18. kafli – Byr sparisjóður

18. Byr sparisjóður

Byr sparisjóður varð formlega til við sameiningu Sparisjóðs vélstjóra og Sparisjóðs Hafnarfjarðar. Sameiningin var samþykkt á aðalfundum beggja sparisjóðanna 1. desember 2006 en reikningshaldslegur samruni miðaðist við 30. apríl 2006. Vægi stofnfjár frá Sparisjóði vélstjóra á móti stofnfé frá Sparisjóði Hafnarfjarðar var ákveðið 63% á móti 37%. Stofnfé hins sameinaða sjóðs nam um 231 milljón króna, stofnfjáreigendur voru 547 talsins og átti enginn þeirra meira en 10% eignarhlut.1 Samruninn varð með þeim hætti að Sparisjóður Hafnarfjarðar rann saman við Sparisjóð vélstjóra. Á stjórnarfundi í sameinuðum sparisjóði 7. febrúar 2007 kom fram tillaga um að sjóðurinn tæki upp nafnið Byr sparisjóður. Nafnið var samþykkt á næsta stjórnarfundi, 19. febrúar, og tilkynnt um það opinberlega 3. mars 2007. Á aðalfundi sparisjóðsins 13. mars 2007 var 1. grein samþykkta sparisjóðsins breytt til samræmis við þetta. „Nafnið er komið úr sjómannamáli; að fá byr í seglin. Það er jákvætt í eðli sínu. Hugmynd er sögð fá góðan byr þegar henni er vel tekið. Byr er sá sem hreyfir eitthvað áfram.“2

Hinn 14. nóvember 2007 samþykkti Fjármálaeftirlitið samruna Sparisjóðs Kópavogs og Byrs sparisjóðs, en í reikningsskilum var samruninn miðaður við 1. nóvember 2007. Loks rann Sparisjóður Norðlendinga saman við Byr sparisjóð á árinu 2008. Þann samruna samþykkti Fjármálaeftirlitið 19. mars 2008 en í reikningsskilum var miðað við 1. apríl sama ár.

Sparisjóður vélstjóra hóf starfsemi sína 11. nóvember 1961 að frumkvæði stjórnar Vélstjórafélags Íslands. Fyrst var hann í sambýli við Vélstjórafélagið að Bárugötu 11. Fyrsta stjórnin var skipuð þeim Gísla Jónssyni alþingismanni sem var formaður og kjörinn af borgarstjórn Reykjavíkur, Hallgrími Jónssyni vélstjóra og Jónínu Loftsdóttur sem bæði voru kjörin af ábyrgðarmönnum. Tómas Guðjónsson, féhirðir Vélstjórafélagsins, var ráðinn til að gegna stöðu forstöðumanns sparisjóðsins. Árið 1964 tók Kristján Steinsson við og fékk titilinn sparisjóðsstjóri og gegndi því starfi í eitt ár. Hallgrímur G. Jónsson sem hafði starfað frá 1963 hjá sparisjóðnum varð sparisjóðsstjóri 1965 og gegndi því starfi til 30. júní 2004 en þá tók Ragnar Z. Guðjónsson við stöðu hans. Ragnar varð síðar annar tveggja sparisjóðsstjóra Byrs sparisjóðs. Sparisjóður vélstjóra flutti árið 1971 í Hátún 4a sem var sérstaklega innréttað fyrir sparisjóðinn. Þaðan flutti hann svo árið 1977 í nýbyggt húsnæði að Borgartúni 18 þar sem höfuðstöðvar Byrs sparisjóðs urðu síðar og þar til yfir lauk. Sparisjóður vélstjóra starfrækti útibú í Síðumúla 1 í Reykjavík frá 1986 og árið 1991 var opnuð afgreiðsla í Rofabæ 39 í Árbæjarhverfi. Árið 2002 var afgreiðslan flutt og útibú opnað að Hraunbæ 119 og sama ár var opnuð ný afgreiðsla í húsi Orkuveitu Reykjavíkur við Bæjarháls. Sparisjóðurinn var sem fyrr sagði stofnaður af vélstjórum og fleiri úr sjómannastétt og voru stofnfjárhafar upphaflega um 350. Við sameininguna við Sparisjóð Hafnarfjarðar 2006 voru stofnfjárhafar tæplega 700 einstaklingar og félög.3

Sparisjóður Hafnarfjarðar var stofnaður 22. desember 1902. Hann átti sér þó forvera í Sparisjóði Álftaneshrepps sem stofnaður var 1875 í Hafnarfirði en bar frá 1884 nafnið Sparisjóður í Hafnarfirði. Starfsemin lá niðri árin 1900 og 1901, en 1902 tók hinn nýstofnaði Sparisjóður Hafnarfjarðar við inn- og útlánum þess fyrrnefnda. Í fyrstu stjórn Sparisjóðs Hafnarfjarðar sátu Páll Einarsson sýslumaður sem formaður, Jón Gunnarsson verslunarstjóri sem var skrifari og Jóhannes Sigfússon kennari sem var gjaldkeri, en hann var jafnframt fyrsti forstöðumaður sparisjóðsins. Síðar gegndu Jón Gunnarsson, Guðmundur Helgason, Ólafur Böðvarsson, Matthías Á. Mathiesen og Guðmundur Guðmundsson starfi sparisjóðsstjóra. Árið 1981 var Þór Gunnarsson ráðinn sparisjóðsstjóri við hlið Guðmundar Guðmundssonar og gegndi hann starfinu til 2004. Guðmundur Örn Hauksson og Jónas Reynisson voru sparisjóðsstjórar við hlið Þórs um skamma hríð.4 Þegar Þór lét af starfi tók Björn Ingi Sveinsson við, en gegndi starfinu aðeins um nokkurra mánaða skeið. Síðasti sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Hafnarfjarðar var Magnús Ægir Magnússon, sem síðan varð annar tveggja sparisjóðsstjóra Byrs sparisjóðs. Allt fram til ársins 1929 var sparisjóðurinn starfræktur á heimili forstöðumanns sjóðsins hverju sinni, en þá fluttist hann í leiguhúsnæði að Austurgötu 37 í Hafnarfirði. Þremur árum síðar fluttist sjóðurinn í hús Jóns Mathiesens við Strandgötu 4 og þar var hann starfræktur um tólf ára skeið. Ráðhús Hafnarfjarðarbæjar hýsti sparisjóðinn frá 1944 til 1964, en þá flutti hann í eigið húsnæði að Strandgötu 8–10 þar sem höfuðstöðvar hans voru alla tíð síðan. Sparisjóður Hafnarfjarðar starfrækti þrjú útibú. Hið fyrsta var opnað árið 1979 að Reykjavíkurvegi 66 í Hafnarfirði en síðar voru útibú opnuð við Garðatorg í Garðabæ og í versluninni Fjarðarkaupum í Hafnarfirði. Auk þessa rak sparisjóðurinn afgreiðslu í Kringlunni í Reykjavík og bauð þar upp á netbankaþjónustuna S24, og þar var einnig til húsa verðbréfaþjónusta sparisjóðsins, SPH Verðbréfasjóðurinn hf.5 Í ársbyrjun 2005 voru stofnfjáreigendur Sparisjóðs Hafnarfjarðar 47 talsins og hafði sú tala lítið breyst um árabil, en í lok ársins voru þeir aðeins 31 talsins, eftir miklar sviptingar í hópi stofnfjáreigenda á árinu.

Sparisjóður Kópavogs var stofnaður 4. desember 1954 af 30 ábyrgðarmönnum sem hver um sig lagði fram 2 þúsund krónur og ábyrgðist að auki sömu fjárhæð. Rekstur sparisjóðsins hófst þó ekki fyrr en 20. mars árið 1956. Í samþykktum Sparisjóðs Kópavogs var engin yfirlýsing um tilgang eða markmið sparisjóðsins. Strax í upphafi rekstrar sparisjóðsins var sú stefna mörkuð að Kópavogsbúar gengju fyrir um lánafyrirgreiðslu. Utanbæjarmenn gátu þó fengið lán ef þeir stofnuðu til innleggs á móti.6 Sjóðurinn óx úr grasi með hinum ört stækkandi Kópavogsbæ sem fékk kaupstaðarréttindi 1955. Þegar hann sameinaðist Byr sparisjóði 14. nóvember 2007 var hann orðinn fimmti stærsti sparisjóður landsins, með heildareignir upp á 21 milljarð króna í árslok 2006. Fyrsta stjórn Sparisjóðs Kópavogs var þannig skipuð: Baldur Jónsson formaður, Jósafat J. Líndal og Jón Gauti Jónatansson, kjörnir af ábyrgðarmönnum, og Guðmundur Gíslason skipaður af sýslunefnd. Fyrstur til að gegna starfi sparisjóðsstjóra var Hrólfur Ásvaldsson. Aðrir sem gegndu því voru Jósafat J. Líndal, Ólafur Stefán Sigurðsson, Halldór J. Árnason og Carl H. Erlingsson sem var sparisjóðsstjóri frá 2002 til sameiningar sparisjóðsins við Byr. Fyrstu starfsárin var starfsemi sparisjóðsins hýst í tveimur kjallaraherbergjum við Skjólbraut 6, en sumarið 1965 flutti sjóðurinn í nýbyggt eigið húsnæði við Digranesveg 10. Þar voru höfuðstöðvarnar til húsa þangað til flutt var í nýbyggt húsnæði að Hlíðarsmára 18 í apríl 1999. Um haustið 2006 keypti sparisjóðurinn byggingu í smíðum að Digranesvegi 1 og var ætlunin að höfuðstöðvarnar flyttust þangað. Til þess kom þó ekki því sjóðurinn sameinaðist Byr sparisjóði í nóvember 2007, en hins vegar opnaði Byr sparisjóður útibú í húsinu 6. júní 2008. Þá starfrækti Sparisjóður Kópavogs útibú að Engihjalla 8 um sextán ára skeið. Í árslok 2006 voru stofnfjáreigendur í sparisjóðnum 524 talsins og nam stofnfé 418 milljónum króna. Enginn stofnfjáreigandi átti þá 5% stofnfjár eða meira.7

Sparisjóður Norðlendinga var stofnaður í júní 1997 með samruna Sparisjóðs Akureyrar og Arnarneshrepps og Sparisjóðs Glæsibæjarhrepps. Þessir forverar hans áttu sér báðir langa sögu.

Sparisjóður Arnarneshrepps var stofnaður árið 1884 og var starfræktur til 1987 er hann sameinaðist Sparisjóði Akureyrar (hinum síðari) og tóku þeir þá upp nafnið Sparisjóður Akureyrar og Arnarneshrepps. Sparisjóður Glæsibæjarhrepps var stofnaður 1908. Allt fram til ársins 1955 var afgreiðsla hans hjá gjaldkera hans hverju sinni en þá fluttist afgreiðslan til Akureyrar í eigið húsnæði.

Sparisjóður Akureyrar (hinn síðari) var stofnaður í ársbyrjun 1931 að frumkvæði Iðnaðarmannafélags Akureyrar og Verslunarmannafélags Akureyrar, þegar fyrirsjáanlegt var að starfsemi Útvegsbanka (áður Íslandsbanka) á Akureyri yrði lögð niður. Þegar Íslandsbanki tók til starfa árið 1904 opnaði hann strax útibú „í hinum stærri kauptúnum Íslands“, þar á meðal á Akureyri. Við opnun þess runnu tveir sparisjóðir á svæðinu inn í útibú Íslandsbanka, en það voru Sparisjóður Akureyrar (hinn fyrri) sem stofnaður var 1884 og Sparisjóður Norðuramtsins sem stofnaður hafði verið 1898. Varasjóður þess síðarnefnda rann síðar til Sparisjóðs Akureyrar (hins síðari) þegar hann var stofnaður 1931 og þegar útibúi Útvegsbankans á Akureyri var lokað.

Sparisjóður Akureyrar tók formlega til starfa 1932 í afgreiðslustofu að Hafnarstræti 107. Síðar fluttist starfsemin að Ráðhústorgi 9 og þar næst að Brekkugötu 1. Þar var sparisjóðurinn til húsa þangað til hann fluttist að Skipagötu 9, þar sem útibú Byrs sparisjóðs var svo síðar til húsa. Fyrsti forstöðumaður Sparisjóðs Akureyrar var Júlíus Sigurðsson. Við starfi hans tók Jón Guðlaugsson og gegndi því í rúma tvo áratugi. Á eftir honum var Sverrir Ragnars sparisjóðsstjóri í nærri þrjá áratugi. Helga Steindórsdóttir varð sparisjóðsstjóri þegar Sparisjóður Akureyrar og Sparisjóður Arnarneshrepps voru sameinaðir 1987. Jón Björnsson var ráðinn sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Norðlendinga við sameiningu sparisjóðanna í september 1997 og gegndi starfinu til nóvember 2005 er Örn Arnar Óskarsson tók við því, en hann var jafnframt síðasti sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Norðlendinga. Þegar sjóðurinn sameinaðist Byr sparisjóði snemma árs 2008 var hann fimmti stærsti sparisjóður landsins með heildareignir upp á 18,3 milljarða króna. Stofnfé í árslok 2007 nam 2,9 milljörðum króna eftir nýafstaðna 2,7 milljarða króna stofnfjáraukningu. Stofnfjáreigendur voru þá 135 og hafði fjölgað um 45 við stofnfjáraukninguna.8

Höfuðstöðvar Byrs sparisjóðs voru að Borgartúni 18 í Reykjavík sem áður hýsti Sparisjóð vélstjóra, en þar var jafnframt starfrækt útibú. Sjóðurinn starfrækti sex önnur útibú, að Síðumúla 1 og Hraunbæ 119 í Reykjavík, að Standgötu 8–10 í Hafnarfirði, við Garðatorg í Garðabæ, að Digranesvegi 1 í Kópavogi og að Skipagötu 9 á Akureyri.

Byr sparisjóður hafði það hlutverk „að stunda sparisjóðastarfsemi eins og hún er skilgreind í lögum um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002“ samkvæmt 3. gr. samþykkta sparisjóðsins frá 13. mars 2007. Margir aðrir sparisjóðir höfðu hlutverk sitt skilgreint með sambærilegum hætti. Við stofnun Byrs voru ráðnir tveir sparisjóðsstjórar, annars vegar Ragnar Z. Guðjónsson, sem gegnt hafði stöðu sparisjóðsstjóra hjá Sparisjóði vélstjóra frá 2004, og hins vegar Magnús Ægir Magnússon, sem gegnt hafði stöðu sparisjóðsstjóra hjá Sparisjóði Hafnarfjarðar frá 2005. Samstarfi þeirra lauk í nóvember 2008 þegar Magnús Ægir lét af störfum.

Ragnar gegndi stöðu sparisjóðsstjóra þar til í nóvember 2009, en þá fékk hann tímabundið leyfi frá störfum að eigin ósk, þar sem hann hafði hlotið réttarstöðu grunaðs manns eftir húsleit sérstaks saksóknara hjá sparisjóðnum í tengslum við rannsókn embættisins á svonefndu „Exeter-máli“. Í kjölfarið var Jón Finnbogason ráðinn tímabundið í stöðuna til áramóta 2009. Hinn 13. janúar 2010 var tilkynnt að stjórn sjóðsins hefði ákveðið að framlengja ráðningu Jóns Finnbogasonar til 30. júní 2010 auk þess sem fram kom að Ragnar Z. Guðjónsson hefði sagt upp störfum og að stjórnin hefði ekki gert við hann sérstakan starfslokasamning.9 Jón Finnbogason gegndi stöðu sparisjóðsstjóra til 22. apríl 2010 og í framhaldinu stöðu forstjóra Byrs hf. þar til kaup Íslandsbanka á Byr hf. gengu í gegn í júlí 2011.

Stjórn sparisjóðsins var skipuð fimm mönnum. Nokkuð var um mannabreytingar og einungis þrír stjórnarmenn sátu tvö tímabil eða lengur. Þeir voru Jón Þorsteinn Jónsson, sem var stjórnarformaður sparisjóðsins frá upphafi, og Egill Ágústsson og Magnús Ármann, sem báðir sátu í stjórn frá aðalfundi 13. mars 2007 til aðalfundar 9. maí 2008. Jón Þorsteinn Jónsson, sem áður hafði gegnt stöðu stjórnarformanns Sparisjóðs vélstjóra frá árinu 2004 og setið þar í stjórn frá 2001, var stjórnarformaður Byrs sparisjóðs fram til 4. mars 2009 þegar hann sagði sig frá stjórnarstörfum fram að næsta aðalfundi. Ekki kom til þess að hann tæki sæti að nýju í stjórn sparisjóðsins og í nóvember 2009 hlaut hann réttarstöðu grunaðs manns vegna rannsóknar embættis sérstaks saksóknara í áðurnefndu Exeter-máli. Jón Kr. Sólnes tók þá við stjórnarformennsku.

Byr sparisjóður var við stofnun annar stærsti sparisjóður landsins. Í árslok 2006 námu eignir hans 22% af samanlögðum eignum allra sparisjóða í landinu og í lok árs 2007 voru þær um 30% af heildareign allra sparisjóða. Eigið fé hans í árslok 2007 nam rúmlega 53 milljörðum króna og eiginfjárhlutfallið var 40,2% á sama tíma, og var það langhæsta frá aldamótum að minnsta kosti. Skýringin á því lá fyrst og fremst í 26,3 milljarða króna stofnfjáraukningu í desember 2007, þeirri mestu í sparisjóðakerfinu. Jafngildi helmings þessarar stofnfjáraukningar var svo varið til greiðslu arðs til stofnfjáreigenda þremur mánuðum síðar. Staða sparisjóðsins veiktist verulega á haustmánuðum 2008 og var eiginfjárhlutfallið í árslok 2008 8,3%, eða rétt yfir hinu lögbundna lágmarki.

Aðalfundur sparisjóðsins sem haldinn var 13. maí 2009 var sögulegur og fékk mikla athygli í fjölmiðlum. Þá var boðinn fram listi á móti framboði sitjandi stjórnar. Kosning fór þannig að listi sitjandi stjórnar hélt meiri hluta með 48,7% atkvæða á móti 46,1%. Mótframboðið fékk þannig tvo stjórnarmenn af fimm. Mikið sundurlyndi ríkti í stjórn sparisjóðsins eftir þetta og dró minni hlutinn ýmislegt upp á yfirborðið sem hann taldi hafa farið úrskeiðis í starfsemi sparisjóðsins. Byr sparisjóður fór ekki varhluta af áhrifum falls viðskiptabankanna þriggja í október 2008 og hlutirnir snerust hratt til verri vegar: skuldir hækkuðu og eignir lækkuðu verulega. Stærsta verkefni nýju stjórnarinnar varð fjárhagsleg endurskipulagning sparisjóðsins, sem nánar er fjallað um síðar. Erfiðleikar í starfsemi sparisjóðsins leiddu til þess að Fjármálaeftirlitið skipaði 3. júní 2009 Evu B. Helgadóttur lögmann sem sérfræðing er yrði tilsjónarmaður Fjármálaeftirlitsins með starfsemi Byrs sparisjóðs.10

Byr sparisjóður tapaði 16,5 milljörðum króna á fyrri hluta árs 2009.11 Heildartap sjóðsins árið 2009 nam 38,8 milljörðum króna. Þar af nam virðisrýrnun útlána 38,2 milljörðum króna.12 Í lok ársins var eigið fé sjóðsins orðið neikvætt um 22,6 milljarða króna og eiginfjárhlutfallið neikvætt um 18,5%. Á sama tíma nam stofnfé um 30,6 milljörðum króna og skiptist á 1.523 stofnfjáraðila.13 Umleitanir til fjárhagslegrar endurskipulagningar sparisjóðsins á fyrri hluta árs 2010 báru ekki árangur og á síðasta stjórnarfundi í Byr sparisjóði var samþykkt að fela sparisjóðsstjóra að óska eftir því við Fjármálaeftirlitið að það tæki við ráðum í sjóðnum.14 Samdægurs tók Fjármálaeftirlitið yfir vald stofnfjáreigendafundar Byrs sparisjóðs. Stjórn sjóðsins var um leið vísað frá í heild sinni og bráðabirgðastjórn skipuð. Í bráðbirgðastjórninni sátu Eva B. Helgadóttir hæstaréttarlögmaður, Ágúst Kristinsson löggiltur endurskoðandi og Árni Ármann Árnason hæstaréttarlögmaður. Jafnframt var stofnað nýtt hlutafélag, Byr hf., og allar eignir sparisjóðsins færðar þangað.15 Sjá nánari umfjöllun hér aftar.

18.1 Ársreikningar Sparisjóðs vélstjóra og
Byrs sparisjóðs frá 2001 til 2009

Hér verður farið yfir rekstrarreikninga og efnahagsreikninga Sparisjóðs vélstjóra og síðar Byrs sparisjóðs, helstu liði þeirra og kennitölur, á árunum 2001 til 2009. Svo sem fram hefur komið sameinaðist Sparisjóður Hafnarfjarðar Sparisjóði vélstjóra á árinu 2006. Reikningshaldslegur samruni miðaðist við 30. apríl 2006 þótt formleg sameining hafi ekki átt sér stað fyrr en 1. desember. Til að byrja með starfaði hinn sameinaði sjóður undir nafni Sparisjóðs vélstjóra þar til hann fékk nýtt nafn í byrjun mars 2007. Vegna þessara óljósu marka verður því litið svo á í þessari umfjöllun um ársreikningana að starfsemi Byrs sparisjóðs hafi verið framlenging á starfsemi Sparisjóðs vélstjóra. Þrír sparisjóðir sameinuðust honum og reikningshaldslegur samruni miðaðist við eftirfarandi dagsetningar: Sparisjóður Hafnarfjarðar frá 30. apríl 2006, Sparisjóður Kópavogs frá 31. október 2007 og Sparisjóður Norðlendinga frá 1. apríl 2008. Umfjöllunin tekur mið af samstæðureikningi félagsins nema annað sé tekið fram. Rétt er að geta þess að ársreikningur fyrir árið 2009 var staðfestur og áritaður af slitastjórn sparisjóðsins 29. nóvember 2010, en ekki áritaður af endurskoðanda. Í umfjöllun í skýrslunni er miðað við verðlag hvers árs nema annað sé tekið fram.16

Ársreikningurinn fyrir 2006 var gerður í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS). Við innleiðingu þeirra hjá hinum sameinaða sparisjóði var, svo sem skylt var, saminn upphafsefnahagsreikningur miðaður við 1. janúar 2006 þannig að samanburðarfjárhæðir við fyrra ár yrðu metnar og fram settar með réttum hætti í efnahagsreikningi 31. desember 2006. Breytingarnar frá fyrri reikningsskilaaðferðum yfir í IFRS þýddu það að eigið fé 31. desember 2005, samkvæmt ársreikningi 2005, hækkaði um 92,1 milljón króna í upphafsefnahagsreikningi 1. janúar 2006. Hækkunin skýrðist fyrst og fremst af breytingu á virðisrýrnun útlána og breyttri meðferð lántökugjalda í bókhaldi.

Ekki lágu fyrir reikningsskil sparisjóðsins fyrir tímabilið 1. janúar 2010 til 22. apríl 2010 sem leiðir til þess að engar upplýsingar eru til staðar um afkomu sparisjóðsins síðasta rúma ársfjórðunginn fyrir fall hans. Hins vegar voru allar eignir sparisjóðsins fluttar til Byrs hf. og samkvæmt ársreikningi Byrs hf. nam hagnaður nýja fjármálafyrirtækisins fyrir tímabilið 23. apríl 2010 til 31. desember 2010 ríflega 1,1 milljarði króna.

18.1.1 Rekstrarreikningur

Hér verður fyrst gerð grein fyrir hver áhrifin af framangreindum sameiningum höfðu á rekstur Byrs sparisjóðs, en þau eru sýnd í töflu 1.

Rekstur Byrs sparisjóðs skilaði hagnaði upp á tæpa 2,7 milljarða króna á fyrsta rekstrarári sjóðsins. Hagnaður jókst verulega á árinu 2007 og þar vó gengishagnaður af fjáreignum þungt. Aðrar rekstrartekjur voru einnig umtalsverðar, eða nær 4,3 milljörðum króna, fyrst og fremst söluhagnaður af eignarhlut í Sparisjóðabanka Íslands hf. Á árunum 2008 og 2009 varð síðan verulegt tap á rekstri sparisjóðsins. Tapið mátti einna helst rekja til gengistaps af fjáreignum og umtalsverðs framlags í afskriftareikning vegna virðisrýrnunar útlána.

Hreinar rekstrartekjur

Hreinar rekstrartekjur tóku ekki að hækka umtalsvert fyrr en við sameininguna 2006 en þá hækkuðu þær frá fyrra ári um rúm 130%, enda þótt þær innihéldu aðeins átta mánaða áhrif af sameiningunni við Sparisjóð Hafnarfjarðar. Hækkunin varð enn meiri árið 2007 en þá gætti áhrifanna af sameiningunni við Sparisjóð Kópavogs allt árið. Hreinar rekstrartekjur námu 13,9 milljörðum króna á árinu 2007 og voru þær langhæstu hjá nokkrum sparisjóði það ár. Á árinu 2008 varð mikill viðsnúningur þegar hreinar rekstrartekjur urðu neikvæðar um 1,6 milljarða króna. Þessi breyting skýrðist einna helst af miklu gengistapi af fjáreignum og samdrætti í öðrum rekstrartekjum. Nærri þreföldun hreinna vaxtatekna dró þó úr áhrifum gengistaps ársins á hreinar rekstrartekjur.

Á tímabilinu 2001–2009 áttu fjárfestingartekjur, þ.e. gengishagnaður, arðstekjur og hlutdeildartekjur, ekki afgerandi þátt í hreinum rekstrartekjum sparisjóðsins fyrr en árið 2005, þegar þær náðu helmingshlutdeild og hlutur þeirra óx mikið næstu tvö ár. Eftir það, árin 2008 og 2009, varð tap af fjárfestingum svo mikið að hreinar rekstrartekjur urðu verulega neikvæðar. Þess er vert að geta að Sparisjóður vélstjóra hafði, líkt og aðrir sparisjóðir, átt hlut í Kaupþingi hf. og með vexti og viðgangi félagsins hafði sparisjóðurinn haft umtalsverðar tekjur af eign sinni í því. Sparisjóður vélstjóra seldi nær allan sinn hlut í Kaupþingi í nóvember árið 2000, eða 10,4%, fyrir rúma 1,6 milljarða króna. Kaupendur voru Lífeyrissjóður verzlunarmanna, Lífeyrissjóðurinn Framsýn, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, Þróunarfélag Íslands hf. og Lífeyrissjóður sjómanna. Með því innleysti sparisjóðurinn söluhagnað upp á rúma 1,3 milljarða króna fyrir skatt árið 2001.17

Fjárfestingar höfðu veruleg áhrif á sparisjóðinn eftir stofnun Byrs sparisjóðs. Á árinu 2007 nam gengishagnaður af fjáreignum 5,8 milljörðum króna og þar af nam hagnaður af hlutabréfum tæpum 5,5 milljörðum króna. Þetta snerist við á árinu 2008 þegar gengistap sparisjóðsins af fjáreignum nam 7,9 milljörðum króna. Tap af hlutabréfaeign nam þá tæpum 6,5 milljörðum króna, þar af var tap af 5,4% eignarhlut í Sparisjóðabankanum ríflega 2 milljarðar króna og gengistap af hlutafjáreign í VBS Fjárfestingarbanka hf. nam ríflega 1 milljarði króna. Á árinu 2009 nam gengistap Byrs sparisjóðs af fjáreignum 7,2 milljörðum króna. Þar munaði mest um tap af innlendum fjárfestingarhlutabréfum upp á 4,3 milljarða króna. Tap vegna gangvirðisbreytinga á fjárfestingarfasteignum nam 2,6 milljörðum króna, þar af var tæplega 2,1 milljarður króna vegna þriggja fasteignaverkefna í eigu Lava Capital, dótturfélags Byrs sparisjóðs.

Arðs- og hlutdeildartekjur Sparisjóðs vélstjóra tóku að verða umtalsverðar árið 2003. Það voru einkum hlutdeildartekjur af Sparisjóðabanka Íslands hf. og MP Fjárfestingarbanka hf. sem gáfu þessar tekjur. Árið 2005 nær tvöfaldaðist þessi tekjuliður og átti hagnaður Sparisjóðabankans stærstan þátt í því. Á árinu 2006 námu arðs- og hlutdeildartekjur 2,2 milljörðum króna og enn var það hlutdeildin í hagnaði Sparisjóðabankans sem skipti sköpum. Þetta ár varð methagnaður hjá bankanum, 2,7 milljarðar króna. Sparisjóður vélstjóra færði liðlega 1,5 milljarða króna hlutdeildartekjur vegna þessa. Umtalsverðar hlutdeildartekjur árið 2006 voru líka vegna eignarhluta í SP-Fjármögnun hf. og MP Fjárfestingarbanka hf. Arðs- og hlutdeildartekjur voru mun lægri á árinu 2007, en námu þó tæpum hálfum milljarði króna. Þar var einkum um að ræða hlutdeild í hagnaði SP-Fjármögnunar hf. Á árinu 2008 voru þessar tekjur neikvæðar um 2,2 milljarða króna og munaði þar mest um 2,1 milljarðs króna hlutdeild í tapi SP-Fjármögnunar hf.

Aðrar rekstrartekjur voru óverulegur liður í rekstri Byrs sparisjóðs, nema á árinu 2007 er þær námu 4,3 milljörðum króna. Þar réð mestu söluhagnaður af 30,3% eignarhlut sparisjóðsins í Sparisjóðabankanum upp á 4,2 milljarða króna.

Hreinar vaxtatekjur voru á svipuðu róli árin 2001–2005, en jukust umtalsvert á árunum 2007–2008, þar af nærri þrefölduðust þær árið 2008. Í töflu 3 má sjá að stærstur hluti vaxtatekna sparisjóðsins var af útlánum og jukust þær tekjur verulega frá og með 2006, mest um rúmlega 15,5 milljarða króna á árinu 2008, en lækkuðu aðeins 2009. Á sama tíma jukust útlán sjóðsins um 78 milljarða króna,18 sem skýrðist að hluta af samruna Sparisjóðs Kópavogs við Byr sparisjóð 1. nóvember 2007 og samruna Sparisjóðs Norðlendinga við Byr sparisjóð 1. apríl 2008. Ytri þættir, svo sem gengisfall krónunnar og aukin verðbólga á árinu 2008, höfðu jafnframt áhrif til hækkunar vaxtatekna og vaxtagjalda. Samdráttur í hreinum vaxtatekjum á árinu 2009 stafaði einkum af lækkun útlána samhliða lægri vaxtamun.

Vaxtagjöld sparisjóðsins voru jafnan greidd í mestum mæli til innlánseigenda en þar á eftir voru þau mest vegna lántöku. Árið 2006 voru hæstu vaxtagjöldin greidd öðrum fjármálastofnunum vegna innlána þeirra í sparisjóðnum. Frá og með 2007 urðu vaxtagjöld vegna almennra innlána langstærstur hluti vaxtagjalda sparisjóðsins, eða 57%. Ári síðar voru þau 59% heildarvaxtagjalda og 74% árið 2009. Helstu ástæður þessara umskipta voru breyttar markaðsaðstæður en að hluta til áhrif af samruna Sparisjóðs Kópavogs og síðar Sparisjóðs Norðlendinga við Byr sparisjóð, en hjá báðum þessum sjóðum hafði meiri hluti vaxtagjalda verið vegna almennra innlána.

Vaxtamunur hjá Sparisjóði vélstjóra og síðar Byr sparisjóði fór lækkandi frá 2002 en var ekki langt frá því sem var hjá öðrum sparisjóðum.19 Lánasamningar sparisjóðsins við Íbúðalánasjóð í árslok 2004 og á árinu 2005 skiluðu sparisjóðnum óverulegum vaxtatekjum og áttu þeir stóran þátt í því hve mikið vaxtamunurinn lækkaði. Árin 2006 og 2008 er þetta hlutfall vísast ekki nákvæmt vegna sameiningar við Sparisjóð Hafnarfjarðar og Sparisjóð Norðlendinga.

Rekstrargjöld

Rekstrargjöld Byrs sparisjóðs hækkuðu mikið á árunum 2008 og 2009. Stafaði það fyrst og fremst af framlagi í afskriftareikning útlána, sem hafði verið óverulegt allt til 2007 þegar það nífaldaðist frá fyrra ári. Framlag í afskriftareikning útlána á árunum 2008–2009 var helsta skýringin á rekstrartapi Byrs sparisjóðs þau ár og neikvæðri eiginfjárstöðu hans í árslok 2009.

Virðisrýrnun óefnislegra eigna var sérgreind fyrir árið 2008. Þá voru óefnislegar eignir í efnahagsreikningi í árslok 2007 færðar niður um 80% eða um 3,8 milljarða króna. Um var að ræða viðskiptavild sem var til orðin vegna sameiningar við aðra sparisjóði og við kaup á eignarhlut í Allianz Ísland hf. Á grundvelli virðisrýrnunarprófs í lok árs 2008 var 3,1 milljarðs króna viðskiptavild vegna samrunans við Sparisjóð Kópavogs færð niður að fullu. Að auki var viðskiptavild vegna samrunans við Sparisjóð Norðlendinga færð niður um 261 milljón króna, eða um 53%. Þá var viðskiptavild vegna eignarhlutar í Allianz Ísland hf. færð niður um 423 milljónir króna, eða um 42% af umframvirði félagsins.20

Almennur rekstrarkostnaður sparisjóðsins hækkaði mikið á árunum 2006–2008 í krónum talið, enda sameinaðist hann öðrum sparisjóðum hvert þessara ára. Hlutfall hans af meðaleignum sparisjóðsins fór þó lækkandi, sbr. mynd 4. Þetta hlutfall var oftast lægra en hjá öðrum sparisjóðum á umræddu tímabili fyrir utan árið 2006.

Með almennum rekstrarkostnaði er átt við launakostnað, afskriftir rekstrarfjármuna og óefnislegra eigna, og annan rekstrarkostnað. Launakostnaður og annar rekstrarkostnaður hélst nokkurn veginn í hendur 2001–2006, launakostnaðurinn var 53–56% af almenna rekstrarkostnaðinum. Á árinu 2007 hækkaði annar rekstrarkostnaður talsvert meira en launakostnaður og hélt sú þróun áfram allt til falls sparisjóðsins. Afskriftir rekstrarfjármuna og óefnislegra eigna voru mjög lítill hluti almenns rekstrarkostnaðar, eða á bilinu 2–3%.

Launakostnaður Sparisjóðs vélstjóra hækkaði tiltölulega lítið frá 2001 til 2005, sé tekið mið af verðbólgu og fjölgun stöðugilda. Við sameiningarnar varð mikil breyting á, ekki aðeins vegna fjölgunar stöðugilda heldur hækkaði meðallaunakostnaður á stöðugildi umtalsvert, einkum árin 2006 og 2008. Meðallaunakostnaður á stöðugildi árið 2007 hélst nánast óbreyttur frá fyrra ári og var um 7 milljónir króna, en hlutfall launakostnaðar af rekstrarkostnaði lækkaði úr 52% árið 2006 í 42% árið 2007. Á árinu 2008 fjölgaði starfsmönnum um 13% og meðallaunakostnaður á stöðugildi hækkaði um 34%.

Á mynd 5 er sýnd þróun launakostnaðar á stöðugildi hjá Sparisjóði vélstjóra, síðar Byr sparisjóði, og öðrum sparisjóðum á árunum 2001 til 2009 í samanburði við almenna launaþróun í landinu. Launavísitalan hækkaði tiltölulega jafnt og þétt á tímabilinu en meðallaunakostnaður hjá sparisjóðunum í heild fylgdi annarri þróun og hækkaði að jafnaði hraðar. Meðallaunakostnaður hjá Sparisjóði vélstjóra og síðar Byr sparisjóði þróaðist með áþekkum hætti og almenna launavísitalan fram til 2005. Eftir það breyttist hann mjög sveiflukennt. Skýringin á lækkun meðallaunakostnaðar hjá Byr sparisjóði 2007 liggur að nokkru leyti í því að launakostnaður Sparisjóðs Kópavogs fyrstu tíu mánuði ársins er ekki talinn með hjá sameinuðum sjóði. Árið 2008 hækkaði launakostnaður á stöðugildi hjá Byr verulega, langt umfram almenna launavísitölu og nokkuð meira hlutfallslega en hjá öðrum sparisjóðum. Árið 2009 lækkaði meðallaunakostnaður á stöðugildi hjá Byr sparisjóði, en þó mun minna en hjá öðrum sparisjóðum. Lækkunin það ár hjá öðrum sparisjóðum er ekki fyllilega marktæk í þessum samanburði, þar sem tveir stórir sparisjóðir hurfu þá af sjónarsviðinu.21

Engar skriflegar reglur um starfskjör voru til hjá Sparisjóði vélstjóra, utan að í samþykktum sjóðsins sagði að aðalfundur ákvæði þóknun fyrir stjórnarstörf. Ekki var samþykkt nein skrifleg starfskjarastefna fyrir Byr sparisjóð og ekkert var fjallað um fríðindi starfsmanna í samþykktum sparisjóðsins.22 Í VI. kafla í samþykktum sjóðsins, um sparisjóðsstjórn og sparisjóðsstjóra, voru reglur um kjör stjórnar. Þar sagði að fyrir störf í þágu sparisjóðsins skyldi greiða stjórnarmönnum fasta mánaðarlega þóknun sem ákveðin væri á aðalfundi ár hvert.

Engir starfsmenn hjá Byr sparisjóði höfðu kauprétt á stofnfjárbréfum en nokkuð var um kaupaukagreiðslur til starfsmanna frá 2007 þar til sparisjóðurinn féll. Í mars 2007 var framkvæmdastjóra markaðsviðskipta greidd kaupaukagreiðsla upp á 12,5 milljónir króna og forstöðumanni markaðsviðskipta 1,5 milljónir króna. Í apríl 2007 fékk framkvæmdastjóri fyrirtækjaþjónustu tæpra 5,9 milljóna króna kaupkaupagreiðslu. Þá fengu tveir forstöðumenn hvor um sig greiddan 270 þúsund króna kaupauka í júní 2007.

Í janúar 2008 voru greiddar samtals 97 milljónir króna í kaupauka til 206 starfsmanna. Þar af skiptust 42 milljónir króna á milli 21 starfsmanns sem fengu á bilinu 1 til 5 milljónir króna hver, 10 milljónir króna skiptust á milli 16 starfsmanna sem fengu hver á bilinu 500 til 800 þúsund krónur, 35 milljónir króna skiptust á milli 107 starfsmanna sem fengu 250 til 500 þúsund krónur hver og 10 milljónir króna skiptust á milli 62 starfsmanna sem fengu minna en 500 þúsund krónur hver.

Í febrúar 2008 var greiddur kaupauki til sparisjóðsstjóranna og fékk hvor þeirra 9,2 milljónir króna í sinn hlut. Að auki voru inntar af hendi tæpar 2 milljónir króna í kaupaukagreiðslur til sjö starfsmanna, sem fengu á bilinu 25 til 503 þúsund krónur hver. Þá voru greiddar 1,5 milljónir króna í kaupaukagreiðslur á árinu 2008.23 Af þeim fóru 767 þúsund krónur til framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs, 500 þúsund krónur skiptust jafnt milli fimm starfsmanna, 200 þúsund krónur voru greiddar til eins starfsmanns og 37 þúsund krónur til annars. Í september 2009 var greiddur 1,2 milljóna króna kaupauki til viðskiptastjóra. Starfsmenn Byrs sparisjóðs nutu einnig flestra þeirra fríðinda sem tíðkuðust almennt hjá sparisjóðum og er þeirra getið í umfjöllun um risnu og fríðindi í 8. kafla.

Sparisjóðurinn greiddi einn árangurstengdan bónus á tímabilinu 30. júní 2008 til 23. apríl 2010. Á fundi stjórnar 2. mars 2010 var samþykkt eingreiðsla upp á 29.448.000 krónur til framkvæmdastjóra markaðsviðskipta sem miðaðist við hagnað af markaðsviðskiptum sparisjóðsins. Gerð var grein fyrir reiknireglum í ráðningarsamningi framkvæmdastjórans og í fundargerð stjórnar kom fram að lagt hefði verið fram minnisblað frá KPMG sem staðfesti réttmæti útreiknings á kaupaukanum. Einnig var lagt fram lögfræðiálit frá lögmannstofunni Landslögum sem staðfesti að um lögmæta launakröfu væri að ræða. Framkvæmdastjóri markaðsviðskipta hefði sjálfur látið 5 milljónir króna af greiðslunni renna til forstöðumanns markaðsviðskipta.24 Á sama tíma voru einnig greiddar samtals 10 milljónir króna til 17 starfsmanna vegna vinnuálags í tengslum við fjárhagslega endurskipulagningu. Greiðsla til hvers starfsmanns var á bilinu 400 til 1.200 þúsund krónur.

Ragnar Z. Guðjónsson og Magnús Ægir Magnússon sparisjóðsstjórar voru báðir með ákvæði í ráðningarsamningi um sex mánaða uppsagnarfrest, auk ákvæðis um að „að uppsagnartíma loknum [skyldi] sparisjóðsstjóri halda fullum launum samkvæmt 2. gr. í 18 mánuði. [Óskaði] stjórn sparisjóðsins eftir því að sparisjóðsstjóri [léti] af störfum innan umsamins uppsagnartíma [skyldi] greiða honum full laun skv. 2. gr. í 24 mánuði frá því að uppsagnarfrestur byrjaði að líða“. Umsamin mánaðarlaun samkvæmt 2. gr. ráðningarsamninganna voru 2,3 milljónir króna. Sparisjóðsstjórarnir nutu einnig báðir 36% viðbótarframlags í séreignarsjóð og var það verulega umfram ákvæði kjarasamninga. Nokkrir aðrir stjórnendur voru með ákvæði í ráðningarsamningum um uppsagnarfrest og fengu til viðbótar aukagreiðslur samkvæmt starfslokasamningum á árunum 2009 og 2010.

Framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs var með ákvæði í ráðningarsamningi um níu mánaða uppsagnarfrest, auk ákvæðis um að uppsagnarfrestur yrði greiddur ef sparisjóðurinn óskaði eftir að starfsmaður léti af störfum innan uppsagnartíma. Í starfslokasamningi var gert ráð fyrir að framkvæmdastjórinn fengi greidda samtals tólf mánuði frá því að hann var leystur frá vinnuskyldu, sem voru þrír mánuðir umfram ákvæði ráðningarsamnings. Framkvæmdastjórinn hafði til afnota bifreið samkvæmt ráðningarsamningi og hélt umráðum yfir henni í tíu og hálfan mánuð eftir starfslok.

Framkvæmdastjóri Byrs verðbréfa var með ákvæði í ráðningarsamningi um níu mánaða uppsagnarfrest, auk ákvæðis um að uppsagnarfrestur yrði greiddur ef fyrirtækið óskaði eftir að starfsmaður léti af störfum innan uppsagnartíma. Í starfslokasamningi var gert ráð fyrir að framkvæmdastjórinn fengi greidda samtals ellefu mánuði frá því að hann var leystur frá vinnuskyldu, sem voru tveir mánuðir umfram ákvæði ráðningarsamnings. Framkvæmdastjórinn hafði til afnota bifreið samkvæmt ráðningarsamningi og hélt umráðum yfir henni út uppsagnarfrestinn.

Framkvæmdastjóri fjármálasviðs var með ákvæði í ráðningarsamningi um sex mánaða uppsagnarfrest, auk ákvæðis um að uppsagnarfrestur yrði greiddur ef fyrirtækið óskaði eftir að starfsmaður léti af störfum innan uppsagnartíma. Í starfslokasamningi var gert ráð fyrir að framkvæmdastjórinn fengi greidda samtals átta mánuði frá því að hann var leystur frá vinnuskyldu, sem voru tveir mánuðir umfram ákvæði ráðningarsamnings. Framkvæmdastjórinn hafði til afnota bifreið samkvæmt ráðningarsamningi og hélt umráðum yfir henni út uppsagnarfrestinn.

Yfirmaður áhættustýringar og útlánasviðs var með ákvæði í ráðningarsamningi um þriggja mánaða uppsagnarfrest, auk ákvæðis um að uppsagnarfrestur yrði greiddur ef fyrirtækið óskaði eftir að starfsmaður léti af störfum innan uppsagnartíma. Í starfslokasamningi var gert ráð fyrir að starfsmaðurinn fengi greidda samtals átta mánuði frá því að hann var leystur frá vinnuskyldu, sem voru fimm mánuðir umfram ákvæði ráðningarsamnings.

Regluvörður var með ákvæði í ráðningarsamningi um sex mánaða uppsagnarfrest en í starfslokasamningi var gert ráð fyrir að starfsmaðurinn fengi greidda samtals sjö mánuði frá því að hann var leystur frá vinnuskyldu, sem var einn mánuður umfram ákvæði ráðningarsamnings. Starfsmaðurinn hélt einnig síma og tölvufríðindum sem hann hafði notið í starfi út uppsagnartímann.

Kjarnarekstur

Afkoma af kjarnarekstri er hér reiknuð með sambærilegum hætti og í umfjöllun um aðra sparisjóði. Um nokkra nálgun er að ræða sem gerð er nánari grein fyrir í 8. kafla. Sparisjóður vélstjóra stundaði ekki umfangsmikla fjárfestingarstarfsemi og á almenna nálgunin því vel við um hann, þ.e. á árunum 2001–2005. Byr sparisjóður lagði frá upphafi meiri áherslu á fjárfestingarstarfsemi en byggði þó ekki upp viðlíka kerfi í kringum hana og t.d. Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis gerði. Þó er ljóst að nokkur hluti almenns rekstrarkostnaðar féll í þeim geira starfsemi sparisjóðsins og er sá kostnaður ekki undanskilinn í töflu 6. Vaxtakostnaður vegna fjármögnunar á fjáreignum er heldur ekki undanskilinn. Á móti þessum kostnaðarliðum koma hins vegar vaxtatekjur af markaðsskuldabréfum og fleiri verðbréfum, en þær eru meðtaldar í hreinum vaxtatekjum í töflunni.

Í töflu 6 getur að líta afkomu af kjarnarekstri Sparisjóðs vélstjóra og Byrs sparisjóðs á árunum 2001 til 2009. Kjarnareksturinn skilaði sparisjóðnum jákvæðri afkomu til og með 2006, en hún var að vísu lítill hluti hagnaðarins það ár. Á árinu 2007 var afkoma af kjarnarekstri hins vegar neikvæð um rúman 1 milljarð króna en þá hækkaði framlag í afskriftareikning útlána töluvert. Þrátt fyrir það stóðu vaxta- og þjónustutekjur ekki undir almennum rekstrarkostnaði það árið.

Árið 2008 námu hreinar vaxtatekjur sparisjóðsins 7,3 milljörðum króna, sem var nánast þreföldun frá fyrra ári, og stóðu þær ásamt þjónustutekjum undir almennum rekstrarkostnaði. Afkoma af kjarnarekstri var samt sem áður neikvæð um 21,9 milljarða króna vegna 25,4 milljarða króna framlags í afskriftareikning útlána. Árið 2009 var afkoma af kjarnarekstri neikvæð um tæplega 39 milljarða króna. Framlag í afskriftareikning útlána hækkaði þá enn frekar. Þar að auki drógust hreinar vaxtatekjur mikið saman svo vaxta- og þjónustutekjur stóðu ekki undir almennum rekstrarkostnaði.

Afkoma af kjarnarekstri hjá sparisjóðunum samanlagt var neikvæð allt umrætt tímabil, sbr. umfjöllun um kjarnarekstur sparisjóðanna í heild í 8. kafla. Sparisjóður vélstjóra hafði því sérstöðu að þessu leyti á árunum 2001–2006.

18.1.2 Efnahagsreikningur

Hér er fjallað um stærstu eigna- og skuldaliði í efnahagsreikningi Sparisjóðs vélstjóra og Byrs sparisjóðs í lok áranna 2001–2009 og þróun þeirra á tímabilinu. Í viðauka C má sjá efnahagsreikninga sparisjóðsins umrætt tímabil á verðlagi hvers árs svo og á föstu verðlagi, þ.e. árslokaverðlagi ársins 2011.

Eignir

Við samruna Sparisjóðs Hafnarfjarðar við Sparisjóð vélstjóra undir lok árs 2006 þrefölduðust heildareignir ef miðað er við eignir Sparisjóðs vélstjóra árið 2005. Mikill vöxtur var einnig árin 2007 og 2008, meiri en sem nam sameiningum á þeim árum. Í árslok 2008 námu heildareignir Byrs sparisjóðs samtals 253 milljörðum króna og höfðu rúmlega tvöfaldast á tveimur árum. Þar munaði langmest um vöxt útlána, en þau höfðu aukist um tæpa 100 milljarða króna frá því í árslok 2006. Á þessum tíma var Byr stærsti sparisjóður landsins, með 33 milljörðum króna meiri heildareignir en Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis.

Útlánin voru stærsti einstaki eignaliður sparisjóðsins allt tímabilið 2001–2009 og var vægi þeirra af heildareignum frá tæpum 60% til liðlega 70%. Lægst var hlutfallið í lok áranna 2003 og 2004 en hæst í árslok 2009, en þá nam það 71,2%. Í krónum talið urðu útlánin hæst í árslok 2008 þegar þau námu 172 milljörðum króna sem jafngilti 68% af heildareignum.

Stærstur hluti útlána sparisjóðsins var í formi skuldabréfa, eða 85% að jafnaði, en vægi yfirdráttarlána var að jafnaði 15%. Sparisjóður vélstjóra lánaði framan af tímabilinu meira til lögaðila en einstaklinga, en það tók að breytast frá og með 2004 og námu lán til einstaklinga um tveimur þriðju af útlánum sparisjóðsins í árslok 2007. Í árslok 2004 og á árinu 2005 hafði samningur við Íbúðalánasjóð veruleg áhrif til útlánaaukningar, þar sem sparisjóðurinn seldi Íbúðalánasjóði greiðsluflæði af íbúðalánum sem jók samkeppnishæfi sparisjóðsins og annarra sparisjóða á fasteignaveðlánamarkaði. Í árslok 2004 voru seld íbúðalán fyrir rúma 2 milljarða króna og á árinu 2005 fyrir rúmlega 1,6 milljarða króna. Þessir samningar skiluðu sparisjóðnum óverulegum hreinum vaxtatekjum. Eftir það var lánað í æ meira mæli til lögaðila. Útlánin eru sýnd nettó í efnahagsreikningi, þ.e. að teknu tilliti til varúðarniðurfærslu, sem er staðan á afskriftareikningi útlána. Til þess að sjá brúttóstöðu útlána þarf því að bæta stöðu afskriftareikningsins við.

Staða afskriftareiknings tók ekki að hækka að marki í krónum talið fyrr en árið 2007, meira en sem nam viðbótinni sem við bættist með sameiningunni við Sparisjóð Kópavogs, og hækkaði mikið eftir það. Staðan á afskriftareikningi í árslok 2006, eftir sameininguna við Sparisjóð Hafnarfjarðar, nam tæpum 750 milljónum króna, sem jafngilti 1% af heildarútlánum. Þetta hlutfall, oft nefnt niðurfærsluhlutfall, hafði farið lækkandi. Með umtalsverðu framlagi í afskriftareikning í árslok 2007 og 2008 hafði staðan á honum rúmlega þrítugfaldast á tveimur árum og nam í lok árs 2008 12,8% af heildarútlánum. Niðurfærsluhlutfallið hækkaði enn á árinu 2009 og var 27,8% í lok ársins. Þetta hlutfall var lægra hjá Byr sparisjóði en hjá öðrum sparisjóðum á árunum 2006–2008, en umtalsvert hærra í árslok 2009. Gengislækkun íslensku krónunnar var helsti orsakavaldur þessarar auknu niðurfærslu þótt fleira hafi komið til.

Kröfur á lánastofnanir hækkuðu verulega á árinu 2007 og námu 28,5 milljörðum króna í lok ársins.25 Jafngilti það 15,4% af heildareignum. Þar af námu kröfur á Glitni banka og Landsbanka Íslands samtals 13 milljörðum króna og kröfur á Sparisjóðabankann/Icebank 8 milljörðum króna. Kröfur á lánastofnanir drógust aftur saman á árinu 2008 og námu 11,2 milljörðum króna í árslok. Þar af námu kröfur á Glitni banka 6 milljörðum króna og kröfur á Icebank 1,7 milljörðum króna. Þessi liður lækkaði enn á árinu 2009 og nam í árslok 7,4 milljörðum króna, þar af námu kröfur á Glitni banka 6,5 milljörðum króna.

Sjóður og óbundnar innstæður í Seðlabankanum voru óverulegur eignaliður þar til Byr sparisjóður varð til. Hann hækkaði gríðarlega á árinu 2008 og nam í lok þess árs rúmlega 37 milljörðum króna, eða tæplega 15% af heildareignum. Þar af voru óbundnar innstæður tæplega 36,9 milljarðar króna og höfðu ríflega tífaldast frá fyrra ári.26 Árið 2009 dróst þessi eignaliður saman að nýju og nam 12,7 milljörðum króna í lok árs.

Fjáreignir sparisjóðsins námu á bilinu 14–20% af heildareignum sparisjóðsins frá árslokum 2001 til 2006. Eftir það lækkaði hlutur þeirra og var minnstur í árslok 2008 eða 7,6%. Í árslok 2007 var hlutfallið komið niður í 12,5%, sem var umtalsvert lægra hlutfall en hjá öðrum sparisjóðum sem heild, en þar námu fjáreignir 21,2% heildareigna í lok ársins 2007. Samsetning fjáreigna Byrs sparisjóðs var jafnframt frábrugðin því sem gerðist hjá hinum sparisjóðunum því hlutabréf vógu 55% í safni Byrs sparisjóðs en 73% af fjáreignum annarra sparisjóða í árslok 2007. Á árinu 2008 lækkaði bókfært virði fjáreigna um 17% og nam í árslok 19,2 milljörðum króna. Árið 2009 voru fjáreignir 10% af heildareignum sjóðsins, eða 20,5 milljarðar króna. Til samanburðar var hlutfall fjáreigna af heildareignum annarra sparisjóða 7,8% í lok árs 2009.

Markaðsskuldabréf o.fl. með föstum tekjum voru yfirleitt langstærsti fjáreignaliðurinn allt tímabilið, nema í árslok 2007 en þá fóru hlutabréfin upp fyrir þau. Árið 2009 voru eignir í markaðsskuldabréfum 67% fjáreigna og nam bókfært virði þeirra þá 13,7 milljörðum króna. Til samanburðar voru markaðsskuldabréf að jafnaði um 64% fjáreigna annarra sparisjóða.27

Þáttur hlutabréfa og verðbréfa með breytilegum tekjum í heildarverðmæti fjáreigna var mjög breytilegur og varð mestur í árslok 2007, eða tæp 55%, þ.e. 12,6 milljarðar króna. Á árinu 2008 varð 7,9 milljarða króna gengistap af fjáreignum sjóðsins, sem skýrðist að stærstum hluta af 6,5 milljarða króna tapi á hlutabréfum. Eignir Byrs sparisjóðs í hlutabréfum og verðbréfum með breytilegum tekjum námu 8,3 milljörðum króna í árslok 2008. Gengistap af fjáreignum nam 5,5 milljörðum króna á árinu 2009, þar af nam tap af hlutabréfum tæplega 5,4 milljörðum króna.

Sparisjóðurinn færði eign sína í nokkrum félögum með hlutdeildaraðferð. Framan af tímabilinu vógu þar mest eignarhlutir í Sparisjóðabankanum og SP-Fjármögnun hf. Liðurinn hækkaði talsvert árið 2005 en þá bættust fleiri félög í hann, svo sem Verðbréfaþjónusta Sparisjóðanna hf. og MP Fjárfestingarbanki hf. Á árinu 2006 nær þrefaldaðist bókfært virði eignarhluta í hlutdeildarfyrirtækjunum. Mest munaði um hækkun eignarhlutans í Sparisjóðabankanum, sem stóð í 3,5 milljörðum króna í árslok, og í SP-Fjármögnun hf., sem stóð þá í 1,6 milljörðum króna. Sparisjóðurinn hafði reyndar aukið hlut sinn talsvert í þessum félögum á árinu.

Á árinu 2007 seldi sparisjóðurinn 30,3% eignarhlut í Sparisjóðabankanum. Hagnaður af þeirri sölu nam 4,2 milljörðum króna og var hann tekjufærður með öðrum rekstrartekjum. Sparisjóðurinn hélt eftir 5,4% hlut í bankanum sem var færður á liðinn fjáreignir tilgreindar á gangvirði. Í rekstrarreikningi 2007 var tekjufærð nærri 2,5 milljarða króna matsbreyting á þeim hluta. Af eignarhlutum í hlutdeildarfélögum sem eftir voru í árslok 2007 var SP-Fjármögnun hf. stærst, bókfærð á 2,2 milljarða króna. Eign Byrs sparisjóðs í hlutdeildarfyrirtækjum rýrnaði mikið á árunum 2008 og 2009 því hann færði hlutdeild sína í tapi þeirra til lækkunar á þessum eignum. Í árslok 2009 nam eign í hlutdeildarfélögum tæplega 1,3 milljörðum króna eða 0,6% heildareigna.

Aðrar eignir samanstóðu af rekstrarfjármunum, óefnislegum eignum og ýmsum eignum. Bókfært virði þessara eigna var ekki umtalsvert fyrr en í lok árs 2006 þegar það nam 2,7 milljörðum króna. Þar af voru rekstrarfjármunir 29% af eigninni. Árið 2007 fjórfölduðust aðrar eignir og námu 11,9 milljörðum króna í lok árs. Óefnislegar eignir höfðu þá aukist um liðlega 3,2 milljarða króna en þar var um að ræða viðskiptavild vegna samruna við Sparisjóð Kópavogs. Rekstrarfjármunir jukust einnig um 1,1 milljarð króna og ýmsar eignir um 4,9 milljarða króna. Þar af voru 1,4 milljarðar króna vegna fjárfestingarfasteigna. Á árinu 2008 jukust aðrar eignir enn um 1,3 milljarða króna vegna kaupa og yfirtöku rekstrarfjármuna við samruna. Auk þess var tekjuskattsinneign upp á 3,2 milljarða króna eignfærð undir þessum lið, en niðurfærsla viðskiptavildar vegna samruna við Sparisjóð Kópavogs jafnaði það út. Árið 2009 hækkaði tekjuskattsinneignin um 7,2 milljarða króna og nam 10,5 milljörðum króna í árslok, en ýmsar ótilgreindar eignir minnkuðu um 2,5 milljarða króna frá fyrra ári svo að þessi liður í heild sinni stóð í 18 milljörðum króna í lok ársins.

Skuldir

Fjármögnun Sparisjóðs vélstjóra og Byrs sparisjóðs var að meginhluta gerð með innlánum. Vægi innlána af heildarskuldum á umræddu tímabili var 52–71%, mest var það í árslok 2003 og minnst í árslok 2006 og 2007. Í lok árs 2009 var eigið fé sparisjóðsins orðið neikvætt og sjóðurinn því alfarið fjármagnaður með innlánum, lántökum og dag- og veðlánaviðskiptum við Seðlabanka Íslands.

Á árinu 2008 rúmlega tvöfölduðust almenn innlán hjá sparisjóðnum, sem var langt umfram þá 14% aukningu innlána sem átti sér stað hjá öðrum sparisjóðum samtals. Hlutfall innlána af heildarskuldum sparisjóðsins var 61% í árslok 2008 en sama hlutfall var 42% hjá öðrum sparisjóðum í heild. Byr sparisjóður fjármagnaði sig þannig í meira mæli með innlánum en aðrir sparisjóðir. Í þessu samhengi má geta þess að meðalvextir innlána hjá Byr sparisjóði voru 14,4% árið 2008, en 15,2% hjá öðrum sparisjóðum.28

Lántökur voru annar meginþáttur fjármögnunar Byrs sparisjóðs og skiptust þær í tvo meginflokka. Annar flokkurinn var útgefin skuldabréf, sem voru að jafnaði um fjórðungur lántökunnar, og hinn var lán frá fjármálafyrirtækjum. Mikill vöxtur hljóp í lántökur sparisjóðsins 2006 og í árslok námu heildarlántökur sparisjóðsins 30 milljörðum króna eða þriðjungi af heildarskuldum hans. Í árslok 2008 höfðu lántökur aukist um 160% á tveimur árum en hlutfall þeirra af heildarskuldum var nær óbreytt. Þá námu lántökur 78 milljörðum króna, þar af voru 63 milljarðar króna lán frá fjármálafyrirtækum.

Skuldir við lánastofnanir, sem eru skammtímafjármögnun, tóku að aukast á árinu 2005 en ekki að marki fyrr en árið eftir. Þær námu 8,3 milljörðum króna í árslok 2006 og voru þá 8,2% af heildarskuldum sjóðsins. Á árinu 2007 hækkuðu þær um 2,5 milljarða króna og hlutfall þeirra af heildarskuldum hélst óbreytt. Þessi skuldaliður lækkaði svo á árunum 2008 og 2009 og nam tæplega 5 milljörðum króna í árslok 2009. Vægi hans af heildarskuldum var þá 2,2%.

Víkjandi skuldir, reiknaðar skuldbindingar og aðrar skuldir voru ekki fyrirferðarmiklir þættir í fjármögnun Byrs sparisjóðs. Víkjandi lán voru að meðaltali 1,6% af heildarskuldum sjóðsins, reiknaðar skuldbindingar 1,9% og aðrar skuldir einungis 1,2% af heildarskuldunum. Reiknaðar skuldbindingar samanstóðu af lífeyris- og tekjuskattsskuldbindingum.

Eigið fé

Eigið fé Sparisjóðs vélstjóra hækkaði jafnt og þétt árin 2001–2005, fyrst og fremst vegna dágóðs hagnaðar öll árin. Stofnfé hafði í mörg ár verið mjög lítið og ekki nema um og innan við 1% eigin fjár sparisjóðsins. Stofnféð var aukið mikið og rúmlega þrefaldað árið 2004. Samt var hlutfall þess af eigin fé ekki nema rétt rúm 2% í árslok 2005. Þegar sameiningin við Sparisjóð Hafnarfjarðar varð í árslok 2006 breyttist hlutfallsleg samsetning eigin fjár lítið; vægi stofnfjárins varð jafnvel ívið minna. Vægi eigin fjár í heildarfjármögnun sparisjóðsins, þ.e. bókfært eiginfjárhlutfall, var í lok áranna 2001–2006 á bilinu 13,4–17,6%, lægst í árslok 2006. Stofnfé var árlega hækkað með endurmati vegna verðlagsbreytinga og með sérstöku endurmati. Samtals námu þessar hækkanir rúmum 30 milljónum króna 2001–2005.

Á fyrsta heila starfsári Byrs sparisjóðs, 2007, hækkaði stofnféð mikið. Bæði var það vegna sameiningarinnar við Sparisjóð Kópavogs, sem hækkaði stofnfé um 480 milljónir króna, og endurmats upp á tæpar 300 milljónir króna en fyrst og fremst stórrar stofnfjáraukningar undir lok ársins upp á 26,3 milljarða króna, þeirrar langmestu í sögu sparisjóðanna. Með þessari stofnfjáraukningu 2007 hækkaði hlutfall eigin fjár af heildarfjármögnun í 28,8% í lok árs. Stofnfé nam þá 27,3 milljörðum króna og jafngilti liðlega 51% eigin fjár.

Á árinu 2008 hækkaði stofnfé um liðlega 3,3 milljarða króna, þar af voru 2,9 milljarðar króna til komnir vegna samruna við Sparisjóð Norðlendinga og tæplega 413 milljónir króna voru innborgað stofnfé. Mikið tap upp á 28,9 milljarða króna varð hins vegar á rekstri sjóðsins það ár og varð varasjóðurinn í kjölfarið neikvæður um rúma 14 milljarða króna. Tapið hafði áhrif til lækkunar eiginfjárhlutfalls. Hlutfallið lækkaði einnig vegna þess að greiddur var út arður til stofnfjárhafa upp á 13,5 milljarða króna vegna afkomu ársins 2007. Þetta var hæsta arðgreiðsla í sögu sparisjóðanna en hún nam 49,4% af endurmetnu stofnfé í árslok 2007 og nærri tvöföldum hagnaði ársins.29 Í árslok 2008 nam eigið fé 16,2 milljörðum króna, eða 6,4% af heildarfjármögnun sparisjóðsins. Varasjóðurinn var neikvæður um 14,4 milljarða króna og í árslok 2009 var hann enn neikvæðari vegna 38,8 milljarða króna taprekstrar sjóðsins og var eigið fé orðið neikvætt um 22,6 milljarða króna í lok ársins.30

Fjármálaeftirlitinu bar að fylgjast með því að eiginfjárhlutfall fjármálafyrirtækja væri ávallt yfir lögbundnu lágmarki, eða 8%, og var skýrslum um eiginfjárhlutfall skilað ársfjórðungslega til Fjármálaeftirlitsins. Sparisjóður vélstjóra uppfyllti eiginfjárkröfuna öll árin 2001–2005.

Byr sparisjóður uppfyllti lágmarkskröfur um eiginfjárhlutfall fram á mitt ár 2009. Mynd 9 sýnir hvernig eiginfjárhlutfall þróaðist en árunum 2008 og 2009 er skipt upp eftir fjórðungum til að sýna betur framvinduna. Í árslok 2008 nam eigið fé 16,2 milljörðum króna, hlutfall bókfærðs eigin fjár af heildareignum var þá 6,4% og eiginfjárhlutfallið 8,3%, einungis 0,3 prósentustigum yfir lögbundnu lágmarki. Í eiginfjárskýrslu Byrs sparisjóðs til Fjármálaeftirlitsins í lok júní 2009 var eiginfjárhlutfallið 5,28% en þar sem unnið var að fjárhagslegri endurskipulagningu sjóðsins fékk hann heimild til að starfa áfram þrátt fyrir að lágmarkseiginfjárhlutfalli væri ekki náð. Í lok september 2009 var eigið fé orðið neikvætt um 1 milljarð króna og í árslok um 22,6 milljarða króna. Þá var eiginfjárhlutfallið jafnframt neikvætt um 18,5%.31

18.1.3 Ársreikningar sparisjóða sem sameinuðust í Byr sparisjóð

Hér verður stiklað á stóru í ársreikningum þeirra sparisjóða sem sameinuðust Sparisjóði vélstjóra og Byr sparisjóði. Tilfærðar eru upplýsingar úr reikningum þeirra frá og með árinu 2001 og þar til þeir skiluðu síðasta uppgjöri sínu hver fyrir sig. Umfjöllunin er ekki eins ítarleg og um Sparisjóð vélstjóra og Byr sparisjóð. Þó eru sýndir samandregnir rekstrar- og efnahagsreikningar auk viðbótarupplýsinga sem nauðsynlegar eru þeim sem vilja átta sig á stóru línunum í starfsemi þessara sparisjóða umrædd ár. Umfjöllun um þessa sparisjóði er að finna víðar í kaflanum þar sem rætt er um einstaka starfsþætti.

18.1.3.1 Ársreikningar Sparisjóðs Hafnarfjarðar 2001–2005

Sparisjóður Hafnarfjarðar sameinaðist Sparisjóði vélstjóra á árinu 2006. Reikningshaldslegur samruni miðaðist við 30. apríl 2006 enda þótt formleg sameining hafi ekki átt sér stað fyrr en 1. desember. Í töflu 9 og töflu 10 eru sýndir rekstrar- og efnahagsreikningar Sparisjóðs Hafnarfjarðar fyrir árin 2001 til 2005 á verðlagi hvers árs. Ekki liggur fyrir rekstrarreikningur Sparisjóðs Hafnarfjarðar fyrir fyrstu fjóra mánuði ársins 2006 nema í óendurskoðuðum drögum. Honum er þó hnýtt aftan við rekstrarreikningana í töflu 9 til fróðleiks. Efnahagur Sparisjóðs Hafnarfjarðar kemur fram að fullu í efnahagsreikningi Byrs sparisjóðs 31. desember 2006.

Sparisjóður Hafnarfjarðar átti í talsverðum vandræðum um og eftir aldamótin. Mikil útlánatöp og gengistap af veltuhlutabréfum kostuðu sparisjóðinn háar fjárhæðir. Sparisjóðurinn seldi eignarhlut sinn í Kaupþingi í tvennu lagi árin 2000 og 2001. Bókfærður söluhagnaður vegna þessa nam samtals tæpum 1,2 milljörðum króna þessi tvö ár. Sparisjóðurinn fjárfesti þá mikið í óskráðum erlendum veltuhlutabréfum. Strax á árinu 2001 varð mikið tap á þessum fjárfestingum sem og árið eftir. Á árinu 2002 seldi sparisjóðurinn eignarhluti sína í Alþjóða líftryggingarfélaginu hf. og Scandinavian Holding S.A. og nam tekjufærður hagnaður vegna þessara félaga samtals um 65 milljónum króna. Árið 2003 varð viðsnúningur í afkomu af markaðsskuldabréfum því innlend bréf skiluðu þá drjúgum hagnaði. Verðbréfastarfsemin stóð algjörlega undir hagnaði sparisjóðsins árin 2004 og 2005 en afkoma kjarnastarfseminnar var neikvæð. Útlánaaukning 2004 og 2005 stafaði að verulegu leyti af samningi við Íbúðalánasjóð þar sem sparisjóðurinn seldi Íbúðalánasjóði greiðsluflæði af nákvæmlega tilgreindum íbúðaveðlánum gegn fjármögnun lánanna. Í árslok 2004 seldi sparisjóðurinn þannig frá sér íbúðalán upp á nærri 3,5 milljarða króna og árið eftir upp á 1,6 milljarða króna. Hreinar vaxtatekjur af þessum samningum voru sáralitlar og áttu mikinn þátt í að vaxtamunur sparisjóðsins fór lækkandi.

Sparisjóður Hafnarfjarðar greiddi stofnfjárhöfum arð af stofnfé þeirra á umræddu tímabili, samtals 6,3 milljónir króna. Á sama tíma var stofnfé hækkað með endurmati um samtals 3,3 milljónir króna.

18.1.3.2 Ársreikningar Sparisjóðs Kópavogs 2001–2007

Sparisjóður Kópavogs sameinaðist Byr sparisjóði síðla árs 2007. Reikningshaldslegur samruni miðaðist við 1. nóvember 2007 en formleg sameining varð 14. nóvember. Í töflu 12 og töflu 13 eru sýndir rekstrar- og efnahagsreikningar Sparisjóðs Kópavogs fyrir árin 2001 til 2006 á verðlagi hvers árs. Ekki liggur fyrir rekstrarreikningur Sparisjóðs Kópavogs fyrir fyrstu tíu mánuði ársins 2007 nema í óendurskoðuðum drögum. Honum er þó hnýtt aftan við rekstrarreikningana í töflu 12 til fróðleiks. Efnahagur Sparisjóðs Kópavogs kemur fram að fullu í efnahagsreikningi Byrs sparisjóðs 31. desember 2007.

Sparisjóður Kópavogs tók upp reikningsskil í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS) á árinu 2007. Áhrif þeirrar breytingar voru þau að eigið fé sparisjóðsins miðað við 1. janúar 2007 hækkaði um tæplega 150 milljónir króna frá því sem það var 31. desember 2006 samkvæmt fyrri reikningsskilaaðferðum. Hækkunin skýrðist einkum af matsbreytingum á fjáreignum tilgreindum á gangvirði.

Sparisjóður Kópavogs tók árið 1998 að gefa út stofnfjárbréf í svokölluðum B-flokki. Þau áttu að njóta hærri arðgreiðslna en almennu stofnfjárbréfin sem nam 4% ofan á samþykkt arðgreiðsluhlutfall. Þetta var gert í því skyni að laða að nýja stofnfjárhafa og styrkja með því eigið fé sparisjóðsins. Þessi nýbreytni tókst illa og tók sjóðurinn að kaupa upp B-flokksbréfin og gefa út bréf í A-flokki í staðinn.32 Sparisjóðurinn greiddi stofnfjárhöfum arð vegna áranna 2001–2006, samtals 411 milljónir króna, og á sömu árum var stofnfé hækkað með endurmati um samtals 94 milljónir króna.

Sparisjóðurinn átti í töluverðum erfiðleikum um aldamótin. Útlánatöp voru þónokkur og áhættusamar fjárfestingar í veltuhlutabréfum leiddu til mikils gengistaps. Samt hafði sparisjóðurinn innleyst verulegan hagnað vegna eignarhlutar í Kaupþingi hf. sem hann seldi á árunum 2000 og 2001. Fyrra árið nam gengishagnaður og söluhagnaður vegna þessa um 400 milljónum króna og síðara árið 30 milljónum króna. Næstu tvö til þrjú ár var unnið að því að rétta reksturinn við. Dregið var úr útlánum, starfsfólki fækkað og fjáreignir seldar. Endanleg útlánatöp á árunum 2001–2004 námu 780 milljónum króna. Sparisjóðurinn tók aftur að skila hagnaði 2004 og fór hann vaxandi allt þar til hann sameinaðist Byr sparisjóði 2007. Afkoma af kjarnastarfsemi hafði verið neikvæð um margra ára skeið en varð jákvæð árin 2004 og 2005. Eftir að lánasamstarf við Íbúðalánasjóð hófst í árslok 2004 tóku útlán að vaxa að nýju. Sparisjóðurinn seldi Íbúðalánasjóði þannig greiðsluflæði af íbúðalánum fyrir 1,6 milljarða króna í árslok 2004 og fyrir 645 milljónir króna árið 2005. Þetta samstarf skilaði óverulegum hreinum vaxtatekjum og því var tekið að leggja áherslu á fjárfestingar að nýju. Þær héldu síðan uppi afkomu sparisjóðsins allt til sameiningarinnar við Byr.

18.1.3.3 Ársreikningar Sparisjóðs Norðlendinga 2001–2007

Sparisjóður Norðlendinga sameinaðist Byr sparisjóði í mars 2008. Reikningshaldslegur samruni miðaðist við 1. apríl 2008 enda þótt formleg sameining hafi átt sér stað 19. mars. Í töflu 15 og töflu 16 eru sýndir rekstrar- og efnahagsreikningar Sparisjóðs Norðlendinga fyrir árin 2001–2007 á verðlagi hvers árs. Ekki liggur fyrir rekstrarreikningur Sparisjóðs Norðlendinga fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins 2008. Í ársreikningi Byrs sparisjóðs 2008 kemur þó fram í skýringarlið 70 að ef sameiningin hefði átt sér stað í ársbyrjun þá hefði afkoma Byrs sparisjóðs verið 95 milljónum króna hærri. Efnahagur Sparisjóðs Norðlendinga kemur fram að fullu í efnahagsreikningi Byrs sparisjóðs 31. desember 2008.

Sparisjóður Norðlendinga seldi hlut sinn í Kaupþingi hf. á árinu 2000 og innleysti með því söluhagnað upp á 125 milljónir króna. Skattareglur ýttu undir það að sjóðurinn fjárfesti að nýju í hlutabréfum ef hann vildi komast hjá að greiða tekjuskatt af söluhagnaði. Af þeim sökum keypti sparisjóðurinn umtalsvert af hlutabréfum á næstu tveimur árum en strax á árinu 2001 varð mikið gengistap á fjáreignum. Sparisjóðurinn tapaði þá nærri 100 milljónum króna á óskráðum erlendum veltuhlutabréfum og horfðist í augu við tap af starfseminni eftir margra ára rekstrarhagnað. Brugðið var á það ráð árið 2002 að selja talsvert af hlutabréfum og skilaði sjóðurinn aftur hagnaði það ár. Árið 2003 var líka erfitt hvað fjárfestingartekjur varðaði. Þá var færð niður að fullu 17 milljóna króna viðskiptavild vegna kaupa á hlut í Íslenskum verðbréfum. Á þessum árum var það þó afkoman af kjarnastarfsemi sem hélt hagnaðinum réttum megin við strikið. Sparisjóður Norðlendinga hafði um skeið verið með einhvern hæsta vaxtamun allra sparisjóða. Það tók þó að breytast frá og með árinu 2004. Undir lok þess árs gerði sparisjóðurinn samning við Íbúðalánasjóð sem gekk út á að sparisjóðurinn seldi Íbúðalánasjóði greiðsluflæði af nákvæmlega tilgreindum íbúðalánum gegn fjármögnun þeirra. Í árslok 2004 var samið um sölu og fjármögnun slíkra lána fyrir um 460 milljónir króna. Þá keypti Íbúðalánasjóður skuldabréf af sparisjóðnum með veði í safni fasteignaveðlána fyrir 572 milljónir króna. Þessir samningar skiluðu óverulegum hreinum vaxtatekjum og lækkuðu því vaxtamun sparisjóðsins umtalsvert. Afkoma af kjarnastarfsemi varð neikvæð frá og með árinu 2005. Árið 2004 tóku fjáreignir að gefa betur af sér og tekjufærði sparisjóðurinn þá nærri 100 milljóna króna hlutdeild í hagnaði Sparisjóðabankans hf. og Íslenskra verðbréfa hf. Sú þróun hélt áfram allt til þess að sparisjóðurinn sameinaðist Byr sparisjóði á árinu 2008.

Sparisjóður Norðlendinga greiddi stofnfjárhöfum arð af stofnfé þeirra á umræddu tímabili, samtals 1,3 milljarða króna. Þar af var síðasta greiðslan 1.280 milljónir króna. Sú var vegna ársins 2007. Hún var 51,2 milljónir króna umfram það sem reglur leyfðu. Einnig var hún athyglisverð fyrir þær sakir að hún nam 44% af stofnfé í lok árs 2007 og að hún var 128% hærri en hagnaður ársins. Stofnfé var hækkað með endurmati á tímabilinu um samtals 38,2 milljónir króna.

18.2 Útlán

Útlán Byrs sparisjóðs til viðskiptavina námu minnst 64% af efnahag sparisjóðsins á árunum 2006–2009, en mest voru þau 71% af heildareignum sparisjóðsins. Útlán voru tæpir 73 milljarðar króna árið 2006 en höfðu rúmlega tvöfaldast árið 2008 er þau náðu hámarki í 172 milljörðum króna. Árið 2009 lækkuðu útlán til viðskiptamanna í 145 milljarða króna en lækkunina má einkum rekja til afskrifta af lánum.

Í lok árs 2006 voru gengisbundin útlán Byrs tæplega 16% af heildarútlánum. Hlutur þeirra í útlánasafni sparisjóðsins jókst á árinu 2007, sérstakleg á síðasta ársfjórðungi þess árs, en á árinu 2008 skekkist samanburður milli lána í erlendum myntum og íslenskum krónum við gengisfall krónunnar í árslok 2008 sem varð til þess að hlutfall gengistryggðra lána varð mun hærra en verið hafði. Í upphafi árs 2009 hafði töluverðum hluta gengistryggðra lána verið skilmálabreytt í lán í íslenskum krónum og því hækkaði hlutfall þeirra.

Samkvæmt sundurliðunum úr ársreikningi voru skuldabréf um 80% útlána sparisjóðsins en næstalgengust voru yfirdráttarlán. Þetta víkur frá því sem fram kemur á töflum yfir allt sparisjóðakerfið, þar sem flokkurinn „annað“ fór sífellt stækkandi, en undir hann flokkuðu margir sparisjóðir lánasamninga sem gerðir voru.

Útlán til einstaklinga voru stærsti hluti útlána Byrs sparisjóðs til viðskiptavina, eða um 60% á árunum 2006–2008. Árið 2009 hækkaði hlutur útlána til fyrirtækja í þjónustustarfsemi úr 25% í 40% af heildarútlánum. Var sú aukning einkum á kostnað lána til einstaklinga en vægi þeirra lækkaði úr 64% í árslok 2007 í 41% í lok árs 2009.33

Afskriftir jukust verulega á árinu 2008 en árslokastaða afskriftareiknings útlána hækkaði úr 1% af útlánum árið 2007 í tæp 28% af útlánum í árslok 2008.

18.2.1 Athugasemdir eftirlitsaðila við útlánasafn Byrs sparisjóðs

Innri endurskoðandi Byrs sparisjóðs gerði athugun á ýmsum þáttum í útlánasafni sparisjóðsins. Könnun hans fólst meðal annars í úttekt á vinnubrögðum og ferlum við lánveitingar, vanskilum útlána og sérgreindum afskriftum og yfirferð á fyrirgreiðslu til venslaðra aðila og starfsmanna. Einnig var gerð greining og samantekt á heildarskuldbindingum og tryggingum stærstu lánþega sparisjóðsins. Í skýrslum innri endurskoðanda vegna áranna 2007, 2008 og 2009 var þó hvorki getið þeirra viðskiptamanna sem skoðaðir höfðu verið né hver niðurstaða skoðunarinnar hafði verið. Í skýrslunni fyrir árið 2009 sagði um stærstu lánþegana:

Staða stærstu aðilanna 2009 var síbreytileg á þeim tíma sem verið var að vinna skýrsluna, m.a. að aðilar urðu gjaldþrota og því fallnir út úr þeim hópi sem þeir tilheyrðu, tengingar milli aðila breyttust á vinnslutímanum þannig að stöðugt var verið að breyta upplýsingum og því var það mat innri og ytri endurskoðanda að skýrslan sýndi ekki réttar upplýsingar um stöðu aðila m.v. þann tímapunkt sem upplýsingar voru fyrst teknar út.34

Í skýrslu innri endurskoðanda vegna ársins 2008 var gerð athugasemd við vanskil hjá starfsmönnum sparisjóðsins og í skýrslunni vegna ársins 2010 sagði að margir starfsmenn væru nokkuð skuldsettir, meðal annars vegna lána til stofnfjárkaupa.

