofnaður 3. desember 1942. Stofnendur voru 30 og fyrstu samþykktir sparisjóðsins voru dagsettar og undirritaðar af ábyrgðarmönnum 31. október sama ár. Hinn 10. janúar 1943 kusu ábyrgðarmenn sparisjóðsins þá Þorstein Þ. Víglundsson skólastjóra, Kjartan Ólafsson kennara og Helga Benediktsson kaupmann í stjórn. Vestmannaeyjabær tilnefndi þá Guðlaug Gíslason og Karl Guðjónsson sem fulltrúa sína í stjórn sparisjóðsins.1

Starfsemi sparisjóðsins efldist og árið 1956 flutti hann í fyrsta skipti í eigið húsnæði að Vestmannabraut 38. Þar starfaði sjóðurinn fram til 1962 er hann flutti starfsemi sína í núverandi húsnæði að Bárustíg 15. Við eldsumbrotin á Heimaey sem hófust hinn 23. janúar 1973 bauð Seðlabanki Íslands fram hluta af húsnæði sínu í Reykjavík fyrir starfsemi sjóðsins og gerði honum þannig kleift að sinna skyldum sínum við viðskiptamenn. Sparisjóðurinn flutti aftur til Vestmannaeyja í september sama ár og tæpum tuttugu árum síðar, eða 1992, flutti sparisjóðurinn að Bárustíg 15 þar sem aðalstöðvar hans eru nú.2

Árið 2006 sameinuðust Sparisjóður Vestmannaeyja og Sparisjóður Hornafjarðar og nágrennis undir nafni þess fyrrnefnda. Sparisjóður Vestmannaeyja hafði lagt fram 220 milljónir króna í nýtt stofnfé á árinu 2003 vegna rekstrarerfiðleika Sparisjóðs Hornafjarðar og eignast þannig 77% hlut af öllu stofnfé sparisjóðsins. Árið 2005 lagði Sparisjóður Vestmanneyja 40 milljónir króna til viðbótar fram sem stofnfé og átti þá 85,7% stofnfjárins. Bókhaldslegur samruni sparisjóðanna miðaðist við 1. júlí 2006 en hann var samþykktur af Fjármálaeftirlitinu 18. janúar 2007.3

Höfuðstöðvar sparisjóðsins eru í Vestmannaeyjum en sparisjóðurinn starfrækir útibú á Höfn. Árið 2006 var opnuð afgreiðsla á Breiðdalsvík auk þess sem afgreiðsla sparisjóðsins á Djúpavogi var stækkuð. Þessir tveir afgreiðslustaðir voru undir útibúinu á Höfn. Þá hefur hefur Sparisjóður Vestmannaeyja starfrækt útibú á Selfossi frá árinu 2000. Undir það heyrði afgreiðsla í Hveragerði frá árinu 2004 en henni var lokað árið 2011.

Sparisjóðsstjóri er Ólafur Elísson og hefur hann gegnt því starfi síðan 1999. Núverandi stjórnarformaður er Þorbjörg Inga Jónsdóttir, kosin á aðalfundi sparisjóðsins 23. apríl 2013, í umboði Bankasýslu ríkisins.

Í lok árs 2007, fyrir fall bankanna, voru stofnfjárhafar 70 með dreifðri eignaraðild. Heildareignir sjóðsins námu 12,2 milljörðum króna eða um 2% af heildareignum sparisjóðanna

sem þá voru um 614 milljarðar króna. Sparisjóður Vestmannaeyja var rekinn með hagnaði allt til ársins 2007. Í lok þess árs nam bókfært eigið fé sparisjóðsins 1,8 milljörðum króna og eiginfjárhlutfallið var 11,1%. Árið 2008 tapaði sparisjóðurinn hálfum öðrum milljarði króna og í lok þess árs var eiginfjárhlutfallið komið undir lögbundið lágmark. Árið eftir varð enn tap af rekstrinum, rúmur milljarður króna, og eigið fé varð neikvætt. Þegar eiginfjárhlutfall sparisjóðsins fór undir lögbundið lágmark sótti hann um eiginfjárframlag úr ríkissjóði.

Skoðun óháðs endurskoðunarfyrirtækis á eignum sparisjóðsins sýndi verri stöðu en áður var talið og var talið að framlag úr ríkissjóði myndi ekki duga til að endurreisa hann þannig að lagaskilyrði um lágmarkseiginfjárhlutfall yrði uppfyllt. Sparisjóðurinn þurfti því á aðkomu kröfuhafa að halda til að fjárhagsleg endurskipulagning væri möguleg. Í ljósi þess að Seðlabanki Íslands var helsti kröfuhafi Sparisjóðs Bolungarvíkur tóku Seðlabankinn og fjármálaráðuneytið upp samvinnu um fjárhagslega endurskipulagningu sjóðsins. Seðlabankinn varð helsti kröfuhafi sparisjóðsins eftir að Fjármálaeftirlitið ráðstafaði útlánum til sparisjóðanna til bankans með ákvörðun sinni um að taka yfir vald hluthafafundar Sparisjóðabanka Íslands 21. mars 2009. Sparisjóður Vestmannaeyja og Seðlabanki Íslands undirrituðu samkomulag um fjárhagslega endurskipulagningu sparisjóðsins 10. desember 2010. Krafa Seðlabankans á hendur sparisjóðnum nam 2,2 milljörðum króna. Í samkomulaginu fólst að afskrifaðar voru 787 milljónir króna, 310 milljónum var breytt í víkjandi lán, 564 milljónir króna voru endurlánaðar til fimm ára og 555 milljónum króna var breytt í stofnfé í sparisjóðnum. Eftir fjárhagslega endurskipulagningu sparisjóðsins fór Bankasýsla ríkisins með 55,7% stofnfjárhlut í sjóðnum, en almennir stofnfjárhafar áttu um 10%, Lífeyrissjóður Vestmannaeyja 14,2%, Vestmannaeyjabær 10%, Vinnslustöðin hf. 5% og aðrir 5%.

30.1 Ársreikningar 2001–2011

Hér verður farið yfir þróun rekstrarreiknings og efnahagsreiknings Sparisjóðs Vestmannaeyja, helstu liði þeirra og kennitölur 2001 til 2011. Umfjöllunin miðast við verðlag hvers árs nema annað sé tekið fram.4 Það skal tekið fram að tölurnar frá árinu 2006 taka til Sparisjóðs Hornafjarðar og nágrennis frá 1. júlí 2006 til 31. desember 2006. Sparisjóðurinn tók upp alþjóðlegar reikningsskilareglur (IFRS) árið 2007. Það kallaði á nokkrar tilfærslur í framsetningu hér til þess að reikningar yrðu samanburðarhæfir á milli ára. Upptaka alþjóðlegra reikningsskilareglna (IFRS) leiddi til lækkunar á eigin fé sparisjóðsins í ársbyrjun 2007 um tæplega 160 milljónir króna.

Til að gefa sem heildstæðasta mynd verður jafnframt gefið yfirlit yfir þróun rekstrar- og efnahagsreiknings Sparisjóðs Hornafjarðar og nágrennis frá árinu 2001 og fram að sameiningunni við Sparisjóð Vestmannaeyja, þ.e. til 30. júní 2006.

30.1.1 Rekstrarreikningar

Sparisjóður Vestmannaeyja var rekinn með hagnaði öll árin frá 2001 til 2007. Árin 2005 og 2006 jókst hagnaður einkum vegna hlutdeildar í afkomu hlutdeildarfélaga. Árið 2007 nam hagnaður sparisjóðsins 343 milljónum króna og skipti þar mestu gengishagnaður af fjáreignum upp á 404 milljónir króna. Verulegur viðsnúningur varð árið 2008 þegar sjóðurinn tapaði 1,5 milljörðum króna. Skýrðist það fyrst og fremst af 1,6 milljarða króna tapi af fjáreignum og 266 milljóna króna framlagi í afskriftareikning útlána. Rúmlega milljarðs króna tap varð árið eftir og skýrðist aðallega af 1,1 milljarðs króna framlagi í afskriftareikninginn og áframhaldandi gengistapi af fjáreignum. Fjárhagsleg endurskipulagning á árinu 2010 leiddi til 1,5 milljarða króna tekjufærslu í rekstrarreikningi sem varð til þess að árið kom út með nærri 900 milljóna króna hagnaði. Enn varð svo tap árið 2011. Samanlagður hagnaður Sparisjóðs Vestmannaeyja á tíu ára tímabili fyrir efnahagshrunið, á árunum 1998 til 2007, var rúmir tveir milljarðar króna miðað við meðalverðlag ársins 2011. Hins vegar tapaði sparisjóðurinn samtals tæpum 2,3 milljörðum króna á árunum 2008–2011 á meðalverðlagi ársins 2011.

Hreinar rekstrartekjur

Hreinar rekstrartekjur hækkuðu með tiltölulega jöfnum hætti frá 2001 til 2007. Vöxtinn mátti fyrst og fremst rekja til tekna af fjáreignum og hlutdeildar í afkomu hlutdeildarfélaga en einnig uxu hreinar vaxta- og þjónustutekjur jafnt og þétt. Árið 2003 hafði gengishagnaður af fjáreignum mikil áhrif og sömuleiðis árið 2007, en árin 2005 og 2006 voru arðs- og hlutdeildartekjur ráðandi. Mikið gengistap varð hins vegar af fjáreignum á árunum 2008 og 2009 sem átti mestan þátt í taprekstri sjóðsins. Helstu breytingar á hreinum rekstrartekjum mátti því rekja til fjárfestingastarfsemi.

Gengishagnaður árið 2007 skýrðist að mestu af hagnaði á eignarhlut í Sparisjóðabanka Íslands hf./Icebank hf., SP-Fjármögnun hf. og VBS Fjárfestingarbanka. Hluti af hækkun gengishagnaðar frá fyrra ári stafaði af því að hætt var að færa Sparisjóðabankann með hlutdeildaraðferð og farið að færa hann á gangvirði í ársreikningi Vestmannaeyja. Á árinu 2008 varð mikill viðsnúningur á afkomu af fjáreignum þegar tap sjóðsins af fjáreignum nam 1,6 milljörðum króna og skýrðist það að mestu af niðurfærslu á hlutnum í Sparisjóðabankanum um 884 milljónir króna, í Kaupþingi banka um 118 milljónir króna, VBS Fjárfestingarbanka um 194 milljónir króna og SP-Fjármögnun hf. um 150 milljónir króna. Á árinu 2009 varð einnig tap af fjáreignum sem skýrðist af 176 milljóna króna niðurfærslu á eignarhlutnum í VBS Fjárfestingarbanka hf. og í Saga Capital um 35 milljónir króna auk niðurfærslu vegna Sparisjóðsins í Keflavík um 21 milljón króna.

Arðs- og hlutdeildartekjur voru vart umtalsverðar í rekstri Sparisjóðs Vestmannaeyja á tímabilinu ef árin 2005 og 2006 eru undanskilin. Á árinu 2005 námu arðs- og hlutdeildartekjur sparisjóðsins 109 milljónum króna og munaði þar mest um hlutdeild í hagnaði Sparisjóðabankans. Á árinu 2006 rúmlega tvöfölduðust arðs- og hlutdeildartekjur en þar vó aftur þyngst hagnaður bankans af hlutabréfaeign í Sparisjóðabankanum. Árið 2007 lækkuðu arðs- og hlutdeildartekjur um 228 milljónir króna frá fyrra ári vegna breytingar á færslu eignarhlutarins í Sparisjóðabankanum í bókhaldi sparisjóðsins.

Hreinar þjónustutekjur námu 48 milljónum króna í árslok 2001 og voru 23% af hreinum rekstrartekjum. Vægi þessara tekna lækkaði fram til 2006 en hélst þó alltaf á bilinu 10–19% nema árið 2009 þegar þær voru 32% af hreinum rekstrartekjum.

Aðrar rekstrartekjur voru óverulegur hluti hreinna rekstrartekna hjá sparisjóðnum allt tímabilið. Hluti þeirra var vegna húsaleigu en að öðru leyti voru þær ekki sundurliðaðar í rekstrarreikningi.

Hreinar vaxtatekjur voru stærstur hluti hreinna rekstrartekna allt tímabilið, að frátöldu árinu 2007, og fóru almennt hækkandi frá 2001 til 2008 þrátt fyrir óbreyttan og heldur lækkandi vaxtamun. Stærstur hluti vaxtatekna Sparisjóðs Vestmannaeyja kom frá útlánum eða á bilinu 63% til 91%. Vaxtatekjur af kröfum á lánastofnanir hækkuðu mikið frá 2005 til 2009, úr 6% af vaxtatekjum í 34%, en lækkuðu svo niður í 16% árið 2011. Vaxtatekjur af markaðsskuldabréfum voru ekki miklar og fóru hæst í 11% af vaxtatekjum árið 2003.

Vaxtagjöldin voru að stærstum hluta vegna almennra innlána eða 65% til 90%. Vaxtagjöld vegna lántöku vógu á bilinu 18–28% frá 2001 til 2009 en eftir fjárhagslega endurskipulagningu árið 2010 voru eingöngu 8% af vaxtagjöldum vegna lántöku. Vaxtagjöld til lánastofnana voru óveruleg og fóru einungis einu sinni yfir 10% af vaxtagjöldum, en það var árið 2002.

Rekstrargjöld

Rekstrargjöld Sparisjóðs Vestmannaeyja hækkuðu lítið frá 2001 til 2005 en tóku eftir það að vaxa hraðar og hækkuðu mikið árið 2009, einkum vegna framlags í afskriftareikning útlána en það hélst áfram hátt næstu tvö ár. Á tímabilinu 2001 til 2011 nam framlag í afskriftareikninginn samtals tæpum 2,6 milljörðum króna, en þar af 2,2 milljörðum króna á árunum 2008 til 2011.

Framlag í afskriftareikning útlána var tiltölulega lítill hluti rekstrargjalda fram til 2008. Það ár var framlagið nær sjöfalt frá því sem var árið áður, eða 266 milljónir króna. Árið 2009 var framlagið rúmur 1,1 milljarður króna eða rúmlega fjórfalt framlag ársins 2008. Sá hluti framlagsins hjá Sparisjóði Vestmannaeyja sem féll undir svonefnda sérgreinda afskrift einkenndist af því að útlán voru færð niður hjá mjög breiðum hópi lántakenda. Niðurfærsluhlutfall útlána hjá sparisjóðnum var á bilinu 4,4–6,4% í árslok 2001–2008 en 12,9–17,2% í árslok 2009–2011. Í lok árs 2007 var niðurfærsluhlutfall sparisjóðsins 5,9% en 1,6% hjá sparisjóðunum í heild. Í árslok 2010 var það orðið 17,2% hjá Sparisjóði Vestmannaeyja en var á sama tíma 21,3% hjá sparisjóðunum í heild.

Almennur rekstrarkostnaður sparisjóðsins óx með tiltölulega stöðugum hætti frá 2001 til 2008 en breyttist lítið eftir það. Nokkur hækkun varð á árinu 2006 vegna sameiningar sparisjóðsins við Sparisjóð Hornafjarðar og nágrennis frá miðju ári, til dæmis hækkaði tölvukostnaður um rúmar 35 milljónir króna.5 Árið eftir var sameiningin komin að fullu inn í rekstrarreikninginn. Hlutfall rekstrarkostnaðar sjóðsins af meðaleignum var örlítið lægra á árunum 2001 til 2004 en hjá sparisjóðunum í heild, en frá 2005 til 2008 lækkaði það ekki eins mikið og hjá öðrum sparisjóðum.

Launakostnaður hjá Sparisjóði Vestmannaeyja var á bilinu 42–50% af almennum rekstrarkostnaði öll árin. Við sameininguna við Sparisjóð Hornafjarðar og nágrennis á árinu 2006 fjölgaði stöðugildum um 14 en reikningslegur samruni miðaðist við mitt ár 2006 og því var launakostnaður útibúsins á Hornafirði ekki nema fyrir síðari hluta ársins. Af þeim sökum lækkar meðallaunakostnaður á stöðugildi í árslok um 20%.6

Launakostnaður hjá Sparisjóði Vestmannaeyja þróaðist með talsvert öðrum hætti en hjá sparisjóðunum í heild frá 2003 til 2009 og var sveiflukenndur í samanburði við almenna launavísitölu. Starfsmenn sparisjóðsins nutu ekki annarra fríðinda en þeirra almennu fríðinda en tíðkaðist hjá sparisjóðunum og ekki voru greiddar árangurstengdar greiðslur og hvatagreiðslur sem töldust ekki til hefðbundinna launagreiðslna á tímabilinu. Þá voru ekki gerðir neinir starfslokasamningar sem fólu í sér réttindi umfram þau sem bundin voru í kjarasamninga.7

Kjarnarekstur

Hagnaður var af kjarnarekstri Sparisjóðs Vestmannaeyja frá 2001 til 2006 fyrir utan árið 2003.8 Frá 2007 til 2011 var hins vegar alltaf tap af kjarnarekstri sem skýrðist af hækkuðum, almennum rekstrarkostnaði 2007 og þó einkum framlagi í afskriftareikning frá og með 2008. Árin 2003, 2007 og 2010 skilaði sparisjóðurinn hins vegar hagnaði sem rekja mátti til tekna af fjáreignum og fjárhagslegrar endurskipulagningar árið 2010. Þrátt fyrir misjafna afkomu af kjarnarekstri stóðu hreinar vaxta- og þóknanatekjur ávallt undir almennum rekstrarkostnaði.

30.1.2 Efnahagsreikningar

Hér er fjallað um stærstu eigna- og skuldaliði í efnahagsreikningi Sparisjóðs Vestmannaeyja í lok áranna 2001 til 2011 og þróunina á tímabilinu. Í viðauka C má sjá efnahagsreikning sparisjóðsins á árunum 2001 til 2011 á verðlagi hvers árs og á föstu verðlagi.

Eignir

Í árslok 2001 námu eignir Sparisjóðs Vestmannaeyja tæpum fjórum milljörðum króna en í árslok 2011 voru þær 14,6 miljarðar króna á verðlagi hvors árs um sig. Ef miðað er við verðlag í árslok 2011 voru heildareignir sjóðsins í árslok 2001 tæpir sjö milljarðar króna. Þannig hafði sjóðurinn ríflega tvöfaldast að stærð á þessum ellefu árum. Mikill vöxtur hljóp í eignir sjóðsins eftir árið 2005 og munaði þar mestu um aukningu útlána, krafna á lánastofnanir og sjóðs og óbundinna innstæðna í Seðlabanka.

Útlán voru stærsti einstaki eignaliður sparisjóðsins allt tímabilið og var vægi þeirra af heildareignum á umræddu tímabili 51% til 71%. Mest hækkuðu útlánin árið 2006 eftir sameininguna við Sparisjóð Hornafjarðar um 60% eða um tæpa 2,5 milljarða króna. Í árslok 2009 varð hlutfall útlána lægst eða 51% en það ár var framlag í afskriftareikning útlána einnig hæst á tímabilinu, eða 1,1 milljarður króna. Vægi útlána af heildareignum í lok árs 2008 var 58% og námu útlán þá 9,3 milljörðum króna.

