5. kafli Stefna stjórnvalda um stærð og starfsemi íslenskra fjármálafyrirtækja
Efnisyfirlit
- 5.1 Inngangur
- 5.2 Stefnan eins og hún birtist í stefnuyfirlýsingum ríkisstjórna
- 5.3 Dæmi um viðhorf ráðherra sem birtust á opinberum vettvangi um starfsemi fjármálafyrirtækja árin 2003-2008
- 5.4 Viðhorf til umfangs og áherslu á starf eftirlitsstofnana gagnvart fjármálafyrirtækjum
- 5.5 Viðhorf til stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar frá 23. maí 2007 sem fram komu í skýrslutökum
- 5.6 Ísland sem miðstöð alþjóðlegrar fjármálastarfsemi?
- 5.7 Ályktanir rannsóknarnefndar Alþingis
5.1 Inngangur
Þegar orsakir og aðdragandi að falli íslensku bankanna 2008 eru rannsökuð skiptir máli hver hin yfirlýsta pólitíska stefna ríkisstjórnar var á hverjum tíma um stærð og starfsemi íslenskra fjármálafyrirtækja. Sú stefna hefur m.a. áhrif við samningu lagafrumvarpa og stjórnvaldsreglna. Hún hefur einnig áhrif á samhæfingu stjórnkerfisins og þar með þann takt sem annars vegar Stjórnarráð Íslands og hins vegar eftirlitsstofnanir ganga í. Loks vekur hún væntingar bæði hjá almenningi og einnig hjá fjármálafyrirtækjum um þá framtíðarsýn sem þau mega ganga út frá í stefnumótun sinni.
Hér á eftir verður stuttlega rakin stefna ríkisstjórna frá 23. apríl 1995 þegar stefnan var tekin á sölu ríkisbankanna fram til 23. maí 2007 en þá var samþykkt sú pólitíska stefnuyfirlýsing sem við lýði var þegar bankarnir féllu.
5.2 Stefnan eins og hún birtist í stefnuyfirlýsingum ríkisstjórna
Hin pólitíska stefnumörkun að selja viðskiptabanka og fjárfestingarlánasjóði í eigu ríkisins kom fram í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks frá 23. apríl 1995. Þar kemur fram að eitt af meginmarkmiðum ríkisstjórnarinnar sé eftirfarandi: "Að leggja fram áætlun á sviði einkavæðingar sem unnið [verði] að á kjörtímabilinu. Áhersla [verði] lögð á að breyta rekstrarformi ríkisviðskiptabanka og fjárfestingarlánasjóða. Það á einnig við um fyrirtæki og stofnanir í eigu ríkisins sem eru í samkeppni við einkaaðila. Unnið [verði] að sölu ríkisfyrirtækja á kjörtímabilinu í samræmi við ákvarðanir Alþingis." Vorið 1997 voru sett lög um stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands nr. 50/1997. Einnig voru sett lög um stofnun Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. nr. 60/1997 (FBA). Bankinn tók hinn 1. janúar 1998 við öllum eignum, skuldum og skuldbindingum Fiskveiðasjóðs Íslands, Iðnlánasjóðs, Útflutningslánasjóðs og Iðnþróunarsjóðs atvinnulífsins, sbr. 3. gr. laga nr. 60/1997. Hinn 28. ágúst 1998 samþykkti ríkisstjórnin stefnu um sölu hlutafjár í bönkunum þremur. Boðið var út nýtt hlutafé í Landsbankanum og Búnaðarbankanum sem nam 15% af heildarhlutafé bankanna. Þá voru seld 49% hlutafjár ríkissjóðs í FBA. Með lögum nr. 167/1998 um breytingu á lögum um stofnun Fjárfestingarbanka atvinnulífsins var ríkissjóði heimilað að selja allt hlutafé ríkissjóðs í FBA og var það gert í nóvember 1999.Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks frá 28. maí 1999 kemur fram að stjórnin stefni að því að halda áfram einkavæðingu ríkisfyrirtækja, einkum þeirra sem eru í samkeppni við fyrirtæki í eigu einkaaðila. Síðan segir: "Hlutabréf í ríkisbönkunum verði seld með það að markmiði að ná fram hagræðingu á fjármagnsmarkaði en tryggja um leið virka samkeppni á markaðnum til að ná fram ódýrari þjónustu.Við söluna verði þess gætt að ríkið fái hámarksverð fyrir eign sína í bönkunum." Með lögum nr. 93/1999, um breytingu á lögum nr. 50/1997, var heimilað að selja 15% af hlutafé ríkissjóðs í Landsbankanum og Búnaðarbankanum og var það gert í desember 1999. Lögunum var síðan breytt að nýju í maí 2001 með lögum nr. 70/2001 og heimilað að selja hlutafé ríkissjóðs í bönkunum tveimur. Í júní 2002 voru 20% hluta í Landsbankanum seld í gegnum viðskiptakerfi Verðbréfaþings Íslands en skilyrði var að enginn mætti kaupa meira en 4% af heildarhlutafé Landsbankans. Hinn 19. október 2002 seldi ríkið síðan Samson eignarhaldsfélagi ehf. 45,8% hlutabréfa í Landsbankanum og 15. nóvember sama ár var svonefndum S-hópi, sem samanstóð af Eglu ehf., Samvinnulífeyrissjóðnum, Vátryggingafélagi Íslands og Eignarhaldsfélagi Samvinnutrygginga, seldur 45,8% hlutur í Búnaðarbankanum. Þau hlutabréf sem ríkið átti enn í þessum bönkum voru seld í gegnum viðskiptakerfi Kauphallar Íslands í almennu útboði 25. febrúar 2003. Nánar er vikið að breytingum á eignarhaldi þessara banka í kafla 6.0.
Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks frá 23. maí 2003 bregður svo við að ekkert er vikið að bönkunum. Á hinn bóginn er sett fram eftirfarandi stefna varðandi lán Íbúðalánasjóðs: "Lánshlutfall almennra íbúðalána verði hækkað á kjörtímabilinu í áföngum í allt að 90% af verðgildi eigna, að ákveðnu hámarki." Einnig var sett það markmið að tryggja að jafnvægi og stöðugleiki ríki í efnahagsmálum þjóðarinnar. Eins og nánar er vikið að í kafla 4.0 gekk það eftir að lánshlutfall íbúðalána Íbúðalánasjóðs var hækkað eins og boðað hafði verið.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar frá 23. maí 2007 segir m.a.: "Eitt brýnasta verkefni nýrrar ríkisstjórnar er að tryggja stöðugleika í efnahagslífinu í þágu heimila og atvinnulífs. Markmið hagstjórnarinnar er að tryggja lága verðbólgu, lágt vaxtastig, betra jafnvægi í utanríkisviðskiptum, jafnan og öflugan hagvöxt og áframhaldandi trausta stöðu ríkissjóðs." Þá segir þar einnig: "Ríkisstjórnin vill skapa kjörskilyrði fyrir áframhaldandi vöxt, útflutning og útrás íslenskra fyrirtækja, m.a. með aðgerðum til að efla hátækniiðnað og starfsumhverfi sprotafyrirtækja, svo sem með eflingu Rannsóknasjóðs og Tækniþróunarsjóðs. Í umbreytingu íslensks atvinnulífs á undanförnum árum felst meðal annars aukið vægi ýmiss konar alþjóðlegrar þjónustustarfsemi, þar á meðal fjármálaþjónustu. Ríkisstjórnin stefnir að því að tryggja að slík starfsemi geti áfram vaxið hér á landi og sótt inn á ný svið í samkeppni við önnur markaðssvæði og að útrásarfyrirtæki sjái sér áfram hag í að hafa höfuðstöðvar á Íslandi. Áhersla verður lögð á að efla Fjármálaeftirlitið til þess að íslenski fjármálamarkaðurinn njóti fyllsta trausts."
5.3 Dæmi um viðhorf ráðherra sem birtust á opinberum vettvangi um starfsemi fjármálafyrirtækja árin 2003-2008
Hér að framan var lýst stefnu stjórnvalda eins og hún birtist í stefnuyfirlýsingum ríkisstjórna undanfarin ár. Stefna ríkisstjórnar birtist einnig í opinberum ræðum og greinum þeirra ráðherra sem eiga sæti í henni hverju sinni. Hér verður vikið að nokkrum dæmum um viðhorf ráðherra sem birtust á opinberum vettvangi.