Ytri endurskoðandi sparisjóðsins hjá KPMG fór yfir afskriftareikning útlána samkvæmt endurskoðunarskýrslum á árunum 2005–2008.35 Í mars 2009 skilaði KPMG sérstakri skýrslu um skoðun á útlánum Byrs sparisjóðs. Helstu niðurstöður voru þær að fjármálakreppan hefði haft slæm áhrif á útlánasafn sparisjóðsins og væri ljóst að stórar fjárhæðir myndu tapast. Stærstu fyrirsjáanlegu útlánatöpin tengdust Baugi Group hf., Stoðum hf. (áður FL Group hf.), Runnafélögunum, Hansa ehf. og eignarhaldsfélögunum sem keyptu hluti í Sparisjóðabanka Íslands hf. (þá Icebank hf.) haustið 2007.36 Fram kom að Sparisjóðurinn hefði fært stór framlög í afskriftareikning vegna útlána til þessara aðila en ljóst þótti að þau myndu tapast að fullu. Þá var einnig bent á slæma stöðu fasteignafélaga og annarra félaga með hátt hlutfall skulda í erlendri mynt.37

Fjármálaeftirlitið framkvæmdi vettvangsathugun á útlánaáhættu Byrs sparisjóðs í september 2007 og gaf út skýrslu um hana í október sama ár. Helstu niðurstöður voru þær að nokkuð skorti á yfirsýn yfir útlánamál hjá sparisjóðnum. Þá taldi Fjármálaeftirlitið óeðlilegt að stjórnendur eða stjórnarmenn eins fjármálafyrirtækis sætu í stjórn annars, með tilliti til hagsmunaárekstra, hæfis og heilbrigðra viðskiptahátta. Jafnframt væri óljóst samkvæmt lánareglum hverjar útlánaheimildir sparisjóðsstjóra væru, en ekki mætti leika vafi á því hve háar upphæðir sparisjóðsstjóri mætti samþykkja án samráðs við aðra. Eins væru lánareglur óskýrar hvað varðaði hlutverk og heimildir lánanefndar, auk þess sem hún héldi ekki fundargerðir. Áhættustýring sparisjóðsins hefði ekki gott yfirlit yfir útlánaáhættu sparisjóðsins og ekki væru framkvæmd regluleg álagspróf eða aðrar greiningar til að meta útlánaáhættu. Var sérstaklega bent á að samkvæmt leiðbeinandi tilmælum Fjármálaeftirlitsins nr. 2/2004 bæri sparisjóðnum að halda utan um umfang gengisbundinna útlána til aðila sem ekki hefðu tekjur í erlendum gjaldmiðlum. Athugun á nokkrum lántökum sparisjóðsins hefði leitt í ljós tryggingavöntun vegna lána og að skráning í tölvukerfum sparisjóðsins endurspeglaði ekki raunverulega stöðu láns. Þegar lánsbeiðni væri samþykkt þyrfti að koma skýrt fram ef veita ætti lán án trygginga og rökstyðja slíkt frávik frá meginreglu. Stjórnarmenn og starfsmenn sem tengdust málum sem kæmu fyrir stjórn til afgreiðslu ættu undantekningarlaust að víkja af fundi á meðan viðkomandi mál væri tekið fyrir. Við úttekt Fjármálaeftirlitsins á útlánaáhættu tengdri verðbréfum var gerð athugasemd við að markaðsverð trygginga vegna lána með veði í verðbréfum væri aðeins uppfært ársfjórðungslega. Fylgdi því töluverð tapsáhætta að eftirlit væri ekki framkvæmt daglega. Þá þyrfti að meta reglulega bréf sem væru til tryggingar útlánum sjóðsins en ekki skráð á verðbréfamarkaði. Vitnaði Fjármálaeftirlitið til skýrslu innri endurskoðanda Byrs sparisjóðs frá 15. maí 2007 þar sem fram kom að við skoðun á stærstu áhættuskuldbindingum sparisjóðsins hefði 2,7 milljarða króna vantað upp á að formlegar tryggingar væru til staðar í öllum tilvikum. Taldi Fjármálaeftirlitið að æskilegt væri að reglulega væri gert yfirlit yfir útlán þar sem tryggingar skorti.38

Hvað varðaði mat á tengslum og meðhöndlun tengdra aðila var gerð athugasemd við að sparisjóðurinn héldi ekki með formlegum hætti utan um tengsl viðskiptavina sinna. Beindi Fjármálaeftirlitið því til forsvarsmanna Byrs sparisjóðs að það yrði gert. Tengsl viðskiptavina þyrftu að liggja fyrir þegar lán væri veitt og vera reglulega endurskoðuð og skráð. Fjármálaeftirlitið gerði einnig athugasemd við að aðila hefði vantað inn á yfirlit yfir viðskipti við venslaða aðila, en brýnt væri að slíkt yfirlit væri rétt á hverjum tíma. Þá væru afskriftareglur útlána ekki undirritaðar og hefðu ekki verið samþykktar af stjórn sparisjóðsins. Niðurstöður könnunarinnar voru sendar sparisjóðsstjóra Byrs sparisjóðs með bréfi 24. október 2007 og krafist úrbóta í samræmi við athugasemdirnar í skýrslunni innan tiltekinna tímamarka, ýmist þegar í stað eða innan fjögurra vikna. Skýrslan skyldi tekin til umfjöllunar í stjórn Byrs sparisjóðs og fundargerð þess stjórnarfundar send til Fjármálaeftirlitsins.39 Var það gert á fundi stjórnar sparisjóðsins 1. nóvember 2007.

Í bréfi Fjármálaeftirlitsins sem fylgdi skýrslunni var óskað eftir úrbótum innan tiltekinna tímamarka. Jafnframt fór eftirlitið fram á að ytri endurskoðandi sparisjóðsins yfirfæri úrbæturnar að fresti loknum og skilaði skýrslu um þær til Fjármálaeftirlitsins fyrir 31. janúar 2008.40 Í svari endurskoðandans frá 7. febrúar 2008 var greint frá að búið væri að samþykkja nýjar útlánareglur, fjölga starfsfólki í áhættustýringu og skerpa á verkefnum þeirra. Misræmi í útlánaheimildum sparisjóðsstjóra hefði verið lagfært og nýjar útlánaheimildir samþykktar af stjórn. Þá hefðu hlutverk og heimildir lánanefndar verið skilgreind og ráðinn lánastjóri sem bæri ábyrgð á stöfum lánanefndar og hefði meðal annars það hlutverk að rita fundargerðir lánanefndar. Starfsmönnum áhættustýringar hefði verið fjölgað úr einum í þrjá og auk þess hefði álagsprófum og greiningum fjölgað. Búið væri að leiðrétta rangar skráningar í tölvukerfi sem bent hefði verið á, og rætt hefði verið við starfsmenn um mikilvægi útlánaskráningar. Sparisjóðurinn hefði sett inn í nýsamþykktar útlánareglur ákvæði um að halda skyldi utan um fjárhagsleg tengsl viðskiptavina með formlegum hætti og þau þyrftu að liggja fyrir við upphaf lánveitingar. Fjárhagsleg tengsl viðskiptavina sem væru yfir 5% af eiginfjárgrunni skyldi endurskoða reglulega. Þá hefði innri endurskoðandi, í tengslum við utanumhald um venslaða aðila, útbúið lista yfir stjórnarmenn og starfsmenn og aðila tengda þeim og óskað eftir því að þessir aðilar staðfestu upplýsingarnar og létu innri endurskoðun vita um leið og breytingar ættu sér stað. Afskriftareglur útlána hefðu svo verið samþykktar á stjórnarfundi sparisjóðsins 24. janúar 2008.41

18.2.2 Útlánareglur

Fyrstu útlánareglur Byrs sparisjóðs voru samþykktar á stjórnarfundi 18. janúar 2007 en sparisjóðurinn var þá nýtekinn til starfa eftir sameiningu Sparisjóðs vélstjóra og Sparisjóðs Hafnarfjarðar. Reglunum fylgdi ekki listi yfir skiptingu útlánaheimilda eins og með síðari útlánareglum, en reglur Byrs sparisjóðs um áhættuviðmið og áhættustýringu, sem staðfestar voru af stjórn sparisjóðsins 16. maí 2007, komu að nokkru leyti að sama gagni, en þar var að finna reglur sem almennt voru í útlánareglum fjármálafyrirtækja.

Í skýrslu Fjármálaeftirlitsins frá 24. október 2007, þar sem meðal annars var gerð úttekt á útlánareglum sparisjóðsins, komu fram athugasemdir um að útlánareglur væru ekki nægjanlega skýrar.42 Í kjölfarið voru útlánareglur Byrs sparisjóðs yfirfarnar og nýjar reglur staðfestar, nokkuð breyttar, af stjórn sparisjóðsins 24. janúar 2008. Þriðja útgáfa útlánareglnanna leit síðan dagsins ljós 9. október 2009. Reglurnar voru þá enn ítarlegri, en með þeim var reynt að taka mið af þeim erfiðleikum sem steðjuðu að sparisjóðnum eftir hrun viðskiptabankanna haustið 2008, svo sem með takmörkunum á útlánaheimildum hvers starfsmanns. Með útlánareglum 2008 og 2009 voru fylgiskjöl þar sem gerð var grein fyrir útlánaheimildum hvers starfsmanns. Meginregla í öllum útgáfum reglnanna var að við hverja lánveitingu skyldi haft yfirlit yfir skuldbindingar lántakans og að teknar skyldu tryggingar fyrir lánum.

Í útlánareglunum 2008 miðaði sparisjóðurinn við að stórar áhættuskuldbindingar skyldu að jafnaði vera innan við 20% af eiginfjárgrunni en hlutfallið var lækkað í 15% í reglunum 2009. Í útlánareglum frá árinu 2008 var ný regla um að allir lánahópar eða einstakir lántakar með skuldbindingar yfir 5% af eiginfjárgrunni skyldu skoðaðir reglulega og skoðunin skráð. Þá sagði að „fjárhagsleg tengsl viðskiptavina [þyrftu] að liggja fyrir við upphaf lánveitinga“ og var vísað í verklagsreglur um fjárhagsleg tengsl viðskiptavina. Í reglunum frá 2009 skyldi, við allar lánveitingar yfir 100 milljónum króna, skoðuð samanlögð heildarfyrirgreiðsla til fjárhagslega tengdra aðila og kannað hvort fjárhagsleg tengsl hefðu breyst frá síðustu lánveitingu. Skuldbindingar vegna einnar atvinnugreinar skyldu ekki vera hærri en 30% af heildarútlánum sparisjóðsins.

Sá kafli útlánareglnanna sem fjallaði um tryggingar fyrir útlánum var nokkuð samhljóða í öllum útgáfunum. Almennt var miðað við að tryggingar væru nægar fyrir viðkomandi láni og að ábyrgðarmenn væru færir um að taka að sér greiðslu láns ef svo bæri undir. Fram til ársins 2008 voru almennar reglur um tryggingar fyrir útlánum. Vísað var til þess að leita skyldi til fagaðila við mat á tryggingarandlagi ef þörf krefði. Í tryggingarkafla útlánareglna fyrir árið 2007 var ekki að finna neinar beinar viðmiðanir um veðhlutfall, til dæmis vegna íbúðalána eða lána til hlutabréfakaupa. Samhliða útlánareglum sem samþykktar voru í janúar 2008 voru settar sérstakar starfsreglur um veðsetningarhlutföll tryggingarandlaga sem áfram var vitnað til með nýjum útlánareglum frá september 2009.

Almenna reglan var sú að lánað skyldi gegn tryggingum en að ákveðnum skilyrðum uppfylltum var þó heimilt að lána án þess að tryggingar væru teknar. Mátti hvert slíkt lán ekki vera hærra en sem nam 25% af endurmetnu eigin fé lántakandans og þá ekki til lengri tíma en þriggja ára. Væri tryggingarlaust lán til lengri tíma en þriggja ára skyldi lánsfjárhæðin ekki fara yfir 10% af endurmetnu eigin fé lántakandans. Útlán án trygginga til lántaka eða lánahóps skyldu aldrei nema hærri fjárhæð en sem svaraði til 3% af eiginfjárgrunni sparisjóðsins. Þeir aðilar sem gátu fengið lán án trygginga voru rekstraraðilar skráðir á aðallista Kauphallar Íslands og með mjög góða fjárhagsstöðu, viðskiptasögu og greiðslugetu. Samþykki stjórnar Byrs sparisjóðs þurfti þó ávallt fyrir því að heildarútlán þessara aðila færu yfir 5% af eiginfjárgrunni sjóðsins. Lán án trygginga mátti einnig veita ríkisfyrirtækjum, sveitarfélögum með trausta fjárhagsstöðu og rekstraraðilum með trausta fjárhagsstöðu, greiðslugetu og góða viðskiptasögu við Byr sparisjóð.

Í útlánareglum frá 2008 var meginreglan sú að veita ekki lán með handveði í óskráðum félögum. Lánanefnd og sparisjóðsstjóri höfðu heimild til að víkja frá þessu en þá skyldu veð aldrei fara yfir 30% af matsvirði. Ef taka átti veð í óskráðum félögum þurfti að fara fram sérstakt mat sem skilgreint var í starfsreglum um veðsetningarhlutföll tryggingarandlaga og í verklagsreglum um veð í óskráðum hlutum einkahlutafélaga. Þar sagði:

Hlutir í einkahlutafélögum eru eðli sínu samkvæmt lakari trygging en ákjósanlegt er. Starfsmanni ber ávallt að reyna að fá aðrar haldbetri tryggingar samhliða/eða í stað trygginga í óskráðum bréfum, svo sem sjálfskuldarábyrgð eða fasteignaveð.

Mjög skýr regla var um að fara skyldi með allar skuldskeytingar eða skilmálabreytingar sem nýjar lánveitingar og það grunnsjónarmið að tryggja hag sparisjóðsins væri ávallt haft að leiðarljósi. Þá skyldi það metið sérstaklega hvort hægt væri að treysta greiðslugetu lántakanda.

Útlánaheimildir sparisjóðsstjóra voru breytilegar eftir árum. Árið 2007 var sparisjóðsstjóri með útlánaheimild sem nam 10% af eiginfjárgrunni sparisjóðsins, eða um 930 milljónum króna, 30. júní 2007.43 Fjármálaeftirlitið benti hins vegar á misræmi milli þessara heimilda og heimilda sem sparisjóðsstjóri hafði samkvæmt sérstökum útlánaheimildum, en þar mátti hann lána allt að 800 milljónir króna. Ákvæðin voru samræmd í reglunum 2008 þar sem heimildin var fastsett við 1,5 milljarða króna en í reglunum 2009 var einstök lánafyrigreiðsla lækkuð í 800 milljónir króna en heildarfyrirgreiðsla fyrir lántakandann eða lánahópinn gat numið allt að 1,5 milljörðum króna.

Í útlánareglunum frá 2007 var lánanefnd skilgreind, en hún skyldi fjalla um og taka ákvörðun um allar lánveitingar til rekstraraðila umfram 5 milljónir króna, auk íbúðarlána umfram 25 milljónir króna, eða þar sem heildarfyrirgreiðsla til eins aðila færi yfir 40 milljónir króna. Þá skyldi lánanefnd fjalla um lánveitingar þar sem um óvenjulega fjármögnun væri að ræða eða sérstaka áhættutöku. Áhættunefnd skyldi hafa eftirlit með lánarömmum fyrir stóra lántaka og yfirfara með reglulega millibili stöðu aðila innan lánaramma, ásamt því að skila yfirliti yfir stöðu aðila til innri endurskoðunar. Í reglum frá árinu 2008 var útlánaheimild lánanefndar sú sama og sparisjóðsstjóra, en nefndinni gert heimilt að veita lánastjóra umboð til afgreiðslu lána á lánanefndarfundum. Hlutverk lánanefndar var sambærilegt milli ára og skyldi hún taka til afgreiðslu allar lánveitingar umfram heimildir framkvæmdastjóra bankaþjónustu, fyrirtækjaviðskipta og S24. Í reglunum frá árinu 2009 var áhættunefnd falið að fjalla um skuldbindingar sem voru í tapsáhættu og vísað hafði verið til sérmeðferðar. Í úttekt innri endurskoðanda á vinnu áhættunefndar í ágúst 2009 kom fram að áhættunefnd væri í raun umboðslaus þar sem hennar væri hvergi getið í skipuriti sparisjóðsins. Nefndin hefði engin tök á að fara yfir þau mál sem steðjuðu að og þörfnuðust umfjöllunar. Þá kom fram við skoðun að athugasemdir sem áhættunefnd gerði vegna útlána væru ekki teknar fyrir í lánanefnd.

18.2.3 Reglur um framlög í afskriftareikning og endanlegar afskriftir útlána

Starfsreglur um framlög í afskriftareikning og endanlegar afskriftir útlána voru samþykktar í stjórn Byrs sparisjóðs í janúar 2008. Samkvæmt reglunum skyldu þeir lánþegar koma til skoðunar við mat á afskriftarframlögum sem a) hefðu verið í vanskilum í tvo mánuði eða lengur; b) hefðu óskað eftir greiðslustöðvun; c) gert hefði verið árangurslaust fjárnám hjá; d) væru gjaldþrota; e) hefðu lagt fram beiðni um nauðasamninga, eða f) aðrar ástæður ættu við sem skertu gjaldþol eða greiðslugetu og gerðu það líklegt að ekki yrði staðið að fullu við lánasamninga. Þá skyldi færa endanlega afskrift hjá lántaka i) við lok gjaldþrotaskipta; ii) við skuldaeftirgjöf eða niðurfærslu skulda; iii) þegar Byr hefði tekið ákvörðun um lok innheimtuaðgerða; eða iv) þegar ljóst mætti vera að útlán væri endanlega tapað.

Stjórn Byrs sparisjóðs skyldi taka allar ákvarðanir um endanlegar afskriftir útlána samkvæmt tillögum sparisjóðsstjóra. Nýjar reglur um framlög í afskriftareikning og endanlegar afskriftir voru samþykktar í stjórn Byrs sparisjóðs 30. september 2009 og voru ákvæðin óbreytt frá fyrri reglum.

18.2.4 Stærstu lántakendur

Rannsóknarnefndin valdi úrtak lántakenda sparisjóðsins til sérstakrar skoðunar og greiningar með það að markmiði að varpa ljósi á útlánastefnu sjóðsins, starfshætti í útlánastarfsemi og ástæður fyrir afskriftum útlána. Kannað var hvort útlánastarfsemin hefði verið í samræmi við reglur sjóðsins og gildandi lög og reglur.

Skýrslum um stórar áhættuskuldbindingar til Fjármálaeftirlitsins samkvæmt reglum nr. 216/2007 var ætlað að varpa ljósi á áhættu fjármálafyrirtækis af útlánum og öðrum slíkum skuldbindingum og aðstoða við áhættustýringu.44 Stærstu skuldbindingarnar voru skilgreindar af sparisjóðnum á skýrslunum í samræmi við reglurnar og liggja skýrslur á tímabilinu 2007–2009 til grundvallar umfjölluninni.

Úrtak stærstu lántakenda miðaðist við þessar stærstu skuldbindingar sjóðsins. Til viðbótar þeim komu til skoðunar valdir aðilar sem voru með sérgreint framlag í afskriftareikning á árunum 2008 og 2009. Þar sem niðurfærsluhlutfall útlánasafnsins var lágt fram til ársins 2008 var ekki talin ástæða til að fara lengra aftur í athugun á stórum afskriftaframlögum, en afskriftaframlög ársins 2007 eru þó birt hér til upplýsingar.

Umfjöllunin beinist að lántökum í úrtakinu og aðilum fjárhagslega tengdum þeim, eins og sparisjóðurinn mat tengsl þeirra og skilgreindi sem sameiginlega áhættuskuldbindingu í skýrslum til Fjármálaeftirlitsins. Skoðaðar voru helstu lánveitingar til þessara lánahópa á árunum 2005–200945 og kannað hvort útlánastarfsemi sparisjóðsins hefði verið í samræmi við lánareglur. Umfjöllunin er ekki tæmandi en er ætlað að gefa mynd af útlánasafni Byrs sparisjóðs og varpa ljósi á útlánastefnuna.

Í úrtakinu voru 29 lánahópar og nam fyrirgreiðsla við þá samtals 30 milljörðum króna í árslok 2007, eða um 25,2% af heildarútlánum sjóðsins. Stærð úrtaksins miðað við árslok 2008 var 53,5 milljarðar króna, eða 27,1% af heildarútlánum sparisjóðsins. Á sama tíma námu sérgreind framlög í afskriftareikning útlána vegna aðila í úrtakinu um 82,1% af sérgreindum niðurfærslum sparisjóðsins í heild. Rétt er að geta þess að upplýsingar um sérgreind framlög í afskriftareikning 2009 byggjast á óendurskoðuðu uppgjöri sparisjóðsins.

Útlán til aðila í úrtakinu hækkuðu um 23,4 milljarða króna, eða um 78%, frá árslokum 2007 til ársloka 2008 og má að stórum hluta rekja þá hækkun til gengisfalls íslensku krónunnar á því tímabili. Í árslok 2007 og 2008 voru gengisbundin lán þriðjungur af heildarútlánum sparisjóðsins. Á árinu 2008 rýrnuðu veð mikið og þá einkum verðmæti hlutabréfa og stofnfjárbréfa. Auk þess varð lækkun og ákveðin hjöðnun á fasteignamarkaði. Endurspeglaðist þetta í auknum framlögum í afskriftareikning sparisjóðsins þar sem algengt var að tryggingar fyrir lánum væru í formi fasteigna eða verðbréfa og þá einkum hlutabréfa.

Þannig voru lán til félaga sem keyptu hlutabréf í Icebank hf. á árinu 2007 í japönskum jenum og svissneskum frönkum með veði í hlutabréfunum sjálfum. Í kjölfar yfirtöku Fjármálaeftirlitsins á stóru viðskiptabönkunum þremur var ljóst að staða Icebank hf. var mjög erfið og veðin fyrir lánunum því verðlítil, en þau urðu að lokum verðlaus.46 Í árslok 2008 höfðu skuldbindingar þessara félaga verið færðar að fullu í sérgreindan afskriftareikning hjá Byr sparisjóði. Hækkun lána í erlendri mynt reyndist almennt vera eitt helsta vandamál í útlánasafni Byrs sparisjóðs síðla árs 2008, líkt og í flestum öðrum sparisjóðum. Þegar lánin hækkuðu fylgdu greiðslugeta og virði trygginga ekki sömu þróun, og endurmeta þurfti vænt greiðsluflæði og endurheimtur lánanna.

Hér á eftir fer umfjöllun um 18 lánahópa hjá Byr sparisjóði sem rannsóknarnefndin taldi ástæðu til að fjalla nánar um. Farið verður yfir helstu lánveitingar til umræddra aðila, hvort þær hafi verið í samræmi við lánareglur og gildandi lög og reglur á fjármálamarkaði og fjallað um mat sparisjóðsins á afskriftaþörf vegna þeirra. Að öðru leyti gaf skoðun á öðrum lánahópum í úrtakinu ekki tilefni til sérstakrar umfjöllunar.

Baugur Group hf. og tengdir aðilar

Baugur Group hf. var fjárfestingarfélag sem átti og rak ýmsar smásöluverslanir á Íslandi, í Bretlandi og í Danmörku.47 Mikil eignatengsl voru milli Fjárfestingafélagsins Gaums ehf. og Byrs sparisjóðs, eins og sjá má á mynd 11, en í lok desember 2008 átti Fjárfestingafélagið Klettur ehf. 3,4% af stofnfé sparisjóðsins. Félagið hafði áður átt stofnfjárbréf í Sparisjóði vélstjóra og með samruna við nokkur félög 1. júlí 2007 stækkaði sá hlutur enn frekar. Hagar hf. átti einnig 1,3% stofnfjár í sparisjóðnum. Jóhanna Waagfjörð sat í stjórn Byrs sparisjóðs frá apríl 2008 til maí 2009 fyrir hönd Haga hf., en hún var þá fjármálastjóri þess félags.

Í árslok 2008 var skuldbinding Baugs Group hf. og tengdra aðila stærsta áhættuskuldbinding Byrs sparisjóðs og nam 20,8% af eiginfjárgrunni sparisjóðsins.48 Á þessum tíma samanstóð lánahópurinn af Baugi Group hf., FL Group hf., Landic Ísland ehf., Högum ehf., Fjárfestingafélaginu Gaumi ehf. og Þyrpingu ehf.49 Stærstu einstöku skuldbindingarnar voru við Baug Group hf. og FL Group hf.

Baugur Group hf.

Í desember 2005 seldi Baugur Group Sparisjóði Hafnarfjarðar ellefu skuldabréf þar sem Fjárfestingafélagið Gaumur ehf. var skuldari. Eftirstöðvar skuldabréfanna voru á söludegi um 114 milljónir króna og ábyrgðist Baugur Group hf. greiðslu þeirra með yfirlýsingu um sjálfskuldarábyrgð.50 Umfang viðskipta Baugs Group hf. við sparisjóðina sem síðar runnu saman í Byr sparisjóð jókst umtalsvert frá og með árinu 2006.

Í mars 2006 fékk félagið 500 milljóna króna lán í erlendri mynt hjá Sparisjóði vélstjóra og um 600 milljóna króna lán í erlendri mynt til eins árs hjá Sparisjóði Hafnarfjarðar. Bæði lánin voru án trygginga.51 Lán Sparisjóðs vélstjóra var framlengt nokkrum sinnum en síðar endurfjármagnað með nýju sex mánaða láni til félagsins í lok desember 2006. Í mars 2007 fékk félagið 500 milljóna króna yfirdráttarheimild til þriggja vikna, án trygginga, sem var samþykkt af báðum sparisjóðsstjórum með tölvuskeyti. Heimildin var ítrekað framlengd án þess að tryggingar væru lagðar fram52 og hækkuð um 300 milljónir króna í mars 2008. Heimildin var síðast framlengd í febrúar 2009, óbreytt.53

Í júní 2007 fékk félagið 1.050 milljón króna lán í erlendri mynt til að greiða upp lánin frá því í mars 2006. Lánið var til þriggja mánaða í senn, að hámarki í 12 mánuði frá lánveitingu. Engra trygginga var getið í lánasamningi. Stjórn sparisjóðsins samþykkti endurfjármögnunina á fundi sínum 20. júní 2007. Lánið var framlengt á þriggja mánaða fresti nokkrum sinnum, allt til 15. janúar 2009. Samhliða því samþykkti stjórnin að félagið gæti dregið allt að 2 milljarða króna á nýja lánalínu.54 Hvorki var getið um tryggingar í fundargerðinni né um að heimild hefði verið veitt til að skuldbindingar Baugs Group hf. án trygginga færu yfir 5% af eiginfjárgrunni sjóðsins, sbr. ákvæði lánareglna sparisjóðsins.

Hinn 21. ágúst 2007 fékk félagið 487 milljóna króna lán til þriggja mánaða í erlendri mynt með heimild til framlengingar til allt að eins árs. Tilgangur lánsins var almenn fjármögnun félagsins og var það án trygginga. Lánið var framlengt nokkrum sinnum, allt til 20. febrúar 2009. Engar tryggingar voru teknar fyrir láninu, hvorki í upphafi né við skilmálabreytingar.

Í mars 2008 gerði félagið tillögu um að breyta lánalínum sínum í þriggja ára lán með veði í 50% eignarhlut í F-Capital ehf., en það félag átti 49% hlut í Mosaic Fashions hf. Eftir skoðun lánanefndar virðist sem þessari tillögu Baugs Group hf. hafi verið hafnað.55

Í desember 2008 lá fyrir að skuldbinding Baugs Group hf. og tengdra aðila væri um 7,6 milljarðar króna.56 Þá var Baugur Group hf. kominn í vanskil með lánalínu sem upphaflega var 1.050 milljónir króna en stóð á þessum tímapunkti í 1,6 milljörðum króna. Á lánanefndarfundi 19. janúar 2009 óskaði Baugur eftir framlengingu á láninu og að áföllnum vöxtum yrði bætt við lánið. Því var synjað.57

Í lok desember 2008 var búið að færa tæpa 2,3 milljarða króna í sérgreindan afskriftareikning vegna útlána Baugs Group, eða um 80% af heildarskuldbindingum félagsins hjá sparisjóðnum.58 Baugur Group hf. fékk samþykkta heimild til greiðslustöðvunar 11. febrúar 2009 en var úrskurðað gjaldþrota 13. mars sama ár, daginn sem ársreikningur Byrs sparisjóðs 2008 var undirritaður.

FL Group hf.

FL Group hf. var eignarhaldsfélag sem átti meðal annars 30% hlut í Glitni banka hf. og 39,8% hlut í Landic Property hf., auk eignarhluta í ýmsum félögum innanlands og utan. Í byrjun apríl 2008 fékk FL Group hf. 3 milljarða króna lán hjá Byr sparisjóði til tveggja ára. Vextir skyldu greiðast á sex mánaða fresti, í fyrsta sinn 1. október 2008. Lánið var tryggt með veði í hlutabréfum í Glitni banka hf. Stjórnin samþykkti lánið nokkrum dögum eftir að það var veitt, á fundi 7. apríl 2008, og sagði meðal annars í fundargerð:

Eftir fund með FL-mönnum og yfirferð lánanefndar Byrs og að höfðu samráði við stjórnarformann Byrs var ákveðið að bjóða þeim allt að 3 milljörðum króna í lánafyrirgreiðslu gegn tryggingum í Glitni. Forsenda lánveitingarinnar var jafnframt að einn af viðskiptabönkunum myndi útvega Byr peninga til að lána áfram til FL. […] Lánveitingin er yfir lánamörkum sparisjóðsstjóra og þarfnast því staðfestingar stjórnar. Búið var að leita samþykkis á meðal stjórnarmanna í gegnum tölvupóst en var hér með formlega staðfest.59

Forstjóri FL Group hf. hafði upphaflega óskað eftir 8 milljarða króna fyrirgreiðslu frá sparisjóðnum.60 Í tölvuskeyti sparisjóðsstjóra til samstarfsmanna sinna í framhaldinu kom fram að honum litist ekki vel á beðnina:

Persónulega slær þessi lánsbeiðni FL mig ekkert sérlega vel. M.v. það ástand sem ríkir og m.v. þær hremmingar sem við höfum gengið í gegnum varðandi einn stóran hluthafa í FL er ekki nein gríðarleg stemmning í manni að fara að lána svo stórar fjárhæðir til þessa félags eins og beðið er um og það með tryggingu í hlutabréfum. Finnst vart á bætandi að auka svo við áhættu Byrs á þessum síðustu og verstu tímum. Spáum í þetta og ræðum á næstu fundum.61

Framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Byrs sparisjóðs svaraði skeytinu 5. mars:

Við þurfum að setjast yfir þetta saman sem fyrst. Félagið er með bókfært eigið fé upp á 34 mia um mitt ár í fyrra. Auðvitað er erfitt fyrir okkur að meta þennan reikning enda óteljandi eignir/leigusamningar á bak við tölurnar. […] Svo er það sem e.t.v. skiptir mestu máli. Hvaða áhrif hefði svona lánveiting á tengda aðila. Ég á svolítið erfitt með að meta það. Kannske að Gunnar Árna gæti kommenterað á það. Ég hef nú sagt hér að mín regla sé sú að ef mér finnast aðilar tengdir – þá eru þeir það. Baugur – FL – Landic finnst manni hafa veruleg tengsl. […] Þurfum einnig að huga hvernig þetta fellur að markmiðum okkar um áhættudreifingu okkar bókar. Þó að Cad hafi aukist mikið, þá er það ekki í „normal“ samhengi við efnahagsreikninginn. […] Annar plús er að Byr tengist betur sumum af öflugustu fjármálamönnum landsins og fengi aukin tækifæri í framtíð þegar rofar til.62

Eftir frekari skoðun innan sparisjóðsins hafði sparisjóðsstjóri samband við forstjóra FL Group og tilkynnti honum að lánsbeiðninni væri hafnað.63 Þrátt fyrir það var lán veitt 1. apríl 2008 upp á 3 milljarða króna, viku áður en stjórn samþykkti það með formlegum hætti. Lánið var veitt skömmu eftir að FL Group hf. tilkynnti um 67 milljarða króna tap 13. febrúar 2008, sem þá var mesta tap íslensks félags á einu ári.

Sama dag og FL Group fékk lánið, veitti Glitnir banki hf. sparisjóðnum tveggja ára lán að sömu fjárhæð, 3 milljarða króna. Vextir skyldu greiðast á sex mánaða fresti, í fyrsta sinn 1. október 2008. Lánið var veitt fyrir tilstilli FL Group hf.:

Sæll,
Varðandi vaxtakjörin teljum við 375 bp eðlilega marginu og lántökugjald max 50 bp í ljósi þess að fjármagnið sem lagt er til er fyrir okkar tilstilli og um lágmarksvinnu er að ræða við dílinn.
Þið hljótið að geta komið til móts við okkur í þessu máli.64

Í svari framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs síðar sama dag sagði:

Ég ræddi við mína menn í dag og skilst að vilji sé til að mæta ykkar óskum um að hækka lánveitinguna í 3,0 milljarða.
En varðandi verðlagninguna þá erum við að hugsa um okkar álag á það lánsfé sem veitt verður til okkar og hef ekki heyrt annað en að menn séu ákveðnir varðandi þetta. Við munum væntanlega funda um málið í fyrramálið og vera í sambandi við ykkur og vonandi næst niðurstaða með kjörin.65

Tryggingar fyrir láninu voru hlutir í Glitni banka hf. og tryggingarþekja 143%, en veðkall miðað við 115% tryggingarþekju.66 Svo hátt veðsetningarhlutfall var hærra en starfsreglur um veðsetningarhlutföll tryggingarandlaga kváðu á um. Þar var vísað til þess að hlutabréf í fyrirtækjum eða sjóðum sem skráð væru í Kauphöllinni skyldu að jafnaði ekki vera með hærra veðsetningarhlutfall en 60% samkvæmt starfsreglu stjórnar.67 Með lánveitingunni fór lánahópurinn í tæp 16% af eiginfjárgrunni Byrs sparisjóðs.68 Hinn 18. september lagði FL Group hf. 60 milljónir króna í bankainnistæðu að handveði til tryggingar á lánasamningum. Byr sparisjóður gjaldfelldi lánasamninginn 29. september 2008, sama dag og samkomulag var gert um að íslenska ríkið eignaðist 75% í Glitni banka hf.

Í lok desember 2008 var búið að færa 3.058 milljónir króna sem sérgreint framlag í afskriftareikning vegna útlána FL Group hf., eða um 85% af heildarskuldbindingum félagsins.69 Talið hefur verið að við áritun ársreiknings Byrs sparisjóðs 2008 13. mars 2009 hafi verið sterkar vísbendingar um að frekari niðurfærslu hefði verið þörf.70 Í kjölfar nauðasamninga FL-Group hf. (þá Stoða hf.) sem samþykktir voru í maí 2009 voru 3.368 milljónir króna endanlegar afskrifaðar vegna skuldbindinga félagsins.

Í lok árs 2008 var staða á afskriftareikningi 5.783 milljónir króna vegna fyrirgreiðslna til Baugs Group hf. og tengdra aðila en ári síðar nam hún 3.744 milljónum króna. Skýrist lækkunin milli ára af því að 3.368 milljónir króna voru endanlegar afskrifaðar á árinu 2009 vegna lánveitingar til FL Group hf.

Lánahópur um einstakling og fasteignaverkefni

Hjá Byr sparisjóði mynduðu einstaklingur og þrjú félög honum tengd lánahóp sem var meðal stærstu áhættuskuldbindinga hjá sparisjóðnum. Áhættuskuldbinding lánahópsins var 6,2 milljarðar króna, eða um 17,4% af eiginfjárgrunni Byrs sparisjóðs í lok árs 2008. Lán til hópsins voru tryggð með veði í fasteignum og sjálfskuldarábyrgðum eigenda. Á stjórnarfundi 10. september 2010 voru málefni lánahópsins til umræðu og kom þar fram að heildarskuldir lánahópsins næmu samtals rúmum 7 milljörðum króna.71

Eitt félaganna, sem fékkst við útleigu á húsnæði undir atvinnustarfsemi, var að fullu í eigu einstaklingsins í árslok 2008 samkvæmt ársreikningi þess. Félagið fékk nokkurn fjölda lánafyrirgreiðslna í erlendum myntum á árunum 2005–2007 hjá Sparisjóði vélstjóra og síðar Byr sparisjóði. Lánin sem flest voru veitt til langs tíma, 20–25 ára, voru tryggð með veðum í fasteign í Borgartúni í Reykjavík, auk handveðs í húsaleigusamningum sem félagið hafði gert við leigutaka.

Við útlánakönnun innri endurskoðunar Byrs sparisjóðs í maí 2008 nam heildarskuldbinding þessa félags tæpum 1,2 milljörðum króna og voru fasteignaveð félagsins metin á tæpa 1,5 milljarða króna. Innri endurskoðandi vakti athygli á því að greiðslur húsaleigusamninga sem lagðir hefðu verið að handveði bærust ekki inn á sérstaka handveðsbók heldur inn á veltureikning félagsins, sem sparisjóðurinn hafði þó einnig handveð í en var með neikvæða stöðu og því í raun ekki til ráðstöfunar fyrir sparisjóðinn.72 Í síðari könnun innri endurskoðanda sama ár kom í ljós að engin breyting hefði orðið á þessari tilhögun.73 Enginn innan sparisjóðsins fylgdist með því að greiðslum vegna húsaleigusamninganna væri ráðstafað inn á lánin sem handveðin áttu að tryggja eða hvort félagið hefði aðgang að og ráðstöfunarrétt yfir reikningunum.74

Í september 2008 var öllum lánum félagsins í erlendri mynt skilmálabreytt þannig að vöxtum var bætt við höfuðstól og afborganir um leið frystar til 15. október 2009.75 Á sama tíma fékk félagið 50 milljóna króna eingreiðslulán hjá Byr sparisjóði til eins árs með 14. veðrétti í fasteign í Borgartúni. Það var framlengt í janúar 2010, rúmum fjórum mánuðum eftir gjalddaga, um sex mánuði með gjalddaga sex mánuðum síðar. Vöxtum, dráttarvöxtum og kostnaði var bætt við höfuðstólinn sem stóð þá í 62 milljónum króna.

Hinn 21. október 2008 hafði ekki verið gengið frá aðgengi að reikningum lánahópsins og ráðstöfun leigugreiðslna inn á handveðsbók. Í tölvuskeyti forstöðumanns áhættustýringar og útlánaeftirlits til sparisjóðsstjóra vegna málefna lánahópsins kom fram að greiðsluflæði húsaleigusamninganna væri ekki veðsett sparisjóðnum nema að hluta og „innstæður sem hugsaðar [væru] sem varasjóður og líkur á að [þyrfti] að ganga í, ekki veðsettar Byr“.76 Lagt var til að ítrustu varkárni yrði gætt og allar aðgerðir myndu miðast við að styrkja stöðuna með hagsmuni sparisjóðsins og lántakanda í huga.77

Hinn 5. desember 2008 óskaði eigandi félagsins eftir því að hækka yfirdráttarheimild á reikningi félagsins um 2,5 milljónir króna í fimm daga, eða þar til leigugreiðslur skiluðu sér til hans. Sparisjóðurinn hafnaði því.

Í kjölfar gengisfalls krónunnar á síðari hluta árs 2008 hækkuðu skuldbindingar félagsins verulega og í árslok 2008 námu þær 1.907 milljónum króna. Ekkert var fært í sérgreindan afskriftareikning vegna skuldbindinga félagsins á þeim tíma. Ári síðar námu skuldbindingarnar 2.113 milljónum króna, en þar af höfðu 900 milljónir króna verið færðar í sérgreindan afskriftareikning.

Annað félag í helmingseigu þess einstaklings sem tilheyrði í lánahópnum fékk 1,7 milljarða króna lán í júní 2007 til kaupa á 15 fasteignum fyrir samtals 1.850 milljónir króna. Veðsetningarhlutfallið var því tæp 92%. Lánið var eingreiðslulán til fimm ára með mánaðarlegum vaxtagreiðslum, upphaflega í íslenskum krónum, en var á síðari hluta árs 2007 myntbreytt í japönsk jen og svissneska franka.

Í útlánakönnun innri endurskoðanda Byrs sparisjóðs í maí 2008 var sama athugasemd gerð við tryggingar að baki lánum þessa félags; að leigugreiðslur bærust ekki inn á sérstaka handveðsbók og að ekkert eftirlit væri með því að greiðslur sem bærust vegna húsaleigu­samninga væri ráðstafað inn á lán sem handveð stæðu að baki. Samkvæmt könnuninni námu fyrirgreiðslur til félagsins í maí 2008 samtals rúmlega 2,2 milljörðum króna en á sama tíma voru tryggingar metnar á um 1,9 milljarða króna.78 Þrátt fyrir það voru lán félagins endurfjármögnuð í september 2008, þá fyrir jafnvirði 2,5 milljarða króna, og skyldi nýja lánið vera afborgunarlaust fyrsta árið. Það var tryggt með tryggingarbréfum með veði í 13 fasteignum á höfuðborgarsvæðinu og einni í Fjarðabyggð. Auk þess hafði félagið lagt fram veð í kröfuréttindum samkvæmt fjórtán húsaleigusamningum vegna fasteignanna.

Í árslok 2008 nam skuldbinding félagsins við Byr sparisjóð rúmum 4 milljörðum króna og var ekkert framlag fært í sérgreindan afskriftareikning vegna skuldbindinga félagsins á þeim tíma. Ári síðar námu skuldbindingarnar rúmum 4,5 milljörðum króna og þar af höfðu 750 milljónir króna verið færðar í sérgreindan afskriftareikning.

Þriðja félagið, sem áðurnefndur einstaklingur í lánahópnum átti 70% eignarhlut í samkvæmt hlutafjármiðum, fékk 29 milljóna króna lán í erlendri mynt í nóvember 2007 til að kaupa fasteign á Húsavík. Til tryggingar láninu var tryggingarbréf með 1. veðrétti í eigninni. Fyrir lá kauptilboð í eignina upp á 36,3 milljónir króna og var veðsetningarhlutfall vegna lánsins um 80%. Í ársreikningi félagsins fyrir árið 2011 var bókfært verð eignarinnar 34,4 milljónir króna og áhvílandi lán 72 milljónir króna. Ekkert var fært í sérgreindan afskriftareikning vegna skuldbindinga félagsins fyrr en í lok árs 2009, þá tæpar 15 milljónir króna.

Einstaklingurinn í lánahópnum fékk sjálfur fyrirgreiðslu til fasteignakaupa og vegna skammtímaskulda. Lánin voru óveruleg og lítill hluti skuldbindinga lánahópsins. Í júní 2008 fékk hann hins vegar tæplega 137 milljóna króna eingreiðslulán til eins árs til greiðslu inn á 410 milljóna króna yfirdráttarheimild félags sem hann átti helmingshlut í en tilheyrði ekki lánahópnum. Samhliða láninu til einstaklingsins voru veitt tvö önnur lán til eigenda félagsins til uppgreiðslu yfirdráttarins. Til tryggingar var 492 milljóna króna tryggingarbréf með þriðja veðrétti í tveimur fasteignum Reykjavík.79 Einnig gengust eigendur félagsins í sjálfskuldarábyrgð hver fyrir annan vegna lánanna. Í júní 2008 lagði einstaklingurinn í lánahópnum fram tryggingarbréf með þriðja veðrétti í annarri eign við Suðurlandsbraut.

Eins og framar greinir var beiðni eins félaganna um 2,5 milljóna króna yfirdrátt synjað 5. desember 2008 á þeim grundvelli að leigutekjur sem bærust ættu að fara í að greiða afborganir, en það sem eftir stæði gæti lánahópurinn nýtt. Síðar í sama mánuði var gengið frá myntbreytingum á öllum lánasamningum lánahópsins í evrur, samtals um 30 samningum.

Í árslok 2008 nam skuldbinding lánahópsins við Byr sparisjóð rúmum 6,2 milljörðum króna en ekkert hafði verið fært á afskriftareikning vegna þessa. Í skýrslu KPMG um útlánaskoðun í desember 2008 kom fram að skuldbindingar lánahópsins væru að langstærstum hluta lán í erlendum myntum, sem hefðu hækkað mikið vegna gengislækkunar krónunnar, en verðmæti trygginga væri áætlað um 1,5 milljarðar krónar miðað við fasteignamat þeirra. Sjóðsstreymi félaganna virtist enn nægja til að standa undir afborgunum lána en það gæti breyst ef leigutakar lentu í greiðsluerfiðleikum.80 Rétt er þó að geta þess að hluti afborgana af sumum af lánum þessara félaga höfðu á þessum tíma verið frystar. Að lokum var því beint til stjórnenda Byrs sparisjóðs að leggja mat á hvort ástæða væri til varúðarframlags vegna lánahópsins við gerð ársreiknings 2008.81

Í árslok 2009 nam skuldbinding lánahópsins við Byr sparisjóð rúmum 7 milljörðum króna og voru 1.898 milljónir króna færðar í sérgreindan afskriftareikning vegna skuldbindinga hópsins. Í uppfærðri könnun PricewaterhouseCoopers á afmörkuðum þáttum í efnahag og starfsemi Byrs sparisjóðs í nóvember 2009 hafði verið lagt til að rúmir 3 milljarðar króna yrðu færðir niður vegna tveggja félaga í lánahópnum og þess einstaklings sem tengdi félögin saman.82

Uppgjör á skuldum lánahópsins fór ekki fram fyrr en í mars 2011, þegar gert var samkomulag um uppgjör á skuldum lánahópsins, eignir voru yfirteknar, skuldir færðar niður eða afskrifaðar, en einhverjar kröfur voru útistandandi.83 Uppgjör fór því ekki fram á vegum Byrs sparisjóðs meðan hann starfaði.

Icebank hluthafalán

Í 9. kafla um útlán er að finna ítarlega umfjöllun um Icebank hluthafalánin. Þar kemur fram heildarumfang kaupanna, upplýsingar um lántaka, lánsfjárhæðir og sérstaka samninga sem gerðir voru í tengslum við kaupin.

Síðla árs 2007 keyptu þrettán einkahlutafélög, sum hver í eigu stjórnenda Icebank hf., 43% hlut í bankanum af Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis hf., Byr sparisjóði, nb.is-sparisjóði hf., Sparisjóði Kópavogs og Sparisjóði Norðlendinga. Tólf þessara félaga fengu lánað fyrir hluta kaupverðsins hjá sparisjóðnum 5. desember 2007 en það voru SM 1 ehf., Bergið ehf., Obduro ehf., Fjárfestingarfélagið Sproti ehf., Breiðutangi ehf., Lagos ehf., HDH Invest ehf., G-tveir ehf., Saltsalan ehf., Óseki ehf., Infestus Holding ehf. og Sparta Holding ehf.

Rúm 68% af kaupverðinu voru upphaflega fjármögnuð með lánum frá sparisjóðum og nam lánsfjárhæðin samtals 8,4 milljörðum króna. Byr sparisjóður lánaði 25% af heildarlánsfjárhæðinni og voru lánin í erlendum myntum, jafnvirði rúmra 2 milljarða króna. Kaupendur skuldbundu sig til að greiða afganginn af kaupverðinu með eiginfjárframlagi. Til tryggingar lánunum var veð í 75% seldra hluta og voru Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis, í gegnum dótturfélag sitt, og Byr sparisjóður samhliða á 1. veðrétti, en Sparisjóður Mýrasýslu og Sparisjóðurinn í Keflavík voru með 2. veðrétt í bréfunum.

Sparisjóður Mýrasýslu tók þátt í viðskiptum með hlutabréf í Icebank hf., bæði sem kaupandi bréfa og lánveitandi. Þegar til kom hafði Sparisjóður Mýrasýslu hins vegar ekki nægjanlegt laust fé til að standa við loforð sín samkvæmt samkomulagi sem gert hafði verið og lánaði Byr sparisjóður því Sparisjóði Mýrasýslu jafnvirði 480 milljóna króna í erlendum myntum án trygginga til að fjármagna viðskiptin. Ekkert var fært í sérgreindan afskriftareikning vegna lánveitingarinnar í árslok 2008 en í árslok 2009 höfðu 377 milljónir króna verið færðar í sérgreindan afskriftareikning vegna lánsins.

Um þessi viðskipti var fyrst rætt í stjórn sparisjóðsins 27. júní 2007. Þá var fjallað um opnun eignarhalds Icebank hf. í tengslum við kaup Icebank hf. á Behrens Fyrirtækjaráðgjöf ehf. og hugsanlega skráningu í Kauphöll árið eftir. Málið yrði rætt nánar innan eigendahóps Icebank á næstu vikum þar á eftir og var stjórn Byrs sparisjóðs jákvæð fyrir málinu. Hinn 20. september 2007 ræddi stjórnin um sölu á Icebank hf. og að nokkrir aðilar hefðu þá lýst yfir áhuga á að kaupa hlut Byrs sparisjóðs í bankanum. Stjórnin liti jákvæðum augum á hugmyndir þessara aðila, sem gengju meðal annars út á að Byr sparisjóður veitti lán til kaupanna, allt að 2,6 milljarða króna, sem tryggðir yrðu með 1. veðrétti í hlutabréfum Icebank hf.

Á stjórnarfundi 9. október 2007 samþykkti stjórnin sölu á 24,68% hlut í Icebank hf. Þá samþykkti stjórnin að veita lán sem námu samtals rúmum 2,3 milljörðum króna til þeirra sem hugðust kaupa hlut Byrs og annarra sparisjóða í bankanum. Um lánin sem slík var ekki fjallað sérstaklega á síðari fundum stjórnar sparisjóðsins þó ýmis atriði tengd viðskiptunum hafi verið rædd. Í lok árs 2008 hafði sparisjóðurinn fært nær alla lánsfjárhæðina, sem þá nam rúmum 5 milljörðum króna, í sérgreindan afskriftareikning og var staðan sú sama ári síðar.

Sólstafir ehf. og tengdir aðilar

Sólstafir ehf. er eignarhaldsfélag sem er að fullu í eigu Þorsteins M. Jónssonar.84 Önnur félög sem tengdust þessum lánahópi voru Runnur ehf. og Runnur 2 ehf.85 Eignatengsl og tengsl félaganna við Byr sparisjóð má sjá á mynd 12. Önnur félög á myndinni voru ekki skráð í lánahópinn þar sem þau höfðu ekki tekið lán hjá Byr sparisjóði, en bæði MogS ehf. og Materia Invest ehf. koma engu að síður að lánahópnum í formi móðurfélagsábyrgðar og eignartengsla.

Í skýrslu sem innri endurskoðandi Byrs sparisjóðs gerði um stórar áhættuskuldbindingar 27. maí 2008 var greint frá því að áhættuskuldbinding þessa lánahóps var tæpur 3,1 milljarður króna eða sem nam 7,13% af eiginfjárgrunni sjóðsins. Hlutfallið náði ekki 10% af eiginfjárgrunni sparisjóðsins og því var lánahópurinn ekki á skýrslum sparisjóðsins yfir stórar áhættuskuldbindingar til Fjármálaeftirlitsins. Í framangreindri skýrslu innri endurskoðanda var vísað til þess að lánahópurinn væri „í gjörgæslu og unnið [væri] að lausn á málefnum hópsins“.

Sólstafir ehf.

Sólstafir ehf. fengu lán frá Sparisjóði vélstjóra haustið 2006 upp á tæpar 490 milljónir króna til þriggja mánaða með möguleika á framlengingu. Vorið 2007 fékk félagið síðan annað lán að fjárhæð 125 milljónir króna til þriggja mánaða. Tilgangur lánanna var meðal annars kaup á hlutum í skráðu félagi án tilgreiningar. Trygginga fyrir lánunum er ekki getið í gögnum, en þau voru framlengd nokkrum sinnum fram á haustið 2007 og greitt inn á annað þeirra.

Í apríl 2007 fékk félagið tæplega 158 milljóna króna lán til þriggja mánaða hjá sparisjóðnum. Í lánasamningi var tilgangs ekki getið. Því var ráðstafað inn á reikning Kjarrhólma ehf., sem var að fullu í eigu FL-Group hf., en eigandi Sólstafa ehf. var á þessum tíma stjórnarmaður í FL-Group hf.86 Á gjalddaga var lánið framlengt og vextir greiddir, tæpar 7 milljónir króna.

Í september 2007 óskaði eigandi félagsins eftir framlengingu á tveimur gjaldföllnum lánum um eitt ár. Á sama tíma var óskað eftir því að Sólstafir ehf. fengju 100% lán vegna kaupa á stofnfjárbréfum í Byr sparisjóði upp á rúmar 70 milljónir króna til fimm ára með afborgun „einu sinni á ári, kringum arðgreiðslu“.87 Lánsbeiðnin var samþykkt gegn 100% veði í stofnfjárbréfunum en samhliða lánveitingunni lagði félagið fram 37,2 milljónir nafnverðseininga í stofnfjárbréfum í Byr sparisjóði til veðsetningar.

Framangreind lán voru endurfjármögnuð með einu láni 30. október 2007 en þá voru tvö af þremur lánum Sólstafa ehf. í vanskilum og hafði einu nýlega verið skilmálabreytt. Nýja lánið, upp á 600 milljónir króna, var til eins árs. Samhliða var gerður veðsamningur þar sem félagið lagði fram rúmar 40 milljónir nafnverðseininga í stofnfjárbréfum í Byr sparisjóði sem tryggingu. Verðmæti bréfanna, samkvæmt framreikningi starfsmanna Byrs sparisjóðs, var áætlað 1.245 milljónir króna.88

Hinn 20. desember 2007 fékk félagið svo 500 milljóna króna eingreiðslulán sem samþykkt hafði verið í stjórn Byrs sparisjóðs 30. ágúst 2007. Lánið skyldi endurgreiðast í einu lagi í apríl 2009 en til tryggingar var gerður veðsamningur um 253,7 milljónir nafnverðshluta í stofnfjárbréfum í sparisjóðnum sjálfum.

Í árslok 2008 nam skuldbinding Sólstafa ehf. við Byr sparisjóð 1.158 milljónum króna. Heildarskuldbinding félagsins hækkaði milli ára og nam 1.307 milljónum króna í árslok 2009. Við gerð nauðasamnings í febrúar 2011 var ákveðið að Byr sparisjóður fengi 6,3% krafna sinna á félagið greiddar.

Runnur ehf. (eitt hinna fimm)

Í desember 2007 fékk Runnur ehf. 786 milljón króna lán í erlendri mynt til þriggja ára. Tilgangur lánsins var að endurfjármagna eldri lán félagsins. Meiri hluti lánsins fór til greiðslu skuldar hjá Glitni banka en rúmar 218 milljónir fóru til að greiða niður yfirdrátt sem félagið hafði hjá Byr sparisjóði. Tryggingar fyrir láninu voru rúmir 85,5 milljón nafnverðshlutir í Teymi hf. og 88,9 milljón nafnverðshlutir í 365 hf. Markaðsverðmæti þessara hlutabréfa var í lok dags 19. desember 2007 um 652 milljónir króna. Bein tryggingarvöntun var því um 134 milljónir króna. Því veittu MogS ehf. og Materia Invest ehf. sjálfskuldarábyrgð fyrir láninu. Eigið fé beggja félaga var neikvætt um samanlagt meira en 2,5 milljarða króna í árslok 2007.89 Í útlánareglum sparisjóðsins frá 18. janúar 2007 sagði að ganga bæri úr skugga um að ábyrgðarmenn væru færir um að taka að sér greiðslu viðkomandi láns. Óljóst er hve mikið hald var talið í sjálfskuldarábyrgð félaga sem höfðu svo neikvætt eigið fé. Lánafyrirgreiðslan var afgreidd í miklum flýti, sem meðal annars kom fram í samskiptum starfsmanna Byrs sparisjóðs. Í tölvupósti starfsmanns skjalagerðar sagði:

[…] var að koma með 4 samninga til kaups sem hann segir að hann hafi verið búinn að tilkynna til ykkar. Það liggur auðvitað mikið á að þeir verði keyptir v/ráðstöfunar í aðra banka o.fl.
ISK 505.000.000 + 786.000.000 + 786.000.000 + 525.000.000 = 2.602.000.000.-
USD 20%
CHF 20%
JPY 20%
EUR 40%
Ég er ekki alveg viss með ráðstöfunina á þessu á þessu stigi málsins, en ég held að meiri hlutinn eigi að fara út úr húsi, en […] getur listað það upp betur.90

Í öðrum tölvupósti segir um sama lánamál:

Sæll
Í öllum hasarnum við að koma skjölum til undirritunar vegna Runna (MogS) urðu þau mistök í skjalagerð að miðað var við tryggingarfjárhæð en ekki skuldafjárhæð. Þetta helgast af því að ekki var færi á að lesa samninginn yfir áður en hann fór til undirritunar.
Lánssamningurinn sem var undirritaður er því að andvirði 671 milljón, en þarf að vera rúmar 780 milljónir.
Spurning um að Magnús Ármann veiti okkur umboð (eða öðrum) til að setja stafina sína við það ef við breyttum bara fjárhæðinni í lánasamningnum með pennastriki?91

Í lok árs 2008 höfðu 1.369 milljónir króna verið færðar í sérgreindan afskriftareikning vegna skuldbindinga Runns ehf., sem þá námu 1.538 milljónum króna. Í lok árs 2009 stóðu 1.697 milljónir króna á sérgreindum afskriftareikningi vegna skuldbindinga félagsins. Félagið varð gjaldþrota í nóvember 2010.

Runnur 2 ehf.

Runnur 2 ehf. var í eigu Þorsteins M. Jónssonar og Magnúsar Ármann.92 Í desember 2007 fékk félagið eingreiðslulán í erlendri mynt að jafnvirði 786 milljóna króna til þriggja ára hjá Byr sparisjóði til að endurfjármagna eldri lán Runns ehf. sem komu í hlut Runns 2 ehf. Lánið var greitt út 27. desember 2007 og var stærstum hluta þess, eða sem nam liðlega 567 milljónum króna, ráðstafað til greiðslu skuldar hjá Glitni banka, en um 218 milljónir fóru til að greiða niður yfirdrátt Runns ehf. hjá Byr sparisjóði. Tryggingar fyrir láninu voru um 85,5 milljónir nafnverðshluta í Teymi hf. og 88,9 milljónir nafnverðshluta í 365 hf. Markaðsverðmæti bréfanna í dagslok 19. desember 2007 var um 652 milljónir króna og tryggingagat því um 134 milljónir króna. Sjálfskuldarábyrgð Sólstafa ehf. var ætlað að brúa tryggingagatið en eigið fé Sólstafa ehf. í árslok 2007 var 1,6 milljarðar króna.93 Runnur 2 ehf. var úrskurðað gjaldþrota 2. mars 2012. Fyrir hönd Byrs sparisjóðs var lýst 2,2 milljarða króna kröfu í búið en Runnur 2 ehf. hafði ekki staðið í skilum með lánið sem hafði einnig hækkað vegna gengisbreytinga. Ekkert fékkst upp í lýstar kröfur og voru þær afskrifaðar að fullu.94

Í árslok 2008 nam heildarskuldbinding lánshópsins 4.044 milljónum króna og voru 2.946 milljónir króna færðar í sérgreindan afskriftareiking vegna skuldbindinga lánahópsins. Heildarskuldbinding lánahópsins hækkaði milli ára og í árslok 2009 nam hún 4.688 milljónum króna. Á árinu 2009 lá fyrir að stofnfjárbréf í Byr sparisjóði sem voru til tryggingar fyrirgreiðslu Sólstafa ehf. væru lítils virði. Voru þau metin á genginu 0,1 sem þýddi að tryggingarskortur vegna fyrirgreiðslu til Sólstafa ehf. var orðinn tæpur 1,1 milljarður króna og var sú fjárhæð lögð í sérgreindan afskriftareikning í lok árs 2009. Samtals voru um 4,5 milljarðar króna færðir í sérgreindan afskriftareikning vegna heildarskuldbindinga Sólstafa ehf. og tengdra aðila í árslok 2009.

Hansa ehf. og tengdir aðilar

Lánahópurinn samanstóð af félögunum Hansa ehf. og Samson eignarhaldsfélagi ehf.95 Helsta eign Hansa ehf. samkvæmt ársreikningi 2007 var eignarhlutur í WH Holding Ltd. í Bretlandi sem átti á þeim tíma knattspyrnuliðið West Ham United.96

Í desember 2006 veitti Sparisjóður vélstjóra Hansa ehf. 2,5 milljarða króna eingreiðslulán til eins árs. Landsbanki Íslands hf. fjármagnaði 1,5 milljarða króna af því láni.97 Ekki kom fram í lánasamningi milli sparisjóðsins og Hansa ehf. hver tilgangur lánsins væri, en sem trygging fyrir fyrirgreiðslunni voru lagðir fram hlutir í Straumi-Burðarási hf. að verðmæti 4 milljarðar króna. Ef eftirstöðvar lánsins yrðu meira en 85% af markaðsvirði trygginga skyldi lántaki færa fram frekari tryggingar. Samhliða lánveitingunni var gerður samningur við MP Fjárfestingarbanka hf. um aðild að láninu. Tókst bankinn á hendur 40% fjármögnunar á láninu til Hansa ehf. með því að lána Sparisjóði vélstjóra sem nam 1 milljarði króna. Í september 2007 samþykkti Byr sparisjóður að skipta út tryggingum í hlutabréfum Straums-Burðaráss hf. fyrir veð í hlutabréfum í Landsbanka Íslands hf., án þess þó að virði trygginganna fyrir láninu breyttist. Í lok desember 2007 var lánið framlengt um eitt ár og vöxtum bætt við höfuðstól, sem var eftir breytingu 2,9 milljarðar króna. Á árinu 2008 var Hansa ehf. sjö sinnum sent formlegt veðkall, í fyrsta skipti í febrúar.98 Í kjölfar þess lagði Samson eignarhaldsfélag ehf. fram auknar tryggingar fyrir skuldbindingu Hansa ehf. í formi 21 milljónar hluta í Landsbanka Íslands hf. Í júní 2008 lagði Samson aftur fram auknar tryggingar, fyrst 10 milljónir hluta í Landsbanka Íslands hf. og bætti svo við 5 milljónum hluta síðar í sama mánuði. Hinn 3. október 2008 greiddi Hansa ehf. síðan 275 milljónir króna inn á lánið. Hinn 7. október 2008 sendu forsvarsmenn Byrs sparisjóðs bréf til Hansa ehf. þar sem óskað var eftir auknum tryggingum í kjölfar þess að skilanefnd hafði verið skipuð yfir Landsbanka Íslands hf. og því ljóst að veð í hlutabréfum bankans væri lítils virði. Yrði ekki orðið við þessum kröfum sparisjóðsins yrði lánið gjaldfellt. Ekki varð af því að Hansa ehf. legði fram auknar tryggingar og var lánið því gjaldfellt. Hansa ehf. var úrskurðað gjaldþrota í maí 2011.

Í kjölfar gjaldfellingarinnar kom upp ágreiningur milli MP Fjárfestingarbanka hf. og Byrs sparisjóðs. Hafði MP Fjárfestingarbanki hf. ítrekað farið fram á að hluti þeirra hlutabréfa í Landsbankanum sem Hansa hefði lagt fram sem tryggingu yrði í sinni vörslu, en Byr sparisjóður hafði verið með allar tryggingar Hansa í vörslu sinni. Í kjölfar gjaldfellingar á láni til Hansa voru 7 milljónir hluta í Landsbanka Íslands fluttir til MP Fjárfestingarbanka. Bankinn tilkynnti Samson eignarhaldsfélagi í kjölfarið að gengið yrði að hinum veðsettu bréfum. Þá seldi MP Fjárfestingarbanki bréfin og fékk um 528 milljónir króna fyrir. Var það gert án vitneskju eða samráðs við Byr sparisjóð og fékk sparisjóðurinn ekki hluta af ágóða sölunnar.99 Sparisjóðurinn höfðaði mál á hendur MP Fjárfestingarbanka hf. og fór fram á að bankinn greiddi 60% af andvirði sölunnar til sín. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 22. mars 2011 í máli E-482/2010 var MP Fjárfestingarbanka hf. gert að greiða Byr sparisjóði sem nam um 60% af sölunni, eða 316 milljónir króna, ásamt dráttarvöxtum frá 16. nóvember 2009. Málinu var áfrýjað til Hæstaréttar sem staðfesti dóm héraðsdóms lítillega breyttan með dómi 16. febrúar 2012 í máli nr. 342/2011.

Skuldbinding Samson eignarhaldsfélags ehf. við sparisjóðinn var í formi tveggja skuldabréfalána að fjárhæð 242 milljónir króna, hið stærra nam 200 milljónum króna og var veitt í október 2007. Samson eignarhaldsfélag ehf. var úrskurðað gjaldþrota í nóvember 2008 og afskrifaði Byr sparisjóður kröfu sína á hendur félaginu að fullu það ár.100

Í lok árs 2008 höfðu alls 254 milljónir króna verið lagðar í afskriftareikning vegna fyrirgreiðslu til Hansa ehf. og Samson eignarhaldsfélags ehf. Í lok árs 2009 var staða afskriftareiknings vegna félaganna 1.321 milljón króna. Samkvæmt upplýsingum frá Íslandsbanka hf. voru eignir yfirteknar upp í skuldir.

Lánahópur eignarhaldsfélaga um hlut í MP Fjárfestingarbanka hf., stofnfjárbréf í Sparisjóði vélstjóra og hlutabréf annarra félaga

Í þessum hópi voru fjögur einkahlutafélög sem fengust meira og minna við eignarhald og umsýslu hlutabréfa. Stærst félaganna var Hraunbjarg ehf.

Á árunum 2004, 2005 og 2007 fékk eitt einkahlutafélaganna þrjú skammtímalán í erlendum myntum, samtals að jafnvirði rúmra 255 milljóna króna, hjá Sparisjóði vélstjóra. Öll lánin voru ítrekað framlengd. Elsta lánið, að jafnvirði 50 milljóna króna, var án trygginga. Á tímabilinu 2005–2007 var eigið fé félagsins á bilinu 900–1.800 milljónir króna. Tryggingar fyrir öðru láninu voru í formi handveðs í innistæðu á bankareikningi „eins og innistæða var á hverjum tíma“. Tryggingar þriðja lánsins voru 500 þúsund Bandaríkjadalir á gjaldeyrisreikningi, jafnvirði 31 milljónar króna.

Í árslok 2008 voru yfir 400 milljónir króna útistandandi vegna lána þessa félags. Á bankareikningi sem Byr sparisjóður var með handveð í voru tæpar 149 milljónir króna á sama tíma. Ekki var talin þörf á að færa framlag í afskriftareikning vegna heildarskuldbindinga félagsins í lok árs 2008, þar sem eiginfjárstaða félagsins var talin sterk.101 Í lok árs 2008 hafði eigandi félagsins lagt fram auknar tryggingar í formi hlutabréfa í MP Fjárfestingarbanka hf. Öll lánin voru enn útistandandi vorið 2010 við yfirtöku Fjármálaeftirlitsins á Byr sparisjóði.

Hraunbjarg ehf. fékk lán í erlendri mynt að jafnvirði 100 milljóna króna hjá Sparisjóði vélstjóra í júlí 2006. Lánið var eingreiðslulán til eins árs og til tryggingar var 1,66% eignarhlutur í MP Fjárfestingarbanka hf. Ekki var lagt fram verðmat á tryggingunni og í lánasamningi var tilgangur lánsins ekki tilgreindur. Í mars 2007 fékk félagið eingreiðslulán til eins árs, 70% í erlendum myntum og 30% í íslenskum krónum, að jafnvirði 1 milljarðs króna, í þeim tilgangi að fjármagna kaup á stofnfjárbréfum í Sparisjóði vélstjóra. Til tryggingar láninu stóð 39% eignarhlutur í Vostok Holdings ehf. og 9,3% eignarhlutur í MP Fjárfestingarbanka hf. Þegar lánið frá 2007 kom á gjalddaga var lánstíminn framlengdur um 18 mánuði og þegar komið var fram í nóvember 2008 var láninu myntbreytt í íslenskar krónur. Á sama tíma voru lagðar fram auknar tryggingar, handveð í hlutum Vostok Holdings ehf. Í útlánakönnun innri endurskoðanda 28. maí 2008 voru skuldbindingar hópsins metnar á 1,1 milljarð króna og tryggingar á um 1,5 milljarða króna og „því nægar tryggingar fyrir veittum útlánum“.102 Í lok árs 2008 var virði skuldbindinga og trygginga orðið svipað.103

Rétt fyrir gjalddaga í september 2009 var lánið enn framlengt og þá um sex mánuði. Greiddar voru 300 milljónir króna inn á lánið og stóð það þá í liðlega 1,6 milljörðum króna. Jafnframt voru viðræður í gangi um að félagið legði fram frekari tryggingar.104 Vostok Holdings ehf. var slitið í desember 2009 og eignuðust hluthafar félagsins við það eignarhlut í félagi sem starfrækt var í Hollandi og bar sama nafn og það íslenska.

Á lánanefndarfundi Byrs sparisjóðs 27. nóvember 2009 kom fram að gert hefði verið veðkall hjá Hraunbjargi ehf. 26. október sama ár. Ekki hefðu verið boðnar fullnægjandi tryggingar, en tryggingar voru þá rúmum 700 milljónum króna lægri en skuldbindingar. Í fundargerð lánanefndar 11. janúar 2010 var málefnum félagsins frestað og það aftur tekið fyrir á fundi lánanefndar 8. mars 2010. Þar voru viðruð samskipti vegna lánsins sem þá stóð í 1,7 milljörðum króna og var í vanskilum. Í fundargerð lánanefndar sagði:

Mál tekið upp aftur eftir umfjöllun í janúar. Síðasta haust var gert veðkall og krafist aukinna trygginga en Hraunbjarg ehf. neitaði að verða við því nema gegn loforði um framlengingu lána þeirra. Því var synjað en frekari viðbrögð af hálfu Byrs hafa ekki orðið. Nú óska þeir framlengingar á lánum í 6 mánuði meðan þeir leita lausnar. Lánin standa í 1.730,3 mj kr og voru á gjalddaga 1.3 sl. Til tryggingar lánunum eru hlutabréf í MP nv. 100 mj kr og hlutabréf í Vostok Holdings Netherlands. Samkvæmt upplýsingum frá MP eru hlutirnir í Vostok Holdings Netherlands […] 1.379 mj kr [virði] miðað við gengið 1,5 sem er sama og mat PWC en óvissan hlýtur að teljast þó nokkur. Tryggingar voru áður Vostok Holdings ehf., nv 400 mj kr, metið af PWC á gengið 1,5 í nóvember s.l.. Ef gengið er 1,5 er tryggingarþekjan 120%.
Gerð hefur verið varúð 367 mj kr vegna Hraunbjargs en í ljósi nýrra upplýsinga um tryggingar er til athugunar að minnka það.
Samþykkt tilaga starfsmanns að framlengja lán í 6 mánuði fá vexti greidda. Málunum er vísað til stjórnar.

Ekki er að finna umfjöllun stjórnar um málefni félagsins í kjölfar þessarar bókunar en Byr sparisjóður var yfirtekinn af Fjármálaeftirlitinu 22. apríl 2010.

Ekkert var fært í sérgreindan afskriftareikning vegna lána þessara tveggja félaga í lánahópnum í árslok 2008, en ári síðar nam framlagið 627 milljónum króna.

Hin tvö félögin í lánahópnum voru samtals með skuldbindingar sem námu 317 milljónum króna í lok árs 2009, en þar af voru 134 milljónir króna í vanskilum. Ekkert var lagt í sérgreindan afskriftareikning vegna þeirra. Til tryggingar skuldbindingunum voru veð í hlutum í MP Banka hf., handveð í innistæðu, hlutabréf í Austurbraut ehf., íbúðalánasafn og innlánssamningar í Úkraínu.

Lava Capital ehf.

Lava Capital ehf. var fjárfestingarsjóður að fullu í eigu Byrs sparisjóðs, upphaflega stofnaður árið 2007 í þeim tilgangi að fjárfesta í arðvænlegum fasteignaþróunarverkefnum á vel völdum stöðum í London og nágrenni. Daglegur rekstur Lava Capital var í höndum starfsmanna Shelley Oak í London.105

Í ágúst 2007 fékk Lava Capital ehf. lán í sterlingspundum, jafnvirði 3,4 milljarða króna, hjá Byr sem skyldi endurgreitt í síðasta lagi í ágúst 2012. Engin stjórnarsamþykkt fannst fyrir láninu. Í október 2007 var hins vegar lögð fyrir stjórn Byrs sparisjóðs greinargerð frá Lava Capital um fjárfestingu í Surrey í Englandi fyrir 1,5 milljónir sterlingspunda, jafnvirði 184 milljóna króna. Fram kom að þetta væri þriðja verkefnið sem Lava Capital réðist í. Erindið var samþykkt og fól stjórn sparisjóðsstjórum að koma með tillögur að samþykktarferli vegna verkefna á vegum Lava Capital, auk tillagna að fjárhæð heildarfjárfestinga á vegum félagsins.106

Samkvæmt ársreikningi Lava Capital ehf. fyrir árið 2008 voru eignir og skuldir tæpir 2,3 milljarðar króna.107 Ekkert var fært í afskriftareikning vegna félagsins árið 2008. Í ársreikningi Lava Capital ehf. fyrir árið 2009 höfðu eignir félagsins rýrnað töluvert og voru metnar á 210 milljónir króna á meðan skuldir félagsins voru metnar á 2,6 milljarða króna. Staða á sérgreindum afskriftareikningi vegna Lava Capial ehf. nam 2.089 milljónum króna í lok árs 2009.

Lindareign ehf. og tengdir aðilar

Lánahópurinn fékk lán frá Byr sparisjóði til þess að ráðast í fasteignaverkefni á höfuðborgarsvæðinu og við Hveragerði. Hann samanstóð af Lindareign ehf., Gómi ehf., Andhrímni ehf., Norðurhrauni 1 ehf., Hrauneignum ehf., Bergkletti ehf., Fiskislóð 33 ehf., Pc Mapper International ehf., Búkaupum ehf., einu einkahlutafélagi til viðbótar með óverulegar fyrirgreiðslur hjá sparisjóðnum og einstaklingi sem átti á bilinu 25–100% eignarhlut í félögunum. Sjálfur var hann í sjálfskuldarábyrgð fyrir lánum Fiskislóðar 33 ehf.108 Flest félögin voru fasteignafélög sem höfðu mismunandi verkefni á sinni könnu. Skuldbindingar Pc Mapper International ehf. við sparisjóðinn voru óverulegar.

Lindareign ehf. var stofnað um miðjan september 2006. Strax þá lagði eigandi félagsins fyrir sparisjóðsstjóra Sparisjóðs Hafnarfjarðar, Magnús Ægi Magnússon, hugmynd að samstarfi um að sparisjóðurinn fjármagnaði ákveðnar fjárfestingar að fullu til 25–30 ára. Um var að ræða fimm tilgreind fasteignaverkefni, samtals upp á 190 milljónir króna, og skyldi Sparisjóður Hafnarfjarðar innheimta leigutekjur af fasteignunum sem færu inn á reikning sem sérstaklega væri stofnaður til að greiða af lánunum. Reiknað var með að leigusamningar stæðu undir afborgunum og fasteignagjöldum eignanna. Sem viðbótartryggingu skyldi eigandi Lindareignar ehf. leggja fram 100 milljóna króna innistæðu á bók sem sett væri að handveði, þar sem eigandinn gæti tekið út vextina um hver mánaðamót en höfuðstóllinn skyldi óskertur.109 Frá september 2006 til nóvember 2007 fékk Lindareign ehf. sex lán í erlendri mynt til kaupa á jafn mörgum fasteignum á höfuðborgarsvæðinu, samtals að jafnvirði 331 milljónar króna. Í öllum tilvikum var um að ræða 100% fjármögnun með verðtryggðum jafngreiðslulánum til 25–30 ára og með veði í keyptum eignum. Auk þess átti Byr sparisjóður handveð í skuldabréfi í eigu félagsins upp á 100 milljónir króna. Þá var eigandi Lindareignar í sjálfskuldarábyrgð fyrir 10 milljónum króna af skuldbindingum félagsins.110

Eitt lánanna, upp á 135 milljónir króna, var veitt í júní 2007. Í lánsumsókninni sagði að eigandi félagsins ætti von á hárri fjárhæð sem myndi gera honum kleift að „greiða niður öll 100% lánin sem [væru] í þessu félagi niður í 70% veðsetningu“. Það gekk ekki eftir. Samkvæmt skilmálum gat Byr sparisjóður kallað eftir viðbótartryggingum ef verðmæti trygginga færi niður fyrir 115% af eftirstöðvum lánsins. Vanskil urðu af lánunum hverju á fætur öðru á árunum 2008 og 2009 og var þeim skilmálabreytt, afborgunum frestað og vextir frystir. Í mars 2010 námu skuldir félagsins við Byr sparisjóð 490 milljónum króna og sérgreint framlag í afskriftareikning vegna þeirra nam 50 milljónum króna. Lindareign ehf. var úrskurðuð gjaldþrota 9. nóvember 2011.

Gómur ehf. var fasteignafélag stofnað á vormánuðum 2007.111 Í maí 2007 samþykkti Byr sparisjóður að veita Gómi tvö lán, samtals að fjárhæð 407 milljónir króna, til kaupa á tveimur fasteignum að Eyjaslóð 1 og 5 í Reykjavík. Bæði lánin voru eingreiðslulán til 28 ára, með mánaðarlegum vaxtagreiðslum, en þó afborgunarlaus fyrstu þrjú árin. Tryggingar voru veð í keyptum eignum. Skuldir félagsins við sparisjóðinn námu 670 milljónum króna í mars 2010 og sérgreint framlag í afskriftareikning vegna þeirra var þá 222 milljónir króna. Gómur ehf. var tekinn til gjaldþrotaskipta í október 2012.

Andhrímnir ehf. var stofnað í byrjun mars 2008 til lóðakaupa. Í byrjun árs 2008 óskuðu eigendur félagsins eftir fjármögnun vegna kaupa á lóðum í Bryggjuhverfi í Reykjavík. Erindið hlaut ekki góðan hljómgrunn í fyrstu. Í tölvuskeyti sem Ragnar Z. Guðjónsson sparisjóðsstjóri sendi samstarfsfólki sínu í byrjun janúar 2008 sagði hann:

Ég hef ekki alveg nógu heitar fætur fyrir þessu verkefni. Í fyrsta lagi hef ég ekki alveg á tilfinningu hversu „rétt“ verð er verið að greiða fyrir landið. Í öðru lagi finnst mér ég ekki hafa næga tilfinningu hvert þessi markaður mun stefna nú á síðustu og verstu tímum. M.v. 100% fjármögnun er öll áhættan okkar eins og við vitum, þannig að ef allt fer á versta veg sitjum við uppi með eignina. Það að vera með amk 10% eigið fé er strax betra til að festa menn betur inn í verkefnið.112

Viðskiptastjóri sparisjóðsins upplýsti í tölvuskeyti 14. janúar 2008 að 10% eigið fé væri komið í verkefnið frá kaupendum og var undirrtiað „vilyrði um fjármögnun vegna lands í Bryggjuhverfi, Reykjavík“ 22. febrúar 2008 þar sem sparisjóðurinn samþykkti að fjármagna kaup á tilgreindum lóðum í Bryggjuhverfinu fyrir 527 milljónir króna.

Í september 2008 fékk Andhrímnir ehf. tvö ádráttarlán, annað allt að 379 milljónir króna og hitt upp á rúmar 162 milljónir króna, og skyldi endurgreiða þau ásamt vöxtum í apríl 2010. Tryggingar fyrir lánunum voru lóðir í Bryggjuhverfinu auk þess sem eigendur félagsins lögðu fram tryggingu á handveðsettum reikningum, samtals tæpa 51 milljón króna. Handveðsyfirlýsingarnar voru dagsettar 22. desember 2008.113 Lánsheimildin var fullnýtt 15. janúar 2009, samtals 541 milljón króna. Í mars 2010 námu skuldbindingar Andhrímnis ehf. við sparisjóðinn 671 milljón króna og sérgreint framlag í afskriftareikning 200 milljónum króna. Andhrímnir ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta í apríl 2012.

Norðurhraun 1 ehf. var stofnað í apríl 2008 og fékk 225 milljóna króna lán til kaupa á fasteign í Garðabæ þremur mánuðum síðar. Lánið var til 25 ára með veði í eigninni auk handveðs í húsaleigusamningi um leigu á henni. Tveimur dögum fyrir lánveitinguna fékk fyrirtækið 302 milljóna króna yfirdráttarheimild sem var að hluta til endurgreidd með láninu. Í lok mars 2010 stóðu skuldbindingar félagsins í 386 milljónum króna, þar af var yfirdráttur upp á 105 milljónir króna. Á sérgreindum afskriftareikningi voru þá 106 milljónir króna vegna félagsins, eða um 30 milljónum krónum minna en var í vanskilum af lánum þess. Norðurhraun 1 ehf. var úrskurðað gjaldþrota 16. mars 2011. Áður en félagið var tekið til gjaldþrotaskipta leysti Byr sparisjóður fasteignina til sín og var hún síðan seld.