Stærstur hluti útlána sparisjóðsins var í formi skuldabréfa eða að jafnaði um tveir þriðju. Útlán til einstaklinga fóru vaxandi eftir 2003 og voru um og yfir 75% allra útlána frá 2005. Samhliða þessu lækkaði hlutfall útlána til fyrirtækja um fjórðung sem að mestu skiptist niður á iðnað, þjónustustarfsemi og sjávarútveg.

Staða á afskriftareikningi útlána hækkaði umtalsvert á árunum 2009 til 2010. Staðan á reikningnum nam 4,4–6,4% af útlánum til viðskiptavina í árslok 2001–2007. Í árslok 2007 stóð hann í 487 milljónum króna sem jafngilti 5,9% af heildarútlánum. Með umtalsverðum framlögum í afskriftareikning á árunum 2009–2011 hafði hlutfallið margfaldast í árslok 2010 og var þá 17,2% af heildarútlánum.

Sjóður og óbundnar innistæður í Seðlabanka Íslands hækkuðu til muna á árinu 2007 og námu í lok árs rúmlega 1,7 milljörðum króna. Skýrðist það af tilfærslu á milli eignaliða, því kröfur á lánastofnanir voru færðar undir þennan lið í ársreikningnum. Sjóður og óbundnar innistæður voru 3 milljarðar króna í lok árs 2009 en lækkuðu 2010 og 2011 og námu 1,7 milljörðum króna í lok árs 2011.

Kröfur á lánastofnanir voru að mestu innistæður í Sparisjóðabanka Íslands hf./Icebank hf. Þær voru óverulegar í árslok 2001 en eftir það var vægi þeirra í heildareignum Sparisjóðs Vestmannaeyja á bilinu 13–28%. Í árslok 2007 var þessi efnahagsliður ekki nýttur í ársreikningnum og það sem að venju hefði átt að færast þar fór undir liðinn sjóður og óbundnar innistæður í Seðlabanka. Í lok október 2008 var staða Sparisjóðabankans orðin mjög ótrygg, meðal annars vegna veðkalls Seðlabanka Íslands vegna endurhverfra viðskipta. Innlánsreikningur sparisjóðsins þar var þá tveimur milljörðum króna hærri en heildarskuldbindingar gagnvart bankanum. Þá greip Sparisjóður Vestmannaeyja til þeirra ráðstafana að færa 800 milljónir króna á innlánsreikning hjá Seðlabanka Íslands og keypti jafnframt fimm skammtímaskuldabréf af Sparisjóðabankanum, útgefin af Byr sparisjóði, að fjárhæð 1.342 milljónir króna með gjalddaga í apríl 2009.9 Sparisjóðurinn lagði síðan um 250 milljóna króna innlán í Sparisjóðinn í Keflavík á síðari hluta árs 2008 þegar sá síðarnefndi leitaði eftir því.10 Í apríl 2009 greiddu Byr sparisjóður og Sparisjóðabankinn upp kröfur Sparisjóðs Vestmannaeyja á hendur þeim. Í árslok 2009 skiptust kröfur á lánastofnanir á eftirfarandi hátt: i) innistæðubréf í Seðlabanka Íslands: þrír milljarðar króna; ii) innistæða hjá Sparisjóðnum í Keflavík: 257 milljónir króna; og, iii) innistæða hjá VBS Fjárfestingarbanka hf.: 80 milljónir króna. Kröfur á lánastofnanir námu 4 milljörðum í lok árs 2011 eða 28% af heildareignum sparisjóðsins.

Vægi fjáreigna af heildareignum sparisjóðsins breyttist ekki að ráði á árunum 2001–2007. Á tímabilinu 2001 til ársloka 2007 var það 12% til 20% af heildareignum en frá árslokum 2008 voru fjáreignir 4–6% af heildareignum. Bókfært verð fjáreigna nam 2,4 milljörðum króna í árslok 2007 og hafði þá vaxið um 865 milljónir króna frá árinu áður. Árið 2008 lækkaði bókfært verð fjáreigna hins vegar um 72% eða tæplega 1,5 milljarða króna.

Markaðsskuldabréf o.fl. með föstum tekjum voru oftast stærsti liður fjáreigna en sveiflaðist töluvert á tímabilinu. Mestur varð hlutur þeirra af fjáreignum 71% í árslok 2010 þegar þau námu 430 milljónum króna en minnstur varð hlutur markaðsskuldabréfa af fjáreignum 19% í árslok 2006 en þá voru þau 300 milljónir króna.

Hlutabréf og verðbréf með breytilegum tekjum voru stærsti liður fjáreigna í lok árs 2003 og frá árslokum 2005 til 2007. Í árslok 2003 námu eignir Sparisjóðs Vestmannaeyja í hlutabréfum og öðrum verðbréfum með breytilegum tekjum 420 milljónum króna og höfðu þá rúmlega tvöfaldast frá fyrra ári. Í árslok 2007 námu eignir í hlutabréfum og öðrum verðbréfum 1,9 milljörðum króna og höfðu þá nær þrefaldast frá fyrra ári. Það ár keypti sparisjóðurinn hlutafé í Saga Capital Fjárfestingarbanka hf. fyrir um 50 milljónir króna. Síðar á árinu jók Sparisjóður Vestmannaeyja hlut sinn í Sparisjóðabankanum með kaupum á 1,3% hlut í bankanum fyrir tæpar 428 milljónir króna. Hlutur sparisjóðsins í Sparisjóðabankanum var þá orðinn 5,25%. Við upptöku alþjóðlegra reikningsskilastaðla (IFRS) árið 2007 tók sparisjóðurinn að færa næstum allar fjáreignir sínar á gangvirði, þar á meðal hlut sinn í Sparisjóðabankanum sem fram að því hafði verið hlutdeildarfélag í bókum sparisjóðsins. Hækkanir á verðbréfamarkaði 2007 endurspegluðust því í fjáreignum í efnahagsreikningi í árslok. Mikil lækkun varð síðan á gangvirði hlutabréfa og annarra verðbréfa á árunum 2008 til 2011. Verðbréfaeign sparisjóðsins nam 161 milljón króna í lok árs 2011 og hafði dregist saman um 91% frá árslokum 2007 eða um 1,7 milljarða króna. Mest lækkuðu eignarhlutir sparisjóðsins í Sparisjóðabanka Íslands hf./Icebank hf., Kaupþingi banka hf., SP-Fjármögnun hf., FSP Holding ehf., Saga Capital hf., VBS Fjárfestingarbanka hf. og Sparisjóðnum í Keflavík.

Eign í hlutdeildarfélögum hækkaði um nær 60% á árinu 2006 og nam 613 milljónum króna í árslok. Hlutur í Sparisjóðabankanum var stærsta eignin undir þessum lið. Með breyttri reikningsskilaaðferð árið 2007 færðist hann undir fjáreignir á gangvirði og var eign í hlutdeildarfélögum óveruleg eftir það.

Aðrar eignir samanstóðu af rekstrarfjármunum og skattinneign. Vegna taps á rekstri sjóðsins árið 2008 kom til tekjuskattsinneign upp á 62 milljónir króna við lok þess árs. Hækkun annarra eigna árið 2009 mátti rekja til frekari hækkunar á skattinneigninni sem stóð þá í 242 milljónum króna við árslok.

Skuldir

Innlán voru stærsti fjármögnunarþáttur Sparisjóðs Vestmannaeyja frá 2001 til 2011 eða 59–90% af heildarskuldum. Þau jukust mikið árið 2006, eða um 75%, vegna sameiningarinnar við Sparisjóð Hornafjarðar og námu þá sex milljörðum króna í árslok. Árið 2008 urðu innlán tveir þriðju heildarskulda sparisjóðsins eftir að þau hækkuðu um 3,4 milljarða króna eða um 48% frá fyrra ári. Hlutfall innlána af skuldum sjóðsins hækkaði næstu þrjú ár og stóð í 90% árið 2011.

Lántaka sparisjóðsins var í formi veðdeildarbréfa, skuldabréfalána og fjármögnunar í gegnum Íbúðalánasjóð. Árið 2004 jókst lántaka um 80% frá fyrra ári og árið 2005 um 54%. Þessi ár gerði sparisjóðurinn tvo lánasamninga við Íbúðalánasjóð upp á samtals 453 milljónir króna og þar að auki var fjármögnun á fasteignalánum í erlendri mynt í gegnum Sparisjóðabanka Íslands hf./Icebank hf. upp á 127 milljónir króna. Frá árslokum 2001 til loka árs 2008 voru lántökur á bilinu 10–23% af heildarskuldum sparisjóðsins. Árið 2010 varð hlutfallið lægra þegar hluta af lántökum var breytt í víkjandi lán og hluti þeirra felldur niður.

Skuldir við lánastofnanir jukust umtalsvert árin 2006 og 2008. Þessar skuldir voru einkum erlend endurlán frá Sparisjóðabankanum og daglán frá Seðlabanka Íslands. Hinn 6. desember 2004 var gerður rammasamningur milli sparisjóðanna og Sparisjóðabankans um lánsheimild í erlendum gjaldmiðlum.11 Á grundvelli þessa samnings fékk Sparisjóður Vestmannaeyja erlend lán sem síðan voru endurlánuð til viðskiptavina. Skuldir við lánastofnanir rúmlega tvöfölduðust árið 2006 og þrefölduðust árið 2008 vegna gengisfalls krónunnar. Þar að auki tók sparisjóðurinn 620 milljóna króna daglán hjá Seðlabanka Íslands í lok árs 2008. Í tengslum við fjárhagslega endurskipulagningu Sparisjóðs Vestmannaeyja lækkuðu skuldirnar um 78% árið 2010 og námu ekki nema 520 milljónum króna í lok árs 2011.

Aðrar skuldir, sem hér eru víkjandi skuldir, reiknaðar skuldbindingar og aðrar skuldir, voru ekki stór hluti af heildarskuldum sparisjóðsins umrædd ár eða um 4% til 6%. Reiknaðar skuldbindingar breyttust lítið á tímabilinu en aðrar skuldir jukust töluvert árið 2008, aðallega skuldir vegna fastafjármuna til sölu upp á 232 milljónir króna. Víkjandi skuldir komu ekki til sögunnar hjá sparisjóðnum fyrr en árið 2006. Árin 2006 og 2007 námu þær 157 milljónum króna en hækkuðu verulega árið 2008 þar sem 200 milljóna króna láni frá Icebank hf. var breytt í víkjandi skuld. Staða víkjandi skulda í árslok 2008 varð þá 370 milljónir króna og hélst svo til óbreytt til ársloka 2011.

Eigið fé

Eigið fé Sparisjóðs Vestmannaeyja jókst jafnt og þétt frá árslokum 2001 til 2007. Hækkunina mátti fyrst og fremst rekja til stækkunar varasjóðs með samfelldum og vaxandi hagnaði en stofnféð hækkaði við endurmat og smáar stofnfjáraukningar til ársloka 2006. Stofnfé var síðan aukið til muna árið 2007 eða um 350 milljónir króna og varð þá 19% af eigin fé. Fyrir þann tíma hafði hlutur varasjóðs af eigin fé verið fast að 100%. Í kjölfar 1,5 milljarða króna taps árið 2008 þurrkaðist varasjóðurinn nánast út og var einungis 1% af eigin fé í árslok.

Varasjóður varð svo neikvæður um rúman einn milljarð króna í árslok 2009. Stofnfé tók breytingum að nýju á árinu 2010 við fjárhagslega endurskipulagningu sjóðsins og nam það 997 milljónum króna í árslok. Varasjóður var þá 6% af eigin fé en varð aftur neikvæður um 105 milljónir í árslok 2011 vegna taps á rekstri sparisjóðsins á árinu.

Í árshlutareikningi fyrir tímabilið 1. janúar til 30. júní 2008 kom fram að 29,3 milljóna króna tap hefði verið á rekstri sjóðsins, bókfært eigið fé hafi numið 1,7 milljörðum króna og eiginfjárhlutfallið hafi verið komið niður í 8,7% í lok tímabilsins.

Sparisjóður Vestmannaeyja uppfyllti lágmarkskröfur um eiginfjárhlutfall allt tímabilið 2001 til ársloka 2007, en lögbundið lágmark var 8%. Við hið mikla tap árin 2008 og 2009 varð eigið fé neikvætt um 698 milljónir króna í árslok 2009. Eiginfjárhlutfallið féll jafnframt niður í 3,83% í árslok 2008 eftir að hafa verið 8,16% í lok þriðja ársfjórðungs.12

Fjárhagslegri endurskipulagningu Sparisjóðs Vestmannaeyja lauk 10. desember 2010 með undirritun samkomulags við Seðlabanka Íslands. Bankinn lagði fram nýtt stofnfé og afskrifaði kröfur. Hagnaður varð af rekstri sparisjóðsins það ár upp á 858 milljónir króna. Hann skýrðist fyrst og fremst af tæplega 1,5 milljarða króna tekjufærslu vegna fjárhagslegrar endurskipulagningar. Bókfært eigið fé fór þá í rúman milljarð króna í árslok og eiginfjárhlutfallið reiknaðist þá 16,60%. Taprekstur árið 2011 gerði varasjóðinn neikvæðan á nýjan leik og dró eigið fé í árslok niður í 891 milljón króna.

30.2 Sparisjóður Hornafjarðar og nágrennis

Sparisjóður Hornafjarðar og nágrennis var stofnaður 20. mars 1991. Það gerðist í kjölfar þess að Landsbankinn keypti útibú Samvinnubankans á Höfn og sameinaði það útibúi sínu á staðnum. Stofnfé var ákveðið eigi lægra en 10 milljónir króna. Fyrsti formaður stjórnar var kjörinn Bjarni M. Jónsson. Sparisjóðurinn hóf starfsemi sína 3. maí 1991 að Hafnarbraut 36 á Höfn í Hornafirði. Hann rak almenna fjármála- og bankaþjónustu og var með tvo afgreiðslustaði, á Höfn og fljótlega á Djúpavogi. Fyrsti sparisjóðsstjóri var Anna Sigurðardóttir sem gegndi því starfi til 1995.13

Rekstur Sparisjóðs Hornafjarðar og nágrennis tók að þyngjast á árinu 2000 vegna lausafjárerfiðleika og mikilla vanskila á útlánum. Fjármálaeftirlitið framkvæmdi athugun hjá sjóðnum í september 2001 og hélt að henni lokinni fund með stjórn sparisjóðsins 1. október. Athugunin hafði leitt í ljós veruleg útlánavandamál hjá sjóðnum og á fundinum var gerð skýr bókun er laut að bættri framkvæmd við útlán svo og starfsskyldum stjórnar. Í framhaldi af þessu voru gerðar breytingar á stjórn og starfsháttum í sparisjóðnum. Stofnfé var einnig aukið um tæpa 61 milljón króna og stóð í rúmum 146 milljónum króna í árslok 2001. Tryggingasjóður sparisjóða keypti stofnfé fyrir 40 milljónir króna og nokkrir sparisjóðir keyptu minni hluti. Tryggingasjóðurinn var jafnframt í ábyrgðum fyrir sparisjóðinn upp á nærri 100 milljónir króna.14 Harðorðar athugasemdir um rekstur sjóðsins komu einnig fram í endurskoðunarskýrslu með ársreikningi 2001.15

Fjármálaeftirlitið gerði aftur athugun hjá sjóðnum í febrúar 2003. Að mati þess námu vantryggðar skuldbindingar um 400 milljónum króna. Mjög þótti skorta á yfirsýn stjórnar sparisjóðsins yfir stöðu skuldbindinga og upplýsingar sem nauðsynlegar eru við mat á afskriftum. Einnig var það mat Fjármálaeftirlitsins að sérstök framlög í afskriftareikning útlána hjá sparisjóðnum hefðu verið vanmetin um 136–168 milljónir króna. Lægri fjárhæðin samsvaraði öllu bókfærðu eigin fé sparisjóðsins í árslok 2002. Niðurstaðan í skýrslu Fjármálaeftirlitsins um þessa athugun var að stjórnendum sparisjóðsins hefði mistekist að koma rekstri hans í viðunandi horf og var jafnframt lagt að þeim að leita án tafar varanlegra lausna í rekstri sjóðsins.16 Tryggingasjóður sparisjóða gaf svo hinn 11. maí 2003 út ábyrgðaryfirlýsingu fyrir allt að 150 milljónir króna fyrir sparisjóðinn.

Á sama tíma átti sparisjóðurinn í viðræðum við tvo aðra sparisjóði, þ.e. Sparisjóð Bolungarvíkur og Sparisjóð Vestmannaeyja, um aðkomu þeirra að fjárhagslegri endurskipulagningu.17 Þeim lauk með því að Sparisjóður Vestmannaeyja fékk samþykki Fjármálaeftirlitsins 4. júlí 2003 fyrir því að fara með virkan eignarhlut í Sparisjóði Hornafjarðar og nágrennis. Sparisjóður Vestmannaeyja greiddi inn 220 milljónir króna í nýju stofnfé. Aðrir sparisjóðir sem áttu stofnfé í Sparisjóði Hornafjarðar og nágrennis breyttu helmingi stofnfjár síns í víkjandi lán og Tryggingasjóður sparisjóða breytti 29,5 milljónum króna af sínu stofnfé í víkjandi lán. Í árslok 2003 átti Sparisjóður Vestmannaeyja 77% stofnfjár í sjóðnum.18

Fjármálaeftirlitið gerði enn eina athugun hjá Sparisjóði Hornafjarðar og nágrennis 28. september 2005. Samkvæmt niðurstöðum athugunarinnar voru enn miklir veikleikar í útlánasafni sparisjóðsins og bókfært fé talið ofmetið um 150 milljónir króna, þrátt fyrir að Sparisjóður Vestmannaeyja hefði gefið út 100 milljóna króna ábyrgð til handa sjóðnum. Þar með uppfyllti sjóðurinn ekki lengur lágmarkskröfur reglna um eiginfjárgrunn.19

Á fundi stjórnar Sparisjóðs Vestmannaeyja 24. nóvember 2005 var samþykkt „að kaupa allt stofnfé einstaklinga og fyrirtækja í Sp. Horn að undanskildu sparisjóðunum og félögum tengd þeim sem áætlað er að leysa til sín síðar. Um er að ræða heildarfjárhæð að upphæð um 27 millj. kr. að meðtöldu óútgefnu stofnfé þannig að heildarstofnfé í Sp. Horn verði 330 millj. kr. að nafnverði.“ Mál þróuðust síðan á þann veg að stjórn Sparisjóðs Vestmannaeyja ákvað á síðari hluta ársins 2006 að sameina sparisjóðina tvo. Samrunaáætlunin var samþykkt af stjórnum sjóðanna í desember en reikningshaldslegur samruni miðaðist við 1. júlí 2006. Sparisjóður Vestmannaeyja fékk einn fulltrúa í stjórn Sparisjóðs Hornafjarðar og nágrennis á aðalfundi 2002, tvo fulltrúa á aðalfundi 2003 og þrjá fulltrúa og þar með meirihluta á aðalfundi 2004.

