11. kafli – Fjármögnun sparisjóðanna

11. Fjármögnun sparisjóðanna

Fyrirtæki eru fjármögnuð með eigin fé eigenda þeirra eða fjármagni sem fengið er að láni frá öðrum. Annars staðar í skýrslunni er fjallað um eigið fé sparisjóðanna, varasjóð, stofnfjárhafa og stofnfjáraukningar, en hér kemur til umfjöllunar það fjármagn sem fengið var frá öðrum aðilum en stofnfjárhöfum eða hluthöfum til þess að standa undir rekstri og vexti sparisjóðanna. Þegar fjallað er um einstaka skuldaliði og þeir skilgreindir sem hlutfall af heildarfjármögnun eða hlutfall af heildarskuldum falla liðir er varða eigið fé sparisjóða ekki undir fjármögnun.

Sparisjóðirnir voru misjafnir að gerð og stærð, og samsetning fjármögnunar þeirra því ólík.1 Minni sparisjóðir voru að mestu fjármagnaðir með innlánum og var önnur fjármögnun þeirra nær eingöngu fyrir milligöngu Sparisjóðabanka Íslands hf. með reikningslánum, skuldabréfakaupum og ádráttarlínum. Meirihluti fjármögnunar stærri sparisjóða var einnig í innlánum en þó var hlutfall innlána af heildarskuldum jafnan mun lægra í stærri sparisjóðunum en þeim minni. Stærri sparisjóðir sóttu margir hverjir fjármagn á skuldabréfa- og millibankamarkaði og öfluðu sjálfir fjármagns á erlendum lánamörkuðum. Þeir reiddu sig því minna á Sparisjóðabankann en minnst voru viðskipti Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis við bankann, að minnsta kosti frá árinu 2005 en það er tímabilið sem kemur helst til skoðunar hér.

Umfjöllun um fjármögnun sparisjóðanna tekur mið af þeim tölum og sundurliðunum sem birtar eru í ársreikningum þeirra. Þannig skiptist umfjöllunin eftir liðum skuldahliðar efnahagsreiknings í innlán, skuldir við lánastofnanir, lántöku og víkjandi skuldir. Undir liðinn aðrar skuldir falla jafnan lífeyrisskuldbindingar, skattskuldbindingar og annað slíkt sem eru ekki eiginlegir fjármögnunarþættir í starfsemi sparisjóðs og verður því ekki fjallað um þann lið hér.

Stuðst er við ársreikninga og sundurliðanir þeirra, sem og ítarlegri sundurliðanir, skýringar, lánasamninga, útboðslýsingar og önnur skjöl er varða fjármögnun sem sparisjóðir eða þeir sem fara með umsjón þrotabúa eða eigna sparisjóða hafa afhent rannsóknarnefndinni. Endurskoðendur og fyrrum starfsmenn sparisjóðanna hafa jafnframt aðstoðað við að útvega rannsóknarnefndinni gögn.

Verðbréfaskráning Íslands afhenti rannsóknarnefndinni skrá um allar hreyfingar skuldabréfa og víxla sem sparisjóðirnir gáfu út rafrænt. Verðbréfaskráning Íslands og Kauphöll Íslands afhentu einnig útboðslýsingar og skráningarlýsingar ásamt fréttum og tilkynningum í tengslum við útgáfu skuldabréfa og víxla.

Seðlabanki Íslands safnar talnaupplýsingum um fjármálafyrirtæki, meðal annars til að sinna eftirlitshlutverki sínu, og hefur rannsóknarnefndin stuðst við skýrslur sem sparisjóðirnir hafa afhent honum. Efnahagsyfirlit innlánsstofnana er hluti af gagnasöfnun um stöðu lánakerfisins, uppgjör greiðslujöfnuðar við útlönd og erlenda stöðu þjóðarbúsins, auk þess sem það er sjálfstæð heimild um stöðu og þróun bankakerfisins. Upplýsingum um atvinnugreinaflokkun inn- og útlána er jafnframt safnað til hagtölugerðar. Seðlabankinn fær gögn send frá lánastofnunum 11. hvers mánaðar fyrir efnahagsyfirlitin, en þá er yfirleitt ekki búið að loka bókhaldi þeirra. Gögn í bókhaldi einstakra sparisjóða geta því í einhverjum atriðum verið frábrugðin þessum gögnum. Skipt var um gagnagrunn og aðferðafræði við söfnun og birtingu upplýsinga hjá Seðlabankanum um mitt ár 2007 og eru upplýsingar fyrir og eftir þann tíma ekki að fullu samræmdar hjá bankanum. Rannsóknarnefndin hefur eingöngu stuðst við efnahagsyfirlit og atvinnugreinaflokkun inn- og útlána eftir mitt ár 2007.

Seðlabankinn hefur eftirlit með lágmarki lausafjár sem lánastofnanir þurfa að búa yfir2 og er lánastofnunum skylt að senda Seðlabankanum mánaðarlega sérstaka skýrslu um upplýsingar sem lagðar eru til grundvallar útreikningi á lausafjárhlutfalli þeirra.3 Þessar skýrslur hafa verið notaðar í kaflanum til þess að greina hlutfall bundinna og óbundinna innlána í sparisjóðunum með mánaðar millibili.

Samkvæmt reglum um gjaldeyrisjöfnuð er lánastofnunum skylt að skila Seðlabankanum mánaðarlega skýrslu um gjaldeyrisjöfnuð sinn.4 Í skýrslunni eru skuldir og eignir í erlendum gjaldmiðlum flokkaðar eftir útlánum, skuldabréfum, hlutabréfum, hlutdeildarskírteinum verðbréfasjóða, innlánum, ávöxtunarsamningum, skuldum við Seðlabanka o.fl.5 Þær upplýsingar sem fram koma í þessum skýrslum liggja til grundvallar eftirliti Seðlabankans með gjaldeyrisjöfnuði. Rannsóknarnefndin hefur nýtt þessar skýrslur til þess að greina skuldir sparisjóðanna.

Margir sparisjóðir fengu fyrirgreiðslu frá Seðlabankanum með veði í verðbréfum, svokölluð dag- og veðlán, en Seðlabankinn getur veitt lánastofnunum lán með kaupum á verðbréfum eða á annan hátt gegn tryggingum sem bankinn metur gildar.6 Seðlabankinn afhenti rannsóknarnefndinni yfirlit yfir dag- og veðlán sem hann veitti frá 2005 til 2011 og eru þau notuð til greiningar í þessum kafla.

11.1 Fjármögnunarþættir sparisjóðanna

Vöxtur sparisjóðanna frá 2001 til 2009 var einkum fjármagnaður með innlánaaukningu og nýjum lántökum. Árið 2008 léku skuldir við lánastofnanir einnig stórt hlutverk en það var vegna fyrirgreiðslu Seðlabanka Íslands við sparisjóðina. Skuldir sparisjóðanna sem áttu þátt í eiginlegri fjármögnun starfsemi þeirra námu mest 673 milljörðum króna í árslok 2008 en drógust svo saman næstu tvö ár þegar stærri sparisjóðir voru teknir yfir af Fjármálaeftirlitinu eða öðrum fjármálafyrirtækjum.

11.1.1 Innlán

Innlán voru stærsti þátturinn í fjármögnun sparisjóðanna á árunum 2001–2011 en þau voru hlutfallslega stærri þáttur í fjármögnun minni sparisjóða en þeirra stærri. Á mynd 2 má sjá að innlán voru á bilinu 59–83% af skuldum minni sparisjóða að frádregnu eigin fé þeirra. Þau voru hæst um 62% í stærri sparisjóðum árið 2003 og lægst 45% árið 2006.

Fram til ársins 2009 voru innlán stærri sparisjóða meginhluti innlána alls sparisjóðakerfisins, svo sem sjá má á mynd 3. Innlán minni sparisjóða rétt tæplega tvöfölduðust frá árinu 2001 til 2011, fóru úr tæpum 24 milljörðum í 46 milljarða króna. Innlán minni sparisjóða drógust saman um tæp 33% frá 2006 til 2007 og aftur um tæp 7% milli áranna 2007 og 2008, en þá breytingu má að hluta til rekja til sameiningar Sparisjóðs Húnaþings og Stranda og Sparisjóðs Vestfirðinga við Sparisjóðinn í Keflavík á árinu 2007, sem og til sameiningar Sparisjóðs Kópavogs við Byr sparisjóð á sama ári. Sparisjóður Norðlendinga sameinaðist svo Byr sparisjóði í byrjun árs 2008. Með þessum breytingum fækkaði í hópi þeirra sem teljast til minni sparisjóða og fjölgaði í hinum. Innlán í minni sparisjóðum tóku mikið stökk árið 2009 þegar þau hækkuðu um 56%, úr 29,6 milljörðum króna í 46,3 milljarða króna, en töluverð ásókn var í innlán til þeirra eftir fall stærri fjármálastofnana.

Vöxtur innlána stærri sparisjóða var að minnsta kosti 10% hvert ár frá árinu 2001 til 2008 en mestur var hann 54% árið 2007. Milli áranna 2008 og 2009 drógust innlán stærri sparisjóða saman, en það var vegna yfirtöku Fjármálaeftirlitsins á valdi hluthafafundar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis og stofnfjáreigendafundar Sparisjóðs Mýrasýslu. Það voru því einungis Sparisjóðurinn í Keflavík og Byr sparisjóður sem eftir voru í hópi stærri sparisjóða í árslok 2009. Samanlögð innlán þeirra tveggja breyttust lítið milli áranna 2008 og 2009, eða úr rúmum 199 milljörðum í 201 milljarð króna. Innlán Byrs sparisjóðs drógust hins vegar saman úr tæpum 145 milljörðum í 138 milljarða króna á meðan innlán Sparisjóðsins í Keflavík jukust úr tæpum 55 milljörðum í rúma 63 milljarða króna. Í síðarnefnda sparisjóðnum var markvisst sóst eftir nýjum innlánum. Innlánastaða Byrs sparisjóðs var mjög góð síðla árs 2009, en samkvæmt lausafjáryfirlitum voru innlán í október 2009 173 milljarðar króna. Þau drógust þó snögglega saman eftir húsleit sérstaks saksóknara í höfuðstöðvum sparisjóðsins í nóvember sama ár.

Í umfjöllun um innlán hvers sparisjóðs fyrir sig kemur fram að mikil eftirspurn var eftir lausu fé á árinu 2008 og eftir fall bankanna. Innlánseigendur fengu tilboð í fjármagn sitt frá fjármálastofnunum og hreyfðust þau ört milli stofnana. Eftir fall bankanna hafði neikvæð umfjöllun um fjármálafyrirtæki töluverð áhrif á stöðu innlána hjá þeim og fann Byr sparisjóður fyrir því. Þannig fjallaði stjórn Byrs sparisjóðs um það á fundi sínum 30. júní 2009 að innistæðueigendur hefðu gert áhlaup á sparisjóðinn fjórum dögum áður og var það rakið til neikvæðrar umfjöllunar um sparisjóðinn í fjölmiðlum.

Almennt jókst eftirspurn eftir innlánum frá því síðla árs 2007. Fjármálastofnanir sóttust eftir innlánum til að fjármagna starfsemi sína þegar aðgengi að erlendum fjármálamörkuðum og innlendum millibankamarkaði tók að þrengjast og fjármagnseigendur töldu innlán jafnframt góða og örugga ávöxtunarleið. Með setningu neyðarlaganna7 svokölluðu 6. október 2008 voru innlán færð framar í kröfuröð en þau höfðu verið fram að þeim tíma og yfirlýsing ríkisstjórnar Íslands um fulla tryggingu innistæðna gerði þau að enn ákjósanlegri fjárfestingarkosti. Fram að falli bankanna hafði vaxtastig hækkað og eftir að neyðarlögin voru sett hækkaði Seðlabankinn vexti sína úr 12% í 18%, sem hækkaði enn vaxtastig í landinu.

Hlutfall bundinna innlána af heildarinnlánum í stærri sparisjóðum frá janúar 2001 til apríl 2010 var lægst í mars 2008 þegar það var 19%. Í kjölfar áfalla á íslenskum fjármála-

markaði og gengisfalls krónunnar 2008 hækkaði verðlag á Íslandi snögglega sem leiddi til góðrar ávöxtunar á verðtryggðum innistæðum. Það hefur eflaust haft áhrif til aukinnar eftirspurnar eftir bundnum innlánum en hlutfall þeirra hækkaði snögglega frá september til nóvember 2008 þegar það fór úr 23% í 31%. Neyðarlögin og yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar höfðu sömu áhrif því þau juku tiltrú á íslenskan fjármálamarkað og að innistæðueigendur fengju bundnar innistæður sínar greiddar.

Innlán eru almennt talin stöðug fjármögnun, einkum þegar um er að ræða mörg lítil innlán. Þá finnur fjármálastofnun lítið fyrir því ef innlánseigendur þurfa að nálgast fjármuni sína, nema þeir vilji allir eða mjög margir fá innlán sín greidd út á sama tíma. Reiði bankar sig hins vegar á fá stór innlán getur staða þeirra sveiflast mikið og hratt ef innlánseigendur vilja fá innlán sín útgreidd. Sparisjóðirnir voru gjarnan með mörg smá innlán og nokkur stór. Minni sparisjóðir höfðu flestir næg innlán til þess að fjármagna stærstan hluta útlána sinna. Í árslok 2001 voru innlán 71% af útlánum hjá minni sparisjóðum og 84% í árslok 2007, en frá 2008 til 2011 var hlutfallið yfir 100%. Hjá stærri sparisjóðum var hlutfallið 66% í lok árs 2001 og 56% í lok árs 2007. Þar sem innlán fjármögnuðu stóran hluta útlána minni sparisjóða þurftu þeir ekki að reiða sig eins mikið á lántöku eða skuldabréfaútgáfu, þó flestir hafi fjármagnað útlán sín í erlendri mynt með sambærilegum lánum hjá Sparisjóðabankanum. Við þá atburði sem áttu sér stað á fjármálamarkaði haustið 2008 lentu sparisjóðirnir, sem höfðu í meira mæli fjármagnað sig með lántökum, í meiri erfiðleikum. Innlánsfjármögnun kom sér vel á þessum tíma, þó ekki hafi verið hægt að sjá það fyrir. Búast hefði mátt við að innistæðueigendur gerðu áhlaup á banka og sparisjóði til að taka út innistæður sínar við þær aðstæður sem uppi voru enda varð það raunin. Með neyðarlögunum og yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í október 2008 fengu innistæður forgang og vernd sem þær höfðu ekki haft áður og kom það í veg fyrir áhlaup á innlánsstofnanir. Sparisjóðirnir sem komu best út úr áföllum ársins 2008 voru þeir sem voru að mestu fjármagnaðir með innlánum. Það var bæði vegna þess að fjármögnunin var í íslenskum krónum og höfuðstóllinn hækkaði því ekki við gengisfall krónunnar og ekki þurfti að semja við lánardrottna um brot á lánasamningum, endurgreiðslu skuldar vegna skorts á trúverðugleika fjármálakerfisins eða annarra sambærilegra hluta. Sparisjóðir sáu margir aukinn vilja til þess að leggja inn stofnfé og voru sumir hverjir með mun meira fjármagn en fyrir fall bankanna. Innlán voru þó dýr fjármögnun, sérstaklega eftir að Seðlabankinn hækkaði vexti eftir fall bankanna. Flestir minni sparisjóðir nýttu hins vegar innlánsfjármuni sem ekki voru í útlánum til þess að kaupa innstæðubréf í Seðlabankanum. Greiddir innlánsvextir voru yfirleitt töluvert lægri en ávöxtun af innstæðubréfum og því höfðu sparisjóðirnir tekjur af innlánunum.

11.1.2 Skuldir við lánastofnanir

Skuldir við lánastofnanir eru skilgreindar í 24. gr. reglna um reikningsskil lánastofnana nr. 834/2003. Undir þær falla meðal annars innlán frá fjármálastofnunum, millibankalán og aðrar skuldir við lánastofnanir sem ekki eru í formi skuldabréfalána eða annarra framseljanlegra verðbréfa. Jafnframt falla þar undir gjaldkræfar skuldir við lánastofnanir og skuldir við lánastofnanir með umsömdum binditíma eða uppsagnarfresti, að undanskildum lántökum og víkjandi skuldum. Framvirk viðskipti eða viðskipti með skiptirétti teljast einnig til skulda við lánastofnanir.

Undir þennan lið falla gjarnan skammtímaskuldir fjármálafyrirtækja við önnur fjármálafyrirtæki og lánastofnanir, svo sem dag- og veðlán hjá Seðlabanka Íslands, lán hjá Sparisjóðabanka Íslands, skammtímalán frá erlendum bönkum, óuppgerðar skuldir í jöfnunarkerfum og þess háttar. Skuldir til lengri tíma teljast til lántöku og er fjallað um þær hér aftar.

Með upptöku IFRS-reikningsskilastaðla má sjá liðinn „innlán frá fjármálafyrirtækjum og Seðlabanka Íslands“ í ársreikningum sparisjóða og annarra fjármálafyrirtækja.8 Hjá þeim sem gera ársreikninga í samræmi við IFRS hefur tíðkast að flokka innlán á efnahagsreikningnum annars vegar í innlán frá fjármálastofnunum og hins vegar innlán frá viðskiptavinum. Undir innlán frá fjármálastofnunum flokkast aðallega peningamarkaðslán og millibankalán en einnig venjubundnir innlánsreikningar og aðrar skuldir sem ekki flokkast undir aðra liði.9 Innlán frá fjármálafyrirtækjum og Seðlabanka Íslands eru því að mestu leyti sambærileg við það sem áður var kallað skuldir við lánastofnanir og verður stuðst við síðara heitið í þessari umfjöllun.

Sparisjóðabanki Íslands hf. sá um greiðslumiðlun sparisjóðanna, tók við umframfé til ávöxtunar og veitti millibankalán ef sparisjóðirnir þurftu á að halda.10 Bankaráð samþykkti útlánaramma fyrir hvern sparisjóð í samræmi við almennar lánareglur og bar bankastjóri ábyrgð á að viðskipti væru framkvæmd innan þess ramma. Í reglum um framsal viðskiptaheimilda komu fram heimildir fjárstýringar til afgreiðslu einstakra fyrirgreiðslna til sparisjóða. Nánar er fjallað um þessi atriði hér aftar. Skammtímaskuldir við Sparisjóðabankann féllu undir skuldir við lánastofnanir.

Seðlabanki Íslands getur veitt fjármálafyrirtækjum skammtímafyrirgreiðslu í formi dag- og veðlána. Daglán eru lán sem veitt eru til næsta viðskiptadags en veðlán geta verið til allt að sjö daga. Lánin eru veitt gegn veði í verðbréfum sem Seðlabankinn metur hæf til tryggingar.11 Þessi lán falla einnig undir skuldir við lánastofnanir.

Skuldir sparisjóða við lánastofnanir voru á bilinu 10–30 milljarðar króna á árunum 2001–2009, ef undan er skilið árið 2008 þegar þær nær þrefölduðust frá fyrra ári.