Hrauneignir ehf. fékk 150 milljóna króna lán hjá Byr sparisjóði í júlí 2008 til kaupa á fasteign í Garðabæ. Lánið var verðtryggt til fimm ára, afborgunarlaust fyrstu tvö árin, en skyldi endurgreiðast með jöfnum afborgunum á síðustu þremur árum lánstímans. Tryggingar fyrir láninu voru veð í fasteigninni sem keypt var og handveð í húsaleigusamningi um eignina. Í lok mars 2010 námu skuldbindingar félagsins 249 milljónum króna og voru 100 milljónir króna á sérgreindum afskriftareikningi vegna þeirra. Félagið var úrskurðað gjaldþrota 28. júní 2011.

Bergklettur ehf. var stofnað á vormánuðum 2007. Upphaflega fékk félagið 125 milljóna króna yfirdráttarlán í þrjá mánuði í júní 2007 til kaupa á félagi sem bar heitið Fasteignin Klettagarðar 4 ehf. og var eigandi samnefndrar fasteignar.114 Til tryggingar láninu voru settar 60 milljónir króna að handveði sem stóðu á reikningi í nafni annars eiganda félagsins, einstaklings úr lánahópnum. Í lok árs 2008 stóð yfirdráttarlánið í rúmum 200 milljónum króna. Í mars 2009 var láninu breytt og var það veitt til eins árs gegn tryggingum.115 Tryggingar fyrir láninu voru 100 milljóna króna veðsamningur, með veði í bréfum í einkahlutafélaginu um fasteignina að Klettagörðum 4, og 90 milljóna króna sjálfskuldarábyrgð eiganda félagsins. Í mars 2010 voru skuldbindingar félagsins 245 milljónir króna og stóð framlag á sérgreindum afskriftareikningi í 50 milljónum króna. Bergklettur ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta í febrúar 2012.

Í júní 2007 keypti Byr sparisjóður 90 milljóna króna skuldabréf útgefið af Einingaverksmiðjunni Borg ehf. Bréfið hafði áður verið í eigu Kambalindar ehf. sem var í eigu áðurnefnds eiganda félaganna í lánahópnum. Hann gekkst í sjálfskuldarábyrgð samhliða framsalinu til Byrs sparisjóðs. Búkaup ehf., félag sem hann átti 25% eignarhlut í, tók síðan yfir skuldbindingu Einingaverksmiðjunnar Borgar ehf. í febrúar 2008 samkvæmt skuldabréfinu. Þrír meðeigendur að Búkaupum ehf. gengust til viðbótar undir sjálfskuldarábyrgð vegna lánsins. Lánið hafði verið lækkað um 45 milljónir króna vegna útgöngu Einingaverksmiðjunnar Borgar ehf. í verkefni Kambalindar en Sparisjóðabankinn hafði tekið yfir helming skuldbindingar Einingaverksmiðjunnar Borgar ehf. með greiðslu til Byrs sparisjóðs. Í mars 2010 stóð skuldin við Byr sparisjóð í 82 milljónum króna en þar af höfðu 25 milljónir verið færðar sem framlag í sérgreindan afskriftareikning. Búkaup ehf. varð gjaldþrota í júní 2012.

Fiskislóð 33 ehf. var stofnað í maí 2007 af DIMAR ehf. til að halda utan um verkefni í tengslum við uppbyggingu lóðarinnar að Fiskislóð 33. DIMAR ehf. hafði fengið lóðinni úthlutað af Faxaflóahöfnum í september 2006. Bergklettur ehf., sem hafði skömmu áður eignast Fiskislóð 33 ehf., seldi félagið 24. október 2007 til Maxie ehf., fyrir 195 milljónir króna. Samhliða sölunni var óskað eftir láni til handa Fiskislóð 33 upp á tæpar 179 milljónir króna. Með yfirlýsingu 23. nóvember 2007 gekkst áðurnefndur einstaklingur í sjálfskuldarábyrgð fyrir láninu ásamt meðeiganda sínum að Bergkletti ehf., en skyldi hún falla niður þegar lóðin að Fiskislóð 33 yrði veðhæf. Lánið var afborgunarlaust fyrstu tvö árin en skyldi greiðast með 37 mánaðarlegum greiðslum eftir það. Skuldbindingar félagsins við sparisjóðinn námu 288 milljónum króna í mars 2010 og sérgreint afskriftaframlag 150 milljónum króna. Þá voru 85 milljónir króna í vanskilum. Fiskislóð ehf. var úrskurðað gjaldþrota í október 2012.

Á stjórnarfundi Byrs sparisjóðs 26. febrúar 2008 var farið yfir minnisblað um fyrirgreiðslur til lánahópsins. Kom þar fram að verkefni sem hefðu verið í vinnslu hjá Byr sparisjóði og hefðu verið samþykkt næmu samtals um 1,2 milljörðum króna.116 Í árslok var ekkert fært í sérgreindan afskriftareikning vegna lánahópsins. Um mitt ár 2009 höfðu fasteignir Lindareignar ehf. verið endurmetnar, sem leiddi í ljós tryggingarskort upp á 149 milljónir króna vegna fyrirgreiðslu við félagið. Fasteignir sem Gómur ehf. hafði lagt fram sem tryggingu voru einnig endurmetnar. Ráðgert hafði verið að rífa húsin og byggja ný en um mitt ár 2009 lá fyrir að hætt yrði við þau áform í bili. Verðmat fasteignanna var lækkað vegna breyttra áforma og almennrar verðlækkunar húsnæðis, úr 504 milljónum króna í 194 milljónir króna, og var tryggingarskorturinn því orðinn 411 milljónir króna. Þær lóðir sem Andhrímnir átti voru upphaflega metnar á 590 milljónir króna samkvæmt kaupsamningi. Samkvæmt verðmati Byrs um mitt ár 2009 voru þær hins vegar 235 milljóna króna virði. Þá voru fyrirhugaðar framkvæmdir á svæðinu í uppnámi. Tryggingarskortur vegna fyrirgreiðslu við Andhrímni nam 350 milljónum króna í lok júní 2009. Á sama tíma var verðmat Byrs sparisjóðs á fasteign Norðurhrauns 1 um 255 milljónir króna og tryggingarvöntun því um 117 milljónir króna.117 Í árslok 2009 höfðu tæplega 918 milljónir króna verið færðar í sérgreindan afskriftareikning vegna lánveitinga til lánahópsins.

Í desember 2012 höfðu Lindareign ehf., Andhrímnir ehf., Norðurhraun 1 ehf., Hrauneignir ehf., Bergklettur ehf., Búkaup ehf., Pc Mapper International ehf., Gómur ehf. verið tekin til gjaldþrotaskipta, sem og einstaklingur í lánahópnum sem var jafnfamt eigandi félaganna að meira eða minna leyti.

Saxhóll ehf. og tengdir aðilar

Saxhóll ehf. var fasteignafyrirtæki sem leigði út fasteignir ásamt því að stunda viðskipti með verðbréf.118 Félagið átti að fullu nokkurn fjölda dótturfélaga. Önnur félög í lánahópnum hjá Byr sparisjóði voru Bygg Invest ehf. og Runnur 3 ehf. sem síðar rann inn í fyrrnefnda félagið, Saxbygg ehf., tvö félög sem leigðu út atvinnuhúsnæði og verktakafyrirtæki.119 Saxhóll ehf. var venslað sparisjóðnum þar sem Jón Þorsteinn Jónsson, stjórnarformaður Byrs sparisjóðs, var stjórnarformaður Saxhóls ehf. og átti 20% eignarhlut í félaginu.120 Auk þess átti Saxhóll ehf. um 7,5% stofnfjárhluta í Byr sparisjóði í árslok 2008 og þá átti Bygg Invest ehf. um 4% stofnfjárhluta. Lánahópurinn var aldrei á lista Byrs sparisjóðs yfir stórar áhættuskuldbindingar.

Bygg Invest ehf. tók yfir skuldbindingar Runns 3 ehf. við Byr þegar félögin voru sameinuð í júlí 2008, en Runnur 3 ehf. hafði tekið yfir hluta af skuldum Runns ehf. sem skipt var upp í fimm félög eins og greint er frá hér framar. Bygg Invest ehf. varð fyrir miklum skakkaföllum vegna falls íslensku viðskiptabankanna. Af tölvusamskiptum starfsmanna Byrs haustið 2008 að dæma blöstu verulegir erfiðleikar við félaginu. Veðkall var gert vegna skulda félagsins í nóvember 2008. Staðan var erfið eins og samskipti milli starfsmanna sparisjóðsins báru með sér:

Við erum búnir að reyna í margar vikur að fá Bygg Invest á fund til okkar og því hefur verið frestað aftur og aftur. […] [Þeir t]öluðu um að þeir væru að vinna rapport og hefðu verið að funda með kröfuhöfum (ekki Fyrirtækjasviði Byrs). Tillaga mín er að við gjaldfellum þetta, setjum í innheimtu hjá lögmönnum og fáum réttarsátt. Eða fara í harðar aðgerðir.121

Sparisjóðsstjóri lagði til að forsvarsmönnum yrði tilkynnt að ef þeir mættu ekki á fund sparisjóðsins innan viku, yrðu öll lán gjaldfelld og send til innheimtu.122 Um mitt ár 2009 námu skuldbindingar félagsins við sparisjóðinn 1,1 milljarði króna og voru þær allar í vanskilum. Sparisjóðurinn hafði þá fært 847 milljónir króna í sérgreint framlag á afskriftareikning vegna þeirra. Í apríl 2011 var félagið úrskurðað gjaldþrota.123 Fyrir hönd Byrs var 954 milljóna króna kröfu lýst í búið, en krafan síðar afskrifuð þar sem ekki voru væntingar um heimtur.124

Snemma á árinu 2006 fékk Saxbygg ehf. tæplega 2 milljóna sterlingspunda lánsheimild, sem nam um 260 milljónum króna á þeim tíma. Auk þess fékk félagið lán í íslenskum krónum upp á 35 milljónir. Lánið var upphaflega eingreiðslulán, veitt til sex mánaða, en var iðulega framlengt á þriggja til sex mánaða fresti. Upphaflega voru engar tryggingar fyrir láninu en í desember 2008 lagði Saxbygg ehf. fram veð í 12,5% eignarhlut Saxbyggs ehf. í Austurbraut hf.125 Á þessum tíma var Gunnar Árnason, yfirmaður áhættustýringar Byrs sparisjóðs, stjórnarmaður í Austurbraut hf. Þá lagði Saxbygg 4,5 milljónir hluta að nafnverði í MP Fjárfestingarbanka að veði, en eigið fé bankans í lok árs 2008 nam 6,6 milljörðum króna.126 Í maí 2009 var nafni félagsins breytt í Icarus ehf. og var úrskurðað gjaldþrota. Lánið var gjaldfellt í Byr sparisjóði 15. júní 2009 og stóð þá í 417 milljónum króna en var síðar endanlega afskrifað.

Sparisjóður vélstjóra veitti Saxhól ehf. lánsheimild í erlendum myntum að jafnvirði allt að 4 milljóna evra 24. maí 2005. Lánið skyldi greitt upp tveimur árum síðar, þ.e. í maí 2007. Það var framlengt á sex til tólf mánaða fresti eftir fyrsta gjalddaga allt fram til nóvember 2009. Í júlí 2007 lagði Saxhóll fram veð í öllum hlutabréfum sínum í Carta Capital Mezzanine Fund II, að nafnverði tæpra 345 milljóna króna. Í minnisblaði um mat á útlánum og öðrum eignum sparisjóðsins 30. nóvember 2008, sem ytri endurskoðendur unnu fyrir sparisjóðinn, sagði að lánahópur Saxhóls ehf. væri með „[m]ikla tryggingavöntun auk veða í óskráðum félögum“.127 Fyrir var Saxhóll ehf. með útistandandi skuldabréfalán hjá Byr sparisjóði sem tryggð voru með veði í fasteignum. Saxhóll ehf. var auk þess í ábyrgð fyrir skuldabréfi dótturfélags síns, félags sem leigði út fasteignir, en í árslok 2008 stóð það í 114 milljónum króna. Í október 2009 var nafni Saxhóls ehf. breytt í Heiðarsól ehf. en félagið var um sama leyti úrskurðað gjaldþrota. Byr sparisjóður lýsti ekki kröfum í bú Heiðarsólar ehf. og lán dótturfélagsins fór í greiðsluferli.128

Verktakafyrirtæki í lánahópnum fékk lán í erlendri mynt, að jafnvirði 127 milljóna króna, í lok desember 2006. Lánið skyldi endurgreiða í apríl 2007 en heimilt var að framlengja lánið á gjalddaga til allt að þriggja mánaða í senn. Engar takmarkanir voru í samningnum á því hve oft framlengja mátti lánið. Við endurskipulagningu verktakafyrirtækisins á vormánuðum 2011 var gert uppgjörssamkomulag milli félagsins og fjármálastofnana, þar á meðal Byrs, og fékk sparisjóðurinn 75 milljónir króna upp í kröfur sínar. Samkomulagið var staðfest bæði af lánanefnd Byrs sparisjóðs hf. og stjórn í maí sama ár.129

Í árslok 2008 höfðu rúmar 916 milljónir króna verið færðar í sérgreindan afskriftareikning vegna lánahópsins. Stærsti hluti þeirrar fjárhæðar, eða um 700 milljónir króna, var sérgreind afskrift vegna Bygg Invest ehf., en þá var ljóst að hlutabréf í Teymi hf. og 365 hf. sem lögð höfðu verið að veði sem tryggingar voru lítils virði. Í árslok 2009 höfðu 1,5 milljarðar króna verið færðar í sérgreindan afskriftareikning vegna lánahópsins, þar af var 1 milljarður króna vegna Bygg Invest ehf. Auk þess höfðu rúmlega 420 milljónir króna verið færðar í afskriftareikning vegna lána Saxbygg ehf. (þá Icarus ehf.) en félagið var þá orðið gjaldþrota.130 Kröfu Byrs sparisjóðs í þrotabú Icarusar um viðurkenningu á veði sparisjóðsins í hlutabréfum Austurbrautar ehf. og MP Banka hf. var hafnað á þeirri forsendu að veðsetning hefði farið fram innan sex mánaða frá frestdegi og væri því riftanleg samkvæmt ákvæðum samkvæmt 1. mgr. 137. gr. gjaldþrotalaga nr. 21/1991. Krafa sparisjóðsins var því samþykkt sem almenn krafa.

Shelley Oak Plc.

Shelley Oak Plc. var félag um fasteignaverkefni í London sem sparisjóðurinn átti eignaraðild að og lánaði til. Félagið var stofnað 1927 en hafði ekki verið starfrækt í tíu ár þegar ákveðið var að endurvekja félagið með það að markmiði að það tæki að sér millilagsfjármögnun (e. mezzanine) fyrir fyrirtæki og einstaklinga sem vildu þróa og byggja íbúðarhúsnæði.131

Í byrjun janúar 2006 hafði Árni Helgason samband við Sparisjóð vélstjóra um hugsanlega þátttöku sparisjóðsins, Sparisjóðs Hafnarfjarðar og MP Fjárfestingarbanka hf. í fjármögnun fasteignaverkefna í Bretlandi. Árni og Peter Bennison, sem áttu saman félagið Hadley Homes Holdings, undirbjuggu þá stofnun félags sem tæki að sér „brúarfjármögnun“ fyrir einstaklinga og fyrirtæki sem vildu þróa og byggja íbúðarhúsnæði. Reiknað var með að heildarútlán félagsins gætu numið allt að 100 milljónum sterlingspunda, þar sem hvert verkefni væri á bilinu 1 til 10 milljónir sterlingspunda.132 Saxbygg ehf., sem var í helmingseigu félags sem stjórnarformaður sparisjóðsins átti 20% eignarhlut í, hafði þegar átt aðkomu að verkefninu sem um ræddi og hvatti stjórnarformaðurinn sparisjóðsstjóra til að skoða þetta nánar.133

Eftir heimsókn til London, meðal annars til að skoða byggingaverkefni tengd Shelley Oak Plc., í október 2006, féllust Sparisjóður vélstjóra, Sparisjóður Hafnarfjarðar og Saxbygg ehf. á að ganga til samninga við eigendur Shelley Oak. Sparisjóðunum og Saxbygg stæðu til boða 80% eignarhlutur sem væri 1 milljónar sterlingspunda virði og yrði hlutaféð greitt í fjórum áföngum.134

Shelley Oak stofnaði sértakt félag um hvert fasteignaverkefni og skyldi meginhluti hvers verkefnis, eða 65–70%, fjármagnaður af breskum bönkum. Sparisjóður vélstjóra og Sparisjóður Hafnarfjarðar myndu veita Shelley Oak 5 milljóna punda lánalínu en félagið myndi veita verktökum millilagslán fyrir því sem bresku bankarnir lánuðu ekki, eða á bilinu 25–30% af byggingarkostnaði. Shelley Oak myndi framselja tryggingar fyrir útlánum sínum til Sparisjóðs vélstjóra og Sparisjóðs Hafnarfjarðar en að auki yrði krafist sjálfskuldarábyrgðar frá lántakandanum. Lántakandinn myndi leggja fram 5% fjármagns í verkefnið.135

Á fundi Saxbygg ehf., Sparisjóðs vélstjóra og Shelley Oak 18. október 2006 var „ákveðið“ að verðmæti Shelley Oak væri 1,2 milljónir sterlingspunda.136 Stjórn Sparisjóðs vélstjóra samþykkti 25. október 2006 að kaupa 34% í Shelley Oak miðað við verðmat fundarins 18. október sama ár.137 Ekki er að sjá af stjórnarfundargerð að fyrir fundinn hafi verið lögð gögn sem gerðu grein fyrir eigendum og stjórnendum Shelley Oak eða sögu og skipulagi félagsins.138 Um þessa ákvörðun sagði Jón Þorsteinn Jónsson, fyrrverandi stjórnarformaður sparisjóðsins:

Sú fjárfesting og lánastarfsemi kemur til vegna þess að við vildum leita tækifæra víðar þar sem vaxtamunur á lánum innanlands var orðinn mjög lítill eða allt niður í 120 punktar til stórra aðila. Samkeppnin innanlands harðnaði sífellt og vaxtamunurinn fór lækkandi. [Árni Helgason] kynnti viðskiptamódel fyrir stjórninni á þessum tíma sem byggðist á mezzanine lánum [millilagslánum] þar sem vaxtamunur var verulega hærri en við áttum að venjast. Í eigendahópnum voru menn með mikla reynslu af fasteignamarkaðnum í Bretlandi, svo sem einn af fyrrum stjórnendum Bank of Scotland í London auk lögfræðings með langa reynslu af fasteignaviðskiptum auk framkvæmdastjóra fasteignaþróunarfélags í London. Á þetta horfði stjórnin og byggði sínar ákvarðanir á því.139

Hlutafé Shelley Oak í ársbyrjun 2007 var 1.200.000 hlutir sem skiptust milli fjögurra eigenda en með aðkomu Byrs sparisjóðs og Saxbygg ehf. að félaginu var ákveðið að gefa út 1.200.000 nýja hluti. Byr sparisjóður keypti 816.000 hluti eða 34% í félaginu fyrir 408.000 sterlingspund, jafnvirði tæprar 51 milljónar króna, og Saxbygg ehf. keypti 384.000 hluti fyrir 192.000 sterlingspund, jafnvirði rúmra 24 milljóna króna.

Íslensku fjárfestarnir létu ekki gera áreiðanleikakönnun á Shelley Oak Plc. áður en kaupin á félaginu fóru fram. Í tölvupósti lögmanns kaupenda kom fram hann gerði ekki ráð fyrir því að farið yrði í sérstakt „due diligence“ ferli til þess að skoða Shelley Oak Plc., heldur yrði frekar treyst á skuldbindingar um að það væri tómt og skuldlaust félag.140

Shelley Oak fékk 5 milljóna sterlingspunda lánalínu, jafnvirði 654 milljóna króna, 12. mars 2007. Lánalínan var til útborgunar í áföngum miðað við framvindu þeirra verkefna sem Shelley Oak Plc. hafði með höndum. Í otkóber 2007 voru lagðar fyrir stjórn hugmyndir um að auka eignarhlut sparisjóðsins í Shelley Oak. Árni Tómasson frá AT-ráðgjöf mat virði félagsins þá á 29 milljónir sterlingspunda, jafnvirði 3,6 milljarða króna, sem stjórnendur sparisjóðsins töldu of hátt. Samkomulag náðist um að Byr keypti 16,1% hlut í félaginu af öðrum hluthöfum, miðað við að verðmat félagsins væri um 2,5 milljarðar króna. Fjárfesting sparisjóðsins nam því 403 milljónum króna en með kaupunum eignaðist hann 50,1% hlut í Shelley Oak sem varð þá dótturfélag sparisjóðsins.141 Á stuttum starfstíma félagsins hafði verðmæti þess hækkað úr 0,5 í 8,3 sterlingspund á hlut miðað við verðmatið sem var byggt á rauntölum fyrir rétt rúmlega sex mánaða rekstur og væntingum um framtíðartekjur.142 Viðauki við kaupsamning frá því í janúar 2007 var gerður 5. desember 2007 vegna kaupa Byrs sparisjóðs á 16,1% hlutafjár af hluthöfum Shelley Oak.

Saxbygg ehf. og Quercus ehf., í eigu Árna Helgasonar, fengu sín hlutabréf staðgreidd, samtals 1,5 milljónir punda, en Peter J. Bennison, Darren Schindler og Fidelity International Investments Plc. fengu skuldabréf útgefin af Byr sparisjóði, samtals 1,7 milljónir punda, fyrir sína hluti.143 Jón Þorsteinn, sem var stjórnarformaður sparisjóðsins en átti jafnframt eignaraðild að Shelley Oak fyrir tilstilli Saxbygg, vék af fundi þegar hlutabréfaviðskiptin voru á dagskrá stjórnar sparisjóðsins en skrifaði undir kaupsamninginn á hlutabréfunum í Shelley Oak Plc. fyrir hönd Byrs sparisjóðs.144 Samkvæmt ársuppgjöri Shelley Oak fyrir árið 2007 var hagnaður félagsins 125.555 sterlingspund, eða um 15,6 milljónir króna. Eigið fé félagsins í árslok 2007 nam jafnvirði 79,7 milljóna króna.

Lánalína Shelley Oak hjá sparisjóðnum var hækkuð í 10 milljónir punda með samþykkt lánanefndar 5. febrúar 2008. Það voru þá tæpir 1,3 milljarðar króna. Á fundi stjórnar Shelley Oak 21. ágúst 2008 var samþykkt að breyta starfsemi félagsins og yrði frá þeim tíma lögð megináhersla á sjóðastjórnun (e. fund management) sem talin var áhættuminni starfsemi en sú sem verið hafði. Tekjur félagsins yrðu þaðan í frá þóknanir fyrir stjórnun fasteignasjóða. Breskir bankar höfðu þá þegar gefið vilyrði fyrir þátttöku í slíkum sjóðum en félagið óskaði jafnframt eftir hækkun á lánalínu sinni hjá Byr sparisjóði.145 Félagið hafði þá starfað í 16 mánuði og sparisjóðurinn lánað félaginu sterlingspund fyrir jafnvirði 1,5 milljarða króna sem voru bundnar í ýmsum fjárfestingarverkefnum félagsins. Sum verkefnanna gengu ekki samkvæmt áætlun og fyrir einhverju þeirra höfðu ekki fengist nauðsynleg byggingarleyfi til breytinga.146 Stjórn sparisjóðsins samþykkti engu að síður að hækka lánalínu félagsins um 2,5 milljónir sterlingspunda og næmi lánalínan þá 1,9 milljörðum króna.147

Á óformlegum stjórnarfundi Shelley Oak 16. desember 2008 var slæm staða félagsins rædd. Þar sem verkefnin hefðu ekki staðið undir væntingum var talið ólíklegt að skuldbindingar félagsins yrðu endurgreiddar. Starfsmenn sparisjóðsins, sem sátu stjórnarfundinn, voru inntir eftir því hvort sjóðurinn væri tilbúinn að veita meira fé til reksturs félagsins en þeir gátu ekki svarað því að svo stöddu.148 Sparisjóðurinn hafði þegar lagt fram 3.628.000 sterlingspund, þá að jafnvirði um 640 milljóna króna, til kaupa á hlutum í Shelley Oak auk lánsfjármagns.

Í febrúar 2009 voru verkefni Shelley Oak fjórtán talsins. Forgangslánveitendur, sem voru með fyrsta veðrétt í verkefnum félagsins, höfðu lánað samtals rúma 78,1 milljón sterlingspunda til verkefna félagsins í febrúar 2009, um 13 milljarða króna, og 78,5% af heildarfjármögnuninni. Byr sparisjóður, sem var á 2. veðrétti, hafði lagt 16,6 milljónir sterlingspunda, jafnvirði 2,8 milljarða króna, til verkefna félagsins en það voru 16,7% af heildarfjármögnun verkefnanna. Verktakarnir höfðu lagt 4,8 milljónir sterlingspunda, jafnvirði 804 milljóna króna, til verkefnanna.149 Stjórnendur Shelley Oak leituðu eftir fjármagni frá Byr sparisjóði til þess að styrkja trú annarra lánveitenda félagsins á því verkefni sem Byr hafði lánað mest til, eða 5 milljónir sterlingspunda. Færi svo að forgangslánveitendur gjaldfelldu lán sín kæmist verkefnið í uppnám og þá þyrfti annaðhvort að afskrifa allt það fé sem lagt hefði verið í verkefnið eða kaupa aðra lánveitendur út úr því.150

Samkvæmt framvinduskýrslu Shelley Oak var heildarkostnaður verkefna áætlaður samtals 114,2 milljónir sterlingspunda, jafnvirði 19,1 milljarðs króna. Heildarsöluverð eigna var áætlað 137,9 milljónir sterlingspunda, jafnvirði 23 milljarða króna, og áætlaður söluhagnaður samkvæmt því um 23,8 milljónir sterlingspunda, jafnvirði tæpra 4 milljarða króna.151

Á stjórnarfundi Byrs 17. mars 2009 fór Árni Helgason yfir minnisblað um málefni Shelley Oak Plc. Þar voru lagðar fram hugmyndir að samkomulagi um að Byr sparisjóður keypti allt hlutafé í félaginu.152 Þremur dögum síðar sendi Árni tölvupóst til sparisjóðsstjóra eftir að honum hafði verið greint frá því að ekki yrði af samningi um kaup Byrs á hlutafé í félaginu. Sagði hann að ef ekki yrði skrifað undir samkomulag um frekari aðkomu Byrs að félaginu stefndi í óefni. Samkvæmt breskum lögum bæri stjórn félags að tilkynna ef fyrirsjáanlegt væri að félagið yrði fjárvana og gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar. Fé væri á þrotum og stjórninni nauðugur sá einn kostur að óska eftir gjaldþroti félagsins ef ekki kæmi til fjárframlag frá sparisjóðnum. Hann og framkvæmdastjóri félagsins ættu kröfur á félagið vegna launa sem næmu hærri upphæð en verð alls hlutafjár og væru þeir tilbúnir að falla frá þeim kröfum ef gengið yrði að samkomulaginu. Færi félagið í þrot myndu þessar kröfur að líkindum koma fram af fullum þunga. Þá sagði hann: „Í mínum huga er málið skýrt: til að tryggja hagsmuni sína og verja fjárfestingu fyrir um 20M punda þarf Byr að kosta til nú þegar um 700.000 pundum. Verði það ekki gert blasir við að fjárfesting félagsins mun að miklu eða öllu leyti glatast. Þessi ákvörðun getur ekki beðið.“153

Á stjórnarfundi sparisjóðsins 25. mars 2009 lagði sparisjóðsstjóri til að allir hluthafar yrðu keyptir út úr Shelley Oak og Byr sparisjóður eignast félagið að fullu á grundvelli minnis­blaðs sem Árni hafði lagt fram á síðasta stjórnarfundi þar á undan. Stjórnin samþykkti tillöguna og Byr sparisjóður keypti allt hlutafé í félaginu sem hann átti ekki fyrir á 177 þúsund sterlingspund, að jafnvirði um það bil 28 milljóna króna, og nafni félagsins var breytt í Lava Capital UK Ltd. Stjórn lagði áherslu á að ekki yrði farið í frekari verkefni á þessu sviði að svo stöddu. Þá var gerður sérstakur ráðgjafasamningur við fyrrverandi starfsmann félagsins, Phil Curwen, og tvo fyrrverandi hluthafa félagsins, þá Árna Helgason og Darren Schindler. Samningurinn tók gildi 1. apríl 2009 og var uppsegjanlegur frá 1. október 2009 með þriggja mánaða fyrirvara. Ráðgjafarnir áttu að gæta fjárhagslegra hagsmuna sparisjóðsins vegna fjárfestingarverkefna Shelley Oak. Þóknun fyrir tímabilið apríl til desember 2009 skyldi vera samtals 510.000 sterlingspund, jafnvirði 89 milljóna króna. Ef samningnum yrði ekki sagt upp skyldi greiða ársfjórðungslega þóknun til þremenninganna upp á 170.000 sterlingspund, jafnvirði 30 milljóna króna.154

Hálfu ári eftir þessi viðskipti, í september 2009, barst stjórn Byrs sparisjóðs tilboð frá Árna Helgasyni og ótilgreindum fjárfestum í hlut sparisjóðsins í Lava Capital UK Ltd. og Lava Capital ehf. Stjórnin hafnaði tilboðinu sem hljóðaði upp á 440 milljónir króna.155

Í byrjun febrúar 2010 ákvað stjórn sparisjóðsins að fá Kalan Capital LLP. til að veita ráðgjöf og aðstoð í tengslum við lánveitingar sparisjóðsins til Lava Capital UK Ltd. (áður Shelley Oak) og Lava Capital ehf.156 Niðurstaða Kalan Capital var að Byr sparisjóður hefði fjárfest í verkefnum sem hefðu verið nánast án eiginfjárframlags og sparisjóðurinn hefði haft mjög takmörkuð áhrif á framgang einstakra mála. Verktakar og lánveitendur sem voru framar en sparisjóðurinn í kröfuröðinni hefðu haft mun meira um framvindu verkefna að segja. Skörun hefði verið á eignarhaldi þannig að þeir sem áttu aðild að Shelley Oak sem fjárfestar eða ráðgjafar hefðu jafnframt átt hlut í verkefnum sem félagið fjármagnaði. Ólíklegt var talið að Byr sparisjóður hefði ágóða af því að selja eignir til þriðja aðila. Hvert verk væri skráð sem eign verktaka þótt þeir hefðu lítið fjármagn lagt til framkvæmdanna. Fjárfestingar í tveimur verkefnum hefðu tapast áður en verkin hefðu farið af stað. Af þeim þrettán fjárfestingum sem Byr sparisjóður hefði ráðist í hefði einungis í tveimur verið líklegt að endurheimtur yrðu umfram upphaflega fjárfestingu. Líklegt væri að endurheimtur af fjárfestingum Shelley Oak og Lava Capital ehf. yrðu á bilinu 4,3–5,2 milljónir sterlingspunda, jafnvirði um 680–833 milljóna króna. Matið væri að miklu leyti háð þróun fasteignaverðs.157

Ekkert var fært í sérgreindan afskriftareikning vegna lána til Shelley Oak í lok árs 2008, en 1.609 milljónir króna í lok árs 2009. Fjárfesting sparisjóðsins í hlutabréfum félagsins var niðurfærð að fullu á árinu 2009.

Samkvæmt upplýsingum frá Íslandsbanka, sem tók við lánunum, hafði ekkert verið afskrifað vegna þeirra í ársbyrjun 2013 en 543 milljónir króna höfðu verið greiddar inn á skuldina á árunum 2011 og 2012.158

IceCapital ehf. og tengdir aðilar

IceCapital ehf. var stofnað árið 2007 og var í árslok í eigu Sunds ehf.159 Í lok desember 2008 rann IceCapital inn í Sund sem tók upp nafn þess fyrrnefnda. Í árslok 2008 átti Sund ehf. rúmlega 6,1% eignarhlut í stofnfjárbréfum Byrs og var þriðji stærsti stofnfjárhafi sparisjóðsins.160 Jón Kristjánsson, einn eigenda og stjórnarformaður Sunds ehf., sat í stjórn Byrs sparisjóðs frá apríl 2008 til maí 2009.161

IceCapital ehf. fékk lán í erlendri mynt hjá Byr sparisjóði í júlí 2007, að jafnvirði 270 milljóna króna, í þeim tilgangi að endurfjármagna skuldr sínar. Höfuðstól lánsins bar að endurgreiða með eingreiðslu ári síðar, 1. ágúst 2008, en vextir skyldu greiðast á þriggja mánaða fresti. Í lánasamningi sagði að lánið væri veitt án trygginga. Í lok desember 2008, rúmum fjórum mánuðum eftir lokagjalddaga lánsins, hafði höfuðstóllinn hækkað vegna gengisbreytinga og var láninu myntbreytt í evrur 20. desember 2008. Samhliða var veittur greiðsluferstur á láninu til 22. júní 2009.

IceCapital fékk lán hjá Byr sparisjóði árið 2007 sem Sund ehf. yfirtók um mitt ár 2008 ásamt skuld annars einkahlutafálegs. Það var tæpra 239 milljóna króna skuld við Byr sparisjóð sem Sund yfirtók 18. ágúst 2008 og lagði fram tryggingar í formi stofnfjárhluta í sparisjóðnum að nafnverði rúmra 70 milljóna króna. Verðmæti stofnfjárbréfanna á þeim tíma liggur ekki fyrir, en í seinni hluta ágústmánaðar 2008 voru nokkur viðskipti með stofnfjárbréf sparisjóðsins og var meðalgengi þeirra viðskipta um 1,44 krónur á hlut. Endurmatsstuðull bréfanna 1. ágúst var 2,19 og út frá þeim forsendum má áætla verðmæti stofnfjárbréfanna í kringum 220 milljónir króna. Sund ehf. lagði síðan fram frekari stofnfjárhluti sem viðbótartryggingar að nafnverði tæpra 37 milljóna króna 7. nóvember 2008.

Í lok árs 2008 höfðu IceCapital og Sund sameinast. Félagið fékk lán í evrum, að jafnvirði um 593 milljóna króna, í febrúar 2009 til að greiða upp eldra lán IceCapital frá júlí 2007 í japönskum jenum og svissneskum frönkum, sem bar að greiða 22. júní 2009. Til tryggingar voru útgefin skuldabréf Brun Holding ehf. upp á 350 milljónir króna, auk þess sem félagið lagði fram þrjú skuldabréf að handveði í mars 2009. Færi verðmæti trygginga niður fyrir 115% af eftirstöðvum láns var sjóðnum heimilt að krefjast viðbótartrygginga.

Fyrirgreiðsla Byrs sparisjóðs nam 939 milljónum króna 31. desember 2008 en þá voru færðar 384 milljónir króna í sérgreindan afskriftareikning vegna skuldbindinganna. Ári síðar námu þær rúmum 1 milljarði króna og staðan á sérgreindum afskriftareikningi 690 milljónum króna. Á þeim tíma var orðið ljóst að verðmæti í stofnfjárbréfum Byrs sparisjóðs væru harla lítil, auk þess sem eigið fé NF Holding ehf., Valiant Fjárfestinga ehf. og Brun Holding ehf. var neikvætt samkvæmt ársreikningum félaganna fyrir árið 2009.

Í lánareglum Byrs sparisjóðs var tekið fram að almennt skyldu tryggingar nægja fyrir skuldum. Þegar veð voru tekin í skuldabréfum var það skilyrði samkvæmt lánareglum að greiðendur bréfanna væru lánshæfir og tryggingar þeirra fullnægjandi samkvæmt matsreglum Byrs sparisjóðs. Framlagðar tryggingar í mars 2009 voru skuldabréf útgefin af óskráðum, íslenskum félögum sem voru tekjulaus árið 2008 og tengdust öll eigendum Sunds ehf. eða voru að meira eða minna leyti í eigu þeirra eða félagsins. IceCapital ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta í mars 2012.

Fjárfestingafélagið Primus ehf. og tengdir aðilar

Fjárfestingafélagið Primus ehf., síðar FI fjárfestingar ehf., átti 3,1% eignarhlut í stofnfjárbréfum Byrs sparisjóðs. Runnur 4 ehf., sem fjallað er um hér framar og tók á sig hluta af skuldum Runns ehf., tilheyrði einnig lánahópnum. Það félag sem var að fullu í eigu Fjárfestingafélagsins Primusar ehf.162 fékk lán í erlendum myntum að jafnvirði 505 milljóna króna til þriggja ára. Tryggingar fyrir láninu voru hlutabréf í Teymi hf. og 365 hf. og var verðmæti þeirra samtals um 424 milljónir króna þegar skrifað var undir lánasamninginn 21. desember 2007. Til viðbótar gekkst Fjárfestingafélagið Primus ehf. í sjálfskuldarábyrgð fyrir láninu. Ráðstöfun á um 350 milljónum króna fóru til greiðslu á skuldbindingu lántakanda hjá Glitni, en það sem eftir stóð var notað til að greiða skammtímaskuld lántakanda hjá Byr sparisjóði. Láninu var myntbreytt í íslenskar krónur 16. janúar 2009, en þá stóð það í tæpri 541 milljón króna.

Á vormánuðum 2007 leitaðist Fjárfestingafélagið Primus ehf. eftir því að komast í viðskipti við Byr sparisjóð.163 Í kynningu á félaginu fyrir sparisjóðsstjórum kom fram að heildareignir væru metnar á 58,4 milljarða króna, heildarskuldir væru 25,4 milljarðar króna og eiginfjárhlutfall um 57%. Stærsta eign félagsins var 19% hlutur í FL Group hf., sem þá var verðmetið á um 45,2 milljarða króna, en eignarhluturinn var í Eignarhaldsfélaginu Oddaflugi ehf., sem var í eigu Fjárfestingafélagsins Primusar ehf. Í kynningunni kom fram að félagið leitaði eftir 2 milljarða króna láni hjá Byr sparisjóði í þrjú til fimm ár með möguleika á framlengingu. Til tryggingar yrðu fjárfestingarverkefnin sjálf og fjárhagslegur styrkur Fjárfestingafélagsins Primusar.164 Sparisjóðsstjóri hefði óskað eftir því við framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs Byrs sparisjóðs, Hrönn Pétursdóttur, að málefni félagsins yrðu skoðuð og hvort sparisjóðurinn gæti tekið að sér fjármögnun fyrir félagið. Óskað hefði verið eftir ársreikningi félagsins fyrir árið 2006 en hann lægi ekki fyrir.165

Stjórn sparisjóðsins tók jákvætt í beiðni félagsins um lán og var sparisjóðsstjórunum falið að vinna að málinu.166 Fjárfestingafélagið Primus ehf. fékk tvö þriggja ára eingreiðslulán í erlendum myntum hjá Byr í júlí og ágúst 2007, samtals jafnvirði 2 milljarða króna. Í lánasamningum kom fram að lánin væru án trygginga og tilgangur þeirra væri að fjármagna fjárfestingar félagsins. Andvirðið fór upphaflega inn á reikning sem Byr sparisjóður átti handveð í meðan unnið var að því að leggja fram tryggingar. Í október 2007 tók stjórn sparisjóðsins fyrir erindi frá Fjárfestingafélaginu Primusi þar sem óskað var eftir því að 1,8 milljarðar króna yrðu losaðir af handveðsettri bankabók félagsins en í staðinn kæmu tryggingar í óskráðum félögum. Stjórn sparisjóðsins samþykkti að losa 1,1 milljarð króna af bókinni gegn veði í félögunum (sjá töflu 27), en veðhlutfallið var, miðað við matsverðmæti veðsins, tæp 59% af því sem greitt var út.167 Í minnisblaði sem sparisjóðsstjórarnir Ragnar Z. Guðjónsson og Magnús Ægir Magnússon skrifuðu Fjárfestingafélaginu Primusi ehf. 4. október 2007, þar sem niðurstaða stjórnarfundar var kynnt, upplýstu þeir að stjórnendum Byrs sparisjóðs væri óheimilt að taka að veði óskráð hlutabréf ef veðsetning þeirra færi yfir 60%.168

Lánasamningurinn frá því í ágúst 2007, að fjárhæð 1,8 milljarðar króna, var í október færður niður í 1,3 milljarða króna með nýjum lánasamningi. Við frágang samningsins var ekki tekið veð í Kaulille sem átti 16,50% í Terra Firma India, en það var metið á rúmar 500 milljónir króna. Í mati starfsmanna Byrs sparisjóðs, sem lagt var fram á stjórnarfundi 3. október 2007, var ekki mælt með því að taka veð í eignum á Indlandi. Auk þess var samþykkt að veita Fjárfestingafélaginu Primusi ehf. lánalínu að jafnvirði 700 milljóna króna í erlendum myntum til þriggja mánaða til að endurfjármagna eldri skuld félagsins. Ekki var farið fram á tryggingar fyrir láninu. Heildarendurfjármögnunin var því 2 milljarðar króna. Miðað við verðmæti trygginga sem fram koma í töflu 27, sem lögð var fyrir stjórn sparisjóðsins 3. október 2007, og að frádregnu verðmæti hlutabréfa í Kaulille, sem ekki var tekið veð í, var heildarfjárhæð trygginga 1.391 milljón króna. Veðsetningarhlutfall lánsins upp á jafnvirði 1,3 milljarða króna var því um 93,5% miðað við heildarfjárhæð trygginga. Í tölvuskeyti Magnúsar Ægis Magnússonar sparisjóðsstjóra til Jóns Þorsteins Jónssonar sjórnarformanns, með afriti til Ragnars Z. Guðjónssonar sparisjóðsstjóra, nokkru fyrir framangreindan stjórnarfund í október 2007, benti hann á að samkvæmt lánareglum mætti sjóðurinn ekki taka tryggingu í óskráðum bréfum nema upp að 30% af áætluðu markaðsverði. Því þyrfti að bóka á stjórnarfundi tryggingatöku í óskráðum bréfum ef veðsetningarhlutfall færi yfir þau mörk.169

Í yfirlýsingu 22. febrúar 2008, sem undirrituð var af stjórnarformanni Fjárfestingafélagsins Primusar ehf. og lánastjóra Byrs sparisjóðs, var staðfest að þær tryggingar sem félagið hefði lagt fram væru til tryggingar öllum lánum félagsins. Tryggingarnar, sem voru metnar á tæpa 1,4 milljarða króna í október 2007, voru því til tryggingar lánum félagsins sem í lok febrúar 2008 stóðu í 2,4 milljörðum króna.

Lánið sem veitt var í október 2007, að jafnvirði 700 milljóna króna, til þriggja mánaða var í vanskilum 1. febrúar 2008. Framkvæmdastjóri félagsins óskaði eftir viðræðum um framlengingu lánsins 10. janúar 2008, þar sem hann taldi það vera „best í stöðunni að framlengja [lánið] um nokkra mánuði á meðan markaðir [leituðu] jafnvægis að nýju“.170 Í tölvuskeytum milli starfsmanna sparisjóðsins má merkja að þeim hafi þótt viðbrögð starfsmanna fjárfestingafélagsins hæg, sbr. tölvuskeyti framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs 28. janúar 2008:

Það er mjög óheppilegt að þeir láti tímann líða fram að gjalddaga og láti ekki ná í sig og svo eigi að framlengja og redda hinu seinna.171

Hinn 20. febrúar 2008 sendi starfsmaður Byrs sparisjóðs samantekt vegna Fjárfestingafélagsins Primusar ehf. og tengdra félaga til sparisjóðsstjóranna og framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs Byrs sparisjóðs. Þar kom fram að lánið sem komið var í vanskil stæði í rúmum 821 milljón króna og að engar tryggingar væru að baki því. Þá kom fram mat á þeim hlutabréfum sem Fjárfestingafélagið Primus ehf. hefði boðið (sjá töflu 27) og voru færð rök fyrir því að verðmat hlutarins í Húsasmiðjunni hf. væri um 1,1 milljarður króna og ætlað að verðmæti hlutarins í Eikarhaldi ehf. væri um 507 milljónir króna, en óvíst væri um verðmæti Grafíts ehf. og Hótel Búða ehf. Tryggingavöntun væri veruleg. Þá sagði í samantektinni að Byr sparisjóður hefði átt nokkra fundi með framkvæmdastjóra Fjárfestingafélagsins Primusar ehf. þar sem eftirfarandi hefði meðal annars komið fram:

Stjórnendur eru „markvisst“ að reyna að bjarga félaginu, en það er tæknilega gjaldþrota þó það fari eftir gengi FL group hverju sinni. […] Í góðu árferði er Primus því með tryggingargap uppá 600–800 milljónir (fer eftir mati á verðmæti Grafít og Hótel Búðum), en ætla má að það sé í raun vel meira eða í kringum 800–1000 milljónir, sé litið til dótturfélagsins Runns 4 ehf.172

Einnig kom fram að „aðrir lánveitendur [sæju] hag sínum betur borgið við að láta reyna á félagið og sjá hvað verða vill“. Landsbanki Íslands hf. átti á þessum tíma 27 milljarða króna kröfu á félagið, Glitnir banki hf. átti 1,5 milljarða króna kröfu og Byr sparisjóður kröfu upp á 2,3 milljarða króna.

Á fundi stjórnar Byrs 26. febrúar 2008 var ákveðið að kanna kosti þess og galla að fá tryggingar að baki skuldunum framseldar til sparisjóðsins og gjaldfella lánin vegna vanskila.173 Starfsmaður sparisjóðsins sendi tölvupóst á Fjárfestingafélagið Primus ehf. 26. mars 2008:

Sjá töfluna hérna að neðan. Við erum nokkuð búnir að velta okkur uppúr þessu og teljum að þetta væri ásættanleg afsalsverð fyrir hvern eignarhlut.
Hvernig líst þér á þetta?
Fjárfestingafélagið
Primus
Afsalsverð
Húsasmiðjan 1.250.000.000
Eikarhald 400.000.000
Hótel Búðir 50.000.000
Grafít 50.000.000
Samtals 1.750.000.000
Skuld við BYR 2.857.836.180
Eftirstöðvar 1.107.836.181

Þarna var um annað mat að ræða en mánuði fyrr. Viðbrögð Fjárfestingafélagsins Primusar ehf. var að þetta væri óásættanleg niðurstaða fyrir félagið:

Ef þessi leið yrði farin þarf að koma til afskrifta á eftirstöðvunum þar sem Primus hefur ekkert með eignirnar að gera og því ekki vænleg leið.174

Í apríl 2008 var síðan gerður samningur um uppgjör á skuldum félagsins sem námu þá liðlega 2,9 milljörðum króna, en verðmat yfirtekinna eigna að mati sparisjóðsins var 2.550 milljónir króna. Eignirnar voru teknar upp í skuldir, auk þess sem nýr lánasamningur var gerður við fjárfestingafélagið sem hluti af skuldauppgjöri félagsins þar sem Byr lánaði félaginu tæpa 371 milljón króna án trygginga. Lánið skyldi endurgreiða 1. maí 2009.

Verulegar breytingar urðu á mati veðanna frá því kynning var gerð á haustmánuðum 2007 og þar til þær voru teknar yfir á vormánuðum 2008. Áætlað verðmæti eignanna haustið 2007 var um 1.390 milljónir króna en 2.550 milljónir króna í apríl 2008. Hækkun á hinum veðsettu hlutabréfum um tæpa 1,2 milljarða króna verður ekki skýrð af markaðsaðstæðum eða sérstaklega góðum rekstri félaganna.

Fjárfestingafélagið Primus ehf. tapaði 27,2 milljörðum króna árið 2007 og var eigið fé félagsins neikvætt um rúma 3,6 milljarða króna í árslok.175 Á árinu 2008 hafði félagið afhent öll veð samkvæmt samkomulagi við sparisjóðinn en fengið nýtt lán fyrir eftirstöðvum skuldarinnar. Í lok árs 2008 hafði 941 milljón króna verið færð í sérgreindan afskriftareikning vegna lána félagsins og Runns 4 ehf. en ári síðar stóð framlagið í rúmum 1 milljarði króna. Lán til fjárfestingarfélagsins frá því í apríl 2008 var ógreitt þegar FI fjárfestingar ehf. (áður Fjárfestingafélagið Primus ehf.) varð gjaldþrota 16. desember 2011. Á þeim degi var höfuðstóll skuldar félagsins liðlega 496 milljónir en heildarkrafan nam um 670 milljónum króna. Engar eignir fundust í búinu.176

SIA Adminu iela

Á fundi stjórnar Sparisjóðs Hafnarfjarðar 5. ágúst 2005 var samþykkt lánsbeiðni að fjárhæð 3,2 milljónir evra, jafnvirði 255 milljóna króna, til þriggja ára. Lánið var veitt lettnesku félagi, SIA Adminu iela, í eigu viðskiptavina sparisjóðsins, auk aðila frá Lettlandi. Lánið skyldi nýta til að kaupa land og fasteignir við Adminu iela 4 í miðbæ Riga og hvíla á 1. veðrétti. Landið og fasteignirnar höfðu verið skoðaðar af lögmanni sparisjóðsins auk sparisjóðsstjóra, Magnúsar Ægis Magnússonar. Til tryggingar láninu var tekið veð í hinu keypta landi í Riga sem SIA Adminu iela átti í gegnum dótturfélag sitt, SIA HFC-1, og átti sparisjóðurinn þar 1. veðrétt. Samkvæmt upplýsingum frá Byr sparisjóði stóðu starfsmenn sparisjóðsins í þeirri trú að sameina ætti land og fasteignir undir einu fastanúmeri.177 Það var hins vegar ekki gert og var þess ekki gætt af hálfu sparisjóðsins.

Samkvæmt bókun stjórnarfundar sparisjóðsins var félagið í eigu Karls Georgs Sigurbjörnssonar hrl., Björns Þorra Viktorssonar hrl. og Þorláks Ómars Einarssonar, fasteignasala.178 Samkvæmt upplýsingum úr skýrslu sem Behrens Corporate Finance í Lettlandi vann fyrir Byr sparisjóð um SIA Adminu iela á árinu 2009 var félagið til jafns í eigu Karls Georgs Sigurbjörnssonar og Marcis Mikelsons frá 2005 til júlí 2008, en þá eignaðist Björn Þorri Viktorsson helming eignarhlutar Karls í félaginu og áttu þeir því saman 50% eignarhlut á móti Marcis Mikelsons, lögmanni í Lettlandi.179 Frá júlí 2005 til júlí 2009 sátu Karl Georg og Marcis Mikelsons í stjórn félagsins.180

Eignin við Adminu iela 4 í Riga samanstóð annars vegar af landi með tilgreint fastanúmer og hins vegar af húseignum sem voru undir öðru fastanúmeri.181 Þannig gátu land og hús sem á því stóðu verið í eigu síns aðila hvort. Landið og húseignirnar voru hins vegar komnar í eigu sama aðila, SIA Adminu iela. Samkvæmt viðskiptaáætlun SIA Adminu iela átti að rífa byggingar á landinu og byggja að nýju. Áætlað byggingamagn var um 18.600 fermetrar sem skiptist í 115 íbúðir, 2.400 fermetra skrifstofuhúsnæði og álíka stórt verslunarhúsnæði.182

Í október 2006 var láninu skilmálabreytt og vöxtum upp á 137 þúsund evrur bætt við höfuðstól. Í ágúst 2007 urðu vanskil á láninu og eftir gjalddaga var farið fram á að vöxtum yrði aftur bætt við höfuðstól. Í desember 2007 var láninu aftur skilmálabreytt og 191 þúsund evra vöxtum bætt við höfuðstól, sem var þá orðinn rúmlega 3,5 milljónir evra. Á sama tíma var vaxtaálag lánsins hækkað úr 2% í 3% og samþykkt að vextir myndu greiðast í lokin samhliða höfuðstól.

Á gjalddaga í ágústmánuði 2008 var ekki greitt af láninu en áður hafði verið farið fram á að vöxtum yrði aftur bætt við höfuðstól og lánið framlengt um tvö ár í viðbót.183 Þegar komið var fram í janúar stóð lánið í um 4 milljónum evra og var í vanskilum. Félagið var ekki með íslenska kennitölu og kom ekki upp í vanskilakerfi sparisjóðsins.184 Á fundi áhættunefndar 26. febrúar 2009 var tekin ákvörðun um að framlengja lánið ekki að óbreyttu og var málið sent til lögfræðiinnheimtu.185 Á sama tíma var láninu myntbreytt í íslenskar krónur og nam þá 597 milljónum króna. Í mars 2009 var farið fram á framlengingu lánsins og taldi áhættunefnd sparisjóðsins að tveir möguleikar væru þá í stöðunni, að framlengja lánið eða taka landið upp í skuldir.186 Ekkert var fjallað um málefni félagsins í áhættunefnd eftir þetta. Í mars 2009 var nafni SIA Adminu iela breytt í SIA Beta 4.187

Í skýrslu Behrens Corporate Finance um SIA Adminu iela var haft eftir Marcis Mikelsons, stjórnarmanni og hluthafa, að fram hefðu komið þrjár lögformlegar kröfur á hendur félaginu í apríl 2009:

  • Kafa SIA Vilmat Group. Um var að ræða lánasamning útgefinn 10. mars 2009 að fjárhæð 355.870 evrur, jafnvirði 50,7 milljóna króna, með gjalddaga rúmum mánuði seinna, eða 14. apríl. Hinn 12. maí 2009 var SIA Beta 4 dæmt til greiðslu skuldarinnar af dómstóli í Riga.
  • Krafa SIA Stabu 8. Um var að ræða lánasamning útgefinn 5. febrúar 2009 að fjárhæð 239.257 evrur, jafnvirði 35,4 milljóna króna. Lánsamningurinn var með ákvæði um að ef skuldin yrði ekki greidd að fullu fyrir 17. mars 2009 myndi skuldin hækka í 478.515 evrur, jafnvirði 71,6 milljóna króna. Hefði sú fjárhæð ekki verið greidd fyrir 25. mars 2009 myndi skuldin hækka um 1% á dag. Skuldin var ekki greidd. Hún var tryggð með veði í byggingum við Adminu iela 4 í Riga samkvæmt veðsamningi dagsettum 25. febrúar 2009.188 Hinn 14. apríl 2009 ákvað dómstóll í Riga að eignirnar skyldu færðar til félagsins SIA Stabu 8.
  • Krafa SIA Jüsu nami. Um var að ræða lánasamning útgefinn 6. mars 2009 að fjárhæð 178.425 evrur, jafnvirði 25,5 milljóna króna, með gjalddaga fjórum dögum síðar. Hinn 9. apríl 2009 var SIA Beta 4 dæmt til greiðslu skuldarinnar af dómstóli í Riga.

Á þessum tíma voru Karl Georg Sigurbjörnsson og Björn Þorri Viktorsson enn þá helmingseigendur að félaginu og sat Karl Georg í stjórn þess. Karl Gerorg gaf skýrslu fyrir rannsóknarnefndinni 4. nóvember 2013. Aðspurður hvernig þessar kröfur hefðu stofnast skyndilega gagnvart félaginu sagði hann að Íslendingarnir hefðu verið komnir út úr verk­efninu á árinu 2007, „þetta hafi þá bara verið eitthvað flak sem sparisjóðurinn ætlaði að taka yfir“. Hann staðfesti að sparisjóðurinn hefði fengið 1. veðrétt í landinu á sínum tíma. Aðspurður um það hvernig framangreindar kröfur hefðu getað myndast á árinu 2009 og fullnustaðar í byggingunum sem á landinu stóðu á 2–3 mánuðum sagðist hann aldrei hafa séð þessar kröfur og þekkti ekki til kröfuhafa, enda hefði hann ekki lengur verið viðriðinn félagið og talið að sparisjóðurinn hefði verið búinn að yfirtaka það. Aðspurður hvort það hefði getað gerst án hans vitundar svaraði hann því neitandi. Aðspurður hvaða lánasamningar þetta gætu hafa verið sem voru fullnustaðir svo hratt og hvort þessi málshraði væri algengur í Lettlandi svaraði hann því til að það væri „allur gangur á því hvað [væri] gert þarna úti“.189

Þegar skýrsla Behrens Corporate Finance var gefin út, í desember 2009, var SIA Beta 4 ekki lengur eigandi húsbygginganna á landinu við Adminu iela 4 í Riga. Félagið var hins vegar enn þá eigandi landsins við Adminu iela 4. Var því búið að skilja sundur eigendur lands og húsbygginga en samkvæmt skýrslunni var verðmat landsins áætlað um 363.076 evrur, jafnvirði 66,7 milljóna króna.190 Samkvæmt upplýsingum rannsóknarnefndarinnar voru félögin sem lögðu fram kröfur á félagið SIA Adminu iela fyrir dómi öll tengd hinum lettneska meðeiganda Íslendinganna í félaginu með einum eða öðrum hætti. Meðal annars var eitt félaganna með sama aðsetur og félagið SIA Adminu iela, á lögmannsstofu lettneska meðeigandans.191

Ekkert var fært í sérgreindan afskriftareikning vegna láns til SIA Adminu í lok árs 2008 en 340 milljónir króna í lok árs 2009.

Miðvörður ehf.

Miðvörður ehf. var eignarhaldsfélag í eigu starfsmanna Sparisjóðsins í Keflavík sem fékk fimm lán í erlendri mynt hjá Byr sparisjóði á árunum 2006 og 2007, öll til kaupa á stofnfjárbréfum í Sparisjóðnum í Keflavík. Til tryggingar voru hin keyptu stofnfjárbréf í Sparisjóðnum í Keflavík. Fyrstu fjögur lánin bar að endurgreiða með eingreiðslu 15. júní 2009, en vextir skyldu greiðast mánaðarlega. Fimmta lánið bar að endurgreiða með eingreiðslu 1. júní 2009 en vextir skyldu greiðast á sex mánaða fresti.

Til viðbótar stofnfjárhlutum í Sparisjóðnum í Keflavík lagði félagið fram handveð í reikningi félagsins í Byr sparisjóði í apríl 2008, en staðan á reikningnum á þeim tíma var tæpar 19 milljónir króna. Í maí 2008 gerðu Byr sparisjóður og Miðvörður ehf. veðsamning um stofnfjárbréf þar sem félagið lagði að veði stofnfjárhluti í Sparisjóðnum í Keflavík að nafnverði rúmar 54 milljónir króna til tryggingar efndum á kröfum allt að 500 milljónum króna.192

Framlagðar tryggingar Miðvarðar vegna fyrirgreiðslu Byrs voru nær eingöngu stofnfjárhlutir í Sparisjóðnum í Keflavík. Engin ákvæði voru um veðhlutföll eða veðköll í fjórum af fimm lánasamningum og hafði sparisjóðurinn því engar heimildir til að krefjast frekari trygginga. Í einum samninganna var hins vegar ákvæði um að ef verðmæti trygginga færi niður fyrir 115% af eftirstöðvum láns væri lánveitanda heimilt að krefjast þess að lántaki setti viðbótartryggingu. Tryggingar félagsins urðu fljótt haldlitlar vegna rekstrarörðugleika Sparisjóðsins í Keflavík, þótt þær hafi, líkt og flest önnur verðbréf sem veitt voru lán til kaupa á, verið hátt metnar þegar lánið var veitt.

Fyrirgreiðsla Byrs sparisjóðs til Miðvarðar ehf. í lok árs 2008 nam 565 milljónum króna og var fært 362 milljóna króna framlag í sérgreindan afskriftareikning vegna skuldbindinga félagsins á þeim tíma. Þá taldist endurmetið nafnverð stofnfjárbréfanna, sem voru til tryggingar lánunum, vera 125 milljónir króna en ljóst var að verðmæti bréfanna væri lítið á þeim tíma.193 Í árslok 2009 nam fyrirgreiðsla til félagsins 610 milljónum króna og var þá fært 560 milljóna króna framlag í sérgreindan afskriftareikning vegna skuldbindinga félagsins. Miðvörður ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta í maí 2010.

Holger Danskes Vej 32–34 ApS

Félagið Holger Danskes Vej 32–34 ApS var skráð í Danmörku og var í eigu íslensk félags, Bröndukvíslar ehf.194 Tilgangur danska félagsins var að kaupa lóðir og byggja lúxusíbúðir. Í kynningu fyrir stjórn Sparisjóðs Hafnarfjarðar í byrjun september 2006 kom fram að um væri að ræða lóð þar sem til stæði að reisa 20 íbúða fjölbýlishús í „hæsta gæðaflokki“. Verkið myndi hefjast innan tveggja mánaða frá kynningunni og byggingartími yrði tólf mánuðir. Áætlaður sölutími eignarinnar var 6–8 mánuðir og gert var ráð fyrir hagnaði sem næmi 22 milljónum danskra króna. Sparisjóður Hafnarfjarðar myndi fjármagna verkefnið og fá í sinn hlut 10% af hagnaði verkefnisins, auk vaxta af lánunum.195

Í október 2006 fékk félagið 45 milljóna danskra króna lán, jafnvirði 522 milljóna króna, til 19 mánaða í Sparisjóði Hafnarfjarðar til kaupa á lóðinni við Holger Danskes Vej 32–34 í Frederiksberg í Danmörku. Tryggingar voru tryggingabréf upp á 45 milljónir danskra króna með veði í fasteignum félagsins og 135 milljóna króna ábyrgðaryfirlýsing frá Landsbanka Íslands hf. Félagið lagði einnig að handveði bankainnistæðu í dönskum krónum og veð í hlutabréfum í sjálfu sér að nafnverði 125 þúsund danskra króna. Samhliða var undirrituð yfirlýsing um veðsetningarbann á eignum félagsins og gerðu Sparisjóður Hafnarfjarðar og Holger Danskes Vej 32–34 ApS með sér samning um að sparisjóðurinn fengi 10% af hagnaði verksins.

Í mars 2007 fékk félagið ádráttarlán hjá Byr sparisjóði með heimild upp á 35,5 milljónir danskra króna, jafnvirði 416 milljóna króna, til eins árs til að fjármagna framkvæmdir á vegum Holger Danskes Vej. Sömu tryggingar voru fyrir þessu láni og því sem Sparisjóður Hafnarfjarðar hafði áður veitt. Hluti lánsins, um 13 milljónir danskra króna, fór til að greiða upp yfirdráttarlán hjá sparisjóðnum.

Í útlánakönnun innri endurskoðunar Byrs sparisjóðs frá maí 2008 á stærstu lánþegum sjóðsins kom fram að í byrjun árs 2008 hefði verkefnið stöðvast, en á því hvíldu 72 milljónir danskra króna. Þá kom þar fram að forsendur viðskiptaáætlunarinnar væru brostnar og að kostnaður hefði aukist. Gjaldþrot blasti við Holger Danskes Vej 32–34 ApS. Til að koma í veg fyrir að veðandlag Byrs sparisjóðs færi undir skiptin framseldi Holger Danskes Vej Aps verkefnið yfir til Byrs sparisjóðs. Nýtt félag í eigu Byrs að nafni Tårn ApS var stofnað og keypti verkefnið á 50 milljónir danskra króna og fór andvirði þess í að greiða inn á lán félagsins við Byr sparisjóð. Samkvæmt útlánakönnun innri endurskoðunar var gert ráð fyrir 125 milljóna króna framlagi í sérgreindan afskriftareikning vegna málsins í uppgjöri Byrs sparisjóðs í lok júní 2008 en fyrir lá á þeim tíma að tryggingarvöntun væri um 508 milljónir króna.196 Í lok árs 2008 höfðu 208 milljónir króna verið færðar í sérgreindan afskriftareikning vegna skuldbindinga Tårn ApS.197

Í árslok 2009 nam skuldbinding Holgers Danskes Vej, síðar Tårn ApS, 1.057 milljónum króna og voru 689 milljónir króna færðar í sérgreindan afskriftareikning vegna heildarskuldbindinga félagsins 31. desember 2009.

18.2.4 Lán til starfsmanna og stjórnarmanna

Samkvæmt þágildandi ákvæði 2. mgr. 57. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki bar að fara með viðskipti starfsmanna fjármálafyrirtækja eftir þeim reglum sem stjórn setti. Í 1. útgáfu útlánareglna Byrs sparisjóðs frá janúar 2007 var sérstakur kafli um starfsmannalán.

Samkvæmt lánareglum sparisjóðsins skyldu allar lánveitingar til starfsmanna hljóta samþykki framkvæmdastjóra Bankaþjónustu, S24 eða útibússtjóra, í samráði við sparisjóðsstjóra. Þó skyldu sparisjóðsstjórar koma að samþykki lánveitinga yfir 7,5 milljónum króna. Starfsmenn máttu hvorki ganga í ábyrgð fyrir viðskiptamenn né aðra starfsmenn vegna skuldbindinga við sjóðinn nema með samþykki sparisjóðsstjóra. Starfsmenn gátu fengið lán án trygginga sem gátu verið í formi skuldabréfs til skamms tíma eða yfirdráttarheimildar sem samsvaraði allt að þreföldum mánaðarlaunum, en þó aldrei hærri en 2 milljónir króna. Allar lánveitingar til starfsmanna skyldu að öðru leyti fara eftir útlánareglum Byrs sparisjóðs.

Starfsmönnum var óheimilt að vera í vanskilum við sparisjóðinn eða önnur fjármálafyrirtæki. Ef horfur voru á því að starfsmaður myndi lenda í vanskilum skyldi hann hafa samband við framkvæmdastjóra Bankaþjónustu, S24 eða útibússtjóra og greina frá væntanlegum greiðsluerfiðleikum. Kæmist starfsmaður ítrekað í vanskil við sjóðinn gat það leitt til þess að honum yrði sagt upp störfum. Í kaflanum um starfsmannalán var einnig að finna undirkafla um siðareglur. Samkvæmt honum máttu starfsmenn Byrs sparisjóðs ekki taka þátt í meðferð mála er vörðuðu viðskipti þeirra sjálfra eða viðskipti fyrirtækja eða einstaklinga sem þeir væru persónulega eða fjárhagslega tengdir nema þeir hefðu sérstakt umboð sparisjóðsstjóra til þess. Þá var starfsmönnum óheimilt að afgreiða sig sjálfa, maka sína og börn. Sama átti við um aðra aðila sem þeir tengdust fjárhagslega, hvort sem um var að ræða einstaklinga, rekstraraðila eða félagasamtök. Ákvæði um starfsmannalán í útlánareglum Byrs sparisjóðs 2008 og 2009 voru að mestu leyti sambærileg útlánareglum frá 2007. Við uppfærslu útlánareglnanna árið 2009 komu þó inn ákvæði um lánveitingar til stjórnarmanna og maka þeirra. Samkvæmt þeim gátu lánveitingar til stjórnarmanna og maka þeirra að hámarki verið kreditkort með heimild að 2 milljónum króna og yfirdráttarheimild á persónureikningi stjórnarmanns allt að 2 milljónum króna. Slíkar lánveitingar skyldi afgreiða með sama hætti og lánveitingar til starfsmanna sparisjóðsins.

Í júlí 2008 vann innri endurskoðandi Byrs sparisjóðs minnisblað um heildarskuldbindingar og vanskil starfsmanna sparisjóðsins. Voru heildarskuldbindingar sjóðsins gagnvart starfsmönnum þá um 1.880 milljónir króna og þar af námu innlend skuldabréf og afborgunarsamningar 808 milljónum króna, erlend lán 228 milljónum króna, heimildir á reikningum 250 milljónum króna og heimildir á kreditkortum 593 milljónum króna. Vakti innri endurskoðandi athygli á því að kortaheimildir væru mjög háar og langt umfram sjáanlega þörf. Alls 115 starfsmenn væru með heimild upp á 2 milljónir króna eða meira og í einu tilviki væri heimild 9,5 milljónir króna. Auk þess væri algengt að mörg kort væru skráð á sama starfsmann þó ekki væru öll í notkun. Enginn starfsmaður hjá sparisjóðnum var á þessum tíma með skuldbindingar umfram 70 milljónir króna. Sjö starfsmenn voru í vanskilum og nam heildarfjárhæð vanskila rúmri milljón króna.198 Í kjölfar falls íslensku bankanna í október 2008 jukust vanskil starfsmanna sparisjóðsins og á árinu 2009 fór innri endurskoðandi reglulega yfir þau. Samkvæmt minnisblaði innri endurskoðanda um vanskil starfsmanna frá júní 2009 voru 18 starfsmenn í vanskilum. Heildarvanskil voru 16,2 milljónir króna og var í flestum tilfellum um óveruleg vanskil að ræða, þó í einu tilviki hefðu verið talsvert hærri vanskil.199 Við skoðun innri endurskoðanda á vanskilum í október 2009 hafði viðkomandi starfsmaður látið af störfum hjá sjóðnum og höfðu heildarvanskil starfsmanna lækkað í 2,7 milljónir króna en þá voru 16 starfsmenn í vanskilum.200 Í ­ársskýrslu innri endurskoðanda fyrir árið 2009 kom fram að margir ­starfsmenn væru nokkuð skuldsettir hjá Byr sparisjóði auk þess þeir væru með lán t.d. hjá Glitni banka hf. vegna stofnfjáraukningar. Taldi innri endurskoðandi að þetta gæti haft áhrif á fjárhagsstöðu starfsmanna í framtíðinni og um leið stöðu þeirra hjá sparisjóðnum og í ljósi þessa hefði verið nauðsynlegt að setja reglur innan sjóðsins þar sem tekið væri með skýrum hætti á meðferð vanskilamála. Voru þær reglur samþykktar í stjórn í janúar 2010.201

Samkvæmt 1. mgr. 57. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki var samningur fjármálafyrirtækis um lán, ábyrgðir, kauprétt eða sambærileg viðskipti við framkvæmdastjóra háður samþykki stjórnar fyrirtækisins. Var ákvæði um þetta að finna í reglum sparisjóðsins um framkvæmd starfa stjórnar og sparisjóðsstjóra. Sömu ákvæði áttu við um viðskiptaerindi stjórnarmanna. Þá skyldi á þriggja mánaða fresti leggja fyrir stjórn skýrslu sem upplýsti um öll viðskiptaerindi stjórnarmanna og fyrirtækja sem þeir væru í forsvari fyrir. Samkvæmt starfsreglum um framkvæmd starfa stjórnar og sparisjóðsstjóra Byrs sparisjóðs frá febrúar 2007 skyldi innri endurskoðandi taka saman skýrslu um fyrirgreiðslu til venslaðra aðila og skyldi hún tekin fyrir í stjórn einu sinni ári.

Í skýrslu Fjármálaeftirlitsins um útlánaáhættu hjá Byr sparisjóði frá október 2007 var meðal annars gagnrýnt að MP Fjárfestingarbanki hf. væri ekki skilgreindur sem venslaður aðili hjá sparisjóðnum þrátt fyrir að Jón Þorsteinn Jónsson, stjórnarformaður sjóðsins, sæti einnig í stjórn bankans. Þá var gagnrýnt að ekki hefðu komið fram tengsl Ragnars Z. Guðjónssonar við H24 ehf. Taldi Fjármálaeftirlitið ámælisvert að aðila vantaði inn á yfirlit yfir venslaða aðila og brýnt væri að það væri rétt á hverjum tíma. Í athugsemdum Byrs sparisjóðs við skýrslu Fjármálaeftirlitsins var bent á að MP Fjárfestingarbanki hf. væri ekki viðskiptum við sparisjóðinn.

Í skýrslu Fjármálaeftirlitsins kom einnig fram að 30. júní 2007 hefðu lán til venslaðra aðila numið 1.841 milljón króna og lán til starfsmanna 613 milljónum króna.202 Samkvæmt skýrslu sjóðsins um fyrirgreiðslu við venslaða aðila í lok árs 2007 nam heildarfyrirgreiðsla við venslaða aðila þá um 4.740 milljónum króna. Hæsta fyrirgreiðslan var við VBS Fjárfestingarbanka hf., rúmur milljarður króna. Aðrar stórar fyrirgreiðslur voru við Runn ehf., Runn 2 ehf. og Saxhól ehf. Í lok árs 2008 nam fyrirgreiðsla við venslaða aðila samtals 5,5 milljörðum króna. Hæsta fyrirgreiðslan var við Bygg Invest ehf., 1.081 milljón króna, en aðrir aðilar með háa fyrirgreiðslu voru Saxhóll ehf. með 848 milljónir króna og IceCapital ehf.203 með 664 milljónir króna. Þau voru einnig meðal hæstu skuldbindinga venslaðra aðila í lok árs 2009 en þá var heildarfyrirgreiðsla við venslaða aðila um 2,9 milljarðar króna.

Rannsóknarnefndin kannaði hvort aðilar venslaðir Sparisjóðnum í Keflavík, það er stjórnarmenn, makar þeirra og félög í þeirra eigu,204 hefðu fengið fyrirgreiðslu hjá sparisjóðnum. Þá voru lánamál starfsmanna hjá sparisjóðnum einnig könnuð, auk þess sem athugunin tók til lánveitinga hjá Sparisjóði vélstjóra, Sparisjóði Hafnarfjarðar, Sparisjóði Kópavogs og Sparisjóði Norðlendinga. Um stærstu lánamálin sem upp komu við þá skoðun hefur verið fjallað hér að framan. Lán til félaga tengdra Jóni Þorsteini Jónssyni voru umsvifamest þeirra sem komu til skoðunar, en þar á eftir voru lán til aðila tengdra Jóni Kristjánssyni, ­stjórnar­manni og einum af eigendum IceCapital ehf. (Sunds ehf.). Félagið Reitir III sem stjórnar­maður í Sparisjóði vélstjóra, Guðmundur Ingi Jónsson, var eigandi, framkvæmdastjóri og stjórnarmaður hjá var með stórt lán hjá sparisjóðnum sem var greitt upp á árinu 2006.

H24 ehf. var í jafnri eigu þriggja starfsmanna Byrs sparisjóðs, Ragnars Z. Guðjónssonar sparisjóðsstjóra, Atla Arnar Jónssonar, framkvæmdastjóra viðskiptabankasviðs, og Sighvats Sigfússonar, framkvæmdastjóra fjármálasviðs.205 Á árinu 2007 átti H24 ehf. nokkur viðskipti með stofnfjárbréf í Byr sparisjóði og leitaði til Sparisjóðs Kópavogs um fyrirgreiðslu fyrir kaupunum. Í maí 2007 fékk félagið verðtryggt 40 milljóna króna eingreiðslulán hjá Sparisjóði Kópavogs til fimm ára og voru tryggingar fyrir láninu stofnfjárbréf í Byr sparisjóði. Samkvæmt ákvæðum lánasamningsins var lánveitanda heimilt að krefjast viðbótartrygginga ef hann teldi verðmæti bréfanna fara niður fyrir 80% af eftirstöðvum lánsins. Í júlí 2007 fékk H24 ehf. annað lán upp á rúmar 26 milljónir króna til fimm ára hjá Sparisjóði Kópavogs og var trygging fyrir láninu handveð í stofnfjárbréfum Byrs sparisjóðs. Sams konar ákvæði voru um tryggingar og í fyrri lánasamningi. Bæði lánin voru notuð til kaupa á stofnfjárbréfum í Byr sparisjóði.206

Í október 2007 fékk H24 ehf. 78 milljóna króna eingreiðslulán til fimm ára til að greiða upp fyrri lán, auk heimildar á tékkareikningi. Lánið var tekið hjá Sparisjóði Kópavogs sem sameinaðist Byr sparisjóði tæpum mánuði síðar. Tryggingar fyrir láninu voru stofnfjárbréf í Byr sparisjóði að grunnnafnverði tæpra 5 milljóna króna, en að verðmæti um 88 milljónir króna miðað við gengi stofnfjárbréfa á þeim degi. Sem fyrr voru ákvæði um tryggingar þær sömu og í fyrsta lánasamningi félagsins. Í nóvember 2008 var láni H24 ehf. skilmálabreytt og það framlengt til 3. desember 2012, auk þess sem vextir skyldu greiðast eftir á með þremur vaxtagjalddögum á tólf mánaða fresti, í fyrsta sinn í desember 2009. Stjórn Byrs sparisjóðs samþykkti skilmálabreytinguna á fundi sínum 3. desember 2008.

Á fundi stjórnar Byrs sparisjóðs 2. mars 2010 fjallaði innri endurskoðandi sparisjóðsins um viðskipti H24 ehf. Í janúar 2008 hafði stjórn samþykkt veðsetningu á rúmum 35 milljónum nafnverðshluta í stofnfjárbréfum í Byr sparisjóði í eigu H24 ehf. til Glitnis banka hf. Var það niðurstaða innri endurskoðanda að af þeim hlutum sem veðsettir voru Glitni banka hf. væru tæpar 5 milljónir einnig veðsettar hjá Byr sparisjóði og taldi hann að það tryggingarandlag sem Byr sparisjóður var með til tryggingar lánum sínum til H24 ehf. hefði verið rýrt. Var í því sambandi vitnað beint í veðsamninginn sem H24 ehf. og Byr sparisjóður höfðu gert, en þar kom fram að veðsala væri óheimilt að selja eða veðsetja stofnfjárbréfin fyrir öðrum skuldum.207 Skilmálum lánsins hafði verið breytt 4. febrúar 2010 en þá stóð höfuðstóll þess í 112 milljónum króna. Ekki voru lagðar fram viðbótartryggingar. Fyrsti gjalddagi láns var fyrirhugaður 20. október 2010 en í millitíðinni yfirtók Fjármálaeftirlitið Byr sparisjóð.

18.3 Fjáreignir og fjárfestingar

Í þessum kafla er fjallað almennt um fjárfestingar Byrs sparisjóðs. Til grundvallar liggja upplýsingar um Byr sparisjóð frá árslokum 2006 til ársloka 2009 en fram að þeim tíma er stuðst við upplýsingar um Sparisjóð Hafnarfjarðar og Sparisjóð vélstjóra. Árið 2007 sameinaðist Sparisjóður Kópavogs Byr sparisjóði og á árinu 2008 bættist Sparisjóður Norðlendinga í hópinn.

Hver þessara sparisjóða hafði sín sérkenni og fjárfestingarstefna og -umsvif þeirra voru ekki með sama hætti. Byr fékk fjárfestingar forvera sinna í arf, en þær og markmiðin með þeim voru um margt ólík. Sparisjóður vélstjóra átti, eins og Sparisjóður Hafnarfjarðar, viðskipti með verðbréf fyrir eigin reikning. Þannig segir í stjórnarfundargerð sparisjóðsins 12. janúar 2005 að verðbréfaeign hans hafi verið um 700 milljónir króna, að mestu í viðskiptabönkunum þremur. Á þeim fundi var ákveðið að marka fjárfestingarstefnu sparisjóðsins og skyldi hún kynnt á næsta stjórnarfundi en af stjórnarfundargerðum þar á eftir er ekki að sjá að hún hafi verið mörkuð. Þó var mikil vinna lögð í almenna stefnumörkun á sama tíma. Gögn sem rannsóknarnefndinni hafa verið afhent sýna að stór hluti fjárfestinga Sparisjóðs vélstjóra hefur verið í vörslu annarra fjármálafyrirtækja, svo sem Íslenskra verðbréfa hf. og Verðbréfaþjónustu sparisjóðanna hf. Fyrrverandi forstöðumaður fjárstýringar Sparisjóðs vélstjóra, og síðar framkvæmdastjóri fjármálasviðs Byrs sparisjóðs, minntist þess þó ekki að sérstök fjárfestingarstefna hefði verið mörkuð þar:

Ég man ekki til þess að það hafi verið einhver föst fjárfestingarstefna sem slík. Við vorum með mjög mikið af lausu fé og það var álitið að ákveðnum hluta af því væri þá dreift í aðrar fjárfestingar heldur en hefðbundin útlán og reynt að fá ákveðna dreifingu á því inn í hlutabréfum í einhverjum erlendum eignum, þá meiri dreifingu í einhverjum sjóðum. Svo vorum við með ríkisbréf líka. Mig minnir að það hafi verið líka hugsað til að eiga sem veðandlag í endurhverfum viðskiptum við Seðlabankann. Við keyptum líka eitthvað í sjóðum hjá aðilum sem við vorum annaðhvort hlutaeigendur í eða vorum í samstarfi við.208

Hjá Sparisjóði Hafnarfjarðar var starfsmaður sem sinnti eigin viðskiptum sjóðsins, að minnsta kosti frá 2001. Sparisjóðurinn hafði verið með töluvert laust fé á viðskiptareikningi í Seðlabanka Íslands og farið var að skoða hvort ekki væri hægt að nýta féð betur. Þá hófust viðskipti í sparisjóðnum með skráð innlend hlutabréf og skuldabréf fyrir þetta fé. Skuldabréfin voru svo gjarnan notuð sem veð í endurhverfum viðskiptum við Seðlabanka Íslands.209

Efnahagsreikningur sameinaðs Sparisjóðs Hafnarfjarðar og Sparisjóðs vélstjóra nam 104,2 milljörðum króna í lok árs 2006 en þar af voru fjáreignir 18,2 milljarðar króna, eða 17,5%. Nýr sparisjóður skilgreindi fjárfestingarheimildir og ábyrgð í reglum sem settar voru snemma á árinu 2007.