Tíð sparisjóðsstjóraskipti voru hjá Sparisjóði Hornafjarðar og nágrennis. Síðust til að gegna starfinu var Melrós Eysteinsdóttir. Þegar hún tók við því árið 2002 var hún fjórði sparisjóðsstjórinn sem starfaði hjá sparisjóðnum.

30.2.1 Ársreikningar Sparisjóðs Hornafjarðar og nágrennis
frá 2001 til miðs árs 2006

Sparisjóður Hornafjarðar sameinaðist Sparisjóði Vestmannaeyja og miðaðist reikningshaldslegur samruni við 1. júlí 2006. Í töflu 8 og töflu 9 eru sýndir rekstrar- og efnahagsreikningar Sparisjóðs Hornafjarðar og nágrennis fyrir árin 2001 til 2005 á verðlagi hvers árs. Aftan við hvora töflu er hnýtt árshlutareikningi fyrir fyrri helming ársins 2006. Hér verður ekki farið nánar í reikninga sparisjóðsins, en þó fylgja fáeinar viðbótarupplýsingar í töflu 10.

Sparisjóður Hornafjarðar og nágrennis greiddi ekki arð á umræddu tímabili nema árið 2002, en þá úthlutaði hann 10% arði af stofnfjáreign í lok árs 2001. Helmingurinn var greiddur stofnfjárhöfum, um átta milljónir króna, en hinum helmingnum var varið til hækkunar á stofnfénu.

30.3 Útlán, útlánareglur og lánveitingar

Frá 2005 til 2011 námu útlán sparisjóðsins 49,5–66,6% af heildareignum hans, lægst var hlutfallið 2009 og hæst 2005. Á tímabilinu frá 2005 til 2007 uxu útlán sparisjóðsins úr rúmum fjórum í tæpa átta milljarða króna. Í lok árs 2007 var vægi útlána af heildareignum um 63,7% en frá 2008–2011 var um helmingur eigna sparisjóðsins í því formi.

Samkvæmt upplýsingum úr skýrslum Sparisjóðs Vestmannaeyja um útlán og vanskil var vægi gengisbundinna útlána í útlánasafni sjóðsins hæst tæplega 17% í árslok 2009.

Sparisjóður Vestmannaeyja lánaði mest í formi skuldabréfa á árunum 2005 til 2011. Yfirdráttarlán voru önnur stærsta tegund útlána hjá sparisjóðnum, ef frá eru talin árin 2008 og 2009 en þá voru erlend endurlán önnur stærsta tegund útlána hjá sjóðnum. Aðrar tegundir útlána höfðu lítið vægi í útlánasafni sjóðsins.

Einstaklingar mynduðu stærsta hóp lántakenda hjá sparisjóðnum á tímabilinu 2005–2011 og var vægi þess hóps vel yfir 70% á tímabilinu. Af lánum til fyrirtækja voru iðnaður, sjávarútvegur og þjónustustarfsemi með mest vægi.

Niðurfærsluhlutfall var 4,4–6,4% af heildarútlánum á tímabilinu 2005–2008. Ástæða hins háa framlags í afskriftareikning útlána á árinu 2006 skýrðist einkum af sameiningu sjóðsins við Sparisjóð Hornafjarðar.21 Í lok árs 2009 var niðurfærsluhlutfallið hins vegar orðið 15,1% af heildarútlánum og náði hámarki á árinu 2010 þegar það var 17,2%.

30.3.1 Athugasemdir eftirlitsaðila

Í skýrslu um innri endurskoðun hjá Sparisjóði Vestmannaeyja fyrir árið 2006 var gerð athugasemd við að of lítið af vanskilum og vaxtafrystum kröfum væru farin í innheimtuferli hjá lögmönnum. Þessa ábendingu ítrekaði innri endurskoðandi á árinu 2007. Þá var einnig vakin athygli á því að af 60 yfirdráttarlánum í úrtaki væru 32 umfram heimildir. Í svipuðu úrtaki sem tekið var við innri endurskoðun ársins 2008 voru 33 yfirdráttarlán af 60 umfram heimildir. Þá var ítrekuð ábending um að of lítið hlutfall af vanskilakröfum væri í innheimtu hjá lögmönnum. Við innri endurskoðun 2009 var enn á ný bent á að efla mætti eftirlit með vanskilum og það sama var gert við innri endurskoðun ársins 2010.

Í skýrslum ytri endurskoðenda var fyrst og fremst fjallað um útlán Sparisjóðs Vestmannaeyja út frá fjárhagslegri þróun og afkomu, auk umfjöllunar um afskriftir og dreifingu eftir útlánaflokkum. Í endurskoðunarskýrslu ársins 2009 kom fram að útlán sparisjóðsins hefðu lækkað um 1.358 milljónir króna á árinu og að afskriftareikningur útlána næmi 1.359 milljónum króna. Gríðarleg aukning væri í afskriftarsjóði vegna versnandi afkomu heimila og fyrirtækja. Mikil óvissa væri ríkjandi í umhverfinu og mat útlána því erfitt.

Á tímabilinu 2005 til 2011 var ekki gerð sérstök eftirlitsskýrsla af hálfu Fjármálaeftirlitsins um Sparisjóð Vestmannaeyja.

30.3.2 Útlánareglur og heimildir

Heimildir fyrir útlánum Sparisjóðs Vestmannaeyja voru í reglum hans um framkvæmd starfa sparisjóðsstjórnar og sparisjóðsstjóra og útlánareglum. Þessar reglur voru til í drögum frá árinu 2004 sem rannsóknarnefndin fékk afhent óundirrituð. Stjórnarfundargerðir ársins 2004 bera ekki með sér að reglurnar hafi verið samþykktar í stjórn en þó var bókað á fundi stjórnar 30. janúar 2004:

Gerð grein fyrir drögum að starfsreglum skv. 54. gr. laga 161/2002. Sparisjóðsstóra falið að ganga frá drögum að starfsreglum stjórnar og sparisjóðsstjóra.

Í fundargerð stjórnar 8. júlí 2005 er bókað að stjórn hafi samþykkt nýjar útlánareglur, nýjar starfsreglur um framkvæmd starfa stjórnar og sparisjóðsstjóra og nýjar starfsreglur um framlög í afskriftareikning og endanlegar afskriftir útlána. Þá er bókað að stjórn muni undirrita nýju reglurnar á næsta fundi sínum og senda síðan til Fjármálaeftirlitsins. Í fundargerð næsta fundar stjórnar er ekki minnst á reglurnar og er ekki að finna umfjöllun um þær fyrr en í fundargerð frá stjórnarfundi 13. febrúar 2006, þegar bókað er að stjórn „samþykkti endanlega og undirritaði“ starfsreglur um framkvæmd starfa stjórnar og sparisjóðsstjóra, starfsreglur um framlög í afskriftareikning og endanlegar afskriftir útlána og útlánareglur.22 Samkvæmt upplýsingum frá sparisjóðnum voru útlánareglurnar ekki uppfærðar við tilkomu nýrra reglna um stórar áhættuskuldbindingar hjá fjármálafyrirtækjum nr. 216/2007 en starfsreglurnar voru endurnýjaðar 2007, 2010 og 2011.

Meginreglur um útlán sparisjóðsins var að finna í 2. gr. útlánareglnanna en þar sagði að meginmarkmið með útlánum og ábyrgðarveitingum sparisjóðsins væri að eðlilegur tekjuafgangur yrði af rekstri sjóðsins. Þá skyldi viðhalda traustri eiginfjárstöðu og lausafjárstöðu ásamt því að veita sem besta þjónustu á hverjum tíma. Við ákvörðun um fyrirgreiðslu skyldi þess gætt að heildarfjárhæð hennar væri í hæfilegu hlutfalli við eigið fé sjóðsins með hliðsjón af framlögðum tryggingum og fjárhag viðskiptaaðila. Þá bæri að skoða útlánaáhættu vegna fjárhagslega tengdra aðila í einu lagi. Ekki var sérstaklega vikið að skilgreiningu á stórum áhættuskuldbindingum eða hver heildarfjárhæð stórra áhættuskuldbindinga mætti vera en þó kom fram að heildarskuldbinding eins aðila eða tengdra skyldi aldrei fara yfir 25% af eigin fé sjóðsins.23

Að jafnaði skyldu teknar fullnægjandi tryggingar vegna skuldbindinga sem stofnað væri til gagnvart sparisjóðnum. Ekki var þó að finna nánari skilgreiningu á því hvað átt væri við með fullnægjandi tryggingum. Þá var heimilt að víkja frá þessari reglu ef upplýsingar sem fyrir lágu sýndu að ekki væri þörf á sérstökum tryggingum enda skyldi fylgst með afkomu og fjárhag viðskiptaaðilans á meðan skuldbinding varði. Ekki kom fram í reglunum hvernig sú eftirfylgni skyldi framkvæmd.

Lánveitingar og önnur fyrirgreiðsla við atvinnufyrirtæki átti að taka mið af viðskiptum þeirra við sparisjóðinn ásamt upplýsingum um rekstur þeirra og fjárhag. Eftir því sem unnt væri skyldi aflað ársreikninga, rekstrar- og greiðsluáætlana og annarra fjárhagslegra upplýsinga frá viðskiptavinum og úr þeim skyldi unnið á skipulegan hátt.

Sérstaklega var tekið fram í útlánareglunum að miða skyldi við raunmat á tryggingarandlagi og að gögn því til staðfestingar væru geymd með viðkomandi skjölum þegar um veð væri að ræða.

Ekki var sérstaklega minnst á lánveitingar til einstaklinga í reglunum og því óljóst hvort greiðslumöt voru notuð til þess að meta greiðslugetu einstaklinga.

Sérstakar reglur um útlánaheimildir, reglur fyrir starfsmenn um útlánaheimildir í umboði og á ábyrgð sparisjóðsstjóra ásamt reglum um lánveitingar og ábyrgðir Sparisjóðs Vestmannaeyja voru settar í febrúar 2011. Ekki var þar um miklar viðbætur við fyrri reglur að ræða.

Í starfsreglum stjórnar og sparisjóðsstjóra frá 2004 kom fram að sparisjóðurinn hefði látið útbúa útlánareglur sem næðu til lánveitinga og ábyrgða. Þar komu fram mörk heimildar sparisjóðsstjóra og annarra starfsmanna, auk fleiri mikilvægra atriða sem snertu útlán sjóðsins. Starfsreglurnar heimiluðu sparisjóðsstjóra að veita öðrum starfsmönnum sjóðsins umboð til að fara með afmarkaðar heimildir starfsskyldu hans að fengnu samþykki stjórnar sparisjóðsins. Á hinn bóginn skyldi sparisjóðsstjórn ekki taka þátt í ákvörðunum um einstök viðskipti nema umfang þeirra væri verulegt miðað við stærð sparisjóðsins en um mörkin var nánar kveðið í útlánareglum sjóðsins. Með reglunum frá 2007 var það sérstaklega tekið fram að stjórn skyldi sjá til þess að sparisjóðsstjóri og aðrir stjórnendur fylgdu útlánastefnu sparisjóðsins og framkvæmdu þær aðgerðir sem þörf væri á til að fylgja áhættustefnu og mörkum áhættutöku í rekstri sjóðsins.

Ekki virtist gert ráð fyrir útlánanefnd í sparisjóðnum heldur tók sparisjóðsstjóri ákvörðun um lánveitingar og ábyrgðir ef heildarskuldbinding aðila eða fjárhagslega tengdra var innan við 3,0% af eigin fé sparisjóðsins. Það þýddi að útlánaheimild hans á tímabilinu frá janúar 2005 til október 2008 var á bilinu frá rúmum 9 milljónum króna til rúmlega 23 milljóna króna. Til að heildarskuldbinding eins aðila eða fjárhagslega tengdra mætti fara fram úr 3,0% af bókfærðu eigin fé sjóðsins þurfti samþykki sparisjóðsstjórnar. Var því ákveðið misræmi milli heimildar sparisjóðsstjóra og stjórnar, þar sem annars vegar var vísað til 3% af eigin fé samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki og hins vegar til 3% af bókfærðu eigin fé. Var þetta misræmi leiðrétt við uppfærslu útlánareglna árið 2006.24 Hámark útlánaheimildar staðgengils sparisjóðsstjóra var 5 milljónir króna skv. reglunum. Í reglunum var ekki að finna ákvæði um hámarks lánveitingar til einnar atvinnugreinar til dreifingar á áhættu. Þá átti sparisjóðsstjóri að halda skrá yfir útlánaheimildir starfsmanna og breytingar á skránni þurftu hans samþykki.

Útlánaeftirlit var á ábyrgð sparisjóðsstjórnar. Á stjórnarfundum, sem haldnir voru að jafnaði einu sinni í mánuði frá árinu 2004 til loka júní 2007, voru tekin fyrir yfirlit um viðskiptaaðila sem voru með heildarskuldbindingu sem nam a.m.k. 2,5% af eigin fé sjóðsins. Þá var gerð grein fyrir heildarlánveitingum milli stjórnarfunda og lánveitingum og ábyrgðum til einstakra aðila sem færu fram úr 0,5% af eigin fé sjóðsins. Á þriggja mánaða fresti átti stjórnin að skoða yfirlit yfir heildarvanskil eftir einstökum útlánaformum og einu sinni á ári skyldi lögð fyrir hana útlánaskýrsla yfir stöðu stærstu skuldara og vanskilaaðila með upplýsingum um greiðslutryggingar, unnin af innri endurskoðanda. Framlag í afskrifta- reikning og tillögur um endanlegar afskriftir ásamt skýrslu um niðurstöður innri endurskoðunar, þar á meðal fyrirgreiðslu til venslaðra, skyldi jafnframt lagt fyrir einu sinni á ári.

Hinn 29. júní 2007 voru samþykktar nýjar starfsreglur stjórnar og sparisjóðsstjóra. Ekki hvíldi lengur sú skylda á stjórn að fjalla um útlán eða útlánaáhættu einu sinni í mánuði heldur á þriggja mánaða fresti. Skýrsla um útlánaáhættu fól m.a. í sér yfirlit yfir skuldbindingar stærstu viðskiptaaðila sparisjóðsins, sundurliðaða eftir útlánaformum, ásamt vanskilum ef einhver voru. Stærstu viðskiptaaðilar sjóðsins voru þá skilgreindir þeir sem voru með heildarskuldbindingu a.m.k. 4% af eigin fé sjóðsins. Þá var gerð grein fyrir heildarlánveitingum milli stjórnarfunda og lánveitingum og ábyrgðum til einstakra aðila sem færu fram úr 1,5% af eigin fé sjóðsins. Sparisjóðsstjóra bar að skýra frá öðru því sem máli skipti varðandi lánastarfsemina og útlánaáhættu sjóðsins. Jafnframt skyldu lagðar fyrir stjórn á þriggja mánaða fresti skýrslur um lausafjáráhættu, rekstraráhættu og markaðsáhættu ásamt því að skoða yfirlit yfir heildarvanskil eftir einstökum útlánaformum.

Bæði í eldri og yngri reglum bar stjórn sparisjóðsins að setja markmið varðandi áhættur í starfseminni, ákveða mörk áhættutöku og byggja upp tryggt eftirlit með rekstrinum og fylgja því eftir. Sparisjóðsstjóri bar svo ábyrgð á að greina, mæla, fylgjast með og hafa eftirlit með áhættum sem starfseminni fylgdu sem og móta markmið fyrir innra eftirlit í samráði við stjórn og fylgjast með því að eftirlitskerfið væri skilvirkt. Ekki voru settar sérstakar reglur um framkvæmd áhættustýringar í Sparisjóði Vestmannaeyja fyrr en í janúar 2010.

Starfsreglur stjórnar og sparisjóðsstjóra voru endurnýjaðar lítt breyttar á árunum 2010 og 2011 en þar var þó hnykkt betur á eftirliti stjórnar og innri endurskoðanda með starfseminni.

Á stjórnarfundi Sparisjóðs Vestmannaeyja 13. febrúar 2006 voru settar starfsreglur um framlög í afskriftareikning og endanlegar afskriftir útlána. Reglurnar voru settar á grundvelli laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og reglna nr. 834/2003, um reikningsskil lánastofnana sem og samþykkta sparisjóðsins. Markmið með reglunum var að tryggja fagleg og vönduð vinnubrögð við mat á útlánum sparisjóðsins og að færðar væru í afskriftareikning útlána nægilegar fjárhæðir, með hliðsjón af niðurstöðu mats þar um. Í reglunum kom meðal annars fram að til skoðunar fyrir sérstök afskriftarframlög skyldu koma lán til aðila sem uppfylltu eitthvert eftirtalinna skilyrða:

1. Vanskil í 6 mánuði eða lengur.

2. Greiðslustöðvun.

3. Árangurslaust fjárnám.

4. Gjaldþrot.

5. Beiðni um nauðasamninga liggur fyrir.

6. Aðrar aðstæður sem skerða gjaldþol eða greiðslugetu og gera það líklega að ekki verði staðið að fullu við lánasamninga.

Fjárhæð sérstaks framlags í afskriftareikning útlána skyldi metið með tilliti til heildarskuldbindinga lánþega og áætlaðs verðmætis tryggingaandlaga.

Endanlegar afskriftir útlána skyldu ákveðnar þegar eitthvert af eftirtöldum skilyrðum væri uppfyllt:

1. Við lok gjaldþrotaskipta.

2. Við skuldaeftirgjöf.

3. Við árangurslaust fjárnám þegar fyrir lægi mat lögmanns Sparisjóðs Vestmannaeyja um að frekari innheimtuaðgerðir myndu ekki skila árangri.

30.3.3 Stærstu lántakendur

Rannsóknarnefndin valdi úrtak stærstu lántakenda sparisjóðsins til sérstakrar skoðunar og greiningar. Áhersla var lögð á að reyna að varpa ljósi á útlánastefnuna, starfshætti útlánastarfsemi og ástæður afskrifta. Kannað var hvort útlánastarfsemi sparisjóðsins hefði verið í samræmi við reglur sjóðsins og gildandi lög og reglur.

Skýrslum um stórar áhættuskuldbindingar sem skila bar til Fjármálaeftirlitsins ársfjórðungslega samkvæmt reglum nr. 216/2007 var ætlað að varpa ljósi á áhættu fjármálafyrirtækis af útlánum og öðrum slíkum skuldbindingum og aðstoða við áhættustýringu.25 Úrtak stærstu lántakenda miðaðist við stærstu skuldbindingar sjóðsins og lántakendur sem voru með sérgreind framlög í afskriftareikning yfir 25 milljónir króna í lok árs 2009.