Hinn 21. mars 2003 ávarpaði Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, ársfund Seðlabanka Íslands. Í ræðu sinni sagði Davíð m.a.: "Á undanförnum árum hefur efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar endurspeglað þá sannfæringu að frelsi í efnahagsmálum hlyti að vera grundvöllur efnahagslegrar velmegunar og forsenda þess að blómlegt og margbreytilegt mannlíf fengi að dafna á Íslandi. Það er í anda þessarar stefnu sem ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir því að ráðist var í að einkavæða viðskiptabankana. Eins og vonlegt er þá hefur sala bankanna tekið sinn tíma, til hennar var vandað eins og hægt var og ríkið fékk gott verð fyrir þessar eignir sínar. En mestu skiptir að nú hefur ríkisvaldið dregið sig algerlega út úr bankarekstri og er það mikið fagnaðarefni. Hlutverk ríkisins á fjármálamarkaði takmarkast við það að setja lög og reglur, að hafa eftirlit með að eftir þeim sé farið og að tryggja að samkeppni ríki á þessum mikilvæga markaði. Þetta er hin eðlilega skipan mála. [...] Öflugt og vel rekið bankakerfi er undirstaða alls atvinnulífs á Íslandi og útrás íslensku bankanna á erlenda markaði er ánægjulegur vitnisburður um þann kraft sem leystur hefur verið úr læðingi við það að færa bankana úr ríkiseigu í hendur einkaframtaksins."
Hinn 24. september 2002 ávarpaði Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, ráðstefnu Landsbanka Íslands um framtíðarhorfur efnahagsmála. Davíð sagði m.a.: "Dynamic financial markets are a precondition for the economy to be able to grow and flourish. Now that the end of state banking operations is in sight, further progress can be expected in these markets. Icelandic banking institutions have become increasingly dynamic and professional in recent years, and provide businesses and individuals with better services. Banks in Iceland are beginning to penetrate overseas markets and have established branches in many countries.This is a very positive trend. Not only does the small size of the Icelandic market make it important for banks to expand their market region; it is equally important that banking operations in other countries will deliver to Iceland the know-how and practices of the most skilled professionals in this field."
Hinn 23. mars 2004 flutti Davíð Oddsson ávarp á ársfundi Seðlabanka Íslands. Í ræðu sinni sagði Davíð m.a.: "Ég hef áður gert að umtalsefni og tekið undir þær viðvaranir og athugasemdir sem Seðlabankinn hefur sent viðskiptabönkunum. Nauðsynlegt er að stjórnendur viðskiptabankanna taki þær til alvarlegrar skoðunar. Aukning erlendra skulda þjóðarbúsins hefur verið það mikil að undanförnu, að ekki fær staðist til lengdar. [...] Opinn og frjáls fjármálamarkaður er forsenda fyrir góðu gangverki samfélagsins. Þeir, sem þar eru í forystu, eiga að vera framsæknir og djarfir en þeir verða líka að kunna sér hóf og gæta að langtímahagsmunum efnahagslífsins. Bankarnir eiga vissulega að sækjast eftir góðum hagnaði, en þeir geta ekki leyft sér að skara að sér skyndigróða á kostnað stöðugleikans í efnahagslífinu. Þeir eiga mest undir því sjálfir að stöðugleikinn sé varðveittur. Þýðingarmest er að stjórnendur bankanna sjái þetta sjálfir og ekki þurfi að koma til aðgerða Seðlabanka. En á hinn bóginn má enginn vafi ríkja um að Seðlabankinn tekur fast á málum ef ekki er farið að vinsamlegum tilmælum, sem hann sendir frá sér."
Hinn 30. mars 2005 flutti Halldór Ásgrímsson, þáverandi forsætisráðherra, ávarp á ársfundi Seðlabanka Íslands. Í ræðu sinni sagði Halldór m.a.: "Eitthvert augljósasta merki um jákvæða þróun íslenskra efnahagsmála er það sem kallað hefur verið útrás íslenskra fyrirtækja og fjárfesta á erlenda markaði. Það kann vel að vera að einhverjum finnist þetta undarlegt og spyrji hvernig það megi vera að þessi litla þjóð geti gert sig svo gildandi á erlendum mörkuðum sem raun ber vitni. Ég hef sjálfur lent í þeirri ánægjulegu stöðu að útskýra fyrir ýmsum erlendum aðilum að þar skipti að sjálfsögðu miklu máli það áræði, sá kraftur og það frumkvæði sem býr í íslenskum athafnamönnum. En einnig hitt að þær aðstæður sem hér hafa skapast á undanförnum árum hafa orðið til þess að íslenskt atvinnulíf hefur dafnað og blómstrað og í raun gert það að verkum að íslenski markaðurinn er í mörgum tilvikum orðinn of lítill fyrir þessa starfsemi."
Hinn 31. mars 2006 flutti Halldór Ásgrímsson ávarp á ársfundi Seðlabanka Íslands. Í ræðu sinni sagði Halldór m.a.: "Í ljósi þeirrar jákvæðu þróunar sem orðið hefur í íslensku efnahagslífi undanfarin misseri og þeirrar öflugu uppbyggingar sem átt hefur sér stað hefur verið sérkennilegt að fylgjast með þeirri neikvæðu og villandi umræðu sem birst hefur að undanförnu í nokkrum erlendum fjölmiðlum. Oftar en ekki hefur mátt rekja þessi skrif til óvandaðrar umfjöllunar greiningardeilda erlendra banka sem eru í beinni samkeppni við íslenska banka." Síðan sagði Halldór: "Það er auðvelt að hrekja slíkan villandi málflutning með því að leiða fram staðreyndir sem byggja á opinberum og alþjóðlegum hagtölum. Enda hafa öll matsfyrirtækin og OECD og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn staðfest sitt jákvæða mat á stöðu og horfum í íslensku efnahagslífi. Grundvöllur slíkra ákvarðana eru einmitt opinberar hagtölur og staðgóð þekking á íslensku efnahagslífi. Því miður virðist slíkri þekkingu og viðleitni ekki fyrir að fara hjá hluta þeirra sem hafa tekið sér það fyrir hendur að gefa sitt álit á íslensku efnahagslífi." Því næst sagði Halldór: "Ég verð að játa að slík umræða kemur mér ekki á óvart. Öll sókn og framþróun kallar á átök og allt sem gert er hefur sína kosti og galla. Kyrrstaða er að mínu mati aldrei kostur og sem betur fer ríkir ekkert logn í íslensku hagkerfi um þessar mundir. Í öllu þessu umróti er ríkari tilhneiging til að draga fram gallana og það neikvæða en kostina og hið jákvæða. Þrátt fyrir það verðum við að þola storminn og gera okkar ítrasta til að sannfæra aðra um að við getum haldið áfram á þeirri sóknarbraut sem einkennt hefur íslenskt efnahagslíf að undanförnu. Aðalatriðið er að við höfum sjálf trú á þessari stefnu. Ég hef aldrei efast um að íslenskt þjóðfélag væri á réttri braut á undanförnum árum." Loks sagði Halldór: "Þær skipulagsbreytingar sem hér hafa orðið á síðustu árum hafa skilað sér í miklum vexti bankakerfisins. Íslensku bankarnir eru orðnir að alþjóðlegum fjármálaþjónustufyrirtækjum með stóran hluta af eignum sínum í alþjóðlegri starfsemi. Það hefur stuðlað að bættri áhættudreifingu í starfsemi þeirra."
Hinn 7. febrúar 2007 flutti Geir H. Haarde, forsætisráðherra, ræðu á Viðskiptaþingi sem Viðskiptaráð Íslands stóð fyrir. Geir ræddi um alþjóðlega fjármálastarfsemi á Íslandi og sagði m.a.: "Lögð hefur verið áhersla á að draga sem mest úr skrifræði og kostnaði í reglusetningu hins opinbera. Þar höfum við reyndar þegar tekið mörg mikilvæg skref og fleira er í undirbúningi undir merkjum aðgerðaáætlunarinnar, "Einfaldara Ísland". Flóknar og torskildar reglur geta valdið óþarfa kostnaði og dregið úr samkeppnishæfni atvinnulífsins." Síðar segir Geir: "Árið 2006 var stormasamt en jafnframt lærdómsríkt.Við lærðum hversu mikilvægt alþjóðlegt orðspor og ímynd er fyrir lítið þjóðfélag. Ég vil þakka Viðskiptaráði hér sérstaklega fyrir að hafa frumkvæði að gerð Mishkin skýrslunnar svokölluðu og einnig Tryggva Þór Herbertssyni, og auðvitað Mishkin sjálfum, fyrir að hafa með skýrslunni útskýrt fyrir umheiminum staðreyndir málsins hvað varðar íslensk efnahagsmál." Síðan sagði Geir: "Atvinnulífið átti alfarið frumkvæði að þessu framtaki og stýrði því.Aðkoma mín sem þáverandi utanríkisráðherra fólst í því að veita aðgang að utanríkisþjónustunni til að auðvelda útbreiðslu og kynningu skýrslunnar auk þess sem ég flutti ræðu á kynningarfundi vegna útgáfu skýrslunnar í New York. Þetta verkefni er gott dæmi um það þegar samvinna atvinnulífsins og ríkisins tekst vel."
