19. kafli – Sparisjóðurinn í Keflavík

19. Sparisjóðurinn í Keflavík

Sparisjóðurinn í Keflavík var stofnaður 7. nóvember 1907. Aðalhvatamenn að stofnun hans voru Þorgrímur Þórðarson héraðslæknir og séra Kristinn Daníelsson á Útskálum. Þeir skipuðu fyrstu stjórn sparisjóðsins ásamt Arnbirni Ólafssyni kaupmanni. Strax tókst að afla 20 ábyrgðarmanna og ábyrgðust þeir 100 króna framlag hver. Reyndar hafði áður verið gerð tilraun með sparisjóð í Keflavík. Sá hét Sparisjóðurinn á Rosmhvalanesi og var stofnaður 1889 af einungis níu ábyrgðarmönnum, en var skammlífur og lagði upp laupana 1893.1

Þorgrímur héraðslæknir gegndi stöðu sparisjóðsstjóra í hjáverkum frá stofnun til 1933. Sjóðurinn var allan þann tíma til húsa í læknisbústaðnum hverju sinni, fyrstu fjögur árin í Norðfjörðshúsi, sem síðar var jafnan kallað Ungó, og til 1934 í húsinu við Kirkjuveg 22, sem síðar var nefnt Kirkjulundur. Síðan starfaði sparisjóðurinn í leiguhúsnæði við Vallargötu 12 til ársins 1955 er hann flutti í eigin nýbyggingu að Suðurgötu 6. Árið 1991 var starfsemin aftur flutt og þá í nýbyggt hús við Tjarnargötu 12 í Keflavík. Sparisjóðurinn hafði ráðist í byggingu hússins 1981 og var ráðgert að flytja í það fimm árum síðar. Hlutfall rekstrarfjármuna af eigin fé viðskiptabanka og sparisjóða var takmarkað með lögum nr. 39/1996. Þetta setti byggingaráform sparisjóðsins í uppnám og leiddi til þess að hann seldi Íslenskum aðalverktökum hf. húsbygginguna árið 1989. Sparisjóðurinn flutti loks í húsið 1991 sem leigutaki. Þar var hann í sambýli við skrifstofur Reykjanesbæjar sem eru þar enn til húsa.2

Fyrstur til að gegna stöðu sparisjóðsstjóra í fullu starfi var Guðmundur Guðmundsson sem stýrði sparisjóðnum í aldarfjórðung, frá 1944 til 1969. Árið 1974 ákvað stjórn sparisjóðsins að ráða tvo sparisjóðsstjóra, þá Tómas Tómasson og Pál Jónsson. Tómas lét af störfum 1993 og tók Geirmundur Kristinsson við stöðu hans. Geirmundur hafði reyndar verið settur sparisjóðsstjóri um fimm mánaða skeið áður en Tómas og Páll voru ráðnir.3 Páll lét af störfum í árslok 1997 og var Geirmundur einn sparisjóðsstjóri til 1. júní 2009 er hann sagði starfi sínu lausu. Þá tók Angantýr Valur Jónasson, sem hafði verið sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Vestfirðinga um árabil, við stjórn sparisjóðsins og hafði hana með höndum allt þar til Fjármálaeftirlitið tók yfir vald stofnfjárhafafundar 22. apríl 2010.

Hlutverk sparisjóðsins var frá upphafi að efla atvinnu- og félagslíf á Suðurnesjum og kom hann að stofnun fjölda nýrra félaga og fyrirtækja. Sparisjóðurinn hafði lengst af mjög sterka stöðu á Suðurnesjum þegar litið var til innlána.4 Fyrsta útibúið var opnað 1977 að Hólagötu 15 í Ytri-Njarðvík. Það var jafnframt fyrsta útibú sparisjóðs á Íslandi. Síðan voru opnuð fleiri útibú, í Garði 1982, í Grindavík 1987 og afgreiðsla í Vogum 2002. Sparisjóðurinn keypti útibú Landsbankans í Sandgerði 2006 og hóf þar sjálfur rekstur útibús.5

Dagana 7. og 9. nóvember 2006 samþykktu stofnfjáraðilar Sparisjóðsins í Keflavík og Sparisjóðs Ólafsvíkur samruna sjóðanna. Rétt rúmu ári síðar, eða 4. desember 2007, samþykktu stofnfjáraðilar samruna Sparisjóðsins í Keflavík, Sparisjóðs Vestfirðinga og Sparisjóðs Húnaþings og Stranda.

Þegar umsvif Sparisjóðsins í Keflavík voru mest, í lok árs 2008, hafði hann 17 afgreiðslustaði víðs vegar um landið, sex á Suðurnesjum að höfuðstöðvum meðtöldum, átta á Vestfjörðum og einn á Hvammstanga, á Ólafsvík og í Borgartúni í Reykjavík. Samstæða sparisjóðsins samanstóð af móðurfélaginu og dótturfélögunum Víkum ehf., Tjarnargötu 12 ehf., NIKEL ehf. og Miðlandi ehf., auk Eyraeldis ehf. og Þrælsfells ehf. sem komu með Sparisjóði Vestfirðinga og Sparisjóði Húnaþings og Stranda inn í samstæðuna.

Stjórn Sparisjóðsins í Keflavík sótti 10. mars 2009 um eiginfjárframlag úr ríkissjóði en eftir umsagnir Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins og áreiðanleikakönnun PricewaterhouseCoopers ehf. varð ljóst að sparisjóðurinn uppfyllti ekki skilyrði fyrir framlaginu. Í ljósi stöðu sparisjóðsins skipaði Fjármálaeftirlitið sérfræðing 4. júní 2009 til að hafa sértækt eftirlit með sparisjóðnum. Nýr sparisjóðsstjóri tók við á svipuðum tíma og hafist var handa við fjárhagslega endurskipulagningu sparisjóðsins. Fjármálaeftirlitið veitti sparisjóðnum síðast frest til að semja við kröfuhafa og uppfylla eiginfjárskilyrði 29. mars 2010 en þá hafði eiginfjárstaða hans verið undir lögbundnu marki í rúmt ár. Tæpum þremur vikum síðar var það mat Fjármálaeftirlitsins að eiginfjárvandi sparisjóðsins væri slíkur að hann gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar gagnvart viðskiptavinum og kröfuhöfum. Hinn 22. apríl 2010 tók Fjármálaeftirlitið yfir vald stofnfjárhafafundar sparisjóðsins, vék stjórn sjóðsins frá og skipaði í framhaldinu skilanefnd yfir sparisjóðnum. Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins fól jafnframt í sér að allar eignir og skuldbindingar sparisjóðsins voru færðar í nýtt félag, Spkef sparisjóð, sem var að fullu í eigu Bankasýslu ríkisins.

Sparisjóður Ólafsvíkur

Sparisjóður Ólafsvíkur var stofnaður 14. janúar 1892. Hvatann að því má rekja til stofnunar Menningarfélags Neshrepps innri sem beitti sér fyrir eflingu hvers kyns framkvæmda í byggðarlaginu. Innan þess kom frú Jóhanna Jóhannsdóttir fyrst fram með hugmynd um stofnun sparisjóðs og beitti sér fyrir því að hún yrði að veruleika. Tveir sóknarprestar voru stjórnarformenn sjóðsins fyrstu áratugina: séra Guðmundur Einarsson frá 1908 og séra Magnús Guðmundsson frá 1923. Magnús lét af störfum 1963 og tók Leó Guðbrandsson þá við sem sparisjóðsstjóri í fullu starfi, enda höfðu umsvif sparisjóðsins aukist mjög, og flutti sjóðurinn jafnframt í eigið húsnæði.6 Sparisjóðurinn var síðast til húsa að Ólafsbraut 19. Leó gegndi starfi sparisjóðsstjóra í þrjá áratugi. Þá tók við Kristján Hreinsson og starfaði til 2003 og loks Helga Valdís Guðjónsdóttir sem gegndi starfinu allt til loka.

Stofnfjáraðilar Sparisjóðs Ólafsvíkur samþykktu sameiningu við Sparisjóðinn í Keflavík á fundi sínum 9. nóvember 2006. Þar með lauk 114 ára sögu Sparisjóðs Ólafsvíkur og varð hann að útibúi stærri sparisjóðs. Við sameininguna var Sparisjóður Ólafsvíkur þriðji minnsti sparisjóður landsins. Heildareignir hans námu þá um 2 milljörðum króna en stofnféð var 165 þúsund krónur og skiptist jafnt milli 46 stofnfjáreigenda. Sparisjóðurinn starfaði á einum afgreiðslustað og voru stöðugildi hjá honum sex talsins.7

Sparisjóður Vestfirðinga

Saga sparisjóða á Vestfjörðum stóð í rúma öld og átti Sparisjóður Vestfirðinga sér rætur í henni. Hann var stofnaður 28. apríl 2001 með sameiningu fjögurra sparisjóða: Sparisjóðs Súðavíkur, Sparisjóðs Önundarfjarðar, Sparisjóðs Þingeyrarhrepps og Eyrasparisjóðs.8 Sparisjóðurinn var til húsa að Fjarðargötu 2 á Þingeyri en einnig voru afgreiðslur á Bíldudal, Flateyri, Ísafirði, Patreksfirði, Tálknafirði, í Súðavík og í Króksfjarðarnesi. Sparisjóðurinn hafði samstarf við Íslandspóst hf. og annaðist póstafgreiðslu á Tálknafirði, Bíldudal, Þingeyri, Flateyri og í Súðavík. Sparisjóðsstjóri frá upphafi og fram að sameiningu við Sparisjóðinn í Keflavík var Angantýr Valur Jónasson sem verið hafði sparisjóðsstjóri hjá Sparisjóði Þingeyrarhrepps frá 1984. Angantýr tók svo við starfi sparisjóðsstjóra í Sparisjóðnum í Keflavík 1. júní 2009 þegar Geirmundur Kristinsson hætti.

Stofnfjáraðilar Sparisjóðs Vestfirðinga samþykktu sameiningu við Sparisjóðinn í Keflavík á fundi sínum 4. desember 2007. Sparisjóðurinn átti eitt dótturfélag, Eyraeldi ehf., sem hélt utan um fjárfestingar fyrir sparisjóðinn. Stofnfé sparisjóðsins var tæpar 280 milljónir króna og skiptist á 358 stofnfjáreigendur. Um mitt ár 2007 námu heildareignir Sparisjóðs Vestfirðinga 11,5 milljörðum króna. Í árslok 2006 voru 39 stöðugildi hjá sparisjóðnum.9

Sparisjóður Húnaþings og Stranda

Sparisjóður Húnaþings og Stranda varð til við samruna Sparisjóðs Vestur-Húnavatnssýslu og Sparisjóðs Hrútfirðinga í apríl 1998. Sá síðarnefndi var stofnaður árið 1910 af 20 einstaklingum sem allir voru búsettir í Bæjarhreppi. Um miðja síðustu öld var hann síðan fluttur að Borðeyri. Sá fyrrnefndi var stofnaður árið 1917 og var þá í eign og ábyrgð sýslufélagsins. Sparisjóður Vestur-Húnavatnssýslu og síðar Sparisjóður Húnaþings og Stranda starfaði frá upphafi á Hvammstanga, lengst af við Hvammstangabraut 5, en árið 2006 flutti hann í nýtt húsnæði að Höfðabraut 6.10 Frá stofnun Sparisjóðs Vestur-Húnavatnssýslu og fram til þess er Sparisjóður Húnaþings og Stranda rann saman við Sparisjóðinn í Keflavík störfuðu aðeins fimm sparisjóðsstjórar hjá sparisjóðnum. Páll Sigurðsson, sá síðasti þeirra, vann hjá sparisjóðnum frá 1973 og tók við sparisjóðsstjórastarfinu 1995.11

Stofnfjáraðilar sparisjóðsins samþykktu sameiningu við Sparisjóðinn í Keflavík á fundi 4. desember 2007 og varð sparisjóðurinn þar með útibú Sparisjóðsins í Keflavík. Sparisjóðurinn átti eitt dótturfélag, Þrælsfell ehf., sem hélt utan um fjárfestingar fyrir sparisjóðinn. Stofnfé í sparisjóðnum var 19,5 milljónir króna og skiptist á milli 163 stofnfjáreigenda. Um mitt ár 2007 námu heildareignir Sparisjóðs Húnaþings og Stranda 6,5 milljörðum króna. Í árslok 2006 voru 11 stöðugildi hjá sparisjóðnum.12

19.1 Ársreikningar 2001–2010

Hér verður farið yfir þróun rekstrar- og efnahagsreikninga Sparisjóðsins í Keflavík, helstu liði þeirra og kennitölur á árunum 2001 til 2009. Þrír sparisjóðir sameinuðust honum á árunum 2006 og 2007 og miðaðist reikningshaldslegur samruni Sparisjóðs Ólafsvíkur og sparisjóðsins við 1. júlí 2006, en reikningshaldslegur samruni Sparisjóðs Vestfirðinga, Sparisjóðs Húnaþings og Stranda og sparisjóðsins miðaðist við 4. desember 2007. Umfjöllunin tekur mið af samstæðureikningi sparisjóðsins nema annað sé tekið fram. Rétt er að geta þess að ársreikningur fyrir árið 2009 var aldrei endurskoðaður sökum þess að Fjármálaeftirlitið tók yfir vald stofnfjárhafafundar 22. apríl 2010. Reikningurinn lá þó fyrir í nær fullgerðum drögum og verður tekinn með í eftirfarandi umfjöllun.

Reikningsskil sparisjóðsins fyrir tímabilið 1. janúar 2010 til 22. apríl 2010 liggja ekki fyrir. Upplýsingar um afkomu og efnahag sjóðsins á því tímabili byggjast því á bókhaldi sjóðsins sem ekki var endurskoðað. Hins vegar voru allar eignir sjóðsins fluttar í nýstofnaðan Spkef sparisjóð og samkvæmt ársreikningi hans nam tap fyrir tímabilið 23. apríl 2010 til 31. desember 2010 tæpum 1,5 milljörðum króna sem gefur vísbendingu um tap af eignasafni Sparisjóðsins í Keflavík á árinu 2010.

Sparisjóðurinn í Keflavík breytti reikningsskilum sínum árið 2007 til samræmis við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS), en það hafði í för með sér breytingar á framsetningu ársreiknings og mati á einstökum liðum, bæði eignum og skuldum. Við upptöku staðlanna var, svo sem skylt var, saminn upphafsefnahagsreikningur miðaður við 1. janúar 2007, þannig að samanburðarfjárhæðir við fyrra ár yrðu metnar og fram settar með réttum hætti í efnahagsreikningi 31. desember 2007. Breytingarnar frá fyrri reikningsskilaaðferðum þýddu að eigið fé samkvæmt efnahagsreikningi 31. desember 2006 hækkaði um rúmar 525 milljónir króna eða 6%. Hækkunin skýrðist fyrst og fremst af matsbreytingu annarra fjáreigna sem voru samkvæmt nýju aðferðinni færðar á markaðsverði en voru áður færðar á kostnaðarverði eða með hlutdeildaraðferð.

19.1.1 Rekstrarreikningar

Í fyrstu verður gerð grein fyrir afkomu (hagnaði eða tapi) Sparisjóðsins í Keflavík á tímabilinu 2001–2009 og vægi sparisjóðanna þriggja sem sameinuðust honum árin 2006 og 2007 í afkomu sameinaðs sjóðs. Af töflu 5 má ráða að afkoma minni sparisjóðanna hafði litla þýðingu fyrir afkomu Sparisjóðsins í Keflavík, en var jafnvel íþyngjandi árið 2007. Öðru máli gegndi um eignirnar eins og vikið verður að hér aftar.

Hvað árið 2007 varðar, skal bent á að tap Sparisjóðs Vestfirðinga og Sparisjóðs Húnaþings og Stranda sem tilfært er í töflu 5 er samkvæmt óendurskoðuðu ársuppgjöri þessara sparisjóða. Hins vegar sagði í ársreikningi Sparisjóðsins í Keflavík 2007, í skýringarlið 41, að hagnaður hefði orðið nærri 100 milljónum króna hærri hefði rekstur sjóðanna þriggja verið sameiginlegur frá áramótum. Það er í samræmi við það sem sagði í skýrslu endurskoðanda með ársreikningnum.13

Hagnaður Sparisjóðsins í Keflavík fór vaxandi frá 2001 til 2006 en þó með nokkrum sveiflum. Árið 2006 skilaði sparisjóðurinn mesta hagnaði frá upphafi og nam hann tæpum 4,7 milljörðum króna, sem var rúm þreföldun frá árinu áður. Þetta skýrðist helst af gangvirðishækkun fjáreigna og hlutdeild í afkomu hlutdeildarfélaga, en endurspeglaði engu að síður þá miklu markaðsáhættu sem sparisjóðurinn bjó við. Árið 2007 dróst hagnaðurinn verulega saman og varð einungis þriðjungur þess sem hann var árið áður. Ástæðan var neikvæð afkoma hlutdeildarfélaga auk þess sem gengishagnaður fjáreigna var mun minni en áður.

Árið 2008 tapaði sparisjóðurinn 17 milljörðum króna, sem mátti fyrst og fremst rekja til framlags í afskriftareikning útlána upp á 6,8 milljarða króna, 6,5 milljarða króna gengistaps af fjáreignum og taps vegna hlutdeildarfélaga upp á 4,5 milljarða króna. Enn meira tap varð á árinu 2009, einkum vegna mikils framlags í afskriftareikning. Samanlagður hagnaður Sparisjóðsins í Keflavík á tíu ára tímabili fyrir fall viðskiptabankanna (á árunum 1998–2007) var um 12,8 milljarðar króna á samræmdu verðlagi. Tap áranna 2008 og 2009 nam 37 milljörðum króna á sama verðlagi. Á þessum tveimur árum tapaði sparisjóðurinn næstum þreföldum hagnaði síðustu 10 ára þar á undan.

Hreinar rekstrartekjur

Hreinar rekstrartekjur nærri þrefölduðust árið 2006 frá því sem var árið áður. Árið 2007 drógust þær hins vegar saman um nærri helming og mikill viðsnúningur varð á árinu 2008 þegar hreinar rekstrartekjur urðu neikvæðar um 9,9 milljarða króna. Á mynd 1 sést mjög skýrt að gengisáhrif fjáreigna og afkoma hlutdeildarfélaga vógu mest í þessum sveiflum. Hreinar vaxtatekjur og þjónustutekjur, hin hefðbundna sparisjóðastarfsemi, hættu að vera uppistaðan í afkomunni frá og með árinu 2003 og frá og með 2006 áttu þær óverulegan þátt í afkomunni.

Fjárfestingar í verðbréfum höfðu afgerandi áhrif á afkomu sparisjóðsins frá og með árinu 2003. Hagnaður af fjáreignum nam 715 milljónum króna á árinu 2003. Þar af voru 665 milljónir króna söluhagnaður af eignarhlut sparisjóðsins í Kaupþingi hf. Á árinu 2005 var þessi liður nær tvöfalt hærri. Helsta ástæða þessa var gengishækkun á eignarhlut í Meiði hf. (síðar Exista hf.). Árið eftir fjórfaldaðist gengishagnaður af fjáreignum. Enn var ástæðan 1,1 milljarðs króna gengishækkun á eignarhlut í Exista hf., en á því ári var félagið skráð í Kauphöll. Gengishagnaður af fjáreignum dróst lítillega saman á árinu 2007, eða um 7%, en á árinu 2008 varð mikið verðfall á hlutabréfamarkaði og því mikið gengistap af fjáreignum sjóðsins. Helstu eignir sem sparisjóðurinn tapaði á voru Exista hf., 3,1 milljarður króna, Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis, 553 milljónir króna, SP-Fjármögnun hf., 805 milljónir króna og VBS Fjárfestingabanki hf., 1,5 milljarðar króna. Þá varð einnig verulegt gengistap af fjáreignum á árinu 2009.

Arðs- og hlutdeildartekjur voru mjög sveiflukenndar á tímabilinu. Þær nærri fimmfölduðust á árinu 2006 frá fyrra ári. Þá hækkun mátti einkum rekja til hlutdeildar í afkomu Sparisjóðabanka Íslands hf., en þar vó þyngst hagnaður bankans af hlutabréfaeign hans í Exista hf. Á árinu 2007 voru arðs- og hlutdeildartekjur sparisjóðsins neikvæðar um 1,8 milljarða króna, aðallega vegna taps af eignarhlut í Kistu – fjárfestingarfélagi hf. upp á rúma 2 milljarða króna. Í endurskoðunarskýrslu vegna ársins 2007 kom fram að bein og óbein eign Sparisjóðsins í Keflavík í Exista hf. eftir sameiningu sparisjóðanna þriggja hafi numið 11 milljörðum króna eða um 11,7% af heildareignum sparisjóðsins. Vegna óhagstæðrar verðþróunar á hlutabréfamörkuðum mætti gera ráð fyrir að samanlagt hafi virði þessara eignarhluta rýrnað um 3,5 milljarða króna á árinu og eigið fé sparisjóðsins rýrnað um rúmlega 11% af þessum sökum á árinu.14 Á árinu 2008 voru arðs- og hlutdeildartekjur neikvæðar um 4,5 milljarða króna. Hlutdeild sparisjóðsins í tapi Kistu – fjárfestingarfélags ehf. á árunum 2007 og 2008 nam samtals tæpum 6,7 milljörðum króna.

Hreinar vaxtatekjur breyttust ekki mikið frá 2001 til 2008. Hæstar urðu þær árið 2005, eða 876 milljónir króna. Árið 2009 voru þær neikvæðar um 354 milljónir króna. Skýrðist það einkum af minni vaxtatekjum af útlánum og óbreyttum vaxtagjöldum frá fyrra ári. Stærstur hluti vaxtatekna kom frá útlánum og hækkaði sá þáttur um 5,5 milljarða króna árið 2008. Það mátti meðal annars rekja til hækkunar höfuðstóls lána vegna gengisfalls og verðbólgu og þar með vaxtatekna sem reiknuðust af honum. Vaxtatekjurnar drógust aftur saman um þriðjung á árinu 2009 en samdráttur í hreinum vaxtatekjum á því ári stafaði einkum af hækkandi vaxtakostnaði vegna dag- og veðlána viðskipta- og peningamarkaðssamninga við Seðlabanka Íslands og hærri innlánsvaxta. Stærstur hluti vaxtagjalda var af almennum innlánum. Hlutur þeirra var minnstur árið 2006 en þá vógu vaxtagjöld vegna lántöku næstum jafnmikið. Vaxtagjöld greidd til lánastofnana og vegna lántöku jukust umtalsvert undir lok tímabilsins. Sparisjóðurinn átti þá í miklum lausafjárvanda og skammtímafjármögnun hans reyndist honum dýr.

Vaxtamunur Sparisjóðsins í Keflavík var oftast lægri en hjá öðrum sparisjóðum.15 Hann þróaðist þó með svipuðum hætti, þ.e. fór lækkandi eftir 2003. Íbúðalán sem byrjað var að veita í samstarfi við Íbúðalánasjóð undir lok árs 2004 skiluðu afar litlum vaxtatekjum og átti það þátt í minnkandi vaxtamun. Árin 2008 og 2009 stóð lánastarfsemin ekki undir sér því vaxtamunur sparisjóðsins var þá orðinn neikvæður.

Rekstrargjöld

Rekstrargjöld Sparisjóðsins í Keflavík hækkuðu mikið árin 2008 og 2009 og stafaði það fyrst og fremst af framlagi í afskriftareikning útlána. Á tímabilinu 2001–2009 nam framlag í afskriftareikning útlána samtals 25,3 milljörðum króna, þar af 23,5 milljörðum króna tvö síðustu árin. Mynd 2, sem sýnir rekstrargjöld sparisjóðsins í heild, verður því mjög ógreinileg hvað almennan rekstrarkostnað varðar. Hann má hins vegar lesa í töflunni undir myndinni.

Framlag í afskriftareikning útlána hækkaði jafnt og þétt frá 2002 til 2006 en árið 2007 lækkaði það um 57% frá fyrra ári þrátt fyrir að útlán nær tvöfölduðust. Á árinu 2008 fertugfaldaðist framlagið og varð svo meira en tvöfalt hærra en það árið 2009. Framlagið í afskriftareikning útlána hafði afgerandi áhrif á rekstrartap Sparisjóðsins í Keflavík þessi tvö síðustu ár og neikvæða eiginfjárstöðu hans í árslok 2009.

Það er eftirtektarvert að almennur rekstrarkostnaður Sparisjóðsins í Keflavík var allt tímabilið, að undanskildu árinu 2002, hærri en hreinar vaxtatekjur og hafði svo verið að minnsta kosti frá 1997. Þótt almennur rekstrarkostnaður hafi hækkað jafnt og þétt allt tímabilið í krónum talið fór hlutfall hans af meðaleignum sparisjóðsins lækkandi. Hlutfallið var þó ámóta og hjá öðrum sparisjóðum á sama tíma ef frá eru talin árin 2007 og 2009.

Almennur rekstrarkostnaður samanstóð af launakostnaði, afskriftum rekstrarfjármuna og öðrum rekstrarkostnaði. Á árinu 2008 hækkaði þessi liður verulega. Helstu ástæður þess voru aukinn upplýsingatæknikostnaður ásamt markaðs- og launakostnaði, sem skýrðist að hluta til af samruna við aðra sparisjóði. Á árunum 2005–2008 rúmlega þrefaldaðist kostnaður vegna þjónustu Tölvumiðstöðvar sparisjóðanna, fór úr um 82 milljónum króna í 310 milljónir króna. Markaðskostnaður hækkaði á sama tíma úr 73 milljónum króna í rúmar 183 milljónir króna.

Launakostnaður sparisjóðsins fór hækkandi á árunum 2001 til 2009, en hlutfall hans af almennum rekstrarkostnaði var á bilinu 39–51% á tímabilinu. Stöðugildum fjölgaði samfellt á árunum 2005–2008 en fækkaði árið 2009 um 15 frá fyrra ári og voru 113 í árslok. Hér þarf að hafa í huga að sameining við aðra sparisjóði skýrði að mestu fjölgun stöðugilda 2006 og 2008. Þrátt fyrir fækkun starfsfólks árið 2009 var meðallaunakostnaður á hvert stöðugildi hærri en áður og skýrðist það einkum af eingreiðslu samkvæmt starfslokasamningi við sparisjóðsstjórann 31. desember 2009.

Á mynd 4 sést að launakostnaður sparisjóðsins þróaðist þegar á heildina er litið með líkum hætti og hjá öðrum sparisjóðum, nema hvað launin hækkuðu meira framan af, minna árin 2007 og 2008 og loks hækkuðu þau mun meira en hjá öðrum sparisjóðum á árinu 2009.16

Hjá Sparisjóðnum í Keflavík voru ekki til neinar skriflegar viðmiðunarreglur um fríðindi starfsmanna né eftirlit með þeim. Í skýrslu sem PricewaterhouseCoopers ehf. vann fyrir Fjármálaeftirlitið um sparisjóðinn og náði yfir tímabilið frá 30. júní 2008 til 23. apríl 2010 kom fram að starfsmenn hefðu notið ýmissa fríðinda. Auk almennra fríðinda greiddi sparisjóðurinn heimasíma fyrir ellefu starfsmenn frá miðju ári 2008 fram að falli sjóðsins. Fjórtán starfsmenn voru með ADSL-tengingar á vegum sparisjóðsins. Jafnmargir starfsmenn voru með bifreiðastyrk frá sparisjóðnum sem hluta af launakjörum. Sparisjóðurinn greiddi líf- og sjúkdómatryggingu fyrir níu starfsmenn og slysatryggingu fyrir fjóra starfsmenn. Á umræddu tímabili voru engir starfsmenn með kaupréttarsamning við sparisjóðinn.17

Sparisjóðurinn í Keflavík keypti 17. desember 2007 Range Rover-bifreið til afnota fyrir sparisjóðsstjóra. Bifreiðin var seld 15. maí 2008. Ekki lágu fyrir upplýsingar um notkun bílsins eða hlunnindamat fyrir þann tíma sem bíllinn var í eigu sparisjóðsins. Sparisjóðsstjóri hafði afnot af Toyota Land Cruiser 200-bifreið í eigu sparisjóðsins frá og með 8. janúar 2008. Frá þeim tíma voru honum reiknuð hlunnindi vegna bifreiðarinnar. Sparisjóðurinn seldi bifreiðina 9. júní 2009 og keypti þá Toyota Avensis-bifreið til afnota fyrir sparisjóðsstjóra. Sú bifreið var seld 13. nóvember 2009.18

Sparisjóðurinn í Keflavík átti íbúðarhúsnæði að Strandgötu 3 á Akureyri. Engar verklagsreglur voru til um notkun íbúðarinnar á tímabilinu 30. júní 2008 til 23. apríl 2010 og engin gögn lágu fyrir um hvernig íbúðin var nýtt. Fyrrverandi sparisjóðsstjóri sagði í skýrslutöku fyrir rannsóknarnefndinni að íbúðin hefði verið nýtt af stjórnarmönnum og helstu starfsmönnum og að úthlutun íbúðarinnar hefði verið á hans borði. Þau skipti sem hann sjálfur hefði dvalið í henni væru teljandi á fingrum annarrar handar. Mikil ásókn hefði verið í sumarhús í eigu sparisjóðsins og því hefði íbúðin á Akureyri verið góð viðbót, ekki síst til að stjórnin og yfirmenn væru ekki að keppa við starfsfólkið um úthlutun á dvöl í sumarhúsinu.19 Samkvæmt upplýsingum úr Fasteignaskrá Íslands keypti Sparisjóðurinn í Keflavík íbúðina 4. maí 2000. Frá 1. janúar 2010 höfðu allir starfsmenn sparisjóðsins aðgang að Strandgötu 3 í gegnum orlofsúthlutunarkerfi sparisjóðsins.20

Á árinu 2006 fengu starfsmenn sparisjóðsins árangurstengdar greiðslur sem námu samtals 60 milljónum króna. Í febrúarmánuði fengu starfsmenn eingreiðslu vegna ársins 2005 sem nam samtals 14,5 milljónum króna og skiptist þannig að almennir starfsmenn í fullu starfi fengu 160 þúsund krónur hver, forstöðumenn 320 þúsund krónur og sparisjóðsstjóri 480 þúsund krónur. Þá fengu starfsmenn samtals 45 milljónir króna í árangurstengdar greiðslur í lok sama árs. Sparisjóðsstjóri fékk 5,2 milljónir króna og forstöðumenn og stjórnendur eingreiðslu sem nam 1 milljón eða 2,1 milljón króna. Ekki var um að aðrar árangurstengdar greiðslur, kaupréttargreiðslur eða hvatagreiðslur að ræða samkvæmt þeim upplýsingum sem lágu fyrir.21

Vegna átta lykilstarfsmanna greiddi sparisjóðurinn 7–16% lífeyrissjóðsframlag umfram ákvæði kjarasamninga inn á séreignarsjóð. Samkvæmt ráðningarsamningi fékk forstöðumaður reikningshalds frá ársbyrjun 2003 greiddar 60 þúsund krónur á mánuði aukalega inn á séreignarsjóð til viðbótar við 8% framlag umfram ákvæði kjarasamninga sem greitt var allt árið 2007 og 15% sem greitt var árin 2008, 2009 og 2010. Samkvæmt fylgiblaði með ráðningarsamningi forstöðumanns rekstrar- og þjónustusviðs greiddi sparisjóðurinn í séreignarsjóð 30% af árslaunum hans vegna áranna 2006–2009. Hinn 21. apríl 2008 undirrituðu forstöðumaðurinn og sparisjóðsstjóri skjal um uppgjör þessa samkomulags en eftirstöðvar þess skyldu greiddar upp í einu lagi í apríl 2008.

Í mars 2009 féllust flestir lykilstarfsmenn á tímabundna 10% lækkun á mánaðarlaunum. Í nokkrum tilvikum lækkaði jafnframt greiðsla sparisjóðsins í séreignarsjóð starfsmanna eða féll alveg niður. Þessi 10% lækkun var ekki framkvæmd vegna desember 2009 en tók síðan aftur gildi á árinu 2010.22

Í fundargerð stjórnar sparisjóðsins 21. apríl 2009 var bókað að „Geirmundur Kristinsson sagði frá því að hann myndi láta af störfum 1. júní n.k og ætli að tilkynna það á aðalfundinum á morgun. Formaður og varaformaður hafa gengið frá starfslokasamningi við Geirmund, hann hefur starfsskyldu til áramóta og fær svo launagreiðslur í 6 mánuði eftir það. Lögmanni falið að ganga frá skriflegum samningi milli sparisjóðsins og Geirmundar“. Stuttu síðar var ákveðið að Geirmundur myndi sitja áfram í stjórnum þeirra félaga sem hann hafði setið í fyrir hönd sparisjóðsins til loka ársins. „Formanni síðan falið að ganga frá málum GK. Formaður gat þess að GK hefði ekki gert kröfu um 24 mánaða uppsagnarfrest eins og túlka megi af ráðningarsamningi hans.“23 Draga má í efa túlkun formannsins á ráðningarsamningnum því 24 mánaða eingreiðsla við starfslok átti við einungis við ef sparisjóðsstjóra væri sagt upp í tengslum við grundvallarbreytingu á eignarhaldi eða stjórnun sparisjóðsins.24

Starfslokasamningurinn varð tilefni til mikillar umfjöllunar í fjölmiðlum.25 Samningurinn var til í tveimur mismunandi útgáfum sem báðar voru undirritaðar af stjórnarformanni og sparisjóðsstjóra og dagsettar 2. júní 2009. Í báðum gerðum samningsins stóð til að sparisjóðsstjórinn léti af störfum 1. júní en yrði nýjum sparisjóðsstjóra til aðstoðar til 31. desember 2009 og sæti einnig fram að því í þeim stjórnum sem sparisjóðurinn hafði falið honum að sitja í. Ráðningarsamningur hans skyldi gilda til 31. desember en 1. janúar 2010 skyldu honum greidd sex mánaðarlaun í eingreiðslu. Það sem var frábrugðið milli útgáfa samningsins var að í öðrum var kveðið á um endurútreikning láns til einstaklings sem tengdist sparisjóðsstjóranum og lánið flutt í einkahlutafélag, auk þess sem honum voru heimiluð afnot af orlofsíbúð sparisjóðsins í tilefni af fjölskylduhátíð.

Þáverandi stjórnarformaður sagði í skýrslu fyrir rannsóknarnefndinni að hann hefði kvittað undir rangan samning. Tvær útgáfur samningsins hefðu verið til umræðu vegna þess að sparisjóðsstjóri hefði viljað fá ákveðin kjör, það hefði hins vegar ekki verið samþykkt en formaður stjórnar hefði fyrir mistök undirritað rangan samning. Hann sagði aldrei hafa reynt á innihald þess samnings því innihaldið úr réttum samningi hefði verið lesið upp á fundi stjórnar þegar hann var undirritaður. Réttur samningur hefði komið til framkvæmda.26

Þessu ber ekki saman við það sem fyrrverandi aðalbókari sparisjóðsins tjáði rannsóknarnefndinni í skýrslu sinni. Stjórnin hefði beðið hann að yfirfara starfslokasamning við sparisjóðsstjóra og hefðu nokkur atriði komið upp við þá skoðun sem leiddu til þess að samningurinn var dreginn til baka. Í honum hafi verið atriði sem ekki vörðuðu starfslok sparisjóðsstjóra og var samkomulagið því leiðrétt og ákveðin atriði látin ganga til baka. Aðalbókari yfirfór notkun sparisjóðsstjóra á greiðslukortum og tékkareikningum sparisjóðsins við sömu skoðun og var samið um það að sparisjóðsstjórinn endurgreiddi 2 milljónir króna vegna notkunar greiðslukortsins en þær voru dregnar af starfslokagreiðslu til hans.27 Ekki er að finna frekari umfjöllun í fundargerðum stjórnar sparisjóðsins um starfslokasamninginn en þá sem framar er greint frá, þ.e. frá 21. apríl og 26. maí 2009.

Kjarnarekstur

Afkoma af kjarnarekstri er hér reiknuð á sama hátt og hjá öðrum sparisjóðum. Um nálgun er að ræða, svo sem gerð er grein fyrir í 8. kafla, og er nauðsynlegt að hafa það í huga þegar tafla 10 er skoðuð. Í henni getur að líta afkomu af kjarnarekstri Sparisjóðsins í Keflavík á árunum 2001–2009. Tap var af kjarnarekstri sparisjóðsins allt tímabilið, að frátöldu árinu 2002, og fór það mjög vaxandi eftir árið 2005 þegar almennur rekstrarkostnaður tók að hækka verulega. Árið 2006 fór hann langt fram úr hreinum vaxta- og þjónustutekjum og fór sá munur hraðvaxandi. Hreinar vaxta- og þjónustutekjur breyttust nær ekkert á sama tíma. Sé afkoma af kjarnarekstri borin saman við hagnað fyrir skatta sést að frá og með 2003 tók sparisjóðurinn að skila umtalsverðum og vaxandi hagnaði á meðan afkoman af kjarnarekstri versnaði stöðugt. Til dæmis nam tap af kjarnarekstri 700 milljónum króna árið 2006 þegar hagnaður fyrir skatta var tæpir 5,6 milljarðar króna.

Kjarnarekstur annarra sparisjóða var í heildina tekið sama marki brenndur, samanber umfjöllun um kjarnarekstur sparisjóðanna í heild í 8. kafla.

Í ársreikningi sparisjóðsins 2007, 2008 og 2009 eru í skýringakaflanum birt starfsþáttayfirlit fyrir þessi ár auk ársins 2006. Framan við þessi yfirlit er stutt skýring þar sem segir:

Sparisjóðurinn skilgreinir starfsemina sem tvo starfsþætti. Viðskiptabankastarfsemi felst í inn- og útlánastarfsemi ásamt ráðgjöf til einstaklinga og fyrirtækja. Fjárfestingastarfsemin felst að mestu leyti í verðbréfafjárfestingum félagsins, ásamt fjárstýringu.

Síðan fylgdi sundurliðun þessara tveggja starfsþátta eftir helstu tekju- og gjaldaliðum, og í eignir, skuldir og eigið fé, sjá töflu 11.

Samkvæmt þessum yfirlitum var afkoman af viðskiptabankastarfseminni allt önnur og betri en framar var greint frá. Ekki má leggja að jöfnu afkomu af kjarnarekstri hér á undan og afkomu af viðskiptabankastarfsemi hér. Afkoma af kjarnarekstri var reiknuð af Fjármálaeftirlitinu og skilgreind á ákveðinn hátt fyrir alla sparisjóði en afkoma af viðskiptabankastarfsemi er samkvæmt skilgreiningu Sparisjóðsins í Keflavík sjálfs. Á þessum árum héldu háværar gagnrýnisraddir því fram að ekkert héldi sumum sparisjóðum gangandi annað en hagnaður af verðbréfum og fór Sparisjóðurinn í Keflavík ekki varhluta af slíkri gagnrýni. Hvað varðar framsetningu sparisjóðsins sjálfs á starfsþáttayfirlitum gátu lesendur ársreiknings ekki grafist fyrir um hvað réð skiptingunni milli þessara tveggja starfsþátta. Til að mynda getur lesandi ársreiknings ekki gert sér grein fyrir hvers vegna og upp að hvaða marki tekjur af fjáreignum eru færðar undir afkomu af viðskiptabankastarfsemi. Þá var ekki skýrt hvað félli undir aðrar rekstrartekjur í yfirlitinu en árið 2008 voru þær stór þáttur í afkomunni.

Í 17. kafla, um Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis, er fjallað ítarlega um starfsþáttayfirlit í ársreikningum hans fyrir árin 2006 og 2007. Þessir tveir sparisjóðir voru þeir einu sem birtu slík yfirlit í ársreikningum sínum. Hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis hafði verið byggð upp sérhæfð starfsemi utan um fjárfestingar sjóðsins og því eðlilegt að halda kostnaði við hana aðgreindum frá hefðbundinni sparisjóðsstarfsemi. Í tilfelli Sparisjóðsins í Keflavík var þessari sérhæfingu ekki til að dreifa í sama mæli. Sömu starfsmenn sinntu báðum starfsþáttunum. Vaxtagjöld vegna fjárfestinga voru ekki sérgreind og því kunna hreinar vaxtatekjur í töflunni um afkomu af kjarnarekstri að vera vanmetnar. Ef marka má starfsþáttayfirlitin í ársreikningum sparisjóðsins hafa skuldir vegna fjárfestinga verið óverulegar sem hlutfall af heildarskuldum árin 2006 og 2007 og ekki nema liðlega 20% árin 2008 og 2009. Hreinar vaxtatekjur ættu því ekki að hafa liðið svo mjög fyrir fjárfestingarþáttinn.

Vaxtamunur hjá sparisjóðnum var orðinn mjög lágur árið 2005, eða 3,9%, og lækkaði mjög árin eftir það, eins og fram kemur í töflu 8. Hann var nær enginn orðinn 2007 eða 0,9% og neikvæður 2008 og 2009 eða -1,7% og -2,2%. Afkoma viðskiptabankasviðsins samkvæmt starfsþáttayfirlitunum er því í mótsögn við þessa algengu mælikvarða á lífvænleika lánastofnana.

19.1.2 Efnahagsreikningar

Hér er fjallað um stærstu eigna- og skuldaliði í efnahagsreikningi Sparisjóðsins í Keflavík í lok áranna 2001–2009 og þróun þeirra á tímabilinu. Í viðauka C má sjá efnahagsreikninga sparisjóðsins frá umræddu tímabili bæði á verðlagi hvers árs og á föstu verðlagi, þ.e. árslokaverðlagi ársins 2011.

Eignir

Í árslok 2008 námu heildareignir sparisjóðsins samtals 98 milljörðum króna og höfðu nær fimmfaldast á fimm árum, þ.e. frá árslokum 2003. Munaði þar mest um vöxt útlána, sem höfðu meira en fimmfaldast á tímabilinu, og gangvirðishækkanir hlutabréfa. Þá höfðu sameiningar sjóðsins við aðra sparisjóði einnig þýðingu í stækkun eignasafnsins.

Útlán voru langstærsti einstaki eignaliður sparisjóðsins 2001–2009 og nam vægi þeirra af heildareignum á bilinu 67–87%, minnst í árslok 2007 og mest í lok árs 2008. Mest hækkuðu útlánin árið 2007 eða um 82%.

Sparisjóðurinn tók þátt í lánasamstarfi sparisjóðanna við Íbúðalánasjóð sem hófst undir lok árs 2004. Í árslok 2005 hafði hann veitt rúmlega 300 íbúðaveðlán fyrir rúmlega 3,1 milljarð króna með beinni fjármögnun frá Íbúðalánasjóði og 135 slík lán fyrir 750 milljónir króna í gegnum Sparisjóðabankann. Mikil aukning varð á lánum í erlendum myntum á árunum 2006–2008 og á lánum til fjárfestingar í hlutabréfum eða stofnfjárbréfum og lánum

til byggingarverkefna. Í byrjun árs 2009 varð breyting á eignasamsetningu sparisjóðsins því þá seldi hann íbúðaveðlán upp á nærri 10 milljarða króna til Íbúðalánasjóðs gegn greiðslu í skuldabréfum útgefnum af Íbúðalánasjóði (HFF flokkar). Stærstur hluti útlána sparisjóðsins var í formi skuldabréfa eða 52% við lok árs 2007. Gengisbundin lán voru 30% útlána í lok árs 2007 á meðan yfirdráttarlán voru 17% af heildarútlánum. Sparisjóðurinn lánaði nær eingöngu til einstaklinga og lögaðila en útlán til ríkis og sveitarfélaga voru óveruleg. Útlán til fyrirtækja, einkum í þjónustustarfsemi, jukust frá árinu 2006 og voru rétt rúmur helmingur útlána í árslok 2009. Útlánin eru sýnd nettó í efnahagsreikningi, þ.e. að teknu tilliti til varúðarniðurfærslu, sem er staðan á afskriftareikningi útlána. Til þess að sjá brúttóstöðu útlána þarf því að bæta stöðu afskriftareikningsins við, sbr. töflu 12.

Niðurfærsluhlutfall útlána var á bilinu 1,7–2,2% frá 2001 til 2007. Með umtalsverðum framlögum í afskriftareikning á árunum 2008 og 2009 margfaldaðist hlutfallið og nam niðurfærslan 21,5% af heildarútlánum árið 2009. Þetta hlutfall var yfirleitt lægra hjá Sparisjóðnum í Keflavík á tímabilinu en hjá öðrum sparisjóðum og var munurinn mestur árið 2008, eða 8,3 prósentustig.

Sjóður og óbundnar innistæður í Seðlabanka Íslands voru ekki stór eignaliður mestan hluta tímabilsins. Árið 2007 hækkaði þessi liður hins vegar um 4,7 milljarða króna þegar innistæður í fjármálafyrirtækjum jukust um 4,5 milljarða króna. Meginástæða þessarar lausafjáraukningar var stofnfjáraukning í desember það ár, 3,5 milljarðar króna, og í október hafði stofnfé verið aukið um 2,1 milljarð króna. Árið 2008 dróst þessi liður aftur verulega saman.

Fjáreignir Sparisjóðsins í Keflavík námu rúmlega 2,4 milljörðum króna í árslok 2004 og voru þá 9% heildareigna. Í árslok 2007 höfðu fjáreignir nær nífaldast að bókfærðu virði og námu 21,8 milljörðum króna, eða 23% af heildareignum. Aukninguna mátti fyrst og fremst rekja til gangvirðishækkana á hlutabréfum og verðbréfum með breytilegum tekjum. Veruleg gengislækkun varð á fjáreignum á árinu 2008 og drógust þær saman um 64% frá fyrra ári. Hlutabréf í Exista hf., eign í Kistu – fjárfestingarfélagi ehf. og Sparisjóðabanka Íslands hf. voru stærstu einstöku eignirnar meðal fjáreigna. Í árslok 2006 lét nærri að 70% eigin fjár sparisjóðsins væru bundin í eignarhlutum í Exista hf. með beinu og óbeinu eignarhaldi, þ.e. í gegnum Kistu, og þá voru ótalin áhrif Exista hf. í Sparisjóðabankanum sem Sparisjóðurinn í Keflavík átti þá 12% í.

Eign í hlutabréfum og öðrum verðbréfum með breytilegum tekjum nam samtals 18,5 milljörðum króna í árslok 2007 og hafði liðlega tvöfaldast á einu ári. Hlutabréfaeign jókst árið 2006 um 5,2 milljarða króna, einkum vegna skráningar Exista hf. á hlutabréfamarkað. Eftir skráningu á markað hækkaði gengi hlutabréfanna töluvert og á árinu var gengishagnaður sparisjóðsins af bréfum í Exista hf. 4,8 milljarðar króna. Árið 2007 keypti sparisjóðurinn hlutabréf í Icebank hf. af Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis og Byr sparisjóði fyrir 655 milljónir króna. Sparisjóðurinn hafði jafnan fært hlut sinn í bankanum með hlutdeildaraðferð, en í ársreikningi 2007 var tekið að færa hann sem fjáreign á gangvirði. Þannig var tekjufærður 2,4 milljarða króna gengishagnaður af eignarhlutnum það ár. Í árslok 2007 námu fjáreignir sparisjóðsins á gangverði rúmum 18 milljörðum króna, þar af var 19,4% hlutur í Icebank bókfærður á 6,2 milljarða króna. Aðrar stórar fjárfestingar á árinu 2007 voru í VBS Fjárfestingarbanka hf. fyrir 688 milljónir króna, Saga Capital Fjárfestingarbanka hf. fyrir 300 milljónir króna og Háskólavöllum ehf. fyrir 123 milljónir króna. Mikil lækkun varð á gangvirði hlutabréfa og annarra verðbréfa á árinu 2008 og stóð þessi liður í 3,6 milljörðum króna í árslok, sem jafngilti 81% lækkun frá fyrra ári. Eignarhluturinn í Exista hf. lækkaði um 3,1 milljarð króna, eignarhluturinn í Icebank hf. um 6,1 milljarða króna og 1,6 milljarða króna lækkun varð á eignarhlutnum í VBS Fjárfestingarbanka hf. Í árslok 2009 nam hlutabréfaeignin 1,6 milljörðum króna og hafði dregist saman um 57% á milli ára, eða samtals 17 milljarða króna frá lokum árs 2007.

Markaðsskuldabréf og önnur verðbréf með föstum tekjum voru bókfærð á 4,3 milljarða króna í árslok 2009 sem var þreföldun frá árslokum 2007. Meginskýring hækkunarinnar lá í markaðsskuldabréfi sem gefið var út af Reykjanesbæ. Það bréf var meðal annars notað í veðlánaviðskiptum við Seðlabanka Íslands. Fram til 2008 hafði vægi markaðsskuldabréfa af fjáreignum verið á bilinu 5–24% en fór í 55% árið 2009.

Eign sparisjóðsins í hlutdeildarfélögum hafði lengi vel verið bundin við Sparisjóðabankann, Tölvumiðstöð sparisjóðanna og Reiknistofu bankanna. Hækkunin á þessum lið árið 2006 var fyrst og fremst fólgin í hækkun á hlutnum í Sparisjóðabankanum. Í árslok 2007 voru eignarhlutir í fleiri félögum komnir í þennan flokk. Þar bar hæst 34,4% hlut í Kistu – fjárfestingarfélagi ehf. sem stofnað var undir lok ársins 2006 utan um eignarhluti nokkurra sparisjóða í Exista hf. Sparisjóðurinn í Keflavík lagði fram Existahluti sem hlutafé í Kistu og seldi félaginu auk þess svipaðan eignarhlut. Í árslok nam bókfærð eign sparisjóðsins í Kistu – fjárfestingarfélagi ehf., sem var tæp 28%, tæpum milljarði króna en var þá færð meðal fjárfestingarhlutabréfa, þótt færa megi rök fyrir að hana hefði átt að færa sem eign í hlutdeildarfélagi.28 Það var gert á árinu 2007, en á því ári jókst hlutur sparisjóðsins í félaginu vegna hlutafjáraukninga Kistu – fjárfestingarfélags ehf. og sameiningar við tvo aðra sparisjóði sem áttu hlut í sama félagi. Eignarhluturinn nam 34,4% í árslok 2007. Hækkun eignarhlutarins nam um 3 milljörðum króna vegna þessa en á móti færði sparisjóðurinn 2,1 milljarðs króna hlutdeild í tapi Kistu það ár. Hlutdeild sparisjóðsins í tapi Kistu árið 2008 nam 4,6 milljörðum króna. Í árslok 2008 átti sparisjóðurinn, auk eignarhlutar í Kistu – fjárfestingarfélagi ehf., eignarhlut í nokkrum hlutdeildarfélögum, svo sem Teris, Reiknistofu bankanna, FSP Holding ehf. og SP-ráðgjöf ehf.

Undir liðinn ýmsar eignir eru hér taldir rekstrarfjármunir, aðrar eignir, óefnislegar eignir og skattinneign. Hækkun þessa liðar árið 2007 var einkum í rekstrarfjármunum, þ.e. matshækkun vegna upptöku IFRS upp á tæpan milljarð króna, kaupum á Miðlandi ehf. og vegna sameiningar við Sparisjóð Vestfirðinga og Sparisjóð Húnaþings og Stranda. Í árslok 2009 nam liðurinn ýmsar eignir29 tæpum 7 milljörðum króna sem var nærri tvöföldun frá fyrra ári. Helmingur þeirrar hækkunar var skattinneign vegna taps á árinu 2008. Rekstrarfjármunir voru eignfærðir á 3,1 milljarð króna í lok árs 2009.

Skuldir

Fjármögnun Sparisjóðsins í Keflavík, önnur en eigið fé, fólst aðallega í innlánum og lántöku. Í lok fyrsta ársfjórðungs 2009 var eigið fé sparisjóðsins komið undir lögbundið lágmark og varð hann því að reiða sig á dag- og veðlánaviðskipti við Seðlabanka Íslands auk hefðbundinnar fjármögnunar.

Almenn innlán voru helsta fjármögnun sparisjóðsins á tímabilinu 2001–2009. Minnstur varð hlutur þeirra í heildarskuldum sjóðsins 50% í árslok 2006 en vægi þeirra jókst eftir það og varð mest 62% í árslok 2009. Þetta var mjög áþekkt og hjá öðrum sparisjóðum. Hlutfall innlána af útlánum á umræddu tímabili sveiflaðist milli 57% og 68%, lægst var það í árslok 2006, en í árslok 2009 fór það upp í rúm 90%. Frá septemberlokum 2008 til marsloka 2010 hækkuðu innlán hjá Sparisjóðnum í Keflavík um 19 milljarða króna. Þar af lögðu sveitarfélög og lífeyrissjóðir á Suðurnesjum inn 5,2 milljarða króna. Ríkissjóður Íslands eignaðist 2 milljarða króna innlán hjá sparisjóðnum, sem var meðal annars tilkomið vegna greiðslu sparisjóðsins á fjármagnstekjuskatti sem sveitarfélögum á Suðurnesjum bar að greiða í ríkissjóð vegna hagnaðar af sölu eignarhluta þeirra í HS Orku.

Lántökur voru annar meginþáttur fjármögnunar Sparisjóðsins í Keflavík. Lántökur skiptust í tvo meginflokka, útgefin skuldabréf og víxla og lán frá fjármálafyrirtækjum. Hlutur lántöku í heildarfjármögnun varð mestur í árslok 2005 og nam þá 38%. Í árslok 2009 voru lántökur ekki nema 21% af heildarfjármögnun sjóðsins. Þær höfðu hins vegar þrefaldast í krónum talið frá árslokum 2004. Erlend lántaka lækkaði frá árslokum 2007 þar til sjóðurinn féll. Á árinu 2008 þurfti sparisjóðurinn að greiða upp erlend lán að fjárhæð 47 milljónir evra sem ekki fengust endurfjármögnuð.

Skuldir við lánastofnanir námu 12,5 milljörðum í árslok 2009 og höfðu þá fjórfaldast frá árslokum 2007. Helstu skýringuna mátti rekja til dag- og veðlánaviðskipta við innlendar lánastofnanir og Seðlabanka Íslands vegna lausafjárskorts en lausafjárstaða sparisjóðsins versnaði til muna fyrri hluta ársins 2008. Í lok september 2008 var búið að loka á flestar erlendar lánalínur og lausafjárstaðan til eins mánaðar var þá ekki nema tæpar 600 milljónir króna. Lausafjárþörfin var hins vegar metin 5 milljarðar króna. Á þessum tíma voru hafnar viðræður við Íbúðalánasjóð um lánalínu og fjármögnun gegn veði í útlánasafni sparisjóðsins. Þær leiddu til þess að í mars 2009 keypti Íbúðalánasjóður íbúðaveðlán af sparisjóðnum fyrir tæpa 10 milljarða króna.

Útgáfa víkjandi skuldabréfa jókst hlutfallslega mest árið 2005 en þá komst hlutfall víkjandi skulda í 5% af heildarskuldum sparisjóðsins. Slíkar skuldir héldu síðan áfram að hækka ár frá ári en ekki til jafns við aðrar skuldir. Undir liðnum aðrar skuldir eru síðan margvísleg áfallin gjöld og fyrirfram innheimtar tekjur. Þessi liður hækkaði verulega 2007, fyrst og fremst vegna ógreidds fjármagnstekjuskatts.

Til reiknaðra skuldbindinga töldust annars vegar tekjuskattsskuldbinding, sem stafaði að mestu leyti af mismunandi meðhöndlun á eignarhlutum í félögum í skattalegu og reikningshaldslegu tilliti, en einnig af frestun á skattlagningu söluhagnaðar af eignarhlutum. Skattskuldbindingin hækkaði mikið árin 2006 og 2007 vegna frestunar tekjuskatts af söluhagnaði hluta í Exista hf. Skattsskuldbinding nam tæpum milljarði króna í árslok 2006 og nærri tveimur í árslok 2007. Hið mikla tap sparisjóðsins á árinu 2008 þurrkaði út skatt- skuldbindinguna og í stað hennar kom skattinneign. Til reiknaðra skuldbindinga taldist einnig lífeyrisskuldbinding sparisjóðsins. Þannig háttaði til að Sparisjóðurinn í Keflavík hafði um langa hríð ábyrgst verðtryggingu á lífeyrisgreiðslum til starfsfólks. Tekið var tillit til þess við gerð ársreiknings og sjóður myndaður vegna þessa sem færður var til skuldar í efnahagsreikningi. Við útreikning skuldbindingarinnar var miðað við að raunávöxtun umfram launahækkanir væri 3%.30 Í árslok 2001 nam lífeyrisskuldbinding sparisjóðsins 310 milljónum króna og hækkaði jafnt og þétt ár frá ári og stóð í 540 milljónum króna í árslok 2005. Á því ári var tekið að miða við 3,5% ávöxtunarkröfu við framsetningu skuldbindingarinnar í ársreikningi og varð hækkun hennar meiri af þeim sökum. Árið 2006 voru uppi hugmyndir um uppgjör lífeyrisskuldbindingar sparisjóðsins við Eftirlaunasjóð Reykjanesbæjar. Í ársreikningi 2006 var skuldbindingin hækkuð um 420 milljónir króna. Þar af voru 315 milljónir króna færðar yfir eigið fé þar sem um var að ræða leiðréttingu vegna fyrri ára. Uppfærslan var þá miðuð við 4,6% ávöxtunarkröfu og stóð í 963 milljónum króna í árslok.31 Á stjórnarfundi í sparisjóðnum 18. júní 2007 lágu fyrir drög að uppgjöri við Eftirlaunasjóð Reykjanesbæjar. Uppgjörið átti að miðast við 31. desember 2006 og var gert ráð fyrir að sparisjóðurinn greiddi eftirlaunasjóðnum um það bil 1,5 milljarða króna og yrði þar með laus allra mála. Samþykkt var að vinna að málinu á þessum forsendum. Lífeyrisskuldbindingar sparisjóðsins í heild námu samtals 1.960 milljónum króna í árslok 2007. Samkomulag um uppgjör við eftirlaunasjóðinn um hans hlut var undirritað í upphafi árs 2008. Skuldbindingin við hann í árslok 2007 reiknaðist 1.283 milljónir króna, sem var mikil hækkun frá fyrri útreikningum. Leiðrétting upp á 738 milljónir króna var færð yfir eigið fé í ársreikningi sparisjóðsins 2007.32 Snemma árs 2008 greiddi sparisjóðurinn Eftirlaunasjóði Reykjanesbæjar 1.613 milljónir króna og lauk þar með uppgjörinu. Lífeyrisskuldbinding sparisjóðsins í árslok 2008 datt meðal annars af þeim sökum niður í 355 milljónir króna.33

Eigið fé

Tiltölulega litlar breytingar urðu á eigin fé Sparisjóðsins í Keflavík fyrr en á árinu 2006. Varasjóðurinn óx jafnt og þétt vegna góðrar og batnandi afkomu frá 2001 en stofnfé hafði lengi verið nær óbreytt að öðru leyti en því að nýtt hafði verið heimild til endurmats vegna verðlagsbreytinga og sérstaks endurmats. Á árunum 2001 fram til loka árs 2006 myndaði varasjóður því stærstan hluta eigin fjár eða á bilinu 47–77%. Árið 2006 var stofnfé aukið um 984 milljónir króna og rúma 7 milljarða króna árið 2007. Auk þess leiddi sameining við Sparisjóð Vestfirðinga og Sparisjóð Húnaþings og Stranda til frekari hækkunar stofnfjár. Eigið fé Sparisjóðsins í Keflavík nam tæpum 25,5 milljörðum króna í árslok 2007 og var þá 27% af heildarfjármögnun sjóðsins. Hið mikla tap sparisjóðsins á árinu 2008 leiddi svo til þess að varasjóður varð neikvæður um 11,1 milljarð króna en bókfært eigið fé hélst enn jákvætt um 5,4 milljarða króna. Það ár greiddi sparisjóðurinn tæpa 2,8 milljarða króna í arð sem miðaðist við 20,6% af endurmetnu stofnfé í árslok 2007. Þessi arðgreiðsla nam einum og hálfum hagnaði ársins 2007. Í lok árs 2009 var bókfært eigið fé sparisjóðsins orðið neikvætt um tæpa 12 milljarða króna.

Árin 2001–2007 var Sparisjóðurinn í Keflavík vel yfir lögbundinni lágmarkskröfu um 8% eiginfjárhlutfall. Samkvæmt uppgjörum og innsendum skýrslum um eigið fé til Fjármálaeftirlitsins fór sparisjóðurinn undir lögbundið lágmarks eiginfjárhlutfall í lok árs 2008 en þá var það 7,06%. Eiginfjárhlutfallið hélt áfram að lækka og var komið niður í -17,35% við lok fyrsta ársfjórðungs 2010.

Eiginfjárvandi Sparisjóðsins í Keflavík í lok árs 2009 átti sér nokkurn aðdraganda. Eigið fé sparisjóðsins var mjög háð verði hlutabréfa og lausafjárskortur hafði verið til staðar hjá sjóðnum í nær tvö ár. Á árunum 2004–2008 var hlutfall fjáreigna af eigin fé lægst 86% árið 2007, þegar stofnfé var aukið mikið, og hæst 143% árið 2008, enda hafði eigið fé dregist mikið saman í lok þess árs. Gengistap af fjáreignum og hlutdeild í tapi hlutdeildarfélaga upp á tæpa 11 milljarða króna hafði mikil áhrif á rekstur sparisjóðsins árið 2008. Það, ásamt fyrrnefndri arðgreiðslu á árinu, leiddi til 79% samdráttar á eigin fé og þess að varasjóður varð neikvæður. Í áritun endurskoðenda á ársreikning sparisjóðsins 2008 var ábending um að óvissa ríkti um framtíðarrekstrarhorfur sjóðsins ef aðgerðir stjórnar hans og aðkoma ríkisins gengju ekki eftir. Þær aðgerðir sem endurskoðendurnir töldu nauðsynlegar að stjórn sjóðsins gripi til voru meðal annars að koma lagi á gjaldeyrisjöfnuð sjóðsins, þar sem hann bjó við mikla gengisáhættu vegna mismunar á eigna- og skuldastöðu í erlendum gjaldmiðlum. Endurskoðendurnir töldu að útvega þyrfti frekari fjármögnun í formi víkjandi lána og að sækja þyrfti um 20% eiginfjárframlag frá ríkinu.

Tilraunir til fjárhagslegrar endurskipulagningar sparisjóðsins á árinu 2009 og fram á árið 2010 báru ekki árangur. Í apríl 2010 var það mat Fjármálaeftirlitsins að eiginfjárvandi sparisjóðsins væri slíkur að hann gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar gagnvart viðskiptavinum og kröfuhöfum. Fjármálaeftirlitið tók þá yfir vald stofnfjárhafafundar sparisjóðsins með ákvörðun sinni 22. þess mánaðar.

19.1.3 Spkef sparisjóður

Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um ráðstöfun eigna og skulda Sparisjóðsins í Keflavík frá 22. apríl 2010 fól í sér að hluti eigna og skuldbindinga sparisjóðsins var fluttur í nýjan sparisjóðsjóð, Spkef sparisjóð, sem var að fullu í eigu ríkissjóðs. Heildareignir Spkef sparisjóðs við stofnun voru 76,3 milljarðar króna. Tap af rekstri Spkef sparisjóðs frá stofnun til 31. desember 2010 nam 1,5 milljörðum króna samkvæmt óendurskoðuðu uppgjöri. Í drögum að rekstrarreikningi Spkef sparisjóðs fyrir tímabilið 1. janúar 2011 til 4. mars 2011 var tap af rekstrinum 448 milljónir króna.

Í stjórn Spkef sparisjóðs sem skipuð var af Bankasýslu ríkisins sátu Ásta Dís Óladóttir stjórnarformaður, Anna María Pétursdóttir, Georg Gísli Andersen, Helga Loftsdóttir og Valdimar Halldórsson. Sparisjóðsstjóri frá stofnun sparisjóðsins var Angantýr Valur Jónasson, sem verið hafði sparisjóðsstjóri Sparisjóðsins í Keflavík. Hann gegndi starfinu til 1. nóvember 2010 en þá tók Einar Hannesson við því, ráðinn af stjórn sparisjóðsins eftir auglýsingu. Hann gegndi starfinu fram að samruna sparisjóðsins við NBI hf. (Landsbankann).

Í tæpt ár var unnið að fjárhagslegri endurskipulagningu Spkef sparisjóðs. Starfshópur á vegum Bankasýslu ríkisins lagði til við Fjármálaráðuneytið að leitað yrði leiða til að sameina Spkef sparisjóð við NBI hf. (nú Landsbankinn hf.) í stað þess að fjármagna sparisjóðinn með sjálfstæðum hætti. Fjármálaeftirlitið taldi eiginfjár- og lausafjárvanda sparisjóðsins slíkan að hann gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar gagnvart viðskiptavinum eða kröfuhöfum. Hinn 5. mars 2011 tók Fjármálaeftirlitið yfir vald stofnfjáreigendafundar Spkef sparisjóðs. Í kjölfarið var Spkef sparisjóður sameinaður Landsbankanum hf. með samruna án skuldaskila.

Ríkissjóður lagði Landsbankanum til framlag til að mæta neikvæðri eignastöðu Spkef sparisjóðs. Landsbankinn gerði athugasemdir við uppgjörsreikninginn og varð ágreiningur um uppgjörið. Þriggja manna úrskurðarnefnd komst að þeirri niðurstöðu 7. júní 2012 að ríkið skyldi greiða Landsbankanum samtals 19,2 milljarða króna.34

Ársreikningar fyrir Spkef sparisjóð eru ekki til. Þó voru samin samstæðureikningsskil fyrir tímabilið frá 22. apríl til 31. desember 2010. Þau voru ekki fullgerð fyrr en eftir að sparisjóðurinn var sameinaður Landsbankanum hf. og því varð ekki af undirritun stjórnar og áritun endurskoðanda. Fyrir þá rúmu tvo mánuði sem sparisjóðurinn starfaði á árinu 2011 eru einungis til óstaðfest drög að rekstrar- og efnahagsreikningi. Rannsóknarnefndinni þykir rétt að birta þessi uppgjörsdrög svo fá megi einhverja hugmynd um starfsemi Spkef sparisjóðs þá rúmlega tíu mánuði sem hann var við lýði.

Að lokum eru hér tilfærðar fáeinar upplýsingar úr skýringum með reikningnum fyrir árið 2010. Stöðugildi í lok ársins voru 113. Launakostnaður nam 651 milljón króna og meðallaunakostnaður á stöðugildi var því rúmar 5,7 milljónir króna. Laun og þóknanir til yfirstjórnar námu tæpum 60 milljónum króna, þar af til sparisjóðsstjóranna tveggja tæpum 11,5 milljónum króna. Þóknun til endurskoðenda nam um 23,5 milljónum króna. Hlutfall innlána á móti útlánum var í árslok 1,39. Eiginfjárhlutfall í árslok 2010 var -1,23%. Til hlutdeildarfélaga töldust eignarhlutir í Reiknistofu bankanna, Teris, Kistu – fjárfestingarfélagi ehf., FSP Holding ehf., SP eignum ehf., SPR ehf., Bláa lóninu hf. og Háskólavöllum. Dótturfélög voru Lásagras hf., Eyraeldi ehf., Þrælsfell ehf. og Víkur ehf., öll í 100% eigu sparisjóðsins.

Hér í kaflanum er ekki fjallað ýkja mikið um starfsemi Spkef sparisjóðs enda einkenndist hún að miklu leyti af því að koma sparisjóðnum í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu. Ný útlán voru fátíð, nema til þess að greiða upp eldri skuldir, og fjárfestingar voru litlar. Þó verður fjallað um mat á útlánasafninu á þeim tíma sem Spkef sparisjóður varð til og þegar sparisjóðurinn sameinaðist Landsbankanum.

19.1.4 Ársreikningar sparisjóða sem sameinuðust Sparisjóðnum í Keflavík

Hér verður stiklað á stóru í ársreikningum þeirra sparisjóða sem sameinuðust Sparisjóðnum í Keflavík. Tilfærðar eru upplýsingar úr reikningum þeirra frá og með árinu 2001 og þangað til þeir skiluðu síðasta uppgjöri sínu hver fyrir sig. Umfjöllunin er ekki eins ítarleg og um Sparisjóðinn í Keflavík. Þó eru sýndir samandregnir rekstrar- og efnahagsreikningar auk nokkurra viðbótarupplýsinga sem nauðsynlegar eru þeim sem vilja átta sig á helstu atriðum í starfsemi þessara sparisjóða umrædd ár. Umfjöllun um sparisjóðina er að finna víðar í kaflanum þar sem rætt er um einstaka starfsþætti.

19.1.4.1 Ársreikningar Sparisjóðs Ólafsvíkur 2001–2005

Sparisjóður Ólafsvíkur sameinaðist Sparisjóðnum í Keflavík á árinu 2006. Reikningshaldslegur samruni miðaðist við 30. júní 2006. Í töflum 15 og 16 eru sýndir rekstrar- og efnahagsreikningar Sparisjóðs Ólafsvíkur fyrir árin 2001–2005 á verðlagi hvers árs. Fyrir liggur rekstrarreikningur Sparisjóðs Ólafsvíkur fyrir fyrri hluta ársins 2006. Honum er hnýtt aftan við rekstrarreikningana í töflu 15. Efnahagur Sparisjóðs Ólafsvíkur kom fram að fullu í efnahagsreikningi Sparisjóðsins í Keflavík 31. desember 2006.

19.1.4.2 Ársreikningar Sparisjóðs Vestfirðinga 2001–2006

Sparisjóður Vestfirðinga sameinaðist Sparisjóðnum í Keflavík síðla árs 2007. Reikningshaldslegur samruni miðaðist við 4. desember 2007. Í töflum 18 og 19 eru sýndir rekstrar- og efnahagsreikningar Sparisjóðs Vestfirðinga fyrir árin 2001–2006 á verðlagi hvers árs. Fyrir liggja drög að rekstrarreikningi Sparisjóðs Vestfirðinga fyrir árið 2007. Honum er hnýtt aftan við rekstrarreikningana í töflu 18. Efnahagur Sparisjóðs Vestfirðinga kom fram að fullu í efnahagsreikningi Sparisjóðsins í Keflavík 31. desember 2007.

19.1.4.3 Ársreikningar Sparisjóðs Húnaþings og Stranda 2001–2006

Sparisjóður Húnaþings og Stranda sameinaðist Sparisjóðnum í Keflavík síðla árs 2007. Reikningshaldslegur samruni miðaðist við 4. desember 2007. Í töflum 21 og 22 eru sýndir rekstrar- og efnahagsreikningar Sparisjóðs Húnaþings og Stranda fyrir árin 2001–2006 á verðlagi hvers árs. Fyrir liggja drög að rekstrarreikningi Sparisjóðs Húnaþings og Stranda fyrir árið 2007. Honum er hnýtt aftan við rekstrarreikningana í töflu 21. Efnahagur Sparisjóðs Húnaþings og Stranda kom fram að fullu í efnahagsreikningi Sparisjóðsins í Keflavík 31. desember 2007.

19.2 Útlán, útlánareglur og lánveitingar

Útlán Sparisjóðsins í Keflavík námu um 79% af heildareignum í lok árs 2005 og 86% í lok árs 2008. Á tímabilinu 2005–2007 jukust heildarútlán sjóðsins úr 24,9 milljörðum króna í 62,3 milljarða króna. Með sameiningu við Sparisjóð Húnaþings og Stranda og Sparisjóð Vestfirðinga á árinu 2007 jukust útlán sjóðsins um tæpa 12,7 milljarða króna.

Í lok fyrsta ársfjórðungs 2005 var hlutfall gengisbundinna útlána um 7,8% af heildarútlánum sparisjóðsins. Í lok árs 2008 hafði vægi þeirra aukist í tæplega 41% af heildarútlánum.

Frá 2005 til 2007 og á árinu 2009 var stærstur hluti útlána í formi skuldabréfa. Þar á eftir komu erlend endurlán frá árinu 2007 en þau voru jafnframt stærsta útlánaformið í lok árs 2008.

Árið 2005 var vægi útlána til einstaklinga um 64,4% í lánasafni Sparisjóðsins í Keflavík. Var þá bæði litið til íbúðalána og annarra lána til einstaklinga. Í lok árs 2009 hafði vægi útlána til einstaklinga hins vegar lækkað í 37%. Þeir lánaflokkar sem hækkuðu mest 2005–2009 voru lán til ríkissjóðs og ríkisstofnana sem voru 11,1% af lánasafni sjóðsins í lok árs 2009 og lán til þjónustustarfsemi sem voru 21,8% af lánasafninu á sama tíma.

Hlutfall afskriftareiknings af heildarútlánum var um og innan við 2% frá 2005 til 2007. Í lok árs 2008 var afskriftareikningur útlána hins vegar 6,9 milljarðar króna og niðurfærsluhlutfallið 7,6%. Í árslok 2009 nam staðan á afskriftareikningi útlána 18,8 milljörðum króna eða um 21,5% af útlánastöðu.

19.2.1 Athugasemdir eftirlitsaðila við útlánasafn Sparisjóðsins í Keflavík

Frá miðju ári 2005 og fram til ársins 2007 var ekki að finna ítarlega umfjöllun innri endurskoðanda um útlán Sparisjóðsins í Keflavík í fundargerðum stjórnar sjóðsins. Rannsóknarnefndin fékk ekki afhentar skýrslur innri endurskoðunar fyrir árin 2005 og 2006.

Á fundi stjórnar sparisjóðsins 8. október 2007 fór innri endurskoðandi yfir þau útlán sem námu meira en 70 milljónum króna á fyrstu sex mánuðum ársins 2007. Í fjögur skipti af 21 hafði starfsmaður farið út fyrir lánaheimildir sínar án þess að fyrir lægi skýring í afgreiðslukerfi sparisjóðsins þó að skýringar hefðu fengist við eftirgrennslan. Auk þess greindi innri endurskoðandi frá því að gerðar hefðu verið skýrslur um áhættusöm útlán, skuldir tengdra aðila og skilmálabreytingar útlána án þess að frekar væri gerð grein fyrir niðurstöðum þeirra í fundargerð.

Á fundi stjórnar sparisjóðsins 19. ágúst 2008 lagði innri endurskoðandi fram skýrslur um störf sín. Meðal þeirra voru skýrslur um skráningu skuldabréfa, um skuldir og vanskil starfsmanna, útlán með veði í hlutabréfum, einstök útlán hærri en 70 milljónir króna, vanskil á íbúðalánum sparisjóðsins og yfirferð á vaxtalausum útlánum. Meðal athugasemda sem innri endurskoðandi setti fram var að mikilvægt væri að endurskoða lánaheimildir starfsmanna. Þá væri hlutverk lánanefndar óljóst en aðeins fjögur af 21 láni umfram 70 milljónir króna hefði farið fyrir lánanefnd. Skoðun á útlánum með veði í hlutabréfum hefði sýnt að heildarstaða þeirra væri um 3.473 milljónir króna en þar af væri tryggingavöntun 761 milljón króna.35

Í skýrslu innri endurskoðunar fyrir árið 2008 var enn á ný bent á mikilvægi þess að öll lán sem ættu að fara fyrir lánanefnd yrðu tekin þar fyrir og bókuð í fundargerðum nefndarinnar.36 Í skýrslu innri endurskoðunar frá 9. júlí 2009 var fjallað um stöðu stærstu skuldara og vanskilaaðila og voru nokkur fyrirtæki í vanskilum með lán umfram 90 daga. Þá vakti innri endurskoðun athygli á hversu lítill hluti vanskila væri kominn í lögfræðiinnheimtu. Einstakir aðilar voru jafnframt taldir vera með mjög slæma tryggingarstöðu.37

Af hálfu Deloitte, sem sá um ytri endurskoðun sparisjóðsins, voru engar stórvægilegar athugasemdir gerðar við útlánasafn sparisjóðsins í endurskoðunarskýrslum á árunum 2006 og 2007. Í endurskoðunarskýrslu fyrir árið 2008 voru vinnureglur varðandi tryggingar sagðar úreltar og að mikilvægt væri að uppfæra þær. Jafnframt var þeim tilmælum beint til stjórnar að auka eftirlit með tryggingamálum til að lágmarka það tryggingagat sem kynni að myndast ef þessu yrði ekki fylgt eftir.38

Fjármálaeftirlitið tilkynnti sparisjóðnum um athugun á starfsemi samstæðu hans með bréfi 20. júní 2008 og lauk henni í september sama ár með skýrslu um útlánaáhættu, markaðsáhættu og eftirlit með peningaþvætti hjá Sparisjóðnum í Keflavík. Í niðurstöðum skýrslunnar sagði að útlánasafn sparisjóðsins væri almennt nokkuð vel dreift en gæði þess væru vafasöm. Þó að vanskil væru í lágmarki væru þau að aukast, lán til venslaðra aðila væru umtalsverð og 90% útlána með veði í hlutabréfum væru tryggð með veði í óskráðum hlutabréfum. Verðmæti trygginga væri í mörgum tilvikum undir lánsfjárhæð eða ofmetið og hefði sparisjóðurinn lítið hirt um að gera veðköll. Fyrirséð væru útlánatöp vegna ofmats á verðmæti félaga, óhóflegrar bjartsýni í útlánum og hirðuleysi við innheimtu lána. Tryggingaþekja sparisjóðsins vegna lána með veði í hlutabréfum Icebank hf. og stofnfjárbréfum sparisjóðsins var talin óviðunandi. Þá væru veð sparisjóðsins í fasteignum í mörgum tilvikum léleg og haldbærar tryggingar almennt of lágar. Var það meðal annars talið afleiðing þess að regluverk sjóðsins væri í ólestri og þá sérstaklega hvað varðaði áhættustýringu. Einnig var bent á að mikilvægt væri að settar yrðu reglur um mat á afskriftum og skjalfest stefna um hlutfall útlána til einstakra atvinnugreina. Þá virtist Fjármálaeftirlitinu sem stjórn sparisjóðsins hefði ekki sinnt eftirlitshlutverki sínu með rekstri sjóðsins á fullnægjandi hátt.