Fimm lánahópar voru í úrtakinu. Alls nam fyrirgreiðsla til þessara aðila 638 milljónum króna í lok árs 2009 en á sama tíma nam sérgreind niðurfærsla vegna þeirra 245 milljónum króna. Hlutfall umræddra lántakenda nam 4,7 til 7,1% af heildarútlánum Sparisjóðs Vestmannaeyja. Helsta ástæða þess að úrtakið nam ekki hærra hlutfalli af heildarútlánum var hin mikla dreifing útlánasafnsins, en um 75% af útlánum sparisjóðsins voru til einstaklinga. Hlutfall úrtaksins af sérgreindum afskriftum sjóðsins nam hæst tæpum 26% í árslok 2009.

Á árinu 2008 hækkuðu útlán samtals um 1.344 milljónir króna frá fyrra ári. Þar af nam hækkun á gengistryggðum skuldabréfalánum, sem voru um 20% af heildarútlánasafni sparisjóðsins, um 891 milljón króna. Hækkunin var nær eingöngu til komin vegna mikillar lækkunar íslensku krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum á árinu 2008. Stækkun lánasafns vegna gengisfalls krónunnar var mætt með auknum varúðarniðurfærslum. Þær tóku jafnframt mið af þeirri óvissu sem upp var komin í íslensku viðskipta- og efnahagslífi í kjölfar falls bankanna:

Það sem gerist við þetta hrun er að bæði tekjustreymið hjá einstaklingum og eignavirði þeirra, það hrundi. Þannig að lán sem að höfðu verið veitt kannski upp í 70% af fasteignamati eða virði eigna urðu ónýt eftir hrunið. Þannig að þrátt fyrir að við teljum okkur hafa farið í einu og öllu eftir þeim reglum sem fyrir okkur lágu og reynt að gera eins vel og við gátum þá gátum við náttúrlega ekki séð þetta fyrir. Þetta er sérstaklega slæmt á Selfossi þar sem að atvinnuástandið var mjög slæmt eftir hrun og mikið um nýbyggingar sem í rauninni stoppuðu liggur við bara á grunninum. Þannig að þetta varð mjög illviðráðanlegt.26

Stærstur hluti útlána í úrtaki rannsóknarnefndarinnar var til rekstrar eða fasteignakaupa. Helstu ástæður afskrifta voru vegna lána í erlendum myntum sem hækkuðu mikið í kjölfar gengisfalls krónunnar á árinu 2008 án þess að tryggingar eða tekjustreymi hækkuðu með samsvarandi hætti. Átti þetta við um alla lánahópa í úrtakinu nema Austurmörk 25 ehf.

Rannsóknarnefndin taldi ástæðu til að gera frekari grein fyrir málum tveggja lánahópa, sem og því hvort unnið hafi verið í samræmi við lög og lánareglur sparisjóðsins, og hvernig afskriftarþörf var metin. Að öðru leyti gaf skoðun á öðrum lánahópum í úrtakinu ekki tilefni til sérstakrar umfjöllunar.

Austurmörk 25 ehf. (áður Eden ehf.)

Austurmörk 25 ehf., áður Eden ehf., var staðsett í Hveragerði og rak blómaverslun, veitingasölu og fleira. Félagið var stofnað í júní 2002 og var komið í eigu Egils Guðna Jónssonar á tímabilinu sem til umfjöllunar er. Egill var jafnframt framkvæmdastjóri félagsins og eini stjórnarmaður þess.

Í lok febrúar 2007 fékk félagið lán frá Sparisjóði Vestmannaeyja að fjárhæð 40 milljónir króna. Áður hafði félagið verið með lítilsháttar yfirdrátt hjá sparisjóðnum. Að sögn sparisjóðsstjóra var fyrirgreiðslan hluti af heildarlánveitingu fyrir kaupum á félaginu sem sparisjóðurinn tók þátt í. Kaupverð á því ásamt fasteigninni að Austurmörk 25, Eden, var á bilinu 180 til 185 milljónir króna.27 Við lánveitinguna lá fyrir mat löggilts fasteignasala frá 19. janúar 2006 á söluverði fasteignarinnar upp á 280 milljónir króna. Trygging fyrir láninu var 2. veðréttur í fasteigninni að Austurmörk 25 í Hveragerði þar sem starfsemin var til húsa en á 1. veðrétti hvíldi lán frá Frjálsa fjárfestingarbankanum sem var veitt í mars 2006 upphaflega að fjárhæð 100 milljónir króna. Það lán hafði verið veitt til kaupa á félaginu, ásamt fasteign. Í mars 2007 var þessu láni skipt út fyrir nýtt lán frá Frjálsa fjárfestingarbankanum upp á 115 milljónir með veðleyfi frá sparisjóðnum.

Fyrsta afborgun af veðskuldabréfinu var 1. ágúst 2007 en gjalddagar voru fjórir á hálfsársfresti út lánstímann. Greiðsluyfirlit frá sparisjóðnum sýna að þrjár innborganir voru greiddar inn á lánið. Sú fyrsta nam 600 þúsund krónum og var greidd 28. nóvember 2007, önnur 28. desember 2007 að fjárhæð 177 þúsund krónur og sú síðasta, 200 þúsund krónur, 30. apríl 2008. Samtals voru greiðslurnar því 977 þúsund krónur. Frá lokum apríl var ekkert frekar greitt af láninu.28

Á fylgiskjali með veðskuldabréfinu sást að þrisvar sinnum var greitt af láninu samtals um ein milljón króna sem var einungis hluti af fyrstu greiðslunni af fjórum sem félaginu bar að greiða. Félagið gat ekki greitt af þessu láni né öðrum og var haldið uppboð á fasteign þess að Austurmörk 25 í Hveragerði. Framhaldsuppboð á fasteigninni var haldið 8. júlí 2008. Lánið frá sjóðnum, sem var á 2. veðrétti, stóð þá í 51 milljón króna. Stjórn sparisjóðsins fól sparisjóðsstjóra að gæta hagsmuna sjóðsins á framhaldsuppboði og leysa til sín eignina ef til þess kæmi.29

Fasteignin að Austurmörk 25 var innleyst á 175 milljónir króna 8. júlí. Lögveð og vanskil upp á 20 milljónir króna voru greidd upp og gert var samkomulag við Frjálsa fjárfestingarbankann um að erlent lán upp á 155 milljónir króna yrði áfram á eigninni. Eignin var enn í útleigu til fyrri eiganda.30

Austurmörk 25 ehf. var úrskurðað gjaldþrota 15. ágúst 2008 og sparisjóðurinn afskrifaði endanlega um 85 milljónir króna af láni til félagsins. Fasteignin Austurmörk 25, Eden, brann til kaldra kola 22. júlí 2011. Að sögn sparisjóðsstjóra náðist samkomulag við tryggingafélagið sem fasteignin var tryggð hjá um bætur.31

Bestfiskur ehf.

Bestfiskur ehf. var fiskverkunarfyrirtæki sem starfaði á Höfn í Hornafirði.32 Eigendur þess í lok árs 2007 voru þeir Friðþór Harðarson, Ómar Frans Fransson og Sívar Árni Scheving sem áttu hver sinn þriðjung í félaginu.33 Í september 2006 námu skuldbindingar Bestfisks ehf. við sparisjóðinn 31 milljón króna og höfðu verið nokkurn veginn óbreyttar frá lokum árs 2004.

Hinn 18. júlí 2006 tók stjórn Sparisjóðs Hornafjarðar og nágrennis34 fyrir erindi frá Bestfiski ehf. þar sem félagið óskaði eftir láni í erlendri mynt að jafnvirði 25,5 milljóna króna til endurfjármögnunar á eldri lánum. Félagið skuldaði sparisjóðnum þá um 31 milljón króna og var lánið samþykkt en því beint til sparisjóðsstjóra að leita eftir auknum tryggingum væri þess kostur. Með lánssamningi í erlendum gjaldmiðlum dagsettum 8. september 2006 lánaði Sparisjóður Hornafjarðar og nágrennis Bestfiski ehf. jafnvirði 26 milljóna króna í japönskum jenum og svissneskum frönkum. Lánið var til fimm ára með mánaðarlegum afborgunum. Tryggingar fyrir láninu voru tvö tryggingarbréf í Ófeigstanga 9 á Hornafirði á 3. og 4. veðrétti auk veða í rekstrartækjum fyrirtækisins, samtals 35 milljónir króna. Framar í veðröð hvíldu lán frá Byggðastofnun. Að auki afhenti lántaki tvo eyðuvíxla útgefna af lántaka að fjárhæð 25.000.000 japanskra jena og 260.000 svissneskra franka til tryggingar. Lántaki heimilaði lánveitanda að fylla út tryggingarvíxlana ef vanskil yrðu á skuldbindingum hans.

Félagið var rekið með tapi á tímabilinu 2002–2006 og aftur 2008. Mest var tapið 2008 eða 46 milljónir króna. Í lok árs 2009 námu skuldbindingar félagsins hjá sparisjóðnum um 52 milljónum króna, þar af var 41 milljón króna í erlendum myntum. Félagið varð gjaldþrota 11. nóvember 2009 og námu vanskil þess þá um 20 milljónum króna. Skuldbindingarnar voru þá allar færðar á sérgreindan afskriftareikning. Samkvæmt upplýsingum frá sparisjóðnum voru endanlegar afskriftir vegna Bestfisks ehf. um 55 milljónir króna en Byggðastofnun leysti til sín Ófeigstanga 9 svo ekkert kom upp í kröfu sparisjóðsins.

30.3.4  Lán til stjórnarmanna og starfsmanna

Samkvæmt 2. mgr. 57. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki bar að fara með viðskipti starfsmanna sparisjóðsins eftir þeim reglum sem stjórn setti. Starfsreglur stjórnar og sparisjóðsstjóra fólu stjórn sparisjóðsins að setja reglur um viðskipti starfsmanna sjóðsins að fengnum tillögum sparisjóðsstjóra og máttu þær koma fram í almennum útlánareglum. Í þeim kom fram að sparisjóðsstjóra væri heimilt að veita starfsmönnum lán enda væri slík fyrirgreiðsla á engan hátt frábrugðin sambærilegri fyrirgreiðslu til annarra viðskiptavina. Sparisjóðsstjóra bar samt að gera stjórn grein fyrir fyrirgreiðslunni á næsta stjórnarfundi og skyldi hún færð í gerðabók. Í reglunum var sérstaklega tiltekið að lánveitingar til stjórnarmanna þar sem heildarskuldbinding hans og maka væri yfir 5 milljónum króna skyldi leggja fyrir stjórn sjóðsins til samþykktar.

Ekki komu fram alvarlegar athugasemdir við fyrirgreiðslu sjóðsins til venslaðra aðila í skýrslum um innri endurskoðun á tímabilinu 2005–2010. Skoðun rannsóknarnefndar á fyrirgreiðslu við venslaða aðila og starfsmenn sparisjóðsins í útlánagrunni sjóðsins leiddi heldur ekki í ljós atriði sem gáfu tilefni til frekari umfjöllunar. Athugunin var framkvæmd með þeim hætti að kennitölur umræddra aðila voru keyrðar saman við útlánagrunn sparisjóðsins.35 Einn starfsmaður var með útlán yfir 30 milljónir króna en það var íbúðalán í erlendri mynt. Athugunin gaf ekki tilefni til frekari umfjöllunar.

30.4 Fjáreignir og fjárfestingar

Sparisjóður Vestmannaeyja setti ekki sérstakar reglur um fjárfestingar en í starfsreglum stjórnar sjóðsins frá 13. febrúar 2006 sagði að um mörk heimilda sparisjóðsstjóra til fjárfestingar í verðbréfum færi samkvæmt reglum stjórnar sparisjóðsins um áhættustýringu, en fjárfesting í fasteignum, öðrum en fullnustueignum, skyldi borin upp í stjórn sparisjóðsins, sem og önnur fjárfestingaráform sem telja mætti meiriháttar eða óvenjuleg. Sem dæmi voru þar nefnd kaup á meiriháttar tölvubúnaði og fyrirhuguð opnun útibúa og afgreiðslustaða. Í sömu reglum sem samþykktar voru 29. júní 2007 sagði um mörk fjárfestingarheimilda, að fjárfestingar í fasteignum skyldu bornar upp í stjórn, sem og önnur fjárfestingaráform sem telja mætti meiriháttar eða óvenjuleg, og var til sömu dæma og áður. Höfðu reglurnar því verið einfaldaðar að miklu leyti frá því sem áður var og var ekki lengur vísað til reglna um áhættustýringu um mörk heimilda sparisjóðsstjóra til fjárfestingar í verðbréfum.

Fjáreignir Sparisjóðs Vestmannaeyja höfðu ekki jafn mikið vægi í eignasafni sparisjóðsins og hjá minni sparisjóðunum.36 Þegar mest var, árið 2007, námu fjáreignir 26% af samanlögðum eignum minni sparisjóða en hjá Sparisjóði Vestmannaeyja var hlutfallið 20%.

Fjáreignir voru lægra hlutfall eigin fjár hjá Sparisjóði Vestmannaeyja en ö tðrum sparisjóðum frá 2005–2011 ef undan er skilið árið 2007. Hæst varð hlutfall fjáreigna af eigin fé sparisjóðsins 305% í árslok 2008.

Eign sparisjóðsins í skuldabréfum hélst svipuð frá 2007 til 2011 og var þá ívið meiri en árin 2005 og 2006. Íbúðabréf voru stærsta skuldabréfaeign sparisjóðsins á tímabilinu. Eign í hlutabréfum og verðbréfum með breytilegum tekjum varð veruleg hjá Sparisjóði Vestmannaeyja á árinu 2007. Þessa aukningu má rekja til breyttra uppgjörsaðferða sparisjóðsins þegar farið var að færa eign í Sparisjóðabanka Íslands hf. á gangvirði í stað þess að færa hana með hlutdeildaraðferð.

Hlutur Sparisjóðs Vestmannaeyja í Sparisjóðabankanum var stærsta fjáreign sparisjóðsins og meðan bankinn var færður sem hlutdeildarfélag, hækkaði virði hans í bókum sparisjóðsins samhliða góðri rekstrarniðurstöðu bankans, sérstaklega árið 2006, en sparisjóðurinn tók jafnframt þátt í hlutafjáraukningum í bankanum á þessum tíma. Stjórn sparisjóðsins samþykkti 5. apríl 2006 að nýta forgangsrétt til kaupa á hlutafé í bankanum fyrir sem nam tæpum 23 milljónum króna. Sparisjóður Vestmannaeyja jók aftur hlut sinn í Sparisjóðabankanum í lok árs 2007, þegar Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis hf. og Byr sparisjóður seldu hluti sína. Sparisjóðurinn keypti þá hluti fyrir 427 milljónir króna og átti 5,3% í bankanum í árslok 2007. Ólafur Elísson sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Vestmannaeyja sat í bankaráði Sparisjóðabankans frá október 2008 en hafði áður verið varamaður í bankaráðinu.37

Aðrar stórar fjáreignir sparisjóðsins voru í VBS Fjárfestingarbanka hf. (áður FSP hf.), Kaupþingi banka hf., SP-Fjármögnun hf., Vinnslustöðinni hf. og Saga Capital Fjárfestingarbanka hf. Líkt og margir aðrir sparisjóðir átti Sparisjóður Vestmannaeyja hlut í FSP hf. sem sameinaðist VBS Fjárfestingarbanka hf. á árinu 2007. Sparisjóðurinn hafði tvöfaldað nafnverðseign sína í FSP hf. á árinu 2005 þegar stjórn sparisjóðsins samþykkti á fundi 9. maí 2005 að nýta forgangsrétt til kaupa á hlutafé fyrir allt að 35 milljónir króna að nafnverði við hlutafjáraukningu félagsins. Stjórnin samþykkti á stjórnarfundi 8. febrúar 2006 að taka aftur þátt í hlutafjáraukningu fyrir tæpar 10 milljónir króna að nafnverði. Sparisjóðurinn átti 4,4% hlut í FSP hf. í lok árs 2005 og 2006 en hafði einnig átt í VBS Fjárfestingarbanka hf. fyrir samruna félaganna 2007. Á fundi stjórnar Sparisjóðs Vestmannaeyja 23. maí 2006 samþykkti stjórnin að nýta sér forkaupsrétt við hlutafjáraukningu í VBS Fjárfestingarbanka. Kaupréttur sjóðsins var 16,8 milljónir króna að markaðsverði en auk þess samþykkti stjórnin að óska eftir umframáskrift fyrir 6,7 milljónir króna. Hlutur Sparisjóðs Vestmannaeyja í sameinuðum fjárfestingarbanka var 3,8% í lok árs 2007. Á fundi sínum 31. mars 2009 hafnaði stjórn Sparisjóðs Vestmannaeyja kauptilboði í bréf sparisjóðsins í VBS Fjárfestingarbanka frá H.F. verðbréfum hf. fyrir hönd Byrs sparisjóðs. Tilboðsverðið var 12 krónur á hlut, sem Byr sparisjóður ætlaði að greiða með eigin stofnfjárbréfum.

Sparisjóður Vestmannaeyja átti um 126 milljónir króna að bókfærðu verði í Kaupþingi banka hf. í árslok 2005. Á árinu 2003 hafði sparisjóðurinn selt hluta eignar sinnar í bankanum og nam hagnaður af sölunni 159 milljónum króna. Á árinu 2006 var eignarhlutur sparisjóðsins í Kaupþingi banka hf. færður til markaðsvirðis og hækkaði við það um 225 milljónir króna í bókum sparisjóðsins. Sparisjóðsstjóri greindi frá því að sparisjóðurinn hefði stefnt að því að selja allan eignarhlut sinn í bankanum en það hefði átt að gera hægt og rólega.38 Á árinu 2007 seldi sparisjóðurinn 2,5 milljónir króna að nafnverði í Kaupþingi banka hf. og 500 þúsund árið eftir. Sparisjóðurinn hafði hagnast töluvert á Kaupþingsbréfunum, bæði með beinni sölu og bókfærðum gengishagnaði, en tap sparisjóðsins á eignarhlutnum á árinu 2008 nam 269 milljónum króna.

Á fundi stjórnar Sparisjóðs Vestmannaeyja í mars 2007 var fjallað um hugsanlega þátttöku sjóðsins í hlutafjárútboði Saga Capital Fjárfestingarbanka hf. Fram kom að fyrr í mánuðinum hefðu forsvarsmenn Saga Capital kynnt starfsemi bankans fyrir sparisjóðsstjóra. Félagið ætlaði að auka hlutafé sitt úr 2,5 milljörðum króna í 7–8 milljarða. Stjórnin samþykkti að veita sparisjóðsstjóra heimild til að kaupa hlutafé í Saga Capital Fjárfestingarbanka hf. fyrir allt að 50 milljónir króna að nafnvirði.39 Hlutir í félaginu voru keyptir á 57,5 milljónir króna sem töpuðust á tímabilinu 2008–2011.