Í kvöldfréttum Stöðvar 2 22. febrúar 2007 var rætt við Árna M. Mathiesen, fjármálaráðherra. Árni sagði m.a.: "En ástæðan fyrir því að ég tel að peningastefnan hefur ekki virkað sem skyldi er hversu stórt hlutfall af fjármálamarkaðnum eru annars vegar verðtryggð lán í íslenskum krónum og hins vegar erlend lán."
Hinn 21. mars 2007 birti Viðskiptablaðið viðtal við Árna M. Mathiesen. Rætt var um gagnrýni sem lánshæfismatsfyrirtækið Moody's varð fyrir er fyrirtækið hækkaði lánshæfiseinkunn íslensku viðskiptabankanna. Fram kemur að Árni er ósammála þeirri gagnrýni. Í greininni segir: "Árni telur þessa gagnrýni óréttmæta og bendir á að eitthvað hljóti að skýra þá staðreynd að það hafi engin veigamikil fjármálastofnun orðið gjaldþrota í Vestur-Evrópu síðustu fimmtíu árin." Síðan er haft eftir Árna: "Jafnvel þótt að ekki liggi fyrir einhverjar yfirlýsingar frá stjórnvöldum eða heit um að koma bönkum til aðstoðar þá er hægt að draga ályktanir af þessari staðreynd." Því næst er Árni spurður hvort íslenska ríkið hafi fjárhagslegt bolmagn til þess að styðja við bakið á bönkunum. Í viðtalinu segir: "[...] segir Árni að hingað til hafi ekki verið gefnar út neinar yfirlýsingar um það og sú stefna muni ekki breytast. Hann bendir hins vegar á að sjálfstæði Seðlabankans hafi verið aukið til muna og fjárhagsleg staða hans hafi verið styrkt til muna." Síðan er haft eftir Árna: "Slíkar aðgerðir eru eðlilegar samfara vexti í bankakerfinu. Hvað er lítið eða stórt í því samhengi er erfitt að segja um."
Hinn 3. maí 2007 hélt Árni M. Mathiesen erindi á Reuters Brightspot ráðstefnu sem haldin var í Reykjavík. Í ræðunni sagði Árni m.a.: "Efnahagsþróunin hefur haldist stöðug og útlitið er, ef eitthvað er, bjartara en fyrir ári síðan.Til marks um það hafa gagnrýnisraddirnar að mestu þagnað og trúverðugleiki fjármálafyrirtækjanna hefur aukist á ný. Mat lánshæfisfyrirtækja á þeim hefur haldist gott og lánskjör þeirra hafa batnað. Að miklu leyti má þakka árangurinn aðgerðum fyrirtækjanna sjálfra. Þau hafa haldið áfram að ná glæsilegum rekstrarárangri á sama tíma og þau hafa gripið til margvíslegra aðgerða til að styrkja stöðu sína, t.d. með því að draga úr krosseignatengslum, styrkja fjármögnunarleiðir og draga úr örum útlánavexti. Margir telja að það hafi einnig verið hjálplegt að stjórnvöld og aðrir hagsmunaaðilar lögðust á sveif með fjármálageiranum við að efla upplýsingagjöf til erlendra greiningaraðila og fjölmiðla um raunverulega stöðu íslenska hagkerfisins og íslenskra fyrirtækja. Þá voru enn önnur atriði sem höfðu áhrif til að róa öldurnar."
Jón Sigurðsson, þáverandi viðskiptaráðherra, flutti erindi á aðalfundi Samtaka fjármálafyrirtækja 26. apríl 2007. Jón sagði m.a.: "Fjármálageirinn hefur tekið miklum stakkaskiptum á Íslandi á undraskömmum tíma. Árangur starfsmanna og forystumanna hefur verið með ólíkindum og varpað glæsilegum bjarma yfir sviðið. Fjármálageirinn er orðinn ein helsta undirstaða velsældar og framfara á Íslandi. Hann býður mörgum starfsmönnum sínum góð laun og spennandi viðfangsefni. Ný atvinnusvið hafa opnast hérlendis sem áður voru aðeins kunn af frásögnum frá öðrum löndum. Þannig mannast Íslendingurinn á heimsins hátt og þannig er lagt upp í nýjar víkingaferðir héðan. Einu sinni spurði Nóbelsskáldið í útvarpserindi sem svo: "Hvað hefði Egill Skallagrímsson sagt um þetta?" Egill kunni vel að meta veraldlegan auð á sinni tíð. Á því leikur varla vafi að sá gamli höfðingi og útrásarvíkingur mun slá við glotti ef og þegar hann fylgist með fjármálavíkingum nútímans. Þjóðin er stolt af þessum mikla árangri og hún nýtur þess sem flutt er hingað heim, áþreifanlegt og óáþreifanlegt í þessum mikla feng. Ég óska íslenskum fjármálafyrirtækjum og samtökum þeirra velfarnaðar og áframhaldandi útrásar og árangurs."
Í viðtali við Viðskiptablaðið 9. júní 2007 sagði Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, að hans biði það hlutverk að byggja upp öflugt ráðuneyti sem haldi utan um útrás fjármálafyrirtækjanna sem nú skili okkur um 10% þjóðartekna. Þá sé ótalin verslunin en við hana starfi um 90.000 manns á Íslandi. Síðan sagði Björgvin: "Þessar greinar þarf að efla og verðskulda miklu meiri athygli en áður. Þetta er útrásin, þarna eru sprotarnir í uppbyggingu á atvinnulífi okkar í dag."
Hinn 27. nóvember 2007 flutti Björgvin G. Sigurðsson ávarp á ársfundi Fjármálaeftirlitsins og sagði þá m.a.: "Þannig má segja að Ísland hafi í raun þróast í þá átt að verða alþjóðleg fjármálamiðstöð og er sú þróun meðal annars tilkomin vegna þess frumkvæðisanda sem ríkir meðal stjórnenda og starfsmanna íslenskra fjármálafyrirtækja."
Í grein eftir Björgvin G. Sigurðsson sem birtist í Viðskiptablaðinu 21. desember 2007 er fjallað um ákveðna gagnrýni sem íslenskir bankar höfðu orðið fyrir erlendis. Þar segir Björgvin m.a. svo: "Þegar KB banki opnaði útibúið í Lúxemborg fyrir nokkrum árum óraði líklega engan fyrir því hve vel íslensku fjármálafyrirtækjunum ætti eftir að ganga við að hasla sér völl á erlendri grundu. Ævintýralega vel er kannski rétta orðið yfir það." Einnig segir: "Kraftur, kjarkur og góð þekking íslensku útrásarmannanna skilaði meiri árangri hraðar við fjárfestingar erlendis en hægt var að sjá fyrir og víkingurinn hefur vakið athygli á alþjóðavísu. Ekki síst þegar lagt er saman við aðra útrás Íslendinga erlendis í verslun, iðnaði og þjónustu ýmisskonar." Síðan segir: "Auðvitað skortir ekki úrtölur eða þá sem telja sig knúna til að tala útrás og fjárfestingaævintýri Íslendinga erlendis niður."
Hinn 18. janúar 2008 birti Viðskiptablaðið frétt þar sem vitnað er til ummæla Björgvins G. Sigurðssonar sem hann lét falla á vefsíðu sinni, bjorgvin.is. Björgvin hafði þetta að segja um íslensku bankana: "Þeir standa vel og er lausafjárstaða þeirra prýðileg og fjármögnun þeirra allra lokið til lengri tíma." Síðan segist Björgvin hafa fundað með formanni stjórnar Fjármálaeftirlitsins og segir: "Niðurstaða þeirrar yfirferðar er sú að íslensku bankarnir standa vel. Þá bendir margt til þess að umróti loknu náist ágætt jafnvægi í íslensku efnahagslífi þar sem verðbólga er nálægt viðmiðunarmörkum Seðlabanka, gengi krónunnar gangi hægt og jafnt niður og vaxtalækkunarferli hefjist innan skamms."