Athugasemdir Fjármálaeftirlitsins sneru líka að því að mikið skorti á að fullnægjandi reglur væru til staðar um útlánaáhættu, koma þyrfti upp matskerfi á viðskiptavinum og útlánaeftirlit þyrfti að gera auknar kröfur um gæði trygginga. Þá væru úttektir innri endurskoðunar ekki nýttar af yfirstjórn sparisjóðsins og sparisjóðsstjóra með fullnægjandi hætti. Svo virtist sem markmið um skýrslugerð innri endurskoðanda, sem væri eftirlitsaðili fyrir hönd stjórnar, væru alfarið ákveðin af ytri endurskoðanda. Áhættustýring væri ekki nægilega virk, en hún ætti að framkvæma reglulega álagspróf á útlánasafni samstæðunnar, og þágildandi skipulag sparisjóðsins um áhættustýringu uppfyllti ekki leiðbeinandi tilmæli Fjármálaeftirlitsins nr. 1/2002 um áhættustýringu og innra eftirlit. Sparisjóðurinn þyrfti kerfi sem tryggði að á hverjum tíma væru til staðar upplýsingar sem gæfu yfirsýn yfir tengingar milli lánþega sem skiptu máli við mat á áhættu.39 Benti Fjármálaeftirlitið á að efla þyrfti úrtakseftirlit með útlánum til að tryggja að þau væru í samræmi við lánasamþykktir og útlánareglur. Þá fann Fjármálaeftirlitið ekki merki þess að sparisjóðsstjóri hefði gefið stjórn yfirlit yfir heildarvanskil sundurliðað eftir lánsformum líkt og honum bar að gera samkvæmt 8. gr. reglna um lánveitingar og ábyrgðir.40

19.2.1.1 Viðbrögð og eftirfylgni við athugasemdum eftirlitsaðila

Yfirferð rannsóknarnefndarinnar á aðilum í úrtaki lántakenda leiddi í ljós að þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar innri endurskoðunar um að taka þyrfti lánveitingar fyrir í lánanefnd var því ekki fylgt eftir með fullnægjandi hætti. Sem dæmi um lán sem veitt voru án þess að vera tekin fyrir í lánanefnd, eftir að ábendingar innri endurskoðunar voru lagðar fram, má nefna lánveitingar til félaga sem fjallað er um hér síðar undir stærstu lántakendum svo sem Blikavallar 3 ehf., eignarhaldsfélags í eigu Kaupfélags Suðurnesja, félags í eigu stjórnarmanns og maka og fasteignafélags í eigu Kaupfélags Suðurnesja. Þá má nefna lán til Gildrukletta ehf., Leigufoss ehf. og Stálness ehf.

Sparisjóðurinn í Keflavík fékk drög að skýrslu Fjármálaeftirlitsins til yfirferðar í byrjun ágúst 2008 og sendi stofnuninni athugasemdir sínar við niðurstöður skýrslunnar með bréfi 19. ágúst 2008. Rétt er að geta þess að í lokaskýrslu Fjármálaeftirlitsins kom fram að tekið hefði verið tillit til þessara athugasemda og sjónarmiða Sparisjóðsins í Keflavík eftir því sem tilefni hafi verið til. Í þeim tilvikum þar sem það hefði ekki verið gert kæmu athugasemdir sparisjóðsins fram með sjónarmiðum Fjármálaeftirlitsins. Meðal athugasemda sparisjóðsins við skýrsludrögin var að djúpt væri í árina tekið að segja að stjórn sinnti ekki eftirlitshlutverki sínu eins og Fjármálaeftirlitið staðhæfði. Meginreglan væri sú að stjórn sparisjóðsins ætti ekki að hafa afskipti af einstökum viðskiptum og það væri beinlínis bannað samkvæmt 55. gr. laga um fjármálafyrirtæki nema um væri að ræða sérstaklega umfangsmikil mál. Stjórnin væri auk þess reglulega upplýst um stöðu stærstu skuldunauta en hún fjallaði hins vegar ekki um einstök fullnustumál eða mat á veðum.41 Í lokaskýrslu Fjármálaeftirlitsins var bent á að vettvangsathugun hefði leitt í ljós að eftirliti stjórnar með regluverki sparisjóðsins væri verulega ábótavant. Þó hefði komið fram á fundi Fjármálaeftirlitsins með sparisjóðnum að ráðnir hefðu verið tveir ráðgjafar frá Deloitte hf. og stæði til að koma þessum hlutum í betra horf.42

Þá taldi sparisjóðurinn að hrun á hlutabréfamarkaði hefði „auðvitað“ rýrt verðmæti trygginga á ófyrirsjáanlegan hátt en það skrifaðist ekki á hirðuleysi eða óhóflega bjartsýni starfsmanna sparisjóðsins. Í svari sparisjóðsins kom einnig fram að vinna við endurskoðun lánareglna og lánaheimilda sjóðsins stæði yfir.43 Sparisjóðurinn hefði hafið vinnu við mótun innri reglna og endurskoðun þeirra ferla sem til staðar væru. Áhættustýring sparisjóðsins framkvæmdi reglulega álagspróf og áhættumat á útlánasafni og öðrum eignum samkvæmt ICAAP-aðferðafræði sparisjóðsins sem lögð hefði verið fyrir Fjármálaeftirlitið og ekki hefðu komið fram neinar athugasemdir við hana eða staðhæfingar um að hún væri ófullnægjandi. Væri þar meðal annars tekið tillit til samþjöppunaráhættu og í „áfallaprófi“ væri tekið tillit til hugsanlegra tapa vegna útlána.44 Í lokaútgáfu skýrslu Fjármálaeftirlitsins kom fram að engin gögn hefðu verið lögð fram af hálfu sparisjóðsins sem sýndu fram á að skipulega væri unnið með álagspróf á áhættuþætti sparisjóðsins. Engin gögn hefðu verið lögð fram við vettvangsskoðunina er lutu að álagsprófunum né heldur væri þau að finna í skýrsluskilakerfi Fjármálaeftirlitsins.45

Í athugasemdum sparisjóðsins kom einnig fram að meirihluti þeirra skýrslna sem stjórn ætti að taka fyrir á fundum sínum væru unnar og lagðar fram samkvæmt vinnudagskrá stjórnar.46 Fjármálaeftirlitið benti hins vegar á í lokaútgáfu skýrslu sinnar að ef ekki væri bókað með fullnægjandi hætti í fundargerð hvaða skýrslur væru lagðar fram, skorti sönnun á tilvist þeirra og lét því standa athugasemd sína um að meirihluti þeirra skýrslna sem stjórn ætti að taka fyrir á fundum sínum samkvæmt starfsreglum stjórnar væri ekki lagður fram samkvæmt fundargerðum.47

Í bréfi sem sent var með lokaútgáfu skýrslunnar fór Fjármálaeftirlitið fram á úrbætur í samræmi við efni skýrslunnar innan tiltekinna tímamarka. Ytri endurskoðandi félagsins skyldi yfirfara úrbætur að fresti loknum og skila til Fjármálaeftirlitsins skýrslu um breytingarnar og hvar framkvæmd þeirra væri stödd fyrir 19. desember 2008. Skýrsla Fjármálaeftirlitsins skyldi tekin til umfjöllunar í stjórn sjóðsins og fundargerð þess fundar yrði send eftirlitinu eigi síðar en 24. október 2008.48

Sparisjóðurinn í Keflavík tók skýrslu Fjármálaeftirlitsins fyrir á fundi sínum 30. september 2008. Var farið yfir niðurstöður skýrslunnar og hvatti stjórnarformaður stjórnarmenn til að kynna sér efni hennar og athugasemdir ítarlega. Sparisjóðsstjóra var falið að bregðast við athugasemdum og ábendingum Fjármálaeftirlitsins og kynna framgang við úrvinnslu fyrir stjórn með reglulegum hætti meðan á þeirri vinnu stæði. Skýrslu ytri endurskoðanda um þær breytingar sem gerðar hefðu verið hjá sparisjóðnum í kjölfar skýrslunnar var hins vegar aldrei skilað. Í svari Fjármálaeftirlitsins við fyrirspurn rannsóknarnefndarinnar kom fram að ekki hefði verið gengið eftir umræddri skýrslu af hálfu Fjármálaeftirlitsins þar sem allar forsendur hefðu breyst með falli bankakerfisins fyrri hluta októbermánaðar 2008. Ýmislegt sem fram kæmi í skýrslu Fjármáleftirlitsins hefði breyst á stuttum tíma, sérstaklega varðandi mat á eignarhlutum í félögum og virði trygginga. Mestur tími starfsmanna hefði farið í að sinna stóru bönkunum þremur auk Sparisjóðabanka Íslands hf. og Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis. Starfsmenn Fjármálaeftirlitsins hefðu aftur á móti fundað reglulega með stjórnendum Sparisjóðsins í Keflavík á þessum tíma og á þeim fundum verið upplýstir um stöðu mála hjá sparisjóðnum.49

19.2.1.2 Útlánareglur og heimildir

Hjá Sparisjóðnum í Keflavík var helstu útlánareglur og -heimildir að finna á þremur stöðum: í reglum sparisjóðsins um framkvæmd starfa sparisjóðsstjórnar og sparisjóðsstjóra, í reglum um lánveitingar og ábyrgðir sparisjóðsins og í reglum fyrir starfsmenn um útlánaheimildir í umboði og á ábyrgð sparisjóðsstjóra.

Reglur sparisjóðsins um framkvæmd starfa sparisjóðsstjórnar og sparisjóðsstjóra voru settar 19. desember 2003 með vísan til 2. mgr. 54. gr. laga 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Þar sagði í 10. gr. að í lánareglum sparisjóðsins kæmu fram mörk heimilda sparisjóðsstjóra í útlánamálum. Þá sagði í 2. mgr. 14. gr. þeirra að sparisjóðsstjóra væri heimilt að veita öðrum starfsmönnum sjóðsins umboð til að fara með afmarkaðar heimildir starfsskyldu sinnar að fengnu samþykki stjórnar sparisjóðsins. Reglurnar voru síðar uppfærðar 26. febrúar 2007. Þar var skýrar að orði kveðið og sagt að stjórn skyldi láta útbúa útlánareglur sem næðu til framkvæmda á lánveitingum og ábyrgðum, þar sem fram kæmu mörk heimilda sparisjóðsstjóra og annarra starfsmanna. Mörk heimilda sparisjóðsstjóra væru ákvörðuð af stjórn en sparisjóðsstjóri kæmi með tillögu að mörkum heimilda annarra starfsmanna og skyldi sú tillaga staðfest af stjórn.50

Á grundvelli starfsreglna stjórnar og sparisjóðsstjóra samþykkti stjórn sparisjóðsins 29. mars 2005 reglur um lánveitingar og ábyrgðir Sparisjóðsins í Keflavík. Reglurnar voru settar með vísan til laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og reglugerðar nr. 34/2002,51 um hámark lána og ábyrgða lánastofnana og fyrirtækja í verðbréfaþjónustu. Í kjölfar skýrslu Fjármálaeftirlitsins um útlánaáhættu, markaðsáhættu og eftirlit með peningaþvætti hjá Sparisjóðnum í Keflavík frá september 2008 voru reglur um lánveitingar og ábyrgðir uppfærðar 28. október sama ár. Þá voru settar sérstakar reglur um framkvæmd áhættustýringar.

Samkvæmt reglum um lánveitingar og ábyrgðir frá 29. mars 2005 bar sparisjóðsstjóri ábyrgð á útlánum og ábyrgðarveitingum sparisjóðsins.52 Útlán til eins aðila eða hóps fjárhagslega tengdra aðila umfram 10% af eigin fé skyldu tilkynnt stjórn sjóðsins á næsta stjórnarfundi eftir að ákvörðun hafði verið tekin.53 Í reglunum var ekki kveðið á um nein mörk á útlánaheimildum sparisjóðsstjóra.54 Við breytingar á reglunum 28. október 2008 var útlánaheimildum sparisjóðsstjóra breytt á þann veg að útlán umfram 15% af eigin fé sjóðsins þyrfti að samþykkja af stjórn hans, en þá var ekki nóg að tilkynna um slíkar lánveitingar eftir á eins og verið hafði.

Sparisjóðsstjóra bar að gera grein fyrir breytingum á heildarlánveitingum og öðru sem máli skipti um skuldbindingar og áhættu sparisjóðsins á stjórnarfundum samkvæmt 6. gr. reglna um lánveitingar og ábyrgðir. Jafnframt skyldi gerð grein fyrir þeim breytingum á lánveitingum eða ábyrgðum til einstakra aðila sem væru óvenju háar miðað við aðstæður og greiðslugetu viðkomandi án frekari skilgreiningar.55

Samkvæmt reglum um lánveitingar og ábyrgðir skyldi sparisjóðsstjóri setja reglur um útlán og ábyrgðir, meðhöndlun beiðna og framkvæmd.56 Á þeim grundvelli voru reglur fyrir starfsmenn um útlánaheimildir í umboði og á ábyrgð sparisjóðsstjóra settar samhliða reglum um lánveitingar og ábyrgðir 29. mars 2005. Þær voru settar á grundvelli laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og reglna Fjármálaeftirlitsins nr. 531/2003 um stórar áhættuskuldbindingar. Þá voru þær byggðar á 22. gr. samþykkta sparisjóðsins og 10 gr. þágildandi starfsreglna stjórnar. Með 3. gr. útlánaheimildanna lét sparisjóðsstjóri svo einstökum starfsmönnum í té heimildir til útlána, skuldbreytinga og veitingu ábyrgða, enda væri útlánareglum fylgt.

Í skýrslu Fjármálaeftirlitsins var það gagnrýnt að sparisjóðurinn sendi reglurnar um útlánaheimildir óundirritaðar af stjórn til stofnunarinnar með vísan til 11. gr. starfsreglna stjórnar og sparisjóðsstjóra. Þær voru síðar sendar Fjármálaeftirlitinu með fullnægjandi undirritun stjórnar.57

Í 2. gr. reglna um útlánaheimildir var fjallað um faglegar forsendur útlána, vinnubrögð, tryggingar og meðferð þeirra. Umsóknir um útlán skyldu afgreiddar á skjótan og faglegan hátt. Til grundvallar ákvörðunum skyldu jafnan liggja viðskiptalegar ástæður og gæta skyldi vel að gagnaöflun og gerð greiðslumats fyrir hvern skuldara. Þar sem veðtrygginga væri krafist áttu þær jafnan að vera í auðseljanlegum verðmætum og metnar sem næst markaðsverði. Þá sagði í reglunum:

Útlán sem veitt eru til lengri tíma en fimm ára skulu að jafnaði vera með tryggingum sem eru verðmeiri en skuldin sjálf.58

Reglulega skyldi fylgst með verðmæti trygginga og við mat á ábyrgðarmönnum skyldi gæta að greiðslugetu þeirra og vanskilasögu. Þá var tiltekið að gögn sem ákvarðanir grundvölluðust á skyldu vera aðgengileg svo hægt væri að rekja ákvarðanir starfsmanna.

Að öðru leyti var ekkert minnst á veðsetningarhlutföll, hvorki í þessum reglum né í reglum um lánveitingar og ábyrgðir. Þó skal á það bent að rannsóknarnefndin fékk í hendur fyrstu síðu af þremur í ódagsettu skjali með reglum um tryggingar fyrir útlánum og ábyrgðum. Þar gaf að líta stuttan kafla með almennum reglum um tryggingar og tvo kafla um veðtryggingar; um fasteignaveð og veð í bifreiðum. Þar kom fram hámarksveðsetningarhlutfall þar sem tillit var tekið til ástands og tegundar eigna. Fyrrverandi starfsmenn gátu ekki upplýst rannsóknarnefndina um það á hvaða tíma þessar reglur giltu.

Í reglum um útlánaheimildir kom fram að gæta skyldi vel að gagnaöflun og gerð greiðslumats fyrir hvern skuldara, án þess að skilgreint væri nánar hvaða gagna skyldi aflað og hvernig greiðslumatið skyldi nýtast.

Samkvæmt 5. gr. reglna um lánveitingar og ábyrgðir skyldi sparisjóðsstjóri setja reglur um útlán og ábyrgðir, meðhöndlun beiðna og framkvæmd. Þar skyldi skýrt kveðið á um hvernig meta ætti áhættu og greiðslugetu, hvers konar tryggingar væru teknar gildar, hvernig þær væru metnar o.s.frv. Ekki hafa fundist sérstakar reglur sem fjölluðu sérstaklega um heimildir sparisjóðsstjórans og því verður að álykta að þær faglegu forsendur sem settar voru í 2. gr. útlánaheimilda hafi jafnt átt við um hann sem aðra starfsmenn.

Á stjórnarfundi sparisjóðsins 30. september 2008 voru kynnt drög að breyttum reglum um útlánaheimildir, sem þó voru aldrei samþykktar af stjórn sparisjóðsins. Í drögunum var gert ráð fyrir að útlánaheimildir einstakra starfsmanna yrðu auknar auk þess sem því var bætt við að lánanefnd skyldi fjalla um lánaákvarðanir „annarra en sparisjóðsstjóra“.59

Fjármálaeftirlitið ályktaði svo í skýrslu sinni að nauðsynlegt væri að allar reglur sem vörðuðu útlán sparisjóðsins yrðu uppfærðar þannig að þær endurspegluðu á sem gleggstan hátt starfsemi sjóðsins. Misræmi væri milli útlánaheimilda og framkvæmdar, reglur sparisjóðsins um útlánaheimildir sparisjóðsstjóra væru óskýrar auk þess sem reglurnar væri að finna í þremur aðskildum skjölum sem skapaði hættu á misskilningi. Lögð var áhersla á að starfsfólk ynni með reglur undirritaðar af stjórn „til staðfestingar um skuldbindingargildi og gildistöku“.60 Á fundi með innri endurskoðanda sparisjóðsins hefði komið fram það viðhorf að leggja þyrfti áherslu á endurskoðun útlánareglna og fulltrúi sparisjóðsins hefði upplýst Fjármálaeftirlitið um að sú vinna væri í gangi.61 Reglur um lánveitingar og ábyrgðir og starfsreglur stjórnar voru uppfærðar 28. október 2008 eins og framar segir. Reglurnar voru hins vegar áfram í þremur mismunandi skjölum en reglur um lánveitingar og ábyrgðir og reglur um útlánaheimildir voru sameinaðar og samþykktar af stjórn Spkef sparisjóðs á stjórnarfundi 24. febrúar 2011. Samkvæmt samþykkt stjórnar áttu þær að taka gildi sama dag og endurfjármögnun Ríkissjóðs Íslands á Spkef sparisjóði lyki. Sparisjóðurinn var hins vegar sameinaður Landsbankanum hf. rúmri viku síðar, 5. mars 2011.

Hvergi í reglum um útlánaheimildir var minnst á hæfi starfsmanna til lánveitinga með tilliti til fjárhagslegrar stöðu viðkomandi, fjölskyldutengsla eða annarra tengsla sem væru þess eðlis að almennt mætti draga óhlutdrægni þeirra í efa. Í 5. gr. reglna um lánveitingar og ábyrgðir kom þó fram að starfsmenn skyldu meðhöndlaðir á sama hátt og almennir viðskiptamenn hvað útlán snerti.62 Sama gilti um „sparisjóðsstjóra og maka þeirra“63 að öðru leyti en því að stjórn yrði að samþykkja lánveitinguna eða ábyrgðina og bóka þá samþykkt í gerðabók.64

Eitt af meginmarkmiðum starfsreglna stjórnar og sparisjóðsstjóra var að tryggja jafnræði við meðferð mála og vandaða og óháða málsmeðferð. Reglunum var jafnframt ætlað að tryggja skýra málsmeðferð ásamt því að styrkja umgjörð um viðskipti stjórnarmanna og félaga tengdum þeim við sparisjóðinn og aðgang þeirra að upplýsingum um viðskiptamenn.65 Í reglunum voru ákvæði um hæfi stjórnarmanna til afgreiðslu einstakra mála, en meginreglan var sú að stjórn tæki ekki þátt í ákvörðunum um einstök viðskipti nema umfang þeirra væri verulegt miðað við stærð sjóðsins. Þá skyldu stjórnarmenn ekki taka þátt í meðferð mála sem vörðuðu viðskipti þeirra sjálfra. Í reglunum voru ákvæði um fyrirgreiðslu til venslaðra aðila; taka skyldi saman lista yfir þá og viðskipti þeirra, ef heildarfyrirgreiðslan eða vanskil færu umfram þau mörk sem Fjármálaeftirlitið setti hverju sinni.66 Innri endurskoðanda var falið að fara reglulega yfir fyrirgreiðslur til venslaðra aðila og skila skýrslu um þær til stjórnar. Ytri endurskoðanda var falið að fara yfir fyrirgreiðslur og bera saman við sambærileg viðskipti annarra viðskiptavina. Því til viðbótar skyldu viðskiptaerindi stjórnarmanna og fyrirtækja sem þeir væru í forsvari fyrir lögð fyrir stjórn sparisjóðsins til samþykktar eða synjunar til þess að tryggja að stjórnarmenn gætu ekki í krafti stöðu sinnar komið á viðskiptum sem ella hefðu ekki verið samþykkt.67

Ekki voru í gildi sérstakar reglur um framlög í afskriftareikning og endanlegar afskriftir útlána hjá Sparisjóðnum í Keflavík. Fjármálaeftirlitið hafði í skýrslu sinni um útlánaáhættu, markaðsáhættu og eftirlit með peningaþvætti bent á mikilvægi þess að sjóðurinn setti sér reglur um mat á afskriftum en það var aldrei gert.68

19.2.2 Áhættustýring

Árið 2004 var ráðinn starfsmaður hjá Sparisjóðnum í Keflavík til að gegna stöðu forstöðumanns áhættu- og útlánastýringar sem þá var nýtt starf hjá sparisjóðnum. Hlutverk hans var að halda utan um gögn, greina lánasafn sparisjóðsins og upplýsa yfirmenn, þá helst um útlánaáhættu.69

Engar formlegar reglur voru settar um framkvæmd áhættustýringar fyrr en í október 2008, þegar stjórn samþykkti reglur Sparisjóðsins í Keflavík um framkvæmd áhættustýringar.70 Ítarlega er fjallað um athugasemdir eftirlitsaðila við áhættustýringu sparisjóðsins í kaflanum um innra eftirlit hér aftar. Í reglunum var útlánaáhætta skilgreind sem sú áhætta sem myndaðist vegna möguleikans á því að skuldari væri tregur til eða skorti hæfi til að mæta fjárskuldbindingum sínum sem leiddu til áhrifa á hagnað og eigið fé sparisjóðsins. Áhættustýring skyldi annast eftirlit með öllum þáttum útlána, lánveitinga, trygginga, samsetningu lánasafns og innheimtu. Þá skyldu forstöðumaður áhættustýringar og innri endurskoðandi gera stjórn viðvart ef framkvæmd lánamála væri ekki í samræmi við lánastefnu eða lánareglur. Mánaðarlega skyldi vinna lánaskýrslur sem áttu að innihalda yfirlit yfir dreifingu útlána, vanskil og einstök útlán. Forstöðumaður áhættustýringar skyldi einnig gefa skýrslu reglulega til yfirstjórnar um útlánaáhættu, en auk þess hafa frumkvæði að því að greina yfirstjórn frá því ef skyndilegar breytingar yrðu á endurgreiðslu einstakra stærri skuldara eða einstakra hópa útlána. Mat á útlánaþáttum skyldi fara fram með eftirliti og mælingu á einstökum áhættuþáttum. Þessir þættir voru meðal annars vanskilahlutfall, samþjöppun skuldara, tryggingar útlána, mat á greiðslugetu og greiðsluhæfi skuldara.

Í viðauka 2 við reglur um framkvæmd áhættustýringar voru skilgreind viðmið um útlánaáhættu. Meðal þeirra viðmiða sem sett voru samkvæmt reglunum var að heildarútlán skyldu að lágmarki vera 67% af heildarniðurstöðu efnahagsreiknings. Þá skyldu heildarskuldbindingar einstakra viðskiptamanna eða fjárhagslega tengdra aðila vera lægri en 20% af eiginfjárgrunni sparisjóðsins og útlán til einstakra atvinnugreina skyldu að hámarki nema 25% af heildarútlánum.

Taka ber fram að flest útlán Sparisjóðsins í Keflavík sem fjallað er um hér aftar voru veitt áður en þessar reglur sjóðsins tóku gildi.

19.2.3 Stærstu lántakendur

Rannsóknarnefndin valdi úrtak lántakenda sparisjóðsins til sérstakrar skoðunar og greiningar með það að markmiði að varpa ljósi á útlánastefnu sjóðsins og ástæður fyrir afskriftum útlána. Kannað var hvort útlánastarfsemin hefði verið í samræmi við reglur sjóðsins og gildandi lög og reglur.

Skýrslum um stórar áhættuskuldbindingar til Fjármálaeftirlitsins samkvæmt reglum nr. 216/2007 var ætlað að varpa ljósi á áhættu fjármálafyrirtækis af útlánum og öðrum slíkum skuldbindingum og aðstoða við áhættustýringu.71 Liggja skýrslur á tímabilinu 2007–2009 til grundvallar umfjölluninni. Úrtak lántakenda miðaðist við þessar stærstu skuldbindingar sjóðsins. Til viðbótar þeim komu til skoðunar lánamál sem voru tilefni til hárra framlaga í afskriftareikning frá árslokum 2008 til 15. apríl 2011. Þar sem niðurfærsluhlutfall útlánasafnsins var lágt fram til ársins 2008 var ekki talin ástæða til að fara lengra aftur í athugun á stórum afskriftaframlögum.

Umfjöllunin beindist að lántökum í úrtakinu og aðilum fjárhagslega tengdum þeim, eins og sparisjóðurinn mat tengsl þeirra og skilgreindi sem sameiginlega áhættuskuldbindingu í skýrslum til Fjármálaeftirlitsins. Skoðaðar voru helstu lánveitingar til þessara lánahópa72 á árunum 2005–2011. Umfjöllunin er ekki tæmandi en er ætlað að gefa mynd af útlánasafni Sparisjóðsins í Keflavík. Rétt er að geta þess að upplýsingar um skuldbindingar frá 2010 og 2011 miðast ekki við árslok heldur 22. apríl 2010 og 15. apríl 2011. Spkef sparisjóður var stofnaður á grunni Sparisjóðsins í Keflavík 22. apríl 2010 og liggja fyrir greinargóðar upplýsingar um stöðu útlána og afskrifta á þeim degi. Landsbankinn hf. vann mat á útlánum Spkef sparisjóðs miðað við 15. apríl 2011 og voru upplýsingar um stöðu útlána og afskriftir frá þeim tímapunkti notaðar þar sem Spkef sparisjóður hafði skömmu áður verið sameinaður bankanum. Ekki liggur fyrir endurskoðaður ársreikningur Spkef sparisjóðs fyrir árið 2010.

Þannig er umfjöllun um stærstu lántakendur Sparisjóðsins í Keflavík frábrugðin umfjöllun um aðra sparisjóði sem teknir voru yfir af Fjármálaeftirlitinu, en þar liggja ekki fyrir upplýsingar um mat á útlánum við fall þeirra. Þá eru birtar hér upplýsingar um virði útlána í Spkef sparisjóði, sem annars er ekki stór hluti rannsóknarinnar. Þetta kemur meðal annars til vegna þess að útlánasafn Sparisjóðsins í Keflavík og Spkef sparisjóðs hefur verið ítarlega skoðað og metið til þess að áætla virði þess við uppgjör ríkissjóðs við Landsbankann hf. vegna innistæðuskuldbindinga Spkef sparisjóðs. Rannsóknarnefndin telur rétt að upplýsingar um mat Landsbankans hf. á útlánasafninu komi fram til þess að betur sé hægt að átta sig á mati sparisjóðsins sjálfs á sama safni. Gerðardóm þurfti til að skera úr um virði safnsins og er því hvorki hægt að segja að mat Landsbankans hf. eða sparisjóðsins hafi verið rétt. Mat á lánasafninu var endurskoðað margoft fram að niðurstöðu gerðardómsins, meðal annars vegna atburða sem höfðu áhrif á virði þess, til að mynda dómar um lán í íslenskum krónum sem bundin voru gengi erlendrar myntar.

Í úrtakinu voru 23 lánahópar, þ.e. lántaki og tengdir aðilar með skuldbindingar hjá sparisjóðnum, og nam fyrirgreiðsla þeirra samtals 11 milljörðum króna í lok árs 2007 og 24,3 milljörðum króna í lok árs 2008, eða 26,6% af heildarútlánum Sparisjóðsins í Keflavík. Sérgreindar niðurfærslur vegna þessara lánahópa í úrtakinu námu samtals tæplega 45% af virðisrýrnun útlána og krafna sparisjóðsins í lok árs 2008 og rúmum 35% í lok árs 2009.

Samtala útlána til aðila í úrtakinu hækkaði úr 11 milljörðum króna í lok árs 2007 í 24,3 milljarða í lok árs 2008. Þessa hækkun má að miklu leyti rekja til gengishækkunar lána í erlendum myntum, því af þeim 23 lánahópum sem til skoðunar komu voru aðeins fjórir með lán sem einungis voru í íslenskum krónum. Með gengisfalli krónunnar á árinu 2008 hækkuðu gengistryggð lán á bókum sparisjóðsins. Fjögur fyrirtæki í úrtakinu voru útgerðir sem fengu lán til rekstrar og kvótakaupa og voru flest lán til þeirra í erlendum myntum. Aðrir aðilar sem fengu erlend lán voru ekki með tekjur í erlendum myntum eða tryggingar fyrir lánum sínum sem tóku breytingum með gengi gjaldmiðla. Gengisþróun krónunnar olli því töluverðri tryggingavöntun í sparisjóðnum. Enn meiri tryggingarýrnun varð svo við lækkun á virði eigna, eins og hlutabréfa og fasteigna, sem lögð höfðu verið að veði fyrir flestum útlánum sparisjóðsins. Á árinu 2007 var ekkert fært í sérgreindan afskriftareikning vegna lántakenda í úrtakinu en á árinu 2008 nam sérgreint afskriftarframlag hins vegar 2,8 milljörðum króna og 6,1 milljarði króna í lok árs 2009.

Meirihluti lána í úrtakinu var til fyrirtækja. Stærsta skuldbinding einstaklings var til kaupa á hlutabréfum í Kaupþingi Búnaðarbanka hf. og Saga Capital Fjárfestingarbanka hf. en bréfin voru lögð að veði til tryggingar lánum. Þótt þessar skuldbindingar hafi verið vel yfir þeim viðmiðunarmörkum sem kölluðu á umfjöllun lánanefndar, er lánið ekki bókað í fundargerðum hennar.

Lán til kaupa á verðbréfum með veði í bréfunum sjálfum voru stór hluti úrtaks rannsóknarnefndarinnar. Í skýrslu Fjármálaeftirlitsins frá árinu 2008 kom fram að útlán til viðskiptavina með veði í skráðum og óskráðum bréfum næmu 5,5 milljörðum króna, sem var um 8% af heildarútlánum samstæðunnar 31. maí 2008. Þar af voru lán með veði í skráðum hlutabréfum 8% en óskráðum 92%.73 Þar vógu þungt lán til kaupa á hlutabréfum í Icebank hf. og stofnfjárbréfum í Sparisjóðnum í Keflavík, en þessi lán fá sérstaka umfjöllun hér aftar. Þótt lánin hafi verið stór hluti lánasafns sparisjóðsins, voru lán til kaupa á öðrum bréfum algeng. Í lok árs 2007 lánaði sparisjóðurinn til að mynda Gildruklettum ehf. til kaupa á hlutabréfum í Nýherja ehf. Félagið átti þá um 8,44% alls hlutafjár í Nýherja hf. Lánin voru að mestu í erlendum myntum, tryggð með veði í hlutabréfum í Nýherja hf. og Íslandsbanka hf. Við yfirtöku Landsbankans hf. á eignasafni Spkef sparisjóðs nam skuldbinding Gildrukletta ehf. 504 milljónum króna en þar af höfðu 311 milljónir króna verið niðurfærðar. Félagið varð gjaldþrota í maí 2013.

Þá lánaði sparisjóðurinn nokkuð til fasteigna- og byggingaverkefna. Hér aftar er fjallað sérstaklega um lán til dótturfélags sparisjóðsins, Miðlands ehf., en félagið átti lóð í Reykjanesbæ og fasteignafélag um fasteignir Kaupfélags Suðurnesja. Til viðbótar má nefna lán til Leigufoss ehf. en sparisjóðurinn var með veð í lóðum og óseldu íbúðarhúsnæði og iðnaðarhúsnæði á ýmsum byggingarstigum fyrir fyrirgreiðslum til félagsins. Leigufoss ehf. varð gjaldþrota í október 2009 og nam skuld félagsins við sjóðinn þá um 501 milljón króna og staðan á afskriftareikning í lok árs 478 milljónum króna. Sparisjóðurinn lánaði einnig Stálnesi ehf. sem byggði iðnaðarhúsnæði og sérhæfði sig í að reisa stálgrindarhús. Lánin voru nýtt til byggingaframkvæmda en til tryggingar voru iðnaðarhúsnæði í Reykjanesbæ og Hafnarfirði og íbúðarhúsnæði í Reykjavík og Reykjanesbæ. Félagið var úrskurðað gjaldþrota í nóvember 2010. Við yfirtöku Landsbankans hf. á eignasafni Spkef sparisjóðs námu skuldbindingar Stálness ehf. tæpum 400 milljónum króna og þar af höfðu 240 milljónir króna verið niðurfærðar.

Hér á eftir fer umfjöllun um ellefu lánahópa hjá Sparisjóðnum í Keflavík sem rannsóknarnefndin taldi ástæðu til að fjalla nánar um. Farið er yfir helstu lánveitingar til umræddra aðila, hvort þær voru í samræmi við lánareglur og gildandi lög og reglur á fjármálamarkaði og fjallað um mat sparisjóðsins á afskriftaþörf vegna þeirra. Því til viðbótar er gerð sérstaklega grein fyrir lánum til stofnfjárkaupa, lánum til starfsmanna og lánum til aðila tengdum sparisjóðsstjóra. Skoðun á öðrum lánahópum í úrtakinu gaf ekki tilefni til sérstakrar umfjöllunar.

Lánahópur um fiskvinnslufélag og útgerðarfyrirtæki

Stærsta skuldbinding Sparisjóðsins í Keflavík var við fiskvinnslufyrirtæki í Sandgerði en frá árinu 2008 tilheyrði annað útgerðafyrirtæki einnig lánahópnum. Stærsti eigandi fiskvinnslufyrirtækisins var einnig með skuldbindingar við sparisjóðinn, en þær voru ekki taldar með lánahópnum.

Skuldbindingar lánahópsins voru í upphafi í formi yfirdráttarheimildar og skuldabréfa en síðar í erlendum lánum. Þau voru oft til langs tíma. Þrátt fyrir það sér þess yfirleitt ekki stað í fundargerðum lánanefndar að lánin hafi verið tekin fyrir þar, sem brýtur í bága við 4. gr. útlánareglna, og því fátt skjalfest um tilgang þeirra þar eð hans er yfirleitt ekki heldur getið í lánaskjölum.

Frá apríl 2004 til apríl 2006 fékk fiskvinnslufyrirtækið fjögur lán hjá Sparisjóðnum í Keflavík, samtals að fjárhæð 270 milljónir króna. Þrjú lánanna voru í erlendri mynt og eitt verðtryggt og lánstími frá fimm til tólf ára. Um lánin var ekki fjallað í fundargerðum lánanefndar sparisjóðsins og tilgangur þeirra var ekki tilgreindur í lánasamningi.

Á árinu 2007 fékk félagið fimm lán hjá sparisjóðnum upp á samtals rúman milljarð króna. Lánin voru í erlendum myntum með lánstíma frá 20 til 25 ára. Ekkert var fjallað um lánin í fundargerðum lánanefndar sparisjóðsins og tilgangur þeirra var ekki tilgreindur í lánasamningum. Skjalagerð í tengslum við sum lánin var óvenjuleg, því til að mynda var 145 milljóna króna skuldabréf félagsins frá 16. ágúst 2007 með yfirskriftinni: „Veðskuldabréf í erlendum myntum án trygginga.“74 Skuldbindingar lánahópsins í árslok 2007 námu 1.640 milljónum króna.

Þó tilgang lánveitinga til félagsins hafi hvorki verið að finna í fundargerðum lánanefndar né í lánaskjölum, sagði fyrrverandi sparisjóðsstjóri í skýrslu hjá rannsóknarnefndinni að lánað hefði verið til reksturs félagsins.75 Til tryggingar skuldbindingum lánahópsins lágu flestar eignir félaganna, meðal annars fiskvinnsluhús og bátar ásamt kvóta. Í ársreikningi fiskvinnslufélagsins fyrir árið 2008 kom fram að bókfært verð fiskvinnsluhússins væri 182 milljónir króna og bókfært verð þess á eignarhlutum í öðrum fyrirtækjum, meðal annars útgerðarfélagsins sem einnig taldist til lánahópsins, 398 milljónir króna.

Gjaldföllnum afborgunum og áföllnum vöxtum af lánum fiskvinnslufélagsins var bætt við höfuðstól þeirra í nóvember 2008. Á sama tíma var samþykkt að á næstu sex gjalddögum yrðu einungis greiddir vextir. Í maí 2009 var aftur samþykkt að fresta afborgunum um sex mánuði en þó yrðu vextir greiddir áfram. Samskonar breyting var gerð í janúar 2010. Samkvæmt 1. gr. reglna Sparisjóðsins í Keflavík um lánveitingar og ábyrgðir frá 28. október 2008 bar sparisjóðsstjóra að leita samþykkis stjórnar fyrir lánveitingum sem færu yfir 15% af eigin fé sparisjóðsins,76 en litið var á skuldbreytingar sem nýjar lánveitingar. Hér var gjaldföllnum afborgunum og vöxtum bætt við höfuðstól og nýr höfuðstóll myndaður með nýjum gjalddögum. Engin bókun um þessar skuldbreytingar fannst í fundargerðum stjórnar sparisjóðsins frá þessum tíma.

Útgerðarfélagið sem einnig tilheyrði lánahópnum fékk endurfjármögnun á hluta eldri lána sinna hjá sparisjóðnum í nóvember 2007. Samningurinn var í erlendum myntum að jafnvirði 195 milljóna króna til allt að 21 árs. Til tryggingar skuldinni samkvæmt lánasamningi hafði lántaki gefið út tryggingarbréf með allsherjarveði í margvíslegum eignum sínum. Samkvæmt skýrslu sparisjóðsins um stórar áhættuskuldbindingar í lok árs 2008 voru tryggingar fyrir skuldum útgerðarfélagsins 2. til 6. veðréttur í einum báti félagsins og 6. veðréttur í öðrum. Í mars 2009 voru allar skuldbindingar félagsins endurfjármagnaðar með 6,5 milljóna evra láni, þá jafnvirði tæplega 1,1 milljarðs króna. Lánstími var þrjú ár með heimild til framlengingar til allt að 21 árs. Tryggingar fyrir láninu voru þær sömu áður.

Í skýrslu sparisjóðsins um stórar áhættuskuldbindingar í október 2008 námu skuldbindingar lánahópsins 3,1 milljarði króna. Á skýrslum um stórar áhættuskuldbindingar kom 925 milljóna króna ábyrgð frá Sparisjóðabanka Íslands hf. á skuldum fiskvinnslufyrirtækisins til frádráttar og nam áhættuskuldbindingin þá 25% af eiginfjárgrunni sjóðsins.77 Í skýrslu sparisjóðsins um stórar áhættuskuldbindingar í desember 2008 voru skuldbindingar lánahópsins 36,6% af eiginfjárgrunni sjóðsins og var Fjármálaeftirlitinu tilkynnt um það með bréfi 16. febrúar 2009. Skuldbindingarnar námu þá 3,3 milljörðum króna.

Ekkert framlag var fært í sérgreindan afskriftareikning vegna skulda lánahópsins í lok árs 2008 en ári síðar nam framlagið 99 milljónum króna. Framlagið hafði hækkað í 156 milljónir króna í apríl 2010. Við yfirtöku Landsbankans hf. á útlánasafni Spkef sparisjóðs taldi úrskurðarnefnd að sérgreint afskriftarframlag vegna lánahópsins ætti að vera um 1,4 milljarðar króna. Rekstrarvirði fiskvinnslufyrirtækisins var þá metið 922 milljónir króna.78

Icebank hluthafalán

Í 9. kafla er að finna ítarlega umfjöllun um Icebank hluthafalánin. Þar kemur fram heildarumfang kaupanna, upplýsingar um lántaka, lánsfjárhæðir og sérstaka samninga sem gerðir voru í tengslum við kaupin.

Síðla árs 2007 keyptu þrettán einkahlutafélög, sum hver í eigu stjórnenda Icebank hf., 43% hlut í bankanum af Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis hf., Byr sparisjóði, nb.is-sparisjóði hf., Sparisjóði Kópavogs og Sparisjóði Norðlendinga. Tólf þessara félaga fengu lánað hjá Sparisjóðnum í Keflavík 5. desember 2007 fyrir hluta kaupverðsins, en það voru voru SM 1 ehf., Bergið ehf., Obduro ehf., Fjárfestingarfélagið Sproti ehf., Breiðutangi ehf., Lagos ehf., HDH Invest ehf., G-tveir ehf., Saltsalan ehf., Óseki ehf., Infestus Holding ehf. og Sparta Holding ehf.

Rúm 68% af kaupverðinu voru upphaflega fjármögnuð með lánum frá sparisjóðum og nam lánsfjárhæðin samtals 8,4 milljörðum króna. Kaupendur skuldbundu sig til að greiða það sem ekki var lánað til kaupanna með eiginfjárframlagi. Sparisjóðurinn í Keflavík fjármagnaði 12,5% af lánunum eða rúman milljarð króna. Lánin voru veitt í erlendum myntum og veð sparisjóðsins fyrir lánunum var 2. veðréttur í 75% keyptra hlutabréfa í Icebank hf. en Sparisjóður Mýrasýslu var á sama veðrétti. Um lánveitinguna var hvorki fjallað í fundargerðum lánanefndar né stjórnar. Staða lánanna var tekin fyrir á fundi lánanefndar 9. maí 2008 en þá voru tryggingar að baki lánunum metnar á bilinu 0–400 milljónir. Gengi í viðskiptunum 5 mánuðum áður var 28,055 krónur á hlut.

Lán til félaga sem keyptu hlutabréf í Icebank hf. námu 2.431 milljón króna í lok árs 2008 en þar af höfðu 1.508 milljónir króna verið færðar í sérgreindan afskriftareikning. Í skýrslu Fjármálaeftirlitsins um útlánaáhættu, markaðsáhættu og eftirlit með peningaþvætti hjá Sparisjóðnum í Keflavík frá september 2008 var fjallað um þessar lánveitingar. Fram kom að fyrirsjáanlegt væri að trygging sparisjóðsins á öðrum veðrétti í hlutabréfum Icebank hf. væri nánast verðlaus og í lánasamningum væri ekki gert ráð fyrir veðköllum ef gengi bréfanna lækkaði og tryggingargildi þeirra rýrnaði. Með hliðsjón af því að undirliggjandi áhætta þessara lánveitinga væri öll á einum aðila, vakti það sérstaka athygli Fjármálaeftirlitsins að stjórnendur sparisjóðsins hefðu ekki vandað betur til verks við gerð þessara fjármálagerninga.79 Lánin töpuðust öll en í desember 2009 voru 1.663 milljónir króna endanlega afskrifaðar vegna lánanna og 1.150 milljónir króna bakfærðar vegna gengismunar. Öll félögin tólf urðu gjaldþrota á árunum 2010 og 2011.

Bláa lónið hf. og tengdir aðilar

Bláa lónið hf. var stofnað árið 1992 og starfar í heilsu- og ferðaþjónustu. Starfsemi félagsins er aðallega þríþætt, rekstur Bláa lónsins, rekstur heilsulindar vegna psoriasis og þróun og sala á húðvörum.80

Árið 2007 voru stærstu hluthafarnir HS Orka hf. með 29,2% eignarhlut, Hvatning ehf. með 24,4% eignarhlut og Suðurnesjamenn með 11,8% eignarhlut. Í skýrslum Sparisjóðsins í Keflavík til Fjármálaeftirlitsins voru fjögur félög talin tengjast Bláa lóninu hf. og mynduðu þau saman lánahóp og töldust sem ein áhættuskuldbinding. Þar var um að ræða tvö eignarhaldsfélög um hluti í Bláa lóninu hf. og Örðu ehf. Þessi félög koma til umfjöllunar hér aftar.

Þröstur Leósson, forstöðumaður fjármálasviðs hjá Sparisjóðnum í Keflavík, var varamaður í stjórn Bláa lónsins hf. frá 2007 til 200981 og var Bláa lónið hf. því skilgreint sem venslaður aðili hjá sparisjóðnum á því tímabili. Í lok árs 2009 hafði Sparisjóðurinn í Keflavík eignast 25% eignarhlut í Bláa lóninu hf. en um þau viðskipti er nánar fjallað hér aftar.82

Frá byrjun árs 2005 til október 2008 hækkaði lánafyrirgreiðsla Bláa lónsins og tengdra félaga hjá Sparisjóðnum í Keflavík úr um 300 milljónum króna í rúmlega 2,9 milljarða króna. Í apríl 2011 námu skuldbindingar lánahópsins tæpum 2,1 milljarði króna. Verulegur hluti lánanna var tryggður með veði í hlutabréfum í Bláa lóninu hf. en auk þess átti sparisjóðurinn sjálfur hlutabréf í félaginu sem metin voru á 925 milljónir króna í lok árs 2010.83 Hagsmunir sparisjóðsins vegna Bláa lónsins hf. voru því umtalsverðir.

Bláa lónið hf.

Fjallað var um málefni félagsins í fundargerð lánanefndar frá 8. september 2005 og eftirfarandi bókað:

Bláa lónið – mættir voru á fund nefndarinnar [framkvæmdastjóri og fjármálastjóri félagsins] vegna erindis um samstarf við Sparisjóðinn um framhaldsuppbyggingu heilsulindar Bláa lónsins – [Framkvæmdastjóri] fór ítarlega yfir og kynnti hugmyndir og plön eigenda á frekari uppbyggingu heilsulindar, verslunar, veitingaaðstöðu og hótels – kostnaður áætlaður við 1. áfanga sem áætlað er að ljúka vorið 2007 er 1.012 milljónir kr. – [Framkvæmdastjóri] lagði fram ársreikning 2004 og rekstraráætlun 2005 – 2008 – gert er ráð fyrir lántöku vegna framkvæmdanna uppá 550 mkr árið 2006 – óskar eftir viðbrögðum Sparisjóðsins og vill gjarnan fá Þröst og Grétar frá Sparisjóðnum til að vinna fjármögnunarþátt málsins áfram með þeim.

Í framhaldi af þessari bókun var lánsbeiðni Bláa lónsins hf. tekin fyrir á fundi lánanefndar 23. desember 2005:

Bláa lónið – greint var frá áætlun um endurfjármögnun á lánum fyrirtækisins með lántöku uppá 19 milljónir evra fyrir okkar milligöngu – HSH bankinn tekur ca 10 milljónir af pakkanum – en leit stendur yfir að þátttakendum með okkur með ca 9 milljónir – Sparisjóðabankinn, Sparisjóður Mýrasýslu, Sparisjóður vélstjóra hafa ákveðið að koma með okkur að málinu.

Samningur um sambankalán sem nam 22 milljónum evra, jafnvirði 1.678 milljóna króna, milli Bláa lónsins hf., sem lántaka, og HSH Nordbank AG, sem aðallánveitanda (e. senior lender), Sparisjóðsins í Keflavík, Sparisjóðs Mýrasýslu, Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, Sparisjóðs vélstjóra, Sparisjóðabanka Íslands hf. og Sparisjóðs Hafnarfjarðar, sem lánsaðila (e. junior lenders), var undirritaður 3. febrúar 2006. Sparisjóðurinn í Keflavík lagði til 2 milljónir evra, jafnvirði 153 milljóna króna, og var þjónustuaðili samningsins (e. paying agent). Láninu skyldi varið til endurfjármögnunar á skuldum lántaka, uppbyggingar við Bláa lónið í Svartsengi og kaupa á félagi sem átti fasteignir lækningastöðvar lónsins (e. Blue Lagoon’s Medical Clinic facilities). Til tryggingar skuldbindingunni voru lánveitendur með veð í öllum helstu eignum Bláa lónsins hf. og þeim réttindum sem tengdust starfsemi félagsins.

Sparisjóðurinn í Keflavík veitti Bláa lóninu hf. lán í erlendum myntum að jafnvirði 250 milljónir króna 21. nóvember 2007. Skömmu síðar, eða 6. desember 2007, lánaði sjóðurinn félaginu 450 milljónir króna til viðbótar, einnig í erlendum myntum. Bæði lánin voru til 25 ára, það fyrra með mánaðarlegum afborgunum en hið síðara með árlegum gjalddögum, fyrst í nóvember 2009. Beiðnir um þessi lán var tekin fyrir í lánanefnd 9. nóvember 2007. Tilgangur lánanna var sagður sá að kaupa land fyrir 250 milljónir króna og uppbygging líkamsræktarstöðvar fyrir 450 milljónir. Afgreiðslu var frestað þar sem afla þurfti frekari gagna, og var beiðnin tekin fyrir aftur 15. nóvember 2007. Sem tryggingu fyrir láninu átti að leggja land og rekstur félagsins en láninu yrði varið til uppgreiðslu „annarra skulda“ og nettó útlánaaukningin yrði því 180 milljónir. Samþykkt var að veita lánið en lánanefnd bókaði að félagið gæti ekki aukið skuldir sínar við sparisjóðinn frekar og væri um lokaútlán að ræða vegna uppbyggingar félagsins.

Á fundi lánanefndar Sparisjóðsins í Keflavík 4. janúar 2008 var rætt um beiðni Bláa lónsins hf. 150 milljón króna hækkun á yfirdrætti. Erindinu var hafnað og sömuleiðis annarri beiðni sama efnis um 30 milljóna króna fyrirgreiðslu 29. febrúar 2008. Á næstu mánuðum þar á eftir óskaði Bláa lónið hf. ítrekað eftir lánum frá sparisjóðnum en var hafnað. Í fundargerð lánanefndar 30. maí 2008 var hins vegar bókað:

Bláa lónið hf. óskar eftir 40 mkr. láni. Samþykkt þar sem nú liggur fyrir að Hitaveita Suðurnesja kaupi jörð kringum lónið á 700 mkr. og lækki þannig skuldir Bláa lónsins við Spkef.

Í athugasemdum með umsókninni var gert ráð fyrir að Hitaveita Suðurnesja myndi greiða Bláa lóninu hf. 400 milljónir króna og yfirtaka 300 milljón króna skuld við sparisjóðinn. Í lok maí 2008 var yfirdráttarheimild Bláa lónsins hf. 290 milljónir króna en var 192 milljónir mánuði fyrr. Stóð yfirdráttur á reikningnum í 292 milljónum króna í lok maí.84 Síðar sama ár barst sparisjóðnum athugasemd frá HSH Nordbank um að Bláa lónið hf. hefði brotið gegn skilmála í lið 12.4 (d) í sambankaláni frá bankanum:

Lán. Lántaki og tengd félög taki ekki lán, veiti ábyrgðir eða skuldbindi sig á nokkurn hátt (nema í samræmi við samninginn) eða veiti lán eða festi sjóði sína á annan máta en með
fyrirgreiðslum í skamman tíma og í samræmi við daglegan rekstur.85

Bláa lóninu hf. var með öðrum orðum ekki heimilt samkvæmt skilmálum sambankalánsins að taka frekari lán nema rekstrarlán til skemmri tíma.

Í athugasemdum sínum fór HSH Nordbank fram á samþykki annarra lánsaðila (e. junior lenders) á þessum frávikum frá lánaskilmálum. Í tölvupósti starfsmanns Sparisjóðsins í Keflavík til annarra lánsaðila kom fram að málið væri þríþætt. Í fyrsta lagi hefði Bláa lónið hf. keypt land Járngerðarstaða fyrir 500 milljónir króna. Fjárfestingin hefði verið til skamms tíma og seld áfram til Hitaveitu Suðurnesja fyrir 700 milljónir króna. Í ársreikningi hefði þessi fjárfesting komið fram sem 500 milljón króna skuldabréfaútgáfa og því brotið skilmála sambankalánsins. Í öðru lagi hefði kaupleigusamningur upp á tæpar 16 milljónir króna aukið skuldastöðu félagsins. Í þriðja lagi hefði áðurnefnd skuldabréfaútgáfa vegna kaupa á landi Járngerðarstaða ekki verið tekin með í reikninginn þegar hlutfall hreinna skulda á móti EBITDA var reiknað út.86 Að mati HSH Nordbank hefði átt að gera það og útreikningurinn hefði því verið rangur. Eftir söluna á landinu hefði þetta skilyrði sambankalánsins hins vegar verið uppfyllt.87 Í framhaldi af þessu áttu sér stað viðræður milli lánveitenda um stöðu Bláa lónsins og framhald málsins.

Í minnisblaði frá HSH Nordbank 29. janúar 2009 til lánveitenda í sambankaláni Bláa lónsins hf. kom fram að bankinn hefði þá tekið að sér hlutverk þjónustuaðila lánsins (e. paying agent). Á fundi lánveitenda sambankalánsins 27. nóvember 2008 hefðu aðilar verið sammála um að finna þyrfti lausn á eiginfjárvanda Bláa lónsins hf. Bankinn teldi lánveitingar Sparisjóðsins í Keflavík til Bláa lónsins ólögmætar (e. unlawful) og fór fram á að þeim yrði breytt í hlutafé í Bláa lóninu hf. Þá útlistaði HSH Nordbank einnig þá skilmála sambankalánsins sem bankinn taldi að hefðu verið brotnir.88 Í skýrslum fyrir rannsóknarnefndinni var ekki nægilegu ljósi varpað á það hvað varð til þess að sparisjóðurinn fór gegn ákvæðum sambankalánsins.89 Í endurskoðunarskýrslu Bláa lónsins hf. fyrir árið 2008 kom fram að félagið hefði þá ekki uppfyllt tvo af skilmálum sambankalánsins. Annars vegar var um að ræða skilmála sem sneri að hlutfalli milli EBIDTA og skulda. Það hlutfall mátti ekki vera hærra en 5,5 en var á þeim tíma 14. Hins vegar var um að ræða skilmála sem sneru að útreikningi á hlutfalli milli frjáls sjóðsstreymis og afborgana næsta árs. Í skýrslunni kom fram að ljóst væri að lánveitendur félagsins gætu gjaldfellt lánin og því mikilvægt fyrir stjórnendur að ljúka viðræðum við lánveitendur um fjármögnun félagsins.90

Hinn 23. mars 2009 lánaði Sparisjóðurinn í Keflavík Bláa lóninu um 5,4 milljón evra lán til að endurfjármagna skuldir. Á stjórnarfundi sparisjóðsins 25. júní 2009 var fjallað um stöðu félagsins:

Þröstur [Leósson forstöðumaður hjá sparisjóðnum] fór síðan yfir málefni BL og lýsti hann stöðu BL, en staða þeirra er mjög góð um þessar mundir og er langt umfram væntingar/áætlun. Þröstur lagði fram tillögu um að Spkef legði fram yfirlýsingu um að Spkef legði félaginu til hlutafé að fjárhæð EUR 5.400.000 sem er þó háð því að félagið verði rekstrarhæft og öll lánaskilyrði verði uppfyllt. Samþykkt og yfirlýsingin undirrituð af viðstöddum stjórnarmönnum. Afrit af yfirlýsingunni lögð með gögnum stjórnar.

Í fundargerð lánanefndar 16. júlí 2009 var eftirfarandi bókun gerð um Bláa lónið hf:

Bláa lónið […] er að gera tilboð í uppgr. á hlut HSH í sambankaláni sem tekið var 2006. HSH er á 1. vr. og nokkrir sparisjóðir á 2. vr. þar á meðal Spkef. BL óskar eftir því við Spkef að yfirdráttarheimildum að upphæð 2 millj. EUR verði br. í víkjandi lán og er það gert að kröfu annarra sparisjóða. Með samþykki Spkef á þessari beiðni munu allir sparisjóðirnir skrifa undir stuðningsyfirlýsingu með tilboði BL til HSH.

Samþ. að br. yfirdráttarheimildum að upphæð 2 millj. EUR í víkjandi lán. Miklir hagsmunir í húfi fyrir Spkef að þessi samningur við HSH gangi eftir að öðrum kosti hefur HSH hótað að gjaldfella lánið sem kæmi sér mjög illa fyrir BL og Spkef.

Nokkrum vikum síðar sendi HSH Nordbank tilkynningu um gjaldfellingu (e. default notice) til Bláa lónsins hf. vegna brota á skilmálum sambankalánsins. Þá hófst vinna við fjárhagslega endurskipulagningu Bláa lónsins hf. og varð niðurstaða þeirrar vinnu meðal annars sú að Sparisjóðurinn í Keflavík breytti skuld sem nam 5,4 milljónum evra í hlutafé í Bláa lóninu hf.91 Sparisjóðurinn var á þessum tíma með umtalsvert af hlutabréfum í félaginu til tryggingar skuldbindingum annarra aðila við sparisjóðinn, og er fjallað um það í næstu köflum.

Auk skuldbindinga Bláa lónsins hf. var eitt dótturfélaga þess með fyrirgreiðslu hjá sparisjóðnum í formi yfirdráttar, en starfsemi dótturfélagsins fólst í uppbyggingu húsnæðis fyrir húðlækningastöð í Svartsengi. Í lok árs 2008 nam fyrirgreiðsla sparisjóðsins við dótturfélagið 87 milljónum króna og 90 milljónum króna í lok árs 2009. Í október 2010 sameinaðist dótturfélagið öðru fyrirtæki sem ekki var með fyrirgreiðslu hjá Sparisjóðnum í Keflavík og taldist þetta fyrrverandi dótturfélag þá ekki lengur til lánahópsins.

Á tímabilinu frá 2008 til 2010 færði sparisjóðurinn ekki sérgreint afskriftarframlag vegna fyrirgreiðslu við Bláa lónið hf.

Eignarhaldsfélag um hlut í Bláa lóninu hf. (I)

Frá maí 2005 og fram í október 2008 hækkaði fyrirgreiðsla sparisjóðsins til eignarhaldsfélags um hlut í Bláa lóninu hf. úr tæpum 316 milljónum króna í rúmlega 1,2 milljarða króna. Í apríl 2011 námu skuldbindingarnar tæpum 1,3 milljörðum króna.

Í lok árs 2004 lánaði sparisjóðurinn félaginu jafnvirði 317 milljóna króna í erlendum myntum. Til tryggingar voru veð í hlutafé félagsins í Bláa lóninu hf. ásamt skilyrtum sjálfskuldarábyrgðum þriggja aðaleigenda eignarhaldsfélagsins. Höfuðstóll lánsins skyldi greiðast að fimm árum liðnum en vextir á þriggja mánaða fresti. Lánið var ekki tekið fyrir á lánanefndarfundi í samræmi við reglur sparisjóðsins um útlánaheimildir.

Hinn 10. júlí 2006 fékk félagið lán í erlendum myntum hjá sparisjóðnum að jafnvirði 71 milljónar króna. Lánið var til þriggja ára og til tryggingar var veð í hlutabréfum félagsins í Bláa lóninu hf. Árið 2008 átti félagið 27,3% eignarhlut í Bláa lóninu hf., og var bókfært verð hlutarins samkvæmt ársreikningi þess árið 2008 um 1.540 milljónir króna.

Í mars 2009 var hluti skuldbindinga eignarhaldsfélagsins við sparisjóðinn endurfjármagnaður og í nóvember sama ár voru allar skuldbindingar félagsins endurfjármagnaðar, þá að eftirstöðvum um 1,3 milljarðar króna. Vaxtaálag lánanna var á sama tíma hækkað í 6,85% en hafði áður verið á bilinu 2–3%. Til tryggingar láninu voru allir hlutir lántaka í Bláa lóninu hf., samtals að nafnverði 1.931.065 evrur, handveðsettir sparisjóðnum. Þá voru þrír aðaleigendur eignarhaldsfélagsins áfram í skilyrtum sjálfskuldarábyrgðum fyrir hluta af láninu.

Samhliða þessari endurfjármögnun var undirritað samkomulag um skuldauppgjör og meðferð ábyrgða, en þar kom meðal annars fram að sparisjóðurinn myndi kaupa 15% af eignarhlut eignarhaldsfélagsins í Bláa lóninu hf., og söluverð hlutanna notað til að greiða niður skuldir eignarhaldsfélagsins við sparisjóðinn. Jafnframt var það skilyrði sett fyrir lánveitingunni að þeim hluta hennar sem var í íslenskum krónum skyldi varið til yfirtöku á skuld Útnesjamanna ehf. við sparisjóðinn, en Útnesjamenn voru í eigu sömu aðila og eignarhaldsfélagið sem hér um ræðir. Söluverð eignarhlutarins í Bláa lóninu hf. nam 250 milljónum króna.92

Útnesjamenn ehf. átti um 13,9% hlut í Suðurnesjamönnum ehf. Stærsti eigandi félagsins í lok árs 2007 var Grímur Karl Sæmundsen sem átti 47% eignarhlut. Suðurnesjamenn ehf. átti í lok árs 2007 meðal annars 11,8% eignarhlut í Bláa lóninu hf., 2,73% eignarhlut í Sparisjóðnum í Keflavík og 100% hlut í SM 1 ehf. sem átti 9,5% hlut í Icebank hf.93

Í desember 2007 lánaði sparisjóðurinn félaginu jafnvirði 73 milljóna króna í erlendum myntum til að kaupa hlutabréf í Suðurnesjamönnum ehf. Lánið skyldi greiðast að fullu með einni afborgun 1. desember 2010 og til tryggingar var handveð í bréfum í Suðurnesjamönnum ehf. Eigendur félagsins voru í skiptri ábyrgð (pro rata) fyrir láninu upp að 36 milljónum króna.

Í nóvember 2009 var gert samkomulag um skuldauppgjör og meðferð ábyrgða milli Sparisjóðsins í Keflavík annars vegar og eignarhaldsfélagsins um hlut í Bláa lóninu hf. Stærstu eigendur eignarhaldsfélagsins og Útnesjamanna ehf. voru enn þeir sömu. Með samkomulaginu voru allar skuldir eignarhaldsfélagsins sameinaðar í einn lánasamning en auk þess yfirtók félagið þann hluta láns Útnesjamanna ehf. sem eigendurnir voru í skiptri ábyrgð (pro rata) fyrir og nam lánið 32,7 milljónum króna.94

Árið 2008 færði sparisjóðurinn 72 milljóna króna sérgreint afskriftarframlag vegna Útnesjamanna ehf. og á sama tíma var framlagið vegna eignarhaldsfélagsins 300 milljónir króna. Í mars 2009 voru Suðurnesjamenn ehf., megineign Útnesjamanna ehf., úrskurðað gjaldþrota.95 Í árslok 2009 var sérgreint afskriftarframlag vegna eignarhaldsfélagsins um hlut í Bláa lóninu hf. orðið tæpar 515 milljónir króna. Það framlag hélst óbreytt fram að falli sparisjóðsins og var stærsta framlag í afskriftareikning vegna lánahópsins.

Ekki var fjallað um málefni þessa félags á fundum lánanefndar Sparisjóðsins í Keflavík samkvæmt fundargerðum á tímabilinu sem kom til skoðunar.

Arða ehf.

Arða ehf. var stofnað árið 2008.96 Í ársreikningi félagsins fyrir árið 2009 var eini eigandi þess og framkvæmdastjóri Grímur Karl Sæmundsen. Eignir félagsins voru að stærstum hluta hlutabréf í Bláa lóninu hf. sem fjármögnuð voru af Sparisjóðnum í Keflavík með veði í bréfunum.

Upphaf viðskipta Örðu ehf. við Sparisjóðinn í Keflavík má rekja til þess er Arða ehf.97 tók yfir tékkareikning Kúfs ehf.98 upp á rúmar 5 milljónir króna hjá Sparisjóðnum í Keflavík, 5. mars 2009, en Kúfur ehf. var einnig að fullu í eigu Gríms Sæmundsen. Kúfur ehf. átti í árslok 2007 0,8% stofnfjárbréfa í Sparisjóðnum í Keflavík.99

Eftir að Arða ehf. tók yfir tékkareikning Kúfs ehf. hjá sparisjóðnum gerðu félögin með sér samning um kaup Örðu ehf. á eignarhlut Kúfs ehf. í Bláa lóninu hf. Gagngjald Örðu ehf. fyrir eignarhlutinn var yfirtaka á þremur lánum Kúfs ehf. við Sparisjóðinn í Keflavík. Heildarfjárhæð lánanna nam tæpum 90 milljónum króna á samningsdegi, 11. mars 2009, en það jafngilti því að gengi hlutabréfa Bláa lónsins hf. í viðskiptunum væri tæpar 9 krónur á hlut.100 Eignarhlutur Örðu ehf. í Bláa lóninu hf. var metinn á 4 krónur á hlut í ársreikningi félagsins fyrir árið 2009. Hinir keyptu hlutir í Bláa lóninu hf. voru jafnframt settir að veði fyrir lánunum. Kúfur ehf. var tekinn til gjaldþrotaskipta 18. mars 2009.

Eftir yfirtöku Örðu ehf. á lánunum fékk félagið nýtt lán frá Sparisjóðnum í Keflavík til uppgreiðslu þeirra sem það hafði yfirtekið af Kúfi ehf. 23. mars 2009, jafnvirði 99 milljóna króna í erlendum myntum.

Í lok nóvember 2009 sömdu Arða ehf. og Sparisjóðurinn í Keflavík um að sparisjóðurinn keypti 15% af hlutafé Örðu ehf. í Bláa lóninu hf. Samtals var um að ræða hluti að nafnverði 30.356 evrur og kaupverðið 121.423 evrur, jafnvirði um 22 milljóna króna, eða 4 evrur á hlut. Samkvæmt kaupsamningi var kaupverðinu ráðstafað til að greiða niður skuldir Örðu ehf. við sparisjóðinn. Sama dag gerði Arða ehf. samning við Kólf ehf. um kaup á hlutabréfum Kólfs ehf. í Bláa lóninu hf. að nafnvirði 92.012 evrur. Greitt yrði fyrir hlutina með yfirtöku lánasamnings Kólfs ehf. við sparisjóðinn frá 23. mars 2009, upphaflega að fjárhæð 604.000 evrur, þá jafnvirði um 114 milljóna króna. Samkvæmt ársreikningi Kólfs fyrir árið 2009 nam söluverð eignarhluta í Bláa lóninu hf. 117 milljónum króna.

Í lok nóvember 2009 fékk Arða ehf. 1,2 milljóna evra lán hjá sparisjóðnum, jafnvirði 217 milljóna króna, til endurfjármögnunar lána sinna, meðal annars lánsins sem félagið hafði þá yfirtekið af Kólfi ehf. Lánið skyldi endurgreiða með einni greiðslu 30. nóvember 2011. Til tryggingar láninu, sem og öllum öðrum skuldum lántaka hjá sparisjóðnum, voru sett að handveði hlutabréf Örðu ehf. í Bláa lóninu hf. sem voru að nafnvirði 172.021 evrur. Í ársreikningi Örðu fyrir árið 2009 voru hlutabréfin í Bláa lóninu metin á 688.084 evrur, jafnvirði 124 milljóna króna.

Í lok árs 2008 höfðu 20 milljónir króna verið færðar í sérgreindan afskriftareikning vegna skuldbindinga Kólfs ehf. og aðrar 20 milljónir króna vegna skuldbindinga Kúfs ehf. Í lok árs 2009 höfðu 72 milljónir króna verið færðar í sérgreindan afskriftareikning vegna skuldbindinga Örðu ehf. en félagið hafði þá tekið yfir skuldbindingar Kúfs ehf. og Kólfs ehf. við sparisjóðinn.

Arða ehf. var ekki skilgreint sem aðili fjárhagslega tengdur Bláa lóninu hf. á skýrslum sparisjóðsins um stórar áhættuskuldbindingar fyrr en um mitt ár 2010. Frá stofnun félagsins 2009 var eignarhald óbreytt og nánast allar eignir þess bundnar í hlutabréfum í Bláa lóninu hf. samkvæmt ársreikningum félagsins 2009–2011.

Í lok apríl 2011, við mat Landsbankans hf. á útlánasafni Spkef sparisjóðs, nam skuldbinding Örðu rúmum 209 milljónum króna og niðurfærsla rúmum 77 milljónum króna. Á sama tíma var það mat Spkef sparisjóðs að virði trygginga fyrir skuldbindingum félagsins næmi um 62 milljónum króna en við endurmat Landsbankans var virði trygginga metið tæpar 19 milljónir króna. Mismunurinn fólst í mismunandi verðmati á gengi hlutabréfa í Bláa lóninu hf. sem lögð höfðu verið að veði.101

Eignarhaldsfélag um hlut í Bláa lóninu hf. (II)

Eignarhaldsfélag um hlut í Bláa lóninu hf. fékk lán hjá Sparisjóðnum í Keflavík í erlendum myntum til kaupa á eignarhlutnum. Í maí 2007 fékk félagið eingreiðslulán í erlendum myntum, jafnvirði 59 milljóna króna til fimm ára. Í júní 2007 fékk félagið jafnvirði 12 milljóna króna í erlendum myntum að láni með sömu skilmálum. Til tryggingar lánunum voru hlutir í Bláa lóninu hf. að nafnverði tæplega 27 milljónir króna. Í veðsamningnum var ákvæði um heimild veðhafa til að kalla eftir viðbótartryggingum ef verðmæti hinna veðsettu hlutabréfa minnkaði verulega að mati veðhafa.

Frá október 2007 til október 2008 jukust skuldbindingar félagsins hjá sparisjóðnum úr tæpum 59 milljónum króna í rúmar 160 milljónir króna. Skuldbindingar félagsins voru endurfjármagnaðar með lánum frá sparisjóðnum 6. janúar 2010, en ekki var að finna umfjöllun um lánveitingar félagsins í fundargerðum lánanefndar sparisjóðsins eins og 4. gr. útlánareglna sjóðsins kvað á um.

Frá 31. mars 2009 skilgreindi sparisjóðurinn eignarhaldsfélagið sem aðila fjárhagslega tengdan Bláa lóninu hf. á skýrslum um stórar áhættuskuldbindingar. Engar breytingar höfðu þá orðið á eignarhaldi eða fjárfestingum félagsins frá því sem áður var þegar félagið var ekki talið tengt Bláa lóninu.

Frá 2008 til 2010 var ekki fært sérgreint afskriftarframlag vegna eignarhaldsfélagsins en við mat Landsbankans hf. á virði lána félagsins í apríl 2011 voru 59 milljónir niðurfærðar en skuldirnar stóðu þá í rúmum 179 milljónum króna.

Kaupfélag Suðurnesja og tengdir aðilar

Kaupfélag Suðurnesja annast almenna verslunarstarfsemi í Reykjanesbæ. Stjórnarformaður Kaupfélags Suðurnesja frá 1985 til 2011 var Magnús Haraldsson en hann var að auki forstöðumaður rekstrar- og afgreiðslusviðs í Sparisjóðnum í Keflavík. Kaupfélag Suðurnesja taldist því aðili venslaður sparisjóðnum.102 Kaupfélag Suðurnesja átti tvö dótturfélög í lok árs 2008 en að auki átti félagið 36% eignarhlut í Árkaupi ehf. Í lok árs 2009 átti kaupfélagið auk þess 50% eignarhlut í KB framfarafélagi ehf.103

Í skýrslum um stórar áhættuskuldbindingar voru Kaupfélag Suðurnesja, félag sem rak fasteignir kaupfélagsins og eignarhaldsfélag í eigu þess fyrrnefnda og annarra, skilgreind sem fjárhagslega tengdir aðilar. Skuldbindingar Kaupfélags Suðurnesja voru óverulegur hluti af heildarskuldbindingum þessa lánahóps.

Fasteignafélag um fasteignir Kaupfélags Suðurnesja

Fasteignafélag um fasteignir Kaupfélags Suðurnesja var einn stærsti skuldari Sparisjóðsins í Keflavík frá desember 2007 til apríl 2011. Í apríl 2007 fékk félagið 500 milljóna króna lán hjá sparisjóðnum. Í fundargerð lánanefndar kom fram:

Lánsbeiðni 250. millj. Lánasamningur. Flutningur skulda af [Kaupfélagi Suðurnesja yfir á fasteignafélagið]. Ýmis fasteignaveð. Lögfræðingar okkar þurfa að vinna í málinu. Hugsanlega með „Negative Pledge“ ákvæðum í samningnum.

Lánanefndin samþykkti 250 milljóna króna lán til fasteignafélagsins en höfuðstóll lánsins var 500 milljónir króna. Lánveitingin var ekki kynnt fyrir stjórn í samræmi við 1. gr. reglna um lánveitingar og ábyrgðir. Í skýrslu innri endurskoðunar sparisjóðsins í júlí 2007 var fjallað um lánið og gerð athugasemd við misræmið milli samþykktar lánanefndar og fjárhæðar lánsins. Þá taldi innri endurskoðandi að staðgengill sparisjóðsstjóra hefði ekki átt að undirrita lánasamninginn við fasteignafélagið fyrir hönd sparisjóðsins á sama tíma og hann var jafnframt stjórnarformaður Kaupfélags Suðurnesja, aðaleiganda fasteignafélagsins.104

Í lok desember 2007 nýtti fasteignafélagið sér heimild í lánssamningnum til að breyta mynt höfuðstólsins úr íslenskum krónum í erlenda mynt en þá var höfuðstóllinn jafnvirði rúmra 529 milljóna króna. Lánið átti að endurgreiða á þremur árum en þó var heimild til

framlengingar til allt að 21 árs. Ekki er að sjá af fundargerðum lánanefndar eða stjórnar að skilmálabreytingar og myntbreytingar á láninu hafi verið teknar fyrir á fundum þeirra.

Sparisjóðurinn veitti félaginu 210 milljóna króna verðtryggt lán 2. apríl 2009. Ekkert kom fram í lánasamningnum sjálfum um tilgang lánveitingarinnar og ekki er að sjá að málið hafi verið tekið fyrir í lánanefnd sjóðsins, sem brýtur í bága við útlánareglur hans. Lánveitingin var heldur ekki lögð fyrir stjórn sparisjóðsins til samþykktar, en samkvæmt 1. gr. reglna um lánveitingar og ábyrgðir frá 28. október 2008 bar að leita samþykkis stjórnar fyrir lánveitingum og skuldbindingum sem færu yfir 15% af eigin fé sparisjóðsins, en heildarskuldbindingar Kaupfélags Suðurnesja og tengdra aðila námu 43,2% af eiginfjárgrunni sparisjóðsins 31. mars 2009.

Tryggingar fyrir skuldbindingum fasteignafélagsins voru tvö tryggingarbréf með veði í fimmtán fasteignum. Hvort tryggingarbréf um sig var 500 milljónir króna, hið fyrra útgefið 3. apríl 2007 og hið síðara 9. september 2009. Síðara bréfið veitti tryggingar í sömu eignum og hið fyrra, auk þriggja fasteigna til viðbótar sem voru í eigu félagsins. Þegar Landsbankinn tók við útlánasafni sparisjóðsins á árinu 2011 mat bankinn virði trygginga félagsins um 554 milljónir króna, en á þeim tíma hljóðaði mat sparisjóðsins upp á 1.463 milljónir króna. Í mati sínu tók sparisjóðurinn mið af brunabótamati en Landsbankinn af fasteignamati. Samkvæmt 2. gr. reglna sparisjóðsins um útlánaheimildir skyldi ávallt meta veðsettar eignir sem næst markaðsvirði.

Ekkert var fært í sérgreindan afskriftareikning vegna skuldbindinga fasteignafélagsins fram að yfirtöku Landsbankans á útlánasafni Spkef sparisjóðs. Þá var það mat bankans að niðurfæra þyrfti 450 milljónir króna vegna skuldbindinga félagsins.

Eignarhaldsfélag í eigu Kaupfélags Suðurnesja

Eignarhaldsfélagið var í fullri eigu annars kaupfélags þar til árið 2009 þegar Kaupfélag Suðurnesja keypti 50% hlut í félaginu og varð helmingseigandi með fyrri eiganda. Sparisjóðurinn veitti eignarhaldsfélaginu 220 milljóna króna verðtryggt lán í október 2009. Tilgangur lánsins var að fjármagna kaup félagsins á hlutabréfum í Samkaupum hf. sem áður voru í eigu Sparisjóðsins í Keflavík. Sem tryggingu fyrir skuldbindingu félagsins voru hlutabréfin í Samkaupum sett að veði ásamt handveði í innistæðureikningi í eigu eignarhaldsfélagsins. Hlutabréfin í Samkaupum voru að nafnverði tæpar 28 milljónir króna. Í ársreikningi eignarhaldsfélagsins fyrir árið 2009 var bókfært verð veðsettra bréf tæplega 230 milljónir króna. Lánið var samþykkt af sparisjóðsstjóra en ekki lagt fyrir lánanefnd í samræmi við 4. gr. reglna um útlánaheimildir frá 29. mars 2005.

Ekkert var fært í sérgreindan afskriftareikning vegna skuldbindinga félagsins.

Fyrirtæki tengt stjórnarformanni sparisjóðsins

Samkvæmt starfsreglum stjórnar og sparisjóðsstjóra var skylt að leggja fyrir stjórn til samþykktar eða synjunar öll viðskiptaerindi stjórnarmanna og fyrirtækja sem þeir voru í forsvari fyrir. Með því móti var leitast við að tryggja að stjórnarmenn gætu ekki í krafti stöðu sinnar komið á viðskiptum sem ella hefðu ekki verið samþykkt. Félag sem var í 15% eigu einkahlutafélags í fullri eigu Þorsteins Erlingssonar, stjórnarformanns sparisjóðsins, fyrst frá 2004 til 1. júlí 2006 og aftur frá 16. mars 2007 til aðalfundar 2009, naut stórra fyrirgreiðslna hjá sparisjóðnum,105 en félög sem stjórnarmenn fjármálafyrirtækja eiga meira en 10% í teljast vensluð fyrirtækjunum.

Skuldbindingar félagsins jukust um 1,4 milljarða króna frá janúar 2005 til október 2008, eða úr um það bil 45 milljónum króna í um 1.450 milljónir króna. Meiri hluti lánanna var veittur til kaupa á stofnfjárbréfum í Sparisjóðnum í Keflavík en aðalstarfsemi félagsins var önnur en eignarhald um bréfin. Lánanefnd sparisjóðsins samþykkti 29. desember 2006 að veita félaginu 450 milljón króna eingreiðslulán til þriggja ára til kaupa á stofnfjárbréfum í sparisjóðnum gegn handveði í bréfunum sjálfum og í hlutum í einkahlutafélagi. Í janúar 2007 var láninu breytt í erlent lán í japönskum jenum. Lánið var ekki lagt fyrir stjórn sparisjóðsins til samþykktar eða synjunar.