Skuldir sparisjóðakerfisins við lánastofnanir voru langmestar meðal stærri sparisjóða. Umsvif dag- og veðlánaviðskipta þeirra við Seðlabanka Íslands náðu áður óþekktum hæðum á árinu 2008 og er það ástæða mikilla skulda sparisjóðakerfisins við lánastofnanir á því ári. Samkvæmt sundurliðunum frá sparisjóðunum og endurskoðendum þeirra voru skuldir stærri sparisjóða við Seðlabankann í árslok 2005 1,3 milljarðar króna, 3 milljarðar króna ári síðar, 4,5 milljarðar króna í árslok 2007, 48,8 milljarðar króna í árslok 2008 og 4,6 milljarðar í árslok 2009. Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis skuldaði Seðlabanka Íslands 47,2 milljarða króna í árslok 2008 og voru það tæp 97% af skuldum sparisjóðakerfisins við Seðlabankann á þeim tíma.12

Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis var með skammtímafyrirgreiðslur hjá viðskiptabönkunum þremur sem námu 6,1 milljarði króna í lok árs 2005, 2,7 milljörðum króna í lok árs 2006, 600 milljónum króna ári síðar og 1,9 milljörðum króna í lok árs 2008. Í lok árs 2006 voru skammtímaskuldir sparisjóðsins við Fortis bank 1,9 milljarðar króna og 1,4 milljarðar króna ári síðar. Skuld við Sparisjóðabanka Íslands var 2 milljarðar króna í lok árs 2005, 300 milljónir í lok árs 2006, 500 milljónir króna ári síðar en engin í ársreikningi ársins 2008.

Dag- og veðlán hjá Seðlabanka Íslands fengu vaxandi vægi í skammtímalántöku Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis frá 2005 til 2008. Í árslok 2005 námu skuldir sparisjóðsins við Seðlabanka vegna þessara lána 1,3 milljörðum króna, tæpum 3 milljörðum króna í árslok 2006, 4,5 milljörðum króna ári síðar og loks 47,2 milljörðum króna í lok árs 2008. Fram á árið 2008 var stærstur hluti þess sem sparisjóðurinn lagði að veði fyrir lánunum íbúðabréf (HFF flokkar) en á árinu 2008 hóf sparisjóðurinn að nýta víxla útgefna af Kaupþingi banka hf. sem tryggingar fyrir lánunum og fékk lánaða um 10 milljarða króna vegna þeirra. Seðlabankinn hætti að taka víxlana sem tryggingar fljótlega eftir að Fjármálaeftirlitið tók yfir vald hluthafafundar Kaupþings banka hf.

Frá 8. október 2008 og fram til þess er Fjármálaeftirlitið tók yfir vald hluthafafundar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis 21. mars 2009 veitti Seðlabanki Íslands sparisjóðnum lausafjárfyrirgreiðslu gegn veði í eignavörðu, lagskiptu skuldabréfi, GIIF 08 1, sem gefið var út af sérstökum fagfjárfestasjóði, Geysi 2008-I Institutional Investor Fund. Fyrirgreiðsla til sparisjóðsins vegna þessa bréfs var um 23,5 milljarðar króna í árslok 2008. Á sama tíma fékk sparisjóðurinn jafnframt fyrirgreiðslu sem nam 8,9 milljörðum króna með veði í fasteignatryggðum veðskuldabréfum og 9,2 milljarða króna gegn staðfestingu Íbúðalánasjóðs á að hann hygðist kaupa safn íbúðalána af sparisjóðnum um leið og hann hefði heimild til þess.

Í árslok 2006 voru stærstu skuldir Byrs sparisjóðs við lánastofnanir 3 milljarðar króna við Landsbanka Íslands hf., 1,9 milljarðar króna við Sparisjóðabanka Íslands hf., tæpur milljarður í skammtímalán hjá erlendum bönkum og milljarður í innlán frá MP banka hf. Hluti skuldarinnar við Landsbanka Íslands hf. og öll skuldin við MP banka hf. á þessum tíma var í tengslum við lánveitingu Byrs sparisjóðs til Hansa ehf. Innlánið frá MP banka hf. nam tæpum 1,2 milljörðum króna í árslok 2007 og árslok 2008 en var ekki í ársreikningum eftir það. Skammtímalán frá erlendum bönkum námu rúmum 1,8 milljörðum króna í árslok 2007 en voru engin í ársreikningum eftir þann tíma. Í árslok 2007 námu skuldir Byrs sparisjóðs við Sparisjóðabanka Íslands hf. 2,9 milljörðum króna og 3,3 milljörðum króna í árslok 2008 og árslok 2009.

Byr sparisjóður nýtti lítið möguleika á fyrirgreiðslu frá Seðlabanka Íslands í formi dag- og veðlána ef undanskilið er tímabilið apríl til október 2008 þegar slík viðskipti námu tæpum 10 milljörðum króna með veði í skuldabréfum útgefnum af Glitni banka hf. og Landsbanka Íslands hf. Byr sparisjóður var ekki með dag- eða veðlán í lok árs 2008 en í lok árs 2009 námu þau 1,6 milljörðum króna með veði í íbúðabréfum (HFF-flokkar).

Sparisjóðurinn í Keflavík skuldaði Sparisjóðabanka Íslands hf. tæpan milljarð króna í árslok 2006, 3,1 milljarð króna í árslok 2007 og 1 milljarð í árslok 2008. Í árslok 2008 námu skuldir sparisjóðsins við Nýja Kaupþing banka hf. 3,9 milljörðum króna og 2,8 milljörðum króna ári síðar. Þessar skuldir voru vegna láns sem veitt var í febrúar 2008 í tengslum við skuldskeytingu skulda Kistu – fjárfestingarfélags ehf. yfir á sparisjóðinn og lántöku í ágúst 2008 að fjárhæð 16,5 milljónir evra til að greiða upp sambankalán í umsjón HSH Nordbank. Lánið sem sparisjóðurinn yfirtók vegna Kistu – fjárfestingarfélags ehf. var fært sem lántaka árið 2008 og lækkaði því skuld sparisjóðsins við bankann. Í lok árs 2008 námu dag- og veðlán Sparisjóðsins í Keflavík hjá Seðlabanka Íslands 4,6 milljörðum króna og ári síðar námu þau 9,3 milljörðum króna. Stærstur hluti trygginga sem lagður var að veði fyrir lánunum voru íbúðabréf (HFF-flokkar) en einnig skuldabréf útgefið af Reykjanesbæ (RNB 08 1).

Skuldir Sparisjóðs Mýrasýslu við lánastofnanir á árunum 2005–2007 voru að stærstum hluta vegna innlendra og erlendra ádráttarlína sparisjóðsins og dótturfélaga hjá Sparisjóðabanka Íslands hf. Þær námu 879 milljónum króna í árslok 2005; 3,5 milljörðum króna árið 2006; 4,5 milljörðum króna árið 2007, og 8,4 milljörðum króna í árslok 2008. Í árslok 2007 voru 817 milljónir króna af skuldum Sparisjóðs Mýrasýslu við Sparisjóðabanka Íslands hf. vegna endurhverfra viðskipta með bréf í Exista hf. Hækkun á skuldum Sparisjóðs Mýrasýslu við lánastofnanir í árslok 2008 má rekja til láns frá Kaupþingi banka hf. sem nam þá 13,3 milljörðum króna. Lánið var veitt til þess að gera upp við aðra lánardrottna sparisjóðsins en til stóð að bankinn keypti meirihluta stofnfjár í sparisjóðnum.

Skuldir minni sparisjóða við lánastofnanir hækkuðu töluvert á árinu 2008 en með gengisfalli krónunnar á síðari hluta ársins hækkuðu erlendar skuldir sparisjóðanna við Sparisjóðabankann. Minni sparisjóðir fjármögnuðu erlend útlán sín nær eingöngu með erlendum lánum frá Sparisjóðabankanum. Því hækkuðu erlendar skuldir þeirra til jafns við erlendar eignir þeirra með virðisrýrnun krónunnar. Skuldir minni sparisjóða við lánastofnanir lækkuðu mikið milli áranna 2009 og 2010 svo sem sjá má á mynd 5. Í desember 2010 gengu fjórir sparisjóðir frá uppgjöri um niðurfellingu skulda við Seðlabankann og einn á árinu 2011. Samkvæmt rekstrarreikningum þeirra var gjaldfærsla vegna þessa samtals um 5,1 milljarður króna.13 Seðlabankinn hafði eignast þessar kröfur á sparisjóðina með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um yfirtöku hluthafafundar Sparisjóðabanka Íslands hf. og ráðstöfun eigna og skulda hans.14

Skuldir við lánastofnanir voru yfirleitt skammtímaskuldir við aðrar fjármálastofnanir, eða hluti af daglegum viðskiptum í rekstri fjármálastofnana. Undir eðlilegum kringumstæðum hefðu þær ekki verið þýðingarmiklar fyrir rekstrarerfiðleika eða fall sparisjóðanna. Hins vegar endurspeglar staða þeirra á árinu 2008 þau vandræði sem stærri sparisjóðir voru í hvað varðaði fjármögnun. Þetta átti einkum við um Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis sem reiddi sig mjög á Seðlabankann til þess að útvega fjármagn eftir fall viðskiptabankanna.

11.1.3 Lántaka

Í 26. gr. reglna um reikningsskil lánastofnana nr. 834/2003 er lántaka skilgreind sem skuldir fyrirtækis, aðrar en innlán, sem stofnað er til með útgáfu skuldabréfa og annarra framseljanlegra verðbréfa, nema víkjandi bréfa. Skuldabréfaútgáfur og útgáfur verðbréfa sem flokka má undir markaðsverðbréf, og víxlar sem fyrirtæki hafa gefið út til eigin fjármögnunar, teljast jafnframt til lántöku.

Á aðalfundi Tryggingasjóðs sparisjóðanna árið 2000 var framtíð sparisjóðakerfisins rædd. Áður höfðu sparisjóðir, líkt og aðrar innlánsstofnanir, byggt útlán sín nær alfarið á innlánum en þá þegar stóðu innlán ekki undir eftirspurn eftir lánsfé. Það myndi þýða að í framtíðinni myndu lánveitingar í vaxandi mæli byggja á beinum lántökum banka og sparisjóða.15 Þetta rættist, því lántaka sparisjóðanna jókst jafnt og þétt frá árinu 2003 til 2008, einkum vegna langtímafjármögnunar á miklum vexti þeirra stærri. Þessum lántökum má skipta gróflega í verðbréfaútgáfu (sem í þessum kafla nær til víxla- og skuldabréfaútgáfu) og aðra lántöku en það var sá liður sem jókst mest á tímabilinu. Verðbréfaútgáfa nam mest rúmlega 53 milljörðum króna í árslok 2006 en minnst var hún árið 2009, eða 18 milljarðar króna, ef undan eru skilin árin 2010 og 2011 þegar hún var vart teljanleg.16 Önnur lántaka sparisjóðanna var rúmir 190 milljarðar króna árið 2008 og hafði aukist um 64 milljarða króna frá árinu á undan. Þessa aukningu má að miklu leyti rekja til gengisfalls krónunnar en önnur lántaka var gjarnan í erlendum myntum. Lántaka minni sparisjóða var mjög lítil í samanburði við þá stærri, hvort sem um var að ræða verðbréfaútgáfu eða annars konar lántöku.

Stærri sparisjóðir gáfu út á bilinu 93–97% af útistandandi verðbréfum sparisjóðakerfisins á árunum 2005–2009. Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis og Byr sparisjóður höfðu gefið út stærstan hluta þeirra en á árinu 2008 jókst hlutur Sparisjóðsins í Keflavík mikið frá því sem verið hafði áður og hélst svipaður til næsta árs þar á eftir.

Verðbréfaútgáfa Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis nam mest 35,4 milljörðum króna í árslok 2006 og minnst 9 milljörðum króna í árslok 2008. Í ársreikningum sparisjóðsins var fjármögnun Íbúðalánasjóðs á útlánum sparisjóðsins, sem fjallað er um hér aftar, færð sem verðbréfaútgáfa en hún nam á bilinu 16,7–17,2 milljörðum króna í bókhaldi sparisjóðsins á árunum 2005–2007.17 Fjármögnun Íbúðalánasjóðs á útlánasafni Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis var ekki færð undir verðbréfaútgáfu í ársreikningi hans fyrir árið 2008.18 Umsvif sparisjóðsins í víxlaútgáfu jukust töluvert á árinu 2008 vegna víxlaskipta við Kaupþing banka hf. Sparisjóðurinn nýtti svo víxla Kaupþings banka hf. til endurhverfra viðskipta við Seðlabanka Íslands. Sparisjóðnum gekk ágætlega að selja útgefin verðbréf sín fram til ársins 2008 en á árinu 2008 gaf sparisjóðurinn út skuldabréf fyrir 19 milljarða króna og átti hann sjálfur 18,5 milljarða króna af þessum bréfum í mars 2009.

Útistandandi verðbréf Byrs sparisjóðs á tímabilinu 2005–2010 voru að stórum hluta gefin út af sparisjóðunum sem sameinuðust til að mynda Byr og var það elsta allt frá árinu 1989. Byr sparisjóður gaf út tvo skuldabréfaflokka á árinu 2008, einn að nafnverði 2,5 milljarða króna og seldist stærstur hluti þeirrar útgáfu. Síðari flokkurinn, sem gefinn var út í desember 2008, seldist ekki.

Sparisjóðurinn í Keflavík gaf út eitt skuldabréf árið 2007 og var það einn milljarður króna að nafnverði en önnur útgáfa markaðsverðbréfa átti sér stað fyrir árið 2005. Útgáfa bréfa hélst stöðug yfir tímabilið 2005–2009 ef frá er talið skuldabréf sem Sparisjóðurinn í Keflavík gaf út til Sparisjóðabankans árið 2008 og nam tæpum 6 milljörðum króna í árslok.19 Skuldabréfið var tilkomið eftir að Sparisjóðabankinn lokaði erlendum ádráttarlínum sjóðsins þegar erfitt var orðið fyrir bankann að fjármagna sig í erlendum myntum. Þar sem sparisjóðurinn gat ekki greitt útistandandi skuld var samið um útgáfu þriggja víxla til greiðslu skuldarinnar.

Verðbréfaútgáfa Sparisjóðs Mýrasýslu nam á bilinu 2,1–2,8 milljörðum króna í árslok 2005–2008 en stærstur hluti þeirrar útgáfu var í þremur skuldabréfum gefnum út á árunum 2004, 2005 og 2006. Heildarútgáfa þeirra var 1,3 milljarðar króna að nafnverði.

Önnur lántaka en verðbréfaútgáfa spilaði mun stærra hlutverk og þar var erlend fjármögnun þýðingamikil, einkum hjá stærri sparisjóðum. Hlutfall erlendra lána fjögurra stærstu sparisjóðanna varð hæst 80,4% af heildarlántöku alls sparisjóðakerfisins á árinu 2008 og voru Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis og Byr sparisjóður þar langstærstu lántakendurnir. Þessir tveir sparisjóðir voru með eigin fjárstýringardeildir og stefndu að því að reiða sig í minna mæli á Sparisjóðabankann og sjá um sína eigin fjármögnun. Á þessum tíma voru lán bankans til Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis engin en lántaka Byrs sparisjóðs hjá bankanum nam þá 5,2 milljörðum króna.

Frá 2005 til 2007 tók Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis þrjú stór sambankalán, eitt sem nam 85 milljónum evra til fimm ára, annað 90 milljóna evra lán til þriggja ára og það síðasta, tekið 18. maí 2007, upp á 200 milljónir evra til þriggja ára. Í skýrslu sinni fyrir rannsóknarnefndinni sagði fyrrum forstöðumaður fjárstýringar sparisjóðsins að árin 2005–2007 hefði verið ódýrast, hagkvæmast og auðveldast á allan hátt að sækja fjármagn til útlanda og að lítil áhersla hefði verið lögð á að gefa út skuldabréf og fjármagna sparisjóðinn innanlands.20 Spurður út í stærsta sambankalánið sagði hann að það hefði verið „hugsað sem fjármagn inn í reksturinn og ekki búið að eyrnamerkja fjármunina neinu sérstöku […] Þarna voru […] fjármunir aðgengilegir á góðum kjörum og hægt að lána þá út með, að mönnum fannst, nægjanlegu miklum vaxtamun til að tryggja ásættanlega arðsemi“. 21

Sparisjóður vélstjóra og Sparisjóður Hafnarfjarðar tóku erlend lán 6. júlí 2006, sá fyrrnefndi upp á 30 milljónir evra til þriggja ára en hinn síðarnefndi upp á 32 milljónir dollara til þriggja ára. Í skýrslu fyrir rannsóknarnefndinni sagði fyrrverandi forstöðumaður fjárstýringar Byrs sparisjóðs að þessi lán hefðu verið tekin til þess að endurfjármagna eldri erlend lán þessara tveggja sparisjóða.22 Á stjórnarfundi Sparisjóðs Kópavogs 24. apríl 2007 var sparisjóðsstjóra veitt heimild til þess að undirrita sambankalán sem nam 13 milljónum evra og var tekið stuttu síðar.

Byr sparisjóður tók sambankalán í júlí 2007 sem nam 110 milljónum evra, en af samskiptum starfsmanna sparisjóðsins má ráða að mikil eftirspurn hafi verið eftir erlendu lánsfé hjá viðskiptavinum bankans og að önnur erlend lán sparisjóðsins hefðu þá þegar verið fullnýtt. Ástæða lántökunnar var því, að minnsta kosti að einhverju leyti, innlend eftirspurn eftir lánum í erlendri mynt.23 Um ári síðar tók sparisjóðurinn annað erlent lán sem nam 50 milljónum evra. Ekki var sérstaklega tekið fram í fundargerðum hver tilgangur lántökunnar var en tölvusamskipti starfsmanna á milli benda til þess að sóst hafi verið eftir fénu til þess að stækka útlánasafn sparisjóðsins.24

Sparisjóðurinn í Keflavík tók þrjú stór sambankalán á árunum 2005–2007, hið fyrsta árið 2005 en það nam 22,5 milljónum evra, annað 22 milljóna evra lán í mars 2006 og hið þriðja í maí 2007 en það var 40 milljónir evra. Lánin voru ekki tekin til að fjármagna sérstök verkefni eða útlán heldur báru bæði fyrrverandi forstöðumaður fjárhagssviðs Sparisjóðsins í Keflavík og fyrrverandi sparisjóðsstjóri að sparisjóðurinn hefði ekki sjálfur sóst eftir að fjármagna sig hjá erlendum bönkum, honum hefði einfaldlega verið boðið að taka þessi lán og þau hafi verið mjög hagstæð.25

Erlend lán Sparisjóðs Mýrasýslu jukust töluvert frá 2005 til 2008 en hlutfallslega varð aukningin mest milli áranna 2006 og 2007. Árið 2006 fékk sparisjóðurinn 10 milljóna evra brúarlán frá Bayern Landesbank og Raiffeisen Zentralbank og sömu bankar veittu sparisjóðnum 32,5 milljóna evra lán til þriggja ára snemma á árinu 2007. Síðar sama ár fékk sparisjóðurinn 10 milljóna evra lán frá Landsbankanum í Lúxemborg til fimm ára. Eftir að hafa rætt um lausafjármál og leiðir til þess að ná í fjármagn á ásættanlegum kjörum á stjórnarfundi í janúar 2008 fékk sparisjóðurinn 5 milljóna evra lán til fimmtán mánaða í byrjun febrúar 2008 frá DZ Bank. Á stjórnarfundum í apríl og júní sama ár var rætt um mikinn skort á lausu fé, merki um að staðan myndi ekki lagast á næstunni og að erlendir bankar væru hættir að lána til Íslands. Ekki væri að sjá að viðhorf bankanna myndi breytast á næstu mánuðum og ekki ljóst hvaða fjármögnunarleiðir stæðu sparisjóðnum til boða ef ástandið batnaði ekki.