Geir H. Haarde flutti ræðu á málþingi sem Viðskiptaráð Íslands stóð fyrir 13. febrúar 2008 og gerði þar að umtalsefni hátt skuldatryggingarálag bankanna. Geir sagði m.a.: "Á síðustu vikum hefur skuldatryggingarálag íslensku bankanna einnig hækkað töluvert en líklegt má telja að það stafi að hluta til af upplýsingaskorti alþjóðlegra fjárfesta um raunverulega stöðu bankanna. Sérfræðingar greiningarfyrirtækisins Credit Sights hafa til að mynda sagt að áhættan í tengslum við íslensku viðskiptabankana sé ofmetin og að skuldatryggingarálagið gefi ekki rétta mynd af raunstöðu þeirra." Síðar í ræðunni sagði hann: "Þrátt fyrir þessar jákvæðu niðurstöður og greinargerðir Fjármálaeftirlitsins, Moody's, Credit Sights og fleiri aðila gætir enn neikvæðrar umfjöllunar hjá einstaka greiningaraðilum og fjölmiðlum. Þar er iðulega farið með hreinar staðreyndavillur og lýsingar á stöðu íslenska hagkerfisins eru mjög ýktar. Það er áhyggjuefni að þessir aðilar skuli ekki taka tillit til þeirra ítarlegu upplýsinga sem öllum eru aðgengilegar og lýsa sterkri stöðu bankanna og ríkissjóðs. Hér virðast önnur öfl ráða ferðinni en leitin að sannleikanum." Síðan sagði Geir: "Til að mæta þessu er nauðsynlegt að allir snúi bökum saman og bregðist við. Ríkisstjórnin er reiðubúin til samstarfs við hin ýmsu samtök atvinnulífsins, hvort sem það er á vettvangi Viðskiptaráðsins, Samtaka fjármálafyrirtækja eða annarra samtaka, með það að meginmarkmiði að miðla upplýsingum og greiningum um íslenskt efnahags- og atvinnulíf til erlendra greiningaraðila, fjárfesta og fjölmiðla. Jafnframt munu ráðherrar áfram verða reiðubúnir að mæta ásamt fulltrúum atvinnulífsins á fundi erlendis til að gera grein fyrir stöðu íslensks efnahags- og atvinnulífs og leiðrétta þær rangfærslur sem kunna að vera á ferðinni."
Í Markaðsfréttum Stöðvar 2 var m.a. birt viðtal við Geir H. Haarde 14. febrúar 2008. Aðspurður um hvort bankarnir hafi brugðist hlutverki sínu svaraði Geir: "Það er alveg ljóst að þeir hafa náttúrulega stækkað mjög hratt. Þeir hafa verið mjög, hvað eigum við að segja, kaldir að sumu leyti til við að fjárfesta og þenja sig út en ég tel ekki að það sé nein hætta á ferð umfram það sem að annars staðar er."
Í Markaðsfréttum Stöðvar 2 var rætt við Árna M. Mathiesen 29. febrúar 2008. Meðal annars var rætt um versnandi stöðu íslensku bankanna. Í máli Árna kom m.a. fram: "Það sem auðvitað flækir það ferli að maður er farinn að hafa það á tilfinningunni að það séu aðilar úti í heimi sem að, vegna sinna fjárfestinga, hafa hagsmuni af því að íslensku bönkunum gangi illa og, og þeir eru hreinlega að, að koma á framfæri röngum upplýsingum."
Hinn 10. mars 2008 flutti Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, erindi á ráðstefnu um íslenskt efnahagslíf í Kaupmannahöfn. Heiti erindisins var: "Islands økonomi, stærk og fleksibel." Í erindinu sagði Ingibjörg m.a.: "De islandske banker hviler på et solidt grundlag. Indtægter fra deres kernevirksomhed voksede sidste år til trods for subprime-krisen. Bankernes stærke likviditet bekræftes blandt andet af nylige kreditvurderinger fra Moody's. De tre største banker har gentagne gange bestået Finanstilsynets tryktest med gode resultater." Síðar sagði hún: "Der er blevet spurgt hvordan regeringen agter at reagere på en eventuel bankkrise. Jeg opfatter spørgsmålet som yderst hypotetisk, da bankerne lever og har det godt i øjeblikket, men jeg vil gerne tilføje at både regeringen og Nationalbanken har ressourcer til at afværge en likviditetskrise, beskytte indskyderne og undgå forstyrrelser i betalingssystemerne.Vi har de værktøjer der skal til og jeg kan forsikre jer om at den islandske regeringen naturligvis vil reagere som enhver anden ansvarlig regering ville gøre hvis en sådan situation opstod."
Í viðtali sem tekið var við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur í Politiken 13. mars 2008 var hún m.a. spurð út í gagnrýni danskra banka í garð íslenskra. Ingibjörg svaraði því til að dönsku bankarnir væru í samkeppni við þá íslensku og þegar Danske Bank eða Nordea tjáðu sig um íslenskan efnahag gerðu þeir það sem samkeppnisaðilar. Ingibjörg var sérstaklega innt eftir því hvaða skoðanir hún hefði á gagnrýni sem komið hefði fram hjá Danske Bank. Þessu svaraði Ingibjörg þannig að mat erlendra banka á borð við Danske Bank á íslenskum bönkum væri rangt. Íslensku bankarnir stæðu vel. Sú gagnrýni sem borist hefði frá dönskum bönkum einkenndist af yfirlæti og fordómum, sbr. eftirfarandi orð Ingibjargar: "De tager fejl i deres vurdering af den islandske økonomi, for generalt står den stærkt. Og generalt er bankerne robuste. Derfor er vi skuffede over kritikken fra de danske banker. Selvfølgelig skal vi kunne kritiseres, men det skal være på rimelig måde. Det vi hører er en slags overlegenhed og bygget på fordomme."
Sama dag, þ.e. 13. mars 2008, hélt Geir H. Haarde ræðu í New York á fundi Íslensk-ameríska viðskiptaráðsins. Þar ræddi hann um einkavæðingu, vöxt og útrás íslensku bankanna. Í máli hans kom fram að þótt íslensku bankarnir hefðu ekki farið varhluta af lausafjárkreppunni væru þeir traustir og heilbrigðir samkvæmt mati Fjármálaeftirlitsins.
Hinn 28. mars 2008 flutti Geir H. Haarde ræðu á ársfundi Seðlabanka Íslands. Í ræðunni sagði Geir m.a.: "Neikvæð umfjöllun um íslensk efnahagsmál eins og birst hefur í nokkrum erlendum dagblöðum að undanförnu hefur komið okkur í opna skjöldu. Þegar horft er á staðreyndir í efnahagslífi okkar kemur í ljós að öllum hagtölum og hagspám ber í meginatriðum saman um að horfurnar séu góðar, staða efnahagsmála sé í meginatriðum sterk og staða bankanna traust. Þetta hefur verið rækilega staðfest af þekktum erlendum fræðimönnum eins og Frederic Mishkin, sem nú er orðinn einn af bankastjórum Seðlabanka Bandaríkjanna, og Richard Portes, heimsþekktum fræðimanni á þessu sviði." Síðar sagði Geir: "Fjármálaþjónusta er skýrasta dæmið um atvinnugrein sem hefur blómstrað við nýjar aðstæður. Stóru íslensku bankarnir þrír hafa breyst úr því að vera staðbundnir bankar sem buðu nánast eingöngu upp á hefðbundin inn-og útlán og greiðslumiðlun yfir í að vera alþjóðlegir bankar sem veita víðtæka þjónustu í fjölda landa. Og vöxturinn hefur verið ör. Samanlagðar eignir stóru bankanna þriggja eru nú meira en áttföld landsframleiðsla íslensku þjóðarinnar. [...] Fyrir rúmu ári tók ríkissjóður erlent lán og nýtti andvirðið til að efla gjaldeyrisforða Seðlabankans. Ég hef áður sagt að eðlilegt sé að halda áfram á þeirri braut og ítreka það nú. Eins er verðugt að kanna hvort Seðlabankinn geti tekið upp samstarf við seðlabanka í þeim ríkjum þar sem íslensku bankarnir eru umsvifamiklir. Þessi atriði eru til skoðunar í Seðlabankanum. Þá tel ég mikilvægt að bankinn hefur tvisvar sinnum á þessu ári rýmkað reglur um aðgang fjármálafyrirtækja að lánsfé í bankanum, nú síðast fyrr í þessari viku. Með þessu undirstrikar bankinn vilja sinn til að grípa til nauðsynlegra aðgerða á meðan óróleikinn á alþjóðamörkuðum gengur yfir. Fjármálafyrirtæki um allan heim glíma um þessar mundir við tímabundið andstreymi. Íslensk fjármálafyrirtæki finna fyrir þessum aðstæðum en til viðbótar hafa stóru bankarnir þrír þurft að glíma við það vandamál að svokallað skuldatryggingarálag hvers þeirra hefur rokið upp úr öllu valdi. Að mínu mati er þetta fullkomlega órökrétt því tölur úr rekstri og efnahag bankanna gefa ekkert tilefni til þessarar þróunar." Loks sagði Geir: "Það er því engum vafa undirorpið að ríkissjóður og Seðlabankinn gætu hlaupið undir bagga ef upp kæmi alvarleg staða í bankakerfinu. Ég hef ítrekað verið spurður um þetta af erlendum aðilum á liðnum vikum og hef ávallt svarað því til að íslensk stjórnvöld muni við slíkar aðstæður hiklaust grípa til sömu aðgerða og ábyrg stjórnvöld annars staðar. Þetta vil ég árétta nú."