Félagið fékk annað lán 11. apríl 2007 í japönskum jenum, jafnvirði rúmlega 71,5 milljóna króna, til kaupa á stofnfjárbréfum í Sparisjóðnum í Keflavík að nafnverði 35.026.386 krónur, og voru stofnfjárbréfin lögð fram sem trygging fyrir láninu. Í fundargerðum stjórnar og lánanefndar er ekki að finna bókun um lánið. Þá fékk félagið jafnvirði 120 milljóna króna í erlendum myntum lánað 9. október 2007 til kaupa á stofnfjárbréfum í sparisjóðnum að nafnverði 49.584.423 krónur gegn handveði í bréfunum. Lánið var samþykkt í lánanefnd 28. september 2007 en ekki er að finna bókun um það í stjórnarfundargerðum sparisjóðsins.

Í lok árs 2007 átti félagið 4,96% stofnfjár í Sparisjóðsnum í Keflavík og í ársreikningi félagsins fyrir árið 2007 voru stofnfjárbréfin metin á tæpar 800 milljónir króna. Í ársreikningnum kom enn fremur fram að félagið hefði veðsett fasteignir og stofnfjárbréf í Sparisjóðnum í Keflavík til tryggingar á skuldum við lánastofnanir. Í árslok 2007 nam bókfært verð veðsettra eigna rúmum milljarði króna og eftirstöðvar lána námu á sama tíma rúmum 857 milljónum króna. Í ársreikningi félagsins fyrir árið 2008 kom fram að bókfært verð veðsettra eigna væri 803,5 milljónir króna og eftirstöðvar áhvílandi lána næmu rúmum 2.037 milljónum króna.

Í mars 2009 fékk félagið tvær fyrirgreiðslur frá sparisjóðnum til að endurfjármagna og um leið myntbreyta eldri skuldbindingum. Lánin voru í evrum, samtals jafnvirði um 1.430 milljóna króna. Bókanir um lánin er ekki að finna í fundargerðum lánaefndar eða stjórnar sparisjóðsins. Í lok mars 2009 námu heildarskuldbindingar félagsins um 1,5 milljörðum króna, eða 44,3% af eiginfjárgrunni sparisjóðsins samkvæmt skýrslum um stórar áhættuskuldbindingar frá 31. mars 2009. Í lok árs hafði verið fært framlag í afskriftareikning útlána vegna félagsins sem nam um þriðjungi skuldbindinganna.

Til viðbótar við áðurnefndar tryggingar hafði félagið lagt fram veð í 55% alls hlutafjár í sjálfu sér og rúman helmingshlut í tveimur öðrum óskráðum félögum. Þá var sparisjóðurinn með veð í fasteignum í Sandgerði, á Hornafirði og í Grindavík vegna skuldbindinga félagsins.

Skuldbindingar félagsins námu 1,6 milljörðum króna 22. apríl 2010 en staða á sérgreindum afskriftareikningi vegna þess var þá um 505 milljónir króna. Á sama tíma voru tryggingar fyrir skuldbindingum félagsins metnar á um 280 milljónir króna og mismunur trygginga og skuldbindinga því 820 milljónir króna.106 Við mat Landsbankans hf. á útlánasafni sparisjóðsins í apríl 2011 nam heildarskuldbinding félagsins tæpum 1,6 milljörðum króna en mat á niðurfærslu var þá um 815 milljónir króna.107

Nesbyggð ehf.

Nesbyggð ehf. var byggingafyrirtæki sem stofnað var 2002 og sérhæfði sig í að byggja og selja hús og íbúðir á ýmsum byggingarstigum. Frá febrúar 2007 til október 2008 hækkuðu skuldbindingar félagsins við Sparisjóðinn í Keflavík um rúma 1,2 milljarða króna. Lán til félagsins voru nær eingöngu í japönskum jenum og var lánsfénu varið til byggingaframkvæmda á Reykjanesi og Snæfellsnesi. Frá október 2008 voru skuldbindingar Nesbyggðar ehf. meðal stórra áhættuskuldbindinga sparisjóðsins á skýrslum til Fjármálaeftirlitsins.

Í árslok 2006 var félagið með yfirdrátt og skuldabréf upp á tæpar 32 milljónir króna hjá sparisjóðnum. Á fundi lánanefndar sparisjóðsins 23. febrúar 2007 var tekin fyrir beiðni Nesbyggðar ehf. um fyrirgreiðslu til íbúðabygginga í Dalshverfi í Reykjanesbæ. Lánanefnd hafnaði beiðninni.

Tveimur mánuðum síðar, 20. apríl 2007, var lagt fram erindi frá „Nesbyggð c/o Páll“ um lán í erlendum myntum, jafnvirði 130 milljóna króna, til byggingaframkvæmda í Innri-Njarðvík. Lánanefnd samþykkti beiðnina og var þess getið í bókuninni að veð væru í góðu lagi. Á grundvelli þeirrar samþykktar fékk félagið eingreiðslulán til þriggja ára í japönskum jenum, jafnvirði 133 milljóna króna, 8. maí 2007. Tveir samningar til viðbótar sem námu sömu fjárhæð og með sama gjalddaga voru síðan gerðir, 1. ágúst og 12. október sama ár. Ekki var að finna samþykki fyrir þeim í fundargerðum lánanefndar sparisjóðsins eins og kveðið var á um í 4. gr. reglna um útlánaheimildir. Fjórða lánið sem nam sömu fjárhæð og með sama gjalddaga var veitt 25. janúar 2008 en það var samþykkt á lánanefndarfundi sama dag. Tryggingar skyldu teknar „í öllum útistandandi verkum“ félagsins án þess að fram kæmi í bókuninni hver þau væru. Þá gekkst sparisjóðurinn fimm sinnum á árinu 2008 í ábyrgð fyrir lánum frá Íbúðalánasjóði til félagsins, fyrir alls tæpar 60 milljónir króna. Því til viðbótar var Nesbyggð ehf. með tæplega 26 milljóna króna yfirdrátt hjá sparisjóðnum í árslok 2009.

Til tryggingar skuldbindingum Nesbyggðar ehf. var sparisjóðurinn með 1. veðrétt á grundvelli tryggingarbréfa í fjölmörgum íbúðum sem félagið var með í byggingu. Sá veðréttur vék síðan ávallt fyrir nýjum lánum frá Íbúðalánasjóði þegar íbúðirnar urðu lánshæfar. Þá var gerður handveðssamningur 18. október 2007 um skuldabréf og skuldabréfasafn, þar sem 28 veðskuldabréf til 25 ára, samtals að fjárhæð 75 milljónir króna, voru veðsett sparisjóðnum. Veðréttirnir voru alltaf á eftir lánum Íbúðalánasjóðs.

Í lok árs 2009 námu skuldbindingar Nesbyggðar ehf. 1.441 milljón króna og þar af höfðu 300 milljónir verið færðar í sérgreindan afskriftareikning. Í mars 2011 var félagið tekið til gjaldþrotaskipta. Í apríl 2011 námu kröfur sparisjóðsins á félagið rúmum 1,5 milljörðum króna.108 Landsbankinn taldi tryggingar félagsins vera 79 milljóna króna virði, en Spkef sparisjóður hafði hins vegar metið tryggingarnar á 509 milljónir króna. Ástæða þessa mismunar var að Landsbankinn mat fasteignir Nesbyggðar út frá fasteignamati en sparisjóðurinn út frá brunabótamati, auk þess sem tekið var tillit til þess að trygging bankans hvíldi á lægri veðrétti en lán frá Íbúðalánasjóði.109

Miðland ehf.

Miðland ehf. var dótturfélag Sparisjóðsins í Keflavík og átti um 33 hektara byggingarland á Miðnesheiði í Reykjanesbæ, svokallað „Nikel-svæði“. Um var að ræða jarðvegsskipt svæði þar sem búið var að skipuleggja götur og stóð til að byggja þar 600 íbúðir.110

Eigandi Miðlands ehf. frá október 2007 var NIKEL ehf. sem þá var í eigu fjögurra félaga: Víkur ehf. (55%), Fasteignafélagsins Þreks ehf. (20%), Ásbirninga ehf. (20%) og Vallaráss ehf. (5%).111 Víkur ehf. var að fullu í eigu Sparisjóðsins í Keflavík en auk þess sat forstöðumaður sparisjóðsins í stjórn Miðlands ehf. Félagið Ásbirningar ehf. var í eigu S-14 ehf. og Fuglavíkur ehf.112

Á tímabilinu frá mars 2006 til október 2008 jukust skuldbindingar Miðlands ehf. hjá Sparisjóðnum í Keflavík úr um 146 milljónum króna í um 998 milljónir króna. Til tryggingar útlánum sparisjóðsins til Miðlands ehf. gaf félagið út nokkur tryggingarbréf með veði í landspildunni „Neðra-Nikel“ sem er óbyggt land í Reykjanesbæ. Samkvæmt veðbókarvottorði 18. mars 2009 voru áhvílandi á landinu miðað við uppreiknaðan höfuðstól tæplega 1,4 milljarðar króna og var sparisjóðurinn í Keflavík eini veðhafinn.

Upphaf lánveitinga til Miðlands ehf. má rekja aftur til febrúar 2006 þegar félagið keypti Nikel-svæðið af Húsagerðinni ehf. og yfirtók 150 milljóna króna lán frá Sparisjóðnum í Keflavík. Til tryggingar skuldinni var útgefið tryggingarbréf að sömu fjárhæð með 1. veðrétti í Neðra-Nikel í Reykjanesbæ. Þá veitti sparisjóðurinn Miðlandi ehf. aukna fyrirgreiðslu um 100 milljónir króna 23. október 2006 sem tryggð var með veði í sama landi.

Fyrirgreiðsla sparisjóðsins til Miðlands ehf. nam 452 milljónum króna í júlí 2007 en þá átti félagið í viðræðum við Reykjanesbæ um skipulag á Neðra-Nikel svæðinu. Samkvæmt minnisblaði sparisjóðsins frá 20. júlí 2007 kom fram að ágreiningur væri milli þáverandi eigenda Miðlands ehf. og Reykjanesbæjar og „vandséð […] hvernig leyst [yrði] úr honum með óbreyttu eignarhaldi á félaginu“. Lagt var til að sparisjóðurinn leysti til sín félagið og kæmi málum í farveg fyrir frekari framgang svæðisins. Á næsta stjórnarfundi sparisjóðsins 31. júlí 2007 var samþykkt að dótturfélag sparisjóðsins, Víkur ehf., keypti Miðland ehf. fyrir 867 milljónir króna. Nikel-svæðið var í þessum kaupum metið á 599 milljónir króna auk þess sem Víkur ehf. yfirtók 268 milljóna króna lán fyrri eigenda Miðlands ehf. til félagsins sjálfs. Í verðmati á svæðinu frá svipuðum tíma var byggingarréttur á því metinn á bilinu 1.945 til 2.345 milljónir króna.113

Í lok árs 2007 skuldaði Miðland ehf. sparisjóðnum 195 milljónir króna í íslenskum krónum, en þeim skuldbindingum var myntbreytt í mars 2008 með nýjum lánasamningi sem nam jafnvirði 200 milljóna króna. Lánveitingin var samþykkt á fundi lánanefndar sjóðsins 14. febrúar 2008. Skuldbindingar félagsins í erlendri mynt í árslok 2007 voru metnar að jafnvirði 304 milljóna króna. Öll lán félagsins voru endurfjármögnuð með nýjum lánasamningi í erlendri mynt sem nam jafnvirði 926 milljóna króna 23. mars 2009, og enn á ný 1. september 2009 með tveimur lánasamningum í íslenskum krónum. Annað lánið nam 221 milljón króna og var óverðtryggt og vaxtalaust. Ytri endurskoðandi sparisjóðsins benti á í skýrslu sinni um venslaða aðila sparisjóðsins 31. mars 2010 að samanburðarlán við lán Miðlands ehf. bæri 12% vexti meðan lán Miðlands ehf. bæri enga vexti.114

Sparisjóðurinn færði sérgreint afskriftarframlag upp á 139 milljónir króna vegna skuldbindinga Miðlands ehf. í lok árs 2009. Við mat á eignasafni Spkef sparisjóðs við samruna við Landsbankann hf. var miðað við að virði trygginga væri um 11 milljónir króna en Spkef sparisjóður mat verðmæti trygginga á 604 milljónir króna. Hinn mikla mun á mati trygginga má helst rekja til þess að Landsbankinn notaði lóðamat Fasteignamats ríkisins en sparisjóðurinn miðaði sitt mat við áætlaðan fjölda íbúða á svæðinu.115

Fasteignafélag Suðurnesja ehf. og tengdir aðilar

Fasteignafélag Suðurnesja ehf. var stofnað árið 2005 af þeim Steinþóri Jónssyni, Aðalsteini Gunnari Jóhannssyni og Sigurði Smára Gylfasyni. Í lánahópi Fasteignafélags Suðurnesja ehf. voru einnig Blikavöllur 3 ehf. og Hvalvík ehf., sem voru að fullu í eigu fasteignafélagsins. Lánahópurinn var fyrst skilgreindur þannig árið 2010 en umfjöllunin hér, og tölur um skuldbindingar og stöðu á afskriftareikningi, er byggð á heildartölum fyrir hópinn.

Heiðarbúar ehf. sem eignaðist 40% eignarhlut í Fasteignafélagi Suðurnesja ehf. á árinu 2009 var í eigu Steinþórs Jónssonar og Sverris Sverrissonar til helminga.116

Í febrúar 2006 yfirtók Fasteignafélag Suðurnesja ehf. 100 milljóna króna verðtryggt lán sem Sparisjóðurinn í Keflavík hafði veitt Sverri Sverrissyni ehf. í apríl 2002 og var tryggt með veði í fasteign að Brekkustíg 39 í Reykjanesbæ. Ekkert var fjallað um þennan flutning í lánanefnd sparisjóðsins en í lok mars 2006 var tekið fyrir erindi frá Fasteignafélagi Suðurnesja ehf. þar sem óskað var eftir fyrirgreiðslu til kaupa á öllu hlutafé í Blikavöllum 3 ehf. á 45 milljónir króna. Fram kom að félagið þyrfti 25 milljónir króna strax, 20 milljónir króna við fokheldi og 115 milljónir króna yfirdráttarlán sem síðar myndi breytast í 20 ára lán. Heildarkostnaður við húsnæðið var áætlaður 150–160 milljónir króna.117 Erindið var samþykkt og fékk félagið 25,5 milljóna króna verðtryggt lán til 20 ára tryggt með veði í Brekkustíg 39. Í desember 2008 var yfirdráttur félagsins endurfjármagnaður með verðtryggðu láni til 25 ára að fjárhæð 75,5 milljónir króna. Í lok árs 2008 námu skuldbindingar Fasteignafélags Suðurnesja ehf. tæplega 250 milljónum króna og hafði þá ekkert verið fært í sérgreindan afskriftareikning vegna þeirra.

Blikavöllur 3 ehf. var stofnað í mars 2006 af Sverri Sverrissyni en var í lok ársins að fullu í eigu Fasteignafélags Suðurnesja ehf. Félagið var stofnað vegna byggingar iðnaðarhúsnæðis að Blikavöllum 3 við Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Frá september 2006 til október 2008 hækkuðu skuldbindingar félagsins úr 24 milljónum króna í 412 milljónir króna. Upphafleg skuldbinding félagsins var yfirdráttarlán á tékkareikningi sem fór hækkandi en í febrúar 2008 var yfirdrættinum breytt í skuldabréfalán í erlendum myntum að jafnvirði 190 milljóna króna. Lánanefnd sparisjóðsins samþykkti þessa endurfjármögnun 23. nóvember 2007. Í apríl 2009 var láninu myntbreytt í evrur og í ágúst sama ár var því breytt í íslenskar krónur. Fyrir þá breytingu stóð lánið í 400 milljónum króna en við myntbreytinguna í íslenskar krónur nam lánið 314 milljónum króna. Sparisjóðurinn, sem þá þurfti að leiðrétta mun erlendra eigna og erlendra skulda, bauð 20% afslátt af höfuðstól lánsins við myntbreytinguna. Í desember 2008 var yfirdráttur félagsins hjá sparisjóðnum endurfjármagnaður með verðtryggðu 81 milljónar króna láni til 25 ára. Ekki var að finna umfjöllun um þessa endurfjármögnun í fundargerð lánanefndar sparisjóðsins.

Tryggingar sparisjóðsins fyrir skuldbindingum félagsins voru tryggingarbréf á 1.–6. veðrétti í fasteigninni að Blikavelli 3. Í lok árs 2008 nam heildarskuldbinding félagsins rúmum 457 milljónum króna og var virði trygginga metið á um 224 milljónir króna og því voru tæplega 234 milljónir króna af heildarskuldbindingunni án veðs.118 Ekki var fært framlag í sérgreindan afskriftareikning vegna skuldbindinga Blikavallar 3 ehf. í lok árs 2008 en í lok árs 2009 var framlagið 167 miljónir króna.

Hvalvík 4 ehf. var stofnað af Fasteignafélagi Suðurnesja ehf. árið 2006. Í október það ár fékk félagið yfirdrátt hjá Sparisjóðnum í Keflavík að fjárhæð 12 milljónir króna. Fór sá yfirdráttur stigvaxandi fram í mars 2008 en hann nam þá um 98 milljónum króna. Í desember 2008 var yfirdrátturinn endurfjármagnaður með verðtryggðu láni til 25 ára að fjárhæð 110,5 milljónir króna. Til tryggingar fyrirgreiðslu Hvalvíkur 4 ehf. var í maí 2007 lagt fram tryggingarbréf með veði í geymsluhúsnæði félagsins í Reykjanesbæ. Ekki var fjallað um fyrirgreiðslu við Hvalvík 4 ehf. í lánanefnd sparisjóðsins. Í árslok 2008 námu skuldbindingar Hvalvíkur 4 ehf. 114 milljónum króna en framlag í afskriftareikning vegna skuldbindinganna var ekki fært fyrr en árið eftir. Það var þá 22 milljónir króna. Félagið var úrskurðað gjaldþrota í febrúar 2012.

Í apríl 2011, við yfirtöku Landsbankans hf. á útlánasafni Spkef sparisjóðs, námu heildarskuldbindingar lánahópsins 965 milljónum króna en þar af höfðu 416 milljónir króna verið niðurfærðar vegna þeirra. Fasteignafélag Suðurnesja ehf. var úrskurðað gjaldþrota í apríl 2012.

AEG fjárfesting ehf.

AEG fjárfesting ehf. var stofnfjárhafi í Sparisjóðnum í Keflavík og átti rúmar 40 milljónir króna að nafnverði í stofnfjárbréfum um mitt ár 2008. Frá ágúst 2007 til október 2008 hækkuðu skuldbindingar félagsins úr tæpum 115 milljónum króna í tæpar 328 milljónir króna.

Upphaf lánaviðskipta AEG fjárfestingar ehf. við Sparisjóðinn í Keflavík má rekja til þess er félagið yfirtók lán annars eigenda sinna 7. júní 2007 en hann hafði fengið 113 milljóna króna lán hjá sparisjóðnum 2. maí 2007. Ekki var tilgreint í lánssamningi hver tilgangur lánsins var en samkvæmt fundargerð lánanefndar frá 30. apríl 2007 var um að ræða verðtryggt eingreiðslulán til fimm ára, veitt til kaupa á stofnfjárbréfum í Sparisjóðnum í Keflavík. Lánið var tryggt með veði í 11.698.479 krónum að nafnverði í stofnfjárbréfum sparisjóðsins.

Við yfirtöku AEG fjárfestingar ehf. á láninu var vöxtum, dráttarvöxtum og kostnaði bætt við höfuðstól þess sem nam þá um 114,5 milljónum króna. Ekkert var fjallað um skuldskeytinguna í fundargerðum lánanefndar.

Hinn 5. september 2007 var AEG fjárfestingu ehf. veitt annað lán í erlendum myntum að jafnvirði 50 milljóna króna. Lánið var til fimm ára og var tilgangur þess ekki nefndur í lánssamningi. Til tryggingar láninu voru verðbréf í eigu lántaka.

Í október 2007 fékk AEG fjárfesting ehf. 20 milljóna króna verðtryggt lán til fimm ára. Um tilgang lánsins sagði ekkert í lánssamningi en í tölvupóstsamskiptum eiganda félagsins við starfsmann sparisjóðsins kom fram að fjármagnið yrði nýtt til að taka þátt í stofnfjáraukningu Sparisjóðsins í Keflavík.119 Til tryggingar láninu voru verðbréf í eigu lántaka. Láninu var skilmálabreytt 26. október 2009.

AEG fjárfesting ehf. fékk lán í erlendum myntum að jafnvirði 32 milljóna króna 20. desember 2007. Lánið var til tveggja ára og var nýtt til að fjármagna kaup á stofnfjárbréfum í Sparisjóðnum í Keflavík. Til tryggingar voru lögð að handveði stofnfjárbréf í sparisjóðnum að nafnverði 40.213.353 króna.

Í apríl 2009 var lánunum frá 5. september og 20. desember 2007 myntbreytt og þau sameinuð í eitt lán að fjárhæð 1,1 milljón evra sem aftur var myntbreytt 9. september 2009 í lán með höfuðstól upp á 163 milljónir króna. Sparisjóðurinn, sem þá þurfti að leiðrétta mun erlendra eigna og erlendra skulda, bauð 20% afslátt af höfuðstól lánsins við myntbreytinguna en samkvæmt sölugengi evru á þessum tíma var höfuðstóll erlenda lánsins um 204 milljónir króna.120

Ofangreindar skuldbreytingar áttu sér allar stað fyrir gjalddaga lánanna. Lántaki hafði ekki greitt vexti og því var vöxtum bætt ofan á höfuðstól þeirra við umbreytinguna. Engar bókanir eru í fundargerðum lánanefndar vegna lána eða skilmálabreytinga lána AEG fjárfestingar ehf.

Í janúar 2008 var veitt veðbandslausn á stofnfjárbréfunum sem lögð höfðu verið fram til tryggingar skuldbindingum AEG fjárfestingar ehf. í júní 2007, en þau voru að nafnverði 11.698.479 króna. Í maí 2008 var veitt veðbandslausn á hlutabréfum í Samkaupum hf. að nafnverði 1 milljón króna sem einnig höfðu verið lögð að veði fyrir skuldbindingum félagsins í júní 2007. Því voru stofnfjárbréf að nafnvirði 40,2 milljónir króna sem lögð voru fram í desember 2007 nær eina tryggingin fyrir skuldum félagsins. Ekki er að sjá af gögnum sparisjóðsins hvert verðmat stofnfjárbréfanna var en á stofnfjárbréfamarkaði 10. desember 2007 fóru fram viðskipti á genginu 4,2. Endurmatsstuðull bréfanna var á þeim tíma 2,17.121 Samkvæmt því hefði verðmæti stofnfjárbréfa AEG fjárfestingar ehf. verið um 367 milljónir króna. Í lok árs 2007 námu skuldbindingar félagsins 360 milljónum króna.

Fyrri veðbandslausnin á árinu 2008 var samþykkt af stjórn 28. janúar 2008 en ekki kom fram í fundargerð hver ástæða hennar var. Ekkert var bókað um síðari veðbandslausnina. Sparisjóðurinn aflétti veðum á sama tíma og tryggingastaða AEG fjárfestingar ehf. nam rétt rúmlega stöðu skuldbindinganna og líklegt að virði trygginga færi lækkandi. Ekki var fært sérgreint afskriftarframlag vegna lána félagsins í lok árs 2008. Ári síðar nam heildarskuldbinding félagsins 372 milljónum króna og hafði hún öll verið færð á sérgreindan afskriftareikning. Félagið var úrskurðað gjaldþrota 10. júní 2010.

19.2.4 Lán til kaupa á stofnfjárbréfum

Veðsetning stofnfjárhluta í Sparisjóðnum í Keflavík varð heimil með nýjum samþykktum á aðalfundi sparisjóðsins 9. mars 2006. Veðsetningin var þó háð samþykki stjórnar. Veðsetningar stofnfjárbréfa komu fyrst til samþykktar stjórnar í nóvember 2006 og í desember sama ár var samþykkt stofnfjáraukning. Í janúar 2007 hófust viðskipti á tilboðsmarkaði með stofnfé hjá Sparisjóðnum í Keflavík. Veðsetning stofnfjár varð tíð eftir þetta, meðal annars vegna viðskipta á tilboðsmarkaðnum og kaupum á stofnfé í stofnfjáraukningum en stofnfé var aukið töluvert á árunum 2006 og 2007.

Samkvæmt upplýsingum sem rannsóknarnefndin fékk frá Landsbankanum hf. um lán Sparisjóðsins í Keflavík með veði í stofnfjárbréfum, nam fjárhæð slíkra lána sem veitt voru frá og með árinu 2006 að minnsta kosti 2,3 milljörðum króna.122 Hér er um að ræða höfuðstól veittra lána en ekki stöðu þeirra á ákveðnum tímapunkti.

Í tengslum við samruna Sparisjóðsins í Keflavík við Sparisjóð Húnaþings og Stranda og Sparisjóð Vestfirðinga var ráðist í stofnfjáraukningar í sparisjóðunum þremur. Í Sparisjóði Húnaþings og Stranda var stofnfé aukið um 1,3 milljarða króna að markaðsverði í nóvember 2007 og 761 milljón að markaðsverði í desember sama ár. Lán Sparisjóðs Húnaþings og Stranda til þeirra sem tóku þátt í stofnfjáraukningunni námu 860 milljónum króna og lán Sparisjóðsins í Keflavík tæpum 600 milljónum króna. Á stjórnarfundi 2. febrúar 2008 voru samþykktar veðsetningar á um 576 milljónum af nýju stofnfé, þar af 375 milljónir króna til Landsbankans, 118 milljónir króna til Sparisjóðsins í Keflavík, 71 milljón króna til Sparisjóðs Húnaþings og Stranda og 12 milljónir króna til Sparisjóðs Strandamanna. Útboð á nýju stofnfé í Sparisjóði Vestfirðinga fór fram á sama tíma. Í október og nóvember 2007 var boðið út nýtt stofnfé upp á 1,1 milljarð króna að markaðsvirði og í desember sama ár fyrir 829 milljónir króna. Á þeim tíma jukust útlán Sparisjóðs Vestfirðinga og Sparisjóðsins í Keflavík til þeirra sem keyptu stofnfé um 405 milljónir króna.123 Á stjórnarfundi Sparisjóðs Vestfirðinga 6. febrúar 2008 kom fram að stofnfé í sparisjóðnum væri veðsett fyrir tæpar 76 milljónir króna að nafnverði. Því hafa í einhverjum tilvikum verið lagðar að veði aðrar tryggingar en stofnbréf, þar sem þeirra hefur verið krafist. Þegar sparisjóðirnir sameinuðust voru útlánin öll í umsjón Sparisjóðsins í Keflavík.

Í skýrslu Fjármálaeftirlitsins um vettvangsathugun hjá Sparisjóðnum í Keflavík frá árinu 2008 var gerð úttekt á lánum til kaupa á stofnfjárbréfum.124 Almennt var þar gagnrýnt að Sparisjóðurinn í Keflavík lánaði fé til stofnfjárkaupa gegn veði í bréfunum sjálfum:

Lán með veði í óskráðum hlutabréfum nema um 5.807 m.kr. Um 2.200 m.kr. eða 38% af þeim lánum er með veði í sparisjóðnum sjálfum. Mikilvægt er fyrir SpKef að íhuga gaumgæfilega þá auknu áhættu sem felst í því að lána gegn handveði til kaupa á eigin stofnfjárbréfum þar sem greiðslugeta lántakenda er háð verðmæti lánveitanda. Lánaáhætta sparisjóðsins tengd eigin stofnfjárbréfum telst veruleg í hlutfalli af eiginfjárgrunni sparisjóðsins.125

Sparisjóðurinn gerði athugasemd við þessa ályktun Fjármálaeftirlitsins 19. ágúst 2008 og sagði þær 2.200 milljónir króna, sem vísað væri til í þessu sambandi, ekki endurspegla nafnverð stofnfjár. Fjármálaeftirlitið ítrekaði þá að athugasemdin sneri að því að hlutfall lána með veði í eigin stofnfjárbréfum væri of hátt. Jafnframt gerði Fjármálaeftirlitið úttekt á lánum til ýmissa aðila með veði í stofnfjárbréfum Sparisjóðsins í Keflavík og gerði athugasemd við að tryggingarstaða væri ónóg og að of hátt verð væri notað við útreikninga á virði tryggingarandlaga. Enn fremur taldi Fjármálaeftirlitið að tryggingarstaða Sparisjóðsins í Keflavík vegna lána með veði í stofnfjárbréfum Byrs Sparisjóðs og Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis væri ónóg.126 Meðal stærstu lána Sparisjóðsins í Keflavík til kaupa á stofnfé var lán til Miðvarðar ehf., eignarhaldsfélags í eigu starfsmanna sparisjóðsins sjálfs. Þá fékk félagið fimm lán í erlendum myntum hjá Byr sparisjóði, samtals jafnvirði rúmra 250 milljóna króna, á árunum 2006 og 2007 til að fjármagna kaup á stofnfjárbréfum í Sparisjóðnum í Keflavík en til tryggingar lánunum var tekið veð í bréfunum sjálfum.

Í skýrslu Fjármálaeftirlitsins um útlánaáhættu, markaðsáhættu og eftirlit með peningaþvætti hjá Sparisjóðnum í Keflavík frá september 2008 var sérstaklega fjallað um lán til ýmissa aðila með veði í stofnfjárbréfum í sparisjóðnum. Í umfjöllun Fjármálaeftirlitsins var tekinn fyrir 31 aðili sem sparisjóðurinn hafði veitt lán gegn veði í stofnfjárbréfum í sparisjóðnum. Kom fram að þessir aðilar skulduðu samanlagt um 951 milljón króna og að baki þeim stæðu tryggingar upp á tæpar 600 milljónir króna. Við útreikning á verðmæti trygginga studdist Fjármálaeftirlitið við gengið 1,42 krónur á hlut en sparisjóðurinn notaðist á þessum tíma við gengið 2,44 krónur á hlut sem Fjármálaeftirlitið taldi ekki raunhæft mat. Gerði Fjármálaeftirlitið athugasemd við að tryggingarstaða vegna framangreindra lána væri ónóg og að verðmat á tryggingarandlagi væri of hátt.127

Í mars 2011 eignaðist Landsbankinn þau útlán sem veitt höfðu verið til kaupa á stofnfjárbréfum í Sparisjóðnum í Keflavík. Í desember 2011 samþykkti bankaráð Landsbankans tillögu bankastjóra um að fella niður ákveðin lán til stofnfjárkaupa sem veitt voru af Sparisjóðnum í Keflavík og sparisjóðunum sem sameinuðust honum, auk lána sem Landsbankinn hafði sjálfur veitt vegna stofnfjárútboða sparisjóðanna. Kom þessi ákvörðun bankans í kjölfar dóma Hæstaréttar nr. 117/2011, 118/2011, 119/2011, þar sem stofnfjáreigendur Byrs sparisjóðs voru sýknaðir af kröfum um greiðslu skulda vegna stofnfjáraukninga. Var talið að svipuð eða jafnvel sömu sjónarmið gætu átt við um lánveitingar Sparisjóðsins í Keflavík. Bankaráð Landsbankans setti ákveðin skilyrði fyrir niðurfellingu lánanna. Fólust þau í því að ef lántaki hefði fengið arðgreiðslu af stofnfjárbréfum sínum án þess að ráðstafa þeim inn á lánið, drægist sú fjárhæð frá niðurfelldri lánsfjárhæð. Ef stofnfjárbréf hefðu verið seld fyrir fall bankanna án þess að andvirðinu væri ráðstafað inn á lánin, yrðu niðurfellingar ekki heimilar. Niðurfellingin náði til lána sem veitt höfðu verið í tengslum við útboð sem áttu sér stað í aðdraganda sameiningar Sparisjóðsins í Keflavík við Sparisjóð Húnaþings og Stranda og Sparisjóð Vestfirðinga. Miðað var við stofnfjárútboð Sparisjóðsins í Keflavík í september og desember 2007 og stofnfjárútboð Sparisjóðs Húnaþings og Stranda og Sparisjóðs Vestfirðinga sem fram fóru í lok október og í desember 2007.128

Landsbankinn hf. felldi niður útlán fyrir samtals 1.918 milljónir króna hjá 283 aðilum. Jafnframt voru endurgreiddar 99 milljónir króna vegna afborgana sem greiddar höfðu verið til Spkef sparisjóðs eftir að hann var stofnaður 22. apríl 2010. Þegar Landsbankinn tók yfir útlánasafn Spkef sparisjóðs í mars 2011 höfðu lán til stofnfjárkaupa verið metin verðlaus.129

19.2.5 Lán til starfsmanna og stjórnarmanna

Í 13. gr. reglna um framkvæmd starfa sparisjóðsstjórnar og sparisjóðsstjóra Sparisjóðsins í Keflavík frá 2003 var kveðið á að sparisjóðsstjórn myndi setja, að fengnum tillögum sparisjóðsstjóra, reglur um viðskipti starfsmanna sparisjóðsins við hann, sem mættu koma fram í almennum lánareglum sparisjóðsins. Í útlánareglunum var svo sagt að starfsmenn, að undanskildum sparisjóðsstjóra, skyldu meðhöndlaðir á sama hátt og almennir viðskiptamenn hvað útlán snerti. Hið sama gilti um sparisjóðsstjóra og maka en þá þurfti sparisjóðsstjórn að samþykkja lánveitinguna eða ábyrgðina og bóka þá samþykkt í gerðarbók.130 Þetta var sambærilegt við það sem fram kom í 16. gr. reglna um framkvæmd starfa sparisjóðsstjórnar og sparisjóðsstjóra Sparisjóðsins í Keflavík frá 19. desember 2003 um að samningar sparisjóðsins um lán, ábyrgðir, kauprétt eða sambærileg viðskipti við sparisjóðsstjóra væru háðar samþykki stjórnar sjóðsins.

Við endurnýjun á reglunum 26. febrúar 2007 var því bætt við að ofangreind regla um sparisjóðsstjóra gilti einnig um „aðra aðila tengda honum“, sbr. ákvæði 22. gr.:

Samningar sparisjóðsins um lán, ábyrgðir, kauprétt og sambærileg viðskipti við sparisjóðsstjóra eru háðar samþykki stjórnar. Ákvörðun stjórnar skal bókuð í gerðabók. Sparisjóðsstjóra er óheimilt að gangast í ábyrgðir fyrir aðra gagnvart sparisjóðnum eða gerast umboðsmaður þeirra gagnvart sparisjóðnum. Ákvæði þessi gilda einnig um maka sparisjóðsstjóra og aðra aðila tengda honum.

Þá kom fram í 23. gr. reglna um störf stjórnar og framkvæmdastjóra frá 2003 að meðal venslaðra aðila sparisjóðsins væru lykilstarfsmenn og nánir fjölskyldumeðlimir þeirra.131 Tekinn skyldi saman listi yfir venslaða aðila og viðskipti þeirra ef heildarfyrirgreiðsla til þeirra eða vanskil færu umfram þau mörk sem Fjármálaeftirlitið setti hverju sinni. Við mat á því hverjir teldust til venslaðra aðila væri mikilvægt að líta þess hvort viðkomandi aðilar gætu notið stöðu sinnar á einhvern hátt umfram aðra viðskiptavini sparisjóðsins, meðal annars með tilliti til kjara, endursamninga og stöðu. Þá skyldu viðskiptaerindi stjórnarmanna og fyrirtækja sem þeir væru í forsvari fyrir lögð fyrir stjórn sparisjóðsins til samþykktar eða synjunar.132 Í útlánareglum var ekki að finna frekari ákvæði um lán til starfsmanna sparisjóðsins.

Rannsóknarnefndin kannaði hvort aðilar venslaðir Sparisjóðnum í Keflavík, það er stjórnarmenn, makar þeirra og félög í þeirra eigu,133 hefðu fengið fyrirgreiðslu hjá sparisjóðnum. Þá voru lánamál starfsmanna hjá sparisjóðnum einnig könnuð, auk þess sem könnunin tók jafnframt til lánveitinga hjá Sparisjóði Vestfirðinga, Sparisjóði Húnaþings og Stranda og Sparisjóði Ólafsvíkur.

Þegar hefur verið gerð grein fyrir nokkrum þeirra lánamála sem féllu undir þessa athugun hér framar. Þannig átti maki starfsmanns sparisjóðsins eignarhlut í félagi sem tilheyrði lánahópi um fiskvinnslu- og útgerðarfélag, sem fyrst var getið í umfjölluninni, og þegar hefur verið gerð grein fyrir félagi sem tengdist stjórnarformanni sparisjóðsins. Þá átti Steinþór Jónsson í Fasteignafélagi Suðurnesja ehf. og Berginu ehf., en hann var varamaður í stjórn sparisjóðsins og sat stjórnarfundi á árunum 2005–2007.

Starfsmenn og stjórnarmenn í Sparisjóði Húnaþings og Stranda tóku þátt í stofnfjáraukningum sparisjóðsins síðla árs 2007. Fyrra útboðið stóð yfir frá 29. október til 9. nóvember og hið seinna 10.–17. desember sama ár. Útboðið stofnfé nam samtals um 1.954 milljónum að nafnverði en þar af skráðu starfsmenn sparisjóðsins sig fyrir 296 milljónum króna. Frá lokum september til loka desember jukust lán sparisjóðanna til þessara starfsmanna um 504 milljónir króna. Lán Sparisjóðs Húnaþings og Stranda jukust um 169 milljónir króna og lán Sparisjóðsins í Keflavík um 334 milljónir króna.134 Á stjórnarfundum 4. og 19. desember 2007 og 2. febrúar 2008 samþykkti stjórn sparisjóðsins veðsetningu um 196 milljóna stofnfjárhluta í sparsjóðnum vegna lána starfsmanna og stjórnarmanna. Lán Sparisjóðs Vestfirðinga og Sparisjóðsins í Keflavík til starfsmanna Sparisjóðs Vestfirðinga sem tóku þátt í stofnfjárútboðum í október til desember 2007 jukust um 42 milljónir króna á sama tíma.135

Samkvæmt yfirliti yfir útlán til starfsmanna Sparisjóðsins í Keflavík í lok árs 2007 námu þau samtals 754 milljónum króna, þar af voru útlán í erlendri mynt tæpar 374 milljónir króna. Hæsta útlán til starfsmanns nam á þessum tíma 73,5 milljónum króna. Á fundi stjórnar Sparisjóðsins í Keflavík 19. ágúst 2008 fór innri endurskoðandi sparisjóðsins meðal annars yfir skuldir og vanskil starfsmanna. Þá námu heildarútlán til starfsmanna 1.724 milljónum króna en höfðu verið 875 milljónir króna í janúar 2008. Tveir starfsmenn voru með yfir 100 milljónir króna í útlán, en heildarvanskil starfsmanna voru 9,9 milljónir króna, þau hæstu upp á 8,1 milljón króna.136 Innri endurskoðandi fór aftur yfir starfsmannalán á fundi stjórnar sparisjóðsins 14. júlí 2009. Þá voru 122 starfsmenn með skuldir hjá sparisjóðnum og staða þeirra um 1,8 milljarðar króna. Hæstu vanskilin námu þá rúmum 3 milljónum króna.137 Í skýrslu innri endurskoðanda sem lögð var fyrir stjórn sparisjóðsins 14. október 2009 kom fram að 131 starfsmaður sjóðsins voru með samtals 1,5 milljarða króna í útlán hjá sjóðnum. Þar af voru 68% þeirra í erlendri mynt. Fjórir starfsmenn voru með útlán yfir 100 milljónum króna og voru flest vanskil meðal starfsmanna og maka þeirra vegna greiðslukortaskulda.138

Þegar Fjármálaeftirlitið tók yfir vald stofnfjáreigendafundar Sparisjóðsins í Keflavík 23. apríl 2010 námu heildarútlán til starfsmanna 1.520 milljónum króna, þar af 1.000 milljónir í erlendri mynt. Höfðu 872,5 milljónir króna verið færðar niður vegna þessara lána. Í töflu 31 má sjá yfirlit yfir þá tíu starfsmenn sem skulduðu mest hjá sparisjóðnum 23. apríl 2010.

Þeir tíu starfsmenn sem skulduðu mest hjá Sparisjóðnum í Keflavík skulduðu samtals tæplega 1,1 milljarð króna eða 72% af öllum lánum til starfsmanna. Í apríl 2010 höfðu 820 milljónir króna verið niðurfærðar vegna lána þessara tíu starfsmanna. Sjö þeirra voru starfsmenn útibús Sparisjóðsins í Keflavík á Hvammstanga, þar sem áður var Sparisjóður Húnaþings og Stranda, og höfðu fengið lánað til kaupa á stofnfé við stofnfjáraukningar síðla árs 2007. Stærstur hluti þessara lána var í erlendri mynt og hækkaði mikið við gengisfall krónunnar árið 2008 en á sama tíma lækkuðu undirliggjandi eignir, stofnfjárbréf í Sparisjóðnum í Keflavík, mjög í verði og urðu á endanum verðlausar.

Stærsta lánamál stjórnarmanns sparisjóðsins sem ekki hefur verið gerð grein fyrir varðar einstakling sem var varamaður í stjórn sparisjóðsins frá desember 2007 og aðalmaður frá janúar 2008 til apríl 2009, sambýliskonu hans og félög í þeirra eigu. Fyrirgreiðslur til þeirra komu til áður en hann varð stjórnarmaður í sparisjóðnum. Hann átti 10% hlut í einkahlutafélagi á móti sambýliskonu sinni. Félagið var eignarhaldsfélag um nokkur hlutafélög og stofnfjárhluti í Sparisjóðnum í Keflavík og var meðal stórra áhættuskuldbindinga sparisjóðsins frá mars 2009. Fyrirgreiðslur til stjórnarmannsins og annarra í lánahópnum frá janúar 2008 til apríl 2009 féllu undir viðskipti við venslaða aðila í samræmi við starfsreglur stjórnar og sparisjóðsstjóra.

Í marsmánuði 2007 keypti einkahlutafélagið stofnfjárbréf að nafnverði 7.974.868 króna í Sparisjóðnum í Keflavík. Til þess fékk félagið lán frá sparisjóðnum í erlendum myntum að jafnvirði 33 milljóna króna 13. mars 2007. Lánið var til fimm ára og skyldu afborganir greiddar á þriggja mánaða fresti. Til tryggingar láninu var gerður handveðssamningur um stofnfjárbréfin. Félagið tók nýtt lán í erlendum myntum að jafnvirði 152 milljóna króna 11. maí 2007 til fimm ára sem tryggt var með handveði í stofnfjárbréfum í Sparisjóðnum í Keflavík að nafnverði 18 milljónir króna sem voru í eigu félagsins. Samkvæmt fundargerð stjórnar sparisjóðsins 13. ágúst 2007 var ákveðið að ógilda handveðin sem tekin voru vegna lánanna í mars og maí og taka í staðinn handveð í stofnfjárbréfum að nafnvirði 13 milljónir króna samkvæmt handveðssamningi 8. ágúst sama ár. Í fundargerðinni var ekki skýring á því hvers vegna ákveðið var að lækka veðstöðuna og í skýrslu hjá rannsóknarnefndinni mundi fyrrverandi sparisjóðsstjóri ekki hvers vegna þetta var gert.139 Félagið fékk nýtt 361 milljónar króna lán í september 2009 til að endurfjármagna erlend lán og voru veð í stofnfjárbréfum í Sparisjóðnum í Keflavík til tryggingar því.

Tvö önnur félög í 50% eigu einkahlutafélagsins fengu tvö lán sumarið 2007, samtals um 56 milljónir króna. Annað lánið var mun stærra og nam 51 milljón króna en varastjórnarmaðurinn var í sjálfskuldarábyrgð fyrir því ásamt öðrum einstaklingi. Minna lánið var tekið til kaupa á stofnfjárbréfum í Sparisjóðnum í Keflavík af dótturfélagi sparisjóðsins, Víkur ehf., og til tryggingar því var tekið veð í bréfunum sjálfum. Tilgangur stærra lánsins kom ekki fram í lánasamningi og um það var ekki fjallað á fundum lánanefndar. Ekki liggur fyrir hvort greiðslumat fór fram vegna sjálfskuldarábyrgðarinnar. Í júní 2009 var gerð skilmálabreyting á láninu og var lokagjalddagi lánsins þá færður til 15. desember 2013.

Varamaðurinn fékk sjálfur lán í erlendri mynt hjá sjóðnum 11. júní 2007, jafnvirði tæplega 21 milljónar króna. Lánið var til 40 ára með mánaðarlegum afborgunum. Til tryggingar láninu var tryggingabréf í japönskum jenum, þá jafnvirði 24,8 milljóna króna, tryggt með 2. veðrétti í íbúðarhúsnæði í Reykjanesbæ. Hann fékk annað lán í erlendum myntum að jafnvirði 30 milljónir króna 14. nóvember 2007. Lánið var eingreiðslulán til þriggja ára með árlegum vaxtaafborgunum. Ekki kom fram í lánasamningnum hver tilgangur lánsins var og ekki var að finna bókun um það í fundargerð lánanefndar. Verðtryggt trygginarbréf með rekstrarveði í fasteign og rekstrartækjum var lagt fram 20. desember 2007 en á bréfinu kom fram að um væri að ræða 2. veðrétt í sama íbúðarhúsnæði og var til tryggingar láninu frá 11. júní sama ár. Enn annað félag, sem var að fullu í eigu sambýliskonu stjórnarmannsins, tók þetta lán yfir 25. febrúar 2008. Lánið var með sjálfskuldarábyrgð stjórnarmannsins. Sama félag fékk lán í erlendum myntum að jafnvirði 30 milljónir króna tveimur dögum síðar. Lánið var tryggt með sérstakri sjálfskuldarábyrgð stjórnarmannsins og skuldbreytingar voru gerðar á því í desember 2008 og júní 2009.

Í 26. gr. starfsreglna stjórnar og sparisjóðsstjóra var fjallað um fyrirgreiðslu til venslaðra aðila. Aðilar venslaðir sparisjóðnum voru aðalmenn og varamenn í stjórn, stjórnendur og lykilstarfsmenn sem teldust til fruminnherja, sem og nánir fjölskyldumeðlimir þessara aðila. Þá sagði í 28. gr. starfsreglna stjórnar og sparisjóðsstjóra að „viðskiptaerindi stjórnarmanna og fyrirtækja sem þeir [væru] í forsvari fyrir [skyldu] lögð fyrir stjórn sparisjóðsins til samþykktar eða synjunar“. Í fundargerðum stjórnar var ekki að finna bókun um samþykki stjórnar á því að lán hafi verið færð af stjórnarmanninum persónulega yfir á einkahlutafélagið 25. febrúar 2008 eða samþykki fyrir 30 milljóna króna láni sem sama félag fékk 27. febrúar 2008.

Þá komu til skoðunar fyrirgreiðslur til tveggja aðila sem tengdir voru sparisjóðsstjóra. Í hvorugu tilvikinu var gætt nægilega ákvæða útlánareglna sparisjóðsins um fyrirtöku málsins í lánanefnd, sbr. 4. gr. þeirra, eða 22. gr. starfsreglna stjórnar og sparisjóðsstjóra um það að málið skyldi taka fyrir í stjórn. Þá var þessara fyrirgreiðslna ekki getið á skýrslum sparisjóðsins til Fjármálaeftirlitsins um fyrirgreiðslur til venslaðra aðila frá þessum tíma. Fjárhæðirnar sem um ræðir eða fyrirgreiðslurnar sjálfar þóttu ekki óvenjulegar í samanburði við fyrirgreiðslur ýmissa annarra viðskiptamanna sparisjóðsins, en gæta hefði þurft reglna við lánveitingarnar. Á hinn bóginn liggur ekki fyrir hvort öðrum viðskiptamönnum sparisjóðsins buðust sambærileg kjör við skuldauppgjör.

Í öðru tilvikinu var um að ræða yfirdráttarheimild á reikningi sem veitt var í ágúst 2007 upp á rúmar 50 milljónir króna sem nýtt var til kaupa á stofnfjárbréfum í sparisjóðnum. Í skýrslu sinni fyrir rannsóknarnefndinni staðfesti lántakandinn að ekki hefði farið fram greiðslumat en sagði að veð hefði verið tekið í stofnfjárbréfunum sjálfum. Engar aðrar tryggingar voru lagðar fram fyrir fyrirgreiðslunni. Viðkomandi tókst ekki að verða við beiðni rannsóknarnefndarinnar um afrit af veðsamningi og studdu önnur rannsóknargögn nefndarinnar ekki fullyrðingu hans. Á árinu 2010 var staðan á reikningnum orðin 77 milljónir króna. Þá var gerð tillaga um uppgjör á skuldamálunum, þannig að greiddar yrðu 20 milljónir króna, en fyrir 10 milljónum yrði veitt nýtt vaxtalaust lán. Til tryggingar því yrðu sett að veði stofnfjárbréf í sparisjóðnum fyrir 10 milljónir króna sem skyldu seld þremur árum síðar til lúkningar skuldinni. Hrykki andvirði þeirra þá ekki til, skyldi afskrifa eftirstöðvarnar. Samkvæmt tillögunni skyldu aðrar eftirstöðvar, eða rúmar 47 milljónir króna, afskrifaðar endanlega. Með lögum nr. 76/2009 varð heimilt að jafna tap sparisjóðs, sem ekki yrði jafnað öðruvísi, með stofnfé hans. Í lok árs 2009 var eigið fé sparisjóðsins neikvætt um tæpa 12 milljarða króna og því ljóst að stofnfé sem veðsett var snemma á árinu 2010 var verðlítið. Við yfirtöku Landsbankans á útlánasafni Spkef sparisjóðs í mars 2011 voru eftirstöðvarnar ógreiddar og hafði ekkert verið niðurfært vegna þeirra.

Í hinu tilvikinu var um ræða yfirdrátt sem kominn var í 22 milljónir króna á árinu 2006 þegar skuldin var endurfjármögnuð með láni í erlendri mynt að jafnvirði 25 milljóna króna til fjögurra ára með árlegum afborgunum en án trygginga. Í þrígang var láninu skilmálabreytt, 2007, 2008 og 2009, þegar kom að gjalddaga fyrstu afborgana og var gjaldföllnum afborgunum og vöxtum bætt við höfuðstól lánsins. Að öðru leyti giltu sömu skilmálar; að lánið væri til fjögurra ára með árlegum afborgunum. Þegar vanskil urðu síðan á árinu 2010, á fyrsta gjalddaga samkvæmt síðustu skilmálabreytingu, var gengið frá samningi um greiðslu skuldarinnar, sem nam þá rúmum 57 milljónum króna, en lántakandinn var þá talinn eignalaus. Samkvæmt samningnum skyldu 10 milljónir greiðast við undirritun, en að fimm árum liðnum skyldu 5 milljónir króna greiðast, ef greiðslugeta væri fyrir hendi samkvæmt nýju greiðslumati. Við yfirtöku Landsbankans á útlánasafni Spkef sparisjóðs námu skuldbindingarnar tæpum 69 milljónum króna og höfðu tæpar 54 milljónir króna verið færðar í sérgreindan afskrifareikning vegna þeirra.

19.3 Fjáreignir og fjárfestingar

Í þessum kafla er fjallað almennt um fjárfestingar Sparisjóðsins í Keflavík og miðað við fjárhagsupplýsingar samstæðunnar nema annað sé tekin fram. Þá er litið til nokkurra stórra fjárfestinga sparisjóðsins sem höfðu töluverð áhrif á rekstur hans. Til að varpa ljósi á fjáreignir, fjárfestingarstefnu og starfshætti sparisjóðsins tengda þeim, er litið til þeirra reglna sem giltu í sparisjóðnum, hverjir tóku og máttu taka ákvarðanir um fjárfestingar og á hvaða forsendum þær voru gerðar. Þá er einnig fjallað um helstu dótturfélög sparisjóðsins.

19.3.1 Skipulag og reglur

Í reglum Sparisjóðsins í Keflavík um störf sparisjóðsstjórnar og sparisjóðsstjóra frá 19. desember 2003 sagði meðal annars í 9. gr. um hlutverk stjórnar:

Stjórn sparisjóðsins skal sinna stefnumótun, eftirliti og töku meiri háttar ákvarðana í rekstri sparisjóðsins. Sparisjóðsstjórn fer með málefni sparisjóðsins og skal hún annast um að stjórnskipulag rekstrar hans og starfsemi sé jafnan í réttu og góðu horfi. Stjórnin skal tryggja að nægilegt eftirlit sé með bókhaldi og meðferð fjármuna sparisjóðsins.

Sparisjóðsstjórninni ber að setja markmið varðandi áhættur í starfseminni, ákveða mörk áhættutöku og byggja upp eftirlit með áhættum í rekstrinum sbr. reglur um áhættustýringu Spkef. Þá ber stjórninni að fylgja eftir settum markmiðum. Sparisjóðurinn skal hafa tryggt eftirlit með áhættu í starfsemi sinni.140

Í 14. gr. sömu reglna var fjallað um starfsskyldur sparisjóðsstjóra og sagði meðal annars:

Sparisjóðsstjóri ber ábyrgð á daglegum rekstri sparisjóðsins. Hann fer með ákvörðunarvald í öllum málefnum sparisjóðsins sem ekki eru falin öðrum skv. lögum nr. 161/2002 eða samþykktum sparisjóðsins. Sparisjóðsstjóri stendur fyrir rekstri sparisjóðsins í samræmi við þær reglur sem settar eru af sparisjóðsstjórn skv. samþykktum hans og lögum. […]

Sparisjóðsstjóri ber ábyrgð á að greina, mæla, fylgjast með og hafa eftirlit með áhættu sem starfseminni fylgja. Honum ber að viðhalda skipuriti sem skýrt tilgreinir ábyrgðarsvið, heimildir starfsmanna og boðleiðir innan sparisjóðsins.141

Í 26. grein reglnanna var fjallað um mörk fjárfestingarheimilda:

Heimildir sparisjóðsstjóra til fjárfestingar í verðbréfum skulu vera sambærilegar við heimildir hans til lánveitinga. Stjórn sparisjóðsins getur einnig sett sérstakar reglur um mörk heimilda sparisjóðsstjóra til fjárfestingar í verðbréfum.

Fjárfesting í öðrum fasteignum en fullnustueignum skal borin upp í stjórn, sem og önnur þau fjárfestingaráform sem telja má meiriháttar eða óvenjuleg. Sem dæmi má nefna kaup á meiriháttar tölvubúnaði og fyrirhuguð opnun útibúa og afgreiðslustaða.142

Í 1. gr. reglna um lánveitingar og ábyrgðir Sparisjóðsins í Keflavík frá 19. mars 2003 sagði að sparisjóðsstjóri bæri ábyrgð á útlánum og ábyrgðarveitingum sparisjóðsins. Ákvörðun um útlán eða ábyrgðir sem voru umfram 10% af eigin fé sparisjóðsins eða hærri en 70 milljónir króna bar að tilkynna til stjórnar á næsta fundi þar á eftir. Nýjar útlánareglur tóku gildi 29. mars 2005, og hvað varðar útlánaheimildir svipaði þeim til 1. gr. reglnanna frá 19. mars 2003, nema hvað ekkert hámark var sett á fjárhæðirnar en eingöngu miðað við hlutfall af eigin fé og var það eftir sem áður 10%.143 Með vísan til 26. gr. starfsreglnanna má því ætla að sparisjóðsstjóri hafi alfarið borið ábyrgð á fjárfestingum sparisjóðsins og eingöngu þurft að tilkynna stjórn um stærri fjárfestingar en ekki að bera þær undir hana. Hvort sem um var að ræða lánveitingar eða fjárfestingar, hefur vald sparisjóðsstjóra þó verið háð takmörkunum laga, svo sem um hámark áhættuskuldbindinga.

Innan Sparisjóðsins í Keflavík var deild sem kölluð var viðskiptastofa. Hún sá um eigin viðskipti sparisjóðsins og verðbréfaviðskipti fyrir viðskiptavini, þar á meðal stofnfjármarkað sparisjóðsins eftir að hann var stofnaður. Að sögn forstöðumanns fjárhagssviðs sparisjóðsins voru eigin viðskipti sparisjóðsins í gegnum viðskiptastofu ekki umsvifamikil.144

Árið 2004 var stofnað nýtt starfssvið innan sparisjóðsins, áhættustýring og útlánaeftirlit. Framkvæmdastjóri þess og eini starfsmaður var Jón Axelsson. Hann leit svo á að hlutverk sitt hefði verið að halda utan um gögn, greina lánasöfn og upplýsa yfirmenn um gæði og áhættu sem tengdust þeim: „Ég fékk þau skilaboð að mitt hlutverk væri aðallega að greina lánasafn, stjórn væri með [fjárfestingar] á sinni könnu.“145

Takmörkuð áhersla áhættustýringar og útlánaeftirlits á áhættu af fjáreignum kom berlega í ljós í endurskoðunarskýrslu sparisjóðsins fyrir árið 2004. Þar sagði frá nýju skipuriti sparisjóðsins og að veigamesta breytingin á því væri áhættustýring og útlánaeftirlit. Skýrslan fjallar um útlán og flokkun skuldara sjóðsins en ekki um áhættustýringu varðandi fjáreignir.

Nýjar starfsreglur stjórnar og sparisjóðsstjóra voru undirritaðar 26. febrúar 2007. Ákvæði um skyldur og störf stjórnar og sparisjóðsstjóra voru uppfærð en breyttust ekki efnislega. Í nýrri 29. gr. reglnanna var fjallað um mörk fjárfestingarheimilda en þau voru breytt frá því sem áður var og ekki skilgreind með sama hætti:

Árlega skal leggja fyrir stjórn fjárfestingaráætlun, sem hluta af rekstraráætlun hvers árs. Verði veruleg frávik frá fjárfestingaáætlun skal gera stjórn grein fyrir þeim.

Ekki er að sjá af fundargerðum stjórnar sparisjóðsins að hún hafi nokkru sinni fjallað um fjárfestingaráætlun hans.146

Sparisjóðurinn skilgreindi feril áhættustýringar árið 2007 en þar var markaðsáhætta skilgreind svo:

Markaðsáhætta er einn af helstu áhættuþáttum í rekstri fjármálafyrirtækis, en markaðsáhætta er sú áhætta sem skapast vegna óvissu í flæði framtíðartekna eða – gjalda sem afleiðing af verð- og/eða vaxtabreytingum á markaði. Hér getur verið um að ræða breytingu á vaxtastigi, breytingu á hlutabréfaverði og/eða breytingu á gengi gjaldmiðla.147

Jafnframt var fjallað um verðáhættu eða hlutabréfaáhættu:

Verðáhætta tengist gengi skráðra hlutabréf í kauphöll. Hlutabréfaverð er sveiflukennt og helstu áhrifaþættir hlutabréfaverðs eru í raun framboð og eftirspurn á hverjum tíma. Þeir þættir breytast svo í takt við aðstæður í hagkerfinu ásamt því að fylgja breytingum á vaxtastigi hverju sinni. Ein leið til að minnka áhættu í hlutabréfasafni er að dreifa áhættunni, fjárfesta í mismunandi tegundum fyrirtækja til að minnka sveiflur eignasafnsins.148

Hlutverk áhættustýringar samkvæmt útboðslýsingu sparisjóðsins haustið 2007 var:

Að greina áhættu sparisjóðsins á hverjum tíma, fylgjast með og meta áhættuþætti og setja ákveðin viðmiðunarmörk einstakra áhættuþátta. Jafnframt skal áhættustýring og útlánaeftirlit fylgjast með og stýra áhættu sparisjóðsins, sem kann að hafa veruleg áhrif á afkomu hans, og sjá til þess að viðeigandi vörnum verði við komið á hverjum tíma. Áhættustýring og útlánaeftirlit skal einnig gefa aðvaranir og ábendingar þegar áhætta nálgast sett viðmiðunarmörk, og grípa þá til viðeigandi aðgerða.149

Sparisjóðurinn setti ekki sérstakar reglur um framkvæmd áhættustýringar fyrr en síðla árs 2008, í kjölfar gagnrýni Fjármaáleftirlitsins eftir skoðun þess á útlánaáhættu, markaðsáhættu og eftirliti með peningaþvætti um mitt ár 2008.150

Forstöðumaður áhættustýringar og útlánaeftirlits sagðist í skýrslu sinni fyrir rannsóknarnefndinni hafa bent stjórn sparisjóðsins á áhættu vegna verðbréfa að eigin frumkvæði. Það hefði hann gert meðal annars með því að flytja erindi og leggja fram gögn á stjórnarfundum. Hann hefði hins vegar fengið óbein skilaboð frá yfirmönnum sínum um að utanumhald um fjárfestingar væru á vegum stjórnar:

Maður sá það kannski 2007, það var þessi stóra og mikla áhætta í hlutabréfum, en ég fékk þau kláru skilaboð að það væri stefna að eiga safnið eins og það væri, Icebank eða Exista, Kista eða hvað þetta hét, það var stefnan. Ég sá það alveg strax að ég var ekkert að fara að breyta því, sama hvað ég legði fyrir.151

Aðspurður um hvort það að skilja fjárfestingaráhættu frá eftirliti áhættustýringar hefði veikt gagnsemi sviðsins sagði forstöðumaðurinn:

Jú, en maður leit á það þannig að stjórnin fylgdist mjög vel með þessum stóra áhættuþætti sem voru hlutabréfin og ég taldi þá að það væri gott mál að þeir fylgdust vel með því. […] Það segir sig sjálft að ef áhættustýring á að horfa heildstætt á hlutina, þá á þetta að vera hluti af [henni]. Það að leggja þennan lista fyrir stjórnina var hluti af því að benda á að það væri ekki bara útlánaáhætta, það væri önnur áhætta til staðar, stór og vaxandi.152

Í skýrslu Fjármálaeftirlitsins frá september 2008, sem unnin var eftir vettvangsathugun hjá Sparisjóðnum í Keflavík það sumar, kom fram að sparisjóðurinn hefði ekki sett reglur um áhættustýringu og að engin viðmið hefðu verið um hámark einstakra verðbréfaútgefenda í verðbréfasafni sparisjóðsins eða takmarkanir á kaupum á óskráðum bréfum. Engin kerfi hefðu verið til staðar hjá sparisjóðnum til að halda utan um markaðsáhættu og mat á eignum var ekki uppfært reglulega. Engin aðferðafræði var til við að meta áhættu, t.d. álagspróf eða vágildisgreining. Verðmat á óskráðum hlutabréfum í eigu sparisjóðsins væri óraunhæft og villandi. Eignir væru ofmetnar og fyrirséð að sparisjóðurinn þyrfti að færa niður eignir um verulegar fjárhæðir. Að mati Fjármálaeftirlitsins var utanumhald, yfirsýn og eftirlit með fjárfestingum óviðunandi og yfirsýn yfir áhættur ófullnægjandi.153

Sparisjóðsstjóri hafði eftirfarandi að segja um áherslur stjórnar og sparisjóðsstjóra í eftirliti með fjárfestingum:

Við fylgdumst náttúrulega náið með þessum fjárfestingum, bæði Icebank og Exista. Aðrar fjárfestingar voru bara lítilræði í samanburði við það. Við vorum bara með okkar áhættustýringu sem fjallaði um þetta og síðan var stöðugt verið að fylgjast með. Það er ekki eins og við höfum ekkert vitað af þessu fyrr en um áramót, það var fylgst daglega með þessum félögum.154

Í skýrslu sinni fyrir rannsóknarnefndinni gat fyrrverandi stjórnarformaður, Þorsteinn Erlingsson, ekki með góðu móti lýst eftirliti með fjárfestingum og áhættustýringu:

Spyrjandi: Var það ekki rætt hvernig ætti að verja þessum fjárfestingum, í hvaða félögum ætti að kaupa og svo framvegis?

Þorsteinn Erlingsson: Jú, auðvitað var þetta rætt og út og suður, já.

Spyrjandi: Og hver var niðurstaðan úr þeim umræðum?

Þorsteinn Erlingsson: Ég get ekkert verið að segja einhverja niðurstöðu.155

Stjórnarformaður sparisjóðsins gat að öðru leyti ekki upplýst rannsóknarnefndina frekar um atriði sem vörðuðu fjárfestingar sparisjóðsins. Gefur þetta tilefni til þess að ætla að eftirlit stjórnar með áhættu tengdri verðbréfum og öðrum fjárfestingum hafi verið takmarkað.

19.2.2 Fjáreignir

Fjáreignir eru af þrennum toga í þessari umfjöllun; hlutir í hlutdeildarfélögum, hlutabréf og verðbréf með breytilegum tekjum, og markaðsskuldabréf og önnur skuldabréf með föstum tekjum. Jafnan er fjallað um þær tvær fyrstnefndu saman sem eignarhluti. Fjáreignir voru minnst 7% af eignasafni Sparisjóðsins í Keflavík árið 2003 og mest 23% árin 2006 og 2007. Fjáreignir námu 22 milljörðum króna í árslok 2007.

Frá árinu 2005 var hlutfall fjáreigna af eigin fé Sparisjóðsins í Keflavík svipað og í öðrum sparisjóðum en í árslok 2008 varð það mun hærra. Það má rekja til þess að Sparisjóður Mýrasýslu og Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis, sem vega þungt í samtölu annarra sparisjóða, voru með neikvætt eigið fé. Frá árinu 2005 voru fjáreignir hærra hlutfall af heildareignum Sparisjóðsins í Keflavík en í öðrum sparisjóðum. Hins vegar vógu eignarhlutar mun þyngra í eignasafni Sparisjóðsins í Keflavík en annarra sparisjóða, allt frá árinu 2001. Almennt eru meiri gengisbreytingar á eignarhlutum en skuldabréfum, sem hefur áhrif á áhættu af fjáreignum á rekstur sparisjóðs.

Vöxtur fjáreigna var einkum drifinn af hlutabréfum og verðbréfum með breytilegum tekjum en skráð hlutabréf á markaði hækkuðu mikið frá 2005 til 2007 og naut sparisjóðurinn góðs af. Með upptöku alþjóðlegra reikningsskilastaðla (IFRS) árið 2007 voru fjáreignir færðar upp um 546 milljónir króna í upphafi árs. Á sama ári tók sparisjóðurinn að færa óskráðar fjáreignir á gangverði, en áður höfðu þær verið færðar með hlutdeildaraðferð eða á kaupverði. Sú breyting hafði í för með sér virðishækkanir bréfa á bókum sparisjóðsins og stækkun fjárfestingasafnsins. Vöxtur fjáreigna var að mjög takmörkuðu leyti drifinn af nýfjárfestingum. Árið 2006 jukust fjáreignir til að mynda um 6,4 milljarða króna en þar af voru 550 milljónir króna vegna nýfjárfestinga umfram sölu verðbréfa. Ári síðar var fjárfest fyrir rúman milljarð króna.156 Skuldabréf voru lítill hluti fjáreigna sparisjóðsins allt til ársins 2008 þegar þau hækkuðu um 2,3 milljarða króna og námu 3,7 milljörðum í árslok.

Sparisjóðurinn í Keflavík, líkt og flestir aðrir sparisjóðir, naut góðs af gengisþróun á verðbréfamörkuðum og því að færa óskráðar fjáreignir á gangvirði, enda hækkaði hlutfall fjáreigna af eigin fé stöðugt í flestum sparisjóðum frá og með árinu 2004, og í mörgum þeirra voru fjáreignir hærra hlutfall eigin fjár en í Sparisjóðnum í Keflavík.

19.3.3 Tekjur af fjáreignum

Tekjur af fjáreignum eru gengishagnaður vegna hlutabréfa og verðbréfa með breytilegum tekjum, verðbreytingar skuldabréfa, hlutdeild í afkomu hlutdeildarfyrirtækja og arðstekjur. Vaxtatekjur af skuldabréfum teljast ekki til tekna af fjáreignum og færast með öðrum vaxtatekjum. Ávöxtun er reiknuð sem hlutfall tekna af fjáreignum á einu ári af meðalstöðu hlutabréfa og verðbréfa með breytilegum tekjum og hluta í hlutdeildarfyrirtækjum á árinu.157

Söluhagnaður fjáreigna Sparisjóðsins í Keflavík var yfirleitt færður meðal gengishagnaðar en ekki meðal „annarra tekna“ í ársreikningum, eins og tíðkaðist hjá flestum öðrum sparisjóðum. Þetta skekkir samanburðarmyndir, þar sem tekjur Sparisjóðsins í Keflavík af fjáreignum virðast meiri en í öðrum sparisjóðum. Þetta skiptir sérstaklega miklu máli á árinu 2003 þegar Sparisjóðurinn í Keflavík hafði 665 milljóna króna söluhagnað af hlut í Kaupþingi Búnaðarbanka hf. Þá var söluhagnaður af eignarhlut sparisjóðsins í Alþjóða líftryggingarfélaginu 132 milljónir króna árið 2005.

Árið 2001 var hagnaður af verðbréfaeign sparisjóðsins nær eingöngu vegna þess að eignarhlutur hans í Kaupþingi var færður úr fjárfestingabók í veltubók og farið að færa hann á gangvirði í stað kaupverðs. Á árinu 2002 voru tekjur af fjáreignum litlar en árleg ávöxtun fjáreigna Sparisjóðsins í Keflavík var með mjög góðu móti frá 2003 til og með 2006 þegar hún var að meðaltali tæplega 59%. Ávöxtun sparisjóðanna var meiri en hækkun íslensku úrvalsvísitölunnar sem hækkaði aðeins um 16% árið 2006 og lækkaði um 1% árið 2007.158

Áhrif fjáreigna á eigið fé Sparisjóðsins í Keflavík voru töluverð. Á mynd 14 gefur að líta uppsafnaða afkomu fjáreigna sparisjóðsins á verðlagi ársins 2011 og er því ekki um að ræða tölur á verðlagi hvers árs eins og annars staðar í umfjölluninni. Uppsöfnuð afkoma af fjáreignum áranna 2001–2007 á föstu verðlagi ársins 2011 nam 18,2 milljörðum króna en á sama tíma stækkaði varasjóður um 14,7 milljarða króna, miðað við sömu forsendur. Frá 2001 til 2007 voru tekjur af fjáreignum því meiri en stækkun varasjóðs. Á árunum 2008 og 2009 var tap af fjáreignum 16 milljarðar króna á verðlagi ársins 2011 eða um 2,5 milljörðum minna en hagnaður fjáreigna síðustu sjö ára þar á undan.

Stjórnendur sparisjóðsins gerðu sér fyllilega grein fyrir því hvaða þýðingu tekjur af fjárfestingarstarfsemi sparisjóðsins höfðu fyrir rekstur hans:

Allur hagnaður eða tekjur komu frá fjármálastarfsemi, það held ég að hafi verið víðar, m.a. hjá tryggingafélögunum. Menn sáu að það kom ekkert út úr neinu nema fjármálabraskinu, þetta er bara heildarmyndin í þessu.159

Þá benti endurskoðandi á stærð og þýðingu fjáreigna fyrir rekstur sparisjóðsins í endurskoðunarskýrslum. Í skýrslu vegna ársins 2006 benti endurskoðandi á að „hefðbundinn“ rekstur sparisjóðsins stæði ekki undir kostnaði:

Í síðustu bréfum okkar höfum við sett fram kennitölu þar sem önnur rekstrargjöld eru sett í samhengi við hreinar vaxtatekjur. Fyrir þremur árum reyndust rekstrargjöldin í fyrsta sinn hærri en vaxtajöfnuðurinn og var munurinn 11,2% það ár. Í fyrra var munurinn 5,5% en í ár er munurinn 95%, þ.e.a.s. hreinar vaxtatekjur eru ekki nema rétt rúmlega helmingur af öðrum rekstrargjöldum. Hafa ber þó í huga að auknar launagreiðslur vegna kaupauka skekkja hlutfallið, en þróunin er eftir sem áður augljós í þá átt að ekki er lengur hægt að reka sjóðinn með hreinni útlánastarfsemi.160

Afkoma sparisjóðsins af fjáreignum var iðulega svipuð eða meiri en afkoma af rekstri sparisjóðsins fyrir skatta, sem kemur heim og saman við það sem vitnað er til úr skýrslum starfsmanna sparisjóðsins hér frama. Tap ársins 2008 var að hluta til vegna fjáreigna en að minni hluta vegna afskrifta af útlánum. Afskriftir útlána voru hins vegar meginástæða taps ársins 2009.

19.3.4 Umfjöllun um einstakar eignir og stærstu niðurfærslur

Stærstu fjáreignir Sparisjóðsins í Keflavík voru hlutir í Exista hf., Kistu – fjárfestingarfélagi ehf., VBS Fjárfestingarbanka hf., Sparisjóðabanka Íslands hf., Saga Capital Fjárfestingarbanka hf. og SP-Fjármögnun hf.

Tap af Exista hf., Kistu – fjárfestingarfélagi ehf., Sparisjóðabanka Íslands hf. og VBS Fjárfestingarbanka hf. var 15,4 milljarðar króna árið 2008, eða 81% af tapi sparisjóðsins fyrir skatta á sama ári. Tap af þessum fjórum eignum jafngilti um 60% af eigin fé sparisjóðsins í árslok 2007. Annað tap sem vert er að nefna á árinu 2008 var tap af hlut sparisjóðsins í SP-Fjármögnun hf. upp á 806 milljónir króna, Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis sem nam 469 milljónum króna, tap af Byr sparisjóði sem nam 376 milljónum króna og 176 milljóna króna tap af eignarhlut í Saga Capital Fjárfestingarbanka hf.

Árið 2008 var gengisfall íslensku krónunnar sparisjóðnum hagfellt. Gjaldeyrismunur ársins nam 6,5 milljörðum króna en hefði hans ekki notið við, hefði tap af fjáreignum árið 2008 orðið töluvert meira en raun bar vitni.

Í lok árs 2005 átti Sparisjóðurinn í Keflavík 3,8% í Exista hf., ári síðar 2,3%, tæpt 1% í lok árs 2007, 0,2% í lok árs 2008 og 0,8% í lok árs 2009. Þetta stafaði meðal annars af því að sparisjóðurinn seldi hluta eignar sinnar í Exista hf. yfir í Kistu – fjárfestingarfélag ehf. á árunum 2006 og 2007. Gengi Exista hf. var hæst í júlí 2007, rúmlega 40 krónur á hlut, en var um 22,5 krónur á hlut í lok árs 2006. Í lok árs 2007 var gengið 19,75 krónur á hlut. Því varð lítilsháttar gengislækkun milli ársloka 2006 og 2007 en sparisjóðurinn bókaði um 1,5 milljarða króna í hagnað af bréfunum á árinu 2007. Á fyrri hluta árs 2007 seldi sparisjóðurinn Kistu – fjárfestingarfélagi ehf. hlutabréf í Exista hf. fyrir 4,6 milljarða króna, en þar af var helmingur greiddur í reiðufé og helmingur með hlutabréfum í Kistu – fjárfestingarfélagi ehf. Þessi sala myndaði tekjur í sparisjóðnum. Með gengisbreytingum á hlutabréfum í Exista hf. frá miðju ári 2007 til ársloka tapaði fjárfestingarfélagið hins vegar töluverðu á bréfunum. Tap Sparisjóðsins í Keflavík af Kistu – fjárfestingarfélagi ehf. var rúmir 2 milljarðar króna á árinu. Gengi Exista hf. hélt áfram að falla á árinu 2008 og tapaði sparisjóðurinn því enn frekar á þeim bréfum, sem og í Kistu – fjárfestingarfélagi ehf. Heildartap af þessum tveimur eignum á árinu var 7,7 milljarðar króna.

Tap Sparisjóðsins í Keflavík á Sparisjóðabankanum var 6,1 milljarður króna 2008. Í desember 2007, þegar Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis og Byr sparisjóður seldu stóran hluta eignar sinnar í Sparisjóðabankanum, jók Sparisjóðurinn í Keflavík við hlut sinn. Fyrir kaupin átti sparisjóðurinn um 17,4% hlut en keypti 3% til viðbótar.161 Á árinu 2007 hafði sparisjóðurinn töluverðan gengishagnað af Sparisjóðabankanum. Er það meðal annars vegna þess að á árinu sameinuðust Sparisjóður Vestfirðinga og Sparisjóður Húnaþings og Stranda Sparisjóðnum í Keflavík en samtals áttu þeir um 5,2% eignarhlut. Þegar þessir eignarhlutir voru færðir á gangvirði varð mikill gengishagnaður.

Sparisjóðabanki Íslands hf. var meðal stærstu eigenda Exista hf. en minnkaði hlut sinn í félaginu smám saman frá árinu 2006, meðal annars með því að selja Kistu – fjárfestingarfélagi ehf. hlutabréfin. Í lok árs 2005 átti bankinn 5,8% í Exista hf., ári síðar 3,5% og 2,5% í lok árs 2007. Stór hluti af eigin fé Sparisjóðsins í Keflavík var bundinn í þessu eina félagi, Exista hf., í gegnum beina eign hans sem og óbeina eign í gegnum Kistu – fjárfestingarfélag ehf. og Sparisjóðabanka Íslands hf.

Eign sparisjóðsins í Exista hf. var orðin rúmlega 90% af eigin fé sparisjóðsins ef horft er bæði til beinnar eignar hans og þess sem hann átti í gegnum Kistu – fjárfestingarfélag ehf. og Sparisjóðabanka Íslands hf. í lok árs 2006. Þetta breyttist mjög í árslok 2007 að mestu vegna stofnfjáraukningar og sameiningar sparisjóðsins við tvo aðra sjóði. Með hærra eigin fé lækkaði hlutfall bréfa í Exista hf. af eigin fé sparisjóðsins. Hlutabréf í félaginu héldu þó áfram að hafa mikil áhrif á rekstur sparisjóðsins. Fyrrverandi forstöðumaður áhættu- og útlánastýringar sparisjóðsins talaði um að áhætta tengd þessum þremur félögum hefði verið „risaáhætta“ í sparisjóðnum.162

Exista hf. og Kista – fjárfestingarfélag ehf.

