4. viðauki

Yfirlit yfir framlög ríkissjóðs til sjóða Húsnæðisstofnunar ríkisins 1975–1998

Um langt árabil lagði ríkissjóður verulega fjármuni til hinna opinberu húsnæðislánasjóða. Þróun þessara framlaga er sýnd í töflu 1.

Framlaga til Byggingarsjóðs ríkisins var til ársins 1981 aflað með 2% launaskatti. Framlög ríkisins til Byggingarsjóðs verkamanna voru mjög lág til ársins 1981 en þá jukust lánveitingar úr þeim sjóði verulega.

Miðað við raunvirði voru framlög til Byggingarsjóðs ríkisins talsvert mikil á árunum fyrir 1980, en lækkuðu talsvert á fyrri hluta níunda áratugarins. Á þeim tíma jukust hins vegar framlögin til Byggingarsjóðs verkamanna. Ríkisframlög til Byggingarsjóðs ríkisins náðu hámarki árin 1985 og 1986, ríflega 7 milljörðum króna á verðlagi ársins 2012, en fóru síðan lækkandi eftir það. Árið 1987 og næstu ár á eftir varð hins vegar veruleg aukning á fjárstreymi frá lífeyrissjóðunum til Byggingarsjóðs ríkisins. Eftir 1990 lauk hins vegar lánveitingum Byggingarsjóðs ríkisins að mestu þar sem Húsbréfadeild Húsnæðisstofnunar tók frá og með því ári við hlutverki sjóðsins sem lánveitandi almennra byggingarlána á vegum Húsnæðisstofnunar.

Árabilið 1981–1995 var framlag ríkissjóðs til Byggingarsjóðs verkamanna að meðaltali um 2 milljarðar króna á verðlagi ársins 2012, mest 2,3 og 2,6 milljarðar króna árin 1992 og 1993. Eftir 1995 dró hins vegar mjög úr framlögum ríkissjóðs til byggingarsjóðsins.

Allt tímabilið 1975–1998 námu framlög ríkissjóðs til byggingarsjóða Húsnæðisstofnunar samtals 94 milljörðum króna á verðlagi 2012. Af þessari fjárhæð runnu 60 milljarðar króna til Byggingarsjóðs ríkisins og 34 milljarðar króna til Byggingarsjóðs verkamanna.

Heimildaskrá

Ríkisendurskoðun (1990). Skýrsla ríkisendurskoðunar um fjárhagsstöðu Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna. Slóð: http://www.rikisend.is/fileadmin/media/skyrslur/skhusnl.pdf

Húsnæðisstofnun ríkisins. Ársskýrslur Húsnæðisstofnunar ríkisins 1975–1998.