Eins og áður sagði var hlutur í Sparisjóðabanka Íslands hf. stærsta fjáreign Sparisjóðs Vestmannaeyja og hafði því töluverð áhrif á afkomu hans. Árin 2005 og 2006 hagnaðist sparisjóðurinn á þessari eign vegna hlutdeildar í afkomu Sparisjóðabankans sem þá var hlutdeildarfélag í bókum sjóðsins. Árið 2007 tók sparisjóðurinn upp nýjar reikningsskilaaðferðir og var eignin í Sparisjóðabankanum þá færð á gangvirði í stað hlutdeildaraðferðar. Í upphafi árs 2007 var bókfært virði eignarhlutarins 470,3 milljónir króna og nafnverð eignar 27,4 milljónir króna, sem þýðir að hver nafnverðshlutur var metinn á um 17,2 krónur. Síðla árs 2007 keypti sparisjóðurinn 15,2 milljónir að nafnverði í bankanum fyrir 426,7 milljónir króna, eða um 28,1 krónu á nafnverðshlut. Í lok árs mat sparisjóðurinn hvern hlut á 20,7 krónur og nam heildartap á eignarhlutnum því um 13 milljónum króna á árinu 2007. Á árinu 2008 tapaðist hluturinn að fullu og voru færðar til gjalda vegna þess tæpar 884 milljónir króna.

Sparisjóður Vestmannaeyja tapaði tæplega 358 milljónum króna vegna eignarhlutar í VBS Fjárfestingarbanka hf. á árunum 2008 og 2009 og 104 milljónum króna vegna skuldabréfa VBS á árunum 2009 og 2010.

Sparisjóðurinn átti um 2% eignarhlut í SP-Fjármögnun hf. sem hækkaði mjög í bókum sparisjóðsins á árinu 2007. Í lok árs 2006 var hluturinn metinn á 28 milljónir króna en 150 milljónir króna ári síðar, en breyting á reikningsskilaaðferð sem fól í sér að hluturinn var færður á gangvirði á árinu 2007 hækkaði hann um 121 milljón króna. Eftir fall íslensku bankanna, gengisfall krónunnar og erfiðleika í efnahagslífi á árinu 2008 féll SP-Fjármögnun hf. í virði og færði sparisjóðurinn eignina að fullu niður á því ári. Á fundi stjórnar Sparisjóðs Vestmannaeyja 6. maí 2008 var sparisjóðsstjóra veitt heimild til að selja eignarhlut sjóðsins í félaginu en ekkert varð af þeirri sölu. Á stjórnarfundi 21. janúar 2009 var staða SP-Fjármögnunar hf. rædd en fyrir lá að félagið þyrfti að auka hlutafé verulega til að standast eiginfjárkröfur Fjármálaeftirlitsins. Stjórn sparisjóðsins samþykkti að taka ekki þátt í hlutafjáraukningu eða leggja frekara hlutafé í félagið.

Sparisjóðurinn seldi Kaupþingi banka hf. eignarhlut sinn í Alþjóða líftryggingarfélaginu hf. á árinu 2005 og hafði af því um 32 milljónir króna í söluhagnað. Árið 2006 var söluhagnaður sparisjóðsins af bréfum í Verðbréfaþingi Íslands hf. 13,3 milljónir króna og 31 milljón króna af sölu hlutabréfa í Kaupþingi banka hf. á árinu 2007. Árið 2008 hafði sparisjóðurinn samtals um 22,3 milljónir króna í söluhagnað af stofnfjárbréfum í Sparisjóði Skagafjarðar og hlutum í OMX AB en tapaði um tveimur milljónum króna á sölu hluta í FL Group hf. Lítils háttar tap á fjáreignum til sölu er fært undir annað í töflu 19 á árinu 2010 en áhrif af sölu verðbréfa á árunum 2009 og 2011 voru engin.

Afkoma af rekstri Sparisjóðs Vestmannaeyja fylgdi að miklu leyti afkomu af fjáreignum sparisjóðsins. Svo var þó ekki á árunum 2009 og 2010, en árið 2009 voru afskriftir af útlánum sparisjóðsins mjög stór rekstrarliður og árið 2010 hafði niðurfelling skulda sparisjóðsins jákvæð en óvenjuleg áhrif á rekstur hans. Hagnaður sparisjóðsins af fjáreignum 2001–2007 miðað við verðlag ársins 2011 nam 1,9 milljörðum króna en tap á fjáreignum 2008–2011 var 2,2 milljarðar króna. Af því má ráða að rekstrarafkoma Sparisjóðs Vestmannaeyja réðst að miklu leyti af afkomu fjáreigna og léku eignarhlutir í Sparisjóðabanka Íslands hf., Kaupþingi banka hf. og VBS Fjárfestingarbanka hf. þar stórt hlutverk. Sparisjóðsstjóri ræddi möguleika sparisjóðsins til að ávaxta fé og fjárfesta fyrir rannsóknarnefndinni:

Auðvitað er maður búinn að hugsa þetta aftur og aftur og aftur. Hvar hefðum við t.d. verið stödd ef við hefðum verið búin að selja allan hlutinn okkar í Kaupþing? Það stóð til. Það var bara búið að taka ákvörðun um það, við bara fórum hægt í það og svo þegar gengið fór að falla þá hægðum við á sölunni. […] Og hvað ætlum við að gera við það? Jú, við ætluðum að færa það inn í aðra smábanka, Verðbréfastofuna, Sparisjóðabankann, Fjárfestingarfélag sparisjóðanna og önnur svona samstarfsfyrirtæki. Það var okkar sýn. Maður hefur oft velt þessu fyrir sér, hefðum við verið búin að selja allt í Kaupþingi, hvað hefðum við gert við peningana? Hefðum við lagt þá í Seðlabankann? Nei, vaxtastrúktúrinn var ekki þannig á þeim tíma, þetta var ekki svo einfalt að menn gætu bara verið í vari í Seðlabankanum kannski eins og menn geta verið í dag.40

30.5 Fjármögnun

Skuldir Sparisjóðs Vestmannaeyja rúmlega þrefölduðust frá árslokum 2005 til ársloka 2009, sem endurspeglaði vöxt eignasafns sparisjóðsins, bæði útlána og fjáreigna. Árið 2010 drógust skuldir sparisjóðsins saman vegna fjárhagslegrar endurskipulagningar, en þá voru skuldir hans við Seðlabanka Íslands til að mynda gerðar upp. Frá 2005 til 2011 voru helstu skuldir sparisjóðsins innlán, eða 66– 90% af skuldum að undanskildu eigin fé.41

Innlán í Sparisjóði Vestmannaeyja voru að mestu leyti í eigu heimila eða 64% að meðaltali á tímabilinu 2005–2011. Fjármálafyrirtæki áttu að meðaltali 15% innlána og önnur fyrirtæki 13%.42 Bundin innlán voru að meðaltali 57% af innlánum sparisjóðsins, lægst var hlutfall þeirra 35% í febrúar 2008 en hæst 72% í mars 2009 og febrúar til júní 2010. Hlutfall bundinna innlána lækkaði tiltölulega jafnt og þétt frá byrjun árs 2005 til júlí 2008. Í ágúst 2008 hækkaði hlutfall bundinna innlána um 28 prósentustig, eða úr 40% af heildarinnlánum í 68%, og hélst svo svipað fram til loka árs 2011.43 Innlán voru 101% til 137% af útlánum sparisjóðsins í árslok 2005–2011.

Skuldir Sparisjóðs Vestmannaeyja við lánastofnanir voru einkum erlend endurlán frá Sparisjóðabanka Íslands hf. og í lok árs 2008 voru daglán hjá Seðlabanka Íslands áberandi. Á árinu 2008 nær þrefölduðust skuldir sparisjóðsins við lánastofnanir, einkum vegna gengisfalls íslensku krónunnar en einnig vegna 620 milljóna króna dagláns hjá Seðlabankanum. Við yfirtöku Fjármálaeftirlitsins á Sparisjóðabanka Íslands hf. í mars 2009 eignaðist Seðlabanki Íslands innlán og kröfur bankans, meðal annars á sparisjóðina. Undir árslok 2010 gerði sparisjóðurinn þessar skuldir við Seðlabankann upp að hluta og einu skuldir sjóðsins við lánastofnanir frá árslokum 2010 voru vegna lánasamnings við Seðlabanka Íslands.

Daglán Sparisjóðs Vestmannaeyja hjá Seðlabanka Íslands í lok árs 2008 vakti athygli rannsóknarnefndarinnar þar sem lausafjárstaða sparisjóðsins var góð á þessum tíma og ekki virtist nein þörf á lántöku. Við eftirgrennslan kom í ljós að sparisjóðurinn tók þetta lán að beiðni Sparisjóðabanka Íslands hf. um lausafjárfyrirgreiðslu honum til handa. Sparisjóðurinn lagði skuldabréf útgefin af Íbúðalánasjóði (HFF flokka) að veði í Seðlabankanum og fékk lánað út á þau. Féð lagði sparisjóðurinn svo sem innlán í Sparisjóðabanka Íslands hf. og hafði tekjur af vaxtamismuninum sem Sparisjóðabankinn greiddi til Seðlabankans.44 Innlán sparisjóðsins hjá Sparisjóðabankanum námu 2,8 milljörðum króna í lok árs 2008 og var daglánið greitt upp 18. mars 2009.

Lántaka Sparisjóðs Vestmannaeyja fólst eingöngu í veðdeildarbréfum, skuldabréfalánum og fjármögnun íbúðalána í gegnum Íbúðalánasjóð. Meirihluti veðdeildarbréfanna var í eigu Lífeyrissjóðs Vestmannaeyja og Sjómannafélagsins Jötuns. Hluta af skuldabréfalánum sparisjóðsins var breytt í víkjandi lán á árinu 2008, sem varð til þess að þau lækkuðu.

Á árunum 2004 og 2005 gerði Sparisjóður Vestmannaeyja tvo lánasamninga við Íbúðalánasjóð. Sá fyrri var gerður í desember 2004 og var að fjárhæð tæpar 297 milljónir króna en að baki lánasamningnum voru 37 fasteignalán í eigu sparisjóðsins. Í apríl 2005 fékk sparisjóðurinn svo 156 milljóna króna lán frá Íbúðalánasjóði en að baki því voru 29 fasteignalán sparisjóðsins. Í árslok 2005 gaf Sparisjóðabanki Íslands hf. út skuldabréf til Íbúðalánasjóðs, en að baki því voru fasteignalán margra sparisjóða. Fjármagn streymdi þannig frá Íbúðalánasjóði til einstakra sparisjóða í gegnum Sparisjóðabankann og var hlutur Sparisjóðs Vestmannaeyja í þessum samningi 127 milljónir króna.

Árið 2006 sameinaðist Sparisjóður Vestmannaeyja Sparisjóði Hornafjarðar. Sá síðarnefndi hafði gefið út víkjandi skuldabréf fyrir rúmar 33 milljónir króna fyrir sameininguna og á árinu 2006 gaf Sparisjóður Vestmannaeyja sjálfur út víkjandi skuldabréf. Víkjandi skuldir sparisjóðsins voru engar í lok árs 2005 en í lok árs 2006 námu þær rúmum 157 milljónum króna og hélst sú staða í árslok 2007. Árið 2008 var hluta af lántöku sparisjóðsins hjá Sparisjóðabanka Íslands hf. breytt í víkjandi lán sem nam 217 milljónum króna í árslok. Að sögn forstöðumanns reikningshalds sparisjóðsins var þessi breyting á lántöku gerð til þess að bæta eiginfjárhlutfall sjóðsins.45

Innlán og kröfur Sparisjóðabanka Íslands hf. fluttust til Seðlabanka Íslands þegar Fjármálaeftirlitið tók yfir vald hluthafafundar Sparisjóðabankans í mars 2009. Með því eignaðist Seðlabankinn kröfur á hendur sparisjóðum sem gerðar voru upp í lok árs 2010. Í tengslum við uppgjör Sparisjóðs Vestmannaeyja við Seðlabankann fengu sparisjóðir og Tryggingasjóður sparisjóðanna stofnfé í skiptum fyrir hluta víkjandi krafna sem þeir höfðu átt. Stærstur hluti krafnanna var afskrifaður og hluti endurgreiddur. Í sama ferli var hluta af veðdeildarbréfum sparisjóðsins breytt í víkjandi lán en hluti þeirra felldur niður.46

Aðrar skuldir sparisjóðsins hækkuðu á árinu 2008 vegna fullnustueigna sem sparisjóðurinn hafði til sölu, en slíkar eignir höfðu lítið vægi í árslok 2010.

30.6 Stofnfé og stofnfjáreigendur

Á árunum 2001 til 2007 voru 70 stofnfjáreigendur í Sparisjóði Vestmannaeyja, allt einstaklingar, og átti hver þeirra 1,43% hlut. Engin viðskipti áttu sér stað með stofnbréf í sparisjóðnum á þessum tíma fyrr en á árinu 2007, en þá urðu ein viðskipti með stofnfjárhlut og einn hlutur var yfirfærður á annað nafn við erfðaskipti. Á árinu 2008 urðu viðskipti með stofnfjárbréf hins vegar tíðari og hin jafna skipting stofnfjárins tók að riðlast.47

Í samþykktum sparisjóðsins var kveðið á um stofnfé og skiptingu þess. Í samþykktum frá 2003 var lágmarksstofnfé 1.320.000 krónur sem skiptast átti í jafna og ekki færri en sextíu hluti. Hver hlutur var 22.000 krónur og honum fylgdi eitt atkvæði en atkvæðisréttur fylgdi ekki þeim bréfum sem sparisjóðurinn átti sjálfur. Hámarksatkvæðamagn hvers stofnfjáreiganda eða tengdra aðila var 5%. Fundur stofnfjáreigenda gat samþykkt að auka stofnfé sparisjóðsins með áskrift nýrra stofnfjárhluta auk þess sem heimilt var að auka stofnfé með endurmati vegna verðlagsbreytinga samkvæmt 67. gr. laga nr. 161/2002 og með ráðstöfun hluta hagnaðar samkvæmt 2. tölul. 68. gr. sömu laga, svonefndu sérstöku endurmati. Þá var veðsetning stofnfjárbréfa óheimil.

Á fundi stofnfjáreigenda 9. október 2007 voru samþykktar ýmsar breytingar á samþykktum sparisjóðsins. Stofnfé var ákveðið 3.850.000 krónur sem skiptist í jafnmarga einnar krónu hluti að nafnverði. Þá var samþykkt heimild til stjórnar um að auka stofnfé um allt að einn milljarð króna með áskrift nýrra jafnmargra hluta en stefnt skyldi að því að fram færi útboð fyrir 350 milljónir króna fyrir árslok 2007. Samhliða þessu var afnumin kvöð um jafna eignarhlutdeild og veðsetning stofnfjárhluta heimiluð að tilskildu samþykki stjórnar sparisjóðsins.48

Á aðalfundi 4. apríl 2008 voru samþykktar breytingar á samþykktum sparisjóðsins. Þeirra á meðal voru heimild til stjórnar til að auka stofnfé um allt að 140 milljónir króna og að frá og með aðalfundi ársins 2009 kysu stofnfjáreigendur alla fimm stjórnarmenn sparisjóðsins. Á fundi stofnfjáreigenda 26. febrúar 2009 var samþykkt ný málsgrein við 4. gr. samþykktanna um að stjórn væri heimilt að auka stofnfé um allt að 350 milljónir króna af heimild sem veitt var á fundi 9. október 2007 og myndu stofnfjáreigendur falla frá forgangsrétti til kaupa á 250 milljónum króna. Í greinargerð með tillögunni kom fram að stjórn hefði samþykkt að sækjast eftir auknu stofnfé frá ríkissjóði og áætlað væri að sú fjárhæð gæti numið 360 milljónum króna. Stjórnin teldi hyggilegast að leita eftir 350 milljónum króna í nýtt stofnfé til viðbótar, þar af 250 milljónum króna hjá nýjum stofnfjáreigendum. Þá var samþykkt að fella út 2. mgr. 5. gr. samþykkta sparisjóðsins um að enginn stofnfjáreigandi mætti eiga meira en sem næmi 5% af útgefnu stofnfé. Var þetta í tengslum við sölu á nýju stofnfé til nýrra aðila en líkur voru taldar á því að stofnfjáreigendur vildu eignast stærri hlut en 5%.

Á fundi stofnfjáreigenda 21. júní 2010 voru teknar fyrir tillögur um breytingar á stofnfé og samþykktum sparisjóðsins. Samþykkt var tillaga um lækkun stofnfjár til jöfnunar taps sem ekki yrði jafnað á annan hátt;49 stofnfé var lækkað úr 357 milljónum króna í 100 milljónir króna. Þá voru lagðar fram fjórar tillögur um hækkun stofnfjár, sú fyrsta um 50,1 milljón króna og skyldi það stofnfé boðið eigendum víkjandi krafna á sparisjóðinn, önnur upp á 149,4 milljónir króna sem skyldi boðið eigendum óverðtryggðra krafna, þriðja upp á 555 milljónir króna sem skyldi boðið Seðlabanka Íslands eða fjármálaráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins og svo 150 milljónir króna sem bjóða ætti Vestmannaeyjabæ og Vinnslustöðinni hf. Þeir stofnfjáreigendur sem fyrir voru féllu frá forgangsrétti til kaupa á þessu stofnfé og kröfuhafar sem fengju nýútgefið stofnfé myndu greiða fyrir það með kröfum sínum. Tillögurnar voru þáttur í fjárhagslegri endurskipulagningu sparisjóðsins og voru þær samþykktar og tóku samþykktirnar breytingum til þess að endurspegla ákvæði laga nr. 76/2009. Framsal og önnur ráðstöfun stofnfjárhluta í sparisjóðnum var heimiluð án takmarkana.

Á aðalfundi Sparisjóðs Vestmannaeyja 31. mars 2011 var gerð sú breyting á samþykktum að stofnfé væri 1.004.483.000 og skiptist í jafnmarga hluti að nafnverðsfjárhæð ein króna. Stjórnin var þá búin að virkja þær heimildir sem höfðu verið til staðar vegna hækkunar á stofnfé frá fundinum 21. júní 2010 og var samþykkt að fella þær greinar úr texta samþykkta sparisjóðsins. Útistandandi voru 996.589.000 hlutir.