18.3.1 Fjárfestingarákvarðanir og framkvæmd

Í 28. gr. starfsreglna Byrs sparisjóðs um framkvæmd starfa stjórnar og sparisjóðsstjóra frá 22. febrúar 2007 var fjallað um mörk fjárfestingarheimilda sparisjóðsstjóra. Mörk fjárfestingarheimilda í verðbréfum skyldu skilgreind í reglum stjórnar um áhættustýringu og áhættuviðmið. Þá sagði að fjárfesting í öðrum fasteignum en fullnustueignum skyldi borin upp í stjórn, sem og önnur þau fjárfestingaráform sem telja mætti meiri háttar eða óvenjuleg, eins og kaup á meiri háttar tölvubúnaði, opnun útibúa og afgreiðslustaða. Ekki var skilgreint hvaða fjárhæð teldist meiri háttar fjárfestingaráform í þessum starfsreglum.

Í 11. gr. starfsreglnanna var fjallað um hlutverk stjórnar. Þar sagði meðal annars að hún skyldi sinna stefnumótun, eftirliti og töku meiri háttar ákvarðana í rekstri sparisjóðsins í samræmi við lög og reglur um stjórnun sparisjóðsins. Stjórn færi með málefni sparisjóðsins og annaðist um að stjórnskipulag rekstrar hans og starfsemi væri jafnan í réttu og góðu horfi. Stjórn skyldi tryggja að nægilegt eftirlit væri með bókhaldi og meðferð fjármuna sparisjóðsins. Þá ætti hún að setja markmið varðandi áhættu í starfseminni, ákveða mörk áhættutöku og byggja upp eftirlit með áhættum í rekstrinum. Áhættumarkmiðin skyldu taka tillit til útlánastefnu, fjárfestingarstefnu, rekstraráhættustefnu, stefnu sparisjóðsins í fjárstýringu og annarra áhættuþátta sem stjórn teldi mikilvæga. Stjórninni bæri að fylgja eftir settum markmiðum og hafa tryggt eftirlit með áhættu í starfsemi sinni.

Í reglum um áhættuviðmið og áhættustýringu sem samþykktar voru á stjórnarfundi Byrs sparisjóðs 16. maí 2007 er fjallað um stöðuáhættu markaðsverðbréfa.210 Til markaðsverðbréfa töldust m.a. hlutabréf, skuldabréf og hlutdeildarskírteini verðbréfasjóða sem skráð voru á opinberum verðbréfamörkuðum helstu viðskiptalanda. Stöðuáhætta þeirra var skilgreind sem fjárhagslegt tap á liðum innan og utan efnahagsreiknings vegna breytinga á markaðsvirði þessara liða, þar á meðal breytinga á vöxtum, gengi gjaldmiðla eða virði hlutabréfa. Í reglunum var kaflanum um stöðuáhættu markaðsverðbréfa skipt í fjóra undirkafla, markaðsviðskipti, erlend verðbréf, óskráð hlutabréf og fjárfestingarbók, án þess að skýrt væri nánar hvort þessir þættir væru algerlega aðgreindir eða að einhverju leyti sameiginlegir í starfsemi sjóðsins. Um þessa verkaskiptingu sagði fyrrverandi framkvæmdastjóri markaðsviðskipta hjá Byr sparisjóði (og áður Sparisjóði Hafnarfjarðar):

Ég var bara að kaupa og selja skráð íslensk hluta- og skuldabréf, ég var ekki með neitt annað. […] engum óskráðum [bréfum], ekkert erlendis, það voru einhverjir aðrir væntanlega í sjóðnum miðað við það sem var tapað af peningum þarna á þessum árum öllum saman. Þá virtist manni alls konar eignir hafa verið til og farið. Þessi eining mín var svo lítil, ég var með einn starfsmann, við vorum tvö, ég vann allan sólarhringinn í þessu, var með eina manneskju með mér, þetta var allt saman bara skráð í Kauphöll, ég gerði aldrei neitt annað, gerði það bara í gegnum Kauphöllina.211

Í reglum um áhættuviðmið og áhættustýringu voru markaðsviðskipti skýrð sem viðskipti með skráð verðbréf sem hefðu verið keypt eða sem sparisjóðnum hefði áskotnast með öðrum hætti, með endursölu í huga, í því skyni að hagnast á skammtímabreytingum á markaðsvirði bréfanna. Sviðið hafði sérstakar fjárfestingarheimildir en teldi það ástæðu til að ætla að fjárfesting sem ekki rúmaðist innan skilgreindra heimilda myndi skila góðri arðsemi skyldi það óska eftir sérstakri heimild til fjárfestingarinnar. Þess var ekki sérstaklega getið að markaðsviðskipti skyldu eingöngu sýsla með innlend bréf en af framkvæmdastjóra sviðsins er að skilja að hann hafi ekki átt viðskipti með erlend bréf. Markaðsviðskiptasvið var skilgreint sem eitt af fjórum afkomusviðum sparisjóðsins.212

Aðspurður um það hvort ætlast hafi verið til þess að hann fylgdi ákveðinni fjárfestingarstefnu eða hvort hann hefði haft frjálsar hendur sagði fyrrverandi forstöðumaður markaðsviðskipta í skýrslu sinni fyrir rannsóknarnefndinni:

[Ég hafði] frjálsar hendur, það var nú það dásamlega við þetta, ég þurfti bara að uppfylla skilyrðin um hvað mátti vera mikið í hverjum geira, fjármálageira og svo framvegis, hverju fyrirtæki og slíkt.213

Í reglum um áhættuviðmið og áhættustýringu var það helst í kaflanum um fjárfestingar í erlendum verðbréfum sem fjallað var um ákveðnar fjárfestingarheimildir. Samanlagt markaðsvirði skuldabréfa og víxla einstakra útgefanda í staðfestu A-ríki eða fjölþjóða þróunarbanka mátti að hámarki nema 15% af eigin fé. Samanlagt markaðsvirði skuldabréfa og víxla útgefanda í sömu atvinnugrein mátti að hámarki nema 30% af eigin fé. Þó mátti þetta hámark nema 50% fyrir peningastofnanir og fyrirtæki sem veittu fjármálaþjónustu. Samanlagt markaðsvirði skuldabréfa og víxla útgefanda í einu landi mátti að hámarki nema 40% af eigin fé. Þess var ekki getið hver ætti að hafa umsjón með viðskiptum með erlend verðbréf eða bæri ábyrgð á þeim.

Hvað varðaði óskráð bréf var heimilt að kaupa í útboði óskráð hlutabréf félags í A-ríki með fyrirframsamþykki sparisjóðsstjóra, enda kæmi fram í útboðsskilmálum að sótt yrði um skráningu fyrir viðkomandi hlutabréf á skipulegum verðbréfamarkaði í A-ríki að loknu útboðinu. Fjárfestingarverðbréf voru þau sem tekin hafði verið formleg ákvörðun um að eiga til lengri tíma en eins árs og var slík ákvörðun í verkahring stjórnar.

Reglur um áhættuviðmið og áhættustýringu voru um margt óljósar hvað varðar skiptingu framkvæmda og ábyrgðar á fjárfestingum milli framkvæmdastjóra markaðsviðskipta, sparisjóðsstjóra og stjórnar. Ljóst er að stjórn skyldi taka ákvörðun um fjárfestingar til lengri tíma en eins árs og markaðsviðskipti sjá um fjárfestingar á skráðum innlendum bréfum. Ekki var tekið fram hver bæri ábyrgð á erlendum fjárfestingum en fyrrverandi framkvæmdastjóri markaðsviðskipta taldi þau hafa verið á könnu stjórnar og sparisjóðsstjóra.214 Leita átti samþykkis sparisjóðsstjóra fyrir viðskiptum með óskráð bréf en óljóst var hver átti að leita þess samþykkis. Annar af fyrrverandi sparisjóðsstjórum taldi ákvarðanir um óskráð verðbréf hafa verið hjá áhættustýringu og stjórnendum og fyrrverandi forstöðumaður fjármálasviðs taldi þær hafa verið teknar af stjórn.215

Reglur um áhættustýringu og áhættuviðmið skilgreindu ekki fjárfestingarheimildir sparisjóðsstjóra frekar en getið er hér að framan um að samþykki hans þyrfti fyrir kaupum á óskráðum eignum. Reglurnar skilgreindu þó skiptingu ábyrgðar og áhættu milli aðila innan sparisjóðsins en þar sagði:

  1. Sparisjóðsstjórn setur almennar reglur um útlánastarfsemi í samræmi við ákvæði laga og samþykkta sparisjóðsins, og fjallar um stærstu skuldbindingar, ákveður framlög í afskriftareikning og endanlegar afskriftir. Þá veitir stjórnin leiðsögn um leiðir og viðhorf til áhættu og ber ábyrgð á almennri yfirsýn sparisjóðsins.

  2. Sparisjóðsstjóri ber ábyrgð á að starfsemi sparisjóðsins taki mið af reglum um áhættustýringu. Sparisjóðsstjóri skal grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að greina, mæla og hafa eftirlit með áhættuþáttum í daglegri starfsemi og viðhalda skipuriti sem tilgreinir ábyrgðarsvið og heimildir starfsmanna. Jafnframt setur sparisjóðsstjóri fram nánari reglur fyrir starfsmenn, sbr. útlánareglur og aðrar þær reglur sem byggjast á reglum um áhættustýringu sparisjóðsins.

  3. Áhættustýring hefur með höndum lánaáhættu og fjármálaáhættu, þ.e. markaðsáhættu og lausafjáráhættu. Áhættustýring hefur eftirlit með því að kröfur eftirlitsaðila á hverjum tíma varðandi áhættutöku í rekstri séu uppfylltar.

  4. Framkvæmdastjórn einstakra sviða ber hver fyrir sig ábyrgð á stýringu þeirra áhættuþátta sem að þeim snúa. Í því felst að framfylgja reglum þessum og öðrum reglum og viðmiðunum um áhættustýringu sem kunna að verða settar.

Í 17. gr. starfsreglnanna frá febrúar 2007 var fjallað um starfsskyldur sparisjóðsstjóra. Hann skyldi bera ábyrgð á daglegum rekstri og fara með ákvörðunarvald í öllum málefnum þess (svo ritað í reglunum) sem ekki væru falin öðrum samkvæmt lögum nr. 161/2002 eða samþykktum þess (svo ritað í reglunum). Sparisjóðsstjóri stæði fyrir rekstri í samræmi við þær reglur og ákvarðanir sem settar væru af sparisjóðsstjórn eða væru samkvæmt samþykktum sparisjóðsins. Honum bæri að gæta þess eftir megni að reksturinn væri í öllum greinum í samræmi við ákvarðanir sparisjóðsstjórnar, samþykktir og lög.

Áhættustýringardeild sparisjóðsins átti meðal annars að greina og veita heildaryfirsýn yfir alla helstu áhættuþætti sem fylgdu starfsemi sparisjóðsins. Þá skyldi hún hafa eftirlit með áhættu innan einstakra sviða starfseminnar og bera saman við viðmið eða heimildir sem settar hefðu verið af stjórn. Samkvæmt starfsreglum Byrs um framkvæmd starfa stjórnar og sparisjóðsstjóra átti að leggja skýrslu um markaðsáhættu fyrir stjórn sparisjóðsins á þriggja mánaða fresti. Í skýrslunni skyldi meðal annars tilgreina hvort markaðsáhætta væri innan viðmiðunarmarka stjórnar og hvort stefnu stjórnar væri fylgt.

Um eftirlit áhættustýringardeildar með markaðsáhættu sagði fyrrverandi forstöðumaður deildarinnar að hún hefði verið hluti af því sem fylgst hefði verið með en hins vegar hefðu fjárfestingar ekki vegið þungt í starfsemi sparisjóðsins, bæði hvað varðar hlutfall heildaráhættu og umfang fjárfestinga. Áhættan hefði þó verið skilgreind og fylgst með henni daglega.216

Í athugun sinni á áhættu í Byr sparisjóði frá 17. apríl 2008 var það mat Fjármálaeftirlitsins að efla þyrfti áhættustýringu hans.217 Ekki væru reglulega framkvæmd álagspróf til þess að meta áhættu en samkvæmt álagsprófi Fjármálaeftirlitsins á markaðsáhættu Byrs sparisjóðs væri eiginfjárgrunnur hans mjög viðkvæmur fyrir breytingum á virði hlutabréfa en sterk eiginfjárstaða vægi á móti þessari áhættu.

18.3.2 Fjáreignir Byrs

Fjáreignir eru af þrennum toga í þessari umfjöllun: hlutir í hlutdeildarfélögum, hlutabréf og verðbréf með breytilegum tekjum, og markaðsskuldabréf og önnur skuldabréf með föstum tekjum. Jafnan er fjallað um þær tvær fyrstnefndu saman sem eignarhluti. Fjáreignir Sparisjóðs vélstjóra og síðar Byrs sparisjóðs jukust töluvert frá 2001 til 2008 en sú aukning var þó töluvert minni en hjá öðrum sparisjóðum. Markaðsskuldabréf höfðu mikið vægi í safninu en árið 2007 varð mikil breyting á hlutabréfaeign sparisjóðsins og því urðu skuldabréf veigaminni.

Í árslok 2005, síðasta reikningsárið fyrir sameiningu Sparisjóðs vélstjóra og Sparisjóðs Hafnarfjarðar í Byr sparisjóð, námu fjáreignir Sparisjóðs vélstjóra 7,5 milljörðum króna og fjáreignir Sparisjóðs Hafnarfjarðar 3,4 milljörðum króna. Fjáreignir sameinaðs sparisjóðs námu í árslok 2006 18,2 milljörðum króna en hækkun á virði Sparisjóðabanka Íslands hf. í eignasafninu var mesta breytingin milli ára. Hlutur sparisjóðsins í Sparisjóðabankanum var seldur á árinu 2007 en á sama tíma jókst eign hans í SP-fjármögnun hf., Kaupþingi banka hf., MP Fjárfestingarbanka hf., Bakkavör Group hf. og VBS Fjárfestingarbanka hf.

Fjáreignir sparisjóðsins voru mestar í árslok 2007 þegar þær námu um 23 milljörðum króna. Þá voru skuldabréf um 32% af fjáreignum sparisjóðsins en þau voru á sama tíma 28% hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, 13% hjá Sparisjóði Mýrasýslu og aðeins 6% hjá Sparisjóðnum í Keflavík. Á árinu 2008 lækkaði virði fjáreigna sparisjóðsins um 16,5% eða um rétt tæpa 4 milljarða króna. Vægi hlutabréfa minnkaði en vægi skuldabréfa jókst og hélt sú þróun áfram árið 2009 en þá í árslok námu fjáreignir rétt rúmum 20 milljörðum króna, þar af 13,7 milljörðum króna í skuldabréfum.

Fjáreignir Byrs sparisjóðs sem hlutfall af eigin fé hans voru í nokkur ár áþekk sama hlutfalli í öðrum sparisjóðum, eða fram til ársins 2007. Þá varð hlutfall fjáreigna af eigin fé Byrs sparisjóðs mun lægra en í öðrum sparisjóðum. Þetta má einkum rekja til tveggja atriða: mikillar stofnfjáraukningar í Byr sparisjóði í árslok 2007 og sölu stærstu fjáreignar sparisjóðsins, eignarhlutar í Sparisjóðabanka Íslands (þá Icebank). Í árslok 2008 var eigið fé margra annarra sparisjóða neikvætt og því varð hlutfall bókfærðra fjáreigna af eigin fé tiltölulega merkingarlaus stærð. Á sama tíma voru fjáreignir Byrs sparisjóðs meira en 100% af eigin fé hans. Á árunum 2004 og 2005 var vægi fjáreigna af eignum Sparisjóðs vélstjóra hærra en annarra sparisjóða. Það má að einhverju leyti rekja til hærra hlutfalls skuldabréfa í eignasafni hans, en eignasafn margra annarra sparisjóða stækkaði mikið frá árinu 2005 vegna gengishækkana á hlutabréfum, t.d. með skráningu Exista hf. á markað í september 2006. Hið sama gerðist ekki í Byr sparisjóði en á mynd 17 sést að á þessum árum var hlutfall eignarhluta af fjáreignum sparisjóðsins töluvert minna en hjá öðrum sparisjóðum.

Sameiningar Byrs sparisjóðs við Sparisjóð Kópavogs á árinu 2007 og Sparisjóð Norðlendinga á árinu 2008 höfðu líka áhrif á eignasafn hans. Í lok árs 2006 voru fjáreignir Sparisjóðs Kópavogs um 3 milljarðar króna, 14% af heildareignum hans og 213% af eigin fé hans. Þar af voru um 2,5 milljarðar króna eignarhlutar. Samkvæmt síðasta ársreikningi Sparisjóðs Norðlendinga, þ.e. fyrir árið 2007, námu eignarhlutar hans 1,6 milljörðum króna af 2,2 milljörðum króna sem voru bundnar í fjáreignum. Fjáreignir voru þá 12% af eignasafni hans og 50% af eigin fé.

18.3.3 Tekjur af fjáreignum

Tekjur af fjáreignum eru gengishagnaður vegna eignarhluta, verðbreytingar skuldabréfa, hlutdeild í afkomu hlutdeildarfyrirtækja og arðstekjur. Vaxtatekjur af skuldabréfum teljast ekki til tekna af fjáreignum og færast með öðrum vaxtatekjum. Ávöxtun er hér skilgreind sem tekjur af fjáreignum á einu ári sem hlutfall af meðalstöðu eignarhluta á árinu.218

Söluhagnaður fjáreigna var gjarnan færður meðal annarra tekna í ársreikningi sparisjóðanna en ekki meðal tekna af fjáreignum, en þó var það ekki algilt. Mesti söluhagnaður sem Byr sparisjóður hafði af sölu fjáreigna var á árinu 2007 en þá nam söluhagnaður vegna sölu á hlutum í Icebank hf. um 4,2 milljörðum króna.

Frá 2001 til 2005 var ávöxtun Sparisjóðs vélstjóra lítið minni en annarra sparisjóða að undanskildu árinu 2002 þegar sjóðurinn seldi hlut sinn í Kaupþingi banka hf. Ávöxtun sameinaðs sparisjóðs var talsvert lakari en annarra á árinu 2006. Þá höfðu stærstu sparisjóðir utan Byrs sparisjóðs fjárfest töluvert í Kaupþingi banka hf. og Exista hf. en þessi félög hækkuðu mjög í virði við skráningu þeirra á hlutabréfamarkað. Árið 2007 var ávöxtun Byrs sparisjóðs hins vegar töluvert betri en annarra sparisjóða. Gengishagnaður sparisjóðsins af eignarhlut hans í Sparisjóðabankanum var 2,4 milljarðar króna á árinu 2007, meiri en hjá nokkrum öðrum sparisjóði. Til að mynda var gengishagnaður Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf., sem átti svipaðan eignarhlut og Byr sparisjóður í Sparisjóðabankanum, um 826 milljónir króna. Þá hafði slæmt gengi Kistu – fjárfestingarfélags engin áhrif á Byr sparisjóð á árinu 2007 en þýðing þess í rekstri margra annarra sparisjóða, og þá sérstaklega þeirra stærri, var mikil á sama tíma.

Raunar er ávöxtun á eignarhlutum Byrs lítt sveiflukennd sem skýrist hugsanlega að hluta til af því að virk stýring var á safninu innan markaðsviðskipta og hluti hagnaðar var reglulega innleystur en safnaðist ekki upp líkt og gerðist í mörgum öðrum sparisjóðum sem héldu t.d. lengi eignarhlutum sínum í Exista hf.

Uppsafnaður hagnaður Sparisjóðs vélstjóra/Byrs sparisjóðs af fjáreignum frá árinu 2001 til ársins 2007 á árslokaverðlagi 2011 var rétt tæpir 20 milljarðar króna. Á sama tíma jókst varasjóður sparisjóðsins um rúma 30 milljarða króna á föstu verðlagi ársins 2011. Í mörgum öðrum sparisjóðum var uppsafnaður hagnaður fjáreigna jafn stór og breytingin á eigin fé, ef ekki hærri. Fjáreignir höfðu því minni þýðingu hjá Byr en öðrum sparisjóðum þó að áhrifin hafi verið þónokkur. Árin 2008 og 2009 varð tap af fjáreignum sparisjóðsins 20,4 milljarðar króna á verðlagi ársins 2011 og heildartap af fjáreignum frá 2001 til 2009 á verðlagi ársins 2011 varð um 3,2 milljarðar króna.

Á árunum 2004 til 2006 var afkoma sparisjóðsins af fjáreignum, á verðlagi hvers árs, nánast jöfn afkomu sparisjóðsins af rekstri fyrir skatta. Á árinu 2007 áttu hefðbundnir afkomuliðir af fjáreignum minni þátt í hagnaði ársins en fyrri ár en söluhagnaður af Icebank hf. á árinu bætti afkomu sparisjóðsins og taldist ekki til tekna af fjáreignum svo sem fram hefur komið. Það vekur athygli hversu lítinn þátt fjáreignir áttu í tapi áranna 2008 og 2009 sem var einkum til komið vegna afskrifta af útlánum. Í flestum öðrum sparisjóðum átti tap af fjáreignum mun stærri þátt í rekstrarerfiðleikum þeirra.

18.3.4 Stærstu fjáreignir og niðurfærslur

Hér framar hefur verið fjallað í grófum dráttum um fjárfestingar Byrs sparisjóðs og hvaða áhrif þær höfðu á rekstur og eigið fé hans. Skuldabréf höfðu gjarnan mikið vægi í fjárfestingum sparisjóðsins og tekjur af fjáreignum voru meginuppistaða afkomu hans fram til ársins 2007. Tap af fjáreignum átti þó minni þátt í tapi áranna 2008 og 2009 en t.d. afskriftir útlána. Hér verður fjallað um eignir sparisjóðsins og hvernig afkoman varð af þeim, einkum á árunum 2008 og 2009, og hvernig staðið var að fjárfestingum.

Verðmætustu fjáreignir Byrs í árslok 2006–2009 voru Sparisjóðabanki Íslands hf., VBS Fjárfestingarbanki hf., Kaupþing banki hf., MP Fjárfestingarbanki hf., SP-Fjármögnun hf., Bakkavör hf. og Össur hf. Sparisjóðurinn átti einnig töluverða eign í skuldabréfum útgefnum af Exista hf., Bakkavör Group hf. og Baugi Group hf. Árið 2009 má glögglega sjá að eign sparisjóðsins í ríkisskuldabréfum jókst mikið frá því sem áður var. Auk þess má sjá í töflu 30 að sparisjóðurinn átti um 2,4 milljarða króna í húsbréfum í árslok 2009. Þá var eignastaða sparisjóðsins í framvirkum gjaldmiðlaskiptasamningum tæplega 1,1 milljarður króna á sama tíma.

Hlutabréfaeign sparisjóðsins hafði töluverð áhrif á afkomu hans árin 2006 til 2009. Til viðbótar við þá afkomu sem sýnd er í töflu 31 var bókaður 4,2 milljarða króna söluhagnaður af sölu Icebank hf. undir aðrar rekstrartekjur sparisjóðsins. Þær fjáreignir sem höfðu mest áhrif á afkomu sparisjóðsins á þessum árum voru Sparisjóðabanki Íslands hf., Lava Capital, Húsasmiðjan og tengd félög, SP-Fjármögnun, VBS Fjárfestingarbanki og MP Banki. Á árinu 2008 tapaði sparisjóðurinn einnig töluverðum fjármunum á skuldabréfum sem keypt voru úr sjóðum Rekstrarfélags Byrs hf.

Fasteignaverkefni Byrs sparisjóðs og dótturfélaga (Shelley Oak, Lava Capital ehf., Tårn ApS og Costa Properties ehf.)

Byr sparisjóður keypti 34% hlut í Shelley Oak, bresku fasteignafélagi, í janúar 2007 fyrir um 408 þúsund sterlingspund, sem jafngilti þá um 57 milljónum króna. Síðar sama ár jók sparisjóðurinn hlut sinn í félaginu um 16,1% og greiddi fyrir það um 3,2 milljónir punda, eða 403 milljónir króna. Þá varð sparisjóðurinn meirihlutaeigandi félagsins. Áætlanir um viðskipti fasteignafélagsins stóðust ekki og í mars 2009 blasti gjaldþrot við félaginu og keypti Byr sparisjóður þá aðra hluthafa út úr því fyrir 177.150 sterlingspund, eða um 28,3 milljónir króna. Sparisjóðurinn færði niður eign sína í félaginu fyrir sem nam 460 milljónum króna á árinu 2009.219

Á stjórnarfundi Byrs sparisjóðs í maí 2007 var fjallað um fasteignaþróunarsjóð (e. High Value Property Development Fund) og fyrir stjórnarfund 26. júlí 2007 var lögð fram greinargerð um stofnun sjóðs sem síðar fékk nafnið Lava Capital ehf. Tilgangur sjóðsins var að fjárfesta í arðvænlegum fasteignaþróunarverkefnum á vel völdum stöðum í London og nágrenni. Daglegur rekstur sjóðsins yrði í höndum starfsmanna Shelley Oak í London. Á þessum tíma voru tvö verkefni þegar á borði sjóðsins, annað í Belsize Park í London og hitt við Rodona Road, St. Georges Hill, Weybridge, Surrey.220 Fyrrverandi sparisjóðsstjóri sagði um fjárfestingarnar og þá sérstaklega þegar sparisjóðurinn eignaðist meiri hluta í félaginu:

Það var áhugi hjá stórn sparisjóðsins að auka hlut sinn í þessu félagi vegna þess að það gæti gefið góðar tekjur. Ég held þó að [menn hafi vitað] að þetta voru áhættusamari viðskipti en mörg önnur. En það var sem sagt mikill vilji til að auka hlutinn og ég held að það hafi verið stefnan í upphafi að sparisjóðurinn eignaðist félagið í einhverjum skrefum. En af hverju þessi ákveðni tímapunktur frekar en annar veit ég ekki nákvæmlega. En það kom að þeim tímapunkti að það var sagt að nú ætti sparisjóðurinn að auka hlut sinn í félaginu og það var framkvæmt með þeim hætti sem lagt var upp með.221

Lava Capital var rekið með tapi 2007–2009. Á árinu 2008 jukust eignir félagsins um 1,4 milljarða króna en eignirnar voru fjármagnaðar með lántöku frá Byr sparisjóði. Ári síðar höfðu eignir rýrnað verulega eða um 2 milljarða króna, meðan skuldir félagsins höfðu aukist. Niðurfærsla Byrs sparisjóðs vegna Lava Capital nam 2,1 milljarði króna í ársreikningi sparisjóðsins fyrir árið 2009. Um lán til félagsins er fjallað í kafla 18.2.4.3.

Í október 2006 fékk Holger Danskes Vej 32–34 ApS 45 milljóna danskra króna lán frá Sparisjóði Hafnarfjarðar til kaupa á fasteign við Holger Danskes Vej 32–34 í Frederiksberg í Danmörku. Samhliða lánveitingunni gerðu Sparisjóður Hafnarfjarðar og Holger Danskes Vej 32–34 ApS með sér samning um að sjóðurinn myndi fjármagna kaup og uppbyggingu á Holger Danskes Vej 32–34 fyrir HDV ehf.222 Í útlánakönnun innri endurskoðunar Byrs sparisjóðs frá maí 2008 kom fram að 72 milljónir danskra króna hvíldu á eigninni og verk­efnið væri stopp þar sem forsendur viðskiptaáætlunar væru brostnar. Fasteignaverð hafði lækkað og kostnaður aukist. Til að koma í veg fyrir gjaldþrot félagsins framseldi Holger Danskes Vej 32–34 ApS verkefnið yfir til Byrs sparisjóðs þar sem nýtt félag að nafni Tårn ApS í eigu Byrs sparisjóðs keypti verkefnið. Kaupverðið var 50 milljónir danskra króna sem fór í að greiða inn á lán Holger Danskes Vej 32–34 hjá Byr sparisjóði.223 Í lok árs 2009 voru 426 milljónir króna niðurfærðar vegna verkefnisins í ársreikningi Byrs sparisjóðs. Um aðdraganda þessa verkefnis sagði annar af fyrrverandi sparisjóðsstjórum í skýrslu fyrir rannsóknarnefndinni:

Þetta er verkefni sem kemur til hjá Sparisjóði Hafnarfjarðar. Þetta teygir anga sína til þess […] að rekstrargrundvöllurinn undir sparisjóðnum, eins og í öllum öðrum sparisjóðum, var að fjara út. Þetta var bara spurning um tíma hvenær það myndi gerast að sparisjóðirnir myndu lenda í verulegum erfiðleikum. Við vorum í svakalegum barningi með að fá nýja viðskiptavini. Við gátum ekki keppt í neinum kjörum. Viðskiptabankarnir voru eins og hrægammar um allt og tóku öll verkefni sem komu til sögunnar, hvaða nafni sem þau nefndust og sparisjóðirnir fengu raunverulega bara einhverjar leifar. Þarna kom upp íslenskur aðili með þessa hugmynd inn til okkar, hvort við myndum vilja fjármagna blokkarbyggingu í Kaupmannahöfn. Þetta var skoðað eins og hver önnur venjuleg byggingarfjármögnun […]. Við sáum þennan möguleika á því í fyrsta lagi að reyna okkur á erlendum markaði með verkefni sem við kynnum að fjármagna. Í öðru lagi væri þetta dreifing á áhættu, þetta var ekki á Íslandi, þetta var fyrir utan Ísland.224

Hinn sparisjóðsstjórinn, átti ekki aðkomu að þessu máli þegar til þess var stofnað innan Sparisjóðs Hafnarfjarðar enda var hann þá starfsmaður Sparisjóðs vélstjóra en fyrir honum horfði málið svona við hjá Byr sparisjóði:

Þetta var verkefni á erlendri grundu, mjög erfitt og þungt. Lítið sem ekkert eftirlit var með þessu. Reyndar var samið við erlenda lögmenn sem áttu að sjá um þetta allt saman en þeir sviku okkur á endanum þannig að það var náttúrulega verið að reyna að tryggja að allir þættir væru í lagi og að þetta myndi ganga upp. Ef þetta hefði gengið upp, þá hefði verið ágætisafkoma af verkefnunum. […] Það er alltaf hættulegt að fara inn á ný markaðssvæði sem þú þekkir ekki.225

Sparisjóður Hafnarfjarðar lánaði Ægisauði ehf.226 tæpar 1,8 milljónir evra í lok janúar 2006 til kaupa á 47 íbúðum á Spáni en lánið var 20% af kaupverði eignanna og til 15 mánaða. Félagið hafði áformað að selja íbúðirnar aftur en þær áætlanir gengu ekki eftir og leysti Costa Properties ehf., félag í 100% eigu sparisjóðsins, íbúðirnar til sín. Í lok árs færði sparisjóðurinn um 101 milljón króna í niðurfærslu vegna þessa verkefnis. Eigið fé Costa Properties ehf. var neikvætt í árslok 2007 til 2009 og tap var á rekstri félagsins þau þrjú ár, samtals 102 milljónir króna.227

Húsasmiðjan hf., Grafít ehf., Hótel Búðir ehf. og Eikarhald ehf.

Byr sparisjóður eignaðist hluti í Húsasmiðjunni hf., Grafít ehf., Hótel Búðum ehf. og Eikarhaldi ehf. þar sem hlutir í félögunum höfðu verið lagðir að veði fyrir skuldum í sparisjóðnum. Byr sparisjóður og Fjárfestingarfélagið Primus ehf. höfðu gert með sér samning um uppgjör skulda fjárfestingarfélagsins í apríl 2008. Skuldirnar námu þá um 2,9 milljörðum króna en sparisjóðurinn fékk eignir sem námu 2,6 milljörðum króna upp í þær og gaf út nýtt lán fyrir mismuninum.228 Eignirnar sem um var að ræða voru hlutabréf í Húsasmiðjunni hf., Grafít ehf., Hótel Búðum ehf. og Eikarhaldi ehf. Sömu eignarhlutir höfðu verið metnir á tæpa 1,4 milljarða króna í ársreikningi dótturfélags Fjárfestingarfélagsins Primusar ehf. í árslok 2007.229 Metið virði þeirra hækkaði um 1,2 milljarða króna á fjórum mánuðum.

Á árinu 2008 nam tap Húsasmiðjunnar 12,7 milljörðum króna og var eigið fé félagsins þá orðið neikvætt um 8,8 milljarða króna.230 Þrátt fyrir þetta var bókfært verð eignarhlutar Byrs sparisjóðs í Húsasmiðjunni í lok árs 2008 áætlað 700 milljónir króna. Heildarverðmæti Húsasmiðjunnar ehf. var samkvæmt því 3.819 milljónir króna í lok árs 2008. Í lok árs 2007 var eigið fé Grafíts ehf. tæp 241 milljón króna en félagið skilaði ekki ársreikningi fyrir árið 2008. Í lok árs 2008 mat Byr sparisjóður eignarhlut sinn í Grafít á 225 milljónir króna. Í lok árs 2007 var eigið fé Hótels Búða ehf. 18,8 milljónir króna en á árinu 2008 tapaði félagið tæpum 238 milljónum króna og eigið fé var neikvætt um tæpar 247 milljónir króna í árslok. Mat Byrs sparisjóðs á 28,75% eignarhlut sínum í félaginu var 51,4 milljónir króna í árslok 2008. Þessi þrjú félög voru að fullu færð niður í árslok 2009. Eikarhald ehf. var eina félagið af þessum fjórum sem Byr sparisjóður eignfærði í árslok 2009. Eikarhald ehf. tapaði 19,9 milljörðum króna á árinu 2008 en á því ári var nýtt hlutafé selt og eigið fé félagsins í árslok nam tæpum 652 milljónum króna.231 Byr sparisjóður tók ekki þátt í hlutafjáraukningunni og var eignarhlutur Byrs sparisjóðs í Eikarhaldi því kominn í 2% í lok árs 2008.232 Þessi eignarhlutur Byrs sparisjóðs var þá metinn á 300 milljónir króna sem svaraði til eignar sparisjóðsins í hlutafé félagsins sem var um það bil 15 milljarðar króna þótt eigið fé þess hafi ekki verið nema 650 milljónir króna. Ári síðar var hlutur Byrs sparisjóðs metinn á 200 milljónir króna en eigið fé Eikarhalds (sem þá hét Eik Properties ehf.) var þá orðið neikvætt um 1,3 milljarða króna samkvæmt ársreikningi félagsins. Á árunum 2008 og 2009 færði Byr sparisjóður eign sína í félögunum niður um 2,4 milljarða króna.

SP-Fjármögnun hf.

SP-Fjármögnun var stofnuð árið 1995 af sparisjóðunum og starfaði á sviði fjármögnunarleigu. Árið 2002 keypti Landsbankinn 51% eignarhlut í SP-Fjármögnun og varð félagið um leið dótturfélag Landsbankans.233 Fram til ársins 2006 voru Sparisjóður vélstjóra og Sparisjóður Hafnarfjarðar annar og þriðji stærsti eigandi félagsins og frá samruna þeirra átti Byr á bilinu 32–35% hlut í félaginu. Sparisjóðsstjórar Byrs sátu í stjórn félagsins til 2008. Frá 2005 til 2007 gekk rekstur SP-Fjármögnunar hf. vel og var eigið fé í lok árs 2007 4,2 milljarðar króna.

Árið 2008 var félaginu erfitt en þá tapaði það 30,2 milljörðum króna, aðallega vegna virðisrýrnunar útlána, og var eigið fé í árslok neikvætt um tæpa 26 milljarða króna. Í ársreikningi greindi stjórn frá því að vegna þeirrar stöðu sem uppi var í íslensku efnahagslífi hefði verðmæti útlánasafns SP-Fjármögnunar hf. rýrnað verulega. Fjallað var um stöðu félagsins á stjórnarfundi Byrs sparisjóðs 12. desember 2008 og kom fram að ljóst væri að umtalsvert nýtt hlutafé þyrfti inn í félagið svo það stæðist eiginfjárhlutföll. Á fundinum var sparisjóðsstjóra falið að kanna í samvinnu við aðra eigendur félagsins alla þá kosti sem væru í stöðunni til bjargar fyrirtækinu. Árið 2008 færði sparisjóðurinn eign sína í SP-Fjármögnun niður að fullu, um 2,1 milljarð króna.

Staða félagsins var rædd á stjórnarfundi Byrs sparisjóðs 4. febrúar 2009 án þess þó að nokkuð nýtt kæmi fram. Á stjórnarfundi sparisjóðsins 13. mars 2009 var ákveðið að falla frá áskriftarrétti að nýju hlutafé í SP-Fjármögnun hf. Hlutafé yrði lækkað til jöfnunar á tapi þess og nýtt hlutafé, 800 milljónir króna að nafnvirði, gefið út. Á árinu 2009 var eigið fé SP-Fjármögnunar hf. aukið tvisvar. Í mars 2009 var hlutafé félagsins aukið um áðurnefndar 800 milljónir króna að nafnvirði þegar NBI hf. (síðar Landsbankinn hf.) skráði sig fyrir nýjum hlutum í félaginu og var endurgjald fyrir hlutina krafa bankans á hendur félaginu upp á 26,2 milljarða króna. Fyrir aðalfund í félaginu í apríl 2009 var lögð fram tillaga um hækkun hlutafjár að nafnvirði 280 milljónir króna sem greitt var fyrir með sama hætti og í hlutafjáraukningunni í mars sama ár, þ.e. með niðurfellingu krafna Landsbankans á hendur félaginu, en endurgjaldið var 9,2 milljarðar króna.234 Í lok árs 2009 var Eignarhaldsfélag HS ehf. (síðar Eignarhaldsfélag Landsbankans ehf.) eini eigandi SP-Fjármögnunar hf.

VBS Fjárfestingarbanki hf.

Á stjórnarfundi Byrs sparisjóðs í mars 2007 var kynnt samkomulag milli stjórna FSP hf. (áður Fjárfestingarfélag sparisjóðanna hf.) og VBS Fjárfestingarbanka hf. um samruna félaganna, en Byr sparisjóður átti á þeim tíma 20,1% hlut í FSP hf.235 Um var að ræða 365,5 milljónir króna að nafnverði sem bókfærðar voru á 590 milljónir króna í árslok 2006. Á stjórnarfundinum kom fram að hik hefði komið á stjórn FSP hf. þegar fyrir lágu niðurstöður áreiðanleikakönnunar á afmörkuðum þáttum í starfsemi VBS Fjárfestingarbanka hf., einkum útlánastarfsemi, varúðarfærslum og skýrsluskilum til Fjármálaeftirlitsins. Stjórn Byrs gaf sparisjóðsstjórum heimild til þess að samþykkja samruna FSP hf. við VBS Fjárfestingarbanka hf. fyrir hönd sparisjóðsins á hluthafafundi FSP hf. Hlutur FSP hf. í sameinuðu félagi yrði 48%.236 Auk eignarhlutar Byrs sparisjóðs í FSP áttu Sparisjóður Kópavogs og Sparisjóður Norðlendinga, sem síðar sameinuðust Byr sparisjóði, samanlagt um 11,6% eignarhlut í FSP hf.237 Á stjórnarfundi Byrs sparisjóðs í ágúst 2007 voru samþykkt kaup á 0,9% hlut til viðbótar í VBS Fjárfestingarbanka hf. fyrir 147,6 milljónir króna á genginu 36.238

Ragnar Z. Guðjónsson, annar sparisjóðsstjóra Byrs sparisjóðs, sendi tölvuskeyti 9. nóvember 2007 til sparisjóðsstjóranna í Keflavík og Mýrasýslu, Geirmundar Kristinssonar og Gísla Kjartanssonar, með kauptilboði Byrs sparisjóðs í alla eignarhluti sparisjóðanna tveggja í VBS Fjárfestingarbanka hf. sem þá námu 21,6% af heildarhlutafé bankans. Tilboðsgengið var 44 krónur á hlut og heildarverð 3.992 milljónir króna. Af því yrðu 3.640 milljónir króna greiddar með hlutafé í MP Fjárfestingarbanka hf. og 352 milljónir króna með peningum. Tilboðið gilti til 14. nóvember 2007 en á stjórnarfundi Byrs sparisjóðs 23. nóvember sama ár var greint frá því að tilboðinu hefði verið hafnað. Í lok árs 2007 átti Byr sparisjóður um 9,8% hlut í VBS Fjárfestingarbanka hf. en við sameiningu við Sparisjóð Norðlendinga jókst sá hlutur í 11,4%.239

Í lok árs 2007 var Páll Þór Magnússon, stjórnarmaður í Byr sparisjóði, stjórnarformaður VBS Fjárfestingarbanka og Gunnar Árnason, forstöðumaður áhættu- og útlánaeftirlits Byrs sparisjóðs, einn af fjórum meðstjórnendum fjárfestingarbankans. Páll Þór var stjórnarformaður fjárfestingarbankans á árinu 2008.

FSP hf. var fært með hlutdeildaraðferð til ársins 2007 en VBS Fjárfestingarbanki hf. var færður á gangvirði. Hækkun á virði eignarhlutar Byrs sparisjóðs í bankanum á árinu 2007 var um 815 milljónir króna. Tap Byrs sparisjóðs af eignarhlut í VBS Fjárfestingarbanka hf. nam 1.030 milljónum króna á árinu 2008 og 377 milljónum króna á árinu 2009. Fjárfestingarbankinn var tekinn til slitameðferðar 9. apríl 2010 með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur.

Sparisjóðabanki Íslands hf. (Icebank hf.)

Sparisjóðirnir áttu hlut í Sparisjóðabanka Íslands hf. (sem hét um tíma Icebank hf.) vegna þess hlutverks sem Sparisjóðabankinn hafði gegnt sem greiðsluþjónustubanki sparisjóðanna og var eignarhlutur gjarnan í takt við stærð og umsvif hvers sparisjóðs. Þegar fram liðu stundir minnkuðu stærri sparisjóðir, þá einkum Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis og Byr sparisjóður, smám saman viðskipti sín við Sparisjóðabankann eftir því sem starfsemi þeirra óx og deildir innan sparisjóðanna sjálfra hófu að sinna hlutverkum sem Sparisjóðabankinn gegndi fyrir minni sparisjóði. Á árinu 2007 komu til framkvæmda hugmyndir um að selja eignarhluti sparisjóðanna tveggja í Sparisjóðabankanum en í lok árs 2006 var eignarhlutur Byrs sparisjóðs í bankanum tæp 28,7% og eignarhlutur Sparisjóðs Kópavogs, sem sameinaðist Byr sparisjóði á árinu 2007, 5,6%.

Á fundi stjórnar Byrs sparisjóðs í lok júní 2007 var rætt um opnun eignarhalds Icebank hf. í tengslum við kaup bankans á Behrens Capital og hugsanlega skráningu í Kauphöllina ári síðar. Fram kom að stefnt væri að því að ræða málið nánar innan eigendahóps Icebank hf. á næstu vikum.240 Á stjórnarfundi Byrs sparisjóðs 20. september 2007 kom til tals að nokkrir aðilar hefðu lýst yfir áhuga á að kaupa hlut Byrs sparisjóðs í Icebank hf. og leit stjórnin jákvæðum augum á hugmyndir þessara aðila. Gert var ráð fyrir að Byr sparisjóður myndi lána allt að 2,6 milljarða króna til kaupanna sem tryggð yrðu með fyrsta veðrétti í hlutabréfum Icebank hf. Á stjórnarfundi Byrs sparisjóðs 9. október 2007 var upplýst að borist hefðu tilboð frá 16 aðilum í 24,68% hlut sjóðsins í Icebank hf. Tilboðsgengið var 28,055 og söluverðmætið því 7.897 milljónir króna. Stjórnin fól sparisjóðsstjórum og stjórnarformanni að samþykkja kauptilboðin. Jafnframt samþykkti stjórnin að veita hluta tilboðsgjafa lán samtals að fjárhæð 2.335 milljónir króna fyrir kaupunum.241

Í desember 2007 gengu viðskiptin endanlega í gegn og nam söluhagnaður Byrs sparisjóðs 4.185 milljónum króna. Eftir söluna átti Byr sparisjóður 5,4% eignarhlut í Icebank hf.242 Um það bil sem sala Byrs sparisjóðs á hluta eignar hans í Icebank hf. gekk í gegn gerðu sparisjóðurinn og bankinn samning um verðtryggingu á 84.301.523 hlutum Icebank hf. í Exista hf. Við lok samningsins í lok árs 2008 lá fyrir að Byr sparisjóður ætti að greiða Icebank hf. 434 milljónir króna á grundvelli hans243 sem sparisjóðurinn greiddi ekki þar sem hann taldi vanefndir hafa verið á kaupsamningum á hlutabréfum sparisjóðsins í Icebank hf.244

Tekjur af eignarhlut sparisjóðsins í Sparisjóðabankanum á árinu 2006 voru 1,6 milljarðar króna og 2,5 milljarðar króna árið eftir en þá er einnig tekið tillit til tekna Sparisjóðs Kópavogs af eignarhlut í sama félagi. Því til viðbótar myndaðist söluhagnaður sem nam 4,2 milljörðum króna. Á árinu 2008 tapaði sparisjóðurinn 1,2 milljörðum króna á eignarhlutnum í Sparisjóðabankanum og á sama ári var einnig bókfært tap af honum upp á 731 milljón króna. Þetta tap var til komið vegna sölu Byrs sparisjóðs á 1,83% hlut í Icebank hf. til Sparisjóðs Mýrasýslu á árinu 2008. Salan var skilyrt því að Sparisjóður Mýrasýslu fengi leyfi Fjármálaeftirlitsins til þess að fara með virkan eignarhlut í Icebank.245 Í lok maí 2008 hafnaði Fjármálaeftirlitið beiðni Sparisjóðs Mýrasýslu þess efnis meðal annars vegna þess að aukin eign í Sparisjóðabankanum var talin hafa of mikil áhrif á eiginfjárhlutfall sparisjóðsins og gekk salan því til baka.246 Samtals tapaði Byr sparisjóður því um 1.864 milljónum króna á eignarhlut sínum í Icebank á árinu 2008.247 Um þessi viðskipti sagði fyrrverandi sparisjóðsstjóri Byrs sparisjóðs:

Mér fannst [salan á hlutnum í Icebank hf.] á þeim tíma sem hún fór fram ekki líta illa út. Eins og ég man þetta þá höfðum við ekki miklar áhyggjur af þessu í lok árs 2007. Aftur á móti held ég að það sé komið fram í febrúar 2008 þegar það kemur í ljós að Sparisjóður Mýrasýslu getur ekki greitt okkur fyrir sinn hlut. Þá fórum við að hafa áhyggjur af því að sama myndi hugsanlega gilda um aðra. Í framhaldinu var reynt að vinna að því að fá þetta greitt, en þegar leið á árið 2008 sá maður að það var ekki alveg að ganga.248
MP Fjárfestingarbanki hf.

Árið 2003 réðst MP Fjárfestingarbanki hf. í 27,2 milljóna króna hlutafjáraukningu sem var öll seld Sparisjóði vélstjóra.249 Sparisjóðurinn átti þá 12,6% hlut í fjárfestingarbankanum en eignarhlutur Byrs sparisjóðs og forvera hans í félaginu var jafnan á bilinu 12–14% til ársins 2009.250 Á fundi stjórnar Byrs sparisjóðs 19. febrúar 2007 var samþykkt að gera tilboð í 65% hlutafjár í MP Fjárfestingarbanka hf. fyrir 9,6 milljarða króna.251 Ekkert var bókað í fundargerðir stjórnar Byrs sparisjóðs um afstöðu hluthafa MP Fjárfestingarbanka hf. til tilboðsins en af kaupunum varð ekki. Í árslok 2005 átti MP Fjárfestingarbanki hf. rétt rúm 20% í Sparisjóði vélstjóra og um 8,1% í sameinuðum sparisjóði í árslok 2006 en engan eignarhlut næstu ár þar á eftir.

Jón Þorsteinn Jónsson sat í stjórn MP Fjárfestingarbanka hf. frá 2005 til 2007 en hann var jafnframt stjórnarformaður Byrs sparisjóðs frá stofnun hans til 2009 og þar áður Sparisjóðs vélstjóra frá árinu 2004. Í árslok 2007 voru stærstu eigendur MP Fjárfestingarbanka hf. Margeir Pétursson ehf. með 21% hlut, Byr sparisjóður með 13%, Dexter fjárfestingar ehf. 11% og Fari ehf. 11%. Dexter fjárfestingar ehf. var í eigu Sigurðar Gísla Pálmasonar og Fari ehf. í eigu Jóns Pálmasonar.252 Hagnaður bankans árin 2006 til 2008 var tæpir 4 milljarðar króna og eigið fé í árslok 2008 6,6 milljarðar króna. Árið 2009 tapaði bankinn 1,2 milljörðum króna.

Í árslok 2006 átti sparisjóðurinn 143,3 milljónir hluta að nafnverði í bankanum og ári síðar var sú eign óbreytt. Matið á bréfunum hafði hins vegar breyst mikið því hver nafnverðshlutur var metinn á 5,5 krónur í árslok 2006 en 15,5 krónur ári síðar. Á árinu 2007 hætti sparisjóðurinn að færa eign sína í MP Fjárfestingarbanka með hlutdeildaraðferð og fór að færa bankann á gangvirði. Við það að breyta um bókhaldsaðferð hækkaði virði bréfanna á bókum bankans sem nam um 1,4 milljörðum króna. Byr sparisjóður færði eign sína í MP Fjárfestingarbanka hf. niður um 804 milljónir króna árið 2008 og 470 milljónir króna árið 2009.

Nýsir hf.

Nýsir hf. var stofnaður árið 1991 og kom að byggingu og rekstri fasteigna. Í lok árs 2007 átti Sneis ehf. 100% hlutafjár í félaginu. Snemma ársins 2008 var ljóst að fjármögnun félagsins var orðin erfið og í apríl 2008 var sett á laggirnar kröfuhafaráð Nýsis hf. þar sem farið var í gegnum rekstur og eignir félagsins.253 Byr sparisjóður og dótturfélög áttu þá um 885 milljónir króna í víxlum og skuldabréfum útgefnum af Nýsi hf. Þar af átti Rekstrarfélag Byrs hf. kröfur upp á um 700 milljónir króna í gegnum tvo sjóði, 685 milljónir króna í peningamarkaðssjóði og 15 milljónir króna í fyrirtækjasjóði.254 Þegar ljóst var að erfiðleikar væru í rekstri Nýsis keypti Byr sparisjóður víxla og skuldabréf félagsins úr sjóðum rekstrarfélagsins255 en hvergi var fjallað um þessi kaup í stjórnarfundargerðum Byrs sparisjóðs.256 Á árinu 2008 færði sparisjóðurinn kröfur á Nýsi hf. niður um 510 milljónir króna og árið eftir nam niðurfærslan tæpum 630 milljónum króna vegna skuldabréfa auk áfallinna vaxta.

Saga Capital Fjárfestingarbanki hf.

Saga Capital Fjárfestingarbanki hf. var stofnaður í september 2006 sem FBE ehf. (Fjárfestingarbanki Eyjafjarðar) og voru fyrstu eigendur hans norðlensk félög. Í árslok 2006 áttu KEA eignir ehf. 44,4% og Sparisjóður Svarfdæla og Sparisjóður Norðlendinga hvor sín 27,8%. Á stjórnarfundi Sparisjóðs Norðlendinga 16. mars 2006 var kynnt viljayfirlýsing Sparisjóðs Norðlendinga, Sparisjóðs Svarfdæla og KEA um að stofna hlutafélag og sækja um leyfi til Fjármálaeftirlitsins til stofnunar fjárfestingarbanka. Stjórn Sparisjóðs Norðlendinga samþykkti að taka þátt í þessu félagi og leggja fram 125 milljónir króna.257 Síðar var ákveðið að hækka heildarhlutafé bankans úr 1 milljarði króna í 2 milljarða króna og því varð hlutur Sparisjóðs Norðlendinga 250 milljónir króna í stað 125.258 Í mars 2007 samþykkti stjórn sparisjóðsins heimild til að auka hlutafjáreign í félaginu í allt að 240 milljónir króna að nafnvirði en sparisjóðurinn hafði þá þegar fjárfest fyrir 260 milljónir króna að nafnvirði.259 Í árslok 2007 átti Sparisjóður Norðlendinga 460 milljónir króna að nafnvirði í Saga Capital Fjárfestingarbanka hf., eða 4,7% af útgefnu hlutafé. Í árslok 2008 og 2009 var eign Byrs sparisjóðs tæplega 5,2% af hlutafé fjárfestingarbankans.260 Örn Arnar Óskarsson sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Norðlendinga sat í stjórn Saga Capital frá 2006 til 2008.261

Byr sparisjóður færði eignarhlut sinn í Saga Capital Fjárfestingarbanka hf. niður um 54 milljónir króna á árinu 2008 og 500 milljónir króna árið eftir. Tap af rekstri Saga Capital Fjárfestingarbanka var 3.673 milljónir króna árið 2008 og 2.830 milljónir króna árið 2009.

Vostok Holdings ehf.

Vostok Holdings ehf. var stofnað á árinu 2004. Tilgangur félagsins var að fjárfesta í verðbréfum, fjármálagerningum og fasteignum með sérstakri áherslu á erlenda markaði. Við stofnun félagsins árið 2004 var hlutafé þess 100 milljónir króna en var aukið í 200 milljónir króna sama ár. Samkvæmt skýrslu stjórnar fyrir árið 2004 festi félagið kaup á skrifstofuhúsnæði í Vilnius í Litháen og réð þrjá starfsmenn. Í árslok 2004 áttu þrír hluthafar meira en 10% í félaginu, en þeir voru Hraunbjarg ehf. (52,5%),262 Sparisjóður vélstjóra (20%) og Jón Hjartarson (10%). Til viðbótar áttu fimm aðrir hluthafar minna en 10% hlut.263 Gunnar Árnason, forstöðumaður útlánaeftirlits hjá Byr sparisjóði, sat í stjórn Vostok frá 2005264 en hann átti jafnframt um 0,5% hlut í félaginu í gegnum einkahlutafélag sitt G. Arnason ehf., samkvæmt ársreikningi félagsins fyrir árið 2007.

Í árslok 2006 hafði eignarhald félagsins breyst þannig að Hraunbjarg ehf. átti þá 36% hlut, Byr sparisjóður 15% og FSP hf. átti 14%.265 Í tölvupósti frá Margeiri Péturssyni til hluthafa Vostok Holdings ehf. í apríl 2006 segir að það langmarkverðasta í starfsemi félagsins að undanförnu sé 60% eignarhlutur í úkraínska eignarhaldsfélaginu New Progress Holdings CJSC sem eigi 92% hlutafjár í úkraínska bankanum Bank Lviv í borginni Lviv í VesturÚkraínu.266 Á því ári var hagnaður félagsins 76 milljónir króna og eigið fé í árslok tæpur 1,1 milljarður króna.

Árið 2007 jók Vostok Holdings ehf. hlutafé sitt um 200 milljónir króna að nafnvirði og var hlutur Hraunbjargs ehf. í félaginu í árslok 48% en Byr sparisjóður átti þá tæp 14% og FSP Holding ehf. 13,1%. Eigendur Hraunbjargs ehf. í árslok 2007 voru MP Fjárfestingarbanki með 49% hlut, Margeir Pétursson ehf. með 24% hlut og Fasteignafélagið Ósland ehf. með 21% hlut. Á aðalfundi Vostok Holdings ehf. í maí 2007 var samþykkt að breyta Vostok Holdings úr einkahlutafélagi í hlutafélag.267

Árin 2007 og 2008 varð smávægilegt tap af rekstri Vostok Holdings, eða undir 10 milljónum króna hvort ár. Í árslok 2008 var eigið fé félagsins 2,8 milljarðar króna en á því ári var gefið út nýtt hlutafé að nafnvirði 400 milljóna króna og var verð hvers hlutar 2,5 krónur. Byr sparisjóður færði eignarhlut sinn í Vostok Holdings ehf. niður um 100 milljónir króna á árinu 2008 og 204 milljónir króna árið eftir.

Árið 2009 hagnaðist félagið um tæpar 89 milljónir króna en félaginu var síðan slitið miðað við 18. desember 2009.268 Við skiptalok í lok janúar 2009 var eignarhlut Vostok Holdings ehf. í Vostok Holding Netherlands B.V. skipt meðal hluthafa samkvæmt úthlutunargerð.269

Sparisjóðurinn í Keflavík

Í desember 2006 samþykkti stjórn Sparisjóðs vélstjóra að kaupa allt að 5% hlut í stofnfjárbréfum Sparisjóðsins í Keflavík fyrir um 550 milljónir króna.270 Á fundi stjórnar Byrs sparisjóðs 18. apríl 2007 var samþykkt að selja stofnfjárbréf í Sparisjóðnum í Keflavík271 og voru þau seld tveimur dögum síðar fyrir 1 milljarð króna.272 Hagnaður af viðskiptunum var 403 milljónir króna.273

Með sameiningu við Sparisjóð Kópavogs eignaðist Byr sparisjóður bréf í Sparisjóðnum í Keflavík og Sparisjóði Vestfirðinga. Í byrjun mars 2007 átti Sparisjóður Kópavogs 0,37% í Sparisjóðnum í Keflavík og 1,79% í Sparisjóði Vestfirðinga.274 Í lok maí 2007 átti SPK Fjárfesting, dótturfélag Sparisjóðsins í Kópavogi, svipað stóran hlut í Sparisjóðnum í Keflavík og Sparisjóður Kópavogs átti beint. Sá hlutur var metinn á rétt tæpar 100 milljónir króna þá.275 Ársreikningar Sparisjóðs Kópavogs og Byrs sparisjóðs voru sameinaðir miðað við 1. október 2007.

Í árslok 2008 og 2009 átti Byr sparisjóður tæp 1,6% í Sparisjóðnum í Keflavík. Sá eignarhlutur var metinn á 261 milljón króna í árslok 2008 og færður niður um 233 milljónir króna á árinu 2009.

Verðbréf í skráðum félögum (Bakkavör Group hf., Kaupþing hf., Össur hf.)

Af lestri stjórnarfundargerða Byrs sparisjóðs er ekki að sjá að mörkuð hafi verið sérstök eða afgerandi stefna um kaup á hlutabréfum í skráðum félögum. Markaðsviðskiptadeild sparisjóðsins var virk í viðskiptum með skráð hlutabréf276 og endurspeglar áramótastaða þessara bréfa að einhverju leyti þá stöðu sem var á bréfunum hjá þeirri deild en ekki eignarhlut sem tekin hafði verið ákvörðun um að eiga í sérstökum tilgangi.277 Markaðsviðskipti töpuðu rúmum 1,9 milljörðum króna á hlutabréfaviðskiptum á árinu 2008 og var það eina árið í rekstri Byrs sparisjóðs sem tap var á hlutabréfaviðskiptum þessarar deildar. Þar af var tap á Kaupþingi hf. 341 milljón króna, tap á Bakkavör hf. 690 milljónir króna, tap á Straumi-Burðarási Fjárfestingabanka hf. 299 milljónir króna og tap á FL Group hf. 292 milljónir króna.278

Sparisjóðurinn átti um 419 til 467 milljóna króna hlut í Össuri hf. í árslok 2006 til 2008 en í lok árs 2009 hafði verðgildi hlutarins aukist töluvert og nam þá 943 milljónum króna. Á stjórnarfundi Byrs sparisjóðs 29. desember 2009 var lagt fram minnisblað áhættustýringar um stöðu markaðsviðskipta með tilliti til reglna um fjárfestingarheimildir. Samkvæmt reglum sem samþykktar hefðu verið 22. janúar 2009 mátti hámarkseign í einstöku hlutafélagi ekki vera meiri en 35% af hlutabréfaheimildum en 45% ef um fjármálafyrirtæki væri að ræða. Þegar reglurnar hefðu verið settar hafði staða markaðsviðskipta í bréfum Össurar hf. verið um 6,6 milljónir króna að nafnverði eða 635,8 milljónir króna að markaðsverði sem var um 32% af þeirri heimild sem markaðsviðskipti höfðu hvað hlutabréf varðaði.

Eign í bréfum Össurar var, samkvæmt minnisblaðinu, 933 milljónir króna í lok desember 2009 eða tæplega 47% af þeirri heimild sem markaðsviðskipti höfðu til hlutabréfaviðskipta. Þar sem ár var liðið frá því nýjar reglur um fjárfestingarheimildir voru samþykktar og fráviksheimild veitt, taldi áhættustýring rétt að óska eftir heimild stjórnar til að hækka heimild markaðsviðskipta til að hafa stöðu í Össuri hf. sem væri 50% af heildarheimildum með hlutabréf til 1. apríl 2010.279 Stjórn sparisjóðsins samþykkti heimild til stöðutöku fyrir allt að 1 milljarð króna í bréfum Össurar fram til 1. apríl 2010. Hlutabréfastaðan í Össuri hafði þá verið yfir heimildum samkvæmt reglum sjóðsins frá febrúar 2009 og höfðu verið gerðar athugasemdir við það nokkrum sinnum með tölvupósti til sparisjóðsstjóra.280 Sparisjóðsstjóri hafði þó veitt óformlega heimild til að eiga bréf í Össuri fyrir 1 milljarð króna sem yfirmaður markaðsviðskipta sótti stöðugt um undanþágu á.281 Áhrif hlutabréfa í Össuri hf. á afkomu sparisjóðsins árin 2008 og 2009 voru lítil, tapið var 27 milljónir króna árið 2008 og hagnaður 66 milljónir króna árið 2009. Um hlutabréfaviðskipti markaðsviðskipta sagði fyrrverandi forstöðumaður deildarinnar í skýrslu sinni fyrir rannsóknarnefndinni:

Ég var náttúrlega alltaf að hreyfa, það var aldrei staða sem ég átti. Ég gerði viðskipti á hverjum degi [þó ekki með öll bréf], það var ein staða sem að ég átti svolítið lengi, […] ég keypti töluvert í Össuri og þar þurfti ég að fá undanþágu vegna heimilda. Fékk hana. Þegar markaðurinn hrundi þá hrundi Össur sem var bara í viðskiptum erlendis og líka illa háður íslenskri hagsveiflu og hafði ekkert með það að gera, en gengið lækkaði stöðugt eins og allt annað. Og þá sat ég og keypti. Ég er nokkuð viss um að ég hafi farið hátt í milljarð í Össuri á einhverjum tímapunkti. Alltaf sótti ég um undanþágu og ég var ekki tilbúinn að selja þetta. Ég held að gengið hafi farið niður í 60, 70 þegar lægst var, eitthvað slíkt. Þeirri stöðu hékk ég á allan þennan tíma og það síðasta sem ég gerði í október [2010] þegar ég hætti var að selja hann í heilu lagi á genginu 221 og taka hagnaðinn í hús. […] Ég keypti þegar enginn vildi og sat svo bara á henni eins og ormur á gulli vegna þess að þetta var svona félag sem mér fannst flott, skilaði góðri afkomu og var ekki háð íslenskri hagsveiflu. Þetta var íslenskt skráð fyrirtæki á erlendum mörkuðum. Já, það er örugglega lengsta staðan. Lengi vel átti ég í Bakkavör, hafði trú á því. Það fór allt suður, ég seldi það einhvern tímann á leiðinni, gekk ekki upp. Ég hafði trú á mörgu sem Exista var að gera en ekki öllu. Mér fannst í raun og veru Exista að hluta til ágætis pottur en potturinn of dýr, mér fannst skelin of dýr utan um það sem var í pottinum.282

Hlutabréf Exista hf. voru ekki stór eign í safni Byrs sparisjóðs og ekki var mörkuð stefna innan sparisjóðsins um að eiga ákveðinn eignarhlut í því félagi, eins og segja má um marga aðra og þá sérstaklega stærri sparisjóði. Í árslok 2007 var eign sparisjóðsins í Exista hf. stærst en hún var þá tæpar 436 milljónir króna. Á sama tíma var eign sparisjóðsins í hlutabréfum Bakkavarar hf. og Kaupþings banka hf. til dæmis mun stærri en eignin í Exista hf. Sparisjóðurinn átti aftur á móti mun meira af skuldabréfum og víxlum Exista hf. en hlutabréfum. Sú eign nam mest 1,4 milljörðum króna í lok árs 2008 en á sama tíma átti sparisjóðurinn engin hlutabréf í Exista hf. Einhver höfðu verið seld en önnur færð niður. Tap af hlutabréfum í Exista hf. var 133 milljónir króna á árinu 2008. Sparisjóðurinn færði ekki niður skuldabréfaeign í Exista hf. árið 2008 en 2009 nam niðurfærslan 630 milljónum króna.

Lífsval ehf.

Á stjórnarfundi Sparisjóðs vélstjóra 29. mars 2006 var rætt að til boða stæði að kaupa 2% hlut í Lífsvali ehf. Félagið hefði verið stofnað til þess að kaupa jarðir og leigja áfram land og landréttindi. Stjórnin samþykkti kaupin og átti Byr sparisjóður 1,9% eignarhlut í Lífsvali í árslok 2006 en hann var þá metinn á 65 milljónir króna. Stærstu eigendur félagsins á þessum tíma voru Landsbankinn með tæplega 19% hlut, Ingvar J. Karlsson með 16,8% hlut, Ólafur Ívan Wernersson með 15,6% hlut og Guðmundur A. Birgisson með rúm 13%. Saxhóll, félag í eigu Jóns Þorsteins Jónssonar, stjórnarformanns Byrs sparisjóðs og fjölskyldu hans, átti á bilinu 9% til 10% af hlutafé félagsins frá 2005 til 2010 og Saxbygg, félag í eigu Saxhóls ehf. og Bygg invest ehf., átti 7–8% á sama tímabili. Jón Björnsson, sem hafði verið sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Norðlendinga, sem sameinaðist Byr sparisjóði á árinu 2008, tók við starfi framkvæmdastjóra Lífsvals ehf. árið 2005.283

Á stjórnarfundi Byrs sparisjóðs 23. nóvember 2007 var samþykkt að heimila sparisjóðsstjórum, fyrir hönd sparisjóðsins, að kaupa 1% hlutabréfa í Lífsvali ehf. fyrir allt að 70 milljónir króna. Seljandi bréfanna var Jón Björnsson, framkvæmdastjóri félagsins. Á þessum tíma var Jón Þorsteinn Jónsson stjórnarmaður Byrs sparisjóðs og jafnframt í stjórn Lífsvals.284 Í lok árs 2007 átti Byr sparisjóður 4,6% í Lífsvali ehf. Um ástæður þessarar fjárfestingar sagði fyrrverandi sparisjóðsstjóri:

Þetta kom í gegnum stjórnina. Það voru stjórnarmenn sem urðu miklir viðskiptafélagar þessara aðila og menn töldu það geta verið hagkvæmt fyrir sjóðinn að fjárfesta í jörðum. Menn töldu það vera hagkvæmt og gott að geta verið í nánum viðskiptalegum tengslum inni í þessu félagi með öðrum, t.d. Landsbankanum sem var þarna hluthafi. Þetta voru meðal annars rök sem lágu að baki því að kaupa í félaginu. Það var lítið um hluti sem voru á lausu í þessu félagi og það var talið gott fyrir sjóðinn að vera þarna þátttakandi.285

Á fundi stjórnar Byrs sparisjóðs 2. mars 2010 fjallaði innri endurskoðandi sjóðsins um áðurnefnd viðskipti með bréf í Lífsvali ehf. Fram kom að Byr sparisjóður hefði keypt hlutabréf í félaginu af Jóni Björnssyni 30. nóvember 2007 fyrir samtals 65 milljónir króna. Á sama tíma voru leyst af bréfunum veð sem hvílt höfðu á þeim vegna um það bil 25 milljóna króna skuldar við Landsbankann. Samkvæmt ársreikningi Lífsvals fyrir árið 2007 hafði 119 milljóna króna tap orðið af rekstri félagsins og var eigið fé um 3,5 milljarðar króna í árslok. Benti innri endurskoðandi Byrs sparisjóðs á að þrátt fyrir þetta hefði verðmat Lífsvals verið um 6,5 milljarðar króna í viðskiptum Jóns Björnssonar og Byrs sparisjóðs, eða nærri tvisvar sinnum verðmæti eigin fjár í félaginu.286 Fyrrverandi stjórnarformaður sparisjóðsins sagði í skýrslu sinni fyrir rannsóknarnefndinni um verðmat Lífsvals ehf. þegar hluturinn var aukinn á árinu 2007:

Menn voru ekki að horfa á reksturinn, þarna er búrekstur og önnur hlunnindi, tekjur af laxveiðiréttindum og fleiru. Þarna var fyrst og fremst horft á hækkun á jarðarverði sem var mikil. Það var gert verðmat á félaginu af [löggiltum fasteignasala] og það var langt yfir 7 milljarðar króna.287

Eigið fé félagsins var hæst í árslok 2007 þegar það nam tæpum 3,5 milljörðum króna en eftir tap áranna 2008 og 2009 var eigið fé orðið tæpir 2 milljarðar króna. Afkoma ársins 2010 var góð vegna niðurfellinga skulda á árinu en í lok árs 2011 var eigið fé félagsins um 571 milljón króna. Í skýringum með ársreikningi ársins 2011 segir að stjórn félagsins stefni að því að selja mikinn hluta eigna á næstu árum. Árið 2012 hófst söluferli nokkurra eigna og höfðu sex eignir verið seldar í ágúst það ár. Á sama tíma var unnið að samkomulagi um endurskipulagningu skulda með helsta lánardrottni félagsins, Landsbankanum hf. Byr sparisjóður færði eign sína í félaginu niður um tæpar 199 milljónir króna á árinu 2009.

18.3.5 Dótturfélög

Dótturfélög Byrs sparisjóðs voru 12 árið 2007 og 17 frá 2008 til 2010.288 Mörg þessara félaga voru stofnuð til þess að halda utan um sérstaklega skilgreind verkefni og þá einkum fjárfestingar í fasteignum og hlutabréfum. Hér á eftir verður fjallað um nokkur dótturfélög sparisjóðsins sem höfðu þýðingu fyrir rekstur hans á árunum 2006 til 2010. Tårn ApS, Lava Capital ehf. og Costa Properties ehf. voru meðal dótturfélaga sparisjóðsins en um þau hefur þegar verið fjallað.

Njarðarnes ehf.

Njarðarnes ehf. var stofnað af Sparisjóði Norðlendinga í nóvember 2002. Tilgangur félagsins samkvæmt samþykktum var rekstur fasteigna og lánastarfsemi. Félagið var dótturfélag Sparisjóðs Norðlendinga þar til sá sjóður sameinaðist Byr sparisjóði í apríl 2008. Samkvæmt ársreikningi félagsins fyrir árið 2006 voru eignir félagsins bundnar í fasteignum, m.a. fasteign við Móasíðu 1 á Akureyri. Ársreikningar áranna 2007–2009 segja stærstu eignir félagsins annars vegar hafa verið kröfu á móðurfélag og hins vegar handbært fé. Í nóvember 2006 samþykkti bæjarráð Akureyrar að ganga til samninga við Njarðarnes ehf. um uppbyggingu á svokölluðum „reit 4“ í miðbæ Akureyrar289 en áætlanir voru uppi um að byggja hótel þar.290

Á fundi stjórnar Byrs sparisjóðs 10. ágúst 2009 óskaði Sveinn Margeirsson stjórnarmaður eftir upplýsingum um Njarðarnes ehf. Þáverandi stjórnarformaður sparisjóðsins, Jón Kr. Sólnes, upplýsti um eðli félagsins og að hann væri framkvæmdastjóri þess. Í stjórn félagsins væru Jón Björnsson, Eiður Gunnlaugsson og Jón Þorsteinn Jónsson. Hann sagði að Fjármálaeftirlitinu væri kunnugt um að hann starfaði fyrir félagið og fengi fyrir það 800 þúsund krónur í mánaðarlaun ásamt afnotum af bifreið. Stjórnarmennirnir Sveinn Margeirsson og Arnar Bjarnason lýstu undrun sinni með þetta fyrirkomulag og taldi Arnar það óásættanlegt. Fram kom að stjórnarmönnum hefði ekki verið kunnugt um fyrirkomulagið. Á næsta fundi stjórnar sparisjóðsins, 20. ágúst sama ár, var áfram fjallað um málefni Njarðarness ehf. og gerði Jón Kr. Sólnes grein fyrir með hvaða hætti störf hans fyrir félagið hefðu komið til. Arnar Bjarnason stjórnarmaður taldi að Jón Kr. Sólnes ætti ekki að starfa fyrir félagið meðan hann gegndi stöðu formanns stjórnar Byrs sparisjóðs. Jón sagðist myndu taka þetta mál upp gagnvart stjórn Njarðarness ehf. Sveinn Margeirsson vísaði til 21. og 26. gr. starfsreglna Byrs sparisjóðs og sagði það sitt mat að stjórnarformaður hefði misnotað aðstöðu sína en Jón mótmælti því.291

Sveinn Margeirsson óskaði eftir því á þessum fundi að lagt yrði fram afrit af samningi milli Jóns Kr. Sólness og félagsins og Arnar Bjarnarson óskaði eftir því að bókað yrði í fundargerð að hann teldi um að ræða stjórnarhætti sem ekki væru sæmandi Byr sparisjóði. Jón Kr. Sólnes sagðist hafa í hyggju að ljúka því verkefni sem hann væri í hjá Njarðarnesi ehf. og myndi að því loknu láta af störfum fyrir félagið.292 Á stjórnarfundi sparisjóðsins mánuði síðar, eða 30. september 2009, spurði Sveinn út í málefni Njarðarness og svaraði Jón því til að skipt hefði verið um stjórn í félaginu.293 Ragnar Sverrisson og Guðmundur Víkingsson höfðu þá tekið sæti í stjórninni í stað Jóns Björnssonar og Jóns Þorsteins Jónssonar.294

Á stjórnarfundi Byrs sparisjóðs 18. nóvember 2009 lagði Sveinn Margeirsson fram bókun um að hann hefði krafist þess á fundi stjórnar 20. ágúst sama ár að stjórnarformaður Byrs sparisjóðs sinnti ekki starfi framkvæmdastjóra Njarðarness ehf. samhliða stjórnarstörfum sínum fyrir sparisjóðinn. Þar sem engin breyting hefði orðið á þessu fyrirkomulagi, þá þremur mánuðum síðar, krefðist hann þess að Jón segði upp starfi sínu sem framkvæmdastjóri Njarðarness ehf. eða segði sig að öðrum kosti úr stjórn Byrs sparisjóðs án tafar. Ekkert var bókað frekar í fundargerð vegna málsins. Á fundi stjórnar Byrs sparisjóðs 1. desember 2009 upplýsti Jón Kr. Sólnes að hann hefði látið af störfum sem framkvæmdastjóri Njarðarness ehf. og hefði þar af leiðandi engin frekari afskipti af félaginu.295 Jón Kr. Sólnes hætti í stjórn Byrs sparisjóðs síðar í sama mánuði þegar hann fékk stöðu grunaðs manns í rannsókn á Exeter-málinu.296

Fjárvari ehf.

Tilgangur Fjárvara ehf. var kaup, sala og rekstur fasteigna, rekstur fyrirtækja, byggingastarfsemi og lánastarfsemi, svo og önnur skyld starfsemi. Í stjórn félagsins sátu í lok árs 2008 þrír starfsmenn Byrs sparisjóðs, þeir Eyjólfur Rúnar Sigurðsson, Magnús Ægir Magnússon og Bjarni Tómas Jónsson. Helsta eign félagsins samkvæmt ársreikningi þess fyrir árið 2008 var eignarhlutur í dótturfélagi að nafni Básbryggja ehf. Var sá eignarhlutur metinn á 356 milljónir króna í bókum Fjárvara ehf. Samkvæmt tölvupósti frá Bjarna Tómasi Jónssyni, starfsmanni á fyrirtækjasviði Byrs sparisjóðs, var Básbryggja ehf. stofnað árið 2002 utan um fullnustueignir sem Sparisjóður Hafnarfjarðar hafði eignast við gjaldþrot Byggðaverks. Síðar hefði starfsemi félagsins einkum snúist um að taka yfir fullnustueignir og selja aftur.297 Samkvæmt ársreikningi félagsins fyrir árið 2008 voru eignir félagsins um 430,2 milljónir króna en þar af var handbært fé um 429,7 milljónir króna.

Bréfabær ehf.

Bréfabær ehf. var dótturfélag að fullu í eigu Sparisjóðs vélstjóra og síðar Byrs sparisjóðs. Félagið var stofnað við byggingu húsnæðis Byrs sparisjóðs að Hraunbæ 119 og sá um rekstur hússins og útleigu til sparisjóðsins og annarra aðila.298 Stjórn Bréfabæjar ehf. var í lok árs 2008 skipuð þeim Ragnari Z. Guðjónssyni sparisjóðsstjóra, en hann var einnig framkvæmdastjóri félagsins, Oddnýju Óskarsdóttur og Sighvati Sigfússyni, starfsmönnum Byrs sparisjóðs.299

SPK Fjárfesting ehf.

SPK Fjárfesting ehf. var í eigu Sparisjóðs Kópavogs og varð hluti af samstæðu Byrs sparisjóðs við samruna sparisjóðanna 2007. Í lok árs 2008 sátu Ragnar Z. Guðjónsson, sparisjóðsstjóri, Atli Örn Jónsson og Gunnar Árnason, starfsmenn Byrs sparisjóðs, í stjórn SPK Fjárfestingar ehf. Tilgangur félagsins fólst í rekstri eignarhaldsfélaga, viðskiptum með verðbréf og fleira. Félagið virðist þó hafa komið lítið að fjárfestingum. Í lok árs 2008 námu eignir félagsins 456 milljónum króna. Stærstur hluti þeirra var 392 milljóna króna krafa á Byr sparisjóð. Auk þess átti félagið 63 milljónir króna í handbæru fé.300

Á stjórnarfundi Sparisjóðs Kópavogs 15. desember 2006 var rætt um að nýta SPK Fjárfestingu ehf. undir fjárfestingarstarfsemi sjóðsins. Stjórnin samþykkti að færa eignarhlut Sparisjóðs Kópavogs í FSP hf. yfir í SPK Fjárfestingu ehf. auk þess sem aðrar fjárfestingar yrðu síðan fluttar yfir í félagið.301 Í febrúar 2007 staðfesti stjórn Sparisjóðs Kópavogs kaup á 7% eignarhlut í Eignarhaldsfélaginu Sævarhöfða ehf. sem þá átti bifreiðaumboðið Ingvar Helgason ehf.302 Kaupverð hlutarins var 200 milljónir króna og var seljandi Exista hf.303 Miðað við verðið á 7% hlut í félaginu hefur heildarvirði þess verið metið á um 2,8 milljarða króna. Tap ársins 2006 var 378 milljónir króna og eigið fé í árslok 1.177 milljónir króna.304 Áform Sparisjóðs Kópavogs um að færa fjárfestingar sínar inn í SPK Fjárfestingu ehf. breyttust á fyrstu mánuðum ársins 2007 þegar upp kom möguleiki á samstarfi við Sund ehf. í gegnum félagið IceCapital ehf.

Viðskipti IceCapital við Sparisjóð Kópavogs

Stjórn Sparisjóðs Kópavogs samþykkti 29. mars 2007 að ganga til samninga við Sund ehf. um að stofna fjárfestingarfélag sem sparisjóðurinn ætti 40% eignarhlut í og Sund ehf. 60%. Á fundi stjórnar sparisjóðsins 2. apríl 2007 var fjallað um fjárfestingarfélagið og reifaði Birgir Ómar Haraldsson stjórnarformaður meðal annars þau jákvæðu áhrif á hag sparisjóðsins sem gert var ráð fyrir að félagið myndi hafa. Hann hafði áður reifað hugmyndir um fjárfestingarfélagið á síðari hluta árs 2006. Á fundinum 2. apríl 2007 samþykkti stjórn sparisjóðsins að leggja 320 milljónir króna í félagið fyrir 40% hlut. Félagið hafði þá fengið nafnið IceCapital ehf.