Björgvin G. Sigurðsson flutti ávarp á degi Samtaka fjármálafyrirtækja 10. apríl 2008 og fjallaði í upphafi um óróa á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og áhrif hans á íslenskar fjármálastofnanir. Björgvin tók þó fram að hann ætlaði ekki að verja tíma sínum á fundinum til að fjalla um margumtöluð vandamál samtímans: "Ég hef aftur á móti áhuga á að ræða hér framtíðarhorfur í fjármálageiranum og hvort líklegt sé að okkur takist að halda áfram á sömu vaxtarbraut og við höfum verið undanfarin ár. Síðasta fjórðung síðustu aldar reiknaðist fjármálastarfsemi vera um það bil 5 prósent af landsframleiðslu, samkvæmt framleiðsluuppgjöri Hagstofunnar. Hlutfallið hefur hækkað mjög hratt frá aldamótum og er, eins og margir vita, komið upp fyrir 10 prósent. "Sú staðreynd að fjármálageirinn er orðinn stærri en landbúnaður og sjávarútvegur samanlagt segir okkur einfaldlega að afleiður og skuldabréf eru í dag okkar ær og kýr." Síðan sagði Björgvin: "En verður það svo um aldur og ævi? Auðvitað er ómögulegt að spá fyrir um það hverjar verða höfuðatvinnugreinar þjóðarinnar á næstu öld. Sé horft til skemmri tíma er þó enginn skortur á spekingum sem spá endalokum vaxtarskeiðs fjármálageirans og um leið útrásarinnar margumtöluðu. Þó ólíklegt sé að jafn hagstæð lánskjör muni bjóðast á alþjóðavettvangi í bráð og hafa verið í boði undanfarin ár, er lítill fótur fyrir því að draga muni úr umfangi fjármálageirans á komandi árum. Ekki er ólíklegt að eitthvað dragi úr þeim mikla vexti sem við höfum upplifað að undanförnu. Öll skilyrði eru þó fyrir áframhaldandi sterkri stöðu fjármálafyrirtækja og öruggum en þó hægari vexti þeirra."
Hinn 14. apríl 2008 birti Berlingske Tidende viðtal við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Í viðtalinu segir Ingibjörg m.a.: "Hvis vi troede, at de islandske banker var i en værre forfatning end sammenlignelige banker, ville vi ikke være så tilbøjelige til at stå bag dem og støtte dem. Men vi har faktisk set, at de islandske banker har været mere varsomme end andre med at engagere sig i ting, der er ramt af subprime-krisen i USA. De står faktisk godt rustet." Síðar í viðtalinu er haft eftir Ingibjörgu: "Vi kan ikke tillade os at lade dem gå konkurs, som situationen er i dag. Hvis der var noget i vejen med bankerne, var det noget andet."
Hinn 18. apríl 2008 flutti Geir H. Haarde ávarp á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins. Í ræðu sinni sagði Geir m.a.: "Mér hefur á stundum fundist að fjallað sé um þessi mál af nokkurri léttúð og jafnvel skilningsleysi hér heima. Þar á ég meðal annars við framgöngu ákveðinna stjórnmálamanna og fjölmiðla og staðhæfingar um að ekkert sé verið að gera, eins og það heitir. Stundum er talað eins og stjórnvöld ráði yfir töfralausnum sem ekki séu til annars staðar þegar vandinn er aftur á móti sá að alþjóðlegir vindar skekja okkar eigið hagkerfi án þess að við höfum mikið um það að segja. Sannleikurinn er sá að á vegum ríkisstjórnarinnar, en þó sérstaklega Seðlabankans, hefur að undanförnu verið unnið baki brotnu að því að greiða úr þeim vanda sem hinar alþjóðlegu aðstæður hafa skapað. Slíkar aðgerðir eru þess eðlis að undirbúningur þeirra tekur langan tíma og ekki er hægt að flytja af þeim fréttir frá degi til dags. Mikil opinber umræða getur verið óheppileg, skapað óraunhæfar væntingar og þar með jafnvel haft neikvæð áhrif. Stuttar boðleiðir og skjót ákvarðanataka eru óumdeilanlega meðal helstu styrkleika íslensks viðskiptalífs og stjórnsýslu. Þetta getur á hinn bóginn líka verið veikleiki þegar við gerum kröfu um sama hraða í mun stærri kerfum og leyfum okkur að verða óþolinmóð gagnvart lengri boðleiðum og seinvirkari ákvarðanaferlum en við erum vön."
Hinn 9. maí 2008 flutti Ingibjörg Sólrún Gísladóttir erindi á fundi samráðsnefndar atvinnulífs og stjórnvalda um samfélagslega ábyrgð íslenskra fyrirtækja. Erindið var flutt á ensku. Ingibjörg sagði m.a.: "The Ministry for Foreign Affairs has always had good relations with the Icelandic business community and made an effort to support it in the process of globalization. The Icelandic government has for example, in close co-operation with local business organizations and the companies themselves, worked towards increasing awareness and information about the fundamental strength of the Icelandic economy."
Hinn 27. maí 2008 var sagt frá því í kvöldfréttum Stöðvar 2 að Árni M. Mathiesen hafi sama dag mælt fyrir frumvarpi á Alþingi sem heimili ríkissjóði að taka allt að 500 milljarða króna erlent lán. Heimildina ætti að nýta til að auka gjaldeyrisvaraforða Seðlabanka Íslands. Aðspurður sagði Árni að aðgerðin væri ekki neyðarúrræði. Fréttamaður spurði þá hvort verið væri að bjarga bönkunum. Árni svaraði: "Auðvitað hefur hlutfallsleg stærð bankakerfisins miðað við stærð efnahagskerfisins og að, með þetta að gera. En í þeim skilningi að það sé verið að bjarga einhverjum sem að sé í vandræðum að þá er það ekki staðan.Við teljum ekki að bankarnir séu í einhverjum, einhverjum vandræðum sem að þurfi að bjarga þeim úr."
Hinn 6. júní 2008 birti Morgunblaðið frétt af viðtali Geirs H. Haarde á fréttastöðinni Bloomberg. Fram kemur að rætt hafi verið um stærð bankanna og gjaldeyrisvaraforða Seðlabanka Íslands. Haft er eftir Geir: "Við þurfum virkilega að skoða stærð bankanna og þeir þurfa að líta í eigin barm." Síðar segir Geir: "Sem leikmenn í opnu hagkerfi þurfum við að hafa forða í takt við heildarhagkerfið, sér í lagi í tengslum við stærð bankageirans."
Hinn 25. júlí 2008 var í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins rætt við Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, menntamálaráðherra. Fréttamaður bar undir Þorgerði ummæli starfsmanns greiningardeildar Merrill Lynch annars vegar um að hátt skuldatryggingarálag íslensku bankanna gæfi til kynna að markaðurinn teldi þá ekki færa um að endurgreiða skuldir sínar sem og hins vegar um að íslensk stjórnvöld hefðu með aðgerðaleysi sínu sent út þau skilaboð að þau vildu helst keyra bankana í þrot og taka þá svo til sín aftur. Um þetta sagði Þorgerður: "Ég er eiginlega alveg undrandi. Mér finnst þetta makalaus ummæli og hjá svona virtum fjárfestingarbanka og ég, það hvarflaði að mér um tíma, sko hvaða annarlegu sjónarmið búa þarna að baki því að þetta á ekki við nein rök að, að styðjast og, og ég spyr líka sem menntamálaráðherra þarf þessi maður ekki á endurmenntun að halda? Það vita allir að ástandið er erfitt.Við erum að, að fást við ákveðna erfiðleika í efnahagsmálum. Það vita það allir en að, það sem að hann segir meðal annars að ríkisvaldið og Seðlabankinn sé að, að knýja bankana í þrot. Það er af og frá. Þetta eru mjög alvarleg ummæli frá fulltrúa þessa fyrirtækis. Það sem er hins vegar alveg ljóst, að það er verið að vinna að því að, að fá ekki bara þessi erlendu lán. Það er verið að vinna að, að gerð fjárlaga sem eiga að endurspegla náttúrulega ákveðna ábyrgð sem að felur í, það í sér að við munum halda hér áfram hjólum atvinnulífsins gangandi og síðan er náttúrulega það sem að skiptir máli er að, að við sjáum vonandi fram á að, að Seðlabankinn fari nú að lækka vexti því það, fyrirtækin eiga mjög erfitt með að reka sig með þessu háa vaxtaálagi sem að hér er í landinu. [...] Okkar bankar standa ekki verr heldur en allir aðrir bankar á, í hinum alþjóðlega heimi. Þannig að það sé sagt skýrt og, og klárt."