Lausafjárerfiðleikar höfðu þá þegar gert vart við sig á erlendum fjármálamörkuðum en með falli Lehman Brothers í september 2008 dró enn úr framboði fjármagns. Erfitt var að nálgast lánsfjármagn til lengri tíma, mikill skortur á trausti á mörkuðum og litlar fjármálastofnanir á borð við íslensku sparisjóðina þóttu ekki ákjósanlegir lántakendur í slíku umhverfi.

Frá miðju ári 2008 fram til loka árs 2010 hefðu fjórir stærstu sparisjóðirnir þurft að endurfjármagna erlend lán sem námu 796 milljónum evra eða jafnvirði 135 milljarða króna á miðgengi Seðlabankans 31. desember 2008. Það var um 31% af meðaleignum sömu sparisjóða á árinu 2008. Með falli viðskiptabankanna þriggja í október 2008 skertust möguleikar sparisjóðanna til fjármögnunar enn frekar og var áhersla lögð á fjármögnun frá Seðlabanka Íslands í formi dag- og veðlána og kaup Íbúðalánasjóðs á lánasöfnum sparisjóðanna.26 Lán í erlendri mynt voru um 80% af allri lántöku sparisjóðakerfisins í lok árs 2008 og möguleikar til endurfjármögnunar þeirra litlir sem engir.

Sturla Pálsson, framkvæmdastjóri alþjóða- og markaðssviðs Seðlabanka Íslands, lýsti áhættunni sem fólst í erlendri lántöku sparisjóðakerfisins í skýrslu sinni fyrir rannsóknarnefndinni:

Hún náttúrulega gerir þeim kleift að fara út í fjárfestingabankastarfsemi og sparisjóðir eru kannski ekki endilega heppilegasta einingin til að stunda slíka starfsemi því markaðir eru hvikulir og litlar einingar eru í miklu meiri hættu á að missa aðgang að lánsfé heldur en stærri einingar sem þá geta gefið út skuldabréf til miklu stærri hóps fjárfesta og eru með lánshæfismat og annað slíkt. Þeir höfðu ekkert af þessu en voru samt að taka lán, og oft á lánamarkaði í Evrópu, til þess að geta stundað fjárfestingabankastarfsemi. Ef maður horfir í baksýnisspegilinn er auðvelt að vera vitur eftir á, en þá er það sú starfsemi sem setur banka á hausinn með reglulegu millibili. […] Ef íslensku bankarnir hefðu bara skuldað krónur þá hefðu þeir aldrei þurft að fara á hausinn fræðilega séð. Þá hefði bara verið hægt að sturta inn í þá lausafé, þeir hefðu haldið því fram áfram að eignirnar væru miklu meira virði en þær eru í raun og veru og meinið kemur aldrei upp á yfirborðið, allavega ekki strax. Þetta er það sem er verið að gera um alla Evrópu og að hluta til í Bandaríkjunum og þeir hafa miklu meira úthald í þessu af því að þeir prenta sinn eigin gjaldeyri. Við gátum bara búið til krónur, það var lausafjárskortur í erlendri mynt sem drap bankana. Við vorum meira að segja búin að fara um allan heim og reyna að hjálpa þeim að afla sér erlends lausafjár til þess að koma í veg fyrir að þetta þyrfti að fara eins og það fór.27

Hefðu sparisjóðir eingöngu fjármagnað starfsemi sína með íslensku fjármagni hefðu þeir ekki vaxið með þeim hætti sem þeir gerðu. Innlán stóðu ekki undir eftirspurn eftir útlánum sem stærri sparisjóðir vildu veita og á íslenskum skuldabréfamarkaði var ekki mikil eftirspurn eftir skuldabréfum eða víxlum sparisjóðanna. Eins og fyrrverandi starfsmenn og stjórnendur stærri sparisjóðanna hafa lýst fyrir rannsóknarnefndinni var aðgengi að erlendu fjármagni lengi vel mjög gott. Sparisjóðunum var oft og tíðum boðið að taka rífleg lán hjá erlendum bönkum sem þeir töldu sig geta ávaxtað auðveldlega með því að lána út eða veita til annarra verkefna.

Vextir á Íslandi voru mun hærri en vextir annarra landa þótt þeir færu lækkandi líkt og vextir annars staðar upp úr miðju ári 2001. Þó var vaxtamunur milli íslensku krónunnar og annarra mynta töluverður yfir tímabilið. Íslensk fjármögnun hafði verið dýrari en erlend og til þess að skila sams konar ávöxtun og gert var með lægri vöxtum erlendra lána hefðu sparisjóðirnir þurft að veita fé til enn áhættusamari verkefna. Þetta átti helst við um þá sparisjóði sem fjármögnuðu sig sjálfir með erlendum lánum og ætluðu sér að veita bönkunum aukna samkeppni.

Stærri sparisjóðir lögðu áherslu á vöxt og að halda í við stóru bankana og veita þeim samkeppni. Vilhjálmur Egilsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, velti því fyrir sér í skýrslu sinni fyrir rannsóknarnefndinni hvert hlutskipti sparisjóðanna hefði verið ef þeir hefðu ekki tekið þátt í þeirri samkeppni:

Ef sparisjóðirnir hefðu ekki gert neitt […] þá hefðu þeir í raun þurft að pakka dálítið saman og ekkert verið að taka þátt í stærri málum. Hefðu þeir getað það? Ég set spurningarmerki við það. Bankarnir voru svo rosalega sterkir á þessu tímabili og gátu boðið allt niður, þannig að ég er ekkert viss um að þeir hefðu getað siglt í gegnum þessar breytingar sem voru á markaðnum án þess að reyna eitthvað að sprikla.28

Fyrrverandi forstöðumaður fjárstýringar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis tók í sama streng þegar hann var spurður hvort mögulegt hefði verið fyrir sparisjóðina að vera öðruvísi en viðskiptabankarnir og í samkeppni við þá:

Það hefði verið erfitt, til lengri tíma hefði það kannski verið hægt, en spurningin er þá til skamms tíma hvað gerist: Lifir þú það af að vera ekki samkeppnishæfur af því að þú ætlar að sýna svo mikla ráðdeild sem minnsti aðilinn á markaðnum? Eða flytja allir viðskiptavinirnir viðskipti sín í millitíðinni yfir til hinna? Það er ekki hægt að vita svarið við þeirri spurningu, en til dæmis þegar bankarnir fóru að veita íbúðalán á mjög hagstæðum kjörum 2004 þá var erfitt fyrir […] aðra samkeppnisaðila, að ég tali ekki um þá minni, að vera ekki með á þeim markaði. Það var markaðurinn sem var að vaxa hvað hraðast, enda kom það á daginn að í rauninni buðu síðan allir bankarnir sambærileg eða svipuð kjör. Það hefði verið [hægt að fjármagna Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis öðruvísi], en þetta var það lánsfjármagn sem var í boði á þessum tíma, það voru [erlend] lán og í rauninni voru þau ekkert komin á gjalddaga þarna heldur haustið 2008, þannig að það var ekki beint það að hafa verið með þessar skuldbindingar sem gerir það að verkum að við lendum í erfiðri stöðu. En það er bara skortur á trú, tiltrú markaðarins, og það er enginn markaður. Það er enginn millibankamarkaður til lengur, það er enginn skammtímamarkaður með fjármagn til. Það er skert aðgengi að Seðlabanka og annað í þeim dúr sem bara gerir það að verkum að staðan var gríðarlega erfið. Ég veit ekki hvort það hefði breytt einhverju þótt við hefðum tekið lengri sambankalán eða eitthvað þessháttar. Það hefði eflaust litlu breytt um stöðuna þarna þegar á hólminn er komið.29

Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings banka hf., sagði vandamál sparisjóðanna hafa verið þau sömu og hjá bönkunum. Þá hafi sömu aðstæður verið uppi á alþjóðlegum fjármálamarkaði og vandamálið alls ekki séríslenskt:

Ég held að ástæðan [fyrir falli sparisjóðanna] sé sú sama og hjá bönkunum, menn lentu í verstu alþjóðlegu kreppu sem hefur komið í yfir 100 ár, menn lentu í því að hið alþjóðlega fjármálakerfi hrundi. Fjármálakerfið á Íslandi hrundi ekkert sérstaklega, það sem gerir þetta bara verra á Íslandi er það að gjaldmiðillinn hrundi og það er það sem gerir stöðuna á Íslandi sérstaka. […] Síðan getur maður því til viðbótar sagt að menn voru með peningamálastefnu frá 2001 sem ég held að eftir á að hyggja megi segja að hafi ekki verið mjög gæfuleg. En það er ekkert sérstakt með sparisjóðina á Íslandi umfram sparisjóðina í Bretlandi eða Danmörku eða annars staðar, annað en það að þeir bjuggu við hrun gjaldmiðilsins. SPRON eða Sparisjóði Hafnarfjarðar eða hvað þetta heitir var ekkert verr stýrt en einhverjum litlum banka í Svíþjóð eða Danmörku, [í grundvallaratriðum] stýrt eftir sömu reglu. Jú, jú, það er hægt að segja að þeir uxu svo hratt o.s.frv. en það kom ekki fyrir í eitt einasta skipti að ég, sem stjórnarformaður stærsta bankans, var kallaður inn á teppið hjá Seðlabankanum eða forsætisráðherra eða FME og sagt að bankinn væri orðinn of stór, þvert á móti. Þannig að ég held að meginástæðan sé þessi, alþjóðleg kreppa og ég held að menn ættu að fara varlega í að finna einhverja séríslenska útskýringu á því.30

Þó minntist Sigurður á séríslenska útskýringu þegar hann var inntur eftir því hvort auðvelt aðgengi að ódýru fjármagni á erlendum lánamörkuðum hafi haft áhrif á íslenskar fjármálastofnanir:

Það sem gerist í kjölfar þess að peningamálastefnan á Íslandi er þessi hávaxtastefna sem fylgt er, er það að fyrirtækin höfðu tvo möguleika, fjármagna sig á 20–30% vöxtum í krónum eða að fjármagna sig í dollurum eða jenum eða eitthvað á 2–4% vöxtum og menn sögðust bara vera tilbúnir til að taka þessa áhættu og menn tóku hana í 10 ár og mjög margir sem högnuðust alveg stórkostlega á þessu.31

Hlutfall vaxtakostnaðar af lántöku stærri sparisjóða lækkaði hratt eftir árið 2001 og frá 2001 til 2009 var kostnaður þeirra af lántöku hlutfallslega lægri en af innlánum. Þessu

var ekki eins farið með minni sparisjóðina sem sóttu nær allt sitt lánsfjármagn á innlenda markaði í gegnum þriðja aðila, aðallega Sparisjóðabankann, sem tók þóknun fyrir. Þannig var fjármögnunarkostnaður þeirra af lánum yfirleitt hærri en stærri sparisjóðanna. Minni sparisjóðir greiddu aftur á móti sömu eða lægri innlánsvexti en þeir stærri fram til ársins 2009 að árunum 2007 og 2009 undanskildum.

11.1.4 Víkjandi skuldir

Víkjandi lán eru almennt áhættusamari fyrir lánveitendur en önnur lán og að öðru jöfnu þarf að greiða hærri vexti af þeim. Fari skuldarinn í þrot eru lánardrottnar víkjandi lána aftar í kröfuröðinni en aðrir og eru því gjarnan taldir í svipaðri stöðu og hluthafar í fyrirtækjum. Víkjandi lán má telja til eigin fjár á skýrslum um eiginfjárhlutfall sem fjármálafyrirtæki skila til Fjármálaeftirlitsins. Upphæð víkjandi lána sem telja má sem eigið fé á slíkum skýrslum er þó yfirleitt bundin við tiltekið hlutfall af öðru eigin fé sparisjóðsins, sem setur því skorður hve mikið er hægt að taka af víkjandi lánum til þess að hafa áhrif á eiginfjárhlutfall fjármálafyrirtækis.32 Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um fall bankanna kom fram að bankar gætu tekið víkjandi langtímalán og hækkað eiginfjárhlutfall sitt án þess að þynna út eignarhald þeirra sem þegar ættu bankann. Þetta væri einn af aðalhvötum banka almennt til að taka víkjandi langtímalán.33 Á mynd 11 kemur fram að frá og með árinu 2001 til og með 2004 breyttust víkjandi lán sparisjóðanna lítið sem ekkert. Víkjandi lán minni sparisjóða héldust einnig lítið breytt fram til ársins 2011 en víkjandi lán stærri sparisjóða jukust frá og með árinu 2005 og til ársins 2008 þegar víkjandi lántaka náði hámarki. Á árinu 2008 hækkuðu víkjandi lán þó meira vegna gengisfalls krónunnar en nýrrar lántöku.

Tafla 3 sýnir hlutdeild hvers og eins af stærri sparisjóðunum af öllum víkjandi skuldum sparisjóðanna frá 2005 til 2009. Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis var á þessum tíma með stærstu víkjandi skuldir allra sparisjóða.

Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis tók 10 milljóna evra víkjandi lán til tíu ára hjá HSH Nordbank AG árið 2005. Síðar sama ár tók sparisjóðurinn annað víkjandi lán vegna áhrifa sem þátttaka sparisjóðsins í hlutafjáraukningu Exista hf. hafði á eiginfjárhlutfall hans. Í desember 2006 gaf sparisjóðurinn út víkjandi skuldabréf til þess að hækka eiginfjárhlutfall sitt og voru 1,5 milljarðar króna útistandandi af útgáfunni í lok áranna 2006, 2007 og 2008. Dæmi eru um að sparisjóðurinn hafi lánað viðskiptavinum sínum til þess að kaupa víkjandi skuldabréf útgefin af sparisjóðnum, meðal annars með veði í skuldabréfinu sjálfu. Hinn 31. mars 2008 veitti Kaupþing banki hf. sparisjóðnum 42 þúsund evra víkjandi lán, eða jafnvirði um 5 milljarða króna. Lánið átti meðal annars að nýta til þess að lána Kjalari hf., Holt Investment Group Ltd. og Nýrækt ehf. 1,5 milljarða króna hverju með veði í bréfum Kaupþings banka hf. Jafnframt átti að gera áhættuskiptasamninga við þessi félög og að auki við AB 57 ehf. fyrir sem nam 14,5 milljörðum króna. Með þessum samningum hefði sparisjóðurinn tekið á sig áhættu á lánveitingum Kaupþings banka hf. til umræddra félaga með veði í bréfum bankans sjálfs. Rannsóknarnefndin hefur einungis fengið í hendur einn slíkan áhættusamning undirritaðan en þeir voru færðir í árshlutareikning sparisjóðsins 31. mars 2008 en ekki 30. júní 2008. Við skýrslutökur fyrir rannsóknarnefndinni sagði fyrrverandi sparisjóðsstjóri að þessar ábyrgðir hefðu verið til skamms tíma og ekki hefði verið gengið að þeim.34

Víkjandi lán Byrs sparisjóðs samkvæmt ársreikningum árin 2006–2009 voru tekin af þremur þeirra sparisjóða sem mynduðu hann, þ.e. Sparisjóði Hafnarfjarðar, Sparisjóði Kópavogs og Sparisjóði Norðlendinga, en Byr sparisjóður tók ekki víkjandi lán á starfstíma sínum. Aukningu á víkjandi skuldum Byrs sparisjóðs á tímabilinu má því rekja til áhrifa verðtryggingar annars vegar og sameiningar hans við sparisjóði hins vegar.

Sparisjóðurinn í Keflavík gaf út víkjandi skuldabréf á árinu 2005 sem var fært á tæpar 786 milljónir króna í ársreikningi hans í lok sama árs. Samskipti milli framkvæmdastjóra hagdeildar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis og forstöðumanns fjárhagssviðs Sparisjóðsins í Keflavík frá desember 2005 gefa til kynna að lánið hafi verið tekið í tengslum við þátttöku í hlutafjáraukningu í Exista hf. Víkjandi lán jukust milli áranna 2006 og 2007 vegna sameiningar við Sparisjóð Húnaþings og Stranda og Sparisjóð Vestfirðinga. Á árunum 2008 og 2009 voru engar nýjar útgáfur eða sameiningar og var aukning víkjandi lána einungis vegna verðtrygginga og vaxta.

Sparisjóður Mýrasýslu gaf út nokkur víkjandi lán á árunum 2005–2008. Árið 2005 samþykkti stjórn sparisjóðsins að taka víkjandi lán upp á allt að 300 milljónir króna í kjölfar ákvörðunar á sama fundi um að kaupa nýtt hlutafé í Exista hf. sem nam 336 milljónum króna. Á árinu 2006 var tekið 180 milljóna króna víkjandi lán hjá Glitni banka hf. vegna kaupa sparisjóðsins á útibúi bankans á Siglufirði. Sparisjóðurinn tók síðan 8 milljóna evra víkjandi lán hjá Raiffeisen Zentralbank í október 2007.

Sparisjóðirnir nýttu víkjandi lántökur að einhverju leyti til þess að bæta eiginfjárstöðu sína á árunum 2005–2009 með sama hætti og viðskiptabankarnir þrír gerðu samkvæmt umfjöllun rannsóknarnefndar Alþingis um fall bankanna. Þetta kemur fram í fundargerðum þeirra, sem og í töflu 4 þar sem sést til dæmis að ef víkjandi lána hefði ekki notið við hefði Sparisjóður Mýrasýslu aldrei uppfyllt lágmarksskilyrði um eiginfjárhlutfall á árunum 2007 og 2008. Þá hefðu Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis og Sparisjóðurinn í Keflavík ekki uppfyllt eiginfjárkröfur í lok júní 2008 og Byr sparisjóður ekki í lok ársins. Við þetta má þó setja þann fyrirvara að hér er um að ræða nálgun; eiginfjárhlutfall er skoðað með því að breyta einungis víkjandi lánum og þeim áhrifum sem þau hafa einnig á frádrátt frá eigin fé samkvæmt eldri reglum, en láta aðra þætti í útreikningum á eiginfjárhlutfalli óhreyfða. Óvíst er hvort niðurstaðan hefði orðið sú sama ef víkjandi lána hefði í raun og veru ekki notið við.

11.2 Fjármögnun og greiðslumiðlun Sparisjóðabanka Íslands hf.

Sparisjóðabanki Íslands, sem í upphafi hét Lánastofnun sparisjóðanna, var stofnaður í september 1986 af 28 sparisjóðum. Hlutverk lánastofnunarinnar var að annast starfsemi í þágu sameiginlegra hagsmuna sparisjóðanna til að styrkja samkeppnishæfni þeirra gagnvart ríkisbönkunum og auka rekstrarhagkvæmni. Lánastofnunin var í rauninni reikningsbanki sparisjóðanna sem tók við innlánum frá Tryggingasjóði sparisjóða, fyrirtækjum í eigu sparisjóðanna og frá sparisjóðunum sjálfum.35 Samið var við Seðlabanka Íslands um að opna einn viðskiptareikning sem þjónustaði lánastofnunina og allir sparisjóðir sem voru í viðskiptum við hana lokuðu viðskiptareikningum sínum við Seðlabankann.36 Lánastofnunin þjónustaði sparisjóðina á sviði alþjóðaviðskipta, lausafjárstýringar og fjármögnunar á innlendum og erlendum fjármálamörkuðum. Þannig átti meðal annars að aðstoða sparisjóðina við að jafna út árstíðabundnar sveiflur í rekstri og veita einfaldari og hagkvæmari aðgang að lánsfé.