Á hluthafa- og stjórnarfundi IceCapital ehf. 31. mars 2007 voru sömu menn kjörnir í stjórn IceCapital ehf. og sátu í stjórn Sparisjóðs Kópavogs, að undanskildum Guðjóni Jónssyni sem ekki tók sæti í stjórn IceCapital ehf. Jón Kristjánsson var enn fremur kjörinn í stjórn IceCapital ehf., en hann sat ekki í stjórn sparisjóðsins.305

Stjórn Sparisjóðs Kópavogs fjallaði enn um IceCapital ehf. á fundi 20. júní 2007. Þar kom fram að 2. apríl sama ár hefðu verið lögð fram á stjórnarfundi drög að tveimur samningum, annars vegar um sölu á hlut í D-1 ehf. og hins vegar drög að leigusamningi um fasteignina að Digranesvegi 1 sem var í eigu D-1 ehf.306 Jafnframt var rætt að borist hefði ábending um að óheppilegt væri að sömu menn sætu í stjórnum IceCapital ehf. og sparisjóðsins þar sem það gæti orkað tvímælis hvort ákvörðun stjórnarinnar um stofnun IceCapital ehf. stæðist ákvæði 2. mgr. 55. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Þar segir að stjórnarmenn fjármálafyrirtækis skuli ekki taka þátt í meðferð máls ef það varðar þá sjálfa eða fyrirtæki sem þeir sitja í stjórn hjá. Í fundargerð kemur fram að ekki hafi legið fyrir hverjir myndu skipa stjórn IceCapital þegar stofnun félagsins var samþykkt 2. apríl 2007. Þetta er ekki í samræmi við fundargerð hluthafa- og stjórnarfundar IceCapital ehf., sem haldinn var tveimur dögum áður, en þá var skipað í stjórn félagsins. Að fengnu lögfræðiáliti var ákveðið að gera breytingar á stjórn IceCapital ehf. og leggja ákvörðun um samningsgerð milli IceCapital ehf. og Sparisjóðs Kópavogs og stofnun félagsins aftur fyrir stjórn sparisjóðsins. Vék Birgir Ómar Haraldsson af fundi við afgreiðslu málsins, en hann var ennþá í stjórn IceCapital ehf. ásamt Páli Þór Magnússyni og Jóni Kristjánssyni. Staðfesti stjórnin einróma fyrri ákvörðun frá 2. apríl 2007 um stofnun IceCapital ehf. og einnig samning um sölu á D-1 ehf. og leigusamning um Digranesveg 1 þrátt fyrir að þeir hafi ekki verið teknir fyrir á fundinum 2. apríl. Samþykkt var að fela Birgi Ómari að fara með atkvæði Sparisjóðs Kópavogs í IceCapital ehf.307

Stofnun D-1 ehf. hafði verið kynnt á fundi stjórnar Sparisjóðs Kópavogs í desember 2006. Samþykkt var að leita eftir fjármögnun fyrir öllu kaupverði húss ásamt öðrum kostnaði við að koma húsi í notkun. Framtíðareignarhald á félaginu yrði skoðað með vísan til SPK Fjárfestingar ehf.308 Í lok árs 2006 festi D-1 ehf. kaup á húseigninni að Digranesvegi 1 sem þá var í byggingu.309 Áætlað var að hún yrði tekin í notkun á árinu 2007 og myndi hýsa höfuðstöðvar Sparisjóðs Kópavogs. IceCapital ehf. keypti allt hlutafé í D-1 ehf. af Sparisjóði Kópavogs fyrir 550 milljónir króna 4. apríl 2007. Birgir Ómar Haraldsson, stjórnarformaður Sparisjóðs Kópavogs, skrifaði undir kaupsamninginn bæði fyrir hönd kaupanda og seljanda. Samkvæmt fundargerð stjórnar Sparisjóðs Kópavogs 24. apríl 2007 var þá farið yfir leigukjör á Digranesvegi 1. Leigusamningur um húsnæðið milli Sparisjóðs Kópavogs sem leigutaka og IceCapital ehf. sem leigusala var lagður fyrir stjórn Sparisjóðs Kópavogs til undirritunar á fundi 5. júní 2007. Í samantekt innri endurskoðanda Byrs sparisjóðs um þetta mál frá árinu 2010 var vakin athygli á því að hvorki Carl H. Erlingsson, þáverandi sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Kópavogs, né Ingólfur V. Guðmundsson aðstoðarsparisjóðsstjóri hefðu setið fundinn. Carl H. Erlingsson hafði í raun ekki verið upplýstur um leigusamninginn fyrr en á haustdögum 2007 þegar Ragnar Z. Guðjónsson, sparisjóðsstjóri Byrs sparisjóðs, spurði Carl út í mat hans á bókfærðu verði eignarinnar við Digranesveg 1. Birgir Ómar Haraldsson, stjórnarformaður Sparisjóðs Kópavogs, hafði þá nýlega sýnt Ragnari leigusamninginn.310 Carl sat ásamt Ingólfi V. Guðmundssyni í stjórn D-1 ehf. þegar leigusamningurinn um Digranesveg 1 var samþykktur í stjórn Sparisjóðs Kópavogs en þeir sögðu sig úr stjórninni þremur dögum síðar eða 8. júní 2007.311 Digranesvegur 1 var keyptur á 510 milljónir króna þá tilbúinn að utan, nánast fokheld eign að innan. Samkvæmt upplýsingum frá Creditinfo var leigusamningnum ekki þinglýst og var hann ekki að finna í bókhaldi Byrs sparisjóðs.312

Um þennan leigusamning og stjórnarsetu í D-1 ehf. vildi Ingólfur V. Guðmundsson meina að búið hefði verið að selja félagið til IceCapital og því hafi hann ekki verið í stjórn D-1 þegar skrifað var undir leigusamninginn. Dregist hefði að breyta skráningu stjórnarmanna í félaginu eftir sölu þess:

Ég sat ekki í stjórn félags sem gerði leigusamning við Sparisjóð Kópavogs, punktur. Það er bara svoleiðis. Þá hefur þessi samningur sem þú ert að vísa til, þá hefur hann verið dagsettur eitthvað aftur í tímann. […] Ég bara man ekki þessa hluti, en ég held að það sé alveg klárt mál að þessi stjórn sem þú ert að vísa í þarna, sem á að vera hætt, ég held að hún hafi ekki kvittað upp á leiguna á þessum samning fyrir hönd D-1. Það hafa þá verið nýir eigendur. […] Úrsögnin úr stjórninni, tilkynning um nýja stjórnarmenn inn, hún átti að ganga í gegn. Það var hins vegar ekki gengið frá henni strax. Við urðum sjálf að ýta á eftir henni. Það frumkvæði átti að koma frá nýjum eigendum. […] Þeir aðilar sem voru að nafninu til skráðir í þessa stjórn komu ekki að [ákvörðun um leigusamninginn] fyrir hönd þess félags.313

Í kjölfar stofnunar IceCapital ehf. voru eignarhlutir Sparisjóðs Kópavogs í nokkrum félögum framseldir til félagsins, til dæmis stofnfjárbréf í Byr sparisjóði og Sparisjóðnum í Keflavík, hlutabréf í MP Fjárfestingarbanka hf. og Eignarhaldsfélaginu Sævarhöfða ehf.314

Á stjórnarfundi Sparisjóðs Kópavogs 11. júlí 2007 voru lögð fram drög að uppgjöri IceCapital ehf. sem unnið var af KPMG. Í samrunaviðræðum Sparisjóðs Kópavogs og Byrs sparisjóðs hafði komið fram ósk frá forsvarsmönnum Byrs sparisjóðs um að Sparisjóður Kópavogs seldi eignarhlut sinn í IceCapital ehf. þar sem um óheppilegt krosseignarhald væri að ræða því IceCapital ehf. ætti stofnfjárbréf í Byr sparisjóði. Stjórnin veitti varaformanni umboð til að ganga til viðræðna um sölu á 40% eignarhlut í IceCapital ehf. til Sunds ehf.315

Kaupsamningur þessa efnis var undirritaður 17. júlí 2007. Willum Þór Þórsson, stjórnarmaður í Sparisjóði Kópavogs, skrifaði undir samninginn fyrir hönd sparisjóðsins en Páll Þór Magnússon, sem einnig var stjórnarmaður í Sparisjóði Kópavogs, fyrir hönd Sunds ehf. en Páll var þá framkvæmdastjóri Sunds ehf.316 Kaupverð hlutarins í samningnum var 575,6 milljónir króna og miðaðist við drög KPMG að uppgjöri IceCapital ehf. Samkvæmt samningnum skyldi kaupverðið greiðast í tvennu lagi. Leiddi endanlegt uppgjör til þess að verðmæti IceCapital yrði lægra en gert var ráð fyrir í drögum að uppgjöri skyldi kaupverðið lækka hlutfallslega að sama skapi. Engin ákvæði voru um hvað gera skyldi ef endanlegt uppgjör leiddi til hærra virðis á IceCapital ehf. Kaupsamningur um sölu eignarhlutar Sparisjóðs Kópavogs í IceCapital ehf. til Sunds ehf. var lagður fyrir og samþykktur af stjórn sparisjóðsins 20. júlí 2007.317

Hinn 17. desember 2007 sendi Ólafur K. Ólafs, sem áður hafði verið forstöðumaður reikningshalds hag- og rekstrarsviðs hjá Sparisjóði Kópavogs, tölvuskeyti til sparisjóðsstjóra Byrs og Regínu Fannýjar Guðmundsdóttur, forstöðumanns reikningshalds sparisjóðsins. Auk þess sendi Ólafur afrit til Páls Þórs Magnússonar, sem þá var framkvæmdastjóri og stjórnarmaður IceCapital ehf., og Carls H. Erlingssonar og Ingólfs V. Guðmundssonar. Skeytið fjallaði um skuldastöðu IceCapital ehf. við Sparisjóð Kópavogs vegna sölu eigna og væru tvær kröfur á hendur IceCapital ehf. ógreiddar. Sund ehf. hafði þarna tekið upp nafn IceCapital ehf. Annars vegar væru enn 106,4 milljónir króna ógreiddar vegna sölu á 40% eignarhlut Sparisjóðs Kópavogs í IceCapital ehf. yfir til Sunds ehf. en samkvæmt endurskoðuðu uppgjöri hefði kaupverðið verið 682 milljónir króna og af því einungis 575 milljónir króna greiddar.318 Auk þess væri ógreidd leiðrétting á söluverði hluta í Byr sparisjóði og MP Fjárfestingarbanka hf. að fjárhæð 43,6 milljónir króna. Samtals skuldaði IceCapital ehf. því Sparisjóði Kópavogs 150,3 milljónir króna.319 Síðar sama dag svaraði Páll Þór Magnússon tölvupósti Ólafs og sagði 40% af 799,5 milljóna króna hlutafé hafa verið selt á genginu 1,8 eða á 575 milljónir króna. Ekki væri rétt að kaupsamningur væri ófrágenginn, hann hefði hljóðað upp á 575 milljónir króna og kaupandi greitt verðið í tveimur greiðslum eins og samningurinn hefði kveðið á um. Leiðréttingar sem gerðar hefðu verið hefðu náð til fleiri hluta og þær hafðar til hliðsjónar þegar verðið var ákveðið. Ef einhvers misskilnings gætti væri eðlilegt að hittast og fara yfir málið sem fyrst.320

Í minnisblaði Sigurðar Jónssonar, endurskoðanda hjá KPMG, frá 20. febrúar 2008 er fjallað um IceCapital ehf. og Byr sparisjóð. Þar kemur fram að eigið fé IceCapital ehf. sé hærra en gert hafi verið ráð fyrir við kaupin auk þess sem eigi eftir að greiða Byr sparisjóði fyrir hækkun á stofnfjárbréfum sem höfðu verið í eigu IceCapital ehf. Samtals ætti Sund ehf. eftir að greiða Sparisjóði Kópavogs 151 milljón króna.321 Þar af væru 106 milljónir króna vegna hærra kaupverðs á 40% eignarhlut í IceCapital og 45 milljónir króna vegna hærra verðs á stofnfjárbréfum Byrs sparisjóðs og hlutabréfum MP Fjárfestingarbanka hf.

Hinn 22. apríl 2008 sendi Ragnar Z. Guðjónsson, sparisjóðsstjóri Byrs, eftirfarandi tölvupóst til Jóns Auðuns Jónssonar, lögfræðings sparisjóðsins:

Birgir Ómar Haraldsson er tengiliður vegna málsins. Ég hef boðað hann á fund og þar tjáði hann mér að þeir litu svo á að skuldin ætti ekki rétt á sér. Ég gat því ekki skilið það öðruvísi [en] að þeir ætluðu ekki að borga hana.
Málið er mjög viðkvæmt, en engu að síður er þessi skuld í bókum okkar og bæði Birgir Ómar og Páll (Sundari) hafa kvittað upp á árshlutauppgjör SPK og svo Páll upp á ársreikning Byrs þar sem þessi skuld er inni í bókum.
Nú er svo komið að við þurfum að innheimta skuldina og fá þessi mál á hreint. M.v. fund minn með BÓH þá er lítill vilji til að greiða og því er spurning í hvernig farveg við tökum málið. Ég og MÆM erum ekki í góðri stöðu í þessu máli og því teljum við rétt að það fari í gegnum lögfræðing okkar.322

Kröfur vegna málsins fóru í lögfræðiinnheimtu hjá Lögmönnum Thorsplani í október 2009. Skuldin var ekki greidd.323

Kaup Byrs sparisjóðs á D-1 ehf., sem Sparisjóður Kópavogs hafði selt IceCapital sjö mánuðum áður, voru samþykkt á stjórnarfundi sparisjóðsins í nóvember 2007. Með kaupunum yfirtók Byr sparisjóður framkvæmdir við aðaleign félagsins, nýtt húsnæði að Digranesvegi 1 í Kópavogi.324 Í samantekt innri endurskoðunar kemur fram að einvörðungu hafi fundist fyrsta síða undirritaðs samnings um kaupin og á henni komi fram að kaupverð D-1 ehf. hafi verið 986 milljónir króna.325 Í fundargerð stjórnar Byrs sparisjóðs 2. mars 2010 þar sem samantekt innri endurskoðunar var tekin fyrir kemur fram að kaupverð D-1 ehf. hafi verið grundvallað á fylgiskjali þar sem m.a. hafi verið tilgreint sérstakt eftirlitsgjald til handa IceCapital ehf. Enn fremur segir að gögn málsins beri ekki með sér af hvaða ástæðu D-1 ehf. hafi verið selt frá Sparisjóði Kópavogs til IceCapital ehf., leigusamningur síðan gerður milli Sparisjóðs Kópavogs og D-1 ehf. og D-1 ehf. svo aftur selt til sparisjóðsins (sem þá var orðinn Byr sparisjóður). Ætla megi að verðmæti D-1 felist í leigusamningi milli D-1 ehf. og Sparisjóðs Kópavogs.326

Byr sparisjóður keypti D-1 ehf. á 436,5 milljónum króna hærra verði en IceCapital greiddi fyrir félagið sjö mánuðum fyrr en taka verður tillit til þess að fasteign D-1 ehf. að Digranesvegi 1 var enn í byggingu á þessu tímabili.

SPV fjárfesting hf.

SPV fjárfesting hf. var stofnað í desember 2002 af Sparisjóði vélstjóra og Bréfabæ ehf. Við stofnun félagsins var tilgangur þess eignarhald á hlutum í félögum en einnig kaup og sala fasteigna og rekstur þeirra, lánastarfsemi og önnur sú starfsemi sem stjórnin teldi því til hagsbóta hverju sinni.327 Sparisjóður vélstjóra stofnaði félagið upphaflega til að fresta söluhagnaði þegar sjóðurinn seldi hlutabréf í Kaupþingi banka hf.328

Í ársreikningi SPV fjárfestingar hf. fyrir árið 2007 var meðal eigna félagsins 10% eignarhlutur í félaginu FS37 ehf. sem seinna fékk nafnið Stím ehf. Í kynningu á „Project Stím“ sem Ragnar Z. Guðjónsson sparisjóðsstjóri hafði fengið senda frá starfsmanni Glitnis banka hf. voru áform um að saman kæmi hópur fjárfesta sem myndi kaupa hlutabréf í FL Group hf. og Glitni banka hf. gegnum nýstofnað félag. Aðild Byrs að þessu verkefni var að leggja fram 10% hlutafjár til félagsins í gegnum SPV fjárfestingu hf. Þær eignir Fjárfestingarfélagsins Primusar sem Byr sparisjóður yfirtók í apríl 2008 og þegar hefur verið fjallað um voru færðar í SPV fjárfestingu hf.329

Í ársbyrjun 2009 var hlutafé félagsins 200 milljónir króna en á árinu var 12 milljarða króna hlutafjáraukning greidd inn á genginu 10.330 Ástæða þessa var að sparisjóðurinn gat þannig frestað greiðslu tekjuskatts af söluhagnaði auk þess sem honum gafst með þessu færi á að tekjufæra tekjuskattsskuldbindingu frá 2008.331 Í árslok 2009 átti Byr sparisjóður 98,8% í SPV fjárfestingu.332

Rekstrarfélag Byrs hf.

Sögu Rekstrarfélags Byrs hf. má rekja aftur til ársins 2000 en þá var SPH Rekstrarfélag ehf. stofnað til að annast rekstur SPH verðbréfasjóðs hf., en varsla hans var hjá Sparisjóði Hafnarfjarðar. Með breytingu á lögum um rekstrarfélög í byrjun árs 2003 skyldu verðbréfasjóðir vera hluti af rekstrarfélagi og voru SPH verðbréfasjóður hf. og SPH Rekstrarfélag ehf. sameinuð á því ári. Þá átti Sparisjóður Hafnarfjarðar 99,9% hlutafjár í SPH Rekstrarfélagi ehf.333 en á árinu 2004 keypti Verðbréfaþjónusta Sparisjóðsins hf. allt hlutafé í SPH Rekstrarfélagi ehf.334 Verðbréfaþjónusta Sparisjóðsins hf. var á þessum tíma í eigu sparisjóðanna en þrír stærstu hluthafar félagsins voru Sparisjóður Hafnarfjarðar (20,5%), Sparisjóður vélstjóra (16,2%) og Sparisjóðurinn í Keflavík (14,1%). SPH Rekstrarfélag ehf. skipti nokkrum sinnum um nafn og hét Rekstrarfélag Sparisjóðanna hf. frá því í mars 2007.335 Í febrúar 2008 keypti Byr sparisjóður Rekstrarfélag Sparisjóðanna hf. af Verðbréfaþjónustu sparisjóðanna hf. og í framhaldi af því var nafni rekstrarfélagsins breytt í Rekstrarfélag Byrs hf.336 Við sameiningu Íslandsbanka og Byrs hf. í maí 2012 yfirtóku Íslandssjóðir rekstur sjóða Rekstrarfélags Byrs hf.337

Í lok árs 2005 voru sex verðbréfasjóðir og tveir fjárfestingarsjóðir í stýringu hjá rekstrarfélaginu.338 Í júlí 2006 var stofnaður nýr sjóður, alþjóða vaxtarsjóðurinn. Í september sama ár var rekstri hátæknisjóðsins hætt. Þá var rekstur fjármálasjóðsins og alþjóðasjóðsins sameinaður undir heitinu alþjóða virðissjóðurinn.339

Eins og sjá má á mynd 21 stækkuðu fjárfestingarsjóðir Rekstrarfélags Byrs hf. og fyrirrennarar þess mikið frá lokum árs 2005 til loka árs 2007. Í lok árs 2005 námu hreinar eignir fjárfestingarsjóðanna 636 milljónum króna en urðu 6,5 milljarðar króna tveimur árum síðar.340 Af tveimur fjárfestingarsjóðum Rekstrarfélags Byrs hf. var það einkum hrein eign peningamarkaðssjóðsins sem óx mikið á tímabilinu 2005 til 2007, eða úr rúmum 432 milljónum króna í tæpa 6,2 milljarða króna.

Peningamarkaðssjóður Rekstrarfélags Byrs hf. jók fjárfestingar í innlánum mikið frá 31. janúar 2008 til 30. september 2008, eða úr 591 milljón króna í rúma 2,4 milljarða króna. Í lok janúar 2008 var stærstur hluti innlána sjóðsins hjá Sparisjóði Mýrasýslu en höfðu dreifst á fleiri fjármálastofnanir í lok september 2008.

Í maí 2008 keypti Byr sparisjóður skuldabréf Nýsis hf. út úr peningamarkaðssjóði Rekstrarfélags Byrs hf.341 Eign peningamarkaðssjóðsins í skuldabréfum Nýsis hf. á þessum tíma var um 685 milljónir króna.342

Hinn 30. september 2008 höfðu skuldabréf Baugs Group hf. í peningamarkaðssjóðnum verið niðurfærð um 356 milljónir króna, eða rúm 44%, og skuldabréf Landic Property hf. um 224 milljónir króna, eða 41%. Leiddi þetta til þess að gengi sjóðsins lækkaði úr 14.881,22 í 13.778,71, eða um 7,4%. Aðrar eignir sjóðsins höfðu ekki verið niðurfærðar á þessum tíma.343

Slit á peningamarkaðssjóði Rekstrarfélags Byrs hf.

Í kjölfar setningar laga nr. 125/2008 6. október 2008 var lokað fyrir viðskipti með peningamarkaðssjóð Rekstrarfélags Byrs hf. Á sama tíma var lokað fyrir viðskipti með fyrirtækjasjóð félagsins en sjóðurinn fór þá í slitameðferð sem stóð enn yfir þegar tilkynnt var um yfirtöku Íslandssjóða hf. á rekstri sjóða Rekstrarfélags Byrs hf. í maí 2012.344

Hinn 17. október 2008 gaf Fjármálaeftirlitið út tilmæli til rekstrarfélaga verðbréfasjóða um slit á peningamarkaðssjóðum félaganna. Þau skyldu ekki opna fyrir innlausnir hlutdeildarskírteina í sjóðunum, heldur greiða sjóðsfélögum úr þeim þannig að allt laust fé hvers peningamarkaðssjóðs greiddist inn á innlánsreikninga sjóðsfélaga í hlutfalli við eign þeirra. Var sérstaklega tekið fram í tilmælunum að hafa ætti jafnræði sjóðsfélaga að leiðarljósi.345

Í minnisblaði Byrs sparisjóðs frá 31. október 2008 kom fram að Rekstrarfélag Byrs hf. ætlaði að stofna fagfjárfestasjóð sem myndi kaupa allar eignir peningamarkaðssjóðsins á verði sem tæki mið af verðmati PricewaterhouseCoopers frá 28. október 2008 á eignum sjóðsins. Byr sparisjóður myndi veita fagfjárfestasjóðnum lán til að kaupa eignir peningamarkaðssjóðsins og í kjölfarið yrði gert upp við alla hlutdeildarskírteinishafa sjóðsins sem yrði svo slitið í samræmi við tilmæli Fjármálaeftirlitsins. Byr sparisjóður yrði eini kröfuhafi fagfjárfestasjóðsins og allt það sem kynni að innheimtast færi í að greiða upp lánið við sparisjóðinn. Stærð peningamarkaðssjóðsins á þessum tíma var 5.236 milljónir króna, þar af var laust fé í sjóðnum 817 milljónir króna.346 Þá átti Byr sparisjóður hlutdeildarskírteini í peningamarkaðssjóðnum fyrir um 1 milljarð króna.347 Samkvæmt mati PricewaterhouseCoopers var áætluð niðurfærsluþörf sjóðsins á bilinu 855 til 1.337 milljónir króna, eftir því hvaða forsendur væru gefnar en þær voru nýttar til að meta neðra bil niðurfærslu, nokkurs konar bestu mögulegu útkomu, og efra bil niðurfærslu, sem var öllu svartsýnna.348

Tillaga um slit á peningamarkaðssjóði Rekstrarfélags Byrs hf. samkvæmt þeirri framkvæmd sem áður var lýst var samþykkt á stjórnarfundi Byrs sparisjóðs 4. nóvember 2008. Ákveðið var að notast við lægra matið á niðurfærslu, eða neðra bilið, og 5. nóvember 2008 veitti Byr sparisjóður fagfjárfestasjóðnum FRBYR-1 lán að fjárhæð 3.564 milljónir króna.349 Lánið var án trygginga og skyldi endurgreiða með einum gjalddaga 10. nóvember 2010. Vextir lánsins voru eins mánaðar REIBOR-vextir án álags. Tveimur dögum síðar sendi Byr sparisjóður frá sér fréttatilkynningu um útgreiðslu úr peningamarkaðssjóðnum en þar kom fram að útgreiðsluhlutfall til sjóðsfélaga (hlutdeildarskírteinishafa) næmi 94,9% miðað við síðasta skráða viðskiptagengi sjóðsins 6. október 2008.350

Í lok árs 2008 voru eignir FRBYR-1 bornar saman við stöðu lánsins sem Byr sparisjóður hafði veitt sjóðnum og í kjölfarið var gerð 938 milljóna króna niðurfærsla vegna lánveitingarinnar.351

Á fundi stjórnar Byrs 18. nóvember 2009 var samþykkt tillaga um að sparisjóðurinn leysti eignir FRBYR-1 til sín með samkomulagi við Rekstrarfélag Byrs hf. Eignirnar teldust sem fullnaðargreiðsla á láni Byrs til fagfjárfestasjóðsins auk endurgjalds fyrir hlutdeildarskírteini sparisjóðsins í fagfjárfestasjóðnum en Byr var eini hlutdeildarskírteinishafi sjóðsins.352 FRBYR-1 var slitið í kjölfar samkomulagsins.353 Hinn 19. nóvember 2009 stóð lánið í 3.370 milljónum króna án tillits til niðurfærslna. Um mitt ár 2009 höfðu 2.217 milljónir króna verið færðar á afskriftareikning vegna lánsins og við uppgjör á því í nóvember 2009 voru tæplega 155 milljónir króna til viðbótar færðar á afskriftareikning og heildarniðurfærsla á láninu til FRBYR-1 nam því 2.371 milljón króna, eða um 70% af láninu í lok árs 2009.354

18.4 Fjármögnun

Efnahagur Byrs sparisjóðs ríflega tvöfaldaðist frá 2006 til 2008. Á þessum tíma sameinuðust Sparisjóður Kópavogs og Sparisjóður Norðlendinga Byr sparisjóði sem átti sinn þátt í vextinum en einnig kom til vöxtur á útlánum og fjárfestingum svo sem þegar hefur verið greint frá. Innlán voru stór hluti fjármögnunarinnar sem stóð að baki þessum vexti en lántaka lék einnig stóran þátt. Skuldir sparisjóðsins við lánastofnanir drógust saman milli áranna 2007 og 2008, sem er óvenjulegt í samanburði við aðra stærri sparisjóði þar sem skuldir við lánastofnanir léku gjarnan stórt hlutverk vegna dag- og veðlána hjá Seðlabanka Íslands.

18.4.1 Innlán

Eins og getur að líta í töflu 43 var voru innlán meginþáttur fjármögnunar Byrs frá 2006 til 2009 en á tímabilinu voru þau ávallt meira en 50% af skuldum sparisjóðsins að undanskildu eigin fé.355 Sama hlutfall annarra sparisjóða var 42–65% á þessu tímabili. Sérstaka athygli vekur mikill vöxtur innlána í Byr sparisjóði á síðari hluta ársins 2008. Í desemberlok 2007 námu innlán í Byr sparisjóði tæpum 72 milljörðum króna en ári síðar rúmum 144 milljörðum króna. Innlánaaukning á þessu tímabili nam því tæpum 73 milljörðum króna, þar af jukust innlend veltiinnlán um rúman 21 milljarð króna, peningamarkaðsreikningar um rúma 11 milljarða króna og verðtryggð innlán um rúma 29 milljarða króna. Aukning innlána við samrunann við Sparisjóð Norðlendinga á árinu 2008 nam um 10 milljörðum króna.356 Fyrrverandi forstöðumaður fjárstýringar Byrs sparisjóðs sagði ekki hafa verið ráðist í sérstakar aðgerðir til þess að auka innlán. Bundin innlán Byrs voru lægst 19% af innlánum sparisjóðsins í mars 2008. Hlutfall bundinna innlána jókst jafnt og þétt frá þeim tíma og komst hæst í 35% í nóvember 2008.

Fyrrverandi forstöðumaður fjárstýringar bankans sagði að á árinu 2008 hefði verið mikill þrýstingur á að viðhalda góðri lausafjárstöðu og laða að nýja viðskiptavini. Sparisjóðurinn hefði boðið upp á góða netreikninga sem voru mjög samkeppnishæfir og boðið hefði verið í innlán til að laða að nýja viðskiptavini, einkum fagfjárfesta. Slík kjör hefðu verið í boði gegn því að fjármunir lægju óhreyfðir í ákveðinn binditíma. Forstöðumaðurinn sagðist ekki muna eftir því að Byr sparisjóður hefði markvisst eða með auglýsingum boðið betri vaxtakjör en aðrar fjármálastofnanir en samkeppni um innlán hefði verið hörð, sérstaklega frá og með sumrinu 2008. Í kjölfar falls bankanna hefði ásókn í innlán hjá sparisjóðnum aukist og dreifing þeirra verið ágæt því margir einstaklingar og fagfjárfestar hefðu flutt þangað innlán sín. Íslensk verðbréf hf. hefðu til dæmis komið sér út úr sjóðum af ólíkum toga og sett í innlán við hrunið.357

Yfirlýsing ríkisstjórnar Íslands frá 6. október 2008 um að allar innistæður í innlendum viðskiptabönkum og sparisjóðum yrðu tryggðar að fullu gæti hafa haft áhrif á eftirspurn eftir innlánum og léku lífeyrissjóðir og sveitarfélög stór hlutverk í innlánaaukningu Byrs sparisjóðs á árinu 2008. Uppkaup sjóðsins á eigin skuldabréfum af lífeyrissjóðum, Íbúðalánasjóði og öðrum fjármálafyrirtækjum á skuldabréfum og umbreyting þeirra í innlán, skýra þó ekki nema lítinn hluta af innlánaaukningu þessara fyrirtækja.

Hinn 30. júní 2009 fjallaði stjórn Byrs um áhlaup innistæðueigenda en fjórum dögum áður höfðu innistæður fyrir 600 milljónir króna verið teknar úr sparisjóðnum á einum degi. Helmingur þeirra innistæðna var frá öðrum sparisjóðum. Fram kom á fundinum að starfsmenn sparisjóðsins hefðu getað sannfært einn lífeyrissjóð um að taka ekki út 2 milljarða króna þá um daginn. Var áhlaupið rakið til neikvæðrar umfjöllunar um sparisjóðinn í fjölmiðlum. Síðar sama ár, eða í lok nóvember 2009, gerði sérstakur saksóknari húsleit í höfuðstöðvum sparisjóðsins sem dró einnig úr tiltrú manna á sparisjóðinn. Innlán í sparisjóðnum drógust saman um 17 milljarða króna frá 30. október 2009, þegar þau námu rúmum 163 milljörðum króna, til 23. desember sama ár.358

Á fundi með Seðlabankanum 6. janúar 2010 gerðu sparisjóðsstjóri og forstöðumaður fjárstýringar sparisjóðsins grein fyrir lausafjárstöðu og viðbúnaðaráætlun sparisjóðsins. Á fundinum kom fram að áhætta sjóðsins tengdist sífellt meira samfélaginu og einstökum viðskiptavinum. Öll neikvæð umfjöllun og sögusagnir hefðu áhrif á starfsemi sjóðsins. Í apríl 2009 hefði sparisjóðurinn leitað til nokkurra lífeyrissjóða til að kanna möguleika á skammtímafjármögnun en lífeyrissjóðirnir hefðu sagst eiga fullt í fangi með að bjarga verðmætum eftir fall bankanna og því nær eingöngu fjárfest í innlánum og skuldabréfum með ábyrgð ríkisins. Í lok mars 2010, stuttu áður en Fjármálaeftirlitið tók yfir vald stofnfjáreigendafundar Byrs sparisjóðs, námu innlán í honum tæpum 149 milljörðum króna.

18.4.1.1 Skuldabréfum breytt í innlán

Samkvæmt upplýsingum frá slitastjórn Byrs sparisjóðs komu fram átta tilvik við skoðun sem framkvæmd var þar sem sparisjóðurinn keypti eigin skuldabréf og seljandi lagði upphæðina sem innlán í sjóðinn. Með setningu laga nr. 125/2008 6. október 2008 voru innistæður gerðar að forgangskröfum í þrotabú fjármálafyrirtækja. Sama dag gaf ríkissjóður Íslands út yfirlýsingu um að innistæður í innlendum viðskiptabönkum og sparisjóðum og útibúum þeirra hér á landi væru að fullu tryggðar.359 Með því að selja skuldabréf útgefin af Byr sparisjóði og fá í staðinn innlán hjá sjóðnum áttu viðskiptavinirnir því forgangskröfu í þrotabú sparisjóðsins, kæmi til þess að sjóðurinn færi í þrot, í stað almennrar kröfu hefðu þeir átt skuldabréf í honum.

Um var að ræða viðskipti við sex aðila fyrir samtals 780 milljónir króna á tímabilinu frá því í lok október 2008 til loka júní 2009. Hæstu viðskiptin voru upp á 300 milljónir króna hjá Íbúðalánasjóði, en aðallega var um að ræða sjóði í eigu verðbréfafyrirtækja, auk lífeyrissjóðs.360 Aðspurð um þessi viðskipti sagði fyrrverandi forstöðumaður fjárstýringar:

Við vorum með kaup og sölu á þinginu á okkar bréfum alveg þar til að við förum í fjárhagslega endurskipulagningu. Við settum inn kaup- og sölutilboð daglega samkvæmt skuldabréfaflokkunum. Þau voru keypt þarna og okkur ber einfaldlega að setja inn kauptilboð og sölutilboð samkvæmt útgáfulýsingu. Við keyrðum kröfuna upp eins og við máttum, en það var samt keypt. Það var ekki mikið. […] Okkur bar skylda að taka tilboði á þinginu. […] Þér nægir að setja inn tilboð fjórum sinnum á dag og að lágmarki í 5 milljón króna einingum. Það var aldrei sett inn hærra. Þú fannst alveg fyrir þessu. Það var mikið reynt og ég vissi af því að það kom tilboð frá hinum og þessum sem áttu 100 milljónir í einhverjum flokki sem vildu láta gera upp 2009 eða eitthvað álíka. Það var vel áður en Byr fer í fjárhagslega endurskipulagningu. Það var enginn áhugi fyrir því að gera upp [mikið] af skuldabréfum hjá okkur.361

Uppkaup eigin skuldabréfa hjá Byr sparisjóði voru ekki umfangsmikil í samanburði við efnahagsreikning sparisjóðsins. Eigendur skuldabréfa voru betur settir með innlán í sparisjóðnum en skuldabréf eftir að ríkissjóður ábyrgðist innlendar innistæður og þær voru færðar framar í kröfuröð fallinna fjármálafyrirtækja. Þó virðist Byr sparisjóður ekki hafa aðstoðað viðskiptavini sína við það að færa fjármuni úr skuldabréfum yfir í innlán heldur keypt skuldabréf sem honum bar að setja inn kaup- og sölutilboð vegna samkvæmt útboðslýsingum skuldabréfanna.

18.4.2 Skuldir við lánastofnanir

Skuldir við lánastofnanir eru skammtímaskuldir við önnur fjármálafyrirtæki og lánastofnanir, svo sem dag- og veðlán hjá Seðlabanka Íslands, lán til styttri tíma frá Sparisjóðabanka Íslands, skammtímalán frá erlendum bönkum, afborganir lántöku sem koma á gjalddaga innan árs, óuppgerðar skuldir í jöfnunarkerfum og þess háttar. Skuldir til lengri tíma teljast til lántöku og er fjallað um þær hér aftar. Skuldir Byrs við lánastofnanir voru 2–9% af skuldum sparisjóðsins að undanskildu eigin fé á árunum 2006 til 2009 og var hlutfallið hæst árið 2009.

Byr sparisjóður átti í töluverðum viðskiptum við innlendar lánastofnanir á millibankamarkaði, aðallega Sparisjóðabanka Íslands vegna ádráttarlínu í erlendum myntum en einnig Landsbanka Íslands, MP Fjárfestingarbanka og Kaupþing banka. Hluta fjármögnunar frá Landsbanka og alla fjármögnun frá MP Fjárfestingarbanka á árinu 2006 má rekja til 2,5 milljarða króna láns sparisjóðsins til Hansa ehf. frá 20. desember 2006.362

Byr sparisjóður nýtti möguleika til dag- og veðlánatöku hjá Sparisjóðabanka Íslands hf. og Seðlabanka Íslands að litlu marki að undanskildu tímabilinu frá apríl til október 2008. Þá setti sparisjóðurinn skuldabréf, útgefin af Glitni banka og Landsbanka Íslands, að veði fyrir fyrirgreiðslu hjá Seðlabankanum en nafnverð skuldabréfa hvors banka um sig var 5 milljarðar króna og var veðsetningarhlutfallið 98%.

Glitnir banki hf. lánaði stofnfjáreigendum til þess að taka þátt í stofnfjáraukningu Byrs sparisjóðs í desember 2007 og áttu arðgreiðslur vegna ársins 2007 að greiða til baka hluta lánanna. Á sama tíma lagði Byr sparisjóður inn bundið innlán hjá Glitni banka í desember 2007 að fjárhæð 8,4 milljarðar króna til 13 mánaða. Innlánið var þó laust til útborgunar ef hún færi til greiðslu arðs til stofnfjáreigenda.363 Eftir arðgreiðslu sparisjóðsins í apríl 2008 gaf Glitnir banki út skuldabréf364 til Byrs sem setti það að veði hjá Seðlabanka Íslands fyrir 4,9 milljarða króna veðláni. Síðasta lánveiting Seðlabankans gegn veði í bréfinu var 20. ágúst 2008.

Á stjórnarfundi 30. júní 2008 samþykkti stjórn sparisjóðsins heimild til handa sparisjóðsstjórum til að kaupa allt að 5 milljarða króna skuldabréf, útgefin af Landsbanka Íslands hf., til notkunar í endurhverfum viðskiptum við Seðlabanka Íslands. Í fundargerð kemur fram að viðskiptin hafi verið gerð í samvinnu við MP Fjárfestingarbanka hf. Þessi bréf voru nýtt sem trygging fyrir 4,9 milljarða króna fyrirgreiðslu Seðlabanka Íslands við Byr sparisjóð frá lokum júní 2008 til byrjunar október 2008.

18.4.3 Lántaka

Lántökur voru annar stærsti þáttur fjármögnunar sparisjóðsins á eftir innlánum en undir lántökur í ársreikningi fellur fjármögnun til lengri tíma, svo sem verðbréfaútgáfa og lán frá íslenskum og erlendum fjármálastofnunum.

Lántaka sparisjóðsins var 32–34% af skuldum hans að eigin fé undanskildu frá 2006 til 2009. Hún rúmlega tvöfaldaðist á tímabilinu og má rekja þá aukningu einkum til erlendrar lántöku sparisjóðsins. Verðbréfaútgáfa sparisjóðsins hélst nokkuð stöðug á sama tíma og náði hæst 15,5 milljörðum króna árið 2009.

Önnur fjármögnun sparisjóðsins en erlend lán og verðbréfaútgáfa var einkum frá Íbúðalánsjóði en sú fjármögnun nam 11 milljörðum króna í árslok 2006, 13,4 milljörðum króna ári síðar, 16,2 milljörðum króna í árslok 2008 og loks 16,7 milljörðum króna í árslok 2009. Þá keypti Íbúðalánasjóður lánasafn fyrir sem nam 2,7 milljörðum króna af Byr sparisjóði 11. júní 2009.365

18.4.3.1 Verðbréfaútgáfa

Útistandandi verðbréfaútgáfa sparisjóðsins 2006–2009 var nær eingöngu í formi skuldabréfa, enda voru víxlar ekki stór þáttur í fjármögnun hans. Í lok árs 2009 voru yfir 20 skuldabréfaflokkar útistandandi hjá sparisjóðnum og gáfu forverar sparisjóðsins út stærstan hluta þeirra fyrir árið 2000. Sumar af eldri útgáfunum voru tví- eða þrískiptar og var hver hluti með mismunandi lokagjalddaga. Þótt flestir útistandandi skuldabréfaflokkar sparisjóðsins væru eldri námu þeir nýrri mun hærri fjárhæðum en höfðu styttri líftíma. Eldri skuldabréf voru gjarnan til 15–25 ára en nýrri bréf til 5–10 ára.

Árið 2008 gaf Byr sparisjóður út tvo flokka skuldabréfa, fyrst BYR 08 1, í júlí að nafnverði 2,5 milljarðar króna og síðan, BYR 08 2, í desember að nafnverði 5 milljarðar króna. Fyrri flokkurinn seldist vel, meðal annars til lífeyrissjóða, en sparisjóðurinn sjálfur átti um 500 milljónir króna í þessum bréfum. Ekkert seldist af seinni útgáfunni.366

Fyrsta víxlaútgáfa Byrs sparisjóðs var 30. apríl 2007. Lítill hluti þessara víxla var keyptur en þó voru nokkrir lífeyrissjóðir sem fjárfestu í þeim og voru útistandandi víxlar í lok árs 2007 115 milljónir króna að nafnvirði. Mun meiri viðskipti voru með víxla sparisjóðsins sem gefnir voru út í apríl 2008, meðal annars keypti Rekstrarfélag verðbréfasjóða ÍV hf. víxla fyrir 1,8 milljarða króna í apríl 2008 og seldi svo í bútum síðar á árinu. Peningamarkaðssjóður Glitnis hf. keypti víxla Byrs sparisjóðs fyrir 700 milljónir króna í mars 2008 og seldi aftur rúmum mánuði síðar. Engir víxlar voru útistandandi í lok árs 2008 eða 2009.367

18.4.3.2 Erlend lán

Byr sparisjóður og forverar hans sóttu lánsfé erlendis til þess að fjármagna starfsemi sína. Frá fyrsta starfsári sparisjóðsins til loka ársins 2009 fimmfaldaðist erlend lántaka sparisjóðsins, bæði vegna nýrra lána og gengislækkunar krónunnar. Erlend lántaka Byrs fólst meðal annars í lánalínum í erlendri mynt hjá Sparisjóðabankanum en einkum í sambankalánum frá erlendum bönkum. Byr sparisjóður og forverar hans tóku fimm sambankalán frá árinu 2006, öll nema eitt til þriggja ára og var umsjónaraðili þeirra Bayerische Landesbank.

Sparisjóður vélstjóra og Sparisjóður Hafnarfjarðar tóku báðir erlend lán stuttu fyrir sameiningu sparisjóðanna í Byr sparisjóð, eða í júlí 2009. Lánin voru veitt fyrir tilstilli Bayerische Landesbank og voru meðal annars tekin til þess að endurfjármagna eldri lán sem þá voru að koma á gjalddaga.368

Í stjórnarfundargerð Sparisjóðs vélstjóra frá 23. maí 2006 sagði:

Sparisjóðsstjóri sagði frá því að ákveðið hefði verið í samráði við Bayern LB […] að fara út á evrópskan sambankalánamarkað á næstu vikum með 25 milljón evru lánsfjárbeiðni. Sparisjóðsstjóri hafði áður kynnt stjórn sparisjóðsins áform þessu lík í lok janúar en í kjölfar skýrslna um bankakerfið á Íslandi og efnahagsástands sem komu fram um mánaðamótin febrúar/mars urðu þau áform að engu. Á næstu vikum mun koma í ljós hversu mikla fjárhæð næst [svo] að safna og á hvaða kjörum.

Á stjórnarfundi 30. júní 2006 veitti stjórnin heimild til þess að taka 30 milljóna evra sambankalán. Ekki er að sjá af fundargerðum stjórnar sparisjóðsins að umræða um lánið hafi verið bókuð í janúar 2006 eins og getið var um í tilvitnuninni hér að ofan.

Á stjórnarfundi Sparisjóðs Hafnarfjarðar 3. apríl 2006 var fjallað um að sparisjóðurinn myndi leita eftir því við nokkra erlenda banka að setja saman sambankalán fyrir sig. Á fundi stjórnar 27. apríl 2006 var aftur rætt um sambankalánið og var stjórnin sammála um að þótt dýrara væri að taka lán þá en í „venjulegu árferði“ væri best að taka lánið strax. Ekki væri víst að ástandið á fjármagnsmarkaðnum myndi skána um haustið eða í byrjun vetrar. Bayerische Landesbank hafði gert tilboð um að leiða sambankalánið þegar kom að fundi stjórnar 12. maí 2006 en á fundi mánuði síðar ræddi stjórnin um að umfram­áskrift væri að sambankaláninu. Lagt hefði verið af stað með að ekki yrði safnað undir 25 milljónum dollara en stjórn gaf heimild fyrir að sambankalánið yrði allt að 40 milljónir dollara á fundi 13. júní 2006.

Á stjórnarfundi Sparisjóðs Kópavogs 24. apríl 2007 var sparisjóðsstjóra veitt heimild til þess að undirrita sambankalán leitt af Bayerische Landesbank sem nam frá 10–25 milljónum evra.

Byr sparisjóður tók sambankalán í júlí 2007 sem nam 110 milljónum evra en það var stærsta lán sem sparisjóðurinn tók. Á stjórnarfundi 20. júní 2007 var sparisjóðsstjórum, ásamt framkvæmdastjóra fjármálasviðs og forstöðumanni fjárstýringar, veitt heimild til að undirrita lánasamninginn. Engin ástæða var tiltekin fyrir lántökunni í stjórnarfundargerðum en í tölvupósti forstöðumanns fjárstýringar Byrs sparisjóðs frá 21. mars 2007 sagði: „Hvað varðar þá aðila sem taka [íbúðalán] í erlendri mynt þá fjármögnum við okkur á móti í erlendum lánalínum og sambankalánum. Í dag er verið að vinna að erlendri fjármögnun fyrir BYR því við erum nú þegar búin að nýta allt okkar erlenda lánsfjármagn sem var aflað í fyrra.“369 Um þetta lán sagði fyrrverandi forstöðumaður fjárstýringar fyrir rannsóknarnefndinni: „Við Sighvatur [Sigfússon, framkvæmdastjóri fjármálasviðs] vöruðum við að fara í svona hátt lán af því að 100 milljónir evra er alveg töluvert stórt fyrir sparisjóð. Það voru skýr skilaboð frá stjórnendum, sparisjóðsstjórum og stjórum að það átti að poppa upp lánabókina.“370

Á fundi 30. júní 2008 heimilaði stjórnin sparisjóðsstjórum og forstöðumanni fjárstýringar að undirrita lánaskjöl vegna væntanlegrar erlendrar lántöku Byrs sparisjóðs en ekki var meira fjallað um lánið. Í tölvupóstum milli starfsmanna sparisjóðsins fyrr um vorið sagði annar sparisjóðsstjóra um þessa fjármögnun: „Best er auðvitað að fá eins mikið og hægt er, en ég held að það sé ekki undir okkur komið. Við þurfum einnig að taka tillit til hvernig við ætlum að greiða lánin til baka. Ég er sammála því að við verðum ekki í vandræðum með að koma peningunum í vinnu.“371 Sparisjóðurinn fékk 50 milljóna evra lán til eins árs í júlí 2008.

Í skilmálum lánanna var ávallt gerð krafa um ákveðið lágmarks eiginfjárhlutfall. Ströngustu kröfurnar voru gerðar í skilmálum láns sem veitt var Sparisjóði vélstjóra í júlí 2006 þar sem eiginfjárhlutfall sjóðsins skyldi vera að lágmarki 12%. Byr sparisjóður uppfyllti ekki þessi skilyrði árin 2008 og 2009.372 Í byrjun mars 2009 varð ljóst að Byr sparisjóður myndi ekki uppfylla skilmála vegna eiginfjárhlutfalls373 í sambankalánum sínum og fékk sjóðurinn því undanþágu 9. apríl 2009 vegna lágmarks eiginfjárhlutfalls sem skilgreint var í útistandandi sambankalánum sparisjóðsins.374

Þrjú sambankalán, samtals um 105 milljónir evra, voru á gjalddaga í júlí 2009. Hinn 15. þess mánaðar höfðu allir lánveitendur sjóðsins að sambankalánum í erlendum myntum og stærstu eigendur skuldabréfaútgáfa sparisjóðsins samþykkt viljayfirlýsingu um að vinna að fjárhagslegri endurskipulagningu sparisjóðsins. Ekki náðist samkomulag um hana og tók Fjármálaeftirlitið yfir vald stofnfjáreigendafundar Byrs sparisjóðs 22. apríl 2010.

18.4.4 Víkjandi lán

Víkjandi lán voru ekki fyrirferðarmikill þáttur í fjármögnun Byrs sparisjóðs en þau námu á bilinu 1,6–3,5 milljörðum króna frá árslokum 2006 til ársloka 2009, sem var á þeim tíma um 1,5% af skuldum sparisjóðsins að undanskildu eigin fé.

Sparisjóður vélstjóra hafði verið fjármagnaður að takmörkuðu leyti með víkjandi lánum og því voru þau lán í lok árs 2006 að mestu vegna sameiningar við Sparisjóð Hafnarfjarðar. Árið 2005 voru víkjandi lán Sparisjóðs vélstjóra 137 milljónir króna en víkjandi lán Sparisjóðs Hafnarfjarðar 992 milljónir króna. Í árslok 2006 voru víkjandi lán í sameinuðum sparisjóði tæpir 1,6 milljarðar króna. Byr sparisjóður gaf ekki út víkjandi lán og má rekja aukningu í þeim fram til ársins 2009 til sameiningar við aðra sparisjóði og hækkunar höfuðstóls vegna verðtryggingar. Í árslok 2006 námu víkjandi skuldir Sparisjóðs Kópavogs 703 milljónum króna en hann sameinaðist Byr í október 2007. Í árslok 2007 námu víkjandi lán Sparisjóðs Norðlendinga 502 milljónum króna en hann sameinaðist Byr sparisjóði snemma árs 2008. Sá sparisjóður hafði fengið 250 milljóna króna víkjandi lán frá Byggðastofnun í febrúar 2007 til fjármögnunar á eldri lánum og styrkingar á eiginfjárgrunni.

Hinn 19. desember 2008 veitti stjórn Byrs sparisjóðs sparisjóðsstjóra og fjárstýringu heimild til að selja víkjandi skuldabréf fyrir allt að 5 milljarða króna. Í ársreikningi Byrs 2008 og 2009 eru ekki talin fram skuldabréf gefin út á árinu 2008. Samkvæmt sundurliðun víkjandi lána sparisjóðsins, sem rannsóknarnefndin fékk frá Íslandsbanka hf., voru engin víkjandi lán gefin út eftir 2008.

18.5 Eignarhald og stofnfé

Sparisjóður vélstjóra og Sparisjóður Hafnarfjarðar voru gamalgrónir sparisjóðir þar sem stofnfjárbréfin voru í eigu einstaklinga og framsöl og eigendaskipti voru fátíð. Í apríl 2005 var haldinn sögulegur aðalfundur í Sparisjóði Hafnarfjarðar, þegar sitjandi stjórn var felld við stjórnarkjörið. Í kjölfar þessa var framsali stofnfjárbréfa gefinn lausari taumur og leiddi það til mikilla viðskipta með stofnfjárbréf sparisjóðsins. Háar fjárhæðir voru boðnar fyrir bréfin og samþjöppun varð í stofnfjáreigendahópi. Samþjöppun í stofnfjáreigendahópi Sparisjóðs vélstjóra hófst undir lok sama árs þar sem lögaðilar keyptu mikinn fjölda stofnfjárbréfa. Í lok febrúar 2006 voru sjö lögaðilar í hópi tíu stærstu stofnfjáreigenda og höfðu flestir keypt meiri hluta bréfa sinna á undanförnum þremur mánuðum. Hugmynd um að sameina þessa tvo sparisjóði var viðruð innan þeirra beggja í ársbyrjun 2006 og 1. desember sama ár var hún samþykkt af stofnfjáreigendum. Hinn sameinaði sparisjóður fékk nafnið Byr sparisjóður og var það bundið í samþykktir 13. mars 2007. Á árinu 2007 var stofnfé Byrs sparisjóðs aukið úr rúmri 231 milljón króna í rúma 27 milljarða króna. Einnig samþykktu stofnfjáreigendur að sameina sparisjóðinn Sparisjóði Kópavogs og Sparisjóði Norðlendinga, en síðarnefndi samruninn gekk í gegn á árinu 2008. Á aðalfundi sparisjóðsins 2008 var samþykkt að greiða stofnfjárhöfum arð upp á 12,2 milljarða króna en það voru tæp 154% af hagnaði sjóðsins. Á fundi stofnfjáreigenda í ágúst 2008 var samþykkt að breyta sparisjóðnum í hlutafélag. Ekkert varð þó úr þeim áformum. Byr sparisjóður sótti um 20% eiginfjárframlag frá ríkinu í mars 2009. Hófst þá ferli fjárhagslegrar endurskipulagningar sem endaði með yfirtöku Fjármálaeftirlitsins á valdi stofnfjáreigendafundar sjóðsins 22. apríl 2010.

18.5.1 Stofnfé og stofnfjáreigendur Sparisjóður vélstjóra

Í lok árs 2004 var stofnfé í Sparisjóði vélstjóra 120,7 milljónir króna og hafði það þá verið aukið um 74,3 milljónir á árinu.375 Stofnfjáreigendur í sjóðnum gátu verið allt að 700 og voru það aðallega einstaklingar þótt nokkrir lögaðilar væru í hópnum.376 Árið 2004 var ár mikilla breytinga í sparisjóðnum. Þá hófst stefnumótunarvinna sem var unnin langleiðina út næsta ár. Skipt var um sparisjóðsstjóra og stjórnarformann á árinu og sparisjóðurinn átti í sameiningarviðræðum við Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis. Þær voru langt komnar þegar þeim var slitið í nóvember 2004. Á fyrsta stjórnarfundi ársins 2005 var rætt um áherslur og stefnu sparisjóðsins á árinu og að móta þyrfti stefnu hans, til dæmis var rætt hvort stefna bæri að stækkun með því að stofna fleiri útibú eða kaupa annan sparisjóð. Á fundinum var einnig rætt um hugsanlegar breytingar á samþykktum sparisjóðsins sem lagðar skyldu fyrir aðalfund 1. apríl, t.d. að heimila stofnun tilboðsmarkaðar fyrir stofnfé.377

Fleiri hugmyndir um breytingar á samþykktum komu fram á næstu stjórnarfundum. Á fundi stjórnar 11. mars 2005 var lagður fram listi með tillögum að breytingum á samþykktum. Meðal þeirra var að breyta 1. mgr. 5. gr. samþykktanna á þann veg að í stað þess að „sparisjóðsaðili“ mætti aldrei ráða meira en sex atkvæðum yrði einstökum „stofnfjáreigendum“ aldrei heimilt, fyrir sjálfs síns hönd eða annarra, að fara með meira en 5% af heildaratkvæðamagni í sparisjóðnum. Einnig var lagt til að breyta 2. mgr. 4. gr. samþykktanna á þann veg að ákvæði um fjölda stofnfjáreigenda yrði fellt út, og að breyta 2. mgr. 17. gr. þannig að umboðsmanni yrði óheimilt að fara með umboð fyrir fleiri en tvo stofnfjáreigendur í stað átján atkvæða. Í greinargerð sem fylgdi tillögunum sagði að í frumvarpi að lögum nr. 161/2002 hefði verið tekið fram að meginstoð sparisjóðakerfisins frá upphafi hefði verið dreifð eignaraðild að sparisjóðum landsins og að með lögunum hefði verið leitast við að tryggja hana enn betur. Þá stóð enn fremur í greinargerðinni:

Sparisjóður vélstjóra hefur í samþykktum sínum ákvæði sem tryggja enn frekar dreifða eignaraðild stofnfjár í sparisjóðnum en fram koma í lögum nr. 161/2002, þar sem fjöldi stofnfjáreigenda er fast bundinn í 2. mgr. 4. gr. samþykktanna. Þá er atkvæðisréttur stofnfjáreigenda fast bundinn við hámark sex stofnfjárhluti sbr. 5. gr. og réttur til að fara með umboð bundinn við hámark átján atkvæði sbr. 2. mgr. 17. gr.
Með breytingartillögum þeim sem stjórn sparisjóðsins hefur nú lagt fram er gert ráð fyrir að þessi sérákvæði samþykkta sparisjóðsins verði felld úr samþykktum.378

Aðalfundur 1. apríl 2005 samþykkti ekki breytingu á 5. gr. og 17. gr. samþykktanna en samþykkti breytingu á 2. mgr. 4. gr. Á næsta stjórnarfundi, 27. apríl 2005, komu fram margar tillögur er vörðuðu framtíð sjóðsins, til dæmis um að opna útibú á Akranesi, kaupa Sparisjóð Kópavogs, kaupa Sparisjóðinn í Keflavík eða fara í sameiningar. Sparisjóðsstjóri taldi mestu möguleikana liggja hjá fyrirtækjasviði í því að efla þjónustu við lítil og meðalstór fyrirtæki og veita sérfræðiaðstoð. Þeirri fyrirspurn hvort ekki þyrfti að huga að stofnfjáraukningu svaraði stjórnarformaður á þann veg að fyrst þyrfti að huga að verkefnum til að nota féð í.379

Á næsta stjórnarfundi var greint frá því að vinnu við stefnumótandi greiningu á styrkleikum, veikleikum, tækifærum og ógnunum sparisjóðsins væri lokið ásamt stöðumati á umhverfi og starfsemi hans. Stefnumótun væri þar með lokið og innleiðing stefnunnar hafin. Ekki var tekið fram í fundargerðinni í hverju stefnan fælist.380

Á fundi stjórnar sjóðsins 27. júlí 2005 var rætt um málefni Sparisjóðs Hafnarfjarðar og bent á að „í kjölfar átaka í stofnfjáreigendahópi [Sparisjóðs Hafnarfjarðar hefðu] átt sér stað viðskipti með stofnbréf“.381 Hinn 2. september 2005 voru haldnir tveir stjórnarfundir og á þeim síðari var aðeins eitt mál á dagskrá: Kaup Sparisjóðs vélstjóra á stofnfé í Sparisjóði Hafnarfjarðar. Samþykkt var að veita stjórnarformanni og sparisjóðsstjóra heimild til þess.382 SPV fjárfesting hf. keypti síðan fimm stofnfjárhluti í Sparisjóði Hafnarfjarðar fyrir 225 milljónir króna.383

Í desember 2005 var mikið um framsöl stofnfjárbréfa í Sparisjóði vélstjóra, ekki síst til MP Fjárfestingarbanka hf. sem keypti þá samtals 277 stofnfjárbréf í sparisjóðnum. Heildarfjöldi bréfa í sjóðnum var þá 3205 þannig að um var að ræða 8,64% eignarhlut í sparisjóðnum. Fyrstu ellefu mánuði ársins hafði stjórnin samþykkt framsal alls 18 stofnfjárbréfa.384 Í kjölfar þessara viðskipta sendi Fjármálaeftirlitið bréf til stjórnar Sparisjóðs vélstjóra þar sem það áréttaði þær lagaskyldur sem á stjórninni hvíldu í tengslum við samþykki á sölu eða framsali stofnfjárhluta. Í bréfinu sagði meðal annars um það efni:

Ákvæðum um samþykki stjórnar [mun] einkum hafa verið ætlað að tryggja að stjórn sparisjóðs gæti haft ákvörðunarvald um það hverjir gerðust stofnfjáreigendur, með tilliti til eðlis og tilgangs sparisjóðs. Væri enda ljóst að grundvallarmunur [væri] á stofnfé í sparisjóði og hlutafé í hlutafélagi þar sem stofnfjáreign jafngildi ekki hlutdeild í eigin fé sparisjóðsins með sama hætti og hlutafjáreign feli í sér. Í flestum sparisjóðum sé því svo varið að stofnfé nemi einungis litlum hluta heildareiginfjár. Bróðurpartur eigin fjár sé í eigu sparisjóðs sjálfs og til þeirra fjármuna eigi stofnfjáreigendur ekkert tilkall.

Einnig var bent á eftirfarandi í bréfinu:

Fjármálaeftirlitið telur […] að stjórn sparisjóðs [séu] ætlaðar ríkar skyldur til að gæta hagsmuna sparisjóðsins og þeirra verðmæta sem þar myndast og ekki teljast til eigna stofnfjáreigenda. Þannig ber stjórn sparisjóðsins ennfremur að gæta hagsmuna sparisjóðsins gagnvart stofnfjáreigendum og gæta þess að þeir taki ekki hagsmuni sína fram yfir hagsmuni sparisjóðsins, jafnvel þó stjórn sæki umboð sitt til stofnfjáreigenda.

Að lokum var dregin svohljóðandi ályktun:

[…] því verður að telja meginskyldur stjórnar sparisjóðs við afgreiðslu á samþykkt eða synjun framsalsbeiðna vera að gæta hagsmuna þess hluta eigin fjár sparisjóðsins sem stofnfjáreigendur eiga ekki tilkall til. Ennfremur verður að telja að við mat sitt beri stjórn að hafa hagsmuni sparisjóðsins, þ.m.t. eigið fé hans, og viðskiptamanna að leiðarljósi en ekki hagsmuni einstakra stofnfjáreigenda eða viðsemjenda þeirra.385

Að lokum óskaði Fjármálaeftirlitið eftir upplýsingum um hvort og með hvaða hætti sparisjóðsstjóri eða einstakir stjórnarmenn hefðu komið að sölu á stofnfjárhlutum til MP Fjárfestingarbanka hf. Eftirlitið óskaði eftir afritum af fundargerðum stjórnar sparisjóðsins frá því í nóvember 2005 og afritum af stofnfjáreigendalistum sparisjóðsins þar sem fram kæmu dagsetningar á framsölum sex mánuði aftur í tímann. Þá skyldi stjórn upplýsa Fjármálaeftirlitið um öll frekari samþykki á framsölum, auk þess sem óskað var eftir upplýsingum um eignatengsl sparisjóðsins eða einstakra stjórnarmanna við MP Fjárfestingarbanka og enn fremur hvort einhver stjórnunar- eða hagsmunatengsl væru á milli Sparisjóðs vélstjóra eða einstakra stjórnarmanna og MP Fjárfestingarbanka.

Í svari sparisjóðsins var rakinn aðdragandi að kaupum MP Fjárfestingarbanka og bent á að einstakir stjórnarmenn hefðu engin eignatengsl við bankann. Hins vegar ætti Sparisjóður vélstjóra 14,47% eignarhlut í MP Fjárfestingarbanka og Jón Þorsteinn Jónsson, stjórnarformaður sparisjóðsins, sæti í stjórn bankans fyrir hönd sparisjóðsins.386 Fjármálaeftirlitið svaraði með bréfi 24. janúar 2006 þar sem það benti á að samkvæmt fundargerðum Sparisjóðs vélstjóra í desember 2005 hefðu verið afgreidd framsöl til félaga og aðila tengdra Jóni Þorsteini Jónssyni án þess að hann viki af fundi. Félögin og aðilarnir sem um ræddu voru MP Fjárfestingarbanki hf., Andaklettur hf., þar sem Jón var stjórnarformaður, og Saxbygg ehf., stofnað af Saxhóli ehf., sem Jón var stjórnarformaður í, ásamt Byggingarfélagi Gunnars & Gylfa ehf. Í lok bréfsins var síðan óskað eftir upplýsingum um hvernig Jón Þorsteinn hefði komið að afgreiðslu þessara framsala.387

Því bréfi var svarað 1. febrúar af LOGOS lögmannsþjónustu fyrir hönd sparisjóðsins og kom þar fram að Jón Þorsteinn hefði vikið af fundi á meðan viðskipti Andakletts ehf. voru rædd og að það hefðu verið mistök að það hefði ekki verið bókað. Varðandi viðskiptin við MP Fjárfestingarbanka hefði stjórn sparisjóðsins ákveðið að Jón Þorsteinn þyrfti ekki að víkja af fundi vegna þeirra, því hann sæti þar í stjórn fyrir hönd sparisjóðsins og ætti ekki persónulegra hagsmuna að gæta. Loks féllst sjóðurinn ekki á að um veruleg hagsmunatengsl væri um að ræða milli Gylfa Héðinssonar og Gunnars Þorlákssonar annars vegar og Jóns Þorsteins hins vegar, þar sem ekki væri um nein persónuleg eða fjárhagsleg tengsl að ræða milli þeirra.388 Fjármálaeftirlitið svaraði bréfinu 21. mars og greindi frá því að í ljósi atvika málsins og þess að sparisjóðurinn hefði gætt þess að stjórnarmenn vikju af fundum sem haldnir höfðu verið frá því að Fjármálaeftirlitið gerði athugasemdina yrði ekki aðhafst frekar í málinu.389

Á meðan þessi bréfaskipti voru í gangi hélt framsal á stofnfjárbréfum áfram. Í janúar voru 342 framsöl samþykkt og 412 í febrúar. Eftir það hægðist á sölunni en rúmlega þúsund framsöl voru þó samþykkt það sem eftir lifði árs. Alls voru 2.085 framsöl samþykkt á tímabilinu frá desember 2005 til desember 2006. Þar af seldu 426 einstaklingar 1.851 bréf en 21 lögaðili seldi 234 bréf. Alls keyptu 145 einstaklingar 749 bréf og 43 lögaðilar keyptu 1.336 bréf. Ekki var tekið saman hversu mörg viðskipti voru með hvert bréf.390 Á fundi stjórnar 27. febrúar 2006 var lagður fram listi yfir stærstu stofnfjáreigendur í sparisjóðnum.

Ekki urðu miklar breytingar á lista yfir stærstu stofnfjáreigendur á næstu mánuðum þrátt fyrir áframhaldandi framsal stofnfjár, nema hvað einn einstaklingur, Guðmundur Albert Birgisson, keypti mörg bréf. Stóran hluta þeirra seldi hann síðar til félaganna Imons, Byggingarfélags Gunnars og Gylfa, Saxhóls og Myllunnar.391

Á fundi stjórnar Sparisjóðs vélstjóra 27. febrúar 2006 voru lagðar fram tillögur um breytingar á samþykktum, sem undirbúnar voru af LOGOS lögmannsþjónustu. Í inngangi að tillögunum var tekið fram að þær væru „byggðar á þeim tillögum, sem lagðar voru fyrir fund stofnfjáreigenda þann 1. apríl 2005“. Aftur var lagt til að breyta 1. mgr. 5. gr. og 2. mgr. 17. gr., en að auki voru tillögur um að heimila aukningu stofnfjár þrítugfalt, gefa stofnfjárbréf út á rafrænu formi og heimila veðsetningu stofnfjár.392 Aðalfundurinn var haldinn 10. mars 2006 og voru tillögurnar samþykktar.

Á fundi stjórnar Sparisjóðs vélstjóra 26. apríl 2006 kynnti stjórnarformaður verðmat sem Árni Tómasson, löggiltur endurskoðandi, hafði gert á Sparisjóði vélstjóra og Sparisjóði Hafnarfjarðar.393 Verðmatið var unnið til að draga fram hugsanleg skiptihlutföll á milli sjóðanna ef vilji yrði til að sameina þá. Niðurstaða verðmatsins var að leiðrétt bókfært eigið fé Sparisjóðs vélstjóra væri 7,8 milljarðar króna en rúmlega 4,3 milljarðar króna hjá Sparisjóði Hafnarfjarðar. Þannig fengi Sparisjóður vélstjóra um tvo þriðju hluta stofnfjár í sameinuðum sjóði. Stjórnin samþykkti heimild til stjórnarformanns og sparisjóðsstjóra til að hefja viðræður við forsvarsmenn Sparisjóðs Hafnarfjarðar um hugsanlega sameiningu sjóðanna.394

Á næsta stjórnarfundi skýrði sparisjóðsstjóri frá því að vinna væri hafin við að kanna með hvaða hætti komið yrði á fót tilboðsmarkaði með stofnfé, hvernig staðið yrði að rafrænni skráningu bréfa og hvaða verklag stjórn ætti að hafa þegar óskað væri eftir veðsetningu bréfa. Ákveðið var að vinna frekar að þessum málum.395

Sameiningarviðræður hófust 26. apríl 2006. Á stjórnarfundi 2. júní var samrunaáætlun sparisjóðanna undirrituð og voru skiptihlutföll ákveðin þannig að Sparisjóður vélstjóra fengi 61% stofnfjár í sameinuðum sjóði. Samruni sjóðanna skyldi miðast við 1. janúar 2006.396 Samrunaáætlunin var síðan send til Fjármálaeftirlitsins. Nokkur bréf gengu síðan á milli sparisjóðsins og Fjármálaeftirlitsins, sem vildi ganga úr skugga um að virkur eignarhlutur yrði ekki til við samruna sparisjóðanna.397 Á stjórnarfundi 26. júlí var upplýst að undirbúningsferli rafrænnar skráningar stofnfjárbréfa væri lokið og að skráningunni yrði lokið 31. júlí.398

Skipulag fyrir sameinaðan sparisjóð var kynnt í ágúst 2006. Gert var ráð fyrir tveimur sparisjóðsstjórum þar sem annar bæri ábyrgð á allri viðskiptabankaþjónustu, rekstrarsviði og fjárstýringu en hinn sæi um fyrirtækjaþjónustu, áhættugreiningu útlána og markaðsmál.399 Á stjórnarfundi í september var farið yfir drög að viðauka við greinargerð stjórnar Sparisjóðs vélstjóra um samrunann. Í þeim kom fram að íslensk fjármálafyrirtæki hefðu stækkað og að aukinnar samkeppni gætti á íslenskum fjármálamarkaði. Þá hefði þrýstingur á lækkun vaxta aukist vegna erlendrar samkeppni og aukinnar fjölbreytni í fjármálastarfsemi:

Í langflestum tilvikum leiðir aukin stærð fjármálafyrirtækis til forskots í samkeppni. Einkum lýtur það að tækifærum til öflunar ódýrara lánsfjármagns og þjónustu við stærri lántakendur og samstæður. Þrengt hefur að minni fjármálastofnunum og sparisjóðirnir hafa átt undir högg að sækja á meðan stærri einingar hafa vaxið. Stjórn [Sparisjóðs vélstjóra] telur að þessi þróun kalli á að styrkja þurfi sparisjóðinn. Nærtækasta leiðin til þess er sameining sparisjóða.400

Í drögunum sagði að til að jafna skiptihlutföll vegna samrunans þyrfti að auka stofnfé í Sparisjóði Hafnarfjarðar um tæpar 68 milljónir króna áður en til samrunans kæmi, en stofnfé sparisjóðsins var ekki nema rúmar 16 milljónir króna. Síðan myndi Sparisjóður Hafnarfjarðar fá rúmar 84 milljónir króna af nýju stofnfé í Sparisjóði vélstjóra við sameiningu, þannig að stofnfé hans myndi aukast úr 132 milljónum króna í 216 milljónir króna. Ákveðið var að boða til fundar stofnfjáreigenda 1. desember 2006 þar sem tillaga um sameiningu Sparisjóðs vélstjóra og Sparisjóðs Hafnarfjarðar yrði lögð fram til samþykktar og gekk það eftir. Hún var einnig samþykkt af stofnfjáreigendum Sparisjóðs Hafnarfjarðar sama dag. Í kjölfarið var haldinn fyrsti stofnfjáreigendafundur í hinum sameinaða sjóði og kjörin stjórn. Hún var skipuð Jóni Þorsteini Jónssyni formanni, Agli Ágústssyni varaformanni, Styrmi Þór Bragasyni, Matthíasi Imsland og Magnúsi Ármann.

Á fyrsta fundi stjórnar í desember 2006 var meðal annars ákveðið að nýta heimild í samþykktum Sparisjóðs vélstjóra til stofnfjáraukningar upp á rúma 3,7 milljarða króna. Gjalddagi áskriftar skyldi vera 28. desember 2006 og KPMG hf. yrði falin gerð útboðslýsingar.401 Á síðasta stjórnarfundi ársins, 21. desember 2006, var hins vegar ákveðið að fresta fyrirhugaðri stofnfjáraukningu sparisjóðsins fram yfir aðalfund 2007 því ekki reyndist nægur tími til að framkvæma útboðið.402

18.5.2 Stofnfé og stofnfjáreigendur Sparisjóðs Hafnarfjarðar

Í byrjun árs 2005 voru stofnfjáreigendur í Sparisjóði Hafnarfjarðar 47 talsins og hafði sá fjöldi verið óbreyttur um árabil. Hver stofnfjáreigandi átti tvö bréf, nema einn sem átti eitt bréf. Fátítt hafði verið að stofnfjárbréf skiptu um hendur og kom það helst til þegar stofnfjárhlutir gengu í erfðir eða af öðrum sérstökum ástæðum. Stjórnarformaður var Matthías Á. Mathiesen og hafði hann setið í stjórninni frá árinu 1958, lengst af sem stjórnarformaður. Á fyrsta stjórnarfundi ársins, 3. janúar 2005, var kynntur nýr sparisjóðsstjóri, Björn Ingi Sveinsson. Hann tók við af Þór Gunnarssyni sem starfað hafði hjá sparisjóðnum síðan 1981.

Stofnfé sparisjóðsins var aðeins 14,7 milljónir króna í árslok 2004 og hafði þó verið aukið um tæpa 8,1 milljón króna á árinu með stofnfjáraukningu og endurmati stofnfjár. Stofnféð var ekki nema tæp 0,5% af eigin fé sparisjóðsins.403 Samkvæmt samþykktum sparisjóðsins mátti stofnfé hans vera allt að 30 milljónir króna og skiptast í allt að 300 stofnfjárhluti.404 Á fundi stjórnar Sparisjóðs Hafnarfjarðar 23. mars 2005 var samþykkt að auka stofnféð um 300 þúsund krónur að nafnverði og að áskriftartímabilið yrði frá 1. maí til 1. júlí 2005.405 Á fundinum var einnig tekið fyrir dreifibréf frá Sambandi íslenskra sparisjóða um stofnfé og samfélagslega ábyrgð sparisjóða. Í því kom fram að í árslok 2003 hefði samanlagt eigið fé sparisjóða numið 22,2 milljörðum króna, en þar af var stofnfé aðeins tæpir 2,9 milljarðar króna, eða rúm 13% af eigin fé. Þeirri spurningu var varpað fram í bréfinu hvort stefna ætti að því að auka stofnfé sparisjóða, þannig að það yrði til dæmis á bilinu 10–20% af eigin fé. Þá var eftirfarandi tekið fram:

Almennt er gert ráð fyrir að stofnfé sé fjármagn sem stofnfjáreigandi ætli ekki að hreyfa um langa framtíð. Stofnfé er bundið sem innlán sem sparisjóðurinn leysir til sín og selur aftur ef þess er óskað. Ef rekstur sparisjóðs er góður á stofnfé að gefa betri arð en aðrir innláns- eða fjárfestingarkostir.406

Þá kynnti sambandið hugmyndir að almennum verklagsreglum um það hverjir gætu orðið stofnfjáreigendur, hvernig arður af stofnfé væri ákveðinn og um að samfélagslegri ábyrgð yrði mætt.

Á fundi stjórnar 18. apríl 2005 var lögð fram tilkynning um framboð til stjórnar Sparisjóðs Hafnarfjarðar þar sem Páll Pálsson var í forsvari. Í samþykktum sparisjóðsins frá 12. apríl 2003 var ákvæði um að stjórnarmenn skyldu kjósa fimm aðila úr röðum sínum í stjórn og með hlutbundinni kosningu ef þess væri óskað fimm dögum fyrir aðalfund. Framboðslistum til stjórnar áttu að fylgja meðmæli minnst fimm stofnfjáreigenda og samþykki frambjóðenda.407

Aðalfundurinn var haldinn 20. apríl 2005. Á fundinn mættu fulltrúar 46 stofnfjárhafa, auk lögmannanna Karls Georgs Sigurbjörnssonar og Sigurðar G. Guðjónssonar, sem sátu sem áheyrnarfulltrúar að beiðni Páls Pálssonar. Í skýrslu sinni fyrir rannsóknarnefndinni sagði Páll að hann hefði viljað hafa lögfræðingana með sér því í hópi stjórnarmanna hefðu verið tveir lögfræðingar.408 Kosið var á milli Árna Grétars Finnssonar og Sigurðar G. Guðjónssonar sem fundarstjóra og hlaut Árni Grétar meirihluta atkvæða í þeirri kosningu.409

Í skýrslu sinni fyrir rannsóknarnefndinni lýsti Karl Georg Sigurbjörnsson aðdragandanum að því að hann og Sigurður sátu aðalfundinn:

A-Holding biður okkur um að vinna fyrir Pál Pálsson til að aðstoða hann, hann var þá með eitthvert framboð, framboðið er komið fram og það voru einhverjir erfiðleikar að fá – samkvæmt reglum sparisjóðsins eða samþykktum sparisjóðsins þá þurfti að kynna framboðið með ákveðnum hætti, mig minnir sex dögum fyrir aðalfund eða eitthvað slíkt, og þáverandi stjórnarformaður sparisjóðsins neitaði að tala við þá. Þannig að þeir sáu fyrir sér að það yrðu einhverjir erfiðleikar vegna þess að þáverandi stjórnarformaður var með einhverja svona einræðistilburði og stjórnaði sparisjóðnum í raun. Það var okkar tilfinning. Þannig að Stefán talaði við okkur og setti okkur í samband við Pál og við tókum að okkur að aðstoða hann við að koma framboðinu á framfæri við aðalfund og aðstoða hann þar.410

Í kjölfar skýrslu stjórnar og kynningar á ársreikningi var fundarmönnum boðið að koma með athugasemdir. Þar tók fyrstur til máls Bjarni Þórðarson sem fjallaði um útkomu sjóðsins í ánægjuvoginni en ræddi einnig um stofnfjármarkað og hugsanlega fjölgun stofnfjáreigenda. Næst tók til máls Jónas Reynisson, sem fagnaði tillögunni um stofnfjáraukningu og taldi að hagnaður sjóðsins myndi aukast verulega við það að auka stofnfé. Einnig benti hann á að ef markaðsstarfsemi nyti ekki við væri tap sjóðsins 200 milljónir króna og að tap væri af almennum rekstri. Fleiri tóku til máls og var stofnfé þar aðalumræðuefnið.411

Fleiri dagskrárliðir voru teknir fyrir en ekki varð mikil umræða fyrr en til stjórnarkjörs kom. Mikill ágreiningur var um fyrirkomulag kosningarinnar og kom meðal annars fram yfirlýsing um vanhæfi fundarstjóra, en hún var síðan felld með einu atkvæði. Tvær tillögur lágu þá fyrir um fyrirkomulag kosningarinnar. Niðurstaðan varð sú að kosið yrði á milli lista, þannig að sá listi sem hlyti fleiri atkvæði fengi alla stjórnarmenn kjörna. Á A-lista voru Ingvar Viktorsson, Gissur Guðmundsson, Bjarni Þórðarson, Albert Már Steingrímsson og Árni Grétar Finnsson. Á B-lista voru Páll Pálsson, Ingólfur Flygenring, Þórður R. Magnússon, Trausti Ó. Lárusson og Eyjólfur Reynisson. Allir stofnfjárhafar á fundinum tóku þátt í atkvæðagreiðslunni og féllu atkvæði þannig að A-listi fékk 22 atkvæði, B-listi 23 atkvæði og einn seðill var auður. Þar með hafði ný stjórn tekið við í sparisjóðnum.412

Þessi stjórnarskipti hafa gjarnan verið kölluð „hallarbyltingin“. Í skýrslu sinni fyrir rannsóknarnefndinni sagði Páll Pálsson að tilefni framboðs lista hans til stjórnar hefði verið óánægja með störf og stefnu sitjandi sparisjóðsstjórnar. Taldi Páll að það ætti að setja á fót stofnfjármarkað í sjóðnum og leyfa frjálsara framsal stofnfjárbréfa. Einnig taldi hann að hægt væri að reka sparisjóðinn betur, þar sem tap hefði verið af almennum rekstri. Í kjölfarið hefði hann síðan talað við stofnfjáreigendur í sparisjóðnum og reynt að tryggja sér kosningu. Taldi hann að atburðarásin hefði hafist um áramótin 2004–2005.413

Nýja stjórnin hélt sinn fyrsta fund 25. apríl 2005. Þar var ákveðið að bjóða allt að fimm starfsmönnum eða þjónustuaðilum Sparisjóðs Hafnarfjarðar að kaupa hluta af óseldum stofnfjárbréfum. Þá var gengið frá starfslokum nýja sparisjóðsstjórans, Björns Inga Sveinssonar. Magnús Ægir Magnússon, sem var starfsmaður sparisjóðsins, tók þá við starfinu.414 Á næsta fundi stjórnar var kynnt bréf frá fimm stofnfjáreigendum sem óskuðu eftir því að haldinn yrði stofnfjáreigendafundur hið fyrsta. Svarbréf var kynnt á fundi 11. maí 2005 en í því kom meðal annars fram að „ein ástæða þess að ákveðið var að bjóða fram lista við stjórnarkjör á aðalfundi Sparisjóðs Hafnarfjarðar var mikil og djúpstæð óánægja með ráðningu nýs sparisjóðsstjóra“. Tillögu um að halda fund stofnfjáreigenda var hafnað vegna formgalla á bréfinu.415

Á fundi stjórnar 19. maí var samþykkt beiðni eins stofnfjáreiganda um framsal á bréfum sínum til Audur Invest Holding S.A. Þetta var forsmekkur að því sem í vændum var. Á fundi stjórnar 29. júní lágu fyrir beiðnir 12 einstaklinga um samþykki fyrir framsali á alls 24 bréfum og var framsal samþykkt í öllum tilfellum.416 Í kjölfar þessa urðu umtalsverð viðskipti með bréf í Sparisjóði Hafnarfjarðar. Alls var samþykkt framsal 153 bréfa frá 29. júní 2005 til 12. september 2006. Alls seldu 54 aðilar stofnfjárbréf á tímabilinu, þar af þrír lögaðilar, en 38 aðilar keyptu bréf á tímabilinu, þar af 23 lögaðilar. Nokkrir áttu stofnfjárhluti í stuttan tíma, til dæmis var á fyrrnefndum stjórnarfundi sjóðsins 29. júní 2005 samþykkt framsal á fjórum bréfum til Gunnars Hjaltalín og á sama fjölda til Guðna Aðalsteinssonar og framsal á sömu bréfum til Jóns Erlings Ragnarssonar og Björns Magnússonar var síðan samþykkt á stjórnarfundi 21. júlí 2005.