Sparisjóðurinn í Keflavík var meðal þeirra sparisjóða sem stofnuðu SP-eignarhaldsfélag hf. sem var eignarhaldsfélag sjö sparisjóða um eign þeirra í Kaupþingi hf. Félagið breytti síðar um nafn og hét Meiður ehf. og svo Exista ehf. (sem varð síðar hlutafélag, hf.). Virði Meiðs hækkaði töluvert fram til ársins 2004 vegna hækkana á virði Kaupþings Búnaðarbanka hf. Hlutabréf í bankanum voru 60% af eignum Meiðs hf. í árslok 2003 og 78% ári síðar.163 Vægi þessara bréfa var meginástæða þess að Fjármálaeftirlitið taldi að flokka skyldi Meið ehf. sem félag tengt fjármálastarfsemi.164 Meiður breytti nafni sínu í Exista á fyrri hluta árs 2005 og var nafnbreytingin sögð haldast í hendur við þáttöku félagsins í stórum verkefnum bæði á Íslandi og erlendis. Stuttu síðar varð Exista meðeigandi að sérstöku félagi, Skiptum ehf., til að halda utan um gerð tilboðs í Landssíma Íslands. Skipti ehf. eignaðist hlut ríkisins í Landssímanum með hæsta tilboði í hlutinn. Á árinu 2006 eignaðist Exista ehf. Vátryggingafélag Íslands og Lýsingu. Í febrúar 2007 keypti Exista hf. 15,5% í finnska tryggingarfélaginu Sampo Oyj.165

Undanfari breytinga á starfsemi Exista hf. var breytt eignarhald í félaginu. Það hafði upprunalega verið stofnað til þess að halda utan um eignarhlut sparisjóða og Sparisjóðabankans í Kaupþingi. Samkvæmt ársreikningi Meiðs ehf. fyrir árið 2003 voru tveir hluthafar með stærri en 10% hlut í félaginu í árslok; Bakkabræður Holding S.a.r.l. (59,1%) og Kaupþing Búnaðarbanki hf. (19,2%).

Eignarhlutur Sparisjóðsins í Keflavík í Exista hf. var 3,8% í lok árs 2005. Á stjórnarfundi sparisjóðsins 12. desember 2005 var samþykkt að taka þátt í hlutafjáraukningu í félaginu. Áætlað markaðsvirði aukningarinnar var 20 milljarðar króna og hlutur sparisjóðsins í henni 762 milljónir króna. Í endurskoðunarskýrslu vegna ársins 2005 var varað við stórri stöðu í félaginu:

Eignir Exista hf. eru að stórum hluta til eignarhlutar í nokkrum íslenskum hlutafélögum sem skráð eru á markaði. Þykir okkur rétt að benda á að töluverð markaðsáhætta fylgir eigninni sem getur haft mikil áhrif á niðurstöður rekstrarreiknings Sparisjóðsins lækki verð þessara skráðu félaga á hlutabréfamarkaði.166

Á stjórnarfundi 25. september 2006 komu fram áhyggjur af hárri stöðu sparisjóðsins í Exista hf. og var sparisjóðsstjóra falið að skoða hugsanlega sölu á hluta bréfanna. Stuttu síðar fékk sparisjóðsstjóri heimild til að selja 25% eignar sparisjóðsins í Exista hf.167 Á fundi stjórnar Sparisjóðsins í Keflavík 27. nóvember 2006 fékk sparisjóðsstjóri umboð stjórnar til að skrifa undir stofnskjöl fyrir Kistu – fjárfestingarfélag ehf. og skrá sparisjóðinn fyrir einum milljarði króna í hlutafé. Sparisjóðurinn lagði fram hlutafé í félagið með hlutabréfum í Exista hf. fyrir 931 milljón króna. Fjárfestingarfélagið fékk lán hjá Kaupþingi banka hf. til þess að kaupa fleiri hluti í Exista hf. af eigendum sínum. Sparisjóðurinn í Keflavík seldi félaginu bréf fyrir sem nam 931 milljón króna í lok desember 2006. Í lok árs 2006 nam eignarhlutur sparisjóðsins í Exista hf. 2,3% en eignarhlutur hans í Kistu – fjárfestingarfélagi ehf. var á sama tíma 27,9%. Í endurskoðunarskýrslu fyrir árið 2006 var fjallað um áhættu sparisjóðsins tengda Exista hf.:

Samkvæmt útreikningi á eiginfjárhlutfalli sjóðsins eru eignir í veltubók rúmlega 7,3 milljarðar króna eða 15,3% af heildareignum sjóðsins. Af þessum eignum eru tæplega 5,6 milljarðar uppfærð eign Sparisjóðsins í Exista hf. Á árinu var hluti eignar sjóðsins í Exista hf. seldur til Kistu fjárfestingafélags ehf., að hluta til með skiptum á hlutabréfum í Kistu. Eignarhluti sjóðsins í Kistu fjárfestingafélagi er 27,85% og er hann færður í fjárfestingabók samtals að fjárhæð 930,8 milljónir króna. Það má því vera ljóst að umtalsverð markaðsáhætta er fólgin í svo stórri eign en breytingar á virði hennar eru færðar yfir rekstrarreikning. Sem dæmi má nefna að við 5% verðlækkun á hlutabréfum í Exista hf. gjaldfærast tæplega 280 milljónir sem gengistap af eign sjóðsins í veltubók sem er um 43% af hreinum vaxtatekjum ársins 2006. Þá eru ótalin áhrif á verðmæti eignarhluta sjóðsins í Kistu og áhrif á hlutdeild sjóðsins í afkomu Icebank hf. sem er einnig stór hluthafi í Exista hf. Frá áramótum til þessa dags hefur markaðsverðmæti hlutabréfanna hins vegar hækkað um 12,9%, þannig að ljóst má vera að áhætta sú sem lýst er hér er raunveruleg. Stjórn sjóðsins er því hvött til árverkni og þess að setja sér markmið í sambandi við áhættustýringu.168

Um fjárfestingar í Exista hf. og Kistu – fjárfestingarfélagi ehf. sagði fyrrverandi sparisjóðsstjóri í skýrslu sinni fyrir rannsóknarnefndinni:

Stefnan var fyrst og fremst varðandi þessar tvær fjárfestingar, og hún var sú að það væri ekki tímabært að selja í Exista og þar með er Kista inni í því máli og hins vegar síðan sú stefna að efla Sparisjóðabankann. [Stjórnin] mat það þannig [að það væri ekki tímabært að selja í Exista]. […] Þegar þetta var orðinn stofnfjársjóður [breytt úr ábyrgðarmannasjóði í stofnfjársjóð] vildu stofnfjáreigendur fá hagnað, ekki fengu þeir hagnað af stofnfjárbréfunum út úr reglulegri starfsemi sparisjóðsins.169

Á árinu 2007 skuldsetti Kista – fjárfestingarfélag sig frekar og fékk lán frá Kaupþingi banka hf., Glitni banka hf. og Straumi-Burðarási Fjárfestingarbanka hf. til þess að kaupa eignarhluti í Exista hf. af eigendum sínum. Í mars 2007 keypti Kista bréf í Exista hf. af Sparisjóðnum í Keflavík fyrir 1,8 milljarða króna og í júní 2007 fyrir 2,8 milljarða króna. Helmingur kaupverðsins í hvoru tilfelli fyrir sig var greiddur með hlutabréfum í Kistu – fjárfestingarfélagi ehf. og hinn helmingurinn í reiðufé. Í árslok 2007 nam eign Sparisjóðsins í Keflavík í Exista hf. tæpu 1% og í Kistu 34,4%, en þá hafði bæst við hlutur Sparisjóðs Vestfirðinga og Sparisjóðs Húnaþings og Stranda í Kistu. Í lok árs 2008 var eignarhlutur Sparisjóðsins í Keflavík í Exista hf. 0,2% og ári síðar nam hann 0,8%.170

Gengi Exista hf. náði hámarki í júlí 2007 þegar það var um 40 krónur á hlut. Í árslok sama ár var það 19,75 krónur á hlut. Í byrjun árs 2008 fór að halla undan fæti hjá Kistu en félagið var mjög skuldsett og hafði lagt bréf í Exista hf. að veði fyrir skuldunum. Með fallandi gengi hlutabréfanna fóru lánardrottnar fram á auknar tryggingar fyrir lánunum. Á stjórnarfundi Sparisjóðsins í Keflavík 25. janúar 2008 var tekið fyrir erindi um ábyrgðir á skuldum Kistu við Kaupþing, Glitni og Straum-Burðarás Fjárfestingabanka hf. Ábyrgðirnar voru samtals 3,7 milljarðar króna og liggja þær fyrir með fundargerðinni. Dagsetning ábyrgðaryfirlýsinganna er 30. desember 2007 og giltu þær frá þeim degi til 22. febrúar 2008. Þegar fyrrverandi sparisjóðsstjóri var inntur svara við því hvers vegna ábyrgðaryfirlýsingarnar hefðu verið dagsettar aftur í tímann sagði hann:

Þetta mál var lengi búið að vera í umræðu í stjórninni áður en þetta er gert. […] Þetta var mál sem var algjört forgangsmál. Ég skal ekkert segja um hvað var bókað en þetta var búið að vera lengi á dagskrá hvort við þyrftum að gera þetta og við streittumst lengi á móti.171

Ábyrgðirnar voru 24,2% af eiginfjárgrunni sparisjóðsins á þeim tíma sem þær voru veittar. Ábyrgðir við Glitni banka hf. og Straum-Burðarás Fjárfestingarbanka hf. voru endurnýjaðar þó nokkrum sinnum, síðast 15. júní 2008. Þá gilti 860 milljóna króna ábyrgð gagnvart Straumi-Burðarás til 15. október 2008 og 640 milljóna króna ábyrgð til handa Glitni til 30. desember 2008. Áhætta sparisjóðsins af bréfum í Exista hf. var því meiri en bein eign gaf til kynna. Takmörkuð áhætta eigenda af einkahlutafélagi er lítil þegar og upp að því marki sem eigendur ábyrgjast skuldbindingar einkahlutafélagsins.

Ábyrgðin til Kaupþings banka hf. var ekki endurnýjuð vegna þess að Sparisjóðurinn í Keflavík, líkt og aðrir eigendur Kistu, tók á sig hluta skulda fjárfestingarfélagsins við Kaupþing banka hf. Á stjórnarfundi Sparisjóðsins í Keflavík 12. febrúar 2008 kynnti sparisjóðsstjóri 10 milljarða króna hlutafjáraukningu í Kistu – fjárfestingarfélagi ehf. sem myndi að hluta greiðast með yfirtöku lána. Sparisjóðurinn tók yfir lán sem námu 1,2 milljörðum króna og lagði jafnháa fjárhæð til sem hlutafé í reiðufé.

Á stjórnarfundi sparisjóðsins 20. júní 2008 var sparisjóðsstjóra veitt heimild til að nýta forkaupsrétt í annarri hlutafjáraukningu Kistu á árinu og jók sparisjóðurinn hlutafé sitt um 514 milljónir króna. Þá um sumarið rakti sparisjóðsstjóri fyrir stjórn aðdraganda að skilyrtum samningi milli Kistu – fjárfestingarfélags ehf. og Kaupþings banka hf. þar sem Kista myndi selja um 48% eignarhluta síns í Exista hf. til bankans. Skilyrði fyrir því að samningurinn gengi eftir var að samruni Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis og Kaupþings banka hf. yrði að veruleika. Stjórn Sparisjóðsins í Keflavík samþykkti samninginn fyrir sitt leyti en samruninn gekk ekki eftir.172

Stjórnin fjallaði ekki um þriðju hlutafjáraukningu Kistu – fjárfestingarfélags ehf. á árinu 2008 þegar sparisjóðurinn jók hlutafé sitt í félaginu um 825 milljónir króna í júlí það ár. Í október 2008 gekk Straumur-Burðarás að ábyrgð sem fjárfestingarbankanum hafði verið veitt en það gerði Glitnir banki ekki og var fjallað um það á stjórnarfundi sparisjóðsins 9. janúar 2009.

Tap sparisjóðsins á Exista hf. og Kistu – fjárfestingarfélagi ehf. nam 7,7 milljörðum króna á árinu 2008 sem var 40% af tapi sparisjóðsins fyrir skatta. Fyrrverandi sparisjóðsstjóri taldi ekki mikla áhættusamþjöppun hafa verið í eigninni í Exista þó hún hefði verið svo stórt hlutfall af eigin fé sparisjóðsins:

Ég er ekki sammála að það hafi verið í einni körfu. Hvað var Exista eignin í mörgum félögum? Kaupþing, Skipti, norsku tryggingarfélögin, ég man ekki allt sem Exista átti í. Ef við hefðum t.d. selt og keypt önnur bréf, hvaða félög stóðu upp úr eftir hrunið annað en Össur og Marel? Ég viðurkenni það að maður hefði hagað sér öðruvísi í sambandi við þetta, hefði maður vitað hvað var að gerast en þegar menn voru að fara yfir þetta á þessum tíma og vissu ekki að það var eitthvað hrun framundan þá var þetta metið á þennan hátt, að þarna væri áhættan verulega dreifð með því að eiga áfram í Exista. Menn eru að tala um að allt hafi farið fjandans til þarna suður frá þegar herinn fer og það er náttúrulega alrangt, því að þegar nýsköpunin verður í sjávarútvegi 1982 eða eitthvað svoleiðis og Byggðasjóður er settur á fót, þá er Keflavík ekki inni í því. Við erum sett með Reykjavík og höfum ekki aðgang að Byggðasjóði og þ.a.l. var okkur sagt að fara bara upp á völl, það yrði engin nýsköpun í sjávarútvegi á þessu svæði. Það leggst gjörsamlega af og allir fara upp á völl. Þetta er fyrsta áfallið sem við verðum fyrir og vegur að mínu mati þyngst í því sem gerðist þarna suður frá. Síðan þegar var búið að hysja upp um allt saman fer herinn og þá finnur kannski enginn fyrir því fyrst því það er svo mikil þensla alls staðar þar til kreppan kemur og þá finna menn fyrir því að það er engin atvinna og ekkert að gerast þarna. Þannig að við sem vorum þarna í sparisjóðnum vissum nákvæmlega hvað gerðist þegar sjávarútvegurinn var lagður af og við treystum ekkert svæðinu sérstaklega vel fyrir auknum lánveitingum. Þar af leiðandi höfðum við ekkert mikinn áhuga á því að vera að afsetja mikið af eignum til að setja í útlán meðan ekki var meiri fótfesta á svæðinu en var þegar sjávarútvegurinn var farinn.173

Þó að Exista hf. hafi verið eignarhaldsfélag utan um mörg félög voru eignirnar þó aðallega fjármálafyrirtæki; lánastofnanir og tryggingafélög. Aðrar stórar fjárfestingar sparisjóðsins voru í fyrirtækjum með sams konar starfsemi, t.d. Sparisjóðabanka Íslands hf., VBS Fjárfestingarbanka hf. og SP-Fjármögnun hf. Áhættudreifing fjárfestinga sparisjóðsins var því takmörkuð.

Sparisjóðabanki Íslands hf.

Sparisjóðurinn í Keflavík var meðal stærri hluthafa í Sparisjóðabanka Íslands en hann átti 11,6% í bankanum í árslok 2005. Með sameiningu við Sparisjóð Ólafsvíkur á árinu 2006 varð eignarhlutur sparisjóðsins í bankanum 12,2%. Samruni við Sparisjóð Vestfirðinga og Sparisjóð Húnaþings og Stranda ásamt kaupum á hlutafé í Sparisjóðabankanum á árinu 2007 stækkaði eignarhlutinn í 20,4%. Geirmundur Kristinsson, sparisjóðsstjóri Sparisjóðsins í Keflavík, var formaður bankaráðs Sparisjóðabankans frá 2001 og fram að falli bankans í mars 2009.

Á síðari hluta árs 2005 ræddi stjórn Sparisjóðsins í Keflavík ýmsa valkosti um breytingu á eignarhaldi Sparisjóðabankans sem voru kynntar í bréfi frá bankanum og Sambandi íslenskra sparisjóða. Stjórninni fannst greinilegt af bréfinu að Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis vildi losa um eignarhald sitt á bankanum. Í bréfinu komu einnig fram punktar um hvaða áhrif eignarhald á bankanum hefði á eiginfjárgrunn og útlánagetu sparisjóðanna. Ef breytingar yrðu á eignarhaldinu myndi útlánageta sparisjóðakerfisins aukast um 50 milljarða króna.174

Ekkert meira var bókað um eignarhald á Sparisjóðabankanum í fundargerðum stjórnar Sparisjóðsins í Keflavík fyrr en 31. júlí 2007. Þá greindi sparisjóðsstjóri frá fundi fulltrúa Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, Byrs sparisjóðs og Sparisjóðsins í Keflavík þar sem fram kom tillaga um að sjóðirnir seldu allir hlut sinn í bankanum sem á þessum tíma nam um 70%. Stjórn sparisjóðsins lagði áherslu á að væntanlegu söluandvirði yrði ráðstafað í önnur sambærilega ábatasöm fjárfestingartækifæri. Sparisjóðsstjóra var veitt heimild til að halda áfram viðræðum um söluna.

Á þessum áætlunum varð viðsnúningur því á fundi stjórnar sparisjóðsins 10. september sama ár var sparisjóðsstjóra veitt umboð til að kaupa 3% hlut í Sparisjóðabankanum. Kaupverð eignarhlutarins var 950 milljónir króna:

Sparisjóðirnir koma allir saman og mynda sér framtíðarstefnu um bankann og það er það sem bankinn verður að þarna. Þetta var samþykkt af eigendum bankans að gera þetta svona. […] Það var sér vettvangur um þetta þannig að það voru allir eigendur kallaðir saman og þeir mótuðu framtíðarstefnuna fyrir bankann. Í þessari framtíðarstefnu fólst það m.a. að taka aðra aðila inn. Það var alveg á hreinu og Sparisjóðurinn í Keflavík út af fyrir sig var samþykkur því að þetta væri svona eins og lokastefnan var samþykkt, en að öðru leyti komum við ekki nálægt því. Það er ekki rétt að við höfum ekki þurft á Sparisjóðabankanum að halda, við þurftum hann nauðsynlega. Þetta var að mjög litlum hluta sem við náðum að fjármagna okkur gegnum þessa erlendu banka en fyrir öll dagleg viðskipti var Sparisjóðabankinn nauðsynlegur. Þannig að þegar kemur að því að Spron og Byr ákveða að selja sig út úr bankanum og fara að gera þetta sjálfir þá stöndum við frammi fyrir þessu í Keflavík: Eigum við að reyna að selja eða eigum við að halda áfram? Og stjórn sparisjóðsins ákvað að halda áfram í bankanum og leggja þá áherslu á það að gera hann hæfari til að sinna bæði okkur og öðrum sparisjóðum. Það er það sem gerist í grófum dráttum. […] Þessi umræða var hvort við ættum hugsanlega að selja eða halda áfram en það kemur líka þarna inn í mat á það að ef [Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis, Byr sparisjóður og Sparisjóðurinn í Keflavík] ætluðu að selja að þá myndi hugsanlega lítið fást út úr þessu fyrir okkur, það var álit á þeim tíma.175

Í árslok 2006 átti Sparisjóðurinn í Keflavík 12,2% hlut í Sparisjóðabankanum en þeir tveir sparisjóðir sem hann sameinaðist á árinu 2007 áttu samtals 5,2% eignarhlut. Fyrir kaupin átti sparisjóðurinn því 17,4% eignarhlut, en reikningslegur samruni sparisjóðanna miðaðist við 30. júní 2007. Með kaupum á 3% eignarhlut til viðbótar var heildareign sparisjóðsins í bankanum 20,4%. Þessir eignarhlutar koma fram á hlutafjármiðum sem skilað er til ríkisskattstjóra. Í endurskoðunarskýrslu Sparisjóðsins í Keflavík vegna ársins 2007 sagði hins vegar að sparisjóðurinn ætti 19,44% í Icebank hf. í árslok og þegar kaupsamningur frá því í október 2007 yrði uppfylltur yrði eignarhlutur sameinaðs sjóðs rúm 20%. Það þýddi að bankinn yrði hlutdeildarfélag sparisjóðsins og því þyrfti að bakfæra gengishækkanir vegna félagsins. Með kaupsamningum í október 2007 samþykkti sparisjóðurinn að kaupa 3% í bankanum og því óljóst til hvaða samnings var verið að vísa í endurskoðunarskýrslunni. Sparisjóðabankinn var hvorki færður sem hlutdeildarfélag í ársreikningi 2007 eða 2008.

Þá má geta þess að Sparisjóðurinn í Keflavík og Sparisjóður Mýrasýslu gerðu samning um kaup- og sölurétt á 45,6 milljón hlutum í Sparisjóðabankanum af Byr sparisjóði og Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis (samtals 91,2 milljónir hluta). Sparisjóðurinn í Keflavík og Sparisjóður Mýrasýslu áttu kauprétt gagnvart hinum tveimur en Byr sparisjóður og Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis sölurétt gagnvart Sparisjóðnum í Keflavík og Sparisjóði Mýrasýslu. Kæmi til þess að kaup- eða söluréttur yrði nýttur, áttu Sparisjóðurinn í Keflavík og Sparisjóður Mýrasýslu kaup- og sölurétt gagnvart þeim sem keyptu hluti í Sparisjóðabankanum haustið 2007. Samningurinn var undirritaður 9. október 2007 og gilti í 12 mánuði. Samhliða samningi þessum um kaup var gerður samningur um sölu á 40 milljón hlutum til annarra aðila utan samstæðunnar. Mismunur kaup- og sölusamnings var um 5 milljónir hluta.

Á stjórnarfundi Sparisjóðsins í Keflavík 26. febrúar 2008 kynntu bankastjóri Sparisjóðabankans og tveir starfsmenn hugmyndir um sameiningu sparisjóðsins og bankans. Kostir sameiningar voru taldir bætt aðgengi að fjármagni vegna stærðaraukningar, sterkari staða í breyttu fjármálaumhverfi, aukin umsvif á Reykjavíkursvæðinu, kraftmeiri þjónusta og hagræðing af sameiningu. Á stjórnarfundi mánuði síðar, 25. mars, var fallið frá sameiningarhugmyndum vegna álits erlendra lánardrottna.

Tap Sparisjóðsins í Keflavík af Sparisjóðabankanum á árinu 2008 var 6,1 milljarður króna eða 32% af tapi sparisjóðsins fyrir skatt. Er þá ótalið tap vegna lánveitinga sparisjóðsins til nýrra hluthafa í Sparisjóðabankanum en afskriftir af þeim námu 1,5 milljörðum króna í árslok 2008.

VBS Fjárfestingarbanki hf.

Sparisjóðurinn í Keflavík átti 20,1% hlut í FSP hf. (sem þá hét Fjárfestingarfélag sparisjóðanna hf.) í árslok 2005 en ári síðar hafði sami eignarhlutur verið fluttur í Sparisjóðinn í Keflavík hf., dótturfélag sparisjóðsins sem hafði takmarkaða starfsemi.176 Hlutafé í eigu sparisjóðsins á árinu 2006 hafði hækkað um rúmar 45 milljónir hluta að nafnverði en ekkert var bókað í fundargerðum sparisjóðsins um þátttöku í hlutafjáraukningu í félaginu sem nam 350 milljónum að nafnverði á árinu 2006. Að auki hafði Sparisjóður Ólafsvíkur átt 0,6% í FSP hf. og eignarhlutur sameinaðs sparisjóðs í lok árs nam því 20,7%. Sparisjóðurinn átti ekki hlut í VBS Fjárfestingarbanka hf. eða fyrirrennara hans Verðbréfastofunni hf.

Á fyrri hluta árs 2007 sameinuðust FSP hf. og VBS Fjárfestingarbanki hf. undir nafni þess síðarnefnda en ársreikningur sameinaðs félags miðaðist við 1. janúar 2007.177 Skiptihlutföllin voru þannig að hluthafar FSP hf. fengu örlítið minna en 50% í sameinuðu félagi og hluthafar VBS Fjárfestingarbanka hf. rétt rúmlega 50% í sinn hlut.178 Hlutur Sparisjóðsins í Keflavík í fjárfestingarbankanum í lok árs 2007 var 13,4%, þar af var 3,3% eignarhlutur frá þeim tveimur sparisjóðum sem sameinuðust sparisjóðnum á árinu.

Á stjórnarfundi sparisjóðsins 23. apríl 2007 fékk sparisjóðsstjóri heimild til þess að kaupa allt að 15% af hlutafé í VBS Fjárfestingarbanka hf. og samkvæmt endurskoðunarskýrslu ársins 2007 keypti sparisjóðurinn nýtt hlutafé í bankanum fyrir 688 milljónir króna. Hlutafé VBS Fjárfestingarbanka hf. var aukið í tengslum við samrunann við FSP hf. um 199,1 milljón króna að nafnverði en heildarvirði aukningarinnar var 4,1 milljarður króna.179

Ragnar Z. Guðjónsson, annar sparisjóðsstjóra Byrs sparisjóðs, sendi tölvuskeyti 9. nóvember 2007 til sparisjóðsstjóranna í Keflavík og Mýrasýslu, Geirmundar Kristinssonar og Gísla Kjartanssonar, með kauptilboði Byrs sparisjóðs í alla eignarhluti sparisjóðanna tveggja í VBS Fjárfestingabanka hf., sem þá námu 21,6% af heildarhlutafé bankans.180 Tilboðsgengið var 44 krónur á hlut og heildarverð 3.992 milljónir króna. Af því yrðu 3.640 milljónir króna greiddar með hlutafé í MP Fjárfestingarbanka hf. og 352 milljónir króna með peningum. Hinn 5. desember 2007 veitti stjórnin sparisjóðsstjóra heimild til að selja eignarhlut sparisjóðsins í VBS Fjárfestingarbanka ef viðunandi verð fengist. Ekki varð af sölu bréfanna. Eignarhlutur Sparisjóðsins í Keflavík í VBS Fjárfestingarbanka var 13,4% í lok árs 2007 og 13,3% í árslok 2008 og 2009.181

VBS Fjárfestingarbanki hf. skilaði 217 milljóna króna hagnaði á árinu 2006, 1,4 milljarða króna hagnaði ári síðar og 1,1 milljarðs króna hagnaði 2008. Afkoma ársins 2009 var tap sem nam 40,9 milljörðum króna.182 Þrátt fyrir sæmilega afkomu bankans á árinu 2008 færði sparisjóðurinn eign sína í honun niður um 1,6 milljarða króna á því ári og um 611 milljónir króna ári síðar.

Þröstur Leósson, forstöðumaður fjármálasviðs Sparisjóðsins í Keflavík, var kjörinn í stjórn VBS Fjárfestingabanka hf. á aðalfundi 30. apríl 2007 og sat fram til febrúar 2008.183 Hann var jafnframt stjórnarformaður í FSP hf. fram að sameiningu við fjárfestingarbankann.184 Í apríl 2008 heimilaði Fjármálaeftirlitið Sparisjóðnum í Keflavík að fara með virkan eignarhlut í VBS Fjárfestingabanka hf. með því skilyrði að sparisjóðurinn gætti þess að í stjórnina veldust ekki aðilar sem samtímis væru stjórnarmenn, stjórnendur eða starfsmenn sparisjóðsins.185 Þrátt fyrir það varð Angantýr V. Jónasson varamaður í stjórn bankans í október 2008 og tók sæti í stjórn sem aðalmaður mánuði síðar. Hann var þá starfsmaður Sparisjóðsins í Keflavík. Hann sat í stjórn bankans fram í maí 2009 þegar Þröstur Leósson tók sæti hans.186 VBS Fjárfestingarbanki hf. var tekinn til slitameðferðar 9. apríl 2010 með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur.

SP-Fjármögnun hf.

SP-Fjármögnun hf. var stofnuð árið 1995 af sparisjóðunum og starfaði á sviði fjármögnunarleigu. Árið 2002 keypti Landsbanki Íslands hf. 51% eignarhlut í SP-Fjármögnun hf. og um leið varð félagið dótturfélag Landsbankans. Frá 2004 til 2007 nam eignarhlutur Sparisjóðsins í Keflavík í félaginu milli 8 og 9%. Við sameiningu sparisjóðsins við Sparisjóð Vestfirðinga og Sparisjóð Húnaþings og Stranda á árinu 2007 jókst sá hlutur í 10,1%.187 Stjórn sparisjóðsins heimilaði sparisjóðsstjóra 22. apríl 2008 að selja allan eignarhlutinn í SP-Fjármögnun hf. Ekkert varð af sölunni og var ástæða þess ekki rædd í stjórn sparisjóðsins. Á stjórnarfundi 30. september 2008 var samþykkt heimild til sparisjóðsstjóra til að selja hluti í SP-Fjármögnun hf. til Valitors hf., Byrs sparisjóðs og Saga Capital Fjárfestingarbanka hf. en þau áform gengu heldur ekki eftir.

SP-Fjármögnun hf. tapaði 30,2 milljörðum króna á árinu 2008 og tap Sparisjóðsins í Keflavík af eignarhlut í félaginu nam rúmlega 805 milljónum króna á sama tíma. Í janúar 2009 sendi SP-Fjármögnun hf. bréf til Sparisjóðsins í Keflavík um að eiginfjárstaða fyrirtækisins væri mjög slök vegna efnahagsástandsins, veikingar krónunnar og fleiri atriða og því þyrfti að auka hlutafé félagsins. Var innt eftir því hvort áhugi væri á þátttöku í hlutafjáraukningu miðað við núverandi hlutdeild sparisjóðsins. Stjórn sparisjóðsins veitti sparisjóðsstjóra umboð til að „fara í málið“ og skyldi hann halda stjórninni upplýstri um það.188 Á hluthafafundi í SP-Fjármögnun hf. í mars 2009 var hlutafé félagsins aukið en sparisjóðirnir féllu frá forgangsrétti sínum til nýs hlutafjár og skráði NBI hf. (Síðar Landsbankinn hf.) sig fyrir allri hlutafjáraukningunni.189 Í lok árs 2009 var SP-Fjármögnun hf. alfarið í eigu NBI hf. og dótturfélags þess.190

Saga Capital Fjárfestingarbanki hf.

Sparisjóðurinn í Keflavík fjárfesti fyrir 300 milljónir króna í Saga Capital Fjárfestingarbanka hf. á árinu 2007.191 Ekki er að finna bókun um þessi kaup í fundargerðum stjórnar sparisjóðsins. Eignarhlutur Sparisjóðsins í Keflavík í Saga Capital Fjárfestingarbanka hf. var bókfærður á 365 milljónir króna í lok árs 2007. Þá áttu dótturfélög sparisjóðsins hluti í bankanum. Hlutur Þrælsfells ehf. var bókfærður á 210 milljónir króna í árslok 2007 og hlutur Eyraeldis ehf. á 168 milljónir króna. Tap sparisjóðsins, á samstæðugrundvelli, vegna eignarhlutar í Saga Capital Fjárfestingarbanka hf. var 176 milljónir króna á árinu 2008 og 426 milljónir króna árið 2009.

Saga Capital Fjárfestingarbanki hf. tapaði 825 milljónum króna árið 2007, 3,7 milljörðum króna árið 2008 og 2,8 milljörðum króna árið eftir. Í október 2011 afturkallaði Fjármálaeftirlitið starfsleyfi Saga Capital Fjárfestingarbanka hf., sem þá hét Saga Fjárfestingarbanki hf., sem lánafyrirtækis, þar sem það uppfyllti ekki kröfur um eigið fé.192

FSP Holding ehf.

FSP Holding ehf. var stofnað árið 2006 af Fjárfestingarfélagi sparisjóðanna hf. Samkvæmt 3. gr. samþykkta félagsins frá 1. mars 2006 var tilgangur félagsins „fjárfestingar í hlutabréfum, verðbréfum og fasteignum, rekstur fasteigna og lánastarfsemi“.

Í árslok 2007 voru stærstu eigendur félagsins: Sparisjóðurinn í Keflavík (25%), Byr sparisjóður (23%) og Sparisjóðabanki Íslands hf. (11%). Í árslok 2009 voru stærstu hluthafar þeir sömu en eignarhlutur Sparisjóðsins í Keflavík var þá orðinn 33% vegna sameiningar við Sparisjóð Vestfirðinga og Sparisjóð Húnaþings og Stranda.

Á fyrsta starfsári félagsins var hlutafé aukið úr 500 þúsund krónum í 400 milljónir króna. Á árinu 2008 var hlutafé félagsins enn aukið og nam þá 780 milljónum króna.

Við stofnun FSP Holding ehf. árið 2006 var Kjartan Broddi Bragason framkvæmdastjóri þess og eini stjórnarmaður. Árið eftir kom Þröstur Leósson, forstöðumaður hjá Sparisjóðnum í Keflavík, inn í stjórn félagsins sem þá var skipuð fimm mönnum. Auk Þrastar voru í stjórninni Gunnar Árnason, yfirmaður áhættustýringar og útlánaeftirlits hjá Byr sparisjóði, Finnur Sveinbjörnsson, bankastjóri Sparisjóðabanka Íslands, Örn Arnar Óskarsson, sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Norðlending, og Stefán Sveinbjörnsson, sérfræðingur hjá Sparisjóði Mýrasýslu.193

Ein stærsta eign FSP Holding ehf. var liðlega fjórðungshlutur í Austurbraut hf. Félagið átti dótturfélög í Úkraínu og Bretlandi. Aðrir eigendur að Austurbraut voru í árslok 2008 Margeir Pétursson ehf., MP Fjárfestingarbanki hf., Saxbygg ehf. og Vostok Holdings hf.194 Austurbraut hf. var rekið með tapi árin 2006–2011.

FSP Holding ehf. átti einnig 14% hlut í Vostok Holdings ehf. sem átti um 60% í úkraínska eignarhaldsfélaginu New Progress Holdings en FSP Holding ehf. átti beint um 18% hlut í því félagi.195 FSP Holding átti einnig hlut í Euroventures Fund, sem var með starfsemi í Úkraínu.

Enga umfjöllun er að finna um FSP Holding ehf. í fundargerðum stjórnar Sparisjóðsins í Keflavík.

Á árinu 2009 nam tap Sparisjóðsins í Keflavík vegna eignarhlutar í FSP Holding ehf. 244 milljónum króna.

19.3.5 Dótturfélög

Dótturfélög Sparisjóðsins í Keflavík frá 2005–2009 voru Víkur ehf., Sparisjóðurinn í Keflavík hf., Tjarnargata 12. ehf., Eyraeldi ehf., Þrælsfell ehf., Nikel ehf. og Miðland ehf. Þar sem umfjöllun í kaflanum hingað til hefur verið á samstæðugrundvelli hafa áhrif dótturfélaga á rekstur þegar komið fram. Þær tölur sem hér birtast eru ekki til viðbótar tapi eða eignum sem gerð hefur verið grein fyrir hér framar.

Sparisjóðurinn í Keflavík hf. var stofnaður árið 2002 og átti að taka yfir starfsemi Sparisjóðsins í Keflavík þegar og ef af hlutafélagsvæðingu hans yrði. Af henni varð ekki og því var lítil starfsemi í félaginu. Hlutafé félagsins var 4 milljónir króna.196 Félagið skilaði litlum tekjum á tímabilinu eða á bilinu 200–600 þúsund krónum á ári. Ekki er fjallað frekar um það félag.197

Eyraeldi ehf.

Eyraeldi ehf. var stofnað árið 1995 af Eyrasparisjóði á Patreksfirði sem var einn fjögurra sparisjóða sem mynduðu Sparisjóð Vestfirðinga árið 2001. Samkvæmt stofnsamþykktum félagsins var tilgangur þess í upphafi fiskeldi, rekstur fasteigna, lánastarfsemi og annar skyldur rekstur. Samþykktum félagsins var breytt 1. desember 2003 og varð tilgangur þess þá eignarhald, rekstur, kaup og sala á fasteignum og lausafé, leigustarfsemi, lánastarfsemi, innflutningur og önnur tengd starfsemi.

Stjórnarmenn samkvæmt ársreikningum árin 2006 og 2007 voru Eiríkur Finnur Greipsson, Guðmundur S. Björgmundsson og Björgvin Sigurjónsson. Guðmundur og Björgvin sátu á þessum tíma í stjórn Sparisjóðs Vestfirðinga en Eiríkur var starfsmaður hans. Frá árinu 2008 var Páll Sigurðsson eini stjórnarmaður félagsins en Páll hafði áður verið sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Húnaþings og Stranda og síðar útibússtjóri Sparisjóðsins í Keflavík á Hvammstanga. Framkvæmdastjóri Eyraeldis var Angantýr Valur Jónasson, sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Vestfirðinga og síðar sparisjóðsstjóri Sparisjóðsins í Keflavík.

Í árslok 2006 nam eign Eyraeldis ehf. í skráðum félögum samtals 1.259 milljónum króna. Stærsta eignin var hlutur í Exista, 1.249 milljónir króna á bókfærðu verði. Bókfært verð hluta í óskráðum félögum var 210 milljónir króna. Þar af voru 205 milljónir króna í Kistu – fjárfestingarfélagi ehf. Helstu eignir félagsins í árslok 2007 voru hlutir í Exista, 640 milljónir króna, og Kistu – fjárfestingarfélagi, 259 milljónir króna. Þá hafði félagið fjárfest í Saga Capital Fjárfestingarbanka hf. fyrir um 120 milljónir króna. Félagið hafði einnig selt tæpa 23 þúsund hluti í Exista hf. til Kistu. Í árslok 2008 átti félagið hluti í Kistu – fjárfestingarfélagi ehf. sem námu 25 milljónum króna að nafnverði og var tap Eyraeldis einkum vegna þess félags og gengislækkunar bréfa í Exista hf.

Þrælsfell ehf.

Þrælsfell ehf., dótturfélag Sparisjóðs Húnaþings og Stranda, var stofnað í árslok 2006. Tilgangur félagsins samkvæmt stofnsamþykktum þess var hvers konar fjárfestingarstarfsemi, svo sem eignarhald, kaup og sala fasteigna, verðbréfa og hlutabréfa, lánastarfsemi og annar skyldur rekstur. Starfsemi félagsins fólst í að halda utan um eignarhlut sparisjóðsins í Exista hf. og Kistu – fjárfestingarfélagi ehf. Í stjórn félagsins við stofnun sátu Egill Gunnlaugsson formaður, Hersteinn Heimir Ágústsson og Þorvaldur Böðvarsson meðstjórnendur. Ári seinna vék Egill Gunnlaugsson úr stjórn og Sveinbjörn Jónsson og Tómas Gunnar Sæmundsson komu inn. Þessir aðilar sátu jafnframt í stjórn Sparisjóðs Húnaþings og Stranda. Framkvæmdastjóri Þrælsfells ehf. var Páll Sigurðsson, sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Húnaþings og Stranda. Eftir að Sparisjóður Húnaþings og Stranda sameinaðist Sparisjóðnum í Keflavík í árslok 2007 var Páll Sigurðsson eini stjórnarmaður félagsins. Þá varð Angantýr Valur Jónasson framkvæmdastjóri. Í árslok 2006 var hlutafé félagsins 100 milljónir króna og eigið fé rúmir 1,3 milljarðar króna. Helsta eign þess þá var 982 milljóna króna hlutur í Exista. Auk þess átti félagið 162 milljóna króna hlut í Kistu – fjárfestingarfélagi. Á árinu 2007 fjárfesti félagið í Saga Capital Fjárfestingarbanka fyrir 173 milljónir króna en eign í Exista minnkaði þegar 25.345 þúsund hlutir voru seldir til Kistu. Eign félagsins í Exista í árslok 2007 nam 362 milljónum króna en á sama tíma nam eignin í Kistu 206 milljónum króna. Eins og sjá má í töflu 38 dróst efnahagsreikningurinn saman um nærri helming árið 2008 vegna gengisfalls hlutabréfa og niðurfærslna á eignarhlut í Saga Capital Fjárfestingarbanka hf.

Víkur ehf.

Víkur hf. var stofnað í desember 1993 af Vilhjálmi H. Vilhjálmssyni hrl. og Garðari Garðarssyni hrl., lögmönnum Sparisjóðsins í Keflavík.198 Tilgangur félagsins var að eiga og reka fasteignir, skip og bifreiðar, kaup og sala verðbréfa og þátttaka í öðrum félögum. Í september 1994 kom Geirmundur Kristinsson inn í stjórn félagsins. Í desember 2005 keypti Sparisjóðurinn í Keflavík félagið af Garðari og Vilhjálmi. Við breytingu eignarhaldsins varð Geirmundur Kristinsson eini stjórnarmaður félagsins.199

Stjórn Sparisjóðsins í Keflavík ákvað 9. janúar 2006 að auka hlutafé í félaginu úr 400.000 krónum í 418 milljónir króna. Félagið yrði að fullu í eigu sparisjóðsins og var ætlað að halda utan um fullnustueignir hans. Í lok árs 2006 voru helstu eignir félagsins 133 milljónir króna í stofnfjárbréfum í Byr sparisjóði og stofnfjárbréf í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis fyrir 209 milljónir króna. Auk þess átti félagið 188 milljóna króna eignarhlut í Tjarnargötu 12 ehf. Hagnaður Víkna ehf. árið 2006 nam 285 milljónum króna en tap árið eftir var 301 milljón króna, einkum vegna hlutabréfa í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis hf.

Árið 2008 töpuðu Víkur ehf. 919 milljónum króna, einkum á eignarhlutum í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis hf. og stofnfjárbréfum Byrs sparisjóðs.200 Á árinu 2009 keypti félagið hlut í Bláa lóninu ehf. fyrir 503 milljónir króna og var eignarhluturinn færður niður um 314 milljónir króna á sama ári og var það helsta ástæða taps félagsins 2009. Stjórn Sparisjóðsins í Keflavík samþykkti að auka hlutafé Víkna ehf. á stjórnarfundi sínum 20. apríl 2009 um 1,1 milljarð króna og var eigið fé jákvætt um 9 milljónir króna í lok ársins.

Á árunum 2007–2009 átti Víkur ehf. 64,9% hlut í Tjarnargötu 12 ehf. og 55% í Nikel ehf. sem töldust til dótturfélaga Víkur ehf. Að auki átti Víkur ehf. 8,3% hlut í Base ehf. á sama tíma og 5% hlut í Gullmolanum ehf. 2008 og 2009. Þá átti félagið 100% hlut í Heilsuvernd ehf. 2009 og 2010.

Tjarnargata 12 ehf.

Tjarnargata 12 ehf. var stofnað árið 1999 af Reykjanesbæ, Víkum ehf. og Lífeyrissjóði Suðurnesja (síðar Festu lífeyrissjóði). Upphaflegur tilgangur félagsins var að eiga og reka fasteignina Tjarnargötu 12 í Keflavík þar sem meðal annars voru höfuðstöðvar Sparisjóðsins í Keflavík. Samþykktum félagsins var breytt 2. mars 2005 en þá var tilgangur félagsins sagður fasteignarekstur og skyld starfsemi. Í árslok 2006 áttu Víkur ehf. 65% í félaginu, Reykjanesbær 30% og hlutur Festu lífeyrissjóðs var 5%. Félagið átti þrjár fasteignir: Tjarnargötu 12, Túngötu 1 og Vallargötu 4 í Reykjanesbæ. Í stjórn félagsins frá 2006 til 2009 voru Geirmundur Kristinsson sparisjóðsstjóri, Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, og Gylfi Jónasson, framkvæmdastjóri Festu lífeyrissjóðs. Framkvæmdastjóri félagsins var Magnús Haraldsson starfsmaður sparisjóðsins. Á aðalfundi félagsins 18. júní 2009 var kosin ný stjórn. Geirmundur gekk úr stjórn og í stað hans kom Angantýr Valur Jónasson, þá sparisjóðsstjóri Sparisjóðsins í Keflavík. Árni Björgvinsson starfsmaður sparisjóðsins tók á sama tíma við sem framkvæmdastjóri félagsins.

Eignarhlutur Víkna ehf. í Tjarnargötu 12 ehf. var færður upp um 183 milljónir króna á árinu 2006.

Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis og Byr sparisjóður

Víkur ehf. áttu 0,5% hlut í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis í árslok 2006.201 Eignarhluturinn var bókfærður á 209 milljónir króna í árslok 2006 og 553 milljónir króna í árslok 2007. Engu að síður var bókfært tap vegna eignarhlutarins í sparisjóðnum á árinu 2007 upp á um 619 milljónir króna. Eignin var svo að fullu færð niður á árinu 2008.202

Þá átti félagið 0,8% hlut í Sparisjóði vélstjóra í árslok 2006 en hann hafði þá sameinast Sparisjóði Hafnarfjarðar. Eignarhlutur Víkna ehf. í Byr sparisjóði var 0,7% í árslok 2007.203 Eignarhluturinn var bókfærður á 135 milljónir króna 2006 og 583 milljónir ári síðar.204 Eignin var færð niður á árinu 2008 sem nam 553 milljónum króna og um 294 milljónir króna árið eftir.205

Kaup á Miðlandi ehf.

Miðland ehf. var félag sem átti hið svokallaða „Nikelsvæði“ eða Neðra-Nikel. Svæðið hafði upphaflega verið tekið eignarnámi í síðari heimsstyrjöldinni en í mars 2003 auglýsti Ríkiskaup svæðið til sölu. Kaupandi svæðisins var Húsagerðin ehf. og kaupverðið 150 milljónir króna.206 Miðland ehf. keypti Nikelsvæðið af Húsagerðinni ehf. árið 2005 fyrir 150 milljónir króna. Var svæðið þá sagt vera 51,5 hektari að stærð. Sama ár seldi Miðland ehf. Reykjanesbæ 14,6 hektara af svæðinu fyrir 45 milljónir króna. Árið 2006 eignuðust Elías Georgsson og Sverrir Sverrisson hvor sinn helminginn í félaginu.

Stjórn Sparisjóðsins í Keflavík fjallaði um Miðland ehf. á fundi 23. júlí 2007. Þá skuldaði félagið sparisjóðnum 452 milljónir króna. Í minnisblaði sem lagt var fyrir stjórn og unnið af G. Grétari Grétarssyni, fulltrúa sparisjóðsstjóra, kom fram að ágreiningur væri milli Miðlands ehf. og Reykjanesbæjar um ákvæði í samningi þeirra á milli. Ekki væri samstaða milli eigenda um framsetningu mála gagnvart skipulagsyfirvöldum og væri vandséð hvernig þau yrðu leyst með óbreyttu eignarhaldi. Til að lágmarka áhættu sparisjóðsins gagnvart Miðlandi ehf. gæti sparisjóðurinn þurft að leysa til sín hluti í félaginu. Í niðurlagi minnisblaðsins kom fram að forráðamenn Reykjanesbæjar hefðu sýnt mikinn áhuga á því að vinna með sparisjóðnum eða öðrum. Sparisjóðsstjóri fór yfir stöðu Miðlands ehf. og taldi að hann þyrfti heimild stjórnar til að bregðast við stöðu félagsins svo tryggja mætti hagsmuni sparisjóðsins, hugsanlega með kaupum á svæðinu. Stjórnin heimilaði sparisjóðsstjóra að ljúka málinu.207

Skrifað var undir kaupsamning milli Víkna ehf. annars vegar og Sverris Sverrissonar og Elíasar Georgssonar hins vegar 31. ágúst 2007. Víkur ehf. keyptu 100% hlut í Miðlandi ehf. fyrir 867 milljónir króna. Greitt yrði fyrir félagið við undirritun samnings með reiðufé, 300 milljónir króna til Elíasar og 299 milljónir króna til Sverris. Ákveðin skilyrði voru þó sett fyrir hluta greiðslna til Sverris. Afgangur kaupverðsins, 268 milljónir króna, skyldi greiddur með yfirtöku á skuldum Elíasar og Sverris við Miðland ehf.

Sparisjóðsstjóri kynnti stjórninni 3. september 2007 áreiðanleikakönnun lögmannsstofunnar Landslaga ehf. á Miðlandi ehf. fyrir sparisjóðinn. Könnunin hefði komið vel út og var kaupsamningur undirritaður 31. ágúst 2007.208 Í áreiðanleikakönnuninni kom þó meðal annars fram að samningar um sölu þriggja lóða hefðu aðeins verið gerðir munnlega og væru „fremur lausir í reipunum“. Einnig var bent á mat Skipulagsstofnunar um að deiliskipulag væri ekki í samræmi við gildandi aðalskipulag. Breyta þyrfti aðalskipulagi til þess að hægt væri að breyta deiliskipulaginu. Breyting á aðalskipulagi Reykjanesbæjar væri háð samþykki Reykjanesbæjar, leyfi Skipulagsstofnunar og staðfestingu umhverfisráðherra.209

Hinn 15. október 2007 var undirritaður kaupsamningur milli óstofnaðs félags, Nikel ehf., og Víkna ehf. um kaup þess fyrrnefnda á Miðlandi ehf. af Víkum ehf. fyrir 867 milljónir króna. Samkvæmt hluthafasamningi Nikel ehf. voru eigendur þess Víkur ehf. (55%), Fasteignafélagið Þrek ehf. (20%), Ásbirningar ehf. (20%) og Vallarás ehf. (5%). Miðland ehf. tapaði 27,4 milljónum króna á árinu 2006, 5,1 milljón króna ári síðar og 279 milljónum króna árið 2008.

Fjúk ehf. og kaup á Miðlandi ehf.

Eignarhaldsfélagið Verne ehf. var stofnað í júlí 2007 af lögmannsstofunni Landslögum ehf. sem var skráð fyrir öllu hlutafé í félaginu. Í nóvember 2007 var nafni félagsins breytt í Fjúk ehf. Sparisjóðurinn í Keflavík leitaði til lögmannsstofunnar um kaup á félagi til þess að sinna ákveðnum verkefnum á vegum sparisjóðsins og seldi lögmannsstofan sparisjóðnum Fjúk ehf. Sparisjóðsstjóri varð stjórnarmaður og framkvæmdastjóri Fjúks ehf. en aldrei var gengið formlega frá framsali hlutanna til sparisjóðsins þó lögheimili þess væri flutt í höfuðstöðvar hans.

Með því að sparisjóðsstjóri settist í stjórn Fjúks ehf. varð félagið venslaður aðili sparisjóðsins, sbr. 4. tl. 1. mgr. 26. gr. starfsreglna stjórnar, og sparisjóðsstjóra og var getið sem slíks í skýrslu til fjármálaeftirlitsins í lok árs 2007. Sparisjóðurinn í Keflavík veitti Fjúki ehf. 125 milljóna króna yfirdráttarheimild í nóvember 2007. Samkvæmt upplýsingum úr kerfum sparisjóðsins sá fyrirtækjasvið sparisjóðsins um að ganga frá lánveitingunni. Þar sem Fjúk ehf. var aðili venslaður sparisjóðnum hefði lánveitingin átt að koma fyrir stjórn sparisjóðsins en fundargerðir stjórnar bera ekki með sér að hún hafi haft lánveitinguna til umfjöllunar. Þá er ekki að finna umfjöllun um lánið í fundargerðum lánanefndar, en lánið var það hátt að það hefði átt að fara fyrir þá nefnd. Má því ætla að sparisjóðsstjóri hafi sjálfur tekið ákvörðun um lánveitinguna án aðkomu lánanefndar eða stjórnar.

Fjármagnshreyfingar í tengslum við lánveitinguna til Fjúks ehf. eru raktar í minnisblaði sem unnið var af Landsbankanum hf. Þar kemur fram að lán til félagsins hafi verið notuð til að fjárfesta í óskráðum hlutabréfum í VBS Fjárfestingarbanka hf. Sama dag og fyrirgreiðslan til Fjúks var veitt hafi 120 milljónir króna verið færðar af reikningi félagsins yfir á bakreikning verðbréfaviðskipta hjá Sparisjóðnum í Keflavík í eigu sjóðsins. Af þessum bakreikningi hafi 120 milljónir króna verið millifærðar inn á reikning Víkna ehf., dótturfélags sparisjóðsins. Fasteignafélagið Þrek ehf. var seljandi hlutabréfanna í VBS Fjárfestingarbanka hf. sem Fjúk ehf. keypti. Samkvæmt minnisblaði Landsbankans hf. má tengja viðskiptin við stofnun Nikel ehf. og að 120 milljóna króna hlutur Fasteignafélagsins Þreks ehf. í Nikel ehf. hafi verið fjármagnaður með framangreindum viðskiptum. Tölvupóstur 28. nóvember 2007, frá starfsmanni sparisjóðsins til forstöðumanns fjármálasviðs sparisjóðsins og eins eiganda Húsaness ehf. sem átti Fasteignafélagið Þrek, staðfestir þetta. Í tölvupóstinum segir starfsmaðurinn að hann og sá eigandi Húsaness ehf. sem fékk póstinn hafi rætt saman um frágang vegna viðskipta með hlutabréf Fasteignafélagsins Þreks ehf. í VBS Fjárfestingarbanka hf. sem ráðstafað yrði til kaupa á eignarhlut í Miðlandi ehf. Fasteignafélagið Þrek ehf. átti 3.522.648 hluti í bankanum. Samkvæmt tölvupóstinum stóð til að keyptir yrðu af þeim 3 milljónir hluta á genginu 40 fyrir samtals 120 milljónir króna. Engin þóknun yrði greidd og andvirðinu ráðstafað inn á reikning Víkna ehf. Eftir eitt ár yrði afgangurinn, 522.648 hlutir, keyptur á genginu 46, einnig án þóknunar.210 Gengið var frá þeim viðskiptum í nóvember 2008 á genginu 46.211

Í minnisblaði Landsbankans var talið að hagsmunir sparisjóðsins hefðu ekki verið hafðir í fyrirrúmi við þessa lánveitingu þar sem engar tryggingar hefðu verið fyrir henni. Gögn sem eðlilegt hefði verið að fylgdu fyrirgreiðslunni hefðu ekki verið til staðar. Enginn lánssamningur hefði legið fyrir og hvorki mat á greiðsluhæfi né tryggingar eða önnur gögn sem tryggja hefðu átt eðlilegar endurheimtur á láninu.

Í lok árs 2008 höfðu 60 milljónir króna verið færðar í afskriftareikning vegna lánveitingarinnar til Fjúks ehf. og ári síðar nam niðurfærslan 164 milljónum króna. Fjúk ehf. var úrskurðað gjaldþrota í júní 2012.

19.4 Fjármögnun

Efnahagur Sparisjóðsins í Keflavík stækkaði ört frá árinu 2005. Samhliða þeim vexti jókst þörf fyrir fjármögnun og má sjá í töflu 41 að skuldir sparisjóðsins fjórfölduðust frá árinu 2005 til 2009. Vöxtinn má að einhverju leyti rekja til sameiningar við aðra sparisjóði, þ.e. Sparisjóð Ólafsvíkur á árinu 2006 og Sparisjóð Húnaþings og Stranda og Sparisjóð Vestfirðinga á árinu 2007.

Ekki eiga allir skuldaliðir þátt í eiginlegri fjármögnun starfseminnar og falla þar undir liðir eins og reiknaðar og aðrar skuldbindingar. Innlán, lántaka og skuldir við lánastofnanir voru þeir þættir fjármögnunarinnar sem skiptu hvað mestu máli. Hér er fjallað um þessa þrjá þætti ásamt víkjandi lántökum sparisjóðsins.

19.4.1 Innlán

Sparisjóðurinn í Keflavík var að stærstum hluta fjármagnaður með innlánum en þau voru á bilinu 50–62% af skuldum sparisjóðsins að undanskildu eigin fé.212 Árið 2007 sameinaðist sparisjóðurinn tveimur öðrum sparisjóðum en áhrif þeirrar sameiningar sjást ekki á mynd 16 fyrr en í byrjun árs 2008 þegar farið var að skila til Seðlabankans einu sameiginlegu efnahagsyfirliti fyrir sameinaðan sparisjóð. Innlán Sparisjóðs Vestfirðinga voru 5,3 milljarðar króna og innlán Sparisjóðs Húnaþings og Stranda 4,3 milljarðar króna í febrúar 2008. Á árinu 2008 jukust heildarinnlán um tæpa 16 milljarða króna en þar af voru 10,3 milljarðar króna í óbundnum innlánum, 3,9 milljarðar króna í bundnum innlánum og 1,5 milljarður króna í sérstökum innlánum. Hlutfall bundinna innlána í sparisjóðnum var hæst í janúar 2005 og fór lækkandi fram í apríl 2008 þegar það fór hækkandi á ný. Áberandi er stökk í eftirspurn eftir bundnum innlánum frá október 2008.

Verðtryggð innlán í sparisjóðnum hækkuðu um rúma 4 milljarða króna í nóvember 2008 og hélst staða þeirra tiltölulega óbreytt þar til sparisjóðurinn var tekinn yfir af Fjármálaeftirlitinu í apríl 2010. Mun meiri vöxtur varð í veltiinnlánum á sama tíma, en þau jukust um rúma 11 milljarða króna. Heildaraukning innlána yfir þetta tímabil var tæpir 15 milljarðar króna.

Yfirlýsing ríkisstjórnar Íslands frá 6. október 2008 um að allar innistæður í innlendum viðskiptabönkum og sparisjóðum yrðu tryggðar að fullu kann að hafa haft áhrif á eftirspurn eftir innlánum og tiltrú á fjármálastofnunum og aukið áhuga á bundnum innlánum. Bundin innlán eru gjarnan verðtryggð og með hærri verðbólguspá í kjölfar falls bankanna jókst eftirspurn eftir þeim. Vaxtamunur sparisjóðsins minnkaði mjög frá árinu 2005 og var orðinn neikvæður árin 2008 og 2009 og kunna góð kjör á innlánsreikningum sparisjóðsins hafa átt sinn þátt í því að auka innlán hjá sparisjóðnum.

Atvinnugreinaflokkun innlána sýnir að fjármálafyrirtæki, önnur en bankar, og ríkissjóður léku stærra hlutverk en áður í innlánum sparisjóðsins frá haustinu 2008. Sparisjóðurinn keypti eigin skuldabréf af tveimur lífeyrissjóðum, annars vegar í desember 2008 fyrir rúmar 74 milljónir króna og hins vegar í mars 2009 fyrir tæpar 445 milljónir króna. Kaupverð skuldabréfanna var lagt inn á innlánsreikninga lífeyrissjóðanna hjá sparisjóðnum. Í skýrslum fyrrverandi sparisjóðsstjóra fyrir rannsóknarnefndinni minntust þeir ekki fleiri skuldabréfa sem hefði verið breytt í innlán.213

Frá miðju ári 2008 var lausafjárstaða Sparisjóðsins í Keflavík þröng og var stórt sambanka-
lán gert upp í ágúst 2008. Fyrrverandi forstöðumaður fjárhagssviðs sparisjóðsins sagði að sjóðurinn hefði hvergi getað sótt fjármagn á þessum tíma nema í innlánum. Stórir nýir innlánseigendur, eins og til dæmis sveitarfélögin, hefðu haft sitt að segja.214 Sparisjóðurinn hóf þó ákveðna sókn í innlánum, t.d. var haldinn fundur í október 2008 þar sem farið var yfir lista yfir íbúa á starfssvæði sparisjóðsins á ákveðnum aldri, kannað hverjir væru í viðskiptum við sparisjóðinn og hvernig hægt væri að fá þá sem væru það ekki til þess að leggja innlán í sparisjóðinn. Innlán í byrjun árs 2008 námu 31,7 milljörðum króna en voru orðin 46,9 milljarðar í júlí 2008. Eftir fall bankanna jukust þau enn og voru orðin 57,5 milljarðar króna í janúar 2009. Innlán sparisjóðsins náðu hámarki í 63,3 milljörðum króna í mars 2010.215

Í október reyndu hagsmunaaðilar og sveitarfélögin á Suðurnesjum að styrkja sparisjóðinn eftir fremsta megni. Þannig færði Grindavíkurbær þriggja milljarða króna innlán til Sparisjóðsins í Keflavík frá einum af föllnu viðskiptabönkunum og Reykjanesbær hugðist leggja andvirði nýrrar skuldabréfaútgáfu í sparisjóðinn sem innlán en skuldabréfið var síðar nýtt sem trygging fyrir daglánum frá Seðlabanka Íslands, sbr. umfjöllun hér aftar.

Innlán frá ríkissjóði var tilkomið vegna greiðslu fjármagnstekjuskatts sveitarfélaga á Reykjanesi af söluhagnaði eignarhluta þeirra í HS Orku sem þau áttu að standa skil á í lok nóvember. Þessar greiðslur hefðu átt að koma af reikningum sveitarfélaganna í sparisjóðnum en á þessum tíma átti sparisjóðurinn í alvarlegum lausafjárvanda og gat ekki skilað fénu til Seðlabanka Íslands eins og honum bar að gera.216

Í október 2008 leitaði sparisjóðurinn til fjármálaráðuneytisins og fór þess á leit að ríkissjóður Íslands stofnaði sérstakan innlánsreikning hjá Sparisjóðnum í Keflavík til að taka á móti skattgreiðslum frá sveitarfélögunum. Vænt útflæði úr sparisjóðnum í nóvember og desember 2008 vegna fjármagnstekjuskattsins var tæpur milljarður króna. Lausafjárstaða sparisjóðsins 31. október 2008 var hins vegar ekki nema tæpar 255 milljónir króna samkvæmt lausafjárskýrslu. Því var ljóst að sjóðurinn stefndi í lausafjárþurrð og yrði ekki rekstrarhæfur ef til útgreiðslunnar kæmi.

Fjármálaráðuneytið heimilaði stofnun reikningsins að höfðu samráði við Seðlabanka Íslands og gaf Fjársýslu ríkisins fyrirmæli um að setja sig í samband við sparisjóðinn 30. október 2008. Í tölvupósti daginn eftir frá skrifstofustjóra fjárreiðu- og eignaskrifstofu fjármálaráðuneytisins til fjársýslustjóra segir:

Sparisjóðurinn í Keflavík [hefur] farið þess á leit við ríkissjóð að hann heimili að stofnaður verði innlánsreikningur ríkissjóðs hjá sparisjóðnum. Ástæða beiðninnar er að andvirði álagðs fjármagnstekjuskatts sveitarfélaga á Suðurnesjum vegna sölu á hlut þeirra í HS [Orku] er varðveittur á innlánsreikningum í sparisjóðnum. Um er að ræða fjárhæð sem nemur nálægt einum milljarði króna og vegna lausafjárvanda sjóðsins mun úttekt þessa fjár hafa veruleg áhrif á lausafjárstöðu hans. Á vegum fjármálaráðuneytis, Seðlabanka, FME og viðskiptaráðuneytis er nú unnið að úttekt á stöðu sparisjóða í landinu. Fjármálaráðuneytið hefur því ákveðið að höfðu samráði við Seðlabankann að verða við þessari beiðni sjóðsins á meðan beðið er niðurstöðu fyrrgreinds vinnuhóps um málefni sparisjóðanna. Gjalddagi fjármagnstekjuskattsins er í dag og er óskað eftir að Fjársýslan annist frágang þessa máls í samráði við sparisjóðsstjórann.217

Í skýrslu fyrir rannsóknarnefninni vegna málsins kom fram að fjármálaráðuneytið hefði metið stöðu sparisjóðsins þannig að um lausafjárvanda væri að ræða en ekki eignavanda. Opinber pólitískur vilji hefði staðið til þess að halda sparisjóðakerfinu gangandi og því hefði verið ákveðið að grípa til þessarar ráðstöfunar til að brúa bilið þar til viðvarandi lausn á lausafjárvanda sparisjóðsins lægi fyrir.218 Seðlabanki Íslands hafði þegar gengið eins langt og heimildir bankans leyfðu í lánveitingum til sparisjóðsins. Ríkissjóður stofnaði reikning hjá Sparisjóðnum í Keflavík vegna þessa og barst fyrsta greiðsla inn á reikninginn 28. nóvember 2008. Í lok nóvember 2008 átti Sparisjóðurinn í Keflavík laust fé sem nam 79,4 milljónum króna, að meðtöldu því fé sem ríkissjóður átti á reikningum hjá sparisjóðnum og greitt hafði verið inn 28. nóvember sama ár. Þeir fjármunir hefðu að öllu réttu átt að greiðast til Seðlabanka Íslands.

Í lok desember 2008 átti Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar ehf. að standa skil á samningsgreiðslum vegna sölu á eignum ríkisins á flugvallarsvæðinu upp á tæpar 1.230 milljónir króna til ríkissjóðs. Félagið átti viðskiptareikninga í Sparisjóðnum í Keflavík en í stað þess að greiða féð til Seðlabanka Íslands var greiðslan færð á reikning ríkissjóðs hjá Sparisjóðnum í Keflavík. Staðan á reikningnum 31. desember 2008 nam tæpum 2 milljörðum króna.

Í janúar 2009 átti Sparisjóðurinn í Keflavík að standa skil á afdregnum skatti af fjármagnstekjum viðskiptavina sparisjóðsins upp á tæpar 929 milljónir króna. Samkvæmt bankayfirliti var gerð færsla í fjárhagskerfi sparisjóðsins þar sem fjárhæðin var bókuð inn á reikning ríkissjóðs hjá Sparisjóðnum í Keflavík til þess að greiða upphæðina.219 Þórhallur Arason, skrifstofustjóri hjá fjármálaráðuneytinu, gerði fyrir hönd ráðuneytisins munnlegt samkomulag við forsvarsmenn sparisjóðsins um að haga málum með þessum hætti.220 Vörsluskatturinn var því ekki greiddur úr sparisjóðnum heldur bókaður sem innlánsskuldbinding við ríkissjóð. Þegar einkahlutafélag eitt átti að greiða fjármagnstekjuskatt til ríkisins var greiðslan millifærð af reikningi þess hjá sparisjóðnum inn á innlánsreikning ríkissjóðs. Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar ehf. greiddi í desember 2009 aðra samningsgreiðslu, rúmar 1.217 milljónir króna, inn á innlánsreikninginn.

Heimild fjármálaráðuneytisins frá 30. október 2008 átti einungis að taka til greiðslu sveitarfélaga á fjármagnstekjuskatti í nóvember og desember 2008. Samningsgreiðslur Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar ehf., greiðsla á staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts og greiðsla einkahlutafélagsins inn á innlánsreikning ríkissjóðs í Sparisjóðnum í Keflavík voru gerðar án heimildar fjármálaráðuneytisins.221

Í lok febrúar 2009 fór Fjársýsla ríkisins þess á leit við Sparisjóðinn í Keflavík að 300 milljónir króna yrðu færðar inn á reikning ríkissjóðs í Seðlabanka Íslands. Í tölvuskeyti Fjársýslu ríkisins til sparisjóðsins sagði að fyrirmælin væru send í samráði við fjármálaráðuneytið um að færa niður inneign á reikningi ríkissjóðs í Sparisjóðnum í Keflavík.222 Samið hafði verið um að sjóðurinn færði 300 milljónir króna vikulega af reikningnum til Seðlabanka Íslands. Engar greiðslur höfðu borist 1. apríl 2009 og í kjölfarið sendi fjársýslustjóri tölvupóst til sparisjóðsstjóra þar sem hann ítrekaði að greiðslur hefðu ekki borist þrátt fyrir ósk ríkissjóðs um slíkt. Í niðurlagi póstsins sagði:

Heyri ég ekki frá þér mjög fljótlega hlýtur að koma til skoðunar hjá okkur að hafa samband við Fjármálaeftirlitið og óska eftir þeirra afskiptum af málinu.223

Millifærslan var framkvæmd samdægurs. Greiðslan fór inn á innlánsreikning Þróunarfélags Keflavíkur hjá sparisjóðnum og hélst féð því áfram innan sparisjóðsins. Tvær færslur fóru inn á reikning ríkissjóðs hjá Seðlabanka Íslands í maí 2009, samtals 300 milljónir króna.224 Inneign ríkissjóðs á reikningnum nam rúmum 3,1 milljarði króna í lok árs 2009. Engin úttekt var af reikningnum frá árslokum 2009 fram að falli sparisjóðsins 22. apríl 2010.

19.4.2 Skuldir við lánastofnanir

Skuldir við lánastofnanir eru skammtímaskuldir við önnur fjármálafyrirtæki og lánastofnanir, svo sem dag- og veðlán hjá Seðlabanka Íslands, lán til styttri tíma frá Sparisjóðabanka Íslands, skammtímalán frá erlendum bönkum og óuppgerðar skuldir í jöfnunarkerfum. Skuldir til lengri tíma teljast til lántöku og er fjallað um þær hér aftar.

Skuldir við lánastofnanir voru á bilinu 1,4–12,25% af skuldum sparisjóðsins að frádregnu eigin fé í ársreikningum áranna 2005–2009. Milli áranna 2007 og 2008 hækkuðu þær úr 3,2 milljörðum króna í 10,5 milljarða króna og breyttust lítið til ársloka 2009. Í árslok 2009 námu þessar skuldir 12,5 milljörðum króna. Hækkunin skýrist að mestu leyti af dag- og veðlánum Sparisjóðsins í Keflavík hjá Seðlabanka Íslands.

Innlán frá sparisjóðum voru hlutfallslega lítill þáttur í skuldum sparisjóðsins við lánastofnanir enda um að ræða peningamarkaðsinnlán sem nýtt voru til skammtímafjármögnunar. Í lok árs 2006 átti Sparisjóður vélstjóra peningamarkaðsinnlán í sparisjóðnum en í lok árs 2009 átti Sparisjóður Vestmannaeyja tæplega 251 milljónar króna peningamarkaðslán, eins og sést í töflu 43. Óuppgerðar færslur í jöfnunarkerfi voru einnig smáar fjárhæðir í samhenginu og hluti af reglulegri starfsemi sparisjóðsins. Hinn 22. apríl 2010, daginn sem Fjármálaeftirlitið tók yfir vald stofnfjáreigendafundar sparisjóðsins, voru skuldir hans við lánastofnanir um 10,7 milljarðar króna.

Til tryggingar veðláni hjá Seðlabanka Íslands var hluti skuldabréfa, útgefinna af Íbúðalánasjóði (HFF flokkar), sem Sparisjóðurinn í Keflavík hafði fengið vegna kaupa Íbúðalánasjóðs á lánasafni sparisjóðsins með veðtryggingu í íbúðarhúsnæði. Íbúðalánasjóður keypti útlán af Sparisjóðnum í Keflavík fyrir tæpa 10 milljarða króna 23. mars 2009 og rúma 1,4 milljarða króna í ágúst 2009.225

Til tryggingar dagláni hjá Seðlabanka Íslands var skuldabréf útgefið af Reykjanesbæ, RNB 08 1, að nafnvirði 2.050 milljónir króna.226 Við fall viðskiptabankanna slógu hagsmunaaðilar og sveitarfélögin á Suðurnesjum skjaldborg um Sparisjóðinn í Keflavík. Þannig færði Grindavíkurbær 3 milljarða króna innlán til sparisjóðsins frá einum af föllnu viðskiptabönkunum, eins og framar greinir, og Reykjanesbær ætlaði að leggja andvirði nýrrar skuldabréfaútgáfu, 2,5 milljarða króna, sem innlán hjá sparisjóðnum, bundið til 10 ára. Skuldabréfið var einnig til 10 ára og gefið út í október 2008. Ekki tókst að selja nema 450 milljónir króna að nafnverði af bréfinu en Festa lífeyrissjóður keypti 300 milljónir króna og Lífeyrissjóður Vestmannaeyja 150 milljónir króna. Í nóvember 2008 keypti Sparisjóðurinn í Keflavík það sem var útistandandi af bréfinu, eða 2.050 milljónir króna að nafnverði. Til þess að greiða fyrir skuldabréfið var bókað innlán í sparisjóðnum í nafni Reykjanesbæjar sem nam söluverðmætinu. Í byrjun nóvember 2008 fékk Sparisjóðurinn í Keflavík sérstaka heimild bankastjórnar Seðlabanka Íslands til að víkja frá skilyrðum um tryggingarhæfi verðbréfa vegna dag- og veðlána hjá Seðlabankanum. Eitt af þeim skilyrðum var að skuldabréfaflokkur næmi að minnsta kosti 3 milljörðum króna.227

Seðlabanki Íslands veitti sjóðnum daglán 7. nóvember 2008 upp á 500 milljónir króna gegn veði í skuldabréfi Reykjanesbæjar. Lánsfjárhæðin hækkaði úr 500 milljónum króna í nóvember 2008 í 1.650 milljónir króna í febrúar 2009, en markaðsvirði bréfsins var metið 1.845 milljónir króna. Samkvæmt 15. gr. reglna nr. 808/2008 um viðskipti fjármálafyrirtækja við Seðlabanka Íslands má fjárhæð útistandandi daglána aldrei vera hærri en 90 hundraðshlutar af markaðsvirði veðsettra verðbréfa sem sett hafa verið til tryggingar þeim. Hæst fór daglánið í 89,43% af markaðsvirði bréfsins og því var veðsetningin nýtt að fullu.

Sparisjóðabanki Íslands/Icebank hf. veitti Sparisjóðnum í Keflavík fyrirgreiðslu á sex mismunandi vegu: með reikningsláni, lánum gegn skuldabréfum útgefnum af sparisjóðnum, lánum vegna fjármögnunarverkefnis,228 langtímalánum í erlendri mynt, ábyrgðum og gjaldeyrissamningum. Á árinu 2008 reyndi mikið á samstarf Sparisjóðabankans og Sparisjóðsins í Keflavík og var heimildarmörkum sparisjóðsins breytt í tvígang á árinu 2008. Í upphafi ársins hafði sparisjóðurinn 11,4 milljarða króna heimildarmörk. Þau voru lækkuð 31. maí 2008 í 6,5 milljarða króna en hækkuð aftur 1. október 2008 í 9 milljarða króna. Á síðasta ársfjórðungi 2008 fór sjóðurinn ítrekað yfir heimildarmörk sín. Sparisjóður Húnaþings og Stranda og Sparisjóður Vestfirðinga, sem höfðu sameinast Sparisjóðnum í Keflavík, höfðu verið með erlendar ádráttarlínur hjá bankanum til að fjármagna erlendar lánveitingar. Við hrun fjármálamarkaðarins var þessum ádráttarlínum, ásamt ádráttarlínu Sparisjóðsins í Keflavík, breytt í þrjú skuldabréf upp á 1,8 milljarða króna hvert, eða samtals 5,4 milljarða króna. Aðrar skuldir voru að stærstum hluta í formi reikningsláns til eins dags (millibankalán).

Við gagnaöflun rannsóknarnefndar Alþingis hjá Sparisjóðnum í Keflavík kom í ljós að reikningslánin (millibankalánin) voru ekki skráð í sérstök kerfi heldur var haldið utan um þau í Excel-skjali og þau bókuð í fjárhagsbókhald í samræmi við skjalið. Í gögnum úr fjárhagsbókhaldi var ekki hægt að rekja hver var mótaðili samninganna, gjalddagi eða vaxtakjör.

Þróun útlána Sparisjóðabanka Íslands hf. til Sparisjóðsins í Keflavík má sjá á mynd 18. Þar má sjá að útlán bankans voru hæst í nóvember 2008 en eftir þann tíma drógust þau saman. Ástæða þess var að Sparisjóðurinn í Keflavík hóf sjálfur viðskipti við Seðlabanka Íslands með veðlán, en eftir fall viðskiptabankanna var staða Sparisjóðabankans erfið og óvíst um framtíð hans. Sparisjóðirnir sem áður höfðu tekið veðlán og daglán hjá bankanum óttuðust að festast inni með lausafé og veðhæfa pappíra ef Fjármálaeftirlitið tæki bankann yfir.

Á stjórnarfundi Sparisjóðsins í Keflavík 22. júlí 2008 var samþykkt fjármögnun gegnum Icebank hf., Landsbanka Íslands og Seðlabanka Íslands með sölu á íbúðalánum fyrir allt að 2 milljarða króna til félagsins Klettháls ehf. Í bókun sagði að um sambærilegt ferli væri að ræða og gagnvart Íbúðalánasjóði.229 Handveðsyfirlýsing til Landsbankans vegna þeirra lána sem seld voru Kletthálsi ehf. var dagsett 16. júlí 2008 en málið var ekki lagt fyrir stjórn fyrr en 22. júlí 2008 eins og fram er komið.

Klettháls ehf. fékk skuldabréf hjá Landsbankanum, LAIS 09 0504, að nafnvirði 2,2 milljarðar króna sem greiðslu fyrir fasteignaveðlánin. Félagið seldi Sparisjóðabankanum skuldabréfið í endurhverfum viðskiptum, sem svo aftur notaði bréfið til tryggingar veðláni hjá Seðlabanka Íslands. Klettháls ehf. notaði fjármagnið sem það fékk frá Sparisjóðabankanum í endurhverfu viðskiptunum til þess að kaupa íbúðalán af sparisjóðunum fimm sem áttu félagið. Skuld Sparisjóðsins í Keflavík við Klettháls ehf. var bókfærð tæpar 827 milljónir króna í árslok 2008 vegna ákvæða um endurkaup á lánasafninu frá Kletthálsi ehf.

Skuld Sparisjóðsins í Keflavík við Kaupþing hf. var vegna tveggja lána. Fyrra lánið var tekið 19. febrúar 2008. Það var upphaflega 1,2 milljarðar króna en nam 1,6 milljörðum króna í lok árs 2009, (sjá töflu 44). Lánið var fært sem skuld við lánastofnanir í lok árs 2008 en flokkun á láninu var breytt á árinu 2009 í lántöku.230 Lánið birtist því bæði í töflu 43 og töflu 44. Skuldin var til komin vegna hlutafjáraukningar í Kistu – fjárfestingarfélagi ehf. sem fram fór í mars 2008. Þá tóku eigendur Kistu – fjárfestingarfélags ehf. á sig hluta skulda félagsins. Í lánasamningi Sparisjóðsins í Keflavík við Kaupþing 19. febrúar 2008 kemur fram að tilgangur lánsins sé „innáborgun á lán Kistu fjárfestingarfélags ehf. hjá bankanum“. Hluthafar tóku á sig rúma 3,6 milljarða króna af skuldum Kistu – fjárfestingarfélags. Eftir að hluthafar tóku á sig hluta skuldanna lækkuðu skuldir Kistu við Kaupþing banka um rúma 3,6 milljarða króna og urðu 2,7 milljarðar króna. Skilmálar lánanna sem sparisjóðirnir tóku til að greiða upp hluta skulda Kistu voru áfram þeir sömu og gjalddagi þeirra 15. júní 2008. Þegar kom að gjalddaga voru lánin framlengd til 15. júní 2009 og vaxtaálag hækkað úr 2,75% í 3,50% á REIBOR vexti. Lánið var óuppgert við fall Sparisjóðsins í Keflavík.

Síðari lántakan hjá Kaupþingi var 25. ágúst 2008 að fjárhæð 16,5 milljónir evra. Tilgangur lánsins var að greiða upp sambankalán í umsjá HSH Nordbank.231

19.4.3 Lántaka

Lántaka var næststærsti hluti fjármögnunar Sparisjóðsins í Keflavík, á eftir innlánum. Hlutfall hennar var á bilinu 21–38% af skuldum sparisjóðsins að frádregnu eigin fé samkvæmt ársreikningum áranna 2005–2009. Undir lántöku í ársreikningi falla fjármögnun til lengri tíma, svo sem verðbréfaútgáfa og lán frá íslenskum og erlendum fjármálastofnunum. Um helmingur lántöku var í erlendri mynt en ef litið er til allra fjármögnunarþátta var fjármögnun í erlendri mynt 16,4% í lok árs 2007, 9,6% í lok árs 2008 og 8,6% í lok árs 2009.