Í júlí 1993 tóku gildi ný lög um viðskiptabanka og sparisjóði sem voru öðrum þræði sett vegna aðlögunar íslensks réttar að ákvæðum samningsins um evrópska efnahagssvæðið. Eftir gildistöku laganna var rekstrarformi Lánastofnunarinnar breytt í viðskiptabanka og nafnið Sparisjóðabanki Íslands tekið upp. Bankinn var rekinn með hlutafélagsfyrirkomulagi. Á sama tíma var hnykkt á því að upprunalegt hlutverk stofnunarinnar væri enn við lýði, það er að vera lánveitandi til sparisjóðanna. Sparisjóðabankinn þjónustaði sparisjóðina með því að sjá um greiðslumiðlun þeirra, uppfylla bindiskyldu þeirra gagnvart Seðlabanka Íslands,37 veita þeim skammtímafyrirgreiðslur og taka við fjármunum til ávöxtunar frá sparisjóðunum til skamms tíma. Fyrrverandi bankastjóri lýsti hlutverki Sparisjóðabankans svo fyrir rannsóknarnefndinni:

Hann var þjónustubanki fyrir sparisjóðina og alltaf talað um hann sem heildsölu- og fjárfestingarbanka. Hann sinnti seðlabankahlutverki fyrir sparisjóðina, þ.e.a.s. þar voru sparisjóðirnir með sína seðlabankareikninga en ekki í Seðlabanka Íslands eins og viðskiptabankarnir. Sparisjóðirnir lögðu þá inn hjá Sparisjóðabankanum það laust fé sem þeir höfðu í lok hvers viðskiptadags og gátu þar líka fengið lausafjárfyrirgreiðslu alveg með sama hætti og viðskiptabankarnir gátu fengið í Seðlabanka Íslands. Þeir voru jafnframt með sína bindireikninga í Sparisjóðabankanum en ekki í Seðlabankanum. Þetta var seðlabankahlutverkið og þessu sinnti bankinn alla tíð fyrir alla sparisjóðina þangað til undir það síðasta þegar sparisjóðir eins og SPRON, Sparisjóður vélstjóra og Sparisjóður Hafnarfjarðar, sem síðar sameinuðust sem Byr sparisjóður, stækkuðu mikið. Þá jókst áhugi þeirra á að sinna sjálfir þessum verkefnum. Einhverjir þeirra voru komnir með eigin seðlabankareikninga og farnir að sinna sinni lausafjárstýringu algjörlega sjálfir, óháð Sparisjóðabankanum. Síðan var líka hlutverk bankans að útvega sparisjóðunum langtímafjármagn […], sérstaklega erlent fjármagn. Sparisjóðabankinn var armur sparisjóðanna gagnvart útlöndum, bæði í að útvega erlent lánsfjármagn og líka að sinna greiðslumiðlun, þ.e. venjulegum peningafærslum og erlendum ábyrgðum og þess háttar verkefnum.38

11.2.1 Fjármögnun

Hver sparisjóður hafði ákveðna rammaheimild til lántöku hjá Sparisjóðabankanum sem fylgst var með reglulega. Talað var um „heildarramma“ sem ákvarðaði mörk þeirra skuldbindinga sem sparisjóðirnir gátu verið með gagnvart Sparisjóðabankanum. Stærð ramma fyrir hvern sparisjóð var skilgreind í reglum bankans um framsal lánaheimilda. Ramminn náði til útlána, peningamarkaðslána og ábyrgða. Þá tók Sparisjóðabankinn við lausu fé frá sparisjóðunum til skamms tíma og ávaxtaði. Þegar fyrrverandi bankastjóri Sparisjóðabankans var beðinn um að útskýra í hverju „seðlabankahlutverk“ Sparisjóðabankans hefði falist, sagði hann:

Það er kannski fyrst og fremst þetta að laust fé sparisjóðanna er varðveitt í Sparisjóðabankanum en ekki Seðlabankanum. Þetta þýðir að allt laust fé sem sparisjóðirnir hafa í lok dags er lagt inn á reikning í Sparisjóðabankanum og Sparisjóðabankinn lendir þá sjálfur í þeirri stöðu að vera með eitthvert laust fé í lok dags sem annaðhvort er ávaxtað á millibankamarkaði eða lagt inn á reikning í Seðlabankanum. Sparisjóðabankinn var uppspretta lausafjár fyrir sparisjóðina og þar geymdu þeir sitt lausafé. Í þessu felst líka sú skylda að taka ávallt við lausafé sparisjóðanna, rétt eins og Seðlabankanum er skylt til að taka við lausafé viðskiptabankanna. Sparisjóðabankinn getur ekki hafnað því að taka við lausafé frá sparisjóðunum vegna þess að lausafjárstaða bankans sjálfs er rúm og vísað þeim eitthvert annað. Það er ekki í boði þannig að Sparisjóðabankinn þarf að taka við öllu lausafé sparisjóðanna á hverjum degi og einhvern veginn að forvalta það. Hin hliðin á peningnum er að útvega sparisjóðunum laust fé með daglánum eða endurhverfum viðskiptum. Reglurnar og umgjörðin utan um þessa starfsemi var speglun á því sem gilti í Seðlabankanum, þ.e. Sparisjóðabankinn setti eigin reglur gagnvart sparisjóðunum en þær voru alveg eins og reglur Seðlabankans gagnvart viðskiptabönkunum. Þannig að sparisjóðirnir gátu fengið lausafjárfyrirgreiðslu í Sparisjóðabankanum með nákvæmlega sama hætti og viðskiptabankarnir gátu fengið lausafjárfyrirgreiðslu í Seðlabankanum.39

Sparisjóðabankinn lánaði sparisjóðunum bæði í íslenskum krónum og erlendum myntum. Lán í krónum voru veitt sem reikningslán og í formi skuldabréfa. Erlend lán voru veitt til lengri eða skemmri tíma. Sparisjóðabankinn veitti minni sparisjóðum það sem kölluð voru „erlend endurlán“ sem voru lán í erlendum myntum sem gjarnan endurspegluðu erlend útlán sparisjóðanna. Þannig héldust erlendar skuldir og erlendar eignir sparisjóðanna nokkurn veginn í hendur og kæmu ekki til aðrar erlendar eignir eða skuldir þurftu minni sparisjóðir ekki að ráðast í sérstakar aðgerðir til að halda gjaldeyrisjöfnuði sínum innan þeirra marka sem þeim voru sett.40 Þessir samningar báru heitið „Rammasamningar um lánsheimild (reikningslán í erlendum gjaldmiðlum)“.

Um fyrirkomulag lánveitingarinnar sagði í samningi Sparisjóðabankans við hvern sparisjóð að hann hefði lánsheimild í formi reikningsláns sem honum væri heimilt að draga á í umsömdum gjaldmiðlum. Ádregna lánsfjárhæð myndi sparisjóðurinn svo endurlána eigin viðskiptamönnum eða nýta til að kaupa fjármálagerninga. Hefði sparisjóður endurlánað viðskiptamönnum sínum ádregna lánsfjárhæð skuldbatt hann sig til að greiða innborganir vegna útlána sinna inn á lánareikninga jafnóðum og þær bárust honum. Ef sparisjóðir nýttu lánin til þess að kaupa fjármálagerning skuldbundu þeir sig til að greiða innborganir sem þeim bárust vegna þeirra, til dæmis vegna sölu, innlausnar eða endurgreiðslu, inn á lánið.

Stærri sparisjóðir, einkum Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis og Byr sparisjóður (og forverar hans), en einnig Sparisjóðurinn í Keflavík og Sparisjóður Mýrasýslu sóttu þó fjármagn beint á erlenda markaði án milligöngu Sparisjóðabankans, einkum frá árinu 2004 eins og fjallað var um hér framar. Um þessa þróun sagði fyrrverandi sparisjóðsstjóri Byrs sparisjóðs í skýrslu sinni fyrir rannsóknarnefndinni:

Frá og með árinu 2002 fer að halla undan fæti í grunnrekstri margra sparisjóða. Grunnstarfsemin fer að skila lítilli arðsemi. Þá leita menn leiða til að auka tekjur og finna nýja tekjupósta. Þegar harðnar á dalnum fara menn einnig að skoða hvernig hægt er að nýta betur þær eignir sem þeir eiga, nýta betur það fé sem bundið er í eignarhlutum þannig að þeir skili meiri arðsemi o.s.frv. Að mörgu leyti held ég að þetta hafi ýtt undir þá umræðu að félög sem voru í eigu sparisjóðanna þyrftu að gefa meira af sér, skila meiri tekjum til eigendanna, heldur en þau gerðu. Sparisjóðabankinn, til dæmis, var upphaflega heildsölubanki fyrir sparisjóðina hvað varðar erlent fjármagn. Bankinn tók lán erlendis og lánaði áfram til sparisjóða. Á þessum tíma, upp úr árinu 2004, verður mikil breyting á bankamarkaði, m.a. jókst framboð á lausu fé mikið erlendis frá. Þannig gátu íslenskir sparisjóðir tekið lán erlendis en Sparisjóður vélstjóra tók sitt fyrsta erlenda lán frá erlendum banka árið 2005. Sparisjóður Kópavogs, sem ekki var stórt fjármálafyrirtæki, fékk m.a. lánað beint frá erlendum banka árin 2006 eða 2007 á kjörum sem Sparisjóðabankinn gat ekki veitt. Afleiðingarnar voru þær að eigendur Sparisjóðabankans, sparisjóðirnir sjálfir, voru farnir að hætta að versla við bankann þar sem hann var ekki lengur samkeppnishæfur. Það þýddi að tekjur bankans minnkuðu og þannig skilaði hann minni arðsemi til eigenda sinna. Þeir sem stjórnuðu bankanum voru ósáttir við að eigendurnir versluðu ekki við hann og vildu því fjölga tekjustoðum bankans með því að sækja út á almennan lánamarkað, vildu sem sagt ná í viðskipti annars staðar en hjá sparisjóðum.41

Fyrrverandi sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis lýsti viðskiptum við Sparisjóðabankann í skýrslu sinni fyrir rannsóknarnefndinni, en hann hafði komið að undirbúningi Lánastofnunar sparisjóðanna í starfi sínu í Sparisjóði Hafnarfjarðar um 1986. Hann kom til starfa í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis um tíu árum seinna sem sparisjóðsstjóri og tók þá við nokkrum trúnaðarstörfum innan sparisjóðakerfisins fyrir hönd sparisjóðsins:

[…] þegar ég kem inn í stjórn Sparisjóðabankans 1996 […] þá sé ég að það er búið að breyta talsvert umhverfinu frá því sem áður hafði verið, þannig að það var ein gjaldskrá, eins fyrir alla. Það var ein vaxtaskrá […] og gilti hún fyrir alla sparisjóði í landinu, sama hvort um var að ræða Sparisjóð Hólahrepps, sem var langminnsti sparisjóðurinn, […] eða SPRON sem á þessum tíma var orðinn stærsti sparisjóðurinn. Ég gerði fyrirspurn um þetta vegna þess að þegar við stofnuðum Lánastofnunina þá var það alveg ljóst að þetta yrði að vera samstarfsgrundvöllur fyrir alla sparisjóðina þannig að þeir hefðu allir hag af því að hafa sín viðskipti þarna. Og þá var tekið tillit til þess að þeir sem lögðu mest inn í þetta samstarf og nýttu sér það mest nytu ákveðinnar stærðarhagkvæmni – og að það kæmi fram í kjörum. Og ég opnaði umræðu um breytingu á þessum málum og fékk alveg skýra synjun. Þetta þýddi þá að SPRON gat fengið ódýrara fjármagn með því að taka t.d. lán beint erlendis, heldur en að taka þau hjá Sparisjóðabankanum. Og þó að ég benti á að þetta myndi þá leiða til þess að við færum að fjármagna okkur sjálfir án tillits til þessa […] þá var ekkert gert með það og þá fóru mál aðeins að þróast í þá veru. Og átti eftir að verða síðan á fleiri sviðum.42

Þannig minnkaði samstarf Sparisjóðabanka Íslands hf. og stærri sparisjóðanna en þeir minni þurftu enn að reiða sig á erlenda fjármögnun frá Sparisjóðabankanum og gerðu það þar til Fjármálaeftirlitið tók yfir vald hluthafafundar hans 21. mars 2009. Seðlabanki Íslands eignaðist þá kröfur Sparisjóðabankans á hendur sparisjóðunum og voru þær síðan gerðar upp eins og greinir frá í 13. kafla.

11.2.2 Greiðslumiðlun

Greiðslumiðlun og greiðslukerfi sjá um tilflutning fjármagns einstaklinga, fyrirtækja og stofnana. Greiðslumiðlunin grundvallast á greiðslukerfum og er framkvæmd með ólíkum hætti eftir því hvaða greiðslumiðill er notaður. Algengustu greiðslumiðlarnir í notkun eru ýmiss konar rafrænir greiðslumiðlar, seðlar, mynt og ávísanir. Mikilvægustu greiðslu- og uppgjörskerfin eru stórgreiðslukerfi, jöfnunarkerfi og verðbréfauppgjörskerfi. Seðlabanki Íslands annast daglega umsjón með stórgreiðslukerfi, Greiðsluveitan hf. annast jöfnunarkerfi og Verðbréfaskráning Íslands hf. hefur umsjón með verðbréfauppgjörskerfi. Tæknilegur rekstur þessara kerfa er í höndum Reiknistofu bankanna. Seðlabanki Íslands hefur yfirsýn með greiðslumiðluninni og ofangreindum greiðslu- og uppgjörskerfum.43

Stórgreiðslukerfið miðlar greiðslufyrirmælum á milli fjármálastofnana í íslenskum krónum sem ná stórgreiðslumörkum (10 milljónum króna) og gerir upp viðskipti annarra þýðingarmikilla kerfa.44 Jöfnunarkerfið miðlar fjárhæðum þar sem einstakar færslur nema undir 10 milljónum króna. Kerfið jafnar allar greiðslur sem fara á milli fjármálastofnana í kerfinu og sendir til endanlegs uppgjörs í stórgreiðslukerfi.45

Sparisjóðirnir gerðu samninga við Sparisjóðabanka Íslands hf. um óbeina þátttöku, heimild og uppgjörstryggingar í stórgreiðslukerfi og jöfnunarkerfi en með samningnum taldist Sparisjóðabankinn vera uppgjörsaðili og sparisjóðirnir óbeinir þátttakendur í jöfnunar- og stórgreiðslukerfinu. Fyrrverandi bankastjóri Sparisjóðabankans lýsti þessu á eftirfarandi hátt í skýrslu sinni fyrir rannsóknarnefndinni:

Næsta hlutverk sem rétt er að staldra við tengist greiðslukerfum. Seðlabankinn og dótturfélag hans reka tvö greiðslukerfi sem skipta máli í þessu sambandi, annars vegar stórgreiðslukerfi og hins vegar jöfnunarkerfi. Í báðum þessum kerfum var, og er reyndar enn, undirkerfi sem er fyrir sparisjóðina. Sparisjóðirnir eru flokkaðir sem óbeinir þátttakendur í kerfum Seðlabankans og það er haldið utan um þá í sérstöku undirkerfi undir seðlabankakerfunum. Og það var Sparisjóðabankinn sem sá um að reka þessi undirkerfi. […] Tökum til dæmis jöfnunarkerfið þar sem eru jöfnuð milli banka öll viðskipti undir 10 milljónum króna sem viðskiptavinir sérhvers banka eiga við viðskiptavini annarra banka yfir daginn. Þær stöður safnast upp en eru gerðar upp tvisvar á dag, þ.e. reiknað er út hversu mikið Landsbankinn skuldar Íslandsbanka, svo dæmi sé nefnt, mikið vegna viðskipta sem viðskiptavinir þessara banka hafa verið að eiga yfir daginn. Hvað skuldar Landsbankinn Sparisjóðabankanum? Og undir Sparisjóðabankanum voru þá öll viðskipti sparisjóðanna þannig að þeim er fyrst safnað saman. Og þá verður til staða Sparisjóðabankans gagnvart öðrum bönkum í bankakerfinu og það er allt jafnað í jöfnunarkerfinu. Síðan eru þær nettóstöður milli banka sem þannig verða til gerðar upp í gegnum stórgreiðslukerfið. Sparisjóðabankinn rak kerfi sem voru spegilmynd hinna og þar voru viðskipti innan sparisjóðakerfisins gerð upp sem aftur leiddi til einhverrar nettóstöðu Sparisjóðabankans gagnvart öðrum í bankakerfinu.46

Sparisjóðabankinn sá einnig um erlenda greiðslumiðlun fyrir sparisjóðakerfið, þ.e. hann miðlaði greiðslum milli sparisjóðanna og erlendra banka. Sparisjóðabankinn hafði lengi átt í samstarfi við banka erlendis og nýtti sér þau tengsl til þess að sinna þessari þjónustu. Fyrrverandi bankastjóri Sparisjóðabankans sagði erlent greiðslumiðlunarhlutverk hans hafa verið mjög mikilvægt, sérstaklega eftir fall íslensku bankanna haustið 2008. Þá hafi erlend greiðslumiðlun bankanna flust til Seðlabankans og Sparisjóðabankinn verið einn starfandi fjármálafyrirtækja með öfluga erlenda greiðslumiðlun.47 Þegar Fjármálaeftirlitið tók yfir vald hluthafafundar Sparisjóðabanka Íslands hf. 21. mars 2009 fluttist greiðslumiðlunarhlutverkið til Byrs sparisjóðs og með samningum 13. júlí 2011 tók Byr hf. að sér þetta sama hlutverk.48 Fyrrverandi forstöðumaður fjárstýringar Byrs sparisjóðs sagði um ástæðu þess að sparisjóðurinn tók að sér greiðslumiðlunina:

Það var annaðhvort að Byr myndi gera þetta eða einhver af stóru viðskiptabönkunum myndi gera þetta. Við vorum mjög sterk rödd og höfðum ekki áhuga á því að láta stóru bankana fronta og sjá í rauninni allt, hver okkar viðskiptasambönd væru. Þá spilaði svolítið inn þetta samband sparisjóðanna – sparisjóðirnir vinna saman. Menn samþykktu það að þar sem Byr var stærsti sparisjóðurinn myndi hann vinna þetta fyrir sparisjóðina. Það var mesta þekkingin þar inni. Það voru einmitt ráðnir held ég sjö starfsmenn frá Sparisjóðabankanum til að fylgja þessu eftir.49

11.2.3 Bindiskylda

Sparisjóðabanki Íslands hf. og síðar Byr sparisjóður sáu um að bindiskylda einstakra sparisjóða væri samkvæmt reglum Seðlabanka Íslands.50 Milli Sparisjóðabankans og sparisjóðanna var samningur um milligöngu um bindiskyldu þar sem sparisjóðirnir fólu Sparisjóðabankanum að annast fyrir sína hönd bindiskyldu gagnvart Seðlabankanum samkvæmt reglum þar um. Samkvæmt reglum um bindiskyldu þarf ákveðið hlutfall af fyrirfram skilgreindum bindigrunni að vera aðgengilegt á bundnum reikningi hjá Seðlabanka Íslands. Byr sparisjóður tók yfir þetta hlutverk gagnvart sparisjóðunum í maí 2009 og Byr hf. með samningum frá júlí 2011.51 Bindiskyldutímabil er frá 21. hvers mánaðar og til 20. dags næsta mánaðar. Reglur um bindiskyldu sparisjóða gagnvart Sparisjóðabankanum voru með sama hætti og reglur viðskiptabankanna við Seðlabankann um bindiskyldu.52

Frá 2005 til 2011 voru Sparisjóður Mýrasýslu, Sparisjóðurinn í Keflavík og Sparisjóður Vestfirðinga einu sparisjóðirnir sem oftar en tíu sinnum uppfylltu ekki bindiskyldu sína gagnvart þeirri fjármálastofnun sem sá um milligöngu við Seðlabankann á þeim tíma. Fjármálastofnunin sem sér um milligöngu bindiskyldunnar sér um að hún sé uppfyllt gagnvart Seðlabankanum og lánar því þeim sparisjóðum sem ekki uppfylla skylduna. Sparisjóðabankinn tók ákveðið gjald fyrir það, en lengi vel var veittur 33% afsláttur af því refsigjaldi sem lagt hefði verið á ef viðkomandi aðili hefði þurft að uppfylla bindiskyldu sína gagnvart Seðlabankanum beint.53

Sparisjóður Mýrasýslu stóð að mestu við bindiskyldu sína fram að miðju ári 2008 en eftir það átti sjóðurinn í erfiðleikum með að uppfylla hana, þar til sjóðurinn rann saman við Nýja Kaupþing banka hf. árið 2009. Verst var staðan frá lokum október 2008 og fram í janúar 2009 en á því tímabili vantaði að meðaltali rúmar 114 milljónir króna inn á reikning sparisjóðsins.