Hinn 21. júlí 2005 var haldinn aukafundur stofnfjáreigenda að beiðni fimm stofnfjáreigenda. Þar var meðal annars kynnt nýtt stjórnskipulag sjóðsins, breytingar á starfsmannahaldi, hugmyndir um útrás, aðgerðir til að bæta reksturinn og „annað það sem stjórn [Sparisjóðs Hafnarfjarðar] fyrirhugar að taka til endurmats í núverandi eignar- og rekstrarumhverfi [sjóðsins], þar á meðal stofnfé“.417 Orðið var gefið laust og tóku margir til máls. Meðal annars var rætt um ráðningu Björns Inga Sveinssonar og lýsti Bjarni Þórðarson því yfir að Björn hefði verið hæfasti umsækjandinn. Árni Mathiesen lagði fyrirspurn í átta liðum fyrir Pál Pálsson um framsal á stofnfé, þar sem hann spurði meðal annars hvort nýir stofnfjáreigendur væru með fleiri en einn hlut hver, hvort fleiri aðilar væru í kauphugleiðingum, hvort tengsl væru á milli kaupenda og hvort formaðurinn teldi að gera þyrfti breytingar á stofnfé sparisjóðsins. Rætt var um verð á hlut í sjóðnum og sagðist Bjarni Þórðarson ekki trúa því að einstaklingar greiddu 50 milljónir króna fyrir hlut í sjóðnum. Hins vegar var haft eftir Þór Gunnarssyni að „hlutur í [Sparisjóði Hafnarfjarðar væri] ekki 50 milljóna króna virði heldur frekar 75 milljóna króna“, auk þess sem hann teldi að „allt varðandi kaup og sölu stofnfjárbréfa [hefði] verið planlagt fyrirfram“. Páll svaraði og sagði stjórnina ekki vera aðila að sölu stofnfjárbréfa og að hann vissi ekki hvort fleiri aðilar væru í kauphugleiðingum. Enn urðu miklar umræður og ítrekaði Páll Pálsson það sem hann hafði sagt á aðalfundi 2004, að hann vildi fjölga stofnfjáreigendum. Áður en fundi var slitið bætti Bjarni Þórðarson því við að Sparisjóður Hafnarfjarðar væri „eign Hafnfirðinga. [Hann] væri ekki fjárfestingartækifæri. Menn mættu ekki eyðileggja [Sparisjóð Hafnarfjarðar]“.418

Mörg framsöl á stofnfjárbréfum í sjóðnum fóru í gegnum dótturfélag Baugs Group í Lúxemborg, A-Holding S.A., og áðurnefnda lögmenn, þá Karl Georg Sigurbjörnsson og Sigurð G. Guðjónsson. Gengu viðskiptin þannig fyrir sig að stofnfjáreigendur sem höfðu áhuga á að selja lögðu bréf sín inn til Karls eða Sigurðar. Þeir skráðu síðan niður þau bréf sem þeir fengu og ábyrgðust greiðslu til seljanda upp á 50 milljónir króna fyrir hver tvö bréf. Síðan höfðu áhugasamir kaupendur samband við lögmennina, sem tengdu bréf sem áður höfðu verið lögð inn við kaupendurna. Þá var lögð fram beiðni um samþykki á framsali bréfanna frá seljanda til kaupanda á stjórnarfundi í sparisjóðnum. Þegar hún hafði verið samþykkt fengu seljendur greiðslu fyrir bréfin. Hlutverk A-Holding í þessu ferli var að fjármagna flest stofnfjárkaupin og sjá til þess að lögmennirnir hefðu bolmagn til þess að ábyrgjast greiðslurnar.

Í skýrslu sinni fyrir rannsóknarnefndinni lýsti Stefán Hilmar Hilmarsson, fjármálastjóri Baugs Group hf., því hvað hann hefði ráðlagt Páli Pálssyni um verðlagningu stofnfjárbréfanna:

Páll leitaði ráðgjafar hjá mér með hvernig ætti að verðleggja þessi stofnfjárbréf og ég ráðlagði Páli að horfa á eigið fé í sparisjóðnum. Það gæti verið nálgun á það verðmæti sem kynni að felast í sparisjóðnum og eigin fé. Þannig að það verð sem var að lokum borgað fyrir hlutinn, þessar 50 milljónir, tók mið af verðmæti eigin fjár sparisjóðsins.419

Eins og áður sagði var stofnfé mjög lítill hluti af eigin fé sparisjóðsins, sem var alls 3,081 milljarðar króna. Stefán lýsti aðkomu A-Holding að fjármögnun kaupa á bréfum í sparisjóðnum:

Mín aðkoma var sú að við náðum samkomulagi um það að fjármagna kaup af nokkrum tilteknum aðilum í Hafnarfirði. Við skilgreindum ákveðna fjármuni frá Baugi Group í þetta verkefni og það varð úr að við ákváðum að nota dótturfélag í Lúxemborg, sem heitir A-Holding, og undir því fyrirtæki var útibú staðsett í Sviss. […] Ástæðan fyrir því að við notuðum það félag var að að megintilgangurinn með útibúinu var eingöngu að lána fjármuni.420

Við skýrslugjöf hjá rannsóknarnefndinni lýsti Karl Georg því hvernig hann og Sigurður G. komu að miðlun á bréfum að ósk Páls Pálssonar:

Páll Pálsson kom með lista og þeir sem voru í kringum hann. […] Við hringdum út listann og ég og Sigurður G. hittum alla á fundi á skrifstofunni okkar. Bara í fimm, tíu mínútur hvern og einn og þeir afhentu bréfin og við ábyrgðumst greiðslur til þeirra. Létum þá kvitta fyrir að við hefðum fengið bréfin og þegar bréfin voru farin í gegn hjá stjórninni þá myndu þeir fá greiðsluna.421

Auk þess sagði hann:

Þegar við vorum beðnir um að taka að okkur að hringja út þessa lista, þá sögðum við við Pál Pálsson og Stefán Hilmarsson að við myndum ekki taka það að okkur nema peningarnir lægju fyrir. Við ætluðum ekki að ábyrgjast gagnvart fólki einhverjar greiðslur nema við hefðum peningana handbæra. Við værum ekki tilbúnir að hitta fólk og skrifa upp á einhverjar kvittanir um að það myndi fá greiðslur, en við gætum svo ekki framkvæmt greiðslurnar sjálfir. Þess vegna held ég að fyrsta greiðslan sem kom til okkar hafi verið einn og hálfur milljarður sem kom frá A-Holding. Það var það fyrirtæki sem líklega Baugur eða Stefán [Hilmar Hilmarsson] eða einhver hefur valið til þess að sjá um þessi viðskipti. Það var þá fyrst sem ég heyrði talað um A-Holding.422

Að sögn Karls Georgs var þessi greiðsla innborguð í maí eða júní 2005, stuttu áður en skriður komst á framsal stofnfjárbréfa í sjóðnum. Þótt bréfin væru keypt af stofnfjáreigendum á ákveðnu verði voru þau ekki seld fyrir sama verð. Karl Georg sagði að bréfin hefðu verið keypt á 25 milljónir króna hvert bréf og síðan hefðu þau verið seld áfram á 45 milljónir króna hvert.423 Stefán Hilmar kvað verðið síðan hafa hækkað þegar bréfin voru seld áfram:

Það komu tilboð frá fyrstu aðilum upp á 90 milljónir og það verð var þá bara látið ganga yfir – svona allavega næstu viðskipti á eftir. Svo fór verðið bara hækkandi. Þannig að það fór skömmu síðar, held ég um haustið, bara í 100–110 milljónir.424

Karl Georg Sigurbjörnsson var síðar ákærður fyrir fjársvik þar sem hann var sakaður um að hafa í tengslum við þessa milligöngu sína um sölu stofnfjárbréfa styrkt og hagnýtt sér ranga hugmynd nokkurra stofnfjáreigenda og fengið þá til að selja stofnfjárbréf á lægra verði en hann hefði samið við kaupendur um að greiða. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem staðfestur var í Hæstarétti, var hann sýknaður af öllum kröfum í málinu.425

Á tímabilinu frá 29. júní 2005 til 12. september 2006 keypti SPV fjárfesting ehf. fimm stofnfjárbréf í Sparisjóði Hafnarfjarðar fyrir hönd Sparisjóðs vélstjóra, eða 5,4% hlut, á 225 milljónir króna. Sama dag keypti MP Fjárfestingarbanki hf. fimm bréf, en hann varð stærsti eigandi Sparisjóðs vélstjóra í lok árs 2005. Á þessum tíma keypti Saxhóll ehf. einnig fjögur bréf í Sparisjóði Hafnarfjarðar, en það félag varð síðar einn af stærstu eigendum í Sparisjóði vélstjóra. Þá keypti Byggingarfélag Gylfa & Gunnars ehf., sem Gylfi Héðinsson og Gunnar Þorláksson áttu, fjögur bréf. Gylfi og Gunnar sátu einnig í stjórn Saxbyggs ehf. ásamt Jóni Þorsteini Jónssyni, en það félag var stofnað af byggingarfélaginu og Saxhóli ehf. Byggingarfélagið keypti síðar 39 hluti í Sparisjóði vélstjóra. Þá áttu Gylfi og Gunnar félagið Bygg ehf. sem keypti fjögur stofnfjárbréf á tímabilinu. Loks keypti Guðmundur A. Birgisson tvö bréf.

Í skýrslu Stefáns Hilmars Hilmarssonar fyrir rannsóknarnefndinni lýsti hann sinni hlið málsins:

Svo komu aðilar sem fóru að ræða við mig og Pál og stjórnarmenn um það að þeir vildu komast að sparisjóðnum. Þeir komu einmitt með þessa sýn, að þarna væri hægt að byggja upp öflugt fjármálafyrirtæki með því að kaupa hluti í sparisjóðnum, með hópi aðila sem væri samstiga um það hvert ætti að stefna með fjármálafyrirtækið.426

Þegar hann var inntur eftir því hverjir það hefðu verið svaraði hann:

Þetta voru aðilar sem síðar komu að eignarhaldinu og – eða nánast bara mjög fljótlega eftir að hallarbyltingin átti sér stað, þetta voru aðilar sem tengdust nokkrum fyrirtækjablokkum. Þetta voru aðilar sem tengdust okkur í Baugi Group. Þetta voru aðilar sem tengdust Sparisjóði vélstjóra og MP banka. Þannig að það má eiginlega segja að það hafi verið þessar þrjár ráðandi blokkir sem urðu mjög stórar, eða náðu að mynda svona 50–60 prósent eignarhald í sparisjóðnum, sem sagt, og aðilar þeim tengdir.427

Seinna bætti hann við:

Nú, með þá aðila sem voru að kaupa í gegnum þessa fjármögnun frá A-Holding, þá voru það þessar þrjár blokkir sem ég er að tala um, þ.e.a.s. aðilar sem voru nátengdir Baugi, eins og t.d. Magnús Ármann, sem ég er reyndar búinn að þekkja í mjög mörg ár. Hann er síðan nákunnugur Jóni Þorsteini Jónssyni, sem var þá formaður stjórnar Sparisjóðs vélstjóra, og ég veit að Magnús Ármann og Jón Þorsteinn töluðu síðan sameiginlega við MP banka. Þar með kannski var komið þriðja hjólið undir það að eiga þá hluti í sparisjóðnum. Síðan vindur það smám saman upp á sig. Magnús talar við félaga sinn Þorstein M. Jónsson, þá kenndan við Vífilfell. Hann eignaðist líka bréf í sparisjóðnum, að segja má í gegnum Magnús Ármann.428

Albert Már Steingrímsson, fyrrverandi stjórnarmaður í Sparisjóði Hafnarfjarðar, lýsti fyrir rannsóknarnefndinni að hann teldi að upphafið að „hallarbyltingunni“ mætti rekja til lánalínu sem stjórn sparisjóðsins samþykkti 5. janúar 2005 að veita Baugi Group, allt að 300 milljónum króna:

Ég held að þetta hafi kannski byrjað með því að allt í einu var Baugur farinn að biðja um lán í Sparisjóði Hafnarfjarðar. Ég var náttúrulega mjög – ja, mér fannst það mjög skrýtið og var mjög skeptískur á það – og spurði: hvað er svona stórfyrirtæki að leita í svona lítinn sparisjóð? – og taldi að við ættum að fara varlega þar. Það voru allir á þeirri skoðun líka. Samt héldu menn að það væri líka virðing að fá svona stórt fyrirtæki, en einhvern veginn þá fannst mér þetta svo skrýtið.429

Á fundi stjórnar Sparisjóðs Hafnarfjarðar 17. mars 2006 var aftur samþykkt lánalína til Baugs Group, þá upp á 600 milljónir króna. Samþykkt var á fundi stjórnar 25. ágúst sama ár að fyrirgreiðsla til Baugs mætti nema allt að 25% af eiginfjárgrunni Sparisjóðs Hafnarfjarðar. Þá keyptu Hagar hf., sem voru í eigu Baugs, alls fjögur bréf í Sparisjóði Hafnarfjarðar á áðurnefndu tímabili.

Samkvæmt stofnfjárhafalista frá 23. júní 2005 voru á þeim tíma 93 stofnfjárhlutir í Sparisjóði Hafnarfjarðar og skiptust þeir á 47 stofnfjárhafa, þannig að hver þeirra átti tvo hluti, nema einn aðili sem átti einn hlut. Á sams konar lista frá 10. febrúar 2006 voru aðeins eftir átta af þeim 47 stofnfjárhöfum sem voru á fyrri listanum. Í hópi þessara átta sem ekki höfðu framselt hlut sinn voru allir fimm stjórnarmenn Sparisjóðs Hafnarfjarðar. Á hinu tímabilinu frá 23. júní 2005 til 13. nóvember 2006 fækkaði stofnfjárhöfum úr 47 í 30.430

18.5.2.1 Rannsókn Fjármálaeftirlitsins

Hinn 24. júní 2005 sendi Fjármálaeftirlitið431 „dreifibréf“ til stofnfjáreigenda í sparisjóðnum þar sem þeir voru spurðir hvort þeir hefðu verið aðilar að samkomulagi um hvernig beita skyldi atkvæðisrétti á aðalfundi sparisjóðsins 20. apríl 2005. Einnig var spurt hvort þeir væru aðilar að samkomulagi um sölu stofnfjár í sparisjóðnum, hvort þeir hefðu fengið tilboð í stofnfjáreign sína og hvort þeim væri kunnugt um slíkt samkomulag eða tilboð.432

Í kjölfar þessara fyrirspurna Fjármálaeftirlitsins gerði stjórn sparisjóðsins athugasemdir við að Fjármálaeftirlitið sneri sér þannig beint til stofnfjáreigenda í stað þess að leita til stjórnarinnar. Í svari Fjármálaeftirlitsins 29. júní 2005 ítrekaði það heimildir sínar til að afla upplýsinga frá einstaklingum. Jafnframt óskaði það eftir frekari upplýsingum frá sparisjóðsstjórninni um það hvort stjórnin hefði verið aðili að samkomulagi um viðskipti með stofnfé í sparisjóðnum, hvort hún hefði stuðlað að eða haft milligöngu um slíkt samkomulag eða hvort henni væri kunnugt um að framsal stofnfjárhluta hefði átt sér stað án þess að formleg beiðni um slíkt hefði borist stjórn. Þá var óskað eftir afritum af öllum bréfaskriftum milli sparisjóðsins og stofnfjáreigenda síðastliðna þrjá mánuði.433 Í bréfi Fjármálaeftirlitsins til stjórnar sparisjóðsins tæpum mánuði síðar kom fram um svör stofnfjárhafa við fyrirspurnum eftirlitsins,

að á aðalfundi sparisjóðsins þann 20. apríl sl. hafi verið til staðar formlegt samkomulag um beitingu atkvæðisréttar á aðalfundinum. Jafnframt verður ráðið að slíkt samkomulag hafi tengst sölu á stofnfé í sparisjóðnum. Þá virðist sem að í þeim tilvikum þar sem kaupsamningar hafa verið gerðir um stofnfé hafi kaupandi/kaupendur gert þá kröfu að seljandi fengi ekki samninginn eða afrit hans. Einnig verður ekki annað séð en að kaupsamningar hafi gert ráð fyrir því að atkvæðisrétti yrði beitt á tiltekinn veg á aðalfundi sparisjóðsins.

Í ljósi þessa hefði Fjármálaeftirlitið ástæðu til að ætla að virkur eignarhlutur kynni að hafa myndast í sparisjóðnum í skilningi ákvæða laga um fjármálafyrirtæki.434

Á stjórnarfundi Sparisjóðs Hafnarfjarðar 5. ágúst 2005 samþykkti stjórn sparisjóðsins stofnfjárkaup Magnúsar Ármann og Sigurðar Á. Bollasonar sem hvor um sig keyptu þrjá stofnfjárhluti. Eftir kaupin átti hvor þeirra sjö hluti en samkvæmt samþykktum sjóðsins mátti hver aðili eiga að hámarki fimm stofnfjárhluti.

Nokkrir stofnfjáreigendur svöruðu ekki ítrekuðum fyrirspurnum Fjármálaeftirlitsins og því var ákveðið að leggja dagsektir á átta tiltekna stofnfjáreigendur.435 Sú ákvörðun Fjármálaeftirlitsins var kærð til sérstakrar kærunefndar samkvæmt lögum nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, þar sem því var haldið fram að Fjármálaeftirlitið skorti heimildir til að leggja dagsektir á einstaklinga.436 Kærunefndin féllst á það og felldi því ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins um álagningu dagsekta úr gildi.437

Í framhaldinu gerði Fjármálaeftirlitið athugasemdir við afgreiðslu stjórnarinnar á framsalsbeiðnum, meðal annars að stjórnin hefði ekki aflað nauðsynlegra gagna áður en framsal stofnfjárhluta var samþykkt.438 Hinn 30. nóvember 2005 gerði Fjármálaeftirlitið alvarlegar athugasemdir við það að beiðnir tiltekinna aðila um samþykki fyrir því að framselja stofnfjárhluti til MP Fjárfestingarbanka og Sparisjóðs vélstjóra hefðu verið samþykktar af stjórn sparisjóðsins án samráðs við Fjármálaeftirlitið. Þá krafðist Fjármálaeftirlitið þess að stjórn sparisjóðsins samþykkti engin frekari framsöl þar til lokið væri athugun á því hvort virkur eignarhlutur hefði stofnast í sparisjóðnum.439

Hinn 16. desember 2005 tilkynnti síðan Fjármálaeftirlitið ríkislögreglustjóra að athugun Fjármálaeftirlitsins hefði leitt í ljós að óbeinn virkur eignarhlutur virtist vera til staðar í Sparisjóði Hafnarfjarðar í andstöðu við 40. gr., sbr. 2. og 3. mgr. 70. gr. laga um fjármálafyrirtæki. Þá yrði ekki annað séð en að tilteknir aðilar hefðu veitt Fjármálaeftirlitinu rangar eða villandi upplýsingar sem kynni að fela í sér brot á 2. mgr. 111. gr. laga um fjármálafyrirtæki og 146. gr. almennra hegningarlaga.440 Í kjölfarið hóf efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra rannsókn á sölu stofnfjárbréfa í Sparisjóði Hafnarfjarðar.

Stjórn sparisjóðsins leitaði álits lögfræðings á kröfu Fjármálaeftirlitsins um að samþykkja engin frekari framsöl á stofnfjárhlutum og taldi hann að ekki væri um að ræða skýrt afmarkaða stjórnvaldsákvörðun sem meinaði stjórn sparisjóðsins að samþykkja framsalsbeiðnir.441 Í kjölfarið samþykkti stjórnin rúmlega tuttugu framsalsbeiðnir á fundi sínum 10. febrúar 2006.442 Stjórn Fjármálaeftirlitsins brást við með því að leggja févíti á stjórn Sparisjóðs Hafnarfjarðar þar sem ekki væri farið að fyrirmælum stofnunarinnar.443 Stjórn sparisjóðsins mótmælti og taldi lagaheimildir skorta444 en fékk ekki að gert, og ákvað stjórn Fjármálaeftirlitsins að beita sparisjóðinn févíti upp á 1,5 milljónir króna.445

Í bréfi Fjármálaeftirlitsins til stjórnar sparisjóðsins 20. febrúar kom fram að það hefði ákveðið að takmarka atkvæðisrétt sex stofnfjáreigenda þannig að sameiginlega færu þeir ekki með meira en 5% af heildaratkvæðamagni í sparisjóðnum. Taldi það þessa aðila mynda óbeinan virkan eignarhlut í sparisjóðnum.446 Jafnframt var ákveðið að Íslandsbanki hf. og Sjóvá-Almennar tryggingar hf. færu sameiginlega með í mesta lagi 5% atkvæðisrétt í sparisjóðnum. Fjármálaeftirlitið ákvað einnig að taka til athugunar hæfi þriggja stjórnarmanna til setu í stjórn sparisjóðsins með hliðsjón af aðkomu þeirra að athugun þess á virkum eignarhlut í sparisjóðnum. Þá var farið fram á það við stjórn Sparisjóðs Hafnarfjarðar að aðalfundi sparisjóðsins, sem halda átti 21. febrúar 2006, yrði frestað um ótiltekinn tíma í ljósi þess að stofnast hefði óbeinn virkur eignarhlutur tiltekinna aðila í sparisjóðnum sem væri til skoðunar hjá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra.447

Stjórn sparisjóðsins féllst ekki á beiðnina og í svarbréfi stjórnarformanns sparisjóðsins til Fjármálaeftirlitsins var lagagrundvöllur hennar dreginn í efa og óvissan um aðalfund og lok rannsóknar Fjármálaeftirlitsins sögð „óbærileg bæði fyrir stjórnarmenn, starfsmenn og viðskiptavini sjóðsins“. Þar kom einnig fram að stjórnarmennirnir þrír sem Fjármálaeftirlitið hefði til athugunar hefðu dregið stjórnarframboð sín til baka og aðrir gefið kost á sér í þeirra stað.448 Aðalfundur sparisjóðsins var því haldinn 21. febrúar 2006 í óþökk Fjármálaeftirlitsins. Á fundinum var samþykktum Sparisjóðs Hafnarfjarðar breytt mikið, meðal annars var veðsetning stofnfjár heimiluð, takmörk á fjölda hluta í eigu einstakra stofnfjáreigenda afnumin og rafræn útgáfa stofnfjárbréfa heimiluð. Þegar kom til stjórnarkjörs var Páll Pálsson einn þeirra þriggja sem drógu til baka framboð sitt til stjórnar sparisjóðsins í ljósi athugunar Fjármálaeftirlitsins á hæfi þeirra til setu í stjórn fjármálafyrirtækis. Í skýrslu Páls fyrir rannsóknarnefndinni kom fram að hann taldi Fjármálaeftirlitið hafa þvingað sig til að hætta í stjórn sparisjóðsins. Hann hefði fengið þau skilaboð að færi hann ekki úr stjórninni myndi stofnunin halda afskiptum sínum áfram.449

Fjármálaeftirlitið hélt rannsókn sinni áfram næstu mánuði og 16. maí 2006 tilkynnti það stjórn sparisjóðsins um þá ákvörðun sína að bæta þeim Páli Pálssyni og Ingólfi Flyg­enring í hóp þeirra sex stofnfjárhafa sem sættu takmörkun á atkvæðisrétti umfram 5% af heildaratkvæðamagni í sparisjóðnum, þar sem þeir væru aðilar að óbeinum virkum eignarhlut í Sparisjóði Hafnarfjarðar.450 Ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins um skerðingu atkvæðisréttar tiltekinna stofnfjárhafa voru kærðar til kærunefndar samkvæmt lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Niðurstaða kærunefndarinnar var í öllum málunum sú að Fjármálaeftirlitið hefði ekki sýnt fram á aðild stofnfjárhafanna að virkum eignarhlut í sparisjóðnum. Þá hefði málsmeðferð Fjármálaeftirlitsins verið gölluð, auk þess sem Fjármálaeftirlitinu væri óheimil meðferð málsins á meðan það væri til meðferðar hjá öðru stjórnvaldi, þ.e. lögreglu. Kærunefndin ómerkti því úrskurði Fjármálaeftirlitsins.451

Fjármálaeftirlitið höfðaði þá dómsmál gegn Birni Þorra Viktorssyni annars vegar og Magnúsi Ármann hins vegar þar sem þess var krafist að úrskurðir kærunefndarinnar í málum þeirra yrðu felldir úr gildi. Þegar hér var komið sögu hafði stofnfjáreigendafundur Sparisjóðs Hafnarfjarðar ákveðið að slíta sparisjóðnum og sameina hann Sparisjóði vélstjóra og í ljósi þess taldi Hæstiréttur að Fjármálaeftirlitið hefði ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn dómsins um kröfur í málunum og vísaði báðum málum frá dómi.452

18.5.2.2 Sameining Sparisjóðs Hafnarfjarðar og Sparisjóðs vélstjóra

Eins og rakið hefur verið hófust viðræður milli stjórna Sparisjóðs Hafnarfjarðar og Sparisjóðs vélstjóra um hugsanlega sameiningu sparisjóðanna snemma árs 2006. Á stjórnarfundi Sparisjóðs vélstjóra 21. apríl 2006 var lagt fyrir verðmat á Sparisjóði vélstjóra og Sparisjóði Hafnarfjarðar sem Árni Tómasson, löggiltur endurskoðandi, vann. Samkvæmt matinu skyldi hlutur Sparisjóðs vélstjóra vera um það bil tveir þriðju hlutar á móti einum þriðja hluta Sparisjóðs Hafnarfjarðar. Á fundinum var stjórnarformanni og sparisjóðsstjóra Sparisjóðs vélstjóra veitt heimild til frekari viðræðna við Sparisjóð Hafnarfjarðar.

Á stjórnarfundi í Sparisjóði Hafnarfjarðar 27. apríl 2006 var samþykkt að fela stjórnarformanni að hefja formlegar viðræður við Sparisjóð vélstjóra um samruna sparisjóðanna tveggja. Samrunaáætlunin var svo undirrituð á stjórnarfundi Sparisjóðs vélstjóra 2. júní 2006 og 13. júní sama ár undirritaði stjórn Sparisjóðs Hafnarfjarðar samrunaáætlunina. Skiptihlutföll við sameininguna voru endanlega ákveðin þannig að Sparisjóður Hafnarfjarðar fengi 39% stofnfjár í hinum sameinaða sjóði. Stjórn Sparisjóðs Hafnarfjarðar boðaði til stofnfjárhafafundar 1. desember 2006. Fyrsti dagskrárliður fundarins var tillaga að breytingum á samþykktum sparisjóðsins vegna fyrirhugaðs samruna við Sparisjóð vélstjóra. Í fundarboðinu kom fram að í samrunanum fælist að stofnfé Sparisjóðs vélstjóra hækkaði um 84,4 milljónir króna, úr 132 milljónum króna í 216,4 milljónir krónur. Nýja stofnféð myndi síðan ganga til stofnfjáreigenda Sparisjóðs Hafnarfjarðar við sameininguna og kæmi í stað stofnfjár þeirra, sem hefði verið aukið til að jafna skiptihlutföll.

Tillaga um samrunann var samþykkt á fundinum og var honum síðan slitið. Á sama tíma var stofnfjáreigendafundur hjá Sparisjóði vélstjóra þar sem tillaga um samrunann var einnig samþykkt. Hlé var gert á fundum sparisjóðanna og var þeim síðan fram haldið sameiginlega, sem fundi í sameinuðum sparisjóði með þátttöku stofnfjáraðila sparisjóðanna beggja, eins og ráðgert hafði verið við undirbúning fundanna. Þar var kjörin stjórn hins sameinaða sparisjóðs og var hún skipuð Jón Þorsteini Jónssyni formanni, Agli Ágústssyni varaformanni, Styrmi Þór Bragasyni, Matthíasi Imsland og Magnúsi Ármann. Fjármálaeftirlitið samþykkti samrunann 8. desember 2006.

18.5.3 Stofnfé og stofnfjáreigendur Byrs sparisjóðs

Sameinaði sparisjóðurinn sem varð til við sameiningu Sparisjóðs vélstjóra og Sparisjóðs Hafnarfjarðar hét í fyrstu Sparisjóður vélstjóra. Boðað var til fyrsta aðalfundar hins sameinaða sparisjóðs 13. mars 2007. Tilkynnt hafði verið 3. mars að sparisjóðnum hefði verið valið nafnið „Byr sparisjóður“ og á aðalfundinum var samþykktum sjóðsins breytt á þann veg. Á fundinum var einnig samþykkt heimild til stjórnar Byrs sparisjóðs um að auka stofnfé sjóðsins í allt að 30 milljarða króna. Í skýrslu stjórnar kom fram að stefnt væri að því að nýta fimmtung heimildarinnar á seinni hluta árs 2007 í samræmi við arðsemismarkmið. Stofnfjáraukning væri nauðsynleg til að sparisjóðurinn væri „vel í stakk búinn með skömmum fyrirvara til að takast á við umfangsmikil fjármálatengd verkefni, jafnt innan lands sem erlendis“.453 Loks var sú stjórn sem kosin hafði verið 1. desember endurkjörin.

Stofnfjáreigendur Sparisjóðs Hafnarfjarðar voru mun færri en í Sparisjóði vélstjóra við sameininguna 1. desember 2006. Í Sparisjóði Hafnarfjarðar voru stofnfjáreigendurnir einungis 30, sem var lágmarksfjöldi stofnfjáreigenda, en stofnfjáreigendur í Sparisjóði vélstjóra voru 541. Við sameininguna áttu sex aðilar stofnfjárhluti í báðum sjóðum. MP Fjárfestingarbanki og tengdir aðilar voru þar stærstir með 314 hluti í Sparisjóði vélstjóra og 5 hluti í Sparisjóði Hafnarfjarðar. Var bankinn því einn stærsti eigandinn í báðum sparisjóðunum fyrir sameiningu. Í töflu 49 má sjá 10 stærstu stofnfjáreigendur í hvorum sparisjóði fyrir sig fyrir sameiningu, og svo 20 stærstu eigendur af stofnfjárlista í sameinuðum sparisjóð 28. desember 2006.454

Samkvæmt samþykktum Byrs sparisjóðs, sem samþykktar voru á aðalfundinum 13. mars 2007, skyldi lágmarksstofnfé sparisjóðsins vera 216,3 milljónir króna og skiptast í jafnmarga einnar krónu hluti. Stofnfé sparisjóðsins var rúm 231 milljón króna, eða 1,7% af heildar eigin fé, sem var 13.917 milljónir króna. Stofnfjáreigendur áttu einn eða fleiri jafngilda stofnfjárhluti og var atkvæðisréttur í hlutfalli við stofnfjáreign. Sala eða annað framsal stofnfjárhluta var óheimilt nema með samþykki sparisjóðsstjórnar og átti það sama við um veðsetningu stofnfjárhluta. Eins og áður sagði var stjórn sparisjóðsins heimilt að auka stofnfé hans í allt að 30 milljarða króna. Stjórninni var falið að útfæra slíka hækkun nánar og gilti heimildin til ársins 2012. Stofnfjáreigendur skyldu hafa forgangsrétt að nýjum hlutum í hlutfalli við stofnfjáreign sína á nánar tilgreindu áskriftartímabili. Fundur stofnfjáreigenda gat ákveðið að auka stofnféð umfram þá heimild sem stjórn hafði, samkvæmt fyrrnefndum samþykktum, með áskrift nýrra stofnfjárhluta. Í fundarboði skyldi þá greina frá tillögu stjórnar um stofnfjáraukningu og tillögu um hvernig að henni skyldi staðið. Með tillögunni skyldi leggja fram skýrslu stjórnar um fjárhagslega stöðu sparisjóðsins og breytingar á henni frá síðasta ársreikningi, ásamt umsögn endurskoðanda. Enn fremur var heimilt að auka stofnfé umfram heimild stjórnar með endurmati á stofnfé og með ráðstöfun hluta hagnaðar. Samkvæmt samþykktum sparisjóðsins frá 15. janúar 2010 voru framsal og önnur ráðstöfun stofnfjárhluta í sparisjóðnum heimil án takmarkana og hið sama átti við um veðsetningu stofnfjárhluta.

Snemma sumars 2007 hófst vinna hjá fyrirtækjaráðgjöf Glitnis banka hf. við að skoða Byr sparisjóð. Fram kom í skýrslu starfsmanns fyrirtækjaráðgjafar fyrir héraðsdómi að frumkvæðið að könnun Glitnis hefði komið frá Magnúsi Ármann, stjórnarmanni í Byr sparisjóði, og Þorsteini Jónssyni, Jóni Sigurðssyni og Lárusi Welding.455 Lárus var bankastjóri Glitnis banka hf. en Jón og Þorsteinn sátu í stjórn bankans. Fyrirtækjaráðgjöf Glitnis útbjó glærukynningu með yfirskriftinni „Hlutafélagavæðing sparisjóðanna“ sem kynnt var fyrir Magnúsi Ármann og Jóni Þorsteini Jónssyni, stjórnarformanni Byrs sparisjóðs. Í glærukynningunni var farið yfir lagaumhverfi sparisjóða og möguleika til hækkunar stofnfjár og arðgreiðslna. Þá var teiknað upp ferli fyrir hlutafélagsvæðingu Byrs sparisjóðs, en þar var fyrsta skrefið umtalsverð stofnfjáraukning. Mikilvægt þótti að tímasetja stofnfjáraukninguna með tilliti til arðgreiðslna sparisjóðsins, en möguleiki á að greiða út arð umfram hagnað ársins var hluti af næsta skrefi hlutafélagsvæðingar. Því næst átti að fara fram mat á virði sparisjóðsins og því hvað sanngjarnt væri að kæmi í hlut stofnfjáreigenda. Samkvæmt kynningunni átti ferlinu að geta lokið með breytingu sparisjóðsins í hlutafélag í júní 2008.456 Talið var að líta mætti á hlutafélagsvæðingu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis sem fyrirmynd um „eðlilegt gagngjald“ fyrir hverja krónu stofnfjár. Á glærunum sagði: „Mat Glitnis er að hækka skuli stofnfé um 20–30 milljarða á grundvelli núverandi samþykkta BYRS sem gefa stjórn sjóðsins heimild til stofnfjárhækkana allt að 30 milljörðum“. Þá væri mikilvægt að tryggja öllum stofnfjáreigendum fjármögnun til kaupa á nýju stofnfé.457

Á fundi stjórnar Byrs sparisjóðs 1. júní 2007 var farið yfir viðræður sem höfðu átt sér stað milli stjórnarformanna Byrs og Sparisjóðs Kópavogs. Kynnt var að þeir hefðu fengið umboð til sameiningarviðræðna og samþykkt að KPMG tæki að sér að verðmeta sjóðina. Á næsta fundi, 2. júní 2007, var síðan kynnt að skiptihlutföll hefðu verið ákveðin þannig að Byr sparisjóður fengi 87% stofnfjár í sameinuðum sjóði. Samrunaáætlun sparisjóðanna var undirrituð 27. júní 2007 af stjórnum þeirra beggja. Samrunaáætlunin byggði á því að stofnfjáreigendur Sparisjóðs Kópavogs fengju eingöngu stofnfé í Byr sparisjóði í skiptum fyrir stofnfé sitt, og yrði sá hlutur 447 milljónir króna að nafnverði. Á fundi stjórnar Byrs 23. ágúst var síðan kynnt að auka þyrfti stofnfé í sparisjóðnum um tæpa 2,8 milljarða króna í tengslum við samrunann. Útboðið stóð 3.–17. september 2007 og var boðið út stofnfé að nafnverði 1.566 milljónir króna og söluverðið að teknu tilliti til endurmats var 1,897517 krónur á hlut. Heildarverðmæti aukningarinnar nam 2.971 milljón króna og að henni lokinni var stofnféð í Byr sparisjóði komið upp í 3.220 milljónir króna að teknu tilliti til ónýttrar heimildar til endurmats stofnfjár.458 Stofnfjáreigendur áttu forgangsrétt að nýjum hlutum í hlutfalli við stofnfjáreign sína en ónýttur áskriftarréttur féll í skaut stofnfjáreigendum sem vildu nýta hann. Að því loknu hafði stjórn sparisjóðsins heimild til að selja óseld bréf öðrum kaupendum. Gert var ráð fyrir að hlutur stofnfjárhafa sem nýtti ekki forkaupsrétt sinn myndi skerðast um 9,3% og yrði því aðeins 7,7% af fyrri eignarhlut. Mikil þátttaka var í útboðinu og nýttu 99,5% stofnfjáreigenda forkaupsrétt sinn. Allt stofnféð seldist.

Stofnfjáreigendur Sparisjóðs Kópavogs samþykktu samruna sparisjóðanna á stofnfjáreigendafundi 28. september 2007 og stofnfjáreigendur Byrs sparisjóðs samþykktu samrunann á stofnfjáreigendafundi 3. október 2007. Samruninn var samþykktur með fyrirvara um samþykki Fjármálaeftirlitsins. Fjármálaeftirlitið sendi bréf til stjórna Sparisjóðs Kópavogs og Byrs í október 2007 til að kanna hvort virkur eignarhlutur hefði myndast við sameiningu sparisjóðanna og stjórnir beggja svöruðu, eftir að hafa kannað lista yfir stofnfjáreigendur í báðum sjóðum, að þeim væri ekki kunnugt um nein tengsl stofnfjáreigenda sem myndu leiða til myndunar virks eignarhluta við sameininguna.459 Fjármálaeftirlitið samþykkti síðan samruna sparisjóðanna athugasemdalaust 14. nóvember 2007. Við samrunann fjölgaði stofnfjáreigendum Byrs sparisjóðs um 501, en alls voru stofnfjáreigendur 1.322 í lok ársins.

Sama dag og stofnfjáreigendafundur Byrs sparisjóðs samþykkti samrunann við Sparisjóð Kópavogs samþykktu stjórnir Byrs sparisjóðs og Sparisjóðs Norðlendinga samrunaáætlun sjóðanna. Viðræður stjórnarformanna og sparisjóðsstjóra höfðu hafist í júlí 2007 og niðurstaðan af því var að Sparisjóður Norðlendinga yki stofnfé sitt um 234,9 milljónir króna að nafnverði og yrði stofnfé hans því 387,6 milljónir króna að nafnverði eftir stofnfjáraukningu. Við sameininguna fengu stofnfjáreigendur Sparisjóðs Norðlendinga eingöngu stofnfé í Byr sparisjóði í skiptum fyrir stofnfé sitt. Skiptihlutföll á milli sjóðanna yrðu þau að Byr sparisjóður fengi 90,5%.460 Samruninn var samþykktur á fundi stofnfjáreigenda Sparisjóðs Norðlendinga 15. október 2007. Í sjónvarpsviðtali degi síðar sagði Ragnar Z. Guðjónsson, þáverandi sparisjóðsstjóri Byrs sparisjóðs, að ef allt gengi að óskum gæti Byr breytt rekstrarformi sínu í hlutafélag á árinu 2008. Helsti kostur þess væri auðveldari aðgangur að fjármagni, auk þess sem hlutafélag hentaði fjármálafyrirtæki sem vildi stækka hratt mun betur en sparisjóðsformið. Um það hvort sparisjóðurinn yrði á endanum tekinn yfir af einhverjum af stóru bönkunum sagði Ragnar ljóst að hlutverk stjórnenda sparisjóðsins væri að sjá til þess að það yrði ekki gert.461 Við skýrslutökur fyrir rannsóknarnefnd Alþingis var Ragnar spurður út í þetta og sagði:

Gott að þú kemur inn á þetta vegna þess að allt sumarið 2007 er ég að neita því í fjölmiðlum, það var svoleiðis sótt að mér af fjölmiðlum, að við værum að sameinast Glitni og við værum að hlutafjárvæðast. Sannleikanum samkvæmt neitaði ég þessu öllu saman því það var engin umræða um slíkt.
Spyrjandi: Það hefur ekkert verið talað um þetta á stjórnarfundum?
Ragnar: Ekki neitt og þetta var rosalega óþægilegt. Við fréttum það innan úr Glitni að þar væri bara allt á fullu og það væri meðal annars verið að kortleggja útibúanetið og […] hverjir ættu að vera starfsmenn hér og þar, að það væri allt tilbúið hjá Glitni fyrir yfirtöku. Þetta var mjög furðulegur tími. […] Ég er að koma fram í sjónvarpi til að neita þessu, en því er haldið fram að heimildir fyrir þessu séu mjög áreiðanlegar. Mér fannst ég því illa upplýstur og það var þannig, því ég hafði ekki hugmynd um hvað var í gangi.462

Á fundi stjórnar Byrs sparisjóðs 23. nóvember 2007 var samþykkt að auka stofnfé sjóðsins enn frekar með aukningu upp á 12,2 milljarða króna að nafnverði. Stofnfjárútboð Sparisjóðs Norðlendinga hófst fimm dögum síðar og stóð 28. nóvember til 12. desember 2007. Stjórn sparisjóðsins ákvað að nýta útboðið til að auka stofnfé enn meira en samrunaáætlunin gerði ráð fyrir og styrkja þar með nýjan sameinaðan sparisjóð. Viðbótarstofnféð sem boðið var út nam rúmum 2,4 milljörðum króna að nafnverði og nam útboðið samtals hátt í 2,7 milljarða króna að nafnverði.463 Stjórn sparisjóðsins gerði samning við Glitni hf. um að fjármagna stofnfjáraukninguna sem var að söluvirði rúmir 2,7 milljarðar króna.464

Útboð á stofnfé sem ákveðið var á stjórnarfundi 23. nóvember 2007 stóð dagana 3.14. desember 2007. Samkvæmt útboðslýsingu var tilgangur stofnfjáraukningarinnar að styrkja og efla sparisjóðinn og „gera hann betur í stakk búinn til að takast á við verkefni í nánustu framtíð með skjótum fyrirvara“. Forgangsrétti var skipað með sama hætti og í fyrra útboði og seldust öll stofnfjárbréfin í útboðinu, þar af 98,3% þeirra í grunnrétti.465

Stofnfjáraukningin var einnig liður í fyrirhugaðri breytingu á rekstrarformi Byrs sparisjóðs í hlutafélag. Þannig var á stjórnarfundi sparisjóðsins 18. október 2007 rætt um „drög að samningi við Glitni um ráðgjöf, sölutryggingu, fjármögnun og útboð í tengslum við breytingu á rekstrarformi BYRS sparisjóðs“.466 Í samningnum er tiltekið að Byr hafi áætlað að auka stofnfé sparisjóðsins fyrir árslok 2007 þannig að það yrði allt að 30 milljarðar króna. Glitnir banki tók að sér að sölutryggja fyrirhugað stofnfjárútboð og tryggja stofnfjáreigendum Byrs fjármögnun til þátttöku í útboðinu. Þá kvað samningurinn einnig á um ráðgjöf Glitnis banka við framkvæmd hugsanlegra breytinga á rekstrarformi Byrs sparisjóðs og átti þóknun Glitnis að vera að lágmarki 240 milljónir króna.467

Í skýrslu sinni fyrir rannsóknarnefndinni sagði Jón Þorsteinn Jónsson, fyrrverandi stjórnarformaður Byrs sparisjóðs, að stofnfjáraukningin hefði verið partur af því að hlutafélagsvæða sjóðinn. Stjórnarformaðurinn sagði að stuðst hefði verið við aðferðafræði sem Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis hefði beitt til að ákvarða hlutfall sjálfseignarstofnunar og stofnfjáreigenda í hlutafélaginu. Þá hefðu væntingar um arðgreiðslu haft áhrif á stofnfjáraukninguna: „Arðgreiðslan ákvaðst náttúrulega út frá arðsemi þess rekstrarárs sem þetta er gert en rekstrarárið hafði verið mjög gott.“ Þá sagði hann að Glitnir hefði í stofnfjáraukningunni lagt fram fjármagn „með veði í bréfum og væntum arði“. Arðurinn sem var greiddur til stofnfjáreigenda á aðalfundi 2008 var síðan 12,2 milljarðar króna, eða 154% af hagnaði sjóðsins. Frekari umfjöllun um arðgreiðslur Byrs sparisjóðs er hér aftar í kaflanum.468

Á stofnfjáreigendafundi Byrs sparisjóðs 18. desember 2007 var samruninn við Sparisjóð Norðlendinga samþykktur en reikningslegur samruni var miðaður við 1. apríl 2008. Við samrunann bættust 138 stofnfjáreigendur í hóp stofnfjáreigenda Byrs sparisjóðs en alls voru stofnfjáreigendur 1.509 í árslok 2008. Einnig var ný stjórn kosin þar sem sú fyrri hafði sagt af sér. Sjálfkjörnir voru í stjórn, þar sem ekkert mótframboð barst: Egill Ágústsson, Guðmundur Ingi Jónsson, Jón Þorsteinn Jónsson, Magnús Ármann og Páll Þór Magnússon. Heildarverðmæti stofnfjár Byrs sparisjóðs í árslok 2007 var 27.287 milljónir króna, en það var liðlega 51% af heildar eigin fé sjóðsins sem var 53.196 milljónir króna.

Teknir voru saman listar yfir stærstu stofnfjáreigendur Byrs sparisjóðs á þremur tímapunktum: miðað við stofnfjáreigendalista 1. nóvember 2007 eftir sameiningu við Sparisjóð Kópavogs, 7. apríl 2008 eftir sameiningu við Sparisjóð Norðlendinga og loks 30. júní 2009. Búið er að tengja saman tengda aðila. Félagið Imon ehf. í eigu Magnúsar Ármann, stjórnarmanns í sparisjóðnum, var stærsti eigandi Byrs árið 2007 og 2008 en fór af listanum árið 2009 í kjölfar veðkalls Landsbanka Íslands hf. Þá er ofarlega á lista Saxhóll ehf. sem var í eigu stjórnarformannsins Jóns Þorsteins Jónssonar og systkina hans.

Í byrjun árs 2008 var farið að huga að hlutafélagsvæðingu Byrs sparisjóðs og á stjórnarfundi 26. febrúar 2008 var lögð fram tillaga frá endurskoðanda sparisjóðsins um tímaramma fyrir þá vinnu sem þyrfti að inna af hendi til að breyta sparisjóðnum í hlutafélag.469 Á stjórnarfundi sparisjóðsins 4. apríl 2008 var samþykkt að stofna hlutafélagsvæðingarnefnd undir stjórn Jóns Kr. Sólnes lögmanns en auk hans sátu í nefndinni Gunnar Árnason, starfsmaður sparisjóðsins, og Sigurður Jónsson endurskoðandi. Verkefni nefndarinnar var að kanna og meta galla og kosti hugsanlegrar hlutafélagsvæðingar og að leiða það starf ef stjórn ákvæði að hefja hlutafélagsvæðingu.470 Á fundinum kom einnig fram að gerður hefði verið samningur við Capacent um verðmat á sparisjóðnum og „til að meta sanngjarnt gagngjald til stofnfjáreigenda“.471 Hugmyndir um hlutafélagsvæðingu voru síðan kynntar stofnfjáreigendum á aðalfundi 9. apríl 2008.472

Drög að matsgerð Capacent voru lögð fram á stjórnarfundi sparisjóðsins 27. maí 2008 og féllst stjórnin á aðferðafræðina sem beitt var og fól Capacent að fullklára matsgerðina. Á stjórnarfundi sparisjóðsins 30. júní 2008 var síðan lögð fram greinargerð hlutafélagsvæðingarnefndarinnar, endanleg matsgerð Capacent og samrunaáætlun Byrs sparisjóðs og Byrs sparisjóðs hf. Samkvæmt matsgerð Capacent var markaðsvirði sparisjóðsins 58,2 milljarðar króna. Verðmæti stofnfjár sparisjóðsins var metið 54,4 milljarðar króna og verðmæti varasjóðs hans var metið 3,8 milljarðar. Því myndi skiptihlutfall við sameiningu vera þannig að 93,5% hlutafjár féllu í hlut stofnfjáreigenda en 6,5% rynnu í sérstaka sjálfseignarstofnun sem stofnuð yrði við hlutafélagsvæðingu sjóðsins.473

Tillaga um að breyta Byr sparisjóði í hlutafélag var síðan samþykkt á fundi stofnfjárhafa 27. ágúst 2008. Eftir það var lítið bókað um framgang málsins í stjórnarfundargerðum, en á fundi stjórnar 4. nóvember 2008 var bókað að rætt hefði verið um stöðu hlutafélagsvæðingar og fram hefði komið að ekki hefðu allir erlendir lánardrottnar samþykkt breytinguna. Á fundi sparisjóðsins 20. nóvember var bókað að stjórn teldi „nauðsynlegt að fara að nýju í stefnumótunarvinnu“. Á næsta fundi á eftir var upplýst undir liðnum „Stefnumótunarvinna“ að stefnumótunarumræðu hjá Byr hefði verið frestað vegna hugsanlegra sameiningarviðræðna við Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis hf. og Sparisjóðinn í Keflavík. Undirrituð hefði verið viljayfirlýsing þar sem stjórnir sjóðanna samþykktu að hefja undirbúning að vinnu sem hefði það að markmiði að leggja tillögu fyrir fundi stofnfjáreigenda og hluthafa um að sameina sjóðina. Þó var bókað að stjórn væri „sammála um að sameining þessi væri ekki fær nema á forsendum Byrs og að hagsmunir stofnfjáreigenda, starfsmanna og viðskiptavina Byrs yrðu hafðir að leiðarljósi“.

Í tengslum við undirbúning hlutafélagsvæðingar var Byr sparisjóður hf. stofnað 30. maí 2008 og var tilgangur þess að yfirtaka rekstur Byrs sparisjóðs í samræmi við ákvæði þágildandi 73. gr. laga nr. 161/2002. Einnig var stofnuð sjálfseignarstofnunin Byr sparisjóður ses. 31. nóvember 2008. Ekkert varð úr áformum um hlutafélagsvæðingu Byrs sparisjóðs og aldrei varð neinn rekstur í Byr sparisjóði hf. samkvæmt ársreikningum félagsins. Með lögum nr. 76/2009 um breytingu á lögum nr. 161/2002, sem tóku gildi 14. júlí 2009, voru ákvæði um heimild til að breyta sparisjóði í hlutafélag felld úr gildi.474 Byr sparisjóður sótti um 20% eiginfjárframlag frá ríkinu 13. mars 2009 og fór þá í ferli fjárhagslegrar endurskipulagningar.

18.6 Arður af stofnfjáreign í Byr sparisjóði, forverum hans og sparisjóðum sem sameinuðust honum

Byr sparisjóður greiddi stofnfjárhöfum tvisvar sinnum arð af stofnfénu, þ.e. árin 2007 og 2008 vegna áranna 2006 og 2007, samtals rúma 12,3 milljarða króna. Fyrri arðgreiðslan var í samræmi við reglur Tryggingasjóðs sparisjóða, en hins vegar var hún lítillega breytt frá tillögu stjórnar og samþykkt aðalfundar sem tiltók að greiddur skyldi 16% arður, að fjárhæð 37 milljónir króna.475 Í reynd voru greiddar 38,9 milljónir króna, eða 16,8% af stofnfé, í lok árs 2006. Síðari arðgreiðslan var 185 milljónum króna hærri en samþykkt aðalfundar hljóðaði upp á, það er að segja 44,7% í stað 44% af stofnfé.476 Raunávöxtun eigin fjár sparisjóðsins árið 2007 var 41,7%, þannig að tillaga stjórnar sem aðalfundur samþykkti var nokkuð hærri. Þessi arðgreiðsla var því umfram það heimilt var.477 Samkvæmt ársreikningi Byrs sparisjóðs 2008 var greiddur arður upp á 12.191 milljón króna vegna ársins 2007.478 Það var 4.260 milljónum króna umfram hagnað ársins 2007. Þá er búið að taka tillit til ónýttrar heimildar til arðgreiðslu vegna upptöku IFRS hjá Sparisjóði vélstjóra árið 2006 upp á tæpar 2 milljónir króna sem hefði mátt greiða út árið 2007.479 Byr sparisjóður greiddi ekki arð eftir þetta. Reglur Tryggingasjóðs giltu til ársins 2009 þegar lögum var breytt og eftir það mátti greiða út arð sem næmi að hámarki 50% af hagnaði.480 Arðgreiðslur og forsendur þeirra eru tíundaðar í töflu 52.

Í lögum um fjármálafyrirtæki var heimild til að endurmeta stofnfé sparisjóðs og greiða inn á stofnfjárreikninga stofnfjáreigenda og skyldi höfð hliðsjón af verðlagsbreytingum við endurmatið.481 Árin 2006 og 2007 var stofnfé Byrs sparisjóðs hækkað með endurmati vegna verðlagsbreytinga um tæpar 298 milljónir króna. Endurmat vegna ársins 2007 var rúmum 188 milljónum króna hærra en lögin heimiluðu. Þar sagði að nýtt stofnfé nyti hlutfallslegs endurmats miðað við inngreiðslu þess innan ársins. Tvær miklar stofnfjáraukningar í sparisjóðnum á árinu 2007, upp á tæpa 2,6 milljarða króna seint í september og rúma 23,7 milljarða króna seint í desember, áttu því ekki að vega mikið við útreikning á endurmatinu. Heimilt var að endurmeta stofnféð um 95,6 milljónir króna en í ársreikningi 2007 voru 284 milljónir króna færðar úr varasjóði til hækkunar stofnfjár undir þessum lið. Stofnfé var svo ekki verðbætt eftir 2007.

Í sömu lögum var einnig heimild til þess að ráðstafa 10% af hagnaði næstliðins rekstrarárs til hækkunar stofnfjár með svokölluðu sérstöku endurmati.482 Hækkunin mátti þó ekki vera meiri en 5% á ári og ekki mátti flytja heimild til þessa endurmats milli ára. Á aðalfundi sparisjóðsins 2007 var samþykkt að hækka stofnfé í lok næstliðins árs um 5%. Það var gert og stofnfé þannig hækkað um 11,6 milljónir króna. Á aðalfundi sparisjóðsins 2008 var samþykkt að hækka stofnféð um 3% með sérstöku endurmati vegna ársins 2007, en þá var þegar búið að ráðstafa öllum hagnaðinum, og meira til, í arð.483 Sú samþykkt var því ekki í samræmi við heimildir laga til ráðstöfunar hagnaðar. Af hækkuninni varð þó ekki, enda varð tap sparisjóðsins 2008 meira en sem nam varasjóðnum og því ekki af neinu að taka. Alls var stofnfé hækkað með sérstöku endurmati vegna áranna 2005 og 2006 um 18,2 milljónir króna.

Í töflum 52−56 eru tilfærðar þær upplýsingar sem útreikningur á arði og endurmati byggist á. Hafa verður í huga að arðurinn og sérstaka endurmatið eru þar höfð undir því ári sem þau eru reiknuð út. Arðurinn var hins vegar greiddur út ári síðar og sérstaka endurmatið bættist þá við stofnféð. Ástæðan er sú að tillaga stjórnar um hvort tveggja þurfti að hljóta samþykki aðalfundar til þess að koma til framkvæmda og því sjást viðkomandi fjárhæðir ekki fyrr en í ársreikningi næsta árs.

Sparisjóður vélstjóra

Sparisjóður vélstjóra greiddi stofnfjárhöfum jafnan arð af stofnfé þeirra. Arðgreiðslur vegna áranna 2001–2005 námu samtals 57,6 milljónum króna. Þær fóru 2,4 milljónir króna fram úr leyfilegu arðgreiðsluhlutfalli vegna ársins 2001, en þá var greiddur 24,8% arður af stofnfé en arðsemi eigin fjár á árinu var 17,2%. Arðgreiðsluhlutfallið vegna 2004 og 2005 var lítillega yfir raunarðsemi eigin fjár þessi sömu ár. Stofnfé í Sparisjóði vélstjóra var hækkað með endurmati vegna verðlagsbreytinga og með sérstöku endurmati um samtals 30,6 milljónir króna árin 2001 til 2005. Það var allt gert í samræmi við lög og reglur.

Sparisjóður Hafnarfjarðar

Sparisjóður Hafnarfjarðar greiddi stofnfjárhöfum jafnan arð af stofnfé þeirra. Arðgreiðslur vegna áranna 2001–2005 námu samtals 6,3 milljónum króna. Arðgreiðsluhlutfallið vegna 2004 var aðeins yfir hámarkinu sem Tryggingasjóður gaf út fyrir það ár. Stofnfé í Sparisjóði Hafnarfjarðar var hækkað með endurmati vegna verðlagsbreytinga og með sérstöku endurmati um samtals 3,3 milljónir króna árin 2001 til 2005. Það var allt gert í samræmi við lög og reglur.

Sparisjóður Kópavogs

Á aðalfundi Sparisjóðs Kópavogs í apríl 1996 voru gerðar breytingar á samþykktum sjóðsins í þá veru að skipta stofnfjárhlutum í tvo flokka, A- og B-bréf. Nafnverð hvers B-hlutar skyldi vera tólffalt nafnverð hvers A-hlutar en án atkvæðisréttar. Stofnfé var samt ekki aukið fyrr en tveimur árum síðar og um leið samþykkt að arðgreiðsla út á B-hluta skyldi vera 4% hærri en A-bréfanna. Það var gert í því skyni að auka gildi þeirra sem fjárfestingarkosts.485 Enn meiri stofnfjáraukning átti sér stað á árinu 1999. Þá var orðið ljóst að B-bréfin löðuðu að stóra fjárfesta, t.d. keypti Kaupþing hf. mikið af slíkum bréfum. Stjórn sparisjóðsins áttaði sig fljótt á að þessi forgangur B-bréfanna olli vandræðum. Sparisjóðurinn hafði greitt stofnfjárhöfum 7–8% arð um margra ára skeið en nú varð mikill þrýstingur af þeirra hálfu til að njóta hærri arðgreiðslna. Mismununin olli einnig úlfúð innan raða stofnfjárhafa. Í kjölfar þessa fékk stjórnin það samþykkt að 4%-álagið yrði ekki greitt ef arður af A-bréfum næði 11%.486 Á grundvelli mjög góðrar afkomu sparisjóðsins árið 2000, sem stafaði eingöngu af söluhagnaði af eignarhlut í Kaupþingi hf., og nær 38% arðsemi eigin fjár gerði stjórnin tillögu um að stofnfjárhöfum yrði greiddur 30% arður af stofnfjáreign þeirra í árslok 2000 en helmingi hans yrði varið til hækkunar á stofnfé. Aðalfundur sparisjóðsins 2001 gerði þá breytingu að arðurinn skyldi allur greiddur út. Arðgreiðslan nam samtals 145 milljónum króna, eða 36,5% af stofnfé. Eigendur B-bréfanna voru mjög ósáttir við að fá ekki álagið á arðinn og Kaupþing hf. hótaði málssókn. Þetta varð til þess að sparisjóðurinn tók að greiða upp B-bréfin en auka jafnframt stofnfé í A-flokki að sama skapi, þannig að heildarstofnfé yrði nokkurn veginn það sama.487 Stofnfé í sparisjóðnum nam 420 milljónum króna í árslok 1999 og var B-flokkurinn tæpur helmingur þess. Á næstu tveimur árum greiddi sparisjóðurinn upp stofnfjárbréf í B-flokki fyrir 155 milljónir króna þannig að í árslok nam B-flokkurinn 77 milljónum króna.

Sparisjóður Kópavogs greiddi stofnfjárhöfum arð af stofnfé þeirra frá 2001 til sameiningarinnar við Byr sparisjóð 2007, þó með þeirri undantekningu að ekki var greiddur arður vegna 2003, en það ár varð tap af rekstri sjóðsins. Arðgreiðslur vegna áranna 2001–2006 námu samtals 411,1 milljón króna. Arðgreiðsluhlutfall vegna 2001 og 2005 var yfir hámarkinu sem Tryggingasjóður gaf út fyrir þau ár og arðgreiðslan vegna ársins 2002 fór fram úr hagnaði ársins, þannig að umframarðgreiðsla nam samtals 6,5 milljónum króna. Stofnfé í Sparisjóði Kópavogs var hækkað með endurmati vegna verðlagsbreytinga um samtals 93,6 milljónir króna árin 2001 til 2006. Það var allt gert í samræmi við lög og reglur. Stofnfé í sparisjóðnum var aldrei hækkað með sérstöku endurmati, þótt heimilt væri.

Sparisjóður Norðlendinga

Sparisjóður Norðlendinga greiddi stofnfjárhöfum jafnan arð af stofnfé þeirra. Arðgreiðslur vegna áranna 2001–2007 námu samtals rúmum 1,3 milljörðum króna og var arðurinn vegna 2007 langstærstur hluti þeirrar fjárhæðar. Eftir árið 2002 fór arðgreiðsluhlutfallið alltaf fram úr hámarkinu sem Tryggingasjóður gaf út fyrir þau ár, þannig að umframarðgreiðsla nam samtals tæpum 745 milljónum króna, þar af 720 milljónum króna vegna 2007. Í það skipti var raunávöxtun eigin fjár reiknuð hærri en rétt var, þ.e. 44% í stað 40,3%.488 Það eitt út af fyrir sig gaf 107,6 milljónum króna hærri arð. Hins vegar fór arðgreiðslan langt fram úr hagnaði ársins 2007, svo munaði 720 milljónum króna.

Stofnfé í Sparisjóði Norðlendinga var hækkað með endurmati vegna verðlagsbreytinga og með sérstöku endurmati um samtals 38,2 milljónir króna árin 2001–2007. Það var allt gert í samræmi við lög og reglur.

18.7 Fjárhagsleg endurskipulagning

Í desember 2007 jók Byr sparisjóður stofnfé sitt um 26,3 milljarða króna en fyrir var í sparisjóðnum stofnfé sem nam 575 milljónum króna, þegar tekið hafði verið tillit til samruna við Sparisjóð Kópavogs. Eigið fé sparisjóðsins í árslok 2007 nam 53,2 milljörðum króna, þar af var stofnfjáraukningin um helmingur þess og var eiginfjárhlutfall sparisjóðsins 40,2%. Árið 2008 reyndist sparisjóðnum þungt í skauti af ástæðum sem þegar hafa verið raktar. Í árslok 2008 var eiginfjárhlutfallið komið niður í 8,3% og eigið fé í 16,2 milljarða króna. Þrátt fyrir að 25,4 milljarða króna af tapi ársins 2008 mætti rekja til niðurfærslu útlána og krafna taldi Fjármálaeftirlitið, 14. apríl 2009, að afskriftaþörf sparisjóðsins í ársreikningi 2008 væri vanmetin og að frekari niðurfærslna væri þörf.489

18.7.1 Umsókn Byrs sparisjóðs um 20% eiginfjárframlag úr ríkissjóði

Í stjórnarfundargerð Byrs sparisjóðs frá 13. mars 2009 segir að þrátt fyrir að sparisjóðurinn hafi náð að standa af sér áföll nýliðinna mánaða standi hann, líkt og aðrir sparisjóðir, frammi fyrir ótryggum horfum í efnahags- og atvinnulífi. Á fundinum samþykkti stjórnin að sótt yrði um 20% eiginfjárframlag úr ríkissjóði á grundvelli 2. gr. laga nr. 125/2008 og var umsóknin send 20. mars 2009. Reglur um eiginfjárframlag frá ríkissjóði til sparisjóða voru samþykktar 18. desember 2008 og heimiluðu þær framlagningu allt að 20% eigin fjár sparisjóðs miðað við bókfærða stöðu þess 31. desember 2007. Eiginfjárframlag ríkisins til Byrs gat því hæst numið 10,6 milljörðum króna. Í umsögn KPMG hf., endurskoðanda sparisjóðsins, með umsókninni kom fram að hefði stofnfé hækkað sem því næmi í árslok 2008 hefði eiginfjárhlutfall sparisjóðsins á þeim tíma verið 14% að því gefnu að áhættugrunnur hefði ekki hækkað á sama tíma.490 Í samræmi við ákvæði reglna um framlög til sparisjóða vísaði fjármálaráðuneytið umsókninni til umsagnar Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands.

Fjármálaeftirlitið gaf frá sér umsögn 14. apríl 2009 og taldi verulega skorta á að gerð væri grein fyrir forsendum og sundurliðun rekstraráætlunar sparisjóðsins fyrir árin 2009 og 2010 sem fylgdi umsókninni. Miðað við fyrirliggjandi gögn sæi Fjármálaeftirlitið sér ekki fært að leggja mat á raunhæfi áætlunarinnar og trúverðugleika áætlaðs eiginfjárhlutfalls sem átti að verða 14,6% í árslok 2009 og 16,1% í árslok 2010. Fjármálaeftirlitið vakti einnig athygli á því að í kjölfar birtingar ársuppgjörs sjóðsins 13. mars 2009, þar sem fram hefði komið að eiginfjárhlutfall væri 8,3%, hefði eftirlitið tekið til skoðunar mat sparisjóðsins á virði stærstu áhættuskuldbindinga sparisjóðsins og hvort frekari niðurfærslna væri þörf. Áhrif aukinnar niðurfærslu á eiginfjárhlutfallið hefði verið metin og taldi eftirlitið verulegan vafa leika á því að sparisjóðurinn uppfyllti kröfur um lögbundið lágmark eiginfjárhlutfalls samkvæmt 84. gr. laga nr. 161/2002. Fjármálaeftirlitið hafði áður gefið sparisjóðnum kost á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum varðandi þetta mat eftirlitsins og í svari sparisjóðsins 25. mars 2009 var ekki talin þörf á afskriftaframlögum umfram þau sem væru í ársreikningi vegna þeirra aðila sem eftirlitið gerði athugasemdir við. Í svari sparisjóðsins var vísað til þess að uppgjörið byggði á alþjóðlegum reikningsskilastöðlum (IFRS) og að samkvæmt þeim skyldu eignir og skuldir metnar miðað við stöðu á uppgjörsdegi. Óheimilt væri að taka tillit til forsendna um tilteknar aðstæður í framtíðinni. Fjármálaeftirlitið taldi svar sparisjóðsins ekki gefa ástæðu til að breyta matinu og lagði til að gerð yrði áreiðanleikakönnun á útlánasafni sjóðsins með tilliti til afskriftarþarfar til að draga úr óvissu um verðmæti eignasafns sparisjóðsins. Slík könnun yrði skilyrði fyrir því að ríkissjóður veitti fjárframlag til sparisjóðsins.491 Seðlabanki Íslands veitti ekki umsögn um umsókn Byrs sparisjóðs.492

18.7.1.1 Skýrsla PricewaterhouseCoopers

Endurskoðunarfyrirtækið PricewaterhouseCoopers hf. var fengið til að gera könnun á ákveðnum þáttum í efnahag og starfsemi Byrs sparisjóðs og skilaði niðurstöðum 22. maí 2009. Meginniðurstaðan var að færa þyrfti eignasafn sjóðsins niður um 13,7 milljarða króna umfram það sem fært var í ársreikningi sjóðsins, þar af 8,7 milljarða króna vegna viðbótarvirðisrýrnunar útlána. Að teknu tilliti til skattahagræðis myndi það þýða 11,9 milljarða króna lækkun á eigin fé. Miðað við upplýsingar sem komu fram í innsendri skýrslu sparisjóðsins til Fjármálaeftirlitsins um eiginfjárhlutfall 31. desember 2008 færi eiginfjárhlutfall sparisjóðsins úr 8,95% í 2,63% ef eignir yrðu að fullu færðar niður í samræmi við matið.493

Til þess að sparisjóðurinn uppfyllti 12% lágmarks eiginfjárhlutfall, sem var skilyrði í reglum um eiginfjárframlag ríkissjóðs til sparisjóða, þurfti að auka eigið fé um 14,4 milljarða króna. Hámarksframlag frá ríkissjóði til Byrs sparisjóðs samkvæmt sömu reglum var 10,6 milljarðar króna og myndi sú upphæð því ekki nægja ein og sér til að leysa eiginfjárvanda sjóðsins. Þá taldi PricewaterhouseCoopers hf. að afar erfitt yrði fyrir Byr sparisjóð að ná þeim hagnaði sem áætlanir sparisjóðsins fyrir árin 2009 og 2010 gerðu ráð fyrir.494

18.7.1.2 Aðgerðaáætlun Byrs og viðbrögð stjórnvalda og kröfuhafa

Í kjölfar stjórnarfundar 28. maí 2009 tilkynnti stjórn sparisjóðsins Fjármálaeftirlitinu að verulegar líkur væru á að sjóðurinn væri kominn undir lögbundið lágmark eigin fjár og var það staðfest með bréfi 3. júní 2009 sem með fylgdi uppgjör fyrir fyrstu fjóra mánuði ársins 2009. Tap sjóðsins á tímabilinu nam 10,2 milljörðum króna og þar af var virðisrýrnun útlána um 7,1 milljarður króna. Eigið fé sparisjóðsins samkvæmt uppgjörinu nam um 6 milljörðum króna og var eiginfjárhlutfallið 3,29%. Bréfinu fylgdi greinargerð með aðgerðaáætlun til styrkingar á eiginfjárgrunni sparisjóðsins og rekstrar- og efnahags­áætlun til ársins 2013.495 Í ljósi stöðu sparisjóðsins nýtti Fjármálaeftirlitið heimildir sínar, samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, til að skipa sparisjóðnum sérstakan eftirlitsmann til að hafa sértækt eftirlit með rekstri hans og var Eva B. Helgadóttir hrl. skipuð.

Í greinargerð sparisjóðsins var aðgerðaáætlun til styrkingar á eiginfjárgrunni sparisjóðsins sem og rekstrar- og efnahagsáætlun til ársins 2013.496 Settar voru upp tvær mismunandi aðgerðaráætlanir sem myndu þó báðar leiða til þess að eiginfjárhlutfall sjóðsins yrði um 15%. Áætlun A gerði ráð fyrir að almennir kröfuhafar myndu breyta 35% krafna sinna í ígildi eigin fjár, það er að segja 30% í stofnfé og 5% í víkjandi lán, og eftirstöðvum yrði breytt í 10 ára lán. Þá yrði stofnfé þáverandi stofnfjárhafa fært niður í 6 milljarða króna auk þess sem gert var ráð fyrir að fjármálaráðuneyti myndi samþykkja sölurétt til erlendra kröfuhafa að fjárhæð 10,6 milljarðar króna. Að fjárhagslegri endurskipulagningu lokinni myndu erlendir kröfuhafar eignast 55,1% stofnfjár, innlendir kröfuhafar 19,2% og þáverandi stofnfjárhafar halda eftir 25,7%. Áætlun B gerði ráð fyrir þátttöku fjármálaráðuneytis í stofnfjárhækkun fyrir 10,6 milljarða króna. Innlendir kröfuhafar myndu breyta 53% af kröfum sínum í stofnfé, erlendir kröfuhafar myndu breyta kröfum sínum í 30 ára lán og niðurfærsla stofnfjár yrði samsvarandi og í áætlun A. Að lokinni fjárhagslegri endurskipulagningu myndi ríkissjóður eignast 43,1% stofnfjár, innlendir kröfuhafar 32,5% og þáverandi stofnfjárhafar halda eftir 24,4%. Gerði sparisjóðurinn ráð fyrir að samkomulag við kröfuhafa yrði undirritað 15. júlí 2009 og að stofnfjáreigendafundur um afgreiðslu stofnfjáraukningar yrði haldinn 10. ágúst sama ár.497 Lítillega breytt aðgerðaáætlun var lögð fyrir fjármálaráðuneytið 5. júní 2009 og meðal breytinga var að stofnfé skyld fært niður í 4,3 milljarða króna.498

Í rekstraráætlun voru forsendur að mestu þær sömu og í fyrri áætlun sparisjóðsins, en þó hafði virðisrýrnun útlána og krafna hækkað um 8,2 milljarða króna, úr 2,7 í 10,9 milljarða króna. Fyrir árið 2010 var gert ráð fyrir samtals 3,7 milljarða króna framlagi í afskriftareikning og 2 milljarða króna árin 2011 til 2013. Áætluð staða afskriftareiknings útlána í árslok 2009 yrði um 9,1% af heildarútlánum og veittum ábyrgðum.

Í bréfi með aðgerðaáætluninni er vísað til umsóknar sparisjóðsins um eiginfjárframlag og þess getið að staða sparisjóðsins hafi versnað mjög frá ársuppgjöri 2008. Því væri mikilvægt að gripið yrði til nauðsynlegra aðgerða vegna ónógs eigin fjár. Fram hefði komið á fundi forsvarsmanna sparisjóðsins með fulltrúum fjármálaráðuneytis og fleiri hagsmuna­aðilum 28. maí 2009 að þá þegar hefði sparisjóðurinn átt fyrstu samningaviðræðurnar við erlenda lánardrottna sjóðsins. Af hálfu lánardrottna hefði komið skýrt fram að forsenda frekari samningaviðræðna væri að stjórnvöld staðfestu að ríkissjóður veitti sjóðnum þá fjárhagslegu aðstoð sem heimild væri fyrir í 2. gr. laga nr. 125/2008. Óskað var eftir því að fjármálaráðuneytið tæki afstöðu, með sérstakri yfirlýsingu, um hvernig það myndi koma að fjárhagslegri endurskipulagningu sjóðsins.499

Fjármálaráðuneytið tilkynnti sparisjóðnum, 11. júní 2009, að það hefði farið yfir tillögurnar í aðgerðaáætlun sjóðsins. Ráðuneytið taldi aðkomu að málefnum sparisjóðsins á grundvelli aðgerðaáætlunar með sölurétti frá ríkissjóði á stofnfé ekki koma til greina þar sem skilmálar varðandi slíkan rétt væru ekki nægjanlega ljósir. Gengi fjárhagsleg endurskipulagning sjóðsins eftir, á grundvelli þeirrar aðgerðaáætlunar sem gerði ráð fyrir beinu framlagi ríkissjóðs, væri það niðurstaða fjármálaráðuneytisins, með vísan til heimilda í 2. gr. laga nr. 125/2008 og reglna um framlög til sparisjóða, að forsendur væru til að ráðuneytið tæki þátt í endurskipulagningunni með kaupum á stofnfé fyrir allt að 10,6 milljarða króna. Það væri þó háð því að aðgerðaáætluninni yrði hrint í framkvæmd og forsendur hennar um endanlegt eiginfjárhlutfall héldu. Samþykki kröfuhafa og stofnfjáreigendafundar sparisjóðsins þyrfti einnig að liggja fyrir.500

Hinn 16. júní 2009 veitti Fjármálaeftirlitið Byr sparisjóði frest til 15. júlí sama ár til að auka eiginfjárgrunn sjóðsins og koma eiginfjárhlutfalli í lögmætt horf. Í bréfinu var vísað til uppfærðrar tímaáætlunar aðgerða sem sjóðurinn hafði sent fjármálaráðuneytinu 5. júní 2009 þar sem gert var ráð fyrir að samkomulag við innlenda og erlenda kröfuhafa um aðgerðir yrði undirritað 15. júlí 2009. Fjármálaeftirlitið tók fram í bréfi sínu að gengi framangreint eftir, og að uppfylltum ákveðnum skilyrðum sem sett voru fram í bréfinu, yrði Byr sparisjóði veittur áframhaldandi frestur til 11. ágúst 2009, en framlögð tíma­áætlun sjóðsins gerði ráð fyrir að 10. ágúst 2009 yrði fyrirhugaðri afgreiðslu á aukningu stofnfjár lokið.501

Hinn 30. júní 2009 námu heildarskuldir sparisjóðsins við erlenda lánardrottna 203 milljónum evra og 32 milljónum dollara, eða samtals um 40,5 milljörðum króna.502 Um var að ræða sambankalán nítján lánveitenda, aðallega þýskra og austurrískra fjármálastofnana. Heildarskuldbindingar sparisjóðsins gagnvart innlendum lánveitendum námu 34,5 milljörðum króna í lok apríl 2009. Þar af voru 14,8 milljarðar króna vegna útgefinna skuldabréfa. Innlendir kröfuhafar voru 35 en um það bil 90% af heildarupphæð innlendra krafna á sparisjóðinn voru í eigu lífeyrissjóða. Þá voru víkjandi lán um 3,3 milljarðar króna 30. apríl 2009.503

Sparisjóðurinn réð þýskan ráðgjafa, Wolfgang Otte, frá endurskoðunarfyrirtækinu KPMG í Þýskalandi til þess að aðstoða sjóðinn við samningaferlið gagnvart erlendum lánardrottnum. Lagði Otte áherslu á að meginmarkmiðið væri að vinna traust lánardrottnanna og öðlast trúverðugleika. Í því skyni yrði að bregðast fljótt við, útbúa stutta og hnitmiðaða kynningu um sparisjóðinn og fjárhagslega endurskipulagningu hans, þar sem forsendur útreikninga og áætlana væru gagnsæjar. Töldu stjórnendur sparisjóðsins brýnt að hefja viðræður við erlenda kröfuhafa áður en rætt væri við innlenda kröfuhafa. Nokkrir innlendra kröfuhafa sparisjóðsins, þar á meðal lífeyrissjóðir, áttu háar innstæður hjá sjóðnum og var talin ákveðin hætta á áhlaupi á sjóðinn ef staða hans spyrðist út. Færi svo, var talið að fljótt yrði útséð með framtíð hans. Þórarinn Sveinsson, var ráðinn til þess að halda utan um viðræður sparisjóðsins við innlenda kröfuhafa.504

18.7.1.3 Viljayfirlýsing um vinnu að fjárhagslegri endurskipulagningu

Hinn 15. júlí 2009 höfðu erlendir kröfuhafar og stærstu innlendu kröfuhafarnir samþykkt að vinna að fjárhagslegri endurskipulagningu sparisjóðsins með undirritun sérstakrar viljayfirlýsingar (e. memorandum of understanding).505 Efnislegt inntak skjalsins var að kröfuhafar lýstu yfir vilja til að halda áfram viðræðum um fjárhagslega endurskipulagningu, engar fjárhæðir voru í skjalinu og ekki var minnst á þær tillögur sem fram höfðu komið. Áður en að undirritun yfirlýsingarinnar kom höfðu erlendir lánardrottnar haft tækifæri til að koma að athugasemdum.506

Sparisjóðurinn óskaði eftir framlengingu á fresti frá Fjármálaeftirlitinu 15. júlí 2009. Vinna við fjárhagslega endurskipulagningu hafði tekið lengri tíma en vænst hafði verið og var lögð fram ný tímaáætlun sem gerði ráð fyrir að lánveitendur staðfestu samninga um aðkomu þeirra að fjárhagslegri endurskipulagningu fyrir 11. ágúst 2009. Óskað var eftir fresti til að ná samningum við lánveitendur um aðkomu að fjárhagslegri endurskipulagningu til 11. ágúst 2009 og fresti til að koma eiginfjárhlutfalli upp fyrir lögbundin mörk til 5. september sama ár.507 Frestur var veittur til 11. ágúst 2009 og lögð áhersla á að í því fælist að sparisjóðurinn hefði þá þegar þurft að komast að samkomulagi við lánveitendur um þátttöku þeirra í fjárhagslegri endurskipulagningu hans.508 Sá frestur var enn framlengdur til 20. ágúst sama ár.509 Þá staðfesti fjármálaráðuneytið, að beiðni sparisjóðsins, að næði sparisjóðurinn samningum við erlenda kröfuhafa, að uppfylltum skilyrðum í reglum um eiginfjárframlag frá ríkinu, myndi ríkið nýta heimild í lögum til þess að leggja fram eigið fé til sparisjóðsins.510

Á fundi sem fulltrúar Byrs sparisjóðs áttu með Fjármálaeftirlitinu 19. ágúst 2009 var ræddur árangur á sameiginlegum fundi með erlendum og innlendum kröfuhöfum daginn áður. Gert væri ráð fyrir afskriftum tæplega helmings krafna, öðru yrði breytt í almenn lán og víkjandi lán og um 18% krafna greiddar út í peningnum þegar fjárhagslegri endurskipulagningu sjóðsins lyki. Þá sem fyrr settu kröfuhafar fram skilyrði um þátttöku fjármálaráðuneytisins með kaupum á stofnfé fyrir 10,6 milljarða króna. Sparisjóðurinn hafði óskað eftir staðfestingu kröfuhafa um að þeir hefðu í hyggju að fylgja málinu eftir og skila afstöðu fyrir lok ágúst. Byr sparisjóður óskaði því eftir frekari fresti Fjármálaeftirlitsins til að afla staðfestingar kröfuhafa.511 Frestur til að ná samkomulagi við kröfuhafa og koma eiginfjárhlutfalli yfir lögboðin mörk var veittur til 4. september 2009.512

Fyrir rannsóknarnefndinni sagði fyrrverandi sparisjóðsstjóri að erfiðlega hefði gengið að útskýra fyrir erlendum kröfuhöfum starfsumhverfi íslenskra sparisjóða í kjölfar falls bankanna. Þeir hefðu haft lítinn skilning á þeim eðlismun sem væri á stofnfé og hlutafé og álitið að stofnfé ætti að vera síðast í kröfuröðinni. Þá hefði þeim þótt ósanngjarnt að innlán hefðu verið gerð að forgangskröfu en innlán Byrs sparisjóðs höfðu hækkað verulega haustið 2008 og fram á árið 2009. Erlendu kröfuhöfunum hefði jafnvel fundist stjórnvöld eða starfsmenn sparisjóðsins ekki vita hvernig ætti að standa að fjárhagslegri endurskipulagningu.513

Í bréfi sem Byr sparisjóður sendi Fjármálaeftirlitinu 4. september 2009 kom fram að allir lánveitendur sparisjóðsins í erlendum myntum, utan Sparisjóðabankans, hefðu samþykkt sérstakt, bindandi samkomulag. Málefni Byrs sparisjóðs og Sparisjóðabankans væru til skoðunar með tilliti til skuldajöfnunar á gagnkvæmum kröfum. Þá höfðu um 95% af eigendum skuldabréfa Byrs sparisjóðs samþykkt sambærilegt bindandi samkomulag en Rekstrarfélag Kaupþings banka hf., sem átti um 5% af útgefnum skuldabréfum, hafði ekki samþykkt fyrirliggjandi skilmála. Ekki var tekið tillit til skuldabréfa í eigu Glitnis banka þar sem unnið var að samkomulagi um skuldajöfnun gagnkvæmra krafna. Með samkomulaginu urðu aðilar sammála um hvernig þeir ætluðu sameiginlega að standa að fjárhagslegri endurskipulagningu sparisjóðsins. Óskað var eftir frekari fresti til að klára skjalagerð og önnur mál.