Hinn 12. ágúst 2008 var flutt viðtal við Árna M. Mathiesen í Markaðsfréttum Stöðvar 2. Í viðtalinu var rætt um bið á láni ríkissjóðs til eflingar gjaldeyrisvaraforðans. Í viðtalinu sagði Árni m.a.: "Og menn spyrja sig eðlilega að því hversu langt er rétt að ganga í því til þess að aðstoða þá sem að hafa verið í áhættufjárfestingum víða um heim, hvað eiga íslenskir skattborgarar að leggja mikið á sig til þess að hjálpa þeim aðilum, menn verða auðvitað að bera sína áhættu að mestu leyti sjálfir." Síðar sagði Árni: "Ég held að skilningur margra í atvinnulífinu á því hverjar séu skyldur ríkisvaldsins og Seðlabankans sé talsvert annar heldur en minn."
Hinn 2. september 2008 flutti Geir H. Haarde ræðu á Alþingi um stöðu og horfur í efnahagsmálum. Geir sagði m.a.: "Það er líka óhjákvæmilegt að þessar hræringar komi fram í vaxandi verðbólgu í heiminum, hér á landi sem annars staðar, og stöðugt auknu álagi á hagstjórnina. Ísland er langt því frá eitt að finna fyrir vanmætti hagstjórnar gegn ástandinu.Við þurfum líka að átta okkur á því að í þessum efnum eru engar töfralausnir til. Engin ríkisstjórn nokkurs staðar í heiminum er fær um að veifa töfrasprota til að rétta efnahagslífið við, ekki sú íslenska, ekki sú breska og ekki sú bandaríska. Margir þeirra sem farið hafa mikinn í umræðu um efnahagsmál hér á landi á síðustu mánuðum virðast ekki hafa áttað sig á þessum veruleika." Geir sagði einnig: "Höfuðviðfangsefnið nú er að setja fram trúverðugar lausnir og fylgja eftir markaðri stefnu af ákveðni og yfirvegun. Ríkisstjórn og Seðlabanki hafa sannarlega tekið á þrengingum í efnahagslífinu af festu og gert það sem í þeirra valdi stendur til að vinna að lausn vanda síðustu mánaða. Stjórnarandstaðan og aðrir efasemdamenn hafa sakað ríkisstjórnina um aðgerðaleysi í efnahagsmálum. Þær ásakanir eru ekki á rökum reistar. Á síðustu mánuðum hafa mörg og markviss skref verið tekin til að sporna við áhrifum fjármálakreppunnar á íslenskt efnahagslíf." Síðan sagði Geir: "Seðlabankinn hefur á árinu rýmkað reglur um veð í reglulegum viðskiptum hans við fjármálastofnanir.Veðhæfum eignum hefur verið fjölgað og með því hefur viðskiptaumhverfi íslenskra banka breyst í átt til þess sem tíðkast í nálægum löndum. Reglur Evrópska seðlabankans hafa einkum verið hafðar hér til hliðsjónar. Útistandandi fjárhæð veðlána er nú rúmlega 400 milljarðar króna og hefur hækkað undanfarin misseri líkt og gerst hefur annars staðar." Því næst sagði Geir: "Í maí gerði Seðlabanki Íslands gjaldeyrisskiptasamninga við seðlabanka Noregs, Svíþjóðar og Danmerkur sem fela í sér bakstuðning bankanna og styrkir gjaldeyrissjóð Seðlabanka Íslands með þeim hætti um 180 milljarða." Síðan sagði Geir: "Seinna í maí heimilaði Alþingi ríkissjóði að taka allt að 500 milljarða króna að láni, erlendis og innanlands, til að styrkja gjaldeyrisforðann enn frekar. Þessa heimild er nú verið að nýta í áföngum." Því næst sagði Geir: "Í júní var tilkynnt um ráðstafanir tengdar Íbúðalánasjóði sem veita fjármálafyrirtækjum möguleika á að koma húsbréfum í verð og bæta þannig lausafjárstöðu sína. Þetta kemur einkum smærri aðilum á fjármálamarkaði til góða." Síðan sagði Geir: "Í lok júní var tilkynnt um 75 milljarða króna skuldabréfaútgáfu ríkisins sem var mikilvægt skref til að laða að erlenda fjárfesta til Íslands og auka gengisstöðugleika. Hefur þetta þegar skilað góðum árangri."
Hinn 3.september 2008 fóru fram umræður á Alþingi.Við það tækifæri spurði Guðni Ágústsson,þingmaður,Geir H.Haarde að því hvort huga þyrfti að hlutfalli viðskiptabankastarfsemi gagnvart fjárfestingarbankastarfsemi í rekstri íslenskra banka. Geir svaraði með eftirfarandi orðum: "Ég get tekið undir eitt og annað í máli hæstvirts þingmanns um mikilvægi bankastarfseminnar í landinu og varðandi það að farið sé fram með fyllstu gætni og hlutleysi gagnvart viðskiptavinum o.s.frv. En þær reglur sem um þetta gilda, fjárfestingarbankastarfsemi annars vegar og viðskiptabankastarfsemi hins vegar, eru byggðar á samevrópskum reglum og ég hygg að við skerum okkur ekki neitt úr hvað þetta varðar miðað við nálæg lönd. Ég tel ekki að reynslan af þessu eins og þetta er núna á Íslandi sé neitt sérstaklega slæm, alls ekki. Hins vegar er það verðug spurning sem hæstvirtur þingmaður reisir hér hvort gera megi endurbætur á þessu og það er sjálfsagt að fara vel og vandlega yfir það. Það er hins vegar mjög mikilvægt við núverandi aðstæður að rasa hvergi um ráð fram þegar bankakerfið á í hlut og það er mjög mikilvægt að allir leggist á eitt um að styðja þannig við bakið á okkar bankakerfi að það geti komist í gegnum þá lausafjárkreppu sem nú er við að fást í heiminum og gerir þeim erfitt um vik að afla sér eðlilegs starfsfjár með lánum eins og við ræddum reyndar ítarlega, mörg hver, í umræðunni í gær. Ég hygg því að það væri óheppilegt að ætla að gera einhverjar róttækar breytingar á starfsumhverfi bankanna um þessar mundir."
Hinn 4. september 2008 birti Fréttablaðið grein eftir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Í greininni segir m.a.: "Við stöndum frammi fyrir þríþættu verkefni. Í fyrsta lagi lausafjárvanda bankanna sem stafar einkum af skorti á lánsfé á alþjóðlegum mörkuðum." Síðar segir: "Bankarnir þurfa sjálfir að halda áfram að afla sér erlends lausafjár og losa um eignir þar sem það er hægt. Þeir þurfa að halda áfram að afla sér innlána á erlendum mörkuðum."
Hinn 20. september 2008 setti Ingibjörg Sólrún Gísladóttir flokksstjórnarfund Samfylkingarinnar. Við það tækifæri lét hún eftirfarandi orð falla: "Sú einarða afstaða ríkisstjórnarinnar að standa við bakið á fjármálakerfinu okkar var rétt og frá henni verður hvergi hvikað. Það er ekki gert af tillitssemi við eigendur eða stjórnendur fjármálastofnana heldur til að freista þess að varðveita fjármálastöðugleikann því ef hann brestur er mikil vá fyrir dyrum hjá íslenskum almenningi."
Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins 21. september 2008 var rætt við Björgvin G. Sigurðsson. Í viðtalinu sagði Björgvin m.a.: "Auðvitað er ýmislegt slíkt til skoðunar um aðkomu hins opinbera að þessum málum almennt.Við fylgjumst mjög vel með. Okkar aðstæður hafa að mörgu leyti verið miklu betri en þar sem hefur alvarlegast hefur gerst eins og í Bandaríkjunum. Okkar bankar standa býsna vel og það hafa ekki svona neyðaratvik komið upp þannig að við höfum ekki þurft að grípa til slíkra ráðstafana en það er að sjálfsögðu mjög vel fylgst með og öll vopn tiltæk ef að á þarf að halda."
5.4 Viðhorf til umfangs og áherslu á starf eftirlitsstofnana gagnvart fjármálafyrirtækjum
Halldór Ásgrímsson, þáverandi forsætisráðherra, flutti ávarp á Viðskiptaþingi Viðskiptaráðs Íslands 8. febrúar 2006. Í ræðu sinni sagði Halldór m.a.: "Ríkisstjórnin hefur hleypt af stokkunum átaki sem hún nefnir "Einfaldara Ísland". Átakið varðar hið opinbera regluverk og einnig það viðmót sem fyrirtækin og borgararnir mæta hjá hinu opinbera. Með þessu móti vilja stjórnvöld leggja sitt af mörkum til að bæta samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs og auka lífsgæði borgaranna."