Sparisjóður Vestfirðinga uppfyllti ekki bindiskyldu sína á tíu af tólf bindiskyldutímabilum á árinu 2005. Þá vantaði að meðaltali rúmar 32 milljónir króna inn á reikning sjóðsins en í árslok 2005 voru heildareignir sparisjóðsins tæpir 8,3 milljarðar króna. Sparisjóður Vestfirðinga sameinaðist Sparisjóðnum í Keflavík árið 2008 og þurfti því ekki lengur að uppfylla bindiskyldu en bindiskylda Sparisjóðsins í Keflavík jókst um samsvarandi upphæð og Sparisjóður Vestfirðinga hafði þurft að uppfylla. Í skýrslu sinni fyrir rannsóknarnefndinni mundi fyrrverandi sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Vestfirðinga ekki hvers vegna sparisjóðurinn hefði ekki uppfyllt bindiskylduna á árinu 2005.54

Sparisjóðurinn í Keflavík uppfyllti ekki bindiskyldu sína, fyrst frá janúar til febrúar 2008 og svo aftur frá maí til júní 2008. Háar upphæðir vantaði inn á reikning sparisjóðsins frá september 2008 til júní 2009. Þetta voru tíu bindiskyldutímabil en Sparisjóðurinn í Keflavík uppfyllti einungis eitt þeirra. Engar upplýsingar liggja fyrir um bindiskyldu einstakra sparisjóða í maí 2009 en þá tók Byr sparisjóður við hlutverki sem Sparisjóðabanki Íslands hf. hafði áður sinnt. Á þessum átta tímabilum þar sem Sparisjóðurinn í Keflavík uppfyllti ekki bindiskyldu sína vantaði að meðaltali 722 milljónir króna inn á reikning sjóðsins. Mest vantaði frá mars til apríl 2009, eða rúmlega 924 milljónir króna. Í skýrslu sinni fyrir rannsóknarnefndinni minntist fyrrverandi forstöðumaður fjárhagssviðs Sparisjóðsins í Keflavík þess ekki sérstaklega að sparisjóðurinn hefði ekki uppfyllt bindiskyldu sína.55

Sparisjóðabanki Íslands sá um að uppfylla bindiskyldu flestra sparisjóða gagnvart Seðlabanka Íslands en Byr sparisjóður og Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis voru sjálfir með bindiskyldureikninga í Seðlabankanum.

Sparisjóðabanka Íslands hf. vantaði um 17 milljónir króna til þess að uppfylla bindiskyldu sína fyrir tímabilið frá janúar til febrúar 2007. Þá vantaði 72 milljónir króna upp á bindiskyldu sumarið 2008. Á fyrsta bindiskyldutímabilinu eftir fall viðskiptabankanna, frá október til nóvember 2008, vantaði tæplega 900 milljónir króna upp á að Sparisjóðabankinn uppfyllti bindiskyldu sína. Þá mánuði ársins 2009 sem Sparisjóðabankinn starfaði uppfyllti hann aldrei bindiskyldu og vantaði að meðaltali rúmar 770 milljónir inn á reikninga bankans.

Eins og fram hefur komið lánuðu þær fjármálastofnanir sem tóku að sér að sinna bindiskyldu sparisjóðanna gagnvart Seðlabankanum þeim sem ekki uppfylltu bindiskyldu sína. Erfið staða stórs sparisjóðs getur haft áhrif á milligönguaðilann. Sé bindiskyldustaða Sparisjóðabankans borin saman við stöðu Sparisjóðsins í Keflavík sést að nokkur samsvörun er milli þeirra fram til október 2008. Því virðist erfið staða Sparisjóðsins í Keflavík hafa haft áhrif á stöðu bindiskyldu Sparisjóðabanka Íslands gagnvart Seðlabanka Íslands, en þegar kom fram á árið 2009 átti bankinn sjálfur í lausafjárerfiðleikum sem höfðu enn meiri áhrif en erfiðleikar Sparisjóðsins í Keflavík.

Fram til 20. október 2008 uppfyllti Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis bindiskyldu sína gagnvart Seðlabanka Íslands. Eftir það og þar til sparisjóðurinn var yfirtekinn af Fjármálaeftirlitinu 21. mars 2009 var aldrei nægt fé inni á bundna reikningi hans hjá Seðlabanka Íslands. Á þessu tímabili vantaði að meðaltali rúman milljarð króna á reikning sjóðsins. Eftir yfirtöku Fjármálaeftirlitsins voru tvö bindiskyldutímabil, apríl og maí, hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis gagnvart Seðlabanka Íslands og uppfyllti sparisjóðurinn hvorugt þeirra.

Það var einungis á síðasta bindiskyldutímabili Byrs sparisjóðs, 21. apríl til 20. maí 2010, sem ónægar upphæðir voru á bindiskyldureikningi hans.

11.3 Samstarf við Íbúðalánasjóð um fjármögnun íbúðalána

Í ágúst 2004 breyttist íbúðalánamarkaðurinn á Íslandi með tilkynningu Kaupþings Búnaðarbanka hf. um íbúðaveðlán með lægri vöxtum og hærra veðsetningarhlutfalli en áður hafði tíðkast um íbúðalán á Íslandi. Ekkert hámark var á lánsfjárhæð, ólíkt því sem gilti hjá Íbúðalánasjóði, og gerði Kaupþing Búnaðarbanki hf. ekki kröfu um að lánið yrði notað til íbúðakaupa. Hinir viðskiptabankarnir tveir fylgdu strax í kjölfar Kaupþings Búnaðarbanka með sams konar tilboð. Margir fasteignaeigendur kusu að endurfjármagna húsnæði sitt og mörg lán hjá Íbúðalánasjóði voru greidd upp, en þau voru með lakari kjörum en hjá bönkunum. Íbúðalánasjóður sat því uppi með mikið laust fé í kjölfarið.56 Viðskiptavinir sparisjóðanna sóttust eftir að taka sambærileg lán og bankarnir buðu og sparisjóðirnir töldu sig þurfa að svara samkeppninni, ella gætu þeir misst stóran hluta viðskiptamannahóps síns. Til að mynda boðaði stjórn Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis til sérstaks fundar 8. nóvember 2004 vegna samkeppni á íbúðalánamarkaði þar sem bókað var í fundargerð:

Boðað var til fundarins til að taka ákvörðun um hvort SPRON taki þátt í þeirri samkeppni sem upp er komin meðal bankanna, sem er að bjóða viðskiptavinum langtímalán gegn 100% veðsetningu fasteignar. Sparisjóðsstjóri greindi frá því að hann teldi slíkar lánveitingar mjög varhugaverðar, en þó nauðsynlegt fyrir SPRON að taka þátt í samkeppninni. Hann fór fram á heimild stjórnar til viðlíka lánveitinga, að því tilskildu að mjög ströng skilyrði yrðu sett á lántakendur. Sparisjóðsstjóra var veitt heimild til að bjóða slík lán, en nánari útfærsla verður lögð fyrir stjórn.57

Einstaklingsviðskipti og þjónusta við heimabyggð hafði lengi verið höfð að leiðarljósi meðal sparisjóðanna. Sparisjóðunum fannst nauðsynlegt að bregðast við þessu útspili til þess að missa ekki viðskiptavini sína:

Því hefur oft verið haldið ranglega fram að 2004 hafi bankarnir allt í einu ákveðið að fara inn á markaðinn með húsnæðislánin. Hið rétta er að þeir hafa alltaf verið þar. Og sérstaklega sparisjóðirnir, því […] það var hefð fyrir því hjá sparisjóðum að lána fyrir byggingu íbúðarhúsnæðis í sinni heimabyggð og þeir voru líka mjög öflugir í að lána verktökum á sömu slóðum. Þannig að útspil Kaupþings boðaði mjög harða samkeppni, einkum í ljósi þess að Íbúðalánasjóður ætlaði að lána út um allt land á grundvelli þeirra matsreglna en ekki markaðsverðs. Hvað áttum við að gera?58

Sparisjóðirnir áttu ekki eins gott aðgengi að fjármögnun og viðskiptabankarnir þrír, að minnsta kosti ekki á sams konar kjörum og bankarnir nutu. Kaupþing á til að mynda að hafa undirbúið fjármögnun á íbúðalánunum um nokkurt skeið.59 Á þessum tíma lágu því hagsmunir Íbúðalánasjóðs og sparisjóðanna saman að einhverju leyti. Eftir uppgreiðslur lána sat Íbúðalánasjóður á miklum fjármunum, og sparisjóðirnir höfðu áhuga á og töldu jafnvel nauðsynlegt að taka þátt í aukinni samkeppni á íbúðalánamarkaði. Úr varð að Íbúðalánasjóður nýtti fé sem hann fékk vegna uppgreiðslu lána til þess að kaupa greiðsluflæði af fasteignalánum sparisjóðanna. Á fundi stjórnar Sambands íslenskra sparisjóða 31. ágúst 2004 opnaði Ingólfur Guðmundsson, aðstoðarsparisjóðsstjóri í Sparisjóði Kópavogs, umræðu um samstarf við Íbúðalánasjóð og var samþykkt að formaður sambandsins færi með það mál. Í skýrslu sinni fyrir rannsóknarnefndinni sagðist Ingólfur ekki muna eftir þessu og var ekki viss hvaðan frumkvæði að samstarfinu kom.60 Í skýrslu sinni hjá rannsóknarnefndinni svaraði fyrrverandi sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis spurningunni um það, hver hefði átt frumkvæðið, á svofelldan hátt:

Ég get ekki svarað því. Mér finnst trúlegt að það hafi komið frá sparisjóðunum. Ég meina, það var í öllum fjölmiðlum að það var verið að borga upp lán hjá Íbúðalánasjóði og þeir stóðu frammi fyrir þessum vanda að vera búnir að fjármagna sig til langs tíma í verðtryggðum skuldabréfum en nú voru þeir ekki lengur að fá vexti af sínum útlánum með sama hætti og voru með mikla peninga í sjóði. Þannig stóðu þeir frammi fyrir þessari stöðu og þurftu að leysa þennan vanda. Ég hef ekki hugmynd um það hvorum megin frá eitthvert frumkvæði kom í þessu máli.61

Fyrrverandi forstöðumaður fyrirtækjasviðs Sparisjóðs Mýrasýslu sagðist heldur ekki vita hvaðan hugmyndin kom:

Ég veit ekki hver átti frumkvæði að samstarfi við Íbúðalánasjóð en það kom frá Sambandi íslenskra sparisjóða minnir mig. Mér fannst þetta alltaf vera frekar sérstakt og sá ekki hverjir hagsmunir Íbúðalánasjóðs voru að fara út í þetta með sparisjóðunum en þeir hafa sjálfsagt haft sín sjónarmið með þessu samstarfi.62

Nýr framkvæmdastjóri tók við hjá Sambandi íslenskra sparisjóða í nóvember 2004 og sagði hann í skýrslu sinni fyrir rannsóknarnefndinni:

Eins og ég upplifði það þá var þetta búið að vera töluvert mikið í umræðunni og menn búnir að vera að pæla þegar ég kem inn. Þá stóðu menn bara frammi fyrir því, held ég, og það er allavega mín sannfæring líka, að ef menn […] hefðu ekki svarað á þessum tíma, þá hefði Kaupþing einfaldlega nánast tekið yfir bankastarfsemi […] á Íslandi á nokkrum mánuðum. Vegna þess að tilboðið, það var ekki bara um lága vexti á húsnæðislánum og endurfjármögnun og hækkun á láninu og allt þetta, heldur […] urðu menn að færa viðskiptin. […] Tilboðið var 5,2% en ef þú ert í viðskiptum þá er það 4,2%. Og ég meina, það sagði sig bara sjálft að allir hefðu fært sig. Þannig að það var í raun og veru enginn valkostur, menn urðu að finna einhverja leið. Og eins og ég upplifði það þá voru menn bara í þessum pælingum […] og þá, á einhverjum tímapunkti, ég veit ekki hver það er sem að kemur með það upp, hvort það kemur beinlínis innan sparisjóðanna eða hvort það kemur frá Íbúðalánasjóði, að þá náttúrulega átta menn sig á því að Íbúðalánasjóður er ekkert í minna slæmum málum. Og hann þurfti að finna leið til þess að vera með. En nákvæmlega hvernig hugmyndin kemur upp og hver á hana, það hef ég ekki hugmynd um.63

Í lok árs 2005 var hlutfall fjármögnunar Íbúðalánasjóðs á lánasöfnum sparisjóðanna á bilinu 7–24% af útlánasafni þeirra, mest hjá Sparisjóði Höfðhverfinga, Sparisjóði Hafnarfjarðar, Sparisjóði Kópavogs og Sparisjóði Norðlendinga.

11.3.1 Hattalán

Sparisjóðirnir og Íbúðalánasjóður tóku einnig upp samstarf um framboð nýrra afurða.64 Með svokölluðum „hattalánum“ gátu íbúðakaupendur nýtt sér hámarkslán Íbúðalánasjóðs fyrst, en áttu síðan möguleika á láni frá sparisjóðunum til viðbótar við það.65 Hinn 4. desember 2004 var undirritaður samningur fyrir hönd Íbúðalánasjóðs, Sambands íslenskra sparisjóða og Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis og dótturfélaga um greiðslumat og lánaframboð. Í samningnum var Íbúðalánasjóður lánveitandi en aðrir samningsaðilar þjónustuaðilar. Með samningnum tóku sparisjóðirnir að sér að meta greiðslugetu umsækjenda um þessi lán.66

Íbúðalánasjóður lét þjónustuaðilum meðal annars í té kynningarefni fyrir lánsumsækjendur, aðgang að vefsvæðinu ibudalan.is þar sem þjónustuaðilar gátu sett inn upplýsingar um eigið lánaframboð vegna fasteignaviðskipta, aðgang að rafrænu greiðslumati, rafrænum lánsumsóknum og reiknivélum á vefnum. Sparisjóðirnir skuldbundu sig til að veita væntanlegum lántakendum ráðgjöf, meðal annars um lánaframboð Íbúðalánasjóðs, og tóku að sér að kynna það og gera upplýsingar um það aðgengilegar á afgreiðslustöðum sínum.67

Þá kvað samkomulagið á um að sparisjóðir myndu bjóða upp á val um heildstæða fjármögnun íbúðakaupa með lánum frá Íbúðalánasjóði eða lánum frá sparisjóðunum. Þannig gætu viðskiptavinir valið um að fá fjármögnun frá sparisjóðunum eingöngu, Íbúðalánasjóði eingöngu eða fá lán hjá Íbúðalánasjóði og sparisjóði umfram þau mörk sem Íbúða­lánasjóður gat lánað á hverjum tíma, væri þörf á aukinni fjármögnun.68 Þó ekki hafi verið kveðið á um það í samningum voru „hattarnir“, þ.e. lánin sem sparisjóðirnir veittu umfram hámark Íbúðalánasjóðs, aldrei á fyrsta veðrétti.

Íbúðalánasjóður greiddi 0,3% í umsýsluþóknun af heildarfjárhæð hvers láns sem sparisjóðirnir höfðu milligöngu um. Þó voru ákvæði um að ef umsvif sparisjóðsins af íbúðalánum yrðu mikil myndi þóknunin hækka. Samningurinn var ótímabundinn og gilti frá 6. desember 2004 með þriggja mánaða uppsagnarfresti samningsaðila. Þessum samningi var sagt upp af hálfu Íbúðalánasjóðs með bréfi 28. ágúst 2009.69

11.3.2 Lánasamningar Íbúðalánasjóðs við sparisjóði og Frjálsa fjárfestingarbankann hf.

Íbúðalánasjóður gerði lánasamninga við sparisjóði og Frjálsa fjárfestingarbankann hf. sem námu 33 milljörðum króna frá lokum árs 2004 fram á mitt ár 2005. Um var að ræða sex samninga við sparisjóðina, stundum marga sparisjóði í hverjum samningi, og tvo við Frjálsa fjárfestingarbankann hf. Undirliggjandi þessum lánasamningum voru 2.945 lán með veði í fasteignum.

Grunnforsenda fyrir samningnum var að áhætta af undirliggjandi veðskuldabréfum flyttist samhliða lántökunni frá sparisjóðunum til Íbúðalánasjóðs. Endurgreiðsla lánsins fólst eingöngu í öllu greiðsluflæði undirliggjandi veðskuldabréfa og bar Íbúðalánasjóður áhættu af því að undirliggjandi veðskuldabréf yrðu ekki greidd að fullu. Bókfært virði lánsins var sönnun fyrir fjárhæð þess á hverjum tíma nema hægt væri að sýna fram á annað. Ávöxtun lánsins miðaðist við samanlagt núvirði greiðsluflæðis undirliggjandi veðskuldabréfa miðað við ákveðna ávöxtunarkröfu70 á eftirstöðvar nafnverðs ásamt áföllnum vöxtum og verðbótum.71 Sparisjóðirnir önnuðust innheimtu undirliggjandi fasteignalána með sama hætti og önnur fasteignalán í sinni eigu. Íbúðalánasjóður skyldi greiða sparisjóðunum allan kostnað af innheimtuaðgerðum eða öðrum aðgerðum vegna vanefnda skuldara að undirliggjandi fasteignalánum.