Frestur var veittur til 31. október 2009 með því skilyrði að eigi síðar en 10. október sama ár lægi fyrir staðfesting allra lánveitenda um aðkomu að fjárhagslegri endurskipulagningu. Gert var ráð fyrir að fjármálaráðuneytið hefði frest til 26. október 2009 til að staðfesta endanlega aðkomu sína og greiða nýtt stofnfé 30. október sama ár.514

18.7.1.4 Athugasemdir við áætlanir um fjárhagslega endurskipulagningu

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gerði athugasemdir við fjárhagslega endurskipulagningu Byrs sparisjóðs. Í athugasemdunum var meðal annars bent á að stjórnvöld þyrftu skýrari rökstuðning fyrir því að endurskipulagningin gengi upp áður en settir yrðu fjármunir í sjóðinn. Lausafjárstaða sparisjóðsins væri ekki sterk og forsendur áætlaðrar innlánaaukningar hæpnar. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn taldi að framkvæma þyrfti álagspróf til að greina getu sparisjóðsins til að mæta óvæntu útflæði innlána.515

Fjármálaeftirlitið hafði til skoðunar gögn vegna fjárhagslegrar endurskipulagningar Byrs sparisjóðs í tengslum við frest til að auka eiginfjárgrunn upp fyrir lögbundin mörk. Í skoðuninni fólst meðal annars mat á rekstrarhæfi sparisjóðsins eftir fjárhagslega endurskipulagningu. Í bréfi til fjármálaráðuneytisins 24. september 2009 kom Fjármálaeftirlitið á framfæri eftirfarandi athugasemdum:

  • Áform Byrs sparisjóðs gerðu ráð fyrir greiðslu til kröfuhafa þegar eiginfjárframlag ríkisins hefði verið veitt. Um væri að ræða greiðslu upp á 9,8 milljarða króna eða nær sömu fjárhæð og framlag ríkisins. Hætta væri á að greiðslan myndi hafa veruleg áhrif á sjóðstreymi og lausafjárstöðu og því myndi krafa um að greiðslunum yrði dreift yfir ákveðið tímabil mögulega verða til þess að minnka neikvæð áhrif þessarar aðgerðar á fjárhagsstöðu sparisjóðsins.
  • Í ljósi ríkjandi óvissu í efnahagsmálum væri erfitt að meta hvort áætlanir sparisjóðsins um afskriftir og tekjur af núverandi lánasafni stæðust og hvort þörf væri á frekari afskriftum. Dygðu núverandi endurskipulagningaráform ekki til og þörf yrði á frekari framlagi til að tryggja eiginfjárstöðu væri óvissa um hvort kröfuhafar sæju sér hag í frekari aðkomu að fjármögnun.
  • Rammasamningur við kröfuhafa kvæði á um að ekki skyldi greiða arð til stofnfjáreigenda fyrr en eftir að kröfuhafar hefðu fengið allar sínar greiðslur. Gert var ráð fyrir að kröfuhafar fengju þær greiddar út sem og að þeir fengju „greiðslu sem næmi því sem væri umfram 4% af lögbundnum lágmarkseiginfjárgrunni“.
  • Rammasamningur gerði ráð fyrir takmörkun á ráðstöfun eigna sparisjóðsins og banni við veðsetningum.
  • Áform um samdrátt í efnahagsreikningi með minnkun lánasafns gæfi til kynna að ekki yrði um eðlilegan bankarekstur að ræða að lokinni endurskipulagningu.
  • Vaxtakjör á nýjum lánasamningum væru mun hærri en í fyrri samningum. Samkvæmt upplýsingum frá Byr væri gert ráð fyrir að raunafskriftir kröfuhafa væru um 32% að teknu tilliti til breyttra vaxtakjara.516

Í skýrslu sem Mats Josefsson, efnahagsráðgjafi ríkisstjórnarinnar, skilaði um stöðu íslenska bankakerfisins 24. september 2009 er meðal annars fjallað um Byr sparisjóð. Honum fannst verulegur vafi leika á um að áætlanir um fjárhagslega endurskipulagningu sjóðsins myndu tryggja rekstrarhæfi hans til framtíðar. Endurskoða þyrfti þá aðferðafræði sem lagt hefði verið upp með og skoða aðra valkosti. Fjárhagsleg endurskipulagning snerist ekki eingöngu um bókhaldslega niðurstöðu þess að breyta skuldum í eigið fé eða víkjandi lán og þvinga lánardrottna til að afskrifa skuldir heldur þyrfti að leggja mat á rekstrarhagkvæmni til lengri tíma. Að öðrum kosti yrði það sóun á opinberu fjármagni að leggja til eiginfjárframlag frá ríkissjóði.517 Mats Josefsson lagði til að Bankasýsla ríkisins legði sjálfstætt mat á áform varðandi fjárhagslega endurskipulagningu sparisjóðanna áður en fé yrði lagt til sjóðanna og að Bankasýslan hefði síðan umsjón með samningum fyrir hönd ríkisins.518

Í lok september 2009 lá fyrir að almennir kröfuhafar hefðu fallist á eftirgjöf 45% krafna; að 27% þeirra yrði breytt í nýtt skuldabréf eða lánasamning, 10% krafnanna yrði breytt í víkjandi lán og 18% þeirra yrðu greiddar. Kröfuhafar víkjandi skuldabréfa, sem áttu kröfur sem námu 3,3 milljörðum króna, myndu gefa eftir 50% krafna sinna og fá nýjan flokk víkjandi skuldabréfa fyrir eftirstöðvum. Áskilið var að fjármálaráðuneytið legði fram 10,6 milljarða króna eiginfjárframlag. Unnið var að endanlegri skjalagerð vegna málsins og ráðgert að boða til fundar stofnfjáreigenda um leið og frágangur væri kominn á lokastig. Þá þyrfti að vera ljóst með hvaða hætti fjármálaráðuneytið kæmi að fjárhagslegri endurskipulagningu sparisjóðsins og samningur þar að lútandi að liggja fyrir. Fyrirhugað var að leggja fram tillögur fyrir fundinn um eftirfarandi málefni:

  1. Niðurfærslu stofnfjár til jöfnunar á neikvæðum varasjóði.

  2. Heimild til hækkunar stofnfjár.

  3. Breytingar á samþykktum vegna laga nr. 76/2009.519

Hinn 9. október 2009 voru skjöl vegna samninga við kröfuhafa nær fullmótuð og tíð samskipti sparisjóðsins við kröfuhafa vegna þeirra báru með sér að aðilar hefðu komist að niðurstöðu í öllum veigamestu þáttum málsins. Beðið var með formlega staðfestingu samninga þar til athugasemdir stjórnvalda kæmu fram. Stefnt var að því að ráðast í vinnu með ráðuneytinu um nánari afmörkun á aðkomu þess að sjóðnum.520

Samkvæmt 5. gr. reglna um framlag til sparisjóða skv. 2. gr. laga nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., skyldi fjármálaráðherra meðal annars fá umsögn Fjármálaeftirlitsins í tengslum við ákvörðun um framlag úr ríkissjóði til sparisjóða. Umsögn Fjármálaeftirlitsins um Byr sparisjóð lá fyrir 23. október 2009. Fjármálaeftirlitið taldi að veruleg óvissa væri um hvort Byr sparisjóður yrði rekstrarhæfur eftir fjárhagslega endurskipulagningu. Áætlanir gerðu ráð fyrir 23,8% eiginfjárhlutfalli eftir fjárhagslega endurskipulagningu sem yrði 12,1% í lok árs 2011. Lækkun eiginfjárhlutfalls fram til ársloka 2011 væri vegna umtalsverðra afskrifta útlána­safns sem gert var ráð fyrir að yrðu um 15 milljarðar króna. Með því afskriftaframlagi fram til loka árs 2011 yrði afskriftahlutfallið 23% en sambærilegt hlutfall hjá nýju bönkunum þremur væri í kringum 50%. Ljóst væri að ef afskriftahlutfall Byrs sparisjóðs reyndist hið sama og hjá bönkunum færi eiginfjárhlutfallið niður fyrir lögbundin mörk. Jafnframt þótti Fjármálaeftirlitinu aðrir liðir í rekstraráætlun sparisjóðsins einkennast af fullmikilli bjartsýni. Þá taldi það að almennt yrði ekki hægt að gera lægri eiginfjárkröfu til sparisjóða en nýju bankanna þriggja, eða 16%.521 Lægri eiginfjárkröfu yrði að rökstyðja á grunni sérstakra þátta, svo sem meiri útlánagæða eða áhættuminni rekstrar. Slíkur rökstuðningur lægi aftur á móti ekki fyrir í tilviki Byrs sparisjóðs. Að lokum kom fram að líkur væru á að sparisjóðurinn þyrfti að lagfæra bresti í stjórnun og áhættustýringu

Sama dag fundaði Fjármálaeftirlitið ásamt fjármálaráðuneytinu með Byr sparisjóði og Sparisjóðnum í Keflavík. Fjármálaeftirlitið fór fram á að sparisjóðirnir færu nánar yfir eignasöfn sín og mætu afskriftaþörf betur. Í minnisblaði fjármálaráðuneytisins í kjölfar fundarins kom fram að ef ekki væri hægt að ná samningum við kröfuhafa þyrftu stjórnvöld að huga að því hvernig þau ættu að bregðast við þeirri stöðu. Lögð var áhersla á að tíminn væri knappur og samkvæmt efnahagsáætlun íslenskra stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins væri ráðgert að klára mál sparisjóðanna fyrir lok nóvember 2009.522

18.7.1.5 Eignasafn Byrs sparisjóðs yfirfarið að nýju

Fulltrúar sparisjóðsins tóku til við að fara yfir eignasafnið og kynntu niðurstöður vinnu sinnar á fundi með Fjármálaeftirlitinu 30. október 2009. Sparisjóðurinn taldi áhyggjur Fjármálaeftirlitsins byggðar á misskilningi. Bent var á að lánasafn sparisjóðsins væri töluvert frábrugðið lánasafni nýju bankanna þriggja auk þess sem Byr hefði selt sjóðstreymi tiltekinna íbúðalána til Íbúðalánasjóðs sem takmarkaði áhættu sparisjóðsins. Því væri ekki hægt að bera saman afskriftahlutfall bankanna og áætlað afskriftahlutfall Byrs sparisjóðs eftir fjárhagslega endurskipulagningu.523 Í bréfi til Fjármálaeftirlitsins 2. nóvember 2009 kom fram að stjórnendur sparisjóðsins teldu fjárhagslega endurskipulagningu hans þá þegar hafa verið kynnta með fullnægjandi hætti fyrir Fjármálaeftirlitinu og fjármálaráðuneytinu. Þessu til stuðnings vísuðu fulltrúar hans einnig til þess að á umliðnum misserum hefði farið fram mjög ítarleg upplýsingagjöf milli sjóðsins og eftirlitsins, eins og sjá mætti af þriðja tug skipulagðra funda og erinda á milli þeirra tveggja. Sérstakur sérfræðingur eftirlitsins hefði starfað innan sjóðsins frá byrjun júní 2009, fylgst með starfsemi og upplýst Fjármálaeftirlitið með reglubundnum hætti um málefni hans. Í fyrirliggjandi samningum, sem lánveitendur sjóðsins hefðu nú þegar yfirfarið, var gert ráð fyrir að fjárhagslegri endurskipulagningu yrði lokið eigi síðar en 15. desember 2009. Gerðist það ekki fyrir tilgreindan tíma væri sá góði árangur sem náðst hefði í uppnámi og því þyrfti að hraða málinu. Óskað var eftir að Fjármálaeftirlitið tæki formlega afstöðu til fjárhagslegrar endurskipulagningar sjóðsins og að gerð yrði skýr grein fyrir þeim fresti sem eftirlitið teldi þurfa til að ljúka henni. Fjármálaeftirlitið taldi þó enn að veruleg óvissa ríkti um að fjárhagsleg endurskipulagning, eins og hún lá fyrir þá, væri raunhæf og líkleg til árangurs. Fjármálaeftirlitið taldi mikilvægt að eyða óvissu um mat á eignasafni og afskriftaþörf eins og frekast væri kostur og veitti því Byr sparisjóði áframhaldandi frest til að uppfylla lágmarksskilyrði um eiginfjárhlutfall til 26. nóvember 2009 á meðan lagst yrði í frekari vinnu við að yfirfara áætlanir sjóðsins.524 Hinn 6. nóvember 2009 réð Fjármálaeftirlitið PricewaterhouseCoopers til þess að fara aftur yfir ákveðna þætti í efnahagsreikningi Byrs sparisjóðs. Skýrsla um þá þætti var tilbúin síðar í sama mánuði.

Með bréfi sparisjóðsins til Fjármálaeftirlitsins 12. nóvember 2009 var ítrekuð beiðni frá 2. nóvember sama ár um formlega afstöðu eftirlitsins til fjárhagslegrar endurskipulagningar sjóðsins. Sparisjóðurinn taldi sig hafa lagt fram skýr rök fyrir því að grundvöllur væri fyrir fjárhagslegri endurskipulagningu og áttaði sig ekki á afstöðu Fjármálaeftirlitsins né í hverju óvissan fælist. Sparisjóðurinn hefði miðað eiginfjárhlutfall eftir fjárhagslega endurskipulagningu við reglur um eiginfjárframlag ríkissjóðs til sparisjóða. Þar væri gert ráð fyrir að eiginfjárhlutfall þyrfti að verða hærra en 12%, en framlag úr ríkissjóði yrði þó ekki hærra en svo að eiginfjárhlutfallið næði 15%. Því hafi það komið sparisjóðnum á óvart að Fjármálaeftirlitið skyldi setja fram kröfu um 16% eiginfjárhlutfall og áleit ekki boðlegt að breyta grundvallarviðmiðum í miðju endurskipulagningarferlinu. Þá komu fram aðrar athugasemdir við gagnrýni Fjármálaeftirlitsins á fyrirliggjandi áætlun um fjárhagslega endurskipulagningu sjóðsins. Starfsmenn PricewaterhouseCoopers væru að afla frekari upplýsinga um sparisjóðinn og var lögð áhersla á það í bréfinu að gengið yrði hreint til verks og unnið skipulega að því að afla svara við spurningum Fjármálaeftirlitsins. Mikilvægt væri að sparisjóðurinn yrði upplýstur um þær spurningar sem eftirlitið þyrfti svör við svo hægt yrði að hraða málinu eins og kostur væri.525

Niðurstaða vinnu PricewaterhouseCoopers var að auka þyrfti niðurfærslu útlána, krafna og fjáreigna sjóðsins um 23,6 milljarða króna til viðbótar við það sem fært hafði verið niður í árshlutareikningi 30. júní 2009. Eigið fé yrði þá neikvætt um tæpa 24 milljarða króna. Sparisjóðurinn óskaði eftir fundi með Fjármálaeftirlitinu og fjármálaráðuneytinu til þess að fara yfir hugmyndir um næstu skref í fjárhagslegri endurskipulagningu sparisjóðsins með það í huga að ná samkomulagi milli stjórnvalda og kröfuhafa sparisjóðsins um framhaldið og tímaáætlun. Enn fremur óskaði sparisjóðurinn eftir framlengingu á fresti frá Fjármálaeftirlitinu til að auka eigið fé sparisjóðsins.526

Fjármálaeftirlitið vakti athygli fjármálaráðuneytisins á ákveðnum atriðum í könnun PricewaterhouseCoopers í bréfi 2. desember 2009. Gefið væri í skyn að staða eignasafns sparisjóðsins gæti haldið áfram að versna og niðurfærsluþörf numið enn hærri fjárhæðum en gert var ráð fyrir í könnuninni. Auk þess væri það mat Fjármálaeftirlitsins að væri lánasafn Byrs sparisjóðs fært niður um sama hlutfall og meðaltalsafskriftir nýju bankanna myndi það þýða um það bil 47 milljarða króna viðbótarafskrift við mat Price­waterhouseCoopers. Fjármálaeftirlitið ítrekaði að það teldi ekki annað mögulegt en að gera kröfu um að eiginfjárhlutfall sparisjóðsins yrði 16%.527

Á sama tíma versnaði lausafjárstaða sparisjóðsins. Þannig kom fram í drögum að fundargerð nefndar um fjármálastöðugleika 7. desember 2009 að innistæður hefðu flætt út úr Byr sparisjóði. Upphæð á reikningi Byrs sparisjóðs hjá Seðlabankanum hefði farið úr 11,5 milljörðum króna í byrjun desember í 3,4 milljarða króna á hádegi 7. desember 2009. Ástæða þessa væri líklega fréttaflutningur af stöðu sjóðsins en fjármálaráðuneytið væri að vinna að fréttatilkynningu til að róa markaði.528

18.7.1.6 Skilyrði stjórnvalda fyrir fjárhagslegri endurskipulagningu

Fjármálaeftirlitið efaðist um að sú fjárhagslega endurskipulagning sem Byr sparisjóður og kröfuhafar hefðu komið sér saman um myndi skapa rekstrargrundvöll til framtíðar fyrir sparisjóðinn. Forsendan fyrir framlagi ríkisins til sparisjóða var að áætlun um fjárhagslega endurskipulagningu væri trúverðug og líkleg til árangurs. Hinn 8. desember 2009 kynnti Fjármálaeftirlitið fjármálaráðuneytinu kröfur sínar vegna fjárhagslegrar endurskipulagningar Byrs og þau skilyrði sem sparisjóðurinn yrði að uppfylla til að grundvöllur væri fyrir áframhaldandi rekstrarhæfi. Meðal krafna Fjármálaeftirlitsins var að eiginfjárþáttur A næmi að lágmarki 12% af áhættugrunni og eiginfjárhlutfall sjóðsins yrði aldrei lægra en 16% næstu þrjú ár eftir endurskipulagningu. Þá þyrfti sparisjóðurinn að uppfylla lausafjárkröfur Seðlabankans auk annarra skilyrða um laust fé sem hlutfall af innistæðum og samsetningu lánasafns. Sparisjóðurinn skyldi leggja fram skýrslu um sjálfstætt mat á eiginfjárþörf, gera endurbætur á innri ferlum og áhættustýringu, draga úr veigamestu áhættunum og gera ráðstafanir sem miðuðu að því að hann sinnti eingöngu kjarnastarfsemi.529

Fjármálaráðuneytið sendi þessar kröfur áfram til Byrs með bréfi 10. desember 2009 þar sem það lýsti sig tilbúið til þess að koma að samningaviðræðum um fjárhagslega endurskipulagningu sparisjóðsins, að því marki sem sparisjóðurinn og kröfuhafar hans teldu nauðsynlegt. Fjármálaráðuneytið hefði þá þegar fengið ráðgjafa frá fyrirtækinu Hawkpoint Partners Ltd. til að liðsinna sér meðal annars í þessu verkefni.530

Í drögum að minnisblaði sem skrifstofustjóri í efnahags- og viðskiptaráðuneyti sendi nefnd um endurreisn bankanna 8. desember 2009 og var síðar lagt fyrir fund efnahags- og viðskiptaráðherra, fjármálaráðherra og seðlabankastjóra 9. desember er fjallað um málefni Byrs sparisjóðs og Sparisjóðsins í Keflavík.531 Minnisblaðið er þýðing á helstu atriðum um stöðu sjóðanna sem fram komu í skýrslu ráðgjafafyrirtækisins Oliver Wyman, Restructuring the Savings Bank sector, sem unnin var fyrir íslensk stjórnvöld.532 Samkvæmt minnisblaðinu lá það fyrir að samkomulagið sem sparisjóðirnir höfðu gert við kröfuhafa sína gæti ekki að óbreyttu orðið grundvöllur að endurfjármögnun fyrir tilstuðlan ríkissjóðs. Stjórnvöld hefðu þess vegna tvo kosti í stöðunni:

  1. að hafna fyrirliggjandi samkomulagi við kröfuhafa og taka sjóðina til gjaldþrotaskipta; eða,

  2. að hefja samningaviðræður um framlag ríkissjóðs við kröfuhafa sjóðanna á grundvelli neyðarlaganna.

Hvað varðaði fyrri leiðina var bent á tryggingu innistæðna og að hve miklu leyti ríkissjóður þyrfti að bæta innistæðueigendum tap ef sjóðurinn yrði tekinn til gjaldþrotaskipta. Ef eignir Byrs sparisjóðs rýrnuðu um 45% umfram stöðu þeirra í árshlutareikningi 2009 myndu þær ekki standa undir innistæðum. Í ljósi 50% eignarýrnunar hjá viðskiptabönkunum og 60% rýrnunar eigna Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. væri ekki ólíklegt að eignir sparisjóðsins dygðu ekki til. Endurreisn fjármálakerfisins væri vel á veg komin en gjaldþrotameðferð Byrs sparisjóðs og Sparisjóðsins í Keflavík gæti falið í sér bakslag í uppbyggingunni og haft í för með sér álitshnekki fyrir stefnu stjórnvalda innanlands og utan. Gjaldþrotameðferð væri jafnframt ekki álitlegur kostur, meðal annars vegna viðbótarálags á dómskerfi sem ekki mætti við því. Þá var talið að gjaldþrot Byrs og Sparisjóðsins í Keflavík gætu haft neikvæð áhrif á fjármálakerfið í heild, meðal annars með tilliti til lausafjár-, fjármögnunar- og eignatengsla þeirra á milli. Því væri augljóst að allra hagur væri að ná fram annarri niðurstöðu en gjaldþrotaleið.

Þar sem samningar sem sparisjóðirnir hefðu náð við kröfuhafa uppfylltu ekki skilyrði Fjármálaeftirlitsins lægi beint við að fjármálaráðuneytið kæmi að samningaferli sparisjóðanna. Huga þyrfti að endursamningum á grundvelli fyrirliggjandi samninga, kanna möguleika á sölu- eða samrunaferli við önnur fjármálafyrirtæki eða færa ákveðnar eignir sparisjóðanna yfir í eignaumsýslufélag. Við endursamninga þyrfti að liggja fyrir sameiginlegur skilningur á þeim kröfum sem reikna mætti með að Fjármálaeftirlitið gerði, meðal annars kröfu um 16% eiginfjárhlutfall. Þá yrði lögð áhersla á að framlag ríkisins yrði fremur fjárfesting og að til staðar væru áætlanir um hvernig ríkissjóður hygðist endurheimta fjármunina með viðunandi ávöxtun í fyllingu tímans. Í því augnamiði væri mikilvægt að samningaviðræður við kröfuhafa sjóðanna ættu sér stað undir forystu fjármálaráðuneytisins. Stjórnir sparisjóðanna eða ráðgjafar þeirra gætu ekki leitt samningaviðræður fyrir hönd ríkisins og mikilvægt væri að í samningum yrði áhættunni dreift með sanngjörnum hætti milli ríkisins og kröfuhafa. Til greina kæmi að selja eða sameina Byr sparisjóð og Sparisjóðinn í Keflavík, í heild sinni eða ákveðin útibú. Þá kynni fjármálaráðuneytið að beita sér fyrir því að tryggja eða jafnvel kaupa ákveðnar eignir út úr eignasafni sparisjóðanna og flytja yfir í eignaumsýslufélag í eigu ríkisins. Með þessu fyrirkomulagi tæki ríkissjóður á sig hluta rekstraráhættunnar en fengi jafnframt tækifæri til að ná til sín hagnaði sem kynni að myndast ef eignaverðmæti reyndist hærra en upphaflega var reiknað með.

Lagt var til að ráðinn yrði utanaðkomandi ráðgjafi til að leiða samninga við sparisjóði og kröfuhafa um ásættanlega lausn á vanda sjóðanna innan ramma þágildandi laga. Stefnt skyldi að því að ljúka verkefninu fyrir 15. janúar 2010.533 Fjármálaeftirlitið veitti Byr frest til þess að ná lágmarkseiginfjárhlutfalli til 15. janúar 2010 með bréfi 10. desember 2009.534 Í bréfi til sparisjóðsins sama dag lýsti fjármálaráðuneytið yfir vilja sínum til að taka þátt í samningaviðræðum við hagsmunaaðila sem tækju mið af skilyrðum Fjármálaeftirlitsins. Ráðuneytið væri nú í aðstöðu til að kynna skilmála og skilyrði fyrir þátttöku sinni í fjárhagslegri endurskipulagningu sparisjóðsins að fengnum upplýsingum um þá skilmála sem Fjármálaeftirlitið setti. Um þessa breyttu afstöðu stjórnvalda sagði sparisjóðsstjóri:

Í byrjun þegar farið var á fyrstu fundina og farið að nálgast fjármálaráðuneytið með fjárhagslega aðkomu þá var búist við að framlagið [20% eiginfjárframlag ríkisins] myndi duga. Svo þegar fer að verða ljóst að það dugir ekki þá breytist staða fjármálaráðuneytisins því það er ekki skuldbundið til þess að leggja fjármálafyrirtækjum til fjármuni í lagaheimildinni nema það sé öruggt að til staðar sé viðskiptalíkan sem heldur til lengri tíma litið. Þá verður samningsstaðan önnur. Hún er sú að fjármálaráðuneytið getur boðið A eða B eða C, ef kröfuhafarnir geri eitthvað á móti. Þá eru þeir orðnir aðilar að samningnum. Þess vegna þurftu þeir að fá sér ráðgjafa, en í byrjun þá voru þetta bara hefðbundin samskipti, og fá þá gögn og annað til þess að styðja við þessa ákvörðun.535

18.7.1.7 Samningaviðræður við kröfuhafa

Byr sparisjóður hélt fund með kröfuhöfum og fulltrúum fjármálaráðuneytisins 14. desember 2009 þar sem farið var yfir þau skilyrði sem sett voru fram í bréfinu 10. desember sama ár. Á fundinum var staðfest þátttaka ráðuneytisins í fjárhagslegri endurskipulagningu sparisjóðsins miðað við tilteknar forsendur í sérstakri yfirlýsingu. Í yfirlýsingunni, sem hefur fyrirsögnina „Proposal from the Ministry of Finance“, var lagt til að 60% af kröfum lánardrottna yrðu afskrifuð, 15% breytt í víkjandi lán og 25% breytt í lán til fimm ára með 3% vaxtaálagi. Yfirlýsingin var háð samþykki Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands en ríkisstjórnin myndi skoða tillögur um að kröfuhafar gætu eignast eitthvert hlutfall stofnfjár í sjóðnum gegn lægri afskriftum krafna.536

Fjármálaráðuneytið undirbjó þátttöku í samningaviðræðum sparisjóðsins og kröfuhafa en þó var talið brýnt að skoða hvaða leiðir væru færar ef samningar við kröfuhafa næðust ekki og unnu Fjármálaeftirlitið, fjármálaráðuneytið og Seðlabankinn saman að lausnum er það varðaði. Hugmyndir til að tryggja innistæður voru einkum tvær: að flytja innlán og eignir í NBI hf. (síðar Landsbankann hf.) eða félag í eigu þess eða að flytja innlán og eignir í sparisjóð í eigu ríkisins.537

Í lok desember 2009 var það mat Fjármálaeftirlitsins að miðað við nýtt eignamat og kröfur um eiginfjárhlutfall væri svigrúm til samninga takmarkað.538 Á svipuðum tíma óskaði fjármálaráðuneytið eftir því að PricewaterhouseCoopers framkvæmdi fjárhagslega áreiðanleikakönnun á sparisjóðnum og var niðurstöðu hennar skilað snemma í febrúar 2010. Í millitíðinni hafði Fjármálaeftirlitið veitt sparisjóðnum frest til 18. febrúar 2010 til þess að koma eiginfjárhlutfalli í lögbundið horf. Ekki var lögð til meiri niðurfærsla á eignum sparisjóðsins í áreiðanleikakönnuninni en lögð var til við athugun Price­waterhouseCoopers í nóvember 2009.539

Byr sparisjóður sendi uppfært samkomulag um fjárhagslega endurskipulagningu (e. restructuring memorandum) ásamt skilmálaskjali (e. term sheet) til kröfuhafa 3. febrúar 2010 þar sem vitnað var í tillögu frá kröfuhafafundi 14. desember 2009. Stofnfjáreign þáverandi stofnfjáreigenda myndi minnka um 96% og kröfuhafar afskrifa 60% krafna sinna, 15% þeirra yrði breytt í víkjandi lán, 18% breytt í lán til fimm ára og 7% greitt út í peningum. Gert var ráð fyrir að greiðslan myndi nema um 4 milljörðum króna en hún var háð ákveðnum skilyrðum um lausafjárstöðu Byrs sparisjóðs.540 Vonast var til þess að samþykki kröfuhafa á samkomulagi um fjárhagslega endurskipulagningu myndi liggja fyrir 19. febrúar 2010.541 Það var skoðun ráðgjafa sparisjóðsins um fjárhagslega endurskipulagningu, Wolfgang Otte, á þessum tíma að skilyrðin um lausafjárstöðuna væru ekki uppfyllt og því ekki miklar líkur á greiðslu. Taldi hann því líklegt að kröfuhafar myndu telja þetta tilboð einskis virði.542

Sparisjóðurinn gerði grein fyrir þróun samningaviðræðna í bréfi til Fjármálaeftirlitsins 23. febrúar 2010. Þar kom fram að Byr sparisjóður, fjármálaráðuneytið, Hawkpoint, KPMG Þýskalandi, Deutsche Bank og aðrir kröfuhafar ynnu að úrlausn málsins. Í byrjun febrúar hefðu helstu kröfuhafar fengið upplýsingar um samningsskilmála sem lagðir hefðu verið fram með stuðningi frá fjármálaráðuneytinu. Kröfuhafarnir höfðu þá farið fram á að gera sjálfir athugun á sparisjóðnum á grundvelli þeirra fjárhagslegu upplýsinga sem legið höfðu til grundvallar áreiðanleikakönnun PricewaterhouseCoopers. Óskað var eftir fresti til þess að uppfylla eiginfjárskilyrði meðan niðurstöðu þessarar athugunar væri beðið og lögð fram tímaáætlun um að drög að lánaskjölum yrðu send til fjármálaráðuneytis og Fjármálaeftirlitsins 19. mars 2010 og endanlegt samþykki kröfuhafa að helstu skilmálum lægi þá fyrir.543 Sparisjóðurinn fékk frest til 18. mars 2010.

Að beiðni lánardrottna staðfesti fjármálaráðuneytið enn á ný 26. febrúar 2010 að ráðuneytið hygðist leggja til eiginfjárframlag í sjóðinn. Það yrði gert í samræmi við skilmála í skilmálaskjali frá byrjun febrúar þar sem gert var ráð fyrir að ríkissjóður legði fram 10,6 milljarða króna og eignaðist við það 75,6% stofnfjár.544 Framlagið væri þó háð því að ekki kæmu upp atvik í rekstri sjóðsins sem breyttu með afgerandi hætti stöðu hans, svo sem verulegir lausafjárerfiðleikar, og að Fjármálaeftirlitið samþykkti niðurstöðu samninga um endurskipulagningu, áhrif þeirra á efnahagsreikning og að útreikningar á eiginfjárhlutfalli stæðust kröfur þess.545

Fyrir hönd kröfuhafanna kláraði Deutsche Bank athugun sína á Byr sparisjóði 17. mars 2010. Í skýrslunni kom fram að erfitt væri að meta núverandi stöðu sparisjóðsins og framtíðarhorfur þar sem vinna við framtíðarstefnu sparisjóðsins færi ekki fram fyrr en eftir fjárhagslega endurskipulagningu. Setja þyrfti í forgang að semja framtíðaráætlun fyrir sjóðinn en einnig þyrfti að sameina þrjá sparisjóði og efla áhættustýringuna. Hvað varðaði lánasöfn taldi bankinn að möguleikar væru á að færa lán upp um 10 milljarða króna. Heildarsamhengi skýrslunnar er þó óljóst þar sem mörgum atriðum var eytt úr henni að beiðni Byrs sparisjóðs.546

Um þessa skýrslu sagði þáverandi sparisjóðsstjóri í skýrslu sinni fyrir rannsóknarnefndinni:

Þarna var kominn einhver aðili [Deutsche Bank] sem að [kröfuhafarnir] treystu betur heldur en einhverjum íslenskum aðila. Kannski var „game-planið“ að selja kröfurnar til einhverra vogunarsjóða. […] Ég man ekki hvort [upplýsingum var eytt úr skýrslunni] en ef það hefur verið gert að þá hefur það verið til þess að koma í veg fyrir [að upplýsingar yrðu nýttar til að mynda verð á kröfur á sparisjóðinn áður en útséð yrði með fjárhagslega endurskipulagningu hans].547

Sparisjóðurinn greindi Fjármálaeftirlitinu frá töfum á fjárhagslegri endurskipulagningu í bréfi 18. mars 2010. Töluverð vinna hefði farið í viðræður við Deutsche Bank vegna athugunar bankans en tvær vikur hefðu liðið frá því Deutsche Bank skilaði niðurstöðum sínum til sparisjóðsins 4. mars 2010 þar til lokaniðurstaða athugunarinnar lá fyrir. Kröfu­hafar hefðu um leið verið boðaðir á fund sem til stæði að halda 24. mars 2010. Ný áætlun gerði ráð fyrir að drög að lánaskjölum, sem hlotið hefðu endanlegt samþykki kröfuhafa á helstu skilmálum, yrðu send stjórnvöldum 2. apríl 2010. Skilmála þess myndu kröfuhafar þá hafa samþykkt endanlega. Óformlegar viðræður hefðu staðið yfir milli sparisjóðsins og Íslandsbanka hf. um aðkomu bankans að fjárhagslegri endurskipulagningu sjóðsins. Formlegt erindi um þá aðkomu hefði borist frá Íslandsbanka 17. mars 2010 og bankinn hygðist leggja fram tilboð til kröfuhafa og stofnfjáreigenda sjóðsins 31. mars 2010 að undangenginni lagalegri og fjárhagslegri áreiðanleikakönnun. Aðrir aðilar hefðu einnig lýst áhuga á aðkomu að fjárhagslegri endurskipulagningu sjóðsins, t.d. með kaupum á kröfum af kröfuhöfum eða nýju stofnfé.548 Óskað var eftir frekari fresti til þess að uppfylla lágmarks­eiginfjárhlutfall meðan unnið væri að því að ljúka fjárhagslegri endurskipulagningu með farsælum hætti.549 Frestur var veittur til 21. apríl 2010.

Fundur kröfuhafa Byrs sparisjóðs var haldinn 24. mars 2010. Þar kom fram að þær breytingar sem helstar hefðu orðið á áætlun um fjárhagslega endurskipulagningu sneru að niðurfærslu eigna í MP Banka hf. um 1 milljarð króna, afskráningu fjármögnunar frá Íbúðalánasjóði úr bókum sparisjóðsins og því að lokadegi samningaferilsins hefði verið frestað þar til í júní 2010. Farið var yfir kröfur Fjármálaeftirlitsins og tillögur fjármálaráðuneytisins á þessum fundi.

Viðræður sparisjóðsins við fjármálaráðuneytið og kröfuhafa héldu áfram eftir fundinn og 26. mars 2010 sendi fjármálaráðuneytið bréf til sparisjóðsins um breytingar á forsendum samkomulags um fjárhagslega endurskipulagningu sem ráðuneytið taldi sig geta komið til móts við. Enn var rætt um 10,6 milljarða króna framlag frá ríkissjóði og talin fram skilyrði sem sparisjóðurinn þurfti að uppfylla til þess að kröfuhafar fengju peningagreiðslu fljótlega upp í hluta krafna sinna. Hinn 31. mars 2010 sendi sparisjóðsstjóri tillögur um aðkomu fjárfesta að fjárhagslegri endurskipulagningu sparisjóðsins til fjármálaráðuneytisins. Í þeim áætlunum nam framlag ráðuneytisins 5,3 milljörðum króna, eða um helmingi af því sem áður hafði verið gert ráð fyrir, en fyrir það fengi ríkissjóður rúm 20% í sparisjóðnum. Því sem eftir væri yrði skipt milli nýrra fjárfesta og kröfuhafa. Nýir fjárfestar, í samvinnu við skuldabréfaeigendur, myndu kaupa kröfur af lánardrottnum sparisjóðsins með þessu fyrirkomulagi. Aðstoð ríkisins við sparisjóðinn myndi hins vegar nema 20,3 milljörðum króna því gert var ráð fyrir 15 milljarða króna lausafjárfjármögnun frá Seðlabanka Íslands.550 Í tölvupósti milli starfsmanna fjármálaráðuneytis, lögfræðinga sem unnu fyrir ráðuneytið og Hawkpoint kom fram að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn setti sig upp á móti peningagreiðslum til kröfuhafa eða öðrum þeim aðgerðum sem breyttu kröfuröðinni.551

Á sama tíma voru í undirbúningi í fjármálaráðuneytinu aðgerðir, kæmi til þess að Fjármálaeftirlitið þyrfti að taka sparisjóði yfir, en á sama tíma stóð Sparisjóðurinn í Keflavík í fjárhagslegu endurskipulagningarferli og höfðu lögfræðingar á vegum ráðuneytisins útbúið minnisblöð um slíkar aðgerðir strax í desember 2009.552 Í apríl 2010 gengu tölvupóstar á milli sparisjóðsstjóra, starfsmanna fjármálaráðuneytisins og ráðgjafa fjármálaráðuneytisins, Hawkpoint, um skilmála í fjárhagslegri endurskipulagningu sparisjóðsins sem tóku mið af þeim tillögum sem lagt hafði verið upp með frá því í desember 2009, þ.e. 60% afskrift, 25% umbreytingu í langtímalán, að 15% yrði breytt í víkjandi lán og 6% í eigið fé af kröfum lánveitenda í erlendum sambankalánum. Gert var ráð fyrir 10,6 milljarða króna framlagi úr ríkissjóði og ekki farið fram á beinar peningagreiðslur gegn ákveðnum skilyrðum, en skilyrði um slíkt hafði verið að finna í eldri hugmyndum.553

Íslandsbanki hf. hafði íhugað að taka yfir sparisjóðinn og gert um það formlegt tilboð í mars 2010. Bankanum voru afhent gögn til þess að glöggva sig betur á stöðu sparisjóðsins en í apríl 2010 varð niðurstaðan sú að bankinn væri ekki reiðubúinn að taka yfir sparisjóðinn að svo komnu máli. Fyrir rannsóknarnefndinni sagði fyrrverandi sparisjóðsstjóri:

Þá var það bara hreinlega [mat bankans] að það þyrfti að afskrifa eignasafnið meira en [sparisjóðurinn var búinn] að vinna með. Kannski var svolítið ólíku saman að jafna þar sem bankarnir byrjuðu að afskrifa niður í meira og minna ekki neitt og síðan þá eru þeir búnir að vera að hækka eignasafnið. Við vorum alltaf að reyna að finna hvert væri hið raunverulega virði safnsins en ekki bara taka það niður um einhvern helling og skila svo einhverju ef það kemur eitthvað til baka.554

Bankastjóri NBI hf. lýsti yfir áhuga bankans á því að koma að endurreisn sparisjóðanna við ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu 19. apríl 2010. Honum væri kunnugt um að Íslandsbanki hf. hefði metið eignir Byrs sparisjóðs og hafnað yfirtöku fyrirtækisins og hann væri tilbúinn að beita sér fyrir því að NBI hf. kæmi að sparisjóðnum.555

Kröfuhafar sparisjóðsins mynduðu ekki einsleitan hóp enda voru hagsmunir þeirra margvíslegir. Í skýrslu fyrir rannsóknarnefndinni skýrði fyrrverandi sparisjóðsstjóri frá því að erlendir kröfuhafar hefðu átt erfitt með að átta sig á íslensku fjármálaumhverfi og áhrifum neyðarlaganna.556 Í mars 2010 barst fjármálaráðuneytinu bréf sem hluti kröfuhafa Byrs sparisjóðs hafði látið íslenska lögfræðinga vinna fyrir sig. Í bréfinu voru gerðar alvarlegar athugasemdir við breytingu á kröfuröð í kjölfar setningar neyðarlaganna og þess forgangs sem innistæður öðluðust þá. Þegar kom að því að samþykkja fyrirliggjandi hugmyndir um fjárhagslega endurskipulagningu náðist ekki einhugur meðal kröfuhafa. Fyrir stjórnarfund Byrs sparisjóðs 16. apríl 2010 höfðu margir kröfuhafar samþykkt tilboð um endurskipulagningu en tveir stórir erlendir kröfuhafar ekki talið sig geta gefið jákvætt svar fyrr en Bankasýsla ríkisins skýrði hvernig hún sæi fyrir sér stöðu sjóðsins að fjárhagslegri endurskipulagningu lokinni. Kæmi það svar ekki myndu þessir kröfuhafar hafna tilboðinu. Sparisjóðsstjóri hafði sama dag fengið bréf frá Bankasýslunni en það þótti frekar almennt orðað og ekki til þess fallið að svara spurningum kröfuhafa.557 Samkvæmt skýrslum sérstaks sérfræðings Fjármálaeftirlitsins í Byr sparisjóði virtist honum og starfsmönnum sparisjóðsins sem átök væru milli stóru kröfuhafanna og þeir sem vildu hafna tilboði um endurskipulagningu væru að reyna að selja kröfur sínar. Þó var látið í veðri vaka að höfnun tilboðsins væri eingöngu vegna skorts á upplýsingum frá Bankasýslu ríkisins um hver framtíðarsýn hennar fyrir sparisjóðinn væri sem stærsta tilvonandi stofnfjárhafa í honum.558 Að kvöldi 19. apríl 2010 varð ljóst að Bankasýslan myndi engu bæta við bréfið sem fyrir lá og var það sent kröfuhöfum ásamt bréfi frá sjóðnum degi síðar. Sparisjóðsstjóri var ekki bjartsýnn á að bréfið stæði undir væntingum kröfuhafa sem þurftu að svara tilboðinu daginn eftir en þá rann frestur sparisjóðsins til þess að uppfylla lágmarkseiginfjárkröfur út.559

Byr sparisjóður tilkynnti Fjármálaeftirlitinu 21. apríl 2010 að erlendir kröfuhafar sparisjóðsins hefðu synjað tilboði um fjárhagslega endurskipulagningu sjóðsins. Þeir hefðu gefið þær skýringar að skort hefði á upplýsingar frá stjórnvöldum um með hvaða hætti endurskipulagning sparisjóðakerfisins í heild sinni færi fram. Ekki hefðu verið gerðar athugasemdir við skilmála fjárhagslegu endurskipulagningarinnar eða upplýsingagjöf Byrs sparisjóðs. Inn á stjórnarfund Byrs sparisjóðs þennan sama dag hefði borist tilboð frá bresku fyrirtæki, Carval, til kröfuhafa um kaup á kröfum þeirra á 5% af nafnvirði krafna. Frestur til að taka tilboðinu væri til kl. 17 föstudaginn 23. apríl 2010. Á fundi með Fjármálaeftirlitinu sama dag sagði sparisjóðsstjóri erfitt að meta hversu mikil alvara væri að baki tilboðinu en þó væri ekki hægt að líta framhjá því að fulltrúi fjármálaráðuneytisins, ráðgjafafyrirtækið Hawkpoint, hefði átt þátt í að koma á tengslum milli aðila. Því væri væntanlega um trúverðugan aðila að ræða.560

Sama dag sendi starfsmaður Hawkpoint drög að bréfi til stjórnar Byrs sparisjóðs, fyrir hönd fjármálaráðuneytisins, til ráðgjafa fjármálaráðherra. Í póstinum segir: „please find attached draft letter to Byr establishing the government's position […] Carval just called saying that they will put a bid in of 5 today. He said that he would be able to raise the bid given more time.“561 Í bréfi til stjórnar Byrs sparisjóðs er þess getið að ráðuneytið telji að hluti kröfuhafa hafi ekki sýnt mikinn samstarfsvilja þennan síðasta spöl viðræðnanna um fjárhagslega endurskipulagningu. Það hafi meðal annars birst í lögfræðiáliti um ólögmæti þess að gera innlán að forgangskröfum á grunni neyðarlaganna, en sá forgangur hefði eigi að síður verið grundvöllur allra tilboða og áætlana um endurskipulagningu. Það hafi valdið vonbrigðum að stór hluti erlendra kröfuhafa sparisjóðsins hafi ekki samþykkt tilboðið þar eð athugun Deutsche Bank frá í mars sama ár hefði gefið til kynna að þeir gætu búist við betri endurheimtum krafna með því að ganga að fyrirliggjandi tilboði en ef sparisjóðurinn yrði tekinn til slitameðferðar. Tilboðið sem hafi legið fyrir hafi verið í samræmi við það tilboð sem hafi verið rætt í desember við Byr sparisjóð og lykilkröfu­hafa, en að mati ráðuneytisins hafi það haft að geyma ákveðin viðbótaratriði sem væru hliðhollari kröfuhöfum í kjölfar samningaviðræðna ráðuneytisins við sjóðinn. Bréfið var formlega sent stjórn Byrs sparisjóðs 21. apríl 2010.562

Í minnisblaði nefndar um fjármálastöðugleika sem lagt var fyrir fund forsætisráðherra, fjármálaráðherra, efnahags- og viðskiptaráðherra, forstjóra Fjármálaeftirlitsins og bankastjóra Seðlabanka Íslands 21. apríl var fjallað um vanda Byrs sparisjóðs og Sparisjóðsins í Keflavík. Með tilliti til yfirlýsinga ríkisstjórnarinnar um tryggingu innistæðna, heildarinnlána þessara tveggja sparisjóða, lausafjárstöðu þeirra og eiginfjárkrafna til sparisjóðanna væri heildareiginfjárbinding ríkissjóðs til þess að fara með allar eignir Byrs sparisjóðs og Sparisjóðsins í Keflavík metin að hámarki 38 milljarðar króna. Í ljósi þessa væri ekki önnur leið í stöðunni en að Fjármálaeftirlitið beitti heimild til bráðabirgða í lögum um fjármálafyrirtæki og tæki yfir starfsemi sparisjóðanna tveggja og ráðstafaði eignum þeirra og skuldum.

Daginn eftir, 22. apríl, sendi stjórn Byrs sparisjóðs bréf til Fjármálaeftirlitsins um að stjórninni þætti sýnt að viðleitni við að endurreisa fjárhag sparisjóðsins myndi ekki skila árangri. Stærsti erlendi kröfuhafi sjóðsins hefði hafnað tilboði íslenska ríkisins og jafnframt tilboði fjárfestingarsjóðs sem vildi kaupa kröfur erlendra lánardrottna. Þá teldi stjórnin að fall Sparisjóðsins í Keflavík myndi hafa neikvæð áhrif á rekstrarhæfi Byrs sparisjóðs og teldi hún því óhjákvæmilegt að fara þess á leit við Fjármálaeftirlitið að það tæki yfir Byr sparisjóð.563

18.7.2 Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins og stofnun Byrs hf.

Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 22. apríl 2010 tók það yfir vald stofnfjáreigendafundar Byrs sparisjóðs, vék stjórn hans frá og skipaði bráðabirgðastjórn. Sama dag voru allar innistæður og eignir sparisjóðsins fluttar í nýtt félag, Byr hf., en ríkissjóður lagði félaginu til 900 milljónir króna í hlutafé. Fyrir lá að leggja þyrfti þessari nýju fjármálastofnun til það eigið fé sem þyrfti til að uppfylla skilyrði Fjármálaeftirlitsins fyrir starfsleyfi. Áætlað var að sú upphæð væri í kringum 25 milljarðar króna í tilfelli Byrs sparisjóðs.564 Fjármálaeftirlitið hafði sama dag einnig tekið yfir vald stofnfjáreigendafundar Sparisjóðsins í Keflavík og stofnað nýjan sparisjóð til þess að taka við ákveðnum eignum og skuldum hans og var reiknað með að eiginfjárframlag til þess sparisjóðs myndi nema um 13 milljörðum króna. Heildarútgjöld ríkissjóðs vegna þessara tveggja sparisjóða færu langt umfram það sem stjórnvöld hefðu miðað við fyrir fjárhagslega endurskipulagningu sparisjóðanna í landinu. Þannig hefði í ásetningsbréfi stjórnvalda til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá 7. apríl 2010 komið fram að ekki yrði varið meira en því sem samsvaraði 1,5% af landsframleiðslu, þá um 25 milljörðum króna, í endurskipulagningu sparisjóðakerfisins. Þá var gert ráð fyrir að útgjöld vegna fjárhagslegrar endurskipulagningar átta smærri sparisjóða, sem fjármálaráðuneytið og Seðlabanki Íslands hefðu átt samstarf um, gætu numið um það bil 4 milljörðum króna en samningar um endurskipulagningu þeirra væru frágengnir og biðu einungis samþykkis Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA).565

Þáverandi bankastjóri NBI hf. ítrekaði áhuga bankans á að koma að rekstri Byrs sparisjóðs og Sparisjóðsins í Keflavík með bréfi til ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytisins 23. apríl 2010. Sama dag gerði bankastjóri Arion banka hf. ráðuneytisstjóranum ljóst að hann hefði áhuga á að taka þátt í viðræðum um samruna Byrs hf. við viðskiptabanka sem væri einfaldari þar sem hann væri ekki lengur sparisjóður heldur hlutafélag. Þá sendi bankastjóri Íslandsbanka hf. fjármálaráðuneytinu bréf 25. apríl 2010 þar sem lýst var yfir áhuga á að eiga fund með öllum hlutaðeigandi aðilum til þess að ræða frekar hugsanlega aðkomu bankans að málefnum Byrs hf. Þótt áform um aðkomu bankans að endurskipulagningu Byrs sparisjóðs hefðu ekki gengið eftir í mars sama ár hefðu aðstæður breyst með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 22. apríl 2010. Íslandsbanki lýsti sig nú reiðubúinn að koma að kaupum á eða sameiningu við Byr hf. í samvinnu við stjórnvöld.

Um ástæður þess að ákveðið var að fara þessar ólíku leiðir, að endurreisa Sparisjóðinn í Keflavík sem stofnfjársparisjóð og Byr sparisjóð sem hlutafélag sagði fjármálaráðherra fyrir rannsóknarnefndinni að það hefði verið gert í þeirri von að Spkef sparisjóður gæti síðar orðið einhvers konar kjölfesta í því sem eftir var af sparisjóðakerfinu, en ekki hefði verið talin sérstök ástæða til þess með Byr sparisjóð og því stofnað hlutafélag í tilviki Byrs.566 Menn hefðu talið allgóðar líkur á að Sparisjóðurinn í Keflavík gæti starfað áfram sem slíkur og orðið langstærsti sparisjóðurinn og kannski í fyllingu tímans „móðurstöð“ eða bakhjarl fyrir aðra minni sparisjóði. Varðandi Byr sparisjóð hefði það verið mun stærri biti og mat manna að það væru meiri líkur á því að fá aðra aðila að því að endurreisa hann sem hlutafélagabanka.567 Mörg sjónarmið hefðu komið inn í þessa ákvörðun þar á meðal byggðarök. Byr sparisjóður hefði verið með starfsemi á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri þannig að það voru kannski ekki byggðarök á sama hátt og með Sparisjóðinn í Keflavík sem var eini þjónustuaðilinn á stórum landsvæðum.568

Í skýrslu skrifstofustjóra í efnahags- og viðskiptaráðuneyti fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom fram að töluverð átök hefðu verið um þá leið sem farin yrði. Sérfræðihópurinn vildi fara sömu leið með Byr sparisjóð og Sparisjóðinn í Keflavík, þ.e. hlutafélagaleiðina, en pólitískur vilji hefði staðið til fara sparisjóðaleiðina.569 Aðspurður hvers vegna sérfræðingarnir hefðu viljað fara hlutafélagaleiðina en ekki sparisjóðsleiðina sagði hann:

Sparisjóðirnir hafa bara fengið mikinn hljómgrunn hjá pólitíkinni í gegnum tíðina. Þetta var Steingrímur J. Sigfússon sem var þá fjármálaráðherra og þessi krafa virtist koma þaðan. Einhvern veginn virtist hann halda í þá von að hægt væri að endurreisa Sparisjóðinn í Keflavík og að hann yrði þá einhvers konar móðurskip fyrir sparisjóðina, en ég held að það hafi verið praktískar ástæður fyrir því að við vildum fara hlutafélagaleiðina. Það væri auðveldara að vinda ofan af því og kannski selja lífvænlegar einingar út úr pakkanum.570

Í skýrslu efnahags- og viðskiptaráðherra fyrir rannsóknarnefndinni kom fram að hugmyndin hefði verið að Byr hf. yrði áfram hluti af sparisjóðafjölskyldunni og gegndi áfram því hlutverki sem hann hafði gegnt til þess tíma, en hann hafði tekið við hlutverki greiðslumiðlunar og fjárstýringar fyrir sparisjóðina sem Sparisjóðabanki Íslands hf. hafði áður sinnt. Skilningur ráðherrans hefði verið að auðveldara yrði að fjármagna Byr í hlutafélagaformi en sem sparisjóð með stofnfé. Þá hefði ein hugmyndin verið að selja Byr hf. viðskiptabanka og þá sérstaklega horft til Íslandsbanka, þó að einnig hefði verið litið til Landsbankans, um að bankinn tæki að sér þjónustu við sparisjóðina í einhverjum skilningi. Innan sparisjóðanna hefði mönnum verið illa við þessa hugmynd því þá litu menn þannig á að þeir væru angi frá banka, því hefði verið erfitt að vinna með þessa hugmynd vegna andstöðu sparisjóðanna. Þá hefðu þeir orðið í einhverjum skilningi annars flokks fjármálastofnun sem ætti allt sitt undir einum af viðskiptabönkunum571

Við stofnun Byrs hf. átti ríkissjóður 5,2% í félaginu en Byr sparisjóður 94,8% eftir að kröfum hans á félagið hafði verið breytt í hlutafé.572 Í skýrslu fyrir rannsóknarnefndinni sagði fyrrverandi sparisjóðsstjóri Byrs sparisjóðs og framkvæmdastjóri Byrs hf. að þegar unnið hefði verið áfram með eignasafn bankans hefði komið í ljós að staða sparisjóðsins hefði verið enn verri en talið var og breyttust eignarhlutföll í kjölfarið. Ríkissjóður hélt sínu framlagi en hlutur kröfuhafa minnkaði um hér um bil 6 milljarða króna.573 Eignarhlutur ríkisins nam þá 11,6% en hlutur Byrs sparisjóðs varð 88,4%. Sala eignarhluta ríkisins í Byr hf. til Íslandsbanka hf. var samþykkt af Alþingi í lok nóvember 2011 en söluverð alls hlutafjár í félaginu var 6,6 milljarðar króna. Hlutur ríkissjóðs af söluandvirði Byrs hf. var 765 milljónir króna sem þýðir að sölutapið nam 135 milljónum króna.574

18.8 Innra eftirlit

Við skoðun á innra eftirliti sparisjóðanna var leitast við að kanna hvernig fyrirkomulagi þess var háttað og hvort veikleikar hefðu verið í eftirlitskerfum sparisjóðanna. Almenna umfjöllun um innra eftirlit, hlutverk stjórnar, innri endurskoðun og áhættustýringu er að finna í 6. kafla, en eftirfarandi umfjöllun lýtur að virkni þessara þátta í starfsemi Byrs sparisjóðs og áhrifum þeirra á rekstur sparisjóðsins. Áhersla var lögð á tímabilið frá 2007 til 2010, einkum þó árin 2008 og 2009.

18.8.1 Innri endurskoðun

Í ársskýrslum innri endurskoðunar Byrs sparisjóðs fyrir árin 2008 og 2009 var hlutverk innri endurskoðunar575 skilgreint á eftirfarandi hátt:

Innri endurskoðun (IE) er hluti af skipulagi Byrs og þáttur í eftirlitskerfi hans. Innri endurskoðun er hlutlaust matsferli, sem hefur það grundvallarmarkmið að skapa verðmæti (virðisauka) með því að bæta viðkomandi rekstur, aðstoða stjórnendur við að ná settum rekstrarmarkmiðum og meta árangur, bæta áhættustýringu, eftirlit og stjórnun með kerfisbundnum og öguðum vinnubrögðum.576

Mjöll Flosadóttir var ráðin forstöðumaður innri endurskoðunardeildar Byrs í mars 2007 en hún hafði áður gegnt starfi forstöðumanns innri endurskoðunardeildar Sparisjóðs Hafnarfjarðar auk annarra stjórnendastarfa fyrir sparisjóðinn. Auk þess að vera menntaður viðskiptafræðingur hafði hún lokið löggildingarprófi í verðbréfamiðlun. Fljótlega eftir ráðningu Mjallar til Byrs sparisjóðs var hún fengin til að taka að sér tímabundið verkefni hjá Verðbréfaþjónustu sparisjóðanna (VSP) þar sem framkvæmdastjóra verðbréfaþjónustunnar hafði verið vikið frá störfum í apríl 2007 vegna gruns um umboðssvik og fjárdrátt. Í upphafi var talið að um tveggja til þriggja mánaða tímabil yrði að ræða, en það stóð hins vegar í níu mánuði. Þáverandi forstöðumaður bankaþjónustu Byrs, sem áður var starfsmaður Sparisjóðs Hafnarfjarðar, Björn Steinar Pálmason, sinnti starfi innri endurskoðanda Byrs frá 14. maí 2007 til 1. mars 2008. Í skýrslu innri endurskoðanda vegna ársins 2007 lýsti staðgengill forstöðumanns innri endurskoðunardeildar aðkomu sinni svo:

Það að fara inn í nýtt starf með þessum hætti og sérstaklega þegar enginn er til að leiðbeina og kenna, leiddi af sér að oft á tíðum tók það lengri tíma að vinna verkefnin sérstaklega þegar þau eru unnin í fyrsta skipti. Við sameiningar sem átt hafa sér stað á árinu og þær sem framundan eru er ljóst að verkefni [innri endurskoðunar] hafa og munu aukast verulega í framtíðinni og því brýnt að efla þetta svið ekki síst í ljósi þess að eftirlit og fjölgun ýmissa reglna frá ESB til fjármálastofnana hafa aukist verulega. Þegar er gert ráð fyrir tveimur stöðugildum í [innri endurskoðun] en í rekstraráætlun er jafnframt gert ráð fyrir 1 stöðugildi til viðbótar.577

Í mars 2008 var ráðinn sérfræðingur til starfa í innri endurskoðunardeild sparisjóðsins við hlið Mjallar Flosadóttur forstöðumanns og voru því tvö stöðugildi í deildinni í árslok 2008.578 Enn var Mjöll fengin til að taka að sér tímabundið starf. Nú hafði framkvæmdastjóri Byrs Verðbréfa látið af störfum og gegndi Mjöll starfinu frá 1. febrúar til 1. september 2009.579 Á meðan leysti sérfræðingur deildarinnar forstöðumanninn af. Mjöll kom aftur til starfa 1. september 2009 og gegndi störfum innri endurskoðanda Byrs þar til hún tók við starfi innri endurskoðanda Spkef sparisjóðs í júlí 2010. Ljóst er að þótt gert hafi verið ráð fyrir tveimur til þremur stöðugildum í innri endurskoðun Byrs sparisjóðs frá 2007 til 2010 var forstöðumaðurinn fenginn til að taka að sér ýmis afleysingarstörf og því starfaði einungis einn starfsmaður við innri endurskoðun sparisjóðsins stóran hluta tímabilsins.

Verkefni innri endurskoðunar

Í árlegum skýrslum forstöðumanns innri endurskoðunardeildar Byrs vegna áranna 2007, 2008 og 2009 var gerð grein fyrir störfum deildarinnar þar sem fram kom að gerð væri endurskoðunaráætlun fyrir hvert ár, auk þess sem oft kæmu upp sértæk verkefni sem gætu haft áhrif á áætlunina. Verkefni innri endurskoðunar væru unnin í samvinnu við framkvæmdastjórn og aðra starfsmenn sparisjóðsins, auk þess sem fyrirspurnir væru sendar til ytri endurskoðanda.580

Forstöðumaður innri endurskoðunar tók þátt í starfshópi um innri endurskoðun á vegum sparisjóðanna auk þess sem hann tók virkan þátt í starfi Félags innri endurskoðenda og sótti ráðstefnur um innri endurskoðun. Í skýrslu Mjallar Flosadóttur fyrir rannsóknarnefndinni kom fram að ekki hefði verið búið að innleiða alþjóðlega staðla um innri endurskoðun hjá Byr. Ekki hefði verið farið kerfisbundið yfir eða fylgt leiðbeinandi reglum um innri endurskoðun, svo sem reglum frá Basel-nefndinni eða leiðbeinandi reglum FME nr. 1/2002.581 Þó kom fram að starfsmenn innri endurskoðunar vissu af þessum reglum en ákveðin fastmótuð vinnubrögð sem innri endurskoðendur sparisjóðanna unnu eftir mótuðu nálgun þeirra á verkefnið. Eftir að leiðbeinandi tilmæli um störf innri endurskoðunardeilda komu frá Fjármálaeftirlitinu hefði þeim verið fylgt.582

Innri endurskoðun gerði margar athugasemdir við vinnuferli og eftirlitsþætti á hinum ýmsum sviðum. Síðan var farið yfir allar ábendingar og athugasemdir með yfirmönnum sviða. Á árinu 2009 gerði innri endurskoðun úttekt á störfum áhættunefndar sparisjóðsins og voru gerðar alvarlegar athugasemdir við störf hennar. Í skýrslu Mjallar Flosadóttur fyrir rannsóknarnefndinni kom fram að ekki hefðu verið gerðar athugasemdir við endurskoðunaráætlanir sem hefðu verið lagðar fyrir stjórn sparisjóðsins árlega. Sparisjóðsstjóri hefði, fyrir hönd stjórnar, í einhverjum tilvikum beðið um að ákveðin verkefni yrðu unnin, en skýrslugjöf vegna þessara verkefna var til stjórnar. Farið var yfir einstakar úttektir með yfirmönnum sviða og sparisjóðsstjórum og fannst innri endurskoðanda stjórnendur yfirleitt taka niðurstöðum innri endurskoðunar vel og að tillit hefði verið tekið til athugasemda hennar og ábendinga. Niðurstöður þessara úttekta voru þó, að mati innri endurskoðanda, ekki þess eðlis að þær þyrfti að bera undir stjórn sparisjóðsins. Innri endurskoðun skilaði árlega samantekt, eða ársskýrslu, yfir helstu verkefni nýliðins starfsárs, auk þess að vinna skýrslu um útlán sem lögð var fyrir stjórn sparisjóðsins. Að sögn forstöðumanns innri endurskoðunar fékk ytri endurskoðandi afrit af öllum skýrslum innri endurskoðanda. Samvinna milli þeirra og samskipti hefðu verið góð. Taldi innri endurskoðandi að ekki hefðu komið fram athugasemdir af hálfu ytri endurskoðanda um störf innri endurskoðunar.583

Í skýrslu innri endurskoðunar kom einnig fram að hún myndi ekki til þess að stjórn sparisjóðsins hefði spurt út í stöðu einstakra mála sem til skoðunar voru eða fylgt eftir frávikum sem komu upp við vinnu innri endurskoðunar. Ekki hefðu verið mikil samskipti milli innri endurskoðunar og stjórnar milli formlegra funda. Lítil samskipti hefðu verið á milli innri endurskoðunar og stjórnarformanns og af þeim sökum hefði hún frekar leitað til sparisjóðsstjóra en stjórnar, enda taldi hún sig fá meiri skilning á störfum sínum þar. Aftur á móti merkti hún ekki áhuga á innra eftirliti og innri endurskoðun hjá stjórnarformanninum. Þá gerði stjórnarformaðurinn athugasemd við úttekt innri endurskoðunar á stærstu lánþegum og hvernig innri endurskoðun tengdi saman félög í eigu hans eða aðila sem tengdust honum. Niðurstöðum innri endurskoðunar var þó ekki breytt.584

18.8.2 Áhættustýring

Fjármálafyrirtækjum ber, samkvæmt 11. mgr. 84. gr. laga um fjármálafyrirtæki, að upplýsa opinberlega um áhættur, áhættustýringu og eiginfjárstöðu sína. Umfjöllun um áhættustýringu var birt í skýringum með ársreikningi Byrs sparisjóðs frá árinu 2007 og var sams konar umfjöllun í ársreikningi fyrir árið 2008. Þar kom enn fremur fram að helstu áhættuþættir sparisjóðsins væru taldir vera mótaðilaáhætta, lausafjáráhætta, markaðsáhætta og rekstraráhætta.

Reglur Byrs sparisjóðs um áhættuviðmið og áhættustýringu voru samþykktar af stjórn sparisjóðsins 16. maí 2007. Markmið og hlutverk reglna um áhættustýringu var að innleiða og stuðla að notkun áhættustýringar sem hagnaðartækis. Áhættustýringu bar meðal annars að greina og veita heildaryfirsýn yfir alla helstu áhættuþætti, hafa eftirlit með áhættu innan einstakra sviða og bera saman við viðmið eða heimildir sem settar væru af stjórn sparisjóðsins.585 Stjórn sparisjóðsins setti almennar reglur um útlánastarfsemi í samræmi við ákvæði laga og samþykkta sparisjóðsins. Sparisjóðsstjóri bar hins vegar ábyrgð á að starfsemi sparisjóðsins tæki mið af reglum um áhættustýringu og bar honum að grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að greina, mæla og hafa eftirlit með áhættuþáttum í daglegri starfsemi. Þá bar sparisjóðsstjóra að viðhalda skipuriti sem tilgreindi ábyrgðarsvið og heimildir starfsmanna, auk þess að setja nánari reglur sem byggðust á fyrrgreindum reglum sparisjóðsins um áhættustýringu. Áhættustýring sparisjóðsins skyldi vera nátengd sem flestum sviðum sparisjóðsins og bar hvert svið og framkvæmdastjóri þess ábyrgð á stýringu þeirra áhættuþátta er að þeim sneru. Í því fólst að framfylgja reglum um áhættuviðmið og áhættustýringu, auk annarra reglna og viðmiða um áhættustýringu sem kynnu að verða settar.586

Fyrirkomulag áhættustýringar

Sérstöku sviði innan Byrs sparisjóðs, áhættustýringu og útlánaeftirliti, var ætlað að starfa eftir reglum sparisjóðsins um áhættustýringu og áhættuviðmið og standa skil á skýrslum um þróun mála. Þá skyldi sviðið greina frá öllum frávikum frá reglum og settum viðmiðum auk þess sem áhættustýringu var falið að annast hluta skýrslugerðar og samskipti við eftirlitsaðila.587 Hlutverk áhættustýringar var jafnframt að annast frekari úrvinnslu upplýsinga frá einstökum sviðum sparisjóðsins, kanna áreiðanleika þeirra og framkvæma sjálfstætt áhættumat. Áhættustýring skyldi hafa beinan aðgang að gögnum sem nauðsynleg væru vegna þeirra verkefna. Áhættustýringu bar að hafa með höndum „lánaáhættu og fjármálaáhættu, þ.e. markaðsáhættu og lausafjáráhættu“. Áhættustýring hafði eftirlit með því að kröfur eftirlitsaðila á hverjum tíma varðandi áhættutöku í rekstri væru uppfylltar. Áhættustýringu bar að fara yfir og fjalla um, í samvinnu við sparisjóðsstjóra og sparisjóðsstjórn, stöðu helstu skuldara og einstakar, stórar lánveitingar.588

Byr sparisjóður starfrækti sérstaka áhættunefnd og var hlutverk hennar skilgreint í reglum um áhættustýringu og áhættuviðmið. Nefndinni var ætlað að hafa eftirlit með lánarömmum fyrir stóra lánþega, yfirfara reglulega stöðu aðila innan lánaramma ásamt því að yfirfara fjárhagsstöðu hvers aðila í hópi stærstu skuldara sparisjóðsins. Það var á hendi lánanefndar að skilgreina lánaramma fyrir hvern viðskiptavin og afhenda þá áhættunefnd til athugunar.589 Áhættunefnd átti einnig að fara yfir lánveitingar sem voru skilgreindar háar, en ekki var getið um fjárhæðir í því sambandi. Fjármálaeftirlitið taldi í skýrslu sinni um útlána­áhættu Byrs sparisjóðs frá 24. október 2007 að áhættunefnd sparisjóðsins væri ekki virk590 og kallaði eftir gögnum varðandi greiningu áhættustýringar. Þar sem ekki reyndist unnt að afhenda þau ályktaði Fjármálaeftirlitið að slík gögn væru ekki til staðar í sparisjóðnum og gerði alvarlegar athugasemdir við það.591

Í máli Gunnars Árnasonar, forstöðumanns áhættustýringar, fyrir rannsóknarnefndinni kom fram að hann hefði ekki setið fundi lánanefndar. Hann sagðist hafa sóst eftir að sitja þá fundi sem áheyrnarfulltrúi en ekki fengið. Því gat forstöðumaðurinn ekki komið athugasemdum sínum á framfæri á fundum lánanefndar.592 Taldi hann að almennt hefðu stjórnendur tekið tillit til sjónarmiða áhættustýringar en ekki alltaf. Ekki hefði verið verulegur ágreiningur milli stjórnenda og áhættustýringar en áhættustýring hefði þó viljað beita fyrirbyggjandi eftirlitsaðgerðum en ekki getað þar sem hún hafði ekki aðgang að lánanefndarfundum. Ábendingar og athugasemdir áhættustýringar fólust í að gera athugasemdir við útlán til ákveðinna aðila, tryggingatöku og ferli við lánveitingu og ákvörðunartöku.593 Í útlánareglum Byrs frá 30. september 2009 var sett inn ákvæði um að fulltrúi áhættustýringar fengi sæti sem áheyrnarfulltrúi í lánanefnd.

Úttektir á áhættustýringu Byrs sparisjóðs

Fjármálaeftirlitið skilaði skýrslu um útlánaáhættu Byrs sparisjóðs í október 2007, en vinna vegna þeirrar athugunar hófst í júlí sama ár.594 Helstu niðurstöður skýrslunnar voru að nokkuð skorti á yfirsýn yfir útlánamál Byrs. Mikilvægt væri að áhættustýring og innra eftirlit yrði ekki vanrækt við stækkun sparisjóðsins og innri starfsreglur og ferlar uppfærðir og kynntir starfsfólki. Þá yrði að vinna með formlegum hætti að utanumhaldi gagna og greininga. Mat Fjármálaeftirlitsins á stjórnun og eftirliti Byrs var að stefnu, lánareglum og skipulagi væri ábótavant og það sama ætti einnig við um eftirlit og skýrslugjöf.595

Í skýrslunni kom fram að áhættustýring Byrs starfaði ekki í samræmi við reglur um áhættuviðmið og áhættustýringu. Áhættustýring hefði ekki gert greiningar á tapsáhættu og ekki virtist vera ákveðið verklag ef frávik yrðu á tryggingum, en frávik voru rædd óformlega. Álagspróf væru takmörkuð og hvorki framkvæmd reglulega né markvisst. Taldi Fjármálaeftirlitið að nokkuð skorti á að áhættustýring hefði gott yfirlit yfir útlánaáhættu sparisjóðsins. Þá taldi Fjármálaeftirlitið mikilvægt að stjórnendur Byrs hröðuðu vinnu við að efla áhættustýringu og tryggðu að reglulegt eftirliti væri með útlánaáhættu. Áhersla var lögð á að um mikilvæga einingu innan sparisjóðsins væri að ræða og að hún þyrfti að búa yfir nægum mannafla til að stýra áhættu sparisjóðsins. Því væri mikilvægt að eftirlitsþættir og verkferlar fylgdu eftir stækkun sparisjóðsins. Fjármálaeftirlitið leit svo á að deild með tveimur starfsmönnum væri fáliðuð.596

Að mati Fjármálaeftirlitsins lágu ekki fyrir gögn um greiningar áhættustýringar, þrátt fyrir að kveðið væri á um í útlánareglum sparisjóðsins að til staðar skyldu vera áhættu- og útlánagreiningar. Taldi Fjármálaeftirlitið það vera alvarlegan skort á eftirliti. Í athugasemdum Byrs vegna skýrslu Fjármálaeftirlitsins kom fram að áhættustýring hefði skoðað sérstaklega lánþega með fyrirgreiðslu sem væri yfir 15% af eiginfjárgrunni og framkvæmt álagspróf vegna þeirra þótt engin formleg skýrslugerð lægi fyrir. Taldi Fjármálaeftirlitið nauðsynlegt að formgera þessar skýrslur, skila þeim til sparisjóðsstjóra og að samræma yrði ákvæði reglna og framkvæmd um áhættunefnd og áhættustýringu.597 Í svari sparisjóðsins við skýrslu Fjármálaeftirlitsins 7. febrúar 2008 kom fram að starfsmönnum deildarinnar hefði verið fjölgað úr einum í þrjá frá gerð skýrslu Fjármálaeftirlitsins. Fleiri greiningar væru nú gerðar á áhættuþáttum.

 


 

1 . Ársreikningur Byrs sparisjóðs 2006.

2 . Fundargerð aðalfundar Sparisjóðs vélstjóra, 13. mars 2007.

3 . Lýsing Byrs sparisjóðs, útboðslýsing vegna útgáfu nýs stofnfjár hjá Byr sparisjóði, 31. ágúst 2007; Sigurdór Sigurdórsson, „Sparisjóður vélstjóra í aldarfjórðung: Ágrip af sögu sparisjóðsins“, Sjómannablaðið Víkingur, 11.–12. tbl. 48. árg. (1986), bls. 24–27.

4 . Matthías Á. Mathiesen, „Sparisjóður Hafnarfjarðar hundrað ára“, Morgunblaðið 22. desember 2002.

5 . Lýsing Byrs sparisjóðs, útboðslýsing vegna útgáfu nýs stofnfjár hjá Byr sparisjóði, 31. ágúst 2007.

6 . Fundargerð aðalfundar ábyrgðarmanna í Sparisjóði Kópavogs, 30. apríl 1959.

7 . Valþór Hlöðversson, Sparisjóður Kópavogs: Hálfrar aldar saga í máli og myndum, Kópavogi 2008.

8 . Lýsing Sparisjóðs Norðlendinga, 28. nóvember 2007.

9 . „Nýr sparisjóðsstjóri Byrs“, vefsíða Landsbankans 13. janúar 2010, http://www.landsbankinn.is/markadir/frettir/?NewsID=363922&p=70.

10 . Minnisblað Fjármálaeftirlitsins um sérstaka eftirlitsmenn í sparisjóðum og Icebank hf., 21. febrúar 2012.

11 . Árshlutareikningur Byrs sparisjóðs 30. júní 2009.

12 . Samstæðuársreikningur Byrs sparisjóðs 2009.

13 . Samstæðuársreikningur Byrs sparisjóðs 2009.

14 . Fundargerð stjórnar Byrs sparisjóðs 22. apríl 2010.

15 . Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um ráðstöfun eigna og skulda Byrs sparisjóðs, kt. 610269-2229, til Byrs hf., kt. 620410-0200, 22. apríl 2010.

16 . Nánar er fjallað um meðhöndlun ársreikninga og reikningsskilareglur í 8. kafla.

17 . Ársreikningur Sparisjóðs vélstjóra árið 2000.

18 . Hér er tekið tillit til breytinga á afskriftareikningi.

19 . Útreikningur á vaxtamun er skýrður í 8. kafla.

20 . Skýrsla KPMG endurskoðunar hf. um endurskoðun ársreiknings Byr sparisjóðs 2008, 30. apríl 2009.

21 . Um launaþróun hjá sparisjóðunum í heild er fjallað í 8. kafla.

22 . Með breytingu á lögum um hlutafélög árið 2006 voru stjórnir endurskoðunarskyldra hlutafélaga skyldaðar til að samþykkja starfskjarastefnu félagsins varðandi laun og aðrar greiðslur til forstjóra og annarra æðstu stjórnenda félagsins, svo og stjórnarmanna, sbr. 3. gr. laga nr. 89/2006, um breytingu á lögum nr. 2/1995, um hlutafélög.

23 . Byggt á gögnum frá Íslandsbanka vegna Byrs sparisjóðs.

24 . Skýrsla PricewaterhouseCoopers hf. um ákveðna þætti innra eftirlits Byrs sparisjóðs, 10. desember 2010.

25 . Með kröfum er hér átt við innlán, peningamarkaðsútlán og aðrar kröfur.

26 . Ársreikningar Byrs sparisjóðs 2006–2009.

27 . Sjá töflu 2 í viðauka B, um fjáreignir sparisjóðanna í heild.

28 . Í viðauka B má sjá töflu um vexti sparisjóðanna í heild og í viðauka C eru nánari upplýsingar um vexti Byrs sparisjóðs.

29 . Sjá nánari umfjöllun hér aftar.

30 . Nánar er fjallað um aukningu stofnfjár, arðgreiðslur og endurmat síðar í kaflanum.

31 . Nánar er fjallað um fjárhagslega endurskipulagningu sparisjóðsins síðar í kaflanum.

32 . Nánar er fjallað um þetta hér aftar í kaflanum þar sem stofnfé, arður og endurmat er til umræðu.

33 . Í athugasemdum til rannsóknarnefndarinnar 3. desember 2013 sagði Ragnar Z. Guðjónsson fyrrverandi sparisjóðsstjóri að ný útlán hefðu ekki verið veitt í neinum mæli árið 2009. Verðbólga, gengisfall krónunnar og afskriftir hefðu breytt hlutföllum á milli þessara flokka.

34 . Skýrsla innri endurskoðunar Byrs sparisjóðs 2009.

35 . Fram til ársins 2007 voru gerðar sérstakar endurskoðunarskýrslur fyrir Sparisjóð Hafnarfjarðar, Sparisjóð Kópavogs, Sparisjóð Norðlendinga og Sparisjóð vélstjóra.

36 . Svo kölluð Icebank hluthafalán. Sjá nánari umfjöllun í 9. kafla.

37 . Útlánaskoðun KPMG endurskoðunar hf. í Byr sparisjóði, 4. mars 2009.

38 . Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um útlánaáhættu Byrs sparisjóðs, október 2007.

39 . Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um útlánaáhættu Byrs sparisjóðs, október 2007.

40 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til Byrs sparisjóðs 24. október 2007.

41 . Bréf KPMG til Fjármálaeftirlitsins 7. febrúar 2008.

42 . Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um útlánaáhættu Byrs sparisjóðs, október 2007.

43 . Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um útlánaáhættu Byrs sparisjóðs, október 2007.

44 . Reglur nr. 216/2007 um stórar áhættuskuldbindingar taka til lánveitinga, verðbréfaeignar, eignarhluta og veittra ábyrgða fjármálafyrirtækis vegna einstakra viðskiptamanna eða fjárhagslega tengdra aðila svo og annarra skuldbindinga sömu aðila gagnvart fjármálafyrirtækinu og mats á áhættu vegna slíkra skuldbindinga. Reglurnar taka einnig til samstæðu fjármálafyrirtækis og móður- og dótturfyrirtækja. Það telst vera stór áhættuskuldbinding þegar viðskiptamaður eða fjárhagslega tengdir aðilar fá lán eða ábyrgðir, gera framvirka samninga eða fá aðrar fyrirgreiðslur hjá fjármálafyrirtæki og slík skuldbinding fer yfir 10% af eiginfjárgrunni fjármálafyrirtækisins. Áhættuskuldbindingar einstakra viðskiptamanna eða fjárhagslega tengdra aðila máttu ekki fara yfir 25% af eiginfjárgrunni, sbr. 30. gr. laga um fjármálafyrirtæki. Samkvæmt 1. mgr. 30. gr. laga nr. 161/2002 er eiginfjárgrunnur reiknaður út samkvæmt 84.–85. gr. laga nr. 161/2002 og reglum Fjármálaeftirlitsins nr. 215/2007 um eiginfjárkröfur og áhættugrunn fyrirtækja.

45 . Lánahópur samanstendur af tveimur eða fleiri viðskiptamönnum sem eru fjárhagslega tengdir í skilningi 1. mgr. 30. gr. nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Um nánari skilgreiningu á lánahópi vísast til umfjöllunar í 9. kafla.

46 . Nánar er fjallað um þessi félög í 9. kafla, um Icebank hlutahafalán.

47 . Baugur Group hf. var í meirihlutaeigu Fjárfestingafélagsins Gaums ehf.

48 . Útlánaskoðun KPMG endurskoðunar hf. í Byr sparisjóði, 4. mars 2009. Lán voru uppreiknuð miðað við 31. desember 2008 en eiginfjárgrunnur var reiknaður miðað við 30. júní 2008. Þessi tala hefði verið hærri ef sama dagsetning hefði verið á útreikningi eiginfjárgrunns og lána.

49 . Í athugasemdum Magnúsar Ægis Magnússonar, fyrrverandi sparisjóðsstjóra, til rannsóknarnefndarinnar 18. desember 2013 kom fram að ítrekað hefði verið leitað eftir því við Fjármálaeftirlitið og endurskoðendur hvernig tengja bæri aðila saman, meðal annars þessa, en svo hefði virst sem enginn hefði haft svör á reiðum höndum um hvernig rétt væri að gera það.

50 . Yfirlýsing um sjálfskuldarábyrgð var staðfest af prókúruhafa Baugs Group hf. í öllum lánaskjölunum í desember 2005.