Líkt og vikið var að í kafla 5.3 hér að framan flutti Geir H. Haarde, forsætisráðherra, ræðu á Viðskiptaþingi sem Viðskiptaráð Íslands stóð fyrir 7. febrúar 2007. Í þeirri ræðu sagði Geir m.a.: "Lögð hefur verið áhersla á að draga sem mest úr skrifræði og kostnaði í reglusetningu hins opinbera. Þar höfum við reyndar þegar tekið mörg mikilvæg skref og fleira er í undirbúningi undir merkjum aðgerðaáætlunarinnar, "Einfaldara Ísland". Flóknar og torskildar reglur geta valdið óþarfa kostnaði og dregið úr samkeppnishæfni atvinnulífsins."
Í þessu samhengi er rétt að líta til þess hvort sama sjónarmiðs gætir í stefnuyfirlýsingu þeirrar ríkisstjórnar sem mynduð var 2007 og fyrri ríkisstjórna. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks 1995 var m.a. sett fram eftirfarandi meginmarkmið: "Tryggt verður að eftirlitsaðilar íþyngi fyrirtækjum ekki um of með starfsemi sinni." Sambærilegt ákvæði var að finna í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks 1999. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks 2003 var m.a. þetta meginmarkmið: "Sjálfstæði eftirlitsstofnana hins opinbera þarf að vera ótvírætt og tryggja þarf að starfsemi þeirra verði ekki óþarflega íþyngjandi." Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar 2007 sagði m.a.: "Í umbreytingu íslensks atvinnulífs á undanförnum árum felst meðal annars aukið vægi ýmiss konar alþjóðlegrar þjónustustarfsemi, þar á meðal fjármálaþjónustu. Ríkisstjórnin stefnir að því að tryggja að slík starfsemi geti áfram vaxið hér á landi og sótt inn á ný svið í samkeppni við önnur markaðssvæði og að útrásarfyrirtæki sjái sér áfram hag í að hafa höfuðstöðvar á Íslandi." Síðan sagði að áhersla yrði lögð á að efla Fjármálaeftirlitið til þess að íslenski fjármálamarkaðurinn nyti fyllsta trausts og að tímabært væri að leysa úr læðingi krafta einkaframtaksins svo að íslensk sérþekking og hugvit gætu notið sín til fulls í útrás orkufyrirtækja.
5.5 Viðhorf til stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar frá 23. maí 2007 sem fram komu í skýrslutökum
Í skýrslu Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom fram að hafa yrði í huga að stefnuyfirlýsingar ríkisstjórna væru almennar að efni til og þarna hefði verið undirstrikuð ákveðin velþóknun á því ástandi sem skapast hafði í þessum atvinnuvegi og vilja hefði verið lýst til þess að hlúa frekar að honum. Þarna hefði ekki verið um það að ræða að ríkissjóður eða ríkisstjórnin hefði þurft að grípa til sérstakra aðgerða til aðstoðar honum. Reyndar hefði tekjuskattur lögaðila verið lækkaður en það hefði verið almenn aðgerð. Aðspurður kvað Geir að ríkisstjórnin hefði verið áhugasöm um að halda höfuðstöðvum bankanna áfram hér á landi en miklar skatttekjur runnu í ríkissjóð frá bönkunum. Aðspurður hvort skynsamlegt hefði verið í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að leggja áherslu á "vöxt" bankanna árið 2007 þegar þeir voru orðnir á við sjö- til áttfalda landsframleiðslu og hvort ekki hefði átt að leggja áherslu á að minnka þá, svaraði Geir því til að það hafi nú "ekki verið almenn stemning fyrir því". Hann bætti svo við: "Bankarnir voru vinsælir, þeir voru að borga fólki há laun hérna, það voru alls kyns menn með undarlegar prófgráður, stærðfræðingar og slíkir menn að fá fína vinnu í bönkunum og þeir voru náttúrulega að borga hér gríðarlega mikla skatta. Það er ekki fyrr en í ágúst, og við náttúrulega gerum okkur ekki grein fyrir því strax, sem fer að halla undan fæti alþjóðlega í bankaheiminum, eða með haustinu [...] 2007 og ætli við verðum ekki að ganga út frá því að við höfum verið að tala þarna um ábyrgan vöxt og ábyrgt framferði en ekki hitt."Í skýrslu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, utanríkisráðherra, fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom fram að með stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá því í maí 2007 hefði verið litið svo á að: "[...] þarna væri komin ný atvinnugrein í landinu [...] sem jú hefði á undanförnum árum búið til heilmörg vel launuð störf og það væri mikilvægt að halda þeirri atvinnugrein í landinu og hún gæti átt sér möguleika í landinu áfram, þess vegna vaxtarmöguleika því að ég held við höfum bara litið svo á að þetta væri í eðli sínu alþjóðleg starfsemi þó að hún væri með höfuðstöðvar á Íslandi og það væri mikilvægt að hún gæti verið það – þannig var umræðan á þessum tíma". Aðspurð kvað hún að ekki hefði verið rætt sérstaklega um þörf á því að minnka bankakerfið á þessum tíma. Á hinn bóginn hefði verið rætt um að styrkja þyrfti Fjármálaeftirlitið og liður í því hefði verið að skipa Jón Sigurðsson sem formann stjórnar Fjármálaeftirlitsins.Í skýrslum Árna M. Mathiesen, fjármálaráðherra, og Össurar Skarphéðinssonar, iðnaðarráðherra, fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom fram að fyrrnefnt ákvæði í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar frá því í maí 2007 ætti uppruna í skýrslunni Alþjóðleg fjármálastarfsemi á Íslandi sem tekin hefði verið saman árið 2006 að frumkvæði Halldórs Ásgrímssonar, þáverandi forsætisráðherra.
Í skýrslu Björgvins G. Sigurðssonar, viðskiptaráðherra, fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom fram að hann hefði ekki tekið þátt í samningu stjórnarsáttmálans í maí 2007 og hefði fyrst séð hann þegar sáttmálinn var kynntur í þingflokki og flokksstjórn. Aðspurður kvaðst hann hafa velt því fyrir sér þegar hann kom til starfa sem viðskiptaráðherra hvort það gengi að hafa svo stóra banka með höfuðstöðvar hér á landi. Kvaðst hann m.a. hafa rætt þetta í þingræðu í febrúar árið 2008. Þar hefði hann bent á að atriði "sem menn kölluðu svona snyrtilega hlutfallsvandann á milli bankakerfis og myntsvæðisins okkar, gjaldmiðilsins eða Seðlabankans, væru náttúrulega með þeim hætti að það væri aldrei við það búandi. Annaðhvort mundu bankarnir þurfa að minnka eða að fara inn á stærra myntsvæði." Hann kvaðst hafa fjallað heilmikið um gjaldmiðlamálin og hefðu þau verið drifkrafturinn í Evrópuumræðunni hjá honum á þessum tíma en það hefði pirrað marga í samstarfsflokknum. Björgvin áréttaði að það hefði ekki verið til umræðu á þessum tíma "að reka bankana úr landi". Þá taldi Björgvin að Fjármálaeftirlitið hefði verið allt of lítið og veikburða eftir einkavæðingu bankanna. Enda þótt það hefði verið eflt á síðustu árum hefði það ekki haldið í við hinn æðisgengna vöxt bankanna frá árinu 2002.Í skýrslu Jónasar Fr. Jónssonar, forstjóra Fjármálaeftirlitsins, fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom fram að þegar litið væri til stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar hefði "hinn pólitíski mórall" verið "létt regluverk, sem væri ekki að íþyngja, skilvirk stjórnsýsla og vöxtur fyrirtækjanna". Að hans mati var það skýrt að ekki hafi verið gefin nein opinber pólitísk skilaboð um að bankarnir ættu að minnka. Undir þessi orð tók einnig Halldór J. Kristjánsson, bankastjóri Landsbankans, við skýrslutöku. Hjá honum kom fram að menn hefðu verið meðvitaðir um að stefna ríkisstjórnarinnar hefði verið að auka fjármálaþjónustu á Íslandi og að ríkisvaldið ætlaði að stuðla að því að fjármálafyrirtækin gætu haldið áfram að hafa höfuðstöðvar sínar hér á landi.