Líkt og áður sagði fór fram stofnfjárútboð fyrir 350 milljónir króna í lok árs 2007 og áttu stofnfjáreigendur forgang til áskriftar í réttu hlutfalli við stofnfjáreign sína. Talið var æskilegt að geta selt nýtt stofnfé til að mæta kröfum um eiginfjárhlutfall eða til að ráðast í fjárfestingar án mikils fyrirvara, þar sem það væri of þungt í vöfum að kalla saman almennan stofnfjáreigendafund í hvert skipti sem slíkar aðstæður sköpuðust. Þá var einnig rætt um að hlutfall stofnfjár gagnvart öðru eigin fé sparisjóðsins væri orðið mjög lágt og brýnt væri að rétta það hlutfall við.50 Fyrir rannsóknarnefndinni sagði fyrrum stjórnarformaður sparisjóðsins tilgang stofnfjáraukningarinnar hafa að stórum hluta verið sá að verja sparisjóðinn gegn yfirtöku. Dæmi hefði verið um að menn væru að bjóðast til að kaupa stofnfé á yfirverði, sem stjórn sparisjóðsins taldi óheillavænlega stefnu. Með því að auka stofnfé mætti því koma í veg fyrir yfirtöku, eða gera hana erfiðari en ella.51

Í október 2007 fól stjórn sparisjóðsins Jóhannesi Karli Sveinssyni hæstaréttarlögmanni að leita eftir undanþágu hjá Fjármálaeftirlitinu frá því að gera útboðslýsingu vegna stofnfjáraukningar sem fékkst í lok mánaðarins.52 Stofnfjárútboðinu lauk um miðjan desember og tóku allir stofnfjáraðilar þátt í aukningunni. Þeir juku stofnfjáreign sína um 5 milljónir króna hver, samtals um 350 milljónir króna. Þannig varð heildarstofnfé í sparisjóðnum 353,9 milljónir króna í árslok 2007.53

Á stjórnarfundi í desember 2007 var tekið fyrir erindi frá 26 stofnfjáreigendum um handveðsetningu á stofnfé til sparisjóðsins. Heildarfjárhæð þeirra lána sem sótt var um nam tæpum 120 milljónum króna. Sparisjóðsstjóra var falið að afla nauðsynlegra bankaábyrgða til að unnt væri að fallast á lánsbeiðnirnar vegna ákvæða laga og samþykkta sparisjóðsins um hámark veðsetningar eigin stofnfjár.54

Í árslok 2007 eftir stofnfjáraukninguna voru enn 70 stofnfjárhafar í Sparisjóði Vestmannaeyja og allir með jafnan hlut, 5.055.000 krónur hver. Á árinu 2008 urðu nokkur viðskipti með stofnfjárbréf og í lok ársins var útgerðarfélagið Ós ehf. orðið stærsti eigandi stofnfjár með stofnfé upp á 15,3 milljónir króna. Útgerðarfélagið Ós var í eigu Sigurjóns Óskarssonar og fjölskyldu. Helgi Bragason, stjórnarformaður sparisjóðsins, átti 10,2 milljónir króna í stofnfé og Q44 ehf. átti stofnfé upp á 9,6 milljónir króna.55 Í skýrslu sinni fyrir rannsóknarnefnd Alþingis sagðist Helgi Bragason hafa keypt hlut í sparisjóðnum og síðar fært bréf sín yfir í einkahlutafélag af persónulegum ástæðum.56 Q44 ehf. fékkst við verðbréfaviðskipti, kaup, sölu og umsýslu fasteigna. Félagið keypti stofnfé af Gísla Geir Guðlaugssyni sem sat í stjórn sparisjóðsins til ársins 2008 og dóttur hans, en félagið var að fullu í eigu Magnúsar Kristinssonar.57 Í lok árs 2009 voru stofnfjáreigendur 72 og nam hlutur þeirra flestra 5,1 milljón króna. Ós ehf. bætti ekki við sig hlutum það ár en Helgi Bragason hafði flutt stofnfjárbréfaeign sína í einkahlutafélagið HBB ehf. sem var að fullu í hans eigu. Landsbanki Íslands eignaðist hluti Q44 ehf. í október 2009.58

Stærsta breytingin á stofnfjáreign í Sparisjóði Vestmannaeyja tengdist fjárhagslegri endurskipulagningu sparisjóðsins á árinu 2010, sem nánar er fjallað um hér aftar. Hluta af kröfum Seðlabanka Íslands á hendur sparisjóðnum var þá breytt í stofnfé og eignaðist Seðlabankinn við það 55,3% stofnfjár í sparisjóðnum. Stofnfé í eigu Seðlabankans var framselt til fjármálaráðherra sem tók við því fyrir hönd íslenska ríkisins og fól Bankasýslu ríkisins að fara með eignarhaldið.

30.6.1 Hugmyndir um hlutafélagsvæðingu

Á stjórnarfundi 24. apríl 2007 var stjórnarformanni, varaformanni og sparisjóðsstjóra falið að fara yfir samþykktir sparisjóðsins, bera þær saman við samþykktir annarra sparisjóða og koma með tillögur að breytingum ef þurfa þætti. Þá var jafnframt samþykkt að móta nýja stefnu fyrir sparisjóðinn í ljósi breytts starfsumhverfis og útrásar sparisjóðsins á síðustu árum. Minnisblað um stefnumótunina var lagt fram á stjórnarfundi 29. júní sama ár. Samkvæmt fundargerð var áhugi á að kanna möguleika á að breyta rekstrarformi sparisjóðsins í hlutafélag, að undangenginni stofnfjáraukningu. Jóhannes Karl Sveinsson hæstaréttarlögmaður vann greinargerð fyrir stjórn sparisjóðsins um stofnfjáraukningu og mögulega breytingu á sparisjóðnum í hlutafélag, og ákvað stjórnin að halda stofnfjáreigendafund um haustið þar sem rætt yrði um stofnfjáraukningu.

Á stjórnarfundi 6. september 2007 ræddi Jóhannes Karl möguleikann á því að breyta sparisjóðnum í hlutafélag. Þar kom fram að hann teldi litlar líkur á að stofnfjáreigendur yrðu hlynntir hugmyndinni vegna þess hversu lítill hlutur hvers og eins var. Samkvæmt fundargerðum stjórnar sparisjóðsins varð engin frekari umræða um breytingar á rekstrarfyrirkomulagi sjóðsins. Fram kom við skýrslutökur fyrir rannsóknarnefnd Alþingis að skiptar skoðanir hefðu verið innan stjórnar um hvort rétt væri að hlutafélagsvæða sparisjóðinn. Niðurstaðan hefði verið sú að fara ekki þá leið þar sem sjóðurinn yrði þar með kominn í allt annað umhverfi en menn hefðu stofnað til í upphafi.59 Þrátt fyrir að fallið væri frá hugmyndum um að hlutafélagsvæða sparisjóðinn hélt stjórnin áfram vinnu við að móta tillögur um breytingar á samþykktum sparisjóðsins og um aukningu stofnfjár.

30.7 Fjárhagsleg endurskipulagning

Í upphafi árs 2008 var staða Sparisjóðs Vestmannaeyja góð. Hagnaður af rekstri sjóðsins árið 2007 hafði numið tæpum 343 milljónum króna, bókfært eigið fé sjóðsins tæpum 1.849 milljónum króna og eiginfjárhlutfallið var 11,12%.60 Þótt staða sparisjóðsins hafi verið ágæt í upphafi árs fór hann ekki varhluta af þeirri þróun sem varð á fjármálamarkaði á árinu 2008 og hafði gengi krónunnar og fall íslensku viðskiptabankanna mikil áhrif á Sparisjóð Vestmannaeyja sem og aðra sparisjóði. Viðsnúningur varð í rekstri sparisjóðsins á árinu en samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2008 varð tap á rekstri sparisjóðsins upp á tæplega 1,5 milljarða króna. Bókfært eigið fé í árslok nam 361 milljón króna og var eiginfjárhlutfallið komið niður í 3,83%.

Þegar í október 2008 var farið að huga að fjárhagslegri endurskipulagningu sparisjóðsins. Á fundi forsvarsmanna sparisjóðsins með Fjármálaeftirlitinu 17. október 2008 kom fram að veruleg rýrnun hefði orðið á eignasafni sparisjóðsins og bar þar hæst tap af hlutafjáreign og skuldabréfum á fjármálafyrirtæki sem skráð voru í Kauphöll Íslands og var virðisrýrnunin talin nema samtals um 350 milljónum króna til viðbótar við rýrnun eigna fyrr á árinu. Þá var óvissa um virði einstakra eigna sparisjóðsins í öðrum fjármálafyrirtækjum, meðal annars í Sparisjóðabanka Íslands hf., VBS Fjárfestingarbanka hf., SP Fjármögnun hf. og Saga Capital hf. Á fundinum kom fram að eiginfjárhlutfallið var komið niður í 8,2% og þótti ljóst að sjóðurinn myndi ekki standast álagspróf Fjármálaeftirlitsins. Forsvarsmenn sparisjóðsins höfðu þegar kannað hvort grundvöllur væri fyrir stofnfjáraukningu í heimabyggð og sögðu þeir viðtökur góðar; forsvarsmenn bæjarfélagsins, lífeyrissjóðs og stærri atvinnufyrirtækja hefðu verið jákvæðir. Þá hafði stjórn sparisjóðsins þegar fengið heimild til að auka stofnfé um 140 milljónir króna, en fleiri leiðir væru einnig til skoðunar.61

30.7.1 Umsókn um 20% eiginfjárframlag úr ríkissjóði

Hinn 12. mars 2009 sótti Sparisjóður Vestmannaeyja um eiginfjárframlag úr ríkissjóði á grundvelli reglna um framlag til sparisjóða skv. 2. gr. laga nr. 125/2008 vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl.62 Óskaði sparisjóðurinn eftir eiginfjárframlagi sem næmi 497,3 milljónum króna en til vara framlagi sem næmi allt að 20% af bókfærðu eigin fé eins og það var í árslok 200763 eða 370 milljónum króna, þar sem bókfært eigið fé sparisjóðsins nam þá 1.849 milljónum króna.

Í umsögn endurskoðenda sem fylgdi umsókn sparisjóðsins sagði að samkvæmt drögum að ársreikningi fyrir árið 2008 væri eigið fé sparisjóðsins 443,7 milljónir króna og hefði lækkað um 1.400 milljónir frá árslokum 2007, en eiginfjárhlutfallið væri 4,96%.64 Sparisjóðurinn stæðist því ekki lengur lágmarkskröfur laga til eigin fjár. Til þess að ná lágmarks eiginfjárhlutfalli, eða 8%, yrði eigið fé, að teknu tilliti til víkjandi lána, að hækka um 123 milljónir króna. Þar sem reglur um framlag ríkissjóðs til sparisjóða gerðu ráð fyrir að eiginfjárhlutfallið yrði að lágmarki 12% eftir eiginfjárframlag úr ríkissjóði, þyrfti eiginfjárframlag til sparisjóðsins, til viðbótar fyrrnefndu 370 milljóna króna framlagi ríkissjóðs, að nema að lágmarki 53 milljónum króna.65

Í umsókn sparisjóðsins kom fram að meðal annars hefði verið leitað til Vestmannaeyjabæjar, Lífeyrissjóðs Vestmannaeyja og Vinnslustöðvarinnar hf. um kaup á stofnfé, en stjórn lífeyrissjóðsins hefði samþykkt 4. mars 2009 að kaupa stofnfé fyrir allt að 100 milljónir króna, með þeim fyrirvara að ríkissjóður keypti stofnfé fyrir 360 milljónir króna.66 Á fundi stofnfjáreigenda 26. febrúar 2009 höfðu verið samþykktar tvær tillögur, annars vegar um aukningu stofnfjár um allt að 350 milljónir króna og hins vegar tillaga um að felld yrði úr samþykktum sparisjóðsins takmörkun á eignarhaldi við 5%. Nauðsynlegt hafði þótt að gera breytingar á samþykktum sjóðsins er lutu að takmörkunum á eignarhaldi þar sem ljóst var að eignarhald einstakra nýrra stofnfjáraðila gæti farið yfir 5% við fjárhagslega endurskipulagningu. Stofnfjáreigendur féllu einnig frá forgangsrétti til áskriftar að 250 milljónum króna stofnfjár.

Í tölvupósti Ólafs Elíssonar sparisjóðsstjóra til Egils Tryggvasonar, starfsmanns fjármálaráðuneytisins, 22. maí 2009 kom fram að auk lífeyrissjóðsins hefði Vinnslustöðin hf. samþykkt að kaupa stofnfé fyrir 50 milljónir króna og Vestmannaeyjabær fyrir 100 milljónir króna. Samtals væri því búið að fá samþykki fyrir 250 milljóna króna kaupum á nýju stofnfé. Allir hefðu sett það skilyrði fyrir stofnfjárkaupunum að ríkissjóður kæmi þar einnig að málum, en Vestmannaeyjabær setti það jafnframt sem skilyrði að sparisjóðurinn yrði rekinn sem sjálfstæð eining innan samfélags sparisjóða með höfuðstöðvar í Vestmannaeyjum. Þá vildi Vestmannaeyjabær einnig að sparisjóðurinn hlutaðist til um að öllum bæjarbúum yrði gert fært að kaupa stofnfé í sparisjóðnum fyrir allt að 50 milljónir króna.67 Ekkert varð þó af því.

Beiðni Sparisjóðs Vestmannaeyja var vísað til Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins til umsagnar 17. mars 2009.68 Í umsögn Fjármálaeftirlitsins um umsókn sparisjóðsins sagði að 20% eiginfjárframlag ríkissjóðs, auk kaupa Lífeyrissjóðs Vestmannaeyja á stofnfé fyrir 100 milljónir króna, yrði til þess að eiginfjárhlutfallið færi úr 5% í 12,5%. Yrði einnig af fyrirhuguðum kaupum Vestmannaeyjabæjar og Vinnslustöðvarinnar hf. á stofnfé myndi hlutfallið nálgast 15%. Fjármálaeftirlitið taldi rekstraráætlun sjóðsins í heildina raunhæfa, spár um kostnaðarliði ættu að vera nokkuð áreiðanlegar og spá sparisjóðsins um tekjuinnflæði væri ekki óraunhæf en háð meiri óvissu. Þó var bent á að virðisrýrnun hjá sparisjóðnum árið 2008 væri í lægri kantinum, ef miðað væri við aðra sparisjóði en það gæti leitt til meiri afskrifta hjá sparisjóðnum síðar á tímabilinu. Fjármálaeftirlitið lagði engu að síður til að sparisjóðnum yrði veitt 20% eiginfjárframlag úr ríkissjóði.69

Seðlabanki Íslands sendi fjármálaráðuneytinu sameiginlega umsögn um umsóknir sparisjóðanna um eiginfjárframlag úr ríkissjóði 21. apríl 2009. Í umsögn sinni lagði Seðlabanki Íslands ríka áherslu á að breytingar yrðu gerðar á yfirstjórn viðkomandi fjármálafyrirtækja, þar sem það ætti við, að framtíðararðgreiðslur yrðu takmörkunum háðar og að nýjar viðskiptaáætlanir lægju fyrir. Þá lagði Seðlabankinn áherslu á að leitað yrði leiða til að fá fleiri aðila til að leggja sparisjóðunum til nýtt eigið fé, til að styrkja þá og dreifa eignarhaldi, og að tryggt yrði að fyrirliggjandi tap yrði borið af þáverandi eigendum áður en ríkið legði til nýtt eigið fé. Mikilvægt væri að Fjármálaeftirlitið og endurskoðendur sparisjóðanna mætu eigið fé þeirra og að það yrði fært niður eins og þörf væri á, áður en ríkissjóður legði til nýtt eigið fé.70

30.7.2 Aðdragandi fjárhagslegrar endurskipulagningar

Fleiri sparisjóðir sóttu um eiginfjárframlag úr ríkissjóði og í kjölfarið fór fjármálaráðuneytið fram á að fengið yrði óháð endurskoðunarfyrirtæki til að fara yfir reikninga og verðmæti eigna sparisjóðanna. PricewaterhouseCoopers hf. var fengið til að gera fjárhagslega áreiðanleikakönnun á ákveðnum þáttum í efnahagsreikningi og starfsemi sparisjóðsins og skilaði það skýrslu sinni 9. júní 2009. Helstu niðurstöður PricewaterhouseCoopers hf. voru að virðisrýrnun eigna væri meiri en sparisjóðurinn hafði gert ráð fyrir í ársreikningi fyrir árið 2008 sem nam 65 milljónum króna, eða 60 milljónum króna eftir skattáhrif; eigið fé sjóðsins væri því 301,2 milljónir króna.71

Helstu ástæður niðurfærslunnar voru versnandi staða og verðgildi nokkurra stórra lántakenda, en einnig var mat á fjáreignum lægra en í ársreikningi. Taldi PricewaterhouseCoopers hf. að til þess að sparisjóðurinn næði að uppfylla það skilyrði reglna um eiginfjárframlag til sparisjóða að 12% eiginfjárhlutfalli yrði náð með framlagi ríkisins, yrði stofnfjáraukningin að nema 480 milljónum króna eftir að tekið hefði verið tillit til viðbótarniðurfærslna og virðisrýrnunar. Í skýrslunni kom fram að Vinnslustöðin hf., Lífeyrissjóður Vestmannaeyja og Vestmannaeyjabær hefðu samþykkt að leggja til stofnfé, samtals 250 milljónir króna, með þeim fyrirvara að ríkissjóður kæmi einnig að stofnfjáraukningu sjóðsins. Framlag þessara þriggja aðila að meðtöldu framlagi ríkissjóðs myndi nægja til að tryggja að eiginfjárhlutfallið yrði 12%. Þar að auki hefði stjórn Sparisjóðs Vestmannaeyja einnig heimild til að afla stofnfjár fyrir allt að 100 milljónir króna meðal þáverandi stofnfjáreigenda eða almennings.72

Undir lok sumars 2009 tóku fjármálaráðuneytið og Seðlabanki Íslands, undir forystu bankans, upp nánari samvinnu um fjárhagslega endurskipulagningu sparisjóða, þegar ljóst var að sparisjóðirnir uppfylltu ekki allir skilyrði reglna um framlag til sparisjóða.73 Seðlabanki Íslands var helsti kröfuhafi sparisjóðanna á þessum tíma, eftir að hafa fengið framseldar kröfur Sparisjóðabankans á hendur sparisjóðunum, sbr. ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 21. mars sama ár. Þar á meðal voru kröfur á hendur Sparisjóði Vestmannaeyja sem námu 2.151 milljón króna.74 Í september 2009 sendi Seðlabanki Íslands, í samvinnu við fjármálaráðuneytið, sparisjóðunum tillögu um meðferð krafna á hendur þeim og var unnið að frekari útfærslu hennar um veturinn. Hinn 1. febrúar 2010 sendi Seðlabankinn síðan sparisjóðunum bréf þar sem þeim var boðið að semja um uppgjör krafna með ákveðnum kjörum og skilyrðum.75 Viku síðar, 8. febrúar, kynnti Fjármálaeftirlitið sparisjóðnum kröfur sínar varðandi fjárhagslega endurskipulagningu með aðild ríkissjóðs á grundvelli laga nr. 125/2008 eða með aðild Seðlabanka Íslands á grundvelli samnings um uppgjör krafna. Fjármálaeftirlitið gerði þá meðal annars kröfu um að eiginfjárhlutfallið yrði að lágmarki 16% að lokinni fjárhagslegri endurskipulagningu.76

Sparisjóðurinn sendi Fjármálaeftirlitinu útreikninga vegna skilyrða um eiginfjár- og lausafjárkröfur þess sem settar voru fram í bréfinu. Fjármálaeftirlitið taldi að yfirferð gagna gæfi ekki tilefni til annars en að álykta að sparisjóðurinn stæðist gerðar kröfur að lokinni fjárhagslegri endurskipulagningu. Því samþykkti Fjármálaeftirlitið, miðað við fyrirliggjandi gögn, að sparisjóðurinn gengi til endanlegra samninga við Seðlabanka Íslands og aðra kröfuhafa um fjárhagslega endurskipulagningu.77

30.7.3 Samkomulag um fjárhagslega endurskipulagningu

Sparisjóður Vestmannaeyja sendi Seðlabanka Íslands aðgerðaáætlun vegna fjárhagslegrar endurskipulagningar 17. febrúar 2010. Í áætluninni var gert ráð fyrir að eigendur víkjandi lána og skuldabréfa á hendur sparisjóðnum tækju þátt í endurskipulagningunni. Þeir myndu, ásamt Seðlabanka Íslands, breyta hluta krafna sinna í stofnfé eða fá kröfur sínar staðgreiddar gegn niðurfærslu.78 Seðlabanki Íslands samþykkti tilboð Sparisjóðs Vestmannaeyja 2. mars 2010, en endanlegur frágangur samnings skyldi bíða samþykkis annarra kröfuhafa og Fjármálaeftirlitsins.79 Þá voru áform ríkisins og Seðlabanka Íslands um fjárhagslega endurskipulagningu sparisjóðanna einnig háð samþykki Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA), sem samþykkti svo áformin 21. júní 2010.80

Á stofnfjáreigendafundi 21. júní 2010 kom fram að þrátt fyrir að markmið stjórnar sparisjóðsins hefði verið að verja stofnfé sjóðsins, þá myndi það þurfa að sæta verulegri niðurfærslu að kröfu Seðlabankans. Var lagt til að lækka stofnfé úr 357 milljónum króna í 100 milljónir sem var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum nema einu. Þá voru samþykktar tillögur um stofnfjáraukningu í samræmi við endurskipulagningaráætlun sparisjóðsins og nauðsynlegar breytingar á samþykktum sparisjóðsins.