51 . Í athugasemd Jóns Þorsteins Jónssonar til rannsóknarnefndarinnar 3. desember 2013 benti hann á að lán til Baugs Group hf. hafi verið með sjálfskuldarábyrgð, enda var talið á þeim tíma að félögin væru burðug og traust. Þá má benda á að skuldabréf félagsins voru skráð á markaði.

52 . Tölvuskeyti Guðna Þorsteinssonar til Ragnars Z. Guðjónssonar 21. janúar 2009.

53 . Upplýsingar úr Spak, afgreiðslukerfi sparisjóðsins.

54 . Fundargerð stjórnar Byrs sparisjóðs, 20. júní 2007.

55 . Skýrsla PricewaterhouseCoopers hf. um ákveðna þætti innra eftirlits Byrs sparisjóðs, 10. desember 2010.

56 . Yfirlit innri endurskoðanda Byrs sparisjóðs lagt fyrir lánanefnd, 29. desember 2008. Í athugasemdum til rannsóknarnefndarinnar 3. desember 2013 sagði Jón Þorsteinn Jónsson, fyrrverandi stjórnarformaður sparisjóðsins, að skuldbindingar félaganna hefðu verið svo háar að hluta til vegna gengisfalls krónunnar.

57 . Fundargerð lánanefndar Byrs sparisjóðs, 19. janúar 2009.

58 . Skýrsla PricewaterhouseCoopers hf. um ákveðna þætti innra eftirlits Byrs sparisjóðs, 10. desember 2010.

59 . Fundargerð stjórnar Byrs sparisjóðs, 7. apríl 2008.

60 . Tölvuskeyti Jóns Sigurðssonar til Ragnars Z. Guðjónssonar 2. mars 2008; fundargerð stjórnar Byrs sparisjóðs, 7. apríl 2008.

61 . Tölvuskeyti Ragnars Z. Guðjónssonar til samstarfsmanna 3. mars 2008.

62 . Tölvuskeyti Carls H. Erlingssonar til Ragnars Z. Guðjónssonar og Magnúsar Ægis Magnússonar 5. mars 2008.

63 . Tölvuskeyti Ragnars Z. Guðjónssonar til samstarfsmanna 7. mars 2008.

64 . Tölvuskeyti fjármálastjóra FL Group hf. til Carls H. Erlingssonar, framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs Byrs sparisjóðs, 29. mars 2008.

65 . Tölvuskeyti Carls H. Erlingssonar, framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs Byrs sparisjóðs, til fjármálastjóra FL Group hf. 29. mars 2008.

66 . Fundargerð stjórnar Byrs sparisjóðs, 7. apríl 2008.

67 . Starfsregla um veðsetningarhlutföll tryggingarandlaga, 24. janúar 2008.

68 . Skýrsla Byrs sparisjóðs um stórar áhættuskuldbindingar, skilað til Fjármálaeftirlitsins, 31. mars 2008.

69 . Skýrsla PricewaterhouseCoopers hf. um ákveðna þætti innra eftirlits Byrs sparisjóðs, 10. desember 2010.

70 . Skýrsla PricewaterhouseCoopers hf. um ákveðna þætti innra eftirlits Byrs sparisjóðs, 10. desember 2010.

71 . Fundargerð stjórnar Byrs sparisjóðs, 10. september 2009.

72 . Skýrsla um útlánakönnun innri endurskoðunar Byrs sparisjóðs á stærstu lánþegum, 27. maí 2008.

73 . Tölvuskeyti Björns Steinars Pálmasonar til samstarfsmanna 5. ágúst 2008.

74 . Tölvuskeyti starfsmanns fyrirtækjaþjónustu til innri endurskoðanda 1. ágúst 2008.

75 . Tölvuskeyti Auðar A. Eiríksdóttur til lánahópsins 4. september 2008.

76 . Tölvuskeyti Gunnars Árnasonar til sparisjóðsstjóra 21. október 2008.

77 . Tölvuskeyti Gunnars Árnasonar til sparisjóðsstjóra 21. október 2008.

78 . Skýrsla um útlánakönnun innri endurskoðunar Byrs sparisjóðs á stærstu lánþegum, 27. maí 2008.

79 . Í tölvuskeyti til Byrs sparisjóðs 14. febrúar 2008 vegna beiðni um endurfjármögnun vegna kaupa á húsnæðinu sagði að með tilliti til mats fasteignasala á verðmæti eignarinnar væri veðrými um 800 milljónir króna. Matið hljóðaði upp á 2,2 milljarða króna en á eigninni hvíldu um 1,4 milljarðar á þessum tíma.

80 . Útlánaskoðun KPMG endurskoðunar hf. í Byr sparisjóði, 4. mars 2009.

81 . Útlánaskoðun KPMG endurskoðunar hf. í Byr sparisjóði, 4. mars 2009.

82 . Skýrsla PricewaterhouseCoopers vegna könnunar á afmörkuðum þáttum í efnahag og starfsemi Byrs sparisjóðs II, 27. nóvember 2009.

83 . Tölvuskeyti Íslandsbanka til rannsóknarnefndarinnar 19. desember 2012; samkomulag Byrs hf. við lánahópinn um uppgjör á skuldum, 18. mars 2011.

84 . Samkvæmt hlutafjármiðum sem skilað er til ríkisskattstjóra.

85 . Runnur 2 ehf. var að fullu í eigu Þorsteins M. Jónssonar eftir skiptingu á Runni ehf. í fjögur önnur félög haustið 2007.

86 . Í ársreikningi Kjarrhólma ehf. 2007 sagði að félagið hefði eignast 45% hlut í Tryggingamiðstöðinni hf. á árinu. Þá var þar yfirlýsing stjórnar um að á árinu 2008 yrði félagið sameinað FL Group hf., móðurfélagi sínu.

87 . Þetta kemur fram í Spak, afgreiðslukerfi sparisjóðanna, í færslu hjá Byr sparisjóði frá 19. september 2007.

88 . Þetta kemur fram í Spak, afgreiðslukerfi sparisjóðanna, í færslu hjá Byr sparisjóði frá 19. september 2007.

89 . Ársreikningur Materia Invest ehf. 2007 og ársreikningur MogS ehf. 2007. Í athugasemd Magnúsar Ægis Magnússonar til rannsóknarnefndarinnar 18. desember 2013 benti hann á, í þessu sambandi, að eigendur félaganna, Magnús Ármann og Þorsteinn M. Jónsson, hefðu verið í hópi auðugustu manna á Íslandi á þessum tíma. – Sú athugasemd um fjárstyrk eigenda félaganna breytir ekki fjárhagsstöðu þeirra sjálfra, enda verða þau ekki lögð að jöfnu við eigendur sína.

90 . Tölvuskeyti milli starfsmanna Byrs sparisjóðs 27. desember 2007. Í athugasemd Magnúsar Ægis Magnússonar til rannsóknarnefndarinnar 18. desember 2013 sagði hann að þessi mál hefðu verið unnin í miklum flýti sem hefði leitt til þess að lán til Magnúsar Ármanns hefði verið í erlendri mynt í stað þess að vera verðtryggt.

91 . Tölvuskeyti starfsmanns sparisjóðsins til Magnúsar Ægis Magnússonar 19. desember 2007.

92 . Útlánaskoðun KPMG endurskoðunar hf. í Byr sparisjóði, 4. mars 2009.

93 . Ársreikningur Sólstafa ehf. 2007.

94 . Tölvuskeyti Íslandsbanka til rannsóknarnefndarinnar 19. desember 2012.

95 . Hansa ehf. var í eigu Ólafsfells ehf. sem var í 100% eigu Björgólfs Guðmundssonar samkvæmt ársreikningi félagsins fyrir árið 2007.

96 . Ársreikningur Ólafsfells ehf. 2007.

97 . Samkomulag Landsbanka Íslands og Byrs sparisjóðs (SPV og SPH) um eingreiðslulán til eins árs, 28. desember 2006.

98 . Skýrsla PricewaterhouseCoopers hf. um ákveðna þætti innra eftirlits Byrs sparisjóðs, 10. desember 2010.

99 . Bréf Stefáns B. Gunnlaugssonar hrl. til Fjármálaeftirlitsins 18. nóvember 2008.

100 . Útlánaskoðun KPMG endurskoðunar hf. í Byr sparisjóði, 4. mars 2009.

101 . Skýrsla PricewaterhouseCoopers vegna könnunar á afmörkuðum þáttum í efnahag og starfsemi Byrs sparisjóðs, 22. maí 2009.

102 . Skýrsla um útlánakönnun innri endurskoðunar Byrs sparisjóðs á stærstu lánþegum, 27. maí 2008.

103 . Útlánaskoðun KPMG endurskoðunar hf. í Byr sparisjóði, 4. mars 2009.

104 . Skýrsla PricewaterhouseCoopers vegna könnunar á afmörkuðum þáttum í efnahag og starfsemi Byrs sparisjóðs II, 27. nóvember 2009.

105 . Fundargerð stjórnar Byrs sparisjóðs, 26. júlí 2007. Um Shelley Oak er fjallað hér aftar í kaflanum.

106 . Fundargerð stjórnar Byrs sparisjóðs, 18. október 2007.

107 . Ársreikningur Lava Capital ehf. 2008.

108 . Samsetning hópsins miðar við skýrslu sparisjóðsins til Fjármálaeftirlitsins um stórar áhættuskuldbindingar í lok árs 2009.

109 . Kynning eiganda Lindareignar ehf., lögð fyrir Sparisjóð Hafnarfjarðar, 19. september 2006.

110 . Yfirlit um viðskipti og ábyrgðir lánahópsins, tekið saman af viðskiptastjóra hjá Byr sparisjóði, 17. desember 2008.

111 . Gómur ehf. var stofnaður árið 2007 og var í jafnri eigu tveggja einstaklinga. Árið 2007 keypti Gómur ehf. fjögur önnur félög og sameinaði þau rekstri félagsins frá 30. júní 2007 að telja. Í árslok 2007 hafði eigendahópurinn stækkað og áttu stofnendur félagsins 20% hlut hvor í félaginu en meðal annarra eigenda voru Byr sparisjóður með 10% hlut, Sparisjóðabanki Íslands hf. með 10% hlut og Hólmaslóð ehf. sem átti 25% hlut í félaginu, en það var í 56% eigu Blue Sky Transport S.A., félags í Lúxemborg, og 44% eigu Fikts ehf.

112 . Tölvuskeyti Ragnars Z. Guðjónssonar til samstarfsfólks 7. janúar 2008.

113 . Í lánasamningi kom einnig fram að ef verðmæti trygginga færi niður fyrir 115% af eftirstöðvum láns væri lánveitanda heimilt að kalla eftir viðbótartryggingum.

114 . Tölvuskeyti milli starfsmanna Byrs sparisjóðs 23. desember 2009.

115 . Fundargerð lánanefndar Byrs sparisjóðs, 11. mars 2009.

116 . Fundargerð stjórnar Byrs sparisjóðs, 26. febrúar 2008.

117 . Skýrsla PricewaterhouseCoopers vegna könnunar á afmörkuðum þáttum í efnahag og starfsemi Byrs sparisjóðs II, 27. nóvember 2009.

118 . Ársreikningur Saxhóls ehf. 2007.

119 . Þessi hópur var eingöngu á skýrslum um stórar áhættuskuldbindingar um mitt ár 2009 en samsetning hópsins tekur mið af þeirri skýrslu og öðrum gögnum um samsetningu hópsins hjá sparisjóðnum.

120 . Í athugasemdum sínum til rannsóknarnefndarinnar 3. desember 2013 sagði Jón Þorsteinn Jónsson að fyrirtækjasvið sparisjóðsins hefði mikið reynt að fá fyrirtækið í viðskipti en hefði hann vitað að félagið yrði talið venslað sparisjóðnum hefði hann beitt sér fyrir því að fyrirtækið stundaði ekki viðskipti við sparisjóðinn.

121 . Tölvuskeyti Carls H. Erlingssonar til Ragnars Z. Guðjónssonar 26. nóvember 2008.

122 . Tölvuskeyti Ragnars Z. Guðjónssonar til Carls H. Erlingssonar 26. nóvember 2008.

123 . Nafni félagsins var breytt í CDG ehf. í maí 2009.

124 . Tölvuskeyti Íslandsbanka til rannsóknarnefndarinnar 19. desember 2012.

125 . Eigið fé Austurbrautar hf. var bókfært á 987 milljónir króna í ársreikningi félagsins fyrir árið 2008.

126 . Ársreikningur MP Fjárfestingarbanka hf. 2008.

127 . Minnispunktar endurskoðanda vegna mats á útlánum og öðrum eignum 30. nóvember 2008.

128 . Tölvuskeyti Íslandsbanka til rannsóknarnefndarinnar 19. desember 2012. Í athugasemdum Jóns Þorsteins Jónssonar, stjórnarformanns Byrs sparisjóðs, til rannsóknarnefndarinnar 3. desember 2013 kom fram að Byr sparisjóður hefði ekki lýst kröfum í bú Heiðarsólar þar sem félagið hefði ekki verið í skuld við sparisjóðinn þegar það var úrskurðað gjaldþrota.

129 . Tölvuskeyti Unnar G. Indriðadóttur til Jóns Finnbogasonar 8. júní 2011.

130 . Í athugasemdum til rannsóknarnefndarinnar 3. desember 2013 kvaðst Jón Þorsteinn Jónsson hafa sagt af sér sem stjórnarmaður í samráði við endurskoðanda sparisjóðsins þegar Saxbygg ehf. leitaði nauðsamninga.

131 . Shelley Oak PLC, minnisblað lagt fram á stjórnarfundi Sparisjóðs vélstjóra, 25. október 2006.

132 . Tölvuskeyti Árna Helgasonar til Jóns Þorsteins Jónssonar 4. janúar 2006.

133 . Tölvuskeyti Jóns Þorsteins Jónssonar til Ragnars Z. Guðjónssonar 5. janúar 2006.

134 . Tölvuskeyti Ragnars Z. Guðjónssonar til Árna Helgasonar 16. október 2006.

135 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs vélstjóra, 25. október 2006.

136 . Minnisblað af fundi um Shelley Oak Plc., 18. október 2006.

137 . Í athugasemdum Jóns Þorsteins Jónssonar, stjórnarformanns Byrs sparisjóðs, til rannsóknarnefndarinnar 3. desember 2013 kom fram að stuðst hefði verið við verðmat sem unnið var af Árna Tómassyni, löggiltum endurskoðanda. Hann taldi að hefði verðmatið ekki legið fyrir hefði aldrei verið fjárfest í félaginu.

138 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs vélstjóra, 25. október 2006.

139 . Skýrsla Jóns Þorsteins Jónssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 24. maí 2013.

140 . Tölvuskeyti Guðmundar J. Oddssonar hjá LOGOS til Björns Inga Sveinssonar, framkvæmdastjóra Saxbygg ehf., og Ragnars Z. Guðjónssonar 30. október 2006.

141 . Minnisblað vegna kaupa Byrs á meiri hluta í Shelley Oak Plc., 29. október 2007.

142 . Minnisblað vegna kaupa Byrs á meiri hluta í Shelley Oak Plc., 29. október 2007; fundargerð stjórnar Byrs sparisjóðs, 2. febrúar 2010.

143 . Minnisblað vegna kaupa Byrs á meiri hluta í Shelley Oak Plc., 29. október 2007; Deed of Agreement for Loan Notes, 5. desember 2007.

144 . Í athugasemdum til rannsóknarnefndarinnar 3. desember 2013 sagði Jón Þorsteinn Jónsson að honum hefði verið falið af stjórninni að ganga frá samningnum eftir að stjórnin tók ákvörðun um kaupin að honum fjarstöddum. Framkvæmdin var því í samræmi við samþykki stjórnar.

145 . Tölvuskeyti Ragnars Z. Guðjónssonar til Bjarna T. Jónssonar og Carls H. Erlingssonar 28. ágúst 2008.

146 . Skýrsla Bjarna Tómasar Jónssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 19. febrúar 2013.

147 . Fundargerð stjórnar Byrs sparisjóðs, 25. ágúst 2008.

148 . Shelley Oak Limited, fundargerðardrög frá óformlegum hluthafafundi í Centre Heights, Finchley Road, Swiss Cottage, Lundúnum, 16. desember 2008.

149 . Shelley Oak PLC – Project Updates, 6. febrúar 2009.

150 . Tölvuskeyti Árna Helgasonar til Ragnars Z. Guðjónssonar og Jóns Þorsteins Jónssonar 17. janúar 2009.

151 . Shelley Oak PLC – Project Updates, 6. febrúar 2009.

152 . Minnisblað vegna fundar með stjórn Byrs um málefni Shelley Oak Ltd., 17. mars 2009.

153 . Tölvuskeyti Árna Helgasonar til Ragnars Z. Guðjónssonar 20. mars 2009.

154 . Fundargerð stjórnar Byrs sparisjóðs, 2. apríl 2009.

155 . Fundargerð stjórnar Byrs sparisjóðs, 23. september 2009.

156 . Fundargerð stjórnar Byrs sparisjóðs, 2. febrúar 2010.

157 . Lokaskýrsla Kalan Capital (UK) LLP til stjórnar Byrs sparisjóðs, mars 2010.

158 . Staða lána Lava Capital UK Ltd. samkvæmt upplýsingum frá Íslandsbanka hf., 3. janúar 2013.

159 . Þetta kemur fram í ársreikningi IceCapital ehf. fyrir árið 2007. Um er að ræða einkahlutafélagið Sund ehf., kt. 580483-0549, sem varð gjaldþrota í mars 2012. Annað félag með þetta nafn er starfandi í dag.

160 . Listi yfir stofnfjáraðila Byrs sparisjóðs, 10. október 2008.

161 . Fundargerðir Byrs sparisjóðs frá desember 2007 til maí 2009. Í athugasemdum Jóns Þorsteins Jónssonar, stjórnarformanns Byrs sparisjóðs, til rannsóknarnefndarinnar 3. desember 2013 kom fram að Birgir Ómar Haraldsson, sem sat í stjórn Byrs sparisjóðs, hefði verið starfsmaður Sunds ehf.

162 . Samkvæmt hlutafjármiðum sem skilað er til ríkisskattstjóra.

163 . Samkvæmt ársreikningi félagsins fyrir árið 2007 var Hannes Smárason eini eigandi þess.

164 . Kynning Gunnars Sturlusonar hrl., stjórnarformanns Fjárfestingafélagsins Primusar, og Smára Sigurðssonar, starfsmanns félagsins, 14. maí 2007.

165 . Tölvuskeyti Ragnars Z. Guðjónssonar til Hrannar Pétursdóttur 14. maí 2007.

166 . Fundargerð stjórnar Byrs sparisjóðs, 16. maí 2007.

167 . Fundargerð stjórnar Byrs sparisjóðs, 3. október 2007.

168 . Minnisblað Byrs sparisjóðs til Fjárfestingafélagsins Primusar ehf., 4. október 2007.

169 . Tölvuskeyti Magnúsar Ægis Magnússonar til Jóns Þorsteins Jónssonar 27. september 2007. Hámarksveðsetningarhlutfall skráðra bréfa var 60%, en almenna reglan var sú að lána ekki gegn handveði í óskráðum hlutabréfum. Slík lán þurfti lánanefnd eða sparisjóðsstjóri að samþykkja og var miðað við að veðsetningarhlutfall þeirra væri 30% af matsverði.

170 . Tölvuskeyti Gunnars Sturlusonar til Ragnars Z. Guðjónssonar 10. janúar 2008.

171 . Tölvuskeyti Carls H. Erlingssonar til starfsmanna Byrs sparisjóðs 28. janúar 2008.

172 . Tölvuskeyti starfsmanns Byrs sparisjóðs til Magnúsar Ægis Magnússonar og Ragnars Z. Guðjónssonar 20. febrúar 2008.

173 . Fundargerð stjórnar Byrs sparisjóðs, 26. febrúar 2008.

174 . Tölvuskeyti Gunnars Sturlusonar til Ragnars Z. Guðjónssonar 27. mars 2008.

175 . Ársreikningur FI fjárfestinga ehf. (áður Fjárfestingafélagið Primus ehf.) 2007.

176 . Tölvuskeyti skiptastjóra FI fjárfestinga ehf. til rannsóknarnefndarinnar 28. nóvember 2012.

177 . Tölvuskeyti starfsmanns Byrs sparisjóðs til Aigars Strupiss október 2010.

178 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Hafnarfjarðar, 5. ágúst 2005.

179 . Land Plot at Adminu iela 4, Riga – Analysis and valuation report, skýrsla Behrens Corporate Finance, 16. desember 2009.

180 . Land Plot at Adminu iela 4, Riga – Analysis and valuation report, skýrsla Behrens Corporate Finance, 16. desember 2009.

181 . Land Plot at Adminu iela 4, Riga – Analysis and valuation report, skýrsla Behrens Corporate Finance, 16. desember 2009.

182 . SIA Adminu iela – 18,600 m2 Real Estate Project in the City Center of Riga – Business Plan, skýrsla, mars 2006.

183 . Tölvuskeyti Karls Georgs Sigurbjörnssonar til Magnúsar Ægis Magnússonar 8. ágúst 2008.

184 . Fundargerð áhættunefndar Byrs sparisjóðs, 29. janúar 2009.

185 . Fundargerð áhættunefndar Byrs sparisjóðs, 26. febrúar 2009.

186 . Fundargerð áhættunefndar Byrs sparisjóðs, 26. mars 2009.

187 . Land Plot at Adminu iela 4, Riga – Analysis and valuation report, skýrsla Behrens Corporate Finance, 16. desember 2009.

188 . Nánari tilgreining á viðkomandi byggingum var cad. nr. 0100 532 0017, section 3375-A. Ekki er að fullu ljóst hvort um er að ræða eina byggingu eða fleiri.

189 . Skýrsla Karls Georgs Sigurbjörnssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis 4. nóvember 2013.

190 . Land Plot at Adminu iela 4, Riga – Analysis and valuation report, skýrsla Behrens Corporate Finance, 16. desember 2009.

191 . Upplýsingarnar eru meðal annars fengnar frá fyrirtækjaskrá í Riga í Lettlandi.

192 . Í kerfum sparisjóðanna kemur fram færsla á þessum tíma upp á 51 milljón króna að nafnverði, um 455 milljóna króna virði. Tæpum þremur vikum síðar lagði Miðvörður ehf. fram til tryggingar stofnfjárhluti í Sparisjóðnum í Keflavík að nafnverði tæpra 3 milljóna króna til viðbótar, sem þá voru um 27 milljóna króna virði.

193 . Skýrsla PricewaterhouseCoopers vegna könnunar á afmörkuðum þáttum í efnahag og starfsemi Byrs sparisjóðs, 22. maí 2009.

194 . Ársreikningur Bröndukvíslar ehf 2006. Eigendur Bröndukvíslar ehf. voru Aðalsteinn Gíslason, Agnar Agnarsson og Stefán Hafliði Aðalsteinsson sem áttu hver um sig þriðjung í félaginu. Sömu einstaklingar skipuðu stjórn Holger Danskes Vej 32–34 ApS. Í tölvupósti milli starfsmanna Byrs sparisjóðs frá 1. júlí 2008 sagði að danska félagið væri í eigu HDV ehf. og þar ætti Bröndukvísl 20% hlut á móti fleiri aðilum en Stafnar ehf. átti jafnstóran hlut í félaginu. Stafnar ehf. var móðurfélag Stafnas ApS sem sá um verkframkvæmdir í Danmörku á verkinu við Holger Danskes Vej 32–34. HDV ehf. hóf hins vegar aldrei rekstur og kom yfirlýsing þess efnis fram í ársreikningum félagsins.

195 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Hafnarfjarðar, 1. september 2006.

196 . Skýrsla um útlánakönnun innri endurskoðunar Byrs sparisjóðs á stærstu lánþegum, 27. maí 2008.

197 . Athygli vekur að samkvæmt upplýsingum úr útlánakerfi Byrs sparisjóðs var heildarskuldbinding Holger Danskes Vej og Tårn einungis 238 milljónir króna í árslok 2008. Í janúar 2009 var hins vegar veittur 812 milljón króna yfirdráttur til Tårn ApS.

198 . IE-minnisblað – heildarskuldbindingar og vanskil starfsmanna 14.–17. júlí 2008, 18. júlí 2008.

199 . IE-minnisblað – vanskil starfsmanna, 9. júní 2009.

200 . IE-minnisblað – vanskil starfsmanna, 12. október 2009.

201 . Skýrsla innri endurskoðunar Byrs sparisjóðs 2009.

202 . Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um útlánaáhættu Byrs sparisjóðs, október 2007.

203 . Í lok desember 2008 rann IceCapital ehf. saman við Sund ehf. og tók Sund ehf. í kjölfarið upp nafnið IceCapital ehf.

204 . Miðað var við 20% lágmarkseignarhlut.

205 . Samkvæmt hlutafjármiðum sem skilað er til ríkisskattstjóra.

206 . Tölvuskeyti Bárðar Þórs Sveinssonar til Sighvats Sigfússonar 4. maí 2007.

207 . Samantekt innri endurskoðanda um viðskipti H24 ehf., 2. mars 2010.

208 . Skýrsla Sighvats Sigfússonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 26. júlí 2013.

209 . Skýrsla Sigurjóns Arnarssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 22. maí 2013.

210 . Eintak rannsóknarnefndarinnar af reglunum er ekki undirritað en bókað er í fundargerð stjórnar 16. maí 2007 að þær hafi verið teknar fyrir. Ekki er tekið fram að þær hafi verið samþykktar.

211 . Skýrsla Sigurjóns Arnarssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 22. maí 2013.

212 . Allianz var einnig afkomusvið en var þó skilgreint sem dótturfélag.

213 . Skýrsla Sigurjóns Arnarssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 22. maí 2013.

214 . Skýrsla Sigurjóns Arnarssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 22. maí 2013.

215 . Skýrsla Ragnars Z. Guðjónssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 24. maí 2013; skýrsla Sighvats Sigfússonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 26. júlí 2013.

216 . Skýrsla Gunnars Árnasonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 26. september 2012.

217 . Um er að ræða svokölluð CAMELS-próf en um þau er fjallað í 6. kafla.

218 . Rétt er að benda á að ávöxtun er hér reiknuð sem hlutfall af meðalstöðu eigna. Þegar tap verður á eignum, eins og varð 2008 og 2009, verður ávöxtun neikvæð. Í einhverjum tilvikum verður hún neikvæð um meira en 100% vegna þess að tapi er deilt í meðalstöðu eigna. Ekki ætti að vera hægt að tapa meiru en fjárfest hefur verið fyrir (að því gefnu að engir framvirkir samningar séu til staðar) en með þeirri aðferð sem notuð er hér við að reikna ávöxtun getur hún birst með þessum hætti. Ekki er verið að leggja til hér að sparisjóðurinn hafi tapað meiru en hann átti í fjáreignum.

219 . Sjá nánari umfjöllun um Shelley Oak í útlánaumfjöllun.

220 . Fundargerð stjórnar Byrs sparisjóðs, 26. júlí 2007.

221 . Skýrsla Ragnars Z. Guðjónssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 24. maí 2013.

222 . Skýrsla um útlánakönnun innri endurskoðunar Byrs sparisjóðs á stærstu lánþegum, 27. maí 2008. Samkvæmt hlutafjármiðum sem skilað er til ríkisskattstjóra voru stærstu eigendur HDV ehf. Bröndukvísl ehf. og Stafnar ehf. sem hvort um sig áttu 20% eignarhlut í lok árs 2008. Aðalsteinn Gíslason, Agnar Agnarsson og Stefán Hafliði Aðalsteinsson áttu hver um sig þriðjung í Bröndukvísl ehf. Eigandi Stafna ehf. í árslok 2008 var Verkfræðistofa F.H.G. ehf. en hún var á þeim tíma í eigu Ingibjargar Rögnu Óladóttur.

223 . Skýrsla um útlánakönnun innri endurskoðunar Byrs sparisjóðs á stærstu lánþegum, 27. maí 2008.

224 . Skýrsla Magnúsar Ægis Magnússonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 17. maí 2013.

225 . Skýrsla Ragnars Z. Guðjónssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 24. maí 2013.

226 . Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra var félagið í helmingseigu Egils Arnar Arnarsonar og Elíasar Hákonarsonar og var Elías jafnframt stjórnarformaður.

227 . Hagnaður af rekstri félagsins var 106 milljónir króna 2010 en tap 53 milljónir króna árið eftir.

228 . Eignarhaldsfélagið Sveipur ehf., dótturfélag Fjárfestingarfélagsins Primusar ehf., afsalaði eignunum til sparisjóðsins.

229 . Ársreikningar Eignarhaldsfélagsins Sveips ehf.

230 . Ársreikningur Húsasmiðjunnar hf. 2008.

231 . Nýtt hlutafé var að nafnvirði 12.608 milljónir króna og gengið var 1,4.

232 . Ársreikningur Eikarhalds ehf. 2008.

233 . Ársreikningur Landsbanka Íslands hf. 2002.

234 . Ársreikningur SP-Fjármögnunar hf. fyrir árið 2008.

235 . Samkvæmt hlutafjármiðum sem skilað er til ríkisskattstjóra.

236 . Fundargerð stjórnar Byrs sparisjóðs, 12. mars 2007.

237 . Samkvæmt hlutafjármiðum sem skilað er til ríkisskattstjóra.

238 . Fundargerð stjórnar Byrs sparisjóðs, 23. ágúst 2007.

239 . Samkvæmt hlutafjármiðum sem skilað er til ríkisskattstjóra.

240 . Fundargerð stjórnar Byrs sparisjóðs, 27. júní 2007.

241 . Fundargerð stjórnar Byrs sparisjóðs, 9. október 2007.

242 . Ársreikningur Byrs sparisjóðs 2007. Um söluna á hlutnum er fjallað ítarlega í 31. kafla, um Sparisjóðabankann, og um lán sparisjóðanna til kaupa á hlutnum í 9. kafla, um útlán.

243 . Tölvuskeyti Elínar Þorsteinsdóttur til Ragnars Z. Guðjónssonar 26. nóvember 2008.

244 . Tölvuskeyti Jóns Auðuns Jónssonar til Ragnars Z. Guðjónssonar og Ástu Friðriksdóttur 12. desember 2008.

245 . Sérstakt minnisblað um tap vegna sölu Icebank hf. í gögnum sem Íslandsbanki hf. afhenti rannsóknarnefndinni.

246 . Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins varðandi umsókn um heimild til að fara með virkan eignarhlut í Icebank hf., 30. maí 2008.

247 . Tölvuskeyti Regínu F. Guðmundsdóttur til rannsóknarnefndarinnar 5. mars 2013.

248 . Skýrsla Ragnars Z. Guðjónssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 24. maí 2013.

249 . Ársreikningur MP Fjárfestingarbanka hf. 2003.

250 . Samkvæmt hlutafjármiðum sem skilað er til ríkisskattstjóra.

251 . Kauptilboð Sparisjóðs vélstjóra í MP Fjárfestingarbanka hf., 21. febrúar 2007.

252 . Samkvæmt hlutafjármiðum sem skilað er til ríkisskattstjóra.

253 . Tölvuskeyti Ingólfs V. Guðmundssonar til Ragnars Z. Guðjónssonar, Magnúsar Ægis Magnússonar og Elmars Hallgrímssonar 23. apríl 2008.

254 . Tölvuskeyti Elmars Hallgrímssonar til Magnúsar Ægis Magnússonar, Ingólfs V. Guðmundssonar og Ragnars Z. Guðjónssonar 30. apríl 2008.

255 . Tölvuskeyti Ingólfs V. Guðmundssonar til Kristínar Söebech 30. maí 2008.

256 . Í athugasemdum Ragnars Z. Guðjónssonar sparisjóðsstjóra til rannsóknarnefndarinnar 3. desember 2013 kom fram að hann myndi ekkert eftir þessu né þekkti til þessa máls.

257 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Norðlendinga, 16. mars 2006.

258 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Norðlendinga, 31. ágúst 2006.

259 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Norðlendinga, 5. mars 2007.

260 . Samkvæmt hlutafjármiðum sem skilað er til ríkisskattstjóra.

261 . Samkvæmt hlutafjármiðum sem skilað er til ríkisskattstjóra.

262 . Samkvæmt ársreikningi Hraunbjargs ehf. fyrir árið 2004 átti MP Fjárfestingarbanki hf. 49% í félaginu, Margeir Pétursson ehf. 23,7% og Fasteignafélagið Ósland ehf. 20%.

263 . Ársreikningur Vostok Holdings ehf. 2004.

264 . Samkvæmt hlutafjármiðum sem skilað er til ríkisskattstjóra.

265 . Ársreikningur Vostok Holdings hf. 2006.

266 . Tölvuskeyti Margeirs Péturssonar til Sigfúsar Ingimundarsonar, Sigurðar Valtýssonar, Ágústs Sindra Karlssonar, Gunnars Árnasonar, Ragnars Z. Guðjónssonar, Sigurbjargar Snorradóttur, Jóns Hjartarsonar, Kjartans Brodda Bragasonar, Kristínar Svavarsdóttur og Karls Þorsteinssonar 2. apríl 2006.

267 . Samkvæmt hlutafjármiðum sem skilað er til ríkisskattstjóra.

268 . Samkvæmt ársreikningi Vostok Holdings ehf. fyrir árið 2009.

269 . Sbr. auglýsingu um félagsslit og skiptalok í félaginu í Lögbirtingablaðinu 1. febrúar 2010.

270 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs vélstjóra, 21. desember 2006.

271 . Fundargerð stjórnar Byrs sparisjóðs, 18. apríl 2007.

272 . Tölvuskeyti Ragnars Z. Guðjónssonar til Regínu Fannýjar Guðmundsdóttur 20. apríl 2007.

273 . Tölvuskeyti Regínu Fannýjar Guðmundsdóttur til Sigurðar Jónssonar 1. júní 2007.

274 . Tölvuskeyti Ingólfs Guðmundssonar til Carls H. Erlingssonar 15. mars 2007.

275 . Tölvuskeyti Guðmundar Páls Hreggviðssonar til Ingólfs Guðmundssonar 25. maí 2007.

276 . Í skýrslu sinni fyrir rannsóknarnefndinni sagði fyrrverandi framkvæmdastjóri sviðsins að hann hefði lítið sem ekkert fjárfest í skuldabréfum skráðra félaga. Viðskipti hans með skuldabréf hefðu nær eingöngu verið með ríkisskuldabréf.

277 . Skýrsla Sigurjóns Arnarssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 22. maí 2013.

278 . Gögn frá Íslandsbanka hf. til rannsóknarnefndarinnar um uppgjör veltubókar Byrs sparisjóðs fyrir árið 2008.

279 . Minnisblað um stöðu Markaðsviðskipta gagnvart reglum um fjárfestingaheimildir, 28. desember 2009.

280 . Tölvuskeyti Ásdísar Káradóttur til rannsóknarnefndarinnar 28. nóvember 2012.

281 . Skýrsla Sigurjóns Arnarssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 22. maí 2013.

282 . Skýrsla Sigurjóns Arnarssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 22. maí 2013.

283 . Samkvæmt hlutafjármiðum sem skilað er til ríkisskattstjóra.

284 . Samkvæmt hlutafjármiðum sem skilað er til ríkisskattstjóra.

285 . Skýrsla Ragnars Z. Guðjónssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 24. maí 2013.

286 . Minnisblað innri endurskoðanda um viðskipti Jóns Kr. Sólnes og Jóns Björnssonar, lagt fyrir stjórn Byrs sparisjóðs, 2. mars 2010.

287 . Skýrsla Jóns Þorsteins Jónssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 24. maí 2013.

288 . Samkvæmt skýringum með ársreikningi var þetta fjöldi dótturfélaga í árslok þessi ár. Skýringar með ársreikningi ársins 2006 greina ekki frá því hver dótturfélögin voru það árið en samkvæmt upplýsingum með samstæðureikningi sem skilað er til ársreikningaskrár komu fram tvö dótturfélög í árslok 2006, Bréfabær ehf. og SPV fjárfesting hf.

289 . Fundargerð bæjarráðs Akureyrar 9. nóvember 2006, vefsíða Akureyrarbæjar, http://www.akureyri.is/is/stjornkerfid/fundargerdir/baejarrad/5810.

290 . „Nýtt 70 herbergja hótel og áhugi fyrir öðru“, Morgunblaðið 4. janúar 2008.

291 . Í 21. gr. starfsreglna um framkvæmd starfa stjórnar og sparisjóðsstjóra frá 22. febrúar 2007 segir um hæfisskilyrði stjórnarmanna og sparisjóðsstjóra: „Stjórnarmenn og sparisjóðsstjóri skulu búa yfir nægilegri þekkingu og starfsreynslu til að geta gegnt stöðu sinni á tilhlýðilegan hátt. Þeir mega ekki hafa sýnt af sér háttsemi sem gefur tilefni til að ætla að þeir misnoti aðstöðu sína eða skaði fyrirtækið. Stjórnarmenn og sparisjóðsstjórar skulu vera lögráða. Þeir mega ekki á síðustu fimm árum hafa verið úrskurðaðir gjaldþrota eða hlotið dóm í tengslum við atvinnurekstur fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum, lögum um fjármálafyrirtæki eða lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, lögum um bókhald, lögum um ársreikninga, gjaldþrotalög eða lögum um greiðslu opinberra gjalda eða þeim sérlögum sem gilda um aðila sem lúta opinberu eftirliti með fjármálastarfsemi.“ Í 26. gr. sömu reglna segir um setu stjórnarmanna í stjórnum dóttur- og hlutdeildarfyrirtækja: „Það er hluti af meginstarfi stjórnar að hafa yfirumsjón og eftirlit með starfsemi og rekstri dótturfyrirtækja og hlutdeildarfélaga. Stjórnarmenn taka þó almennt ekki sæti í stjórnum þessara fyrirtækja nema til þess komi nauðsyn vegna eðlis stjórnarstarfsins eða sérþekking viðkomandi réttlæti það. Áður en ákvörðun er tekin um að stjórnarmaður skuli taka að sér stjórnarstarf í dótturfyrirtæki eða hlutdeildarfélagi skal stjórnin fjalla sérstaklega um áhrif stjórnarsetunnar á eftirlitshlutverk stjórnarmannsins og niðurstaða bókuð í gerðabók.“

292 . Fundargerð stjórnar Byrs sparisjóðs, 20. ágúst 2009.

293 . Fundargerð stjórnar Byrs sparisjóðs, 30. september 2009.

294 . Samkvæmt hlutafjármiðum sem skilað er til ríkisskattstjóra.

295 . Fundargerð stjórnar Byrs sparisjóðs, 1. desember 2009.

296 . Fundargerð stjórnar Byrs sparisjóðs, 21. desember 2009.

297 . Tölvuskeyti Bjarna Tómasar Jónssonar til Carls H. Erlingssonar 4. desember 2008.

298 . Tölvuskeyti Regínu F. Guðmundsdóttur til Mjallar Flosadóttur 6. júní 2008.

299 . Samkvæmt hlutafjármiðum sem skilað er til ríkisskattstjóra.

300 . Ársreikningur SPK Fjárfestingar ehf. 2008.

301 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Kópavogs, 15. desember 2006.

302 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Kópavogs, 16. febrúar 2007.

303 . Samantekt innri endurskoðanda Byrs sparisjóðs um Sund, IceCapital og SPK Fjárfestingu, lögð fyrir stjórn 2. mars 2010.

304 . Ársreikningur Eignarhaldsfélagsins Sævarhöfða ehf. 2006.

305 . Fundargerð hluthafa- og stjórnarfundar IceCapital ehf. (þá AB 77 ehf.) 31. mars 2007.

306 . Í fundargerð stjórnar 2. apríl 2007 er ekki að finna umfjöllun um þessa tvo samninga.

307 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Kópavogs, 20. júní 2007.

308 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Kópavogs, 15. desember 2006.

309 . Ársreikningur D-1 ehf. 2006.

310 . Samantekt innri endurskoðanda Byrs sparisjóðs um Sund, IceCapital og SPK Fjárfestingu, lögð fyrir stjórn 2. mars 2010. Í skýrslu sinni fyrir rannsóknarnefndinni 24. maí 2013 sagðist Ragnar Z. Guðjónsson ekki hafa séð umræddan samning.

311 . Samkvæmt hlutafjármiðum sem skilað er til ríkisskattstjóra.

312 . Samantekt innri endurskoðanda Byrs sparisjóðs um Sund, IceCapital og SPK Fjárfestingu, lögð fyrir stjórn 2. mars 2010. Fyrirgrennslan rannsóknarnefndarinnar leiddi ekki til þess að samningurinn kæmi í leitirnar.

313 . Skýrsla Ingólfs V. Guðmundssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 23. maí 2013.

314 . Samantekt innri endurskoðanda Byrs sparisjóðs um Sund, IceCapital og SPK Fjárfestingu, lögð fyrir stjórn 2. mars 2010.

315 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Kópavogs, 11. júlí 2007.

316 . Samkvæmt hlutafjármiðum sem skilað er til ríkisskattstjóra.

317 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Kópavogs, 20. júlí 2007.

318 . Svo virðist sem Ólafur rugli hér saman IceCapital ehf. og Sundi ehf. Sund ehf. keypti eignarhlutinn í IceCapital ehf. af sparisjóðnum og því getur IceCapital ehf. ekki skuldað sparisjóðnum fyrir kaupunum. Páll Þ. Magnússon leiðréttir Ólaf í svari við þessu tölvuskeyti síðar sama dag.

319 . Tölvuskeyti Ólafs K. Ólafs til Ragnars Z. Guðjónssonar, Magnúsar Ægis Magnússonar, Regínu F. Guðmundsdóttur, Páls Þórs Magnússonar, Carls H. Erlingssonar og Ingólfs V. Guðmundssonar 17. desember 2007.

320 . Tölvuskeyti Páls Þórs Magnússonar til Ólafs K. Ólafs, Ragnars Z. Guðjónssonar, Magnúsar Magnússonar, Regínu F. Guðmundsdóttur, Carls H. Erlingssonar, Ingólfs V. Guðmundssonar, Jóns Kristjánssonar og Birgis Ómars Haraldssonar 17. desember 2007.

321 . Minnisblað Sigurðar Jónssonar, KPMG, um stöðu milli IceCapital ehf. og Byrs sparisjóðs (áður Sparisjóðs Kópavogs), 20. febrúar 2008.

322 . Tölvuskeyti Ragnars Z. Guðjónssonar til Jóns Auðuns Jónssonar og Magnúsar Ægis Magnússonar 22. apríl 2008.

323 . Tölvuskeyti Íslandsbanka hf. til rannsóknarnefndarinnar 9. október 2012.

324 . Fundargerð stjórnar Byrs sparisjóðs, 23. nóvember 2007.

325 . Samantekt innri endurskoðanda Byrs sparisjóðs um Sund, IceCapital og SPK Fjárfestingu, lögð fyrir stjórn 2. mars 2010.

326 . Fundargerð stjórnar Byrs sparisjóðs, 2. mars 2010.

327 . Samkvæmt hlutafjármiðum sem skilað er til ríkisskattstjóra.

328 . Tölvuskeyti Regínu F. Guðmundsdóttur til Mjallar Flosadóttur 6. júní 2008.

329 . Tölvuskeyti Péturs M. Jónssonar til Carls H. Erlingssonar, Magnúsar Ægis Magnússonar og Ragnars Z. Guðjónssonar 12. nóvember 2008.

330 . Ársreikningur SPV fjárfestingar 2009.

331 . Tölvuskeyti Byrs sparisjóðs til Seðlabanka Íslands 28. júlí 2009.

332 . Samkvæmt hlutafjármiðum sem skilað er til ríkisskattstjóra.

333 . Ársreikningur SPH Rekstrarfélags hf. 2003.

334 . Ársreikningur SPH Rekstrarfélags hf. 2004.

335 . Samkvæmt hlutafjármiðum sem skilað er til ríkisskattstjóra.

336 . Ársreikningur Rekstrarfélags Sparisjóðanna hf. 2007.

337 . „Íslandssjóðir yfirtaka rekstur sjóða Rekstrarfélaga Byrs“, vefsíða Íslandsbanka 29. maí 2012, http://www.islandsbanki.is/um-islandsbanka/frettir/frett/?NewsID=65d52514-1a7b-4021-bb6c-43e1a9d475f9.

338 . Ársreikningur Rekstrarfélags Sparisjóðanna hf. 2005.

339 . Ársreikningur Rekstrarfélags Sparisjóðanna hf. 2006.

340 . Hrein eign verðbréfasjóðs eða fjárfestingarsjóðs er skilgreind sem eignir sjóðsins að frádregnum skuldum. Rétt er að geta þess að í ársreikningum Fjárfestingarsjóðs Byrs eftir árið 2007 er heiti liðarins „hrein eign“ breytt í „hlutdeildarskírteini“. Til að gæta samræmis í umfjöllun er hér notast við hugtakið hrein eign.

341 . Tölvuskeyti Ingólfs V. Guðmundssonar til Kristínar Söebech 30. maí 2008.

342 . Tölvuskeyti Elmars Hallgrímssonar til Magnúsar Ægis Magnússonar, Ingólfs V. Guðmundssonar og Ragnars Z. Guðjónssonar 30. apríl 2008.

343 . Byggt á upplýsingum frá Arion verðbréfavörslu hf. (Verdis hf.) til rannsóknarnefndarinnar.

344 . „Íslandssjóðir yfirtaka rekstur sjóða Rekstrarfélaga Byrs“, vefsíða Íslandsbanka 29. maí 2012, http://www.islandsbanki.is/um-islandsbanka/frettir/frett/?NewsID=65d52514-1a7b-4021-bb6c-43e1a9d475f9.

345 . „Peningamarkaðssjóðir rekstrarfélaga verðbréfasjóða“, vefsíða Fjármálaeftirlitsins, http://www.fme.is/utgefid-efni/frettir-og-tilkynningar/frettir/nr/447.

346 . Minnisblað stjórnarformanns Byrs um yfirlýsingu stjórnar í tengslum við mögulega aðkomu Byrs sparisjóðs að peningamarkaðssjóði Rekstrarfélags Byrs, 31. október 2008.

347 . Tölvuskeyti Ingólfs V. Guðmundssonar til Ragnars Z. Guðjónssonar og Magnúsar Ægis Magnússonar 29. október 2008.

348 . Minnisblað stjórnarformanns Byrs um yfirlýsingu stjórnar í tengslum við mögulega aðkomu Byrs sparisjóðs að peningamarkaðssjóði Rekstrarfélags Byrs, 31. október 2008.

349 . Stærð sjóðsins miðað við niðurfærslu á neðra bili var 4.380 milljónir króna. Þar af var laust fé 817 milljónir króna sem hægt var að greiða beint út og Byr sparisjóður þurfti því ekki að veita lán fyrir því. Lán Byrs sparisjóðs var því upp á 3.564 milljónir króna.

350 . Viðskiptagengi peningamarkaðssjóðsins hafði hinn 6. október verið 13.820,07 en við slit sjóðsins var það 13.114,56.

351 . Skýrsla KPMG endurskoðunar hf. um endurskoðun ársreiknings Byr sparisjóðs 2008, 30. apríl 2009.

352 . Fundargerð stjórnar Byrs sparisjóðs, 18. nóvember 2009.

353 . Ársreikningur Rekstrarfélags Byrs hf. 2009.

354 . Tölvuskeyti Jóns Finnbogasonar til Regínu F. Guðmundsdóttur 29. nóvember 2009.

355 . Sjá nánari útskýringu í upphafi 11. kafla, um fjármögnun sparisjóðanna.

356 . Úr atvinnugreinaflokkun innlána sem skilað er til Seðlabanka Íslands mánaðarlega.

357 . Skýrsla Ástu Friðriksdóttur fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 22. maí 2013.

358 . Minnisblað forstöðumanns fjárstýringar fyrir stjórn sparisjóðsins um viðskipti með veðskuldabréfasafn, 29. desember 2009.

359 . „Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar“, vefsíða forsætisráðuneytisins 6. október 2008, http://www.forsaetisraduneyti.is/frettir/nr/3032.

360 . Skýrsla PricewaterhouseCoopers hf. um ákveðna þætti innra eftirlits Byrs sparisjóðs, 10. desember 2010.

361 . Skýrsla Ástu Friðriksdóttur fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 22. maí 2013.

362 . Þá hét sparisjóðurinn enn Sparisjóður vélstjóra. Um þessa lánveitingu er fjallað í kaflanum um útlán.

363 . Óundirritaður samningur um bundið innlán milli Glitnis banka hf. og Byrs sparisjóðs, 20. desember 2007.

364 . GLBIRFLOAT 01/09, nafnverð 5 milljarðar króna.

365 . Frekar er fjallað um samninga sparisjóðanna við Íbúðalánasjóð í 9. kafla.

366 . Samkvæmt upplýsingum frá Verðbréfastofu Íslands.

367 . Samkvæmt upplýsingum frá Verðbréfastofu Íslands.

368 . Skýrsla Ástu Friðriksdóttur fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 22. maí 2013.

369 . Tölvuskeyti forstöðumanns fjárstýringar Byrs sparisjóðs til tveggja starfsmanna sparisjóðsins 21. mars 2007.

370 . Skýrsla Ástu Friðriksdóttur fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 22. maí 2013.

371 . Tölvuskeyti Ragnars Z. Guðjónssonar til Magnúsar Ægis Magnússonar, Sighvats Sigfússonar og Ástu Friðriksdóttur 25. mars 2008.

372 . Eiginfjárhlutfall Byrs sparisjóðs var 8,3% í árslok 2008 og -18,5% í árslok 2009.

373 . Drög að upplýsingaskjali um Byr sparisjóð fyrir kröfuhafa, 24. júlí 2009.

374 . Skýrsla PricewaterhouseCoopers hf. um ákveðna þætti innra eftirlits Byrs sparisjóðs, 10. desember 2010.

375 . Ársreikningur Sparisjóðs vélstjóra 2004.

376 . Samþykktir Sparisjóðs vélstjóra, 12. mars 2004.

377 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs vélstjóra, 12. janúar 2005.

378 . Fylgiskjal með fundargerð stjórnar Sparisjóðs vélstjóra, 11. mars 2005.

379 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs vélstjóra, 27. apríl 2005.

380 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs vélstjóra, 18. maí 2005.

381 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs vélstjóra, 27. júlí 2007.

382 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs vélstjóra, 2. september 2005.

383 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs vélstjóra, 26. október 2005.

384 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs vélstjóra 9. desember 2005, 16. desember 2005 og 22. desember 2005.

385 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til Sparisjóðs vélstjóra 28. desember 2005.

386 . Bréf Sparisjóðs vélstjóra til Fjármálaeftirlitsins 4. janúar 2006.

387 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til Sparisjóðs vélstjóra 24. janúar 2006.

388 . Bréf LOGOS lögmannsþjónustu til Sparisjóðs vélstjóra 1. febrúar 2006.

389 . Bréf Fjármalaeftirlitsins til Sparisjóðs vélstjóra 21. mars 2006.

390 . Fundargerðir Sparisjóðs vélstjóra frá 9. desember 2005 til 21. desember 2006.

391 . Þessi félög keyptu líka stofnfjárhluti í Sparisjóði Hafnarfjarðar.

392 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs vélstjóra, 27. febrúar 2006.

393 . Ekkert er að finna um þetta í eldri fundargerðum stjórnar. Í fundargerð stjórnar Sparisjóðs Hafnarfjarðar 31. janúar 2006 er hins vegar greint frá viðræðum um hugsanlegt náið samstarf milli þessara tveggja sparisjóða. Þar voru líka lögð fram drög að bréfi til Fjármálaeftirlitsins um málið og greint frá því að búið væri að ráða Árna Tómasson til að skoða hagkvæmni af sameiningu sjóðanna.

394 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs vélstjóra, 26. apríl 2006.

395 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs vélstjóra, 29. apríl 2006.

396 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs vélstjóra, 2. júní 2006.

397 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til Sparisjóðs vélstjóra 17. júlí 2006.

398 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs vélstjóra, 26. júlí 2006.

399 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs vélstjóra, 10. ágúst 2006.

400 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs vélstjóra, 7. september 2006.

401 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs vélstjóra, 4. desember 2006.

402 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs vélstjóra, 21. desember 2006.

403 . Ársreikningur Sparisjóðs Hafnarfjarðar 2004.

404 . Samþykktir Sparisjóðs Hafnarfjarðar, 12. apríl 2003.

405 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Hafnarfjarðar, 23. mars 2005.

406 . Bréf Sambands íslenskra sparisjóða til allra sparisjóðanna 4. mars 2005.

407 . Samþykktir Sparisjóðs Hafnarfjarðar, 12. apríl 2003.

408 . Skýrsla Páls Pálssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis 12. mars 2012.

409 . Fundargerð aðalfundar Sparisjóðs Hafnarfjarðar, 20. apríl 2005.

410 . Skýrsla Karls Georgs Sigurbjörnssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 12. mars 2012.

411 . Fundargerð aðalfundar Sparisjóðs Hafnarfjarðar, 20. apríl 2005.

412 . Fundargerð aðalfundar Sparisjóðs Hafnarfjarðar, 20. apríl 2005.

413 . Skýrsla Páls Pálssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis 12. mars 2012.

414 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Hafnarfjarðar, 25. apríl 2005.

415 . Bréf stjórnar Sparisjóðs Hafnarfjarðar til Sigurðar Þórðarsonar, Sigurbergs Sveinssonar, Jónasar Hallgrímssonar, Helga Vilhjálmssonar og Harðar Zophoníassonar 11. maí 2005.

416 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Hafnarfjarðar, 25. apríl 2005 og 29. júní 2005.

417 . Fundargerð aukafundar stofnfjáreigenda í Sparisjóði Hafnarfjarðar, 21. júlí 2005.

418 . Fundargerð aukafundar stofnfjáreigenda í Sparisjóði Hafnarfjarðar, 21. júlí 2005.

419 . Skýrsla Stefáns Hilmars Hilmarssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 13. mars 2012.

420 . Skýrsla Stefáns Hilmars Hilmarssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 13. mars 2012.

421 . Skýrsla Karls Georgs Sigurbjörnssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 12. mars 2012.

422 . Skýrsla Karls Georgs Sigurbjörnssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 12. mars 2012.

423 . Skýrsla Karls Georgs Sigurbjörnssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 12. mars 2012.

424 . Skýrsla Stefáns Hilmars Hilmarssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 13. mars 2012.

425 . Hæstaréttardómur 18. mars 2009 í máli nr. 218/2009.

426 . Skýrsla Stefáns Hilmars Hilmarssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 13. mars 2012.

427 . Skýrsla Stefáns Hilmars Hilmarssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 13. mars 2012.

428 . Skýrsla Stefáns Hilmars Hilmarssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 13. mars 2012.

429 . Skýrsla Alberts Más Steingrímssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis 12. mars 2012.

430 . Samkvæmt 1. mgr. 61. gr. þágildandi laga nr. 161/2002 máttu stofnfjáreigendur í sparisjóði ekki vera færri en 30.

431 . Um þessa rannsókn Fjármálaeftirlitsins á framsölum stofnfjárhluta í Sparisjóði Hafnarfjarðar er einnig fjallað í 12. kafla, um eignarhald sparisjóða, stofnfé og ávöxtun þess.

432 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til stofnfjáreigenda í Sparisjóði Hafnarfjarðar 24. júní 2005.

433 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til stjórnar Sparisjóðs Hafnarfjarðar 29. júní 2005.

434 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til Sparisjóðs Hafnarfjarðar 20. júlí 2005.

435 . Fylgigögn með dagskrárlið 4b á 122. stjórnarfundi Fjármálaeftirlitsins, 13. september 2005.

436 . Frá gildistöku laga nr. 87/1998 starfaði kærunefnd sem skipuð var af viðskiptaráðherra. Samkvæmt 17. gr. laganna mátti skjóta ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins til kærunefndarinnar. Úrskurðum hennar var ekki hægt að skjóta til viðskiptaráðherra. Með lögum nr. 67/2006 um breytingar á lögum um fjármálaeftirlit var kærunefndin lögð niður og ákvæði fært í lög sem heimilaði aðilum að höfða mál til ógildingar ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins fyrir dómstólum.

437 . Úrskurðir í málum kærunefndar samkvæmt lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi nr. 3/2005, 4/2005, 5/2005 og 6/2005. Úrskurðirnir eru efnislega samhljóða.

438 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til stjórnar Sparisjóðs Hafnarfjarðar 29. ágúst 2005.

439 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til stjórnar Sparisjóðs Hafnarfjarðar 30. nóvember 2005.

440 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til stjórnar Sparisjóðs Hafnarfjarðar 16. desember 2005.

441 . Bréf Lárentsínusar Kristjánssonar til stjórnar Sparisjóðs Hafnarfjarðar 9. febrúar 2006.

442 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Hafnarfjarðar, 10. febrúar 2006.

443 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til stjórnar Sparisjóðs Hafnarfjarðar 17. febrúar 2006.

444 . Bréf Lárentsínusar Kristjánssonar til Fjármálaeftirlitsins 28. febrúar 2006.

445 . Fundargerð stjórnar Fjármálaeftirlitsins, 9. mars 2006.

446 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til stjórnar Sparisjóðs Hafnarfjarðar 20. febrúar 2006.

447 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til stjórnar Sparisjóðs Hafnarfjarðar 20. febrúar 2006.

448 . Bréf stjórnar Sparisjóðs Hafnarfjarðar til Fjármálaeftirlitsins 21. febrúar 2006.

449 . Skýrsla Páls Pálssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 12. mars 2012.

450 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til stjórnar Sparisjóðs Hafnarfjarðar 16. maí 2006.

451 . Sjá úrskurði kærunefndar samkvæmt lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi nr. 2/2006, 5/2006, 6/2006, 7/2006 og 10/2006.

452 . Dómar Hæstaréttar 23. apríl 2007 í málum nr. 198/2007 og 199/2007.

453 . Fundargerð aðalfundar Byrs sparisjóðs, 13. mars 2007.

454 . Stofnfjáreigendalisti Sparisjóðs vélstjóra 7. september 2006, Sparisjóðs Hafnarfjarðar 14. júlí 2006 og sameinaður listi 28. desember 2006.

455 . Vitnaskýrsla Einars Sigurðssonar fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í máli E-2972/2010.

456 . Hlutafélagavæðing sparisjóðanna, glærukynning unnin af fyrirtækjaráðgjöf Glitnis.

457 . Hlutafélagavæðing sparisjóðanna, glærukynning unnin af fyrirtækjaráðgjöf Glitnis.

458 . Lýsing Byrs sparisjóðs, útboðslýsing vegna útgáfu nýs stofnfjár hjá Byr sparisjóði, 31. ágúst 2007.

459 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Kópavogs, 29. október 2007; fundargerð stjórnar Byrs sparisjóðs, 29. október 2007.

460 . Samrunaáætlun Sparisjóðs Norðlendinga og Byrs sparisjóðs skv. 120. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög, 3. október 2007.

461 . Viðtal við Ragnar Z. Guðjónsson í Hádegisviðtali Stöðvar 2, 16. október 2007.

462 . Skýrsla Ragnars Z. Guðjónssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 24. maí 2013.

463 . Lýsing Sparisjóðs Norðlendinga, 28. nóvember 2007.

464 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Norðlendinga, 27. nóvember 2007.

465 . „Stærsta stofnfjáraukning Íslandssögunnar“, Fréttablaðið 5. desember 2007; „Allt stofnfé í stofnfjárfjáraukningu hjá Byr seldist“, vefsíða Viðskiptablaðsins 18. desember 2007, http://www.vb.is/frettir/22691/.

466 . Fundargerð stjórnar Byrs sparisjóðs, 18. október 2007.

467 . Samningur um ráðgjöf, sölutryggingu, fjármögnun og útboð fyrir Byr sparisjóð, október 2007.

468 . Sjá umfjöllun um verðmat Capacent á Byr sparisjóði í tengslum við stofnfjáraukninguna í 12. kafla, um eignarhald sparisjóða, stofnfé og arðgreiðslur.

469 . Fundargerð stjórnar Byrs sparisjóðs, 26. febrúar 2008.

470 . Fundargerð stjórnar Byrs sparisjóðs, 6. maí 2008.

471 . Fundargerð stjórnar Byrs sparisjóðs, 4. apríl 2008.

472 . Fundargerð aðalfundar Byrs sparisjóðs, 9. apríl 2008.

473 . Fjallað er um verðmöt á sparisjóðum í 12. kafla.

474 . Sjá nánari umfjöllun í 4. og 12. kafla.

475 . Fundargerð aðalfundar Byrs sparisjóðs 13. mars 2007, sbr. fundargerð stjórnar 5. mars 2007.

476 . Fundargerð aðalfundar Byrs sparisjóðs 9. apríl 2008, sbr. fundargerð stjórnar 4. apríl 2008.

477 . Samkvæmt 68. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki var ekki heimilt að ráðstafa meiru í arð og sérstakt endurmat en sem næmi hagnaði viðkomandi árs. Í athugasemdum Jóns Þorsteins Jónssonar, fyrrverandi stjórnarformanns, til rannsóknarnefndarinnar 3. desember 2013 kom fram að stjórnarmenn hefðu ekki reiknað út arðinn. Útreikningur hans hefði verið í höndum endurskoðenda sem báru arðgreiðsluna undir Fjármálaeftirlitið, en það gerði engar athugasemdir við þessa framkvæmd. Um nánari umfjöllun um heimildir til arðgreiðslu vísast til 12. kafla.

478 . Samkvæmt ársreikningnum nam arðgreiðslan 13.471 milljón króna. Af þeirri fjárhæð voru 1.280 milljónir króna arðgreiðsla sem síðasti aðalfundur Sparisjóðs Norðlendinga samþykkti vegna afkomu hans á árinu 2007. Hér er sú arðgreiðsla ekki meðtalin í umfjölluninni um Byr sparisjóð heldur fjallað um hana í tengslum við Sparisjóð Norðlendinga aftar í kaflanum.

479 . Í bréfi Tryggingasjóðs sparisjóða til allra sparisjóða 10. desember 2007 var greint frá samþykkt stjórnar Tryggingasjóðs um hámark arðgreiðslu vegna 2007. Þar var ákvæði um að taka mætti tillit til hækkunar á eigin fé vegna innleiðingar alþjóðlegra reikningsskila og greiða arð út á hana á næstu fjórum árum. Sjá nánar um þetta í 12. kafla.

480 . Lögum um fjármálafyrirtæki var breytt með lögum nr. 76/2009. Sjá nánari umfjöllun í 12. kafla.

481 . Þessi heimild hafði verið við lýði allt frá 1993. Ákvæðinu var síðar breytt með lögum nr. 76/2009. Sjá nánari umfjöllun í 12. kafla.

482 . Sú heimild kom inn í lög 2001. Ákvæðinu var síðar breytt með lögum nr. 76/2009. Sjá nánari umfjöllun í 12. kafla.

483 . Heimilt er að nýta hluta hagnaðar til sérstaks endurmats stofnfjár.

484 . Ársreikningar Byrs sparisjóðs 2005–2009. Verðbólga ársins er reiknuð út frá tölum frá Hagstofunni með aðferð sem skilgreind er í 8. kafla.

485 . Valþór Hlöðversson, Sparisjóður Kópavogs: Hálfrar aldar saga í máli og myndum, Kópavogi 2008, bls. 63.

486 . Skýrsla Karls M. Kristjánssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis 16. apríl 2013.

487 . Skýrsla Karls M. Kristjánssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis 16. apríl 2013.

488 . Í útreikningum sem sparisjóðurinn lét gera var reiknað með því að stofnfjáraukningin í desember, samtals 2.732 milljónir króna, hefði öll verið innborguð síðasta dag ársins. Stofnfjárútboðið stóð yfir dagana 28. nóvember til 19. desember 2007 og var gjalddagi útsendra greiðsluseðla 19. desember. Raunarðsemi eigin fjár reiknuð út frá því var 40,29%.

489 . Þetta kemur fram í umsögn Fjármálaeftirlitsins vegna umsóknar Byrs sparisjóðs um eiginfjárframlag úr ríkissjóði á grundvelli reglna um framlag til sparisjóða samkvæmt 2. gr. laga nr. 125/2008, sem samþykktar voru 18. desember 2008. Í samræmi við þær reglur vísaði fjármálaráðuneytið umsókn Byrs sparisjóðs til umsagnar hjá Fjármálaeftirlitinu 23. mars 2009.

490 . Bréf KPMG hf. til stjórnar Byrs sparisjóðs 19. mars 2009.

491 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til fjármálaráðuneytisins 14. apríl 2009.

492 . Eftir ítarlega leit í skjalakerfi Seðlabanka Íslands þótti ljóst að eintak af bréfi fjármálaráðuneytisins varðandi Byr sparisjóð þar sem beðið var um umsögn vegna eiginfjárframlags hafði ekki borist bankanum. Vegna fyrirspurnar rannsóknarnefndar hafði Seðlabankinn samband við fjármálaráðuneyti og samkvæmt hefðbundinni skjalavinnslu ráðneytisins var ekki hægt að staðfesta að bréfið hefði verið sent.

493 . Ekki var sama eiginfjárhlutfall á skýrslum til Fjármálaeftirlitsins og ársreikningi sparisjóðsins í árslok 2008. Í ársreikningi var eiginfjárhlutfall 8,3%.

494 . Skýrsla PricewaterhouseCoopers vegna könnunar á afmörkuðum þáttum í efnahag og starfsemi Byrs sparisjóðs, 22. maí 2009.

495 . Bréf Byrs sparisjóðs til Fjármálaeftirlitsins 3. júní 2009.

496 . Fjármálaráðuneytinu var send sams konar greinargerð 5. júní 2009, en þar hafði hlutföllum umbreytinga krafna lítillega verið breytt auk þess sem stofnfé skyldi fært niður í 4,3 milljarða króna í stað 6 milljarða króna áður.

497 . Aðgerðaáætlun til styrkingar á eiginfjárgrunni Byrs sparisjóðs, 3. júní 2009.

498 . Bréf Byrs sparisjóðs til fjármálaráðuneytisins 5. júní 2009.

499 . Bréf Byrs sparisjóðs til fjármálaráðuneytisins 5. júní 2009.

500 . Bréf fjármálaráðuneytisins til Byrs sparisjóðs 11. júní 2009.

501 . Bréf Fjármálaeftirltsins til Byrs sparisjóðs 16. júní 2009.

502 . Samkvæmt miðgengi Seðlabankans 30. júní 2009.

503 . Byr sparisjóður, Restructuring memorandum, 9. október 2009.

504 . Minnisblað tilsjónarmanns Byrs sparisjóðs 30. júní til 5. júlí 2009.

505 . Minnisblað tilsjónarmanns Byrs sparisjóðs 14.–20. júlí 2009, 21. júlí 2009.

506 . Minnisblað tilsjónarmanns Byrs sparisjóðs 6.–13. júlí 2009; bréf sparisjóðsstjóra Byrs sparisjóðs til Fjármálaeftirlitsins 15. júlí 2009.

507 . Bréf sparisjóðsstjóra Byrs sparisjóðs til Fjármálaeftirlitsins 15. júlí 2009.

508 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til Byrs sparisjóðs 16. júlí 2009.

509 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til Byrs sparisjóðs 11. ágúst 2009.

510 . Bréf fjármálaráðuneytisins til Byrs sparisjóðs 17. ágúst 2009.

511 . Bréf Byrs sparisjóðs til Fjármálaeftirlitsins 20. ágúst 2009.

512 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til Byrs sparisjóðs 21. ágúst 2009.

513 . Skýrsla Jóns Finnbogasonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 27. maí 2013.

514 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til Byrs sparisjóðs 7. september 2009.

515 . Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, Restructuring proposal for Savings bank Byr, 18. september 2009.

516 . Bréfið varðar bæði Byr sparisjóð og Sparisjóðinn í Keflavík. Í einhverjum tilvikum er greint á milli sparisjóðanna í bréfinu og hefur umfjöllun sem eingöngu varðar Sparisjóðinn í Keflavík verið fjarlægð úr þessum texta. Atriði þar sem ekki er greint á milli þess hvort átt er við Byr sparisjóð eða Sparisjóðinn í Keflavík eða jafnvel báða eru birt hér sem atriði sem eiga við um Byr sparisjóð.

517 . Mats Josefsson, Iceland: Status report of the banking system, 24. september 2009.

518 . Tölvuskeyti Guðmundar Árnasonar til Þórhalls Arasonar 23. september 2009.

519 . Bréf Byrs sparisjóðs til fjármálaráðuneytisins 28. september 2009.

520 . Bréf Byrs sparisjóðs til Fjármálaeftirlitsins 9. október 2009.

521 . Var þar miðað við að eiginfjárþáttur A samkvæmt 84. gr. laga nr. 161/2002 væri 12% en eiginfjárþáttur B 4%, eða 16% samanlagt.

522 . Minnisblað fjármálaráðuneytisins um næstu skref í fjárhagslegri endurskipulagningu sparisjóðanna, 29. október 2009.

523 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til Byrs sparisjóðs 5. nóvember 2009.

524 . Bréf Byrs sparisjóðs til Fjármálaeftirlitsins 12. nóvember 2009; bréf Fjármálaeftirlitsins til Byrs sparisjóðs 5. nóvember 2009.

525 . Bréf Byrs sparisjóðs til Fjármálaeftirlitsins 12. nóvember 2009.

526 . Bréf Byrs sparisjóðs til Fjármálaeftirlitsins 27. nóvember 2009.

527 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til fjármálaráðuneytisins 2. desember 2009.

528 . Sérstakur saksóknari gerði húsleit í höfuðstöðvum Byrs í lok nóvember í tengslum við rannsókn á Exeter Holdings ehf. Í skýrslu sinni fyrir rannsóknarnefndinni 27. maí 2013 hélt fyrrverandi sparisjóðsstjóri því fram að frétt sem birtist í Fréttablaðinu 7. desember 2009 undir fyrirsögninni „Byr verður trauðla bjargað“ hefði jafnvel haft meiri áhrif til lækkunar innlána í sparisjóðnum en húsleitin sjálf.

529 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til Byrs sparisjóðs 9. desember 2009.

530 . Sjá nánar um fyrirtækið Hawkpoint Partners Ltd. og ráðgjöf þess til stjórnvalda í 13. kafla.

531 . Drög að minnisblaði efnahags- og viðskiptaráðuneytis um leiðir til lausnar sparisjóðamálsins, 8. desember 2009; skýrsla Oliver Wyman um endurskipulagningu sparisjóðakerfisins, 14. desember 2009.

532 . Oliver Wyman, Restructuring the Savings Bank sector, 8. desember 2009.

533 . Drög að minnisblaði efnahags- og viðskiptaráðuneytis um leiðir til lausnar sparisjóðamálsins, 8. desember 2009.

534 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til Byrs sparisjóðs 10. desember 2009.

535 . Skýrsla Jóns Finnbogasonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 27. maí 2013.

536 . Bréf fjármálaráðuneytisins til kröfuhafa Byrs sparisjóðs 14. desember 2009.

537 . Minnisblað nefndar um fjármálastöðugleika um mögulegar leiðir takist ekki að semja við kröfuhafa, 15. desember 2009.

538 . Minnisblað fjármálaráðuneytisins um samningaviðræður vegna eiginfjárframlags ríkissjóðs til sparisjóðsins Byrs og Sparisjóðsins í Keflavík, 30. desember 2009.

539 . Áreiðanleikakönnun PricewaterhouseCoopers á ákveðnum þáttum í rekstri Byrs sparisjóðs, janúar 2010.

540 . Samkomulag um fjárhagslega endurskipulagningu Byrs sparisjóðs, 9. október 2009.

541 . Minnisblað tilsjónarmanns Byrs sparisjóðs 20. janúar til 2. febrúar 2010.

542 . Minnisblað tilsjónarmanns Byrs sparisjóðs 20. janúar til 2. febrúar 2010.

543 . Bréf Byrs sparisjóðs til Fjármálaeftirlitsins 23. febrúar 2010.

544 . Af kynningu sem sparisjóðurinn hélt fyrir kröfuhafa 24. mars 2010 má sjá að gert var ráð fyrir að þáverandi stofnfjáreigendur ættu 8,7% stofnfjár, innlendir kröfuhafar 2,2%, kröfuhafar víkjandi lána 7,6%, erlendir kröfuhafar 5,8% og ríkissjóður 75,6%.

545 . Bréf fjármálaráðuneytisins til Byrs sparisjóðs 26. febrúar 2010.

546 . Tölvuskeyti Hjördísar Drafnar Vilhjálmsdóttur til Luis Cortavarria, starfsmanns Hawkpoint, 15. febrúar 2010.

547 . Skýrsla Jóns Finnbogasonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 27. maí 2013.

548 . Í tölvupósti Evu Bryndísar Helgadóttur, sérstaks sérfræðings Fjármálaeftirlitsins í Byr sparisjóði, til Fjármálaeftirlitsins 25. mars 2010 kemur fram að fjárfestar hafi sett sig í samband við kröfuhafa og boðið þeim að kaupa kröfurnar fyrir 12% og móttilboð kröfuhafanna hafi hljóðað upp á 18%. Engir samningar virðast þó hafa náðst um þessi kaup.

549 . Bréf Byrs sparisjóðs til Fjármálaeftirlitsins 18. mars 2010.

550 . Tölvuskeyti Jóns Finnbogasonar til Hjördísar D. Vilhjálmsdóttur 31. mars 2010.

551 . Tölvuskeyti Hjördísar D. Vilhjálmsdóttur til Andrews Speirs, starfsmanns Hawkpoint, 6. apríl 2010.

552 . Tölvuskeyti Hjördísar D. Vilhjálmsdóttur til Egils Tryggvasonar, starfsmanns fjármálaráðuneytisins, og Þórhalls Arasonar 9. apríl 2010.

553 . Sjá t.d. tölvuskeyti Jóns Finnbogasonar til Hjördísar D. Vilhjálmsdóttur í fjármálaráðuneytinu og Andrews Speirs hjá Hawkpoint 8. apríl 2010.

554 . Skýrsla Jóns Finnbogasonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 27. maí 2013.

555 . Tölvuskeyti Ásmundar Stefánssonar til Guðmundar Árnasonar 19. apríl 2010.

556 . Skýrsla Jóns Finnbogasonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 27. maí 2013.

557 . Tölvuskeyti Evu B. Helgadóttur til Fjármálaeftirlitsins 16. apríl 2010.

558 . Minnisblað tilsjónarmanns Byrs sparisjóðs 10.–19. apríl 2010.

559 . Tölvuskeyti Evu B. Helgadóttur til Fjármálaeftirlitsins 20. apríl 2010.

560 . Bréf Byrs sparisjóðs til Fjármálaeftirlitsins 21. apríl 2010; bréf Carval Investments til Byrs sparisjóðs 21. apríl 2010; fundargerð af fundi forsvarsmanna Byrs og Fjármálaeftirlitsins, 21. apríl 2010.

561 . Tölvuskeyti Andrews Speirs til Hjördísar D. Vilhjálmsdóttur 21. apríl 2010.

562 . Bréf fjármálaráðuneytisins til stjórnar Byrs sparisjóðs 21. apríl 2010; bréf Réttar – Adalsteinsson & Partners til fjármálaráðuneytisins 23. mars 2010.

563 . Bréf stjórnar Byrs sparisjóðs til Fjármálaeftirlitsins 22. apríl 2010.

564 . Í skýrslu sinni fyrir rannsóknarnefndinni 27. maí 2013 sagði Jón Finnbogason, fyrrverandi sparisjóðsstjóri Byrs sparisjóðs, að ríkið hefði lagt fram 900 milljóna króna eiginfjárframlag í Byr hf. Ríkissjóður hefði svo fengið um 700 milljónir króna í skuldabréfum Íslandsbanka hf. við kaup bankans á Byr sparisjóði árið 2011. Ekkert annað fjárframlag af hálfu ríkissjóðs til Byrs sparisjóðs eða Byrs hf. hefði verið veitt. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um fyrirgreiðslu við fjármálafyrirtæki frá árinu 2012 kemur fram að ríkissjóður hafi lagt fram 900 milljóna króna eiginfjárframlag til Byrs hf. og fengið 765 milljónir króna við sölu hans til Íslandsbanka hf. Ríkissjóður hafi veitt Byr hf. 5 milljarða króna víkjandi lán en ekki hafi verið dregið á það.

565 . Minnisblað um málefni Byrs sparisjóðs og Sparisjóðsins í Keflavík, 3. maí 2010.

566 . Skýrsla Steingríms Jóhanns Sigfússonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 26. september 2013.

567 . Skýrsla Steingríms Jóhanns Sigfússonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 26. september 2013.

568 . Skýrsla Steingríms Jóhanns Sigfússonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 26. september 2013.

569 . Skýrsla Kjartans Gunnarssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 23. september 2013.

570 . Skýrsla Kjartans Gunnarssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 23. september 2013.

571 . Skýrsla Gylfa Magnússonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 26. september 2013.

572 . Skýrsla Ríkisendurskoðunar um fyrirgreiðslu ríkisins við fjármálafyrirtæki og stofnanir í kjölfar bankahrunsins, júní 2012.

573 . Skýrsla Jóns Finnbogasonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 27. maí 2013.

574 . Skýrsla Ríkisendurskoðunar um fyrirgreiðslu ríkisins við fjármálafyrirtæki og stofnanir í kjölfar bankahrunsins, júní 2012.

575 . Innri endurskoðun nær almennt til allra þátta í starfsemi fjármálafyrirtækja og þá einnig til dótturfélaga. Samkvæmt ársskýrslu innri endurskoðunar 2008 náði innri endurskoðun þó ekki til Allianz Íslands hf., dótturfélags Byrs. Gerður var sérstakur samningur við Rekstrarfélag Byrs um innri endurskoðun á Allianz.

576 . Skýrsla innri endurskoðunar Byrs sparisjóðs 2008.

577 . Innri endurskoðun – samantekt unnin af VEV og lögð fyrir stjórn 27. febrúar 2008.

578 . Skýrsla innri endurskoðunar Byrs sparisjóðs 2008.

579 . Skýrsla innri endurskoðunar Byrs sparisjóðs 2009.

580 . Innri endurskoðun – samantekt unnin af VEV og lögð fyrir stjórn 27. febrúar 2008.

581 . Skýrsla Mjallar Flosadóttur fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 26. september 2012.

582 . Skýrsla Mjallar Flosadóttur fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 26. september 2012. Leiðbeinandi tilmæli Fjármálaeftirlitsins nr. 3/2008 um störf innri endurskoðunardeilda fjármálafyrirtækja voru gefin út 24. september 2008.

583 . Skýrsla Mjallar Flosadóttur fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 26. september 2012.

584 . Í athugasemdum Jón Þorsteins Jónssonar, stjórnarformanns Byrs sparisjóðs, til rannsóknarnefndarinnar 3. desember 2013 kom fram að hann hefði gert verulegar athugasemdir við tengingarnar. Hann hefði ekki skilið hvers vegna hann hefði verið talinn tengdur þeim aðilum sem þar um ræddi frekar en öðrum sem hann átti viðskipti við en voru ekki tengdir við hann. Helst vildi hann sjá að þessir aðilar færu úr viðskiptum við sparisjóðinn til þess að aðilarnir teldust ekki venslaðir sparisjóðnum eða tengdir sér.

585 . Reglur Byrs sparisjóðs um áhættuviðmið og áhættustýringu, 16. maí 2007.

586 . Reglur Byrs sparisjóðs um áhættuviðmið og áhættustýringu, 16. maí 2007.

587 . Ársreikningur Byrs sparisjóðs 2007.

588 . Reglur Byrs sparisjóðs um áhættuviðmið og áhættustýringu, 16. maí 2007.

589 . Reglur Byrs sparisjóðs um áhættuviðmið og áhættustýringu, 16. maí 2007.

590 . Í athugasemdum Byrs sparisjóðs til Fjármálaeftirlitsins 7. febrúar 2008 við skýrslu um útlánaáhættu sagði að áhættunefnd hefði verið lögð niður og verkefni hennar flutt til áhættustýringar.

591 . Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um útlánaáhættu Byrs sparisjóðs, október 2007.

592 . Í athugasemdum til rannsóknarnefndarinnar 18. desember 2013 sagði Magnús Ægir Magnússon að hann teldi að forstöðumaður áhættustýringar hefði tapað óhæði sínu sem yfirmaður áhættu ef hann hefði setið fundina. Hann hefði þá getað metið mál út frá því sem lagt var fram á fundinum. Í athugasemdum Ragnars Z. Guðjónssonar til rannsóknarnefndarinnar 3. desember 2013 taldi hann ekki rétt að Gunnar hefði ekki fengið aðgang að lánanefndinni en hann mundi þó ekki hvenær hann kom inn.

593 . Skýrsla Gunnars Árnasonar, forstöðumanns áhættustýringar Byrs sparisjóðs, fyrir rannsóknarnefnd Alþings um sparisjóðina 26. september 2012.

594 . Sams konar úttekt var gerð í fimm öðrum stórum fjármálafyrirtækjum og var markmiðið að fá yfirsýn yfir útlánaáhættu meginhluta fjármálakerfisins og staðfestingu á útlánagæðum, en einnig var lagt mat á áhættustýringu og innra eftirlit vegna útlána.

595 . Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um útlánaáhættu Byrs sparisjóðs, október 2007.

596 . Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um útlánaáhættu Byrs sparisjóðs, október 2007.

597 . Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um útlánaáhættu Byrs sparisjóðs, október 2007.