Við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis lét Lárus Welding, forstjóri Glitnis banka hf., eftirfarandi orð falla um ríkisstjórnina: "Þetta er náttúrulega ríkisstjórn sem er búin að styðja við, biðja um að fjármálakerfið sé byggt og sé einn af máttarstólpunum o.s.frv. o.s.frv."Við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis var Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri Kaupþings banka hf., spurður um hvort fulltrúar ríkisstjórnarinnar hefðu einhvern tímann sett fram óskir um breytingar á starfsemi bankanna. Þeirri spurningu svaraði Hreiðar neitandi. Aðspurður hvort fulltrúar ríkisstjórnarinnar hefðu ekki rætt um að minnka efnahag banka svaraði Hreiðar: "Ef það hefur verið gert þá hefur það verið mjög "casual", það hefur ekki verið neitt, það var engin vinna lögð a.m.k. af hálfu stjórnvalda, það var enginn sem kom að máli við okkur með einhverjar tillögur eða hvort menn hafi sagt á þessum fundi: Já, já, getið þið ekki minnkað efnahagsreikninginn ykkar? Það má vel vera, ég man það ekki." Hreiðar bætti því síðan við að forsvarsmenn Kaupþings hefðu ekki verið beðnir um tillögur að minnkun á efnahag bankans.Í kafla 19.9 er nánar vikið að því hvernig forsvarsmenn þriggja stærstu bankanna upplifðu hvatningu stjórnvalda til þeirra, sem komu fram í samtölum við þá, um að minnka bankana.
5.6 Ísland sem miðstöð alþjóðlegrar fjármálastarfsemi?
Við umræður á Alþingi 11. október 1999 sagði Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra: "[...] nú erum við skyndilega lent í því að til að okkar bankar í alþjóðlegu umhverfi standist öðrum bönkum snúning, þá þurfum við að hafa þá sterkari og stærri".Tæpu ári áður, þ.e. 7. apríl 1998, hafði birst viðtal við Davíð Oddsson í The Financial Times. Þar sagði Davíð að áform væru uppi um að gera Ísland að alþjóðlegri fjármálamiðstöð. Það myndi hins vegar taka töluverðan tíma að byggja upp slíka fjármálamiðstöð.
Hinn 24. nóvember 2005 skipaði Halldór Ásgrímsson, þáverandi forsætisráðherra, 12 manna nefnd til að fjalla um forsendur alþjóðlegrar fjármálastarfsemi á Íslandi og samkeppnishæfni landsins á því sviði. Nefndinni var falið að reifa tækifæri sem slík starfsemi gæti skapað og mögulegan ávinning fyrir efnahags-og atvinnulíf í landinu. Sigurður Einarsson, stjórnarformaður Kaupþings banka hf., var skipaður formaður nefndarinnar. Í skýrslunni, sem út kom í október 2006, er fjallað um forsendur alþjóðlegrar fjármálastarfsemi á Íslandi og reifaðar hugsanlegar breytingar á laga-og reglugerðarumhverfi til að stuðla að slíkri starfsemi. Í skýrslunni er skilgreint hvað átt sé við með alþjóðlegri fjármálastarfsemi og hvað af slíkri starfsemi væri hugsanlega æskilegt að laða til Íslands. Eftir samanburð á stöðu mála á Íslandi miðað við Noreg, Holland, Ungverjaland, Írland, Lúxemborg og Sviss eru dregnar fram niðurstöður um styrkleika og veikleika Íslands í því samhengi. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að ákveðnir grunnþættir einkenndu lög þeirra ríkja sem náð hafa langt á sviði alþjóðlegrar fjármálastarfsemi. Setti nefndin fram það meginviðhorf að ef stjórnvöld á Íslandi ætluðu að setja sér það markmið að efla alþjóðlega fjármálastarfsemi á Íslandi, ætti í því augnamiði einungis að setja almennar reglur fyrir íslenskt atvinnulíf í því skyni sem stæðust EES-kvaðir. Nánar er fjallað um þessa lágmarks reglusetningu og innleiðingu EES-gerða í kafla 15.0. Sem dæmi um hugmyndir til eflingar alþjóðlegri fjármálaþjónustu á Íslandi benti nefndin á þá möguleika að gera Ísland að miðstöð fyrir höfuðstöðvar og kjarnastarfsemi alþjóðlegra félaga, svo og alþjóðlega lífeyrismiðstöð, og að breyta mætti löggjöf til að laða að alþjóðlega sjálfseignarsjóði. Í þessu sambandi voru gerðar tillögur um breytingar á skattareglum o.fl.Líkt og fram kemur í kafla 5.3 flutti Jón Sigurðsson, þáverandi viðskiptaráðherra, erindi á aðalfundi Samtaka fjármálafyrirtækja 26. apríl 2007. Jón sagði m.a.: "Á síðastliðnu ári lauk sérstök nefnd umfjöllun um alþjóðlega fjármálastarfsemi á Íslandi. Skýrsla nefndarinnar er stórfróðleg og efnismikil. [...] Það er samdóma álit margra þeirra sem fjallað hafa um skýrslu nefndarinnar að hún geymi tillögur og ábendingar sem unnið verður að og unnið verður úr á komandi árum. Innan núverandi ríkisstjórnar hefur verið og er mikill áhugi á þeim sjónarmiðum sem nefndin um alþjóðlega fjármálastarfsemi birtir í skýrslu sinni. Ég er sannfærður um að þetta nefndarstarf mun skila miklum og góðum árangri, jafnvel þótt nokkur tími kunni að þurfa að líða áður en menn almennt gera sér fulla grein fyrir því hve mikil framsýni birtist í skýrslu og tillögum nefndarinnar."
Í skýrslu Sigurðar Einarssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis, en hann var eins og áður segir formaður nefndarinnar, kom fram að nefndin hefði unnið mjög mikla vinnu og komið fram með ákveðnar tillögur. Frá því að niðurstöður nefndarinnar hefðu verið kynntar opinberlega á fundi hefði hann hins vegar hvorki heyrt "hósta eða stunu" um þær. Hann benti á að Jón Sigurðsson, þáverandi seðlabankastjóri, hefði átt sæti í nefndinni allt þar til hann var skipaður viðskiptaráðherra. Hefði hann þá áréttað við sig að ekki mætti ræða hlutverk Seðlabanka Íslands sem lánveitanda til þrautavara í nefndinni. Augljóst væri að menn hefðu ekki haft hugann á þessum tíma við að byggja upp þann hluta stjórnsýslukerfisins er laut að bönkunum. Hafi menn á hinn bóginn talið að bankakerfið væri orðið of stórt hefði átt að segja það við bankana einmitt á þessum tíma. Það hefði orðið til þess að þeir færu að huga að flutningi höfuðstöðva sinna. Það hafi hins vegar ekki verið gert.
Í skýrslu Hreiðars Más Sigurðssonar, forstjóra Kaupþings, kom fram að það hefði verið draumur þeirra hjá Kaupþingi að gera Ísland að fjármálamiðstöð og hefðu þeir þá m.a. litið til reynslunnar frá Lúxemborg og Írlandi. Hefðu þeir spurt sig af hverju Íslendingar ættu ekki að gera hið sama. Um væri að ræða atvinnugrein sem þarfnaðist vel menntaðs starfsfólks, borgaði há laun, skapaði miklar skatttekjur og væri umhverfisvæn. Engum stjórnmálamanni sem þeir hittu hefði litist illa á hugmyndina, en á hinn bóginn hefði það verið svo, eins og Steinn Steinarr hefði orðað það, að "í draumi sérhvers manns er fall hans falið".
5.7 Ályktanir rannsóknarnefndar Alþingis
Á árunum 1995 til 2003 var fylgt fram þeirri stefnu ríkisstjórna sem þá sátu að völdum að selja eignarhluti ríkisins í bönkum og opinberum fjárfestingarsjóðum. Að öðru leyti var ekki í stefnuyfirlýsingum ríkisstjórna fjallað um starfsemi fjármálafyrirtækja hér á landi. Fjallað var um nauðsyn á sjálfstæði eftirlitsstofnana. Því fylgdi hins vegar sá varnagli að tryggja þyrfti að starfsemi þeirra íþyngdi fyrirtækjum ekki um of. Unnið var að stefnumótun um forsendur alþjóðlegrar fjármálastarfsemi á Íslandi. Samkvæmt stjórnarsáttmála Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar frá 23. maí 2007 var stefna ríkisstjórnarinnar sú að tryggja að fjármálastarfsemi gæti áfram vaxið hér á landi og sótt inn á ný svið í samkeppni við önnur markaðssvæði og að útrásarfyrirtæki sæju sér áfram hag í að hafa höfuðstöðvar á Íslandi. Þessari stefnu ríkisstjórnarinnar var ekki breytt opinberlega fyrir hrun bankanna í október 2008.