Ekki var hægt að ljúka fjárhagslegri endurskipulagningu sparisjóðsins í júní 2010. Í kjölfar dóma Hæstaréttar 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010, varðandi lögmæti lánsskuldbindinga í íslenskum krónum tengdum gengi erlendra gjaldmiðla, sendu Fjármálaeftirlitið og Seðlabanki Íslands fjármálafyrirtækjum tilmæli 30. júní 2010 vegna óskuldbindandi gengistryggingarákvæða. Í kjölfarið var fjármálafyrirtækjum gert að endurmeta eiginfjárþörf sína í ljósi aðstæðna og tryggja að eigið fé yrði nægilegt til þess að mæta hugsanlegri rýrnun eigna umfram það sem endurreikningur hefði í för með sér.81 Undirritun samninga um fjárhagslega endurskipulagningu var frestað vegna þeirrar óvissu sem dómar Hæstaréttar ollu.82

Í bréfi sparisjóðsins til Seðlabankans 4. nóvember 2010 kom fram að sparisjóðurinn hefði reiknað möguleg áhrif dóma Hæstaréttar og væri niðurstaðan sú að þörf væri á viðbótarniðurfærslu útlána upp á 275 milljónir króna. Þá var það mat stjórnar sparisjóðsins að auka þyrfti niðurfærslu enn frekar um 125 milljónir króna til að mæta annarri áhættu í eignasafninu. Áhrif þessara niðurfærslna yrðu þau að sparisjóðurinn myndi ekki uppfylla kröfu Fjármálaeftirlitsins um 16% eiginfjárhlutfall eftir fjárhagslega endurskipulagningu. Því væri þörf á að endurskoða fyrri áætlun sparisjóðsins. Sparisjóðsstjóri skýrði svo frá:

Okkur gramdist svolítið í þessu að Seðlabankinn kallaði okkur bara að borðinu, fór yfir þessa hluti og samþykkti og synjaði og kom með nýja uppstillingu og sagði okkur svo að tala við aðra kröfuhafa. Við vildum og sögðum alltaf […] að Seðlabankinn hlyti að vera að verja kröfur ríkissjóðs, bara eins og aðrir sem kæmu að svona fjárhagslegri endurskipulagningu og að þetta væri bara nauðasamningur. En Seðlabankinn var aldrei tilbúinn til þess að taka þátt í slíkum fundi með öðrum kröfuhöfum […].83

Sparisjóður Vestmannaeyja lagði fram uppfærða aðgerðaáætlun vegna fjárhagslegrar endurskipulagningar 29. nóvember 2010 og á grundvelli hennar var gengið frá samkomulagi við Seðlabanka Íslands og aðra kröfuhafa. Uppfærð aðgerðaáætlun fól í sér nokkra breytingu frá fyrri áætlun. Valkostir eigenda víkjandi lána voru annars vegar að færa lánin niður um 50% og breyta eftirstöðvum í stofnfé og hins vegar að færa lánin niður um 70% og fá eftirstöðvar staðgreiddar. Eigendur skuldabréfa gátu valið að færa lánin niður um 60%, og eftirstöðvar yrðu staðgreiddar, eða að færa lánin niður um 35,5%, breyta 25% í stofnfé, breyta 14% í víkjandi lán og skyldu eftirstöðvar þá greiddar á gjalddögum bréfanna.

Fjármálaeftirlitið endurnýjaði samþykki sitt fyrir fjárhagslegri endurskipulagningu 3. desember 2010 þar sem fram kom að Fjármálaeftirlitið hefði móttekið útreikninga sparisjóðsins á mögulegum áhrifum dóma Hæstaréttar á eiginfjár- og áhættugrunn sjóðsins, sem og staðfestingu Deloitte hf. á að lánasamningar hafi verið flokkaðir og útreikningar gerðir í samræmi við fyrirmæli Fjármálaeftirlitsins.

Sparisjóður Vestmannaeyja og Seðlabanki Íslands undirrituðu samkomulag um fjárhagslega endurskipulagningu 10. desember 2010 sem kom í stað eiginfjárframlags úr ríkissjóði og tók til krafna samkvæmt „Rammasamningi um lánsheimild milli Sparisjóðs Vestmannaeyja og Sparisjóðabanka Íslands hf.“ frá 18. apríl 2005 og skammtímalána í erlendri mynt. Kröfurnar voru allar í erlendum myntum og höfðu verið framseldar Seðlabanka Íslands samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 21. mars 2009. Á framsalsdegi námu kröfurnar annars vegar 2.016 milljónum króna og hins vegar 135 milljónum króna. Uppgjörið fól í sér að sparisjóðurinn greiddi 555 milljónir króna með 55,3% stofnfjár eftir fjárhagslega endurskipulagningu. Með nýju, víkjandi láni í erlendum myntum skyldi greiða 310 milljónir króna84 en afskrifaðar yrðu 786,5 milljónir króna. Eftirstöðvarnar, 564 milljónir króna, skyldi greiða með nýju láni í erlendum myntum til fimm ára.85

Í samkomulaginu var gerður áskilnaður um samþykki annarra kröfuhafa fyrir uppgjörinu auk þess sem sparisjóðurinn myndi draga til baka umsókn sína um eiginfjárframlag úr ríkissjóði. Stjórn sparisjóðsins hafði þegar fengið samþykki annarra kröfuhafa, auk þess sem stjórnin samþykkti að falla frá umsókn um eiginfjárframlag úr ríkissjóði.86

Að lokinni fjárhagslegri endurskipulagningu átti Seðlabanki Íslands 55,3% stofnfjár, eldri stofnfjárhafar áttu 9,96% og nýir stofnfjárhafar 34,8%.87 Gert var ráð fyrir að heildar eigið fé sparisjóðsins yrði 1.080 milljónir króna og að eiginfjárhlutfallið yrði 16,76%.

Hagnaður af rekstri Sparisjóðs Vestmannaeyja á árinu 2010 nam 858,2 milljónum króna. Höfðu þá verið tekjufærðar 1.453,5 milljónir króna vegna fjárhagslegrar endurskipulagningar. Bókfært eigið fé í árslok nam 1.057 milljónum króna og var eiginfjárhlutfallið 16,6%.88 Tap af rekstri Sparisjóðs Vestmannaeyja á árinu 2011 nam 165,5 milljónum króna, bókfært eigið fé í árslok 2011 nam 891 milljón króna og var eiginfjárhlutfallið orðið 13,9% og því undir 16% lágmarkinu sem Fjármálaeftirlitið hafði sett sparisjóðnum í tengslum við fjárhagslega endurskipulagningu hans.89

Sparisjóður Vestmannaeyja krafðist síðar leiðréttingar á uppgjörinu sem gert var í desember 2010 með vísan til þess að skuld hans samkvæmt rammasamningi við Sparisjóðabanka Íslands hf. hafi verið með ólögmætum hætti tengd við gengi erlendra gjaldmiðla. Skrifað var undir samkomulag við Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf.90 18. mars 2013 um endurreikning á gengistryggðu láni sem fól í sér að höfuðstóll lána í erlendum myntum yrði lækkaður. Nam lækkunin 330 milljónum króna og hafði þau áhrif að eiginfjárhlutfall sparisjóðsins fór í 17,4%.91

30.8 Arður af stofnfjáreign

Á árunum 2001 til 2008 námu arðgreiðslur Sparisjóðs Vestmannaeyja vegna næstliðinna ára samtals tæpum 51,8 milljónum króna, þar af voru 49,5 milljónir króna greiddar vegna ársins 2007. Greiðsla arðs á þessum árum var nokkurn veginn í samræmi við reglur Tryggingasjóðs sparisjóða, stundum lítillega yfir leyfilegu hámarki, svo sem vegna ársins 2005, en stundum var greiddur minni arður en heimilt var samkvæmt reglum.92 Vegna ársins 2007 hefði til dæmis verið heimilt að greiða 27,6 milljónum króna hærri arð. Reglur Tryggingasjóðs giltu til ársins 2009 þegar lögum var breytt og eftir það mátti greiða út arð sem næmi að hámarki 50% af hagnaði.93

Í lögum um fjármálafyrirtæki var heimild til að endurmeta stofnfé sparisjóðs og greiða inn á stofnfjárreikninga stofnfjáreigenda og skyldi höfð hliðsjón af verðlagsbreytingum við endurmatið.94 Frá 2005 til 2007 var stofnfé Sparisjóðs Vestmannaeyja hækkað með endurmati vegna verðlagsbreytinga um 390 þúsund krónur. Framkvæmdin var í samræmi við reglur og var stofnfé þá hækkað sem nam verðbólgu þessara ára. Stofnfé var ekki verðbætt eftir 2007.

Í sömu lögum var jafnframt heimild til þess að ráðstafa 10% af hagnaði næstliðins rekstrarárs til hækkunar stofnfjár með svokölluðu sérstöku endurmati. Hækkunin mátti þó ekki vera meiri en 5% á ári og ekki mátti flytja heimild til þessa endurmats milli ára. Á aðalfundum sparisjóðsins 2006–2008 var samþykkt að hækka stofnfé í lok næstliðins árs um 5%. Samþykkt var að nýta heimild til sérstaks endurmats um 5% vegna ársins 2007. Miðað við stofnfé í árslok virðist hækkunin aðeins hafa verið um 0,9%, eða 3,2 milljónir króna. Ástæðan fyrir því var sú að endurmat stofnfjár tók mið af því hvenær það var innborgað á árinu, en stofnfjáraukningin var undir lok ársins. Sérstakt endurmat stofnfjár var ekki viðhaft vegna 2008 því tap var þá af rekstrinum.

Í töflu 25 eru tilfærðar þær upplýsingar sem útreikningur á arði og endurmati byggist á. Hafa verður í huga að arðurinn og sérstaka endurmatið eru höfð undir því ári sem þau eru útreiknuð. Arðurinn var hins vegar greiddur út ári síðar og sérstaka endurmatið bættist þá við stofnféð. Ástæða þess er sú að tillaga stjórnar um hvort tveggja þurfti að hljóta samþykki aðalfundar til þess að koma til framkvæmdar. Þannig sjást viðkomandi fjárhæðir ekki fyrr en í ársreikningi næsta árs.

30.9 Innra eftirlit

Við skoðun á innra eftirliti sparisjóðanna var leitast við að kanna hvernig fyrirkomulagi þess var háttað og hvort veikleikar hafi verið í eftirlitskerfum sparisjóðanna. Almenna umfjöllun um innra eftirlit, hlutverk stjórnar, innri endurskoðun og áhættustýringu er að finna í 6. kafla, en eftirfarandi umfjöllun lýtur að virkni þessara þátta í starfsemi Sparisjóðs Vestmannaeyja og áhrif þeirra á rekstur sparisjóðsins. Áhersla var lögð á tímabilið frá 2005 til 2011.

30.9.1 Innri endurskoðun

Sparisjóður Vestmannaeyja starfrækti ekki eigin endurskoðunardeild á því tímabili sem til skoðunar var, en Fjármálaeftirlitið veitti sparisjóðnum undanþágu frá rekstri eigin innri endurskoðunardeildar í kjölfar þess að sparisjóðurinn gerði samning um innri endurskoðun við Deloitte hf. árið 2004. Annaðist Deloitte hf. innri endurskoðun sparisjóðsins til ársins 2010, en þá var lögfest krafa um aðskilnað innri og ytri endurskoðenda.95 Í kjölfarið gerði sparisjóðurinn samning við PricewaterhouseCoopers ehf. um innri endurskoðun frá og með starfsárinu 2011.

Í skýrslum Deloitte um innri endurskoðun vegna áranna 2005–2010 má sjá margar sömu athugasemdir og ábendingar ár eftir ár. Í skýrslu vegna ársins 2008 sagði:

Það gildir um margar af okkar ábendingum undanfarin ár að ekki hefur verið brugðist við þeim af hálfu sparisjóðsins með úrbótum og höfum við ítrekað endurtekið ábendingar okkar í árlegum skýrslum okkar.

Í skýrslu innri endurskoðanda vegna ársins 2005 kom fram að skortur væri á reglubundnum afstemmingum í bókhaldi og var talið brýnt að sparisjóðurinn setti sér reglur um afstemmingar, varðveislu gagna og talningar eigna.96 Sambærilegar athugasemdir komu fram í skýrslum innri endurskoðanda vegna áranna 200697 og 2007.98

Í skýrslu innri endurskoðanda vegna ársins 2005 var gerð athugasemd við að ekki hafi verið settar tilteknar reglur sem gert væri ráð fyrir í lögum eða reglum stjórnar sem gilda um fjármálastofnanir, en það voru reglur um viðskipti sparisjóðsins og starfsmanna hans við fjármálafyrirtæki, reglur um meðferð trúnaðarupplýsinga, reglur um regluvörð og reglur stjórnar sparisjóðsins um áhættustýringu. Sambærilegar athugasemdir voru gerðar í skýrslum innri endurskoðanda vegna áranna 2006 og 2007. Jafnframt taldi Deloitte æskilegt að settar yrðu skriflegar verklagsreglur um tryggingar að baki útlánum og ábyrgðum, meðferð vanskila- og innheimtumála, reglur um eigin viðskipti starfsmanna og siðareglur. Þessi ábending var ítrekuð í skýrslum innri endurskoðanda vegna áranna 2005, 2006 og 2007.

Við innri endurskoðun vegna ársins 2005 var gerð athugasemd við að nær allir starfsmenn sparisjóðsins hefðu aðgang að fjárhagsbókhaldi og bent á að gæta yrði að starfaaðgreiningu. Mikilvægt var talið að gerðar yrðu starfslýsingar sem tækju meðal annars á ábyrgð og heimildum einstakra starfsmanna og að gerðir yrðu ráðningarsamningar við starfsmenn. Sama athugasemd var gerð vegna innri endurskoðunar vegna áranna 2006 og 2007, en þó hafði eftirlit verið bætt til að bregðast við veikleikum í aðgreiningu starfa.99 Sambærilegar ábendingar komu einnig fram í skýrslum innri endurskoðanda vegna áranna 2008, 2009 og 2010.

Í skýrslu innri endurskoðanda vegna ársins 2005 var gerð athugasemd við að skýrslum til opinberra aðila væri ekki skilað á réttum tíma og að ekki hafi verið haldinn listi yfir venslaða aðila í samræmi við leiðbeinandi tilmæli Fjármálaeftirlitsins og voru sömu athugasemdir gerðar ári síðar. Í skýrslu innri endurskoðanda vegna áranna 2008 til 2010 voru á ný gerðar athugasemdir við skýrsluskil til Fjármálaeftirlitsins.

Við innri endurskoðun vegna ársins 2005 kom í ljós að ekki var í öllum tilvikum farið eftir útlánaheimildum útlánareglna sparisjóðsins og að tryggingar væru ekki fullnægjandi. Innri endurskoðandi taldi að of lítið af vanskilum væri í lögfræðiinnheimtu og að skortur væri á verklagsreglum um meðferð vanskila og innheimtumála. Svipaðar niðurstöður voru í skýrslu innri endurskoðanda vegna ársins 2006. Frá og með árinu 2007 framkvæmdi forstöðumaður reikningshalds og innra eftirlits kannanir á útlánum og vanskilum. Innri endurskoðun yfirfór vinnu hans og gerði áfram athugasemdir við tryggingar og innheimtu vanskilamála og enn aftur voru gerðar sömu athugasemdir við innri endurskoðun ársins 2008. Í skýrslum um innri endurskoðun vegna áranna 2009 og 2010 eru ítrekaðar ábendingar um að efla þyrfti eftirlit með vanskilum og að fara þyrfti eftir reglum um meðferð vanskila og innheimtu en það hefði ekki alltaf verið gert.

Endurskoðunarnefnd var sett á stofn hjá Sparisjóði Vestmannaeyja í júní 2009. Nefndin var skipuð einum stjórnarmanni, sem jafnframt var skipaður formaður nefndarinnar, og tveimur utanaðkomandi nefndarmönnum. Nefndin lagði starfsreglur sínar fyrir stjórn og voru þær samþykktar í desember 2009. Starfsreglurnar tóku til hlutverks og ábyrgðar nefndarinnar, heimilda hennar, skipulags, fundarstarfa og mats á störfum. Í apríl 2011 urðu breytingar á nefndinni þegar nýr utanaðkomandi aðili kom inn í nefndina. Nefndin var því áfram skipuð einum stjórnarmanni og tveimur utanaðkomandi aðilum. Annar þessara utanaðkomandi aðila tók við formennsku í nefndinni.