Lántaka sparisjóðsins breyttist lítið frá árslokum 2009 þar til Fjármálaeftirlitið tók yfir vald stofnfjárhafafundar sparisjóðsins 22. apríl 2010. Þá nam lántaka sparisjóðsins 20,1 milljarði króna en þar af voru skuldir við erlenda banka 8,3 milljarðar króna, skuldir sem stofnað hafði verið til við Sparisjóðabanka Íslands hf. 5,9 milljarðar króna, skuldir við Landsbankann 1,9 milljarðar króna og skuldir við Arion banka 1,7 milljarðar króna.

Það sem fært er sem lán „frá dótturfélagi“ í töflu 44 er hluti af lántöku dótturfélagsins Miðlands ehf. sem situr eftir í samstæðunni þegar búið er að jafna út samstæðufærslur vegna hlutdeildar Sparisjóðsins í Keflavík. Um Miðland ehf. er fjallað hér framar í köflum um útlán og fjárfestingar.

19.4.3.1 Erlend lántaka

Lántaka Sparisjóðsins í Keflavík í erlendum myntum var hæst á árinu 2007 en á árinu 2008 var hluti lántökunnar endurgreiddur á gjalddaga. Engu að síður hækkuðu erlendar skuldir í íslenskum krónum milli áranna 2007 og 2008, eingöngu vegna gengislækkunar krónunnar.

Sparisjóðurinn í Keflavík tók þrjú stór sambankalán á árunum 2005 til 2007. Árið 2005 tók hann 22,5 milljóna evra sambankalán með gjalddaga 28. ágúst 2008. Í mars 2006 tók sparisjóðurinn annað sambankalán sem nam 22 milljónum evra til þriggja ára og loks tók sparisjóðurinn 40 milljóna evra lán 16. maí 2007 til þriggja ára. Kaupþing í Lúxemborg tók þátt í þessu sambankaláni og var hlutur þess 5 milljónir evra.

Í skýrslum hjá rannsóknarnefndinni lýstu bæði fyrrverandi forstöðumaður fjárhagssviðs Sparisjóðsins í Keflavík og fyrrverandi sparisjóðsstjóri því að sparisjóðurinn hefði ekki sjálfur sóst eftir að fjármagna sig hjá erlendum bönkum, honum hefði einfaldlega verið boðið að taka þessi lán og þau hefðu verið mjög hagstæð. Ódýrara hefði verið fyrir sparisjóðinn að taka þau en að fjármagna sig með aðstoð Sparisjóðabankans.232

Lánið frá 2005 var greitt upp á gjalddaga í ágúst 2008 en af fundargerð stjórnar sparisjóðsins 9. september 2008 má ráða að lausafjárstaða hans hafi orðið mjög erfið við þessa endurgreiðslu. Reynt hafi verið að fá banka til að framlengja lánalínur en það hafi ekki gengið eftir. Í lok september var búið að loka á flestar erlendar lánalínur og laust fé til eins mánaðar var 596 milljónir króna. Lausafjárþörfin fyrir sama tímabil var hins vegar metin 5 milljarðar króna.

Þegar kom að gjalddaga 22 milljóna evra lánsins frá 2006 á árinu 2009 var lausafjárstaða Sparisjóðsins í Keflavík erfið og möguleikar sparisjóðsins til endurfjármögnunar nánast engir. Þremur dögum fyrir lokagjalddaga lánsins samþykkti stjórn sparisjóðsins að greiða 13 milljónir evra af láninu í mars 2009 en eftirstöðvum þess yrði skipt í níu mánaðarlegar greiðslur, upp á 1 milljón evra hver. Sparisjóðurinn greiddi greiðsluna í mars en aðeins tvær af níu 1 milljónar evru greiðslunum. Eftirstöðvar lánsins í júní 2009 voru því 7 milljónir evra og átti sjóðurinn ekki evrur til að greiða af láninu. Til þess að fjármagna endurgreiðslu lánsins seldi sparisjóðurinn meðal annars Íbúðalánasjóði skuldabréf, tryggð með veði í íbúðarhúsnæði, sem var samþykkt á stjórnarfundi 24. mars 2009. Gerður var gjaldmiðlaskiptasamningur 25. mars 2009 við Seðlabanka Íslands um 13,2 milljónir evra til eins mánaðar á skráðu miðgengi Seðlabankans með 15% álagi.233 Við lok samningsins, sem var aðeins til eins mánaðar, greiddi sparisjóðurinn skuld sína til baka í evrum.234

Í apríl 2009 hætti sparisjóðurinn að greiða vexti af 40 milljóna evra láninu sem tekið hafði verið í maí 2007.235 Erlend lánastaða sjóðsins var 47 milljónir evra í árslok 2009, þar af voru 40 milljónir evra á gjalddaga 16. maí 2010 og möguleikar til endurfjármögnunar litlir sem engir.

19.4.3.2 Lántaka hjá Sparisjóðabanka Íslands hf.

Sparisjóðurinn í Keflavík hafði einnig fengið langtímafjármögnun hjá Sparisjóðabanka Íslands hf. en þar á meðal voru erlend endurlán. Við sameiningu Sparisjóðsins í Keflavík við Sparisjóð Húnaþings og Stranda og Sparisjóð Vestfirðinga á árinu 2007 komu þessar skuldbindingar fyrst fram í efnahag sparisjóðsins (sjá töflu 44).

Í október 2008 var erlendum ádráttarlínum sparisjóðsins lokað þar sem Sparisjóðabankinn átti þess ekki kost að fjármagna sig í erlendum myntum. Þar sem sparisjóðurinn hafði ekki bolmagn til að greiða skuldina, hvorki í erlendum myntum né íslenskum krónum, var samið um útgáfu þriggja víxla með mismunandi gjalddaga. Samhliða voru gerðir gjaldmiðlaskiptasamningar sem færðu annars vegar allar erlendar myntir yfir í evrur og hins vegar samningur um umbreytingu evra yfir í krónur. Við fall Sparisjóðabankans voru samningarnir og víxlarnir ógreiddir og lýsti slitastjórn bankans kröfu í Sparisjóðinn í Keflavík upp á 6,7 milljarða króna vegna gjaldfallinna víxla og 637 milljónir króna vegna taps á gjaldmiðlaskiptasamningum.236

19.4.3.3 Kaup og endursala banka á fasteignasöfnum Sparisjóðsins í Keflavík

Á stjórnarfundi 25. júní 2009 var lagður fram samningur um kaup NBI hf. (síðar Landsbankans hf.) á íbúðalánum upp á samtals 2 milljarða króna. Um var að ræða íbúðalán sem uppfylltu ekki skilyrði Íbúðalánasjóðs um kaup á íbúðalánum.237 Samkvæmt yfirliti með samningnum var uppgreiðsluverðmæti lánanna 3,9 milljarðar króna en NBI hf. greiddi 2 milljarða króna fyrir lánasafnið. Sparisjóðurinn skuldbatt sig til þess að kaupa lánasafnið til baka 22. desember 2009 fyrir 2,1 milljarð króna. Þessi samningur var færður sem 1,8 milljarða króna skuld við NBI hf. í lok árs 2009.

MP Banki gerði samning við Sparisjóðinn í Keflavík 15. október 2009 um skuldabréfakaup. Kaupverð skuldabréfasafnsins var 960 milljónir króna og skuldbatt Sparisjóðurinn í Keflavík sig til að kaupa safnið til baka 19. mars 2010 fyrir um einn milljarð króna. Innheimta, samskipti við skuldara og umsýsla skuldabréfanna hélst áfram hjá sjóðnum. Um var að ræða íbúðalán sem ekki uppfylltu skilyrði Íbúðalánasjóðs um kaup á skuldabréfum af fjármálafyrirtækjum. Þessar skuldbindingar höfðu ekki verið gerðar upp þegar Fjármálaeftirlitið tók yfir vald stofnfjárhafafundar sparisjóðsins í apríl 2010.

19.4.3.4 Íbúðalánasjóður

Í desember 2004 gerðu Íbúðalánasjóður og Sparisjóðurinn í Keflavík með sér samning um fjármögnun Íbúðalánasjóðs á fasteignalánasafni sparisjóðsins sem nam um 1,6 milljörðum króna.238 Að baki þessum lánasamningi voru 153 fasteignalán hjá Sparisjóðnum í Keflavík. Á sama tíma voru gerðir sams konar samningar milli Íbúðalánasjóðs og sparisjóðanna sem síðar sameinuðust Sparisjóðnum í Keflavík, þ.e. Sparisjóði Vestfirðinga, Sparisjóði Húnaþings og Stranda og Sparisjóði Ólafsvíkur, fyrir um 413 milljónir króna. Í apríl 2005 voru gerðir fleiri slíkir samningar og fjármagnaði Íbúðalánasjóður þá sem nam 1,5 milljörðum króna til viðbótar af fasteignalánum sparisjóðsins. Að baki þeim lánasamningi voru 159 fasteignalán. Á sama tíma fengu sparisjóðirnir sem síðar sameinuðust Sparisjóðnum í Keflavík 456 milljóna króna fjármögnun frá Íbúðalánasjóði til viðbótar þeirri sem veitt var í lok árs 2004. Í desember 2005 gaf Sparisjóðabankinn út skuldabréf til Íbúðalánasjóðs en að baki því voru lánasamningar með undirliggjandi tryggingum í veðskuldabréfasafni sparisjóða. Hlutur Sparisjóðsins í Keflavík var um 752 milljónir króna, Sparisjóðs Húnaþings og Stranda um 69 milljónir króna, Sparisjóðs Vestfirðinga 138 milljónir króna og Sparisjóðs Ólafsvíkur 39 milljónir króna. Þessir samningar voru útistandandi í lok áranna 2005, 2006 og 2007 en í árslok 2008 hafði Íbúðalánasjóður tekið yfir fasteignalánin sem voru undirliggjandi lánasamningunum og skuldabréfinu.

Reglugerð um heimild Íbúðalánasjóðs til að kaupa skuldabréf fjármálafyrirtækja sem tryggð eru með veði í íbúðarhúsnæði nr. 1081/2008 var sett með stoð í 2. mgr. 15. gr. laga nr. 44/1998, um húsnæðismál, sbr. V. kafla laga nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. Á grundvelli reglugerðarinnar keypti Íbúðalánasjóður safn fasteignalána af Sparisjóðnum í Keflavík í mars 2009 fyrir tæpa 10 milljarða króna. Þeir fjármunir voru meðal annars nýttir til þess að endurgreiða erlenda lántöku sparisjóðsins eins og fjallað var um hér framar.

19.4.3.5 Verðbréfaútgáfa

Rannsóknarnefndin óskaði eftir sundurliðun á uppreiknaðri áramótastöðu útgefinna skuldabréfa Sparisjóðsins í Keflavík frá Landsbankanum hf. Í svari frá Landsbankanum hf. kom fram að bankinn hefði ekki aðgang að gögnum sem sýndu stöðu hvers skuldabréfaflokks fyrir sig.239 Yfirlit yfir skuldabréf sparisjóðsins er því unnið upp úr útboðslýsingum af heimasíðu kauphallarinnar.

Frá árinu 2005 gaf Sparisjóðurinn í Keflavík einungis út eina skuldabréfaútgáfu og nam hún 1 milljarði króna að nafnverði.240 Hins vegar var talsvert af eldri útgáfum sem voru á gjalddaga eftir 1. janúar 2005 og þar á meðal var ein sem sparisjóðurinn yfirtók við sameininguna við Sparisjóð Vestfirðinga.

Virði útistandandi verðbréfa í ársreikningi hélst tiltölulega óbreytt frá 2005 til 2008 en lækkaði úr 2,6 milljörðum króna í lok árs 2008 í 1,5 milljarða króna í lok árs 2009. Að hluta til má skýra þessa lækkun með kaupum Sparisjóðsins í Keflavík á eigin skuldabréfum 20. mars 2009. Festa lífeyrissjóður átti tvö skuldabréf, annað að nafnverði 60 milljónir króna og var kaupverð þess 88,7 milljónir króna, hitt að nafnverði 208,3 milljónir króna og var kaupverð þess 356,2 milljónir króna. Andvirði bréfanna var greitt inn á innlánsreikning lífeyrissjóðsins í Sparisjóðnum í Keflavík. Lífeyrissjóðurinn lagði einnig inn nýtt 675 milljóna króna innlán.241 Í stjórnarfundargerðum sparisjóðsins frá mars 2009 er ekkert bókað um þessi viðskipti en formaður stjórnar Sparisjóðsins í Keflavík, Kristján Gunnarsson, sat einnig í stjórn Festu lífeyrissjóðs. Með þessu varð krafa lífeyrissjóðsins að forgangskröfu eftir að lög nr. 125/2008 gerðu innlán að forgangskröfum við gjaldþrotaskipti.

Fjármálaeftirlitið ákvað 22. apríl 2010 að Spkef sparisjóður yfirtæki ekki innlánsskuldbindingar Sparisjóðsins í Keflavík sem stofnað hefði verið til með því að kröfueigandi samkvæmt skuldabréfi eða öðru sambærilegu skuldaskjali hefði fengið kröfu sína greidda fyrir gjalddaga en hefði á sama tíma stofnað til innláns hjá Sparisjóðnum í Keflavík, enda væri um riftanlegan gerning að ræða samkvæmt lögum nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl.242

Skuldabréf sparisjóðsins, SPK 04 1, voru á gjalddaga 1. júní 2009 og komu þá til greiðslu 920 milljónir króna. Þar af voru 722 milljónir króna lagðar inn á innlánsreikning í samræmi við samkomulag sem gert var við eigendur bréfanna. Um miðjan júní voru 1,4 milljarðar króna á gjalddaga en sparisjóðurinn hafði óskað eftir fundi við eiganda kröfunnar um frestun á greiðslu þar til málefni sjóðsins væru komin á hreint og var þeirri greiðslu frestað í stuttan tíma.243 Í árslok 2009 voru um 1,5 milljarðar króna útistandandi í skuldabréfum en eina skuldabréfið sem var á gjalddaga eftir þann tíma var það sem gefið var út 2007.

19.4.4 Víkjandi lán

Víkjandi lán voru 3–5% af heildarskuldum sparisjóðsins að undanskildu eigin fé í ársreikningum áranna 2005–2009 og námu frá 1,4 milljörðum króna til 3,1 milljarðs króna á sama tímabili.

Á stjórnarfundi sparisjóðsins 12. desember 2005 var samþykkt að bjóða út 1 milljarðs króna víkjandi lán til tíu ára sem fékk auðkennið SPK 05 1. Sameinaði lífeyrissjóðurinn keypti 200 milljónir króna að nafnverði, Líftryggingafélag Íslands hf. 15 milljónir króna að nafnverði, Kaupþing banki 500 milljónir króna að nafnverði og Fjárfestingarfélag sparisjóðanna 85 milljónir króna að nafnverði.244 Í stjórnarfundargerðinni kom ekki fram hver tilgangur lántökunnar var, en í tölvuskeyti frá framkvæmdastjóra hagdeildar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis til forstöðumanns fjárhagssviðs Sparisjóðsins í Keflavík frá 6. desember 2005 sagði:

Ég var að tala við Erlend Hjalta. Þeir reikna með að hlutafjáraukningin verði fyrir áramótin. Þetta þýðir að ef við ætlum að fjármagna okkar hlut með víkjandi láni, þá þurfum við að selja þau fyrir þann tíma. Spurning hvort við ættum að hafa samflot vegna þessa.245

Í sama skeyti var reiknað með að hlutur Sparisjóðsins í Keflavík í aukningunni yrði tæplega 1,1 milljarður króna. Hlutafjáraukning í Exista var samþykkt á hluthafafundi félagsins 19. desember 2005 og í endurskoðunarskýrslu Sparisjóðsins í Keflavík fyrir það ár kom fram að fjárfest hefði verið í nýjum Existahlutum fyrir 762 milljónir króna.

Á árinu 2006 jukust víkjandi lán Sparisjóðsins í Keflavík um tæpar 70 milljónir króna vegna sameiningar við Sparisjóð Ólafsvíkur. Mest varð hins vegar breytingin á árinu 2007 þegar víkjandi lán jukust um tæpar 750 milljónir króna vegna sameiningar sparisjóðsins við Sparisjóð Húnaþings og Stranda og Sparisjóð Vestfirðinga. Á árunum 2008 og 2009 voru engar nýjar útgáfur eða sameiningar og var aukning víkjandi lána einungis vegna verðtrygginga og vaxta.

19.5 Eignarhald

Á árunum 2006 og 2007 sameinuðust Sparisjóður Ólafsvíkur, Sparisjóður Vestfirðinga og Sparisjóður Húnaþings og Stranda Sparisjóðnum í Keflavík. Samhliða sameiningunum réðst sparisjóðurinn í miklar stofnfjáraukningar. Stofnfé sparisjóðsins jókst um 12,5 milljarða króna að nafnverði frá árslokum 2005 til febrúarmánaðar 2007, þar af um 11,5 milljarða króna á árinu 2007. Frá árslokum 2005 fjölgaði stofnfjáreigendum úr 558 í 1.626 í árslok 2007 og voru það bæði lögaðilar og einstaklingar.

19.5.1 Sparisjóður Ólafsvíkur

Á fundi stjórnar Sparisjóðs Ólafsvíkur 13. september 2006 var greint frá viðræðum sem sparisjóðsstjóri ásamt formanni stjórnar hefðu átt við kollega sína í Sparisjóðnum í Keflavík um sameiningu sparisjóðanna undir nafni Sparisjóðsins í Keflavík. Samþykkti stjórnin að halda viðræðunum áfram en þetta var ekki í fyrsta skipti sem málefnið bar á góma. Í skýrslu stjórnar á aðalfundi Sparisjóðs Ólafsvíkur 15. mars 2006 hafði formaður stjórnar rakið erindi Sparisjóðs Mýrasýslu og Landsbanka Íslands hf. um kaup þeirra á stofnfjárhlutum sjóðsins og viðræður við Sparisjóðinn í Keflavík um hið sama. Hann gat þess síðan að ekki hefði náðst sátt innan stjórnar um þau málefni. Þarna var komið annað hljóð í strokkinn og á stjórnarfundi 11. október 2006 samþykkti stjórn aðgerðaáætlun fyrir hugsanlega sameiningu. Eftir það gengu hlutirnir hratt fyrir sig og á fundi stjórnar 9. nóvember 2006 undirritaði stjórn Sparisjóðs Ólafsvíkur samkomulag stjórna sparisjóðanna og samrunáætlun. Sparisjóðurinn í Keflavík hafði skrifað undir skjölin tveimur dögum áður. Samruninn myndi reikningslega miðast við 1. júlí 2006 og gert var ráð fyrir að Sparisjóður Ólafsvíkur myndi auka stofnfé sitt til þess að jafna skiptihlutfall við samrunann. Í árshlutareikningi sparisjóðsins 30. júní 2006 hafði stofnfé hans verið 164.972 krónur að nafnverði og eigið fé 218.271.195 krónur. Hlutfall stofnfjár af eigin fé var því 0,075% en með stofnfjáraukningunni átti að jafna það við hlutfall Sparisjóðsins í Keflavík sem var 14,88%.246

Hinn 20. desember 2006 samþykktu fundir stofnfjáreigenda Sparisjóðs Ólafsvíkur og Sparisjóðsins í Keflavík samruna sjóðanna. Á stofnfjáreigendafundinum í Sparisjóði Ólafsvíkur var jafnframt kynnt stofnfjárútboð að nafnverði 15.984.389 krónur í samræmi við heimild í samþykktum sjóðsins. Uppreiknað virði þess stofnfjár var 31.466.460 krónur.247 Fyrir stofnfjáraukningu voru stofnfjáraðilar í sparisjóðnum 46 einstaklingar með jafnan eignarhlut en við samrunann fengu stofnfjáreigendur Sparisjóðs Ólafsvíkur stofnfjárbréf í Sparisjóðnum í Keflavík í sömu hlutföllum og stofnfjáreign þeirra var á samrunadag. Samkvæmt samrunaáætlun var hlutfall þeirra 3,18% af stofnfé eftir samruna. Fjármálaeftirlitið samþykkti samrunann 26. janúar 2007 og Samkeppniseftirlitið 31. janúar 2007.248 Við samrunann var stofnaður Menningarsjóður Sparisjóðs Ólafsvíkur á starfssvæði sparisjóðsins og hafði hann það að hlutverk að styrkja árlega starfsemi á starfssvæði sparisjóðsins, en heimamenn skyldu koma að úthlutunum úr sjóðnum.249

19.5.2 Sparisjóður Vestfirðinga og Sparisjóður Húnaþings og Stranda

Frá stofnun Sparisjóðs Vestfirðinga 2001 hafði rekstur hans verið erfiður. Afskriftaþörf var mikil á starfssvæði sparisjóðsins og á aðalfundi 21. apríl 2004 kom fram að á „síðustu þrem árum [hefðu] verið afskrifaðar 693 milljónir króna“. Til þess að styrkja sparisjóðinn keyptu Sparisjóðabankinn og sparisjóðirnir stofnfé að nafnverði 65 milljónir króna í Sparisjóði Vestfirðinga árið 2004 og Tryggingasjóður keypti 52 milljónir króna að nafnverði ári seinna. Tryggingasjóður varð með sínu framlagi stærsti eigandi stofnfjár í sparisjóðnum með 21,6% eignarhlut. Í skýrslu fyrir rannsóknarnefndinni sagði Angantýr Valur Jónasson, fyrrverandi sparisjóðsstjóri sparisjóðsins, að hann teldi það „kraftaverk að [þeir skyldu] klára að halda Sparisjóði Vestfirðinga gangandi af því að […] þegar þið skoðið rekstur hans [var] afkoman af þessum hefðbundna rekstri ekki nægilega góð. Mikil afskriftaþörf gerði sjóðnum alltaf erfitt fyrir“.250 Þá sagði hann einnig:

Þegar Sparisjóður Vestfirðinga var stofnaður þá var það alltaf hugmynd þeirra sem að því stóðu og þeirra stjórnenda sem þar voru, að þetta væri fyrsta skrefið í því að sameina Sparisjóð Vestfirðinga inn í stærri einingu. [Það] ætti ekki að stoppa við þetta skref [heldur] halda áfram í sameiningu sparisjóða. […] Fyrst og fremst [töldu þeir sig] ekki geta sinnt þeim þörfum sem voru á Vestfjörðum, á þessum stöðum sem [þeir voru], varðandi útlánaþörf, útgerðir og annað.251

Á árinu 2007 var mikil umræða innan sparisjóðsins um sameiningarmál. Meðal annars komu fram hugmyndir um að ræða við Byr sparisjóð eða Sparisjóð Mýrasýslu.252 Sparisjóðnum barst bréf frá Sparisjóðnum í Keflavík 31. júlí 2007 þar sem óskað var eftir sameiningarviðræðum milli sjóðanna. Því var svarað 10. ágúst 2007 þar sem stjórn Sparisjóðs Vestfirðinga fagnaði frumkvæði Sparisjóðsins í Keflavík og fól sparisjóðsstjóra að leiða viðræðurnar fyrir hönd sparisjóðsins.253

Rétt eins og hjá Sparisjóði Vestfirðinga var það rætt innan stjórnar Sparisjóðs Húnaþings og Stranda hvort skoða ætti sameiningu við aðra sparisjóði. Á aðalfundi sparisjóðsins 2. maí 2007 kvaðst formaður stjórnar, Egill Gunnlaugsson, ekki vera hlynntur sameiningu við aðra sparisjóði. Þrátt fyrir það samþykkti stjórnin boð Sparisjóðsins í Keflavík til viðræðna um hugsanlega sameiningu sjóðanna í ágúst sama ár.254 Stjórnin heimsótti Sparisjóðinn í Keflavík 28. ágúst 2007 og sendi stofnfjáreigendum bréf tveimur dögum síðar um viðræður við aðra sparisjóði um hugsanlegan samruna.255 Á stjórnarfundi 3. september 2007 var samþykkt að sparisjóðsstjóri ásamt endurskoðanda sparisjóðsins myndu funda með forsvarsmönnum Sparisjóðsins í Keflavík og Sparisjóðs Vestfirðinga þremur dögum síðar. Þar átti einkum að ræða hugsanlega sameiningu sjóðanna.

Í kjölfar fundarins 6. september 2007 sendu Sparisjóður Vestfirðinga, Sparisjóðurinn í Keflavík og Sparisjóður Húnaþings og Stranda frá sér tilkynningu samdægurs þar sem fram kom að forsvarsmenn sparisjóðanna hefðu gert samkomulag um að leggja til við stjórnir sparisjóðanna að þeir yrðu sameinaðir.256 Samrunaáætlun sparisjóðanna var samþykkt á stjórnarfundi Sparisjóðsins í Keflavík 10. september 2007 og á stjórnarfundum Sparisjóðs Vestfirðinga og Sparisjóðs Húnaþings og Stranda degi síðar.

Á stofnfjáreigendafundi Sparisjóðs Vestfirðinga 9. október 2007 var samrunaáætlunin kynnt fyrir stofnfjáreigendum ásamt tillögu að breytingum á samþykktum sparisjóðsins vegna stofnfjáraukningar. Á fundinum var samþykkt eftirfarandi breytingartillaga frá stofnfjáreiganda:

Stofnfjáreigendur eiga forgang til áskriftar í réttu hlutfalli við stofnfjáreign. Heimild þessi gildir til 20. janúar 2008. Áður en til aukningar stofnfjár kemur skal stjórn Sparisjóðs Vestfirðinga hafa gengið frá því við stjórn Tryggingasjóðs sparisjóða að sjóðurinn taki ekki þátt í stofnfjáraukningu þessari.257

Eins og áður sagði varð Tryggingasjóður sparisjóða stærsti eigandi í Sparisjóði Vestfirðinga þegar hann aðstoðaði sparisjóðinn 2005. Fyrrverandi sparisjóðsstjóri sjóðsins lýsti aðdraganda breytingartillögunnar svo: „Menn vildu bara meira stofnfé. Menn stóðu upp og sögðu: Tryggingasjóður sparisjóðanna er stærsti stofnfjáreigandinn, við teljum eðlilegt að hann víki; hann taki ekki þátt í stofnfjáraukningunni og við samþykkjum ekki sameiningu nema hann afsali sér sínum hlut.“258 Tryggingasjóðurinn samþykkti að taka ekki þátt í stofnfjáraukningu sparisjóðsins og var sú ákvörðun kynnt á fundi stjórnar 30. október 2007. Forgangsréttur hans skiptist því á milli annarra stofnfjáreigenda.

Auk breytingartillögunnar var samþykkt að afnema bann við veðsetningu á stofnfjárhlutum. Á stjórnarfundi 30. október 2007 var síðan samþykkt að veita framkvæmdastjórn heimild til þess að taka handveð í stofnfjáreign stofnfjáraðila sem óskuðu eftir láni til stofnfjárkaupa. Veðsetningin yrði síðan lögð fyrir stjórn til staðfestingar.

Stofnfjárútboð í Sparisjóði Vestfirðinga var haldið 29. október til 9. nóvember 2007. Með því átti að jafna skiptihlutfall stofnfjáreignar fyrir fyrirhugaðan samruna. Í boði var nýtt stofnfé að nafnverði 1.064 milljónir króna á genginu 1,04 en fyrir stofnfjáraukningu var nafnverð stofnfjár rúm 301 milljón króna. Í útboðslýsingu sjóðsins var tekið fram að fjárfesting í stofnfjárbréfum væri áhættufjárfesting og voru fjárfestar hvattir til að kynna sér þá áhættu sem fylgdi eignarhaldi á slíkum bréfum. Allt stofnfé sem í boði var seldist.259

Samruninn við Sparisjóðinn í Keflavík var samþykktur á stofnfjáreigendafundi Sparisjóðs Vestfirðinga 30. nóvember 2007. Á þeim fundi var einnig samþykkt að auka stofnfé enn frekar til að styrkja eiginfjárstöðu sparisjóðsins. Annað stofnfjárútboð var því haldið dagana 10.–17. desember 2007 og seldist stofnfé fyrir 788 milljónir króna að nafnverði á genginu 1,05. Ekki voru gerðar kröfur um að Tryggingasjóður sparisjóða stæði utan við stofnfjáraukninguna í þetta sinn, þar sem hlutdeild hans í sparisjóðnum var komin niður í 4% eftir stofnfjáraukninguna þar á undan.260

Á fundi stofnfjáreigenda í Sparisjóði Húnaþings og Stranda 11. október 2007 var samþykkt heimild til stjórnar um aukningu stofnfjár að nafnverði allt að 130 milljónir króna. Einnig var samþykkt að aflétta banni á veðsetningu stofnfjár. Á stjórnarfundinum sem fylgdi samþykkti stjórn sjóðsins að ráðast í stofnfjárútboð að nafnverði um 1.230 milljónir króna. Þar var líka samþykkt að lánskjör til stofnfjáreigenda yrðu kjörvextir án álags.261 Útboðinu lauk 9. nóvember 2007 og skráðu allir 174 stofnfjáreigendur sig fyrir grunnrétti. Því seldist allt stofnfé sem í boði var, en stofnfé sparisjóðsins hafði verið 19,4 milljónir króna fyrir útboðið.262 Á fundi stofnfjáreigenda sparisjóðsins 4. desember 2007 var samþykkt heimild til stjórnar um aukningu stofnfjár um allt að 1.074 milljónir króna að nafnverði. Á stjórnarfundi sama dag var samþykkt að bjóða út um 724 milljónir króna að nafnverði. Stofnfjárútboðinu lauk 17. desember 2007 og seldist allt stofnfé sem í boði var.263

Samruninn við Sparisjóðinn í Keflavík var samþykktur á stofnfjáreigendafundi Sparisjóðs Húnaþings og Stranda 4. desember 2007. Við samrunann fengu stofnfjáreigendur í Sparisjóði Húnaþings og Stranda í sinn hlut 608.335.371 nýja nafnverðshluti í Sparisjóðnum í Keflavik í skiptum fyrir sína hluti í hinum yfirtekna sjóði að nafnvirði 1.249.810.647 krónur. Stofnfjáreigendur í Sparisjóði Vestfirðinga fengu 664.490.188 nýja nafnverðshluti í Sparisjóðnum í Keflavík í skiptum fyrir sína hluti í hinum yfirtekna sjóði að nafnvirði 1.365.179.392 krónur. Stofnfé sem þannig var látið í té sem greiðsla skyldi njóta arðsréttar í sameinuðum sjóði miðað við sameiningardag 1. júlí 2007.

Samruninn var samþykktur á stofnfjáreigendafundi Sparisjóðsins í Keflavík 4. desember 2007. Jafnframt var samþykkt breytt fyrirkomulag við val stjórnar sparisjóðsins þannig að stofnfjáraðilar kysu alla stjórnarmeðlimina fimm, en áður áttu sveitarfélög sérstakan fulltrúa í stjórn.264 Við sameininguna var komið á fót menningarsjóðum á skilgreindum starfssvæðum sjóðanna sem áttu að styrkja árlega starfsemi á svæðunum. Áttu heimamenn á hverju starfssvæði um sig að koma að úthlutunum úr sjóðunum.265

Samkeppniseftirlitið samþykkti samruna Sparisjóðs Vestfirðinga, Sparisjóðs Húnaþings og Stranda og Sparisjóðsins í Keflavík 7. janúar 2008 og Fjármálaeftirlitið 22. febrúar 2008.266

19.5.3 Stofnfé og stofnfjáreigendur

Í samþykktum Sparisjóðsins í Keflavík frá 25. apríl 2000 sagði að stofnfé sparisjóðsins skyldi vera 30 milljónir króna að lágmarki og allt að 600 milljónir króna að nafnverði og skiptast í jafnháa hluti sem hver væri að nafnverði 150.000 krónur. Eitt atkvæði skyldi fylgja hverjum hlut og skyldi sparisjóðsstjórn sjá til þess að stofnfjáreigendur væru aldrei færri en 30. Stofnfjáreigendur áttu einn eða fleiri jafngilda stofnfjárhluti og atkvæðisrétt í hlutfalli við stofnfjáreign, en einstökum stofnfjáreigendum var óheimilt, fyrir sjálfs sín hönd eða annarra, að fara með meira en 5% af heildaratkvæðamagni í sparisjóðnum. Atkvæðisréttur fylgdi ekki þeim stofnfjárbréfum sem sparisjóðurinn kynni að eiga sjálfur og skyldu bréfin dregin frá þegar miða skyldi við heildaratkvæðamagn í samþykktum hans. Að öðru leyti voru allir stofnfjárhlutir jafn réttháir.

Sparisjóðurinn gaf út stofnfjárbréf fyrir skráðum stofnfjárhlutum og bar sparisjóðsstjórn að undirrita þau. Stofnfjárbréf mátti ekki afhenda fyrr en hlutur væri að fullu greiddur og skyldu þau hljóða á nafn. Sparisjóðnum bar að færa stofnfjáreigendaskrá sem aðgengileg væri öllum stofnfjáreigendum. Yrðu eigendaskipti á stofnfjárhlut og ákvæði laga og samþykkta sparisjóðsins stæði þeim ekki í vegi, skyldi nafn hins nýja stofnfjáreiganda fært í skrána þegar hann tilkynnti eigendaskiptin og sannaði rétt sinn. Þá væri sala eða annað framsal stofnfjárhlutar í sparisjóðnum óheimilt, nema samþykki sparisjóðsstjórnar kæmi til. Veðsetning stofnfjárhlutar var með öllu óheimil. Fundur stofnfjáreigenda gat ákveðið að auka stofnfé umfram það sem kveðið var á um í samþykktum með áskrift nýrra stofnfjárhluta. Með sama hætti var heimilt að auka stofnfé með endurmati á stofnfé. Það verð sem nýr stofnfjáreigandi skyldi greiða fyrir hlut var nafnverð hans að viðbættri ónýttri heimild til endurmats stofnfjár. Við aukningu stofnfjár skyldu stofnfjáreigendur eiga rétt til þess að skrá sig fyrir auknu stofnfé í réttu hlutfalli við stofnfjáreign sína.

Samþykktum sparisjóðsins var breytt á aðalfundi sparisjóðsins 14. mars 2003 og var stofnfé hækkað í 600 milljónir króna að nafnverði sem skiptist í jafnmarga hluti og skyldi eitt atkvæði fylgja hverjum hlut. Þá var stjórn heimilt að auka stofnfé um allt að 500 milljónir króna að nafnverði. Stofnfjáraðilar skyldu eiga forgang til áskriftar í réttu hlutfalli við stofnfjáreign sína og gilti heimildin til 1. apríl 2008. Á aðalfundi 9. mars 2006 var felld úr samþykktum bann við veðsetningu stofnfjárhluta en hún var þó aðeins heimil með samþykki stjórnar sparisjóðsins.

Í lok árs 2005 nam stofnfé Sparisjóðsins í Keflavík 1.052 milljónum króna að nafnverði. Hafði það aukist um 314,5 milljónir króna að nafnverði í áföngum frá árinu 2000. Stofnfjáreigendur voru 558 talsins, bæði einstaklingar og lögaðilar.267 Tíu stærstu eigendur í sjóðnum áttu alls 632,6 milljónir króna að nafnverði en níu þeirra voru lögaðilar.268

Á stjórnarfundi sparisjóðsins 27. nóvember 2006 var samþykkt að nýta heimild stjórnar frá aðalfundi 2003 til stofnfjáraukningar að nafnverði 500 milljónir króna. Af heimildinni var gert ráð fyrir að 36,7 milljónum króna að nafnverði yrði ráðstafað til eigenda í Sparisjóði Ólafsvíkur í skiptum fyrir stofnfé að sömu upphæð í Sparisjóði Ólafsvíkur. Þetta var vegna samruna sjóðanna en samrunaáætlun og samkomulag stjórna hafði verið samþykkt fyrr í sama mánuði. Það sem eftir stóð af heimildinni, 463,3 milljónir króna að nafnverði, var boðið út sem nýtt stofnfé. Áskriftartímabilið var til 27. desember 2006 og gengi bréfanna í útboðinu um 1,97. Í lok árs 2006 var stofnfé sparisjóðsins 1.100 milljónir króna að nafnverði. Þá voru stofnfjáreigendur 617.269

Á stofnfjáreigendafundi 20. desember 2006 var stjórn sparisjóðsins veitt heimild til að auka stofnfé um allt að 700 milljónir króna að nafnverði með áskrift jafnmargra nýrra stofnfjárhluta en á þeim tíma var stofnfé sparisjóðsins 1,1 milljarður króna að nafnverði. Heimildin gilti til 20. desember 2011. Heimild til stofnfjáraukningar var fullnýtt þegar samþykktum var breytt á aðalfundi sparisjóðsins 16. mars 2007 og var stofnfé sparisjóðsins þá 1,8 milljarður króna að nafnverði. Á aðalfundinum var stjórn sparisjóðsins veitt heimild til að auka stofnfé sparisjóðsins um allt að 1 milljarð króna að nafnverði með áskrift nýrra stofnfjárhluta og gilti heimildin til ársloka 2011. Stofnfjárútboð hóst svo 19. mars 2007 og var 700 millljóna króna stofnfé í boði á genginu 2,08. Í útboðslýsingu var fjárfestingu í stofnfjárbréfum lýst sem áhættufjárfestingu og voru fjárfestar hvattir til að kynna sér þá áhættu sem fælist í kaupum á stofnfjárbréfum.270 Heimildin var fullnýtt með útboði stofnfjár sem lauk 27. september 2007.

Snemma á árinu 2007, eða 8. janúar, var samþykkt að stofna tilboðsmarkað fyrir stofnfjárhluti í Sparisjóðnum í Keflavík og var viðskiptastofu sparisjóðsins falið að opna hann eins fljótt og auðið yrði. Samkvæmt reglum um viðskipti á tilboðsmarkaði átti markaðurinn að safna og miðla upplýsingum um kaup- og sölutilboð í stofnfjárhluti í Sparisjóðnum í Keflavík. Markaðurinn var rafrænn og aðeins þeim sem leyfi höfðu til verðbréfaviðskipta var heimilt að hafa milligöngu um að leggja fram tilboð. Jafnframt voru sett hæfisskilyrði fyrir kaupum á markaðnum.271 Þá voru enn í gildi ákvæði úr samþykktum um að sala eða annað framsal stofnfjárhluta væri óheimilt, nema með samþykki stjórnar. Fyrstu viðskipti á markaðnum fóru fram 15. janúar 2007 og var gengi stofnfjárbréfa þá 5,6. Eftir það fóru rúm 700 viðskipti fram á markaðnum. Stærstu viðskipti á markaðnum námu 370 milljónum króna í viðskiptum með stofnfé að nafnverði 17,2 milljónir króna. Gengi bréfa á markaðnum varð hæst 12,7 í viðskiptum sem fram fóru í lok júlí og byrjun ágúst 2007 en var 1,0 í seinustu viðskiptum á markaðnum 19. september 2008.272

Á stjórnarfundi sparisjóðsins 31. júlí 2007 var fjallað um viðræður Byrs sparisjóðs og Sparisjóðs Norðlendinga um samruna eða samstarf. Einn stjórnarmanna lýsti yfir „vonbrigðum sínum með það að [Sparisjóðurinn í Keflavík virtist] alltaf missa af lestinni við [þær] sameiningarviðræður sem orðið [hefðu] undanfarið. Hann lagði áherslu á að [sparisjóðurinn] herti róðurinn og reyndi að koma af stað viðræðum við aðra sparisjóði“.273 Undir þetta var tekið og lagði sparisjóðsstjóri til að bréf yrði sent til allra sparisjóða með ósk um viðræður um samruna eða samstarf sjóðanna. Í kjölfarið fékk sparisjóðurinn svarbréf frá nokkrum sparisjóðum og hóf viðræður við Sparisjóð Norðfjarðar, Sparisjóð Vestfirðinga og Sparisjóð Húnaþings og Stranda. Afrakstur þeirra viðræðna var sá að 6. september 2007 gáfu Sparisjóðurinn í Keflavík, Sparisjóður Vestfirðinga og Sparisjóður Húnaþings og Stranda út tilkynningu um að forsvarsmenn sparisjóðanna hefðu lagt til við stjórnir þeirra að sparisjóðirnir yrðu sameinaðir.274 Á stjórnarfundi Sparisjóðsins í Keflavík 10. september 2007 var síðan samrunaáætlun sparisjóðanna þriggja samþykkt af stjórn sparisjóðsins.

Á stofnfjáreigendafundi 4. desember 2007 var samþykktur samruni Sparisjóðsins í Keflavík, Sparisjóðs Vestfirðinga og Sparisjóðs Húnaþings og Stranda, undir nafni Sparisjóðsins í Keflavík. Á fundinum var stjórn sparisjóðsins auk þess veitt heimild til að auka stofnfé um allt að 2.380.219.979 krónur að nafnverði. Samkvæmt fundargerð stofnfjáreigendafundarins var um að ræða „stofnfé að söluverðmæti kr. 5.141.775.000 miðað við endurmatsstuðul nóvember, 2,16“. Heimildin gilti til 20. desember 2011.

Sparisjóður Þórshafnar og nágrennis tók einnig vel í tillögur Sparisjóðsins í Keflavík. Á stjórnarfundi 8. október 2007 greindi sparisjóðsstjóri Sparisjóðsins í Keflavík frá ferð sinni til Þórshafnar og Hólmavíkur til að ræða við stjórnir sparisjóðanna þar. Á fundi stjórnar Sparisjóðsins í Keflavík 12. nóvember 2007 var fjallað um samþykkt Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis fyrir því að hefja viðræður um sameiningu á sama grunni og gert var í sameiningarviðræðum við Sparisjóð Vestfirðinga annars vegar og Sparisjóð Húnaþings og Stranda hins vegar. Þremur dögum síðar undirrituðu stjórinir sparisjóðanna samrunagögn þeirra. Sparisjóður Þórshafnar og nágrennis hélt síðan fund stofnfjáreigenda 21. desember 2007 þar sem borin var undir atkvæði tillaga um heimild til aukningar á stofnfé til jöfnunar á skiptihlutfalli við Sparisjóðinn í Keflavík vegna fyrirhugaðrar sameiningar sparisjóðanna. Svo fór að tillagan var felld. Málið var síðan aftur tekið fyrir á fundi stofnfjáreigenda 19. janúar 2008 þar sem samruninn var samþykktur, sem og heimild til stjórnar Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis um aukningu stofnfjár að nafnverði 400 milljónir króna. Mætti sparisjóðsstjóri Sparisjóðsins í Keflavík á þann fund til að kynna tillögurnar frekar og stöðu síns sparisjóðs. Farið var í útboð 18. júní 2008 en þátttaka í því var svo dræm að fallið var frá stofnfjáraukningunni og þar með samruna við Sparisjóðinn í Keflavík.275

Stjórn Sparisjóðsins í Keflavík samþykkti á fundi sínum 2. júlí 2007 að nýta heimild frá aðalfundi til stofnfjáraukningar um 1 milljarð króna að nafnverði. Ákveðið var að halda stofnfjárútboð um haustið sem lauk 27. september 2007. Gengi stofnfjárbréfanna var 2,12. Í útboðslýsingunni var aftur tekið fram að fjárfesting í stofnfjárbréfum væri áhættufjárfesting og voru fjárfestar hvattir til að kynna sér áhættuna sem henni fylgdi.276 Allt stofnfé sem í boði var seldist til stofnfjáreigenda Sparisjóðsins í Keflavík.

Á sameiginlegum stjórnarfundi Sparisjóðsins í Keflavík, Sparisjóðs Vestfirðinga og Sparisjóðs Húnaþings og Stranda 18. nóvember 2007 kynnti sparisjóðsstjóri Sparisjóðsins í Keflavík tillögu um að auka stofnfé meira en samrunaáætlun sparisjóðanna gerði ráð fyrir. Lagði hann til að samanlagt stofnfé sparisjóðanna þriggja yrði aukið um 10 milljarða króna áður en af samruna yrði. Talsmenn Sparisjóðs Húnaþings og Stranda töldu þetta óframkvæmanlegt þar sem 85% stofnfjár sparisjóðsins væru í eigu einstaklinga sem þegar hefðu skuldsett sig vegna stofnfjáraukningar í tengslum við samrunann. Ólíklegt væri að þeir vildu ganga lengra í þeim efnum og þar að auki væri hæpið að sveitarfélög mættu lögum samkvæmt auka við stofnfjárhlut sinn. Fram komu hugmyndir um að stofna sérstakt eignarhaldsfélag heima í héraði sem hefði með höndum fjármögnun á stofnfjárkaupum en niðurstaðan varð sú að heimild var veitt til að auka stofnfé um 2.380 milljónir króna umfram þær rúmu 2.400 milljónir sem kveðið var á um í samrunaáætluninni.

Í framhaldi af þessu samþykkti stjórn Sparisjóðsins í Keflavík að leggja til við stofnfjáreigendafund að stjórn fengi heimild til aukningar stofnfjár að nafnverði 2.380 milljóna króna. Stefndi stjórn á að bjóða út 1.587 milljónir króna af þeirri heimild fyrir áramótin. Fundur stofnfjáraðila var haldinn 4. desember 2007 og var fyrsta mál á dagskrá tillaga um sameiningu Sparisjóðsins í Keflavík við Sparisjóð Vestfirðinga og Sparisjóð Húnaþings og Stranda. Var hún samþykkt með miklum meirihluta. Í fundargerðinni kom einnig fram að „[s]tjórn Sparisjóðsins [stefndi] á að auka stofnfé fyrir áramót og greiða hærri arð en áður“. Í samræmi við það var lögð fyrir fundinn áðurnefnd tillaga um heimild til stofnfjáraukningar og hún samþykkt. Stofnfjárútboðið hófst 10. desember 2007 og stóð í sjö daga. Útboðslýsing var gefin út og undirrituð 5. desember 2007 og í henni var tekið fram eins og áður að fjárfesting í stofnfjárbréfum væri áhættufjárfesting. Útboðinu lauk 17. desember 2007 og seldist allt stofnfé sem í boði var til stofnfjáreigenda Sparisjóðsins í Keflavík. Því jókst stofnfé í sjóðnum um 1.587 milljónir króna að nafnverði en útboðsgengi var 2,17.277

Þegar samruninn var genginn í gegn var stofnfé Sparisjóðsins í Keflavík orðið 13.572 milljónir króna að nafnverði og hafði það aukist um 11.449 milljónir króna að nafnverði frá árslokum 2006.278

Stofnfjáreigendum hafði fjölgað úr 558 í árslok 2005 í 1.626 í árslok 2007.279 Þar af höfðu stofnfjáreigendur Sparisjóðs Ólafsvíkur verið 46 talsins við samruna sjóðanna, 362 höfðu átt stofnfé í Sparisjóði Vestfirðinga og 163 í Sparisjóði Húnaþings og Stranda.280

Á fundi stjórnar sameinaðs Sparisjóðs í Keflavík 28. janúar 2008 var samþykkt að fela endurskoðanda sparisjóðsins ásamt lögmanni að setja upp áætlun um hlutafélagsvæðingu. Stuttu síðar var lagt fram minnisblað um breytingu á félagsformi.281 Hún gæti reynst nauðsynleg þegar hugað væri að vaxtarmöguleikum til framtíðar en hefði ekki mikil áhrif á rekstur sparisjóðsins sem slíkan. Víðtækustu áhrif hlutafélagsvæðingar væru fyrir stofnfjáraðila. Þar skiptu máli aðrir möguleikar til arðgreiðslu og mismunandi seljanleiki stofnfjár- og hlutabréfa. Um arðinn sagði í bréfinu:

Í hlutafélagaforminu má úthluta meiru en hagnaði til hlutahafa í formi arðs. Hagnaður fyrri ára er „geymdur“ í óráðstöfuðu eigin fé hlutafélaga. Gildandi lög um sparisjóði setja því hins vegar hömlur að greiða út meira en sem nemur hagnaði liðins árs til stofnfjáreigenda. Almennt séð eru því rýmri heimildir til arðgreiðslna. Á móti kemur hins vegar að öryggi stofnfjáreigenda fyrir endurmati og arðgreiðslum verður ekki eins mikið í hlutafélagaformi.282

Þá þyrfti að líta til þess að við breytingu í hlutafélag yrði til nýr „meðhlutahafi“, sjálfseignarstofnun sem fengi arðgreiðslur eins og aðrir hluthafar og taka yrði tillit til hennar við stjórn bankans. Með því myndi hlutdeild núverandi stofnfjáreigenda í mögulegum arðgreiðslum rýrna, en fyrir höfðu stofnfjárhafar fengið allar arðgreiðslur til sín og ekki þurft að deila þeim með varasjóði, þó sá hagnaður sem ekki var varið til arðgreiðslna hafi runnið í varasjóð. Hvað varðaði seljanleika var talið vandasamt að spá fyrir um hvort hlutabréf yrðu vænlegri kostur til að selja á almennum markaði. Eina fordæmið væri Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis hf., og hlutafélagsvæðingin þar hefði átt sér stað undir mjög óvenjulegum kringumstæðum og gerði hrun á fjármálamarkaði reynsluna af því nánast ómarktæka. Þá var bent á að viðskipti með skráð bréf félaga af sömu stærðargráðu og Sparisjóðurinn í Keflavík hefðu verið lítil og félögin hefðu nánast undantekningarlaust verið afskráð. Þó mætti segja að almenningur þekkti hlutabréf betur en stofnfjárbréf og væru reglur um réttarstöðu hluthafa skýrari. Loks var nefnt að helstu rökin að baki hlutafélagsvæðingu væru meðal annars þau að hægt væri að sameinast öðrum hlutafélögum en það gætu sparisjóðir ekki. Breyting í hlutafélag gæti einnig gert sparisjóðinn að „skotmarki“ þeirra sem vildu kaupa hann upp og sameina öðrum fyrirtækjum.283 Á fundi stjórnar 26. febrúar 2008 var kynnt framkvæmdaáætlun fyrir hlutafélagsvæðingu þar sem lagt var upp með að lokafundir stofnfjáreigenda um málið yrðu 25. ágúst 2008. Á næsta fundi, 29. febrúar 2008, var síðan eftirfarandi bókun lögð fram:

Stjórn [Sparisjóðsins í Keflavík] veitir sparisjóðsstjóra ásamt lykilstarfsmönnum sparisjóðsins heimild til að hefja könnunarviðræður við Icebank, Sparisjóð Mýrasýslu, Sparisjóð Vestmannaeyja og Spron um hugsanlega sameiningu. Áhersla er lögð á að viðræðurnar fari fram á forsendum og undir forystu [Sparisjóðsins í Keflavík].284

Umræðum um sameiningu við Icebank var fljótlega slegið á frest „vegna álits erlendra lánardrottna“ en hvert það álit var kom ekki fram í fundargerð 29. mars 2008 þar sem bókunina er að finna. Á stjórnarfundi mánuði síðar urðu miklar umræður um stöðu stofnfjáreigenda, svo sem um heimildir til innlausnar á stofnfjárhlutum við hlutafélagsvæðingu og hvort stjórn samþykkti að hægja á ferðinni með breytingu á félagsformi.285 Þorsteinn Erlingsson, formaður stjórnar, og Kristján G. Gunnarsson stjórnarmaður kynntu síðan fund sem þeir áttu seint í maí með stjórnarmönnum Sparisjóðs Mýrasýslu um hugsanlega samvinnu eða samruna.286 Eftir innkomu Kaupþings banka hf., sem stærsta stofnfjáraðila Sparisjóðs Mýrasýslu, samþykkti stjórn Sparisjóðsins í Keflavík að senda þeim sparisjóðum sem eftir stæðu bréf þar sem óskað var eftir viðræðum um sameiningu eða samruna.287

Snemma í júní lágu fyrir drög að verðmati Capacent á sparisjóðnum og var hann metinn á 20 milljarða króna288 og var enn rætt um hugsanlega hlutafélagsvæðingu sparisjóðsins á stjórnarfundi 20. júní 2008. Þar var greint frá minnisblaði endurskoðanda og lögmanns sparisjóðsins þar sem lagt var til að fresta áformum um hlutafélagsvæðingu. Í minnisblaðinu sagði meðal annars:

Miðað við þróun á gengi Exista má gera ráð fyrir því að ef sjóðnum yrði breytt í hlutafélag yrði hlutdeild sjálfseignarstofnunar í útgefnu hlutafé lítil sem engin. Vissulega eru það jákvæð tíðindi fyrir stofnfjáreigendur, en hitt vegur þó þungt að líklega yrði það mikill álitshnekkir fyrir sparisjóðinn ef niðurstaðan yrði sú að engar sjálfseignarstofnanir yrðu eftir í héraði að lokinni umbreytingu. Veruleg áhætta væri á því að viðskiptavild, sem tekið hefur áratugi að vinna upp, gæti beðið óafturkræft tjón.289

Á fundinum urðu miklar umræður og varð niðurstaðan sú að skoða málið betur og fresta umræðu til næsta fundar. Á þeim fundi er ekkert bókað um málið, en á þarnæsta stjórnarfundi, 22. júlí 2008, lagði stjórnarformaður áherslu á að hraða þyrfti vinnu við hlutafélagsvæðingu sparisjóðsins til að hann stæði betur að vígi til framtíðar.

Annað verðmat frá Capacent var kynnt á stjórnarfundi í lok september 2008. Eftir kynningu á því og umræður um það var niðurstaðan sú að verðmat á Sparisjóðnum í Keflavík væri 12,4 milljarðar króna og að eignarhlutur stofnfjáreigenda væri 100%.290

Á svipuðum tíma tók að bera á því að stofnfjáreigendur sendu stjórn bréf með beiðni um innlausn stofnfjárhluta. Beiðnirnar voru ræddar og var niðurstaða sparisjóðsins eftirfarandi:

Stjórninni er heimilt að innleysa stofnfé, en henni er það ekki skylt. Matið er augljóslega hjá stjórninni og þarf að gæta að því að öll sambærileg tilvik verði meðhöndluð eins, þ.e. að jafnræði verði haft í hávegum. Óheimilt er að kaupa stofnfé eins stofnfjáreiganda en hafna öðrum, enda verður stjórnin að gæta jafnræðis. Við núverandi aðstæður er það niðurstaða stjórnar sparisjóðsins að stofnfé verði ekki innleyst nema í þeim tilvikum þar sem slíkt er skylt, þ.e. ef framsalsbeiðnum er hafnað. Ákvörðun þessi verður endurskoðuð að liðnum sex mánuðum, eða fyrr hafi aðstæður breyst sérstaklega.291

Á fundi stjórnar Sparisjóðsins í Keflavík 3. október 2008 ræddi sparisjóðsstjóri útlit og horfur á fjármálamörkuðum og óróleika hjá viðskiptamönnum vegna ástandsins sem væri á mörkuðum heimsins. Starfsmannafundur hafði þá verið haldinn innan sjóðsins um málið fyrr um daginn. Í næsta lið fundargerðar samþykkti stjórn heimild til viðskiptastofu til þess að færa stofnfjáreign sparisjóðsstjóra og aðila tengdum honum, samtals að nafnverði um 11 milljónir króna, yfir í einkahlutafélagið Einiturn ehf. sem var í eigu sparisjóðsstjórans.

Á fundi stjórnar sparisjóðsins 3. desember 2008 var fjallað um viljayfirlýsingu stjórna Sparisjóðsins í Keflavík, Sparisjóðs Mýrasýslu, Byrs sparisjóðs og Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis um að leggja fyrir fundi stofnfjáreigenda og hluthafa sinna að sparisjóðirnir yrðu sameinaðir. Samruninn skyldi miðast við 1. janúar 2009 og fundir eigenda boðaðir í febrúarmánuði. Á næsta fundi var rædd skipting eignarhluta, og átti hlutur Sparisjóðsins í Keflavík að vera 18,0% fyrir framlag úr ríkissjóði ríkisins en 14,4% eftir framlag ríkisins.292 Frekari umræður voru um málið á fyrstu fundum á nýju ári 2009 en hægagangur var í viðræðum. Eftir að Fjármálaeftirlitið tók yfir vald hluthafafundar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis og stofnfjárhafafundar Sparisjóðs Mýrasýslu voru sameiningar við þá úr sögunni. Með þróun á fjármálamörkuðum varð hlutafélagsvæðingin ekki eins fýsileg, auk þess sem stjórn og stjórnendur lögðu meiri áherslu á að halda sparisjóðnum rekstrarhæfum og koma honum í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu.

19.6 Fjárhagsleg endurskipulagning

Árið 2008 varð 17 milljarða króna tap á rekstri Sparisjóðsins í Keflavík eftir 10 ára samfelldan hagnað. Munaði þar mestu um gengistap af fjáreignum og afskriftir útlána. Eigið fé var 5,4 milljarðar króna í árslok en varasjóður neikvæður um 11 milljarða króna. Eiginfjárhlutfall sparisjóðsins féll um 15 prósentustig á árinu 2008, úr 22,2% í árslok 2007 í 7,1% í lok árs 2008 og fór þá í fyrsta sinn niður fyrir lögbundið 8% lágmark.293 Sparisjóðurinn hafði lengi glímt við lausafjárvanda og haustið 2008 lögðu sveitarfélög á Reykjanesi og lífeyrissjóðir inn 5,5 milljarða með nýjum innlánum.294 Þrátt fyrir innlán opinberra aðila og lífeyrissjóða var lausafjárvandi sparisjóðsins viðvarandi.

Á fundi nefndar um endurskipulagningu bankakerfisins295 4. mars 2009 tók Seðlabanki Íslands að sér að leiða vinnu við aðgerðaáætlun í málefnum sparisjóðanna og Sparisjóðabanka Íslands hf.296 Samkvæmt gögnum Seðlabankans var vinna við aðgerðaáætlun hafin þegar í kjölfar þessa fundar. Um var að ræða samstarfsverkefni Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans. Í drögum að vinnuskjali vegna aðgerðaáætlana, „Fall og endurskipulagning minni fjármálafyrirtækja í mars 2009“, frá 7. mars 2009 er fjallað um Sparisjóðinn í Keflavík, svo og aðrar fjármálastofnanir. Þar kom fram að fyrirsjáanlegt væri að í kjölfar lausafjárþurrðar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. myndi stór hluti sparisjóðakerfisins riða til falls vegna innlánaflótta. Sparisjóðabankinn myndi falla í kjölfarið og draga með sér veikustu sparisjóðina en önnur fjármálafyrirtæki gætu fylgt í kjölfarið. Í vinnuskjalinu var lagt til að nokkrum fjármálafyrirtækjum yrði lokað á næstu sólarhringum og innlán viðskiptavina þeirra færð í örugga höfn. Þeirra á meðal var Sparisjóðurinn í Keflavík, fjárhagsstaða hans væri með þeim hætti að honum yrði vart bjargað og var þar vísað til lausafjárvandræða og ótryggs eignasafns sparrisjóðsins.297

Fyrir rannsóknarnefndinni sagði settur forstjóri Fjármálaeftirlitsins að hann hefði ekki litið svo á að þetta hafi verið ákveðið, þetta hafi bara verið hugmyndir og hluti af undirbúningi ef á reyndi. Í hans huga hafi verið fráleitt að yfirtaka Sparisjóðinn í Keflavík á þeim tíma. Eiginfjárhlutfall sparisjóðsins hafi verið rétt undir lögbundnu lágmarki og enginn grundvöllur til að taka sparisjóðinn niður á grundvelli þess að hann hafi verið lítillega undir því marki.298 Aðspurður kvaðst stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins reka minni til að „ákveðinn vilji hafi verið til þess að sparisjóðakerfið sem heild hryndi ekki“ og kannski hafi það ráðið för að þarna væri einhver hluti af sparisjóðakerfinu sem væri lífvænlegur.299

Fyrir rannsóknarnefndinni sagði framkvæmdastjóri fjármálasviðs Seðlabanka Íslands:

Ég held að þegar málið er skoðað eftir á varðandi [Sparisjóðinn í Keflavík] sé mjög erfitt að sjá réttlæti fyrir því að sparisjóðurinn fengi að lifa svona lengi. Ég man það í umræðunni um þessa seinni hrinu í mars 2009 að það var mikill vilji til þess af hálfu stjórnvalda og þá er ég líka að hugsa til ráðherra að geta sagt – fólk var í miklu sjokki yfir því sem gerðist í stóra hruninu og það var verið að reyna að endurbyggja traust – það var mikill vilji til að geta sagt í mars ef þetta gerðist á þessum tíma „Nú er þetta búið“. Nú getum við byrjað uppbyggingu á þessum grundvelli. Samkvæmt því hefði verið hægt að taka á [Sparisjóðnum í Keflavík] á þessum tíma af því að þar voru hlutir ekki að gerast. Ég veit ekki nákvæmlega hvers vegna sparisjóðurinn fékk að halda áfram. Maður skynjaði þó að það væri svona viss vilji af hálfu stjórnvalda að halda einhverju sparisjóðakerfi á lífi og þá komu inn önnur sjónarmið. Fjármálastöðugleikasjónarmið er ekki eina sjónarmiðið sem er uppi þegar fjallað er um hlutina, það er líka samkeppnissjónarmið og jafnvel byggðamál og annað slíkt sem koma inn í myndina. Það var allavega niðurstaðan hjá þessum aðilum að [Sparisjóðurinn í Keflavík] heldur áfram á þessum tímapunkti en hefði getað endað sína daga þarna.300

Sömu sjónarmið komu fram í skýrslu framkvæmdastjóra alþjóða- og markaðssviðs Seðlabanka Íslands. Sagðist hann halda að menn hafi áttað sig á því að sparisjóðurinn væri „lifandi lík“ en á meðan hann hafi haft starfsleyfi og tryggingar hafi hann lögum samkvæmt átt aðgang að lausafjárfyrirgreiðslu. Seðlabankinn hafi ekki treyst sér til að „kippa honum úr sambandi“ án samvinnu við önnur stjórnvöld. Á meðan vilji væri hjá stjórnvöldum og Fjármálaeftirlitinu til að líta á sparisjóðinn sem rekstrarhæft fyrirtæki hafi Seðlabankinn ekki gert athugasemdir svo lengi sem þessi skilyrði væru uppfyllt.301 Ákvörðunin um að láta sparisjóðinn halda áfram starfsemi hafi verið tekin af öðrum stjórnvöldum og vísaði hann til ríkisstjórnar og fjármálaráðuneytis.302 Fram kom í skýrslu viðskiptaráðherra fyrir rannsóknarnefndinni að um almenna viðleitni til að bjarga sparisjóðakerfinu hafi verið að ræða. Sparisjóðurinn í Keflavík hafi verið eina fjármálastofnunin á tiltölulega stórum landsvæðum, þá ekki aðeins á Suðurnesjum heldur líka á Vestfjörðum. Án Sparisjóðsins í Keflavík hefði sparisjóðakerfið eiginlega ekki verið til á landsvísu, því var talið þess virði að reyna að sjá hvort samningar við kröfuhafa auk 20% eiginfjárframlags úr ríkissjóði væri leið til þess að endurlífga sparisjóðinn. Einfalda skýringin hafi verið sú að án Sparisjóðsins í Keflavík hefði sparisjóðanetið aldrei orðið almennileg stoð í nýju fjármálakerfi.303Á sama tíma og stjórnvöld unnu að aðgerðaáætlun og viðbrögðum undirbjó Sparisjóðurinn í Keflavík umsókn sína um 20% eiginfjárframlag á grundvelli 2. gr. laga nr. 125/2008.

19.6.1 Umsókn um 20% eiginfjárframlag úr ríkissjóði

Sparisjóðurinn í Keflavík sótti um 20% eiginfjárframlag úr ríkissjóði 10. mars 2009 á grundvelli 2. gr. laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. Reglur um eiginfjárframlag úr ríkissjóði til sparisjóða voru samþykktar 18. desember 2008 og heimiluðu þær allt að 20% framlag eigin fjár sparisjóðs miðað við bókfærða stöðu þess 31. desember 2007. Í umsókninni kom fram að samkvæmt samstæðuársreikningi Sparisjóðsins í Keflavík hefði eigið fé í árslok 2007 numið tæpum 25,5 milljörðum króna og eiginfjárhlutfall verið 22,2%. Taldi sparisjóðurinn að heimilt væri að leggja sjóðnum til 5,1 milljarðs króna eiginfjárframlag, að öðrum skilyrðum uppfylltum. Í staðfestingu endurskoðanda sparisjóðsins kom fram að í drögum að rekstrar- og efnahagsreikningi samstæðunnar fyrir árið 2008 væri eigið fé 7,3 milljarðar króna og eiginfjárhlutfallið 8,5%. Yrði stofnfé hækkað um 5,1 milljarð króna yrði eiginfjárhlutfallið 12,6%. Í samræmi við ákvæði reglna um framlög til sparisjóða vísaði fjármálaráðuneytið umsókninni til umsagnar Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands.304

Umsögn Fjármálaeftirlitsins lá fyrir 31. mars 2009 að lokinni heimsókn í Sparisjóðinn í Keflavík þar sem farið var yfir gögn um niðurfærslur og mat lagt á virði stærstu áhættuskuldbindinga sjóðsins. Fjármálaeftirlitið taldi verulegan vafa leika á að verðmæti útlánasafns sparisjóðsins hefði verið fært niður eins og tilefni væri til og taldi að auka þyrfti afskriftir um að minnsta kosti 2,5 milljarða króna miðað við skoðun á stærri útlánum sparisjóðsins. Sparisjóðnum var gefinn kostur á að setja fram nýtt mat á útlánum, en hann tók undir sjónarmið Fjármálaeftirlitsins og jók niðurfærslu útlána um tæpa 2,9 milljarða króna. Með þeirri niðurfærslu og öðrum breytingum varð eiginfjárhlutfall sparisjóðsins samkvæmt ársreikningi 7,1%.305 Taldi sparisjóðurinn að áætlaðar aðgerðir um gjaldmiðlabreytingar lánasamninga og víkjandi lántöku ásamt eiginfjárframlagi ríkissjóðs mundu hækka eiginfjárhlutfallið í 13,82%.306 Fjármálaeftirlitið taldi rekstraráætlun sparisjóðsins í heildina raunhæfa en óvissa ríkti um mat á mörgum smærri útlánamálum sjóðsins. Fjármálaeftirlitið mælti með því sem skilyrði fyrir 20% eiginfjárframlagi úr ríkissjóði að framkvæmd yrði áreiðanleikakönnun á útlánasafni sjóðsins með tilliti til afskriftaþarfar til að draga úr óvissu um virði útlánasafns.307

Seðlabanki Íslands veitti sameiginlega umsögn um umsóknir nokkurra sparisjóða um framlag úr ríkissjóði 21. apríl 2009, þeirra á meðal var umsókn Sparisjóðsins í Keflavík. Bankinn lagði ríka áherslu á að ákveðnum atriðum yrði fylgt ef til endurfjármögnunar kæmi. Breytingar yrði að gera á yfirstjórn fjármálafyrirtækjanna þar sem það ætti við, framtíðararðgreiðslur yrðu takmörkunum háðar, nýjar viðskiptaáætlanir myndu liggja fyrir og þar með einnig nákvæmar áætlanir um lækkun kostnaðar. Þá skyldi leita leiða til að fá fleiri aðila til að leggja sparisjóðunum til nýtt eigið fé og dreifa eignarhaldi. Var þar einkum litið til sveitarfélaga og annarra bakhjarla auk ríkissjóðs til að styrkja sparisjóðina og dreifa eignarhaldi. Seðlabankinn lagði áherslu á að tryggt yrði að það tap sem lægi fyrir yrði borið af þáverandi eigendum áður en ríkið legði til nýtt eigið fé. Mikilvægt væri að eigið fé sparisjóðanna yrði metið af Fjármálaeftirlitinu og endurskoðendum sparisjóðanna og niðurfært eins og þörf krefði áður en ríkissjóður legði fram nýtt eigið fé. Ljóst mætti telja að tekjur af grunnstarfsemi sparisjóðanna yrðu að aukast, þar með taldar tekjur af vaxtamun, og gera yrði átak í lækkun rekstrarkostnaðar. Lögð var áhersla á að sparisjóðirnir yrðu traustar og arðsamar rekstrareiningar eftir endurfjármögnun og því þyrfti að kanna sameiningu sparisjóða áður en framlag yrði ákveðið. Mikilvægt væri að helstu áhættur sparisjóðanna, útlána- og lausafjáráhætta, yrðu innan viðráðanlegra marka og að gjaldeyris- og verðtryggingarójöfnuður yrði sem minnstur. Þá yrði að efla áhættustýringu og innra eftirlit hjá sparisjóðunum.308

Auk umsagnarinnar tók Seðlabanki Íslands saman minnisblað 13. maí 2009 um alvarlega stöðu Sparisjóðins í Keflavík sem nauðsynlegt væri fyrir fjármálaráðuneytið að hafa í huga við afgreiðslu umsóknar sparisjóðisins um eiginfjárframlag úr ríkissjóði.309 Þar var meðal annars fjallað um lausa- og eiginfjárstöðu, gjaldeyrisjöfnuð, fyrirgreiðslu í Seðlabankanum og stöðu í greiðslukerfum. Með fyrirhuguðu ríkisframlagi væri spá Sparisjóðsins í Keflavík um lausafjárstöðu jákvæð út árið 2009. Í greiðsluflæðisáætlunina vantaði hins vegar tvö lán upp á fimm milljarða króna, sem ekki hafði verið samið um gjalddaga á. Ekki yrði séð miðað við fyrirliggjandi upplýsingar að sparisjóðurinn hefði nokkur tök á að greiða lánin þrátt fyrir framlag úr ríkissjóði; opin gjaldeyrisstaða sparisjóðsins væri 24 milljarðar króna umfram leyfileg mörk samkvæmt reglum Seðlabankans, eigið fé sjóðsins væri mjög berskjaldað fyrir hreyfingum á krónunni og gjaldeyrisvarnir sparisjóðsins engar. Sparisjóðurinn hefði leitað til Seðlabankans undir lok árs 2008 vegna skiptasamninga, en bankinn synjað þeirri beiðni. Vísaði Seðlabankinn til bréfs sparisjóðsins til Fjármálaeftirlitsins frá 30. apríl 2009 þar sem gefið væri til kynna að stjórnvöld væru hugsanlega tilbúin að loka gjaldeyrisáhættu sparisjóðsins með skiptasamningum. Fulltrúar gjaldeyrisjafnaðarnefndar könnuðust ekki við að sjóðnum hefði verið lofað slíku og ef ríkið mundi gera slíkan skiptasamning yrði hann að vera minni en 24 milljarðar króna. Taldi Seðlabankinn ólíklegt að sparisjóðurinn réði við afborganir slíks samnings eða að hann ætti fullnægjandi tryggingar fyrir honum. Þá taldi Seðlabankinn ólíklegt að sparisjóðurinn mundi ráða við niðurfærslu vegna gengistryggðra lána. Gengisáhætta sparisjóðsins væri umtalsverð og ríkið ætti ekki að leggja fram fé í reksturinn nema gjaldeyrisáhættu yrði lokað. Um eiginfjárvandann var vísað til umsóknar sparisjóðsins og þeirra upplýsinga sem þar komu fram, kröfu Fjármálaeftirlitsins um aukna niðurfærslu eigna og skýrslna sjóðsins um eiginfjárhlutfall fyrir fyrsta ársfjórðung 2009. Samkvæmt þeim nam eiginfjárhlutfallið 3,9%.310 Áhyggjur bankans af alvarlegri stöðu sparisjóðsins voru ítrekaðar í bréfum til Fjármálaeftirlitsins og fjármálaráðuneytisins 3. júní 2009. Þar var bent á að innlán í sparisjóðnum hefðu aukist um 32% frá því í september 2008. Að einhverju leyti væri um að ræða skilmálabreytingar vegna annarra skuldbindinga sjóðsins, slíkar skuldbindingar gætu falið í sér vantraust lánardrottna á sparisjóðnum og sókn þeirra í innlán á grundvelli yfirlýsingar stjórnvalda. Mat bankans var að staða Sparisjóðsins í Keflavík væri óviðunandi og gæti auk þess haft neikvæð áhrif á aðra sparisjóði.311

19.6.1.1 Aðgerðir Fjármálaeftirlitsins

Hinn 25. maí 2009 veitti Fjármálaeftirlitið Sparisjóðnum í Keflavík frest til 15. júní 2009 til að auka við eiginfjárgrunn sinn. Í bréfi þar um kom fram að eiginfjárhlutfall sparisjóðsins væri komið undir lögbundið lágmark og því til stuðnings var vísað til til ársreiknings sparisjóðsins fyrir árið 2008 og eiginfjárskýrslu miðað við 31. mars 2009. Þar sem sparisjóðurinn hafði þegar, með bréfi dagsettu 30. apríl 2009, greint frá ráðstöfunum sem hann hugðist grípa til í því skyni að auka við eiginfjárgrunn sinn, var sjóðnum veittur frestur til 15. júní 2009. Fyrirhugaðar ráðstafanir sparisjóðsins byggðu einkum á því að sjóðurinn myndi fá 20% eiginfjárframlag úr ríkissjóði. Frestur sparisjóðsins til að auka við eiginfjárgrunninn var framlengdur alls þrettán sinnum, oftast tæpan mánuð í senn, í síðasta skipti 29. mars 2010, en þá var veittur frestur til 21. apríl 2010.

Fjármálaeftirlitið tilkynnti Sparisjóðnum í Keflavík um mögulega skipun sérfræðings til að hafa sértækt eftirlit með sparisjóðnum 25. maí 2009, sbr. 9. gr. laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Í andmælum stjórnar sparisjóðsins kom meðal annars fram að stjórnin teldi ótímabært að sjóðnum yrði skipaður sérfræðingur þar sem viðræðum við ríkið um fjárveitingu úr ríkissjóði væri ekki lokið. Slík ráðstöfun gæti haft neikvæð áhrif á rekstur sparisjóðsins.312 Fjármálaeftirlitið benti hins vegar á að vegna alvarlegrar stöðu sparisjóðsins væri nauðsynlegt að hafa óháðan sérfræðing á starfsstöð hans til að meta aðstæður og upplýsa Fjármálaeftirlitið um framgang mála. Fjármálaeftirlitið skipaði síðan Soffíu E. Björgvinsdóttur hdl. til að hafa sértækt eftirlit með Sparisjóðnum í Keflavík. Skipun hennar var framlengd á um fjögurra vikna fresti, allt þar til Fjármálaeftirlitið tók yfir vald stofnfjárhafafundar sjóðsins 22. apríl 2010.

19.6.1.2 Skýrsla PricewaterhouseCoopers

Endurskoðunarfyrirtækið PricewaterhouseCoopers hf. var fengið til að gera könnun á ákveðnum þáttum í efnahag og starfsemi Sparisjóðsins í Keflavík og skilaði niðurstöðum 27. maí 2009. Meginniðurstaða skýrslunnar var að auka þyrfti virðisrýrnun eigna um 3,6 milljarða króna, þar af væri virðisrýrnun útlána 3,4 milljarðar króna. Lögð var áhersla á að skoða ítarlega 100 stærstu lánþegana og alla fyrirgreiðslu til þessa. Eignamatið í skýrslunni miðaðist við stöðu útlána í lok mars 2009 en tók að öðru leyti ekki tillit til rekstrar á árinu 2009. Bent var á að rekstraráætlun sparisjóðsins fyrir árið 2009 gerði ráð fyrir 900 milljóna króna hagnaði og eins milljarðs króna hagnaði fyrir árið 2010. Sú áætlun gerði ráð fyrir vaxtamun upp á 3,1% og 3,4%. Núllpunkti í rekstri yrði náð við 2,2% vaxtamun, en fyrstu fjóra mánuði ársins 2009 hafði vaxtamunur þó verið neikvæður um 1,5%. Gjaldeyrisjöfnuður til eignar umfram skuldir næmi 25 milljörðum króna, áður en tekið væri tillit til viðbótarniðurfærslu. Gengisbundinni lántöku sparisjóðsins hefði verið sagt upp af lánveitanda í lok árs 2008 og hefði sparisjóðurinn ekki náð nýjum samningum til að takmarka gengisáhættu. Mikið ójafnvægi væri milli erlendra eigna og erlendra skulda og lausafjárstaða sparisjóðsins væri mjög þröng. Áhrif aukinnar niðurfærslu eigna yrði að eiginfjárhlutfallið lækkaði í 3,32% og þyrfti eigið fé að hækka um 7,6 milljarða til að sparisjóðurinn uppfyllti skilyrði í reglum um eiginfjárframlag ríkissjóðs til sparisjóða um lágmarks eiginfjárhlutfall upp á 12%.313 Því voru forsendur fyrir framlagi ríkissjóðs til Sparisjóðsins í Keflavík á grundvelli 2. gr. laga nr. 125/2008 ekki fyrir hendi.