Íbúðalánasjóður hafði kauprétt að undirliggjandi veðskuldabréfum á fimm ára fresti út líftíma skuldabréfanna en jafnframt ef til þess kæmi að eiginfjárhlutfall sparisjóðs eða Frjálsa fjárfestingarbankans hf. samkvæmt skýrslum til Fjármálaeftirlitsins færi undir lögbundið lágmark. Íbúðalánasjóður hafði rétt til að nýta sér kaupréttinn hvenær sem var á meðan eigið fé sparisjóðs (eða fjárfestingarbankans) væri undir þessu viðmiði. Við fall bankanna og það umrót sem varð á fjármálamarkaði í kjölfarið nýtti Íbúðalánasjóður þessa heimild og eru fasteignalánin í dag í útlánakerfi Íbúðalánasjóðs sem sér sjálfur um innheimtu þeirra.72

11.3.3 Kaup Íbúðalánasjóðs á skuldabréfum sparisjóðanna og Sparisjóðabankans á árinu 2005

Í bréfi til Íbúðalánasjóðs 10. maí 2005 gerði Fjármálaeftirlitið að umfjöllunarefni starfsheimildir, áhættustýringu og upplýsingagjöf sjóðsins í tengslum við lánasamninga sem gerðir höfðu verið við sparisjóðina. Fjármálaeftirlitið taldi fullt tilefni til athugunar á því hvort samningarnir samræmdust lögum nr. 44/1998 og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Óskað var eftir umfjöllun Íbúðalánasjóðs um það hvort og með hvaða hætti lánasamningarnir samræmdust þessum lögum og reglum. Í svari Íbúðalánasjóðs frá 27. maí 2005 kom fram sú afstaða að lánasamningarnir væru innan heimilda sjóðsins og honum væri skylt að viðhafa áhættustýringu og ávaxta sitt fé. Þegar miklar uppgreiðslur hófust hefðu aðrir möguleikar til ávöxtunar verið litlir. Íbúðalánasjóður fékk Árna Pál Árnason hdl. til að gefa álit á því hvort lánasamningarnir stæðust ákvæði laga nr. 44/1998 um húsnæðismál. Álitsgerðin studdi það sem fram hafði komið í bréfi Íbúðalánasjóðs til Fjármálaeftirlitsins.73

Í ágúst 2005 vann Jóhannes Sigurðsson hrl., fyrir hönd Fjármálaréttarstofnunar Háskólans í Reykjavík, álitsgerð um heimildir Íbúðalánasjóðs til lánveitinga, fjármögnunar og áhættustýringar að beiðni Samtaka atvinnulífsins og Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja. Niðurstaða álitsgerðarinnar var að Íbúðalánasjóði væri ekki heimilt samkvæmt lögum og reglugerðum að veita lán til fjármálafyrirtækja með þeim hætti sem sjóðurinn hefði gert, jafnvel þótt tilgangurinn með lánunum væri að endurlána einstaklingum eða byggingaraðilum til kaupa eða byggingar á íbúðarhúsnæði.74 Í framhaldi af því sendi Íbúðalánasjóður bréf 7. september 2005 til Sambands íslenskra sparisjóða og þeirra fjármálafyrirtækja sem hann hafði gert lánasamningana við og lýsti sig algerlega ósammála niðurstöðu álitsgerðarinnar. Samband íslenskra sparisjóða lýsti því yfir 26. september sama ár að það efaðist ekki um lagaheimildir Íbúðalánasjóðs og lýsti sig ósammála niðurstöðum lögfræðiálitsins. Viðskiptabankar sem gert höfðu sams konar samninga og sparisjóðirnir lýstu sig einnig ósammála. Félagsmálaráðherra gaf út reglugerð nr. 896/2005 um breytingu á reglugerð um fjárhag og áhættustýringu Íbúðalánasjóðs nr. 544/2004, að fengnum umsögnum Fjármálaeftirlitsins og stjórnar Íbúðalánasjóðs. Viðauka var bætt við stofnreglugerðina um viðurkennd viðskipti og mótaðila vegna áhættustýringar. Undir þau féllu samningar um kaup á skuldabréfum, tryggðum með veði í íbúðarhúsnæði, útgefin af einstaklingum, fyrirtækjum eða fjármálafyrirtækjum.75

Fjármögnun Íbúðalánasjóðs á útlánum sparisjóðanna var með öðrum hætti en áður hafði verið eftir mitt ár 2005. Í stað lánasamninga gáfu sparisjóðirnir út skuldabréf með breytirétti sem fólst í því að Íbúðalánasjóður gat einhliða breytt samningssambandinu í lánssamning. Að baki skuldabréfunum var safn veðskuldabréfa í eigu útgefanda skuldabréfanna. Frá lokum apríl 2005 til loka desember 2005 keypti Íbúðalánasjóður skuldabréf af Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, Sparisjóðabankanum, Sparisjóði Hafnarfjarðar og Sparisjóði Kópavogs fyrir samtals 8,8 milljarða króna. Að baki skuldabréfinu sem Sparisjóðabanki Íslands gaf út var hann með skuldabréf við sautján sparisjóði að veði.

Skuldabréfin voru með 4,5% ársvöxtum fram til 15. mars 2010 en þá áttu vextir að breytast þannig að þeir yrðu 0,05% lægri en vegið meðaltal ákveðins vaxtasafns Íbúðalánasjóðs. Áður en til þess kom, eða í lok árs 2008, nýtti Íbúðalánasjóður sér ákvæði um breytirétt í skuldabréfinu og virkjaði lánasamningana. Bréfin voru síðar, eða á árinu 2009, flutt úr kerfum sparisjóðanna yfir til Íbúðalánasjóðs og undirliggjandi skuldabréf afhent honum.76

Að baki skuldabréfunum sem sparisjóðirnir höfðu gefið út til Íbúðalánasjóðs áttu að vera íbúðalán sem uppfylltu ströng skilyrði, meðal annars um að hvert skuldabréf skyldi tryggt með 1. veðrétti í íbúðarhúsnæði, þó með einhverjum undantekningum; veðhlutfall skyldi ekki vera hærra en 80% af markaðsverðmæti, þó með undantekningum allt að 90% af markaðsverðmæti; og skuldabréfin skyldu bundin vísitölu neysluverðs og bera 4,15% eða 4,20% vexti. Lánsveð máttu ekki vera til tryggingar. Skilyrðin gerðu almennt ekki ráð fyrir að lánin að baki skuldabréfunum færu í vanskil. Um var að ræða langtímalán til 25 eða 40 ára og voru þau jafngreiðslubréf á 1. veðrétti í flestum tilfellum eða „hattalán“ með veðrétti samfellt á eftir íbúðalánum Íbúðalánasjóðs eða þess mótaðila sem var með viðkomandi lánasamning. Ef skuldari endurgreiddi undirliggjandi veðskuldabréf að hluta eða öllu leyti fyrir gjalddaga greiddist öll sú upphæð ásamt uppgreiðslu- og umframgreiðslugjaldi, ef við átti, til Íbúðalánasjóðs. Sviðsstjóri einstaklingssviðs hjá Íbúðalánasjóði sagði lánasöfnin þó ekki hafa uppfyllt þau skilyrði sem sett voru í samningunum:

Þetta áttu að vera mjög góð lán í þessum söfnum og samsetningin átti að vera fín og falla betur að þeim reglum sem Íbúðalánasjóður hefur verið að lána eftir, svo sem með tilliti til hámarkslánsfjárhæðar, veðhlutfalls og að lána eingöngu til fasteignakaupa. Það hefur svo komið í ljós að sett voru inn fleiri lán en þau sem uppfylltu þessi skilyrði, þar eru lánsveð og fleiri lán sem hefðu ekki átt að vera.77

Fjármögnun Íbúðalánasjóðs var ekki með þeim hætti að sparisjóðirnir hefðu miklar, ef nokkrar, vaxtatekjur af fasteignalánunum sem veitt voru á grundvelli fjármögnunarinnar. Með fyrri tegund fjármögnunarsamninganna, þ.e. lánasamningunum, var gegnumstreymi greiðslna frá lántakanda til sparisjóðs og frá sparisjóði til Íbúðalánasjóðs. Síðari tegundin, þ.e. skuldabréfin sem sparisjóðirnir og Sparisjóðabankinn gáfu út, voru með 4,5% vöxtum en fasteignalánasöfnin að baki skuldabréfunum voru með 4,15% eða 4,20% vöxtum samkvæmt ákvæðum skuldabréfanna. Sparisjóðirnir höfðu því lægri vaxtatekjur af fasteignalánunum en þeir greiddu í vaxtagjöld til Íbúðalánasjóðs. Um mikilvægi þess að taka þátt í samkeppninni í fasteignalánum sagði fyrrverandi forstöðumaður fyrirtækjasviðs Sparisjóðs Mýrasýslu í skýrslutöku fyrir rannsóknarnefndinni:

Það var ekkert vitað hvernig ætti að fjármagna þetta þegar byrjað var að veita íbúðalán á lágum vöxtum. En fljótlega kom í ljós að Íbúðalánasjóður var tilbúinn að koma að fjármögnun á þessu fyrir banka og sparisjóði. Ég sá ekki af hverju Íbúðalánasjóður væri að fara út í þessa fjármögnun fyrir banka og sparisjóði þar sem hann var kominn í samkeppni við sjálfan sig. Sparisjóðirnir sem og aðrir bankar voru nauðbeygðir að fara út í þessi íbúðalán þegar KB banki hóf að lána íbúðalán á lágum vöxtum. Það var ljóst að sparisjóðurinn hefði lítinn sem engan vaxtamun af þessum lánum fyrir utan lántökugjald og að tryggja einstaklinga í viðskipti við sparisjóðinn. Þannig að framlegðin átti að koma í gegnum önnur viðskipti.78

Því skal þó haldið til haga að Íbúðalánasjóður tók alla áhættu af fasteignalánunum og tók á sig mögulegt tap vegna þeirra. Tekjur sparisjóðanna voru einkum þjónustutekjur af þessum samningum en þeir sáu um umsýslu þeirra fasteignaveðlána sem lágu að baki samningunum, með svipuðum hætti og í lánasamningunum sem fjallað var um hér framar. Í minnisblaði sérfræðings Fjármálaeftirlitsins sem settur var í Byr sparisjóð var þess getið að tekjur af samningunum væru litlar en mikil vinna fylgdi þeim.79 Um þetta sagði fyrrverandi sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis í skýrslu sinni fyrir rannsóknarnefndinni:

Ég veit að þessir samningar voru mjög þunnir fyrir okkur en þeir voru ekki í tapi. Hugsunin hjá okkur var aðallega sú að við gætum áfram staðið við bakið á okkar viðskiptavinum án þess að tapa á því. […] Það var aldrei tap á vaxtamuninum en það var mjög lítið sem var að fá. Samkeppnin á millibankamarkaði af lánum var slík að svona álagsprósentur voru komnar niður úr öllu valdi.80

11.3.4 Áhrif fjármögnunarsamninganna á efnahagsreikning og eiginfjárútreikninga

Íbúðalánin sem voru fjármögnuð með þessum hætti stóðu á eignahlið efnahagsreiknings sparisjóðanna, en fjármögnunin kom sem lántaka á móti. Þetta var í samræmi við reikningsskilastaðla (IFRS) þar sem aðeins voru fyrir hendi tvö skilyrði af þremur sem ráða því að fjármálagerningur færist á milli félaga. Greiðsluflæðið og áhættan fluttust til Íbúðalánasjóðs en yfirráðin töldust enn vera hjá sparisjóðunum. Þeir gátu t.d. tekið ákvörðun um að breyta skilmálum lánanna gagnvart lántakandanum. Sparisjóðirnir héldu þannig útlánum á efnahagsreikningnum í sama horfi þrátt fyrir að þeir hafi í raun selt þau frá sér.

Útlán fá mismunandi áhættuvægi í útreikningum á eiginfjárhlutfalli samkvæmt 84. og 85. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Eiginfjárhlutfall fjármálafyrirtækis er í sinni einföldustu mynd eiginfjárgrunnur fyrirtækisins deilt með áhættugrunni þess. Útlán eru meðal þeirra eigna sem mynda áhættugrunn en því öruggari sem þau eru talin, þeim mun minna vægi hafa þau í útreikningi áhættugrunns og minnka þar af leiðandi nefnarann. Útlán með veði í fasteignum fá yfirleitt vægið 0,5 en útlán með ríkisábyrgð vægið 0,0. Þegar hluti fasteignalánasafns sparisjóðanna var fjármagnaður af Íbúðalánasjóði hófu margir þeirra að breyta áhættuflokkun lána með þessari fjármögnun. Til að mynda segir í skýrslu um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis fyrir árið 2004:

Endurgreiðsla lánsins [frá Íbúðalánasjóði] er háð greiðsluflæði undirliggjandi íbúðalána en Íbúðalánasjóður ber útlánaáhættuna. Með þessu móti hefur áhættan verið færð frá sparisjóðnum og eru íbúðalánin sem hafa verið fjármögnuð með láni frá Íbúðalánasjóði því með áhættumat 0,0 í útreikningi á eiginfjárhlutfalli sparisjóðsins.81

Það voru ekki eingöngu stórir sparisjóðir sem notuðu þessa aðferð við áhættumat. Í fundargerð stjórnar Sparisjóðs Höfðhverfinga frá 27. janúar 2005 segir:

Sparisjóðirnir og Íbúðalánasjóður hafa hafið samstarf um veitingu íbúðalána. Það samstarf nær til lána vegna kaupa á húsnæði. Hluti þess samkomulags var að ÍLS „keypti“ íbúðalán af sparisjóðunum. Fyrirkomulagið var gert með þeim hætti að ÍLS lánar sparisjóðum sambærilega upphæð og þau bréf nema sem þeim eru „seld“. Bréfin eru áfram í bókum sparisjóðsins með vægið 0 í CAD áhættu, enda ábyrgist ÍLS bréfin.82

Í lok árs 2003 voru útlán sparisjóða um 131 milljarður króna, ári síðar námu þau um 166 milljörðum króna og í lok árs 2005 voru þau 235 milljarðar króna. Útlánaaukning var því mikil á þessum árum eða samtals um 104 milljarðar króna. Frá árslokum 2003 til ársloka 2005 jukust innlán sparisjóðakerfisins um 34 milljarða króna, lántaka um 63 milljarða króna og skuldir við lánastofnanir um 15 milljarða króna. Heildarfjárhæð fjármögnunarsamninganna við Íbúðalánasjóð var um 42 milljarðar króna og má því ljóst vera að þeir áttu stóran þátt í útlánaaukningu þessara ára.83 Þegar hluti útlánasafnsins fær minna vægi í útreikningum áhættugrunns batnar eiginfjárhlutfallið sem því nemur. Þetta vó þannig á móti þeirri lækkun sem eiginfjárgrunnurinn, þ.e. teljarinn í eiginfjárhlutfallinu, sætti vegna hækkunar á gengi ýmissa eigna sem skylt var að draga frá honum, en þar var fyrst og fremst um að ræða eignarhluti í fjármálafyrirtækjum.

Í stuttu máli sagt er ljóst að lánasamningarnir við Íbúðalánasjóð gátu verið þensluhvetjandi fyrir sparisjóðina. Þeir gátu aukið útlán sín án þess að styrkja eiginfjárgrunninn á móti.

11.3.5 Flutningur undirliggjandi fasteignalána frá sparisjóðunum til Íbúðalánasjóðs

Í samningum Íbúðalánasjóðs og sparisjóðanna um fjármögnun Íbúðalánasjóðs á fasteignalánum voru ákvæði sem heimiluðu Íbúðalánasjóði að taka yfir fasteignalánin sem voru undirliggjandi samningunum. Þannig var í lánasamningunum frá 2004 og fyrri hluta árs 2005 ákvæði um kauprétt Íbúðalánasjóðs á undirliggjandi veðskuldabréfum. Kysi lánveitandi að nýta sér kaupréttinn var það gert með tilkynningu til lántaka og við móttöku Íbúðalánasjóðs á skuldabréfinu eignaðist hann undirliggjandi veðskuldabréf. Kauprétturinn virkjaðist meðal annars ef eiginfjárhlutfall lántaka samkvæmt skýrslum til Fjármálaeftirlitsins færi undir lágmarkshlutfall sem krafist var samkvæmt lögum og reglum, að viðbættum 0,5%. Í skuldabréfunum sem gefin voru út síðla árs 2005 voru ákvæði um að Íbúðalánasjóður gæti einhliða nýtt sér rétt til að breyta samningssambandi aðila í lánssamningsform. Viðfestur við skuldabréfin var lánssamningur með sams konar ákvæði um kauprétt og lánasamningarnir frá 2004 og fyrri hluta árs 2005 höfðu að geyma.

Síðla árs 2008 uppfyllti eiginfjárhlutfall margra sparisjóða ekki það skilyrði sem því var sett og nýtti Íbúðalánasjóður sér þá breytiréttinn í samningunum. Svo fór þó að Íbúðalánasjóður tók yfir fasteignalán sparisjóða sem ekki voru í eiginfjárvandræðum á þeim tíma en um þetta sagði sviðsstjóri einstaklingssviðs Íbúðalánasjóðs fyrir rannsóknarnefndinni:

[Þegar Íbúðalánasjóður] nýtti þetta ákvæði í einhverjum lánasamningum, að flytja lánin yfir því að þau voru komin undir í CAD-hlutfalli, var flækjustigið á þessum lánum varðandi skýrslugjöfina þannig að [sparisjóðirnir] gátu ekki gert samræmdar skýrslur nema í gegnum Teris [áður Tölvumiðstöð sparisjóðanna]. […] Við nýttum þessa breytirétti og svo voru einhverjir sem báðu um að lánin yrðu yfirtekin og flutt á milli. […] Eftir því sem bréfin fóru að flytjast yfir til okkar þá vildu fleiri einfalda kerfin hjá sér og koma þeim yfir. Í rauninni á öllum tímapunktum hjá þeim flestum, þá var heimildin virk, en það var ekki gert með þessum formlega hætti sem hefði átt að gera, að senda þetta bréf þannig að það sé til skriflega, það var bara farið fram á þetta við okkur. […] Við sáum að þetta var aukið hagræði, sérstaklega hjá litlu sparisjóðunum var kostnaðurinn sem þeir þurftu að greiða Teris meiri […] þeir voru farnir að borga með samningnum.84

Í byrjun árs 2009 voru öll fasteignaveðbréf undirliggjandi fjármögnun Íbúðalánasjóðs til sparisjóðanna frá árunum 2004 og 2005 í vörslu og umsýslu sjóðsins. Eftir það var fjármögnunin ekki talin til skulda á efnahagsreikningi sparisjóðanna og útlánasafn þeirra minnkaði að sama skapi.

11.3.6 Endurhverf verðbréfaviðskipti Íbúðalánasjóðs og sparisjóðanna

Á grundvelli auglýsingar Íbúðalánasjóðs um staðfestingu reglna um lánveitingar sjóðsins samkvæmt 9. tölul. 2. gr. reglugerðar nr. 458/1999 um lánaflokka Íbúðalánasjóðs, með síðari breytingum, og reglugerðar nr. 715/2008 frá 17. júlí 2008 um breytingu á reglugerð nr. 458/1999 um lánaflokka Íbúðalánasjóðs, sóttu 14 fjármálafyrirtæki um tímabundna endurfjármögnun hjá Íbúðalánasjóði. Sjö sparisjóðir voru meðal umsækjenda sem fengu lánsbeiðnir sínar samþykktar.85 Með reglugerð 715/2009 var meðal annars bætt við 2. gr. 9. tölulið þar sem gefin var heimild til að veita lán til viðskiptabanka, sparisjóða og lánafyrirtækja til tímabundinnar endurfjármögnunar á íbúðalánum sem veitt höfðu verið gegn veði í íbúðarhúsnæði.

Hinn 16. september 2008 undirritaði Íbúðalánasjóður samninga um tímabundna endurfjármögnun íbúðalána við Sparisjóð Svarfdæla, Sparisjóð Þórshafnar og nágrennis, Sparisjóð Bolungarvíkur, Sparisjóðinn í Keflavík, Sparisjóð Vestmannaeyja og Sparisjóð Höfðhverfinga.86 Samningur við Byr sparisjóð var undirritaður 24. september 2008.87

Í samningunum segir:

Lánið veitir Íbúðalánasjóður með afhendingu íbúðabréfa til tímabundinnar endurfjármögnunar á íbúðalánum lántaka. Íbúðabréf þannig afhent skulu eingöngu notuð í veðlánaviðskiptum við Seðlabanka Íslands. Íbúðabréf eru afhent að láni gegn skuldabréfi SKB 0[X]88 sem útgefið er af lántaka með greiðslutryggingu í undirliggjandi fasteignaveðbréfum. Íbúðabréfum ber lántaka að skila aftur á tilgreindum uppgjörsdegi. Með skilum á íbúðabréfum er um leið ofangreint skuldabréf uppgert.

