Rannsókn á kaupum í Búnaðarbanka

Forseti Alþingis, Einar K. Guðfinnsson, hefur að höfðu samráði við forsætisnefnd og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins, sbr. 2. gr. laga nr. 68 2011, um rannsóknarnefndir, skipað Kjartan Bjarna Björgvinsson héraðsdómara til að stýra rannsókn á þátttöku þýska bankans Hauck & Aufhäuser Privatbankiers KGaA í kaupum á 45,8% eignarhlut ríkisins í Búnaðarbanka Íslands hf. o.fl. árið 2003, sbr. ályktun Alþingis frá 2. júní 2016. Rannsókninni er ætlað að ljúka eigi síðar en 31. des. 2016.

Samkvæmt ályktun Alþingis frá 2. júní 2016 mun stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd samhliða rannsókninni fara yfir fyrirliggjandi gögn og upplýsingar um umfjöllun og ályktanir eftirlitsaðila um söluna á Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf., Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf., sbr. ályktun Alþingis frá 7. nóvember 2012. Á grundvelli niðurstöðu rannsóknarinnar og að lokinni yfirferð sinni mun stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd leggja mat á hvort hún geri tillögu um frekari rannsókn á einkavæðingu Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf., Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf., sbr. fyrrgreinda ályktun frá 7. nóvember 2012 þar um.