Sparisjóðurinn í Keflavík gerði athugasemdir við niðurstöðu áreiðanleikakönnunarinnar og sagði hana háða verulegri óvissu og byggða á varfærnum forsendum sem væru umdeilanlegar. Niðurstaðan myndi leiða til verulegra breytinga á eigin fé miðað við hefðbundið uppgjör. Þá var gagnrýnt að ekki væri litið til annarra þátta, svo sem viðskiptavildar, nálægðar og tengsla við viðskiptavini, stöðu á markaði á markaðssvæði, góðrar áhættudreifingar eignasafns og reynslumikils starfsfólks. Það var mat sparisjóðsins að með framlagi ríkisins og annarra fjárfesta til sparisjóðsins og að teknu tilliti til gengisvarna yrði eiginfjárhlutfallið 14,1%.314

Í byrjun júní 2009 urðu breytingar hjá Sparisjóðnum í Keflavík. Geirmundur Kristinsson hætti sem sparisjóðsstjóri og Angantýr Valur Jónasson tók við starfi hans. Fram kom í skýrslu Angantýs fyrir rannsóknarnefnd Alþingis að í kjölfar fundar í lok maí 2009 þar sem niðurstaða úttektar PricewaterhouseCoopers var kynnt hafi hann gengið út, sannfærður um að sparisjóðurinn myndi ekki starfa lengur en einn til tvo daga til viðbótar. Á fundi í fjármálaráðuneytinu skömmu síðar „stungu þeir upp á því, spurðu hvort við hefðum eitthvað á móti því, að fá ráðgjafa til aðstoðar við að endurreisa sjóðinn og hvort þeir mættu benda á ráðgjafa. Við samþykktum það og þá hófst næsti kafli í því [.] að reyna að endurreisa sjóðinn“.315

19.6.1.3 Aðgerðaáætlun Sparisjóðsins í Keflavík og viðbrögð stjórnvalda og kröfuhafa

Sparisjóðurinn í Keflavík hóf vinnu við fjárhagslega endurskipulagningu með mögulegri aðkomu ríkisins og fyrir ábendingu fjármálaráðuneytisins var Guðmundur Hjaltason hjá ráðgjafafyrirtækinu Möttli hf. ráðinn sem ráðgjafi sparisjóðsins til að vinna að tillögum um endurskipulagninguna.316

Sparisjóðurinn sendi fjármálaráðuneytinu erindi um aðkomu þess að fjárhagslegri endurskipulagningu sparisjóðsins 12. júní 2009 og óskaði staðfestingar á að ríkissjóður myndi leggja sparisjóðnum til 5 milljarða króna í stofnfé að því tilskildu að allir lánardrottnar samþykktu endurskipulagninguna og stofnfjáreigendur samþykktu lækkun á stofnfé. Meginatriði tillagna sparisjóðsins voru að stofnfé yrði fært niður um 90%, að lánardrottnar með óveðtryggðar kröfur myndu breyta 45% krafna sinna í nýtt lán, 20% í víkjandi lán og 35% í nýtt stofnfé og víkjandi lánum yrði að öllu leyti breytt í stofnfé. Fyrir hverja milljón sem umbreytt yrði í stofnfé myndu kröfuhafar eignast 0,00607% í stofnfé sparisjóðsins. Með þessum aðgerðum, auk framlags úr ríkissjóði, yrði ríkið stærsti stofnfjáreigandi sparisjóðsins með tæplega 31% stofnfjár.317 Vegna efnahagslegrar óvissu næstu missera og ára töldu stjórnendur sparisjóðsins þörf á aukinni niðurfærslu eigna um 7,8 milljarða króna til viðbótar þeirri niðurfærslu sem PricewaterhouseCoopers hafði þegar lagt til. Hins vegar myndu aðgerðir sparisjóðsins leiða til þess að eiginfjárhlutfall yrði um 19,8% í árslok 2009. Var það staðfest af PricewaterhouseCoopers hf., sem hafði yfirfarið útreikninga að beiðni fjármálaráðuneytisins og talið þá vera í samræmi við þau gögn sem kynnt voru með aðgerðaáætluninni. Þó benti PricewaterhouseCoopers á að í áætluninni væri gert ráð fyrir að þáverandi stofnfjárhafar mundu halda eftir um 10% af stofnfé sínu. Ef miðað væri við innra virði eigin fjár samkvæmt skýrslu PricewaterhouseCoopers frá 27. maí 2009 ætti hlutdeild þáverandi stofnfjárhafa að vera 3,1%. Þá vakti einnig athygli að eigendur víkjandi lána fengju sama verðgildi fyrir umbreytingu krafna sinna í stofnfé og aðrir kröfuhafar, þrátt fyrir að áhætta víkjandi krafna væri meiri.318

Fjármálaráðuneytið svaraði erindi sparisjóðsins 16. júní 2009. Gengi fjárhagsleg endurskipulagning sparisjóðsins á grundvelli aðgerðaáætlunarinnar eftir, væri það niðurstaða ráðuneytisins með vísan til 2. gr. laga nr. 125/2008 að forsendur væru til að ráðuneytið tæki þátt í endurskipulagningunni með kaupum á stofnfé fyrir allt að 5,1 milljarð króna. Gerður var fyrirvari um að aðgerðaáætlun sparisjóðsins yrði sett í framkvæmd og forsendur hennar um endanlegt eiginfjárhlutfall héldu. Samþykki kröfuhafa og stofnfjáreigendafundar sparisjóðsins þyrfti einnig að liggja fyrir.319

Staða Sparisjóðsins í Keflavík versnaði sumarið 2009 og undir lok júlímánaðar var lausafjárstaðan orðin mjög slæm. Í tölvupóstsamskiptum milli starfsmanna forsætisráðuneytisins 22. júlí 2009 undir yfirskriftinni „Sparisjóður Keflavíkur að fara“ kom fram að útlit væri fyrir að Fjármálaeftirlitið yrði að taka yfir sparisjóðinn mjög fljótlega, jafnvel sama dag, og að lausafjárvandræði sparisjóðsins væru orðin slík að erfitt eða nær ómögulegt væri að leysa þau.320 Framkvæmdahópur á vegum stjórnvalda (Execution Committee)321 fundaði oft síðustu dagana í júlí þar sem farið var yfir erfiða stöðu sparisjóðsins. Á fundi nefndarinnar 24. júlí 2009 var ekki talin þörf á að taka hann yfir í nánustu framtíð og voru kynntar mögulegar leiðir, næðust ekki samningar við kröfuhafa. Fram kom í skýrslu ráðgjafa fjármálaráðherra fyrir rannsóknarnefndinni að í raun og veru hafi sparisjóðurinn verið í ofboðslega miklu „lausafjár-limbói“ og að hann bjargaði sér bara viku fyrir viku.322

Á fundum framkvæmdahópsins 29. og 31. júlí 2009 kom fram að eigendur meirihluta krafna, miðað við fjárhæðir, hefðu samþykkt rammasamkomulag um fjárhagslega endurskipulagningu en ekki lægi fyrir formlegt samþykki. Stefnt væri að fundi kröfuhafa um miðjan ágúst 2009 og lagði Fjármálaeftirlitið til að frestur sparisjóðsins til að leysa eiginfjárvandann yrði framlengdur. Tilboðið sem lagt hafði verið fyrir kröfuhafa myndi hins vegar ekki leysa lausafjárvanda sparisjóðsins og var því beint til Seðlabankans að ítreka athugasemdir bankans um lausafjárvanda sparisjóðsins.323

Í bréfi Seðlabanka Íslands til Fjármálaeftirlitsins og Sparisjóðsins í Keflavík 31. júlí 2009 voru áréttaðar áhyggjur bankans af stöðu sparisjóðsins vegna slæmrar lausafjárstöðu, gjaldeyrisójöfnuðar og eiginfjárvanda. Taldi bankinn að við fjárhagslega endurskipulagningu sparisjóðsins yrði, auk bættrar eiginfjárstöðu, að sýna fram á hvernig hann hygðist mæta þeim rekstrarvanda sem við blasti og tryggja nægt lausafé. Undirliggjandi staða sparisjóðsins væri í raun mun verri en lausafjáryfirlit gæfu til kynna. Í bréfinu var bent á að Grindavíkurbær hefði þegar óskað eftir að taka út 3 milljarða króna innistæðu sína hjá sjóðnum. Þá mátti vænta úttekta ríkissjóðs og Íbúðalánasjóðs á innistæðum sem samtals námu um 3,3 milljörðum króna. Auk endurskipulagningar á kröfum lánardrottna í samningaviðræðum mátti því búast við að sparisjóðurinn þyrfti að fjármagna um 6,3 milljarða króna útstreymi innistæðna. Seðlabankinn myndi áfram telja stöðu sparisjóðsins óviðunandi nema sýnt yrði fram á stórlega bætta lausafjárstöðu og getu til að standa við fjárhagslegar skuldbindingar.324

19.6.1.4 Rammasamkomulag um fjárhagslega endurskipulagningu

Erlendir kröfuhafar Sparisjóðsins í Keflavík undirrituðu áðurnefnt rammasamkomulag um fjárhagslega endurskipulagningu í ágúst og september 2009. Meginatriði samkomulagsins voru þau að stofnfé yrði fært niður um 92% og 50% víkjandi krafna yrðu afskrifaðar en afgangi breytt í stofnfé. Innlendir kröfuhafar myndu breyta 40% krafna sinna í stofnfé, 20% í víkjandi lán og 40% í nýtt lán. Erlendir kröfuhafar myndu breyta 50% krafna sinna í nýtt lán, 10% í víkjandi lán, 2,7% í vaxtalaust skuldabréf á sjóðinn og 37,3% í breytirétt í stofnfé í sjóðnum.325 Þá var áætlað að nota 1,5 milljarða króna af eiginfjárframlaginu til að endurgreiða lánveitendum hluta lána þeirra til sjóðsins.326 Gert var ráð fyrir niðurfærslu eigna sem nam tæpum 11 milljörðum króna og byggt var á mati PricewaterhouseCoopers að viðbættri niðurfærslu að mati sparisjóðsins sjálfs. Sparisjóðurinn gerði bæði ráð fyrir að eiginfjárhlutfall yrði 19,8% og að laust fé sparisjóðsins yrði meira en 4 milljarðar króna í lok árs 2009 ef þessar áætlanir gengju eftir.

Ákveðið var að afskrifa ekki að fullu allt stofnfé, meðal annars vegna sterkra tengsla sparisjóðsins við samfélagið á starfsvæði hans, en einnig vegna þess að full afskrift hefði valdið meiri vandræðum meðal einstakra viðskiptamanna. Erlendir kröfuhafar voru sammála um mikilvægi þess að treysta rætur sparisjóðsins með því að halda þáverandi stofnfjárhöfum að hluta.327

Fjármálaráðuneytið staðfesti við Sparisjóðinn í Keflavík 21. ágúst 2009 að það myndi skuldbinda sig til að nýta heimildir sínar til þátttöku í fjárhagslegri endurskipulagningu sparisjóðsins með kaupum á stofnfé í sparisjóðnum fyrir tæpan 5,1 milljarð króna. Þetta væri háð því að sparisjóðurinn næði samkomulagi um fjárhagslega endurskipulagningu við kröfuhafa sína sem fullnægði, að mati fjármálaráðuneytisins og Seðlabanka Íslands, skilyrðum um framlag til sparisjóða. Þá væri samþykki Fjármálaeftirlitsins á forsendum fjárhagslegrar endurskipulagningar og staðfestingu þess á nýjum efnahagsreikningi og niðurstöðum útreikninga á eiginfjárhlutfalli nauðsynlegt.328

19.6.2 Athugasemdir við áætlanir um fjárhagslega endurskipulagningu

Fjármálaeftirlitið hafði til skoðunar gögn vegna fjárhagslegrar endurskipulagingar Sparisjóðsins í Keflavík í tengslum við frest til að auka eiginfjárgrunn upp fyrir lögbundið lágmark. Fjármálaeftirlitið kom athugasemdum sínum á framfæri í bréfi til fjármálaráðuneytisins:329

 • Áform Sparisjóðsins í Keflavík gerðu ráð fyrir greiðslu til kröfuhafa þegar eiginfjárframlag ríkisins hefði verið veitt, sem nam 1,5 milljörðum króna. Hætta væri á að greiðslan myndi hafa veruleg áhrif á sjóðstreymi og lausafjárstöðu. Krafa um að greiðslunum yrði dreift yfir ákveðið tímabil yrði mögulega til þess að minnka neikvæð áhrif þessarar aðgerðar á fjárhagsstöðu sjóðsins.
 • Í ljósi óvissu um horfur í efnahagsmálum væri erfitt að meta hvort áætlanir um afskriftir og tekjur af núverandi lánasafni stæðust, og hvort þörf væri á frekari afskriftum. Dygðu núverandi endurskipulagningaráform ekki til og þörf yrði á frekari framlagi til að tryggja eiginfjárstöðu, væri óvíst hvort kröfuhafar sæju sér hag í frekari aðkomu að fjármögnun.
 • Rammasamningur við kröfuhafa kvæði á um að ekki skyldi greiða arð til stofnfjáreigenda fyrr en eftir að kröfuhafar hefðu fengið allar sínar greiðslur og að kröfuhafar fengju „greiðslu sem næmi því sem væri umfram 4% af lögbundnum lágmarkseiginfjárgrunni“.
 • Rammasamningurinn gerði ráð fyrir takmörkun á ráðstöfun eigna sparisjóðsins, banni við veðsetningum og banni við sameiningum.
 • Áform um samdrátt í efnahagsreikningi með minnkun lánasafns gæfi til kynna að ekki yrði um eðlilegan bankarekstur að ræða að lokinni endurskipulagningu.
 • Vaxtakjör á nýjum lánum væru mun hærri en þeim eldri.330

Í skýrslu sem Mats Josefsson efnahagsráðgjafi ríkisstjórnarinnar skilaði um stöðu bankakerfisins er meðal annars fjallað um Sparisjóðinn í Keflavík, en ráðgjafinn taldi að lítill árangur hefði náðst og að staða sparisjóðsins væri veik. Verulegur vafi léki á að áætlanir um fjárhagslega endurskipulagningu myndu tryggja rekstrarhæfi sparisjóðsins til framtíðar. Fyrirhuguð endurskipulagning myndi aðeins kaupa sparisjóðnum viðbótarfrest og innan 12 mánaða yrði að fara fram önnur endurskipulagning. Endurskoða yrði þá aðferðafræði sem lagt hefði verið upp með og skoða aðra valkosti. Fjárhagsleg endurskipulagning snerist ekki eingöngu um bókhaldslega niðurstöðu þess að breyta skuldum í eigið fé eða víkjandi lán og þvinga lánardrottna til að afskrifa skuldir, heldur þyrfti að leggja mat á rekstrarhagkvæmni til lengri tíma. Að öðrum kosti yrði það sóun á almannafé að leggja til eiginfjárframlag úr ríkissjóði. Í Sparisjóðnum í Keflavík ættu breytingar á stjórn og stjórnendahópi að vera ein meginforsenda eiginfjárframlags. Lagt var til að hraða stofnun Bankasýslu ríkisins og að henni yrði falið að fara yfir áform um fjárhagslega endurskipulagningu sparisjóðanna og leggja á þau sjálfstætt mat áður en fé yrði lagt til þeirra. Bankasýslan hefði síðan umsjón með samningum fyrir hönd ríkisins.331

Samkvæmt 5. gr. reglna um framlag til sparisjóða skv. 2. gr. laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. skyldi fjármálaráðherra meðal annars fá umsögn Fjármálaeftirlitsins í tengslum við ákvörðun um framlag úr ríkissjóði til sparisjóða. Umsögn Fjármálaeftirlitsins um tillögu Sparisjóðsins í Keflavík um fjárhagslega endurskipulagningu lá fyrir 23. október 2009. Þar taldi Fjármálaeftirlitið, eftir ítarlega yfirferð þess á eiginfjárútreikningum í áætlun sparisjóðsins frá 17. ágúst 2009, og að teknu tilliti til hálfsársuppgjörs miðað við 30. júní 2009, að eiginfjárhlutfallið yrði ekki hærra en 17% í stað 19,8% eins og sagði í áætlunum sparisjóðsins. Þó gæfi 17% eiginfjárhlutfall ekki rétta mynd af stöðu sparisjóðsins, því að í áætlun hans væri gert ráð fyrir fimm milljarða króna afskriftum 2010–2012. Þyrfti sparisjóðurinn að afskrifa þessa fjárhæð strax, að frádreginni reiknaðri skattinneign upp á 1,3 milljarða króna, yrði eiginfjárhlutfallið ekki hærra en 12%. Væri afskriftarhlutfall sparisjóðsins fært til samræmis við nýju bankana næmi viðbótarniðurfærsla um 30 milljörðum króna. Því benti flest til þess að enn frekari afskrifta væri þörf sem myndu lækka eiginfjárhlutfallið niður fyrir lögbundið lágmark.

Fjármálaeftirlitið taldi almennt ekki hægt að gera kröfu um lægra eiginfjárhlutfall til sparisjóða en nýju viðskiptabankanna, eða 16%. Lægri eiginfjárkröfu yrði að rökstyðja á grunni sérstakra þátta, svo sem betri útlánagæða eða áhættuminni rekstrar. Slíkur rökstuðningur lægi ekki fyrir hjá Sparisjóðnum í Keflavík. Fjármálaeftirlitið áleit forsendur rekstraráætlunar Sparisjóðsins í Keflavík fyrir árin 2009–2012 nokkuð bjartsýnar og var þar vísað til lækkunar rekstrarkostnaðar og hlutfalls „ódýrrar“ fjármögnunar í formi innlána. Þá væri áætlaður vaxtamunur 3% næstu 3 árin. Gengju áætlanir sparisjóðsins um umbreytingu gengisbundinna lána yfir í krónulán ekki eftir, gæti orðið erfitt að ná þeim vaxtamun, en vaxtamunur sparisjóðsins var neikvæður á þessum tíma. Þá væri lausafjárstaða sparisjóðsins þröng og ekki væri fyrirsjáanlegt að hún yrði viðunandi nema bjartsýnustu spár sjóðsins gengju eftir.

Í ljósi þessa taldi Fjármálaeftirlitið verulega óvissu um hvort fjárhagsleg endurskipulagning sparisjóðsins væri til þess fallin að gera hann rekstrarhæfan. Almenn þróun efnahagsástands hefði mikið um það að segja og því hefði hún áhrif á getu viðskiptavina sparisjóðsins til að standa við skuldbindingar sínar. Þá hefði sparisjóðurinn ekki sýnt fram á að áform hans um fjárhagslega endurskipulagningu væru trúverðug og líkleg til árangurs. Þó ekki hefði verið lagt mat á áhættustýringu og stjórnunarhætti innan sparisjóðsins, mætti fastlega gera ráð fyrir, miðað við reynslu af vinnu innan stóru bankanna, að mikið skorti á að sparisjóðurinn uppfyllti lágmarkskröfur sem gerðar væru til þessara þátta.332

Sama dag funduðu Fjármálaeftirlitið og fjármálaráðuneytið með Sparisjóðnum í Keflavík þar sem kynnt var samantekt Fjármálaeftirlitsins yfir fjárhagsstöðu sparisjóðsins. Fyrir utan mjög erfiða lausafjárstöðu og mikla gjaldeyrisáhættu væri niðurstaða Fjármálaeftirlitsins að mat sparisjóðsins á eignasafni sínu væri talsvert of hátt ef miðað væri við meðaltal viðskiptabankanna þriggja. Vanmat á afskriftarþörf sparisjóðsins væri slíkt að Fjármálaeftirlitið gæti ekki gefið jákvæða umsögn til ráðuneytisins varðandi umsókn sparisjóðsins um 20% eiginfjárframlag. Sparisjóðnum var gert að koma fram með nýja áætlun um fjárhagslega endurskipulagningu og nýja rekstraráætlun auk þess að sýna fram á mjög bætta lausafjárstöðu á næstu misserum. Einnig var lagt fyrir sparisjóðinn að meta eignasafn sitt með hliðsjón af mati bankanna á eignasöfnum þeirra. Ef tekið væri mið af afskriftum viðskiptabankanna væri mismunurinn á bilinu 20–30 milljarðar króna.333

Í minnispunktum Fjármálaeftirlitsins af fundinum kom fram að Guðmundur Hjaltason, ráðgjafi hjá Möttli ehf., teldi að sparisjóðurinn gæti allt eins skilað inn starfsleyfi sínu strax, færi hann að kröfum um auknar afskriftir. Taldi hann ljóst að ef niðurstaða úr nýju verðmati eigna væri sú að sparisjóðurinn þyrfti að afskrifa „einungis“ 10 milljarða króna, væri hann ekki starfhæfur. Þá hefðu kröfuhafar þegar teygt sig eins langt og hugsast gæti. Guðmundur gagnrýndi hversu seint álit Fjármálaeftirlitsins kæmi fram, því sparisjóðurinn væri í þann mund að skrifa undir samninga við lánardrottna sína. Mat Sparisjóðsins í Keflavík á afskriftum hefði verið í samræmi við niðurstöður áreiðanleikakönnunar PricewaterhouseCoopers frá 27. maí 2009 auk þess sem sparisjóðurinn hefði bætt aukalega við afskriftir. Taldi hann engu að síður rétt að sparisjóðurinn færi að tilmælum Fjármálaeftirlitsins og mæti eignasafn sitt að nýju.334

Í minnisblaði fjármálaráðuneytisins í kjölfar fundarins var fjallað um hvert framhaldið yrði í kjölfar yfirferðar sparisjóðanna á eignasöfnum sínum. Næðust ekki samningar við kröfuhafa þyrftu stjórnvöld að huga að viðbrögðum. Lögð var áhersla á að tíminn væri knappur og samkvæmt efnahagsáætlun íslenskra stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins væri ráðgert að klára mál sparisjóðanna fyrir lok nóvember 2009.335

19.6.2.1 Uppfærð umsókn um 20% eiginfjárframlag úr ríkissjóði

Í byrjun nóvember barst fjármálaráðuneytinu uppfærð umsókn frá Sparisjóðnum í Keflavík um 20% eiginfjárframlag úr ríkissjóði miðað við bókfært eigið fé sjóðsins í árslok 2007. Í drögum að árshlutareikningi fyrir fyrri hluta árs 2009 sem fylgdi með umsókninni var eiginfjárhlutfallið neikvætt um 0,36%.336 Sparisjóðurinn í Keflavík taldi þó að hann myndi uppfylla kröfur Fjármálaeftirlitsins um eiginfjárhlutfall, arðsemi eigin fjár og lausafjárstöðu að fjárhagslegri endurskipulagningu lokinni. Þá yrðu tvær mögulegar leiðir hvað snerti eiginfjárhlutfallið, með eða án 12 milljarða króna gjaldeyrisvarnar sem reiknað var með að næðist að semja um. Áætlað eiginfjárhlutfall 31. desember 2009 yrði 16,04% ef gert væri ráð fyrir gjaldeyrisvörn, en annars 13,62%.337 Ekki væri þörf á að endurskoða aðferðafræði og tillögur sparisjóðsins að endurskipulagningu heldur mundi hann standa við fyrri tillögur sínar eftir að hafa endurmetið afskriftir og rekstraráætlun.338 Minniháttar breytingar yrðu gerðar á meðhöndlun krafna erlendra kröfuhafa og stofnfé fært niður, úr 16.741 milljón króna í 80 milljónir. Niðurfærslan jafngilti 99,5% niðurfærslu, en þar sem allir nýir stofnfjáreigendur kæmu inn á sama gengi yrði hlutdeild þáverandi stofnfjárhafa 8% að fjárhagslegri endurskipulagningu lokinni.339

Fjármálaeftirlitið fékk PricewaterhouseCoopers til að fara yfir ákveðna þætti í efnahagsreikningi sparisjóðsins þar sem lögð var áhersla á niðurfærsluþörf útlánasafnsins og mat á öðrum helstu eignum sjóðsins. Skýrslunni var skilað 28. nóvember 2009 og kynnt fulltrúum fjármálaráðuneytisins 1. desember 2009. Virðisrýrnun var þar metin um 13,1 milljarði króna hærri en hún var í árshlutareikningi fyrir tímabilið 1. janúar 2009 til 30. júní 2009. Eigið fé samkvæmt árshlutareikningi að teknu tilliti til viðbótarvirðisrýrnunar væri því neikvætt um 13,7 milljarða króna. Sá fyrirvari var gerður við niðurstöður skýrslunnar að hún væri byggð á stöðunni eins og hún var á þeim tíma og leiðrétt að einhverju leyti að horfum í efnahagslífi sem þó gætu haft enn meiri áhrif á eignasafn sjóðsins þegar fram liðu stundir. Þá var bent á að eftir 30. júní 2009 hefðu stjórnendur sparisjóðsins endurmetið niðurfærsluþörf sparisjóðsins, sem leiddi til tæplega 8 milljarða króna hækkunar.340

Fjármálaeftirlitið vakti athygli fjármálaráðuneytisins á ákveðnum atriðum í könnun PricewaterhouseCoopers hf. í bréfi 1. desember 2009. Bent var á að staða eignasafnsins kynni að versna og niðurfærsluþörf gæti numið enn hærri fjárhæðum en gert var ráð fyrir í könnuninni. Við fjárhagslega endurskipulagningu myndi stofnfé stofnfjáreigenda, sem margir hverjir væru viðskiptamenn sjóðsins, verða fært niður að verulegu leyti og verri staða viðskiptamanna sem jafnframt væru stofnfjárhafar gæti haft áhrif sjóðinn með tilheyrandi auknum afskriftum. Þá væri það mat Fjármálaeftirlitsins að ef lánasafn Sparisjóðsins í Keflavík yrði fært niður um sama hlutfall og meðaltalsafskriftir nýju bankanna gæti það þýtt um það bil 17 milljarða króna viðbótarafskrift ofan á mat PricewaterhouseCoopers hf. Fjármálaeftirlitið ítrekaði að það teldi ekki annað mögulegt en að gera kröfu um að eiginfjárhlutfall sparisjóðsins yrði 16% í ljósi þeirrar óvissu sem enn væri um mögulegar afskriftir sparisjóðsins og horfur á fjármálamarkaði.341

19.6.2.2 Skilyrði stjórnvalda fyrir fjárhagslegri endurskipulagningu

Hinn 8. desember 2009 kynnti Fjármálaeftirlitið fjármálaráðuneytinu kröfur sínar varðandi fjárhagslega endurskipulagningu Sparisjóðsins í Keflavík og þau skilyrði sem sjóðurinn yrði að uppfylla til að grundvöllur væri fyrir áframhaldandi rekstrarhæfi. Meðal krafna Fjármálaeftirlitsins var að eiginfjárþáttur A næmi að lágmarki 12% af áhættugrunni og eiginfjárhlutfall sjóðsins yrði aldrei lægra en 16% næstu þrjú ár eftir endurskipulagningu. Einnig þyrfti sparisjóðurinn að uppfylla lausafjárkröfur Seðlabankans og önnur hlutföll um stöðu lausra eigna og innistæðna. Loks vildi Fjármálaeftirlitið að sparisjóðurinn legði fram skýrslu um sjálfstætt mat á eiginfjárþörf, gerði endurbætur á innri ferlum og áhættustýringu, drægi úr veigamestu áhættunum og gerði ráðstafanir til að hann sinnti eingöngu kjarnastarfsemi.342

Fjármálaráðuneytið sendi þessar kröfur áfram til Sparisjóðsins í Keflavík með bréfi 11. desember og lýsti sig reiðubúið til að greiða fyrir samkomulagi um fjárhagslega endurskipulagningu sparisjóðsins og taka virkan þátt í viðræðum að því marki sem nauðsynlegt væri talið af hálfu sparisjóðsins og kröfuhafa hans. Fjármálaráðuneytið hafði þá þegar fengið ráðgjafa frá fyrirtækinu Hawkpoint Partners Limited til að liðsinna sér, meðal annars í þessu verkefni.343

Í minnisblaði sem skrifstofustjóri efnahags- og viðskiptaráðuneytis sendi nefnd um fjármálastöðugleika og var síðar lagt fyrir á fundi efnahags- og viðskiptaráðherra, fjármálaráðherra og seðlabankastjóra 9. desember 2009, var fjallað um málefni Byrs sparisjóðs og Sparisjóðsins í Keflavík.344 Minnisblaðið var samantekt á helstu atriðum um stöðu sjóðanna sem fram komu í drögum að skýrslu ráðgjafarfyrirtækisins Oliver Wyman, Restructuring the Savings Bank Sector, sem unnin var fyrir íslensk stjórnvöld.345

Samkvæmt minnisblaðinu lá það fyrir að samkomulagið sem sparisjóðirnir höfðu gert við kröfuhafa sína gæti ekki að óbreyttu orðið grundvöllur að endurfjármögnun fyrir tilstuðlan ríkissjóðs. Stjórnvöld hefðu þess vegna tvo kosti í stöðunni:

1. Að hafna fyrirliggjandi samkomulagi við kröfuhafa og taka sparisjóðina til gjaldþrotaskipta.

2. Að hefja samningaviðræður um framlag ríkissjóðs við kröfuhafa sparisjóðanna á grundvelli neyðarlaganna.

Hvað varðaði fyrri leiðina var bent á tryggingu innistæðna og að hversu miklu leyti ríkissjóður þyrfti að bæta innistæðieigendum tap ef sparisjóðurinn yrði tekinn til gjaldþrotaskipta. Ef eignir Byrs sparisjóðs myndu lækka um 32% til viðbótar við stöðu eigna og skulda í árshlutareikningi 2009, stæðu þær ekki undir innistæðuskuldbindingum. Í ljósi 50% eignarýrnunar hjá viðskiptabönkunum og 60% rýrnunar eigna Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. væri ekki ólíklegt að eignir sparisjóðsins í Keflavík dygðu ekki til. Endurreisn fjármálakerfisins væri vel á veg komin en gjaldþrotameðferð Byrs sparisjóðs og Sparisjóðsins í Keflavík gæti falið í sér bakslag í uppbyggingunni og haft í för með sér álitshnekki fyrir stefnu stjórnvalda innanlands og utan. Gjaldþrotameðferð væri heldur ekki álitlegur kostur, meðal annars vegna viðbótarálags á dómskerfi sem ekki mætti við því. Þá var talið að gjaldþrot Byrs sparisjóðs og Sparisjóðsins í Keflavík gætu haft neikvæð áhrif á fjármálakerfið í heild, meðal annars með tilliti til lausafjár-, fjármögnunar- og eignatengsla þeirra á milli. Því væri augljóst að allra hagur væri að ná fram annarri niðurstöðu en gjaldþrotaleið.

Þar sem samningar sem sparisjóðirnir hefðu náð við kröfuhafa uppfylltu ekki skilyrði Fjármálaeftirlitsins, lægi beint við að fjármálaráðuneytið kæmi að samningaferli sparisjóðanna en þá þyrfti að huga að því að endursemja á grundvelli fyrirliggjandi samninga, kanna möguleika á sölu- eða samrunaferli við önnur fjármálafyrirtæki eða færa ákveðnar eignir sparisjóðanna yfir í eignaumsýslufélag. Við endursamninga á grundvelli fyrirliggjandi samninga þyrfti að liggja fyrir sameiginlegur skilningur á þeim kröfum sem reikna mætti með að Fjármálaeftirlitið gerði, meðal annars kröfu um 16% eiginfjárhlutfall. Þá yrði lögð áhersla á að eiginfjárframlag ríkisins yrði fjárfesting fremur en framlag og að til staðar væru áætlanir um hvernig ríkissjóður hygðist endurheimta fjármunina með viðunandi ávöxtun í fyllingu tímans. Í því augnamiði væri mikilvægt að samningaviðræður við kröfuhafa ættu sér stað undir forystu fjármálaráðuneytisins. Stjórnir sparisjóðanna eða ráðgjafar þeirra gætu ekki leitt samningaviðræður fyrir hönd ríkisins og mikilvægt væri að í samningum yrði áhættunni dreift með sanngjörnum hætti milli ríkisins og kröfuhafa.

Talið var eðlilegt að kannaðir yrðu möguleikar á sölu eða samruna Byrs sparisjóðs og Sparisjóðsins í Keflavík. Með því væri hugsanlega hægt að auka verðmæti eignanna og tryggja betur hag hagsmunaaðila. Fjármálaeftirlitið gæti tilkynnt stjórnendum sparisjóðanna að það væri reiðubúið til að beita sér fyrir því að sett yrði í gang söluferli með uppboðsfyrirkomulagi. Landsbankanum, sem ríkið ætti að fullu, yrði gert kleift, á grundvelli eignamats PricewaterhouseCoopers hf., að setja fram upphafstilboð á viðskiptalegum grunni. Öðrum aðilum yrði síðan boðið að bjóða í eignirnar allar eða ákveðin útibú. Þá kæmi til greina að útibú á landsbyggðinni sameinuðust öðrum starfandi sparisjóðum eða jafnvel að kröfuhafar sparisjóðanna beggja sæju sér hag í því að sameina rekstur þeirra með einhverjum hætti.

Fjármálaráðuneytið gæti beitt sér fyrir því að tryggja eða jafnvel kaupa ákveðnar eignir út úr eignasafni sparisjóðanna og flytja yfir í eignaumsýslufélag í eigu ríkisins, sem einnig gæti auðveldað sölu þeirra eða sameiningu. Með þessu fyrirkomulagi tæki ríkissjóður á sig hluta rekstraráhættunnar en fengi jafnframt tækifæri til að ná til sín hagnaði sem kynni að myndast ef eignaverðmæti reyndist hærra en upphaflega var reiknað með. Lagt var til að ráðinn yrði utanaðkomandi ráðgjafi til að leiða samninga við sparisjóði og kröfuhafa til að finna ásættanlega lausn á vanda sparisjóðanna innan ramma þágildandi laga og að stefnt skyldi að því að verkefninu yrði lokið fyrir 15. janúar 2010.346

Fjármálaráðuneytið undirbjó þátttöku í samningaviðræðum sparisjóðsins og kröfuhafa en þó var talið brýnt að skoða hvaða leiðir væru færar ef samningar við kröfuhafa næðust ekki, og unnu Fjármálaeftirlitið, fjármálaráðuneytið og Seðlabankinn saman að lausnum um það. Hugmyndir til að tryggja innistæður voru einkum tvær: að flytja innlán og eignir í NBI hf. (síðar Landsbankann hf.) eða félag í eigu þess, eða að flytja innlán og eignir í sparisjóð í eigu ríkisins.347

19.6.3 Samningaviðræður við kröfuhafa

Sparisjóðurinn lagði fram nýja tillögu um fjárhagslega endurskipulagningu og kynnti hana kröfuhöfum 17. og 18. desember 2009. Tillagan var lögð fram eftir fund með fjármálaráðuneytinu 14. desember 2009 og var í samræmi við kröfur ráðuneytisins í bréfi þess 11. desember 2009. Tekið var tillit til aukinnar virðisrýrnunar útlána samkvæmt mati PricewaterhouseCoopers, kröfu um 16% lágmarks eiginfjárhlutfall, fyrirhugaðra lagabreytinga um útreikning eiginfjárhlutfalls og ákvörðunar fjármálaráðuneytisins um að ríkið yrði að eiga 67% stofnfjár í sparisjóðnum eftir endurskipulagningu. Það hafi leitt til efnislegra breytinga á tillögu um fjárhagslega endurskipulagningu, meðal annars þeirra að kröfuhafar fengju 5% eingreiðslu þegar allir hefðu samþykkt tillöguna og viðeigandi samningar undirritaðir. Þá myndu kröfuhafar breyta 15% krafna sinna í nýtt víkjandi lán og innlendir kröfuhafar myndu þurfa að breyta 80% krafna sinna í stofnfé og erlendir kröfuhafar myndu breyta sama hlutfalli krafna í breytirétt í stofnfé. Þá yrði 20% víkjandi krafna breytt í stofnfé og afgangurinn afskrifaður. Gert var ráð fyrir að ríkið legði um það bil 5 milljarða króna í stofnfé. Sparisjóðurinn óskaði eftir því að samningaviðræður við kröfuhafa yrðu hafnar að nýju með aðkomu ráðgjafarfyrirtækisins Hawkpoint Partners Limited fyrir hönd stjórnvalda. Stefnt yrði að því að ljúka fjárhagslegri endurskipulagningu fyrir lok janúar 2010.348 Skömmu eftir að tillögur sparisjóðsins voru kynntar kröfuhöfum fékk fjármálaráðuneytið PricewaterhouseCoopers til að vinna nýja áreiðanleikakönnun um Sparisjóðinn í Keflavík og skyldi skýrslunni skilað um miðjan febrúar 2010.349

Kröfuhafar voru ósáttir við tillögu sparisjóðsins þar sem niðurstaða hennar var þeim óhagstæðari en fyrri tillögur. Fram kom á fundum með erlendu kröfuhöfunum að þeir gætu ekki samþykkt umbreytingu krafna í stofnfé.350 Þeir fóru fram á að fá aðgang að nákvæmum fjárhagsupplýsingum svo þeir gætu metið tillöguna. Að öðrum kosti mætti veita aðgang í gegnum óháðan endurskoðanda eða ráðgjafa svo framkvæma mætti verðmat á kostnað sparisjóðsins.351 Niðurstaðan varð sú að kröfuhafarnir völdu Deutsche Bank AG úr röðum sínum til að greina áhrif fjárhagslegrar endurskipulagningar.

Sparisjóðurinn í Keflavík sendi kröfuhöfum uppfærða tillögu og skilmálaskjöl vegna hennar 3. febrúar 2010. Í tillögunni var gert ráð fyrir að erlendir og innlendir kröfuhafar, aðrir en þeir sem ættu víkjandi kröfur, fengju 5% eingreiðslu, breyttu 15% krafna sinna í ný víkjandi lán og 8% krafna yrði breytt í stofnfé eða breytirétt. Þeir myndu svo afskrifa 72% krafna sinna. Kröfuhafar sem ættu víkjandi kröfur á sparisjóðinn myndu breyta 12,5% þeirra í stofnfé en eftirstöðvar yrðu afskrifaðar. Skilmálaskjöl í samræmi við uppfærða tillögu voru send kröfuhöfum og óskað undirritunar á tillöguna fyrir 5. mars 2010.352

Bankastjóri Arion banka hf. lýsti því yfir að bankinn væri reiðubúinn að ræða við fjármálaráðuneytið um yfirtöku á starfsemi Sparisjóðsins í Keflavík með sama hætti og beitt hefði verið við stóru bankana þrjá, teldi ráðuneytið að ekki væru raunhæfar forsendur til að koma sparisjóðnum til bjargar með öðrum hætti. Benti hann á að samdóma álit þeirra sem til þekktu væri að til sameiningar á fjármálamarkaði þyrfti að koma og að sú aðferðafræði sem beitt hefði verið til lausnar á málum Sparisjóðs Mýrasýslu og viðskiptabankanna þrigga hefði reynst farsæl.353

Áreiðanleikakönnun PricewaterhouseCoopers lá fyrir 11. febrúar 2010. Í henni kom fram að Sparisjóðurinn í Keflavík hefði verið búinn að færa niður eignir um 11,2 milljarða króna á árinu 2009 og hefði stefnt á að færa niður enn frekar um 7 milljarða í lok árs 2009. Í skýrslunni sem PricewaterhouseCoopers skilaði í nóvember 2009 var gert ráð fyrir að færa þyrfti niður um 22,9 milljarða króna alls á árinu 2009. Sparisjóðurinn stefndi að því að fylgja því mati eftir á komandi ári með frekari afskriftum. Áætlaður efnahagsreikningur sjóðsins eftir endurskipulagningu fyrir árin 2010, 2011 og 2012 sýndi stöðuga hækkun eiginfjárhlutfalls úr 16,12% skömmu eftir endurskipulagningu í 21,04% árið 2012.

Í könnuninni kom fram að meðal forsendna fyrir fjárhagsáætlun sparisjóðsins væri 5% verðbólga og óbreytt gengi krónunnar. Sparisjóðurinn hugðist umreikna flest gengisbundin lán í íslenskar krónur og bjóst við að um 5–7% lánasafnsins yrði greitt upp þegar viðskiptavinir sparisjóðsins færu annað með viðskipti sín við þessa breytingu. Bráðabirgðaskoðun PricewaterhouseCoopers á fjárhagsáætluninni þótti ekki gefa tilefni til að ætla að áætlunin væri van- eða ofmetin heldur væri hún í samræmi við þær athuganir sem PricewaterhouseCoopers hefði framkvæmt.354

Deutsche Bank AG skilaði greiningu sinni 10. mars 2010 en taldi erfitt að leggja mat á stöðu og framtíðaráætlanir Sparisjóðsins í Keflavík, en miðað við fyrirliggjandi upplýsingar væri hagfelldara öllum aðilum að tryggja rekstrarhæfi sparisjóðsins en fara með hann í slitameðferð. Lagt var til að 50 stærstu útlán Sparisjóðsins í Keflavík yrðu flutt í sérstakt fjárfestingarfélag (e. special purpose vehicle) í eigu lánardrottna og yfirfærslan gerð gegn niðurfærslu skuldbindinga við lánardrottna. Þannig yrði sparisjóðurinn rekstrarhæfur, komist yrði hjá slitameðferð (e. liquidation), en sparisjóðurinn myndi draga sig út úr lánastarfsemi til stórra fyrirtækja og einbeita sér að kjarnarekstri, það er viðskiptum við einstaklinga og lítil og meðalstór fyrirtæki. Hagræði lánardrottnanna væri að festast ekki inni sem langtímafjárfestar í sparisjóðnum og endurheimtur lánanna yrðu betri, því fengnir yrðu sérfræðingar (e. non-performing loan services) á vegum lánardrottnanna til að annast lánasafnið.355

Fjármálaráðuneytið taldi tillögu Deutsche Bank ekki ganga upp þar sem hún tæki ekki með í reikninginn ýmis lykilatriði. Þá gæti tillagan valdið þeim misskilningi hjá kröfuhöfunum að aðrar leiðir væru færar en að samþykkja tillögurnar sem þeim hefðu þegar verið sendar, ella færi sparisjóðurinn í slitameðferð. Eftirstandandi eignir myndu ekki tryggja rekstrarhæfi sparisjóðsins ef 50 stærstu útlánin yrðu tekin út úr honum, en ef til falls sparisjóðsins kæmi mundi Fjármálaeftirlitið ráða örlögum hans, en búast mætti við að innistæður yrðu færðar til annarrar fjármálastofnunar gegn greiðslu með skuldabréfi sem flokkað yrði sem forgangskrafa. Því þyrftu endurheimtur vegna 50 stærstu lánanna að ganga upp í innlánskröfur. Greiningar sem gerðar hefðu verið á endurheimtum við slit bentu til þess að aðrir kröfuhafar en innlánseigendur gætu ekki vænst neinna endurheimta úr sparisjóðnum. Ráðuneytið benti einnig á að stjórnvöld væru reiðubúin að styðja sparisjóðinn á þeim grundvelli sem fram kom í skilmálaskjölum frá 3. febrúar 2010. Tillögur Deutsche Bank fengju ekki stuðning stjórnvalda og mundi ríkið ekki leggja eiginfjárframlag til sparisjóðsins á grundvelli þeirra tillagna. Ráðuneytið dró einnig í efa að utanaðkomandi aðili næði betri endurheimtum en sparisjóðurinn, þar sem Sparisjóðurinn í Keflavík nyti að öllum líkindum meiri velvildar en þjónustuaðili lánasafnsins.356

Í bréfi fjármálaráðuneytisins til Sparisjóðsins í Keflavík 19. mars 2010 var áréttað að sparisjóðurinn virti samkomulagið um fjárhagslega endurskipulagningu og settan tímaramma. Stjórnvöld hefðu leitast við að sýna viðeigandi sveigjanleika, bæði um form endurskipulagningar sem þau væru tilbúin að styðja með eiginfjárframlagi og einnig fyrirhugaða tímaáætlun. Yfirlýsingar kröfuhafa og hætta á frekari töfum væru stjórnvöldum áhyggjuefni og því væru þau farin að skoða mögulegar leiðir til að verja innistæðueigendur og hámarka endurheimtur á lánum sparisjóðsins, kæmi til þess að Fjármálaeftirlitið teldi vafa leika á um áframhaldandi rekstrarhæfi hans.357 Það væri í höndum stjórnar sparisjóðsins að ná samkomulagi við kröfuhafa á grundvelli skilmálaskjalsins frá 3. febrúar, en ekki væri hægt að gera ráð fyrir þátttöku stjórnvalda ef gerðar yrðu breytingar á skilmálaskjali eða tímaramma.358

Hinn 25. mars 2010 héldu forsvarsmenn Sparisjóðsins í Keflavík og fulltrúar fjármálaráðuneytisins, ásamt ráðgjöfum sínum, til fundar í London með kröfuhöfum sparisjóðsins. Fundurinn leiddi til nýs samningstilboðs um fjárhagslega endurskipulagningu sparisjóðsins sem lagt yrði fyrir fundi lánanefnda þeirra banka sem áttu kröfur á hann fljótlega eftir fundinn. Meðan beðið var svara þeirra veitti Fjármálaeftirlitið sparisjóðnum frest til 21. apríl sama ár til þess að ljúka samningum við kröfuhafa og koma eiginfjárhlutfallinu í lögbundið horf.359

Á sama tíma og reynt var að ná samningum við kröfuhafa skoðuðu stjórnvöld mögulegar leiðir ef samningar tækjust ekki. Í því skyni voru meðal annars haldnir fundir með fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Fjármálaeftirlitinu. Tvær leiðir voru helst til umræðu: annars vegar að eignir og innistæður sparisjóða yrðu fluttar til eins eða tveggja viðskiptabanka með gagnsæju tilboðsferli, og hins vegar að eignir og innistæður yrðu fluttar í nýtt fjármálafyrirtæki sem yrði að miklu leyti í eigu ríkisins.360 Innan fjármálaráðuneytisins var lögð áhersla á að ef Fjármálaeftirlitið tæki yfir sparisjóðinn, væri farsælast að tryggja endurheimtur með því að koma eignum og innistæðum í skjól hjá stærri banka, eins og Landsbankanum.361

Fjármálaeftirlitið taldi að ef tillögur fjármálaráðuneytisins yrðu ekki samþykktar eða upp úr viðræðum slitnaði, gætu aðstæður sparisjóðsins orðið mjög knýjandi og Fjármálaeftirlitið þurft að taka yfir vald stofnfjáreigendafundar til að taka ákvarðanir um nauðsynlegar aðgerðir. Óskað var eftir skýrri afstöðu fjármálaráðuneytisins til þess hvert eignum og skuldum sparisjóðsins skyldi ráðstafað, kæmi til slíkrar ákvörðunar.362 Fjármálaráðuneytið lagði áherslu á að tryggja óheftan aðgang að innistæðum með flutningi þeirra til annarrar fjármálastofnunar eða nýs lögaðila, án þess að tilgreina nánar hver sú stofnun eða lögaðili ætti að vera. Óskaði fjármálaráðuneytið jafnframt eftir fundi með Fjármálaeftirlitinu til að yfirfara viðbragðsáætlun, kæmi til framangreindra aðgerða.363 Í skýrslu forstjóra Fjármálaeftirlitsins fyrir rannsóknarnefndinni kom fram að þó ákvörðunin hafi verið stjórnar Fjármálaeftirlitsins, hafi verið búið að ræða við fjármálaráðuneytið. Það hafi verið samstarf um að leita réttra leiða og hagstæðustu leiðanna.364 Fyrir rannsóknarnefndinni kom fram í skýrslu skrifstofustjóra efnahags- og viðskiptaráðuneytis að þótt Fjármálaeftirlitið hafi formlega haft heimild til að loka einstökum fyrirtækjum, hafi fjármálaráðherra haft heimild til að stofna ný fyrirtæki og því hafi þessar stofnanir reynt að samræma viðbrögð.365

Í skýrslu sérstaks sérfræðings á vegum Fjármálaeftirlitsins, Soffíu E. Björgvinsdóttur, 13. apríl 2010 kom fram að ekkert hefði enn heyrst frá erlendum kröfuhöfum um hvernig þeir mundu meðhöndla tilboð Sparisjóðsins í Keflavík en tónninn í þeim væri neikvæður.366 Þremur dögum síðar höfðu allir innlendir kröfuhafar og tveir af tólf erlendum kröfuhöfum samþykkt tilboðið.367 Hinn 19. apríl 2010 höfðu þrír erlendir kröfuhafar samþykkt tilboðið en sex hafnað því. Stórir þýskir lánveitendur biðu eftir bréfi eða yfirlýsingu frá Bankasýslu ríkisins um hvernig hún hygðist fara með eignarhlut sinn í sparisjóðnum í kjölfar fjárhagslegrar endurskipulagningar, en hún yrði langstærsti eigandinn.368 Á fundi sparisjóðsins með fjármálaráðuneytinu 20. apríl 2010 upplýsti sparisjóðsstjóri að miðað við fjárhæð krafna væri komið samþykki 68% innlendra og erlendra kröfuhafa. Hann sagði erlenda kröfuhafa hafa gefið í skyn að bilið væri ekki óbrúanlegt ef stjórnvöld kæmu til móts við kröfuhafa og lýstu nánar fyrirætlunum sínum með sparisjóðakerfið. Á fundinum lögðu fulltrúar ráðuneytisins áherslu á að Bankasýsla ríkisins gæti ekki gefið neitt upp um hvað hún hygðist gera með sparisjóðina fyrr en eftir að fjárhagsleg endurskipulagning hefði gengið í gegn. Niðurstaða fundarins var að sparisjóðurinn veitti erlendu kröfuhöfunum frest til kl. 14 daginn eftir til að svara endanlega.369

Í minnisblaði nefndar um fjármálastöðugleika sem lagt var fyrir fund forsætisráðherra, fjármálaráðherra, efnahags- og viðskiptaráðherra, forstjóra Fjármálaeftirlitsins og bankastjóra Seðlabanka Íslands 21. apríl 2010 var fjallað um vanda sparisjóðanna, Byrs sparisjóðs og Sparisjóðsins í Keflavík. Með tilliti til yfirlýsinga ríkisstjórnarinnar um tryggingu innistæðna, heildarinnlána þessara tveggja sparisjóða, lausafjárstöðu þeirra og eiginfjárkrafna til sparisjóðanna væri heildareiginfjárbinding ríkissjóðs til þess að fara með allar eignir Byrs sparisjóðs og Sparisjóðsins í Keflavík metin að hámarki 38 milljarðar króna. Farið var yfir stöðu Sparisjóðsins í Keflavík og varð niðurstaðan sú að varla væri önnur leið fær en að Fjármálaeftirlitið beitti heimildum VI. ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki til að taka yfir starfsemi Sparisjóðsins í Keflavík og ráðstafa eignum hans og skuldum. Nefndin velti því upp hvort hægt væri að stofna sparisjóð á grundvelli 1. gr. laga nr. 125/2008 og taldi svo vera þar sem starfsheimildir viðskiptabanka og sparisjóða væru þær sömu.370 Ríkið þyrfti að leggja til eigið fé til þess að fjármálafyrirtækið yrði nægilega fjárhagslega öflugt til að geta tekið við og rekið, að minnsta kosti tímabundið, þá starfsemi sem þá var í Sparisjóðnum í Keflavík. Með því væri fjármálastöðugleika viðhaldið, þannig að áfram yrði óbreyttur aðgangur að innistæðum og fjármálaþjónustu. Þó kom fram að innan nefndarinnar væru ólík sjónarmið um hvort stofna skyldi viðskiptabanka eða stofnfjársparisjóð.371

Í bréfi fjármálaráðuneytisins til stjórnar Sparisjóðsins í Keflavík 21. apríl var þess getið að ráðuneytið teldi að hluti kröfuhafa hefði ekki sýnt mikinn samstarfsvilja þennan spöl samningaviðræðna um fjárhagslega endurskipulagningu. Það hefði valdið vonbrigðum að stór hluti erlendu kröfuhafanna hafði ekki samþykkt tilboðið þar eð athugun Deutsche Bank frá því í mars sama ár hefði gefið til kynna að þeir gætu búist við betri endurheimtum krafna sinna með því að ganga að fyrirliggjandi tilboði en ef sparisjóðurinn yrði tekinn til slitameðferðar. Tilboðið sem hafi legið fyrir hefði verið í samræmi við tilboðið sem rætt hefði verið í desember við Sparisjóðinn í Keflavík og lykilkröfuhafa. Að mati ráðuneytisins hafi það þó haft að geyma viðbótaratriði sem væru hliðhollari kröfuhöfum í kjölfar samningaviðræðna ráðuneytisins við sjóðinn.372

Frestur sparisjóðsins til þess að uppfylla eiginfjárskilyrði og ná samkomulagi við kröfuhafa sína rann út 21. apríl 2010. Sama dag kom til umræðu tilboð frá erlendum sjóði um að kaupa kröfur af kröfuhöfum með miklum afföllum en ekkert formlegt tilboð barst.373 Afstaða kröfuhafanna hafði ekki breyst og á stjórnarfundi 21. apríl 2010 var ákveðið að undirbúa aðgerðaáætlun „ef og þegar“ Fjármálaeftirlitið tæki yfir sparisjóðinn. Á stjórnarfundi 22. apríl 2010 var það metið svo að viðræður sparisjóðsins við kröfuhafa næðu ekki lengra og var ákveðið að óska eftir því að Fjármálaeftirlitið tæki yfir vald hluthafafundar sparisjóðsins.374 Í skýrslu stjórnarformanns Sparisjóðsins í Keflavík fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom fram að hann teldi að sumir erlendu kröfuhafanna hefðu dregið ferlið án þess að hafa haft raunverulegan vilja til að koma að fjárhagslegri endurskipulagningu sparisjóðsins.375

19.6.3.1 Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um að taka yfir vald stofnfjáreigendafundar Sparisjóðsins í Keflavík

Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 22. apríl 2010 tók það yfir vald stofnfjáreigendafundar Sparisjóðsins í Keflavík, vék stjórn hans frá og skipaði honum bráðabirgðastjórn. Í bráðabirgðastjórn Sparisjóðsins í Keflavík voru skipuð Soffía Eydís Björgvinsdóttir, héraðsdómslögmaður, Auður Ósk Þórisdóttir, löggiltur endurskoðandi, og Elvar Örn Unnsteinsson, hæstaréttarlögmaður.376

Sama dag voru allar innistæður og eignir sparisjóðsins fluttar í nýjan sparisjóð, Spkef sparisjóð, en ríkissjóður lagði honum til 900 milljónir króna í nýtt stofnfé. Fyrir lá að leggja þyrfti þessari nýju fjármálastofnun til það eigið fé sem þyrfti til að uppfylla skilyrði Fjármálaeftirlitsins um starfsleyfi. Áætlað var að sú fjárhæð myndi nema um 13 milljörðum króna. Sama dag hafði Fjármálaeftirlitið einnig tekið yfir vald stofnfjáreigendafundar Byrs sparisjóðs og stofnað nýtt hlutafélag til þess að taka við ákveðnum eignum og skuldum hans og reiknað var með að eiginfjárframlag til þess hlutafélags myndi nema um 25 milljörðum króna. Heildarútgjöld ríkissjóðs vegna þessara tveggja sparisjóða færu því langt umfram það sem stjórnvöld hefðu miðað við fyrir fjárhagslega endurskipulagningu sparisjóðanna í landinu. Þannig hefði komið fram í ásetningsbréfi stjórnvalda til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá 7. apríl 2010 að ekki yrði varið meiru en sem svaraði 1,5% af landsframleiðslu, þá um 25 milljörðum króna, í endurskipulagningu sparisjóðakerfisins. Þá var gert ráð fyrir að útgjöld vegna fjárhagslegrar endurskipulagningar átta smærri sparisjóða, sem fjármálaráðuneytið og Seðlabanki Íslands höfðu átt samstarf um, gætu numið um 4 milljörðum króna en samningar um fjárhagslega endurskipulagningu þeirra væru tilbúnir og biðu einungis samþykkis Eftirlitsstofnunar EFTA.377

Þáverandi bankastjóri NBI hf. ítrekaði áhuga bankans á að koma að rekstri Byrs sparisjóðs og Sparisjóðsins í Keflavík með bréfi til ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytisins 23. apríl 2010. Þar kom fram að samstarf og þó einkum sameining Spkef og Byrs við bankann gæfi umtalsverða hagræðingarmöguleika. Ef þurfa þætti, væri bankinn vel í stakk búinn til að tryggja lausafjárstöðu Spkef og Byrs og tilbúinn til viðræðna um nauðsynlega fyrirgreiðslu væri eftir henni leitað.378

19.6.3.2 Stofnun Spkef sparisjóðs

Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 22. apríl 2010 um yfirtöku þess á valdi stofnfjáreigendafundar í Sparisjóðnum í Keflavík var kveðið á um að öllum eignum skyldi ráðstafað til Spkef sparisjóðs þegar í stað.379 Stofnfundur Spkef sparisjóðs var haldinn sama dag og sat Guðmundur Árnason, ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytis, fundinn fyrir hönd ríkisins sem var handhafi alls stofnfjár.380 Stofnfé sparisjóðsins var 900 milljónir króna og skiptist í jafnmarga hluti að nafnverðsfjárhæð ein króna. Eitt atkvæði fylgdi hverjum hlut.381 Í stjórn Spkef sparisjóðs voru skipuð Ásta Dís Óladóttir, Helga Loftsdóttir, Valdimar Halldórsson, Anna María Pétursdóttir og Ottó Hafliðason, og gegndi Angantýr V. Jónasson stöðu sparisjóðsstjóra þar til í nóvember 2010 þegar Einar Hannesson tók við. Spkef sparisjóður tók við starfsemi Sparisjóðsins í Keflavík frá og með 23. apríl 2010.

Í skýrslum fyrir rannsóknarnefndinni kom skýrt fram að ákvörðunin um að endurreisa Sparisjóðinn í Keflavík sem Spkef sparisjóð hafi verið pólitísk ákvörðun. Í skýrslu efnahags- og viðskiptaráðherra kom fram að flestum, þar á meðal honum sjálfum og fjármálaráðherra, hafi þótt mjög mikið til vinnandi að hér yrði áfram sparisjóðakerfi sem yrði sæmilega burðugt. Hugmyndin var að sparisjóðirnir myndu gegna því hlutverki sem þeir höfðu lengst af gegnt sem staðbundnar stofnanir í heimabyggð og að stóru leyti í eigu heimamanna: „Auðvitað er þetta í einhverjum skilningi pólitísk áhersla, jafnvel hjá mér sem ópólitískum ráðherra.“382

Mat hann stöðuna svo að endurreist fjármálakerfi yrði heilbrigðara ef stoðirnar væru fleiri en þrír svipaðir bankar, bæði frá samkeppnissjónarmiði og fjármálastöðugleikasjónarmiði og jafnvel valdreifingarsjónarmiði líka. Það væri einfaldlega heilbrigðara að hafa kerfi með öflugri sparisjóðastoð og þess vegna væri nokkuð á sig leggjandi til að ná því fram. Án Sparisjóðsins í Keflavík hefði sparisjóðanetið aldrei orðið almennileg stoð í nýju fjármálakerfi. Það hefði hinsvegar ekki tekist nema að mjög litlu leyti og hefðu það verið ákveðin vonbrigði hvernig úr rættist.383

Aðspurður um þær ólíku leiðir sem farnar voru með Sparisjóðinn í Keflavík og Byr sparisjóð, annars vegar að stofna sparisjóð og hins vegar hlutafélag, sagði efnahags- og viðskiptaráðherra að þingmenn og ráðherrar, og kannski fjármálaráðherra sérstaklega, hefðu haft skoðanir á þessu. Aðilar sem tengdust sparisjóðunum hefðu barist fyrir þeim lausnum sem þeir töldu æskilegar og því hafi pólitískur þrýstingur verið mikill.384

Í skýrslu fjármálaráðherra fyrir rannsóknarnefndinni sagði hann:

Ég dreg enga dul á að ég var frá byrjun í þeim hópi sem vildi eins og hægt væri verja það sem lífvænlegt var af sparisjóðunum og ég starfaði lengst af sem fjármálaráðherra samkvæmt þeirri hugmyndafræði og svo áfram sem efnahags- og viðskiptaráðherra.385

Þá kom fram í skýrslu fjármálaráðherra að þegar Byr sparisjóður og Sparisjóðurinn í Keflavík voru teknir yfir hafi verið ákveðið að endurreisa Sparisjóðinn í Keflavík sem sparisjóð í þeirri von að hann gæti síðar orðið kjölfesta í því sem eftir væri af sparisjóðakerfinu, en ekki hafi verið talin sérstök ástæða til þess með Byr sparisjóð og því hafi verið stofnað hlutfélag í tilviki Byrs.386 Menn hafi talið allgóðar líkur á að Sparisjóðurinn í Keflavík gæti starfað áfram sem slíkur og orðið langstærsti sparisjóðurinn og kannski í fyllingu tímans „móðurstöð“ eða bakhjarl fyrir aðra minni sparisjóði. Byr sparisjóður hafi verið mun stærri biti og mat manna að meiri líkur væru á því að unnt væri að fá aðra aðila að því að endurreisa hann sem hlutafélagabanka. Í tilviki Sparisjóðsins í Keflavík var gengið út frá því að það yrði að vera ríkið, „það myndu ekki aðrir mæta“ og lýsa yfir áhuga á að leggja inn stofnfé í endurreisn hans. Það hafi mönnum fundist nógu stór biti.387 Allan tímann hafi verið gert ráð fyrir að eitthvert eigið fé væri eftir í sparisjóðnum. Fjármálaráðherra rak minni til þess að þegar sparisjóðurinn var tekinn yfir hafi verið uppi getgátur um að eigið fé væri orðið lítið sem ekkert en þó ekki verra en það. Síðan hafi staða sparisjóðsins reynst enn „hryllilegri“ en menn höfðu áttað sig á. Smátt og smátt hafi komið í ljós hversu illa staddur hann hafi verið. Hver einasta nýja úttekt á stöðunni og á eignasafninu hafi undantekningarlaust verið verri en sú á undan.388

Í skýrslu aðstoðarforstjóra Fjármálaeftirlitsins fyrir rannsóknarnefndinni kom fram að hann teldi að ákvörðun um stofnun Spkef sparisjóðs hafi verið fjármálaráðuneytisins. Vorið 2010 hafi verið uppi væntingar um að Sparisjóðurinn í Keflavík gæti orðið bakhjarl fyrir sparisjóðina í landinu, sem svo hafi komið í ljós að gæti ekki orðið. Hann hafi skynjað ríkan og rótgróinn pólitískan vilja í öllum flokkum til að styðja við sparisjóðina svo þeir gætu lifað. Það hafi verið byggða- og kjördæmasjónarmið sem átti sér fylgismenn í öllum flokkum.389

Í skýrslu skrifstofustjóra í efnahags- og viðskiptaráðuneyti fyrir rannsóknarnefndinni kom fram að töluverð átök hafi átt sér stað milli stjórnsýslunnar og pólitískra ráðamanna. Sérfræðihópurinn vildi fara sömu leið með Byr sparisjóð og Sparisjóðinn í Keflavík, það er að stofna hlutafélög um þá báða, en meðal ráðamanna hafi verið vilji til að fara sparisjóðaleiðina. Aðspurður hvers vegna það hafi verið sagði hann:

Sparisjóðirnir hafa bara fengið mikinn hljómgrunn hjá pólitíkinni í gegnum tíðina. Þetta var Steingrímur J. Sigfússon sem var þá fjármálaráðherra og þessi krafa virtist koma þaðan. Einhvern veginn virtist hann halda í þá von að hægt væri að endurreisa Sparisjóðinn í Keflavík og að hann yrði þá einhverskonar móðurskip fyrir sparisjóðina, en ég held að það hafi verið praktískar ástæður fyrir því að við vildum fara hlutafélagaleiðina. Það væri auðveldara að vinda ofan af því og kannski selja lífvænlegar einingar út úr pakkanum.390

Aðspurður hvort vitneskjan um alvarlega stöðu sparisjóðsins hafi ekki skilað sér til ráðamanna sagðist hann ekki geta svarað fyrir þá en geta þó sagt að margir starfsmenn stjórnsýslunnar hafi ekki verið sáttir við þróun mála á þessum tíma.391 Aðspurður hvort hann teldi hafa verið augljóst að Sparisjóðnum í Keflavík yrði ekki bjargað, var svarið: „Ef ég man þetta rétt þá var það mikið af „súrum“ eignum í eignasafninu þar líka og það var aldrei möguleiki á að halda honum á floti.“392

Á fundi í Seðlabanka Íslands 28. apríl 2010, fáeinum dögum eftir að Spkef sparisjóður var stofnaður, voru lausafjárstaða og framtíðarhorfur sparisjóðsins til umræðu.393 Þar kom fram að Seðlabanki Íslands teldi stöðu sparisjóðsins erfiða og ljóst að hann ætti engar eignir sem nothæfar væru í reglulegum viðskiptum fjármálafyrirtækja við Seðlabankann. Því myndi fyrirgreiðsla bankans líklega verða í formi þrautavaraláns, en af henni yrði einungis ef eiginfjárstaða sparisjóðsins væri viðunandi. Lausafjárstaðan væri slæm en menn hefðu bundið vonir við að hún mundi batna eftir fjárhagslega endurskipulagningu sparisjóðsins. Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóri nefndi „að enn [hefði] engum tekist að sannfæra hann um að um lífvænlegan banka sé að ræða“. Þá taldi Gunnlaugur Harðarson, sérfræðingur á fjármála- og fjárstýringarsviði sparisjóðsins, að Spkef sparisjóður þyrfti gróflega áætlað níu til tólf milljarða króna í eigið fé til að uppfylla kröfur Fjármálaeftirlitsins um 16% eiginfjárhlutfall, en hann taldi, gróflega áætlað, að eiginfjárstaða sparisjóðsins væri neikvæð um 30 milljarða króna.394

Í minnisblaði fjármálaráðherra til ríkisstjórnar frá 7. maí 2010 var áætlað að leggja þyrfti Spkef sparisjóði til 13 milljarða króna svo hann uppfyllti skilyrði Fjármálaeftirlitsins fyrir veitingu starfsleyfis. Það framlag, ásamt því sem talið var að Byr hf. þyrfti, væri langt umfram þau mörk sem fram komu í ásetningsbréfi stjórnvalda til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins 7. apríl 2010. Þar hefði verið miðað við að ekki yrði varið hærri fjárhæð í endurreisn sparisjóðakerfisins en sem svaraði til 1,5% af landsframleiðslu, eða um 25 milljörðum króna. Þrír meginkostir væru fyrir hendi við endurfjármögnun og framtíðareignarhald Spkef sparisjóðs. Sá fyrsti var að kröfuhafar tækju þátt í endurskipulagningu með afskriftum á kröfum eða umbreytingu krafna í stofnfé. Í annan stað kæmu nýir fjárfestar, til að mynda starfandi fjármálafyrirtæki, að endurskipulagningunni og gætu þá eftir atvikum rekið sparisjóðinn áfram sem sérstakt fyrirtæki. Þriðji kosturinn var að ríkið legði til stofnfé.395 Þá yrði að hafa í huga sjónarmið um að tryggja áframhaldandi rekstur sparisjóða innanlands, þar sem Spkef sparisjóður gæti skipt miklu máli ef vilji væri til þess að búa til stærri einingar innan sparisjóðakerfisins.396

Í bréfi fjármálaráðuneytisins til Seðlabanka Íslands 17. maí 2010 kom fram að miðað við bráðabirgðatölur væri áætlað að stofnframlag þyrfti að nema um 13 milljörðum króna. Ríkið áformaði að nýta heimildir í fjárlögum 2010 til að endurfjármagna Spkef sparisjóð að undangengnum samningum við bráðabirgðastjórn gamla sparisjóðsins. Með bréfinu lýsti fjármálaráðuneytið því yfir að Seðlabanka Íslands væri heimilt að nýta allt að tveimur milljörðum króna af áætluðu stofnfjárframlagi ríkissjóðs sem tryggingu fyrir veðlánum sparisjóðsins. Síðar var sú heimild hækkuð, fyrst 7. október 2010 úr tveimur milljörðum í fjóra milljarða, og síðan 6. desember 2010, þar sem heimildin var hækkuð í allt að 6 milljarða króna.397

19.6.4 Undirbúningur stofnefnahagsreiknings fyrir Spkef sparisjóð

Fjármálaeftirlitið fékk PricewaterhouseCoopers til að útbúa skiptiefnahagsreikning fyrir Spkef sparisjóð og lá hann fyrir 18. júní 2010. Í samræmi við ákvörðun Fjármálaeftirlitsins innihélt skýrsla fyrirtækisins skiptingu efnahagsreikningsins, sundurliðanir, greiningar efnahagsreiknings og skuldbindinga sem ráðstafað var frá Sparisjóðnum í Keflavík til Spkef sparisjóðs. Birtar voru tölur úr óendurskoðuðum ársreikningi 31. desember 2009 og tölur samkvæmt bókhaldi 22. apríl 2010. Fram kom að eignir umfram skuldir væru 6,7 milljarðar króna.

Í kjölfarið var unnið að gerð stofnefnahagsreiknings fyrir Spkef sparisjóð, en á því voru ákveðin vandkvæði, meðal annars vegna uppsafnaðra vaxta og verðbóta sem voru eignfærð á lánum sem talið var að mundu ekki skila sér að fullu. Því væru eignir nýja sparisjóðsins væntanlega ofmetnar og hefði það byggt upp væntingar hjá kröfuhöfum Sparisjóðsins í Keflavík um að eftir meiru hafi verið að slægjast en raunin var.398 Stjórnendur Spkef sparisjóðs unnu að því að leggja mat á efnahag hins nýstofnaða sjóðs og um miðjan júní 2010 fékk Spkef sparisjóður PricewaterhouseCoopers til að aðstoða stjórn sparisjóðsins við að meta eignir sjóðsins miðað við 22. apríl 2010.399 Meginmarkmiðið var að ákvarða hvort frávik væru milli fjárhæða í bókum sparisjóðsins á framsalsdegi og þess verðmats sem stjórnendur samþykktu. Í skýrslu PricewaterhouseCoopers til Spkef sparisjóðs, sem skilað var 10. júlí 2010, sagði að mismunur á milli eigna og skulda væri 1,6 milljarðar króna. Mismun á niðurstöðum mátti skýra með því að í drögum að stofnefnahagsreikningi hefði verið tekið tillit til leiðréttingarfærslna við gerð skiptiefnahagsreiknings. Í niðurstöðum PricewaterhouseCoopers kom einnig fram að viðbótar eigið fé þyrfti að vera að lágmarki 10,6 milljarðar króna til að eiginfjárhlutfallið næði 16%.400

Hawkpoint Partners Limited var falið að vinna tillögu að tilboði til slitastjórnar og kröfuhafa Sparisjóðsins í Keflavík um uppgjör milli gamla og nýja sparisjóðsins. Í tölvupóstssamskiptum 13. júlí 2010 kom fram að Hawkpoint teldi að verðmæti sparisjóðsins yrði líklega minna en innistæður ef farið yrði út í nýtt verðmat. Þá fengju kröfuhafar ekki neitt en ríkið yrði að fjármagna það sem upp á vantaði, auk eiginfjárframlagsins. Fjármálaráðuneytið hafði samþykkt að kröfuhöfum yrðu boðnar 300 milljónir króna „til þess að láta kröfur falla niður“ og teldi Hawkpoint þá sætta sig við slíkt boð en með „upside instrumenti“.401 Innlendir kröfuhafar færu með yfir 50% krafna og væru Arion banki og Sparisjóðabanki Íslands hf. þar stærstir. Fram kom að samningaviðræður mundu hefjast daginn eftir og að vonast væri til að þeim lyki í ágúst 2010.402

19.6.5 Viðræður um uppgjör milli Sparisjóðsins í Keflavík og Spkef sparisjóðs

Á fundum með kröfuhöfum í júlí og ágúst 2010 var farið yfir stöðu mála og ræddar tillögur að uppgjöri á milli Sparisjóðsins í Keflavík og Spkef sparisjóðs. Á sama tíma hélt staða Spkef sparisjóðs áfram að versna. Í lok ágúst lá fyrir að eignir sem fluttar voru frá Sparisjóðnum í Keflavík til Spkef sparisjóðs mundu ekki duga fyrir innistæðum, en munurinn milli eigna og skulda væri neikvæður um 3,4 milljarða króna.403

Á fundi kröfuhafa Sparisjóðsins í Keflavík 30. ágúst 2010 var kröfuhöfum kynnt óformlegt tilboð fjármálaráðuneytisins sem tók mið af tillögum Hawkpoint frá í júlí. Kröfuhafarnir tóku sér tíma til að meta tilboðið og hugsanlegt gagntilboð.404 Á meðan beðið var viðbragða var áfram unnið að málefnum Spkef sparisjóðs innan fjármálaráðuneytisins. Starfsmenn ráðuneytisins kynntu starfsmönnum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sömu hugmyndir um tilboð en þeir lögðust gegn samþykkt tilboðsins, enda væri það byggt á meginreglum sem væru ekki í samræmi við samkomulag stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eða þá aðferðafræði sem stuðst hefði verið við við endurreisn annarra fjármálafyrirtækja. Þá teldu endurskoðendur eignir Spkef sparisjóðs of hátt metnar og þörf væri á frekari virðisrýrnun sem næmi fimm til tíu milljörðum króna.405

Meðan á þessum viðræðum stóð lá stofnefnahagsreikningur Spkef sparisjóðs ekki fyrir í endanlegri mynd. Staða sparisjóðsins var metin erfið, þar sem hann byggi við viðvarandi lausafjárskort og að teknu tilliti til dóma Hæstaréttar um gengistryggingu lána yrði lánasafnið svo lítils virði að ekkert yrði eftir þegar búið væri að gera upp innlánakröfur til að greiða öðrum kröfuhöfum. Verðmat eignasafns Spkef sparisjóðs væri lægra en vonast hefði verið til þegar samningaviðræður hófust í júlí 2010 og staðan héldi áfram að versna á meðan mál væru ekki til lykta leidd. Gagntilboð kröfuhafa eftir fundinn 30. ágúst 2010 barst ekki og beindi slitastjórn Sparisjóðsins í Keflavík því til stærstu kröfuhafanna, Arion banka hf. og Sparisjóðabanka Íslands hf., að senda tilboð eigi síðar en 27. september 2010. Fengi tilboðið hljómgrunn mundi slitastjórnin kynna það öðrum kröfuhöfum og afla því meirihlutafylgis.406

Í lok september barst tilboð frá Arion banka hf. og Sparisjóðabanka Íslands hf. um uppgjör milli Sparisjóðsins í Keflavík og Spkef sparisjóðs. Spkef sparisjóður myndi greiða Sparisjóðnum í Keflavík 500 milljónir króna í peningum, sem jafngilti rúmlega 2% greiðslu krafna, og afhenda Sparisjóðnum í Keflavík 10% af stofnfé í Spkef sparisjóði eftir endurfjármögnun. Samkvæmt áætlun sem Sparisjóðnum í Keflavík hafði verið afhent þurfti ríkið að setja 10,6 milljarða króna í stofnfé í Spkef sparisjóð til að hægt væri að greiða kröfuhöfum Sparisjóðsins í Keflavík 1.060 milljónir króna í reiðufé. Greiðsla til kröfuhafanna tók mið af framlaginu og gat orðið önnur ef framlag ríkissjóðs yrði hærra eða lægra.407 Í kjölfar viðræðna kom fram að kröfuhafarnir væru tilbúnir að samþykkja 300 milljóna króna sáttafjárhæð, ella þyrfti að fara fram verðmat á eignasafninu.408

Í minnisblaði fjármálaráðherra til ríkisstjórnarinnar 12. október 2010 um stöðu samningaviðræðna við slitastjórnir Sparisjóðsins í Keflavík og Byrs sparisjóðs vegna uppgjörs á yfirfærðum eignum í Byr hf. og Spkef sparisjóð sagði að staða Spkef sparisjóðs væri erfið. Eignir dygðu ekki fyrir skuldum og innlánaskuldbindingar einar og sér væru 3,5 milljarðar króna umfram virði eigna, ef miðað væri við forsendur verðmats PricewaterhouseCoopers frá 28. nóvember 2009. Líkur bentu til þess að eignastaðan væri jafnvel enn verri, þar sem efnahagsforsendur verðmatsins hefðu ekki gengið eftir. Jafnframt byggi sparisjóðurinn við lausafjárskort og á meðan hann hefði ekki stofnefnahagsreikning væri nær ómögulegt fyrir hann að laða að innlán stærri aðila og hratt gengi á sparnað viðskiptavina með tilheyrandi úttektum innistæðna. Næðust samningar með sáttafjárhæð væri hætta á málsóknum lágmörkuð, óvissa um framtíð sparisjóðsins mundi skýrast og áhætta sem fælist í ábyrgð ríkissjóðs á innistæðum lágmörkuð.

19.6.6 Rammasamkomulag um uppgjör milli Sparisjóðsins í Keflavík og Spkef sparisjóðs

Skrifað var undir rammasamkomulag um uppgjör á milli Sparisjóðsins í Keflavík og Spkef sparisjóðs 3. nóvember 2010 og fól samkomulagið í sér 300 milljóna króna eingreiðslu. Af hálfu slitastjórnar Sparisjóðsins í Keflavík voru gerðir fyrirvarar um lögmæti forgangs innistæðna og niðurfærslur vegna ólögmætra erlendra lána, auk þess sem rannsókn skyldi fara fram á starfsemi Sparisjóðsins í Keflavík. Slitastjórn Sparisjóðsins í Keflavík væri heimilt að óska eftir endurútreikningi ef einhver þeirra atriða sem gerðir voru fyrirvarar við gengju eftir og líkur væru á að endurgjald Spkef sparisjóðs til Sparisjóðsins í Keflavík fyrir yfirteknar eignir mundi þannig hækka samanlagt um meira en rúma 3,7 milljarða króna.409

Undir lok árs 2010 kom bakslag í samningaviðræður aðila. Slitastjórn Sparisjóðsins í Keflavík voru send drög að uppgjörssamningi 17. desember 2010.410 Þar átti 300 milljóna króna greiðsla til Sparisjóðsins í Keflavík að greiðast inn á reikning hans í Spkef sparisjóði. Á meðan heimildar til endurmats eða riftunar nyti við, væri skylt að varðveita þessa fjármuni á reikningi hjá Spkef sparisjóði. Með þessari greiðslu skyldi fara fram fullnaðaruppgjör á milli aðila vegna yfirtekinna eigna og skulda og aðilar ekki eiga frekari kröfur hvor á annan eftir undirritun samningsins, að frátöldum þeim fyrirvörum sem gerðir voru við samninginn.411 Á fundi Jóhannesar Bjarna Björnssonar lögmanns með slitastjórn Sparisjóðsins í Keflavík um samningsdrögin í lok desember 2010 taldi slitastjórnin sig ekki geta skrifað undir samning fyrr en hún hefði til þess skýrt umboð frá kröfuhöfum, en kröfulýsingarskrá mundi ekki liggja fyrir fyrr en 13. janúar 2011. Samþykki væri ekki komið frá stærstu kröfuhöfum en annar þeirra væri kominn með nýjar hugmyndir, en ekki var greint frekar frá þeim.412 Af hálfu fjármálaráðuneytisins komu upp efasemdir um 300 milljóna króna greiðsluna sem átti að greiða fyrir því að málið gengi hratt og örugglega fyrir sig, en það hafi ekki gengið eftir. Þá gæti verið erfitt að réttlæta þessa greiðslu gagnvart Eftirlitsstofnun EFTA.413 Á fundi slitastjórnar með kröfuhöfum Sparisjóðsins í Keflavík 4. janúar 2011 lýstu kröfuhafarnir yfir óánægju sinni með drög að uppgjörssamningi. Þau væru ekki í samræmi við rammasamkomulag frá því í nóvember 2010, fyrirhöfn við endurmat var talin of mikil og gagnrýnt var að samþykki Spkef sparisjóðs þyrfti til að hann greiddi kostnað af riftunarmálum. Mikið var rætt um riftunarmál á fundinum, en PricewaterhouseCoopers hafði upplýst slitastjórn um að í september 2008 hefði legið fyrir „frekar svört skýrsla“ um Sparisjóðinn í Keflavík sem slitastjórnin hefði ekki vitað af. Því var óánægja með takmarkaða getu slitastjórnar til að fara í riftunarmál.414

Daginn eftir, 5. janúar 2011, óskaði fjármálaráðuneytið eftir skýrum svörum frá slitastjórn um framhald málsins, en frásögn formanns slitastjórnar af fundinum benti til þess að samkomulag um uppgjör væri komið aftur á byrjunarreit.415 Formaðurinn sagði að komin væru svör frá stærsta kröfuhafanum, Sparisjóðabanka Íslands hf., um að hann gæti ekki „stutt textann“ eins og hann lægi fyrir, meðal annars vegna þess að 300 milljóna króna greiðsluna hafi átt að inna af hendi án skilyrða og án endurkröfuréttar. Slitastjórnin taldi líklegt, að öllu óbreyttu, að meta þyrfti eignasafn Spkef sparisjóðs að nýju, því samningurinn nyti ekki stuðnings stærsta kröfuhafans, auk þess sem hluti erlendu kröfuhafanna hefði ekki stutt rammasamkomulagið á sínum tíma.416

Sameiginleg yfirlýsing slitastjórnar Sparisjóðsins í Keflavík og stjórnar Spkef sparisjóðs um að samningaumleitunum væri lokið var gefin út 11. febrúar 2011. Þó aðilar hefðu náð samkomulagi um megindrætti uppgjörs sín á milli 3. nóvember 2010, hefði ekki tekist að ljúka slíkum samningi. Því væri sameiginleg niðurstaða aðila að hætta frekari viðræðum um samkomulag og allri vinnu við gerð samnings og óska eftir því við Fjármálaeftirlitið að fram færi mat á verðmæti eigna og skulda.