Samningarnir voru allir til þriggja mánaða.

Þau íbúðabréf sem sparisjóðirnir fengu sem greiðslu í þessum samningum voru nýtt sem veð í lausafjárfyrirgreiðslum frá Seðlabanka Íslands. Þannig fengu sparisjóðirnir laust fé sem marga þeirra skorti. Stjórn Sparisjóðsins í Keflavík hafði til að mynda rætt lausafjárstöðu hans á fundi 9. september 2008 og segir í fundargerð:

Lausafjárstaða mjög erfið. Erlendir bankar hafa ekki framlengt lánalínur. Reiknað með að Íbúðalánasjóður komi með fjármuni vegna íbúðalána í næstu viku og þá muni létta á lausafjárstöðunni auk hugsanlegrar lánalínu hjá Íbúðalánasjóði.

Íbúðalánasjóður veitti Sparisjóðnum í Keflavík 1,5 milljarða króna peningamarkaðslán frá 12. september 2008 til 17. september 2008 eða þar til samningur um tímabundna endurfjármögnun tók gildi.

Þó er ekki að sjá af lausafjárskýrslum allra sparisjóðanna sem gerðu samninga um tímabundna fjármögnun íbúðalána að þeir hafi átt í lausafjárvandræðum á þessum tíma. Þannig var lausafjárhlutfall Sparisjóðs Svarfdæla fyrir allt að einn mánuð 1,37 í september 2008 en lágmarkið var 1. Lausafjárhlutfallið fyrir allt að þrjá mánuði var 17,55 og lágmarkið hið sama. Á sama tíma var lausafjárhlutfall Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis 1,35 fyrir allt að einn mánuð en lausafjárskuldir til lengri tíma en eins mánaðar voru engar. Sparisjóður Vestmannaeyja var með lausafjárhlutfallið 2,57 fyrir allt að einn mánuð og 2,53 fyrir allt að þrjá mánuði í september 2008.

Einhver hluti þessara viðskipta var drifinn áfram af þörf Sparisjóðabankans fyrir lausafé. Sparisjóðirnir nýttu þennan möguleika til fjármögnunar og endurlánuðu Sparisjóðabankanum. Sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Svarfdæla sagði til að mynda í skýrslu sinni fyrir rannsóknarnefndinni:

Fyrst og fremst var verið að falast eftir vaxtamun, en að sama skapi nýttist það Sparisjóðabankanum afar vel til að auðvelda þeim lausafjárstöðuna.89

Sparisjóðsstjórinn í Vestmannaeyjum staðfesti við rannsóknarnefndina að sama hefði verið uppi á teningnum í sínum sparisjóði. Lausafjárstaðan þar var góð og ekki nein þörf á lántöku. Sparisjóður Vestmannaeyja lagði fjármunina inn sem innlán hjá Sparisjóðabanka Íslands hf. og hafði tekjur af mismun þeirra vaxta sem greiddir voru til Seðlabankans og af Sparisjóðabankanum.90

Gísli Jafetsson, yfirmaður fræðslu- og upplýsingamála Sambands íslenskra sparisjóða, hafði forgöngu um þessa fjármögnun hjá Íbúðalánasjóði en hann undirritaði samningana fyrir hönd allra sparisjóðanna, nema Byrs sparisjóðs. Upphaflega áttu samningarnir að vera til mjög skamms tíma:

[Íbúðalánasjóður] fékk heimild til að gera þessa samninga sem gilti í stuttan tíma og þetta átti bara að vera eins og repo-viðskipti [og standa yfir í stuttan tíma], nema það varð að framlengja einhverja af samningunum áfram, ef ég man rétt um þrjá mánuði og svo mánuð og eitthvað, svo lokuðum við þeim öllum. […] Þeir áttu allir upphaflega lokagjalddaga [17. desember 2008].91

Íbúðalánasjóður framlengdi samninga við Sparisjóð Svarfdæla, Sparisjóð Þórshafnar og nágrennis, Sparisjóð Bolungarvíkur, Sparisjóðinn í Keflavík og Sparisjóð Vestmannaeyja fjórum sinnum, fyrst 5. janúar 2009, svo 5. febrúar 2009, 3. mars 2009 og loks 12. mars 2009. Lokadagur samningsins við Sparisjóðinn í Keflavík var í mars 2009. Samningum við Sparisjóð Svarfdæla, Sparisjóð Bolungarvíkur og Sparisjóð Vestmannaeyja lauk í apríl 2009 og samningi við Sparisjóð Þórshafnar og nágrennis í maí 2009. Eftir það voru ekki fleiri slíkir samningar gerðir.

11.3.7 Kaup Íbúðalánasjóðs á lánasöfnum sparisjóðanna sem tryggð voru með veði í íbúðarhúsnæði á árunum 2009 og 2010

Reglugerð um heimild Íbúðalánasjóðs til að kaupa skuldabréf fjármálafyrirtækja sem tryggð eru með veði í íbúðarhúsnæði nr. 1081/2008 var sett með stoð í 2. mgr. 15. gr. laga nr. 44/1998 um húsnæðismál, sbr. V. kafla laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl.92 Íbúðalánasjóður gerði sex samninga um kaup á lánasöfnum frá Byr sparisjóði, Sparisjóði Bolungarvíkur, Sparisjóðnum í Keflavík og Dróma hf. (Frjálsa fjárfestingarbankanum hf.). Gerðir voru tveir samningar við Sparisjóðinn í Keflavík, tveir við Sparisjóð Bolungarvíkur og einn við hvern hinna. Heildarfjárhæð samninganna var um 31 milljarður króna.

Íbúðalánasjóður keypti eingöngu lán í íslenskum krónum af þessum fjármálastofnunum:

[Að kaupa lán í erlendri mynt] kom í rauninni aldrei til greina. Það var skoðað hvort við mögulega gætum það, en við drógum línu um það að lán sem við værum að kaupa væru áþekk þeim lánum sem við vorum með, væru til húsnæðiskaupa, væru ekki hærri en ákveðið hámark, undir ákveðinni veðsetningu, ekki lánsveð, ekki lögaðilar.93

Allt að 80% af kaupverði var greitt með íbúðabréfum (HFF-flokkum). Um 20% var haldið eftir vegna mögulegs útlánataps Íbúðalánasjóðs af þessum lánum. Sá hluti sem haldið var til tryggingar gegn tapi var verðtryggður og verðbættur og uppreiknaður miðað við vexti safnsins á hverjum tíma fyrir sig. Þessi 20% verða greidd út í síðasta lagi að 8 árum liðnum frá kaupum safnanna og hefur Íbúðalánasjóður heimild til þess að greiða ekki að fullu til þess að mæta mögulegu útlánatapi. Kaupin af Dróma hf. voru þó með öðrum hætti, en þar var kaupverðinu ekki skipt í 80% greiðslu við undirritun og 20% til greiðslu síðar, þar sem ekki var gert ráð fyrir að félagið yrði starfandi átta árum síðar.94

Lánasöfnin voru keypt með um 100 punkta vaxtamun.95 Í minnisblaði Seðlabankans eftir fund með Íbúðalánasjóði um samninga við sparisjóði 23. febrúar 2009 kom fram að ef sparisjóðir ættu að ganga að skilmálum Íbúðalánasjóðs þyrftu þeir að bóka tap þar sem krafa íbúðabréfanna væri ekki í samræmi við markaðskröfu. Tapið myndi lækka eigið fé, sem margir sparisjóða mættu ekki við og krafan væri ekki alls staðar sú sama.96 Í eina sparisjóðnum af þeim sem seldu Íbúðalánasjóði skuldabréf árin 2009 og 2010, Sparisjóði Bolungarvíkur, var bókfært tap vegna sölunnar um 40 milljónir króna.97 Ekki er ástæða til að ætla að tap annarra hafi verið ólíkt þessu.

11.4 Fjármögnun íbúðalána í gegnum Klettháls ehf.

Eignarhaldsfélagið Klettháls ehf. var upphaflega í eigu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, Sparisjóðs Hafnarfjarðar, Sparisjóðsins í Keflavík, Sparisjóðs vélstjóra og Sparisjóðs Mýrasýslu. Félagið var stofnað til að kaupa og vista tímabundið eignarhluti Sparisjóðs Ólafsfjarðar og Sparisjóðs Siglufjarðar í Sparisjóðabanka Íslands hf., Kaupþingi hf. og SP-fjármögnun þegar þessir tveir sparisjóðir lentu í fjárhagslegum þrengingum árið 1998. Umræddir sparisjóðir leystu eignarhlutina sem voru vistaðir í Kletthálsi ehf. smám saman til sín aftur og í lok árs 2005 var félagið eignalaust.98 Sparisjóðabanki Íslands hf. eignaðist allt hlutafé í Kletthálsi ehf. árið 2006 og var bókað um kaupin á fundi bankaráðs 19. september 2006, en þar sagði:

Bankastjóra var veitt heimild til að ganga frá kaupum bankans á öllum hlutum í Kletthálsi ehf. af fimm sparisjóðum sem eru hluthafar í félaginu ásamt bankanum. Kaupverð allra hlutanna nemur 887 þús.kr. Félagið Klettháls var á sínum tíma stofnað til að eignast tímabundið eignarhluti Sparisjóðs Ólafsfjarðar og Sparisjóðs Siglufjarðar í bankanum, SP-Fjármögnun og Kaupþingi. Eftir að þessir sparisjóðir keyptu eignarhlutina til baka hefur félagið engu hlutverki að gegna.

Á árinu 2008 keyptu Sparisjóður Bolungarvíkur, Sparisjóðurinn í Keflavík, Sparisjóður Mýrasýslu, Sparisjóður Siglufjarðar og Sparisjóður Ólafsfjarðar sig aftur inn í félagið. Í árslok átti hver þeirra 16,67% hlut í félaginu. Framkvæmdastjóri félagsins var Sverrir Geirmundsson, formaður stjórnar var Agnar Hansson og meðstjórnandi Bernhard Þór Bernhardsson og endurskoðandi félagsins var Sigurður Jónsson.99

Farið var að bera á lausafjárskorti hjá fyrrgreindum sparisjóðum og því var leitað leiða til að afla lausafjár með veðsetningu íbúðalánasafna sjóðanna. Klettháls ehf. var því notað til að hafa milligöngu um fjármögnun íbúðalána fyrir eigendur sína og Sparisjóðabankinn hafði umsjón með verkefninu. Klettháls ehf. keypti í júlí 2008 skuldabréf af Landsbankanum, LAIS 09 0504, að nafnvirði 2,2 milljarða króna. Landsbankinn veitti lán gegn veði í skilgreindum lánasöfnum sparisjóðanna til kaupa á skuldabréfinu. Lánið bar þriggja mánaða REIBOR-vexti að viðbættu 1% vaxtaálagi. Skuldabréf Landsbanka Íslands var vaxtagreiðslubréf og bar það þriggja mánaða REIBOR-vexti að viðbættu 0,5% vaxtaálagi. Í lánasamningi Landsbanka Íslands og Klettháls ehf. segir:

Lán samkvæmt lánssamningi þessum tengist fjármögnunarverkefni sem í taka þátt, auk lántaka, Sparisjóðurinn í Keflavík, Sparisjóður Bolungarvíkur, Sparisjóður Mýrasýslu, Sparisjóður Ólafsfjarðar, Sparisjóður Siglufjarðar og Icebank hf. Andvirði lánsins er ætlað til kaupa á skuldabréfi af bankanum en skuldabréfið mun verða notað af Icebank hf. í endurhverfum viðskiptum við Seðlabanka Íslands. Aðilar fjármögnunarverkefnisins hafa gert með sér samkomulag um fyrirkomulag lántaka, kaupsamning um kaup á safni veðskuldabréfa og endurkaupasamning um kaup á safni veðskuldabréfa […].

Klettháls ehf. seldi Sparisjóðabankanum skuldabréfið LAIS 09 0504 í endurhverfum viðskiptum,100 en bankinn notaði skuldabréfið svo aftur til tryggingar veðláns hjá Seðlabanka Íslands. Fjárhæðin sem Sparisjóðabanki Íslands hf. fékk fyrir veðlánið til Seðlabankans

var síðan lánuð til Klettháls ehf. sem notaði fjármunina til að greiða fyrir kaupin á lánasöfnunum.101 Sparisjóðirnir voru svo skuldbundnir til að kaupa íbúðabréfin aftur.

Þegar fasteignalán sparisjóðanna voru flutt yfir til Íbúðalánasjóðs í lok árs 2008, sbr. umfjöllunina hér framar, var farið að huga að því að leysa upp Kletthálsverkefnið og gera upp lánssamninginn.102 Kletthálsverkefnið var leyst upp þegar lánasöfnin fluttust yfir til Íbúðalánasjóðs.

11.5 Ályktanir

Fjármögnunarleiðir fyrirtækja hafa áhrif á rekstur þeirra. Það er eitt af hlutverkum stjórnenda að meta hvaða samsetning fjármögnunarþátta hentar fyrirtæki þeirra best. Þar geta komið til álita mörg atriði, svo sem skattaleg sjónarmið, fjármagnskostnaður, áhættusamsetning, tímalengd eigna og skulda, myntsamsetning, stærð fyrirtækis, aðgengi, framtíðarmarkmið o.fl. Í þessum kafla hefur verið vikið að fjármögnunarþáttum sparisjóðanna, hlutverki Sparisjóðabankans í fjármögnun og greiðslumiðlun sparisjóðanna, samstarfi við Íbúðalánasjóð og fjármögnun íbúðalána í gegnum Klettháls ehf.

Þegar samkeppni á fasteignalánamarkaði á Íslandi breyttist með framboði viðskiptabankanna haustið 2004 var almennt talið, innan sparisjóðakerfisins, að mikilvægt væri að bregðast fljótt við. Fasteignalán höfðu lengi verið mikilvægur þáttur í starfsemi sparisjóðanna og áhersla lögð á að sparisjóðirnir misstu ekki markaðshlutdeild sína. Eftirspurn eftir fasteignaveðlánum og öðrum lánum var mikil á þessum árum en frá lokum árs 2003 til loka árs 2005 nærri tvöfölduðust útlán sparisjóðanna, fóru úr 131 milljarði króna í 235 milljarða króna. Á sama tíma seldu sparisjóðirnir greiðsluflæði af fasteignalánum og skuldabréf með veði í fasteignalánum fyrir 42 milljarða króna. Samningarnir við Íbúðalánasjóð áttu því stóran þátt í að fjármagna þessa útlánaaukningu, en ósagt skal látið hvort sparisjóðirnir hefðu getað útvegað fjármagn til þessa með öðrum hætti.

Samsetning fjármögnunarþátta sparisjóðanna var ólík eftir stærð þeirra. Þeir minni fjármögnuðu starfsemi sína að mestu leyti með innlánum en þau höfðu hlutfallslega minna vægi í stærri sparisjóðunum. Þar var lántaka mun stærri þáttur í fjármögnun og erlend lántaka sífellt vaxandi. Líkt og hjá flestum innlánsstofnunum voru eignir sparisjóðanna til langs tíma en fjármögnunin til skemmri tíma. Lánstími styttist töluvert frá aldamótum og fram til 2008 og bilið milli líftíma eigna og skulda jókst. Vaxtamunur inn- og útlána sparisjóðanna minnkaði eftir því sem leið á fyrsta áratug aldarinnar. Erlend lánsfjármögnun var ódýrari en íslensk og var það ein af ástæðum þess að sparisjóðir leituðu út fyrir landsteinana eftir fjármögnun. Minni sparisjóðirnir tóku þó ekki sjálfir erlend lán beint frá erlendum bönkum, heldur fengu lán í erlendum myntum hjá Sparisjóðabanka Íslands hf.

Lán eru til ákveðins, skilgreinds tímabils og skulu endurgreidd á lokadegi eða samið um endurfjármögnun þeirra áður en að honum kemur. Innlán eru almennt með óskilgreindan binditíma og hreyfast inn og út úr fjármálastofnunum. Fjármálastofnanir sem fjármagna sig með innlánum taka áhættuna á því að jafnan séu næg innlán til staðar. Sparisjóðir sem fjármögnuðu sig að mestu leyti með innlánum voru með fjölmörg smá innlán sem saman mynduðu stórar fjárhæðir. Almennt hafa hreyfingar á innistæðum hvers innlánseiganda lítil áhrif á stöðu sparisjóðs, nema innlánið sé þeim mun stærra. Hafi margir innlánseigendur hins vegar ástæðu til þess að taka út innlán sín á sama tíma, t.d. þegar áföll dynja á fjármálakerfi og innlánseigendur efast um öryggi innistæðna sinna, getur fjármálastofnun misst stóran hluta fjármögnunar sinnar á skömmum tíma.

Stærri sparisjóðir sóttust í auknum mæli eftir lánsfjármagni, aðallega erlendis. Þannig öfluðu þeir hærri fjárhæða en hægt hefði verið með innlánum til þess að ráðast í ný verkefni. Erlend lánsfjármögnun var sú hagkvæmasta sem íslenskum fjármálastofnunum stóð til boða en áhætta vegna hennar var meiri en vegna innlendrar fjármögnunar. Í fjármálum gildir það almennt að ef mikill vaxtamunur er milli mynta má gera ráð fyrir að gengi þeirra muni taka breytingum til að rétta af þennan vaxtamun. Hefðu fjármálastofnanir getað búist við því að gengi krónunnar myndi falla til samræmis við vaxtamuninn var ljóst að áhætta af erlendri lántöku var töluverð. Flest íslensk fjármálafyrirtæki lánuðu í erlendri mynt og reyndu með því að stuðla að jafnvægi milli erlendra eigna og erlendra skulda til að draga úr áhættu; að þau ættu erlendar eignir (útlán í erlendum myntum til íslenskra aðila) til að greiða upp erlendar skuldir. Margir þeirra íslensku aðila sem tóku lán í erlendum myntum hjá íslenskum fjármálafyrirtækjum höfðu hins vegar eingöngu tekjur í íslenskum krónum og gátu ekki staðið undir hærri greiðslum í kjölfar gengisfalls krónunnar.

Erlend lán reyndust stærri sparisjóðunum þungur baggi í kjölfar falls bankanna. Með þverrandi trausti á íslenskum fjármálamarkaði vildu erlendir bankar að íslenskar fjármálastofnanir gerðu upp útistandandi lánasamninga. Þar sem endurheimtur útlána sparisjóðanna í erlendri mynt voru óvissar í kjölfar gengisfalls krónunnar og efnahagsástandsins eins og það þróaðist haustið 2008 reyndist sparisjóðunum erfitt að sýna fram á að þeir gætu endurgreitt erlend lán, en endurfjármögnunarþörf erlendra lána stærri sparisjóðanna frá haustinu 2008 til loka árs 2010 var 135 milljarðar króna.

Eftir fall bankanna 2008 voru aðstæður allt aðrar en áður. Fall bankanna, löskuð viðskiptasambönd erlendis, virðisrýrnun eigna og gengishöft gerðu sparisjóðunum nær ókleift að útvega gjaldeyri til að endurgreiða lán eða skapa nógu mikið traust á bankarekstri á Íslandi til að hægt væri að semja við erlenda lánardrottna.