Áhættustýring sparisjóðsins á árunum 2005 og 2006 var óformleg. Árlega voru sett fjárhagsleg markmið, meðal annars um eiginfjárhlutfall, útlánaaukningu, afskriftaframlög og arðsemi. Fylgst var með helstu áhættuþáttum, svo sem fastvaxtaáhættu, verðtryggingaráhættu og útlánaáhættu og skýrslum skilað til Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands. Í skýrslu innri endurskoðanda vegna ársins 2005 var bent á að mat sparisjóðsstjóra á helstu áhættuþáttum ætti að vera formlegra og áhættumælingar markvissari og skriflegar. Sama athugasemd var gerð í skýrslu um innri endurskoðun vegna ársins 2006 og bent á að nauðsynlegt væri að huga að kröfum Basel II-reglna um áhættustýringu. Samkvæmt þeim þurfti áhættumat að vera formlegt, sérstakar reglur að vera til um áhættumarkmið og skilgreina átti stefnu sem framfylgja ætti til að ná þeim markmiðum. Þá var gerð krafa um að starfrækt skyldi sérstök starfseining um áhættustýringu.

Í skýrslu um innri endurskoðun vegna ársins 2007 kom fram að lítið hefði breyst í áhættustýringu sparisjóðsins frá árinu áður og var áhættustýring sparisjóðsins enn sögð óformleg. Þó var hafinn undirbúningur að gerð áhættuhandbókar sem ætlað var að draga fram þá áhættuþætti sem snertu daglega starfsemi sparisjóðsins og gera starfsmenn meðvitaða um áhættu og áhættuvarnir. Enn var það niðurstaða innri endurskoðanda vegna ársins 2008 að lítið hefði breyst og að áhættustýring sparisjóðsins væri óformleg og ekki hefðu verið skjalfest markmið um áhættur eða ákveðin mörk áhættutöku, fyrir utan það sem fram kom í lögum og reglum. Áhættuhandbókin var enn í drögum.100 Samkvæmt reglum um framkvæmd starfa sparisjóðsstjóra og sparisjóðsstjórnar átti að leggja fyrir skýrslu um rekstraráhættu og markaðsáhættu að minnsta kosti á þriggja mánaða fresti og taldi ábyrgðarmaður áhættustýringar að með því að stjórn færi yfir uppgjör ársfjórðungslega væri hún að yfirfara rekstrar- og markaðsáhættu. Innri endurskoðun taldi það ekki vera í samræmi við reglurnar og taldi að leggja ætti fram sérstakar skýrslur um rekstraráhættu, þar sem fram kæmu meðal annars niðurstöður úr mælingum og stýringu á rekstraráhættu auk þess sem umfjöllun um markaðsáhættu ætti að fela í sér niðurstöður um hvort viðmiðunarmörk væru haldin og fylgni væri við stefnu stjórnar.101

Á árinu 2009 var unnið að innleiðingu reglna um framkvæmd áhættustýringar.102 Við könnun innri endurskoðanda vegna ársins 2009 lá ekki fyrir skrifleg skýrsla um áhættustýringu sparisjóðsins og var gerð athugasemd við það auk þess sem innri endurskoðandi ítrekaði ábendingu sína frá fyrra ári um að leggja fyrir stjórn sérstakar skýrslur um rekstraráhættu og markaðsáhættu í samræmi við reglur sparisjóðsins. Árið 2010 var unnið eftir reglum um framkvæmd áhættustýringar. Skýrslur um áhættustýringu voru lagðar fyrir stjórn ársfjórðungslega frá og með árinu 2010 en að mati innri endurskoðanda kom ekki nægilega skýrt fram í skýrslunum hvort viðmið væru haldin eða ekki. Ekki væri greint frá því til hvaða aðgerða áhættustýring hygðist grípa ef viðmið væru ekki haldin. Á árinu 2010 var vinna við greiningu, mat og eftirlit á rekstraráhættu ekki hafin og var engin skýrslugjöf til stjórnar um rekstraráhættu. Þá taldi innri endurskoðandi vanta ársfjórðungslega skýrslu um vaxtaáhættu og vaxtamun. Innri endurskoðun gagnrýndi ennfremur að ekki væri að finna í fundargerðum stjórnar umfjöllun um áhættuskýrslu stjórnar.103

Nýir innri endurskoðendur framkvæmdu úttekt á áhættustýringu ársins 2011. Í skýrslu þeirra var bent á að endurskoða þyrfti áhættustýringarreglur sparisjóðsins og einfalda þær og aðlaga betur að rekstri sjóðsins. Þá var lagt til að skipulag áhættustýringar yrði formlegra og skýrslugjöf ítarlegri hvað varðar frávik frá viðmiðum og hvernig brugðist skyldi við þeim og var það í samræmi við niðurstöður fyrri innri endurskoðanda.104

 


 

1 . Sparisjóður Vestmannaeyja 50 ára – 1942–1992, Vestmannaeyjum 1992, bls. 9–10.

2 . Sparisjóður Vestmannaeyja 50 ára – 1942–1992, Vestmannaeyjum 1992, bls. 12–13.

3 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til Sparisjóðs Vestmannaeyja 18. janúar 2007; ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 26/2007 um samruna Sparisjóðs Vestmannaeyja og Sparisjóðs Hornafjarðar, 15. september 2006. Fjallað er nánar um þessa aðkomu Sparisjóðs Vestmannaeyja að Sparisjóði Hornafjarðar í 5. kafla.

4 . Fjallað er um meðhöndlun ársreikninga og reikningsskilareglur í 8. kafla.

5 . Skýrsla Deloitte hf. um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðs Vestmannaeyja 2007, 18. mars 2008.

6 . Skýringin liggur í því að fjöldi stöðugilda miðast við árslok en kostnaður sjóðanna var sameinaður á miðju árinu.

7 . Um launaþróun sparisjóðanna í heild er fjallað í 8. kafla, um reikningsskil sparisjóðanna. Þar má jafnframt lesa almennt um risnu og fríðindi starfsmanna sparisjóðanna.

8 . Útreikningur á kjarnarekstri er skýrður nánar í 8. kafla.

9 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Vestmannaeyja, 27. október 2008.

10 . Tölvuskeyti Sparisjóðs Vestmannaeyja til rannsóknarnefndarinnar 27. ágúst 2013.

11 . Sjá nánari umfjöllun um samninginn í 11. kafla, um fjármögnun sparisjóðanna.

12 . Upplýsingar úr innsendum COREP-skýrslum sparisjóðsins til Fjármálaeftirlitsins.

13 . „Ágrip af sögu Sparisjóðs Hornafjarðar og nágrennis“, vefsafn.is, http://wayback.vefsafn.is/wayback/20041122000000/http://sphorn.is/saga.asp.

14 . Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um athugun hjá Sparisjóði Hornafjarðar og nágrennis 8. febrúar 2003.

15 . Skýrsla KPMG hf. um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðs Hornafjarðar og nágrennis 2001, 19. febrúar 2002.

16 . Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um athugun hjá Sparisjóði Hornafjarðar og nágrennis 8. febrúar 2003.

17 . Nánari umfjöllun um þetta er að finna í 5. kafla, um samstarf sparisjóðanna.

18 . Skýrsla KPMG hf. um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðs Hornafjarðar og nágrennis 2003, 18. mars 2004.

19 . Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um athugun hjá Sparisjóði Hornafjarðar og nágrennis, 28. september 2005.

20 . Skýrslur sparisjóðsins til Fjármálaeftirlitsins um útlán og vanskil. Staða útlána á þriðja ársfjórðungi 2008 miðast við 31. október 2008.

21 . Skýrsla Deloitte hf. um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðs Vestmannaeyja 2006, 9. mars 2007.

22 . Í tölvuskeyti Hafsteins Gunnarssonar, forstöðumanns reikningshalds og innra eftirlits Sparisjóðs Vestmannaeyja, til rannsóknarnefndarinnar 29. október 2013 upplýsti hann að reglurnar frá 8. júlí 2005 væru ekki til undirritaðar hjá sparisjóðnum, en hann taldi víst að þeim hefði engu að síður verið fylgt og taldar vera í gildi fram til þess að þær voru uppfærðar á árinu 2006.

23 . Í reglunum kom fram að „eigið fé“ ætti við um „eiginfjárgrunn“ eins og hann var skilgreindur í 84. og 85. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.

24 . Nánari umfjöllun um þetta misræmi er í 9. kafla, um útlán sparisjóðanna.

25 . Sjá nánari umfjöllun í 6. og 9. kafla.

26 . Skýrsla Hafsteins Gunnarssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 15. ágúst 2012.

27 . Skýrsla Ólafs Elíssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 13. ágúst 2012.

28 . Skýrsla Ólafs Elíssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 13. ágúst 2012.

29 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Vestmannaeyja, 2. júlí 2008.

30 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Vestmannaeyja, 30. júlí 2008.

31 . Skýrsla Ólafs Elíssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 13. ágúst 2012.

32 . Ársreikningur Bestfisks ehf. 2007.

33 . Samkvæmt hlutafjármiðum sem skilað er til ríkisskattstjóra.

34 . Sparisjóður Hornafjarðar og nágrennis sameinaðist Sparisjóði Vestmannaeyja 30. júní 2006 en samruninn var ekki samþykktur af Samkeppniseftirlitinu fyrr en 25. júní 2007.

35 . Mögulegt er að ekki hafi öll útlán komið fram í útlánagrunni sparisjóðsins og eru upplýsingarnar því settar fram með þeim fyrirvara.

36 . Um það hverjir töldust til minni sparisjóða og hverjir til hinna stærri vísast til taflna 5,9 og 10 í 8. kafla skýrslunnar.

37 . Fundargerð hluthafafundar Icebank hf., 17. október 2008.

38 . Skýrsla Ólafs Elíssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 13. ágúst 2012.

39 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Vestmannaeyja, 24. mars 2007.

40 . Skýrsla Ólafs Elíssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 13. ágúst 2012.

41 . Sjá nánari útskýringu í upphafi 11. kafla, um fjármögnun sparisjóðanna.

42 . Atvinnugreinaflokkun innlána sparisjóðsins sem skilað var mánaðarlega til Seðlabanka Íslands frá júlí 2007 til desember 2011.

43 . Lausafjáryfirlit Sparisjóðs Vestmannaeyja, sem skilað var mánaðarlega til Seðlabanka Íslands frá janúar 2005 til desember 2011.

44 . Tölvuskeyti Sparisjóðs Vestmannaeyja til rannsóknarnefndarinnar 27. ágúst 2013.

45 . Skýrsla Hafsteins Gunnarssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 15. ágúst 2012.

46 . Samningar um endurskipulagningu skulda Sparisjóðs Vestmannaeyja, samantekt fjármálasviðs Seðlabanka Íslands, 23. desember 2010.

47 . Stofnfjáreigendalistar Sparisjóðs Vestmannaeyja, 2001–2010.

48 . Stofnfjáreigendafundur Sparisjóðs Vestmannaeyja, 9. október 2007.

49 . Heimild til að lækka stofnfé kom inn í lög nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki árið 2009 með lögum nr. 76/2009. Áður var slíkt ekki mögulegt fyrir sparisjóði. Sjá nánar um lækkun stofnfjár í 12. kafla.

50 . Stofnfjáreigendafundur Sparisjóðs Vestmannaeyja, 9. október 2007.

51 . Skýrsla Þórs Ísfeld Vilhjálmssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 13. ágúst 2012.

52 . Á grundvelli 50. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti var hægt að fá heimild til undanþágu frá útboðslýsingu ef verðbréf voru boðin færri en hundrað aðilum til kaups. Stofnfjáraðilar voru á þessum tíma 70 talsins.

53 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Vestmannaeyja, 10. október 2007; fundargerð stjórnar Sparisjóðs Vestmannaeyja, 1. nóvember 2007; stofnfjáreigendalistar Sparisjóðs Vestmannaeyja, 2001–2010.

54 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Vestmannaeyja, 18. desember 2007.

55 . Stofnfjáreigendalistar Sparisjóðs Vestmannaeyja, 2001–2010.

56 . Skýrsla Helga Bragasonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 14. ágúst 2012.

57 . Samkvæmt hlutafjármiðum sem skilað er til ríkisskattstjóra.

58 . Stofnfjáreigendalistar Sparisjóðs Vestmannaeyja, 2001–2010.

59 . Skýrsla Þórs Ísfeld Vilhjálmssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 13. ágúst 2012.

60 . Á fundi stofnfjáreigenda í október 2007 var samþykkt stofnfjáraukning upp á 350 milljónir króna, og var stofnféð greitt í desember 2007.

61 . Minnisblað Sparisjóðs Vestmannaeyja lagt fram á fundi með Fjármálaeftirlitinu, 17. október 2008.

62 . Umsókn Sparisjóðs Vestmannaeyja um eiginfjárframlag úr ríkissjóði, 12. mars 2009.

63 . Í athugasemd Ólafs Elíssonar sparisjóðsstjóra til rannsóknarnefndarinnar 28. október 2013 benti hann á að ástæða þess að gerð var varakrafa hefði verið sú að sparisjóðurinn hefði metið eignarhluti sína í öðrum fjármálafyrirtækjum varlega og lægra í bókum sínum en aðrir sparisjóðir. Því var það lagt í hendur ríkisins að meta hvor fjárhæðin ætti við, en sparisjóðurinn vildi þá sitja við sama borð og aðrir í þeim efnum.

64 . Samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2008 var 1.457 milljóna króna tap af rekstri sjóðsins árið 2008, bókfært eigið fé í árslok var 361,3 milljónir króna og eiginfjárhlutfallið 3,83%.

65 . Umsögn Deloitte hf. um fjárhagslega stöðu sparisjóðsins, sbr. 11. gr. samþykkta sparisjóðsins ásamt drögum að ársreikningi 2008, 26. febrúar 2009.

66 . Umsókn Sparisjóðs Vestmannaeyja um eiginfjárframlag úr ríkissjóði, 12. mars 2009.

67 . Tölvuskeyti Ólafs Elíssonar til Egils Tryggvasonar 22. maí 2009.

68 . Bréf fjármálaráðuneytisins til Seðlabanka Íslands 17. mars 2009.

69 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til fjármálaráðuneytisins 16. apríl 2009.

70 . Bréf Seðlabanka Íslands til fjármálaráðuneytisins 21. apríl 2009. Nánar er fjallað um umsögn Seðlabankans um umsóknir sparisjóðanna í 13. kafla.

71 . Skýrsla PricewaterhouseCoopers vegna könnunar á afmörkuðum þáttum í efnahag og starfsemi Sparisjóðs Vestmannaeyja, 9. júní 2009.

72 . Skýrsla PricewaterhouseCoopers vegna könnunar á afmörkuðum þáttum í efnahag og starfsemi Sparisjóðs Vestmannaeyja, 9. júní 2009.

73 . Bréf Seðlabanka Íslands til sparisjóða 8. september 2009.

74 . Minnisblað Seðlabanka Íslands um vinnu með kröfur Seðlabanka Íslands á hendur sparisjóðunum, 21. ágúst 2009.

75 . Ákvörðun bankastjóra Seðlabanka Íslands nr. 1028, 1. febrúar 2010. Um tilboð Seðlabanka Íslands, kjör hans og skilmála má lesa í 13. kafla.

76 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til sparisjóða 8. febrúar 2010. Frekari umfjöllun um kröfur Fjármálaeftirlitsins er í 13. kafla.

77 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til Sparisjóðs Vestmannaeyja 7. apríl 2010.

78 . Sparisjóður Vestmannaeyja – Aðgerðaráætlun vegna fjárhagslegrar endurskipulagningar, 17. febrúar 2010.

79 . Bréf Seðlabanka Íslands til Sparisjóðs Vestmannaeyja 2. mars 2010; fundargerð stjórnar Sparisjóðs Vestmannaeyja, 16. mars 2010.

80 . Nánari umfjöllun um ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA er í 13. kafla.

81 . „Tilmæli Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands til fjármálafyrirtækja vegna óskuldbindandi gengistryggingarákvæða“, fme.is, http://www.fme.is/utgefid-efni/frettir-og-tilkynningar/frettir/nr/650. Nánari umfjöllun er að finna í 13. kafla.

82 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Vestmannaeyja, 1. júlí 2010.

83 . Skýrsla Ólafs Elíssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 13. ágúst 2012.

84 . Hlutföllin voru 60% í evrum, 30% í Bandaríkjadölum og 10% í sterlingspundum

85 . Samkomulag um fjárhagslega endurskipulagningu, 10. desember 2010. Lánið skyldi vera í sömu hlutföllum erlendra mynta og víkjandi lánið.

86 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Vestmannaeyja, 21. desember 2010.

87 . Nýir stofnfjárhafar voru Lífeyrissjóður Vestmannaeyja, Vestmannaeyjabær, Vinnslustöðin auk eigenda skuldabréfa og víkjandi lána sem höfðu samþykkt að breyta kröfum sínum í stofnfé.

88 . Ársreikningur Sparisjóðs Vestmannaeyja 2010.

89 . Ársreikningur Sparisjóðs Vestmannaeyja 2011.

90 . Með samningi milli Seðlabanka Íslands og Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf. 28. desember 2010 tók Eignasafnið við réttindum og skyldum Seðlabankans samkvæmt samningi um fjárhagslega endurskipulagningu Sparisjóðs Vestmannaeyja.

91 . Ársreikningur Sparisjóðs Vestmannaeyja 2012; skýrsla Hauks C. Benediktssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 28. nóvember 2013.

92 . Gerð er grein fyrir reglum um greiðslu arðs í 12. kafla.

93 . Lögum um fjármálafyrirtæki var breytt með lögum nr. 76/2009. Sjá nánari umfjöllun í 12. kafla.

94 . Sjá nánari umfjöllun um stofnfé og heimildir til endurmats þess og útgreiðslu arðs í 12. kafla.

95 . Skýrsla Deloitte hf. um innri endurskoðun Sparisjóðs Vestmannaeyja 2010, 14. apríl 2011.

96 . Skýrsla Deloitte hf. um innri endurskoðun Sparisjóðs Vestmannaeyja 2005, janúar 2006.

97 . Skýrsla Deloitte hf. um innri endurskoðun Sparisjóðs Vestmannaeyja 2006, 16. apríl 2007.

98 . Skýrsla Deloitte hf. um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðs Vestmannaeyja 2007, 18. mars 2008.

99 . Skýrsla Deloitte hf. um innri endurskoðun Sparisjóðs Vestmannaeyja 2007, 12. mars 2008.

100 . Skýrsla Deloitte hf. um innri endurskoðun Sparisjóðs Vestmannaeyja 2008, 26. maí 2009.

101 . Skýrsla Deloitte hf. um innri endurskoðun Sparisjóðs Vestmannaeyja 2008, 26. maí 2009.

102 . Ekki kemur fram í stjórnarfundargerðum að umræddar reglur hafi verið samþykktar af stjórn sparisjóðsins, en í skýrslu innri endurskoðanda vegna ársins 2009 kemur fram að reglur sparisjóðsins um framkvæmd áhættustýringar hafi verið samþykktar af stjórn í ársbyrjun 2010.

103 . Skýrsla Deloitte hf. um innri endurskoðun Sparisjóðs Vestmannaeyja 2010, 14. apríl 2011.

104 . Skýrsla PricewaterhouseCoopers um innri endurskoðun Sparisjóðs Vestmannaeyja 2011, 19. mars 2012.