19.6.6.1 Úr samningaviðræðum í sameiningarviðræður

Hinn 25. febrúar 2011 barst fjármálaráðuneytinu bréf frá Ástu Dís Óladóttur, stjórnarformanni Spkef sparisjóðs, og Einari Hannessyni sparisjóðsstjóra, þar sem gerð var grein fyrir fjármögnunarvanda sparisjóðsins og aðgerðum sem nauðsynlegar væru til að sjóðurinn teldist uppfylla kröfur Fjármálaeftirlitsins um eigið fé. Við stofnun Spkef sparisjóðs hefði fjármögnunarþörfin verið talin sex til sjö milljarðar króna, en mikið hefði breyst síðan þá. Eignasafn sparisjóðsins hefði verið yfirfarið og ljóst að staða þess væri mun verri en áætlað hefði verið í upphafi. Unnið hefði verið að því að meta eignasafnið miðað við 31. desember 2010 og í nýjum útreikningum á fjármögnunarþörf hefði verið tekið tillit til þessa. Þörfin var þá metin 19,4 milljarðar króna.417

Þegar ljóst var að samningaviðræður um uppgjör á milli Sparisjóðsins í Keflavík og Spkef sparisjóðs höfðu runnið út í sandinn var þegar farið að skoða aðra möguleika. Í lok febrúar taldi Bankasýsla ríkisins rétt, í ljósi lokamats stjórnar Spkef sparisjóðs, að vekja máls á öðrum leiðum en að endurreisa Spkef sparisjóð. Mögulegt væri að sameina Spkef sparisjóð NBI hf. (Landsbankanum), enda bæði fjármálafyrirtækin í meirihlutaeigu ríkisins. NBI hf. væri með hátt eiginfjárhlutfall og hefði svigrúm til að taka við sparisjóðnum án þess að eiginfjárframlag hefði verið reitt af hendi. Eftir sem áður yrði þó að brúa bil á milli eigna og skulda og því líklegt að leggja yrði fram skaðleysisyfirlýsingu vegna óvissu um eignasafn sparisjóðsins. Endurreisn sparisjóðsins væri dýr aðgerð og óvíst hvort hún mundi skila ríkissjóði viðunandi ávöxtun, innviðir sparisjóðsins virtust veikir og atvinnuástand á starfssvæði hans slæmt. Orðspor hans væri jafnframt laskað og neikvæð umræða undanfarinna vikna hefði dregið úr trúverðugleika hans. Lagt var til að stofnaður yrði vinnuhópur með fulltrúum Bankasýslu ríkisins, fjármálaráðuneytisins og NBI hf., auk utanaðkomandi ráðgjafa og lögmanns. Yrði hópnum falið að meta kosti og galla við a) endurfjármögnun Spkef sparisjóðs og b) samruna NBI hf. og Spkef sparisjóðs.418 Fjármálaeftirlitið átti ekki fulltrúa í vinnuhópnum. Hópurinn lagði til að síðari kosturinn yrði valinn. Með því yrði fjármögnunarkostnaður ríkissjóðs lægri og rekstrarlegar forsendur fyrir starfsemi sparisjóðsins sterkari. Niðurstaðan byggði meðal annars á greiningu á möguleikum til hagræðingar á bankamarkaði sem Bankasýsla ríkisins hafði unnið að.419

Undirritaður var samningur milli íslenska ríkisins og NBI hf. um yfirtöku á Spkef sparisjóði 5. mars 2011. Fjármálaráðuneytið tilkynnti Fjármálaeftirlitinu formlega um samninginn þann sama dag og að ráðuneytið hefði, að tillögu Bankasýslu ríkisins, leitað eftir samningi við NBI hf. um yfirtöku og samruna við Spkef sparisjóð. Aðstæður sparisjóðsins hefðu verið orðnar mjög knýjandi og fjármögnun hans ekki þolað frekari bið. Sparisjóðurinn uppfyllti ekki skilyrði Fjármálaeftirlitsins um lágmarks eigið fé og átti auk þess við verulegan og viðvarandi lausafjárskort að etja. Þá hafi viðskipti sparisjóðsins við Seðlabanka Íslands verið bundin skilyrðum um ábyrgð af hálfu ríkissjóðs. Rekstur sparisjóðsins og möguleikar hans á að standa við skuldbindingar sínar gagnvart innistæðueigendum og öðrum viðskiptamönnum hafi verið alfarið háðar beinum stuðningi og ábyrgð af hálfu ríkisins. Með samningi ráðuneytisins við NBI hf. væri fallið frá áformum um að fjármagna Spkef sparisjóð með beinum hætti. Þó formlegt uppgjör milli Sparisjóðsins í Keflavík og Spkef sparisjóðs hefði ekki farið fram, raskaði samningurinn ekki því uppgjöri, því NBI hf. tæki við réttindum og skyldum Spkef sparisjóðs gagnvart Sparisjóðnum í Keflavík. Fór fjármálaráðuneytið þess á leit við Fjármálaeftirlitið að það tæki ákvörðun í samræmi við ákvæði VI. til bráðabirgða við lög nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.420

19.6.6.2 Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um að taka yfir vald stofnfjáreigendafundar Spkef sparisjóðs

Með ákvörðun 5. mars 2011 tók Fjármálaeftirlitið yfir vald stofnfjáreigendafundar Spkef sparisjóðs. Í ákvörðuninni fólst að NBI hf. tæki í einu lagi við rekstri, eignum og skuldbindingum Spkef sparisjóðs samkvæmt samningi milli íslenska ríkisins og NBI um yfirtöku á Spkef sparisjóði. Um væri að ræða samruna án skuldaskila þannig að Spkef sparisjóður yrði algerlega sameinaður NBI hf. með yfirtöku eigna og skulda. Taldi Fjármálaeftirlitið að staða sparisjóðsins væri orðin slík að ákvæði VI. til bráðabirgða ætti við, enda lægi fyrir að fjármálaráðuneytið hefði fallið frá áformum um að fjármagna sjóðinn með beinum hætti. Forsendur fyrir afturköllun starfsleyfis væru fyrir hendi og önnur úrræði Fjármálaeftirlitsins ekki líkleg til að skila árangri. Með vísan til þess sem fram kom í bréfi fjármálaráðuneytisins sama dag taldi Fjármálaeftirlitið að hagsmunum viðskiptamanna, kröfuhafa og annarra hlutaðeigandi væri gætt með þeirri ráðstöfun sem fólgin var í samningi aðilanna.

Í bréfi Fjármálaeftirlitsins til fjármálaráðuneytisins og Bankasýslu ríkisins 8. mars 2011 var það gagnrýnt að Fjármálaeftirlitið hefði fyrst haft spurnir af því 2. mars 2011 að til skoðunar væri að sameina NBI hf. og Spkef sparisjóð, eða láta innlán sparisjóðsins renna inn í NBI hf. gegn því að samsvarandi eignir fylgdu. Á fundi nefndar um fjármálastöðugleika 4. mars 2011 hafi áformin verið kynnt aðstoðarforstjóra Fjármálaeftirlitsins og forstjóra þess tilkynnt síðar sama dag að ákvörðunin skyldi koma til framkvæmda daginn eftir. Óskaði stjórn Fjármálaeftirlitsins eftir að þeim tilmælum yrði beint til ráðuneytisins að kæmi aftur til þess að grípa þyrfti til sambærilegra aðgerða yrði haft nánara samráð og upplýsingaskipti við Fjármálaeftirlitið á fyrri stigum ákvörðunartöku.421

Yfirtakan á Spkef sparisjóði kom fleirum á óvart, því í skýrslu stjórnarformanns sparisjóðsins fyrir rannsóknarnefndinni kom fram að hún hafi frétt af yfirtöku NBI hf. í fjölmiðlum og að þær fréttir hafi komið henni algerlega í opna skjöldu. Á fundi í fjármálaráðuneytinu síðar sama dag hafi komið fram að þetta væri eini kosturinn í stöðunni, að sparisjóðurinn væri svo illa staddur að ekki væri réttlætanlegt að halda rekstrinum áfram og því hafi verið ákveðið að NBI hf. tæki sjóðinn yfir.422

19.6.7 Eftirmálar yfirtöku NBI hf. á Spkef sparisjóði

Samruni Spkef sparisjóðs og NBI hf. fór fram án skuldaskila. Með yfirtökunni lauk tilvist Spkef sparisjóðs. Samkvæmt samningi greiddi NBI hf. ekkert vegna yfirtökunnar en kveðið var á um fjárhagslegt uppgjör milli aðila og skyldi uppgjörið miðast við 7. mars 2011. Endurskoðandi Spkef sparisjóðs skyldi útbúa endurskoðaðan rekstrar- og efnahagsreikning vegna sparisjóðsins miðað við 7. mars 2011, í samræmi við reikningsskilavenjur, svonefndan uppgjörsreikning. Uppgjörið skyldi vera tilbúið eigi síðar en 25. mars 2011 og skyldi ríkissjóður greiða NBI hf. fjárhæð sem svaraði til neikvæðrar eiginfjárstöðu sparisjóðsins samkvæmt uppgjörsreikningnum. Greiðslan skyldi vera í formi skuldabréfs sem afhent yrði þegar endanleg niðurstaða lokauppgjörs lægi fyrir og skyldi verðmæti skuldabréfsins samsvara þeirri niðurstöðu. Í samningnum var kveðið á um frest NBI hf. til að gera athugasemdir við uppgjörsreikninginn. Gert var ráð fyrir að aðilar á vegum NBI hf. myndu framkvæma áreiðanleikakönnun og verðmat á rekstri, eignum, skuldum og skuldbindingum Spkef sparisjóðs, en ríkið átti rétt á að tilnefna fulltrúa til að vera viðstaddur könnunina. Skyldi niðurstaða könnunarinnar borin saman við uppgjörsreikninginn. Kæmu fram athugasemdir, skyldu aðilar taka upp samningaviðræður til að leysa úr ágreiningi. Tækist það ekki, skyldi ágreiningurinn lagður fyrir sérstaka úrskurðarnefnd.

Framkvæmdin varð þó ekki að öllu leyti eins og um var samið í yfirtökusamningnum. NBI hf. hóf vinnu við áreiðanleikakönnun skömmu eftir gerð yfirtökusamningsins og kynnti ríkinu niðurstöður hennar bréflega 9. júní 2011. Samkvæmt henni þyrfti ríkið að greiða NBI hf. rúma 29,4 milljarða króna til jöfnunar eigna og skulda. Undirritaður var verksamningur við Ernst & Young 10. júní 2011 um gerð uppgjörsreiknings og lágu drög að honum fyrir tveimur mánuðum seinna. Þá var stjórn Spkef sparisjóðs farin frá og fyrrverandi stjórnarmenn fengust ekki til að staðfesta reikninginn. Þeir litu svo á að með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins hefðu þeir verið leystir frá skyldum sínum og gætu þar af leiðandi ekki borið ábyrgð á efni og framsetningu uppgjörsreiknings sem gerður var löngu síðar.423

Samkvæmt uppgjörsreikningnum var krafa NBI hf. á hendur íslenska ríkinu um 13,1 milljarður króna, eða mismunur verðmætis yfirtekinna eigna og skulda samkvæmt uppgjörsreikningi. Ljóst var að mikið bar á milli aðila og fór svo að lokum að óskað var eftir að skipuð yrði úrskurðarnefnd í samræmi við ákvæði yfirtökusamningsins. Henni skyldi falið að skera úr um endurgjald til NBI hf. Úrskurðarnefndina skipuðu Ragnar H. Hall hæstaréttarlögmaður, Garðar Jón Bjarnason löggiltur endurskoðandi og Sigrún Guðmundsdóttir löggiltur endurskoðandi. Samningur við nefndarmennina var gerður 5. desember 2011.424

Í máli sínu fyrir úrskurðarnefndinni byggði NBI hf. á því að uppgjörsreikningur hefði ekki verið gerður í samræmi við ákvæði yfirtökusamningsins og áreiðanleikakönnun hefði sýnt að eignasafn sparisjóðsins hafi verið stórlega ofmetið. Af hálfu ríkisins var byggt á því að uppgjörsreikningurinn, eins og hann lá fyrir, væri fullnægjandi þótt hann hefði ekki verið áritaður af stjórn og framkvæmdastjóra sparisjóðsins. Ríkið gerði jafnframt athugasemdir við framkvæmd og aðferðafræði áreiðanleikakönnunar, meðal annars að hún hefði ekki verið gerð af aðila á vegum NBI hf., heldur af bankanum sjálfum.

Úrskurðarnefndin leit svo á að í því að aðilar lýstu því viðhorfi sínu að nefndinni bæri að leysa úr ágreiningnum, fælist bindandi afstaða til þess að uppgjörsreikningurinn, í því horfi sem hann væri, hefði verið gerður í samræmi við ákvæði samningsins. Þá hafnaði nefndin því að áreiðanleikakönnunin væri ómarktæk. Nefndin tók því afstöðu til efnislegra athugasemda NBI hf. við uppgjörsreikninginn, eins og þær voru settar fram í gögnum málsins, en taldi ljóst að við skoðun gagna sem bankinn legði til grundvallar athugasemdum sínum yrði að taka tillit til uppruna þeirra. Í því sambandi taldi nefndin óhjákvæmilegt að líta til þess að fyrrverandi starfsmenn sparisjóðsins sem þá gegndu störfum hjá NBI hf. hefðu „látið í ljós ólíkt mat á verðmæti eigna eftir því á hvorum staðnum þeir störfuðu“.425 Í úrskurði nefndarinnar var vísað til bréfs stjórnarformanns og sparisjóðsstjóra Spkef sparisjóðs til fjármálaráðuneytisins 25. febrúar 2011. Þar var fjármögnunarvanda sparisjóðsins lýst og gerð grein fyrir þeim aðgerðum sem nauðsynlegar væru til að sparisjóðurinn gæti uppfyllt kröfur Fjármálaeftirlitsins um eigið fé. Í skýrslu sparisjóðsstjóra fyrir úrskurðarnefndinni lýsti hann því að matið sem bréfið var grundvallað á hafi byggst á „bjartsýnisspá“, að allt hefði þurft að ganga sparisjóðnum í hag til þess að slík innspýting fjár ætti að nægja til að tryggja áframhaldandi rekstur. Síðar hafi hann séð að þetta mat væri óraunhæft en þá var hann orðinn starfsmaður NBI hf.

Í úrlausn sinni miðaði úrskurðarnefndin við verðmæti eigna sparisjóðsins eins og það hefði réttilega verið metið við gerð uppgjörsreikningsins og tók ekki tillit til atvika sem síðar gerðust eða komu fram eftir þann tíma. Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar var að lækka bæri verðmat eigna Spkef sparisjóðs um rúma 6,8 milljarða króna, en frá þeirri fjárhæð skyldi draga 769 milljónir króna vegna fyrirliggjandi upplýsinga um riftun á innlánsskuldbindingum. Samtals skyldi verðmatið því lækka um rúma sex milljarða króna. Niðurstaðan var því sú að heildarfjárhæð skuldabréfs sem íslenska ríkið skyldi afhenda NBI hf. skyldi hljóða upp á tæpa 19,2 milljarða króna.426

Fjármálaráðherra sagði í skýrslu sinni fyrir rannsóknarnefndinni að það hafi verið orðið ljóst að sparisjóðurinn kæmi ekki út á núlli eins og hann hafi talið á ákveðnu tímabili. Ríkissjóður myndi þurfa að greiða eitthvað vegna innistæðnanna en vonir hefðu verið bundnar við að það yrði minna en niðurstaða gerðardómsins var:

Auðvitað tók þetta langan tíma, menn biðu eftir endurnýjuðu mati á eignasafninu. Það hefði verið betra að horfast í augu við þetta fyrr og taka starfsemi sparisjóðsins niður mun fyrr hefðu menn haft upplýsingar um hversu illa hann var staddur. En sparisjóðurinn starfar jú á undanþágu frá FME og þeir með sinn tilsjónarmann þarna inni, þannig að það var í þeirra höndum að gera viðvart um að þeir teldu stofnunina ekki starfhæfa. Ég held að við höfum bara sagt það á þessum tíma og það var ekkert verið að fela það að í og með var verið að reyna að sjá hvort hægt væri að bjarga langstærsta sparisjóðnum sem eftir var starfandi sem slíkum og hann gæti þá tilheyrt fjölskyldunni áfram.427

Lengi vel hafði Sparisjóðurinn í Keflavík og síðar Spkef sparisjóður átt við mikinn lausafjárvanda að stríða. Lausafjárvandinn gat hins vegar ekki skýrt „ónýtt“ eignasafn. Aðspurður hvort hann teldi að stjórnendur sparisjóðsins hafi blekkt stjórnvöld svaraði fjármálaráðherra:

Ég vil ekki nota það orð en þeir voru allavega ekkert að hafa fyrir því að upplýsa um slík sérstök áhyggjuefni. […] Ég segi fyrir mig að ég hafði ekki hugmynd um það sem núna virðist vera að birtast mönnum í formi þess hvernig útlán voru þarna, án trygginga og allt þetta. Maður verður mjög sjokkeraður þegar maður sér slíkt eftir á. Ég hef velt því fyrir mér af hverju maður var ekki upplýstur um að það væru til þá þegar einhverjar skýrslur sem sýndu kolsvarta mynd af ástandinu en þess minnist ég ekki að hafi verið. Þessi úttekt á sparisjóðnum frá því fyrir hrun, […] ég vissi hreinlega ekki að þetta væri til fyrr en nýlega.428

19.7 Arður af stofnfjáreign í Sparisjóðnum í Keflavík og sparisjóðum sem sameinuðust honum

Sparisjóðurinn í Keflavík greiddi stofnfjárhöfum arð af stofnfé þeirra vegna áranna 2001–2007. Arðgreiðslurnar námu samtals rúmum 3,9 milljörðum króna, þar af voru 2,8 milljarðar króna vegna ársins 2007. Greiðsla arðs vegna þessara ára var í samræmi við reglur Tryggingasjóðs sparisjóða, en hin háa greiðsla vegna 2007 kallar á sérstaka umfjöllun.429 Ekki var greiddur arður eftir þetta. Reglur Tryggingasjóðs giltu til ársins 2009 þegar lögum var breytt og eftir það mátti greiða út arð sem næmi að hámarki 50% af hagnaði.430

Í lögum um fjármálafyrirtæki var heimild til að endurmeta stofnfé í sparisjóði og greiða inn á stofnfjárreikninga stofnfjáreigenda og skyldi höfð hliðsjón af verðlagsbreytingum við endurmatið.431 Árin 2005–2008 var stofnfé Sparisjóðsins í Keflavík hækkað með endurmati vegna verðlagsbreytinga um tæpa þrjá milljarða króna, þar af um tæpa 2,6 milljarða króna árið 2008. Framkvæmdin var framan af í samræmi við reglur. Árið 2007 var stofnfé hins vegar endurmetið nokkuð umfram verðlagsbreytingar ársins, eða sem nam rúmum 60 milljónum króna, og enn meira árið 2008 þegar það var rúmar 300 milljónir króna umfram verðlagsbreytingar. Stofnfé var ekki verðbætt eftir 2008.

Í sömu lögum var jafnframt heimild til þess að ráðstafa 10% af hagnaði næstliðins rekstrarárs til hækkunar stofnfjár með svokölluðu sérstöku endurmati.432 Hækkunin mátti þó ekki vera meiri en 5% á ári og ekki mátti flytja heimild til þessa endurmats milli ára. Sparisjóðurinn í Keflavík nýtti sér þessa heimild óslitið frá 2002 til 2008 vegna næstliðinna rekstrarára. Í ársreikningum lágu ekki fyrir sundurliðanir á endurmati stofnfjár á árunum 2006 og 2007 og ekki voru nákvæmar tölur í fundargerðum um nýtingu heimildar til sérstaks endurmats fyrir þessi ár. Því er hér gert ráð fyrir að sjóðurinn hafi nýtt sér heimild til sérstaks endurmats til fulls árið 2006, eða um 5% af stofnfé vegna næstliðins rekstrarárs. Í ársreikningi 2008 var fært sérstakt endurmat vegna næstliðins rekstrarárs upp á tæpar 199 milljónir króna sem jafngilti 1,5% af stofnfé í árslok 2007 og 10,5% af hagnaði þess árs. Þessi hækkun var ekki í samræmi við reglur, því arðgreiðslan vegna sama rekstrarárs nam hálfum öðrum hagnaði ársins 2007, eins og vikið verður að hér aftar. Sérstaka endurmatið byggist á sérstakri heimild í 68. gr. laga nr. 161/2002 um ráðstöfun hagnaðar. Hafi honum verið ráðstafað með öðrum hætti, svo sem með greiðslu arðs, kemur sérstakt endurmat ekki til álita.

Í töflu 49 eru tilfærðar þær upplýsingar sem útreikningur á arði og endurmati byggist á. Hafa verður í huga að arðurinn og sérstaka endurmatið eru þar höfð undir því ári sem þau eru útreiknuð. Arðurinn var hins vegar greiddur út ári síðar og sérstaka endurmatið bættist þá við stofnféð. Ástæða þess er sú að tillaga stjórnar um hvort tveggja þurfti að hljóta samþykki aðalfundar til þess að koma til framkvæmda. Þannig sjást viðkomandi fjárhæðir ekki fyrr en í ársreikningi næsta árs.

Hin háa arðgreiðsla vegna ársins 2007 stafaði bæði af mikilli hækkun stofnfjár á árinu, en þá voru fjórar stofnfjáraukningar og auk þess samruni við Sparisjóð Vestfirðinga og Sparisjóð Húnaþings og Stranda, og einnig af matshækkun eða leiðréttingu eigin fjár í upphafi árs vegna upptöku alþjóðlegra reikningsskilareglna (IFRS). Sú leiðrétting nam 525 milljónum króna og samkvæmt reglum Tryggingasjóðs mátti við útreikning arðsins taka tillit til þess sem heimilt hefði verið að greiða vegna 2006 ef henni hefði verið bætt við afkomuna þá. Þannig hefði verið heimilt að greiða hátt í 1,9 milljörðum króna hærri arð vegna ársins 2006 en gert var. Útreikningur á arðgreiðslunni vegna 2007 sérstaklega og þessari leiðréttingu vegna upptöku IFRS er sýndur í töflu 50.

Ljóst er að ný stefna var tekin upp hjá sparisjóðnum hvað snerti arðgreiðslur. Á stjórnarfundi 15. nóvember 2007 var stefnumótun á dagskrá. Samkvæmt fundargerð fór sparisjóðsstjóri yfir stöðu mála varðandi stofnfjárútboð og arðgreiðslustefnu. Meðal annars var gerð eftirfarandi samþykkt:

Samþykkt í ljósi þróunar á hagnaði síðustu ára, að leggja til við næsta aðalfund að hagnaði ársins verði varið til greiðslu arðs og nýttar verði aðrar heimildir eftir því sem lög og reglur leyfa.433

Á fundi stofnfjáreigenda 4. desember 2007, sem haldinn var vegna væntanlegrar sameiningar við landsbyggðarsparisjóðina tvo, kom fram í setningarávarpi Þorsteins Erlingssonar stjórnarformanns Sparisjóðsins í Keflavík:

Stjórn sparisjóðsins stefnir á að auka stofnfé fyrir áramót og greiða hærri arð en áður. Þannig mun hlutdeild stofnfjáreigenda í heildar eigin fé aukast.434

Á sama fundi gerði Geirmundur Kristinsson sparisjóðsstjóri grein fyrir tillögu stjórnar um að henni yrði veitt heimild til að auka stofnfé umtalsvert. Hann kvað hana vera í takt við tillögur sem samþykktar hefðu verið nokkrum dögum fyrr í Sparisjóði Vestfirðinga og tillögur sem búist var við að yrðu samþykktar sama dag í Sparisjóði Húnaþings og Stranda. Í ræðu sinni sagði hann:

Ástæður þess að hröð handtök eru uppi við að auka stofnfé eru þær að þannig aukast möguleikar á að greiða út umtalsverðan arð í hinum sameinaða sjóði í samræmi við reglur og munar þar verulegu. Við gerð tillögunnar hefur verið gert ráð fyrir því að afkoma sparisjóðanna hefur versnað á síðasta ársfjórðungi vegna lækkunar á verðbréfamörkuðum.435

Þessi fyrirheit voru efnd þegar arðgreiðsla vegna ársins 2007 var ákveðin. Á stjórnarfundi 29. febrúar 2008 fóru endurskoðandi sparisjóðsins og forstöðumaður reikningshalds yfir drög að ársreikningi sparisjóðsins fyrir 2007. Í stjórnarfundargerð sagði:

Páll Steingrímsson og Árni Björgvinsson fóru yfir möguleika á arðgreiðslum. Samþykkt að leggja fram á aðalfundi tillögu um arðgreiðslu til stofnfjáraðila upp á kr. 3,3 milljarða. Það jafngildir um það bil 25% arði á stofnfé.436

Þessi tillaga var svo ítrekuð, og samþykkt á næsta stjórnarfundi 3. mars 2008 að „greiddur yrði 25% arður á endurmetið stofnfé“. Þannig var tillagan einnig í skýrslu stjórnar með ársreikningi sparisjóðsins 2007 sem undirritaður var daginn eftir. Stjórnin tók því ákvörðun um að greiða arð umfram það hámark sem reglur Tryggingasjóðs mæltu fyrir um, sem var raunarðsemi eigin fjár. Í endurskoðunarskýrslu um ársreikninginn 2007 sagði:

Raunarðsemi sjóðsins reiknast vera 20% á árinu 2007 og samkvæmt bréfi Tryggingasjóðs sparisjóða skal arðgreiðsluheimild sjóðsins miðast við það hlutfall af endurmetnu stofnfé í árslok. Í útreikningi á arðsemi ársins hefur verið tekið tillit til þeirra leiðréttinga sem urðu vegna innleiðingar alþjóðlegra reikningsskilastaðla. […] Arðsheimild reiknuð út frá ávöxtun ársins er 2.801,3 milljónir.437

Daginn fyrir aðalfund sparisjóðsins, sem haldinn var 11. mars 2008, hafði aðstoðarforstjóri Fjármálaeftirlitsins samband við sparisjóðsstjóra símleiðis og óskaði eftir upplýsingum um útreikning á arðgreiðsluhlutfallinu og nokkur tengd atriði. Aðstoðarforstjórinn ritaði minnisblað um þetta símtal. Í því voru tilfærð fjögur atriði sem óskað var eftir skýringum sparisjóðsins á:

 • Arðgreiðsluhlutfall: Samkvæmt lauslegum útreikningum Fjármálaeftirlitsins var raunarðsemi ársins 2007 hjá sparisjóðnum 8,2% og var þá ekki tekið tillit til hækkunar á eigin fé vegna upptöku IFRS. Beðið var um skýringar á því hvernig 25% arðgreiðsluhlutfallið var fundið.
 • Mat á hlutabréfum: Fjármálaeftirlitinu sýndist sem bókfært virði á eignarhlut sparisjóðsins í Icebank hf. væri of hátt og færði rök fyrir þeirri skoðun. Beðið var um upplýsingar um þá matsaðferð sem viðhöfð var.
 • Hlutdeildaraðferð: Hvers vegna var eignarhluturinn í Icebank hf. ekki metinn samkvæmt hlutdeildaraðferð þar sem hann nam rúmum 20% í árslok 2007 og fulltrúi Sparisjóðsins í Keflavík, Geirmundur Kristinsson, hafði verið stjórnarformaður bankans um langt skeið?
 • Færsla lífeyrisskuldbindinga: Í ársreikningnum 2007 var 815 milljóna króna leiðrétting á framlagi til lífeyrisskuldbindingar færð yfir eigið fé. Hvers vegna var hún ekki færð til gjalda í rekstri samkvæmt almennri reglu í reikningsskilum?

Minnisblaðinu lauk með samantekt á ofangreindu og stóð þar að það væri „tilefni til að athuga nánar ýmis atriði í ársuppgjöri sparisjóðsins fyrir árið 2007 og áhrif þess á arðgreiðslur sparisjóðsins sem fyrirhugað er að afgreiða á aðalfundi sparisjóðsins síðdegis 11. mars 2008“.438

Svar sparisjóðsins til Fjármálaeftirlitsins var í þremur liðum:

 • Fjáreignir á gangvirði, Icebank hf.: Rakin voru nokkur atriði í því hvernig eignarhlutur sparisjóðsins varð svo stór sem raun bar vitni. Síðan sagði: „Það er hins vegar ekki ætlun Sparisjóðsins að eiga Icebank af hlutdeildarformi að óbreyttum aðstæðum og því mun eignarhlutdeild sjóðsins verða jöfnuð til samræmis þeirri skilgreiningu.“ Spurningum Fjármálaeftirlitsins um mat á bókfærðu virði eignarhlutarins var ekki svarað.
 • Lífeyrisskuldbinding: Tekin var óbreytt klausa úr endurskoðunarskýrslunni um lífeyrisskuldbindinguna og spurningunni ekki svarað umfram það.
 • Arðgreiðsla: Arðsemi sparisjóðsins var nú sögð hafa reiknast 15,24% og arðsheimild samkvæmt því næmi 2.068 milljónum króna, en að auki hefði sjóðurinn heimild til að úthluta 1.461 milljón króna vegna IFRS leiðréttinga. Samanlögð arðsheimild væri því 3.529 milljónir króna.439

Með svarinu fylgdu útreikningar forstöðumanns reikningshalds hjá sparisjóðnum og endurskoðanda sparisjóðsins á arðseminni og arðgreiðsluheimildinni. Niðurstaða þeirra var nokkuð hærri en sú sem rannsóknarnefndin komst að, sbr. útreikninga í töflu 50.

Á stjórnarfundi 11. mars 2008, sem haldinn var rétt áður en aðalfundurinn hófst, var arðgreiðslutillagan rædd aftur og eftirfarandi bókað í fundargerð:

Ræddar athugasemdir sem hafa komið frá FME vegna tillögu stjórnar um arðgreiðslu stofnfjár. Samþykkt að leggja til við aðalfund að arðgreiðsla stofnfjár verði 20% í stað 25% og jafnframt að nýtt verði heimild til að ráðstafa 10% af hagnaði ársins til endurmats stofnfjár.440

Tillagan var borin upp í tvennu lagi á aðalfundinum. Fyrst um arðgreiðsluhlutfallið og síðan eins og greint var frá í aðalfundargerð:

Tillaga um að nýta heimild í lögum til að auka stofnfé með ráðstöfun hluta hagnaðar. Fyrir fundinum lá áður fyrir tillaga þar sem fram kom að hagnaði ársins væri öllum ráðstafað sem arðgreiðslu til stofnfjáraðila. Stjórn breytti tillögu sinni á fundi í dag og leggur til að 10% hagnaðar verði ráðstafað til hækkunar á endurmati stofnfjár [svo].441

Hvort tveggja var samþykkt án umræðu og með handauppréttingu. Síðari tillöguna mátti skilja sem svo að 10% hagnaðarins yrði varið til hækkunar en að öðru leyti yrði honum varið til greiðslu arðs. Raunin var sú að 20% arðgreiðsluhlutfall af stofnfé þýddi að 144% af hagnaði ársins var varið í arð og þannig var óheimilt að hækka stofnféð með sérstöku endurmati. Með arðgreiðslunni var gengið á varasjóðinn.

Það virðist hafa farið framhjá mörgum að ekki mætti beita reglunni um sérstakt endurmat ef öllum hagnaði var varið til arðgreiðslu, meira að segja hjá þeim aðila sem gaf út reglur um hámark arðgreiðslu hvert ár, Tryggingasjóði sparisjóða. Til marks um það er tölvuskeyti frá framkvæmdastjóra Tryggingasjóðs til aðstoðarforstjóra Fjármálaeftirlitsins daginn eftir umræddan aðalfund hjá Sparisjóðnum í Keflavík:

Sæll Ragnar, af aðalfundi Spkef er m.a. það að frétta að stjórnin fundaði í gær og sammæltist um nýja tillögu varðandi arðinn – þ.e. 20% í stað 25% og var það samþykkt einum róm. Jafnframt var samþykkt tillaga um að nýta 2. tl. 68. gr. um 10% af hagnaði til hækkunar á stofnfé. Bestu kveðjur, Hrefna.442

Hér hafa svo margar útgáfur af arðgreiðslunni verið nefndar að rétt þykir að draga þær allar saman í yfirlit sem sýnt er í töflu 51.

Þegar Ragnar Hafliðason hafði fengið áðurnefnt svarskeyti Geirmundar í hendur sendi hann honum eftirfarandi tölvuskeyti:

Sæll Geirmundur, Þakka þér fyrir sendinguna. Ég vísa í símtal við þig áðan þar sem eftirfarandi kom fram. Við fyrstu sýn virðist mér að útreiknuð arðsemi sé nafnarðsemi. Ég minni á að arðgreiðsluhlutfallið miðast við raunarðsemi, þ.e. nafnarðsemin er þá leiðrétt fyrir breytingu á verðlagsvísitölu milli áramóta, sbr. fyrirmæli Tryggingarsjóðs. Þar sem verðbólga milli áramóta er milli 5,8% [svo]. Raunarðsemin er því 18,1%. Ég ræddi um þetta við Pál Steingrímsson, endurskoðanda sparisjóðsins áðan, en hann mun hafa reiknað út arðsemina, og ætlaði hann að hafa samband við framkvæmdastjóra Tryggingasjóðs til að fá nánari leiðbeiningar um hvernig ætti að reikna þetta.

Það eru ýmis atriði í fyrirliggjandi gögnum (ársuppgjöri o.fl.), sem arðsemisútreikningarnir að öðru leyti byggjast á, sem þarfnast nánari skoðunar að mati FME. FME mun væntanlega kalla bréflega eftir nánari upplýsingum í því sambandi. Kveðja / Best regards, Ragnar Hafliðason.443

Ekki varð af því að Fjármálaeftirlitið kallaði eftir þeim upplýsingum sem þarna var getið og skal tekið fram að ekki hvíldi lagaleg skylda á Fjármálaeftirlitinu að hafa eftirlit með arðgreiðslum sparisjóða. Þetta var eina skiptið sem Fjármálaeftirlitið hafði afskipti af arðgreiðslu hjá sparisjóði og um frekari eftirfylgni eða aðgerðir var ekki að ræða.444 Tryggingasjóður sparisjóða hafði heldur ekki það verkefni með höndum, heldur aðeins að setja reglur um hámarksarðgreiðsluhlutfall ár hvert.

Þau atriði sem aðstoðarforstjóri Fjármálaeftirlitsins vildi fá skýringar á gátu haft áhrif á arðsemi og þar af leiðandi arðgreiðsluhlutfallið. Ef til staðar hefðu verið ástæður til að færa niður eign sparisjóðsins í Icebank hf. hefði hagnaður verið minni, en af minnisblaðinu má ráða að aðstoðarforstjórinn hafi talið eignina ofmetna um 400–500 milljónir króna. Þá taldi hann að ekki hefði átt að færa gengishagnað af eignarhlutnum í Icebank hf., heldur færa hlutdeild í tekjum hans, þar sem hluturinn nam 20,4% og að auki var fulltrúi sparisjóðsins stjórnarformaður bankans. Svör sparisjóðsins um að til stæði að selja hlutinn og þess vegna væri hann ekki færður með hlutdeildaraðferð standast ekki skoðun því samkvæmt stjórnarfundargerðum í sparisjóðnum voru engin áform uppi um að selja eignarhluti í bankanum, heldur þvert á móti að auka þá.445 Með hlutdeildaraðferðinni hefði sparisjóðurinn fært hlutdeildartekjur af Icebank hf. upp á 330 milljónir króna, en hann færði hins vegar rúmlega 2,4 milljarða króna gengishagnað af eignarhlutnum með því að færa hann á gangvirði. Mismunurinn nam rúmlega öllum hagnaði sparisjóðsins 2007. Ef hlutdeildaraðferð hefði verið notuð áfram hefði enginn hagnaður orðið. Á hinn bóginn var athugasemdin um leiðréttinguna á framlagi til lífeyrisskuldbindingar upp á 815 milljónir króna, sem var færð til frádráttar á eigin fé en ekki í gegnum rekstur, ekki fyllilega réttmæt. Hækkunin á skuldbindingunni var leiðrétting vegna fyrri ára og því eðlilegt að hlífa hagnaði ársins 2007 við þessum frádrætti.

Sparisjóður Ólafsvíkur

Sparisjóður Ólafsvíkur greiddi aldrei arð á tímabilinu 2001–2005, en á árinu 2006 sameinaðist hann Sparisjóðnum í Keflavík. Honum hefði þó verið heimilt að greiða arð samkvæmt reglum Tryggingasjóðs. Stofnfé í sparisjóðnum var ekki nema 165 þúsund krónur í árslok 2005 og því hefði aldrei orðið um teljandi fjárhæðir að ræða. Stofnfé var á tímabilinu hækkað með endurmati vegna verðlagsbreytinga og með sérstöku endurmati um samtals 32 þúsund krónur. Það var ekki verðbætt árin 2003 og 2004.

Í töflu 52 eru tilfærðar þær upplýsingar sem útreikningur á arði og endurmati byggist á. Hafa verður í huga að arðurinn og sérstaka endurmatið eru þar höfð undir því ári sem þau eru útreiknuð. Arðurinn var hins vegar greiddur út ári síðar og sérstaka endurmatið bættist þá við stofnféð. Ástæða þess er sú að tillaga stjórnar um hvort tveggja þurfti að hljóta samþykki aðalfundar til þess að koma til framkvæmda. Þannig sjást viðkomandi fjárhæðir ekki fyrr en í ársreikningi næsta árs.

Sparisjóður Vestfirðinga

Sparisjóður Vestfirðinga greiddi stofnfjárhöfum jafnan arð af stofnfé þeirra. Arðgreiðslur vegna áranna 2001–2006 námu samtals tæpum 58 milljónum króna. Þar af voru tæpar 26 milljónir króna færðar til hækkunar á stofnfé sparisjóðsins. Það var fyrst gert vegna ársins 2004 fyrir tilmæli Tryggingasjóðs sparisjóða. Tryggingasjóður hafði á árinu veitt sparisjóðnum 36,9 milljóna króna framlag og 100 milljóna króna víkjandi lán til að styrkja hann í miklum þrengingum og óskaði því eftir skriflegum rökstuðningi frá sparisjóðnum fyrir fyrirhugaðri 8% arðgreiðslu. Þetta varð til þess að stjórn sparisjóðsins lækkaði tillögu sína um arðgreiðsluna í 5%.446 Árið eftir var á ný haft samráð við Tryggingasjóð um arðgreiðsluna. Arðgreiðslurnar rúmuðust allar innan regla Tryggingasjóðs.

Stofnfé í Sparisjóði Vestfirðinga var á tímabilinu hækkað með endurmati vegna verðlagsbreytinga og með sérstöku endurmati um samtals tæpar 34 milljónir króna. Sérstöku endurmati var aðeins beitt vegna ársins 2006 en hækkun stofnfjár vegna verðlagsbreytinga var nokkuð minni en heimil hefði verið.

Í töflu 53 eru tilfærðar þær upplýsingar sem útreikningur á arði og endurmati byggist á. Hafa verður í huga að arðurinn og sérstaka endurmatið eru þar höfð undir því ári sem þau eru útreiknuð. Arðurinn var hins vegar greiddur út ári síðar og sérstaka endurmatið bættist þá við stofnféð. Ástæða þess er sú að tillaga stjórnar um hvort tveggja þurfti að hljóta samþykki aðalfundar til þess að koma til framkvæmdar. Þannig sjást viðkomandi fjárhæðir ekki fyrr en í ársreikningi næsta árs.

Sparisjóður Húnaþings og Stranda

Sparisjóður Húnaþings og Stranda greiddi stofnfjárhöfum jafnan arð af stofnfé þeirra. Arðgreiðslur vegna áranna 2001–2006 námu samtals tæpum 11 milljónum króna, þar af voru 7,5 milljónir króna aðeins vegna 2006. Tveir þriðju þeirrar arðgreiðslu voru færðir til hækkunar á stofnfé sparisjóðsins. Allt tímabilið rúmuðust arðgreiðslurnar innan reglna Tryggingasjóðs sparisjóða. Stofnfé í Sparisjóði Húnaþings og Stranda var hækkað með endurmati vegna verðlagsbreytinga og sérstöku endurmati um samtals 3,4 milljónir króna árin 2001–2006 í samræmi við lög og reglur.

Í töflu 54 eru tilfærðar þær upplýsingar sem útreikningur á arði og endurmati byggist á. Hafa verður í huga að arðurinn og sérstaka endurmatið eru þar höfð undir því ári sem þau eru útreiknuð. Arðurinn var hins vegar greiddur út ári síðar og sérstaka endurmatið bættist þá við stofnféð. Ástæða þess er sú að tillaga stjórnar um hvort tveggja þurfti að hljóta samþykki aðalfundar til þess að koma til framkvæmdar. Þannig sjást viðkomandi fjárhæðir ekki fyrr en í ársreikningi næsta árs.

19.8 Innra eftirlit

Við skoðun á innra eftirliti sparisjóðanna var leitast við að kanna hvernig fyrirkomulagi þess var háttað og hvort veikleikar hafi verið í eftirlitskerfum sparisjóðanna. Almenna umfjöllun um innra eftirlit, hlutverk stjórnar, innri endurskoðun og áhættustýringu er að finna í 6. kafla, en eftirfarandi umfjöllun lýtur að virkni þessara þátta í starfsemi Sparisjóðsins í Keflavík og áhrifum þeirra á rekstur sparisjóðsins. Áhersla var lögð á tímabilið frá 2005 til 2010.

19.8.1 Innri endurskoðun

Á því tímabili sem til skoðunar var starfrækti Sparisjóðurinn í Keflavík eigin innri endurskoðunardeild. Framan af sinnti einn og sami starfsmaður sparisjóðsins áhættustýringu, útlánaeftirliti og innri endurskoðun, en breyting varð á skipan mála árið 2005.447 Þá tók Eyrún Jana Sigurðardóttir við starfi forstöðumanns innri endurskoðunar af Jóni Axelssyni sem gegnt hafði starfinu síðan 1999. Tíð forstöðumannaskipti einkenndu starf innri endurskoðunar Sparisjóðsins í Keflavík, en frá 1999 til 2010 gegndu fimm aðilar starfi forstöðumanns, auk þess sem innri endurskoðun fyrir árið 2008 var útvistað til Deloitte hf.448 Tíðar mannabreytingar höfðu í för með sér ólíkar áherslur í starfi innri endurskoðunar.

Áður en Eyrún Jana Sigurðardóttir tók við starfi forstöðumanns innri endurskoðunar Sparisjóðsins í Keflavík í ágúst 2005 hafði hún starfað um nokkurt skeið hjá sparisjóðnum sem þjónustufulltrúi, en starfið var auglýst innan sparisjóðsins. Hún gegndi stöðu forstöðumanns innri endurskoðunar fram í janúar 2007. Í skýrslu sinni fyrir rannsóknarnefndinni sagði hún verkefni deildarinnar hafa verið óljós er hún tók við. Einhver fyrirmæli hafi hún fengið um þau verkefni sem henni bæri að sinna, meðal annars að fylgjast með vanskilum og útlánaaukningu, innlánum, útlánasafni og frávikum eða brotum í starfi, en starfið skipulagði hún út frá skýrslum fyrri forstöðumanns. Eitt fyrstu verka hennar var að yfirfara verklagsreglur sem þörf var á að uppfæra, meðal annars reglur um peningaþvætti. Hún var reglulega kölluð á stjórnarfundi og sat sparisjóðsstjóri þá fundi er hún kynnti niðurstöður sínar. Taldi hún óeðlilegt að sparisjóðsstjóri sæti alla stjórnarfundi og ekki hafi verið nægjanlegur aðskilnaður milli starfa sparisjóðsstjóra og eftirlitshlutverks stjórnar. Upp hafi komið ágreiningur milli forstöðumanns innri endurskoðunar og sparisjóðsstjóra um hvað skyldi rætt á stjórnarfundum, meðal annars vegna útlána sem sparisjóðsstjóri taldi sig hafa heimild til að veita en voru ekki afgreidd í lánanefnd. Tilkynnt var um ætluð brot á reglum sparisjóðsins á stjórnarfundi, þar sem sparisjóðsstjóri fékk að koma sínum sjónarmiðum að, en hvorki fengust viðbrögð frá stjórninni, né vissi forstöðumaðurinn til þess að stjórn hefði unnið eitthvað með athugasemdirnar. Aðspurð um frekari eftirfylgni taldi forstöðumaðurinn það ekki hafa verið sitt hlutverk að fara ítrekað yfir sömu hlutina. Það væri vandamál stjórnar ef ekki væri tekið á aðfinnsluverðum atriðum.449

Helstu verkefni og skýrslur til stjórnar sparisjóðsins lutu að útlánasafninu og vanskilum. Starfsáætlun forstöðumanns innri endurskoðunar var ekki lögð fyrir stjórn sparisjóðsins og formlegt áhættumat fór aldrei fram. Við prófun á innra eftirliti var ekki stuðst við kerfisbundna nálgun, líkön eða skilgreiningar á innra eftirliti, og hvorki var stuðst við Basel-staðla né aðra staðla um innri endurskoðun. Taldi Eyrún eftirlitskerfi sparisjóðsins í heild sinni hafa verið skilvirkt en þegar litið væri til baka væri örugglega margt sem betur hefði mátt fara.450

Í ársbyrjun 2007 fór Eyrún Jana í fæðingarorlof og leysti Halldóra Guðrún Jónsdóttir hana af sem forstöðumaður innri endurskoðunar Sparisjóðsins í Keflavík, en hún hafði starfað síðan í ársbyrjun 2006 í afleysingum sem þjónustufulltrúi.451 Starfsmannastjóri sparisjóðsins leitaði til Halldóru um að leysa af forstöðumann innri endurskoðunar, og kvaðst hún hafa samþykkt það þótt hún hefði hvorki haft áhuga né talið sig hafa reynslu til að sinna starfinu. Stjórn sparisjóðsins hitti hún fyrst á fyrsta stjórnarfundinum sem hún sat sem forstöðumaður innri endurskoðunar. Í því starfi tók hún þátt í samstarfi innri endurskoðenda sparisjóðanna og þar áttaði hún sig á því hversu ómarkviss innri endurskoðun sparisjóðsins var, þó stjórn sparisjóðsins hafi verið mjög ánægð með störf hennar. Aðspurð um viðhorf stjórnenda og stjórnar til innra eftirlits, taldi Halldóra að áhugaleysi hefði ríkt um innri endurskoðun og regluvörslu. Ekki hefði verið áhugi á að ráða inn öflugt fólk til að efla þessi starfssvið. Eftir á að hyggja taldi hún að veikleikar hefðu verið í eftirlitsumhverfi sparisjóðsins. Stjórn sparisjóðsins hefði ekki sinnt eftirlitshlutverki sínu, ekki spurt réttra spurninga og stjórnarmenn hafi verið misjafnlega hæfir til stjórnarsetu. Hún taldi að forstöðumenn hefðu haft mikið svigrúm til sinna starfa og skort hafi eftirlit með störfum þeirra. Áherslur í starfi stjórnar hafi ekki verið í takt við tímann og hafi ekki haldið í við breytingar á regluverki síðustu ára. Halldóra taldi verkefni innri endurskoðunar ekki hafa verið valin á grundvelli áhættumats heldur hafi verið byggt á sömu úttektum ár eftir ár.452

Halldóra vissi ekki hvaða umgjörð hafði verið höfð til hliðsjónar við störf innri endurskoðunar og nálgun á innra eftirliti og kvaðst ekki hafa verið meðvituð um tilvist leiðbeinandi tilmæla Fjármálaeftirlitsins og Basel-reglna fyrr en liðið var á starfstíma hennar. Vann hún út frá endurskoðunaráætlun sem forveri hennar í starfi hafði gert. Stjórn sparisjóðsins fékk ekki heildarskýrslu frá Halldóru en hún mætti á stjórnarfundi og kynnti niðurstöður sínar. Kvaðst hún hafa haft á tilfinningunni að hún væri að vinna fyrir sparisjóðsstjórann en ekki fyrir stjórnina en taldi skýringuna á því vera hversu óvænt hún kom inn í starfið.453

Í janúar 2008, er Eyrún Jana kom úr fæðingarorlofi, bað stjórn sparisjóðsins Halldóru um að gegna áfram starfi forstöðumanns innri endurskoðunar og bauð Eyrúnu Jönu starf regluvarðar, en hvorug þeirra hafði áhuga á því fyrirkomulagi. Sparisjóðsstjóri kvaðst því mundu leita sem fyrst að nýjum forstöðumanni innri endurskoðunar, en Eyrún gegndi starfinu á meðan. Það dróst á langinn og var virkni innri endurskoðunar minni en áður fram á haustið 2008, en þá var innri endurskoðun sparisjóðsins útvistað til Deloitte hf.454 Þegar Eyrún hafnaði því að taka við stöðu regluvarðar var Halldóru boðin staðan. Sagðist hún hafa fengið „einhvern miða […] svona yfir hvað fólst í að vera regluvörður“. Þegar Halldóra hóf starf sem regluvörður komst hún að því að yfirsýn yfir skýrsluskil innan sparisjóðsins væri takmörkuð. Það var ekki fyrr en hún fór á samráðsfundi með regluvörðum annarra sparisjóða sem hún áttaði sig á því að hún væri ekki að sinna þeim verkefnum sem regluverði bar að sinna. Það var mat Halldóru að efla hefði þurft innri endurskoðun og regluvörslu, bæði með auknum mannafla og aukinni þekkingu starfsmanna.455

Sparisjóðurinn í Keflavík og Deloitte ehf. gerðu með sér samning um innri endurskoðun 28. október 2008 vegna ársins 2008. Vinna Deloitte tók mið af 16. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og leiðbeinandi tilmælum Fjármálaeftirlitsins nr. 3/2008 um störf endurskoðunardeilda fjármálafyrirtækja. Skýrsla Deloitte um innri endurskoðun ársins 2008 náði eingöngu til hluta ársins en lögð var fram endurskoðunaráætlun sem byggðist á því að um fyrstu könnun væri að ræða og áhersla því lögð á að fara yfir hvort þær innri reglur sem lög og reglugerðir gerðu ráð fyrir að væru settar, væru til staðar. Fáar úrtakskannanir hefðu verið gerðar og vinnan beinst að því að kynnast starfsemi sparisjóðsins. Gert var ráð fyrir að sparisjóðurinn léti sjálfur gera reglubundnar úttektir á dreifingu útlána og vanskila, stöðu stærstu skuldara og stærstu vanskilaaðila og greiðslutrygginga vegna sömu skuldbindinga.456

Niðurstöður innri endurskoðunar 2008 voru að styrkja þyrfti áhættustýringu sparisjóðsins og framfylgja þeim reglum sem sparisjóðurinn hafði sett sér hvað varðar stöðu forstöðumanns áhættustýringar. Meta þyrfti þörf fyrir fleiri starfsmenn í áhættustýringu sparisjóðsins. Nauðsynlegt væri að yfirfara reglur um útlán og reglur um eigin viðskipti sparisjóðsins, stjórnar og starfsmanna og gera þær ítarlegri. Þá þyrfti að gera ítarlegri reglur um verðbréfaviðskipti og regluvörslu. Innri endurskoðun hefði leitt í ljós veikleika í eftirlitskerfum sparisjóðsins sem sneru að aðgreiningu starfa. Deloitte benti á mikilvægi þess að öll lán sem ættu að fara fyrir lánanefnd væru tekin þar til umfjöllunar og rekjanleiki tryggður í fundargerðum nefndarinnar. Könnun Deloitte á lista yfir venslaða aðila leiddi í ljós að nokkur dótturfélög sparisjóðsins og tíu stærstu stofnfjáreigendur sparisjóðsins vantaði inn á listann og var því beint til sparisjóðsins að listinn væri yfirfarinn reglulega til að tryggja áreiðanleika hans. Deloitte kannaði hvort stjórn hefði verið upplýst um viðskiptaerindi og kjör stjórnarmanna í samræmi við 2. mgr. 28. gr. reglna sparisjóðsins um framkvæmd starfa sparisjóðsstjórnar og sparisjóðsstjóra en samkvæmt ákvæðinu skyldi stjórn upplýst eigi sjaldnar en ársfjórðungslega um öll afgreidd viðskiptaerindi og kjör til stjórnarmanna og fyrirtækja sem þeir væru í forsvari fyrir. Niðurstaða Deloitte var að það hefði ekki verið gert í öllum tilfellum.457

Eva Stefánsdóttir tók við starfi forstöðumanns innri endurskoðunar í mars 2009, en starfið var auglýst innan sparisjóðsins. Eva hafði starfað hjá sparisjóðnum frá árinu 2005. Á fyrstu mánuðum sínum í starfi setti Eva upp starfsreglur og erindisbréf forstöðumanns innri endurskoðunar. Hún naut aðstoðar Deloitte við að skipuleggja starfið, auk þess sem hún leitaði til samstarfshóps sparisjóðanna um innri endurskoðun og sótti ráðstefnur og fræðslu á vegum Félags innri endurskoðenda. Á þessum tíma voru komin út ný leiðbeinandi tilmæli frá Fjármálaeftirlitinu um störf innri endurskoðunardeilda og voru þau höfð til hliðsjónar við mótun starfsins. Áætlun um starf innri endurskoðunar var lögð fyrir stjórn sem samþykkti áætlunina. Úttektir í tengslum við útlán og vanskil fengu sérstaka athygli þar sem forgangsraða þurfti verkefnum vegna mannfæðar í deildinni. Í skýrslu Deloitte hafði komið fram að umfang innri endurskoðunar hjá sparisjóðnum væri orðið meira en svo að einn starfsmaður réði við verkefnin. Eva benti einnig á það á fundum sínum með stjórn, bæði fyrir og eftir yfirtöku Fjármálaeftirlitsins á sparisjóðnum, að þörf væri á að minnsta kosti tveimur starfsmönnum í innri endurskoðun. Hún vann að því að kerfisbinda eftirfylgni með málum þannig að stjórnendur fengju tiltekinn tíma til að bregðast við athugasemdum og ábendingum og gerði það starfið árangursríkara. Forstöðumaðurinn kvaðst hafa skynjað mikinn áhuga hjá nýrri stjórn sparisjóðsins á störfum innri endurskoðunar, meðal annars vildi stjórnarformaður auka upplýsingaflæði milli innri endurskoðunar og stjórnarmanna. Á stjórnarfundum lagði hún fram kynningar á störfum innri endurskoðunar og ársskýrslu um störf innri endurskoðunar fyrir árið 2009. Lýsti hún ánægju með stjórn og stjórnendur sparisjóðsins á starfstíma sínum sem hún taldi hafa haft yfir nægjanlegri reynslu og þekkingu að búa.458

Á starfstíma forstöðumannsins frá 2009 til 2010 voru útlán í lágmarki og mikill skortur á tryggingum vegna útlánanna í safni sparisjóðsins. Það var þó mat hennar að áhættustýring og fjárstýring sinntu sínum störfum vel en væru undirmönnuð. Nánar innt eftir ástæðum vanskila og tryggingaskorts, taldi hún að skilgreina hefði mátt betur verkferla varðandi útlán og að veðsetningarhlutfall hefði verið of hátt. Hún varð ekki vör við annað en að farið hefði verið eftir reglum við lánaákvarðanir og stórar útlánaákvarðanir farið yfir lánanefnd og stjórn.459

Forstöðumaðurinn viðhafði ekki neinar sérstakar endurskoðunaraðgerðir tengdar sviksemi að öðru leyti en að beita gagnrýnni hugsun. Mat hennar var að svigrúm sparisjóðsstjóra til útlána hafi verið of mikið og gerði hún athugasemd við að mjög stór útlán, sem þó voru innan heimilda sparisjóðsstjóra, hefðu ekki verið rædd á stjórnarfundum. Taldi hún að ekki hefði verið tekið nógu mikið mark á störfum innri endurskoðunar hjá fyrri stjórn en það hafi breyst með nýrri stjórn. Þrátt fyrir að nýr sparisjóðsstjóri sæti stjórnarfundi sem hún mætti á, gaf hann henni svigrúm til að koma sjónarmiðum innri endurskoðunar á framfæri. Forstöðumaðurinn þekkti ekki til hugtakaramma COSO um innra eftirlit en hafði kynnt sér Basel-reglur og hafði einnig leiðbeinandi tilmæli Fjármálaeftirlitsins til hliðsjónar. Í júní 2010 fór Eva í fæðingarorlof og tók Mjöll Flosadóttir við starfi hennar, en hugmyndin var að þær myndu báðar starfa að innri endurskoðun er Eva kæmi til baka. Af því varð þó ekki þar sem Spkef sparisjóður var sameinaður Landsbankanum hf. 5. mars 2011.

19.8.1.1 Úttekt á störfum innri endurskoðunardeildar Sparisjóðsins í Keflavík

Engin úttekt var gerð á störfum innri endurskoðunardeildar Sparisjóðsins í Keflavík frá stofnun hennar og fram að falli sparisjóðsins. Í endurskoðunarskýrslum Deloitte með ársreikningi áranna 2005 til 2008 var ekki umfjöllun um störf innri endurskoðunar. Í endurskoðunarskýrslu vegna ársins 2006 var fjallað um innra eftirlit og um hlutverk og mikilvægi innri endurskoðunar. Þar sagði: „Við viljum leggja áherslu á bæði hina lagalegu skyldu þessa að starfrækt sé innri endurskoðunardeild við sjóðinn og einnig á mikilvægi hennar varðandi öryggi í starfsemi sjóðsins. Því er hér með beint til stjórnar að staða innri endurskoðanda verði aldrei ómönnuð.“460 Sami texti er í endurskoðunarskýrslum vegna áranna 2007 og 2008.

Í skýrslu Fjármálaeftirlitsins haustið 2008 var gerð athugasemd við að innri endurskoðandi sparisjóðsins sinnti jafnframt eftirliti með peningaþvætti. Fjármálaeftirlitið taldi að þessi störf færu ekki saman og gæti það valdið hagsmunaárekstrum. Þá var það jafnframt mat Fjármálaeftirlitsins að stjórn sparisjóðsins virtist lítið sem ekkert fylgja eftir úttektum innri endurskoðunar og virtist jafnvel ekki hafa vitneskju um þær úttektir sem innri endurskoðandi framkvæmdi. Athugasemdum innri endurskoðanda væri ekki fylgt eftir og úr þeim bætt. Fjármálaeftirlitið gerði einnig athugasemd við að innri endurskoðandi hefði ekki framkvæmt sjálfstæða úttekt á áhættustýringu sparisjóðsins og reiddi sig á upplýsingar frá áhættustýringu í stað þess að leggja sjálfstætt mat á gæði þeirra upplýsinga.461

19.8.2 Áhættustýring

Hlutverk stjórnar Sparisjóðsins í Keflavík var skilgreint í 11. gr. reglna sparisjóðsins um framkvæmd starfa sparisjóðsstjórnar og sparisjóðsstjóra. Samkvæmt reglunum bar stjórn að skilgreina áhættuþætti og setja sér markmið varðandi áhættur í starfseminni, ákveða mörk áhættutöku og byggja upp eftirlit með áhættum í rekstrinum. Áhættumarkmið skyldu taka tillit til útlánastefnu, fjárfestingastefnu, rekstraráhættustefnu, stefnu sparisjóðsins í fjárstýringu og annarra áhættuþátta sem stjórn teldi mikilvæga. Bar stjórn að fylgja eftir settum markmiðum.462 Þá bar fjármálafyrirtækjum að upplýsa opinberlega um áhættur, áhættustýringu og eiginfjárstöðu sína, sbr. 12. mgr. 84. gr. laga um fjármálafyrirtæki.

Í skýringum með ársreikningi 2007 var umfjöllun um áhættustefnu Sparisjóðsins í Keflavík. Þar kom fram að stjórn sparisjóðsins ákvæði meginstefnur í áhættustýringu og setti mörk ásættanlegrar áhættu í daglegum rekstri sparisjóðsins. Þá bar stjórn að setja markmið um áhættustýringu og eftirlit með áhættuþáttum, svo sem útlánaáhættu, lausafjáráhættu og markaðsáhættu. Stjórnin fól nefndum innan sparisjóðsins að gefa út leiðbeiningar og markmið um ásættanlega áhættu og ákveða einstakar stöður út frá stærð og áhættu. Samkvæmt ársreikningi voru upplýsingar um áhættustöður kynntar stjórn sparisjóðsins reglulega.463

Í ársreikningnum kom jafnframt fram að skilvirkar aðferðir við mat á áhættu væru grundvöllur áhættustýringar sparisjóðsins. Sparisjóðsstjóri, í umboði stjórnar, bæri ábyrgð á að reglum um áhættustýringu væri fylgt og skyldi sjá til þess að gripið væri til viðeigandi ráðstafana til að greina, meta og mæla áhættuþætti í daglegri starfsemi sparisjóðsins.464 Innan sparisjóðsins væri starfrækt miðlæg deild, áhættustýring og útlánaeftirlit, sem færi með daglegt eftirlit með áhættuþáttum sparisjóðsins og skýrslugerð. Meginhlutverk hennar væri að greina áhættu sparisjóðsins á hverjum tíma, fylgjast með og meta áhættuþætti og setja ákveðin viðmiðunarmörk einstakra áhættuþátta;465 jafnframt skyldi hún fylgjast með og stýra áhættu sparisjóðsins, sem kynni að hafa veruleg áhrif á afkomu hans, og sjá til þess að viðeigandi vörnum yrði komið við á hverjum tíma. Þá bar áhættustýringu og útlánaeftirliti að gefa aðvaranir og ábendingar þegar áhætta nálgaðist sett viðmiðunarmörk og sjá til þess að gripið yrði til viðeigandi aðgerða. Samkvæmt ársreikningi 2007 setti Sparisjóðurinn í Keflavík sér markmið um áhættustýringu og eftirlitsþætti, svo sem útlánaáhættu, lausafjáráhættu og markaðsáhættu. Í ársreikningnum var jafnframt umfjöllun um vaxtaáhættu, verðáhættu, gjaldeyrisáhættu og rekstraráhættu.466

Formlegar reglur um framkvæmd áhættustýringar voru þó ekki settar fyrr en í október 2008, en leitað var eftir aðstoð utanaðkomandi ráðgjafa við gerð þeirra.467 Fjármálaeftirlitið hafði á þeim tíma nýlokið vettvangskönnun á ýmsum þáttum í starfsemi sparisjóðsins og meðal annars gert alvarlegar athugasemdir við að engar formlegar innri reglur eða ferlar væru til staðar varðandi áhættustýringu. Í reglum sparisjóðsins voru sett markmið um áhættustýringu í rekstri sparisjóðsins. Þar skyldi:

1. Stuðla að því að áhættur í rekstri sparisjóðsins væru rétt mældar og upplýsingar um þær nýttar sem stuðningur við ákvarðanatöku og við áhættustýringu sem væri í takt við sett markmið og stefnu sparisjóðsins.

2. Greina, mæla og veita upplýsingar um helstu áhættuþætti sem sparisjóðurinn stæði frammi fyrir.

3. Hafa eftirlit með að áhætta einstakra sviða væri innan heimilaðra marka og í samræmi við stefnu og markmið stjórnar um áhættu og mildun áhættu.

4. Miðla upplýsingum um áhættu umfram heimildir, markmið og stefnu og veita ráðgjöf til einstakra sviða um aðgerðir.

5. Upplýsa einstök svið um hlutfall ábata og áhættu, samhliða því að greina ábata af áhættutöku.

Í reglum sparisjóðsins um framkvæmd áhættustýringar var áhættum skipt í sex flokka útlánaáhættu; markaðsáhættu; rekstraráhættu; lausafjáráhættu; vaxtaáhættu; og aðrar áhættur, svo sem stefnumótunaráhættu, orðsporsáhættu, eiginfjáráhættu og hagnaðaráhættu.468

19.8.2.1 Starfsemi áhættu- og útlánastýringar

Samkvæmt reglum sparisjóðsins um framkvæmd starfa stjórnar og sparisjóðsstjóra skyldi sparisjóðsstjóri ráða forstöðumann áhættustýringar sem starfaði eftir áhættureglum sparisjóðsins. Stjórn skyldi tryggja að þeir starfsmenn sem málið varðaði hefðu fullan skilning á áhættumarkmiðum sjóðsins, áhættustefnu og viðmiðunarmörkum. Stjórn skyldi einnig sjá til þess að fylgst væri með áhættu eftir skriflegum fyrirmælum.469

Jón Axelsson gegndi stöðu forstöðumanns áhættu- og útlánastýringar frá 2004 til 2008. Hann var fyrsti og jafnframt eini starfsmaður þessa stoðsviðs, sem heyrði undir sparisjóðsstjóra, og kom það í hlut Jóns að þróa starfið. Hann lét af störfum í ársbyrjun 2008 og tók Guðmundur Páll Hreggviðsson við starfinu. Að sögn Jóns fólst starf hans í að halda utan um gögn, greina lánasafn og upplýsa yfirmenn, þá helst um útlánaáhættu. Umfang starfsins óx á árunum 2006 og 2007 og var það mat Jóns að þörf hefði verið á fleiri starfsmönnum. Forgangsraða hafi þurft verkefnum og hann hafi einbeitt sér að vöktun útlánasafnsins og því ekki náð að vakta aðra áhættuþætti. Þegar bókfærð eign sparisjóðsins í fjármálagerningum jókst árið 2006 kvaðst Jón hafa fengið þau skilaboð frá stjórn að hans hlutverk fælist aðallega í greiningu á lánasafni en stjórnin væri með „hitt á sinni könnu“. Jón taldi stærstu áhættuþætti sparisjóðsins hafa verið útlánaáhættu og markaðsáhættu tengda eignum í fjármálagerningum. Hann taldi það kunna að hafa verið veikleiki að áhættustýring hefði ekki vaktað alla mikilvæga áhættuþætti, einungis útlánaáhættu. Fram til haustsins 2008 voru engar reglur um áhættustýringu til innan sparisjóðsins, en Jón taldi það ekki hafa háð starfi sínu. Það hefði verið hans hlutverk að upplýsa yfirmenn sína um stöðu mála svo þeir gætu tekið ákvarðanir en honum var ekki kunnugt um hvaða markmiðum var unnið eftir.470

Jón byggði upp heildaráhættumatskerfi byggt á CAMELS-líkani sem kom frá Fjármálaeftirlitinu og taldi hann að sú vinna hafi byrjað á árinu 2005 eða 2006.471 Ársfjórðungslega tók Jón saman skýrslu um áhættuþætti sparisjóðsins og skilaði til Fjármálaeftirlitsins. Hann greindi lánasafnið mánaðarlega eftir lánsformi og áhættu eftir ýmsum flokkum, svo sem einstaklingum, fyrirtækjum, svæðum, útibúum, tryggingum, vanskilum o.s.frv. Hann taldi þessa skýrslugjöf sína hafa verið mjög öflugt eftirlitstæki. Hann fylgdi skýrslunum þó ekki eftir heldur skilaði gögnunum til yfirmanna sinna sem síðan fóru með þau fyrir stjórn. Áhættustýring gerði einnig athugasemdir við skilgreiningar á vensluðum aðilum en Jóni var ekki kunnugt um hvort tekið hafi verið tillit til athugasemda hans. Þá lagði hann fyrir stjórn skýrslu um fjárhagslega veikleika skuldara. Hann kvaðst hafa farið á stjórnarfundi ársfjórðungslega. Aðspurður um hvort áhættustýringarhópur hefði verið starfandi hjá sparisjóðnum vísaði hann til reglulegra funda forstöðumanna, annarra en lánanefndarfunda, sem hann hafi tekið þátt í síðustu árin í starfi. Forstöðumaður áhættustýringar sat í lánanefnd, þar sem farið var yfir einstakar lánveitingar og hafði atkvæðisrétt á þeim fundum. Þó voru ekki greidd atkvæði um einstök mál á lánafundum heldur voru þau fyrst og fremst rædd þar sem ákveðnar reglur giltu um lánaheimildir hvers og eins og fundurinn hafði því ekki eiginlegt ákvörðunarvald. Hann taldi að hlutverk sitt hefði verið að spyrja spurninga og þá helst um tryggingar. Að hans mati hafi rekjanleiki ákvarðana þó ekki verið nægur og taldi hann að rökstuðningur lánaákvarðana hefði ekki legið fyrir nema að takmörkuðu leyti í fundargerðum lánanefndar, og þá helst upplýsingar um það hvort lánveiting hefði verið samþykkt eða hafnað. Hann taldi að formlega hefðu þeir sem höfðu lánaheimildir getað sniðgengið niðurstöðu lánanefndar þar sem nefndin hafði ekkert ákvörðunarvald. Ekki hefðu öll útlán farið fyrir nefndina og oftast hafi það verið stóru málin sem gerðu það ekki. Aðspurður um gæði útlánasafnsins og hvort hann hefði séð í hvað stefndi gat hann ekki svarað til um það. Hann sagði starf sitt hafa meðal annars falist í að hafa eftirlit með vanskilum en haustið 2007 eða vorið 2008 hefði komið inn nýr áhættuþáttur tengdur tryggingarstöðu útlána sem hann skoðaði sérstaklega og skilaði skýrslu um sumarið 2008.472

19.8.2.2 Úttektir á áhættustýringu

Fjármálaeftirlitið framkvæmdi áhættumatsgreiningu á nokkrum sparisjóðum miðað við árslok 2007, svokallað CAMELS-mat, en lauk ekki skýrslugerð um áhættumatskerfi Sparisjóðsins í Keflavík. Fjármálaeftirlitið framkvæmdi vettvangsathugun hjá sparisjóðnum á tímabilinu frá júlí til september 2008 og skilaði skýrslu 24. september sama ár. Um var að ræða skoðun á útlánaáhættu, markaðsáhættu og eftirliti með peningaþvætti. Vettvangskönnun Fjármálaeftirlitsins hafði leitt í ljós að í Sparisjóðnum í Keflavík væru ekki til neinar formlegar innri reglur eða ferlar varðandi áhættustýringu, svo sem áhættuviðmið, skilgreining á verkefnum áhættustýringar, verklag vegna lána í tapsáhættu, verklag ef frávik eru á tryggingum útlána og verklag við tengingar milli lánþega í tengslum við stórar áhættuskuldbindingar. Jafnframt væru engar innri reglur til um álagspróf, gerð þeirra, tíðni, úrvinnslu eða eftirfylgni.473 Sparisjóðurinn benti á að hafin væri vinna við mótun innri reglna og endurskoðun þeirra ferla sem til staðar væru. Engu að síður voru niðurstöður skýrslu Fjármálaeftirlitsins meðal annars eftirfarandi:

Frumkvæði og eftirlit stjórnar virðist vera í algjöru lágmarki og stjórnun sparisjóðsins að mestu í höndum sparisjóðsstjóra. Sérstaklega er þetta sýnilegt þegar óskað var eftir stefnu stjórnar um áhættustýringu, sem ekki er til. Viðmið um áhættustýringu eru því ekki fyrirliggjandi, en greint er frá því að þessi mörk séu til í ársreikningi [ Sparisjóðsins í Keflavík] vegna ársins 2007. Er ársreikningurinn því villandi hvað þetta varðar.474

Fjármálaeftirlitið gerði alvarlegar athugasemdir við að upplýsingar sem fram kæmu í ársreikningi væru ekki réttar. Slík vinnubrögð væru til þess fallin að gefa ranga mynd og villandi upplýsingar.475 Í athugasemdum stjórnar sparisjóðsins við skýrslu Fjármálaeftirlitsins kvaðst stjórnin hafa sett sér markmið um áhættustýringu og eftirlit með áhættuþáttum, og þar að auki væru áhættuviðmið skilgreind í ICAAP-eftirlitskerfi sparisjóðsins og hefðu þau verið send Fjármálaeftirlitinu. Fjármálaeftirlitið ítrekaði hins vegar niðurstöðu sína og staðhæfði að ekki hefðu verið lögð fram gögn af hálfu sparisjóðsins sem sýndu fram á ofangreint.476

Í skýrslu Fjármálaeftirlitsins var einnig fjallað um útlánaáhættu og voru gæði útlánasafnsins talin vafasöm. Það væri að nokkru afleiðing þess að regluverk væri í ólestri, sérstaklega hvað varðaði áhættustýringu en einnig vegna trygginga. Taldi Fjármálaeftirlitið að útlánasafnið væri nokkuð dreift, en skortur væri á yfirsýn yfir heildarútlán samstæðunnar. Vanskil væru í lágmarki, en væru að aukast og þá væru lán til venslaðra aðila umtalsverð.477

Í skýrslunni var fjallað ítarlega um þá þætti sem Fjármálaeftirlitið taldi ófullnægjandi. Ýmsir þættir sem sneru að innra eftirliti og áhættustýringu uppfylltu ekki skilyrði og skortur var á innri reglum og ferlum. Áhættustýring sparisjóðsins var ekki talin hafa verið nægilega virk og þáverandi skipulag áhættustýringar ekki uppfylla leiðbeinandi tilmæli Fjármálaeftirlitsins nr. 1/2002 um áhættustýringu og innra eftirlit. Á fundum Fjármálaeftirlitsins með starfsmönnum sparisjóðsins kom fram að forstöðumaður áhættustýringar og útlánaeftirlits, sem jafnframt var eini starfsmaður sviðsins, hefði einnig gegnt stöðu regluvarðar sparisjóðsins. Gerði Fjármáleftirlitið athugasemd við að ekki hefði verið til staðar staðgengill í forföllum forstöðumannsins. Þá hefði sparisjóðurinn ekki hugað nægilega að áhættunni sem fylgdi því að starfsmaður áhættustýringar léti af störfum, auk þess sem gerð var athugasemd við að sami aðili sinnti áhættustýringu, útlánaeftirliti og regluvörslu, í ljósi umsvifa sparisjóðsins.478

Í tengslum við vettvangskönnunina leitaði Fjármálaeftirlitið ítrekað upplýsinga um skráða ferla og reglur um áhættustýringu en fékk þau svör að gögnin væru ekki fyrir hendi. Við nánari athugun kom þó í ljós að í fylgiskjali með erindisbréfi fyrir sparisjóðsstjóra479 var lauslega fjallað um reglur sjóðsins, svo sem hámark lána og ábyrgða, að stórar áhættuskuldbindingar vegna tengdra aðila skyldu ekki fara yfir 25% og áhættuskuldbindingar færu ekki yfir 800% af eiginfjárgrunni. Þetta voru einu skráðu mörkin sem Fjármálaeftirlitið fann í úttekt sinni, fyrir utan þá reglu að skuldbindingar umfram 10% af eiginfjárgrunni skyldu tilkynntar stjórn. Starfsmönnum sem Fjármálaeftirlitið ræddi við var ekki kunnugt um þetta skjal og gerði Fjármálaeftirlitið athugasemd við að starfsmenn væru ekki upplýstir um skráð mörk sem þeim bæri að fara eftir. Jafnframt sagði í skýrslu Fjármálaeftirlitsins:

Fjármálaeftirlitið gerir alvarlegar athugasemdir við skort á yfirsýn yfir áhættur sem að sparisjóðnum geta steðjað. Enn fremur gerir Fjármálaeftirlitið alvarlegar athugasemdir við að sparisjóðurinn hefur ekki sett sér verklagsferla samkvæmt lögum nr. 161/2002 eða kerfi til að halda utan um innra eftirlit og áhættstýringu samkvæmt leiðbeinandi tilmælum Fjármálaeftirlitsins nr. 1/2002.480

Í skýrslu Deloitte um innri endurskoðun ársins 2008 voru gerðar ýmsar athugasemdir um áhættustýringu Sparisjóðins í Keflavík. Þar kom meðal annars fram að ekki hafi verið gerð skýrsla um áhættustýringu vegna ársins 2008 og hún lögð fyrir stjórn í samræmi við 3. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 995/2007. Stjórnin hafði sett reglur um áhættustýringu sparisjóðsins í október 2008 en verkferlar við áhættustýringuna voru ekki skráðir. Innleiðingu áhættureglna hafi ekki verið lokið þegar athugun Deloitte fór fram í janúar og mars 2009. Samkvæmt upplýsingum sem Deloitte fékk frá starfsmanni sparisjóðsins hafði áhættustýring hvorki haft eftirlit með lausafjárstöðu sparisjóðsins né sett fram markmið um lausafjárstöðu. Jafnframt hefði áhættustýring ekki haft eftirlit með að safna saman skilgreindum rekstraráhættuatburðum. Í skýrslunni sagði að nauðsynlegt hefði verið að styrkja virkni þess eftirlits sem áhættureglurnar tóku til. Einnig þyrfti sparisjóðurinn að fylgja áhættumarkmiðum og tryggja að eftirlit væri virkt og rekjanlegt.481

 


 

1  Ólafur A. Þorsteinsson, Jón Tómasson og Skafti Friðfinnsson, Sparisjóðurinn í Keflavík 75 ára: Afmælisrit, Keflavík 1982, bls. 19–30.

2 . „Húsnæðismálin í deiglunni“, Faxi, 4. tbl. 67. árg. (2007), bls. 14–15.