Forystumenn innan sparisjóðakerfisins sögðu fljótlega upp úr aldamótum að innlán önnuðu ekki eftirspurn eftir útlánum og því þyrfti að leita annarra fjármögnunarleiða. Hins vegar er ljóst af gögnum rannsóknarnefndarinnar og því sem fram kom í skýrslutökum nefndarinnar að margoft var lánsfé sótt á markað áður en búið var að ákveða til hvaða verkefna ætti að lána. Talið var víst að hægt yrði að lána það út. Aðrar stærri fjármálastofnanir hérlendis, sem voru í sömu stöðu, voru þó vel fjármagnaðar og mikil samkeppni um arðbær verkefni. Fjallað er um viðbrögð sparisjóðanna við þessum áskorunum í 9. kafla, um útlán, og 10. kafla, um fjárfestingar.

Teknar voru stjórnvaldsákvarðanir og sett lög sem höfðu jákvæð áhrif á stöðu minni sparisjóðanna, þótt það hafi ekki endilega verið megintilgangur þeirra. Forgangurinn sem innlán fengu með setningu neyðarlaganna og yfirlýsing ríkisstjórnarinnar frá 6. október 2008 um ábyrgð á innistæðum dró mjög úr hvata innistæðueigenda til að gera áhlaup á lánastofnanir. Þeir sparisjóðir sem höfðu að mestu fjármagnað sig með innlánum, aðallega þeir minni, nutu góðs af þessu. Ómögulegt er að fullyrða um hver afdrif þeirra hefðu orðið annars. Þegar kröfum Sparisjóðabankans á sparisjóðina var ráðstafað til Seðlabanka Íslands með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 21. mars 2009 varð Seðlabankinn stærsti kröfuhafi flestra minni sparisjóðanna. Ári síðar var samið um kröfurnar og þær lækkaðar, annaðhvort með afslætti vegna uppgreiðslu eða afskrifta að hluta. Í kjölfar dóma um ólögmæti gengistryggðra lána sömdu sumir sparisjóðirnir um frekari afslátt af þessum kröfum, en hluti þeirra hafði verið í erlendum myntum. Samningsstaða þessara sparisjóða við lánardrottna sína var auðveldari en þeirra stærri. Þeir áttu í samningaviðræðum við íslensk stjórnvöld sem höfðu bæði skilning á íslenskum aðstæðum og vilja til að styðja við sparisjóðakerfið, eins og fram kemur í umfjöllun um fjárhagslega endurskipulagningu í 13. kafla. Minni sparisjóðirnir skulduðu einnig minna en þeir stærri.

Skuldsetning fjármálafyrirtækja getur haft áhrif á getu þeirra til þess að takast á við áföll á fjármálamarkaði. Endurfjármögnunarþörfin eykst þegar félög fjármagna sig til skamms tíma með lántökum, eins og tíðkaðist í stærri sparisjóðunum. Alþjóðleg lausafjárkreppa var ekki undirrót vandans en hún dró hann fram í dagsljósið. Mikill og hraður vöxtur stærri sparisjóða var fjármagnaður með lántökum erlendis, bæði vegna mikils framboðs lánsfjár og góðra kjara, sem haldast yfirleitt í hendur. Þegar traust á fjármálamörkuðum hvarf með skömmum eða engum fyrirvara og lánardrottnar kröfðust endurgreiðslu lána eða vildu ekki endurnýja lánalínur áttu íslenskar fjármálastofnanir ekki til fjármuni til þess að endurgreiða lánin, eignirnar voru í íslenskum krónum og til mjög langs tíma og erlendan gjaldeyri var illmögulegt að fá.

 


 

1 . Stórir sparisjóðir eru Sparisjóður Mýrasýslu frá 2001 til 2008, Sparisjóðurinn í Keflavík frá 2001 til 2009, Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis frá 2001 til 2008 og Byr sparisjóður til ársins 2009 en samtala efnahags Sparisjóðs vélstjóra og Sparisjóðs Hafnarfjarðar er notuð fyrir tímabilið frá 2001 til 2006 þegar Sparisjóður Hafnarfjarðar sameinaðist Sparisjóði vélstjóra og úr varð sameinaður sjóður, Byr sparisjóður, í ársbyrjun 2007. Fjármögnunarþættir eru innlán, lántaka, skuldir við lánastofnanir, aðrar skuldir og víkjandi skuldir.

2 . Sjá 12. gr. laga nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands.

3 . Seðlabanki Íslands hefur gefið út leiðbeiningar um útfyllingu lausafjáryfirlita samkvæmt reglum hans um lausafjárhlutfall, auk sniðmáts fyrir slíkar skýrslur, og eru þær aðgengilegar á heimasíðu bankans: http://www.sedlabanki.is/fjarmalastodugleiki/laust-fe/.

4 . Í reglum um gjaldeyrisjöfnuð nr. 950/2010 voru gerðar ítarlegri kröfur til skýrsluskila en í fyrri reglum. Gildandi reglur tóku gildi 6. desember 2010 og leystu af hólmi reglur nr. 707/2009, en áður höfðu gilt reglur sama efnis nr. 577/2008, nr. 318/2006 og nr. 387/2002.

5 . „Gjaldeyrisjöfnuður“, heimasíða Seðlabanka Íslands, http://www.sedlabanki.is/fjarmalastodugleiki/gjaldeyrisjofnudur/.

6 . Þetta er gert á grundvelli 1. mgr. 7. gr. laga um Seðlabanka Íslands nr. 36/2001. Á grundvelli ákvæðisins setur bankinn jafnframt reglur um þessi lánaviðskipti sín við lánastofnanir. Gildandi reglur nr. 553/2009 um viðskipti fjármálafyrirtækja við Seðlabanka Íslands tóku gildi 26. júní 2009 og leystu þær reglur nr. 808/2008 af hólmi, en áður höfðu gilt reglur nr. 541/2007, nr. 997/2004 og 385/2002 sama efnis. Stærri sparisjóðir áttu bein veðlánaviðskipti við Seðlabankann en þeir minni fyrir tilstilli Sparisjóðabankans.

7 . Lög nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl.

8 . Nánar er fjallað um breytingar á reikningsskilastöðlum í 8. kafla.

9 . Innlán viðskiptavina (annarra en fjármálafyrirtækja) eru undir öðrum lið.

10 . Oft var vísað til Sparisjóðabankans sem „Seðlabanka sparisjóðanna“ vegna þeirrar stöðu sem hann gegndi gagnvart þeim. Sjá nánar um hlutverk hans í kafla 11.2 hér aftar.

11 . Skilgreiningar á hugtökum er að finna í reglum um viðskipti fjármálafyrirtækja við Seðlabanka Íslands. Þær nýjustu eru nr. 553/2009.

12 . Hér eru undanskildar skuldir Sparisjóðabankans við Seðlabanka Íslands í árslok 2008 sem fjallað er um í 31. kafla, um Sparisjóðabankann.

13 . Sparisjóður Bolungarvíkur 2,7 milljarðar króna, Sparisjóður Vestmannaeyja 1,4 milljarðar króna, Sparisjóður Svarfdæla 343 milljónir króna og Sparisjóður Norðfjarðar 269 milljónir króna árið 2010. Sparisjóður Strandamanna gjaldfærði 391 milljón króna árið 2011.

14 . Sérstaklega er fjallað um þetta skuldauppgjör í 13. kafla skýrslunnar, um fjárhagslega endurskipulagningu sparisjóðanna.

15 . Fundargerð aðalfundar Tryggingasjóðs sparisjóðanna, 20. október 2000.

16 . Verðbréfaútgáfa nam þá á bilinu 160–170 milljónum króna fyrir allt sparisjóðakerfið.

17 . Færri liðir vegna fjármögnunar Íbúðalánasjóðs voru flokkaðir undir verðbréfaútgáfu í ársreikningi 2007 en hafði verið 2006 og 2005. Það ár voru tæplega 7 milljarðar króna af fjármögnun Íbúðalánasjóðs færðir sem verðbréfaútgáfa en rúmir 10 milljarðar króna undir aðra fjármögnun.

18 . Á árinu 2008 nýtti Íbúðalánasjóður ákvæði í samningum um fjármögnun fasteignalána sparisjóðanna og tók yfir fasteignalánasöfnin sem höfðu verið að baki fjármögnunarsamningunum. Þannig var undið ofan af þessari fjármögnun.

19 . Sundurliðun inn- og útlána frá Sparisjóðabanka Íslands 31. desember 2008, afhent rannsóknarnefndinni af slitastjórn bankans.

20 . Skýrsla Ósvalds Knudsen fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 30. nóvember 2012.

21 . Skýrsla Ósvalds Knudsen fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 30. nóvember 2012.

22 . Skýrsla Ástu Friðriksdóttur fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 22. maí 2013.

23 . Tölvuskeyti forstöðumanns fjárstýringar Byrs sparisjóðs til tveggja starfsmanna sparisjóðsins 21. mars 2007.

24 . Tölvuskeyti Magnúsar Ægis Magnússonar sparisjóðsstjóra til Ragnars Z. Guðjónssonar sparisjóðsstjóra, Sighvats Sigfússonar, framkvæmdastjóra fjármálasviðs, og Ástu Friðriksdóttur, forstöðumanns fjárstýringar Byrs sparisjóðs, 25. mars 2008.

25 . Skýrsla Þrastar Leóssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 14. desember 2012; skýrsla Geirmundar Kristinssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 12. ágúst 2013.

26 . Kaupþing banki hf. átti þó stóra aðkomu að fjármögnun Sparisjóðs Mýrasýslu á árinu 2008 þar til Fjármálaeftirlitið tók yfir vald hluthafafundar bankans í október 2008.

27 . Skýrsla Sturlu Pálssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 30. september 2013.

28 . Skýrsla Vilhjálms Egilssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 3. apríl 2013.

29 . Skýrsla Ósvalds Knudsen fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 30. nóvember 2012.

30 . Skýrsla Sigurðar Einarssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 7. október 2013.

31 . Skýrsla Sigurðar Einarssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 7. október 2013.

32 . Nánar er fjallað um þær reglur sem víkjandi lán þurfa að uppfylla til að teljast til eiginfjár fjármálafyrirtækis í 6. kafla.

33 . Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 og tengda atburði, 2010, 2. bindi, bls. 31.

34 . Skýrsla Guðmundar Arnar Haukssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 16. maí 2013.

35 . Sjá 57.–60. gr. laga nr. 87/1985 um sparisjóði.

36 . Sbr. 6. gr. laga nr. 36/1986 um Seðlabanka Íslands.

37 . Sjá nánari umfjöllun um bindiskyldu í 6. kafla.

38 . Skýrsla Finns Sveinbjörnssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 30. ágúst 2013.

39 . Skýrsla Finns Sveinbjörnssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 2. september 2013.

40 . Um gjaldeyrisjöfnuð sparisjóðanna er fjallað ítarlegar í 6. kafla.

41 . Skýrsla Ragnars Z. Guðjónssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 24. maí 2013.

42 . Skýrsla Guðmundar Arnar Haukssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 15. maí 2013.

43 . „Almennt um greiðslumiðlun, greiðslu- og uppgjörskerfi“, vefsíða Seðlabanka Íslands, http://www.sedlabanki.is/greidslumidlun/rafraen-greidslumidlun/.

44 . „Stórgreiðslukerfi“, vefsíða Seðlabanka Íslands, http://www.sedlabanki.is/greidslumidlun/rafraen-greidslumidlun/storgreidslukerfi/.

45 . „Jöfnunarkerfi“, vefsíða Seðlabanka Íslands, http://www.sedlabanki.is/greidslumidlun/rafraen-greidslumidlun/jofnunarkerfi/.

46 . Skýrsla Finns Sveinbjörnssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 2. september 2013.

47 . Skýrsla Agnars Hanssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 5. desember 2013.

48 . Rannsóknarnefndinni tókst ekki að verða sér úti um afrit samningsins. Starfsmenn Íslandsbanka hf. gátu ekki útvegað afrit af samningi milli Byrs og sparisjóðanna um þetta hlutverk hans.

49 . Skýrsla Ástu Friðriksdóttur fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 22. maí 2013.

50 . Um bindiskyldu fjármálafyrirtækja er fjallað í 6. kafla skýrslunnar, um eftirlit með starfsemi sparisjóða.

51 . Starfsmenn Íslandsbanka hf. gátu ekki útvegað rannsóknarnefndinni afrit af samningi Byrs og sparisjóðanna
um þetta efni.

52 . Skýrsla Finns Sveinbjörnssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 2. september 2013.

53 . Skýrsla Gunnlaugs Harðarsonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 28. júní 2013.

54 . Skýrsla Angantýs V. Jónassonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 28. júní 2013.

55 . Skýrsla Þrastar Leóssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 14. desember 2012.

56 . Sjá 9. kafla í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð o.fl., 2013.

57 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 8. nóvember 2004.

58 . Skýrsla Guðmundar Arnar Haukssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 16. maí 2013.

59 . Skýrsla Jóns Finnbogasonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 27. maí 2013.

60 . Skýrsla Ingólfs V. Guðmundssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 23. maí 2013.

61 . Skýrsla Guðmundar Arnar Haukssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 16. maí 2013.

62 . Skýrsla Stefáns Sveinbjörnssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 16. maí 2013.

63 . Skýrsla Guðjóns Guðmundssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 18. desember 2012.

64 . Starfsmenn Íbúðalánasjóðs komu þeim ábendingum á framfæri við rannsóknarnefndina 7. október 2013 að öllum bönkum hefði verið boðið að gera það sama. Þeir hafi hins vegar ekki nýtt sér það, a.m.k. ekki í sama mæli og sparisjóðirnir.

65 . „Samdráttur í útlánum Íbúðalánasjóðs“, Morgunblaðið 9. desember 2006.

66 . Samningur um greiðslumat og lánaframboð milli Íbúðalánasjóðs, Sambands íslenskra sparisjóða og Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis ásamt dótturfélögum, 4. desember 2004.

67 . Samningur um greiðslumat og lánaframboð milli Íbúðalánasjóðs, Sambands íslenskra sparisjóða og Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis ásamt dótturfélögum, 4. desember 2004.

68 . Samningur um greiðslumat og lánaframboð milli Íbúðalánasjóðs, Sambands íslenskra sparisjóða og Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis ásamt dótturfélögum, 4. desember 2004.

69 . Bréf Íbúðalánasjóðs til Sambands íslenskra sparisjóða 28. ágúst 2009.

70 . Í samningi milli Íbúðalánasjóðs og Frjálsa fjárfestingarbankans hf. frá 10. maí 2005 var ávöxtunarkrafan 4,075%.

71 . Lánasamningur milli Frjálsa fjárfestingarbankans og Íbúðalánasjóðs, 10. maí 2005.

72 . Yfirlit lánasamninga Íbúðalánasjóðs við sparisjóði, útbúið af Íbúðalánasjóði, 3. júlí 2012.

73 . Skýrsla ríkisendurskoðunar um aðdraganda og gerð lánasamninga Íbúðalánasjóðs við fjármálastofnanir vegna áhættustýringar, 28. nóvember 2005.

74 . Álitsgerð Jóhannesar Sigurðssonar prófessors, f.h. Fjármálaréttarstofnunar Háskólans í Reykjavík, um heimildir Íbúðalánasjóðs til lánveitinga, fjármögnunar og áhættustýringar, 17. ágúst 2005.

75 . Skýrsla ríkisendurskoðunar um aðdraganda og gerð lánasamninga Íbúðalánasjóðs við fjármálastofnanir vegna áhættustýringar, 28. nóvember 2005.

76 . Tölvuskeyti Íbúðalánasjóðs til rannsóknarnefndarinnar 10. apríl 2013.

77 . Skýrsla Soffíu Guðmundsdóttur fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 22. apríl 2013.

78 . Skýrsla Stefáns Sveinbjörnssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 16. maí 2013.

79 . Minnisblað tilsjónarmanns Byrs sparisjóðs 22. desember 2009 – 5. janúar 2010.

80 . Skýrsla Guðmundar Arnar Haukssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 16. maí 2013. Aðspurður hvað hann ætti við með „þunnir“ útskýrði Guðmundur að þá væri um að ræða lítinn hagnað.

81 . Skýrsla um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis 2004.

82 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Höfðhverfinga, 27. janúar 2005.

83 . Hér er um að ræða samtölu fjármögnunarsamninganna á þeim tíma sem þeir voru gerðir.

84 . Skýrsla Soffíu Guðmundsdóttur fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 22. apríl 2013. Í athugasemdum starfsmanna Íbúðalánasjóðs 7. október 2013 kom fram að bréf hafi verið send til sparisjóðanna um nýtingu kaupréttarins á grundvelli samningsins. Þessi bréf finnist þó ekki hjá Íbúðalánasjóði.

85 . Bréf Íbúðalánasjóðs til Sparisjóðs Svarfdæla 12. ágúst 2008.

86 . Sjöundi sparisjóðurinn sem sótti um, Sparisjóður Mýrasýslu, uppfyllti ekki lágmarksskilyrði um 9% eiginfjárhlutfall fyrir fjármögnuninni og var sparisjóðnum synjað um hana á þeim grundvelli.

87 . Tölvuskeyti Íbúðalánasjóðs til rannsóknarnefndarinnar 8. júlí 2013.

88 . Skuldabréfin báru mismunandi númer eftir útgefendum, t.d. SKB 01, SKB 02 o.s.frv.

89 . Skýrsla Jónasar M. Péturssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 7. ágúst 2012.

90 . Tölvuskeyti Sparisjóðs Vestmannaeyja til rannsóknarnefndarinnar 27. ágúst 2013.

91 . Skýrsla Soffíu Guðmundsdóttur fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 22. apríl 2013.

92 . Í 13. kafla, um fjárhagslega endurskipulagningu, má finna rammagrein um þessa heimild.

93 . Skýrsla Soffíu Guðmundsdóttur, sviðsstjóra einstaklingssviðs Íbúðalánasjóðs, fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 22. apríl 2013.

94 . Tölvuskeyti Íbúðalánasjóðs til rannsóknarnefndarinnar 11. nóvember 2013.

95 . Yfirlit lánasamninga Íbúðalánasjóðs við sparisjóði, útbúið af Íbúðalánasjóði, 3. júlí 2012.

96 . Minnisblað Seðlabanka Íslands – Fundur með Íbúðalánasjóði um samninga við sparisjóði, aðrar leiðir og afleiðingar, 23. febrúar 2009.

97 . Tölvuskeyti Sparisjóðs Bolungarvíkur til rannsóknarnefndarinnar 19. nóvember 2013.

98 . Tölvuskeyti Finns Sveinbjörnssonar til Magnúsar Ægis Magnússonar, Gísla Kjartanssonar, Guðmundar Haukssonar, Ragnars Z. Guðjónssonar og Geirmundar Kristinssonar 12. september 2006.

99 . Samkvæmt hlutafjármiðum sem skilað er til ríkisskattstjóra.

100 . Í endurhverfum viðskiptum felst loforð um að kaupa skuldabréfið til baka á fyrirfram ákveðnum degi á fyrirfram ákveðnu verði.

101 . Glærukynning um Klettháls fyrir lánanefnd Sparisjóðabanka Íslands hf., 25. ágúst 2008.

102 . Útlánaskýrsla Sparisjóðabanka Íslands hf. fyrir árið 2008, 24. febrúar 2009.