3 . Eðvarð T. Jónsson, Sjóður Suðurnesjamanna: Bakhjarl í heimabyggð 1907–2007, Keflavík 2007.

4 . Ólafur A. Þorsteinsson, Jón Tómasson og Skafti Friðfinnsson, Sparisjóðurinn í Keflavík 75 ára: Afmælisrit, Keflavík 1982, bls. 120.

5 . Útboðslýsing Sparisjóðsins í Keflavík, 12. september 2007.

6 . „Ólafsvík: Sparisjóðurinn 100 ára“, Morgunblaðið 14. janúar 1992.

7 . „Góð reynsla af samstarfinu við SpKef“, viðtal við Helgu Valdísi Guðjónsdóttur, Faxi, 4. tbl. 67. árg. (2007), bls. 4. Sjá einnig ársreikninga Sparisjóðs Ólafsvíkur.

8 . Fjallað er um aðdragandann að samruna þessara sparisjóða í 17. kafla, um Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis. Spari- sjóður Þingeyrar var stofnaður 14. mars 1896 og hét þá Sparisjóður Vestur-Ísafjarðarsýslu. Eyrasparisjóður í Patreksfirði var stofnaður 28. mars 1929. Sparisjóður Önundarfjarðar var stofnaður árið 1916 og tók til starfa 9. ágúst 1918. Spari- sjóður Súðavíkur var stofnaður 11. apríl 1972.

9 . „Reynslan sannar ávinning af samruna“, viðtal við Angantý Val Jónasson, Faxi, 4. tbl. 67. árg. (2007), bls. 5. Sjá einnig ársreikninga Sparisjóðs Vestfirðinga.

10 . „Ágrip af sögu Sparsjóðs Húnaþings og Stranda“, vefsafn.is, http://wayback.vefsafn.is/wayback/20090422000000/http://spar.is/category.aspx?catid=383.

11 . „Sækjum aukinn styrk í þessa sameiningu“, viðtal við Pál Sigurðsson, Faxi, 4. tbl. 67. árg. (2007), bls. 5.

12 . Ársreikningar Sparisjóðs Húnaþings og Stranda.

13 . Skýrsla Deloitte hf. um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðsins í Keflavík 2007.

14 . Skýrsla Deloitte hf. um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðsins í Keflavík 2007.

15 . Útreikningur á vaxtamun er skýrður í 8. kafla. Í viðauka B er tafla sem sýnir vaxtamun hjá einstökum sparisjóðum 2001–2011.

16 . Um launaþróun hjá sparisjóðunum í heild er fjallað í 8. kafla.

17 . Skýrsla PricewaterhouseCoopers um ákveðna þætti innra eftirlits í Sparisjóðnum í Keflavík, 7. apríl 2011.

18 . Skýrsla PricewaterhouseCoopers um ákveðna þætti innra eftirlits í Sparisjóðnum í Keflavík, 7. apríl 2011.

19 . Skýrsla Geirmundar Kristinssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 12. ágúst 2013.

20 . Skýrsla PricewaterhouseCoopers um ákveðna þætti innra eftirlits í Sparisjóðnum í Keflavík, 7. apríl 2011. Í athugasemdum Geirmundar Kristinssonar, fyrrverandi sparisjóðsstjóra, til rannsóknarnefndarinnar 16. desember 2013 kom fram að aðrir sparisjóðir hefðu átt svipaðar íbúðir. Sparisjóðurinn í Keflavík hefði ekki átt frumkvæði að því að kaupa þessa íbúð heldur hefði byggingameistari fyrir norðan haft samband við sparisjóðinn um kaup á íbúðinni að fyrra bragði.

21 . Gögn frá Landsbanka Íslands unnin út frá launabókhaldi Sparisjóðsins í Keflavík að beiðni rannsóknarnefndar Alþingis, 5. desember 2012; skýrsla PricewaterhouseCoopers um ákveðna þætti innra eftirlits í Sparisjóðnum í Keflavík, 7. apríl 2011.

22 . Gögn frá Landsbanka Íslands unnin út frá launabókhaldi Sparisjóðsins í Keflavík að beiðni rannsóknarnefndar Alþingis, 5. desember 2012.

23 . Fundarerð stjórnar Sparisjóðsins í Keflavík, 26. maí 2009.

24 . Ráðningarsamningur milli Sparisjóðsins í Keflavík og Geirmundar Kristinssonar, undirritaður í mars 2003.

25 . Í sjónvarpsfréttum Ríkisútvarpsins 31. janúar 2011 var fyrst fjallað um samninginn opinberlega.

26 . Skýrsla Kristjáns G. Gunnarssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 6. ágúst 2013. Í athugasemdum Geirmundar Kristinssonar til rannsóknarnefndarinnar 19. desember 2013 kom fram að hann hefði gert tillögu að starfslokasamningi að beiðni stjórnarformanns. Hann hefði meðal annars sett inn í hann endurútreikning vegna aðila tengdra sér þar sem sá endurútreikningur hefði verið fyllilega sambærilegur við það sem aðrir viðskiptamenn sparisjóðsins hefðu fengið. Stjórnarformaðurinn hefði hins vegar ekki samþykkt tillögur Geirmundar og ekkert orðið úr þeim. Hér skal þó bent á að skuld þess sem um ræddi, sem nam um 50 milljónum króna, var ekki skráð í kerfum sparisjóðsins frá sumri 2009 og til loka árs 2009, þegar hana var að finna á ný í kerfunum.

27 . Skýrsla Gunnlaugs Harðarsonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 28. júní 2013. Þess skal getið að ekki lágu fyrir skriflegar reglur í sparisjóðnum um risnuúttektir. Þá liggur ekki fyrir hvort öll sú fjárhæð sem dregin var af starfslokagreiðslunni hafi fallið undir risnu en ekki verið útgjöld vegna starfa sparisjóðsstjórans, eða hver skiptingin var þar á milli.

28 . Sbr. 4. tölul. 2. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga og sama ákvæði eldri laga nr. 144/1994.

29 . Sbr. liðinn aðrar eignir o.fl. á mynd 5.

30 . Þessi háttur var hafður á hjá öllum sparisjóðum og var samkvæmt viðauka II með reglum nr. 834/2003 um reikningsskil lánastofnana. Sá viðauki hafði verið nær óbreyttur frá því í eldri reglum nr. 554/1994.

31 . Ekki sjást þess merki í fundargerðum stjórnar að þessar hugmyndir hafi verið ræddar þar fyrr en um mitt ár 2007. Heimildin um þessa útreikninga er endurskoðunarskýrsla Deloitte um endurskoðun ársreiknings 2006, bls. 5–6. Þar sagði m.a.: „Í minnisblaði sem við rituðum til sparisjóðsstjóra þann 25. janúar [2007] eru settar fram tillögur að því hvernig gera megi upp skuldbindinguna. Þær fela meðal annars í sér að greiðslum í sjóðinn verði hætt og gengið til samninga við stjórnendur og aðra starfsmenn, sem greitt hafa í sjóðinn, um nýja skipan lífeyrisgreiðslna. Jafnframt að gengið verði til samninga við Eftirlaunasjóðinn um uppgjör á áfallinni skuldbindingu hið fyrsta.“

32 . Sú aðgerð var umdeild, sbr. umfjöllun um arðgreiðslur sparisjóðsins síðar í kaflanum.

33 . Ársreikningar Sparisjóðsins í Keflavík 2007 og 2008 og endurskoðunarskýrslur Deloitte með þeim.

34 . Úrskurður úrskurðarnefndar samkvæmt samningi um yfirtöku NBI hf. á Spkef sparisjóði, 7. júní 2012.

35 . Kynning fyrir stjórn á verkefnum innri endurskoðunar 2008, 19. ágúst 2008.

36 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðsins í Keflavík, 14. apríl 2009.

37 . Skýrsla innri endurskoðunar Sparisjóðsins í Keflavík: Stærstu skuldarar og vanskilendur, 9. júlí 2009.

38 . Skýrsla Deloitte hf. um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðsins í Keflavík 2009, 31. mars 2009.

39 . Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um útlánaáhættu, markaðsáhættu og eftirlit með peningaþvætti hjá Sparisjóðnum í Keflavík, september 2008.

40 . Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um útlánaáhættu, markaðsáhættu og eftirlit með peningaþvætti hjá Sparisjóðnum í Keflavík, september 2008. Í athugasemdum Geirmundar Kristinssonar, fyrrverandi sparisjóðsstjóra, til rannsóknarnefndarinnar 19. desember 2013 kom fram að hann taldi þetta ekki rétt, stjórnin hefði fengið þessi yfirlit.

41 . Bréf Sparisjóðsins í Keflavík til Fjármálaeftirlitsins 19. ágúst 2008.

42 . Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um útlánaáhættu, markaðsáhættu og eftirlit með peningaþvætti hjá Sparisjóðnum í Keflavík, september 2008.

43 . Nánar er fjallað um lánareglur sparisjóðsins og þær breytingar sem á þeim voru gerðar í kafla um útlánareglur og heimildir hér aftar.

44 . Bréf Sparisjóðsins í Keflavík til Fjármálaeftirlitsins 19. ágúst 2008.

45 . Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um útlánaáhættu, markaðsáhættu og eftirlit með peningaþvætti hjá Sparisjóðnum í Keflavík, september 2008.

46 . Bréf Sparisjóðsins í Keflavík til Fjármálaeftirlitsins 19. ágúst 2008.

47 . Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um útlánaáhættu, markaðsáhættu og eftirlit með peningaþvætti hjá Sparisjóðnum í Keflavík, september 2008.

48 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til Sparisjóðsins í Keflavík 24. september 2008.

49 . Tölvuskeyti Fjármálaeftirlitsins til rannsóknarnefndar Alþingis 5. febrúar 2014.

50 . Sbr. 11. gr. starfsreglna stjórnar og sparisjóðsstjóra frá 26. febrúar 2007.

51 . Í skýrslu Fjármálaeftirlitsins um útlánaáhættu, markaðsáhættu og eftirlit með peningaþvætti hjá Sparisjóðnum í Keflavík, sem gefin var út í september 2008, var gagnrýnt að vísað væri í reglugerð sem væri „ekki til“ (bls. 9). Á þeim tíma voru í gildi reglur nr. 216/2007 um stórar áhættuskuldbindingar hjá fjármálafyrirtækjum en á undan þeim giltu reglur nr. 531/2003 um sama efni. Þær reglur voru settar af Fjármálaeftirlitinu 30. júní 2003, en í niðurlagi þeirra er ákvæði um að við gildistöku þeirra falli úr gildi reglugerð nr. 34/2002 um hámark lána og ábyrgða lánastofnana og fyrirtækja í verðbréfaþjónustu.

52 . Sbr. 1. gr. reglna um lánveitingar og ábyrgðir Sparisjóðsins í Keflavík frá 29. mars 2005.

53 . Um skilgreiningu á eigin fé í reglunum var vísað til 84. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.

54 . Þetta var meðal annars gagnrýnt í framangreindri skýrslu Fjármálaeftirlitsins frá því í september 2008.

55 . Reglurnar héldust eins með uppfærslu þeirra 26. febrúar 2007 og lítið breyttar með uppfærslunni 28. október 2008, sbr. 10. gr. í báðum tilfellum.

56 . Þar skyldi skýrt kveðið á um hvernig meta ætti áhættu og greiðslugetu, hvers konar tryggingar væru teknar gildar og metnar, hverjir mættu taka ákvörðun, hvaða atriði ættu að hafa mest áhrif á ákvörðunina, hvernig staðið skyldi að eftirliti og innheimtu og hvernig upplýsingagjöf til sparisjóðsstjóra skyldi háttað.

57 . Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um útlánaáhættu, markaðsáhættu og eftirlit með peningaþvætti hjá Sparisjóðnum í Keflavík, september 2008.

58 . Sjá 2. gr. útlánaheimilda, reglna fyrir starfsmenn um útlánaheimildir í umboði og á ábyrgð sparisjóðsstjóra.

59 . Útlánaheimildir, reglur fyrir starfsmenn um útlánaheimildir í umboði og á ábyrgð sparisjóðsstjóra, frá desember 2008, 4. gr.

60 . Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um útlánaáhættu, markaðsáhættu og eftirlit með peningaþvætti hjá Sparisjóðnum í Keflavík, september 2008.

61 . Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um útlánaáhættu, markaðsáhættu og eftirlit með peningaþvætti hjá Sparisjóðnum í Keflavík, september 2008.

62 . Reglur Sparisjóðsins í Keflavík um framkvæmd starfa sparisjóðsstjórnar og sparisjóðsstjóra frá 12. febrúar 2007 kváðu einnig á um þetta. Þá sagði að starfsmönnum sjóðsins væri óheimilt að gerast umboðsmenn annarra gagnvart sparisjóðnum.

63 . Líklegast er hér bæði átt við maka starfsmanna og maka sparisjóðsstjóra.

64 . Sbr. einnig 22. gr. reglna Sparisjóðsins í Keflavík um framkvæmd starfa sparisjóðsstjórnar og sparisjóðsstjóra.

65 . Reglur Sparisjóðsins í Keflavík um framkvæmd starfa sparisjóðsstjórnar og sparisjóðsstjóra 19. desember 2003, 26. febrúar 2007 og 28. október 2008.

66 . Nú leiðbeinandi tilmæli frá Fjármálaeftirlitinu nr. 1/2010, áður 4/2006 og þar áður 1/2003. Öll fjalla þau um efni reglna skv. 2. mgr. 54. gr. laga nr. 161/2002.

67 . Sjá 28. gr. reglna sparisjóðsins um framkvæmd starfa sparisjóðsstjórnar og sparisjóðsstjóra.

68 . Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um útlánaáhættu, markaðsáhættu og eftirlit með peningaþvætti hjá Sparisjóðnum í Keflavík, september 2008.

69 . Skýrsla Jóns Axelssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 26. september 2012.

70 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðsins í Keflavík, 28. október 2008.

71 . Reglur nr. 216/2007 um stórar áhættuskuldbindingar taka til lánveitinga, verðbréfaeignar, eignarhluta og veittra ábyrgða fjármálafyrirtækis vegna einstakra viðskiptamanna eða fjárhagslega tengdra aðila svo og annarra skuldbindinga sömu aðila gagnvart fjármálafyrirtækinu og mats á áhættu vegna slíkra skuldbindinga. Reglurnar taka einnig til samstæðu fjármálafyrirtækis og móður- og dótturfyrirtækja. Það telst vera stór áhættuskuldbinding þegar viðskiptamaður eða fjárhagslega tengdir aðilar fá lán, ábyrgðir, gera framvirka samninga eða fá aðrar fyrirgreiðslur hjá fjármálafyrirtæki og slík skuldbinding fer yfir 10% af eiginfjárgrunni fjármálafyrirtækisins. Áhættuskuldbindingar einstakra viðskiptamanna eða fjárhagslega tengdra aðila máttu ekki fara yfir 25% af eiginfjárgrunni, sbr. 30. gr. laga um fjármálafyrirtæki. Samkvæmt 1. mgr. 30. gr. laga nr. 161/2002 er eiginfjárgrunnur reiknaður út samkvæmt 84.–85. gr. laga nr. 161/2002 og reglum Fjármálaeftirlitsins nr. 215/2007 um eiginfjárkröfur og áhættugrunn fyrirtækja.

72 . Lánahópur samanstendur af tveimur eða fleiri viðskiptamönnum sem eru fjárhagslega tengdir í skilningi 1. mgr. 30. gr. nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Um nánari skilgreiningu á lánahópi vísast til umfjöllunar í 9. kafla.

73 . Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um útlánaáhættu, markaðsáhættu og eftirlit með peningaþvætti hjá Sparisjóðnum í Keflavík, september 2008.

74 . Jafnan standa veð til tryggingar veðskuldabréfum, en skuldaviðurkenningarskjöl án slíkra trygginga nefnast iðulega skuldabréf eða víxlar.

75 . Skýrsla Geirmundar Kristinssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 12. ágúst 2013.

76 . Eins og það var skilgreint í 84. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og reglum 216/2007 útgefnum af Fjármálaeftirlitinu.

77 . Tölvuskeyti Grétars Grétarssonar til samstarfsmanna 19. nóvember 2008.

78 . Tölvuskeyti starfsmanns Landsbankans hf. til rannsóknarnefndar Alþingis 17. apríl 2013.

79 . Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um útlánaáhættu, markaðsáhættu og eftirlit með peningaþvætti hjá Sparisjóðnum í Keflavík, september 2008.

80 . „Um fyrirtækið Bláa Lónið“, bluelagoon.is, http://www.bluelagoon.is/um-blaa-lonid/.

81 . Samkvæmt hlutafjármiðum sem skilað er til ríkisskattstjóra.

82 . Ársreikningur Bláa Lónsins hf. 2009.

83 . Stórar áhættuskuldbindingar Spkef sparisjóðs í lok árs 2010, 31. desember 2010.

84 . Gögn rannsóknarnefndar úr útlánagrunni Sparisjóðsins í Keflavík.

85 . Samningur um sambankalán Bláa lónsins við HSH Nordbank, Sparisjóðinn í Keflavík og fleiri aðila, 3. febrúar 2006. Þessi grein samningsins er hér þýdd af rannsóknarnefndinni. Á ensku hljómaði hún svo: „Loans. The Borrower and each Group Company will not take out loans, give any guarantees or in any way incur any indebtedness (exept as contemplated in this Agreement) or grant any loans, or otherwise bind immediately disposable funds other than short term supplier credits in the ordinary course of business.“

86 . Samkvæmt grein 12.5 b) í sambankaláninu skyldi hlutfall hreinna skulda á móti EBITDA ekki vera hærra en 6,5 fyrstu tvö ár samningsins. Síðan skyldi hlutfallið fara stiglækkandi og að fjórum árum liðnum skyldi hlutfallið ekki vera hærra en 4. EBITDA stendur fyrir „earnings before interest, tax, depreciation and amortization“ eða hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta.

87 . Tölvuskeyti Sparisjóðsins í Keflavík til annarra lánveitenda 11. júlí 2008.

88 . Minnisblað HSH Nordbank vegna sambankaláns til Bláa lónsins hf., 29. janúar 2009.

89 . Skýrsla Geirmundar Kristinssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 12. ágúst 2013.

90 . Skýrsla KPMG um endurskoðun ársreiknings Bláa Lónsins hf. 2008, 25. mars 2009.

91 . Minnisblað um fyrirkomulag hækkunar hlutafjár í Bláa Lóninu hf., 18. ágúst 2009.

92 . Byggt á upplýsingum úr verðbréfagrunni Sparisjóðsins í Keflavík.

93 . Samkvæmt hlutafjármiðum sem skilað er til ríkisskattstjóra.

94 . Samkomulag um skuldauppgjör og meðferð ábyrgða, 25. nóvember 2009.

95 . Á stjórnarfundi sparisjóðsins 23. febrúar var samþykkt að afskrifa endanlega tæpar 95 milljónir króna vegna Útnesjamanna ehf. Félagið var afskráð úr fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra í september 2013.

96 . Það félag sem hér um ræðir var stofnað á árinu 2008 og hét þá AB 193 ehf. Félagið var afskráð í júlí 2013, en annað félag starfar nú undir sama nafni, Arða ehf. Það var stofnað á árinu 2012 undir heitinu AB 319 ehf., en það félag naut ekki fyrirgreiðslu hjá sparisjóðnum.

97 . Þá AB 193 ehf.

98 . Kúfur ehf. hét áður Bakvörður ehf. Nafninu var breytt 29. janúar 2009.

99 . Ársreikningur Bakvarðar ehf. 2007.

100 . Samningur um framsal hluta í Bláa Lóninu hf., 11. mars 2009.

101 . Mat Landsbankans hf. á virði útlána Spkef sparisjóðs: Virðismat 400 stærstu, 15. apríl 2011.

102 . Miðað er við skilgreiningu Fjármálaeftirlitsins, sbr. leiðbeinandi tilmæli nr. 4/2006 um efni reglna samkvæmt 2. mgr. 54. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.

103 . Áður KB fjárfestingafélag ehf.

104 . Skýrsla innri endurskoðunar Sparisjóðsins í Keflavík: Útlán hærri en 70 milljónir króna, júlí 2007.

105 . Samkvæmt hlutafjármiðum sem skilað er til ríkisskattstjóra.

106 . Yfirlitsskjal um stærstu skuldara Sparisjóðsins í Keflavík 2008, 2009, 22. apríl 2010 og 15. apríl 2011, gögn afhent rannsóknarnefndinni af Landsbankanum.

107 . Tölvuskeyti starfsmanns Landsbankans hf. til rannsóknarnefndar Alþingis 17. apríl 2013.

108 . Nafni félagsins hafði þá verið breytt í Dalshverfi ehf.

109 . Mat Landsbankans hf. á virði útlána Spkef sparisjóðs: Virðismat 400 stærstu, 15. apríl 2011.

110 . Nánar er fjallað um málefni Miðlands ehf. í kafla 19.3.5.3.3.

111 . Ársreikningur NIKEL ehf. 2007.

112 . Byggt á upplýsingum úr fundargerðum stjórnar Sparisjóðsins í Keflavík.

113 . Verðmat á 36,9 hektara landi í Hlíðahverfi, milli Reykjanesbrautar og íþróttasvæðis við Reykjaneshöll að Flugvallarvegi, merkt Einari V. Tryggvasyni. Skjalið sjálft er ekki dagsett en samkvæmt upplýsingum frá fyrrverandi starfsmanni Sparisjóðsins í Keflavík var skjalið vistað hjá sparisjóðnum 24. september 2007.

114 . Skýrsla ytri endurskoðanda Sparisjóðsins í Keflavík (Deloitte) til Fjarmálaeftirlitsins um aðila venslaða sparisjóðnum, 31. mars 2010.

115 . Mat Landsbankans hf. á virði útlána Spkef sparisjóðs: Virðismat 400 stærstu, 15. apríl 2011.

116 . Samkvæmt hlutafjármiðum sem skilað er til ríkisskattstjóra.

117 . Fasteignafélag Suðurnesja ehf. – Kaup á Blikavelli 3 ehf.

118 . Yfirlitsskjal um stærstu skuldara Sparisjóðsins í Keflavík 2008, 2009, 22. apríl 2010 og 15. apríl 2011, gögn afhent rannsóknarnefndinni af Landsbankanum.

119 . Tölvuskeyti Gunnars Egils Sigurðssonar til starfsmanns Sparisjóðsins í Keflavík 3. október 2007.

120 . Skýrsla PricewaterhouseCoopers um ákveðna þætti innra eftirlits í Sparisjóðnum í Keflavík, 7. apríl 2011.

121 . „SpKef – stofnfjármarkaður“, vefsafn.is, http://wayback.vefsafn.is/wayback/20071211000000/http://spkef.is/stofnfjarmarkadur/.

122 . Í svari til rannsóknarnefndarinnar 5. desember 2013 var lögð áhersla á að upplýsingarnar væru settar fram með fyrirvara. Upplýsingar voru ónákvæmar um lán sem veitt voru til stofnfjárkaupa í útboði, en stofnfjáraðilar fjármögnuðu kaupin með neyslulánum eða með veði í fasteign til að fá betri kjör. Þá fylgdu heldur ekki upplýsingar um lán sem höfðu verið gerð upp áður en Landsbankinn tók yfir lánasafn Spkef sparisjóðs.

123 . Ekki var haldið sérstaklega utan um það í kerfum sparisjóðanna hvort lán hefðu verið veitt til stofnfjárkaupa eða ekki. Þær tölur sem hér eru birtar eru mismunur útistandandi lána til þeirra sem keyptu stofnfé í útboðinu í lok september 2007 og í lok desember sama ár.

124 . Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um útlánaáhættu, markaðsáhættu og eftirlit með peningaþvætti hjá Sparisjóðnum í Keflavík, september 2008.

125 . Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um útlánaáhættu, markaðsáhættu og eftirlit með peningaþvætti hjá Sparisjóðnum í Keflavík, september 2008.

126 . Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um útlánaáhættu, markaðsáhættu og eftirlit með peningaþvætti hjá Sparisjóðnum í Keflavík, september 2008.

127 . Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um útlánaáhættu, markaðsáhættu og eftirlit með peningaþvætti hjá Sparisjóðnum í Keflavík, september 2008.

128 . Bréf Landsbankans hf. til rannsóknarnefndar Alþingis 29. apríl 2013.

129 . Bréf Landsbankans hf. til rannsóknarnefndar Alþingis 29. apríl 2013.

130 . Sjá til að mynda 5. gr. reglna um lánveitingar og ábyrgðir Sparisjóðsins í Keflavík.

131 . Samsvarandi ákvæði var að finna í 26. gr. reglnanna frá 2007.

132 . Þetta kemur fram í 25. gr. reglna um störf stjórnar og sparisjóðsstjóra frá árinu 2003. Sambærilegt ákvæði var í 28. gr. reglnanna frá árinu 2007.

133 . Miðað var við 20% lágmarks eignarhlut.

134 . Byggt á upplýsingum úr lánagagnagrunni sparisjóðanna sem rannsóknarnefndin lét útbúa. Sjá nánari upplýsingar í 9. kafla.

135 . Byggt á upplýsingum úr lánagagnagrunni sparisjóðanna sem rannsóknarnefndin lét útbúa. Sjá nánari upplýsingar í 9. kafla.

136 . Kynning fyrir stjórn á verkefnum innri endurskoðunar 2008, 19. ágúst 2008.

137 . Innri endurskoðun – skuldir og vanskil starfsmanna, kynning fyrir stjórnarfund, 13. júlí 2009.

138 . Innri endurskoðun – skuldir og vanskil starfsmanna, kynning fyrir stjórnarfund, 14. október 2009.

139 . Skýrsla Geirmundar Kristinssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 12. ágúst 2013.

140 . Reglur um framkvæmd starfa sparisjóðsstjórnar og sparisjóðsstjóra Sparisjóðsins í Keflavík, 19. desember 2003.

141 . Reglur um framkvæmd starfa sparisjóðsstjórnar og sparisjóðsstjóra Sparisjóðsins í Keflavík, 19. desember 2003.

142 . Reglur um framkvæmd starfa sparisjóðsstjórnar og sparisjóðsstjóra Sparisjóðsins í Keflavík, 19. desember 2003.

143 . Í nýrri reglunum var fjallað um eigið fé eins og það er skilgreint í 84. og 85. gr. laga nr. 161/2001. Í eldri reglunum var eingöngu talað um eigið fé og það ekki skilgreint frekar.

144 . Skýrsla Þrastar Leóssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 14. desember 2012.

145 . Skýrsla Jóns Axelssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 26. september 2012.

146 . Í athugasemdum til rannsóknarnefndarinnar 19. desember 2013 sagði Geirmundur Kristinsson að fjárfestingaráætlun hefði alltaf verið lögð fyrir stjórn en engin gögn fundust því til staðfestingar. Yfirferð rannsóknarnefndarinnar sýnir ekki að fjárfestingaráætlanir hafi verið teknar fyrir í stjórn sparisjóðsins. Starfsáætlun sparisjóðsstjórnar var tekin fyrir á stjórnarfundi 21. mars 2007, en á henni var ekki að sjá að fjárfestingar eða yfirferð þeirra væri skipulögð á árinu 2007.

147 . Áhættuþættir Sparisjóðsins í Keflavík, ferill áhættustýringar, verkáætlun og áhættuþættir, 2007. Í athugasemdum til rannsóknarnefndarinnar 16. desember 2013 sagði Geirmundur Kristinsson, fyrrverandi sparisjóðsstjóri, að þetta hafi ekki verið í fyrsta skipti sem ferillinn var skilgreindur. Rannsóknarnefndin hefur þó engin gögn um fyrri eða síðari skilgreiningar.

148 . Áhættuþættir Sparisjóðsins í Keflavík, ferill áhættustýringar, verkáætlun og áhættuþættir, 2007.

149 . Útboðslýsing Sparisjóðsins í Keflavík, 12. september 2007. Útgefandalýsing III, bls. 15.

150 . Reglurnar voru samþykktar á stjórnarfundi 28. október 2008.

151 . Skýrsla Jóns Axelssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 26. september 2012.

152 . Skýrsla Jóns Axelssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 26. september 2012.

153 . Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um útlánaáhættu, markaðsáhættu og eftirlit með peningaþvætti hjá Sparisjóðnum í Keflavík, september 2008. Í athugasemdum sparisjóðsins til Fjármálaeftirlitsins sem bárust áður en skýrslan sem hér er vísað til kom út (athugasemdir við drög að skýrslu) kom fram að samruni við aðra sparisjóði hefði valdið vandkvæðum við að ná saman heildarmynd yfir fjárfestingar og áhættur sparisjóðsins, en vinna við að draga saman verðbréfatengdar áhættur stæði yfir. Þá mótmælti sparisjóðurinn þeim aðfinnslum að hann hefði ekki útbúið fullnægjandi skjalfesta ferla til að meta áhættu.

154 . Skýrsla Geirmundar Kristinssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 12. ágúst 2013.

155 . Skýrsla Þorsteins Erlingssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 7. ágúst 2013.

156 . Skýrsla Deloitte hf. um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðsins í Keflavík 2006; skýrsla Deloitte hf. um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðsins í Keflavík 2007.

157 . Rétt er að benda á að ávöxtun er hér reiknuð sem hlutfall af meðalstöðu eigna. Þegar tap verður á eignum, eins og varð 2008 og 2009, verður ávöxtun neikvæð. Í einhverjum tilvikum verður hún neikvæð um meira en 100% vegna þess að tapi er deilt í meðalstöðu eigna. Ekki ætti að vera hægt að tapa meiru en fjárfest hefur verið fyrir (að því gefnu að engir framvirkir samningar séu til staðar) en með þeirri aðferð sem notuð er hér við að reikna ávöxtun getur hún birst með þessum hætti. Því er ekki verið að gera því skóna hér að sparisjóðirnir hafi tapað meiru en þeir áttu í fjáreignum.

158 . Úrvalsvísitalan tók ekki tillit til arðgreiðslna sem fyrirtæki greiddu. Að þeim viðbættum var vegin ávöxtun hlutabréfa mæld í vísitölunni að nafnvirði ögn betri.

159 . Skýrsla Kristjáns G. Gunnarssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 6. ágúst 2013.

160 . Skýrsla Deloitte hf. um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðsins í Keflavík 2006.

161 . Til þess kom þó ekki að eignarhluturinn færi yfir 20% þar sem sparisjóðurinn seldi lítinn hlut til Smáraturns ehf. Sjá nánari umfjöllun framar í kaflanum.

162 . Skýrsla Jóns Axelssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 26. september 2012.

163 . Skýrsla KPMG hf. um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis 2004.

164 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis 6. september 2004. Í bréfinu kom meðal annars fram að ef 50% eða meira af heildareignum félags væri eignarhlutur í lánastofnun, teldist það alltaf fyrirtæki tengt fjármálasviði í skilningi laga um fjármálafyritæki. Í bréfinu er vísað til fyrirtækis tengdu fjármálafyrirtæki, en þar er átt við fyrirtæki tengt fjármálasviði.

165 . „Exista acquires 15.48% shareholding in Finnish Group Sampo“, vefur OMX Nordic Exchange, http://news.icex.is/newsservice/MMIcexNSWeb.dll/newspage?language=EN&pagetype=&primarylanguagecode=EN&newsnumber=36674.

166 . Skýrsla Deloitte hf. um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðsins í Keflavík 2005.

167 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðsins í Keflavík, 9. október 2006.

168 . Skýrsla Deloitte hf. um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðsins í Keflavík 2006.

169 . Skýrsla Geirmundar Kristinssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 12. ágúst 2013.

170 . Í lok árs 2005 var eignarhlutur Sparisjóðs Vestfirðinga í Exista hf. 0,9% og eignarhlutur Sparisjóðs Húnaþings og Stranda 0,7%. Á árinu 2006 stofnuðu þessir sparisjóðir eignarhaldsfélög utan um hluti sína í Exista hf., Þrælsfelli ehf. og Eyraeldi ehf. Eignarhlutir þeirra í Exista hf. voru aldrei hærri en 0,5% frá 2006 til 2009.

171 . Skýrsla Geirmundar Kristinssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 12. ágúst 2013.

172 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðsins í Keflavík, 8. júlí 2008.

173 . Skýrsla Geirmundar Kristinssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 12. ágúst 2013.

174 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðsins í Keflavík, 10. október 2005.

175 . Skýrsla Geirmundar Kristinssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 12. ágúst 2013.

176 . Svo skráð á hlutafjármiða sem skilað var til ríkisskattstjóra.

177 . Sjá nánari umfjöllun um VBS Fjárfestingarbanka hf. í 11. kafla.

178 . Tölvuskeyti Kjartans Brodda Bragasonar, framkvæmdastjóra FSP hf., til Þrastar Leóssonar 9. janúar 2007.

179 . Ársreikningur VBS Fjárfestingarbanka hf. fyrir árið 2007.

180 . Í tilboðinu var gert ráð fyrir 10,7% eignarhlut Sparisjóðsins í Keflavík og þá ekki tekið tillit til eignarhluta þeirra sparisjóða sem sameinuðust honum.

181 . Samkvæmt hlutafjármiðum sem skilað er til ríkisskattstjóra.

182 . Afkoma móðurfélags samkvæmt ársreikningi.

183 . Upplýsingar úr fundargerðum stjórnar VBS Fjárfestingarbanka hf.

184 . Samkvæmt upplýsingum úr fyrirtækjaskrá.

185 . Samþykki fyrir virkum eignarhlut í VBS Fjárfestingabanka hf., 18. apríl 2008.

186 . Samkvæmt upplýsingum úr fyrirtækjaskrá. Í svari Fjármálaeftirlitsins 25. febrúar 2013 við fyrirspurn rannsóknarnefndar-
innar kom fram að því væri „ekki kunnugt um að Angantýr hafi fengið undanþágu frá umræddu skilyrði um setu í stjórn“ bankans. Þó er þess getið að 29. október 2008 hafi Fjármálaeftirlitið bent regluverði bankans á að stofnunin hefði kveðið á um að stjórnendum eða starfsmönnum Sparisjóðsins í Keflavík væri óheimilt að sitja í stjórninni. Þyrftu þeir sem tilnefndu menn í stjórn bankans að huga að því. Fjármálaeftirlitið hefði þó ekki upplýsingar um framhald málsins.

187 . Samkvæmt hlutafjármiðum sem skilað er til ríkisskattstjóra.

188 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðsins í Keflavík, 13. janúar 2009.

189 . Fundargerð hluthafafundar SP-Fjármögnunar hf., 13. mars 2009.

190 . Ársreikningur SP-Fjármögnunar hf. 2009.

191 . Skýrsla Deloitte hf. um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðsins í Keflavík 2007.

192 . Tilkynning um afturköllun starfsleyfis fjármálafyrirtækis, 20. október 2011.

193 . Samkvæmt hlutafjármiðum sem skilað er til ríkisskattstjóra.

194 . Samkvæmt hlutafjármiðum sem skilað er til ríkisskattstjóra.

195 . Nánar má lesa um Vostok Holdings ehf. í 18. kafla, um Byr sparisjóð.

196 . Nafni félagsins var breytt í Lásagras hf. í janúar 2011. Í nóvember sama ár var félaginu breytt í einkahlutafélag, Lásagras ehf.

197 . Þó skal bent á að hlutur sparisjóðsins í FSP hf. í lok árs 2006 var í eigu Sparisjóðsins í Keflavík hf. samkvæmt hlutafjármiðum.

198 . Rekstrarforminu var breytt í einkahlutafélag í byrjun árs 1996.

199 . Fundargerð hluthafafundar Víkna ehf., 12. desember 2005.

200 . Hér hafa þó verið leiðrétt áhrif lána til Fossvogshyls ehf. sem fjallað er um hér framar. Þau voru afskrifuð í ársreikningi Víkna ehf. á árinu 2008 um tæpar 453 milljónir króna en lánið, og þar með afskriftin, flutt í Sparisjóðinn í Keflavík „vegna skattamála“ á árinu 2009 samkvæmt sundurliðun sem rannsóknarnefndin fékk frá Landsbankanum.

201 . Samkvæmt hlutafjármiðum sem skilað er til ríkisskattstjóra.

202 . Samkvæmt sundurliðun frá Landsbankanum hf. á efnahagsreikningi Víkna ehf.

203 . Samkvæmt hlutafjármiðum sem skilað er til ríkisskattstjóra. Samkvæmt hlutafjármiðunum var eignarhlutur Víkna ehf. 1,0% í árslok 2008 og 0,7% í árslok 2009. Þá var eignarhluturinn hins vegar bókfærður á 0 kr. hjá félaginu.

204 . Ársreikningur Víkna ehf. fyrir árið 2006.

205 . Sundurliðun frá Landsbankanum hf. á efnahagsreikningi Víkna ehf. Sama sundurliðun sýnir að mat eignarhlutarins í lok árs 2008 var 0 kr. Mögulega er niðurfærslan vegna eignarhlutar sem keyptur var á árinu 2009.

206 . Matsgerð Fasteignamiðstöðvarinnar Húsa og hýbýla ehf. á Hjallasvæði í Reykjanesbæ (í eigu Miðlands ehf.), 23. janúar 2006.

207 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðsins í Keflavík, 23. júlí 2007.

208 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðsins í Keflavík, 3. september 2007.

209 . Áreiðanleikakönnun unnin fyrir Sparisjóðinn í Keflavík vegna fyrirhugaðra kaupa á hlutafé í Miðlandi ehf., 27. ágúst 2007.

210 . Tölvuskeyti Grétars Grétarssonar til Þrastar Leóssonar 28. nóvember 2007.

211 . Tölvuskeyti Kristins Ingólfssonar til bakvinnslu sparisjóðsins 4. nóvember 2008.

212 . Sjá nánari útskýringu í upphafi 11. kafla, um fjármögnun sparisjóðanna.

213 . Skýrsla Geirmundar Kristinssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 12. ágúst 2013; skýrsla Angantýs V. Jónassonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 28. júní 2013.

214 . Skýrsla Þrastar Leóssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 14. desember 2012.

215 . Samkvæmt skýrslu Ástu Dísar Óladóttur fyrir rannsóknarnefnd Alþingis 9. ágúst 2013 var Spkef sparisjóði, sem stofnaður var á grunni Sparisjóðsins í Keflavík í apríl 2010, uppálagt af eiganda sínum að safna innlánum. Ásta Dís var stjórnarformaður Spkef sparisjóðs.

216 . Skattfé skal skila til Seðlabanka Íslands skv. 2. gr. reglugerðar fjármálaráðuneytisins nr. 13/2003.

217 . Tölvuskeyti Þórhalls Arasonar til Gunnars H. Hall 31. október 2008.

218 . Skýrsla Þórhalls Arasonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 6. september 2012.

219 . Lausafjárhlutfall til eins mánaðar var 1,011 í desember 2008, 1,066 í janúar 2009 og 1,001 í febrúar 2009.

220 . Skýrsla Þórhalls Arasonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 6. september 2012.

221 . Skýrsla Þórhalls Arasonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 6. september 2012.

222 . Tölvuskeyti Fjársýslu ríkisins til Sparisjóðsins í Keflavík 27. febrúar 2009.

223 . Tölvuskeyti Fjársýslu ríkisins til sparisjóðsstjóra Sparisjóðsins í Keflavík 1. apríl 2009.

224 . Reikningsyfirlit af reikningi ríkissjóðs hjá Sparisjóðnum í Keflavík, afhent rannsóknarnefndinni af Landsbankanum hf. 23. júlí 2012.

225 . Yfirlit lánasamninga Íbúðalánasjóðs við sparisjóði, útbúið af Íbúðalánasjóði, 3. júlí 2012.

226 . Listi yfir daglán frá Seðlabanka Íslands, 2005–2011.

227 . Heimildin fékkst á grundvelli 13. gr. reglna nr. 808/2008 um viðskipti fjármálafyrirtækja við Seðlabanka Íslands.

228 . Fjármögnunarverkefni á vegum Klettháls ehf., sjá nánari umfjöllun í 11. kafla.

229 . Fleiri sparisjóðir gerðu slíkt hið sama, þ.e. seldu fasteignaveðlán til Klettháls ehf. Nánari umfjöllun um fjármögnun íbúðalána hjá Íbúðalánasjóði og um fjármögnunarverkefnið Klettháls er að finna í 11. kafla skýrslunnar.

230 . Samkvæmt upplýsingum frá fyrrverandi starfsmanni Sparisjóðsins í Keflavík var það gert vegna tímalengdar samningsins. Lánasamningurinn 19. febrúar 2008 var til fjögurra mánaða. Samningurinn var svo framlengdur 15. júní 2008 til eins árs og var hann þá færður sem lántaka.

231 . Sjá nánari umfjöllun hér aftar um erlenda lántöku sparisjóðsins.

232 . Skýrsla Þrastar Leóssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 14. desember 2012; skýrsla Geirmundar Kristinssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 12. ágúst 2013.

233 . Minnisblað alþjóðasviðs Seðlabanka Íslands um útgreiðslu evra til Sparisjóðs Keflavíkur, 25. mars 2009.

234 . Skýrsla Angantýs Vals Jónassonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 28. júní 2013.

235 . Skýrsla PricewaterhouseCoopers um ákveðna þætti innra eftirlits í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, 16. október 2009.

236 . Greinargerð PricewaterhouseCoopers hf. fyrir slitastjórn Sparisjóðabankans um fyrirgreiðslu bankans við Sparisjóðinn í Keflavík, nóvember 2009.

237 . Skýrsla PricewaterhouseCoopers um ákveðna þætti innra eftirlits í Sparisjóðnum í Keflavík, 7. apríl 2011.

238 . Um fjármögnun Íbúðalánasjóðs á fasteignalánum er fjallað í 11. kafla, um fjármögnun sparisjóðanna.

239 . Tölvuskeyti Landsbankans hf. til rannsóknarnefndarinnar 12. febrúar 2013.

240 . Hér eru víkjandi útgáfur ekki taldar með en um þær er fjallað hér aftar.

241 . Minnisblað fyrirtækjasviðs KPMG til slitastjórnar Sparisjóðsins í Keflavík um frekari skoðun innlána hjá sparisjóðnum, 9. desember 2010.

242 . Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um ráðstöfun eigna og skulda Sparisjóðsins í Keflavík til Spkef sparisjóðs, 22. apríl 2010.

243 . Bréf Angantýs V. Jónassonar til Fjármálaeftirlitsins 3. júní 2009.

244 . Tölvuskeyti Guðmundar Páls Hreggviðssonar til Árna Björgvinssonar, starfsmanns sparisjóðsins, 30. desember 2005.

245 . Tölvuskeyti Jóns Halls Péturssonar, framkvæmdastjóra SPRON-Verðbréfa hf., til Þrastar Leóssonar 6. desember 2005.

246 . Samrunaáætlun og samkomulag stjórna Sparisjóðsins í Keflavík og Sparisjóðs Ólafsvíkur, 9. nóvember 2006.

247 . Stofnfjáreigendafundur Sparisjóðs Ólafsvíkur, 20. desember 2006. Samkvæmt þessu varð hlutur stofnfjáreigenda í sparisjóðnum í samræmi við samrunaáætlunina, eða tæp 15% eigin fjár.

248 . „Samruni sparisjóða“, vefsíða Fjármálaeftirlitsins 3. júlí 2007, http://www.fme.is/utgefid-efni/frettir-og-tilkynningar/frettir/nr/272; ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um samruna Sparisjóðsins í Keflavík og Sparisjóðs Ólafsvíkur, 31. janúar 2007.

249 . Stofnfjáreigendafundur Sparisjóðs Ólafsvíkur, 20. desember 2006.

250 . Skýrsla Angantýs V. Jónassonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 28. júní 2013.

251 . Skýrsla Angantýs V. Jónassonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 28. júní 2013.

252 . Skýrsla Angantýs V. Jónassonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 28. júní 2013.

253 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Vestfirðinga, 28. ágúst 2007.

254 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Húnaþings og Stranda, 21. ágúst 2007.

255 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Húnaþings og Stranda, 30. ágúst 2007.

256 . Útboðslýsing Sparisjóðsins í Keflavík, 12. september 2007.

257 . Fundur stofnfjáreigenda Sparisjóðs Vestfirðinga, 9. október 2007.

258 . Skýrsla Angantýs V. Jónassonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 28. júní 2013.

259 . Útboðslýsing um sölu stofnfjár Sparisjóðs Vestfirðinga, 25. október 2007.

260 . Stofnfjáreigendafundur Sparisjóðs Vestfirðinga, 30. nóvember 2007; viðauki við lýsingu Sparisjóðs Vestfirðinga sem staðfest var af Fjármálaeftirlitinu í október 2007, 4. desember 2007; fundargerð stjórnar Sparisjóðs Vestfirðinga, 19. desember 2007.

261 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Húnaþings og Stranda, 16. október 2007.

262 . Árshlutareikningur Sparisjóðs Húnaþings og Stranda, 30. júní 2007.

263 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Húnaþings og Stranda, 19. desember 2007.

264 . Stofnfjáreigendafundur Sparisjóðsins í Keflavík, 4. desember 2007.

265 . Samrunaáætlun Sparisjóðsins í Keflavík, Sparisjóðs Vestfirðinga og Sparisjóðs Húnaþings og Stranda, 11. september 2007.

266 . Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 2/2008 um kaup Sparisjóðsins í Keflavík á Sparisjóði Vestfirðinga, 7. janúar 2008; ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 1/2008 um kaup Sparisjóðsins í Keflavík á Sparisjóði Húnaþings og Stranda, 7. janúar 2008; „Fjármálaeftirlitið samþykkir samruna þriggja sparisjóða“, vefsíða Fjármálaeftirlitsins 27. febrúar 2008, http://www.fme.is/utgefid-efni/frettir-og-tilkynningar/frettir/nr/364.

267 . Ársreikningar Sparisjóðsins í Keflavík.

268 . Stofnfjáreigendalistar Sparisjóðsins í Keflavík, afhentir rannsóknarnefndinni af Landsbankanum.

269 . Ársreikningar Sparisjóðsins í Keflavík; útboðslýsing stofnfjár í Sparisjóðnum í Keflavík, desember 2006.

270 . Útboðslýsing stofnfjár í Sparisjóðnum í Keflavík, mars 2007.

271 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðsins í Keflavík, 8. janúar 2007.

272 . Samkvæmt yfirliti yfir hreyfingar á tilboðsmarkaði sem rannsóknarnefndin fékk afhent frá Landsbankanum hf.

273 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðsins í Keflavík, 31. júlí 2007.

274 . Útboðslýsing Sparisjóðsins í Keflavík, 12. september 2007.

275 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis, 25. nóvember 2008.

276 . Útboðslýsing Sparisjóðsins í Keflavík, 12. september 2007.

277 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðsins í Keflavík, 18. desember 2007.

278 . Ársreikningar Sparisjóðsins í Keflavík.

279 . Ársreikningar Sparisjóðsins í Keflavík.

280 . Stofnfjáreigendalistar Sparisjóðs Ólafsvíkur, afhentir rannsóknarnefndinni af Landsbankanum; stofnfjáreigendalistar Sparisjóðsins í Keflavík, afhentir rannsóknarnefndinni af Landsbankanum; stofnfjáreigendalistar Sparisjóðs Vestfirðinga, afhentir rannsóknarnefndinni af Landsbankanum; stofnfjáreigendalistar Sparisjóðs Húnaþings og Stranda, afhentir rannsóknarnefndinni af Landsbankanum.

281 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðsins í Keflavík, 12. febrúar 2008.

282 . Minnisblað Jóhannesar Karls Sveinssonar hrl. og Páls Steingrímssonar löggilts endurskoðanda um hlutafjárvæðingu, lagt fyrir stjórn Sparisjóðsins í Keflavík, 12. febrúar 2008.

283 . Minnisblað Jóhannesar Karls Sveinssonar hrl. og Páls Steingrímssonar löggilts endurskoðanda um hlutafjárvæðingu, lagt fyrir stjórn Sparisjóðsins í Keflavík, 12. febrúar 2008.

284 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðsins í Keflavík, 29. febrúar 2008.

285 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðsins í Keflavík, 22. apríl 2008.

286 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðsins í Keflavík, 20. maí 2008.

287 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðsins í Keflavík, 19. ágúst 2008.

288 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðsins í Keflavík, 10. júní 2008.

289 . Minnisblað Páls Steingrímssonar löggilts endurskoðanda og Jóhannesar Karls Sveinssonar hrl. vegna hlutafjárvæðingar Sparisjóðsins í Keflavík, 19. júní 2008.

290 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðsins í Keflavík, 30. september 2008. Nánar er fjallað um verðmatið í 12. kafla.

291 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðsins í Keflavík, 30. september 2008.

292 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðsins í Keflavík, 19. desember 2008. Þegar tekið hafði verið tillit til eiginfjárframlags sem sækja átti um frá ríkissjóði var hlutur Sparisjóðsins í Keflavík 14,4%. Um þetta framlag er fjallað hér aftar í kaflanum um fjárhagslega endurskipulagningu.

293 . Upplýsingar samkvæmt eiginfjárskýrslum Sparisjóðsins í Keflavík til Fjármálaeftirlitsins.

294 . Minnisblað Fjármálaeftirlitsins um sparisjóði, 19. nóvember 2008.

295 . Í henni sátu fulltrúar frá Seðlabanka Íslands, Fjármálaeftirlitinu og frá fjármála-, viðskipta- og utanríkisráðuneytinu.

296 . Fundargerð nefndar um endurreisn fjármálakerfisins (Coordination Committee), 4. mars 2009.

297 . Fall og endurskipulagning minni fjármálafyrirtækja í mars 2009 – drög að vinnuskjali, 7. mars 2009. Önnur fjármálafyrirtæki sem lagt var til að yrði lokað á næstu dögum voru Straumur, Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis hf., Sparisjóðabanki Íslands og Sparisjóður Mýrasýslu. Fjármálaeftirlitið greip inn í rekstur þeirra í mars og apríl 2009.

298 . Skýrsla Ragnars Hafliðasonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 17. júlí 2013.

299 . Skýrsla Gunnars Ólafs Haraldssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 27. september 2013.

300 . Skýrsla Tryggva Pálssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 24. september 2013.

301 . Skýrsla Sturlu Pálssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 30. september 2013. Í skýrslu sinni vísaði hann til áframhaldandi rekstrarhæfis sparisjóðsins með enska heitinu „going concern“.

302 . Skýrsla Sturlu Pálssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 30. september 2013.

303 . Skýrsla Gylfa Magnússonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 26. september 2013.

304 . Í 5. gr. reglna um framlag til sparisjóða skv. 2. gr. laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. sagði að fjármálaráðherra tæki ákvörðun um framlag úr ríkissjóði að fenginni umsögn Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins, þar sem meðal annars skyldi lagt mat á það hvort sparisjóður hefði sýnt fram á að áform hans um fjárhagslega endurskipulagningu teldust trúverðug og líkleg til árangurs.

305 . Tekið var tillit til þessa við lokafrágang ársreiknings sparisjóðsins fyrir árið 2008.

306 . Bréf Sparisjóðsins í Keflavík til Fjármálaeftirlitsins 25. mars 2009.

307 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til fjármálaráðuneytisins 31. mars 2009.

308 . Bréf Seðlabanka Íslands til fjármálaráðuneytisins 21. apríl 2009.

309 . Minnisblað Tryggva Pálssonar til Sveins Haralds Øygard og Arnórs Sighvatssonar 13. maí 2009, móttekið í fjármálaráðuneytinu 14. maí 2009.

310 . Minnisblað Seðlabanka Íslands um slæma stöðu Sparisjóðsins í Keflavík, 13. maí 2009.

311 . Bréf Seðlabanka Íslands til Fjármálaeftirlitsins og fjármálaráðuneytisins 3. júní 2009.

312 . Fundarerð stjórnar Sparisjóðsins í Keflavík, 26. maí 2009.

313 . Könnun PricewaterhouseCoopers ehf. á afmörkuðum þáttum í efnahag og rekstri Sparisjóðsins í Keflavík, 27. maí 2009.

314 . Bréf Sparisjóðsins í Keflavík til fjármálaráðuneytisins 27. maí 2009.

315 . Skýrsla Angantýs V. Jónassonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 28. júní 2013.

316 . Skýrsla Angantýs V. Jónassonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 28. júní 2013; skýrsla Þrastar Leóssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 14. desember 2012.

317 . Bréf Sparisjóðsins í Keflavík til fjármálaráðuneytisins 12. júní 2009.

318 . Bréf PricewaterhouseCoopers til fjármálaráðuneytisins 14. júní 2009.

319 . Bréf fjármálaráðuneytisins til Sparisjóðsins í Keflavík 16. júní 2009.

320 . Tölvuskeyti Tómasar Brynjólfssonar til Hrannars Björns Arnarssonar 22. júlí 2009; tölvuskeyti Tómasar Brynjólfssonar til Jóhönnu Sigurðardóttur 22. júlí 2009.

321 . Framkvæmdahópur (Execution Committee) var einn af viðbragðshópum stjórnvalda og starfaði frá 27. maí 2009 til 19. ágúst 2009. Hópurinn starfaði undir forystu Sveins Haralds Øygard seðlabankastjóra. Í hópnum áttu sæti fulltrúar Seðlabanka Íslands og forsætis-, fjármála- og viðskiptaráðuneytis.

322 . Skýrsla Hjördísar Drafnar Vilhjálmsdóttur fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 12. ágúst 2013.

323 . Fundargerð framkvæmdahóps (Execution Committee), 29. júlí 2009; fundargerð framkvæmdahóps (Execution Committee), 31. júlí 2009.

324 . Bréf Seðlabanka Íslands til Fjármálaeftirlitsins 31. júlí 2009. Samrit af bréfinu var sent Sparisjóðnum í Keflavík.

325 . Breytiréttur (e. warrant) í stofnfé gaf eigendum rétt, en ekki skyldu, til að eignast 20% af stofnfé sparisjóðsins innan líftíma breytiréttarins. Eigendur breytiréttarins gætu ákveðið að breyta rétti sínum í stofnfé í sjóðnum árlega frá 2011 til 2016, innan tveggja mánaða frá birtingu endurskoðaðs ársuppgjörs. Breytirétturinn rynni út að liðnum sjö árum frá útgáfudegi. Í tengslum við breytiréttinn skyldi sparisjóðurinn samþykkja arðgreiðslubann þar til búið væri að kaupa upp breytirétti af eigendum þeirra. Sama gilti um kaup sparisjóðsins á eigin stofnfé. Í áætluninni var einnig fjallað um endurkaup á breytirétti sem fólust í því að væri eiginfjárhlutfall sjóðsins í lok árs 2011 hærra en 12% bæri sjóðnum skylda til að lækka eiginfjárhlutfallið í 12% með endurkaupum á breytirétti af kröfuhöfum, síðan til uppgreiðslu víkjandi lána og að lokum uppgreiðslu á langtímalánum. Ekki var gert ráð fyrir að endurkaupin gengju á lausafjárstöðu sjóðsins umfram 12% eiginfjárhlutfall og að sjóðurinn ætti ætíð að eiga sex mánaða laust rekstrarfé (ásamt 20% viðbót).

326 . Kynning um fjárhagslega endurskipulagningu Sparisjóðsins í Keflavík, 18. ágúst 2009; rammasamkomlag um fjárhagslega endurskipulagningu Sparisjóðsins í Keflavík.

327 . Kynning um fjárhagslega endurskipulagningu Sparisjóðsins í Keflavík, 18. ágúst 2009.

328 . Tölvuskeyti fjármálaráðuneytisins til Sparisjóðsins í Keflavík 21. ágúst 2009.

329 . Bréfið varðar bæði Byr sparisjóð og Sparisjóðinn í Keflavík. Í einhverjum tilvikum er greint á milli sparisjóðanna í bréfinu og hefur umfjöllun sem eingöngu varðar Byr sparisjóð verið fjarlægð úr þessum texta. Atriði þar sem ekki er greint á milli þess hvort átt er við Byr sparisjóð eða Sparisjóðinn í Keflavík eða jafnvel báða eru birt hér sem atriði sem eiga við um Sparisjóðinn í Keflavík.

330 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til fjármálaráðuneytisins 24. september 2009.

331 . Mats Josefsson, Iceland: Status report of the banking system, 24. september 2009.

332 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til fjármálaráðuneytisins 23. október 2009.

333 . Fundur með Sparisjóðnum í Keflavík um stöðu sparisjóðsins, minnisblað Fjármálaeftirlitsins, 23. október 2009.

334 . Fundur með Sparisjóðnum í Keflavík um stöðu sparisjóðsins, minnisblað Fjármálaeftirlitsins, 23. október 2009.

335 . Minnisblað fjármálaráðuneytisins um næstu skref í fjárhagslegri endurskipulagningu sparisjóðanna, 29. október 2009.

336 . Umsókn Sparisjóðsins í Keflavík um eiginfjárframlag skv. 2. gr. laga nr. 25/2008, 5. nóvember 2009.

337 . Umsókn Sparisjóðsins í Keflavík um eiginfjárframlag skv. 2. gr. laga nr. 25/2008, 5. nóvember 2009.

338 . Samtals voru 99,92% kröfuhafa búnir að samþykkja tillöguna um fjárhagslega endurskipulagningu og skrifa undir skjal sem staðfesti þá afstöðu, þ.e.a.s. allir kröfuhafar nema tveir.

339 . Staðfesting á ívílnunum af hendi lánardrottna í formi skilmálabreytinga eða eftirgjafar skulda Sparisjóðsins í Keflavík, nóvember 2009.

340 . Sparisjóðurinn í Keflavík – könnun PricewaterhouseCoopers hf. á afmörkuðum þáttum í efnahag og starfsemi, 28. nóvember 2009.

341 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til fjármálaráðuneytisins 1. desember 2009.

342 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til fjármálaráðuneytisins 8. desember 2009.

343 . Bréf fjármálaráðuneytisins til Sparisjóðsins í Keflavík 11. desember 2009. Samhljóða bréf var sent Byr sparisjóði 10. desember 2009.

344 . Drög að minnisblaði efnahags- og viðskiptaráðuneytis um leiðir til lausnar sparisjóðamálsins, 8. desember 2009; skýrsla Oliver Wyman um endurskipulagningu sparisjóðakerfisins, 14. desember 2009.

345 . Skýrslu Oliver Wyman var skilað 14. desember 2009.

346 . Drög að minnisblaði efnahags- og viðskiptaráðuneytis um leiðir til lausnar sparisjóðamálsins, 8. desember 2009; skýrsla Oliver Wyman um endurskipulagningu sparisjóðakerfisins, 14. desember 2009.

347 . Minnisblað nefndar um fjármálastöðugleika um mögulegar leiðir takist ekki að semja við kröfuhafa, 15. desember 2009.

348 . Uppfærð tillaga að fjárhagslegri endurskipulagningu Sparisjóðsins í Keflavík, 17. desember 2009.

349 . Áreiðanleikakönnun PricewaterhouseCoopers hf. á ákveðnum þáttum í rekstri Sparisjóðsins í Keflavík, 11. febrúar 2010.

350 . Tillaga að fjárhagslegri endurskipulagningu Sparisjóðsins í Keflavík, 3. febrúar 2010.

351 . Tölvuskeyti Bayerische Landesbank til Sparisjóðsins í Keflavík 5. janúar 2010.

352 . Tillaga að fjárhagslegri endurskipulagningu Sparisjóðsins í Keflavík, 3. febrúar 2010; Head of Terms, skilmálaskjöl send kröfuhöfum, 3. febrúar 2010.

353 . Tölvuskeyti Finns Sveinbjörnssonar til Hjördísar D. Vilhjálmsdóttur og Þórhalls Arasonar 6. mars 2010.

354 . Áreiðanleikakönnun PricewaterhouseCoopers hf. á ákveðnum þáttum í rekstri Sparisjóðsins í Keflavík, 11. febrúar 2010.

355 . Greining Deutsche Bank AG á fjárhagslegri endurskipulagningu Sparisjóðsins í Keflavík (Keflavik Savings Bank – Restructuring Analysis), 10. mars 2010.

356 . Bréf fjármálaráðuneytisins til Sparisjóðsins í Keflavík 12. mars 2010.

357 . Í bréfinu segir: „[…] should the Savings Bank lose the support of the FME to continue as a going concern.“

358 . Bréf fjármálaráðuneytisins til Sparisjóðsins í Keflavík 19. mars 2010.

359 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til Sparisjóðsins í Keflavík 29. mars 2010.

360 . Tölvuskeyti fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til fjármálaráðuneytisins 24. mars 2010.

361 . Tölvuskeyti Þórhalls Arasonar til Guðmundar Árnasonar 24. mars 2010.

362 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til fjármálaráðuneytisins 26. mars 2010.

363 . Bréf fjármálaráðuneytisins til Fjármálaeftirlitsins 15. apríl 2010.

364 . Skýrsla Gunnars Þ. Andersen fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 23. september 2013.

365 . Skýrsla Kjartans Gunnarssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 23. september 2013.

366 . Tölvuskeyti Soffíu Eydísar Björgvinsdóttur til Fjármálaeftirlitsins 13. apríl 2010.

367 . Tölvuskeyti Soffíu Eydísar Björgvinsdóttur til Fjármálaeftirlitsins 16. apríl 2010.

368 . Tölvuskeyti Soffíu Eydísar Björgvinsdóttur til Fjármálaeftirlitsins 19. apríl 2010.

369 . Tölvuskeyti Soffíu Eydísar Björgvinsdóttur til Fjármálaeftirlitsins 20. apríl 2010.

370 . Minnisblaðið varðar bæði Byr sparisjóð og Sparisjóðinn í Keflavík. Í einhverjum tilvikum er greint á milli sparisjóðanna í minnisblaðinu og hefur umfjöllun sem eingöngu varðar Byr sparisjóð verið fjarlægð úr þessum texta. Atriði þar sem ekki er greint á milli þess hvort átt er við Byr sparisjóð eða Sparisjóðinn í Keflavík eða jafnvel báða eru birt hér sem atriði sem eiga við um Sparisjóðinn í Keflavík. Í 3. mgr. 1. gr. laga nr. 125/2008 segir: „Fyrirtæki sem stofnað er samkvæmt þessari grein hefur starfsleyfi sem viðskiptabanki samkvæmt ákvæðum 1. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga um fjármálafyrirtæki.“

371 . Minnisblað nefndar um fjármálakerfið til forsætisráðherra, fjármálaráðherra, efnahags- og viðskiptaráðherra, forstjóra Fjármálaeftirlitsins og bankastjóra Seðlabanka Íslands, 21. apríl 2010.

372 . Bréf fjármálaráðuneytisins til stjórnar Sparisjóðsins í Keflavík 21. apríl 2010.

373 . Tölvuskeyti Soffíu Eydísar Björgvinsdóttur til Fjármálaeftirlitsins 21. apríl 2010; tölvuskeyti Soffíu Eydísar Björgvinsdóttur til Fjármálaeftirlitsins 22. apríl 2010.

374 . Bréf Sparisjóðsins í Keflavík til Fjármálaeftirlitsins 22. apríl 2010.

375 . Skýrsla Kristjáns G. Gunnarssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 6. ágúst 2013.

376 . Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 23. júlí 2010 var Sparisjóðurinn í Keflavík tekinn til slitameðferðar að beiðni bráðabirgðastjórnar sjóðsins og voru sömu aðilar og höfðu verið í bráðabirgðastjórn skipaðir í slitastjórn.

377 . Minnisblað um málefni Byrs sparisjóðs og Sparisjóðsins í Keflavík, 3. maí 2010.

378 . Bréf NBI hf. (Landsbankans) til fjármálaráðuneytisins 23. apríl 2010.

379 . Þetta átti ekki við um þær eignir sem sérstaklega yrðu undanskildar samkvæmt sérstakri skýrslu sem endurskoðunarfyrirtæki átti að útbúa samkvæmt 10. tölul. ákvörðunarinnar.

380 . Stofngerð, Spkef sparisjóður, vegna fjárhagslegrar endurskipulagningar Spkef 2010, 22. apríl 2010.

381 . Samþykktir Spkef sparisjóðs, 22. apríl 2010.

382 . Skýrsla Gylfa Magnússonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 26. september 2013.

383 . Skýrsla Gylfa Magnússonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 26. september 2013.

384 . Skýrsla Gylfa Magnússonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 26. september 2013.

385 . Skýrsla Steingríms Jóhanns Sigfússonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 26. september 2013.

386 . Skýrsla Steingríms Jóhanns Sigfússonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 26. september 2013.

387 . Skýrsla Steingríms Jóhanns Sigfússonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 26. september 2013.

388 . Skýrsla Steingríms Jóhanns Sigfússonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 26. september 2013.

389 . Skýrsla Ragnars Hafliðasonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 15. júlí 2013.

390 . Skýrsla Kjartans Gunnarssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 23. september 2013.

391 . Skýrsla Kjartans Gunnarssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 23. september 2013.

392 . Skýrsla Kjartans Gunnarssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 23. september 2013.

393 . Fundinn sátu Þröstur Leósson, Gunnlaugur Harðarson, Grétar Grétarsson, Angantýr V. Jónasson og Ásta Dís Óladóttir fyrir hönd Spkef sparisjóðs. Fyrir hönd Seðlabanka Íslands mættu Arnór Sighvatsson, Tryggvi Pálsson, Sigríður Logadóttir, Gerður Ísberg og Stefán Þór Sigtryggsson.

394 . Fundargerð Seðlabanka Íslands af fundi um Spkef sparisjóð, 28. apríl 2010.

395 . Minnisblað fjármálaráðherra um málefni Byrs sparisjóðs og Sparisjóðsins í Keflavík, 7. maí 2010.

396 . Minnisblað lögfræðinga á vegum stjórnvalda, Jóhannesar Karls Sveinssonar hrl. og Jóhannesar Bjarna Björnssonar hrl., um málefni Sparisjóðsins í Keflavík, 30. apríl 2010.

397 . Bréf fjármálaráðuneytisins til Seðlabanka Íslands 6. desember 2010; bréf fjármálaráðuneytisins til Seðlabanka Íslands 7. október 2010.

398 . Bréf fjármálaráðuneytisins til nefndar um fjármálastöðugleika 8. júlí 2010.

399 . „Spkef engaged PwC to provide assistance and support services to Spkef’s board of directors, in relation to asset values recorded in the general ledger by the bank as of 22 April 2010.“ – Úr skýrslu PricewaterhouseCoopers fyrir Spkef sparisjóð, 10. júlí 2010.

400 . Skýrsla PricewaterhouseCoopers hf. um Spkef sparisjóð, 10. júlí 2010.

401 . Með „upside instrumenti“ var átt við möguleika á hækkun ef staðan yrði betri en áætlað var.

402 . Tölvuskeyti Tómasar Brynjólfssonar til Gylfa Magnússonar, Benedikts Stefánssonar, Jónínu S. Lárusdóttur og Björns R. Guðmundssonar 13. júlí 2010.

403 . Tölvuskeyti Hjördísar Drafnar Vilhjálmsdóttur til Þórhalls Arasonar og Jóhannesar Bjarna Björnssonar 25. ágúst 2010.

404 . Tölvuskeyti Hjördísar Drafnar Vilhjálmsdóttur til starfsmanna Hawkpoint Partners Limited 31. ágúst 2010.

405 . Tölvuskeyti Hjördísar Drafnar Vilhjálmsdóttur til starfsmanna Hawkpoint Partners Limited 20. september 2010.

406 . Tölvuskeyti Soffíu E. Björgvinsdóttur til Hjördísar Drafnar Vilhjálmsdóttur 24. september 2010.

407 . Tölvuskeyti Helenar Ólafsdóttur til Jóns Ármanns Guðjónssonar og Soffíu E. Björgvinsdóttur 27. september 2010; tölvu-
skeyti Hjördísar Drafnar Vilhjálmsdóttur til Þórhalls Arasonar og Jóhannesar Bjarna Björnssonar 27. september 2010; tölvuskeyti Jóns Ármanns Guðjónssonar til Soffíu E. Björgvinsdóttur 27. september 2010; tölvuskeyti Soffíu E. Björgvins-
dóttur til Hjördísar Drafnar Vilhjálmsdóttur 27. september 2010.

408 . Tölvuskeyti Hjördísar Drafnar Vilhjálmsdóttur til Soffíu E. Björgvinsdóttur 1. október 2010.

409 . Skilmálaskjal um yfirfærslu eigna og skulda Sparisjóðsins í Keflavík til Spkef sparisjóðs, 3. nóvember 2010.

410 . Tölvuskeyti Jóhannesar Bjarna Björnssonar til Soffíu E. Björgvinsdóttur 17. desember 2010.

411 . Drög að samningi um uppgjör vegna yfirtekinna eigna og skulda milli Spkef sparisjóðs og Sparisjóðsins í Keflavík, desember 2010.

412 . Tölvuskeyti Jóhannesar Bjarna Björnssonar til Egils Tryggvasonar, starfsmanns fjármálaráðuneytisins, 29. desember 2010.

413 . Tölvuskeyti Egils Tryggvasonar, starfsmanns fjármálaráðuneytisins, til Jóhannesar Bjarna Björnssonar 30. desember 2010; tölvuskeyti Egils Tryggvasonar, starfsmanns fjármálaráðuneytisins, til Þórhalls Arasonar 4. janúar 2011.

414 . Tölvuskeyti Soffíu E. Björgvinsdóttur til Jóhannesar Bjarna Björnssonar 4. janúar 2011.

415 . Tölvuskeyti Jóhannesar Bjarna Björnssonar til Soffíu E. Björgvinsdóttur 5. janúar 2011.

416 . Tölvuskeyti Soffíu E. Björgvinsdóttur til Jóhannesar Bjarna Björnssonar 7. janúar 2011.

417 . Bréf Ástu Dísar Óladóttur og Einars Hannessonar til fjármálaráðuneytisins 25. febrúar 2011.

418 . Minnisblað Bankasýslu ríkisins um Spkef sparisjóð og aðra sparisjóði, 28. febrúar 2011; minnisblað fjármálaráðherra um endurfjármögnun Spkef og endurskipulagningu sparisjóðanna, 1. mars 2011.

419 . Bréf fjármálaráðuneytisins til Fjármálaeftirlitsins 5. mars 2011.

420 . Bréf fjármálaráðuneytisins til Fjármálaeftirlitsins 5. mars 2011.

421 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til fjármálaráðuneytisins 8. mars 2011.

422 . Skýrsla Ástu Dísar Óladóttur fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 9. ágúst 2013.

423 . Úrskurður úrskurðarnefndar samkvæmt samningi um yfirtöku NBI hf. á Spkef sparisjóði, 7. júní 2012.

424 . Úrskurður úrskurðarnefndar samkvæmt samningi um yfirtöku NBI hf. á Spkef sparisjóði, 7. júní 2012.

425 . Úrskurður úrskurðarnefndar samkvæmt samningi um yfirtöku NBI hf. á Spkef sparisjóði, 7. júní 2012.

426 . Úrskurður úrskurðarnefndar samkvæmt samningi um yfirtöku NBI hf. á Spkef sparisjóði, 7. júní 2012.

427 . Skýrsla Steingríms Jóhanns Sigfússonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 26. september 2013.

428 . Skýrsla Steingríms Jóhanns Sigfússonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 26. september 2013.

429 . Gerð er grein fyrir reglum um greiðslu arðs í 12. kafla.

430 . Sbr. lög nr. 76/2009. Sjá nánari umfjöllun í 12. kafla.

431 . Þessi heimild hafði verið við lýði allt frá 1993. Ákvæðinu var síðar breytt með lögum nr. 76/2009. Sjá nánari umfjöllun í 12. kafla.

432 . Sú heimild kom inn í lög 2001. Ákvæðinu var síðar breytt með lögum nr. 76/2009. Sjá nánari umfjöllun í 12. kafla.

433 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðsins í Keflavík, 15. nóvember 2007.

434 . Stofnfjáreigendafundur Sparisjóðsins í Keflavík, 4. desember 2007.

435 . Stofnfjáreigendafundur Sparisjóðsins í Keflavík, 4. desember 2007.

436 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðsins í Keflavík, 29. febrúar 2008.

437 . Skýrsla Deloitte hf. um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðsins í Keflavík 2007.

438 . Minnisblað Fjármálaeftirlitsins um athugun á ársreikningi Sparisjóðsins í Keflavík fyrir árið 2007, 10. mars 2008.

439 . Tölvuskeyti Sparisjóðsins í Keflavík til Fjármálaeftirlitsins 11. mars 2008.

440 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðsins í Keflavík, 11. mars 2008.

441 . Fundargerð aðalfundar Sparisjóðsins í Keflavík, 11. mars 2008.

442 . Tölvuskeyti Tryggingasjóðs sparisjóða til Fjármálaeftirlitsins 12. mars 2008.

443 . Tölvuskeyti Fjármálaeftirlitsins til Sparisjóðsins í Keflavík 11. mars 2008.

444 . Svör Fjármálaeftirlitsins við fyrirspurn rannsóknarnefndarinnar frá 24. og 25. maí 2012 varðandi arðgreiðslur sparisjóða, 5. júní 2012.

445 . Á stjórnarfundi í Sparisjóðnum í Keflavík 3. september 2007 voru rædd áform Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis og Byrs um að selja megnið af þeirra hlut í Icebank. Jafnframt var rætt um að minni sparisjóðirnir myndu þá auka sinn hlut í bankanum þannig að sparisjóðir héldu áfram meirihluta þar. Á stjórnarfundi 10. september 2007 var samþykkt að kaupa 3% hlut til viðbótar í Icebank hf. Á stjórnarfundi 26. febrúar 2008 var kynntur fyrir stjórnarmönnum mögulegur samruni Sparisjóðsins í Keflavík og Icebank hf. og á næsta stjórnarfundi, 29. febrúar, veitti stjórn sparisjóðsins „[s]parisjóðsstjóra ásamt lykilstarfsmönnum Sparisjóðsins heimild til að hefja könnunarviðræður við Icebank, Sparisjóð Mýrasýslu, Spari-
sjóð Vestmannaeyja og Spron, um hugsanlega sameiningu. Áhersla er lögð á að viðræðurnar fari fram á forsendum og undir forystu SpKef.“

446 . Sbr. fundargerðir stjórnar Sparisjóðs Vestfirðinga 8. febrúar, 1. mars og 5. apríl 2005.

447 . Skýrsla Jóns Axelssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 26. september 2012.

448 . Nánar má lesa almennt um innri endurskoðun í 6. kafla.

449 . Skýrsla Eyrúnar Jönu Sigurðardóttur fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 26. september 2012.

450 . Skýrsla Eyrúnar Jönu Sigurðardóttur fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 26. september 2012.

451 . Skýrsla Eyrúnar Jönu Sigurðardóttur fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 26. september 2012.

452 . Skýrsla Halldóru Guðrúnar Jónsdóttur fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 1. október 2012.

453 . Skýrsla Halldóru Guðrúnar Jónsdóttur fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 1. október 2012.

454 . Skýrsla Eyrúnar Jönu Sigurðardóttur fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 26. september 2012.

455 . Skýrsla Halldóru Guðrúnar Jónsdóttur fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 1. október 2012.

456 . Skýrsla um innri endurskoðun Sparisjóðsins í Keflavík 2008, 14. apríl 2009.

457 . Skýrsla um innri endurskoðun Sparisjóðsins í Keflavík 2008, 14. apríl 2009.

458 . Skýrsla Evu Stefánsdóttur fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 1. október 2012.

459 . Skýrsla Evu Stefánsdóttur fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 1. október 2012.

460 . Skýrsla Deloitte hf. um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðsins í Keflavík 2006.

461 . Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um útlánaáhættu, markaðsáhættu og eftirlit með peningaþvætti hjá Sparisjóðnum í Keflavík, september 2008.

462 . Reglur Sparisjóðsins í Keflavík um framkvæmd áhættustýringar, 28. desember 2008.

463 . Ársskýrsla Sparisjóðsins í Keflavík 2007.

464 . Ársskýrsla Sparisjóðsins í Keflavík 2007.

465 . Svipuð umfjöllun var í ársreikningi sparisjóðsins vegna ársins 2008 nema orðunum „að setja ákveðin viðmiðunarmörk einstakra áhættuþátta“ var breytt í „að hafa eftirlit með að viðmiðunarmörk einstakra áhættuþátta séu virt“.

466 . Ársskýrsla Sparisjóðsins í Keflavík 2007.

467 . Skýrsla Jóns Axelssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 26. september 2012.

468 . Reglur Sparisjóðsins í Keflavík um framkvæmd áhættustýringar, 28. desember 2008.

469 . Reglur um framkvæmd starfa sparisjóðsstjórnar og sparisjóðsstjóra Sparisjóðsins í Keflavík, 28. október 2008.

470 . Skýrsla Jóns Axelssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 26. september 2012.

471 . CAMELS stendur fyrir „Capital adequacy, Assets, Management Capability, Earnings, Liquidity and Sensitivity“ og er kerfi sem hefur verið þróað af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum til að meta vísbendingar um yfirvofandi hættu í bankakerfinu. Í því eru fjármálastofnanir metnar með tilliti til nokkurra atriða, þ.e. eiginfjár, eigna, stjórnunar, afkomu, lauss fjár og næmni fyrir ákveðnum áhættuþáttum.

472 . Skýrsla Jóns Axelssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 26. september 2012.

473 . Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um útlánaáhættu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 22. október 2007.

474 . Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um útlánaáhættu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 22. október 2007.

475 . Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um útlánaáhættu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 22. október 2007.

476 . Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um útlánaáhættu, markaðsáhættu og eftirlit með peningaþvætti hjá Sparisjóðnum í Keflavík, september 2008.

477 . Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um útlánaáhættu, markaðsáhættu og eftirlit með peningaþvætti hjá Sparisjóðnum í Keflavík, september 2008. Um aðrar athugasemdir í skýrslunni er fjallað víðar í kaflanum, svo sem í undirköflum um útlán og fjárfestingar. Í undirkaflanum um útlán er vikið að svari sparisjóðsins við lokaútgáfu skýrslunnar.

478 . Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um útlánaáhættu, markaðsáhættu og eftirlit með peningaþvætti hjá Sparisjóðnum í Keflavík, september 2008.

479 . Erindisbréfið var frá því í desember 2003 og hafði ekki verið endurskoðað síðar þrátt fyrir að fram kæmi að reglur skyldu endurskoða eigi sjaldnar en einu sinni á ári.

480 . Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um útlánaáhættu, markaðsáhættu og eftirlit með peningaþvætti hjá Sparisjóðnum í Keflavík, september 2008.

481 . Skýrsla um innri endurskoðun Sparisjóðsins í Keflavík 2008, 14. apríl 2009.